Keflavík

Til Keflavíkur komum við frá Gelti og höfum gengið fjörurnar. Landamerki jarðanna eru sem áður sagði við Bustarurð en frá henni er um það bil hálfur kílómetri að Skínandisgili en þar lýkur fjörugöngunni og við taka sjávarbakkarnir vestan við Keflavík. Leiðinni um Galtarfjörur hefur áður verið lýst í meginatriðum (sjá hér Göltur) en þær eru aðeins færar gangandi fólki og oft erfiðar yfirferðar að vetrarlagi. Vegalengdin milli bæjanna Galtar og Keflavíkur er fjórir og hálfur til fimm kílómetrar en sá hluti leiðarinnar sem liggur um Fjörurnar er seinfarinn.

Hjá Rauðsteini, sem er rétt norðantil við Bustarurð, leggjum við upp í nýjan áfanga og förum okkur hægt. Upp í hugann kemur minning um Guðnýju Sigríði Magnúsdóttur sem var vinnukona hjá Pálma Lárentíussyni í Keflavík á árunum 1888-1900.[1] Frá henni segir Magnús Hjaltason á þessa leið:

 

Vinnukona í Keflavík var Guðný Sigríður Magnúsdóttir, ættuð úr Skálavík í Hólshreppi, fædd að Breiðabóli 24. febrúar 1870. Hún var hraustmenni mikið og sjósóknarkona með afbrigðum. Reri haust og vetur, ár eftir ár, hjá Guðmundi Ásgrímssyni á Gelti og gekk úr Keflavík vestur að Gelti á hverri nóttu, þegar sjófært var, og heim aftur á hverju kvöldi. Fékk hún marga svaðilför í þeim ferðalögum og var hún nafnkennd mjög.[2]

 

Sjálfur fór Magnús hér um með Guðnýju 4. mars árið 1900 (sjá hér Göltur). Hún var þá þrítug að aldri en hann 26 ára. Þessi sjósóknarkona var dóttir hjónanna Magnúsar Guðmundssonar og Hólmfríðar Ólafsdóttur sem við fæðingu hennar bjuggu á Breiðabóli í Skálavík en síðar á Meiri-Bakka í sömu sveit.[3] Árið 1880 var Guðný enn í foreldrahúsum á Meiri-Bakka[4] en hingað kom hún vorið 1888 og var hér vinnukona í tólf ár.[5] Eitt fardagaár á þessu skeiði var hún að hálfu í Keflavík og að hálfu í Vatnadal og gekk þá jafnan á milli þó að leiðin væri löng.[6]

Í dagbók sinni minnist Magnús Hjaltason alloft á Guðnýju Magnúsdóttur og segir 22. desember 1899:

 

Hún [Guðný] stundar sjómennsku ár eftir ár, vetur, vor og sumar. Er það nú einsdæmi á Vestfjörðum. Hefur hún verið hjá Pálma í Keflavík 10-12 ár og jafnan róið til fiskjar þegar gefið hefur. Er hún ákaflega hneigð fyrir sjó og öll karlmannsverk yfir höfuð. Tvö haust og tvær vetrarvertíðir hefur hún róið hjá Guðmundi Ásgrímssyni á Gelti.[7]

 

Vorið 1900 fluttist Guðný með húsbónda sínum og fjölskyldu hans frá Keflavík að Botni í Súgandafirði en settist nokkru síðar að á Suðureyrarmölum.[8] Þar keypti hún sér lítið timburhús sem reist hafði verið sem þinghús hreppsins árið 1892[9] (sbr. hér Suðureyri). Grunnflötur þess var um það bil 12 fermetrar og vegghæðin 3 álnir (sjá hér Suðureyri).

Guðný Sigríður Magnúsdóttir andaðist úr lungnabólgu á Suðureyrarmölum 28. apríl 1915[10] og hefur þá verið 45 ára gömul. Magnús Hjaltason getur um andlát hennar í dagbók sinni, segir enn að hún hafi stundað sjósókn vetur sem sumar og tekur fram að hún hafi um þær mundir verið eina konan á Vestfjörðum sem það gerði.[11] Hraust vel en kunni lítt til kvennaverka, segir dagbókarritarinn um Guðnýju.[12] Að sjókonu þessari látinni var hús hennar boðið upp og keypti Ásgeirsverslun það fyrir 250,- krónur.[13]

Við flýtum nú för okkar og göngum í fótspor Guðnýjar Magnúsdóttur. Stakur steinn, sem stendur hér upp úr sjónum, heitir Narfi og er hann nokkru norðar en Rauðsteinn sem fyrr var nefndur.[14] Fyrsta gilið sem við komum að norðan landamerkjanna er Skínandisgil.[15] Það myndar skarð í hamraveggina norðantil í Geltinum og nær frá efstu klettum niður undir fjöru. Gilið mun ýmist hafa verið nefnt Skínandisgil[16] eða Skínandagil.[17] Magnús Hjaltason nefnir þetta sama gil reyndar Gínandagil[18] en ætla má að hjá honum hafi nafnið brenglast, máske vegna misheyrnar. Mjög líklegt má telja að nafnið Skínandisgil, sem varðveitir forna eignarfallsmynd af lýsingarhætti sagnarinnar að skína, sé eldra en Skínandagil. Þessa fornu eignarfallsmynd sjáum við víðar í örnefnum og má þar nefna Dynjandisheiði, sem flestir Vestfirðingar munu þekkja, og Mígandisdal í Súgandafirði (sjá hér Selárdalur).

Næsta gil fyrir norðan Skínandisgil er Stúfsgil.[19] Hér er ekki mjög langt á milli gilja og næst í giljaröðinni er Uppgöngugil en nyrst kemur Stekkjargil.[20] Frá Galtartöngum að Stekkjargili verða þeir sem hér ganga með sjó að halda sig við fjöruna því að undirlendi er ekkert en úthafið mikla á aðra hönd og tröllslegir hamraveggir Galtarins á hina.

Hátt í fjallinu er Breiðhilla sem nær frá Búðargili í landi Galtar (sjá hér Göltur) og að Stekkjargili, sem hér var síðast nefnt, en innan við það taka Skálar, sem svo heita, við og liggja í álíka hæð og Breiðhilla.[21] Hér að norðanverðu er eitthvað af surtarbrandi í Breiðhillu og munu sumir þeirra sem bjuggu í Keflavík hafa notað hann til eldiviðar.[22] Mjög illt er þó að ná brandinum og koma honum til bæjar.[23] Eina ráðið við stórar hellur af brandi var að velta þeim fram af brún hillunnar og taka þær síðan þar sem þær stöðvuðust, stundum niðri í fjöru.[24]

Klettarnir neðan við Breiðhillu heita Stúfar efri og neðri[25] og ofarlega í þeim eru Stúfhillur.[26] Stúfsgil, sem fyrr var nefnt, mun vera kennt við þessa Stúfa en nafnið á gilinu virðist ýmist hafa verið ritað Stúfgil[27] eða Stúfsgil.[28] Grasflesjur neðan við Stúfa heita Undirteigar.[29] Nafnið á Uppgöngugili, sem liggur á milli Stúfgils og Stekkjargils, gefur til kynna að þar sé fært upp á efstu brún. Enda þótt svo muni vera er þó tvímælalaust vissara að fikra sig upp á við með fullri gát. Uppgöngugil og Búðargil sem er hinum megin í fjallinu standast á og örskammt á milli þeirra þegar upp er komið (sjá hér Göltur).

Stekkjargil er sem áður sagði nyrsta gilið á þessu svæði. Norðan við það yfirgefum við fjöruna og fylgjum í fyrstu mjórri undirlendisræmu er síðan breikkar og komum innan skamms í Katla er svo heita.[30] Lítið eitt norðan við Katla er Hvammur en Katlabörð greina að Hvamminn og Katlana.[31] Sjávarvíkin sem við erum nú að nálgast heitir Mölvík og eru Katlar vestantil við hana en Hvammur fyrir miðri víkinni.[32] Katlatún er lítill blettur Hvammsmegin við Katlabörð.[33] Á því er Katlasteinn.[34]

Guðný Sigríður Magnúsdóttir, sem var vinnukona í Keflavík á síðasta áratug nítjándu aldar og hér hefur áður verið nefnd, var oft á ferð um þessar slóðir. Eitt sinn taldi hún sig sjá álfkonu sitja undir kú í Kötlum og vera að mjólka.[35] Kýrin var fjórlit og hjá henni stóð maður með hendur í vösum.[36] Mjaltakonan sem Guðný sá í Kötlum var að hennar sögn þrekin kona í peysufötum og féllu miklar og þykkar fléttur niður herðar hennar.[37]

Frá Kötlum liggur leið okkar um Hvamminn en norðan við hann tekur Stekkjartúnið við.[38] Katlalækur, sem fellur til sjávar í Mölvík, skilur að Hvamminn og túnið.[39] Alla hlíðina norðan við Stekkjargil, að Jökulteigum sem svo heita (sjá hér bls. 5-6), nefndu menn Katlahlíð.[40] Stekkjartún nær alveg niður að fjöru við norðanverða Mölvík en bakkarnir sem taka við fyrir norðan hana heita Langholt.[41] Stekkjartúnið liggur ofan við vesturenda Langholts en allir sjávarbakkarnir frá Mölvík að Keflavíkurhól bera það nafn.[42] Á hólnum, sem nú var nefndur, stendur vitinn[43] og þar örskammt frá timburhús sem vitaverðirnir og þeirra fólk bjó í frá 1920 og allt þar til sjálfvirk tækni tók við af mannshuganum árið 1994.

 

Gamli torfbærinn, sem búið var í á síðustu áratugum nítjándu aldar, var svolítið norðar en íbúðarhús vitavarðanna og mjög skammt fyrir vestan Keflavíkurá sem fellur um túnið[44] (sbr. hér bls. 53, 56-57 og 63). Hann var ofarlega í túninu, þar sem fjárhús stóðu síðar[45] og rústir þeirra sýna enn (1995) hvar bæjarstæðið var. Þar nemum við staðar og litumst um.

Í Keflavík er lítið landrými og þröngt um að litast nema til hafsins. Nærri lætur að strandlengja víkurinnar sé einn og hálfur kílómetri en upp frá henni skerst svolítil dalkvos inn í landið og heitir Sunndalur.[46] Stefna dalsins er frá vest-norðvestri til aust-suðausturs en út frá Sunndal gengur annar enn minni dalur til norðausturs. Hann heitir Norðdalur.[47] Báðir þessir dalir liggja nokkuð hátt og mega kallast hrjóstrugir þó að í þeim sé nokkur gróður. Vegalengdin frá ströndinni og fram í botn Sunndals er rétt liðlega tveir kílómetrar og álíka langt neðan frá sjó til efstu grasa í Norðdal.

Vestan við Keflavík er fjallið Göltur, sem áður var um rætt, en fyrir norðan víkina er annað fjall sem heitir Öskubakur og liggur milli Keflavíkur og Skálavíkur en sú vík er í  hinum forna Hólshreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Fyrir botni Sunndals er mikil klettagirðing, sem blasir við frá gamla bæjarstæðinu í Keflavík, og voru klettar þessir jafnan nefndir Sunndalsbotn.[48] Brúnir fjallanna í Keflavík liggja í 440-480 metra næð yfir sjávarmáli. Hæsti kollurinn á Öskubak nær 517 metrum en hann er norðan við sýslumörkin og sést ekki héðan.

Klettaveggirnir sem mynda framhlið Öskubaks snúa til hafs og héðan frá Keflavík sjáum við aðeins vesturenda þeirrar miklu hamraborgar sem ýmist var nefndur Stefnir eða Spillir en sjálfur Öskubakurinn tekur við fyrir norðan Álagjá (sjá hér bls. 66-67).[49]. Fjallið sem gengið er fyrir þegar farið er frá Suðureyri í Súgandafirði út í Staðardal heitir líka Spillir og í grennd við þann Spilli er fjallsraninn Stefnir (sjá hér Suðureyri). Mjög líklegt verður því að telja að nöfnin Spillir og Stefnir hér í Keflavík hafi verið gefin af fólki sem hingað kom frá Suðureyri eða úr Staðardal og vildi hafa hjá sér gömul nöfn í nýju umhverfi.

Klettaröndin sem snýr að Norðdal í Keflavík heitir Stefnisrönd.[50] Ofarlega í henni er grasblettur sem var nefndur Grænaflös.[51] Hlíðin framan við túnið í Keflavík heitir Stefnishlíð og nær fram að Norðdal.[52] Fremri enda klettanna ofan við Stefnishlíð kallaði heimafólk í Keflavík Klettenda.[53]

Áin sem fellur um túnið í Keflavík heitir Keflavíkurá.[54] Hún kemur ofan af Sunndal[55] og um 500 metrum framan við túnið fellur í hana lækur sem kemur af Norðdal. Áin rennur neðst í djúpri lægð sem heitir Árdalur.[56] Við árósinn var hægt að lenda í sléttum eða nær sléttum sjó[57] en nokkru norðar var önnur og betri lending (sjá hér bls. 66).

Hryggur sem gengur frá túninu í Keflavík upp í fjallshlíðina heitir Hjallhryggur en nokkru norðar er Jaðar, hryggurinn vestan við Álagjá[58] sem hér er gerð grein fyrir á öðrum stað (sjá bls. 10 og 66-67). Ofan við túnið, hér upp með ánni, eru Tóuurðir en hallinn neðan við Sunndal heitir Brekkur.[59] Síðar munum við rölta fram á dalinn og svipast þar um (sjá hér bls. 63-65).

Fjallshornið sem skilur að Norðdal og Sunndal heitir Sunndalshorn.[60] Áður var minnst á klettagirðinguna fyrir botni Sunndals, sem blasir við augum héðan af bæjarhlaðinu, og heitir Sunndalsbotn. Vestan við hana er Tóuskarð og þar nokkru vestar fjallið Hádegishorn.[61] Enn vestar er svo Miðmundahorn og í hlíðinni niður af því Miðmundateigar.[62] Vestan við þessa teiga eru Jökulteigar og bera nafn af skafli sem sjaldan tekur upp.[63] Hann er ofarlega í Jökulteigum og heitir Jökull.[64] Vestan við Jökulteiga er Bölli og neðan við hann Svörtuklettar.[65] Frá Bölla liggur Tæpagata vestur í Skálar sem fyrr voru nefndar, en þær liggja hátt í hlíð, norðan til í Geltinum, og niður úr vesturenda þeirra gengur Stekkjargil eins og fyrr var frá sagt (sjá hér bls. 2-3).

Bújörðin hér í Keflavík bar frá fyrstu tíð sama nafn og víkin en til aðgreiningar frá öðrum Keflavíkum var stundum talað um Keflavík norðan Galtar eða Keflavík við Gölt og Magnús Hjaltason ritar einu sinni eða oftar Keflavík norðan Gölt.[66] Ætla má að hann hafi heyrt þennan eða hinn taka svo til orða. Í Ísafjarðarsýslu er reyndar aðeins þessi eina Keflavík en á öllu landinu voru byggð ból með því nafni ekki færri en sex. Öll stóðu þau við sjó og þarf víst ekki að efast um að nafnið sé dregið af rekaviðarkeflum, það er að segja timburmori sem sett hefur svip á fjörur þessara víkna á dögum þeirra sem námu landið.

Ýmsum sem hér staldra við, í Keflavík norðan Galtar, gæti komið til hugar að á slíkum stað hafi varla verið búið nema í skamman tíma og þá helst á síðari öldum. Slík hugdetta á sér þó enga stoð í veruleikanum því fornar heimildir sýna að jörðin var í byggð fyrir 800 árum. Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 stendur: Súgandafjörður, kirkja að Stað. Þá er Keflavík og Skálavík og byggjast hváru tveggju.[67]

Skrá Páls biskups sýnir að hér var búið um 1200 og vera kann að á harðbala þessum hafi fólk sest að strax á tíundu öld og þá að líkindum í von um mikla selveiði og hvers syns sjávarafla. Í rituðum heimildum sést að hér var líka búið á 15. og 16. öld.[68] Annað mál er hitt að á fyrri tíð kynni útkjálkajörð þessi að hafa fallið nokkuð oft í eyði og verið óbyggð um stundarsakir. Með vissu er vitað að á 18. og 19. öld var hér stundum engin mannabyggð (sjá hér bls. 13) en jafnan fór svo að jörðin byggðist innan skamms á ný.

Keflavík liggur fyrir opnu hafi en héðan var þó mjög örðugt að sækja sjó því lending er ill og hvergi unnt með góðu móti að koma bátum í öruggt skjól fyrir stórviðrum, brimi og grjóthruni. Erfiðar samgöngur settu líka ærið strik í reikning þeirra sem eyddu hér sínum ævidögum því á alla vegu er um torleiði að fara til næstu bæja, enda komu hingað engir nema þeir fáu sem áttu erindi að rækja við heimafólk.

Hér hefur áður verið greint frá leiðunum sem um er að velja sé farið frá Keflavík til Súgandafjarðar (sjá hér bls. 1-4 og Göltur) og er óþarft að endurtaka þá þulu .

Fyrir norðan Keflavík var Skálavík næsta byggðarlag en þar voru löngum sex jarðir í byggð sem nú eru allar komnar í eyði. Til Skálavíkur lágu tvær leiðir frá Keflavík, önnur um Bakkaskarð, yfir fjall, en hin um Skálavíkurfjörur, undir fjallinu Öskubak.[69]

Leiðin um Bakkaskarð liggur upp úr Norðdal í Keflavík en þar er klettalaust. Skarðið liggur í um það bil 480 metra hæð yfir sjávarmáli og er kennt við Meiri-Bakka í Skálavík, fyrsta bæinn sem komið er að norðan skarðsins. Sé farið Bakkaskarð er vegalengdin milli bæja um það bil fimm og hálfur kílómetri. Fyrir vel skóað og sæmilega þjálfað göngufólk er leið þessi vel fær að sumarlagi en þó ekki alveg klettalaus að norðanverðu. Best er að fara niður nær beint upp af túninu á Meiri-Bakka. Magnús Hjaltason getur þess að stundum hafi menn farið Kamb, er svo mun heita, af fjallinu niður í Skálavík, og þá aðeins utar (norðar) en þegar farið var um skarðið.[70] Að vetrarlagi var leiðin yfir Bakkaskarð oft illfær eða ófær vegna hálku og snjóa.

Fjöruleiðin undir Öskubak var jafnan varasöm vegna grjóthruns úr fjallinu og skammt vestan við Skálavík er Ófæra, klettur sem gengur í sjó fram og lokar leiðinni, svo menn verða að klöngrast eftir þræðingum uppi í hlíðinni til að komast yfir Ófæruna. Í svellalögum og hafróti gat leiðin um Skálavíkurfjörur orðið með öllu ófær þó bærilegt sé að ganga hana að sumarlagi fyrir þá sem vanir eru stórgrýttum fjörum og þræðingum í brattlendi. Þessi leið er ekki löng, um það bil fimm kílómetrar milli bæja.

Hér hefur áður verið greint frá landamerkjum Keflavíkur á móti jörðinni Gelti í Súgandafirði (sjá hér Göltur) en á móti Meiri-Bakka í Skálavík á Keflavík land að kletti sem stendur í Mölvík undir Öskubak.[71] Vík þessi er skammt vestan við nýnefnda Ófæru en þar á milli er þó Hvíturð.[72] Merkjakletturinn stendur í sjávarbökkunum fyrir miðri víkinni og frá honum liggur landamerkjalínan í horn á norðanverðum Öskubak.[73] Þarna eru líka hreppamörk og sýslumörk milli Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýslu.

Að fornu mati var Keflavík í Suðureyrarhreppi talin 8 hundraða jörð[74] en við jarðamatið sem fram fór um miðbik nítjándu aldar var hún aðeins virt á 4,4 hundruð.[75] Þetta var meiri lækkun en á nokkurri annarri jörð í Suðureyrarhreppi.[76] Þrjár jarðir í hreppnum voru þó enn metnar lægra en Keflavík. Það voru Laugar, Gilsbrekka og Norðureyri.[77]

Við fasteignamatið sem byrjað var á árið 1916 var Keflavík talin 900,- króna virði, án húsa.[78] Jörðin var þá í eyði. Að því sinni voru Keflavík og Gilsbrekka metnar til sama verðs.[79] Eina jörðin í Suðureyrarhreppi sem þá var lægra metin var Norðureyri og er þá eingöngu litið á landverð.[80]

Um 1930 töldu matsmenn Keflavík vera 1.500,- króna virði, án húsa, og þá var hún aftur komin upp fyrir bæði Gilsbrekku og Lauga í mati.[81] Þar hafa líklega sagt til sín jarðabætur á vegum stjórnar vitamála eða vitavarðarins sem hér settist að árið 1920 (sbr. hér bls. 10). Á því ári var Galtarviti reistur í túninu í Keflavík.[82]

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 er kostum og göllum bújarðarinnar í Keflavík lýst með þessum orðum:

 

Útigangur í skárra lagi á landi, minni í fjörunni. Torfrista nýtandi en stunga engin. Lyngrif lítið. Móskurður til eldiviðar lítill. Grasatekja mjög lítil. Selveiði af uppidrápi hefur áður verið, engin í  margt ár. Reki hefur verið góður en nú ei heppnast í margt ár og naut ábúandi viðrekans en hvala landsdrottinn þá þar bar upp.

Engjar eru að mestu eyðilagðar fyrir skriðum og snjóflóðum. Hætt er kvikfé og þeim sem það vaktar, bæði fyrir grjóthruni og snjóflóðum og verður oft mein að. Kirkjuvegur bæði langur og torsóttur sem áður segir um Gölt.

Heimræði er hér árið um kring þó lending sé bæði stórgrýtt og brimasöm. Skipsuppsátur er mjög illt og hafa hér því tíðum skip farist og brotnað af grjóthruni og þykir mönnum sýnilegt að fyrir því muni þetta heimræði um síðir af leggjast.[83]

 

Við lestur þessara orða vekur athygli að hér er getið nokkurra hlunninda í Keflavík þó að reynt sé að gera sem minnst úr þeim eins og almennt tíðkaðist. Hér var torf í boði og líka mór, svo og fjallagrös, lyng, selur og reki þó stundum brygðist. Um mótak í Keflavík er einnig getið í búnaðarskýrslum frá árunum 1791 og 1821[84] (sbr. hér bls. 63).

Í jarðabók frá árinu 1805 er leitast við að gera nokkru nánari grein fyrir hlunnindum er fylgdu þessari bújörð. Þar segir að hér fáist ein tunna af fjallagrösum á ári og selveiðarnar gefi af sér einn fimmta úr tunnu af lýsi,[85] það er 24 potta (sjá hér Gilsbrekka). Í byrjun nítjándu aldar var talið að hér mætti vænta hvalreka einu sinni á öld og hæfilegt þótti að gera ráð fyrir að slíkur fengur legði sig á 40 ríkisdali[86] eða sem svaraði tíu

 

kúgildum.[87] Árlegur viðarreki var talinn tíu álna virði[88] en ær með lambi var virt á 20 álnir. Miðað við þessar tölur, sem sjálfsagt er að taka með fyrirvara, hefði allur rekaviður sem á land barst í Keflavík átt að gefa af sér sem svaraði liðlega átta kúgildum á öld og hann því minna virði en hvalrekinn sem menn væntu á hundrað ára fresti.

Í jarðabókinni frá 1805 er tekið fram að ekki sé unnt að róa til fiskjar frá Keflavík nema að sumarlagi og þá á 3ja manna fari.[89] Fyrir stærri bát hefur líklega verið talið ófært að lenda. Í þessari sömu heimild er frá því greint að árlegur hásetahlutur þeirra sem rói frá Keflavík sé að jafnaði þrír fjórðu hlutar út vætt af þorski, einn fjórði hluti úr vætt af riklingi (lúðuriklingi?) og af steinbít sem svaraði fimm sextándu hlutum úr þorskvætt.[90] Í hverri vætt voru 40 kíló. Ætla má að þarna sé miðað við hertan fisk, skreið og rikling og hafa menn talið að hásetahluturinn væri að jafnaði liðlega 50 kíló af skreið og riklingi. Í landaurareikningi var slíkur aflahlutur virtur á um það bil 28 álnir,[91] það er tæpan fjórðung úr kýrverði. Til samanburðar er vert að nefna að árið 1805 var andvirði árlegs hásetahlutar úr fiskiróðrum frá Suðureyri í Súgandafirði talið nema liðlega 99 álnum og álíka hlutar máttu þeir vænta sem reru frá lendingarstöðum í landi Staðar, Bæjar, Norðureyrar og Galtar.[92] Frá öðrum bæjum í Suðureyrarhreppi var aðeins róið á sumrin úr heimavör og sé litið á þá bæi eina sér, ásamt Keflavík var hásetahluturinn að jafnaði hæstur hér í Keflavík.[93] Fram skal tekið að tvær jarðir í Suðureyrarhreppi áttu hvergi land að sjó en það voru Ytri- og Fremri-Vatnadalur. Þeir sem þar bjuggu gátu því aldrei stundað róðra úr heimavör.

Í heimildum frá miðri nítjándu öld og öðrum þaðan af yngri er ýmsar umsagnir og dóma að finna um búskaparskilyrði hér í Keflavík. Þar er víða minnt á hversu erfitt sé fyrir fólkið í Keflavík að komast til sinna næstu nágranna og jörðinni skipað í sérstakan flokk af þeim ástæðum. Nokkur dæmi er vert að nefna.

Í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 ritar séra Andrés Hjaltason á Stað svo um Keflavík:

 

Er það mikið óhægðarpláss til allra aðdrátta því eins og þar er illt yfirferðar landveginn, sem áður er sagt, svo er þar og lending hin óþægilegasta, bæði vegna brima og stórgrýtis.[94]

 

Séra Andrés minnist á trjáreka í Keflavík en segir að ekkert reki utan stundum lítilfjörlega.[95]

Matsmenn úr Önundarfirði og Súgandafirði, sem unnu með sýslumanni að jarðamati árið 1849, virðast hafa talið Keflavík lítt byggilega og segja um hana í álitsgerð sinni, dagsettri 30. júlí á því ári: Sú jörð liggur feikilega afskekkt og veldur það margfaldlegri óhægð og kostnaði á fleiri vegu.[96]

Magnús Hjaltason, sem verið hafði barnakennari í Keflavík árið 1898, ritaði svolítið um jörðina árið 1914 og virðist honum hafa litist betur á búskaparskilyrðin hér en mörgum öðrum. Í skrifi sínu kemst hann svo að orði:

 

Keflavík var allgóð jörð fyrir litla fjölskyldu en hængur var á því lífshætta var að fara til manna á hvern veg sem farið var og var það ókostur ærinn. Reki (trjáreki) var þar góður og bitfjara á skerjunum og landbeit góð. Rekafjara var og mikil norður í Álagjá en hætta mikil var að hafa fé þar sökum ofanfalls. Það mun láta næst að Keflavík beri 80 fjár, kú og graðung og einn hest. Í Keflavík var mikið um sel og annan veiðiskap en lending var slæm.[97]

 

Álagjá, sem Magnús nefnir þarna, er um það bil einum kílómetra fyrir norðan túnið í Keflavík og klýfur þar hamraveggina frá fjöru að efstu brún eða því sem næst.

Á öðrum stað minnist Magnús á selveiðarnar í Keflavík og segir: Oft fengu Súgfirðingar sel, skutu hann, stundum seli er vógu allt að 20 fjórðungum en þá fengu þeir helst í Keflavík.[98]

Guðmundur Pálmason, sem ólst upp í Keflavík á árunum 1888-1900, taldi að meðalheyfengur hefði þá verið 50 hestar af töðu og annað eins af útheyi.[99] Seinna mun túnið hafa verið stækkað verulega.[100] Um 1930 var talið að hér mætti fá 58 hesta af töðu og á engjunum 80 hesta af útheyi.[101] Allt heyskaparlandið er í dalnum, sem gengur upp frá víkinni, og neðan við hann en mikið af landi Keflavíkur er gróðurlaus fjöll með snarbröttum skriðum og klettum í sjó fram eins og komist er að orði í ritgerð frá árinu 1949.[102]

 

Í varðveittum heimildum er fyrst minnst á Keflavík í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups í Skálholti, frá árunum kringum 1200 en orðin sem þar standa skrifuð sýna að jörðin var þá í byggð (sjá hér bls. 6).

Í fornum skjölum er Keflavíkur næst getið í máldögum tveggja kirkna frá árinu 1377 eða því sem næst.[103] Kirkjurnar sem hér um ræðir eru Lárentíusarkirkjan í Holti í Önundarfirði og Þorlákskirkjan í Hrauni í Keldudal í Dýrafirði.[104] Hraunskirkja átti á árunum upp úr 1370 helming af öllum reka í Keflavík en Holtskirkja sjöttung af öllum hvalreka.[105] Óljóst er hvenær kirkjurnar tvær eignuðust þessi rekaítök. Þó má benda á að í máldaga Hraunskirkju, sem talinn er vera frá árinu 1367 og varðveittur er í Hítardalsbók, eru rekaréttindin í Keflavík ekki nefnd. [106] Sú staðreynd gæti bent til þess að kirkjan í Hrauni hafi ekki náð að tryggja sér þessi réttindi fyrr en á árunum kringum 1370. Um miðbik nítjándu aldar töldust báðar kirkjurnar enn vera eigendur þessara fornu réttinda hér í Keflavík.[107] Líklegt er þó að á síðari öldum hafi kirkjurnar í Holti og Hrauni haft lítil not af því sem hér rak og í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er beinlínis tekið fram að ekki sé til þess vitað að umráðamenn kirkjunnar í Hrauni hafi nokkru sinni náð að færa sér þessi rekaréttindi hennar í nyt.[108]

Fyrsti eigandi bújarðarinnar Keflavíkur norðan Galtar, sem um er kunnugt, var Bessi Einarsson, sýslumaður á Auðólfsstöðum í Langadal í Húnaþingi, sem seldi Einari Þorleifssyni hirðstjóra Hól í Bolungavík 16. febrúar 1449 en Keflavík og fleiri jarðir fylgdu með í þeim kaupum.[109] Einar andaðist árið 1452[110] og hefur að öllum líkindum átt Keflavík til dauðadags en kot þetta fylgdi æ síðan Hóli í Bolungavík. Einar Þorleifsson var bróðir Björns ríka á Skarði Þorleifssonar en Björn varð hirðstjóri að Einari látnum.[111]

Um 1460 mun Björn hirðstjóri hafa haft umráð yfir Hóli í Bolungavík og öllum jörðunum sem fylgdu því höfuðbóli.[112] Líklegt er að hann hafi erft þessar jarðeignir eftir Einar bróður sinn því Einar var ókvæntur og átti því ekki skilgetin börn.[113] Tvímælalaust er að Solveig, dóttir Björns hirðstjóra og konu hans, Ólafar ríku Loftsdóttur, átti Hól í Bolungavík og fleiri jarðir á þeim slóðum, þar á meðal Gölt í Súgandafirði og Keflavík.[114] Solveig sat um skeið á Hóli.[115] Hún andaðist árið 1495[116] en að henni látinni hófst langvarandi deila um Hólseignir. Frá þeirri þrætu er sagt lítið eitt hér á öðrum stað (sjá Staður) en nafnkunnir eigendur Keflavíkur á árunum 1495-1560 voru þrír synir Solveigar Björnsdóttur, það er að segja Björn og Einar Jónssynir og Þorleifur lögmaður Pálsson, og svo Guðrún Þorleifsdóttir, dóttir Þorleifs lögmanns (sjá hér Göltur). Á árunum upp úr 1570 var kirkjan á Hóli í Bolungavík orðin eigandi Keflavíkur[117] en um þær mundir eignaðist Árni Gíslason sýslumaður Hól með dálítið sérkennilegum hætti ef marka má orð Boga Benediktssonar, fræðimanns á Staðarfelli í Dölum, rituð á fyrri hluta nítjándu aldar (sjá hér Göltur).

Er Sæmundur Árnason, sonur Árna Gíslasonar sýslumanns og konu hans, Guðrúnar Sæmundsdóttur, gekk haustið 1588 að eiga Elínu, dóttur Magnúsar prúða Jónssonar, sýslumanns í Bæ á Rauðasandi, og konu hans, Ragnheiðar Eggertsdóttur, fengu ungu hjónin Hól til eignar og umráða.[118] Þau Sæmundur og Elín sátu lengi á Hóli og síðan niðjar þeirra langt fram á 19. öld og máske lengur.[119] Eigendur Hóls á hverjum tíma áttu kirkjuna sem þar stóð og þar með Keflavík því kirkjan átti hana.

Á því sem hér hefur verið ritað má sjá að allt frá 1449 var Keflavík jafnan talin vera ein af Hólsjörðunum og eigi síðar en um 1570 varð Hólskirkja eigandi þessa kotbýlis með formlegum hætti. Kirkjan á Hóli átti Keflavík enn árið 1916[120] og í ýmsum gögnum frá sautjándu, átjándu og nítjándu öld má sjá að svo hafði jafnan verið á þessu langa skeiði.[121]

 

Jarðarafgjaldið sem fólkið í Keflavík þurfti að greiða eigendum Hólskirkju einu sinni á ári var um 1650 sextíu álnir,[122] það er hálft kýrverð. Undir lok sautjándu aldar var þessi sama landskuld þriðjungi lægri eða 40 álnir.[123] Á flestum hinna jarðanna í Súgandafirði stóð landskuldin í stað eða tók mjög litlum breytingum á tímabilinu frá 1658 til 1695.[124] Landskuldin af Keflavík hélt svo áfram að lækka. Árið 1703 var hún enn 40 álnir[125] en sjö árum síðar var hún komin niður í 30 álnir, eina og hálfa vætt.[126] Í Jarðabókinni frá 1710 sést að afgjald þetta átti að greiðast í fiski í kaupstað.[127] Hin mikla lækkun landskuldarinnar bendir til þess að ekki hafi verið margir um boðið þegar jarðnæði losnaði í Keflavík á þessu tímaskeiði. Um 1845 var landskuldin enn 30 álnir.[128] Vera má að sú fjárhæð hafi aldrei haggast á tímabilinu frá 1710 til 1845 en það hefur reyndar ekki verið kannað til hlítar.

Árið 1658 átti Hólskirkja þrjú innstæðukúgildi hér í Keflavík[129] en sex ær voru í hverju kúgildi. Leiguærnar sem fylgdu jörðinni hafa því verið 18 en á næstu áratugum fór þeim fækkandi. Árið 1695 vor þær 9, árið 1703 bara 6 og árið 1710 átti kirkjan á Hóla enga kind á þessu koti sínu.[130] Í Jarðatali frá árinu 1847 er líka tekið fram að enginn leigufénaður fylgi Keflavík.[131] Ljóst er að lækkun landskuldarinnar og fækkun leigukúgildanna hefur haldist í hendur og minnt skal á að um miðbik nítjándu aldar var hið forna mat á jörðinni lækkað um nær helming (sjá hér bls. 7). Allt gæti þetta bent til þess að landkostir hafi rýrnað hér í Keflavík og jörðin orðið fyrir varanlegum spjöllum, einna helst á síðari hluta sautjándu aldar.[132] Óvíst er þó með öllu hvort svo hafi verið og hitt eins líklegt að í tímans rás hafi það fyrst og fremst verið samgönguerfiðleikarnir sem lækkuðu verðgildi jarðarinnar.

Nöfn fólksins sem dró fram lífið hér í Keflavík fyrir 1700 eru nú týnd og verða tæplega dregin fram úr þessu. Á átjándu og nítjándu öld lá jörðin stundum í eyði um margra ára skeið en hér var líka alloft tvíbýli. Heimildir sýna að búið var á jörðinni 1703, 1710 og um 1735 en 1753 og 1762 var hún í eyði.[133] Um 1770 byggðist Keflavík á ný[134] og á árunum 1785-1829 var jörðin nær alltaf í byggð.[135] Um 1830 stóð hún þrjú ár í eyði en byggðist á ný vorið 1832.[136] Á árunum 1832-1870 var Keflavík aldrei lengur í eyði en eitt ár í senn en frá 1870 til 1886 var hér mannlaust.[137] Búið var á jörðinni frá 1886 til 1900 en þá féll hún í eyði og byggðist ekki á ný fyrr en hér var reistur viti árið 1920.[138]

Á árunum 1785-1870 var tvíbýli í Keflavík í að minnsta kosti liðlega 20 ár, það er að segja fardagaárin 1790-1793, 1796-1797, 1810-1812, 1816-1817, 1818-1819, 1824-1827, 1832-1835, 1836-1842 og 1861-1862.[139] Á þessu skeiði var hér líka þó nokkuð um húsfólk svo stundum voru heimilin tvö þó að einn ábúandi byggi á allri jörðinni.[140] Dæmi um þrjú heimili í Keflavík hafa hins vegar ekki fundist.

Bóndinn sem bjó í Keflavík árið 1710 átti 2 kýr, 1 kálf, 14 ær, 10 veturgamla sauði, 14 lömb og 1 hest.[141] Til samanburðar við þessar tölur er fróðlegt að skoða fjölda búfjár hér í Keflavík undir lok átjándu aldar og svo á nítjándu öldinni. Í þeim efnum verður að byggja á opinberum skýrslum en gera má ráð fyrir að í raun hafi sauðkindurnar stundum verið nokkru fleiri en skýrslurnar sýna. Á Töflu 1, sem hér birtist, sjáum við hinar opinberu tölur en fram skal tekið að lömb, kálfar og folöld eru ekki talin með.

Í opinberri matsgerð frá árinu 1916 segir að á síðustu árum nítjándu aldar hafi verið hér á fóðrum tveir nautgripir, einn hestur og sextíu til sjötíu fjár, að lömbum meðtöldum.[142] Þær tölur, sem ekki er víst að séu nákvæmar, gefa allt aðra mynd af búskapnum hér á þeim árum en tíundarskýrslan frá 1895 sem á er byggt í töflunni. Athyglisvert er líka að vitaverðirnir, sem hér bjuggu á árunum 1920-1940, settu allt upp í 100 kindur á vetur og jafnvel liðlega það.[143] Á árunum 1931-1940 voru hér þó líka 2 kýr a.m.k. sum árin.[144] Til að tryggja fóður fyrir allar þessar skepnur mun fólkið í Keflavík stundum hafa fengið léðar slægjur norður í Skálavík.[145]

 

Tafla 1[146]

 

Fjöldi búfjár í Keflavík

 

 

Í hinum opinberu heimildum sem Tafla 1 byggir á má sjá að á árunum 1790-1860 átti fólkið í Keflavík oftast lítinn bát,[147] tveggja eða þriggja manna far. Stærri bátur virðist aldrei hafa verið hér á því skeiði[148] og í heimild frá árinu 1805 er tekið fram að ekki sé unnt að róa héðan á fjögra manna fari eða stærri bátum (sjá hér bls. 9). Í tíundarskýrslum oddvita Suðureyrarhrepps frá árunum 1888, 1891 og 1895 er aldrei getið um minnstu bátana[149] en ætla má að bóndinn sem þá bjó í Keflavík hafi átt einn slíkan, það er að segja tveggja eða þriggja manna far. Stærri bát átti hann ekki.[150]

Fyrsti bóndinn sem bjó í Keflavík og hægt er að nefna með nafni er Jón Björnsson sem bjó hér árið 1703 með konu sinni, Guðrúnu Gísladóttur, en á þeim var þrjátíu ára aldursmunur.[151] Jón var þá 58 ára en Guðrún 28 ára.[152] Hjón þessi áttu árið 1703 einn son, Björn að nafni, en hjá þeim var einnig húskona og hennar sonur.[153] Drengir þessir tveir voru þá sjö og átta ára.[154] Vorið 1703 var hér líka annað heimili, tveggja manna, þeirra  Þjóðbjargar Sigurðardóttur og Sveins Þorsteinssonar, og var hún 48 en hann 23ja ára.[155] Merkilegt er að sjá í manntalinu frá þessu ári að þau eru bæði sögð vera skylduhjú Þorsteins Jónssonar, búanda að Vatnadal og á hans handbjörg.[156] Þorsteinn var þá annar tveggja bænda í Ytri-Vatnadal[157] en hann bjó síðar í Staðarhúsum ytri, var hreppstjóri og umsvifamaður í búskap (sjá hér Staður,Staðarhús ytri þar).

Þjóðbjörg og Sveinn voru árið 1703 einu hjúin á handbjörg Þorsteins í Vatnadal[158] en hvers vegna í ósköpunum hann lét þau dveljast hér úti í Keflavík mun seint verða skýrt til hlítar. Ýmsar tilgátur mætti bjóða upp á en þær hafa litla stoð því alla vitneskju skortir. Málið er því sveipað dul.

Árið 1710 var nýr bóndi farinn að búa í Keflavík og hafði alla jörðina til ábúðar.[159] Hann hét Gísli Árnason[160] og hér hefur áður verið gerð grein fyrir bústofni hans þetta ár (sjá hér bls. 14, taflan). Aðrar upplýsingar um hann liggja ekki fyrir og um Bjarna Þorsteinsson, sem bjó hér árið 1735 eða því sem næst,[161] veit víst enginn neitt.

Árið 1753 var Keflavík í eyði og líka 1762 en um 1770 komst jörðin aftur í byggð svo sem fyrr var nefnt (sjá hér bls. 13). Óljóst er hver fyrstur hóf hér búskap að því sinni en vera má að það hafi verið Erlingur Þorgilsson sem sannanlega bjó hér fardagaárið 1784-1785 og var þá hreppstjóri.[162] Við hjónavígslu 25. júlí 1784 var Erlingur svaramaður brúðarinnar, Kristínar Bergsdóttur á Gelti sem þá var að giftast í annað sinn, og segir prestur hann vera hreppstjóra og eiga heima í Keflavík.[163] Mun Erlingur vera eini hreppstjórinn sem hér hefur búið svo kunnugt sé. Hann fluttist frá Keflavík að Bæ í Súgandafirði vorið 1785 og var þá um fimmtugsaldur.[164] Í Bæ bjó hann lengi og hefur áður verið frá honum sagt (sjá hér Bær).

Vorið 1785 hófu hér búskap hjónin Sigurður Jónsson og Margrét Borgarsdóttir og bjuggu þau hér í fjögur ár.[165] Í janúarmánuði árið 1786 voru þau, að sögn sóknarprestsins, 45 og 46 ára og hjá þeim voru þá fjórar dætur þeirra á aldrinum 3ja – 16 ára.[166] Fjölskylda þessi í Keflavík virðist ekki hafa verið hátt skrifuð hjá sálusorgaranum, séra Þorsteini Þórðarsyni á Stað. Árið 1786 segir hann að Sigurður bóndi sé misjafnt kynntur og Margrét kona hans brestótt.[167] Elstu dóttur þeirra, Salbjörgu sem var 16 ára, gefur prestur þá einkunn að hún sé illa vanin en tekur þó fram að í barnalærdómnum sé hún komin að Faðir vor.[168] Einu ári síðar tók séra Þorsteinn aftur til við að gefa sóknarbörnum sínum einkunnir og af orðum hans má ráða að þá hafi dregið lítið eitt úr vanþóknun hans á hjónunum í Keflavík. Um Sigurð bónda skrifar prestur að því sinni nú ber ei mikið á honum og um Margréti húsfreyju í Keflavík af henni fréttist nú ei illt.[169]

Úr þessu tók hins vegar að halla undan hjá Sigurði bónda í Keflavík og í apríl 1788 segir prestur að hann sé veikur og fáskiptinn en samt ei óskýr í andlegu.[170] Tónn sóknarprestsins gagnvart hjónunum í Keflavík var nú orðinn mildari og í marsmánuði árið 1789 segir hann að Sigurður sé ei illa að sér og Margrét iðjusöm en fáfróð.[171] Bæði voru þau læs, að sögn séra Þorsteins.[172]

Vorið 1789 leystist heimili Sigurðar og Margrétar í Keflavík upp,[173] að líkindum vegna veikinda hans. Sigurður fór þá að Ytri-Vatnadal til Bjarna Jónssonar, bróður síns, er þar bjó en Margrét varð eftir í Keflavík með yngstu dótturina og var hér vinnukona fardagaárið 1789-1790.[174]

Síðustu árin sem Sigurður Jónsson lifði var hann jafnan hjá Bjarna bróður sínum í Ytri-Vatnadal og mun varla hafa verið vinnufær.[175] Vorið 1791 er hann sagður vera þar tökumaður og í marsmánuði árið 1793 greinir séra Þorsteinn á Stað frá því að þessi fyrrverandi bóndi í Keflavík sé nokkuð truflaður.[176] Sigurður andaðist í Ytri-Vatnadal 6. apríl 1795.[177]

Á árunum 1785-1789 var Sigurður Jónsson eini bóndinn í Keflavík en hér var þá líka um skeið einhleypur húsmaður sem hét Sigurður Sigurðsson.[178] Hann var 57 ára í byrjun ársins 1786 og taldi prestur þá að karl þessi væri sérlundaður.[179]

Nýr bóndi hóf búskap hér í Keflavík vorið 1789 og hét sá Björn Jónsson en kona hans Margrét Jónsdóttir.[180] Þessi hjón voru hér við búskap í fjögur eða fimm ár.[181] Er Björn tók við jörðinni var hann 34 ára gamall eða því sem næst en Margrét, kona hans, var um það bil átta árum yngri.[182] Á sínum fyrstu búskaparárum voru þau barnlaus en sonur þeirra, Jón Björnsson, fæddist hér árið 1791.[183] Foreldrar hans bjuggu þá með 2 kýr, 13 ær, 7 lömb, 2 hrúta eða gemlinga og 1 hest.[184] Er Björn Jónsson fór að reyna sig við búskap í Keflavík segir prestur hann vera spakferðugan.[185] Snemma á árinu 1793 voru þessi sömu hjón hér enn en tveimur árum síðar voru þau farin.[186] Verið getur að Björn hafi veikst um það leyti því að í manntalinu frá 1801 er hann sagður vera holdsveikur.[187] Hann var þá orðinn hreppsómagi og hafði verið komið fyrir hjá Ara bónda Þorkelssyni á Kvíanesi.[188] Þar fékk hann að hafa konuna hjá sér og dreng þeirra sem fyrr var nefndur.[189] Árið 1816 var Margrét Jónsdóttir húskona í Ytri-Vatnadal, sögð 52ja ára ekkja,[190] og er líklegt að sú kona sé hin fyrrverandi húsfreyja í Keflavík því aldurinn passar nákvæmlega.

Á árunum 1790-1793 voru jafnan tvö heimili í Keflavík því auk Björns bónda og Margrétar, konu hans, höfðust hér við hjónin Kristófer Kolbeinsson og Ásdís Hákonardóttir og voru í febrúar 1791 með sex manna heimili.[191] Í sóknarmannatölum séra Þorsteins Þórðarsonar á Stað er Kristófer sagður vera bóndi á þessum árum[192] en í búnaðarskýrslu frá árinu 1791 er hann ekki talinn til bænda.[193] Þetta misræmi bendir til þess að Kristófer hafi ekki tryggt sér ábúðarrétt með formlegum hætti hjá landsdrottni, sem var Hólskirkja í Bolungavík, en Björn bóndi í Keflavík hafi engu að síður gefið honum kost á að nytja einhvern part úr jörðinni. Ætla má að slíkir óformlegir samningar hafi þá aðeins verið gerðir til eins árs í senn.

Þau Kristófer og Ásdís voru á miðjum aldri er þau fluttust hingað vorið 1790 og höfðu áður búið alllengi á Gelti en seinna voru þau í Staðarhúsum ytri og hefur áður verið frá þeim sagt í þessu riti (sjá hér Göltur og Staður, Staðarhús ytri þar). Er prestur húsvitjaði í Keflavík á þorra eða góu árið 1791 segir hann Kristófer vera fáfróðan en tekur fram að Ásdís húsfreyja sé kostulega skýr.[194] Á heimili þessara hjóna var þá Nikulás, sonur þeirra, tvítugur að aldri, ein vinnukona og tvö tökubörn.[195]

Vorið 1794 eða 1795 fóru hjónin Jón Þorleifsson og Guðrún Jónsdóttir að hokra í Keflavík.[196] Þau voru þá orðin roskin og höfðu áður búið lengi á Norðureyri. Þau voru foreldrar Markúsar Jónssonar, er seinna varð bóndi í Keflavík, og hefur áður verið frá þeim sagt í þessu riti (sjá hér Norðureyri). Jón Þorleifsson og Guðrún, kona hans, voru hér við búskap í tvö til fjögur ár en árið 1799 voru þau komin í Botn.[197]

Fardagaárið 1796-1797 var tvíbýli hér í Keflavík.[198] Jón Þorleifsson, er hér var síðast nefndur, var þá hér við búskap en á móti honum bjó Þórður Jónsson sem þá var tæplega fimmtugur að aldri.[199] Kona Þórðar var Margrét Hákonardóttir, sögð 47 ára í marsmánuði árið 1797.[200] Allar líkur benda til þess að hún hafi verið systir Ásdísar Hákonardóttir, er var húsfreyja í Keflavík örfáum árum fyrr, og þær báðar dætur Hákonar Björnssonar, bónda á Gelti (sjá hér Göltur). Hjá Þórði og Margréti voru fjögur börn þeirra er prestur húsvitjaði í Keflavík árið 1797.[201] Þau voru á aldrinum 4 – 17 ára og Hákon elstur í hópnum.[202]

Hjónin Þórður Jónsson og Margrét Hákonardóttir höfðu áður búið í Bakkakoti, hjáleigu frá prestssetrinu á Stað og líka í Staðarhúsum fremri sem voru önnur hjáleiga frá Stað (sjá hér Staður). Seinna bjuggu þau um tíma á heimajörðinni á Stað og höfðu hana alla til ábúðar fardagaárið 1801-1802 en þá var prestlaust (sjá hér Staður).

Árið 1805 eða litlu fyrr komu þessi sömu hjón aftur hingað í Keflavík.[203] Að því sinni voru þau hér við búskap í að minnsta kosti sjö ár og bjuggu þá fyrst á allri jörðinni en seinna í tvíbýli.[204] Haustið 1816 voru þau horfin á braut og hafa þá að líkindum verið dáin.[205]

Á árunum 1798-1805 hófu að minnsta kosti tveir bændur búskap hér í Keflavík en Þórður Jónsson, sem fyrr var nefndur, var þá löngum á Stað. Annar þessara tveggja bænda hét Örnólfur Jónsson og bjó hann hér á allri jörðinni árið 1799.[206] Kona Örnólfs hét Sigríður Jónsdóttir og árið 1799 voru þau hér með tvö börn, Hallfríði sem þá var sögð fjögra ára, fædd á Fæti í Seyðisfirði við Djúp, og Jón sem fæddist hér í Keflavík 26. september 1797.[207] Eigi síðar en vorið 1800 fóru hjón þessi frá Keflavík og voru á Ósi í Bolungavík er Guðmundur sonur þeirra fæddist, 30. júní árið 1800.[208] Skömmu eftir fæðingu Guðmundar andaðist móðir hans og 1. febrúar 1801 var Örnólfur jarðnæðislaus ekkjumaður á Ósi, sagður lifa á fiskveiðum.[209] Hallfríður dóttir hans var þar hjá honum en Jón bróðir hennar var þá í fóstri á Stað í Súgandafirði.[210] Bræðurnir Jón og Guðmundur Örnólfssynir, er hér voru nefndir, urðu báðir bændur í Keflavík er fram liðu stundir og segir hér frá þeim síðar (sjá bls. 25-28).

Fardagaárið 1810-1811 var nýnefndur Örnólfur vinnumaður hjá Þórði Jónssyni, bónda í Keflavík,[211] og alllíklegt má telja að Örnólfur sá Jónsson sem árið 1816 var vinnumaður og ekkill á Meiri-Bakka í Skálavík[212] sé þessi sami maður. Í manntalinu frá 1816 er Örnólfur vinnumaður á Meiri-Bakka sagður 56 ára og vera fæddur á Eyri í Skutulsfirði.[213] Aldurinn passar reyndar ekki við Örnólf sem áður bjó í Keflavík og munar þar um það bil einum áratug. Vera má að þarna sé því um tvo menn að ræða, alnafna, en hitt getur líka verið að í manntalinu frá 1801 hafi hinn fyrrverandi bóndi í Keflavík, fyrir mistök, verið skráður tíu árum yngri en hann var í raun eða tíu árum eldri í manntalinu frá 1816.

Jón Örnólfsson, sem fæddist í Keflavík haustið 1797 og missti móður sína um þriggja ára aldur, ólst hér upp að miklu leyti.[214] Hann fór til hjónanna Þórðar Jónssonar og Margrétar Hákonardóttur og var hjá þeim á Stað árið 1801.[215] Hann fluttist aftur með þeim til Keflavíkur fáum árum síðar og var hér enn hjá sömu hjónum í marsmánuði árið 1811.[216] Í desember árið 1816 var hann vinnupiltur á Meiri-Bakka í Skálavík[217] en fluttist hingað aftur mjög skömmu síðar og var hér við búhokur í fáein ár (sjá hér bls. 25-26).

Frá Örnólfi Jónssyni, bónda í Keflavík, og hans fólki segir hér ekki nánar að sinni. Um bóndann sem hóf hér búskap vorið 1800, þegar Örnólfur vék frá, er fátt kunnugt. Hann hét Jónas Jónsson en kona hans Ingibjörg Brandsdóttir.[218] Þau höfðu áður verið vinnuhjú í Keflavík í skamman tíma og stóðu hér fyrir búi í fjögur eða fimm ár.[219] Í manntalinu frá 1801 er Jónas sagður vera 38 ára gamall en Ingibjörg 47 ára.[220] Þau áttu þá eina dóttur í foreldrahúsum, Jóhönnu, sem fæddist í Bolungavík sumarið 1792.[221] Hjá þeim var svo ein vinnukona þetta fardagaár, 1800-1801, Þuríður Aradóttir frá Gelti sem hér hefur áður verið gerð grein fyrir, móðir Sigurðar Þuríðarsonar (sjá hér Botn, Göltur og Staður, Vandræðakot þar). Árið 1816 hefur Jónas líklega verið dáinn en Ingibjörg Brandsdóttir var þá niðursetningur á Kroppstöðum í Skálavík, talin 64 ára og sögð vera fædd á Höfða í Grunnavíkurhreppi.[222]

Markús Jónsson hóf búskap í Keflavík árið 1809 eða 1810 og bjó hér þaðan í frá nær óslitið til dauðadags en hann andaðist 30. september 1825.[223] Markús var fæddur á Norðureyri árið 1767 eða því sem næst,[224] sonur hjónanna Jóns Þorleifssonar og Guðrúnar Jónsdóttur[225] er seinna bjuggu í fáein ár hér í Keflavík (sjá hér bls. 18). Hann kvæntist haustið 1792 Guðrúnu Hallsdóttur, ungri heimasætu í Botni, og voru þau þar við búskap í um það bil áratug en síðan á Suðureyri í nokkur ár og þaðan fluttust þau hingað til Keflavíkur.[226] Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Markúsi og Guðrúnu, konu hans, og skal til þess vísað (sjá hér Botn og Suðureyri).

Á fyrstu árum sínum í Keflavík bjó Markús hér í tvíbýli á móti Þórði Jónssyni sem fyrr var frá sagt.[227] Á árunum 1816-1825 hafði hann stundum alla jörðina til ábúðar en á því skeiði taldi prestur þó vera tvíbýli hér í Keflavík í þrjú ár.[228] Þess ber svo einnig að geta að vorið 1820 fór Markús úr Keflavík með allt sitt og bjó fardagaárið 1820-1821 á Ósi í Bolungavík.[229] Vorið 1821 kom hann hingað aftur og sat til dauðadags.

Þau Markús Jónsson og Guðrún Hallsdóttir eignuðust mörg börn, ekki færri en níu.[230] Í marsmánuði árið 1811 voru hér í foreldrahúsum þessi börn Markúsar og Guðrúnar: Hallur 18 ára, Sigurður 14 ára, Guðrún 15 ára, Steinvör 8 ára, Elín 4 ára, Sigríður 3ja ára og Björn, sagður hálfs árs.[231] Seinna bættist Guðfinna við[232] en um Kristínu Markúsdóttur er rætt hér á öðrum stað (sjá Norðureyri). Með Markúsi fluttist líka út í Keflavík tengdamóðir hans, Ástríður Jónsdóttir, áður húfreyja í Botni, og var hún hér, komin fast að áttræðu, þegar prestur húsvitjaði í marsmánuði árið 1811.[233]

Undir lok nítjándu aldar lifði nafn Markúsar Jónssonar í Keflavík enn á vörum fólks í Súgandafirði þó að 70 ár væru liðin frá andláti hans. Kristján G. Þorvaldsson, sem fæddist í Selárdal sumarið 1881, heyrði talað um Markús á sínum uppvaxtarárum og ritaði síðar á þessa leið:

 

Ef dæma má eftir því sem sagt hefur verið af Markúsi Jónssyni þá hefur hann verið mesti dugnaðarmaður og afkoma hans verið sæmileg, miðað við það sem þá var almennt, þrátt fyrir töluverða ómegð.[234]

 

Bróðir Kristjáns, Valdimar Þorvaldsson, fæddur 1878, segir að Markúsi hafi hentað vel að búa í Keflavík því hann hafi helst viljað vera með eigur sínar að nokkru duldar.[235] Ósagt skal látið hvort taka megi mark á orðum Valdimars, hvað þetta varðar, en telja má líklegt að ummælin, sem hér var vitnað til, hafi hann byggt á almannarómi sem stundum er lítt marktækur eins og alkunnugt er.

Elstu synir Markúsar, þeir Hallur og Sigurður, þóttu að sögn ærið djarffærir og var haft til marks að einn veturinn hefðu þeir farið hina illfæru leið sem liggur um Breiðhillu, hátt í Geltinum, með kálf.[236] Að sögn Valdimars Þorvaldssonar fengu þeir áminningu í kirkju fyrir þetta tiltæki.[237] Á öllum þeim árum sem liðin eru frá dögum bræðranna, Halls og Sigurðar Markússona í Keflavík, mun Breiðhilla aldrei hafa verið farin með nautgrip. Hæpið kann þó að vera að telja fífldirfsku eina hafa komið þeim til að leggja í fjallið með kálfinn frá Gelti því hafa ber í huga að hin almenna leið um Galtarskarð verður oft með öllu ófær til slíkra gripaflutninga að vetrarlagi og hið sama má segja um sjóleiðina.[238]

Þau urðu örlög bræðranna, Halls og Sigurðar í Keflavík, að drukkna í lendingu ungir að árum. Frá þeim hörmulegu slysförum segir Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Þeir bræður urðu skammlífir, drukknuðu báðir í lendingu í Keflavík er þeir voru að koma á smábát norðan úr Bolungavík. Þeir höfðu farið að heiman í góðu veðri en er þeir komu til baka var kominn sjór svo þeir töldu ekki lendandi. Sneru þeir frá og ætluðu vestur að Gelti. Faðir þeirra var í vörinni og mun honum hafa litist lendingarfært því hann gaf þeim bendingu um að lenda. Þeir lögðu þá að landi en sjórinn bar bátinn á sker vestan við lendinguna, sem kallað er Naggur. Fórust bræðurnir þar báðir og farangur allur. Nágrannarnir sögðu að Markús hefði ekki viljað að þeir færu vestur að Gelti því hann hefði ógjarnan viljað að óviðkomandi sæju hvað þeir voru með.

Atburður þessi tók mjög á foreldrana og er sagt að Markús hafi tekið hann svo nærri sér að hann yrði aldrei samur maður þaðan í frá. Mun honum hafa fundist hann eiga nokkra sök á slysinu.[239]

 

Hvaða ár Hallur og Sigurður Markússynir drukknuðu verður nú ekki sagt með vissu en sóknarmannatal frá því í marsmánuði árið 1812 sýnir að þá voru þeir enn á lífi.[240] Þeir munu hins vegar hafa drukknað fyrir 1816[241] en engin manntöl eða sóknarmannatöl úr Staðarprestakalli eru til frá árunum 1813-1815 og á árunum 1805-1815 virðast Staðarprestar hafa látið vera að skrá andlát manna sem var þó embættisskylda. Hallur Markússon var fæddur haustið 1793 og hefur því verið kominn um eða rétt yfir tvítugt þegar hann drukknaði en Sigurður bróðir hans var þremur árum yngri, fæddur 3. júní 1796.[242]

Synir Markúsar og Guðrúnar, konu hans, munu hafa drukknað í lendingunni norðan til við Keflavík því þar er skerið Naggur (sjá hér bls. 66) en ekki við árósinn.

Skömmu áður en Markús bóndi sá brimið hremma sína hraustu syni var hann sagður ern og iðjusamur og í betra lagi að sér.[243] Hann var þá um 45 ára aldur og innan við fimmtugt þegar synirnir drukknuðu. Hið mikla áfall hrakti hann ekki frá Keflavík og þó að hann færi vorið 1820 kom hann aftur einu ári síðar svo sem fyrr var nefnt.

Haustið 1821 voru þau Markús og Guðrún, kona hans, hér með 3 kýr, 11 ær, 8 lömb og 1 hest, ef marka má búnaðarskýrslu, og þau áttu þá líka lítinn bát.[244] Næstu ár héldu þau búskapnum áfram allt þar til Markús andaðist, hátt á sextugsaldri, haustið 1825.[245] Ekkja Markúsar Jónssonar, Guðrún Hallsdóttir, bjó reyndar áfram hér í Keflavík í tvö ár að manni sínum látnum.[246] Hún var hér í marsmánuði árið 1826 með fimm dætur á aldrinum 12–30 ára.[247] Hjá henni var þá ungur vinnumaður, Björn Helgason, sagður 23ja ára.[248] Hann kvæntist síðar Ástríði Sigfúsdóttur og voru þau við búskap og í húsmennsku hér í Keflavík um skeið en seinna í Klúku (sjá hér bls. 28 og Botn, Klúka þar). Í kvennamálum var Björn ekki við eina fjöl felldur og eignaðist börn með tveimur af dætrum Guðrúnar Hallsdóttur í Keflavík, þeim Steinvöru Markúsdóttur og Guðfinnu Markúsdóttur. Dóttir Björns og Steinvarar fæddist haustið 1827 en dóttirin sem hann eignaðist með Guðfinnu ekki fyrr en vorið 1845 (sjá hér Botn, Klúka þar).

Er Guðrún Hallsdóttir, ekkja Markúsar Jónssonar, gafst upp á búskapnum í Keflavík vorið 1827 var hún komin á sextugsaldur.[249] Hún dó í Selárdal á Þorláksmessu árið 1834.[250]

Þegar Markús Jónsson og Guðrún Hallsdóttir fóru frá Keflavík að Ósi í Bolungavík vorið 1820 höfðu þau bústaðaskipti við Hallgrím Lárentíusson og konu hans, Þórdísi Pálmadóttur.[251] Hallgrímur var hins vegar aðeins í eitt ár í Keflavík en að því liðnu kom Markús til baka og bjó hér til dauðadags eins og fyrr var frá greint.

Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Hallgrími Lárentíussyni en hann bjó um skeið á Gelti á sínum efri árum og síðan niðjar hans fram á tuttugustu öld (sjá hér Göltur). Þórdís, kona Hallgríms, var fædd á Svarthamri í Álftafirði við Djúp árið 1777 eða því sem næst[252] og kynni að hafa verið dóttir hjónanna Pálma Guðmundssonar og Ólafar Hannesdóttur sem bjuggu á Ósi í Bolungavík árið 1801.[253] Skömmu áður en Hallgrímur Lárentíusson og Þórdís, kona hans, fluttust frá Ósi í Keflavík höfðu þau verið ákærð fyrir illa meðferð á unglingspilti sem andaðist á heimili þeirra og var Hallgrímur dæmdur til refsingar fyrir þær sakir vorið 1822 (sjá hér Göltur) en þá var Þórdís látin.

Þau Hallgrímur og Þórdís voru gefin saman í hjónaband 26. ágúst 1795 á Hóli í Bolungavík og á árunum 1796-1818 eignuðust þau að minnsta kosti 10 börn sem flest voru á lífi er þau færði sig um set og hófu búskap hér í Keflavík.[254] Sex barnanna komu hingað með foreldrum sínum vorið 1820.[255] Þau voru Lárentíus, nær 24 ára, Ólöf, 19 ára, Sakarías, 17 ára, Ívar, 11 ára, Ólafur, 5 ára, og Kristján 3ja ára.[256] Það eina fardagaár sem Hallgrímur bjó í Keflavík voru líka hjá honum vinnuhjú, hjónin Mahalaleel Árnason, sagður 55 ára, og Guðbjörg Jónsdóttir, talin 64 ára.[257] Vinnumaður þessi var árið 1801 bóndi í Þverdal í Aðalvík en hjú á Stað í Aðalvík árið 1816 (sjá hér Tannanes).

Bak jólum veturinn 1820-1821 varð átakanlegt slys hér í Keflavík er húsfreyjan, Þórdís Pálmadóttir, drukknaði í hafróti við ströndina þann 21. janúar.[258] Séra Eiríkur Vigfússon færir andlát hennar til bókar og skrifar: Drukknaði í brimi.[259] Hér fer því ekkert á milli mála um dánarorsökina en séra Eiríkur gerir því miður enga grein fyrir tildrögum slyssins. Er brimið varð Þórdísi að bana var hún 43ja ára gömul.[260] Þetta var annað banaslysið í Keflavík á skömmum tíma því ekki voru liðin tíu ár frá því Hallur og Sigurður Markússynir drukknuðu hér í lendingu. Nú gæti mönnum dottið í hug að Þórdís húsfreyja hafi líka drukknað í lendingu en svo var ekki ef marka má munnmæli.

Vorið 1865 fóru hjónin Friðrik Axel Axelsson og Helga Guðmundsdóttir að búa í Keflavík[261] og segir hér frá þeim síðar (sjá bls. 40-44). Eitt barna þeirra var Mikkalína Friðriksdóttir, fædd 1858.[262] Hún fluttist hingað með foreldrum sínum og átti heima í Keflavík í fimm ár.[263] Ætla má að á uppvaxtarárum hafi hún heyrt ýmsar frásagnir af lífinu í Keflavík á fyrri tíð og söguna um drukknun Þórdísar sagði hún syni sínum Arngrími Fr. Bjarnasyni á Ísafirði.[264] Hann skráði hana eftir móður sinni og var hún fyrst prentuð í Vestfirskum þjóðsögum I, árið 1909.[265]

Í útgáfu Arngríms eru hjónin Hallgrímur Lárentíusson og Þórdís Pálmadóttir nefnd Leddu-Grímur og Þórdís[266] og býsna líklegt að móðir hans hafi ekki munað föðurnöfn þeirra. Fyrir þá sem vita að Þórdís húsfreyja Pálmadóttir drukknaði í brimi í janúar 1821 er þó mjög auðvelt að ráða í við hvaða fólk muni átt í frásögn Mikkalínu. Meginefni sögunnar sem Arngrímur skráði er þetta:

 

Leddu-Grímur og Þórdís hétu hjón ein er bjuggu í Keflavík þeirri er liggur milli Súgandafjarðar og Skálavíkur. Eigi er oss kunnugt um af hverju karl hefir dregið nafn sitt en vera má að það hafi verið fyrir sjósóknir hans því hann var sjósóknarmaður mikill.

Mjög er brimasamt í Keflavík að haustlagi og þó einkum í útvestan átt. Eitt haust gjörir aftaka veður af útvestri og fylgir því brim mikið. Var þá fé þeirra hjóna úti. Kerling, sem var mesti búforkur, talar þá til bónda síns um að gæta fjárins en hann kveður meiri skaða að bát sínum og gekk til sjávar. Hafði þá brimið brotið bátinn.

Kerling reiðist nú mjög og leggur af stað í jötunmóði til þess að gæta fjárins. Og er hún vildi komast fyrir féð, er var í aurskriðum þeim sem Háuskriður heita og eru milli Skálavíkur og Keflavíkur, tekur brimið hana út og andast hún þar.

Karli tekur að leiðast eftir kerlingu og leggur af stað til þess að gæta hennar. Sér hann þá lík kerlingar í brimrótinu og verður honum þá eigi um sel og hyggst að snúa aftur en fer þar sömu förina.[267]

 

Kjarninn í þessari frásögn Mikkalínu Friðriksdóttur er sá að brimið við Háuskriður undir Öskubak hafi hremmt Þórdísi er hún reyndi í fárviðri að ná saman kindum þeirra hjóna og reka þær í hús. Býsna líklegt má telja að hvað þetta varðar sé rétt farið með. Að sögn Mikkalínu varð Leddu-Grími ekki um sel er hann sá lík konu sinnar velkjast í brimrótinu. Sögukonan gefur í skyn að hann hafi ekki bjargað líkinu í land en talið sig sjá það á fleiri en einum stað, sem væntanlega ber að skilja á þá leið að hann hafi óttast að hin sjódauða væri að ganga aftur.

Í prestsþjónustubókinni frá Stað í Súgandafirði er dánardagur fólks jafnan skráður á árunum kringum 1820 og greftrunardagurinn líka.[268] Við nafn Þórdísar Pálmadóttur í Keflavík hefur prestur líka ritað dánardaginn en þar er enginn greftrunardagur nefndur.[269] Sú staðreynd bendir eindregið til þess að ekki hafi tekist að bjarga líkinu sem kemur reyndar alveg heim við þá frásögn Mikkalínu Friðriksdóttur er hér var vitnað til.

Þau mæðgin Mikkalína og Arngrímur, sonur hennar, bæta svo við harmsögu þessa hóflegum skammti af draugagangi eins og vænta mátti og segja að um skeið hafi þótt óverandi í Keflavík fyrir reimleikum.[270] Heyrðust þar oft útburðarvæl og mannasvipir sáust, ritar Arngrímur eftir móður sinni.[271]

Hér hefur áður verið sagt frá hjónunum Markúsi Jónssyni og Guðrúnu Hallsdóttur sem bjuggu lengi í Keflavík á árunum 1807-1827 og stundum í tvíbýli. Sambýlismenn Markúsar, sem um er kunnugt, voru tveir.[272] Sá seinni var Jón Örnólfsson, er áður hefur verið nefndur, sonur Örnólfs Jónssonar og Sigríðar Jónsdóttur sem bjuggu hér í örfá ár undir lok átjándu aldar (sjá hér bls. 18-19). Jón fæddist í Keflavík haustið 1797 og ólst hér upp að miklu leyti hjá hjónunum Þórði Jónssyni og Margréti Hákonardóttur er um skeið voru sambýlisfólk Markúsar og Guðrúnar, konu hans (sjá hér bls. 18-19).

Nítján ára að aldri hóf hann hér búskap í tvíbýli á móti Markúsi Jónssyni og hafði fóstursystur sína, Guðrúnu Þórðardóttur, fyrir bústýru.[273] Hún var þá farin að nálgast fertugt, sögð 23ja ára í manntalinu frá 1801.[274] Í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1817 segir prestur Jón Örnólfsson vera bónda í Keflavík.[275] Þessi ungi maður var þá í raun nítján ára en er sagður 21 árs í nýnefndu sóknarmannatali.[276] Ári síðar var Jón ekki talinn til bænda en í marsmánuði árið 1819 var hann kominn í bændatölu á ný, ef marka má orð prestsins, og bjó þá á jarðarparti hér í Keflavík með bústýru sinni sem fyrr var nefnd.[277]

Á árunum 1817-1819 hefur líklega verið alveg á mörkunum hvort hægt væri að telja Jón Örnólfsson til bænda og í fardögum árið 1819 virðist hann tvímælalaust hafa gefist upp á búskapnum.[278] Vera má að Guðrún, bústýra hans, hafi þá verið orðin veik því er hún dó hér í Keflavík, 43 ára að aldri, þann 12. júní 1821 er hún sögð hafa andast úr langvarandi … sjúkdómi.[279] Undir lokin var hún ómagi.[280]

Haustið 1821 kvæntist Jón Örnólfsson og gekk þá að eiga Ólöfu Hallgrímsdóttur, sem var tvítug að aldri, en foreldrar hennar voru Hallgrímur Lárentíusson og Þórdís sú Pálmadóttir sem brimið hér við ströndina varð að grandi nokkrum mánuðum fyrr.[281] Fardagaárið 1822-1823 var Jón vinnumaður hjá Markúsi bónda Jónssyni í Keflavík[282] en prestur segir Jón og Ólöfu, konu hans, hafa flust frá Keflavík að Álfadal á Ingjaldssandi árið 1823.[283] Jón virðist þó hafa komið til baka sama ár því að í marsmánuði árið 1824 var hann húsmaður í Keflavík.[284] Fardagaárið 1824-1825 voru Jón Örnólfsson og Ólöf Hallgrímsdóttir hér við búhokur í tvíbýli.[285] Þau virðast þá hafa verið barnlaus en hjá þeim var ungur bróðir Ólafar, drengurinn Kristján Hallgrímsson, sem einnig fluttist með þeim á Ingjaldssand[286] (sbr. hér bls. 23). Þau Jón og Ólöf fóru frá Keflavík vorið 1825 og fluttust þá að Efrihúsum í Hestþorpinu í Önundarfirði en seinna bjuggu þau á ýmsum bæjum þar í sveit (sjá hér Garðar).

Við jarðarpartinum sem Jón Örnólfsson hafði búið á tók Borgar Jónsson vorið 1825 og bjó hér í tvö ár á móti Guðrúnu Hallsdóttur, ekkju Markúsar bónda Jónssonar[287] en Markús dó haustið 1825 eins og hér hefur áður verið nefnt. Er Borgar fluttist til Keflavíkur var hann nýlega kvæntur Júdith Brynjólfsdóttur frá Botni í Súgandafirði, sem var seinni kona hans, og hefur áður verið frá þeim sagt í þessu riti (sjá hér Botn, Klúka þar).

Fardagaárið 1827-1828 lá Keflavík í eyði en vorið 1828 fluttust hingað hjón á fimmtugsaldri með börn sín þrjú og tvær tökustúlkur.[288] Bóndi þessi hét Páll Oddsson og kona hans Guðrún Eyjólfsdóttir.[289] Þau komu frá Efstabóli í Önundarfirði og bjuggu hér aðeins í eitt ár en fóru þá að Hvilft í Önundarfirði.[290] Við brottför Páls Oddssonar og fjölskyldu hans féll Keflavík aftur í eyði og hér var engin sála frá 1829 til 1832.[291]

Vorið 1832 hófu tvenn hjón búskap hér í Keflavík.[292] Þar er fyrst að nefna Sigurð Bjarnason og Guðnýju Nikulásdóttur, konu hans, sem komu hingað frá Ytri-Vatnadal en bjuggu síðar alllengi á Norðureyri.[293] Frá þeim hefur áður verið sagt á þessum blöðum (sjá hér Norðureyri) en hér í Keflavík bjuggu þau aðeins í þrjú ár.[294]

Bóndinn sem bjó hér á móti Sigurði Bjarnasyni hét Guðmundur Örnólfsson en báðir hófu þeir hér búskap vorið 1832.[295] Guðmundur fæddist á Ósi í Bolungavík 30. júní árið 1800 og var sonur hjónanna Örnólfs Jónssonar og Sigríðar Jónsdóttur sem áður bjuggu hér í Keflavík í fáein ár[296] (sbr. hér bls. 18-19). Jón Örnólfsson, bróður Guðmundar, hafði líka verið hér við búskap í skamman tíma á árunum kringum 1820 (sjá hér bls. 25-26).

Eiginkona Guðmundar Örnólfssonar hét Guðný Guðmundsdóttir og var hún nokkrum árum eldri en hann, fædd árið 1792 eða því sem næst.[297] Hún var dóttir hjónanna Guðmundar Tómassonar og Hervarar Guðmundsdóttur sem árið 1801 voru vinnuhjú á bænum Hesti í Hestfirði í Eyrarsókn í Ögurþingum.[298] Í febrúarmánuði á því ári var hún þar hjá foreldrunum, talin 9 ára eða á níunda árinu.[299] Nær fullvíst má telja að Guðný hafi fæðst í Eyrarsókn í Ögurþingum eins og fullyrt er í manntalinu frá 1845[300] en í sóknarmannatali frá árinu 1835 er hún sögð hafa fæðst í Árbæ í Bolungavík.[301] Skýringin á þeirri missögn er að öllum líkindum sú að foreldrar Guðnýjar fluttust að Árbæ á árunum upp úr 1800 og áttu þar heima í mörg ár.[302]

Guðmundur Örnólfsson og Guðný Guðmundsdóttir voru gefin saman í hjónaband 18. september 1831 en þau voru þá bæði vinnuhjú á bænum Hestfirði[303] sem stundum var nefndur Hestfjarðarkot og stóð fyrir botni Hestfjarðar við Djúp. Næsta vor fóru þau að búa hér í Keflavík.[304]

Er prestur húsvitjaði í marsmánuði árið 1833 voru tvær dætur Guðmundar og Guðnýjar hér hjá foreldrum sínum, Jóhanna, tveggja ára, fædd á Hvítanesi í Ögursveit 29. desember 1830, og Hervör, sem var á fyrsta ári, fædd hér í Keflavík 23. júní 1832.[305] Næsta sumar bættist Jónína við.[306]

Guðmundur Örnólfsson bjó í Keflavík í sex ár, alltaf eða nær alltaf í tvíbýli.[307] Hann andaðist hér af meinlætum 5. október 1838.[308] Vorið 1834 var bústofn Guðmundar Örnólfssonar ein kýr, einn kálfur, fimm ær og fimm lömb.[309] Hann átti þá hvorki hest né bát.[310] Aðeins skárra var ástandið hjá Sigurði Bjarnasyni, sambýlismanni Guðmundar, sem átti lítinn bát og bjó með eina kú, fimm ær, sex lömb og einn hest.[311] Guðmundur Örnólfsson náði ekki að fjölga kindum sínum hér í Keflavík en undir lokin var hann þó kominn með hest og bát af minnstu gerð.[312] Guðný Guðmundsdóttir, ekkja Guðmundar Örnólfssonar, vék héðan burt vorið 1839 og fór að Norðureyri.[313] Haustið 1845 var hún orðin vinnukona á Hesti í Hestfirði.[314] Jóhanna, dóttir þeirra Guðmundar, var þar hjá henni[315] en hinar dæturnar, sem fyrr hafa verið nefndar, voru önnur á Hafrafelli í Skutulsfirði en hin í Þernuvík í Ögursveit.[316]

Fardagaárið 1836-1837 var Björn Helgason sambýlismaður Guðmundar Örnólfssonar hér í Keflavík.[317] Hann var kvæntur Ástríði Sigfúsdóttur[318] og má vera að þau hafi byrjað búskap sinn hér vorið 1835 þegar Sigurður Bjarnason, sem fyrr var nefndur, fór. Björn hafði áður verið vinnumaður í Keflavík (sjá hér bls. 22). Að þessu sinni voru Björn og Ástríður ekki hér nema í eitt eða tvö ár en komu aftur síðar og voru hér í húsmennsku frá 1844 til 1848.[319] Þá fóru þau að Klúku og hefur áður verið um þau fjallað í riti þessu (sjá hér Botn, Klúka þar).

Er Björn og Ástríður fóru frá Keflavík vorið 1837 komu hingað hjónin Jón Hallsson og Vilborg Þorsteinsdóttir.[320] Þau fengu hálfa jörðina til ábúðar og bjuggu hér í fyrstu á móti Guðmundi Örnólfssyni og Guðnýju Guðmundsdóttur konu hans.[321]

Í sóknarmannatali frá árinu 1839 er Jón Hallsson í Keflavík sagður vera 43ja ára gamall[322] og ætti samkvæmt því að hafa fæðst árið 1796 eða því sem næst. Líklega hefur hann þó verið eitthvað eldri því ætla má að hann sé sá Jón Hallsson sem árið 1801 var hjá foreldrum sínum, þeim Halli Arasyni og Margréti Jónsdóttur, er bjuggu í tvíbýli í Skálavík í Vatnsfjarðarsveit, og er í manntalinu frá því ári sagður vera 9 ára gamall.[323] Enginn annar Jón Hallsson sem skráður er í því manntali getur komið til greina.[324] Þau Jón Hallsson og Vilborg Þorsteinsdóttir, sem hann kvæntist síðar, finnast ekki í manntalinu frá 1816 en skýringin á því getur verið sú að í það manntal vantar að mestu eða öllu leyti skrár yfir íbúa í fimm hreppum innan Ísafjarðarsýslu, það er að segja úr Dýrafirði og þremur hreppum við Djúp.[325]

Í sóknarmannatalinu frá 1839 er Vilborg Þorsteinsdóttir, húsfreyja í Keflavík, sögð vera 33ja ára gömul og fædd í Hagakoti í Ögursveit.[326] Jón Hallsson og Vilborg komu bæði sem vinnuhjú að Stað í Súgandafirði vorið 1833, hann frá Flateyri en hún frá Hjarðardal í Önundarfirði.[327] Þann 24. júní á sama ári voru þau gefin saman í hjónaband á Stað.[328] Næstu ár héldu þau kyrru fyrir þar og voru ýmist vinnuhjú hjá prestinum eða í húsmennsku.[329] Fardagaárið 1836-1837 voru Jón og Vilborg húsfólk á Gelti og þaðan fluttust þau hingað í Keflavík vorið 1837.[330]

Jón Hallsson bjó hér á annarri hálflendunni í fjögur ár, frá 1837 til 1841, en bú hans mun jafnan hafa verið mjög lítið.[331] Haustið 1837 var hann aðeins með eina kú og eina á ef marka má búnaðarskýrslu og engan átti hann bátinn.[332] Þremur árum síðar hafði lítið breyst í búskapnum hjá Jóni því haustið 1840 átti hann bara eina kú og eitt lamb.[333] Börn hans og Vilborgar, konu hans, voru ekki heldur mörg, einn sonur, Guðmundur að nafni, sagður 4 ára í marsmánuði árið 1839.[334] Þá um vorið eignuðust þau dóttur sem gefið var nafnið Margrét en hún andaðist mjög skömmu síðar.[335] Önnur dóttir, sem líka var skírð Margrét, fæddist hér 9. ágúst 1840.[336]

Jón Hallsson bóndi í Keflavík andaðist 26. janúar árið 1842 og ekkja hans, Vilborg Þorsteinsdóttir, fór héðan þá um vorið. Hún var haustið 1845 komin að Sveinhúsum í Vatnsfjarðarsveit.[337] Þar var hún vinnukona og hafði hjá sér dótturina, Margréti Jónsdóttur, er fæddist hér í Keflavík 1840 og fyrr var nefnd.[338]

Vorið 1839 skipti um ábúendur á hinni hálflendunni hér í Keflavík.[339] Guðný Guðmundsdóttir, ekkja Guðmundar Örnólfssonar, vék þá brott en í hennar stað komu hjónin Þorleifur Jónsson og Sigríður Brynjólfsdóttir og hófu hér búskap á móti Jóni Hallssyni og Vilborgu, konu hans.[340] Þau komu frá Svansvík í Vatnsfjarðarsveit við Djúp.[341]

Þorleifur var fæddur 6. desember 1794 á Kroppstöðum í Önundarfirði og var sonur hjónanna Jóns Ásgrímssonar og Guðrúnar Ketilsdóttur er þar bjuggu um skeið en síðar á Hanhóli í Bolungavík.[342] Báðir foreldrar Þorleifs voru fæddir í Önundarfirði.[343]

Haustið 1816 var Þorleifur enn hjá foreldrum sínum á Hanhóli í Bolungavík, á 22. aldursári.[344] Vorið 1828 fluttist hann úr Bolungavík í Súgandafjörð og var fardagaárið 1828-1829 vinnumaður í Selárdal.[345] Þaðan fór Þorleifur með hjónunum Halldóri Eiríkssyni og Þórunni Einarsdóttur að Grafargili í Valþjófsdal vorið 1829.[346] Hann kom aftur í Súgandafjörð vorið 1830 og var eitt ár á Norðureyri en fluttist þaðan vorið 1831 að Miðhúsum í Vatnsfjarðarsveit.[347] Næstu árin mun Þorleifur hafa haldið þar kyrru fyrir eða á öðrum bæjum í sömu sveit og haustið 1835 gekk hann að eiga Sigríði Brynjólfsdóttur sem þá átti heima í Miðhúsum.[348] Presturinn í Vatnsfirði gaf þau saman.[349]

Þessi brúðhjón voru bæði Önfirðingar að uppruna þó að hjónavígslan færi fram í Vatnsfirði.[350] Sigríður var dóttir hjónanna Brynjólfs Brynjólfssonar og Sigríðar Jónsdóttur sem bjuggu lengi í Tungu í Valþjófsdal.[351] Hún fæddist þar 30. maí 1809 og um tvítugsaldur var hún enn í Tungu.[352] Er Sigríður giftist Þorleifi var hún orðin 26 ára en hann stóð þá á fertugu.[353]

Er Þorleifur Jónsson og Sigríður Brynjólfsdóttir fóru að bolloka hér í Keflavík höfðu þau verið gift í nær fjögur ár og með þeim kom hingað úr Vatnsfjarðarsveit ein dóttir.[354] Hún bar nafn móður sinnar og var á fyrsta eða öðru ári.[355] Hér bættist fljótlega annað barn við, sonurinn Guðmundur, sem fæddist 17. mars 1840.[356] Þorleifur náði að búa í Keflavík nokkuð á þriðja ár og virtist prestinum á Stað hann vera tilbærilega að sér.[357]

Hjónin Þorleifur og Sigríður voru fátækt fólk og vonir þeirra um lífslán hér Keflavík rættust ekki. Bústofn þeirra haustið 1840 var ein kýr, þrjár ær, fjögur lömb og einn hestur.[358] Þó að búið væri lítið var það samt heldur stærra en hjá sambýlismanninum, Jóni Hallssyni, sem þá bjó einnig hér í Keflavík og fyrr var frá sagt. Hvorugur þessara bænda átti bát[359] en ætla má að þeir hafi verið í skiprúmi í Skálavík eða í Súgandafirði á vorin.

Þorleifur Jónsson í Keflavík andaðist með sviplegum hætti 28. september 1841[360] og mun þá hafa verið 46 ára gamall. Féll á Galtarfjörum. Slysafall og deyði eftir þrjú dægur, skrifar séra Andrés Hjaltason á Stað í embættisbók sína er hann skráir andlát Þorleifs.[361] Orð prestsins sýna að maðurinn hefur dáið af völdum áverka er hann hlaut við byltu á Galtarfjörum en prestur nefnir ekki hvað byltunni olli. Ljóst virðist að skriðuhlaup eða steinkast úr fjallinu hafi ekki valdið dauða Þorleifs og sú staðreynd að hann tórði í þrjú dægur eftir slysið bendir til þess að hann hafi komist til bæjar, með hjálp eða hjálparlaust.

Enginn veit nú hvort Þorleifur var einn á ferð er hann hlaut þá áverka sem drógu hann til dauða en hviksögur, sem seinna komust á prent, benda til þess að svo hafi ekki verið. Kristján G. Þorvaldsson ritar:

 

Það var í september 1841 að annar bóndinn í Keflavík fór vestur að Gelti. Kom hann heim um kvöldið og gat hann ekki talað svo skildist og var mjög meiddur á höfði. Lifði hann nokkra daga en gat aldrei skýrt frá, hvernig hann hefði meiðst. Bókað var að maðurinn hefði dáið af slysförum en grunur féll á að menn hefðu valdið slysinu og var haldið að piltar tveir á Gelti ættu sök á því. Mun það hafa verið að nokkru ráðið af því sem maðurinn reyndi að segja. Piltarnir voru bræður, Guðmundur og Ívar Jónssynir.[362]

 

Þarna er nafn Þorleifs ekki nefnt en augljóst er að sagan snýst um hann því árið passar og mánuðurinn reyndar líka. Því miður nefnir Kristján ekki heimildarmenn sína að þessari sögu en slíkt hefði þó verið við hæfi þegar nafngreindir menn eru sakaðir um manndráp eða jafnvel morð. Að gefnu tilefni skal tekið fram að ekkert finnst um mál þetta í dómabók frá árunum 1841 til 1845[363] og má því telja víst að bræðurnir á Gelti hafi aldrei verið ákærðir. Annað mál er það að hviksagan hefur læðst með húsum eða flogið um sveitir og fullvíst að Kristján G. Þorvaldsson, sem var vandaður maður, hefur ekki búið hana til. Líklegasti heimildarmaður hans er Guðlaug Sigmundsdóttir sem átti heima í Selárdal er Kristján var að alast þar upp og dó 87 ára gömul 13. desember 1899 þegar hann var á nítjánda árinu (sjá hér Botn og Selárdalur). Guðlaug átti líka heima í Selárdal þegar Þorleifi Jónssyni skruppu fætur á Galtarfjörum og var þá þegar komin fast að þrítugu.[364] Seinna var hún sjálf húsfreyja í Keflavík í fjögur ár, frá 1852 til 1856,[365] og aðeins liðin rösklega tíu ár frá andláti Þorleifs er hún settist hér að. Margir aðrir en Guðlaug gætu reyndar hafa sagt Kristján G. Þorvaldssyni frá feigðarför Þorleifs bónda um Galtarfjörur haustið 1841 en vegna búsetu Guðlaugar í Keflavík má telja líklegt að nafn Þorleifs og hin sviplegu endalok hans hafi komið oftar upp í hugann hjá henni en flestum öðrum sem á lífi voru undir lok nítjándu aldar.

Ólíklegt verður að telja að sagan sem Kristján G. Þorvaldsson skráði og hér var birt hafi verið skálduð upp seint og um síðir en hitt miklu líklegra að grunsemdir um að bræðurnir á Gelti hafi orðið Þorleifi að bana hafi kviknað strax sama haustið og hann andaðist. Enginn rökstuðningur liggur hins vegar fyrir varðandi þessar grunsemdir og því aðeins um óljósan orðasveim að ræða sem ekkert mark er takandi á.

Bræðurnir, sem að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar voru grunaðir um að hafa orðið Þorleifi Jónssyni að bana, voru synir Kristjönu Jónsdóttur sem haustið 1841 var húsfreyja á Gelti, gift Hallgrími Lárentíussyni.[366] Kristjana var seinni kona Hallgríms og hann seinni maður hennar því bæði höfðu verið gift áður (sjá hér bls. 23-25 og Göltur). Haustið 1841 var Guðmundur Jónsson á Gelti 22ja ára gamall en Ívar, bróðir hans, aðeins 13 ára.[367] Báðir fluttust þeir bræður með móður sinni frá Gelti að Grafargili í Valþjófsdal í Önundarfirði vorið 1845[368] en aðra hálflenduna þar hafði Hallgrímur, stjúpfaðir þeirra, gefið Kristjönu móður þeirra (sjá hér Göltur). Guðmundur Jónsson gerðist bóndi á Grafargili vorið 1846 eða 1847. Hann bjó þar lengi og síðan niðjar hans (sjá hér Grafargil).

Ívar Jónsson, sem hér var nefndur, kvæntist aldrei en eignaðist tvo syni sem báðir urðu skammlífir.[369] Barnsmæður hans voru Þuríður Markúsdóttir, er seinna varð eiginkona Guðmundar Guðmundssonar, sem bjó lengi í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði og seinna í Bæ í Súgandafirði, og Rannveig Ólafsdóttir er varð seinni kona Jóns Halldórssonar, bónda og hreppstjóra á Kirkjubóli í Skutulsfirði[370] (sbr. hér Neðri-Breiðadalur og Bær). Drengurinn sem Ívar eignaðist með Þuríði fæddist árið 1853.[371] Hann var skírður Benedikt og dó sama ár og hann fæddist.[372] Sonur Ívars og Rannveigar fæddist 16. júní 1857.[373] Pilti þessum var gefið hið sérkennilega nafn Aðalnam en hann dó á Kirkjubóli í Skutulsfirði 10. nóvember 1859.[374] Ívar Jónsson náði háum aldri og var mjög lengi vinnumaður í Mosdal í Önundarfirði.[375] Þar andaðist hann 23. mars 1906 og var þá blindur sveitarómagi.[376]

Í frásögn sinni af banaslysinu á Galtarfjörum haustið 1841 lætur Kristján G. Þorvaldsson þess getið að kunnugt sé um tvo menn sem þar hafi slasast en aðeins þetta eina banaslys.[377] Hann gerir enga nánari grein fyrir hinu slysinu en vera má að hann hafi haft í huga frásögn Eyrarannáls frá árinu 1661 (sjá hér Göltur).

Sambýlismennirnir Jón Hallsson og Þorleifur Jónsson í Keflavík féllu báðir frá með snöggum hætti árið 1841 og varð skammt á milli þeirra.[378] Þeir voru á góðum aldri og ýmsir, sem ekki trúðu hviksögunni um manndráp, munu hafa talið að hér væru reimleikar á ferð. Mikkalína Friðriksdóttir, sem fluttist barn að aldri með foreldrum sínum til Keflavíkur nær aldarfjórðungi síðar, heyrði um þetta talað[379] (sbr. hér bls. 24-25). Í huga sér tengdi hún sviplegan dauða bændanna tveggja árið 1841 við afturgöngu Þórdísar Pálmadóttur, húsfreyju í Keflavík, sem brimið undir Öskubak hremmdi árið 1821 og hér var áður frá sagt.[380] Á sínum síðari æviárum ræddi hún um þessi efni við son sinn, Arngrím Fr. Bjarnason á Ísafirði, sem kom orðum hennar á prent.[381] Segir þar svo:

 

Nokkur ár á eftir [þ.e. eftir 1821 – innsk. K.Ó.] var víkin í eyði en með því að landkostir eru góðir, þótt afskekkt sé, fýsti menn þangað. Var þar tvíbýli í fyrstu en þó þótti þar óverandi fyrir reimleika og urðu báðir fyrstu búendurnir bráðkvaddir og hugðu menn það almennt af völdum þeirra hjóna.[382] (Sbr. hér bls. 23-25).

 

Margt er brenglað við þessa sögu, m.a. það að sögukonan hefur greinilega talið að eiginmaður Þórdísar Pálmadóttur, Hallgrímur Lárentíusson, sem hún nefnir Leddu-Grím, hafi verið dauður og genginn aftur haustið 1841 en hann var þá reyndar á lífi og dó ekki fyrr en tveimur árum síðar (sjá hér Göltur). Augljóst er þó að sambýlismennirnir í Keflavík, sem Mikkalína segir báða hafa dáið snögglega, geta engir aðrir hafa verið en Jón Hallsson og Þorleifur Jónsson og jafn víst er hitt að afturgengnu hjónin í sögu hennar eru þau Hallgrímur og Þórdís (sbr. hér bls. 23-25).

Er Þorleifur bóndi Jónsson andaðist af sárum sínum haustið 1841 stóð ekkja hans, Sigríður Brynjólfsdóttir, uppi með börn þeirra tvö sem þá voru bæði innan við fimm ára aldur.[383] Hún brá búi vorið 1842 en dvaldist áfram í Suðureyrarhreppi næstu árin.[384] Haustið 1845 var hún vinnukona í Botni en fluttist árið 1848 ásamt syni sínum, Guðmundi Þorleifssyni, sem þá var 8 ára gamall, frá Gilsbrekku að Meiri-Bakka í Skálavík.[385] Hann varð seinna kunnur formaður í Bolungavík og þótti laginn og farsæll sjósóknari.[386]

Guðmundur fluttist ungur til Bolungavíkur og átti þar heima til ársins 1875 en síðan í Unaðsdal á Snæfjallaströnd.[387] Sigríður Brynjólfsdóttir, ekkja Þorleifs Jónssonar í Keflavík, dó hjá þessum syni þeirra í Unaðsdal 24. febrúar 1893.[388] Guðmundur var þríkvæntur.[389] Tvær af konum hans voru systur og auk þess eignaðist hann barn með þriðju systurinni.[390] Systur þessar voru dætur hjónanna Jóns Guðmundssonar og Þóru Árnadóttur á Hóli í Bolungavík.[391] Börn Guðmundar Þorleifssonar urðu áður en lauk ekki færri en tíu[392] og mun niðjahópur hans nú vera orðinn býsna fjölmennur.

Piltur þessi, sem fæddist í örbirgð hér í Keflavík og missti ungur föður sinn með voveiflegum hætti, náði síðar að komast í álnir. Í manntalinu frá 1901 er hann sagður vera óðalsbóndi í Unaðsdal.[393] Þar dó hann 30. júlí 1908.[394]

Er ekkjurnar tvær, Vilborg Þorsteinsdóttir (sjá hér bls. 28-29) og Sigríður Brynjólfsdóttir, fóru frá Keflavík vorið 1842 féll jörðin í eyði.[395] Hún byggðist þó aftur vorið 1844 en þá fluttust hingað frá Gelti hjónin Níels Jónsson og Kristín Þorkelsdóttir.[396] Þau voru orðin roskin er þau færðu sig hingað en höfðu áður búið um alllangt skeið á Norðureyri og svo á Gelti (sjá hér Norðureyri og Göltur). Hér í Keflavík stóðu hjón þessi fyrir búi í sex ár, frá 1844 til 1850, en Níels bóndi andaðist 5. júní 1850.[397] Á þessum árum höfðu þau alla jörðina til ábúðar[398] en önnur fjölskylda var hér í húsmennsku frá 1844 til 1848 (sjá hér bls. 28).

Sonur Níelsar Jónssonar og Kristínar Þorkelsdóttur hét Níels Níelsson og tók hann við búsforráðum hér í Keflavík sumarið 1850, að föður sínum látnum.[399] Níels yngri var þá 23ja ára gamall.[400] Í allri sögu Keflavíkurbænda og þeirra fólks frá árunum 1784 til 1900 mun þetta vera eina dæmið um að sonur tæki hér við búi af föður[401] en Níels Níelsson bjó reyndar aðeins eitt ár í Keflavík.[402] Hann var þá ókvæntur en hafði sér við hönd, sem vinnukonu, Guðfinnu Markúsdóttur er þá var 36 ára gömul.[403] Hún var yngsta dóttir hjónanna Markúsar Jónssonar og Guðrúnar Hallsdóttur sem bjuggu áður hér í Keflavík.[404] Með Guðfinnu hafði hann eignast drenginn Finn Níelsson sem fæddist 9. desember 1849 og var hér hjá foreldrum sínum í janúar 1851, þá eins árs að aldri.[405] Hér voru þá líka tvö eldri börn.[406] Annað þeirra var dóttir Guðfinnu, Svanhvít, sem fæddist hér 12. maí 1845, en faðir hennar var Björn Helgason er var húsmaður í Keflavík frá 1844 til 1848.[407]

Bústofn Níelsar Níelssonar sumarið 1850 var 2 kýr, 16 ær, 6 sauðir og hrútar, 14 gemlingar, 16 lömb og 1 hestur.[408] Hann átti þá líka lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far[409] og má ætla að allt þetta hafi hann fengið að erfðum eftir föður sinn.

Vorið 1851 fór Níels Níelsson frá Keflavík og gerðist bóndi á Hanhóli í Bolungavík.[410] Ekki fylgdi Guðfinna honum þangað en í hennar stað réð hann til sín kornunga stúlku, sem hét Sigríður Halldórsdóttir, og er þessi ráðsstúlka hans sögð 17 ára gömul er þau gengu í hjónaband 24. september 1851.[411] Árið 1855 voru þau farin að búa á Meiri-Bakka í Skálavík og í manntali frá 1. október á því ári má sjá að Sigríður var fædd í Eyrarsókn í Skutulsfirði.[412] Líklega er hún sú Sigríður Halldórsdóttir sem tíu árum fyrr var 12 ára stúlkubarn hjá foreldrum sínum í Ytrihúsum í Arnardal við Skutulsfjörð.[413] Níels Níelsson og Sigríður kona hans bjuggu síðar á Breiðabóli í Skálavík.[414] Saman eignuðust þau að minnsta kosti þrjá syni, Níels, Kristján og Pétur.[415] Sá elsti þeirra mun hafa fæðst sama ár og foreldrar hans gengu í hjónaband.[416]

Drengurinn Finnur Níelsson, sem fyrr var nefndur og Níels Níelsson í Keflavík eignaðist með Guðfinnu Markúsdóttur í desembermánuði árið 1849, var um skeið niðursetningur í Selárdal en þaðan fór hann, 9 ára gamall, árið 1859 norður í Skálavík til föður síns.[417]

Á árunum milli 1860 og 1870 missti Níels Níelsson frá Keflavík konuna og var haustið 1870 ekkjumaður í húsmennsku á Grundarhóli í Bolungavík.[418] Hann drukknaði niður um ís við ós Seljalandsár í Skutulsfirði á afmælisdaginn sinn 18. janúar 1873 og var þá 46 ára gamall.[419]

Fardagaárið 1851-1852 var Keflavík í eyði en vorið 1852 hófu hér búskap hjónin Einar Brynjólfsson og Guðlaug Sigmundsdóttir og bjuggu þau hér í fjögur ár.[420] Frá Einari og Guðlaugu hefur áður verið sagt í þessu riti og skal til þess vísað (sjá hér Botn og Selárdalur). Þau komu hingað frá Botni með börn sín þrjú og hjá þeim var líka um tíma, hér í Keflavík, dóttir Guðlaugar, Signý Gissurardóttir, er hún hafði eignast árið 1833 með þáverandi húsbónda sínum, Gissuri Einarssyni í Selárdal.[421]

Vorið 1856 féll Keflavík enn einu sinni í eyði en byggðist á ný vorið 1857.[422] Þá fluttust hingað hjónin Jón Sakaríasson og Guðrún Þórðardóttir sem áður höfðu búið í Miðdal í Bolungavík.[423] Í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1858 er Jón bóndi í Keflavík sagður vera 32ja ára en Guðrún, kona hans, 28 ára.[424] Þau Jón og Guðrún höfðu með sér eitt barn er þau fluttust hingað til Keflavíkur, soninn Þórarin er þá var um þriggja ára aldur.[425] Með þeim kom líka einn sér húsmaður, sem hét Jóst Jóstsson, en sá var þá um fertugsaldur.[426] Jóst þessi var árið 1845 bóndi á Geirastöðum í Bolungavík og var þá kvæntur maður.[427] Þar var þá hjá honum faðir hans sem líka hét Jóst Jóstsson.[428] Í Keflavík var Jóst yngri aðeins í tvö ár en hjónin Jón Sakaríasson og Guðrún Þórðardóttir bjuggu hér í fimm ár, frá 1857 til 1862.[429]

Jón mun hafa verið fæddur í Vatnsfjarðarseli í Reykjafjarðarhreppi við Djúp 30. apríl 1826[430] en árið 1845 var hann orðinn vinnumaður á Breiðabóli í Skálavík í Hólshreppi.[431] Eiginkona Jóns Sakaríassonar, Guðrún Þórðardóttir, fæddist í Þjóðólfstungu í Bolungavík 21. maí 1831 og var dóttir hjónanna Þórðar Vilhjálmssonar og Sesselju Guðmundsdóttur sem þá voru þar vinnuhjú.[432] Haustið 1845 var Guðrún hjá föður sínum sem þá var orðinn ekkjumaður og átti heima á Hóli í Bolungavík.[433] Hann var þá jarðnæðislaus og lifði á fiskveiðum.[434]

Bú Jóns Sakaríassonar og Guðrúnar, konu hans, hér í Keflavík mun jafnan hafa verið lítið. Vorið 1860 bjuggu þau með eina kú, sex ær, sex gemlinga og einn hest.[435] Þau áttu þá líka lítinn bát.[436] Árið 1862 fengu hjón þessi ábúð á Norðureyri og færðu sig þangað þá um vorið.[437] Þar voru þau aðeins í tvö eða þrjú ár við búskap en viðloðandi fram á árið 1866.[438] Þann 17. júní á því ári andaðist Guðrún og var þá 45 ára að aldri.[439] Kona úr Keflavík, skrifar prestur, er hann færir andlát hennar til bókar, en þá voru reyndar liðin fjögur ár frá því hún fór héðan að Norðureyri.[440] Óljóst er hvar Guðrún dvaldist síðasta árið sem hún lifði en fyrir liggur að eiginmaður hennar fluttist frá Norðureyri til Bolungavíkur árið 1866, sama ár og hann missti konuna.[441]

Jón Sakaríasson kvæntist skömmu síðar í annað sinn og gekk þá að eiga ekkjuna Guðrúnu Hallgrímsdóttur sem fædd var 27. febrúar 1833.[442] Þau bjuggu haustið 1870 í Miðdal í Bolungavík og hjá þeim var þá María Petrína, dóttir Jóns frá hans fyrra hjónabandi, en stúlkan sú fæddist á Norðureyri 19. desember 1862.[443] Öll þrjú voru þau enn í Miðdal haustið 1880[444] en árið 1901 voru Jón og Guðrún, kona hans, komin á Bolungavíkurmalir og áttu þar heima í Jónsbæ.[445] Haustið 1906 varð Jón Sakaríasson ekkjumaður í annað sinn og sjálfur andaðist hann 18. september 1907.[446]

Á þeim árum sem Jón Sakaríasson og fyrri kona hans bjuggu í Keflavík voru hér um skeið tvær fjölskyldur.[447] Hingað komu vorið 1859 hjónin Gunnar Bjarnason og Ingibjörg Ebenezersdóttir.[448] Hann var þá á sextugsaldri en hún innan við fimmtugt.[449] Þau voru hér í húsmennsku í eitt ár en fóru síðan að Minni-Bakka í Skálavík og voru húsfólk þar er manntal var tekið haustið 1860.[450] Í því manntali sést að Gunnar þessi var fæddur í Hjarðarholtssókn í Dalasýslu og mun hann vera sá Gunnar Bjarnason sem árið 1816 var á Vígholtsstöðum í þeirri sókn, sagður 10 ára gamall, hjá foreldrum sínum, Bjarna Tómassyni og Guðfinnu Egilsdóttur.[451] Árið 1845 var Gunnar kominn vestur í Dýrafjörð og var þar einhleypur vinnumaður í Fremri-Hjarðardal, talinn fertugur að aldri og sagður fæddur í Skarðssókn í Dalasýslu.[452] Sú staðhæfing mun þó vera röng því að í manntalinu frá 1816 er hann sagður fæddur á Vígholtsstöðum í Hjarðarholtssókn[453] og í manntalinu frá 1860 er hann líka sagður fæddur í Hjarðarholtssókn eins og fyrr hefur verið nefnt.

Haustið 1850 kvæntist Dalamaður þessi ráðskonu sinni, sem þá var, Ingibjörgu Ebenezersdóttur, en þau voru þá búsett í verslunarstaðnum á Skutulsfjarðareyri þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður.[454] Þar voru þau enn fimm árum síðar.[455] Í manntölum frá 1855 og 1860 er tekið fram að Ingibjörg þessi sé fædd í Grunnavíkursókn.[456] Hverra manna hún var er reyndar ekki unnt að fullyrða því að í prestsþjónustubókunum frá Grunnavík er stór eyða. Hitt liggur fyrir að árið 1816 var hún tökubarn í Höfn í Hornvík, talin 5 ára og sögð fædd í Grunnavíkursókn.[457] Hún var þar hjá hjónunum Þorsteini Stefánssyni og Kristínu Bjarnadóttur[458] og hjá þeim var hún enn á sama bæ er hún fermdist vorið 1824.[459] Við fermingu Ingibjargar eru þau Þorsteinn og Kristín sögð vera fósturforeldrar hennar og hún var þá talin fædd árið 1810.[460]

Tíu árum eftir ferminguna var Ingibjörg Ebenezersdóttir vinnukona á Dynjanda í Jökulfjörðum og eignaðist þá dreng með Vagni Ebenezerssyni, kvæntum bónda sem þar bjó.[461] Sá piltur fæddist 1. október 1834 og var skírður Otúel.[462] Haustið 1855 var hann hjá móður sinni og eiginmanni hennar, Gunnari Bjarnasyni, á Skutulsfjarðareyri.[463] Í manntalinu frá því hausti er þessi ungi maður sagður vera lausamaður er lifi á sjávarafla.[464] Otúel Vagnsson varð síðar víðkunn skytta og er margar sögur að finna af honum í Vestfirskum sögnum.[465] Hann var löngum búsettur á Snæfjallaströnd, var þar um tíma á Skarði en seinna á Snæfjöllum og á Berjadalsá.[466]

Óvíst er hvort Otúel hefur heimsótt Ingibjörgu móður sína árið sem hún var í Keflavík en þremur árum fyrr var hann heimilismaður hjá henni eins og nefnt hefur verið.

Í Keflavík voru Ingibjörg Ebenezersdóttir og Gunnar Bjarnason aðeins í eitt ár, fardagaárið 1859-1860, og fóru héðan að Minni-Bakka í Skálavík[467] en þau komu aftur í Suðureyrarhrepp fáum árum síðar og voru þurrabúðarfólk í Keravíkurbæ fardagaárið 1863-1864.[468] Sá bær var áður nefndur Bakkakot og var hjáleiga frá Stað (sjá hér Staður, Bakkakot þar).

Þau Gunnar og Ingibjörg voru ekki eina tómthúsfólkið sem hafðist við hér í Keflavík á árunum kringum 1860. Við brottför þeirra vorið 1860 komu hingað önnur hjón og settust að í þurrabúð. Þau hétu Kristján Sigurðsson og Gunnhildur Þorleifsdóttir og voru með þrjú börn á aldrinum 1 – 5 ára.[469] Þau stöldruðu hér við í eitt ár.[470] Kristján þessi er sagður 29 ára gamall haustið 1860 en Gunnhildur tíu árum eldri.[471] Hann var fæddur í Lónssókn undir Jökli[472] og var 14 ára tökupiltur á Munaðarhóli þar í grennd haustið 1845.[473] Gunnhildur var líka langt að komin, fædd í Múlasveit við Breiðafjörð[474] og var haustið 1845 vinnukona í Fremri-Gufudal í Gufudalssveit.[475] Hún var þá talin 22ja ára.[476] Þau Kristján og Gunnhildur komu hingað frá Laugabóli í Ísafirði vorið 1860 en fluttust einu ári síðar að Fremri-Arnardal við Skutulsfjörð.[477]

Við brottför Kristjáns og Gunnhildar frá Keflavík vorið 1861 komu hingað frá Breiðabóli í Skálavík hjónin Jón Vigfússon og Guðný Einarsdóttir.[478] Þetta var roskið fólk og er Jón sagður 53ja ára gamall í marsmánuði árið 1862 en Guðný 61 árs.[479] Með hjónum þessum kom liðlega tvítugur sonur þeirra, Sveinn að nafni, og tvær systur Guðnýjar.[480] Jón Vigfússon var úr Nauteyrarhreppi og var ókvæntur vinnumaður á Ármúla, þar í sveit, haustið 1845.[481] Guðný Einarsdóttir, sem hann kvæntist síðar, var þá matbústýra hjá Engilbert Hallssyni, fráskildum bónda á Strandseljum í Ögursveit.[482] Þau Jón og Guðný höfðu þá þegar eignast soninn Svein, sem fluttist með þeim hingað í Keflavík vorið 1861 og fyrr var nefndur. Hann var haustið 1845 tökubarn á Skarði á Snæfjallaströnd, sagður 6 ára gamall.[483] Drengur þessi mun hafa fæðst í Eyrarsókn í Ögurþingum við Djúp[484] en Guðný móðir hans var fædd í Fellssókn í Strandasýslu.[485] Í desembermánuði árið 1816 var hún hjá foreldrum sínum í Litla-Fjarðarhorni í sömu sókn, talin 13 ára og sögð fædd í Steinadal þar í Kollafirði.[486]

Þau Jón Vigfússon og Guðný Einarsdóttir höfðust hér aðeins við í eitt ár, fardagaárið 1861-1862, og töldust þá búa hér í tvíbýli á móti Jóni Sakaríassyni, sem fyrr var frá sagt, og Guðrúnu, konu hans.[487] Allt þetta fólk fór frá Keflavík vorið 1862. Jón Sakaríasson hóf þá búskap á Norðureyri (sjá hér Norðureyri) og Jón Vigfússon fór þangað líka.[488] Hann og kona hans voru þar í húsmennsku næsta fardagaár en hurfu síðan á braut.[489] Haustið 1870 var Guðný Einarsdóttir, kona Jóns Vigfússonar, orðin ekkja.[490] Hún var þá þurfakelling á Breiðabóli í Skálavík[491] og í manntalinu frá 1870 er enn tekið fram að hún sé fædd í Bitruhreppi[492] en í þeim hreppi voru á fyrri tíð allir bæir í Bitrufirði og Kollafirði nema Kollafjarðarnes.[493]

Fardagaárin 1862-1863 og 1863-1864 lá Keflavík í eyði og vera má að svo hafi einnig verið næsta ár því sóknarmannatal og búnaðarskýrslu vantar frá haustinu 1864.[494] Nýtt fólk settist hér hins vegar að eigi síðar en 1865 og voru það hjónin Friðrik Axel Axelsson og Helga Guðmundsdóttir sem frá 1861 til 1864 (eða 1865) höfðu verið í húsmennsku á Keravíkurbökkum,[495] hjáleigu niður við sjó í landi Staðar í Súgandafirði (sjá hér Staður, Bakkakot þar).

Friðrik Axel Axelsson var frá Múla á Skálmarnesi við Breiðafjörð, eitt átta barna hjónanna Axels Friðriks Þórólfssonar og Ástríðar Sveinsdóttur, sem þar bjuggu lengi, og það eina sem komst upp.[496] Foreldrar hans voru systrabörn og áttu bæði fyrir afa Eggert Ólafsson í Hergilsey en hann reisti þar byggð fyrstur manna á síðari öldum.[497] Axel Friðrik, bóndi á Skálmarnesmúla, faðir Friðriks Axels, ólst að miklu leyti upp í Skáleyjum á Breiðafirði, hjá hálfsystur sinni, Ástríði Guðmundsdóttur, og eiginmanni hennar, Einari Ólafssyni,[498] en þau voru foreldrar séra Guðmundar á Kvennabrekku og Þóru í Skógum, móður séra Matthíasar Jochumssonar.

Friðrik Axel fæddist á Skálmarnesmúla 19. janúar 1828 og átti þar heima fram yfir tvítugt.[499] Við fermingu drengsins vorið 1841 segir prestur að hann kunni og skilji allvel og sé vel vaninn.[500] Friðrik Axel Axelsson kvæntist Helgu Guðmundsdóttur haustið 1850 en hún var bóndadóttir frá Skálavík í Vatnsfjarðarsveit, fædd árið 1821 eða því sem næst.[501] Foreldrar Helgu voru hjónin Guðmundur Þorgilsson og Margrét Gissurardóttir, sem bjuggu lengi í Skálavík, en Þorgils Jónsson, afi Helgu, var bóndi í Botni í Súgandafirði og dó þar árið 1790[502] (sbr. hér Botn).

Fardagaárið 1851-1852 voru Friðrik Axel og Helga kona hans á Þverá, kotbýli í landi Brjánslækjar á Barðaströnd, og þar mun elsta barn þeirra hafa fæðst.[503] Í janúarmánuði árið 1854 voru þau komin að Hesti í Hestfirði við Djúp og fluttust á því ári eða hinu næsta að Saurum í Álftafirði[504] en jarðirnar Hestur og Saurar eru báðar í Súðavíkurhreppi. Á Saurum bjó fjölskylda þessi í allmörg ár en fór þaðan í Súgandafjörð vorið 1861 og kom þá frá Neðri-Saurum.[505] Þau settust þá að í þurrabúð á Keravíkurbökkum í landi Staðar, eins og fyrr var nefnt,[506] en hreysið sem þar stóð var ýmist nefnt Bakkakot, Keravíkurbær eða Keravíkurbakkar (sjá hér Staður, Bakkakot þar). Þarna á Bökkunum hafði tómthúsfólk hafst við á árunum 1858-1861 og líka stöku sinnum á árunum kringum 1800 (sjá hér Staður, Bakkakot þar) en Friðrik Axel og Gunnar Bjarnason, sem fyrr var nefndur og áður var í Keflavík, voru síðustu tómthúsmennirnir er reyndu að draga þar fram lífið.[507]

Friðrik Axel og hans fólk hírðist á Keravíkurbökkum í þrjú eða fjögur ár og Helga Guðmundsdóttir, eiginkona Friðriks, ól þar tvö börn sem bæði dóu á fyrsta ári.[508] Áður höfðu þau hjónin eignast fimm börn og af þeim lifðu fjögur.[509] Þrjú þeirra munu jafnan hafa fylgt foreldrunum en ein dóttir, Guðrún að nafni, ólst að mestu eða öllu leyti upp á Hjöllum í Skötufirði fram til 10 ára aldurs en tíu eða ellefu ára kom hún til foreldra sinna í Keflavík og var hjá þeim næstu árin.[510] Yngsta barn þessara hjóna, dóttirin Kristín, fæddist svo hér í Keflavík 18. janúar 1866 ef marka má skráningu prestsins.[511]

Friðrik Axel bjó í Keflavík í fimm eða sex ár, frá 1864 eða 1865 til 1870.[512] Í fardögum árið 1866 var bústofn hans þessi, ef marka má opinbera skýrslu: 14 ær, 9 gemlingar og 1 hestur.[513] Bóndi þessi í Keflavík var þá kýrlaus en átti lítinn bát.[514] Öll börn Friðriks Axels sem lifðu voru hér hjá foreldrum sínum í marsmánuði árið 1867.[515] Þau voru: Guðmundur, fæddur 4. ágúst 1851, Guðrún, fædd 4. janúar 1854, Mikkalína, fædd 10. október 1858, María, fædd 10. maí 1860, og Kristín, fædd 18. janúar 1866 að sögn viðkomandi sóknarprests en taldi sjálf að hún væri fædd 10. desember 1865.[516]

Valdimar Þorvaldsson, sem fæddist í Selárdal í Súgandafirði árið 1878 og ólst þar upp, heyrði snemma rætt um Friðrik Axel og segir að á árunum 1860-1870 hafi hann verið einn þeirra þriggja manna í Suðureyrarhreppi sem best kunnu að fara með byssu og skutu bæði sel og tófu.[517] Hinir tveir voru, að sögn sama heimildarmanns, Þorvaldur Gissurarson í Selárdal og Sigurður Þorleifsson á Laugum.[518]

Finnbogi Bernódusson í Bolungavík kunni líka að segja frá veiðiskap Friðriks Axels og ritar á þessa leið:

 

Dag einn var Friðrik að líta eftir kindum sínum í fjörunni neðan við Keflavíkurbakka. Sér hann þá feiknamikinn útsel liggja þar uppi á klöpp einni og virtist hann sofa allfast. Kemur nú veiðihugur mikill í Friðrik og tekur hann að læðast til selsins með mikilli varkárni. Ekki hafði Friðrik annað vopn en sjálfskeiðung sinn. Smáþokar hann sér nær selnum, hávaðalaust, þar til hann er kominn fast að klöppinni en þá rís hann upp og varpar sér yfir selbáknið og bregður hnífnum á háls þess. Seltröllið brá við hart og byltist niður af klöppinni. Tók selurinn Friðrik með sér í fallinu og reyndi að brölta til sjávar en Friðrik var ekki á því að sleppa bráðinni og lafði á dólginum eftir mætti og veitti honum fleiri sár. Smádró af selnum því að blóðrás mæddi hann fast. Lauk þeirra viðskiptum svo að Friðrik bar sigur af hólmi. Fló hann selinn og fékk varla valdið húðinni til bæjar. Limaði svo sundur skrokkinn og var það mikill matforði en húðin klæddi allt skemmuþilið. Allmikið var Friðrik skrámaður og lerkaður eftir viðureign þessa.[519]

 

Frá selveiðum Friðriks Axels segir Kristján G. Þorvaldsson í Súgandafirði svo:

 

Friðrik Axel bjó í Keflavík 1865-1870. Hann var ættaður frá Breiðafirði og hafði vanist uppidrápi sela. Hann var hraustmenni, kraftamaður mesti og mikill dugnaðarmaður. Í Keflavík var mikið um sel, lá oft uppi á svonefndu Selskeri, rétt hjá lendingunni, en út í það mátti ganga um fjörur. Honum kom í hug að reyna uppidrápið með öðrum hætti en hann hafði vanist.

Breiðfirðingar notuðu barefli og einn sem ég talaði við hafði járnkarl. Friðrik notaði gogg. Hann lagðist á skerið og beið þess að selirnir legðust upp. Stökk þá að þeim sem næstur var og keyrði gogginn í haus hans svo í heila stóð. Þetta lánaðist vel en lá þó við eitt sinn að yrði hans bani og selurinn færi með hann í sjóinn. Mér var sagt að hann hefði bundið gogginn við sig með snæri og í þetta sinn mistókst honum að drepa selinn, sem þá kippti goggnum úr hendi hans, en það varð honum til bjargar að ná í trausta nibbu að halda sér um og toguðust þeir svo á þar til snærið sargaðist á skerinu og slitnaði. Síðar batt hann gogginn við stein á skerinu.[520]

 

Ætla má að selveiðar hafi verið stór þáttur í fæðuöflun Friðriks Axels er hann bjó í Keflavík og líka þegar hann var á Keravíkurbökkum.

Helga Guðmundsdóttir, húsfreyja í Keflavík, andaðist 4. júlí 1869 og var þá 48 ára gömul eða því sem næst.[521] Börn þeirra Friðriks voru þá á aldrinum 3ja – 18 ára og öll hér heima hjá föður sínum.[522] Er Friðrik Axel missti konuna fékk hann sér vinnukonu og bjó áfram í Keflavík til vorsins 1870 en fluttist þá að Breiðabóli í Skálavík í Hólshreppi.[523] Stúlkan sem gerðist vinnukona hér í Keflavík sumarið 1869 hét Ólöf Pálmadóttir og var frá Ósi í Bolungavík.[524] Hún var þá liðlega þrítug. [525] Ólöf fluttist með Friðriki og börnum hans til Skálavíkur vorið 1870.[526] Með Ólöfu eignaðist Friðrik Axel þrjá syni og kom sá elsti þeirra undir hér í Keflavík haustið 1869.[527] Tveir þessara drengja komust upp og var annar þeirra Jón Friðriksson[528] á Hreggnasa í Bolungavík sem Finnbogi Bernódusson segir að hafi verið rammur að afli og getað tekið á herðar sér þyngri byrðar en flestir aðrir Bolvíkingar sem honum voru samtíða.[529]

Vorið 1875 gerðist Friðrik Axel vinnumaður hjá Finni Magnússyni á Hvilft í Önundarfirði og fluttist þangað búferlum frá Breiðabóli í Skálavík.[530] Dvöl hans á Hvilft varð hins vegar skemmri en að var stefnt því hann drukknaði, 47 ára gamall, 28. júní 1875 og var jarðaður í Holti 28. júlí sama ár.[531] Sama dag og Friðrik Axel drukknaði fórst einnig í sjó Ásmundur Pálmason úr Skálavík, bróðir Ólafar Pálmadóttur, barnsmóður og ráðskonu Friðriks.[532] Mjög líklegt verður að telja að þeir hafi verið á sama bátnum og þá að líkindum í búferlaflutningum eins og Eyjólfur Jónsson hefur bent á.[533]

Séra Stefán P. Stephensen í Holti sem jarðaði Friðrik Axel segir að hann hafi drukknað nálægt Keflavík [534] og má vera að á síðustu mínútum ævinnar hafi hann rennt augum yfir þetta svið sem hann þekkti svo vel frá liðnum dögum.

Þrjú af börnum Friðriks Axels og Helgu Guðmundsdóttur fluttust með honum að Hvilft vorið 1875, þau Guðmundur, Mikkalína og Kristín.[535] Fimm árum síðar voru þau enn á Hvilft og þar var þá líka María, systir þeirra.[536]

Um Friðrik Axel og hans fólk hefur Eyjólfur Jónsson skrifað vandaða ritgerð sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 1983. Þar er gerð grein fyrir lífshlaupi allra barna þessa Breiðfirðings sem barðist fyrir lífinu í átökum við seltröllið hér í Keflavík og getið barnabarna hans.[537]

 

Friðrik Axel Axelsson fór frá Keflavík vorið 1870 og næstu 16 ár stóð jörðin í eyði.[538] Svo lengi hafði aldrei verið hér mannlaust næstu hundrað árin þar á undan. Sá sem reisti bæjarhúsin í Keflavík úr rústum, síðastur manna á nítjándu öld, var Pálmi bóndi Lárentíusson en hann fluttist hingað vorið 1886 ásamt konu sinni, Sesselju Jónsdóttur, og tveimur börnum þeirra.[539] Þau komu þá úr Bolungavík.[540]

Pálmi Lárentíusson fæddist í Ytri-Vatnadal í Súgandafirði 9. október 1835 og var sonur hjónanna Lárentíusar Hallgrímssonar og Sigurborgar Bergsdóttur er þá bjuggu þar.[541] Frá foreldrum hans er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Ytri-Vatnadalur, Norðureyri og Göltur). Pálmi var yngstur þriggja sona þessara hjóna er allir urðu bændur í Suðureyrarhreppi en hinir tveir voru Ólafur Lárentíusson á Gelti og Sigurður Lárentíusson er bjó alllengi á Norðureyri og síðan í Botni.[542] Á tíunda ári fluttist Pálmi með foreldrum sínum frá Ytri-Vatnadal að Gelti og þar ólst hann síðan upp.[543] Árið 1862 fór hann úr foreldrahúsum og gerðist vinnumaður á Ósi í Bolungavík.[544]Þaðan í frá átti hann jafnan heima í Bolungavík allt til ársins 1886 er hann hóf búskap í Keflavík.[545]

Pálmi kvæntist 29. ágúst 1864 Sigríði Pálsdóttur sem þá var tvítug heimasæta á Ósi í Bolungavík, dóttir hjónanna Páls Halldórssonar og Sigríðar Bjarnadóttur er þar bjuggu.[546] Þessa fyrri konu sína missti Pálmi tveimur árum síðar, þann 15. nóvember 1866, en einum degi fyrr hafði hún alið honum dóttur sem gefið var nafn móðurinnar.[547] Sigríður Pálmadóttir var eina barnið sem hann eignaðist með fyrri konunni.[548] Er Pálmi missti konuna áttu þau heima á Gili í Bolungavík.[549] Stúlkan sem fæddist á Gili 14. nóvember 1866 komst upp og var haustið 1898 vinnukona á Ósi.[550] Hún eignaðist þá dóttur er hún kenndi Álfi Magnússyni, sjómanni, barnakennara og ljóðasmið, sem drukknað hafði af fiskiskútu nokkrum mánuðum fyrr[551] (sbr. hér Staður og Vaðlar). Seinna varð Sigríður Pálmadóttir húsfreyja á Flateyri.[552] Árið 1868 fór Pálmi frá Gili og var mörg næstu ár tómthúsmaður á Hóli í Bolungavík.[553] Á þeim árum var hann lengi formaður á sexæring en seinna stundaði hann bæði sjómennsku og smíðar, einkum bátasmíðar.[554]

Er Pálmi Lárentíusson kvæntist í annað sinn, 22. október 1882, var hann orðinn nær 47 ára gamall og þá voru liðin 16 ár frá því hann missti fyrri konuna. Seinni kona Pálma hét Sesselja Guðrún Jónsdóttir og var 14 árum yngri en hann.[555] Hún var dóttir hjónanna Jóns Guðmundssonar og Þóru Árnadóttur, sem lengi bjuggu á Hóli í Bolungavík, en móðir hennar var af hinni gömlu Hólsætt.[556] Sjö börn Jóns og Þóru á Hóli komust upp og var Sesselja þriðja yngsta í þeim hópi.[557] Er Sesselja giftist Pálma voru foreldrar hennar andaðir.[558] Tíu árum fyrir hjónaband hafði hún eignast barn með Guðmundi Þorleifssyni, sem hér hefur áður verið nefndur, en þessi barnsfaðir hennar var reyndar fæddur hér í Keflavík (sjá hér bls. 34). Barnið sem Sesselja eignaðist með Guðmundi var stúlka er dó sex vikna gömul 19. maí 1872[559] Guðmundur Þorleifsson, barnsfaðir Sesselju, kvæntist síðar tveimur systrum hennar, fyrst Elínu vorið 1873 og svo Þóru haustið 1887.[560]

Sesselja og Pálmi tóku saman eigi síðar en 1878 og elsta barn þeirra, Jón Pálmason, fæddist 8. desember á því ári.[561] Við fæðingu hans er Sesselja sögð vera bústýra hjá Pálma en þau áttu þá heima á Grundum í Bolungavík[562] í einu þurrabúðarkotanna sem stóðu þar sem nú er Bolungavíkurkaupstaður. Næst eignuðust þau Ólöfu, sem fæddist 20. september 1885, og voru þá enn á Grundum[563] en með þessi tvö börn fluttust þau til Keflavíkur vorið 1886.[564]

Forvitnilegt væri að vita hvað mestu réð um það að Pálmi og Sesselja ákváðu að yfirgefa margmennið í Bolungavík og flytjast á hið afskekkta eyðikot hér í Keflavík þar sem enginn hafði búið í sextán ár og allt var fallið í rúst. Því miður liggur enginn vitnisburður fyrir um þetta en ætla má að í brjóstum þeirra hafi bærst löngun til að búa ein að sínu og vera kann að í hugum þeirra hafi leikið nokkur ljómi um landkosti þessa útkjálkabýlis. Frá uppvaxtarárum sínum á Gelti hlýtur Pálmi að hafa þekkt nokkuð til í Keflavík og ekki mun honum hafa vaxið í augum að byggja upp bæjarhúsin því hann var að sögn smiður góður.[565] Svo virðist sem vitneskjan um lánlausa búskapartilraun afa hans og ömmu hér í Keflavík hafi ekki orðið til þess að draga kjark úr Pálma og vera má að hann hafi viljað sýna að með kappi og forsjá væri hægt að standa betur að verki og bjóða náttúruöflunum byrginn. Hér hefur áður verið sagt frá ósigri afa hans og ömmu, Hallgríms Lárentíussonar og Þórdísar Pálmadóttur, sem hófu búskap í Keflavík með sex börn vorið 1820, en brimrótið við ströndina náði að hrifsa Þórdísi til sín í janúar 1821 svo hún hvarf í hafið og gafst Hallgrímur þá upp á búskapnum (sjá hér bls. 23-25). Reimleikana, sem vera áttu í Keflavík og áður var á minnst, kunnu þau Pálmi og Sesselja ekki heldur að hræðast.

Árið 1886 var Keflavík enn í eigu Hólskirkju í Bolungavík (sjá hér bls. 10-12) og um ábúðina hafa Pálmi og Sesselja því þurft að semja við þá sem ríkjum réðu á Hóli. Þar hefur Tyrfingur bóndi Pálmason, er þá bjó á Hóli, að líkindum verið í fyrirsvari en honum var Sesselja tengd því eiginkona hans, Karitas Bárðardóttir, hafði áður verið gift móðurbróður hennar, Magnúsi Árnasyni, og búið með honum, ásamt foreldrum Sesselju, á hinu gamla ættaróðali sem Tyrfingur fékk svo í hendur með konu sinni.[566]

Pálmi Lárentíusson var reyndar líka tengdur þessu sama höfuðbóli í Bolungavík, þó með öðrum hætti væri, því faðir hans, Lárentíus Hallgrímsson, var fæddur á Hóli og þar höfðu afi hans og langafi, þeir Hallgrímur Lárentíusson og Lárentíus Erlendsson, búið um nokkurt skeið[567] og á undan þeim langalangafi Pálma, Erlendur Ólafsson sýslumaður,[568] en allt voru þetta áar hans í beinan karllegg.[569] Hjónin Pálmi Lárentíusson og Sesselja Jónsdóttir áttu bæði ættir að telja til efnafólks og stórhöfðingja á Hóli en sjálf voru þau fátæk, líklega bláfátæk er þau settust að í Keflavík.

Valdimar Þorvaldsson, sem var á áttunda ári hjá foreldrum sínum í Selárdal þegar Pálmi og Sesselja hófu búskap í Keflavík vorið 1886, ritaði síðar um aðstæður þeirra hér á fyrstu búskaparárunum og kemst þá svo að orði:

 

Sagt hefur verið að íbúðin í Keflavík fyrstu árin hafi verið undir dekki af skipi frá Ísafirði sem hét Geirþrúður og strandaði þar. Lagði hann [Pálmi] það yfir baðstofutóttina eins og það var í skipinu en er hann fór að hafa betri ástæður byggði hann betur yfir tóttina með sperrum og heflaðri skarsúð.[570]

 

Frá húsakynnum Páma og Sesselju segir hér nánar síðar (sjá bls. 56-57).

Þau Pálmi og Sesselja bjuggu í Keflavík í 14 ár, frá 1886 til 1900, en svo lengi hafði enginn búið hér á nítjándu öld nema Markús bóndi Jónsson, sem dó í Keflavík árið 1825,[571] og kona hans, Guðrún Hallsdóttir. Markús fór reyndar burt og sleppti ábúð á jörðinni í eitt ár en kom svo aftur (sjá hér bls. 20-23) og má því segja með sanni að á nítjándu öld hafi Pálmi búið hér lengur í einni lotu en nokkur annar.

Á fyrstu búskaparárum Pálma og Sesselju hér í Keflavík var bú þeirra mjög lítið. Ef marka má tíundarskýrslu frá árinu 1888 áttu þau þá aðeins tvær ær, þrjá gemlinga og einn hest en enga kú.[572] Af tuttugu bændum í Suðureyrarhreppi voru tveir þá með minna bú en Pálmi,[573] Þeir Jóhannes Albertsson á Norðureyri og Friðrik Verner Gíslason á Kvíanesi, en hvorugur þeirra átti hest.[574]

Á næstu árum stækkaði búið hjá Pálma. Árið 1891 var hann kominn með kú og kvígu.[575] Hann átti þá líka 4 ær, 6 gemlinga og eitt tryppi.[576] Fjórum árum síðar hafði búið enn stækkað. Af nautgripum átti Pálmi þá að vísu aðeins gelda kvígu en sauðkindurnar voru orðnar 29, auk lamba, og svo var hér líka tryppi.[577] Fardagaárið 1895-1896 töldust bændur í Suðureyrarhreppi vera tuttugu og einn.[578] Tíu úr þeim hópi tíunduðu þá meira lausafé en Pálmi, níu minna og einn stóð honum jafnfætis.[579] Karlinn í Keflavík var því orðinn miðlungsbóndi í sinni sveit og mun hafa unað hag sínum vel.

Þriðja barn Pálma Lárentíussonar og Sesselju, konu hans, fæddist hér í Keflavík 17. apríl 1888 og var það Guðmundur er seinna varð bóndi í Botni í Súgandafirði og reisti árið 1942 nýbýlið Sólstaði í landi Bæjar[580] og bjó þar til æviloka en hann andaðist 10. mars árið 1982 (sjá hér Bær). Fleiri börn eignuðust Pálmi og Sesselja ekki en á eldri börnin tvö, Jón og Ólöfu, hefur áður verið minnst (sjá hér bls. 46). Á árunum 1888-1900 voru heimilismenn í Keflavík oftast sex, það er að segja hjónin og börn þeirra þrjú og svo vinnukonan, Guðný Sigríður Magnúsdóttur,[581] sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá bls. 1-2).

Alþýðuskáldið og dagbókarritarinn Magnús Hjaltason kom fyrst í Keflavík vorið 1896 (sjá hér Göltur) og var hér við barnakennslu árið 1898 frá því seint í október og fram að áramótum.[582] Hann dvaldist líka vikum saman í Keflavík á góunni árið 1900[583] og átti hér jafnan vinum að mæta.

Svo virðist sem Pálmi Lárentíusson hafi verið einn þeirra manna sem Magnúsi líkaði best við og talar hann ætíð hlýlega um þennan bónda í Keflavík í skrifum sínum en margur fékk ærið misjafna dóma hjá Magnúsi. Á einum stað lýsir hann Pálma svo: Pálmi var í meðallagi hár á vöxt, breiðvaxinn, skýr vel, langsýnn og langminnugur og smiður góður. Enginn hégómamaður, stálhraustur.[584]

Í sama pistli kemst Magnús svo að orði um Sesselju Jónsdóttur, konu Pálma: Sesselja, kona hans, var og stálhraust, heldur fríð, allhá og að því skapi breið og þykkvaxin. Einföld í trú og tillagagóð.[585] Á öðrum stað segir Magnús að Sesselja hafi verið fríð sýnum og forkur til vinnu.[586]

Við andlát Pálma sumarið 1913 ritaði Magnús um hann minningargrein sem birtist 19. júlí á því ári í blaðinu Vestra er út var gefið á Ísafirði. Hann kemst þar svo að orði:

 

Pálmi sálugi var maður greindur vel … . Að ytra áliti var hann breiðvaxinn með bjart yfirlit og var á yngri árum talinn fríður maður. Hann var mikill í lund og fastur fyrir og þó gamansamur og áreiðanlegur í öllum viðskiptum.[587]

 

Vinirnir Magnús Hjaltason og Pálmi Lárentíusson virðast reyndar seint hafa þreyst á að lofa hvorn annan því á aðfangadag jóla árið 1898 settu þau Pálmi og Sesselja á blað vitnisburð um Magnús er hljóðar svo:

 

Ég undirritaður viðurkenni það hér með að barnakennari Magnús Hjaltason, sem hefur dvalið hér í 8 vikur, frá 28. október til 23. desember, við barnakennslu, hefur auglýst sig sómasamlega til orða og verka, alvarlegur og lítillátur þegar hann áminnti, blíður og hógvær þegar hann leiðrétti. Þetta munu allir á þessu heimili með mér bera.[588]

 

Undir þennan vitnisburð, sem Pálmi virðist hafa samið og Magnús fékk afhentan á fimmta degi jóla sama ár, skrifuðu bæði bóndinn og húsfreyjan í Keflavík.[589]

Í Keflavík kenndi Magnús börnum Pálma og Sesselju, þeim Ólöfu og Guðmundi, og einnig Magnúsi Helgasyni, fóstursyni hjónanna á Gelti.[590] Barnakennarinn kom á heimilið í Keflavík 28. október og flutti þá um kvöldið skrifaða ræðu yfir börnunum.[591] Hann sagði þá meðal annars þetta:

 

… Reynið að mennta ykkur sem best í öllu fögru og góðu. Takið aldrei þá skökku skoðun að virða manninn eftir stöðunni sem hann er í eða eftir fötunum sem hann er klæddur í, heldur eigið þið að virða manninn eftir því hvernig hann stendur í stöðu sinni, hver svo sem staðan er. Guði eru allir menn jafn kærir sem gæta stöðu sinnar rétt. Honum er ekkert kærari biskupinn en verslunarmaðurinn ef hvor þeirra gjörir verk sitt eftir bestu meðvitund. Og honum er ekkert kærari barnakennarinn en fjárskömmtunar-maðurinn ef báðir gjöra eftir því sem þeim virðist best, samkvæmt samvisku þeirra og skynsemi.

… Samt sem áður eigum vér að virða alla menn, unga og gamla, volaða sem volduga, og það er sú réttasta kurteisi að vera jafn alúðlegur, kurteis og hreinskilinn við hvern sem í hlut á. … Dragið aldrei neinn á tálar, endið ætíð sem þið lofið, hversu lítið sem í það er varið. Verið þið líka vinir skepnanna, sýnið þeim alúð og nærgætni … .[592]

 

Næsta dag hófst kennslan.[593]

Daginn sem kennarinn kom sást hafgállinn frá Keflavík.[594] Að sögn Magnúsar er þetta náttúrufyrirbæri til að sjá sem regnbogi en stendur alveg beinn.[595] Sú var gömul trú að slík sýn á himni boðaði harðindi, 6, 8, 12 eða 18 vikna skorpu.[596]

Á leið sinni til Keflavíkur haustið 1898 hafði Magnús gist hjá frændfólki sínu á Langhól, sem var eitt býlanna í Bæ í Súgandafirði. Er hann kvaddi þar bar hann upp bónorð við frænku sína, Guðrúnu Önnu Magnúsdóttur á Langhól, sem þá var 22ja ára gömul (sjá hér Bær). Þann 17. nóvember barst honum svarbréf frá henni hingað til Keflavíkur en í því játaði hún honum eiginorði[597] og voru þau jafnan heitbundin þaðan í frá. Við blasir hins vegar að Magnúsi hefur orðið nokkuð um og ó er hann tók við skriflegu jáyrði Guðrúnar Önnu því fáum dögum síðar getur hann bréfsins í dagbók sinni og rifjar af því tilefni upp gamlan húsgang:

 

Það er vandi að velja sér

víf í standi þrifa

en ólánsfjandi ef illa fer

í því bandi að lifa.[598]

 

Þann 18. desember borgaði Pálmi bóndi barnakennaranum kennslulaunin en þau voru ein króna og tíu aurar fyrir hverja viku.[599] Þá fjárhæð hafði Magnús sett upp.[600] Þetta var lítið kaup og til samanburðar má nefna að hjá útibúum Ásgeirsverslunar á Flateyri og Suðureyri fengu karlmenn greidda 15 til 25 aura á tímann í fiskvinnu árið 1898 og konur 10 til 13 aura (sjá hér Flateyri og Suðureyri). Slíkur samanburður er þó í rauninni ekki sanngjarn því fiskvinnan var mjög stopul og hafa ber í huga að auk útborgaðra peninga fékk kennarinn mat og húsaskjól en meginhluta allra peninga sem daglaunafólk vann sér inn á árunum fyrir aldamótin 1900 var varið í greiðslur fyrir þessar brýnustu nauðsynjar, fæði og húsnæði.

Annar og sanngjarnari samanburður sýnir þó að kaupið sem Magnús setti upp fyrir kennsluna var mjög lágt. Þar er nærtækast að líta á kaup vinnumanna, sem réðu sig í ársvistir, en ekki mun hafa verið óalgengt, er hér var komið sögu, að þeir fengju greiddar um 2 krónur á viku, auk fæðis, fatnaðar og húsaskjóls (sjá hér Flateyri). Útborgað kaup vinnukvenna var hins vegar mun lægra og má segja að kaupið sem Magnús setti upp fyrir kennsluna hafi verið nokkru hærra en almennt tíðkaðist að greitt væri vinnukonum (sjá hér Flateyri). Er Magnús gekk frá ráðningu heitkonu sinnar í vist hjá Jóhannesi Hannessyni í Botni fyrir fardagaárið 1899-1900 var reyndar gert ráð fyrir að útborgað kaup til hennar yrði aðeins 20,- krónur fyrir árið[601] eða 38 og hálfur eyrir á viku, það er liðlega þriðjungur af kennarakaupinu. Hitt er svo dálítið furðulegt að í byrjun ársins 1899 kostuðu trúlofunarhringar 25 krónur og 30 aura hjá Helga Sigurgeirssyni, gullsmið á Ísafirði, og þá upphæð greiddi Magnús fyrir hringana á sjálfan sig og unnustuna þann 28. janúar á því ári.[602] Fyrir kennslu barnanna í Keflavík í átta vikur fékk Magnús 8,80 krónur. Auk þess greiddi Pálmi bóndi honum 3,- krónur fyrir að kenna Jóni, syni sínum sem orðinn var tvítugur, reikning og á gamlársdag gaf fólkið í Keflavík Magnúsi 4,- krónur.[603] Samtals fékk hann því 15,80 krónur fyrir átta vikna störf í Keflavík en því fór fjarri að sú upphæð dygði fyrir trúlofunarhringunum!

Í dagbók Magnúsar Hjaltasonar er heldur lítinn fróðleik að finna um heimilislífið í Keflavík á síðustu árum nítjándu aldar en Magnús gerir mikið úr búhyggindum Pálma vinar síns og segir hann og konu hans hafa verið orðin stórefnuð er þau fóru héðan vorið 1900.[604] Af skrifum Magnúsar má ráða að á dögum Pálma og Sesselju hafi jafnan verið lesinn húslestur hér í Keflavík og ekki bara á sunnudögum. Miðvikudaginn 21. mars árið 1900 var Magnús staddur hér og lætur þess getið í dagbók sinni að þann dag hafi fyrst verið lesið í björtu.[605] Sjálfur hafði hann með sér veraldlegt lesefni og sat hér eina vökuna á góu við að lesa bók Daniels Defoe um Robinson Krúsóe.[606]

Þann 24. nóvember 1899 kom Magnús Hjaltason einu sinni sem oftar hingað í Keflavík en að því sinni í mjög sérstökum erindagerðum á vegum hreppstjórans, Jóhannesar Hannessonar í Botni.[607] Magnús var þá við barnakennslu á Norðureyri og hafði Jóhannes beðið hann að fara út í Keflavík og sækja stúlku sem flytja átti í tugthúsið á Ísafirði.[608] Það var Halldóra Geirmundsdóttir, sem þá var 23ja ára,[609] en hún átti síðar lengi heima í þorpinu á Suðureyri. Halldóra var dóttir hjónanna Geirmundar Jónssonar og Guðrúnar Einarsdóttur sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Gilsbrekka). Ung að árum barst hún til Bolungavíkur og þar eignaðist hún dreng sem fæddist 19. janúar 1899.[610] Drenginn kenndi hún Álfi Magnússyni sem drukknað hafði af fiskiskútu á nýliðnu sumri[611] og hafði í þeim efnum sama háttinn á og Sigríður, dóttir Pálma Lárentíussonar í Keflavík, sem fyrr var frá sagt (sjá hér bls. 45). Dóttir Sigríðar fæddist tveimur mánuðum fyrr en sonur Halldóru[612] og svo fór að Sigríður hélt fast við sinn upphaflega framburð og fékk samþykkt að Álfur væri faðirinn[613] en Halldóra guggnaði í yfirheyrslu hjá sýslumanni.[614] Barnsfaðir hennar reyndist vera Jón Tyrfingsson, kvæntur bóndi á Hanhóli.[615] Fyrir tilraun sína til að rangfeðra barnungann var Halldóra dæmd í tugthús og beið þess haustið 1899 að taka út refsinguna.[616]

Við þessar aðstæður skaut Pálmi Lárentíusson skjólshúsi yfir Halldóru og hinn unga son hennar, Jón Guðna,[617] og var það drengilega gert en vera má að þar hafi barnsfaðir Halldóru, Jón Tyrfingsson, átt nokkurn hlut að. Þó að Keflavík sé afskekkt náði armur laganna samt hingað og það fékk Halldóra að reyna er sendiboði hreppstjórans, Magnús Hjaltason, knúði dyra þann 24. nóvember. Í dagbókinni greinir Magnús frá því að hreppstjórinn hafi falið sér að sækja Halldóru því hún hafi nú átt að úttaka hina ídæmdu 5 daga vatns- og brauðsrefsingu.[618] Á þeim orðum má sjá að Halldóru hefur verið gert að sitja inni í 5 daga upp á vatn og brauð.

Ekki kom Magnús til baka inn að Norðureyri fyrr en þrír dagar voru liðnir frá því hann fór að sækja Halldóru[619] en gott er að hún skyldi fá þægilegan fylgdarmann þennan fyrsta áfanga á leið sinni í tugthúsið. Frá Norðureyri var hin dæmda flutt á báti yfir að Suðureyri þann 27. nóvember og þaðan var farið með hana inn í Botn til hreppstjórans.[620] Yfir heiðina komst hún hins vegar ekki neitt á næstunni og urðu menn að snúa við er reynt var að flytja hana norður.[621] Líklegt er að þar hafi snjóþyngsli og ófærð sett strik í reikninginn og einnig kynni þrek Halldóru að hafa verið í minna lagi.

Jóhannesi hreppstjóra í Botni var nú vandi á höndum en hann tók það ráð að senda hana aftur út í Keflavík, óstraffaða. Hér var hún enn er Magnús Hjaltason kom til nokkurra vikna dvalar hjá Pálma bónda Lárentíussyni þann 26. febrúar þennan sama vetur en 19. mars var loks gerð önnur tilraun til að flytja hana úr Keflavík áleiðis í fangelsið sem beið hennar á Ísafirði.[622] Að því sinni mun hafa tekist að koma þessari dóttur Geirmundar á leiðarenda en dagana fimm sem Halldóra bjó við vatn og brauð í tugthúsinu var barn hennar vel haldið í mat og drykk hér í Keflavík ef að líkum lætur.[623] Á þeim fjórtán árum sem Pálmi Lárentíusson og Sesselja, kona hans, bjuggu í Keflavík var Guðný Sigríður Magnúsdóttir, er fyrr var nefnd, þeirra eina vinnuhjú og svo Halldóra sem nú var frá sagt en hún dvaldist hér aðeins veturinn 1899-1900, síðasta vetur Pálma og Sesselju í Keflavík.[624]

Börn Pálma og Sesselju hafa áður verið nefnd á þessum blöðum en þau voru þrjú, Jón, Ólöf og Guðmundur. Síðla sumars á árunum 1888-1890 bar það við í Keflavík að Ólöf litla týndist og fannst ekki fyrr en lengi var búið að leita hennar.[625] Hún var þá á 4. eða 5. ári.[626]

Söguna af barnshvarfinu sagði Guðmundur Pálmason, bróðir Ólafar, ýmsum löngu síðar og kunnugt er um tvo menn sem færðu frásögn hans af atburði þessum í letur. Það voru Kristján G. Þorvaldsson á Suðureyri og Vilmundur Jónsson, sem var læknir á Ísafirði frá 1917 til 1931 er hann tók við starfi landlæknis.[627] Að sögn Guðmundar var verið að binda hey upp á dal þegar stúlkan týndist og húsfreyja ein heima með yngri börnin.[628] Þeir sem skráðu sögu Guðmundar segja báðir að orðið hafi verið skuggsýnt þegar telpan hvarf og leitin að henni hafi staðið yfir í um það bil 36 klukkustundir.[629] Frá fundi barnsins segir Vilmundur læknir svo:

 

Morguninn þar á eftir gengur móðirin úrvinda af þreytu og harmi upp á bólið sem var áfast við túnið sunnanvert, milli þess og árinnar. Á bólinu var hlaðin kví úr torfi og grjóti og vissu dyrnar til fjalls. Sunnan við kvína var stór og einkennilegur steinn með kringlóttri skál eða laut ofan í miðjuna en mjótt sund milli hans og kvíarveggjarnis. Neðan við steininn var græn grasþúfa lítil.

Þar situr Ólöf litla hnókin, brosir framan í mömmu sína, rjóð og heit og að öllu vel útlítandi. Þó að skýr væri og allvel talandi var enginn vegur að hafa neitt upp úr henni með það, hvað á daga hennar hefði drifið þessi þrjú dægur sem hún virtist ekki hafa verið í mannheimum. Þegar hún eltist virtist hún heldur ekkert kunna frá því að segja.[630]

 

Vilmundur tjáir hér það álit sögumanns síns að stúlkan hafi dvalist í huliðsheimi þessi þrjú dægur og Kristján G. Þorvaldsson segir það hafa verið trú manna að hún hefði verið hjá álfum.[631] Báðir vitna þeir í Guðmund Pálmason.

Nú er þess að minnast að Guðmundur var á fyrsta eða öðru ári þegar systir hans týndist og er hann sagði Vilmundi og Kristjáni söguna um barnshvarfið var allt fólkið sem átti heima í Keflavík um 1890 dáið, nema hann einn. Svo vill þó til að frásögn af þessu sama barnshvarfi í Keflavík var rituð á blað löngu áður en Guðmundur settist á þularstól og voru þá aðeins liðin fáein ár frá því Ólöf týndist og fannst eftir langa leit. Sá sem fyrstur skráði söguna af hvarfi Ólafar var Magnús Hjaltason en hann segir frá þessu barnshvarfi í dagbók sinni 30. desember 1898.[632] Magnús getur ekki um heimildarmenn en í augum uppi liggur að foreldrar Ólafar hafa sjálf sagt honum frá atburði þessum því hann var staddur á heimili þeirra í Keflavík er hann færði söguna í letur og hafði þá dvalist hjá þeim, nær óslitið, í tvo mánuði.[633]

Á sögu Magnúsar og frásögn Guðmundar Pálmasonar af einum og sama atburðinum er sá stóri munur að Magnús segir barnið hafa verið týnt í 7 klukkutíma eða því sem næst[634] en hjá Guðmundi urðu þetta 36 klukkustundir eins og fyrr var nefnt. Enginn þarf að efast um að Magnús fari þarna nær réttu lagi. Ekki vegna þess að hann hafi yfirleitt verið sannsögulli en Guðmundur, sem þó má vel vera, heldur vegna hins að hann skráði söguna beint eftir foreldrum telpunnar og svo löngu áður en hinir skrásetjararnir ræddu málið við Guðmund.

Hjá Guðmundi varð ein fjöður að fimm hænum eins og hjá svo mörgum öðrum sem höfðu gaman af að segja frá dularfullum atburðum á fyrri tíð. Sjálfur gæti hann reyndar vel hafa trúað öllu sem hann sagði frá og þar á meðal því að Ólöf systir hans hefði setið í góðu yfirlæti hjá álfum þessi þrjú löngu dægur.

Magnús Hjaltason segir að Ólöf hafi horfið eftir nónið, það er upp úr klukkan þrjú síðdegis, og fundist sofandi á flöt norðan við bæinn þegar klukkan var að ganga til ellefu um kvöldið.[635] Hvort þessi tímasetning Magnúsar muni vera alveg rétt er ekki unnt að dæma um en hafa ber í huga að er hann skrifaði um barnshvarfið voru liðin átta eða tíu ár frá því atburðurinn skeði. Fyrir Pálma og Sesselju hefur hver mínúta verið löng er þau söknuðu barnsins og vera kann að leitin hafi í raun staðið yfir í skemmri tíma en þau nefndu við Magnús svona löngu síðar. Við samanburð á frásögnum Guðmundar og Magnúsar vekur athygli að Magnús segir barnið hafa horfið eftir nónið en Guðmundur sagði sínum viðmælendum að leit að barninu hefði ekki hafist fyrr en orðið var dimmt.[636] Vera kann að þar hafi Guðmundur rétt fyrir sér og vegna myrkurs hafi gengið illa að finna sofandi barnið þegar farið var að leita.

Sagan af barnshvarfinu í Keflavík verður ekki rakin nánar hér en fram skal tekið að daginn sem Ólöf hvarf munu Pálmi bóndi og Guðný, vinnukona hans, hafa verið að binda heim lyng … fram á Dalabrekkum[637] en ekki að binda hey upp á dal eins og Guðmundur Pálmason sagði sínum viðmælendum.[638] Lyng var víða notað til uppkveikju og svo mun einnig hafa verið í Keflavík.

Aðra dularfulla sögu frá tíð Pálma Lárentíussonar hér í Keflavík skráði Magnús Hjaltason sama dag og hann ritaði um hvarf Ólafar, það er 30. desember 1898. Hann var þá alveg nýlega kominn aftur til Keflavíkur en hafði verið hjá unnustu sinni í Bæ á jólunum.[639] Sögunni valdi Magnús þessi orð:

 

Á Þorláksmessu skeði það í Keflavík að þegar féð kom heim í rökkrinu, eftir að vera búið að vera úti um daginn, kom ein ærin blóðmörkuð og var markið: Blaðstýft framan hægra. Blæddi úr eyra kindarinnar sem hún væri nýmörkuð. Átti Pálmi, bóndinn, ána. Sauðfjármark hans var sýlt og gagnfjaðrað vinstra. Var blaðstýfingin því mörkuð á heila eyrað. Þótti þetta undarlegt mjög.

… Ég fór þennan dag [30.12.] til fjárhúsa til að skoða hina undramörkuðu kind. Var á henni stór og glögg blaðstýfing og blæddi enn úr sárinu því það var ekki orðið gróið. Ekki gat komið til greina að nokkur maður, mennskur, hefði markað kindina og heldur ekki að hundur hefði bitið hana. Það leit því út sem einhver hulinn kraftur (huldumaður?) hefði markað kindina.[640]

 

Guðmundur Pálmason sagði Vilmundi Jónssyni og Kristjáni G. Þorvaldssyni líka þessa sögu og um efni hennar bar þeim Magnúsi saman í aðalatriðum.[641] Guðmundur gat þess að kindin sem mörkuð var á þennan hátt hefði verið mórauð gimbur[642] og hjá honum fékk Kristján G. Þorvaldsson að heyra frásögn af því sem í kjölfarið fylgdi:

 

Ekki hugsaði Pálmi frekar um þetta en fram af þessu fór honum að mislánast fé sitt og missti hann það á ýmsan hátt. Veturinn eftir var hann lengi veikur og gat ekki sinnt störfum. Missti hann þá mikinn hluta af fé sínu. Kunningjar hans réðu honum þá til að taka upp markið á Móru og sögðu að þetta myndi vera bending til hans um að hann ætti að hafa það mark. Pálmi féllst á þetta og er hann hafði fullvissað sig um að enginn í nærsveitunum ætti markið, markaði hann nokkuð af fé sínu með því og síðar allt. Fannst honum sér lánast fé sitt betur eftir það en nokkru sinni fyrr.[643]

 

Við Vilmund lækni sagði Guðmundur að sú ákvörðun Pálma að gera blaðstýfinguna að sínu marki hefði fært honum mikið búskaparlán og þaðan í frá mátt heita að tvö höfuð væru á hverri hans kind.[644] Sjálfur erfði Guðmundur þetta ágæta fjármark, að föður sínum látnum, og reyndist það honum lengi einstakt happamark.[645]

Hver það var sem markaði mórauðu gimbrina í Keflavík 23. desember 1898 veit enginn og ólíklegt má telja að sú gáta verði leyst á næstu öldum.

Er Pálmi og Sesselja hófu búskap í Keflavík vorið 1886 hafði jörðin legið í eyði í 16 ár og hér var enginn kofi uppistandandi.[646] Að sögn Magnúsar Hjaltasonar náði Pálmi að reisa hér 11 hús[647] og var það ekki svo lítið framtak. Magnús gerir grein fyrir öllum þessum byggingum og ritar um þær á þessa leið:

 

 1. Baðstofuhús, 8 álna langt og rúmlega 5 álnir á breidd.
 2. Geymsluhús á bæjarhlaðinu, tveggja nauta stæði. Var það fyrst notað sem fjós en síðan voru nautin [nautgripirnir – innsk. K.Ó.] höfð á baðstofugólfi fyrir framan herbergið er búið var í. Var það notalegt og gott og hafði fólk þar bestu heilsu.
 3. Geymsluhús annað, mjög sjálegt.
 4. Fjárhús fyrir roskið fé. Tók 30.
 5. Hús fyrir lömb. Tók 18.
 6. Hús fyrir annað roskið fé. Tók 22.
 7. Hesthús fyrir einn hest.
 8. Eldhús.
 9. Geymsluhús, það er „kró” fyrir sjófang og fleira.
 10. Smiðja.[648]

 

Pálmi í Keflavík hafði þann góða sið að bera mold á milli torfþaka og öll voru hús hans sterklega byggð og vel frá þeim gengið.[649] Auk húsanna ellefu, sem hér voru talin upp, byggði hann heygarða og kví.[650]

Magnús Hjaltason segir baðstofuhús Pálma hafa verið 8 álnir á lengd og liðlega 5 álnir á breidd sem gerir um það bil 16 fermetra. Valdimar Þorvaldsson, sem líka var kunnugur í Keflavík, segir sjálfa baðstofuna hafa verið 5 x 6 álnir[651] eða nálægt 12 fermetrum en hjá honum kemur fram að í baðstofuhúsinu var líka búr og gangur svo vera kann að þeir Magnús hafi báðir rétt fyrir sér hvað varðar lengd og breidd þessara híbýla eða fari þar að minnsta kosti ekki fjarri því rétta.

Um bæinn sem Pálmi reisti úr rústum í Keflavík ritar Valdimar svo:

 

Bærinn stóð í dældinni vestantil við árdalinn í miðju túni, sem þá var. Dyrnar sneru út á hafið og þegar inn var gengið var baðstofan til hægri um 10 x 12 fet [þ.e. 5 x 6 álnir – innsk. K.Ó.] að stærð en búr og eldhús, annað inn af gangi en hitt til vinstri.

Kýrin var í ganginum og var hann það breiður að vel var rúmt meðfram henni. Allt var þetta á sömu hæð á aldagömlu bæjarstæði.[652]

 

Að sögn Magnúsar Hjaltasonar tóku fjárhús Pálma 52 rosknar kindur, væri lambhúsið ekki talið með. Valdimar Þorvaldsson greinir hins vegar frá því að í Keflavík hafi húsin verið það minnsta sem mátti því Pálmi hafi átt margt sauðfé í samanburði við aðra bændur á þeim tíma.[653] Orð Magnúsar og Valdimars gefa okkur því tilefni til að ætla að á árum Pálma hér í Keflavík hafi hann stundum alið um og yfir 50 sauðkindur, auk lambanna. Í tíundarskýrslu frá árinu 1895 eru þær hins vegar sagðar vera 29 (sjá hér bls. 14) og 36 í skýrslu frá árinu 1900[654] en Pálmi fór frá Keflavík þá um vorið. Vera má að útkjálkabóndinn hafi látið vera að tíunda hverja kind en um slíkt mun þó best að fullyrða sem minnst. Samt má benda á að í matsgerð frá árinu 1916 er fullyrt að á síðustu árum Pálma hér í Keflavík hafi hann fóðrað eina til tvær kýr og kálf, einn hest og sextíu til sjötíu fjár.[655]

Hvað sem öðru líður virðist ljóst að hér í Keflavík hafi Pálmi Lárentíusson náð að koma undir sig fótunum í fjárhagslegu tilliti og þegar leið að aldamótum gat hann með góðu móti leyft sér að kaupa eina og eina brennivínsflösku hjá Ásgeirsverslun. Hjá Magnúsi Hjaltasyni verður hvergi vart við að Pálma hafi þótt sopinn góður en annar dagbókarritari, Einar Jónsson á Suðureyri, skrifar aftur á móti laugardaginn 3. september 1898: Pálmi var hér til og frá hálfkenndur í dag og verður inn í bænum í nótt.[656] Þennan löngu liðna haustdag hefur Keflavíkurbóndinn verið í kaupstaðarferð og fengið að sofa úr sér vímuna hjá Þorbirni Gissurarsyni á Suðureyri. Ekki var honum það of gott.

Á árunum 1891-1898 var Steindór Sigurðsson, bróðursonur Pálma Lárentíussonar, einn þriggja bænda í Botni í Súgandafirði og átti þá einn fjórða part úr jörðinni (sjá hér Botn). Árið 1898 flosnaði hann upp frá búskap vegna truflunar á geðsmunum og sumarið 1899 voru allar eignir hans boðnar upp, þar á meðal hundruðin sex sem hann átti í Botni (sjá hér Botn). Sá sem keypti jarðarpartinn í Botni var Kristján Sigurðsson, bróðir Steindórs, en áður mun hann að líkindum hafa erft þrjú hundruð í sömu jörð (sjá hér Botn).

Kristján Sigurðsson var árið 1899 ungur maður og ókvæntur og virðist ekki hafa talið sér henta að hefja búskap þó að hann ætti nægilegt jarðnæði. Fór þá svo að Pálmi í Keflavík, föðurbróðir Kristjáns, fékk þessi jarðarhundruð hans til ábúðar og fluttist vorið 1900 með allt sitt úr Keflavík inn í Botn.

Þegar Pálmi Lárentíusson fór frá Keflavík var hann orðinn nær 65 ára gamall en fram undan átti hann þó 13 búskaparár í Botni.[657] Þar settist hann að í efri bænum þar sem Steindór frændi hans hafði áður búið (sjá hér Botn). Húsin hér í Keflavík reif Pálmi er hann fór[658] og má ætla að hann hafi notað timbrið til uppbyggingar í Botni. Börn Pálma og Sesselju, konu hans, fluttust öll þrjú með foreldrum sínum í Botn en þar misstu hjónin frá Keflavík Ólöfu dóttur sína sumarið 1902. Hún varð þá fyrir steinkasti úr hlíðinni norðan við bæinn og hlaut bana af. Frá því átakanlega slysi er sagt hér á öðrum stað (sjá Botn).

Báðir synir Pálma og Sesselju, þeir Jón og Guðmundur, voru enn á heimili foreldra sinna í Botni í desembermánuði árið 1904.[659] Jón Pálmason var þá orðinn 26 ára gamall og kynni að hafa verið gefinn fyrir rall því hann lærði snemma að spila á harmoniku, líklega fyrstur heimamanna í Suðureyrarhreppi (sjá hér Suðureyri). Í nýnefndum mánuði, desember 1904, var í fyrsta sinn gerður út sérstakur sendimaður á vegum stjórnvalda til að sjá um fjárböðun í Súgandafirði.[660] Til ferðarinnar valdist Halldór Guðmundsson, sem þá var húsmaður á Þverá í Staðardal, fæddur 23. desember 1872, og seinna lengi verkamaður á Suðureyri.[661] Fór hann bæ frá bæ og segir frá því ferðalagi í endurminningum sínum er hann ritaði á gamals aldri. Hann greinir þar frá móttökunum sem hann fékk í þessari ferð hjá feðgunum í Botni, Pálma Lárentíussyni og Jóni Pálmasyni, og kemst þá svo að orði:

 

Ég minnist þess enn að þetta kvöld, er ég kom að Botni, varð Jón til þess að taka á móti mér, fyrstur manna, og þóttu mér móttökurnar og meðfylgjandi orð heldur í kaldara lagi en ekki set ég þau orð hér á pappírinn með því ég tel þau ekki rithæf. Þetta féll nú allt samt í ljúfa löð að lokum og naut ég þar að greinds og góðs húsbónda þar sem Pálmi sálugi var. En þetta sem kom fram hjá Jóni, syni Pálma, reyndist ekki vera nema stundargeðhrif sem orsökuðust af því að hann var að eðlisfari skapmikill en þó drengur góður og hinn mesti atorku- og dugnaðarmaður.[662]

 

Halldór Guðmundsson lætur þess einnig getið í sömu skrifum að er hér var komið sögu hafi Jón Pálmason verið að miklu leyti fyrirvinna foreldra sinna sem bæði voru komin á efri ár.[663]

Líklega hefur Jón Pálmason frá Keflavík verið nokkuð mikill fyrir sér og óvílinn. Um þrítugsaldur var hann orðinn formaður á mótorbát, þátttakandi í útgerð og átti líka íbúðarhús á Suðureyrarmölum[664] (sjá einnig hér Suðureyri). Á árunum 1910-1913 eignaðist Jón ekki færri en þrjá mótorbáta, ýmist einn eða með öðrum.[665] Meðeigandi hans að tveimur þessara báta var Guðrún Þórðardóttir, ekkja Kristjáns Albertssonar, bónda og verslunarstjóra á Suðureyri (sjá hér Suðureyri). Bátum þeirra Guðrúnar var báðum gefið nafnið Hlín.[666] Sú eldri var keypt frá Danmörku árið 1910 og fórst með allri áhöfn, fimm mönnum, 11. september 1911.[667] Sumarið 1913 keyptu Jón og Guðrún nýjan bát frá Danmörku og gáfu honum sama nafn.[668] Á þessari Hlín var Jón Pálmason formaður haustið 1913 og drukknaði þegar báturinn fórst þriðjudaginn 11. nóvember 1913.[669] Í áhöfn hans voru sex menn og hlutu allir vota gröf.[670]

Einn þeirra sem voru við róðra á Suðureyri haustið 1913 var Óskar Jónsson frá Fjallaskaga, þá ungur maður.[671] Hann sagði síðar að Jón Pálmason hefði verið vel þekktur aflamaður og mikill sjósóknari.[672] Um kapp Jóns við sjóróðrana komst Óskar svo að orði:

 

Hafði Jón sótt mjög fast þetta haust [1913] og man ég eftir að hann reri einskipa frá Suðureyri og lagði línuna út og norður undan Súgandafirði. Fékk þá áfall á bátinn og féll sjálfur fyrir borð en hásetar hans náðu honum.[673]

 

Þegar Jón Pálmason drukknaði var hann að verða 35 ára (sjá hér bls. 46). Hann var ókvæntur og barnlaus.[674] Uppboð á ýmsum eignum er þessi kappsfulli sjósóknari frá Keflavík hafði átt var haldið 28. mars 1914 og þar var boðinn upp mótorbáturinn Blíðviður sem var sleginn hæstbjóðanda fyrir 1.100,- krónur.[675] Þann bát mun Jón hafa átt einn og eignast hann vorið 1913.[676]

Þeir feðgarnir, Pálmi Lárentíusson og Jón Pálmason, dóu báðir sama árið. Pálmi lést 18. júní 1913 og var þá enn bóndi í Botni[677] en Jón drukknaði 11. nóvember það ár. Sesselja Jónsdóttir, eiginkona Pálma, lifði svolítið lengur en hún dó 16. apríl 1915[678] og í sama mánuði andaðist Guðný Sigríður Magnúsdóttir sem lengst var vinnukona í Keflavík í tíð Pálma og Sesselju (sjá hér bls. 1-2 og 65-66). Af öllu þessu Keflavíkurfólki stóð Guðmundur Pálmason þá einn eftir en hann tók við búi af föður sínum í Botni árið 1913[679] og varð er tímar liðu allra karla elstur í þessu byggðarlagi (sjá hér bls. 48).

Er Pálmi og Sesselja fóru frá Keflavík vorið 1900 féll jörðin í eyði og var á næstu árum aðeins nytjuð til beitar og slægna, einkum frá Skálavík og Bolungavík[680] en líka kom fyrir að fólk frá Suðureyrarmölum heyjaði hér.[681]

Hér var áður frá því greint að vorið 1900 reif Pálmi Lárentíusson öll hús í Keflavík og flutti timbrið úr þeim með sér inn í Botn. Ekkert húsaskjól var því í boði á þessu eyðibýli næstu árin og litlu munaði að tvær manneskjur, sem lögðu upp í ferðalag á Mikjálsmessu þetta sama aldamótaár, króknuðu hér í hrakviðri. Það voru mæðginin Sigmundína Sigmundsdóttir, ekkja Friðberts Guðmundssonar, áður bónda og hreppstjóra í Vatnadal, og sonur hennar, Friðbert Friðbertsson, sem þá var tólf ára.[682] Þau höfðu ætlað sér að ganga frá Norðureyri í Súgandafirði yfir fjallið til Skálavíkur en hröktust af leið undan veðrinu.[683] Frá hrakningi þeirra segir Magnús Hjaltason svo:

 

Voru þau í kynnisför til Kristínar Friðbertsdóttur, hálfsystur drengsins, konu Pálma Bjarnasonar á Meiri-Bakka. Fylgdi þeim frá Norðureyri, upp á fjallsbrún vestari, Guðni Jón Þorleifsson en um það leyti að hann skildi við þau setti á ógnarstorm með kafaldsbleytu sortahríð. Sigmundína og sveinninn voru komin upp á fjallið og villtust þau nú. Sáu þau ekkert til vegar og gekk nú náttmyrkrið að. Villtust þau alla nóttina í þeim ókjörum hríðar sem gengu á. Nær morgni rofaði sortann. Komust þau þá ofan í botninn á Norðdal og þaðan niður í Keflavík og fóru þar inn í hurðarlausan kofa, er stóð þar eftir af byggð Pálma, og létu þar fyrirberast.

Nú víkur sögunni til Skálavíkur. Jóhannes Jónsson, ungur maður á Meiri-Bakka, fór á sunnudagsmorguninn, 30. september, að kindum vestur í Keflavík. Fór hann Bakkaskarð norðan. Þegar hann kom niður í Norðdal sá hann mannsspor er honum virtust vera eftir kvenmann. Rakti hann spor þau uns hann kom að kofanum í Keflavík, sem vér áður gátum.

Fann hann Sigmundínu og sveininn þar inni, nær dauða en lífi. Þó var sveinninn, von framar, hressari en móðir hans. Svo voru þau þjökuð orðin að ekki treystust þau að fara neitt á veg með Jóhannesi. Fór hann þá svo fljótt sem hann gat norður til Skálavíkur og sótti mjólk heita og föt, tók og menn með sér vestur. Komu þeir svo konunni og sveininum Bakkaskarð norður til Skálavíkur.[684]

 

Ljóst er að hér hefur litlu munað að illa færi.

Sumarið 1902 hafðist hér við um nokkurt skeið útilegumaðurinn Steindór Sigurðsson frá Botni sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Botn). Hann sló þá mikið af túninu, bar heyið í tótt og hlóð langt fram á dal steingarð, ærið mikinn.[685] Sá garður stendur enn (sjá hér bls. 64-65) og mun nú vera hið eina mannvirki þessa útilegumanns sem kostur gefst á að skoða.

Árið 1914 var mælt út fyrir vitastæði í Keflavík[686] og árið 1920 var vitinn reistur.[687] Honum var valinn staður á Keflavíkurhól,[688] vestast í jaðri gamla túnsins.[689] Vitinn í Keflavík var kenndur við fjallið vestan við víkina og nefndur Galtarviti. Kveikt var á vitanum í fyrsta sinn 1. október 1920 og á honum voru gerðar endurbætur 1923 og 1925.[690] Nýr viti var reistur á sama stað árið 1959.[691] Árið 1920 var einnig byggt hér íbúðarhús úr timbri fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans að búa í, ein hæð, port og ris.[692] Upp úr gömlu bæjartóttunum var svo byggt fjárhús[693] sem nú er fallið. Vitinn frá 1959 og íbúðarhúsið frá 1920 standa hér enn. Skömmu fyrir 1950 voru steyptir skjólveggir utan um húsið svo notalegra yrði að búa í því.[694]

Vitaverðir voru búsettir í Keflavík frá 1920 til 1994.[695] Fyrsti vitavörðurinn var Oddur Sæmundsson, fæddur á Krossi á Barðaströnd árið 1891 en lengi búsettur á Suðureyri.[696] Kaup vitavarðarins var í fyrstu 500,- krónur á ári og svo hafði hann afnot af jörðinni.[697] Lengst allra var hér við vitavörslu Óskar Aðalsteinn Guðjónsson rithöfundur, fæddur á Ísafirði árið 1919, en hann hóf störf 1. júní 1953[698] og var hér vitavörður í nær fjórðung aldar.[699] Bjarni G. Friðriksson var vitavörður í Keflavík frá 1943-1950 og fékk hann talstöð fyrstur manna á þessum stað haustið 1946[700] en hér var enginn sími.

Sögulegur atburður varð hér aðfaranótt sunnudagsins 8. júní 1941 er bresti sjóherinn handtók þáverandi vitavörð, Þorberg Þorbergsson.[701] Tundurspillir kom upp að ströndinni og bátur með nokkrum hermönnum var sendur í land.[702] Þeir vöktu upp fólkið í Keflavík og skipuðu Þorbergi að koma með sér.[703] Börnin sex, það elsta fjórtán ára, stóðu ein eftir því móðir þeirra var við ljósmóðurstörf inn í Bolungavík.[704] Þorbergur sat á annan mánuð í fangelsi í Englandi en síðan var honum sleppt.[705] Ástæðan fyrir handtökunni var sú að veturinn 1940-1941 hafði þýskur maður, August Lehrmann að nafni, dvalist í Keflavík á laun undir verndarvæng Þorbergs.[706] Er Bretar hernámu Ísland vorið 1940 var öllum Þjóðverjum er hér dvöldust skipað að gefa sig fram við hernámsliðið og mönnum bannað, að viðlagðri refsingu, að veita þeim bjargir. Þetta bann breska hersins braut Þorbergur, er hann tók við flóttamanninum, og var því handtekinn er upp komst.

 

Við sem nú erum hér á ferð höfum áður svipast um af gamla bæjarhlaðinu í Keflavík (sjá hér bls. 4-6) og nú er mál að hyggja að eyktamörkum. Að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar voru þau þessi: Dagmál – á miðjum Sunndalsbotni. Hádegi – Hádegishorn. Miðmundi – Miðmundahorn. Nón – á miðri Skál. Miðaftann – Galtarnípa og Miðaftanshóll en þau ber saman að kalla. Náttmál – Náttmálalág.[707] Flest örnefnin sem hér koma við sögu hafa áður verið nefnd (sjá hér bls. 3-6 og Göltur) og augljóst virðist að Skálar, sem svo heita að sögn sama heimildarmanns, nefni hann Skál í skrifi sínu um eyktamörkin. Miðaftanshóll er annað nafn á Keflavíkurhól, sem vitinn stendur á, og talið er að Náttmálalág muni vera vestantil í árdalnum.[708]

Skamma stund reikum við um túnið í Keflavík. Hér var áður gerð grein fyrir gamla bæjarstæðinu (sjá bls. 4) en brekkan sem lá frá bænum niður að ánni heitir Álfabrekka.[709] Hér var mikið um álfatrú eins og fyrr var getið. Guðlaug Sigmundsdóttir, sem var húsfreyja í Keflavík frá 1852 til 1856 og átti í elli sinni heima í Selárdal, sagði börnunum þar frá álagablettinum Álfatrumbu í Keflavík.[710] Þennan blett var bannað að slá en einu sinni sló eiginmaður Guðlaugar Trumbuna þvert gegn vilja hennar.[711] Næsta vetur misstu þau kúna sína, þá einu sem þau áttu.[712] Að sögn Guðlaugar var Álfatrumba þúfa í túninu og leit út eins og bæjarburst.[713] Sagt var að hún væri í brekkunni þar sem túninu hallar niður í Árdal eða í árdalnum.[714]

Hér var áður sagt frá fjórlitu álfakúnni sem Guðný Magnúsdóttir, vinnukona í Keflavík, sá í Kötlum, hér vestantil í víkinni, á árunum um eða upp úr 1890 (sjá hér bls. 3-4)) en Katlatúnið, sem liggur þar í grennd og fyrr hefur verið nefnt, var talið álagablettur og aldrei slegið í tíð Pálma Lárentíussonar.[715] Á grasbletti í Stefnishlíð, norðan við túnið í Keflavík, hvíldi líka bannhelgi og fylgikona fyrsta vitavarðarins sem hér settist að mun ekki hafa efast um að þar í grennd ætti huldufólk sér bústað.[716]

Upp af gamla bæjarstæðinu eru Hólar[717] og alveg rétt fyrir ofan túnið er töflumyndaður steinn sem á fyrri hluta tuttugustu aldar var nefndur Gullasteinn.[718] Það nafn mun þó að líkindum ekki vera gamalt[719] en ætla má að við steininn hafi börn leikið sér. Hér rétt hjá er kvíin sem Magnús Hjaltason segir að Pálmi Lárentíusson hafi hlaðið upp (sjá hér bls. 56 sbr. einnig hér bls. 53). Hún er liðlega einn metri á breidd og um það bil fjórir metrar á lengd. Stærðin bendir til þess að kvíaærnar hafi varla verið fleiri en fimmtán.

Frá kvíabólinu tökum við strikið fram á Sunndal en spölurinn neðan frá sjó og fram í dalbotninn er um það bil tveir kílómetrar. Skammt framan við túnið hækkar landið töluvert en þar rís grjóthólaþyrping sem að vestfirskum hætti ber nafnið Hraun. Fullu nafni heitir hólahrúgald þetta Sunndalshraun.[720] Hallinn neðan við Hraunin heitir Brekkur en graslautir sem ganga upp í þær vestan til við ána heita Ártungur.[721]

Í dagbók Magnúsar Hjaltasonar frá árinu 1900 sjáum við að fram undir Hraununum á Sunndal voru mógrafir og 7. mars á því ári var nefndur dagbókarritari að draga þaðan heim eldivið.[722] Fram í Hraunum fann Pálmi bóndi Lárentíusson eða einhver af hans fólki leyniskýli haustið 1894 og var þar nokkuð af kindabeinum.[723] Að sögn Magnúsar Hjaltasonar taldi Pálmi að skýli þetta hefði verið notað til að fela þýfi en það orð lá á að ýmsir sem bjuggu í Keflavík á undan Pálma hefðu stundum verið nokkuð skinnaríkir á haustin.[724] Í Hraununum er líka strýta sem heitir Kerling.[725]

Sé staðið uppi á Hraununum og horft fram í Sunndalsbotn er önnur dalkvos, sem liggur hærra, á vinstri hönd og heitir Norðdalur.[726] Neðan við mynni hans er há brekka og heitir Magnúsarbrekka.[727] Um Norðdal liggur leiðin upp í Bakkaskarð, sem er kennt við bæinn Meiri-Bakka í Skálavík, en um skarðið lá önnur þeirra tveggja leiða sem hægt var að velja um þegar farið var milli Keflavíkur og Skálavíkur.[728] Hin leiðin lá um Skálavíkurfjörur undir fjallinu Öskubak og hana ætlum við okkur að brölta þegar degi hallar. Upp í Norðdal förum við því ekki en minnt skal á að þar er að minnsta kosti ein Einarsbrekka og líklega eru þær tvær því Magnús Hjaltason talar um Einarsbrekku fremri og segir hana vera á leiðinni frá Keflavík upp í Bakkaskarð.[729] Sjálfur fór Magnús að minnsta kosti einu sinni fjallveginn úr Keflavík norður í Skálavík.[730] Það var 12. mars aldamótaárið 1900.[731] Hann var þá samferða Guðnýju S. Magnúsdóttur, vinnukonu í Keflavík,[732] sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá bls. 1-2). Jón Pálmason fylgdi þeim upp í skarðið og þar til halla tók norður af.[733] Niður í Skálavík fóru þau Kamb sem Magnús segir vera utanvert við Bakkaskarð.[734] Kamburinn er klettahryggur sem oftast stendur upp úr snjó en er að sögn Magnúsar ærið brattur og nokkur mannhætta að leggja þar leið sína í vetrarferðum.[735] Þau Magnús og Guðný voru þó sæmilega örugg því Jón Pálmason var enn á vettvangi og hafði band á okkur ofan eins og Magnús orðar það.[736] Fullvíst má telja að þau hafi farið Kamb til að forðast snjóþyngsli upp við skarðið.

Fjallið milli Sunndals og Norðdals heitir Sunndalshorn.[737] Brún þess liggur í liðlega 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Sunndalsmegin í því er Smjörskál og frá henni liggja Smjörteigar niður að Sunndalsvatni.[738] Hraunin ná hér alveg fram að vatninu, sem er ósköp lítið, og hraunjaðarinn er reyndar framan við vatnið. Skammt heiman við vatnið í Sunndal stendur enn (1996) hinn sterklegi grjótgarður sem útilegumaðurinn, Steindór Sigurðsson frá Botni, hlóð sumarið 1902 og áður var minnst á (sjá hér Botn). Þetta er tvöfaldur grjótveggur, um 7 metrar á lengd og 3. júlí 1996 var hann enn liðlega einn metri á hæð þar sem hann var hæstur.

Í dalbotninum framan við Sunndalsvatn er fallegt slægjuland en hér erum við komin í um það bil 250 metra hæð. Rétt fyrir framan hraunjaðarinn, sem liggur framantil við vatnið, er lítil vallgróin tótt, ærið fornleg. Byggingin sem hér stóð hefur ekki verið fjarri því að vera hringlaga og ummálið um það bil níu metrar. Vera kann að þetta sé gamalt sauðahlað.

Hamraveggurinn fyrir botni dalsins setur hér sterkan svip á umhverfið en upp hann fer enginn nema fuglinn fljúgandi. Hásléttan austan við Keflavík liggur í um það bil 500 metra hæð. Þar uppi framanvert við Sunndalsbotn eru tvær fornar dysjar og eru að sögn á þeim regluleg mannaverk.[739] Þessar dysjar, er menn nefndu svo, munu hafa verið í námunda við leið þeirra sem lögðu upp frá Gelti og stefndu á Bakkaskarð. Þær má skoða síðar. Við flýtum nú för okkar til baka, heim dalinn, og nemum ekki staðar fyrr en á Keflavíkurhól, þar sem vitinn stendur. Þar dokum við um sinn en röltum svo niður í fjöruna við ós Keflavíkurár.

Síðasta spölinn ofan við fjöruna rennur áin í djúpri lægð er heitir Árdalur.[740] Þar var bátur fólksins sem hér átti heima geymdur yfir veturinn.[741] Önnur tveggja lendinga sem notast varð við í Keflavík var hér alveg við ósinn.[742] Hér er þó ekki lendandi nema í nær ládauðum sjó.[743] Væri einhver ylgja í sjónum var betra að taka land í vognum norður við Lendingarsker en þangað er ekki langt að fara. Vestan við árósinn og beint fram af Keflavíkurhól er sker sem heitir Flaga.[744] Það kemur sjaldan upp úr sjó.[745] Norðan við ósinn er Bæjarsker og þar er líka stór steinn sem heitir Lega.[746] Á honum gátu menn séð hvort gegnt væri fyrir Ófæruna undir Gelti.[747] Við stefnum hins vegar norður, í átt til Skálavíkur, og förum fjöruna.

Landamerki Keflavíkur og jarðarinnar Meiri-Bakka í Skálavík eru í Mölvík undir fjallinu Öskubak.[748] Héðan frá árósnum er um það bil einn og hálfur kílómetri norður að merkjunum en tæplega fimm kílómetrar alla leið að Meiri-Bakka. Hér gengur þó enginn milli bæja á einum klukkutíma því fjaran er stórgrýtt og erfið yfirferðar. Skammt norðan við merkin er svo Bakkaófæra sem lokar fjöruleiðinni svo menn verða að klöngrast allhátt upp í fjallshlíðina og fylgja þræðingum sem þar liggja. Vilji menn fara þessa leið án þess að þekkja hana er hyggilegt að afla sér fyrst traustra upplýsinga hjá kunnugum. Að vetri til ætti enginn ókunnugur að leggja upp í slíkt ferðalag nema brýna nauðsyn beri til. Magnús Hjaltason fór Skálavíkurfjörur 17. apríl 1896, frá Keflavík að Meiri-Bakka, í fylgd Guðnýjar S. Magnúsdóttur, hinnar ferðavönu sjósóknarkonu sem hér var nýlega nefnd, og segir frá með þessum orðum:

 

Guðný S. Magnúsdóttir, vinnukona Pálma, fylgdi mér Öskubaksófæru. Var hún voðaleg og stórkostlegt að fara hana í moldbyl. Brimið var ægilegt er skall í bergið, beint undan fótum okkar. Guðný skildi við mig fyrir norðan Ófæruna og hélt heimleiðis en ég fór til Skálavíkur.[749]

 

Nú er bjartur sumardagur og allar leiðir greiðari en í hörkubyl að vetri. Við leggjum því hiklaus af stað en gætum þess að fara hægt. Fjallið norðan við Keflavík heitir Stefnir en annað nafn á því er Spillir og nær að Álagjá en þar tekur Öskubakur við.[750]

Frá árósnum er aðeins fárra mínútna gangur að nyrðri lendingarstaðnum sem áður var minnst á. Þar nemum við staðar. Vogurinn sem lent var upp í heitir Lending og skerið norðan við hann Lendingarsker.[751] Hér var skárst að lenda en ofan við voginn eru háir bakkar svo illgerlegt er að bjarga bátum undan sjó.[752] Af þeim ástæðum þótti ófært að geyma báta hér að vetrinum.[753] Magnús Hjaltason segir að fyrir daga Pálma Lárentíussonar, sem bjó í Keflavík frá 1886 til 1900, hafi verið lent upp í ána en Pálmi hafi talið þessa lendingu betri og notað hana.[754] Líklegt er að þetta sé misskilningur hjá Magnúsi og báðir lendingarstaðirnir hafi verið notaðir af hinum fyrri bændum eftir því sem henta þótti hverju sinni. Í Súgandafirði hafa menn að minnsta kosti lengi haft fyrir satt að Hallur og Sigurður Markússynir frá Keflavík hafi brotið bátinn á Nagg er þeir drukknuðu í lendingu á árunum 1812-1816 (sjá hér bls. 21-22) en Naggur er klettur sem gengur í sjó fram hér vestan við voginn.[755]

Mjög skammt fyrir norðan Lendingu er Selvogur en Lendingarsker er þar á milli.[756] Norðan við Selvog er Selsker en á því skeri og við voginn mun oft hafa verið mikil selagengd.[757] Um fjöru er hægt að ganga fram í Selsker en þar varð Friðrik Axel, er bjó í Keflavík frá 1865 til 1870, að berjast fyrir lífinu í átökum við seltröllið og frá er sagt á öðrum stað í riti þessu (sjá hér bls. 42-43).

Norðan við Selsker er Réttarbás,[758] umgirtur klettum, og í hann var féð rekið í haustleitum.[759] Frá básnum er örskammt að Álagjá, sem svo heitir, en hún klýfur hamrabelti fjallsins frá fjöru að efstu brún.[760] Í fjörunni neðan við Álagjá og þar í grennd mun oft hafa verið mikill reki[761] en hætta mikil var að hafa fé þar sökum ofanfalls, að sögn Magnúsar Hjaltasonar.[762] Álagjá skilur að Stefni og Öskubak[763] en ásýnd beggja þessara fjalla er býsna lík og þau í raun eitt og sama hamratröllið sem gnæfir snarbratt yfir stórgrýttri fjörunni. Nafnið á Álagjá kynni að vera afbökun úr Hálagjá en um slíkt er þó ekkert hægt að fullyrða. Skerin fyrir norðan Álagjá heita Baldvinssker en sjávarvíkin sem nær frá Réttarbás norður að Baldvinsskerjum heitir Álagjáarbót.[764] Fuglanef er nafn á grashillu sem nær frá Álagjá norður og upp af Baldvinsskerjum.[765] Nokkru ofar eru Álagjáarnef og enn ofar Breiðhilla neðri.[766] Hún nær frá Álagjá norður í Háuskriður.[767] Ofan við hana er Breiðhilla efri og nær hún vestur fyrir Álagjá og einnig norður í Öskubak.[768]

Baldvinssker, sem hér voru nefnd, eru allmikill skerjaklasi. Djúpt er við skerin og herma sagnir að á þeim hafi menn staðið við fiskidrátt.[769] Norðan við þau komum við í Illubót og vestantil í henni er Illurð.[770] Í Illubót fannst lík Sturlu Jónssonar frá Stað í Súgandafirði en bátur hans fórst á landleið 28. febrúar 1898 og drukknuðu allir sem á honum voru (sjá hér Staður). Lík Jóns Guðmundssonar í Bæ, sem var einn af hásetum Sturlu, fannst norður undir Bakkaófæru (sjá hér Staður) sem fyrr hefur verið nefnd. Á fjörunum undir Öskubak tók brimið Þórdísi Pálmadóttur, húsfreyju í Keflavík, í janúarmánuði árið 1821 (sjá hér bls. 23-25) og kynni að hafa hremmt hana hér í Illubót. Þessi margra barna móðir var að smala saman fé í illviðri, er hún beið bana, en líkið mun aldrei hafa fundist (sjá hér bls. 23-25).

Norðan við Illubót eru Háuskriður sem mynda nes fram úr miðjum Öskubak.[771] Enn norðar er Mölvík, lítil vík með smáhnullungum.[772] Í henni miðri er klettur í bökkunum.[773]Við hann eru landamerki Keflavíkur og Meiri-Bakka í Skálavík.[774] Merkin liggja úr Mölvík til fjalls, í horn á fjallinu upp af víkinni.[775] Hér eru líka hin fornu hreppamörk milli Suðureyrarhrepps og Hólshrepps og sýslumörk milli Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýslu.

Frá landamerkjunum er dálítill spölur að Bakkaófæru, sem áður var nefnd (sjá hér bls. 65). Annað nafn á sömu ófæru er Öskubaksófæra.[776]

 

Viðauki:

 

Birkir Friðbertsson, fyrrverandi bóndi í Birkihlíð, hefur bent á að á bls. 3 í skrifum hér um Keflavík er sagt “að þeir sem ganga frá Galtartöngum að Stekkjargili verði að halda sig við fjöruna.” Hann vill þó halda því til haga að venjubundin smalaleið frá Keflavík er samt um Undirteiga sem ná frá fjöruklettum upp að Neðri Stúfum allt að Burstarurð. Auk nefndra leiða fyrir Gölt liggja einstigi frá Undirteigum, nokkru utan við Burstarurð, um Efri-gang og Neðri-gang yfir í Galtarland. Þorleifur Guðnason, sem lengi bjó á Norðureyri og var þaulkunnugur á þessum slóðum, hafði, að sögn, Birkis, eftir föður sínum, Guðna J. Þorleifssyni, sem einnig gjörþekkti þessar slóðir, að Stúfhillan hafi verið fær alla leið fyrir Gölt í hans tíð en hrunið hafi úr henni síðar. Frá Keflavík segir Birkir að  hægt sé að fara í Stúfhilluna frá Uppgöngugili og þaðan sé hún fær til vesturs allt þangað til að sést heim undir Stað, handan Súgandafjarðar, en ekki lengra. Á þessari leið um Stúfhilluna er þræðingurinn fyrir Skínandisgil tæpastur. Birkir tekur fram að þessar smalaleiðir, sem nefndar eru í viðaukanum, séu aðeins færar fjallvönum mönnum í góðu færi og ástæðulaust sé að leggja leið sína um þær nema af gildri ástæðu.

Birkir bendir einnig á að Stúfsgil (Stúfgil) nái aðeins milli Stúfhillu og Breiðhillu.

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Sóknarmannatöl Staðar í Súgandafirði.

[2] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 64.

[3] Prestsþjónustubækur og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsfirði.  Manntöl 1870 og 1880.

[4] Manntal 1880.

[5] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[6] Kristjana Friðbertsdóttir, fædd 1884. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[7] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.12.1899.

[8] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[9] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.4. og 14.7.1915. Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók

undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 266-277.

[10] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.4.1915.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Sama dagbók 14.7.1915.

[14] Örnefnastofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 158.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983. Eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930.

[18] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.12.1898.

[19] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983. Eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930.

[20] Sama heimild. Eyjólfur Bjarnason. – Viðtal K.Ó. við hann 22.10. 1997. Birkir Friðbertsson. – Viðtal K.Ó. við hann 7.7. 1997.

[21] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983. Eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930. Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 157-158.

[22] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 158.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983. Eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930.

[27] Sama heimild.

[28] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 158.

[29] Sama heimild.

[30] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983. Eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930.

[31] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 157.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 54.

[36] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 54.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild, 157.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild, 156.

[44] Sama heimild, 153.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild, 155.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild, 157.

[49] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 155.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Sama heimild, 156.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild, 155.

[59] Sama heimild, 155-156.

[60] Sama heimild, 156.

[61] Sama heimild, 157.

[62] Sama heimild.

[63] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 157.

[64] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 157.

[65] Sama heimild.

[66] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 57-59.

[67] D.I. XII, 14.

[68] D.I. IV, 753-756.  D.I. VIII, 358-360.  D.I. XIII, 305-307.

[69] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 14.

[70] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 10.3.1900.

[71] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 153.

[72] Sama heimild, 154.

[73] Sama heimild, 153-154.

[74] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 138-139.

[75] Ný jarðabók fyrir Ísland 1861, 78.

[76] Sama heimild.

[77] Sama heimild.

[78] Fasteignabók 1921, 81.

[79] Fasteignabók 1921, 81.

[80] Fasteignabók 1921, 81.

[81] Fasteignabók 1932, 52.

[82] Gunnar M. Magnúss 1977, 24.

[83] Jarðab. Á. og P. VII, 139.

[84] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarsk. 1821.

[85] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[86] Sama heimild.

[87] Jón J. Aðils 1971, 418-420.

[88] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[89]Sama heimild.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 114.

[95] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 118.

[96] Jarðamat 1849-1850. Ísafjarðarsýsla.

[97] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 64.

[98] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 6.2.1914.

[99] Vilmundur Jónsson 1985, I, 191.

[100] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 51.

[101] Fasteignabók 1932.

[102] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 153.

[103] D.I. III, 324 og 330.

[104] D.I. III, 324 og 330.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild, 228.

[107] Bps. C. I, 2. Vísitazíubók Helga biskups Thordersen frá árinu 1852, Holt í Önundarf. 12.7.1852.

Kirkjustóll Hraunskirkju í Keldudal 1812-1891, prófastsvísitazía 6.8.1852.

[108] Jarðab. Á. og P. VII, 31-32.

[109] D.I. IV, 753-756.  Sbr. Íslenskar æviskrár I, 153 og 393 og Arnór Sigurjónsson 1975, 107 og 114.

[110] Ísl. æviskrár I, 393.

[111] Sama heimild, 256-157.  Arnór Sigurjónsson 1975, 122.

[112] Arnór Sigurjónsson 1975, 129.

[113] Sbr. Ísl. æviskrár I, 393.

[114] D.I. VII, 244.  Arnór Sigurjónsson 1975, 252-254.

[115] Arnór Sigurjónsson 1975, 240-256.

[116] Sama heimild.

[117] D.I. XV, 571.

[118] Jón Þorkelsson 1895, 93-94 (Saga Magnúsar prúða).

[119] Ísl. æviskr. IV, 379, 385 og 205-206. Jarðab. Á. og P. VII, 148. Vestf. ættir I, 109 og II, 503 og 729-730.

[120] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 213.

[121] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Jarðabók Á. og P. VII, 138.  Manntal

 1. Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.  J. Johnsen 1847, 196.

[122] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[123] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[124] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[125] Jarðab. Á. og P. XIII, 266-267.

[126] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[127] Sama heimild.

[128] J. Johnsen 1847, 196.

[129] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[130] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Jarðab. Á. og P. XIII, 266-267 og VII, 138.

[131] J. Johnsen 1847, 196.

[132] Sbr. Jarðab. Á. og P. VII, 138-139.

[133] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 138. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit. Ísafj.sýsla um 1735. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntal 1762.

[134] Kirkjustóll Staðar í Súgandaf. 1773-1838, prófastsvísitazía 28.7.1774.

[135] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[136] Sama heimild.

[137] Sama heimild.

[138] Sama heimild.  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 24.

[139] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[140] Sama heimild.

[141] Jarðab. Á. og P. VII, 138-139.

[142] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 2.

[143] Gunnar M. Magnúss 1977, 25 og 28. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 4. Búnaðar- og forðagæsluskýrsla

úr Suðureyrarhreppi, dags. 17.11.1928.

[144] Gunnar M. Magnúss 1977, 28.

[145] Sama heimild.

[146] Jarðab. Á. og P. VII, 138-139. Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, bún.sk. 1791. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnsk. 1821 og 1834.  VA III, 408, 412 og 417, bún.sk. 1840, 1850 og 1860.  Skjöl  Suðureyrarhr.,  varðv. þar. Bók f. Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1888, 1891 og 1895.

[147] Sömu heimildir.

[148] Sömu heimildir.

[149] Jarðab. Á. og P. VII, 138-139. Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, bún.sk. 1791. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnsk. 1821 og 1834.  VA III, 408, 412 og 417, bún.sk. 1840, 1850 og 1860.  Skjöl Suðureyrarhrepps,       varðv. þar. Bók f. Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1888, 1891 og 1895.

[150] Sömu heimildir.

[151] Manntal 1703.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild.

[154] Sama heimild.

[155] Sama heimild.

[156] Sama heimild.

[157] Sama heimild.

[158] Sama heimild, 209 og 211.

[159] Jarðab. Á. og P. VII, 138-139.

[160] Sama heimild.

[161] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit. Ísafj.sýsla um 1735.

[162] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., hjónavígslur 1784.

[163] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., hjónavígslur 1784.

[164] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[165] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[166] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Sama heimild.

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild.

[173] Sama heimild.

[174] Sama heimild.

[175] Sama heimild.

[176] Sama heimild.

[177] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[178] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[179] Sama heimild.

[180] Sama heimild.

[181] Sama heimild.

[182] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[183] Sama heimild.

[184] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[185] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[186] Sama heimild.

[187] Manntal 1801, vesturamt, 303.

[188] Sama heimild.

[189] Sama heimild.

[190] Manntal 1816, 697.

[191] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[192] Sama heimild.

[193] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[194] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[195] Sama heimild.

[196] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild.

[199] Sama heimild.

[200] Sama heimild.

[201] Sama heimild.

[202] Sama heimild.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Manntal 1816, 697-700, og nafnalykill þess.

[206] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[207] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Manntal 1816, 705-706.

[208] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[209] Manntal 1801, vesturamt, 313.

[210] Sama heimild, 305 og 313.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.

[211] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[212] Sbr. Manntal 1816, 706.

[213] Manntal 1816, 706.

[214] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[215] Manntal 1801, vesturamt, 305.

[216] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[217] Manntal 1816, 705-706.

[218] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[219] Sama heimild.

[220] Manntal 1801, vesturamt, 301.

[221] Manntal 1801, vesturamt, 301.  Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[222] Manntal 1816, 705 og nafnalykill sama manntals.

[223] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[224] Manntal 1816, 700.

[225] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[226] Sama heimild.

[227] Sama heimild.

[228] Sama heimild.

[229] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.

[230] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1811, Keflavík.  Manntal 1816, 700.

[231] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1811.

[232] Manntal 1816, 700.

[233] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[234] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkaupstúns, bls. 33.

[235] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 116-117.

[236] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 15.

[237] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 116.

[238] Sbr. sömu heimild.

[239] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar …, 32-33.  Sbr. Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 117.

[240] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[241] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1816, 700 og nafnalykill þess.

[242] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[243] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. mars 1812.

[244] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[245] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[246] Sömu heimildir.

[247] Sömu heimildir.

[248] Sömu heimildir.

[249] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[250] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 32.

[251] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.

[252] Manntal 1816, 701.

[253] Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 312 og 315 og Manntal 1816, 701.

[254] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf. og Staðar í Súgandaf.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV.

 1. Dóma- og þingbók 1841-1847, bls. 197-198. Manntal 1816, 701-702.

[255] Sömu heimildir.

[256] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.  Sbr. Manntal 1816, 701 og

Manntal 1845, vesturamt, 287.

[257] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. mars 1821.

[258] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[259] Sama heimild.

[260] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1816, 701.

[261] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[262] Sama heimild.  Eyjólfur Jónsson 1983, 43-45 (Ársrit S.Í.).

[263] Sömu heimildir.

[264] Vestfirskar sagnir III, 239-240.

[265] Sama heimild.

[266] Sama heimild.

[267] Vestfirskar sagnir III, 239.

[268] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[269] Sama heimild.

[270] Vestf. sagnir III, 239-240.

[271] Sama heimild.

[272] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[273] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1816, 706.

[274] Sömu heimildir.  Manntal 1801, vesturamt, 305.

[275] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[276] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[277] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1817, 1818 og 1819.

[278] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[279] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[280] Sama heimild.

[281] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[282] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[283] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[284] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[285] Sama heimild.

[286] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[287] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[288] Sama heimild.

[289] Sama heimild.  Sbr. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 180 og III, 263.

[290] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[291] Sömu heimildir.

[292] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[293] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[294] Sama heimild.

[295] Sama heimild.

[296] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf. og Staðar í Súgandaf.

[297] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. árið 1835.

[298] Manntal 1801, vesturamt, 325 og nafnalykill þess.  Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1833-1840.

Sbr. einnig Manntal 1845, vesturamt, 308.

[299] Manntal 1801, vesturamt, 325, sbr. þar bls. XI, og nafnalykil sama manntals.

[300] Manntal 1845, vesturamt, 308.

[301] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1835.

[302] Manntal 1816, 703.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 325.

[303] Prestsþj.b. Ögurþinga.

[304] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1845, vesturamt, 303, 308 og 315.

[305] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Prestsþj.b. Ögurþinga.

[306] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[307] Sömu heimildir.

[308] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[309] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1834.

[310] Sama heimild.

[311] Sama heimild.

[312] Sama askja, búnaðarskýrslur 1837.

[313] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[314] Manntal 1845, vesturamt, 308.

[315] Sama heimild.

[316] Sama heimild, 303 og 315.

[317] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[318] Sama heimild.

[319] Sama heimild.

[320] Sama heimild.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.

[321] Sömu heimildir.

[322] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1839.

[323] Manntal 1801, vesturamt, 333-334.

[324] Manntal 1801 og nafnalykill þess.

[325] Manntal 1816 og nafnalykill þess.

[326] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1839.

[327] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[328] Sama heimild.

[329] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1835.

[330] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[331] Sama heimild.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1837.  VA III, 408, bún.sk. 1840.

[332] Sömu heimildir.

[333] Sömu heimildir.

[334] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[335] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[336] Sama heimild.

[337] Manntal 1845, vesturamt, 322.

[338] Sama heimild.

[339] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[340] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[341] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[342] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 380-381.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 293 og Manntal 1816, 701.

[343] Manntal 1816, 701.  Sbr. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[344] Sama heimild.

[345] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 380-381.

[346] Sama heimild.

[347] Sama heimild.

[348] Sama heimild.

[349] Prestsþj.b. Vatnsfjarðar.

[350] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 293 og 380-381.

[351] Sama heimild.

[352] Sama heimild.

[353] Sama heimild.

[354] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[355] Sömu heimildir.

[356] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[357] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[358] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[359] Sama heimild.

[360] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[361] Sama heimild.

[362] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 120-121 (Ársrit S.Í.).

[363] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9. Dóma- og þingbók 1841-1845.

[364] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[365] Sama heimild.

[366] Sama heimild.

[367] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[368] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Manntal 1845, vesturamt, 280.

[369] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf. og Holts í Önundarf.

[370] Sömu heimildir.  Sbr. einnig Vestfirskar ættir II, 462-476.

[371] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[372] Sama heimild.

[373] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf.  Sbr. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[374] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf.

[375] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[376] Sama heimild.

[377] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 120 (Ársrit S.Í.).

[378] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[379] Vestf. sagnir III, 239-240.

[380] Sama heimild.

[381] Sama heimild.

[382] Sama heimild.

[383] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[384] Sama heimild.

[385] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[386] Vestf. ættir II, 522.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.

[387] Sömu heimildir.

[388] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 293.

[389] Vestf. ættir II, 522.

[390] Sama heimild I, 307 og II, 510, 517 og 522.

[391] Sama heimild II, 503-525.

[392] Sama heimild.  Sbr. Vestf. ættir I, 307.

[393] Manntal 1901.

[394] Vestf. ættir II, 522.

[395] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[396] Sama heimild.

[397] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[398] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[399] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[400] Vestf. ættir I, 378.

[401] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[402] Sömu heimildir.

[403] Sömu heimildir.

[404] Sömu heimildir.

[405] Sömu heimildir.

[406] Sömu heimildir.

[407] Sömu heimildir.

[408] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[409] Sama heimild.

[410] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf.

[411] Sömu heimildir.

[412] Manntal 1855.

[413] Sbr. Manntal 1845, vesturamt, 301.

[414] Manntal 1860.

[415] Sama heimild.  Vestf. ættir I, 378.

[416] Manntöl 1855 og 1860 (Meiri-Bakki og Breiðaból í Skálavík í Hólshreppi).

[417] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1860 (Breiðaból í Skálavík í Hólshreppi).

[418] Manntal 1870.

[419] Vestf. ættir I, 378.

[420] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[421] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[422] Sömu heimildir.

[423] Sömu heimildir.  Manntal 1855 (Miðdalur í Bolungavík).

[424] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[425] Sömu heimildir.

[426] Sömu heimildir.

[427] Manntal 1845 og nafnalykill þess.

[428] Sama heimild.

[429] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[430] Vestf. ættir II, 648.  Manntal 1845, vesturamt, 295 og nafnalykill þess.

[431] Manntal 1845, vesturamt, 295 og nafnalykill þess.

[432] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.  Sbr. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. einnig Manntal

1845, vesturamt, 298 og nafnalykil þess.

[433] Manntal 1845, vesturamt, 298 og nafnalykill þess.

[434] Sama heimild.

[435] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[436] Sama heimild.

[437] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[438] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[439] Sömu heimildir.

[440] Sömu heimildir.

[441] Sömu heimildir.

[442] Vestf. ættir II, 647-648.

[443] Manntal 1870.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[444] Manntal 1880.

[445] Manntal 1901.

[446] Vestf. ættir II, 647-648.

[447] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[448] Sama heimild.

[449] Sama heimild.

[450] Manntal 1860.

[451] Manntal 1816, 606 og nafnalykill þess.

[452] Manntal 1845, vesturamt, 269.

[453] Manntal 1816, 606.

[454] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[455] Manntal 1855.

[456] Manntal 1855, Skutulsfj.versl.st. í Eyrarhr. í Ísafj.sýslu. Manntal 1860, Minni-Bakki í Skálavík í Hólshr.

[457] Manntal 1816, 730 og nafnalykill þess.

[458] Sama heimild.

[459] Prestsþj.b. Staðar í Aðalvík.

[460] Sama heimild.

[461] Lýður Björnsson 1992, 216, 285 og 346.

[462] Sama heimild.

[463] Manntal 1855.

[464] Sama heimild.

[465] Vestf. sagnir II, 1-27.

[466] Sama heimild.

[467] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Manntal 1860.

[468] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[469] Sama heimild, október 1860 og mars 1861.

[470] Sama heimild.

[471] Sama heimild.

[472] Sama heimild.

[473] Manntal 1845, vesturamt, 91 og nafnalykill þess.

[474] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. október 1860.

[475] Manntal 1845, vesturamt, 203 og nafnalykill þess.

[476] Sama heimild.

[477] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[478] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[479] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[480] Sama heimild.

[481] Manntal 1845, vesturamt, 335 og nafnalykill þess.

[482] Sama manntal, vesturamt, 317 og sami nafnalykill.

[483] Manntal 1845, vesturamt, 337 og nafnalykill þess.

[484] Sama heimild.  Sbr. Manntal 1860, Breiðaból í Skálavík í Hólshreppi.

[485] Manntal 1845, vesturamt, 317 og nafnalykill þess.

[486] Manntal 1816, 744 og nafnalykill þess.  Sbr. séra Jón Guðnason 1955, 218-219 (Strandamenn).

[487] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[488] Sama heimild.

[489] Sama heimild.

[490] Manntal 1870, Breiðabók í Skálavík í  Hólshreppi.

[491] Sama heimild.

[492] Sama heimild.

[493] Jarðab. Á. og P. VII, 414-434.

[494] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[495] Sama heimild.

[496] Eyjólfur Jónsson 1983, 25-26 og 29. (Ársrit S.Í.) Sbr. Manntal 1816, 643 og Manntal 1845, vesturamt, 207.

[497] Eyjólfur Jónsson 1983, 23-26.  Játvarður Jökull Júlíusson 1979, 23-63.

[498] Eyjólfur Jónsson 1983, 23-25 (Ársrit S.Í.).

[499] Eyjólfur Jónsson 1983, 29.

[500] Sama heimild, 30.

[501] Sama heimild, 30-34.

[502] Sama heimild.

[503] Sama heimild, 31 og 41.

[504] Sama heimild, 31.

[505] Sama heimild.

[506] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[507] Sama heimild.

[508] Eyjólfur Jónsson 1983, 45.

[509] Sama heimild, 40-46.

[510] Sama heimild.

[511] Sama heimild.

[512] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[513] VA III, 419, búnaðarskýrslur 1866.

[514] Sama heimild.

[515] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[516] Eyjólfur Jónsson 1983, 40-46 (Ársrit S.Í.).

[517] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 68.

[518] Sama heimild.

[519] Finnbogi Bernódusson 1969, 20.

[520] Kristján G. Þorvaldsson 1968, 65 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[521] Eyjólfur Jónsson 1983, 32 (Ársrit S.Í.).

[522] Sama heimild, 40-46.

[523] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Eyjólfur Jónsson 1983, 32 og 37-39.

[524] Sama heimild.

[525] Sama heimild.

[526] Sama heimild.

[527] Sama heimild.

[528] Sama heimild.

[529] Finnbogi Bernódusson 1969, 20-21.  Sbr. Vestf. ættir I, 164-165.

[530] Eyjólfur Jónsson 1983, 40-41. (Ársrit S.Í.). Sbr. þar 37-39.

[531] Eyjólfur Jónsson 1983, 40-41.

[532] Sama heimild.

[533] Sama heimild.

[534] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[535] Eyjólfur Jónsson 1983, 40-41 (Ársrit S.Í.).

[536] Sama heimild.

[537] Sama heimild, 23-51.

[538] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[539] Sama heimild.

[540] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.

[541] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[542] Sömu heimildir.

[543] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[544] Sömu heimildir.

[545] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf. og Staðar í Súgandaf.

[546] Vestf. ættir I, 131-134 og III, 44.

[547] Sama heimild I, 134.

[548] Sama heimild.

[549] Magnús Hjaltason / Vestri 19.7.1913, 107-108.

[550] Sama heimild.

[551] Sama heimild.

[552] Vestf. ættir I, 134.  Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 63.

[553] Sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf.

[554] Magnús Hjaltason / Vestri 19.7.1913, 107-108.

[555] Vestf. ættir II, 517.

[556] Sama heimild II, 503-517 og I, 109.

[557] Sama heimild II, 503-525.

[558] Sama heimild.

[559] Sama heimild II, 517.

[560] Vestf. ættir II, 510, 517 og 522.

[561] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf.

[562] Sama heimild.

[563] Sama heimild.

[564] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[565] Sbr. Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 63.

[566] Vestf. ættir II, 503-517 og 729-730. Sbr. þar I, 109.

[567] Manntal 1801, vesturamt, 314-315.  Manntal 1816, 701.

[568] Ísl. æviskrár I, 443-444.

[569] Sama heimild.  Manntal 1801, vesturamt, 314-315.  Manntal 1816, 701.  Sóknarm.töl og prestsþj.b.

Eyrar í Skutulsf. og Staðar í Súgandaf.

[570] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8.

[571] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[572] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902. Skýrsla um framtal til lausafjár-

tíundar, dags. 23.6.1888.

[573] Sama heimild.

[574] Sama heimild.

[575] Sama Bók f. Suðureyrarhr. Skýrsla um framtal til lausafjártíundar, dags. 23.6.1891.

[576] Sama heimild.

[577] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bók f. Suðureyrarhr. 1888-1902.  Skýrsla um framtal til lausafjártíundar, dags. 22.6.1895.

[578] Sama Bók f. Suðureyrarhr. Niðurjöfnunarskrá, dags. 28.11.1895.

[579] Sama Bók f. Suðureyrarhr. Niðurjöfnunarskrá, dags. 28.11.1895.

[580] Vestf. ættir II, 518.  Gunnar M. Magnúss 1977, 107-108.

[581] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[582] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hjaltason 27.10. – 31.12.1898.  Lbs. 22184to, Sama dagbók 1. og 2. jan. 1899.

[583] Lbs. 22184to, Sama dagbók 26.2. – 26.3.1900.

[584] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 63.

[585] Sama heimild.

[586] Magnús Hjaltason / Vestri 19.7.1913, 107-108.

[587] Magnús Hjaltason / Vestri 19.7.1913, 107-108.

[588] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.12.1898.

[589] Sama heimild.

[590] Sama dagbók 28.10. og 18.12.1898.

[591] Sama dagbók 28.10.1898.

[592] Sama heimild.

[593] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.10.1898.

[594] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.10.1898.

[595] Sama heimild.

[596] Sama heimild.

[597] Sama dagbók 30.11.1898.

[598] Sama heimild.

[599] Sama dagbók 18.12.1898.

[600] Sama heimild.

[601] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.2.1899.

[602] Sama dagbók 28.1.1899.

[603] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.12., 29.12. og 31.12.1898.

[604] Sama dagbók 28.10.1898.  Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 65.

[605] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 21.3.1900.

[606] Sama dagbók 26.2.1900.

[607] Sama dagbók 24.11.1899.

[608] Sama heimild.

[609] Sama heimild.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir II, 731.

[610] Vestf. ættir II, 730-731.

[611] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 13.7.1899.

[612] Vestf. ættir I, 134.

[613] Sama heimild.

[614] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 13.7.1899.

[615] Vestf. ættir II, 730-731.

[616] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 13.7. og 24.11.1899.

[617] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1899.  Vestf. ættir II, 730-731.

[618] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 24.11.1899.

[619] Sama dagbók 27.11.1899.

[620] Sama heimild.

[621] Sama dagbók 19.3.1900.

[622] Sama dagbók 26.2. – 19.3.1900.

[623] Sbr. Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12.1899.

[624] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[625] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.12.1898.  Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 50-52.  Vilmundur

Jónsson 1985, I, 191-193.  Sbr. G. M. Magnúss 1977, 17-18 og Gráskinna hin meiri 1962, I, 226-228.

[626] Sömu heimildir.

[627] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 50-52.  Vilmundur Jónsson 1985, I, 191-193.

[628] Sömu heimildir.

[629] Sömu heimildir.

[630] Vilmundur Jónsson 1985, I, 193.

[631] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 52.

[632] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.12.1898.

[633] Sama dagbók 28.10. – 30.12.1898.

[634] Sama dagbók 30.12.1898.

[635] Sama heimild.

[636] Sama heimild.  Örn.st. / Kr. G. Þorvaldsson 1949, 50-52.  Vilmundur Jónsson 1985, I, 192.

[637] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.12.1898.

[638] Sbr. Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 50.

[639] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.12. – 30.12.1898.

[640] Sama dagbók 30.12.1898.

[641] Vilmundur Jónsson 1985, I, 193-194.  Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 52-53.

[642] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 52-53.

[643] Sama heimild.

[644] Vilmundur Jónsson 1985, I, 193-194.

[645] Sama heimild.

[646] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 65.

[647] Sama heimild.

[648] Sama heimild.

[649] Sama heimild.

[650] Sama heimild.

[651] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 7-8.

[652] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 7-8.

[653] Sama heimild, 8.

[654] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók f. Suðureyrarhr. 1888-1902. Skýrsla um framtal til lausafjártíundar,

dags. 23.6.1900.

[655] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 2.

[656] Lbs 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 3.9.1898.

[657] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[658] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 65.

[659] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[660] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 215.

[661] Sama heimild.

[662] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 215.

[663] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 215.

[664] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 30-31 (Ársrit S.Í.).  Gunnar M. Magnúss 1977, 277 og 294-298.

[665] Sömu heimildir.

[666] Sömu heimildir.

[667] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 30-31 (Ársrit S.Í.).  Gunnar M. Magnúss 1977, 294-297.

[668] Sömu heimildir.

[669] Sömu heimildir.

[670] Sömu heimildir.

[671] Óskar Jónsson 1956, 33-36.

[672] Sama heimild, 35.

[673] Sama heimild.

[674] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir II, 517.

[675] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.3.1914.

[676] Gunnar M. Magnúss 1977, 277.

[677] Vestf. ættir II, 517.  Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.6.1913.

[678] Vestf. ættir II, 517.

[679] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[680] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 66.

[681] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.8.1914.

[682] G. M. Magnúss 1973 / Magnús Hjaltason, bls. 124-125.  Sbr. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súg.

[683] Sama heimild.

[684] Gunnar M. Magnúss 1973 / Magnús Hjaltason, bls. 124-125.

[685] Lbs. 22214to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 6.7.1902.

[686] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.8.1914.

[687] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 48.  Gunnar M. Magnúss 1977, 24.

[688] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 156.

[689] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 51.

[690] Gunnar M. Magnúss 1977, 24.

[691] Sama heimild.

[692] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 51.  Sbr. Manntal 1940.

[693] Sama heimild.

[694] Gunnar M. Magnús 1977, 36-39.

[695] Firðir og fólk 1900-1999,459.

[696] Gunnar M. Magnúss 1977, 24-25.

[697] Gunnar M. Magnúss 1977, 24-25.

[698] Sama heimild, 24 og 42.

[699] Gunnar M. Magnúss 1977, 24-25 og kjörskrá 1978.

[700] Gunnar M. Magnúss 1977, 38-39.

[701] Sama heimild, 30-33.  Sami 1984, II, 183-188 (Virkið í norðri, 2.  útgáfa).

[702] Sömu heimildir.

[703] Sömu heimildir.

[704] Sömu heimildir.

[705] Sömu heimildir.

[706] Sömu heimildir.

[707] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 153-154.

[708] Sama heimild, 156.

[709] Sama heimild.

[710] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 48.

[711] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 48.

[712] Sama heimild.

[713] Sama heimild.

[714] Sama heimild, 48 og 156.

[715] Sama heimild, 49.

[716] Sama heimild, 49-50.

[717] Sama heimild, 156.

[718] Sama heimild.

[719] Sama heimild.

[720] Sama heimild.

[721] Sama heimild.

[722] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.3.1900.

[723] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 65-66.

[724] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 65-66.

[725] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 156.

[726] Sama heimild, 155.

[727] Sama heimild.

[728] Sama heimild, 14 og 155.

[729] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 10.3.1900.

[730] Sama dagbók 12.3.1900.

[731] Sama heimild.

[732] Sama heimild.

[733] Sama heimild.

[734] Sama heimild.

[735] Sama heimild.

[736] Sama heimild.

[737] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 156.

[738] Sama heimild.

[739] Gunnar M. Magnúss 1977, 50.

[740] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 156.

[741] Sama heimild.

[742] Sama heimild.

[743] Sama heimild.

[744] Sama heimild.

[745] Sama heimild.

[746] Sama heimild.

[747] Sama heimild.

[748] Sama heimild, 153-154.

[749] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 17.4.1896.

[750] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 155.

[751] Sama heimild.

[752] Sama heimild.

[753] Sama heimild.

[754] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 64-65.

[755] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 155.

[756] Sama heimild.

[757] Sama heimild, 154-155.

[758] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 154.

[759] Sama heimild.

[760] Sama heimild.

[761] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 64.

[762] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 64.

[763] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 155.

[764] Sama heimild, 154.

[765] Sama heimild.

[766] Sama heimild.

[767] Sama heimild.

[768] Sama heimild.

[769] Sama heimild.

[770] Sama heimild.

[771] Sama heimild.

[772] Sama heimild.

[773] Sama heimild.

[774] Sama heimild.

[775] Sama heimild.

[776] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.4.1896 og 13.3.1898.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »