Hvilft er ysta jörðin á Hvilftarströnd og á allri norðurströnd Önundarfjarðar var aðeins ein bújörð utar. Sú jörð var Eyri en í landi hennar stendur þorpið Flateyri. Á Hvilftarströnd var Hvilft stærsta jörðin, 24 hundruð að dýrleika uns hjáleigan Garðar var gerð að sjálfstæðri 6 hundraða bújörð á 18. öld (sjá hér Garðar). Þaðan í frá var Hvilft 18 hundraða jörð en aðrar jarðir á Hvilftarströnd voru allar 12 hundruð að fornu mati.[1] Nú er Hvilft eina jörðin í byggð á allri ströndinni frá Flateyri og inn að Breiðadal. Landamerkjum jarðarinnar er lýst á öðrum stað (sjá hér bls. 4 og Garðar) en sé farið eftir þjóðveginum er vegalengdin milli innri og ytri merkjanna um það bil 1300 metrar.[2] Af þessum 1300 metrum eru 750 eða því sem næst fyrir innan íbúðarhúsið en 550 fyrir utan það.[3]
Ekki fer milli mála að jörðin Hvilft dregur nafn af hvilftinni stóru sem líka heitir Hvilft[4] og er hér uppi í fjallinu fyrir utan og ofan bæinn. Klettahornin sem ber við himin sitt hvorum megin við hana heita Innra- og Ytra-Hvilftarhorn.[5] Hæð þeirra er 677 og 698 metrar. Á Hvilft eru nú (1995) tvö íbúðarhús, annað í góðu standi, byggt 1911 (sjá hér bls. 85), en hitt nær ónýtt. Bæði standa þau neðst í túninu, rétt fyrir ofan þjóðveginn sem liggur út sjávarbakkana. Talið er að á fyrri tíð hafi Hvilftarbæirnir staðið á þessum sama bæjarhól.[6] Rofamold og aska sem upp kemur þegar grafið er benda til þess að svo hafi verið.[7]
Frá landamerkjunum utan við Garða og út að túninu á Hvilft eru gömul engjalönd en mikið um skriður hið efra. Upp af innsta grasteignum í landi Hvilftar er dálítið klettanef, grasi vaxið að ofan, og heitir Sauðanef.[8] Rétt ofan við það sjáum við hamrabeltin sem ná alveg upp á fjallsbrún. Rétt utan við landamerkin á móti Görðum er bunguvaxin hæð sem heitir Höfðapartur en svolítil grund utan við landamerkjalækinn heitir Teitseyrar og var eitthvað heyjað þar.[9] Utar er Grafarpartur og enn utar Torfahvammur sem einnig voru slægjulönd.[10] Nafnið Samvinna á grasflöt innan við gamla heimatúnið á Hvilft bendir til þess að þar hafi Hvilftarbændur heyjað í samvinnu. Utan við Samvinnu er Veita[11] og er þar votlendara. Innst í landi Hvilftar og ofantil við engjarnar er Nýjaskriða sem svo heitir. Þar er enginn skriðufótur sjáanlegur en mikið er þarna um steinkast úr fjallinu.[12] Utar er Sæmundarskriða og í henni Sæmundarskriðugil sem nær upp á fjall.[13] Torfahvammsskriða er stór skriða sem nær ofan úr fjalli og langleiðina niður undir veg fyrir utan Torfahvamm.[14] Skammt innan við Torfahvammsskriðu ná sjávarbakkarnir mestri hæð og heita þar Háubakkar en neðan við þessa sömu skriðu er stór steinn framan til í fjörunni og heitir hann Flatur.[15]
Frá Torfahvammsskriðu liggur grjóthjalli uppi í hlíðinni og nær út að Tóargili.[16] Hjalli þessi heitir Leynir.[17] Bjartilækur kemur upp undan innri enda Leynis og rennur leið sína rétt innan við Samvinnu sem áður var nefnd.[18] Gilið utan við Leyni heyrðist stundum nefnt Tóugil[19] en rétt nafn þess mun vera Tóargil því Finnur Finnsson, sem lengi bjó á Hvilft og fæddist hér árið 1876, kvaðst aldrei hafa heyrt kunnuga menn nefna það öðru nafni.[20]
Tóargilið liggur úr Hvilftarbrekkunum og niður á Hrygg sem er fyrir ofan túnið en Ísugil gengur niður úr sjálfri Hvilftinni[21] Neðan við Leyni, hjallann sem fyrr var nefndur, er Stekkjarhvolf, stórt, grasivaxið og mishæðótt.[22] Utan og neðan við hvolf þetta og skammt ofan við túnið á Hvilft er Stekkjarbali og stendur þar gamall stekkur.[23] Svo má heita að stekkurinn sé beint niður af innri enda hvilftarinnar sem bærinn dregur nafn af. Hann er grjóthlaðinn og tvískiptur, um 11 metrar á lengd og hálfur annar metri á breidd. Efst í honum virðist hafa verið lambakró en hún gæti líka hafa verið ofan við stekkinn.
Kinnin utan við Tóargil heitir Toppukinn en neðan við Hvilftina eru Hvilftarbrekkur.[24] Neðan við Toppukinn eru Hjallar í miðri hlíð en neðan við þá Stórholt og Fornistekkur (sjá hér bls 4).
Innst í neðanverðu túninu og þó öllu fremur rétt innan við það og örskammt ofan við akveginn sem nú er hér voru Hlaðshólar.[25] Þar var mikið af tóttum sem nú hafa allar verið sléttaðar út.[26] Ragnheiður Finnsdóttir, sem fæddist á Hvilft árið 1816 og var hér lengi húsfreyja, kunni frá því að segja að í Hlaðshólum hefði eitt sinn fyrir langa löngu búið galdramaður.[27] Að sögn Ragnheiðar hét hann Steinþór og átti að hafa hengt sig í skemmu sinni.[28] Eins og nærri má geta gekk þessi galdramaður aftur og birtist mönnum í ýmsum myndum, stundum sem hundur en annan tímann sem hestur.[29] Eftir Ragnheiði Finnsdóttur er haft að byggð hafi lagst af í Hlaðshólum vegna þessara reimleika og löngu síðar þótti illt að vera þar á ferð í myrkri.[30]
Ekki er nú vitað með vissu hvar hálfkirkjan, sem áður var á Hvilft, muni hafa staðið en litlu aftar í þessu riti er rakið hvað heimafólk á síðari tímum hefur talið líklegast í þeim efnum (sjá hér bls. 8-9). Um gömlu smiðjuna, þar sem Hvilftarbændur dengdu ljái sína á fyrri tíð, er hins vegar vitað með vissu að hún stóð rétt ofan við íbúðarhúsið sem nú er búið í og innan við bæjarhólinn.[31] Þegar þar var grafið vegna byggingar geymsluhúss á árunum rétt fyrir 1950 kom m.a. upp forn steinkola sem nú (1995) er varðveitt í Minjasafninu á Flateyri.[32] Úr moldinni kom þá líka upp brot úr deiglu sem fróðir menn um málmsmíðar töldu líklegt að væri frá dögum Jóns Jónssonar silfursmiðs[33] er bjó á Hvilft á árunum 1804-1812. Smiðjutóttin sést nú ekki lengur en innar á túninu og nær beint fyrir innan íbúðarhús núverandi ábúanda er önnur tótt sem heitir Kota.[34] Þar voru síðast fjárhús.[35]
Gamla lendingin á Hvilft er inn og niður af bænum en rétt fyrir utan Hlaðshóla.[36] Steinar tveir í fjörunni innan við lendinguna heita Bræður.[37] Einstakur steinn, beint fram af heimreiðinni, heitir Enskur og kemur aðeins upp á stórstraumsfjöru.[38]
Ofan við túngirðinguna á Hvilft og fast við hana er gömul kví. Hún er um það bil 100 metrum innan við íbúðarhúsið frá 1911 og nær beint niður af kvínni eru tvær gamlar tóttir ofarlega í túninu. Þessi gamla kví er 4,5 x 2,5 metrar að flatarmáli og má því ætla að þar hafi verið hægt að reka inn 30-35 ær. Óljóst er nú hvenær hætt var að nota hana og farið að mjólka fráfæruærnar annars staðar en líklegt er að það hafi gerst á síðari hluta nítjándu aldar þegar færikvíarnar komu til sögu en þær voru úr timbri og færðar til eftir því sem henta þótti. Seint á nítjándu öld eða í byrjun tuttugustu aldar mun kvíabólið hafa verið svolítið innar og neðar, inn og niður af Stekkjarbala sem áður var nefndur (sjá hér bls. 2) og skáhallt ofan við Veitu, því þar heitir enn Kvíaból.[39] Sá staður er innan við túnið og þar hefur nú verið hafist handa um trjárækt. Rétt utan við túnið á Hvilft var hins vegar nátthagi á fyrri tíð en þar voru ærnar mjólkaðar í færikvíum allra síðustu árin sem fært var frá, það er um 1930.[40] Fyrir utan nátthagann er svo Fornistekkur,[41] um það bil 100 metrum ofan við þjóðveginn. Hér eru margar tóttir, allar vallgrónar, og má ætla að á þessum stað hafi lömbum Hvilftarbænda verið stíað frá mæðrum sínum öld fram af öld og margur gimbill grátið við stekkinn. Tóttirnar á Fornastekk bera með sér að á fyrri tíð var oft tvíbýli á Hvilft. Tvær stærstu tóttirnar standa skammt frá hvor annarri. Önnur þeirra er um það bil 6 x 4 metrar og utan við hana er lambakró. Hin stóra tóttin er svolítið utar og er hún nær því að vera hringlaga. Ummál hennar er 12 metrar eða því sem næst. Fleiri tóttir eru þarna í kring, sumar illgreinanlegar.
Utan og neðan við Fornastekk er Stórholt og nær dálítið upp fyrir þjóðveginn en yst á því er Stórholtslækur.[42] Frá Stórholtslæk að Merkislæk, við landamerki Hvilftar og Eyrar, er skammur spölur en mitt á milli þessara tveggja lækja var áður dálítil laut í bakkabrúninni neðan við akveginn sem nú er farið um.[43] Vegna vegaframkvæmda er nú búið að fylla hana upp, að minnsta kosti til hálfs,[44] en á árum áður gekk hún undir nafninu Frönsk.[45] Nafnið gefur til kynna að hér hafi franskir sjómenn haldið sig á fyrri tíð og ekki ólíklegt að þeir hafi reynt að ná til sín kvenfólki á slíkan stað.
Hjallinn sem við sjáum hér upp undir klettum og rétt utan við Hvilftina heitir Kálfahjalli.[46] Utan við hann er Litlahryggsgil og niður af því Litlihryggur.[47] Landamerki Hvilftar og Eyrar eru rétt fyrir innan Litlahrygg og Litlahryggsgil.[48] Í landamerkjabréfi frá 27. maí 1890 segir að landamerkjalækur sem renni úr gömlum mógröfum ráði merkjunum að neðanverðu en frá honum liggi þau í grænt dý uppi í hlíðinni og þaðan sjónhending á fjallsbrún.[49] Græna dýið sem þarna er nefnt er enn á sínum stað.[50]
Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir svo um búskaparskilyrði á Hvilft:
Útigangur í meðallagi. Torfrista lítt nýtandi, stunga bjargleg. Elt er klíningi. Hrognkelsaveiði lítil. Skipsuppsátur og búðarstöðu á jörðin á Kálfeyri þar sem verstaða brúkast almennilega frá þessari sveit, hún hefur brúkast og brúkast enn nú átölulaust. Reka hvals og viða, allan fimmtung, á jörðin á Sauðanesi fyrir Eyrarlandi. Þess hefur og jörðin notið átölulaust þegar nokkuð hefur upp borið og nýtur ábúandinn þess en ekki landsdrottinn. Selstöðu á jörðin á Sauðanesi í Eyrarlandi, hún brúkast árlega. Skógarítak átti jörðin og á Sauðanesi, það er nú gjöreytt.
Enginu granda til stórskaða skriður úr brattlendi. Úthagar eru mjög litlir heima á jörðinni og mjög hrjóstrugir. Hætt er kvikfé stórlega fyrir sjávarflæðum undir móðsköflum og svo snjóflóðum. Kirkjuvegur torsóttur yfir Önundarfjörð. Heimræði má hér vera en brúkast hér ei fyrir langræði og hefur ei heldur brúkast það til gagnsmuna er teljandi nema lítið á haust í bestu veðráttu.[51]
Hin margvíslegu ítök sem Hvilft átti í landi Eyrar í byrjun 18. aldar tengjast efalítið því að hálfkirkjan á Hvilft, sem þá hafði verið lögð af, átti áður 5 hundruð í Eyri,[52] það er meira en fimmtung af öllu landi Eyrar. Frá hálfkirkjunni á Hvilft er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 7-8). Um miðbik 19. aldar kom til málaferla vegna deilu um réttindi Hvilftar í landi Eyrar eins og frá er greint hér nokkru aftar (sjá hér bls. 53-57). Í skjölum þess máls sést að auk ítakanna sem nefnd eru í Jarðabók Árna og Páls hafði Hvilft átt frá ómunatíð beitarrétt í landi Eyrar fyrir utan Klofningshrygg (sjá hér bls. 53-57). Nær fullvíst má telja að við skráningu réttinda Hvilftar í Eyrarlandi árið 1710 hafi gleymst að geta um beitarréttinn.
Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að Hvilft eigi rétt til selstöðu á Sauðanesi og frá því greint að Hvilftarbændur nýti sér þessi réttindi á hverju ári. Um miðbik 19. aldar var löngu hætt að hafa búsmalann frá Hvilft í seli en bóndinn sem þá bjó á Hvilft taldi sig vita að fyrr á öldum hefði Hvilftarselið verið á Kálfeyri en síðan hefði það verið flutt á annan stað þar sem enn héti Hvilftarsel, kippkorn fyrir utan Klofningshrygg.[53] Um selið er rætt nánar á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Eyri).
Árið 1805 var talið að á Hvilft væri unnt að fóðra 2 kýr og 40 sauðkindur[54] og í jarðabók frá því ári er tekið fram að þess utan geti 15 sauðir lifað hér á útigangi en þó með einhverri fóðurgjöf.[55] Í þessari sömu jarðabók er gefið til kynna hvaða hásetahlut megi reikna með yfir árið við fiskiveiðar frá Hvilft[56] og gert ráð fyrir að hann sé álíka hér og hjá þeim sem rói frá Hóli á Hvilftarströnd (sjá hér Hóll). Í byrjun 19. aldar munu hákarlaveiðar einnig hafa verið stundaðar frá Hvilft og meðalhásetahlutur úr þeim róðrum talinn vera um hálf tunna af lýsi yfir árið.[57] Það sem Hvilftarmenn fengu svo árlega af hrognkelsum var metið til jafns við fiskafla sem gæfi þrjár vættir í hlut.[58] Í jarðabókinni frá 1805 eru landkostir hverrar jarðar sundurliðaðir og metnir til verðs. Á Hvilft voru gæði lands og sjávar metin sem hér segir:
- Gras fyrir 2 kýr 2 hundruð
- Gras fyrir 40 fjár 6 hundruð og 80 álnir
- Vetrarbeit fyrir 15 sauði 1 hundrað og 18 álnir
- Áætlaður fiskafli 97 álnir
- Áætlaður hákarlsafli 40 álnir
- Áætlaður hrognkelsaafli 60 álnir
Samtals 11 hundruð 55 álnir
Tölurnar bera með sér að á Hvilft var sjávaraflinn metinn sem einn sjöundi hluti þeirra gæða sem land og sjór gáfu af sér fyrir fólkið sem hér bjó.
Til skýringar skal þess getið að í jarðabókinni frá 1805 er rauðmagaveiði í Holtsós ekki talin til hlunninda á einstökum jörðum en þar var almenningur og öllum því heimil veiði. Í nýnefndri jarðabók er aðeins getið um hrognkelsaveiði á fjórum jörðum í Mosvallahreppi, það er á Eyri, Hvilft, Görðum og Hóli á Hvilftarströnd[59] en þetta eru fjórar ystu jarðirnar við norðanverðan Önundarfjörð. Frá þessum jörðum hefur hrognkelsaveiði því verið stunduð með öðrum hætti en almennt var sem er athyglisvert því með dómi er upp var kveðinn á Mosvöllum 20. maí 1594 var bændunum á Hvilft og Eyri bannað að leggja rauðmaganet fyrir sínu landi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Það bann var sett með vísan til þess að slíkar netalagnir hindruðu göngu rauðmagans inn í ósinn þar sem allur almenningur mátti leita sér bjargar.
Um 1920 var túninu á Hvilft lýst á þann veg að það væri þurrlent, greiðfært og grasgefið.[60] Engjar í landi jarðarinnar þóttu snögglendar en hagarnir góðir til beitar bæði sumar og vetur.[61] Á Hvilft var líka góð fjörubeit og beitarréttindin á Sauðanesi skiptu máli.[62] Á árunum kringum 1920 fengust árlega 150-160 hestar af töðu af túninu á Hvilft en um 230 hestar af engjunum.[63] Á fyrri hluta 20. aldar töldust góð skilyrði til hrognkelsaveiði enn til hlunninda á Hvilft.[64]
Hvilftar er fyrst getið í kvittunar- og afsalsbréfi frá árinu 1415.[65] Bréfið er ritað á Brjánslæk 4. apríl á því ári og þar er vottað að Einar Jónsson hafi greitt Sveini Brandssyni og Þóru Þorsteinsdóttur andvirði nefndrar jarðar, Hvilftar í Önundarfirði.[66] Þau Sveinn og Þóra geta því talist fyrstu eigendur Hvilftar sem hægt er að nefna með nafni en önnur vitneskja liggur ekki fyrir um þau.
Bænhúsið, sem áður var á Hvilft, er fyrst nefnt í skjali frá árinu 1439 en á því ári var því breytt í hálfkirkju með bréfi sem Goðsvin, biskup í Skálholti, gaf út 20. júlí það sama ár.[67] Í skjali því segir svo:
Vi Goðsvin með guðsnáð biskup í Skálholti gjörum góðum mönnum kunnugt með þessu voru bréfi að vér höfum gjört og skipað að bænhúsið á Hvilft í Önundarfirði skal vera ævinlega hálfkirkja héðan í frá með svofelldum skilmála að Einar Jónsson sem eigur greinda jörð, Hvilft, gefur til hennar 5 hundruð og skyldi hann halda sagðri kirkju svo kostulegri að hún væri 10 hundruð eftir skynsamra manna virðingu og þar til 5 hundruð í ornamenta.
Item skal hann gjalda svo marga peninga þá er hann
skilur við eður hans erfingjar sem kirkjan er ókostulegri en
áður var greint.
Item skal sagður Einar gefa kirkjunni í Holti í Önundarfirði 5 kúgildi að næstum fardögum fyrir tíundir og lýsistolla. Skal áðurnefnd kirkja á Hvilft taka heima tíundir og lýsistolla bónda og húsfreyju og allra heimamanna. Þar skal og hjón saman vígja og börn skíra og syngja annan hvorn dag helgan og ljúka presti 2 merkur kaups. Þar skal og mega syngja páska- og jóladag og allar hinar stærstu hátíðir, annaðhvort áður eða síðar eftir því sem prestur kemst með … .[68]
Bréf þetta er allt mjög merkilegt en þarfnast ekki skýringa.
Eitt skilyrðanna sem Goðsvin biskup setti fyrir því að bænhúsinu yrði breytt í hálfkirkju var að eigandi Hvilftar legði guðshúsinu til 5 hundraða jarðeign. Í vitnisburði sem séra Narfi Böðvarsson, prestur í Holti, gaf út vorið 1484 sést að hálfkirkjan á Hvilft átti þá 5 hundruð í Eyri[69] og í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er líka tekið fram að svo sé.[70] Aðrar jarðeignir mun hún aldrei hafa eignast en ætla má að þessi eina hafi dugað Hvilftarmönnum til að tryggja sér margvísleg ítök í landi Eyrar. Að minnsta kosti sumum þessara ítaka og réttinda náðu þeir að halda þó að hálfkirkjan hyrfi úr sögunni og var það staðfest með dómi sem upp var kveðinn 12. mars 1852 (sjá hér bls. 56-57).
Um eignir hálfkirkjunnar á Hvilft á árunum kringum 1570 segir svo í Gíslamáldaga:
Hálfkirkjan á Hvilft á 5 hundruð í jörðinni Eyri. Item 5 málnytukúgildi. Item í kirkjunni ein messuklæði sæmileg ný og önnur vond. Kaleikur lítill með silfur. Item klukka og bjalla lítil. Item margar bækur gamlar.[71]
Fróðlegt hefði verið að vita meira um allar þessar gömlu bækur en slíkar upplýsingar eru því miður ekki í boði.
Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson vísiteraði í Holti 22. ágúst 1650 var staðfest að hálfkirkjan á Hvilft væri aflögð og langt um liðið síðan þar var messað í síðasta sinn.[72] Nefndan dag gekk Brynjólfur frá skiptum á eignum þessarar gömlu hálfkirkju.[73] Í vísitazíubók hans er skráð að fasteign sú sem hálfkirkjan hafði átt skuli að venju ganga til eiganda hálfkirkjunnar sem hver önnur bóndaeign en gripir og lausafé til einnar eða fleiri alkirkna eftir ráðstöfun biskups.[74]
Í bókun biskups frá 22. ágúst 1650 sést að kirkjan á Hvilft átti þá enn þessi messuklæði: Hökul með fallegum krossi, einn léreftsslopp, eitt gamalt rykkilín og fánýtt slitur af gömlum hökli.[75] Altarisklæði og altarisbrún átti hún líka og var þetta allt virt á eitt hundrað.[76] Öllum þessum gamla skrúða frá Hvilft ráðstafaði Brynjólfur biskup til Staðarkirkju í Súgandafirði en þó með því skilyrði að það sé vel varðveitt og nytsamlega til þjónustugerðarinnar brúkað.[77]
Kaleikinn frá Hvilft, hinn sama og nefndur var í Gíslamáldaga, svo og klukku og bjöllu fékk Holtskirkja.[78]
Frá öllum þessum skiptum gekk Brynjólfur biskup sama dag, 22. ágúst 1650,[79] en þegar Árni Magnússon prófessor kom í Önundarfjörð 60 árum síðar í sínum jarðabókarerindum stóð kirkjuhúsið á Hvilft enn uppi en hafði verið minnkað.[80]
Engin kunn örnefni eiga rætur að rekja til hálfkirkjunnar á Hvilft[81] en heimafólk taldi að garður sem sléttaður var út á árunum kringum 1940 myndi hafa verið bænhúsgarðurinn.[82] Um það bil 50 metrum innan við íbúðarhúsið á Hvilft, sem nú er búið í, og aðeins ofar í túninu er svolítill hóll og rétt innantil við hann var þessi garður.[83] Þarna á hólnum kynni hálfkirkjan að hafa staðið en utan við hann eru nú útihúsarústir. Bænhúsgarðurinn sem felldur var á árunum kringum 1940 virtist vera forn.[84] Hann var að minnsta kosti einn metri á breidd og um það bil hálfur metri á hæð en lengdin að líkindum 7-8 metrar eða þar um bil.[85] Stefna garðsins, séð frá hólnum, var nær beint í austur og síðan nær beint í suður.[86]
Hér var áður nefnt að Einar Jónsson hefði keypt Hvilft af Sveini Brandssyni og Þóru Þorsteinsdóttur árið 1415 (sjá hér bls. 6) og ætla má að það hafi verið sami Einar Jónsson sem átti jörðina árið 1439 en nafn hans er nefnt í biskupsbréfinu frá því ári sem hér var áður vitnað til. Það eitt að Einar skyldi fá leyfi biskups fyrir því að breyta bænhúsinu á Hvilft í hálfkirkju sýnir að bóndi þessi hefur átt þó nokkuð undir sér.
Árið 1475 seldi maður að nafn Jón Einarsson jörðina Fremri-Breiðadal í Önundarfirði en sá sem keypti var Örnólfur Einarsson (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Í kaupsamningnum var tekið sérstaklega fram að eiginkona Jóns, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, hefði samþykkt söluna.[87] Þremur árum síðar seldi Þorkell Einarsson þessum sama Örnólfi hálfa Hvilft fyrir hálfan Höfða í Dýrafirði og fimm kúgildi.[88] Í skjali sem út var gefið um þau viðskipti má sjá að Þorkell og Örnólfur hafa verið bræður.[89] Mjög líklegt verður að telja að Jón Einarsson, sem hér var nefndur, hafi einnig verið bróðir þeirra og þeir allir synir Einars Jónssonar sem keypti Hvilft árið 1415. Útgefendur fornbréfasafnsins slá því reyndar föstu að svo hafi verið og telja Einar Jónsson og Jón Einarsson báða hafa búið á Hvilft.[90]
Í vitnisburði um viðskipti bræðranna, Þorkels og Örnólfs Einarssona, er Þorkell seldi Örnólfi hálfa Hvilft segir að við kaupin hafi Örnólfur lofað að svara kirkjunni á Hvilft öllum þeim peningum og reikningsskap er Þorkell varð henni skyldugur og honum bar að svara.[91]
Örnólfur Einarsson, sem keypti hálfa Hvilft af bróður sínum árið 1478, bjó um lengri eða skemmri tíma í Hvestu í Arnarfirði og fór um skeið með sýsluvöld í Barðastrandarsýslu á árunum upp úr 1460.[92] Í Íslenskum æviskrám staðhæfir Páll Eggert Ólason að Örnólfur í Hvestu hafi verið sonur Einars Jónssonar á Hvilft og má telja nær fullvíst að svo hafi verið þó að ótvíræða sönnun þess sé víst hvergi að finna í fornum bréfum. Börn Örnólfs Einarssonar voru Þorleifur, lögréttumaður á Eyri í Seyðisfirði, og Rannveig sem giftist Ólafi Jónssyni.[93] Líklega er það þessi Ólafur Jónsson sem nefndur er í vitnisburðarbréfi séra Narfa Böðvarssonar í Holti frá 21. apríl 1484 en séra Narfi segir þar að Ólafur Jónsson hafi gefið Einari syni sínum jörðina Hvilft.[94] Bréf þetta frá vorinu 1484 ber með sér að þá hefur Örnólfur Einarsson verið látinn en í því tekur séra Narfi fram að hann hafi heyrt Örnólf heitinn Einarsson lýsa því að kirkjan á Hvilft ætti 5 hundruð í Eyri, þau sömu sem hann [þ.e. Örnólfur] hafði sjálfur átt.[95] Í bréfinu frá 21. apríl 1484 lætur Narfi prestur þess einnig getið að hann hafi verið í Holti í 26 ár og allan þann tíma hafi Örnólfur hvorki goldið kirkjutíund né presttíund af þessum 5 hundruðum í Eyri þó krafinn væri.[96] Sú neitun Örnólfs er til marks um að hann hefur litið á þennan jarðarpart sem kirkjueign því af eignum kirkna voru engar tíundir goldnar.
Um Ólaf sem bjó á Hvilft árið 1495[97] er fátt kunnugt en vera má að þessi Ólafur sé hinn sami og hér var áður nefndur, það er Ólafur Jónsson sem var tengdasonur Örnólfs Einarssonar. Á minnisblaði Stefáns biskups Jónssonar frá árinu 1495 um ýmsar fjárheimtur Skálholtsstóls vestra stendur skrifað: Hjá Ólafi á Hvilft hundrað í vaðmálum að vori[98] en þar er föðurnafn bóndans á Hvilft ekki nefnt. Aftur á móti liggur fyrir vitnisburðarbréf sem Ólafur Jónsson gaf út á Hvilft árið 1495[99] og má því telja býsna líklegt að það hafi verið hann sem gjalda átti vaðmálin til Skálholtsstóls.
Um eigendur Hvilftar á 16. öld er mjög takmörkuð vitneskja í boði. Þó er vitað að um 1550 átti jörðina maður að nafni Örnólfur Jónsson[100] og gæti sem best hafa verið niðji Örnólfs Einarssonar sem átti Hvilft, hálfa eða alla, á síðari hluta 15. aldar. Þann 30. desember 1549 var á Stað í Súgandafirði gengið frá kaupmálabréfi nýnefnds Örnólfs Jónssonar og væntanlegrar eiginkonu hans sem hét Steinunn og var dóttir Ólafs Guðmundssonar er bjó í Súgandafirði.[101] Í kaupmálabréfinu er tekið fram að til kaups og kvonarmundar hafi Örnólfur haft jarðirnar Hvilft og Eyri en faðir Steinunnar hafi kjörið dóttur sína málakonu í garð oftnefnds Örnólfs.[102] Merkingin er sú að faðir brúðarinnar leggur þá fram aðrar eignir á móti er verða hennar séreign og í kaupmálabréfinu frá 1549 er þess getið að allur sá máli hafi reiknast 40 hundruð með fjórðungsgjöf Örnólfs.[103] Festingarvottar að þessum kaupmála voru prestarnir séra Ólafur Jónsson í Holti og séra Ari Jónsson á Stað í Súgandafirði.[104] Líklegt má telja að það sé þessi sami Örnólfur Jónsson sem seldi Eggerti Hannessyni lögmanni Vífilsmýrar haustið 1565.[105] Vorið 1598 seldi maður að nafni Örnólfur Ólafsson 14 hundruð í Hvilft[106] og er ekki ólíklegt að hann hafi verið ættingi þeirra Örnólfa sem hér voru áður nefndir.
Sá sem keypti 14 hundruð í Hvilft vorið 1598 var Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri[107] og um miðbik 17. aldar var öll jörðin komin í eigu sonar Ara, Þorláks lögréttumanns í Súðavík.[108] Þorlákur er talinn hafa dáið árið 1667[109] en niðjar hans áttu Hvilft langt fram á 18. öld, fyrst Helga dóttir hans, sem gift var Jóni Vigfússyni, sýslumanni á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu,[110] og síðan sonur þeirra, Erlendur Jónsson á Stórólfshvoli.[111] Erlendur drukknaði í Markarfljóti sumarið 1723[112] en fjórum áratugum síðar var Hvilft í eigu Vigfúsar Erlendssonar[113] og má telja mjög líklegt að þar sé um að ræða son Erlendar á Stórólfshvoli sem Vigfús hét en hann var prestur á Setbergi og dó hálfsjötugur sumarið 1781.[114]
Árið 1791 fór Ólafur Magnússon frá Núpi í Dýrafirði að búa á Eyri í Önundarfirði (sjá hér Eyri) og vitað er að hann átti um það leyti bæði Hvilft og Eyri.[115]
Aðra hálflenduna á Hvilft seldi Ólafur séra Jóni Sigurðssyni í Holti nokkrum árum fyrir andlát prestsins en séra Jón dó árið 1796.[116] Þennan part úr Hvilft erfði þá Jarþrúður dóttir hans[117] sem giftist sama ár Boga Benediktssyni á Staðarfelli. Árið 1798 keypti Daniel Steenbach, verslunarstjóri á Flateyri, umrædda hálflendu af Boga[118] en bak við þau kaup mun hafa staðið húsbóndi verslunarstjórans, Henrik Henkel, sem var eigandi Þingeyrarverslunar, því árið 1805 var hann talinn eigandi Hvilftar.[119] Henrik Henkel andaðist árið 1817 (sjá hér Þingeyri) og að honum látnum komust eigur hans í Önundarfirði fljótlega í hendur Friðriks J. Svendsen sem tók við verslunarrekstrinum á Flateyri (sjá hér Flateyri). Fullvíst er að Svendsen átti um skeið hálfa Hvilft,[120] það er 9 hundruð, en sjö af þessum níu hundruðum seldi hann Ólafi Ólafssyni, hattamakara á Eyri í Skötufirði, og fékk í staðinn 7 hundruð í Eyri í Önundarfirði sem hattamakarinn hafði átt.[121] Þau tvö hundruð í Hvilft sem Svendsen átti þá eftir seldi hann Finni Guðmundssyni, bónda á Hvilft.[122]
Hér hefur nú um sinn verið sagt frá eigendaskiptum á þeirri hálflendu Hvilftar sem Ólafur Magnússon á Eyri seldi séra Jóni Sigurðssyni í Holti á árunum um eða upp úr 1790. Hina hálflenduna átti Ólafur dálítið lengur en seldi hana, að sögn Magnúsar Einarssonar er síðar bjó á Hvilft, árið 1803 eða 1804 Jóni Jónssyni sem þá fór að búa á þessari hálflendu.[123] Ástæðulaust er að vantreysta orðum Magnúsar um þetta, svo nákominn sem hann var, en í jarðabók frá árinu 1805 er áðurnefndur Henrik Henkel talinn eini eigandi jarðarinnar.[124] Hann mun þó aðeins hafa átt hálfa jörðina. Jón Jónsson, bóndi á Hvilft, drukknaði vorið 1812 en ekkja hans, Karitas Ívarsdóttir, giftist aftur fáum árum síðar Finni Guðmundssyni, er þá fór að búa á Hvilft, og með Karitas eignaðist hann hálflenduna sem fyrri eiginmaður hennar hafi keypt af Ólafi Magnússyni.[125] Tvö hundruð til viðbótar keypti Finnur af Friðriki Svendsen eins og hér var áður nefnt og átti því 11 hundruð í jörðinni þegar hann andaðist árið 1843. Þau 11 hundruð erfðu þá dóttir hans og tengdasonur, þau Ragnheiður Finnsdóttir og Magnús Einarsson[126] sem var bóndi á Hvilft frá 1838 til 1858. Sjö árum síðar keypti Magnús þau 7 hundruð sem þá voru enn í eigu Ólafs Ólafssonar hattamakara sem keypt hafði af Friðriki Svendsen.[127]
Frá 1850 var Magnús bóndi á Hvilft því einkaeigandi allrar jarðarinnar en næstu 50-60 árin á undan höfðu eigendur jafnan verið tveir eins og hér hefur nú verið gerð grein fyrir.
Ragnheiður Finnsdóttir, sem verið hafði eiginkona Magnúsar Einarssonar á Hvilft, átti jörðina mjög lengi. Árið 1898 átti Ragnheiður gamla enn hálfa jörðina en tengdadóttir hennar, Sigríður Þórarinsdóttir, sem þá var orðin ekkja, og hennar börn áttu þá hina hálflenduna.[128]
Um 1920 áttu dætur Ragnheiðar og sonarsonur 16 af jarðarhundruðunum 18 hér á Hvilft.[129] Móðir Ragnheiðar Finnsdóttur hét eins og fyrr var nefnt Karitas Ívarsdóttir og hafði verið húsfreyja á Hvilft frá því á fyrsta áratug 19. aldar. Dóttir hennar og tengdasonur náðu að eignast jörðina að mestu á árunum um eða upp úr 1840 eins og hér hefur verið rakið og æ síðan hafa þau og þeirra niðjar átt hana alla eða nær alla.[130] Niðjar Magnúsar Einarssonar og Ragnheiðar Finnsdóttur hafa líka búið hér mann fram af manni allt til þessa dags en búseta þeirra á Hvilft hefur þó ekki verið alveg samfelld (sjá hér bls. 79-82).
Á 17. öld þurftu ábúendur á Hvilft að greiða eigendum jarðarinnar 10 vættir á ári, það er 200 álnir, í landskuld.[131] Þessi upphæð jafngilti 10 ærgildum og er þá miðað við loðnar og lembdar ær. Árið 1710 var landskuldin enn óbreytt og í Jarðabókinni frá því ári sést að af þessum 200 álnum voru 140 greiddar fyrir ábúð á heimajörðinni en 60 fyrir ábúð á Görðum, hjáleigunni sem seinna varð sjálfstæð bújörð.[132] Árið 1753 var landskuldin af Hvilft, án Garða, enn 140 álnir[133] og um miðja 19. öld var upphæð landskuldarinnar enn alveg óbreytt.[134] Um 1920 var árleg landskuld af Hvilft hins vegar komin niður í 3 ær,[135] það er 60 álnir. Þetta þótti nefndarmönnum, er þá sátu í fasteignamatsnefnd Vestur-Ísafjarðarsýslu, hins vegar of lítið og ákváðu að hækka reiknaða landskuld upp í 5 ær,[136] það er 100 álnir.
Allmörg innstæðukúgildi fylgdu jörðinni á fyrri tíð eins og venja var. Árið 1658 voru þau samtals níu á Hvilft og Görðum en undir lok 17. aldar ýmist sex eða sjö.[137] Árið 1719 voru fjögur slík leigukúgildi á Hvilft og tvö á Görðum.[138] Þessi kúgildatala virðist síðan hafa haldist óbreytt mjög lengi því innstæðukúgildin á Hvilft voru fjögur árið 1753 og líka árið 1847.[139] Um 1920 hafði þeim fækkað um eitt og voru þá þrjú, það er átján ær.[140]
Um fjölda býla á Hvilft fyrir 1700 er fátt vitað nema það að árið 1681 bjó einn bóndi á allri heimajörðinni.[141] Í byrjun 18. aldar var líka einbýli á Hvilft[142] en auk bóndans var hér þó líka kvæntur húsmaður árið 1703.[143] Síðar á 18. öld var hins vegar mjög oft tvíbýli á jörðinni.[144] Þegar 19. öldin gekk í garð hafði einn bóndi ábúð á allri jörðinni.[145] Samt voru hér þrjú heimili árið 1801 því auk fjölskyldu bóndans höfðust hér við tveir kvæntir húsmenn.[146] Á fyrri hluta 19. aldar var yfirleitt einbýli á Hvilft,[147] enda mun Daniel Steenbach faktor hafa átt heima á Flateyri þó að hann nytjaði part úr Hvilftarjörðinni um alllangt skeið (sjá hér Flateyri).
Tvíbýli var á Hvilft 1854-1857 og svo var einnig árin 1858-1861, 1866-1875 og 1885-1888.[148] Að þessum 18 árum frátöldum bjó yfirleitt einn bóndi á allri jörðinni á síðari hluta 19. aldar[149] en á fyrri hluta 20. aldar var hér yfirleitt tvíbýli, allt frá árinu 1908 (sjá Firðir og fólk 1900-1999,421).
Fyrstu bændurnir, sem þekktir eru með nafni og mjög líklegt má telja að búið hafi á Hvilft, eru Einar Jónsson, Jón Einarsson og Ólafur Jónsson sem hér var áður sagt frá (sjá hér bls. 9-10) en þeir voru allir uppi á 15. öld. Fjórði bóndinn, sem kunnugt er um nafn á og útgefendur fornbrésafnsins telja að hafi búið á Hvilft, er svo Einar Ólafsson, sonur nýnefnds Ólafs Jónssonar.[150] Ætla má að Einar hafi fæðst eigi síðar en um 1460 því í vitnisburðarbréfi frá árinu 1484 segir að Ólafur faðir hans hafi gefið honum Hvilft til kvonarmundar þegar pilturinn festi sér stúlkuna Guðfinnu Indriðadóttur.[151]
Vera má að Einar Ólafsson hafi átt Hvilft á fyrstu árum 16. aldar en um þá öld miðja var jörðin komin í eigu Örnólfs Jónssonar (sjá hér bls. 10) sem enginn veit þó hvort muni hafa búið á þessari eignarjörð sinni.
Um bændur á Hvilft á 16. og 17. öld er í rauninni ekkert vitað fyrr en kemur að Steinþóri Ormssyni sem bjó hér á árunum um og upp úr 1680. Í heimild frá árinu 1681 er Steinþór talinn bóndi á Hvilft[152] og hann var hér enn árið 1688 því 6. september á því ári ritaði Árni Magnússon á Hóli í Bolungavík bréf sem m.a. átti að berast feðgunum á Hvilft, þeim Steinþóri Ormssyni og Jóni Steinþórssyni.[153] Steinþór Ormsson var orðinn bóndi í Mosvallahreppi árið 1666 og var alloft vottur á Mosvallaþingi á árunum 1666-1678 (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi).
Í ættartölubókum sínum segir Jón Espólín að Ormur Jónsson, lögréttumaður og lögsagnari í Fremri-Gufudal, sem fæddur var skömmu fyrir 1550, hafi auk annarra barna átt þrjá syni sem allir hétu Steinþór (eða Steindór).[154] Einn þessara Steindóra átti Ormur með fyrri konu sinni, Ragnhildi Steindórsdóttur, en hinir tveir voru laungetnir.[155] Þann yngsta þessara bræðra og nafna eignaðist Ormur í elli sinni með Halldóru Þorsteinsdóttur, að sögn Espólíns,[156] og í annarri heimild er tekið fram að karlinn hafi verið nær áttræður þegar þessi yngsti Steindór fæddist.[157]
Jón Espólín segir að Steinþór yngsti Ormsson hafi átt tvo Jóna fyrir syni og annar þeirra hafi búið á Hvilft.[158] Í manntalinu frá 1703 er staðfest að Jón Steinþórsson hafi þá búið hér á Hvilft[159] og þarf vart að draga í efa að Steinþór Ormsson sem bjó hér um og upp úr 1680 hafi verið faðir hans. Úr skjali einu í handritasafni Árna Magnússonar koma þær upplýsingar að yngsti sonur Orms í Gufudal með Steinþórsnafni hafi fæðst um 1626[160] en Jón Steinþórsson á Hvilft er talinn fæddur 1656 í manntalinu frá 1703.[161] Hér passar allt eins og best má verða og sýnist óhætt að slá því föstu að Steinþór Ormsson á Hvilft hafi verið sonur Orms Jónssonar, lögréttumanns í Gufudal, sá þriðji og yngsti með þessu nafni. Steinþór Ormsson, lögréttumaður í Fremri-Gufudal, hefur þá verið hálfbróðir hans en nær 60 árum eldri.[162] Dóttir Steinþórs í Gufudal var Ragnhildur, eiginkona Eggerts Sæmundssonar frá Hóli í Bolungavík[163] en þau bjuggu á Sæbóli á Ingjaldssandi (sjá hér Sæból).
Annar bróðir Steinþórs Ormssonar á Hvilft var Jón Ormsson, prestur á Kvennabrekku í Dölum,[164] afi Árna Magnússonar, prófessors og handritasafnara í Kaupmannahöfn.[165]
Hér var þess áður getið að Jón Espólín segði Steinþór Ormsson, hinn ynsta, hafa átt tvo syni sem báðir hétu Jón og hafi annar þeirra búið á Hvilft. Líklega hafa báðir þessir bræður orðið bændur í Önundarfirði því að í manntalinu frá 1703 er nefndur Jón Steinþórsson, bóndi á Hvilft, og líka Jón Steinþórsson yngri sem bjó í Ytri-Hjarðardal.[166] Jón á Hvilft var þá 47 ára en Jón yngri í Hjarðardal 41 árs.[167]
Kona Jóns Steinþórssonar á Hvilft hét Guðrún Jónsdóttir, sögð 40 ára árið 1703.[168] Þau áttu þá tvær dætur hér heima, Guðrúnu og Steinunni, sem voru ellefu og níu ára gamlar.[169] Auk húsráðenda og dætranna tveggja voru á heimilinu fjórir vinnumenn, tvær vinnustúlkur og eitt tökubarn.[170] Hér á Hvilft voru líka í húsmennsku árið 1703 hjónin Ari Bjarnason og Þóra Ólafsdóttir, sögð nærast af lítilli grasnyt og af sjóarafla.[171] Þau voru bæði um fertugt og hjá þeim var til dvalar ein fimmtán ára gömul stúlka.[172]
Árið 1710 mun Jón Steinþórsson á Hvilft hafa verið látinn því þá bjó á jörðinni ekkjan Guðrún Jónsdóttir[173] sem líkur benda til að átt hafi nýnefndan Jón Steinþórsson fyrir mann því kona hans hét einmitt þessu nafni.[174] Bústofn Guðrúnar árið 1710 var þessi: 5 kýr, einn kálfur, 34 ær, 30 sauðir gamlir, 10 tvævetra sauðir, 18 veturgamlir sauðir, 23 lömb, 2 hestar og ein unghryssa.[175] Þetta bú ekkjunnar á Hvilft var reyndar hið stærsta í öllum Mosvallahreppi á þessum tíma ef frá er talið bú prestsins í Holti.[176] Til ábúðar hafði Guðrún alla jörðina, nema hjáleiguna Garða, og hefur því búið á 18 hundruðum.
Um Tómas Pálsson og Ísleif Ásgrímsson, sem bjuggu á Hvilft árið 1735,[177] liggur engin vitneskja fyrir þegar nöfnunum sleppir. Árið 1753 bjuggu hér í tvíbýli þau Guðmundur Jónsson og Margrét Jónsdóttir og höfðu sína hálflenduna hvort til ábúðar.[178] Bæði virðast þau hafa verið sæmilega efnuð því auk lausafjártíundar þurftu þau að greiða skatt en fimm af níu bændum sem bjuggu á Hvilftarströnd árið 1753 sluppu við skattgreiðsluna vegna fátæktar.[179]
Guðmundur Jónsson, sem bjó á Hvilft árið 1753, var sonur séra Jóns Tómassonar á Söndum í Dýrafirði, sem andaðist í stórubólu árið 1707, og konu hans Elínar Sigurðardóttur.[180] Kona Guðmundar var Ingibjörg Pálsdóttir frá Gerðhömrum, fædd 1702 eða því sem næst, en Guðmundur var um það bil 5 árum eldri.[181] Systir Guðmundar bónda á Hvilft var Helga sem giftist séra Magnúsi Snæbjörnssyni, presti á Söndum, en dóttir þeirra var Þorkatla Magnúsdóttir,[182] móðuramma Jóns forseta Sigurðssonar.[183]
Þau Guðmundur Jónsson á Hvilft og Ingibjörg kona hans áttu eitthvað af börnum og var eitt þeirra Sigurður Guðmundsson sem orðinn var bóndi hér árið 1762, sagður 29 ára gamall í manntalinu frá því ári.[184] Kona Sigurðar hét Guðrún Jensdóttir og voru þau jafnaldrar.[185] Sigurður bjó seinna á Hóli á Hvilftarströnd og andaðist þar 6. nóvember árið 1789.[186] Eitt barna Sigurðar Guðmundssonar og Guðrúnar Jensdóttur konu hans var Þorgils, fæddur 1768, sem var bóndi í Neðri-Breiðadal árið 1801 og á Grafargili árið 1816.[187] Árið 1762 bjuggu hjónin Sigurður og Guðrún hér í tvíbýli því Jón nokkur Sigurðsson, sem þá var 35 ára gamall, hafði einhvern hluta jarðarinnar til ábúðar.[188] Kona hans var þá 27 ára og áttu þau tvær ungar dætur.
Eitt barna hjónanna Guðmundar og Ingibjargar, sem bjuggu á Hvilft árið 1753 og hér voru áður nefnd, var Anna.[189] Jón Espólín getur þess að fyrri eiginmaður hennar hafi verið Guðmundur Sveinsson og telur hann hafa búið á Eyri, næsta bæ við Hvilft.[190] Guðmundur Sveinsson mun hafa farist í snjóflóði á Klofningsheiði um 1760[191] og hafði þá eignast að minnsta kosti fimm börn með eiginkonu sinni, Önnu Guðmundsdóttur frá Hvilft (sjá hér Eyri). Eitt þeirra var Guðmundur Guðmundsson sem bjó á Hóli á Hvilftarströnd árið 1801 (sjá hér Hóll). Árið 1762 var Anna Guðmundsdóttir orðin ekkja og var þá einn þriggja búenda á Eyri.[192] Hún var þá 34 ára gömul og giftist skömmu síðar í annað sinn.[193] Seinni maður hennar var Þorsteinn Bjarnason sem bjó alllengi hér á Hvilft.[194] Börn Þorsteins og Önnu voru Guðmundur bóndi á Hvilft og Ástríður sem giftist frænda sínum, Þorgils Sigurðssyni er hér var nýlega nefndur, og bjó með honum í Neðri-Breiðadal og á Grafargili.[195] Bæði þessi systkini, Guðmundur og Ástríður, fæddust á árunum 1765-1770.[196]
Árið 1786 var Þorsteinn Bjarnason orðinn ekkjumaður en kvæntist þá um sumarið í annað sinn og gekk að eiga ekkjuna Guðrúnu Jónsdóttur sem áður hafði verið gift Brynjólfi Guðlaugssyni, bónda í Innri-Hjarðardal.[197] Þau Þorsteinn og Guðrún voru á líkum aldri, fædd 1733 eða því sem næst[198] og voru því komin yfir fimmtugt þegar þau tóku saman. Árið 1787 bjuggu þau hér á Hvilft[199] og líklegt má telja að Þorsteinn hafi einnig búið hér með fyrri konu sinni sem var bóndadóttir frá Hvilft. Hvar Þorsteinn bóndi á Hvilft var upprunninn vita menn ekki en faðir hans hét Bjarni Guðmundsson og dó 84 ára gamall hjá syni sínum hér á Hvilft 1. júní 1791.[200]
Hér er á öðrum stað sagt frá kærumáli Þorsteins á Hvilft á hendur Jóni Þórðarsyni á Kroppstöðum sem stal frá honum svolitlu af prjónlesi sumarið 1789. Það mál kom til dóms á Alþingi og var Jón dæmdur til að erfiða í tvo mánuði í því íslenska tugthúsi (sjá hér Kroppstaðir).
Árið 1798 bjó Þorsteinn enn á Hvilft[201] og þremur árum síðar átti hann hér enn heima en var þá hættur búskap.[202] Hann var þá húsmaður en Guðmundur sonur hans bjó á jörðinni.[203] Séra Jón Ásgeirsson, sem prestur var í Holti um aldamótin 1800, gefur Þorsteini á Hvilft þá einkunn að hann sé frómur og forstöndugur, vel skýr í andlegu en um Guðrúnu, eiginkonu Þorsteins segir sami prestur að hún sé forstöndug og sköruleg, minnug, skýr og skorinorð.[204]
Árið 1811 var Þorsteinn Bjarnason kominn um áttrætt og var þá húsmaður á Hesti en hann dó á Hóli á Hvilftarströnd haustið 1815 og var þá á framfæri stjúpsonar síns, Guðmundar Guðmundssonar, bónda á Hóli.[205] Guðrún kona Þorsteins lifði lengur en hún dó sumarið 1817 hjá Brynjólfi syni sínum Brynjólfssyni sem þá bjó í Tungu í Valþjófsdal.[206] Önnur börn Guðrúnar húsfreyju á Hvilft úr hennar fyrra hjónabandi voru Þóra sem giftist stjúpsyni móður sinnar, Guðmundi Þorsteinssyni á Hvilft, Sesselja sem varð húsfreyja á Kirkjubóli í Bjarnardal og Guðlaugur sem varð bóndi á Þórustöðum.[207]
Á árunum 1787-1798 bjó Þorsteinn Bjarnason jafnan í tvíbýli á Hvilft og hafði hálfa jörðina til ábúðar.[208] Á árunum 1789-1791 mun Jochum Amorsen, er þá rak verslun á Flateyri, hafa búið á Hvilft (sjá hér Flateyri) en bóndinn sem lengst var sambýlismaður Þorsteins á Hvilft á árunum eftir 1790 hét Guðmundur Þorvarðsson og var með hálfa jörðina til ábúðar frá 1791-1796.[209] Guðmundur dó hastarlega á sjóleið frá Eyri til heimilis síns 18. ágúst 1796 en hann átti þá heima hér á Hvilft og var hreppstjóri í Mosvallahreppi.[210] Guðmundur Þorvarðsson var fæddur á Kerlingarstöðum í Grunnavík um eða upp úr 1760, sagður 33ja ára þegar hann dó.[211] Kona hans var Solveig, dóttir Þórðar stúdents í Vigur Ólafssonar og hans fyrri konu, Margrétar Eiríksdóttur.[212] Guðmundur Þorvarðsson var seinni eiginmaður Solveigar (sjá hér Tunga í Firði) og var hún nokkru eldri en hann, fædd um 1750.[213] Þau Guðmundur og Solveig hófu búskap á Eyri í Önundarfirði árið 1789 en fluttust þaðan tveimur árum síðar að Hvilft.[214] Solveig hafði áður búið á Borg í Skötufirði með fyrri eiginmanni sínum sem hét Guðmundur Þórðarson (sjá hér Tunga í Firði).
Haustið 1796 var ekkjan Solveig Þórðardóttir talin fyrir búinu hér á Hvilft en vorið 1797 tók tengdasonur hennar við, Gísli Oddsson[215] sem tveimur árum fyrr hafði gengið að eiga Marenu, dóttur Solveigar af fyrra hjónabandi hennar (sjá hér Tunga í Firði).
Þegar Solveig Þórðardóttir varð ekkja í annað sinn sumarið 1796 voru þrjú börn hennar úr seinna hjónabandinu á lífi, öll innan við tíu ára aldur.[216] Svo virðist sem Solveig hafi flust burt úr Holtsprestakalli á árunum 1797-1801 því nafn hennar finnst ekki í manntalinu frá 1801 og andláts hennar er ekki getið í skrá prestsins í Holti yfir þá sem burtkölluðust á þessum fimm árum.[217] Óljóst er hvert Solveig fór þegar búsetu hennar lauk hér á Hvilft en líklegt er að hún hafi dáið fyrir 1801 þar sem nafn hennar er hvergi að finna í manntalinu frá því ári. Í einni heimild segir þó að hún hafi dáið árið 1805.[218]
Gísli Oddsson, sem tók við búi af tengdamóður sinni hér á Hvilft vorið 1797, varð hins vegar langlífur og bjó á ýmsum jörðum í Önundarfirði og Dýrafirði. Hans er víða getið í þessu riti (sjá hér Tunga í Firði, Vífilsmýrar, Sæból og Meiri-Garður). Á Hvilft bjuggu þau Gísli og Maren kona hans þó aðeins skamma hríð. Hausitð 1798 voru þau enn á Hvilft og bjuggu í tvíbýli á móti Þorsteini Bjarnasyni[219] sem hér var áður frá sagt en þremur árum síðar voru þau farin að búa á Vífilsmýrum.[220]
Árið 1801 var Guðmundur Þorsteinsson, sonur Þorsteins Bjarnasonar, eini bóndinn á Hvilft.[221] Í manntalinu frá því ári er Guðmundur sagður 35 ára gamall en kona hans, Þóra Brynjólfsdóttir, talin 40 ára.[222] Þess hefur áður verið getið að Guðmundur var sonur Þorsteins Bjarnasonar, fyrrum bónda á Hvilft, sem átti hér enn heima þegar nítjánda öldin gekk í garð en var þá kominn í húsmennsku. Þóra Brynjólfsdóttir, eiginkona Guðmundar, var hins vegar stjúpdóttir Þorsteins föður hans eins og hér var nýlega nefnt. Svo virðist sem þrjú heimili hafi verið á Hvilft árið 1801 þó aðeins einn bóndi byggi á jörðinni. Skýringin er sú að hér voru tveir kvæntir húsmenn, Þorsteinn Bjarnason, sem áður var frá sagt, og Brynjólfur Bjarnason sem orðinn var 64 ára og átti fyrir konu Sigríði Guðmundsdóttur er var þrettán árum eldri en eiginmaðurinn.[223] Á þessum þremur heimilum, öllum til samans, voru ellefu heimilismenn á þessu fyrsta ári nýrrar aldar, allt fullorðið fólk nema börn Guðmundar og Þóru, Elísabet fædd 1794 og Þorsteinn fæddur 1798.[224] Árið 1803 stóðu Guðmundur og Þóra kona hans enn fyrir búi á Hvilft og í sóknarmannatali frá því ári segir prestur að Guðmundur sé prúðmenni.[225] Þóra Brynjólfsdóttir, húsfreyja á Hvilft, var þá talin skikkanleg en átta árum síðar lýsti prestur henni svo að hún væri góðlátleg en geðrík.[226] Guðmundur Þorsteinsson, bóndi á Hvilft, varð skammlífur því hann andaðist 37 ára gamall vorið 1804.[227] Ekkjan Þóra giftist á ný haustið 1805 manni sem Andrés Jónsson hét og bjó með honum á Hesti árið 1811.[228] Andrés drukknaði vorið 1812 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og varð hún þá ekkja í annað sinn. Síðustu árin sem Þóra Brynjólfsdóttir lifði dvaldist hún hjá syni sínum, Þorsteini Guðmundssyni, bónda í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði, sem fæddist á Hvilft árið 1798.[229] Hún andaðist í Neðri-Hjarðardal á miðjum þorra árið 1847 og var þá orðin hálfníræð.[230]
Guðmundur Þorsteinsson, sem bjó á Hvilft á árunum 1801-1804, hafði aðeins hálfa jörðina til ábúðar en hin hálflendan var nytjuð af Daniel Steenbach, verslunarstjóra á Flateyri.[231] Upplýsingar úr hreppsbókum Mosvallahrepps gætu reyndar bent til þess að verslunarstjórinn hafi átt heima á Hvilft því þar má sjá að hann hafði jafnan 9 hundruð úr jörðinni til ábúðar á árunum 1801-1823.[232] Í jarðabók frá árinu 1805 er Daniel Steenbach reyndar sagður vera eini ábúandinn hér á Hvilft[233] og má því segja að báðar þessar heimildir gefi hugmyndinni um setu hans á Hvilft byr undir vængi. Vegalengdin frá Hvilft út á Flateyri er innan við tvo kílómetra og má segja að sú fjarlægð útiloki ekki með öllu þann möguleika að verslunarstjórinn sæti á Hvilft. Mjög ólíklegt verður þó að telja að svo hafi verið því í manntölum, sóknarmannatölum og prestsþjónustubókum eru Daniel Steenbach og fjölskylda hans jafnan sögð eiga heima á Flateyri. Þeirri fullyrðingu til styrktar má benda á manntölin frá 1801 og 1816 og sóknarmannatöl frá 1803, 1808 og 1820.[234] Þar sem nafn verslunarstjórans er nefnt í prestsþjónustubókum frá Holti og eitthvert heimilisfang fylgir með er það alltaf Flateyri. Dæmi má nefna frá barnsfæðingum og skírn árin 1795, 1800, 1803 1817 og 1822 og frá fermingu árið 1817.[235] Niðurstaða athugana hlýtur því að verða sú að Daniel Steenbach hafi átt heima á Flateyri en haft 9 hundruð úr Hvilft, það er hálfa jörðina, til nytja í um það bil fjórðung aldar, frá 1801-1823 og ef til vill líka frá 1799-1801 því skýrslur vantar í hreppsbókina fyrir þau tvö ár.
Í hreppsbókum Mosvallahrepps frá árunum 1801-1823 er stundum gerð grein fyrir fjölda búfjár hinna ýmsu bænda í hreppnum en litlar sem engar upplýsingar er þar að hafa um búpening verslunarstjórans.[236] Í búnaðarskýrslu frá árinu 1821 er allur bústofn faktorsins á Hvilft sagður vera eitt naut.[237] Hafi faktorinn yfirleitt verið búlaus liggur ekki í augum uppi með hvaða hætti hann kann að hafa nytjað þessi 9 jarðarhundruð hér á Hvilft en í heimild frá árinu 1851 má reyndar sjá að verslunarstjórinn muni hafa verið með eitthvert búfé því þar segir að hann hafi haft kvikfé sitt á beit fyrir utan Klofningshrygg.[238] Skýringin á því að ekki er getið um bústofn verslunarstjórans í hreppsbókinni mun vera sú að hann var ekki í bændatölu.
Hér var þess áður getið að Henrik Henkel, eigandi Þingeyrarverslunar, og verslunarútibúsins á Flateyri, keypti hálfa Hvilft árið 1798 (sjá hér bls. 11) og mun hafa átt þá hálflendu til dauðadags. Daniel Steenbach verslunarstjóri var fulltrúi og umboðsmaður Henkels í Önundarfirði allt frá árinu 1792 og þar til Henkel féll frá árið 1817 (sjá hér Flateyri og Þingeyri). Næstu sex árin rak Steenbach verslunarútibúið á Flateyri á vegum erfingja Henkels og nýrra eigenda en frá verslunarstjóra þessum segjum við nánar þegar staldrað verður við á Flateyri (sjá hér Flateyri).
Daniel Steenbach andaðist 1. desember 1823.[239] Næsta haust töldust ekkja hans og Friðrik Svendsen, sem þá hafði hafið verslunarrekstur á Flateyri, hafa umráð yfir þessum 9 jarðarhundruðum á Hvilft sem hinn látni verslunarstjóri hafði áður haft.[240] Haustið 1825 var Friðrik Svendsen skráður umráðamaður yfir þeim[241] og var þá eigandi þessarar hálflendu (sjá hér Flateyri) en vorið 1826 lauk hinni óbeinu ábúð fulltrúa verslunarinnar á Flateyri á annarri hálflendunni hér á Hvilft.[242]
Þegar Guðmundur Þorsteinsson, bóndi á Hvilft, andaðist vorið 1804 (sjá hér bls. 19) losnaði úr ábúð sá jarðarhelmingur sem hann hafði búið á. Samkvæmt jarðabókinni frá 1805 var Daniel Steenbach einn með alla jörðina á því ári[243] en þar er líklega byggt á upplýsingum frá sumrinu 1804 því í hreppsbók Mosvallahrepps má sjá að haustið 1804 var nýr bóndi kominn með ábúð á hálflendunni sem Guðmundur Þorsteinsson hafði búið á.[244] Þessi nýi bóndi á Hvilft hét Jón Jónsson[245] en kona hans Karitas Ívarsdóttir.[246]
Jón Jónsson sem hóf búskap á Hvilft árið 1804 var fæddur árið 1772, launsonur Jóns Jónssonar á Suðureyri í Súgandafirði og Halldóru Gísladóttur, sem var dóttir séra Gísla Bjarnasonar er þá var prestur á Stað í Súgandafirði.[247] Halldóra, móðir Jóns, átti síðar Pál Hákonarson sem bjó í Dufansdal í Arnarfirði og á Álfadal á Ingjaldssandi[248] en Jón sonur hennar barst suður í Dalasýslu og kvæntist þar. Karitas Ívarsdóttir, kona hans, var fædd í Purkey í Skarðshreppi árið 1777[249] og 1. febrúar árið 1801 voru þau Jón og Karitas gift hjón með eitt barn í húsmennsku hjá foreldrum Karitasar, Ívari Jónssyni og Hólmfríði Þorkelsdóttur, á Melum á Skarðsströnd.[250] Síðar á því sama ári munu þau hafa flust burt af Skarðsströndinni[251] en í Mosvallahreppi verður þeirra ekki vart fyrr en 1804[252] og þá hófu þau búskap á Hvilft eins og hér var áður gerð grein fyrir. Þegar Jón sá Jónsson sem hér er frá sagt settist að í Önundarfirði var Þuríður Gísladóttir, móðursystir hans, húsfreyja á Eyri,[253] næsta bæ utan við Hvilft. Eiginmaður hennar hét Ólafur Magnússon og var gildur bóndi (sjá hér Eyri). Vel má vera að tengslin við Þuríði og fjölskyldu hennar hafi átt þátt í að draga þau Jón og Karitas sunnan úr Dölum til Önundarfjarðar og það var Ólafur á Eyri sem seldi Jóni aðra hálflenduna á Hvilft (sjá hér bls. 12).
Gísli Konráðsson segir að Jón Jónsson, bóndi á Hvilft, hafi verið silfursmiður (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og engin ástæða til að draga þá fullyrðingu hans í efa. Óljóst er hins vegar hvar Jón lærði að smíða úr silfri.
Jón silfursmiður bjó á Hvilft allt til dauðadags en hann var einn hinna mörgu Önfirðinga sem drukknuðu í mannskaðaveðrinu mikla 6. maí 1812 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Haustið 1810 átti Jón einn þeirra ellefu báta sem þá voru til í Mosvallahreppi og um er getið í hreppsbókinni.[254] Þar má sjá að af þessum ellefu bátum voru níu taldir stórir en tveir litlir og var bátur silfursmiðsins á Hvilft annar hinna litlu.[255] Á mannskaðadaginn týndust átta bátar úr Önundarfirði í hafi og sjö þeirra fórust með allri áhöfn. Jón silfursmiður var formaður á einum þessara báta og má ætla að það hafi verið báturinn sem hann átti sjálfur. Ásgeir prófastur Jónsson, sem þá átti heima á Sæbóli á Ingjaldssandi, var formaður á einu þeirra fjögurra skipa sem náðu landi og segir Gísli Konráðsson að séra Ásgeir og hásetar hans hafi síðastir manna séð til bátsins sem Jón silfursmiður stýrði. Um endalok hans farast Gísla orð á þessa leið:
Ásgeir prófastur lét þá til segla taka og var hann röskastur manna sinna og þó víðar væri leitað. Sáu þeir það eitt að skip sigldi skammt frá þeim og ætluðu helst að vera mundi Jón silfursmiður frá Hvilft og það að sundur brast seglráin á því skipi, er Ísfirðingar kalla stjaka, og hvarf þeim þegar skip það.[256]
Er hálfur mánuður var liðinn frá hinum mikla mannskaða var dánarbú silfursmiðsins á Hvilft skrifað upp. Sú uppskrift er enn til og þar sést að Jón silfursmiður var bjargálna maður og átti þau 9 jarðarhundruð sem hann bjó á hér á Hvilft.[257] Aðrar jarðeignir átti hann ekki en allar eignir hans voru metnar á 294 ríkisdali og 74 skildinga.[258] Skuldir dánarbúsins voru 111 ríkisdalir og 74 skildingar svo skuldlausar eignir þess námu 183 ríkisdölum.[259] Kýrverðið var þá um 15 ríkisdalir[260] svo hreinar eignir búsins hafa verið virtar á um það bil tólf kýrverð.
Jón silfursmiður lét eftir sig ekkju með fjögur börn, öll innan við fermingaraldur, og það fimmta á leiðinni.[261] Karitas Ívarsdóttir, sem gift hafði verið Jóni silfursmið, var hálffertug þegar hann drukknaði. Hún hélt áfram búskapnum á Hvilft[262] og giftist nokkrum árum síðar í annað sinn.
Með komu Karitasar að Hvilft árið 1804 urðu hér viss þáttaskil því hún og niðjar hennar hafa búið hér nær allan þann tíma sem síðan er liðinn og búa enn (sjá hér bls. 24-25 og bls. 80-85. Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 421). Seinni eiginmaður Karitasar var Finnur Guðmundsson, sem fæddist á Kvíanesi í Súgandafirði árið 1790, og voru þau gefin saman 10. október 1815.[263] Finnur var þá 25 ára gamall en Karitas þrettán árum eldri. Foreldrar Finns hétu Guðmundur Ólafsson og Þuríður Pálsdóttir[264] og áttu þau heima á Suðureyri í Súgandafirði árið 1801.[265] Þá var Finnur þar hjá þeim.[266] Árið 1816 var faðir Finns orðinn ekkjumaður og bjó þá í tvíbýli í Neðri-Breiðadal (sjá hér Neðri-Breiðadalur).
Frá 1815 til 1826 bjuggu Finnur og Karitas á hálfri jörðinni hér á Hvilft[267] Vorið 1826 varð breyting á því þá bætti Finnur við sig 4½ jarðarhundraði og frá 1828 bjó hann á allri jörðinni, 18 hundruðum.[268] Stóð svo í sex ár, 1828-1834, og árið 1830 var Finnur orðinn hreppstjóri.[269]
Vorið 1834 fóru þau Finnur og Karitas frá Hvilft og fengu jörðina í hendur Jóni Örnólfssyni[270] sem seinna bjó um skeið á Görðum (sjá hér Garðar). Engin skýring er nú finnanleg á þessari ráðabreytni. Á manntalinu frá 2. febrúar 1835 sést að Finnur átti þá heima í Bæ í Súgandafirði og taldist vera vinnumaður hjá Bergljótu Össurardóttur sem þar bjó.[271] Karitas kona Finns og einkabarn þeirra, Ragnheiður Finnsdóttir sem orðin var 18 ára, voru líka í Bæ þegar manntal þetta var tekið.[272]
Vorið 1836 komu þau öll aftur að Hvilft og tóku til við búskapinn þar sem frá var horfið.[273] Ástæðan fyrir því að Finnur hætti búskap og gerðist vinnumaður um tveggja ára skeið getur varla hafa verið fjárhagslegar þrengingar. Árið 1834 tíundaði hann 9 lausafjárhundruð og aðeins einn bóndi í Mosvallahreppi átti þá meira lausafé en hann ef marka má opinberar skýrslur.[274] Kaupmaðurinn á Flateyri, sýslumaðurinn í Hjarðardal og prestarnir í Holti og á Þórustöðum eru þá ekki flokkaðir með bændum. Í fyrirliggjandi heimildum verður þess heldur ekki vart að efnahag Finns hafi hrakað á þessum tveimur vinnumannsárum hans, 1834-1836. Þvert á móti virðist hann hafa talið sig standa mjög styrkum fótum er hann sneri sér á ný að búskapnum á Hvilft. Til marks um það má nefna að á árunum 1837-1840 lét hann sér ekki nægja að búa á þeim 18 jarðarhundruðum sem í boði voru hér á Hvilft en hafði að auk til ábúðar 8 hundruð úr nágrannajörðinni Eyri.[275] Langtum merkilegra er þó hitt að árið 1837 hófst Finnur á Hvilft handa við þilskipaútgerð, fyrstur bænda í Önundarfirði, eins og hér hefur áður verið rakið (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Í búnaðarskýrslu frá því ári er hann einn bænda í Mosvallahreppi sagður eiga þilfarsbát eða fiskijakt.[276]
Í þessu riti hefur áður verið á það bent að upphaf þilskipaútgerðarinnar frá Hvilft megi líklega rekja til tengdasonar Finns, Magnúsar Einarsson frá Kollafjarðarnesi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli), sem gekk að eiga Ragnheiði Finnsdóttur haustið 1836 og settist þá að á Hvilft.[277] En þó svo kunni að hafa verið er hlutur Finns engu að síður allrar athygli verður og í skýrslunni frá 1837 er hann sagður vera eini eigandi þessa fyrsta þilskips bænda í Önundarfirði.
Í sóknarmannatali frá árinu 1829 segir prestur að Finnur bóndi á Hvilft sé ráðvandur og drífandi.[278] Kona hans, Karitas Ívarsdóttir, fær þar þá umsögn að hún sé greindarkona en dóttirin Ragnheiður, sem þá var 13 ára, er sögð efnileg og hlýðin.[279]
Árið 1821 bjó Finnur á 9 jarðarhundruðum hér á Hvilft og bústofn hans var þá: 3 kýr, 1 kálfur, 18 ær, 3 sauðir, 8 gemlingar, 7 lömb og 1 hestur.[280] Hann átti þá hálfan áttæring en hinn helminginn mun Daniel Steenbach, verslunarstjóri á Flateyri hafa átt.[281] Árið 1830 var bú Finns orðið talsvert stærra. Hann bjó þá með 3 kýr, 1 kvígu, 1 naut, 2 kálfa, 31 mjólkandi á, 10 sauði, 8 gemlinga, 12 lömb og 3 hesta.[282] Bátaeignin var þá einn sexæringur eða fjögra manna far og einn minni bátur.[283] Árið 1837 bjó finnur með 2 kýr og 35 ær.[284] Auk þilskipsins átti hann þá tvo litla báta sem báðir voru minni en fjögra manna far.[285]
Vorið 1838 fór Finnur á Hvilft að draga saman seglin. Í búnaðarskýrslu frá því ári er Magnús tengdasonur hans talinn eigandi fiskijaktarinnar sem hér var áður nefnd[286] og þetta vor tók Magnús líka við ábúð á nær allri jörðinni.[287] Finnur hafði þó áfram 2 hundruð úr Hvilft fyrir sig[288] og nytjaði auk þess átta jarðarhundruð á Eyri.[289] Árið 1840 mun hann hins vegar hafa verið alveg eða nær alveg hættur búskap því í manntalinu frá því ári er hann sagður vera húsmaður.[290] Hann andaðist á Hvilft 20. júlí 1843 og mun þá hafa verið 53ja ára eða því sem næst.[291] Ekkja Finns, Karitas Ívarsdóttir, lifði svolítið lengur í skjóli dóttur sinnar og tengdasonar hér á Hvilft en ævi hennar lauk 21. júní 1845.[292]
Magnús Einarsson, sem var bóndi á Hvilft frá 1838 til 1858, lét um skeið mikið til sín taka á sviði þjóðmála. Hann var í 13 ár einn allra helsti trúnaðarmaður Jóns Sigurðssonar forseta í Ísafjarðarsýslu og hefur með réttu verið nefndur sendiherra hans á Vestfjörðum.[293] Magnús var kappsamur framfaramaður sem barðist fyrir ýmsum nýjungum í félags- og atvinnumálum eins og hér verður brátt vikið nánar að. Þegar kosið var í fyrsta sinn til Alþingis árið 1844 völdu kjósendur í Ísafjarðarsýslu Jón Sigurðsson til þingmennsku en Magnús bóndi á Hvilft var þá kjörinn varamaður hans.[294] Hann fékk þá 27 atkvæði en sá sem næstur honum kom 11 atkvæði.[295] Varaþingmaður Jóns Sigurðssonar var Magnús í átta ár, frá 1844 til 1852, en þurfti þó aldrei að setjast á þing.
Magnús Einarsson fæddist á Kollafjarðarnesi í Strandasýslu 24. júlí 1809, sonur hjónanna Einars Jónssonar og Þordísar Guðmundsdóttur sem þar bjuggu.[296] Að sögn kunnugra var Einar á Kollafjarðarnesi einn mesti búhöldur í Strandasýslu um sína daga, vel efnum búinn en þó gjöfull og hjálpsamur.[297] Einar var hreppstjóri og dannebrogsmaður og á greftrunardegi hans árið 1845 var stofnað Lestrarfélag Tröllatungu- og Fellssókna.[298] Móðir Einars og amma Magnúsar var Þuríður Ólafsdóttir, systir Eggerts Ólafssonar sem fyrstur reisti bú í Hergilsey á Breiðafirði á síðari tímum.[299] Tvíburabróðir Magnúsar var Ásgeir Einarsson sem þó taldist fæddur einum degi fyrr.[300] Ásgeir varð bóndi á Kollafjarðarnesi og bjó þar frá 1839 til 1861 en síðan á Þingeyrum og í Ásbjarnarnesi í Húnavatnssýslu. Hann var þingmaður Strandamanna 1845-1853, 1857-1865 og 1881-1885 og þingmaður Húnvetninga 1875-1879.[301] Á Alþingi var Ásgeir einn nánasti samstarfsmaður Jóns forseta. Þegar tvíburarnir, Ásgeir og Magnús, litu fyrst dagsins ljós þótti föður þeirra mikið til koma og varð að orði: Aldrei gefur guð Einari lítið.[302] Þau Einar og Þórdís á Kollafjarðarnesi náðu að koma upp sex börnum.[303] Auk tvíburanna voru það Torfi, bóndi og alþingismaður á Kleifum í Steingrímsfirði, Jón skipstjóri, sem um skeið átti heima hjá Magnúsi bróður sínum á Hvilft en síðast á Sveinseyri í Dýrafirði (sjá hér Flateyri og Sveinseyri), Guðmundur, sem varð bóndi á Kleifum í Steingrímsfirði en dó mjög ungur, og Ragnheiður, húsfreyja á Heydalsá í Steingrímsfirði.[304] Sonarsonur Guðmundar Einarssonar frá Kollafjarðarnesi var Sigurður Jóhannsson, sem nefndur var skurður, [305] en tengdasonur Ragnheiðar Einarsdóttur, einu systur bræðranna frá Kollafjarðarnesi, var Torfi Bjarnason, hinn kunni skólastjóri búnaðarskólans í Ólafsdal.[306]
Magnús Einarsson ólst upp hjá foreldrum sínum á Kollafjarðarnesi og var fermdur í kirkjunni á Felli í Kollafirði á trinitatis árið 1823.[307] Tvítugur að aldri fluttist hann frá Kollafjarðarnesi norður í Ófeigsfjörð og átti þar heima í fimm ár, 1829-1834.[308] Í febrúarmánuði árið 1830 var hann vinnumaður hjá Grími Alexíussyni, bónda í Ófeigsfirði, en næstu þrjú árin taldist hann vera þar húsmaður, sagður skikkanlegur og sæmilega kunnandi.[309] Í prestsþjónustubókinni frá Árnesi er Magnús sagður hafa farið úr Ófeigsfirði árið 1834 á jagtina Sigurósk.[310] Ekki hefur reynst auðvelt að finna hvaðan jakt þessi var gerð út en hitt er tvímælalaust að séra Þorleifur Jónsson, sem þá var prestur í Árnesi, telur Magnús hafa tekið sér bólfestu um borð í þessu skipi. Fullvíst má því telja að Magnús hafi verið á skútu sumarið 1834 þó ekki verði fallist á að hann hafi átt þar heimili. Í annarri heimild sést reyndar að þegar hann fór frá Ófeigsfirði fluttist Magnús að Heydalsá í Steingrímsfirði[311] og var þá kominn aftur í næsta nágrenni við sín foreldrahús.
Í manntalinu frá 2. febrúar 1835 er hann sagður vera ókvæntur jagtarstýrimaður á Heydalsá[312] og í sóknarmannatali sínu frá marsmánuði árið 1835 segir séra Björn Hjálmarsson í Tröllatungu að Magnús sé jaktareigandi á Heydalsá og tekur fram að hann sé vel að sér.[313]
Er þarna var komið sögu var Magnús á 26. aldursári og má kallast merkilegt að hann skuli þá þegar vera orðinn eigandi að þilskipi. Hugsanlegt er að hann hafi aðeins átt hlut í skipi þó að prestur nefni hann jaktareiganda. Finnur Jónsson á Kjörseyri, sem settist að í Strandasýslu þegar nær þrír áratugir voru liðnir frá því Magnús fór þaðan, segir reyndar að þeir bræður á Kollafjarðarnesi, Magnús og Ásgeir, muni hafa smíðað dekkbát.[314] Um sjósókn Einars Jónssonar á Kollafjarðarnesi og sona hans kemst Finnur svo að orði:
Sögur fóru af því hve miklir sjómenn Kollafjarðarnesfeðgar hefðu verið, bæði heima og svo voru þeir formenn á hákarlaskipum á Gjögri. Einnig byggði Ásgeir dekkbát og minnir mig að þeir tvíburarnir, Ásgeir og Magnús, smíðuðu hann og nefndu hann Tvíbura.[315]
Þessi frásögn Finns er dálítið óljós en vitað er að Ásgeir á Kollafjarðarnesi fékkst eitthvað við þilskipaútgerð því hann var einn þriggja Strandamanna sem keyptu skútuna Fönix frá Flatey á Breiðafirði skömmu eftir 1842.[316] Árið 1847 fórst fiskiskúta frá Kollafjarðarnesi með sex mönnum[317] og má ætla að það hafi verið Fönix sem keyptur var nokkru áður frá Flatey.
Eins og fyrr var frá greint er Magnús frá Kollafjarðarnesi sagður vera jagtarstýrimaður á bænum Heydalsá í Steingrímsfirði í manntalinu frá 2. febrúar 1835. Hann hefur því tvímælalaust verið stýrimaður á skútu sumarið 1834 og verður því að teljast mjög líklegt að hann hafi þá þegar verið búinn að vera á skútum í nokkur ár, máske alveg frá 1831 en þá er hann fyrst nefndur húsmaður í sóknarmannatölum frá Árnesi.
Svo vill til að skútuútgerð hófst frá Ísafirði sama ár og Magnús losaði sig úr vistarbandinu í Ófeigsfirði og gerðist sjálfs sín ráðandi sem húsmaður þar norður frá.[318] Hvergi mun nú vera hægt að sjá á hvaða skútum Magnús var á árunum 1831-1835 ef frá er talin jaktin Sigurósk sem hér var áður nefnd. Býsna líklegt má hins vegar teljast að á þessu skeiði hafi hann verið eitthvað á skipum frá Ísafirði. Á 19. öld var algengt að Strandamenn sæktu sjó frá verstöðvunum við Ísafjarðardjúp og fóru þá í verið yfir Steingrímsfjarðarheiði eða Ófeigsfjarðarheiði. Þegar þilskipaútgerðin hófst mátti hafa sama háttinn á og ekki ólíklegt að Magnús Einarsson hafi oftar en einu sinni arkað yfir Ófeigsfjarðarheiði og fengið sig fluttan yfir Djúpið á góunni þegar farið var að búa Ísafjarðarjaktirnar undir nýtt úthald. Það var Jens Benediktsen, kaupmaður frá Staðarfelli í Dölum, sem hóf skútuútgerð frá Ísafirði fyrstur manna árið 1831.[319] Fyrsta þilskipið sem hann gerði þaðan út hét Jens Peter den Gamle og var 8,5 commerciallestir, það er rétt liðlega 22 smálestir.[320] Í ritgerð frá árinu 1832 segir Guðmundur Scheving í Flatey að þessa jakt geri Jens Benediktsson út frá Ísafirði með íslenskum skipverjum og góðri heppni.[321] Árið 1835 voru þilskipin, sem gerð voru út frá Ísafirði, orðin að minnska kosti þrjú[322] en um þau efni verður ekki fjallað nánar hér.
Á sóknarmannatali Tröllatungu- og Fellssókna frá marsmánuði árið 1836 er nafn Magnúsar Einarssonar hvergi að finna[323] og má því ætla að hann hafi flust burt frá Heydalsá árið 1835. Í embættisbókum prestsins í Tröllatungu sést hins vegar ekki hvert hann fór.[324] Haustið 1836 var Magnús hins vegar kominn í Önundarfjörð og getur varla hafa flust hingað seinna en þá um vorið því 6. október 1836 kvæntist hann Ragnheiði Finnsdóttur og var þá skipherra – búfastur á Hvilft.[325] Í prestsþjónustubókina frá Holti vantar skrá yfir innflutta árið 1835 en líklegast er að Magnús hafi sest að í Önundarfirði eða á Ísafirði þegar skúturnar höfðu verið teknar á land þá um haustið. Einhvern tíma hefur hann þurft til að ná taki á Ragnheiði Finnsdóttur, konuefninu sínu, sem reyndar átti heima í Bæ í Súgandafirði á fyrstu mánuðum ársins 1835 en fluttist aftur að Hvilft á árinu 1836 (sjá hér bls. 23). Í riti sínu Skútuöldinni segir Gils Guðmundsson um Magnús að hann hafi um skeið fengist eitthvað við skipstjórn frá Ísafirði[326] en óljóst er á hvaða heimildum þar er byggt.
Lúðvík Kristjánsson, sem fyrstur manna gerði góða grein fyrir Magnúsi á Hvilft í rituðu máli, taldi fyrir 40 árum (1955) líklegt að hann hefði numið skipstjórnarfræði í Danmörku áður en hann fór að búa á Hvilft.[327] Hafi svo verið kemur helst til greina veturinn 1835-1836 eins og sjá má af því sem hér hefur verið rakið um feril Magnúsar frá því hann náði tvítugsaldri og þar til hann settist að á Hvilft. Þann möguleika að Magnús hafi dvalist við nám í Danmörku veturinn 1835-1836 er ekki hægt að útiloka en í gögnum sem fyrir liggja finnst þó ekkert sem bendi til þess.
Tilgátu sína um námsdvöl Magnúsar í Danmörku rökstyður Lúðvík með þrennu móti.
Í fyrsta lagi bendir hann á að Magnús sé stundum titlaður skipherra í sóknarmannatölum frá Holti og segir að þann titil hafi menn yfirleitt ekki fengið nema þeir hafi lært siglingafræði erlendis.[328] Sú fullyrðing er þó mjög hæpin og má reyndar heita útilokað að allir þeir skútuskipstjórar sem nefndir eru skipherrar um miðbik 19. aldar hafi lært siglingafræði við erlendar menntastofnanir eða tekið þar skipstjórapróf. Nefna má sem dæmi fimm menn úr Dýrafirði og Önundarfirði, sem allir bera titilinn skipherra í samtímaheimildum frá árunum 1848-1854, en ekki mun til þess vitað að nokkur þeirra hafi tekið skipstjórapróf utanlands. Mennirnir eru Jón Einarsson frá Kollafjarðarnesi,[329] Gísli Jónsson á Gemlufalli,[330] Guðmundur Guðmundsson, Fremri-Hjarðardal,[331] Jón Bjarnason frá Rana, búsettur 1854 á Læk[332] og Jón Halldórsson á Brekku á Ingjaldssandi.[333] Verið getur að einhver þessara manna hafi numið siglingafræði í Danmörku en hitt er vægast sagt ólíklegt að þeir hafi allir stundað slíkt nám við erlenda skóla. Í rituðum heimildum blasir hins vegar við að allt frá því snemma á 19. öld og fram undir 1880 eða svo hafi skipstjórar á skútum mjög oft verið nefndir skipherrar en líka skiparar og mætti nefna mörg dæmi þess að bæði þessi orð voru notuð sitt á hvað um sama manninn. Á þessu skeiði var mönnum alls ekki tamt að nota orðið skipstjóri og þeir sem fóru með skipstjórn á þilskipum virðast sjaldan hafa verið nefndir formenn þó að Guðmundur Scheving noti orðið formaður um suma skútuskipstjórana en kalli aðra skipherra í sinni merku ritgerð frá árinu 1832.[334] Á opnum árabátum sat hins vegar jafnan formaður við stjórn.
Önnur röksemd Lúðvíks Kristjánssonar fyrir Danmerkurdvöl Magnúsar er sú að þegar Jón Sigurðsson forseti fór að leiða hugann að stofnun sjómannaskóla á Íslandi árið 1847 hafi hann ritað þremur mönnum hér heima um þau efni og einn þeirra verið Magnús á Hvilft en hinir tveir hafi báðir verið útlærðir í siglingafræðum frá Danmörku.[335] Af þessu dregur Lúðvík þá ályktun að mjög líklegt verði að telja að Magnús hafi einnig notið kennslu í siglingafræði í dönskum skóla. Svo þarf þó alls ekki að vera því Jón vissi fullvel að Magnús var á þessum tíma orðinn reyndur skútuskipstjóri með ærna þekkingu í siglingafræði þó líklegast sé að hann hafi aflað sér hennar nær eingöngu með sjálfsnámi.
Þriðja röksemd Lúðvíks er sú að innileiki í bréfum Magnúsar til Jóns forseta bendi til þess að þeir hafi verið gamalkunnugir frá Kaupmannahöfn.[336] Þessari röksemd verður þó líka að hafna því kynni þeirra sumarið 1845, þegar Jón fór vestur og hitti bóndann á Hvilft sem kjörinn hafði verið varamaður hans á Alþingi, gætu ein sér hafa dugað til að byggja upp gagnkvæmt traust þeirra í milli og leggja grunn að þeirri einlægu vináttu sem bréf Magnúsar eru til marks um. Fyrsta bréfið sem Magnús skrifaði Jóni forseta og varðveist hefur er dagsett 12. júlí 1847[337] en þá var Jón reyndar alveg nýlega búinn að heimsækja kjósendur sína í Ísafjarðarsýslu í annað sinn[338] og treysta kynnin við Magnús á Hvilft. Vitað er að Magnús ætlaði að skrifa Jóni bréf á fyrstu mánuðum ársins 1844[339] en hann var þá ásamt fleirum farinn að vinna að því að Jón yrði kosinn þingmaður Ísfirðinga[340] og þarf ekki að benda til persónulegra kynna. Kynni af skrifum Jóns í Nýjum félagsritum sem fóru að koma út árið 1841 nægðu alveg til að kveikja þá hugmynd að maðurinn ætti erindi á þing.
Með því sem hér hefur verið sagt eru ekki færðar sönnur á að Magnús Einarsson frá Kollafjarðarnesi hafi aldrei siglt til Danmerkur á yngri árum og eins og áður sagði er hugsanlegt að hann hafi numið þar siglingafræði og kynnst Jóni Sigurðssyni. Líkurnar á því verða þó að teljast mjög litlar og í þeim nítján bréfum sem Magnús skrifaði Jóni forseta á árunum 1847-1858 og varðveitt eru er hvergi nokkra setningu að finna sem bendi til þess að hann hafi kynnst Jóni í Danmörku eða dvalist þar við nám.[341]
Hér var þess áður getið að presturinn í Tröllatungu hefði nefnt Magnús Einarsson jaktareiganda í sóknarmannatali frá árinu 1835 (sjá hér bls. 26) en Magnús átti þá enn heima á Heydalsá í Steingrímsfirði. Hvort sem Magnús hefur átt jaktina sem þarna getur einn eða með öðrum bendir eignin til þess að hann hafi efnast þó nokkuð á dvalarárum sínum í Ófeigsfirði, 1829-1834, og þá að líkindum sem háseti og stýrimaður á þilskipum eftir 1830. Þegar skútumaður þessi gekk að eiga Ragnheiði Finnsdóttur á Hvilft haustið 1836 lofaði hann henni 50 spesíum í morgungjöf[342] en það voru 100 ríkisdalir[343] eða því sem næst fimm kúgildi.[344] Á mælikvarða þeirrar tíðar var það hreint ekki svo lítil upphæð. Magnús var þá 26 ára en brúður hans tvítug.[345]
Vel mætti hugsa sér að jaktin sem Finnur á Hvilft, tengdafaðir Magnúsar, taldist eigandi að árið 1837 (sjá hér bls. 24-25) hafi verið sú sama og presturinn í Tröllatungu taldi Magnús eiga tveimur árum fyrr. Líklegt er að fjármagnið á bak við skútuútgerðina frá Heydalsá og Hvilft hafi a.m.k. verið að einhverju leyti hið sama því aldrei áttu þeir Finnur og Magnús tengdasonur hans sinn hvora skútuna ef marka má opinberar skýrslur.[346]
Árið 1838 var Hvilftarjaktin, sem svo var stundum nefnd (sjá hér Holt), skráð í fyrsta sinn á nafn Magnúsar[347] sem tók á því sama ári við búi af tengdaföður sínum á Hvilft (sjá hér bls. 24-25). Bóndi á Hvilft var Magnús Einarsson í 20 ár, frá 1838 til 1858, og svo má heita að allan þann tíma hafi hann átt hlut að útgerð á skútu og í raun staðið fyrir þeim rekstri. Hér hefur áður verið gerð grein fyrir þeim þætti í störfum Magnúsar (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og skal því aðeins minnst á að á árunum 1838-1848 átti hann oftast hálfa skútu eða heila og eitt árið tvær[348] en frá 1849 til 1858 var eignarhlutur hans í útgerðinni jafnan einn fjórði partur úr skipi.[349]
Á árunum 1838-1843 var Magnús á Hvilft eini maðurinn í Önundarfirði sem gerði út þilskip en á árunum 1844-1847 töldust Magnús og Jón Einarsson, bróðir hans, eiga hálft skip hvor. Líklegt er að þeir hafi þá átt eitt skip saman. Jón settist að hjá bróður sínum á Hvilft árið 1843 og átti þar heima í tvö ár og næstu tvö árin á Flateyri (sjá hér Flateyri og Sveinseyri). Árið 1847 fluttist Jón frá Flateyri að Sveinseyri í Dýrafirði en ævi hans lauk haustið 1848 (sjá hér Sveinseyri). Á þeim árum sem Jón Einarsson átti heima í Önundarfirði og Dýrafirði er hann yfirleitt nefndur skipari í opinberum gögnum[350] og hefur því tímælalaust verið skipstjóri á þilskipi. Líklegt er að Magnús hafi stýrt Hvilftarjaktinni til veiða frá 1836-1843 en Jón bróðir hans hafi tekið við þegar hann kom að Hvilft. Vísbendingu um þetta gefur manntalið frá 1845 en þar er Jón sagður vera skipari en Magnús bóndi sem lifi af grasnyt.[351] Full ástæða er þó til að ætla að Magnús hafi séð um útgerðina.
Skútan sem Jón Einarsson var skipstjóri á sumarið 1848 hét Bogi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og vitað er að skipið sem Magnús á Hvilft tók þátt í að gera út á næstu árum, sem einn fjögurra eigenda, hét líka Bogi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Mjög líklegt verður að telja að þar sé um eitt og sama skipið að ræða og ef til vill hefur það verið þessi sami Bogi sem gerður var út frá Hvilft á árunum 1837-1847. Líklegra er þó að Magnús hafi keypt Boga af dánarbúi Jens Benedictsen, kaupmanns á Ísafirði, sem andaðist árið 1842, því vitað er að hann átti fiskijakt sem hét Bogi[352] og mun hafa borið nafn föður hans, Boga Benediktssonar á Staðarfelli. Eina árið sem Magnús átti tvö þilskip er 1843[353] og verður því að teljast mjög líklegt að hann hafi keypt Boga á því ári en ekki náð að selja gömlu Hvilftarjaktina fyrr en ári síðar. Skipstjóri á Boga 1850 og 1851 var Torfi Halldórsson, þá ungur maður á Arnarnesi í Dýrafirði, er seinna gerðist stórútgerðarmaður á Flateyri (sjá hér Flateyri). Magnús á Hvilft var þá enn einn fjögurra eigenda þessarar skútu en hinir voru séra Lárus Johnsen í Holti, Guðrún Þórðardóttir, sýslumannsekkja í Ytri-Hjarðardal og svo Torfi skipstjóri eða Bjarni Hákonarson, stjúpfaðir hans á Arnarnesi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Nær fullvíst má telja að það hafi veið Magnús sem sá um útgerðina á Boga og gerði unga manninn frá Arnarnesi að skipstjóra. Ekki brást glöggskyggnin honum þar.
Beina sönnun þess að Magnús á Hvilft hafi sjálfur verið skipstjóri á þilskipi vorið 1842 sjáum við í dagbók séra Sigurðar Tómassonar í Holti en hann ritar 19. apríl þetta vor: Kom inn Magnús hreppstjóri á Hvilft.[354] Þannig var aðeins tekið til orða um skipstjóra á þilskipum. Séra Sigurður minnist stöku sinnum á þilskip Hvilftarmanna í dagbók sinni, fyrst 16. júní 1837 er hann greinir frá því að séra Jón Ásgeirsson ætli að flytjast búferlum með Hvilftarjaktinni frá Holti í Önundarfirði að Álftamýri í Arnarfirði.[355] – Lagði út Hvilftar Bogi, skrifar prestur 13. mars 1845[356] og er þar komin sönnun þess að nafnið Bogi hafi verið komið á Hvilftarjaktina eigi síðar en 1845. Þann 3. júlí 1845 kveðst séra Sigurður svo hafa farið út á dekkbát með selspik til Jóns Einarssonar[357] og má ætla að þar sé átt við dekkbát bræðranna á Hvilft, þennan sama Boga, eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir.
Í dagbók séra Sigurðar Tómassonar er Magnús á Hvilft nefndur hreppstjóri vorið 1842 og það mun hann hafa verið um alllangt skeið en fyrst var hann settur í það embætti til bráðabirgða á manntalsþingi sem haldið var á Þórustöðum 19. júní 1841.[358]
Þegar Kristján konungur VIII gaf út boðskap sinn um endurreisn Alþingis vorið 1840 var Magnús þrítugur að aldri og nýlega byrjaður að búa á Hvilft. Einu ári síðar hóf Jón Sigurðsson útgáfu Nýrra félagsrita í Kaupmannahöfn og má telja víst að hinn ungi bóndi á Hvilft hafi keypt þau frá upphafi eða fengið léð hjá vini sínum, Gísla Ívarssyni, stúdent á Ísafirði. Skrá yfir kaupendur Nýrra félagsrita var fyrst birt árið 1844 og þar er nafn Magnúsar að finna.[359] Hann keypti þá eitt eintak en tveimur árum síðar var hann skráður fyrir fimm eintökum.[360]
Líklegt er að Magnús hafi verið farinn að velta fyrir sér þjóðmálum fyrir 1840 en þegar farið var að undirbúa endurreisn Alþingis og boðskapur Jóns Sigurðssonar um þjóðfrelsi Íslendinga barst um landið kviknuðu eldar í brjósti hans. Elstu heimildina um stjórnmálaafskipti Magnúsar er að finna í bréfi Gísla Ívarssonar, stúdents og verslunarmanns á Ísafirði, er hann ritaði Jóni Sigurðssyni 23. ágúst 1842[361] en Gísli var sannanlega kaupandi Nýrra félagsrita frá upphafi.[362]
Í bréfi sínu frá 23. ágúst 1842 kynnir Gísli bóndann á Hvilft fyrir Jóni og kemst þá svo að orði:
Nú fáið þér langt bréf frá Magnúsi nokkrum Einarssyni, hreppstjóra á Hvilft í Önundarfirði. Það mun vera áhrærandi hinar nýari ritgjörðir um landsins málefni. Fáir munu með meiri alvörugefni taka þátt í málefnum fósturjarðar vorrar en hann, að því leyti sem okkur hérna er hægt að hugsa og tala um það þegar færi gefst og leiða almenningi fyrir sjónir hvar nú er komið sögunni með okkur og hvörsu áríðandi því að alþýða með alefli skerist í leikinn.
Hann hefur líka greindarfulla þekkingu á mörgu, er nokkurn veginn tölugur, frelsisgjarn og engvan þekki ég hérna um kring mig betur fallinn til fulltrúa en hann en kosningalögin þeirra höfðingjanna syðra banna honum það meðan bæði foreldrar hans og tengdaforeldrar hans lifa en til töluverðrar fasteignar stendur hann á báðar síður.[363]
Hið langa bréf Magnúsar til Jóns Sigurðssonar, sem Gísli nefnir þarna, virðist því miður hafa glatast því það er ekki varðveitt með öðrum bréfum bóndans á Hvilft til Jóns forseta en þau eru nú í Þjóðskjalasafni Íslands og eitt í Landsbókasafni. Orð Gísla Ívarssonar í bréfi því sem hér var vitnað til benda eindregið til þess að Magnús hafi ekki verið persónulega kunnugur Jóni Sigurðssyni þegar bréfið var skrifaðl. Ef svo hefði verið má telja nær fullvíst að Gísla hefði verið kunnugt um það og hann þá tekið öðru vísi til orða þegar hann fór að segja Jóni frá Magnúsi.
Við lestur bréfsins vekur athygli að af öllum mönnum sem Gísli þekkir í Ísafjarðarsýslu telur hann Magnús á Hvilft best fallinn til fulltrúa, það er að segja best fallinn til þess að verða þingmaður Ísfirðinga þegar hið endurreista Alþingi komi saman í fyrsta sinn. Hann bendir hins vegar á að enn eigi Magnús ekki þau tíu jarðarhundruð sem menn urðu að eiga til að vera kjörgengir. Gísla er hins vegar kunnugt um að væntanlega muni Magnúsi falla slík jarðeign í skaut við andlát föður hans eða tengdaföður sem báðir voru á lífi þegar bréfið var skrifað. Þeir Einar á Kollafjarðarnesi og Finnur á Hvilft voru hins vegar báðir farnir að nálgast endalokin sumarið 1842 því Finnur dó 20. júlí 1843 (sjá hér bls. 25) og Einar 6. desember 1845.[364] Við andlát Finns mun Magnús hafa eignast þau 11 hundruð í Hvilft sem vitað er að hann átti árið 1847 (sjá hér bls. 12).
Eigi síðar en vorið 1843 mun Jón Sigurðsson hafa ákveðið að gefa kost á sér í Ísafjarðarsýslu við hinar fyrirhuguðu alþingiskosningar eins og sjá má í bréfum hans til tveggja kunningja sinna frá þeim tíma.[365] Þann 3. apríl 1843 skrifaði Jón Sigurðsson líka frænda sínum, séra Ólafi E. Johnsen á Stað á Reykjanesi.[366] Það bréf er glatað en líklegt má telja að í því hafi hann sagt séra Ólafi frá þessu áformi sínu og beðið hann liðsinnis, enda þótt viðtakandi bréfsins væri búsettur í Barðastrandarsýslu. Vísbendingu um þetta má sjá í svarbréfi séra Ólafs, rituðu 21. júlí 1843, en hann segir þar:
Vænt þætti mér ef Ísfirðingar veldu þig og það vona ég verði því ég hefi heyrt ávæning um það og betur fæ ég að vita það í sumar, ef guð lofar, því ég ætla að fara að Rafnseyri og finna föður vorn. [Þeir Jón og Ólafur voru bræðrasynir – innsk. K.Ó.] Ég segi þér satt, andskota einn ég þekki, hvorki í Snæfellsn.- Dala- eða Barðastr.sýslu sem ég óhræddur veldi ef amtmaður verður konungsfulltrúi. Í Ísafjarðar- og Stranda eru 2 bræður, Magnús og Ásgeir, sem báðir væru góðir, en það mun fara allt öðru vísi en ég vil.[367]
Af orðum séra Ólafs má sjá að hann taldi líklegt að margir væntanlegir þingmenn af Vesturlandi yrðu í vasanum á Bjarna Thorsteinsson, gamla amtmanninum á Stapa, en þá hættu telur hann ekki vera fyrir hendi með þá bræður, Magnús á Hvilft og Ásgeir á Kollafjarðarnesi. Báða bræðurna telur séra Ólafur vel fallna til þingmennsku og er því sammála Gísla Ívarssyni hvað varðar álit á Magnúsi.
Síðla sumars árið 1843 reið séra Ólafur á Stað vestur á firði til að tryggja kosningu frænda síns í Kaupmannahöfn á þingið. Frá þeirri ferð segir hann Jóni í bréfi rituðu 12. janúar 1844 og kemst þá m.a. svo að orði:
… Þú sannar mál mitt ef Íslands lítilfjörlega hamingja gefur að þú komist til þingsins sosem Ísf. fulltrúi, hvað ég ekki veit annað því í sumar fann ég föður þinn og líka hreppstjóra Magnús Einarsson á Hvilft og bað þá báða að láta mig vita fyrir víst hvort þeir ætluðu að velja þig eður ei og sögðust þeir ei vita annað en að þú yrðir þar valinn – því annars skyldi ég hafa látið velja þig í Barðastrandarsýslu.[368]
Í þessu bréfi getur Ólafur þess ekki að hann hafi hitt nokkra aðra menn í Ísafjarðarsýslu en þá tvo sem hér voru nefndir, séra Sigurð á Rafnseyri, föður Jóns forseta, og svo Magnús bónda á Hvilft. Svo virðist sem hann hafi talið þá geta ráðið mestu um þingmannskosninguna og tryggt Jóni sigur. Líklegt verður þó að telja að séra Ólafur hafi hitt fleiri menn að máli og gæti hann hafa hvatt til þess að Magnús yrði kosinn varaþingmaður.
Kjörþing var haldið á Ísafirði 13. apríl 1844 og þar var Jón Sigurðsson kosinn þingmaður Ísfirðinga í fyrsta sinn en Magnús á Hvilft varamaður hans.[369] Jón fékk þá 49 atkvæði, öll nema tvö, en Magnús 27 atkvæði.[370] Fullvíst má telja að Magnús hafi unnið mjög ötullega að kosningu Jóns. Bróðir Hvilftarbóndans, Ásgeir Einarsson á Kollafjarðarnesi, skrifaði Jóni Sigurðssyni bréf í fyrsta sinn 5. febrúar 1844 og kemst þar svo að orði um framgöngu bróður síns: En það veit ég að Magnús hefur eggjað alla sem hann hefur getað í Ísafjarðarsýslu á að kjósa yður.[371]
Tölurnar um atkvæðafjölda Jóns og Magnúsar á kjörfundinum 13. apríl 1844 sýna að aðeins rúmur helmingur þeirra kjósenda sem fundinn sóttu vildu gera bóndann á Hvilft að varaþingmanni þó að Gísli Ívarsson og séra Ólafur E. Johnsen teldu hann vel fallinn til þingmennsku. Úr röðum þeirra sem ekki töldu Magnús eiga erindi á Alþingi er ummæli að finna í bréfi tveggja Dýrfirðinga til Jóns Sigurðssonar forseta, rituðu 18. ágúst 1844.[372] Þeir sem bréfið rituðu voru Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum og séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum. Þeir fagna kosningu Jóns og segjast vona að hann mæti þegar þingið verði kvatt saman – því aukafulltrúi vor líst oss miður hæfilegur, bæta þeir við, þótt hann tali og skrifi mikið – máske tvístrað.[373] Svo virðist sem þeir Magnús á Hvilft og séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum hafi ekki átt skap saman því Magnús segir í bréfi til Jóns forseta fáum árum síðar að séra Jón á Gerðhömrum sé góður að níða jörð og hús og hræsna.[374]
Hér hefur áður verið frá því greint að í ferðum Jóns Sigurðssonar forseta vestur á firði 1845 og 1847 tókust góð kynni með honum og varaþingmanninum á Hvilft. Ætla má að Jóni hafi þótt Magnús merkilegur og hann hafi lagt sig fram um að komast í sem nánast samband við þennan búandmann á Hvilft sem hugsaði sjálfstætt og lét sig þjóðmálin svo miklu varða. Í lok ársins 1852 hafði Magnús fengið 20 bréf frá Jóni[375] en því miður eru þau öll glötuð. Á samverustundum þeirra hér vestra 1845 og 1847 mun traust Magnúsar á Jóni hafa náð að skjóta djúpum rótum og í hans huga var Jón bæði mikilhæfur þjóðskörungur og dýrmætur einkavinur. Um þetta viðhorf bóndans á Hvilft sjást mörg merki í bréfum hans til Jóns forseta en af þeim eru nítján varðveitt og einnig brot úr því tuttugasta.[376] Hér við bætist bréf sem Gísli Ívarsson virðist hafa skrifað Jóni fyrir hönd Magnúsar og undir hans nafni haustið 1844.[377] Að minnsta kosti þrjú bréf sem Magnús skrifaði Jóni eru nú glötuð[378] og má því segja að bréf hans til Jóns hafi ekki verið færri en 24.
Öll bréf Magnúsar sem varðveist hafa bera merki um einlæga vináttu hans í garð Jóns og vilja til að verða honum að liði í þjóðmálabaráttunni en víða sjást þó merki þess að bóndinn á Hvilft fer sínar eigin leiðir og vill jafnan standa á eigin fótum. Við Jón Sigurðsson talar hann oftast eins og jafningja, af hreinskilni og án allrar auðmýktar. Bréfin sýna hins vegar svo ekki verður um villst að þessi vopnabróðir forseta var viðkvæmur og tók margt nærri sér. Geð hans var ekki alltaf glatt og stundum var baráttuhugurinn lamaður því á hann sóttu þungir þankar. Ávörp og kveðjur í bréfunum til Jóns sýna þó ætíð einlægt vinarþel í garð viðtakandans. Í nefndum bréfum ávarpar Magnús vin sinn í Kaupmannahöfn m.a. á þennan hátt: Hjartkæri, elskulegi vin – Elskulegi góði vin og bróðir og Elskulegi besti vin. Kveðjurnar eru líka úr sama efni, m.a. þessar: Þinn einlægur elskandi vin og bróðir þinn elskandi vin og óverðugur bróðir og Þinn elskandi bróðir Mangi.
Sum bréf Magnúsar Einarssonar til Jóns forseta eru ærið löng og hér verður aðeins gerð grein fyrir litlu broti af öllu því sem bréf þessi frá Hvilft hafa að geyma.
Elsta bréfið frá Magnúsi til Jóns Sigurðssonar, sem varðveist hefur, er skrifað haustið 1844 undir hans nafni en þó ekki af honum sjálfum[379] heldur Gísla Ívarssyni á Ísafirði. Líklegt era ð Gísli hafi skrifað bréfið að beiðni Magnúsar, því neðst stendur Innf. þann 17. sept. 1844 í skyndi. Yðar elskari G. Ívarsson.[380] Í þessu bréfi eru engin ávörp eða kveðja frá Magnúsi en nafn hans hefur verið sett undir bréfið.[381] Meginefni þessa bréfs er að mæla með því að kosningar til Alþingis verði þaðan í frá hafðar tvöfaldar, það er að fyrst verði kosnir kjörmenn sem síðan kjósi þingmann.[382] Gera má ráð fyrir að Magnús, sem þá var enn ekki orðinn fastur bréfavinur Jóns, hafi beðið Gísla að koma þessu sjónarmiði sínu á framfæri við hinn nýkjörna þingmann Ísfirðinga úti í Kaupmannahöfn og Gísli gripið til þess ráðs að útbúa sérstakt bréf undir nafni Magnúsar. Í öðru bréfi Magnúsar, sem skrifað var fimm árum síðar, sést að hann hefur haft mikla trú á tvöföldum kosningum. Aldrei held ég að ég sættist við einföldu kosningarnar, segir hann þar.[383]
Fyrsta bréfið sem Magnús skrifar Jóni með eigin hendi og varðveitt er hefur hann ritað 12. júlí 1847.[384] Jón hafði þá verið fyrir vestan skömmu áður, í annað sinn frá því hann var kosinn þingmaður, og m.a. haldið almennan fund á Ísafirði þann 14. júní.[385] Í þessu bréfi, sem Magnús sendi Jóni til Reykjavíkur þar sem Alþingi sat að störfum, fer hann þess sérstaklega á leit að Jón reyni að tryggja Önfirðingum góðan prest[386] en þeir höfðu þá ákveðið að afsegja með öllu að búa lengur við þjónustu séra Sigurðar Tómassonar vegna drykkjuskapar hans sem ekki tókst að stilla í hóf (sjá hér Holt).
Aftur skrifaði Magnús Jóni 8. ágúst þetta sama sumar og enn nýtt bréf þremur dögum síðar. Í þessum bréfum ræðir hann einkum um verslunarmál og nauðsyn þess að bændur vandi fiskverkunina.[387] Um þau efni hafði einmitt verið rætt á fundinum sem Jón Sigurðsson boðaði til á Ísafirði þetta sama sumar og þar var Magnús kosinn í fimm manna nefnd sem átti að hafa forgöngu um að tryggja sem besta meðferð á fiskinum.[388] Í þessum bréfum gefur Magnús kaupmönnunum sem Önfirðingar og nágrannar þeirra versluðu við ýmsar einkunnir. Poulsen lausakaupmann segir hann vera langbestan með að flokka afurðir bænda og þá einkum fiskinn eftir gæðum og borga meira fyrir góða vöru en lélega.[389] Edward Thomsen, kaupmaður á Þingeyri, fær hins vegar lága einkunn því Magnús segir hann neita mönnum um salt og aðeins vilja kaupa blautan fisk.[390] Í öðru þessara bréfa ber Magnús sig illa yfir 250 ríkisdala tjóni sem hann og sameignarmaður hans í skútuútgerðinni (eða sameignarmenn) hafi orðið fyrir við að missa þennan og hinn búnað sem fylgdi Hvilftarjaktinni.[391] Svo dapur er Magnús yfir þessum skaða að hann kveðst vera að hugsa um að hætta búskap og selja jaktina sem hann kallar reyndar bátinn.[392]
Veturinn 1846-1847 var reynt að safna liði í Vestur-Ísafjarðarsýslu til myndunar samtaka um að fá nýjan kaupmann til að setjast að á Þingeyri og brjóta þannig niður verslunarveldi Edwards Thomsen þar sem þótti harðdrægur í viðskiptum. Svo virðist sem Jón Gíslason, bóndi og skútuskipstjóri á Lækjarósi í Dýrafirði, hafi haft frumkvæðið að þessari viðleitni og skrifaði hann Magnúsi um málið (sjá hér Lækjarós). Bóndinn á Hvilft lét sér þá detta í hug að hyggilegast kynni að vera að fá Guðmund Brynjólfsson á Mýrum, sem talinn var sterkefnaður, til að hefja verslunarrekstur á Þingeyri (sjá hér Lækjarós). Hann taldi þó erfitt að fá Önfirðinga til að binda sig við að sækja verslun til Þingeyrar ef svo kynni að fara að borgari kæmi á Önundarfjörð [393] en á þessum árum var enginn eða nær enginn verslunarrekstur á Flateyri. Sjálfur var Magnús þennan vetur að safna loforðum um kaup á timbri af Norðmönnum ef þeir sendu hingað timburskip.[394] Í Nýjum félagsritum hvatti Jón Sigurðsson til stofnunar verslunarsamtaka í hinum ýmsu héruðum landsins en svo virðist sem Magnús hafi ekki verið mjög bjartsýnn á árangur í þeim efnum á heimaslóðum sumarið 1847. Í bréfi til Jóns Sigurðssonar kemst hann þá svo að orði:
Ég er nú búinn að lesa um verslunarfélögin í Félagsritunum. Ég hefi litla von um að slík félög komist hér á. Mig vantar bæði vit og efni til að fylgja að því eins og öðru. Framkvæmdir mínar verða einungis innifaldar í því að þvætta eitthvað við þig.[395]
Meiri hugur var í Magnúsi þegar hann settist við að skrifa Jóni 2. janúar 1848 því þá sér hann ýmsa möguleika fyrir verslunarsamtök bænda og telur jafnvel koma til greina að ráðast í kaup á skipi til millilandasiglinga.[396] Í bréfi til Magnúsar hafði Jón Sigurðsson minnst á nauðsyn þess að farið yrði að kenna siglingafræði á Íslandi og í bréfinu frá 2. janúar 1848 tekur Magnús undir þetta og segir að siglingafræðin hvetti Íslendinga til að leggja saman í skip til annarra landa.[397] Hann segir að Jónas á Ísafirði, það er Jónas Jónsson borgari þar, vilji fá um 20 menn til að leggja saman í skip en skuldir og almennt menntunarleysi geri mönnum erfitt fyrir.[398] Ef takast mætti að vinna bug á þekkingarskortinum og sárustu fátæktinni taldi Magnús að samtök bænda ættu að geta annast bæði verslun og siglingar. Í bréfinu frá 2. janúar 1848 kemst hann meðal annars svo að orði um þessi efni:
Bændur kynnu að vísu að verða að fá lán sumir en félagið ætti að vera eins og verslunarfélag Eyfirðinga að það eru allt innbyrðis lán. Það er sjálfsagt að í félaginu verða þá að vera kristnir menn og skynsamir menn sem álíta landið einn líkama, félagið lim á honum og hvurn félagslim eins og fingur á hönd en álíti hvur maður sig heilan heim, aðgreindan frá öllu sambandi við aðra, liðast allt félagið í sundur. … Þegar lagður er nú saman bústofn allra félagsmanna yrði þetta ekki lítill styrkur að leggja á metið sem bændur eru á móti kaupmanninum.
… Bændaverslun skoða ég eins og kaupstaðarferð og þó ekki sé annað en það sem telja má víst að allur verslunarágóði kaupmanna rennur þá inn hjá bændum eða landsmönnum í stað þess að lenda í Danmörk … og þá færu vörurnar að verða vandaðar því uppskeran fylgdi þá sáningunni. Margir fleiri nytsemdar vonargeislar blasa fyrir mér þegar ég hugsa um þetta en þér mun þykja komið nóg og kalla þetta sjónhverfingar.[399]
Sú afdráttarlausa félagshyggja sem fram kemur í þessum orðum Magnúsar er sömu ættar og hugsjónir ýmissa helstu forystumanna samvinnuhreyfingarinnar á árunum kringum aldamótin 1900. Munurinn er bara sá að Magnús er þetta löngu fyrr á ferðinni. Á sínum tíma var hann þó alls ekki einn á báti. – Lifi félagsskapur og samtök, hrópuðu Skagfirðingar vorið 1849 þegar þeir riðu í hóp norður að Möðruvöllum til að krefjast afsagnar Gríms Jónssonar amtmanns[400] og voru þau orð sem töluð úr munni Magnúsar bónda á Hvilft eins og hér má sjá. – Drepist kúgunarvaldið, kölluðu Skagfirðingar líka við sama tækifæri[401] og má gera ráð fyrir að bóndinn á Hvilft hefði líka tekið undir það kjörorð með ljúfu geði.
Þegar Magnús skrifaði Jóni Sigurðssyni á öðrum degi ársins 1848 var þess enn mjög langt að bíða að Íslendingar eignuðust vöruflutningaskip til siglinga milli landa. Bréfritarinn vissi líka að áður en bændur réðust í slíkt stórræði þyrfti að afla þó nokkurrar reynslu á sviði félagsverslunar. Undir lok áramótabréfsins til Jóns Sigurðssonar bætir hann því við þessum orðum:
Ég var nærri búinn að gleyma að geta þess að verslunarfélög eins og Eyfirðinga eru ómissandi á undan hinum til lærdóms og æfingar og án þess að þau gangi á undan vil ég engan eggja á að ráðast í félag með skip.[402]
Vorið 1848 gat varaþingmaðurinn á Hvilft glaðst yfir bættri fiskverkun við Ísafjarðardjúp. Það er mesta snilld að sjá fiskinn hjá þeim núna, skrifar hann 20. apríl og er þá að tala um Djúpmenn.[403] Gera má ráð fyrir að bætt verkun á fiskinum hafi að einhverju leyti átt rætur að rekja til starfa nefndarinnar sem kosin var á fundi er Jón Sigurðsson efndi til á Ísafirði sumarið 1847 en í henni átti Magnús á Hvilft sæti eins og hér var áður nefnt. Í bréfinu segir Magnús þó að það sé einkum Olsen að þakka hve vel tókst til með fiskverkunina því hann hafi flokkað fiskinn í verðflokka eftir gæðum[404] og mun þá eiga við Eirík Olsen, verslunarstjóra í Neðstakaupstaðarverslunarinnar á Ísafirði.
Margvíslegt lesmál barst að Hvilft á búskaparárum Magnúsar þar og í bréfum hans til Jóns forseta sést að hann fagnar öllum fróðleik sem á fjörurnar rekur. Ég er nú búinn að fá janúarmánuð af Reykjavíkurpóstinum, segir Hvilftarbóndi í bréfi sínu frá 20. apríl 1848 og bætir við:
Dáindisgaman þótti mér að lesa um kaffitréð en hvort það er svo hentugt að hrósa kaffieyðslu við Íslendinga veit ég ekki þó það efli bjargræðisveg einhvers staðar út um heim og flestar þjóðir held ég spornist við að kaupa annars staðar það sem þær geta án verið eða réttar þær skynsömustu.[405]
Í bréfi frá 13. ágúst 1848 segir Magnús að nú megi heita matvörulaust í verslunarstöðunum á Ísafirði og Þingeyri og margir hafi sáralitla matvöru fengið.[406] Um vorið segir hann hafa verið salteklu og færaskort og engin brýni á boðstólum hjá verslununum.[407] Gegn Edward Thomsen, eiganda
Þingeyrarverslunar, er Magnús fullur heiftar og segir veldi hans nú þvílíkt að lausakaupmenn þori ekki að sigla á Dýrafjörð.[408] Úr röðum lausakaupmanna nefnir hann bróður Edwards og mun þá að líkindum eiga við William Thomsen, sem um skeið var kaupmaður á Patreksfirði (sjá hér Grandi), og svo Poulsen sem án efa mun vera Niels Christian Poulsen, kaupmaður í Hafnarfirði og áður verslunarstjóri á Ísafirði (sjá hér Holt). Um verslunarmálin kemst Magnús m.a. svo að orði:
Thomsen hefur nú flesta, einkum Poulsen og bróður sinn, í vasa sínum, hvorugur þeirra þorir á Dýrafjörð. Ég vona að Dýrfirðingar fari eitthvað að hugsa um samtök. Líklega skrifar séra Einar þér [þ.e. séra Einar Vernharðsson á Söndum – innsk. K.Ó.]. Ég skyldi nú ljónast innanum alla sýsluna ef heimilisstörfin héldu mér ekki föstum.[409]
Fáum dögum síðar bætir Magnús við öðru bréfi til Jóns Sigurðssonar og segir þar: Ég vildi ég gæti málað Edward Thomsen upp og bróður hans og Poulsen sinn í hvurjum vasa á hönum því hvurugur þorir á Dýrafjörð.[410]
Gamanlaust hefur það verið að búa við vöruþurrð og okurverð en fá enga lausakaupmenn til að keppa við hinn volduga gróssera á Þingeyri. Samt var það nú Edward Thomsen sem Magnús bað fyrir þetta bréf til Kaupmannahafnar því utan á umslaginu stendur ekki bara nafn viðtakanda heldur líka Ved Herr Kjöbmands H. E. Thomsens Godhed.[411]
Veturinn 1848-1849 voru ráðagerðir uppi innan Ísafjarðarsýslu um að koma á fót verslunarsamtökum og senda Ásgeir skipherra Ásgeirsson á þeirra vegum með vöruskip til Kaupmannahafnar að sumri.[412] Ásgeir hafði fallist á að fara og fundur um málið var boðaður á Ísafirði 12. janúar 1849 en ekkert mun hafa orðið úr framkvæmdum.[413]
Í einu þriggja bréfa sem Magnús á Hvilft skrifaði Jóni Sigurðssyni í ágústmánuði árið 1848 minnist hann á hina merkilegu ritgerð Jóns, Hugvekju til Íslendinga, sem birtist í áttunda árgangi Nýrra félagsrita og barst til Íslands með vorskipum árið 1848. Meginkrafan sem þar var borin fram var um innlenda stjórn og með hinum fornu ljóðlínum í upphafi ritgerðarinnar var tónninn gefinn:
Dagur er upp kominn,
dynja hanafjaðrir,
mál er vílmögum
að vinna erfiði.
Þegar Magnús skrifar bréfið hefur hann lesið þetta ákall Jóns og segir:
Ekki veit ég hvað verður um hugvekjuna þína. Ég býst við að menn sofi vært og allir sjá í kostnaðinn þó æra og velferð landsins sé í veði. Briem [þ.e. Eggert Briem sýslumaður – innsk. K.Ó.] óttast helst að þeir Íslendingar sem tækju hér við stjórninni yrðu daufir að sækja verslunarmálið.[414]
Í þessu sama bréfi leggur Magnús til að Jón boði á komandi sumri til sameiginlegs fundar manna af öllum Vestfjarðakjálkanum og úr Dalasýslu.[415] Þá fengjust menn líklega á fundinn sem vissu hvað þeir beiddu um, segir varaþingmaðurinn og notar sem röksemd fyrir nauðsyn slíks allsherjarfundar.[416]
Þessa tillögu Magnúsar gerði Jón Sigurðsson þegar í stað að sinni og er þarna að finna upphaf ráðagerða um fyrsta Kollabúðafundinn sem haldinn var í júnímánuði árið 1849 á hinum forna þingstað í landi Kollabúða við Þorskafjörð.[417] Jón Sigurðsson skrifaði séra Ólafi Sívertsen í Flatey og þeim Eyjamönnum haustið 1848 og bað þá hafa forgöngu um fundarhald af því tagi sem Magnús hafði stungið upp á.[418] Gekk það allt eftir. Á árunum 1849-1868 var Kollabúðafundur haldinn á hverju ári[419] og höfðu fundir þessir mikla þýðingu í framfarasókn Vestfirðinga og baráttu landsmanna fyrir sjálfsforræði í eigin málum. Hugmyndin að slíkum fundum kom frá Magnúsi bónda á Hvilft eins og hér hefur verið rakið og á hann heiður skilinn fyrir það. Svo fór að Jón Sigurðsson mætti aldrei á Kollabúðafund og fátt er nú vitað um þátttöku Magnúsar á Hvilft í þessum fundum. Nær fullvíst má þó telja að hann hafi mætt á einhverja þessara funda á árunum 1849-1858. Með vissu er reyndar vitað að hann var á Kollabúðafundi árið 1850 því hann var einn þeirra sem stofnuðu þar sérstakt félag í því skyni að koma á fót sjómannaskóla.[420] Í bréfum sínum til Jóns Sigurðssonar minnist Magnús stundum á Kollabúðafundina en þá oftast á fundinn sem fram undan var næsta ár.[421]
Hugmyndin frá Kollabúðum um stofnun sjómannaskóla komst í framkvæmd eins og hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Flateyri og Mosvallahreppur, inngangskafli) en þar var líka rætt um nauðsyn þess að koma á fót búnaðarskóla og tillaga samþykkt.[422] Um þau efni ræðir Magnús í bréfi sem hann skrifaði Jóni Sigurðssyni 8. ágúst 1852 og segist þar vera hræddur um að búnaðarskólinn sem upp á var stungið í vor á Kollabúðafundinum verði þröngur í fæðingarlimnum, enda var reiknað með að til þess að koma skólanum á fót og starfrækja hann þyrfti 35.000 ríkisdali.[423]
Bóndinn á Hvilft var hins vegar þeirrar skoðunar að menn gætu lært margt af lestri góðra bóka og fræðandi ritgerða og segir í sama bréfi:
Það væri nauðsynlegt að ritgerð birtist á prenti sem kenndi mönnum að þekkja kalkefni og búa það til, líka að búa til múrstein sem nóg mætti fá í víða. … Af ritgerðum hafa menn lært að rækta kál- og jarðeplagarða, búa til kaffikvarnir úr grjóti, brúka þúfnasléttunarjárn og svo mætti vera um margt fleira og mætti mikið minnka kennslu í bændaskólum með ritgerðum þó þeir kæmust einhvern tíma á.[424]
Í bréfum Magnúsar til Jóns Sigurðssonar minnist hann sjaldan á einstaka menn í heimasveit sinni til lofs eða lasts. Af slíku tagi er helst að nefna ummæli um séra Lárus M. Johnsen sem kom nýr prestur í Önundarfjörð vorið 1848. Á öðrum stað í þessu riti er sagt nokkuð frá séra Lárusi (sjá hér Holt) en fyrsta veturinn sem hann var í Önundarfirði, 1848-1849, átti hann heima á Hvilft og var þá einhleypur.[425]
Í bréfi frá 13. ágúst 1848 kemst Magnús bóndi svo að orði um prestinn:
Séra Lárus kom hingað seint í vor. Mikið vel fellur mér við hann. Hann verður hjá mér í vetur en í vor fer hann að búa og líklega gifta sig. Hann er mesti iðnismaður að lesa og skrifa og vinna, elskar allar framfarir, sérlega umgengnisgóður maður.[426]
Undir lok ársins 1848 gerði Magnús enn ráð fyrir að þingmaður Ísfirðinga gæti heimsótt kjósendur sína fyrir vestan næsta sumar og gefur Jóni þá þessa ráðleggingu í bréfi:
Þú ættir að vera að minnsta kosti einn dag hjá séra Lárusi. Varla held ég þér fynnist lítið til hans þegar þú ferð að þekkja hann. Kæmi hann hér engu góðu til leiðar mun þess langt að bíða. Mikið langar hann til að sjómanna- og bændaskólar kæmust á stofn en ég held að Alþing eigi bágt með að vísa á efnin í bráð. Um þetta ætti að tala í vor.[427]
Í bréfi frá 30. júlí 1849 minnist Magnús enn á séra Lárus og segir við Jón:
Séra Lárusi verður þú að láta í ljósi gleði þína yfir embættisfærslu hans og öllu því viðvíkjandi og máttu bera mig fyrir en hvetja hann jafnframt í þjóðmálefni og samtök. Hann hefur vilja til þess en hann er svo hlífinn við okkur Önfirðinga.[428]
Ekki verður nú séð að nokkur snurða hafi hlaupið á þráðinn í samstarfi Magnúsar á Hvilft og Jóns Sigurðssonar þau þrettán ár sem það stóð og oft mun bóndinn á Hvilft hafa fundið til baráttugleði í storminum sem því fylgdi að standa í fremstu víglínu liðsmanna Jóns í kjördæmi hans. Stundum varð þó róðurinn býsna þungur og þá gat komið fyrir að dökkir skuggar undanhalds og uppgjafar sæktu að varðmanninum á Hvilft. – Oft hef ég átt í höggi í vetur um Alþing, skrifar Magnús vorið 1848 og segir suma vilja leggja þetta óskabarn Jóns Sigurðssonar niður vegna kostnaðarins sem þinghaldinu fylgi.[429]
Á árunum 1848-1850 náðu andstæðingar Jóns Sigurðssonar í Ísafjarðarsýslu að hefja samblástur gegn honum og veikja það traust sem hann áður naut. Ummæli Magnúsar Gíslasonar, sem þá var sýslumaður Ísfirðinga, úr bréfi hans rituðu 11. janúar 1849 sýna þetta glöggt en hann segir þar: Ísfirðingum er annars farið að líka verr við Jón Sigurðsson og heita því að kjósa hann ekki aftur.[430]
Sjálfur hafði Jón spurnir af þessum samblæstri andstæðinga sinna og óttaðist að ná ekki kosningu á þjóðfundinn sem ráðgert var að halda 1850 og var frestað til 1851.[431] Þennan ugg mun Jón m.a. hafa látið í ljós í bréfi til Magnúsar á Hvilft en Magnús svarar honum 19. ágúst 1849 og segir þá að sér þyki líklegt að flestir muni þó greiða Jóni atkvæði sitt þegar á hólminn komi.[432]
Síðar á árinu 1849 fór umferðarbréf að berast bæ frá bæ innan Ísafjarðarsýslu. Í bréfi þessu sem var óundirritað var veist harkalega að Alþingi og einkum þó að Jóni Sigurðssyni sem þá hafði verið kjörinn þingmaður Ísfirðinga í fimm ár. Í bréfinu segir meðal annars svo:
Það er öllum fullkunnugt að Ísafjarðarsýslubúar, flestir af tiltrú góðra afleiðinga en sumir fyrir áeggjan og talhlýðni kusu sér fulltrúa til þess svonefnda Alþingis sem eftir langan undirbúning komist hefur til fullkomnunar og ávöxtur þess er orðinn heila fjöldanum til óbætanlegrar óánægju og kostnaðar en einskis góðs. Allir vildu útvelja duglegan, lærðan, hollan og föðurlandið elskandi verkamann en sjá sig án alls ávinnings hlotið hafa þann mótmælanlegasta ómaga og nokkuð í þess háttar öðrum fullkomnari (samkynja). Sýnist því að allt það starf væri framvegis afbiðjandi með öllu því nóga hefur bændalýðurinn að forsorga.[433]
Ekki fer milli mála að hinn dýri en gagnslausi ómagi, sem þarna er talað um, er enginn annar en Jón Sigurðsson. Enginn veit nú hver var höfundur þessa bréfs en Þorvaldur Sivertsen í Hrappsey sagði Jóni á sínum tíma að skammabréfið væri skrifað af bónda norður við Ísafjarðardjúp.[434]
Sú óánægja með störf Alþingis sem þarna birtist var hins vegar ekki bundin við einstaka menn í byggðarlögunum við Djúp því á sama ári sendu Arnfirðingar og Dýrfirðingar úr Þingeyrarhreppi frá sér sérstaka bænarskrá þar sem lagt var til að Alþingi yrði lagt niður ef ekki tækist að lækka kostnað við þinghaldið verulega.[435] Í þessu skjali, sem hér er kynnt á öðrum stað, var m.a. borin fram sú krafa að þjóðkjörnum þingmönnum yrði fækkað úr 19 í 9 og Alþingi lagt niður ef ekki tækist að lækka kostnað við þinghaldið mjög verulega.[436] Jón Sigurðsson hafði hins vegar lagt til þá alveg nýlega að þjóðkjörnum þingmönnum yrði fjölgað upp í 30.[437]
Á þau viðhorf sem fram komu í bænarskrá Arnfirðinga leist Magnúsi á Hvilft miður vel eins og sjá má í bréfi hans til Jóns Sigurðssonar frá 7. janúar 1850. Magnús var þá á ferð norður í Strandasýslu. Hann skrifar Jóni frá Stað í Steingrímsfirði og segir:
Það er nú raunar von þó þú efist um að þú verðir kosinn eftir bænarskrá (ef svo á að kalla) frá Arnfirðingum og hvað ætli þú segðir ef faðir þinn hefði ekki verið lengra frá þegar bænarskráin var samin en Kálfur Árnason þegar Ólafur helgi var veginn. En hvað um það – ég þori að fullyrða að hver og einn sem kemur á kosningafundinn úr vesturhluta sýslunnar gefur þér atkvæði og ég held flestir í norðurhlutanum. Það styrkir heldur ekki lítið að sýslumaður mælir fram með þér … en þó allra mest að Melsted amtmaður hefur ritað honum „Ávarp til Ísfirðinga” sem hann biður hann að auglýsa og mælir þar svo fram með kosningu þinni að Abrahamsmunnur hefði ekki komist í hálfkvist við hann en auk þess að ávarpið er prýðilega samið meta Ísfirðingar tillögurnar oftast eftir höfundarins tign.[438]
Á þjóðfundinn átti að kjósa 2 fulltrúa úr hverri sýslu og milli línanna í þessu sama bréfi Magnúsar má lesa að Jón Sigurðsson muni áður hafa látið uppi þá skoðun að helst vildi hann fá Hvilftarbóndann með sér á fundinn sem annan tveggja fulltrúa Ísfirðinga og ósk hans væri sú að Magnús næði kjöri þó hann félli sjálfur. Þeim orðum er Magnús greinilega að svara þegar hann ritar:
Ekki getur það látið sig gjöra að ég verði kosinn og er ekki til neins ég orðlengi um það, enda hefði heisufar mitt og sérílagi kringumstæður bannað mér að taka á móti kosningum. Þú skoðar það ekki vel að láta þig gleðja það eins að ég sé kosinn og þú því ég yrði til einskis gagns þjóðinni en mér til óvirðingar og óánægju. En bæði ég og fjöldi landsmanna álíta þig máttarstólpann á þessum fundi.[439]
Síðar í þessu sama bréfi nefnir Magnús ýmsa sem hugsanlegt væri að kjósa á þjóðfundinn með Jóni sem fulltrúa Ísfirðinga og biður leiðtogann í Kaupmannahöfn að gefa sér hið allra fyrsta til kynna hvaða mann hann telji heppilegastan og láta þau boð einnig berast til Gísla Ívarssonar, stúdents á Ísafirði.[440]
Eins og sjá má á þeim orðum sem hér var vitnað til neitaði Magnús að gefa kost á sér sem fulltrúi á þjóðfundinn þrátt fyrir vísan stuðning Jóns Sigurðssonar. Vera má að ekkert hafi búið að baki þeirri neitun annað en hógværð eða sá skortur á sjálfstrausti sem oft vottar fyrir hjá þessum bóndamanni og kemur m.a. fram þegar hann er að skýra ástæður neitunarinnar fyrir Jóni. Hitt er þó líka hugsanlegt að varaþingmaðurinn á Hvilft hafi talið vonlaust að hann næði kosningu og reyndar ekki ólíklegt að ýmsir andstæðingar Jóns hafi hugsað þessum nánasta vopnabróður hans í sýslunni þegjandi þörfina. Hinn afdráttarlausi stuðningur amtmanns og sýslumanns við Jón gæti hafa átt þátt í því að gera andstæðinga hans hikandi en legðu þeir ekki í að ganga hreint til verks og fella þingmanninn gat þó alltaf verið svölun í því að láta varamanninn, sem verið hafði helsti talsmaður ómagans, kenna á hörðu.
Í bréfinu frá 7. janúar 1850 verður ekki annað séð en Magnús hafi, þegar það var ritað, hugsað sér að vinna eftir mætti að kjöri Jóns á þjóðfundinn og þess manns sem hann kysi að hafa þar sér við hlið að bréfritaranum sjálfum frágengnum. Hvað sem valdið hefur þróuðust mál hins vegar á annan veg og svo fór að eldhuginn á Hvilft sat heima á kjördaginn.[441] Enginn veit nú hvort eða hvernig Jón Sigurðsson svaraði beiðni Magnúsar um að láta sig vita hvern hann vildi fá kosinn sem þjóðfundarmann Ísfirðinga númer tvö. Varla getur þó talist líklegt að hugsanleg tilmæli Jóns í þeim efnum hafi farið fyrir brjóstið á varamanninum. Kjörfundurinn var haldinn á Ísafirði 27. maí 1850 og þremur dögum áður lætur Magnús á Hvilft þau orð falla í bréfi til Eggerts Briem, sem verið hafði sýslumaður Ísfirðinga, að sjálfur muni hann hvorki mæta á kjörfundinn á Ísafirði né á Kollabúðafundinn sem fram undan var.[442] Engu er líkara en einhvers konar lömun hafi gripið bóndann á Hvilft þetta vor og kynnu persónuleg og pólitísk vonbrigði að hafa valdið henni. Líklega hefur honum fundist of erfitt að tala fyrir daufum eyrum, slíkur ákafamaður sem hann var, og einhver strengur brostið áður en kjördagurinn rann upp. Í bréfinu til Eggerts Briem lætur hann að því liggja að Önfirðingar geri ekkert með sinn málflutning og gefur þessa skýringu á heimasetunni:
Ég sé mér nú ekki annað ráð en verða sannur Önfirðingur þegar hinir eru að semja stjórnarskrár en ekki get ég neitað því að þetta kostar þó nokkura sjálfsafneitun. Ég passa samt að lesa það sem út kemur svo ég viti hvað hjá fer en öngvum kemur það að gagni.[443]
Á kosningadaginn 27. maí 1850 sátu andstæðingar Jóns Sigurðssonar í Ísafjarðarsýslu nær allir heima eins og Magnús þó að forsendur þeirra fyrir heimasetunni hafi verið aðrar en hans. Af 358 mönnum á kjörskrá kusu aðeins 51 og kosningaþátttakan var því ekki nema 14,2% og þar með ein sú lakasta á öllu landinu.[444] Til samanburðar má nefna að við alþingiskosningarnar árið 1844 neyttu 65% kjósenda í Ísafjarðarsýslu atkvæðisréttar síns.[445] Á þessu má sjá að umferðarbréfið og bænarskrá Arnfirðinga, sem hér voru áður nefnd, eru líkleg til að hafa haft umtalsverð áhrif. Á kjörfundinn á Ísafirði vorið 1850 mættu nær eingöngu stuðningsmenn Jóns Sigurðssonar og var hann kosinn fulltrúi með 50 atkvæðum, það er öllum greiddum atkvæðum nema einu.[446] Athygli vekur að sá eini maður sem ekki kaus Jón Sigurðsson gaf Magnúsi á Hvilft atkvæði sitt en það var Jón Þórðarson, silfursmiður á Kirkjubóli í Skutulsfirði.[447] Var það eina atkvæðið sem Magnús fékk við þessar kosningar.[448] Annar þjóðfundarfulltrúi Ísfirðinga var kosinn séra Lárus M. Johnsen í Holti og fékk hann 27 atkvæði.[449] Gera má ráð fyrir að bóndinn á Hvilft hafi verið bærilega sáttur við þá niðurstöðu svo mjög sem hann lofaði séra Lárus í bréfum sínum frá árunum 1848 og 1849 (sjá hér bls. 42-43). Um samkomulag þeirra síðar, illt eða gott, er þó fátt til vitnis. Séra Lárus var á kjörfundinum og einnig séra Sigurður Tómasson sem þá var að flytjast úr Önundarfirði til Grímseyjar (sjá hér Holt) en aðeins einn bóndi úr Mosvallahreppi mætti á kjörstað.[450]
Enn er mörgum kunnug sú mikla þýðing sem átökin á þjóðfundinum 1851 höfðu fyrir alla þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga á síðari hluta 19. aldar. Á fundinum stóð Jón Sigurðsson í fylkingarbrjósti þeirra sem báru fram kröfuna um innlenda stjórn og aukið sjálfsforræði þjóðinni til handa. Einörð mótmæli hans á örlagastund, þegar konungsfulltrúi ákvað að koma í veg fyrir afgreiðslu mála og slíta fundinum, flugu víða og hertu hugi margra á næstu árum og áratugum. Sú hugsun að standa á réttinum og neita að una kúgun erlends valds fékk byr undir vængi. Í ljósi sögulegrar þýðingar þjóðfundarins og þess hlutverks sem Jón Sigurðsson gegndi á fundinum er óneitanlega dálítið furðulegt að sjá og heyra hversu tæpt hann stóð á heimaslóðum um það leyti sem farið var að undirbúa kosningu fulltrúa á fundinn. Hvergi á betur við að rifja þetta upp en einmitt hér á Hvilft því á erindrekanum sem hér bjó brunnu eldarnir hvað heitast og fáir píndust sárar í logunum en hann.
Magnús á Hvilft var ekki kosinn á þjóðfundinn og hann fór ekki einu sinni á kjörstað en þegar sveitungi hans, séra Lárus Mikael í Holti, kom heim af þessum sögulega fundi fékk hann fréttirnar. Þá vaknaði bardagahugurinn á ný og skömmu síðar settist hann við að skrifa vini sínum í Kaupmannahöfn, þjóðhetjunni Jóni Sigurðssyni sem margir vildu nú hylla. Það bréf er því miður glatað en Magnús getur þess í öðru bréfi sem hann skrifaði Jóni tæplega ári síðar og segir: Ég býst við að þér hafi þótt bragð að bréfinu mínu í fyrrahaust, enda var séra Lárus þá nýkominn.[451]
Tæplega þarf að efa að þetta bréf Magnúsar frá haustinu 1851 hafi glatt Jón Sigurðsson og hann fundið af því ærið bragð. Fyrir mitt leyti vil ég heldur láta kúga mig í ánauð en játa henni á mig sjálfur, segir Magnús í öðru bréfi sem hann ritaði Jóni á fyrstu dögum ársins 1852.[452] Einmitt þetta vildi Jón Sigurðsson heyra frá sem flestum löndum sínum og ekkert frekar því verkefni hans var að kenna mönnum að ganga uppréttir.
Að þjóðfundi loknum ákváðu samherjar Jóns Sigurðssonar úr hópi fundarmanna að senda fulltrúa á konungsfund til að tala máli Íslendinga. Í þá för fóru þeir Jón Sigurðsson og Jón Guðmundsson, ritstjóri Þjóðólfs. Var þá hafist handa um samskot til að kosta för þeirra og að þeirri fjársöfnun víkur Magnús á Hvilft í bréfinu sem hann skrifaði Jóni Sigurðssyni 8. ágúst 1852. Hann segir þar:
Átta menn eru nú búnir að skjóta saman 74 ríkisdölum handa þér hér í sýslu og eru 50 undir hendi Ásgeirs skipherra af því. … Það lítilræði sem ég lagði til fékk ég Ásgeiri skipherra og sjáir þú til nokkkurs að birta á prenti þessi samlög Ísfirðinga bið ég þig að láta mitt nafn ekki sjást þar. Það stendur svo á því.[453]
Upphæðin sem Magnús lét af hendi rakna var 20 ríkisdalir, sú sama og Ásgeir skipherra á Ísafirði[454] sem þá var að koma fótum undir hina miklu Ásgeirsverslun þar. Þeir tveir lögðu mest fram allra manna í Ísafjarðarsýslu[455] en 20 ríkisdalir voru þá um 80% af kýrverði.[456] Um ástæður þess að Magnús vildi ekki láta sjást að hann hefði lagt fram svo háa upphæð mætti láta sér detta ýmislegt í hug en út í þá sálma verður ekki farið hér. Merkileg er ummæli bóndans á Hvilft er hann lætur falla um þetta fjárframlag sitt í bréfi skrifuðu Jóni Sigurðssyni á nýársdag árið 1853 en tilefni þeirra orða eru þakkir sem Jón hefur beint til hans fyrir örlætið. Til þessara þakkarorða vísar Magnús og segir:
Ekki þarftu að taka það svo að það væri vegna kunningsskapar okkar á milli. Það var vegna þjóðarinnar því nú ættu Íslendingar að halda áfram að hafa ykkur Jón Guðmundsson fyrir sína þjóna.[457]
Haustið 1852 var kosið til Alþingis í annað sinn en þá voru átta ár liðin frá því fyrstu alþingiskosningarnar fóru fram og Magnús á Hvilft var kosinn varaþingmaður. Í bréfi sem Magnús skrifaði Jóni Sigurðssyni skömmu fyrir kosningarnar 1852 kveðst hann vona að Jón fallist á að taka kosningu og verða áfram þingmaður Ísfirðinga en best muni vera að kjósa engan varafulltrúa.[458] Við lestur þeirra orða vekur athygli að Magnús segir ekki að sjálfur muni hann biðjast undan kosningu heldur bara að best sé að hafa engan varafulltrúa . Hugsanlegt er að þau orð megi skilja svo að hann hafi ekki verið með öllu fráhverfur því að gefa aftur kost á sér í sæti varaþingmanns en um slíkt er þó ekki unnt að dæma. Aftur á móti liggur fyrir að við þessar kosningar haustið 1852 mættu aðeins 9 menn á kjörstað af þeim 98 sem áttu kosningarétt.[459] Jón Sigurðsson var kosinn með 8 atkvæðum en Magnús á Hvilft fékk eitt.[460] Sá eini sem kaus Magnús var Jón Þórðarson silfursmiður, sá hinn sami og greiddi honum atkvæði tveimur árum fyrr (sjá hér bls. 46). Sjálfur var Magnús einn þeirra átta sem kusu Jón Sigurðsson.[461] Við kosningu varamanns fékk Kristján Ebenezersson í Reykjarfirði við Djúp sex atkvæði en Magnús eitt.[462] Þessar kosningar voru endurteknar 10. janúar 1853 og þá mættu átta kjósendur á kjörstað.[463] Við þingmannskjörið fékk Jón atkvæði þeirra allra en við kosningu varamanns fékk Kristján í Reykjarfirði fimm atkvæði en Magnús þrjú.[464]
Sex árum síðar var kosið til Alþingis í þriðja sinn en þá hafði Magnús fyrir skömmu átt í hörðum átökum, sem trúnaðarmaður Jóns Sigurðssonar, við marga áhrifamenn í Ísafjarðarsýslu og snerust deilurnar um það hvort veita ætti Frökkum heimild til að setja upp fiskverkunarstöð á Þingeyri (sjá hér bls. 57-62). Jón Sigurðsson og Magnús voru báðir á þeirri skoðun að til greina kæmi að veita slíka heimild ef vissum skilyrðum yrði fullnægt en mjög margir kjósendur í Ísafjarðarsýslu voru því algerlega andvígir og andstaðan hörð (sjá hér bls. 59-61). Vegna þessarar deilu var Jón Sigurðsson enn á ný mjög uggandi um það hvort hann næði kjöri þegar kosið yrði næst til Alþingis. Magnús á Hvilft var þá enn í bréfasambandi við Jón og vakandi fyrir því að tryggja kosningu hans. Í bréfi sem hann skrifaði Jóni 8. mars 1858 kemst bóndinn á Hvilft svo að orði:
Ég gladdist að þú þverneitar ekki kosningu og víst verður þú kosinn og skal ég segja þér nokkur rök til þess. Fyrir fáum vikum kom hreppstjóri Gísli á Ármúla hér. Var þá samin bænarskrá til þín um að taka á móti kosningum og fékk Gísli nokkra til að rita nöfn sín en af því hann hafði nauman tíma fékk hann mér eftirrit af bænarskránni og fékk ég alla sem eftir voru að rita nöfn sín … . Ég hef sagt að best væri að kjósa þig en vanda varaþingmannskosninguna sem best ef þú gætir ekki komið en það er eins og reiðarslag í margra hjörtum vanti þig á Alþing. Það er annars óþarfur ótti sem mér finnst þú hafa um traust Ísfirðinga til þín. Að vísu hafa Alþingistíðindin ekki komið hingað enn og menn vita því fátt um gjörðir þínar en þó þú kynnir að hafa einhvern annan skoðunarmáta á einstaka máli en kjósendur þínir missa þeir ekki traust á þér. Trúðu mér nú aldrei ef ég nú segi ósatt. Um frakkneska málið sýnist mér óþarfi að skrifa.[465]
Alþingiskosningarnar sem fram fóru 29. janúar 1859 voru þær síðustu sem Magnús á Hvilft hafði afskipti af í Ísafjarðarsýslu. 395 kjósendur voru þá á kjörskrá í sýslunni en aðeins 13 mættu á kjörstað og var Jón Sigurðsson kosinn með 12 atkvæðum.[466] Gísli Bjarnason, bóndi í Ármúla við Djúp, var þá kjörinn varaþingmaður en séra Þórarinn Böðvarsson í Vatnsfirði féll fyrir honum á hlutkesti.[467] Magnús var einn þeirra þrettán sem mættu á kjörstað og kaus hann Jón Sigurðsson en Gísla til vara.[468]
Fyrir margra hluta sakir verður Magnús á Hvilft að teljast einn hinn merkilegasti bóndi á Íslandi um miðbik 19. aldar. Eitt er það hversu framfarasinnaður hann var og vakandi fyrir nýjungum sem að gagni mættu koma á landi og sjó. Hugsjónin um þjóðfrelsi Íslendinga var runnin honum í merg og bein. Lausn almúgans úr helsi fátæktar og fáfræði var honum líka mikið kappsmál og hann hafði vit á að horfa út fyrir landsteinana til að kynnast nýjum úrræðum.
Þann 20. apríl 1848 festir bóndinn á Hvilft þessi orð á blað er hann situr við að skrifa Jóni Sigurðssyni:
Ég hef nýlega heyrt sagt frá einslags skrúfu sem brúkuð sé í staðinn fyrir árar, sé á milli afturstefnis og stýrisins og sé snúið með hjólum. Hafðu einhvur ráð að komast eftir hvað mikinn kraft þetta gjörir og álítir þú það brúkanlegt hér á landi vona ég að stjórnin mundi senda lítilfjörlegan bát hingað ef um væri beðið.[469]
Þegar Magnús sendir frá sér þessa fyrirspurn um skrúfubáta voru aðeins liðin örfá ár frá því fyrst var farið að nota skrúfu til að knýja áfram báta og skip sem búin voru gufuvélum úti í hinum stóra heimi.[470] Árið 1848 voru hins vegar enn 42 ár þar til fyrsti gufubáturinn í eigu innlendra aðila kom hingað til lands[471] og 54 ár þar til vél var fyrst sett í íslenskan fiskibát. Nær fullvíst má telja að Magnús á Hvilft hafi verið eini bóndinn á Íslandi sem fór að leita eftir upplýsingum um skrúfbáta fyrir 1850. Að minnsta kosti væri mjög fróðlegt að heyra um önnur dæmi þess ef þau kynnu að finnast.
Því miður brást Jón Sigurðsson ekki nægilega vel við þessari málaleitan Magnúsar og virðist ekki hafa svarað fyrirspurnum hans um málið fyrr en þá seint og um síðir. Í bréfi dagsettu 28. desember 1848 endurtekur bóndinn á Hvilft fyrirspurn sína um notkun skrúfu í stað ára og ritar þá á þessa leið:
Ástarþakkir fyrir tilskrif þitt af 24. september næstliðnum. Áður en ég svara því fáorðlega minnist ég á skrúfbátana sem ég skrifaði þér um með skipinu sem lá hér í vetur. Þú hefur engu svarað upp á það bréf en um það er mér mikið hugað.[472]
Einu ári síðar er Magnús enn að hugsa um skrúfbáta og segir í bréfi til síns elskulega vinar og besta bróður í Kaupmannahöfn: Ég skrifaði þér (mig minnir í fyrra) um að komast eftir um skrúfbáta, hvurnig þeir væru eða afl sem skrúfan gerði, en á það hefur þú aldrei minnst.[473]
Um margt var kvabbað í Jóni Sigurðssyni og mörgum erindum sinnti hann af alúð en svo virðist sem honum hafi verið fyrirmunað að afla sér fróðleiks um skrúfuna þó ekki hefði verið nema til þess að seðja ákafa forvitni vopnabróður síns og erindreka á Hvilft.
Líklegt er að Jón hafi verið fljótari að bregðast við beiðni um upplýsingar varðandi landamerki jarðarinnar Traðar í Önundarfirði. Þá beiðni bar Magnús upp við hann í bréfi skrifuðu 2. janúar 1848 og kemst þar svo að orði:
Kjartan í Tröð biður þig að útvega sér máldaga milli Traðar og Holtssels og líka milli Traðar og Vaðla sem eru neðantil við Tröð. Ég bið þig að gera í þessu það sem þú getur, bæði vegna kunningsskapar míns við Kjartan, til að styrkja það rétta og til að hjálpa mér til að halda þeirri tign að vera milligöngumaður milli manna og þín, þó ég vildi nú heldur geta leitt þá til þín sjálfa.[474]
Í þessum orðum má merkja gamansaman tón sem ekki verður oft vart við í bréfum Magnúsar.
Fyrsta hreppabúnaðarfélag á Íslandi var stofnað árið 1842[475] og fjórum árum síðar var Magnús á Hvilft að beita sér fyrir stofnun slíks jarðabótafélags í Önundarfirði ef marka má orð Jóns forseta.[476] Í bréfi sem Jón skrifaði Eggert Briem sýslumanni 18. apríl 1846 kemst hann svo að orði:
Ég sendi Magnúsi Einarssyni til jarðabótafélagsins í Önundarfirði ný verkfæri til að skera þúfur og skurði og til að taka upp úr skurðum með. Sjáðu um að þau verði kunnug ef ykkur þykir nokkuð til þeirra koma. Í Félagsritunum kemur lýsing á þeim með uppdráttum.[477]
Lýsinguna sem Jón talar þarna um á verkfærum þeim sem Magnús fékk í hendur er að finna í 6. árgangi Nýrra félagsrita frá árinu 1846 og myndir fylgja með eins og boðað var. Í ritgerðinni Nokkur orð um jarðyrkju segir þar:
Guðbrandur Stefánsson, íslenskur smiður og alkunnur hugvitsmaður, hefur tekið fyrir sig að búa til verkfæri sem hann ætlar að muni verða til töluverðs léttis við þúfnasléttun, vatnsveitingar, ristu og stungu.[478]
Í Nýjum félagsritum eru verkfæri þessi nefnd plógskeri, réttskeri og einskeri og kveðst Jón Sigurðsson hafa sent nokkur sett af þeim til Íslands.[479] Hann nefnir um það bil tíu viðtakendur, þar á meðal Magnús á Hvilft. Í afmælisriti Búnaðarfélags Íslands frá árinu 1937 segir Sigurður Sigurðsson, þáverandi búnaðarmálastjóri, að verkfærin sem Guðbrandur smíðaði hafi ekki náð útbreiðslu en samt orðið vísir til þeirra umbóta sem Torfi Bjarnason lét síðar gera á undirristuspaðanum og fyrirskeranum.[480]
Um jarðabótafélagið, sem Jón Sigurðsson taldi vera til í Önundarfirði árið 1846, eru engar aðrar heimildir í boði en orð hans í bréfinu til Eggerts Briem sem hér var vitnað í. Líklegast er að félag þetta hafi orðið mjög skammlíft eða jafnvel kafnað í fæðingunni en einhverja vitneskju hlýtur Jón að hafa haft um það að Magnús á Hvilft væri að reyna að koma slíku félagi á fót. Sú vitneskja gæti hafa byggst á samtölum þeirra frá sumrinu 1845 eða bréfi sem Magnús kynni að hafa skrifað Jóni síðar á því ári. Hafi slíkt bréf verið til mun það nú vera glatað. Jarðabótafélag Magnúsar á Hvilft náði ekki að dafna, enda var hann í þeirri félagsviðleitni langt á undan sinni samtíð. Fyrstu búnaðarfélögin á Vestfjörðum sem náðu að lifa voru ekki stofnuð fyrr en á árunum 1880 og 1881.[481] Þá voru 34 ár liðin frá því Jón forseti sendi jarðyrkjuverkfærin að Hvilft.
Jarðabótafélagið var ekki eini félagsskapurinn sem Magnús á Hvilft reyndi að koma á fót í Önundarfirði á árunum milli 1840 og 1850. Fullvíst er að hann gekkst einnig fyrir stofnun lestrarfélags og svo virðist sem tekist hafi að halda einhverju lífsmarki í því í þrjú ár að minnsta kosti. Í bréfi sínu frá 30. júlí 1849 til Jóns Sigurðssonar segir Magnús: Við erum farnir að tala um lestrarfélag hérna ennþá í Önundarfirði og eru fáir ennþá komnir. Ég geri mér von um að einhverjir gefi því kver ef það kafnar ekki í fæðingunni.[482]
Ekki veit ég hvað verður um lestrafélagið hér, segir Magnús í öðru bréfi sem ritað var þremur vikum síðar[483] en bak jólum næsta vetur horfði eitthvað skár með þetta unga félag. Þann 7. janúar 1850 kemst Magnús svo að orði í bréfi til Jóns:
Einhvur lestrarfélagsmynd held ég ætli að komast á í Önundarfirði en lítil eru efnin að kaupa bækur því of lítið er að hafa engar aðrar en það sem nú er að koma út þó það sé helsta augnamiðið fyrst því flestir félagsmenn eru ærið langt á eftir tíðinni og þyrftu því eldri rit og ýmsar bækur sem löguðu hugsunarháttinn.[484]
Í ágústmánuði árið 1852 minnist Magnús aftur á lestrarfélagið í bréfi til Jóns Sigurðssonar og þá með þessum orðum:
Ennþá er haldið áfram lestrarfélagsmyndinni hérna í sveitinni. Ég hefi viljað fá alla Klausturpóstana og Ármann á Alþingi en hvurgi fengið. Hafðu nú einhver ráð að útvega mér þetta og skal ég þá koma borguninni til þín.[485]
Þessari beiðni Magnúsar hefur Jón greinilega tekið vel því í bréfi sem Hvilftarbóndinn ritar honum 1. janúar 1853 segir hann að sér þyki gott að eiga von á Ármanni.[486]
Í bréfi Magnúsar frá 8. mars 1858 má sjá að Jón hefur sent honum bæði Ármann á Alþingi, sem kom út á árunum 1829-1832, og Klausturpóstinn, mánaðarrit sem út var gefið á árunum 1818-1827. Óljóst er hins vegar hvort þessar sendingar hafi verið til lestrarfélagsins eða til Magnúsar persónulega því félagið kann að hafa verið dautt. Í bréfinu sem hér var síðast nefnt segir Magnús þetta um bókasendingar Jóns forseta að Hvilft:
Mig vantar nú engar bækur frá þér því 7. bindi af lagasafninu er komið og vona ég eftir framhaldinu. Eins vona ég að Olsen [þ.e. Eiríkur Olsen sem verið hafði verslunarstjóri í Neðstakaupstað á Ísafirði – innsk. K.Ó.] borgi það. Þú áttir ekki að fara að gefa mér Ármann og Klausturpóstana og því síður þar ég tími nú aldrei að láta þig sjá í neinu að ég muni til þín eða meti gjörðir þínar því lítið gagn hefur þú af tilfinningum mínum sem hvurgi koma í ljós.[487]
Tæplega mun þess að vænta að jarðyrkjuverkfærin og/eða tímaritin sem Jón forseti sendi að Hvilft séu enn finnanleg en skemmtilegir safngripir hefðu þau verið.
Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að Magnús á Hvilft var trúaður á mátt félagslegra samtaka og leitaðist við að koma gagnlegum félögum á fót í sinni sveit. Hitt er þó líka vitað að hann vildi standa fast á rétti sínum sem jarðeigandi og sjálfseignarbóndi á Hvilft og lenti af þeim sökum í málaferlum við Friðrik Svendsen, kaupmann á Flateyri, sem þá var að vísu hættur verslunarrekstri og orðinn veill á geðsmunum.
Frá fornu fari hafði Hvilft átt ýmis réttindi og ítök í landi Eyrar og mun sá réttur hafa átt rætur að rekja til þess að hálfkirkja sem var á Hvilft fram um 1600 átti 5 hundruð í Eyri (sjá hér bls. 4-5 og 7-8). Hin helstu þessara réttinda voru: Skipsuppsátur og búðarstaða á Kálfeyri, fimmtungur af öllum reka á Sauðanesi og selstaða þar á nesinu.[488] Líklegt má telja að Hvilftarmenn hafi líka átt beitarrétt á Sauðanesi allt frá dögum hálfkirkjunnar því sá réttur þeirra var viðurkenndur með dómi árið 1852 eins og brátt verður nánar frá sagt þó að ekki sé minnst á beitarréttindin í Jarðabókinni frá 1710. Fénu sleppt á Hvilft, skrifar séra Sigurður Tómasson í dagbók sína 17. mars 1849[489] og hefur það þá, að ætla má, runnið út á Sauðanes.
Ágreinings um hin ýmsu réttindi Hvilftar á Sauðanesi varð fyrst vart svo kunnugt sé árið 1846 en þá um sumarið lét Magnús á Hvilft fólk sitt heyja á Hvannökrum[490] sem eru fimm til sex kílómetrum fyrir utan Eyri. Svo virðist sem Hvilftarmenn hafi ekki heyjað þarna á árunum skömmu fyrir 1846 en Magnús taldi sig vera í fullum rétti því hans meining var sú að eigendur Hvilftar ættu lögmætan rétt til tveggja fimmtu hluta allra nytja á Sauðanesi, utan við Klofningshrygg, en Eyrarmenn til hinna þriggja fimmtu hlutanna.[491] Að þessi regla hafi verið í gildi, bæði hvað varðar beitina á Sauðanesi og vertoll af Kálfeyri, sést m.a. í jarðabók frá árinu 1805[492] en um þá heimild getur Magnús ekki. Í sóknarskjali sínu heldur Magnús því fram að þessi regla hafi verið virt svo lengi sem elstu menn muni, allt þar til Eyrarmenn hófu ýfingar og véfengdu rétt hans til að heyja á Hvannökrum árið 1846.[493] Eigendur Eyrar voru þá Friðrik J. Svendsen agent á Flateyri, og feðgarnir Magnús Ólafsson og Ólafur sonur hans á Eyri.[494] Með bréfi dagsettu 19. september 1846 mótmæltu þeir heyöflun Magnúsar á Hvannökrum.[495] Á árunum 1848 og 1849 neituðu þeir svo að greiða bóndanum á Hvilft landshlut af tré- og hvalreka á Sauðanesi og vorið 1851 neituðu þeir líka að greiða honum venjubundinn hlut Hvilftarmanna af vertollum frá verstöðinni á Kálfeyri[496] sem er skammt fyrir utan Klofningshrygg. Þá taldi Magnús mælinn vera fullan og höfðaði mál. Kæru sína sendi hann sáttanefndinni í Mosvallahreppi 25. október 1851 og þegar þingað var í málinu í Holti 31. janúar árið 1852 lagði hann fram sóknarskjal sitt, dagsett 28. janúar á því ári.[497] Afrit Magnúsar af þessu sóknarskjali hans er enn varðveitt á Hvilft.[498]
Í skjalinu bendir Magnús á að tvo fimmtu hluta vertollanna frá Kálfeyri hafi Hvilftarmenn áður fengið greidda á hverju ári svo lengi sem elstu menn muni og beitarréttindin á Sauðanesi, utan við Klofningshrygg, hafi fylgt Hvilft frá ómunatíð.[499] Máli sínu til stuðnings færir hann fram margvísleg rök og nefnir m.a. að sjálfur hafi Friðrik Svendsen á Flateyri skrifað bréf árið 1841 þar sem standi þessi setning: Sameiginlegir eigendur Eyrar- og Hvilftarlands sem hafa hlutdeild í Kálfeyrarvertollum … .[500] Í skjali sínu greinir Magnús líka frá því að áður en deilan hófst hafi Svendsen vísað mönnum til sín með greiðslu tveggja fimmtu hluta af vertollunum og minnir á að í Jarðatali Johnsens, sem út var gefið 1847, sé tekið fram að þessi eigi skipting tollanna milli Hvilftar og Eyrar að vera.[501]
Í títtnefndu sóknarskjali ræðir Magnús nokkuð um beitina á Sauðanesi og ber fram þá kröfu að réttur Hvilftarmanna til beitar á nesinu, utan við Klofningshrygg, verði staðfestur með dómi.[502] Hann lætur þess getið að eigendur Eyrar hafi að vísu ekki reynt að meina sér um þessa beit en segi það aðeins vera vegna velvildar sem þeir líði að Hvilftarféð gangi á nesinu.[503] Hvað beitina varðar tekur Magnús m.a. fram að á fyrri tíð hafi Hvilftarbændur haft búsmala sinn í seli kippkorn fyrir utan Klofningshrygg, enda séu tóttirnar þar nefndar Hvilftarsel.[504] Hann ræðir málið nánar og segir:
… en að hætt var að nota selstöðuna frá Hvilft hefur orsakast af dugnaðarleysi eða fólksfæð Hvilftarbænda en ekki banni Eyrarbænda því átölulaust máttu Hvilftarbændur reka kýr út fyrir Klofningshrygg á meðan Ólafur heitinn Magnússon bjó á Eyri [þ.e. á árunum 1791-1805 – innsk. K.Ó.] og eins þar eftir hefði því ekki verið hætt vegna vegalengdar.[505]
Með vísun til hinna fornu réttinda gerði Magnús þá kröfu að dómarinn staðfesti rétt Hvilftarbænda til að hafa búsmala í seli fyrir utan Klofningshrygg, enda þótt seljabúskapur hefði nú ekki verið stundaður á Hvilft um alllangt skeið.
Í þeirri trú að sókn væri besta vörnin bar Magnús að lokum fram þá kröfu að auk hinna almennu réttinda á Sauðanesi og hlutdeildar í vertollunum frá Kálfeyri yrði fallist á að Hvilft fylgdu 5 hundruð í Eyri.[506] Þessu til rökstuðnings bendir hann á að bænhúsið (hálfkirkjan) sem áður var á Hvilft hafi átt þessi 5 hundruð og þau átt að ganga til eigenda Hvilftar eftir almennri reglu þegar hálfkirkjan var lögð niður.[507] Um þessa eign hálfkirkjunnar kveðst Magnús ekki hafa vitað fyrr en hann fór að kynna sér málin vegna væntanlegra málaferla en þá hafi sér borist í hendur skjal, dagsett í Holti í Önundarfirði 31. mars 1588, sem sýni að bænhús eður kirkja á Hvilft hafi átt 5 hundruð í Eyrarlandi.[508] Í þessu skjali frá 1588 segir hann að sjáist hvernig þessum jarðarhundruðum hálfkirkjunnar á Hvilft og öðru landi þar á Eyri hafi verið skipt.[509] Nærtækt er að láta sér detta í hug að sá sem útvegaði Magnúsi skjalið frá 1588 hafi verið Jón Sigurðsson, bréfavinur hans í Kaupmannahöfn, og ummæli Hvilftarbónda í bréfi hans til Jóns frá 8. ágúst 1852 benda reyndar til þess að svo hafi verið (sjá hér bls. 57). Svo virðist sem Magnús hafi í hita leiksins og líklega vitandi vits lokað augunum fyrir því að hin margvíslegu réttindi Hvilftar á Sauðanesi kynnu að hafa fengist viðurkennd á 17. eða 18. öld gegn því að Hvilftarmenn gæfu eftir eignarhald sitt á þessum áðurnefndu fimm jarðarhundruðum. Nú vildi hann halda tveimur fimmtu allra nytja á Sauðanesi og fá þessi 5 hundruð í Eyri að auk, það er rösklega fimmtung alls lands á Eyri. Má því segja að Magnús hafi látið hart mæta hörðu í þessari deilu við eigendur Eyrar.
Áður en málið kom til dóms gekk hann þó til sátta við Magnús Ólafsson bónda á Eyri og Ólaf son hans en á þá sáttargerð vildi Friðrik Svendsen ekki fallast. Frá sátt Magnúsar á Hvilft og Eyrarfeðga var gengið í Holti 31. janúar 1852,[510] sama dag og þingað var í málinu þar á prestssetrinu (sjá hér bls. 54). Meginefni sáttargerðarinnar var að réttur Hvilftarmanna til hlutdeildar í vertollum frá Kálfeyri og til beitar á Sauðanesi héldist óbreyttur frá því sem verið hafði, það er tveir fimmtu fyrir Hvilft á móti þremur fimmtu fyrir Eyri.[511] Í samkomulaginu er tekið sérstaklega fram að Eyrarfeðgar viðurkenni rétt eigenda Hvilftar til selstöðu á Sauðanesi.[512] Áður en sáttargerðin var undirrituð féllst Magnús á Hvilft hins vegar á að sleppa öllu tilkalli til slægna og reka á nesinu og láta niður falla kröfuna um að hann fengi til eignar og umráða þau 5 jarðarhundruð sem hálfkirkjan á Hvilft hafði átt í landi Eyrar.[513] Einnig er tekið fram í sáttargerðinni að Magnús á Eyri hafi samþykkt að borga nafna sínum á Hvilft þriðjung málskostnaðar.[514]
Eins og áður var nefnt vildi Friðrik J. Svendsen, sem var aðaleigandi Eyrar (sjá hér Eyri), ekki fallast á þessar sættir og kom því málið til dóms. Magnús Gíslason, þáverandi sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, dæmdi ásamt fjórum meðdómsmönnum og var dómur kveðinn upp á Melgraseyri 12. mars 1852.[515] Skemmst er frá því að segja að sýslumaður kaus að byggja dómsniðurstöðu sína á nýnefndri sáttargerð frá 31. janúar 1852 og voru öll meginatriði hennar staðfest með dómnum.[516] Í honum er þó ekki minnst á réttindi eigenda Hvilftar til selstöðu á Sauðanesi en agent Svendsen á Flateyri var dæmdur til að greiða Magnúsi á Hvilft 24 ríkisdali í málskostnað.[517]
Líklegt er að Magnús hafi unað allvel við þessa niðurstöðu. Í bréfi er hann ritaði Jóni forseta 8. ágúst 1852 minnist hann á málaferli sín og segir:
Nú er málið risið upp milli mín og agents Svendsen og búið að dæma mér tollana og beit en skiptabréfið ónýtt, meðal annars af því að það var ekki staðfest af notarius publicus heldur einungis af Finni heitnum Magnússyni. Agentinn hefur samt skotið málinu til landsyfirréttar.[518]
Enda þótt Magnús segi þarna að Friðrik Svendsen hafi áfrýjað málinu til landsyfirréttar kom það þar aldrei til dóms.[519] Friðrik Svendsen var veill á geðsmunum síðustu árin sem hann lifði en hann dó á Flateyri árið 1856 (sjá hér Flateyri).
Á árunum 1847-1852 voru bréfaskriftir Magnúsar á Hvilft til Jóns Sigurðssonar mjög tíðar því vitað er um 17 bréf sem hann ritaði Jóni á þessum sex árum (sbr. hér bls. 33 og 35) eða þrjú á ári að jafnaði því 18. bréfið í þessari lotu var skrifað 1. janúar 1853. Frá og með árinu 1853 hefur líklega dregið verulega úr þessum bréfaskriftum Magnúsar því ekkert bréfa hans frá árunum 1853-1856 hefur varðveist nema þetta eina sem skrifað var á nýársdag 1853. Á þessum fjórum árum sendi hann Jóni þó a.m.k. eitt bréf sem farið hefur í glatkistuna og var það skrifað haustið 1856.[520] Í bréfi sem Magnús ritaði Jóni 2. janúar 1857 sést að forseti hefur þá skrifað honum nýlega því Magnús nefnir þarna að enn hafi hann ekki getað útvegað honum neitt af því sem hann hefði beðið um.[521]
Í bréfi sínu frá 2. janúar 1857 ræðir Magnús nær eingöngu um Dýrafjarðarmálið, það er beiðni Frakka um heimild til stofnunar franskrar nýlendu á Þingeyri en þar hugðust þeir setja á stofn fiskverkunarstöð og hefja stórrekstur á íslenskan mælikvarða (sjá hér Þingeyri). Líklegt er að Jón hafi rætt málið við Magnús í einu eða fleiri bréfum frá árinu 1856 og svo mikið er víst að Magnús gerði sér ljósa grein fyrir afstöðu hans í málinu, enda þótt Jón varaðist að tjá sig með beinum hætti á opinberum vettvangi um þetta viðkvæma deilumál. Höfundur þessara orða hefur á öðrum vettvangi ritað allýtarlega um þetta Dýrafjarðarmál og sýnt fram á að Jón Sigurðsson muni hafa haft hug á að semja við Frakka um að þeir fengju Þingeyri ef tollar á íslenskum fiski yrðu afnumdir í Frakklandi og nokkrum öðrum skilyrðum væri fullnægt.[522] Í hinum hörðu átökum um Dýrafjarðarmálið lenti Jón Sigurðsson í andstöðu við meginþorra kjósenda sinna í Ísafjarðarsýslu sem flestir vildu segja þvert nei við beiðni Frakka. Til marks um þá afstöðu má nefna bænarskrá Ísfirðinga sem nær 400 menn skrifuðu undir en þar var lagst mjög eindregið gegn tilmælum Frakka.[523] Almennur fundur um málið var haldinn á Ísafirði 2. desember 1856 og þar kosin fimm manna nefnd er samdi áðurnefnda bænarskrá.[524] Hinn mikli fjöldi undirskrifta undir bænarskrá Ísfirðinga segir ærna sögu en undir hana skrifuðu milli 9 og 10% allra íbúa í Ísafjarðarsýslu.[525] Til samanburðar má nefna að aðeins 3,7% landsmanna skrifuðu undir bænarskrárnar sem sendar voru þjóðfundinum 1851[526] og þótti mikið.
Gegn hinum almennu viðhorfum, sem bænarskrá Ísfirðinga var til marks um, barðist Magnús á Hvilft eftir mætti eins og sjá má í bréfi hans til Jóns Sigurðssonar frá 2. janúar 1857.[527] Í þeirri orrahríð gekk hann ódeigur fram, m.a. vegna þess að hann vissi sig tala fyrir munn Jóns Sigurðssonar og báðir væru þeir á einu máli.
Um sjálft Dýrafjarðarmálið er ritað hér á öðrum stað og skal til þess vísað (sjá hér Þingeyri) en frá þætti Magnúsar á Hvilft í átökunum um þetta mikla hitamál verður að segja svolítið nánar. Ekki er ólíklegt að ýmsum leiki forvitni á að vita hvers vegna Jón Sigurðsson og Magnús á Hvilft vildu opna fyrir samninga um stofnun franskrar nýlendu á Þingeyri. Því er til að svara að trú beggja á nauðsyn athafnafrelsis fjáraflamanna og blessun frjálsrar verslunar leiddi þá til þessarar niðurstöðu. Árið 1855 fengu Íslendingar loks frelsi til að versla við aðra en þegna Danakonungs en fyrir þeim réttindum hafði lengi verið barist. Þar hafði Jón Sigurðsson staðið í fylkingarbrjósti í 14 ár og vildi nú fyrir alla muni auka viðskipti Íslendinga við aðrar þjóðir en Dani. Svo virðist sem hann hafi fyrst og fremst litið á erindi Frakka sem verslunarmál en síður leitt hugann að öðru sem vera má að búið hafi að baki (sjá hér Þingeyri). Í þessum efnum fóru skoðanir Jóns og Magnúsar saman. Við vitum reyndar að átta árum áður en beiðni Frakka var gerð heyrinkunn var bóndinn á Hvilft farinn að íhuga hvort ekki væri hyggilegt að gefa einni eða fleiri erlendum þjóðum kost á aðstöðu til fiskverkunar hér og fá í staðinn verslunarviðskipti er að gagni mættu koma. Til marks um þetta má nefna orð hans í bréfi til Jóns Sigurðssonar frá 19. september 1847 en þar er Magnús að hugsa um Norðmenn. Hann segir þar:
Hér kom norskur fiskimaður í sumar og kvartaði illa yfir því að mega ekki fá þurrkaðan fiskinn í landi. Spurði ég hann að hvort norskir mundu ekki flytja timbur í þilskipunum ef þeir mættu þurrka fiskinn og sagði hann það sjálfsagt því þá þyrftu þeir ekki að hafa tunnur með til að salta í.[528]
Árið eftir þjóðfundinn virðist Magnús líka hafa velt alvarlega fyrir sér hvort ekki væri rétt að Íslendingar leituðu eftir nánari tengslum við aðrar þjóðir en Dani og þá máske til að nota sem svipu í baráttunni við danska valdið. Í bréfi rituðu Jóni Sigurðssyni 8. ágúst 1852 kemst hann svo að orði:
Mér hefði annars þótt gaman ef þú hefðir sérstaklega svarað mér upp á uppástunguna um Þjóðverja, þó ég felldi hana sjálfur í bréfinu [þ.e. bréfi sem nú er glatað frá árinu 1851 – innsk. K.Ó.]. En þú þvertekur fyrir að leita liðs hjá neinni þjóð. Þó kom Franklin að góðu að leita til Frakka en það kann að hafa staðið öðruvísi á um þær mundir. Ég held þó óhætt að rita í ensk blöð og fengjust nokkrir blaðamenn þar á vort mál ímynda ég mér að Danir kynnu að grína í það. Þeir eru þó nokkuð viðkvæmir.[529]
Franklín sá sem Magnús nefnir þarna og segir hafa leitað til Frakka með góðum árangri er án efa Benjamin Franklin sem var sendiherra Bandaríkjamanna í París í frelsisstríði þeirra gegn Englendingum á árunum kringum 1780. Allt sýnir þetta í hvaða samhengi Magnús á Hvilft sá fyrir sér baráttu íslenskra þjóðfrelsismanna við Dani og orð hans frá árinu 1852 um Franklin og Frakka gefa til kynna að burtséð frá afstöðu Jóns Sigurðssonar hefði hann vel getið hugsað sér að krunkast á við Fransmenn og gera eitthvað fyrir þá ef á móti kæmi stuðningur við baráttu Íslendinga gegn yfirráðum Dana á landi hér. Með þetta í huga verður að meta framgöngu Magnúsar í Dýrafjarðarmálinu en henni lýsir hann sjálfur í bréfi sínu til Jóns forseta sem skrifað var 2. janúar 1857. Magnús var þá staddur hjá Ásgeiri bróður sínum á Kollafjarðarnesi í Strandasýslu en segir Jóni meðal annars fréttir af fundinum sem efnt var til á Ísafirði einum mánuði fyrr og hér var áður greint frá. Frásögn Magnúsar af honum er á þessa leið:
Efni blaðsins er nú helst að láta þig vita um skoðun manna á svokallaðri nýlendustofnun Frakka á Dýrafirði. Á Ísafirði var haldinn fundur 2. desember síðastliðinn að tilhlutan sýslumanns, Péturs Guðmundssen, Daniels Johnsen og Ásgeirs skipherra. Voru fáir á fundinum nema Tangabúar, þó ekki allir svo það urðu (að mig) minnir 20 manns. Ég var þar þá. Á fundi þessum voru lögð fram nokkur skrifleg skjöl og síðan var málið rætt. Urðu allir á móti Frökkum nema ég og Einar Magnússon rennismiður. Nú var 5 manna nefnd kosin í málið og átti hún að semja bænarskrá til konungs. Mér þótti þetta kynleg aðferð því ég vona að leyfið verði ekki veitt nema málið sé lagt fyrir Alþing. Í nefndinni voru sýslumaður [þ.e. Erlendur Þórarinsson – innsk. K.Ó.], Pétur Guðmundssen, Ásgeir skipherra, Hjálmar timburmaður og Eiríkur Magnússon stúdent sem er barnakennari hjá P. Guðmundssen.[530]
Í sama bréfi segir Magnús líka frá karpi sínu við nefndarmennina að loknum fundi og ráðagerðum um að vinna Dýrfirðinga á sitt mál. Um þau efni ritar hann svo:
Nefndin átti að byrja starfa sinn 5. sama mánaðar. Ég hafði í millitíð fengið skjöl fundarins til eftirritunar en nú sá nefndin sig um hönd og vildi fá eftirritin aftur og kvað þau illa vönduð en ég neitaði og varð mikil keppni út af þessu. Þeir óttuðust sum sé að ég myndi senda þér eftirritin en ég sagði að þú myndir ekki flíka þeim. Út af þessu er svo löng saga að ég hefi ekki tíma til að skrifa þér hana, enda ríður ekki á því, en á þetta minntust þeir ekki oftar en leyfðu mér að taka eftirrit af bænarskrá sem nefndin samdi til Alþingis og létu sem þeir ætluðu að senda þér. Vildu fá sem flesta að rita undir hana en mér sýndist það þýða lítið því þú myndir meta meira ástæður en nafnafjölda, tiltekið fyrst þú ert ekki konungur. … Nú ætla ég að ráðfæra mig við Dýrfirðinga í vetur og fleiri.
… Mikla skemmtun hefi ég haft af að tala við bræður mína og heyra hvurnig þeir skoða ýms málefni og hvað skoðun þeirra er eðlileg og hlutdrægnislaus. Bænarskráin sýnir annað að mér virðist og unnu að henni þeir sem álitnir eru vitrastir í Ísafjarðarsýslu en ég álít varaþingmanninn þar [þ.e. Kristján Ebenezersson í Reykjarfirði við Djúp – innsk. K.Ó.] og Torfa Halldórsson vitrasta af innfæddum þar. Hvorugur þeirra vildi flasa að þessu svona fljótlega og víst vona ég eftir að geta fengið glöggvara skoðun á málinu síðar.
… Á leiðinni hingað fann ég séra Þórarinn í Vatnsfirði og Kristján í Reykjarfirði og þótti þeim kaupstaðarbúar heldur fljótráðir og létu ekki vel yfir aðferð þeirra. Kristjáni átti að senda bænarskrána til að safna undirskriftum en þá var hún ekki komin. Líka átti að senda Guðmundi á Mýrum hana en ekki veit ég hvurnig mér hefir tekist að greiða þar fyrir þeim höfundum hennar en síst vildi ég að Dýrfirðingar hefðu ritað undir þessa bænarskrá.[531]
Líklegt er að Magnús á Hvilft hafi ráðið nokkru um það að Dýrfirðingar sendu frá sér aðra bænarskrá þar sem beiðni Frakka um Þingeyri var að vísu hafnað en jafnframt opnað fyrir viðræður um málið (sjá hér Þingeyri) og neitunin því engan veginn jafn afdráttarlaus og í bænarskránni sem samin var á Ísafirði og sagt var frá hér litlu framar. Á Alþingi þar sem Jón Sigurðsson réð ferðinni varð niðurstaðan sú að hafna erindi frönsku stjórnarinnar að svo komnu og eins og það lá fyrir en jafnframt var gefið til kynna að samningar um málið gætu komið til greina að uppfylltum vissum skilyrðum (sjá hér Þingeyri). En þó að boðið væri upp á viðræður ef Frakkar léttu af fisktollinum dugði það ekki til því enn voru tollverndarsinnar sterkari en fríverslunarmenn í keisarastjórninni í París. Vegna andstöðu Breta átti danska stjórnin líka mjög erfitt um vik að ganga til samninga (sjá hér Þingeyri).
Með bréfi því sem Magnús skrifaði Jóni Sigurðssyni 2. janúar 1857 fylgdi löng álitsgerð er hann hafði samið og nefndi: Skoðun mín á fiskverkunarstofnun Frakka á Dýrafirði.[532] Frá röksemdum Magnúsar sem þar er að finna verður þó ekki gerð nánari grein hér og einnig sleppt að kynna til hlítar málflutning þeirra sem stóðu að bænarskrá Ísfirðinga. Þeim sem fræðast vilja nánar um þau efni skal hins vegar vísað á ritgerð höfundar þessarar bókar sem birt var árið 1987 í tímaritinu Sögu og á þær frumheimildir sem þar eru nefndar.[533] Eitt atriði úr hinni löngu álitsgerð Magnúsar verður þó að draga hér fram og varðar verslunina á Þingeyri þar sem Edward Thomsen réð enn ríkjum árið 1857. Um Thomsen hafði Magnús áður látið falla hörð orð í bréfum til Jóns Sigurðssonar (sjá hér bls. 39-40).. Nú lét hann uppi þá skoðun að Dýrfirðingar gætu vel komist af án fastaverslunar á Þingeyri og betra væri að hafa von um franska verslun en vissu um að Thomsen héldi áfram sínum verslunarrekstri þar.[534] Um þessi efni kemst Magnús svo að orði:
Ekki virðist mér það neitt skelfilegt þó sú núverandi fastaverslun á Dýrafirði liði undir lok. Dýrfirðingar geta fengið til sín lausakaupmenn eins og þeir hafa gert og öllu heldur þegar þeir (það er lausakaupmennirnir) geta fengið það lítið af íslenskri vöru sem þar væri til. Dýrfirðingar hafa líka komið ýmsum nauðsynjum sínum af Ísafirði og svo með fiskiskútum. Mundi þeim því ekki verða ómögulegt að nálgast nauðsynjar sínar vetrartímann … því ég ætla að víða á landi hér séu örðugri kaupstaðarferðir en þessar [þ.e. úr Dýrafirði til Ísafjarðar eða Bíldudals – innsk. K.Ó.] og það þar sem allar nauðsynjar verður að sækja. Úr þessu kynni líka að bætast ef Frakkar, sem vonandi er, byrjuðu þar verslun.[535]
Hér hefur áður verið bent á hið nána samband sem Magnús bóndi á Hvilft hafði í allmörg ár við Jón Sigurðsson forseta. Vel má vera að Jón hafi haft einhver áhrif á viðhorf Magnúsar í deilunni um Dýrafjarðarmálið en svo þarf alls ekki að vera því bóndinn á Hvilft var vanur að hugsa mjög sjálfstætt og mynda sér sínar eigin skoðanir. Fullvíst er þó að Magnús las með athygli þann áróður sem rekinn var fyrir nýlendustofnun Frakka á Þingeyri í Nýjum félagsritum, tímariti Jóns Sigurðssonar, árið 1856. Það staðfestir hann sjálfur í álitsgerð sinni sem fylgdi bréfi hans til Jóns frá 2. janúar 1857.[536] Magnús kunni talsvert fyrir sér í pólitík og hefur efalítið leyft sér að álykta sem svo að grein sem norskur kaupmaður skrifaði um Dýrafjarðarmálið í Ný félagsrit[537] endurspeglaði að meira eða minna leyti skoðanir þess sem stóð fyrir útgáfu ritanna. Auk þess má búast við að Jón hafi rætt málið í einu eða fleiri bréfum til Magnúsar en öll bréfin sem hann fékk frá forseta eru nú glötuð. Hér sýnist ástæða til að gera ráð fyrir að bóndinn á Hvilft hafi að vísu staðið á eigin fótum en vitneskjan um bakstuðning frá Jóni hafi eflt hann og magnað í hinum hatrömmu átökum. Löngun hans til félagsskapar við Jón Sigurðsson var sterk og kemur meðal annars fram í orðum sem hann lét falla í títtnefndu bréfi frá 2. janúar 1857 þegar deilurnar um Dýrafjarðarmálið stóðu hvað hæst. Þar stendur þetta skrifað: Ég hefi nú ekki tíma til að skrifa þér nema tíunda hluta þess sem ég hefði talað við þig og ef við fynnustum er ég strax farinn að kvíða fyrir að skilja við þig.[538]
Í bréfum Magnúsar má víða sjá merki um rótgróið traust hans á Jóni og pólitískri forystu hans. Stundum vottar fyrir svolítilli persónudýrkun og um einlæga vináttu bóndans á Hvilft við leiðtogann í Kaupmannahöfn þarf enginn að efast. Augliti til auglitis munu þeir aðeins hafa hist 1845 og 1847 en oft var Magnús að vona að Jón kæmi vestur í þriðja sinn. Fáeinar setningar úr bréfum Magnúsar nægja til að varpa svolitlu ljósi á tengsl hans við Jón Sigurðsson sem ekki voru bara pólitísk heldur líka persónuleg.
Mér þykir nú verst ef þú getur ekki fundið okkur í vor, skrifar hann 27. ágúst 1848 en ári síðar koma þessi orð á blaðið: Nú heyrði ég fyrst að þú værir lifandi og lofa ég guð.[539] Þann 8. ágúst 1852 segir Magnús í bréfi til leiðtogans:
Nú ríður mér mikið á að þú komir því annars veitast allir að mér og álíta orð mín aldrei framar markandi og verður mér þá ekki vært í sýslunni. Mikil nauðsyn væri að þú kæmir hingað og yrðir á Kollabúðafundi.[540]
Undir niðri mun Magnús þó hafa verið vantrúaður á að Jón legði leið sína vestur því neðanmáls í þessu sama bréfi bætir hann við: Mikið langar mig til að ég ætti mynd þína því líklega sé ég þig aldrei.[541] Vona má að hinn fjarlægi leiðtogi hafi sýnt sínum trygga vini á Hvilft þá tillitssemi að senda honum mynd.
Eins og alkunnugt er kvæntist Jón forseti Ingibjörgu Einarsdóttur, frænku sinni, haustið 1845. Dálítið skemmtilegan kumpánskap er að finna í bréfum Magnúsar til forseta frá árunum 1847 og 1848 þegar hann víkur að væntanlegri barneign Jóns og Ingibjargar. Fyrirspurn sína um þetta orðar Hvilftarbóndi svo haustið 1847: Ertu ekki búinn að búa til prófessorinn? [542] Þessa mikilvægu spurningu endurtekur hann fáum mánuðum síðar og segir: Er prófessorinn ekki kominn í ljósmál ennþá? [543] Því miður varð þeim Jóni Sigurðssyni og eiginkonu hans ekki barna auðið og brátt hefur Magnús skilið að vart væri við hæfi að halda áfram að spyrja um prófessorinn sem aldrei kom í ljósmál.
Lúðvík Kristjánsson, sem manna mest hefur kannað pólitísk tengsl Jóns forseta við Vestfirðinga, segir engan vafa leika á því að um allt að 20 ára skeið hafi enginn maður í kjördæmi Jóns orðið honum að eins miklu gagni og Magnús á Hvilft.[544] Stuðningur hans við Jón Sigurðsson, segir Lúðvík, var svo mikilvægur, traustur og afdráttarlaus að vandséð er að nokkur annar íslenskur þingmaður hafi á þessu tímabili notið slíks liðsinnis sem Jón af hendi Magnúsar.[545] Undir þau orð mun óhætt að taka.
Síðast veitti Magnús Jóni verulegt liðsinni 1856 og 1857 í átökunum um Dýrafjarðarmálið sem hér var áður sagt frá og við söfnun undirskrifta undir áskorun til Jóns snemma á árinu 1858 þar sem þess var farið á leit að hann gæfi enn kost á sér við komandi alþingiskosningar (sjá hér bls. 48-50). Síðar á því ári ritaði Magnús síðasta bréf sitt til Jóns sem um er kunnugt og svo virðist sem hann hafi þá hætt öllum pólitískum afskiptum, tæplega fimmtugur að aldri. Engar líkur benda til þess að sú ákvörðun hafi verið tekin vegna ágreinings við forseta því sjaldan eða aldrei hafði pólitískt og persónulegt samband þeirra verið nánara en á árunum 1856-1858. Í bréfum Magnúsar til Jóns frá næstu tíu árum á undan sést hins vegar stöku sinnum að tilhneiging til uppgjafar sótti stundum að hinum annars vígreifa baráttumanni á Hvilft. Hann finnur þá til vanmáttar síns eins og sjá má í bréfi frá 2. janúar 1848 þar sem þessi orð er að finna: Mönnum kann ekki að sýnast mér fara svo að stöfnum að orðum mínum sé mikill gaumur gefandi.[546] Hálfu öðru ári síðar hrjóta þessi orð svo úr penna Magnúsar: Ég verð nú að hætta við bréfið og kannski fleira. Verði guðs vilji. Hann veit hvort mér auðnast að skrifa þér bréf með glaðara bragði en nú. … Margt er manna bölið.[547]
Ýmislegt bendir til þess að á árinu 1858 hafi hinir þungu þankar sótt harðar að Magnúsi en áður. Erfiðleikar í útgerð og búskap kunna að hafa valdið þar nokkru um en orsök þess gæti líka verið að finna í einkamálum sem hvergi eru nefnd nema ef vera skyldi undir rós. Í bréfi til Jóns forseta frá 8. mars á því ári tjáir hann sig meðal annars á þessa leið:
Nú veit ég að þú reiðist við mig af því ég yfirgef Bókmenntafélagið en það er ekki því að kenna heldur kringumstæðum mínum sem eru nokkuð erfiðar og undarlega ónotalegar. Ég veit varla hvort þú tryðir því þó ég segði þér eins og er en þess háttar skrifa ég ekki. Ríður heldur á engu. … Ég þori nú varla að mælast til að þú skrifir mér oftar línu, ég er þess ekki verðugur.[548]
Tæplega hálfu ári síðar settist Magnús við að skrifa Jóni sitt síðasta bréf og segir þá meðal annars:
Jafnvel þó ég hafi ekki fengið bréf frá þér síðan ég skrifaði þér síðast sest ég nú niður að hripa þessar línur og þori ekki að hafa blaðið minna af því ég verð oft langorður við þig því þegar ég fer að skrifa þér er eins og sálin sé að fljúga í híbýli gleðinnar og svo er nú. Mér liggur nú margt þungt á hjarta en finn lítið til þess á meðan ég er eins og á tali við þig.[549]
Að þessum orðum skrifuðum leitar Magnús lögfræðilegra ráðlegginga hjá Jóni út af deilu um skattlagningu sem hann átti í við amtmann og skýrir það allt skilmerkilega í löngu máli.[550] Undir lok þessa sama bréfs greinir bóndinn á Hvilft lítið eitt frá sínum eigin högum og breytingum sem orðið hafi á þeim. Hann ritar þá á þessa leið:
Ég held þér þyki ég fáorður um þjóðmálefnin. … Það er nú annars fyrir mér eins og Satan þegar hann var krepptur í sauðarlegg. Ég er nú hættur að vera bóndi, búinn að selja partinn minn í þiljubátnum og lagasafnið líka en til þess manns sem ljær mér það þegar ég vil (en hann og ég þurfum viðbótina), hættur að lesa en erfiða á meðan ég fæ og get. Þú mátt trúa að þetta er ekki orsakalaust og orsökina er hægt að sjá. Gef ég því ekki um að nefna hana. Af þessu máttu sjá hvað mér er hægt um vik enda hreyfist ég ekki nema þegar mér þykja aðrir fjarska afskiptalausir og má þó oft ærast í öflugum fjötrum og pína sjálfan mig til afskiptaleysis.[551]
Með þessum hætti lauk bréfaskiptum Magnúsar á Hvilft og Jóns Sigurðssonar því ekki er til þess vitað að nokkur skrif hafi farið þeirra á milli síðar. Í búnaðarskýrslum og hreppsbók Mosvallahrepps fæst staðfesting á þeim orðum Magnúsar að hann hafi hætt að búa árið 1858 og selt eignarhlut sinn í þiljubátnum á því sama ári.[552] Árið 1857 átti Magnús enn einn fjórða part í þilskipi[553] og þá að öllum líkindum í Boga sem hér var áður frá sagt (sjá hér bls. 31-32). Á því ári settist Torfi Halldórsson að á Flateyri[554] og átti þá þegar fimm sjöttu parta í þilskipi.[555] Í búnaðarskýrslunum sést að á árinu 1858 hættir Magnús allri þátttöku í útgerð þilskipa og við lok þess árs var Torfi eini maðurinn í Mosvallahreppi sem átti hlut í þilskipi.[556] Eignarhlut sinn í þilskipinu Boga hefur Magnús að öllum líkindum selt Ásgeiri Á. Johnsen, sem þá rak verslun á Ísafirði, því fullvíst er að vorið 1859 átti Ásgeir þrjá fjórðu parta í þessu þilskipi eða öðru með sama nafni.[557]
Svo virðist sem hugsunin um að hverfa frá búskap hafi farið að sækja á Magnús eigi síðar en 1853 og reyndar liggur fyrir að fardagaárið 1854-1855 var hann ekki við bú á Hvilft en leigði jörðina bændunum Ólafi Árnasyni og Jóhannesi Guðmundssyni.[558] Vorið 1855 tók Magnús svo aftur við búi á Hvilft og bjó í þrjú ár en hætti þá alveg við búskapinn eins og fyrr var nefnt. Þegar Magnús hvarf frá búi hið fyrra sinn, vorið 1854, voru bæjarhúsin á Hvilft tekin út og í þeirri úttektargerð gefst okkur kostur á að sjá svona nokkurn veginn hvernig bærinn sem Magnús og Ragnheiður kona hans bjuggu í leit út.[559]
Baðstofan á Hvilft var 8,50 x 5,75 álnir[560] eða liðlega 19 fermetrar. Hún var öll undir súð og baðstofuloftið alþiljað.[561] Sex rúmstæði voru í baðstofunni og þrír glergluggar.[562] Búr og eldhús voru í einu húsi sem var um það bil 7,5 metrar á lengd og 3,3 metrar á breidd.[563] Gólfflöturinn í því húsi hefur því verið næstum því 25 fermetrar. Bæjardyrnar, það er göng frá baðstofu til útdyra, voru 3 álnir á lengd með dyraumbúningi, þili og hurð en vorið 1854 var þessi inngangur í bæinn eitthvað farinn að lasnast ef marka má orð úttektarmannanna.[564] Að innanverðu við baðstofuna voru svo önnur göng[565] sem líklega hafa legið frá henni til búrs og eldhúss. Fleiri voru vistarverurnar ekki ef frá eru talin gripahús.
Að 21 ári liðnu frá úttektinni 1854 voru gömlu bæjarhúsin á Hvilft enn tekin út en þá var Finnur, sonur Magnúsar Einarssonar, að taka við annarri hálflendunni á Hvilft úr hendi Járngerðar Indriðadóttur (sjá hér 80-81). Bærinn sem Finnur fékk þá í hendur hafði lítið breyst frá dögum föður hans en þó var búið að stækka göngin og húsið sem búrið og eldhúsið voru í hafði verið lengt um þrjár álnir.[566] Í úttektinni frá 1875 sést að hæð baðstofuhússins var um það bil 3,8 metrar en hitt húsið var rösklega 60 sentimetrum lægra.[567] Í þessari seinni úttekt sjáum við líka að tveir af glergluggunum voru uppi á baðstofuloftinu en einn á gólfi,[568] það er niðri. Þessum síðastnefnda glugga fylgdi gluggakista en hinir tveir voru kistulausir.[569]
Þegar Magnús Einarsson hætti að búa á Hvilft árið 1858 leigði hann jörðina bræðrunum Birni og Andrési Sakaríassonum en dvaldist hér áfram um skeið sem húsmaður.[570] Árið 1850 hafði Magnús búið með 4 kýr, 1 kvígu, 1 kálf, 50 ær, 20 sauði og hrúta, 28 gemlinga, 48 lömb og 3 hesta.[571] Auk þessa átti hann þá hálft naut á móti Vigfúsi Eiríkssyni í Neðri-Breiðadal.[572] Bú Magnúsar var þá hið stærsta í Mosvallahreppi ef frá er talið bú prestsins í Holti.[573] Auk partsins í þilskipinu Boga átti hann þá líka fjóra opna báta og var sá stærsti þeirra áttæringur.[574] Enn er þá ótalinn bátur, sexæringur eða fjögra manna far, sem Magnús átti hálfan á móti öðrum manni.[575] Allt sýnir þetta að varaþingmaðurinn á Hvilft hefur verið mjög umsvifamikill bóndi á þeirrar tíðar vísu og þess má geta að árið 1850 var líka kominn kál- eða kartöflugarður á Hvilft, 20 ferfaðmar að flatarmáli.[576]
Nær öllu þessu varpaði Magnús frá sér þegar hann hætti að búa en athyglisvert er þó að á þeim fimm árum sem hann taldist vera húsmaður á Hvilft og síðan vinnumaður á Flateyri, var hann alltaf með nokkrar kindur og eina meri.[577] Ærnar sem Magnús átti á þessu skeiði voru aldrei færri en ellefu og aldrei fleiri en fimmtán og sauðirnir oftast lítið eitt færri en ærnar.[578] Einn bát átti hann líka á þessum árum og mun það hafa verið sexæringur eða áttæringur því hann er kallaður skip í hreppsbókinni.[579] Þó Magnús hætti að búa seldi hann ekki jörðina og hefur því haft einhverjar tekjur af henni svo og af bátnum og kindunum ef að líkum lætur.
Sem húsmaður hafðist Magnús við á Hvilft í tvö ár, 1858-1860, með konu sína, soninn Finn og yngri dótturina.[580] Af börnunum þremur sem upp komust var Finnur elstur, fæddur 1839, þá Þuríður, fædd 1840 og yngst var Ragnheiður, fædd 1848.[581] Vorið 1860 fluttist Magnús frá Hvilft að Flateyri og var þar næstu þrjú ár.[582] Þar naut hann skjóls hjá Torfa Halldórssyni sem orðinn var umsvifamaður en röskum áratug fyrr hafði Magnús veðjað á þennan unga mann frá Arnarnesi og gert hann að skipstjóra á þilskipinu Boga (sjá hér Arnarnes og Flateyri). Ekki er ólíklegt að Torfi hafi talið sig eiga Magnúsi skuld að gjalda og vera má að hjá honum hafi hann fengið sína fyrstu menntun í sjómannafræðum. Allar vonir sem Magnús batt við Torfa virtust líka hafa ræst og í bréfi sínu frá 2. janúar 1857 til Jóns Sigurðssonar gaf bóndinn á Hvilft þá yfirlýsingu að hann teldi Torfa Halldórsson annan tveggja gáfuðustu manna í röðum innfæddra í Ísafjarðarsýslu (sjá hér bls. 60). Sjálfur var Magnús ekki innfæddur því hann fæddist í Strandasýslu.
Í sóknarmannatölum frá árunum 1861, 1862 og 1863 er Magnús sagður vera vinnumaður hjá Torfa en Ragnheiður, eiginkona Magnúsar, nefnd húskona á Flateyri[583] sem bendir til þess að hún eða þau Magnús bæði hafi haft einhverja kompu út af fyrir sig í Torfahúsi og matast sér en ekki við borð Torfa og Maríu konu hans. Finnur, sonur Magnúsar og Ragnheiðar, var á þessum árum vinnumaður hjá Torfa en hvorug dætranna kom með þeim til Flateyrar.[584] Þuríður fluttist 17 ára gömul frá Hvilft að Hvalgröfum á Skarðsströnd í Dalasýslu árið 1858[585] en Ragnheiður varð eftir á Hvilft þegar foreldrar hennar fóru þaðan.[586] Hún var þá um 12 ára aldur og dvaldist næstu árin hjá hjónunum Andrési Sakaríassyni og Helgu Guðmundsdóttur, fyrst á Hvilft en síðan á Vöðlum.[587]
Þegar Magnús settist að hjá Torfa á Flateyri árið 1860 var hann kominn á sextugsaldur og hefur að líkindum gert ráð fyrir að dveljast þar um kyrrt til æviloka. Allt fór það samt á annan veg því árið 1863 breytti þessi fyrrverandi bóndi á Hvilft enn um stefnu. Á því ári tók hann sig upp og fluttist frá Flateyri norður í Húnaþing. Magnús fór einn norður því konan fylgdi honum ekki.[588] Meðal niðja þeirra hefur lifað sú saga að hann hafi farið á einni meri og skilið allt eftir sem þau hjónin áttu sameiginlega.[589] Sú saga kynni að vera sönn og víst er um það að eina hrossið sem Magnús átti síðustu árin í Önundarfirði var einmitt meri (sjá hér bls. 66).
Enginn getur nú sagt með vissu hvers vegna Magnús hætti að búa árið 1858 og hætti öllum afskiptum af opinberum málum eða af hverju hann yfirgaf konu sína fimm árum síðar og fluttist norður í land. Af orðum hans sjálfs, sem hér var áður vitnað til, má ráða að síðasta búskaparárið á Hvilft átti hann í miklum erfiðleikum, sem líklega hafa fremur verið persónulegir en peningalegir, og taldi kringumstæður sínar vera undarlega ónotalegar.
Í samtímaheimild sem hér verður brátt gerð grein fyrir sést að áður en Magnús fór úr Önundarfirði var hann farinn að glíma við að smíða róðrarvél [590] og mun hafa lagt ofurkapp á það verkefni. Á árunum 1848-1850 hafði hann oftar en einu sinni beðið Jón Sigurðsson að útvega sér upplýsingar um skrúfuna sem þá var farið að setja í einstaka báta í þeim löndum þar sem tækniþróunin var lengst á veg komin (sjá hér bls. 50-51). Við þessari beiðni fékk Magnús engin svör frá Jóni en sjálfur vissi hann að skrúfunni var ætlað að létta af mönnum því mikla striti sem fylgdi setunni undir árum.
Um miðbik nítjándu aldar voru engar vélar til á Íslandi en þeir sem best fylgdust með fengu stöku sinnum fréttir af nýjum uppgötvunum og furðulegum tækniundrum úti í hinum stóra heimi. Líklegt er að fréttirnar um skrúfuna eða skrúfuvélina hafi vakið hjá Magnúsi þá hugsun að sjálfur gæti hann ef til vill smíðað slíka róðrarvél. Hann var hagur maður. Óljóst er nú hvenær hann fór að gefa sig að þessu verkefni fyrir alvöru en vera má að hugmyndin um vélarsmíðina hafi með beinum eða óbeinum hætti flýtt þeirri ákvörðun hans að hætta við búskapinn. Líklegra er þó hitt að þegar í óefni var komið heimafyrir hafi hann gefið þessari ástríðu lausan tauminn og ákveðið að leggja flest annað til hliðar. Nú gæti einhverjum dottið í hug að fyrst Magnús fór að glíma við skrúfuna hafi hann sjálfur verið með lausa skrúfu svo fátítt sem slíkt hugðarefni var á þessum tíma. Hér skal því tekið fram að hvergi verður vart við vott af geðtruflun í bréfum Magnúsar og ekki sjáanlegt að samtímamenn hans sem á hann minnast hafi látið sér detta slíkt í hug. Annað mál er það að hugsunin um róðrarvélina og reyndar fleiri vélar varð að ástríðu sem tók hug hans fanginn.
Árið 1861 fluttist tvíburabróðir Magnúsar, Ásgeir Einarsson, þingmaður Strandamanna, frá Kollafjarðarnesi að höfuðbólinu Þingeyrum í Húnaþingi og reisti þar bú.[591] Ásgeir bjó síðan á Þingeyrum til dauðadags ef frá eru talin fjögur ár, 1863-1867, sem hann var bóndi í Ásbjarnarnesi[592] þar skammt frá en Jón sonur hans stóð þá fyrir búinu á Þingeyrum.[593] Ásgeir sat mjög lengi á Alþingi og var í miklu vinfengi við Jón Sigurðsson forseta. Í bréfi sem hann skrifaði Jóni 23. febrúar 1864 kemst hann svo að orði: Nú er Magnús bróðir minn að smíða hér eina róðrarvél. Hann varð að hætta við hana því Ísfirðingar brugðust honum og óvíst þetta lukkist. Hann biður kærlega að heilsa þér.[594]
Þessi orð Ásgeirs varpa skýru ljósi á brottför Magnúsar úr Önundarfirði og gefa til kynna hvað hann hefur sjálfur sagt um ástæður þeirrar ráðabreytni. Stuðningurinn sem hann vænti sér frá mönnum í Ísafjarðarsýslu hlýtur að hafa verið fjárhagslegur. Það þurfti peninga til að smíða róðrarvélina. Ekki er ólíklegt að einhverjir hafi gefið ádrátt um liðsinni og máske lagt fram fé en kippt að sér hendinni þegar bið varð á árangri og neitað að leggja meira fram. Þá hefur Magnús snúið sér til Ásgeirs bróður sins, sem var sterkefnaður og mikið fyrir nýjungar, og orðið úr að vélasmiðurinn kæmi norður. Fullvíst má telja að þannig hafi málin að minnsta kosti litið út á ytra borði. Hafi aðrar orsakir ráðið meiru í raun um burtför Magnúsar úr Önundarfirði og norðurreið hans þá eru þær faldar undir þagnarfargi sem ekki verður lyft. Stirðleiki í hjónabandi kynni að hafa verið einhver en hefur varla ráðið úrslitum. Hitt er skiljanlegt að Ragnheiði Finnsdóttur hafi ekki litist á að elta karlinn norður í land og vera þar upp á aðra komin.
Fátt mun nú vera í boði til fróðleiks um skoðanir samtímamanna Magnúsar í Önundarfirði og nálægum byggðum á þeirri undarlegu ráðabreytni hans að hverfa frá búskap og fara að smíða róðrarvél sem aldrei tókst þó að koma í gagnið. Eitt dæmi úr skrifum manns sem fæddist í Súgandafirði fimmtán árum eftir brottför Magnúsar úr Önundarfirði gefur þó hugmynd um hvaða orðspor fór af honum og hvað ungir menn á árunum kringum aldamótin 1900 fengu að heyra um glímu hans við skrúfuna hjá mönnum sem sjálfir mundu eftir þessum merkilega bónda á Hvilft.
Valdimar Þorvaldsson, sem fæddur var árið 1878 og átti alla ævi heima í Súgandafirði, getur í skrifum sínum um frumkvæði Magnúsar varðandi breytingar á seglabúnaði áraskipa í Ísafjarðarsýslu og greinir frá tilraunum hans til að smíða nothæfa róðrarvél. Að sögn Valdimars var þverseglið eina seglið á áttæringum og sexæringum Vestfirðinga allt fram undir miðja 19. öld eða jafnvel lengur.[595] Þeir gátu þá aðeins siglt undan vindi en náðu ekki að slaga á móti vindinum. Ef marka má orð Valdimars, sem sjálfur var bátasmiður, var það Magnús á Hvilft sem tók upp nýjan seglabúnað, fyrstur manna á sínum heimaslóðum. Um þessi efni ritar Valdimar svo:
Að slaga þekktist ekki á svona skipum (áraskipum) fyrr en loggar- eða lokkarseglin komu en það var Magnús Einarsson, bóndi á Hvilft í Önundarfirði, er fyrstur byrjaði með þau að franskri fyrirmynd og svo bættu menn þau mikið síðar og gátu slagað með þeim á smásævi og tók vel ef meðstraumur var.[596]
Þegar þarna er minnst á loggar- eða lokkarsegl mun vera átt við loggortusegl.[597]
Um framgöngu Magnúsar við smíði á hinni fyrirhuguðu róðrarvél kemst Valdimar svo að orði:
Og þörfin fyrir að fá vél fyrir árarnar mun hafa grafið um sig hjá mörgum eftir að skip fóru að sjást ganga fyrir vélarafli og að líkum hafa margir á öllu landinu lagt hugann í slíkt en enginn sem Magnús á Hvilft. Hann lagði í það allt sem hann gat og gat ekki. Bað um styrk en fékk ekki. Mun hafa smíðað prufu sem hann reyndi og síðan mótel úr tré til að steypa limi í fullkomnari vél. Lengra komst hann ekki.[598]
Hér var þess áður getið að Magnús og Ásgeir bróðir hans voru tvíburar (sjá hér bls. 25) og sagan sem nú verður rifjuð upp sýnir að þeir muni hafa verið eineggja. Sú frásögn er komin frá Finni Jónssyni sem bjó lengi á Kjörseyri í Hrútafirði og byrjaði búskap sinn þar árið 1869.[599] Hann sagði svo frá komu Magnúsar að Þingeyrum vorið 1863:
Þegar Magnús fluttist að Þingeyrum var Gísli Sigurðsson samferða honum. Sagði hann að þeir bræður hefðu verið svo líkir að ekkert hefði skilið þá nema Magnús hefði verið gráhærðari en Ásgeir. Þeir voru þá um sextugt. Þeir Magnús og Gísli komu að Þingeyrum að kvöldi dags og var orðið skuggsýnt. Kom Guðlaug, kona Ásgeirs, fram til þeirra. Hún þekkti ekki Magnús en málrómur bræðranna var svo líkur að hún hélt að þetta væri einhver bannsettur gárungi að herma eftir Ásgeiri og þegar Ásgeir kom þekkti hann ekki bróður sinn.[600]
Sú fullyrðing að Ásgeir hafi ekki þekkt bróður sinn, sem var svona líkur honum sjálfum, verður að teljast ótrúleg þó að menn litu sjaldnar í spegla þá en nú. Að öðru leyti má ætla að þarna sé rétt með farið og geta menn þá gert sér hugmynd um útlit Hvilftarbóndans með því að skoða myndir af Ásgeiri bróður hans sem víða er að finna í ritinu. Engin mynd mun hins vegar vera til af Magnúsi.
Gísli Sigurðsson, sem varð samferða Magnúsi að Þingeyrum vorið 1863 og sagði Finni á Kjörseyri þessa sögu, var fæddur árið 1835 og bjó lengi í Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði.[601] Hafi Magnús komið einhesta yfir Steingrímsfjarðarheiði var ekki óeðlilegt að hann fengi samfylgd úr Kollafirði því líklega hefur hann verið ókunnugur á ferðaleiðum í Húnavatnssýslu. Gísli Sigurðsson bjó árið 1863 á Hamri í Kollafirði,[602] jörð sem nú er komin í eyði.
Þegar Magnús kom norður settist hann að á Þingeyrum hjá Jóni Ásgeirssyni, bróðursyni sínum, og taldist vera vinnumaður.[603] Jón tók við búi á Þingeyrum af Ásgeiri föður sínum í fardögum sama ár og Magnús kom norður. Þessi nýi bóndi á Þingeyrum var þá ungur að árum, aðeins 25 ára gamall, og kona hans, Ingunn, ekki nema 19 ára.[604] Hún var dóttir Magnúsar Ólsen, umboðsmanns á Þingeyrum, og systir Björns M. Ólsen, fyrsta rektors Háskóla Íslands.[605] Á Þingeyrum sat hinn fyrrverandi bóndi á Hvilft í sjö ár, fyrst hjá Jón Ásgeirssyni frá 1863 til 1867 og síðan hjá Ásgeiri bróður sínum frá 1867 til 1870.[606]
Skömmu eftir komu sína norður kynntist Magnús frænda sínum, Torfa Bjarnasyni, síðar skólastjóra í Ólafsdal, sem þá var vinnumaður hjá Ásgeiri bróður hans. Skyldleika þeirra var þannig háttað að móðuramma Torfa og móðir Magnúsar voru systur.[607] Torfi var á þessum árum ungur maður á þrítugsaldri, fæddur 1838,[608] og hafði stundað nám við búnaðarskólann sem starfaði í fáein ár í Flatey á Breiðafirði[609] og komið var á stofn fyrir forgöngu þeirra sem sátu Kollabúðafund árið 1857.[610] Hinn ungi Torfi var logandi af áhuga fyrir öllum nýjungum sem orðið gætu landbúnaðinum til eflingar og var um þetta leyti að semja ritgerð um framfarir á Íslandi.[611] Þó að Magnús væri nær 30 árum eldri en Torfi urðu þeir nánir vinir eins og sjá má í bréfum sem Magnús skrifaði þessum unga frænda sínum á árunum 1865-1867.[612] Ellefu bréf Magnúsar til Torfa hafa varðveist og eru þau öll skrifuð á árunum 1865-1867.[613] Hin eldri þessara bréfa eru skrifuð áður en Torfi fór til náms í Skotlandi en þá átti hann heima í Ásbjarnarnesi eins og hér var áður nefnt. Vorið 1866 sigldi Torfi til Skotlands og þangað voru síðustu bréfin frá Magnúsi send.[614] Í bréfum Magnúsar sést að Torfi hefur svarað þessum bréfum frænda síns[615] en bréf hans til Magnúsar munu því miður vera glötuð.
Bréf Magnúsar til Torfa bera með sér að þessi ungi frændi hans hefur sýnt tilraunum hans til að búa til vélar verulegan áhuga og í sumum þeirra ver bréfritarinn löngu máli í að gera grein fyrir þessari eða hinni vélinni sem hann er með í takinu.[616] Fyrir kemur að teikningar fylgi með.[617] Helstu vélarnar sem Magnús nefnir og hann var að fást við eru þessar: Róðrarvél, sláttuvél, rakstrarvél, ísvél, tjarnavél og brimflaki.[618] Sum þessara orða þarfnast reyndar skýringa. Brimflakinn var ætlaður til að auðvelda mönnum að lenda í brimsjó en ísvélinni var ætlað að brjóta lagnaðarís á sjó og vötnum svo hægt væri að komast ferða sinna á bátum þrátt fyrir nokkur ísalög.[619] Tjarnavélin var ætluð til að slá og raka tjarnir með og uppdrátt af henni lét Magnús fylgja bréfi sem hann skrifaði Torfa á nýársdag árið 1866.[620] Hér verður ekki ráðist í að gera grein fyrir hugmyndum Magnúsar um hverja einstaka vél en vilji menn kynna sér útskýringar hans geta þeir skoðað bréfin sem hér hefur verið vitnað til.
Róðrarvélina, sem Magnús var að fást við meðan hann átti enn heima í Önundarfirði, virðist hann hafa gefið upp á bátinn um skeið skömmu eftir að hann kom norður en fór svo að fást við hana aftur. Í bréfi frá 2. febrúar 1866 segist hann ætla að minnast á þá gömlu, nefnilega róðrarvélina og kveðst vera að hugsa um að bæta við vindmylluhjólum og hafa kambhjólið á rönd.[621] Í þessu bréfi sést að viðtakandinn, strákurinn Torfi, hefur verið að reyna sig við túnasláttuvél og stutt verið á milli þeirra frænda í þessum þenkingum.[622] Í bréfi frá 19. febrúar 1866 segir Magnús: Þegar ég var búinn að hugsa upp tjarnavélina hélt Ásgeir að svo mætti búa til sláttuvél á þurru landi ef ljáirnir heppnast og er ég ekki fjarri því á vel sléttu og loðnu engi.[623]
Síðar í þessu bréfi greinir Magnús svo frá hugsunum sínum: Vonlítill er ég um endalausu skrúfuna. Í nótt var ég að hugsa um hringvélina þangað til ég sofnaði en engu var ég nær.[624]
Haustið 1866 var Torfi kominn til Skotlands. Magnús skrifar honum þá 16. september og segist hafa sent honum uppdráttarómynd af sláttuvél er hann kveðst nýlega hafa hugsað upp.[625] Viku seinna skrifar Magnús annað bréf og skýrir þá nánar út hugmyndir sínar um sláttuvélina.[626] Hann talar þar líka um skoska sláttuvél sem hann hefur greinilega haft einhverja vitneskju um,[627] líklega frá Torfa.
Í bréfi sem Jón Ásgeirsson á Þingeyrum skrifaði Jóni Sigurðssyni forseta 27. febrúar 1866 segist hann hafa keypt sláttuvél af íslenskum manni vorið 1865.[628] Hann segir seljandann hafa fundið vélina upp og tekur fram að hann hafi lært smíðar utanlands.[629] Vélina segist Jón hafa keypt á 70 ríkisdali og lætur sér detta í hug að megi nota hana á slétt engi.[630] Engu að síður hvarflaði að honum að senda hana til Englands til að fá hana betrumbætta þar.[631]
Sú spurning vaknar hvort það hafi verið Magnús sem fann upp þessa sláttuvél og seldi frænda sínum. Ýmsum kann að sýnast líklegt að svo hafi verið en sitthvað mælir þó eindregið á móti því. Þar er fyrst að nefna að Jón segir þann sem smíðaði vélina hafi lært smíðar erlendis en í öðrum heimildum verður hvergi séð að það geti átt við Magnús. Í öðru lagi er mjög ólíklegt að bréfritari hefði látið nægja að tala um íslenskan mann ef það hefði verið Magnús frændi hans sem smíðaði vélina því væntanlega hefur hann haft einhverja hugmynd um hversu nákominn Magnús hafði verið viðtakanda bréfsins, Jóni forseta, um langt skeið og varamaður hans á Alþingi í átta ár. Í þriðja lagi ber að hafa í huga að Magnús var á þessum tíma vinnumaður bréfritarans og vinnumenn sína létu húsbændur smíða þetta og smíða hitt fyrir búið og þurftu ekki að kaupa af þeim smíðisgripina. Þannig segist Jón Ásgeirsson í sama bréfi hafa látið smíða fjórhjólaðan vagn og heljarmikinn pramma[632] en í annarri heimild sést að það var Magnús sem smíðaði prammann.[633] Í fjórða lagi mælir orðalag Magnúsar í bréfi sem hann skrifaði Torfa Bjarnasyni 19. febrúar 1866 gegn því að það hafi verið hann sem fann upp sláttuvélina er Jón frændi hans keypti vorið 1865. Í þessu bréfi ræðir hann um tjarnavélina sem áður var frá sagt og getur þess síðan að Ásgeir bróðir sinn haldi að svo mætti búa til sláttuvél á þurru landi ef ljáirnir heppnist (sjá hér bls. 72). Mjög ólíklegt verður að telja að maður sem lokið hefði smíði sláttuvélar ári áður en bréf þetta var skrifað og væri búinn að selja hana tæki svo til orða. Í bréfum sínum til Torfa minnist Magnús aldrei á sláttuvélina sem Jón frændi hans keypti vorið 1865 og bendir sú þögn einnig til þess að einhver annar hafi smíðið þá vél. Í bréfum sínum frá haustinu 1866 er Magnús hins vegar allur með hugann við sláttuvél sem hann kveðst þá hafa nýlega upphugsað [634] og verður ekki annað séð en það sé fyrst þá sem hann taldi sig vera í færum um að búa til sláttuvél. Niðurstaðan verður því sú að það hafi verið einhver annar íslenskur maður sem seldi Jóni á Þingeyrum slíkt tæki vorið 1865, enda vel hugsanlegt að fleiri en þeir frændur, Magnús og Torfi Bjarnason, hafi á þessum árum reynt að hugsa upp og smíða nothæfar heyvinnuvélar. Enginn þeirra náði þó fullum árangri því fyrstu sláttu- og rakstrarvélarnar sem hægt var að nota komu ekki hingað til lands fyrr en árið 1894.[635] Þá voru liðnir nær þrír áratugir frá því Magnús fór að reyna sig við smíði þvílíkra undratækja og sýnir það ásamt fleiru hversu langt hann var á undan sinni samtíð. Því má svo bæta við að á árunum 1865-1875 hélt Torfi áfram tilraunum sínum til að búa til nothæfa sláttuvél og sýndist það stundum ætla að takast. Til marks um það má nefna að í fréttapistli frá árinu 1875 segir svo: Sláttuvél sem Torfi Bjarnason í Ólafsdal hafði hugsað upp og búið til kom með skipi frá Björgvin. Frá honum komu einnig nýir ljáir og stálsvarfsbrýni.[636] Á skosku ljáina, sem Torfi kom í notkun hérlendis, var snemma borið mikið lof, enda léttu þeir mönnum sláttinn á túni og engjum svo mjög að ýmsir töldu löngu síðar að breytingin sem þá varð á verktækni hefði verið sú mesta á þeirra æviferli. Hins vegar náði Torfi ekki að gera sláttuvél sína þannig úr garði að hún hentaði til almennra nota. Í þeim efnum fór fyrir honum eins og Magnúsi frænda hans áður því einhvern herslumun vantaði.
Á Þingeyrum fékkst Magnús við ýmsar smíðar aðrar en vélsmíðarnar. Í bréfi sem Ásgeir bróðir hans skrifaði Jóni forseta sumarið 1864 greinir hann frá á þessa leið: Magnús bróðir er nú að enda við ógnarstóran pramma sem á að vera til heyflutninga. … Magnús biður að heilsa þér ástsamlega og konan mín líka.[637] Þennan pramma smíðaði Magnús fyrir frænda sinn og búsbónda, Jón Ásgeirsson á Þingeyrum. Í bréfinu sem Jón á Þingeyrum skrifaði Jóni forseta í febrúarmánuði árið 1866 og hér var áður nefnt greinir hann frá því helsta sem hann hafði látið gera viðvíkjandi búskapnum á þeim tæplega þremur árum sem þá voru liðin frá því hann tók við búi á hinu forna höfuðbóli.[638] Hann minnist þar á þrjú tæki sem hann hafi látið smíða, m.a. prammann, og má telja líklegt að Magnús hafi smíðað þau öll. Um þessi efni kemst Jón svo að orði:
Það fyrsta er að ég lét búa til vagn fjórhjólaðan sem ég hef til ýmsra flutninga og get ég flutt á honum 32ja vætta þyngsli [1600 kíló – innsk. K.Ó.] ef tveir hestar ganga fyrir. Stundum hef ég á honum segl og verður honum þá siglt svo að hann fer fljótar en hestur getur hlaupið. Hann kostaði mig rúma 100 ríkisdali með seglinu. Svo lét ég smíða pramma til heyflutninga því hér er vatn á milli engja og bæjar sem oft er ófært að fara með hesta yfir. Hann er 18 álna langur, 4½ alin á breidd í botninn, 5 álna breiður ofan þar sem hann er breiðastur og 1 alin á dýpt og þótti sumum þetta skrítið skipalag. Þó hefur hann reynst þægur til þess sem hann var ætlaður og eru menn nú hættir að skopast að honum sem gjörðu það þó meðan hann var í smíðum. Hann ber vel 160 vættir [8 tonn – innsk. K.Ó.] og kostaði mig að búa hann til 300 ríkisdali. … Nú er ég að búa til kana [þ.e. sleða – innsk. K.Ó.] og ætlast ég til að geta siglt honum bæði á ís og snjó og er ég nú ekki viss á hvort það kann að heppnast eða ekki.[639]
Svo virðist sem Magnús, fyrrverandi bóndi á Hvilft, hafi unað sér mjög vel á Þingeyrum. Ég er ólmur eins og fugl sem undan flýgur vindi, segir hann í fyrsta bréfinu til Torfa Bjarnasonar.[640] – Ég hef nú bestu heilsu sem mér er unnt, segir hann í öðru bréfi, rituðu ári síðar.[641] Hann greinir þar líka frá heimsókn sinni að Hjaltastöðum í Blönduhlíð til Eggerts Briem, sýslumanns Skagfirðinga,[642] en við hann batt Magnús vinfengi á árunum 1844-1848 þegar Eggert var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bjó um tíma í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði. Um heimsóknina að Hjaltastöðum segir Magnús m.a. þetta í bréfinu til Torfa: Ég fór á jólaföstunni að finna Briem og var þar viku og er það sú skemmtilegasta vika síðan þú fórst.[643] Á Hjaltastöðum ræddi Magnús meðal annars við son Eggerts, Eirík Briem, síðar prestaskólakennara, sem þá var ungur maður, og sagði Eiríkur honum frá greinargerð danska eðlisfræðingsins H.C. Örsted um pípu sem gæti látið vatn renna upp í móti.[644] Slíkar fréttir þóttu Magnúsi merkilegar og þegar hann skrifar Torfa til Skotlands ári síðar lætur hann þessi orð falla: Mikið þætti mér varið í ef þér hepppnaðist að uppfinna vél til að hefja vatn upp eins og mér skilst á bréfi þínu.[645]
Á þessum tíma varð enn að sækja allt vatn til innanhúsnota í læki eða brunna og mikil var sú dýrð þegar farið var að leiða vatn í bæina og láta það renna upp í móti eftir þar til gerðum pípum. Þá var Magnús Einarsson því miður kominn undir græna torfu.
Síðasta bréf Magnúsar til Torfa Bjarnasonar, sem varðveist hefur, er ritað 13. janúar 1867 en Torfi var þá sem áður sagði við nám í Skotlandi. Þetta bréf sýnir betur en öll hin hversu náið samband var á milli þessara frænda því þar kemur í ljós að Torfi hefur treyst Magnúsi fyrir því að hafa nokkra milligöngu við konuefnið sem beið hans heima á Íslandi.[646] Stúlka þessi, Guðlaug Sakaríasdóttir, var reyndar systurdóttir Magnúsar og frænka Torfa sem hugðist fá hana fyrir konu. Að meira eða minna leyti hafði hún alist upp hjá Ásgeiri, móðurbróður sínum á Kollafjarðarnesi, og fluttist með honum að Þingeyrum árið 1861.[647]
Tilmæli Torfa um nýnefnda milligöngu sýna vel hvaða traust hann hafði á Magnúsi þó að umsvif þessa gamla frænda hans væru þá orðin langtum minni en áður var. Greinilegt er líka að Ásgeir Einarsson hefur talið Magnús bróður sinn nokkurs megnugan á þessum arum, sem sést m.a. á því að þegar Ásgeir var að byggja Þingeyrakirkju, sem enn stendur, fékk hann Magnús til að skrifa Torfa Halldórssyni á Flateyri og biðja hann um peningalán til kirkjubyggingarinnar.[648] Byggingu hinnar mikli steinkirkju á Þingeyrum hóf Ásgeir árið 1864, ári síðar en Magnús kom þangað, en kirkjusmíðinni mun ekki hafa lokið fyrr en 1877.[649] Haustið 1868 skorti Ásgeir lausafé til að geta haldið áfram byggingu kirkjunnar. Hann sneri sér þá til Jóns Sigurðssonar forseta og bað hann athuga fyrir sig hvort Hjálmar timburmaður frá Ísafirði gæti ef til vill lánað 1000-2000 ríkisdali til byggingarinnar móti veði og rentu.[650]
Hjálmar sá sem Ásgeir nefnir þarna er án nokkurs vafa Hjálmar Jónsson sem lengi rak verslun á Flateyri og var félagi Torfa Halldórssonar (sjá hér Flateyri), enda kallar Ásgeir hann frænda sinn í þessu bréfi til Jóns forseta.[651] Móðir Hjálmars, Helga Hjálmarsdóttir, var bróðurdóttir Einars Jónssonar á Kollafjarðarnesi, föður þeirra Ásgeirs og Magnúsar.[652] Um þátt Magnúsar bróður síns í tilraunum til að útvega lánsfé til kirkjunnar kemst Ásgeir svo að orði í sama bréfi: Ég vil líka geta þess að Magnús bróðir minn, sem nú er hér, hefur skrifað verslunarmanni Torfa á Flateyri fyrir mig um sama en þeir eru í félagi hann og Hjálmar svo þeir gætu máske hjálpast að með þetta.[653]
Við undirbúning þessa rits var ekki kannað hvort þeir Hjálmar og Torfi kynnu að hafa lánað einhverja fjármuni til kirkjubyggingarinnar á Þingeyrum en það sem farið var fram á voru reyndar engir smápeningar því fyrir 1000 ríkisdali var á þessum árum hægt að kaupa um það bil 25 kýr í góðu standi.[654]
Í velsældinni hjá Jóni Ásgeirssyni á Þingeyrum var ekki allt sem sýndist. Þessi einkasonur hins virta alþingismanns, Ásgeirs frá Kollafjarðarnesi, barst mikið á en mun hafa eytt um efni fram því skuldir hlóðust upp.[655] Vorið 1867 tók Ásgeir faðir hans á ný við búsforráðum á Þingeyrum og segir í bréfi er hann ritaði fáum mánuðum áður að Jón haldist þar ekki lengur við fyrir skuldum.[656]
Á högum Magnúsar, áður bónda á Hvilft, mun engin breyting hafa orðið þó að Ásgeir bróðir hans flyttist aftur að Þingeyrum og tæki þar við stjórn búsins af syni sínum. Hann var í hávegum hafður hjá þeim feðgum báðum. Í byrjun desember árið 1868 voru 32 heimilismenn hjá Ásgeiri bónda á Þingeyrum.[657] Merkilegt er að sjá hvernig öllu þessu heimilisfólki er raðað niður í sóknarmannatali frá þeim tíma. Fyrst eru taldir húsbændurnir, Ásgeir og Guðlaug Jónsdóttir kona hans, síðan yngri hjónin, Jón Ásgeirsson og Ingunn hans kona ásamt barni þeirra, en svo kemur Magnús næst, sagður 60 ára (var 59 ára) og tekið fram að hann sé kvæntur[658] þó að konuna vanti á þessa skrá. Torfi Bjarnason, frændi hans og vinur, var nú kominn heim frá Skotlandi og átti líka heima á Þingeyrum hjá Ásgeiri. Í sóknarmannatalinu frá árinu 1868 er hann nefndur næst á eftir Magnúsi, sagður vera jarðyrkjumaður og ættingi húsbóndans.[659] Þar næst kemur nafn jómfrúar Guðlaugar Sakaríasdóttur, heitkonu Torfa, sem hér var áður minnst á, en hún er þarna sögð vera 23ja ára ættstúlka.[660] Ljóst er að á þessum bæ var ekki lagt lítið upp úr frændseminni.
Glaður hefur Magnús orðið þegar Torfi kom heim frá Skotlandi og varla hefur hann látið sig vanta í brúðkaup þeirra Guðlaugar sem haldið var á Þingeyrum 17. desember 1868.[661] Máske var það síðasta veislan sem hann sat því senn voru dagarnir uppi. Magnús Einarsson dó 27. maí 1870, tæplega 61 árs að aldri.[662] Sóknarpresturinn tekur fram að banamein hans hafi verið brjóstveiki og tæring [663] og skráir í embættisbók sína að hinn látni hafi verið kvæntur og eigi þrjú börn.[664] Orð prestsins, séra Jakobs Finnbogasonar í Steinnesi, um hjónaband Magnúsar sýna að því muni aldrei hafa verið slitið með formlegum hætti þó að Ragnheiður Finnsdóttir, eiginkona Magnúsar, sæti um kyrrt fyrir vestan og þau væru aðskilin síðustu sjö árin sem hann lifði.
Flest árin sem Magnús Einarsson bjó á Hvilft var hann með alla jörðina til ábúðar og oft var margt í heimili hjá honum, 14 manneskjur árið 1845[665] og 15 árið 1850.[666] Á árunum 1855 til 1857 var þó tvíbýli á Hvilft því maður sem Ólafur Árnason hét hafði þá einhvern part af jörðinni á leigu hjá Magnúsi.[667] Ólafur bjó seinna skamma hríð á Görðum og var hans getið þar (sjá hér Garðar).
Þegar Magnús hætti búskap á Hvilft árið 1858 settust bræðurnir Björn og Andrés Sakaríassynir hér að búi og bjuggu í þrjú ár. Er þeir hófu búskapinn á Hvilft voru þeir ungir að árum, Andrés 25 ára en Björn einu ári eldri.[668] Foreldrar þeirra voru hjónin Sakarías Andrésson og Guðrún Björnsdóttir sem bjuggu um skeið á Vífilsmýrum og þar voru bræður þessir fæddir.[669] Báðir kvæntust þeir 10. október 1856 og gekk Björn að eiga Guðbjörgu Torfadóttur en brúður Andrésar hét Helga Guðmundsdóttir.[670] Búskap bræðranna og eiginkvenna þeirra hér á Hvilft lauk vorið 1861.[671] Björn bjó síðar á Kaldá (sjá hér Kaldá) og var í húsmennsku á Selakirkjubóli. Andrés bróðir hans bjó árið 1870 í tvíbýli á Görðum (sjá hér Garðar) en fluttist árið 1872 frá Hvilft að Vatnadal í Súgandafirði og var þá vinnumaður.[672] Eiginkona Andrésar, Helga Guðmundsdóttir, var frá Hóli á Hvilftarströnd, dóttir hjónanna Guðmundar Pálssonar og konu hans, Halldóru Guðmundsdóttur, sem þar bjuggu.[673] Eitt barna þeirra var Helgi Andrésson, kunnur skútuskipstjóri sem átti lengi heima á Flateyri.[674] Árið 1880 voru Andrés Sakaríasson og fjölskylda hans í Lækjarkoti, hjáleigu frá Stað í Súgandafirði, og frá Stað fluttust þau til Flateyrar árið 1885.[675] Andrés og Helga kona hans dóu bæði á Flateyri árið 1907.[676]
Þegar Björn og Andrés Sakaríassynir fóru frá Hvilft vorið 1861 fengu hjónin Jón Sveinsson og Járngerður Indriðadóttir jörðina til ábúðar.[677] Frá þessum hjónum hefur áður verið sagt (sjá hér Fremri-Breiðadalur) en þau komu hingað frá Fremri-Breiðadal. Jón og Járngerður kona hans höfðu alla jörðina til ábúðar í fimm ár, frá 1861 til 1866, en Kristján sonur þeirra er þó ýmist talinn bóndi eða húsmaður á Hvilft sum árin á þessu skeiði.[678] Síðasta heila fardagaárið sem Jón Sveinsson bjó á Hvilft, 1866-1867, var hér tvíbýli[679] en Jón andaðist 21. desember 1867.[680] Ekkja hans, Járngerður Indriðadóttir, hélt búskapnum áfram allt til vorsins 1875 en tvíbýli var þá jafnan á jörðinni.
Snemma í október haustið 1873 gengu þrjú af sautján börnum Járngerðar í hjónaband, öll sama daginn.[681] Þessi systkini voru Guðmundur Jónsson, síðar bóndi í Fremri-Vatnadal í Súgandafirði, sem gékk að eiga Stefaníu Friðbertsdóttur frá Vatnadal, Margrét Jónsdóttir, síðar húsfreyja á Görðum, sem giftist Einari Jónssyni, bróðursyni Magnúsar Einarssonar, fyrrum bónda á Hvilft, og Jón Jónsson, síðar skamma hríð bóndi í Neðri-Breiðadal, sem gekk að eiga Arnfríði Þórarinsdóttur frá Stað í Súgandafirði, dóttur Kristínar Þórarinsdóttur, búandi ekkju þar.[682] Svo vel vill til að varðveist hefur greinargóð lýsing á veislunni sem efnt var til á Hvilft til að fagna hinu þrefalda brúðkaupi. Þessa lýsingu á brúðkaupsveislunni ritaði árið 1930 Arnfríður Guðmundsdóttir, fædd 1892, eftir frásögn móður sinnar, Stefaníu Friðbertsdóttur sem sjálf hafði verið ein hinna þriggja brúða haustið 1873 og var enn á lífi á heimili Arnfríðar dóttur sinnar þegar frásögnin var rituð, þá tæplega áttræð að aldri. Frásögnina af brúðkaupsveislunni á Hvilft ritaði Arnfríður í Sóley, handskrifað félagsblað Kvenfélagsins Ársólar í Súgandafirði.[683] Segir þar m.a. svo:
Mikið var við haft, fjórum kindum var slátrað í steik, tvær voru sendar úr Súgandafirði og tvær gaf móðir systkinanna. Tjald var fengið að láni sem tók 100 manns og borðbúnaðurinn að mestu frá Torfa Halldórssyni og Maríu Össurardóttur …..
Um nóttina gerir blindhríð, sem stendur í þrjá daga, og má hugsa sér hvort fólkið hefur ekki verið farið að langa í veislumatinn. Á miðvikudaginn heiðbirti og gerði stillilogn og sólskin. Þá var farið yfir í Holt til að gifta og hafði það allt sinn vana gang. Heima á Hvilft var allt sett í stand, mokaður snjór, tjald reist og allt haft til taks eins og þurfti að vera.
Svo komu brúðhjónin og boðsfólkið og fjölgaði fólkinu eftir því sem leið á kvöldið því það var farið til sjóróðra um daginn og var komið á bátunum inn að Hvilft og allir komu heim og fengu að borða. Ýmislegt var haft til skemmtunar um nóttina svo sem söngur, spilað var og dansað en í smáum stíl [samanborið] við það sem nú er. Borð voru ekki tekin upp í tjaldinu heldur dansað fyrir framan þau. Gátu ekki dansað nema 3 eða 4 pör í einu. Á harmonikuna spilaði Þórunn, dóttir séra Stefáns í Holti, og var hún þá unglingur fyrir innan fermingu. Harmonikan var sú fyrsta sem kom í Önundarfjörð. Pantaði frú María Össurardóttir hana en fékk engan til að spila á hana svo hún gaf Þórunni hana. Var Þórunn lengi treg til að spila í svona fjölmennu samkvæmi.
Veislan stóð yfir í þrjá daga ….. Mátti segja að vel hafi verið veitt og drukkið en það var skilað aftur 5 sykurtoppum og 8 pottum af sírópi ásamt fleiru.
Litlar voru. brúðargjafirnar en þeim mun fleiri árnaðaróskir og blessunarorðin, enda eru betri góð orð en gjafir ……[684]
Í frásögn Arnfríðar kemur fram að María Össurardóttir, kona Torfa Halldórssonar á Flateyri, lánaði stúlku til að bera á borð í veislunni og var það Sigurborg Jónsdóttir, móðir Ólafs Kárasonar, síðar kaupmanns á Ísafirði (misritað Sigurlaug í því endurriti sem hér er byggt á).[685] Frammistöðumenn voru Finnur Magnússon, sem þá hafði búið um nokkurra ára skeið á annarri hálflendunni á Hvilft, og Jens Jóhannesson, bóndi og hreppsstjóri í Tungu í Firði, faðir Hólmgeirs dýralæknis.[686]
Merkilegt er að sjá í frásögn Arnfríðar að spilað var fyrir dansi á harmoniku í brúðkaupsveislunni miklu haustið 1873, sextán árum áður en Norðmenn reistu hvalveiðistöð sína á Sólbakka, hér rétt fyrir utan Hvilft, en henni fylgdi sérstakur danspallur (sjá hér Sólbakki) þar sem alloft mun hafa verið leikið á harmoníku. Fá dæmi, ef nokkur, munu hins vegar finnanleg frá Vestfjörðum um harmonikuleik á fyrri tímum uns þar kom að prestsdóttirin frá Holti tók að þenja dragspilið hér á Hvilft í brúðkaupsveislunni góðu.
Arnfríður segir að ungi harmonikuleikarinn hafi verið Þórunn, dóttir prestshjónanna í Holti, séra Stefáns P. Stephensen og Guðrúnar Pálsdóttur Melsteð. Fullu nafni hét hún Þórunn Gyríður og varð 13 ára í sömu vikunni og efnt var til brúðkaupsins á Hvilft.[687] Tæpum tólf árum síðar gékk hún að eiga Davíð Scheving Thorsteinsson lækni, hálfbróður Péturs J. Thorsteinsson, kaupmanns og útgerðarmanns á Bíldudal.[688] Eitt barna þeirra var Þorsteinn Scheving Thorsteinsson, apótekari í Reykjavík. Þórunn andaðist í Reykjavók árið 1942, þá komin yfir áttrætt.[689]
Sá sem byrjaði búskap á Hvilft vorið 1866 og bjó í fyrstu á móti Jóni Sveinssyni en síðar á móti Járngerði, ekkju Jóns, var Finnur Magnússon, sonur Magnúsar Einarssonar og Ragnheiðar Finnsdóttur sem hér höfðu staðið fyrir búi frá 1838-1858.[690] Þegar Finnur hóf búskap á Hvilft voru foreldrar hans eigendur jarðarinnar (sjá hér bls.11-12 og 66-67). Magnús faðir hans var þá sestur að norður á Þingeyrum í Húnavatnssýslu en móðir Finns fluttist með syni sínum frá Flateyri að Hvilft.[691] Hún var þá um fimmtugsaldur en átti samt liðlega 40 ár ólifuð. Nær allan þann tíma sat hún á Hvilft sem húskona og lifði á efnum sínum. Að Magnúsi manni sínum látnum virðist hún hafa setið lengi í óskiptu búi og taldist því enn vera aðaleigandi jarðarinnar árið 1901.[692] Vegna ítakanna sem Hvilft átti í landi nágrannajarðarinnar Eyrar (sjá hér bls. 4-5 og 53-57) fékk Ragnheiður greidda vertolla frá nokkrum þeirra manna sem sóttu sjó frá verstöðinni Kálfeyri eins og sjá má á viðskiptareikningi hennar hjá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.[693] Hún er þar titluð Madame og reikningurinn sýnir að árið 1876 fékk hún til dæmis greiddar16,65 krónur í vertolla frá fimm skipshöfnum, 3,33 krónur á hvern bát.[694] Allir þessir tollar voru greiddir inn á reikning Ragnheiðar í júlímánuði.[695] Heildargreiðslur inn á viðskiptareikning Ragnheiðar þetta sama ár urðu 35,75 krónur[696] svo að vertollarnir námu nær helmingi af þeirri upphæð. Vörurnar sem maddaman á Hvilft tók út í búðinni á Flateyri þetta sama ár kostuðu hins vegar aðeins 26,16 krónur og í árslok átti hún þar inni 8,26 krónur.[697] Það eina sem Ragnheiður keypti í verslun Hjálmars á Flateyri árið 1876 var þetta: 2 pund af hellulit (eða efni í hann), 3 pund af sykri, 1 pund af rjóli, sem var óskorið neftóbak, 50 pund af rúgmjöli, 62½ pund af rúgi, 2 parabréf og 3 álnir af hvítu lérefti.[698]
Þegar Finnur Magnússon, sonur Ragnheiðar, byrjaði búskap sinn á Hvilft vorið 1866 var hann nýlega kvæntur en kona hans hét Sigríður Þórarinsdóttir.[699] Hún fæddist haustið 1836 á Vöðlum, dóttir Þórarins Jónssonar og Gróu Jónsdóttur sem voru gefin saman í hjónaband 16 dögum eftir fæðingu Sigríðar.[700] Fyrstu níu árin sem Finnur og Sigríður kona hans bjuggu á Hvilft var hér tvíbýli en þegar Járngerður Indriðadóttir hætti að búa vorið 1875 fékk Finnur alla jörðina til ábúðar.[701] Finnur Magnússon dó á jóladag árið 1886.[702] Hann var þá 47 ára gamall og hafði búið í 20 ár á Hvilft.[703] Í tíu ár, 1875-1885, var hann einn með alla jörðina en síðustu eitt til tvö árin sem hann lifði bjó hér líka mágur hans, Friðrik Jónsson sem var kvæntur Þuríði Magnúsdóttur.[704] Sigríður, kona Finns Magnússonar, lifði mun lengur en hann. Hún var enn á Hvilft árið 1901 en dó á Flateyri sumarið 1910.[705] Börn Finns og Sigríðar voru sex en af þeim náðu aðeins þrjú að vaxa úr grasi, Gróa sem varð húsfreyja á Görðum, Guðbjörg sem fluttist til Súgandafjarðar og Finnur Finnsson sem varð bóndi á Hvilft.[706]
Þuríður Magnúsdóttir, systir Finns bónda á Hvilft, og eiginmaður hennar, Friðrik Jónsson, hófu búskap á Hvilft árið 1885 og bjuggu hér í tvíbýli á móti Finni.[707] Þau Friðrik og Þuríður fluttust að Hvilft árið 1885 frá Kjallaksvöllum í Saurbæ í Dalasýslu.[708] Friðrik Jónsson dó 13. desember 1886, tólf dögum á undan Finni, en báðir kvöddu þessir bændur á Hvilft lífið í sama mánuðinum, annar 47 ára en hinn einu ári eldri.[709] Ekkjurnar tvær munu þá hafa staðið fyrir búunum til vors. Fullvíst er að Finnur dó úr taugaveiki[710] og má telja mjög líklegt að sami sjúkdómur hafi líka valdið dauða Friðriks. Fram til vorsins 1887 stóðu ekkjurnar tvær fyrir búi á Hvilft og fardagaárið 1887-1888 bjó Þuríður Magnúsdóttir áfram á hálfri jörðinni en mágkona hennar, Sigríður Þórarinsdóttir, hætti búskap vorið 1887 og gerðist húskona hér á Hvilft.[711] Tengdamóðir hennar, gamla Ragnheiður Finnsdóttir, sem átt hafði heima hjá þeim Finni, dvaldist áfram hjá henni í húsmennskunni.[712] Í manntalinu frá 1901 er Sigríður Þórarinsdóttir sögð vera húsmóðir á Hvilft og þá er Finnur Finnsson, sonur hennar, talinn vinna fyrir móður sinni.[713] Ragnheiður Finnsdóttir, sem árið 1901 var orðin 85 gömul, dvaldist þá á heimili Sveins Rósinkranzsonar, bónda á Hvilft, og er í manntalinu sögð vera þar leigjandi sem lifi á eignum sínum[714] en hún átti jörðina, ein eða með börnum sínum, eins og hér hefur áður verið greint frá (sjá bls. 80). Ragnheiður dó 6. janúar 1907 en Sigríður Þórarinsdóttir átti síðustu árin heima á Flateyri og dó þar árið 1910.[715]
Vorið 1887 fékk Sveinn Rósinkranzson, skútuskipstjóri á Flateyri, leigða aðra hálflenduna á Hvilft, þá sem Finnur Magnússon hafði búið á síðasta árið sem hann lifði.[716] Hann mun þó ekki hafa flutt sig alveg að Hvilft fyrr en árið 1888[717] en þá fékk hann alla jörðina til ábúðar við brottför Þuríðar Magnúsdóttur.[718] Í septembermánuði á því ári var hann að byggja upp baðstofuna[719] og 7. nóvember 1888 skrifar Jón búfræðingur, sem seinna bjó á Veðrará, í dagbók sína: Emil flutti sig í Sveinshúsið í dag. Sveinn flutti sig að Hvilft.[720] Sveinn bjó síðan á Hvilft allt til dauðadags en hann andaðist 3. maí 1907.[721] Á búskaparárum sínum hér bjó hann frá 1888 jafnan einn á allri jörðinni.[722]
Sveinn Rósinkranzson var fæddur í Tröð í Önundarfirði 8. júlí 1850, sonur hjónanna Rósinkranz Kjartanssonar og Guðlaugar Pálsdóttur[723] sem stóðu þar lengi fyrir búi (sjá hér Tröð). Árið 1876 eða 1877 settist hann að á Flateyri og gerðist skipstjóri á þilskipi eigi síðar en 1877.[724] Hann var þá enn einhleypur og bjó á heimili Torfa Halldórssonar á Flateyri, kallaður skipherra í sóknarmannatali frá 1877.[725] Haustið 1878 gekk Sveinn að eiga Sigríði Sveinbjarnardóttur, sem fæddist í Skáleyjum á Breiðafirði 1. október 1852,[726] og bjuggu þau saman á Flateyri í um það bil tíu ár en fluttust þá að Hvilft. Árið 1879 eignaðist Sveinn fjórðung í þilskipi[727] og mun þaðan í frá hafa verið þátttakandi í skútuútgerðinni frá Flateyri um langt skeið. Frá sjómennsku Sveins verður nánar sagt þegar staldrað verður við á Flateyri.
Sigríður Sveinbjarnardóttir, sem giftist Sveini Rósinkranzsyni haustið 1878 og varð tíu árum síðar húsfreyja á Hvilft, var dóttir hjónanna Sveinbjörns Magnússonar og Maríu Jónsdóttur í Skáleyjum á Breiðafirði[728] en föðurafi hennar var Magnús Einarsson, bóndi í Skáleyjum, bróðir Eyjólfs eyjajarls í Svefneyjum Einarssonar.[729] Um 1870 var þessi unga stúlka úr Breiðafjarðareyjum í Móum á Kjalarnesi hjá frænda sínum, séra Matthíasi Jochumssyni, sem þar var prestur[730] en faðir Sigríðar og séra Matthías voru systrasynir. Árið 1871 barst hún austur að Möðrudal á Fjöllum, þá 18 ára gömul, á vegum föðursystur sinnar, Sigríðar Magnúsdóttur sem kölluð var hin stórráða.[731] Sigríður stórráða var þá ráðskona hjá Sigurði Jónssyni, bónda í Möðrudal, og hafði hina ungu frænku sína sér við hlið þar austur frá í þrjú ár.[732] Merkileg reynsla hefur það verið fyrir Sigríði Sveinbjarnardóttur að dveljast í Möðrudal á þessum árum en frá stórvirkjum frænku hennar og nöfnu bæði þar og annars staðar verður ekki sagt hér. Um þau hefur Játvarður Jökull Júlíusson ritað í bók sinni Sagan af Sigríði stórráðu sem út var gefin árið 1985.
Árið 1874 hröktust þær Sigríður stórráða og Sigríður Sveinbjarnardóttir frá Möðrudal og brá Sigríður eldri þá á það ráð að vista frænku sína hjá Torfa Halldórssyni á Flateyri og konu hans Maríu Össurardóttur.[733] Hjá Torfa hafði hún sjálf dvalist á árunum 1857-1859[734] og vissi að þar var ekki í kot vísað. Sigríði Sveinbjarnardóttur mun hins vegar ekki hafa litist á blikuna þegar hún leit yfir Önundarfjörð í fyrsta sinn ofan af Breiðadalsheiði.[735] Þær frænkur komu með skipi frá Vopnafirði til Ísafjarðar og fóru gangandi þaðan yfir heiðina. Löngu síðar sagði dóttir Sigríðar Sveinbjarnardóttur svo frá að þegar þær Sigríðarnar komu upp í heiðarskarðið hafi komið þoka á móti þeim og hafi hinni yngri þótt skuggalegt að líta niður í Önundarfjörð og sagðist hún aldrei myndu geta unað þar.[736] Svo fór þó að hún festi rætur og sat um kyrrt í Önundarfirði öll þau 60 ár sem hún átti fram undan. Á fyrstu árunum eftir andlát eiginmannsins var hún búsett á Flateyri[737] en hafði til nota 4 jarðarhundruð hér á Hvilft allt þar til dóttir hennar og tengdasonur, þau Guðlaug Sveinsdóttir og Finnur Finnsson, hófu hér búskap árið 1911.[738] Hún fluttist þá með þeim að Hvilft og átti hér heima æ síðan hjá Guðlaugu og Finni.[739] Sigríður dó á Hvilft 8. júlí 1934.[740] Börn Sveins Rósinkranzsonar og Sigríðar Sveinbjarnardóttur voru tíu og náðu flest að komast upp.[741]
Á árunum 1888-1889 átti faðir Sigríðar, Sveinbjörn Magnússon, áður bóndi í Skáleyjum, líka heima á Hvilft hjá dóttur sinni og tengdasyni. Hann fluttist til Flateyrar sunnan úr Skáleyjum árið 1886[742] og fylgdi dóttur sinni að Hvilft tveimur árum síðar. Hann var þá fyrir löngu orðinn ekkjumaður.[743] Sveinbjörn var bókamaður[744] og í marsmánuði árið 1899 greinir Magnús Hjaltason frá því að öldungur þessi á Hvilft haldi dagbók og hafi gert það í mörg ár.[745] Ekki var Magnúsi þá kunnugt um að nokkur annar maður í Önundarfirði iðkaði slíkar skriftir.[746] Sveinbjörn Magnússon dó á Hvilft 19. september 1899 og var þá að verða 78 ára gamall.[747]
Finnur Finnsson, sem hóf búskap á Hvilft árið 1911, var sonur Finns Magnússonar og Sigríðar Þórarinsdóttur sem hér bjuggu áður. Hann fæddist á Hvilft 27. desember 1876,[748] missti föður sinn tíu ára gamall (sjá hér bls. 81) en dvaldist áfram hjá móður og átti heima á Hvilft allt þar til hann lagði upp í sína löngu ferð árið 1904. Í prestsþjónustubókinni er hann sagður hafa farið á því ári frá Hvilft til Danmerkur[749] og hefur þá verið 27 ára gamall. Í Danmörku mun hann ekki hafa staðnæmst lengi en dvaldist í Ameríku í fimm ár, frá 1904-1909.[750] Þar í Vesturheimi fékkst hann við margvísleg störf, fór víða um og var um skeið búsettur á Kyrrahafsströndinni.[751]
Árið 1910 var Finnur kominn til Flateyrar úr sinni miklu reisu[752] og tók á því ári við eignarhlut sínum á Hvilft. Þá um sumarið andaðist móðir hans, Sigríður Þórarinsdóttir,[753] en amma hans, Ragnheiður Finnsdóttir, sem átti Hvilft (sjá hér bls. 80), hafði látist þremur árum fyrr.[754] Haustið 1910 kvæntist Finnur Guðlaugu Sveinsdóttur er einnig hafði alist upp á Hvilft en hún var dóttir Sveins Rósinkranzsonar og Sigríðar Sveinbjarnardóttur[755] sem hér voru áður nefnd. Guðlaug hafði líka dvalist erlendis því hún sigldi til Noregs árið 1905.[756]
Þau Finnur og Guðlaug munu hafa bundist heitum nokkrum mánuðum áður en þau gengu í hjónaband. Í bréfi sem María Össurardóttir, ekkja Torfa Halldórssonar á Flateyri, skrifaði dætrum sínum, Guðrúnu og Ástríði, 14. mars 1910 kemst hún svo að orði: Ég hugsa þið fáið þessa nýju frétt af trúlofun Finns og Laugu. Mér líst mjög vel á það. Hann var alltaf duglegur og lítur svo ansi mannaralega út.[757]
Í hreppsbók Mosvallahrepps má sjá að sumarið 1910 hafði Finnur 2 jarðarhundruð til afnota á Hvilft[758] en hann átti þá heima á Flateyri. Vorið 1911 fóru þau Guðlaug svo að búa á hálfri jörðinni en á hinni hálflendunni bjuggu þá hjónin Sveinn Árnason og Rannveig Hálfdanardóttir sem byrjuðu sinn búskap hér árið 1908 og stóðu hér fyrir búi allt til ársins 1927.[759]
Um 1920 átti Finnur þau 10 hundruð í jörðinni sem hann bjó á.[760] Föðursystur hans, Þuríður og Ragnheiður Magnúsdætur, áttu þá sín 3 hundruðin hvor en 2 hundruð átti Jón Sveinsson.[761] Sveinn Árnason, sem áður var nefndur, bjó þá á jarðarparti Ragnheiðar en hundruðin sem Þuríður og Jón Sveinsson áttu munu hafa verið nytjuð frá Flateyri.[762]
Þegar Finnur Finnsson hóf búskap sinn á Hvilft vorið 1911 voru liðin meir en 100 ár frá því Karitas Ívarsdóttir, langamma hans, og hennar fyrri eiginmaður, Jón Jónsson silfursmiður reistu hér bú árið 1804 (sjá hér bls. 21-25). Nær allan þann tíma höfðu foreldrar hans, áar og ömmur, setið hér að búi eða leigt jörðina meðan beðið var eftir næsta ættingja til að taka við búskapnum. Finnur Finnsson var sigldur maður en Hvilftarjörðinni var hann tengdur sterkum böndum ættar og uppruna. Þau Finnur og Guðlaug kona hans bjuggu á Hvilft í því sem næst 40 ár en þá tók við Gunnlaugur sonur þeirra sem býr hér enn (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 421). Um búskap Finns og Guðlaugar verður ekki fjallað á þessum blöðum, enda heyrir hann tuttugustu öldinni til. Íbúðarhúsið sem hann byggði hér árið 1911 og enn er í góðu standi verður þó að nefna. Það er fyrsta íbúðarhúsið úr steinsteypu sem byggt var í Önundarfirði.[763] Húsið er tvær hæðir, kjallari og háaloft og grunnflöturinn 13 x 15 álnir,[764] það er um það bil 77 fermetrar. Sjálfur teiknaði Finnur húsið[765] en allt efni í steypuna, annað en sement, var tekið úr fjörunni neðan við túnið og mikið af því flutt á byggingarstað á eina hestvagninum sem þá var til í Önundarfirði.[766] Vagninn átti Páll Rósinkranzson sem þá bjó á Kirkjubóli í Korpudal.[767] Sement og timbur fékk Finnur frá Flateyri og var hvort tveggja flutt á báti í heimavörina á Hvilft[768] sem er skammt fyrir innan og neðan bæinn. Svo mátti heita að lokið væri við byggingu hússins á árinu 1911 og leiðslur fyrir vatn og skólp voru lagðar þá þegar.[769] Slík þægindi voru þá harla fátíð hér um slóðir. Um 1930 höfðu íbúðarhús úr steinsteypu aðeins verið byggð á fjórum sveitabýlum í hinum forna Mosvallahreppi[770] og aðeins var búið að leiða vatn í tíu af fjörutíu bæjum innan gömlu hreppamarkanna.[771] Þá voru tveir áratugir liðnir frá því Finnur reisti sitt stóra hús og leiddi vatnið inn. Enn er búið í þessu gamla og merkilega húsi á Hvilft (1999) og engin veruleg ellimörk að sjá á því. Vona má að það eigi enn langa framtíð fyrir sér.
Frá fólkinu sem búið hefur á Hvilft verður ekki sagt fleira hér og kominn tími til að halda í áttina að Eyri. Út að landamerkjum jarðanna eru aðeins 550 metrar frá íbúðarhúsinu á Hvilft sé farið eftir þjóðveginum.[772] Landamerkjum jarðanna hefur áður verið lýst og gerð grein fyrir helstu kennileitum í landareign Hvilftar (sjá hér bls. 1-4).
Frá Hvilft og út að Eyri voru um það bil tveir kílómetrar en bújörðin Eyri, sem var hin ysta við norðanverðan Önundarfjörð, féll úr byggð skömmu eftir aldamótin 1900 (sjá hér Eyri). Á síðasta fjórðungi 19. aldar hófst hins vegar þorpsmyndun í landareign Eyrar þegar íbúum tók að fjölga á verslunarstaðnum Flateyri. Árið 1889 reistu Norðmenn svo hvalveiðistöð rétt innan við Flateyri og nefndu Sólbakka. Myndun þéttbýlis á Flateyri og atvinnureksturinn þar og á Sólbakka höfðu mikil áhrif á alla þróun mála í hinum forna Mosvallahreppi undir lok nítjándu aldar. Við hæfi mun því vera að staldra við á þessum tveimur stöðum áður en slegið verður upp tjöldum þar sem Eyrarbærinn stóð, rétt fyrir ofan við ystu húsin á Flateyri.
Við komum fyrst að Sólbakka.
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 121-124.
[2] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.
[3] Sama heimild.
[4] Sama heimild.
[5] Óskar Einarsson 1951, 81.
[6] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.
[7] Sama heimild.
[8] Óskar Ein. 1951, 82.
[9] Sama heimild.
[10] Sama heimild.
[11] Sama heimild. Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[12] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[13] Óskar Ein. 1951, 82.
[14] Sama heimild. Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[15] Óskar Ein. 1951, 82.
[16] Sama heimild.
[17] Sama heimild.
[18] Sama heimild.
[19] Sama heimild.
[20] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[21] Óskar Ein. 1951, 82.
[22] Sama heimild.
[23] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[24] Sama heimild.
[25] Óskar Ein. 1951, 82. Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[26] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[27] Vestfirskar sagnir III, 125.
[28] Vestfirskar sagnir III, 125.
[29] Sama heimild.
[30] Vestfirskar sagnir III, 125.
[31] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[32] Sama heimild.
[33] Sama heimild.
[34] Sama heimild.
[35] Sama heimild.
[36] Sama heimild.
[37] Óskar Ein. 1951, 81.
[38] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[39] Sama heimild.
[40] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[41] Sama heimild.
[42] Sama heimild.
[43] Sama heimild. Óskar Ein. 1951, 81.
[44] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.
[45] Sama heimild. Óskar Ein. 1951, 81.
[46] Óskar Ein. 1951, 81.
[47] Sama heimild, 79 og 81.
[48] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[49] Landamerkjabréf frá 27.5.1890, afrit varðveitt á Hvilft.
[50] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[51] Jarðab. Á. og P. VII, 123-124.
[52] D.I. XV, 572.
[53] Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar, bónda á Hvilft, í máli sem hann höfðaði árið 1852 gegn Friðrik
Svendsen, kaupmanni á Flateyri, afrit varðveitt á Hvilft.
[54] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[55] Sama heimild.
[56] Sama heimild.
[57] Sama heimild.
[58] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[59] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[60] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.
[61] Sama heimild.
[62] Sama heimild.
[63] Sama heimild.
[64] Fasteignabók 1932.
[65] D.I. III, 758.
[66] Sama heimild.
[67] D.I. IV, 592.
[68] Sama heimild.
[69] D.I. VI, 509-510.
[70] D.I. XV, 572.
[71] D.I. XV, 572.
[72] Bps. A. II. 6. Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1671, bls. 180-181.
[73] Sama heimild.
[74] Sama heimild.
[75] Sama heimild.
[76] Sama heimild.
[77] Sama heimild.
[78] Sama heimild.
[79] Sama heimild.
[80] Jarðab. Á. og P. VII, 123.
[81] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[82] Sama heimild.
[83] Sama heimild.
[84] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[85] Sama heimild.
[86] Sama heimild.
[87] D.I. V, 781.
[88] D.I. VI, 154-155.
[89] Sama heimild.
[90] D.I. IV, registur og D.I. V, registur.
[91] D.I. VI, 154-155.
[92] Ísl. æviskrár V, 265.
[93] Sama heimild. Lögréttumannatal, bls. 566-567.
[94] D.I. VI, 509-510.
[95] D.I. VI, 509-510.
[96] Sama heimild.
[97] D.I. VII, 284-285.
[98] Sama heimild.
[99] Sama heimild, 247.
[100] D.I. XI, 739.
[101] Sama heimild.
[102] Sama heimild.
[103] Sama heimild.
[104] Sama heimild.
[105] D.I. XIV, 432.
[106] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 157-158.
[107] Sama heimild.
[108] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658. Lögréttumannatal, bls. 555
[109] Lögréttumannatal, bls. 555.
[110] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695. .
[111] Jarðab. Á. og P. VII, 123-124. Ísl. æviskrár III, 300.
[112] Ísl. æviskrár I, 440.
[113] Manntal 1762.
[114] Ísl. æviskrár V, 46-47.
[115] Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar á Hvilft í máli hans frá árunum 1851 og 1852 gegn eigendum Eyrar.
Skjalið er óundirritað og ódagsett en af efni þess má sjá að það er samið árið 1851. Sóknarskjal þetta er
varðveitt hjá Gunnlaugi Finnssyni á Hvilft.
[116] Sama heimild.
[117] Sama heimild.
[118] Sama heimild.
[119] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[120] Áðurnefnt sóknarskjal Magnúsar Einarssonar.
[121] Áðurnefnt sóknarskjal Magnúsar Einarssonar.
[122] Sama heimild.
[123] Sama heimild.
[124] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[125] Áðurnefnt sóknarskjal Magnúsar Einarssonar.
[126] Sama heimild.
[127] Sama heimild. Sbr. Lbs. 38944to, Bréf Magnúsar Einarssonar á Hvilft 24.5.1850 til Eggerts Briem
sýslumanns og Hsk. 12014to, Bréf sama 19.10. 1846 til sama.
[128] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9. Veðmálabók 1898-1907,bls. 220 og áfram, byggingarbréf Sveins Rósinkranzsonar, bónda á Hvilft, frá 20.4.1898.
[129] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.
[130] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[131] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.
[132] Jarðab. Á. og P. VII, 123-124.
[133] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.
[134] J. Johnsen 1847, 196.
[135] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.
[136] Sama heimild.
[137] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695. Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.
[138] Jarðab. Á. og P. VII, 123-124.
[139] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. J. Johnsen 1847, 196.
[140] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.
[141] Rtk. 2.1.Stríðshjálpin 1681.
[142] Manntal 1703. Jarðabók Á. og P. VII, 123-124.
[143] Manntal 1703.
[144] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla 1735. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla
- Manntal 1762.
[145] Manntal 1801.
[146] Sama heimild.
[147] Manntöl 1801, 1816, 1835, 1840, 1845 og 1850. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur
1821 og 1830.
[148] Manntal 1855. Sóknarm.töl Holts í Önundarf. 1858-1905. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. og 5.
Hreppsbækur 1849-1883 og 1883-1912.
[149] Sömu heimildir.
[150] D.I. VI, 509-510 og registur.
[151] D.I. VI, 509-519.
[152] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.
[153] Skjalasafn prófasta XIII. 1. B. I. Skjalabók frá Holti í Önundarf. með bréfum og skjölum frá árunum
1333-1708, bls. 59-60.
[154] ÍB. 114to, Ættartölubækur J.Espólíns, dálkar 2248-2257. Sbr. Ísl. æviskrár IV, 98 og Lögr.m.tal, 427-428.
[155] Sama heimild.
[156] Sama heimild.
[157] Bogi Benediktsson / Sýslumannaæfir II, 62-76.
[158] ÍB. 114to, Ættartölubækur J.Espólíns, dálkur 2257.
[159] Manntal 1703.
[160] Lögréttumannatal, bls. 428.
[161] Manntal 1703.
[162] Lögréttumannatal, bls. 427-428 og 497.
[163] Sama heimild.
[164] Lögréttumannatal, bls. 427-428.
[165] Ísl. æviskrár III, 243 og 433 og I, 62.
[166] Manntal 1703.
[167] Sama heimild.
[168] Sama heimild.
[169] Sama heimild.
[170] Sama heimild.
[171] Sama heimild.
[172] Sama heimild.
[173] Jarðab. Á. og P. VII, 123-124.
[174] Manntal 1703.
[175] Jarðab. Á. og P. VII, 123-124.
[176] Sama heimild, 94-124.
[177] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla 1735.
[178] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.
[179] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.
[180] Ól. Þ. Kr. 1948, 81 (Frá ystu nesjum IV).
[181] Sama heimild. Manntal 1703, bls. 197 og 202.
[182] Ísl. æviskrár III, 455-456.
[183] Ísl. æviskrár III, 54, 293 og 455-456.
[184] Ól. Þ. Kr. 1948, 81 (Frá ystu nesjumVI). Manntal 1762.
[185] Manntal 1762. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[186] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[187] Sama heimild. Manntöl 1801 og 1816.
[188] Manntal 1762.
[189] Ól. Þ. Kr. 1948, 81.
[190] Ól. Þ. Kr. 1948, 81-82.
[191] Sama heimild.
[192] Sama heimild, 81-82. Manntal 1762.
[193] Ól. Þ. Kr. 1948, 81-82.
[194] Sama heimild, 80-82.
[195] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[196] Manntal 1801, vesturamt, bls. 289-290.
[197] Ól. Þ. Kr. 1948, 80 (Frá ystu nesjum IV).
[198] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[199] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[200] Ól. Þ. Kr. 1948, 80.
[201] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.
[202] Manntal 1801.
[203] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[204] Ól. Þ. Kr. 1948, 80-81.
[205] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.
[206] Ól. Þ. Kr. 1948, 80-81.
[207] Sama heimild.
[208] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.
[209] Sama heimild.
[210] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Vigurætt VI, 1385.
[211] Sömu heimildir.
[212] Sömu heimildir.
[213] Sömu heimildir.
[214] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.
[215] Sama heimild.
[216] Sóknarm.tal Holts í Önundarf. 1797.
[217] Manntal 1801, nafnalykill. Prestsþj.b. Holts í Önundarf.
[218] Vigurætt VI, 1385.
[219] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.
[220] Manntal 1801.
[221] Sama heimild.
[222] Sama heimild.
[223] Sama heimild.
[224] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. 1948, 84 (Frá ystu nesjum IV).
[225] Ól. Þ. Kr. 1948, 83.
[226] Sama heimild.
[227] Sama heimild.
[228] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[229] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Manntal 1845.
[230] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[231] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.
[232] Sama skjalasafn. Sama heimild og Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835.
[233] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[234] Manntöl 1801 og 1816. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[235] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.
[236] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819 og 2. Hreppsbók 1819-1835.
[237] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.
[238] Sóknarskjal Magnúsar Einarsonar á Hvilft, ritað 1851 og lagt fram í máli hans gegn eigendum Eyrar.
Skjalið er varðveitt hjá Gunnlaugi Finnssyni á Hvilft.
[239] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[240] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835.
[241] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835.
[242] Sama heimild.
[243] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[244] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.
[245] Sama heimild.
[246] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[247] Sama heimild. Ísl. æviskrár II, 43-44.
[248] Ísl. æviskrár II, 43-44. Ól. Þ. Kr. 1953, 137 (Frá ystu nesjum VI).
[249] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[250] Manntal 1801.
[251] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[252] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[253] Ól. Þ. Kr. 1948, 65-67 (Frá ystu nesjum IV).
[254] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.
[255] Sama heimild.
[256] Lbs. 12884to, bls. 59 (Gísli Kon.).
[257] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.
[258] Sama heimild.
[259] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.
[260] Sama heimild.
[261] Prestsþj.b. Holts í Önundarf., dauðir 1812.
[262] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.
[263] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[264] Sama heimild.
[265] Manntal 1801.
[266] Sama heimild.
[267] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819 og 2. Hreppsbók 1819-1835.
[268] Sama heimild.
[269] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrsla 1830.
[270] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835.
[271] Manntal 1835.
[272] Sama heimild.
[273] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835 og 3. Hreppsbók 1835-1849.
[274] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835 og 3. Hreppsbók 1835-1849.
[275] Sama heimild.
[276] Sama heimild.
[277] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.
[278] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[279] Sama heimild.
[280] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.
[281] Sama heimild.
[282] Sama askja, búnaðarskýrslur 1830.
[283] Sama heimild.
[284] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1838.
[285] Sama heimild.
[286] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1838.
[287] Sama heimild.
[288] Sama heimild.
[289] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 3. Hreppsbók 1835-1849.
[290] Manntal 1840.
[291] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[292] Sama heimild.
[293] Lúðvík Kristjánsson 1953, 128.
[294] Sami 1960, 39-40.
[295] Sama heimild.
[296] Prestsþj.b. Tröllatungu- og Fellssókna.
[297] Jón Guðnason 1955, 226. Sbr. Finnur Jónsson / Blanda III, 273-284 og Guðbjörg Jónsdóttir 1943, 9-16.
Vestfirskar sagnir II, 57-72.
[298] Jón Guðnason 1955, 226.
[299] Guðbjörg Jónsdóttir 1943, 9.
[300] Prestsþj.b. Tröllatungu- og Fellssókna.
[301] Ísl. æviskrár I, 89-90.
[302] Guðbjörg Jónsdóttir 1943, 11.
[303] Jón Guðnason 1955, 226-227.
[304] Sama heimild, 226-227, 237-238, 367 og 587.
[305] Jón Guðnason (yngri) 1968, 222-227.
[306] Jón Guðnason 1955, 226-227.
[307] Prestsþj.b. Tröllatungu- og Fellssókna.
[308] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Tröllatungu- og Fellssókna og Árness.
[309] Sóknarmannatöl Árness.
[310] Prestsþj.b. Árness.
[311] Prestsþj.b. Tröllatungu- og Fellssókna.
[312] Manntal 1835.
[313] Sóknarm.töl Tröllatungu- og Fellssókna.
[314] Finnur Jónsson / Blanda III, 282.
[315] Sama heimild.
[316] Skútuöldin 1977, I, 321-322.
[317] Sama heimild, 145.
[318] Jón Þ. Þór 1984, 158. Guðmundur Scheving / Ármann á Alþingi IV, 1832, 86-89.
[319] Jón Þ. Þór 1984, 158.
[320] Sama heimild.
[321] Guðmundur Scheving / Ármann á Alþingi IV, 1832, 89.
[322] Jón Þ. Þór 1984, 158-161.
[323] Sóknarm.töl Tröllatungu- og Fellssókna.
[324] Sama heimild.
[325] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.
[326] Skútuöldin 1977, I, 145.
[327] Lúðvík Kristjánsson 1955, 44-45.
[328] Sama heimild.
[329] VA III, 411, búnaðarskýrsla Þingeyrarhrepps 1848.
[330] VA III, 413, búnaðarskýrsla Mýrahrepps 1852.
[331] Sama heimild.
[332] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mýrahr. 4. Hreppsbók 1850-1868, tíundarskýrsla 1854.
[333] Sama heimild.
[334] Guðmundur Scheving 1832, 87-89.
[335] Lúðvík Kristjánsson 1955, 44-45.
[336] Sama heimild.
[337] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar 12.7.1847 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[338] Lúðvík Kristjánsson 1960, 73.
[339] Lúðvík Kristjánsson 1960, 38.
[340] Sama heimild.
[341] E. 10. Átján bréf Magnúsar Einarssonar á Hvilft til Jóns forseta og brot úr því nítjánda. JS 142 b, fol. Bréf Magnúsar Einarssonar 18.12.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[342] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.
[343] Einar Laxness 1977, 104.
[344] Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).
[345] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.
[346] VA III, 407, b.sk.1837 og 1838. VA III, 408, b.sk. 1839 og 1840. VA III, 409-410, b.sk. 1841-1843.
[347] Sama heimild.
[348] VA III, 407-411, búnaðarskýrslur 1838-1848.
[349] VA III, 411-416, búnaðarskýrslur 1849-1858.
[350] VA III, 410-411, búnaðarskýrslur 1843-1848. Manntal 1845, vesturamt, bls. 282.
[351] Manntal 1845, vesturamt, bls. 282.
[352] Jón Þ. Þór 1984, 126.
[353] VA III, 407-416, búnaðarskýrslur 1837-1858.
[354] ÍB 8254to, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 19.4.1842.
[355] ÍB 8254to, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 16.6.1837.
[356] Sama dagbók, 13.3.1845.
[357] Sama dagbók, 3.7.1845.
[358] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 8. Dóma- og þingbók 1835-1841, bls. 355.
[359] Ný félagsrit 1844, IV, 182.
[360] Sama heimild og Ný félagsrit 1846, VI, 226.
[361] E. 10. Bréf Gísla Ívarssonar 23.8.1842 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[362] E. 10. Bréf sama 15.8.1841 til sama.
[363] E. 10. Bréf sama 23.8.1842 til sama.
[364] Jón Guðnason 1955, 226.
[365] Lúðvík Kristjánsson 1960, 37-38. Bréf Jóns Sigurðssonar, úrval 1911, 57.
[366] E. 10. Bréf Ólafs E. Johnsen 21.7.1843 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[367] E. 10. Bréf Ólafs E. Johnsen 21.7.1843 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[368] E. 10. Bréf séra Ólafs E. Johnsen 12.1.1844 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[369] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XXIV. Kjörbækur A og B, 1844-1903 og 1844-1864.
[370] Sama heimild.
[371] Lúðvík Kristjánsson 1960, 38.
[372] Lúðvík Kristjánsson 1955, 144-145.
[373] Sama heimild, sjá hér Gerðhamrar.
[374] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar 12.7.1847 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[375] E. 10. Bréf sama 1.1.1853 til sama.
[376] E. 10. Bréf sama 1847-1858 til sama. JS 142 b, fol. Bréf M. Einarss. 28.12.1848 til J. Sigurðss. forseta.
[377] E. 10. Bréf í nafni M. Einarss. dags. 1.9.1844 til Jóns Sigurðssonar forseta, ritað af Gísla Ívarssyni.
[378] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 8.8.1852 og 2.1.1857 til Jóns Sig. forseta, sjá einnig hér bls. 32-33.
[379] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 1.9.1844 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[380] Sama heimild.
[381] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 1.9.1844 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[382] Sama heimild.
[383] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 18.9.1849 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[384] E. 10. Bréf sama 12.7.1847 til sama.
[385] Lúðvík Kristjánsson 1960, 73.
[386] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 12.7.1847 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[387] E. 10. Bréf sama 8.8. og 11.8.1847 til sama.
[388] Lúðvík Kristjánsson 1960, 275-276.
[389] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 8.8.1847 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[390] E. 10. Bréf sama 11.8.1847 til sama.
[391] Sama heimild.
[392] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 11.8.1847 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[393] HSK. 13704to, Bréf M. Einarss. (óundirritað), skrifað í Vigur 11.12.1846 til Eggerts Briem.
[394] Sama heimild.
[395] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 8.8.1847 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[396] E. 10. Bréf sama 2.1.1848 til sama.
[397] Sama heimild.
[398] Sama heimild.
[399] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 2.1.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[400] Ólafur Oddsson 1973, 29 (Saga).
[401] Sama heimild.
[402] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 2.1.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[403] E. 10. Bréf M. Einarss. 20.4.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[404] Sama heimild.
[405] Sama heimild.
[406] E. 10. Bréf sama 13.8.1848 til Jóns Sig.
[407] Sama heimild.
[408] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar 13.8.1848 til Jóns Sig. forseta.
[409] Sama heimild.
[410] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 16.8.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[411] Sama heimild.
[412] JS 142 b, fol. Bréf M. Ein. 28.12.1848 til J. Sig. fors. E. 10. Bréf sama 30.7.1849 til sama.
[413] Sömu heimildir.
[414] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 13.8.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[415] Sama heimild.
[416] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 13.8.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[417] Lúðvík Kristjánsson 1960, 221-228.
[418] Sama heimild.
[419] Einar Laxness 1987, 254-255.
[420] Lúðvík Kristjánsson 1960, 262-265.
[421] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 28.12.1848, 7.1.1850, 8.8.1852 og 15.8.1858 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[422] Lúðvík Kristjánsson 1960, 286-304.
[423] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 8.8.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[424] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 8.8.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[425] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[426] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 13.8.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[427] JS 142 b, fol. Bréf M. Einarss. dags. 28.12.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[428] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 30.7.1849 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[429] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 20.4.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[430] Lúðvík Kristjánsson 1960, 146.
[431] Sama heimild, 144-152.
[432] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 19.8.1849 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[433] E. 10. 17. Minnisgreinar J. Sigurðss. forseta, afrit af óundirr. og ódags. bréfi. Sbr. L.Kr. 1960, 149-152.
[434] Lúðvík Kristjánsson 1960, 152.
[435] JS 148 a fol. (1851), afrit af bænarskrá Arnfirðinga og nokkurra Dýrfirðinga um Alþingi.
[436] Sama heimild.
[437] Einar Laxness 1979, 43.
[438] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 7.1.1850 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[439] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 7.1.1850 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[440] E. 10. Bréf M. Einarss. dags. 7.1.1850 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[441] Lúðvík Kristjánsson 1960, 157.
[442] Lbs. 38944to, Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 24.5.1850 til Eggerts Briem sýslumanns.
[443] Lbs. 38944to, Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 24.5.1850 til Eggerts Briem sýslumanns.
[444] Lúðvík Kristjánsson 1960, 157.
[445] Sama heimild.
[446] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XXIV. Kjörbækur A og B, 1844-1903 og 1844-1864.
[447] Sama heimild.
[448] Sama heimild.
[449] Sama heimild.
[450] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XXIV. Kjörbækur A og B, 1844-1903 og 1844-1864.
[451] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 8.8.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[452] E. 10. Bréf sama 9.1.1852 til sama.
[453] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 8.8.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[454] Lúðvík Kristjánsson 1953, 131.
[455] Sama heimild.
[456] Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).
[457] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 1.1.1853 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[458] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 8.8.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[459] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XXIV. Kjörbækur A og B, 1844-1903 og 1844-1864.
[460] Sama heimild.
[461] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XXIV. Kjörbækur A og B, 1844-1903 og 1844-1864.
[462] Sama heimild.
[463] Sama heimild.
[464] Sama heimild.
[465] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 8.3.1858 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[466] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XXIV. Kjörbækur A og B, 1844-1903 og 1844-1864.
[467] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XXIV. Kjörbækur A og B, 1844-1903 og 1844-1864.
[468] Sama heimild.
[469] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 20.4.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[470] Salmonsens Konv. Leksikon 1916, V, 499-500.
[471] Jón Þ. Þór 1988, 101.
[472] JS 142 b, fol. Bréf Magnúsar Einarssonar 28.12.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[473] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 7.1.1850 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[474] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 2.1.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[475] Þorkell Jóhannesson 1937, 221.
[476] Bréf Jóns Sigurðssonar, úrval, 1911, 92-93, bréf Jóns 18.4.1846 til Eggerts Briem.
[477] Sama heimild.
[478] Ný félagsrit 1846, VI, 134-143.
[479] Sama heimild.
[480] Sigurður Sigurðsson 1937, 100-101 (Bún.fél Ísl. – Aldarminning, síðara bindi). Sbr. Ísl. æviskrár II, 113.
[481] Þorkell Jóhannesson 1937, 235 (Bún.fél Ísl. – Aldarminning, fyrra bindi).
[482] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar 30.7.1849 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[483] E. 10. Bréf sama 19.8.1849 til sama.
[484] E. 10. Bréf sama 7.1.1850 til sama.
[485] E. 10. Bréf sama 8.8.1852 til sama.
[486] E. 10. Bréf sama 1.1.1853 til sama.
[487] E. 10. Bréf Magnúsar Einarsson dags. 8.3.1858 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[488] Jarðab. Á. og P. VII, 123-124.
[489] ÍB 8264to, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 17.3.1849.
[490] Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar á Hvilft í máli hans frá árunum 1851 og 1852 gegn eigendum Eyrar,
óundirritað og ódagsett afrit þess er varðveitt hjá Gunnlaugi Finnssyni á Hvilft.
[491] Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar sem fyrr var nefnt, afrit varðveitt á Hvilft.
[492] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[493] Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar sem fyrr var nefnt, afrit varðveitt á Hvilft.
[494] Sama heimild.
[495] Sama heimild.
[496] Sama heimild.
[497] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 10. Dóma- og þingbók 1848-1854.
[498] Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar sem fyrr var nefnt, afrit varðveitt á Hvilft.
[499] Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar sem fyrr var nefnt, afrit varðveitt á Hvilft.
[500] Sama heimild.
[501] Sama heimild. Sbr. J. Johnsen 1847, 196.
[502] Sama heimild.
[503] Sama heimild.
[504] Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar sem fyrr var nefnt, afrit varðveitt á Hvilft.
[505] Sama heimild.
[506] Sama heimild.
[507] Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar sem fyrr var nefnt, afrit varðveitt á Hvilft, sbr. hér bls.7-8.
[508] Sama heimild.
[509] Sama heimild.
[510] Sáttargerð Magnúsar Einarssonar á Hvilft og feðganna Magnúsar Ólafssonar og Ólafs sonar hans á Eyri,
dagsett 31.1.1852. Varðveitt hjá Gunnlaugi Finnssyni á Hvilft.
[511] Sama heimild.
[512] Sama heimild.
[513] Sama heimild.
[514] Sama heimild.
[515] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 10. Dóma- og þingbók 1848-1854.
[516] Sama heimild.
[517] Sama heimild.
[518] E. 10. Bréf Magnúsar Einarsson dags. 8.8.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[519] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873.
[520] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 2.1.1857 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[521] Sama heimild.
[522] K.Ó. 1987, 89-166 (Saga tímarit). Sbr. einnig K.Ó. 1986, 147-203 (Saga tímarit).
[523] K.Ó. 1987, 112-124. Sbr. einnig K.Ó. 2004, 111-129 (Vestanglæður – Afmælisrit tileinkað Jóni Páli Halldórssyni 75 ára 2. október 2004).
[524] Sama heimild.
[525] Sama heimild.
[526] Sama heimild, 117.
[527] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 2.1.1857 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[528] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 19.9.1847 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[529] E. 10. Bréf sama 8.8.1852 til sama.
[530] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 2.1.1857 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[531] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 2.1.1857 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[532] JS 113 fol. Álitsgerð Magnúsar Einarssonar með yfirskriftinni: Skoðun mín á fiskverkunarstofnun
Frakka á Dýrafirði. Sbr. E. 10. Bréf M. Einarssonar dags. 2.1.1857 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[533] K.Ó. 1987, 112-129. Sbr. K.Ó. 2004, 111-129 (Ár 1856. Evrópustyrjöld hótað vegna Dýrafjarðar í bókinni Vestanglæður)
[534] JS 113 fol. Nýnefnd álitsgerð Magnúsar Einarssonar á Hvilft.
[535] JS 113 fol. Nýnefnd álitsgerð Magnúsar Einarssonar á Hvilft.
[536] Sama heimild. Sbr. K.Ó. 1987, 120.
[537] K.Ó. 1987, 120.
[538] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar 2.1.1857 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[539] E. 10. Bréf sama 27.8.1848 og 19.8.1849 til sama.
[540] E. 10. Bréf sama 8.8.1852 til sama.
[541] Sama heimild.
[542] E. 10. Bréf sama 19.9.1847 til sama.
[543] E. 10. Bréf sama 2.1.1848 til sama.
[544] Lúðvík Kristjánsson 1955, 43.
[545] Sama heimild, 44.
[546] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 2.1.1848 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[547] E. 10. Bréf sama 19.8.1849 til sama.
[548] E. 10. Bréf sama 8.3.1858 til sama.
[549] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 15.8.1858 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[550] Sama heimild.
[551] E. 10. Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 15.8.1858 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[552] VA III, 415 og 416, bún.sk. 1857 og 1858. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsb. 1849-1883.
[553] VA III, 415, búnaðarskýrslur 1857.
[554] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[555] VA III, 415, búnaðarskýrslur 1857.
[556] VA III, 416, búnaðarskýrslur 1858.
[557] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók 1856-1869, bls. 41.
[558] Sama skjalasafn Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883. Sama skj.s. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, 83-85.
[559] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. úttektabók 1835-1874, 83-85.
[560] Sama heimild.
[561] Sama heimild.
[562] Sama heimild.
[563] Sama heimild.
[564] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. úttektabók 1835-1874, 83-85.
[565] Sama heimild.
[566] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 4.
[567] Sama heimild.
[568] Sama heimild.
[569] Sama heimild.
[570] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.
[571] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.
[572] Sama heimild.
[573] Sama heimild.
[574] Sama heimild.
[575] Sama heimild.
[576] Sama heimild.
[577] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.
[578] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.
[579] Sama heimild.
[580] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.
[581] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[582] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.
[583] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[584] Sama heimild.
[585] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. Manntal 1860, Grafir í Skarðshreppi.
[586] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[587] Sama heimild.
[588] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[589] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.
[590] E. 10. Bréf Ásgeirs Einarssonar dags. 23.2.1864 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[591] Ísl. æviskrár I, 89-90.
[592] Sama heimild.
[593] Sóknarm.töl Þingeyraklaustursprestakalls.
[594] E. 10. Bréf Ásgeirs Einarssonar dags. 23.2.1864 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[595] Lbs. 44094to, Ritgerð Valdimars Þorvaldssonar: Vélbátar og vélbátaeign, bls. 32-33.
[596] Lbs. 44094to, Ritgerð Valdimars Þorvaldssonar: Vélbátar og vélbátaeign, bls. 32-33.
[597]Sbr. Lúðvík Kristjánsson 1982, 217.
[598] Lbs. 44094to, Ritgerð Valdimars Þorvaldssonar: Vélbátar og vélbátaeign, bls. 32-33.
[599] Ísl. æviskrár II, 12.
[600] Finnur Jónsson, 1945, 246 (Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld, Akureyri 1945).
[601] Finnur Jónsson 1945, 197 og nafnaskrá. Vestfirskar sagnir II, 70-71.
[602] Séra Jón Guðnason 1955, 191-192 (Strandamenn).
[603] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Þingeyraklaustursprestakalls.
[604] Sama heimild.
[605] Ísl. æviskrár III, 449.
[606] Sóknarm.töl Þingeyraklaustursprestakalls. Lbs. 1945b4to, Bréf Magnúsar Einarssonar frá árunum 1865-
1867 til Torfa Bjarnasonar, síðar skólastjóra í Ólafsdal.
[607] Játvarður Jökull Júlíusson 1986, 13 og 259.
[608] Ísl. æviskrár V, 23.
[609] Lúðvík Kristjánsson 1960, 299.
[610] Sama heimild, 296-300.
[611] Lúðvík Kristjánsson 1955, 54-55.
[612] Lbs. 1945b4to, Ellefu bréf Magnúsar Einarssonar til Torfa Bjarnasonar, skrifuð á árunum 1865-1867.
[613] Sama heimild.
[614] Sama heimild.
[615] Lbs. 1945b4to, Ellefu bréf Magnúsar Einarssonar til Torfa Bjarnasonar, skrifuð á árunum 1865-1867.
[616] Sama heimild.
[617] Lbs. 1945b4to, Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 23.9.1866 til Torfa Bjarnasonar.
[618] Lbs. 1945b4to, Ellefu bréf Magnúsar Einarssonar til Torfa Bjarnasonar, skrifuð á árunum 1865-1867.
[619] Sama heimild.
[620] Lbs. 1945b4to, Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 1.1.1866 til Torfa Bjarnasonar.
[621] Lbs. 1945b4to, Bréf sama 2.1.1866 til sama.
[622] Lbs. 1945b4to, Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 2.1.1866 til Torfa Bjarnasonar.
[623] Lbs. 1945b4to, Bréf sama 19.2.1866 til sama.
[624] Sama heimild.
[625] Lbs. 1945b4to, Bréf sama 16.9.1866 til sama.
[626] Lbs. 1945b4to, Bréf sama 23.9.1866 til sama.
[627] Lbs. 1945b4to, Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 2.1.1866 til Torfa Bjarnasonar.
[628] JS 142a, fol. Bréf Jóns Ásgeirssonar á Þingeyrum 27.2.1866 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[629] Sama heimild.
[630] Sama heimild.
[631] Sama heimild.
[632] Sama heimild.
[633] JS 142a, fol. Bréf Ásgeirs Einarssonar 11.8.1864 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[634] Lbs. 1945b4to, Bréf Magnúsar Einarssonar 16.9. og 23.9.1866 til Torfa Bjarnasonar.
[635] Sigurður Sigurðsson 1937, 164.
[636] Játvarður Jökull Júlíusson 1986, 60.
[637] JS 142a, fol. Bréf Ásgeirs Einarssonar 11.8.1864 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[638] JS 142a, fol. Bréf Jóns Ásgeirssonar 27.2.1866 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[639] JS 142a, fol. Bréf Jóns Ásgeirssonar 27.2.1866 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[640] Lbs. 1945b4to, Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 15.1.1865 til Torfa Bjarnasonar.
[641] Lbs. 1945b4to, Bréf sama 1.1.1866 til sama.
[642] Sama heimild.
[643] Sama heimild.
[644] Sama heimild.
[645] Lbs. 1945b4to, Bréf Magnúsar Einarssonar dags. 13.1.1867 til Torfa Bjarnasonar.
[646] Sama heimild.
[647] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Þingeyraklaustursprestakalls.
[648] E. 10. Bréf Ásgeirs Einarssonar dags. 4.11.1868 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[649] Landið þitt Ísland V., 1984, 136.
[650] E. 10. Bréf Ásgeirs Einarssonar dags. 4.11.1868 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[651] Sama heimild.
[652] Ísl. æviskrár V, 373-374.
[653] E. 10. Bréf Ásgeirs Einarssonar dags. 4.11.1868 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[654] Skýrslur um landshagi IV, Kph. 1870, 498.
[655] Ísl. æviskrár V, 389.
[656] E. 10. Bréf Ásgeirs Einarssonar dags.25.2.1867 til Jóns Sigurðssonar forseta.
[657] Sóknarm.töl Þingeyraklaustursprestakalls.
[658] Sama heimild.
[659] Sama heimild.
[660] Sama heimild.
[661] Prestsþj.b. Þingeyraklaustursprestakalls.
[662] Sama heimild.
[663] Sama heimild.
[664] Sama heimild.
[665] Manntal 1845.
[666] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.
[667] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.
[668] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[669] Sama heimild.
[670] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[671] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[672] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[673] Sama heimild.
[674] Sama heimild.
[675] Sama heimild.
[676] Sama heimild.
[677] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[678] Sama heimild. VA III, 417-419, búnaðarskýrslur 1861-1866. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4.
Hreppsbók 1849-1883.
[679] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. VA III, 417-419, búnaðarskýrslur 1861-1866. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís.
Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.
[680] Eyjólfur Jónsson 1967, 65.
[681] Prestsþj.bækur Holts í Önundarfirði. Sbr. Eyjólfur Jónsson 1967, 66-67 (Niðjatal Sveins á Hesti).
[682] Sama heimild. Sóknarm.töl Holts í Önundafirði. Prestsþj.bækur og sóknarmannatöl Staðar í Súgandafirði.
[683] Bréf Gunnlaugs Finnssonar 25.3. 2004 til K.Ó. ásamt meðfylgjandi endurriti af lýsingu Arnfríðar Guðmundsdóttur á brúðkaupsveislunni á Hvilft haustið 1873, – varðveitt hjá K.Ó.
[684] Sama heimild.
[685] Sama heimild.
[686] Bréf Gunnlaugs Finnssonar 25.3. 2004 til K.Ó. ásamt meðfylgjandi endurriti af lýsingu Arnfríðar Guðmundsdóttur á brúðkaupsveislunni á Hvilft haustið 1873, – varðveitt hjá K.Ó.
[687] Ísl. æviskrár I, 308-309 og IV, 336.
[688] Sama heimild.
[689] Sama heimild.
[690] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[691] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[692] Manntal 1901 og fylgiskjöl með því.
[693] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 83.
[694] Sama heimild.
[695] Sama heimild.
[696] Sama heimild.
[697] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 83.
[698] Sama heimild.
[699] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[700] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[701] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[702] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[703] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[704] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883 og 5. Hreppsbók 1883-1912.
[705] Ól. Þ Kr. / Önfirðingar.
[706] Sama heimild.
[707] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.
[708] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.
[709] Sama heimild.
[710] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.
[711] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.
[712] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[713] Manntal 1901.
[714] Sama heimild.
[715] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[716] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.
[717] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[718] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.
[719] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili.
[720] Lbs. án safnnr. Dagbók og önnur gögn úr fórum Jóns Guðmundssonar, búfræðings, á Ytri-Veðrará.
[721] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[722] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[723] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[724] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[725] Sama heimild.
[726] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[727] VA III, 423, búnaðarskýrslur 1877-1879.
[728] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[729] Lúðvík Kristjánsson 1953, 106-110. Játvarður Jökull Júlíusson 1985, 101-109.
[730] Játvarður Jökull Júlíusson 1985, 167.
[731] Sama heimild.
[732] Játvarður Jökull Júlíusson 1985, 167-184.
[733] Sama heimild, 184.
[734] Sama heimild, 139.
[735] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[736] Sama heimild.
[737] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[738] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.
[739] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[740] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[741] Ól. Þ.Kr. 1948, 76-77 (Frá ystu nesjum IV).
[742] Ól.Þ.Kr./ Önfirðingar.
[743] Játvarður Jökull Júlíusson 1985, 106 og 110-111.
[744] Sama heimild.
[745] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 31.3.1899.
[746] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 31.3.1899.
[747] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[748] Sama heimild.
[749] Sama heimild.
[750] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.
[751] Sama heimild.
[752] Manntal 1910.
[753] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[754] Sama heimild.
[755] Sama heimild.
[756] Sama heimild.
[757] Torfaættarbók 1991, 48-49. Bréf Maríu Össurardóttur 14.3.1910 til Guðrúnar og Ástríðar Torfadætra.
[758] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.
[759] Sama heimild. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[760] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.
[761] Sama heimild.
[762] Sama heimild. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[763] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.
[764] Afrit af þinglýstri eignarheimild frá 23.9.1911, varðveitt á Hvilft.
[765] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.
[766] Sama heimild.
[767] Sama heimild.
[768] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.
[769] Sama heimild.
[770] Fasteignabók 1932.
[771] Sama heimild.
[772] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.