Fjallaskagi

Jörðin Fjallaskagi var í margar aldir hið ysta byggða ból við norðanverðan Dýrafjörð og þar var löngum ein hin fjölsóttasta verstöð á öllum Vestfjörðum. Hér verður brátt fjallað nánar bæði um bújörðina og verstöðina á Skaga en ferð okkar um landareignina hefjum við þar sem heitir Seljagil, við landamerkin á móti Birnustöðum. Um gilið liggur leiðin niður í fjöruna og héðan eru um það bil tveir og hálfur kílómetri heim í tún á Skaga. Öll hlíðin frá Seljagili út að Fjallaskaga heitir Skagahlíð en svo heitir einnig hlíðin sem tekur við fyrir utan Skaga og nær út að landamerkjunum innan við Nesdal.[1] Heimamenn á Fjallaskaga töluðu þess vegna um Innrihlíð og Ytrihlíð til aðgreiningar en fjallið sjálft yfir þessum hlíðum heitir Skagafjall.[2]

Rétt utan við Seljagil er við sjóinn lítil vík með sléttum sandi og heitir Seljasandur.[3] Þarna í víkinni var búsmali frá Skaga hafður í seli á fyrri tíð. – Þar hefur verið selstaða frá Skaga, segir í sóknarlýsingu séra Jóns Sigurðssonar frá árinu 1840 og virðist orðalagið benda til þess að hún sé þá ekki lengur við lýði. Seltóttin er þó enn sjáanleg rétt utan við Seljagil.[4] Skammt utan við Seljasand komum við að enn einu stóru gili. Það er með hrygg í miðju efst og heitir Reiðingagil.[5] Lítið eitt utar er Langihryggur og nær frá fjöru og upp á brún.[6] Innan til við hann er gil í klettunum við fjallsbrúnina og heitir Langahryggsgjóta.[7] Um þessa gjótu var stundum farið á Ingjaldssand en í henni eru klettastallar sem líkjast þrepum í stiga og auðvelda mönnum uppgönguna.[8] Gjótan er þó algerlega ófær með stórgripi[9] og ætla má að helsta leið Skagamanna yfir á Ingjaldssand hafi verið sú sem lá um Skörðin hér nokkru innar en henni hefur áður verið lýst á þessum blöðum (sjá hér Birnustaðir).

Rétt utan við Reiðingagil gengur stutt sker fram í sjóinn og heitir Hríssker.[10] Kippkorn þar fyrir utan er svo Langasker en við það eru tengdar sagnir.[11] Innanvert í skerinu hafa brim og bára myndað stóran helli. Þarna er allmikið dýpi og í örnefnalýsingu er fullyrt að ekki sé vætt inn í hellinn á stórstraumsfjöru.[12] Sú var trú manna að í helli þessum væri að finna gnægð náttúrusteina[13] en til slíkra steina töldust m.a. óskasteinar, lausnarsteinar, hulinshjálmssteinar og lífsteinar og höfðu sumir allt upp í 24 náttúrur.[14] Nikolai Mohr, sem ferðaðist víða um Ísland á árunum 1780 og 1781, segist hafa hitt fjölda Íslendinga sem báru á sér slíka náttúrusteina, einkum agat.[15]

Sagnir herma að þrátt fyrir torleiði hafi einstaka menn komist í hellinn í Langaskeri á fyrri tíð. Um Sakkarías sem bjó í Alviðru á 19. öld er sagt að hann hafi náð að tína þar steina í nær fullan sjóvettling.[16] Mun þar átt við Sakkarías Jensson sem þar átti lengi heima og hér hefur áður verið lítillega frá sagt (sjá hér Alviðra) Er Sakkarías kom úr skerinu hraðaði hann för sinni heim á leið en í Vogum, skammt innan við Birnustaði, sér hann skrímsli nokkurt í fjörunni og var það á stærð við naut.[17] Við sýn þessa varð maðurinn óttasleginn og tók til fótanna en skrímslið elti. Skammt fyrir utan Arnarnes var það komið fast á hæla honum og brá hann þá á það ráð að kasta að því vettlingnum með náttúrusteinunum.[18] Hætti skrímslið þá eftirförinni en Sakkarías dróst heim að Arnarnesi.[19] Vettlinginn með steinunum sá hann hins vegar aldrei síðar þrátt fyrir mikla leit og ekki fór hann aftur í skerið.[20]

Dálítið utan við Langasker er Selsker[21] og bendir nafnið til þess að þar hafi fyrr á öldum verið selalátur en í Jarðabókinni frá 1710 segir að selveiði hafi að fornu verið stunduð frá Fjallaskaga en ekki verið til hlunninda teljandi í manna minni.[22] Skammt utan við Selsker er Bjartilækur en frá honum er örstutt að Skagabjörgum sem eru nokkurra metra háir fjöruklettar.[23]

Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum minnist á Selsker í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 og segir síðan:

 

Þar fyrir utan eru þvergnýptir klettar með sjó. Þeir kallast Björg. Tæp gata liggur upp á þeim og út yfir háan kamb. Þar niður undan er vogur þröngur, umkringdur af háum klettum, sem innst eru líkir hellri. Þessi vogur kallast Glufa. Skammt þaðan eru sléttar malir á ysta andnesi. Þar er vorveiðistaða fyrir alla, norðan fram Dýrafjarðar.[24]

 

Séra Jón segir þarna að gatan sem liggi út yfir Björgintæp og er það orð að sönnu. Hér var þó alfaraleið á fyrri tíð en líklegt er að fjárgatan sem fara verður hafi þá verið eitthvað betri yfirferðar en nú. Kindaslóð þessi liggur um brattar skriður rétt ofan við brún sjávarklettanna og varla ráðlegt fyrir svimagjarnt flatlendisfólk að leggja út á þann stíg án öruggrar leiðsagnar og stuðnings frá reyndum fjallamönnum sem vanist hafa slíkum klettastígum. Utan við Björgin er Klifkambsgil og þvínæst Klifkambur.[25] Fyrir hann er jafnan ófært nema á stórstraumsfjöru[26] og þess vegna verða þeir sem fara neðri leiðina milli Birnustaða og Skaga að þræða hina tæpu slóð út yfir Björgin.

Rétt utan við Klifkamb hefur sjórinn brotið stórt skarð eða gjá í bergið og heitir þar Glufa.[27] Er ungir piltar komu í fyrsta sinn í verið á Skaga var um skeið venja að rífa af þeim húfuna og var kallað að taka ofan fyrir Glufu.[28] Sitt hvoru megin við Glufu eru Innri- og Ytri-Glufukambur en síðan kemur Glufuvík.[29] Þar eru tóttir af gömlum beitarhúsum.[30] Upp frá víkinni eru hjallar sem heita Glufuhjallar og á einum þeirra stendur gríðarstór steinn upp á endann. Steinninn er að sögn kunnugra um þrjár mannhæðir og heitir Glufuhjallasteinn en var af sumum nefndur Grettir sem mun þó ekki vera gamalt nafn.[31] Utan við Glufuvík er Búðahryggur og yfir hann liggur leiðin að hinni fornu verstöð á Skagamölum. Bærinn á Fjallaskaga stóð hins vegar upp undir fjallshlíðinni fyrir utan og ofan Búðahrygg. Þangað er talsverður spölur neðan frá sjó, enda mun bæjarstæðið vera í 80-100 metra hæð yfir sjávarmáli.

Úr fjörunni í Glufuvík tökum við nú stefnuna heim að bænum en látum bíða um sinn að skoða búðatóttirnar. Leiðin liggur upp með Búðahryggnum og yfir lægð sem þarna er utan við Glufuhjallana.[32] Í henni er gamall stekkur og frá honum lá Vörðuhólsgata út yfir grjóturðina sem hér er og heim í tún.[33] Ofan við urðina er Bólið og þangað leggjum við leið okkar um Kýrgötu.[34] Gamla kvíin sýnir okkur hvar bólið hefur verið. Hjá henni gerum við stuttan stans en göngum síðan í hlað á Fjallaskaga.

Jörðin Fjallaskagi er forn bújörð, 12 hundruð að fornu mati,[35] og hér var búið allt til ársins 1926 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 301). Bæjarhúsin á Skaga stóðu í grýttu túni alllangt frá sjó, alveg upp undir fjallshlíðinni, og hefur varla verið minna en 20 mínútna gangur úr fjöru upp að bænum. Sú leið er nokkuð brött. Bærinn er nú löngu fallinn en tóttirnar bera með sér að hér hafa húsakynni verið síst minni en almennt var til sveita á fyrsta fjórðungi 20. aldar. Bærinn sneri út og inn en bæjarhúsunum er nánar lýst á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. 28). Skammt neðan við bæjartóttirnar er Skemmuhóll.[36] Þar stóðu áður skemma og hjallur en um 1910 var skemmunni breytt í fjós þegar gamla fjósið, sem staðið hafði innst í túninu, tók af í snjóflóði.[37]

Spölkorn fyrir innan og neðan bæjarrústirnar er allstór hringlaga rétt, hlaðin úr grjóti. Þar mun fjársafnið af Ytri-Skagahlíðum hafa verið rekið til réttar í haustleitum og fé Skagabóndans skilið frá öðrum kindum áður en haldið var áfram með reksturinn. Önnur álíka rétt er þarna líka og sýnist mun eldri.

Í manntalinu frá 1703 er jörðin nefnd Fjall á Skaga[38] og það nafn finnst líka á stöku stað í öðrum heimildum frá árunum kringum 1700.[39] Í eldri og yngri heimildum er jörðin hins vegar yfirleitt nefnd Fjallaskagi eða bara Skagi sem jafnan var notað í daglegu tali. Þó finnst líka nafnið Fjallanes í elstu heimildum um verstöðina á Skaga.[40] Nafnið Skagi er efalaust dregið af hinu grasigróna nesi sem skagar hér fram í fjörðinn niður undan bænum. Innantil á þeim skaga var verstöðin mikla sem hér verður síðar sagt frá. Þar er nú skipbrotsmannaskýli og fremst á skaganum er viti sem reistur var árið 1961.[41]

Í handritinu að Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er að finna útstrikaða athugasemd þar sem segir að þessi ysta bújörð við norðanverðan Dýrafjörð kallist almennilega Fjallaskagi en nokkrir nefni hana þó Fjall á Skaga.[42] Í þeirri sömu Jarðabók er kostum og göllum jarðarinnar lýst með þessum orðum:

 

Útigangur góður bæði í fjörunni og á landi. Torfrista og stunga bjargleg. Elt er sverði og taði undan kvikfé mestan part. Lyngrif er nokkuð en brúkast lítt, því það er erfitt til að sækja. Selveiði hefur að fornu verið en ekki til hlunninda teljandi í manna minni. Rekavon sæmileg, þó hún hafi heppnast lítt í nokkur ár. Þennan reka eiga Mýra, Núps og Alviðru kirkjur ut supra. Sölvafjara sæmileg, og eiga áðurnefndar kirkjur öll reksöl, en jörðin á þau sölin, sem föst eru á skerjunum. Hrognkelsaveiði hefur hér verið og er enn nú nokkuð lítil þegar til gefur, sem sjaldan er, því hér er brimsamt mjög. Beitarítak á Núpskirkja í þessarar jarðar landi á vetur krossmessna á milli [sjá hér Núpur].

Túninu hafa langvaranlega skriður grandað og enn í haust eð var hljóp þar heim stóreflis skriða úr fjallinu og tók af nærri hálft túnið og engjarnar í sama máta, sem fyrir neðan túnið voru, og svo spilla skriður öllu slægjulandi, sem út frá bænum liggur, til stórskaða og eyðileggingar. Úthagarnir eru og svo mjög af skriðum fordjarfaðir. Hætt er kvikfé stórlega fyrir snjóflóðum á vetur og svo manninum, sem það geymir. Kirkjuvegur [að Núpi] langur og slæmur og á vetur oftlega ófær yfir Skagahlíð fyrir harðfenni og svellum. Hreppamannaflutningur í sama máta nema á skipi sé flutt.

Hætt er bænum stórlega fyrir skriðum, og gekk svo skriðan mjög að bænum og jafnvel fyrir bæjardyrnar, sem túnið tók í haust. Hefur og bærinn undan skriðum færður verið af tóttrústum þeim, sem í túninu eru inn frá bænum, og í annan tíma í fyrndinni (eftir því sem sagt er) af tóttarústum þeim, sem hér sjást í úthögum norður með sjónum á Krossavíkur bökkum.[43]

 

Til skýringar skal tekið fram að víkin hér utan og norðan við sjálfan skagann heitir Krossavík og Krossavíkurbakkar eru þar út undir víkinni.[44] Við skyndiathugun 6. júlí 1992 fundust ekki bæjarrústirnar sem hér er talað um að verið hafi sjáanlegar á Krossavíkurbökkum í byrjun 18. aldar. Vel má þó vera að bærinn hafi staðið þar í fyrndinni eins og komist er að orði í Jarðabókinni. Vegalengdin frá túninu á Fjallaskaga og út á Krossavíkurbakka sýnist vera um það bil hálfur kílómetri og nokkuð utarlega á þeirri leið, þar sem heitir Land, stendur tótt af gömlu sauðahúsi[45] og þar er útræktarblettur í kring.

Er Árni Magnússon kom í Dýrafjörð sumarið 1710 lifðu á vörum manna munnmæli um að bænhús hefði verið á Fjallaskaga að fornu en allar voru þær sagnir óljósar og ekki var vitað um neina bænhústótt þar í túninu.[46] Ekki er heldur kunnugt um neinar skjallegar heimildir fyrir því að bænhús hafi verið reist úti á Skaga[47] en vel gæti það þó verið því frá engum bæ í Dýrafirði var torsóttara að komast til kirkju.

Í Jarðabók Árna og Páls er líka getið um verstöðina á Fjallaskaga og allrækileg grein gerð fyrir henni. Árið 1710 voru þar 18 verbúðir og höfðu áður verið yfir tuttugu.[48] Um verstöðina er fjallað hér sérstaklega á öðrum stað (sjá bls. 32-54).

Líklega mun ýmsum sem lesa lýsingu höfunda Jarðabókarinnar á búskaparskilyrðum á Skaga virðast að þar hafi verið harðbýlt. Hér er þó ekki allt sem sýnist. Aðstæður til sjósóknar máttu kallast frábærar og vetrarbeit fyrir sauði var hér með allra besta móti, einkum á Ytrihlíð,[49] enda var sauðpeningur allur þar upp á byggður.[50] Árið 1887 fluttist til Ameríku maður nokkur sem búið hafði á Fjallaskaga um skeið (sjá hér Núpur). Um bónda þennan, sem hét Búi Jónsson, sagði Sighvatur Borgfirðingur að hann hefði farið frá Skaga vegna ofsælu[51] og mun ekki vera öfugmæli.

Hlunnindi, sem bændur á Fjallaskaga áttu kost á að nýta, voru reyndar margvísleg, enda þótt reynt sé að gera lítið úr flestum þeirra í Jarðabókinni frá 1710. Þar segir til dæmis að selveiðar hafi verið stundaðar frá Skaga að fornu en ekki svo teljandi væri á dögum þess fólks er þá lifði. Í mun yngri heimild er sagt dálítið frá selveiðum í landi Fjallaskaga og sú frásögn höfð eftir Jóni Magnússyni sem bjó í Miðhlíð innan við Mýrar í Dýrafirði[52] á árunum 1920-1938 en hann mun hafa verið fæddur árið 1867. Þar segir m.a.:

 

Til forna var geysileg selveiði á Fjallaskaga í Dýrafirði eins og víðar á Vestfjörðum. … Selveiðin á Fjallaskaga var mest uppidráp á Selskeri og Langaskeri [um sker þessi sjá hér bls. 1-2 – innskot K.Ó.] og var talin ein af mestu hlunnindum jarðarinnar sem þótti og var ein vildisjarða í Dýrafirði vegna útibeitar og mikils sjávarafla.

Eftir að selnum tók að fækka á Fjallaskaga og uppidrápið þótti eigi jafn arðsamt og áður var það gömul sögn að búin væru til lagjárn í Selsker því þar var selurinn mestur. Lagjárn þessi voru skutlar sem keyrðir voru fastir í bergið. Gekk skutullinn eða lagjárnið á hol í selinn þegar hann lagðist á hann [sbr. hér Hraun í Keldudal].

Selveiðin var stunduð á þennan hátt allt þar til farið var að skjóta sel en það varð ekki almennt hér vestra fyrr en um og eftir 1850. Veiddist mikið með aðferð þessari og var það mest landselur sem í daglegu tali var kallaður haustselur.

Fyrr á tíð hafði vöðuselsganga komið í ytri hluta Dýrafjarðar á hverju ári  en mestar vöðuselsgöngur komu í Arnarfjörð. … Selveiðin á Fjallaskaga þótti svo arðvænleg að nágrannakirkjurnar að Núpi og á Mýrum reyndu af fremsta megni að eignast hlut í veiðinni þar. Varð Mýrakirkja hlutskörpust og hlaut ótakmarkaðan rétt til selveiða á Fjallaskaga fyrir bóndann á Mýrum og ennfremur fjórða hlut af selveiði annarra en bóndans á Fjallaskaga. – „Allt er safi hjá selveiðum” var fornt orðtak hér um slóðir og víðar og sýnir það ljóslega hve mikils þessi hlunnindi voru þá metin … .[53]

 

Þess skal getið að orðum Jóns Magnússonar í Miðhlíð um forn réttindi eigenda Mýrakirkju til selveiða í landi Fjallaskaga ber algerlega saman við það sem um þessi efni er sagt í fornum máldögum, til dæmis Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 (sjá hér Mýrar).

Sú aðferð við selveiðar að nota lagjárn eða skutla sem keyrðir voru fastir í bergið virðist hafa verið notuð víðar en á Vestfjörðum á 18. öld. Til marks um það má nefna að í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem fyrst var gefin út árið 1772 segir m.a. svo um selveiðar fyrir Norðurlandi:

 

Við þetta tækifæri er rétt að geta annarrar veiðiaðferðar sem áreiðanlega er gömul en hefur nýlega verið rifjuð upp og tekin í framkvæmd. Hún er í því fólgin að menn höggva holur í klappir við ströndina þar sem selir eru vanir að liggja. Í holurnar festa menn beitt járn með tveimur agnúum eða járnið er fest í sprungu í klöppinni. Reynslan hefur leitt í ljós að selirnir vara sig ekki á þessu þegar þeir skríða upp á klappirnar heldur festa þeir sig á járninu.[54]

 

Greinilegt virðist að þarna sé lýst sömu veiðiaðferð og notuð var á Selskeri innan við Fjallaskaga.

Um Skaga er fyrst getið í máldögum frá 14. öld og þá sem verstöð (sjá hér bls. 32-33) en í þeim bréfum kemur ekki fram með ótvíræðum hætti hvort þar hafi þá verið búið. Á 15. og 16. öld átti Alviðrukirkja Fjallaskaga um langt skeið eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér Alviðra). Elsta bréfið sem sýnir þetta og er frá árinu 1401 er að vísu talið vera falsbréf[55] en mörg yngri bréf frá 15. og 16. öld sýna engu að síður að hálfkirkjan í Alviðru átti Skaga (sjá hér Alviðra). Vertollarnir sem menn þurftu almennt að greiða fyrir skipsstöðu á Skaga runnu því til eigenda Alviðru sem áttu kirkjuna þar. Í skránni frá 1446 yfir eignir Guðmundar ríka á Reykhólum er Fjallaskagi talinn með Alviðru. Alviðra tíu tugir með Skaganum, segir þar.[56] Úr hópi eigenda Alviðru og Fjallaskaga á 15. og 16. öld má auk Guðmundar ríka nefna Björn Þorleifsson, hirðstjóra á Skarði, og syni hans, Einar og Jón dan, Björn Guðnason í Ögri, Ögmund Pálsson biskup, Guðrúnu Björnsdóttur á Núpi, sem var dóttir Björns í Ögri, og loks börn hennar Katrínu Hannesdóttur, sem fékk Alviðru og Fjallaskaga í heimanmund er hún giftist Gizuri biskupi Einarssyni árið 1541, og Eggert Hannesson, lögmann í Bæ á Rauðasandi (sjá hér Alviðra). Um greiðslur vertolla til eigenda jarðarinnar er nánar fjallað hér á öðrum stað (sjá bls. 34).

Eins og áður var getið eru elstu varðveittar heimildir um verstöðina á Fjallaskaga frá 14. öld. Í þeim verður ekki séð hvort þá hafi verið búið á jörðinni en líklegt má kalla að svo hafi verið. Árið 1446 var Alviðra metin á tíu tugi hundraða með Skaganum[57] og bendir orðalagið til þess að Skagi einn og sér hafi þá verið metinn á einhvern ákveðinn fjölda hundraða þó ekki komi fram hver sú tala hafi verið. Með hliðsjón af því sýnist líklegt að um miðbik 15. aldar hafi verið litið á Skaga sem bújörð því ekki er kunnugt um að verstöðvar hafi verið metnar til hundraða. Jörðin kynni þó að hafa verið í eyði og þess vegna talin með Alviðru.

Á síðari hluta 16. aldar var tvímælalaust búið á Fjallaskaga því í reikningum Eggerts Hannessonar lögmanns, sem þá var eigandi jarðarinnar, má sjá að árið 1571 átti bóndinn þar að greiða þrjár vættir fiska og þrjár ær í landskuld[58] en sú greiðsla samsvaraði einu kýrverði.

Stutt dvöl á Fjallaskaga gefur tilefni til að rifja upp það sem kunnugt er um Spánverjavígin sem hér voru framin haustið 1615.

Spænskra hvalveiðimanna er fyrst getið við Ísland árið 1613 en í Skarðsárannál segir m.a. svo um atburði þess árs:

 

Lágu spanskir hvalskutlarar kringum allt Ísland á 18 skipum, gerðu glettingar sumstaðar. Einir fyrir Vestfjörðum fengu hafvillu, sigldu í vesturhöf, rötuðu í ís, voru í honum 9 daga, komu að Grænlandi (sem sumir halda) með hörkubrögðum. Skutu landsmenn af þeim 3 menn til dauðs með sínum bogum og beinpílum … .[59]

Í Sjávarborgarannál segir að árið 1613 hafi spænskir byrjað sína höndlun og hvalveiði í Steingrímsfirði og þar er tekið fram að í fyrstu hafi þeir verið meinlitlir. [60]

Í kæru á hendur spænsku hvalveiðimönnunum, sem 12 Vestfirðingar sendu Alþingi árið 1616, er staðfest að Spánverjarnir hafi byrjað sinn veiðiskap hér við land árið 1613 því þar er tekið fram að þessir suðrænu hvalfangarar hafi nú þrengt að Strandamönnum í þrjú ár.[61]

Spænsku hvalveiðimennirnir sem hingað sigldu til veiða á árunum kringum 1615 voru frá Baskalandi á norðurströnd Spánar og eru í konungsbréfi frá vorinu 1615 nefndir Biskaiar,[62] það er Baskar. Með bréfi þessu frá 30. apríl 1615 lét Kristján konungur fjórði þau boð út ganga að allir Biskaiar og aðrir þeir sem færu hér með ránskap skyldu teljast réttdræpir hvar sem til þeirra næðist.[63] Við þessari tilskipun var tekið á Öxarárþingi sumarið 1615 og Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, fékk þá í hendur frá æðsta embættismanni konungs á Íslandi sérstök fyrirmæli greinda þjóð, það er að segja Baskana, að fordjarfa á lífi og góssi af fremsta megni og mætti.[64]

Nokkrum árum áður en Spánverjar hófu hvalveiðar hér við land hafði Íslendingum verið bannað að eiga nokkur viðskipti við aðrar þjóðir en Dani og kostaði þungar refsingar ef út af var brugðið. Baskarnir sem hér stunduðu hvalveiðar áttu því ekki kost á að kaupa sér nauðþurftir hjá íslenskum bændum nema á laun og vera má að einmitt þess vegna hafi þeir stundum gripið til þess að taka eitt og annað ófrjálsri hendi. Mjög er þó misjafnt hvað helstu heimildir gera mikið úr slíkum ránum þessara erlendu sjómanna.

Í samskiptum Íslendinga og spænsku hvalveiðimannanna dró ekki til verulegra tíðinda fyrr en haustið 1615 en þá strönduðu þrjú hvalveiðiskip frá Spáni norður í Reykjarfirði í Strandasýslu og brotnuðu í spón aðfaranótt 21. september.[65] Skipbrotsmennirnir sem voru milli 80 og 90 komust nær allir í land en þar voru þeir í ærnum vanda staddir, enda þótt ýmsir væru þeim vinveittir á Ströndum. Átta bátum sem skipunum fylgdu hafði þeim tekist að bjarga og að morgni laugardagsins 23. september lögðu þeir af stað á bátunum djúpleiðis norður fyrir allar Strandir.[66] Þremur dögum síðar komu þeir að Dynjanda í Jökulfjörðum og voru þar tvær nætur.[67] Þaðan höfðu þeir á brott með sér stóra skútu sem Gunnsteinn Grímsson, bóndi á Dynjanda, átti.[68]

Á Dynjanda hafa Spánverjarnir að líkindum ákveðið að skiljast að því þaðan fóru þeir ýmist til Æðeyjar, Bolungavíkur eða Patreksfjarðar. Átján fóru á tveimur bátum inn í Æðey, fjórtán til Bolungavíkur á tveimur öðrum bátum, en meginhópurinn, yfir fimmtíu menn, héldu vestur með fjörðum og stefndu á Patreksfjörð.[69] Í leiðinni fóru þeir með ránum um Súgandafjörð og Önundarfjörð, ef marka má kæru 12 nafngreindra manna úr Ísafjarðarsýslu sem send var Alþingi sumarið 1616.[70] Jón Guðmundsson lærði segir hins vegar að það hafi verið Spánverjarnir sem lentu í Bolungavík er rændu á Stað í Súgandafirði[71] og líklegt verður að telja að báðir þessir hópar hafi leitast við að afla sér vista með ránum í Súgandafirði og Önundarfirði fyrstu dagana í október, því þeir sem síðar settust að á Patreksfirði voru enn í nánd við Barða þann 5. október (sbr. hér bls.10-11) þegar vika var liðin frá brottför þeirra úr Jökulfjörðum.

Áður en lengra er haldið er vert að taka fram að helstu samtímaheimildir um Spánverjavígin árið 1615 eru þessar:

 

  1. Dómar og bréf sem prentuð eru í Alþingisbókunum.[72]
  2. Skrif Jóns Guðmundssonar lærða og þá einkum ritgerð hans er ber heitið „Sönn frásaga af spanskra manna skipbrotum og slagi” en hún var fyrst prentuð í blaðinu Fjallkonunni árið 1892.
  3. Spönsku vísur eftir séra Ólaf Jónsson á Söndum í Dýrafirði en þær voru prentaðar í Tímariti Bókmenntafélagsins árið 1895.

 

Í öllum meginatriðum ber þessum heimildum saman en þar kemur engu að síður fram mjög verulegur munur á viðhorfum til hinna spænsku skipbrotsmanna. Jón lærði er mjög vinsamlegur í garð Spánverjanna, enda hafði hann haft persónuleg kynni af sumum þeirra, en séra Ólafur á Söndum túlkar fremur viðhorf Ara sýslumanns í Ögri og annarra sem nauðsynlegt töldu að framfylgja konungsboði og taka ránsmenn þessa af lífi. Þann 4. október komu Spánverjarnir sem lent höfðu í Bolungavík til Dýrafjarðar.[73] Þar brutu þeir upp hús dönsku einokunarverslunarinnar á Þingeyri og stálu þaðan bæði salti og skreið (sjá hér Þingeyri) en héldu síðan út á Fjallaskaga með viðkomu á einhverjum bæjum á norðurströnd fjarðarins. Þessu ferðalagi skipbrotsmannanna lýsir séra Ólafur á Söndum svo í Spönsku vísum:

 

Þeir námu staðar á nyrðri strönd

                        nestis sér að leita,

                        mörg varð þá til matseljuhönd

                        í malsekk þeirra að reita,

                        vildi þó ekki af veita.

                        Út á Skagann skunduðu þeir

                        skeytandi ekki um annað meir

                        því nóg var að neyta.[74]

 

Svo virðist sem Dýrfirðingar hafi þegar í stað hafist handa um liðsafnað er þeir urðu Spánverjanna varir. Nokkrum vikum áður en spænsku hvalveiðiskipin strönduðu hafði Ari sýslumaður í Ögri fengið sérstök fyrirmæli frá æðsta embættismanni konungs á Íslandi greinda þjóð [þ.e. Spánverjana] að fordjarfa á lífi og góssi og að ganga fram í þeim efnum eftir fremsta megni og mætti[75] svo ekki er ólíklegt að hugmyndin um liðsafnað og herför Dýrfirðinga gegn þessum framandi gestum hafi verið frá honum komin. Í Vatnsfjarðarannál yngri, sem séra Guðbrandur Jónsson í Vatnsfirði samdi, sonarsonur Ara, segir reyndar berum orðum að Ari hafi látið slá í hel þá Spánverja sem drepnir voru á Fjallaskaga.[76] Ekki er ljóst hvaða Dýrfirðingar höfðu forgöngu um liðsafnaðinn en Jón lærði segir að fyrirliðarnir hafi verið fjórir með 30 manna  og allir vopnaðir.[77]

Orrustu Dýrfirðinga og Baska á Fjallaskaga lýsir Jón lærði annars svo:

 

Sem Dýrfirðingar sáu þá vestur um fara drógu þeir lið saman og vildu vera komnir í veg fyrir þá sem þeir færu aftur á leið. Voru þar 4 fyrirliðar með 30 manna en hinir voru 14. Bátamenn [þ.e. Spánverjarnir] tóku sér nú náttstað heimleiðis í Dýrafirði þar sem var ein sjóbúð sumir segja naust. Sagði Bjarni Jónsson svo frá presti vorum í Ögri en hann oss. Þar skyldu þeir hafa vakað 5 menn yfir bátum niðri en hinir sváfu   í naustum eða búðum uppi. Hermenn [þ.e. hinir vopnuðu Dýrfirðingar] komu að um nóttina og slógu hring um húsið. Þar var einn maður í hernum sem treystist að leyna sér. Hann var svo djarfur og klókur að hann gat leynt vopnum frá bátamönnum og bar upp til hersins og kvaðst svo skyldu enn gera annað sinn og fór aftur. Þeir urðu síðan varir við og sóttu að honum allir og bárust strax á hann stór sár. Síðan kom honum hjálp frá hermönnum. Fékk hann eitt mikið holsár og mörg önnur og var hann óvígur og yfirkominn. Síðan voru bátavaktarar sundraðir og saxaðir. Eftir það var atganga veitt þeim í húsinu. Báru þeir strax grjót í dyrnar og rufu yfir þeim húsið. Höfðu hinir þó karsklega varið sig og nálega höfðu hermenn viknað fyrir þeim í einni þeirra skörpu aðsókn. Þrír menn höfðu þar verið mestir af öllum. Svo lauk þó þeirri miklu orustu um síðir að allir féllu, einnig þeir miklu blástakkar og stóri Spancarius. Þar voru tveir menn á bátum, nærri með öllu heiðnir og strákar í náttúrunni. … Svo er sagt að einn piltungsmaður hafi þar undan komist er sofið hafði í einni afkró og séð þaðan stríðið. Hann hafði síðan hrópað til eins báts þeirra skútumanna [þ.e. Spánverjanna sem fóru á Patreksfjörð] og komist í þeirra flokk. Eftir slagið var herfangið meðtekið og allir þeir afklæddir og í sjávardjúp sökktir sem heiðnum er maklegt en ekki Krists vesalingum ósekum.[78]

 

Sögu sína um viðureign Dýrfirðinga við Spánverjana á Fjallaskaga kveðst Jón lærði hafa frá prestinum í Ögri er hafi fengið sínar upplýsingar frá Bjarna Jónssyni. Því miður lætur Jón vera að nefna hvaða Bjarni þetta sé en líklegt verður að telja að hann hafi átt heima Í Dýrafirði og verið þátttakandi í herförinni gegn Spánverjum. Maður að nafni Bjarni Jónsson var reyndar einn dómsmanna sem dæmdu um mál Spánverjanna fáum mánuðum eftir að þeir höfðu verið vegnir. Sá dómur var kveðinn upp á Mýrum í Dýrafirði laugardaginn næstan fyrir kyndilmessu árið 1616[79] og verður að telja mjög líklegt að þarna sé kominn heimildarmaðurinn sem frásögn Jóns lærða byggir á.

Dýrafjarðarslag kallar Jón lærði þennan bardaga á Fjallaskaga haustið 1615[80] og er það gott nafn.

Hér var áður getið frásagnar séra Ólafs á Söndum af ferð þessara sömu Spánverja um Dýrafjörð og út á Fjallaskaga. – Út á Skagann skunduðu þeir, segir séra Ólafur og bætir síðan við:

 

                        Holl varð þeim ei hvíldin sú

                        því hefndin féll yfir drengi.

                        Bændur með sér bundu trú

                        og biðu við ekki lengi,

                        þó myrk væri nótt yfir mengi;

                        samstundis þeir stofnuðu stríð

                        sterka veittu þeim banahríð

                        svo fjörtjón fengi.[81]

 

Segja má að með þessum orðum staðfesti séra Ólafur frásögn Jóns lærða af falli Spánverjanna á Fjallaskaga og báðum ber þeim saman um að einn mannanna fjórtán hafi þó komist undan. Skaust þar undan skræfan ein, segir séra Ólafur og lætur þess getið að sá sem undan komst og í hóp landa sinna er settust að á Vatneyri hafi heitið Garcius.[82]

Í Víkingarímum, sem ortar voru skömmu eftir Spánverjavígin, er að finna nær 50 vísur um Dýrafjarðarslag og ferð spænsku skipbrotsmannanna um Dýrafjörð.[83] Höfundur þessara rímna nefnir sig Jón G. s. og hafa fræðimenn talið líklegast að rímurnar séu ortar af Jóni Gottskálkssyni sem átti heima á Vatneyri við Patreksfjörð árið 1615.[84] Enda þótt þarna sé fjallað um Dýrafjarðarslag í löngu máli kemur þar fátt fram umfram það sem lesa má um hjá Jóni lærða og séra Ólafi á Söndum. Lýsingar á drápi einstakra manna er reyndar að finna í rímum þessum en verða þó ekki teknar upp hér. Höfundur Víkingarímna kann líka frá því að greina hvernig Garsíá (Garcius), sem slapp lífs úr blóðbaðinu á Skaga, komst í hóp landa sinna er síðar settust að á Vatneyri. Í rímunum segir að Spánverjarnir sem vestur sigldu hafi heyrt hróp hans og köll og sótt hann í land.[85]

Sem sýnishorn að kveðskap höfundar rímnanna nægir að birta hér þrjár vísur og verða þá fyrir valinu sú 28., 35. og 36.:

 

 

                        Skaganum að svo skjótt í stað

                        skundar múgurinn harði

                        með heiftar móð um hyggju slóð,

                        hina þá síst er varði.

 

                        …….

 

                        Varðist drótt sú vel um nótt

                        víst í húsi þröngvu,

                        á seggi þá við sverða þrá

                        sári komu þeir öngvu.

 

                        Loksins þá að lýðurinn sá

                        lengjast kífið mundi,

                        ása hjó, það enti fró,

                        ofan so húsið hrundi.

 

Eins og í fleiri heimildum er þarna tekið fram að bardaginn hafi verið háður að næturlagi og þá í náttmyrkri því komið var fram í október.

Fyrir þá sem vilja kynna sér Spánverjavígin á Fjallaskaga enn nánar skal bent á þær heimildir sem hér hefur verið vísað til en ýmislegt er líka að finna um atburð þennan í annálum og síðast má nefna Fjölmóð, ævikviðu Jóns lærða eftir sjálfan hann. Þar segir:

 

En Dýrfirðingar tveir

                        drógu her saman

                        og skelltu upp á þá

                        í Skaganausti.

                        Nú voru lögleidd

                        náttvíg Íslands,

                        sem aðrir síðan

                        eftir breyttu.

 

                        Einn komst undan,

                        ungur bengill,

                        í skútu bátinn

                        skaust úr urðu.

                        Á þessa formenn

                        féll ólukka

                        og eignir þeirra

                        frá örfum skutlaðar.[86]

 

Samúð Jóns með Spánverjunum leynir sér ekki í þessum vísuorðum og þarna heldur hann því reyndar fram að ólukka og eignatap hafi fallið yfir þá Dýrfirðinga sem forgöngu höfðu um herförina gegn hinum erlendu skipbrotsmönnum.

Ljóst virðist að Spánverjarnir á Fjallaskaga hafi verið drepnir aðfaranótt 5. október en þann 8. sama mánaðar var að undirlagi Ara sýslumanns í Ögri ákveðið að fara með her manns að þeim átján Spánverjum sem tekið höfðu sér bólfestu í Æðey.[87] Óljóst er hvort Ara sýslumanni var kunnugt um vígin á Fjallaskaga er sú ákvörðun var tekin.[88] Aðfaranótt 14. október þetta sama haust voru allir Spánverjarnir sem staðnæmst höfðu í Æðey drepnir, ýmist þar eða á Sandeyri á Snæfjallaströnd.[89] Þá voru níu dagar liðnir frá Spánverjavígunum á Fjallaskaga.

Spánverjavígin haustið 1615 eru síðustu fjöldaaftökur sem fram hafa farið á Íslandi en samtals felldu Dýrfirðingar og Djúpmenn 31 Spánverja á þessum döpru októberdögum. Líklegt er að hinar gömlu frásagnir af herferðum Vestfirðinga gegn þessum erlendu skipbrotsmönnum séu vel til þess fallnar að vekja nútímafólki hroll og jafnvel viðbjóð á grimmd forfeðra okkar sem uppi voru fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Hinu má samt ekki gleyma að vígamennirnir voru hvað sem öðru líður að framfylgja landslögum og konungsboði sem spauglaust var að vanvirða á dögum Kristjáns konungs fjórða. Óljóst er hversu miklum verðmætum Spánverjarnir náðu að bjarga úr skipum sínum en augljóst virðist að þar sem öll viðskipti við erlendar þjóðir voru bönnuð hafa þeir aðeins átt tveggja kosta völ, að biðjast beininga eða lifa á ránum. Fyrir svo fjölmennan hóp hefur fyrri kosturinn ekki sýnst álitlegur og allra síst þar sem öll tjáskipti urðu að fara fram á fingramáli. Ránsferðir til að afla sér vista og eldiviðar voru því nær óhjákvæmilegar af þeirra hálfu en þar lá dauðarefsing við samkvæmt landslögum eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir. Þennan harða hnút megnuðu valdsmenn Vestfirðinga ekki að leysa án blóðsúthellinga og því fór sem fór. Við skulum samt vona að fáir hafi gengið glaðir til vígaferlanna og Jón lærði hafi ekki verið einn um það að finna til með hinum erlendu skipbrotsmönnum.

Til skilnings á viðhorfum Ara sýslumanns í Ögri og annarra þeirra sem fyrir blóðbaðinu stóðu skulu tekin hér upp að lokum nokkur orð úr tveimur plöggum sem málið varða, annars vegar úr Mýradómi, sem upp var kveðinn laugardaginn fyrir kyndilmessu árið 1616, og hins vegar úr kæru tólf nafngreindra Vestfirðinga sem send var Alþingi árið 1616 og dagsett er 3. júní á því ári.

Með dómnum sem upp var kveðinn á Mýrum í Dýrafirði 26. janúar 1616 voru Spánverjarnir sem komist höfðu til Patreksfjarðar og enn lifðu dæmdir réttdræpir og sú kvöð lögð á íbúa Ísafjarðarsýslu að taka þátt í fyrirhugaðri herför gegn þeim.[90] Í úrskurði tólfmenninganna sem Ari sýslumaður í Ögri hafði skipað í dóminn segir m.a. svo:

 

Höfðu þeir skipbrotsmenn áður hér við komið í þessari sýslu, ásamt hinum öðrum er dauðir eru, og rændu hér stórkostlega á mörgum bæjum og þó þeim væri ölmusa gefin ekki síður óætum hlutum en ætum, hvers vegna þeir voru sannir ránsmenn dæmdir.

… Álítum vér fyrst að þessi þjóð hefur landið brúkað ekki alleinasta í óleyfi við vorn náðugasta herra kónginn heldur og í forboði stolið almennilega rekaviðum manna og jafnvel hús niður brotið sér til eldiviðar. Í þriðja lagi almúganum margvíslega ógnað og amað og stóra hindran gert á hans næringu. Í fjórða máta almúgans fjármunum rænt og stolið, sumir meira en sumir minna, og þetta hefur varað síðan fyrst þessi þjóð hingað sigldi. …

Og nú þeir eru nauðstaddir skipbrotsmenn leita þeir ekki öðruvísi ölmusu en svo að þeir stela, þar ekki síður er þeim er til góða gert og ölmusa gefin en annars staðar, en taka víðast óbeðið lífsbjörg manna og gagnlegar kýr eður þeir ganga svo ríkt að fólki með byssum og verjum að menn fyrir ótta sakir gefa þeim sína lífsbjörg en sitji snauðir eftir.[91]

 

Síðar í dómsorðinu kemur fram að menn hafa verið mjög uggandi um að kæmust Spánverjarnir á Vatneyri úr landi og næðu að segja frá atburðum mætti síðar vænta grimmilegra hefnda fyrir manndrápin á Fjallaskaga, í Æðey og á Sandeyri. Í þessum sama Mýradómi komast menn svo að orði um þetta:

 

… þá höfum vér að ugga og óttast að hún [þ.e. spænska þjóðin] ekki alleinasta ræni innbyggjarana lífsbjörg og fjármunum heldur og að hún brenni og bæli hús og heimili, myrði og mannskaða veiti konum og börnum og öllum þeim fyrir verða og hefni svo landa sinna er fyrir ránskap hafa drepnir verið.[92]

 

Með hliðsjón af öllu þessu varð niðurstaða dómsmannanna sú að dæma fyrrrtéða skipbrotsmenn … dræpa og deyðandi og alla vopnfæra íbúa Ísafjarðarsýslu skylduga til að hlýða kalli er sýslumaður teldi tímabært að leggja upp í herför til Patreksfjarðar.[93] Í dómsorðinu var líka tekið fram að allir tíundarskyldir menn sem ekki yrðu kvaddir í herinn skyldu gjalda sérstakan toll til að kosta herförina.[94] Jafnframt var lýst yfir að ef einhver neitaði að hlýða kalli eða greiða herkostnaðinn yrði máli hans skotið til Alþingis við Öxará – því svo stendur í þegnskyldu, segir þar, að eigi megi fávitrir menn synja höfðingjum réttrar þegnskyldu fyrir þrjósku sakir eður skammsýnnar óvisku.[95]

Í kærunni á hendur Spánverjum, sem tólf nafngreindir menn úr Ísafjarðarsýslu sendu Alþingi vorið 1616, má sjá að Ari sýslumaður hefur reyndar lagt upp í þessa fyrirhuguðu herför til Patreksfjarðar skömmu eftir að Mýradómur var kveðinn upp en þar er líka tekið fram að þetta síðasta áhlaup gegn Spánverjunum hafi hindrast fyrir sérlegar sakir.[96]

Í Víkingarímum, sem hér var áður vitnað til, er sagt beinum orðum að liðsmenn Ara í þessari herferð hafi verið 95 og orðið að snúa við á fjallvegi milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar (líklega Lambeyrarhálsi) vegna veðurs.[97] Höfundur rímnanna lætur einnig að því liggja að gjörningar hafi valdið þeirri svörtu hríð[98] og má ætla að hin dularfullu orð um sérlegar sakir í kærubréfi Vestfirðinga tengist slíkum hugmyndum. Ljóst er að þessi síðasta herför liðsmanna Ara sýslumanns á hendur Spánverjunum hefur fremur orðið þeim sem að henni stóðu til háðungar en hróss og valdsmönnum Vestfirðinga tókst aldrei að ráða niðurlögum hins fjölmenna hóps Spánverja sem sat á Vatneyri veturinn 1615-1616. Um vorið náðu Spánverjar þessir að ræna enskri duggu sem komin var til veiða á Íslandsmiðum og komust þannig á braut.[99]

Úr röðum dómsmannanna sem komu saman á Mýrum og úrskurðuðu hina spænsku skipbrotsmenn dræpa og deyðandi má nefna Jón Gizurarson[100] sem vafalítið er hinn virti fræðimaður með því nafni er þá bjó á Núpi í Dýrafirði. Stjúpfaðir hans var séra Sveinn Símonarson í Holti í Önundarfirði, faðir Brynjólfs biskups, − og er séra Sveinn einn þriggja presta úr Ísafjarðarsýslu sem ásamt níu leikmönnum úr sömu sýslu rituðu undir kærubréfið á hendur Spánverjum er sent var Alþingi vorið 1616.[101] Bréf þetta var reyndar undirritað í Holti þann 3. júní þá um vorið[102] og þar er að finna almenna lýsingu á illu athæfi spænsku hvalveiðimannanna og einnig bón til konungs um lið og verndan gegn yfirvofandi hefndarárásum Spánverja.[103]

Í bréfinu er því haldið fram að hvalveiðimenn þessir hafi undanfarin þrjú ár þjáð og þvingað almúgann í Strandasýslu og ýmist stolið frá mönnum þeirra peningum kvikum og dauðum, ætum og óætum eða kúgað fólk til að afhenda það sem krafist var.[104] Síðan segir:

 

En nú á næst umliðnu hausti er fyrrnefndir Spanskir urðu skipbrotsmenn, nauðstaddir og þurfandi í Balasýslu [þ.e. Strandasýslu] þá mýktust þeir og betruðust alls ekkert við sinn skaða heldur mannspilltust meir og meir og forhertust í sinni illsku.[105]

 

Ránum Spánverjanna í Ísafjarðarsýslu er síðan lýst með svipuðum hætti og hér hefur áður verið rakið en undir lok bréfsins segir að spænsku strandmennirnir sem dvöldust á Vatneyri um veturinn hafi fengið dauðlegt hatur á Ara Magnússyni, sýslumanni í Ögri, og hótað öllum íbúum Ísafjarðarsýslu grimmilegum hefndum fyrir þá landa sína sem teknir voru af lífi.[106]

Til að mæta þessum háska segjast hinir vestfirsku prestar og leikmenn vera bæði slyppir og berirlíkams vöru og verju og verði því að fara þess á leit að hans náð konungurinn vildi þessu hans náðar skattlandi … lið og verndan veita sem fyrrgreindir spænskir illræðismenn … hér aldeilis frá víki.[107]

Beiðni sína um vernd rökstyðja bréfritarar m.a. með orðum Cicerós: Vér erum ekki aðeins fæddir vorra vegna heldur og einnig bæði vegna frænda og vina og vegna vors föðurlands.[108]

Full ástæða er til að gera ráð fyrir að í bréfi Vestfirðinganna tólf sé fremur gert meira en minna úr ofbeldisverkum Spánverjanna og víst er um það að Jón lærði, sem dvaldist í Strandasýslu á þessum árum, lýsir framgöngu þeirra þar mjög á annan veg og segir þá hafa átt margvísleg vinsamleg samskipti við heimafólk.[109] Út í þá sálma verður þó ekki farið nánar hér.

Við sem nú göngum um fjöruna á Skaga og skoðum búðarústirnar heyrum hvorki vopnabrak né heróp og ekki heldur dauðastunur þeirra sem hér voru brytjaðir í spað. Köll hins unga Garcia, sem einn komst undan, heyrðust þá um langan veg en á okkar dögum rjúfa þau ekki næturkyrrðina hér yst á ránarslóðum. Okkur sjálfum til aðvörunar skulum við samt geyma vel í minni þá kvöl og nauð sem hinum erlendu skipbrotsmönnum var búin á þessum stað því í æðum okkar flestra rennur enn blóð Ara sýslumanns í Ögri og hinnar vopnuðu sveitar Dýrfirðinga.

Í öllum hinum gömlu heimildum um Spánverjavígin á Fjallaskaga árið 1615 er hvergi getið um heimafólk þar og ekki heldur nefnt að þar hafi staðið bær. Líklegt verður þó að telja að svo hafi verið, enda fullvíst að búið var á Skaga nokkrum áratugum fyrr (sjá hér bls. 7).

Fyrsti ábúandi á Fjallaskaga sem þekktur er með nafni er Nikulás Bjarnason sem hér bjó árið 1681 og var hann leiguliði.[110] Sitt af hverju hefur áður verið sagt hér um Nikulás og konu hans, Gunnfríði Brynjólfsdóttur, (sjá hér Neðri-Hjarðardalur, Minni-Garður og Arnarnes) og mun ástæðulaust að bæta þar fleiru við. Ekki er nú vitað hversu mörg ár hjón þessi bjuggu á Skaga en er manntal var tekið árið 1703 voru þau komin að Minna-Garði, þá á sextugsaldri.[111]

Árið 1703 bjó á Skaga Ásmundur Ketilsson sem tíu árum fyrr hafði keypt hálfa jörðina af Jóni stúdent Torfasyni frá Flatey á Breiðafirði,[112] hinum stórtæka svallara sem hér var áður frá sagt (sjá hér Alviðra). Ásmundur var þá eini bóndinn á jörðinni og heimilismenn hans voru ellefu.[113] Auk Ásmundar og hans heimilisfólks áttu þrír húsmenn heima á Fjallaskaga þetta ár og var einn þeirra kvæntur.[114] Þórður Guðmundsson húsmaður og Dýrunn Pétursdóttir hans kvinna, lifa við eina kú, segir í manntalinu.[115] Þar er líka talinn upp húsmaðurinn Borgar Jónsson, sem sagður er vinna fyrir barni sínu og nærast af sjóróðrum, og loks sá þriðji sem Björn Matthíasson hét og er sagður fæða sig og son sinn á flakki og við sjóbúð.[116] Einhver þessara tómthúsmanna hefur vafalaust átt heima í hjáleigunni Urðarhúsum, sem stóð neðan við heimatúnið á Skaga.[117] Kot þetta er eina hjáleigan sem um er kunnugt á Fjallaskaga og í því var aðeins búið í þrettán ár, frá 1695 til 1708.[118] Í Jarðabók Árna og Páls segir að Urðarhús hafi fremur mátt kallast tómthús en byggt ból því engin grasnautn fylgdi hjáleigu þessari, nema fyrir fáeinar sauðkindur.[119] Húsleigan sem tómthúsfólkinu í Urðarhúsum var gert að greiða sínum landsdrottni var ein vætt fiska á ári,[120] það er 40 kíló af skreið. Eins og áður var getið voru Urðarhús neðan við heimatúnið á Skaga og þar mun enn sjást móta fyrir tóttum þessa mannabústaðar. Nánar til tekið er þær að finna  neðan við Urðarhóla en hólar þessir eru lítt gróin hólaþyrping utan við urðina sem farið er yfir þegar fylgt er gömlu götunni heiman frá Skemmuhól til sjávar.[121] Yngri manntöl frá 18. og 19. öld bera með sér að oftast var þá bara eitt heimili á Skaga og ekkert húsfólk. Stöku sinnum var þar samt tvíbýli, t.d. 1762, 1787, 1788 og á árunum 1845-1860.[122]

Ásmundur Ketilsson sem keypti 6 hundruð í jörðinni Fjallaskaga árið 1693 og bjó þar tíu árum síðar fékk ekki að sitja þar til lengdar í náðum því Eggert Sæmundsson ríki á Sæbóli á Ingjaldssandi fór í mál til að fá kaup Ásmundar á þessum jarðarhundruðum dæmd ógild. Svo virðist sem jörðin hafi verið dæmd af Ásmundi árið 1704[123] og svo mikið er víst að árið 1710 var það Eggert sem átti þessa kostajörð en þá var Ásmundur kominn norður í Hnífsdal.[124] Sjö árum fyrr hafði móðir Eggerts átt hálfan Fjallaskaga á móti Ásmundi.[125] Hér verður ekki gerð nein úttekt á því hverjir áttu Fjallaskaga á 18. og 19. öld en þess má geta að árið 1762 var jörðin í eigu Snæbjarnar Pálssonar[126] sem flestir nefndu Mála-Snæbjörn.

Árið 1710 var Einar Jónsson eini bóndinn á Skaga.[127] Bústofn hans var þá sem hér segir: 3 kýr, 1 þrevetra naut, 1 tvævetra kvíga, 1 kálfur, 30 ær, 15 veturgamlir sauðir og 12 eldri sauðir, 27 lömb og einn hestur.[128]

Hrossaeign hefur að líkindum aldrei verið mikil á Skaga og lítið var um að menn færu þangað ríðandi. Með baggahesta var leiðin ófær (sjá hér Birnustaðir, Bakkagata þar) en Bjarni Sigurðsson, síðasti bóndinn á Skaga, kom þó alloft inn á bæi á brúnni meri til að ná í eitthvert lítilræði úr kaupstað eða í öðrum erindum.[129] Varning sem þannig var fluttur varð hann að reiða í pokaskjatta sem hann hafði fyrir aftan sig á hestinum[130] og hefur þá efalaust farið stórgripaleiðina um Ufsagötu sem hér var áður nefnd.

Á fyrri hluta 18. aldar eða um miðbik hennar mun bóndi nokkur sem Brandur Einarsson hét hafa búið um skeið á Fjallaskaga.[131] Sonur hans var Halldór Brandsson, er síðar bjó á Brekku á Ingjaldssandi, faðir Jóns Halldórssonar, hreppstjóra í Meðaldal, og Guðnýjar, konu Brynjólfs Hákonarsonar á Mýrum.[132] Halldór mun hafa verið fæddur árið 1727 eða þar um bil.[133] Ólína Ólafsdóttir, sem fæddist á Auðkúlu í Arnarfirði árið 1846, var ein fjölmargra niðja Halldórs Brandssonar og sagði um þennan langalangafa sinn þessa sögu:

 

Það var svoleiðis að Halldór var alltaf vanur að fara á hverju vori norður á Hornstrandir og sækja sér farm af rekavið því að hann var smiður góður. Hafði hann fastan viðskiptamann í Aðalvík. Einhverju sinni hittist svo illa á að húsbóndinn var ekki heima þegar Halldór bar að garði. Og til þess að gera ekki ónýtisferð tók hann viðinn traustataki úr fjörunni og leggur síðan af stað heimleiðis. Hann siglir norðaustan vind, hið besta leiði. En þegar hann er staddur út af miðju Ísafjarðardjúpi sér hann að nú syrtir í álinn því nú er hann að koma á suðaustan út af Jökulfjörðum. Næði sá stormur til Halldórs og yrði hann að sigla tvísjóa á hlöðnu skipi væri hætta á ferðum. Og af því að gamli maðurinn vissi lengra en nef hans náði þóttist hann skynja hvernig þessu væri farið: Viðskiptavinurinn var nú kominn heim, hafði reiðst og galdrað á hann Jökulfjarðaveður. … Þegar hann skildi hvað um var að vera þreif hann kefli úr farminum, risti á það rúnir, opnaði sér und, rauð dreyranum í rúnirnar og varpaði síðan keflinu um skut aftur.[134]

 

Að sögn Ólínu orti Halldór vísu um leið og hann risti rúnirnar á keflið og er hann fleygði því aftur um skut kvað hann vísuna við raust:

 

Kunna þeir ekki kul að herða;

kúnstin þeirra er ekki rík.

Dýrfirðingar drýgri verða

dónunum í Aðalvík.[135]

 

Vart þarf að taka fram að samkvæmt sögu þessari náði gerningaveðrið aldrei nema að rúnakeflinu svo Halldór Brandsson frá Fjallaskaga komst heim með viðarfarminn.[136]

Vísan sem Ólína taldi Halldór Brandsson frá Fjallaskaga hafa ort var alkunn í Dýrafirði og þar í grennd á fyrstu áratugum tuttugustu aldar[137] en erfitt mun nú að skera úr um hvort Halldór Brandsson eða einhver annar hafi bangað saman þessum vísuorðum. En sé nú ráð fyrir því gert að Ólína hafi haft rétt fyrir sér í þeim efnum sýnist ótvírætt að Dýrfirðingar hafi verið á skipi með Halldóri. Með hliðsjón af því verður að telja líklegt að Halldór hafi farið í umrædda viðarferð er hann var ungur maður á Fjallaskaga áður en hann fluttist úr Dýrafirði út á Ingjaldssand.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er að finna aðra útgáfu af sögunni um viðarferðir Halldórs á Vesturalmenninga norðan Kögurs og viðskipti hans við Aðalvíkinga. Hann er þar nefndur Halldór af Skaga við Dýrafjörð[138] og má ætla að þar sé átt við Halldór Brandsson enda þótt föðurnafnið sé ekki nefnt. Í sögunni sem Jón Árnason lét prenta segir að í viðarferðum hafi Dýrfirðingar stundum orðið að bíða byrjar á Aðalvík og ekki verið óalgengt að þeir gistu þá á Sæbóli hjá manni sem Finnbjörn hét.[139] Þarna er Finnbjörn á Sæbóli sagður hafa verið kraftaskáld og honum lögð í munn svolítið öðru vísi gerð af vísunni um Dýrfirðinga og dónana í Aðalvík.[140] Heimildarmaður Jóns Árnasonar segir að Halldór á Skaga hafi beðið Finnbjörn að gefa sér leiði til heimferðar og þá hafi Finnbjörn svarað á þessa leið:

 

Kann ég ekki kul að herða;

kúnstin mín er valla slík.

Dýrfirðingar drýgri verða

dónunum í Aðalvík.[141]

 

Í þessari útgáfu urðu sögulokin þau að enda þótt Finnbjörn gerði lítið úr kunnáttu sinni féll á blásandi byr er hann hafði kveðið vísuna og komst Halldór heim á Skaga um kvöldið.[142] Þarna er líka tekið fram að í viðarferðunum hafi Halldór á Skaga æ síðan fært Finnbirni sauðarfall og smjörfjórðung, − enda hafði hann þá jafnan leiði til og frá meðan hann fór á Strandir og Finnbjörn lifði.[143]

Í handritum alþýðuskáldsins Magnúsar Hjaltasonar, sem fæddur var árið 1873 í Álftafirði og dó 1916 í Súgandafirði, er að finna þriðju tilraunina til skýringar á uppruna þessarar sömu vísu um Dýrfirðinga og dónana norður í Aðalvík.[144] Sameiginlegt með öllum sögunum þremur er að þeir sem eigast við eru annars vegar heimamaður á Fjallaskaga og hins vegar fulltrúi Aðalvíkinga. Hjá Magnúsi Hjaltasyni fær Skagamaðurinn nafnið Gunnar og þar er vísan lögð í munn hinum margvísa klerki, séra Snorra Björnssyni,[145] sem prestur var á Stað í Aðalvík frá 1741-1757 en síðar á Húsafelli. Magnús segir þá Gunnar á Skaga og séra Snorra hafa verið óvini og eitt sinn hafi prestur magnað upp norðangarð í því skyni að drekkja þessum fjandmanni sínum sem þá var á heimleið úr Aðalvík til Dýrafjarðar.[146] Til skilnings á vísunni gefur Magnús þá skýringu að séra Snorra hafi þótt garðurinn sem granda átti Dýrfirðingunum vera of linur og þá hafi vísan, Kann ég ekki kul að herða … , hrotið af vörum guðsmannsins sem eins konar sjálfsásökun.[147] Svo má heita að vísan sé alveg eins hjá Magnúsi og í útgáfu Jóns Árnasonar nema hvað Magnús hefur varla rík í lok annarrar línu[148] en í þjóðsögunum er þetta valla slík eins og sjá má hér litlu framar.

Margt bendir til þess að sögurnar þrjár sem hér hefur verið frá sagt hafi allar orðið til utan um vísuna því segja má að hún sé hinn sameiginlegi kjarni þeirra allra. Vel má þó vera að einhver ein þessara sagna sé nær því en hinar tvær að gefa bendingu um uppruna vísunnar og sýnist þá helst freistandi að staldra við frásögn Ólínu Ólafsdóttur. Enginn dómur verður þó kveðinn upp um þetta hér en vísan og tvær sagnanna minna á viðarferðir Dýrfirðinga norður á Hornstrandir. Slíkar ferðir munu oft hafa verið farnar á fyrri tíð og ætla má að þær hafi enn tíðkast um og eftir miðja 18. öld því kunnugt er að úr Barðastrandarsýslu fóru einstaka menn enn í viðarferðir norður yfir Ísafjarðardjúp þegar alllangt var liðið á 18. öldina.[149] Í slíkum ferðum hefur oft mátt litlu muna að illa færi[150] og margur reyndi að bjarga sér með svolítilli fjölkynngi undan gerningaveðrum.

Árið 1762 bjuggu tveir bændur á Fjallaskaga og voru báðir landsetar Mála-Snæbjarnar.[151] Annar þeirra, Einar Bjarnason, var dæmdur á Öxarárþingi sumarið 1762 til að missa bæði æru og búslóð fyrir notkun falsaðra blautfiskseðla í viðskiptum við einokunarverslun Hörmangarafélagsins á Þingeyri (sjá hér Gerðhamrar). Einar var þá 43ja ára gamall, kvæntur og átti þrjú ung börn.[152] Hinn bóndinn sem bjó á Skaga árið 1762 hét Jón Jónsson[153] og er það líklega sami Jón Jónsson og ritaði Magnúsi Gíslasyni amtmanni bréf sem dagsett er á Fjallaskaga 18. maí 1754. Í bréfi þessu greinir Jón á Skaga frá því að Guðmundur Jónsson á Dunki í Hörðudal í Dalasýslu, sem fengið hafi einkaleyfi til fálkaveiða í Ísafjarðardjúpi, hafi nú veitt sér umboð til að annast fálkaveiðarnar á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp.[154]

Með umboð þetta upp á vasann fór Skagabóndinn norður að Djúpi til fálkaveiða veturinn 1753-1754 en er þangað kom gaf sig fram við hann Hallur Jónsson, bóndi á Rauðamýri, og kvaðst einnig hafa umboð til fálkaveiða í sínum heimahögum á Langadalsströndinni.[155] Engin skilríki fékk Jón þó að sjá hjá Halli. Í bréfi sínu til amtmanns biður Skagamaðurinn um úrskurð í þessari þrætu og spyr hvort þrír fálkar sem Hallur náði að veiða séu ekki sín réttmæt eign.[156] Um úrslit þessarar fálkaþrætu verður ekkert fullyrt hér en vafalaust má telja að búandmaður á Fjallaskaga sem ræðst í vetrarferðir til fálkaveiða norður á Langadalsströnd hafi ekki verið lítill fyrir sér. Fálkar sem hér voru veiddir um miðbik 18. aldar voru allir eða nær allir sendir Danakóngi sem gaf eða seldi marga þeirra til hinna ýmsu þjóðhöfðingja í Evrópu. Íslensku fálkarnir þóttu hvarvetna konungsgersemi og voru því í ærið háu verði.[157] Við konungshirðirnar voru þeir notaðir til veiða en hér var landinu skipt í 10 umdæmi með einn fálkafangara í hverju og voru þeir ráðnir af amtmanni til starfans.[158]

Árið 1785 var Sigríður Bjarnadóttir eini bóndinn á Fjallaskaga.[159] Eiginmaður hennar, Hákon Bárðarson,[160] var þá andaður en ætla má að Brynjólfur sonur þeirra, sem þá var 19 ára gamall,[161] hafi stutt móður sína við búskapinn. Á sóknarmannatali frá árinu 1786 er þessi sonur ekkjunnar á Skaga sagður vera efnilegur og líflegur[162] en hann varð síðar óðalsbóndi á höfuðbólinu Mýrum (sjá hér Mýrar).

Árið 1793 fluttust Brynjólfur Hákonarson og Sigríður móðir hans frá Fjallaskaga að Brekku á Ingjaldssandi en Jón Gunnarsson, sem hafði búið á Arnarnesi, fluttist að Skaga og bjó þar næstu 14 árin.[163] Í gömlum þjóðsögum er frá því hermt að Jón Gunnarsson á Skaga og nágranni hans á Birnustöðum hafi með svikum og prettum kúgað verulega fjármuni af ónefndum bónda í Hrauni á Ingjaldssandi. Meginefni þeirra sagna hefur áður verið rakið á þessum blöðum (sjá hér Birnustaðir) en vera má að allt sem sögur þessar hafa að geyma sé hreinn tilbúningur því ekkert hefur fundist í skjallegum gögnum þeim til staðfestingar. Allt sem séð verður í heimildum um Jón Gunnarsson bendir reyndar til þess að hann hafi verið harla ólíklegur til þátttöku í ævintýramennsku og fjárkúgun af því tagi sem lýst er í sögunum um Flotnös og Skrúðalín. Árið 1790 átti Jón heima á Arnarnesi og er þá sagður hæglátur og hygginn.[164] Sjö árum síðar var hann kominn á Skaga og fær þá hjá presti þá einkunn að hann sé stilltur og vel að sér.[165]

Í manntalinu frá 1801 er Jón Gunnarsson á Skaga sagður vera 43ja ára gamall[166] og á því ári var hann skipaður hreppstjóri.[167] Kona hans hét Valgerður Jónsdóttir og árið 1801 voru þrjú börn þeirra í foreldrahúsum á Skaga.[168] Yngsta barnið var Svanfríður sem þá var 8 ára,[169] fædd á Skaga 7. júní 1793,[170] en hennar er nánar getið á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Arnarnes). Vorið 1804 andaðist Valgerður húsfreyja á Fjallaskaga[171] en á því ári festi eiginmaður hennar kaup á jörðinni.[172] Sú sem seldi Jóni jörðina Fjallaskaga var Valgerður Markúsdóttir,[173] ekkja Þórðar Ólafssonar, stúdents í Vigur, en hún var sonardóttir Mála-Snæbjarnar sem var eigandi Fjallaskaga árið 1762. Jón Gunnarsson keypti jörðina á 336 kúrantdali og afsal var undirritað á Garðsstöðum í Ögursveit 9. desember 1804.[174]

Jón Gunnarsson á Skaga hefur án efa verið dugmikill bóndi og virðist hafa notið mikils trausts því hann var bæði hreppstjóri og sáttanefndarmaður.[175] Þessum Skagabónda varð hins vegar ekki langra lífdaga auðið því hann drukknaði 49 ára gamall þann 30. júlí 1807 og var þá á leið til lands úr hákarlalegu.[176] Jón var sjálfur formaður á hákarlaskipinu er týndist þennan dag og með honum drukknaði öll áhöfnin, sjö menn og formaðurinn sá áttundi.[177] Þeir sem þarna fórust voru: Jón Gunnarsson, formaður og bóndi á Skaga, 49 ára, Jón Ingimundarson, kvæntur maður á Skaga, 38 ára, Sigurður Sigurðsson, vinnumaður á Skaga, 29 ára, Gunnlaugur Guðbrandsson, fyrirvinna á Birnustöðum, 27 ára, Jón Þórðarson, fyrirvinna á Næfranesi, Þórður Jónsson, vinnumaður á Birnustöðum, 24 ára, Gunnar Jónsson, Arnarnesi, 29 ára og Guðmundur Jónsson, Arnanesi, 27 ára.[178] Hinir þrír síðast töldu voru bræður.[179]

Er Jón Gunnarsson drukknaði var hann orðinn allvel efnaður en dánarbú hans var ekki skrifað upp og tekið til skipta fyrr en sumarið 1812 er fimm ár voru liðin frá því ævi hans lauk á hafi úti. Í skrá yfir eignir og skuldir dánarbúsins má sjá að Jón átti þrjár jarðeignir er hann andaðist, Fjallaskaga, sem var 12 hundraða jörð virt á 204 ríkisdali, níu hundruð í Arnarnesi, virt á 151 ríkisdal, og fimm hundruð í Innrihúsum, sem voru hjáleiga frá Núpi, en sú eign var virt á 55 ríkisdali.[180] Skuldlausar eignir dánarbúsins, sem komu til skipta, reyndust vera 560 ríkisdalir og 12 skildingar.[181] Á árunum 1810-1814 varð geysilegt verðfall á peningum af styrjaldarástæðum og sýna tölurnar frá uppgjöri dánarbúsins á Skaga sumarið 1812 að þetta mikla hrun á verðgildi peninganna hefur þá verið farið að segja alvarlega til sín því hvert jarðarhundrað er metið þarna á 11 til 17 ríkisdali en áður var viðmiðunin 4 til 6 ríkisdalir á móti hverju jarðarhundraði.[182]

Niðjar Jóns Gunnarssonar og Valgerðar Jónsdóttur, konu hans, bjuggu áfram á Skaga allt til ársins 1885 en þá voru 92 ár liðin frá því þau Jón og Valgerður hófu þar búskap. Er Jón Gunnarsson drukknaði sumarið 1807 var hann ekkjumaður. Elsta barn hans, sem um er kunnugt, dóttirin Ingibjörg, var þá rétt liðlega tvítug en Jón Jónsson, bróðir hennar, sautján ára eða því sem næst.[183] Við skipti dánarbúsins árið 1812 kom jörðin Fjallaskagi í hans hlut[184] og óhætt virðist að slá því föstu að Jón Jónsson, bóndi á Skaga, sem kvæntist Þorlaugu Guðbrandsdóttur árið 1819[185] sé þessi sonur Jóns Gunnarssonar, sagður ellefu ára í Manntalinu frá 1801.[186] Engin manntöl eða sóknarmannatöl eru til úr Dýrafjarðarþingum frá árunum 1807-1819 en prestsþjónustubækurnar frá þessum árum bera með sér að engir nýir húsbændur hafa fest rætur á Skaga á því skeiði.[187] Í afriti af prestsþjónustubók er Jón Jónsson á Skaga að vísu sagður vera 24 ára er hann gekk að eiga Þorlaugu Guðbrandsdóttur árið 1819[188] en ætti að vera 29 ára samkvæmt manntalinu 1801. Í aðalmanntölum frá árunum 1835 og 1840 passar aldur eiginmanns Þorlaugar hins vegar nákvæmlega við aldur drengsins, Jóns Jónssonar á Skaga, sem þar er skráður í manntalinu frá 1801.[189] Sömu sögu er að segja hvað varðar umsögn prests um aldur Jóns Jónssonar á Skaga er bóndi þessi andaðist árið 1843 en prestur segir hann þá hafa verið 53ja ára[190] sem passar við öll aðalmanntölin frá 1801, 1835 og 1840. Með hliðsjón af þessu verður að ætla að Jón Jónsson, maður Þorlaugar, hafi verið sonur Jóns Gunnarssonar en aldur hans sé rangt skráður við hjónavígsluna. Þar getur reyndar verið um mislestur afritara að ræða sem skrifar 24 í staðinn fyrir 29.

Óljóst er hvernig búsforráðum hefur verið háttað á Skaga fyrstu árin eftir drukknun Jóns Gunnarssonar árið 1807 en ekki er ólíklegt að börn hans, sem þá voru um og innan við tvítugt, hafi notið meiri eða minni stuðnings frá sér eldra fólki og vera kann að ráðsmaður hafi verið fenginn til að stjórna búverkum. Jón Jónsson mun hins vegar hafa tekið hér við öllum búsforráðum fáum árum eftir dauða föður síns og er þau Þorlaug Guðbrandsdóttir gengu í hjónaband haustið 1819 er hann sagður vera bóndi á Skaga en hún vinnukona þar.[191]

Jón Jónsson bjó á Skaga til dauðadags en hann andaðist haustið 1843 og var þá hreppstjóri.[192] Í aðalmanntali frá 2. nóvember 1840 er hann sagður eiga jörðina og vera bæði hreppstjóri og sáttanefndarmaður.[193] Heimili Jóns og Þorlaugar á Skaga var oftast nokkuð fjölmennt og má sem dæmi nefna að í febrúarmánuði árið 1835 voru þar fimmtán heimilismenn.[194] Í þeim hópi voru þrír synir bónda og húsfreyju á aldrinum 12 til 16 ára.[195]

Er Jón Jónsson andaðist tók ekkja hans, Þorlaug Guðbrandsdóttir, við búsforráðum og stóð hún fyrir búi á Skaga næstu tólf ár og máske dálítið lengur.[196] Á árunum 1845 til 1870 var oftast tvíbýli á Skaga en á því skeiði bjuggu þar um lengri eða skemmri tíma synir Þorlaugar, Jón og Guðbrandur Jónssynir, með sínar fjölskyldur, ýmist annar eða báðir í senn.[197]

Svo virðist sem þessir synir Þorlaugar Guðbrandsdóttur á Fjallaskaga hafi haft fullan hug á að hasla sér völl sem þátttakendur í útgerð þilskipa. Báðir gerðu þeir tilraun til að koma undir sig fótum í slíkri útgerð en hvorugum þeirra tókst hins vegar að festa sig í sessi á þeirri braut.

Í búnaðarskýrslu frá árinu 1846 er Jón Jónsson á Fjallaskaga sagður eiga þriðjung í þilskipi (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) en þá voru aðeins þrjú ár liðin frá upphafi þilskipaútgerðar í Dýrafirði (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Þessi útgerðarmaður hlýtur að vera Jón sonur Þorlaugar því Jón Jónsson maður hennar andaðist haustið 1843 eins og hér hefur áður verið nefnt. Jón Jónsson yngri var aðeins 27 ára gamall er hann hóf þátttöku í þilskipaútgerð en sex árum fyrr hafði hann kvænst Ólöfu, dóttur Guðmundar Bjarnasonar á Sæbóli,[198] og var er hér var komið sögu farinn að búa á Skaga á móti móður sinni.[199] Skýrslur þær sem hér er byggt á sýna reyndar að þátttaka hins unga bónda á Fjallaskaga í skútuútgerð varð endaslepp og stóð ekki nema í eitt ár eða þar um bil (sjá hér Mýrahreppur inngangskafli), hvað sem valdið hefur. Á einum stað er Jón þessi Jónsson á Fjallaskaga nefndur skipstjóri[200] sem bendir eindregið til þess að hann hafi stýrt þilskipi til veiða um lengri eða skemmri tíma.             Guðbrandur á Skaga kaupir Hrapp, skrifar Guðmundur Guðmundsson norðlenski í dagbók sína 9. nóvember 1853[201] og er þar án tvímæla átt við Guðbrand Jónsson, son Þorlaugar húsfreyju á Skaga og yngri bróður Jóns Jónssonar sem sjö árum fyrr hafði keypt hlut í þilskipi. Guðmundur norðlenski fræðir okkur á því að skipið sem Guðbrandur keypti hafi heitið Hrappur og má telja fullvíst að þar sé komin skútan með því nafni sem bændur í Hvammi í Dýrafirði keyptu árið 1846 og gerð var út þaðan hin næstu ár (sjá hér Hvammur) en skúta þessi var reyndar fyrsta þilskipið í eigu manna sem búsettir voru í Þingeyrarhreppi (sjá hér Hvammur). Í búnaðarskýrslu frá vorinu 1854 sést að Guðbrandur á Skaga er þá talinn eigandi að hálfu þilskipi (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) og má telja nær fullvíst að hann hafi aldrei eignast nema annan helminginn í Hrappi, enda þótt Guðmundur norðlenski segi hann hafa keypt skútu þessa.

Eins og áður sagði hafði Hrappur verið í eigu bænda sem bjuggu í Hvammi, vestan Dýrafjarðar. Í skýrslum úr Þingeyrarhreppi frá vorinu 1853 má sjá að Jón Sveinsson og Kristján Jónsson, bændur í Hvammi, áttu þá hálft þilskip hvor en ári síðar var það bara Kristján sem átti helming í skipi en Jón Sveinsson hafði þá hætt þátttöku í skútuútgerð (sjá hér Hvammur). Af þessu má álykta að það hafi verið Jón Sveinsson í Hvammi sem seldi Guðbrandi á Skaga sinn helming í Hrappi, þessari gömlu fiskijakt sem Hvammsmenn höfðu keypt sunnan úr Breiðafjarðareyjum og gert út einir í sjö eða átta sumur.

Guðbrandur Jónsson á Skaga var fæddur 12. september 1823[202] og hefur því staðið á þrítugu er hann festi kaup á öðrum helmingnum í Hrappi. Átta árum fyrr hafði hann gengið að eiga unga heimasætu úr Lambadal er hét Halldís Bjarnadóttir.[203] Á árunum 1846-1850 áttu þau Halldís og Guðbrandur ýmist heima í Ytri-Lambadal eða á Birnustöðum og voru þá stundum í húsmennsku en vorið 1851 munu þau hafa hafið búskap á Skaga á móti Þorlaugu, móður Guðbrandar.[204]

Ýmislegt bendir til þess að Guðbrandur hafi verið sjómaður á þilskipum um skeið áður en hann fór að fást við þilskipaútgerð. Er aðalmanntal var tekið 1. október 1850 átti Guðbrandur heima í Ytri-Lambadal og er þá sagður vera húsmaður sem lifi á landi og sjó.[205] Þessi skilgreining bendir eindregið til þess að Guðbrandur hafi verið skútumaður því í Mýrasókn eru aðeins sex aðrir heimilisfeður sagðir hafa sitt framfæri að einhverju leyti af fiskveiðum[206] en um þá alla er vitað að þeir voru annað hvort þátttakendur í skútuútgerð eða skipstjórar á skútu (sjá hér Mýrahreppur inngangskafli).[207]

Ekki virðist Guðbrandur hafa verið í miklum efnum er hann ákvað að hefja þátttöku í þilskipaútgerð. Haustið 1853 var bústofn hans þessi samkvæmt tíundarskýrslu: Tvær kýr, átta ær, fjórir sauðir og tíu gemlingar.[208] Samtals námu eignir hans sem svaraði 10 hundruðum á landsvísu. Í fasteignum átti hann þá 6 hundruð og svo 4 hundruð í lausafé ef mark má taka á tíundarskýrslunni úr Mýrahreppi.[209] Sjö árum síðar var ein af skútum Dýrfirðinga virt á 1200 ríkisdali eða sem svaraði um það bil 33 hundruðum á landsvísu (sjá hér Mýrahreppur inngangskafli). Vel má vera að það skip hafi verið metið eitthvað hærra en Hrappur en engu að síður virðast fjármunir Guðbrandar hafa verið í allra minnsta lagi til kaupa á hálfri skútu.

Vera kann að Þorlaug Guðbrandsdóttir hafi getað styrkt son sinn til skútukaupanna en hún bjó á Skaga er kaupin fóru fram með ráðsmanni, sem Þorleifur Þorkelsson hét og hafði áður verið bóndi og hreppstjóri á Suðureyri í Súgandafirði. Þorleifur var ekkjumaður er hann fluttist að Fjallaskaga og gerðist ráðsmaður hjá Þorlaugu árið 1846.[210] Hann var mikill kappsmaður við sjósókn og hafði verið kvæntur dóttur Örnólfs Snæbjörnssonar á Suðureyri sem kallaður var hinn ríki.[211] Hugsanlegt er að Guðbrandur á Skaga hafi fengið einhverja peninga hjá Þorleifi til skútukaupanna en um það er þó ekkert vitað. Aftur á móti sýna búnaðarskýrslur að þátttaka Guðbrandar í skútuútgerðinni stóð aðeins í eitt ár eða þar um bil (sjá hér Mýrahreppur inngangskafli) alveg eins og verið hafði hjá Jóni bróður hans fáum árum fyrr. Líklegt er að þá bræður hafi skort fjármuni til að standa af sér hvers kyns áföll í þessum rekstri en um áhugann þarf tæplega að efast.

Sumarið 1854 virðist Guðbrandur hafa verið skipstjóri á Hrappi því   1. júní það ár kemst Guðmundur norðlenski svo að orði í dagbók sinni að Guðbrandur á Skaga hafi í gærkvöldi komið úr legu á Hrappi og fengið 18 hákalla.[212] Orðalagið sýnir að Guðbrandur hefur verið skipstjóri, a.m.k. í þessari legu, því um skipstjóra eina eða formenn var sagt að þeir hefðu fengið þetta og þetta mikinn afla í legu eða róðri þegar átt var við allan þann afla sem skipið eða báturinn kom með að landi að lokinni sjóferð eða legu.

Guðbrandur Jónsson og Halldís Bjarnadóttir kona hans bjuggu á Fjallaskaga alveg fram undir 1870 en fluttust þaðan að Birnustöðum og þar fæddist yngsta barn þeirra haustið 1870.[213] Börnin sem Guðbrandur eignaðist með konu sinni voru ekki færri en 13 og tvö hafði hann eignast með annarri áður en hann gekk í hjónaband.[214]

Á Birnustöðum bjó Guðbrandur frá 1869 eða því sem næst til 1883[215] og var í elli sinni oft kenndur við þann bæ. Fardagaárið 1883-1884 bjó hann í Alviðru og þar dó Halldís kona hans 14. desember 1883.[216] Frá 1884 til 1886 var þessi gamli Skagamaður í húsmennsku á Birnustöðum en fluttist vorið 1886 að Ytri-Veðrará í Önundarfirði.[217] Er Guðbrandur fluttist úr Dýrafirði átti hann skammt eftir ólifað því hann andaðist 13. apríl 1888, þá húsmaður á Flateyri.[218] Ýmsar sögur munu hafa verið sagðar af Guðbrandi á fyrri tíð og lifa sumar jafnvel enn á vörum fólks. Bóndi þessi var upplitsdjarfur við höfðingja og laginn við að svara fyrir sig ef að honum var veist. Er Guðbrandur bjó á Birnustöðum var hann einhverju sinni á ferð yfir Gemlufallsheiði að sumarlagi og mætir þá séra Stefáni Stephensen í Holti. Prestur sem oft var harður í orðum við múgamenn ávarpar Guðbrand og segir: Þú ert þá enn einu sinni kominn á flakk um hábjargræðistímann. Guðbrandur svarar samstundis og segir: Já, það eru margir sem flakka en langmest flakka þeir þó hundarnir með hvítu bringuna og mun prestur hafa skilið við hverja var átt en látið gott heita.[219]

Guðbrandur var allvel hagmæltur og í gömlum handritum má finna eftir hann eina og eina vísu. Þessar tvær eru sagðar vera um Matthías Ólafsson, er síðar varð kaupmaður í Haukadal í Dýrafirði [220], en Matthías mun hafa verið farinn að fást við verslunarstörf áður en Guðbrandur dó:

 

Læt ég á þig lús úr haus,

                                 lúsugur Ólafs kundur.

                                 Vertu aldrei lúsalaus

                                 lýs þig éti í sundur.

 

                                 Matthías með manndóm sinn

                                 mælir oss úr hnefa.

                                 Er það líkt og andskotinn,

                                 þá eplið fór að gefa.[221]

 

 

Af öðru tagi og öllu betri er þriðja vísan sem einnig er ort af Guðbrandi:

 

 

Banastundin berst að hvöt,

                                 byltist nár á hauður.

                                 Þetta heitir Halldórsflöt,

                                 hérna lá hann dauður.[222]

 

Árið 1860 og fyrstu árin þar á eftir bjuggu þeir bræður, Guðbrandur og Jón Jónssynir, í tvíbýli á Skaga en þegar manntal var tekið árið 1870 var Jón dáinn og Guðbrandur kominn inn að Birnustöðum.[223] Ekkja Jóns Jónssonar, Ólöf Guðmundsdóttir, stóð þá fyrir búi á Skaga en ráðsmaður hjá henni var sonur hennar, Búi Jónsson.[224] Árið 1871 gekk Búi að eiga frænku sína, Þorlaugu Guðbrandsdóttur, en þau voru bræðrabörn því Þorlaug var eitt fimmtán barna Guðbrands Jónssonar.[225] Gamla Þorlaug Guðbrandsdóttir, sem sest hafði í húsfreyjusætið á Skaga árið 1819 og átti þar enn heima, var því amma beggja, brúðgumans og brúðarinnar. Hún andaðist á Skaga 2. febrúar 1875, komin fast að níræðu.[226]

Þau Búi Jónsson og Þorlaug Guðbrandsdóttir yngri tóku strax við búinu á Skaga er þau voru orðin hjón og bjuggu þar frá 1871-1885 er þau fluttust að Núpi. Þá voru 92 ár liðin frá því Jón Gunnarsson, langafi þeirra  beggja,  fór að búa á Fjallaskaga og allan þann tíma hafði sama ættin setið jörðina. Við brottflutning Búa og Þorlaugar urðu hins vegar þáttaskil, enda þótt vel megi vera að einhverjir þeirra er síðar bjuggu á Skaga hafi einnig verið niðjar Jóns Gunnarssonar. Frá Búa og Þorlaugu er annars það að segja að þeim mun hafa búnast vel á Skaga (sjá hér bls. 5) en á Núpi bjuggu þau aðeins í tvö ár. Þaðan fluttust hjón þessi til Ameríku sumarið 1887.[227] Þau voru þá um fertugsaldur og höfðu með sér börn sín sjö.[228] Á árinu 1887 fluttust liðlega 30 manneskjur úr Mýrahreppi til Ameríku og fór flest af þessu fólki með skipinu Camoens sem kom til Þingeyrar og sótti það.[229] Þá hafði um skeið verið hart í ári á landi hér og vonin um betri daga og ný tækifæri í annarri heimsálfu knúði marga til að yfirgefa átthaga sína og leita á vit hins ókunna hinum megin við hafið.

Árið 1889 fóru hjónin Jón Gabríelsson og Jensína Jensdóttir að búa á Fjallaskaga[230] og bjuggu hér nær óslitið til ársins 1912 (sjá Firðir og fólk 1900-1999,301). Á þessu tímabili voru þau þó á Núpi í eitt eða tvö ár (1906-1907) og þar byggði Jón íbúðarhús úr timbri sem enn stendur og ber nafnið Hlíð.[231] Að sögn kunnugra var Jón Gabríelsson yfirleitt með um það bil 180 fjár á búskaparárum sínum á Skaga og í þeim hópi voru oftast yfir tuttugu sauðir.[232] Valdimar Kristinsson á Núpi sem þekkti Jón Gabríelsson vel á efri árum hans lýsir honum svo:

 

Jón átti tvo báta og stundaði róðra vor og haust. Hann var mikill aflamaður, með afbrigðum veðurglöggur og gætinn sjómaður. Hann var fáskiptinn en greindur og traustur maður og fór mjög sínar eigin leiðir. Ef tvísýnt var með sjóveður og Jón hreyfði ekki við báti sínum sátu allir aðrir í landi.[233]

 

Um Jensínu Jensdóttur, konu Jóns Gabríelssonar, segir sami höfundur að hún hafi verið búforkur og tekur fram að þau hjónin hafi komið upp fimm sonum er allir urðu nýtir menn.[234]

Valdimar Kristinsson kom fyrst að Fjallaskaga árið 1913 (sjá hér bls. 42). Húsakynnum þar lýsir hann svo:

 

Hús öll voru hlaðin úr torfi og grjóti að þeirra tíma hætti. Bærinn var með risþaki undir skarsúð, rúmar 18 álnir að lengd. Torfþak var. Timburþil var á stafni og gluggi þar á. Einnig var gluggi á baðstofuhlið. Rúm voru undir súð beggja megin í baðstofunni. Lítill ofn mun hafa verið þar til upphitunar. Niðri var eldhús og búr, einnig afþiljað „kames” eða gestaherbergi. Göng voru úr eldhúsi í bakhús. Þar voru hlóðir og þar var kjötmatur reyktur. Tvær skemmur og hjallur stóðu á hól neðan við bæinn. Í skemmunum var meðal annars geymd öll kornvara sem ætluð var til vetrarins. Í túninu inn og niður af bænum var heyhlaða og fjós nokkru ofar.[235]

 

Er Jón Gabríelsson var fluttur frá Skaga sagði hann svo frá að á búskaparárum sínum þar hefði hann jafnan birgt sig upp að haustinu og m.a. tekið út eina tunnu af kornmat á hvern heimilismann.[236] Þær birgðir urðu að endast til vors því ekki var hlaupið að því að komast í kaupstað yfir veturinn.

Snjóflóðahætta er á Fjallaskaga. Á fyrstu mánuðum ársins 1910 féll þar mikið snjóflóð, alveg rétt við bæjarhúsin.[237] Óskar, sonur Jóns Gabríelssonar og Jensínu konu hans, var þá 12 ára drengur í foreldrahúsum. Hann lýsir atburðinum svo:

 

Var það að mig minnir snemma í febrúar, laust eftir klukkan sjö að morgni að móðir mín kemur upp á loft og segir mér og hinum sem voru óklædd að fara strax á fætur því að við verðum öll að yfirgefa bæinn tafarlaust. Snjóflóð hafði þá fyrir örlítilli stundu fallið rétt framhjá bænum. Hafði það svo nærri bænum farið að það hafði brotið snúrustaura sem voru rétt innan við bæjarhornið. Fjósið með fjórum nautgripum í hafði tekið af. Voru þrjár kýr þar og eitt naut. Var það uppistandandi á bás sínum þegar að var komið og lét allófriðlega. … Eina kýrina sakaði eigi, önnur hafði kafnað undan snjóþyngslunum en sú þriðja var nær dauða en lífi. … Varð það henni til lífs að til var ofurlítil brennivínslögg á bænum. Var henni gefið það eins og þegar dreypt er meðulum á sjúkling. …

Það er af okkur að segja sem í bænum vorum að við klæddum okkur skjótlega og vel því úti var aftaka stórhríð af norðaustri með gífurlegri fannkomu og frosti. Var strax ákveðið að við skyldum öll fara niður að sjó og fara þar í sjóbúð sem stóð auð. … Áður en lagt var af stað niðureftir voru rúmföt látin í poka og annað nauðsynlegt í útileguna og fóru allir fullklyfjaðir út í hríðarbylinn og náttmyrkrið. Var veðurofsinn svo mikill að ekkert varð áfram komist í byljunum, aðeins þegar eitthvað dró niður á milli.[238]

 

Í nokkra daga varð allt heimilisfólkið á Fjallaskaga að dveljast í verbúðinni meðan þreifandi moldbylur með mikilli snjókomu geisaði úti.[239] Það var köld vist, enda þótt lítil kamína til eldunar væri í búðinni.[240] Kvölds og morgna var farið heim til bæjar að sækja matföng og mjólka kýrnar.[241] Fólkið á næstu bæjum fyrir innan Fjallaskaga vissi vel af snjóflóðahættunni á Skaga og áður en hríðinni slotaði braust einn bændanna í Alviðru úteftir í botnlausri ófærð til að fá vitneskju um ástand mála. Það var Þóroddur Davíðsson sem réðst í þetta ferðalag og er hann kom á Skaga lofaði hann guð fyrir að finna þar alla heila á húfi.[242]Er mér enn í minni, skrifar Óskar Jónsson, þegar Þóroddur kom í stórhríðarbyl margra kílómetra leið í botnlausri ófærð og um lítt færar leiðir að vetrarlagi aðeins til að kanna hvort við værum lifandi.[243]

Vegna snjóflóðahættunnar á Fjallaskaga mun Jón Gabríelsson hafa leitað eftir því við landeigendur að leyft yrði að færa bæjarhúsin niður að sjó.[244] Þessari beiðni var hafnað á þeim forsendum að heimatún myndu fara úr ræktun ef bærinn yrði fluttur.[245]

Óskar Jónsson, sem fæddur var árið 1897 og ólst upp hjá foreldrum sínum á Fjallaskaga, ritaði síðar bókina Á sævarslóðum og landleiðum, sem út kom árið 1956, og geymir meðal annars ýmsar endurminningar hans frá uppvaxtarárum. Óskar greinir þar líka frá bústörfum Skagafólks um ársins hring og verður hér látið nægja að vísa til þessara frásagna hans.

Á uppvaxtarárum Óskars voru bátarnir sem faðir hans átti lengi tveir. Hét annar Gustur og var sex manna far en hinn, sem var þriggja manna skel, hét Blíðfari.[246] Jón Gabríelsson, bóndi á Skaga, var oftast sjálfur formaður á Gusti en ýmsir reru á Blíðfara.[247] Í byrjun apríl var farið að leggja hrognkelsanet, síðan tók sjálf vorvertíðin við sem stóð fram undir slátt og alloftast var, að sögn Óskars, róið til fiskjar á degi hverjum með heyskaparvinnunni.[248] Á sumrin var höfð úti lúðu- og skötulóð og var gnægð heilagfiskis til matar allt sumarið.[249] Oft aflaðist vel undir Barðanum á haustin, einkum þegar nýr smokkur var til beitu.[250] Óskar minntist þess að eitt síðsumarkvöld lögðu þeir Skagamenn fjórar lóðir með samtals 400 önglum. Beitan var nýr smokkur og þegar farið var að draga var fiskur á hverjum öngli, það er að segja öllum nema þremur.[251] Oft voru haustróðrar stundaðir fram í byrjun nóvember.[252]

Hér var áður minnst á sauðaeign Jóns Gabríelssonar á Skaga og hans fólks. Sauðirnir voru jafnan látnir ganga úti uns jarðbönn komu.[253] Leituðu þeir þá sjálfir heim til sauðahússins en voru ætíð sérlega léttir á fóðrum.[254] Sauðakjötið frá Skaga var að sögn Óskars Jónssonar mjög eftirsótt og var stundum selt kaupmönnum á Ísafirði. Eitt sinn seldi ég sauðinn minn þangað, ritar Óskar, og fékk gullpund (eitt pund sterling) fyrir. Þótti mér það fallegur peningur og átti hann lengi.[255]

Vetrarkvöldunum í baðstofunni á Fjallaskaga og veðrahamnum lýsir sami höfundur með þessum orðum:

 

Á kvöldin safnaðist fólkið saman í baðstofunni og var þar unnið að tóvinnu, kembt, spunnið, prjónað á vél og prjóna, tekið ofan af ullinni togið og svo framvegis. Oft var lesið upphátt á kvöldvökum því að talsvert var til af bókum miðað við þann tíma. Man ég eftir öllum Íslendingasögunum sem okkur þótti afbragðslestrarefni, auk alls konar skáldsagna. Uppáhaldsblöðin voru Þjóðviljinn, sem átti ekkert skylt við nútíma Þjóðviljann, og Ísafold Björns Jónssonar sem faðir minn taldi mikinn þjóðmálaskörung. Uppáhaldsskáldin voru Jónas Hallgrímsson, Bjarni Thorarensen og Steingrímur. Voru kvæði þessara afbragðsskálda marglesin og mörg af þeim lærð utanbókar.

… Veturnir voru langir og oft harðir. Mjög var byljasamt og hvassviðri afskaplegt á Skaga, enda mjög veðursamt úti á ysta annesi, undir háum fjöllum. Man ég alltaf norðanbyljina í hörðustu rokunum. Var þá ekki annað að gera, væri einhver úti, en að leggjast niður og bíða af sér rokurnar.[256]

Á árunum kringum síðustu aldamót kom hafís stundum inn á Dýrafjörð og gerði þá fyrst vart við sig á Fjallaskaga. Jens Jónsson, sem var einn fimm sona Jóns Gabríelssonar og Jensínu konu hans á Fjallaskaga, getur þess í minningaþáttum er hann ritaði að eitt vorið hafi hafísinn komið að morgni pálmasunnudags og allt verið að fyllast af ís þegar Gabríel, afi drengjanna, byrjaði húslesturinn um hádegisbil svo sem venja var.[257] Ekki lét gamli maðurinn þennan óboðna gest raska ró sinni en hóf sönginn með sinni þróttmiklu rödd.[258] Ungviðið á bænum mun hins vegar hafa hugsað meir um ísinn en lesturinn að því sinni.[259]

Í miklum hafísárum náðu borgarísjakarnir að skrapa upp allan botngróður og skel á grunnmiðunum og þá gat orðið lítið um hrognkelsi og steinbít á Skaga þegar voraði.[260] Er Jón Gabríelsson og hans fólk fluttist frá Skaga vorið 1912 tóku nýir ábúendur við jörðinni, hjónin Bjarni Sigurðsson og Gunnjóna Vigfúsdóttir sem næstu ár á undan höfðu búið í Minna-Garði.[261] Þau Bjarni og Gunnjóna bjuggu á Fjallaskaga í fjórtán ár, frá 1912-1926, en þá fór jörðin í eyði.[262]

Bæði Jón Gabríelsson og Bjarni Sigurðsson voru leiguliðar á sínum búskaparárum á Skaga. Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var Kristján Andrésson, bóndi og skipstjóri í Meðaldal, lengi eigandi jarðarinnar[263] og allt til ársins 1935 er bræðurnir Haukur og Valdimar Kristinssynir á Núpi keyptu af honum þetta eyðibýli.[264]

Valdimar á Núpi þekkti vel hjónin Bjarna og Gunnjónu er síðust allra bjuggu á Fjallaskaga og um þau hefur hann ritað á þessa leið:

 

Síðustu ábúendur á Fjallaskaga, Bjarni Sigurðsson og Gunnjóna Vigfúsdóttir kona hans, fluttu þangað árið 1912. Áttu þau hjón þá þegar fimm ung börn en alls eignuðust þau fjórtán börn. Geta má nærri hve mikið og erfitt starf hefur verið að sjá þessum hópi farborða á afskekktu útnesjakoti. Enn sem fyrr brugðust ekki kostir lands og sjávar. Með fádæma dugnaði og atorku tókst þeim hjónum að sjá fyrir börnum sínum og komust þau öll til fullorðins ára og urðu hið mætasta fólk.

Bjarni var mikill þrekmaður traustur og úrræðagóður. Með Bjarna flutti á Skaga hálfbróðir hans, Guðmundur Ásgeir Sigurðsson, ásamt konu sinni, Þórdísi Guðmundsdóttur. Áttu þau tvær dætur og mun önnur þeirra fædd á Skaga. Einnig fluttust foreldrar Gunnjónu, Vigfús og Sigríður þangað. Má af þessu ráða að mannmargt var á Skagaheimilinu og mikils þurfti við en enn sem fyrr voru búskapur og sjósókn stunduð samhliða af mikilli elju.[265]

 

Vorið 1926 fluttust Bjarni og Gunnjóna með sinn stóra barnahóp frá Fjallaskaga að Innri-Lambadal og þar andaðist Bjarni árið 1951 á níræðisaldri en kona hans átti þá enn þrettán ár ólifuð.

Eins og áður sagði keyptu bræðurnir á Núpi, Haukur og Valdimar Kristinssynir, jörðina Fjallaskaga árið 1935 en bærinn hafði þá verið í eyði í 9 ár. Kaupverðið var eitt þúsund krónur.[266] Hér á Skaga höfðu þeir fé á vorin um nokkurt skeið. Var þá jafnvel farið með féð út eftir í byrjun mars og legið við fram yfir sauðburð.[267] Núverandi eigandi Skaga (1992) er Valdimar Kristinsson á Núpi.[268]

Við sem nú stöldrum við skamma stund hjá rústum bæjarins á Fjallaskaga látum hugann reika til fólksins sem hér ól aldur sinn á þessu ysta annesi við norðanverðan Dýrafjörð. Oft hefur lífsbaráttan verið hörð á slíkum stað og sumir fóru halloka en aðrir náðu að sigrast á hverri þraut. Til alls þessa útskagafólks sem lifði hér stundir gleði og sorgar hugsum við nú með djúpri virðingu er við stöndum á fætur og höldum til sjávar, niður á malirnar þar sem verstöðin mikla bíður skoðunar.

 

Verstöðin á Fjallaskaga

 

Á Fjallaskaga mun öldum saman hafa verið hin fjölsóttasta verstöð í allri Vestur-Ísafjarðarsýslu og eru flestar búðatóttirnar innantil á sjálfum Skaganum, hinu grasigróna nesi sem gengur hér út í fjörðinn. Þar og á brekkunni utan við Búðahrygginn standa enn uppi um það bil tuttugu búðatóttir.

Um verstöðina á Skaga í Dýrafirði er fyrst getið í máldögum frá 14. öld en ekki er ólíklegt að sjóróðrar héðan hafi hafist löngu fyrr. Árið 1358 átti Sandakirkja í Dýrafirði skipshöfn á Skaga[269] og í máldögum frá árunum 1363 og 1367 má sjá að kirkjurnar á Núpi og Mýrum nutu þar sömu réttinda.[270] Í máldaga Mýrakirkju frá árinu 1367 segir: Eiga skála ystir og reit á möl og þoki aðrir enn fyrir þeim svo að þá skorti eigi möl.[271] Þarna hefur að vísu láðst að geta þess um hvaða verstöð sé að ræða en vafalaust er það Skagi eins og skýrt kemur fram í máldaga sem Mýrakirkju var settur 30 árum síðar. Þar eru ítök og réttindi kirkjunnar talin upp og er einn liðurinn þessi:

 

Skálagjörð á Fjallanes. Hafa skip í fiski hvort heldur sem vill sexært eður áttært og taka sjálfur toll af þeim skipverjum ef aðrir róa á skipi en heimamenn. Eiga skála ystir og reit á möl.[272]

 

Þarna er Fjallaskagi nefndur Fjallanes sem þó getur ekki valdið neinum ruglingi og tekið er fram að Mýramenn eigi ystu verbúðina (skálann) en þess var líka getið í máldaganum frá 1367 sem hér var áður vitnað til.

Núpskirkja átti aftur á móti verbúðina sem stóð innst eins og glöggt kemur fram í máldögum þeirrar kirkju frá árunum 1363, 1378 og 1397.[273] Í hinum elsta máldaga Núpskirkju sem er frá árinu 1363 er tekið fram að kirkjan eigi: skipshöfn á Skaga tolllaust og þar segir ennfremur að í verstöðinni eigi Núpsmenn innstir reit á vollum og skálagjörð á Brekku.[274] Ætla má að orðið vollum sé þarna misritun fyrir mölum en í yngri máldögum er ýmist ritað melum eða mölum.[275] Orð máldaganna sýna að á 14. öld hafa Mýramenn átt ystu verbúðina á Skaga en Núpsmenn þá innstu, sem stóð þar sem hét á Brekku.

Ekki verður nú séð hvenær kirkjurnar á Söndum, Mýrum og Núpi náðu fyrst að tryggja sér rétt til að gera út báta frá Fjallaskaga á vorvertíð án tollgreiðslu. Varðveittar heimildir sýna eingöngu með ótvíræðum hætti að upp úr miðri fjórtándu öld höfðu þær allar tryggt sér þessi réttindi. Allar héldu kirkjurnar þessum rétti sínum til bátaútgerðar frá verstöðinni á Fjallaskaga fram á síðari hluta 19. aldar[276] og jafnvel lengur.

Í vísitazíugerð frá árinu 1852 er tekið fram að Mýrakirkja eigi áttært skip á Skaga, tollfrí í ysta reit á mölum með öllum vergögnum[277] og þegar Valdimar Kristinsson á Núpi, sem fæddur er árið 1904, kom fyrst út á Skaga árið 1913 stóð Núpsbúðin þar á sínum forna stað, – á brekkunni rétt utan við Búðahrygginn.[278] Hún var kölluð Krekja og var sú innsta af öllum búðunum.[279] Þá voru nákvæmlega 550 ár liðin frá því skrifari Þórarins biskups Sigurðssonar skráði á blað að verbúð Núpskirkju á Skaga væri einmitt á þessum sama bletti.[280] Árið 1913 var að vísu hætt að nota búðina en allir sem eitthveð þekktu til á Skagamölum vissu að þetta var Núpsbúðin[281] og tóttin stendur þarna enn á sínum forna stað. Full ástæða er til að ætla að vermenn sem reru á skipum Guðmundar Arasonar ríka á fyrri hluta 15. aldar hafi hafst við í þessari sömu verbúð en þrjú skip með rá og öllum reiðskap voru á búi hans á Núpi árið 1446, teinæringur, áttæringur og sexæringur.[282]

Að sögn þeirra sem Árni Magnússon hitti í Dýrafirði sumarið 1710 höfðu 18 bátar róið frá Fjallaskaga þá um vorið að meðtöldum bát ábúandans á jörðinni og einum báti frá hverjum hinna þriggja kirkjustaða, Mýrum, Núpi og Söndum, sem hér eiga frí skipsuppsátur og búðarstöðu, eins og Árni kemst að orði.[283] Flestir þessara átján báta voru sexæringar eða þaðan af minni fleytur.[284] Í byrjun 18. aldar kunnu Dýrfirðingar frá því að segja að flestir hefðu bátarnir sem reru frá Skaga orðið 27 en þegar fæst var átta eða tíu.[285]

Átján verbúðir stóðu uppi við sjóinn í kringum lendinguna á Skaga árið 1710 og auk þess voru þar þrjár eða fjórar fallnar eða hálffallnar búðir.[286] Árni Magnússon segir að hver skipshöfn hafi eina búð út af fyrir sig og sé það ýmist landsdrottinn eða skipshöfnin sem kosti viðhald á öllu timbri í búðina.[287]

Í frásögn Árna af verstöðinni á Fjallaskaga kemur skýrt fram að í byrjun 18. aldar reru flestir Dýrfirðingar þaðan á vorvertíð. – Verstaða brúkast hér og almennilega á vor af flestum úr Dýrafirði sem skip gjöra út um vertíð, segir Árni.[288] Hann gerir einnig grein fyrir vertollum, sem greiða þurfti eigendum Fjallaskaga, og segir þá hafa verið einn fiskafjórðung af hverjum vermanni fram til ársins 1650 en þá hafi gjald þetta verið tvöfaldað og verið tveir fiskafjórðungar á mann næstu áratugina.[289] Með einum fiskafjórðungi mun hér vera átt við fjórðung af skreið[290] en í hverjum fjórðungi voru um það bil 5 kíló. Nærri aldamótunum 1700 lækkaði vertollurinn á ný og var á fyrstu árum 18. aldar dálítið breytilegur eftir því hvernig aflaðist.[291] Árni Magnússon segir vertollinn á þessum árum ýmist hafa verið einn fiskafjórðung, sex fiska ellegar hálfan annan fjórðung.[292] Ætla verður að þarna sé átt við sex fiska á landsvísu en tveir slíkir reikningsfiskar voru í hverri alin og 240 í einu hundraði eða einu kýrverði.

Til samanburðar má geta þess að árið 1881 átti hver vermaður úr Þingeyrarhreppi sem reri á Fjallaskaga að greiða eina krónu í vertoll[293] en venjuleg greiðsla fyrir dagsverk um heyannir var þá kr. 2,45.[294]

Hér hefur nú verið gerð nokkur grein fyrir þeim upplýsingum um verstöðina á Fjallaskaga sem Jarðabókin frá árinu 1710 hefur að geyma. Í yngri heimildum frá 18. öld er á stöku stað minnst á þessa miklu veiðistöð, yst á norðurströnd Dýrafjarðar. Á árunum 1752-1757 var safnað efni í Ferðabók Eggerts og Bjarna sem út kom árið 1772. Í henni er þess getið að Skagi sé ein þriggja helstu verstöðva í Ísafjarðarsýslu en hinar tvær séu Bolungavík og Aðalvík.[295]

Ólafur Olavius fór í rannsóknarferð um Vestfirði sumarið 1775 og í Ferðabók hans sem fyrst var gefin út árið 1780 er getið þriggja verstöðva í Dýrafirði. Fyrst nefnir Olavius Hafnir og Sker sem báðar eru vestan við fjörðinn (sjá hér Hraun í Keldudal og Höfn) og segir þær veiðistöðvar vera lítt sóttar.[296] Um Skaga segir hann að þar sé meira útræði en úr hinum stöðvunum á vorin þótt lending sé þar ótryggari.[297] Malir til saltfiskþurrkunar og önnur þægindi segir Olavius vera fyrir hendi í öllum þessum þremur verstöðvum í Dýrafirði.[298] Í Ferðabók sinni minnist Olavius á fiskimið Dýrfirðinga og nefnir þessi: Tálknahvilftir, Næfranesshögg, Tálkna, Klúkur, Mela, Kögur, Hnúfu, Mósker og Hellufót.[299] Öll þessi fiskimið segir hann liggja í 1-3 mílna fjarlægð frá landi og á þeim 30-45 faðma dýpi og skeljasandsbotn.[300]

Í sóknarlýsingunni sem séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum ritaði árið 1840 segir hann að á Skaga sé vorveiðistaða fyrir alla sem búi á norðurströnd Dýrafjarðar og þaðan gangi tólf skip til veiða frá sumarmálum til miðrar tólftu viku sumars.[301] Séra Jón tekur fram að af bátunum sem rói frá Skaga séu þrír áttæringar en níu sexæringar.[302] Að sögn kunnugra var talið að sexæringur gæti borið eitt til eitt og hálft tonn af fiski.[303] Er Árni Magnússon kom í Dýrafjörð árið 1710 höfðu bátarnir verið átján (sjá hér bls. 33) og þeim hafði því fækkað um þriðjung á þessum 130 árum. Skýringin á þessari fækkun mun vera sú að árið 1710 virðast allmargir bátar úr Þingeyrarhreppi hafa róið frá Skaga en árið 1840 eingöngu eða nær eingöngu bátar af norðurströndinni.

Séra Jón Sigurðsson gerir nokkra grein fyrir sjósókn Dýrfirðinga og nýtingu fiskifangs á fyrri hluta 19. aldar. Hann segir þá meðal annars:

 

Fiskur gengur sjaldan fyrr en um sumarmál hér um Vestfjörðu að landi enda byrjar hér ekki vorvertíð fyrr en með sumarmálum. Sá fiskur sem hér fiskast er mest steinbítur. Er hann og til margs þénanlegur. Roðið er brúkað til skóleðurs vegna skorts á öðru skóleðri og er það allgott í þurru veðri og frosti vetrardag, − en beinin eru barin og gefin nautpeningi og eru þau góð bæði til fitu og mjólkur.

Af þorski fiskast minna, hér um bil þriðjungur. Eftir miðja vertíð eða um fardaga nálgast fiskur meir land. Þarf þá varla að róa frá landi eða ysta andnesi meir en viku sjávar. Undir vertíðarlok fer að fiskast spreki og það varir við land undir veturnætur eða lengur. … Ýsa kemur fyrst við vertíðarlok en mest þegar á líður sumar og á haustum og skata um og eftir miðsumar.

Veiðarfæri sem hér eru brúkuð eru einungis handfæri, nema þegar spreki kemur, þá er lögð haukalóð, það er lóð með stórum önglum og eins er brúkað fyrir skötu. … Smáönglalóðir hafa hér sjaldan brúkaðar verið. En í haust eð var varð vart við ýsu og fiskaðist hún vel á smáönglalóðir nokkra  róðra. Mun það og hér eftir verða stundað með meiri athygli líkt og í Arnarfirði. … Hákallaveiði er því nær aflögð í Dýrafirði síðan þilskip fjölguðu og skáru alla hákallsskrokka í sjó, hvar við hákallinn fjarlægist mjög land með frástraumnum.[304]

 

Vegna þess sem séra Jón segir um haustróðra með smáönglalóðir er rétt að taka fram að sjálfur fór hann enn í slíka róðra haustið 1853[305] en þá var hann kominn að Söndum.

Dýpstu fiskimið á Skaga segir séra Jón vera fyrstu, aðra og þriðju hvilft í Tálkna en grynnsta miðið sé Hundsá.[306] Þar mun átt við Hundsá á Sauðanesi norðan Önundarfjarðar, þar sem hún kemur fram undan Barða. Á þetta fiskimið hefur varla verið nema klukkutíma róður en allt að fimm sinnum lengra niður á þriðju Tálknahvilft. Séra Jón Sigurðsson nefnir líka helstu lóðamið frá verstöðinni á Skaga og segir þau vera fram undan múlanum utantil við Birnustaði, − á Gerðhamrahvilft og Klukkulandshorni.[307]

Á árunum 1874-1889 var Sighvatur Grímsson Borgfirðingur oft í skiprúmi á Fjallaskaga á vorin og mun hann hafa róið þar ellefu vertíðir.[308] Í dagbókum Sighvats frá þessum árum er ýmsan fróðleik að finna um sjósókn og aflabrögð á Skaga og eitt og annað sem tengist verstöðinni þar. Í því sem hér verður sagt um þessi efni verður byggt á skrifum Sighvats en einnig á skrifum og frásögnum fjögurra manna sem allir sóttu sjó frá Fjallaskaga skömmu fyrir aldamótin 1900 eða á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Þessir fjórir heimildarmenn eru Þorbergur Steinsson frá Hvammi, fæddur 1878, Óskar Jónsson frá Fjallaskaga, fæddur 1897, Valdimar Kristinsson á Núpi, fæddur 1904, og Guðmundur Gíslason á Höfða, fæddur 1910.

Í dagbókum Sighvats sjáum við að á Skaga hófst vertíðin yfirleitt um sumarmál, það er í síðari hluta aprílmánaðar, en vertíðarlokin voru yfirleitt í fyrstu eða annarri viku júlímánaðar.[309] Hjá Sighvati finnst dæmi um að ein skipshöfn hafi haldið til róðra á Skaga þann 10. apríl[310] og aldrei virðast þeir sem Sighvatur var í skiprúmi hjá hafa haldið lengur út en til 11. júlí.[311] Úr verinu fóru menn oftast beint í mógrafir en síðan tók við sláttur.[312]

Fjöldi bátanna sem reru frá Fjallaskaga á árunum 1874-1926 hefur greinilega verið nokkuð breytilegur. Vorið 1888 voru þar enn um 20 bátar við róðra[313] og árið 1889 voru þeir a.m.k. sextán.[314] Af þessum 16 bátum voru 10 úr Mýrahreppi og 6 úr Þingeyrarhreppi.[315] Margir þessara báta voru litlar fleytur og má sem dæmi nefna að Sighvatur Borgfirðingur reri sjö vertíðir frá Skaga á þriggja manna fari en þrjár á sexæring.[316]

Sumarið 1901 fór Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur í rannsóknarferð um Vestfirði. Í skýrslu sinni um ferðina segir hann að um 1880 hafi nær allir bátar úr Dýrafirði róið á Fjallaskaga á vorin.[317] Að sögn Bjarna reru þá 20 stærri og smærri bátar frá Skaga en inni í firðinum réru aðeins unglingar og gamalmenni á smábátum.[318] Er Bjarni Sæmundsson kom í Dýrafjörð árið 1901 var þetta gjörbreytt. Matthías Ólafsson, verslunarstjóri í Haukadal, greindi honum frá því að nú væri lítið róið á vorin en aðalvertíðin væri á haustin og væru þá 20 fleytur við róðra, fjögra og tveggja manna för.[319] Við haustróðrana var ekki róið frá Skaga. Allt bendir reyndar til að þessar upplýsingar Matthíasar eigi fyrst og fremst við Þingeyrarhrepp því bátar úr Mýrahreppi héldu áfram vorróðrum frá Skaga og þar voru líka nokkrir bátar úr Þingeyrarhreppi við róðra á árunum milli 1910 og 1920.[320] Fullvíst má þó telja að á síðasta áratug 19. aldar hafi bátum sem reru frá Skaga fækkað verulega.

Árið 1897 var sóttur sjór á átta bátum frá norðurströnd Dýrafjarðar samkvæmt opinberum skýrslum[321] og má ætla að þeir hafi allir róið frá Skaga þá um vorið. Þrír þessara báta voru fjögra manna för en fimm voru taldir tveggja manna för.[322] Eigendur og eða formenn á stærri bátunum voru þá: Guðmundur Bjarnason, Læk, Hákon Pálsson, Ytrihúsum og Jón Gabríelsson, Skaga.[323] Eigendur eða formenn á minni bátunum voru: Móses Mósesson, Bakka, Jón Jónsson, Lækjarósi, Kristján Ólafsson, Meira-Garði, séra Þórður Ólafsson, Gerðhömrum og Gils Þórarinsson, Arnarnesi.[324]

Á árunum 1902-1912 stunduðu yfirleitt 10 til 15 bátar vorróðra frá Skaga og tveir til fimm menn voru þá á hverjum bát.[325] Vorið 1913 voru bátarnir 14, flestir úr Mýrahreppi en þrír eða fjórir úr Þingeyrarhreppi.[326] Tveir sexæringar reru þá frá Skaga en hinir bátarnir voru tveggja til fjögra manna för.[327] Síðar fækkaði bátunum og þegar Guðmundur Gíslason á Höfða kom fyrst í verið á Skaga, sem mun hafa verið vorið 1925, voru þar bara fimm til sjö litlir bátar og á flestum þeirra var þriggja manna áhöfn.[328] Sumarið 1927 var vélbátur fyrst gerður út til veiða frá Skaga (sjá hér 50-52) og svo mátti heita að á næsta ári væri allri árabátaútgerð frá þessari veiðistöð hætt.[329]

Árið 1710 voru verbúðirnar á Skaga um það bil tuttugu (sjá hér bls. 34) og flestar þeirra munu enn hafa verið í notkun á árunum milli 1880 og 1890 þegar um tuttugu bátar voru hér við róðra. Vorið 1888 fékk Þorbergur Steinsson í Hvammi að fara út á Skaga eftir sauðburðinn og róa þar sem hálfdrættingur með föður sínum, Steini Kristjánssyni, þrjár síðustu vikurnar af vertíðinni.[330] Þorbergur var þá á tíunda ári en Steinn faðir hans var formaður á bát sem hann átti sjálfur og hét Farsæll.[331] Fjórir fullgildir menn voru á bátnum og hálfdrættingur sá fimmti en er Þorbergur bættist við urðu þeir sex.[332]

Þorbergur Steinsson reri síðar fleiri vertíðir á Skaga og hefur ritað ágæta lýsingu á verbúðunum þar.[333] Í ritgerð sinni sem birtist fyrst árið 1947 kemst hann svo að orði:

 

Ein og mest tvær skipshafnir voru í búð hverri og áttu bændur sjálfir búðirnar. Búðir þessar voru mjög hrörlegar og myndu nú þykja óvistlegir bústaðir. Þær minni voru 8 álna langar (um 5 metrar), 3½ alin á breidd. Hinar voru stærri, er tvær skipshafnir voru í, en þó að öllu þrengri. Tóttin var hlaðin úr torfi og grjóti, sperrur settar á hellur á veggina, risið um krosslægjur sem kallað var, langbönd á sperrum og tyrft með torfi sem var mjög sendið. Væri hvasst var alltaf niðurfall úr þekjunni ofan á rúm eða gólf. Tvö rúmstæði voru meðfram öðrum veggnum og eitt þvert fyrir gafl. Inngangur var í gafl búðarinnar. Skot var út í vegginn innan við dyrnar gegnt fremsta rúmi og voru þar hlóðir og þar fóru matseldar fram. Matarskrínur voru hafðar til fóta í rúmunum eða þá undir þeim því þau voru sethæð frá gólfi og var botn þeirra riðinn úr snærum milli tveggja spíra sem mynduðu rúmbreiddina. Skjáir voru á stöfnunum og lagði þaðan daufa birtu um búðina en væri aftur hurð var í sumum vart bókarbjart þótt um hádag væri.[334]

 

Hér er á öðrum stað birt lýsing á verbúð sem lengi stóð uppi við Sæbólssjó á Ingjaldssandi (sjá hér Sæból) en Lúðvík Kristjánsson segir í Íslenskum sjávarháttum að búðirnar á Skaga hafi verið mjög líkar þeirri verbúð.[335]

Árið 1913 voru átta verbúðir enn í notkun á Skaga en nokkrar skipshafnir höfðust þá við í fjárhúsum og hlöðu sem stóðu skammt frá sjó.[336] Búðirnar inni á brekkunni, rétt utan við Búðahrygg, voru þá allar aflagðar, þar á meðal gamla Núpsbúðin (sjá hér bls. 32-33). Á einni þessara búða hékk þakið þó enn uppi.[337]

Á fyrri tíð suðu vermenn mat sinn við hlóðaeld og Þorbergur Steinsson getur þess að svo hafi enn verið árið 1888. Á árunum kringum aldamótin 1900 munu litlar kamínur hins vegar hafa komið í flestar verbúðirnar á Skaga.[338] Hitinn frá kamínunum mun þó lítið sem ekkert hafa dugað til upphitunar og voru þær því fyrst og fremst ætlaðar til notkunar við matseld.[339] Enn síðar tóku kveikjukogarar og prímusar við því hlutverki.[340]

Valdimar Kristinsson, sem kom fyrst á Skaga vorið 1913, hefur líka lýst verbúðunum þar og kemur lýsing hans að flestu leyti ágætlega heim við það sem hér var áður haft eftir Þorbergi Steinssyni. Valdimar getur þess að torfþakið á búðunum hafi verið tvöfalt og hálfur framstafn margra þeirra verið klæddur timbri.[341] Rúmfatnaði, búsáhöldum og borðhaldi vermanna lýsir Valdimar svo:

 

Á flestum rúmunum var snæri riðið í botninn, heydýnur voru hafðar undir og teppi eða brekán í sængur stað. Einstaka menn áttu þó fiðursæng. Eitt lítið borð var í búðinni. Þar stóð jafnan fata með neysluvatni, kaffikanna, pottar og nauðsynlegustu áhöld til matseldar. … Menn höfðu með sér disk eða fat undir matinn, einnig drykkjarkönnu og skeið. Við borðhaldið sátu allir í rúmum sínum með matarílátin á hnjánum.[342]

 

Þegar illa viðraði hefur vistin stundum verið daufleg í verbúðunum á Skaga. − Búðin lak svo varla var friður í rúmunum, skrifar Sighvatur Borgfirðingur 12. júní 1876[343] og oft gerði lekinn honum gramt í geði við skriftirnar sem hann reyndi þó að sinna í öllum frístundum þar í verinu sem annars staðar. En stundum komu þeir dagar að Sighvatur og félagar hans komust ekki úr rúmunum fyrir kulda en fannfergi lagðist á skjáinn svo ekki varð litið í bók fyrir myrkri.[344] Öll él birti þó upp um síðir og menn tóku gleði sína á ný. Ekki mun Sighvatur hafa verið einn um það að nota sér landlegudagana á Skaga til lesturs og fróðleiksiðkunar af ýmsu tagi. Borgfirðingurinn á Höfða mun þó vera sá eini sem snúið hefur heilli doktorsritgeð úr dönsku máli á íslensku hér á Skaga en þá list lék Sighvatur vorið 1889 eins og hér hefur áður verið frá sagt (sjá Höfði). Hann var þá í skiprúmi hjá vini sínum Samson Samsonarsyni á þriggja manna fari.[345]

Á Skaga þótti best að róa í brestinn, þegar byrjar að falla út.[346] Yfirleitt fóru allir bátarnir samtímis á sjóinn og nýttu norðurfallið til að létta sér róðurinn á fiskimiðin undir Barða.[347] Er út á miðin kom var færum rennt í sjó og verið að fram yfir liggjandann en þá var snúið til lands og suðurfallið látið bera bátinn inn með fjarðarströndinni.[348] Væri vindur hagstæður var gripið til segla en annars settust menn við árarnar og létu þær bera bátinn í samspili við strauma hafsins.[349] Á miðum úti þurfti oft að hafa einn mann í andófi.[350]

Venjulegur fiskiróður frá Skaga tók oftast sex til sjö klukkutíma[351] en lítið skemmri tíma tók að gera að aflanum og ganga frá honum þegar í land var komið.[352] Stöku sinnum var þó róið tvisvar á sólarhring en þá var lítið um svefn.[353] Allt fram á tuttugustu öld mun hafa verið siður að lesa sjóferðarbæn þegar ýtt hafði verið úr vör og báturinn kominn lítið eitt frá landi.[354] Tóku þá allir ofan höfuðfötin en Óskar Jónsson segir að ekki muni allir hafa tekið bænalesturinn mjög hátíðlega. Til marks um það nefnir hann tvö dæmi. − Hvað sló klukkan þegar við fórum ofan af loftinu? spurði háseti nokkur hjá Jóni Gabríelssyni eitt sinn þegar andaktin sem bænalestrinum átti að fylgja stóð sem hæst.[355] Vorið 1909 reri Óskar með gömlum Dýrfirðingi, sem hann nefnir ekki með nafni, og var sá formaður á kænunni. Er lagt var í fyrsta róður segir karl stráknum að taka ofan húfuna því nú skuli þeir fara með bænina. Drengurinn hlýðir þessu en þegar hann var rétt byrjaður á bænalestrinum heyrir hann að sá gamli er farinn að kveða:

 

Númi undi lengi í lundi,

leiðir sveigir hér og þar,

lítur hann sprund, hún lá í blundi,

lík skjaldmey að búning var.[356]

 

Frá Skaga voru nær eingöngu stundaðar handfæraveiðar allt þar til vélbátaútgerð þaðan hófst árið 1927.[357] Á færin veiddu menn þorsk og steinbít og beitan var nær eingöngu ljósabeita, það er agnir úr nýjum fiski.[358] Stundum voru menn líka með haukalóðir til sprökuveiða og grásleppa var veidd í net.[359] Vorið 1876 var Sighvatur Borgfirðingur í skiprúmi á sexæringnum Hauki og var Guðmundur Hagalín á Mýrum formaður.[360] Í dagbókum Sighvats má sjá að stundum lögðu þeir haukalóðir[361] og fengu í þær eitthvað af spröku. Vorið 1883 reri Sighvatur með Oddi Gíslasyni á Ketilseyri og þá voru þeir auk færanna með bæði haukalóðir og grásleppunet.[362]

Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur segir að frá verstöðvum í Dýrafirði hafi fyrst verið róið með lóðir árið 1886 og fimmtán árum síðar hafi þær verið orðnar helsta veiðarfæri Dýrfirðinga.[363] Þessi staðhæfing Bjarna er máske nálægt því rétta sé litið eingöngu á sjósókn úr Þingeyrarhreppi en á Skaga var þróunin með allt öðrum hætti. Þar hafði lóðafiskirí aldrei verið stundað að neinu marki er Óskar Jónsson hóf þar slíka útgerð vorið 1915.[364] Einhverjar tilraunir munu þó hafa verið gerðar með þetta veiðarfæri af þeim sem reru frá Skaga löngu fyrr (sjá hér bls. 35) og einnig á árunum 1885-1890 því á fundi sem haldinn var á Núpi 7. mars 1890 var samþykkt að leggja niður haldöngla og lóðir á Skaga.[365] Svo virðist sem flestir hafi virt þessa fundarsamþykkt næsta aldarfjórðung, a.m.k. hvað lóðirnar varðar en um haldönglana skal ekkert fullyrt, enda skipta þeir minna máli. Lúðvík Kristjánsson segir að þetta séu stórir önglar sem menn hafi notað beitulausa til að húkka fisk.[366] Í orðabókum sést að slíkir önglar voru nefndir hneifar. − Við rérum með handfæri og höfðum bera önglana, hneifar, segir Kristján Nói Kristjánsson sem var við róðra á Skaga árið 1900 eða þar um bil.[367] Hann tekur fram að stundum hafi þó verið beitt ljósabeitu á Kjaransstaðabátnum sem hann var skipverji á.[368]

Óskar Jónsson sem hóf línuveiðar frá Skaga vorið 1915 segir að áður hafi jafnan verið róið þaðan með handfæri[369] og þetta staðfesta aðrir kunnugir eins og hér hefur áður verið rakið. Er Óskar byrjaði línuveiðarnar voru þrjú ár liðin frá því hann fluttist með foreldrum sínum burt frá Fjallaskaga en nú var hann orðinn 17 ára og kominn aftur á fornar slóðir til að stunda róðra. Þeir Óskar og Tryggvi bróðir hans reru þetta vor frá Skaga á lítilli skektu og var þriðji maður með þeim á bátnum.[370] Taldist Óskar vera formaður.[371] Um þetta ævintýri ritar hann svo:

 

Var jafnan róið þarna með handfæri en við sáum strax að betra myndi að afla fiskjar með línu. Tókum við okkur til og öfluðum kúfiskjar inni í firðinum. Var hann látinn í poka og þeir jafnan látnir liggja í sjó. Geymdist hann í allt að hálfum mánuði. … Byrjuðum við nú að róa með línu og öfluðum miklu betur en aðrir bátar allt vorið. Fengum við oft hlaðinn bát.[372]

 

Er vorvertíðinni lauk hélt Óskar áfram línuróðrum frá Skaga og reri þaðan allt sumarið, fram í októberbyrjun. Árið 1916 hafði hann sama lagið á og aflaði ágætlega en oft var lítið um svefn.[373] Með línuróðrunum 1915 og 1916 sýndu Óskar og félagar hans fram á að óþarft væri fyrir vermenn á Skaga að binda sig við handfærin. Engin bylting varð þó í þeim efnum fyrr en röskum áratug síðar er Valdimar Kristinsson kom þangað með fyrsta vélbátinn eins og hér verður brátt frá sagt.

Frá verstöðinni á Skagamölum var einkum róið á miðin undir Barða en stundum á Vesturhafið,  vestur og út af Dýrafirði.[374] Um helstu fiskimið þeirra sem reru frá Skaga má fræðast hjá Sighvati Borgfirðingi en hann nefnir m.a. Klaufirnar, Horn, Hundsá, Gölt, Hnúu, Hóla, Hæl, Hlöðuteiga, Sauðanesklauf, Kvíarhæl, Fjarðareldingu, Gathamarsvík, Klett, Krossgil, Tinda og Þorfinnsfót.[375] Mörg þessara nafna eru þekkt kennileiti á landi, m.a. yst á Sauðanesi, norðan Önundarfjarðar, en út í þá sálma verður ekki farið hér. Er Sighvatur minnist á fiskimið nefnir hann einna oftast Hólana en Valdimar Kristinsson segir að svokölluð Hólamið séu um þrjár sjómílur frá landi og á þau hafi mjög oft verið róið frá Skaga.[376] Ætla má að þessi Hólamið séu þar sem Fiskihólar í Nesdal koma fram ef róið er út undir Barða en þangað eru um þrjár sjómílur frá Skaga. Stærri bátarnir sóttu þó oft á dýpri mið, að sögn Valdimars, svo sem niður á Stiga, Kví, Hamra eða Eldingar.[377] Guðmundur Gíslason sem reri 5-10 vertíðir á Skaga, fyrst 1925, segist hafa veitt því athygli að í róðrum frá Skaga hittu menn aldrei báta frá Ingjaldssandi á sjó.[378] Fiskimið Sandmanna virðast því hafa verið önnur en þau sem Dýrfirðingar sóttu á.

Þegar róið var með línu frá Skaga var slík aðgreining fiskimiðanna alveg tvímælalaus, að sögn Óskars Jónssonar sem var við línuróðra frá Skaga 1915-1916 og 1918-1919. Þeir sem reru frá Skaga máttu þá alls ekki leggja lóðir norðan við Barðann því þar voru mið Sandmanna.[379]

Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var algengast að eigendur bátanna sem reru frá Skaga væru sjálfir formenn, hver á sínum bát, og svo mun lengi hafa verið. Á þessu voru þó ýmsar undantekningar. Sem dæmi má nefna að Kristinn Guðlaugsson á Núpi gerði um skeið út tvo báta. Sjálfur var hann þá formaður á öðrum bátnum, sem hét Suðri, en Ívar Einarsson á Kotnúpi var með hinn bátinn.[380]

Fáir karlmenn sem ólust upp á norðurströnd Dýrafjarðar og náðu fullum kröftum munu hafa komist hjá því að róa eina eða fleiri vertíðir frá Skaga og hjá flestum urðu þær margar. Oft byrjuðu menn róðrana ungir og má sem dæmi nefna að Valdimar Kristinsson á Núpi fór fyrst að róa frá Skaga níu ára gamall vorið 1913.[381] Þeir bræður Valdimar og Haraldur, sem var tveimur árum eldri, fóru þá í verið með föður sínum, Kristni Guðlaugssyni, óðalsbónda á Núpi, sem þá var einn formannanna á Skaga. Þeir fengu að fljóta með þó ungir væru en töldust auðvitað ekki fullgildir hásetar.[382] Að lokinni þessari vígslu vorið 1913 var Valdimar svo við róðra á Skaga á hverju vori um margra ára skeið.[383]

Óskar Jónsson frá Fjallaskaga segist hafa verið orðinn nokkuð vanur sjóróðrum er hann réðst 12 ára gamall í skiprúm hjá gömlum manni innan úr sveitinni sem stundaði róðra frá Skaga.[384] Fáir munu þó hafa orðið fullgildir hásetar fyrr en þeir voru orðnir 15 eða 16 ára. Gísli, sonur Sighvats Borgfirðings, fór t.d. fyrst í ver út á Skaga er hann var 16 ára gamall vorið 1886[385] og Guðmundur Gíslason, sonarsonur Sighvats, byrjaði að róa á Skaga 15 ára gamall sumarið 1925.[386]

Í verstöðvum sunnanlands og víðar var fyrsti fiskurinn sem ungur nýliði dró úr sjó nefndur Maríufiskur. Það nafn munu Vestfirðingar ekki hafa notað[387] en í Dýrafirði tíðkaðist að sögn að nýliði í verstöð gæfi gömlum fátæklingi fyrsta fiskinn sinn.[388]

Lítið mun hafa verið um að konur væru í skiprúmi á Skaga en þó kom það fyrir. Fjórar konur komu út á Skaga 18. júní 1882 með vermönnum sem skroppið höfðu heim einhverra erinda.[389] Sighvatur Borgfirðingur greinir frá þessu en nefnir ekki hvort þær hafi verið ráðnar í skiprúm. Langlíklegast er þó að svo hafi verið því um önnur erindi gat varla verið að ræða og skemmtiferðir almúgakvenna voru þá óþekktar. Máske hafa konurnar verið ráðnar til að hlaupa í skarðið fyrir einhverja sem hafa verið lagstir í hinni mannskæðu mislingasótt er hér geisaði þetta sumar. Vitað er að í Dýrafirði var fólk farið að veikjast um mánaðamótin maí/júní.[390]

Valdimar Kristinsson á Núpi minnist tveggja kvenna sem voru í skiprúmi hjá Kristni föður hans er Kristinn var formaður á Skaga. Önnur þeirra var Þóra Guðmundsdóttir frá Læk en hún reri með Kristni rétt eftir aldamótin 1900.[391] Hin var Guðlaug Indíana Jónasdóttir, mágkona Kristins, sem var háseti hjá honum nokkru síðar.[392] Ætla má að einhverjir fleiri en Kristinn hafi haft konur í skiprúmi, enda þótt fáir eða engir kunni nú frá því að greina.

Á Skagamölum mun hins vegar aldrei hafa tíðkast að konur sætu í landi og önnuðust matseld. Það gerðu vermennirnir sjálfir og lifðu mikið á fiskmeti. Rúgbrauð höfðu menn að heiman og mjöl í graut, kaffi og mjólk, einnig lýsisbræðing ofan á brauðið og sumir höfðu smjör.[393] Lítið var um kjöt[394] Á sjóinn höfðu menn bara með sér blöndukút en mötuðust þegar komið var í land.[395] Neysluvatn var sótt í Vínholu sem er uppspretta í laut fyrir utan Búðahrygg.[396]

Í dagbókum Sighvats Borgfirðings sést að vermenn á Skaga skruppu býsna oft heim til sín meðan á vertíðinni stóð.[397] Oftast var þá farið á bátum en sumir fóru þó stundum gangandi.[398] Valdimar Kristinsson segir að á fyrstu áratugum tuttugustu aldar hafi vermenn á Skaga oftast farið heim um helgar, bæði til að færa þeim soðmat sem heima voru og einnig til að sækja sér nauðsynjar.[399] Ef veðráttan leyfði ekki að menn kæmust sjóleiðis heim fóru þeir sem bjuggu utarlega í firðinum fótgangandi og báru fiskinn í poka á bakinu.[400]

Landlegudagar voru oft margir á Skaga. Sighvatur Borgfirðingur nefnir stundum í dagbók sinni hvað róðrarnir hafi orðið margir yfir vertíðina og sýnast þeir oftast hafa verið 25-30.[401] Lætur þá nærri að róið hafi verið annan hvern virkan dag að jafnaði en þess verður að geta að það er róðrafjöldi litlu bátanna sem Sighvatur greinir frá og gera má ráð fyrir að stærri bátarnir hafi farið nokkru oftar á sjó.

Í norðan- og norðaustanátt er gott að róa frá Skaga því Tangarnir skýla þá fyrir úthafsöldinni. Í vestanátt er þar hins vegar mjög brimasamt.[402] Væri ekki talið lendandi þegar komið var úr róðri var farið í var innan við Múlana sem eru utantil við Birnustaði.[403] Stundum leið heil vika án þess að gæfi nokkru sinni á sjó en líka gat komið fyrir að róið væri á hverjum degi alla vikuna.[404]

Síðustu 150 árin sem róið var frá Skaga virðist minna hafa verið þar um sjóslys en í flestum öðrum sambærilegum verstöðvum. Líklegt er að sexæringur frá Mýrum sem fórst vorið 1783[405] hafi verið við róðra á Skaga. Sjö menn voru á skipi þessu og fórust allir en eigandi þess var séra Jón Ásgeirsson á Mýrum,[406] síðar í Holti í Önundarfirði, afi Jóns Sigurðssonar forseta. Hér hefur áður verið greint frá drukknun Jóns Gunnarssonar, bónda á Fjallaskaga, 30. júlí 1807. Skip hans týndist á landleið úr hákarlalegu og mennirnir átta sem á því voru drukknuðu allir (sjá hér bls. 22).

Þann 24. apríl 1888 fórst sexæringur sem þá reri frá Skaga en bátur þessi var frá Skálará í Keldudal. Fjórir menn fórust en þremur tókst að bjarga.[407] Um slys þetta hefur nýlega verið ritað í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga og skal hér vísað til þeirrar ágætu ritgerðar.[408] Þeir sem þarna fórust voru: Guðmundur Guðmudsson, 37 ára bóndi á Arnarnúpi sem var formaður, Kári Bjarnason, 63ja ára vinnumaður á Arnarnúpi, Kristján Össurarson, 47 ára vinnumaður á Skálará, og Bjarni Bjarnason, 68 ára bóndi á Skálará.[409] Þeir sem björguðust voru: Ólafur Guðmundsson, 39 ára vinnumaður á Arnarnúpi, Jóhann Samsonarson, 33ja ára bóndi á Saurum, og Ásbjörn Björnsson, 24 ára vinnumaður í Neðsta-Hvammi.[410]

Daginn sem Skálarárskipið fórst voru aðeins fjórir bátar á sjó frá Skaga.[411] Formaður á einum þeirra var Kristján Oddsson á Núpi.[412] Á landleiðinni var Kristján lítið eitt á eftir Skálarárskipinu og sá þegar seglið hvarf.[413] Með snarræði tókst Kristjáni og mönnum hans að bjarga þremur mönnum af kili og einnig náðu þeir líki Bjarna bónda á Skálará.[414]

Sighvatur Borgfirðingur var við róðra á Skaga þegar slys þetta skeði. − Skálarárskipið drukknaði nýkomið undir segl á landferð, ritar hann í dagbók sína sama dag og bætir síðan við: Ég var að stumra yfir þeim sem á land komust og afklæða líkið Bjarna. Ég greip í ætt Ólafs Hafliðasonar.[415] Eins og hér hefur áður verið rakið kunni Sighvatur talsvert fyrir sér í lækningum (sjá hér Höfði) og má ætla að þess vegna hafi einmitt komið í hans hlut að hlúa að þeim sem björguðust af kili Skálarárskipsins.

Oft hefur afli verið góðir í verstöðinni á Fjallaskaga á fyrri tíð en stundum kom fyrir að lítið sem ekkert fiskaðist. Jón Espólín segir að vorið 1701 hafi fiskleysið í þessari veiðistöð við norðanverðan Dýrafjörð verið þvílíkt að vermenn hafi orðið að leggja sér soðinn hákarlsskráp og blautan háf til munns.[416] Slíkt var þó undantekning sem betur fer.

Er Sighvatur Borgfirðingur var við róðra á Skaga á árunum 1874-1889 var allur stærri þorskur saltaður og lagður inn í verslun en mikið af smáþorskinum og allur steinbítur fór til heimilisnota.[417] Sighvatur nefnir stundum hver vertíðaraflinn hafi verið hjá þeim bát sem hann reri á eða hver hluturinn hafi verið. Sem dæmi má nefna að vorið 1882 fékk Sighvatur um 200 steinbíta í hlut og þótti gott en fyrir þorskinn sem lagður var inn fékk hann 30,- krónur í hlut og þótti lítið.[418] Vorið 1888 var Sighvatur á þriggja manna fari. Af þorski sem fór í salt var heildarafli bátsins þá 1168 fiskar en auk þess fengu þeir 206 steinbíta í hlut.[419] Næsta vor var Sighvatur aftur á þriggja manna fari og þá var Gísli sonur hans á sama bát. Þeir feðgar fengu þá 30 steinbíta hvor í hlut en fiskurinn var alls 5 skippund og 118 pund, segir Sighvatur.[420] Þar á hann líklega við hlutinn sem hefur þá verið 859 kíló af saltfiski.

Til er skýrsla um afla báta í Mýrahreppi árið 1897[421] og má ætla að nær allur þorskur sem þar er gefinn upp hafi fengist á vorvertíðinni á Skaga. Aftur á móti má gera ráð fyrir að verulegan hluta af ýsuaflanum hafi menn fengið í sumar- og haustróðrum úr heimavör. Eins og hér hefur áður verið nefnt stunduðu níu bátar sjóróðra frá norðurströnd Dýrafjarðar árið 1897 og var heildarafli þeirra sem hér segir:

 

Þorskur                     5.247   fiskar

Smáþorskur              5.376      –

Ýsa                         13.951      –

Aðrar tegundir         2.582      –    [422])

 

Þessari opinberu skýrslu er sjálfsagt að taka með nokkrum fyrirvara því vel má vera að hún sé ekki nákvæm. Samkvæmt skýrslunni var heildaraflinn 27.156 fiskar samtals af þorski, ýsu og öðrum tegundum. Afli þessi fékkst á fimm tveggja manna för og þrjú fjögra manna för svo alls hafa sjómennirnir verið 22. Meðalaflinn hefur þá verið 1.234 fiskar á mann. Mestur var ársaflinn hjá Hákoni Pálssyni í Ytrihúsum sem gerði út fjögra manna far og fékk 5.351 fisk[423] en mestur afli á hvern sjómann var hjá Kristjáni Ólafssyni í Meira-Garði sem fékk 3.000 fiska á tveggja manna fari.[424]

Eitt dæmi úr skrifum Sighvats Borgfirðings gefur vísbendingu um hvernig hlutaskiptum var háttað við róðra frá Fjallaskaga. Vorið 1876 var Sighvatur í skiprúmi hjá Guðmundi Hagalín á Mýrum.[425] Báturinn var sexæringur og voru sjö menn í skipshöfninni.[426] Þann 11. maí fóru þeir í róður og fengu þá 144 fiska á skip eða 16 í hlut að sögn Sighvats.[427] Þetta sýnir að skipt hefur verið í níu staði svo formaður og bátseigandi hefur fengið tvo dauða hluti og þar með þrjá hluti alls. Á minni bátunum, þriggja og fjögra manna förum, var aldrei nema í mesta lagi einn dauður hlutur á síðustu árum árabátaútgerðarinnar frá Skaga.[428] Í þessari verstöð munu hásetar á sama bátnum alltaf hafa fengið jafnan hlut en aldrei verið skipt eftir því hvað hver einstakur dró marga fiska.[429]

Hér hefur enn verið lítið rætt um verkun aflans sem barst á land á Fjallaskaga. Fyrr á öldum var allur fiskur hertur en ætla má að á 18. öld hafi verið byrjað að salta eitthvað af aflanum (sjá hér Þingeyri). Er Sighvatur Borgfirðingur var við róðra á Skaga á árunum 1874-1889 var allur sæmilega stór þorskur saltaður en eitthvað af smáþorski var hert og líka allur steinbítur.[430] Steinbít og nokkuð af smáfiskinum höfðu menn með sér heim til neyslu svo sem fyrr var nefnt. Saltfiskinn fluttu menn líka heim, vöskuðu hann þar og lögðu hann síðan fullverkaðan inn í verslunina á Þingeyri.[431]

Um eða upp úr aldamótunum 1900 mun Þingeyrarverslun hafa farið að senda eftir saltfiskinum út á Skaga í vertíðarlok[432] og seinna lét verlsunin sækja þangað fisk í nokkrum ferðum sem farnar voru meðan vertíð stóð enn yfir.[433]

Síðustu árin sem róið var á árabátum frá Skaga fluttu menn steinbítinn enn með sér heim.[434] Verkun steinbítsins á Skaga lýsir Óskar Jónsson á þessa leið:

 

… áður en byrjað var að skera hann upp var allt laust slor skolað af honum. Var hann svo ristur og látinn hanga saman á sporði og helmingarnir stykkjaðir. Mátti aldrei þvo steinbítinn eftir að búið var að rista hann því að þá missti hann sitt ekta bragð.[435]

 

Þorskhausar og bein voru líka flutt heim því allt var hirt nema slógið.[436] Þorskbeinin voru gefin skepnum.[437]

Fiskverkuninni á Skaga hefur Valdimar Kristinsson lýst með þessum orðum:

 

Þegar komið var að landi var báturinn dreginn upp á þurrt með aflanum í. Síðan var fiskurinn borinn upp á kambinn í trogbörum. Alltaf voru fiskar taldir er þeir komu upp úr bátunum. Gert var að fiskinum við læk er rann utan við lendinguna. Þorskurinn var flattur og saltaður. Steinbíturinn var einnig flattur og kúlaður, hausinn látinn fylgja bolnum. Síðan var hann hengdur á hjalla og hertur. Oft var ekki til nægur hjallviður ef mikið fiskaðist. Var steinbíturinn þá tekinn af hjöllunum hálfþurr og fluttur á grjótgarða sem voru á hólunum ofan við verbúðirnar. Grjótgarðar þessir hafa eingöngu verið hlaðnir til fiskþurrkunar en ekki er vitað um aldur þeirra. Stórlúða eða spraka þótti hið mesta hnossgæti, einkum rafabeltin en það eru uggarnir báðum megin. Voru þeir skornir frá aftur að sporði og ýmist borðaðir nýir eða hertir. Var lúðan flökuð og skorin í strengsli og hengd upp til herslu. Á lúðunni voru mörg nöfn sem hér greinir frá:

 

Spraka, flyðra, lúða, lok,

lóa, heilagfiski.

Hveita, kvörna, brosma, brok,

borið fram á diski.

 

Margir söltuðu fiskinn í eikarföt eða kassa en aðrir urðu að salta í stafla. Öll fiskverkun fór fram úti við.[438]

 

Að sögn Valdimars voru fiskhjallarnir á Skaga gerðir með þeim hætti að byrjað var á að hlaða nokkra grjótstólpa eða vörður í einfaldri röð.[439] Framan við hverja vörðu og alllangt frá henni var reistur klofi, það er tvær spýtur í kross.[440] Varðan og klofinn voru ætluð til að bera uppi timburbjálka sem nefndir voru dregarar. Annar endi dregarans hvíldi á vörðunni en hinn á klofanum.[441] Rárnar, sem steinbíturinn var hengdur á, voru síðan látnar hvíla á dregurunum.[442]

Kristján Nói Kristjánsson, sem fæddur var árið 1896 og ólst upp á Kjaransstöðum í Dýrafirði, var við róðra á Fjallaskaga með Friðfinni Þórðarsyni, húsbónda sínum, tvö vor á árunum 1907 til 1910. Kristján Nói lýsti síðar fiskverkuninni á Skaga í viðtali við Erling Davíðsson og komst þá svo að orði:

 

Við söltuðum þorskinn á malarkambinum, rétt ofan við flæðarmálið, undir beru lofti en fjalir eða plankar voru lagðir undir stæðuna. Smáfiskurinn var allur hertur en gjarnan verkaður á þann veg að gerð var á honum gotuspretta. Síðan var hann látinn liggja upp í loft í salti í tvo sólarhringa og þá spyrtur upp. Þessi fiskur, sem bæði var harðfiskur og saltfiskur, var svo lagður í bleyti og soðinn og var besti matur sem hvorki úldnaði né maðkaði þótt lengi væri geymdur.

Hausarnir voru allir hertir á klöppunum og einnig dálkarnir og fluttir heim fullhertir, geymdir til vetrarins og þá gefnir hrossum. Það kom í minn hlut að berja þessi bein í hestana þegar ég gat valdið sleggjunni.[443]

 

Flest er nú gleymt sem áður var í minnum haft um formenn á Fjallaskaga á fyrri tímum. Fyrir liðlega 100 árum voru Kristján Oddsson á Núpi og Guðmundur Hagalín á Mýrum án tvímæla í röð hinna fræknustu formanna á Skaga, báðir þrautreyndir hákarlaformenn sem orð fór af (sjá hér Núpur, Mýrar og Lokinhamrar). Margir fleiri sem um þær mundir stýrðu báti á Skagamið voru afburða sjómenn á forna vísu og einn í þeim hópi var presturinn á Gerðhömrum, séra Þórður Ólafsson, sem alist hafði upp við sjósókn á Hlíðarhúsastígnum, − nú Vesturgötu í Reykjavík. Séra Þórður var margar vertíðir formaður á Fjallaskaga. Árið 1897 reri hann þaðan á 2ja manna fari og varð aflinn 2.920 fiskar.[444] Séra Þórður reri líka á haustin heiman frá Gerðhömrum. Um þennan mikla fiskimann í prestastétt segir Magnús Hjaltason þessa sögu:

 

Þann 8. október 1898 „fór hann snemma um morguninn á sjó vestur í Arnarfjarðarmynni og er hann kom að landi fór hann á hreppaskilin inn að Mýrum frá Gerðhömrum. Frá Mýrum fór hann inn að Næfranesi og skírði þar barn. Þaðan sneri hann heimleiðis en á leiðinni gaf hann saman hjón á Núpi, Sigurð Sigurðsson og Guðlaugu Jónasdóttur, vinnuhjú á Núpi. Kom hann heim til sín klukkan eitt um nóttina” en embættaði daginn eftir á Sæbóli á Ingjaldssandi.[445]

 

Þeir sem þekkja til staðhátta munu sjá á orðum Magnúsar hvílíkur garpur prestur þessi var bæði á sjó og landi. Magnús lýsir séra Þórði reyndar nánar í dagbók sinni og segir að hann sé fjörmaður mikill til sálar og lífs og verkmaður mikill, − hneigður til fiskveiða ákaflega og hafi verið formaður bæði vor og haust.[446]

Ekki báru þeir séra Þórður og Sighvatur Borgfirðingur ætíð gæfu til samþykkis (sjá hér Höfði). Til marks um það eru m.a. tvær vísur sem Sighvatur orti er sóknarpresturinn á Gerðhömrum missti bátkænu sína í brimið. Þær eru svona:

 

Séra Gepill fór á flot,

föng þá tóku að dvína,

því hann alla át á þrot

æru og virðing sína.

 

Firnastórri fletti bók,

fornum skuldaklaða,

en sjálfur fjandinn sótti og tók

sálina skinhoraða.

 

Oft hafa menn skemmt sér við vísnagerð á Skagamölum og þar var maður manns gaman þó að stundum kastaðist í kekki. Í landlegum voru oft sagðar sögur, rímur kveðnar og farið í glímur á Grundinni[447] sem er sléttlendur túnblettur ofan við ystu fjárhústóttir.[448] Þar voru þeir sem komu í fyrsta sinn í verið látnir glíma af sér sýslu[449] eins og venja var í mörgum verstöðvum (sjá hér Rafnseyri). Í heimildum má líka finna a.m.k. eitt dæmi um umræðufund á Skagamölum því Sighvatur Borgfirðingur segir í dagbók sinni 20. júní 1887: Fundur var haldinn um Stóra-Jón í okkar búð.[450] Gaman hefði verið að vita meira um þessa samkomu en slík vitneskja liggur ekki á lausu.

Í öllum verstöðvum landsins reyndu menn krafta sína við steinatök og svo var einnig á Fjallaskaga. Aflraunasteinarnir þar hétu Fullsterkur, Hálfsterkur, Amlóði og Aumingi.[451] Fáum mun hafa tekist að láta vatna undir Fullsterk en sagt er að Guðmundur Hagalín á Mýrum hafi sveiflað bjargi þessu léttar en aðrir sem honum voru samtíða á Skaga.[452] Nú eru hinir smærri aflraunasteinar horfnir af vettvangi en ef vel er leitað mun enn mega finna sjálfan Fullsterk ofan við búð Valdimars Kristinssonar[453] en sumarið 1992 var hún eina búðin með uppihangandi þaki.

Í riti sínu, Íslenskum sjávarháttum, getur Lúðvík Kristjánsson um völundarhús sem menn skemmtu sér við að koma upp í einstökum verstöðvum og víðar.[454] Skrifum Lúðvíks um þetta fylgir lýsing Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi á völundarhusi við Dritvík á Snæfellsnesi en þar segir:

 

Þar hafa þeir [þ.e. vermennirnir] gjört sér völundarhús. Raunar er það ekkert hús heldur nífaldur hringur af smásteinum utan um dálitla byggingu sem er í miðjunni. Er að sjá sem vandinn hafi verið að fara rétt inn þangað.[455]

 

Lúðvík getur um slíkt völundarhús á Fjallaskaga og telur líklegt að vermenn hafi í fyrstu raðað saman þeim steinum sem mynduðu húsið.[456]

Kristján Nói Kristjánsson bátasmiður, sem fæddur var árið 1896 og var ungur við róðra á Skaga, sagði síðar frá völundarhúsinu þar og þá með þessum orðum

 

Þarna kom ég á einn stað þar sem völundarhús svonefnt var. Það var gert af drengjahöndum úr smásteinum og svo vandað að listaverk mátti kallast. Horfði ég lengi á þetta og undraðist vandvirknina í þessu „látast”- húsi. Mér var sagt að þetta væri eftirlíking af fangahúsi sem þannig var gert að fangar áttu þann eina kost sér til lífs að rata út og það var ekki auðratað.[457]

 

Kristján Nói segir reyndar að það hafi verið Jens Jónsson, sonur bóndans er bjó á Skaga um aldamótin 1900, sem bjó til völundarhúsið[458] en ætla má að hann hafi áður séð einhverja úr hópi vermanna leika þá list.

Gömul vísa sem Lúðvík Kristjánsson lærði hjá Kristjáni Sigurgeirssyni í Stykkishólmi minnir á völundarhúsin:

 

Ævi manns er eins og hús

er menn Völund kalla,

þar inn margur fetar fús

en fær út ratað valla.[459]

 

Haustið 1902 hóf fyrsti íslenski vélbáturinn sjóróðra frá Ísafirði og á allra næstu árum fjölgaði hinum vélknúnu fiskibátum óðfluga en árabátum, sem gerðir voru út til róðra á vertíð, fækkaði að sama skapi. Kristján Andrésson í Meðaldal, sem var eigandi Fjallaskaga, keypti vélbát fyrstur Dýrfirðinga árið 1906 (sjá hér Meðaldalur) og árið 1912 voru a.m.k. fimm vélbátar gerðir út frá Haukadal (sjá hér Haukadalur). Á árunum um og upp úr 1920 voru árabátarnir alls staðar að hverfa úr sögunni við sjóróðra á vertíð en á Fjallaskaga hafði þó engin breyting orðið því flestir töldu að ekki væri mögulegt að gera þaðan út vélbáta.[460] Valdimar Kristinsson á Núpi var þá kornungur maður en hafði engu að síður róið margar vertíðir á Skaga og þekkti þar allar aðstæður. Árið 1926 réðst hann í að láta smíða fyrir sig bát og setja í hann fjögurra til fimm hestafla Skandiavél.[461] Þetta var fyrsti vélbáturinn sem menn í Mýrahreppi eignuðust en Haukur Kristinsson á Núpi, bróðir Valdimars, var meðeigandi hans.[462] Gísli Jóhannsson á Bíldudal smíðaði bátinn sem fékk nafnið Fjalar.[463] Hann var tvö og hálft tonn.[464]

Smíði bátsins lauk í febrúarmánuði árið 1927 og tók Valdimar þá við honum en alltaf hafði verið ráð fyrir því gert að hann yrði skipstjórinn.[465] Vorið 1927 ætlaði hann að hefja róðra á Fjalari frá Fjallaskaga en gamlir menn vöruðu hann eindregið við og töldu óráð að fara með vélbát í vörina á Skaga því skrúfan myndi eyðileggjast.[466] Skipstjórinn ungi hikaði við og reri þetta fyrsta vor frá Höfn sem er handan fjarðarins.[467] Í lok vorvertíðar ákvað hann þó að láta kylfu ráða kasti og hóf sumarróðra frá Skaga á Fjalari.[468] Allt gekk það vel og engar skemmdir urðu á skrúfunni.[469] Með þessu framtaki tókst Valdimar að afsanna hina gömlu bábilju, að ekki þýddi að reyna vélbátaútgerð frá Skaga. Næstu árin reri hann þaðan á Fjalari flest vor og vorið 1928 bættust strax fleiri vélbátar við.[470] Á því ári hvarf árabátaútgerðin hins vegar nær alveg úr sögunni í þessari veiðistöð en einn maður fór þó stundum fáeina róðra á ári á lítill bátsskel allt til 1938.[471]

Tímabil vélbátaútgerðar frá Fjallaskaga stóð frá 1927 til 1940 og flestir munu bátarnir hafa orðið fimm eða sex, allir úr Mýrahreppi.[472] Þessir bátar reru alltaf með línu og afli margfaldaðist frá því sem áður hafði verið.[473] Úr hópi formanna sem stýrðu vélknúnum bátum til veiða frá Skaga má auk Valdimars á Núpi nefna Hallmund Jónsson í Meira-Garði, Valdimar Össurarson, sem um skeið átti heima á Mýrum, Gísla Gilsson á Arnarnesi, Guðmund Benónýsson á Gerðhömrum, Sigtrygg Kristinsson í Alviðru, Harald Kristinsson á Haukabergi og Steinþór Guðmundsson í Lambadal.[474] Oft var róið tvisvar á dag og stöku sinnum þrisvar.[475] Vorið 1930 fór Valdimar Kristinsson í 75 sjóferðir á tveimur mánuðum og þó var aldrei róið á sunnudögum.[476] Aflinn hjá þeim á Fjalari var þetta vor 20 tonn af stöðnum saltfiski og fengust 22 aurar fyrir hvert kíló.[477] Aflaverðmætið sem kom til skipta hefur því verið 4.400,- krónur. Sex menn voru oftast í áhöfn Fjalars og skipt var í níu staði.[478]

Á fyrstu árum vélbátaútgerðar frá Skaga var allur fiskur seldur þaðan óverkaður en Proppé-bræður sem þá ráku verslun á Þingeyri sendu þangað skip til að sækja hann.[479] Síðar var reist fisksöltunarhús á Skagamölum (sjá hér bls. 53).

Á línuveiðunum frá Fjallaskaga var nær eingöngu beitt kúfiski.[480] Beitunnar öfluðu menn oftast sjálfir og plægðu kúskel hér og þar í Dýrafirði, m.a. inn undir Höfðaodda og undan Eyrarhlíð.[481] Stöku sinnum var kúfiskurinn keyptur af Daníel Benediktssyni í Önundarfirði.[482] Á þessum árum, 1927-1940, var a.m.k. sumum vélbátanna í Mýrahreppi einnig haldið til róðra á haustin en haustróðrar voru þó aldrei stundaðir frá Fjallaskaga.[483]

Á tímum vélbátaútgerðarinnar frá Skaga héldu vermennirnir til í gömlu verbúðunum eins og áður. Valdimar á Núpi keypti gamla verbúð af Þórarni Vagnssyni sem bjó í Hrauni í Keldudal og hafði róið á árabátum frá Skaga.[484] Þegar hálf öld var liðin frá því róðrum var hætt frá verstöðinni á Skagamölum var þessi búð sú eina sem enn var með þaki.[485] Á öllum hinum var þakið fallið en eftir stóðu opnar tóttir.

Frá Fjallaskaga var síðast róið alveg um 1940.[486] Síðustu formennirnir hér voru Guðmundur Benónýsson á Gerðhömrum, Haraldur Kristinsson á Haukabergi og Valdimar Kristinsson á Núpi, allir á vélbátum, og svo Jens Jónsson sem reri á árabát en hann var þá bóndi í Minna-Garði.[487] Um það leyti sem hætt var að róa frá Skaga urðu margvísleg þáttaskil í íslensku þjóðlífi því miklar og djúpstæðar breytingar fóru í hönd. Á þeim tímamótum lauk aldagamalli sögu hér á Fjallaskaga, hinu ysta annesi við norðanverðan Dýrafjörð.

Við sem nú göngum um þennan eyðistað og höfum til leiðsagnar minnisblað frá Valdimar á Núpi skulum reyna að átta okkur svolítið á tóttunum.

Innstu búðirnar voru á Brekkunni, rétt utan við Búðahrygginn, og þar var innst hin forna Núpsbúð sem nefnd var Krekja.[488] Tvær aðrar búðartóttir eru á Brekkunni en allar þessar búðir voru aflagðar þegar Valdimar Kristinsson kom fyrst til róðra á Skaga árið 1913 (sjá hér bls. 33).

Innsta búðin, sem eitthvað var í notkun eftir 1912, var Vindheimar.[489] Af formönnum sem þar lágu við má nefna Guðmund Ásgeir Sigurðsson, sem var bróðir Bjarna Sigurðssonar á Skaga, og Indriða Guðmundsson í Alviðru.[490] Næst kom Skagabúð sem Bjarni Sigurðsson, bóndi á Skaga og síðar í Lambadal, byggði en heimamenn á Skaga lágu stundum við á vertíðinni[491], enda er alllangt neðan af Skagamölum heim til bæjar. Næst fyrir utan Skagabúðina voru þrjár samstæðar búðir. Innst þeirra var Arnarnesbúð, þá Jónsbúð, kennd við Jón Gabríelsson, áður bónda á Skaga, og hina þriðju átti Þórarinn Vagnsson úr Keldudal þar til Valdimar Kristinsson á Núpi keypti hana.[492] Í öllum þessum þremur búðum var legið við á árunum um og eftir 1930. Utan við búð Valdimars var bátanaust og þar fyrir utan fisksöltunarhús sem Valdimar á Núpi byggði upp úr tóttum sem þar voru áður.[493] Það hús stóð innan við lækinn, alveg á lækjarbakkanum.[494] Lendingin var líka rétt innan við lækinn.[495] Utan við lækinn var aldrei lent nema örsjaldan í Stertalendingu sem hér var áður nefnd (sjá hér Birnustaðir, þar bls.13). Þar var efninu í vitann skipað á land á sínum tíma.[496]

Slysavarnarskýlið sem hér er nú stendur rétt utan við lækinn en á fyrri hluta 20. aldar voru þessi mannvirki helst fyrir utan læk: Fyrst hjallur Jóns Gabríelssonar, þá heyhlaða undir járnþaki en utan við hana var Hallarbúð, kennd við býlið Höll í Haukadal.[497] Í Hallarbúðinni var Friðrik Bjarnason á Mýrum með sína skipshöfn.[498] Næst fyrir utan Hallarbúðina var tótt sem Steinþór Guðmundsson í Lambadal fékk að setja þak á og lá hann þar við.[499] Þá kom kálgarður Jóns Gabríelssonar en fyrir utan hann voru fjögur samstæð fjárhús.[500] Þau voru yst í húsaröðinni en þar fyrir utan var tún.[501] Slori var safnað í gryfju og það notað sem áburður á túnið.[502] Hér var þess áður getið að nokkrar skipshafnir héldu til í hlöðunni og fjárhúsunum (sjá hér bls. 38), oft tvær í hlöðunni.[503]

Frá eldri tíð er kunnugt um nöfn á ýmsum verbúðum á Fjallaskaga sem ekki eru nefndar í þessari upptalningu. Má þar nefna Hvammsbúð,[504] Skálarárbúð[505] og Gemlufallsbúð.[506] Auk þess er vitað að kirkjurnar á Söndum og Mýrum áttu skipshöfn á Skaga og skálagjörð á Fjallanesi eins og fyrr var frá greint[507] Ekki mun nú vera vitað með vissu hvar á Skagamölum þessar síðastnefndu búðir voru, nema þá helst Mýrabúðin en í heimild frá því um 1400 segir að hún hafi staðið yst í búðaröðinni.[508]

Um verbúðatóttirnar á Skagamölum verða þessi fáu orð, sem hér hafa verið sögð, að duga. Flest sem tengist því lífi sem hér var lifað er nú gleymsku hulið. Engu að síður ná hinar fornu rústir að tala til okkar á sínu þögla máli sem stundum tjáir fleira en mörg ónýt orð.

Að morgni nýs dags reikum við enn um fjöruna á Fjallaskaga og Grundina sem forðum var glímuvöllur. Við skoðum leifar steinbítsgarðanna, Fransmannaleiðin á bak við vitann, sem byggður var árið 1961, og Stertalendingu þar sem talið er að hinir lánlausu Baskar hafi stigið á land árið 1615 (sjá hér bls. 7-16). Lending þessi er í vík innan við Skagatanga[509] en tangarnir breiða úr sér framan við Skagatána og fara í kaf á hverju flóði.

Við slysavarnaskýlið sem byggt var árið 1948 tygjum við okkur til ferðar en nú er ætlunin að ganga út í Nesdal og þaðan á Ingjaldssand. Í kveðjuskyni reikum við upp á Gönguhóla en það eru tveir samvaxnir smáhólar sem ber nokkuð hátt ofantil við utanverða Grundina[510] sem hér hefur áður verið nefnd (sjá bls. 49). Á hóla þessa varð mörgum tíðförult í landlegum á fyrri tíð, ekki síst formönnum á bátunum sem héðan reru. Frá Gönguhólum voru menn vanir að skyggnast til hafs og skima eftir veðrabreytingum.[511] Ávallt var illt í aðsigi ef miklum roða sló yfir Dýrafjörð að morgni til og byrjaði að hlaða skýjum á Glámu.[512] Ef bjart var í norðrinu mátti búast við brælu úr suðri.[513] Ekki er ólíklegt að hinn alkunni vestfirski húsgangur Nordan hardan gerdi gard hafi verið ortur af einhverjum vermanni á Fjallaskaga því það voru þeir sem sóttu á miðin undir Barða á fyrri tíð (sjá hér bls. 39 og 41-42). Vísan gæti verið ort á sjó og ýmsir lærðu hana svona:

 

Nordan hardan gerdi gard,

geysi hardur vard hann.

Upp hann dregur ennisard

inn í skördin Bardans.[514]

 

Allt er hér auðskilið nema ennisarðurinn en setja má fram þá tilgátu að þar sé fjallsbrún líkt við þann hluta mannslíkamans sem efstur er, það er að segja ennið. Arður getur merkt það sem bætist við hitt sem fyrir var, ekki síst ef rætt er um eignir, og ennisarður væri þá eitthvað sem hleðst ofan á fjallsbrúnina, nefnilega skýjabólstrar.

Af þessari vísu eru reyndar til ýmsar gerðir og benda má á að sú sem hér var birt er ekki rétt ort því að vard ‘ann rímar ekki á móti Bardans. Þrátt fyrir þann rímgalla gæti þetta verið elsta gerð vísunnar en um það veit reyndar enginn.

Önnur gerð hennar bendir til þess að hún sé ort í Arnarfirði þar sem Borgarfjörður er einn innfjarðanna því þar er síðari vísuhelmingurinn svona: Borgarfjardar ennisard − upp í skardið bard ‘ann (þannig hjá Kirkjubólsbræðrum). Ekki er þó ólíklegt að einhver sem hafði næmt brageyra hafi lagað vísuna með þessum hætti síðar til að eyða rímgalla.

Frá Gönguhólum er fagurt að líta til hafs í kaldri sumarblíðu og ekki er annað að sjá en veðrið muni leika við okkur í dag á göngunni út í Nesdal. Frá Hólunum á norðanverðum Skaga sjáum við út á Þúfu og Söðlarönd sem svo er stundum nefnd.[515] Þúfa er hringmyndað grasfles, skammt ofan við fjörukletta.[516] Skoðuð úr fjarlægð frá Skaga lítur hún út eins og allstór grasigróinn hóll. Þetta er Þúfa á Hjallanesi sem svo er nefnd í Landnámabók (sjá hér Neðri-Hjarðardalur og Alviðra) en þar voru endimörk landnáms Þórðar Víkingssonar í Alviðru að sögn höfunda bókarinnar. Þar eru enn landamerki jarðanna Fjallaskaga í Dýrafirði og Sæbóls á Ingjaldssandi (sjá hér Sæból) og þar tekur Sæbólssókn við af Núpssókn. Ofan við Þúfu tekur við Söðlarönd en það er röndin á Skagafjalli þar sem það endar innantil við Nesdal. Söðlarönd tekur nafn af Lægri-Söðlum og Hærri-Söðlum sem eru hjallar allhátt í fjallinu norðanverðu. Ofan við Hærri-Söðla heitir röndin Tagl.[517]

Hár klettaveggur prýðir fjallið milli Skaga og Þúfu og nær frá efstu brún niður í miðja hlíð en hlíðin kallast Ytri-Hlíð, til aðgreiningar frá Innri-Hlíð sem er fyrir innan Skaga.[518] Báðar saman heita þær Skagahlíðar. Vegalengdin frá Skaga að Þúfu er aðeins tveir og hálfur kílómetri eða þar um bil og einn og hálfur kílómetri frá Þúfu að tóttunum í Nesdal. Hér er land hins vegar erfitt yfirferðar og leiðin því seinfarin.

Norðantil við sjálfan Skagann er Krossavík, stór vík sem hér hefur áður verið nefnd. Þar þokum við okkur niður í flæðarmálið og litumst um. Hér í víkinni drukknaði maður, sem Sigurður Jónsson hét, þann 28. febrúar 1813. Þessa slyss er getið í prestsþjónustubók Dýrafjarðarþinga. Tók út af landi og drukknaði í brimi í Krossavík, segir þar.[519] Sigurður var 32ja ára, kvæntur maður og átti heima á Skaga er hann fórst með þessum voveiflega hætti.[520] Í vetrarbrimi ætti enginn að tefla á tæpasta vað í Krossavík. Á Krossavíkurbökkum, hér ofan við víkina, er sagt að bærinn á Skaga hafi staðið fyrir ævalöngu (sjá hér bls. 4-5) en við skyndiskoðun sjást þess nú engin merki.

Við fyrstu sýn virðist fjöruleiðin utan við Krossavík vera freistandi fyrir göngufólk á leið í Nesdal en hún er í raun ófær því að dálítið innan við Þúfu gengur klettur sem Hamar heitir í sjó fram og lokar leiðinni.[521]

Úr Krossavík liggur gömul gata neðan við miðjar hlíðar og henni er best að fylgja út að Uppgöngugili sem er skammt innan við Hamarinn.[522] Þetta er djúpt gil, það eina á þessari leið sem verulegt bragð er að svo ókunnugir þurfa ekki að velkjast í vafa um hvort þeir séu komnir að rétta gilinu þegar þangað kemur.[523] Innan við Uppgöngugil en einum til tveimur kílómetrum fyrir utan Krossavík er í fjörunni mjög stórgrýtt urð, sem er afar ill yfirferðar, og heitir Heljarurð.[524] Sagt er að heil skipshöfn, sem lét vera að taka mark á aðvörunum tveggja hrafna áður en skriðan sem myndaði Heljarurð féll, hafi orðið til hér undir þessu stórgrýti.[525]

Við Uppgöngugil nemum við staðar. Gilið er klettalaust og upp það liggur sú leið sem vænlegast er að fara.[526] Rétt innan við Uppgöngugil er svolítil skál eða grasslakki allhátt í hlíðinni og heitir Hvilft.[527] Úr gilinu er farið inn í Hvilftina og er það sæmileg leið um brattar aurskriður.[528]

Úr Hvilft er svo farið upp í Surtarbrandshillu en um hana liggur langbesta leiðin út í Nesdal.[529] Hillan endar á Lægri-Söðlum í fjallsröndinni innan við dalinn.[530] Um Surtarbrandshillu var talið fært með stórgripi.[531]

Eins og nafnið bendir til er hér talsvert um surtarbrand. Þann 1. september 1892 fóru þeir Sighvatur Borgfirðingur og séra Þórður Ólafsson á Gerðhömrum með franska náttúrufræðingnum Gaston Buchet út í Surtarbrandshillu.[532] Með í för voru líka tveir danskir náttúrufræðingar af selveiðiskipunu Heklu.[533] Allir komu þeir til baka heim á Skaga með fullar byrðar af steingerfingum.[534]

Surtarbrandshillu geta allir farið sem eru dálítið vanir í klettum en um Breiðhillu, sem er talsvert ofar í hamraveggnum, er mun erfiðara að komast og um þræðinga þar fyrir ofan, uppi við brúnakletta, fóru bara færustu menn í smalamennskum.[535] Breiðhilla nær frá Háa-Bring, sem er grasteigur mjög hátt í fjallinu upp af utanverðri Krossavík, og alla leið út á Hærri-Söðla sem eru hjalli í fjallsröndinni innan við Nesdal.[536]

Fyrir neðan Surtarbrandshillu er í klettunum þræðingur sem enginn skyldi reyna að fara og heitir Afglapastígur. Sagan segir að smali Þorkötlu ríku, sem bjó á Sæbóli á Ingjaldssandi á 18. öld (sjá hér Sæból), hafi ætlað sér að fara þann stíg en hrapað til bana og eigi nafnið rætur að rekja til þess atburðar.[537]

Ofan úr Surtarbrandshillu, rétt innan við Söðlaröndina, gefst okkur kostur á að horfa niður á Þúfuna, þetta hringmyndaða grasfles ofan við fjöruklettana, á landamerkjum Fjallaskaga í Dýrafirði og Sæbóls á Ingjaldssandi sem er ysta býli við Önundarfjörð. Við Þúfu á Hjallanesi voru líka landamerki þegar Landnámabók var færð í letur á 12. öld og líklegt að svo hafi verið frá fyrstu tíð eins og fullyrt er í þeirri bók.

Skerin vestantil við Þúfuna heita Þúfusker.[538] Sé sjónauka brugðið upp gefur að líta mikinn fjölda sela á þessum skerjum. Við kveðjum nú Dýrafjörð og skríðum úr Surtarbrandshillunni út á hjallaröndina þar sem Nesdalur blasir við. Hér heita Lægri-Söðlar því annar sams konar hjalli er ofar í þessari sömu fjallsrönd. Hlíðin niður úr Söðlunum er brött. Hana fetum við niður á sjávarbakkana í Nesdal.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örn.skrá.

[2] Sama heimild.

[3] Sóknalýs. Vestfj. II, 81.

[4] Örn.skrá.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Vestf. sagnir II, 400 og Vestf. þjóðsögur II, 1, 142-145.

[14] Jónas Jónasson frá Hrafnagili 1961, 410-411.

[15] Jónas Jónasson 1961, 410-411.

[16] Vestf. sagnir II, 400-401.

[17] Sama heimild. –  Sbr. Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.

[18] Vestf. sagnir II, 400-401 og Vestf. þjóðsögur II, 1, 142-145.

[19] Sömu heimildir.

[20] Sömu heimildir.

[21] Örn.skrá.

[22] Jarðabók Á. og P. VII, 84.

[23] Örn.skrá.

[24] Sóknalýs. Vestfj.II, 81.

[25] Örn.skrá.

[26] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[27] Örn.skrá.

[28] Þorbergur Steinsson 1991, 86 (Ársrit S.Í.).

[29] Örn.skrá.

[30] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[31] Örn.skrá.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Jarðabók Á. og P. VII, 84.

[36] Örn.skrá.

[37] Sama heimild.

[38] Manntal 1703.

[39] Alþ.bækur Ísl. IX, 260 og 361.

[40] D.I. IV, 144.

[41] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[42] Jarðabók Á. og P. VII, 84.

[43] Jarðabók Á. og P. VII, 84-85.

[44] Örn.skrá.

[45] Sama heimild.

[46] Jarðabók Á. og P. VII, 84.

[47] L. Bj./Ársrit S.Í. 1969-1970, 24.

[48] Jarðabók Á. og P. VII, 85.

[49] Jóh. Dav. 1968, 57 (Ársrit S.Í.).

[50] Sóknalýs. Vestfj. II, 82.

[51] Jóh. Dav. 1968, 58  (Ársrit S.Í.).

[52] Vestf. sagnir II, 328-330.

[53] Vestf. sagnir II, 328-330.

[54] Eggert Ólafsson 1975, II, 54-55.

[55] D.I. III, 670.

[56] D.I. IV, 688.

[57] Sama heimild.

[58] D.I. XV, 522.

[59] Annálar I, 200-201

[60] Annálar IV, 247.

[61] Alþ.bækur Ísl. IV, 316-320.

[62] Sama heimild, 309-310.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild, 312

[65] Jón Guðmundsson lærði/Fjallkonan IX, 122 og 127.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild og Alþ.bækur Ísl. IV, 318.

[69] Jón Guðmundsson lærði/Fjallkonan IX, 127.

[70] Alþ.bækur Ísl. IV, 316-318.

[71] Jón Guðmundsson lærði/Fjallkonan IX, 135.

[72] Alþ.bækur Ísl. IV, 309-323.

[73] Sama heimild, 318 og Jón Guðmundsson lærði/Fjallkonan IX, 135.

[74] Tímarit Hins ísl. Bókm.fél., 16. árg., bls. 133-156.

[75] Alþ.bækur Ísl. IV 312.

[76] Annálar III, 99.

[77] Jón Guðmundsson lærði/Fjallkonan IX, 135.

[78] Sama heimild.

[79] Alþ.bækur Ísl. IV, 314-316.

[80] Jón Guðmundsson lærði/Fjallkonan IX, 135.

[81] Tímarit Hins ísl. Bókm.fél. 16. árg., bls. 133-156.

[82] Sama heimild.

[83] Jónas Kristjánsson 1950, 42-49 (Íslensk rit síðari alda IV).

[84] Sama heimild, bls. XV-XVIII.

[85] Jónas Kristjánsson 1950, 48.

[86] Safn til sögu Íslands V, 3., 48.

[87] Alþ.bækur Ísl. IV, 310-313.

[88] Sama heimild og Jónas Kristjánsson 1950, XXX (Íslensk rit síðari alda IV).

[89] Jón Guðmundsson lærði/Fjallkonan IX, 134, 135, 146, 147 og 151.

[90] Alþ.bækur Ísl. IV, 313-316.

[91] Alþ.bækur Ísl. IV, 313-316.

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Sama heimild.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild.

[97] Jónas Kristjánsson 1950, 62 og 68 (Íslensk rit síðari alda IV).

[98] Sama heimild, 68-69.

[99] Annálar III, 193 og IV, 248.

[100] Alþ.bækur Ísl. IV, 313-314.

[101] Sama heimild, 316-320.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Sama heimild.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild.

[107] Alþ.bækur Ísl. IV, 316-320.

[108] Sama heimild.

[109] Jón Guðmundsson lærði/Fjallkonan IX, 103, 107, 110, 111, 122, 123 og 127.

[110] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681, jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[111] Manntal 1703.

[112] Sama heimild og Alþ.bækur Ísl. IX, 71 og 260.

[113] Manntal 1703.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Manntal 1703.

[117] Jarðabók Á. og P. VII, 85-86.

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Örn.skrá.

[122] Manntal 1762. Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1785-1803. Manntöl 1845, 1850, 1855 og 1860.

[123] Alþ.bækur Ísl. IX, 260 og 361.

[124] Jarðabók Á. og P. VII, 84.

[125] Sama heimild.

[126] Manntal 1762.

[127] Jarðabók Á. og P. VII, 84.

[128] Sama heimild.

[129] Valdimar Kristinsson, Núpi. Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[130] Sama heimild.

[131] Ólafur Ólafsson 1957, 20-24 (Ársrit S.Í.). Sighv. Grímss. Borgf../Þjóðviljinn XVI, 23.12.1902.

[132] Ólafur Ólafsson 1957, 20-24 (Ársrit S.Í.). Sighv. Grímss. Borgf../Þjóðviljinn XVI, 23.12.1902.

[133] Manntal 1762.

[134] Ól. Ól. 1957, 20-24.

[135] Sama heimild.

[136] Sama heimild.

[137] Sama heimild.

[138] Þjóðs. Jóns Árnasonar III, 477-478.

[139] Sama heimild.

[140] Þjóðs. Jóns Árnasonar III, 477-478.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Lbs. 27364to, sbr. Þjóðsögur og þættir II, 284-285.

[145] Sama heimild.

[146] Sama heimild.

[147] Lbs. 27364to, sbr. Þjóðsögur og þættir II, 284-285.

[148] Lbs. 27364to (Magnús Hjaltason), sbr. Þjóðsögur og þættir II, 284-285.

[149] Gestur Vestfirðingur III, 108-109. Ól. Olavius I, 158.

[150] Sbr. Ísl. æviskrár V, 8.

[151] Manntal 1762.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild.

[154] Skj.s. amtm. I. nr. 72A, bréf Jóns Jónssonar á Fjallaskaga 18.5.1754 til amtmanns.

[155] Sama heimild.

[156] Sama heimild.

[157] Bj.Th.Bj. 1961, 185-189 (Á Íslendingaslóðum í Kaupm.höfn).

[158] E. Lax. 1987, 119-120.

[159] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[160] G.G. Hag. 1951, 7.

[161] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[162] Sama heimild.

[163] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Prestsþj.b. Dýrafj.þinga 1785-1816. bls. 25.

[164] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[165] Sama heimild.

[166] Manntal 1801.

[167] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4., Dóma- og þingbók 1790-1805, bls. 166.

[168] Manntal 1801.

[169] Sama heimild.

[170] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[171] Sama heimild.

[172] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 5., Dóma- og þingbók 1805-1817, bls. 23, sbr. bls. 48.

[173] Sama heimild.

[174] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 5., Dóma- og þingbók 1805-1817, bls. 23, sbr. bls. 48.

[175] Sama heimild, bls. 23 og 48.

[176] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[177] Sama heimild.

[178] Sama heimild.

[179] Sama heimild.

[180] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[181] Sama heimild.

[182] Sigfús H. Andrésson I, 144-145. Jón J. Aðils 1971, 418-420. Gísli Gunnarsson 1987, 258.

[183] Manntal 1801.

[184] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[185] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[186] Manntal 1801.

[187] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[188] Sama heimild.

[189] Manntöl 1801, 1835 og 1840.

[190] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[191] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[192] Sama heimild.

[193] Manntal 1840.

[194] Manntal 1835.

[195] Sama heimild.

[196] Manntöl 1845, 1850 og 1855.

[197] Sömu heimildir og manntöl 1860 og 1870. Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[198] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga, hjónavígsla 1.10.1840. Manntöl 1835-1860, Sjá þar Ós í Bol.vík, Sæból og Fjallask.

[199] Manntal 1845.

[200] Sighvatur Gr. Borgfirðingur 1924-1927, 129 (Blanda III).

[201] Lbs. 23324to, Dagbók Guðmundar Guðmundssonar norðlenska.

[202] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild. Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 4. Mýrahreppur, hreppsb. 1849-1868. VA III, 407-414,

búnaðarskýrslur. Manntal 1.10.1850.

[205] Manntal 1850.

[206] Sama heimild.

[207] Sama heimild.

[208] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 4. Mýrahreppur, hreppsb. 1849-1868.

[209] Sama heimild.

[210] Gunnar M. Magnúss 1977, 132-135. Valdimar Þorv.son 1953, 70-73 (Frá.y.nesj. VI) og Manntöl 1850 og 1855.

[211] Sömu heimildir.

[212] Lbs. 23328vo, Dagb. Guðmundar Guðmundssonar norðlenska 1.6.1854.

[213] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[214] Sama heimild.

[215] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[216] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[217] Sömu heimildir.

[218] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holtspr.k. í Önundarfirði.

[219] Guðmundur Ingi Kristjánsson Kirkjubóli. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7. 1993.

[220] Lbs. 25604to. (Magnús Hjaltason).

[221] Sama heimild.

[222] Lbs. 25604to. (Magnús Hjaltason).

[223] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga. Manntöl 1860 og 1870.

[224] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[225] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[226] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[227] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 8.7.1887.

[228] Sama heimild og Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[229] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 8.7.1887 og Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[230] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[231] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólabl. 1982.

[232] Kristinsson/Ísfirðingur, jólabl. 1982.

[233] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólabl. 1982.

[234] Sama heimild.

[235] Sama heimild.

[236] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[237] Óskar Jónsson 1956, 7-9.

[238] Óskar Jónsson 1956, 7-9.

[239] Sama heimild.

[240] Sama heimild.

[241] Sama heimild.

[242] Sama heimild.

[243] Sama heimild.

[244] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólabl. 1982.

[245] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólabl. 1982.

[246] Óskar Jónsson 1956, 11-14.

[247] Sama heimild, 14, 16, 40-42.

[248] Sama heimild, 11-14 og 19.

[249] Óskar Jónsson 1956, 19-20.

[250] Sama heimild, 20.

[251] Sama heimild.

[252] Sama heimild.

[253] Sama heimild, 21.

[254] Sama heimild.

[255] Sama heimild, 19.

[256] Óskar Jónsson 1956, 22-23.

[257] Áslaug Jensdóttir/Ísfirðingur 38. árg. 6. tbl., desember 1988.

[258] Áslaug Jensdóttir/Ísfirðingur 38. árg. 6. tbl., desember 1988.

[259] Sama heimild.

[260] Óskar Jónsson 1956, 27.

[261] Ágúst Guðmundsson/Mbl. 14.6.1991.

[262] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólabl. 1982.

[263] Áslaug Jensdóttir/Ísfirðingur 38. árg. 6. tbl. desember 1988.

[264] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[265] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólabl. 1982.

[266] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[267] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[268] Sami. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[269] D.I. III, 126.

[270] Sama heimild, 197 og 228.

[271] Sama heimild, 228.

[272] D.I. IV, 144.

[273] D.I. III, 197 og 330 og IV, 142-143.

[274] D.I. III, 197.

[275] Sama heimild , 330 og IV, 143.

[276] Bps. C, I, 2. Vísitazía Helga biskups Thordersen 1852, – sbr. Jarðab. Á. og P. VII, 48, 68 og 78.

[277] Bps. C, I, 2. Vísitazía Helga biskups Thordersen 1852.

[278] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[279] Sama heimild.

[280] D.I. III, 197.

[281] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[282] D.I. IV, 687.

[283] Jarðab. Á. og P. VII, 85.

[284] Sama heimild.

[285] Jarðab. Á. og P. VII, 85.

[286] Sama heimild.

[287] Jarðab. Á. og P. VII, 85.

[288] Sama heimild.

[289] Sama heimild.

[290] L.Kr. 1983, 103.

[291] Jarðab. Á. og P. VII, 85.

[292] Sama heimild.

[293] Hsk. Ísaf. nr. 222 (954). Kærubr. S. Samsonarsonar og Guðm. Eggertss. 27.12.1881 til sýslum. í Ísafj.sýslu.

[294] Stjórnartíðindi 1882 B, bls. 32-33.

[295] Eggert Ólafsson 1975  I, 268.

[296] Ól. Olavius 1964  I, 185.

[297] Sama heimild.

[298] Ól. Olavius 1964  I, 185.

[299] Sama heimild, 188-189.

[300] Sama heimild.

[301] Sóknalýs. Vestfj. II, 81.

[302] Sama heimild.

[303] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[304] Sóknalýs. Vestfj. II, 88-89.

[305] Lbs. 23328vo, Dagb. Guðm. Guðmundssonar  norðlenska 20.-23.9.1853.

[306] Sóknalýs. Vestfj. II, 89-90.

[307] Sama heimild.

[308] Lbs. 23744to og Lbs. 2375.4to Dagb. S.Gr.B. 1873-1900.

[309] Sama heimild, 1874-1889.

[310] Sama heimild, 10.4.1889.

[311] Sama heimild, 11.7.1883.

[312] Sama heimild, 1874-1889.

[313] Þorbergur Steinsson 1991, 83-84 (Ársrit S.Í.).

[314] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 27.4. og 28.4.1889.

[315] Sama heimild.

[316] Lbs. 23744to , Dagb. S.Gr.B., 1874-1889.

[317] Bj. Sæm. 1903, 102-103  (Andvari).

[318] Sama heimild.

[319] Bj. Sæm. 1903, 102-103 (Andvari).

[320] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[321] Skjalasafn landshöfðingja, séröskjur 6. Fiskaflaskýrslur 1897-1902.

[322] Sama heimild.

[323] Sama heimild.

[324] Sama heimild.

[325] Óskar Jónsson 1956, 14.

[326] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[327] Sama heimild.

[328] Guðm. Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[329] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[330] Þorbergur Steinsson 1991, 83-89 (Ársrit S.Í.).

[331] Sama heimild.

[332] Sama heimild.

[333] Sama heimild.

[334] Sama heimild.

[335] L. Kr. 1982, 423.

[336] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[337] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[338] Óskar Jónsson 1956, 16.

[339] Óskar Jónsson 1956, 8.

[340] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[341] Sama heimild.

[342] Sama heimild.

[343] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 12.6.1876.

[344] Sama dagbók, 20.5.1887.

[345] Sama dagbók, apríl-júlí 1889.

[346] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[347] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[348] Sama heimild.

[349] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[350] Guðm. Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[351] Valdimar Kristinsson/Finnbogi Hermannsson, Vestf. Fréttabl. 8. júní 1990.

[352] Guðm. Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[353] Sama heimild og Óskar Jónsson 1956, 15.

[354] Óskar Jónsson 1956, 17 og 41.

[355] Sama heimild.

[356] Sama heimild, sbr. Sigurður Breiðfjörð 1937, 56 (Númarímur).

[357] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992. Guðm. Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[358] Sömu heimildir.

[359] Sömu heimildir.

[360] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. apríl-júlí 1876.

[361] Sama dagbók, 21.4.1876.

[362] Sama dagbók, apríl-júlí 1876.

[363] Bj. Sæm. 1903, 102-103 (Andvari).

[364] Óskar Jónsson 1956, 49-52.

[365] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 7.3.1890.

[366] L. Kr. 1983  III, 42.

[367] Erlingur Davíðsson/Kristján Nói Kristjánsson 1978, 28.

[368] Sama heimild.

[369] Óskar Jónsson 1956, 49-52.

[370] Sama heimild.

[371] Sama heimild.

[372] Sama heimild.

[373] Sama heimild.

[374] Þorbergur Steinsson 1991, 86.

[375] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 1874-1889.

[376] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[377] Sama heimild.

[378] Guðmundur Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[379] L. Kr. 1983, 190, sbr. hér  Álftamýri, Hlaðsbót þar.

[380] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[381] Sama heimild.

[382] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[383] Valdimar Kristinsson/Finnbogi Hermannsson, – Vestf. fréttabl. 8.6. 1990.

[384] Óskar Jónsson 1956, 40.

[385] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 31.5.1887, sbr. Björn H. Jónsson 1961, 150 (Ársrit S.Í.).

[386] Guðmundur Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[387] L. Kr. 1985, 135.

[388] Sama heimild.

[389] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 18.6.1882.

[390] Sama heimild 3.6.1882.

[391] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[392] Sama heimild.

[393] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[394] Guðmundur Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[395] Sama heimild.

[396] Örn.skrá.

[397] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 1874-1889.

[398] Sama heimild.

[399] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[400] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[401] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 24.6.1878, 8.7.1886 og 24.6.1887.

[402] Þorb.Steinss. 1991, 83, Valdim. Kristinss./Ísf. jólabl. ‘82 og Guðm.Gíslas. – Viðtal K.Ó. við hann 1. 7.1992.

[403] Guðmundur Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[404] Sama heimild og Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982

[405] Annálar V, 453.

[406] Sama heimild.

[407] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 24.4.1888.

[408] Bjarni Guðmundsson 1987, 51-54.

[409] Sama heimild.

[410] Sama heimild.

[411] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 24.4.1888.

[412] Sama heimild.

[413] G.G. Hag. 1951, 56-57.

[414] Sama heimild og Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 24.4.1888.

[415] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 24.4.1888.

[416] Árb. Espólíns VII, 72.

[417] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 1874-1889.

[418] Sama dagbók – ársyfirlit 1882.

[419] Sama dagbók – ársyfirlit 1888.

[420] Sama dagbók – ársyfirlit 1889.

[421] Skj.s. landshöfðingja, séröskjur 6. Fiskaflaskýrslur 1897-1902.

[422] Sama heimild.

[423] Skj.s. landshöfðingja, séröskjur 6. Fiskaflaskýrslur 1897-1902.

[424] Sama heimild.

[425] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. apríl-júlí 1876.

[426] Sama heimild.

[427] Sama dagbók 11.5.1876.

[428] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[429] Guðm. Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[430] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 1874-1889.

[431] Sama dagbók 2.7.1886 og 12.8.1886.

[432] Óskar Jónsson 1956, 17. Sbr. Erlingur Davíðsson/Kristján Nói Kristjánsson 1978, 16, 27-29.

[433] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[434] Guðm. Gíslason. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[435] Óskar Jónsson 1956, 15.

[436] Óskar Jónsson 1956, 15.

[437] Sama heimild.

[438] Valdimar Kristinsson/Ísfirðingur, jólablað 1982.

[439] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[440] Sama heimild.

[441] Sama heimild.

[442] Sama heimild.

[443] Erlingur Davíðsson/Kristján Nói Kristjánsson 1978, 28-29.

[444] Skj.s. landshöfðingja, – séröskjur 6. Fiskaflaskýrslur 1897-1902.

[445] G.M.M. 1973, 168-169 (Gunnar M. Magnúss).

[446] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6. 1988.

[447] Óskar Jónsson 1956, 16. Þorbergur Steinsson 1991, 86 (Ársrit S.Í.). L. Kr. 1985, 209.

[448] Örn.skrá.

[449] Þorbergur Steinsson 1991, 86.

[450] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 20.6.1887.

[451] L. Kr. 1985, 219. Þorb. Steinsson. 1991, 86. Vald. Kristinss./Finnb. Hermannss., – Vestf. fréttabl. 8.6. 1990.

[452] L. Kr. 1985, 219.

[453] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[454] L. Kr. 1985, 216-218.

[455] L. Kr. 1985, 216-218.

[456] Sama heimild.

[457] Erlingur Davíðsson/Kristján Nói Kristjánsson 1978, 29.

[458] Sama heimild.

[459] L. Kr. 1985, 218.

[460] Valdimar Kristinsson/Finnbogi Hermannsson. – Vestf. fréttabl. 8.6. 1990.

[461] Sama heimild.

[462] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[463] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[464] Sama heimild.

[465] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988. Sami/Finnb. Hermannss. – Vestf. fréttabl. 8.6. 1990.

[466] Sömu heimildir.

[467] Sömu heimildir.

[468] Sömu heimildir.

[469] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[470] Sama heimild.

[471] Sama heimild.

[472] Sama heimild.

[473] Sama heimild.

[474] Sami. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[475] Sama heimild.

[476] Sama heimild.

[477] Sama heimild.

[478] Sami. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[479] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[480] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[481] Sama heimild.

[482] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[483] Sama heimild.

[484] Sami. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[485] Sama heimild.

[486] Sama heimild.

[487] Sami. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[488] Sami. – Viðtöl K.Ó. við hann 24.6.1988, 3.7.1992 og 29.6.1993.

[489] Sama heimild.

[490] Sama heimild.

[491] Sama heimild.

[492] Valdimar Kristinsson. – Viðtöl K.Ó. við hann 24.6.1988, 3.7.1992 og 29.6.1993.

[493] Sama heimild.

[494] Sama heimild.

[495] Sama heimild.

[496] Valdimar Kristinsson. – Viðtöl K.Ó. við hann 24.6.1988, 3.7.1992 og 29.6.1993.

[497] Sama heimild.

[498] Sama heimild.

[499] Sama heimild.

[500] Sama heimild.

[501] Sama heimild.

[502] Sama heimild.

[503] Sama heimild.

[504] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 23.4.1883.

[505] Sama dagbók 7.6.1885 og 3.5. 1888.

[506] Sama dagbók 24.4.1878.

[507] D.I. IV, 145, XV, 577, D.I. IV, 143-144 og XV, 576.

[508] D.I. IV, 143-144.

[509] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[510] Örn.skrá.

[511] Örn.skrá og Þorbergur Steinsson 1991, 86.

[512] L.Kr. 1983, 137

[513] Sama heimild.

[514] L. Kr. 1983, 137.

[515] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[516] Örn.skrá.

[517] Örn.skrá.

[518] Sama heimild.

[519] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[520] Sama heimild.

[521] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[522] Sama heimild.

[523] Sama heimild.

[524] Örn.skrá.

[525] Sama heimild.

[526] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[527] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993 og Örn.skrá.

[528] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[529] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[530] Örn.skrá.

[531] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[532] Lbs. 23754to, Dagb. S.Gr.B. 1.9.1892.

[533] Lbs. 23754to, Dagb. S.Gr.B. 1.9.1892.

[534] Sama heimild.

[535] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[536] Sama heimild og Örn.skrá.

[537] Óskar Einarsson 1951, 165.

[538] Örn.skrá.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »