Bakki í Tálknafirði

Bakki í Tálknafirði

Frá Kvígindisfelli að Bakka er vegalengdin aðeins liðlega einn kílómetri. Bakki er forn bújörð og hér var oftast tvíbýli á fyrri tíð og stundum fleirbýli. Nú er hér allt í auðn og hefur svo verið frá því um miðja tuttugustu öld. Á fyrstu árum þeirrar aldar var stundum talað um Bakkaþorp, enda voru þá um skeið fimm heimili á Bakka, Innri-Bakki, Ytri-Bakki, Hólar, Sæból og Tannanes.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 er nefnd hjáleigan Girði í heimatúninu á Bakka en hún hafði þá verið 20 ár í eyði.[1] Girði átti þó eftir að byggjast aftur síðar á 18. öld. Þar var búið árið 1786 en aldrei síðan svo séð verði.[2]

Hólar voru önnur hjáleiga á Bakka. Þeir eru ekki nefndir í Jarðabók Árna og Páls og þar mun byggð líklega ekki hafa hafist fyrr en á 18. öld. Þegar sóknarmannatal er fyrst tekið í Tálknafirði árið 1786 er búið á Hólum og svo virðist hafa verið jafnan síðan fram undir miðja 19. öld.[3] Á síðari hluta 19. aldar var þar engin byggð um skeið. Séra Benedikt Þórðarson nefnir kot þetta Hólahóla í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1873 og segir það vera í eyði.[4] Árið 1891 hófst búskapur að nýju á Hólum sem þá töldust vera þriggja hundraða kot.[5] Upp frá því hélst byggð á Hólum fram undir síðari heimsstyrjöld.

Sæból og Tannanes voru þurrabúðarkot í landi Bakka og byggðust bæði rétt um aldamótin 1900, Tannanes 1898 og Sæból 1901.[6] Kot þessi féllu bæði úr byggð á þriðja áratug 20. aldar. Sæból var rétt utan við gamla Bakkatúnið, örskammt frá sjó, en Tannanes nokkru utar, alveg út við ósinn á Sellátraá.

Um bæjaskipan á Bakka í byrjun 18. aldar segir svo: Þessari jörðu er sundur skipt í tvo bæi og er lítið sund á milli þeirra og er túni og engjum skipt á milli þeirra en öðrum landsnytjum óskipt.[7] Þá var sjálfur Danakonungur eigandi hálfrar jarðarinnar en ábúendur voru þá þrír á Bakka.[8] Árni Magnússon fær þær upplýsingar hjá Tálknfirðingum árið 1710 að frá því í bólunni (1707) hafi tvö skip ábúenda á Bakka róið úr heimavör á vertíð en áður frá verstöðvum í víkunum í landi Sellátra, utar með firðinum[9] (sbr. hér Sellátur og verstöðvarnar í Stapavíkum).

Eins og nafn jarðarinnar bendir til stóðu bæirnir á Bakka á sjávarbökkum og víðsýnt til hafs frá bæjarhólnum. Handan fjarðarins, nær beint á móti, blasir Hvannadalur við þar sem áður var útræði, rétt innan við tána á Tálkna. Allur Patreksfjarðarflóinn liggur opinn fyrir frá hlaðinu á Bakka og handan flóans hvílir Blakkurinn í göfugri tign sem gleður enn augu þeirra sem staldra hér við. Að bæjarbaki rís Bakkafjall hömrum krýnt og telst brún þess vera í 441 metra hæð. Innri jaðarinn á Bakkafjalli líkist skörðóttum hárkambi og heitir Kambur.[10] Séra Benedikt Þórðarson segir um Bakka í sóknarlýsingu sinni frá 1873:

 

Á Bakka eru tún stór og þýfð. Nú eru þau í órækt komin. Jörðin er vel löguð til jarðræktar. Engjar eru litlar og kostaléttar mýrar millum holta og mela. Land er hrjóstrugt og létt fyrir sauðfénað … . Á Bakka er allgóð þarabeit og þar er góð lending undir bæina.[11]

 

Nú (1998) er fátt bygginga á Bakka. Hér stendur þó uppi gamalt skólahús sem byggt var árið 1909[12] og nú hefur verið breytt í sumarbústað. Tvö skólahús voru byggð í Tálknafirði árið 1909, hitt á Sveinseyri. Næstu áratugina sóttu börn frá bæjum í útsveitinni skóla að Bakka og á fyrstu árum skólastarfs þar var bæði kennaranum og nokkrum barnanna komið fyrir hjá Hallbirni Oddssyni á Ytri-Bakka.[13] Skólinn stendur þar sem áður var hjáleigan Girði[14] og er húsið upphaflega byggt af Jóhannesi Kr. Jóhannessyni frá Sveinseyri í Tálknafirði[15] sem síðar fékk þá flugu í höfuðið að hann væri sjálfkjörinn forseti Bandaríkjanna og tók að predika á Lækjartorgi í Reykjavík og víðar.

Löngu áður en skólinn reis á Bakka átti hér heima um skeið gamall prestur, Vernharður Erlendsson að nafni. Séra Vernharður var fæddur um 1636 og var um tveggja áratuga skeið prestur á Stað í Aðalvík. Í prestsþjónustubók Selárdalsprestakalls frá árunum 1816-1872 er sitthvað ritað um hina fyrri presta í Ketildölum og Tálknafirði og segir þar svo um séra Vernharð: Var Vernharður sá skuldaður fjölkynngismeðferð og missti prestsskapar.[16] Það mun hafa verið árið 1677 sem séra Vernharður varð að hrekjast úr embætti norður í Aðalvík vegna galdraáburðar. Sex árum síðar var hann þó ráðinn til að þjóna Stóra-Laugardalssókn í Tálknafirði sem aðstoðarprestur séra Páls Björnssonar í Selárdal.[17]

Árið 1703 átti þessi gamli galdraprestur heima á Bakka hjá Bjarna syni sínum er hér bjó. Annar sonur séra Vernharðar, er Guðmundur hét, hafði þá tekið við aðstoðarprestsembættinu og bjó á Suðureyri í Tálknafirði (sjá hér Suðureyri). Líklega hefur þetta verð einsdæmi, a.m.k. eftir siðaskipti, að tveir prestar væru samtímis búsettir í Tálknafirði.

Fátt er nú kunnugt um bændur á Bakka á fyrri öldum. Gera má ráð fyrir að margir þeirra hafi stundað sjó af kappi og launverslun við Hollendinga og fleiri framandi þjóðir. Þorleifur Jónsson Tálknfirðingur, sem árið 1743 var dæmdur til að þola 360 vandarhögg og síðan sendur, fyrstur Íslendinga, í Stokkhúsið í Kaupmannahöfn (sjá hér Hagi á Barðaströnd), var m.a. ákærður fyrir að hafa stolið úr sjóbúð Jóns Gíslasonar á Bakka. Líklega hefur verið matarlegt um að litast þar í búðinni og freistingin náð tökum á svöngum manni.

Á árunum upp úr 1830 bjuggu hér á Ytri-Bakka hjónin Jafet Erlendsson og Vigdís Helgadóttir, bæði fædd um eða rétt fyrir aldamótin 1800.[18] Vigdís var fædd í Otradalssókn í Arnarfirði en Jafet var langt að kominn, fæddur á Breiðabólsstað  í Ölfusi í Árnessýslu.[19] Hann barst ungur vestur í Tálknafjörð og var árið 1816 vinnumaður á Kvígindisfelli hér í sveit hjá Jóni Þórðarsyni hreppstjóra og konu hans, Halldóru Guðmundsdóttur, þá sagður 18 ára gamall.[20]

Fardagaárið 1832-1833 var Jóhanna Einarsdóttir vinnukona hjá þeim Jafet og Vigdísi á Ytri-Bakka og eignaðist þá barn, sem húsbóndi hennar var faðir að, en leyndi barnsfæðingunni og var dæmd til dauða fyrir þær sakir.[21]

Jóhanna var fædd 16. október 1796 í Norður-Botni hér í sveit, dóttir Einars Brynjólfssonar og Ingibjargar Bjarnadóttur sem þá voru enn ógift en gengu síðar í hjónaband.[22] Árið 1801 var hún hjá foreldrum sínum í Tungu í Tálknafirði en faðir hennar var þá  einn fimm bænda sem þar bjuggu.[23] Hann andaðist árið 1813 en vera má að Jóhanna hafi áður verið komin í fóstur til hjónanna Jóns Gunnarssonar meðhjálpara og Herdísar Hallsdóttur, sem árið 1816 bjuggu í Norður-Botni, því að í dómi landsyfirréttar er Herdís nefnd fósturmóðir hinnar ákærðu.[24] Á þrenningarhátíð vorið 1817 var Jóhanna fermd, þá tvítug að aldri og talin sæmilega kunnandi.[25]

Þann 4. janúar 1833 ól hún barn sitt hér á Ytri-Bakka og segir í dómnum að það hafi að öllum líkindum ekki verið andvana er það kom í heiminn eður í hið minnsta verið með lífi skömmu fyrir fæðinguna.[26] Í dómi landsyfirréttar segir að Jóhanna hafi látið vera að leita sér nokkurrar hjálpar vegna barnsfæðingarinnar og eftir fæðinguna hafi hún kýtt barnslíkamann saman og saumað utan um hann einskiptudulu, geymt hann svo, þar sem hann ei gat sést og læst hann síðan niður í kistu sína þar til það komst upp að hún hafði barnið fætt í dulsmáli.[27]

Húsbóndi Jóhönnu, Jafet Erlendsson, játaði að vera faðir barnsins en bæði hann og Vigdís, eiginkona hans, sættu ákæru fyrir meinta meðvitund um hina duldu fæðingu og um meðferðina á líkama barnsins.[28] Bæði neituðu sök og voru sýknuð þar eð ekki tókst að sanna á þau sakir.[29] Engu að síður var þeim gert að greiða málskostnað til jafns við Jóhönnu[30] sem bendir til þess að dómarinn hafi talið verulegar líkur á því að þau væru meðsek henni.

Fyrir réttinum játaði Jóhanna að hafa hvorki bundið fyrir naflastreng barnsins né með öðru móti reynt að hjálpa því til lífs en skýring á því öllu sagði hún að verið hefði hræðsla fyrir húsmóður sinni.[31]

Vinnukonan úr Tálknafirði var dæmd í landsyfirrétti þann 28. september 1833,[32] þegar tæplega níu mánuðir voru liðnir frá fæðingu barnsins. Sá sem kvað upp dóminn var Ísleifur Einarsson sem bjó á Brekka á Álftanesi og hafði lengi verið 1. yfirdómari við réttinn.[33] Hann gegndi haustið 1833 störfum dómstjóra til bráðabirgða og var síðan skipaður í það embætti vorið 1834. Ísleifur var bróðir séra Gísla Einarssonar í Selárdal sem verið hafði sálusorgari Tálknfirðinga í nær hálfa öld, allt til ársins 1829, og þessi gamli prestur var enn á lífi í Selárdal þegar bróðir hans kvað upp dauðadóm yfir sakakonunni vesælu úr prestakalli hans.[34]

Jóhanna Einarsdóttir á að missa sitt höfuð og það síðan setjast á stöng[35] – þannig hljóðaði dómsorð Ísleifs á Brekku og yrði því framfylgt bar að hálshöggva konuna. Dómur landsyfirréttar í máli Jóhönnu var staðfestur í hæstarétti í Kaupmannahöfn þann 5. júní 1834.[36] Þegar hér var komið sögu voru aftökur sakamanna orðnar mun fátíðari en fyrrum hafði verið í Danaveldi. Á Íslandi voru sakamenn síðast teknir af lífi þann 12. janúar 1830, þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson, morðingjar Natans Ketilssonar.[37] Í Danmörku mun íslenskur sakamaður síðast hafa verið sviptur lífi samkvæmt dómi þann 4. mars 1834,[38] sama ár og hæstiréttur staðfesti dauðadóminn yfir Jóhönnu Einarsdóttur. Sá sem þá var hálshöggvinn var Rasphúsfanginn Sigurður Gottsvinsson, einn Kambránsmanna, en hann hafði skömmu fyrr sært einn fangavarðanna í Rasphúsinu með hnífi og var dæmdur til dauða fyrir það.[39]

Veturinn 1834-1835 sat Jóhanna í varðhaldi hjá Jóni Þórðarsyni, hreppstjóra á Kvígindisfelli, og í manntalinu frá þeim vetri er tekið fram að hún sé sakapersóna.[40] Ætla má að hún hafi verið fangi hjá hreppstjóra eða sýslumanni hálft þriðja ár, allt frá því að uppvíst varð um hina duldu fæðingu, snemma á árinu 1833, og þar til í byrjun september árið 1835.

Dauðadómi hæstaréttar mátti ekki framfylgja fyrr en ljóst yrði hvort kóngur gæfi sakakonunni líf. Eftir því var beðið. Í varðhaldinu á Kvígindisfelli hefur Jóhanna varla gert sér nokkra grein fyrir því hvers hún mátti vænta af kóngi, enda þótt þeir sem fróðastir voru um gang dómsmála kynnu að hafa ráðið í það fyrirfram. Þann 9. júlí 1834 var í konungsnafni gefið út náðunarbréf til handa sakakonunni í Tálknafirði.[41] Henni voru þó ekki gefnar upp sakir en í stað lífláts skyldi hún send til Kaupmannahafnar og taka þar út sína refsingu í betrunarhúsi.[42]

Fréttir þessar af máli Jóhönnu mun Bjarni Thorsteinson, amtmaður á Arnarstapa á Snæfellsnesi, hafa fengið fyrstur hérlendra manna. Hann ritar Guðbrandi Jónssyni, sýslumanni í Feigsdal í Arnarfrði, embættisbréf þann 16. desember 1834 og greinir þar frá niðurstöðunni.[43] Amtmaður skýrir Guðbrandi frá því í sama bréfi að honum beri að senda sakakonuna til Kaupmannahafnar sem fyrst.[44] Ekkert var tekið fram um lengd fangavistarinnnar sem henni var fyrirhuguð í Danmörku og ljóst að ekki var meiningin að sleppa henni úr betrunarhúsinu nema því aðeins að kóngi kynni síðar að þóknast að láta hana lausa.[45]

Árið 1835 og næstu árin þar á eftir var Spunahúsið (Spindehuset) helsta kvennafangelsi Kaupmannahafnar[46] og er harla líklegt að vinnukonan héðan frá Bakka hafi verið vistuð þar. Húsið var hluti af fangabúðum sem í voru margar byggingar og báru nafnið Kjöbenhavns Tugt- Rasp- og Forbedringshus.[47] Allur húsakostur fangabúðanna, þar með talið Barnahúsið, stóð í borgarhlutanum Christianshavn, á reitnum sem afmarkast af götunum Overgaden oven Vandet, Torvegade, Prinsessegade og Sankt Annæ gade.[48] Yfir vistarverum fanganna gnæfði Frelsarakirkjan með sínum háa og sérstæða gormlaga turni sem við augum blasir víða að úr borginni.

Í Spunahúsinu, sem var í raun ullarverksmiðja, áttu konurnar harða vist en dagleg iðja þeirra var að spinna þráð og vefa voðir í klæði handa danska sjóhernum.[49] Ætla má að þar hafi lífið reyndar verið heldur skárra en í Rasphúsinu þar sem fáir kembdu hærurnar og árleg dánartala nálgaðist að vera að jafnaði fjórir af hverjum tíu á árunum kringum 1830.[50] Meginhluti gömlu fangabúðanna á Christianshavn er nú horfinn af yfirborði jarðar en andspænis Frelsarakirkjunni stóðu þó enn (1988) tvær dimmrauðar, fjögurra hæða byggingar er fyrrum hýstu kvenfólkið sem þrælkað var í Spunahúsinu.[51] Líklegt er að þær standi þar enn.

Þegar hauströkkrið tók að færast yfir land og lýð árið 1835 var sakakonan Jóhanna Einarsdóttir úr Tálknafrði send á vit örlaga sinna handan við úthafið mikla. Ferðin sú var farin sama ár og ungir íslenskir menntamenn hófu í Kaupmannahöfn útgáfu tímaritsins Fjölnis. Slíkan samleik skörpustu andstæðna ljóss og skugga færir okkur líf mannanna.

Þann 29. september á nýnefndu ári var nafn Jóhönnu fært inn í fangaskrá betrunarhússins á Christianshavn.[52] Hún er þá sögð vera 39 ára gömul og í góðu ástandi, líkamlega.[53] Liðlega einu ári síðar, þann 26. október 1836 var þessi harmakona náðuð með konungsbréfi en náðinni fylgdu skilmálar sem hún var ekki fær um að uppfylla.[54] Jóhanna Einarsdóttir, fyrrum vinnukona hér á Bakka, andaðist í fangabúðunum á Christianshavn fyrir lok ársins 1836,[55] að fáum vikum liðnum frá því síðara náðunarbréf konungs henni til handa var gefið út.

Þegar nær hálf öld var liðin frá því sakakonan Jóhanna Einarsdóttir, áður vinnukona á Bakka, var send í Spunahúsið bjuggu á Ytri-Bakka um skeið Stefán Benediktsson, sonur séra Benedikts Þórðarsonar, sem síðast var prestur í Selárdal, og kona Stefáns, Valgerður Þorleifsdóttir, dóttir Þorleifs Johnsen frá Suðureyri í Tálknafirði, kaupmanns á Bíldudal. Stefán er í manntali frá 1880 kallaður skrína- og skápasmiður á Bakka.[56]

Um páskana árið 1891 tók sá maður við búi á Ytri-Bakka sem mest hefur ritað um atvinnuhætti og mannlíf í Tálknafirði kringum aldamótin 1900, Hallbjörn E. Oddsson[57] er hér bjó síðan til 1912. Í sjálfsævisögu Hallbjarnar, sem prentuð er í níu fyrstu árgöngunum af Ársriti Sögufélags Ísfirðinga (1956-1964), má finna margvíslegan fróðleik um líf manna í Tálknafirði á aldahvörfum. Þó að skrif Hallbjarnar séu mótuð af hans eigin viðhorfum til manna og málefna, svo sem eðlilegt er, og nákvæmni í frásögn ekki alltaf eins og best yrði á kosið, þá er þar engu að síður um dýrmæta námu að ræða.

Hallbjörn var prestssonur frá Gufudal og kom bláfátækur til Tálknafjarðar eftir fárra ára dvöl í Arnarfirði og fór þá strax að búa sem leiguliði á Ytri-Bakka. Valgerður Þorleifsdóttir, sem fyrr var nefnd og þá var orðin ekkja, átti jörðina og fékk að dvelja í bænum fyrstu búskaparár Hallbjarnar. Séra Lárus Benediktsson, prestur í Selárdal, sem var mágur Valgerðar, sá um alla samninga fyrir hennar hönd.

Hallbjörn var 24 ára að aldri er  hann hóf búskap á Ytri-Bakka ásamt konu sinni, Sigrúnu Sigurðardóttur. Um niðurstöður af samningum við séra Lárus og samskiptin við Valgerði ritar Hallbjörn:

 

Ég fékk Ytri-Bakka byggðan byggingarbréfslaust upp á lífstíð eða svo lengi sem ég vildi sitja á honum og stæði í skilum, ef Valgerður þyrfti ekki að selja hann. En kæmi það fyrir varð ég að kaupa hann eða að öðrum kosti að víkja fyrir þeim, sem keypti, ef ég vildi ekki nota forkaupsréttinn. Ennfremur voru þau munnleg skilyrði, er ég set hér til að sýna hve geysilegur mismunur var á verðlagi þá og nú, að ég átti að kenna báðum stúlkunum (dætrum Valgerðar) fyrir fimmtíu krónur báðum yfir veturinn, láta Valgerði hafa tvo potta af mjólk á hverjum degi fyrir 12 aura pottinn, tuttugu poka af mó fyrir eina krónu pokann, allt tunnusekki, og frítt húsnæði í tveggja stafgólfa húsi, er hún átti sjálf undir baðstofuloftinu, svo ég varð að vera sjálfur stofulaus á meðan hún var á Bakka því búrið varð ég að hafa í hinum endanum undir loftinu. En þegar hún fluttist burtu þaðan gaf hún mér stofuhúsið með þeim orðum að sér hefði liðið vel í því síðan við hjónin fluttumst að Bakka.[58]

 

Ytri-Bakki var talinn fimmtán hundraða jörð og hafði Hallbjörn þau öll til ábúðar.[59] Á Innri-Bakka bjó Guðmundur Gíslason á síðustu árum 19. aldar og hafði tólf jarðarhundruð til ábúðar en á Hólum, þriggja hundraða hjáleigu úr landi Innri-Bakka, bjó Sturla Ólafsson skipstjóri.[60] Túnin á Ytri-Bakka og Innri-Bakka lágu saman og skildi bæjarlækurinn á milli – var hver bærinn fyrir sig aðeins fáa faðma frá bæjarlæknum, segir Hallbjörn.[61] Frá bæjardyrum á Ytri-Bakka voru aðeins þrjátíu faðmar niður á bæjarröndina við sjóinn.[62]

Baðstofunni á Ytri-Bakka árið 1891 lýsir Hallbjörn svo:

 

Stefán trésmiður Benediktsson, maður Valgerðar Þorleifsdóttur, var lærður húsameistari og hafði því byggt nýja og eftir því sem þá tíðkaðist reisulega og myndarlega baðstofu á Bakka. Baðstofan var fjögur stafgólf á lengd eða um tólf álnir (um 7,5 metrar). Hún var öll undir skarsúð af hálfs annars tommu borðum, fimm álna breið með alinháu porti og reist upp úr krosslægju og því mjög loftgóð og rúmgóð. Fyrir henni var alþil að innan og hálfþil að utan með stórum sex rúða gluggum, öðrum í stofu Valgerðar en hinum, lítið eitt minni, uppi á loftinu og stórum fjögra rúða glugga í hálfþilinu í ytri enda, þess utan tveimur tveggja rúða gluggum á suðurhliðinni svo í henni var ágæt birta. En sá galli var á henni eins og flestum baðstofum þeirrar tíðar að hún stóð aftast og innst allra bæjarhúsanna og var hvergi grafin neitt í jörð nema ytri gaflinn upp að ufsum. Hún var því bæði köld og veðurnæm fyrir öllum norðanveðrum. … Hún var á þrælsterkri grind, sem farin var að skekkjast af sífelldum hristingi norðan veðra.[63]

 

Hallbjörn lýsir líka rækilega húsakynnum á Innri-Bakka, hjá Guðmundi Gíslasyni, og segir m.a.:

 

Fyrir utan gaflana á baðstofunni og búrinu stóð þriggja stafgólfa löng skemma, sem almennt var kölluð mauraskemman. …Í skemmu þessa bauð Guðmundur hinum ríkari gestum, er áttu erindi eða kaup við hann, en alla fátæklinga afgreiddi hann utandyra …  .

Að innan við baðstofu- og eldhúsgaflana var geymsluskemma, er í var geymt hangikjöt, saltfiskur, saltkjöt, harðfiskur og fleira, er ekki þurfti jafngóða geymslu eins og það, sem í mauraskemmunni var.[64]

 

Fyrir innan þessa skemmu kom svo eldiviðarskemma og þar næst hjallur en innst, nokkuð frá öðrum húsum, smiðja. – Öll sneru hús þessi gráum, mosavöxnum þiljum til fjalls og voru rétt mynd af flestum byggingum bændabæja þeirra tíma, segir Hallbjörn.[65] Spottakorn innan við smiðjuna á Innri-Bakka rann svo fjóslækurinn til sjávar, ofan í lendingarvörina, en innantil á bakka lækjarins stóð fjósið og fjóshlaðan, fremst á sjávarbakka röndinni.[66] Fjárhús, lambhús og hrútakofar voru svo dreifð um túnið og beitarhús úti á Bakkasléttunni.[67]

Þegar Hallbjörn byrjaði búskap á Ytri-Bakka átti hann fátt nema æskuþor og styrka eiginkonu. Hann lýsir þessu svo:

 

Ég byrjaði búskapinn á Bakka með 7 ær með lömbum, 4 gemlingum og einu hrossi, er ég átti sjálfur, og í viðbót við það fékk ég eina kú í leiguburð á jörðinni og 9 ær og fyrir annarri kú lánaði Pétur Björnsson, skipstjóri á Snyg, mér. En nú (1892) voru börnin orðin fjögur og sá ég engin ráð önnur en ráða mig á skip hjá Thorsteinsson á Bíldudal, ef ég ætlaði að lifa með fjölskylduna næstkomandi vetur án þess að leita sveitarstyrks. Eftir það var ég vormaður á skipum hans í fleiri ár og fór því að heiman á tímabilinu frá miðgóu til miðs einmánaðar og var þar til 12 vikur af sumri (um fjóra mánuði) og má með sanni segja að Thorsteinsson var mér sem banki, er aldrei brást. En hins vegar má nærri geta hver aðstaða konu minnar hefur verið að taka þá við búhokrinu og sjá öllu borgið á þeim tíma ársins, þó ég hefði oftast tvær vinnukonur, því vinnumaður sem ég hafði fór til atvinnu um svipað leyti og ég. Það bjargaði öllu að hún var bæði hraust og sannur skörungur, sem aldrei hafði vanist að liggja í traföskjum.[68]

 

Hér lýsir Hallbjörn vel aðstæðum sem kallast máttu dæmigerðar fyrir bændafólk á Vestfjörðum á árunum kringum aldamótin 1900. Um konu sína, Sigrúnu Sigurðardóttur, segir Hallbjörn að hún hafi verið í hærra meðallagi

 

beinvaxin þegar hún stóð en ofurlítið lotin þegar hún gekk af ákafanum að komast áfram. – Svo var hún mittismjó að ég gerði mér oft til gamans að reyna að ná gómunum saman er ég spennti höndum um mitti hennar og vantaði ótrúlega lítið til að geta það, hefi ég þó verið talinn handsmár.[69]

 

Hallbirni og Sigrúnu búnaðist vel á Ytri-Bakka þó að börnunum fjölgaði ört en alls urðu þau tólf.[70] Eftir nokkurra ára búskap keyptu þau jörðina fyrir 1300,- krónur en seldu hana síðar Sjómannaekknasjóði Barðastrandarsýslu fyrir sömu upphæð.[71] Í byrjun hafði búið verið smátt hjá Hallbirni en síðasta árið þeirra á Bakka var bústofninn orðinn sex kýr og 100 fjár.[72] Bærinn hafði þá verið byggður upp og margvíslegum jarðabótum hrundið í framkvæmd.

Grásleppuveiðar voru drjúgur þáttur í bjargræði heimilisfólks á Bakka eins og víðar í Tálknafirði. Páll, sonur Hallbjörns og Sigrúnar á Ytri-Bakka, fæddur 1898, ritaði á efri árum endurminningar sínar frá æskudögum. Hann segir þar m.a. frá grásleppuveiðum þeirra Hallbjörnssona á árunum kringum 1910:

 

Allra fyrst á vorin var faðir okkar með okkur við netaveiðarnar. En hann fór oftast snemma í verið, annaðhvort í Stapavíkur yst í Tálknafirði að norðan eða í Hvannadal, sem er við Tálknann sunnantil í firðinum. … Við þremenningarnir, Sveinbjörn, Cæsar og ég önnuðumst þá hrognkelsanetin, veiðina og alla þá vinnu, er henni fylgdi. Sveinbjörn var okkar elstur, þrettán ára (árið 1906). …

Í netjavitjunina fórum við oftast klukkan 8 til 9 að morgni og komum í land úr vitjun um eittleytið á daginn. Þá byrjuðum við í aðgerðinni.

Grásleppan var öll kúluð, þ.e. stykkjuð eins og steinbítur, og hert á trönum og í tréhjöllum, á mjóum rám, sem kallaðar voru lektur. Hún var yfirleitt ekki seld út af heimilinu en borðuð sigin, hert og steikt á eldsglóð. Venjulega entist hún til heimilisnota fram eftir sumri og jafnvel fram á veturnætur. Yfirleitt söltuðum við ekkert af grásleppu vegna þess að salt var dýrt og mjög erfitt að ná því frá Patreksfirði.[73]

 

Grásleppan var borðuð heima. Af rauðmaga veiddist langtum minna en mest af honum var saltað, segir Páll, og síðan reykt í litlum eldiviðarkofa; síðan seldur til Patreksfjarðar eða Reykjavíkur gegn vörum eða peningum.[74] Allt slóg og affall var borið í handbörum á túnið en grásleppuhrogn ásamt hvelju og rauðmagauggum gefin kúm og kindum.

Vorið 1912 fluttist Hallbjörn á brott frá Bakka með sína stóru fjölskyldu og hafði þá búið hér í 21 ár. Næstu sextán árin var hann í Súgandafirði en síðan á Akranesi og dó þar hátt á níræðisaldri. Á unglingsárunum hafði Hallbjörn verið einn vetur í lærða skólanum í Reykjavík.[75] Skáldið Benedikt Gröndal yngri var þá kennari við skólann og átti að hafa umsjón með drengnum en þeir voru náfrændur því séra Oddur, faðir Hallbjarnar, og Gröndal voru systkinasynir.[76] Gröndal minnist á Hallbjörn í sinni merkilegu bók  Dægradvöl og segir þar að þessi prestssonur frá Gufudal hafi dáið ungur![77]

Lengi enn munu ýmsir þeir sem koma að Bakka minnast Hallbjarnar og hans mittisgrönnu konu. Máske hugur einhverra hvarfli þá líka til nágranna þeirra, Sturlu skipstjóra á Hólum og Guðmundar Gíslasonar á Innri-Bakka sem átti mauraskemmuna. Um Sturlu Ólafsson skipstjóra, sem fæddur var 1844, segir Hallbjörn að hann hafi í æsku sinni heima á Auðkúlu verið talinn einn þriggja bestu glímumanna í Arnarfirði en jafningja Sturlu í þeim efnum hafi menn aðeins talið Ólaf bróður hans og Kristján Kristjánsson sem síðar bjó lengi í Stapadal.[78]

Um kvennamál Guðmundar nágranna síns segir Hallbjörn þessa sögu:

 

Um það leyti sem Guðmundur Gíslason tók við búsforráðum á Innri-Bakka beiddi hann sér konu eins og margan góðan mann hefur hent. Stúlkan hét Sigríður og var talin myndarlegt konuefni. Bónorðið bar Guðmundur upp þannig úti á hlaði, er hann hafði gert boð fyrir hana: „Sæl vertu ljúfan mín. Viltu eiga mig Sigga? Vertu hörð og svaraði strax.” – „Ó, nei, ekki held ég nú það, hróið mitt,” svaraði hún. – „Hú, það eru þá engin orð, kelli mín,” svaraði hann og rauk af stað án þess að kveðja ljúfuna sína og er talið að það myndi hafa verið eina ástarævintýrið, er Guðmundur lenti í um ævina.[79]

 

Um búskaparlag Guðmundar Gíslasonar á Innri-Bakka á hans síðustu árum og allt hans aurasafn hefur Hallbjörn líka fært sitthvað í letur:

 

Eftir því sem Guðmundur gamli Gíslason varð að byggja Innri-Bakka fleirum, virtist mér heilsa hans hrörna. Búið minnkaði þó ekki að sama skapi sem hann byggði öðrum meira af jörðinni, nema kýrnar því eftir það hafði hann aðeins eina. En fé hafði hann hérumbil sama og seldi því hangið kjöt, mör, skinn og ýmislegt fleira, svipað og áður. Að vísu lét hann ekki rollur sínar fá til lambs nema annað árið en saumaði fyrir þær hitt árið svo þær þyldu betur útiganginn og hann gæti sparað sem mest sín margfornu hey. Eldivið notaði hann ekki annan en lambataðið, klíning undan sinni einu kú, þurrkaðan þöngul og reknar hvalþjósir, sem hann risti í lengjur og herti á hjöllum svo þær loguðu listilega og gáfu bænum sérstaka angan, er nú á tímum mundi tæpast vera álitin eftirsóknarverð. Gekk hann oft á þjósareka þennan og bar heim á bakinu og í einni slíkri þjósaferð veiktist hann svo að hjálpa varð honum heim og dó hann litlu síðar, að líkindum saddur lífdaga sinna þó ríkur væri.

Illa bar sögnum saman um það hvað upp hefði komið eftir hann af eignum. Sögðu sumir 1500,- krónur í peningum en aðrir töldu það hafa verið í skýru gulli. Sumir sögðu í bankaseðlum 4000,- krónur en aðrir sex. Voru bankaseðlarnir að sögn í verskrínu gamalli, er hann átti, en peningarnir eða gullið, hvort sem heldur sannara er, í gömlum verskáp litlum, er hann einnig átti. Ennfremur kom upp eftir hann afar stór kista, gulmáluð með rósaútflúri máluðu á framhlið og á göflum. Var talið að hún væri hollensk og frá tíð Flandrara, er mikið heimsóttu Tálknafjörð fyrr á öldum. Kista þessi hafði verið full af hvítri þveginni vorull, er hann seldi, helst efnuðum frúm fjarðarins, er þær voru í ullarþroti. Í kistu þessari hafði verið afarmikið af smápeningum frá einseyringum og upp í tveggja krónu peninga, er hann hafði kastað í hana, er hann þurfti að flýta sér, og þar innan um heilmikið af möðkum, sem kúrðu í ullinni og aurunum. Einnig komu upp eftir hann 18 föll af hangikjöti, sem enginn vildi bjóða neitt í á uppboðinu eftir hann því það var allt stórskemmt af illri söltun og vanhirðingu. Á uppboðinu keypti ég stóru kistuna og verskápinn til minja.[80]

 

Líklega hefur Hallbjörn stundum litið öfundaraugum yfir bæjarlækinn á sínum fátæktar- og frumbýlingsárum en gaman væri að vita hvar Flandrarakistan góða skyldi nú vera niður komin.

Skiptabók Barðastrandarsýslu frá árunum 1894 til 1914 sýnir að dánarbú Guðmundar á Bakka var tekið til skipta 3. mars 1906. Skuldlausar eignir búsins reyndust vera 6512,- krónur og að auk jörðin Innri-Bakki, sem metin var á 1000,- krónur.[81] Kemur það allvel heim við hugmyndir Hallbjarnar. Kýrverðið var á þessum tíma um 103,- krónur samkvæmt verðlagsskrá[82] og hafa því eignir Guðmundar gamla samsvarað nálægt 73 kúgildum, sem var ærin eign á þessum árum.

Á leið okkar frá Bakka út að Sellátrum skulum við ganga með sjónum. Við lítum við á Sæbóli hér rétt utan við túnfótinn, niður við sjó. Það var Guðmundur Sturluson, sem kvæntur var systur Hallbjarnar, er hér byggði fyrstur.[83] Mun það hafa verið árið 1901.[84] Hann var sonur Sturlu Ólafsson skútuskipstjóra á Hólum, einu býlanna hér á Bakka, og konu hans, Agnesar Jónsdóttur. Guðmundur ræktaði hér lítinn blett og stundaði sjósókn af kappi. Hann fluttist fáum árum síðar að Arnarstapa, utar með firðinum.[85]

Frá Sæbóli er tæplega hálftíma gangur út að Sellátraánni sem skilur að lönd Bakka og Sellátra. Innan við árósinn eru enn (1988) tóttir af litlu þurrabúðarkoti, sem nefnt var Tannanes, og settist fólk þar fyrst að árið 1898 (sjá hér bls. 1). Á Tannanesi byggði fyrstur, að sögn Hallbjarnar, maður að nafni Magnús Jónsson en lengst mun hafa búið þar Guðbjartur Sigurðsson sem áður stundaði lúðuveiðar með Ameríkumönnum.[86] Eitt sinn létu Ameríkumenn Guðbjart í land í Keldudal í Dýrafirði í vertíðarlok. Þar var þá bátur frá Lokinhömrum í Arnarfirði að sækja mó og hugðist Guðbjartur taka sér far með honum vestur í Arnarfjörð. Nóttina fyrir brottför veiktist hann þó svo hastarlega að hann var með engu móti ferðafær. Á leiðinni fyrir Sléttanes fórst báturinn með allri áhöfn en Guðbjartur varð alheill strax og móskip þetta hvarf úr augsýn fólks í Keldudal.[87] Hin skyndilegu veikindi Guðbjartar, sem svo skjótt liðu frá, urðu honum til lífs og gat hann því nokkru síðar farið að búa hér á Tannanesi. Ekki er ólíklegt að sjóslys þetta sé hið sama og hér er getið um á öðrum stað en þar er frá því greint að bátur frá Lokinhömrum, sem sendur var til að sækja hvalmeti að Höfða í Dýrafirði, hafi farist á heimleið 31. ágúst árið 1890 og allir drukknað sem þar voru um borð (sjá hér Svalvogar). Sá bátur kynni að hafa komið við í Keldudal og tekið þar nokkra mópoka.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 352.

[2] Sóknarmannatöl Stóra-Laugardalssóknar.

[3] Sama heimild.

[4] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 244.

[5] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.  Hallbjörn Oddsson 1963, 119 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[6] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.  Manntal 1901.

[7] Jarðab. Á. og P. VI, 350.

[8] Sama heimild, 351.

[9] Sama heimild, 352.

[10] Hallbjörn Oddsson 1963, 138 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[11] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 244.

[12] Trausti Einarsson 1987, 92.  Hallbjörn Oddsson 1963, 145.

[13] Hallbjörn Oddsson 1964, 197 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[14] Sama heimild, 196.

[15] Sama heimild, 195.

[16] Prestsþj.bók Selárdalsprestakalla 1816-1872, bls. 13.

[17] Íslenskar æviskrár V, 41.

[18] Sóknarmannatöl Selárdalsprestakalls. Manntal 1816, 669.

[19] Manntal 1845, vesturamt, 239. Manntal 1816, 669.

[20] Manntal 1845, vesturamt, 329. Manntal 1816, 669.

[21] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873, IV, 165-166, 184-187 og 441-442.

[22] Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls. Manntal 1801, vesturamt, 252. Manntal 1816, 671.

[23] Manntal 1801, vesturamt, 252.

[24] Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls. Manntal 1816, 671. Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í  íslenskum málum 1802-1873, IV, 166.

[25] Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls.

[26] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í  íslenskum málum 1802-1873, IV, 165.

[27] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í  íslenskum málum 1802-1873, IV, 165.

[28] Sama heimild, IV, 185-186.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild, IV, 184.

[33] Sama heimild, IV, 184-187. Ísl. æviskrár II, 400-401.

[34] Ísl. æviskrár II, 48-49 og 400-401.

[35] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í  íslenskum málum 1802-1873, IV, 187.

[36] Sama heimild, IV, 441-442. Skjalasafn vesturamtsins VA III, 16 – Bréfabók 1834-1848, bréf Bjarna Thorsteinson amtmanns 16.12. 1834 til Guðbrands Jónssonar sýslumanns í Barðastrandarsýslu, afrit.

[37] Landið þitt Ísland 1984, 5. bindi, bls.40. Jón Espólín/Íslands Árbækur XII, 168-169. Annáll nítjándu aldar I, 392-396 og 423-425.

[38] Köbenhavnsposten 8.3. 1834. Einar Laxness 1995, II, 32.

[39] Köbenhavnsposten 8.3. 1834. Einar Laxness 1995, II, 32. Sbr. Annáll nítjándu aldar I, 379-381 og 392.

[40] Manntal 2.2. 1835.

[41] Skjalasafn vesturamtsins. VA III, 16. Bréfabók 1834-1848, bréf Bjarna Thorsteinson amtmanns 16.12. 1834 til Guðbrands Jónssonar, sýslumanns í Barðastrandarsýslu, afrit.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Björn Th. Björnsson 1961, 215-222. Einar Laxness 1995, III, 53.

[47] Sömu heimildir.

[48] Björn Th. Björnsson 1961, 215.

[49] Björn Th. Björnsson 1961, 218. Einar Laxness 1995, III, 53.

[50] Björn Th. Björnsson 1961, 217.

[51] Björn Th. Björnsson 1961, 221. Sbr. þar, bls. 219. Einar Laxness 1995, III, 53.

[52] Landsarkivet for Sjælland. Tugt- Rasp- og Forbedringshuset på Christianshavn/Fortegnelser over Tugt- Rasp- og Forbedringshusets fanger – DK – 057, 1831-1861, nr. 430-172 1835 og 431-173  1836.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Manntal 1880.

[57] Hallbjörn Oddsson 1961, 178 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[58] Hallbjörn Oddsson 1961, 175-176 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[59] Sami 1963, 119 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild, 118.

[62] Sami 1961, 174.

[63] Hallbjörn Oddsson 1963, 136-137. (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[64] Hallbjörn Oddsson 1963, 122-123 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild, 123-126 og 137.

[68] Hallbjörn Oddsson 1962, 133 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[69] Hallbjörn Oddsson 1962, 133-134 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[70] Páll Hallbjörnsson 1969, 9 (Flotið á fleyjum tólf).

[71] Hallbjörn Oddsson 1964, 182 og 184 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[72] Sama heimild, 185.

[73] Páll Hallbjörnsson 1969, 13 og 16-17.

[74] Páll Hallbjörnsson 1969, 17.

[75] Hallbjörn Oddsson 1956, 27 og 1957, 160-176 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[76] Benedikt Gröndal 1965, 171-172 (Dægradvöl). Ísl. æviskrár, I, 124-125 og IV, 13.

[77] Benedikt Gröndal 1965, 171-172.

[78] Hallbjörn Oddsson 1958, 90 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[79] Sami 1963, 119 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[80] Hallbjörn Oddsson 1964, 193-194 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga)..

[81] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð XI, 15.

[82] Stjórnartíðindi 1907 B, bls. 28.

[83] Hallbjörn Oddsson 1963, 148 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[84] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.  Manntal 1901.

[85] Hallbjörn Oddsson 1963, 148 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[86] Sami 1957, 156 og Sami 1963, 147-148 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[87] Hallbjörn Oddsson 1957, 156 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »