Bethanía – Kot

Bethanía og Kot eru eitt og sama býlið eins og hér hefur áður verið nefnt, byggt úr landi Mosvalla árið 1843.[1] Býli þetta, sem nú er komið í eyði, stóð þar sem Vöðin þrýtur en við tekur undirlendið sem setur svip á byggðina innst í Önundarfirði. Landamerkjum Bethaníu á móti Mosvöllum hefur þegar verið lýst en á móti Vífilsmýrum á jörðin land að Hafradalsá, læknum sem túnið nær alveg inn að. Vegalengdin milli ytri og innri landamerkja þessa kotbýlis er aðeins tæplega 700 metrar þar sem þjóðvegurinn liggur.[2]

Á síðari tímum var aðeins búið á Kotum í 120 ár en allar líkur benda til þess að hér hafi fyrr á öldum staðið bær og nafn hans verið Bakki. Helstu rök fyrir þeirri kenningu eru þau sem hér greinir.

Í byrjun 18. aldar kunni fólk frá því að segja að hér hefði fyrir margt löngu staðið býli, enda sást þá enn til lítilla vallgróinna byggðarleifa.[3] Eyðibýli þetta var þá nefnt Bakkakot.[4] Algengt var á fyrri tíð að orðið kot bættist aftan við nöfn jarða sem lengi höfðu legið í eyði og má í því sambandi minna á Arnkelsbrekku í Bjarnardal hér í Önundarfirði sem nefnd var Arnkelskot (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel) og jörðina Skjaldfönn í Arnarfirði sem snemma fór í eyði og var síðar nefnd Skjaldfannarkot (sjá hér Borg og Rauðsstaðir í Arnarfirði). Þessi málvenja styrkir mjög þá hugmynd að býlið sem nefnt var Bakkakot á árunum kringum 1700 og hafði þá verið eyðijörð í a.m.k. 200 ár, hafi heitið Bakki áður og fyrr meir þegar búið var á jörðinni. Nafnið á fjallinu og hlíðinni hér fyrir utan, Bakkafjall og Bakkahlíð, bendir líka eindregið til hins sama því hér um slóðir er mjög algengt að fjöll séu kennd við bæi. Gjáin sem gengur niður úr miðju fjalli á Bakkahlíðinni miðri heitir líka Bakkagjá.[5] Líkurnar á því að bærinn, sem hér stóð um lengri eða skemmri tíma fyrir 1500, hafi heitið Bakki eru því mjög miklar þó að ekkert sé unnt að sanna í þeim efnum. Vel getur verið að þessi forna bújörð hafi átt stærra land en Bethanía fékk úthlutað síðar en allt var það lagt undir Mosvelli þegar jörðin fór í eyði.

Ekkert verður nú um það fullyrt hvenær býli var fyrst reist á þessum stað en óhætt mun að slá því föstu að þar hafi búskap verið hætt fyrir 1500 og að líkindum eigi síðar en í plágunni miklu árið 1402 sem menn hafa á síðari tímum kallað svartadauða. Þegar Árni Magnússon ræddi við Önfirðinga sumarið 1710 fékk hann þetta að heyra:

 

Bakkakot hefur hjáleiga heitið í Mosvallna landi, eyðilögð fyrir allra manna minni, og löngu fyrri að menn meina og sagnir eru. Sér hér til lítilla vallgróinna byggðarleifa. Ekki kann þetta kot aftur byggjast sökum þrönglendis og vildi það eyðileggja jörðina ef það væri aftur byggt.[6]

 

Jörðin sem þarna er sagt að myndi eyðileggjast ef farið yrði að búa á Bakkakotum er að sjálfsögðu Mosvellir. Hinar vallgrónu byggðarleifar sem Árni Magnússon talar um sáust enn á fyrri hluta 20. aldar, rétt utan við túnið á Kotum, og voru rústir þessar þá nefndar Fornukot.[7] Þær tóttir munu nú vera horfnar og hafa að líkindum verið sléttaðar út þegar Kotatúnið var stækkað.

Á árunum upp úr 1770 höfðu ýmsir forystumenn í Íslandsmálum fengið áhuga fyrir endurbyggingu eyðibýla þar sem slíkt kynni að henta og á ferð Ólafs Olaviusar um Vestfirði sumarið 1775 spurðist hann víða fyrir um eyðibýli og búskaparskilyrði á þeim. Skrá Olaviusar yfir eyðibýli í Ísafjarðarsýslu er hin merkasta, enda gerir hann meira en að nefna býlin því hann gefur þeim flestum einkunnir og fá þau sem byggilegust voru talin þrjár stjörnur.[8] Eitt þeirra var Bakkakot sem Olavius nefnir reyndar ekki með nafni en kallar nafnlaust kot, hjáleigu frá Mosvöllum.[9] Nafnið Bakkakot sem notað hafði verið 65 árum fyrr var þó engan veginn týnt því í heimild frá árinu 1805 er talað um Bakkakot í landi Mosvalla.[10]

Í bréfabók sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu sjáum við að árið 1841 er Gísli Þorláksson á Vífilsmýrum kominn með ráðagerðir um að reisa nýbýli á Kotunum.[11] Þessar hugmyndir Gísla náðu fram að ganga og vorið 1843 hóf hann hér búskap eins og áður var nefnt. Nýbýli sitt nefndi Gísli Bethaníu[12] en illa gekk að losna við Kotanafnið eins og hér verður síðar vikið að. Nafnið Bethanía er sem nærri má geta komið úr Biblíunni en svo hét heimabær systranna Mörtu og Maríu þar sem Jesú vakti bróður þeirra, Lazarus, upp frá dauðum.[13] Vart þarf að efa að nafngjöfin hafi átt að vísa til þess atburðar og frumbygginn Gísli hafi viljað líkja endurbyggingu hins forna eyðikots við hið furðulega kraftaverk þegar Lazarus, sem bæði var dáinn og grafinn, reis upp fyrir orð Jesú frá Nazaret. Í Jóhannesarguðspjalli segir að fjarlægðin frá Jerúsalem til Bethaníu sé um það bil fimmtán skeiðrúm[14] en sú vegalengd er aðeins 2775 metrar því 185 metrar eru í hverju skeiðrúmi. Bethaníu Biblíunnar mun því nú vera að finna inni í sjálfri Jerúsalem, ef að líkum lætur, því borgin hefur þanist út á þeim nær 2000 árum sem liðin eru frá því Lazarus var reistur upp frá dauðum.

Fyrsti landsdrottinn frumbyggjans hér í Bethaníu var séra Tómas Sigurðsson í Holti en þó öllu frekar séra Sigurður sonur hans sem í raun gegndi prestsembættinu á þessum árum þó hann að forminu til teldist aðeins vera aðstoðarprestur (sjá hér Holt). Holtskirkja átti Mosvelli og þar með nýbýlið Bethaníu því allt land sem ábúandinn á nýbýlinu fékk til umráða var í landareign Mosvalla þar til nýbýlið var reist. Gísli Þorláksson, sem fyrstur síðari tíma manna reisti bú hér á Kotunum, hefur því fengið heimild sína til þess hjá séra Sigurði Tómassyni er var flestum öðrum prestum sólgnari í brennivín og hér hefur áður verið frá sagt (sjá Holt). Vera má að hugmyndin um Bethaníunafnið sé líka komin frá séra Sigurði, enda vafamál hversu vel Gísli bóndi Þorláksson var lesinn í Biblíunni.

Í Jarðabók Johnsens frá árinu 1847 er getið um Bethaníu og tekið fram að þetta sé nýbýli en engar upplýsingar er þar að finna um dýrleika landsins, sem nýbýlinu fylgdi, né heldur með hvaða skilmálum byggingarleyfið var í té látið.[15] Í fasteignamatsskjölum frá því um 1920 er landskuldin hins vegar sögð vera ein ær[16] og vera má að svo hafi verið frá upphafi. Þá hefur landið, sem látið var fylgja Bethaníu, verið talið um 4 hundruð að dýrleika, það er einn sjötti af öllum Mosvöllum, því árið 1710 voru 6 ærgildi (eitt hundrað) greidd í landskuld af Mosvöllum[17] og árið 1847 var sú landskuld óbreytt fyrir Mosvelli að meðtöldu nýbýlinu.[18] Árið 1920 voru Mosvellir hins vegar virtir á 3.800,- krónur, landverð, en Bethanía á 1.000,- krónur[19] sem svarar til þess að land Bethaníu hafi talist 5 hundruð að dýrleika því áður en nýbýlið var reist voru Mosvellir 24 hundruð (sjá hér Mosvellir). Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt mun óhætt að slá því föstu að landið sem nýbýlið fékk í sinn hlut hafi verið metið á a.m.k. fjögur hundruð en hins vegar varla á meira en fimm eða sex hundruð. Sex leiguær, það er eitt kúgildi, fylgdu Bethaníu á árunum kringum 1920[20] og má telja mjög líklegt að svo hafi verið frá upphafi.

Gísli bóndi Þorláksson, sem fyrstur síðari tíma manna reisti bú á Kotunum, var fæddur árið 1803[21] og var því alveg um fertugt þegar hann fluttist hingað. Kona hans, sem hét Halldóra Sigurðardóttir, var á sama aldri og bæði voru þau Önfirðingar aö uppruna.[22] Áður en Gísli og Halldóra stofnuðu nýbýlið höfðu þau búið í nokkur ár á Vífilsmýrum.[23] Þar bjuggu þau á 6 hundruðum árið 1837 með eina kú, tólf ær og þrjá gemlinga.[24] Gísli og Halldóra eignuðust 12 börn en mörg þeirra dóu ung.[25] Haustið 1845 voru þau hér á Bethaníu með 5 börn á lífi.[26] Börnin voru þá á aldrinum 5 til 18 ára og annað fólk var ekki á heimilinu nema einn sextugur niðursetningur.[27] Þegar hér var komið sögu var farið að styttast í endalokin hjá Gísla því hann andaðist 17. febrúar 1847.[28] Ekkjan Halldóra fluttist skömmu síðar frá Bethaníu en hún lifði lengi og dó 86 ára gömul á Mosvöllum haustið 1889.[29]

Frá því Gísli Þorláksson reisti hér nýbýli vorið 1843 var nær alltaf búið á Kotum uns jörðin fór í eyði árið 1963.[30] Enginn bændanna sem hér hófu búskap náði þó að sitja á jörðinni í 20 ár nema Hannibal Hálfdánarson sem bjó hér frá 1912 til 1948 með konu sinni Guðrúnu Sveinsdóttur[31] frá Vífilsmýrum en þau hjónin voru systrabörn.[32] Síðustu áratugina sem hér var búið mun jörðin nær alltaf hafa verið nefnd Kot og ætíð var Hannibal sagður búa á Kotum. Bethaníunafnið hélst þó lengi í ýmsum opinberum gögnum og í manntölum eru nöfn þessi notuð sitt á hvað. Í manntölum frá árunum 1845, 1850, 1880, 1890, 1901, 1910, 1930 og 1950 heitir jörðin Bethanía eða Betanía en í manntölum frá 1860, 1920 og 1940 er hún nefnd báðum nöfnunum.[33] Í manntalinu frá 1870 er eingöngu að finna nafnið Kot.[34]

Eins og nærri má geta var búið jafnan í minna lagi á Kotum. Árið 1850 var bústofninn 1 kýr, 1 kálfur, 4 ær, 2 gemlingar, 4 lömb og einn hestur.[35] Bóndinn sem þá bjó hér hét Davíð Jónsson og heimilismenn hjá honum voru fimm.[36] Árið 1880 bjó hér Markús Ólafsson og var hann með 6 ær og 9 gemlinga en kýrlaus.[37]

Markús var sonur Ólafs Kolbeinssonar og Elínar Markúsdóttur[38] sem bjuggu lengi í Neðrihúsum í Hestsþorpinu (sjá hér Hestur). Eiginkona Markúsar var Guðrún Pálsdóttir frá Hóli í Firði, systir Guðmundar Pálssonar, bónda á Vöðlum[39] og síðar á Kirkjubóli í Bjarnardal. Þau Markús og Guðrún munu hafa verið barnlaus en ólu upp dreng sem hét Andrés Sófanías.[40] Magnús Hjaltason, hinn kunni dagbókaritari, sem fæddur var árið 1873 og ólst upp í Hestsþorpinu hér inni í Firðinum, kunni sögu af pilti þessum og Guðrúnu fóstru hans á Kotum. Magnús færði söguna í letur og hafði hana svona:

 

Þegar hann [Andrés] var um 16 ára gamall átti hann barn við vinnustúlku fósturforeldra sinna, Jónínu Guðmundsdóttur sem Jakob Lárus í Tungu vildi eiga. Var það piltur. Þá var séra Stefán P. Stephensen prófastur í Holti. Skýrði hann barnið þar á Bethaníu og spurði þá Andrés um faðerni þess á þessa leið: „Áttu barnið, Andrés?” – Andrés þagði, hafði ekki einurð á að svara. Svaraði þá fóstra hans til og mælti: „O, segðu já, barn.” Er það síðan haft að orðtaki.[41]

 

Í prestsþjónustubókinni frá Holti sést að barn Andrésar og Jónínu hefur fæðst 4. október 1882.[42] Barnið var drengur og 5 daga gamall var hann skírður Sófanías Friðrik.[43] Þegar sonurinn fæddist var Andrés 17 ára en átti þá fá ár ólifuð því hann andaðist tæplega tvítugur vorið 1885 og var þá við sjóróðra á Gelti í Súgandafirði.[44]

Um 1920 var talið að hér á Kotum mætti framfleyta tveimur kúm, sextíu kindum og tveimur hestum.[45] Útengi er þá sagt vera gott, nærlægt og grasgefið flæðiengi sem gefi af sér 240 hesta af heyi.[46] Af túninu fengust hins vegar ekki nema 30 hestar, enda var það lítið, mýrlent og lélegt.[47] Beitilandið var líka í minnsta lagi.[48] Baðstofan á Kotum var árið 1920 6 x 4 álnir[49] eða um það bil níu og hálfur fermetri. Önnur hús á jörðinni voru þessi: Búr, eldhús, tvö fjárhús, fjós, hlaða, hesthús, skúr og eldiviðarhús.[50] Svo mátti heita að nær öll húsin væru í eigu ábúanda en þó fylgdi einn sjöundi hluti þeirra jörðinni.[51]

Árið 1920 var kominn matjurtagarður á Kotum[52] og tíu árum síðar er hann sagður gefa af sér 5 tunnur af garðávöxtum.[53] Árið 1930 var búið að girða túnið en stærð þess töldu matsmenn þá aðeins vera 0,8 hektara.[54] Heyfall á útengjum var þá talið nokkru minna en gefið var upp tíu árum fyrr eða 175 hestar í stað 240.[55] Um þetta leyti var bústofninn á Kotum 2 kýr, 40 ær og 2 hestar.[56] Talsvert mun hafa verið unnið að húsabótum á Kotum á árunum milli 1920 og 1930 því um 1920 voru húsin sem þar stóðu virt á 600,- krónur en á 1.400,- krónur um 1930.[57] Árið 1963 fóru Kotin í eyði (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 364) en nokkru áður hafði verið reist á jörðinni íbúðarhús sem enn stendur. Gamli bærinn, sem fólkið á Kotum bjó í á fyrri hluta tuttugustu aldar, stóð talsvert ofar í túninu en þetta nýnefnda íbúðarhús.[58]

Frá hlaðinu á Kotum er gott að horfa yfir innsta hluta Önundarfjarðar, það er að segja Vöðin sem ná frá Holtsodda og inn að Kotum og þorna víðast hvar upp á fjörunni. Nú er útfall og leirarnir sem ná hér yfir stórt svæði að rísa úr sjó. Þarna er Kúhólmi, dálítið innan við Tannann. Hann er gróinn og sker sig því úr frammi á leirunum. Hann er um 600 metrar á lengd og mesta breidd um 200 metrar. Beint niður af bænum eru Kotahólmar, flæðiengið góða sem mátti kallast fóturinn undir búi bændanna á Kotum. Í Kotahólmunum sjáum við Hringanes niður undan túnhliðinu á Kotum en stór steinn úti í Vöðunum þar fyrir framan heitir Skrína.[59] Innan við Kotahólmana þrýtur leirana og við tekur hið gróna sléttlendi í Firðinum sem svo heitir fyrir botni Önundarfjarðar.

Um býlið forna, sem ætla má að staðið hafi yst í túni því sem nú fylgir Kotum, er harla fátt vitað en sterkar líkur benda til að nafn þess hafi verið Bakki (sjá hér bls. 1). Skálin sem gengur inn í fjallið fyrir ofan Kot heitir Hafradalur svo vera má að þeir sem fyrstir reistu bú hér undir Bakkafjallinu hafi átt nokkrar geitur og Geithús heitir reyndar kambur eða klettur sem rís milli tveggja gilja uppi í Hafradal og sýnist líkur húsi með strompi á þar sem hann ber við himin neðan frá þjóðveginum.[60] Gjáin sem skerst inn í klettavegginn uppi í Hafradal heitir Holugjá og er hún skammt frá Geithúsi.[61]

Frá Kotum að Vífilsmýrum er vegalengdin tæplega einn kílómetri og stefnan beint í austur. Þann spöl röltum við nú en Hafradalsáin, sem rennur með túnjaðrinum á Kotum, skiptir löndum milli þessara tveggja jarða eins og hér hefur áður verið nefnt.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sóknarmannatöl Holts í Önundarfirði.

[2] Hjördís Hjörleifsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 6.7.1995.

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 108-109.

[4] Sama heimild.

[5] Óskar Einarsson 1951, 103.

[6] Jarðab. Á. og P. VII, 108-109.

[7] Óskar Ein. 1951, 103.

[8] Ólafur Olavius 1964, 176-180.

[9] Sama heimild, 178.

[10] J. Johnsen 1847, 195.

[11] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. III. 3, bréfabók 1841-1844, mál nr. 1610.

[12] Manntal 1845.

[13] Biblíu – það er Heilög ritning, Jóhannes 11.

[14] Sama heimild.

[15] J. Johnsen 1847, 195.

[16] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[17] Jarðab. Á. og P. VII, 108.

[18] J. Johnsen 1847, 195.

[19] Fasteignabók 1921, 79.

[20] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 72.

[21] Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar.

[22] Sama heimild.

[23] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[24] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[25] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[26] Manntal 1845.

[27] Manntal 1845.

[28] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[29] Sama heimild.

[30] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[31] Sama heimild.

[32] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[33] Manntöl 1845-1950.

[34] Manntal 1870.

[35] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[36] Sama heimild.

[37] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[38] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[39] Lbs. 22384to, bls. 44 (Magnús Hjaltason).

[40] Sama heimild, bls. 27-28.

[41] Lbs. 22384to, bls. 27-28.

[42] Prestsþjónustubækur Holts í Önundarfirði.

[43] Sama heimild.

[44] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[45] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Fasteignabók 1932, 52.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Sama heimild.

[57] Fasteignabók 1932, 52. Fasteignabók 1921,79.

[58] Brynhildur Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 27.6.1994.

[59] Óskar Ein. 1951, 103. Brynhildur Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 27.6.1994.

[60] Óskar Ein. 1951, 103.

[61] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »