Hrafnabjörg

Skammt fyrir utan landamerki Stapadals og Hrafnabjarga liggur vegarslóðinn úr fjörunni upp á Hilluháls og svo út hlíðina. Sjálf Hillan er stallur framan í bröttu klettanefi er gengur í sjó fram en Hilluháls er hryggurinn þar fyrir ofan.[1] Fyrir klettinn sem Hillan er í verður aðeins fært í stærstu fjörum og á fyrri tíð mun forvaði þessi hafa verið nefndur Ófæra.[2] Um Hilluna var aðeins fært gangandi fólki og séra Jón Ásgeirsson segir að hér verði menn „að klifrast yfrum hátt í stöllum klettanna“ og „yfir kjós“ sem sjórinn gangi inn í „undir fótum manna“.[3]Að sumarlagi var þó fært ríðandi mönnum „upp í hlíðinni“, þegar búið var að ryðja, en til slíkra ferða þurfti að dómi séra Jóns bæði „sterkt höfuð“ og góða þjálfun[4] því hér er ærið bratt. Allhrikaleg þótti Þorvaldi Thoroddsen þessi ófæra vera er hann fór hér um sumarið 1887.[5] Seinna var járnhandrið sett í Hilluna og kom það að góðum notum því Hilluhálsinn og hlíðin þar fyrir ofan verða oft algerlega ófær að vetrarlagi vegna svellalaga og harðfennis.[6] Þessa leið brutust menn fyrst á bílum sumarið 1983 (sjá Stapadalur) en níu árum fyrr varð jeppafært að sumarlagi úr Dýrafirði að Lokinhömrum og Hrafnabjörgum (sjá Höfn). Hlíðin innan við Hrafnabjörg heitir Bjargahlíð og fjallið hér fyrir ofan Skeggi.[7] Hans bröttu eggjum mun enginn gleyma sem fær að virða þær fyrir sér frá hlaðinu á Hrafnabjörgum eða bæjarhólnum í Lokinhömrum.

Frá Hillunni eru um það bil tveir kílómetrar út að Hrafnabjörgum. Á þeirri leið er gott að staldra við í Grísavík sem er skammt fyrir innan túnið. Þar höfðu bændur á Hrafnabjörgum uppsátur fyrir báta sína og einnig reru þaðan bátar frá öðrum bæjum,[8] síðast á árunum kringum 1930.[9] Þá var bátur úr Dýrafirði hér við róðra og hélt áhöfnin til í timburhúsi sem reist hafði verið í víkinni.[10] Árið 1710 voru tvær verbúðir í landi Hrafnabjarga, önnur þó niðurfallin,[11] og má telja líklegt að þær hafi báðar staðið í Grísavík. Í þessari gömlu verstöð er vinalegt um að litast. Tóttir af sjávarhúsum og nausti og gangspilið á fjörukambinum minna á horfna tíð. Hér er líka drangurinn Kerling og fær þessa lýsingu hjá séra Jóni Ásgeirssyni: „Hann er flatur, hér um fjórar eða fimm mannhæðir, hér um þrjú fet á þykktina, nokkuð breiður en á toppnum getur einn maður staðið“.[12]Rétt utan við Grísavík er önnur lending, nefnd Sæluhöfn.[13] Ofan við hana er nú komið tún.[14] Neðan við bæinn er svo þriðja lendingin, Vogur, en þar er illt að lenda nema í ládauðu.[15]

Býlin Hrafnabjörg og Lokinhamrar standa sitt hvoru megin ár, á sjávarbökkum fyrir mynni Lokinhamradals og eru Hrafnabjörg innar. Í fjallinu ofan við bæinn átti krummi hreiður[16] og er því í boði nærtæk skýring á bæjarnafninu.

Á síðari öldum voru Hrafnabjörg jafnan talin vera 12 hundraða jörð[17] en býli þetta mun í fyrstu hafa byggst sem hjáleiga frá Lokinhömrum. Til þess bendir m.a. sú staðreynd að árið 1710 var haglendi þessara tveggja jarða enn óskipt.[18] Dómur frá árinu 1537 sýnir að þá var litið á Hrafnabjörg sem hjálendu frá Lokinhömrum[19] og í bréfum frá árunum kringum 1560 sést að þá voru jarðirnar Dalsdalur og Lokinhamrar virtar á 36 hundruð, báðar til samans, Dalsdalur á 12 hundruð og Lokinhamrar á 24 hundruð.[20] Land Hrafnabjarga hlýtur þá að hafa fylgt Lokinhömrum því án bæði Dalsdals og Hrafnabjarga var dýrleiki þeirrar jarðar aðeins 12 hundruð.[21] Árið 1621 voru Hrafnabjörg hins vegar talin vera sérstök bújörð og skömmu síðar var Dalsdalur lagður til Lokinhamra.[22] Formleg ákvörðun um landamerki Hrafnabjarga og Lokinhamra var þó ekki tekin fyrr en löngu síðar því haglendi jarðanna var enn sameiginlegt árið 1710 eins og fyrr var nefnt. Nú skiptir Lokinhamraá löndum milli þessara tveggja jarða[23] (sjá Lokinhamrar).

Árið 1658 var séra Torfi Jónsson, síðar prestur í Gaulverjabæ, talinn eigandi Hrafnabjarga.[24] Hann var bróðursonur Magnúsar Gizurarsonar er lengi bjó í Lokinhömrum og nefnir séra Torfi Hrafnabjörg „óðalsjörð“ ættar sinnar í skjali frá árinu 1664.[25] Undarlegt má kalla að séra Torfi skuli sagður eigandi Hrafnabjarga árið 1658 því að í skjölum frá árunum 1664 og 1676 er hann sagður hafa keypt jörð þessa af hálfbróður föður síns, séra Gizuri Sveinssyni á Álftamýri, og tekið fram að séra Gizur hafi fengið hana í arf við andlát Magnúsar Gizurarsonar[26] sem dó þó ekki fyrr en á páskum árið 1663 (sjá Lokinhamrar). Ljóst er að forfeður séra Torfa og aðrir mjög nánir ættingjar hans höfðu átt Lokinhamra, nær óslitið, allt frá árunum skömmu eftir 1500, og mjög líklegt er að Hrafnabjörg hafi fylgt Lokinhömrum allan þann tíma. Orðalag prestsins, er hann talar um óðalsjörð ættar sinnar, bendir líka til þess að svo hafi verið. Árið 1710 voru Hrafnabjörg og Lokinhamrar enn í eigu sonar og tengdadóttur séra Torfa í Gaulverjabæ.[27] Nokkru síðar náði Ormur Daðason, sýslumaður í Dalasýslu, að eignast þessar jarðir[28] og tengdadóttir hans, Þorkatla Bjarnadóttir, var enn aðaleigandi þeirra árið 1805 en hún dvaldist þá, hálfníræð að aldri, hjá tengdasyni sínum, séra Jóni Ormssyni í Sauðlauksdal.[29] Um 1840 voru Hrafnabjörg komin í sjálfsábúð[30] en þá höfðu búið hér um alllangt skeið hjónin Bjarni Bjarnason og Herdís Eggertsdóttir.[31]

Á árunum 1865–1902 voru Hrafnabjörg nytjuð frá Lokinhömrum og þá var hér ekkert fólk um langt skeið. Skömmu eftir 1890 var reistur lítill bær innst og neðst í gamla heimatúninu og var hann nefndur Neðri-Björg.[32] Þar settist að þurrabúðarfólk með svolitla grasnyt og voru fjölskyldurnar stundum tvær.[33] Það kot féll í eyði árið 1925.[34] Á Hrafnabjörgum hófst búskapur á ný árið 1902 (sjá Lokinhamrar) og búið var á jörðinni allt til ársins 1998. Hér ríkir kyrrð og við hverfum í svip fram á dalinn. Þar standa tveir Landdísarsteinar „með dálitlu millibili sinn hvorum megin við götuna“.[35] Þeir eru heiman við miðjan dal[36] og lætur nærri að þangað fram eftir sé 20 mínútna gangur.[37] Á einum stað eru verndarvættirnar í þessum steinum nefndar Ásdís og Hjördís.[38]

 

[1] ÖÖ. ÓJÞ KÓ 19.10.1998. ÞN 1951, 138 (Árbók F.Í).

[2] Sóknalýs. Vestfj. II, 42–43.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] ÞTh 1959 II, 126.

[6] ÞN 1951, 138.

[7] ÖÖ.

[8] Sóknalýs. Vestfj. II, 43.

[9] SRa KÓ 7.7.1991.

[10] Sama heimild.

[11] Jb. Á. og P. VII, 24–25.

[12] Sóknalýs. Vestfj. II, 43.

[13] ÖÖ.

[14] Sama heimild.

[15] GGH 1951, 74. ÖÖ.

[16] Sóknalýs. Vestfj. II, 43.

[17] Jb. Á.og P. VII, 24. Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. JJ 1847, 191.

[18] Jb. Á. og P. VII, 24–25.

[19] D.I. X, 114–115.

[20] D.I. XIII, 248 og 517–518.

[21] Sama heimild. Sbr. Jb. Á. og P. VII, 24–27.

[22] Safn til sögu Ísl. I, 647. Lbs. 797 4to. Jarðaskrá úr Ísafjs. frá árinu 1658.

[23] ÞN 1951, 138 (Árbók F.Í.).

[24] Lbs. 7974to. Jarðaskrá úr Ísafjs. frá árinu 1658.

[25] Alþb. Ísl. VII, 45–46.

[26] Alþb. Ísl. VII, 45–46. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, bls. 169 (Kph. 1993).

[27] Jb. Á. og P. VII, 24. Sbr. Ísl. æviskrár II, 273 og IV, 377.

[28] Ísl. æviskrár II, 272–273 og IV, 96. Alþb. Ísl. XI, 618.

[29] Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. Ísl. æviskrár I, 325 og III, 244. Sbr. Manntal 1762.

[30] JJ 1847, 191.

[31] Smt. Rafnseyrar. Manntöl 1835, 1840, 1845 og 1850.

[32] GGH 1951, 117. Smt. Rafnseyrar.

[33] Sömu heimildir. GGH 1953, 150.

[34] Smt. Rafnseyrar.

[35] ÖÖ.

[36] Sama heimild.

[37] GGH 1952b, 50–57 (Úr blámóðu aldanna).

[38] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »