Horn

Horn

Frá Laugabóli liggur leið okkar að eyðibýlinu Horni sem er fjær sjó og nokkru innar í dalnum. Sé farin skemmsta leið er spölurinn milli bæjanna tæplega tveir kílómetrar. Jörðin féll í eyði árið 1942 [1] en enn vex rabarbari á gamla bæjarhólnum. Litla sumarhúsið sem hingað var flutt árið 1998 stendur innantil við hann.[2] Gamlar sagnir herma að hinir fornu Mosdælir hafi verið tregir að taka við kristni og lengi blótað á laun í hvilftinni stóru ofan við túnið á Horni.[3] Sú heitir Hornshvilft en Úlfhildarhvilft, sem er miklu minni, er aðeins utar.[4] Í Hornshvilft voru að sögn gamlar rústir[5] og töldu menn að þar hefði til forna verið hof eða hörgur.[6] Þær munu nú vera komnar undir grjót sem fallið hefur úr fjallinu. Í Úlfhildarhvilft á svo að vera fólginn fjársjóður er sá kynni að hreppa sem fyrstur nær að vaxa upp hér í Mosdal án þess að nefna nokkru sinni nafn guðs.[7]

Horn í Mosdal var önnur tveggja stærstu jarðanna í dalnum, 24 hundruð að dýrleika að fornu mati.[8] Nafn sitt dregur jörðin að öllum líkindum af klettahorni í fjallsbrúninni[9] og heita þar Þrítindar eða Þremtindar.[10] Áin sem fellur til sjávar á landamerkjum Horns og Skóga heitir Hornsá (sjá Skógar) en niður við sjó eru landamerkin á móti Laugabóli rétt fyrir utan Hornstjörn er svo heitir.[11] Ofar lá sú landamerkjalína í Litluvörðu.[12] Í Hornstjörn, sem hér var nefnd, fellur sjór og þar var oft mikið um sel og rauðmaga.[13] Fjörubeitin í tjörninni var metin „á við 16 vikna gjöf“.[14]Innan við hana var lending Hornsbænda og þar eru rústir gamalla nausta.[15]

Árið 1363 átti Maríukirkjan á Eyri í Arnarfirði ótakmörkuð móskurðarréttindi í Breiðamýri í landi Horns[16] og um þessi réttindi kirkjunnar er getið í Jarðabókinni frá 1710.[17] Þar er þó tekið fram að mórinn sé gjörsamlega þrotinn[18] og frá því greint að fólkið á Horni nýti sér lyng og fjalldrapa til eldiviðar.[19] Nýtt mótak fannst síðar og á fyrri hluta okkar aldar var mikil og góð mótekja í Vörðuflóa sem er ofan við Sjóarholt og nær beint upp af lendingu bændanna á Horni.[20] Breiðatjörn og Breiðatjarnarengi eru aðeins utar[21] og má ætla að á þeim slóðum hafi hinar fornu mógrafir verið.

Um 1440 var Horn ein hinna fjölmörgu jarðeigna Guðmundar ríka Arasonar en komst á 16. öld í eigu konungs (sjá Laugaból). Kóngur átti jörðina í um það bil 300 ár en seldi hana árið 1841 með fjórum kúgildum fyrir liðlega 490 ríkisdali.[22] Á árunum kringum 1700 var alllengi þríbýli á Horni[23] en tvíbýli um 1735[24] og flest árin á tímabilinu frá 1760 til 1860.[25] Þó var hér þríbýli árið 1801[26] og um 1830 bjó Jón Sveinsson Vídalín einn á allri jörðinni í fáein ár.[27] Hann fæddist 3. maí 1787 og var sonur séra Sveins Jónssonar, er lengst var prestur á Prestsbakka í Hrútafirði, og konu hans, Guðrúnar Sumarliðadóttur frá Víðidalsá í Steingrímsfirði.[28] Hann var óskyldur hinum gömlu Vídalínum en kenndi sig við Víðidalsá þar sem afi hans hafði búið.[29] Á yngri árum dvaldist prestssonur þessi erlendis um skeið og mun hafa numið garðyrkju því hann er allvíða nefndur „gartner“ í heimildum.[30] Hann kom til landsins með Friðriki kaupmanni Svendsen á Flateyri árið 1820 og settist að í Önundarfirði.[31] Þar kvæntist hann Guðrúnu, dóttur Tómasar bónda Eiríkssonar í Hrauni á Ingjaldssandi, og frá Hrauni fluttust þau hingað að Horni árið 1826.[32] Þau bjuggu hér í fimm ár og á þeim árum var Jón „gartner“ umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu.[33] Umboðið fékk hann árið 1823 og hélt því til dauðadags en hann andaðist í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar árið 1837.[34] Öllum sem fengu ábúð á kóngsjörðunum í hans tíð gaf Jón „gartner“ fyrirmæli um að hafa þar matjurtagarða.[35] Eitt barna hans og eiginkonunnar var Arngrímur Jónsson Vídalín, bóndi og skipstjóri í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði.[36]

Um 1860 hófu hér búskap hjónin Guðmundur Ólafsson og Guðrún Bjarnadóttir en hann var fæddur á Hjallkárseyri árið 1823.[37] Hjón þessi stóðu hér lengi fyrir búi og höfðu alla jörðina til ábúðar.[38] Guðmundur var um skeið hreppstjóri og í hans tíð voru hér stundum um og yfir
tuttugu manneskjur í heimili.[39] Á yngri árum hafði Guðmundur verið vinnumaður á Rafnseyri hjá séra Sigurði, föður Jóns forseta,[40] og enn var hreppstjórinn á Horni í fullu fjöri þegar Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur kom í Arnarfjörð sumarið 1887. Hann reið þá með Þorvaldi að Langabotni í Geirþjófsfirði og hafði frá mörgu að segja, ekki síst um kunnáttu síns gamla húsbónda á Rafnseyri er hann taldi hafa verið rammgöldróttan. Séra Sigurð sagði Guðmundur hafa verið svo fjölkunnugan að til hans hafi jafnan verið leitað þegar aðrir galdramenn urðu frá að hverfa.[41] Til marks um þetta sagði fylgdarmaðurinn hinum hámenntaða náttúrufræðingi þessa sögu:[42]

Eitt sinn strandaði frönsk skúta í Arnarfirði og skipshöfnin drukknaði. Skipverjar gengu mjög aftur og varð komið fyrir nema einum. Það var „Latínudraugur“, skildi aðeins latínu. Reið hann mjög húsum á bæ einum í sveitinni svo fólki varð eigi svefnsamt. Þá var sent eftir séra Sigurði. Eftir að prestur var kominn á bæinn hélt draugur vana sínum um kvöldið, reið húsum svo brakaði í hverju tré. Þá gekk séra Sigurður út en er draugurinn varð hans var renndi hann sér niður þekjuna. Hausinn hélst þó í sömu hæð og gægðist fram af bæjarburstinni til þess að hafa gát á presti meðan skrokkurinn rann niður eftir en hálsinn lengdist að sama skapi. Þó draugur þessi væri illur viðfangs lauk þó svo að séra Sigurður gat komið honum fyrir með kunnáttu sinni.

Til sannindamerkis um galdrabrall Jóns Sigurðssonar forseta sagði Guðmundur bóndi á Horni svo frá, að er Jón var kominn til Kaupmannahafnar hefði hann sent eftir skinnblaði úr bók sem hann hafði séð í Arnarfirði á uppvaxtarárum og taldi karl þetta hafa verið galdrabók. – „Sko, þetta var pilturinn búinn að læra,“ sagði hreppstjórinn við Þorvald að sögulokum[43] og hefur að líkindum talið drenginn frá Rafnseyri vel fallinn til að halda uppi merki Arnfirðinga í galdrakúnstinni úti í Kaupinhafn.

Utan við bæjarhólinn á Horni niðar Hornsáin á sinni stuttu leið til sjávar og þar má enn heyra sögur Guðmundar hreppstjóra þó að rödd hans sé löngu þögnuð og jörðin fallin í eyði.

[1] Smt Rafnseyrar.

[2] ÞorbjPét KÓ 2.7.1998.

[3] ÞN 1951, 160–161 (Árbók F.Í.).

[4] Sama heimild.

[5] ÖÖ.

[6] ÞN 1951, 162.

[7] Sbr. Vestf. sagnir I, 366–369.

[8] Jb. Á. og P. VII, 3–8.

[9] Sóknalýs. Vestfj. II, 32.

[10] ÖÖ.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14]  ÞN 1951, 162.

[15] ÖÖ.

[16] D.I. III, 198.

[17] Jb. Á. og P. VII, 15–16.

[18] Jb. Á. og P. VII, 15–16.

[19] Sama heimild, bls. 5–6.

[20] ÖÖ.

[21] Sama heimild.

[22] JJ 1847, 435 og 440.

[23] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntal 1703. Jb. Á. og P. VII, 5.

[24] Bændatöl og skuldaskrár 1720–1765, Ísafjs. um 1735, eftirrit.

[25] Manntöl 1762 og 1816. Smt. Rafnseyrar.

[26] Manntal 1801.

[27] Smt. Rafnseyrar.

[28] HK 1987, 88–91 (Ársrit S.Í.). Ísl. æviskrár IV, 370.

[29] HK 1987, 88.

[30] Prþjb. og smt. Rafnseyrar og Holts  í Önf.

[31] Sömu heimildir.

[32] HK 1987, 88.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] HK 1987, 88.

[36] H K 1987, bls. 90. Sjá Ytri-Hjarðardalur.

[37] Prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[38] Sömu heimildir.

[39] Prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[40] Sömu heimildir. Manntal 1845.

[41] Þ Th 1923 II, 105–106.

[42] Sama heimild. Sbr. ÞErl 1954. 87–93.

[43] Sama heimild. Þ Th 1959 II, 131.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »