Bakki

Fyrsti bærinn sem við heimsækjum í Brekkudal er Bakki en sú jörð hefur legið í eyði frá árinu 1987 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 184). Að þessu sinni komum við að Bakka frá Söndum en frá Múla og öðrum bæjum í Kirkjubólsdal var farin önnur leið hingað og hana byrjum við á að kanna áður en numið verður staðar hér í Bakkatúninu. Frá Múla var aðeins hálftíma gangur að Bakka og liggur sú leið um Bakkahlíð í austurátt. Á hægri hönd gnæfir fjallið Bakkhorn (Bakkahorn) sem hér setur svip á umhverfið. Um miðja 19. öld var sagt að það væri næstum kringlótt og uppmjótt eins og varða, ekki ákaflega bratt en klettamikið og hrjóstrugt.[1] Sú lýsing á vel við enn í dag. Í hlíðum fjalls þessa er gott beitiland, enda segir í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 að Sandakirkja eigi sex vikna beit undir Bakkahlíð.[2] Þessi réttindi kirkjunnar voru enn hin sömu í byrjun 18. aldar því að í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að Sandastaður eigi sex vikna beit … undir Bakkahlíð eður Bakkahorni.[3]

Á leið okkar frá Múla að Bakka förum við yfir landamerkin þegar komið er að línu sem hugsast dregin úr Bakkhorni í stóran stein, sem Einbúi heitir og stendur á grasbletti uppi undir hlíðinni, og síðan áfram um Elínartjörn, starartjörn neðan við Einbúa, og þaðan niður í Brekkudalsá.[4]

Skömmu áður en komið er að Bakka opnast sýn fram í Brekkudal þar sem bæirnir þrír, Bakki, Grandi og Brekka blöstu löngum við sjónum komumanna. Tún þeirra allra liggja saman að kalla en Brekkudalsá skilur þó landareign Bakka frá löndum hinna jarðanna tveggja. Stendur Bakki vestan (sunnan) ár en Brekka og Grandi austan (norðan)  við hana. Nánari kynningu á Brekkudalnum látum við bíða uns komið verður í hlað á Brekku.

Svo langt aftur sem séð verður átti kirkjustaðurinn á Söndum allan Galtardal sem gengur til suðurs upp frá Brekkudal (sjá hér Sandar og Brekka) en til að komast þangað frá Söndum varð að fara yfir þann landskika sem fylgdi Bakka, ellegar handan ár yfir Brekkuland. Með hliðsjón af því má telja líklegt að Bakki hafi upphaflega byggst úr landi Sanda, enda átti staðurinn á Söndum rétt til sex vikna beitar fyrir búfé sitt á Bakkahlíð eins og fyrr var nefnt. Enn ein rök fyrir því að Bakki hafi byggst úr landi Sanda eru þau að í Jarðabókinni frá 1710 er Brekkudalsá nefnd Sandá[5] sem bendir til þess að Sandar hafi til forna átt land fram allan dalinn, þeim megin ár sem Bakki stendur. Í varðveittum heimildum er Bakka hvergi getið fyrr en á 17. öld en jörðin hlýtur þó að hafa byggst fyrir 1500 því ætla má að hefði búseta hafist þar síðar væri þess getið sérstaklega í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710. Líklegt er að Bakki hafi í fyrstu verið hjáleiga frá Söndum og mætti hugsa sér að kotafólk hafi fyrst sest hér að á 14. öld en hjáleigan orðið sjálfstæð bújörð áður en 15. öldinni lauk, – samanber það sem hér var áður sagt um Múla (sjá Múli). Um þetta er þó ekkert vitað með vissu.

Á síðari öldum var Bakki talinn 12 hundraða jörð.[6] Haustið 1698 lofaði Bjarni Hávarðsson séra Sigurði Jónssyni, prófasti í Holti í Önundarfirði, að selja honum átta hundruð í Bakka og var þeim samningi þinglýst á almennum hreppsfundi í Meðaldal.[7] Á móti þessu loforði átti Bjarni að fá ábúð á þeim tíu hundruðum sem séra Sigurður átti í Hólum hér í sveit.[8] Fimm árum síðar var prófasturinn orðinn eigandi að þessum átta jarðarhundruðum hér á Bakka.[9] Sá sem seldi séra Sigurði átta hundruðin í Bakka hefur að öllum líkindum verið sami Bjarni Hávarðsson og árið 1703 átti heima í hjáleigunni Götu í Meðaldal og var þá orðinn 77 ára gamall (sjá hér Meðaldalur). Ýmis rök benda til þess að Gata hafi þá verið argasta kotið í öllum Dýrafirði, enda var aldrei búið þar síðar og hart hefur það verið fyrir gamlan mann er átt hafði nokkur hundruð í jörð, sem þá var fátítt hjá almúganum, að enda slyppur og snauður á slíku koti með konu og dætur. Tildrög þeirra umskipta þekkjum við hins vegar ekki.

Þann þriðjung úr jörðinni Bakka sem séra Sigurður í Holti náði ekki að eignast átti um skeið Sæmundur Magnússon, lögréttumaður og lögsagnari á Hóli í Bolungavík.[10] Hann seldi þessi fjögur hundruð haustið 1679 bræðrunum Jóni og Ólafi Jónssonum sem greiddu með fjórum hundruðum í jörðinni Norðureyri í Súgandafirði.[11] Tekið er fram að kaupin hafi farið fram með samþykki föður bræðranna, Jóns Sveinssonar.[12] Fyrir liggur að árið 1710 átti Jón Jónsson, bóndi á Suðureyri í Súgandafirði, þessi fjögur jarðarhundruð hér á Bakka[13] og má telja nær fullvíst að hann sé annar bræðranna sem keyptu þau 1679 því faðir hans hét einmitt Jón Sveinsson og hafði sá Jón keypt hálfa Suðureyri árið 1646 og bjó þar síðar (sjá hér Suðureyri og Kvíanes). Landskuld af Bakka árið 1710 var tvær vættir og sex fjórðungar[14] eða tæplega þrjú ærgildi en átta fjórðungar voru í vættinni og eitt ærgildi í hverri vætt.

Í byrjun 18. aldar voru sagnir á kreiki um bænhús á Bakka og var Árna Magnússyni sagt að tótt nokkur skammt frá bænum væri enn nefnd bænhústótt og í kringum hana væri girðingarkorn.[15] Tótt þessi er nú sögð vera rétt utan við íbúðarhúsið og þess getið að þar hafi komið upp líkamsleifar er grafið var.[16] Engar skjallegar heimildir munu þó finnanlegar um bænhús hér á Bakka. Steinsreitur heitir í Bakkatúni, beint upp af bænum. Þar var tótt af kofa sem sagt var að karl nokkur hefði búið í.[17] Aldrei var tóttin slegin, enda talið að illt hlytist af ef það væri gert.[18]

Eigandi Bakka á árunum kringum 1800 var Þorvaldur Sveinsson hreppstjóri sem bjó í Hvammi, hér handan við hálsinn,[19] en þá voru hér við búskap hjónin Guðmundur Sigurðsson og Úlfrún Jónsdóttir.[20] Úlfrún á Bakka var þá eina manneskjan á landi hér sem bar þetta fagra nafn.[21] Eitt margra barna Þorvaldar hreppstjóra í Hvammi var Guðrún, fædd um 1780.[22] Hún giftist haustið 1809 Níelsi Jónssyni frá Brekku[23] og fóru þau þá þegar eða skömmu síðar að búa á Bakka.[24] Hjón þessi voru hér enn við búskap árið 1845 og bjuggu þau lengur á jörðinni en aðrir ábúendur á nítjándu öld.[25] Þau eignuðust tvo syni, sem báðir hétu Jón,[26] og svo fór að þeir kvæntust báðir sömu konunni, fyrst eldri Jón, sem varð skammlífur, og að honum látnum yngri Jón.[27] Hún hét Gróa og var dóttir Jóns Sumarliðasonar frá Sveinseyri sem bjó alllengi á Rauðsstöðum í Arnarfirði.[28] Með yngri Jóni og Gróu fluttist Níels gamli yfir að Brekku og var þar enn í þeirra skjóli haustið 1860, kominn á níræðisaldur.[29]

Skömmu eftir 1850 reistu hér bú hjónin Andrés Halldórsson og Þorlaug Narfadóttir.[30] Hann var frá Meðaldal, fæddur 1823, en hún frá Granda.[31] Andrés og Þorlaug dóu bæði hér á Bakka haustið 1864 og létu eftir sig sjö börn, hið elsta 13 ára.[32] Að foreldrunum önduðum var börnunum komið fyrir á ýmsum bæjum[33] en elstur í systkinahópnum var Kristján Andrésson er seinna varð merkisbóndi í Meðaldal og fengsæll skútuskipstjóri[34] (sjá Meðaldalur).

Hjónin sem tóku við búsforráðum á Bakka haustið 1864 hétu Jón Egilsson og Ólöf Jónsdóttir. Þau höfðu verið vinnuhjú hjá Andrési og Þorlaugu um nokkurt skeið og tóku nú yngsta barn hinna látnu húsbænda, drenginn Halldór, í fóstur.[35] Jón Egilsson fæddist á Næfranesi hér í Dýrafirði 18. júní 1831 og Ólöf kona hans, sem var nokkrum árum eldri, var einnig fædd í Mýrahreppi.[36] Jón á Bakka og Steindór Egilsson sem seinna bjó á Brekku, hér handan við ána, voru bræður.[37] Árin sem Jón náði að standa fyrir búi urðu aðeins tvö því á sínu þriðja búskaparári drukknaði hann er hákarlaskipið Sladdi frá Haukadal fórst í hafi, þann 21. janúar 1867.[38] Í ritgerð sinni um hákarlaveiðar Dýrfirðinga segir Nathanael Mósesson að Jón Egilsson hafi verið formaður á Sladda er skipið fórst.[39] Sighvatur Borgfirðingur segir hins vegar að Benóný Daðason í Meðaldal hafi verið formaður.[40] Um hið rétta veit nú líklega enginn með vissu en presturinn ritaði nafn Benónýs fyrst er hann skráði nöfn þeirra sem fórust með Sladda[41] svo líklegt verður að telja að Sighvatur hafi rétt fyrir sér.

Ekkja Jóns Egilssonar, Ólöf Jónsdóttir, bjó áfram á Bakka í nokkur ár og giftist árið 1868 Ólafi Bjarnasyni sem var allmiklu yngri en hún.[42] Þau voru hér við búskap í tvö ár en fóru þá í vinnumennsku.[43] Svo virðist sem Ólöf hafi ekki eignast börn en hún ól upp drenginn Halldór Andrésson sem hér var áður nefndur og hafði hann með sér í vistum.[44] Árið 1875 var hann kominn um fermingu og fylgdi þá enn fóstru sinni en hún var þá vinnukona á Ketilseyri.[45] Þaðan fóru þau ári síðar í Meðaldal til bróður Halldórs, Kristjáns Andréssonar, og má ætla að þar hafi Ólöf hlotið nokkra umbun fyrir tryggð sína við munaðarleysingjann því Kristján var þá þegar orðinn uppgangsmaður.

Í Dýrafirði líkt og annars staðar var huldufólk víða talið búa í grennd við mannabústaði og svo var líka í Brekkudal. Olnbogabörnum lagði það jafnan lið. Nálægt aldamótunum 1800 var stúlka sem Þuríður hét að alast upp á Bakka við heldur illt atlæti og sat löngum yfir kvíaám þar í landareigninni á sumrin. Í kindahóp hennar komu þá jafnan nokkrar ær sem hún kannaðist ekki við en taldi vera frá Brekku eða Granda. Á daginn gætti hún þessara kinda eins vel og hinna en rak þær ávallt yfir ána þegar kvölda tók.

Einn dag sofnaði hún í hjásetunni og dreymdi þá að til sín kæmi kona og þakkaði henni kærlega fyrir fjárgæsluna. Sagði hún Þuríði að nú væri hún að flytja brott svo ekki þyrfti hún lengur að gæta fyrir sig kvíaánna en að launum vilji hún gefa henni það sem verði saman við heimaféð í kvöld.[46] Reyndist þetta vera lamb en heima á Bakka var Þuríði bannað harðlega að eiga huldulambið og hvarf það þá brátt aftur úr fjárhópnum.

Skömmu síðar vitjaði konan Þuríðar aftur í draumi og sagði leitt að hún skyldi ekki hafa fengið að halda lambinu en til að bæta þann missi mælti hún svo um að Þuríður skyldi verða lángefnust systkina sinna og hafa ætíð sérstakt kindalán. Þóttu ummæli þessi vel rætast og seinna efaðist Þuríður ekki um að hún ætti álfkonunni farsæld sína að þakka.[47]

Frá smalaslóðum Þuríðar á Bakka stiklum við yfir ána í slóð kvíaánna úr hulduheimum þó vonir um samfundi við huldar meyjar og æskuteita álfasveina hafi dofnað á síðustu tímum mannfólksins. Næst verður numið staðar á Granda.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 49.

[2] D.I. IV, 145.

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 45.

[4] Knútur Bjarnason, Kirkjubóli. – Viðtal K.Ó. við hann 12.7.1991.  Örnefnaskrá.

[5] Jarðab. Á. og P. VII, 47.

[6] Jarðab. Á. og P. VII, 44.  J. Johnsen 1847, 192.

[7] Alþingisbækur Íslands IX, 115.

[8] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 179.

[9] Jarðab. Á. og P. XIII, 253.  Sbr. Sömu heimild VII, 44.

[10] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), 171.  Sbr. Lögr.m.tal, bls. 504-505 og Ísl. æviskr. IV, 385.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Jarðab. Á. og P. VII, 44.

[14] Sama heimild, 44-45.

[15] Sama heimild.

[16] Örn.skrá.

[17] Örn.skrá.

[18] Sama heimild.

[19] Rtk. Jarðab. V. 16. Ísafj.sýsla 1805.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 266 og Vestf. ættir II, 697.

[20] Manntal 1801.

[21] Manntal 1801 og nafnalykill þess.

[22] Manntal 1801, vesturamt, bls. 266-267.  Sbr. Ólafur Ólafsson 1957, 12-20 (Ársrit S.Í.).

[23] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 267.  Sbr. einnig Brekka.

[24] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821-1838.  Manntöl 1835 og 1840.

[25] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sandapr.kalls.  Manntöl frá 19. öld.

[26] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.  Manntal 1835.

[27] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[28] Sama heimild.  Manntal 1845, vesturamt, bls. 264.  Sbr. Vestfirskar sagnir I, 289-290.

[29] Manntal 1860.

[30] Manntöl 1850 og 1855.

[31] Ísl. æviskrár V, 423-424.  Vestf. ættir I, 60.

[32] Sóknarm.töl Sandapr.kalls, des. 1863 og 1864.  Ísl. æviskrár V, 423-424.

[33] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[34] Sama heimild.  Ísl. æviskrár V, 423-424.

[35] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[36] Manntal 1860.  Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[37] Manntöl frá 19. öld.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þinga og Sandapr.kalls.

[38] Manntöl frá 19. öld.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þinga og Sandapr.kalls.  Sbr. Meðaldalur.

[39] Nathanael Mósesson: Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892, óprentuð ritgerð (ljósrit í eigu K.Ó.).

[40] Lbs. 23684to, Sighvatur Grímsson Borgfirðingur. Prestaæfir XI, 202.

[41] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[42] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[43] Sömu heimildir.

[44] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[45] Sama heimild.

[46] Vestf. sagnir II, 403-404.

[47] Vestf. sagnir II, 403-404.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »