Bjarneyjar og Stagley

Bjarneyjar og Stagley

Bjarneyjar liggja syðst allra Vestureyja, sem í byggð hafa verið í tíð núlifandi manna, nær beint suður af Flatey, og er vegalengdin þangað frá Flatey sex til sjö sjómílur. Tæplega tveimur sjómílum sunnan við Bjarneyjar er svo Stagley en þar hefur engin byggð verið frá því á fyrstu árum 19. aldar.

Eggert Ólafsson segir um Bjarneyjar að þar sé fleirbýli og tekur fram að gott fiskiver hafi verið þar frá fyrstu tímum.[1]

Í Laxdælu er getið um Bjarneyjar og sagt að þangað hafi menn sótt mjög til veiðifangs og þar verið fjölmenni árið um kring, enda eyjarnar gagnauðugar.[2]

Einnig er Bjarneyja getið í Njálu. Þangað fór Þorvaldur Ósvífursson, bóndi á Staðarfelli á Fellsströnd, að vorlagi til að sækja bæði mjöl og skreið. Hann hafði þá verið kvæntur Hallgerði langbrók einn vetur og matföng tekin mjög að þverra í búri og skemmu því hin unga húsmóðir hafði allt í sukki. Ekki skildu þau Þorvaldur og Hallgerður með kærleikum er hann hélt út í Bjarneyjar, enda hafði hann svarað frýjuorðum hennar með kjaftshöggi vænu svo undan blæddi. Má þar kenna forboða kinnhestsins, er Hallgerður síðar hlaut, og frægastur varð í sögum. Er Þorvaldur hafði ýtt úr vör greip Þjóstólfur, fóstri Hallgerðar, öxi mikla, vafinskeftu, hratt öðru skipi á flot og veitti Þorvaldi eftirför út í Bjarneyjar. Þar hjó hann Þorvald banahögg og mun Hallgerður lítt hafa harmað víg þessa fyrsta eiginmanns sins og kom hún Þjóstólfi undan.[3]

Athygli vekur að höfundur Njálu gerir ekki aðeins ráð fyrir skreiðarbirgðum í eyjunum heldur líka mjölbirgðum. Ekki felur það í sér sönnun þess að akuryrkja hafi verið stunduð í Bjarneyjum á ritunartíma Njálu en er þó vísbending um að eðlilegt hafi þá verið talið að reikna með því. Á síðari öldum hét einn bærinn hér Gerðar[4] og gæti líka bent til þess að hér hafi verið akurgerði.

Í Bjarneyjum stóð byggðin á tveimur eyjum, Heimaey (eða Bæjarey) og Búðey. Milli Heimaeyjar og Búðeyjar skerst Vogurinn en miðhluti hans þornar nær alveg upp um stórstraumsfjöru. Er Heimaey norðan við Voginn en Búðey sunnan við hann. Í Bjarneyjum voru einhverjar bestu lendingar í Breiðafjarðareyjum, upp frá Vognum.

Á 17. öld og nokkuð fram á hina 18. stunduðu hollenskir duggarar fiskveiðar og launprang í stórum stíl hér við land.[5] Lengi vel var helsti verslunarstaður þeirra í Bjarneyjum.[6] Árið 1659 kom ekkert skip frá Danmörku til Íslands vegna ófriðar en fjöldi hollenskra skipa var þá við veiðar og verslun hér við land.[7] Danskur maður, Jonas Trellund að nafni, var þá búsettur í Amsterdam í Hollandi og fékkst þar við verslun. Þetta ár kom hann til Íslands og lét reisa hús í Bjarneyjum[8] en mikill fjöldi skipa sótti þá sjó þaðan.

Árið eftir, 1660, gerðist Guðmundur Steindórsson, sýslumannssonur frá Ingjaldshóli undir Jökli, kramari Hollendinga í Bjarneyjum og voru þar margir Hollendingar með honum.[9] Þetta ár fékk Jonas Trellund heimild konungs til að mega leita hafnar hvar sem væri á Íslandi og reisa þar hús til að geyma í fisk og lýsi.[10] Trúlega hefur það verið þess konar hús sem Trellund lét reisa í Bjarneyjum árið áður. Upp úr þessu fluttist Jonas Trellund frá Amsterdam heim til Danmerkur og 1662 fékk hann einkaleyfi til verslunar á öllu kaupsvæði Stykkishólmsverslunar og víðar og hafði þannig náð einkarétti á fiskkaupum í Bjarneyjum og Oddbjarnarskeri.[11]

Upp úr þessu var farið að taka enn harðar en áður á öllum samskiptum við hollenska duggara og aðra utanríkismenn. Þannig var Árni Pétursson úr Barðastrandarsýslu dæmdur í stóra og alvarlega húðlátsrefsingu á Alþingi 1677 fyrir að vísa hollensku skipi leið inn á Flateyjarhöfn og fyrir að flytja þess engelska ófríhöndlara Samuel Banfelds góss úr Bjarneyjum upp á Barðaströnd.[12]

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín eru 50 formenn sagðir hafa róið frá Bjarneyjum árið 1703 og eru þeir allir taldir upp. Um það bil 30 þessara formanna eru tollversmenn en hinir eru heimamenn í Bjarneyjum. Stærstu bátar, sem þá eru gerðir út frá Bjarneyjum, voru sexæringar en hinir minnstu þriggja manna för.[13] Vertollurinn var um þessar mundir tvöfalt hærri í Bjarneyjum en í Oddbjarnarskeri eða 20 kíló af harðfiski (hálf vætt) fyrir hvern útróðrarmann og sama magn fiskjar fyrir bátinn. Heimamenn í Bjarneyjum þurftu þó ekki að greiða tollinn.[14] Í Jarðabókinni má sjá að í byrjun 18. aldar gerðu Dalamenn út a.m.k. 16 báta úr Bjarneyjum  og voru flestir þeirra eign bænda á Skarðsströnd. Fimm skip voru þá hér við róðra úr Svefneyjum, Sviðnum og Skáleyjum.

Um og fyrir aldamótin 1700 höfðu Stykkishólmskaupmenn jafnan sendimenn í Bjarneyjum og Flatey og keyptu fiskinn blautan en létu salta á staðnum.[15] Á þeim árum fengu Stykkishólmskaupmenn þvílíkt magn af fiski úr Breiðafjarðareyjum að Stykkishólmshöfn var talin með fiskihöfnum. Eftir stórubólu 1707 hnignaði mjög sjósókn úr eyjunum og var þá farið að telja Stykkishólm með sláturhöfnum.[16]

Í Jarðabók Árna og Páls eru Bjarneyjar taldar 40 hundruð að dýrleika og sagðar eign Staðarhólskirkju í Saurbæ árið 1703.[17] Hið sama er tekið fram í sóknarlýsingu séra Ólafs Sívertsen frá árinu 1840[18] Mun Staðarhólskirkja hafa átt Bjarneyjar öldum saman. Í Vilkinsmáldaga frá 1397 er frá því greint að Ólafur tóni Þorleifsson, dáinn 1393, sem bjó á Staðarhóli og víðar á síðari hluta 14. aldar, hafi gefið kirkjunni hálfar Bjarneyjar.[19]

Í byrjun 18. aldar voru átta býli í Bjarneyjum en að auk bjuggu hér fjórir þurrabúðarmenn og sjö húsmenn eða húskonur. Alls voru íbúarnir 87.[20] Um þurrabúðirnar segir í Jarðabókinni að þær hafi byggst upp úr vermannabúðum og séu svo kaldar á veturna að búðarmenn verða þær að flýja og koma sér niður í búendanna húsum, hvar þeir kunna.[21] Auk þurrabúðanna voru þá 18 vermannabúðir í Bjarneyjum, þar af fjórtán á Heimaey og fjórar á Búðey. Algengt hefur þá verið að tvær skipshafnir væru um hverja búð.

Fjögur grasbýlanna voru á Heimaey og fjögur á Búðey í byrjun 18. aldar.[22] Allt var það óbreytt lengi síðar og um aldamótin 1900 voru enn átta bændur í Bjarneyjum.[23]

Séra Ólafur Sívertsen nefnir býlin með nafni í sóknarlýsingu sinni frá 1840 og voru nöfnin þessi, talið frá austri til vesturs:

 

Á Heimaey: Rófubúð, Bærinn, Lágabúð og Gerðar.

Á Búðey: Innstabúð, Magnúsarbúð, Miðbúð og Ystabúð.

 

Af þurrabúðunum fjórum, sem um er getið í Jarðabók Árna og Páls,  er ein nefnd með nafni. Er það Skarðsbúð sem var á Búðey og sögð eign Skarðskirkju.[24] Í heimildum frá síðari tímum er ennfremur getið býla eða búða í Bjarneyjum er svo hétu: Nýhús, Háahjallsbúð, Finnsbúð og Sigmundarkofi, sem voru á Heimaey, en á Búðey: Benediktsbúð.[25] Lending fylgdi hverju býli og elstar þeirra voru taldar Krossvör á Heimaey og Sveinsvör á Búðey.[26]

Bænhús stóð í Bjarneyjum fram á 18. öld og í byrjun þeirrar aldar var embættað hér tvisvar á ári, vor og haust.[27] Sagt er að bænhúsið hafi staðið norðarlega á Hólavelli á Heimaey en völlur þessi nær frá rústum bæjarhúsanna norður á Valabjörg.[28] Til skamms tíma hefur mátt merkja hvar bænhúsið stóð. Líklega hefur það verið í bænhúsinu sem séra Þorkell Guðnason, prestur á Skálmarnesmúla 1788-1809, spurði kerlingu eina við húsvitjun í Bjarneyjum hvað boðið væri í öðru boðorðinu og fékk frá annarri svarið: Það er að drýgja hór í guðs nafni.[29]

Bændur í Bjarneyjum voru leiguliðar Staðarhólskirkju og hvíldu á þeim ýmsar kvaðir á fyrri tíð. Til dæmis varð hver bóndi að leggja til mann fjórum sinnum á ári í landferð til Stykkishólms, upp í Skarðsstöð eða á Tjaldanessand í Saurbæ. Sumir af bændunum ljá og oftar mann en 4 sinnum, þótt það ei áskilið sé, ne dominum fundi offendant, segir í Jarðabók Árna og Páls, það er til þess að móðga ekki landsdrottin sinn.[30]

Um 1840 var fiskilítið á Bjarneyjarmiðum og reru héðan aðeins 15 skip á vorvertíð. Af formönnunum fimmtán voru ellefu heimamenn í Bjarneyjum.[31] Þrátt fyrir tregan afla héldu Bjarneyingar samt uppi róðrum meginþorrann úr árinu eða frá páskum til jóla. Vertollar voru þá helmingi lægri en verið hafði í byrjun 18. aldar eða tíu gildir fiskar af hverjum báti og hverjum sjómanni.[32] Gat þetta þó farið nokkuð eftir aflabrögðum. Í sóknarlýsingu séra Ólafs Sívertsen frá árinu 1840 eru talin upp 70 fiskimið frá Bjarneyjum en héðan var stutt til miða og Kolluállinn ekki langt undan. Eitt miðanna var Dílarifið þar sem oft fiskaðist vel: Tjaldaneshyrna á Vatnseyjargarði og Díllinn á Elliðaeyjarbjargi.[33]´

Ýmsir merkismenn voru við sjóróðra í Bjarneyjum á fyrri öldum. Jón lærði kveðst t.d. hafa verið hér á vertíðinni 1607 og þá hafi sést hér sjódýr, sem enginn þekkti nema hann.[34]

Um það bil öld síðar var peningasmiðurinn Tindala-Ími við róðra í Bjarneyjum. Hann lagðist til sunds í Vognum milli Heimaeyjar og Búðeyjar, ætlaði að sækja nafar. Kom þá selur að og vildi éta Íma. Barðist hann við selinn á sundi og kvaðst aldrei svo voðalega hafa verið staddur sem í þetta sinn.[35] Árið 1712 var Íma lýst á Alþingi við Öxará á þessa leið:

 

Lágur að vexti, þó grannvaxinn, gengur nokkuð lotinn um mittið, dökkur á hár og brá, lítt sprottið skegg, þó rakað, með dökkvan blóðfarva í andliti, þó nokkuð mislitan, einkum þá kalt er, smáfelldur, þó nokkuð langleitur, með ljósgrá augu, nokkuð feiminn, með lítið hár, snýst nokkuð í lokka neðan, fylgir kraga, tekur laust í hönd þá heilsar, lágtalaður nokkuð, hægur í sinni, hagur og fjölhæfur, syndur sagður, lyginn og sjálfhælinn (sem sannbevisað verður).[36]

 

Tilefni lýsingarinnar var ákæra á hendur Íma fyrir þjófnað og smíði falskra tindala. Fjórtán árum síðar var Ími loks dæmdur sýkn saka á Alþingi 1726.[37] Nafninu Tindala-Ími hélt hann þó og hefur líklega verið um skeið í Bjarneyjum meðan réttvísin var á hælum hans, a.m.k. fullyrðir sækjandi málsins við lokaréttarhaldið að Ími hafi róið til fiskjar á þeim árum.

Um sjósókn frá Bjarneyjum á nítjándu öld og slysfarir við róðra héðan hefur margt verið skráð, m.a. í ritinu Breiðfirskir sjómenn eftir Jens Hermannsson skólastjóra. Hér er ekki rúm til að rekja þær frásagnir en minnt skal á sægarpinn Gísla Gunnarsson sem átti heima í Bjarneyjum 1852-1856 og drukknaði haustið 1868 er Ólsi týndist með allri áhöfn.[38] Einhverjar eftirminnilegustu slysfarir sjómanna frá Bjarneyjum urðu í aprílmánuði árið 1800. Týndust þá þrjár skipshafnir frá Bjarneyjum sama daginn og ein þeirra með býsna sérkennilegum hætti. Bjarni Bjarnason, sem bjó á Vonarvöl í Flatey, var einn formannanna er þá reru úr Bjarneyjum. Hann var 66 ára að aldri og allir voru skipsmenn hans rosknir menn, enginn yngri en hálfsjötugur. Bjarni hreppti erfiðan hrakning á Breiðafirði í fárviðrinu þennan dag og náði ekki landi í Bjarneyjum. Skip hans fannst hins vegar mannlaust vestan undir Kirkjufelli í Grundarfirði. Þar hafði það verið sett á land snyrtilega umbúið og lá baukur Bjarna á langbandinu.[39] Af áhöfninni, öldungunum fimm, sást hins vegar aldrei tangur eða tetur og þótti kynlegt, því augljóst virtist að þeir hefðu náð land og sett upp skipið. Var talið að þeir hefðu allir sokkið í sandkviku þar í vaðlinum við Kvíaós.

Sonarsonur Bjarna þess sem hér var getið var Jóhannes Magnússon, einn kunnasti bóndi og formaður í Bjarneyjum á 19. öld. Hann er sagður hafa verið Dritvíkurformaður í 40 vertíðir og stundaði líka hákarlaveiðar á teinæring sínum, Sæmundi.[40] Í hákarlalegur var farið um miðsvetrarleytið en vertíð í Dritvík hófst í góulok[41] (sjá hér Svefneyjar). Tvívegis hlaut Jóhannes verðlaun frá Framfarastiftuninni í Flatey, í annað skiptið fyrir sýndan dugnað í formennsku, bústjórn og barnauppeldi en í hitt skiptið fyrir heppið og alúðarfyllsta framhald í hinu fyrrtalda sem og snoturri bæjarbyggingu.[42] Var hann talinn sómi Bjarneyinga.

Ekki þóttu Bjarneyjar vel fallnar til landbúskapar en fyrir utan góð skilyrði til sjósóknar höfðu bændur hér nokkur hlunnindi af fugli og sel. Í Jarðabók Árna og Páls er sagt að 14 kýr og ein kvíga séu í Bjarneyjum en tekið fram að flytja verði kýrnar í land á sumrin og kaupa þeim haga.[43] Um kýrnar í Bjarneyjum undir lok 18. aldar segir Magnús Ketilsson, sýslumaður Dalamanna, að þær hafi fjórðung, þriðjung eður helming fóðurs af söl og öðrum þarakynjum. Fái þær gott hey með eigi þær að geta mjólkað 12 merkur í mál.[44] Árið 1840 var talið að í Bjarneyjum mætti fóðra fjórar kýr og eitt naut en þó yrði að gefa með beitinni yfir sumarið.[45] Slægjur leigðu Bjarneyingar oft hjá Dalamönnum. Í Dalasýslu sóttu þeir líka eldsneytið og flutti þangað búfé sitt til hagagöngu.[46]

Brunnar vor nokkrir í Bjarneyjum og þraut aldrei vatn í Sóta á Heimaey.[47] Nafnið gæti hins vegar bent til þess að það vatn hafi ekki ætíð verið silfurtært. Á Búðey voru þrír brunnar. Hét einn þeirra Latur,[48] líklega eitthvað tregari á vatnið en Sóti.

Árið 1703 voru um 240 sjómenn í Bjarneyjum á vertíðinni, flestir þeirra vermenn. Í Bjarneyjum áttu þá heima 85 manneskjur.[49] Líklega hefur verið enn fjölmennara hér áður,  meðan umsvif Hollendinga og síðar Jonasar Trellund voru í hámarki. Árið 1845 voru íbúar Bjarneyja 77[50] en nú býr hér enginn maður. Síðasti íbúinn flutti burt 1947. Enginn ýtir báti á flot úr Krossvör né hagræðir þar fornum steinum. Áraglamm heyrist ekki lengur úti á Vognum og grasið grær yfir sjávargötuna. Á sveimi er minningin ein um sægarpana mörgu, konur þeirra og börn, Tindala-Íma á sundi og Þjóstólf með öxina reidda.

 

Stagley er syðst allra Vestureyja og eru þangað rösklega tvær sjómílur frá Bjarneyjum, beint í suður. Í byrjun 19. aldar bjuggu tveir bændur og fjölskyldur þeirra í Stagley[51] en skömmu síðar lagðist byggð niður í eynni og hefur enginn búið þar síðan. Séra Ólafur Sívertsen segir að Bjarneyingar hafi tekið Stagley á leigu er hætt var að búa þar en eigandi Stagleyjar var Reykhólakirkja.[52]

Ekki verður nú vitað með vissu hversu lengi byggð stóð í Stagley. Fullvíst má telja að þar hafi engin byggð verið árið 1229 því þá hafði Sturla Sighvatsson á Sauðafelli í Dölum þar naut sín[53] og drápu Þorvaldssynir úr Vatnsfirði þar uxa hans.

Nokkrar líkur benda til að byggð hafi verið í eynni á síðari hluta 16. aldar en þá er Stagleyjar getið meðal eigna Reykhólakirkju.[54] Í Jarða- og ábúendatali Skálholtsbiskupsdæmis frá árinu 1681 er getið tveggja bænda í Stagley[55] og í manntalinu frá 1703 eru 14 manneskjur skráðar í Stagley en þá var þar einn húsmaður auk tveggja bænda.[56]

Í manntölum frá 18. öld er jafnan getið búandi fólks í Stagley og má ætla að í eynni hafi veri búið alla eða nær alla þá öld. Þar mátti fóðra tvær kýr og eitt ungneyti, að sögn Árna Magnússonar.[57] Stagleyingar hafa vafalaust lifað mest á sjó eins og grannar þeirra í Bjarneyjum, enda þótt skipalending og setning skipa sé sögð bæði erfið og háskasamleg í Stagley.[58]

Séra Ólafur Sívertsen skráir að það hafi verið háttur Stagleyinga að veiða æðarfugl í net er fuglinn flokkaði sig í vetrarhretum þúsundum saman í Stagleyjargjögri. Segir prestur Stagleyinga hafa veitt þannig fjögur eða fimm hundruð fugla í senn og hafi þótt öllu betur aðfara með varphlunnindi í Eyjahreppi eftir að Stagley lagðist í eyði.[59]

Séra Ólafur lýsir Stagley svo að hún sé því nær kringlótt í lögun. Bæjartóttirnar segir hann vestanvert á eynni miðri en lendingarmyndin liggur þar suður undan, kallast Pollur, hvar eð er, eins og kringum alla eyjuna, klettaurð með sífelldum brimsjó og öldukasti.[60]

Bergsveinn Skúlason, sem skrifar um Stagley upp úr 1960, segir húsarústir þar enn greinilegar og sem nærri má geta stóran öskuhaug skammt frá rústunum.[61]

Eitthvað virðist nafnið á Stagley hafa bögglast fyrir lærðum mönnum. Árni Magnússon segir að sumir vilji meina hún heiti Tagley og séra Ólafur Sívertsen talar um Stagley eður Stakey. Án vafa hafa ýmsir reynt að leita skýringar á nafninu en hér verður ekki farið út í þá sálma.

 

 

[1] Eggert Ólafsson 1975 I, 220.

[2] Ísl. fornrit V, 29.

[3] Ísl. fornrit XII, 33-35.

[4] Sóknalýs. Vestfj. I, 167.

[5] Jón J. Aðils 1971, 579 og 611.

[6] Annálar III, 203 og 216-217. Þorv. Thoroddsen 1892-1894/ Landfræðisaga Íslands II, 8.

[7] Jón J. Aðils 1971, 589.

[8] Sama heimild, 111-112.

[9] Sama heimild, 593.

[10] Sama heimild, 112.

[11] Sama heimild, 120.

[12] Alþingisbækur Íslands VII, 374-375.

[13] Jarðab. Á. og P. VI, 236-237.

[14] Sama heimild, 235.

[15] Jón J. Aðils 1971, 282.

[16] Jón J. Aðils 1971, 282-283.

[17] Jarðab. Á. og P. VI, 232.

[18] Sóknalýs. Vestfj. I, 166.

[19] Dipl. isl. IV, 156. Ísl. æviskrár IV, 91.

[20] Jarðab. Á. og P. VI, 234-236.  Manntal 1703.

[21] Jarðab. Á. og P. VI, 235.

[22] Sama heimild, 232.

[23] Bergsv. Skúlason 1964, 197.

[24] Jarðab. Á. og P. VI, 235.

[25] Bergsv. Skúlason 1964, 187 og 193.

[26] Sóknalýs. Vestfj. I, 167 og 168.

[27] Jarðab. Á. og P. VI, 232.

[28] Bergsv. Skúlason 1982, 168.

[29] Þjóðsögur J.Á. V, 343-344.

[30] Jarðab. Á. og P. VI, 233.

[31] Sóknalýs. Vestfj. I, 170.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild, 173. Sbr. þar bls. 170-175.

[34] Þjóðsögur J. Á. II, XX.

[35] Vestfirskar sagnir III, 224.

[36] Alþingisbækur Íslands X, 78.

[37] Alþingisbækur Íslands XI, 315-318.

[38] Jens Hermannsson 1976, 231-243 (Breiðfirskir sjómenn I).

[39] Sami 1977, 50 (Breiðfirskir sjómenn II).

[40] Jens Hermannsson 1977, 44-47 (Breiðfirskir sjómenn II).

[41] Bergsv. Skúlason 1982, 66 og 68.

[42] Sama heimild 109.

[43] Jarðab. Á. og P. VI, 233-234.

[44] Rit þess ísl. Lærdómslistafélags VII, 99-100 – Kph. 1787.

[45] Sóknalýs. Vestfj. I, 169.

[46] Bergsv. Skúlason 1974, 191.

[47] Sami 1964, 190.

[48] Sóknalýs. Vestfj. I, 168.

[49] Manntal 1703.

[50] Manntal 1845.

[51] Manntal 1801.

[52] Sóknalýs. Vestfj. I, 175.

[53] Sturlungasaga II, 180.

[54] Dipl. isl. XV, 120-121 og 589.

[55] Bergsv. Skúlason 1964, 201.

[56] Manntal 1703.

[57] Jarðab. Á. og P. VI, 245.

[58] Sama heimild, 246.

[59] Sóknalýs. Vestfj. I, 175.

[60] Sama heimild, 176.

[61] Bergsv. Skúlason 1964, 204.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »