Innri-Hjarðardalur

Innri-Hjarðardalur

Í landareign Innri-Hjarðardals komum við fyrst fram á dalnum og höfum vaðið ána neðan við Selhóla sem eru í landi Ytri-Hjarðardals. Tilvalið er að rölta hér dálítið fram í Ártungurnar sem áður voru nefndar og hefja svo þaðan gönguna heim í tún. Fyrir botni dalsins rís fjallið Torfhorn en aðeins nær okkur í sömu stefnu sjáum við stóran hól fram í dalbotninum. Hann heitir Sjónarhóll og þar vex mikið af fjallagrösum.[1] Frá ármótunum, hér rétt fyrir framan, er aðeins einn og hálfur kílómetri fram að Sjónarhól en um það bil fjórir kílómetrar frá Sjónarhól heim til bæjar í Innri-Hjarðardal. Þess var áður getið að Ártungurnar milli kvíslanna tveggja fremst í Hjarðardal hafi á síðari tímum yfirleitt verið taldar óskipt land (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Samt var það svo að fólk frá Innri-Hjarðardal tíndi fjallagrös aðeins sín megin á Sjónarhól en hinum megin á hólnum tíndu þeir sem áttu heima í Ytri-Hjarðardal.[2]

Suðaustan við Ártungurnar gengur alllangur afdalur inn í hálendið sem skilur að Önundarfjörð og Dýrafjörð. Dalskora þessi heitir Ranghali. Úr Ranghalabotni er hægt að komast upp á fjallið og þaðan má ganga yfir í Núpsdal í Dýrafirði.[3] Sú leið er þó ekki bein og harla varasöm fyrir ókunnuga því víðast hvar eru klettabrúnirnar algerlega ófærar. Klettalausar leiðir af fjallinu niður í Núpsdal eru tvær. Önnur þeirra er um dalbotninn en hin liggur frá brúninni yfir botni Geldingadals sem gengur austur úr sjálfum Núpsdal (sjá hér Núpur).

Frá Sjónarhól sést vel til fjalla. Beint á móti Kambafjallinu, sem áður var nefnt og er í landi Ytri-Hjarðardals, er annað fjall með sama nafni.[4] Norðan við síðarnefnda Kambafjallið taka við Grjótskálar og mun það vera fjallið sem heitir svo[5] en síðan kemur Hvirfilsdalur,[6] hrjóstrug skál við efstu brúnir.

Á göngu okkar heim dalinn stefnum við nú á skriðuna miklu sem þekur fjallshlíðina neðan við brún Hvirfilsdals. Skriða þessi heitir Stóraskriða.[7] Lítið eitt framan við hana en skammt heiman við kvíslamótin komum við að fornum tóttum sem á síðari tímum hafa jafnan verið nefndar Hlað.[8] Megintóttin er um 20 metrar í ummál. Hún er nálægt því að vera hringlaga en samt dálítið þrengri í annan endann. Svo virðist sem byrgi þessu eða húsi hafi verið skipt í tvennt. Um það bil 30 metrum heimar er önnur tótt, fornleg mjög, sem gæti hafa verið kví. Líklegast er að hér hafi fyrr á öldum verið sel frá Innri-Hjarðardal en síðar sauðahlað því slík byrgi voru mjög oft hringlaga.

Þessar tóttir eru svolítið framar en Selhólarnir handan ár (sjá hér Ytri-Hjarðardalur) en héðan er samt aðeins liðlega hálftíma gengur heim að túngirðingunni í Innri-Hjarðardal. Fjallið heiman við Hvirfilsdal, sem hér var áður nefnt, heitir Högg en norðan við það og nyrst í fjallgarðinum suðaustan við Hjarðardal er Þórustaðahorn sem blasir við frá bæjunum neðan við dalsmynnið.

Spölkorn framan við túnið í Innri-Hjarðardal er gamall stekkur. Hann er tvískiptur, um það bil 5,5 + 3 metrar á lengd og því sem næst 2 metrar á breidd. Í nánd við stekkinn mótar fyrir hleðslu á allstóru svæði og mun hafa verið ætluð til aðhalds.

Lítið eitt heiman við stekkinn og aðeins nær ánni eru tvær hringlaga tóttir, báðar á sama hólnum. Ætla má að þetta séu rústir af gömlum sauðabyrgjum. Önnur tóttin er mun fornlegri en hin og er sú eldri 13-14 metrar í ummál en ummál hinnar er ekki langt frá 20 metrum. Frá þessum tóttum er aðeins 5-10 mínútna gangur til bæjar. Við flýtum nú för okkar heim í hlað og setjumst um stund upp á hólinn Virki sem er rétt hjá bænum. Þetta er myndarlegur hóll sem mikið ber á og lengi var því trúað að ekki mætti grafa í hann því að þá myndi kvikna í kirkjunni í Holti.[9]

Af bæjunum þremur neðan við dalsmynnið er Innri-Hjarðardalur sá í miðið en þaðan er örskammt að hinum tveimur, Ytri-Hjarðardal og Þórustöðum. Þess var áður getið að á Hjarðardal skiptir áin löndum milli Ytri- og Innri Hjarðardals (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Það gerir hún einnig neðan við dalsmynnið uns komið er niður að brúnni sem er á gönguleið milli bæjanna, alllangt fyrir ofan þjóðveg.[10] Frá þessari brú yfir Hjarðardalsá og niður að lænu sem rennur rétt ofan við þjóðveginn liggur akvegurinn heim að Ytri-Hjarðardal á landamerkjum.[11] Síðan er það lænan sem áður var nefnd sem skiptir löndum en hún rennur út á við um lægðina Görn, ofan við þjóðveginn, og í Hjarðardalsá rétt utan við brúna á þjóðveginum.[12] Þaðan ræður áin landamerkjum til sjávar en af því hún breytir oft um farveg þarna ofan við ósinn hafa verið rekin niður rör sem segja til um merkin.[13] Neðan við þjóðveginn og Görnina á Innri-Hjarðardalur því land talsvert lengra út eftir en á túnunum sem eru öll fyrir ofan þjóðveg. Í landamerkjaskrá frá árinu 1890 er tekið fram að Innri-Hjarðardalur eigi alla Görnina.[14]

Í landi Innri-Hjarðardals, neðan við þjóðveginn og rétt fyrir utan bæinn í Ytri-Hjarðardal, er gömul og nokkuð djúp tótt sem nefnd er Lambahlað.[15] Ætla má að þar hafi verið lambabyrgi. Tótt þessi er nær beint niður af Hrafnagili en það er stórt gil sem mikið ber á hér uppi í fjallinu.[16] Á melunum neðan við túnið í Innri-Hjarðardal var þjóðhátíð Önfirðinga haldin 3. ágúst 1913 og mun hafa verið allfjölsótt samkoma.[17]

Milli Þórustaða og Innri-Hjarðardals eru landamerki á Þórustaðahálsi sem er ofan við túnið á Þórustöðum[18] og þaðan í Djúpapytt en það er allstór og krókóttur lækur sem á upptök sín ofarlega og innst í túninu í Innri-Hjarðardal.[19] Nánari lýsingu á landamerkjunum má finna á bls. 350 í bókinni Firðir og fólk 1900-1999.

Innri-Hjarðardalur er forn bújörð, 18 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati.[20] Um 1920 gáfu matsmenn jörðinni þá einkunn að hún væri hæg slægnajörð.[21] Túnið var þá talið grasgefið og greiðfært en harðlent, útengi sendið valllendi, sagt snögglent en naut góðs af áveitu.[22] Í matsgerðinni frá því um 1920 er tekið fram að beitiland jarðarinnar sé lélegt.[23] Í Jarðabókinni frá 1710 er sem vænta mátti gert mikið úr öllum ágöllum jarðarinnar en þar segir meðal annars:

 

Túninu hafa skriður spillt og er sýnilegt að muni áaukast. Enginu grandar Hjarðardalsá með grjótsáburði, item sandfok úr Holtsmelum, hvorttveggja til stórs skaða. Ekki er bænum öldungis óhætt fyrir Hjarðardalsá og hefur hún einu sinni inn í bæinn hlaupið en þó engan merkilegan skaða gert. Heimræði hefur hér brúkast stundum á sumrin og lending góð en skipsuppsátur slæmt og því brúkast þetta heimræði lítt með því langræði er mikið.[24]

 

Þegar þarna er talað um heimræði mun átt við róðra frá Hjarðardalssjó (sjá hér Ytri-Hjarðardalur) en þar var heimavör bænda á báðum jörðunum sem kenndar eru við Hjarðardal. Önnur lending var að vísu beint fyrir neðan bæinn í Innri-Hjarðardal. Þar voru bátar geymdir að vetri til en ekki er kunnugt um að þaðan hafi verið róið til fiskjar.[25]

Ekki langt frá síðustu aldamótum var bærinn í Innri-Hjarðardal fluttur á nýtt bæjarstæði en stóð áður 10-15 metrum norðar og austar en íbúðarhúsið sem nú er búið í.[26]

Í þeim orðum sem hér var vitnað til úr Jarðabókinni frá 1710 var þess getið að Hjarðardalsá hefði eitt sinn hlaupið inn í bæinn hér í Innri-Hjarðardal og á dögum þeirra sem nú lifa hefur komið fyrir að hún hlypi að bænum.[27]

Árið 1710 var landskuld af Innri-Hjarðardal 80 álnir en hafði áður verið 100 álnir.[28] 60 álnir af landskuldinni áttu að borgast í fiski en 20 álnir í landaurum.[29] Um 1680 fylgdu jörðinni fimm leigukúgildi en 1710 voru þau ekki nema þrjú.[30]

Í varðveittum heimildum er Innri-Hjarðardals fyrst getið í skrá yfir jarðeignir sem Guðmundur Arason ríki hafði átt en sú skrá var tekin saman árið 1446 eða því sem næst.[31] Þar eru jarðir Guðmundar í Önundarfirði og Dýrafirði taldar upp, m.a. tveir Hjarðardalir, annar 60 hundruð að dýrleika en hinn 30 hundruð.[32] Í byrjun 18. aldar var Innri-Hjarðardalur að vísu aðeins virtur á 18 hundruð[33] en samt sem áður benda allar líkur til þess að sá Hjarðardalur í Önundarfirði eða Dýrafirði sem metinn var á 30 hundruð um miðbik 15. aldar hljóti að vera þessi sama jörð. Hinn möguleikinn er sá að þarna sé átt við Fremri-Hjarðardal í Dýrafirði en sú jörð var aðeins metin á 12 hundruð á síðari öldum[34] svo hún kemur vart til greina.

Í bréfi frá árinu 1509 sést að Innri-Hjarðardalur hefur ekki alltaf verið virtur á 18 hundruð því þar eru Hjarðardalirnir tveir í Önundarfirði sagðir vera, annar 70 hundruð en hinn 20 hundruð.[35] Samanlagður dýrleiki beggja jarðanna er þarna 90 hundruð sem er nákvæmlega sama tala og fram kemur í áðurnefndri skrá yfir Guðmundareignir þar sem nefndir eru tveir Hjarðardalir, annar 60 og hinn 30 hundruð. Ef til vill er hugsanlegt að á árunum 1446 til 1509 hafi 10 jarðarhundruð, sem áður fylgdu Innri-Hjarðardal, verið lögð undir Ytri-Hjarðardal en sé þeirri tilgátu hafnað verður að telja líklegast að um ritvillu eða prentvillu sé að ræða í skránni yfir Guðmundareignir og þar hafi 20 hundruð breyst í 30 hundruð fyrir vangá.

Um 1500 átti Björn Guðnason í Ögri báða Hjarðardalina í Önundarfirði en gaf þá Guðrúnu dóttur sinni eldri í heimanfylgju er hún giftist fyrri eiginmanni sínum, Bjarna Andréssyni, þann 7. nóvember árið 1507.[36] Bjarni Andrésson varð skammlífur og andaðist árið 1509 en við lát hans eða skömmu síðar mun Björn í Ögri hafa eignast báðar þessar jarðir í annað sinn.[37]

Björn Guðnason í Ögri dó árið 1518 en eignum hans var ekki skipt fyrr en sex árum síðar en þá komu jarðirnar Hjarðardalir sem enn voru virtar á 90 hundruð í hlut barna Björns.[38] Eitt barna Björns Guðnasonar var Ólöf, eiginkona Sigfúsar Brúnmannssonar á Hrauni í Keldudal í Dýrafirði. Í viðskiptum Sigfúsar við Ögmund biskup Pálsson á árunum kringum 1530 náði biskup að eignast þann part í Hjarðardal sem Sigfús og Ólöf kona hans höfðu átt[39] en vera má að sá partur hafi allur verið úr Ytri-Hjarðardal því þá jörð átti Ögmundur sannanlega alla um 1540 (sjá hér Ytri-Hjarðardalur).

Í heimild frá árinu 1681 eru nefndir fimm bændur sem þá bjuggu í Hjarðardal í Önundarfirði,[40] án þess þó að séð verði hvernig þeir skiptust á jarðirnar tvær, Ytri- og Innri-Hjarðardal. Einn þessara fimm bænda var Þorleifur Sveinsson sem sagður er búa á eignarjörð.[41] Ætla má að eignarjörðin hafi verið Innri-Hjarðardalur því að Ytri-Hjarðardalur var þá í eigu konungs (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Í öðrum heimildum er frá því greint að Þorleifur Sveinsson prestssonur frá Holti og hálfbróðir Brynjólfs biskups Sveinssonar, hafi orðið bóndi í Innri-Hjarðardal.[42] Fullvíst er að Þorleifur var á lífi þegar Brynjólfur biskup andaðist árið 1675[43] og má því gera ráð fyrir að það sé þessi öldungur sem var sjálfseignarbóndi hér árið 1681. Hann hefur þá verið á níræðisaldri því móðir hans mun hafa andast árið 1599 eða því sem næst (sjá hér Holt). Þorleifur var undir ævilokin kvæntur Valgerði Tómasdóttur og 16. mars 1679 skipti hann ýmsum jarðeignum milli barna sinna og dótturbarna.[44] Við þá uppskiptingu kom Innri-Hjarðardalur í hlut sonarins, Páls Þorleifssonar.[45]

Árið 1710 átti Ástríður Jónsdóttir á Mýrum í Dýrafirði allan Innri-Hjarðardal[46] en hún var náinn ættingi Þorleifs Sveinssonar sem búið hafði á jörðinni nokkrum áratugum fyrr. Afi Ástríðar var séra Jón Sveinsson í Holti, bróðir Þorleifs.[47]

Við andlát Ástríðar á Mýrum árið 1719 mun Innri-Hjarðardalur hafa komist í hendur tengdasonar hennar, Snæbjörns Pálssonar sem skömmu síðar var farið að nefna Mála-Snæbjörn. Árið 1728 staðfesti yfirdómur áður genginn lögmannsdóm um að allar eignir Snæbjörns skyldu gerðar upptækar og falla undir konung (sjá hér Sæból). Í sviptingum þeim sem í kjölfarið fylgdu tapaði Snæbjörn m.a. Innri-Hjarðardal[48] því Markús Bergsson sýslumaður tók jörðina af Snæbirni og lýsti hana konungseign. Kóngur átti hana þó aðeins í mjög skamman tíma því að árið 1730 var hún seld og afsal gefið út 13. apríl 1731.[49]

Sá sem keypti Innri-Hjarðardal af kóngi var Ólafur Jónsson, lögréttumaður á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, síðar lögsagnari.[50] Fyrir hvert jarðarhundrað greiddi Ólafur 4 spesíudali[51] og hefur þá gefið 72 slíka dali fyrir jörðina sem þá taldist vera 18 hundruð að dýrleika. Um þessar mundir gekk spesíudalurinn yfirleitt á 30 álnir í landaurareikningi[52] svo þetta var einmitt það verð sem vænta mátti. Ólafur keypti jörðina með þremur kúgildum og gaf þrjá krónudali fyrir hvert kúgildi.[53] Krónudalurinn, sem einnig var nefndur sléttur dalur, var almennt virtur á 20 álnir í landaurareikningi á þessum tíma[54] svo Ólafur virðist hafa fengið kúgildin á 60 álnir hvert sem aðeins var hálfvirði því að réttu lagi voru 120 álnir í kúgildinu og jafn margar í einu jarðarhundraði.

Þann 15. ágúst 1744 setti Ólafur lögsagnari þessa jörð sína í Önundarfirði að veði til tryggingar skilvísri greiðslu á árlegri afgift fyrir nokkrar konungsjarðir á Vestfjörðum sem hann hafði að léni.[55] Allt bendir til þess að Ólafur lögsagnari á Eyri hafi átt Innri-Hjarðardal frá 1730 til dauðadags árið 1761.

Einu ári eftir andlát Ólafs á Eyri er monsjör Ólafur Ólafsson sagður eiga jörðina.[56] Þar mun átt við son Ólafs á Eyri, Ólaf þann sem síðar nefndi sig Olavius. Hann var þá liðlega tvítugur piltur við nám í Skálholtsskóla.[57] Árið 1773 seldi Ólafur Olavius Bárði Illugasyni Innri-Hjarðardal ásamt 12 hundruðum í Vífilsmýrum og nokkrum kúgildum fyrir 144 spesíudali og 9 krónudali.[58] Kaupandinn Bárður Illugason átti heima í Neðri-Arnardal við Skutulsfjörð og er hann ættfaðir hinnar fjölmennu Arnardalsættar sem svo hefur verið nefnd á bókum.[59] Þessum kaupsamningi Ólafs Olaviusar og Bárðar í Arnardal mun bróðir Ólafs, Magnús Ólafsson, bóndi í Súðavík, þó hafa fengið rift því sumarið 1775 var kynnt á Alþingi brigðalýsing frá honum og viljayfirlýsing hans um að innleysa Innri-Hjarðardal og umrædd 12 hundruð í Vífilsmýrum til sín.[60] Hversu lengi Innri-Hjarðardalur kann að hafa verið í eigu Magnúsar í Súðavík er nú ókunnugt.

Þorleifur Sveinsson, sem hér var áður nefndur,  er fyrsti bóndinn í Innri-Hjarðardal sem þekktur er með nafni. Hann var sonur séra Sveins Símonarsonar í Holti og fyrri konu hans, Þórunnar Björnsdóttur. Ljóst er að Þorleifur hefur verið á lífi árið 1673 því að á því ári arfleiddi Brynjólfur biskup bræður sína, Þorleif og séra Gizur, að öllu sínu erfðagóssi sem voru 50 hundruð í jörðum.[61] Við gerð þessarar erfðaskrár ráðstafaði biskup hins vegar öllu sínu aflagóssi til bróðursonar síns, séra Torfa Jónssonar í Gaulverjabæ,[62] og talið er nær fullvíst að bréf sem séra Torfi skrifaði tveimur árum síðar, að Brynjólfi biskupi látnum, muni vera stílað til Þorleifs bónda í Innri-Hjarðardal.[63]

Séra Jón Halldórsson í Hítardal, sem fæddur var árið 1665, segir í Biskupasögum sínum að kona Þorleifs í Hjarðardal hafi verið Guðlaug Bjarnadóttir, sonardóttir Jóns Ólafssonar sýslumanns[64] sem talið er að hafi búið í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Eitt barna þeirra var Þórður sem ólst upp hjá Brynjólfi biskupi í Skálholti og varð prestur á Þingvöllum.[65] Annar sonur þessara hjóna í Innri-Hjarðardal var Björn sem varð prestur á Álftamýri.[66]

Árin 1703 og 1710 var tvíbýli í Innri-Hjarðardal en þá bjuggu þar leiguliðar.[67] Annar ábúandinn bæði þessi ár var ekkjan Guðlaug Jónsdóttir og bjó hún árið 1710 á hálfri jörðinni.[68] Bústofn Guðlaugar var þá 2 kýr, 1 kálfur, 12 ær, 1 sauður þrevetur, 3 tvævetrir og 8 veturgamlir, 13 lömb og 2 hross, annað ungt.[69] Á hinu býlinu var bústofninn dálítið stærri en ekki munaði þó miklu.[70] Landsdrottinn Guðlaugar var Ástríður Jónsdóttir á Mýrum í Dýrafirði (sjá hér bls. 5) og þangað þurfti ekkjan í Hjarðardal að fara með smjörleigurnar fyrir þær níu ær sem Ástríður átti í búi Guðlaugar.[71] Heimilt var þó að greiða leigurnar í kaupstað og þá í fiskatali.[72]

Á 18. öld virðist oftast hafa verið tvíbýli hér í Innri-Hjarðardal.[73] Stundum stóðu konur fyrir búi á öðru býlinu. Áður var getið ekkjunnar Guðlaugar Jónsdóttur sem bjó hér í byrjun 18. aldar og nefna má Hallgrímu Hannesdóttur sem var annar tveggja bænda í Innri-Hjarðardal árið 1753.[74]

Árið 1801 var enn tvíbýli í Innri-Hjarðardal[75] en um 1810 fluttust þangað hjónin Ebenezer Guðmundsson og Margrét Bjarnadóttir og munu þá þegar eða skömmu síðar hafa fengið alla jörðina til ábúðar.[76] Ebenezer var fæddur árið 1771, sonur Guðmundar Bárðarsonar, bónda og hreppstjóra í Neðri-Arnardal við Skutulsfjörð og konu hans, Sigríðar Björnsdóttur frá Núpi í Dýrafirði.[77] Föðurafi Ebenezers var Bárður Illugason í Neðri-Arnardal, sem hér var nýlega nefndur, en móðurafi hans var Björn Jónsson, óðalsbóndi á Núpi, af hinni gamalgrónu Núpsætt sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá  hér Núpur).

Margrét Bjarnadóttir, sem fluttist með Ebenezer manni sínum að Innri-Hjarðardal um 1810, var frá Marðareyri í Veiðileysufirði í Jökulfjörðum, dóttir Bjarna bónda á Marðareyri Jónssonar hrekks í Æðey Einarssonar.[78] Ebenezer og Margrét munu hafa byrjað sinn búskap á Kvíanesi í Súgandafirði og þar voru elstu börn þeirra fædd.[79] Á Kvíanesi bjuggu þau aðeins í örfá ár og stutt varð líka í búskap Ebenezers í Innri-Hjarðardal því þar andaðist hann 24. júlí 1816 af umgangstaksótt að sögn prestsins duglegur erfiðismaður bæði til lands og sjávar.[80] Margrét ekkja hans bjó hins vegar áfram á jörðinni. Við húsvitjun í marsmánuði árið 1818 er hún sögð vera 41 árs gömul.[81] Hún bjó þá ein á allri jörðinni og var með ellefu manneskjur í heimili.[82] Í þeim hópi voru börn hennar fimm á aldrinum þriggja til  ellefu ára.[83]

Á næstu árum virðist hafa þrengt allnokkuð að ekkjunni í Innri-Hjarðardal því árið 1821 var enginn verkfær karlmaður vistráðinn hjá henni, nema einn vinnumaður sem hún hafði að hálfu á móti séra Böðvari Þorvaldssyni, aðstoðarpresti á Þórustöðum.[84] Bústofninn var þó meiri en hjá mörgum öðrum, 2 kýr, 2 kvígur, 20 ær, 30 sauðir, hrútar og gemlingar og 1 hestur.[85] Enginn kálgarður var þá hjá Margréti en hins vegar átti hún hálfan áttæring.[86]

Árið 1829 bjó Margrét enn í Innri-Hjarðardal en þá höfðu dóttir hennar og tengdasonur, þau Guðfinna Ebenezersdóttir og Ólafur Jónsson, byrjað búskap á parti úr jörðinni.[87] Við húsvitjun á því ári gaf séra Ásgeir prófastur Jónsson í Holti þeim öllum einkunnir fyrir hegðun og kunnáttu. Við nafn Margrétar skrifar hann þessi orð: Segir nokkuð, ráðvönd.[88] Guðfinnu segir prestur vera þægðarkonu og mann hennar Ólaf glaðlyndan[89] en hann var ættaður af Ingjaldssandi.[90] Í húsvitjanabók Ásgeirs prófasts sést að enda þótt Margrét væri enn með sitt eigið bú árið 1829 þá átti hún heima í sama bænum og dóttir hennar og tengdasonur. Um guðsorðabækurnar sem til voru í Innri-Hjarðardal þetta ár kemst séra Ásgeir svo að orði: Brúkast á báðum býlunum í sama bæ.[91] Enginn skortur var á guðsorði í Innri-Hjarðardal um þessar mundir því að þar reyndust vera til tólf bækur sem voru þessar: Vídalínspostilla, Nýja testamenti, Sjöorðabók Vídalíns, grallari, tvær messusöngsbækur, Gerhardi hugvekjur, fæðingarhugvekjur, fæðingarsálmar, passíusálmar, hugvekjusálmar og vikubænir.[92] Þau Guðfinna Ebenezersdóttir og Ólafur Jónsson munu hafa staðið fyrir búi í Innri-Hjarðardal frá 1824 til 1837[93] en þá kom nýtt fólk á jörðina.

Systir Guðfinnu var Kristín Ebenezersdóttir sem giftist Sturlu Jónssyni frá Kirkjubóli í Valþjófsdal en þau bjuggu lengi í Dalshúsum (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal, Dalshús þar). Ein dætra Kristínar og Sturlu í Dalshúsum giftist síðar tveimur sonum Guðfinnu, móðursystur sinnar, þó ekki báðum í einu,[94] en sterk hneigð til að halda sig við ættina virðist þarna hafa verið ríkjandi.

Yngsta barn Ebenezers Guðmundssonar og Margrétar Bjarnadóttur var Kristján sem fæddur var í Innri-Hjarðardal 17. apríl 1815.[95] Við húsvitjun prestsins í mars 1818 er hann sagður þriggja ára, þá hjá móður sinni í Innri-Hjarðardal.[96] Fimm ára gamall var drengur þessi sendur í fóstur til Kristjáns Guðmundssonar, föðurbróður síns í Vigur[97] og mun hafa alist þar upp. Kristján Ebenezersson varð síðar bóndi og hreppstjóri í Reykjarfirði í Vatnsfjarðarsveit og talinn einn mest virti bóndi á Vestfjörðum um sína daga.[98] Hann var bæði skipasmiður og selaskutlari, varaþingmaður um skeið og var sæmdur riddarakrossi dannebrogsorðunnar.[99]

Árið 1840 var Margrét Bjarnadóttir farin frá Innri-Hjarðardal en þá bjó þar maður að nafni Sakarías Andrésson.[100] Kona hans hét Guðrún Björnsdóttir og höfðu þau alla jörðina til ábúðar en þar voru þó líka tveir húsmenn sem í manntali eru báðir sagðir lifa á sínu.[101] Árið 1845 var Sakarías líka eini bóndinn í Innri-Hjarðardal, þá 45 ára gamall.[102] Hann var leiguliði.[103] Fimm árum síðar bjó Sakarías hér enn en hafði þá aðeins 12 hundruð til ábúðar því hjónin Jón Jónsson og Abigael Guðmundsdóttir höfðu þá fengið þriðjung úr jörðinni til ábúðar.[104] *)

Þau Jón og Abigael hokruðu aðeins í fáein ár í Innri-Hjarðardal en Sakarías Andrésson og Guðrún Björnsdóttir kona hans bjuggu hér enn árið 1855.[105] Þá var þríbýli á jörðinni. Sakarías og Andrés sonur hans, sem þá var farinn að búa þó að ókvæntur væri, höfðu báðir til samans 9 hundruð til ábúðar en á hinni hálflendunni bjó Kristín Þórarinsdóttir,[106] fráskilin

*) Í manntalinu frá 1850 er Abigael sögð vera Þórðardóttir en hún var Guðmundsdóttir. (Ól. Þ.Kr./Önfirðingur).

 

kona innan úr Ísafjarðardjúpi sem fluttist að Hjarðardal frá Látrum í

Mjóafirði árið 1853.[107] Líklega hefur hjónaskilnaðinn borið brátt að því sagt er að Kristín hafi flust með búslóð sína og börn frá Látrum í Mjóafirði við Djúp í Önundarfjörð á þorranum á opnu skipi fyrir alla núpa.[108] Að svo hafi verið sagði Ingileif Ólafsdótir, sem þá var 12 ára stúlka í Hestþorpinu í Önundarfirði, sonarsyni sínum, Ólafi Þ. Kristjánssyni, sem lengi var skólastjóri í Hafnarfirði og frá honum er sagan komin í bækur.[109] Án efa hefur margt verið rætt um komu Kristínar og hennar fólks í Önundarfjörð veturinn 1853 og stúlkunni ungu í Hestþorpinu, sem síðar sagði frá, orðið atburðurinn minnisstæður. Slíkir flutningar að vetrarlagi voru þá ákaflega fátíðir því reglan var sú að fólk fluttist ekki búferlum nema komnir væru fardagar en þeir eru snemma í júní. Það eitt að kona kæmi alla þessa löngu sjóleið á opnu skipi með börn sín og búslóð sætti verulegum tíðindum og hafi hún komið að vetrarlagi fyrir alla núpa hlaut það að vekja enn meiri athygli. Hér verður reyndar að gera þá athugasemd við frásögn Ingileifar að sú fullyrðing hennar að Kristín hafi komið á þorranum fær varla staðist því búi hjónanna á Látrum var ekki skipt fyrr en 21. mars þennan vetur (sjá hér Staður í Súgandafirði). Kristín var sjálf viðstödd á Látrum þegar skiptin fóru fram og hefur því varla lagt af stað fyrr en þeim var lokið. Hún kynni því að hafa ýtt úr vör með börn sín og annað skyldulið í byrjun einmánaðar og mjög líklegt má reyndar telja að svo hafi verið. Þegar langt var um liðið kynni Ingileif að hafa ruglast á þessum tveimur vetrarmánuðum, þorra og einmánuði, en farið samt rétt með meginatriðið sem eftirminnilegast var, að hin fráskilda kona úr Vatnsfjarðarsveit og hennar fólk kæmu til Önundarfjarðar á vetrardegi og hefðu róið á opnu skipi fyrir alla núpa.

Þegar Kristín Þórarinsdóttir skildi að borði og sæng við eiginmann sinn, Þórarinn Sigurðsson, bónda á Látrum í Mjóafirði, árið 1852 áttu þau 9 börn á lífi. Hún var þá 45 ára gömul en elstu börnin liðlega tvítug. Í prestsþjónustubókinni frá Holti sést að þegar Kristín fluttist úr Mjóafirði í Önundarfjörð fylgdu henni tveir synir og fjórar dætur og einn sonur kom til hennar skömmu síðar.[110] Tvö elstu börnin urðu hins vegar eftir hjá föður sínum á Látrum.[111]

Fróðlegt hefði verið að vita hvernig á því stóð að Kristín tók sig upp um hávetur og lagði í þetta langa ferðalag á opnum báti um úfið haf með 5 börn á aldrinum tveggja til tólf ára og það sjötta, tvítugan son. Í prestsþjónustubókinni frá Holti eru börnin reyndar sögð lítið eitt eldri en hér er farið eftir upplýsingum sem fram koma í fjölrituðu hefti um framætt

og niðja Eiríks Kristjánssonar og Önnu Þórarinsdóttur[112] og munu þær vera traustari því að þar passar allt við það sem finnanlegt er í prestsþjónustubók Vatnsfjarðar um fæðingardaga barnanna.[113] Sjóleiðin frá Látrum að Hjarðardal er um það bil 45 sjómílur (80-85 kílómetrar) og ætla verður að Kristín og hennar lið hafi verið að minnsta kosti 2 daga á leiðinni. Hafa þá róið fyrri daginn út í Bolungavík og svo þaðan í Önundarfjörð. Ef að líkum lætur mun skipið hafa verið sexæringur. Í prestsþjónustubók séra Lárusar M. Johnsen í Holti er getið allra sem fluttust frá Látrum í Mjóafirði að Hjarðardal árið 1853.[114] Af þeim nöfnum má ráða hvaða fólk sat undir árum í hinum sögulega búferlaflutningum. Þar er fyrst að nefna sjálfan fyrirliða fararinnar, Kristínu Þórarinsdóttur húsfreyju, hálffimmtuga að aldri. Næstur er Guðmundur Sturluson, vinnumaður, á svipuðum aldri, af sumum sagður ráðsmaður hennar.[115] Þriðja rúmið skipaði fimmtug vinnukona, Herdís Þórarinsdóttir, sem var systir Kristínar. Á skipinu voru líka tveir ungir menn um tvítugsaldur, sem báðir hafa kunnað vel að halda á ár, þeir Sigurður Þórarinsson, sonur Kristínar, og Þórður Þórðarson, frændi hennar og fóstursonur. Eru þá talin fimm en hér þurfti sex undir árar. Af nöfnunum í bók prestsins í Holti verður ekki annað ráðið en á sjöttu árinni hafi þau haldið til skiptis börn húsfreyju, Kristín og Guðmundur, sem þá voru á 12. og 13. aldursári og þótti máske engum mikið. Hin börnin þrjú voru yngri, systurnar Arnfríður, Helga og Anna.

En hafði Kristín þá tryggt sér jarðnæði í Önundarfirði þegar hún lagði upp í þetta óvenjulega ferðalag? Gera verður ráð fyrir að svo hafi verið því hér var ekkert bónbjargafólk á ferð. Og sú sem Kristín hafði samið við var reyndar engin önnur en maddaman í Ytri-Hjarðardal, Guðrún Þórðardóttir sem þar bjó í sínu ekkjustandi en hún hafði áður verið gift Ebenezer Þorsteinssyni sýslumanni. Frá þeim hjónum var áður sagt á þessum blöðum. Guðrún átti þá allan Ytri-Hjarðardal og hreppsbók Mosvallahrepps sýnir svo ekki verður um villst að fardagaárið 1853-1854 bjó Kristín Þórarinsdóttir á 30 hundruðum úr þeirri jörð en fluttist þaðan vorið 1854 að Innri-Hjarðardal.[116] Hundraðatalan er reyndar með ólíkindum því hún sýnir að sýslumannsekkjan, sem bjó sínu eigin búi í Ytri-Hjarðardal, hefur látið þessa fráskildu konu frá Látrum hafa nær hálfa jörðina en annars bjuggu leiguliðar hennar jafnan á örfáum hundruðum (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Móttökurnar sem Kristín Þórarinsdóttir fékk í Önundarfirði voru því höfðinglegar.

Sú spurning vaknar hvort þær hafi ef til vill verið eitthvað kunnugar áður, maddaman í Hjarðardal og húsfreyjan á Látrum. Engar líkur benda til þess að svo hafi verið því þarna er langt á milli og konur sjaldan í ferðalögum á þeirri tíð. Kristín Þórarinsdóttir var upprunnin í Vatnsfjarðarsveit. Þar giftist hún ung og bjó alla tíð í heimahögum uns  hún skildi við mann sinn. Hvernig milligöngu um samninga þeirra Guðrúnar í Hjarðardal og Kristínar á Látrum hefur verið háttað veit líklega enginn en mögulegt er að dóttir sýslumannsekkjunnar, Anna Kristín Ebenezersdóttir, húsfreyja í Vigur, hafi komið þeim tengslum á með einhverjum hætti. Þær Anna í Vigur og Kristín á Látrum voru á svipuðum aldri og gætu hafa kynnst á þeim 20 árum sem Anna hafði setið meðal Djúpmanna áður en Kristín yfirgaf sínar heimaslóðir.

Annan möguleika mætti líka hugsa sér varðandi milligöngu um samninga Kristínar við maddömuna í Hjarðardal. Yrði þá að gera ráð fyrir að Guðmundur Sturluson, síðar ráðsmaður Kristínar, sem fluttist með henni í Önundarfjörð hafi beitt sér í málinu en hann var náskyldur Sturlu Jónssyni, bónda og hreppstjóra í Dalshúsum í Valþjófsdal, sem þá var einn ríkasti bóndinn í Önundarfirði. Hugsanlegt er að Guðmundur hafi áður brugðið sér á fund Sturlu frænda síns til að finna jarðnæði fyrir sig og Kristínu og Sturla hafi náð samningum við sýslumannsekkjuna í Hjarðardal. Guðmundur Sturluson sem hér kemur við sögu var móðurbróðir Sturlu hreppstjóra í Dalshúsum en var þó ellefu árum yngri en hreppstjórinn, enda voru þau Guðmundur og Guðrún, móðir Sturlu í Dalshúsum, bara hálfsystkini.[117] Slíkur skyldleiki var þó meira en nægilegur til þess að geta haft þýðingu eins og ástatt var.

Bústofn Kristínar Þórarinsdóttur árið sem hún bjó í Ytri-Hjarðardal var 2 kýr, 18 mylkar ær, 8 tveggja vetra sauðir og 16 veturgamlir, tvö hross.[118] Að sjálfsögðu átti Kristín þá líka eitt skip[119] en svo voru sexæringar oft nefndir á Vestfjörðum. Fyrsta haustið sitt í Önundarfirði tíundaði Kristín átta og hálft hundrað lausafjár.[120] Fyrir utan kaupmanninn á Flateyri og prófastinn í Holti áttu þá aðeins þrír framteljendur í Mosvallahreppi meira lausafé en hún ef marka má tíundartöfluna í hreppsbókinni.[121] Slíkum upplýsingum er að vísu sjálfsagt að taka með nokkrum fyrirvara en af þeim má þó ráða að þessi Djúpkona sem komin var af hafi hefur verið allvel bjargálna.

Ekki gat þess verið að vænta að Kristín sæti til frambúðar á 30 hundruðum í Ytri-Hjarðardal því stórefnuð var hún ekki og átti engin jarðarhundruð að því er best er vitað. Búseta hennar í Ytri-Hjarðardal hefur að líkindum frá upphafi átt að vera til bráðabirgða og henni boðist sá kostur sem skyndilausn undan sambúð við Þórarinn á Látrum sem hún hafði skilið við að borði og sæng. Vorið 1854 fékk hún hins vegar ábúð á 9 hundruðum í Innri-Hjarðardal og fluttist þangað með allt sitt, þennan skamma spöl sem hér er á milli bæjanna. Í Innri-Hjarðardal bjó Kristín með börnum sínum í þrjú ár, 1854-1857, en tók sig þá upp enn á ný og fluttist til Súgandafjarðar þar sem hún bjó lengst á Stað. Nánar verður frá henni sagt er þangað kemur en þess skal strax getið að sum börnin sem stigu af skipi við Hjarðardalssjó einn þorradag árið 1853 ílentust síðar í Önundarfirði og þar átti Kristín Þórarinsdóttir lengi marga niðja.

Tvíbýli var í Innri-Hjarðardal bæði 1860 og 1870.[122] Bæði þau ár var Andrés Jónsson annar bóndinn en á móti honum bjuggu Jón Sveinsson 1860 og Atli Davíðsson 1870.[123] Andrés Jónsson hóf búskap í Innri-Hjarðardal vorið 1858 og tók þá við allri jörðinni af Sakaríasi Andréssyni sem hér var áður nefndur.[124] Við þau ábúendaskipti voru bæjarhúsin tekin út. Baðstofan var þá 8 x 3,5 álnir,[125] það er 11 fermetrar, og hæðin frá gólfi upp í mæni 3,6 metrar eða því sem næst.[126] Sú hæð bendir til þess að loft hafi verið í baðstofuhúsinu. Í því húsi munu yfirleitt hafa búið tvær fjölskyldur á árunum upp úr 1850 því ekki er getið annarrar baðstofu í Innri-Hjarðardal.[127] Á þessum árum var búrið hér á bæ um það bil 9 fermetrar en eldhúsið nokkru minna eða tæplega 7 fermetrar.[128] Lofthæð í búri og eldhúsi var 3-4 metrar.[129] Lengd bæjarganganna var tæplega 3 metrar.[130] Þau voru með þremur sperrum og þili og tvær hurðir fyrir útidyrum.[131]

Árið 1880 var Guðmundur Hallgrímsson eini bóndinn í Innri-Hjarðardal[132] en jörðin var þá nytjuð að hluta af bændum á Þórustöðum og í Ytri-Hjarðardal.[133]

Guðmundur bóndi Hallgrímsson var fæddur á Brekku á Ingjaldssandi árið 1832 og var sonur hjónanna Hallgríms Guðmundssonar og Guðrúnar Jónsdóttur er þar bjuggu um skeið.[134] Hér í Innri-Hjarðardal bjó hann árið 1880 með seinni konu sinni, Guðrúnu Friðriksdóttur, er fædd var árið 1854, en hún var dóttir Friðriks Axels Axelssonar og Helgu Guðmundsdóttur[135] er bjuggu í nokkur ár í Keflavík í Suðureyrarhreppi (sjá hér Keflavík). Þau Guðmundur og Guðrún voru gefin saman í hjónaband haustið 1877 og voru þau í Holti fyrsta hjúskaparárið.[136] Þar var Guðmundur þá ráðsmaður hjá presti.[137] Hér í Innri-Hjarðardal bjuggu þau aðeins í fáein ár en fóru héðan að Tungu í Valþjófsdal og þaðan að Tannanesi árið 1895.[138] Á Tannanesi voru þau tvö ár í húsmennsku en settust árið 1897 að í torfbænum Nesdal á Flateyri og áttu þar heima til æviloka.[139]

Með fyrri konu sinni, Guðbjörgu Guðmundsdóttur, hafði Guðmundur Hallgrímsson búið um skeið á Þórustöðum.[140] Hann eignaðist mörg börn með báðum eiginkonunum og auk þess hálfrefi.[141] Er sagt að börn hans hafi verið 21 eða 22, væri allt talið.[142] Eitt barna Guðmundar og seinni konu hans, Guðrúnar Friðriksdóttur, var Hallgrímur sem varð bóndi á Grafargili í Valþjófsdal.[143]

Auk Guðmundar Hallgrímssonar og hans fólks áttu hér heima árið 1880 tveir húsmenn, þeir Andrés Hákonarson og Sigurður Ólafsson, báðir kvæntir.[144]

Frá 1881 til 1905 voru sex tíundu hlutar jarðarinnar nytjaðir ár hvert frá Þórustöðum, fyrst af Halldóri Guðmundssyni, bónda þar til 1886, og síðan af ekkju hans, Guðrúnu Jónsdóttur, en frá 1893 af Kristjáni Bjarnasyni, seinni manni Guðrúnar, en hann var þá tekinn við stjórn búsins á Þórustöðum.[145] Um 1880 nytjaði Jón Ólafsson, sem þá bjó í Ytri-Hjarðardal, um það bil 5 hundruð úr Innri-Hjarðardal en frá 1883 til 1905 var Ebenezer Sturluson, skipstjóri á Flateyri, með þann jarðarpart og mun hafa látið vinnufólk sitt heyja þar á sumrin.[146]

Á árunum upp úr 1880 voru þeir Halldór á Þórustöðum og Ebenezer Sturluson eigendur jarðarinnar[147] og frá 1881 til 1905 bjó hér eingöngu húsfólk.[148] Einn húsmannanna, Andrés Hákonarson, sem áður bjó á Hóli í Firði (sjá hér Hóll í Firði), hafði einn níunda hluta jarðarinnar til ábúðar eða sem svaraði tveimur hundruðum að fornu mati.[149] Andrés átti heima í Innri-Hjarðardal frá 1883 til dauðadags en hann andaðist 11. mars 1897, kominn á níræðisaldur.[150] Aðrir húsmenn, sem hér áttu heima á þessum árum, höfðu ekkert jarðnæði en þeir voru: Sigurður Ólafsson 1880-1883, Halldór Loftsson 1882-1883, Jón Ólafsson 1885-1893, Sigurður Guðmundsson 1886-1898, Jón Björnsson 1899-1903 og Hagalín Þorkelsson frá 1904.[151] Húsmaðurinn sem hér er nefndur Sigurður Guðmundsson og fæddur var árið 1840 var reyndar skrifaður Ólafsson framan af æfinni en var farinn að nefna sig Guðmundsson áður en hann varð fertugur.[152] Við fæðingu var hann sagður vera sonur Ólafs Guðbrandssonar en taldi sig, er hann átti heima í Innri-Hjarðardal, vera son Guðmundar Guðmundssonar á Sæbóli á Ingjaldssandi sem nefndur var Guðmundur stóri.[153] Húsmenn þessir sem hér voru taldir munu flestir eða allir hafa verið sjómenn og ætla má að margir þeirra hafi verið á skútunum.

Árið 1901 átti Kristján Bjarnason á Þórustöðum allan Innri-Hjarðardal.[154] Hann nytjaði þá sjálfur meir en 70% jarðarinnar frá Þórustöðum[155] og fjórum árum síðar fluttist hann þaðan að Innri-Hjarðardal.[156] Kristján bjó hér til 1919 en þá tóku við hjónin Guðmundur Gilsson og Sigríður Hagalínsdóttir. Guðmundur og Sigríður stóðu hér fyrir búi í 30 ár og síðan niðjar þeirra allt til þessa daga (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 350).

Skömmu áður en Guðmundur Gilsson hóf búskap í Innri-Hjarðardal var jörðin virt á 2.800,- krónur en hús sem eigandi og ábúandi á jörðinni átti þar voru metin á 3.400,- krónur.[157] Auk þess stóðu þar í túni tvö íbúðarhús húsmanna og voru þau virt á 1.400,- krónur og 800,- krónur.[158] Guðmundur Gilsson, sem skömmu síðar fékk jörðina til ábúðar, átti þá annað þessara tveggja húsa og var það minna húsið.[159]

Íbúðarhúsið sem fylgdi jörðinni árið 1919 var 10 x 7 álnir, portbyggt með kjallara.[160] Önnur mannvirki í Innri-Hjarðardal voru þá fjós, haughús, 2 hlöður, 2 fjárhús, hesthús, geymsluhús, hjallur, súrheystótt með járnþaki, 50 ferfaðma matjurtagarður og 1150 faðma girðing um tún og engi.[161] Í túninu var komin 300 ferfaðma slétta og búið var að leiða vatn í bæinn og einnig í fjósið.

Um 1920 var talið að meðalheyfengur í Innri-Hjarðardal væri 100 hestar af töðu og 200 hestar af útheyi.[162] Af því sem hér hefur verið ritað má sjá að hér hefur verið vel búið á öðrum áratug 20. aldar. Engin hlunnindi voru þó talin fylgja jörðinni, nema kúfiskur fyrir landi sem seldur var í beitu.[163] Um 1920 voru tekjur bóndans í Innri-Hjarðardal af kúfiskinum taldar vera 40,- krónur á ári.[164]

Þau orð látum við nægja og hröðum för okkar að Þórustöðum yfir lækinn Djúpapytt.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[2] Sama heimild.

[3] Óskar Einarsson 1951, 120.

[4] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993. Óskar Ein. 1951, 120.

[5] Sömu heimildir.

[6] Sömu heimildir.

[7] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[8] Sama heimild.

[9] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993. Sbr. Óskar Ein. 1951, 121.

[10] Hagalín Guðmundsson – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Landamerkjabók, varðveitt hjá sýslumanninum í Ísafj.sýslu. Landamerkjaskrá nr. 130.

[15] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[16] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[17] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.8.1913.

[18] Óskar Ein. 1951, 115.

[19] Sama heimild, 116 og 121.

[20] Jarðab. Á. og P. VII, 101-102.

[21] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916, bls. 68-69.

[22] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919, bls. 149.

[23] Sama heimild.

[24] Jarðab. Á. og P. VII, 101-102.

[25] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 101-102.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] D.I. IV, 688.

[32] Sama heimild.

[33] Jarðab. Á. og P. VII, 101.

[34] Sama heimild, 62.

[35] D.I. VIII, 266-269.

[36] Sama heimild, 165-166.

[37] Sama heimild, 266-269 og IX, 234-235.

[38] D.I. IX, 234-235.

[39] D.I. IX, 561-562.

[40] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[41] Sama heimild.

[42] Jón Halldórsson 1910, 306-307 (Biskupasögur I.) Lbs. 40 fol. aths. Brynj. bisk Sveinss. þar við árið 1605.

[43] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir.(Kph.) 1993,bls. 170.

[44] Sama heimild. Sbr. Ísl. æviskrár I, 257-258.

[45] Sama heimid.

[46] Jarðab. Á. og P. VII, 101.

[47] Ísl. æviskrár III, 172-173 og 282.

[48] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar, sýslum. í Ögri, 16.8.1732 til stiftamtmanns.

[49] Alþingisbækur Íslands XI, 601 og XII, 41.

[50] Sömu heimildir.

[51] Alþingisbækur Íslands XI, 601 og XII, 41.

[52] Jón J. Aðils 1971, 420.

[53] Alþ.bækur Ísl. XI, 601 og XII, 41.

[54] Jón J. Aðils 1971, 420.

[55] Alþ.bækur Ísl. XIII, 260.

[56] Manntal 1762.

[57] Ísl. æviskrár IV, 72-73.

[58] Alþ.bækur Ísl. XV, 370.

[59] Vestf. ættir I, 55.

[60] Alþ.bækur Ísl. XV, 437.

[61] Jón Halldórsson 1910, 299-300 (Biskupasögur I).

[62] Sama heimild.

[63] Biskupasögur II, 1915, viðauki.

[64] Jón Halldórsson 1910, 306-307.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 101-102.

[68] Sömu heimildir.

[69] Jarðab. Á. og P. VII, 101-102.

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Bændatöl og skuldaskrár, Ísafj.sýslu um 1735. Jarða- og bændatal úr Ísaf.sýslu 1753. Manntal 1762.

[74] Sömu heimildir.

[75] Manntal 1801.

[76] Manntal 1816. Vestf. ættir I, 211-212.

[77] Vestf. ættir I, 39, 57 og 211-212.

[78] Vestf. ættir I, 211-212.

[79] Manntal 1816, bls. 694.

[80] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[81] Manntal 1816.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. I., búnaðarskýrsla 1821.

[85] Sama heimild.

[86] Sama heimild.

[87] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1829.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild.

[90] Vestf. ættir I, 212.

[91] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1829.

[92] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1829.

[93] Vestf. ættir I, 212.

[94] Sama heimild, 224 og 226.

[95] Ísl. æviskrár V, 425. Manntal 1816, Vesturamt, bls. 694.

[96] Sóknarm.töl Holtsprestak.

[97] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[98] Ísl. æviskrár V, 425.

[99] Sama heimild.

[100] Manntal 1840.

[101] Sama heimild.

[102] Manntal 1845.

[103] J. Johnsen 1847, 195.

[104] Manntal 1850. VA III, 412, búnaðarskýrsla 1850.

[105] Manntal 1855.

[106] Manntal 1855. VA III, 414, búnaðarskýrsla 1855.

[107] Lúðvík Kristjánsson 1981, 124.

[108] Sama heimild.

[109] Sama heimild, 124 og 134.

[110] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[111] Án höf.nafns: Framætt og niðjar Eiríks Kristjánssonar og Önnu Þórarinsdóttur frá Önundarfirði,

fjölrit frá 1970, bls. 3.

[112] Án höf.nafns: Framætt og niðjar Eiríks Kristjánssonar og Önnu Þórarinsdóttur frá Önundarfirði,

fjölrit frá 1970, bls. 3.

[113] Prestsþj.b. Vatnsfjarðar.

[114] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[115] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[116] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 4. Hreppsbók 1849-1883.

[117] Vestf. ættir II, 678. Sbr. hér Staður í Súgandafirði.

[118] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 4. Hreppsbók 1849-1883.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Manntöl 1860 og 1870.

[123] Sömu heimildir.

[124] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 100-101.

[125] Sama heimild.

[126] Sama heimild.

[127] Sbr. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 12.

[128] Sama heimild.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Manntal 1880.

[133] VA III, 424, búnaðarskýrsla 1880.

[134] Eyjólfur Jónsson 1983, 42-43 (Ársrit S.Í.).

[135] Sama heimild.

[136] Sama heimild.

[137] Sama heimild.

[138] Sama heimild.

[139] Eyjólfur Jónsson 1983, 42-43 (Ársrit S.Í.).

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Manntal 1880.

[145] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr 4. og 5. Hreppsb. 1849-1883 og 1883-1912. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[146] Sama heimild.

[147] Þórður Sigurðsson 1986, 20 (Ársrit S.Í.).

[148] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr 4. og 5. Hreppsb. 1849-1883 og 1883-1912 og Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[149] Sömu heimildir. Hagalín Guðmundsson. Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[150] Sömu heimildir og Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[151] Sömu heimildir.

[152] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[153] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[154] Manntal 1901, fylgiskjal.

[155] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 5. Hreppsbók 1883-1912.

[156] Sama heimild.

[157] Fasteignabók 1921, 79.

[158] Fasteignaskjöl: Gjörðabók yfirfasteignamatsnefndar í Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916, bls. 173.

[159] Fasteignaskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í Vestur-Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916, bls. 68-69.

[160] Fasteignaskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í Vestur-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919, bls. 149.

[161] Sama heimild.

[162] Sama heimild.

[163] Sömu gjörðabækur.

[164] Sömu heimildir.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »