Hestur Efrihús og Neðrihús

Hestur Efrihús og Neðrihús

Hestur var ein stærsta jörðin í Önundarfirði, talin 48 hundruð í Jarðabókinni frá 1710 og í yngri heimildum[1] en í gögnum frá 15. og 16. öld finnast dæmi þess að hún hafi ýmist verið virt á 42 eða 50 hundruð (sjá hér bls. 9 og 57). Á 18. og 19. öld var jafnan búið í tveimur hjáleigum hér á Hesti, Efrihúsum og Neðrihúsum, auk sjálfrar heimajarðarinnar og um skeið voru hjáleigurnar þrjár (sjá hér bls. 24). Tún allra þessara býla lágu saman og var stutt á milli bæjanna sem stóðu sunnan undir hinu fagurskapaða fjalli Hestinum þar sem hann teygir makkann lengst í vesturátt. Um býlin hér undir Hesti var oft talað sem Hestþorpið.[2]

Á 18. öld bjuggu oft sex bændur í Hestþorpinu á sama tíma[3] og árið 1703 voru þeir sjö.[4] Í manntalinu frá því ári er ekki unnt að sjá hversu margir þessara bænda bjuggu í hjáleigunum en árið 1710 sátu tveir bændur á heimajörðinni og þrír í hjáleigunum.[5] Árið 1762 bjuggu þrír bændur á heimajörðinni og aðrir þrír í hjáleigunum.[6]

Á 19. öld voru bændurnir í Hestþorpinu yfirleitt þrír, einn á Hesti, annar í Efrihúsum og sá þriðji í Neðrihúsum.[7] Í þessum efnum varð engin breyting á fyrr en 1926 þegar Neðrihús féllu úr byggð (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 370). Nú (1994) eru liðin yfir 30 ár frá því síðasti bóndinn fluttist burt frá Hesti og síðan þá hefur allt verið hér í eyði.

Í byrjun 18. aldar hafði byggð í Efrihúsum staðið lengur en elstu menn mundu en í Neðrihúsum hófst búskapur árið 1684.[8] Túni og slægjulöndum var þannig skipt að bændur á Hesti voru taldir búa á hálfri jörðinni, það er 24 hundruðum, en þeir sem bjuggu í Efrihúsum og Neðrihúsum höfðu sín 12 hundruðin hvor.[9] Þessi skipting jarðarhundraðanna var enn við lýði árið 1837[10] en árið 1850 var hún farin að brenglast því þá eru bændurnir á Hesti og í Efrihúsum sagðir búa á 18 hundruðum hvor en sá í Neðrihúsum bjó enn á 12 hundruðum.[11] Sex jarðarhundruð, það er fjórðungur heimajarðarinnar á Hesti, höfðu því færst í hendur bóndans í Efrihúsum.

Magnús Hjaltason, sem ólst upp í Efrihúsum og á Hesti á árunum kringum 1880, segir líka að bændur á þessum tveimur býlum hafi búið á 18 hundruðum hvor en bóndinn í Neðrihúsum á 9 hundruðum[12] en þá vantar reyndar 3 hundruð í fulla tölu því á síðari öldum var Hestur með sínum hjáleigum jafnan talinn 48 hundraða jörð. Á árunum kringum aldamótin 1900 munu Efrihús svo hafa fengið enn meira land í sinn hlut og þá frá Neðrihúsum því við fasteignamatið sem fram fór um 1920 var land Efrihúsa virt á 2.300,- krónur, land heimajarðarinnar á Hesti á 1.900,- krónur og land Neðrihúsa á aðeins 700,- krónur.[13]

Þess var áður getið að tún allra býlanna í Hestþorpinu, sem búið var í á 18. og 19. öld, hefðu legið saman. Fram á Hestdal, alllangt frá bæjunum í sjálfu þorpinu, eru hins vegar merkilegar tóttir sem ýmsir hafa talið gefa vísbendingu um að þar hafi verið búið um lengri eða skemmri tíma á fyrri öldum. Um þessar tóttir, Önundargirði og Brandhóla er fjallað hér á öðrum stað (sjá bls. 63-67).

Í öllum Firðinum, byggðinni fyrir botni Önundarfjarðar, setur fjallið Hestur sterkan svip á allt umhverfið. Frá hinu háa baklandi milli Önundarfjarðar og Álftafjarðar gengur hann langur og mjór fram á undirlendið og aðeins tveir kílómetrar eða þar um bil frá rótum fjallsins til sjávar. Hesturinn er fagurt fjall og virðist standa nær stakur því djúpir dalir skerast inn í hálendið frá vestri til austurs sinn hvorum megin við hann. Á lengd er hann fjórir til fimm kílómetrar en efsti kollur fjallsins er í um það bil 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Norðan við Hestinn er Korpudalur en sunnan við hann er Hestdalur.

Eitt sterkasta auðkenni á Hestinum eru Karlsfæturnir, tveir nær lóðréttir berggangar ofantil í hlíðum fjallsins og snýr annar að Hestdal en hinn að Korpudal. Báðir þessir sérkennilegu hamraveggir vekja athygli við fyrstu sýn og stuðla mjög að því að gera Hestinn ógleymanlegan mörgum sem hann hafa séð. Framan við Karlsfótinn í suðurhlíð fjallsins og alveg rétt við hann er Gjáin sem skerst lóðrétt inn í fjallshlíðina.[14] Í fjallinu Tunguhorni, hinum megin í dalnum, er svo enn einn Karlsfótur af sama tagi og styrkir hann myndina.

Svo má heita að fjallið Hestur og jörðin, sem tekur nafn af því, séu fyrir fjarðarbotninum miðjum. Jörðin á land beggja vegna við Hestinn. Á Hestdal sem er sunnan (vestan) við fjallið liggja landamerkin um Hestá og lænu úr henni eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér Tunga í Firði) en á Korpudal, sem er norðan við fjallið, rennur áin Korpa á landamerkjum því hinum megin við ána tekur við land jarðanna Efstabóls, Kroppstaða og Kirkjubóls (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 371-374). Niður á flatlendinu fyrir mynni Hestdals á jörðin Hestur líka svolitla landræmu á milli Hestár og Korpu. Þar er girðingin sem segir til um landamerki þó mjög skammt utan við túnið en handan við hana tekur við land Kroppstaða[15] (sjá hér Kroppstaðir).

Í austurátt nær landareign Hests að efstu brúnum í fjallendinu fyrir botni Hestdals og Korpudals en þar eru hreppamörk milli Mosvallahrepps og Súðavíkurhrepps. Um dalina liggja fornar gönguleiðir milli Önundarfjarðar og Álftafjarðar og var ýmist farið yfir Hestskarð eða Álftafjarðarheiði. Magnús Hjaltason, sem ólst upp í Efrihúsum og á Hesti á árunum 1873-1892, segir að á sínum uppvaxtarárum hafi ætíð verið farin Álftafjarðarheiði en áður hafi alfaraleið legið um Hestskarð og ekki lagst algjörlega af fyrr en milli 1850 og 1860.[16]

Margir töldu leiðina yfir Hestskarð vera hættulega og var sagt að alls hefðu 19 menn farist sem hana fóru, flestir í Valagili[17] sem er í Álftafirði, alllangt fyrir neðan skarðið en á leið ferðamanna sem úr því komu eða á það stefndu. Væri stefnan tekin á Hestskarð var gengið frá Hesti fram Hestdal en um Korpudal ef stefnt var á Álftafjarðarheiði. Báðir þessir fjallvegir liggja efst í um það bil 700 metra hæð yfir sjávarmáli og ærið bratt upp að ganga en klettalaust að kalla. Leiðirnar tvær liggja um sitthvort skarðið en þar á milli er fjallið Hnífar.[18] Vegalengdin um Hestdal, frá túninu á Hesti og upp í Hestskarð, er um það bil sjö kílómetrar og fimm kílómetrar úr skarðinu niður að bænum Seljalandi við botn Álftafjarðar. Leiðin um Álftafjarðarheiði, frá Efstabóli að Seljalandi, er lítið eitt styttri og munar þar um það bil einum kílómetra.

Á fyrstu áratugum 20. aldar var talið að á heimajörðinni hér á Hesti mætti framfleyta 100 sauðkindum, 4 kúm og 3 hrossum.[19] Í hjáleigunum voru sams konar áætlunartölur þá sem hér segir: Efrihús 90 sauðkindur, 4 kýr og 3 hross, Neðrihús 30 sauðkindur, 1 kýr og 2 hross.[20] Samanlagt eru þetta 9 kýr, 220 kindur og 8 hross á allri jörðinni. Til samanburðar er fróðlegt að skoða hvað opinberar tölur segja um heildarfjölda búfjár á býlunum á Hesti á ýmsum tímum. Þær upplýsingar koma fram á Töflu 1 sem hér fylgir en lömbum, kálfum og folöldum er þó sleppt.

Fulla ábyrgð á áreiðanleik þessara talna er ekki hægt að taka því vel getur verið að sumir bændur hafi skotið undan kind og kind. Engu að síður virðist ótvírætt að í byrjun 18. aldar hafi bústofninn verið mun stærri en almennt var á nítjándu öld og fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Að einhverju leyti felst skýringin í því að árið 1710 voru bændurnir á Hesti fimm en hin árin sem nefnd eru í töflunni ekki nemar þrír.[21]

 

 

Tafla 1

 

Heildarfjöldi búfjár á Hesti[22]

 

(Heimajörð og hjáleigur)

 

Ár               Nautgripir                   Sauðkindur                Hross

1710                    14                               155                        10

1805                      6                                 72                           ?

1830                      8                                 56                          6

1880                      6                                 97                          5

1932                      7                               120                          7

 

 

Um 1920 var árlegur heyfengur á Hesti sagður vera 120 hestar af töðu og 300 hestar af útheyi, í Efrihúsum 100 hestar af töðu og 260 hestar af útheyi og í Neðrihúsum 25 hestar af töðu og 50 hestar af útheyi.[23]

Í heimildum frá fyrri öldum er fátt að finna um landgæði á Hesti eða kosti og ókosti jarðarinnar. Í Jarðabókinni frá 1710 er aðeins nefnt að skriður spilli engjum og högum og áin beri aur og grjót á engjarnar.[24] Góð sumarbeit, grasgefið tún og víðlend engi munu þó hafa gert jörðina eftirsóknarverða til búskapar á fyrri tíð eins og sjá má í matsgerð frá árunum kringum 1920.[25] Í Jarðabókinni frá 1710 er frá því greint að skógur hafi verið á Hesti en tekið fram að hann sé svo að segja eyddur.[26] Magnús Hjaltason segir að skógurinn hafi verið á Hestleitinu fram á Hestdal.[27] Þar var fremsti engjabletturinn á dalnum[28] og þangað fram eftir mun vera um það bil klukkustundar gangur heiman frá Hesti. Um hinn forna skóg á Hestdal kemst Magnús svo að orði:

 

Í Hestleitinu hafði áður verið mikill skógur, mannhæðarhár sums staðar að talið var. En í mínu ungdæmi sáust þar engar lifandi skógarleifar en allmikið af dauðum lurkum skjallhvítum til og frá um holtin. Fóstra mín sagði mér að hún hefði alla tíð heyrt að skógurinn hefði verið brenndur fyrir því að þjófar hefðu falið sig í honum er lagst höfðu á fé manna þar inn í firðinum.[29]

 

Í Jarðabókinni frá 1710 er ekki getið um mótak á Hesti en í heimild frá fyrri hluta 20. aldar segir að slægjulandið Samvinna, sem er hér skammt fyrir framan túnið, sé mikið grafin í sundur eftir mótak.[30] Mun betra mótak fannst þó lengra fram á dalnum á búskaparárum Guðmundar Bjarnasonar sem bjó á Hesti frá 1910 til 1924.[31] Þær mógrafir eru í Votahvammi sem er skammt fyrir framan Önundargirði (sjá hér bls. 64). Enn framar á dalnum, þar sem heitir Grafarengi, voru svo þriðju mógrafirnar.[32] Allt fram undir miðja 20. öld munu margir Önfirðingar hafa tekið upp mó í hinum ágætu gröfum á Hestdal (sjá Firðir og fólk 1900-1999,371).

Helstu slægjulöndin í landareign Hests eru á Hestdal en einnig var heyjað í landi jarðarinnar á Korpudal og á eyrunum fyrir utan og neðan túnið.[33] Í sóknalýsingu séra Tómasar Sigurðssonar í Holti frá árinu 1840 segir að Hestur sé góð slægnajörð[34] en í matsgerð frá árunum kringum 1920 er útengi heimajarðarinnar sagt vera í meðallagi grasgefið.[35] Í sömu matsgerð eru engjarnar frá Efrihúsum sagðar vera greiðfærar og sléttlendar en útengi bóndans í Neðrihúsum snögglent og votlent.[36] Matsmennirnir frá 1920 segja túnin á Hesti og í Efrihúsum vera grasgefin og í góðri rækt og taka fram að einn þriðji partur af þeim sé sléttlendur.[37] Í Neðrihúsum var túnið líka grasgefið en óslétt.[38]

Á síðustu áratugum 19. aldar höfðu bændurnir í Hestþorpinu samvinnu um heyskap á nokkrum hluta engjanna[39] og má telja líklegt að svo hafi lengi verið. Þessi engjasvæði voru þrjú, það er Samvinna, er svo var nefnd og er skammt fyrir framan túnið á Hesti, Hestleitið, sem er fremsta slægjulandið á Hestdal, og svo Fremri-Mýrar á Korpudal.[40] Aðrar engjar voru allar skiptar og átti hvert býli sína parta.[41]

Elstu heimildir um búsetu á Hesti er að finna í Gísla sögu Súrssonar, sem flestir munu telja að hafi verið rituð um miðja 13. öld, en þar er sagt að Vésteinn Vésteinsson hafi átt bú í Önundarfirði undir Hesti.[42] Í yngri heimildum er jörðin stundum nefnd Hafurshestur, til dæmis í manntalinu frá 1703, og í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 eru bæði nöfnin nefnd og ritað svo: Hestur (aðrir vilja það heiti Hafurshestur).[43] Á 19. og 20. öld munu flestir hafa látið sér nægja að nefna jörðina Hest og svo heitir hún líka í fornum skjölum frá 15. og 16. öld[44] en er þó stundum nefnd undir Hesti[45] með sama hætti og í Gísla sögu. Nafnið Hafurshestur virðist því ekki hafa verið tekið upp fyrr en um 1600 eða á 17. öld og allt óljóst um skýringar á hafrinum.

Í Gísla sögu Súrssonar er Vésteinn, mágur Gísla, í lykilhlutverki og verður því flestum lesendum sögunnar minnisstæður. Öldum saman kunnu menn um land allt að nefna jörðina Hest í Önundarfirði vegna þess eins að þar hafði Vésteinn búið. Á okkar dögum munu hins vegar býsna margir leyfa sér að draga í efa hvort þessi eða hinn einstaklingur sem frá er sagt í Íslendinga sögum hafi nokkru sinni verið til í raun og veru og svo er einnig um þá Gísla og Véstein. Í þeim efnum verður hver og einn að hafa þá skoðun sem honum þykir skynsamlegust. Við öllum alhæfingum verður þó að vara, því hvort tveggja sýnist jafn fráleitt að enginn þeirra sem frá er sagt í hinum fornu sögum hafi litið dagsins ljós og svo hitt að sérhver maður sem þar er nefndur á nafn hafi í raun bæði lifað og dáið. Um það hvort farmaður að nafni Vésteinn Vésteinsson hafi reist bú undir Hesti um miðbik tíundu aldar er ekkert unnt að fullyrða en líkurnar á því að höfundur Gísla sögu byggi að nokkru leyti á arfsögnum mega þó kallast umtalsverðar. Við mat á þeim líkum er vert að hafa í huga að í Íslendingabók Ara fróða nefnir höfundurinn Þuríði dóttur Snorra goða sem einn sinn helsta heimildarmann[46] en Snorri goði var sem kunnugt er systursonur Gísla Súrssonar. Um Þuríði Snorradóttur sem andaðist háöldruð árið 1112 segir Ari að hún hafi verið margspök og óljúgfróð.[47]

Í Gísla sögu er tvisvar frá því greint að Vésteinn Vésteinsson, mágur Gísla, hafi búið undir Hesti í Önundarfirði[48] og heimilisfólkið þar kynnt til sögunnar með þessum orðum: Vésteinn Vésteinsson gerðist fardrengur góður; þó átti hann bú í Önundarfirði undir Hesti, þá er hér var komið sögunni. Kona hans hét Gunnhildur, Bergur hét sonur hans og Helgi.[49]

Hér er á öðrum stað sagt frá för sendimanna Gísla Súrssonar frá Haukadal í Dýrafirði norður að Hesti með áríðandi skilaboð til Vésteins um hættuna sem yfir vofði ef hann kæmi til Dýrafjarðar (sjá hér Haukadalur – Gemlufall – Mosvellir – Lækjarós). Á Gemlufallsheiði fékk Vésteinn að heyra orðsendingu Gísla og mælti þá hin fleygu orð: Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar og mun ég þangað ríða.[50] Með þessum orðum var allri sögunni markaður farvegur. Ferð Vésteins yfir Gemlufallsheiði varð hans síðasta því dauðinn beið hans í Haukadal.  Af vígi Vésteins leiddi þá atburðarás sem ber söguna uppi allt þar til Gísli var sjálfur veginn í botni Geirþjófsfjarðar eftir langa útlegð.

Á liðnum árum og öldum hafa ýmsir velt fyrir sér hvers vegna Vésteinn kaus að halda áfram ferð sinni til Dýrafjarðar, enda þótt aðvörun Gísla bærist honum til eyrna uppi á miðri Gemlufallsheiði. Við sendimennina úr Haukadal sagði hann strax þar á heiðinni að hefðu þeir hitt hann fyrr myndi hann hafa snúið aftur[51] en ekki nú þegar vötn væru tekin að falla til Dýrafjarðar. Ein tilgátan um skýringu á þessu vísar til gamallar hjátrúar sem enn var í minnum höfð í Naumudal í Noregi á árunum kringum síðustu aldamót.[52] Kjarni hennar var sá að ekki mætti snúa við á heiðum uppi væru menn komnir svo langt að vötnum hallaði í andstæða átt við þá sem komið var frá.[53] Brot á þessu boðorði var talið geta kallað einhvers konar ólán yfir viðkomandi ferðamann.[54]

Hér var áður minnst á konu Vésteins Vésteinssonar, Gunnhildi, og syni þeirra tvo, Berg og Helga. Í Gísla sögu er greint frá endalokum þeirra allra. Þegar Vésteinssynir hefndu föður síns á Þorskafjarðarþingi voru þeir vart af barnsaldri.[55] Síðar komust þeir til Noregs og þar var Bergur veginn en Helgi bróðir hans fór til Grænlands og týndist þar í veiðiför.[56] Gunnhildur móðir þeirra gekk hins vegar suður með Auði Vésteinsdóttur, mágkonu sinni, og kom hvorug aftur úr þeirri Rómarferð.[57]

Allsterkar líkur benda til þess að hið forna bæjarstæði á Hesti hafi verið þar sem á síðari öldum var hjáleigan Efrihús eða þar rétt fyrir framan. Magnús Hjaltason, hinn skáldmælti dagbókaritari, sem ólst upp í Efrihúsum og á Hesti á árunum kringum 1880, taldi að svo hefði verið og benti í skrifum sínum á eitt og annað þeirri skoðun til styrktar. Í ritgerð sem Magnús skrifaði vorið 1914 og nefndi Undir Hesti í Önundarfirði, landslag, byggðaleifar, örnefni og fleira kemst hann svo að orði:

 

Umhverfis túnið í Efrihúsum er túngarður forn. Liggur hann kippkorn fyrir ofan bæinn en langt fyrir neðan hann. Í útvesturhorni garðsins og þó heldur utanvert stendur nú bærinn Hestur og þar vestur af bærinn Neðrihús. Er því auðsætt að bæði þau býli eru seinni tíðar bygging. Í þá átt bendir og fleira sem enn mun sagt verða. … Enn er stykki utanvert í túninu á Hesti sem Efrihús eiga. Stykki það heitir Partur. Og allt fram til 1860, eftir því sem fóstra mín sagði mér, áttu Efrihús stykki í túninu á Hesti, fast þar við bæinn, en í mínu ungdæmi var því orðið breytt. Þá áttu Efihús í Heststúni ekki nema Partinn … .

Kippkorn fyrir framan bæinn í Efrihúsum eru tóttir miklar. Einu sinni spurði ég fóstru mína hvaða hús myndu hafa verið þar. Hún mælti: „Bærinn hafði verið þar áður.” Þetta er að líkindum alveg rétt. Í fornöld mun bærinn hafa verið þar en seinni alda menn munu hafa fært hann út á hólinn, þangað sem hann er nú. Hvers vegna? Vegna þess að þar er fallegra, útsýnið ágætt en veðurnæmt er þar ákaflega og það munu fyrri alda menn hafa séð og því haft bæinn þar sem lægra var.

Hinar umgetnu tóttir hafa verið þrjú hús í það minnsta og öll stór. Ysta húsið hefur snúið upp og ofan en hin tvö staðið við hlið þess að framanverðu og snúið út og fram. Þó er eigi ólíklegt að göng hafi verið þar á milli. … Bæjarlækurinn hefir runnið ofan með veggnum. Neðan til við þessar tóttir er hóll, allhár og uppmjór. Man ég er ég var allungur að einhverra orsaka vegna voru stungnir nokkrir hnausar neðan til við þennan hól, þá kom aska upp í hnausfarinu. Hóllinn mun því vera gamall öskuhaugur. Hinar miklu tóttir er að framan og ofan getur standa í hinum forna túngarði (varnargarði), þ.e.a.s. túngarðurinn gengur að utanverðu fast að tóttunum eða sama sem. Svo er um flesta hina fornu byggingu í Efrihúsum – hún stendur í túngarðinum. Fyrir framan téðar tóttir er lækjarsytra er Lind heitir. Þar munu hafa verið hafðir smáþvottar. Svo var enn í ungdæmi mínu. Rétt fyrir framan lindina er stekkur „frá fornöld”. Nokkuð út frá hinu forna bæjarstæði, fast við túngarðinn, er fornt kvíarstæði.[58]

 

Þannig er lýsing Magnúsar Hjaltasonar á hinum fornu tóttum sem enn blöstu við augum undir Hesti á fyrstu árum tuttugustu aldar. Nú virðast þær vera horfnar og kynnu að hafa verið sléttaðar út við ræktunarframkvæmdir. (Leitað var 1994 og 1996 en finnast alls ekki.)

Orð Magnúsar um öskuhauginn benda til þess að rústirnar sem hann lýsir og voru kippkorn fyrir framan bæinn í Efrihúsum hafi verið bæjartóttir. Án nánari rannsókna verður hins vegar ekkert um það sagt hvort bærinn undir Hesti hafi staðið þar á fyrstu öldum byggðar í landinu en vel er þó hugsanlegt að svo hafi verið.

Árið 1681 bjuggu aðeins tveir bændur á Hesti, feðgarnir Bjarni Jónsson og Bjarni Bjarnason[59] og má ætla að annar þeirra hafi búið í Efrihúsum því í Jarðabókinni frá 1710 segir að byggð í Hesthúsum efrieldri en í manna minni.[60] Í Jarðabókinni er líka frá því greint að í Neðrihúsum, sem þar eru nefnd Hesthús neðri, hafi búskapur ekki hafist fyrr en árið 1684 en fáum árum fyrr í hjáleigunni Múla sem einnig var nefnd Múlakot,[61]

Elstu skjallegar heimildir, sem varðveist hafa um byggð hér á Hesti, eru frá 15. öld og er þar fyrst að nefna skrá um eignir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum en talið er að hún hafi verið rituð árið 1446.[62] Þar er Hestur sagður hafa verið ein hinna fjölmörgu jarða sem Guðmundur átti á Vestfjörðum og tekið fram að jörðinni fylgi 8 kúgildi.[63] Í þessari skrá yfir Guðmundareignir er dýrleiki jarðarinnar talinn 50 hundruð,[64] tveimur hundruðum meiri en síðar varð að reglu. Á dögum Guðmundar ríka var Hestur ein þeirra 33ja jarða sem lágu undir höfuðbólið á Núpi í Dýrafirði.[65]

Þegar óvinir Guðmundar Arasonar höfðu náð að hrekja hann frá eignum sínum og dæma þær fallnar undir konung varð Björn Þorleifsson hirðstjóri brátt vörslumaður þessara eigna og árið 1462 keypti hann fyrir lítið verð fjölmargar jarðir sem Guðmundur hafði átt.[66] Fimm árum síðar var Björn veginn í Rifi á Snæfellsnesi og við skipti á dánarbúi hans haustið 1467 kom Hestur í hlut Solveigar dóttur hans og allar þær jarðir er þar eru inn í firðinum.[67]

Á árunum kringum 1470 mun Hallur Magnússon hafa verið landseti Solveigar á Hesti.[68] Hallur var frá Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði en hafði löngu fyrr orðið að láta þá jörð af hendi við Guðmund Arason[69] eins og hér hefur áður verið frá greint (sjá hér Vífilsmýrar og og Ytri Hjarðardalur). Hallur mun hafa dáið árið 1473 eða snemma á árinu 1474 og lét eftir sig vel hundrað í fríðum peningum og ófríðum.[70] Hann er fyrsti bóndinn sem vitað er með vissu að hafi búið undir Hesti því ekki er hægt að taka fulla ábyrgð á Vésteini Vésteinssyni sem frá er sagt í Gísla sögu Súrssonar.

Deilurnar um skiptingu hinna miklu eigna sem Guðmundur Arason hafði átt stóðu í marga áratugi og gekk á ýmsu í því stríði. Óljóst er nú hversu lengi Solveig Björnsdóttir taldist vera eigandi að Hesti en hins vegar liggur fyrir að árið 1479 höfðu frænka hennar og nafna, Solveig Guðmundsdóttir, og eiginmaður hennar slegið eign sinni á jörðina.[71] Hin síðarnefnda var eina hjónabandsbarn Guðmundar ríka og þessar tvær Solveigar voru náfrænkur því móðir Solveigar Guðmundsdóttur var systir Björns hirðstjóra, föður Solveigar Björnsdóttur.[72] Eiginmaður Solveigar Guðmundsdóttur var Bjarni Þórarinsson á Brjánslæk og á árunum 1477 og 1478 fengu hjón þessi tvívegis gefinn út konungsúrskurð um að þau skyldu fá þriðjung allra Guðmundareigna í sinn hlut.[73] Í bréfi konungs var gert ráð fyrir að tólf íslenskum fyrirmönnum yrði falið að sjá um skiptingu jarðanna[74] en í þeim efnum varð dráttur á. Bjarni Þórarinsson fór engu að síður að eigna sér ákveðnar jarðir, sem tengdafaðir hans hafði átt, og taldi konungsbréfið veita sér heimild til þess. Ein þessara jarða var Hestur eins og sjá má í kaupsamningi frá haustinu 1479.[75] Bjarni seldi þá jörðina Hraun í Keldudal fyrir 60 hundruð en í samningnum er tekið fram að gangi sú jörð aftur til seljandans að lögum þá skuli kaupandinn, séra Jón Gíslason, fá jörðina Hest í Önundarfirði í staðinn.[76] Það ákvæði samningsins sýnir svo ekki verður um villst að þau Bjarni og Solveig hafa talið þá jörð vera sína eign.

Árið 1481 var Bjarni Þórarinsson veginn af sveinum Einars Björnssonar jungkæra[77] en Einar var sonur Björns hirðstjóra Þorleifssonar og átti því hlut að deilunum um skiptingu Guðmundareigna. Skömmu áður en Bjarni var tekinn af lífi hafði Þorleifur Björnsson hirðstjóri, bróðir Einars, fengið í hendur nýjan úrskurð frá ríkisráðinu í Noregi en með því bréfi fékk hann til eignar og umráða þann hluta Guðmundareigna sem koma átti í hlut Bjarna Þórarinssonar samkvæmt konungsbréfunum frá 1477 og 1478.[78] Togstreitan um hinar miklu jarðeignir Guðmundar Arasonar hélt síðan áfram enn um sinn og þar kemur Hestur næst við sögu árið 1498. Þá um haustið var fundur haldinn á Hallsteinsnesi í Gufudalssveit og mættust þar Björn jungkæri Þorleifsson og feðgarnir Andrés Guðmundsson og Guðmundur Andrésson.[79] Björn jungkæri var sonarsonur Björns hirðstjóra Þorleifssonar, sem á sínum tíma hafði náð undir sig mestum hluta Guðmundareigna, en Andrés var frillusonur Guðmundar Arasonar hins ríka.[80] Á fundinum á Hallsteinsnesi var gengið frá ákveðinni sáttargerð þar sem kveðið var á um að Andrés léti af hendi Reykhóla og margar jarðir þar í grennd en hann og synir hans fengju í staðinn Saurbæ á Rauðasandi, Núp í Dýrafirði og Kaldrananes í Strandasýslu ásamt fjölmörgum jörðum er áður höfðu fylgt þessum höfuðbólum.[81] Um jarðirnar í Vestur-Ísafjarðarsýslu sem Andrés og synir hans fengu í sinn hlut er komist svo að orði í sáttargerðinni:

 

Hér með Núp í Dýrafirði og allar þær jarðir er undir þann garð lágu til byggingar og í Dýrafirði væru og oftnefndur Guðmundur [Arason] átt hefði. Þar með Hest í Önundarfirði og þær jarðir er þráttnefndur Guðmundur átti, og allar þær jarðir er liggja fyrir norðan Arnarfjörð og hingað að Langanesi … .[82]

 

Í Önundarfirði og Dýrafirði hafði Guðmundur Arason átt 33 jarðir[83] og hafa þær allar komið í hlut Andrésar og sonu hans þegar frá sáttargerðinni var gengið árið 1498. Í því skjali eru samt aðeins tvær þessara jarða nefndar með nafni, Núpur í Dýrafirði og Hestur í Önundarfirði. Fjórar aðrar jarðeignir, sem Guðmundur Arason hafði átt á þessum slóðum, voru þó virtar álíka hátt eða hærra en Hestur, það er að segja Hraun í Keldudal, Alviðra, Hjarðardalur, það er Neðri-Hjarðardalur í Dýrafirði eða Ytri-Hjarðardalur í Önundarfirði, og svo þau 50 hundruð sem Guðmundur átti í Haukadal í Dýrafirði.[84]

Þegar Andrés, launsonur Guðmundar ríka, gekk til sátta við jungkærann Björn Þorleifsson haustið 1498 var hann orðinn roskinn maður og hafði sér við hlið son sinn, Guðmund Andrésson, eins og nefnt var hér litlu framar. Fáum árum fyrr hafði Guðmundur gengið að eiga Þrúði Þorleifsdóttur sem var systir Björns jungkæra[85] og má telja líklegt að þær tengdir hafa stuðlað að sáttum hinna fornu fénda. Guðmundur var elstur þriggja sona Andrésar Guðmundssonar og Þorbjargar Ólafsdóttur, konu hans, en hinir tveir voru Ari í Saurbæ á Rauðasandi og Bjarni sem tók við höfuðbólinu Brjánslæk en varð skammlífur.[86]

Guðmundur Andrésson og Þrúður kona hans, sem einnig er nefnd Jarþrúður, bjuggu um skeið hér á Hesti en síðar á Felli í Kollafirði í Strandasýslu þar sem Andrés, faðir Guðmundar, hafði búið um langt skeið.[87] Þessi sonarsonur Guðmundar ríka Arasonar er annar í langri röð bænda sem búið hafa á Hesti og þekktir eru með nafni (sjá hér bls. 9) en sá þriðji í sömu röð ef Vésteinn Vésteinsson úr  Gísla sögu Súrssonar er talinn með.

Ekki er nú vitað með fullri vissu á hvaða árum Guðmundur Andrésson og Þrúður Þorleifsdóttir bjuggu á Hesti en Páll Eggert Ólason telur að þau hafi byrjað búskap sinn þar.[88] Nokkrar líkur hafa verið leiddar að því að til hjúskapar Guðmundar og Þrúðar hafi verið stofnað eigi síðar en árið 1493[89] svo vera kann að þau hafi verið farin frá Hesti þegar sextánda öldin gekk í garð. Í varðveittum heimildum frá árunum um og upp úr 1500 er Guðmundar Andréssonar getið stöku sinnum. Hér var áður greint frá sáttafundinum á Hallsteinsnesi haustið 1498 þar sem Guðmundur var viðstaddur og átti hlut að sættum föður síns við jungkærann Björn Þorleifsson. Árið 1513 var Guðmundur einn þeirra 26 íslensku fyrirmanna sem stóðu að Leiðarhólmsskrá, mótmælum gegn ofríku kirkjuvaldsins er samþykkt voru að Leiðarhólmi í Dölum þá um vorið.[90] Í samþykkt þessari er harðlega mótmælt misbeitingu biskups og klerka á valdi sínu og því haldið fram að þeir noti bannfæringarvaldið til að svipta menn friði og frelsi, eignum og óðulum án nokkurs verulegs tilefnis.[91] Einna síðast bregður nafni Guðmundar Andréssonar fyrir í skjölum árið 1520 en hann var þá með Ara bróður sínum í síðari ránsför hans að Núpi í Dýrafirði sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Núpur). Ekki varð sú ferð þeim bræðrum til gæfu en þegar hún var farin voru 20 ár liðin frá því Núpur var dæmdur undan Andrési föður þeirra (sjá hér Núpur) þrátt fyrir sáttargerðina sem hér var áður frá sagt.

Þau Guðmundur Andrésson og Þrúður kona hans eignuðust a.m.k. sex börn[92] og má ætla að sum þeirra hafi fæðst á Hesti. Einn sona þessara hjóna var Þorsteinn Guðmundsson sem gerðist sveinn Jóns biskups Arasonar á Hólum og þótti frækinn maður.[93] Þorsteinn, sem kallaður var leikari,[94] mun snemma hafa rennt hýru auga til Þórunnar, dóttur Jóns biskups á Hólum, og svo fór að hann varð þriðji eiginmaður hennar.[95] Fyrri eiginmenn Þórunnar voru Hrafn Brandsson lögmaður og Ísleifur Sigurðsson.[96] Ísleifi var hún gift í 15 ár eða liðlega það en hjónaband þeirra var barnlaust.[97] Þau áttu heima á Grund í Eyjafirði og mun Þórunni stundum hafa þótt daufleg vist í sænginni hjá Ísleifi. Til hans orti hún þessa vísu:

 

Í Eyjafirði uppi á Grund,

á þeim garði fríða,

hefur bóndi búið um stund

sem barn kann ekki að smíða.

 

Ísleifur Sigurðsson andaðist árið 1548 eða 1549 en Þórunn bjó áfram á Grund og þar settist Þorsteinn leikari að er hann gekk að eiga hana árið 1553.[98] Þorsteinn var þá orðinn liðlega fimmtugur en Þórunn var um það bil tíu árum yngri.[99] Þegar Þórunn á Grund gekk að eiga son Guðmundar og Þrúðar, sem búið höfðu á Hesti, voru liðin um það bil þrjú ár frá því Hólafeðgar, Jón biskup Arason og synir hans tveir, voru teknir af lífi í Skálholti. Til hefnda fyrir dráp biskups og sona hans höfðu vermenn úr Norðurlandi tekið alla danska menn sem til náðist á Suðurnesjum af lífi, þar á meðal Kristján skrifara er staðið hafði fyrir aftöku Hólafeðga og einnig Bessastaðaböðulinn sem hafði höggvið Jón biskup og syni hans en það var íslenskur maður.[100] Það höfðu flestir fyrir satt að Þórunn á Grund hefði lagt á ráðin um hvernig hefna skyldi föður hennar og bræðra og í gömlum heimildum er þess getið að banamaður Kristjáns skrifara hafi verið 18 vetra sveinn frúarinnar á Grund.[101]

Allt var þetta fyrir skömmu um garð gengið þegar Þórunn gekk í hjónaband í þriðja sinn og giftist Þorsteini leikara, syni Guðmundar Andréssonar sem áður bjó á Hesti. Vel getur þó verið að Þorsteinn hafi verið með henni í ráðum um hefndirnar því kynni þeirra voru gömul. Páll Eggert Ólason. sem margt hefur ritað um siðaskiptin og atburði er þeim tengdust, kemst svo að orði um Þórunni á Grund og hennar þriðja eiginmann:

 

Það er sagt að dáleikar hafi verið með Þórunni og Þorsteini, syni Guðmundar Andréssonar á Felli í Kollafirði, eftir að hún varð ekkja eftir Rafn [þ.e Hrafn Brandsson lögmann – innsk. K.Ó.] en áður en hún giftist Ísleifi. Er og ennfremur sagt að frændum Þórunnar hafi verið lítt um það gefið og Ari, bróðir hennar, jafnvel sóst eftir lífi Þorsteins. Munu þeir hafa fundið það að honum, þótt auðugra manna væri og kynstór, að hann var kvennamaður mikill sem dæmi má sjá í Fornbréfasafni voru 1534; þá fær hann aflausn af annarri barneign með sömu konu og af „öllum þeim sakferlum er hann hefir mátt verða brotlegur við heilaga kirkju og meðkennt fyrir mér [Ólafi prófasti Guðmundssyni, sem reyndar var bróðir Þorsteins – innsk. K.Ó.] sem ske hefir mátt í frillulífi, mægðum, sifjaspellum og frændsemis­spellum”, ásamt ýmsu öðru sem aflausnarbréfið telur upp. Er það sönnu næst að kvensemi Þorsteins og niðja hans hafi verið sjúkdómur (erotomani); með þeim fádæmum lýsti hún sér. En Þórunn var og sjálf talin heldur lauslát … . Hafði Þorsteinn verið sveinn á Hólum hjá Jóni biskupi Arasyni en orðið að hverfa þaðan af þessum sökum. Þetta mun vera rétt því að sumarið 1533 er Þorsteinn staddur á Grund, skömmu áður en Þórunn giftist Ísleifi, og ritar sem vottur undir vitnisburð um jarðaskiptabréf sem Jón biskup er viðriðinn en ári síðar er hann kominn vestur til átthaga sinna.[102]

 

Líklega hefur Þorsteinn leikari orðið að bíða Þórunnar býsna lengi en hjónaband þeirra stóð þó í 16 ár eða allt þar til hann andaðist seint á árinu 1569.[103] Orð Þórunnar á Grund, sem hún mælti í elli um eiginmenn sína þrjá, urðu fleyg og eru í rituðum heimildum sögð hafa verið þessi: Rafn minn var höfðingsmaður mestur, Ísleifur skartsmaður mestur en Þorsteinn minn heimsmaður mestur.[104]

Sjálf var hún haldin heimskona mikil og hörð í skapi.[105] Skömmu áður en Þórunn giftist Þorsteini Guðmundssyni lagði hún Grundarkirkju til þrjá fagurlega útskorna birkistóla og má telja mjög líklegt að þau Þorsteinn hafi setið á þessum stólum við guðsþjónustur og aðrar athafnir í Grundarkirkju.[106] Tveir þessara stóla eru enn til og er annar þeirra varðveittur í Þjóðminjasafni Íslands en hinn í National Museum í Kaupmannahöfn.[107]

Hér hefur nú um sinn verið dvalist við frásagnir af einum syni hjónanna Guðmundar Andréssonar og Þrúðar Þorleifsdóttur, sem bjuggu um skeið á Hesti undir lok fimmtándu aldar, en áður var gerð grein fyrir með hvaða hætti Andrés Guðmundsson og synir hans fengu seint og um síðir til eignar og umráða þær jarðir sem faðir Andrésar, Guðmundur Arason ríki, hafði átt í Dýrafirði og Önundarfirði (sjá hér bls. 10-11). Allt reyndist þetta þó vera sýnd veiði en ekki gefin því vorið 1500 komust dómsmenn að þeirri niðurstöðu að Björn jungkæri Þorleifsson, sem afhent hafði þeim feðgum þessar jarðir, hefði alls ekki verið réttur eigandi þeirra (sjá hér Núpur). Með þessum dómi var felldur sá úrskurður að Jón danur Björnsson, sem þá bjó á Eyri við Arnarfjörð og var föðurbróðir Björns jungkæra, væri réttur eigandi að höfuðbólinu Núpi í Dýrafirði og öllum þeim jörðum sem legið höfðu undir Núp á dögum Guðmundar Arasonar (sjá hér Núpur).

Ein jarðanna sem lágu undir Núp var Hestur í Önundarfirði[108] og með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má gera ráð fyrir að Jón danur hafi talist vera eigandi þeirrar jarðar á fyrstu árum 16. aldar. Þegar Jón danur andaðist árið 1508 fékk systursonur hans, Björn Guðnason í Ögri, Núp í Dýrafirði og þær jarðir aðrar er þar til liggja í arf (sjá hér Núpur) og mun Hestur hafa verið ein þeirra því í vitnisburði frá árinu 1510 er tekið fram að Björn hafi fengið í sinn hlut þær jarðir sem lágu í Dýrafirði, á Ingjaldssandi í Önundarfirði og Arnarfjarðardölum.[109]

Á árunum upp úr 1550 var jörðin Hestur í eigu Eggerts Hannessonar, lögmanns í Saurbæ á Rauðasandi,[110] sem var dóttursonur Björns Guðnasonar í Ögri, og má telja líklegt að Eggert hafi fengið hana að erfðum. Árið 1560 seldi Eggert séra Ólafi Jónssyni í Holti hálfan Hest[111] en kynni að hafa eignast þá hálflendu á nýja leik síðar. Nokkrar líkur benda til þess að jörðin hafi haldist í eigu niðja Eggerts Hannessonar um langt skeið því Bjarni Jónsson, sem fór að búa á Hesti árið 1648, var dóttursonarsonur Eggerts[112] og árið 1710 átti jörðina Bjarni Bjarnason sem var sonur nýnefnds Bjarna Jónssonar.[113] Um eignarhald á Hesti á árunum kringum 1600 er þó ekkert vitað með vissu svo vel má vera að Bjarni Jónsson hafi keypt jörðina en ekki fengið hana í arf.

Um bændur á Hesti á 16. öld er ekkert vitað með vissu en líklegt má telja að hjónin Ólafur Guðmundsson og Margrét Halldórsdóttir, sem voru stödd á Hesti þegar þau gengu frá samkomulagi sín á milli um helmingafélag, [114] hafi verið búsett hér.

Bjarni Jónsson, sem hóf búskap á Hesti árið 1648, var sonur Jóns dan Magnússonar og Yngveldar Guðmundsdóttur konu hans en þau bjuggu á Eyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp.[115] Jón þessi dan, faðir Bjarna, var sonur hins merka sýslumanns og skálds Magnúsar prúða Jónssonar, er síðast bjó í Saurbæ á Rauðasandi, og konu hans, Ragnheiðar Eggertsdóttur lögmanns Hannessonar.[116] Í stórum barnahópi Magnúsar prúða og konu hans voru tveir Jónar, Jón eldri sem varð sýslumaður og bjó m.a. í Haga á Barðaströnd og Jón dan sem var yngri en bróðir hans og nafni.[117] Jónunum tveimur má ekki rugla saman en þess skal getið að Halldóra Jónsdóttir, kona séra Jóns Jónssonar í Holti í Önundarfirði, var dóttir sýslumannsins Jóns eldra Magnússonar (sjá hér Holt). Á þessari kynningu sést að Bjarni Jónsson á Hesti var af höfðingjum kominn og náinn ættingi margra helstu valdamanna á Vestjförðum á 16., 17. og 18. öld og þó lengra væri farið bæði aftur og fram. Sú fullyrðing fær þó því aðeins staðist að maðurinn hafi verið rétt feðraður en eitthvert kvis var uppi um að svo væri ekki.[118] Slíkum orðasveim er hins vegar best að taka með varúð en Bogi Benediktsson, sem reyndar var niðji Bjarna á Hesti, getur í Sýslumannaæfum sínum um þennan orðróm og segir:

 

Það var sumra manna mál að Bjarni væri eigi skilgetinn. Kom eitt sinn karl nokkur til hans og bað hann ölmusu en Bjarni lét lítið af hendi rakna. Er þá mælt að karlinn hafi sagt að þetta væru lítil sonarútlát.[119]

 

Bjarni Jónsson, sem hér hefur nú verið gerð nokkur grein fyrir, fluttist frá Eyri í Seyðisfirði að Hesti árið 1648 og bjó hér enn aldarþriðjungi síðar.[120] Um þessa búferlaflutninga Bjarna er getið bæði í Vatnsfjarðarannál hinum elsta og í Eyrarannál, enda urðu þeir sögulegir því að bátur sem flutt var á fórst á leiðinni. Í Vatnsfjarðarannál elsta er greint frá atburðinum með þessum orðum:

 

Varð skipreiki 4. dag hvítasunnu fyrir Geltinum út. Týndust af 3 menn, skip og góss til 40 hundraða. Þremur mönnum var hjálpað. Átti Bjarni Jónsson frá Eyri (hans vesturflutningur).[121]

 

Í Eyrarannál, sem Magnús Magnússon, sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði, færði í letur er frásögnin nokkru fyllri. Þar segir:

 

Varð skiptapi 4. dag páska millum Keflavíkur og Skálavíkur. Týndust þar 3 menn, skip og góss til 40 hundraða. Átti Bjarni Jónsson undir Hesti það því hann ætlaði þá að flytja sig frá Eyri í Seyðisfirði undir Hest.[122]

 

Í einu handriti Eyrarannáls er sagt að 3 menn hafi bjargast úr þessum skipreika[123] og kemur það heim við frásögn Vatnsfjarðarannáls elsta. Í hvorugum annálnum er nefnt að Bjarni hafi sjálfur verið á skipinu sem fórst og verður því að telja fremur ólíklegt að svo hafi verið. Annar annállinn segir skipreikann hafa orðið 4. í hvítasunnu en í hinum er nefndur 4. í páskum sem líklega er misritun því búferlaflutningar fóru yfirleitt fram um fardagaleytið, það er seint í maí eða snemma í júní. Að öðru leyti ber frásögnum annálaritaranna vel saman, nema hvað annar segir skipið hafa farist fyrir Geltinum en hinn millum Keflavíkur og Skálavíkur, − það er fyrir Öskubak. Þarna skeikar reyndar litlu því Öskubakur er næsta fjall fyrir norðan Gölt og aðeins Keflavík þar á milli.

Þegar Bjarni Jónsson frá Eyri í Seyðisfirði fluttist að Hesti árið 1648 hefur hann líklega verið kominn um þrítugt því Bjarni sonur hans, sem hér verður síðar getið, mun þá hafa verið um fjögra ára aldur.[124]  Hugsanlegt er reyndar að Bjarni bóndi hafi verið kominn um fertugt þegar hann réðst í að flytjast búferlum frá Seyðisfirði við Djúp í Önundarfjörð en eldri en það hefur hann varla verið því árið 1681 var hann enn búandi maður á Hesti.[125]

Eiginkona Bjarna Jónssonar á Hesti hét Ingibjörg Pálsdóttir og var frá Hafnarhólmi í Strandasýslu.[126] Veturinn 1676-1677 andaðist hún úr undarlegum sjúkdómi sem hún þá hafði þjáðst af í sjö ár.[127] Svo virðist sem Bjarni bóndi og Ingibjörg kona hans hafi bæði verið sannfærð um að krankleiki hennar væri galdraverk og að konunni látinni fékk Bjarni á Hesti annan Bjarna dæmdan á bál fyrir að hafa valdið þjáningum og dauða Ingibjargar.[128] Hinn meinti galdramaður hét Bjarni Bjarnason og átti heima í Breiðadal. Hann var brenndur á Alþingi árið 1677 og er sagt nánar frá máli hans á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Neðri-Breiðadalur)

Sjálfur var Bjarni Jónsson á Hesti talinn fara með galdra ef marka má þjóðsögu sem náði að komast á prent og 13 árum áður en Bjarni í Breiðadal var brenndur var sonur Bjarna á Hesti rekinn úr Skálholtsskóla fyrir meðferð galdrastafa. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er að finna skemmtilega furðusögu um bónda þennan á Hesti og er sagan á þessa leið:

 

Bjarni er maður nefndur, kallaður Jónsson Dans hins yngra. Hann bjó „undir Hesti” eða Hafurshesti í Önundarfirði í Ísafjarðarsýslu. Bjarni var latínulærður og hafði siglt suður í lönd og komið í níu kóngaríki. Kunni hann tungur þeirra allra og var margfróður maður. Þegar hann var í Kaupmannahöfn vakti hann upp með öðrum stúdentum Elínu stjörnu á Grikklandi. Ekki fannst þeim mikið um fríðleik. Þeim sýndist hún kringluleit og samlit í andliti með rauðan blett í enninu. Litla stund hafði hún hjá þeim verið en þegar hún gekk í burtu lagði af henni ódaun megnan og slæman sem olli því að þeir sem við voru staddir fundu enga lykt þaðan í frá. Eftir að Bjarni kom út hingað aftur þykir líklegast að hann hafi sest að á Hafurshesti sem fyrr segir þó foreldrar hans byggi á Eyri við Seyðisfjörð vestra.[129]

 

Um veraldarumsvif Bjarna Jónssonar á Hesti er fátt að finna í marktækum heimildum en í Alþingisbókunum má samt sjá að á árunum upp úr 1660 hefur hann verið að selja jarðir.[130] Þar er þó ekki sagt hvaða jarðir þetta voru en árið 1664 krafðist Magnús Magnússon, sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði, þess að sölunni yrði rift þar eð jarðirnar væru bundnar veðböndum og ekki hefði verið gætt ákvæða í lögum um óðalsrétt.[131] Þeir sem áttu veð í jörðunum sem um var rætt voru Jón Egilsson, mágur Bjarna á Hesti, og Guðmundur Ásmundsson í Stóra Holti í Saurbæ í Dalasýslu en hann var tengdafaðir Magnúsar sýslumanns á Eyri[132] sem stöðvaði jarðasöluna. Þess má svo geta að Magnús Magnússon sýslumaður og Bjarni Jónsson á Hesti voru náfrændur því faðir Magnúsar og Bjarni voru báðir sonarsynir hins auðuga og valdamikla sýslumanns Magnúsar prúða sem hér var áður getið.

Í bændatali frá árinu 1681 sést að Bjarni Jónsson bjó þá enn á Hesti en Bjarni Bjarnason sonur hans var þá einnig farinn að búa á jörðinni.[133] Þeir feðgar voru þá einu bændurnir á Hesti og þar voru þá engar hjáleigur í byggð[134] nema ef vera kynni að annar feðganna hafi búið í Efrihúsum þó ekki sé þess getið í nýnefndu bændatali. Líkur á því að svo hafi verið verða reyndar að teljast miklar því í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að búið hafi verið í Efrihúsum lengur en elstu menn muni.[135] Með hliðsjón af ættarauði foreldra Bjarna Jónssonar sýnist líklegt að hann hafi verið sjálfseignarbóndi á Hesti enda fullyrðir Bogi Benediktsson, fræðimaður á Staðarfelli, sem átti sonardóttur Bjarna fyrir langömmu, að Hestur hafi verið eignarjörð þessa forföður síns.[136] Fullvíst er að sonur Bjarna Jónssonar, sem Bjarni hét, átti einn alla jörðina árið 1710.[137]

Bjarni Bjarnason, sem hér hefur nú verið nefndur til sögu, var fæddur á Eyri í Seyðisfirði árið 1644 eða því sem næst (sjá hér bls. 16) en mun hafa flust með foreldrum sínum að Hesti árið 1648. Á unglingsárum var hann sendur í Skálholtsskóla en lenti þar út á hála braut svo honum var vísað úr skóla. Þegar Bjarni frá Hesti kom í skólann var galdrafárið orðið ógnvekjandi, ekki síst á Vestfjörðum þar sem búið var að brenna Kirkjubólsfeðga í Skutulsfirði, en einnig víðar um land. Ætla má að mjög margir hafi í raun trúað á mátt galdrastafa og þeirra margvíslegu bragða sem kunnáttumenn og vinir Satans voru taldir hafa á valdi sínu. Við slíkar aðstæður gat orðið freistandi fyrir unga og djarfhuga menn að reyna sig lítið eitt í hinni svörtu kúnst og það þótt ógnir bálsins vofðu yfir hverjum þeim sem uppvís varð að iðkun galdrastykkja.

Líklega hefur Bjarni Bjarnason frá Hesti verið búinn að vera í Skálholtsskóla í nokkra vetur þegar upp komst, árið 1664, að hann hafði galdrablöð í fórum sínum. Oddur Eyjólfsson var þá skólameistari í Skálholti en biskup var Brynjólfur Sveinsson. Frumheimildir um galdrablöð drengsins frá Hesti og brottrekstur hans úr skólanum er að finna í bréfabókum Brynjólfs biskups en þar segir:

 

Anno 1664, 6. Aprilis frambar fyrir biskupinn M. Brynjólf Sveinsson heiðarlegur og vellærður mann Oddur Eyjólfsson, skólameistari í Skálholti, rifið kver í blöðum og rifið yfir um þvert að nokkru leyti með ljótum og óvenjulegum characteribus, hvert fundist hafði nú á þessum dögum í beðjardýnu þess rúms í skólaskálanum í Skálholti sem Einar Guðmundsson frá Straumfirði og Oddur Árnason frá Þorlákshöfn hvíla í. … Strax sem þessir fyrrskrifaðir titlar voru hér fyrir biskupinn frambornir lét biskupinn M. Brynjólfur SS í viðurvist heiðarlegra manna …… fyrir sig kalla Einar Guðmundsson í hvers rúmi og sæng þessi fyrir ofan skrifuðu rúnastafablöð fundust …… spyrjandi hann að hvörju hann svaraði til þessa máls um kverið, hvort hann það þekkti eða við kannaðist, hvar við hann gekk. … Enn framar spurði biskupinn Einar hvar eftir hann hefði þau blöð skrifað sem hann meðkenndi sína handskrift á vera. Svaraði hann að Bjarni Bjarnason, skólapiltur af Vestfjörðum hefði sér léð þau blöð eftir hvörjum hann þessi skrifað hafi og svo segir hann að sami Bjarni Bjarnason eigi þau blöð af þessu kveri sem hönd Einars sé ekki á því Bjarni hafi sér þau léð í vetur.[138]

 

Er Brynjólfur biskup hafði fengið þessar upplýsingar lét hann þegar í stað kalla Bjarna fyrir sig og yfirheyrði hann í votta viðurvist. Í bréfabókinni er skýrt rækilega frá yfirheyrslunni yfir Bjarna og segir þar meðal annars svo:

 

Neitaði Bjarni Bjarnason því að hann hefði Einari Guðmundssyni nokkurn tíma nein blöð eða kver til eftirskriftar léð önnur en hann meðkenndi sína hönd á vera og ásamt hinum fyrri fundust í sængurbeð Einars Guðmundssonar, en á þeim meðkenndi Bjarni Bjarnason sína handskrift vera, hvör hann segist fyrir þremur árum á Vestfjörðum skrifað hafa í Kálfeyrarveiðistöðu á Vestfjörðum eftir kveri Erlings Ketilssonar frá Þórustöðum í Önundarfirði. En Einar Guðmundsson heldur á því að hann hafi hin blöðin sér til eftirskriftar léð, hvörju Bjarni neitar.

Framar spurði biskupinn Bjarna Bjarnason að hvort hann vissi öngvan þessa kuklaraskapar með sér samvitandi og hvort hann hefði öngvum þessi rúnastafablöð öðrum sýnt né léð en Einari Guðmundssyni, utan skóla eða innan á þessu heimili. Kvaðst Bjarni öngvan vita hvorki sér þessa meðvitandi né þann sem hann hefði nokkur rúnablöð, hvorki þessi rúnablöð né önnur sýnt né léð, annan en Einar Guðmundsson, hvörn hann segist oftar en eitt sinn beðið að brenna þessi blöð í vetur en það hafi undandregist. Ei sagði hann heldur að sá væri neinn á Vestfjörðum sem hér að væri sér samvitandi annar en þessi Erlingur Ketilsson, hvör fyrir nokkrum árum sé sigldur í England. Framar spurði biskupinn Bjarna að, hvort hann hefði ekki reynt á dáð né dugnað þessara pósta eður rúnastafa, versa eða formæla, hvað hann sagðist aldrei bragðað hafa og aldrei síðan skrifað.[139]

 

Í bréfabókinni frá Skálholti sjáum við líka til hvaða nota rúnastafirnir frá Kálfeyri og myndir sem fylgdu sumum þeirra voru ætluð. Alls voru galdrastykkin, sem biskup fékk í hendur frá skólameistara sínum þann 6. apríl 1664, áttatíu að tölu[140] og sýnist líklegast að Bjarni frá Hesti hafi komið með þau öll að vestan eins og drengurinn sem blöðin fundust hjá fullyrti. Hitt má þó vera að sum hafi átt sér annan uppruna því Bjarni vildi aðeins kannast við þau sem hann hafði sjálfur skrifað.

Fáein sýnishorn úr safni því sem fannst í rúmdýnunni nægja til að sýna um hvers konar galdrabrögð þarna var að ræða en í bréfabókinni er þeim öllum lýst og tíu af áttatíu með þessum orðum:

 1. Að útvega gras til að ljúka upp öllum lásum.
 2. Að kona fái ekki barn.
 3. Að gjöra konur lauslátar.
 4. Að forða stórfiskum að gjöra grand á útsjó.
 5. Að fráhverfa myrkfælni.
 6. Að útvega óskastein.
 7. Að vita hvör frá sér stelur.
 8. Að vita hvort kvensnipt er mey.
 9. Að smíða kvikasilfur.
 10. Að glíma vel með versi og þremur stöfum.[141]

 

Því miður vantar í bréfabókina sjálfa rúnastafina og myndirnar sem stundum fylgdu með. Séð frá bæjardyrum okkar sem nú lifum virðist þó greinilega hafa verið um fremur meinlítið kukl að ræða hjá Bjarna en í augum þeirra sem alteknir voru af ótta við brellibrögð Satans og særingar galdramanna horfði málið allt öðru vísi við.

Eins og hér hefur þegar verið rakið var Brynjólfur biskup Sveinsson það yfirvald sem fékk mál Bjarna frá Hesti til úrskurðar þegar galdrastafir hans voru dregnir fram í dagsljósið. Þar var Bjarni sérdeilis heppinn því galdrafárið náði aldrei að setja mark sitt á Brynjólf eða brengla hans góðu skynsemi (sjá hér Holt). Verr hefði örugglega farið fyrir Bjarna ef menn á borð við séra Pál Björnsson í Selárdal eða Þorleif lögmann Kortsson hefðu setið á biskupsstóli svo ekki sé minnst á hinn æra Jón þumlung, prest á Eyri við Skutulsfjörð. Engu að síður hlaut Brynjólfur að víkja Bjarna og Einari, félaga hans, úr skóla því í tilskipun Kristjáns konungs fjórða frá 27. febrúar 1643 voru gefin ströng fyrirmæli um að allir múgamenn sem uppvísir yrðu að meðferð rúnastafa skyldu án tafar gerðir landrækir.[142]

Brynjólfur biskup lét hins vegar hjá líða að afhenda piltana veraldlegum yfirvöldum[143] og gaf þeim þannig kost á að komast úr landi til að sleppa við aðrar og þyngri refsingar. Sumarið 1664 sendi biskup hinum danska fógeta Tómasi Nicolajsen skýrslu um mál piltanna tveggja sem vísað hafði verið úr skóla og kemst þar svo að orði:

 

En persónum þessum forvísaði ég strax skólann sem ég meinti vera eiga og fóru þeir fyrir utan vitnisburði strax deginum eftir héðan. Er sagt þeir séu í burtu af landi sigldir. Meira vissi ég ekki né kunni hér með að hafa. Guð bevari oss og vora alla vel fyrir öllum ósköpum í herrans nafni Amen.[144]

 

Orð Brynjólfs sýna að piltarnir hafa komist úr landi mjög skömmu eftir brottrekstur þeirra frá Skálholti, enda vitna fleiri heimildir um að svo hafi verið. Að þremur árum liðnum kom Bjarni aftur til landsins og í Eyrarannál segir svo frá útkomu hans árið 1667:

 

Kom út Bjarni Bjarnason undir Hesti, úr Englandi, í Austfjörðum. Hafði hann af Íslandi siglt út sökum nokkurs rúnakvers með 80 galdrastykkjum er í Skálholti fannst og hann með öðrum pilti, Einari Guðmundssyni að nafni frá Straumfirði, af ryktaður, hver og sigldi í England og þar dó. Fengu báðir refsingu í Skálholtsskóla og svo þaðan reknir svo ei framar tiltölu til þarvistar eiga skyldu eður andlega þéna. Reið Bjarni svo hingað vestur úr Austfjörðum.[145]

Í Vatnsfjarðarannál yngri er líka getið um útkomu Bjarna frá Hesti árið 1667, sagt að hann hafi verið í Englandi og tekið land á Austfjörðum við heimkomuna[146] svo öllu ber þessu vel saman hjá Í Vatnsfjarðarannál yngri er líka getið um útkomu Bjarna frá vestfirsku annálariturunum.

Ekki er vitað með vissu í hvaða mánuði Bjarni Bjarnason kom frá Englandi en líklegt er að það hafi verið um vorið eða snemma sumars. Hann hefur því að líkindum verið kominn heim til foreldra sinna á Hesti þegar Brynjólfur biskup kom til Önundarfjarðar í síðasta sinni síðla sumars þetta sama ár (sjá hér Holt). Vera má að strákurinn Bjarni og hinn aldurhnigni biskup hafi þá sést í svip en þeir voru reyndar allnánir ættingjar því Bjarni Jónsson á Hesti, faðir Bjarna Bjarnasonar, og Brynjólfur biskup voru þremenningar að frændsemi. Afar þeirra voru bræðurnir Magnús prúði og Staðarhóls-Páll Jónssynir sem margir þekkja enn.

Þegar Bjarna frá Hesti var vísað úr Skálholtsskóla árið 1664 var hann að sögn Brynjólfs biskups á nítjánda eða tuttugasta aldursári[147] sem kemur heim við aldur Bjarna í manntalinu frá 1703[148] og ætti hann því að hafa fæðst árið 1644 eða því sem næst. Hann hefur þá verið 35 ára er hann gekk í hjónaband árið 1679 og 43ja ára þegar hann fluttist búferlum frá Hesti að Arnarbæli á Fellsströnd árið 1687[149] en þá voru 20 ár liðin frá því hann kom heim frá Englandi.

Eiginkona Bjarna Bjarnasonar var Guðný Hákonardóttir frá Miðgörðum í Staðarsveit á Snæfellsnesi[150] og þegar þau gengu í hjónaband árið 1679 er Bjarni sagður eiga heima á Hesti.[151] Árið 1681 bjuggu þeir feðgar, Bjarni Jónsson og Bjarni Bjarnason, báðir á Hesti eins og hér hefur áður verið nefnt og líklegt má telja að sá síðarnefndi hafi ætíð átt hér heima uns hann fluttist að Arnarbæli, ef frá eru talin árin þrjú sem hann var erlendis. Árið 1681 höfðu þeir feðgar hvor sitt bú á Hesti[152] og má ætla að Bjarni Bjarnason hafi hafið hér sjálfstæðan búskap eigi síðar en árið 1679 þegar hann kvæntist Guðnýju konu sinni.

Enginn veit nú hvað valdið hefur brottflutningi Bjarna frá Hesti árið 1687 en á því ári tók hann sig upp og fluttist suður í Breiðafjarðarbyggðir þar sem hann fór að búa í Arnarbæli á Fellsströnd.[153] Bogi Benediktsson á Staðarfelli, sem átti Bjarna fyrir langalangafa (sjá hér bls. 17) segir að hann hafi átt Arnarbæli og fleiri jarðir í Dalasýslu og haldið betra suður þar.[154] Aðrir vildu meina að Bjarni hefði flust burt úr Önundarfirði til að losna undan hvimleiðum ertingum galdramanna.[155] Að vestan fór Bjarni með allt sitt á áttæring og þótti merkilegt ferðalag. Í Grímsstaðaannál sem Jón Ólafsson, lögréttumaður á Grímsstöðum í Breiðuvík, ritaði er sagt frá þessum búferlaflutningum[156] enda var höfundur annálsins tengdasonur Bjarna.[157] Í annálnum er ferð Bjarna frá Hesti að Arnarbæli lýst með þessum orðum:

 

Um vorið flutti sig Bjarni Bjarnason frá Hafurshesti í Önundarfirði til Arnarbælis á Skarðsströnd til sjóar á byrðuðum áttæring. Hann fór úr Önundarfirði fyrir Vestfirði að Látraröst, gegnum hana, framan Skor inn á Breiðafjörð suður undir Bjarneyjar, síðan suður undir land og upp Krosssund og upp á Arnarbælisvog. Vissu menn engan þann þennan veg hefði á skipi fyrr farið.[158]

 

Ætla má að þessir óvenjulegu sjóflutningar hafi á sínum tíma vakið mikið umtal og eins og vænta mátti komst sú þjóðsaga á kreik að í þessari háskaför hefði Bjarni þurft að grípa til kunnáttu sinnar í meðferð á sendingum galdramanna. Sagan komst síðar á prent og er á þessa leið:

 

Árið 1687 flutti hann [þ.e. Bjarni Bjarnason] sig frá Hafurshesti í Önundarfirði að Arnarbæli á Meðalfellsströnd í Dalasýslu á einum byrðingi mjög stórum. Fór hann úr Önundarfirði í kringum Vestfirði, suður fyrir Bjargtanga, yfir Látraröst og fyrir framan Skor. Fimm manna fars bát hafði Bjarni á eftir byrðingnum. Engan mann lét hann vera í bátnum en kaðall lá úr byrðingnum í bátinn og hafði Bjarni skran á honum. Vind hafði Bjarni hagstæðan, norðvestan að veðurstöðu, en veðrið óx svo opnum skipum var lítt fært á sjó að vera og voru þeir þá komnir í Látraröst. Bjarni var aftur á byrðingnum og sá þaðan strák á miðskipsþóftunni í bátnum þar sem enginn maður átti þó að vera. Var strákur þessi að færa sig æ lengra frameftir bátnum þangað til hann var kominn fram í barka. Bjarni gaf grannt gætur að þessu og þar með því að veðrið var nú sem mest að vaxa og sjór að umhverfast. Bjarni hélt á bolöxi, gekk að kaðlinum sem lá úr byrðingnum í bátinn, hjó á hann og sagði: „Farðu nú með bátinn og það í honum er, meira færðu ekki þó meira hefðirðu átt að sækja.” Strákurinn fór leið sína með bátinn og það sem í honum var en Bjarni sigldi til Bjarneyja á Breiðafirði og þaðan til Arnarbælis á Fellsströnd því það var eignarjörð hans. Bæði átti hann margar jarðir á Meðalfellsströnd og stóreignir vestur í Önundarfirði en fór þaðan vegna galdra því öfund lá á honum svo hann hélst þar ekki við vegna ásókna og sendinga og var ein af þeim strákurinn sem hann gaf fimm manna farið á vald í Látraröst sem nú var sagt og höfðu öfundarmenn Bjarna sent honum hann til að drepa hann á þessari hættuför í kringum Vestfirði.[159]

 

Í Arnarbæli á Fellsströnd átti Bjarni fram undan langa ævi er hann settist þar að vorið 1687. Árið 1695 varð hann lögréttumaður og sat í lögréttu við Öxará á átta þingum.[160] Stuttu fyrir aldamótin 1700 gegndi Bjarni líka sýslumannsstörfum í Dalasýslu í eitt eða tvö ár sem fulltrúi Páls Vídalín, síðar lögmanns.[161] Mannvirðingar þessar sýna að þó slysalega tækist til með skólagönguna hjá Bjarna hefur hann síðar á ævinni notið mikils trausts og þótt vel til forystu fallinn. Hnan bjó í Arnarbæli til æviloka og andaðist árið 1723.

Bjarni Bjarnason frá Hesti og Guðný kona hans komu upp nokkrum börnum og niðjahópur þeirra stækkaði ört. Eitt margra barnabarna þessara hjóna var Bogi Benediktsson í Hrappsey sem fæddist sama árið og Bjarni afi hans lést.[162] Hinir fjölmörgu niðjar Boga geta því allir rakið ætt sína til piltsins frá Hesti sem vísað var úr Skálholtsskóla vorið 1664 fyrir að eiga í fórum sínum merkileg galdrablöð frá verstöðinni á Kálfeyri og svo er um marga fleiri.

Enda þótt Bjarni Bjarnason flyttist frá Hesti vorið 1687 hélt hann eignarhaldi á jörðinni og átti hana enn árið 1710.[163] Mjög líklegt má reyndar telja að Bjarni hafi átt Hest alveg til dauðadags og jörðin hafi síðan gengið að erfðum til niðja hans því árið 1762 var Bogi Benediktsson í Hrappsey, dóttursonur Bjarna, eigandi hennar.[164]

Tæplega hálfri öld síðar eða nánar tiltekið árið 1805 var öll jörðin komin í eigu Guðmundar Egilssonar á Hóli[165] og hlýtur þar að vera um að ræða Guðmund Egilsson á Hóli í Bakkadal í Arnarfirði.[166] Guðmundur var þá 60 ára gamall, hættur búskap og kominn í húsmennsku.[167] Kona hans,sem hét Guðrún Ásbjörnsdóttir, var þá enn á lífi.[168] Um hugsanleg ættartengsl Guðmundar Egilssonar við Boga gamla í Hrappsey, sem átti Hest árið 1762, er ekki kunnugt, enda hefur þeirra ekki verið leitað.

Um 1880 áttu Guðmundur Björnsson á Núpi í Dýrafirði og Þuríður Gísladóttir, kona hans, heimajörðina á Hesti.[169] Efrihús voru þá í eigu Þorvaldar Ingimundarsonar í Feigsdal í Arnarfirði en Neðrihús átti Ólafur Jónsson í Haukadal í Dýrafirði.[170] Í byrjun 20. aldar átti Matthías Ólafsson í Haukadal Neðrihús[171] en hann var sonur Ólafs Jónssonar sem þau hafði átt. Efrihús voru árið 1901 komin í eigu Kjartans Rósinkranzsonar frá Tröð, sem þá var orðinn skútuskipstjóri á Flateyri, en heimajörðina á Hesti áttu þá bræðurnir Jóhannes Kristjánsson, bóndi á Hesti, og Bjarni Hermann Kristjánsson, fyrrverandi skipstjóri á Ísafirði.

Hér var áður frá því greint að árið 1681 bjuggu aðeins tveir bændur á Hesti, feðgarnir Bjarni Bjarnason og Bjarni Jónsson (sjá hér bls. 17). Gera má ráð fyrir að annar þeirra hafi búið í Efrihúsum því sumarið 1710 sögðu Önfirðingar Árna Magnússyni að þar hefði verið búið lengur en elstu menn mundu.[172] Líklegt er að Bjarni Jónsson, faðir Bjarna Bjarnasonar, hafi látist eða a.m.k. hætt búskap á árunum 1682-1684 en á þeim árum hófst búskapur í tveimur hjáleigum sem þá risu í túninu á Hesti eða rétt utan við það og var önnur kölluð Hesthús neðri eða Neðrihús en hin Múli eða Múlakot. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er staðhæft að í Neðrihúsum hafi búskapur fyrst hafist árið 1684 en nokkrum árum fyrr í Múlakoti.[173] Harla ólíklegt virðist að annar hvor nýnefndra feðga, sem áttu alla jörðina, hafi farið að hokra í Múlakoti og verður því að gera ráð fyrir að búskapur hafi fyrst hafist í þeirri hjáleigu árið 1682 eða 1683 því árið 1681 voru engir bændur á Hesti eða í hjáleigum þessarar jarðar nema títtnefndir feðgar, Bjarni Bjarnason og Bjarni Jónsson. Ótvírætt er að á síðustu búskaparárum Bjarna Bjarnasonar hér á Hesti fjölgaði hjáleigunum úr einni í þrjár[174] og allar héldust þær í byggð næstu áratugi.

Árið 1710 bjó maður sem Jón Ingimundarson hét í Múlakoti og mátti kallast þurrabúðarmaður því enga hafði hann kúna.[175] Allur bústofn Jóns var á því ári þrjár leiguær, fimm sauðir, flestir veturgamlir, og fimm lömb.[176]

Árið 1762 kynni enn að hafa verið búið í Múlakoti því þá voru þrír hjáleigubændur á Hesti.[177] Hugsanlegt er þó að kotið hafi verið komið í eyði því ekki er útilokað að tveir bændur hafi búið í Efrihúsum eða Neðrihúsum. Árið 1775 var Múlakot tvímælalaust fallið úr byggð því Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði á því ári, segir svo vera.[178] Nafnið á þessari hjáleigu er reyndar dálítið á reiki því að í Jarðabókinni frá 1710 er hún nefnd Múli en tekið fram að aðrir nefni hana Múlakot og nokkrir Steinhús.[179]

Í Jarðabókinni er tekið fram að kot þetta hafi engan vissan dýrleika en engjablettir sem því fylgi séu úr landi heimajarðarinnar á Hesti eins og hún var áður en byggð hófst í Neðrihúsum árið 1684.[180] Þegar farið var að búa í Múla upp úr 1680 var landskuld af kotinu tvær vættir en árið 1710 var landskuldin komin niður í eina vætt,[181] einn sjötta hluta úr kýrverði. Til samanburðar má nefna að landskuld af Neðrihúsum var þá tvær vættir og tveir fjórðungar,[182] það er rösklega einn þriðji úr kýrverði, og af Efrihúsum var árið 1710 greidd sama landskuld og af Neðrihúsum.[183] Á 19. öld mun aldrei hafa verið búið í Múlakoti[184] en á fyrstu árum 20. aldar fór þurrabúðarfólk að búa þar á nýjan leik (sjá hér bls. 60-61). Sú byggð stóð þó ekki lengi.

Hinar hjáleigurnar tvær, Efrihús og Neðrihús, sem í gömlum heimildum eru oft nefndar Hesthús efri og Hesthús neðri, héldust báðar í byggð fram á 20. öld (sjá hér bls. 57)

Hjáleigurnar Efrihús og Neðrihús töldust hvor um sig vera 12 hundruð að dýrleika árið 1710 en heimajörðin sjálf 24 hundruð.[185] Um miðbik 19. aldar varð ákveðin breyting á þessari skiptingu eins og hér hefur áður verið greint frá (sjá bls. 1-2 )

Áður en Bjarni Jónsson fluttist að Hesti árið 1648 (sjá hér bls. 15-16) munu leiguliðar hafa búið á jörðinni. Landskuldin var þá 30 aurar af sjálfri heimajörðinni og 10 aurar af Efrihúsum sem þá voru eina hjáleigan,[186] það er 240 álnir eða sem svaraði tveimur kúgildum af allri jörðinni ef marka má það sem gamall Önfirðingur, Jón Bjarnason á Hvilft, sagði Árna Magnússyni sumarið 1710.[187] Þegar Bjarni Bjarnason, sem átti jörðina, fór frá Hesti árið 1687 fjölgaði bændum hér brátt verulega og árið 1703 voru þeir sjö á allri torfunni. Landskuldin fór þá upp í 17 vættir,[188] það er 340 álnir, og vantaði þá aðeins eina vætt upp á þrjú kúgildi. Á árunum 1687-1707 hélst landskuldin í þessu horfi og skiptist þannig að fyrir heimajörðina var goldin 7½ vætt, fyrir Efrihús 3 vættir og 6 fjórðungar (í landaurareikningi voru 8 fjórðungar í hverri vætt), fyrir Neðrihús 3 vættir og 6 fjórðungar og fyrir Múlakot 2 vættir.[189] Bóluárið 1707 lækkaði heildarlandskuldin úr 17 vættum í 10 vættir og skiptist lækkunin þannig að landskuld af heimajörðinni og báðum stærri hjáleigunum lækkaði um 40% en landskuld af Múlakoti féll úr tveimur vættum í eina.[190]

Árið 1753 var landskuld af allri jörðinni 16 vættir,[191] það er 320 álnir, og því álíka há og verið hafði fyrir stórubólu. Árið 1805 var hún hins vegar miklu lægri eða 108 álnir sem skiptust þannig að af heimajörðinni voru greiddar 54 álnir en 27 af hvorri hjáleigu, Efrihúsum og Neðrihúsum.[192] Árið 1847 var landskuldin komin upp í 320 álnir á ný[193] eins og verið hafði um miðbik 18. aldar. Um 1920 var landskuldin hins vegar komin niður í 100 álnir því þá áttu bændur á Hesti og í Efrihúsum að greiða 2 ær loðnar og lembdar í jarðarafgjald en sá sem bjó í Neðrihúsum aðeins eina á.[194]

Í heimildum frá 18. og 19. öld má sjá ýmislegt um formið á greiðslu landskuldarinnar. Sem dæmi má nefna að á árunum kringum 1700 var bóndanum í Efrihúsum gert að greiða einn þriðja landskuldarinnar í fríðu, annan þriðjung með innleggi í kaupstað og þann þriðja í fóðri.[195] Árið 1710 áttu bændur á Hesti að greiða jarðarafgjaldið með ríkisdölum og var dalurinn metinn á 10 fjórðunga,[196] það er liðlega einn fimmta úr kýrverði í þeim viðskiptum. Árið 1805 þurftu bændur á Hesti (heimajörðinni) að greiða þrjá tveggja ára sauði í landskuld, sem metnir voru allir til samans á 45 álnir, og svo að auk 18 pund af ull sem voru virt á 9 álnir.[197] Af Efrihúsum var landskuldin hins vegar einn tveggja ára sauður og 24 pund af ull þetta sama ár og sömu landskuld var bóndanum sem þá bjó í Neðrihúsum gert að greiða.[198]

Hér var áður frá því greint að Guðmundur ríki Arason á Reykhólum hefði átt Hest á fyrri hluta 15. aldar (sjá hér bls. 8-9) og er hann fyrsti eigandi jarðarinnar sem um er vitað með vissu. Á hans dögum fylgdu jörðinni 8 leigukúgildi.[199] Á árunum kringum 1640 áttu landeigendur hins vegar 10 innstæðukúgildi á Hesti og 4 til viðbótar í Efrihúsum[200] svo þarna hafði orðið veruleg fjölgun. Árið 1710 voru leigukúgildin svo orðin 16½ á jörðinni allri, það er 8 á Hesti (heimajörðinni), 4 í Efrihúsum, 4 í Neðrihúsum og hálft kúgildi (það er 3 ær) í Múlakoti.[201] Lögleiga fyrir hvert kúgildi var 10 kíló af smjöri eins og hér hefur fyrr verið nefnt svo alls hefur þáverandi eigandi jarðarinnar, Bjarni Bjarnason í Arnarbæli á Fellsströnd, átt að fá greidd 165 smjörkíló á ári í leigu fyrir kúgildi sín á Hesti. Leigurnar átti að borga í peningum[202] því of langt var að fara með smjörið til eigandans. Samtals þurftu landsetar Bjarna á Hesti að greiða liðlega 13 ríkisdali á ári í kúgildaleigur því 12½  kíló af smjöri var lagt á móti einum ríkisdal.[203]

Árið 1753 voru leigukúgildin orðin nokkru færri en verið hafði 1710 eða tólf í stað sextán og hálfs[204] og árið 1847 var sú tala óbreytt.[205] Eitt kúgildi, það er 6 ær, hafa þá fylgt hverjum fjórum jarðarhundruðum á Hesti.

Á árunum kringum 1920 var fjöldi leigukúgildanna sem fylgdu býlunum í Hestþorpinu kominn niður í 7 og ½ því þá voru 18 leiguær á Hesti, 18 í Efrihúsum og 9 í Neðrihúsum.[206] Ársleiga fyrir hvert kúgildi var þá enn hin sama og mælt var fyrir um í gömlu Jónsbók, það er 10 kíló af smjöri.[207]

Þegar Bjarni Bjarnason, sem átti jörðina, bjó sjálfur á Hesti á árunum kringum 1680 varð leiguliðinn í Efrihúsum að standa við slátt hjá Bjarna í 3 daga á hverju sumri[208] og bættist þessi sérstaka kvöð við greiðslur á landskuld og leigum fyrir kúgildin. Þegar Bjarni fluttist suður í Breiðafjarðarbyggðir árið 1687 (sjá hér bls. 21-23) féll þessi kvöð niður[209] en í staðinn var 6 fjórðungum bætt við landskuldina.[210] Af þessu má ráða að hvert dagsverk við slátt hafi undir lok 17. aldar verið virt á 2 fjórðunga í landaurareikningi, það er 5 álnir, og hefur þá verið greitt eitt kýrverð fyrir 24 dagsverk eða fjórðungur úr kýrverði fyrir vinnuvikuna. Á bændurna í hjáleigunum, sem búskapur hófst í á síðustu árum Bjarna hér vestra, lagði hann engar kvaðir nema þá að bóndanum í Múlakoti var gert að róa á skipi Bjarna um vertíð.[211] Sú kvöð féll svo niður þegar Bjarni fluttist burt.[212]

Á 18. öld og allra fyrstu árum 19. aldar munu oftast hafa búið fimm, sex eða sjö bændur á Hesti, það er að segja í öllu Hestþorpinu[213] en á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta hinnar tuttugustu var byggðin undir Hesti oft nefnd einu nafni Þorpið, það er heimajörðin á Hesti ásamt hjáleigum og þurrabúðum.[214] Árið 1703 voru bændurnir sem hér bjuggu 7 en ekki verður séð hversu margir þeirra sátu á heimajörðinni.[215] Árið 1762 bjuggu 3 bændur á heimajörðinni og 3 í hjáleigunum en árið 1801 bjuggu 4 á heimajörðinni og 2 í hjáleigunum.[216]

Á fyrstu árum 19. aldar fækkaði bændum í Hestþorpinu verulega því árið 1805 voru þeir ekki nema þrír[217] og sú tala hélst síðan nokkuð stöðug út alla nítjándu öldina.[218] Frávik eru þó finnanleg og má sem dæmi nefna að árið 1835 voru bændur í Hestþorpinu fjórir.[219]

Af hinum fjölmörgu bændum sem bjuggu á Hesti á 18. öld og þeirra skylduliði fer harla fáum sögum en ýmislegt er vitað um suma þeirra er hér ólu aldur sinn á 19. öld.

Fyrsti bóndinn sem vitað er með vissu að hafi búið í Efrihúsum og þekktur er með nafni hét Nikulás Þórðarson og er sagður 41 árs gamall í Manntalinu frá 1703.[220] Kona hans hét Elín Hákonardóttir og voru þau við búskap í Efrihúsum á fyrstu árum 18. aldar.[221] Í Neðrihúsum áttu þá heima hjónin Hallur Sturluson og Vigdís Þórðardóttir, bæði fædd um 1665, og hafa því verið um tvítugt þegar fyrst var farið að búa í þeirri hjáleigu (sjá hér bls. 1).

Árið 1762 bjó maður að nafni Sighvatur Atlason í annarri hjáleigunni á Hesti og er þá sagður 29 ára gamall.[222] Líklegt má telja að Atli Sighvatsson sem bjó fertugur að aldri í Efrihúsum árið 1801[223] hafi verið sonur þessa Sighvats. Kona Atla Sighvatssonar hét Þorgerður Jónsdóttir og hafði áður verið gift Páli Jónssyni sem andaðist árið 1792.[224] Árið 1801 voru átta börn Þorgerðar heima í Efrihúsum, hið elsta 12 ára.[225] Þrjú þeirra hafði hún eignast með Páli en fimm með Atla.[226] Árið 1816 bjuggu þau Atli og Þorgerður enn í Efrihúsum.[227]

Páll Jónsson í Efrihúsum, sem hér var nefndur, fyrri maður Þorgerðar, varð úti í nóvembermánuði árið 1792 við lambaleit og fannst lík hans ekki fyrr en næsta sumar.[228] Um ævilok Páls 8. nóvember 1792 skráir prestur þessi orð í bók sína: Hvarf burt maður al. Páll Jónsson, bóndinn frá Efri-Hesthúsum, 30 ára gamall. Var að leita eftir lömbum. Hefur ei síðan fundist og meinast dauður í fjöllum.[229]

Átta og hálfum mánuði síðar, þann 21. júlí 1793, bætir prestur þessum orðum við: Grafin bein Páls Jónssonar, bóndans á Hesthúsum efri, hvör að fundust þann 19. ejusdem [þessa mánaðar] undir fjalli.[230]

Einn fjögurra bænda, sem bjuggu á heimajörðinni á Hesti árið 1801, hét Jón Jónsson en kona hans var Guðrún Gísladóttir.[231] Þau voru þá bæði á sjötugsaldri.[232] Eitt barna þessara hjóna var Geirlaug Jónsdóttir, fædd 1768 eða því sem næst, sem árið 1801 var húsfreyja í Neðrihúsum.[233] Hennar maður var Björn Jónsson, fæddur á Kaldá árið 1760, en hjón þessi bjuggu lengi í Neðrihúsum á árunum milli 1790 og 1820.[234] Meðal barna þeirra var Ragnheiður, f. 1793, sem varð kona Árna Mahalaleelssonar[235] en hann var norðan úr Aðalvík og var árið 1816 tvítugur smaladrengur í Tungu í Skutulsfirði.[236] Sonur Björns og Geirlaugar í Neðrihúsum var Jón Björnsson, fæddur 1800, sem varð bóndi á Tannanesi (sjá hér Tannanes).

Einn þeirra sem bjuggu á heimajörðinni á Hesti árið 1801 var Sveinn Jónsson sem sagður er 41 árs í manntalinu frá því ári.[237] Kona Sveins var Guðrún, dóttir Jóns Magnússonar, bónda á Eyri í Önundarfirði, og var hún um það bil 8 árum yngri en eiginmaðurinn.[238] Í varðveittum heimildum verður fyrst vart við Svein árið 1786 en þá var hann vinnupiltur á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[239] Vorið 1789 voru þau Guðrún gefin saman í Dalskirkju í Valþjófsdal og fjórum árum síðar voru þau farin að búa á hálfum Þorfinnsstöðum.[240] Að Hesti fluttust þau á árunum 1794-1800 og bjuggu þar uns Sveinn drukknaði vorið 1812.[241]

Í mannskaðanum mikla 6. maí 1812 týndu 45 Önfirðingar lífi og var Sveinn Jónsson á Hesti einn þeirra. Átta bátar sem reru úr Önundarfirði fórust þá sama daginn, þar af sjö með allri áhöfn, alls 49 mönnum (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Þeir Sveinn á Hesti og Sveinn Oddsson á Vífilsmýrum voru forráðamenn á einum bátanna sjö sem týndust með allri áhöfn þennan dag eins og hér hefur áður verið rakið. Þegar 155 ár voru liðin frá mannskaðanum mikla kom út bókin Niðjatal Sveins Jónssonar bónda á Hesti í Önundarfirði og Guðrúnar Jónsdóttur konu hans. Höfundur hennar er Eyjólfur Jónsson, fæddur á Flateyri árið 1917.

Þegar Sveinn drukknaði vorið 1812 áttu þau Guðrún kona hans aðeins tvö börn á lífi, drengi sem báðir hétu Jón og var sá eldri 18 ára en sá yngri á fimmta ári.[242] Þó að börnin væru ekki fleiri en þetta fjölgaði niðjunum ört og voru þeir árið 1967 orðnir nokkuð á annað þúsund.[243]

Skömmu eftir mannskaðann mikla voru bú flestra þeirra sem drukknuðu skrifuð upp og eru þær uppskriftir enn varðveittar (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Í bók sinni um niðja Sveins á Hesti birtir Eyjólfur Jónsson útskrift úr skiptabók Ísafjarðarsýslu þar sem allar eigur Sveins eru taldar upp og líka skuldirnar.[244] Að frádregnum skuldum og kostnaði við uppskrift og skiptingu dánarbúsins nam verðmæti eignanna 57 ríkisdölum og 60 skildingum[245] en kýrnar tvær sem Sveinn átti voru virtar á 14 og 16 ríkisdali[246] svo alls hafa skuldlausar eignir búsins verið metnar á tæplega fjögur kýrverð. Í uppskrift sýslumanns kemur fram að bát þeirra Sveins á Hesti og Sveins á Vífilsmýrum rak upp vestur í Arnarfirði nokkru eftir mannskaðann og var hann virtur á 10 ríkisdali og 48 skildinga en helmingur þeirrar fjárhæðar kom í hlut dánarbúsins á Hesti.[247]

Fróðlegt er að sjá það sem sýslumaður bókar um búpening Sveins á Hesti og Guðrúnar konu hans en sú upptalning er á þessa leið:

 

Hvít kýr 18 vetra                                         14    ríkisdalir

                Svört kýr 14 vetra, snemmbær                    16    ríkisdalir

                Svört kvíga 2 vetur, ófengin                          6    ríkisdalir

                5 sauðir 2 vetrir                                          10    ríkisdalir

                2 gemlingar                                                   4    ríkisdalir

                Bleikur hestur 16 vetra, haltur                      5    ríkisdalir

                Foli, 2 vetur, óvanaður                                 4    ríkisdalir.[248]

 

Athygli vekur að dánarbúið virðist ekki hafa átt eina einustu á. Allar ær á búinu hafa því fylgt jörðinni.

Fatnaður sem Sveinn á Hesti lét eftir sig var þessi: Vaðmálsmussa borin, önnur vaðmálsmussa lasin og borin, tvær ljósbláar peysur, nokkuð bornar, blár klæðisbolur, tvíhnepptur og slitinn, sortaðar buxur, bornar, aðrar sortaðar buxur, bættar, tvær skyrtur úr einskeftu vaðmáli, önnur borin en hin betri, svartar nærbuxur bornar, tvennir sokkagarmar, aðrir hvítir en hinir mórauðir, mórauðir nýir sokkar og sortaðir gamlir sokkar, bláir vettlingar, sortuð síðhempa lasin.[249]

Verðmestu flíkurnar í þessu fatasafni voru ljósbláu peysurnar en önnur þeirra var virt á einn ríkisdal og hin á einn ríkisdal og 8 skildinga.[250] Annað sem til var í búi Sveins Jónssonar á Hesti verður ekki talið upp hér en minnt skal á útskrift af dánarbúi Ólafs Jónssonar, bónda í Mosdal, sem birt er á öðrum stað í þessu riti en eins og Sveinn á Hesti var Ólafur einn hinna mörgu Önfirðinga sem drukknuðu 6. maí 1812.

Guðrún Jónsdóttir, ekkja Sveins Jónssonar, bjó áfram á Hesti í nokkur ár að manni sínum látnum[251] en fluttist síðan að Innri-Veðrará og bjó þar um skeið með sonum sínum[252] en þeir urðu báðir bændur í Önundarfirði. Jón eldri bjó meðal annars í Neðri-Breiðadal en Jón yngri í Fremri-Breiðadal og síðast á Hvilft.[253]

Árið 1820 fluttust að Hesti frá Næfranesi í Dýrafirði hjónaefnin Jón Guðmundsson og Þuríður Kolbeinsdóttir.[254] Bæði voru þau þá um þrítugsaldur.[255] Þuríður var fædd á Hrauni í Keldudal árið 1790[256] en Jón var fæddur í Núpssókn í Dýrafirði.[257] Þegar Jón og Þuríður komu að Hesti voru þau enn ógift en haustið 1821 voru þau pússuð saman og bjuggu æ síðan á Hesti uns Jón andaðist haustið 1853 en Þuríður komst á tíræðisaldur og dó á Hesti árið 1881.[258] Niðjar Jóns og Þuríðar bjuggu lengi á Hesti, fyrst Steinunn dóttir þeirra og hennar eiginmaður, sem hét Sveinn Pálsson, og síðan dótturdóttirin, Jónína Sveinsdóttir, sem bjó á Hesti með eiginmanni sínum, Jóhannesi Kristjánssyni, allt til ársins 1910.[259] Þegar Jónína fór frá Hesti voru 90 ár liðin frá því afi hennar og amma settust þar að.

Faðir Þuríðar Kolbeinsdóttur var Kolbeinn Hildibrandsson, fæddur 1763, sem fluttist með dóttur sinni og verðandi tengdasyni að Hesti árið 1820 og dó þar hálfníræður 2. desember 1848.[260] Kolbeinn var bróðir Skúla Hildibrandssonar sem bjó á Birnustöðum í Dýrafirði á árunum kringum 1800[261] og frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Birnustaðir). Í manntalinu sem tekið var árið 1801 eru þeir báðir sagðir vera 38 ára gamlir[262] og kynnu því að hafa verið tvíburar. Eitt barna Skúla á Birnustöðum var dóttirin Rósa sem fæddist á Birnustöðum árið 1799 og kom sem vinnustúlka utan af Ingjaldssandi að Tungu í Önundarfirði árið 1824.[263] Næstu árin mun Rósa hafa dvalist í nágrenni við frænku sína, Þuríði Kolbeinsdóttur, og svo fór að Jón bóndi á Hesti, eiginmaður Þuríðar, ruglaðist á þeim frænkum og gerði Rósu barn, sem fæddist 10. febrúar árið 1834, en Rósa var þá vinnukona hjá Jóni bónda og Þuríði frænku sinni.[264] Hans 1. hórdómsbrot. Hennar 1. frillulífsbrot, bókar prestur við þessa barnsfæðingu.[265]

Í skjölum Vesturamtsins er varðveitt bréf sem sýnir að Þuríður, húsfreyja á Hesti, hefur brugðist stórmannlega við þessari hrösun bónda síns. Nokkrum vikum eftir fæðingu barnsins sendi hún hinu háa amti bónarbréf og fór þess á leit að manni sínum yrði hlíft við öllu straffi vegna hórdómsbrotsins. Bréfið er á þessa leið:

 

Ég undirskrifuð fátæk heilsuhrum og umkomulítil konuskepna dirfist hér með að fram koma fyrir Vesturamtið á Íslandi með þá auðmjúku bæn að það svoframt lög leyfa vildi náðugast tilgefa manni mínum, Jóni Guðmundssyni, sem þann 10. október síðastliðna varð í fyrsta sinn opinber að barnseign framhjá mér með ógiftri bláfátækri stúlku – það straff eður sekt sem hann hefur sér þar með verðskuldað.

Þetta hans brot er honum af mér hjartanlega fyrirgefið og vil ég í öllu sem mér er mögulegt vera honum eins ástúðleg framvegis meðan lifum saman eins og ekkert hefði í orðið og af fremsta megni aðstoða hann að uppala og forsorga svo vel okkar eigin lifandi 4 börn sem þetta nú aflaða.

Hér upp á vona ég viðkomandi herra sýslumannsins þóknanlegrar áteiknunar og síðan í stærstu undirgefni amtsins náðugrar bænheyrslu.

Hafurhesti við Önundarfjörð þann 4. desember 1834.

                    Undirgefnast

                    Þuríður Kolbeinsdóttir.[266]

 

Bjarni Þorsteinsson, amtmaður á Stapa, sem fékk þetta bréf Þuríðar í hendur, tók erindinu vel og féllst á að sleppa bónda hennar við allar refsingar og sektargreiðslur fyrir hórdómsbrotið.[267]

Því miður gafst Þuríði á Hesti hins vegar ekki kostur á að ala upp þetta hórbarn bónda síns, drenginn Rósinkranz, því hann sálaðist á fyrsta ári.[268] Rósa Skúladóttir, frænka Þuríðar og barnsmóðir Jóns bónda, var hins vegar enn vinnukona í Efrihúsum árið 1845,[269] þegar liðið var á annan áratug frá því Rósinkranz sonur hennar fæddist og dó, en í varðveittum heimildum ríkir þögn um samlíf fólksins í Hestþorpinu á þeirri tíð.

Tvímælalaust er að Jón Guðmundsson á Hesti hefur verið með gildari bændum í Mosvallahreppi á sinni tíð. Yfirleitt mun hann hafa búið einn á allri heimajörðinni á Hesti og því verið með 24 jarðarhundruð til ábúðar.[270] Árið 1837 bjó aðeins einn annar bóndi í Mosvallahreppi á svo mörgum jarðarhundruðum ef frá eru taldir sýslumaður og prestur.[271] Á því ári var Jón á Hesti með 24 ær í kvíum og í öllum hreppnum voru þá aðeins þrír sléttir bændur með fleiri kvíaær.[272] Kýrnar á Hesti voru hins vegar bara tvær eins og algengast var hjá miðlungsbændum.[273]

Jón Guðmundsson á Hesti andaðist haustið 1853[274] og var þá hálfsjötugur eða þar um bil.[275] Hann var þá hættur búskap fyrir nokkrum árum því vorið 1850 voru Steinunn dóttir hans og Sveinn Pálsson, hennar maður, tekin við jörðinni.[276]

Önnur dóttir Jóns Guðmundssonar á Hesti og Þuríðar Kolbeinsdóttur, eiginkonu hans, var Þuríður Jónsdóttir sem fæddist 10. ágúst 1824.[277] Hún giftist haustið 1845 alnafna föður sína, Jóni Guðmundssyni sem árið 1816 var 2ja ára barn á Kaldá.[278] Í manntalinu frá 1845 sést að þessi ungu hjón áttu þá heima á Hesti hjá foreldrum Þuríðar yngri[279] en hún andaðist voveiflega þremur árum síðar, varð úti á leið milli Kirkjubóls í Korpudal og Hests.[280]

Þegar gamla Þuríður Kolbeinsdóttir missti þessa hálfþrítugu dóttur sína var hún sjálf komin um sextugt en átti þó enn marga ævidaga fram undan því hún náði að verða fjörgömul. Haustið 1880 var hún hjá hjónunum Jóhannesi Kristjánssyni og Jónínu Sveinsdóttur, sem þá voru tekin við búsforráðum á Hesti,[281] en Jónína var dótturdóttir hennar.[282] Þá var gamla konan orðin níræð.[283] Magnús Hjaltason, sem fæddur var árið 1873 og ólst upp í Efrihúsum og á Hesti, mundi eftir Þuríði Kolbeinsdóttur og segir svo frá henni:

 

… hún hafði alist upp á Næfranesi í Dýrafirði og var nú orðin fjörgömul og lögst í kör. Hún hafði verið „mesta manneskja”. Var alsagt að hún ynni það á nóttunni sem hún á daginn (á halasnældu).  Meðan hún var á fótum hafði hún haft þann sið á hverju gamlárskvöldi að ganga með ljós (lýsislampa) þrívegis umhverfis bæinn og segja: „Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að skaðalausu.” Þuríður sáluga var góð við mig.[284]

 

Þuríður dó á Hesti sumarið 1881, komin á tíræðisaldur.[285] Síðasta aldarþriðjunginn sem hún lifði var hún lengst í skjóli Steinunnar dóttur sinnar á Hesti[286] en Steinunn og eiginmaður hennar tóku hér við búi eins og áður var nefnt eigi síðar en 1850. Sveinn Pálsson, eiginmaður Steinunnar, varð skammlífur en Steinunn var lengi búandi ekkja á Hesti.[287]

Ári 1850 bjó Páll Þorláksson í Efrihúsum en Ólafur Kolbeinsson í Neðrihúsum.[288] Ólafur var bróðir Þuríðar Kolbeinsdóttur, húsfreyju á Hesti, sem hér var  frá sagt[289] en mun hafa verið nær 20 árum yngri en systir hans. Ólafur hóf búskap í Neðrihúsum á árunum upp úr 1830[290] og bjó þar enn árið 1855 en mun hafa andast skömmu síðar.[291] Kona Ólafs var Elín Markúsdóttir, fædd í Keflavík norðan Súgandafjarðar um 1807.[292] Eitt barna Ólafs Kolbeinssonar og Elínar var Ingileif Steinunn, sem fæddist árið 1841, en hún giftist Guðmundi J. Pálssyni og varð húsfreyja á Kirkjubóli í Bjarnardal (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal), kona margfróð sem náði háum aldri.

Annað barn Ólafs Kolbeinssonar í Neðrihúsum og Elínar konu hans var Markús sem bjó hér eitthvað með móður sinni að Ólafi látnum[293] en varð síðar bóndi á Kotum. Markús hætti búskap í Neðrihúsum vorið 1863 og þá voru bæjarhúsin tekin út.[294] Baðstofan taldist þá vera 6 x 3 álnir,[295] það er rétt liðlega 7 fermetrar, og mátti vart minni vera. Ætla má að stærðin hafi verið sú sama á búskaparárum foreldra Markúsar. Hæð baðstofuhússins var aðeins 3,14 metrar eða því sem næst[296] svo að gera má ráð fyrir að í því hafi allt verið á einni hæð og ekkert loft. Önnur bæjarhús voru eldhúsið sem var tæplega 5 fermetrar[297] og svo göngin en þau voru fimm metrar á lengd og tæplega áttatíu sentimetrar á breidd.[298] Bæði í eldhúsi og göngum gat fólk staðið upprétt því að lofthæð var um það bil tveir metrar.[299]

Páll Þorláksson, sem áður var nefndur og bjó í Efrihúsum í Hestþorpinu um miðja 19. öld, var fæddur á Láganúpi í Kollsvík í Rauðasandshreppi en kona hans, Helga Ebenezersdóttir, á Ytri-Kárastöðum í Vestur-Húnavatnssýslu.[300] Páll og Helga  hófu búskap í Efrihúsum á árunum upp úr 1840[301] og þar andaðist Páll úr holdsveiki árið 1859.[302]

Magnús Hjaltason dagbókaritari sem ólst upp í Efrihúsum og á Hesti, fæddur 1873, kunni margar sögur af Páli Þorlákssyni og Helgu konu hans í Efrihúsum og hefur að líkindum haft þær flestar frá Margréti Bjarnadóttur, fóstru sinni, sem varð húsfreyja í Efrihúsum árið 1861 en átti áður heima í Tungu í Firði (sjá hér bls. 39 og 42-43. Sbr. Tunga í Firði), örskammt frá bæjunum undir Hesti. Magnús segir að Páll í Efrihúsum hafi verið greindur vel og hagorður og getur þess að hann hafi m.a. ort Formannarímu um bátaformenn í Bolungavík.[303] Að sögn Magnúsar orti Páll rímu þessa fyrir bón Guðmundar Sturlusonar sem var ráðsmaður hjá Kristínu Þórarinsdóttur er bjó í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði um 1855 (sjá hér Innri-Hjarðardalur og Staður) en seinna á Stað í Súgandafirði.[304] Formannarímuna mun Páll hafa ort á sínum síðustu árum því hann var þá orðinn holdsveikur og lá í kör ef marka má orð Magnúsar.[305] Eitthvað af börnum eignaðist Páll með Helgu konu sinni og a.m.k. eitt fram hjá henni árið 1845 með Kristínu Jónsdóttur, giftri konu í Efrihúsum,[306] sem þó mun hafa staldrað þar stutt við því ekki finnst hún þar í manntölum.[307] Þessi barnsgetnaður var hennar þriðja hórdómsbrot[308] en barnið sem fæddist 15. mars 1845 var piltur og hlaut nafnið Kristján.[309] Ekki varð hann langlífur og mun hafa dáið á fyrsta ári.[310]

Árið 1860 bjuggu ekkjur á öllum þremur býlunum í Hestþorpinu.[311] Helga Ebenezersdóttir, ekkja Páls Þorlákssonar, bjó þá í Efrihúsum, Steinunn Jónsdóttir, ekkja Sveins Pálssonar, bjó á Hesti og Elín Markúsdóttir, ekkja Ólafs Kolbeinssonar, í Neðrihúsum.[312] Allar voru þær á sæmilegum aldri, Steinunn sögð 40 ára, Helga 50 ára og Elín 53ja.[313]

Magnús Hjaltason, sem kom fárra vikna að Efrihúsum haustið 1873 og ólst upp í Hestþorpinu, heyrði talað um að Helga Ebenezersdóttir í Efrihúsum hefði verið þjófótt og einkum borið á stelvísi hennar þegar hún var orðin ekkja.[314] Nokkrar frásagnir af gripdeildum Helgu festi Magnús á blað og eru þær dálítið skemmtilegar, ekki síst vegna þess að aldrei var um stórþjófnað að ræða og henni jafnan gefnar upp sakir.[315] Að sögn Magnúsar náði Helga þó að stela kjöti úr tunni á Efstabóli, dálitlu af heyi frá Hesti og tveimur lömbum sem hún náði fram á Korpudal.[316]

Ekki er vert að selja sögur Magnúsar um lítilfjörlegt hnupl ekkjunnar dýrar en hann keypti þær. Saklaust mun þó vera að láta eina þeirra fljóta hér með, enda hafður uppi sá fyrirvari að hún getur verið hvort heldur sem er sönn eða login. Söguna skráir Magnús Hjaltason með þessum orðum:

 

Það var nú á seinni árum Páls Þorlákssonar og einkum eftir lát hans að mjög fór að bera á stelvísi Helgu konu hans og fór það svo í vöxt að fyrir það eitt varð hún nafnkennd mjög. Hafði hún jafnan Helgu dóttur sína Pálsdóttur með sér í þeim ferðum.

Þá bjuggu á Hesti Sveinn bóndi Jónsson [rétt nafn er Sveinn Pálsson – innsk. K.Ó.] og Steinunn Jónsdóttir. Með þeim var á vist maður sá er Guðmundur hét Jónsson, kallaður „tafla” sem faðir hans. Guðmundar var lausingi og hálfgert rýnumenni. Þá var fyrir skömmu farinn að búa á Efstabóli Gabríel Jónsson er síðar varð hreppstjóri, maður allhygginn og stilltur vel. Kona hans var Soffía Bjarnadóttir frá Innri-Tungu í Önundarfirði, alsystir fóstru minnar.

Það var nú er Helga Ebenezersdóttir var orðin ekkja að hún að vetrarlagi á næturþeli fór í skemmu Gabríels á Efstabóli og tók þar kjöt úr tunnu. Gjörði hún þetta fleirum sinnum með aðstoð Helgu dóttur sinnar en skildi þó svo við að eigi var veitt eftirtekt því jafnan var skemman læst að morgni. Fór hún í skemmuna á þann hátt að hún reif ofan úr gáttinni, seildist svo inn með styttuband sitt og kom lykkju þess upp á haldið á læsingarjárninu og dró þannig opið. En læst gat hún með því að skella hurðinni lítið eitt. Á þessum tíma var spaðkjöt lítið notað vestanlands heldur hangikjöt og þó ekki nema á hátíðum. Því var það að um seinan var gáð í tunnuna og þegar til var komið var hún næstum tóm.

Grunur féll á Helgu Ebenezersdóttir og þær mæðgur. Þá var hreppstjóri Önfirðinga Jens Jóhannesson, bóndi í Innri-Tungu [þ.e. Tungu í Firði – innsk. K.Ó.]. Kona hans var Þorkatla Bjarnadóttir, alsystir fóstru minnar og þeirra systkina. Þeir voru því syfjungar („svilar”) Jens og Gabríel. Mælt er að Gabríel hafi kært framferði Helgu fyrir hreppstjóra en fyrir því að hún bjó við fátækt stillti hreppstjóri til friðar og er talið að sættir hafi komist á.[317]

 

Síðar fór Helga, að sögn Magnúsar, að skoða heybirgðir bænda inni í firðinum, fór þá að næturlagi og stal sér heyi í nokkra poka úr heystæðum bænda, ekki síst á Hesti.[318] Sér til hjálpar við þessa iðju hafði hún Guðmund töflu sem nefndur var í hinni fyrri sögu Magnúsar af gripdeildum Helgu.[319] Loks kom þar að þessa varð vart og var hin fátæka ekkja þá leidd fyrir hreppstjórann, Jens í Tungu, í annað sinn.[320] Einhver viðstaddur segir þá við Jens: Ætlarðu nú að fyrirgefa henni þetta?[321] Þá varð hin sakaða fyrri til máls og mælti þau orð sem lengi voru í minnum höfð: Jens minn góður, segðu já. Jens minn góður, segðu já – og enn tók þessi góðhjartaði hreppstjóri þann kost að vægja ekkjunni og láta hana í friði fara.[322]

Að lokum varð Helga þó að hrökklast frá Efrihúsum enda var hún þá farin að krækja sér í annarra manna lömb fram á Korpudal eins og hver annar sauðaþjófur[323] ef marka má frásagnir Magnúsar Hjaltasonar. Fyrir það athæfi var hún að hans sögn kærð fyrir sýslumanni en þar eð hún var í frændsemi við nokkra heldri menn þar á Skutulsfjarðareyri, bætir Magnús við – þá beiddu þeir henni vægðar og var hún aldrei dæmd til hegningar.[324]

Þessari síðustu sögu Magnúsar er vert að taka með mikilli varúð því Stefán Bjarnarson, sem var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu síðustu árin sem Helga bjó í Efrihúsum, var ekki líklegur til að hlífa sauðaþjófum. Sagan minnir okkur hins vegar á þá staðreynd að fyrir hjónaband hafði Helga þessi Ebenezersdóttir eignast son sem orðinn var nokkur bógur árið 1861, þegar móðir hans hætti búskap í Efrihúsum. Drenginn hafði hún eignast um tvítugsaldur norður í Hrútafirði en faðirinn var kvæntur maður, Sumarliði Brandsson sem lengi bjó á Kollabúðum fyrir botni Þorskafjarðar[325] Hórbarn þetta fékk nafn föður síns og mun hafa alist upp hjá honum frá fjögra eða fimm ára aldri.[326] Á manntalinu frá 1845 er Sumarliði Sumarliðason talinn til heimilis á Kollabúðum, sagður 12 ára gamall óekta sonur bóndans þar, Sumarliða Brandssonar.[327]

Sumarliði Sumarliðason lærði síðar gullsmíði og var yfirleitt nefndur Sumarliði gullsmiður.[328] Þegar móðir hans fór frá Efrihúsum var hann búsettur á Ísafirði[329] en mun hafa verið kominn í tygi við hina stórefnuðu heimasætu Mörtu Kristjánsdóttur í Vigur því á næsta ári gengu þau í hjónaband.[330] Marta var einkabarn Kristjáns Guðmundssonar dannebrogsmanns í Vigur, sem látist hafði árið 1852, og konu hans Önnu sem var dóttir Ebenezers Þorsteinssonar, sýslumanns í Hjarðardal í Önundarfirði.[331] Nokkrum árum áður en Marta giftist Sumarliða hafði hún reyndar verið trúlofið Erlendi Þórarinssyni sem þá var sýslumaður á Ísafirði en hann drukknaði skömmu áður en fyrirhugaður brúðkaupsadagur rann upp.[332] Þessi tengdadóttir Helgu var því tengd yfirvöldunum með ýmsum hætti og máske ekki nema von að sumt almúgafólk léti sér detta í hug að þeir þræðir hefðu bjargað ekkjunni frá Efrihúsum undan refsingu.

Marta Kristjánsdóttir í Vigur var talin hafa fullar hendur fjár en hún var að sögn kunnugra ákaflega sólgin í áfenga drykki. Hjónaband þeirra Sumarliða gullsmiðs stóð mjög stutt en hann gerðist áður en langir tímar liðu ráðsmaður í Æðey og átti þar heima uns hann fluttist til Ameríku árið 1884.[333] Þar vestra átti Sumarliði langa ævi fyrir höndum því hann komst á tíræðisaldur og dó ekki fyrr en árið 1926.[334]

Á árum sínum við Ísafjarðardjúp gerðist þessi sonur Helgu Ebenezersdóttur í Efrihúsum frumkvöðull ýmissa nýjunga í atvinnuháttum. Nefna má að Sumarliði reyndi fyrstur hérlendra manna að smíða plóg til kúfiskveiða og byrjaði fyrstur Djúpmanna að útbúa smokköngla til beituöflunar.[335] Sumarliði gerði líka fyrstur hérlendra manna tilraun til að skjóta hvali með sprengikúlu en sú tilraun hans lánaðist ekki.[336] Kolbeinn Jakobsson, bóndi og hreppstjóri í Unaðsdal á Snæfjallaströnd, sem mundi vel eftir Sumarliða gullsmið segir að hann hafi verið frábær hagleiksmaður, gáfaður og hugsjónaríkur.[337] Þegar nýju sveitarstjórnarlögin frá 4. maí 1872 tóku gildi varð Sumarliði gullsmiður í Æðey fyrsti oddviti og fyrsti sýslunefndarmaður Snæfjallahrepps[338] sem sýnir að hann hefur notið trausts og tiltrúar sinna sveitunga. Um samskipti Sumarliða gullsmiðs við móður sína á þeim árum sem hún bjó í Efrihúsum liggur engin vitneskja fyrir. Mjög líklegt verður þó að telja að hann hafi heimsótt hana frá Ísafirði þegar hún var orðin ekkja og vitað er með vissu að árið 1862 var Sumarliði á ferð í Önundarfirði (sjá hér Ytri-Hjarðardalur).

Fyrstu 5 árin frá því Helga Ebenezersdóttir fór frá Efrihúsum, það er á árunum 1861-1866, dvaldist hún áfram í Mosvallahreppi og var þá um skeið við búhokur eða í húsmennsku á Kirkjubólshúsum, hjáleigu frá Kirkjubóli í Korpudal.[339] Þar voru þær báðar Helga Ebenezersdóttir og Helga dóttir hennar í marsmánuði árið 1865 en Helga yngri var þá komin með 2 börn sem hún hafði eignast í lausum leik á árunum 1863 og 1864.[340] Síðar á árinu 1865 voru Helga Pálsdóttir og börn hennar tvö flutt sveitarflutningi frá Kirkjubólshúsum á fæðingarhrepp hennar sem var Reykhólasveit.[341] Gamla Helga Ebenezersdóttir var hins vegar enn á Kirkjubólshúsum í marsmánuði árið 1866[342] en mun hafa farið þaðan að Veðrará skömmu síðar því frá Veðrará segir prestur hana flytjast norður að Ísafjarðardjúpi á árinu 1867.[343]

Haustið 1870 er þessi gamla kona komin til Sumarliða sonar síns í Æðey[344] og kynni að hafa farið beint þangað frá Veðrará. Sumarliði var þá orðinn ráðsmaður í Æðey hjá ekkjunni Hildi Thorsteinsson[345] sem misst hafði eiginmann sinn, Þorstein Thorsteinsson, bónda í Æðey, í sjóinn en hann hafði verið faktor á Þingeyri áður en hann fór að búa í Æðey (sjá hér Þingeyri). Sjálf var Hildur dóttir Guðmundar Schevings agents, kaupmanns og útgerðarmanns í Flatey á Breiðafirði[346] svo þarna var ekki í kot vísað. Í manntalinu frá 1870 sést að Sumarliði gullsmiður er þá búinn að taka til sín bæði föður sinn og móður sem fluttust til hans sitt úr hvorri áttinni.[347] Sýnir þetta vel að hann hefur verið mikils ráðandi á búi Hildar í Æðey. Tíu árum síðar var Helga gamla enn í Æðey hjá sínum merkilega syni[348] og má ætla að fyrir hana hafi það verið ærin umskipti að koma frá sínum vesæla kotabúskap í velsældina í Æðey.

Þegar Helga Ebenezersdóttir hætti búskap í Efrihúsum vorið 1861 tóku hér við hjónin Guðni Vigfússon og Margrét Bjarnadóttir sem komu frá Tungu í Firði.[349] Þar höfðu foreldrar Margrétar búið og þar hóf hún búskap með fyrri eiginmanni sínum, Kristjáni Sæmundssyni, á árunum upp úr 1850 (sjá hér Tunga í Firði). Kristján dó árið 1858 en haustið 1860 giftist Margrét Guðna Vigfússyni frá Neðri-Breiðadal sem fluttist með henni að Efrihúsum vorið 1861 (sjá hér Tunga í Firði). Guðni Vigfússon andaðist árið 1874 og hafði þá búið í Efrihúsum í 13 ár en Margrét Bjarnadóttir, sem þá varð ekkja í annað sinn, hélt búskapnum áfram næstu tíu árin uns hún fluttist til sonar síns, Jóhannesar Kristjánssonar, bónda á Hesti, vorið 1884.[350] Tveir synir Margrétar í Efrihúsum, þeir Sæmundur og Bjarni Hermann Kristjánssynir, tóku báðir próf í skipstjórnarfræðum úti í Danmörku vorið 1878[351] og urðu skipstjórar á þilskipum. Frá þeim er nánar sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Flateyri).

Um mannlífið í Efrihúsum og á Hesti á árunum 1875-1892 færði Magnús Hjaltason ærið margt í letur og sumt ekki fagurt eins og víðkunnugt er. Margréti Bjarnadóttur, fóstru sinni, ber Magnús þó í rauninni gott orð en ýmsir henni nákomnir fá hjá honum aðra og verri dóma.[352] Sumt af þessum skrifum Magnúsar er að finna í bók Gunnars M. Magnúss Skáldið á Þröm – Ævisaga Magnúsar Hj. Magnússonar en í rituðu máli nefndi Magnús Hjaltason sig mjög oft Magnús Hj. Magnússon. Bók Gunnars kom út árið 1956 en alllöngu fyrr hafði Halldór Laxness nýtt sér dagbækur Magnúsar Hjaltasonar við ritun skáldsögunnar um Ólaf Kárason Ljósvíking sem kom út í fjórum bindum á árunum 1937-1940. Engum sem les dagbækur, kvæði og frásagnir Magnúsar Hjaltasonar og þekkir sögu Halldórs um Ólaf Kárason getur blandast hugur um að þar séu ótvíræð tengsl á milli. Alþýðuskáldið Magnús Hjaltason, sem í fátækt sinni lifði fyrir andann og notaði hverja stund til skrifta þegar færi gafst, kveikti hjá Halldóri hugmyndina að Ólafi Kárasyni, einni dýrðlegustu persónu heimsbókmenntanna. Enda þótt Ljósvíkingur Halldórs sé aðeins til í skáldskap getum við án verulegra umþenkinga leyft okkur að líta svo á að þar sé kominn Magnús Hjaltason, hafinn í æðra veldi.

Upphafsorðin í Ljósi heimsins, fyrsta bindi skáldsögu Halldórs Laxness um Ólaf Kárason Ljósvíking, eru þessi:

 

Hann stendur ásamt tjaldi og sendlingi í fjöruborðinu niðrundan bænum og horfir í ölduna sogast að og frá. Kanski er hann að svíkjast um. Hann er tökubarn …..[353]

 

Og litlu neðar á sömu blaðsíðu:

 

Þessi mjóa vík með léttri báru á sandi, og litlum bláum skeljum, og klettum öðrumegin og grænu nesi hinumegin, það var vina hans. Hún hét Ljósavík.[354]

 

Innst í Vöðunum fyrir botni Önundarfjarðar, örskammt frá bæjunum í Efrihúsum og á Hesti, eru líka ljósar víkur. Kunnugir menn og hugmyndaríkir hafa því látið sér detta í hug að nafnið Ljósvíkingur hjá Halldóri sé þaðan runnið.[355] Gallinn á þeirri kenningu er sá að nafnið Ljósvíkingur hafði Halldór gefið Ólafi Kárasyni áður en hann hóf ferð sína á slóðir Magnúsar Hjaltasonar vorið 1936. Að svo hafi verið sjáum við hjá Peter Hallberg sem á sínum tíma ritaði margt um bækur Halldórs.[356]

Magnús fæddist 6. ágúst 1873, að eigin sögn klukkan 6 að morgni[357] í hjáleigukoti sem stóð þar sem nú er ysti hluti túnsins á Eyri í Seyðisfirði við Djúp. Kot þetta bar nafnið Traðir og þar áttu foreldrar Magnúsar heima, þau Hjalti Magnússon og Friðrikka Kristjánsdóttir.[358] Sjálfur segist Magnús vera fæddur á Tröðum, hjáleigu út frá Eyri í Seyðisfirði, en hjá presti hefur farist fyrir að færa komu hans í heiminn til bókar.[359] Þegar  Magnús leit dagsins ljós höfði foreldrar hans búið saman í fáein ár þó ekki væru þau gift og áttu fyrir tvö börn á lífi sem bæði voru innan við þriggja ára aldur.[360] Hjalti, faðir Magnúsar, var sonur séra Magnúsar Þórðarsonar, sem lengi var prestur í Ögurþingum, og konu hans Matthildar, dóttur Ásgeirs prófasts Jónssonar sem lengst var prestur í Holti í Önundarfirði.[361] Friðrikka, móðir Magnúsar Hjaltasonar, var dóttir Kristjáns bónda Guðmundssonar á Borg í Arnarfirði og konu hans, Guðbjargar, sem var dóttir séra Markúsar Þórðarsonar, prests á Álftamýri við Arnarfjörð.[362] Ættfærsla þessi sýnir að foreldrar Magnúsar Hjaltasonar voru bæði af ættum embættismanna og gildra bænda en sjálf munu þau hafa verið alveg blásnauð.[363] Svo virðist sem Hjalti hafi verið linur til erfiðisvinnu en hann fékkst við barnakennslu og þótti allgóður hagyrðingur. Gunnar M. Magnúss segir um Hjalta að hann hafi verið bljúgur í lund, skáldþenkjandi, ölkær nokkuð og hneigst til þess að láta hverjum degi nægja sína þjáning.[364] Flest bendir til að sú lýsing muni vera nærri lagi. Líklega hefur verið meiri þróttur í móður Magnúsar Hjaltasonar, Friðrikku Kristjánsdóttur frá Borg, en hún gerðist saumakona og damlaði ofan af fyrir sér með þeim hætti um skeið.

Á Tröðum munu Hjalti og Friðrikka hafa búið við þurrt hús[365] og haft sáralítið fyrir sig að leggja. Þegar þriðja barnið bættist við hjá þeim sumarið 1873 áttu þau ekki annars kost en reyna að koma því í fóstur ef mögulegt væri. Til lausnar á þeim vanda leitaði Hjalti liðsinnis hjá bróður sínum, Þórði Magnússyni, sem var gildur bóndi í Hattardal í Álftafirði[366] og náði síðar að verða alþingismaður Ísfirðinga.[367] Skömmu síðar reið Þórður vestur í Önundarfjörð og samdi við Guðna Vigfússon í Efrihúsum og Margréti konu hans um að þau tækju hinn nýfædda son Hjalta og Friðrikku á Tröðum í fóstur.[368] Sjálfur kvaðst Þórður skyldu sjá um meðgjöfina.[369] Líklega hefur frændsemi ráðið því að Þórður leitaði til Guðna í Efrihúsum en Þorkatla, móðir Guðna, og Matthildur, móðir Þórðar og Hjalta bróður hans, voru systur.[370] Þær voru báðar dætur Ásgeirs prófasts Jónssonar í Holti sem var móðurbróðir Jóns Sigurðssonar forseta.[371]

Þann 17. september varð drengurinn á Tröðum 6 vikna gamall og þann dag var hann fluttur frá móður sinni að Hattardal.[372] Þar var hann eina viku hjá Þórði föðurbróður sínum, sem áður var nefndur, og ömmu sinni, Matthildi Ásgeirsdóttur frá Holti, er átti heima hjá syni sínum þar í Hattardal.[373] Árið 1914 fór Magnús Hjaltason að skrifa ævisögu sína en það rit náði þó aldrei að verða meira en sundurlausar frásagnir frá uppvaxtarárum hans.[374] Í ævisögunni greinir Magnús frá ferð sinni úr Álftafirði í Önundarfjörð, þegar hann var 7 vikna gamall, og byggir þar án nokkurs vafa á frásögn föður síns. Upphaf þeirrar sögu er á þessa leið:

 

Miðvikudaginn 24. september var farið með mig frá Hattardal. Var búið um mig eftir föngum og yst hafður skinnstakkur. Faðir minn bar mig en kvenmaður gamall fylgdi. Héldu þau vestur sem leið liggur yfir Álftafjarðarheiði … .[375]

 

Í bók sinni Skáldið á Þröm segir Gunnar M. Magnúss að í þessu ferðalagi hafi Magnús verið borinn yfir Hestskarð[376] sem stangast á við orð Magnúsar sjálfs um Álftafjarðarheiði. Þar fer Magnús alveg efalaust rétt með því oft hefur hann hlýtt á frásögn föður síns af þessu ferðalagi og lét sig ætíð miklu varða allt sem sjálfan hann snerti með einum eða öðrum hætti. Þessa villu Gunnars verður því að leiðrétta, ekki síst vegna þess að ýmsir hafa tekið hana upp eftir honum síðar. Álftafjarðarheiði og Hestskarð eru tveir fjallvegir sem heimafólk á þessum slóðum ruglaði aldrei saman á fyrri tíð þó að skammt sé á milli skarðanna tveggja (sjá hér Hestur og Kirkjuból í Korpudal). Aðra villu í sömu bók Gunnars M. Magnúss er líka brýn þörf á að leiðrétta en hann segir Magnús Hjaltason hafa fæðst á Tröð í Álftafirði[377] en hið rétta er að hann fæddist á Tröðum í Seyðisfirði eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir. Tröð var hjáleiga frá jörðinni Súðavík í Álftafirði, þar sem nú (1994) er þorp, en Traðir hjáleiga frá Eyri í Seyðisfirði.[378] Jarðirnar Súðavík og Eyri eru í sínum firðinum hvor en þó í sama hreppi sem er Súðavíkurhreppur.

Þegar Hjalti Magnússon kom með barnunga sinn heim að Efrihúsum þennan löngu liðna haustdag grét drengurinn bæði sárt og lengi.[379] Loks var hann að eigin sögn lagður í hestalaup með heyi í og ruggað í svefn.[380] Síðan tók hversdagslífið við hér undir Hesti. Guðni Vigfússon, bóndi í Efrihúsum, varð skammlífur því hann andaðist, 38 ára gamall, árið 1874.[381] Þá var Magnús frændi hans, tökudrengurinn á bænum, um eða innan við eins árs aldur. Uppeldi drengsins lenti því að nær öllu leyti á fóstru hans, Margréti Bjarnadóttur, sem komin var á sextugsaldur þegar hún varð ekkja í annað sinn við andlát Guðna. Margrét bjó áfram í Efrihúsum næstu tíu árin og var þá yfirleitt með 3 kýr, 3 hross og 70-80 sauðkindur.[382] Flestar urðu kvíaærnar 45 ef marka má orð Magnúsar Hjaltasonar um tölu þeirra.[383]

Fyrstu minningum sínum, baðstofunni í Efrihúsum og heimilisfólki þar lýsir Magnús með þessum orðum:

 

Það er hið fyrsta er ég man eftir mér að ég stóð við rúmstokk í baðstofunni, klæddur í léreftskjól og mun ég þá hafa verið á 3ja ári eða um 3ja ára gamall. Baðstofan var í þremur stafgólfum og bjórrefti að auki, þó eigi nema í öðrum endanum. Í henni voru 7 rúm, þrjú undir hvorri hlið og eitt undir bjórreftinu. Tvö stafgólfin voru undir skarsúð, eitt undir langböndum og árefti. Á gólfinu niðri var ýmislegt dót, þar á meðal vefstaður er sumir kalla vefstól.[384]

 

Þegar fóstra Magnúsar, Margrét Bjarnadóttir, hætti að búa vorið 1884 voru bæjarhúsin í Efrihúsum tekin út. Lítil eða engin breyting hafði þá orðið á baðstofunni frá því sem Magnús greinir frá. Að sögn úttektarmanna var hún 9 x 4,5 álnir,[385] það er rétt liðlega 15 fermetrar. Hjá Magnúsi Hjaltasyni sáum við að í henni var loft, enda var hæðin frá gólfi og upp í mæni 3,6 metrar.[386] Í Efrihúsabaðstofu voru árið 1884 5 sperrur, 10 stafir og 3 bitar og úttektarmennirnir taka fram að þaðan í frá eigi að fylgja henni 3 gluggar.[387] Baðstofan var metin í standi.[388]

Búrið, sem Margrét Bjarnadóttir geymdi matarforðann í, var liðlega 5 fermetrar og hæð þess 2,5 metrar.[389] Búrið var í grind en hurðarlaust.[390] Flatarmál eldhússins var helmingi minna, aðeins 2,4 fermetrar en lofthæðin var sú sama og í búrinu.[391]

Á búskaparárum Guðna Vigfússonar og konu hans, Margrétar Bjarnadóttur, hér í Efrihúsum á árunum 1861-1884, hafði baðstofan tekið miklum breytingum til hins betra. Árið 1861 var hæð hennar ekki nema tæplega tveir metrar[392] og því óhugsandi að í henni hafi verið loft. Árið 1884 var hún orðin nær helmingi hærri eins og áður var frá greint og þá var komið í hana loft. Gólfflötur baðstofunnar hafði líka stækkað úr 12,5 fermetrum[393] í liðlega 15 fermetra.

Í endurminningum sínum telur Magnús Hjaltason upp heimilisfólkið í Efrihúsum á árunum kringum 1880 og kemst þá svo að orði:

 

Þessu heimilisfólki man ég fyrst eftir:  1. Fóstru minni, svaf ég fyrir ofan hana … .  2. Kristjönu dóttur fóstru minnar og Guðna sáluga.  3. Kristínu Vigfúsdóttur, tengdasystur fóstru minna.  4. Jónínu Jóhönnu, dóttur Kristínar, hún var 4 til 6 árum eldri en ég.  5. Guðmundi Bjarnasyni, bróður fóstru minnar [sjá hér Tunga í Firði], hann lá í rúminu í geðveiki.  6. Brynjólfi Davíðssyni, hann var vinnumaður fóstru minnar og talinn ráðsmaður.  7. Eyjólfi niðursetningi, hann dó þegar ég var um 5 ára og var hann hið fyrsta lík er ég sá. … Þegar hér er frá sagt man ég ekki eftir neinum sonum fóstru minnar. Þeir hafa víst ekki verið heima, sjálfsagt við sjó.[394]

 

Synir Margrétar húsfreyju í Efrihúsum og fyrri eiginmanns hennar, Kristjáns Sæmundssonar, voru þrír, Sæmundur Ebenezer og Bjarni Hermann, sem báðir urðu skipstjórar á skútum (sjá hér bls. 39), og Jóhannes sem varð bóndi á Hesti.[395] Allir voru þeir bræður heima hjá móður sinni í Efrihúsum árið 1870, þá um tvítugsaldur,[396] en Magnús hafði lítil kynni af Sæmundi sem drukknaði haustið 1880 þegar drengurinn var 7 ára.[397] Hinir tveir, Bjarni og Jóhannes, voru oft heima í Efrihúsum og á Hesti á uppvaxtarárum Magnúsar og segir hann sitt af hverju frá þeim.

Nær allt þetta Efrihúsafólk gengur aftur, ef svo má segja, í skáldverki Halldórs Laxness. Margrét húsfreyja fær nafnið Kamarilla húsfreyja. Kristjana dóttir hennar, sem reyndar hét Kristjana Vigfúsína Sigríður, verður Magnína heimasæta. Kristín Vigfúsdóttir, mágkona húsfreyju, kallast Karitas húskona og Jónína Jóhanna, dóttir hennar, verður ungmærin Jana. Bræðurnir Bjarni og Jóhannes fá nöfnin Júst og Nasi en í skáldsögu Halldórs má reyndar líka greina drætti frá Brynjólfi ráðsmanni í þeim Nasa og Júst. Í stað Eyjólfs niðursetnings kemur hins vegar Jósep sveitarómagi og jörðin Hestur undir fjallinu Hesti verður að Fæti undir Fótarfæti. Bæjarnafn Halldórs minnir reyndar líka á Folafótinn, lítið byggðarlag undir öðru Hestfjalli, sem er í fæðingarhreppi Magnúsar Hjaltasonar, hinum megin við Álftafjarðarheiði. Allar persónurnar í skáldverki Halldórs Laxness um Ólaf Kárason Ljósvíking eru þó hans eigin sköpunarverk. Það eru aðeins einstakir drættir sem minna með ótvíræðum hætti á fólkið í Efrihúsum og frásagnir Magnúsar af atvikum þar.

Fóstru sinni, Margréti Bjarnadóttur, lýsir Magnús svo: Fóstra mín var í meðallagi há á vöxt, holdug og heldur fríð, þybbin í lund og ekki hreinlynd, hraust og óþrifin og hatursmaður allra bókmennta.[398] Um Kamarillu húsfreyju lætur Halldór Laxness þess einnig getið að hún hafi verið hatursmaður bókmennta.[399]

Um fólsku Jóhannesar Kristjánssonar, sem var yngsti sonur Margrétar í Efrihúsum, nefnir Magnús ýmis dæmi. Eitt var það að hann henti fullum aski af heitum graut ofan yfir móður sína þegar hún var að ganga ofan stigann því honum þótti grauturinn of heitur.[400]

Í skáldsögu Halldórs er að finna setningu sem minnir ótvírætt á þetta atvik. Þar segir: Til dæmis kastaði eldri bróðirinn Nasi, fjáreigandi og útgerðarmaður, fullri skál yfir móður sína, Kamarillu húsfreyju, þegar hún var að ganga niður stigann eitt kvöld.[401]

Í Efrihúsum varð Magnús fyrir ýmsum hrekkjum og segir m.a. þessa sögu:

 

Það var eitt sem þeir bræður hræddu mig með, að þeir köstuðu á mig silung, hálflifandi eða dauðum og sögðu að hann biti mig en ég varð dauðhræddur og þorði ekki að snerta hann. Svo lugu þeir að mér að þeir ætluðu að láta silung í tréfötugarm sem var á baðstofugólfinu svo hann gæti stokkið á mig í myrkrinu og bitið mig. Því var það að þegar fóstra mín var að skammta í búrinu kvöldmatinn og ég ætlaði ofan til hennar, að ég var sem milli heims og helju er dimmt var orðið. Þegar ég var kominn ofan í stigann gullu óþokkarnir við: „Passaðu þig nú, nú kemur silungurinn úr spöndunni og bítur þig – varaðu þig nú er hann að sprikla.” Ég hrökk saman í kuðung og hljóp aftur upp á loft. … Stundum hafði þó löngunin til fóstru minnar yfirhöndina svo ég hljóp ofan í einhverju ofboði.[402]

 

Hjá Halldóri Laxness verður sagan svona:

 

Þeir skáru holur í fljótsbakkann inni í dalnum að vori til og seildust þar í silung, köstuðu síðan lifandi urriða á drenginn sem vappaði grandalaus í kring og sögðu: Hann bítur. Þá varð hann mjög hræddur. Þá þótti þeim mjög gaman. Um kvöldið létu þeir silungsfjanda í tréfötugarm rétt hjá rúminu hans. Honum fannst djöfullinn vera í fötunni. Um kvöldið ætlaði hann að læðast niður í dauðans angist og flýja á náðir fóstru sinnar. Þá sögðu þeir: Nú stökkur silungurinn úr spöndunni og bítur.[403]

 

Að sögn Magnúsar Hjaltasonar átti Jóhannes Kristjánsson til að taka hann upp á eyrunum og frá því segir Magnús með þessum orðum:

 

Oft lék Jóhannes sér að því að taka mig upp á eyrunum svo og að klípa mig í eyrnasneplana. Einu sinni er hann var að því sagði fóstra mín við hann: „Vertu ekki að því.” Jóhannes svaraði: „Nú, fyrir hverju? Það er gaman að vita hvað hann þolir.” Í þetta sinn varð ég eyðilagður í höfðinu, enda fleirum sinnum búinn að fá slíkar misþyrmingar.[404]

 

Halldór Laxness hefur tekið eftir þessari frásögn því frá samskiptum Ólafs Kárasonar við yngri bróðurinn á Fæti segir hann m.a. svo:

 

En þegar yngri bróðirinn Júst, sem sömuleiðis var fjáreigandi og útgerðarmaður, lék sér að því að taka hann upp á eyrunum af því það var svo gaman að vita hvað elsku vinurinn þyldi, þá kom honum það við, því miður.[405]

 

Magnús Hjaltason segir frá því að Kristjana Guðnadóttir, heimasætan í Efrihúsum, hafi kennt sér að stafa og líka að draga til stafs. Um þá kennslu fer hann m.a. þessum orðum:

 

Kristjana, dóttir fóstru minnar, kenndi mér að stafa í stafrófskveri. Það var í allstóru formi en eigi veit ég höfund þess, enda titilblaðið rifið burt og kverið allt ræfilslegt fyrst þegar ég sá það. … Það mun hafa verið þetta haust 1881 að Kristjana, dóttir fóstru minnar, skrifaði fyrir mig upphafsstafi á skrifbókarbrot er hún átti frá því veturinn áður en hún kristnaðist. … Ég átti nú að fara að skrifa eftir þessari forskrift Kristjönu sem varð sú eina frá hennar hendi sem ég nokkurn tíma fékk en Kristjana var þó sú eina sem sagði að ég þyrfti að læra að skrifa.[406]

 

Þegar eldra fólkið á bænum varð vart við að Magnús væri að æfa sig í skrift sagði það við hann: Þú átt ekki að vera að þessu bölvuðu krassi sem þú veist ekki hvað er. Það var einu sinni strákur sem var að svona krassi og skrifaði sig til skrattans.[407]

Hjá Halldóri Laxness er það Magnína heimasæta sem kennir Ólafi Kárasyni að lesa og skrifa. Um kennsluna segir Halldór m.a. þetta:

 

Magnína heimasæta kenndi honum að lesa, það voru til rytjur af stafrófskveri. Hún sat yfir honum eins og þúst og benti á stafina með bandprjóni. Hún sló hann utanundir ef hann sagði þrisvar rangt til um sama stafinn en aldrei fast og aldrei í illu. …

Magnína gaf honum forskrift en aðeins einu sinni af því hún mátti ekki vera að því, hún var svo lengi að búa til hvern staf. …

Þegar tók að bera á óeðlilegri löngun drengsins til að grufla út í bókstafi þá sagði hún [þ.e. Kamarilla húsfreyja  – innsk. K.Ó.] honum til varnaðar söguna af G. Grímssyni Grunnvíkingi. … Það var voðaleg saga. G. Grímsson Grunnvíkingur var skáldmennisræfill og skrifaði hundrað bækur. Hann var vondur maður. Þegar hann var ungur þá vildi hann ekki giftast heldur átti þrjátíu börn. Hann hataði fólk og skrifaði um það … . Enginn vildi hafa samneyti við slíkan mann nema ljótar kellingar sem hann hafði dæmt á sig í elli sinni. Menn fá í elli sinni það sem þeir dæma á sig. Svona er að hugsa um bækur.[408]

 

Ekki fer milli mála að hér vísar Kamarilla Halldórs í þá Sighvat Grímsson Borgfirðing, fræðimann á Höfða í Dýrafirði, og Álf Magnússon sem hótaði hreppsnefndinni í Mosvallahreppi því í ljóði að skaffa henni á einu ári þrjátíu börn til framfærslu (sjá hér Höfði og Vaðlar).

Í Efrihúsum voru að sögn Magnúsar Hjaltasonar til fáeinar bækur, þar á meðal Þjóðsögur Jóns Árnasonar og Felsenborgarsögurnar sem Magnús las á ungum aldri.[409]

Í Ljósi heimsins, fyrsta bindi skáldsögunnar um Ólaf Kárason Ljósvíking, er oft minnst á Felsenborgarsögurnar og ekki ólíklegt að Halldóri Laxness hafi verið kunnugt um að það var langafi Magnúsar Hjaltasonar, séra Þórður Þorsteinsson, prestur í Ögurþingum, sem þýddi þá bók úr dönsku.[410]

Oft fannst Magnúsi Hjaltasyni hann eiga erfitt með að þóknast karlmönnunum á bænum, þeim Brynjólfi ráðsmanni og sonum húsfreyju, Bjarna og Jóhannesi. Um þann vanda sinn segir Magnús m.a. eftirfarandi sögu:

 

Einu sinni sagði Bjarni mér að moka fjárhús enda þótt það væri Brynjólfs verk. Ég fór þegar. Þegar ég hafði mokað nokkuð sá ég að Brynjólfur, ráðsmaður fóstru minnar, snaraðist inn í dyrin. Voru þar engar vífilengjur. Hann rauk að mér og sló mig með hnefanum voðalegt höfuðhögg. Féll ég í rot en er ég vitkaðist sýndist mér allt umhverfis mig sem grængolandi sjór og mér lá við uppköstum. Ég hljóp svo heim grátandi en þorði ekki að láta Kristínu, konu Brynjólfs, heyra til mín. Fór ég til fóstru minnar og sagði henni í hljóði hvað að mér gengi. Bjarni spurði þá hvað um væri að vera og lét fóstra mín hann ráða í það … en á Bjarna sást að honum mislíkaði. Brynjólfi hafði þótt Bjarni taka fram fyrir höndur sér og varð þetta um. Höggið tel ég undirrót til höfuðþjáninga minna.[411]

 

Þessari sögu snýr Halldór Laxness á dálítið annan veg og segir:

 

Nú hafði það einhvern veginn orðið að samkomulagi að Nasi byndi með kaupakonunni en Júst með Jönu. En þegar kvöldaði að og byrjaði að skyggja kallar eldri bróðirinn á Ólaf Kárason og biður hann að fara í flekkinn með bróður sínum og ungmeynni og taka hjá þeim rökin.

Yngri bróðirinn Júst heyrði skipunina álengdar en í stað þess að ansa bróður sínum gekk hann til piltsins og bað sinn elsku vin að fara fyrir sig upp í fjall og sækja hesta svo hægt sé að bera heim áður en hann kemur á.

Þarna stóð pilturinn í teignum en yfirboðarar hans sitt til hvorrar handar, annar sagði honum að vera, hinn sagði honum að fara, og bráðum komin rigning, ekki andartak mátti fara til ónýtis.

Þú verður kyrr á láglendinu, ræfill, sagði Nasi.

Þú ferð upp í fjall, vinur, sagði Júst.

Jana kom nær og hló. …… Hann var lamaður. Það var eins og blóðið hefði storknað í æðum hans. Honum fannst óratími líða og þó hefur það allt saman frá upphafi til enda ekki staðið lengur yfir en örfá andartök. Það sem gerðist mundi hann aldrei glöggt, maður reynir ekki að rifja upp slík augnablik eftir á. Hann sá aðeins hnefa hefjast á loft.[412]

 

Mitt í þrautum lífsins fann tökudrengurinn í Efrihúsum brjóst sitt fyllast af andagift og skynjaði undarleg tengsl sín við náttúruna og það sem hann taldi vera æðri mátt. Þessari upplifun lýsir Magnús sjálfur með þessum orðum:

 

Nálægt þessum tíma [þ.e. um átta ára aldur – innsk. K.Ó.] varð ég var við að ég var fullur af andagift og hugur minn var þrunginn af ýmislega löguðum hljómöldum en alla þessa fyllingu fannst mér vanta birtu. Eftir þetta fór ég að taka eftir vísum og lærði ég allt sem ég heyrði af slíku. Við það varð hugur minn nokkru léttari. Svo fór ég að mæla í hendingum og bjó til heilmiklar runur og smærri parta. … Frá því ég var á 9. ári og allt til 1896 fannst mér sem Guðs auglit stæði alstaðar opið fyrir mér. Var sem ég heyrði alla náttúruna taka undir kraftbirtingarhljóm guðdómsins og ég sjálfur var líka í því raddflóði að mér fannst. Þó fannst mér mitt ég vera svo lítið í þeim dýrðarljóma.[413]

 

Áður en fyrsta bindi af skáldsögu Halldórs Laxness um Ólaf Kárason Ljósvíking kom út árið 1937 munu harla fáir hafa kunnað að nefna kraftbirtingarhljóm guðdómsins en sem betur fór greip Halldór þessa kostulegu orðasmíð alþýðuskáldsins undan Hesti og fléttaði inn í sitt mikla skáldverk. Þar finnum við þessar línur:

 

Hann var sem sé ekki orðinn fullra níu ára þegar hann fór fyrst að verða fyrir andlegri reynslu. Hann stendur kannski niðri við víkina og það er byrjað að vora, eða uppi á nesinu fyrir vestan víkina og þar er hóll og skrúðgræn hundaþúfa uppi á hólnum eða kannski uppi í fjallinu ofanvert við túnfótinn og túnið er alveg kafið í grasi og komið undir slátt.

Þá finnst honum eins og guðs auglit standi opið fyrir sér. Hann finnur guðdóminn birtast í náttúrunni í óumræðilegum hljómi, það var kraftbirtingarhljómur guðdómsins. Hann veit ekki fyrr til en hann er sjálfur orðinn titrandi rödd í almáttugum dýrðarhljómi. Sál hans virðist ætla að hefjast út yfir líkamann eins og flautir upp af börmunum á skál … .[414]

 

Hinn eina sanna kraftbirtingarhljóm er ef til vill unnt að nema á ýmsum stöðum í veröldinni en hvergi ómar hann skærar en hér í túninu undir Hesti.

Síðasta árið sem Magnús var í Efrihúsum, 1883-1884, var Reinald Kristjánsson, sem Magnús nefnir Reinharð, vinnumaður þar. Reinald varð seinna kunnur landpóstur á leiðinni milli Ísafjarðar og Bíldudals og átti alllengi heima á Kaldá í Önundarfirði (sjá hér Kaldá). Þegar Reinald kom að Efrihúsum vorið 1883 var hann 17 ára, sjö og hálfu ári eldri en Magnús. Um miðjan vetur strauk Reinald úr vistinni vegna ósættis við Bjarna Kristjánsson skipstjóra sem þá stóð fyrir búi hjá móður sinni, Margréti í Efrihúsum, fóstru Magnúsar. Frá þeim atburði segir Magnús Hjaltason svo:

 

Reinharður vinnumaður fóstru minnar strauk um veturinn, eftir hátíðarnar, fór á stað í rökkri með púlt sitt fram að Tungu og beiddi Guðmund Kristjánsson, bónda þar, og Rannveigu konu hans fyrir það. Fór svo áleiðis til Dýrafjarðar og allt vestur í Arnarfjörð. Var hann svo á ferðalagi um Vestfirði að páskum fram. Þá kom hann inn að Tungu að vitja um púltið sitt hjá Guðmundi bónda en þá var hann stöðvaður að undirlagi Bjarna skipherra. Sótti Bjarni hann frameftir um kvöld og daginn eftir var hreppstjóri Gabríel á Efstabóli sóttir. Spurði hreppstjóri Reinharð að, hvers vegna hann hefði farið úr vistinni. Þá svaraði Reinharður: „Ég var svo svangur.” Ég heyrði á þetta. Mun þetta satt hafa verið. Einhvern tíma var Reinharður um kyrrt en svo fór hann burt, alfarinn. Varð hann seinna mikill maður, keypti Kaldá í Önundarfirði og var póstur í mörg ár milli Ísafjarðar og Bíldudals.[415]

 

Í endurminningabók sinni, Á sjó og landi, sem kom út árið 1932, segir Reinald sjálfur frá veru sinni í Efrihúsum og brotthlaupi sínu þaðan um miðjan vetur.[416] Hann segist þar hafa strokið þar eð Bjarni hafi ekki tímt að láta sig hafa nægan mat en tekur fram að Margrét húsfreyja hafi verið hin besta kona og næsta ólík syni sínum.[417] Frá Efrihúsum kveðst Reinald hafa strokið undir jól árið 1883 og farið þá gangandi vestur að Feigsdal í Arnarfirði þar sem hann átti vinum að mæta.[418] Árskaupið sem Reinald átti að fá í Efrihúsum var 50,- krónur en þegar hann strauk í desember var hann að eigin sögn ekki farinn að sjá nokkurn eyri frá Bjarna og hafði þó komið til hans í vistina fyrir páska.[419] Þegar hreppstjórinn á Efstabóli spurði Reinald hvers vegna hann hefði strokið kveðst hann hafa svarað með þessum orðum: Vegna þess að ég hef ekki skap til að vera þar sem ég fæ hvorki nægilegt að éta né nokkurn eyri í kaup. Að efni til er þetta nokkurn veginn sama svarið og Magnús Hjaltason, sem viðstaddur var, taldi sig muna eftir.

Með lagni tókst Gabríel, hreppstjóra á Efstabóli, að fá hinn unga Reinald til að gerast á ný vinnumaður í Efrihúsum og vera þar um kyrrt fram að skildaganum.[420] Fékk hann þá að eigin sögn miklu betra viðurværi en áður en nóg að þræla.[421]

Vorið 1884 fylgdi Magnús Hjaltason Margréti fóstru sinni þennan skamma spöl frá Efrihúsum að heimabænum á Hesti.[422] Þar höfðu Jóhannes Kristjánsson, sonur hennar, og Jónína Sveinsdóttir, kona hans, byrjað búskap fáum árum áður. Vorið 1887 keypti Jóhannes svo heimajörðina á Hesti (18 hundruð) af Guðmundi Björnssyni á Núpi í Dýrafirði.[423] Með í kaupunum fylgdu jarðarhúsin og þrjú kúgildi en kaupverðið var 1.050,- krónur.[424] Þau Magnús Hjaltason og Margrét fóstra hans settust að hjá Jóhannesi og Jónínu.[425] Fyrstu árin sem þau áttu heima á Hesti var Margrét húskona þar og Magnús uppalningur á hennar vegum eins og áður.[426]

Þegar Magnús fluttist að Hesti var hann á ellefta ári og hér átti hann heima í átta ár en fór 2. ágúst 1892 alfarinn að Fremri-Breiðadal.[427] Á uppvaxtarárum sínum í Efrihúsum og á Hesti varð Magnús fyrir margvíslegu líkamlegu hnjaski og munu sum af þeim áföllum hafa haft varanleg áhrif á heilsu hans. Hestur sló hann í höfuðið og kýr tróð hann undir[428] svo eitthvað sé nefnt og um veturnætur árið 1890 og hrataði hann niður baðstofustigann á Hesti og hlaut illa byltu.[429] Upp frá þeim degi var hann algerlega rúmliggjandi hátt á annað ár.[430] Allt þar til Magnús lagðist í rúmið hafði fóstra hans haft hann á sínu framfæri án meðgjafar frá viðkomandi hreppsnefnd en þegar drengurinn, sem orðinn var 17 ára, hafði legið í rúminu heilan vetur gafst hún upp.[431] Sjálf var hún þá komin fast að sjötugu og hætt búskap fyrir sjö árum. Hún átti því tæplega nokkurn annan kost en þann að leita til hreppsnefndarinnar í fæðingarhreppi Magnúsar, sem var Súðavíkurhreppur, og óska eftir að nefndin tæki að sér að ráðstafa piltinum. Með bréfi sem Margrét ritaði hreppsnefnd Súðavíkurhrepps 16. apríl 1891 bar hún upp þetta erindi og niðurstaðan varð sú að sonur hennar, Jóhannes bóndi á Hesti, féllst á að hafa kramarmann þennan áfram á heimili sínu næsta ár gegn fullri borgun frá Súðavíkurhreppi og nam sú upphæð 104,- krónum.[432]

Í bréfi sem Magnús ritaði föður sínum fáum mánuðum eftir brottför sína frá Hesti gerir hann tilraun til að lýsa veikindum sínum og hefur eftir Oddi Jónssyni, lækni á Þingeyri, að það sé: … sullur undir brjóstinu og það sé allt samgróin meinsemd, sullurinn, lifurin og lungun og gollurshimnan og sullurinn sé í þeim hættulegasta stað.[433] Við þessa lýsingu bætir Magnús þeim orðum að Oddur læknir hafi aldrei haft spurnir af nokkrum karlmanni eða kvenmanni sem hafi verið eins veikur.[434]´

Halldór Laxness greinir líka frá veikindum Ólafs Kárasonar undir Fótarfæti og orðar sjúkdómslýsinguna á þann veg að rittengslin leyna sér ekki. Í skáldverki Halldórs segir:

 

Eiginlega finn ég svoleiðis til eins og það væri sullur undir brjóstbeininu, sagði hann, og best gæti ég trúað að allt væri samgróin meinsemd, sullurinn, lifurin, lungun og gollurshúsið. Að minnsta kost er sullurinn á voðalegum stað. … Læknirinn sagði að hann hefði aldrei heyrt um neinn, hvorki kvenmann né karlmann, sem væri eins veikur og þessi piltur.[435]

 

Sjálfur nefndi Magnús sig drottins krossberara um það leyti sem hann hvarf frá Hesti[436] og þau orð leggur Halldór Laxness Ólafi Kárasyni í munn: „Ó ekki er hún glaðleg æskan þín, garmurinn”, sagði Jósep sveitarómagi við Ólaf sem svaraði að bragði og sagði: „Ég er eins og hver annar drottins krossberari, oftast nær viðþolslaus”.[437]

− Þá erum við bæði drottins krossberarar, sagði Ólafur líka í sínu fyrsta samtali við stúlkuna Jarþrúði[438] sem síðar varð heitkona hans, bústýra og barnsmóðir.

Síðasta árið sitt á Hesti var Magnús Hjaltason rúmliggjandi hreppsómagi undir höndum Jóhannesar og Jónínu, sem þar réðu húsum.[439] Það var hart líf fyrir draumamann á nítjánda aldursári. Frá veikindum sínum og atlætinu á Hesti segir Magnús m.a. svona:

 

Vorið 1889 missti ég heilsuna algjörlega. Kvaldist ég svo á fótum í hálft annað ár eða þangað til eftir veturnætur 1890 án þess nokkurn tíma að fá heilbrigða stund þegar ég var vakandi en ég gat einatt fengið svefn. … Þjáningunni úr höfðinu sló niður fyrir brjóstið svo ég hafði enga matarlyst og var ég horaður. Enginn leitaði mér þægðar. Það var álitið sjálfsagt að ég bæri „krossinn” möglunarlaust og ynni verk öll sem fyrir komu … . Að lyktum endaði fótavist mín með því að ég hrataði niður stiga. Hljóp þá ægilegt tak í brjóstið er ég hafði nærri 3 sólarhringa og gat ég á þeim tíma hvorki hrært legg né lið. … Eftir það gat ég ekki á fætur komist fyrr en vorið 1892. Fór ég þá fyrst á handlás millum rekkjustokka og var svo lengi að ég ekki gat gengið fremur en barn sem fyrst er að læra að ganga.[440]

 

Húsbændum sínum á Hesti, Jóhannesi Kristjánssyni og Jónínu Sveinsdóttur, ber Magnús illa söguna. Dómum hans um þau er skynsamlegt að taka með nokkurri varúð en alkunnugt er að þurfalingar áttu víða kalda vist hjá vandalausum á fyrri tíð. Um veru sína á Hesti lætur dagbókaskrifarinn m.a. flakka þessi orð:

 

Það var farið svo illa með mig til orða og verka að einsdæmi mun vera, fyrst ég ekki var myrtur. Þó er víst að ekkert dýr hefir skapað verið góðlyndara, auðsveipara og hrekklausara en ég var.[441]

 

Jóhannesi bónda á Hesti, sem var sonur fóstru hans, lýsir Magnús svo:

 

Jóhannes á Hesti var meðalmaður á vöxt, fólskur á svip, höfuðsmár og nokkuð undirleitur. … [Hann] var starfsmaður mikill en sífellt illur og mátti heita að hann hræddi hvern ungling vandalausan er nærri honum kom, svo mikill ótti stóð þeim af honum, tilgátuillur og lyginn en klæmdist aldrei og enginn þar á heimili.[442]

 

Ljótar sögur segir Magnús af viðurgerningi í mat og drykk hjá hjónunum á Hesti og nefnir m.a. að vinnukonurnar hafi átt að fá 26 merkur af hnoðuðum mör yfir veturinn, eina mörk á viku, en Jóhannes hafi klipið um það bil 4 merkur af þessum skammti því hann hafi talið að þær þyrftu ekki á feitmeti að halda á sunnudögum[443] þegar halda skyldi hvíldardaginn heilagan.

Jónína Sveinsdóttir, húsfreyja á Hesti, hafði fæðst hér og alist upp.[444] Hún var dóttir hjónanna Sveins Pálssonar og Steinunnar Jónsdóttur, sem hófu húskap á Hesti fyrir 1850,[445] en móðuramma Jónínu var Þuríður Kolbeinsdóttir, húsfreyja á Hesti, sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá hér bls. 31-34).

Húsmóður sinni, Jónínu á Hesti, lýsti Magnús Hjaltason svo að hún hafi verið allhá á vöxt, björt í andliti, allvel viti borin … og fluglæs.[446] Að dómi Magnúsar beitti Jónína illa því viti sem henni var gefið[447] og í bréfi sem þessi niðursetningur ritaði föður sínum skömmu eftir að hann komst burt frá Hesti fá hjónin þar ljóta einkunn. Í bréfinu kemst Magnús svo að orði:

 

Þau [það er Jóhannes og Jónína – innsk. K.Ó.] fóru svo óguðlega með mig að það eru ekki dæmi til slíks. Það speglaði sig ætíð að Jónína vildi svifta mig lífinu og vitinu á kvalafyllsta hátt og auk þess er hún kvaldi mig sjálf lét hún börnin sín kvelja mig það er þau megnuðu.[448]

 

Í Önfirðingarímu, sem Magnús orti í desembermánuði 1896 og varðveitt er í handriti,[449] gerir hann harða hríð að Jóhannesi og Jónínu á Hesti og vandar þeim ekki kveðjurnar. Sá samsetningur má gjarnan liggja óbirtur enn um sinn.

Þegar Magnús komst burt frá Hesti sumarið 1892 kærði hann strax meðferðina á sér fyrir hreppsnefnd Súðavíkurhrepps sem greitt hafði Jóhannesi bónda umsamið meðlag með ómaganum.[450] Vegna kæru Magnúsar upphófst þó nokkur rekistefna og fyrir milligöngu hreppstjórans í Súðavíkurhreppi féllst Jóhannes á að greiða Magnúsi sem svaraði þriggja mánaða meðgjöf í bætur[451] en illa gekk að fá þá peninga borgaða.[452]

Í kröm sinni undir Hesti átti Magnús Hjaltason fjarlægan vin, skáldið Sigurð Breiðfjörð sem safnast hafði til feðra sinna 27 árum áður en Magnús fæddist. Í vöku og svefni átti hann að þennan ljúfling sem glæddi þrá hans til skáldskapar, gaf vonunum vængi og kenndi honum að snúa sárum harmi í siguróð.

Innan um járnarusl í skemmunni á Efrihúsum fann hann á barnsaldri rifrildi af bók og spurði fóstru sína hvort hann mætti taka þessi blöð. Hvað ætlarðu að gera með það, elskan mín? Það hefur enginn gott af því að liggja í bókum, svaraði fóstran.[453] Ég tók þó bókina, skrifaði Magnús síðar, bar  hana inn í barmi mínum og þorði varla að láta sjá hana. Það voru Númarímur Sigurðar Breiðfjörðs.[454] Svona urðu þeirra fyrstu kynni.

Veturinn 1911-1912 var Magnús tukthúsfangi á Skólavörðustíg 9 í Reykjavík. Þann 11. maí um vorið var honum sleppt og sama dag gekk hann að leiði Sigurðar Breiðfjörð í kirkjugarðinum við Suðurgötu.[455] Þar orti hann þá þessa vísu:

Hingað sný ég fæti fyrst,

forlagarúnum vafinn,

meistarinn í ljóðalist

liggur hérna grafinn.[456]

 

Í skáldsögu Halldórs Laxness um Ólaf Kárason Ljósvíking segir höfundurinn margt um ást piltsins á Sigurði Breiðfjörð. Þegar Ólafur lá sína löngu legu á Fæti undir Fótarfæti birtist skáldið honum í myrkri vetrarins svo til urðu þrjár vísur. Þessi fyrst:

 

Þegar ég ligg í böndum bundinn,

barinn, í myrkri, slitinn sundur,

ekur til mín um sólnasundin

Sigurður Breiðfjörð uppheims kundur.[457]

 

Þegar Magnús Hjaltason fór frá Hesti var hann að verða 19 ára. Hann hafði þá ort 75 kvæði og kviðlinga og í sumum ljóðabálkunum voru tugir vísna, allt upp í áttatíu.[458] Þegar Magnús dó 43ja ára gamall, þann 30. desember 1916, hafði hann ort um það bil 11.000 vísur og dagbækur hans, sem varðveittar eru í Landsbókasafni, fylla 4.351 blaðsíðu í fjögra blaða broti.[459] Önnur ritstörf Magnúsar voru margvísleg en yfirlit yfir þau er að finna í bók Gunnars M. Magnúss Skáldið á Þröm.[460] Ekki er ætlunin að gera hér nánari grein fyrir lífshlaupi Magnúsar Hjaltasonar eða öllu því sem hann færði í letur en annars staðar á þessum blöðum er hér og þar á hann minnst (sjá hér Fremri-Breiðadalur, Brekka á Ingjaldssandi, Bær og Suðureyri).

Fyrir brottför okkar héðan frá Hesti er vert að minna á eitt og annað sem Magnús Hjaltason færði í letur um mataræði, vinnu, hjátrú og siði fólksins sem bjó í Hestþorpinu á síðustu áratugum 19. aldar. Um matinn segir hann m.a. þetta:

 

Stöku sinnum kaffi á morgnana. Hádegiskaffi og miðaftanskaffi þekktist ekki. Harðmeti, þorskhöfuð eða steinbítur til nóns og flot við. Unglingum var skammtað flotið í spæni eða framan í skel. Stundum var líka kaka (flatbrauð) og fékk þá fullorðinn karlmaður hálfa köku, kvenmaðurinn fjórða part og unglingurinn fjórða part eða minna.

Í morgunskatt var mjölmjólk (mjólk eða mjólkurbland með litlu útákasti). Nónkaffi var oft en stundum var þó aðeins drukkin blanda (drukkjarblanda). Í kvöldskatt var oft kássa (vatnsgrautur) og súr og lungnabiti og þess háttar niðri í, − aldrei blóðmör eða lundabaggi nema helst um sláturtíma og þá helst blóðmör („blómur”). Fyrirfólkið (húsbændur) át góðmetið svo sem súrsaðar bringur, lundastykki, köku og smjör og oftast í laumi svo undirfólkið vissi varla um það. Stundum á kvöldin var bara súr og mjólk. Karlmanninum var skammtað í fjögra marka aski, kvenmanninum í þriggja marka aski og unglingunum í könum (smáöskum).

Á vetrum var oft spað til nóns á sunnudögum, fékk þá karlmaðurinn þrjá bita, kvenmaðurinn tvo, venjulega, og unglingurinn einn. Stöku sinnum endranær var og gefið spað svo sem á þrettánda og þegar kúm var haldið til kálfs. Hlökkuðu margir til þeirra daga.[461]

 

Á öðrum stað greinir Magnús frá því að í Önundarfirði hafi vinnufólki verið vigtaður út matur allt fram til ársins 1890. Fékk þá karlmaðurinn þrjá steinbíta til vikunnar en kvenmaðurinn aðeins einn.[462] Af feitmeti fékk hver vinnukona yfirleitt eina mörk á viku af hnoðuðum mör,[463] það er 250 grömm. Karlmenn sem fóru til sjávar áttu hins vegar að fá 5 merkur af smjöri á viku hverri.[464] Ólík sýnast kjör karla og kvenna í stétt vinnufólks hafa verið á uppvaxtarárum Magnúsar ef marka má orð hans. Vinnukonurnar segir hann hafa fengið 12,- krónur á ári og þær því verið í 5 ár að vinna sér fyrir einum söðli en vinnumennirnir hafi hins vegar fengið 60,- krónur á ári í kaup.[465] Tölurnar sem Magnús nefnir þarna eiga ugglaust við þann hluta heildarlaunanna sem greiddur var í peningum en þess utan fékk vinnufólkið fæði og eitthvað af fataplöggum.

Um vetrarstörf fólksins í baðstofunum í Efrihúsum og á Hesti ritar Magnús svo:

 

Alltaf var sofið í rökkri, oftast þangað til sjöstjarnan var komin í hádegisstað. Þá var farið ofan, fram í eldhús til að kveikja á lýsislampa. Voru tveir lýsislampar hafðir í baðstofunni, sinn í hverjum enda.

Svo fóru allir sem vettlingi gátu valdið eitthvað að gjöra, sumir við ullarvinnu, sumir við annað. Karlmenn saumuðu Alltaf var sofið í rökkri, oftast þangað til skinnklæði, ófu vaðmál, fléttuðu reipi og gerðu við ýmislegt smávegis er úrhendis hafði farið. Stundum kembdu þeir fyrir kvenfólkið.

Unglingar táðu ull, undu af snældu, héldu í viðu (hespu), sneru hrosshár á halasnældu og fleira.[466]

 

Við þessa skýrslu bætir Magnús fáeinum orðum um lýsingu í baðstofunni og segir:

 

Fyrir og um 1880 var farið að nota steinolíu til ljósmatar uppi við, í baðstofunni. Til þess var haft glas og var það kallað týra. Týran var svo látin liggja í lýsiskolu á ská. Reykti þá oft hroðalega og hefi ég ekki í baðstofu séð meiri reyk, allt varð kolótt af mekki og við þetta var látið sitja.[467]

 

Á árunum milli 1880 og 1890 voru ýmsir gamlir siðir enn í heiðri hafðir á bæjunum í Hestþorpinu og fólkið sem þar bjó þekkti margt úr hjátrú fyrri tíðar. Í skrifum sínum nefnir Magnús Hjaltason um það bil 100 dæmi af slíku tagi[468] en hér verða örfá sýnishorn að nægja úr öllu því safni. Magnús ritar:

 

Ekki mátti bera beisli í bæ þar sem kona var ólétt, þá átti fylgja barnsins („lækurinn”) að verða margvafinn um háls þess svo óheill yrði af. – Ekki mátti ólétt kona éta selshreifa sem ekki væri skorið upp í, þá átti barnið að fæðast með óklofið upp í fingur eða tær (samangrónar). – Ekki máttu unglingar veifa snæri eða öðru þvílíku í kringum sig, þá áttu þeir að berja frá sér guðs engla. – Ekki mátti blístra í húsum inni, þá átti sá að vilja einhvern dauðan. – Um leið og börn byrjuðu að éta var þeim kennt að segja: „Guð blessi mig og matinn í Jesú nafni, Amen.” – Ef maður klæddi sig í úthverfan sokk átti það að vera vörn við villu. – Manni skyldi gefa þrjá bita, hundi tvo, ketti einn. – Ef hundur lá í dyrum svo að hann sneri löppunum fram, átti hann að vera að „bjóða inn”. – Ef köttur spjó átti að koma jarðeigandi og eins ef næturgagn fór um koll með einhverju í. – Ef músarindill flaug ofan í bæjartúðu átti það að boða hjónaskilnað. – Sá sem getinn var undir beru lofti átti ekki að geta dáið nema hann væri borinn undir bert loft. – Ef að brakaði mikið í fingrum manns voru það kallaðir lausabrestir og átti maður að eiga eins mörg börn í lausaleik eins og brestirnir voru margir. – Smali skyldi gefa hundi sínum úr lúku sér svo að hann yrði honum fylgisamur. – Ef maður laug upp draumum sínum átti hann ekki að hafa frið í gröfinni. – Ef auðsætt var að unglingur myndi verða skáld var það talið mesta auðnuleysi. – Ef hestur velti sér í haga eftir miðjan vetur áttu allar stórhríðar að vera úti. – Giftir menn skiptu hári sínu í miðju enni, ógiftir í vinstri vanga. – Ekki mátti kveða á kvíarvegg, þá áttu ærnar að verða óspakar. – Ef maður geiflaði sig á móti spegli átti lík manns að verða eins. – Ef maður át eyrnamark af kind (sviðið og soðið) átti hann að verða sauðaþjófur. – Hrár hákarl var hafðir við ígerð til að ná út greftri, sömuleiðis súrbrauð og smjör, tuggið saman, þá Maríustakkur, hófblaka og hrafnablaka. – Mjólk úr þrílitri kú átti að lækna flestar meinsemdir. – Hundskinnsbleðill af nýdrepnum hundi var bundinn framan á háls á lömbum sem vörn móti dýrbiti. – Hrökkáll í mýrum átti allt að bíta í sundur nema meyjarfótinn. – Kýr lágu úti að sumarlagi til 1885, þá var farið að láta þær liggja inni. Þótti með því verða jafnari mjólk. – Ætíð var byrjað að slá laugardaginn í 12. viku sumars.[469]

 

Hér verður nú horfið frá skrifum Magnúsar Hjaltasonar en þess í stað gefinn gaumur að hvað hér kynni enn að sjást af minjum fyrri tíðar.

Um hálfkirkjuna sem áður var á Hesti sjást nú engar minjar en á árunum kringum 1570 virðist hún enn hafa gegnt sínu hlutverki. [470] Í máldaga Stefáns biskups Jónssonar frá síðustu árum fimmtándu aldar eða fyrstu árum hinnar sextándu segir að hálfkirkjan undir Hesti í Önundarfirði eigi 10 hundruð í heimalandi og 5 kúgildi.[471] Í Gíslamáldaga frá því um 1570 má sjá að hálfkirkjan sem hér var hafði þá tapað nokkru af sínum litlum eignum því þar segir svo:

 

Hálfkirkjan á Hesti á 5 hundruð í heimalandi, 4 málnytukúgildi, ein messuklæði, eitt altarisklæði rifið og litla bjöllu.

Item jörðin 40 hundruð og tveimur betur.[472]

 

Textinn ber með sér að á þessum árum hafa enn verið sungnar tíðir í þessu guðshúsi en líklega hefur því verið hætt mjög skömmu síðar því í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er hálfkirkjan á Hesti ekki nefnd[473] svo ætla má að fáir hafi þá munað eftir tilvist hennar. Athygli vekur að í Gíslamáldaga er jörðin Hestur virt á 42 hundruð en í Jarðabók Árna og Páls og öðrum yngri heimildum er dýrleikinn jafnan sagður vera 48 hundruð (sjá hér bls. 1). Minnt skal á að í skránni frá 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar er þessi sama jörð virt á 50 hundruð (sjá hér bls. 8-9) svo að endanlegt mat á dýrleikanum virðist ekki hafa náð að festast í sessi fyrr en um 1600 eða á 17. öld.

Yfir þrjátíu ár eru nú liðin frá því byggð lagðist af hér á Hesti en jörðin fór í eyði árið 1963 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 371). Í gömlu hjáleigunum, Efrihúsum og Neðrihúsum, hafði búskap verið hætt nokkru fyrr því Neðrihús fóru í eyði árið 1926 og Efrihús árið 1948 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 370). Árið 1932 var enn búið í torfbæjum bæði á Hesti og í Efrihúsum[474] en bærinn í Neðrihúsum stóð þá auður. Fáum árum síðar byggði bóndinn á Hesti nýtt íbúðarhús sem enn stendur.[475]

Flest útihús eru fallin en hér eru nú (1994) tveir sumarbústaðir sem standa báðir á sama hólnum, skammt fyrir ofan flötina þar sem áður stóð bærinn í Efrihúsum. Annar þessara bústaða er að stofni til gamla skólahúsið sem reist var á þessum sama stað árið 1904 og stækkað síðar.[476] Nú hefur það enn verið stækkað því viðbyggingin suðaustan við dyrnar var reist sumarið 1994.[477] Skólahúsið stendur í landi Efrihúsa og var á fyrri tíð einnig notað sem samkomuhús. Það var áður í eigu Mosvallahrepps og var um 1920 virt á 1.000,- krónur.[478] Hinn sumarbústaðurinn er gamalt flugskýli frá flugvellinum í Holti og stendur aðeins framar en gamla skólahúsið. Þessi bústaður er nú (1994) grænmálaður á rauðum trépalli. Rétt fyrir neðan bústaðina tvo hanga uppi gömul fjárhús og þar er líka hlöðutótt. Rétt framan við túnið og nokkru hærra er grjóthlaðin fjárrétt eða stekkur, skammt neðan við skriðufætur, 7 x 8 metrar eða þar um bil að flatarmáli. Lítið eitt framar og í svipaðri hæð er grónari rúst og má ætla að þar hafi verið stekkur. Nærri lætur að flatarmál þeirrar tóttar sé 6 x 5 metrar.

Til að átta sig á hvar gömlu bæirnir í Hestþorpinu stóðu er best að taka sér stöðu hjá sumarbústöðunum og horfa þaðan niður túnið í átt að ánni. Frá þessum stað er styst að bæjarstæðinu í Efrihúsum en Efrihúsabærinn stóð á flöt sem er beint fyrir neðan fremri sumarbústaðinn (flugskýlið) og um það bil miðja vega milli hans og svolítils hóls þar sem áður var súrheystótt en á hólnum er grasið grænna en á túninu í kring.[479] Frá sumarbústaðnum séð er stefnan á gamla bæjarstæðið í Efrihúsum rétt utan við íbúðarhúsið á Hóli sem blasir við handan ár.[480] Einar Guðbjartsson, sem fæddur er árið 1950 og ólst upp á Hesti til 13 ára aldurs, man vel eftir tóttum bæjarins í Efrihúsum og frá honum eru þessar upplýsingar komnar. Þar sem bærinn stóð áður hefur allt verið sléttað út en á bæjarstæðinu er græni liturinn á gróðrinum mun daufari en allt um kring og nær því að vera grár. Nær fullvíst má telja að á þessum sama stað eða þar rétt hjá hafi bærinn í Efrihúsum staðið árið 1873 þegar Magnús Hjaltason var fluttur hingað ómálga barn því af skrifum Magnúsar frá árinu 1914 má skilja að bærinn í Efrihúsum standi þá enn á sama stað og verið hafði á uppvaxtarárum hans hér undir Hesti, 1873-1892[481] og síðar mun bærinn ekki hafa verið fluttur.[482]

Á árunum kringum aldamótin1900 og allt fram á fjórða áratug 20. aldar stóð bærinn á Hesti rétt utan við gamla akveginn sem liggur hér um túnið.[483] Sé horft niður á þennan gamla veg frá hólnum sem skólahúsið frá 1904 stendur á blasir við langur og ávalur hóll rétt utan við veginn og ekki ykja langt frá ánni. Hóll þessi heitir Langhóll[484] og ber nafn með réttu. Bærinn sem fólkið á Hesti bjó í stóð á flöt rétt ofan við þennan hól og mjög skammt fyrir utan gamla akveginn sem áður var nefndur.[485] Úr hópi þeirra sem muna eftir bænum eða tóttum hans á þessum stað má nefna Sveinbjörn Guðjónsson frá Hesti, sem fæddur er árið 1940,  en foreldrar hans bjuggu á Hesti frá 1931-1956 (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999,371) og voru á sínum fyrstu búskaparárum hér í þessum gamla bæ.[486] Á síðari hluta 19. aldar mun Hestbærinn hafa staðið á þessum sama stað eða því sem næst, það er í útvesturhorni gamla túngarðsins sem nú er að mestu horfinn og þó heldur utanvert eins og Magnús Hjaltason orðar það.[487] Hversu lengi bærinn hefur staðið þarna er með öllu óvíst en nokkrar líkur benda til þess að svo hafi ekki verið frá upphafi (sjá hér bls. 7-8).

Rétt fyrir utan Langhól, sem áður var nefndur, er lágur hóll eða bali, nokkuð mikill um sig, og á honum stóð bærinn í Neðrihúsum.[488] Mjög stutt hefur því verið á milli bæjanna á Hesti og í Neðrihúsum.

Um gömlu bæina sem fólkið á Hesti og í Neðrihúsum bjó í sjást nú engin ummerki. Í Efrihúsum hafa bæjartóttirnar líka verið sléttaðar út en þar er steinninn Flatur enn á sínum stað, svolítið utan við flötina sem bærinn stóð á, og lítið utar og neðar í túninu gefst enn kostur á að virða fyrir sér Skrauta.[489] Hann er stærsti steinninn í grjóthrúgu sem þar er nú.[490] Fyrrum var því trúað að huldufólk ætti sér bústað í Flat en illar vættir byggju í Skrauta.[491] Fyrir börn var talið vissara að koma ekki mjög nálægt síðarnefnda steininum ef orðið var skuggsýnt eða dimmt.[492] Til marks um nærveru álfanna í Flat var meðal annars sögð sú saga að einu sinni hefðu föt af þeim blandast saman við flíkur er húsfreyja í Efrihúsum breiddi til þerris á þennan fallega stein, bústað huldufólksins.[493]

Um Kjartan Jónsson, síðasta 19. aldar bóndann í Efrihúsum, segir Snorri Sigfússon skólastjóri að sér hafi helst þótt hann líkjast fornmönnum.[494] Kjartan bjó í Efrihúsum frá 1884-1887 og frá 1892-1918[495] (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 370). Hann fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal árið 1845, sonur Jóns Arnfinnssonar og Margrétar Kjartansdóttur frá Tröð[496] sem gengu í hjónaband skömmu eftir fæðingu drengsins og bjuggu lengi á Kirkjubóli en seinna í Innri-Lambadal (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal). Kjartan Jónsson og Finnborg Egilsdóttir, kona hans, fluttust frá Mosvöllum að Efrihúsum vorið 1884[497] en Finnborg dó hér í Efrihúsum einu ári seinna.[498] Magnús Hjaltason, sem þá var á tólfta ári, segir að hún hafi verið andlitsbjört og öllum harmdauði er hana þekktu.[499] Í febrúarmánuði árið 1891 kvæntist Kjartan í annað sinn og gekk þá að eiga Halldóru Jónsdóttur frá Ytri-Veðrará, sem var tíu árum yngri en hann, fædd á Brekku á Ingjaldssandi árið 1855.[500] Börn átti Kjartan með báðum konum sínum.[501]

Kjartan Jónsson í Efrihúsum, sem Snorri Sigfússon taldi líkjast fornmönnum, stundaði söðlasmíði með búskapnum.[502] Um þennan bónda og söðlasmið hér í Efrihúsum ritar Magnús Hjaltason svo:

 

Kjartan var hið mesta afarmenni, stór vexti og fornmannlegur, sterkur og mikilvirkur, þjóðhagi á tré og járn og rausnarmaður. Hann var ágætur konu sinni, Finnborgu, og tregaði hana mikið. Hjá Kjartani og því fólki sá ég margt er ég hafði ekki áður séð svo sem lausarúm, hrossabrest og fleira.[503]

 

Eitt barna Kjartans í Efrihúsum og seinni konu hans, Halldóru Jónsdóttur, var Jón Finnbogi.[504] Hann varð árið 1918 fyrsti formaður Kaupfélags Önfirðinga en gerðist síðar umsvifamikill iðnrekandi í Reykjavík (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 392-393).

Við höfum nú litið á gömlu bæjarstæðin á öllum býlunum þremur sem búið var á hér í Hestþorpinu á 19. öld, Efrihúsum, Neðrihúsum og Hesti. Á árunum 1682-1710 og eitthvað lengur fram eftir átjándu öldinni var eitt býli enn hér í Hestþorpinu og mun oftast hafa verið nefnt Múli eða Múlakot (sjá hér bls. 8 og 24-25). Kot þetta byggðist fyrst á árunum 1681-1683 og var sannanlega enn í byggð árið 1710 en fór í eyði fyrir 1775. Talið er að kotið Múli hafi verið þar sem nýbýlið Ármúli var reist snemma á 20. öld eða á allra næstu grösum.[505] Sú kenning fær einkum stoð af því að holtarani þar rétt hjá heitir Múli.[506] Magnús Hjaltason gerir grein fyrir málinu og segir:

 

Út af Hestinum (fjallinu), neðan til við Heimri-Mýrarnar, var áður kot er Múli hét eða Múlakot. Holtaraninn þar úteftir er kallaður Múli. Það er talið, eftir því sem ég heyrði er ég var ungur, að hafi lagst í eyði um 1805 [ártalið er skakkt hjá Magnúsi – innsk. K.Ó.]. Bjó svo enginn þar í 100 ár en 1905 var hafin þar byggð að nýju. Það gerði Sigurður Guðmundsson, kallaður „snari”. Hann var þar í fá ár.[507]

 

Þegar Magnús festi þessi orð á blað árið 1914 stóð kot Sigurðar snara autt[508] en árið 1931 var reist þarna, utantil við Hesttúnið, nýbýlið Ármúli sem fór í eyði árið 1947 (sjá Firðir og fólk 1900-1999,371).

Ármúli var rétt neðan við gamla akveginn þar sem hann liggur að brúnni yfir ána Korpu. Stór og ávalur stein, sem var rétt við bæjardyrnar, stendur hér enn[509] og skammt frá er steinsteyptur stöpull sem gefur til kynna að fólkið sem bjó í Ármúla hafi komið sér upp vindrafstöð. Ofan vegar hér rétt hjá er stór fjárrétt sem nú er greinilega hætt að nota. Holtaraninn Múli, sem áður var minnst á, er hér líka á sínum stað undir fjallinu Hesti þar sem það teygist lengst í vestur.

Svo má heita að Ármúlatúnið liggi að brúnni yfir Korpu en áin skilur hér að lönd jarðanna Hests og Kroppstaða. Á þessum stað var Korpa fyrst brúuð árið 1895 og brúin sem hér er nú hvílir á gömlu grjóthlöðnu brúarstöplunum (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Þeir eru nú orðnir 100 ára en utan um þá var steypt á árunum upp úr 1940 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Við brúna á Korpu snúum við til baka og fylgjum gamla akveginum, sem liggur um túnin á Hesti og í nánd við þau, að brúnni yfir Hestá sem fyrst var brúuð hér árið 1898 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Spölurinn þarna á milli er einn kílómetri eða tæplega það. Þessi gamli bílvegur, sem nú er lítið notaður, var lagður á þriðja áratug 20. aldar. Árið 1921 var lokið við að leggja vagnveg frá Flateyri inn að Korpu.[510] Þórður Sigurðsson í Breiðadal, sem lengi var vegaverkstjóri í Önundarfirði á fyrri hluta 20. aldar, segir að á árunum 1921-1932 hafi ungmennafélagar unnið að því að leggja veg frá Korpu og út fyrir Vífilsmýratún og kostað sjálfir þá vegagerð.[511] Frá því bílvegur var opnaður yfir Breiðadalsheiði haustið 1936 (sjá hér Fremri Breiðadalur) og allt til ársins 1962 fór öll umferð ökutækja milli Ísafjarðar og Dýrafjarðar um þennan veg og yfir brýrnar tvær sem standa sín hvorum megin við túnin á Hesti. Hið sama lögmál gilti þá einnig um allar ökuferðir innansveitar í Mosvallahreppi.

Í þessum efnum varð breyting á þegar ný brú var byggð á Korpu utantil við Kirkjuból sumarið 1962 og Hestá brúuð fyrir utan Vífilsmýrar um svipað leyti. Þessum nýju brúm fylgdi nýr vegur og þurfti þá ekki lengur að fara gamla krókinn inn að Hesti. Næstu árin var gamli vegurinn þó notaður við akstur milli bæja hér inni í Firðinum. Nú má hins vegar heita að umferð ökutækja yfir gömlu brýrnar á Hestá og Korpu sé engin. Fyrir gangandi fólk koma þær hins vegar í góðar þarfir og heimafólk ekur reyndar enn yfir gömlu brúna á Hestá þegar því hentar.[512] Yfir hana fórum við í gær á göngu okkar frá Tungu að Hesti. Nú stöndum við aftur hér á sama brúargólfinu og horfum í djúpan hylinn.

Skammri dvöl á Hesti er gott að ljúka með gönguferð fram á Hestdal sem er grasivafinn á hásumartíð, enda lágu þar helstu slægjulönd fólksins sem áður bjó á bæjunum í Hestþorpinu. Hestá fellur um dalinn og við höfum áður svipast um handan árinnar en þar á jörðin Tunga allt land á dalnum  (sjá hér Tunga í Firði).

Frá gamla bæjarstæðinu á Hesti eru fjórir til fimm kílómetrar fram á Hestleitið, sem er framarlega í dalnum, svo þangað má ganga á tæpum klukkutíma. Nær allur dalurinn hér norðan við Hestá skiptist á fyrri tíð í engjaparta sem sumir fylgdu heimajörðinni á Hesti, aðrir Efrihúsum og enn aðrir Neðrihúsum.[513] Á fyrsta þriðjungi 20. aldar var talið að heimajörðin ætti tvo fimmtu hluta engjanna á dalnum, Efrihús aðra tvo fimmtu hluta og Neðrihús einn fimmtung.[514] Tvö engjapláss á Hestdal voru svo sameign allra býlanna þriggja í Þorpinu eins og hér hefur áður verið nefnt, Samvinna, sem er rétt fyrir framan túnið, og svo fremsta slægjulandið en það er á Hestleitinu.[515]

Leið okkar fram dalinn liggur um grundir og bala með fjallið fríða, sjálfan Hestinn, á vinstri hönd en Hestána til hægri handar. Nafnið á fyrsta engjaplássinu sem leið okkar liggur um hefur þegar verið nefnt en það heitir Samvinna. Þar var mótak en talið lélegt.[516] Í syrpu Magnúsar Hjaltasonar, sem hann nefndi Frá heiðum til hafs, gerir hann m.a. grein fyrir örnefnum á Hestdal og annars staðar í landareign býlanna á Hesti.[517] Hann segir þar líka dálítið frá tilhögun samstarfsins þegar fólkið úr Hestþorpinu var við heyskap í Samvinnu eða annars staðar þar sem heyjað var í sameiningu. Um þetta ritar Magnús svo:

 

Þegar unnið var í samvinnu var í mínu ungdæmi [þ.e. 1878-1892 – innsk. K.Ó.] vinnunni hagað þannig. Frá Efrihúsum voru lagðir til tveir menn, Hesti tveir menn en einn frá Neðrihúsum. Eins var með hestana. Frá Efrihúsum voru lagðir til tveir, Hesti tveir, frá Neðrihúsum einn, það er Efrihús fengu tvo fimmtu af arðinum, Hestur eins, Neðrihús einn fimmta.[518]

 

Rétt neðan við slægjulandið Samvinnu rennur Hvolpalæna um gamlan árfarveg[519] en nafnið hefur færst til því á fyrri hluta 19. aldar rann Hestá í þessum gamla árfarvegi. Þar sem áin fellur nú, skammt fyrir neðan túnið í Tungu, var þá aðeins lítilfjörleg læna sem menn nefndu Hvolpalænu því venja var að drekkja þar hvolpum frá Tungu.[520]

Næsti slægnapartur fyrir framan Samvinnu heitir Girði en síðan kemur Hlaðspartur og upp af honum er Hlaðshryggur.[521] Uppi við hlíðarfótinn, neðan við Hlaðshrygg, stendur enn hlaðið sem hann er kenndur við. Þetta gamla sauðabyrgi er um það bil 20 metrar að ummáli, hringlaga og vallgróið. Það var reist úr rústum haustið 1891.[522] Neðan við Hlaðspart, nær ánni, er Efrihúsagirði.[523] Hér telja kunnugir munu vera hið forna Önundargirði sem um er getið í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710[524] en þar segir svo:

 

Önundargirði heitir í Hestsengjum. Þar um eru munnmæli forn að hér hafi í landnámstíð byggð staðið en enginn maður man þar byggð hafa verið. Þó sést hér fyrir gömlum girðingum.[525]

 

Í Jarðabók Árna og Páls er einnig minnst á tóttarústir í Brandhólum sem eru hér nokkru framar og síðar verður frá sagt. Í Jarðabók frá árinu 1805 eru bæði þessi fornbýli nefnd og þar er Önundargirði sagt vera í landi Neðrihúsa.[526]

Magnús Hjaltason hafði þá trú að Önundur Víkingsson, sem í Landnámabók er sagður hafa numið Önundarfjörð, hefði ekki aðeins átt bú á Eyri heldur líka undir Hesti og hið þriðja hér fram á Hestdal. Skoðun sinni í þessum efnum lýsir Magnús m.a. með þessum orðum:

 

Að Önundur landnámsmaður hafi líka átt bú fram á Hestdal er áreiðanlegt því ennþá, 1914, er þar gerði með glöggum túngarði (þó mjög signum) og glöggum húsatóttum, sem við hann er kennt en vanalega kallað Girði. Það er niðri við Hestá. Er þar raklent og gljúp jörð, grasgefið vel. Sunnantil í gerðinu er þúfnastagggarður mikill er kvað vera gömul heyföng eða heylanir. Svo sagði fóstra mín mér … . Í gerði þessu er eigi ólíklegt að Önundur hafi haft kornsæði.[527]

 

Þessi orð festi Magnús á blað árið 1914 en Óskar Einarsson læknir, sem safnaði örnefnum í Önundarfirði á árunum 1927-1928, getur um tóttir og greinilegar leifar af garði á þessum stað.[528]

Skemmst er frá því að segja að þarna eru enn (1994) býsna greinilegar tóttir sem benda til þess að hér kynni fyrir langa löngu að hafa verið býli. Garðurinn sem þeir Magnús og Óskar minnast á liggur í hálfhring skammt frá ánni og er yfir 200 metrar á lengd. Innan garðsins sér til tótta á a.m.k. tveimur stöðum. Á öðrum staðnum er tótt af langhúsi sem hefur verið um 12 metrar á lengd og um 3,5 metrar á breidd. Við annan enda þess og þvert á langhúsið hefur staðið annað minna hús 6 x 2,5 metrar að flatarmáli eða því sem næst. Verið getur að við hlið langhússins hafi svo verið annað álíka hús en þau ummerki eru óljós. Á öðrum stað hér innan garðsins er svo þrískipt langhústótt sem er um 16 metrar á lengd og um 4 metrar á breidd. Viss ummerki benda reyndar til þess að þetta hús hafi ef til vill verið enn lengra og þá að líkindum fjórskipt. Allar þessar tóttir hér í Önundargirði ættu sérfróðir menn að rannsaka sem fyrst svo auðveldara verði að gera sér grein fyrir hversu gamlar þær muni vera og af hvers konar húsum. Fyrir þá sem skoða vilja tóttirnar skal tekið fram að Önundargirði er nánast beint á móti Karlsfætinum í fjallinu Tunguhorni, hér handan við ána, en svo heitir hinn mikli lóðrétti berggangur sem skagar út úr hamraveggnum ofantil í fjallinu. Hérna megin ár en lítið eitt heimar er annar sams konar berggangur í fjallinu Hesti og heitir líka Karlsfótur (sjá hér bls.2). Framantil við þann Karlsfót er Gjá, sem liggur upp eftir fjallinu, og neðan við hana Gjáhryggur.[529]

Til skýringar á tilurð þessara tveggja bergganga sagði gamalt fólk í Önundarfirði þá sögu á nítjándu öld að eitt sinn hafi tröllkarl verið á ferð um Hestdal og glennt sig fjall af fjalli en við það hafi hann klofnað úr augnakörlunum.[530] Áttu fætur karlsins að hafa orðið að dröngum en sagt var að efri búkurinn hefði fallið niður í dalinn og sokkið.[531]

Rétt fyrir framan Önundargirði, sem fyrr var nefnt, er Votihvammur sem áður skiptist í tvo parta og áttu Neðrihús heimari partinn en Hestur þann fremri.[532] Efst í miðjum Votahvammi, alveg upp við fjallshlíðina, fellur að sögn lækur ofan í jörðina og heitir þar Dugghola.[533] Niður við Hestá kemur lækurinn aftur upp.[534] Í Duggholu fannst mikið og gott mótak á fyrsta fjórðungi 20. aldar og í Votahvammi var á næstu árum og áratugum tekið upp mjög mikið af mó.[535] Sagt er að hér hafi verið 4 stungur niður á móinn og þar undir 14-18 stungur af fyrsta flokks mó.[536] Ekki þurftu menn að kvíða vatni í mógröfunum því þær tæmdu sig jafnharðan gegnum Duggholulækinn.[537] Í Votahvammi ber enn mjög mikið á mógröfunum. Aðrar minni mógrafir eru dálítið framar á dalnum þar sem heitir Grafarengi en mótak og slægjur sem þar eru fylgdu Efrihúsum.[538]

Sumarið 1880 var Jóhannes Kristjánsson frá Efrihúsum við heyskap í Votahvammi en hann var þá að byrja að búa á Hesti.[539] Þegar farið var að reiða heim heyið, að áliðnu sumri, lánaði móðir Jóhannesar honum tökupiltinn Magnús Hjaltason til að fara með.[540] Þá var Magnús sjö ára og var þetta í fyrsta skipti sem hann fór með heybandið. Þessa sumars minntist hann síðar og sagði frá á þessa leið:

 

Hross það er þau [þ.e. hjónaefnin á Hesti – innsk. K.Ó.] reiddu á var gömul hryssa er kölluð var Halta-Stjarna. Hún var óþæg mér og réð ég lítið við hana. Var lengi uppi haft og mér strítt með sem ég í gremju minni sagði við Stjörnu: „Ég vildi þú værir dauð og komin önnur betri í staðinn.” Upp frá þessu fór ég með heybandið á hverju sumri á meðan ég var í Efrihúsum og lengur. Hvergi var siður í Önundarfirði að ríða með og varð ég alltaf að ganga. Og oft varð ég að reka fé og kýr á kvöldin eftir að ég var búinn að fara með á daginn, fleiri ferðir framan af Hestdal. Þá voru kýr almennt látnar liggja úti. Ekki var legið úti við heyskap nema þegar fjærst var verið frá bæ svo sem á Fremstengi og Hestleiti á Hestdal og í Engi og Afrétti á Tungudal (frá Tungu). Bundið var heim eftir hendinni og sem minnst látið safnast fyrir. Oft var farið seint heim á kvöldin, oft orðið koldimmt er á sumarið leið þegar verið var að láta upp seinustu klyfjarnar langt fram á dal. Og svo var eftir að ganga heim, spretta af hestum og tjóðra þá – og láta reiðingana inn í fjárhús. Og allárla var farið á fætur og vinnan byrjuð á nýjan leik. Engin stund var gefin frí – vinna – vinna gegndarlaust, það var takmarkið. Um ekkert annað var hugsað. Við þetta vandist ég, var þó þollítill og úthaldslaus og hafði ekki lyst á að éta, síst mikið í einu.[541]

 

Einhverjar gleðistundir hefur Magnús þó átt hér á Hestdal því í sinni löngu legu heima á Hesti á árunum 1890-1892 orti hann kvæði um dalinn og þar er fyrsta vísan svona:

 

 

 

Hestdals hlíðar ljóma

heitri sólu mót,

vafðar vorsins blóma

vænni ofar rót.

Öllum veita yndishag

á sem renna augum þær,

eins um nótt sem dag.[542]

 

Upp af Votahvammi eru Sauðahryggir en Breiðaskriða þar litlu framar.[543] Niður af Breiðuskriðu og mjög skammt frá árbakkanum eru ævagamlar tóttir sem bera nafnið Brandhólar og hefur lengi verið talið af mörgum að þar hafi staðið býli um lengri eða skemmri tíma á hinum fyrri öldum byggðar í landinu.[544]

Í Jarðabókinni frá 1710 segir svo um Brandhóla:

 

Brandhólar heitir annað örnefni í Hestslandi. Þar sér fyrir tóttarústum og mógröfum og meinast að vísu einhverntíma hafa byggð verið, þó löngu fyrir allra manna minni. Ekki verður hér heldur byggt því bæði skerti það engjar heimajarðarinnar og haga, svo er og túnstæðið afbrotið af á einni.[545]

 

Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði sumarið 1775, minnist á Brandhóla og segir þá vera eyðibýli á Hestdal.[546] Við nafn Brandhóla setur Olavius tvær stjörnur sem merkir að hann eða heimildarmenn hans hafa ekki talið útilokað að hér mætti reisa nýbýli.[547] Í Jarðabók frá árinu 1805 eru Brandhólar sagðir vera eyðihjáleiga í landi Efrihúsa[548] og í sóknalýsingu séra Tómasar Sigurðssonar í Holti frá árinu 1840 eru þeir nefndir eyðikot.[549]

Í Brandhólum eru tvær tóttir enn sjáanlegar. Nærri lætur að sú stærri sé 8,5 x 6 metrar að flatarmáli eða um 50 fermetrar og er hún að því er virðist stúkuð sundur í þrennt. Aðeins framar er svo önnur tótt, sem þó er ekki jafn greinileg, og er flatarmál hennar um það bil 3 x 5 metrar. Hugsanlegt er að tóttirnar í Brandhólum hafi verið fleiri því áin og mýrin hér í kring kynnu að hafa lagt þær að velli. Hugmyndin um fornbýli hér í Brandhólum virðist engan veginn fráleit og stærð tóttarinnar, sem enn ber mest á, bendir reyndar til þess að hér hafi forðum verið mannabústaður. Fyrir ókunnuga getur verið svolítið erfitt að finna tóttirnar í Brandhólum og því er vert að benda á að þær eru að heita má beint niður af fremri endanum á fjallinu Tunguhorni, sem er hér handan við ána (sjá hér Tunga í Firði), en framan við það tekur við Ystahvilft og framan við hana er hnjúkurinn Önundur (sjá hér Tunga í Firði).

Þegar Magnús Hjaltason var að alast upp í Hestþorpinu á árunum um og upp úr 1880 var honum sögð sú saga að eitt sinn hafi maður verið að reka fé á Hestdal, fyrri hluta vetrar um næturtíma, og er fjármaður þessi kom fram á Sauðahryggi (sjá hér bls. 66) hafi hann séð líkfylgd koma frá fornbýlinu Brandhólum.[550] Tunglsljós var á og sá hann glöggt til líkfylgdarinnar.[551] Þessi hópur fólks þokaðist heim dalinn og síðan út Eyrar með stefnu á Mjóanes sem er milli Vífilsmýra og Mosvalla (sjá hér Mosvellir) en þar átti að vera kirkjustaður huldufólks.[552]

Framan við Brandhóla er Grafarengi[553] og þar má enn sjá greinileg ummerki um mógrafir, skammt frá ánni. Lítið eitt framan við þær er Smjörteigsfoss og fellur í klettagljúfri (sjá hér Tunga í Firði). Nokkru framar er svo engjapartur sem heitir Rjúkandi og er kenndur við fossinn Rjúkanda í Hestá sem er þar rétt hjá en þó aðeins framar.[554] Á þessum slóðum var líka Stagggarðsengi og framan við Rjúkanda var Seljaengi en þar fyrir framan Fremsta engi.[555] Seljaengi var talið besta engið á dalnum en fór allt undir Nýjuskriðu[556] sem féll aðfaranótt 21. september árið 1900.[557] Frá því skriðuhlaupi segir Magnús Hjaltason svo:

 

Haustið 1900, aðfaranótt þess 21. september, féll svo mikil skriða á Hestdal í Önundarfirði að slík hafði ekki komið í Önundarfirði í minnum þeirra manna er þá lifðu. Hafði skriðan upptök sín upp af Heimri-Seljahrygg, milli Beltis og Hnjóta (kennileiti heimanvert við Hrútahjalla), féll svo niður yfir allt svæðið frá Fremstengislæk í Hests landareign og heim í Rjúkanda í Neðrihúsa landareign. Þessi engjasvæði tókust af: Nokkuð af Fremstengi í Hests landareign, allt Seljaengi í Hests landareign, nær allt Seljaengi í Efrihúsa landareign, Kökutunga öll í Efrihúsa landareign, Seljamóur allar í Efrihúsa landareign, Stagggarðsengi í Hestslandareign og Rjúkandi (mikið af honum) í Neðrihúsa landareign. Níu eða ellefu sauðkindur fórust í skriðunni … . Fólk í Tungu vaknaði um nóttina er skriðan féll. Varð hljóð svo mikið að söng í fjöllunum. Daginn eftir sást skriðan glöggt frá Ytri-Hjarðardal. Skriðan hljóp yfir Hestá hjá Hróbjargar- eða Hrófbjargarfossi og stöðvaði hana. En síðar bar áin feikimikinn aur og leðju heim um allar eyrar og eyðilagði mikil slægjulönd. Fossinn Rjúkandi, er jafnan rauk mikið úr, varð ekki hinn sami eftir þetta, minnkaði hann mikið og reykur úr honum hefur varla sést síðan.[558]

 

Um fossana tvo, Hróbjargarfoss og Rjúkanda, og þann þriðja, Smjörteigsfoss, sem er neðar í ánni, hefur áður verið rætt á þessum blöðum (sjá hér Tunga í Firði).

Nöfnin Seljahryggur og Seljaengi, sem Magnús nefnir, benda eindregið til þess að hér hafi á fyrri tíð verið sel frá bæjunum í Hestþorpinu. Ætla má að haustið 1900 hafi seltóttirnar farið undir skriðuna miklu. Í þúfnastagggarði hér skemmt frá, rétt framan við ármót Hestár og Þverár, sýnist þó vera tóttarmynd en allt er þar mjög óljóst.

Í Fremstengi, sem fór að hluta til undir skriðuna, er Þræturimi sem fylgdi Neðrihúsum á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.[559] Nafnið sýnir að um hann hafði áður staðið styrr.

Frá hinni miklu aldamótaskriðu, sem nú er fyrir löngu farin að gróa upp, er skammur spölur fram á Hestleitið sem nær frá Neðri-Hrútahjalla og niður að Hestá.[560] Á leitinu nemum við staðar til að njóta kyrrðarinnar sem hér ríkir og hins hreina fjallalofts. Engjalöndin sem haustið 1900 fóru undir hina miklu aldamótaskriðu voru 50 árum síðar orðin allvel gróin.[561]

Við erum hér í liðlega 200 metra hæð og í nánd við dalbotninn sem sveigir litlu framar til norðausturs í átt að Hestskarði. Sunnan við skarðið rís fjallið Þverfell, sem gnæfir við himin fyrir öllum dalbotninum, og mun vera hæsta fjallið sem sést frá bæjum í Önundarfirði en klettabrún þess er í 908 metra hæð yfir sjávarmáli.

Yfir Hestskarð hér norðan við Þverfellið lá annar tveggja fjallvega sem farnir voru á fyrri tíð úr Önundarfirði í Álftafjörð (sjá hér Tunga í Firði). Allir sem fóru Hestskarð lögðu leið sína um Hestdal og Hestáin, sem prýðir dalinn, á upptök sín lítið eitt neðan við skarðið. Skógurinn sem setti svip sinn á Hestdal á fyrri öldum er nú allur horfinn en einna lengst mun hann hafa haldið velli hér á Hestleitinu eins og áður var frá greint (sjá hér bls. 4). Að þessu sinni leggjum við ekki leið okkar yfir Hestskarð en látum nægja að skoða Manntapabrekku, sem er neðan við Þverfellsendann (sjá hér Tunga í Firði), úr nokkurri fjarlægð. Svo snúum við til baka og þræðum fjárgötur heim að Hesti. Hjá Efrihúsum þar í túninu gerum við enn stuttan stans og rifjum upp eyktamörkin, sem Magnús Hjaltason hefur bent okkur á og kallar dagsmörk undir Hesti, en þau segir hann vera þessi:

 

Miður morgunn í Seljahvilft í Korpudal, dagmál í Hestskarði, hádegi á Tunguhorni, miðmundi á Miðmundahorni, nón á miðju Breiðafjalli, miðaftann utantil á Kráknum, sumir sögðu á Hafradal, náttmál á Núpatá, sumir sögði í Holtsskál.[562]

 

Mörg þeirra kennileita, sem þarna koma við sögu, eru nefnd annars staðar í þessu riti, Seljahvilft í Korpudal (sjá Kirkjuból í Korpudal), Hestskarð (sjá hér bls. 3 og Tunga í Firði), Tunguhorn (sjá Tunga í Firði), Krákurinn (sjá Vífilsmýrar), Hafradalur (sjá Vífilsmýrar) og Holtsskál (sjá Holt). Hin þrjú geta áhugamenn lært að þekkja með því að athuga sólarganginn hér undir Hesti.

Nú er kvöldskugginn frá fjallinu tekinn að lengjast en ætlun okkar er að gista á Efstabóli í nótt. Spölurinn þangað er ekki langur héðan frá Hesti, aðeins liðlega einn kílómetri ef farin er stysta leið. Í kvöldhúminu getum við því lagt svolitla lykkju á leið okkar og horfið um stund fram á Korpudal, sem liggur hér norðan við Hestinn, fjallið eina í þeirri landareign sem við höfum nú um sinn glatt okkur við að skoða. Korpudalur er að mörgu leyti áþekkur Hestdal og svo er um stærð hans, lögun og gróðurfar. Í kvöld látum við nægja að gefa gaum að þeim hluta dalsins sem liggur sunnan árinnar Korpu en jörðin Hestur á hér allt land þeim megin við ána. Handan Korpu liggja hins vegar lönd jarðanna Efstabóls, Kroppstaða og Kirkjubóls sem allar þrjár eru í námunda við dalsmynnið.

Frá Hesti fylgjum við hlíðarfætinum fyrir fjallsendann og þegar við höfum gengið í um það bil sjö mínútur stöndum við í mynni Korpudals. Þar eru Heimri-Mýrar en hjá þeim og litlu framar Hólsholtin er svo heita.[563] Lyngteigur í hlíðinni þar fyrir ofan heitir Kinn en í fjallinu upp af Kinninni er klettaegg sem heitir Rönd.[564] Rétt framan við Hólsholtin eru Fremri-Mýrar niður við ána.[565] Þar var heyjað í samvinnu frá bæjunum í Hestþorpinu (sjá hér bls. 5). Fremri-Mýrar og Heimri-Mýrar voru að sögn Magnúsar Hjaltasonar einu slægjulöndin í Hestlandi á Korpudal.[566]

Á móts við Fremri-Mýrar eða því sem næst er mikill lóðréttur berggangur í fjallinu Hesti og heitir Karlsfótur[567] eins og bræður hans hinum megin í Hestinum og í Tunguhorni (sjá hér bls. 2). Neðan við Karlsfót er Háaskriða[568] sem líklega hefur einnig verið nefnd Stóraskriða.[569] Framan við skriðuna er langt holt niður við ána og heitir Gildruholt.[570] Þar fyrir framan er Þverárhryggur og upp af honum Illagil.[571] Þverárhryggur er beint á móti Þverá sem fellur í Korpu úr norðurhlíð dalsins.[572] Framan við Þverárhrygg er Stórholt[573] og þar er Stórholtseyri við ána.[574] Magnús Hjaltason segir að þangað hafi kýrnar yfirleitt verið reknar á hans uppvaxtarárum.[575]

Framan við Illagil, sem hér var áður nefnt, byrja tvö klettabelti í fjallshlíðinni. Lægra beltið heitir Lægrigjarðir en hitt Hærrigjarðir.[576] Niður af fremri endanum á Lægrigjörðum er grár steinn uppi í hlíðinni og heitir Fremri Þorsteinn. Annar álíka steinn er lítið eitt heimar og ber nafnið   Heimri-Þorsteinn.[577] Hærrigjarðir, sem áður voru nefndar, ná frá Illagili og lítið eitt fram fyrir Seljaskriðuhvolf sem er neðan við gjarðirnar.[578] Seljaskriða er naðan við nýnefnt Seljaskriðuhvolf[579] og bendir nafnið til þess að hér hafi búsmali frá einhverju býlanna í Hestþorpinu verið hafður í seli um lengri eða skemmri tíma á fyrri tíð. Vera má að seltóttir hafi lent undir skriðunni en hitt gæti einnig verið að skriðan sé kennd við selin frá Korpudalsjörðunum, sem sterkar líkur benda til að hafi verið hér beint á móti, handan ár, en þar er bæði Seljahvilft og Seljalækur (sjá hér Efstaból).

Í nánd við Seljaskriðu er Leynilágarsteinn og framan við hann Leynilág.[580] Skýring á nafninu er sú að þarna í láginni leyndust stundum gripir þegar verið var að svipast um eftir þeim.[581] Rétt hjá Leynilág er gljúfur í ánni Korpu og heitir það Stofa.[582] Litlu framar er Urðarhryggsgil uppi í fjallinu og niður af því Urðarhryggur með miklu stórgrýti eins og nafnið bendir til.[583] Framan við Urðarhrygg eru tveir stakir steinar sem vekja athygli en á milli þeirra er nokkurt bil. Steinar þessir munu ýmist hafa verið nefndir Stóri-Rauðkarl og Litli-Rauðkarl[584] eða Heimri-Rauðkarl og Fremri-Rauðkarl.[585] Við Rauðkarlana erum við komin fram undir dalbotn en grasmóarnir í dalbotninum heita Flatir.[586] Brekkuna sem liggur hlíða á milli fyrir botni dalsins nefnir Magnús Hjaltason Lægri-Moldbrekku og þar fyrir ofan er að hans sögn Hærri-Moldbrekka.[587] Óskar læknir nefnir brekkur þessar aftur á móti Lægri-Moldbrekkur og Hærri-Moldbrekkur.[588] Líklegt verður að telja að orðmynd Magnúsar sé upprunalegri.

Hjá Rauðkörlunum, sem fyrr voru nefndir, snúum við til baka og göngum í næturhúmi heim dalinn á þremur stundarfjórðungum. Ætlunin var að vaða yfir Korpu til að komast skemmstu leið að Efstabóli en þar sem mikið er í ánni breytum við til og förum niður á gömlu brúna sem hér var áður gerð grein fyrir (sjá hér bls. 61). Þar örkum við yfir Korpu en frá brúnni er tíu mínútna gangur fram að bæjarrústinni á Efstabóli.

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 111.  Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafjarðarsýsla 1805. J. Johnsen 1847, 195.

[2] Óskar Einarsson 1951, 93-94.

[3] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit Ísafjarðarsýsla 1735. Jarða- og bændatöl 1752-1767,

Ísafjarðarsýsla 1753. Manntöl 1762 og 1801.

[4] Manntal 1703.

[5] Jarðabók Á. og P. VII, 111-114.

[6] Manntal 1762.

[7] Manntöl 1816, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís.  XX. 1, búnaðarskýrslur 1830.

[8] Jarðab. Á. og P. VII, 111-112.

[9] Sama heimild.

[10] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[11] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[12] Lbs. 27364to, bls. 119-120/Magnús Hjaltason.

[13] Fasteignabók 1921, 80.

[14] Óskar Ein. 1951. 97.

[15] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[16] Lbs. 22354to, bls. 317-318/Magnús Hjaltason.

[17] Vestfirskar sagnir III, 304-307.

[18] Örnefnaskrá (Seljaland í Álftafirði). Vestf. sagnir III, 304-305.

[19] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[20] Sama heimild.

[21] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113. Rtk. V. 16, Ísafj.s. 1805. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1,

búnaðarskýrslur 1830. VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880. Fasteignabók 1932.

 

[22] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113. Rtk. V. 16, Ísafj.s. 1805. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1,

búnaðarskýrslur 1830. VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880. Fasteignabók 1932.

[23] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V.-Ís. Löggilt 26.3. 1919.

[24] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[25] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[26] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[27] Lbs. 27364to, bls. 129/MagnúsHjaltason.

[28] Sama heimild, 121-122.

[29] Sama heimild.

[30] Óskar Ein. 1951, 97.

[31] Sama heimild, 98. Sbr Firðir og fólk 1900-1999, 371.

[32] Sama heimild.

[33] Lbs. 27364to, bls. 120-123/Magnús Hjaltason.

[34] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[35] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Lbs. 27364to, bls. 120.

[40] Sama heimild.

[41] Sama heimild.

[42] Íslensk fornrit VI, 16 og 38-39.

[43] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 111.

[44] D.I. IV, 688, V, 497-503, VI, 230, VII, 401-403, XIII, 540 og XV, 572.

[45] D.I. V, 743-744, VII, 81, XIII, 543-544.

[46] Ísl. fornrit I, 4.

[47] Sama heimild.

[48] Ísl. fornrit VI,16 og 38-39.

[49] Sama heimild VI, 16.

[50] Sama heimild VI, 40.

[51] Ísl. fornrit VI, 40.

[52] Sama heimild.

[53] Per Tylden 1938, 182-183 (Maal og Minne / Oslo).

[54] Sama heimild.

[55] Ísl. fornrit VI, 89-93.

[56] Sama heimild, 117-118.

[57] Sama heimild.

[58] Lbs. 27364to, bls. 118-119 og 123-125.

[59] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Íslenskar æviskrár I, 158-159. Annálar III, 486.

[60] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[61] Sama heimild.

[62] D.I. IV, 683-694.

[63] D.I. IV, 688.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild, 687-688.

[66] Arnór Sigurjónsson 1975, 108-113.

[67] D.I. V, 497-503.

[68] Sama heimild, 727-728, 730 og 743-744.

[69] Sömu heimildir.

[70] Sama heimild, 743-744.

[71] D.I. VI, 230. Arnór Sigurjónsson 1975, 199-204.

[72] Ísl. æviskrár I, 256-257 og II, 123-124.

[73] Arnór Sigurjónsson 1975, 199-204.

[74] Sama heimild.

[75] Arnór Sigurjónsson 1975, 199-204.

[76] Arnór Sigurjónsson 1975, 199-204.

[77] Ísl. æviskrár I, 196.

[78] Arnór Sigurjónsson 1975, 210-214.

[79] Sama heimild, 287-291.

[80] Ísl. æviskrár I, 10 og 256-257.

[81] Arnór Sigurjónsson 1975, 287-291.

[82] Sama heimild, 289.

[83] D.I. IV, 683-688.

[84] D.I. IV, 683-688.

[85] Arnór Sigurjónsson 1975, 285-286.

[86] Sama heimild, 348-349. Ísl. æviskrár I, 10.

[87] Ísl. æviskrár I, 10; II, 122; V, 204-205. Gestur Vestfirðingur III, 109.

[88] Ísl. æviskrár II, 122.

[89] Arnór Sigurjónsson 1975, 286-287.

[90] Sama heimild, 425-426. Einar Laxness 1977, 44.

[91] Arnór Sigurjónsson 1975, 425-426. Einar Laxness 1977, 44.

[92] Ísl. æviskrár II, 122.

[93] Sama heimild V, 204-205.

[94] Gestur Vestfirðingur III, 109.

[95] Ísl. æviskrár V, 204-205.

[96] Páll Eggert Ólason 1919, 112-114.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild, 115-117.

[99] Lögréttumannatal IV, 574. Páll E. Ól. 1919, 106.

[100] Páll E. Ól. 1919, 384. Annálar I, 124. Safn til sögu Íslands I, 98-99. Öldin sextánda, 1551-1600, bls. 5-7.

[101] Páll E. Ól. 1919, 384. Safn til sögu Íslands I, 98-99.

[102] Páll E. Ól. 1919, 115-117.

[103] Sama heimild og Sami 1926, 789.

[104] Páll E. Ól. 1919, 116.

[105] Páll E. Ól. 1919, 117.

[106] Kristján Eldjárn 1962, 66.

[107] Sama heimild.

[108] D.I. IV, 683-688.

[109] D.I. IX, 57-58.

[110] D.I. XIII, 540.

[111] Sama heimild.

[112] Annálar III, 66 og 263-264. Sýslumannaæfir II, 47-48 og 683-688.

[113] Jarðab. Á. og P. VII, 111. Lögr.m.tal, bls. 50.

[114] D.I. XIII, 543-544.

[115] Sýslum.æfir II, 47-48 og 683-688.

[116] Sýslum.æfir II, 47-48 og 683-688.  Ísl. æviskrár III, 431.

[117] Sömu heimildir. Ísl. æviskrár III, 217.

[118] Sýslum.æfir II, 48. Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 528.

[119] Sýslum.æfir II, 48.

[120] Annálar III, 66.  Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[121] Annálar III,66.

[122] Annálar III, 263-264.

[123] Annálar III, 263-264.

[124] Lögr.m.tal, bls. 50.

[125] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[126] Lögr.m.tal, bls. 50.

[127] Alþingisbækur Íslands VII, 368-370.

[128] Sama heimild.

[129] Þjóðsögur Jóns Árn. I, 538.

[130] Alþ.b. Íslands VII, 47 og 66-67.

[131] Sama heimild, 47.

[132] Sama heimild, 47, og 66-67. Ísl. æviskrár III, 443.

[133] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[134] Sama heimild.

[135] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[136] Bogi Benediktsson 1966, 90 (Feðgaævir, endurprentaðar í Staðarfellsætt).

[137] Jarðab. Á. og P. VII, 111.

[138] Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar 1942, 166-170 (Safn Fræðafélagsins um Ísland og

Íslendinga XII).

[139] Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar 1942, 171.

[140] Sama heimild, bls. 166-168.

[141] Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar 1942, 166-168.

[142] Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar 1942, 168-169.

[143] Sama heimild, 172-173.

[144] Sama heimild, 174.

[145] Annálar III, 278.

[146] Annálar III, 145.

[147] Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar 1942, 173, 152.

[148] Manntal 1703.

[149] Annálar III, 311 og 486.

[150] Sama heimild, 311. Lögr.m.tal, bls. 50.

[151] Annálar III, 311.

[152] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin, 1681.

[153] Annálar III, 486.

[154] Bogi Bendiktsson 1966, 91 (Staðarfellsætt/Feðgaævir þar).

[155] Þjóðsögur Jóns Árn. I, 529.

[156] Annálar III, 486.

[157] Lögr.m.tal, bls. 50 og 324-325.

[158] Annálar III, 486.

[159] Þjóðsögur Jóns Árn. I, 529.

[160] Lögr.m.tal, bls. 50.

[161] Ísl. æviskrár I, 158-159.

[162] Sama heimild, 261-262.

[163] Jarðab. Á. og P. VII, 111.

[164] Manntal 1762.

[165] Rtk. Jarðabækur V. 16 – Ísafjarðarsýsla 1805.

[166] Manntal 1801, nafnalykill.

[167] Manntal 1801.

[168] Sama heimild.

[169] Lbs. 27364to, bls. 119-120/Magnús Hjaltason.

[170] Lbs. 27364to, bls. 119-120/Magnús Hjaltason og manntöl 1870 og 1880.

[171] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[172] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[173] Sama heimild.

[174] Sama heimild.

[175] Sama heimild.

[176] Sama heimild.

[177] Manntal 1762.

[178] Ólafur Olavius 1964, 178.

[179] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[180] Jarðab. Á. og P. VII, 113.

[181] Sama  heimild.

[182] Sama heimild, 112.

[183] Sama heimild.

[184] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805. Manntöl 1801, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901.

[185] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[186] Sama heimild.

[187] Sama heimild.

[188] Sama heimild.

[189] Sama heimild.

[190] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[191] Jarða- og bændatal 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[192] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[193] J. Johnsen 1847, 195.

[194] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[195] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[196] Sama heimild.

[197] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[198] Sama heimild.

[199] D.I. IV, 688.

[200] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[201] Sama heimild.

[202] Sama heimild.

[203] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[204] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[205] J. Johnsen 1847, 195.

[206] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[207] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[208] Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Sama heimild.

[212] Sama heimild.

[213] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 111-113. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.s. 1735. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntöl 1762 og 1801.

[214] Lbs. 27364to, bls. 120/Magnús Hjaltason.  Óskar Ein. 1951, 93.

[215] Manntal 1703.

[216] Manntöl 1762 og 1801.

[217] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[218] Manntöl 1816, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901.

[219] Manntal 1835.

[220] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 111-113.

[221] Sömu heimildir.

[222] Manntal 1762.

[223] Manntal 1801.

[224] Manntal 1801. Prestsþj.b. Holts í Önundarf. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[225] Manntal 1801.

[226] Sama heimild.

[227] Manntal 1816.

[228] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[229] Sama heimild.

[230] Sama heimild.

[231] Manntal 1801.

[232] Manntal 1801.

[233] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[234] Manntöl 1801 og 1816.

[235] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[236] Manntal 1816, bls. 709.

[237] Manntal 1801.

[238] Manntal 1801.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[239] Eyjólfur Jónsson 1967, 3.

[240] Sama heimild.

[241] Sama heimild, 4.

[242] Sama heimild, 12.

[243] Sama heimild, 15-133.

[244] Eyjólfur Jónsson 1967, 7-11.

[245] Sama heimild.

[246] Sama heimild.

[247] Eyjólfur Jónsson 1967, 7-11.

[248] Sama heimild, 9.

[249] Sama heimild, 7-8.

[250] Sama heimild.

[251] Manntal 1816.

[252] Eyjólfur Jónsson 1967, 4.

[253] Eyjólfur Jónsson 1967, 15 og 65.

[254] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[255] Manntal 1845, vesturamt, bls. 286.

[256] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[257] Manntal 1845, vesturamt, bls. 286.

[258] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[259] Sama heimild. Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 371.

[260] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[261] Manntal 1801, vesturamt, bls. 277.

[262] Sama heimild, 277 og 284.

[263] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[264] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[265] Sama heimild.

[266] VA – J 7, nr. 211-240. (Skjöl vesturamtsins).

[267] Sama heimild.

[268] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[269] Manntal 1845.

[270] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1830 og 1834. VA III, 407, búnaðarskýrslur

 1. Manntöl 1835 og 1845.

[271] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[272] Sama heimild.

[273] Sama heimild.

[274] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[275] Manntal 1845.

[276] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[277] Ól. Þ. Kr. 1953, 150.

[278] Sama heimild. Manntal 1816.

[279] Manntal 1845.

[280] Ól. Þ. Kr. 1953, 150.

[281] Manntal 1880.

[282] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[283] Sama heimild.

[284] Lbs. 22384to, bls. 22-23/Magnús Hjaltason.

[285] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[286] Manntöl 1860 og 1870.

[287] Sömu heimildir.

[288] Manntal 1850.

[289] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[290] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1830 og 1834.

[291] Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850, 1855 og 1860.

[292] Manntal 1845, vesturamt, bls. 286. Manntal 1816, bls. 700.

[293] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Sbr. Manntal 1860.

[294] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 127.

[295] Sama heimild.

[296] Sama heimild.

[297] Sama heimild.

[298] Sama heimild.

[299] Sama heimild.

[300] Manntal 1845, vesturamt, bls. 285. Manntal 1816, 766. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[301] Manntöl 1840 og 1845.

[302] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[303] Lbs. 27364to bls. 2-3/Magnús Hjaltason.

[304] Sama heimild.

[305] Lbs. 27364to bls. 2-3/Magnús Hjaltason.

[306] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[307] Manntöl 1840 og 1845.

[308] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[309] Sama heimild.

[310] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[311] Manntal 1860.

[312] Manntal 1860, sbr. Manntal 1850.

[313] Sama heimild.

[314] Lbs. 27364to, bls. 4-10/Magnús Hjaltason.

[315] Sama heimild.

[316] Sama heimild.

[317] Lbs. 27364to, bls. 4-6/Magnús Hjaltason.

[318] Sama heimild.

[319] Sama heimild.

[320] Sama heimild.

[321] Sama heimild.

[322] Sama heimild.

[323] Lbs. 27364to, bls. 8-9/Magnús Hjaltason.

[324] Lbs. 27364to, bls. 8-9/Magnús Hjaltason.

[325] Sama heimild, bls. 2-3. Prestsþj.b. Staðar á Reykjanesi, innfluttir 1837 og 1838. Manntal 2.2.1835,      Bakkasel í Prestsbakkasókn í Strandasýslu. Manntal 1.10.1870, Æðey.

[326] Prestsþj.b. Staðar á Reykjanesi.

[327] Manntal 1845.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[328] Lbs. 27364to, bls. 2-3 (Magnús Hjaltason).

[329] Ársrit Sögufél. Ísfirðinga 1961, 78 (“Nokkur gömul bréf”)

[330] Vestfirskar ættir I, 333.

[331] Ísl. æviskrár III, 375.

[332] Óli Ketilsson 1981, 89-99 (Ársrit S.Í.).

[333] Manntöl 1870 og 1880. Friðrik J. Bergmann 1983, 73/Að vestan V. Vestur-Íslendingar segja frá.

[334] Vestf. ættir I, 333.

[335] Lúðvík Kristjánsson 1985, 59-61 og 75. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1963, 28-34.

[336] L. Kr. 1986, 54 og 61.

[337] Kolbeinn Jakobsson: Bændur á Snæfjallaströnd 1800-1874, ljósrit í eigu bókarhöfundar.

[338] Sama heimild.

[339] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. 1863-1866.

[340] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[341] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[342] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[343] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[344] Manntal 1870.

[345] Sama heimild.

[346] Ísl. æviskrár II, 178-179.

[347] Manntal 1870.

[348] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[349] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[350] Sama heimild.

[351] Skútuöldin 1977, IV, 266-273.

[352] Lbs. 23384to, Lbs. 22164to, Lbs. 22174to, Lbs. 22354to/Magnús Hjaltason.

[353] H.K.L. 1937, 5.

[354] Sama heimild.

[355] Morgunblaðið 12.9.1993/Reykjavíkurbréf.

[356] Peter Hallberg 1971, 7-8. (Hús skáldsins II).

[357] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 6.8.1916.

[358] Lbs. 22384to, bls. 6-7/M.Hj.

[359] Sama heimild.

[360] Sama heimild.

[361] Sama heimild, 5-9. Ísl.. æviskrár III, 464.

[362] Lbs. 22384to, bls. 6-7. Ísl. æviskrár III, 475.

[363] Lbs. 22384to, bls. 6-7/M.Hj.

[364] Gunnar M. Magnúss, 1956, 30.

[365] Sbr. VA III, 421 og 422, búnaðarskýrslur 1873 og 1874.

[366] Lbs. 22384to, bls. 7.

[367] Ísl. æviskrár V, 107.

[368] Lbs. 22384to, bls. 8-9/M.Hj.

[369] Sama heimild.

[370] Lbs. 22384to, bls. 8-9/M.Hj..

[371] Ísl. æviskrár I, 92-93 og III, 54 og 266-267.

[372] Lbs. 22384to, bls. 10-11.

[373] Sama heimild.

[374] Sama heimild, 3-81/M.Hj.

[375] Sama heimild, 11.

[376] G. M. M. 1956, 34.

[377] G. M. M. 1956, 29.

[378] Jarðab. Á. og P. VII, 170-171 og 181-182.

[379] Lbs. 22384to, bls. 11/M.Hj.

[380] Sama heimild.

[381] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[382] Lbs. 25604to/M.Hj.

[383] Sama heimild.

[384] Lbs. 22384to, bls. 12/M.Hj.

[385] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 29.

[386] Sama heimild.

[387] Sama heimild.

[388] Sama heimild.

[389] Sama heimild.

[390] Sama heimild.

[391] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 29.

[392] Sama heimild, bls. 116.

[393] Sama heimild.

[394] Lbs. 22384to, bls. 12-13/M.Hj.

[395] Lbs. 22384to, bls. 8/M.Hj.

[396] Manntal 1870.

[397] Lbs. 22384to, bls. 8-9. Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[398] Lbs. 22384to, bls. 13/M.Hj.

[399] Halldór Kiljan Laxness 1937, 10.

[400] Lbs. 22384to, bls. 15-16.

[401] H. K. L. 1937, 6.

[402] Lbs. 22384to, bls. 16-17.

[403] H. K. L. 1937, 6.

[404] Lbs. 22384to, bls. 17/M.Hj.

[405] H. K. L. 1937, 6.

[406] Lbs. 22384to, bls. 19 og 38-39.

[407] Lbs. 22384to, bls. 19 og 38-39/M.Hj.

[408] H. K. L. 1937, 8-10.

[409] Lbs. 22384to, bls. 22.

[410] Ísl. æviskrár V, 125-126.

[411] Lbs. 22384to, bls. 59-60/M.Hj.

[412] H. K. L. 1937, 59-61.

[413] Lbs. 22384to, bls. 18 og 57-58/M.Hj.

[414] H. K. L. 1937, 17-18.

[415] Lbs. 22384to, bls. 60-61/M.Hj.

[416] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 20-30.

[417] Sama heimild, 24.

[418] Sama heimild.

[419] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 20-27.

[420] Sama heimild, 27.

[421] Sama heimild.

[422] Lbs. 22384to, bls. 61-62/M.Hj.

[423] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 5. Veðmálabók 1882-1894.

[424] Sama heimild.

[425] Lbs. 22384to, bls. 61-62.

[426] Sama heimild.

[427] Lbs. 22354to, bréf Magnúsar Hjaltasonar 12.12.1892 til Hjalta Magnússonar, afrit.

[428] Lbs. 22384to, bls. 35-36 og 56-57.

[429] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 22.10.1892.

[430] Sama heimild.

[431] G. M. M. 1956, 59-60.

[432] Gunnar M. Magnúss 1956, 59-61.

[433] Lbs. 22354to, bréf M. Hj. 12.12.1892 til Hj. M., afrit.

[434] Lbs. 22354to, bréf M. Hj. 12.12.1892 til Hj. M., afrit.

[435] H. K. L. 1937, 70-71.

[436] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 1.1.1893. Lbs. 22354to, bls. 17-20.

[437] H. K. L. 1937, 72 og 75.

[438] Sama heimild, 164.

[439] Lbs. 22354to, bréf M. Hj. 12.12.1892 til Hj. M., afrit.

[440] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 22.10.1892.

[441] Sama heimild.

[442] Lbs. 22384to, bls. 45-46 og 78.

[443] Sama heimild, 78-79.

[444] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[445] Sama heimild og Manntal 1850.

[446] Lbs. 22384to, bls. 45-46.

[447] Sama heimild.

[448] Lbs. 22354to. Bréf M. Hj. 12.12.1892 til Hjalta Magnússonar, afrit.

[449] Lbs. 25604to/M.Hj.

[450] Lbs. 22354to. Bréf M. Hj. 12.12.1892 til Hj. M., afrit.

[451] Sama bréf. Lbs. 2235­4to, bls. 17-20. G. M. M. 1956, 59-64 og 71-80.

[452] Sömu heimildir.

[453] Lbs. 22384to, bls. 19/M.Hj.

[454] Sama heimild.

[455] Lbs. 22294to, Dagbók M. Hj. 11.5.1912.

[456] G. M. M. 1956, 15-16.

[457] H. K. L. 1937, 100.

[458] G. M. M. 1956, 70.

[459] Sama heimild, 377-382.

[460] Sama heimild.

[461] Lbs. 22384to, bls. 48-50/M.Hj.

[462] Sama heimild, 78-79.

[463] Sama heimild.

[464] Sama heimild.

[465] Sama heimild, 40-41 og 80.

[466] Lbs. 22384to, bls. 51-52/M.Hj.

[467] Sama heimild.

[468] Sama heimild, 63-74.

[469] Lbs. 22384to, bls. 63-74/M.Hj.

[470] D.I. XV, 572.

[471] D.I. VII, 81.

[472] D.I. XV, 572.

[473] Jarðab. Á. og P. VII, 111-114.

[474] Fasteignabók 1932.

[475] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[476] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[477] Sama heimild.

[478] Fasteignamatssköl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[479] Einar Guðbjartsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1994.

[480] Sama heimild.

[481] Lbs. 27364to, bls. 118 og 123-124/M.Hj.

[482] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[483] Einar. Guðbj.s. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1994. Sbr. Lbs. 27364to, bls. 118.

[484] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 27.6.1994.

[485] Einar. Guðbj.s. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1994.

[486] Sama heimild.

[487] Lbs. 27364to, bls. 118/M.Hj.

[488] Guðm. I. Kr., J. E. Jónsd. og Einar Guðbj.s. – Viðtöl K.Ó. við þau 26.6.1994, 27.6.1994 og 30.6.1994.

[489] Jensína Ebba Jónsd. – Viðtal K.Ó. við hana 27.6.1994.

[490] Sama heimild.

[491] Óskar Ein. 1951, 97.

[492] Sama heimild.

[493] Jensína Ebba Jónsd. – Viðtal K.Ó. við hana 27.6.1994.

[494] Snorri Sigfússon 1969, 111-112.

[495] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[496] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[497] Lbs. 22384to, bls. 61-62/M.Hj.

[498] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[499] Lbs. 22384to, bls. 62-63.

[500] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[501] Lbs. 22384to, bls. 62. Manntal 1901.

[502] Lbs. 22384to, bls. 62.

[503] Sama heimild, 63.

[504] Manntal 1901.

[505] Lbs. 27364to, bls. 122-123/M.Hj.

[506] Sama heimild.

[507] Lbs. 27364to, bls. 122-123/M.Hj.

[508] Sama heimild.

[509] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[510] Þórður Sigurðsson 1968, 148-149.

[511] Sama heimild.

[512] Jensína Ebba Jónsd. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[513] Lbs. 27364to, bls. 118-122/M.Hj.

[514] Óskar Ein. 1951, 97.

[515] Sama heimild, 97-98.

[516] Sama heimild, 97.

[517] Lbs. 27364to, bls. 116-132.

[518] Lbs. 27364to, bls. 120-121.

[519] Óskar Ein. 1951, 97.

[520] Lbs. 27364to, bls. 121-122/M.Hj.

[521] Óskar Ein. 1951, 98.

[522] Lbs. 27364to, bls. 127.

[523] Óskar Ein. 1951, 98. Lbs. 27364to, bls. 117.

[524] Sömu heimildir.

[525] Jarðab. Á. og P. VII, 113.

[526] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[527] Lbs. 27364to, bls. 117-118.

[528]  Óskar Ein. 1951, 98.

[529] Sama heimild 1951, 97.

[530] Lbs. 47084to / Magnús Hjaltason.

[531] Sama heimild.

[532] Óskar Ein. 1951, 98. Lbs. 27364to, bls. 122/M.Hj.

[533] Óskar Ein. 1951, 98.

[534] Sama heimild.

[535] Óskar Ein. 1951, 98.

[536] Sama heimild.

[537] Óskar Ein. 1951, 98.

[538] Sama heimild, 98.

[539] Lbs. 22384to, bls. 33-34/M.Hj.

[540] Sama heimild.

[541] Sama heimild, 33-34.

[542] G. M. M. 1956, 69.

[543] Óskar Ein. 1951, 98.

[544] Sama heimild. Jarðab. Á. og P. VII, 113-114.

[545] Jarðab. Á. og P. VII, 113-114.

[546] Ól. Olavius 1964, 178.

[547] Sama heimild, 176-178.

[548] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[549] Sóknalýs. Vestfj. II, 105.

[550] Lbs. 47084to / Magnús Hjaltason.

[551] Sama heimild.

[552] Sama heimild.

[553] Óskar Ein. 1951, 98.

[554] Sama heimild.

[555] Sama heimild.

[556] Sama heimild.

[557] Magnús Hjaltason 1949, 151 (Frá ystu nesjum V).

[558] Magnús Hjaltason, 1949, 151 (Frá ystu nesjum V). Sbr. Lbs. 22354to, bls. 295-296/M.Hj.

[559] Óskar Ein. 1951, 98.

[560] Sama heimild.

[561] Helga og Svava Guðjónsdætur frá Hesti. – Viðtal K.Ó. við þær 25.9.1995.

[562] Lbs. 27364to, bls. 132/M.Hj.

[563] Óskar Ein. 1951, 97.

[564] Sama heimild.

[565] Sama heimild.

[566] Lbs. 25604to/M.Hj.

[567] Óskar Ein. 1951, 97.

[568] Sama heimild.

[569] Lbs. 27364to, bls. 129.

[570] Óskar Ein. 1951, 97.

[571] Sama heimild.

[572] Óskar Ein. 1951, 97.

[573] Sama heimild.

[574] Lbs. 27364to, bls. 129/M.Hj.

[575] Sama heimild.

[576] Óskar Ein. 1951, 97.

[577] Sama heimild.

[578] Sama heimild, 96-97.

[579] Sama heimild, 96.

[580] Sama heimild.

[581] Sama heimild.

[582] Sama heimild.

[583] Sama heimild.

[584] Sama heimild.

[585] Lbs. 27364to, bls. 130/M.Hj.

[586] Óskar Ein. 1951, 96.

[587] Lbs. 27364to, bls. 130.

[588] Óskar Ein. 1951, 96.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »