Baulhús

 Milli Tjaldaness og Baulhúsa eru því sem næst sjö kílómetrar og liggur leiðin um Baulhúsaskriður en svo heitir öll fjallshlíðin utan við landamerkin sem hér var áður lýst. Hlíðin er brött og gróðurvana og ber nafn sitt með réttu því hún er öll skriðurunnin en klettalaus að kalla nema upp við hæstu brún. Innantil ná skriðurnar alveg niður í fjöru og lá gamla þjóðgatan þar með sjó fram[1] en á miðri hlíð taka við grónir sjávarbakkar. Á bökkunum er gömul tótt, rétt neðan við þjóðveginn, og heitir sá staður Kunda en gilið ofan við hana Kundugil.[2] Í munnmælasögnum var hermt að þarna hefði stundum verið efnt til mannfunda á fyrri tíð[3] en um 1840 taldi séra Jón Ásgeirsson á Álftamýri tóttina hafa verið sauðfjárhlað „eður máske dómhring“.[4]

Frá Kundu eru rösklega tveir kílómetrar að eyðibýlinu Baulhúsum sem voru innsti bær í Álftamýrarsókn. Baulhús fóru í eyði árið 1942[5] en tóttir bæjarhúsanna standa hér enn í grænu túni við sjó. Upp frá því skerst Baulhúsadalur inn í fjalllendið og sveigir brátt til aust-norðausturs. Dalurinn er þröngur og gróðurlítill.[6] Innan við hann gnæfir Baulhúsahyrna við loft en utan við dalinn blasir við augum Hagafjall og skammt þar frá Krákudalshyrna í landi Álftamýrar.[7]

Baulhús voru í fyrstu hjáleiga frá Álftamýri[8] og munu hafa kallast Nauthús á síðari hluta 14. aldar.[9] Tveimur öldum síðar var nafnið Baulhús orðið fast í sessi[10] og þá var hjáleigan orðin sjálfstæð bújörð.[11] Jarðardýrleiki var þó enn óviss árið 1710[12] en seinna töldust Baulhús vera 12 hundraða jörð.[13] Um miðja síðustu öld átti Álftamýrarkirkja þessa gömlu hjáleigu enn[14] og um nokkurt skeið hvíldi á þeim sem hér bjuggu sú kvöð að leggja prestinum á Álftamýri til sláttumann, einn dag á hverju sumri.[15]

Fyrr á tíð var hér nægur skógur til kolagerðar og svo var enn um 1650 en í byrjun 18. aldar var hann aleyddur.[16] Á Baulhúsum er lítið um gras en góð skilyrði til sjósóknar að fornum hætti. Róið var úr heimavör árið um kring nema á vorin.[17]

Fyrsti bóndinn á Baulhúsum sem sögur fara af er Bjarni Guðmundsson en hann stýrði hér búi á síðari hluta 17. aldar og fram yfir 1710.[18] Seinna var bóndi þessi sagður hafa verið „mestur galdramaður í Arnarfirði“ um sína daga.[19] Ýmsir niðjar hans fengust líka við kukl og varð Jóhannes Ólafsson á Kirkjubóli þeirra frægastur (sjá Kirkjuból í Mosdal). Bjarni mun hafa verið allgildur bóndi því bú hans var í stærra lagi[20] og hann átti nokkur jarðarhundruð hér á Vestfjörðum og norður í Húnavatnssýslu.[21]

Hjá Bjarna á Baulhúsum var árið 1703 einhleypur vinnumaður er Guðmundur hét Guðmundsson, 66 ára að aldri,[22] og hafa þeir að líkindum verið bræður.[23] Guðmundur hafði þá lengi átt í útistöðum við yfirvöldin, allt frá árinu 1679 er hann leyfði sér að vefengja réttmæti dóms sem upp hafði verið kveðinn á Alþingi í galdramáli.[24] Fyrir þau svigurmæli, viðhöfð á þingstað hér vestra, var hann skikkaður til að svara til saka á Þingvöllum við Öxará. Þann 8. júlí 1680 stóð hann þar keikur en vildi hvorki játa né neita því sem á hann var borið.[25] Liðu nú árin og gekk miður vel að sanna sakir á Baulhúsa-Gvend. Loks kom þar árið 1692 að Sigurður lögmaður Björnsson lýsti hann sekan um fjölmæli vegna hinna ofdirfskufullu gífuryrða sem fallið höfðu í æsingi þrettán árum fyrr.[26] Nú hefði margur haldið að setja mætti punkt en hjólin í kvörn réttvísinnar mala stundum hægt og leiðin löng frá Baulhúsum að völlunum grænu við Öxará.

Árið 1695 var Guðmundi stefnt að nýju til Alþingis fyrir sitt gamla orðasukk en karlinn neitaði þá að mæta og svaraði hortugur með bréfi sem „lögþingismönnum sýndist meir yfirvöldunum til áreitingar vera“ heldur en „nokkur ærleg afsökun“.[27] Við svo búið mátti ekki standa og var sýslumanni skipað að færa orðhákinn á Baulhúsum með sér til Alþingis í annað sinn. Þar játaði Guðmundur „með trássugum orðum“ að hafa skrifað bréfið og kvaðst nú standa við sérhvert orð.[28] Fyrir sína „ótilheyrilegu ofdirfð“ og blygðunarlaus smánaryrði „á móti yfirvaldinu“ var hann dæmdur til hýðingar og refsingin á hann lögð við Öxará þann 9. júlí 1697.[29] Frá þeirri athöfn greinir nákominn heimildarmaður svo:[30]

Item var þar [á Alþingi] og strýktur Guðmundur Guðmundsson á Baulhúsum með stórkostlegri húðlátsrefsingu, 90 vandarhögg, hverja hann vel þoldi og sá lítið á. Gekk til tjalds síns eftir afstaðna refsing og fékk sér mat, tók svo hest sinn og reið af þingi í Lundarreykjadal, – og þótti öllum stór undur að hann svo stóra refsing þola skyldi og afbera.

Hversu lengi hann var á leiðinni heim vitum við ekki en enn var karl á lífi sex árum síðar og átti þá eitt hundrað í jörðinni Gljúfrá hér í Arnarfirði.[31] Það var lítil eign en þó betri en engin fyrir uppreisnarmann sem bjóða vildi heiminum birginn.

Seinna bjó lengi hér á Baulhúsum sjóhetjan Matthías Ásgeirsson, fæddur 1851,[32] sonarsonur séra Jóns Ásgeirssonar á Álftamýri.[33] Hann var lengi skipstjóri á þilskipum og formaður í hákarlalegum á yngri árum.[34] Síðasta hvalinn sem Arnfirðingar veiddu með fornum hætti járnaði Matthías haustið 1894 (sjá Auðkúluhreppur). Til að skynja veðrabrigði var hann vanur að smakka lítið eitt á sjónum[35] og lánaðist jafnan vel.

Frá Baulhúsum er gott að horfa til hafs. Neðst í túninu er hóllinn Gónir.[36] Þaðan var oft litið til lofts á fyrri tíð og fylgst með mannaferðum á sjó.[37] Við stöldrum þar líka við stutta stund en röltum síðan út með ströndinni. Við Svarthamrasker, rétt fyrir innan Hlaðsbót, eru landamerki Baulhúsa og Álftamýrar.[38]

 

 

[1] PKr 1977, 33.

[2] ÖÖ.

[3] Sóknalýs. Vestfj. II, 24.

[4] Sama heimild, bls. 38–39.

[5] Firðir og fólk 1900-1999, 128.

[6] ÞN 1951, 144 (Árbók F.Í.).

[7] Sama heimild, bls. 144–145. ÖÖ.

[8] Jb. Á. og P. VII, 21.

[9] D.I. IV, 12–13.

[10] D.I. XV, 578. Sbr. Lbs. 7974to Jarðaskrá úr Ísafjs. frá árinu 1658 og Jb. Á. og P. VII, 21

[11] D.I. XV, 578.

[12] Jb. Á. og P. VII, 21.

[13] Sóknalýs. Vestfj. II, 39. JJ 1847, 191.

[14] JJ 1847, 191.

[15] Jb. Á. og P. VII, 21.

[16] Jb. Á. og P. VII, 21.

[17] Sama heimild. Sbr. HO 1960, 125–126 (Ársrit S.Í.).

[18] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntal 1703. Jb. Á. og P. VII, 21.

[19] Vestf. sagnir I, 197. Sbr. þar 33–35 og 38.

[20] Jb. Á. og P. VII, 21. Sbr. þar bls. 3–27.

[21] Alþb. Ísl. VIII, 515. Jb. Á. og P. VI, 343 og VII, 117.

[22] Manntal 1703.

[23] Sbr. Alþb. Ísl. VII, 226, 535 og 642.

[24] Sama heimild VII, 337–338, 390, 454 og 512–513.

[25] Sama heimild VII, 512–513.

[26] Sama heimild VIII, 291og 371–372.

[27] Alþb. Ísl. VIII, 514 og 544.

[28] Sbr. Alþb. Ísl. VIII, 543–544 og IX, 41–43.

[29] Sama heimild IX, 41–43.

[30] Ann. III, 391. Sbr. Ísl. æviskrár III, 443.

[31] Jb. Á. og P. XIII, 257–258.

[32] Smt. Rafnseyrar.

[33] Vestf. ættir I, 73.

[34] ÞN 1951, 144 (Árbók F.Í.).

[35] GHG JóG 1962, 40.

[36] ÖÖ.

[37] Sama heimild.

[38] ÞN 1951, 144.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »