Arnarnúpur

Arnarnúpur er næststærsta jörðin í Keldudal, 30 hundruð að dýrleika að fornu mati,[1] og eina jörðin þar sem er innan við Langána. Frá bænum á Arnarnúpi var um það bil einn kílómetri til sjávar en aðeins hálfur kílómetri yfir að Hrauni. Oftast var tví- eða þríbýli á Arnarnúpi á fyrri tíð.[2] Eins og víðar var stundum nokkuð um húsfólk á Arnarnúpi á fyrri tíð. Á manntali frá árinu 1801 er getið þar um 66 ára húsmann, sem sagður er lifa á land- og sjóvinnu, og þá var þar líka einhleyp húskona sem vann fyrir sér með tóvinnu.[3] Undir lok 19. aldar fjölgaði hér tómthúsfólki og árið 1901 voru þrjár slíkar fjölskyldur á Arnarnúpi.[4] Reyndar er fólkið á Móum þá talið þar með en Móar voru lítið grasbýli sem byggðist í landi Arnarnúps árið 1892[5] og stóð neðst í túninu, alveg niður við þjóðveginn sem nú liggur þar. Árið 1910 áttu tvær fjölskyldur heima á Móum[6] og þar var búið allt til ársins 1930.[7] Fullvíst má telja að þurrabúðarmennirnir sem áttu heima á Arnarnúpi og Móum á árunum kringum aldamótin 1900 hafi einkum lifað af sjósókn og ef að líkum lætur verið meira eða minna á skútunum.

Yfir bænum á Arnarnúpi gnæfir fjallið sem ber sama nafn og hann. Hæð þess er 558 metrar og brattir hamraveggirnir setja hér sterkan svip á umhverfið. Þó er Arnarnúpurinn jafnvel enn tígulegri úr meiri fjarlægð en fjallið blasir við augum víða að úr Dýrafirði og má heita eitt helsta auðkenni fjarðarins.

Í byrjun 18. aldar kunni fólk í Keldudal að segja frá því að bænhús hefði verið á Arnarnúpi að fornu en tíðir höfðu þá ekki verið veittar þar svo lengi sem elstu menn mundu.[8] Aðrar heimildir um þetta munu ekki auðfundnar og því er ekki hægt að fullyrða neitt um sannleiksgildi hinna gömlu sögusagna. Frá Arnarnúpi var skammt til kirkju í Hrauni en samt er engan veginn útilokað að þar hafi staðið bænhús í kaþólskum sið.

Elstu skjallegar heimildir um byggð á Arnarnúpi eru frá miðri 16. öld en líklegt verður að telja að hér hafi fólk tekið sér bólfestu löngu fyrr. Rétt fyrir miðja 16. öld átti Ólafur Gunnarsson í Lokinhömrum annað bú á Arnarnúpi.[9] Frá illvirkjum Ólafs og bræðra hans hefur áður verið sagt lítillega í þessu riti og greint frá dómnum sem upp var kveðinn yfir þeim vorið 1548 en Ólafur var þá dæmdur útlægur og óheilagur, það er réttdræpur hvar sem til hans næðist utan griðastaða (sjá hér Lokinhamrar). Rúmlega ári síðar, í ágústmánuði 1549, voru sex menn samankomnir á Arnarnúpi, að tilhlutan Eggerts Hannessonar, sem þá var kóngsumboðsmaður í öllu Þorskafjarðarþingi og bjó á Núpi í Dýrafirði, síðar lögmanns, og var þeim ætlað að leggja mat á eignir Ólafs Gunnarssonar hér[10] en þær átti allar að gera upptækar samkvæmt áðurnefndum dómi. Fyrirliði þessara sendimanna var Þorlákur Einarsson á Núpi, mágur Eggerts Hannessonar og bróðir Gizurar biskups í Skálholti, sem reyndar hafði andast um svipað leyti og Ólafur í Lokinhömrum var dæmdur útlægur. Ef marka má skýrslu úttektarmannanna fundu þeir á Arnarnúpi þessar eignir er Ólafur hafði átt: Tvær kýr, eitt tveggja vetra naut og annað veturgamalt, tuttugu og eina á og átta lömb, fjórtán fjórðungar af smjöri (70 kíló), katla sem virtir voru á 160 álnir eða sem svaraði einu kýrverði og áttatíu fiskum og svo sex kýrfóður af heyi.[11]

Líklega hafa sendimennirnir sex átt von á að finna fleira fémætt á Arnarnúpi er Ólafur Gunnarsson hefði átt. Til þess benda a.m.k. lokaorðin í skýrslu þeirra sem eru á þessa leið:

 

Sömuleiðis lýstu því tvær konur sem heimilisfastar voru í fyrrskrifaðan tíð á Arnarnúpi að Ólöf húsfreyja Björnsdóttir hefði látið reka af áðurgreindum garði bæði naut og sauði sem væru undir marki Ólafs Gunnarssonar. Hér með og aðra peninga dauða í burt flutt og ferja látið hverjir er áður voru kyrrsettir í Meðaldal og lýstir höfðu verið undir náðugasta herra kóngsins lás af Ormi lögmanni [Sturlusyni]. Hvar að vér heyrðum oftsagðan kóngs umboðsmann [þ.e. Eggert Hannesson] fullum sökum á lýsa á alla þá sem þar hefðu í nokkrum burtflutningum verið eftir því sem hann mætti það frekast og framast að lögum gera vors náðugasta herra kóngsins vegna.[12]

 

Samkvæmt dómnum frá 12. apríl 1548 átti helmingur allra eigna Ólafs í Lokinhömrum, sem eftir stæðu er sektir hefðu verið greiddar, að renna til konungs[13] og Eggerti Hannessyni var ætlað að standa konungi skil á þeim fjármunum. Á vitnisburðinum frá Arnarnúpi sem hér hefur nú verið kynntur má hins vegar sjá að ýmsir hafa reynt að sölsa undir sig meira eða minna af eignum Ólafs og þar virðist nýnefnd Ólöf Björnsdóttir, sem lét reka bæði naut og sauði frá Arnarnúpi, hafa verið fremst í flokki. Engum vafa er undirorpið að þarna muni átt við Ólöfu Björnsdóttur, húsfreyju í Hrauni, dóttur Björns Guðnasonar, hins stórláta höfðingja í Ögri, en eins og hér hefur áður verið getið var Ólöf kona Sigfúsar Brúnmannssonar lögréttumanns í Hrauni. Hún var reyndar móðursystir kóngsumboðsmannsins, Eggerts Hannessonar, og hefur máske talið að hann kynni að hika við að sækja sauðina og nautin frá Arnarnúpi í sínar hendur. Líka er mögulegt að hún hafi talið sig eiga einhverja fjármuni inni hjá Lokinhamrabræðrum og ætlað að tryggja sér greiðslu skuldarinnar áður en góss þeirra lenti í fjárhirslu konungs. Um ástæður þess að hún greip til svo djarftækra aðgerða, þvert gegn boði hins unga frænda síns sem orðinn var umboðsmaður konungs, verður nú ekkert fullyrt. Hitt er athyglisvert að konurnar tvær sem vitna um rekstur nauta og sauða frá Arnarnúpi yfir að Hrauni segja að Ólöf húsfreyja hafi staðið fyrir þeirri fjártöku en nefna ekki nafn bónda hennar, lögréttumannsins. Var Sigfús þó sannanlega á lífi árið 1549[14] og mætti reyndar á Alþingi þá um sumarið.[15] Máske Ólöf hafi notað tækifærið meðan karlinn var á þingi til að slá eign sinni á nautin og sauðina handan ár.

Á árunum kringum 1600 voru þeir Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, og séra Sveinn Símonarson í Holti í Önundarfirði orðnir eigendur að Arnarnúpi[16] en Ari var dóttursonur Eggerts Hannessonar, kóngsumboðsmannsins sem hér kom við sögu, og fyrri kona séra Sveins var bróðurdóttir Eggerts.[17] Árið 1600 gekk séra Sveinn Símonarson að eiga seinni konu sína, Ragnheiði Pálsdóttur, en þau Ragnheiður og Ari sýslumaður í Ögri voru bræðrabörn og hún hafði áður verið gift syni Þorláks Einarssonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði, sem hér lét til sín taka árið 1549 svo sem áður var getið.[18]

Nokkru eftir brúðkaup séra Sveins og Ragnheiðar seldi Ari í Ögri séra Sveini eignarhlut sinn í Arnarnúpi sem var 10 hundruð.[19] Séra Sveinn varð þá einkaeigandi allrar jarðarinnar en ráðstafaði henni þá þegar, 5. nóvember 1604, í hendur Ragnheiði, konu sinni.[20] Sautján hundruð úr Arnarnúpi fékk hún þá í tilgjöf frá eiginmanninum en hin þrettán hundruðin seldi hann henni og fékk í staðinn tvo jarðarparta sem hún átti í Súðavíkurhreppi.[21] Fyrir þessari ráðstöfun setti séra Sveinn það skilyrði að allur Arnarnúpur skyldi, er fram liðu stundir, hverfa til erfingja er þau Ragnheiður kynnu að eignast.[22] Þó að ekki væri gengið formlega frá þessum samningi fyrr en haustið 1604 bendir orðalagið til þess að hann hafi verið festur á blað nokkru fyrr, það er að segja áður en Ragnheiður ól eldri son þeirra hjóna, Gizur, síðar prest á Álftamýri, sem fæddist 17. janúar 1604.[23]

Séra Sveinn Símonarson andaðist árið 1644 og Ragnheiður, kona hans, fáeinum árum fyrr.[24] Við skipti á dánarbúi þeirra kom Arnarnúpur í hlut séra Gizurar á Álftamýri, sonar þeirra sem hér var áður nefndur. Brynjólfur Sveinsson biskup, albróðir Gizurar, keypti af honum Arnarnúp á árunum 1653 og 1656 en Gizur eignaðist jörðina aftur síðar.[25] Séra Gizur Sveinsson andaðist barnlaus árið 1683 og gekk Arnarnúpur þá að erfðum til tveggja bróðursona hans, samarfanna Þórðar Björnssonar frá Þórustöðum í Önundarfirði og séra Björns Þorleifssonar, prests á Álftamýri, sem var frá Innri-Hjarðardal í Önundarfirði[26] (sbr. hér Innri-Hjarðardalur og Þórustaðir).

Björn prestur Þorleifsson andaðist árið 1695[27] og við skipti á dánarbúi hans haustið 1697 var hann talinn hafa átt allan Arnarnúp því ekkja hans, Þórunn Árnadóttir, erfði þá hálfa jörðina en tveir synir þeirra Björns, Sigurður, sem var bilaður á geðsmunum, og Þórður, hina hálflenduna alla, utan eitt hundrað sem kom í hlut þriðja bróðurins.[28] Svo virðist sem þarna hafi ekki verið staðið rétt að málum og séra Björn aldrei átt nema hálfan Arnarnúp. Þessu til stuðnings má benda á að fyrir liggur vitnisburður fimm manna frá 17. júní 1703 þar sem vottað er að samarfi prestsins, fyrrnefndur Þórður Björnsson sem þá var látinn, hafi erft hálfan Arnarnúp eftir séra Gizur Sveinsson og kona hans, Guðrún Jónsdóttir, og dætur þeirra séu nú eigendur þessara 15 hundraða.[29]

Ekkjurnar tvær, sem hér voru nefndar, þær Þórunn Árnadóttir og Guðrún Jónsdóttir, áttu báðar heima á Arnarnúpi árið 1703 og munu þá, ásamt niðjum sínum, hafa verið eigendur jarðarinnar sem jafnan hafði gengið að erfðum innan niðjahóps séra Sveins Símonarsonar í Holti og eiginkvenna hans.[30] Tvíbýli var hér árið 1703 og stóð nýnefnd Guðrún Jónsdóttir fyrir búi á öðru býlinu en prestsekkjan, Þórunn, var þá hér í húsmennsku og sögð forsorgast af eignum sínum.[31] Báðar voru þær 55 ára gamlar þegar manntalið var tekið.[32] Hjá Þórunni var einn sonur þeirra séra Björns enn heima hjá móður sinni og hjá Guðrúnu tvær uppkomnar dætur þeirra Þórðar.[33] Hjá henni var þá líka Björn Diðriksson, tveggja ára gamall og sagður tökubarn.[34] Fullvíst má telja að hann hafi verið dóttursonur húsfreyju, sonur Steinunnar Þórðardóttur og eiginmanns hennar, Diðriks Sigurðssonar, bónda á Klukkulandi í Dýrafirði,[35] en Diðrik hafði árið 1700 verið dæmdur á Brimarhólm fyrir launverslun við Englendinga (sjá hér Lækur og Klukkuland). Árið 1710 átti Guðrún Jónsdóttir á Arnarnúpi enn einn fjórða part úr jörðinni[36] og er að öllum líkindum sama Guðrún og hér bjó sjö árum fyrr og annan fjórðung í jörðinni átti þá Guðmundur Þorbjörnsson, bóndi í Stapadal í Arnarfirði, sem kvæntur var Gyríði Björnsdóttur, dóttur séra Björns Þorleifssonar, er hér var áður nefndur, og konu hans, Þórunnar Árnadóttur.[37]

Fátt er nú vitað um fólkið sem bjó hér á Arnarnúpi á 17. og 18. öld en í munnmælum var lengi haft að hér hefði búið dótturdóttir Þorláks Einarssonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði,[38] og þá að líkindum á fyrri hluta 17. aldar. Sagan segir að barnung hafi hún flust til Hollands með foreldrum sínum en þangað hafði smalinn, faðir hennar, flúið undan reiði Þorláks sýslumanns sem ekki taldi hæfa að smalar giljuðu sýslumannsdætur (sjá hér Núpur). Hin forna sögn hermir að stúlka þessi, sem ýmist er nefnd Ólöf eða Guðrún,[39] hafi komið aftur til Íslands er hún var orðin fullvaxta og þá farið að búa á Arnarnúpi (sjá hér Núpur). Sögunni fylgir að hún hafi látið meitla sérstaka skál í stóran stein á Arnarnúpshlaði og þar hafi fjósakonur hennar átt að þvo mjölt af höndum sér.[40] Steinninn stendur hér enn með skálinni í þó bærinn sé kominn í eyði. Skálin er um 28 sentimetrar að þvermáli og um 8 sentimetrar á dýpt. Steinninn var nefndur Holusteinn og átti Ólöf (Guðrún) að hafa sagt að ekki myndu verða fleiri mjaltakonur á Arnarnúpi en gætu þvegið sér úr skálinni.[41] Ætla má að á þessum sama steini hafi líka verið barinn harðfiskur.

Ekki verður nú um það dæmt hvort hin gamla þjóðsaga, sem hér var frá greint, kunni að eiga rætur að rekja til atburða úr veruleikanum en vel gæti það verið. Ólafur Snóksdalín, sem fæddur var árið 1761, segir að Guðrún, dóttir Þorláks Einarsson á Núpi, sú yngri tveggja dætra hans með því nafni, hafi eignast laungetna dóttur, er líka hét Guðrún, með Eiríki er strauk austur.[42]

Líklegt er að þarna sé komin sú dótturdóttir Þorláks sýslumanns sem sagt er að orðið hafi húsfreyja á Arnarnúpi en hún giftist manni sem Össur hét og var Jónsson.[43] Í sumum útgáfum þjóðsögunnar er hún reyndar nefnd Ólöf ríka [44] en kynni þá að vera ruglað saman við kvenskörunginn Ólöfu Björnsdóttur, húsfreyju í Hrauni í Keldudal, sem uppi var nokkru fyrr og hér var áður frá sagt. Hér er líka vert að minnast þess að á árunum 1604-1683 var Arnarnúpur í eigu Ragnheiðar Pálsdóttur, sem verið hafði tengdadóttir Þorláks sýslumanns á Núpi, og sona hennar séra Gizurar á Álftamýri og Brynjólfs biskups Sveinssona, eins og hér var áður rakið. Dótturdætur Þorláks voru því í nánum ættartengslum við Ragnheiði og kynni ein þeirra að hafa leitað á hennar náðir komin úr langri ferð, jafnvel frá Hollandi. Merkilegt er að Ragnheiður var líka nátengd Ara Pálssyni, er síðastur manna var brenndur fyrir galdra á Þingvöllum (sjá hér Lokinhamrar) því Ingibjörg, kona Ara, var líka barnabarn Þorláks Einarssonar, sýslumanns á Núpi.[45]

Um allt þetta hljótum við að hugsa er við virðum fyrir okkur þennan merkilega stein á Arnarnúpshlaði og trúum því, a.m.k. um sinn, að þjóðsagan um konuna sem lét klappa í hann skálina sé í aðalatriðum sönn.

Eins og fyrr var getið átti Arnarnúpur allt land í Keldudal innan við Langá (sjá hér Hraun í Keldudal). Um sel Arnarnúpsbænda er ekki getið í prentuðum heimildum en fram í dalnum, þar sem Langáin rann í tveimur kvíslum, beint niður af Arnarnúpshvilft, heita Fornusel.[46] Þar eru miklar tóttarústir á sléttlendi heimantil við læk sem kemur ofan úr hvilftinni og heitir Seljalækur. Fjallið framan við Arnarnúpshvilft heitir Seljafjall.[47] Alllangt framan við Fornusel eru aðrar seltóttir í Arnarnúpslandi og heitir þar Nýjasel.[48] Þessar tóttir eru rétt hjá ármótum Langár og Þverár sem á upptök sín í Álftaskál, hinum megin í dalnum.[49] Eitthvað af tóttunum sem þarna voru lentu reyndar undir aurskriðu sem hér féll á árunum kringum 1940.[50] Tvær tóttir eru þó enn sjáanlegar í Nýjaseli og frá þeim er örstutt að tóttunum í Hraunsseli (sjá hér Hraun í Keldudal) og seltóttunum í landi Saura (sjá hér Saurar) sem hér hefur áður verið frá sagt.

Af öllum kunnum seltóttum í Keldudal eru þær í Fornuseljum í landi Arnarnúps tvímælalaust hinar mestu í öllum skilningi og munar þar reyndar ærið miklu. Efst er stór fjárrétt og þar rétt hjá hafa verið a.m.k. tvö eða þrjú hús. Aðeins neðar eru tóttir af mörgum húsum í einni þyrping og hafa þau verið átta til tíu. Þessi hús hafa staðið þétt saman svo erfitt er að telja þau nákvæmlega.

Með hliðsjón af fjölda selhúsanna á þessum stað, sem sýnast hafa verið fleiri en á nokkrum öðrum bæ í Dýrafirði, er erfitt að hugsa sér að hér hafi aðeins verið sel frá Arnarnúpi sem ekki var nema 30 hundraða jörð. Sú spurning vaknar hvort selið frá höfuðbólinu Hrauni, sem var helmingi stærri jörð en Arnarnúpur, kynni að hafa staðið hér um skeið enda þótt Arnarnúpur eigi nú allt land sín megin Langár, alveg fram í dalbotn. Slíka tilgátu eða hugmynd er reyndar alls ekki hægt að rökstyðja. Á fyrri hluta tuttugustu aldar voru að vísu einhver munnmæli á kreiki um að til forna hefði land Arnarnúps aðeins náð fram að Stekkjarhrygg sem er hér talsvert heimar á dalnum. Sagt er að Markús Arnbjörnsson, sem þá átti heima í Keldudal og var fróður um margt, hafi haldið þessu fram.[51]

Önnur tilgáta sem hugsanlegt væri að setja fram er sú að um lengri eða skemmri tíma hafi verið hér sel frá öllum eða nær öllum bæjunum í Keldudal en fénu hafi þó verið haldið til beitar beggja vegna Langár. Hér í næsta nágrenni eru engjablettir sem heita Arnarnúpssamvinna og Saurasamvinna, – sinn hvorum megin árinnar,[52] og benda nöfnin til þess að bændur í Keldudal hafi haft samvinnu um heyskap þar. Vitneskja um slíkt samstarf við heyöflun ýtir undir þá hugsun að hér í dalnum hafi menn ef til vill líka kosið að hafa nokkra samvinnu um seljabúskapinn og þess vegna reist öll selhúsin á einum stað. Annað sem benda mætti á til stuðnings slíkri tilgátu er það að tóttir Nýjasels í landi Arnarnúps og tóttir seljanna sem kennd eru við Hraun og Saura eru allar að heita má á sama blettinum, enda þótt Langá og Þverá skilji á milli eins og hér hefur áður verið lýst. Svo mikið nábýli í seljabúskap er óvenjulegt en slík staðsetning verður mun skiljanlegri sé gert ráð fyrir að áður en flutt var fram að ármótunum hafi sel frá öllum þremur jörðunum staðið hlið við hlið þar sem nú heita Fornusel og menn hafi þrátt fyrir flutninginn viljað viðhalda sem mestu nábýli og samhjálp þegar á þurfti að halda við kindaleit, mjaltir og önnur mjólkurverk. Skylt er að taka fram að tilgáta þessi er þó ekkert annað en hugarsmíð og vera má að bændur á Arnarnúpi hafi einir haft hér búsmala í seli. Sé með því reiknað virðist hins vegar liggja í augum uppi að kvíaærnar frá þeim bæ hafi verið ærið margar þegar mest var um að vera í hinu forna Arnarnúpsseli.

Einhver seiðmögnuð dul hvílir yfir Fornuseljum í Keldudal og tóttirnar þar vekja fleiri spurningar en unnt er að svara. Frá þeim er um það bil hálftíma gangur heim að Arnarnúpi[53] og á þeirri göngu verða tveir stekkir á leið okkar. Annar stekkurinn er lítið eitt heiman við Fornusel en hinn er framanvert í Stekkjarhryggnum sem er neðan við Stekkjargil en svo heitir stærsta gilið í fjallinu framan við Arnarnúp og er beint á móti landamerkjum Skálarár og Saura[54] (Sbr. hér Skálará og Saurar).

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er gert lítið úr flestum landkostum á Arnarnúpi og þar er ekkert minnst á seljabúskap Arnarnúpsbænda. Um kosti og ókosti jarðarinnar segir m.a. svo í Jarðabókinni:

 

Útigangur góður í fjörunni en lítill á landi. Torfrista og stunga lök. … Lyngrif lítið. Silungsveiði hefur verið lítil … . Hrognkelsaveiði lítil í netjum. Engjarnar spillast stórlega af skriðum og eru víða fyrir því eyðilagðar. Úthagarnir og svo mjög uppblásnir og víða skriðurunnir. Ekki sýnist bænum eða túninu óhætt fyrir snjóflóðum eður grjóthruni.[55]

 

Í Jarðabókinni er sjósókn frá Arnarnúpi lýst með þessum orðum:

 

Heimræði er hér árið um kring og lending góð en langræði í meira lagi og því fara ábúendur með skip sitt á vorin um vertíð út í Hrauns verstöðu og gjalda þar venjulegan vertoll. Skipsuppsátrið er mjög erfitt upp á sjávarbakkana, annars er því ekki óhætt fyrir brimi og stórstraums flæði. Inntökuskip hafa hér aldrei verið utan eitt um fáein ár tvisvar sinnum og varð langt á milli.

 

Þó erfitt væri um skipsuppsátur á Arnarnúpi sóttu bændur þar löngum sjó af kappi.[56] Á vorin munu þeir oft hafa róið frá Skerinu í landareign Hrauns, hér utar í dalnum.[57] Þaðan var styttra á miðin (sjá Hraun). Einnig var þó róið úr heimavör fólksins á Arnarnúpi en hún er innan við ós Langár.[58] Kristján Guðmundsson, sem var bóndi á Arnarnúpi árið 1851, var þá einn þeirra átta bænda í Þingeyrarhreppi sem áttu eigin bát er róið var til fiskjar á vorvertíð.[59]

Innan við ós Langár ber Sjóarholt hæst og neðan við það var lendingin Glefsa.[60] Þar voru flestir bændur í Keldudal með báta sína á árunum 1930-1950.[61] Stundum var þá farið héðan í fiskiróðra og bátar mikið notaðir til flutninga.[62] Nokkru innar er önnur lending, kennd við lítinn klett sem heitir Stapi og stendur hann upp úr sjó við voginn sem hér blasir við[63] (sbr. Hraun í Keldudal).

Bakkarnir innst í Keldudal og innan við dalsmynnið heita Biskupsbakkar.[64] Neðan við þá er Biskupslending, innsta lendingin í landi Arnarnúps.[65] Sagt var að þar hefðu einn eða fleiri biskupar lent sem hingað komu í vísitazíuferð.[66] Það höfðu menn fyrir satt að á fyrri tíð hefði hljómur kirkjuklukknanna í Hrauni náð inn á Biskupsbakka.[67] Klukkurnar voru þá tvær og eitt sinn var hringt svo ákaft þegar biskup kom upp á bakkana að önnur þeirra sprakk.[68]

Utan við árósinn, fyrir mynni dalsins, eru tvö sker, Stórasker og Skerkálfur.[69] Sæist kollurinn á Skerkálfi í útfalli gat gangandi maður komist fyrir Eyrarófæru.[70] Á Biskupsbökkum kveðjum við Keldudal og leggjum í Ófæruna sem er rétt fyrir innan dalsmynnið. Hún var á fyrri tíð mjög erfiður farartálmi[71] og allt þar til bílvegur var lagður út í Keldudal árið 1952.[72]         – – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 31-35.  J. Johnsen 1847, 192.

[2] Jarðab. Á. og P. VII, 35.  Manntal 1801 og 1845.

[3] Manntal 1801.

[4] Manntal 1901.

[5] Sóknarmannatöl og prestsþjónustubækur Sanda í Dýrafirði.  Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 165.

[6] Manntal 1910.

[7] Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 165.

[8] Jarðab. Á. og P. VII, 34.

[9] D.I. XI, 722-725.

[10] D.I. XI, 722-725.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] D.I. XI, 633.

[14] Lögréttumannatal IV, 451.

[15] Sama heimild.

[16] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 158.

[17] Íslenskar æviskrár I, 18-19 og 319-320 og IV, 374-375.

[18] Sama heimild II, 90, III, 431, IV, 123-124 og 374-375.

[19] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 158.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Ísl. æviskrár II, 90.

[24] Sama heimild IV, 374.

[25] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 169.  Alþingisbækur Íslands VI, 409-410.

[26] Jarðab. Á. og P. XIII, 275-276 og 306.  Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 177-178.

Ísl. æviskrár I, 257-258 og II, 90.

[27] Ísl. æviskrár I, 257-258.

[28] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 177-178.

[29] Jarðab. Á. og P. XIII, 275-276. Sbr. þar bls. 306.

[30] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. XIII, 297.

[31] Manntal 1703.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sbr. Jarðab. Á. og P. XIII, 306.

[36] Jarðab. Á. og P. VII, 34-35.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 34-35.  Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 160 og 177-178.

[38] Blanda VIII, 366-369.

[39] Sama heimild.  Örn.skrá.

[40] Blanda VIII, 366-369.

[41] Sama heimild.  Örn.skrá.

[42] Blanda VIII, 366-369.

[43] Bogi Benediktsson / Sýslumannaæfir II, 186.

[44] Örn.skrá.

[45] Lögréttumannatal, 344-345.

[46] Örn.skrá.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Guðmundur Friðgeir Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[51] Guðmundur Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[52] Guðmundur Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[53] Örn.skrá.

[54] Guðm. S. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[55] Jarðab. Á. og P. VII, 35.

[56] Lbs. 31504to, Halldór Guðmundsson, Suðureyri / Æviminningar, 26-27,

[57] Jarðab. Á. og P. VII, 34-36.

[58] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 10.7.1991.

[59] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Þingeyrarhreppur 2. Hreppsbók 1835-1851 og 2. Hreppsbók 1851-1873.

[60] Örn.skrá.

[61] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 10.7.1991.

[62] Sama heimild.

[63] Örn.skrá.

[64] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 10.7.1991.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild.

[69] Örn.skrá.

[70] Sama heimild.

[71] Gísli Vagnsson 1956, 64-68 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[72] Bjarni Guðmundsson / Lesbók Mbl. 23.1.1993.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »