Brekka í Brekkudal

Brekka í Brekkudal

Mynni Brekkudals er í um það bil tveggja og hálfs kílómetra fjarlægð frá sjó. Þaðan teygist dalurinn til suðausturs og síðan suðurs uns fjallið Grandahorn*, sem hefur dálítinn svip af pýramída, klýfur hann í tvennt. Vestan við Grandahorn liggur Galtardalur, sem gengur út úr Brekkudal og sveigir til suð-suðvesturs, en framan til við Galtardal miðjan gengur Stúfudalur upp frá honum í suðausturátt, undir suðvesturhlíð Grandahorns. Austantil við Grandahorn heldur Brekkudalur hins vegar áfram til fjalls uns Rafnseyrarheiði tekur við. Neðantil í norðanverðum botni Brekkudals eru fornar seltóttir og þar heitir enn Sel.[1] Vestan við Brekkudal og Galtardal er fjallsbrúnin yfirleitt í 500-600 metra hæð en hækkar fyrir botni Galtardals í um 800 metra. Norðaustan við mynni dalsins eru lágar hlíðar Sandafells og síðan tekur við Brekkuháls sem er um það bil 200 metrar á hæð og skilur dalinn frá fjarðarströndinni. Innan við hálsinn og beint upp frá bæjunum Brekku og Granda rís klettafjallið Brekkuhorn en efstu brúnir þess eru í um það bil 460 metra hæð yfir sjávarmáli. Frá Brekkuhorni teygjast klettarið í suðurátt uns komið er að dalamótum á móts við Grandahorn en úr því er austurhlíð Brekkudals klettalaus að kalla en ærið brött. Grandahorn, sem eins og áður sagði skiptir framdalnum í tvennt, setur hér mestan svip á umhverfið. Fjallið er keilulaga, klettalítið hið neðra en með hamrabeltum er ofar dregur og klettabrún í um það bil 645 metra hæð. Á þrjár hliðar skilja dalir það frá öðru hálendi hér í kring en að suðaustanverðu tengist það fjalllendinu vestur af Rafnseyrarheiði án þess að ljós skil verði á milli. Þar er þó líka svolítil dalskora og heitir Geldingadalur. Um Galtardal streymir Langá og í hana fellur Stúfudalsá sem kemur ofan af Stúfudal. Við norðurenda Grandahorns mætast Langá og Þverá, sem rennur um fremri hluta Brekkudals, og saman mynda þær Brekkudalsá er áfram streymir niður dalinn en mætir að lokum Kirkjubólsá á móts við túnið á Söndum og sameinast henni svo úr verður Sandaá.

Eins og áður sagði er mynni Brekkudals í um það bil tveggja og hálfs kílómetra fjarlægð frá sjó og er þá miðað við ós Sandaár en ekki fjarðarströndina handan við Brekkuháls sem reyndar er heldur skemmra undan ef mælt væri eftir loftlínu. Frá Sandaósi fram að bæjunum í Brekkudal eru hins vegar fjórir til fimm kílómetrar og þaðan einn og hálfur kílómetri fram að dalamótum undir Grandahorni. Galtardalur er síðan um þrír kílómetrar á lengd og sá hluti Brekkudals sem liggur með austurhlíðum Grandahorns litlu styttri. Sé gengið neðan frá sjó með

 

 

* Í máli heimamanna er nafn fjallsins reyndar ekki Grandahorn heldur Grandhorn.[2]

 

Sandaá, Brekkudalsá og Langá fram í botn á Galtardal er vegalengdin því einir níu til tíu kílómetrar.

Fyrir neðan Grandahorn er Brekkudalur víðast hvar 500 til 1000 metrar á breidd en austan Grandahorns er dalurinn örmjór. Allur meginhluti dalsins er vel gróinn og talsvert gras er líka á Galtardal sem liggur í um það bil hundrað metra hæð yfir sjávarmáli og er víða tvö til þrjú hundruð metrar á breidd. Gott beitiland er einnig á Stúfudal sem áður var nefndur. Í lýsingu Sanda- og Hraunssókna frá árunum kringum 1840 segir að geldfé frá bæjunum við vestanverðan Dýrafjörð sé rekið í ýmsra jarða búfjárhaga og í því sambandi eru Brekkudalur, Galtardalur og Stúfudalur nefndir sérstaklega ásamt Eyrarhlíð, Haukadal, Meðaldal og Drangahlíð.[3]

Úr innanverðum Dýrafirði hefur löngum legið þjóðbraut yfir Brekkuháls og áfram um Brekkudal á Rafnseyrarheiði til Arnarfjarðar (sjá hér Rafnseyri). Um 1935 lögðu bændur akfæran bílveg yfir Brekkuháls[4] en yfir Rafnseyrarheiði varð ekki bílfært fyrr en rétt fyrir 1950. Að þessu sinni látum við nægja að virða akveginn fyrir okkur úr nokkurri fjarlægð en höldum sem leið liggur upp á Galtardal er hér var nýlega nefndur.

Árið 1346 átti kirkjan á Söndum hálfan Galtardal[5] en hálfri öld síðar hafði hún eignast dalinn allan[6] og átti hann þaðan í frá í fimm aldir Á Galtardal er mikið beitiland og þar höfðu Sandaprestar búsmala í seli allt fram undir 1830 (sjá hér bls. 3).

Rústir miklar eru enn sjáanlegar á Galtardal. Í Jarðabókinni frá 1710 segir svo um hin fornu mannvirki þar:

 

Girðingar og tóttarústir miklar eru hér fram á dalnum, skammt frá staðarselinu. Þar sýnist líklegt að í fyrndinni hafi bær verið og eru sagnir að þar hafi í fyrstunni staðið Sandastaður og er þar ein tóttarrúst meðal annarra sem mönnum sýnist líklegt að verið hafi kirkja eða bænhús. Þetta land á nú Sandastaður og þar um kring liggjandi lönd, allan Galtardal, og brúkar staðurinn þangað selför jafnlega.[7]

 

Þjóðsögur um prestssetur og kirkju á Galtardal urðu býsna lífseigar í Dýrafirði eins og hér má sjá á öðrum stað (sjá Sandar) og í sóknarlýsingunni frá því um 1840 er getið munnmæla um bænhús þar uppi í  dalnum.[8]

Rústirnar á Galtardal eru vestan Langár, neðarlega í dalnum. Frá bæjunum í Brekkudal er um það bil þriggja stundarfjórðunga gangur þangað upp eftir og eru rústirnar auðfundnar því Selhóll, sem þar er innan túngarðs, segir komumanni skjótt til sín bæði stór og vel gróinn. Tvennt bendir einkum til þess að hér hafi staðið bær um lengri eða skemmri tíma á fyrri öldum. Þar er fyrst að nefna túngarðinn sem enn er víða sjáanlegur en ekki verður annað sagt en túnið innan hans hafi verið býsna stórt og mun stærra en almennt var á kotbýlum á 19. öld. Í annan stað gæti stærð tóttanna bent til þess að hér hafi verið búið. Tvær miklar tóttir standa hlið við skammt frá Selhól og eru um 3 x 9 metrar hvor að flatarmáli. Önnur þessara tótta er stúkuð sundur í tvennt með millivegg sem liggur þvert á langveggina og skiptir tóttinni í tvo álíka stóra hluta.

Utan i sjálfum Selhól er kirkjutóttin, er svo hefur verið kölluð, og á er minnst í Jarðabók Árna og Páls. Þessi tótt sýnist vera um það bil 2,5 x 5,5 metrar að flatarmáli en hefur vafalaust sigið saman svo ætla má að húsið hafi verið nokkru stærra. Vel mætti hugsa sér að hér hafi verið bænhús og grafreitur í kring en ekki er kunnugt um að síðari tíma menn hafi grafið í hólinn til að kanna þetta.

Dálítið framan við Selhól en þó innan hins forna túngarðs eru svo enn aðrar tóttir sem líkjast mjög seltóttum eins og þeim sem víða eru finnanlegar í Dýrafirði. Sú stærsta þeirra er um það bil 5 x 2 metrar að flatarmáli en í kringum hana eru aðrar smærri. Í sóknarlýsingu séra Bjarna Gíslasonar á Söndum frá því um 1840 segir að seljabúskap á Galtardal hafi verið hætt 1827 eða 1828.[9]

Í úttektargerð frá árinu 1828 sést að selhúsin voru þá í allgóðu standi og tekin gild í staðinn fyrir baðstofu, búr og göng sem fallin voru í hjáleigunni Sandahúsum.[10] Í þessari úttektargerð sjáum við að selhúsin voru þrjú og eru þar nefnd mjólkurhús, svefnhús og eldhúskró.[11] Mjólkurhúsið er sagt vera níu álnir á lengd og þrjár á breidd[12] en þær tölur passa að heita má alveg við stærstu seltóttina sem hér var áður nefnd. Fullvíst má því telja að þar hafi mjólkurhúsið verið. Í úttektargerðinni frá 1828 er mjólkurhúsið sagt vera með þremur sperrum, bitalausum, þremur langböndum á hvorri hlið, mænitróðu brotinni og hrísárefti.[13] Svefnhúsið segja úttektarmennirnir vera þrjár álnir á lengd og fjórar á breidd en geta ekki um stærð á eldhúskrónni.[14]

Þegar úttektin fór fram vorið 1828 var séra Jón Árnason að fara frá Söndum en séra Daði Jónsson að taka við (sjá hér Sandar). Með hliðsjón af því sem hér  hefur áður verið sagt má ætla að séra Jón Árnason hafi verið síðasti presturinn sem hafði búsmala í seli á Galtardal en þó er hugsanlegt að séra Daði hafi haldið fornum háttum í þessum efnum fyrsta sumarið sitt á Söndum. Lengur hefur það varla verið ef marka má orð séra Bjarna Gíslasonar í sóknarlýsingunni sem hér voru áður rakin og í heimild frá vorinu 1834 er beinlínis tekið fram að selhúsin á Galtardal séu ekki lengur í löggildu standi.[15]

Um upphaf seljabúskapar á Galtardal er allt ókunnugt en sé ráð fyrir því gert að hér hafi áður staðið bær í sama túni leiðir af sjálfu að búsmali hefur ekki verið nytkaður hér í seli fyrr en bærinn var kominn í eyði. Um byggð á Galtardal verður ekkert fullyrt án frekari athugana. – Bæjarrústirnar, sem áður var lýst, gætu verið af beitarhúsum frá Söndum en túngarðurinn gefur hugmyndum um byggð byr undir vængi. Hin gömlu munnmæli um kirkju eða bænhús á Galtardal lifa enn og á fyrri hluta tuttugustu aldar voru færðar í letur sögusagnir um að kirkjan og prestssetrið á Söndum hefðu einu sinni fyrir langa löngu verið flutt upp á Galtardal vegna náttúruhamfara og þar hefði presturinn setið um nokkurt skeið (sjá hér Sandar). Slíkar sögur eru auðvitað tilbúningur en engu að síður væri full ástæða til þess að fá fornleifafræðinga til að kanna rústirnar á Galtardal, ekki síst kirkjutóttina og það sem leynast kann undir grænum sverðinum á Selhól.

Frá Selhól er gott að líta yfir dalinn. Beint á móti, hér handan Langár, er hið mikla fjall Grandahorn en framan við það gengur Stúfudalur til suðausturs. Vestan (suðvestan) í Stúfudal er Miðmundahorn[16] og hefur að líkindum verið eyktamark frá Brekku. Vestan við Miðmundahorn er Grjótskál og upp af henni Grjótskálarfjall.[17] Næst kemur Draugshorn, sem er hátt fjall og hrikalegt, en bak við það er Tröllakiki[18] og er þá komið fram undir botninn á Galtardal. Úr dalbotninum er fært um Kvennaskarð yfir í Tjaldanesdal í Arnarfirði.[19] Þarna er klettalaust en skarðið liggur hátt eða nánar til tekið í 772ja metra hæð yfir sjávarmáli. Fram undir botni Galtardals sést enn fyrir leifum af gömlum vörslugarði[20] svo ætla má að naut hafi verið höfð þar á beit eins og algengt var í dalbotnum. Vörslugarðurinn mun enn vera sjáanlegur beggja vegna árinnar.[21] Í dalbotninum er líka hóll sem Sjónarhóll heitir.[22] Í kringum hann var áður mikið af fjallagrösum[23] og við skulum vona að svo sé enn.

Fjárbeit þótti löngum góð á Galtardal og Ólafur Olavius, sem kom í Dýrafjörð árið 1775, segir í Ferðabók sinni að dalur þessi sé sagður einn sá grösugasti í öllum firðinum og því talið að hann sé vel fallinn til að setja þar nýbýli.[24] Við höfum nú skyggnst um í Brekkudal og á Galtardal um sinn og mál til komið að hverfa á ný heim að Brekku.

 

Allar líkur benda til þess að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi Brekka verið eina bújörðin í Brekkudal og þá átt þar allt land sín megin ár en Sandar aftur á móti landið handan árinnar. Rökin fyrir því að Grandi hafi byggst síðar og þá úr landi Brekku og Bakki úr landi Sanda hafa áður verið rakin á þessum blöðum (sjá hér Bakki og Grandi). Á síðari öldum var Brekka jafnan talin 24 hundraða jörð.[25] Áður en farið var að búa á Granda hefur jörðin þá verið 36 hundruð að dýrleika. Minnt skal á að í byrjun 13. aldar var Grandi orðinn býli (sjá hér Grandi) og vissar líkur benda til þess að snemma á öldum hafi verið búið í Galtardal um eitthvert skeið (sjá hér bls. 2-4).

Skilmerkilega lýsingu á landamerkjum Brekku og Granda er að finna í landamerkjaskrá sem þinglýst var 6. júlí 1886. Þar kemur m.a. fram að Brekka á allan dalinn austan við Grandahorn, niður að Grásteini[26] sem enn stendur á sínum forna stað, sunnanvert og neðanvert á dalnum, skammt frá brúnni sem ekið er um yfir Þverá.[27]

Í múlanum norðantil í Grandahorni á Grandi svolítið land en alla hlíðina þar fyrir heiman og sjálfan dalinn á Brekka, sín megin ár, allt að landamerkjunum á móti Söndum, nema spildu sem liggur með ánni en sú spilda er heimaland Granda.[28] Línan sem afmarkar það var dregin úr Merkjaþúfu, sem stóð á áreyrinni fyrir framan Grandakvína og þaðan upp og út á snið fyrir neðan alla brekkuna, allt út í Reiðlág[29] sem er rétt fyrir utan túnið á Brekku.[30] Frá Reiðlág liggja þessi merki milli Granda og Brekku út eftir ÁrdalabrúnumGrænagarði sem lá til fjalls og skildi að lönd Brekku og Sanda.[31] Nærri lætur að spölurinn frá bæjarhólnum á Brekku að hinum fornu landamerkjum sé einn kílómetri en þau eru rétt fyrir framan beygjuna á akveginum sem liggur upp á Brekkuháls.[32] Þar sést enn móta fyrir Grænagarði í hlíðinni neðan við veginn og stóð þar árið 1991 skilti með nafni hans. Landamerki Granda á móti Söndum eru neðan við Grænagarð og heitir þar Rani við ána[33] en merkin milli Brekku og Hvamms fylgja efstu brúnum.[34]

Jörðinni Brekku fylgdi skógarítak í landi Botns í Dýrafirði[35] og náði teigurinn frá HestaskriðuMeðaldalsskógi.[36] Í þessum skógarreit gerðu þeir sem hér bjuggu til kola og þangað voru líka sóttir raftar til húsagerðar allt fram í byrjun 18. aldar.[37]

Norðan við túnið á Brekku er Brekkuhálsinn sem fyrr var nefndur og tengir hann saman fjallið Brekkuhorn, hér upp frá bænum, og Sandafell sem rís eitt sér litlu utar, laust frá öðrum fjöllum. Hálsbrúnin er í 116 metra hæð yfir sjávarmáli. Ofan við túnið á Brekku og yfir hálsinn liggur þjóðbraut enn sem fyrr, alfaravegur þeirra sem um Rafnseyrarheiði fara milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Handan við hálsinn er kauptúnið Þingeyri og auðvelt að ganga þangað frá Brekku á 40 mínútum eftir akveginum.

Árið 1630 var Magnús Arason frá Ögri, sýslumaður á Reykhólum, eigandi Brekku en seldi hana þá um haustið séra Þorleifi Bjarnasyni á Söndum.[38] Áttatíu árum síðar var jörðin enn i eigu niðja séra Þorleifs en dóttursonur hans, Þorleifur Magnússon á Auðkúlu í Arnarfirði, átti þá hálfa Brekku og bróðurdóttir þess Þorleifs, Kristín Torfadóttir, hina hálflenduna.[39]

Þríbýli var á Brekku árið 1710[40] en á því ári var kostum og göllum jarðarinnar lýst með þessum orðum:

 

Útigangur í meðallagi. Torfrista og stunga næg. Reiðingsrista lítil. Elt er taði undan kvikfé. Skógarítak á jörðin í Botnslandi fram frá Hestaskriðu að Meðaldalsskógi, brúkast til kolagerðar og hingað til til raftviðar þó að raftviðurinn sé nú að mestu eyddur. Túninu grandar skriða til forna, sem nú er nokkuð aftur uppvaxin. Engjunum spilla skriður til stórskaða og eyðileggingar. Úthagarnir eru enn nú bjarglegir þó að fjallið sé mjög uppblásið og skriðurunnið. Hætt er kvikfé fyrir pyttum. Hætt er húsum og heyjum fyrir stórveðrum.[41]

 

Um miðja 19. öld var sagður góður heyskapur á Brekku.[42]

Fyrir bóluna miklu árið 1707 hvíldi sú kvöð á sérhverjum ábúanda á Brekku að leggja jarðeigendum til mann í skiprúm um vertíð en síðan hafa ábúendur róið á skipinu fyrir bón en ekki í skyldu nafni, segir í Jarðabókinni frá 1710, – og hafa haft þar fyrir nokkurn góðvilja af landsdrottnum.[43]

Í byrjun 18. aldar voru sögusagnir á kreiki um að bænhús hefði verið á Brekku í kaþólskri tíð[44] en engin ummerki þess voru sjáanleg hér árið 1710.

Bjarni Eiríksson, bóndi á Brekku, var einn þeirra sem Árni Magnússon prófessor hitti að máli er hann var við jarðabókarstörf á Söndum í ágústlok árið 1710.[45] Líklega hefur það verið Bjarni sem sagði honum frá því að í úthögum fram á Brekkudal væri forn eyðihjáleiga er héti Sólheimar en ekki hefði verið búið þar í manna minni eður þeirra feðra.[46] Sagt var að landskuld af hjáleigu þessari hefði verið 2 vættir eða einn fjórði af heildarlandskuld ábúenda á Brekku eins og hún var meðan Sólheimar voru í byggð.[47] Að sögn þeirra sem Árni hitti á Söndum hafði skriða lagt Sólheima í eyði og sýndist honum líklegt að svo hefði verið.[48] Enn geta heimamenn á þessum slóðum vísað á staðinn þar sem Sólheimar stóðu forðum, heimantil við ármót Þverár og Langár (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 186), og sér þar enn fyrir túngarði og tóttaleifum.

Eins og áður sagði bjuggu þrír bændur á Brekku árið 1710. Auk Bjarna Eiríkssonar voru það Jón Eiríksson og Lífgjarn Jónsson, sem reyndar hafði aðeins þrjú hundruð til ábúðar.[49]

Árið 1786 bjuggu á Brekku bændurnir Torfi Snæbjörnsson og Jón Bjarnason sem á næsta ári gerðu báðir uppreisn og neituðu að hlýða afdráttarlausri tilskipun háyfirvaldanna.[50] Torfi fluttist síðar að Kirkjubóli í Þingeyrarhreppi og hefur áður komið við sögu á þessum blöðum (sjá hér Kirkjuból) en hann var sonur Mála-Snæbjörns sem lengst bjó á Sæbóli á Ingjaldssandi og frægur varð af sínu margbreytilegu málaþvargi (sjá hér Sæból).

Árið 1786 hélt Jón Arnórsson sýslumaður manntalsþing í öllum hreppum Ísafjarðarsýslu og kynnti þar fyrirmæli stiftamtmanns frá 26. desember 1785 um að settir skyldu upp gapastokkar á hverjum þingstað, við allar kirkjur og einnig á verslunarstöðunum.[51] Gapastokkar voru sérkennileg refsitæki sem brotamenn voru dæmdir til að dúsa í harðfjötraðir þar sem von gat verið á fjölmenni, til dæmis við kirkjudyr, öllum almúga til viðvörunar. Í jólaboðskap stiftamtmanns um gapastokkana var mælt fyrir um að hreppstjórar í hverju byggðarlagi skyldu sjá um að stokkunum yrði hvarvetna komið upp fyrir ágústlok 1786.[52] Allan kostnað við smíði og uppsetningu gapastokkanna áttu heimamenn á hverjum stað að greiða og var hreppstjórunum ætlað að sjá um innheimtu á sérstöku gjaldi til þessara þarfa réttvísinnar.

Vorið 1787 fór Jón Arnórsson, sýslumaður í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, í sína hefðbundnu þingaferð eins og lög gerðu ráð fyrir um hreppana 14 í Ísafjarðarsýslu. Á því ferðalagi komst hann að því að á níu kirkjustöðum og átta þingstöðum höfðu engir gapastokkar verið reistir þrátt fyrir hin skýru fyrirmæli þar um sem kynnt höfðu verið hreppstjórunum og öllum almúga fyrir ári síðan.[53]

Þann 18. apríl 1787 hélt sýslumaður manntalsþing á Þingeyri. Þar fékk hann þær gleðilegu fréttir að í vestanverðum Dýrafirði væru komnir upp þrír gapastokkar[54] og má ætla að einn hafi verið á Þingeyri, annar á Söndum og sá þriðji í Hrauni í Keldudal. Þessum góðu fréttum fylgdu aðrar verri sem voru þær að tveir bændur í hreppnum hefðu neitað að taka nokkurn þátt í kostnaði við smíði þessara hjálpartækja sem svo miklar vonir voru bundnar við.[55] Stokkarnir þrír í Þingeyrarhreppi höfðu kostað 45 skildinga hver en þeir sem neituðu að borga voru áðurnefndir bændur á Brekku, þeir Torfi Snæbjörnsson og Jón Bjarnason.[56]

Í bréfi er Jón Arnórsson sýslumaður ritaði stiftamtmanni 10. júlí 1787 kvartar hann yfir þessari fáheyrðu þvermóðsku. Hann segir þar að Torfi sé jarðeigandi sem tíundi 8 hundruð og Jón Bjarnason tíundi 6 hundruð en þrátt fyrir fortölur og skipanir neiti þeir samt staðfastlega að greiða nokkurn skilding upp í kostnað við smíði gapastokkanna.[57] Í bréfi sínu til stiftamtmanns tekur sýslumaður fram að auk sín hafi bæði Henkel, kaupmaður á Þingeyri, og séra Jón Ásgeirsson, prófastur á Söndum, reynt að lempa Brekkubændur til hlýðni en allt hafi komið fyrir ekki.[58]

Bréf sýslumanns er að sjálfsögðu skrifað á dönsku en í lok þess ber hann fram þá bón að danski stiftamtmaðurinn á Bessastöðum sendi vestur sérstakt tyftunarbréf vegna þessara tveggja bænda.[59] Hugmynd sýslumanns var sú að með slíku bréfi frá æðri stöðum yrði þeim Torfa og Jóni Bjarnasyni gert að greiða þegar í stað álagt gjald í gapastokkssjóðinn að viðlögðum háum sektum eða þeirri refsingu að sjálfir yrðu þeir teknir og settir í einn hinna þriggja stokka.[60] Líklega hefur Jón sýslumaður ekki talið sig hafa lagagrundvöll til að dæma bændurna á Brekku í gapastokk fyrir þvermóðskuna nema hann hefði sérstakt bréf frá æðstu stjórn landsins að bakhjarli.

Bréfið sem Jón Arnórsson ritaði stiftamtmanni 10. júlí 1787 hefur ekki verið lengur en þrjár vikur á leiðinni suður að Bessastöðum því að svarið frá Levetzow stiftamtmanni er dagsett 31. júlí þetta sama sumar. Í svari sínu minnist Levetzow ekki á beiðni um heimild til að setja uppreisnarmennina á Brekku í gapastokk en mælir fyrir um að þeir skuli sektaðir.[61] Í bréfi sínu tekur stiftamtmaður fram að bændurnir á Brekku skuli greiða 48 skildinga hvor í sekt til tugthússjóðs fyrir að hafa þrjóskast við að greiða þá 6 og 8 skildinga sem á þá höfðu verið lagðir vegna kostnaðar við gapastokkana. Hvernig Jóni sýslumanni hefur svo gengið að innheimta sektina er önnur saga.

Um ástæðuna fyrir því að þessir tveir bændur á Brekku neituðu að taka þátt í lögboðnum kostnaði við að koma upp gapastokkum er ekkert hægt að fullyrða. Sjálfsagt er þó að minna á að árið 1735 hafði yfirréttur dæmt Mála-Snæbjörn, föður Torfa á Brekku, til vistar í gapastokki (sjá hér Sæból). Vel má vera að vitneskjan um þann dóm hafi brunnið í blóði sonarins og hert hann til uppreisnar hálfri öld síðar þegar yfirvöldin fóru að heimta af honum greiðslu til að borga smíði gapastokka.

Líklegt er að Jón Bjarnason, sem bjó á Brekku árið 1801 og andaðist 57 ára gamall haustið 1804,[62] sé hinn sami Jón Bjarnason og bjó á jörðinni árið 1787. Torfi Snæbjörnsson lifði einu ári lengur en Jón og andaðist haustið 1805 úr strangri taksótt.[63] Hann var þá kominn aftur að Brekku[64] en hafði um skeið búið á Kirkjubóli eins og fyrr var nefnt.[65]

Uppreisnarmennirnir frá 1787 voru því báðir fallnir frá þegar erlendur ferðalangur reið í hlað á Brekku sumarið 1815 en það var Ebenezer Henderson, erindreki breska Biblíufélagsins, sem þá fór víða um Vestfirði. Hann kom að Brekku um miðjan júní og fékk þar léða hesta til ferðar yfir Rafnseyrarheiði.[66] Frá kynnum sínum af kvenfólkinu á þessum bæ í Dýrafirði segir Henderson svo:

 

Meðan ég beið eftir hestunum átti ég skemmtilegt samtal við kvenfólkið um trúarleg efni (karlmenn voru allir í fiskiróðri) og á meðal þeirra voru þrjár konur sem mér þótti vænt um að finna að virtust hafa réttar hugmyndir um sannleik fagnaðarboðskaparins og einlægan og lifandi áhuga á eilífðarmálunum.[67]

 

Á síðasta fjórðungi 19. aldar bjuggu hér á Brekku hjónin Jens Guðmundsson og Guðrún Ólafsdóttir og svo börn þeirra og tengdabörn[68] og náði það fólk að eignast jörðina.[69] Jens og Guðrún voru bæði úr Mýrahreppi, hann frá Alviðru en hún frá Gemlufalli.[70] Þau voru fædd um 1825 og höfðu búið á Söndum í sjö ár er þau fluttust að Brekku árið 1874.[71] guðrún hafði áður verið gift Gísla Jónssyni skútuskipstjóra sem drukknaði vorið 1854[72] (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli og Gemlufall) en hann var sonur Jóns Gíslasonar á Lækjarósi sem fyrstur Dýrfirðinga réðst í að smíða og gera út þilskip (sjá Mýrahreppur, inngangskafli og Lækjarós). Jón fylgdi tengdadóttur sinni hingað að Brekku og andaðist hér, 87 ára gamall, þann 27. febrúar árið 1886.[73]

Eitt barna Guðrúnar af hennar fyrra hjónabandi var Ólafía Guðrún Gísladóttir sem giftist Steindóri Egilssyni skipstjóra og bjuggu þau hér á Brekku, – undir lok nítjándu aldar, í tvíbýli á móti Guðmundi Kr. Jenssyni, hálfbróður Ólavíu.[74] Steindór var frá bænum Klukkulandi í Mýrahreppi, fæddur um 1840.[75] Hann var jafnan skipstjóri á skonnortunni Fortúnu, alveg frá því hún kom nýsmíðuð til landsins árið 1884 og þar til hann andaðist haustið 1901.[76] Áður hafði hann verið með Sjófuglinn frá Ísafirði. Sjálfur átti Steindór   hlut í Fortúnu en meðeigendur hans að skipinu voru Lárus Á. Snorrason, kaupmaður á Ísafirði, og Guðmundur Kr. Jensson, mágur hans og sambýlismaður á Brekku sem fyrr var nefndur.[77]

Guðmundur Hermannsson, lengi bóndi í Fremri-Hjarðardal í Dýrafirði, sem 17 ára gamall var háseti hjá Steindóri, sagði löngu síðar að hann hefði verið farsæll skipstjóri, ráðhollur og hinn besti drengur.[78] Að sögn Guðmundar gekk Steindór fram af sér við tilraun til að bjarga barni úr lífsháska og varð það hans bani.[79] Í hinum eldri heimildum um Steindór á Brekku er nafn hans yfirleitt ritað Steindór[80] en börn hans munu hafa ritað föðurnafn sitt Steinþórsson og Steinþórsdóttir.

Á fyrri hluta tuttugustu aldar bjó Árni Guðmundsson lengi í fremri bænum á Brekku. Á sínum búskaparárum hér lét hann eitt sinn grafa fyrir hlöðu rétt fyrir ofan bæjarhúsin og komu þá upp leifar af mannabeinum.[81] Svo þétt höfðu menn þessir verið dysjaðir að dauðir urðu þeir að bögglast sitjandi á hækjum sér í holunni því plássið sem hverjum einstökum var ætlað var ekki nema einn metri á lengd.[82] Engin rannsókn mun hafa verið gerð á þessum mannabeinum og er því allt óljóst um aldur þeirra en vera má að grafreitur hafi fylgt bænhúsinu sem eftir munnmælum er lifðu á vörum fólks fyrir 300 árum (sjá hér bls. 6) átti að hafa verið hér löngu fyrr.

Framan við túnið á Brekku er skúti í árfarveginum og heitir Elísabetarskúti. Sagt er að stúlka hafi leynst þar í hálfan mánuð.[83] Hæsti hóllinn í fremri hluta túnsins heitir Ullarhóll.[84] Þar mun nýþvegin ull hafa verið breidd til þerris á fyrri tíð en rennsli í lækjum og farvegir þeirra eru hér nú með öðrum hætti en áður var.[85] Haustið 1964 brann íbúðarhús fólksins á Brekku og síðan þá hefur jörðin verið nytjuð frá Þingeyri.[86]

Frá Brekku var farið út að Múla og út í Hóla en niður á Granda og niður á Sanda.[87] Héðan fóru menn líka niður á Þingeyri en inn í Hvamm.[88] Þangað stefnum við nú.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Guðmundur Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7. 1991.

[3] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 59.

[4] Knútur Bjarnason. – Viðtal K.Ó. við hann 19.7.1991.

[5] D.I. II, 832.

[6] D.I. IV, 145.

[7] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 45.

[8] Sóknalýs. Vestfj. II, 60.

[9] Sóknalýs. Vestfj. II, 59.

[10] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 3, úttektargerð frá Söndum í Dýrafirði 28.5.1828.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 3, úttektargerð frá Söndum í Dýrafirði 9.6.1834.

[16] Örn.skrá.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Guðmundur Sören Magnússon, Þingeyri. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[21] Sama heimild.

[22] Örn.skrá.

[23] Sama heimild.

[24] Ólafur Olavius 1964, I, 146.

[25] Jarðab. Á. og P. VII, 45.  J. Johnsen 1847, 192.

[26] Landamerkjaskrá fyrir jörðina Brekku í Þingeyrarhr., þinglýst 6.7.1886, – ljósrit í vörslu K.Ó.

[27] Sama heimild.  Guðm. Sören Magnússon, Þingeyri. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[28] Sama landamerkjaskrá frá 1886.  Örn.skrá.

[29] Sama landamerkjaskrá frá 1886.

[30] Örn.skrá.

[31] Sama landamerkjaskrá frá 1886.

[32] Guðm. Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[33] Örn.skrá.

[34] Sama landamerkjaskrá frá 1886.

[35] Sama heimild.

[36] Jarðab. Á. og P. VII, 45-46. – Sjá hér Botn í Dýrafirði.

[37] Sama heimild.

[38] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 163.

[39] Jarðab. Á. og P. VII, 45-46. Manntal 1703, 193 (Auðk.). Sbr. Ísl. æviskr. II, 182-183 og Lögr.m.tal, 517.

[40] Jarðab. Á. og P. VII, 45-46.

[41] Sama heimild.

[42] Sóknalýs. Vestfj. II, 56.

[43] Jarðab. Á. og P. VII, 45-46.

[44] Sama heimild.

[45] Jarðab. Á. og P. VII, 45 og 54.

[46] Sama heimild, 46.

[47] Jarðab. Á. og P. VII, 46.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild, 45.

[50] Skj.s. stiftamtmanns. Bréf úr Ísafj.sýslu 1781-1803, bréf Jóns Arnórssonar sýslumanns 10.7.1787 til

Hans K.D.V. von Levetzow stiftamtmanns og meðf. útskrift úr þingbók Jóns Arnórssonar.

[51] Nýnefnt bréf Jóns Arnórssonar sýslumanns 10.7.1787 til stiftamtmanns.

[52] Sama heimild.

[53] Nýnefnt bréf Jóns Arnórssonar sýslumanns 10.7.1787 til stiftamtmanns.

[54] Sama heimild.

[55] Skj.s. stiftamtmanns. Bréf úr Ísafj.sýslu 1781-1803, bréf Jóns Arnórssonar sýslumanns 10.7.1787 til

Hans K.D.V. von Levetzow stiftamtmanns og meðf. útskrift úr þingbók Jóns Arnórssonar.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild.

[61] Skj.s. stiftamtm. I, 22. Br.bók Levetzows 1786-1787, bls. 625, bréf hans 31.7.1787 til J. Arnórss. sýslum.

[62] Manntal 1801. Prestsþj.bækur Sandaprestakalls.

[63] Prestsþj.bækur Sandapr.kalls.

[64] Sama heimild.

[65] Manntal 1801.

[66] Ebenezer Henderson 1957, bls. 289.

[67] Sama heimild.

[68] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Sandaprestakalls.

[69] Manntal 1901 og fylgiskjöl þess.

[70] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Sandaprestakalls og Dýrafjarðarþinga.

[71] Sömu heimildir.

[72] Sömu heimildir.

[73] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Sandaprestakalls og Dýrafjarðarþinga.

[74] Sömu heimildir.

[75] Sömu heimildir.

[76] Skútuöldin I, 246 og V, 112-113. Sbr. prestsþj.bækur Sanda.

[77] Sömu heimildir.

[78] Skútuöldin I, 246.

[79] Sama heimild.

[80] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Sanda og Dýrafjarðarþinga.

[81] Gunnar Guðmundsson 1978, 93-94 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[82] Sama heimild.

[83] Örn.skrá.

[84] Örnefnaskrá. Guðmundur Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8. 1998.

[85] Guðmundur Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8. 1998

[86]  Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »