Hof

Hof er fremsti bær í Kirkjubólsdal, um það bil einum kílómetra fyrir framan Múla. Í fjallinu yfir bænum er dálítil hvilft sem Hofshvilft heitir. Nöfnin á bænum og hvilftinni töldu margir benda til þess að hér hafi menn blótað hin fornu goð áður en kristni var lögtekin en engar öruggar heimildir eru í boði því til sönnunar. Gunnar Guðmundsson bjó á Hofi frá 1923 til 1958 og var síðasti bóndi hér. Árið 1978 ritaði hann á þessa leið um tótt í Hofstúni sem lengi hefur verið kölluð Hofið:

 

Fyrir neðan bæinn á Hofi, neðst í túninu, er tótt sem hefur alltaf verið kölluð Hofið. Tóttin snýr í austur og vestur og er tvískipt með þvervegg í miðju. Fremri endi heitir Aðalhof, innri endi Goðastúka. Aðalhofið er að utanmáli 5,3 x 4 metrar, innanmál 4 x 2 metrar og dyr á enda. Goðastúkan er að utanmáli 5,5 x 4 metrar, innanmál 4 x 2 metrar. Inn í goðastúkuna er gengið til hliðar í Hofið. Vegghæð er sem næst 0,75 metrar.[1]

 

Gunnar segir að er grafið var í goðastúkuna árið 1905 eða 1906 hafi fundist þar bæði hlautbolli og hlautteinn og verið sendir á Þjóðminjasafnið.[2] Á öðrum stað lætur sami höfundur þess getið að á bæjarhólnum á Hofi hafi fundist skálarúst sem bendi til þess að þar hafi staðið blótskálinn frá hofinu.[3]

Allar rústir á bæjarhólnum á Hofi hafa nú verið sléttaðar út. Þar sem áður stóðu hýbýli fólksins grær nú arfi en gamli bæjarhóllinn er auðþekktur og stendur beint niður af Bæjargilinu sem blasir við uppi í hlíðinni. Tóttin sem áður var nefnd og menn hafa talið vera hoftótt stendur enn óhögguð í túninu skammt fyrir neðan bæjarhólinn.

Landareign Hofs nær yfir Kirkjubólsdal austan ár allt frá Göngudalsá, sem er rösklega þremur kílómetrum fyrir framan bæinn, og að línu sem hugsast dregin úr Fremra-Bakkhorni og niður að á, lítið eitt norðan við túnið á Hofi.[4] Seltóttir eru framarlega á dalnum, niður við ána og  á móti Kirkjubólsseli,[5] sem áður var nefnt (sjá hér Kirkjuból í Kirkjubólsdal), og mun Hofsselið hafa verið þar.

Eins og áður var getið er í afritum af skjölum frá árinu 1467 talað um jörðina Klof í Arnarbýlisdal (sjá hér Kirkjuból í Kirkjubólsdal) og þar sem Arnarbýlisdalur hefur greinilega verið annað nafn á Kirkjubólsdal má telja nær fullvíst að þarna sé átt við Hof. Meira vafamál er hvort líka muni vera átt við Hof þegar talað er um jörðina Kleif í Dýrafirði í skrá yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar á Vestfjörðum árið 1446.[6] Verulegar líkur eru þó á því að svo sé og hafa þeir sem afrit tóku þá mislesið bæjarnafnið. Rökin fyrir slíkri kenningu eru þessi:

1) Engar aðrar heimildir geta um jörðina Kleif í Dýrafirði og því líklegt að hún hafi aldrei verið til.

2) Í eignaskránni er Kleif talin með jörðum í Þingeyrarhreppi, næst á eftir Kjaransstöðum og næst á undan Kirkjubóli en einmitt þar ætti Hof að vera sé tekið mið af landfræðilegri röð jarðanna sem upp eru taldar.

3) Á skránni er landfræðilegri röð fylgt í aðalatriðum þegar jarðir Guðmundar í Þingeyrarhreppi eru taldar upp en á því eru þó að vísu undantekningar.

Það sem helst mælir gegn því að bæjarnafnið Kleif sé misritun fyrir Hof er að í eignaskránni er Kleif sögð vera 12 hundraða jörð. Á síðari öldum var Hof hins vegar ávallt talið 6 hundruð að dýrleika.[7] Vissar líkur benda þó til þess að á miðöldum hafi dýrleiki Hofs einmitt verið talinn 12 hundruð því í vitnisburði frá 31.10.1564 segir að séra Halldór Jónsson, sem þá var látinn, hafi í lifanda lífi greint svo frá að Hof í Kirkjubólsdal skyldi hafa verið keypt fyrir 12 hundruð, enda þótt hann teldi dýrleika jarðarinnar vera 6 hundruð.[8] Líklega hefur Halldór þessi verið prestur á Söndum á fyrri hluta 16. aldar og úr því hann vissi að 12 hundruð hefðu áður verið greidd fyrir Hof sýnist líklegt að sú greiðsla hafi einmitt verið í samræmi við dýrleika jarðarinnar eins og hann var talinn vera á dögum Guðmundar ríka. Sé svo hefur bóndi þessi á Reykhólum átt Hof á fyrri hluta 15. aldar en með réttu nafni er jarðarinnar fyrst getið í varðveittum skjölum árið 1564 og þá í fyrrnefndum vitnisburði.

Haustið 1645 seldi Hákon Árnason á Hofgörðum í Staðarsveit, sonarsonur Sæmundar Árnasonar, sýslumanns á Hóli í Bolungavík, og konu hans, Elínar Magnúsdóttur prúða Jónssonar, frænda sínum, Magnúsi Jónssyni, sýslumanni í Haga á Barðaströnd, Hof í Dýrafirði en í bréfi sem greinir frá þeim viðskiptum er tekið fram að jörðin hafi þá verið langvarandi eyðiból[9] (sjá ennfremur hér Haukadalur). Svo virðist sem Hákon hafi við þessi jarðakaup aðeins verið umboðsmaður Eggerts ríka Björnssonar á Skarði á Skarðsströnd[10] og það því verið Eggert sem átti Hof næstur á undan Magnúsi sýslumanni Jónssyni í Haga.

Árið 1658 mun Hof enn hafa legið í eyði.[11] Á síðari hluta sautjándu aldar mun jörðin löngum hafa verið í eigu niðja höfðingskvinnunnar Þóru Jónsdóttur á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból), sem jafnan var nefnd Þóra í Dal,[12] og á þeim árum hófst hér búskapur á ný eftir langt hlé.[13]

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er eigandi Hofs sagður vera barn Björns Jónssonar á Hörgslandi austur[14] en sá Björn hlýtur að vera Björn Thorlacius Jónsson er þá var spítalahaldari á Hörgslandi á Síðu[15] en fyrri kona hans, Þórunn, var dóttir Páls Ámundasonar, klausturhaldara á Kirkjubæjarklaustri, sem átti Þóru Björnsdóttur fyrir eiginkonu, dótturdóttur Þóru í Dal[16] (sbr. hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Árið 1762 var Mála-Snæbjörn orðinn eigandi að Hofi[17] en um 1800 átti jörðina Jón Eggertsson á Hóli í Ketildölum.[18] Um miðja 19. öld var Hof enn í leiguábúð[19] en um aldamótin 1900 átti þáverandi bóndi hér þetta ábýli sitt.[20]

Landskuld af Hofi var árið 1710 fjörutíu álnir[21] eða tvö ærgildi og hafði lækkað um þriðjung við mannfallið í stórubólu árið 1707.[22] Níu ær landeiganda fylgdu Hofi árið 1710 en höfðu verið átján fyrir bóluna.[23]

Í byrjun 18. aldar kvörtuðu menn yfir landbroti frá Bæjargilinu á Hofi og Kirkjubólsá var sögð spilla hér slægjulöndum.[24] Heimafólk kunni þá líka frá því að segja að eitt sinn hefði snjóflóð hlaupið á bæinn en tjón hafði þó ekki orðið verulegt.[25] Hafi skemmdir á túni og engjum jarðarinnar hins vegar orðið verulegar af völdum skriðufalla og landbrots á 17. og 18. öld þá hefur grasið náð sér aftur á strik síðar því að í sóknarlýsingunni frá 1840 er þess sérstaklega getið að á Hofi sé nægur og góður heyskapur.[26]

Fyrstu hjónin á Hofi sem unnt er að nefna með nafni hétu Hrómundur Torfason og Ólöf Brandsdóttir.[27] Þau bjuggu hér árið 1681 og árið 1703 bjó Ólöf hér enn með fjórum börnum þeirra en var þá orðin ekkja.[28] Á síðari hluta 18. aldar bjó hér mjög lengi maður að nafni Guðbrandur Þórðarson[29] og má telja líklegt að Guðrún Guðbrandsdóttir, sem var hér húsfreyja árið 1801, hafi verið dóttir hans.[30]

Um 1840 stóð hér fyrir búi í fáein ár ekkjan Steinunn Pálsdóttir sem var liðlega fertug að aldri,[31] dóttir síðasta skólameistarans við gamla Hólaskóla.[32] Um þrítugsaldur giftist hún Árna Vídalín, syni Geirs Vídalín, fyrsta Reykjavíkurbiskupsins, og eignaðist með honum nokkur börn.[33] Þennan eiginmann missti hún árið 1834 en giftist 1835 Daða Jónssyni á Söndum, sem þá var ekkjumaður, en hann andaðist skömmu síðar[34] og fór hún þá að hokra hér á Hofi, komin um langan veg norðan frá biskupsstólnum á Hólum.

Skömmu fyrir 1850 hófu hér búskap hjónin Pétur Ólafsson og Marsibil Ólafsdóttir, foreldrar Andrésar Péturssonar, skipstjóra í Haukadal, sem hér hefur áður verið nefndur (sjá Haukadalur), og þeirra systkina.[35] Þau fóru frá Hofi vorið 1856 en tveimur árum síðar komu hingað frá höfuðbólinu Núpi, handan fjarðarins, hjónin Brynjólfur Brynjólfsson og Guðrún Jónsdóttir.[36] Þau höfðu þá búið lengi á Núpi (sjá Núpur) og er þau færðu sig hingað var Brynjólfur orðinn hálfsjötugur en kona hans var þrettán árum yngri eða svo.[37] Brynjólfur baslaði við búskap hér á Hofi í 15 ár[38] en um þennan langafabróður sinn og eiginkonu hans ritar Guðmundur G. Hagalín svo:

 

Þau áttu næg efni en ekki lét þeim búskapur. Þau áttu ekki börn en höfðu mikið dálæti á hundum og töluðu við þá eins og þeir væru manneskjur. … Sagt er að þau Brynjólfur og Guðrún hafi látið eftirlætishunda sína sofa hjá sér og gefið þeim mun betri mat en hjúunum. Eitt sinn kom einhver af frændum Guðrúnar til hennar að Hofi og sagði hún þá við tík eina: „Heilsaðu honum frænda þínum, Kara mín.” [39]

 

Líklega hefur mátt kallast sældarbrauð að vera hundur á Hofi í tíð þessara dýravina. Um Brynjólf bónda segir sóknarpresturinn sem húsvitjaði hjá þeim hjónum að hann sé ei sérlega guðhræddur og Guðrúnu húsfreyju á Hofi gefur hann þá einkunn að hún sé mætavel greind og gáfuð en miður siðprúð og miður guðhrædd.[40]

Því miður gefst nú ekki kostur á að kynnast þessum hjónum betur en líklega hefðu nánari kynni við þau getað boðið upp á margt eitt gaman.

Þó sjávargatan frá Hofi væri nokkuð löng eða um það bil fjórir kílómetrar mun það lítt hafa hamlað sjósókn bænda sem hér bjuggu. Næst- síðasti bóndi á Hofi var Magnús Helgason sem hér bjó á árunum milli 1910 og 1920. Haustið 1912 var hann formaður á vélbátnum Njáli sem reri frá Haukadal en þar dvöldust Magnús og áhöfn hans í verbúð.[41] Síðastur bjó hér Gunnar Guðmundsson á árunum 1923 til 1958 en hann keypti sláttuvél vorið 1926, fyrstur manna í Þingeyrarhreppi (sjá Firðir og fólk 1900-1999,  154), og vann síðar mjög víða að jarðabótum með dráttarvél sem búnaðarfélögin í Dýrafirði keyptu árið 1929 og með öðrum jarðyrkjuverkfærum (sjá Firðir og fólk 1900-1999,154).

Snemma á búskaparárum Gunnars eða nánar tiltekið sumarið 1927 bar að garði á Hofi 77 ára gamlan mann sem Þórður hét Flóventsson frá Svartárkoti í Bárðardal í Þingeyjarsýslu. Þórður mun hafa verið fróðari en flestir aðrir um lax- og silungseldi og naut þetta sumar opinbers styrks til að ferðast um Vestfirði í því skyni að kynna sér möguleika á slíkri starfsemi þar. Á Hofi sýndi heimafólk honum Krókalæk en að sögn Þórðar var áður svo mikill silungur í læk þessum að goldið var eftir hann eins og fyrir sex leiguær.[42] Krókalækur er um það bil einum kílómetra fyrir framan bæjarstæðið á Hofi.[43] Hann er mjög lokaður og því lítið áberandi en fellur í krókum eins og nafnið bendir til.[44] Um þennan ágæta læk ritar Þórður á þessa leið:

 

Hann er mjög góður til að varðveita silunginn fyrir öllum rándýrum og rennur í mjög góða á sem rennur hiklaust ofan til sjávar, með góðum fljótum líka, og sýndi ég samferðamönnum mínum polla í læknum sem gott væri að geyma lax eða silungssíli í yfir sumarið.[45]

 

Enn er vatnið gott í Krókalæk og gott að hvílast á bökkum hans. Um síðir stöndum við þó á fætur og höldum niður að Múla. Vegalengdin milli bæjanna er varla nema einn kílómetri. Frá Hofi var farið niður að Múla, yfir að Kirkjubóli, út í Hóla, inn á Bakka, inn á Brekku, niður á Þingeyri og út í Haukadal[46] Frá Þingeyri fara menn hins vegar upp að Hofi, upp að Kirkjubóli og upp á Brekku[47].

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Gunnar Guðmundsson 1978, 91-92 (Ársrit S.Í.).  Sbr. Lýður Björnsson 1974, 33 (Ársrit S.Í.).

[2] Sama heimild.

[3] Örnefnaskrá.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] D.I. IV, 688.

[7] D.I. XIV, 312.  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 43.  Jarðatal Johnsens 1847, 192.

[8] D.I. XIV, 312.

[9] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 78.  Íslenskar æviskrár II, 230 og III, 432.

[10] Sömu Jarðabréf, bls. 78.

[11] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[12] Sama heimild.  Jarðab. Á. og P. VII, 43.  Ísl. æviskrár I, 248 og 251 og IV, 105.

[13] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.  Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Manntal 1703.

[14] Jarðab. Á. og P. VII, 43.

[15] Ísl. æviskrár I, 251.

[16] Ísl. æviskrár I, 248-249 og 251, IV, 105 og 311.

[17] Manntal 1762.

[18] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[19] J. Johnsen 1847, 192.

[20] Manntal 1901 og fylgiskjöl þess.

[21] Jarðab. Á. og P. VII, 43.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 57.

[27] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.  Manntal 1703.

[28] Sömu heimildir.

[29] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Manntal 1762.  Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, bún.sk. 1791.

[30] Sbr. Manntal 1801.

[31] Manntal 1840.

[32] Sama heimild.  Ísl. æviskrár I, 73 og IV, 120-121.

[33] Manntal 1840.  Ísl. æviskrár I, 73 og IV, 120-121.

[34] Ísl. æviskrár I, 73 og 302.

[35] Manntöl 1845 og 1850.  Sbr. Vestf. ættir I, 62.

[36] VA III, 415-416, bún.sk. 1855-1859.

[37] Manntal 1845, vesturamt, bls. 273.

[38] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[39] Guðmundur G. Hagalín 1951, 22.

[40] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[41] Guðm. G. Hagalín 1978 (1952), 9 og 17.

[42] Þórður Flóventsson 1981, 82 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[43] Knútur Bjarnason. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[44] Sama heimild.

[45] Þórður Flóventsson 1981, 82.

[46] Katrín Gunnarsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 10.7.1993.

[47] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »