Flatey

Í Landnámabók er þess getið að Þrándur mjóbeinn hafi numið eyjar fyrir vestan Bjarneyjarflóa og búið í Flatey. Í Íslendingasögum er sjaldan minnst á hana en þess má þó geta að hér sá Gull-Þórir fyrst Ingibjörgu, konuefni sitt, og fannst honum mikið um hana þá stund.[1] Eignaðist Þórir Flatey og lét stunda hér kornrækt.[2]

Munkaklaustur af reglu heilags Ágústínusar var sett á stofn í Flatey árið 1172 og var Ögmundur Kálfsson fyrsti ábóti þess. Fært kanokasetur til Helgafells úr Flatey, segir í Guðmundar sögu Arasonar, og mun klaustrið hafa verið flutt að Helgafelli árið 1184. Ekki er kunnugt um ástæður flutningsins.

Um þær mundir bjó í Flatey Þorsteinn Gyðuson, sem getið er í Sturlungu og andaðist að sögn annála árið 1190. Tók þá við búi í Flatey Gellir sonur hans er kvæntur var Vigdísi, alsystur Snorra Sturlusonar og þeirra bræðra.[3] Um Gelli er sagt að hann hafi verið hávaðamaður mikill og heitrammur.[4]

Á fyrstu árum 13. aldar settist Eyjólfur Kársson að búi í Flatey, hinn tryggi liðsmaður Guðmundar Arasonar biskups. Kona Eyjólfs var Herdís, dóttir Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri við Arnarfjörð. Í Flatey dvaldist Guðmundur biskup veturinn 1219-1220, kominn úr Kerlingarfirði (sjá hér Múlasveit) en Eyjólfur hafði skömmu áður náð að nema hann á brott úr fangavistinni hjá Arnóri Tumasyni suður á Hvítárvöllum. Hjá Eyjólfi Kárssyni í Flatey átti líka skjól í tvo vetur kappinn Aron Hjörleifsson sem oft varð að fara huldu höfðu.[5]

Vorið 1222 var Eyjólfur Kársson norður í Grímsey og stýrði þar sjötíu manna varnarliði Guðmundar biskups en að auki fylgdu þeim þá þrír tugir kvenna og stafkarla. Í herför Sighvats Sturlusonar og Sturlu sonar hans norður til Grímseyjar þetta vor höfðu þeir nær þrjú hundruð manna stór og var því liðsmunur mikill. Í Grímsey náðu þeir að fanga Guðmund biskup og þar féll Eyjólfur Kársson eftir frækilega vörn.[6]

Líklega hafa þeir Sturlungar haft öll umráð í Flatey næstu árin. Svo mikið er víst að þar hafði Þórður tiggi, frillusonur Þórðar Sturlusonar, eignarráð um 1240, er Sighvatur og Sturla voru fallnir á Örlygsstöðum. Seldi Þórður tiggi þá frænda sínum, Órækju Snorrasyni, Flatey.[7]

Veldi Órækju stóð skamma hríð en Sturlungar halda Flatey enn um sinn. Árið 1243 er Teitur Styrmisson, dóttursonur Sighvats Sturlusonar, sestur hér að búi. Ungur hafði hann komist lífs af úr Örlygsstaðabardaga þar sem afi hans og fjórir móðurbræður féllu. Í apríl 1244 féll Tumi Sighvatsson á Reykhólum fyrir vopnum liðsmanna Kolbeins unga. Lifði þá Þórður kakali einn þeirra Sighvatssona og fáum dögum eftir víg Tuma kemur hann til Flateyjar til fundar við Teit frænda sinn.[8] Þar ráða þeir ráðum sínum og í Ferjuvogi, sem nú heitir Grýluvogur, er leiddur undir högg Loðinn Ingimundarson úr liði Kolbeins. Fáum vikum síðar stýrir Teitur skipi sínu úr Flateyjarhöfn og vestur fyrir bjarg. Flóabardagi var á næsta leiti. Af skipunum tólf í liði Þórðar er Flateyjarskipið nefnt fyrst í Þórðar sögu kakala. Kom Teitur Styrmisson til móts við hann úr Breiðafirði með eitt skip. Þar voru á með honum Barðstrendingar og heimamenn hans.[9]

Í sjóorrustunni miklu á Húnaflóa 25. júní 1244 komst Teitur í harða raun, enda gekk hann vasklega fram. Úrslitasigur tókst þeim frændum ekki að vinna en Teitur slapp lífs og bjó áfram í Flatey[10] þó að fátt sé um hann vitað þaðan af. Veldissól ættar hans var að hníga til viðar.

Fátt er kunnugt um Flatey næstu tvær aldirnar. Á fyrri hluta 15. aldar hófst verslun Hamborgarmanna og fleiri þýskra Hansakaupmanna hér við land og má ætla að ekki löngu síðar hafi þeir komið sér upp bækistöð í Flatey. Nær alla sextándu öldina stóð Íslandsverslun Þjóðverja með blóma en í harðri samkeppni fyrst við Englendinga og síðar Dani. Þegar Ólafur Olavius kom til Flateyjar á sinni rannsóknarferð árið 1775 voru 173 ár liðin frá upphafi dönsku einokunarinnar. Flateyingar kunnu þó enn að greina frá verslun Þjóðverja hér á fyrri tíð. Olavius ritar:

 

Ýmislegt heyrði ég um siglingu útlendinga til Flateyjar fyrr á tímum. … Fyrir ofan svonefndan Grýluvog á eynni sjálfri höfðu Þjóðverjar haft búðir sínar; voru þær misstórar og sjást enn tóttir af 9 búðum. Skammt þaðan er Þýskavör og hafa þeir sennilega skipað þar vörum sínum í land.[11]

 

Á síðari hluta sextándu aldar tók Danakonungur að selja einstökum kaupmönnum, dönskum eða þýskum, einkaleyfi til verslunar á ákveðnum höfnum á Íslandi. Örfáir Íslendingar tóku einnig hafnir á leigu með þessum hætti og í þeim hópi var Staðarhóls-Páll, sem árið 1589 fékk slíkt einkaleyfi til verslunar í Flatey næstu fjögur ár.[12] Páll bjó þá á Reykhólum og mun lítt hafa sinnt versluninni sjálfur en fengið til þess heiðarlegan dandissvein Bernt Salefeldt frá borginni Bremen í Þýskalandi.[13]

Um miðja 15. öld var Flatey í eigu Björns Þorleifssonar, hins ríka hirðstjóra á Skarði,[14] sem veginn var af Englendingum í Rifi árið 1467. Mann fram af manni sátu niðjar Björns og Ólafar konu hans síðan í Flatey og höfðu hér eignarráð. Ingveldur Helgadóttir, tengdadóttir Björns og Ólafar, settist hér að með börn sín árið 1480. Þau Þorleifur Björnsson höfðu þá lengi búið á Reykhólum og eignast þrettán börn en verið neitað um hjónavígslu vegna frændsemi. Sumarið 1480 gengu þau loks í hjúskap,  að fengnu sérstöku leyfisbréfi frá páfa, en síðan hélt Þorleifur utan á fund ríkisráðs og konungs.[15] Þá um haustið hertók Andrés Guðmundsson (Arasonar) Reykhóla en Ingveldur hraktist til Flateyjar.

Jón Björnsson, sonarsonur hennar, tók síðar við búi í Flatey og um miðja 17. öld bjó hér sonarsonur hans er Jón Finnsson hét. Haustið 1647 kemur Brynjólfur Sveinsson biskup til Flateyjar. Jón Finnsson gefur honum þá að skilnaði þann dýrgrip sem í augum fræðimanna víða um heim bregður sérstökum ljóma yfir nafn þessarar eyju á Breiðafirði. Það var bók ein forn, hin mesta allra íslenskra skinnbóka, og hafði verið varðveitt í eynni í nokkra mannsaldra af niðjum Björns hirðstjóra ríka, Flateyjarbók. Á hana eru skráðar konungasögur fjölmargar, Íslendingasögur og þættir auk annars efnis. Bókina gaf Brynjólfur biskup Friðriki III Danakonungi en árið 1971 kom hún aftur heim og þykir þjóðardýrgripur.

Í manntalinu frá 1703 sést að þá var 21 heimili í Flatey og hér áttu þá heima 106 manneskjur. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá sama ári kemur fram að kirkjan hefur þá talist eiga 40 hundruð í Flatey eða um þriðjung jarðarinnar. Flestir ábúendur í eynni voru þá leiguliðar en nokkrir í sjálfsábúð eða á jarðnæði í eigu náinna ættingja. Í Jarðabókinni má sjá að tíu eða ellefu bátar eru í Flatey árið 1703, allt fjögra og fimm manna för. Sjö þeirra róa úr Oddbjarnarskeri en þrír úr heimavör. Tekið er fram að fiskur hafi lagst frá eynni til djúpa. Í Jarðabókinni segir: Þurrar búðir hafa heima í Flatey nokkrar verið og þar í ársvistar menn. Þær eru nú (síðan fiskiríið brást) eyðilagðar. Verstaða hefur verið í Flatey meðan fiskaðist.[16]

Oddbjarnarsker lá undir Flatey árið 1703 og þar var önnur helsta verstöðin í Breiðafjarðareyjum. Um róðra þaðan verður fjallað sérstaklega hér litlu aftar (sjá Oddbjarnarsker).

Í Jarðabók Árna og Páls er sagt að túnið í Flatey sé yfir máta stórt, nokkur grein er gerð fyrir hlunnindum og fram kemur að æðardúnninn skiptist jafnt milli landsdrottna og kemur ei til leiguliða. Hér á mót fellur niður hjá leiguliðum kirkjutíund og ljóstollur fyrir dúninn.[17]

Svo sem áður sagði var Flatey löggilt sem verslunarstaður árið 1777. Næsta ár hófst sigling vöruskipa hingað á ný og komst þá hér á fót útibú frá Stykkishólmsverslun.[18] Fyrsti verslunarstjórinn í Flatey var danskur maður, Jens Lassen að nafni. Gísli Konráðsson, skagfirski fræðaþulurinn

sem settist að í Flatey árið 1852 heyrði margt um þennan unga svallara og segir frá á þessa leið:

 

[Hann] sóaði nú öllu út og vanhirti hvað eina er hann hafði með höndum, kastaði og óhóflega út fé sínu bæði til ungra kvenna og karla, bæði víni, varningi og gjaldi og mátti það óhóf ei lengi standa.[19]

 

Fréttir af ástandi mála í Flatey sumarið 1778 bárust brátt til eyrna yfirboðara svallarans, kaupmannsins í Stykkishólmi, og sendi hann annan Dana, Næfel að nafni, hingað út til að koma lagi á reksturinn. En ekki tók betra við. Gangi mála hjá þeim félögum lýsti Gísli Konráðsson svo:

 

Nú lögðu þeir saman í ölæði og hirðuleysi. Reyndist Næfel þó miður góðgjarn en Lassen, sérdrægari og brögðóttari. Barst þá út að Lassen væri svo ölóður að eitt sinn varpaði hann peningum úr vasa sínum í sjó út af Þýskuvararklettum og annað sinn bryti hann með hamri kakalofn í húsi sínu. Það er og í sögnum að oft sendi á nóttum eftir ýmsum konum og ein helst tiltekin, ógift mær er Guðný hét, dóttir Bjarna bónda Stefánssonar þar á eynni, …. og margar ósnyrti sögur fleiri fóru af þeim Lassen og Næfel er vér nennum ei að rita.[20]

 

Við kirkjuna í Flatey lét Jens Lassen setja upp gapastokk[21] en þá tíðkaðist að dæma orðháka og óeirðamenn til að dúsa vandlega festir í slíkum stokki um lengri eða skemmri tíma og gapastokkarnir jafnan hafðir þar sem von var á margmenni. Skömmu eftir að Lassen faktor reisti gapastokkinn við Flateyjarkirkju var hann ákærður fyrir misferli og kynni að hafa sloppið naumlega við að verða sjálfur hnepptur í fjötra stokksins.[22] Seinna varð Jens Lassen verslunarþjónn á Ísafirði og varð að lokum úti í illviðri á Breiðadalsheiði 6. mars 1789 (sjá Fremri-Breiðadalur).

Næstur tók við faktorsstarfinu í Flatey Pétur Kúld sem fæddur var í ánauð úti á Fjóni en eignaðist er tímar liðu hlut í versluninni.[23] Eftir Pétur settist sonur hans, Eiríkur Kúld, í faktorsstólinn. Eiríkur var tekinn við árið  1801[24] og árið 1845 er hann enn í Flatey, 74 ára, lifir nú blindur á sínum álitlegu efnum segir í manntali á því ári.[25]

Enn jukust umsvif í Flatey er Guðmundur Scheving, sem verið hafði sýslumaður Barðstrendinga, keypti hálfan Flateyjarkaupstað árið 1815 og hóf hér verslun og útgerð. Guðmundur Scheving átti brösóttan feril að baki er hann kom til Flateyjar. Við háskólanám í Kaupmannahöfn hafði hann tapað ógrynni peninga í spilum.[26] Tuttugu og fjögra ára gamall var hann settur sýslumaður og kvað ári síðar upp dauðadóminn yfir þeim Bjarna og Steinunni á Sjöundá en um þeirra mál samdi Gunnar Gunnarsson skáldsöguna Svartfugl. Á hundadögum sumarið 1809 gekk Scheving sýslumaður til liðs við Jörund, sem hér var þá hæstráðandi til sjós og lands,  og gerði hundadagakóngurinn hann að amtmanni yfir norður- og austuramtinu. Sú dýrð stóð þó sutt, samanber vísuna frægu sem ort var um Guðmund Scheving:

 

Sigldi stúdent sélegur,

sýslumaður kallaður.

Átta daga amtmaður,

agent, bóndi, kaupmaður.

 

Í Flatey varð vegur Guðmundar Scheving mestur. Þar blómgaðist skútuútgerð hans um sinn en Guðmundur var einn hinna allra fyrstu á landi hér sem lögðu út í slíkt stórræði. Í fjórða árgangi tímaritsins Ármanns á Alþingi birtist árið 1832 ritgerð eftir Guðmund um þilskipaveiðar á Íslandi.[27] Hann segir þar:

 

Þótt að hafið, sem umgirðir land vort, geymi mikla björg og mikil auðæfi höfum vér þó hingað til eftirlátið útlendum þjóðum, Hollendingum og Frökkum, að sækja þessa björg og þessi auðæfi í náðum. Þeir hafa vitað að vér sátum á fjörusteinunum og höfðum eigi áræði til að fara nema með annan fótinn útí sjóinn og því hafa þeir komið siglandi hundruðum saman, með hús sín og heimili, sunnan úr heimi til að sækja auðæfin til vor á meðan vér sitjum í fjörunni og sjóðum vorn litla feng og horfum á þá með undrun og lotningu.[28]

 

Í tilvitnaðri ritgerð Guðmundar kemur fram að fyrsta þilskipið var keypt til Vestfjarða árið 1806 af Ólafi Thorlacius, kaupmanni á Bíldudal. Er Guðmundur skrifar ritgerð sína aldarfjórðungi síðar hafa alls fjórtán þilskip verið keypt til hafna á Vestfjörðum eða smíðuð fyrir Vestfirðinga og tíu þeirra voru þá enn gerð út frá Vestfjörðum. Gerir Guðmundur grein fyrir öllum skipunum. Sjálfur hafði hann keypt eða látið smíða fimm þessara skipa, eitt áður en hann kom til Flateyjar og var það Delphinen sem týndist 1813. Þilskipin fjögur sem Guðmundur Scheving gerði út frá Flatey árið 1832 voru þessi:

 

  1. Haabet, tíu lesta skonnorta, sem smíðuð var 1822. Veit ég eigi að þilskip hafi áður verið smíðað á Vesturlandi ritar Guðmundur.
  2. Færey, slúpskip, 13 lestir að innanrúmi, keypt 1826.
  3. Appollóne, jakt sem keypt var 1829.
  4. Haabet, tólf lesta jakt, keypt 1831.

 

Fyrir mynni Grýluvogs í Flatey lét Guðmundur Scheving hlaða grjótgarð mikinn og fékk þannig gott vetrarlægi fyrir skip sín, inni á vognum. Verkalaunin greiddi hann út með silfurpeningum, en slíkt var þá harla fátítt. Var garðurinn nefndur Silfurgarður og stendur enn.

Guðmundur Scheving fékkst ekki eingöngu við kaupmennsku og útgerð meðan hann bjó í Flatey. Hann beitti sér einnig fyrir nýjungum í landbúnaði, og hafði ásamt Ebenezer Þorsteinssyni, sýslumanni í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði, og Þorvaldi Sívertsen í Hrappsey forgöngu um að útvega Vestfirðingum og Breiðfirðingum Merinó-sauðfé til kynbóta.[29] Fjárkyn þetta var talið mun ullarbetra en íslenska féð og sagt ættað austan úr Persíu.[30] Guðmundur Scheving andaðist 1837 og var þá rétt um sextugt.

Margir merkismenn ráku verslun í Flatey eftir hans dag. Um miðja 19. öld voru þeir Brynjólfur Benedictsen og Sigurður Johnsen helstu kaupmenn í Flatey. Meðal þeirra er hér versluðu síðar á öldinni (um 1870) má nefna Ólaf Guðmundsson frá Bár í Eyrarsveit, Jón Guðmundsson frá Mýrum í Dýrafirði og Bent Jónsson úr Akureyjum.[31]

Hér verður aðeins sagt nokkuð frá Brynjólfi en hann var sonur Boga fræðimanns Benediktssonar á Staðarfelli á Fellsströnd og tengdasonur Guðmundar Scheving. Brynjólfur hóf verslun í Flatey árið 1840. Sautján árum síðar hætti hann verslunarrekstri en hélt áfram útgerð og búskap.[32] Brynjólfur Benedictsen lét fleira en atvinnumál til sín taka. Hann var ágætur fræðimaður og studdi af alhug hvers konar menningarviðleitni. Í Flatey lét hann árið 1864 reisa fyrsta bókasafnshús á Íslandi og stendur húsið enn (1988).

Í Flatey var um miðbik 19. aldar merkileg miðstöð menningar- og félagslífs sem vart átti sinn líka annars staðar á landinu. Margir lögðu þar hönd á plóg en vart mun á nokkurn hallað þó að fullyrt sé að drýgstur hafi reynst skerfur þeirra Brynjólfs og Ólafs prófasts Sívertsen.

Brynjólfur var sérstakur áhugamaður um þjóðlegar framfarir á öllum sviðum en sóttist lítt eftir mannvirðingum. Hann var annar tveggja fulltrúa Barðstrendinga á þjóðfundinum 1851 og ætíð mikils metinn af Jóni forseta Sigurðssyni. Brynjólfur var kjörinn alþingismaður Barðstrendinga árið 1865 en lét þá varamann mæta í sinn stað.

Hin mikla útgerð Flateyinga gaf drjúgan arð en hörmulegar slysfarir fylgdu. Þannig missti Brynjólfur Benedictsen sex þilskip, flest með allri áhöfn, og auk þess opið hákarlaskip.[33] Þann 11. desember 1861 fórst Snarfari, hákarlaskip Brynjólfs, með allri áhöfn, tólf mönnum. Morguninn eftir fannst skipið rekið mannlaust á Harðakampi utan til við Ólafsvíkurenni. Tuttugu og fjögur börn urðu föðurlaus er Snarfari fórst.[34]

 

Héðan af eyju fórst hákarlaskip mitt með tólf mönnum, hinum mannvænlegustu. Voru fimm þeirra giftir barnamenn. … Ég tala ekkert eða fæst um þetta hvað mig snertir, síst skaða né þó mér megi sárt og þungt falla að slysatilfelli verði á skipum mínum og hinir mér handgengnustu menn hverfi svona sviplega, en heldur hitt að vita og sjá ekkjur sorgbitnar og börn þeirra standa eftir þreyjandi, margar þeirra nauðuglega staddar.[35]

 

Þannig fórust Brynjólfi Benedictsen orð í bréfi er hann ritaði Jóni forseta 13. febrúar 1862. Sjálfur varð Brynjólfur fyrir miklum og sárum barnamissi en þrettán af fjórtán hjónabandsbörnum hans létust í barnæsku og fjórtánda barnið dó að föður sínum látnum, þá um tvítugsaldur.

Í kirkjugarðinum í Flatey hvílir fjöldi eyjamanna. – Hér er lagður foreldra fagur gimsteinn Bogi Brynjulfsson Benedictsen … , stendur þar höggvið í stein með mörgum fleiri orðum.

Fast prestssetur var ekki í Flatey á fyrri öldum en oft sat hér þó prestur eða aðstoðarprestur. Flateyjarsókn og Múlasókn urðu eitt prestakall árið 1646 og hélst svo upp frá því. Sátu prestar þá stundum á Skálmarnesmúla (sjá hér Múlasveit, þar bls. 10) en höfðu aðstoðarprest í Flatey.

Frá árinu 1809 sat sóknarpresturinn þó ætíð í Flatey uns hér varð prestlaust um miðbik tuttugustu aldar er fólki hafði fækkað verulega. Atkvæðamestur Flateyjarpresta á 19. öld var séra Ólafur Sívertsen sem hér var prestur frá 1823 til dauðadags 1860.

Þann 6. október 1833 settu þau séra Ólafur og kona hans, Jóhanna Friðrika Eyjólfsdóttir, á laggirnar Flateyjar Framfaralegat, stofnun til eflingar upplýsingu, siðgæði og dugnaði í Flateyjarhrepp. Strax í upphafi lögðu þau hjón Framfarastofnuninni til 100 ríkisdali og 100 bækur. Margir urðu á næstu árum til að styrkja Framfarastofnunina í Flatey með bóka- og peningagjöfum og hafði starfsemi hennar um skeið merkileg og margvísleg áhrif bæði í eyjunum og víðar við Breiðafjörð. Úr sjóði stofnunarinnar voru verðlaun veitt til þeirra sem sköruðu fram úr í nytsamlegri þekkingu, siðgæði og dugnaði. Bókaeign stofnunarinnar jókst ár frá ári og var orðin 1140 bindi við lát séra Ólafs árið 1860.[36] Skömmu síðar lét Brynjólfur Benedictsen byggja sérstakt hús yfir bókasafnið svo sem fyrr var getið.

Árið 1841 beittu séra Ólafur og aðrir stjórnarmenn Framfarastofnun­arinnar sér fyrir myndun Bréflega félagsins. Tilgangur þess var sá að félagsmenn skrifuðu ritgerðir um ýmis framfaramál er síðan gengju manna á milli til lesturs. Séra Ólafur var forseti Bréflega félagsins meðan hann lifði. Félagið starfaði í um það bil aldarfjórðung og á því skeiði gengu í það 33 menn víðs vegar að úr byggðum Breiðafjarðar. Miðstöð félagsins var jafnan í Flatey og á þess vegum voru ritaðar 80 ritgerðir um margvísleg atvinnu- og menningarmál.[37]

Þegar Bréflega félagið var stofnað var ekkert tímarit gefið út á Íslandi en árið 1847 hófst félagið handa um tímaritsútgáfu. Það var Gestur Vestfirðingur sem þá hóf göngu sína, ársrit undir stjórn fjögurra manna ritnefndar. Séra Ólafur Sívertsen og Brynjólfur Benedictsen voru báðir í ritnefndinni og með þeim tveir ungir menn, sonur og tengdasonur séra Ólafs, þeir Eiríkur Kúld Ólafsson, síðar prestur, og séra Guðmundur Einarsson, þá aðstoðarprestur í Skáleyjum.

Gestur Vestfirðingur kom út á árunum 1847-1855, alls fimm árgangar, og flutti margvíslegt efni bæði fréttir og ritgerðir. Hann var ýmist prentaður í Reykjavík eða Kaupmannahöfn en ritstjórnin sat jafnan í Flatey.

Ólafur prestur Sívertsen og helstu samverkamenn hans í Flatey og öðrum Vestureyjum höfðu líka forgöngu um Kollabúðafundina, sem haldnir voru á hinum forna þingstað Vestfirðinga, Kollabúðum við botn Þorskafjarðar, sá fyrsti 18. og 19. júní 1849.[38] Þjóðmálafundir þessir, sem til var efnt á hverju sumri um tveggja áratuga skeið, máttu með sanni kallast héraðsþing Vestfirðinga, enda komu menn víðs vegar að af Vestfjörðum á þessar samkomur. Fyrsti fundurinn var haldinn undir berum himni en þegar menn söfnuðust saman á Kollabúðum sumarið1850 hafði verið hlaðin þar upp fundarbúð sem æ síðan var notuð til þinghaldsins og tjaldað yfir meðan fundur stóð.[39] Við búðarvegginn stendur nú minnisvarði um þessi héraðsþing Vestfirðinga á nítjándu öld og hina sókndjörfu þjóðfrelsismenn sem þar létu að sér kveða.

Kollabúðafundurinn árið 1850 sóttu 140 menn og stóð hann í þrjá daga.[40] Á þeim fundi var meðal annars samið frumvarp að stjórnskipunarlögum fyrir Ísland, einu ári fyrir hinn sögulega þjóðfund í Reykjavík.[41] Á Kollabúðafundum voru margsinnis samþykktar kröfur um að Íslendingar fengju löggjafarvaldið í sínar hendur og um aukna sjálfstjórn en einnig rætt og ályktað um önnur landsmál og margvísleg framfaramál byggðanna á Vestfjörðum.[42]

Þegar Ólafur Sívertsen og félagar hans boðuðu til fyrsta Kollabúðafundarins var slíkt samkomuhald nær óþekkt á landi hér ef frá er talinn Þingvallafundurinn 1848 en þar voru fundarmenn aðeins nítján.[43] Áhrif Kollabúðafundanna í byggðum Breiðafjarðar og vítt um Vestfirði verða seint ofmetin. Á þessum mannfundum kviknaði margur neistinn og vonir glæddust um samhug til sóknar í þjóðfrelsisbaráttunni. Fyrir marga voru fundirnir líka eins konar skóli í félagsstörfum og menn lærðu að skilja hvers virði samtakamátturinn gat verið.

Sé svipast um í byggðum landsins um miðja nítjándu öld er deyfð og doði víðast áberandi. Framtak Flateyinga og samherja þeirra í nálægum sveitum sker sig úr, hvort sem litið er á atvinnumál, stjórnmál, félags- eða menningarmál. Til marks um þetta eru Kollabúðafundirnir, Framfarastofnunin, Bréflega félagið og Gestur Vestfirðingur. Vafalaust hefur atvinnubyltingin sem þilskipunum fylgdi rutt brautina og átt drjúgan þátt í að vekja með mönnum þann vorhug er auðkenndi blómaskeiðið í Flatey. Mjög er áberandi hversu farsællega séra Ólafi Sívertsen og félögum hans auðnaðist að samstilla krafta margra manna, enda þótt félagsskapur og fjöldasamtök mættu heita nær óþekkt fyrirbæri á Íslandi allt fram á þeirra dag.

Séra Ólafur var fulltrúi Barðstrendinga á Alþingi frá 1852 til 1860. Séra Eiríkur Kúld og séra Guðmundur Einarsson, sonur og tengdasonur Ólafs, áttu þá einnig sæti á þingi sem fulltrúar Snæfellinga og Dalamanna. Allir þrír börðust þeir á Alþingi fyrir stofnun búnaðarskóla í samræmi við samþykktir Kollabúðafunda um þau efni.[44] Fjárveitingar fengust þó engar til skólastofnunar og hefðu þá trúlega flestir lagt árar í bát. Séra Ólafur Sívertsen kaus hins vegar að vinna að búnaðarskólamálinu í samræmi við forna lífsreglu Spartverja: – Ef sverð þitt er stutt, gakktu feti framar. Hann gekkst sjálfur fyrir stofnun búnaðarskóla heima í Flatey haustið 1857 og starfaði sá skóli í þrjú ár. Var þetta fyrsti búnaðarskóli á Íslandi sem náði að starfa lengur en eitt ár. Fáum árum fyrr hafði Jón Hákonarson Espólín staðið fyrir kennslu í búnaðarfræðum einn vetur á Frostastöðum í Skagafirði.[45]

Forstöðumaður búnaðarskólans í Flatey var Ólafur Jónsson, jarðyrkjumaður úr Hvallátrum á Breiðafirði, en séra Ólafur Sívertsen hafði áður styrkt hann til búnaðarnáms. Meðal fyrstu nemendanna í Flatey var Torfi Bjarnason, síðar skólastjóri Búnaðarskólans í Ólafsdal.[46]

Mörg dæmi mætti nefna um menningaráhuga Flateyinga um miðbik 19. aldar. Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði kom til Flateyjar tæplega sautján ára haustið 1852 og hóf þar verslunarstörf hjá Sigurði Johnsen kaupmanni sem kvæntur var Sigríði, laundóttur Brynjólfs Benedictsen. Hann segist þá hvorki hafa kunnað að skrifa né reikna svo heita héti.[47] Í Flatey mannaðist Matthías brátt og að fjórum árum liðnum ákváðu Flateyjarhöfðingjar að styrkja þennan unga mann til vetrardvalar í Kaupmannahöfn. Ekki var látið þar við sitja. Er Matthías kom aftur heim frá Kaupmannahöfn hófust brátt í Flatey ráðagerðir um að koma honum í Lærða skólann í Reykjavík. Brynjólfur Benedictsen bauðst til að kosta einn skólamenntun Matthíasar en séra Eiríkur Kúld, sem þá var aðstoðarprestur Ólafs föður síns, tók að sér að kenna hinum efnilega búðarpilti úr Þorskafirði undir skóla.[48] Úr Flatey fylgdu Skóga-Matta hlýjar óskir er hann loks settist á skólabekk í Reykjavíkur lærða skóla haustið 1859, þá kominn talsvert á þrítugsaldur. Að verunni í Flatey bjó hann langa ævi.

Sama árið og Matthías Jochumsson gerðist búðarpiltur í Flatey bar þar að garði gamlan Skagfirðing, sjálfan Gísla Konráðsson, fræðaþulinn mikla. Séra Ólafur í Flatey og liðsmenn hans höfðu boðið Gísla að gerast eins konar próventumaður hjá sér. Það voru þó ekki veraldlegar eigur Gísla sem Flateyingar höfðu hug á að eignast eftir hans dag, enda munu þær engar hafa verið. Í Flatey voru honum boðnar allar nauðþurftir til æviloka gegn því að Framfarastofnun Flateyinga eignaðist handrit hans öll og bækur að honum látnum. Gísli Konráðsson var 65 ára er hann settist að í Flatey undir verndarvæng menntavina sem þar ríktu. Hann sat hér við skriftir þaðan í frá, í heilan aldarfjórðung, uns dauðinn felldi úr hendi hans fjöðurstafinn góða á miðjum þorra árið 1877. Mælt á kvarða Kringlu og kauphalla nútímans þætti sjálfsagt þröngt um að litast á loftinu í Norsku búð í Flatey þar sem Gísli bjó. Á þessu fræðasetri voru öldungnum þó búin tryggari kjör en hann átti annars staðar völ á og mun sómi Flateyinga seint fölna eða fyrnast. Handrit Gísla voru lengi varðveitt í Flatey en komust árið 1903 í eigu Landsbókasafnsins í Reykjavík. Um 1970 mátti enn sjá selskinnskistu gamla Skagfirðingsins væri litið inn um glugga á bókasafnshúsinu aldna í Flatey. Þá var kistan tóm en hafði áður geymt margt dýrmætt blað. Nú er kistan forna líka komin suður og varðveitt sem dýrgripur á handritadeild Landsbókasafns.

Hér hefur verið minnst á sitt af hverju frá blómaskeiði Flateyjar á nítjándu öld en aðeins getið örfárra einstaklinga úr öllum þeim hópi er þar kom við sögu. Ýmsar merkiskonur settu líka svip sinn á mannlífið hér.

Úr röðum alþýðukvenna gleymist seint Guðrún Einarsdóttir í Miðbæ sem gift var ráðsmanni Ólafs prófasts Sívertsen. Guðrún var fædd árið 1807 og bjó í Flatey langa ævi. Hún var móðursystir Matthíasar Jochumssonar og naut, að hans sögn, allra hylli fyrir gæsku sína og hjálpsemi. Um þessa frænku sína segir Matthías:

 

Var hún að ég hygg einstök að hjálpfýsi og gæsku því fremur svo sem hún eins og vissi það ekki sjálf og hafði fremur lítil efni; var varla nokkur þurfandi eða bágstaddur náungi á eynni, eða þar sem hún gæti náð til, að hún reyndi ekki að hjálpa.[49]

 

Guðrún í Miðbæ var föðuramma skáldsystranna Herdísar og Ólínu Andrésdætra sem fæddar voru í Flatey.

Þuríður Kúld var ein hefðarkvennanna í Flatey og þeirra sérstæðust. Hún var dóttir Sveinbjarnar Egilssonar, kennara við Bessastaðaskóla og síðar rektors, og uppalin þar á Álftanesi. Tvítug að aldri giftist hún Eiríki Kúld, sem þá hafði nýlega lokið prófi frá Bessastaðaskóla, og fluttist með honum til Flateyjar. Þar reistu ungu hjónin bú árið 1844 og nokkrum árum síðar varð Eiríkur aðstoðarprestur föður síns, séra Ólafs Sívertsen. Þuríður bjó í Flatey í sextán ár uns hún fluttist með manni sínum að Helgafelli árið 1860 er séra Eiríkur tók þar við prestsembætti.

Benedikt Gröndal skáld heimsótti Þuríði systur sína nokkrum sinnum í Flatey. Hann segir að hún hafi verið bæði fluggáfuð og víðlesin en eyðslusöm og ófyrirleitin.[50] Að dómi Gröndals var Flatey miðpunktur alls Vesturlands á þessum árum.

Matthías Jochumsson var í góðu vinfengi við Þuríði meðan hann dvaldi í Flatey. Hann kemst svo að orði að hún hafi verið afarmikið gjörn til glaðværða, mesta skartkonan í eynni, bráðgáfuð, fríð og stórmannleg yfirlits, en með bjúgar herðar.[51]

Matthías lætur þess getið að Þuríður hafi verið menntaðasta konan í Breiðafjarðareyjum en nær eingöngu í fagurfræðum. Um samkvæmin hjá Þuríði Kúld í Flatey hefur Matthías Jochumsson þetta að segja:

 

… og voru þá sjaldan aðrir að skemmta henni en misjafnt ungviði, einkum kennslupiltar prests og nokkrar stúlkur, sumar heldur kátar. Lenti þá allt í ólátum, jólaleikjum og annarri vitleysu, t.d. að vera úlfur eða tófa og lamb, flökkukindur o.s.frv.; brotnuðu þá borð og bekkir uns allt var komið í uppnám. Einu tók frúin þó hart á: enginn mátti brúka klúryrði og rustaskapur var henni viðbjóður; vissa fegurð og kurteisi heimti hún af öllum, enda fengu ekki aðrir en útvaldir fulla aðgöngu. En skop og kerskni var henni stundum vel að skapi, ef einhver fyndni fylgdi, og þar var ég veikur fyrir og lét þar oftlega of mikið eftir henni.[52]

 

Sambúð Þuríðar og eiginmanns hennar mun stundum hafa verið í stirðara lagi. Samt eignuðust þau þrettán börn en misstu öll nema eitt, soninn Brynjólf.[53]

Liðlega sjötug fluttist Þuríður af Snæfellsnesi til Reykjavíkur og settist að í Ekkjukassanum, húsi sem enn stendur og er númer fimm við Skólavörðustíg. Þangað fylgdi henni sonurinn Brynjólfur, sem nú var búinn að spila út, gat ekkert gert og hvergi verið, ef marka má ummæli bróður Þuríðar.[54] Þá var Brynjólfur Kúld liðlega þrítugur að aldri, hafði flosnað upp frá laganámi og dó fáum árum síðar.

Í örlögum Brynjólfs Kúld mátti ef til vill sjá fyrirboða þeirrar hnignunar er á síðari tímum hefur sett mark sitt á Flatey. Enn má samt líta hér margvíslegar minjar frá fyrri tíð.

Margur ferðalangur hefur lagt leið sína til Flateyjar, bæði fyrr og síðar, og látið heillast af dýrð náttúrunnar, himins, láðs og lagar.

Skáld-Rósa sótti Flatey heim nær miðri 19. öld. Hún var þá á miðjum aldri með fjölþætta lífsreynslu að baki í veröld sem var henni á stundum býsna harðleikin. Alkunn er vísa Rósu:

 

Væri ég tvítugs aldri á

og ætti von til þrifa,

mér ég kjósa myndi þá

að mega í Flatey lifa.

 

Ung vildi hún verða á ný og njóta lífsins í Flatey við sjávarnið og fuglaklið Breiðafjarðar. Löngu síðar stigu tveir förumenn hér á land, skáldin Stefán frá Hvítadal og Þórbergur Þórðarson. Það var í september árið 1923 og sóttu þeir lagsbræður heim klerk Eyjamanna, séra Halldór Kolbeins.

 

Það var fullt tungl þessa daga. Það var rauðgult síðsumarstungl og það var heiðríkt loft með gylltum maríutásum kringum tunglið og sjórinn var hvítur af logni allt í kringum eyjuna og næturhúmið var milt og hljóðlaust og dularfullt … .[55]

 

Í Flatey fór fyrir Þórbergi líkt og Skáld-Rósu forðum. Þar sýndist báðum gott lífi að una. Þórbergur yrkir svo:

 

Í Flatey var ég fjóra daga,

fann þar yndi margt.

Eyjan er eins og aldingarður.

Alla daga hlýtt og bjart.

Í Flatey vil ég ævi una

á eintali við náttúruna.

 

Enn er búið í Flatey og hver veit nema nýtt endurreisnarskeið bíði fram undan þó síðar verði með fjölbreyttu mannlífi og hárri menningu. Hvað sem verður er eitt víst: Enn um sinn mun margur barningsmaður beina sjónum til Flateyjar og leita hér sálubótar við unaðslindir náttúrunnar og óm fornrar sögu.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – –

 

[1] Íslendingasögur IV, 351.

[2] Sama heimild, 355.

[3] Sturlungasaga II, 11.

[4] Sama heimild I, 394.

[5] Sama heimild III, 417.

[6] Sama heimild II, 105-108.

[7] Sama heimild, 369.

[8] Íslendingasögur III, 50 og 75.

[9] Sama heimild, 78.

[10] Sama heimild, 112.

[11] Ólafur Olavius  1965, II, 241.

[12] Jón J. Aðils 1971, 55.

[13] Sama heimild, 56.

[14] Arnór Sigurjónsson 1975, 129.

[15] Játvarður Jökull Júlíusson 1985, 38-39. Sbr. Ísl. æviskrár V, 174.

[16] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 237-241.

[17] Sama heimild,

[18] Ól. Olavius 1965 II, 242.

 

 

 

 

[19] Lbs.17704to, bls.102 (Gísli Konráðsson).

[20] Sama heimild, bls. 102-103.

[21] Sama heimild, bls. 102. Sbr. Gríma hin nýja 1964, II, 3-8.

[22] Sbr. sömu heimild, bls. 105-107.

[23] Gríma hin nýja 1964, II, 6-7.

[24] Manntal 1801.

[25] Manntal 1845.

[26] Íslenskar æviskrár II, 178-179.

[27] Ármann á Alþingi, 4. árg. 1832, 83-107.

[28] Sama heimild.

[29] Gestur Vestfirðingur I, 14. Þorvaldur Thoroddsen 1919, 315-316 (Lýsing Íslands III).

[30] Páll Stefánsson frá Þverá 1913, 17 (Fjármaðurinn).

[31] Bergsveinn Skúlason 1979, 59.

[32] Lúðvík Kristjánsson 1953, 84.

[33] Lúðvík Kristjánsson 1953, 84.

[34] Jens Hermannsson 1977, 111 (Breiðfirskir sjómenn II).

[35] Lúðvík Kristjánsson 1953, 84-85.

[36] Einar Laxness 1987, 135.  Lúðvík Kristjánsson 1953, 149-151.

[37] Einar Laxness 1987, 136.

[38] Lúðvík Kristjánsson 1960, 221-251. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum1942, 231-249 (Barðstrendingabók).

[39] Sömu heimildir.

[40] Sömu heimildir.

[41] Sömu heimildir.

[42] Lúðvík Kristjánsson 1960, 221-251. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum1942, 231-249 (Barðstrendingabók).

[43] Einar Laxnes 1995, II, 52 og III, 149-150.

[44] Lúðvík Kristjánsson 1960, 286-300.

[45] Þorvaldur Thoroddsen 1920, 424. (Lýsing Íslands IV).

[46] Lúðvík Kristjánsson 1960, 299.

[47] Matthías Jochumsson 1959, 80.

[48] Matthías Jochumsson 1959, 104, 114, 115 og 128.

[49] Matthías Jochumsson 1959, 126.

[50] Benedikt Gröndal 1965, 284.

[51] Matthías Jochumsson 1959, 83 og 100.

[52] Sama heimild, 101.

[53] Lúðvík Kristjánsson 1953, 100.

[54] Benedikt Gröndal 1965, 285.

[55] Þórbergur Þórðarson 1975, 170.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »