Auðkúluhreppur

 Í Arnarfirði voru frá fornu fari þrír hreppar, Auðkúluhreppur, sem stundum var nefndur Arnarfjarðarströnd, Suðurfjarðahreppur og Dalahreppur.[1] Af þessum þremur hreppum var Auðkúluhreppur einn í Ísafjarðarsýslu en hinir tveir í Barðastrandarsýslu. Sýslumörkin eru við tána á Langanesi en svo heitir nesið mikla sem skiptir innri hluta fjarðarins í tvennt.[2] Öll norðurströnd Arnarfjarðar var í Auðkúluhreppi en mörkin milli hans og Þingeyrarhrepps voru við Litlabarð á Svalvogahlíð og „sjónhending þaðan í strengberg milli Hvamms og Tóar“.[3]

Í fjarðaröðinni milli Bjargtanga og Stiga liggur Arnarfjörður nærri miðju. Vestar eru Patreksfjörður og Tálknafjörður en norðar Dýrafjörður, Önundarfjörður og Súgandafjörður. Af öllum þessum fjörðum er Arnarfjörður stærstur og að margra dómi svipmestur þeirra vegna víðáttu og stórbrotinna fjalla. Lengd hans, mæld frá annesjum í innfjarðabotna, er 42–44 kílómetrar og þegar komið er út fyrir Langanes er breiddin hvergi minni en sex kílómetrar og um þrettán kílómetrar úti við fjarðarmynnið.

Úr innanverðum Arnarfirði skerast inn í landið nokkrir smærri firðir og vogar. Vestan (sunnan) Langaness, þar sem heita Suðurfirðir, eru það Bíldudalsvogur, Fossfjörður, Reykjarfjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður en norðan Langaness Dynjandisvogur og Borgarfjörður. Utan innfjarðanna eru strendur Arnarfjarðar lítt vogskornar en þröngir dalir og tignarleg fjöll móta landslagið. Í fjallgarðinum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar liggja hæstu eggjar víða í 800–900 metra hæð yfir sjávarmáli og þar er Kaldbakur, hæsta fjall Vestfjarða, sem skartar efstu brún í nær 1000 metra hæð.

Í Landnámabók er getið tveggja landnámsmanna á norðurströnd Arnarfjarðar, Arnar, sem sat einn vetur á Tjaldanesi, og Ánar rauðfelds, sem „gerði bú“ á Eyri, en víðkunnastur allra Arnfirðinga frá fyrri öldum er án efa Hrafn Sveinbjarnarson læknir og héraðshöfðingi á Eyri, sem veginn var 4. mars 1213 (sjá Rafnseyri), og hefur sú jörð lengi verið við hann kennd.

Nærri lætur að strandlengja Auðkúluhrepps sé 58 kílómetrar því 21 kílómetri er frá Langanestá að Mjólká, fyrir botni Borgarfjarðar, og þaðan eru 37 kílómetrar að hreppamörkunum á Svalvogahlíð. Fornar bújarðir í hreppnum munu hafa verið 20 en þrjár þeirra féllu í eyði fyrir 1600, Ey, Skjaldfönn og Dalsdalur.[4] Hinar sautján héldust allar í byggð fram á 20. öld.[5] Þær voru, talið frá Langanestá, þessar: Hokinsdalur, Laugaból, Horn, Skógar, Kirkjuból, Ós, Dynjandi, Borg, Rauðsstaðir, Hjallkárseyri, Gljúfrá, Rafnseyri, Auðkúla, Tjaldanes, Álftamýri, Stapadalur og Lokinhamrar.[6] Auk þessara sautján jarða voru þrjár gamlar hjáleigur fyrir löngu orðnar að sérstökum lögbýlum árið 1710, Karlsstaðir sem byggðust úr landi Rafnseyrar, Baulhús úr landi Álftamýrar og Hrafnabjörg úr landi Lokinhamra.[7] Í byrjun 18. aldar var beitiland Hrafnabjarga og Lokinhamra þó enn sameiginlegt.[8]

Fimm af jörðunum í Auðkúluhreppi eru í Mosdal, á norðanverðu Langanesi, Laugaból, Horn, Skógar, Kirkjuból og Ós. Utar á sama nesi og næst sýslumörkum er svo Hokinsdalur. Á Mosdal mátti líta sem sérstakt byggðarlag og oft munu samskipti fólksins sem þar bjó við aðra íbúa hreppsins hafa verið lítil. Við Dynjandisvog var Dynjandi eina býlið en fyrir botni Borgarfjarðar eru Borg og Rauðsstaðir og fornbýlin tvö, Skjaldfönn og Ey. Hinar jarðirnar eru allar á norðurströnd Arnarfjarðar og þar eru Lokinhamrar á byggðarenda en fornbýlið Dalsdalur var þó enn utar.

Í Auðkúluhreppi voru á síðari öldum tveir kirkjustaðir, Rafnseyri og Álftamýri, og prestaköllin voru líka tvö, allt til ársins 1880 er Álftamýrarprestakall var lagt niður og sóknin lögð til Rafnseyrarprestakalls.[9] Í Álftamýrarprestakalli voru aðeins þessar fimm jarðir: Baulhús, Álftamýri, Stapadalur, Hrafnabjörg og Lokinhamrar[10] og svo Dalsdalur á fyrri tíð.

Árið 1710 voru sex hjáleigur í byggð í Auðkúluhreppi, fimm á Rafnseyri og ein á Álftamýri.[11] Þá kunnu menn líka að nefna átta tómthús eða hjáleigur sem fallin voru í eyði.[12] Árið 1801 voru aðeins tvær hjáleigur í byggð, báðar á Rafnseyri.[13]

Samanlagður dýrleiki allra bújarðanna í Auðkúluhreppi var að fornu mati 422 hundruð[14] og er Álftamýri þá talin hafa verið 32 hundruð en í sumum heimildum er dýrleiki þeirrar jarðar aðeins talinn 22 hundruð.[15] Stærstu jarðirnar voru Rafnseyri 60 hundruð og Auðkúla 48 hundruð.[16] Árið 1703 bjuggu í hreppnum 40 bændur og að báðum prestunum meðtöldum voru ábúendur 42. Lætur þá nærri að meðalbóndinn hafi haft tíu hundruð til ábúðar. Tala þeirra sem hér stóðu fyrir búi var á 18. og 19. öld nokkuð breytileg. Árið 1710 voru þeir 39, árið 1762 31, árið 1801 39, árið 1845 24 og 29 árið 1901.[17] Árið 1710 voru um það bil 42% allra jarðeigna í Auðkúluhreppi í eigu kirknanna á Álftamýri og Rafnseyri en þær áttu hér, að heimalöndunum meðtöldum, 176 jarðarhundruð.[18] Kóngur átti þá 114 hundruð eða 27% allra jarðeigna í sveitinni en einstaklingar 132 hundruð eða 31%.[19] Af þessum hundruðum voru aðeins níu og hálft í sjálfsábúð eða liðlega 2% allra jarðeigna í hreppnum.[20] Sjálfseignarbændur voru þá aðeins tveir og bjó annar þeirra á sex hundruðum í Skógum en hinn á fjórum og hálfu hundraði úr Gljúfrá.[21] Jarðeignir sem einstaklingar áttu hér í sveit árið 1710 skiptust þannig að 78 hundruð voru í eigu manna búsettra á Vestfjörðum en 54 hundruð í eigu fólks sem átti heima annars staðar á landinu.[22]

Árið 1805 voru sjálfseignarbændur í Auðkúluhreppi orðnir fjórir og bjuggu á Dynjanda, nokkrum hundruðum úr Auðkúlu, í Hokinsdal og á Hrafnabjörgum.[23] Kóngur var þá búinn að selja Auðkúlu, sem hann hafði átt lengi (sjá Auðkúla), og hinar kóngsjarðirnar í þessu byggðarlagi voru allar seldar á árunum 1839–1841.[24] Þær voru Laugaból, Horn, Borg og Rauðsstaðir.[25] Kirkjurnar á Álftamýri og Rafnseyri áttu hins vegar enn allar sínar jarðir hér í hreppi árið 1845[26] en þær voru, auk sjálfra staðanna, Ós, Hjallkárseyri, Karlsstaðir, Tjaldanes, Baulhús og Stapadalur.[27]

Í byrjun 18. aldar var meðallandskuld af hverju hundraði í hreppnum um það bil fimm og hálf alin.[28] Um miðbik 19. aldar var afgjaldið af jörðunum heldur lægra að jafnaði eða tæplega fimm álnir á hvert hundrað[29] en fram skal tekið að þá eru kirkjustaðirnir tveir ekki taldir með. Sú var reglan á fyrri tíð að eitt eða fleiri kúgildi fylgdu hverri jörð en í einu kúgildi voru sex ær. Árið 1710 voru innstæðukúgildin hér á Arnarfjarðarströnd 93 að meðtöldum ellefu kúgildum sem fylgdu prestssetrunum á Álftamýri og Rafnseyri.[30] Frá kúgildaleigunum er sagt hér á öðrum stað (sjá Mosvallahreppur). Um miðbik nítjándu aldar hafði leigukúgildunum í Auðkúluhreppi fækkað úr 93 í 89.[31]

Árið 1703 áttu 304 manneskjur heima hér.[32] Árið 1762 voru íbúarnir 215, árið 1801 273, árið 1845 292, árið 1901 302, árið 1910 294 og árið 1930 201.[33] Stundum fækkaði fólkinu verulega vegna manndauða og má sem dæmi nefna að í Sjávarborgarannál er frá því greint að 60 manneskjur hafi látist í Rafnseyrarsókn í stórubólu árið 1707 og 20 í Álftamýrarsókn.[34]

Á liðnum öldum mun meginþorri fólksins í Auðkúluhreppi jafnan hafa átt sér vísa vist á heimilum bænda en einstaka menn freistuðu þess að draga fram lífið í húsmennsku. Árið 1703 voru hér fjórir húsmenn sem höfðu fyrir fleirum að sjá en sjálfum sér og svo þrír einhleypir og tvær húskonur.[35] Að börnum meðtöldum voru þetta 19 manneskjur[36] eða liðlega 6% af heildarfjölda íbúanna. Hér í hreppi fyrirfannst þá aðeins einn lausamaður.[37] Árið 1801 var stétt tómthúsmanna enn fáliðaðri hér í Auðkúluhreppi því þá voru hér aðeins þrír húsmenn, tveir kvæntir og einn ókvæntur.[38] Auk sjálfra sín og eiginkvennanna höfðu þeir fimm manneskjur á sínu framfæri[39] svo heildartalan varð tíu sálir. Undir lok síðustu aldar fjölgaði tómthúsmönnunum mjög. Árið 1901 bjuggu í hreppnum 29 bændur en tómthúsmenn sem höfðu fyrir fjölskyldu að sjá voru 21.[40] Tæpur þriðjungur íbúanna var þá tómthúsfólk[41] og bjó það ýmist í híbýlum bænda eða í hjáleigum og þurrabúðarkotum sem á árunum kringum síðustu aldamót voru ekki færri en sex.[42]

Árið 1703 voru vinnuhjúin í þessari sveit 77, 38 vinnumenn og 39 vinnukonur, en árið 1801 voru vinnuhjúin 78, 34 vinnumenn og 44 vinnukonur.[43] Nærri lætur að tvö hjú hafi þá verið á hverju heimili að jafnaði en vinnuhjúin voru liðlega fjórðungur af heildarfjölda íbúanna. Vinnukonunum 44 sem hér þjónuðu árið 1801 fylgdu aðeins fjögur börn og vinnumennirnir voru allir barnlausir að sjá nema einn sem hafði eitt barn á sínu framfæri.[44] Við lok 19. aldar hafði vinnuhjúunum fækkað verulega og voru þau 48 árið 1901.[45]

Í þessari þingsókn við Arnarfjörð voru fáir ómagar í upphafi 18. aldar. Að tökubörnum meðtöldum voru þeir tólf árið 1703 og eru þá ekki taldar með húskonurnar tvær sem báðar nærðust „af guðsþakka gjörðum“.[46]

Gaman hefði verið að eiga kost á nánari upplýsingum en þeim sem í boði eru um flakkarana sem beiddu sér beininga á bændaheimilunum við Arnarfjörð í harðindum fyrri tíðar. Nóttina fyrir páskadag árið 1703 gistu fimm flakkarar á norðurströnd Arnarfjarðar, einn í Stapadal, annar á Álftamýri, sá þriðji á Auðkúlu og tveir á Rafnseyri eða í hjáleigukotunum þar.[47] Allt voru þetta karlmenn milli tvítugs og sextugs nema Sigríður Guðmundsdóttir sem var 52ja ára gömul og gisti hjá prestinum á Álftamýri, sögð norðan úr Miðfirði.[48] Um Guðmund Þorvaldsson sem kvaddi dyra á Auðkúlu 7. apríl 1703 gáfu húsráðendur fáum dögum síðar svohljóðandi skýrslu:[49]

 

Anno 1703, þann 7. Aprilis, sem er laugardagurinn næstur fyrir páska, síðla um kvöld, eftir sólsetur, kom hingað á mitt heimili, Auðkúlu, sá piltungsmaður sem sig nefnir Guðmund Þorvaldsson, 22ja ára að aldri. Segist barnfæddur í Ólafsfirði norður í Möðruvallasýslu og eiga þar átta ára tiltölu. Síðan færðist hann hingað í Fljót, sem hann meinar í Skagafjarðarsýslu, og segist þar hafa verið hjá föður sínum í fjögur ár, svo þaðan hrakist eftir föður síns andlát fyrir Jökul og hingað á Vestfirði. Síðan segist hann fyrst hingað í sýslu komið hafa í fyrra haust og þá í fyrsta sinn sakramentast á Sæbóli á Ingjaldssandi, fyrir heiðurlegum kennimanni, síra Bjarna Brynjólfssyni. Segist svo hafa um þessa og Barðastrandarsýslu flækst síðan allt til þessa.

 

Að flökkurunum frátöldum mun oftast hafa verið lítið um fólk úr fjarlægum byggðarlögum hér á norðurströnd Arnarfjarðar. Um 26 presta sem þjónuðu hér á 16., 17., 18. og 19. öld, fram til 1880, er vitað hvaðan þeir komu.[50] Af þeim komu átta beint frá vígslu í Skálholti eða Reykjavík en hinir komu allir nema einn úr öðrum prestaköllum á Vestfjörðum eða Vesturlandi, tólf úr ýmsum köllum á Vestfjörðum en fimm úr Dalasýslu og af Snæfellsnesi.[51] Sá eini sem kom lengra að var Eysteinn Þórðarson, sem sendur var vestur á Álftamýri um miðja 16. öld, en hann hafði verið kirkjuprestur í Skálholti og komist þar í erfið kvennamál (sjá Álftamýri).

Enn minna var um að prestar flyttust úr Rafnseyrar- eða Álftamýrarbrauði í prestaköll utan Vestfjarðakjálkans. Um slíkt eru aðeins finnanleg tvö dæmi áður en strandferðir gufuskipa hófust seint á síðustu öld.[52] Vitneskjan sem fyrir liggur um búferlaflutninga presta inn í Auðkúluhrepp ellegar burt héðan bendir mjög eindregið til þess að öldum saman hafi aðeins örfáar manneskjur flust hingað úr fjarlægum héruðum og fáir hafi tekið sig upp og farið héðan búferlum í aðra landsfjórðunga. Þá kenningu getur hver og einn reyndar fengið staðfesta með því að líta í manntölin frá árunum 1816 og 1845.

Þann 1. desember 1816 áttu 256 manns heima í Auðkúluhreppi og af þeim höfðu fjórir af hverjum fimm fæðst í Arnarfirði en bara tólf utan Vestfjarðakjálkans og átta þeirra í nærliggjandi sýslum, Dalasýslu og Húnavatnssýslu.[53] Færri en tveir af hverju hundraði þáverandi íbúa voru hingað komnir úr fjarlægari héruðum. Sama mynd blasir við í manntalinu frá 1845. Íbúar hreppsins voru þá 292 og allir fæddir á Vestfjörðum nema fjórir.[54] Einn þessara fjögurra var Símon Sigurðsson, hreppstjóri á Dynjanda, sem fæddur var norður í Eyjafirði, en frá honum er sagt hér á öðrum stað (sjá Dynjandi). Hinir þrír voru Margrét, systir Símonar, er var vinnukona á Dynjanda, Þorleifur Ólafsson Thorlacius, sem var námspiltur á Rafnseyri, fæddur í Dalasýslu, og Guðrún Bjarnadóttir, 75 ára „uppgjafakerling“ á Álftamýri, fædd í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalssýslu.[55] Af öllum íbúum hreppsins þetta sama ár voru 173 eða 59,2% fæddir innan marka hans, 31 eða 10,6% annars staðar í Arnarfirði, 56 eða 19,2% annars staðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, 14 eða 4,8% í Barðastrandarsýslu en utan Arnarfjarðar, 11 eða 3,8% í Norður-Ísafjarðarsýslu, þrír eða rétt liðlega 1% í Strandasýslu og eins og fyrr var nefnt fjórir eða 1,4% utan Vestfjarðakjálkans.[56]

Á árunum 1625–1683 voru 20 karlmenn og ein kona brennd á báli hérlendis fyrir galdra.[57] Fullur þriðjungur þessa fólks var Arnfirðingar ef með eru talin aðflutt mæðgin úr Norðurlandi sem hér voru gripin og færð á bálið.[58] Þó galdrabrennum lyki árið 1683 lifði galdratrúin áfram góðu lífi hjá almúganum í Arnarfirði eins og reyndar víðar og stöku menn fengust hér við kukl á 19. öld (sjá Horn og Kirkjuból í Mosdal).

Fólkinu sem bjó við norðanverðan Arnarfjörð um miðja átjándu öld lýsti Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðingur, svo:[59]

 

Á norðurströnd Arnarfjarðar búa gildir menn og hraustir. Þeir ganga í víðum fötum að gömlum sið. Þeir eru harðgerðir og djarfir til framkvæmda og berja frá sér ef þeir eru reittir til reiði … Vestfirðingar og einkum þó Breiðfirðingar og Arnfirðingar eru hneigðir fyrir sögur og annan fróðleik, einkum náttúrufræði. Þeir eru öðrum landsmönnum fróðari um plöntur, steina, lifnaðarhætti dýra og þess háttar og nefna hvern hlut sínu rétta nafni.

 

Við sem eigum rætur að rekja til hinna gömlu Arnfirðinga getum leyft okkur að vona að þarna sé ekkert oflof á ferð og megum þá vel við una.

Séra Jón Ásgeirsson sem prestur var á Álftamýri segir um 1840 að helsta skemmtun sóknarbarna sinna sé „spil og töfl“ og „sögulestrar“ en tekur fram að enginn kunni „söngleika á hljóðfæri“.[60]Í svörum sínum frá árinu 1839 við spurningum Hins íslenska Bókmenntafélags birtir séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri ýmsan fróðleik um lifnaðarhætti, menningarástand og siðvenjur fólksins í prestakallinu og kemst þá meðal annars svo að orði:[61]

 

Karlmenn stunda öll útistörf, sjóferðir, hirðingu á heyjum, torfristu og húsabyggingu og skógarverk. Kvenfólk stundar rakstur og rifjun, smalamennsku vor og sumar, þrífur á heimilum og býr til allan mat. Að veturnóttum sest það að ullarvinnu. Vinnur fatnað upp á heimilisfólkið og til hvíluvoða, þjónar karlmönnum sem eru við útistörf og róðrarferðir og gæta fjár og nauta. Lítið er unnið af ull til útsölu utan einspinnules. Karlmönnum er þó ætlað á vökum að kemba ull og vefa.

….. Íþróttaiðkun er engin iðkuð utan skot með byssum og skutlun með rá er iðkað hjá ungum drengjum. Af hljóðfærum vita menn lítið hér að segja og nótnasöng ekki heldur, er það máske fáeinir sem bera við söng á langspil. Á vetrum eru lesnar sögur stundum og rímur bera menn við að kveða. Ekki má það kalla að margir séu skrifandi en þó eru fleiri sem geta klórað seðil, ef þeim liggur á, sem þeir hafa af dálítillri sjálfsiðkun. Kvenfólk getur það líka. Aldur og kyn þeirra sem ei eru skrifandi get ég ekki úrleyst því fólkið er langt fleira sem ekki ber við að draga til stafs, á öllum aldri, bæði karl og kona.

Siðferðið útvortis er ekki vont yfir höfuð að tala meðal fólksins, þó engan veginn sé hrósunarvert hjá öllum, óhreinlyndi, kuldi við aðra, siðprýði í orðfæri og viðmóti, þetta væri óskandi að lagfærðist til hins betra.

 

Þannig lýsti séra Sigurður fólkinu í sínu kalli skömmu fyrir miðja síðustu öld og hafði þá sjálfur átt heima á Rafnseyri í yfir 50 ár svo ekki var hann hér ókunnugur. Um veðurfar og loftsjónir ritar hann svo:[62]

 

Oftast sjást merki eða fyrirboði veturs um höfuðdaginn, með frostum, stormum eður snjó. Oft er það sem veðráttubrigði koma til betra eður verra fram úr sæluvikum.*

Þegar vetrar hafa fallið þungir vænta menn linunar á veðráttu fram úr Maríumessu, föstudegi langa, fullu Gyðingatungli og oft uppfyllist sú von, þó vorin annars á eftir verði mikið þung, sem þau oftast verða, með viðvarandi kuldum, napandi vindum og þá snjófalli á stundum, fram undir messur eða sólstöður. Reiðarþrumur heyrast hér skjaldan og ef það skeður er það í útsunnan eða suðaustan stórrigningum og ei veit ég til að lofteldar hafi hér orðið að grandi.

Loftsjónir hafa ekki sést eða sjást nú nokkrar sérlegar – hjálmabönd í kringum sól, rosabauga í kringum tungl, sól í úlfakreppu, sem er svo kallað, norðurljósin á kvöldtímum í heiðríkju, stjörnuhrap, – þetta eru hér þær almennilegu loftsjónir. Hafísinn kemur hér þá hann annars kemur, helst á

 

—————

*Sæluvikur voru fjórar á ári í kaþólskum sið og stóð hver þeirra í þrjá daga í senn. Þá áttu menn að fasta og gefa fátækum mat sinn. – „Því er kölluð sæluvika að þá áttu fátækir að eiga gott,“ segir í almanaki. [Almanak Hins ísl. Þjóðvinafél. 1878, bls. 61-62]. Annað heiti á þessum sömu dögum var imbrudagar og fylgdust þrír slíkir ætíð að, – miðvikudagur, föstudagur og laugardagur. Fyrstu imbrudagar ársins voru í vikunni sem hefst með fyrsta sunnudegi í föstu [sjá Alm. Hins ísl. Þjóðvinafél. 1875–1884. The New Encycl. Brit. (Micropædia), 15. útg. 4. b., bls. 469], hinir næstu í vikunni eftir hvítasunnu, þá í vikunni eftir krossmessu á hausti, sem er 14. september, og loks í vikunni sem hefst með þriðja sunnudegi í aðventu [sömu heimildir]. Heitið imbrudagar mun dregið af latneska orðinu imber, í fleirtölu imbres, sem merkir regn eða regnskúr. Í alfræðiritum er óvissa sögð ríkja um upphaf imbrudaga en ekki er ólíklegt að nafnið skýrist af því að í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs, þar sem ýms hin helstu trúarbrögð eru upprunnin, hafi menn fyrir ævalöngu lagt á sig föstur í von um regn. Þegar séra Sigurður á Rafnseyri talar um trú Arnfirðinga á veðrabrigði tengd sæluvikum kynni því að vera um að ræða leifar af mjög fornum átrúnaði.

 

 

góe og einmánuði. Fyllir hann firði. Hann liggur líka í hafinu oftast og rekur ekki inn. Hefur hann í nokkur ár ekki komist lengra frá landinu en á landsbrún eða sjó í miðjar hlíðar og bægt þilskipum frá að veiða hákall á stundum. Þá hann liggur nærri landi kenna menn honum um kuldaveðráttu.

 

Er tvö ár voru liðin frá því Sigurður prófastur á Rafnseyri ritaði þessa skilmerkilegu greinargerð um náttúrufar í Arnarfirði og lífsstríð sóknarbarna sinna hóf sonur hans, fullhuginn ungi í Kaupinhafn, útgáfu Nýrra félagsrita.

Hér hefur áður verið gerð nokkur grein fyrir fjölda býla í þessari þingsókn en þau voru um það bil 40 á árunum kringum 1700 og álíka mörg 100 árum síðar. Heildartala búfjár í öllum hreppnum var mjög

 

 

 

 

breytileg en taflan sem hér fylgir sýnir hver búfjárfjöldinn var árin 1710, 1791, 1830, 1880 og 1915 samkvæmt opinberum skýrslum.[63] Innstæðukúgildin sem fylgdu jörðunum eru þá jafnan talin með en eins og fyrr var nefnt voru þau

árið 1710 93 eða sem svaraði 558 ám loðnum og lembdum.

 

 

Fjöldi býla og búfjár í Auðkúluhreppi

árin 1710, 1791, 1830, 1880 og 1915

Fjöldi                         Aðrir                                    Aðrar

Ár         býla        Kýr            naut-                Ær                sauð-         Hross

gripir                                   kindur

1710       39           98               14                 877                  792            57

1791       40           92                 4                 367                  134            35

1830       25           76               11                 563                  543            37

1880       22           64               18                 660                  606            45

1915       26           51               17               1135                  387            48

 

Fram skal tekið að hér eru kálfar, lömb og folöld aldrei höfð með. Hinar opinberu tölur um fjölda sauðfjár má ekki taka alveg bókstaflega því verið getur að nokkrum rollum hafi verið stungið undan hér og þar.[64] Engu að síður gefa tölurnar mjög skýra vísbendingu um þá miklu fækkun sauðfjár sem hér varð á átjándu öldinni og þá einkum í móðuharðindunum.

Í búfjártöflunni hér að ofan eru býlin í Auðkúluhreppi sögð hafa verið 40 árið 1791 og svo er talið í búnaðarskýrslunni sem á er byggt en í raun er þó átt við fjölda heimila. Þrjú þeirra máttu kallast þurrabúðir því þar var engin belja í fjósi og í öðrum fimm kotum var búið sauðlaust.[65]

Úr töflunni má lesa að árið 1710 var stærð meðalbúsins í þessari sveit þrír nautgripir, liðlega 40 sauðkindur og einn til tveir hestar en árið 1880 þrír til fjórir nautgripir, 55–60 sauðkindur og tveir hestar.

Stærsta búið í hreppnum var árið 1710 hjá séra Páli Péturssyni á Álftamýri sem bjó með sex nautgripi og 116 sauðkindur, auk 38 lamba, og tvö hross.[66] Næststærsta búið var þá hjá Bjarna Guðmundssyni, sem var annar tveggja bænda í Lokinhömrum og bjó með þrjár kýr, 112 sauðkindur, auk 60 lamba, og tvo hesta.[67] Allur þessi búfénaður var í eigu Bjarna nema 24 ær sem fylgdu jörðinni.[68] Árið 1880 var Gísli Oddsson í Lokinhömrum með stærsta búið, níu nautgripi, 188 sauðkindur, auk lamba, og þrjá hesta en næststærsta búið var þá hjá Ásgeiri Jónssyni á Rafnseyri, átta nautgripir, 136 sauðkindur, að lömbum frátöldum, og sjö hestar.[69]

Fyrsti búfræðingurinn sem vann að jarðabótum í Auðkúluhreppi mun hafa verið Sæmundur Eyjólfsson, fæddur 1861, en hann ferðaðist um Ísafjarðarsýslu sumarið 1883 á vegum sýslunefndar og gekkst þá m.a. fyrir jarðabótum á Rafnseyri.[70] Svo virðist sem framfarir í búnaði hafi þó ekki orðið miklar hér í Arnarfirði á síðasta fjórðungi 19. aldar og meira kapp verið lagt á sjósóknina. Árið 1907 segir Guðjón Guðmundsson, ráðunautur Búnaðarfélags Íslands, að „mjög lítið“ hafi verið unnið að jarðabótum í Auðkúluhreppi en tekur fram að hér sé garðrækt betur á vegi stödd.[71] Á árunum kringum síðustu aldamót urðu verulegar framfarir á því sviði en geta má þess að árið 1791 var aðeins einn kálgarður í öllum hreppnum[72] og séra Sigurður Jónsson segir árið 1839 að enginn beri hér við að rækta kartöflur.[73] Árið 1880 voru hér fimm kálgarðar.[74] Árið 1915 töldust túnin hér í sveit vera 69 hektarar eða liðlega tveir og hálfur hektari að jafnaði á hvert býli en meðalheyfengur hvers bónda 70 hestar af töðu og 86 hestar af útheyi.[75]

Nokkur dæmi úr úttektum frá árunum 1852–1867 gefa hugmynd um stærð torfbæjanna í Auðkúluhreppi á síðustu öld. Úttektir frá þessu skeiði á jörðunum Hokinsdal, Laugabóli, Skógum, Kirkjubóli, Rauðsstöðum, Hjallkárseyri, Gljúfrá og Lokinhömrum sýna að þar voru baðstofurnar að jafnaði liðlega 17 fermetrar, eldhúsin tæplega 9 fermetrar og búrin um það bil 8 fermetrar hvert.[76] Langstærst var baðstofan í Lokinhömrum, tæplega 38 fermetrar, og næststærst sú á Laugabóli, tæpir 19 fermetrar, en minnst á Gljúfrá, aðeins liðlega 8 fermetrar.[77] Sé aðeins litið á þessar átta jarðir voru eldhús og búr líka stærst í Lokinhömrum, eldhúsið 17–18 fermetrar og búrið 14 fermetrar.[78] Minnst var eldhúsið hjá Jóhannesi „galdramanni“ á Kirkjubóli, aðeins tæplega 5 fermetrar, en minnsta búrið var á Laugabóli, tæplega 6 fermetrar.[79] Á tvíbýlisjörðum kynnu sumar tölurnar sem hér liggja að baki að eiga við hálfa baðstofu en ekki heila, það er að segja þann baðstofuhelming sem annar tveggja ábúenda fékk til afnota. Þetta á þó ekki við hvað varðar úttektina á Lokinhömrum.[80]

Á þessu tímaskeiði virðist lengd bæjarganganna hér í sveit yfirleitt hafa verið 4–10 metrar.[81] Auk baðstofu, búrs og eldhúss voru á sumum býlanna skemma og smiðja, auk gripahúsa.[82] Sumir bændur áttu líka hjall eða heyhlöðu.[83] Í Lokinhömrum voru árið 1867 tvær skemmur, önnur 10 x 5 en hin 10 x 4 álnir,[84] það er tæpir tuttugu og tæpir sextán fermetrar.

Ljóst er að á síðari öldum áttu margir Arnfirðingar í basli við að tryggja sér nægilegan eldivið því að á 18. öld var lítið eftir af skógi og mór talinn vera á þrotum víðast hvar, a.m.k. hér á norðurströnd fjarðarins. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um mótak eða svarðarstungu á fimm jörðum í Auðkúluhreppi. Þær voru Horn, Dynjandi, Stapadalur, Hrafnabjörg og Lokinhamrar, og mó var þá enn brennt á þremur öðrum jörðum, Auðkúlu, Baulhúsum og Álftamýri, með hrísi og taði.[85] Að sögn bændanna sem Árni Magnússon hitti hér að máli haustið 1710 var mórinn hins vegar nær alls staðar á þrotum[86] og búnaðarskýrsla frá haustinu 1791 sýnir að öll heimilin í þessum hreppi hafa þá orðið að láta sér duga tað eða hrís til eldiviðar því enginn brenndi mó.[87]

Árið 1710 var hrís eða lyng talið „bjarglegt“ til eldiviðar á sjö jörðum í þessari sveit, það er í Hokinsdal, á Horni, í Skógum, á Kirkjubóli, Dynjanda, Borg og Rauðsstöðum, en lyng „til eldiviðarstyrks“ á Rafnseyri, Auðkúlu, Tjaldanesi og Baulhúsum.[88] Staðurinn á Rafnseyri átti þá skógarítak í landi Kirkjubóls og þess naut einnig fólkið á Karlsstöðum.[89] Jörðin Ós í Mosdal átti líka ítak í sama skógi en Hjallkárseyri fylgdi skógarítak á landamerkjum Borgar og Rauðsstaða.[90] Aðfengið hrís, úr landi annarra jarða, var í byrjun 18. aldar notað til eldiviðar með mó eða taði á Laugabóli og Gljúfrá og líka í Stapadal.[91]

Árið 1805 var enn nægur skógur „til eigin brúks“ við kolagerð á fimm jörðum í Auðkúluhreppi, Skógum, Kirkjubóli, Dynjanda, Borg og Rauðsstöðum,[92] og fyrir liggur að þá sótti fólk frá öðrum bæjum enn í Kirkjubólsskóg til kolagerðar (sjá Kirkjuból). Séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri segir árið 1839 að í sínu prestakalli noti menn tað og „hrís úr skógi“ til eldsneytis og „þá meðfram harðatorf“ [93]en svo var mórinn stundum nefndur. Séra Jón Ásgeirsson prestur á Álftamýri segir hins vegar um svipað leyti að í sínu kalli sé tað helsti eldiviðurinn því lítið fáist af „harðatorfi“ og hrís sé ekki í boði „nema inni í fjarðarbotnum“.[94]Í skýrslu frá árinu 1880 er hins vegar getið um nýtt mótak í Lokinhömrum, á Auðkúlu og Rafnseyri og í Skógum.[95]

Öll vitneskja sem fyrir liggur bendir eindregið til þess að sjósókn hafi jafnan verið gildur þáttur í fæðuöflun Arnfirðinga. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um heimræði að sumri og hausti frá öllum bæjum í Auðkúluhreppi nema Kirkjubóli en tekið fram að frá býlum innantil í firðinum hafi lítið sem ekkert verið róið síðustu tuttugu árin eða svo vegna breytinga á fiskigöngum.[96] Frá Tjaldanesi var árið 1710 róið til fiskjar sumar og haust og frá Baulhúsum, Álftamýri og Stapadal var þá róið árið um kring nema á vorvertíð en frá Hrafnabjörgum og Lokinhömrum var sóttur sjór allt árið, þegar gaf.[97]

Á 18. og 19. öld reru flestir Arnfirðingar frá Verdölum eða Kópavík á vorin[98] en þær verstöðvar eru sín hvoru megin við Kópinn sem er ysta fjall við vestanverðan Arnarfjörð. Á árunum kringum 1800 munu sumir Arnfirðingar þó hafa róið frá Svalvogahamri (sjá Rafnseyri), verstöð yst á nesinu milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Á vorvertíð var kappið mest við sjóróðrana en hún stóð frá sumarmálum og fram í byrjun júlí.[99] Flestir vinnufærir karlmenn voru þá við róðra en konur, unglingar og gamalmenni sinntu búverkum.

Á haustin var jafnan róið úr heimavör frá bæjunum í Álftamýrarsókn. Auk heimabátanna voru í byrjun 18. aldar einn til þrír bátar við haustróðra frá Lokinhömrum og frá Hrafnabjörgum, Stapadal og Baulhúsum reru þá oft eitt eða fleiri „inntökuskip“ á haustin.[100] Tvær verbúðir voru þá í Lokinhömrum og höfðu líka verið tvær í landi Hrafnabjarga en önnur var niður fallin og líka verbúðin í Stapadal en þar lágu útróðrarmenn við í tjaldi.[101] Í Jarðabókinni frá 1710 er þess getið að fáein „inntökuskip“ hafi „að fornu“ róið frá Álftamýri „um lítinn tíma“ á haustin en tekið fram að þar sé engin verbúð og hafi aldrei verið.[102]

Í sóknarlýsingum sínum frá árunum kringum 1840 geta bæði séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri og séra Jón Ásgeirsson á Álftamýri um haustróðra frá verstöðvum á norðurströnd Arnarfjarðar.[103] Séra Jón á Álftamýri nefnir þar bæði Hlaðsbót í landi Álftamýrar og Grísavík í landi Hrafnabjarga.[104] Í Grísavík segir hann menn hafa uppsátur en tekur fram að í Hlaðsbót séu verbúðir sem „fólk úr innri sókn noti“ við haustróðra því fiskur sé treggengur „til innri fjarðarins“.[105]Um fiskveiðar frá bæjunum fimm í Álftamýrarsókn ritar séra Jón nánar á þessa leið:[106]

Haustafli af fiski og ýsu á lóðir er allsstaðar í sókninni. Leggur hver einn lóðirnar sínar hvar honum líst í sjóinn, fyrir utan á miðum rétt fram undan bæjunum. Þar mega ei aðkomumenn leggja.

Hjá séra Sigurði á Rafnseyri kemur fram að um 1840 stóð haustvertíð við norðanverðan Arnarfjörð frá því um Mikaelsmessu, sem er 29. september, og fram á jólaföstu er selveiðar tóku við.[107] Róið var með lóðir „vestur í álinn“, beitt um nætur en línan lögð og dregin dag hvern þegar gaf.[108] Þessi orð séra Sigurðar sýna að á fyrri hluta 19. aldar tíðkuðust línuróðrar hér í Arnarfirði, a.m.k. á haustvertíð, en sums staðar annars staðar á Vestfjörðum fór notkun lóða ekki að breiðast út fyrr en síðar.[109]

Á nítjándu öld stunduðu bændur í Álftamýrarsókn líka hákarlaveiðar af kappi og voru þær leguferðir farnar á áttæringum í skammdeginu um hávetur og oft róið á djúpmið, allt að 24 sjómílum undan ystu núpum.[110] Mun slíkur veiðiskapur vart hafa hentað aukvisum eða þeim sem litlir voru fyrir sér. Algengt mun hafa verið að menn væru fjóra sólarhringa í hverri leguferð.[111] Maturinn sem hafður var með í þessar sjóferðir var tíðast hangikjöt, saltkjöt, hákarl, lundabaggar, reyktur magáll, lúðuriklingur, pottbrauð og smjör.[112] Til að verjast kulda í leguferðunum þótti best að klæðast fötum úr selskinni.[113] Veiðarfærið var hákarlavaður sem oft var um 120 faðmar á lengd og stundum lengri.[114] Í hákarlalegum var skipshöfnin oft átta menn og þá var aflanum skipt í tólf staði.[115] Á árunum kringum 1800 var meðalhlutur yfir árið fjórðungur úr tunnu af hákarlalýsi.[116] Frá Lokinhömrum var farið í hákarlalegur allt til aldarloka (sjá Lokinhamrar).

Á árunum 1776–1783 virðast bændur í Auðkúluhreppi oftast hafa gert út 11–16 báta[117] en vera má að í skýrslum frá þeim árum séu minnstu bátarnir ekki taldir með. Seinna var bátaeignin sem hér segir:[118]

 

Bátaeign í Auðkúluhreppi

árin 1791, 1821, 1830, 1850 og 1880

Áttær-                Sexær-                 Minni                  Heildar-

ingar                ingar og                 bátar                     fjöldi

Ár                                4 manna för                                            báta

1791         0                          7                        15                        22

1821         2                        15                        11                        28

1830         1                        14                        14                        29

1850         0                        16                        19                        35

1880         2                        13                        15                        30

 

Árið 1897 eru 16 bátar sagðir hafa róið frá norðurströnd Arnarfjarðar en þá munu minnstu bátarnir ekki hafa verið taldir með því þetta voru einn áttæringur, tveir sexæringar og þrettán fjögra manna för.[119] Fjórir þessara þrettán síðast töldu báta voru reyndar frá Bíldudal og Steinanesi í Suðurfjörðum[120] og má ætla að þeir hafi róið frá Hlaðsbót (sjá Álftamýri). Að öllu samantöldu var 142.800 fiskum landað úr opnum bátum í Auðkúluhreppi árið 1897, ef marka má opinberar heimildir, en í hinum hreppunum í Vestur-Ísafjarðarsýslu var slíkur afli hvarvetna innan við 60.000 fiskar.[121]

Árið 1901 var róið til fiskjar frá öllum bæjum í Auðkúluhreppi sem liggja utar en Rafnseyri á norðurströnd Arnarfjarðar.[122] Þá um vorið gengu þaðan sjö fjögra manna för og stóð vertíðin eins og áður frá því um sumarmál og fram í júlíbyrjun.[123] Í síðari hluta ágúst hófust svo haustróðrar og var verið við róðra fram í nóvember eða jafnvel desember.[124]

Í manntali sem tekið var 1. nóvember 1901 sést að þá voru 79 aðkomumenn við róðra frá bæjum og verstöðvum í Álftamýrarsókn.[125] Útróðrarmenn þessir skiptust þannig á bæina: 17 voru í Lokinhömrum, 2 á Hrafnabjörgum, 11 í Stapadal, 18 á Álftamýri, 10 á Baulhúsum og 21 í verstöðinni í Hlaðsbót í landi Álftamýrar.[126] Af þessum 79 vermönnum voru 40 úr Rafnseyrarsókn, 23 úr Dýrafirði, 10 frá Bíldudal, 4 frá sveitabýlum vestan Arnarfjarðar og 2 voru lengra að komnir.[127]

Á fyrstu áratugum okkar aldar var Hlaðsbót í landi Álftamýrar helsta verstöðin á norðurströnd Arnarfjarðar og reru þaðan allt upp í tíu bátar, sumir frá Bíldudal.[128] Árið 1893 var Hlaðsbót löggilt sem verslunarstaður[129] en þar var þó aldrei rekin föst verslun. Á árunum kringum síðustu aldamót komu spekúlantaskip hins vegar stundum á bótina og á síðustu árum 19. aldar var rekið þar skamma hríð lítið verslunarútibú frá Bíldudal (sjá Álftamýri).

Haustið 1916 var Guðmundur G. Hagalín rithöfundur við róðra frá Hlaðsbót á bát frá Bíldudal. Róið var með legulóðir í fjörðinn og beitt kúfiski sem plægður var upp fram af Kolgrafarhryggnum utan við Bíldudal.[130] Skjól er í Hlaðsbót í norðanátt og oft var þar hægviðri þó svo hvasst væri á fjörðinn að ekki gæfi á sjó.[131] Í landlegum sögðu menn sögur, spjölluðu og kváðust á, en stundum var tuskast, tekin glíma eða farið í höfrungahlaup.[132] Á fjórða áratug þessarar aldar var sjór enn sóttur frá Hlaðsbót á nokkrum bátum og einn maður reri þaðan fram undir 1950 (sjá Álftamýri). Frá Grísavík í landi Hrafnabjarga var líka stundað útræði á fyrstu árum aldarinnar sem nú er að kveðja og allt fram undir 1930 (sjá Hrafnabjörg).

Séra Páll Björnsson í Selárdal í Arnarfirði varð á sínum tíma fyrstur allra Íslendinga til að reyna skútuútgerð.[133] Um miðja 17. öld lét hann smíða sér duggu að hollenskri fyrirmynd og stýrði henni að sögn sjálfur til veiða frá Selárdal.[134] Sú útgerð mun þó aðeins hafa verið rekin skamma hríð og það var ekki fyrr en undir lok 18. aldar sem hérlendir menn hófu þilskipaútgerð er reyndist eiga framtíð fyrir sér. Við Arnarfjörð hófst útgerð þilskipa árið 1806 er Ólafur Thorlacius, kaupmaður á Bíldudal, sendi þaðan tvær skútur til veiða.[135] Þaðan í frá voru fleiri eða færri seglskip jafnan gerð út frá Bíldudal allt til ársins 1925 og þess voru líka dæmi á 19. öld að skútur væru gerðar út frá bændabýlum í Arnarfirði.

Úr Auðkúluhreppi fór fjöldi manna á skúturnar og sumir þeirra urðu skipstjórar. Úr röðum skútukarlanna mun líklega lifa lengst nafn Símonar Sigurðssonar, sem lengi bjó á Dynjanda, en hann var lærður skipstjóri og stýrði lengi þilskipi til veiða á sínum búskaparárum hér í Arnarfirði (sbr. Flateyri). Frá Dynjanda gerði hann á árunum 1834–1840 út skútu sem þeir áttu saman, hann og Jón Bjarnason í Stapadal. Símon á Dynjanda átti marga syni og urðu sumir þeirra skipstjórar á skútum en Markús F. Bjarnason, sonarsonur hans, varð fyrsti skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík. Skólinn tók til starfa árið 1891.

Sem dæmi um sókn ungra manna af norðurströnd Arnarfjarðar á skúturnar má líka nefna að þrír synir séra Jóns Ásgeirssonar á Álftamýri urðu skútuskipstjórar, Bjarni, Guðbjartur og Jón.[136] Það urðu líka bræðurnir Kristján og Guðmundur Kristjánssynir frá Borg, Bjarni Þorlaugarson frá Hjallkárseyri, Sturla Ólafsson frá Auðkúlu og ýmsir fleiri.

Guðmundur Kristjánsson frá Borg, sem fæddur var árið 1840, lærði sjómannafræði í Danmörku og var um skeið skipstjóri á dönskum vöruflutningaskipum.[137] Hann sigldi fyrstur íslensku skipi með innlendri áhöfn suður um höf, til Spánar og Ítalíu. Í þá miklu siglingu fór hann á árunum kringum 1885 á skonnortunni Thjalfe sem Pétur Thorsteinsson á Bíldudal keypti árið 1883.[138] Skonnorta þessi var smíðuð árið 1874 og taldist vera liðlega 46 smálestir.[139] Árið 1889 seldi Pétur á Bíldudal þremur bændum í Arnarfirði hluti í Thjalfe og eignuðust þeir þá hálft skipið á móti kaupmanninum.[140] Einn þessara bænda var Kristján Kristjánsson í Stapadal,[141] bróðir Guðmundar skipstjóra sem hér var nefndur.

Skútan sem Símon á Dynjanda og Jón Bjarnason í Stapadal gerðu út á árunum 1834– 1840 hét Margrét María og var hún fyrsta þilskipið sem bændur í Auðkúluhreppi eignuðust (sjá Dynjandi).[142] Búnaðarskýrslur frá árunum 1841–1866 sýna að á því skeiði lagði enginn bóndi á norðurströnd Arnarfjarðar fé í þilskipaútgerð nema Gísli Jónsson í Lokinhömrum sem árið 1854 átti hálfa fiskijakt[143] á móti meðeiganda úr öðrum hreppi. Ef marka má skýrslurnar stóð þátttaka hans í skútuútgerð aðeins í eitt ár, enda lauk búskap hans í Lokinhömrum árið 1855[144] og er hann sagður hafa drukknað í fiskiróðri.[145]

Næstur bænda í Auðkúluhreppi til að hefja skútuútgerð varð Gísli Oddsson, sem líka bjó í Lokinhömrum, en hann eignaðist þilskipið Njörð árið 1867 (sjá Lokinhamrar). Á árunum 1867–1878 áttu Lokinhamramenn jafnan hlut í þilskipi og stundum heilt skip.[146] Sæmilega marktækar heimildir benda reyndar til þess að Njörður hafi verið gerður út þaðan öll þau ár og Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, sem fæddur var í Lokinhömrum árið 1898, segir að Njörð hafi feðgarnir þar átt saman, þeir Oddur Gíslason og synir hans, Gísli og Kristján.[147] Auk þeirra sem hér hafa verið nefndir virðist aðeins einn bóndi í Auðkúluhreppi hafa eignast hlut í þilskipi fyrir 1880, Guðmundur Ólafsson á Horni í Mosdal sem á árunum 1876 og 1877 átti einn fjórðapart í skútu.[148]

Á tveimur síðustu áratugum nítjándu aldarinnar jókst þátttaka bænda við Arnarfjörð í skútuútgerðinni. Nokkrir þeirra gengu þá í félag við Pétur J. Thorsteinsson, kaupmann á Bíldudal, og gerðust meðeigendur í skútuútgerð hans. Hér var áður minnst á skonnortuna Thjalfe en hlut í henni eignuðust árið 1889, auk Kristjáns í Stapadal sem fyrr var nefndur, þeir Páll Símonarson í Stapadal og Gísli Oddsson í Lokinhömrum.[149] Gísli átti líka hlut í Guðnýju sem gerð var út frá Þingeyri (sjá Mýrar) og 6. júní 1892 fékk hann frá Noregi nýsmíðaða skútu er fékk nafnið Guðrún[150] en var af mörgum nefnd „Lokinhamra-Gunna“.[151] Guðrúnu var haldið til veiða frá Þingeyri sumarið 1892 og skipstjóri á henni var þá Bjarni Ásgeirsson frá Álftamýri sem síðar bjó lengi í Stapadal.[152] Gísli í Lokinhömrum virðist hafa átt Guðrúnu einn, a.m.k. fyrsta árið.[153] Á þessu skipi var eitt siglutré.[154] Átta menn voru í áhöfninni sumarið 1892 og fiskuðu 16.340 fiska.[155]

Bróðir Bjarna Ásgeirssonar skipstjóra, Matthías á Baulhúsum, var líka lengi skipstjóri á skútum og sá þriðji þessara bræðra, Gísli bóndi á Álftamýri, gekk ungur í félag við Pétur á Bíldudal, ásamt föður sínum og bróður, er þeir létu smíða skútuna Katrínu úti í Noregi en hún gekk fyrst til veiða frá Bíldudal árið 1885.[156] Allir áttu þeir jafn stóran hlut í þessu skipi, einn fjórðapart hver.[157] Gísli Ásgeirsson á Álftamýri tók skipstjórapróf á ungum aldri og var skipstjóri á Katrínu í 17 ár,[158] talinn ágætur stjórnandi og mikill aflamaður.

Það sem hér hefur verið ritað sýnir glöggt hversu stór þáttur fiskiveiðarnar voru í búskap flestra bænda á norðurströnd Arnarfjarðar á síðustu öld. Vel má vera að hin mikla sjósókn hafi tafið nokkuð fyrir búnaðarframkvæmdum í landi og víst er um það að svo sýndist Þorvaldi Thoroddsen náttúrufræðingi er hann ferðaðist um þessar slóðir sumarið 1887. Í frásögn sinni af því ferðalagi kemst hann á einum stað svo að orði:[159]

Fiskafli mikill er úti í Arnarfirði og fjarðarbotnarnir algrónir skógi og bestu beitarlönd. Menn fara hér mjög snemma að sækja sjó, þó ekki á skipum eða bátum er þeir sjálfir eiga en ráða sig á fiskiskútur frá verslunarstöðum og stórbændum í öðrum fjörðum. Jafnvel smádrengir fara undir eins á jaktir og eru þar „kokkar“ eða því um líkt. Enginn sinnir landbúnaðinum nema konur og gamalmenni svo allt gengur í drasli og árangurslausu sjógutli.

Þetta er harður dómur og engan veginn sanngjarn því fjarri fór því að „sjógutlið“ væri árangurslaust. Sumar bújarðir í Arnarfirði voru reyndar ekki beinlínis vel fallnar til mikilla umsvifa í landbúnaði en með dugnaði við sjósókn tókst mörgum að verða sæmilega bjargálna og til voru þeir bændur í Auðkúluhreppi, undir lok 19. aldar, sem vel höfðu efnast á sjávarfangi. Hitt er rétt hjá Þorvaldi að flestir skútukarlarnir munu hafa farið sér hægt við jarðabætur.

Skutlun sela og hvala var sérstök grein í sjávarbúskap Arnfirðinga en hvalveiðar voru lengi stundaðar hér í mun meira mæli en annars staðar á landinu.[160] Í Grágás, hinni fornu lögbók frá þjóðveldistímanum, má sjá að þá þegar lögðu menn stund á að skutla hvali við strendur landsins[161] en svo virðist sem þess konar veiðiskap hafi síðar verið hætt og hann legið niðri um nokkurt skeið. Til þess benda að minnsta kost orð Jóns Espólíns, hins sögufróða, en hann segir Vestfirðinga hafi tekið upp hvalaskutlan að nýju um 1610.[162] Á 17. og 18. öld var skutulsmerkjum einstakra manna úr Arnarfirði stundum lýst á Alþingi við Öxará[163] og sögur lifðu um Ólaf hvalamann í Hvestu, vestan Arnarfjarðar, en hann var uppi á 17. öld og er sagður hafa „strengjárnað“ hvalina.[164] Við skutul sinn úr járni festi hann streng sem hægt var að gefa út svo tugum faðma skipti en á strengnum voru margar tómar tunnur eða hrísbyrðar sem hvalurinn varð að draga uns hann gafst upp eða sprakk.[165] Stundum tókst Ólafi og mönnum hans ekki að ráða við bráðina þrátt fyrir allan þennan útbúnað og urðu þá að höggva á strenginn svo hin mikla sjávarskepna færði ekki bát þeirra í kaf.[166]

Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar er getið um „járnun“ hvala í Arnarfirði[167] og í manntalinu frá 1801 má sjá að þá hafa Arnfirðingar skutlað bæði sel og hval. Þar eru skráðar ýmsar upplýsingar um atvinnu manna og þess getið sérstaklega við nöfn fjögurra karlmanna í Auðkúluhreppi að þeir fáist við að skutla hvali eða seli.[168] Þessir skutlarar voru: Benedikt Gabríel Jónsson, þá á Gljúfrá, Jón Ólafsson á Laugabóli, Magnús Ólafsson í Skógum og Páll Jónsson á Dynjanda.[169] Í sama manntali er slíkt hvergi tekið fram um nokkra aðra Vestfirðinga[170] og má það kallast vísbending um sérstöðu Arnfirðinga í þessum efnum við upphaf nítjándu aldar.

Í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 kemst séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri svo að orði um hvalveiðar Arnfirðinga:[171]

Geta má og þess hér á Arnarfirði að menn skutla eður sem kallað er járna hvalkálfa undan hornreyðar-, geirreyða- [og] langreyðarhvölum, þá inn koma og nema staðar hér í firðinum. Vinna menn þá á þremur dögum, allt að viku. Þessi afli er framar fólki hagkvæmur en til ábata eður útsölu því svo er raðað niður að flestir bændur hreppsins fá lítinn hlut úr veiðinni og gengur þó þriðjungur hvalsins til Suðurfjarða. Þessar veiðar koma helst inn vor- eða hausttíma. Ber og stundum líka við að þessir hvalkálfar missast, þá þeim verður ei sinnt vegna storma, því þeir eru ei strengjárnaðir fyrr en að komnir dauða.

Á dögum séra Sigurðar munu hvalveiðarnar hafa verið stundaðar á minni bátum en í tíð Ólafs hvalamanns í Hvestu og þess vegna ekki talið óhætt að „strengjárna“ hvalina um leið og þeir voru skutlaðir. Gísli Ásgeirsson, sem fæddur var árið 1862 og ólst upp á Rafnseyri en bjó síðar á Álftamýri í nær hálfa öld, greindi á gamals aldri skilmerkilega frá sel- og hvalveiðum Arnfirðinga á síðari hluta 19. aldar og er þær frásagnir að finna í ritinu Frá ystu nesjum.[172] Hér verður nú gerð aðeins nánari grein fyrir þessum sérstæða þætti í sjávarbúskap Arnfirðinga og byggt á orðum Gísla nema annað sé tekið fram.

Á síðari hluta 19. aldar notuðu Arnfirðingar litla tveggja rúma báta til hvalveiðanna og voru jafnan þrír saman á hverjum bát, skutlarinn og tveir undirræðarar. Yfirleitt voru hvalirnir skutlaðir á 10–15 faðma færi. Skutullinn var úr járni, um 20 þumlungar á lengd. Hann var festur við fimm álna langa rá. Þessu frumstæða vopni höfðu ýmsir Arnfirðingar lært að beita af mikilli fimi og náðu oft góðum árangri við veiðarnar. Aðeins kálfarnir voru veiddir en sömu hvalkýrnar komu ár eftir ár inn á Arnarfjörð með kálfa sína og gengu margar undir sérstökum nöfnum í munni heimamanna. Þær voru af ýmsu reyðarkyni og nefndust m.a. Skeifa, Halla, Króka og Vilpa.

Margir hvalkálfanna voru um 12 metrar á lengd og þeir stærstu yfir 20 metrar. Oft lifði hvalurinn í tvo til þrjá sólarhringa frá því hann var skutlaður en dasaðist smátt og smátt. Allan tímann fylgdust veiðimennirnir með hinu særða dýri og loks var róið til lands með hvalinn dauðan. Komu þá allir hreppsbúar, sem verkfærir voru, til að hjálpa til við hvalskurðinn. Í fjöru var fengnum skipt. Skutlarinn fékk sinn skotmannshlut samkvæmt Jónsbókarlögum en hann var „hnefaalin á þrjá vegu út frá blástursholunni og allt inn í bein, jafnstórt stykki út frá gotunni og loks sporðblaðkan“.[173] Undirræðarar fengu 100 pund af spiki en að því fráteknu var hvalskrokknum skipt jafnt milli allra íbúa hreppsins og var sá fengur ærin búbót, kjöt, rengi, spik og mör. Af öllum þessum afurðum var spikið verðmætast. Dæmi úr öðrum byggðarlögum sýna að á síðasta fjórðungi 19. aldar voru 1000 kíló af hvalspiki talin álíka verðmæt og kýr í góðu standi.[174] Hvalkálfarnir voru misstórir en kunnugt er að spikið af einum slíkum vigtaði 2550 kíló.[175] Þann kálf skutluðu Arnfirðingar sumarið 1856 en hann var róinn á land í Dýrafirði.[176]

Fyrir 1780 mun eigandi fjöru, þar sem skutlaður hvalur var róinn á land, hafa átt rétt á greiðslu fyrir afnot fjörunnar við hvalskurðinn og gat sú greiðsla orðið eftir samkomulagi eða sem svaraði einum áttunda hluta hvalsins.[177] Með konunglegri tilskipan sem kynnt var á Alþingi árið 1780 var þessi réttur landeigenda afnuminn, nema þar sem spjöll kynnu að verða á engjum eða högum vegna skurðarins.[178] Ósk um slíka lagabreytingu hafði borist stjórnvöldum frá bóndanum Einari Jónssyni í Arnarfirði.[179] Ekki er ólíklegt að Jón Eiríksson konferenzráð hafi beitt sér fyrir málinu í rentukammeri og svo mikið er víst að hann skýrir frá breytingunni með nokkru stolti í forspjalli sínu að Ferðabók Olaviusar sem út var gefin árið 1780.[180] Afnám gjaldsins til landeigenda átti að ýta undir kappsemi við hvalveiðarnar og svo var einnig um aðra tilkynningu rentukammers sem kynnt var á Alþingi sama ár en þar var öllum sem næðu að skara fram úr við skutlun hvala heitið sérstökum verðlaunum.[181] Fram kemur í því konungsboði að Jón Arnórsson, sýslumaður Ísfirðinga, hafði þá nýlega greint rentukammeri svo frá að hvalveiðar væru eingöngu stundaðar í Arnarfirði og þá einkum af bændum í Rafnseyrarsókn en annars staðar á Íslandi kunni menn ekki lengur að skutla hvali.[182]

Stöku sinnum náðu járnaðir hvalir að komast út úr Arnarfirði og fyrir kom að þá ræki á land í öðrum sóknum. Hvalajárnið sýndi þó alltaf hver skutlarinn var því það var merkt eiganda sínum og átti hann rétt á skotmannshlut hvar sem hvalinn bar að landi.[183]

Faðir Gísla á Álftamýri, Ásgeir Jónsson sem fæddur var um 1830 og bjó á Rafnseyri og Álftamýri, sonur séra Jóns Ásgeirssonar, var einn fræknasti hvalaskutlari Arnfirðinga á 19. öld og náði um sína daga að skutla 37 hvali.[184] Af þeim náðust 32 á land í Auðkúluhreppi.[185] Síðasta hvalinn sem veiddur var hér við land með hinni fornu aðferð járnaði Matthías á Baulhúsum, bróðir Gísla, haustið 1894[186] og lauk á þeirri stundu merkum þætti í atvinnusögu Arnfirðinga. Þá höfðu Norðmenn hafið sínar hvalveiðar með sprengiskutli úti fyrir Vestfjörðum og innan skamms hættu hvalkýrnar að ganga inn á Arnarfjörð.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem Eggert Ólafsson lauk við að rita árið 1766, getur hann þess að vöðuselir séu skutlaðir á Arnarfirði og Ísafirði (þ.e. Ísafjarðardjúpi) en skotnir á Patreksfirði.[187] Á fyrri hluta 19. aldar og fram yfir 1870 var mikið af vöðusel skutlað á hverjum vetri á Arnarfirði.[188] „Eru þessar veiðar hér einna arðsamastar þá vel heppnast“, segir séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri um selveiðarnar árið 1839.[189] Gísli Ásgeirsson á Álftamýri, sem hér var áður vitnað til, hefur líka lýst selveiðum Arnfirðinga[190] og er hér byggt á frásögn hans nema vísað sé í aðrar heimildir.

Vöðuselurinn kom oftast á jólaföstu inn á fjörðinn og þá í stórum hópum. Hófust veiðarnar þá þegar og stóðu oft fram á miðja góu eða upp undir þrjá mánuði. Þá hurfu urturnar á braut en brimlana gátu menn stundum veitt fram undir sumarmál. Við hval- og selveiðarnar notuðu Arnfirðingar sömu bátana. Voru þeir kallaðir vöðubátar. Um 1870 voru selabátar gerðir út frá flestum bæjum í Auðkúluhreppi og má ætla að svo hafi lengi verið. Þrír menn voru á hverjum bát, skutlari og tveir ræðarar. Í ritgerð sinni frá árinu 1839 segir séra Sigurður Jónsson að ræðararnir þurfi að vera sterkir vel en skutlarinn að hafa „tamið sér þá konst að harpúrnera“[191] en skutullinn kallast harpun á dönsku máli og mun komið úr frönsku. Selurinn var skutlaður með sex álna langri rá sem skutuljárnið, er kallaðist flaug, var fest við og einnig löng snærislína sem gefin var út þegar selurinn sem flaugin stóð í tók viðbragðið. Reynt var að stilla svo til að báturinn yrði sem næst selnum er hann kæmi aftur upp í sjólokin til að anda. Var hann þá skutlaður á ný og að því sinni með svonefndum íburðarskutli en hann var festur við fimm álna langa íburðarrá. Henni fylgdi 15–20 faðma snærislína sem notuð var til að draga selinn að bátnum. Við borðið var hann rotaður, skorinn á háls og því næst innbyrtur.

Selinn skutluðu menn oft á 10 faðma færi en mestu snillingar náðu að skutla hann á 20 faðma færi. Mest varð veiðin um 100 selir á bát á einu veiðitímabili en ekki mun hafa verið óalgengt að menn fengju 40–60 seli.[192] Meðalselur gaf af sér um 60 kíló af spiki og var aflanum skipt í fjóra staði. Nokkuð af sel var selt í beitu, einkum kóparnir. Annars var selspikið brætt og lýsið selt í verslanir. Úr tveimur stórum vöðuselum átti að fást ein tunna af lýsi.[193] Spikið var brætt í stórum pottum sem tóku sumir fimm til tíu tunnur. Sellýsi var einnig notað heima á bæjunum sem viðbit, blandað annarri feiti. Eggert Ólafsson getur þess um miðbik 18. aldar að Vestfirðingar salti selspik, hengi það upp og sjóði svo og eti með harðfiski. Best þyki spikið ársgamalt, segir hann.[194] Selskinn voru eingöngu notuð heima, einkum sem skæði í skó, en menn gerðu sér líka föt úr þeim. Um 1875 hættu selavöðurnar að koma á Arnarfjörð og féllu þessar veiðar þá niður.

Hér hefur nú verið gerð nokkur grein fyrir bjargræðisvegum Arnfirðinga á liðnum öldum, einkum þeirra sem bjuggu í Auðkúluhreppi. Verslun var aldrei starfrækt í hreppnum fyrr en lítils háttar útibú frá Bíldudal var sett á stofn í Hlaðsbót og rekið í eitt eða tvö ár skömmu fyrir síðustu aldamót (sjá Álftamýri). Á einokunartímanum munu þeir sem bjuggu á norðurströnd Arnarfjarðar ýmist hafa verslað á Þingeyri eða Bíldudal. Í Eyrarannál er frá því greint að árið 1690 hafi öll „Arnarfjarðarströnd norðan fram“ verið lögð „undir Þingeyrarkaupstað til kauphöndlunar“[195] og sýnir orðalagið að fyrir þann tíma var skipanin önnur. Á fyrstu árum „fríhöndlunarinnar“, er svo var nefnd, það er í kringum 1790, færðust viðskipti margra bænda á norðurströnd Arnarfjarðar og máske allra eða nær allra frá Þingeyri til Bíldudals.[196] Um launverslun bænda í Auðkúluhreppi við erlenda duggara vita menn fátt en gera má ráð fyrir að hún hafi verið veruleg.

Helstu ferðaleiðir íbúa Auðkúluhrepps til annarra byggðarlaga voru á fyrri tíð annars vegar sjóleiðin, þegar farið var yfir fjörð, og hins vegar Rafnseyrarheiði eða Álftamýrarheiði þegar farið var norður í Dýrafjörð. Um Rafnseyrarheiði lá leiðin á svipuðum slóðum og bílvegurinn liggur nú. Farið var á heiðina um Rafnseyrardal og komið niður í Brekkudal í Dýrafirði. Á Álftamýrarheiði var farið um Fossdal sem er skammt utan við Álftamýri og upp úr dalbotninum innanverðum á heiðina, sem reyndar er aðeins örmjór fjallshryggur, og niður í Kirkjubólsdal í Dýrafirði. Úr Fossdal er líka hægt að fara yfir í Kirkjubólsdal um Kvennaskarð sem er heldur hærra og aðeins utar.[197] Milli skarðsins og heiðarinnar er lítil klettahyrna.[198] Væri harðfenni gat verið betra að fara Kvennaskarð en heiðina.[199]

Þriðja leiðin yfir fjalllendið milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar liggur um Lokinhamradal og Lokinhamraheiði yfir í Haukadal í Dýrafirði en sú leið var talin erfið yfirferðar.[200] Allt eru þetta háir fjallvegir. Á Álftamýrarheiði er farið hæst í 544 metra hæð yfir sjávarmál, á Rafnseyrarheiði í 552 metra hæð og á leiðinni frá Lokinhömrum í Haukadal liggur skarðið í 679 metra hæð. Aðrar leiðir yfir fjallgarðinn norðan Arnarfjarðar fóru menn sjaldnar en fært er hér og þar. Frá Gljúfrá var stöku sinnum farið um Gljúfrárheiði yfir í Ketilseyrardal í Dýrafirði og þangað var líka farið frá Rafnseyri um Hauksdal sem er þverdalur inn úr Rafnseyrardal og liggur til austurs.[201] Af Álftamýrarheiði var stundum farið um Meðaldalsskarð, sem er rétt austan við fjallið Kaldbak, niður í Meðaldal í Dýrafirði og úr Grjótskál fyrir botni Rafnseyrardals liggur greiðfær leið yfir í Hvammsdal.[202] Frá Rauðsstöðum fóru menn upp hjá utanverðu Skjaldfannargili eða úr Grjótárdal og yfir fjall að Dröngum í Dýrafirði, bæði vetur og sumar,[203] og fleiri slík dæmi mætti nefna.

Enda þótt leiðir milli bæja séu aðeins 12–16 kílómetrar þegar fjallvegir þessir eru farnir var engu að síður oft ærin hætta á næsta leiti í vetrarferðum og þá einkum vegna snjóflóða. Í heiðarbrúninni vestan við Rafnseyrarheiði er Manntapagil og hafa margir týnt þar lífinu en aðrir verið hætt komnir í aldanna rás. Fyrir þá sem bjuggu á ystu bæjum við Arnarfjörð og áttu erindi að rækja við fólk í Svalvogum, Höfn eða Keldudal í Dýrafirði hentaði best að fara með sjó fram, fyrir nes. Frá Lokinhömrum að Svalvogum í Þingeyrarhreppi eru aðeins níu kílómetrar eða þar um bil og síðan tæplega sjö kílómetrar frá Svalvogum að Hrauni í Keldudal.

Frá bænum Dynjanda var farin Dynjandisheiði yfir að Langabotni í Geirþjófsfirði. Sú leið er átta til níu kílómetrar, milli bæja, og farið hæst í liðlega 500 metra hæð. Að norðanverðu er hlíðin svo brött að þar verður aðeins naumlega komist upp með klyfjaðan hest.[204] Frá Kirkjubóli í Mosdal lá önnur leið að Langabotni og var þá farið um Kirkjubólsdal og Kirkjubólsheiði.[205] Gönguleið er líka í boði frá Skógum að Langabotni.[206] Úr Hokinsdal, sem liggur næst sýslumörkum, var farið yfir Steinanesháls að Steinanesi, fyrsta bæ handan markanna. Þar var stutt á milli bæja og aðeins farið í um það bil 200 metra hæð.

Norður að Ísafjarðardjúpi fóru Arnfirðingar yfir Glámu, a.m.k. þeir sem áttu erindi að rækja í byggðunum við innanvert Djúpið. Var þá farið upp með Hófsá sem fellur í Borgarfjörð og stefnt á Stóruborg. Á þeirri leið sáust enn fyrir ekki ýkja löngu miklir götutroðningar.[207] Frá Stóruborg var stefnan tekin á Arnarfjarðarskarð og síðan tók Glámuheiði við.[208] Til byggðanna í Austur-Barðastrandarsýslu lá leiðin einnig um Glámuhálendið og þá í suðurjaðri þess. Lagt var upp frá Borg eða Dynjanda ellegar Botni í Geirþjófsfirði og oftast komið niður í Vattarfjörð. Þá leið kenndu ýmsir við Hornatær á árunum kringum síðustu aldamót[209] (sbr. Botn í Dýrafirði) en hana fóru bæði fyrr og síðar ýmsir þeirra sem lögðu frá norðurströnd Arnarfjarðar upp í langferð til byggðarlaga utan Vestfjarðakjálkans. Einnig gat þó komið til greina að fá flutning frá Barðaströnd yfir Breiðafjörð væri ferðinni heitið suður á land. Slíkar langferðir voru reyndar mjög fátíðar. Einstaka höfðingjar riðu samt til Alþingis og örfáir piltar fóru í skóla. Með valdsmönnunum voru líka stöku sinnum í för sakamenn er dæma átti við Öxará fyrir formælingar, galdra, sifjaspell eða önnur afbrot. Úr öðrum landsfjórðungum lögðu fáir leið sína hingað á Arnarfjarðarströnd nema einn og einn nývígður prestur og svo strokumenn og landhlauparar.

Við sem nú erum á ferð leggjum ekki á fjöll að sinni en hefjum á sýslumörkum göngu okkar bæ frá bæ.

 

[1]  Manntal 1703. Jb. Á. og P. VII, 3.

[2]  Sóknalýs. Vestfj. I, 16.

[3] ÞN 1951, 133. Sjá Lokinhamrar.

[4] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[5] Sama heimild. Manntöl 1703, 1801 og 1901.

[6] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[7] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[8] Sama heimild, bls. 25.

[9] SN 1950, 186–188.

[10] Manntal 1801. JJ 1847, 191 og 206–207.

[11] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[12] Sama heimild.

[13] Manntal 1801.

[14] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[15] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafjs. 1805. JJ 1847, 190–191 og 206.

[16] Jb. Á. og P. VII, 3–27. Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafjs. 1805.              .

[17] Jb. Á. og P. VII, 3–27. Manntöl 1762, 1801, 1845 og 1901.

[18] Jb. Á. og P. VII, 3–27. Sbr. JJ 1847, 206.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[19] Jb. Á. og P. VII, 3–27. Sbr. JJ 1847, 206.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafjs. 1805.

[24] JJ 1847, 190–191, 435 og 440.

[25] JJ 1847, 435 og 440.

[26] JJ 1847, 190–191. Sbr. Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[27] Sömu heimildir.

[28] Jb. Á. og P. VII, 3–27

[29] JJ 1847, 190–191. Sbr. Mosvallahreppur.

[30] Jb. Á. og P. VII, 3–27. Sama VI,386.

[31] JJ 1847, 190–191.

[32] Manntal 1703.

[33] Manntöl 1762, 1801, 1845 og 1901. Hagskinna 1997, 78.

[34] Ann. IV, 321-322.

[35] Manntal 1703.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Manntal 1801.

[39] Sama heimild.

[40] Manntal 1901.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Manntöl 1703 og 1801.

[45] Manntal 1801.

[46] Manntal 1901.

[47] Manntal 1703.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] SN 1950, 186-188..

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Manntal 1816.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Manntal 1816.

[57] SigBr 1976, 108-202.

[58] Sama heimild.

[59] EÓl 1975 I, 262-263.

[60] Sóknalýsing Vestfj. II, 46.

[61] Sama heimild, bls. 30-31.

[62] Sóknalýs. Vestfj. II,26.

[63] Jb. Á. og P. VII, 3–27. Rtk. Isl. J. 9, nr. 34, bsk. 1791. Skjs.sm. og svstj. Ís. XX. 1, bsk. 1830. VA III 424, bsk. 1880. Hagsk. Ísl. nr. 11, bsk.1915. Smt. Rafnseyrar 31.12.1914.

[64] Sbr. ÞTh 1919, 295.

[65] Rtk. Isl. J. 9, nr. 34,bsk.1791.

[66] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[67] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[68] Sama heimild.

[69] VA III 424, bsk. 1880.

[70] Hsk. á Ísaf. nr. 221. Skýrsla SæmEyj um ferð hans um Ísafjs. sumarið 1883. Sbr. Ísl. æviskrár, IV 380–381.

[71] GuðjG Freyr 1907 IV, 44.

[72] Rtk. Isl. J. 9, nr. 34, bsk. 1791.

[73] Sóknalýs. Vestfj. II, 30.

[74] VA III 424, bsk. 1880.

[75] Hagsk. Ísl. nr. 11, bsk. 1915.

[76] Skjs. sm. og svstj. Ís. Auðkhr. 1. B. Úttektab. 1846–1877, 235–237, 249–253, 264–267, 276–280, 304 og 307–308.

[77] Sama heimild.

[78] Sama heimild.

[79] Skjs. sm. og svstj. Ís. Auðkhr. 1. B. Úttektab. 1846–1877, 235–237, 249–253, 264–267, 276–280, 304 og 307–308. Sbr. Kirkjuból.

[80] Sama heimild.

[81] Sama heimild. Sbr. þar bls. 225–226, 230–231, 233, 238 og 242–243.

[82] Sama heimild, bls. 225–308.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild, bls. 307–308.

[85] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[86] Sama heimild.

[87] Rtk. Isl. J. 9, nr. 34, bsk. 1791.

[88] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[89] Sama heimild.

[90] Sama heimild.

[91] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[92] Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805.

[93] Sóknalýs. Vestfj. II, 30.

[94] Sama heimild, bls. 46.

[95] VA III 424, bsk. 1880.

[96] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild. Sama VI, 358–360. GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 27–34. Sóknalýs. Vestfj. II, 26–27 og 45. Sama I, 224–225 og 230. LKr 1982 II, 55.

[99] GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 27.

[100]  Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[101]  Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Sóknalýs. Vestfj. II, 27, 39–40 og 43.

[104] Sama heimild.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild, bls. 45.

[107] Sóknalýs. Vestfj. II, bls. 27–28

[108] Sama heimild.

[109] LKr 1983 III, 427–428.

[110] GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 20–23.

[111] LKr 1983 III, 354.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild, bls. 359.

[114] Sama heimild, bls. 322–323

[115] Sama heimild, bls. 370.

[116] Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805.

[117] Lbs. 79 fol. II. Búnaðar- og manntalstöflur. „Skýrslur um bátatölu á ýmsum árum frá 1752– 1783“.

[118] Rtk. Isl. J. 9, nr. 34, bsk. 1791. Skjs. sm. og svstj. Ís. XX. 1, bsk. 1821 og 1830. VA III 412 og 424, bsk. 1850 og 1880.

[119] Stjtíð. 1898 C, 290.

[120] Skjs. landshöfð. Séröskjur. Fiskaflaskýrslur 1897–1902.

[121]  Sama heimild.

[122] BjSæm Andvari 1903 XXVIII, 105.

[123] Sama heimild.

[124] Sama heimild. Lbs. 2374 4to. Dagb. SGB 11.12.1889.

[125] Manntal 1901.

[126] Manntal 1901.

[127] Sama heimild.

[128] LKr 1982, 55.

[129] Stjtíð. 1893 A, 156.

[130] GGH 1953, 222.

[131] Sama heimild, bls. 236.

[132] Sama heimild.

[133] GilsG 1977 I, 31–34.

[134] Sama heimild.

[135] Sama heimild. GSchev 1832, 86–87 (Ármann á Alþingi).

[136] GilsG 1977 I, 279–280.

[137] GilsG 1977 III, 76.

[138] Sama heimild bls. 255-261. Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896,47

[139] Sama Aðalskipaskrá.

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild.

[142] Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 46.

[143] VA III 409-419, bsk. 1841-1866.

[144] VA III 409-419, bsk. 1841-1866.

[145] Vestf. sagnir I, 40. Sbr. Manntal 1845, vesturamt, bls. 257.

[146] VA III 420-423, bsk. 1867-1878.

[147] GGH 1951,49.

[148] VA III 407-424, bsk. 1837-1880.

[149] GilsG 1977 I, 261. Aðalskipaskrá nóv. 1870- sept. 1896, 47.

[150] Lbs. 2375   Dagbók SGB 4to 6.6. 1892.

[151] GilsG 1977 I, 280.

[152] Þjóðv. ungi 24.1. 1893. GilsG 1977 I, 280. Vestf. sagnir I, 76-77.

[153] Þjóðv. ungi 24.1. 1893.

[154] Sama heimild. Sbr. GilsG 1977 IV, 9-10.

[155] Þjóðv. ungi 24.1. 1893.

[156] GilsG 1977, I, 262-263 og 280. Frá ystu nesjum 1953 VI,7.

[157] Aðalskipaskrá 6.9. 1895 – 17.6. 1920, 48.

[158] Frá ystu nesjum 1953 VI, 7.

[159] ÞTh 1959 II, 131.

[160] GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 9-20.

[161] Grágás 1992, 358-369.

[162] JEsp Árbækur Íslands V, 123.

[163] Alþb. Ísl. VI, 328, VII, 519-520 og XII, 110.

[164] Vestf. sagnir I, 16. GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 10-11.

[165] Sömu heimildir.

[166] GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 10-11.

[167]  Jb. Á. og P. VII, 4-7.

[168] Manntal 1801 vesturamt, bls. 258-265.

[169]  Manntal 1801 vesturamt, bls. 258-265.

[170] Sama heimild

[171] Sóknalýs. Vestfj. II, 28.

[172] GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 9-20.

[173] GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 14.

[174] KrBj 1978, 276–283. ÁsmHe 1949, 20–21. Stjtíð. B, 1876–1900, verðlagsskrár.

[175] PG Annáll nítjándu aldar II, 421.

[176] Sama heimild.

[177]  Alþb. Ísl. XV, 627–628.

[178] Sama heimild.

[179] Sama heimild. JEi ÓOl 1964 I, 199.

[180] JEi ÓOl 1964 I, 199.

[181] Alþb. Ísl. XV, 628.

[182] Sama heimild. Sbr. ÓOl 1964 I, 196–199.

[183] GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 14.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Sama heimild. Sbr. HO 1960, 140–143.

[187] EÓl 1975 I , 311.

[188] GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 16–19.

[189] Sóknalýs. Vestfj. II, 27–28.

[190] GÁ Frá ystu nesjum 1953 VI, 16–19.

[191] Sóknalýs. Vestfj. II, 27.

[192] LKr 1980, 342.

[193] Sama heimild, bls. 425.

[194] EÓl I, 314.

[195] Ann. III, 362. Sbr. JJA 1971, 284–285.

[196] HHen 1799, 68, tafla þar. Sbr. sama rit, bls. 72 og 73, töflur þar.

[197] KnBj KÓ 5.7.1998.

[198] ÖÖ.

[199] KnBj KÓ 5.7.1998.

[200] Sóknalýs. Vestfj. II, 43–44. Sbr. þar bls. 23 og 24.

[201] Sóknalýs. Vestfj. II, 22 og 29.

[202] ÞN 1951, 141 og 154–155 (Árbók F.Í.).

[203] ÖÖ.

[204] Sóknalýs. Vestfj. II, 19.

[205] Þ Th 1959 II, 131.

[206] Sóknalýs. Vestfj. II, 18.

[207] ÞN 1951, 157.

[208] KrG 1953, 87.

[209] GV 1957, 162–163. PJ 1942, 70. Sbr. ÞTh 1959 II, 43 og PEKr Kålund 1985 II, 156.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »