Guðmundur Justsson

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar, en hann bjó hér frá 1868 til 1888.[2] Mikið orð fór af kröftum Guðmundar en hið sérkennilega föðurnafn studdi líka að því að nafn hans héldist í minni. Guðmundur Justsson var af mörgum talinn sterkasti maður á öllum Vestfjörðum[3] og til marks um krafta hans kunnu menn meðal annars að nefna að hann hefði borið tvö hundruð pund af kornmat frá Ísafirði heim að Dröngum í einni ferð[4] en sú leið er um það bil 50 kílómetrar og yfir tvo fjallvegi að fara. Þeir sem fóru þessa ferð með Guðmundi báru allir mun minna. Síðar sögðu þeir svo frá að ekki hefði Drangabóndinn varpað af sér byrðunum meðan matast var uppi á Breiðadalsheiði en látið nægja að halla sér upp að steini með pokana í bak og fyrir.[5] Annað sem haft var til marks um krafta Guðmundar Justssonar var að menn höfðu séð hann lyfta 500 punda lóði með löngutöng einni í hnéhæð og þótti furðu gegna.[6] Sögur voru líka sagðar af kerskni amerískra lúðuveiðara og danskra kolaveiðimanna við heljarmennið á Dröngum sem ávallt fór með sigur af hólmi þegar á kraftana reyndi með einum eða öðrum hætti. Eitt sinn tók hann þrjá Ameríkumenn og hlóð þeim hverjum ofan á annan á klefagólfi. Settist svo sjálfur á þann efsta svo enginn þeirra gat sig hreyft. Manaði hann þá skipsfélaga þessara þriggja bandingja að reyna að leysa þá úr haldi en enginn þorði að nálgast heljarmennið.[7]

Guðmundur Justsson var að sögn kunnugra hár vexti og að sama skapi gildvaxinn, herðabreiður og bolvaxta.[8] Hann var stillingarmaður og skipti sjaldan skapi.[9] Lýsissopa fékk hann sér á hverjum morgni og taldi sig geta þakkað lýsinu góða krafta.[10] Arngrímur Fr. Bjarnason ritar nánar um Guðmund á þessa leið:

[1] Sbr. Vestf. ættir I, 212.  Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Manntöl 1840 og 1850.

[2] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[3] Vestf. sagnir III, 313.

[4] Sama heimild, 307-308.

[5] Sama heimild.

[6] Vestf. sagnir III, 311.

[7] Vestf. sagnir III, 309.

[8] Sama heimild, 312.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »