Bærinn á Felli stendur norðan undir Mýrafelli og eru þangað rösklega tveir kílómetrar frá Mýrum. Sé farið um þjóðveginn frá Mýrum að Núpi er Fell á vinstri hönd en túnin á eyðibýlunum, Meira-Garði og Minna-Garði, hægra megin við veginn. Á þessari leið heitir Fellsleiti þar sem vegurinn liggur hæst. Rétt utan við það er bærinn á Felli og stendur nokkuð hátt við rætur Mýrafells. Fell er gömul bújörð, 12 hundruð að dýrleika,[1] og nafn sitt hefur hún efalaust fengið vegna nálægðarinnar við Mýrafell. Um Mýrafellið, sem í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar er nefnt Sölólfsfell, hefur áður verið rætt á þessum blöðum (sjá hér Mýrar) og frá landamerkjum Fells er greint á öðrum stað (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 282) en jörðin á hvergi land að sjó.
Um kosti og ókosti jarðarinnar Fells í Mýrahreppi segir svo í Jarðabókinni frá 1710:
Útigangur í heimalandi er lítill en jörðin á beitarítak í Mýralandi og bætir það útiganginn. Torfrista og stunga bjargleg, móskurður sæmilegur. Fjalldrapi og lyngrif lítið. Vatnsból bregðast bæði vetur og sumar og er þá merkilega langur vatnsvegur í úthaga og stundum verður að þíða snjó og klaka. Ágang líður jörðin frá Læk og Minna-Garði og spillir það oftlega heyskapnum.[2]
Talið var að á Felli mætti fóðra tvær kýr.[3]
Í Sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum frá árinu 1840 er landkreppa sögð mikil á Felli og túnið harðlent, en einnig er tekið fram að þar sé vetrarþungt.[4]
Um Fell er hvergi getið í rituðum heimildum frá því fyrir 1500 en í bréfum frá árinu 1538 er jörðin nefnd og var þá orðin eign Mýrakirkju (sjá hér Mýrar). Kirkjan átti þessa jörð æ síðan uns breyting varð þar á í kringum aldamótin 1900 (sjá hér Mýrar).
Ekki er alveg ljóst hvenær Mýrakirkja eignaðist Fell en í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 er ekki getið um neinar jarðeignir kirkjunnar svo ætla verður að hún hafi eignast Fell á tímabilinu frá 1397 til 1538. Ýmsum kynni að detta í hug að jörðin hafi byggst sem hjáleiga frá Mýrum á 14. eða 15. öld en svo virðist ekki vera. Í máldögum frá 14. öld er getið um ítök Mýrakirkju í löndum annarra jarða og þar er meðal annars talin upp náttbeit undan Felli á Nautahjalla og tekið fram að Mýrakýrnar megi reka til þessa náttstaðar svo að feli sýn hinnar síðustu kýr,[5] og hlýtur þá að vera átt við að kýrnar megi reka svo langt að engin þeirra sjáist lengur heiman frá Mýrum. Nautahjalli heitir enn í dag hjalli í Mýrafelli sem byrjar lítið eitt fyrir utan bæinn á Felli og nær út undir Taglið sem er ysti hluti Mýrafells.[6] Hjallinn er í Fells landi.[7] Ótvírætt sýnist vera að átt sé við þennan hjalla í hinum fornu máldögum sem hér var vísað til en annar þeirra er frá árinu 1367[8] og hinn frá árinu 1397.[9] Augljóst er líka að ekki gat verið um ítak að ræða ef hjallinn hefði verið í landi sjálfrar heimajarðarinnar á Mýrum og hjáleigur áttu ekkert land fyrir utan tún nema sameiginlega með móðurjörðinni.
Orð 14. aldar máldaganna um beitarrétt Mýramanna á Nautahjalla benda því til þess að Fell hafi þá þegar verið orðið sjálfstæð bújörð því langsóttara sýnist að gera ráð fyrir þeim möguleika að landareign Fells hafi áður tilheyrt Garði (Meira-Garði og Minna-Garði) eða Læk.
Í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er enn tekið fram að Mýrakirkja eigi beitarrétt á Nautahjalla,[10] en í Jarðabókinni frá 1710 er búið að snúa þessu við því þar segir að Fell eigi beitarítak í landi Mýra eftir Mýrakirkjumáldögum.[11] Vera má að þar sé rétt frá skýrt en grunur vaknar um misskilning eða misritun þar sem engin nánari grein er fyrir því gerð hvers eðlis þetta beitarítak hafi verið.
Fáum sögum fer af landsetum Mýrakirkju á Felli og má ætla að þeir hafi flestir látið fara lítið fyrir sér. Fyrsti bóndinn þar sem þekktur er með nafni hét Ívar Jónsson en hann bjó á Felli árið 1681.[12] Árið 1703 bjuggu þar hjón um fimmtugsaldur, Gísli Brandsson og Guðrún Bjarnadóttir, og líka húsmaður sem nærðist af sjóróðrum.[13] Í stórubólu, sem hér geisaði á árunum 1707-1709, fór jörðin í eyði[14] en árið 1710 var hins vegar aftur farið að búa á Felli. Þá urðu ábúendurnir tveir og bjuggu á sinni hálflendunni hvor.[15] Annar þeirra hét Sesselja Bjarnadóttir en hinn Guðmundur Þorkelsson.[16] Fyrir bóluna hafði landskuld af Felli verið þrjár vættir,[17] sem í landaurareikningi samsvaraði hálfu kýrverði. Fyrstu árin eftir bóluna var landskuldin hins vegar ekki nema tvær vættir.[18] Við bóluna fækkaði innstæðukúgildunum á Felli líka úr þremur í tvö en leigurnar eftir þau voru goldnar í smjöri heim að Mýrum.[19] Ábúð á Felli fylgdi lengi sú kvöð að leggja til mann í skiprúm á skipi Mýramanna yfir vorvertíðina en fyrst eftir bóluna mun þó ekki hafa verið gengið hart eftir þessu því í Jarðabókinni frá 1710 segir að kvöð þessa beri að rækja ef leiguliðar gjöra mann til sjóar en annars gelst þar ekkert fyrir.[20]
Þau Guðmundur og Sesselja sem bjuggu á Felli árið 1710 áttu sitt hvora kúna en þess utan var bústofninn lítill. Hjá Guðmundi einn kálfur, ein ær, fjórir veturgamlir sauðir og þrjú lömb, en hjá Sessselju níu ær, einn sauður gamall, tveir tvævetrir og þrír veturgamlir, átta lömb og eitt hross.[21]
Til samanburðar má geta þess að árið 1850 var bústofn Sveins Jónssonar, sem þá bjó á Felli, ein kýr, tólf ær, tólf lömb og einn hestur.[22] Sveinn hafði þá aðeins hálfa jörðina til ábúðar en hinn jarðarpartinn nytjaði Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum.[23] Á þessu ári var Sveini á Felli gert að greiða átta fiska (3,33% úr kýrverði) í útsvar. Af 49 bændum sem þá bjuggu í Mýrahreppi voru fimm með lægra útsvar en Sveinn á Felli.[24]
Á 18. og 19. öld var sjaldan búið í tvíbýli á Felli[25] en þó kom það fyrir eins og áður var nefnt dæmi um frá árinu 1710. Árin 1801 og 1845 var þar líka tvíbýli. Árið 1801 bjuggu tveir Jónar Jónssynir á Felli og áttu báðir syni sem hétu Jón.[26] Árið 1845 bjuggu Bjarni Bjarnason og Torfi Magnússon á Felli og segir um þann síðarnefnda að hann hafi grasnyt og félagsbú.[27] Með hliðsjón af því orðalagi má ætla að Torfi hafi að einhverju eða öllu leyti búið í félagi við hinn bóndann á jörðinni.
Þennan sama Torfa Magnússon lét Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum hafa byggingarbréf fyrir Felli vorið 1858.[28] Bréf þetta er dagsett 23. apríl þá um vorið og hefur varðveist með hreppsbók Mýrahrepps frá árunum 1835-1848.
Byggingarskilmálarnir sem Torfi skrifaði undir heima á Mýrum vorið 1858 eru í níu liðum og hljóða svo:
- Nefnd jörð (Fell) byggist með þremur ásauðarkúgildum eða 18 leiguám sem ábúandi ábyrgist, viðhaldi og uppyngi og svari ígildi þá frá jörðinni fer. Eftir nefnd þrjú kúgildi svarar hann sex fjórðungum [þ.e. 30 kílóum – innsk. K.Ó.] af hreinu vel verkuðu smjöri til prestsins í Mýraþingum árlega fyrir eða um Mikaelismessu.
- Landskuld af jörð þessari skal borgast árlega með tveimur lesvættum, nefnilega 20 pör gildra sokka og veturgamall sauður að haustlagi fyrir þriðju vættinni í gildi.
- Húsum jarðarinnar viðhaldi ábúandi á sinn kostnað og svari í forsvaranlegu standi þá frá jörðinni fer.
- Tún og engjar rækti og þrífi ábúandi sem best, ljái engum torfristu og ekki má hann taka húsfólk inn á jörðina.
- Ekkert má hann láta undan jörðinni ganga af því sem henni fylgt hefur og fylgja ber. Fóðurpening má hann engan taka án landsdrottins samþykkis.
- Móskurð jarðarinnar má hann engum ljá en skera má hann fyrir sjálfan sig svo mikið sem hann þarf og þar að auki að hann geti selt einn sexæringsfarm árlega ef hann vill og fari svo þrifalega sem unnt er með móskurðinn.
- Ábúandinn skal róa á mínum skipum [þ.e. skipum Guðmundar á Mýrum – innsk. K.Ó.] árlega og hafa mann með sér meðan hann á jörð þessari býr og vilji hann frá jörðinni fara skal hann segja eiganda til hennar um Mikaelsmessu haustinu áður.
- Allar tekjur og tíundir sem og skylduverk sem á jörðu þessari hvíla að lögum réttum skal hann skilvíslega greiða.
- Að framanskrifuðum skilmálum vel höldnum og uppfylltum er nefndum ábúanda jörðin frjáls og heimil í næstkomandi fardögum og svo lengi framvegis sem eiganda sýnist.[29]
Um þessa skilmála mætti margt segja en verður þó látið bíða betri tíma. Aðeins skal vakin athygli á sjöunda liðnum þar sem fram kemur að leiguliðinn var skuldbundinn til að róa á skipum kirkjueigandans og hafa annan mann með sér í verið. Slík kvaðavinna hefur varla verið algeng þegar komið var fram á síðari hluta 19. aldar.
Heiman frá bænum á Felli er um það bil þriggja mínútna gangur á kvíabólið sem var hér fyrir ofan túnið.[30] Á Felli var fært frá og ær mjólkaðar í kvíum fram um 1935 eða 1936.[31] Kýr voru einnig mjólkaðar á Bólinu.[32]
Frá hlaðinu á Felli ber Hádegiskletta við himin en þeir eru í brún Mýrafells, í suðaustur frá bænum.[33] Um mitt fellið liggur Langihjalli og nær að kalla eftir því endilöngu. Hann hækkar smátt og smátt eftir því sem utar dregur og sameinast að lokum Nautahjalla þegar kemur út á Taglið, ysta enda Mýrafells.[34] Dálítið utan við Skarðið í Langahjalla eru Ennagrafir, fast upp við urðir fjallsins. Þar var gott mótak.[35] Utan við Ennagrafir er gamall stekkur við rætur Mýrafells og er þangað tíu mínútna gangur heiman frá bæ.[36] Annar stekkur, sem Fornistekkur heitir, er innst á Nautahjalla, hér út og upp af bænum.[37] Innantil á Fellsleiti er stór steinn sem heitir Grásteinn og var stundum nefndur Stóri-Grásteinn. Í grennd við hann mátti ekki hafa hátt því talið var að í steininum væri bústaður álfa.[38] Grásteinn er klofinn í tvennt og var sagt að annar hlutinn væri búrið.[39]
Bristi heitir svolítill ávali í Mýrafelli, upp af túninu á Felli og endar við Innri-Steingarð.[40] Nokkru utar er Ytri-Steingarður og utan við hann er slægjuland sem heitir Partar.[41] Yst í Pörtunum, þar sem ekki sést lengur heim til bæjar á Felli, heitir Hvarf en upp af Pörtunum eru Hjallarnir sem liggja niður með Mýrafelli.[42] Yst í Hjöllunum er Háabrekka og neðan við hana landamerkjasteinn á merkjum Fells og Lækjar.[43] Neðan við Partana lá sjávargatan frá Felli yfir landamerkin milli Fells og Lækjar[44] og síðan áfram niður að Hellu sem er í landi Lækjar fyrir utan Mýrafell. Gatan heitir Sjóargata[45] og er um það bil tveir kílómetrar á lengd.
Á síðari hluta 19. aldar voru á kreiki munnmæli um að gamalt nafn á fjallinu Mýrafelli væri Sauðólfsfell,[46] en í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar sem rituð var um miðbik 13. aldar er fjallið nefnt Sölólfsfell (sjá hér Mýrar). Orð Hrafns sögu benda eindregið til þess að á ritunartíma hennar hafi fjallið átt sér annað nafn en Mýrafell. Sölólfsnafnið er hins vegar dálítið tortryggilegt og gæti átt rætur að rekja til þess að einhver handritaskrifari hafi mislesið eldri texta og breytt Sauðólfsfelli í Sölólfsfell. Hitt er þó líka hugsanlegt að fólk sem séð hafði nafnið Sölólfsfell í Hrafns sögu hafi vitandi eða óafvitandi breytt því í Sauðólfsfell í sínum frásögnum og þannig hafi munnmælin orðið til. Það eitt er nokkurn vegin víst að annað nafnið muni vera afbökun á hinu.
Í sagnaheimi almúgans í landinu urðu á síðari öldum til margar persónur sem tengdar voru við kunn örnefni. Fjall sem talið var að hefði heitið Sauðólfsfell til forna kallaði til dæmis nær óhjákvæmilega á sögu af bóndanum Sauðólfi. Margir slíkir öðluðust líf í skáldskap, enda þótt þeir hefðu aldrei verið til nema í veröld þjóðsögunnar.
Dæmi um þetta er m.a. að finna í Vestfirskum sögnum en þar segir svo á einum stað:
Forn munnmæli segja svo frá að Mýrafell í Dýrafirði héti áður Sauðólfsfell og hafi dregið nafn af Sauðólfi bónda er fyrstur bjó að Felli í Mýrahreppi. Sagt er að haugur Sauðólfs sé uppi í hlíðinni, skammt fyrir ofan það sem bærinn á Felli stendur nú. Er það grasi gróinn hóll sem nú er mjög jarðsiginn en í ungdæmi mínu [þetta er sögn Árna Pálmasonar á Felli, – innsk. K.Ó.] mátti sjá þess vott að þar væru mannaverk á. Sauðólfur bóndi var að sögn hinn gildasti maður og lét sér annt um að búsmali gengi vel fram og væri haldið til beitar í þraut.[47]
Í þessari sömu munnmælasögu segir síðan að nautpening frá Felli hafi til forna verið haldið til beitar á Nautahjalla eða hann verið rekinn til sels eftir hjallanum og hafi Fellssel þá verið í Mýrafelli, utanvert við Göngugil.[48] Gil þetta er mjög utarlega í sunnanverðu fellinu, dálítið innan við Innri-Hagagarð og liggur frá brún Taglsins niður á Sláttunef er svo heitir[49] en þarna mun vera fært gangandi manni úr fjöru á brún.
Fróðlegt væri að kanna hvort munnmælin um sel frá Felli á þessum slóðum gætu ef til vill haft við rök að styðjast en slíkt verður þó að bíða betri tíma. Haug Sauðólfs bónda látum við einnig síga í jörð án rækilegrar könnunar og hröðum för að næsta bæ fyrir utan Fell sem er Lækur.
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 71.
[2] Sama heimild.
[3] Sama heimild.
[4] Sóknalýs. Vestfj. II, 72-73.
[5] D.I. III, 228 og IV, 144.
[6] Örnefnaskrá; Vestfirskar sagnir III, 118-119.
[7] Örn.skrá.
[8] D.I. III, 228.
[9] D.I. IV, 144.
[10] D.I. XV, 576.
[11] Jarðab. Á. og P. VII, 68.
[12] Rtk. 2.1. Stríðshjálpin 1681, Jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.
[13] Manntal 1703.
[14] Jarðab. Á. og P. VII, 71.
[15] Sama heimild.
[16] Sama heimild.
[17] Sama heimild.
[18] Sama heimild.
[19] Jarðab. Á. og P. VII, 71.
[20] Sama heimild.
[21] Sama heimild.
[22] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V- Ís. XX. 2, búnaðarskýrslur.
[23] Sama heimild.
[24] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V- Ís. 4. Mýrahreppur, hreppsbók 1849-1868.
[25] Manntöl frá 18. og 19. öld og Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.
[26] Manntal 1801.
[27] Manntal 1845.
[28] Skj.s. sýslum. og sv.stjórna V-Ís. 3. Mýrahreppur, hreppsbók 1835-1848, Byggingarbréf fyrir jörðinni
Felli dagsett 23.4.1858, liggur laust aftast í bókinni; Sbr. Manntöl 1845 og 1860.
[29] Skj.s. sýslum. og sv.stjórna V-Ís. 3. Mýrahreppur, hreppsbók 1835-1848, Byggingarbréf fyrir jörðinni
Felli dagsett 23.4.1858, liggur laust aftast í bókinni.
[30] Örn.skrá.
[31] Sama heimild.
[32] Sama heimild.
[33] Sama heimild.
[34] Örn.skrá.
[35] Sama heimild.
[36] Sama heimild.
[37] Sama heimild.
[38] Sama heimild.
[39] Sama heimild.
[40] Sama heimild.
[41] Sama heimild.
[42] Sama heimild.
[43] Sama heimild.
[44] Sama heimild.
[45] Sama heimild.
[46] Vestf. sagnir III, 118-119.
[47] Vestf. sagnir III, 118-119.
[48] Sama heimild.
[49] Gísli Vagnsson 1973, 145 (Ársrit S.Í.).