Borg

Frá landamerkjunum á Meðalnesi liggur leið okkar um Mjólkárhlíð að eyðibýlinu Borg við fjarðarbotninn. Bærinn stóð þar í fornu túni skammt fyrir norðan Mjólká[1] sem í Jarðabókinni frá 1710 er nefnd Mjólkurá.[2] Hér hefur litur vatnsins ráðið nafni árinnar. Upp úr miðri öldinni sem nú er að ljúka var hafist handa við virkjun Mjólkár og hér stendur nú stærsta orkuver Vestfjarða en síðan 1960 hefur enginn bóndi búið á jörðinni.[3]

Nær beint upp frá gamla bæjarstæðinu á Borg ber við himin klettaborg sem ætla má að jörðin sé kennd við. Brún hennar er bogadregin og heitir Borgarbogi.[4] Land Borgar liggur fyrir botni Arnarfjarðar en innfjörðurinn sem kenndur er við Borg er tveir kílómetrar á breidd og fjórir til fimm kílómetrar á lengd. Hér við Borgarfjörð voru á síðari öldum aðeins tvær jarðir í byggð, Borg og Rauðsstaðir, en áður voru þær fjórar. Hófsá, sem fellur til sjávar um 800 metrum norðan við Borg, skiptir löndum milli Borgar og Rauðsstaða en dalinn gróðursæla, beggja vegna árinnar, nefna Arnfirðingar Fjörð.[5]

Borg í Arnarfirði var að fornu mati talin 12 hundraða jörð.[6] Séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri segir árið 1839 að þetta sé „ekki slæm jörð“, nægur skógur en heldur lítið um gras.[7] Til hlunninda telur hann silungsveiði í Hófsá, fjallagrös og geitaskófir.[8] Borgar er fyrst getið í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar,[9] sem talið er að hafi verið rituð um miðja 13. öld og er þar sagt frá atburðum sem gerðust fáum áratugum fyrr. Að sögn höfundar sögunnar bjó þá á Borg frænka Hrafns á Eyri, Ástríður Gunnarsdóttir.[10] Sá hún til ferða Þorvaldar Vatnsfirðings og manna hans er þeir komu „ofan á heiðarbrún í Arnarfjarðarbotni“ í hinni fyrstu aðför Þorvaldar að Hrafni og sendi þá son sinn út að Eyri til fundar við hann „að segja honum mannaferð“.[11]

Í Gísla sögu Súrssonar er á einum stað frá því greint að Bjartmar, afi Auðar Vésteinsdóttur, konu Gísla, hafi byggt í Arnarfjarðarbotni „bæ þann er í Eyju heitir“.[12] Væri Gísla saga eina heimildin um fornbýlið Ey eða Eyju þætti hún líklega ekki marktæk. Svo vill hins vegar til að varðveist hefur sáttargerð sem gengið var frá á Brjánslæk sumarið 1551 en með henni var Torfa nokkrum Sigfússyni gert skylt að greiða kóngi „fjögur sex hundraða kot … í Rafnseyrarkirkjusókn … Borg og Rauðsstaði og tvö eyðikot hér til, Skjaldfönn og Ey.“[13] Skjalið tekur af öll tvímæli og hundraðatalan passar sé gert ráð fyrir að Skjaldfönn hafi verið lögð undir Rauðsstaði og Ey undir Borg.[14] Í Jarðabókinni frá 1710 er líka getið um Eyjarkot í landi Borgar og sagt talið að þar hafi byggð verið í „fyrndinni“ en það land nú „að mestu af brotið og eyðilagt af Hófsá“.[15] Allt sýnir þetta að bærinn Ey hefur staðið við Hófsá eða á hólma í ánni.[16] Kunnugir gátu líka nokkuð lengi vísað mönnum á Eyjarsel og örnefnið Eyjarselsteigar lifir enn, en svo heita „engjadrög með ánni“ þar sem landið fer að hækka fyrir framan Skagabjarnarhól[17] sem er mjög stór og kallar á athygli vegfarenda.

Til er vitnisburðarbréf, dagsett „á Ey“ í Arnarfirði árið 1508.[18] Það skjal er talið vera falsað[19] svo óljóst verður að teljast hvort búið hafi verið „í Eyju“ í byrjun 16. aldar. Ólíklegt er þó að jörðin hafi fallið í eyði mjög löngu fyrr því árið 1551 var hún enn talin til bújarða eins og fyrr var nefnt. Í Jarðabókinni frá 1710 er getið um annað „fornt eyðiból“ í landi Borgar og hét það Mjólkárkot.[20] Nafnið sýnir að býli þetta hefur verið í nánd við Mjólká. Blettur utan við ána heitir enn Kot og þar eru Kothjallar og Kotlækur.[21] Vera má að bú hafi fyrst verið reist í Mjólkárkoti er Ey var fallin í auðn.

Um 1440 var Borg í eigu Guðmundar ríka á Reykhólum Arasonar og var jörðin dæmd með öðrum eignum hans undir konung árið 1446.[22] Þrjár jarðanna í Borgarfirði, Rauðsstaðir, Skjaldfönn og Borg, voru þá taldar 12 hundruð að dýrleika hver[23] en 6 hundruð árið 1551 eins og fyrr var nefnt, hvað sem valdið hefur þessari breytingu. Eignir Guðmundar Arasonar seldi kóngur Birni hirðstjóra Þorleifssyni árið 1462[24] en jarðirnar sem hér voru síðast nefndar eignaðist hans hátign að nýju árið 1551.[25] Þaðan í frá var Borg kóngsjörð uns hún var seld 24. mars árið 1841.[26]

Annar tveggja landseta konungs hér á Borg árið 1801 hét Páll Pálsson og var kvæntur Salgerði Tómasdóttur.[27] Bóndi þessi var nefndur Páll rauði og segir Gísli Konráðsson að hann hafi verið nokkuð fingralangur en svo fóthvatur að erfitt var að ná honum.[28] Þau Páll og Salgerður eignuðust þrjár eða fleiri dætur og hét ein þeirra Ragnheiður, fædd um 1790.[29] Haustið 1823 var hún dæmd til dauða á Fífustöðum í Arnarfjarðardölum fyrir að hafa svipt lífi sitt eigið barn er hún fæddi á laun á Fossi í Suðurfjörðum.[30] Í hæstarétti var dómnum breytt í ævilangt fangelsi[31] og var Ragnheiður send til Kaupmannahafnar að taka þar út sína refsingu,[32] líklega í kvennafangelsinu sem nefnt var Spunahúsið. Í því betrunarhúsi varð fáum langra lífdaga auðið.[33]

Árið 1816 bjuggu hér á Borg Guðrún Jónsdóttir, sem nefnd var Guðrún skálda, og eiginmaður hennar, Grímur Jónsson.[34] Hún var þá 49 ára en hann 36 ára. Liðlega tveimur áratugum fyrr var Guðrún laus og liðug og eignaðist þá dreng með kvæntum presti, séra Jóni Sigurðssyni á Rafnseyri, afa Jóns forseta. Sá piltur var skírður Þórður og „kenndur Tómasi nokkrum í Arnarfirði“.[35]Sonur Þórðar og sonarsonur Guðrúnar skáldu var Kristján Þórðarson er bjó alllengi á Kjaransstöðum í Dýrafirði en hann andaðist árið 1877.[36]

Guðrún skálda var fædd á Þverá í Barðastrandarhreppi en á efri árum dvaldist hún lengi í Stapadal.[37] Hún var „haldin ákvæðaskáld og heit í anda“.[38]Guðrún var rímnakona en orti líka formannavísur um þá sem reru frá Kópavík.[39] Þrjár af rímum hennar hafa varðveist og eru það Rímur af Bragða-Mágusi, Rímur af Snæ konungi og Blómsturvallarímur.[40] Síðastnefndu rímurnar orti hún fyrir nágranna sinn, Benedikt Gabríel Jónsson á Rauðsstöðum, sem margir töldu fjölkunnugan. Eru þær tólf að tölu og upphafið svona:[41]

 

Viðris hanar vakna tveir

viður sólarhvörfin.

Veiði Grana girnast þeir

gleði jóla, störfin.

 

Að líkindum hafa gleði og gamanmál ekki alltaf verið skorin við nögl í Arnarfjarðarbotni þegar Guðrún skálda og Benedikt Gabríel léku hér listir sínar og könkuðust á.

Sá maður sem lengst bjó á Borg á öldinni sem leið var Kristján Guðmundsson,[42] annálaður kraftamaður og sjóhetja.[43] Hann fæddist á Auðkúlu um 1812 og ólst þar upp hjá afa sínum og ömmu, Guðmundi Arasyni og Guðbjörgu Sæmundsdóttur.[44] Eiginkona Kristjáns var Guðbjörg, dóttir séra Markúsar Þórðarsonar á Álftamýri.[45] Þau fengu Borg til ábúðar vorið 1842[46] og keyptu jörðina um svipað leyti.[47] Á vorin reri Kristján jafnan frá Verdölum og hafði lengi uppsátur í Ystadal, þar sem heitir Bás.[48] Róðurinn í verið var ærið langur, út allan Arnarfjörð, en við áratogin mun fáum hafa hentað að etja kappi við bóndann á Borg.[49] Synir hans urðu sumir skútuskipstjórar og þóttu bera af flestum að þreki og dug (sjá Auðkúluhreppur og Stapadalur). Af styrkri rót sprettur tíðum viðkvæm jurt og svo fór hér, því eitt barnabarna Kristjáns á Borg var Magnús Hjaltason, sonur Friðriku saumakonu, alþýðuskáldið og dagbókarskrifarinn sem lagði Halldóri Laxness til margvíslega drætti í Ljósvíkinginn, Ólaf Kárason.

Kristján á Borg varð gamall maður. Hann andaðist snögglega snemma á einmánuði árið 1888 og var þá að bera sveitunga sinn til grafar á Rafnseyri.[50] Magnús Hjaltason segir frá því að á búskaparárum afa síns á Borg hafi örn tekið hér tveggja ára stúlku, Önnu Guðmundsdóttur, og flogið með hana í klónum yfir Borgarfjörð þar sem feðgarnir Kristján Guðmundsson og Kristján sonur hans náðu að bjarga barninu.[51] Söguna hafði Magnús eftir móðursystur sinni, Vigdísi Kristjánsdóttur, sem var hér heimasæta þegar atburðurinn skeði,[52] árið 1872.[53]

 

 

[1] ÞN 1951, 158 (Árbók F.Í.).

[2] Jb. Á. og P. VII, 11.

[3] Firðir og fólk 1900-1999, 116.

[4] ÖÖ.

[5] ÞN 1951, 156.

[6] Jb. Á. og P. VII, 11.

[7] Sóknalýs. Vestfj. II, 20 og 33.

[8] Sama heimild.

[9] Sturl. I, 420.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Ísl. fornrit VI, 37. Sbr. þar VI, 15 og I, 177–181.

[13] D.I. XII, 299–301.

[14] Sbr. Jb. Á. og P. VII, 10–11.

[15] Jb. Á. og P. VII, 10–11.

[16] Sbr. SV 1883, 38 (Árbók Hins ísl. fornl.félags).

[17] ÖÖ.

[18] D.I. VIII, 193–196. Sbr. Lbs. 39224to. Greinarg. SGB, dags. 14.4.1890.

[19] D.I. VIII, 193–196.

[20] Jb. Á. og P. VII, 10.

[21] ÞN 1951, 158. ÖÖ.

[22] D.I. IV, 691.

[23] Sama heimild.

[24] AS 1975, 107–113.

[25] D.I. XII, 299–301.

[26] Jb. Á. og P. VII, 11. Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. JJ 1847, 191, 435 og 440.

[27]  Manntal 1801.

[28] Lbs. 1288 4to. Blanda V, 71–77.

[29] Manntal 1801.

[30] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar í ísl. málum 1802–1873 II, 408–412.

[31] Sama heimild, bls. 422–423.

[32] Blanda V, 76.

[33] BThB 1961, 215–217.

[34] Manntal 1816. Þjóðs. JÁ I, 594–595. Sbr. Ísl. æviskrár III, 295–296.

[35] Ísl. æviskrár III, 263.

[36] Lbs. 23684to. SGB Prestaæfir XI, bls. 47. Sbr. Manntal 1816, 681–682.

[37] Manntal 1816, 681. Ísl. æviskrár III, 263 og 295–296. Sjá Stapadalur.

[38] Þjóðs. J.Á. I, 594–595.

[39] ÍB 783.8vo    Vestfirskar sagnir I, 236 . Ægir 1926, 93 og 136.

[40] FS 1966 I, 84, 88 og 445. Sbr. sama rit 1966 II, 56–57.

[41] FS 1966  I, 84.

[42] Smt. Rafnseyrar.

[43] ÞErl 1954, 13–14, 22 og 25–29.

[44] Smt. Rafnseyrar. Manntal 1816, 683. Vestf. ættir I, 76.

[45] Ísl. æviskrár III, 475.

[46] Smt. Rafnseyrar.

[47] JJ 1847, 191.

[48] GÁ 1953, 31–32 (Frá ystu nesjum VI).

[49] HO 1958, 91 (Ársrit S.Í.).

[50] ÞErl 1954, 27–29. Lbs. 23744to. Dagb. SGB 2.4.1888.

[51] Lbs. 22354to. MHj, bls. 334–335.

[52] Lbs. 22354to. MHj, bls. 334–335.

[53] Smt. og prþjb. Rafnseyrar og Otradals. Sbr. Eylenda 1996 I, 39.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »