Gilsbrekka

Gilsbrekka er innst hinna fornu bújarða við norðanverðan Súgandafjörð en hinar eru Selárdalur, Norðureyri og Göltur. Þessar fjórar jarðir eru nú allar í eyði. Gilsbrekka féll úr byggð árið 1912 en hinar þrjár á árunum 1943-1970 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, bls. 451-457). Úr fjarðarbotninum eru liðlega tveir kílómetrar út að Gilsbrekku en tæplega fjórir kílómetrar frá Gilsbrekku út í Selárdal.

Landamerkjum jarðarinnar á móti Botni hefur þegar verið lýst (sjá hér Botn) en merkin á móti Selárdal liggja um Ytri-Áreiðargil[1] einum og hálfum kílómetra, eða því sem næst, fyrir utan Gilsbrekku.

Gamla túnið á Gilsbrekku er á lítilli eyri við ströndina. Á þessari eyri mun bærinn ætíð hafa staðið og hér er nú (1996) sumarbústaður.

Hjá Gilsbrekku er fjörðurinn aðeins um 500 metrar á breidd. Hér beint á móti, handan fjarðar, er fjallið Kvíanesnúpur og aðeins innar eyðijörðin Kvíanes. Ofan við Gilsbrekku er Gilsbrekkudalur og innan við hann Grensfjall en fjallið utan við dalinn heitir Innri-Áreiðarfjall.[2] Um Gilsbrekkudal var farið á Gilsbrekkuheiði en yfir hana lá önnur tveggja meginleiða milli Súgandafjarðar og Bolungavíkur.[3] Hlíðin utan við Gilsbrekku heitir Gilsbrekkuhlíð[4] og er þar allmikill skógur.

Lækurinn sem kemur af Gilsbrekkudal og fellur í tveimur kvíslum niður túnið heitir Gil.[5] Margur mun láta sér detta í hug að bæjarnafnið eigi rætur sínar að rekja til hans og brekkunnar bröttu sem liggur hér upp frá túninu og nær að brún dalsins. Þá einföldu skýringu á nafninu er þó ekki hægt að taka gilda án fyrirvara því að í fornum skjölum, frá 14., 15. og 16. öld, er jörðin ætíð nefnd Geirsbrekka.[6] Í jarðaskrá frá árinu 1658 er jörðin enn nefnd „Geysbrecka[7] en ætla má að þar sé um misritun að ræða eða afbökun nafnsins Geirsbrekka. Í annarri jarðaskrá, sem er 37 árum yngri, sést hins vegar fyrst nafnið Gilsbrekka.[8] Um 1700 virðast menn þó hafa verið á báðum áttum því að í manntalinu frá 1703 stendur „Geisbrekka[9] en í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 Gilsbrekka.[10] Um 1800 bregður enn fyrir nafninu Geirsbrekka[11] en í yngri heimildum frá 19. og 20. öld er jörðin ætíð nefnd Gilsbrekka.

Með allt þetta í huga verður að telja líklegra að hið forna nafn jarðarinnar hafi verið Geirsbrekka en það afbakast í Geisbrekka á 17. öld og nafnið Gilsbrekka ekki verið tekið upp fyrr en um 1700. Um þetta er þó ekki unnt að vera alveg viss því vera má að um langt skeið hafi bæði nöfnin verið í notkun. Sú hugdetta að nafnið Geirsbrekka hafi aldrei verið annað en misritun sem skrifarar átu hver upp eftir öðrum við skjalagerð fær þó tæplega staðist. Orðið geir merkir sem kunnugt er spjót en var einnig notað sem karlmannsnafn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.

Að fornu mati var Gilsbrekka 6 hundraða jörð ef marka má jarðaskrá frá árinu 1658.[12] Á síðari hluta sautjándu aldar var matið á jörðinni hins vegar lækkað niður í 3 hundruð.[13] Líklegt er að náttúruspjöll af völdum skriðufalla eða snjóflóða hafi valdið einhverju um þessa miklu lækkun. Frá síðari hluta sautjándu aldar og allt til ársins 1861 var Gilsbrekka jafnan talin 3ja hundraða jörð og var þá lægst metin allra jarða í Suðureyrarhreppi.[14] Við jarðamatið sem gert var opinbert árið 1861 hækkaði þessi jörð í 4,3 hundruð og fór þá upp fyrir Norðureyri og Lauga.[15]

Um Gilsbrekku, sem þá var nefnd Geirsbrekka, er fyrst getið í máldaga Maríukirkjunnar á Sæbóli á Ingjaldssandi frá árinu 1306 eða því sem næst en þar er tekið fram að kirkjan á Sæbóli eigi áttung í Geirsbrekku í Súgandafirði og skógum þeim sem þar fylgja því landi.[16] Í heimildum frá síðari hluta sextándu aldar og árunum skömmu eftir 1700 er einnig getið um skógarítak Sæbólskirkju á Gilsbrekku[17] og í vísitazíugerð biskups frá árinu 1852 segir svo:

 

Hún [Sæbólskirkja] á land undir Hálsi og eftir máldögum og síðustu biskupsvísitazíu áttung í Geirsbrekku og skógum þeim sem því landi fylgja en síðan er þess víða getið í vísitazíum prófasta að kirkjan hafi engin not af ítaki þessu. Þó hafa núverandi eigendur Sæbólskirkju einu sinni notað skógartak þar átölulaust.[18]

 

Heimildirnar sem hér hefur verið vitnað til sýna að kirkjan á Sæbóli hefur haldið réttindum sínum í Gilsbrekkuskógi í að minnsta kosti fimm eða sex aldir.

Maríukirkjan á Stað í Súgandafirði átti líka skógarteig í landi Gilsbrekku á fjórtándu öld og hélt hún lengi því ítaki. Í máldaga Staðarkirkju frá því um 1324 er hún sögð eiga tíu aura í Geirsbrekku.[19] Í hverjum lögeyri voru 6 álnir[20] svo ætla má að eignarhlutur Staðarkirkju hafi verið metinn á 60 álnir eða sem svaraði hálfu jarðarhundraði. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er minnst á þessa eign kirkjunnar og sagt að Staðarkirkja eigi skógarítak í takmörkuðu plássi í Gilsbrekkulandi. Það hefur brúkast og brúkast enn nú til kolgjörðar, stendur þar.[21]

Í heimild frá árinu 1847 er staðhæft að skóglendi í Staðarteignær því gjöreytt[22] en í vísitazíugerð Helga biskups Thordersen frá 10. júlí 1852 er enn tekið fram að kirkjan á Stað eigi skógarteig fyrir utan Geirsbrekku sem kallaður sé Staðarteigur[23] (sbr. hér Staður). Næsta biskupsvísitazíugerð frá Stað í Súgandafirði er frá sumrinu 1896 og segir þar að kirkjan haldi eignum sínum og ítökum.[24] Um aldamótin 1900 virðist því hafa verið litið svo á að kirkjan á Stað ætti Staðarteig í Gilsbrekkuskógi enn. Í örnefnaskrá Kristjáns G. Þorvaldssonar frá árinu 1949 er Staðarteigur hins vegar ekki nefndur[25] og líklega myndi nú vefjast fyrir flestum að benda á hvar í skóginum hann hafi verið.

Þriðja kirkjan sem átti skógarítak í Gilsbrekkuskógi á 14. öld var Maríukirkjan á Hóli í Bolungavík. Í máldaga þeirrar kirkju frá árinu 1327 eða því sem næst segir að hún eigi 60 sauða beit á Kvíaneshlíð og teig í Kerrbrekkuskóg[26] sem er augljós misritun fyrir Geirsbrekkuskóg því Kerrbrekka fyrirfinnst engin. Í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 stendur líka skýrum stöfum að Hólskirkja eigi teig í Geirsbrekkuskóg[27] svo hér er ekki um að villast.

Undir lok fjórtándu aldar hefur sjálf bújörðin, Gilsbrekka, að öllum líkindum verið enn í einkaeign þó að kirkjurnar þrjár á Stað, Sæbóli og Hóli ættu hér ítök. Árið 1449 var Hólskirkja í Bolungavík hins vegar orðin eigandi jarðarinnar[28] að öðru leyti en því að hinar kirkjurnar tvær héldu sínum ítökum eins og hér hefur verið rakið. Þann 16. febrúar árið 1449 seldi Bessi Einarsson, sýslumaður Húnvetninga, Einari Þorleifssyni hirðstjóra Hól í Bolungavík og nokkrar aðrar jarðir í Hólshreppi og Suðureyrarhreppi.[29] Í kaupsamningnum, sem þá var gengið frá, segir meðal annars:

 

Reiknaði og nefndur Bessi kirkjunnar eign á fyrrnefndum Hóli jörðina Lifur, Geirastaði og Geirsbrekku í Súgandafirði og þar til 10 málnytukúgildi og 5 hundruð í öllum þarflegum peningum og kaleik er vegur hálfa mörk.[30]

 

Ljóst er að Hólskirkja hefur því eignast Gilsbrekku fyrir miðja fimmtándu öld en hversu löngu fyrr er ekki vitað. Sama kirkja átti þessa jörð enn árið 1916[31] og hafði þá átt hana í að minnsta kosti 467 ár.[32] Um 1920 mun jörðin hins vegar hafa verið seld.[33]

Í bréfi frá 14. júní 1703 kemst Sæmundur Magnússon, lögréttumaður á Hóli, svo að orði að Hólskirkja eigi enn:

 

… teig í Geirsbrekkuskóga, hvör enn nú við helst og þeim teig kot upp byggt, hvar eftir gelst venjulega tvær vættir í landskuld í landaurum og þrír fjórðungar smjörs eftir hálft annað kúgildi.[34]

 

Í hverri vætt voru 20 álnir svo landskuldin hefur verið 40 álnir eða þriðjungur úr kýrverði en í leigur fyrir níu ær sem Hólskirkja átti á Gilsbrekku varð bóndinn að greiða 15 kíló af smjöri á hverju ári (sbr. hér bls. 6).

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 er kostum og göllum bújarðarinnar Gilsbrekku lýst með þessum orðum:

 

Útgangur er sæmilegur og í skárra lagi. Skógur til kolgjörðar og eldiviðar nægur. Torfristu á jörðin í Kvíarnesland mót skógarítaki … . Beit fyrir 30 sauði um vetur heyrist nú að jörðin skuli eiga í Kvíarneslandi. Ekki hefur það brúkast í manna minni.

Túninu grandar snjóflóð. Engjar eru öngvar nema það lítið sem hent er innan um skógarrunna. Hætt er kvikfé fyrir snjóflóðum. Kirkjuvegur er bæði langur og torsóttur yfir Súgandafjörð. Hættur er hreppamannaflutningur fyrir snjóflóðum. Hætt er bænum stórlega fyrir snjóflóðum og hefur hann einu sinni fyrir þessum snjóflóðum aftekið í manna minni og urðu bæjarmenn naumlega sjálfbjarga.[35]

 

Fróðlegt hefði verið að fá nánari fréttir af snjóflóðinu sem tók bæinn af en þær upplýsingar eru ekki í boði. Þess má hins vegar geta að í frásögn af ferð sinni um Ísafjarðarsýslu sumarið 1887 segir Þorvaldur Thoroddsen að snjóflóð úr fjallinu innan við Gilsbrekku hafi hlaupið þvert yfir fjörðinn að Kvíanesi.[36]

Í tíð manna sem enn lifðu um miðja 20. öld féll líka snjóskriða að ytri vegg bæjarins og á eyraroddanum náði hún saman við skriðu sem féll innan við bæinn og náði út á túnið.[37] Hér er einnig vert að minna á að 17. desember 1994 féll snjóflóð á Gilsbrekku og sópaði burt sumarbústað, sem hér hafði  verið byggður á árunum upp úr 1920,  og einnig viðbyggingu sem stóð ofan við annan yngri bústað (sjá hér bls 50).[38]

Orð Árna Magnússonar í Jarðabókinni frá 1710, sem hér voru áður birt, sýna að í byrjun átjándu aldar hafa enn lifað á vörum fólks munnmæli um beitarréttindi eigenda Gilsbrekku á Kvíaneshlíð en í máldaga frá fyrri hluta fjórtándu aldar er eins og fyrr var nefnt tekið fram að Hólskirkja eigi þar beitarrétt fyrir 60 sauði (sjá hér bls. 3).

Hér er á öðrum stað getið nánar um hin gagnkvæmu réttindi sem fylgdu jörðunum Gilsbrekku og Kvíanesi og fólust í því að bændur á Kvíanesi máttu gera til kola í Gilsbrekkuskógi en á móti höfðu bændur á Gilsbrekku leyfi til að rista torf í landi Kvíaness (sjá hér Kvíanes).

Í jarðabók frá árinu 1805 er getið ýmissa hlunninda á Gilsbrekku. Þar er fyrst að nefna grasatekju en þarna segir að hér fáist að jafnaði hálf tunna á ári af fjallagrösum.[39] Þessi fengur var virtur á 5 álnir.[40] Úr skóginum var ábúandi talinn fá nóg af viðarkolum til eigin nota og fyrir 8 tunnur af slíkum kolum, sem öðrum var leyft að gera til í skóginum á ári hverju gegn gjaldi, var Gilsbrekkubóndinn talinn fá 8 álnir í tekjur.[41] Eina alin fyrir tunnuna.

Að dómi matsmannanna, sem lögðu til efni í jarðabókina frá 1805, gat bóndinn á Gilsbrekku stundað selveiðar og var gert ráð fyrir að árlegur fengur hans af sellýsi væri einn fimmtándi hluti úr tunnu,[42] það er átta pottar.[43] Fyrir þetta lýsi mátti að sögn matsmannanna fá 5 álnir og einn þriðja part úr hinni sjöttu.[44]

Athygli vekur að í jarðabókinni frá 1805 er gert ráð fyrir að árlegur hásetahlutur í fiskiróðrum frá Gilsbrekku sé hálf vætt af þorski og einn áttundi úr vætt af riklingi.[45] Í hverri vætt voru um 40 kíló svo reiknað hefur verið með um 20 kílóum af skreið og 5 kílóum af hertum steinbít í hlut. Tvímælalaust er að þarna er átt við afla úr róðrum frá heimavör á Gilsbrekku en ætla má að í slíkar sjóferðir hafi eingöngu verið farið að sumarlagi. Andvirði þessa afla töldu matsmennirnir nema 17 álnum og þriðjung úr alin að auk.[46]

Samtals voru árlegar tekjur bóndans á Gilsbrekku af grasatekju, selveiðum, fiskafla úr sumarróðrum og gjaldi því sem fólk frá öðrum bæjum greiddi fyrir skógarafnot taldar nema 31 og ⅔ úr alin árið 1805[47] eða liðlega einum fjórða hluta úr kýrverði.

Um miðbik nítjándu aldar var unnið að nýju mati á öllum bújörðum á Íslandi og í greinargerð matsmanna frá sumrinu 1849 fékk Gilsbrekka þessa umsögn: Skógur bætir jörð þessa eigi lítið, sem svo lítils hefur verið metin að fornu. Eru þar og slægjur allgóðar og útibeit nokkur.[48]

Svo sem fyrr var á minnst var mat jarðarinnar skömmu síðar hækkað úr 3 hundruðum í 4,3 hundruð (sjá hér bls. 2) og mun sú ákvörðun hafa byggst á þessum orðum viðkomandi matsmanna.

Árið 1912 féll Gilsbrekka í eyði en var á næstu árum nytjuð til heyskapar frá Suðureyri.[49] Magnús Hjaltason ritar um Gilsbrekku árið 1914 eða því sem næst og kemst þá svo að orði:

 

Gilsbrekka var allgott kot eftir stærð en vanalega illa setin. Þar var skógur mikill (hrísskógur), beitarsæld mikil og oft fiskur (smáfiskur og „stútungur”) út og fram á firðinum. Þar var vanalega alið: 20 kindur, 1 kýr og 1 hestur en almennt var talið að hafa mætti þar „miklu fleira”.[50]

 

Ekki er ólíklegt að Magnús hafi gyllt nokkuð fyrir sér landkosti á Gilsbrekku því kunnugt er að sjálfur reyndi hann að fá kot þetta til ábúðar árið 1899 en þeim tilmælum hans var hafnað.[51]

Í matsgerð frá árinu 1916 er túnið á Gilsbrekku sagt vera þýft og í slæmri rækt, útengi snögglent, á víð og dreif um bithaga, en beitilandið gott.[52] Þarna er árlegur heyfengur talinn 20 hestar af töðu og 30 af útheyi.[53] Að dómi matsmannanna sem hér skyggndust um árið 1916 gat jörðin framfleytt einni kú og fimmtán sauðkindum.[54]

Í Fasteignabókinni frá 1921 er land Gilsbakka virt á 900,- krónur[55] en þar er álitsgerð undirmatsnefndarinnar frá 1916 lögð til grundvallar. Í Fasteignabók frá árinu 1932 sést að þá var kominn hér sumarbústaður úr timbri og búið að girða túnið.[56]

Um miðbik sautjándu aldar var árleg landskuld af Gilsbrekku 30 álnir[57] eða sem svaraði einum fjórða úr kýrverði. Á árunum kringum 1700 var landskuldin um skeið 40 álnir og átti að greiðast í fiski.[58] Seinna lækkaði landskuldin og var 20 álnir um 1750 og líka hundrað árum síðar.[59] Árið 1916 var Gilsbrekka komin í eyði en hefði einhver viljað reisa hér byggð á ný myndi sá hinn sami hafa þurft að greiða Hólskirkju 40,- krónur á ári í afgjald af jörðinni.[60] Sú fjárhæð nam nálega einum fjórða úr kýrverði[61] alveg eins og 30 álna landskuldin sem krafist var um 1650 og hér var áður frá greint.

Á sautjándu, átjándu og nítjándu öld munu eitt eða tvö innstæðukúgildi oftast hafa fylgt Gilsbrekku en sex ær voru í hverju kúgildi. Árin 1658, 1753 og 1847 fylgdi jörðinni aðeins eitt kúgildi[62] en árið 1695 eitt og hálft[63] og árið 1710 voru hér tvö leigukúgildi.[64] Leigurnar fyrir kúgildin voru þá greiddar í smjöri, 10 smjörkíló fyrir hvert kúgildi, og þetta smjörgjald varð bóndinn á Gilsbrekku að fara með norður að Hóli og skila því þar í réttar hendur.[65]

Á þessu koti bjó jafnan aðeins einn bóndi og ekki til þess vitað að hér hafi nokkru sinni verið tvíbýli. Annað mál er það að á síðari hluta 19. aldar voru heimilin á Gilsbrekku stundum tvö en þá var þurrabúðarfólk á öðru þeirra.[66]

Bústofn fólksins sem hér bjó var jafnan lítill en merkilegt má kalla að hér voru þó þrjár kýr árið 1710 og líka 1791.[67] Á 18. og 19. öld voru sauðkindur, aðrar en lömb, oft innan við tuttugu hér á Gilsbrekku en þó nær þrjátíu um skeið á síðari hluta 19. aldar.[68]

Á töflu I verða nú sýnd nokkur dæmi um búfjárfjölda á Gilsbrekku og er þá jafnan byggt á opinberum skýrslum en verið getur að í raun hafi sauðféð stundum verið nokkru fleira en þar kemur fram. Lömb, kálfar og folöld eru ekki talin með.

Tafla 1[69]

 

Fjöldi búfjár á Gilsbrekku

 

Ár     Kýr             Aðrir            Ær         Aðrar                Hross

                              nautgripir                  sauðkindur                                       

 

1710        3                   0                 10              13                      2

1791        3                   0                 11                6                      0

1821        2                   0                 12                3                      1

1830        2                   0                   7              12                      1

1840        1                   1                 16                3                      1

1850        1                   0                   6                7                      0

1860        2                   0                 17              11                      1

1870        2                   0                 16              12                      1

1880        2                   1                 16              10                      1

1891        1                   0                   6                7                      1

1900        1                   0                   0                0                      0

 

Skýrslurnar sem hér er byggt á sýna að enginn bátur var til á Gilsbrekku árið 1791 og ekki heldur 1821 eða 1830.[70] Eins var þetta 1840.[71] Líklegt má því telja að hér hafi sjaldan verið bátur á þessu fimmtíu ára skeiði og máske aldrei. Bóndinn á Gilsbrekku fékk sér hins vegar bát árið 1843 og á næstu árum átti hann jafnan sexæring eða fjögra manna far.[72] Gilsbrekkufólk átti bát af þeirri stærð árið 1850 og líka bæði 1860 og 1880 en 1870 var hér minni bátur.[73] Árið 1891 var hér hins vegar enginn bátur og ekki heldur aldamótaárið 1900.[74]

Fyrsti ábúandinn á Gilsbrekku, sem við þekkjum með nafni, er ekkjan Guðrún Björnsdóttir sem hér bjó með þremur börnum sínum árið 1703.[75] Hún var þá 57 ára en elstur barnanna var sonurinn Jón Björnsson, sem var 18 ára, sagður fyrirvinnandi.[76] Guðrún húsfreyja átti líka tvær dætur og hjá henni var vinnustúlka og eins árs gamalt tökubarn.[77] Enginn veit nú hvort þetta fólk muni hafa lifað af hina mannskæðu bólusótt er hér geisaði árið 1707 en talið er að hún hafi orðið um það bil þriðjungi þjóðarinnar að bana. Bóndinn sem bjó á Gilsbrekku árið 1710 hét Sigmundur Árnason[78] og gæti hafa verið tengdasonur húsfreyjunnar sem hér stýrði búi sjö árum fyrr en hitt er þó að minnsta kost eins líklegt að engin slík tengsl hafi verið á milli þeirra.

Um Sigmund þennan er reyndar ekkert vitað nema það eitt að hann bjó á Gilsbrekku árið 1710 með 3 kýr, 23 sauðkindur og 2 hross.[79] Um 1735 bjó hér bóndi sem hét Ásmundur Guðmundsson og 1753 var Jón Nikulásson tekinn hér við búi[80] en fátt verður frá þeim sagt því nöfnin ein hafa varðveist frá glötun.

Svolítið meira er vitað um Jón þann Sigurðsson sem bjó á Gilsbrekku árið 1762.[81] Hann var þá 32ja ára gamall og átti konu sem var einu ári yngri.[82] Hjón þessi áttu þá fimm börn á aldrinum 1 – 6  ára, fjóra syni og eina dóttur.[83] Öll þessi börn voru heima hjá foreldrunum árið 1762 og hér var þá líka einn vinnumaður.[84] Átta manneskjur voru því búsettar á Gilsbrekku það ár.

Á árum móðuharðindanna, 1783 og 1784, bjuggu hér á Gilsbrekku hjónin Andrés Pálsson og Ingiríður Guðlaugsdóttir en Ingiríður húsfreyja dó 28. nóvember 1784.[85] Hún var þá 52ja ára gömul og er landfarsótt sögð hafa orðið henni að bana.[86] Andrés var á svipuðum aldri og hélt hann búskapnum áfram með börnum þeirra, Guðlaugu, sem fædd var 1765 eða því sem næst, og Úlfi sem var einu ári yngri en þessi systir hans.[87] Þau voru bæði fædd á Gilsbrekku[88] svo ætla má að foreldrar þeirra hafi tekið við jörðinni um 1765. Andrés Pálsson stýrði búi á Gilsbrekku í nær aldarfjórðung en síðan bjuggu hér niðjar hans, mann fram af manni, allt til vorsins 1853, fyrst Guðlaug Andrésdóttir og hennar eiginmaður, svo Ólafur Jónsson, sonur Guðlaugar, og hans kona og að lokum Jarðþrúður Ólafsdóttir og eiginmaður hennar.[89] Andrés bóndi og niðjar hans bjuggu því hér í hartnær 90 ár án þess að þráðurinn slitnaði. Andrés Pálsson varð gamall maður.[90] Kominn yfir áttrætt var hann um skeið hjá dóttursyni sínum hér á Gilsbrekku en dó hálfníræður hjá Úlfi syni sínum, er þá bjó í Botni, 6. október 1816.[91]

Úlfur Andrésson frá Gilsbrekku bjó í Botni í meira en tuttugu ár (sjá hér Botn) en Guðlaug systir hans giftist Jóni nokkrum Jónssyni haustið 1787 og tóku þau við búi hér á Gilsbrekku vorið 1789.[92] Er Jón gekk að eiga Guðlaugu var hann vinnumaður hjá ekkjunni Ástríði Jónsdóttur í Botni[93] en ókunnugt er um uppruna hans. Í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1790 er Jón á Gilsbrekku sagður vera 27 ára gamall en Guðlaug kona hans 24 ára.[94]

Svo virðist sem þessi ungu hjón hafi tekið hér við allgóðu búi því árið 1791 bjuggu þau með 3 kýr og 17 sauðkindur og eru lömbin þá ekki talin með.[95] Í Suðureyrarhreppi var þá 21 býli en aðeins fimm bændur bjuggu þá með þrjár kýr og var Jón á Gilsbrekku einn þeirra.[96] Hjá hinum sextán voru bara ein eða tvær kýr í fjósi.[97] Þetta ár var bóndinn á Gilsbrekku líka ofan við miðju í röð hreppsbænda væri spurt um fjölda sauðfjár.[98] Jón Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir voru bæði á lífi árið 1806 og í marsmánuði árið 1811 bjó Guðlaug á Gilsbrekku en var þá orðin ekkja.[99]

Þau Jón og Guðlaug eignuðust að minnsta kosti 12 börn, sem fæddust á árunum 1789-1808, og náðu sum þeirra að komast upp.[100] Árið 1801 segir prestur hjónin á Gilsbrekku vera sparsöm og skikkanleg[101] en án sparsemi hefðu þau varla komist af með stóran barnahóp á litlu koti. Veturinn 1810-1811 voru sex barnanna hér heima hjá móður sinni.[102] Elstur í þeim hópi var Ólafur Jónsson, þá liðlega tvítugur, en hann tók hér við búi af móður sinni fáum árum síðar.[103]

Ólafur Jónsson fæddist á Gilsbrekku við lok ársins 1789 og ólst hér upp hjá foreldrum sínum.[104] Hann kvæntist árið 1813 eða 1814 Guðrúnu Guðmundsdóttur[105] en hún var dóttir hjónanna Guðmundar Sigurðssonar og Elínar Vilhjálmsdóttur er bjuggu á Stað í Súgandafirði í skamman tíma á árunum upp úr 1810 en bæði fyrr og síðar á Kleifum í Skötufirði við Djúp (sbr. hér Staður). Þau Ólafur Jónsson og Guðrún kona hans munu hafa verið á líkum aldri, bæði fædd um 1790. Í marsmánuði árið 1811 var Guðrún hjá foreldrum sínum á Stað og er þá sögð vera 21 árs gömul[106] og í sóknarmannatali frá árinu 1817 eru hjónin Ólafur og Guðrún á Gilsbrekku bæði talin vera 27 ára.[107] Í sóknarmannatölum Staðarpresta í Súgandafirði frá árunum 1832-1842 er Guðrún Guðmundsdóttir, kona Ólafs bónda á Gilsbrekku, jafnan sögð vera fædd á Kleifum í Skötufirði og þar var hún 12 ára gömul hjá foreldrum sínum árið 1801.[108] Í manntalinu frá 1816 er þessi sama húsfreyja á Gilsbrekku hins vegar sögð fædd í Kálfavík í Skötufirði og í sama manntali er hún talin um það bil tíu árum eldri en hún var í raun og veru.[109] Hugsanlegt er reyndar að Guðrún hafi fæðst í Kálfavík en flust þaðan ung að árum með foreldrum sínum að Kleifum en hitt fær með engu móti staðist að hún hafi verið heilum áratug eldri en Ólafur því yngsta barn þeirra fæðist 1830.[110] Hún var þá liðlega fertug samkvæmt manntalinu frá 1801 og sóknarmannatölum Staðarpresta en komin af barneignaaldri ef mark ætti að taka á því sem sagt er um aldur hennar í manntalinu frá 1816.

Guðrún Guðmundsdóttir á Gilsbrekku var ein þriggja systra frá Kleifum í Skötufirði sem giftust ungum Súgfirðingum og urðu húsfreyjur í Súgandafirði. Af þessum systrum var Guðrún elst en hinar tvær voru Margrét, sem giftist Jóni Brynjólfssyni í Botni (sjá hér Botn), og Rósa, sem giftist Jóhannesi Jónssyni en þau bjuggu fyrst í Botni en síðan á Laugum (sjá hér Laugar).

Hjónin Ólafur Jónsson og Guðrún Guðmundsdóttir stóðu fyrir búi hér á Gilsbrekku frá því um 1815 og til 1849 eða í fullan þriðjung aldar[111] og hefur enginn annar bóndi búið hér eins lengi og Ólafur svo kunnugt sé. Á fyrstu búskaparárum Ólafs og Guðrúnar var Andrés Pálsson afi hans á heimili þeirra[112] (sbr. hér bls. 8-9) og móðir Ólafs, Guðlaug Andrésdóttir, var hér enn hjá syni sínum árið 1828.[113] Fáum árum áður lætur prestur þess getið að hún sé ráðvönd.[114] Um ungu hjónin á Gilsbrekku, þau Ólaf og Guðrúnu, segir prestur árið 1817 að þau séu skikkanleg og skýr í andlegu.[115] Flest eða öll sín mörgu búskaparár bjuggu þau með ýmist eina eða tvær kýr, fimmtán til tuttugu sauðkindur, auk lamba, og einn hest (sjá hér bls. 7). Ætla má að þessi bústofn hafi dugað þeim til framfærslu þó oft kunni að hafa verið naumt um matföng.

Í sínum langa búskap mun Ólafur Jónsson tíðum hafa verið bátlaus en árið 1843 fékk hann sér fleytu og átti jafnan sexæring eða fjögra manna far á sínum síðustu búskaparárum (sjá hér bls. 7). Þegar Ólafur keypti bátinn voru dóttir hans og tengdasonur nýlega sest að í húsmennsku á Gilsbrekku[116] og má ætla að tengdasonurinn, sem hér verður síðar sagt frá, hafi þá þegar orðið formaður.

Þau Ólafur og Guðrún á Gilsbrekku eignuðust a.m.k fimm börn.[117] Elst þeirra sem á legg komust var Jarðþrúður er ásamt manni sínum tók hér við búi af foreldrunum vorið 1849.[118] Á búskaparárum Ólafs Jónssonar var hér sjaldan þurrabúðarfólk í húsmennsku. Á árunum kringum 1830 segir prestur ekkjuna Guðrúnu Hallsdóttur þó vera húskonu á Gilsbrekku en hún átti hér heima frá 1828 til 1833 og var þá á sextugsaldri.[119] Hún hafði verið gift Markúsi Jónssyni er síðast bjó í Keflavík (sjá hér Botn og Keflavik) og ein dætra þeirra kom hingað með móður sinni.[120] Var það Guðfinna Markúsdóttir sem þá var á fermingaraldri.[121] Orð prestsins gefa okkur til kynna að þær mæðgur hafi ekki verið vistráðnar hjá Ólafi en búið einar út af fyrir sig eða a.m.k. verið sér um matseld. Nærri lagi mun því vera að telja heimilin á Gilsbrekku tvö á þessu skeiði þó vera kunni að allt hafi fólkið hírst í sömu baðstofunni. Önnur dóttir Guðrúnar Hallsdóttur, sú er Steinvör hét Markúsdóttir, var reyndar líka hér á Gilsbrekku 1831-1833 og hafði með sér barnunga en hana segir prestur vera vinnukonu hjá Ólafi bónda.[122] Hjónin Ólafur Jónsson og Guðrún Guðmundsdóttir fóru frá Gilsbrekku árið 1850 og gerðust vinnuhjú hjá séra Arngrími Bjarnasyni á Stað.[123] Þar dó Ólafur 14. maí 1855[124] en Guðrún lifði lengur.

Jarðþrúður Ólafsdóttir, elsta barn Ólafs og Guðrúnar á Gilsbrekku, fæddist í októbermánuði haustið 1814 og 23. september 1839 giftist hún ungum manni sem hét Jón Sigurðsson og var fæddur á Laugum í Súgandafirði vorið 1812.[125] Er Jón og Jarðþrúður gengu í hjónaband voru þau bæði vinnuhjú í [126] en færðu sig að Gilsbrekku, til foreldra Jarðþrúðar, vorið 1840.[127] Með þeim kom að Gilsbrekku tengdamóðir Jarðþrúðar, Þórunn Jónsdóttir, sem þá var komin hátt á sjötugsaldur.[128] Í sóknarmannatali frá marsmánuði 1841 segir prestur þær Jarðþrúði og Þórunni vera húskonur hér á Gilsbrekku en Jón Sigurðsson, eiginmaður Jarðþrúðar, var þá vistráðinn hjá tengdaföður sínum.[129]

Þau Jón og Jarðþrúður eignuðust sitt fyrsta barn 6. janúar 1841 og frá 1842 til 1849 voru þau jafnan í húsmennsku hér á Gilsbrekku, að einu ári undanskildu, og tóku síðan við búinu af foreldrum Jarðþrúðar vorið 1849.[130]

Jón Sigurðsson, sem hér var nefndur til sögu, fæddist á Laugum í Súgandafirði 1. júní 1812 og var eitt margra barna hjónanna Sigurðar Sigurðssonar og Þórunnar Jónsdóttur er þar bjuggu um skeið.[131] Frá foreldrum hans hefur áður verið sagt í þessu riti (sjá hér Staður,Staðarhús fremri þar).

Er Jón Sigurðsson hóf búskap á Gilsbrekku var hann orðinn 37 ára gamall. Líklegt er að hann hafi þá verið orðinn margreyndur sjósóknari en eins og fyrr var nefnt má telja líklegt að hann hafi allt frá 1843 verið formaður á bátnum sem Ólafur tengdafaðir hans keypti á því ári (sjá hér bls. 10). Báturinn var sexæringur eða fjögra manna far og taldist Jón eiga hann hálfan á móti tengdaföður sínum haustið 1849.[132] Einu ári síðar var Ólafur farinn frá Gilsbrekku og þá átti Jón bátinn einn.[133] Bústofn Jóns Sigurðssonar og Jarðþrúðar konu hans var ekki stór. Árið 1850 voru þau með eina kú og þrettán sauðkindur (sjá hér bls. 7). Jón náði aðeins að búa á Gilsbrekku í þrjú ár því hann varð skammlífur og andaðist fertugur að aldri 26. júlí 1852.[134] Hann lét eftir sig fjögur börn, þrjár dætur og einn son, sem öll voru innan við fermingu þegar faðir þeirra dó.[135] Ekkja Jóns, Jarðþrúður Ólafsdóttir, bjó áfram á Gilsbrekku til vorsins 1853 en vék þá frá.[136] Síðustu mánuðina sem hún lafði við bú voru öll börnin hjá henni og þá voru hér líka hjónin Jón Brandsson og Steinunn Benjamínsdóttir með þrjú börn.[137] Þau voru húsfólk[138] og munu því hafa haldið heimili út af fyrir sig en búið við þurrt hús. Báðar þessar fjölskyldur fluttust burt frá Gilsbrekku vorið 1853[139] og við brottför Jarðþrúðar urðu hér tímamót því faðir hennar, afi og langafi höfðu búið hér, mann fram af manni, og setið jörðina allt frá því um 1765 (sjá hér bls. 8).

Frá Gilsbrekku fór Jarðþrúður að Suðureyri og var þar vinnukona með tvö af börnum sínum fardagaárið 1853-1854 en sumarið 1854 fór hún úr Súgandafirði og settist að í verslunarstaðnum á Skutulsfjarðareyri.[140]

Elsta barn Jarðþrúðar og Jóns Sigurðssonar var Ólöf, sem giftist Guðmundi Einarssyni, en þau bjuggu meðal annars á Innri-Veðrará og Selakirkjubóli í Önundarfirði (sjá hér Selakirkjuból). Önnur dóttir Jóns og Jarðþrúðar var Sigurborg sem giftist Kára Ólafssyni og voru þau um skeið tómthúsfólk í Klúku (sjá hér Botn, Klúka þar).

Vorið 1853 fengu hjónin Egill Ólafsson og Sigurfljóð Guðmundsdóttir Gilsbrekku til ábúðar.[141] Þau komu hingað frá Botni en þar höfðu þau búið í nokkur ár og hefur áður verið frá þeim sagt á þessum blöðum (sjá hér Botn). Egill og Sigurfljóð stóðu fyrir búi á Gilsbrekku í þrjú ár en hættu að búa vorið 1856 og fóru þá í húsmennsku.[142] Frá 1856 til 1865 sátu þau hér um kyrrt og voru þá jafnan þurrabúðarfólk.[143] Á því skeiði voru hér ávallt tvö heimili.[144] Hjónin Egill og Sigurfljóð dóu bæði árið 1868 og var hún þá komin á Norðureyri en Egill var enn húskarl hér á Gilsbrekku.[145]

Árið 1856 fóru ung hjón að búa á Gilsbrekku. Þau hétu Albert Jónsson og Guðfinna Þorleifsdóttir.[146] Albert fæddist á Tannanesi í Önundarfirði 11. janúar 1826 en fluttist mjög ungur með foreldrum sínum að Kaldá í sama byggðarlagi og ólst þar upp[147] (sbr. hér Kaldá). Foreldrar hans voru hjónin Jón Ólafsson og Elín Eiríksdóttir. Jón var sonur Ólafs Magnússonar, bónda og hreppstjóra á Eyri í Önundarfirði og áður á Núpi í Dýrafirði, og konu hans Þuríðar Gísladóttur en Elín var dóttir séra Eiríks Vigfússonar á Stað í Súgandafirði og konu hans, Ragnheiðar Halldórsdóttur (sjá hér Kaldá). Þegar Albert var 15 ára missti hann föður sinn en um tvítugsaldur kom hann fyrst í Súgandafjörð. Vorið 1849 varð hann vinnumaður á Suðureyri og kom þá frá Hjarðardal í Önundarfirði.[148]

Kona Alberts, Guðfinna Þorleifsdóttir, fæddist á Suðureyri árið 1831 eða 1832 og var dóttir hjónanna Þorleifs Þorkelssonar og Valdísar Örnólfsdóttur er þar bjuggu (sjá hér Suðureyri). Hún missti móður sína haustið 1842 og fluttist fjórum árum siðar með föður sínum frá Suðureyri vestur á Fjallaskaga í Dýrafirði.[149] Fáum árum síðar kom hún aftur í Súgandafjörð og um 1850 voru þau Albert bæði vinnuhjú á Suðureyri hjá Guðmundi Guðmundssyni, bónda og hreppstjóra, og eiginkonu hans, Kristínu Þorleifsdóttur, sem var systir Guðfinnu.[150] Þessar ungu manneskjur fóru þá að draga sig saman og 19. janúar 1851 eignuðust þau dreng sem skírður var Kristján.[151] Hann varð seinna bóndi og verslunarstjóri á Suðureyri[152] og mestur áhrifamaður í Suðureyrarhreppi um langt skeið.

Þegar átta mánuðir voru liðnir frá fæðingu Kristjáns gengu foreldrar hans í hjónaband og næstu ár voru þau í húsmennsku, fyrst í Bæ en síðan á Stað.[153] Frá 1854 til 1856 áttu Albert og Guðfinna heima í Ytri-Vatnadal og á þeim árum var hann ráðsmaður hjá ekkjunni Jórunni Jónsdóttur sem stóð þar fyrir búi.[154]

Eins og fyrr var nefnt hófu Albert og Guðfinna búskap á Gilsbrekku vorið 1856 og fluttust hingað frá Ytri-Vatnadal með tvo unga syni, Kristján, sem var 5 ára, og Jóhannes, þá á fyrsta ári.[155] Ungu hjónin sem fengu kot þetta til ábúðar árið 1856 voru fátækt fólk og hófu hér búskap með eina kú, tólf ær og einn gemling.[156] Þetta var lítill bústofn en Albert brá á það ráð sem líklegast var til að styrkja efnahaginn. Hann réð sig í skiprúm norður í Bolungavík en þaðan var sjór jafnan sóttur af kappi á vetrarvertíð þó að lítið væri um róðra frá Suðureyrarmölum fyrr en undir vor. Frá þessari ráðabreytni Alberts og afleiðingum hennar segir Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Til að bæta hag sinn tók Albert það ráð að róa í Bolungavík á vetrum. Þetta lá mjög vel við. Þegar færi er gott er leiðin greiðfær og tæplega þriggja tíma gangur frá Gilsbrekku niður á Malir [í Bolungavík] og heldur styttra að Ósi, ef róið var þar. Hann gat því hæglega skroppið heim um helgar þegar vel stóð á og þá fært heimilinu nýjan fisk og aðrar nauðsynjar. Voru menn þá ekki óvanir að bera bagga yfir heiðar og stundum allþunga.

… Ekki eru fullar heimildir fyrir því að Albert hafi róið í Bolungavík veturinn 1856-1857 en ætla má að svo hafi verið. Veturinn eftir reri hann frá Ósvör í Bolungavík en sá vetur varð örlagaríkur því 2. febrúar 1858 fórst skipið með allri áhöfn og fáum dögum síðar barst sorgarfregnin heim til ekkjunnar sem þá stóð einmana með drengina sína tvo.[157]

 

Þegar Guðfinna Þorleifsdóttir missti eiginmann sinn í sjóinn var hún aðeins 26 ára gömul eða því sem næst en hún var ekki örbjarga því bú þeirra Alberts hafði blómgast vel og er hann féll frá áttu þau 2 kýr og 36 sauðkindur, að lömbunum frátöldum.[158] Hin unga ekkja tók þann kost að halda áfram búskap og þegar prestur húsvitjaði að fáum vikum liðnum frá drukknun Alberts var kominn til hennar vinnumaður, Markús Andrésson að nafni, sagður 45 ára gamall.[159] Hér voru þá líka hjónin Egill Ólafsson og Sigurfljóð Guðmundsdóttir í húsmennsku (sjá hér bls. 12). Vera má að Markús hafi ráðist til Alberts og Guðfinnu vorið 1857 en hitt er þó í rauninni líklegra að hann hafi verið fenginn til liðs við ekkjuna að Albert manni hennar látnum. Markús var fæddur á Hóli í Bolungavík um 1813 og árið 1845 var hann vinnumaður í Meira-Hrauni í Skálavík í sama hreppi.[160] Á Gilsbrekku var Markús fram á árið 1859 en þá kom til Guðfinnu Sigurður Jónsson og í sóknarmannatali frá marsmánuði 1860 er hann sagður vera fyrirvinna ekkjunnar.[161]

Sigurður Jónsson var 24 ára gamall er hann fluttist að Gilsbrekku og mun Guðfinnu hafa litist vel á þennan unga mann því 12. júní 1860 ól hún honum son, sem skírður var Albert, og 5. október á sama ári giftist hún þessum barnsföður sínum.[162] Er prestur bókar fæðingu og skírn barnsins í júnímánuði segir hann foreldra þess vera að sögn trúlofaðar persónur.[163]

Sigurður Jónsson, sem varð bóndi á Gilsbrekku er hann kvæntist Guðfinnu Þorleifsdóttur árið 1860, var fæddur á Norðureyri 18. nóvember 1834.[164] Faðir hans var Jón Jónsson, bóndi á Norðureyri, sá yngri tveggja bænda með því nafni er týndu lífi í hinu mannskæða snjóflóði er féll á Norðureyrarbæinn 15. desember 1836[165] (sbr. hér Norðureyri). Jón yngri Jónsson á Norðureyri var kvæntur Sigríði Aradóttur frá Kvíanesi en drenginn Sigurð eignaðist hann fram hjá konu sinni með 25 ára gamalli vinnukonu þeirra sem hét Guðrún Jónsdóttir.[166] Móðir Sigurðar mun hafa fæðst í Súgandafirði 6. ágúst 1809 og verið dóttir hjónanna Jóns Sigurðssonar og Borgnýjar Ögmundsdóttur sem bjuggu um 1810 í Ytri-Vatnadal.[167]

Mjög skömmu eftir fæðingu Sigurðar var þetta hórbarn Jóns bónda á Norðureyri flutt til mágs hans, Guðmundar bónda Arasonar á Kvíanesi, og þar, hjá Guðmundi og konu hans, Þorgerði Jónsdóttur, ólst Sigurður upp.[168] Í marsmánuði árið 1835 var hann kominn að Kvíanesi og var þá aðeins fjögra mánaða gamall.[169] Einu ári síðar voru þau þar bæði, Sigurður og Guðrún móðir hans, og næstu árin var hún þar öðru hverju en drengurinn alltaf eða nær alltaf.[170] Í sóknarmannatölum frá árunum 1835-1848 er Sigurður ýmist sagður vera tökubarn eða fóstursonur Guðmundar og Þorgerðar á Kvíanesi. Hjá þeim átti hann heima við fermingu árið 1848 og frá Kvíanesi kom hann að Gilsbrekku vorið 1859.[171]

Magnús Hjaltason staðhæfir að tveggja ára gamall hafi Sigurður lent í hinu mannskæða snjóflóði á Norðureyri og bjargast úr því með naumindum.[172] Saga hans er á þessa leið:

 

Hann [Sigurður] var um tveggja ára gamall á Norðureyri er bæinn þar tók af, 1836, fannst fram í bæjardyrum og síðubrotinn, undir brjóstum móður sinnar er dauð var. Var hann jafnan síðan bilaður undir síðunni en varð þó mikilmenni.[173]

 

Þetta er áhrifamikil saga og einhver hefur sagt Magnúsi hana en hún er tortryggileg. Magnús segir að drengurinn hafi fundist fram í bæjardyrum undir brjóstum látinnar móður sinnar. Staðreyndin er hins vegar sú að móðir Sigurðar fórst ekki í nýnefndu snjóflóði en náði háum aldri og dó hjá þessum syni sínum hér á Gilsbrekku 22. janúar 1882.[174] Mjög hæpið virðist því vera að taka nokkurt mark á frásögn Magnúsar og með öllu óvíst hvort hinn ungi drengur hafi verið á Norðureyri þegar snjóflóðið braut niður bæinn. Hann var nær tveimur árum fyrr kominn í fóstur að Kvíanesi og var þar öll eða nær öll sín uppvaxtarár eins og hér hefur áður verið nefnt. Líkurnar á því að Sigurður hafi lent í snjóflóðinu á Norðureyri geta því varla talist miklar en útilokað er það ekki því hann gæti hafa verið dvalargestur hjá föður sínum og eiginkonu hans sem bæði týndu lífi í þessum náttúruhamförum.

Sigurður Jónsson var bóndi á Gilsbrekku í 25 ár, frá 1860 til 1885[175] og var að sögn Magnúsar Hjaltasonar dugnaðarmaður mikill og drengur góður.[176] Ætla má að Magnús Hjaltason hafi haft einhver kynni af Sigurði sem varð gamall maður. Kristján G. Þorvaldsson þekkti hann líka og lýsir honum svo:

 

Sigurður var maður prúður í orði og framgöngu. Fjölhæfur var hann og verklaginn, iðjusamur, nýtinn og hinn hirðusamasti með allt er hann hafði með höndum og gátu unglingar margt af honum lært í því efni en heimilið [á Gilsbrekku] hafði lítil skilyrði til að veita börnum sínum bóklega fræðslu.[177]

 

Þeim Sigurði Jónssyni og Guðfinnu Þorleifsdóttur auðnaðist að búa saman hér á Gilsbrekku í níu ár ef með er talið fardagaárið 1859-1860 en Sigurður var þá þegar orðinn fyrirvinna hennar.[178] Á þessum níu árum eignuðust þau að minnsta kosti fimm börn.[179] Yngsta barnið fæddist 24. mars 1868 en Guðfinna dó 30. maí það sama ár.[180] Drenginn sem fæddist sama ár og Guðfinna dó missti Sigurður þremur árum síðar.[181]

Synir Guðfinnu af hennar fyrra hjónabandi, þeir Kristján og Jóhannes Albertssynir, ólust upp hér á Gilsbrekku hjá móður sinni og stjúpa og frá því Sigurður settist hér í bú leið ekki á löngu uns móðir hans, Guðrún Jónsdóttir sem fyrr var nefnd, færði sig hingað og kom hún sér fyrir í hans skjóli.[182] Síðustu árin sem Guðfinna lifði var heimilið því nokkuð fjölmennt þó að vinnufólk væri fátt.

Fardagaárið 1861-1862 var Þorlaug Þorleifsdóttir, systir Guðfinnu, vinnukona hjá þeim Sigurði og er Guðfinna dó kom hún hingað aftur til liðs við mág sinn.[183] Svo fór að Þorlaug, sem var um það bil tíu árum yngri en Guðfinna, ílentist á Gilsbrekku og gerðist bústýra hjá Sigurði.[184] Fyrsta barn þeirra fæddist 1. júní 1871 og 11. október það ár voru þau gefin saman í hjónaband.[185] Þorlaug Þorleifsdóttir var Sigurði Jónssyni við hönd hér á Gilsbrekku í 15 ár, kom 1868 og dó 27. ágúst 1883.[186] Þau eignuðust saman fjögur börn á árunum 1871-1879.[187] Urðu börnin því níu hjá Sigurði áður en lauk og eru þá ekki taldir með stjúpsynir hans sem hér voru áður nefndir. Við lok ársins 1868 voru ellefu manneskjur á heimili Sigurðar og sú tala var hin sama í nóvembermánuði árið 1880 en þá var hér líka annað heimili.[188] Að öllum meðtöldum voru heimamenn á Gilsbrekku fjórtán haustið 1880.[189]

Líklegt er að Sigurður Jónsson hafi oft þurft að kosta sér öllum til við að draga björg í bú því hann hafði marga munna að fæða bæði unga og gamla. Móðir hans var enn á Gilsbrekku haustið 1881, komin á áttræðisaldur,[190] og hingað tók hann til sín fóstra sinn, Guðmund Arason, áður bónda á Kvíanesi, og var gamli maðurinn hér síðustu átta árin sem hann lifði.[191]

Vorið 1860 var Guðfinna Þorleifsdóttir enn skrifuð fyrir búinu á Gilsbrekku[192] þó að Sigurður væri orðinn hér fyrirvinna.[193] Bústofninn var þá 2 kýr, 17 ær, 11 gemlingar og 1 hestur.[194] Á þeim fjórðungi aldar sem Sigurður Jónsson bjó á Gilsbrekku virðist stærð búsins ekki hafa breyst neitt að ráði og var árið 1880 nánast sú sama og verið hafði 1860 og 1870 (sjá hér bls. 7).

Fyrri eiginmaður Guðfinnu átti engan bát og hér var aldrei bátur á árunum 1856-1859.[195]  Í búnaðarskýrslu frá vorinu 1860 er Guðfinna á Gilsbrekku hins vegar sögð eiga bát, sexæring eða fjögra manna far,[196] og má ætla að Sigurður hafi lagt þann góða farkost í bú með sér er hann gerðist sambýlismaður ekkjunnar. Þessum báti virðist Sigurður þó ekki hafa náð að halda því sá sem hann átti árið 1870 var aðeins tveggja eða þriggja manna far ef marka má búnaðarskýrslu.[197] Vera má að á árunum kringum 1870 hafi hann verið í skiprúmi á bát frá Ósi í Bolungavík því sagt er að hann hafi oft róið þaðan.[198] Árið 1880 var Sigurður kominn með stóran bát á ný, sexæring eða fjögra manna far,[199] og kunnugt er að um það leyti átti hann verbúð á Suðureyrarmölum (sjá hér Suðureyri).

Í búnaðarskýrslum sést ekki hvort báturinn sem Sigurður á Gilsbrekku átti um 1880 var sexæringur eða fjögra manna far. Færsla í verslunarbók frá Flateyrarverslun sýnir hins vegar að vorið 1881 var afla af bátnum skipt í sex staði[200] og bendir sú staðreynd eindregið til þess að hann hafi verið fjögra manna far því ætla má að báturinn hafi fengið einn aukahlut og formaðurinn annan (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Sjálfur fékk Sigurður á Gilsbrekku reyndar fjóra hluti og hálfum betur í þessum aflaskiptum en Þorvaldur í Selárdal hálfan hlut og Friðrik í Breiðadal einn hlut.[201] Þessi skipti á aflanum eru allrar athygli verð og rétt að hyggja nánar að þeim. Þorvaldur í Selárdal, sem fékk hálfan hlut, getur enginn annar verið en Þorvaldur Gissurarson, bóndi í Selárdal, sem þá var fulltíða maður á fimmtugsaldri.[202] Óhugsandi er að hann hafi verið hálfdrættingur í skiprúmi hjá Sigurði á Gilsbrekku. Aðeins tvær skýringar geta þá komið til greina vilji menn fá að vita hvers vegna Þorvaldur fékk hálfan hlut við skipti á afla Sigurðar og skipverja hans. Annar möguleikinn er sá að Sigurður hafi ráðið ungling frá Selárdal í skiprúm hjá sér upp á  hálfdrætti en sóknarmannatölin frá 1880 og 1881 sýna að enginn slíkur unglingur á fermingaraldri var þá í Selárdal.[203] Fyrst svo er virðist engin skýring koma til greina nema sú ein að Þorvaldur hafi átt hálfan bátinn á móti Sigurði þó að Sigurður sé talinn eigandi hans í búnaðarskýrslunni. Þó mætti líka hugsa sér að Þorvaldur hafi lánað nágranna sínum einhvern hluta af kaupverði fleytunnar og þeir samið um að hann fengi hálfan hlut uns skuldin væri að fullu greidd.

Friðrik í Breiðadal, sem hér var nefndur til sögu og fékk einn hlut þegar afla bátsins frá Gilsbrekku var skipt, mun vera bóndinn Friðrik Tómas Hjalti Jónsson sem bjó 59 ára gamall í fjórbýli í Neðri-Breiðadal haustið 1880[204] og má ætla að hann hafi sjálfur verið í skiprúmi hjá Sigurði á Gilsbrekki vorið 1881.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt virðist ljóst að sem formaður á bátnum hefur Sigurður fengið einn aukahlut og var þá kominn með tvo hluti. Hálfan hlut mun hann svo hafa fengið út á bátinn til jafns við Þorvald. Færslan í verslunarbókinni sýnir að auk þessa fékk hann svo tvo hluti og skýringin á því getur engin önnur verið en sú að tveir heimamanna hans á Gilsbrekku hafi róið með honum á bátnum þetta vor og þeirra hlutir verið lagðir inn í reikning Sigurðar hjá versluninni á Flateyri. Allar líkur benda til að þessir tveir hásetar hafi reyndar verið synir hans, þeir Albert og Guðmundur, en Albert var þá um tvítugt og Guðmundur að verða 16 ára.[205] Hér er þá komin fullgild skýring á títtnefndum hlutaskiptum frá vorinu 1881 sem án nákvæmrar skoðunar kynni að virðast svolítið undarleg.

Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal, fæddur 1878, hefur í ritgerð gert grein fyrir hvernig bæjarhúsin á Gilsbrekku litu út árið 1885, um það leyti sem Sigurður Jónssona var að hætta búskap. Sjálfum bænum lýsir Valdimar með þessum orðum:

 

Bæjardyr sneru niður að sjónum og göngin voru bein inn í baðstofuna sem sneri út og inn og var 10 x 12 fet [þ.e. 3,14 x 3,77 metrar – innsk. K.Ó.] að stærð með lofti og skarsúð, innanþiljuð uppi. Eldhús var út úr göngum til hægri en búr til vinstri. Fjós var með sama gafli og eldhúsið og þar rétt við hús yfir vatnsbólið. Yst í byggingunni var skemman með búrgaflinn í hliðarvegg. Hún var loftlaus með þili framan fyrir eins og allar skemmur voru.[206]

 

Valdimar segir að niðri á oddanum, niður af bænum, hafi fjóshlaðan verið og einnig smiðja en fjárhús og hesthús beint upp af bænum.[207] Fjárhús voru líka í túnhornunum að ofan, bæði yst og innst, og á bökkunum fyrir innan innri lækinn voru hjallur og geymsluhús.[208] Að sögn Valdimars átti húsfólk tvær síðastnefndu byggingarnar[209] en síðasti húsmaðurinn á Gilsbrekku var Geirmundur Jónsson, sem fór héðan vorið 1881,[210] og er sagt dálítið frá honum hér litlu aftar.

Áður var á það minnst að Sigurður bóndi Jónsson á Gilsbrekku hefði átt verbúð á Suðureyrarmölum. Frá henni reri hann síðast vorið 1886 (sjá hér Suðureyri) og var þá nýlega hættur búskap.[211] Verbúð Sigurðar stóð á lóðinni sem nú er númer 10 við Eyrargötu og í henni settust að haustið 1889 fyrstu íbúarnir sem tóku sér varanlega bólfestu í verstöðinni á Suðureyrarmölum (sjá hér Suðureyri) en þar fjölgaði fólki á næstu árum og varð úr þorp sem enn stendur. Er farið var að búa árið um kring í verbúð Gilsbrekkufólks fékk hún nafnið Babýlon og hélt því nafni, þrátt fyrir margvíslegar breytingar, í 100 ár.

Sigurður Jónsson hætti búskap á Gilsbrekku vorið 1885 og gerðist húsmaður í Selárdal.[212] Hann var þá fimmtugur að aldri og orðinn ekkjumaður í annað sinn. Börn Sigurðsr voru þá öll á lífi nema eitt og fluttust fimm þeirra norður í Bolungavík þetta sama ár.[213] Forystu fyrir þeim hópi munu elstu systkinin hafa haft, þau Albert og Valdís, sem orðin voru 25 og 24 ára.[214] Í hópnum sem fluttist til Bolungavíkur voru líka yngstu börnin, Jóna 9 ára og Þorgeir á fimmta ári.[215]

Sjálfur fór Sigurður í Selárdal og var þar húsmaður í tvö ár.[216] Tvö af börnum hans fóru líka þangað.[217] Vorið 1887 fór þessi fyrrverandi bóndi á Gilsbrekku til stjúpsonar síns, Kristjáns Albertssonar á Suðureyri.[218] Þar var hann í fjögur ár og fluttist með Guðmundi syni sínum að Laugum vorið 1891 en Guðmundur var þá að hefja búskap.[219] Þaðan í frá var Sigurður jafnan hjá Guðmundi og konu hans, Arínu Þórðardóttur, fyrst á Laugum en frá 1899 í Bæ.[220] Þar dó hann 2. desember 1903 og var þá 69 ára gamall.[221]

Á fyrstu búskaparárum Sigurðar Jónssonar voru tvö heimili hér á Gilsbrekku þó að hann væri eini bóndinn (sjá hér bls. 12) og eins var þetta á árunum 1878-1881.[222] Þá voru hér í húsmennsku hjónin Geirmundur Jónsson og Guðrún Einarsdóttir en þau fluttust skömmu síðar til Önundarfjarðar.[223] Guðrún, sem fæddist í Selárdal vorið 1846, var dóttir hjónanna Einars Brynjólfssonar og Guðlaugar Sigmundsdóttur[224] en frá þeim er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Botn). Guðrún ólst að mestu leyti upp á Kvíanesi, hjá hjónunum Guðmundi Arasyni og Þorgerði Jónsdóttur[225] og mátti því kallast fóstursystir Sigurðar Jónssonar, bónda á Gilsbrekku. Hún varð vinnukona hjá Sigurði um 1870 og 3. október 1873 giftist hún Geirmundi Jónssyni sem þá var einnig kominn að Gilsbrekku og var hér vinnumaður.[226] Næstu átta árin sátu þau hér um kyrrt, fyrst sem vinnuhjú en síðan í húsmennsku.[227]

Geirmundur Jónsson, sem hér er frá sagt, fæddist á Tannanesi í Önundarfirði 3. október 1845 og ólst þar upp.[228] Hann var sonur hjónanna Jóns Björnssonar og Guðríðar Bjarnadóttur,[229] sem þar bjuggu lengi (sjá hér Tannanes) en mörg af börnum þeirra fluttust til Súgandafjarðar (sjá hér Bær).

Geirmundur kom úr Önundarfirði árið 1869 og gerðist þá vinnumaður í Botni.[230] Vorið 1876 var hann í skiprúmi hjá húsbónda sínum, Sigurði Jónssyni á Gilsbrekku.[231] Þann 12. ágúst þá um sumarið lögðu þeir inn saltfisk frá vorvertíðinni og fékk Geirmundur 48,51 kr. fyrir hlutinn sinn.[232] Hlutur hans úr haustróðrum á sama ári var 6,93 kr. og inn í reikning hans hjá Flateyrarverslun kom líka árið 1876 4,59 kr. fyrir saltfisk og 12,53 kr. einn hlut frá Þórði.[233] Sá Þórður er án efa Þórður Jónsson, bóndi í Botni, en hann var bróðir Geirmundar. Verslunarreikningurinn ber því með sér að þetta sama ár hefur Geirmundur farið í einhverja róðra með Þórði, máske að vetrinum. Fyrir allan fisk sem lagður var inn í reikning Geirmundar hjá versluninni á Flateyri árið 1876 fékk hann 72,56 kr. sem svaraði fjórum ærgildum.[234]

Á tímabilinu frá 1. október 1875 til 1. október 1876 fékk Geirmundur, auk fiskinnleggsins, greiddar inn á verslunarreikning sinn 10,79 kr. frá Sigurði, húsbónda sínum á Gilsbrekku, og er þá allt upp talið sem lagt var inn á reikning hans hjá Flateyrarverslun á þessu tólf mánaða tímabili.[235] Samtals voru þetta 83,35 kr. en á sama tólf mánaða tímabili tók Geirmundur út vörur á Flateyri fyrir 77,49 kr.[236] Skuld hans við verslunina 1. október 1875 nam 19,50 kr. en lækkaði svolítið á næsta tólf mánaða tímabili[237] eins og tölurnar hér að ofan sýna.

Merkilegt er að skoða hvaða varning Geirmundur keypti í búðinni á Flateyri á þessu sama tólf mánaða tímabili en skrá yfir vöruúttekt hans lítur svona út:

Rúgur ………………..  275   pund ………  kr.   25,50

Hrísgrjón …………….  100      –    ……….   –     14,00

Hálfgrjón ……………..  12      –    ……….   –       1,92

Kaffi …………………….  6      –    ……….   –       6,76

Kaffirót …………………  2      –    ……….   –       0,66

Sykur …………………  3½      –    ……….   –       1,75

Rulla …………………….  3      –    ……….   –       5,18

Rjól ……………………..  2      –    ……….   –       2,66

Brauð ……………………  1      –    ……….   –       0,27

Brennivín ………………  1   pottur ……..  kr.     0,70

Salt …………………….  75   pund  ………   –       2,25

Sápa ……………………  ½      –    ……….   –       0,20

Svart leður í sjóskó …  438   grömm …….   –       1,94

Annað leður ………….  2½   pund ………   –       3,33

Hellulitur ……………….  2      –   ……….   –       2,00

Skyrtuléreft …………….  5   álnir ……….   –       2,35

Ljáblað………………….. 1   stykki………   –       1,50

Plankar…………………. 2      –  ……….   –       1,16

Poki……………………… 1      –  ……….   –       0,50

2ja tommu naglar……. 50      –  ……….   –       0,11

Annar varningur ……………………………   –       2,75

Samtals    kr.    77,49  [238]

 

Skráin ber með sér að Geirmundur hefur orðið að gæta hófs í hvívetna en hann hefur þó leyft sér að taka lítið eitt af tóbaki í vör og nef og þennan eina brennivínspott má ætla að hann hafi drukkið í kaupstaðarferðum eða þá um jólin. Í sóknarmannatölum frá árunum 1875 og 1876 er þessi fátæki maður sagður vera vinnumaður (sjá hér bls. 19-20) en kaupin á rúgi og hrísgrjónum benda til þess að þau hjónin, Geirmundur og Guðrún kona hans, hafi þá þegar verið sjálfra sín að einhverju leyti, enda nefnir prestur þau húshjón er hann skráði fæðingu dóttur þeirra í janúar 1876.[239] Úttektarskráin frá 1876 gefur líka til kynna að þau hafi þá átt örfáar kindur og þurft að heyja fyrir þeim því vinnumaður, sem enga á kindina, kaupir varla ljáblað.

Vera má að á árunum 1875-1878 hafi þau verið vistráðin að hálfu og sjálfra sín að hálfu. Hér á Gilsbrekku eignuðust hjón þessi þrjú börn og fjórða barnið bættist við sumarið 1881.[240] Elstur var sonurinn Jón, fæddur 14. desember 1874, en hann fluttist með norskum hvalveiðimönnum frá Sólbakka í Önundarfirði til Noregs árið 1897.[241]

Geirmundur Jónsson og Guðrún kona hans fóru frá Gilsbrekku vorið 1881 og bjuggu næsta fardagaár á jarðarparti í Botni.[242] Geirmundur og Jóhannes Albertsson frá Gilsbrekku tóku þá báðir saman við annarri hálflendunni í Botni úr höndum bróður Geirmundar, Þórðar Jónssonar, sem þar hafði búið um alllangt skeið.[243] Allt voru þetta leiguliðar en vorið 1882 fór eigandi þessarar hálflendu sjálfur að búa í Botni (sjá hér Botn) og þá urðu Geirmundur og Jóhannes að víkja.

Geirmundur og Guðrún fluttust þá vestur í Önundarfjörð og settust að á Kirkjubóli í Korpudal.[244] Á Kirkjubóli voru þau í þrjú ár, fyrstu tvö árin í húsmennsku en við búskap í tvíbýli fardagaárið 1884-1885.[245] Á löngum æviferli Geirmundar var hann aðeins tvö ár í bændatölu, 1881-1882 og 1884-1885.[246] Fyrra árið bjó hann í Botni en hið síðara á Kirkjubóli.[247] Þrjú af börnum Geirmundar og Guðrúnar fylgdu foreldrum sínum úr Botni að Kirkjubóli, þau Jón, Halldóra og Guðríður, og á næstu árum bættust tvö börn við, Guðmundur Þorleifur, fæddur haustið 1883, og Jóna, fædd sumarið 1887.[248] Halldóra fór frá foreldrunum 8 ára gömul, árið sem þau voru við búskap á Kirkjubóli, og ólst að miklu leyti upp á Kvíanesi. Er Geirmundur missti jarðnæðið árið 1885 varð hann að láta drengina frá sér fara, Jón 10 ára og Guðmund á öðru ári.[249] Ætla má að þeim hafi báðum verið ráðstafað af hreppsnefndinni.

Hjónin Geirmundur og Guðrún réðu sig sem vinnuhjú að Efrihúsum í Hestþorpinu í Önundarfirði vorið 1885.[250] Þar voru þau í tvö ár og síðan tvö ár á Hesti.[251] Yngsta barn þeirra, dóttirin Jóna, fæddist á Hesti 19. ágúst 1887.[252] Henni var ráðstafað nýfæddri sem sveitarómaga að Kroppstöðum.[253] Frá vorinu 1885 fengu Geirmundur og Guðrún aldrei að hafa hjá sér nema eitt af öllum þessum börnum, enda voru þau jafnan annarra hjú á næstu árum[254] og lögmál fátæktarinnar voru hörð. Eina barnið sem fékk að fylgja foreldrunum var Guðríður sem fæddist í Botni 26. júní 1881.[255] Hún fylgdi jafnan föður sínum og móður uns hún varð 14 ára árið 1895.[256]

Vorið 1889 fóru Geirmundur og Guðrún kona hans frá Hesti og næstu ellefu ár voru þau vinnuhjú, ýmist á Ytri-Veðrará eða í Fremri-Breiðadal.[257] Nálægt aldamótunum og eigi síðar en 1905 gerðust þau húsfólk á ný og voru í húsmennsku í Fremri-Breiðadal til 1917 en færðu sig þá í Neðri-Breiðadal.[258] Þar andaðist Geirmundur 2. desember 1918.[259] Daginn áður hafði Ísland orðið fullvalda ríki. Er Geirmundur dó var hann 73ja ára að aldri (sjá hér bls. 19). Prestur skráir andlátið og nefnir hann húsmann[260] sem bendir til þess að karlinn hafi séð um sig allt til loka og sloppið við að fara sjálfur á sveitina.Guðrún Einarsdóttir, ekkja hans, náði háum aldri. Hún dvaldist áfram í Neðri-Breiðadal og andaðist þar 85 ára gömul, 22. ágúst 1931, síðast á sveit, segir prestur.[261]

Börn Geirmundar og Guðrúnar voru flest slitin frá foreldrunum á ungum aldri. Engu að síður náðu að minnsta kosti fimm þeirra að vaxa úr grasi, öll sem hér hafa verið nefnd með nafni.[262] Sum þessara systkina lifðu lengi og voru þrjú þeirra búsett á Suðureyri í Súgandafirði á árunum kringum 1940, Halldóra, Guðríður og Guðmundur.[263]

Þegar Gilsbrekka losnaði úr ábúð vorið 1885, við brottför Sigurðar Jónssonar, tóku hér við hjónin Sigurður Sigurðsson og Halldóra Þórðardóttir sem þá voru bæði um þrítugt. Sigurður Sigurðsson var sonur hjónanna Sigurðar Þorleifssonar og Gróu Jónsdóttur sem bjuggu um skeið á Laugum í Súgandafirði en voru áður búsett á Látrum í Mjóafirði í Vatnsfjarðarsveit við Djúp og þar fæddist þessi elsti sonur þeirra 14. maí árið 1855[264] (sbr. hér Laugar). Sigurður Þorleifsson, faðir Sigurðar á Gilsbrekku, var sonur hjónanna Þorleifs Þorkelssonar og Valdísar Örnólfsdóttur á Suðureyri og bróðir beggja eiginkvenna Sigurðar Jónssonar, sem hér bjó frá 1860-1885, þeirra Guðfinnu og Þorlaugar Þorleifsdætra (sjá hér bls. 12-16 og Laugar).

Sigurður Sigurðsson fluttist til Súgandafjarðar með foreldrum sínum árið 1865,[265] er hann var um tíu ára aldur, og ólst upp hjá þeim á Laugum frá 1866.[266] Sigurður kvæntist árið 1883 og gekk þá að eiga Halldóru Þórðardóttur en hún var dóttir hjónanna Þórðar Andréssonar og Jóhönnu Guðmundsdóttur er þá bjuggu í Bæ í Súgandafirði[267] en höfðu áður búið um nokkurt skeið á Ytri-Veðrará í Önundarfirði (sjá hér Ytri-Veðrará og Bær). Þar fæddist Halldóra 23. júní 1855.[268]

Að Gilsbrekku komu Sigurður og Halldóra frá Ytri-Vatnadal.[269] Þar höfðu þau verið vinnuhjú fardagaárið 1884-1885 en hér stóðu þau fyrir búi í 12 ár, frá 1885 til 1897.[270] Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal sem mundi vel eftir Sigurði Sigurðssyni lýsir honum svo:

 

Hann var frekar stór maður, beinvaxinn og bar sig vel. Hann var duglegur maður en þó meira fyrir sjó en landvinnu. Hann var aflasæll svo sem margir frændur hans voru og margri tófu og sel varð hann að bana.[271]

 

Ljóst er að Sigurður hefur kunnað vel að fara með byssu því Magnús Hjaltason nefnir líka að bóndi þessi á Gilsbrekku hafi verið skotmaður ágætur.[272] Bú Sigurðar og Halldóru var jafnan lítið. Árið 1888 voru þau með eina kú, eina kvígu og tvo gemlinga en þá var engin ær á Gilsbrekku ef marka má tíundarskýrslu.[273] Þremur árum síðar bjuggu þau hér með eina kú, sex ær, sjö gemlinga og eitt tryppi en 1895 var bústofninn ein kvíga, níu ær, tíu gemlingar og einn hestur.[274] Við sérstaka fjártalningu sem fram fór 29. mars 1897 reyndist Sigurður á Gilsbrekku vera með 20 kindur[275] Hausarnir voru þá aðeins einum fleiri en upp hafði verið  gefið í tíundarskýrslunni frá 1895 svo ætla má að skýrslurnar gefi nokkurn veginn rétta mynd af búfjárfjölda Sigurðar.

Árið 1888 átti Sigurður á Gilsbrekku hálfan bát, sexæring eða fjögra manna far, líklega á móti Þorleifi bróður sínum sem einnig er sagður eiga hálfan bát af þeirri stærð í tíundarskýrslu dagsettri 23. júní á því ári.[276] Nýnefndur Þorleifur og kona hans, Gunnjóna Einarsdóttir, voru í húsmennsku á Gilsbrekku fardagaárið 1887-1888 en þau bjuggu síðar á Norðureyri.[277] Ekki auðnaðist þeim bræðrum að halda bátnum til lengdar því báðir voru þeir bátlausir 1891 og 1895.[278] Bátinn kynnu þeir samt að hafa átt í fáein ár og saman áttu þeir verbúð á Suðureyrarmölum árið 1887. Stóð hún á lóðinni sem seinna varð númer 32 við Aðalgötu (sjá hér Suðureyri).

Þeim Sigurði Sigurðssyni og Halldóru Þórðardóttur varð auðið tveggja barna.[279] Sonurinn Helgi fæddist í Vatnadal 27. júní 1884 en dóttirin Guðmunda leit fyrst dagsins ljós hér á Gilsbrekku 6. desember 1886.[280] Bæði ólust börnin upp hjá foreldrum sínum en Helgi varð síðar kunnur og aflasæll formaður á mótorbátum, lengi búsettur á Suðureyri en seinna á Flateyri.[281]

Þó að börnin væru fá var hér oft nokkuð fjölmennt á búskaparárum Sigurðar og Halldóru.[282] Foreldrar Sigurðar bónda fluttust með honum hingað að Gilsbrekku vorið 1885 og faðir hans, Sigurður Þorleifsson, andaðist hér 22. maí 1887.[283] Þrjú af systkinum Sigurðar Sigurðssonar voru hér líka um lengri eða skemmri tíma á búskaparárum hans, þau Þorleifur, Valdimar og Sigríður.[284] Árið 1889 settust foreldrar húsfreyjunnar hér að hjá dóttur sinni og faðir hennar, Þórður Andrésson, dó hér 19. apríl 1891.[285] Systkini Halldóru, Bjarni Þórðarson og Vigdís Þórðardóttir, voru líka í nokkur ár á Gilsbrekku á þessu skeiði og nefna má Amalíu Geirsdóttur, fædda 1877, sem ólst að nokkru leyti upp hjá Sigurði og Halldóru.[286]

Vigdís Þórðardóttir, sem hér var nefnd, systir Halldóru húsfreyju á Gilsbrekku, var um fertugt þegar hún kom hingað til systur sinnar á árunum upp úr 1890, fædd á Ytri-Veðrará í Önundarfirði 24. ágúst 1852.[287] Hún ólst upp hjá foreldrum sínum en við fermingu hennar árið 1867 áttu þau heima á Tannanesi.[288] Þessi unga stúlka var þá sögð vera fákunnandi en skikkanleg.[289] Rétt eftir ferminguna fluttist hún með foreldrum sínum að Hrauni í Keldudal í Dýrafirði og bjuggu þau þar í tvö ár.[290] Milli tvítugs og fertugs var Vigdís jafnan vinnukona, ýmist í Önundarfirði eða Súgandafirði.[291] Hún giftist ekki og virðist ekki hafa eignast börn.[292]

Hjá systur sinni á Gilsbrekku mun kona þessi hafa unað hag sínum bærilega því hér var hún um kyrrt í a.m.k. fjögur ár.[293] Héðan fór hún á 45. aldursári og var þá gripin óróa því mörg næstu ár skipti hún jafnan um húsbændur á hverju vori[294] og lenti að lokum í basli. Hún fór úr Súgandafirði árið 1902 að Görðum í Önundarfirði og þaðan næsta ár að Hrauni í Keldudal.[295] Þar lágu hennar týndu æskuspor og þangað beindi hún vonum sínum um betra líf en í draumi manneskjunnar er fallið stundum falið. Grasið reyndist ekki grænna í Keldudal en á Kvíanesi og í draumalandinu þraut Vigdísi afl til að standa á eigin fótum.

Að svo hafi farið sést skýrast á bréfi sem hreppsnefnd Suðureyrarhrepps skrifaði henni vorið 1904.[296] Þegar nýnefnt bréf var ritað var tuttugasta öldin gengin í garð en það sýnir vel hinn gamla aldaranda. Bréfið var sent Vigdísi að Hrauni og er á þessa leið:

 

Við hreppsnefndarmenn Suðureyrarhrepps höfum fengið bréf frá þér þess efnis að þér verði einhver hjálp í té látin. Þér verður að svara því að vegna landslaga verði það að vera þó að okkur finnist að þú sért þess varla verð þar sem þú af þrálund þinni vildir ekki vera hér á góðum heimilum þó við sárbeiddum þig og er slíkt tilfinnanlegt fyrir þig að fara nú að biðja um hjálp, ekki eftir lengri dvöl en þetta úr hreppnum. Og það látum við þig vita að ef þú ert svo lítillát að koma til okkar aftur, þá verður þú að vera þar róleg sem við viljum láta þig vera. Engan kostnað borgum við fyrir þig frá þeim tíma sem þú fórst héðan og til þess tíma sem þú kemur hingað aftur. Þegar þú kemur hér í hreppinn þá verður þú að fara að Suðureyri og finna oddvitann. Hann býr þar.[297]

 

Á bréfinu má sjá að þessi umkomulausa kona hefur gert tilraunir til að standa á eigin fótum og ógjarnan viljað láta ráðstafa sér í vistir. Sjálfræðistilburðir vinnuhjúa höfðu lengi verið eitur í beinum þeirra sem einhvers máttu sín og í þeim efnum hafði fátt breyst þó að ný öld væri runnin upp. Fyrir fátæka einstæðinga voru fáir kostir í boði og síst fyrir kvenmann sem farinn var að reskjast. Vigdísi varð því hált á sjálfræðissvellinu og svo virðist sem hreppsnefndin hafi talið sér skylt að strá salti í sárin.

Er Vigdís kom aftur til Súgandafjarðar árið 1904 mun þrek hennar hafa verið á þrotum. Hún taldist þó vera vinnukona fardagaárið 1904-1905 en síðan ómagi og andaðist 57 ára gömul í Vatnadal haustið 1909.[298]

Vorið 1897 hættu Sigurður Sigurðsson og Halldóra Þórðardóttir búskap og fluttust frá Gilsbrekku í kaupstaðinn á Ísafirði.[299] Skammt var þá til endalokanna hjá Sigurði því hann drukknaði 28. febrúar 1898 (sjá hér Staður). Þessi fyrrverandi bóndi á Gilsbrekku var þá í skiprúmi á sexæring frá Bolungavík og fórst sá bátur með allri áhöfn. Formaður á honum var Magnús Einarsson, sem átti heima í Bolungavík,[300] en tveir af skipverjum hans voru úr Súgandafirði, Sigurður og Steinn Kristjánsson sem þá átti heima á Stað (sjá hér Staður). Sama dag fórst bátur frá Stað í Súgandafirði og með honum sex menn, allir úr Staðardal (sjá hér Staður). Þann 31. mars fannst lík Sigurðar rekið norður undir Bakkaófæru sem er vestantil við Skálavík og var það jarðsett á Stað 16. apríl (sjá hér Staður).

Ekkja Sigurðar Sigurðssonar, Halldóra Þórðardóttir, fluttist aftur til Súgandafjarðar að manni sínum látnum og hafði með sér bæði börn þeirra.[301] Þegar útför Sigurðar fór fram var hún komin að norðan og orðin vinnukona hjá Guðmundi bónda Sigurðssyni á Laugum.[302] Dótturina Guðmundu, sem var 10 ára, hafði hún þar hjá sér en Helgi Sigurðsson, er var á fjórtánda ári, fór þá þegar að Kvíanesi og var ráðinn þangað sem smali.[303] Seinna var Halldóra búsett á Suðureyrarmölum um nokkurt skeið og átti þar heima í Babýlon haustið 1899 (sjá hér Suðureyri). Hún andaðist 27. nóvember 1938 og átti þá enn heima í þorpinu á Suðureyri.[304]

Ætla má að Sigurður Sigurðsson hafi sagt lausri ábúðinni á Gilsbrekku fyrir lok ársins 1896 en hann fór héðan vorið 1897 eins og fyrr var nefnt. Á almennum hreppsfundi sem haldinn var á Suðureyri 20. febrúar 1897 var meðal annars rætt hvort nokkur hér í hreppi vildi fá jörðina Gilsbrekku til ábúðar.[305] Enginn gaf sig fram.[306] Í fardögum vorið 1897 leit út fyrir að kotið færi í eyði og var ráðgert að Jóhannes Hannesson, bóndi og hreppstjóri í Botni, fengi það til nytja.[307]

Mál snerust þó á annan veg því tvö ungmenni, sem verið höfðu vinnuhjú á Hvilft í Önundarfirði, ákváðu að taka sig upp og freista gæfunnar við búskap á Gilsbrekku. Þau hétu Jón Jareð Hafliðason og Elísabet Hafliðadóttir.[308] Bæði urðu þau 25 ára gömul á þessu ári því Jón Jareð, sem reyndar var nefndur Jareð Jón á fyrstu árum ævinnar, fæddist 26. maí 1872 á Hrafnabjörgum í Ögursveit við Djúp en Elísabet 20. nóvember á sama ári í Hörgshlíð í Vatnsfjarðarsveit.[309] Bæði voru þau börn blásnauðra foreldra. Haustið 1880 var Jón Jareð átta ára gamall hjá foreldrum sínum, Hafliða Helgasyni og Jóhönnu Jónsdóttur, í tómthúsi í landi jarðarinnar Strandselja í Ögursveit.[310] Elísabet, sem seinna varð eiginkona hans, fylgdi þá foreldrum sínum, Hafliða Rósinkranssyni og Jónínu Þorgerði Jónsdóttur, en þau voru þetta haust vinnuhjú í Kálfavík í Ögursveit.[311]

Óljóst er nú hversu langt var liðið á sumarið þegar Jón Jareð og unnusta hans færðu sig yfir Grímsdalsheiði frá Hvilft að Gilsbrekku en þeim fylgdi ungur sonur, Hafliði Jóhann, fæddur 13. mars 1897, og vinnukonan, Lilja Snorradóttir, sem var um tvítugt og kom frá Flateyri.[312] Séra Janus í Holti skráir þessa fólksflutninga í embættisbók sína og segir Jón Jareð fara búreisandi frá Hvilft að Gilsbrekku ásamt konuefni sínu og barni þeirra.[313]

Þann 26. september 1897 voru ungu hjónaleysin á Gilsbrekku pússuð saman af presti[314] og í lok þess árs voru hér fimm manneskjur því við hafði bæst lausamaðurinn Helgi Hafliðason sem þá var sagður 26 ára[315] og hefur að líkindum verið bróðir Jóns Jareðs eða Elísabetar.

Þau Jón Jareð og Elísabet bjuggu hér í tvö ár, frá 1897 til 1899, og eignuðust á þeim árum annan son sem skírður var Kristján Jörgen Jensen.[316] Hann fæddist 15. ágúst 1898.[317] Á þessum árum kunnu fáir að leika á hljóðfæri í Súgandafirði en að sögn Valdimars Þorvaldssonar gat Elísabet á Gilsbrekku spilað á harmoníku.[318] Fyrir hana setti Valdimar saman parta úr gömlum harmoníkum og þá gat hún spilað sín lög.[319]

Gunnar M. Magnúss rithöfundur fluttist barn að aldri í Súgandafjörð er fullur áratugur var liðinn frá því Jón Jareð yfirgaf þetta byggðarlag en Gunnar mun snemma hafa heyrt frá honum sagt og festi löngu síðar þessi orð á blað:

 

Jón Jareð var ákafamaður og duglegur til verka en hann uggði ekki að sér og setti á vetur nálega tvöfalt við það sem jörðin þoldi. Vetur var fannasamur og útibeit stopul. Þegar komið var skammt fram á útmánuði sást að hverju stefndi með skepnuhöldin. Nágrannarnir komu þá til hjálpar, skiptu fénu milli sín, tóku það á fóður og björguðu því frá horfelli. Upp frá því flosnaði Jón Jareð upp og fluttist frá Gilsbrekku.[320]

 

Þessi orð festi Gunnar á blað þegar nær átta tugir ára voru liðnir frá endalokum búskapar Jóns Jareðs á Gilsbrekku og samtímaheimild sýnir að þarna er dregin upp fegruð mynd af átakanlegum atburðum.

Í janúarmánuði árið 1899 var Magnús Hjaltason heimiliskennari á Gelti.[321] Um miðjan þann mánuð skrifar hann þetta í dagbók sína:

 

Kom Jareð Jón Hafliðason, bóndi á Gilsbrekku, að Gelti til að biðja um átbita og fleira sér til lífsbjargar. Hann fór að búa á Gilsbrekku vorið 1897. Þá um haustið var sett á fóður hjá honum 1 kýr, 10 sauðkindur og 1 hestur en hann ól: 40 fjár, 3 hesta og 1 kú en um vorið 1898 missti hann flestallar kindurnar úr hor. Kýrin lifði af með píningi og hrossin á sama máta með kvölum … .

Kona Jareðs heitir Elísabet Hafliðadóttir, gáfuð vel og myndarleg en með kaupstaðarlífshug. Jareð var gefið á Gelti: 10 steinbítar og talsvert af kornvöru og feitmeti.[322]

 

Vorið 1899 dvaldist Magnús Hjaltason í Botni og 25. apríl segir hann frá á þessa leið:

 

Um morguninn eftir að komið var á fætur á Kvíanesi heyrðust mikil hróp á Gilsbrekku og var farið frá Kvíanesi til að vita hvað væri en það var Elísabet, kona Jareðs Jóns, bónda á Gilsbrekku. Hafði hann skilið hana eina eftir heima með tvö ung börn sem þau áttu, án þess að biðja nokkurn að styrkja hana að nokkru, og var farinn burt fyrir hálfum mánuði norður í Bolungavík. Konan var allsendis bjargarlaus heima og komst ekki út úr bænum sökum snjós er fyrir dyrunum var til að ná heytuggu fyrir kúna.

Hvalinn sem Jareð var með að fá frá Sólbakka hafði hann skilið eftir út á ísskör og gerði því Elísabet Jóhannesi, hreppstjóranum, boð í þetta sinn, að hafa einhver ráð með að hjálpa sér að ná af hvalnum sér til lífsbjargar. Léði Jóhannes strax þrjár stúlkur og sleða til að nálgast hvalinn og fóru Guðrún, unnusta mín, Sigríður Híramína og Pálína Sveinbjörnsdóttir. Elísabet var og gefið talsvert frá Botni, henni og börnunum til lífsviðurhalds.[323]

 

Öll þrjú hjörðu þau af, Elísabet og drengir hennar tveir, og sex börn eignaðist hún síðar með manni sínum, Jóni Jareð.[324]

Hjón þessi bjuggu aðeins í tvö ár á Gilsbrekku og fóru héðan vorið 1899.[325] Í prestsþjónustubók Staðar eru þau sögð hafa farið inn í Ögurþing og þar var elsti sonur þeirra, Hafliði Jóhann, haustið 1901 í dvöl hjá móðurafa sínum og eiginkonu hans í þurrabúðarkotinu Garði við innanverðan Skötufjörð.[326] Þá voru foreldrar piltsins sest að í Bolungavík og áttu þar heima í Innstahúsi.[327] Í manntalinu frá 1901 er Jón Jareð sagður vera sjómaður.[328]

Æviferill hjónanna Jóns Jareðs Hafliðasonar og Elísabetar Hafliðadóttur verður ekki rakinn hér en líklega hefur oft verið þröngt í búi á þeirra fátæka heimili. Haustið 1912 áttu þau enn heima í Bolungavík og til Magnúsar Hjaltasonar, sem átti heima á Suðureyri, bárust þá þessar fréttir:

 

Sauðaþjófnaðarmál upp komið í Bolungavík. Jón Jareð Hafliðason, húsmaður í Bolungavík, áður bóndi á Gilsbrekku í Súgandafirði … , hafði eftir göngurnar um haustið átt ferð vestur í Dýrafjörð. Á heimleiðinni stal hann 6 kindum, hrútum veturgömlum, í Broki svonefndu í Veðrarárdal, rak þær almannaleið norður í Bolungavík og slátraði þeim þar, nema einni er hann seldi á Ísafirði.[329]

 

Vegna þessa máls var Jón Jareð settur í tugthúsið á Ísafirði og snemma í janúar árið 1913 bárust Magnúsi Hjaltasyni fréttir af líðan hans þar. Frá þeim greinir hann svo:

 

Nú var hörmung mikil að frétta af Jóni Jareð Hafliðasyni. … Magnús sýslumaður Torfason geymdi hann enn í tugthúsinu á Ísafirði og var Jón nú orðinn brjálaður að því er talið var. Kvað hann höfuðlausan mann ásækja sig á hverri nóttu og svo væri þar kvenmaður sem líka væri að verja sig ásókn hans (þess höfuðlausa) og þóttist Jón Jareð standa í þessu stímabraki nótt eftir nótt.

Annars var ekki furða þó Jón Jareð væri eitthvað orðinn geggjaður, búinn að vera innibyrgður frá því í byrjun nóvember fyrra ár og til þessa tíma. Hafði aldrei á því tímabili komið undir bert loft, nema þegar hann var kallaður fyrir „rétt” og auk þess allan þann tíma verið ljóslaus, vinnulaus og bókalaus. Magnús Torfason notar því sama lagið við hann og aðra fanga. … Hvenær skyldu forlögin taka í taumana hjá Magnúsi Torfasyni sýslumanni? [330]

 

Í dómabók Magnúsar sýslumanns Torfasonar er frásögn nafna hans staðfest í meginatriðum.[331] Þar sjáum við líka að sá sem átti hrútana var Jón Guðmundsson, búfræðingur og bóndi á Ytri-Veðrará.[332] Jón Jareð fór fjallasýn með þennan feng sinn og segir í dómabókinni að hann hafi rekið hrútana Hestakleifarveg og ofan í Syðridal í Bolungavík.[333] Hann hefur því farið Þingmannaheiði Bolvíkinga sem svo er nefnd á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Botn).

Þegar heim kom slátraði ferðalangurinn hrútunum og saltaði kjötið niður í tunnur[334] en 24. október var hann kallaður til yfirheyrslu og játaði strax að hafa stolið hrútunum.[335] Þessir sex hrútar voru virtir á 120,- kr. en verðmæti þess sem Jón búfræðingur fékk til baka af fólanum, í kjöti og öðrum sláturafurðum, var virt á 83,05 kr.[336] Tjón hans nam því 36,95 kr.

Enda þótt Jón Jareð játaði á sig sauðaþjófnaðinn við fyrstu yfirheyrslu lét Magnús Torfason hneppa hann í gæsluvarðhald á samri stundu og virðist hafa haft hug á að knýja fram fleiri játningar. Þær fékk hann hins vegar ekki.[337]

Jón Jareð sat í gæsluvarðhaldi í fangahúsinu á Ísafirði frá 24. október til 20. nóvember en þann dag lét Magnús Torfason sig hafa að dæma þennan vesæla sauðaþjóf í 12 mánaða betrunarhúsvinnu.[338] Auk þess var Jóni Jareð gert að bæta Jóni búfræðingi skaðann og greiða honum 25,- kr. að auk, svo og allan málskostnað.[339]

Þegar Jón Jareð Hafliðason og Elísabet kona hans fóru frá Gilsbrekku vorið 1899 tóku við jörðinni hjónin Pétur Pétursson og Guðfinna Pétursdóttir sem lengi höfðu verið húsfólk í Klúku.[340] Pétur og Guðfinna bjuggu hér aðeins í eitt ár[341] og frá þeim hefur áður verið sagt í riti þessu (sjá hér Botn, Klúka þar). Árið sem þau voru á Gilsbrekku taldist Pétur vera bóndi ef marka má sóknarmannatal frá 31. desember 1899.[342]

Vorið 1900 losnaði Gilsbrekka úr ábúð og þá færði sig hingað frá Stakkanesi í Skutulsfirði Sigurður Jóhannsson er menn nefndu Sigurð skurð[343] Með honum komu að Gilsbrekku bústýra hans, Guðbjörg Einarsdóttir, sonur þeirra Hlöðver, á fyrsta ári, og Solveig Bárðardóttir vinnukona.[344] Í dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri sjáum við að þau hafa komið yfir heiðina þann 8. júní því næsta dag skrifar Einar: Sigurður „skurður” sem kallaður er hva vera kominn á Gilsbrekku, að búa þar, hafði komið í gær.[345] Þau Sigurður og Guðbjörg voru 38 og 37 ára gömul er þau hófu húskap á Gilsbrekku (sjá hér Eyri) og hér bjuggu þau í tíu ár.[346]

Í þessu riti hefur áður verið gerð grein fyrir uppruna Sigurðar Jóhannssonar og æviferli hans allt þar til hann fluttist að Gilsbrekku (sjá hér Eyri). Áður en Sigurður kom hingað hafði hann lengi verið þurrabúðarmaður á Eyri í Önundarfriði og þar féll á hann grunur um manndráp í desembermánuði árið 1891 eins og hér hefur áður verið rakið. Hann var þá settur í tugthúsið á Ísafirði og átti þar harða vist í 44 sólarhringa en játaði aldrei og hélt jafnan fast við það sem hann hafði sagt við fyrstu yfirheyrsluna. Engin ákæra var gefin út á hendur Sigurði og komst hann frá máli þessu með fullum sóma. Almenningsálitið snerist hins vegar gegn Sigurði á þessum dimmu dögum og svo virðist sem ærið margir hafi talið hann sekan þó að sönnunargögnin skorti. Í þeim hópi var Skúli Thoroddsen sýslumaður en pólitískir andstæðingar Skúla, með sjálfan landshöfðingjann í fararbroddi, nýttu sér framgöngu hans í máli Sigurðar til að víkja honum úr embætti sýslumanns. Sú brottvikning leiddi hins vegar til svo harðvítugra pólitískra átaka á Vestfjörðum að önnur illvígari hafa vart dunið yfir á voru landi síðan vígaferli lögðust af.

Sigurður Jóhannsson átti lengi erfitt uppdráttar og galt þess að vera af ýmsum talinn mannslagari. Hann hélt þó jafnan velli og fékk gott orð hjá flestum sem kynntust honum að einhverju marki. Á yngri árum virðist hann hafa verið dálítið útsláttarsamur og gefinn fyrir áfengan drykk en í heimildum verður hvergi vart við neitt sem gæti bent til ofbeldishneigðar (sjá hér Eyri). Að sögn kunnugra var hann kvæðamaður í fremstu röð eins og hér verður vikið nánar að síðar, verkmaður góður, einkum á sjó, en skorti að því er virðist forsjálni í peningasökum.

Sigurður kvæntist aldrei en bjó með tveimur konum, þó aðeins einni í senn, og hétu þær báðar Guðbjörg. Sú sem fluttist hingað með honum var seinni Guðbjörgin en hún var frá Selakirkjubóli á Hvilftarströnd í Önundarfirði og hafði búið með Sigurði í fjögur ár er þau komu í Súgandafjörð og hófu búskap á Gilsbrekku (sjá hér Eyri). Hún var dóttir hjónanna Einars Guðmundssonar og Ingibjargar Hallgrímsdóttur sem stóðu fyrir heimili á Selakirkjubóli í 44 ár, frá 1859 til 1903[347] (sbr.  hér Selakirkjuból).

Þau Sigurður Jóhannsson og Guðbjörg Einarsdóttir bjuggu á Gilsbrekku í tíu ár, frá 1900 til 1910.[348] Er þau komu hingað áttu þau aðeins einn dreng, sem var á fyrsta ári, en á árunum 1901-1905 bættust þrjú börn við, tvær stúlkur og einn drengur.[349] Börnin fjögur komust öll til manns og náðu foreldrarnir að halda þeim hjá sér hér á Gilsbrekku,[350] þrátt fyrir sára fátækt.

Fardagaárið 1899-1900 voru Sigurður og Guðbjörg á Stakkanesi við Skutulsfjörð og er hann þá sagður vera lausamaður.[351] Hér á Gilsbrekku komst kvæðamaður þessi fyrst í bændatölu en mun hafa byrjað búskapinn með tvær hendur tómar að heita mátti. Í tíundarskýrslu frá árinu 1900 er frumbýlingurinn á Gilsbrekku sagður vera sauðlaus en búa með eina kú.[352] Kýrin fylgdi jörðinni[353] og var því eign Hólskirkju. Um haustið mun Sigurður þó hafa náð að koma sér upp örfáum kindum og í fardögum árið 1901 átti hann 2 ær og 10 gemlinga.[354] Í fjósinu var svo kýrin sem fyrr var nefnd.[355]

Líklegt er að bústofninn hafi verið álíka stór vorið 1902 en þá virðist Sigurður hafa óttast að skuldheimtumenn færu að rífa af honum þessar fáu kindur. Bréfið sem hann ritaði Hannesi Hafstein, sýslumanni Ísfirðinga, 4. apríl á því vori bendir að minnsta kosti til þess. Það hljóðar svo:

 

Gilsbrekku 4.4.1902.

 

Ég undirritaður lýsi því yfir að ég læt 8 gemlinga og 2 ær til Guðbjargar Einarsdóttur á Gilsbrekku upp í vinnulaun hennar nú yfirliðin fimm ár sem ég hef ekkert kaup goldið henni og bið yður, herra sýslumaður, Hannes Hafstein, að þinglýsa þessu fyrir mig.

                                             Sigurður Jóhannsson.[356]

 

Við þessari beiðni var orðið og yfirlýsingu kotbóndans um ráðstöfun kindanna þinglýst á Suðureyri 1. júlí 1902.[357]

Heimildir um bústofn Sigurðar eru reyndar dálítið misvísandi. Í tíundarskýrslu frá árinu 1902 er hann sagður búa með eina kú, óleigufæra þó, sjö ær og einn hest[358] en Halldór Guðmundsson, sem í desembermánuði árið 1904 sá um sauðfjárböðun á hverjum bæ í Suðureyrarhreppi, segir að Sigurður hafi þá átt eitthvað um 30-40 kindur.[359] Mjög ólíklegt verður að telja að kindurnar hafi verið svo margar. Þegar Halldór færði endurminningar sínar um böðunarferðina í letur voru liðin um það bil 45 ár frá því hún var farin[360] og af orðalagi hans má ráða að hann byggir aðeins á eigin minni. Tölur hans um fjárfjöldann má því ekki taka bókstaflega. Hér verður enginn úrskurður kveðinn upp um tölu kindanna en þess er vert að geta að haustið 1902 átti Sigurður bát[361] sem líklega hefur verið tveggja manna far.

Lýsing Halldórs á bóndanum Sigurði Jóhannssyni er góð og meðan baðstjórinn staldraði hér við gerðist atburður sem varð honum eftirminnilegur. Verður nú gripið niður í frásögn Halldórs:

 

Sigurður Jóhannsson var einn þeirra manna sem segja má um að hafi beðið skipbrot í lífinu. Hann var alla ævi sína olnbogabarn örlaganna og skotspónn mannlegs umburðarleysis. Hann hafði meðal annars ratað í þá ógæfu að vera bendlaður við mannslát og enda þótt aldrei sannaðist neitt á hann í því máli, þá mun þetta hafa hvílt sem þung mara á öllu hans lífi eftir það og þess utan var allt hans líf óslitin barátta við basl og fátækt sem hefði komið flestum mönnum, öðrum en Sigurði, til að leggja árar í bát.

En Sigurði var víst gefinn kjarkur fram yfir flesta aðra menn og samfara honum ódrepandi þrautseigja að bjóða öllum og öllu byrginn er í harðbakkann sló. En það hvað Sigurður var að eðlisfari vel gefinn maður, þrátt fyrir algeran skort á nokkurri skólamenntun, mun hafa átt drýgstan þáttinn í að hann lét aldrei hugfallast, hvursu svart sem virtist framundan.

… Það stóð ekki á skemmtilegum og góðum viðtökum frá bóndans hendi þar sem Sigurður átti hlut að máli, enda var hann hverjum manni skemmtilegri í viðmóti þegar Bakkus var ekki annars vegar. Hann var einkennilega fróður um margt, sönghneigður mjög og fljótur að læra hvert sönglag sem hann heyrði í fyrsta sinn. Samfara því var hann kvæðamaður mikill og kunni urmul af vísum með tilheyrandi bragarháttum, enda frá náttúrunnar hendi hagorður vel og gat jafnan fljótlega brugðið fyrir sig hnyttilega kveðnum vísum ef tækifæri bauðst.

Það er ekki að orðlengja það að Sigurður tók á móti mér með hinum mesta höfðingsskap og gerði allt sem í hans valdi stóð til að greiða götu mína. … Var glatt á hjalla um kvöldið og var húsbóndi uppi með söng og kveðskap eins og hans var venja.[362]

 

Á öðrum stað í þessari sömu frásögn víkur Halldór að óvild sumra sveitunga Sigurðar í hans garð og orsökum hennar. Nefnir hann þar fátækt Sigurðar og henni tengda vantrú á því að kvæðamaðurinn  gæti séð sér og sínum farborða án þess að verða byrði á öðrum. Halldór nefnir líka aðra ástæðu þessarar óvildar og kemst þá svo að orði:

 

… og svo voru það hrakyrði hans [Sigurðar] í garð manna sem hann lét óspart fjúka þegar hann var við öl – þau ollu honum oft og einatt óvinsælda og urðu þess valdandi að menn fengu ímugust á honum og galt hann þess oft og einatt.[363]

 

Í frásögn sinni af böðunarferðinni á jólaföstu árið 1904 gerir Halldór líka nokkra grein fyrir húsakynnum hjá Sigurði og lýsir þeim svo:

 

Á Gilsbrekku var um þessar mundir illa ástatt með húsakynni. Þar gat ekki heitið að nokkur kofi væri öðruvísi en í hinu versta ræfilsástandi. Jafnvel baðstofan, sem átti að heita, gat með engu móti átt það hefðarnafn að vera kölluð mannabústaður. Til dæmis var þakið ekki þéttara en svo að hver smáskúr sem úr loftinu kom nam ekki staðar fyrr en niður í rúmfletunum, ef ekki var í tíma gáð að setja nógu þétt ílát undir hana.

Útihúsin voru að því skapi lélegri en baðstofugarmurinn að trauðla var hægt að kalla dyr þeirra manngengar og héngu raftarnir víðs vegar á öðrum endanum inn úr þekjunni. Það var gamalt fjós á kotinu því þar höfðu áður verið kýr en þegar hér var komið var aðeins helmingur þess uppistandandi. Hinn helminginn hafði bóndi neyðst til að rífa niður að veggjum til að fá úr því raftana í eldinn. Fjósgarmur þessi stóð örstutt frá en þó sér, framan við bæinn, og sneri frá suðri til norðurs og var það norðurhluti þess sem hafði verið rifinn.[364]

 

Af orðum Halldórs má ráða að kýrin, sem Sigurður hafði á leigu frá Hólskirkju á sínum fyrstu búskaparárum, muni hafa verið dauð eða komin á aðra bæi er hér var komið sögu. Að svo hafi verið sést meðal annars á því að í þeim helmingi fjóssins sem enn hékk uppi settu þeir Halldór og Sigurður upp hlóðir og kyntu eld undir stórum potti til að hita baðvatnið.[365] Pott þennan og önnur nauðsynleg áhöld flutti Halldór með sér milli bæja.[366] Baðstjórinn gisti á Gilsbrekku og þeirri nótt gleymdi hann aldrei. Frá atburðum segir hann svo:

 

Það hafði verið hlákuveður frá suðri þennan dag og fremur rysjótt veður en seint um kvöldið gekk að með útvestan garra með stríðum éljum og frosti. Þessi veðraskipti ollu því að þegar vindurinn kom að utan af firðinum og stóð beint í opið á fjósgarminum, þar sem baðið hafði verið hitað um daginn, þá kviknaði í einhverjum neistum sem leynst höfðu eftir í öskunni, og skömmu eftir að við vorum lagstir til hvíldar og búið var að slökkva ljósið, þá varð bóndi þess áskynja að eldblossi gaus upp í fjósinu.

Þarna var nú fullkomin hætta á ferðum þar eð fjósið stóð svo nálægt bænum. Var því ekki laust við að felmtri slægi að okkur við slíkan voða og sáum okkar óvænna.[367]

 

Þeir Halldór og Sigurður snöruðust nú báðir út, að heita mátti á nærfötum einum og hófust handa við að slökkva eldinn.[368] Um slökkvistarfið farast Halldóri orð á þessa leið:

 

Þegar við svo komum út sáum við, okkur til hinnar mestu skelfingar, að loginn var kominn að því að læsa sig í það sem eftir var af þaki fjóssins. Hér var ekki gott í efni, Veðrið var hið versta, norðvestan hryðjuveður með hörkufrosti og éljagangi … . Eina líknin til bjargar var sú að fast við fjósgarminn rann góður og vatnsmikill bæjarlækurinn. Það var því fangaráð okkar að ganga strax að því með oddi og egg að ausa með fötum vatni úr læknum til að slökkva eldinn. Við gengum umsvifalaust að starfi og varð ég til að handlanga vatnið til Sigurðar sem svo stökkti því á hið brennandi rjáfur og veggi.[369]

 

Að hálftíma eða þremur stundarfjórðungum liðnum töldu þeir sig hafa slökkt eldinn[370] en næturverkunum var þó ekki lokið. Halldór ritar:

 

Það er sannast sagna að við vorum báðir orðnir hálfilla til reika eftir þessa útiveru á svo að segja nærklæðum einum í slíku foraðsveðri og kusum því að komast sem fyrst í rúmið og hugðum gott til hlýjunnar. En ekki höfðum við lengi notið þeirrar hlýju þegar við urðum þess áskynja að hið fyrra björgunarstarf okkar hafði ekki borið þann árangur sem við höfðum ætlað þar eð nýir eldblossar gusu fram úr fjósgarminum. Það var því ekki til setu boðið. Við urðum umsvifalaust að klæðast á nýjan leik og endurtaka slökkvistarfið. …

Það var ekki laust við að okkur væri fullkomin gremja í huga við sjálfa okkur út af því að hafa ekki tekist að ráða svo niðurlögum eldsins að við mættum vera alls kostar óhultir fyrir honum það sem eftir var nætur. Kom þetta meðal annars fram í því að við hétum hver á annan að nú skyldi ekki fyrr frá horfið en … öruggt gæti verið að við þyrftum ekki út í bylinn og frostið í þriðja sinn í sömu erindagerðum.[371]

 

Í síðari lotunni tókst þeim Sigurði og Halldóri að kæfa eldinn að fullu og leið svo þessi ævintýralega nótt og dagur hélt innreið sína á sinn eðlilega hátt að vanda.[372]

Á þessum blöðum hefur áður verið lýst útliti bæjarhúsanna sem hér stóðu um 1885 (sjá hér bls. 18). Ætla má að húsaskipan hafi verið með líkum hætti er Sigurður skurður fluttist hingað fimmtán árum síðar. Valdimar Þorvaldsson, sem þá var ungur maður í Selárdal og fór snemma að fást við smíðar, kveðst hafa liðsinnt Sigurði við að byggja baðstofuna upp.[373] Af frásögn Valdimars verður hins vegar ekki ráðið hvort hresst var upp á baðstofuna snemma á búskaparárum Sigurðar eða máske seint. Lýsing Halldórs Guðmundssonar á ástandi baðstofunnar við lok ársins 1904 (sjá hér bls. 33) bendir til þess að ekki hafa verið ráðist í endurbætur á henni fyrr en síðar.

Valdimar kveðst hafa lofað Sigurði tveimur dagsverkum við uppbyggingu baðstofunnar en með því skilyrði að hann fengi sjálfur að ráða allri tilhögun vinnunnar þessa daga svo hún kæmi að sem mestum notum.[374] Sigurður féllst fúslega á skilyrðið[375] og um framgang verksins ritar Valdimar svo:

 

Á tveimur dögum höfðum við stillt upp máttarviðum og gengið frá því til fulls utan og því er hann sérstaklega þurfti til að geta bjargað sér sjálfur. Glugga átti hann og í þessari byggingu var hann það sem hann átti eftir að vera þar eða til 1910 og skilaði þá sem fylgihúsi jarðarinnar.[376]

 

Í skrifum sínum um uppbyggingu baðstofunnar í tíð Sigurðar getur Valdimar ekki um stærð hennar. Líklegt má því telja að hún hafi verið endurbyggð á gamla grunninum sem var um það bil 12 fermetrar (sjá hér bls. 18).

Elsta barn Sigurður og Guðbjargar á Gilsbrekku, drengurinn Hlöðver, varð 10 ára í ágústmánuði árið 1909[377] og mun hafa átt að fara í skóla á Suðureyri þá um haustið. Barnaskóli var kominn á Suðureyri en ekki er víst að Sigurður hafi átt auðvelt með að koma syninum fyrir þar í plássinu vetrarlangt án lítt viðráðanlegra útgjalda. Magnús Hjaltason segir árið 1913 að Jón Jónsson, sem ýmist var nefndur Jón Strandfjeld eða Jón Bassi, hafi verið heimiliskennari á Gilsbrekku veturinn 1909-1910[378] og verður að taka það trúanlegt því ekki er líklegt að Magnús hafi dreymt þetta. Ætla má að Jón hafi þó aðeins kennt á Gilsbrekku í fáar vikur og fyrir lítið gjald. Máske hefur hann látið sér nægja matinn og þá skemmtun sem í boði var hjá Sigurði skurði.

Barnakennari þessi var fæddur á Bassastöðum í Steingrímsfirði haustið 1851[379] og var af þeim ástæðum stundum nefndur Bassi en sjálfur kenndi hann sig við Strandafjöllin. Í riti sínu Strandamenn gerir séra Jón Guðnason grein fyrir þessum Bassastaðamanni og segir:

 

Stundaði landvinnu og sjómennsku á Vestfjörðum og víðar. Fékkst við barnakennslu í Steingrímsfirði og við Djúp. Var þess á milli oft í ferðalögum, einkum með strandferðaskipum og varð kunnur víða.[380]

 

Jón varð gamall maður og komst á tíræðisaldur. Hann dó 31. desember 1942.[381]

Þórbergur Þórðarson rithöfundur varð samferða Jóni Bassa á strandferðaskipinu Vestu, frá Hvammstanga til Siglufjarðar, og segir frá honum í Íslenskum aðli.[382] Þórbergur lýsir honum svo:

 

Meðal farþega á Vestu var aldraður maður sem öllum öðrum fremur sópaði að sér athygli minni og lengi síðan stóð hann mér fyrir hugskotssjónum sem eðalborinn fulltrúi, eins konar utanríkisráðherra, hins útskúfaða fólks í mannfélaginu. Af framkomu hans og klæðaburði var helst að ráða að hann væri á sífelldum ferðalögum í einhverjum sérlega áríðandi erindagerðum … .

Hann var hár vexti … en jafnframt hermannlegur á velli, lítið eitt lotinn í herðum, sýnilega af langæjum heilabrotum um erfið viðfangsefni, skyldari myrkri jarðarinnar en ljósi himinsins. Hann hafði ívið bogið nef, úlfgrátt yfirvararskegg, miklar augnabrúnir og grá augu, fremur smá, sem voru á sífelldu iði djúpt inni í höfðinu. Hann gekk við staf sem hann studdi niður á milli fótanna þegar hann sat. Allt útlit hans virtist bera með sér fornan keim af fyrirmannlegu ættarmóti. Hann tók í nefið og handlék annað veifið velktan, rauðdröfnóttan snýtuklút. Hann var síölvaður en í stað þess að delírera í fínum sölum með drekkandi mellur að gestvinum, þá hafðist hann alltaf við í hreinu lofti ofandekks, sat þar á gluggakistum og lúguköppum, ævinlega umkringdur af hlustandi áheyrendaskara. …

Hann riðaði mjög á höfði og höndum og rakti við og við raunir útskúfaðra með snöktandi málrómi sem virtist stíga upp frá regindjúpi sárra þjáninga. En áður en varði sveiflaðist rómurinn upp í gustmikið, reiði þrungið hnegg og andlitið afskræmdist sundur og saman í krampakenndar grettur, knúðar fram af ómótstæðilegum innri ofsa. Samstundis þaut hann upp úr sæti sínu og snarsneri sér eins og skopparakringla á þilfarinu, sveiflaði kringum sig stafnum og hneggjaði fram skammarkviðlinga með dimmri, urrandi raust, líkt og hann væri að fæla frá sér óðan strákahóp eða óhreina anda … .[383]

 

Sumt af kveðskapnum sem Jón Strandfjeld hneggjaði fram á þilfari Vestu sumarið 1912 náði Þórbergur að festa sér í minni, þar á meðal þessar tvær vísur:

 

Á Ísafirði er arg og garg.

Ymja bassalýti.

Á þín bendir saga sarg

svartra djöfla í víti.

 

Á Ísafirði er ys og þys.

Illa lærð hver baga.

Hræsnisdruslur helvítis

hanga þar á snaga.[384]

 

Um þennan ágæta Strandamann, sem eitt sinn kenndi börnum á Gilsbrekku, ritar Þórbergur sitthvað fleira[385] sem þó verður ekki rakið hér.

Er Sigurður Jóhannsson hóf búskap á Gilsbrekku vorið 1900 var hann örsnauður maður eins og hér hefur áður verið lýst. Hann var sveitfastur í fæðingarhreppi sínum, Nauteyrarhreppi, en hafði haustið 1899 orðið að leita aðstoðar fátækranefndarinnar á Ísafirði til að tryggja sambýliskonu sinni og nýfæddu barni þeirra lífsbjörg.[386] Sigurður átti þá heima á Stakkanesi við Skutulsfjörð og upphæðin sem hann fékk að láni hjá fátækranefndinni var 13 krónur og 90 aurar.[387]

Fullvíst má telja að þeir sem stýrðu fátækramálum í Suðureyrarhreppi hafi ekki fagnað komu Sigurðar að Gilsbrekku og líklegt er að áhyggjur þeirra hafi farið vaxandi þegar börnunum tók að fjölga í kotinu. Tvö fyrstu árin sem Sigurður bjó hér á Gilsbrekku mun hann hafa komist af án þess að leita til hreppsnefndarinnar en fardagaárið 1902-1903 neyddist hann til að biðja um lán úr sveitarsjóði.[388] Voru honum þá veittar 22,39 kr.[389] en við athugun þeirrar tölu er rétt að hafa í huga að á þessum árum var tímakaup karlmanna í fiskvinnu hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Suðureyri 25 aurar (sjá hér Suðureyri). Næsta fardagaár tókst Sigurði að lækka skuld sína við Suðureyrarhrepp niður í 13,- krónur[390] og virtist því horfa bærilega.

Valdimar Þorvaldsson fullyrðir þó að nágrannar Sigurðar hafi flestir viljað koma honum burt[391] og á almennum hreppsfundi, sem haldinn var á Suðureyri 27. febrúar 1904, var þeim eindregnu tilmælum beint til Guðmundar Ásgrímssonar á Gelti að hann léti vera að leigja Sigurði part úr jörðinni Norðureyri, hvorki sem þurrabúðarmanni né til ábúðar.[392]

Samþykktin bendir til að Sigurður hafi haft hug á að færa sig frá Gilsbrekku að Norðureyri en þaðan var auðveldara að sækja sjó næði hann að eignast bát. Sú ráðagerð náði þó ekki fram að ganga.

Á árunum 1904-1909 mun Sigurður hafa bjargast af í koti sínu án þess að leita á náðir hreppsnefndarinnar[393] en snjóaveturinn mikla 1910 missti hann fótanna og þá þraut hér lífsbjörg, bæði fyrir menn og skepnur.[394]

Séra Þorvarður Brynjólfsson á Stað var þá oddviti Suðureyrarhrepps. Í bréfi til sýslumanns rituðu 28. júní 1910 greinir hann frá á þessa leið:

 

Eftir áskorun fjárskoðunarmanna hér fórum við hreppsnefndarmenn í marsmánuði síðast liðnum að Gilsbrekku til þess að skoða fóðurbirgðir hjá Sigurði. Var þá ekki til þar nema mjög lítill heystabbi í hlöðuómynd svo að Sigurður mátti heita vera kominn að þrotum með hey. Heldur en að skera niður meirihlutann af búpeningi sínum réði hann af í þessum vandræðum sínum, þar sem hann er bláfátækur fjölskyldumaður, að biðja viðstadda fátækrastjórn um styrk.

Við urðum við þeirri beiðni hans á þann hátt að við létum hann hafa kúna heima svo að heimili hans gæti notið mjólkurinnar úr henni, sem var aðallinn af lífsbjörg þess, hina fáu gemlinga og hestinn. Með töluverðri matgjöf (mjöli og rúgi) álitum við að hann þyrfti ekki mikla heyviðbót ef rættist úr tíðinni. En ánum komum við fyrir í fóður og sést á meðfylgjandi seðlum hvar þeim var komið fyrir. …

Það sannar ennfremur erfiðleikakjör eða fátækt Sigurðar að hann varð er leið á vorið að leita á náðir fátækrastjórnarinnar hér og biðja hana um lífsbjörg fyrir heimili sitt sem engin ástæða var til að neita honum um þar sem kunnugt var að lítið var um matbjörg heimafyrir en sjálfur hann atvinnulaus að kalla má er síldveiðin misbrást [sbr.  hér bls. 49 – innsk. K.Ó.] sem hann var bundinn við.[395]

 

Ærnar frá Gilsbrekku, sem komið var í eldi á nálægum bæjum, virðast hafa verið níu og fóru þær að Botni, í Klúku og á Kvíanes.[396] Fyrir kindaeldið greiddi hreppurinn 27,98 kr. og fyrir 88 pund af heyi, sem þess utan voru keypt fyrir Sigurð, 5,28 kr.[397]

Matbjörgin sem hann fékk frá hreppnum á tímabilinu frá 5. mars til 8. júní 1910 var þessi:

 

350   pund af rúgmjöli sem kostuðu……….. kr.  38,25

150   pund af rúgi sem kostuðu …………….. kr.  14,75

25   pund af haframjöli sem kostuðu…….. kr.    4,75

25   pund af hrísgrjónum sem kostuðu      kr     4,00

Lítilræði af nautakjöti sem kostaði … kr.    3,08

50   pund af kartöflum sem kostuðu……… kr.    3,00

10   pund af kandís sem kostuðu………….. kr.    3,35

5   pund af makaríni sem kostuðu……….. kr.    3,85   [398]

 

Auk þess fékk Sigurður frá hreppsnefndinni 2 potta af steinolíu og kostuðu þeir 40 aura.[399] Samtals kostuðu þessar vörur 75,43 kr. og sé því sem hreppurinn greiddi fyrir kindaeldi og önnur heykaup bætt við kemur í ljós að upphæðin sem Sigurði var lánuð úr sveitarsjóði á þessum fjórum mánuðum var 108,69 kr. Vegna samlagningarvillu er hún talin 15 aurum hærri í bókhaldi hreppsins, það er 108,84 kr.[400] Þetta var nokkuð há upphæð eða sem svaraði kaupi fyrir 435 vinnustundir því enn var tímakaupið í verkamannavinnu á Suðureyri 25 aurar (sjá hér Suðureyri).

Sigurður varð nú að hætta búskapnum og var Gilsbrekka eina jörðin sem hann bjó á um sína daga. Hann fluttist ásamt fjölskyldu sinni í þorpið á Suðureyrarmölum sumarið 1910 eða þá um haustið.[401] Þar kom hann sér upp litlum kofa sem nefndur var Slunkaríki.[402] Frá lóðarsamningnum var gengið 30. september 1910.[403] Kofi þessi stóð rétt fyrir innan og ofan húsið sem nú (1996) er númer 37 við Aðalgötu á Suðureyri. Þetta var timburhús, grunnflöturinn 3,77×3,14 metrar, vegghæð 1,73 metrar og grunnflötur skúrbyggingar sem fygdi 3,77×1,88 metrar.[404] Í Slunkaríki á Suðureyrarmölum bjó Sigurður skurður með sínu fólki allt til dauðadags.[405]

Á fardagaárinu 1910-1911 tókst Sigurði að borga 35,- krónur af eigin aflafé upp í skuld sína við hreppinn og stóð hún því í 73,84 kr. í fardögum árið 1911.[406] En nú fóru erfiðir tímar í hönd. Fardagaárið 1911-1912 varð Suðureyrarhreppur að greiða 129,65 kr. vegna Sigurðar og fjölskyldu hans.[407] Upp í þetta fékk hreppsnefndin 32,65 kr. frá Nauteyrarhreppi, þar sem Sigurður var sveitlægur, og 21,12 kr. í rabat af vöruúttekt hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Suðureyri.[408] Í fardögum 1912 nam skuld Sigurðar við Suðureyrarhrepp því 149,72 kr.[409]

Haustið 1912 réð Sigurður sig í skiprúm hjá Veturliða H. Guðnasyni[410] sem var formaður á mótorbátnum Sigurvon (sjá hér Suðureyri). Veturliði lánaði Sigurði þá 270,05 kr. gegn veði í væntanlegum aflahlut Sigurðar á komandi haust- og vetrarvertíð.[411] Þetta lán nægði Sigurði og fólki hans til framfærslu fram í miðjan febrúar árið 1913 en þá varð hann enn á ný að leita á náðir hreppsnefndarinnar og í vertíðarlok um vorið fékk hann aðeins greiddar 14,09 kr. því nær allur aflahlutur hans fór í að greiða Veturliða skuldina.[412]

Hjá Sigurði var útlitið nú dekkra en nokkru sinni fyrr frá því hann kom í Súgandafjörð og á tímabilinu frá 15. febrúar 1913 til 3. júlí á sama ári fékk hann vöruúttekt sem hækkaði skuldina við Suðureyrarhrepp um 316,09 kr.[413]

Árið 1910 hafði hreppsnefnd Suðureyrarhrepps hafið tilraunir til að innheimta hjá fæðingarhreppi Sigurðar, Nauteyrarhreppi, það sem talið var að sá hreppur ætti að greiða upp í skuld Sigurðar við Suðureyrarhrepp. Var þeirri kröfugerð haldið uppi með alltíðum bréfaskriftum á árunum 1910-1914.[414] Fardagaárið 1911-1912 greiddi Nauteyrarhreppur 32,65 kr. upp í kröfu Suðureyrarhrepps vegna Sigurðar og var það samkvæmt úrskurði sýslumanns.[415] Sumarið 1913 fékk hreppsnefnd Suðureyrarhrepps svo 210,73 kr. frá Nauteyrarhreppi upp í skuld Sigurðar við dvalarhreppinn.[416]

Þetta sumar var Sigurður reyndar rifinn burt frá sambýliskonu sinni og börnum þeirra og reynt að flytja hann sveitarflutningi inn á Langadalsströnd við Djúp til oddvita Nauteyrarhrepps.[417]

Í dagbók Magnúsar Hjaltasonar, sem búsettur var á Suðureyri á þessum árum, eru rituð fáein orð um þessa nauðungarflutninga. Þann 7. júlí segir Magnús að Sigurði hafi verið birtur dómsúrskurður um að honum beri að fara burt úr Suðureyrarhreppi í sinn fæðingarhrepp.[418] Ellefu dögum síðar lætur Magnús þess getið að Þórður hreppstjóri Þórðarson hafi farið með Sigurð til sýslumannsins á Ísafirði og muni nefndur þurfamaður verða fluttur á Nauteyrarhrepp.[419] Sama dag greinir Magnús einnig frá því að Súgfirðingar hafi tekið að sér tvö af börnum Sigurðar, meðgjafarlaust.[420] En nú gerðist það sem enginn mun hafa átt von á. Örfáum dögum síðar kom Sigurður aftur til Súgandafjarðar, frí og frjáls, og segir Magnús að hann hafi greitt Nauteyrarhreppi 110,- krónur en eigi þó eitthvað ógoldið af skuld sinni við fæðingarhreppinn.[421]

Með hvaða hætti Sigurði tókst að útvega þessar 110,- krónur liggur ekki fyrir en líklegt er að þar hafi hann notið vina sinna því sumir þeirra áttu peninga.

Í bréfi oddvita Suðureyrarhrepps til sýslumanns, ritað 12. september 1913, er staðfest að Sigurður hafi komið til baka skömmu eftir að farið var með hann úr hreppnum og lætur oddvitinn þess getið að karlinn hagi sér nú sem einhleypur maður, sjálfsagt á ábyrgð hreppsnefndar Nauteyrarhrepps.[422]

Sannleikurinn er sá að hreppsnefnd Suðureyrarhrepps láðist allt fram á árið 1914 að krefja Mosvallahrepp, þar sem sambýliskona Sigurðar, Guðbjörg Einarsdóttir, var sveitlæg, um greiðslu að sínum hluta vegna útgjalda sveitarsjóðs til heimilis Sigurðar og Guðbjargar á Suðureyri.[423] Þennan ágalla á kröfugerðinni mun hreppsnefnd Nauteyrarhrepps hafa séð og brugðist við með hliðsjón af því en hér skipti máli að þau Sigurður og Guðbjörg voru ekki gift.

Hér var áður frá því greint að sumarið 1913 hefði Nauteyrarhreppur greitt sveitarsjóði Súgfirðinga 210,73 kr. vegna Sigurðar Jóhannssonar en fari Magnús Hjaltason rétt með hefur hreppsnefnd Nauteyrarhrepps fengið liðlega helming þeirra fjárhæðar endurgreiddan frá Sigurði þá þegar.

Frá 18. ágúst 1913 til fardaga 1914 fékk Sigurður engin lán eða önnur framlög frá Suðureyrarhreppi en skuld hans við hreppssjóðinn hækkaði um 10,- krónur sumarið 1913 vegna útlagðs kostnaðar er reynt var að flytja hann hreppaflutningi á Nauteyrarhrepp.[424] Upp í skuld sína við Suðureyrarhrepp sem stóð í 265,08 kr haustið 1913 tókst Sigurði að greiða 24,12 kr. í desembermánuði á því ári og næsta vor nam þessi skuld 240,96 kr.[425] Hvernig Sigurði gekk að koma þeim bagga af sér hefur ekki verið kannað en ætla má að pinkill sá hafi lengi verið honum ærin byrði.

Í sóknarmannatölum Staðarprestakalls í Súgandafirði frá 31. desember 1913 og 31. desember 1914 er nafn Sigurðar Jóhannssonar hvergi að finna.[426] Fullvíst er þó að Sigurður var heimamaður á Suðureyri veturinn 1913-1914 og í skiprúmi hjá Kristjáni G. Maríassyni.[427] Sóknarpresturinn, sem líka var oddviti, virðist hins vegar ekki hafa kært sig um að sjá þetta sóknarbarn sitt sem mistekist hafði að fjarlægja. Hvort Sigurður var líka á Suðureyri veturinn 1914-1915 skal ósagt látið en vel gæti það hafa verið. Fullvíst er að hann var ekki skráður til heimilis í Nauteyrarhreppi á þessum árum.[428]

Í bréfi séra Þorvarðar Brynjólfssonar á Stað til sýslumanns, rituðu 12. september 1913, komst hann svo að orði að Sigurður hegðaði sér nú sem einhleypur maður eins og hér var áður nefnt. Ljóst er að á árunum 1913-1915 hefur hinn fyrrverandi bóndi á Gilsbrekku ekki haft bolmagn til að sjá fjölskyldu sinni farborða og vera má að hann hafi líka haft svolítið gaman af að leika á yfirvöldin og gera at í æruverðugum sveitarstólpum.

Fardagaárið 1913-1914 hófust greiðslur úr sveitarsjóði Suðureyrarhrepps til Guðbjargar Einarsdóttur, sambýliskonu Sigurðar Jóhannssonar í Slunkaríki, og á því ári fékk hún 436,88 kr. frá hreppnum, sjálfri sér og börnum þeirra Sigurðar til lífsbjargar.[429] Svo virðist sem ekki hafi komist á hreint fyrr en vorið 1914 að Guðbjörg skyldi að réttu lagi teljast ómagi Mosvallahrepps[430] en að þeim úrskurði fengnum fór oddviti Suðureyrarhrepps að leita eftir greiðslum frá Mosvallahreppi vegna framlaga til Guðbjargar.[431]

Þann 24. janúar 1915 fór fram heimilisbirgðaskoðun hjá Guðbjörgu í Slunkaríki og voru henni þá þegar veittar lífsbjargir.[432] Um svipað leyti fór oddviti Mosvallahrepps þess á leit að Guðbjörg og börn hennar fjögur, sem þá voru á aldrinum 9-15 ára, yrðu flutt sveitarflutningi úr Súgandafirði í Önundarfjörð.[433] Hreppsnefnd Suðureyrarhrepps tók þessu vel og leitaði þegar í stað til sýslumanns um að fá frá honum tilskilið vegabréf handa Guðbjörgu.[434]

Þegar beðið var um vegabréfið, seint í febrúar 1915, hafði Guðbjörg þegið 108,26 kr. frá sveitarsjóði Suðureyrarhrepps á því fardagaári eða frá því úrskurðað var að hún væri sveitlæg í Mosvallahreppi.[435] Reglan mun hafa verið sú að þurfalinga mætti því aðeins flytja nauðuga milli byggðarlaga að skuldakrafan á hendur viðtökuhreppnum væri komin yfir 100,- krónur. Og nú endurtók sig sagan frá því reynt var að flytja Sigurð skurð á Nauteyrarhrepp sumarið 1913 því Guðbjörg kom nú í útibú Ásgeirsverslunar á Suðureyri og lagði þar inn 24,- krónur upp í sveitarskuld sína.[436] Þessa greiðslu innti hún af hendi þegar ein vika var liðin frá því beðið var um vegabréfið[437] og lækkaði þar með skuld sína niður fyrir nýnefnt mark. Vart þarf að draga í efa að sambýlismaður hennar, Sigurður Jóhannsson, hafi lagt þessa peninga til og líklega viljað stríða hreppsnefndinni því nú komst hún í vanda.

Í bréfi sem oddvitinn, séra Þorvarður Brynjólfsson, ritaði sýslumanni 10. apríl 1915 ítrekar hann sína fyrri beiðni um vegabréf fyrir Guðbjörgu en í þessu bréfi hans má sjá að sýslumaður hefur ekki talið sér fært að gefa grænt ljós á ráðgerða nauðungarflutninga þar sem skuldakrafan á Mosvallahrepp hafði lækkað niður fyrir eitt hundrað krónur.[438]

Séra Þorvarður virðist hins vegar hafa talið að heppilegast væri fyrir Guðbjörgu og einkum börn hennar að komast sem fyrst í hendur hreppsnefndar Mosvallahrepps til ráðstöfunar og losast úr hreysi því sem þeim er ætlað til bústaðar, eins og hann kemst að orði.[439] Þetta hreysi var kofinn Slunkaríki sem þætti víst ekki boðlegur mannabústaður hjá þeim Vestfirðingum sem nú eru á dögum. En oft finnst það í koti karls sem kóngs er ekki í ranni og í Slunkaríki vildi Guðbjörg vera, hjá börnum sínum. Nú var þess líka skammt að bíða að kvæðamaðurinn sem hún féll fyrir á ungum aldri yrði þar opinber heimilismaður á  ný.

Við lok ársins 1915 birtist Sigurður Jóhannsson á ný í sóknarmannatölum séra Þorvarðar á Stað eftir tveggja ára fjarveru úr pappírunum.[440] Á árunum 1910-1912 hafði prestur jafnan skráð Sigurð fyrstan af íbúum Slunkaríkis en nú snýr hann þessu við, skráir Guðbjörgu fyrst og kallar hana húskonu, síðan börnin og loks Sigurð sem hann segir vera lausamann undir sama þaki.[441] Þessi röðun hélst óbreytt hjá presti í fjögur ár en við lok ársins 1919 fær Sigurður titilinn húsmaður á ný og látið uppi að Guðbjörg sá fylgikona hans.[442]

Þegar harðast svarf að Sigurði og Guðbjörgu á árunum 1913-1915 urðu þau að láta dæturnar tvær frá sér fara en reyndar ekki langt því báðar voru þær um kyrrt á Suðureyrarmölum. Eldri dóttirin, Guðbjörg Sveinfríður, sem varð 12 ára árið 1913, fór þá til Veturliða H. Guðnasonar[443] sem ætla má að hafi verið vinveittur Sigurði, föður hennar, því hjá honum fékk Sigurður þó nokkra peninga að láni haustið 1912 (sjá hér bls. 40). Yngri dóttirin, Sigurlaug, sem varð 10 ára árið 1913, fór til Guðrúnar Einarsdóttur, móðursystur sinnar, sem þá var búsett á Suðureyrarmölum en hafði áður verið húsfreyja á Kvíanesi.[444] Drengjunum, Hlöðveri og Kjartani, hélt Guðbjörg hjá sér og þegar Sigurður skurður varð opinber heimamaður í Slunkaríki á ný komu dæturnar aftur heim, Guðbjörg Sveinfríður 1915 og Sigurlaug 1916.[445] Við lok ársins 1916 voru öll börnin hjá foreldrum sínum í Slunkaríki og svo var einnig fjórum árum síðar en eftir 1916 voru sum barnanna þó stundum annars staðar,[446] enda farin að vinna fyrir sér.

Merkilegt er sumt af því sem Magnús Hjaltason skrifar um Sigurð skurð en þeir voru samtíða á Suðureyrarmölum 1911-1916, báðir fátækir, í óvígðri sambúð og mannréttindalausir vegna sveitarskulda.

Þann 7. desember 1912 kom Sigurður í heimsókn til Magnúsar[447] sem lýsir honum svo í dagbók sinni þann dag:

 

Hann var meðalmaður á hæð og heldur gildur, herðibreiður og miðmjór og að öllu vel á sig kominn. Ennið ekki allhátt, með bárum. Brýnnar allmiklar, augun stór og skýr, nef í meðallagi, granstæðið heldur vítt, lítið skegg en rótin þó þétt. Hendur smáar og skófætur snotrir. Ætíð vel klæddur (þrifalegur) ef hann hafði nokkur ráð.[448]

 

Magnús nefnir líka hversu skemmtilegt hafi verið að ræða við Sigurð þennan dag og kemst þá svo að orði: Ágæta gaman var að tala við þann mann því svo var hann skynsamur, hversdagsglaður jafnan og alúðlegur þeim er eigi styggðu hann.[449]

Gunnar M. Magnúss rithöfundur kynntist Sigurði líka á þessum árum og lýsir honum svo: Hann var vel gefinn, dálítið íbygginn, gamansamur og kastaði oft fram vísu. Hann var liðugur til verka, áræðinn og á margan hátt hinn fimasti.[450]

Annan janúar 1913 kom Sigurður aftur í heimsókn til Magnúsar Hjaltasonar og sagði honum að móðir sín hefði neitað draummanni um nafn.[451] Hann vitjaði móður Sigurðar er hún gekk með þennan son sinn, kvaðst heita Andrés og bað hana um nafn.[452] Hún varð ekki við þessari bón og lét skíra drenginn Sigurð. Að sögn Magnúsar taldi Sigurður þetta vera upphaf til ógæfu sinnar.[453] Um þessi áramót var Sigurður að yrkja formannavísur um þá sem stýrðu mótorbátum til veiða frá Suðureyrarmölum.[454] Daginn eftir nýársdag var hann búinn með átta vísur og sagði Magnúsi að hann hefði ort þær í fylliríi á leið vestan frá Flateyri (á mótor).[455] Ein vísan var um Jón S. Steinþórsson og hana hafði Sigurður svona:

 

Aldan há þó auki sköll

ei fer sá frá stýri.

Jón um bláan brimlavöll

beitir ráadýri.[456]

 

Magnús vildi snúa þessu við, hafa seinni partinn á undan fyrri partinum og taldi það fara betur.[457]

Þann 24. janúar 1913 efndi Sigurður skurður til opinberrar skemmtunar á Suðureyri og var það kvæðasamkoma.[458] Aðgangseyrir var 25 aurar fyrir fullorðna en 10 aurar fyrir börn.[459] Á þessari samkomu kvað Sigurður Þórðar rímur hreðu eftir Hallgrím lækni Jónsson sem út voru gefnar í Reykjavík árið 1852 og aftur 1907.[460] Svo bætti hann við hestavísum eftir ýmsa og sínum eigin nýortu formannavísum og flutti síðast gamanvísu er hann hafði ort um Örnólf Valdimarsson, tvítugan búðarmann hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Suðureyri.[461] Vísuna um Örnólf segir Magnús Hjaltason hafa verið svona:

 

Að flestri prýði er forkólfur,

frjálslyndur og glaður,

en þó stríðinn Örnólfur,

innanbúðarmaður.[462]

 

Í nóvembermánuði árið 1913 stóð Sigurður höllum fæti eins og sjá má á því sem hér hefur áður verið ritað. Hann var þá í skiprúmi hjá Kristjáni G. Maríassyni[463] sem vorið 1913 tók við formennsku á mótorbátnum Kristjáni.[464] Þann 15. nóvember varð þeim sundurorða, formanninum Kristjáni og háseta hans, Sigurði skurð.[465] Þeir deildu um skipti á skötubörðum.[466] Kom til áfloga á milli þeirra og að sögn Magnúsar Hjaltasonar lamdi formaðurinn Sigurð mjög illilega.[467] Um þá barsmíð kemst Magnús svo að orði: Sagt var að hendur Kristjáns Maríassonar hefðu þrútnað svo við barsmíðina á Sigurði Jóhannssyni að hann hefði orðið að láta saga af sér hringina. En hann hafði 2 eða 3 hringi.[468]

Magnús getur þess líka að þegar Kristján var búinn að berja hann hafi Sigurður farið heim, náð í öxi og látið allófriðlega – en er hann kom nokkuð á leið með öxina rann honum reiðin, bætir Magnús við.[469] Hér hafa áður verið dregin fram nokkur dæmi sem sýna eins og þetta, að það voru yfirleitt aðrir sem beittu Sigurð ofbeldi en ekki öfugt (sjá hér Eyri).

Að sögn Magnúsar Hjaltasonar var Sigurði misþyrmt svo herfilega í nýnefndum bardaga um skötubörðin að hann var lengi veikur.[470]

Betri fréttir færir Magnús okkur af Sigurði snemma á þorra árið 1914. Þá kom tómthúsmaðurinn í Slunkaríki heim til sín með geit og kiðling en þennan fénað hafði hann keypt á Ísafirði fyrir 25,- krónur.[471] Lætur Magnús þess getið að Sigurður muni vera hinn fyrsti geitfjáreigandi í Súgandafirði.[472]

Þegar Sigurður fékk sér geitina og kiðið var aðeins liðið eitt misseri frá því reynt var að skilja hann frá konu og börnum og flytja nauðugan á sinn fæðingarhrepp (sjá hér bls. 40-41). Þá atlögu stóðst hann með hjálp vina sinna og ýmsar fleiri. Líklegt er að þessi ágæti kvæðamaður hafi þekkt nokkuð til Eddukvæða og vera kann að geitina og kiðlinginn hafi hann keypt undir áhrifum frá hinni alkunnu vísu úr Hávamálum:

 

Bú er betra,

þótt lítið sé,

halur er heima hver;

þótt tvær geitur eigi

og taugreftan sal,

það er þó betra en bæn.

 

Haustið 1916 var Sigurður að heyja í Gilsbrekkuskógi þegar komið var fram undir miðjan október[473] og mun þá hafa átt geitina enn eða máske eina eða tvær ær.

Á þeim árum sem Sigurður Jóhannsson átti heima á Suðureyri var hann sjómaður og oftast í skiprúmi á mótorbátum. Úr röðum þeirra sem voru með honum til sjós hafa að minnsta kosti tveir látið hans getið í rituðum endurminningum sínum, þeir Óskar Jónsson frá Fjallaskaga og Páll Hallbjörnsson sem lengi átti heima á Suðureyri.

Óskar Jónsson var með Sigurði á bátnum Hjalta frá Dýrafirði sem gerður var út á línu frá Suðureyri haustið 1913.[474] Hann segir Sigurð hafa verið hinn mesta dugnaðarmann og afbragðs stjórnanda í vondu veðri.[475] Óskar lætur þess einnig getið að Sigurður hafi verið hversdagsgæfur og greindur vel og stundum brugðið fyrir sig vísu þegar svo bar undir.[476]

Páll Hallbjörnsson var með Sigurði í skiprúmi á Skírni ÍS 410 skömmu fyrir 1910.[477] Þetta var 28 smálesta bátur sem gerður var út frá Suðureyri og skipstjóri var Sigurður Hallbjörnsson, bróðir Páls.[478] Um Sigurð Jóhannsson ritar Páll svo:

 

Hann var mér í nábýlinu á dekki Skírnis alltaf góður og gerði mér margan greiða, gaf mér einatt stóra hveitibrauðssneið með heimagerðri rúllupylsu ofan á. … Hversdagslega var Sigurður fáskiptinn og lagði ekki til annarra … . Hann var geysimikill tóbaksmaður, tuggði svart skro sem hann skar í smábita því að tennur hans voru orðnar bitlausar, ef þær voru þá nokkrar eftir. Og hann gat spýtt leginum, sem úr tóbakstölunni kom, svo langt að undrum sætti.[479]

 

Tóbakinu spýtti Sigurður í himinháa sveiglaga boga, langt út á sjó.[480]

Sjálfur taldi bóndinn á Gilsbrekku, sem áður var, sig vera hófsmann bæði á brennivín og tóbak ef marka má ágæta vísu hans sem er mörgum kunn:

 

Ögn í staupi ætíð þigg,

ef að mér er gefið,

Ögn ég reyki, ögn ég tygg,

ögn ég tek í nefið.[481]

 

Á árunum 1915-1921 mun Sigurður Jóhannsson oft hafa unað glaður við sitt bæði á sjó og landi, ekki síst hjá konu og efnilegum börnum í kofanum sem hann nefndi Slunkaríki. Hann var á sextugsaldri og hinar fyrri þrautir flestar að baki. Engin ný áföll dundu yfir hann á þessum árum og gamla sveitarskuldin hlýtur að hafa lækkað mjög á hinum miklu verðbólguárum 1916-1920[482] því ekki var hún verðtryggð.

Þann 7. janúar 1922 varð Sigurður sextugur (sjá hér Eyri) og gat litið yfir farinn veg með nokkru stolti. Alla storma hafði hann staðið af sér og náð að verja  heimili sitt þegar harðast svarf að. Nú voru börnin komin upp og öll voru þau að sögn prýðilega gefin, starfsöm og góðir og glaðir félagar samtíðar sinnar.[483]

Lífið lék þó ekki lengi við Sigurð skurð. Þann 9. júní 1922 fékk Guðbjörg, sambýliskona hans, heilablóðfall og dó,[484] 59 ára að aldri. Þau höfðu þá búið saman í fjórðung aldar.

Að Guðbjörgu látinni bjó Sigurður áfram í Slunkaríki.[485] Veturinn 1922-1923 voru báðar dæturnar þar hjá honum og líka Hlöðver en á jólaföstu árið 1924 dundi annað reiðarslag yfir fjölskylduna í Slunkaríki. Þá drukknaði Hlöðver Sigurðsson er mótorbáturinn Leifur, sem gerður var út frá Langeyri í Álftafirði, fórst.[486] Þessi eldri sonur Sigurðar var þá í blóma lífsins, aðeins 25 ára gamall. Skipverjar á enskum togara fundu líkið og var Hlöðver jarðsettur á aðfangadag jóla í kirkjugarðinum á Stað.[487]

Síðasta veturinn sem Sigurður lifði bjuggu tvö af börnum hans, þau Sigurlaug og Kjartan, hjá föður sínum í hreysinu sem lengi hafði veitt þeim skjól.[488] Vera má að þá hafi krabbameinið, sem varð Sigurði að bana,[489] verið farið að hrjá hann. Hann var að lokum fluttur á Landakotsspítala í Reykjavík og andaðist þar 2. október 1925,[490] 63ja ára að aldri.

Fyrir andlát sitt hafði Sigurður beðið um að lík sitt yrði flutt vestur og jarðsett í  Holti við hlið líkamsleifa Guðbjargar Sveinfríðar Sigurðardóttur, fyrri sambýliskonu sinnar og barnsmóður.[491] Til að annast þetta mikilvæga verkefni fékk hann Kristján Torfason á Sólbakka í Önundarfirði en Kristján var staddur í Reykjavík þegar Sigurður dó og hafði jafnan verið honum vinveittur.[492]

Árið 1945 voru liðin 20 ár frá andláti Sigurðar skurðs en þá birti Kristján Jónsson frá Garðsstöðum þessa frásögn í ritinu Frá ystu nesjum:

 

… Fyrir dauða sinn hafði hann [Sigurður] gert orð Kristjáni Torfasyni frá Flateyri, er þá dvaldi í Reykjavík að venju, og bað hann Kristján að sjá um að lík sitt yrði flutt vestur að Holti í Önundarfirði til greftrunar og hét Kristján því. Hafði Sigurður jafnan reynt Kristján að tryggð og drengskap. Stuttu eftir lát Sigurðar fór Goðafoss til Vestfjarða. Gerði Kristján þá ráðstafanir til að líkið yrði flutt út í skipið. Var það nokkru eftir hádegi en skipið skyldi leggja af stað um kvöldið.

Um það líkkistan er komin í skipið fann Kristján Torfason, er að vanda hélt til á Hótel Íslandi, sterka þörf á að leggjast til svefns. Dreymir hann þá strax Sigurð og er hann gustmikill. Kveður hann nú illa hafa til tekist með sendingu líkkistunnar í Goðafoss. Annar maður er andaðist á Landakotsspítalanum um svipað leyti hafi verið tekinn. Vaknaði Kristján brátt en skeytti þó ekki um drauminn en þegar sótti aftur á hann svefn, svo að hann gat ekki haldið sér vakandi, og sofnar brátt.

Birtist Sigurður nú aftur og sýnu gustmeiri. Kvaðst hann ekki trúa því að Kristján gæti ekki leiðrétt líkkistumisgripin. Kristján reis nú skjótt upp og þóttist ekki mega skjóta sér undan loforði sínu. Hafði þá skipið blásið til brottferðar í fyrsta sinn. Hraðar hann sér út í skipið, fær skipsmenn til að opna líkkistuna og kom þá í ljós að hér höfðu orðið mistök á hjá starfsliði spítalans. Fær hann svo í snatri bíl, skilar líkkistu þeirri er í skipið var komin en tekur kistu Sigurðar og fullvissaði sig auðvitað jafnframt um það að ekki yrðu þar mistök á í annað sinn.[493]

 

Sigurður var jarðsettur í Holti 12. október 1925,[494] tíu dögum eftir andlát sitt, svo ekki hefur þurft að bíða lengi eftir ferðinni.

Ásgeir Jakobsson birtir söguna um líkkistuskiptin og drauma Kristjáns Torfasonar í örlítið breyttri mynd í bók sinni Fanginn og dómarinn sem kom út árið 1987.[495] Kristján frá Garðsstöðum getur ekki um sínar heimildir en Ásgeir hefur söguna eftir Valdimar Birni Valdimarssyni frá Hnífsdal, sem setti saman með öðrum manni og gaf út hið mikla fjögurra binda rit Vestfirskar ættir.[496]

Valdimar Björn var fæddur árið 1888 og í samtali þeirra Ásgeirs tók hann fram að sér hefði sagt Sigurgeir Sigurðsson biskup en honum Kristján Torfason.[497] Sigurgeir var prestur á Ísafirði þegar Sigurður skurður dó en varð biskup árið 1939.[498]

Um kistuskiptin og drauma Kristjáns Torfasonar verður hver og einn að trúa því sem honum hentar en gott var að Sigurður Jóhannsson komst í Holtskirkjugarð fyrst  hann kaus að liggja þar.

Héðan frá Gilsbrekku fór Sigurður árið 1910 eins og fyrr var nefnt og þá fór kotið í eyði.[499]

Sigurður Jóhannsson var síðasti bóndinn sem bjó árum saman á Gilsbrekku en hann var hér í tíu ár eins og fyrr hefur verið nefnt. Allra síðastur í röð Gilsbrekkubænda varð hann þó ekki því vorið 1911 kom hingað nýtt fólk og bjó í eitt ár.[500] Það voru þau Eðvald Jónsson og ráðskona hans, Guðrún Magnúsdóttir, börn þeirra fimm og vinnukona sem hét Efemía Maríasdóttir.[501] Við lok ársins 1911 segir prestur þennan nýja bónda á Gilsbrekku vera 50 ára, ráðskonuna 38 ára, vinnukonuna 40 ára og börnin á aldrinum 2ja-10 ára.[502]

Eðvald var Eyfirðingur að uppruna en fluttist sem síldveiðimaður til Álftafjarðar við Djúp og þaðan til Súgandafjarðar.[503] Veturinn 1906-1907 hafði síldveiðifélagið Höfrungur verið stofnað á Suðureyri og stóð það fyrir veiðum á beitusíld inn á Súgandafirði á hverju vori í sex ár, frá 1907 til 1912.[504] Vorið sem Eðvald kom að Gilsbrekku var hann formaður við þessar veiðar og svo var einnig vorið 1912 en áður hafði Valdimar Örnólfsson verið formaður.[505] Afli var mjög misjafn, stundum sáralítill og eftir 1912 hætti síld að ganga á fjörðinn um langt skeið, að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar.[506]

Gunnar M. Magnúss segir að á yngri árum hafi Eðvald verið kvæntur nyrðra[507] en seinna tók hann saman við Guðrúnu Magnúsdóttur sem fylgdi honum að Gilsbrekku. Hér hafði hann bátkænu og fór á henni um fjörðinn.[508] Hann hamlaði kænunni alltaf … , sat á afturþóttu, ýtti árunum frá sér og horfði fram um stafn.[509]

Árið 1912 fóru Eðvald og fjölskylda hans frá Gilsbrekku og síðan þá hefur jörðin verið í eyði[510] (sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 451). Þegar Eðvald Jónsson og Guðrún, sambýliskona hans, fóru frá Gilsbrekku settust þau að á Suðureyrarmölum með allan barnahópinn og þar fjölgaði börnunum enn.[511] Á Suðureyri gerðist Eðvald bræðslumaður hjá Ásgeirsverslun[512] en mun hafa barist í bökkum og stundum þrotið afl til að fæða sína mörgu munna (sjá hér Suðureyri).

Gunnar M. Magnúss lýsir honum svo:

 

Eðvald var einstaklega hæglátur, natinn við verk og kíminn. Sem bræðslumaður setti hann svip á plássið þar sem hann var við bræðsluna í litlum skúr á planinu, girtur boldangssvuntu og spýtti mórauðu.[513]

 

Árið 1923 fluttust Eðvald og Guðrún með allt sitt frá Suðureyri norður á Siglufjörð.[514]

 

Enn grænkar túnið á Gilsbrekku og hér er gott að dvelja en nú er liðið á dag og ekki til setunnar boðið. Ætlunin er að ganga upp á Gilsbrekkudal og svipast þar um skamma stund áður en haldið verður að Selárdal sem er næsti bær hér út með firðinum. Við röltum þó fyrst um túnið og skoðum það sem hér er að sjá. Lækirnir tveir sem hér voru áður nefndir (sjá bls. 1) skipta túninu í þrennt en það er allt á lítilli eyri og í brekkunni ofantil við hana. Sá partur eyrarinnar sem liggur milli lækjanna heitir Flatir en upp af þeim eru Hólar.[515] Túnið innan við innri lækinn var nefnt Innratún en Ytratún það sem er utan við ytri lækinn.[516] Flötin niður af gamla bæjarstæðinu heitir Oddi en malaroddann, sem gengur í sjó fram, nefndu menn Gilsbrekkuodda.[517]

Sumarhús frá árunum upp úr 1920 hvarf í snjóflóði 17.desember 1994 (sjá hér bls. 4). Það stóð á eyrinni skammt utan við ytri lækinn og sést móta fyrir grunninum þó að sléttað hafi verið yfir hann. Á sama stað eða þar í grennd mun bærinn hafa staðið. Annað allgamalt sumarhús stendur enn (1999) á flötinni milli lækjanna en innan við innri lækinn er miklu yngri sumarbústaður.

Ofan við grunn hússins sem fór í snjóflóðinu er stór og mikil tótt. Fullyrða má að þar hafi staðið skemma sem þáverandi eigandi jarðarinnar byggði á árunum milli 1920 og 1930. Valdimar Þorvaldsson lýsir því húsi, segir það hafa verið 12 x 24 fet, þilgafl að framan en að öðrum hliðum veggir úr torfi og grjóti.[518] Allt passar þetta vel við tóttina sem hér var nefnd en sami höfundur lætur þess einnig getið að þakið hafi verið úr timbri með pappa og torfi utan yfir.[519] Þessi skemmutótt er neðan við akveginn og rétt fyrir utan ytri lækinn. Neðan við tóttina og aðeins innar er kálgarður og annar kálgarður eða gamalt heystæði ofan við hana.

Fyrir ofan akveginn og rétt utan við eyrina eru eldri tóttir sem virðast vera af fjárhúsi og hlöðu (sbr. hér bls. 18). Skammt fyrir utan túnið er hryggur sem heitir Leiti og innan við það er Ból.[520] Hér hefur kvíabólið verið og gamla kvíin var enn á sínum stað árið 1997 þó að 85 ár væru liðin frá því bærinn fór í eyði. Hún er að kalla má beint upp af Leitinu og svolítið hærra en vænta mátti. Hún stendur hjá stórum steini sem notaður hefur verið, ásamt fleiri jarðföstum björgum, sem efri veggur. Hinir þrír veggirnir eru grjóthlaðnir. Grunnflötur kvíarinnar er liðlega 2 x 3 metrar svo hér hefur verið unnt að mjalta allt að 20 ær. Innar og neðar, rétt ofan við akveginn, á bakka ytri lækjarins, er lítil tótt sem einnig virðist vera gömul. Þar kynni að hafa verið lambhús, hrútakofi eða hesthús.

Frá gömlu kvínni leggjum við nú á brattann og stefnum upp á dal. Dalbrúnin er í um það bil 250 metra hæð yfir sjávarmáli og brekkan upp að henni nokkuð brött. Um Gilsbrekkudal var farið á Gilsbrekkuheiði en yfir hana lá önnur þeirra tveggja leiða sem farnar voru milli Súgandafjarðar og Bolungavíkur eins og hér hefur áður verið nefnt.

Ytri lækjarkvíslin, ofan við túnið á Gilsbrekku, hefur náð að mynda allmikið gil sem setur svip á hlíðina. Lækurinn sem rennur fram af dalbrúninni heitir Gil[521] en hann skiptist í tvennt hér uppi í hlíðinni. Þar sem lækurinn verður að tveimur kvíslum nemum við staðar og erum þá komin upp á Lægribrekku.[522] Þá tekur við Hærribrekka sem nær upp að dalbrún.[523] Hún var einnig nefnd Húsabrekka og skýringin á því nafni sú að þegar menn komu að norðan á brún þessarar brekku sást til húsa á Gilsbrekku.[524]

Fjöllin, sitt hvorum megin við dalsmynnið, heita Grensfjall, sem er innar, og Innri-Áreiðarfjall sem er utar.[525] Í röndinni innan við dalinn eru tveir klettahjallar alllangt fyrir neðan fjallsbrún. Þeir heita Grenshjallar, efri og neðri.[526] Inn af þessum hjöllum liggja tvær hillur sem heita Grenshilla efri og Grenshilla neðri.[527] Þær ná alveg inn í Lækjahvilft,[528] sem er sú ysta af Botnshvilftum, og neðri hillan nær enn lengra inn á við og liggur neðan við brún hvilftarinnar.

Þeir sem lausir eru við svima og vanir tæpum klettagötum í brattlendi fara um þessar hillur í Grensfjalli ef þörf krefur en neðan við þær eru þverhníptir klettar sem ná langt niður í hlíðina.[529] Í þessum klettum eru tvær gjár og heitir sú ytri Stóragjá en hin Litlagjá.[530] Í dag leggjum við ekki í Grenshillur en röltum sem leið liggur frá brún Húsabrekku fram dalinn. Nokkru framar er Steinbrekka og tekur nafn af stökum steini sem þar stendur,[531] nærri brekkubrún. Enn framar og innantil í dalnum er djúp kvos sem heitir Dugghola.[532] Í botni hennar er stórgrýtisurð og dálítil tjörn.[533] Við leit að Duggholu er gott að hafa í huga staðháttalýsingu Kristjáns G. Þorvaldssonar sem ritar svo: Fyrir neðan hana [Duggholu] er stórt og hátt holt og upp frá henni brekka upp á bungumyndaðan hrygg sem gengur úr Grensfjalli og nær lítið eitt út fyrir hana.[534]

Valdimar Þorvaldsson, bróðir Kristjáns, segir að brekkan ofan við Duggholu sé um 50 metrar á hæð, frá hryggbrúninni og niður að vatnsfletinum, og hallinn 4:5.[535] Valdimar, sem var smiður, skoðaði aðstæður hér við Duggholu fyrsta vetrardag árið 1939 og var 47 mínútur á leiðinni hingað úr fjörunni utan við Gilsbrekku.[536] Hann segir stærð tjarnarinnar þá hafi verið 20 x 30 metrar eða þar um bil en lætur þess einnig getið, sem rétt er, að hún muni vera misstór eftir árstímum og veðráttu.[537] Þann 29. júní 1988 virtist dýpt vatnsins í Duggholu vera um það bil ein mannhæð, sem kemur heim við mælingu Valdimars, en lausleg skoðun nefndan dag benti til að ummál tjarnarinnar væri 60-80 metrar.

Í gamalli munnmælasögu er hermt að fólk, sem var að koma frá jólagleði á Hóli í Bolungavík, hafi farist í Duggholu, átján manneskjur í einum hóp. Á fyrri hluta tuttugustu aldar festu ýmsir sögu þessa á blað[538] og nefna þeir allir töluna átján. Magnús Hjaltason segir að fólkið hafi verið úr Súgandafirði,[539] Kristján G. Þorvaldsson getur hins vegar þess að presturinn í Holti í Önundarfirði hafi verið einn í hópnum[540] og Valdimar Þorvaldsson segir að presturinn á Söndum í Dýrafirði og dóttir hans hafi verið í þessum hópi og allt hafi fólk þetta verið úr Dýrafirði og Önundarfirði.[541]

Í búningi Kristjáns G. Þorvaldssonar er sagan svona:

 

Sú saga mun sönn vera að þarna hafi eitt sinn farist átján manns í einu en ekki er vitað um aðrar slysfarir þar. Fólk þetta var að koma frá jólagleði á Hóli í Bolungavík. Var þar með presturinn í Holti í Önundarfirði og dóttir hans. Líkin fundust ekki fyrr en snjó leysti um vorið. Voru þau jörðuð á Stað og hermir sagan að þau hafi verið jörðuð í öllum fötum og ekki teknir af þeim neinir skrautmunir sem á þeim voru. Sagt er að þetta hafi orðið síðasta jólagleði á Vesturlandi.[542]

 

Kristján veltir líka fyrir sér með hvaða hætti slíkt og þvílíkt gæti hafa gerst, að hver einasti einn úr 18 manna hópi týndi lífi í Duggholu. Skýring hans er þessi:

 

Í fljótu áliti virðist þetta enginn hættustaður en hugsa má ástæður sem gera atburðinn eðlilegan. Harðfenni mun hafa verið undir en laus snjór ofan á. Fólkið hefur gengið þétt og þegar það var komið niður í brekkuna hefur lausi snjórinn hlaupið með það niður í kvosina. Holtið fyrir neðan hefur hamlað því að hlaupið dreifði úr sér svo fólkið hefur allt grafist í snjónum sem síðan sléttaði yfir banabeðinu.[543]

 

Magnús Hjaltason nefnir reyndar líka þessa sömu skýringu því hann segir fólkið hafa farið fram af hengju í brekkubrúninni framan við Duggholu og snjóinn hlaupið með það ofan í kvosina.[544] Magnús getur þess að Duggholufólkið hafi verið vel búið að klæðum og skreytt gulli og silfri.[545] Eins og Kristján segir hann það hafa verið jarðsett í öllum fötunum og bætir við: Þar af á að vera komið það mikla vatn í gamla garðinum á Stað, hafði gull- og silfurstássið átt að draga að sér vatnið.[546]

Valdimar Þorvaldsson tekur fram að á hempuermum prestsdótturinnar frá Söndum hafi verið 18 silfurhnappar og lætur þess getið að öll lík Duggholufólksins hafi verið grafin í suðausturhorni gamla kirkjugarðsins á Stað,[547] þess sem hætt var að nota árið 1899.

Svo virðist sem því hafi almennt verið trúað að gull- og silfurstáss Duggholufólksins hafi valdið því að vatnsaginn í kirkjugarðinum varð illviðráðanlegur. Hér var áður vitnað til orða Magnúsar Hjaltasonar um það en Kristján og Valdimar Þorvaldssynir greina einnig frá því sama.[548] Um vatnið í kirkjugarðinum ritar Kristján svo:

 

Munnmæli sögðu að fyrst hefði orðið vart við vatn í kirkjugarðinum á Stað eftir að fólk þetta var jarðað þar. Því var um kennt að fólkið hefði haft á sér skrautmuni sem drógu að sér vatn. … Talað var um kvikasilfur í þessu sambandi en það var trú manna að það drægi að sér vatn og mætti með því ná vatni á hinum ólíklegustu stöðum. Kirkjugarðurinn var lagður niður um 1900 og þó hann væri á háum hól, sem hallaði frá á alla vegu, var svo mikið vatn í honum að ausa varð upp úr gröfum meðan þær voru teknar og áður en kistur voru látnar niður í þær og liði nokkur stund voru þær jafn fullar aftur.[549]

 

Þjóðsagan um feigðarför Duggholufólksins hefur orðið lífseig þó að enginn viti hvort nokkur fótur muni vera fyrir henni. Í gömlum heimildum virðist hvergi vera að finna eitt eða neitt um þvílíka slysför á Gilsbrekkudal. Engu að síður kynni hópur fólks að hafa beðið hér bana á fyrri öldum með líkum hætti og lýst hefur verið. Tölunni 18 skyldi þó enginn treysta og hyggilegt mun vera að hafa á fullan fyrirvara hvað varðar jólagleðina á Hóli. Einnig er skylt að hafa í huga að leið fólks sem fór úr Bolungavík til Önundarfjarðar eða Dýrafjarðar lá að jafnaði ekki um Gilsbrekkudal því hentugra var að fara Hestakleifarveg sem einnig var nefndur Þingmannaheiði Bolvíkinga (sbr. hér Botn). Hafi hópur manna týnt lífi í Duggholu má reyndar telja nær fullvíst að það fólk hafi verið úr Súgandafirði eða Bolungavík en hvorki úr Önundarfirði né Dýrafirði. Hugsanlegt er þó að menn úr hinum vestari byggðum, á heimleið frá Bolungavík, hafi villst eða hrakist undan veðri á fjallinu niður á dalinn.

Vatnið í Duggholu er hreint og tært og flötur þess spegilsléttur. Yfir staðnum hvílir aldagömul dul en gátan um feigðarför hins skartbúna átján manna hóps verður aldrei leyst. Sagt er að presturinn frá Söndum hafi enn haldið í hönd dóttur sinnar er þau fundust önduð um vorið.[550] Með þá mynd í huga hverfum við héðan og stefnum í heiðarátt.

Brekkan framan við Duggholu heitir Magnúsarbrekka[551] og utar á dalnum, framan við kvosina, er Magnúsarurð.[552] Líklega veit nú enginn við hvaða Magnús urðin og brekkan eru kenndar.

Þjóðleiðin um Gilsbrekkudal lá í norðurhlíð dalsins og var venjulega farið fyrir endann á Duggholu og ofan við Magnúsarurð.[553] Fólkið sem sagt er að týnt hafi lífi í Duggholu hefur því ekki fylgt alfaravegi en beygt of fljótt með suðurhlíð dalsins er það kom af heiðinni.[554] Valdimar Þorvaldsson segir að oft sé hér mikil fannkoma í inn- og útáttum og yfir Duggholu verði oft slétt af snjó … þegar líður fram á vetur.[555]

Leiðin upp úr dalbotninum er nokkuð brött og ófær ríðandi manni en farið var með lausa hesta yfir Gilsbrekkuheiði. Spölurinn yfir sjálfa heiðina er örstuttur því svo má  heita að dalbotnarnir nái saman. Norðan heiðar er Syðridalur í Bolungavík og þar var Gil fremsti bær. Sú jörð er nú komin í eyði. Leiðin yfir Gilsbrekkuheiði liggur í 582ja metra hæð yfir sjávarmáli og fjöllin sitt hvorum megin við Gilsbrekkudal eru álíka há. Af Gilsbrekkuheiði er greiðfært niður í Syðridal og frá heiðarbrúninni er líka greið leið niður í Hnífsdal en hún er talsvert lengri.

Á fyrri tíð var talið að yfir heiðina, frá Gilsbrekku og alla leið á Bolungavíkurmalir, væri hægt að ganga á tæplega þremur klukkustundum í góðu færi.[556] Menn hafa þá verið innan við tvo tíma frá Gilsbrekku að Gili því vegalengdin þaðan og út á Malirnar, þar sem Bolungavíkurkaupstaður stendur nú, er um það bil fimm kílómetrar. Fyrir nútímafólk sem ganga vill Gilsbrekkuheiði er skynsamlegt að ætla sér fjórar klukkustundir í gönguna frá Gilsbrekku að Gili. Á árunum kringum aldamótin 1900 var enn mikið um mannaferðir yfir Gilsbrekkuheiði því samskipti milli Súgfirðinga og Bolvíkinga voru veruleg. Mun færri fóru um heiðina á leið úr Súgandafirði í Hnífsdal eða þaðan í Súgandafjörð.[557] Væri farið í Hnífsdal var Fremri-Hnífsdalur fyrsti bær norðan heiðar en leiðin þangað héðan frá heiðarbrúninni er um það bil tvöfalt lengri en spölurinn niður að Gili. Að þessu sinni snúum við til baka hér á heiðarbrúninni og flýtum nú för heim dalinn og niður að Gilsbrekku.

Frá túnfætinum á Gilsbrekku göngum við á tíu mínútum inn að landamerkjum jarðarinnar á móti Botni og hefjum þar fyrirhugaða göngu með sjó fram um landareign Gilsbrekku og síðan áfram út í Selárdal.

Landamerkjum Botns og Gilsbrekku hefur áður verið lýst en þau eru við Ytri-Seltjörn, sem er örskammt frá sjó, og hið efra nálægt miðju Grensfjalli (sjá hér Botn). Sagt er að nafnið á Seltjörnunum, sem voru tvær (sbr. hér Botn), eigi rætur að rekja til þess að oft hafi selir legið á steinum hér rétt fyrir framan fjöruborðið.[558]

Í fjörunni skammt utan við landamerkin er einn af allmörgum Landdísarsteinum í Vestur-Ísafjarðarsýslu.[559] Ljóst er að nafnið tengist vættatrú en á henni kunna menn nú lítil skil. Þetta er stór steinn með stórum og djúpum holum[560] svo auðvelt er að greina hann frá öðrum steinum. Í heimild frá árinu 1949 segir að á síðari árum hafi hinn forni Landdísarsteinn verið nefndur Könnunarsteinn af smölum úr Botni og skýringin sú að við hann könnuðu þeir fé sitt.[561]

Skammt frá Landdísarsteini en þó aðeins innar er lítil tótt á sjávarbakkanum en hér verður engum getum að því leitt hvers konar hús hafi staðið þar.

Utan við Landdísarstein komum við brátt að Háubökkum.[562] Nafnið skýrir sig sjálft en í hlíðinni ofan við þá er grasteigur sem heitir Rótarteigur.[563] Teigurinn nær svolítið inn fyrir Háubakka.[564]

Háubakkar eru rétt innan við túnið á Gilsbrekku og fyrr en varir komum við að læknum sem fellur um innanvert túnið. Ofan við fjöruna og innantil við nýnefndan læk sýnist vera bátshróf og ekki er ólíklegt að aðallendingin á Gilsbrekku hafi verið hér.

Magnús Hjaltason segir ýmsa hafa talið að skrímsli ætti heima í dýi einu hjá Gilsbrekku.[565] Óljóst er hvaða dý þetta var en Magnús heyrði sagt að skrímslið væri sem vetrungur að stærð og mórautt að lit.[566] Hann getur þess að skömmu eftir 1890 hafi drengur séð þessa ókind koma frá dýinu og heim undir bæjardyr.[567] Þessi drengur hefur að líkindum verið Helgi Sigurðsson, fæddur 1884, því hann var eina piltbarnið á Gilsbrekku á árunum upp úr 1890.

Við göngum nú fyrir Gilsbrekkuoddann og stöldrum við á klettabökkunum ofan við fjöruna hér rétt utan við túnið. Þeir heita Hellubakkar.[568] Húslaga steinn sem þar er heitir Skemmusteinn og var talinn álfabústaður.[569] Fram úr Hellubökkum gengur klettabrík með klöpp fyrir framan og heitir bríkin Hellunef.[570]

Hér var áður minnst á Leiti, hrygginn sem við blasir skammt utan við Gilsbrekkutúnið (sjá hér bls. 50). Upp af honum eru tveir hjallar í hlíðinni og heitir sá neðri Nautahjalli en sá efri Hærrihjalli.[571] Brekkan innan og ofan við Nautahjalla heitir Kinn og nær hún upp undir dalsmynnið.[572] Fjallið utan við Gilsbrekkudal heitir Innri-Áreiðarfjall og nær út að lítilli hvilft sem nefnd er Innri-Áreiðardalur.[573] Lækur sem kemur úr henni heitir Innri-Áreiðargil.[574] Hjallarnir tveir, Nautahjalli og Hærrihjalli, ná út að þessum læk.[575] Hellubakkar, sem fyrr voru nefndir, ná út að Innri-Áreið sem er graseyri við sjóinn, skammt fyrir utan Innri-Áreiðargil. Fram af utanverðum Hellubökkum er Innri-Áreiðarsker, aðskilið frá landi af djúpu sundi sem þornar þó upp á stórum fjörum.[576]

Á Innri-Áreið, graseyrinni litlu ofan við fjöruna, gerum við stuttan stans. Stundum mun hryggurinn, sem Innri-Áreiðargil rennur eftir, einnig hafa verið nefndur Innri-Áreið[577] og gæti það hafa valdið ruglingi. Landamerki Gilsbrekku og Selárdals eru við Ytri-Áreið[578] um það bil hálfum öðrum kílómetra utan við túnið á Gilsbrekku. Nærri lætur að hér á Innri-Áreið séum við stödd miðja vega á leiðinni frá Gilsbrekku út að landamerkjunum.[579] Til skýringar á Áreiðarnöfnunum hefur Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal sett fram þá tilgátu að áður en Gilsbrekka byggðist hafi landamerki Botns og Selárdals verið á Innri-Áreið en þegar farið var að búa á Gilsbrekku hafi sú jörð fengið land frá hinum báðum og þá hafi nýju landamerkjalínunni verið ákveðinn staður á Ytri-Áreið.[580]

Mjög líklegt má telja að þetta sé hárrétt hjá Valdimar þó að heimildir skorti því til sönnunar. Tvímælalaust er að nöfnin tengjast landamerkjum því orðið áreið merkir það að fara eftir landamerkjum jarða til að rifja þau upp eða staðfesta þau[581] og þeir sem til voru kvaddir að skera úr landamerkjaþrætum gerðu jafnan áreið á merkin, sem kallað var, það er að segja riðu á vettvang og könnuðu staðhætti.

Hlíðin utan við Gilsbrekku og út að landamerkjunum heitir Gilsbrekkuhlíð.[582] Á henni er þó nokkurt skógarkjarr, einkum utantil, á milli Áreiðanna tveggja, og heitir Gilsbrekkuskógur.[583] Á hlíðinni er líka svolítið undirlendi ofan við sjávarbakkana og brekkur með aflíðandi halla. Séra Andrés Hjaltason orðaði það svo í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 að út frá Gilsbrekku liggi fláanda hlíð grasi vaxin og smáskógi, allt út til Selárdals.[584] Áður en lengra verður haldið skal einnig minnt á að í landi Gilsbrekku áttu þrjár kirkjur skógarítak, Staðarkirkja í Súgandafirði, Sæbólskirkja á Ingjaldssandi og Hólskirkja í Bolungavík (sjá hér bls. 2-3) sem eignaðist reyndar alla jörðina á 15. öld.

Milli Áreiðanna tveggja á Gilsbrekkuhlíð voru slægjublettir á bökkunum og líka neðst í hlíðinni.[585] Heita þar Sláttubalar, skammt fyrir utan Innri-Áreið.[586] Utan við Innri-Áreiðaroddann er svolítil vík en síðan taka við háir bakkar og upp á þeim eru balar þessir.[587] Hér í skóginum var Sigurður skurður, þá búsettur á Suðureyri, við heyskap 11. október 1916 eins og fyrr var getið (sjá hér bls. 46).

Hann var hér líka á ferð í desembermánuði árið 1904, þá bóndi á Gilsbrekku, og var að fylgja baðstjóranum, Halldóri Guðmundssyni, út í Selárdal (sbr. hér bls. 32-35). Halldór ritaði síðar um það ferðalag og komst þá svo að orði:

 

Við Sigurður Jóhannsson vorum að heita mátti gamalkunnugir frá veru okkar á Flateyri og svo hafði ég fyrir tíu árum verið háseti hjá honum á Eyri. Það var margt sem okkur bar á góma á leiðinni út eftir. Eitt var meðal annars það að ég sló fram þeirri spurningu til Sigurðar hvort hann myndi vera fáanlegur til að lofa mér að skrifa upp ævisögu sína, eftir sjálfs hans sögn.

Sigurður svaraði því til að ekki myndi hann ófáanlegur til þess ef ég vildi ganga að vissum skilyrðum. Er ég spurði hann hver þau skilyrði væru kvaðst hann setja það að ófrávíkjanlegu skilyrði að uppskrift ævisögu sinnar yrði haldið leyndri þar til eftir dauða sinn. En væri því skilyrði fullnægt, myndi hann segja söguna alla á svo sannan og réttan hátt sem hægt væri og ekkert undan draga.

Þegar hér var komið samtalinu varð mér ósjálfrátt hugsað til þess að ef nú svo kynni að vera að Sigurður hefði gert sig sekan í morði Salómons og hann upplýsti það í frásögninni um ævi sína, þá væri ég orðinn samsekur honum ef ég þegði yfir því uns hann væri kominn undir græna torfu og væri því vissara fyrir mig og öruggara að vita aldrei neitt.[588]

 

Vegna þessa ótta lét Halldór málið niður falla,[589] því miður fyrir okkur sem gjarnan hefðum viljað fá í hendur þær frásagnir sem í boði voru hjá Sigurði.

Á Sláttubökkum í Gilsbrekkuskógi sjást nú ekki lengur ljáför Sigurðar skurðs en enn má greina hvar sumir slægjublettirnir muni hafa verið. Ofan við skóginn, í hlíðinni milli Innri-Áreiðar og Ytri-Áreiðar, eru þrjú hvolf, Innstahvolf, Miðhvolf og Ystahvolf.[590] Fjallið þar fyrir ofan heitir Ytri-Áreiðarfjall og nær út að Ytri-Áreiðardal[591] sem er lítil hvilft við fjallsbrún. Lækur sem fellur úr þessari hvilft heitir Ytri-Áreiðargil og við hann eru landamerki Gilsbrekku og Selárdals.[592] Landamerkjalækurinn rennur til sjávar á litlu nesi.[593] Heitir það Ytri-Áreið og hryggurinn upp af því ber sama nafn.[594] Sé litið frá Gilsbrekku út með sjónum sést lengst út að þessu nesi.[595] Innan og framan við þetta landamerkjanes er Áreiðarsker.[596] Á því eru margir steinar og heitir sá stærsti Áreiðarsteinn.[597] Þessir steinar eru augnayndi en nú stígum við yfir lækinn og stöndum í landi Selárdals.

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 119.

[2] Sama heimild, 120-122.

[3] Kr.G.Þorv. 1983, 122 (Ársrit S.Í.).

[4] Örn.stofnun / Kr.G.Þorv. 1949, 123.

[5] Sama heimld, 120-121.

[6] D.I. II, 360 og 575-576. D.I. III, 228. D.I. IV, 141 og 753-756. D.I. XV, 571-572 og 574.

[7] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[8] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[9] Manntal 1703.

[10] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 135.

[11] Manntal 1801, vesturamt, bls. 302.

[12] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[13] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 135.

[14] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.  Ný jarðabók fyrir Ísland, 1861, bls. 78.

[15] Ný jarðabók fyrir Ísland, 1861, bls. 78.

[16] D.I. II, 360.

[17] D.I. XV, 574. Jarðab. Á. og P. VII 87.

[18] Bps. C, I, 2. Vísitazíubók Helga biskups Thordersen. Lárus M. Johnsen, settur prófastur, vísiterar Sæból á

Ingjaldssandi í umboði biskups 11.8.1852.

[19] D.I. II, 575.

[20] Einar Laxness 1995, I, 13.

[21] Jarðab. Á. og P. VII, 128.

[22] J. Johnsen 1847, 208.

[23] Bps. C, I, 2. Vísitazíubók Helga biskups Thordersen. Staður í Súgandafirði 10. júlí 1852.

[24] Kirkjustóll Staðar í Súgandaf. 1839-1919. Vísitazíugerð Hallgríms biskups Sveinssonar 30.7.1896.

[25] Örn.stofnun / Kr. G. Þorv. 1949, 119-123 og 193.

[26] D.I. II, 616-617.

[27] D.I. IV, 141.

[28] D.I. IV, 753-756.

[29] Sama heimild.  Sbr. Ísl.æviskr. I, 153 og 393.

[30] D.I. IV, 753-756.

[31] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[32] Sbr. Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.  Jarðab. Á. og P. VII, 135.  Rtk. Jarðabækur V.16,

Ísafj.sýsla 1805.

[33] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 49.  Gunnar M. Magnúss 1977, 74.

[34] Jarðabók Á. og P. XIII, 266-267.

[35] Sama heimild VII, 136.

[36] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 120 (Ferðabók II).  Sbr. Ólafur Jónsson 1957 II, 293-294.

[37] Kr. G. Þorv. 1951, 48 (Árbók F.Í.).

[38] Munnlegar upplýsingar frá Veðurstofu Íslands.  Birkir Friðbertsson. – Viðtal K.Ó við hann 8.8. 1995. Sbr. Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 49.

[39] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[40] Sama heimild.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Lúðvík Kristjánsson 1983, 373.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] Jarðamat 1849-1850, Ísafj.sýsla.

[49] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[50] Lbs. 27364to, bls. 56-57 (Magnús Hjaltason).

[51] Gunnar M. Magnúss 1956, 209-211.

[52] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Fasteignabók 1921.

[56] Fasteignabók 1932.

[57] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[58] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 135 og XIII, 266-267.

[59] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 196.

[60] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[61] Stjórnartíðindi 1917 B, bls. 114.

[62] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýslu 1753.

  1. Johnsen 1847, 196.

[63] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[64] Jarðab. Á. og P. VII, 135.

[65] Sama heimild og sama jarðabók XIII, 266-267.

[66] Sóknarmannatöl Staðar í Súgandaf.

[67] Jarðab. Á. og P. VII, 135 og 136.  Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34, bún.skýrslur 1791.

[68] VA III, 417, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1860, 1870 og 1880.

[69] Jarðab. Á. og P. VII, 135-136.  Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34, bún.skýrslur 1791.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX, 1,

bún.skýrslur 1821 og 1830.  VA III, 408, 412, 417, 421 og 424, bún.skýrslur 1840, 1850, 1860, 1870 og 1880.

Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1891 og 1900.

[70] Sömu heimildir.

[71] Sömu heimildir.

[72] VA III, 409, 410, 411 og 412, búnaðarskýrslur 1841-1849.

[73] VA III, 412, 417, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1850, 1860, 1870 og 1880.

[74] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1891 og 1900.

[75] Manntal 1703.

[76] Manntal 1703.

[77] Sama heimild.

[78] Jarðab. Á. og P. VII, 135.

[79] Sama heimild, 135-136.

[80] Bændatöl og skuldaskr. 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.s. 1753.

[81] Manntal 1762.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Prestsþjónustubækur og sóknar.m.töl Staðar í Súgandaf.

[86] Sömu heimildir.

[87] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[88] Manntal 1816, 699.  Sbr. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[89] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[90] Sömu heimildir.

[91] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[92] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[93] Sömu heimildir.

[94] Sömu heimildir.

[95] Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[105] Sömu heimildir.

[106] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[107] Sama heimild.

[108] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801, vesturamt, bls. 323.

[109] Manntal 1816, 699.

[110] Prestaþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[111] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[120] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[123] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[124] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[125] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[126] Sömu heimildir.

[127] Sömu heimildir.

[128] Sömu heimildir.

[129] Sömu heimildir.

[130] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[131] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[132] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1849.

[133] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[134] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[135] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[136] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[137] Sama heimild.

[138] Sama heimild.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[141] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Sama heimild.

[145] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[146] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[147] Ólafur Þ. Kristjánsson 1945, 157-158, sami 1948, 78 (Frá ystu nesjum III og IV).

[148] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 5-7 (Ársrit S.Í).

[149] Sama heimild, 6-7.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[150] Sömu heimildir.

[151] Sömu heimildir.

[152] Sömu heimildir.

[153] Sóknarm.töl og prestsþj.bækur Staðar í Súgandaf.

[154] Sömu heimildir.

[155] Sömu heimildir.

[156] VA III, 416, búnaðarskýrslur 1856.

[157] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 8 (Ársrit S.Í.).

[158] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1858.

[159] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. mars 1858.

[160] Manntal 1816, 703 og nafnalykill þess.  Manntal 1845, vesturamt, 296 og nafnalykill þess.

[161] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[162] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[163] Sömu heimildir.

[164] Sömu heimildir.

[165] Sömu heimildir.

[166] Sömu heimildir.

[167] Sömu heimildir.  Sbr. Manntal 1880, Gilsbrekka.

[168] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[169] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[170] Sömu heimildir.

[171] Sömu heimildir.

[172] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 70.

[173] Sama heimild.  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 102.

[174] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[175] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[176] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 70.

[177] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 8 (Ársrit S.Í.).

[178] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[179] Sömu heimildir.

[180] Sömu heimildir.

[181] Sömu heimildir.

[182] Sömu heimildir.

[183] Sömu heimildir.

[184] Sömu heimildir.

[185] Sömu heimildir.

[186] Sömu heimildir.

[187] Sömu heimildir.

[188] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[189] Sama heimild.

[190] Sama heimild.

[191] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[192] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[193] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[194] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[195] VA III, 416 og 417, búnaðarskýrslur 1856, 1857, 1858 og 1859.

[196] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[197] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[198] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 71.

[199] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[200] Hsk. á Ísaf. nr. 240. Skiptabók 1881-1886 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.

[201] Sama heimild.

[202] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[203] Sama heimild, nóv. 1880 og nóvember 1881.  Sbr. einnig Manntal 1.10.1880.

[204] Manntal 1880.

[205] Sbr. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[206] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 16.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[211] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[212] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[213] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[214] Sömu heimildir.

[215] Sömu heimildir.

[216] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[217] Sama heimild.

[218] Sama heimild.

[219] Sama heimild.

[220] Sama heimild.

[221] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[222] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[223] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[224] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[225] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[226] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[227] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[228] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[229] Sama heimild.

[230] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[231] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók nr. 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 104.

[232] Sama heimild.

[233] Sama heimild.

[234] Stjórnartíðindi 1877 B, bls. 5-6.

[235] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók nr. 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 104.

[236] Sama heimild.

[237] Sama heimild.

[238] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók nr. 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 104.

[239] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[240] Sama heimild.

[241] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[242] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[243] Sama heimild.

[244] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[245] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[246] Sama heimild og Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[247] Sömu heimildir.

[248] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[249] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[250] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[251] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[252] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[253] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[254] Sama heimild.

[255] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[256] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[257] Sama heimild.

[258] Sama heimild.

[259] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[260] Sama heimild.

[261] Sama heimild.

[262] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[263] Sömu heimildir.  Manntal 1940.

[264] Prestsþj.b. Vatnsfjarðar.  Valdimar Þorvaldsson 1963, 70 (Ársrit S.Í.).

[265] Valdimar Þorvaldsson 1963, 70 (Ársrit S.Í.).

[266] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[267] Valdimar Þorvaldsson 1963, 70.

[268] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar II, 14.

[269] Sóknam.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[270] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[271] Valdimar Þorvaldsson 1963, 70.

[272] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.2.1898.

[273] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrsla 1888.

[274] Sama hreppsbók, tíundarskýrslur 1891 og 1895.

[275] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Fundabók f. Suðureyrarhr. 1889-1919. Skýrsla um fjárfjölda í hreppnum

29.3.1897.

[276] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrsla 1888.

[277] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[278] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1891 og 1895.

[279] Valdimar Þorvaldsson 1963, 70 (Ársrit S.Í.).

[280] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[281] Gunnar M. Magnúss 1977, 291-292.

[282] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[283] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[284] Sömu heimildir.

[285] Sömu heimildir.

[286] Sömu heimildir.

[287] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 364.

[288] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[289] Sama heimild.

[290] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 364.  Sóknarm.töl Sanda í Dýraf.

[291] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 364.

[292] Sama heimild.

[293] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[294] Sama heimild.

[295] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 364.

[296] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Fundabók f. Suðureyrarhr. 1889-1919. Bréf hreppsnefndar 6.4.1904 til

Vigdísar Þórðardóttur, Hrauni í Keldudal við Dýrafjörð, afrit.

[297] Sama heimild.

[298] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[299] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.

[300] Gunnar M. Magnúss 1977, 291.  Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 3.3.1898.

[301] Gunnar M. Magnúss 1977, 291.

[302] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 7.4.1898.

[303] Sama heimild.

[304] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[305] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Fundabók f. Suðureyrarhr. 1889-1919, fundarg. alm. hreppsf. 20.2.1897.

[306] Sama heimild.

[307] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 7.6.1897.

[308] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[309] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Ögurþinga, Vatnsfjarðar og Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1901, Bolungavík.

[310] Manntal 1880.

[311] Sama heimild.  Sbr. Vestf. ættir II, 633-635.

[312] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir II, 633.

[313] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[314] Vestf. ættir II, 633.

[315] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[316] Sama heimild.  Vestf. ættir II, 633-634.

[317] Vestf. ættir II, 633-634.

[318] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 131.

[319] Sama heimild.

[320] Gunnar M. Magnúss 1977, 74.

[321] Gunnar M. Magnúss 1956, 202-204.

[322] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.1.1899.

[323] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar, 25.4.1899.

[324] Vestf. ættir II, 633-635.

[325] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[326] Manntal 1901.

[327] Manntal 1901.

[328] Sama heimild.

[329] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.10.1912.

[330] Lbs. 22304to, Sama dagbók, 9.1.1913.

[331] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 20, Dóma- og þingbók 1910-1914, 173-182.

[332] Sama heimild.

[333] Sama heimild.

[334] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 20, Dóma- og þingbók 1910-1914, 173-182.

[335] Sama heimild.

[336] Sama heimild.

[337] Sama heimild.

[338] Sama heimild.

[339] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 20, Dóma- og þingbók 1910-1914, 173-182.

[340] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[341] Sama heimild.

[342] Sama heimild.

[343] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.  Lbs. 2736 4to, Magnús Hjaltason, bls.56-57.

[344] Sömu heimildir.

[345] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 9.6.1900.

[346] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[347] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[348] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[349] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[350] Sömu heimildir.

[351] Sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf.

[352] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrsla dags. 23.6.1900.

[353] Sama heimild.

[354] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla dags. 22.6.1901.

[355] Sama heimild.

[356] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9. Veðmálabók 1898-1907, bls. 289.

[357] Sama heimild.

[358] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Hreppsbók án titils frá árunum 1901-1914, tíundarskýrsla dags. 24.6.1902.

[359] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 222.

[360] Sama heimild, bls. 2-3.

[361] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 55-57.

[362] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 217-227.

[363] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 217-227.

[364] Sama heimild.

[365] Sama heimild.

[366] Sama heimild.

[367] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 217-227.

[368] Sama heimild.

[369] Sama heimild.

[370] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 217-227.

[371] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 217-227.

[372] Sama heimild.

[373] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 182.

[374] Sama heimild.

[375] Sama heimild.

[376] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 182

[377] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf., fæddir sveinar 1899.

[378] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.1.1913.

[379] Séra Jón Guðnason 1955, 596.

[380] Sama heimild.

[381] Sama heimild.

[382] Þórbergur Þórðarson 1938, 62-69.

[383] Þórbergur Þórðarson 1938, 62-69.

[384] Sama heimild, 63-64.

[385] Sama heimild, 62-69.

[386] Hsk. á Ísaf. nr. 225. Bréf Þorvaldar Jónssonar, fyrir hönd fátækranefndar Ísafj.kaupstaðar, 11.9.1899 til bæjarfógeta Ísafj.kaupstaðar. Sama askja. Bréf Halldórs Jónssonar, oddvita Nauteyrarhrepps, án dags. en ritað árið 1900 til sýslumannsins í Ísafj.sýslu.

[387] Sömu heimildir.

[388] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Hreppsb. án titils frá árunum 1901-1914, fylgibl. með hr.sreikn. 1902-1903.

[389] Sama heimild.

[390] Sama hreppsbók, fylgiblað með hreppsreikningi 1903-1904.

[391] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 182.

[392] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhr. 1889-1919, fundarg. alm. hreppsf. 27.2.1904.

[393] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Hreppsb. án tiltils frá árunum 1901-1914, skrár yfir styrki til utansveitar-manna og skuldir þeirra við hreppssjóð og Ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi fardagaárin 1908-1909, 1909-1910 og 1910-1911. Sama skj.safn. Bréfabók nr. 1, bréf séra Þorvarðar Brynjólfssonar, oddvita Suðureyrarhr., 19.7.1910 til Sigurðar Jóhannssonar á Gilsbrekku, afrit.

[394] Sömu heimildir.

[395] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfab. nr. 1, bréf sr. Þorvarðar Brynjólfssonar, oddvita Suðureyrarhrepps, 28.6.1910 til sýslumannsins í Ísafj.sýslu.

[396] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Hreppsbók án tiltils frá árunum 1901-1914. Ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi fardagaárin 1908-1909, 1909-1910 og 1910-1911.

[397] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Hreppsbók án tiltils frá árunum 1901-1914. Ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi fardagaárin 1908-1909, 1909-1910 og 1910-1911.

[398] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Hreppsbók án tiltils frá árunum 1901-1914. Ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi fardagaárin 1908-1909, 1909-1910 og 1910-1911.

[399] Sama heimild.

[400] Sama heimild.

[401] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[402] Ásgeir Jakobsson 1987, 232-233.

[403] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók merkt Suðureyrareigendur, skrá yfir leigðar lóðir.

[404] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V.-Ís., löggilt 26.3. 1919 (mat frá vorinu 1916).

[405] Ásgeir Jakobsson 1987, 232-233.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[406] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Hreppsb. án titils frá árunum 1901-1914. Ómagaframfæri … .

[407] Sama hreppsbók. Sveitarstyrkur utansveitarmanns, Sigurðar Jóhannsson, Suðureyri.

[408] Sama hreppsbók. Sveitarstyrkur utansveitarmanns, Sigurðar Jóhannsson, Suðureyri.

[409] Sama heimild.

[410] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfabók nr. 1, bréf sr. Þorv. Brynjólfssonar, oddvita Suðureyrarhr. 23.5.1914 til sýslum. í Ísafj.sýslu, afrit.

[411] Sama heimild.

[412] Sama heimild. Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Hreppsbók án titils frá árunum 1901-1914. Sveitarstyrkur utansveitarmanns, SigurðarJóhannssonar, Suðureyri.

[413] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Sama hreppsbók. Sveitarstyrkur utansveitarmanns, Sig. Jóh., Suðureyri.

[414] Sama skj.safn. Bréfabók nr. 1, bréf sr. Þorv. Brynjólfss., oddv. Suðureyrarhr., 28.6.1910, 24.7.1913, 12.9.1913 og 23.5.1914 til sýslum. í Ísafj.sýslu, afrit. Bréf sama 18.3.1912 til oddv. Nauteyrarhr., afrit.

[415] Skjöl  Suðureyrarhr., varðv. þar. Bréfab. Nr.1, bréf sr. Þorv. Brynjólfss., oddv. Suðureyrarhr., 19.7.1910 til Sigurðar Jóhannssonar, afrit.  Sama skjalasafn. Hreppsb. án titils frá árunum 1901-1914. Sveitarstyrkur utansveitarmanns, Sigurðar Jóhannssonar, Suðureyri.

[416] Sama hreppsbók og sama skrá yfir sveitarstyrk.

[417] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfab. nr. 1, bréf sr. Þorv. Brynjólfss., oddv. Suðureyrarhr. 12.9.1913 til sýslumannsins í Ísafj.sýslu.

[418] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.7.1913.

[419] Sama dagbók 18.7.1913.

[420] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.7.1913.

[421] Sama dagbók 21.7.1913.

[422] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfab. nr. 1, bréf sr. Þorv. Brynjólfss., oddvita Suðureyrarhr. 12.9.1913 til sýslumannsins í Ísafj.sýslu.

[423] Sama bréfabók.

[424] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Hreppsb. án titils frá árunum 1901-1914. Sveitarstyrkur utansveitarmanns, Sigurðar Jóhannssonar, Suðureyri.

[425] Sama heimild.

[426] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[427] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.11.1913.  Lbs. 22324to, Sama dagbók 4.2.1914.  Sbr. Óskar Jónsson 1956, 33-35 (Á sævarslóðum og landaleiðum).

[428] Sóknarm.töl Kirkjubólsþinga.

[429] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfab. nr. 1, bréf séra Þorv. Brynjólfss., oddv. Suðureyrarhr. 23.5.1914 og 10.4.1915 til sýslumannsins í Ísafj.sýslu, afrit.

[430] Sömu bréf.

[431] Sama bréfab., bréf sr. Þorv. Brynjólfss., oddv. Suð.hr. 23.5.1914, 9.8.1914 og 10.9.1914 til sýslum. Ísf., afrit.

[432] Sama bréfab., bréf sama oddvita 5.2.1915 til sama sýslumanns, afrit.

[433] Sama bréfab., bréf sama oddvita 25.2.1915 til sama sýslumanns, afrit.

[434] Sama bréf.

[435] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfab. nr. 1, bréf sr. Þorv. Brynjólfss., oddv. Suðureyrarhr. 10.4.1915 til sýslum. í Ísafj.sýslu, afrit.

[436] Sama bréf.

[437] Sama bréf.

[438] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfab. nr. 1, bréf sr. Þorv. Brynjólfss., oddv. Suðureyrarhr. 10.4.1915 til sýslum. í Ísafj.sýslu, afrit.

[439] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfab. nr. 1, bréf sr. Þorv. Brynjólfss., oddv. Suðureyrarhr. 10.4.1915 til sýslum. í Ísafj.sýslu, afrit.

[440] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[441] Sama heimild.

[442] Sama heimild.

[443] Sama heimild.

[444] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[445] Sama heimild.

[446] Sama heimild.

[447] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.12.1912.

[448] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.12.1912.

[449] Sama heimild.

[450] Gunnar M. Magnúss 1977, 418.

[451] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 2.1.1913.

[452] Sama heimild.

[453] Sama heimild.

[454] Sama heimild.

[455] Sama heimild.

[456] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 2.1.1913

[457] Sama heimild.

[458] Sama dagbók, 24.1.1913.

[459] Sama heimild.

[460] Sama heimild.  Íslenskar æviskrár II, 284-285.

[461] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 24.1.1913.

[462] Sama heimild.

[463] Lbs. 22314to, Sama dagbók 15.11.1913.

[464] Gunnar M. Magnúss 1977, 277.

[465] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.11.1913.

[466] Sama heimild.

[467] Sama heimild.

[468] Sama heimild.

[469] Sama heimild.

[470] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.11.1913.

[471] Lbs. 22324to, Sama dagbók, 4.2.1914.

[472] Sama heimild.

[473] Lbs. 22344to, Sama dagbók 11.10.1916.

[474] Óskar Jónsson 1956, 33-35 (Á sævarslóðum og landaleiðum).

[475] Sama heimild.

[476] Sama heimild.

[477] Páll Hallbjörnsson 1969, 100-101.

[478] Sama heimild, 104.

[479] Páll Hallbjörnsson 1969, 100-101.

[480] Sama heimild.

[481] Frá ystu nesjum 1945, III, 140.

[482] Sbr. Tölfræðihandbók 1984, 165.

[483] Gunnar M. Magnúss 1977, 419.

[484] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[485] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[486] Prestsþj.b. Staðar í Súg..  Skutull 31.12.1924.  Vesturland 16.12.1924.  Sbr. Ásgeir Jakobsson 1987, 232-233.

[487] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[488] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[489] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1945, 89 (Frá ystu nesjum).

[490] Sömu heimildir.

[491] Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1945, 89-90.  Ásgeir Jakobsson 1987, 234-235.

[492] Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1945, 89-90.

[493] Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1945, 89-90.

[494] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[495] Ásgeir Jakobsson 1987, 234-235.

[496] Sama heimild.

[497] Sama heimild.

[498] Ísl. æviskrár VI, 438.

[499] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[500] Sama heimild.

[501] Sama heimild.

[502] Sama heimild.

[503] Gunnar M. Magnúss 1977, 366.

[504] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 228-229.

[505] Sama heimild.

[506] Sama heimild.

[507] Gunnar M. Magnúss 1977, 366.

[508] Gunnar M. Magnúss 1977, 366.

[509] Sama heimild.

[510] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[511] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[512] Gunnar M. Magnúss 1977, 366.

[513] Gunnar M. Magnúss 1977, 366.

[514] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[515] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 120.

[516] Sama heimild.

[517] Sama heimild.

[518] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 49.

[519] Sama heimild.

[520] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 122.

[521] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 121.

[522] Sama heimild.

[523] Sama heimild.

[524] Sama heimild.

[525] Sama heimild, 120-122.

[526] Sama heimild.

[527] Sama heimild

[528] Sama heimild.

[529] Sama heimild.  Sami 1951, 49 (Árbók F.Í).

[530] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 120.

[531] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 121.

[532] Sama heimild.

[533] Guðni Jónsson / Valdimar Þorvaldsson 1941, 119-123 (Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur II).

[534] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 121.

[535] Guðni Jónsson / Valdimar Þorvaldsson 1941, 119-123 (Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur II).

[536] Guðni Jónsson / Valdimar Þorvaldsson 1941, 119-123 (Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur II).

[537] Guðni Jónsson / Valdimar Þorvaldsson 1941, 119-123 (Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur II).

[538] Sama heimild.  Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.  Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 121-122.

[539] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.

[540] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 121-122.

[541] Guðni Jónsson / Valdimar Þorvaldsson 1941, 119-123 (Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur II).

[542] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 121.

[543] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 121-122.

[544] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.

[545] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.

[546] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.

[547] Guðni Jónsson / Valdimar Þorvaldsson 1941, 119-123 (Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur II).

[548] Sama heimild.  Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 38.

[549] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 38.

[550] Guðni Jónsson / Valdimar Þorvaldsson 1941, 119-123 (Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur II).

[551] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.

[552] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 122.

[553] Guðni Jónsson / Valdimar Þorvaldsson 1941, 119-123 (Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur II).

[554] Sama heimild.

[555] Sama heimild.

[556] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 7 (Ársrit S.Í.).

[557] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 16.

[558] Sama heimild, 120.

[559] Sama heimild.

[560] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 120.

[561] Sama heimild.

[562] Sama heimild.

[563] Sama heimild.

[564] Sama heimild.

[565] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.

[566] Sama heimild.

[567] Sama heimild.

[568] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 122.

[569] Sama heimild, 120.

[570] Sama heimild, 122.

[571] Sama heimild.

[572] Sama heimild, 123.

[573] Sama heimild.

[574] Sama heimild.

[575] Sama heimild.

[576] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 123.

[577] Sama heimild.

[578] Sama heimild, 122-123.

[579] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 1.

[580] Sama heimild.

[581] Íslensk orðabók 1963, 22.

[582] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 123.

[583] Sama heimild.

[584] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 113-114.

[585] Sama heimild.

[586] Sama heimild.

[587] Sama heimild.

[588] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 227-231.

[589] Sama heimild.

[590] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 122-123.

[591] Sama heimild.

[592] Sama heimild.

[593] Sama heimild.

[594] Sama heimild.

[595] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 1.

[596] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 122-123.

[597] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »