Hólakot

Hólakot er ein þriggja jarða í Núpsdal sem nú eru allar í eyði. Tvær þeirra, Hólakot og Klukkuland, eru innan við Núpsá en sú þriðja, Kotnúpur, er hinum megin við ána. Allar þessar jarðir eru neðarlega í dalnum og Hólakot neðst, skammt frá dalsmynninu. Vegalengdin frá Læk að Hólakoti er um það bil hálfur annar kílómetri, sé farið beint af augum, en frá Minna-Garði að Hólakoti eru liðlega tveir kílómetrar. Frá Hólakoti að Klukkulandi er hins vegar aðeins hálfur kílómetri eða þar um bil og álíka langt að Kotnúpi. Hér neðst í Núpsdalnum gnæfa hamraþil Klukkulandsfjalls yfir allri innri hlíðinni og setja sterkan svip á umhverfið en brún þessa klettafjalls er í um það bil 600 metra hæð yfir sjávarmáli.

Land Hólakots var lítið. Á móti Minna-Garði liggja landamerkin um Hvassahrygg í dalsmynninu (sjá hér Minni-Garður) en landamerki á móti Læk liggja um Kjóamýri í stein á Kjóamýrarholti og þaðan í Fremri-Skörð (sjá hér Lækur). Handan Núpsár, sem rennur spölkorn fyrir neðan túnið, á Hólakot ekkert land, en landamerki á móti Klukkulandi lágu úr þriðja gili í Klukkulandsfjalli og um Nýjuskriðu fyrir neðan gilið og þaðan sjónhending niður á Litlueyri við ána.[1]

Í skrá yfir jarðir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum, sem talið er að hafi verið rituð árið 1446, eru taldar upp 20 jarðeignir sem hann átti í Dýrafirði.[2] Þarna eru m.a. nefndar tvær jarðir sem báðar hétu Hólar og voru 12 hundruð að dýrleika hvor.[3] Ekki þarf að efast um að önnur þessara jarða muni vera Hólar í Þingeyrarhreppi en svo vill til að hinni jörðinni, sem líka hét Hólar, er í skránni raðað á milli Kotnúps og Klukkulands.[4] Nær fullvíst má telja að þarna sé um sömu jörð að ræða og síðar fékk nafnið Hólakot.

Liðlega tuttugu árum síðar, þegar skipt var jarðeignum Björns hirðstjóra Þorleifssonar, sem veginn var í Rifi árið 1467, er aftur getið nokkurra jarða í Dýrafirði og Hólar nefndir meðal jarða í Mýrahreppi, þó ekki sé beinlínis tekið farm að þær séu í þeim hreppi.[5]

Er Þorlákur Einarsson, sem lengi var sýslumaður á Núpi í Dýrafirði, keypti þá jörð af mági sínum, Eggerti Hannessyni lögmanni, sumarið 1556 er tekið fram að með í kaupunum fylgi jörðin Hólar og sé hún metin á 6 hundruð.[6] Þarna er beinlínis tekið fram að þessir Hólar séu í Mýrakirkjusókn og því nær öruggt að það sé Hólakot sem þá hafi skipt um eigendur.

Í Jarðabók Árna og Páls er Hólakot sagt vera eyðibýli í landi Klukkulands og orð Jarðabókarinnar sýna, svo ekki verður um villst, að jörðin er þá farin í eyði fyrir a.m.k. 100 árum.[7] Í bréfunum frá 15. og 16. öld, sem hér var vitnað til, eru Hólar nefndir sem fullgild bújörð og sýnast þá hafa verið í byggð. Sú staðreynd að jörðin skuli vera talin 12 hundruð árið 1446 en ekki nema 6 hundruð árið 1556 bendir hins vegar til þess að helmingur jarðarinnar hafi einhvern tíma á árunum þar á milli verið lagður undir nágrannajörðina Klukkuland. Sönnun þess liggur reyndar nær alveg á borðinu því í jarðaskránni frá árinu 1446 er Klukkuland talið vera 12 hundraða jörð og Hólar 12 hundruð en í Jarðabókinni frá 1710 er Klukkuland orðið 24 hundruð að dýrleika og Hólakot eyðibýli í landi þeirrar jarðar. Sameining jarðanna hefur því átt sér stað í tveimur áföngum. Fyrst hafa 6 hundruð úr Hólum verið lögð undir nágrannajörðina á árunum 1446-1556 en nokkru síðar, líklega þó fyrir 1600, hafa Hólar farið alveg í eyði og verið sameinaðir Klukkulandi að fullu. Þegar jörðin var komin í eyði hafa menn farið að kalla hana Hólakot en nafnbreyting af því tagi við sams konar aðstæður var ekki óalgeng.

Jörð þessi, sem á síðari öldum hefur borið nafnið Hólakot, var mjög lengi í eyði eða frá því á síðari hluta 16. aldar og fram undir 1870. Í Jarðabókinni frá 1710 er komist svo að orði um kot þetta:

 

Hólakot heitir eitt örnefni hér í landinu [þ.e. í landi Klukkulands – innsk. K.Ó.]. Þar sjást byggingaleifar af tóttarústum en öngvar girðingar og eru munnmæli að þar hafi í fyrstunni Klukkuland staðið. … Aftur má hér byggja því túnstæðið er sæmilegt. En fyrir því að heyskapurinn er lítill, þá má heimajörðin einskis af honum án vera.[8]

 

Frá því upplýsingum var safnað í Jarðabókina árið 1710 liðu um það bil 160 ár þangað til aftur var farið að búa á Hólakoti. Í jarðalýsingum frá árunum 1802 til 1805 er getið um kot þetta með nafni og það sagt vera eyðihjáleiga í landareign Klukkulands.[9] Í manntölum frá fyrri hluta 19. aldar verður þess hvergi vart að fólk hafi þá átt heima í Hólakoti og þar var einnig mannlaust bæði 1855 og 1860.[10] Þegar manntal var tekið 1. október 1870 var enn mannlaust á þessu forna eyðibýli[11] en þegar prestur fór að húsvitja í Núpsdalnum nokkrum vikum síðar voru miðaldra hjón, sem áður voru í húsmennsku á Klukkulandi, sest þar að.[12] Þau hétu Guðmundur Eyjólfsson og Margrét Magnúsdóttir.[13] Í sóknarmannatalinu frá 31.12.1870 er sagt að Hólakot sé nýbýli og húsbóndinn þar kallaður lausamaður. Þau Guðmundur og Margrét bjuggu áfram í Hólakoti næstu ellefu ár og í sóknarmannatölum frá þeim árum er Guðmundur ýmist nefndur bóndi, húsmaður eða húsbóndi.[14] Í búnaðarskýrslum frá árunum 1871 til 1873 er hann ekki talinn með bændum[15] og í manntali frá árinu 1880 er Hólakot sagt vera þurrabúð.[16] Allt bendir því til þess að bústofn Guðmundar og Margrétar í Hólakoti hafi verið nær enginn, máske þó örfáar kindur.

Vorið 1881 mun Hólakot hafa farið í eyði en tveimur árum síðar settist þar að nýtt fólk, hjónin Eyjólfur Guðmundsson og Jónína Gísladóttir, sem þá voru um þrítugsaldur.[17] Fyrstu árin sem Eyjólfur og Jónína bjuggu í Hólakoti eru þau kölluð húshjón í sóknarmannatölum.[18] Hólakot hefur þá ekki verið talið sjálfstæð bújörð heldur afbýli frá Klukkulandi og svo var enn 1890. Í manntali frá því ári er kot þetta sagt vera hjáleiga.[19] Eyjólfur Guðmundsson sem settist að í Hólakoti árið 1883 bjó þar í 40 ár en var ekkjumaður síðustu 20 árin (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 286). Á árunum kringum 1890 virðast búskaparumsvif hans hafa verið hvað mest því þá er hann bæði með vinnumann og vinnukonu.[20] Eyjólfur í Hólakoti mun þó sjaldan hafa verið talinn bóndi því árið 1901 er hann kallaður byggingamaður í manntali en 1907 og 1915 er hann sagður vera þurrabúðarmaður.[21]

Árið 1946 fór Hólakot í eyði er Guðmundur Ásgeir Sigurðsson, sem þar hafði búið í tuttugu ár, hætti búskap og fluttist að Núpi. Árið 1932 var bústofn Guðmundar Ásgeirs ein kýr, þrjátíu kindur og eitt hross.[22] Hann var þá 36 ára gamall sjálfseignarbóndi með sex manneskjur í heimili og bjó í torfbæ.[23] Seinna kom hann upp íbúðarhúsi úr steini á þessari eignarjörð sinni. Árið 1932 var túnið í Hólakoti talið 1,2 hektarar og hlaðan gat tekið 90 hesta af heyi.[24] Af túnum fengust 40 hestar af töðu og aðra 40 hesta mátti fá á engjum.[25]

Konu sína, Þórdísi Þórlaugu Guðmundsdóttur, missti Guðmundur Ásgeir í janúarmánuði árið 1941 og var því ekkjumaður síðustu fimm búskaparárin. Sjálfur sagði hann svo frá síðar að í Hólakoti hefði búpeningur þeirra hjóna dafnað líkast því sem tvö höfuð væru á hverri skepnu og tók fram að nágrönnunum hefði þótt með ólíkindum hversu vel þau sluppu við öll óhöpp.[26] Velgengni sína í búskapnum þakkaði Guðmundur Ásgeir einkum vináttu huldukonu einnar sem stundum vitjaði hans í draumi.[27] Eitt sinn bað draumkonan þennan síðasta bónda í Hólakoti að hjálpa sér um mjólk í dálítinn tíma af því báðar kýrnar sínar væru geldar.[28] Hann tók vel í þetta og kvaðst hún þá myndu koma íláti, sem tæki þrjár merkur, fyrir á einhverjum stað þar sem heimilisfólk í Hólakoti hlyti að sjá það.[29] Um morguninn sagði Guðmundur Ásgeir konu sinni drauminn og frá framhaldinu sagði hann síðar á þessa leið:

 

Þegar kona mín kom frá morgunmjöltum tók hún eftir ókunnri, vel gerðri tréfötu á eldhúsborðinu og þóttist vita að þarna væri komið ílátið frá huldukonunni. Mældi hún mjólkina í fötuna að gamni sínu. Tók hún þrjár merkur.[30]

 

Í fjórar vikur og tvo daga kom fata huldukonunnar tóm á eldhúsborðið í Hólakoti á hverjum morgni og hvarf þaðan aftur þegar búið var að fylla hana af mjólk.[31]

Okkar verkefni er ekki að rannsaka hvort þarna hafi brögð verið í tafli en sagan sýnir að Guðmundur Ásgeir og Þórdís kona hans hafa unað lífinu vel í Hólakoti og talið sig njóta þar verndar hollra vætta.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] D.I. IV, 687-688.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] D.I. V, 502.

[6] D.I. XIII, 152.

[7] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 74.

[8] Sama heimild.

[9] Rtk. – Jarðabækur V. 16. Jarðabók 1802-1805, Ísafjarðarsýsla.

[10] Manntöl 1801, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855 og 1860.

[11] Manntal 1870.

[12] Sama heimild; Sóknarm.tal úr Dýrafj.þingum frá 31.12.1870.

[13] Sömu heimildir.

[14] Sóknarm.töl Dyrafj.þinga.

[15] VA III, 421, búnaðarsk.

[16] Manntal 1880.

[17] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[18] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga í árslok 1884, 1885 og 1886.

[19] Manntal 1890.

[20] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga 1892.

[21] Manntal 1901; Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1907 og 1915.

[22] Fasteignabók 1932.

[23] Sama heimild; Sóknarm.töl Dýrfj.þinga.

[24] Fasteignabók 1932.

[25] Sama heimild.

[26] Vestfirskar þjóðsögur III, 1, 54-58.

[27] Vestf. þjóðsögur III, 1, 54-58.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »