Breiðavík

Um landslag og allt náttúrufar er margt líkt með Breiðavík og Látravík. Gróður er þó meiri í Breiðavík og nær lengra inn til landsins. Við ströndina er allt þakið í sandi og nær sandbreiðan allt að einum kílómetra upp frá sjónum. Sunnan við víkina er Bjarnarnúpur en norðan hennar Breiður og ganga báðir þessir núpar í sjó fram. Hvorugur þeirra er hár í loftinu, Bjarnarnúpur um 200 metrar og Breiðurinn örlítið hærri næst sjó en hækkar upp í um það bil 280 metra fjær ströndinni.

Í Bjarnarnúp verpir svartfugl og hvítmávur og þar var áður nokkur fuglatekja.[1] Gjá er í núpnum og heitir Bjarnargjá. Þjóðsaga  hermir að eitt sinn hafi menn náð að umkringja bjarndýr uppi á brún núpsins en bersi hafi þá náð að renna sér á skafli ofan gjá þessa allt í sjó niður og dragi bæði gjáin og núpurinn nafn af því atviki.[2]

Fyrir víkurbotninum norðantil er Hafnarfjall. Suðaustan Hafnarfjalls tekur við Kjölur en nær beint norður af Kili er Kóngshæð. Efst á henni nær landið hæst á þessum slóðum og er þar komið í 402ja metra hæð. Akvegurinn frá Látrum og Breiðavík að Geitagili í Örlygshöfn við Patreksfjörð liggur milli Kjalar og Kóngshæðar.

Í Breiðavík var jafnan aðeins ein bújörð og ber hún sama nafn og víkin. Hér var oft þríbýli á fyrri tíð[3] en síðar tvíbýli. Bæjarstæðið er vestantil í víkinni og þaðan er um það bil einn kílómetra til sjávar. Fjallið að bæjarbaki heitir Hallur. Sögur hafa gengið um fornt eyðibýli nyrst í víkinni þar sem nú heitir Fjarðarhorn, á sjávarbökkum sunnan undir Breiðnum. Pétur Jónsson frá Stökkum segir að býli þetta hafi verið kallað á Stekk.[4] Þessa býlis er hvorki getið í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1703 né í sóknarlýsingunni frá 1840 og verður að teljast ósannað að þarna hafi verið búið. Beitarhús munu hins vegar hafa staðið þar.[5]

Séra Gísli Ólafsson segir um Breiðavík í sóknarlýsingunni frá 1840 að hún sé góð heyskapar-, útigangs- og fjörujörð.[6]

Árið 1431 mælti Jón Gerreksson, Skálholtsbiskup, fyrir um bænhús í Breiðavík og skyldi það eiga tíu hundruð í heimalandi.[7] Í byrjun 18. aldar var guðshús þetta talið hálfkirkja og þá var embættað hér tvisvar á ári.[8] Með konungsbréfi frá 31.12.1824 var bænhúsið eða hálfkirkjan í Breiðavík gerð að sóknarkirkju.[9] Saurbæjarsókn var þá skipt í tvennt og náði hin nýja Breiðavíkursókn yfir allar Útvíkur og einnig Keflavík austan Látrabjargs. Sóknarkirkjunni í Breiðavík var jafnan þjónað frá Sauðlauksdal meðan prestar sátu þar. Kirkjan sem nú stendur hér var vígð 1964.

Út með víkinni að vestanverðu var Breiðavíkurver. Frá bæjarstæðinu í Breiðavík eru um þrír kílómetrar út í verið. Á fyrri tíð lágu heimamenn við í verinu á vorvertíð því að of langt þótti að ganga daglega heiman og heim. Árið 1703 voru fjórar verbúðir í Breiðavíkurveri en aðeins þrír bátar gengu þaðan á vorvertíð það ár.[10] Einn bátanna var aðtökuskip en hina tvo áttu heimamenn. Bátarnir voru þriggja og fjögra manna för. Heimamenn skutust einnig á sjó að sumrinu eftir vertíðarlok.[11] Í byrjun 18. aldar þurftu útróðramenn í Breiðavíkurveri að greiða landeiganda, séra Páli Björnssyni í Selárdal, háan vertoll, hálfa vætt, sem er 20 kíló af harðfiski, hver maður, – og sendist landsdrottni í peningum með dönskum taxta, segir Árni Magnússon.[12] Heimamenn greiddu engan vertoll.

Vorið 1830 fórst bátur í lendingu í Breiðavíkurveri og var Magnús Árnason bóndi á Skógi á Rauðasandi formaður. Magnús var tæplega fimmtugur er hann drukknaði og hafði ungur lært sútaraiðn hjá Bjarna skáldi Þórðarsyni á Siglunesi. Drukknun Magnúsar og fjögurra háseta hans lýsir Gísli Konráðsson svo:

 

En er Magnús hugði á land að halda bar skipið á boða norðan lendingarinnar, fyllti þegar og hvolfdi, og fórust þar allir er á voru nema einn. Honum skaut upp svo sá á koll honum og hárið, fengu Breiðvíkingar, er á eftir komu, borgið honum. Sá hét Jón Guðnason frá Gufudal.[13]

 

Aðkomubátar munu aldrei hafa verið margir í Breiðavíkurveri. Þessi slysasaga frá 1830 sýnir þó að þá hafa menn af Rauðasandi róið hér og í sóknarlýsingu frá 1840 er þess getið að menn af Barðaströnd séu við róðra í Breiðavík.[14]

Um 1880 var vertollur enn í hærra lagi í Breiðavíkurveri, nokkru hærri en á Látrum eða 15 steinbítar á mann.[15] Þá var tollurinn tíu steinbítar á Látrum og tólf á Brunnum (sjá hér Hvallátur við Látrabjarg og verstöðin Brunnar).

Frá Breiðavíkurveri sóttu menn sjó fram undir miðja 20. öld og um 1940 voru enn dæmi þess að hér væri legið við í gömlu verbúðunum. Varla finnast mörg yngri dæmi um slíka sjávarhætti þó að leitað yrði um land allt. Allt fram á síðustu ár hafa tvær verbúðanna í Breiðavíkurveri hangið uppi en veturinn 1987-1988 hrundi önnur þeirra. Gamlar rústir í verinu eru nú friðlýstar og hafa verið það frá haustinu 1971, bæði búðatóttir og bátanaust.[16]

Lendingin í Breiðavíkurveri heitir Kumbari eða Kumbarapollur. Í Jarðabók Árna og Páls er lending sögð góð í verinu en þó mun ekki fljóta í Kumbarann fyrr en um hálffallinn sjó.[17] Breiðavíkurver er norðan undir Bjarnarnúp og var farið úr verinu upp Búðabrekkur á Látraháls og yfir hann að Látrum.

Á árunum 1795 til 1799 átti Bjarni Einarsson, áður sýslumaður Barðstrendinga (sjá hér Hagi á Barðaströnd), heima í Breiðavík. Hann hafði þá látið af embætti og dó hér liðlega fimmtugur vorið 1799.

Um aldamótin 1800 rak í Breiðavík mannlausan róðrarbát. Var þetta að sumarlagi og björguðu heimamenn bátnum undan sjó. Var báturinn skorðaður hjá melþúfu ekki langt frá bænum. Stóð hann þar í hálfan mánuð. Einn morgun er sláttumenn koma út bregður þeim í brún því að þá var báturinn horfinn. Sást þá að nýtt kjölfar lá frá þúfunni og beint til sjávar en engin sáust mannsspor.[18] Aldrei fréttu Breiðvíkingar framar til þessa kynjabáts.

Um aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum 20. aldar bjó Sigríður Traustadóttir ekkja í Breiðavík. Stóð hún hér fyrir margvíslegum framkvæmdum og bætti mjög jörðina. Sigurður Sigurðsson ráðunautur kom í Breiðavík 1916 og ritar skömmu síðar:

 

Breiðavík er góð jörð. Þar er tvíbýli. Hefir sú jörð verið mikið bætt á síðari árum. Girðing er þar um tún og engjar 2000 metra löng. Sigríður Traustadóttir … hefir aukið tún sitt mikið. Fyrir 30 árum fengust um 60-70 hestar af hennar parti en nú fást þar um 200 hestar af töðu. – Veitt er þar á engið. Var byrjað á því um síðustu aldamót. Hefir útheysskapur aukist þar síðan mikið. Fénaður á jörðinni er nú helmingi meiri en var fyrir rúmum 20 árum.[19]

 

Skömmu fyrir 1950 fór Breiðavík í eyði en árið 1952 var hafist handa um að byggja hér á vegum ríkisins vinnuheimili fyrir unglingsstráka sem í vandræðum lentu og stjórnvöld töldu þarfnast sérstakrar meðferðar. Var uppeldisheimili þetta rekið í Breiðavík frá 1954 til 1979. Frá því ríkið hætti starfsemi í Breiðavík hefur verið rekinn hér hefðbundinn búskapur og ferðamannaþjónusta.

Frá Breiðavík liggur gömul reiðgata yfir Breiðinn um Breiðavíkurháls og VatnadalLáganúpi í Kollsvík. Ógreiðfært var með hesta frá Breiðavík upp Flosagil, andspænis bænum, en var þó farið. Auðveldara var að komast upp innar í víkinni en sú leið var heldur lengri. Skemmsta leið frá Breiðavík að Láganúpi er um sex kílómetrar og farið í tæplega 300 metra hæð.

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jóhann Skaptason 1959, 120. (Árbók F.Í.). Bergsveinn Skúlason 1964, 220.

[2] Vestfirskar sagnir I, 163.

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 313.  Manntöl 1801 og 1816.

[4] Pétur Jónsson 1942, 98 (Barðstrendingabók).

[5] Bergsveinn Skúlason 1964, 217.

[6] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 211.

[7] Lýður Björnsson 1967, 38 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[8] Jarðab. Á. og P. VI, 313.

[9] Sveinn Níelsson 1950, 179.

[10] Jarðab. Á. og P. VI, 314.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Lbs. 4034to, bls. 134-136.

[14] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 200.

[15] Lúðvík Kristjánsson 1983, 102.

[16] Fornleifavernd ríkisins, vefsíður/Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990.

[17] Bergsveinn Skúlason 1964, 219.

[18] Vestfirskar sagnir I, 95-96.

[19] Sigurður Sigurðsson 1919, 100-101 (Búnaðarsamband Vestfjarða, – Skýrslur og rit 1916-1917).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »