Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1]

Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík er skammur spölur upp á bæjarhólinn á Arnarstapa. Bærinn dregur nafn af tveimur bergstöpum sem standa hér í fjörunni, niður undan túninu.[2] Uppi í fjallinu að bæjarbaki verður svolítill dalkriki. Kallast hann Arnarstapadalur, oftar þó Stapadalur. Lítil á fellur í fossi fram úr dalsmynninu og síðan eftir gljúfragili innan við túnið til sjávar í Arnarstapavík. Lækur þessi mun á síðari tímum oftast hafa verið nefndur Stapaá [3] en í sóknarlýsingu sinni frá 1852 nefnir séra Þórður Þorgrímsson lækinn Stapadalsá.[4]

Innan við Stapadalinn er Sellátrafjall, sem áður var nefnt, og Sellátrahlíð en fyrir utan Arnarstapa tekur við Stapahlíð, undir fjallinu Krossa. Hlíðin er brött og skriðurunnin.

Í byrjun 18. aldar var Arnarstapi eign Selárdalskirkju og landskuldin þá þrjár vættir,[5] sem samsvaraði hálfu kýrverði. Í lok 17. aldar hafði landskuldin verið lækkuð um eina vætt vegna skemmda sem túnið hafði orðið fyrir af völdum skriðufalla.[6] Ógnum þeim sem að jörðinni steðjuðu af völdum grjóthruns er þannig lýst í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín árið 1710:

 

Túninu granda skriður til stórskaða og eyðilagt til þriðjunga fyrir því, sem áeykst meir og meir. Engjar hafa engvar verið nema litlar í kringum stekkinn, sem og eru af skriðum eyðilagðar. Úthagarnir eru mjög af skriðum og grjóthruni fordjarfaðir og í hrjóstur komnir. Hætt er kvikfé stórlega fyrir grjóthruni, sem oft hefur mein að orðið. Ekki er bænum óhætt fyrir skriðum og hafa þær áður mjög að honum gengið en þó ekki hingað til húsum grandað.[7]

 

Verra gat það varla orðið heldur en þarna er lýst. Samt mun fólk þó  oft hafa komist allvel af á Arnarstapa. Það gerði sjórinn og máske viðskiptin við erlendar þjóðir hafi líka hjálpað til. Hér var þó jafnan aðeins einbýli, enda taldist jörðin ekki nema sex hundruð að fornu mati.

Er Árni Magnússon kom í Tálknafjörð árið 1710 fékk hann þær upplýsingar að bóndinn á Arnarstapa gæti róið úr heimavör árið um kring þó lending sé bæði stórgrýtt og brimsöm.[8] Sá böggull fylgdi líka skammrifi fram til ársins 1702 að Selárdalsprestur skyldli jafnan eiga hálft skip á móti ábúanda og skyldi ábúandi fleyta því og vakta skiphlutinn.[9] Og það sem meira var: Jafnvel þótt Selárdalsprestur ætti alls ekki neitt í bátnum þá hvíldi samt sú kvöð á leiguliðanum á Arnarstapa að afhenda honum hálfan skipshlut af fiski eftir hverja vertíð án þess nokkur greiðsla kæmi fyrir.[10]

Þessa kvöð felldi séra Páll Björnsson í Selárdal loks niður árið 1702.[11] Hann var þá kominn yfir áttrætt og hafði haldið Selárdal í 57 ár.

Fram að stórubólu árið 1707 hafði oftast eitt þriggja eða fjögra manna far frá öðrum bæjum haft verstöðu á Arnarstapa[12] og þá trúlega róið frá Blöðru, vörinni rétt utan við Stapaána (sjá hér Sellátur og verstöðvarnar í Stapavíkum), en áin skilur að lönd Sellátra og Arnarstapa. Vertollurinn, sem Selárdalsprestur fékk greiddan af þessum bát, var 10 kíló af harðfiski frá hverjum skipverja.[13] Sami vertollur var greiddur Selárdalspresti af þeim bátum sem reru frá verstöðinni Klett út með sjónum í landi Arnarstapa. Þaðan gengu tveir bátar vorið 1710, þriggja og fimm manna för, en áður höfðu fimm bátar róið þaðan.[14] Um verstöðina á Klett segir í Jarðabók Árna og Páls:

 

Verbúðir hafa hér verið áður fimm og eru fjórar niðurfallnar en ein hangir uppi [árið 1710] og byggðu skipverjarnir þær upp á sinn kostnað að viðum og fluttu líka torf til af sínu landi.[15]

 

Ekki er alveg ljóst hvar verstöin sem nefnd var á Klett muni hafa verið. Hér var áður minnst á Blöðru, vörina rétt utan við Stapaána. Fyrir utan hana er Blöðrutangi og utan við hann Urtusandur.[16] Aðeins utar er Stöð og fram af henni tveir sérstæðir sjávardrangar, káli vaxnir, sem heita Arnarstapar.[17] Yst í Stöðinni er allmikil gjá ofan í fjöruklettana. Gjáin heitir Klauf en tangi utan við Stöðina Klettstangi.[18] Fyrir utan hann er Stekkjarvík og utan við hana Þorsteinsklettur en á bökkunum ofan við víkina Klettsflatir.[19] Þar eru Stekkjartóttir.[20] Nokkuð líklegt má telja að verstöðin á Klett hafi verið á þessum slóðum en þó hugsanlegt að hún hafi verið utar. Utan við Stekkjarvík og Þorsteinsklett eru helstu örnefni við ströndina, talið að innan, þessi: Hlaðsvík, Stillistangi, Gammvík og Hólstangi.[21] Rétt utan við Hólstanga og svolítið ofar er Grashóll en framan í honum er stór stein sem heitir Slútur eða Slútandi.[22] Við hann og Grjóthól, sem er nokkru ofar en Grashóll, eru landamerki Arnarstapa og Krossadals.[23]

Hér var áður minnst á allt grjótið og skriðurnar á Arnarstapa. Nokkra bjartsýni og ærinn dug hefur þurft til að hefja hér ræktunarframkvæmdir á níunda áratug 19. aldar meðan slíkar tiltektir voru enn harla fátíðar í sveitum landsins. Bjarni Bjarnason sem þá bjó á Arnarstapa hóf þó ótrauður baráttuna við grjótið og árið 1889 eru honum veittar 30,- krónur af fjárlagafé í sérstök verðlaun fyrir jarðabætur.[24]

Seinna bjó á Arnarstapa Guðmundur Sturluson sem kvæntur var Guðrúnu Oddsdóttur, systur Hallbjarnar á Bakka. Guðmundur byggði fyrstur manna á Sæbóli í landi Bakka (sjá hér Bakki í Tálknafirði) en fluttist síðan að Arnarstapa. Um þennan mág sinn ritar Hallbjörn Oddsson:

 

Guðmundur var duglegur bæði á sjó og landi. Ákafamaður við allt, sem hann gekk að, og mátti á yngri árum sínum teljast ófyrirleitinn sjósóknari þó aldrei hlekktist honum á. … Guðmundur Sturluson var afkastamikill smiður og gat verið netthagur þegar hann vildi það við hafa þó hann ólærður væri í þeirri grein en ákafans vegna tók hann ekki ætíð á þeirri list sinni.[25]

 

Löngu fyrr eða um miðja 18. öld bjó á Arnarstapa bóndi að nafni Þormóður Ásbjörnsson og mun Guðmundur sá er hér var síðast nefndur reyndar hafa verið niðji hans en fjórir ættliðir á milli. Þormóður fékk hug á að flytjast búferlum til Grænlands með fjölskyldu sína og ritaði amtmanni bréf um þetta hugðarefni sitt í marsmánuði árið 1756.[26]

Þegar Þormóður var að þenkja um Grænland var árferði hér með allra lakasta móti og svo hafði þá verið um nokkurra ára skeið. Hannes biskup Finnsson, sem fæddur var árið 1739, færði á sínum tíma rök að því að á árunum 1752 til 1759 hefðu nær 10.000 manns dáið hérlendis af völdum hungursótta[27] og var það um fimmtungur allrar þjóðarinnar. Við þessar aðstæður fékk Þormóður Ásbjörnsson þá flugu í höfuðið að líklega væri  best að flytjast til Grænlands, þar muni ástandið vera skárra.

Þormóður býr á Arnarstapa árið 1753 og gat þá kallast meðalbóndi með sex hundraða jarðnæði og tíundar fjögur lausafjárhundruð.[28] Bréf sitt til amtmanns ritar hann 18. mars 1756 frá Krossadal, næsta bæ við Arnarstapa, og hefur þá máske verið fluttur þangað.[29]

Í bréfinu kveðst Þormóður hafa frétt að konungur vilji styrkja menn til að byggja Grænland með því að bjóða þeim er þangað flytji upp á frían flutning. – Nú hefi ég fyrir nokkrum tíma fengið stóra lyst og eftirlangan ásamt mínu heimkynni þangað að fara, segir Þormóður og spyr hvort hann gæti átt þess kost að fá ókeypis flutning fyrir sig og skyldulið sitt til Kaupinhafnar svo að hann þar geti komist í Grænlandsfar.

Með haustskipum sama ár ritaði Magnús Gíslason amtmaður Friðriki fimmta Danakonungi bréf og óskaði konunglegs úrskurðar um málaleitan Þórmóðs.[30] Í bréfi sínu kveðst amtmaður hafa fengið þær upplýsingar frá Davíð Scheving sýslumanni að Þormóður sé duglegur og vel stæður bóndi með fjögur börn og þrjú eða fjögur vinnuhjú sem öll vilji fylgja honum til Grænlands. Magnús amtmaður segir kóngi líka þær fréttir að sér sé kunnugt um nokkrar aðrar fjölskyldur á Íslandi sem gjarnan vilji flytjast þangað í von um að finna þar hina fornu Eystribyggð er áður var byggð íslenskum mönnum.[31] Vel má vera að Þormóður á Arnarstapa hafi hugsað sér að feta einmitt í fótspor Eiríks rauða, enda þótt yfir þrjú hundruð ár væru liðin frá því síðast fréttist af niðjum Eiríks og félaga hans á Grænlandi. Aldrei varð þó úr Grænlandsför Þormóðs Ásbjörnssonar og mun Friðrik V hafa synjað beiðni hans, enda þótt Magnús amtmaður minnti kóng vandlega á það í bréfi sínu um Grænlandsáform Tálknfirðingsins að hans konunglega tign væri af guði útvalinn til þess að reisa við norðurpartinn af veröldinni.

Í staðinn fyrir Grænlandsferð fluttist Þormóður Ásbjörnsson aðeins norður í Arnarfjörð, yfir fjallveginn Krókalaut eða Selárdalsheiði að Austmannsdal í Ketildölum. Þar býr hann árið 1762, sex árum eftir ritun Grænlandsbréfsins, með konu sinni og fimm börnum,[32] – fjögur þeirra fædd áður en bréfið var skrifað sem kemur heim við umsögn Davíðs Scheving er hér var áður vitnað til. Árið 1801 er Þormóður enn á lífi í Austmannsdal, þá sagður 81 árs[33] og hefur því verið liðlega hálffertugur þegar hann ætlaði sér að flytjast búferlum til Grænlands.

Frá Arnarstapa liggur leiðin út í Krossadal og gott að fara fjöruna en frá örnefnum við ströndina  var greint hér litlu framar (sjá bls. 2-3). Bæjarleiðin frá Arnarstapa út í Krossadal er um það bil tveir kílómetrar. Landamerkin eru við hólana tvo Grashól og Grjóthól sem fyrr voru nefndir.[34]

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Martin Schuler 1994, 64 (Búsetuþróun á Íslandi 1880-1990).

[2] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 217.

[3] Hallbjörn Oddsson 1962, 130 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[4] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 217.

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 354.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Jarðab. Á. og P. VI, 354.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.  Sbr. Íslenskar æviskrár IV, 111.

[12] Jarðab. Á. og P. VI, 354-355.

[13] Sama heimild, 355.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Örnefnaskrá Arnarstapa.

[17] Samaa heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Örnefnaskrá Arnarstapa.

[22] Örnefnaskrá Arnarstapa.

[23] Sama heimild.

[24] Stjórnartíðindi 1889 B, bls. 103.

[25] Hallbjörn Oddsson 1963, 148 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[26] Skjalasafn amtmanns II, 70. – Bréf Þ. Á. til amtmanns 18.3.1756.

[27] Hannes Finnsson 1970, 85 (Mannfækkun af hallærum).

[28] Jarða- og bændatal 1752-1767, Barðastrandarsýsla, bls. 299 og 302.

[29] Skjalasafn amtmanns II, 70. – Bréf Þ. Á. til amtmanns 18.3.1756.

[30] Skjalasafn amtmanns II. Bréfabók amtmanns, 11. bindi, bls. 108-109, bréf Magnúsar Gíslasonar 30.8. 1756 til konungs.

[31] Sama heimild.

[32] Manntal 1762.

[33] Manntal 1801.

[34] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 217.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »