Brjánslækur

Frá Þverá eru aðeins tveir til þrír kílómetrar að höfuðbólinu Brjánslæk. Bærinn stendur utantil við mynni  Vatnsfjarðar og jafnan talinn vera á Barðaströnd sem þó er ekki einboðið. Í ströngum landfræðilegum skilningi hefst hin eiginlega Barðaströnd ekki fyrr en utan við Brjánslæk þar sem sjávarströndin beygir alveg eindregið til vesturs, við Arnórsstaði.

Nafn Brjánslækjar var á fyrri tíð yfirleitt ritað með öðrum hætti en nú er. Í Landnámuhandriti sem varðveitt er í Hauksbók frá byrjun 14. aldar er skálatótt Hrafna-Flóka sögð vera inn frá Bianslæk. Í öðru Landnámuhandriti varðveittu í Skarðsárbók frá fyrri hluta 17. aldar er bæjarnafnið ritað Branslækur.[1]

Með tilvísun til þessa ritháttar hefur verið sett fram sú kenning að rétta eða upphaflega nafnið sé Brandslækur og bærinn þá kenndur við surtarbrandinn sem hér er að finna.[2] Undir þessa tilgátu verður þó ekki tekið hér.

Í bréfi frá byrjun 16. aldar stendur Briamslækur[3] og í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá byrjun 18. aldar er nafnið ritað Briámslækur.[4] Í kirkjubókum Brjánslækjarprestakalls frá síðari hluta 18. aldar og fyrstu áratugum 19. aldar er bæjarnafnið ýmist ritað Briamslækur, Briámslækur eða Brianslækur.[5] Séra Hálfdan Einarsson, sem prestur var á Barðaströnd 1835-1848, ritaði fyrstur presta Brjámslækur og svo ritaði enn séra Arngrímur Bjarnason, prestur á Brjánslæk 1881-1883.[6] Það var hins vegar séra Þórður Þorgrímsson sem fyrstur presta tók upp ritháttinn Brjánslækur en hann sat staðinn á árunum 1864-1878. Þannig rituðu líka nafn staðarins þeir prestar sem sátu á Brjánslæk eftir 1883 og hefur það haldist síðan.[7]

Á Brjánslæk var á 15. öld eitt af sex höfuðbólum á Vestfjörðum í eigu Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum og lágu þá 15 jarðir undir Brjánslæk. Á Brjánslæk hefur um aldir verið kirkjustaður og oftast var þar prestssetur fram yfir 1930. Tvær sóknir voru löngum á Barðaströnd, Brjánslækjarsókn og Hagasókn, og þjónaði Brjánslækjarprestur einnig útkirkjunni í Haga. Árið 1970 var Brjánslækjarprestakall lagt niður og sóknir þess lagðar til Sauðlauksdals í Rauðasandshreppi.

Fjölmargir merkismenn hafa búið á Brjánslæk en sögulegustu persónuna í þeim hópi verður líklega að telja þann sem hér settist fyrstur að, sjálfan Hrafna-Flóka Vilgerðarson, en sem kunnugt er gaf hann landinu nafnið Ísland að sögn Landnámu.

Flókatóttir, er svo hafa lengi verið nefndar, er að finna innan og neðan við gamla Brjánslækjartúnið, á sjávargrundum rétt utan við bryggjuna en innan við árósinn þar sem Lækjará fellur til sjávar. Frá nýbýlinu Seftjörn, sem stendur á Hrófsnesi, er aðeins skammur spölur inn að tóttunum.

Í þeirri gerð Landnámabókar sem kennd er við Hauk Erlendsson lögmann segir svo:

 

Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Fjörðurinn allur var fullur af veiðiskap og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk Flóki norður á fjöll og sá fjörð einn fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland. Þeir fóru brott um sumarið og urðu síðbúnir. Þar sér enn skálatótt þeirra inn frá Brjánslæk og svo hrófið og svo seyði þeirra.[8]

 

Sigurður Vigfússon fornfræðingur rannsakaði Flókatóttir sumarið 1889 með aðstoð þeirra séra Þorvalds Jakobssonar og Davíðs Scheving Thorsteinsson læknis er þá sátu báðir á Brjánslæk. Hann taldi sig finna þarna sex fornar tóttir og segir þær vera 19 til 73 fet á lengd hverja um sig. Stærstu tóttirnar tvær taldi Sigurður vera skálatótt og skipshróf en um rannsóknir sínar á Flókatóttum ritaði hann í Árbók Fornleifafélagsins árið 1893.[9]

Skömmu fyrir 1930 var reist nýbýli á grundinni hjá Flókatóttum. Var það kallað Flókagrund og mun hafa verið búið þar fram undir 1940.

Þeir Hrafna-Flóki og félagar hans höfðu fyrstir manna vetursetu á Vestfjörðum svo sögur fari af. Íslenskir bændur hafa löngum talið dæmi Flóka lýsandi víti til varnaðar. Í allri sumarsælunni láðist honum að hugsa fyrir vetrinum en slíkt hefur aldrei gefist vel. Að því sinni dvöldust Flóki og lagsmenn hans aðeins þennan eina vetur á Íslandi en þrátt fyrir horfellinn lýsti einn þeirra landinu svo, er heim kom til Noregs, að hér drypi smjör af hverju strái. Þau orð má enn til sanns vegar færa.

Göngu Flóka úr Vatnsfirði á fjöll hafa menn löngum velt fyrir sér. Í handritum Landnámabókar er komist nokkuð breytilega að orði um það ferðalag. Í Sturlubók segir að Flóki hafi gengið upp á fjall eitt hátt og séð norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum.[10] Í Hauksbók segir að Flóki hafi gengið norður á fjöll og séð fjörð einn fullan af hafísum.[11] Í Skarðsárbók er því bætt við að Flóki og menn hans hafi ekki aðeins gefið landinu nafn heldur líka firðinum er þeir sáu fullan af hafísum og nefnt Ísafjörð.[12]

Hæsta fjall í næsta nágrenni Vatnsfjarðar er Lónfell, beint í norður frá Brjánslæk. Þaðan má sjá yfir Arnarfjörð og út á Patreksfjarðarflóa en alls ekki norður á Ísafjarðardjúp. Lagnaðarís gætu menn hafa séð af Lónfelli á innfjörðum Arnarfjarðar en verulegur hafís sést mun sjaldnar á þeim slóðum en norðar á kjálkanum. Þó getur hent að mynni Arnarfjarðar og Patreksfjarðar fylli af hafís.[13]

Bæði í Sturlubók og Skarðsárbók segir hins vegar að Flóki og menn hans hafi séð ísinn er þeir horfðu norður yfir fjöllin en slík áttatáknun kemur engan veginn heim ef horft er frá Lónfelli yfir ytri hluta Arnarfjarðar og á því síður við um Patreksfjarðarflóa.

Það voru landkönnuðir sem hér voru á ferð og höfðu siglt yfir Atlantshaf. Þeir þekktu bærilega til átta og það gerðu einnig höfundar Landnámu.

Hér skal athygli vakin á því að úr botni Vatnsdals inn frá Vatnsfirði eru aðeins um 20 kílómetrar norður á Glámu en þaðan blasir við Ísafjarðardjúp. Landkönnuðir sem sigla á opnum skipum yfir Atlantsála setja tæplega fyrir sig slíka vegalengd á vordegi og á Ísafjarðardjúp kemur hafís mun oftar en á firðina sunnantil á Vestfjörðum.

Með þessari ábendingu er ekki ætlunin að fella neinn úrskurð um það hvort Hrafna-Flóki hafi gengið á Glámu eða ekki. Fullgildar sannanir í þeim efnum eru ekki til. Hitt má fullyrða að hafi Hrafna-Flóki eða einhver annar nefnt landið Ísland er hann leit yfir fjörð fullan af hafís, þá er í alla staði eðlilegra að hugsa sér Ísafjarðardjúp heldur en Arnarfjörð eða Patreksfjörð, sem yfirleitt eru íslausir. Og hafi nafngjafinn, sem horfði af fjöllum norður yfir Djúpið, komið úr Vatnsfirði við Barðaströnd, þá hefur fjallið verið Gláma.

Þó að Hrafna-Flóka búnaðist illa á Brjánslæk tókst öðrum betur og er tímar liðu reis hér höfðingjasetur.

Meðal fyrstu búenda sem um er getið á Brjánslæk er Helga Gyðudóttir er hér bjó um aldamótin 1200. Sighvatur Sturluson bjó þá í Hjarðarholti í Dölum og átti vináttu við Helgu. Samskiptum þeirra Sighvats og Helgu lýsir Sturla sagnaritari svo: Helga hafði búfé fátt en lendur góðar. Sighvatur lagði jafnan stórfé til bús hennar en tók slíkt í mót af lendum sem hann vildi. Og dróst með því stórfé undir Sighvat.[14]

Sighvatur var fjáraflamaður og hefur máske haft meiri girnd á Brjánslækjarauðnum en á Helgu. Þess var áður getið að Brjánslækur var eitt af höfuðbólum Guðmundar ríka Arasonar á fyrri hluta 15. aldar. Er Guðmundur hafði verið sviptur eignum sínum og hrakinn með dómi í útlegð árið 1446 hófust brátt harðvítugar deilur um allt hans mikla jarðagóss og önnur auðæfi. Stóðu þær í meira en hálfa öld og áttust ýmsir við en þó einkum niðjar Guðmundar sjálfs og niðjar Björns Þorleifssonar hirðstjóra. Í deilum þessum kemur Brjánslækur nokkuð við sögu.

Um 1480 stóðu átökin um Guðmundareignir einkum á milli bræðranna Þorleifs og Einars Björnssona annars vegar og hins vegar Andrésar Guðmundssonar og Bjarna Þórarinssonar sem kvæntur var Solveigu, dóttur Guðmundar ríka. Bjarni og Solveig bjuggu þá í Saurbæ á Rauðasandi en aðfaranótt 4. desember 1481 kom Einar Björnsson með Bjarna Þórarinsson sem fanga að Brjánslæk og hér lét hann taka þennan tengdason Guðmundar ríka af lífi daginn eftir.[15] Aðförina að Bjarna hafði Einar undirbúið úti í Flatey.[16]

Haustið eftir var Einar Björnsson dæmdur af tólf presta dómi í þungar sektir og settur út af sakramenti kirkjunnar fyrir að hafa helslegið Bjarna ófyrirsynju. Í dómnum yfir Einari segir m.a.:

 

Nú sakir fáheyrðs, ódæmilegs stórvirkis, sem sjaldan eða aldrei hefur við borið hér á voru landi, dæmdum vér oft skrifaðan Einar Björnsson og hans fylgjara sjálfsetta út af heilagri kirkju og hennar sakramenta … .[17]

 

Bjarni Þórarinsson, sem tekinn var af lífi án dóms og laga á Brjánslæk í byrjun jólaföstu 1481, hafði viðurnefnið góði maður,[18] hvort sem nafngiftin hefur falið í sér háð eða lof. Skammt innan við Brjánslæk er lending góð og heitir Þrælavogur. Guðmundur Einarsson, sem lengi bjó hér á Brjánslæk á tuttugustu öld, hafði heyrt og kenndi öðrum þá skýringu á nafni vogsins að þar hefðu lent skipi sínu þrælmennin sem komu utan úr eyjum og drápu Bjarna góða mann.[19] Sögunni fylgdi að af blóði þessa góða manns hafi myndast hola í moldargólf skemmunnar þar sem hann var leiddur til höggs og hafi lengi mátt greina merki um blóðholuna.[20]

Röskum aldarfjórðungi eftir líflát Bjarna Þórarinssonar reisti annar Bjarni bú á Brjánslæk árið 1508 og má ætla að hann hafi verið einhver hinn auðugasti bóndi sem hér hefur búið. Þetta var Bjarni Andrésson, sonarsonur Guðmundar ríka Arasonar. Hann hafði alist upp hjá Jóni dan Björnssyni á Rafnseyri, launsyni Björns Þorleifssonar hirðstjóra. Kona Bjarna var Guðrún, dóttir Björns Guðnasonar í Ögri, og var hún því niðji Björns hirðstjóra. Bjarni Andrésson var því skyldur eða tengdur öllum þeim er harðast höfðu deilt um eignir Guðmundar afa hans.

Það var Jón danur sem í mars 1508 gaf Bjarna, fóstursyni sínum, Brjánslæk ásamt fjölmörgum öðrum jörðum.[21] Bjarni hefur trúlega verið álitlegt höfðingjaefni en hann varð skammlífur og dó 1509. Í skrá yfir eignir þær sem hann lét eftir sig kemur fram að fyrir utan höfuðbólið á Brjánslæk átti hann  25 jarðir víðs vegar um Vestfirði og jarðarparta að auk með fjölda kúgilda á leigustöðum, auk annarra eigna.[22]

Elstur nafnkunnra presta á Barðaströnd er Steinólfur Ljótsson sem uppi var um 1200. Hann var vinur Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri við Arnarfjörð og kom til liðs við Hrafn árið 1211 er Þorvaldur í Vatnsfirði veitti honum aðför öðru sinni. Var Steinólfur prestur með Hrafni í virkinu á Eyri og stóð fyrir sáttaumleitunum milli Hrafns og Þorvalds.[23] Sættust þeir að því sinni en sátt þá rauf Þorvaldur áður en langt um leið.

Fyrir siðaskipti sátu nafnkunnir prestar Barðstrendinga yfirleitt í Haga[24] og vel má vera að svo hafi einnig verið um Steinólf því að haustið fyrir dauða sinn sat Hrafn Sveinbjarnarson brúðkaup dóttur Steinólfs prests og var brúðkaupið haldið í Haga.[25] Um siðaskipti varð Brjánslækur hins vegar að föstu prestssetri og síðan hafa setið hér nær þrjátíu prestar. Á sex þeirra er ætlunin að minna með nokkrum orðum.

Árið 1723 varð séra Sigurður Þórðarson prestur á Brjánslæk og sátu hann og synir hans tveir staðinn upp frá því næstu 56 ár. Séra Sigurður var bóndasonur norðan úr Þingeyjarsýslu og var prestur á Brjánslæk í 44 ár. Kona hans var Sigríður Gunnlaugsdóttir úr Svefneyjum, föðursystir Eggerts Ólafssonar, skálds og náttúrufræðings. Tveir synir þeirra, Gunnlaugur og Guðbrandur, urðu prestar á Brjánslæk eftir föður sinn.

Séra Sigurði Þórðarsyni var margt til lista lagt. Góður söngmaður var hann og söng að sögn svo hátt og skært, er hann vildi á því taka, að unun var að heyra.[26] Mikið orð fór af kunnáttu séra Sigurðar og því trúað að hann gæti rekið út illa anda og séð við sendingum galdramanna. Eru til margar þjóðsögur um afrek hans í þeim efnum. Ein slík greinir frá hrellingum Hólmfríðar Jakobsdóttur, gjafvaxta stúlku er varð fyrir þungri ásókn. Átti hún síðar heima í Hergilsey.[27] Lét prestur færa hana til kirkju og segir svo frá atburðum þar:

 

Tók nú prestur yfir Hólmfríði að ræða og særa það illa frá henni með andlegri mælsku. Í fyrstu skipaði hún presti að þegja en síðan tók hún umbrot mikil og þagnaði með öllu. Herti prestur því meira á ræðunni þar til er hún lá í dái. En þá sáu menn svartan hnött nokkurn skjótast fram kirkjugólfið og út og eftir það er sagt að hún yrði laus við ófögnuð þennan.[28]

 

Er séra Sigurður andaðist tók séra Gunnlaugur, sonur hans, við prestakallinu en dó örfáum mánuðum seinna, haustið 1767. Guðbrandur, yngri sonur séra Sigurðar, varð þá prestur á Brjánslæk og sat hér til dauðadags 1779.

Séra Guðbrandi Sigurðssyni er svo lýst að hann hafi verið hraustmenni, smiður, málari, kennimaður góður og hagorður.[29] Á öðrum stað segir um séra Guðbrand að hann hafi verið fríður sýnum, hvatgjör og kappsamur og þvílíkt hraustmenni að hann jafnhattaði fimm manna sjófar.[30] Séra Guðbrandur stundaði sjálfur sjóróðra haust og vor frá Siglunesi. Var hann þar formaður en reið þaðan til messugjörða að Haga og Brjánslæk á helgum dögum.[31] Séra Guðbrandur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Rannveig Halldórsdóttir, systir séra Björns Halldórssonar sem lengst var í Sauðlauksdal. Skömmu eftir að Rannveig hafði verið föstnuð séra Guðbrandi kom í ljós að hún var holdsveik. Séra Björn, bróðir hennar, bauð þá Guðbrandi að sleppa því ráði en Guðbrandur, sem þá var um 25 ára aldur, svaraði: Fyrst guð rétti að mér þennan kaleik skal ég drekka hann.[32]

Rannveig andaðist um það leyti sem Guðbrandur eiginmaður hennar tók við Brjánslæk og brátt kvæntist hann á ný Sigríði Jónsdóttur og átti með henni þrjú börn sem upp komust. Séra Guðbrandur andaðist af slysförum 4. mars 1779. Hann var þá á heimleið úr húsvitjunarferð og hraðaði för sinni á næturþeli þar eð boðum hafði verið komið til hans um að þjónusta þyrfti deyjandi mann á Þverá. Hjá Reiðskörðum, skammt utan við Rauðsdal, hrapaði hestur prestsins fram af kletti og fannst séra Guðbrandur þar látinn daginn eftir.[33] Var reimleikum kennt um þessar slysfarir en í Reiðskörðunum hafði Sveinn skotti verið hengdur á sínum tíma (sjá hér Frá Brjánslæk að Haga).

Eitt barna séra Guðbrands og síðari konu hans var Gunnlaugur er varð sýslumaður á Grund í Eyjafirði. Hann tók fyrstur manna upp ættarnafnið Briem og er það dregið af nafni Brjánslækjar en nafn jarðarinnar var á þeim tíma yfirleitt ritað Briamslækur (sjá hér bls. 1). Séra Guðbrandur á Brjánslæk er því ættfaðir allrar hinnar fjölmennu Briemættar. Gunnlaugur Guðbrandsson var aðeins sex ára er faðir hans lést og ólst þaðan í frá upp hjá séra Birni Halldórssyni í Sauðlauksdal og á Setbergi, sem kvæntur var Rannveigu Ólafsdóttur úr Svefneyjum, frændkonu séra Guðbrands. Á æskudögum stundaði Gunnlaugur Guðbrandsson frá Brjánslæk nám í höggmyndalist við listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Þar lauk hann prófi eftir sex ára nám og var sæmdur sérstökum verðlaunapeningi fyrir góða frammistöðu. Óhugsandi var að Gunnlaugur gæti aflað sér brauðs á Íslandi sem myndhöggvari. Tók hann því próf í dönskum lögum og gerðist sýslumaður. Ættarnafnið Briem tók hann upp á námsárum sínum í Danmörku.[34] Saga þessa fyrsta Gunnlaugs Briem verður ekki rakin hér en vel færi á því að reist yrði á Brjánslæk fögur höggmynd í minningu Gunnlaugs svo og ættfeðra og ættmæðra Briemanna sem hér bjuggu á 18. öld.

Um Gunnlaug Briem og móður hans er dálítil saga rakin hér á öðrum stað (sjá Frá Haga á Siglunes).

Séra Benedikt Þórðarson var prestur á Brjánslæk frá 1848 til 1864 en síðan í Selárdal. Hann skráði fjölda þjóðsagna á árum sínum hér og eru margar þeirra birtar í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Í einni þjóðsögu frá Brjánslæk segir frá því að barnsrugga var borin í kirkju undir messugjörð og sáust þó eigi þeir sem báru.

 

Kvenmaður fylgdi vöggunni er allir sáu. Þessi kvenmaður gengur þar að er Gísli bóndi var og hún tekur svo til orða við hann: „Ég lýsi þig Gísli svo sannan föður að þessu barni, sem í vöggu þessari er, sem ég er móðir þess.” Gísli þverneitar því að hann sé þess barns faðir er hún til meinar. Þessi kvensnift sýnir sig reiðuglega og segir hann skuli þess gjalda að hann hafi neitað að hann væri faðir þessa barns og það hefði þar fyrir ei skírn hlotið. „Já”, segir hún, „í tíunda lið frá þér skal altíð mæðusamt verða og illa á lítast, en það vil ég til leggja að betur skal úr rekjast fyrir þeim en útlit og ætlan manna er.” Hún grípur þá til áklæðis, er lá ofan á vöggunni, og kastar því inn í kórinn, hverfur síðan á burt og vaggan burt gripin. En úr ábreiðu þessari var gjörður hökull, hver eð var gefinn kirkjunni á Brjánslæk og kallaður álfahökull.[35]

 

Í þjóðsögunni er síðan sagt frá því er álfahökullinn var löngu síðar lagður um fársjúkt barn og lífi þess þannig bjargað.

Séra Þórður Thorgrimsen var prestur á Brjánslæk frá 1864 til 1879 en áður í Otradal. Um séra Þórð segir að hann hafi verið smiður og skytta, söngmaður góður og listaskrifari. Mest orð fór þó af kröftum hans. Svo segir á einum stað:

 

Séra Þórður var svo rammur að afli að hann þótti ekki einhamur þegar han beitti sér. En það var sjáldan, helst þegar hann reiddist undir áhrifum víns. Þá stóð ekkert fyrir honum.[36]

 

Margar kraftasögur voru sagðar af séra Þórði. Þegar Þórður var á Brjánslæk átti hann lengi í handarmeini og var þá önnur höndin honum ónýt. Meðan svo var ástatt gekk hann eitt sinn sem oftar út með sjónum með byssu sína og náði að skjóta þar sel á umflotnum steini. Var selurinn yfir 200 pund á þyngd. Enda þótt prestur hefði bara aðra höndina heila náði hann samt selnum, slengdi honum á bakið og bar til bæjar, langan veg. Hélt hann þá í skottlegg selsins með heilu hendinni en hafði byssuna undir handarkrika þeirrar sem veik var.[37]

Til marks um krafta séra Þórðar sögðu menn líka frá því að hann hafi haft gaman af að láta 13 ára bráðþroska telpu sitja á hægri hendi sér og hossa henni með útréttum beinum handlegg alllanga stund í einu. Telpan var Jóna Jónsdóttir og átti árið 1936 heima á Skálanesi í Gufudalssveit.[38]

Síðasti prestur sem sat á Brjánslæk svo áratugum skipti var séra Bjarni Símonarson er hér var prestur frá 1897 til 1930. Séra Bjarni bætti mjög staðinn að húsum. Hann var að sögn stórgáfaður maður og eftirlæti sóknarbarna sinna.[39] Séra Bjarni Símonarson lét fyrstur manna í Barðastrandarhreppi girða túnið á ábýli sínu með gaddavír en þá töldu margir verulega slysahættu stafa af þvílíkum framkvæmdum.[40] Séra Bjarni varð bráðkvaddur 16. mars 1930. Hann var þá staddur nokkru fyrir innan bæinn Hvamm á Barðaströnd á leið til Hagakirkju.[41]

Brjánslækur var líka læknissetur um skeið. Árið 1881 var Davíð Scheving Thorsteinsson skipaður héraðslæknir í 5. læknishéraði er þá náði yfir alla Barðastrandarsýslu nema Flateyjarhrepp, Reykhólasveit og Geiradalshrepp.[42]

Davíð Scheving sat fyrst á Vatneyri og þar er hann skráður í  sóknarmannatali frá árinu 1886. Vorið 1887 mun hann hins vegar hafa sest að á Brjánslæk og það ár tók hann við oddvitastörfum í Barðastrandarhreppi.[43] Á Brjánslæk sat Davíð læknir síðan í sjö ár uns hann fluttist til Stykkishólms árið 1894.

Gamla íbúðarhúsið, sem séra Bjarni Símonarson lét byggja á Brjánslæk árið 1913,[44] stendur enn og líka kirkjan sem byggð var 1908.[45] Enginn hefur samt búið í húsi séra Bjarna um áratugaskeið. Fyrsti gesturinn sem lagðist til hvíldar í því stórhýsi var skáldið séra Matthías Jochumsson. Hann taldi  það þá vera stærsta og dýrasta hús á prestssetri  á landi hér.[46]

Árið 1942 hóf Guðmundur Einarsson, bóndi og rithöfundur, búskap á Brjánslæk og stóð hér lengi fyrir búi. Hann reisti sín hús neðar á túninu, á svipuðum slóðum og löngu fyrr stóð hjáleigan Undirtún.[47] Þar býr Brjánslækjarbóndi nú en út úr landi Brjánslækjar var fyrir nokkrum áratugum byggt nýbýlið Seftjörn og standa allar byggingar þess býlis enn nær sjó, alveg við þjóðveginn.

Um hjáleiguna Undirtún segir í sóknarlýsingu frá árinu 1840 að þar hafi ekki verið búið síðan 1811.[48] Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1703 er getið um tvær eldri hjáleigur heima á Brjánslæk sem þá voru þó báðar löngu komnar í eyði, Grafarkot fyrir innan ána og Lækjarkot í undirtúninu.[49] Líklega hefur Jón skóli, er bjó á Undirtúni um og eftir miðja 18. öld, orðið frægastur allra hjáleigubænda á Brjánslæk, enda talinn sjá gegnum holt og hæðir og kunna að vekja upp drauga. Frá Gísla Konráðssyni er flest það komið er segir frá Jóni skóla Jónsyni í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar[50] sem hér er byggt á.

Jón skóli ólst upp hjá fátækri móður sinni á Grund í Reykhólasveit, var þá við hana kenndur og kallaður Hólmfríðarson. Jón faðir hans var norðlenskur að ætt en hafði dáið ungur. Er Jóni Hólmfríðarsyni óx fiskur um hrygg fór hann norður til ættingja sinna og komst í Hólaskóla. Þaðan var hann rekinn fyrir fjölkynngi en hlaut af skólavistinni viðurnefnið skóli.

Hann bjó síðan í Arnarfirði og á Barðaströnd og fluttist að Undirtúni frá bænum Krossi hér nokkru utar á Ströndinni. Jón skóli þótti jafnan stríðinn við heldra fólk. Eitt sinn sendi hann Ólafi Árnasyni, sýslumanni í Haga, tilkynningu um vogrek og kvaðst hafa fundið kút stóran, einbytnu með einhverju í, sem ekki væri dökkleitt. Vissi Jón skóli sem var að Ólafur og Halldóra kona hans þustu jafnan á vettvang þar sem einhver var fjárvon. Orðsendinguna um vogrekið fékk sýslumaður að morgni hvítasunnudags. Lét hann þá fresta messu en reið með konu sinni til strandar að vitja kútsins stóra. Á fjöru þeirri sem til var vísað reyndist hins vegar ekkert vogrek að finna en aftur á móti stóð þar í flæðarmáli koppur vænn fullur af hlandi.

Um fjarskyggni Jóns skóla er sögð þessi saga. Um 1780 bjuggu í Neðra-Rauðsdal hjónin Guðmundur Einarsson og Guðrún Eggertsdóttir, dóttir Eggerts síðar bónda í Hergilsey Ólafssonar. Þau voru í góðu vinfengi við Jón skóla. Eitt sinn tapaði Guðmundur silfurhnöppum er hann hafði á skyrtukraga sínum og vissi ekki hvort hann hefði týnt þeim á landi eða sjó. Bað Guðmundur Jón skóla að komast eftir því hvar hnapparnir væru.

 

Jón lést ekki geta það, tók samt fjöl og krítaði á hana tölustafi, að því er Ástríði sýndist, dóttur þeirra hjóna, en hún hefur sagt frá þessu. Þá er Jón hafði krítað um hríð sagði hann að hnapparnir hefðu týnst á landi. Fóru þau síðan þrjú að leita Jón, Guðrún og Ástríður. Þrjár götur liggja upp með fossi litlum í ánni [Rauðsdalsá] og er ein þeirra sjaldnast farin. Þegar þau höfðu leitað um hríð sagði Jón að þeim tækist illa leitin. Gekk hann síðan á sjaldförnu götuna, greiddi grasið lítið eitt frá og tók þar upp hnappana.[51]

 

Ástríður Guðmundsdóttir, sem þátt tók í hnappaleitinni og sagði söguna, varð síðar húsfreyja í Skáleyjum og amma þeirra séra Matthíasar Jochumssonar og Sigríðar stórráðu Magnúsdóttur frá Skáleyjum.

Svo sem áður sagði andaðist séra Guðbrandur Sigurðsson á Brjánslæk árið 1779. Að presti látnum var Jón skóli á vist með Sigríði, ekkju hans, seinasta veturinn sem hún bjó á Brjánslæk, þá gamall orðinn. Lét hún karlinn fylgja mjaltakonum í fjósið á kvöldin. Fyrir það fékk hann merkurausu af nýmjólk og líkaði karli vel. Hins vegar voru mjaltakonurnar ekki sáttar við fylgd gamla mannsins og báðust undan henni. Fékk Jón nú ekki lengur að fara í fjósið og tapaði því aukasopanum. Mjaltastúlkurnar á Brjánslæk voru þó ekki búnar að bíta úr nálinni því að nú hófust margvísleg undarlegheit í fjósinu á kvöldin og mögnuðust dag frá degi. Fjórða kvöldið kom stelpa ein inn á flórinn allógurleg. Náði hún stundum upp í rjáfur en var stundum ekki stærri en ungbarn. Ókind þessi ýldi og skrækti þar í flórnum og glennti sig á alla vegu. Mjaltakonurnar hnipruðu sig saman lafhræddar í einum básnum og þorðu ekki einu sinni út úr fjósinu.

Sigríði prestsekkju fór nú að lengja eftir stúlkunum og mjólkinni og sendi Jón skóla af stað að gá. Hann fór í fjósið og urðu mjaltastúlkurnar fegnar komu hans. Báðu þær hann blessaðan að fylgja sér jafnan í fjósið upp frá því. Því lofaði Jón en stelpuna í flórnum, sem tekið hafði á sig ýmsar myndir og ekki allar fallegar, tók hann nú við hönd sér og leiddi hana upp í kirkjugarð.

Ekki löngu síðar fluttist Jón skóli til vinar síns, Eggerts Ólafssonar í Sauðeyjum (síðar í Hergilsey) og í Sauðeyjum dó Jón áttræður að aldri árið 1783.[52]

Liðlega eina sjómílu undan landi, úti fyrir mynni Vatnsfjarðar, er Engey, allstór eyja sem liggur undir Brjánslæk. Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar segir að þar séu slægjur góðar og beit fyrir lömb framan af vetri, einnig lundatekja.[53] Í sóknarlýsingu frá 1840 er Engey sögð vera um 12 dagsláttur og Pétur frá Stökkum segir það gamalt mál að eyjan skilaði átta kýrfóðrum af töðugæfu heyi í meðalári.[54]Hefur hún löngum verið talin fóturinn undir jörðinni, bætur Pétur við.[55]

Fullvíst má telja að Brjánslækjarmenn hafi snemma tekið að nýta Engey til heyskapar. Til marks um það er reyndar lítil saga í Jarteinabók Þorláks byskups Þórhallssonar hinni yngstu sem talin er rituð um 1300. Þar segir frá karli og konu á Brjánslæk er voru við heyverk í eyju sinni. Er þau komu í land vildi karlinn, sem Hallur hét, brýna bátnum en þá tókst svo slysalega til að hann rak andlitið í ljáinn sem lá í stafni skipsins. Var það mikið sár og skarst nefið nær alveg af Halli svo að lítið eina helt.[56] Í sögunni segir síðan:

 

Eftir það tók hann þar til og lagði nefið við upp þar sem það hafði verið og hélt að og gekk svo heim til bæjarins. Og sem hann kom heim hétu þeir Andrés bóndi báðir og Hallur á almáttugan guð að upphafi og hinn sæla Þorlák biskup til árnaðarorðs að gefa hálfan eyri til Skálaholts til þess að hann mætti heill verða, lýtalaus af sárinu, og að honum stæði það ekki lengi fyrir vinnu.

 

Var síðan búið um sárið og eftir þrjá daga var það algróið að kalla. – Lofaði hann og allir aðrir, þeir er sáu, svo háleita jarteikn, guð og hinn sæla Þorlák biskup.[57]

Ætla má að Brjánslækjarmenn hafi oftast nýtt Engey sjálfir til heyskapar en stundum hefur hún þó verið leigð öðrum. Árið 1886 höfðu Eyjamenn úr Flateyjarhreppi Engey á leigu og heyjuðu þar.[58]

Í röðum náttúruvísindamanna er Brjánslækur þekktastur fyrir surtarbrandinn sem hér er að finna í meira mæli en víðast annars staðar á landinu. Surtarbrandinn á Brjánslæk rannsökuðu fyrstir manna árið 1753 þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson. Í Ferðabók sinni gerir Eggert skilmerkilega grein fyrir rannsóknum þeirra félaga á surtarbrandi víða um Vestfirði, m.a. á Brjánslæk.[59] Hann segir þar að hvergi á Íslandi sé surtarbrandur jafn algengur og á Vestfjörðum. Eggert ritar:

 

Helsti fundarstaður hans er hjá Læk [þ.e. Brjánslæk – innsk. K.Ó.] á Barðaströnd. Þar skerst gil eitt mikið inn í fjallið og fellur á úr því og opnast gilkjafturinn til suðurs. Vesturhlíð þess er mjög brött og 175 fet á hæð en hæð fjallsins er alls 754 fet en gilið er 200 faðma langt. Í hlíðum gilsins eru regluleg lárétt hamrabelti, sem þó eru ólík bæði að efni og þykkt. Bergið í þeim er járnblandið en í milli hinna eiginlegu hamralaga eru lög af brúnleitu móbergi eða sandsteini, sem er lítið eitt leirblandinn. Surtarbrandurinn sést alllangt að vegna hins gljásvarta litar síns. Hann er aðallega í fjórum lögum, hverju upp af öðru. Liggja þau á vinstri hönd þegar farið er inn eftir gilinu. Þau koma í ljós á 126 feta löngu svæði en eru misþykk, eða 2, 3 og 4 fet á þykkt. Efsta lagið er í 25 feta hæð fyrir ofan árbakkann.[60]

 

Eggert lýsir þessu öllu nánar þó ekki verði rakið hér. Gilið á Brjánslæk, sem Eggert talar um, er nú jafnan nefnt Surtarbrandsgil. Um það fellur Brjánslækjará, sem ekki er nema dálítill lækur, og síðan áfram norðan við gamla túnið í átt til sjávar.[61] Svo sem flestum mun kunnugt þá er surtarbrandurinn steingerðar leifar af plöntu- og trjágróðri frá fyrri skeiðum jarðsögunnar þegar loftslag var hér mun hlýrra en verið hefur síðustu árþúsundin.

Fjölmargir vísindamenn hafa á síðari tímum rannsakað surtarbrandinn á Brjánslæk og þau steingerðu blaðför sem þar er að finna. Þorvaldur Thoroddsen kannaði gilið árið 1886 og komst m.a. að þeirri niðurstöðu að hlynur hefði verið algengasta trjátegundin á Barðaströnd á þeim forsögulegu öldum þegar skógarnir miklu, sem síðar urðu að surtarbrandi, teygðu krónur sínar til himins.[62] Með síðari rannsóknum steingervinga frá Brjánslæk hefur tekist að færa sönnur á að margar fleiri trjátegundir hafa einnig vaxið hér á þessu löngu liðna hlýskeiði jarðsögunnar, elrir, álmur, beyki, hickoritré, platanviður, kastaníutré, greni og fura. Í söfnum steingervinga frá Brjánslæk hafa vísindamenn jafnvel talið sig finna merki um vínvið.[63]

Jóhannes Áskelsson náttúrufræðingur, sem mikið fékkst við rannsóknir steingervinga hérlendis, ritaði í tímaritið Náttúrufræðinginn árið 1954 á þessa leið:

 

Hvergi á Íslandi, svo kunnugt sé, eru surtarbrandslögin jafn auðug af skýrum förum eftir trjáblöð, fræ og aldin og ýmis önnur plöntulíffæri og í Surtarbrandsgili hjá Brjánslæk á Barðaströnd. Ég efast um að annars staðar í hinni tertíeru basaltmyndun Norður-Atlantshafssvæðisins sé um auðugri garð að gresja fyrir þá, sem kanna vilja fornan gróður þessa svæðis. Að minnsta kosti koma hin írsku og skosku surtarbrandslög, sem ég hef átt kost á að skoða, ekki í hálfkvisti við Brjánslækjarlögin. Gildir það jafnt, að ég held, um fjölskrúð flórunnar og um fegurð og skýrleik blaðafaranna, sem mótast hafa í steininn.[64]

 

Áður en haldið verður brott frá Brjánslæk er rétt að huga lítillega að helstu leiðum sem héðan liggja. Hér var áður fjallað um leiðir með Vatnsfirði og þaðan í austur en ferðalangar sem stöldruðu við á Brjánslæk á fyrri tíð komu víða að og héldu í ýmsar áttir. Sumir áttu erindi út í Breiðafjarðareyjar en úr allri Vestur-Barðastrandarsýslu er einna styst frá Brjánslæk til byggðra eyja í Flateyjarhreppi. Frá Brjánslæk í Hergilsey var talinn fimm stunda róður[65] en leiðin mun vera um sjö og hálf sjómíla.

Alfaravegur lá frá Brjánslæk um Lækjarheiði til Trostansfjarðar í Suðurfjörðum Arnarfjarðar. Er það um sextán kílómetra leið og farið hæst í 568 metra hæð í Lækjarskarði þar sem bæði hallar suður og norður af. Þessa leið hlupu menn að sögn milli bæja á þremur klukkutímum.[66] Við gömlu þjóðgötuna sem farin var í átt til heiðarinnar stendur, skammt fyrir ofan Brjánslæk, stór stakur steinn og heitir Einbúi. Munnmæli herma að sjöundi hver prestur á Brjánslæk gangi í Einbúa á hverju aðfangadagskvöldi um miðaftansleytið og komi þá eigi aftur til manna fyrr en á sunnudaginn milli jóla og nýárs.[67]

Annar fjallvegur lá frá Brjánslæk í vestur að fjallabaki niður í Vaðalsdal og að bænum Vaðli á Barðaströnd. Var þá farið norðan Kikafells, sem er hæst fjalla á þessum slóðum (610 m), og heitir þar einnig Lækjarskarð. Þessi leið er um tíu kílómetrar milli bæja og hefur trúlega ekki verið fjölfarin því að þjóðleiðin með ströndinni er litlu lengri. Hana höldum við nú.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Íslensk fornrit I, 39.

[2] Jóhann Skaptason 1959, 94 (Árbók F.Í.).

[3] Dipl. isl. VIII, 267.

[4] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 269.

[5] Vestfirskar sagnir I, 117-118.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Íslensk fornrit I, 39.

[9] Sigurður Vigfússon 1893, 9-15 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[10] Íslensk fornrit I, 38.

[11] Sama heimild, 39.

[12] Sama heimild, 38.

[13] Jóhann Skaptason 1959, 96 (Árbók F.Í.).

[14] Sturlunga saga II, 11.

[15] Arnór Sigurjónsson 1975, 216.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild, 217.

[18] Ísl. æviskrár I, 196.

[19] Einar Guðmundsson, Seftjörn. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[20] Sama heimild.

[21] Arnór Sigurjónsson 1975, 305 og 349.

[22] Dipl. isl. VIII, 266-269.

[23] Sturlunga saga I, 364-365.

[24] Sveinn Níelsson 1950, 177-178.

[25] Sturlunga saga I, 431.

[26] Vestfirskar sagnir I, 99.

[27] Gísli Konráðsson 1980, 61.

[28] Vestf. sagnir I, 100.

[29] Ísl. æviskrár II, 113.

[30] Vestf. sagnir I, 111.

[31] Sama heimild.  Bergsveinn Skúlason 1982, I, 151.

[32] Vestf. sagnir I, 110.

[33] Sama heimild, 111-113.  Jakob Aþanasíusson /Þorsteinn Erlingsson 1933, 31-32.

[34] Vestf. sagnir I, 117.

[35] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 86.  Sbr. Þjóðsögur og þættir 1981, I, 33-34.

[36] Vestf. sagnir II, 42.

[37] Vestf. sagnir II, 54.

[38] Sama heimild, 56.

[39] Guðmundur Einarsson 1951, 76 (Árbók Barð þjóðsögur I, 114.

[39] Læknar á Íslandi 1970, I, 201 og II, 77.

[39] Læknar á Íslandi 1984, 109.  Hallbjörn Oddsson 1959, 162-165 (Ársrit S.Í.).

[39] Matthías Jochumsson 1959, 379.

[39] Prestsþ.bók Brjánslækjar 1897-1968, bls. 49.

[39] Matthías Jochumsson 1959, 379.

[39] Jóhann Skaptason 1959, 96 (Árbók F.Í.).

[40] Hákon Kristófersson 1952, 48 (Árbók Barð.).

[41] Guðmundur Einarsson 1951, 76.  Vestf. sagnir I, 114.

[42] Læknar á Íslandi 1970, I, 201 og II, 77.

[43] Læknar á Íslandi 1984, 109.  Hallbjörn Oddsson 1959, 162-165 (Ársrit S.Í.).

[44] Matthías Jochumsson 1959, 379.

[45] Prestsþ.bók Brjánslækjar 1897-1968, bls. 49.

[46] Matthías Jochumsson 1959, 379.

[47] Jóhann Skaptason 1959, 96.

[48] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 201.

[49] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 269-271.

[50] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur III, 182-187.

[51] Sama heimild, 185-186.

[52] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur III, 187.

[53] Jarðabók Á. og P. VI, 269-271.

[54] Sóknalýs. Vestfjarða I, 195. Pétur Jónsson 1942, 73 (Barðstrendingabók).

[55] Pétur Jónsson 1942, 73 (Barðstrendingabók).

[56] Byskupasögur I. 243.

[57] Byskupasögur I, 243-244.

[58] Þorvaldur Thoroddsen Ferðabók II, 1959, 38-39.

[59] Eggert Ólafsson 1975, I, 240-249.

[60] Sama heimild, 241.

[61] Jóhann Skaptason 1959, 94 (Árbók F.Í).

[62] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 35 (Ferðabók II).

[63] Jóhannes Áskelsson 1961, 48-53 (Náttúra Íslands).

[64] Sami 1954. Myndir úr jarðfræði Íslands II, 92 (Náttúrufræðingurinn 24. árg.).

[65] Ebenezer Henderson 1957, 292.

[66] Jóhann Skaptason 1959, 96 (Árbók F.Í.).

[67] Þjóðsögur og þættir I, 1981, 15.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »