Dynjandi

Bærinn Dynjandi stóð fyrir botni Dynjandisvogs í nánd við ós Dynjandisár en hún á upptök sín í Eyjavatni[1] sem liggur í 350 metra hæð. Skammt frá bænum sem áður var fellur fossinn Dynjandi fram af fjallsbrúninni niður nær 100 metra hátt bungumyndað berg, mestur og fegurstur allra fossa á Vestfjörðum. Efst er hann um 30 metrar á breidd en 60 metrar neðst og sést víða að úr Arnarfirði. Í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 segir séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri að bærinn taki nafn sitt af fossinum og aldrei mun hann hafa verið nefndur annað en Dynjandi fyrr en einstaka menn fóru að kalla hann Fjallfoss á fyrri hluta okkar aldar.[2] Því olli sérkennilegur misskilningur sem nú hefur verið leiðréttur.[3]

Ritaðar heimildir sýna að á síðari öldum var bæjarnafnið Dynjandi yfirleitt beygt sem karlkynsorð. Jón Sigurðsson forseti, sem ólst upp á Rafnseyri, nefnir, svo dæmi sé tekið, Símon bónda „á Dynjanda“[4]og er sjálfsagt að halda sig við það. Á 16. öld mun bæjarnafnið þó hafa verið beygt sem kvenkynsorð því Eggert lögmaður Hannesson getur í reikningum sínum frá árinu 1570 um Hildibrand, bónda „á Dynjandi“.[5] Í samsettum orðum, tengdum Dynjanda, hefur forn eignarfallsmynd með endingunni -is haldið velli í Arnarfirði allt fram á þennan dag og fer vel á því að svo verði áfram.[6] Þórður Njálsson, bóndi og hreppstjóri á Auðkúlu, sem hér var rótgróinn, ritaði án hiks, árið 1951, Dynjandisá, Dynjandisvogur og Dynjandisheiði[7] og ættu þeir sem fjær standa að taka mark á honum. Jörðin Dynjandi í Arnarfirði var 18 hundruð að fornu mati[8] og á hún allt land við Dynjandisvog og upp frá honum til efstu brúna.[9] Hér var enn mikill skógur í byrjun 18. aldar og er tekið fram í Jarðabókinni frá 1710 að hann sé „bjarglegur … til raftviðar“ og nægur til kolagerðar og til eldiviðar.[10] Vegna skógarins og vetrarbeitarinnar var Dynjandi talinn „góð jörð eftir dýrleika“.[11]

Á 15., 16. og 17. öld var jörð þessi löngum í eigu ríkismanna sem búsettir voru utan Arnarfjarðar[12] en árið 1745 keypti hana Jón Arnórsson[13] sem talinn er hafa búið hér.[14] Sonur hans og sonarsonur, þeir Jón Jónsson og Páll Jónsson, bjuggu hér líka báðir og áttu jörðina.[15]

Árið 1824 tóku við búi á Dynjanda sonardóttir nýnefnds Páls Jónssonar, Þorbjörg Bjarnadóttir, og eiginmaður hennar, Símon Sigurðsson,[16] og náðu þau að eignast jörðina.[17] Símon stóð fyrir búi á Dynjanda í 34 ár, frá 1824 til 1858 og gerði garðinn frægan. Hann hafði áður verið skútuskipstjóri á Flateyri um nokkurt skeið og stýrði þaðan til veiða fyrsta þilskipinu sem gert var út frá heimahöfn í Ísafjarðarsýslu (sjá Flateyri). Símon „skipherra“, er svo var nefndur, var norðan úr Eyjafirði, fæddur 19. maí 1788, en foreldrar hans áttu þá heima á Þúfnavöllum í Hörgárdal.[18] Stýrimannafræði er hann talinn hafa numið í Danmörku eða Þýskalandi[19] og á búskaparárum sínum hér á Dynjanda var hann lengi skipstjóri á skútum.

Sumarið 1834 festu þeir Símon á Dynjanda og Jón Bjarnason, mágur hans í Stapadal, kaup á danskri fiskijakt sem hét Margarethe Maria.[20] Skipið keyptu þeir í Sönderborg á Suður-Jótlandi og lofuðu að greiða seljandanum á næsta ári 700 spesíur.[21] Til tryggingar greiðslu skuldarinnar settu þeir 96 jarðarhundruð að veði.[22] Kaupin á Margréti Maríu sættu miklum tíðindum því skip þetta virðist hafa verið fyrsta skútan sem bændur í Ísafjarðarsýslu réðust í að kaupa og gera út.[23] Jaktin var gerð út frá Dynjanda í sex ár. Í Margréti Maríu áttu þeir Símon og Jón sinn helminginn hvor og var Símon skipstjóri en Jón stýrimaður.[24] Í ritgerð sinni frá árinu 1832 um þilskipaútgerð segir Guðmundur Scheving í Flatey að Símon á Dynjanda sé „listamaður og fjörmaður mikill“.[25] Hann nefnir líka að árið 1822 hafi afli Símonar verið 50 skippund af „klipfiski“ og 108 tunnur af hákarlslifur.

Blítt er veðrið blessaða,

blikar á seglið hvíta.

Stýrir Símon sterklega,

stórt er skip að líta.

Með þessum vísuorðum túlkaði einn sveitungi Símonar og samtíðarmaður hughrif sín er hann sá bóndann á Dynjanda stýra skipi sínu um Arnarfjörð[26] og ætla má að hér um slóðir hafi framtak sægarpsins norðlenska vakið áræði og kjark hjá yngri mönnum. Símon var líka frábær skutlari, skutlaði bæði sel og hval,[27] og þegar synir hans komust á legg gerði hann tvo til þrjá báta út til selveiða.[28] Fengust þá stundum 80–100 selir á bát yfir vertíðina.[29] Niðri við sjóinn var á dögum Símonar sérstakt „selhús“, um 15 metrar á lengd.[30] Þar geymdi hann selspikið fram á vor en þá var það brætt.[31]

Haustið 1845 var Símon hreppstjóri og var þá með 17 manna heimili.[32] Sex börn þeirra hjóna voru þá heima, fjórir synir og tvær dætur, og voru þau á aldrinum 12 til 22ja ára.[33] Sigurður Símonarson frá Dynjanda varð kunnur skútuskipstjóri og Markús Bjarnason, fyrsti skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík, var sonarsonur Símonar.[34] Símon Sigurðsson andaðist heima á Dynjanda vorið 1859 en sonur hans og tengdadóttir, þau Páll Símonarson og Sigríður Jónsdóttir, höfðu tekið við búsforráðum einu ári fyrr[35] og bjuggu hér fram yfir 1870.[36]

Árið 1951 féll jörðin í eyði[37] en okkur sem nú erum á ferð gefst kostur á að njóta hér næðis og svipast um. Fjallið vestan við voginn heitir Urðarfjall en norðan við hann er Meðalnesfjall. Milli Dynjanda og Langabotns í Geirþjófsfirði liggur Dynjandisheiði og þótti ærið bratt upp að komast hér að norðanverðu og illfært með klyfjaðan hest[38] en lagt var á brattann skammt fyrir utan túnið. Frá Dynjanda var einnig lagt upp í ferðir yfir Glámu, norður að Ísafjarðardjúpi, og stundum farin fjallasýn, sunnan Glámu, suður í Múlasveit við Breiðafjörð eða lengra (sbr. Botn í Dýrafirði).

Utantil við túnið á Dynjanda byggði Símon skipstjóri hróf fyrir þilskip sitt[39] og þar stóð það uppi að vetrinum. Tóttirnar sáust enn um 1950.[40] Þarna eru nú gamlar grjóthleðslur við lítinn læk. Sjávargrundin utan við þær heitir Engelskranes og rétt utan við það var bátur hafður í nausti á árunum kringum síðustu aldamót.[41] Ofan við túnið á Dynjanda og skammt frá ánni er lítil upphlaðin laug með 25–30 gráða heitu vatni.[42] Hleðslurnar eru gamlar að sjá og má ætla að laugin hafi á fyrri tíð verið notuð til þvotta eða sem setlaug.

Í Dynjandisá eru sex smærri fossar neðan við sjálfan Dynjanda. Röð þeirra talið að ofan er þessi: Hæstahjallafoss, Strompgljúfrafoss eða Strompur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss, Hundafoss og Bæjarfoss sem einnig hefur verið nefndur Sjóarfoss.[43] Nafnið á Göngumannafossi skýrist af því að stundum er hægt að ganga á bak við hann án þess að rennblotna.[44] Í kvísl sem fellur úr meginánni neðan við hann er svo Kvíslarfoss.[45]

Árið 1899 voru allir fossarnir í landareign Dynjanda leigðir Oddi V. Sigurðssyni „vélfræðingi í London“ er hugðist nýta afl þeirra „til að reka vélar“.[46] Leigugjaldið átti að verða 50 krónur á ári.[47]

Óvíða á byggðu bóli er vatnaniður meiri á landi hér en í túnfætinum á Dynjanda. Oft heyrast dunurnar langar leiðir og gleðja eyru þeirra sem ganga um hlað á Rafnseyri, í ellefu kílómetra fjarlægð. Frá sama bæjarhlaði blasir fossinn Dynjandi líka við augum, máttugt náttúruafl í hárri tign. Dynurinn og þankar um Símon fylgja okkur á leið er við örkum sem leið liggur í norðurátt, með ströndinni fyrir botni Dynjandisvogs. Norðan við Dynjandisá er Stórhóll, rétt fyrir ofan akveginn.[48] Ranann sem gengur fram úr honum nefndu menn Álfakirkju.[49] Norðan við hólinn fellur önnur á út í vogsbotninn og er það Svína. Hún kemur ofan af Dynjandisdal sem áður hét Sviðningsdalur.[50] Í máldögum Rafnseyrarkirkju frá 14. og 16. öld er tekið fram að reka megi svín hennar og kálfa á Neðstukleif í Sviðningsdal[51] í landareign Dynjanda[52] og mun kleifin vera í dalbotninum.[53] Ætla má að nafnið á ánni Svínu tengist hinum rýtandi skepnum, sem forðum gengu hér um haga,[54] en nafnið Sviðningsdalur eigi rætur að rekja til kolagerðar í skógi.

Akvegurinn á Dynjandisheiði liggur nú upp frá ströndinni norðan við ós Svínu og meðfram henni um dalinn til fjalls. Við fetum okkur hægt upp með ánni og skyggnumst um skamma hríð. Fyrsti stóri hjallinn heitir Veðraskarðahjalli[55] en nokkru ofar fellur í Svínu svolítill lækur úr norðurhlíð dalsins og heitir hann því merkilega nafni Kedron.[56] Það er sótt í píslarsöguna í heilagri ritningu kristinna manna því Kedron hét lækurinn sem Jesús gekk yfir á leið sinni í grasgarðinn þar sem hann var tekinn fastur skömmu fyrir krossfestinguna.[57] Í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar lærðu menn að þekkja Kedron. Þar hljóðar eitt versið svo:

 

Yfir um Kedrons breiðan bekk

blessaður þá með sveinum gekk.

Sá lækur nafn af sorta ber.

Sýnir það góðan lærdóm mér.

 

Á hebresku mun orðið kedron merkja dimmur eða blakkur svo Hallgrímur vissi vel hvað hann söng er hann færði orðin „sá lækur nafn af sorta ber“ í brag sinn.

Framan við Kedron og Kedronsmýri eru Seljahólar.[58] Þaðan sást í gamla selið frá Dynjanda en rústir þess eru að sögn í Seljabrekkum er svo heita.[59] Þar var mikið slægjuland.[60] Frá bæjarhlaðinu var aðeins hálftíma gangur fram í selið.[61] Nokkru framar tekur Afréttardalur við af Dynjandisdal (Sviðningsdal) og fellur áin Svína um báða dalina. Í fjalllendinu upp frá botni Afréttardals er strýtumyndaður hóll við lítið stöðuvatn og heitir hann Samkomuhóll.[62] Jón G. Jónsson sem ólst upp á Dynjanda og varð hreppstjóri á Bíldudal, fæddur 1900, segir að við hól þennan hafi enn, á fyrri hluta okkar aldar, mátt sjá forna götutroðninga.[63] Kenning hans er sú að þarna hafi legið „þingreiðarvegur“ Arnfirðinga er þeir riðu á fjórðungsþing í Þorskafjörð og til Alþingis við Öxará.[64] Að sögn Jóns er hóllinn í 374 metra hæð yfir sjávarmáli, á landamerkjum Dynjanda og Borgar, og sér þaðan um víða vegu.[65]

Fyrir botni Dynjandisvogs er Búðavík nyrst.[66] Þar var á öldum áður hjáleiga frá Dynjanda en hún féll í auðn fyrir 1650.[67] Í víkinni voru seinna beitarhús[68] og verbúðir selveiðimanna.[69] Vera má að víkin dragi nafn af slíkum búðum en hér mátti forðum heyra glaða hlátra og glímuskelli fengsælla selveiðimanna á kyrrum vetrarkvöldum. Að sögn kunnugra eru hjáleigutóttirnar aðeins nær bænum en tóttir beitarhúsanna og alveg við fjöruna.[70] Frá Búðavík liggur vegurinn út með Búðavíkurhlíð, uns komið er á Meðalnes[71] sem skilur að Dynjandisvog og Borgarfjörð, en báðir skerast þeir inn í landið fyrir botni Arnarfjarðar. Yst á Meðalnesi, mitt á milli neðstu kletta og fjörunnar, er dálítill hjalli sem heitir Seti.[72] Í álíka hæð en aðeins sunnar er „bogamynduð hleðsla“ sem menn nefndu Bjartmarshaug eða Mársdys[73] og höfðu í munnmælum að þar væri heygður Bjartmar Ánarson sem í Gísla sögu Súrssonar er sagður hafa búið á bænum Eyju í Arnarfjarðarbotni.[74] Rétt innan við tána á Meðalnesi er Stórihryggur, neðan við hjallann Seta, og við þann hrygg eru landamerki Dynjanda og Borgar.[75] Þaðan eru liðlega þrír kílómetrar að Dynjanda en fjórir að Borg.

 

 

[1]  ÖÖ.

[2] KÓ Mbl. 27.2.1988.

[3] Sama heimild. Stjtíð. 1986 B, bls. 735–736.

[4] LKr 1955, 25.

[5] D.I. XV, 474.

[6] ÞN 1951, 164 (Árbók F.Í.)  Sbr. Jb. Á. og P. VII, 10 og 11.

[7] ÞN 1951,164.

[8] Jb. Á. og P. VII, 9.

[9] ÖÖ.

[10] Jb. Á. og P. VII, 9–10.

[11] Sóknalýs. Vestfj. II, 33.

[12] D.I. IV, 265, IX, 243–244, X, 347–348, XII, 299–301 og XIV, 351–352. Lbs. 797 4to. Jarðaskrár úr Ísafjs. frá árunum 1658 og 1695. Jb. Á. og P. VII, 9. Ísl. æviskrár I, 248 og 251, II, 247–248 og IV, 104.

[13] Alþb. Ísl. XIII, 404.

[14] Vestf. ættir I, 57.

[15] Sama heimild. Manntöl 1762 og 1801. Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. Sbr. Alþb. Ísl. XV, 49 og 52–55.

[16] Skjs. sm. og svstj. Ís. XX. 1, bsk. 1821–1824. Vestf. ættir I, 57. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 261.

[17] JJ 1847, 191.

[18] Prþjb. Myrkár. Manntal 1816, 688.

[19] GilsG 1977 I, 106–109.

[20] Skjs. sm. og svstj. Ís. XVI. 1. Veðmb. 1801–1844, 61–62.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Sbr. GSchev 1832 (Ármann á Alþingi), 86–91 og VA III 407, bsk. 1837. Sbr. einnig GilsG 1977 I, 144–145 og Vestf. ættir I, 332.

[24] Skjs. sm. og svstj. Ís. XVI. 1. Veðmb. 1801–1844, 61–62. VA III 243, nr. 1847 II. Vottorð um lækningar GG dags. 29.8.1834 og undirskrifað af Jóni Bjarnasyni og Kristínu Bárðardóttur í Stapadal. ÞN 1951, 159.

[25] GSchev 1832, 88.

[26] GilsG 1977 I, 108–109.

[27] ÞN 1951, 159–160. ÞErl 1933, 65–66.

[28] ÞN 1951, 159–160.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild. Sbr. Auðkúluhreppur.

[32] Manntal 1845.

[33] Sama heimild.

[34] GilsG 1977 I, 109.

[35] Prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[36] Sömu heimildir.

[37] Firðir og Fólk 1900-1999, 115.

[38] Sóknalýs. Vestfj. II, 19. SV 1883, 42 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[39] Sóknalýs. Vestfj. II, 25. ÖÖ.

[40] ÞN 1951, 159.

[41] ÖÖ.

[42] ÞTh 1959 II, 128. ÖÖ.

[43] ÖÖ. ÞN 1951, 159.

[44] ÞN 1951, 159. (Árbók F.Í.).

[45] ÖÖ.

[46] Skjs. sm. og svstj. Ís. XVI. 9. Veðmb. 1898–1907, 103–104. Sbr. GFr 1997, 178–179 og 212.

[47] Sama heimild. Sbr. SigR 1976, 125–137 og 1977, 206–213 (Saga tímarit).

[48] ÖÖ.

[49] Sama heimild.

[50] ÖÖ. ÞN 1951, 158–159 (Árbók F.Í.). Sóknalýs. Vestfj. II, 19.

[51] D.I. III, 298, IV, 145 og XV, 579.

[52] Jb. Á. og P. VII, 15–16.

[53] Sóknalýs. Vestfj. II, 19.

[54] Sbr. ÞTh 1922 IV, 70.

[55] ÖÖ.

[56] Sama heimild. JónaG KÓ 25.7.1998.

[57] Biblía. Jóh. 18, 1.

[58] ÖÖ.

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild.

[62] ÖÖ.

[63] ÖÖ.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Jb. Á. og P. VII, 9–10.

[68] Jb. Á. og P. VII, 9–10.

[69] Vestf. þjóðs. II. 2., 27. Sbr. Auðkúluhreppur.

[70] ÖÖ.

[71] Sama heimild.

[72] Vestf. sagnir I, 13–14.

[73] ÖÖ.

[74] Vestf. sagnir I, 13–14. SV 1883, 41 (Árbók Hins ísl. fornl. félags). Sbr. Ísl. fornrit VI, 37.

[75] ÖÖ.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »