Kirkjuból

Að Kirkjubóli komum við frá Skógum en milli bæjanna var 15–20 mínútna gangur. Landamerkjunum milli þessara tveggja jarða hefur áður
verið lýst en Kirkjuból er eina jörðin í Mosdal sem á hvergi land að sjó. Hér í dalnum eiga Ós og Kirkjuból allt land innan við Ósá og landamerkin á móti Skógum (sjá Skógar) en Brunnalækur, sem fellur í Kirkjubólsá, skilur að lönd Kirkjubóls og Óss.[1] Beggja vegna við hann eru mýradrög og grónir melhólar og heitir það svæði Brunnar.[2] Frá læknum liggur merkjalínan í stefnu á Hrafnagjótu í Hálsinum en svo er nefndur sá hluti fjallsins innan við Mosdal sem næstur er bænum á Ósi.[3] Framan við Kirkjuból er fjallið klettalaust og heitir þar Flatafjall[4] en skoðað frá hinni hliðinni er það nefnt Urðarfjall.

Bærinn á Kirkjubóli stóð norðan ár og mjög skammt frá árbakkanum. Hlíðin sunnan við ána heitir Skálahlíð og fjallið Skálahlíðarfjall.[5] Dalurinn framan við túnið heitir Kirkjubólsdalur og um hann fellur Kirkjubólsá.[6] Í hana rennur Þverá sem kemur af Fjalldal[7] og eru ármótin um það bil 1500 metrum framan við Kirkjuból. Selið frá Kirkjubóli var skammt fyrir framan þau.[8] Seltóttirnar eru alveg við Kirkjubólsána og aðeins 100–200 metrum framan við Þverá. Þær sýna að hér hafa staðið tvö sambyggð hús, annað 6 x 2 og hitt 4 x 2 metrar. Fjallið fyrir botni Kirkjubólsdals heitir Þverfell.[9] Úr dalbotninum var farið upp með Kirkjubólsá, austan við Árgilið, á Kirkjubólsheiði, en um hana lá alfaravegur að Langabotni í Geirþjófsfirði.[10]

Kirkjuból og Horn voru tvær stærstu jarðirnar í Mosdal, 24 hundruð að dýrleika hvor, samkvæmt fornu mati.[11] Beitilandið á Kirkjubóli þótti kjarngott[12] og er dalurinn enn skógi vaxinn. Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að hér sé nægur skógur „til kolgjörðar og eldiviðar“ og frá því greint að ábúendur hafi nokkrar tekjur af sölu viðarkola.[13] Svo var enn í byrjun 19. aldar en fyrir tunnu af viðarkolum fengust þá aðeins tveir fiskar,[14] einn tuttugasti hluti úr ærverði. Hér munu tún og engjar hafa orðið fyrir allmiklum spjöllum af völdum árinnar[15] og vera má að bærinn hafi til forna staðið aðeins neðar, á eyrunum handan ár, en þar voru rústir er menn nefndu Litlakirkjuból[16] eða Fornakirkjuból.[17]

Í landi nágrannajarðarinnar Óss áttu þeir sem bjuggu á Kirkjubóli rétt á skipsuppsátri. Á móti þessu ítaki áttu bændur á Ósi rétt til hrísrifs og kolagerðar í Kirkjubólsskógi. Kirkjan á Rafnseyri átti hér líka skógarítak frá fornu fari. Hún eignaðist það eigi síðar en um miðbik 14. aldar[18] og virðist enn hafa notið þess á öldinni sem leið.[19] Fram skal tekið að skógur „til raftviðar“ var þó talinn aleyddur í byrjun 18. aldar.[20] Í hinum fornu máldögum er tekið fram að Rafnseyrarprestar megi sækja hingað á hverju hausti sextíu hestburði af skógarviði.[21] Í byrjun 18. aldar gat bóndinn á Karlsstöðum, gamalli hjáleigu frá Rafnseyri, líka nýtt sér hrís úr Kirkjubólsskógi. Framan við Skálahlíð, sem hér var áður nefnd, á móts við ármótin, eru gamlar kolagrafir sunnan ár og heitir þar Brennir.[22] Þar er nú skóglaust en í ungri heimild er staðhæft að þar hafi verkmenn staðarhaldaranna á Rafnseyri rifið hrís og gert til kola á fyrri tíð.[23]

Hér á Kirkjubóli var á öldum áður bænhús eða hálfkirkja[24] og er þar komin skýring á nafni jarðarinnar. Um bænhúsið er fyrst getið í heimild frá árinu 1397[25] og árið 1710 stóð hér enn uppi skemma sem nefnd var bænhús. Tíðir höfðu þó ekki verið sungnar í því húsi „í manna minni“.[26]Árið 1839 sáust enn merki um bænhúsið[27] og á fyrri hluta okkar aldar var í notkun skemma sem menn töldu hafa verið byggða upp úr bænhúsinu.[28] Hún var framan við bæinn og aðeins nær ánni.[29] Skemman stóð hornrétt á bæjarhúsin og þvert á gafl hennar var rétthyrndur þúfnareitur sem skar sig úr,[30] að líkindum gamall grafreitur, en allt var sléttað út þegar ráðist var í jarðabætur.[31]

Um 1440 var Kirkjuból í Mosdal ein hinna fjölmörgu jarða sem Guðmundur ríki Arason átti[32] en á síðari hluta sextándu aldar komst jörðin í eigu Þorláks Einarssonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði, og áttu niðjar hans hana lengi. Í þeim hópi voru systkinin Pétur og Ingibjörg Jónsbörn, sonarbörn sýslumannsins, en Pétur bjó hér árið 1681 og átti þá jörðina, einn eða með öðrum.[33] Á því ári var Ari Pálsson, eiginmaður nýnefndrar Ingibjargar, brenndur á Alþingi fyrir galdra.[34] Fimmtán árum síðar gaf Ingibjörg systursyni sínum, Þorleifi Hannessyni á Laugabóli hér í Mosdal, sex hundruð úr Kirkjubóli en hún gerðist þá próventukona hjá honum, hálfsjötug að aldri.[35] Bróðurdóttir Ingibjargar, Guðrún Pétursdóttir, átti aðra hálflenduna á Kirkjubóli enn árið 1710 en sú stúlka átti þá heima á Klett, hjáleigu frá Selárdal,[36] og hafði verið þar undir handarjaðri gamla prófastsins, séra Páls Björnssonar,[37] sem af mestu kappi leitaðist við að koma galdramönnum á bálið en hann andaðist árið 1706.[38]

Á síðari hluta átjándu aldar og fyrri hluta hinnar nítjándu var Kirkjuból löngum í leiguábúð[39] en um síðustu aldamót bjuggu hér tveir sjálfseignarbændur.[40] Þá var hér þríbýli[41] en hundrað árum fyrr voru býlin á Kirkjubóli fjögur.[42]

Úr röðum bændanna sem hér bjuggu á síðustu öld varð víðkunnastur Jóhannes Ólafsson „galdramaður“ er hóf hér búskap á árunum kringum 1810 og átti hér heima til æviloka en hann andaðist haustið 1855 og var þá um 75 ára aldur.[43] Er hann fæddist voru liðin nær hundrað ár frá síðustu galdrabrennunum en einstaka menn fengust enn við kukl og margir samtímamenn Jóhannesar töldu hann rammgöldróttan.[44] Jóhannes fæddist á Auðkúlu og var sonur hjónanna Ólafs Egilssonar og Vigdísar Eyjólfsdóttur er seinna reistu bú hér á Kirkjubóli.[45] Í beinan karllegg var hann þriðji maður frá Bjarna Guðmundssyni á Baulhúsum sem talinn var „mestur galdramaður í Arnarfirði“ um sína daga.[46]

Á árunum um og upp úr 1930 voru færðar í letur margar sögur af Jóhannesi galdramanni og eru þær prentaðar í Vestfirskum sögnum.[47] Þær sýna að flestir hafa talið Jóhannes nota kunnáttu sína til góðs og þá einkum við að lækna hugarvíl og kveða niður drauga. Stundum nægði það eitt að Jóhannes sendi kveðju eða koss en þyrfti meira við greip hann til uppvakninga og hinna ýmsu loftanda er hann hafði á valdi sínu.[48] Þar var Sortises einna fremstur í flokki og Tobbi sem sótti Haukadalsdrauginn illvíga.[49] Sumir óttuðust Jóhannes[50] og eitt sinn komst sá orðrómur á sveim að hann hefði með kunnáttu sinni sökkt báti á hafi úti og orðið a.m.k. tveimur mönnum að bana. Sagt var að Jón Steinhólm, hreppstjóri í Stapadal, hefði þá ætlað sér að taka Jóhannes fastan við messu á Rafnseyri en galdramaðurinn skynjað hvað í vændum var og læðst út úr kirkjunni „nokkru fyrir seinni blessunina“.[51]Að lokinni messu var hans leitað dyrum og dyngjum en karlinn fannst þá hvergi því prestsfrúin, móðir Jóns Sigurðssonar forseta, hafði falið hann í sýrukeri í búrinu.[52]

Drauga og sendingar sem Jóhannes náði taki á setti hann niður á ýmsum stöðum, m.a. við gamlan stekk í Hraunakverk sem einnig er nefnd Brunnakverk, alveg upp við hlíðina og rétt hjá landamerkjum Óss og Kirkjubóls.[53] Þar skammt frá er nú önnur stekkjartótt sem meira ber á því hún er yngri.[54] Galdrabækur sínar gróf hann hins vegar að lokum í Breiðárdal[55] þar sem áin breiðir úr sér skammt fyrir framan túnið á Kirkjubóli.[56] Að Jóhannesi önduðum dreymdi kunningja hans að gamli maðurinn kæmi til sín og kvæði vísu þessa:[57]

 

Vín og brauð er veglegur hlutur í vist himnanna,

gefur mér það guð að sanna.

Hann gleður oss með dýrð himnanna.

Við stöndum enn á hlaðinu á Kirkjubóli. Á fyrstu áratugum aldarinnar sem nú er að ljúka voru hér tveir bæir og aðeins sund á milli þeirra.[58] Árið 1959 féll jörðin í eyði[59] og bæjarrústirnar hafa nú verið sléttaðar út. Þar sem áður var fjós og hlaða standa tóttirnar hins vegar enn, örskammt frá bæjarhólnum en nær ánni. Ofan við hann blasir við augum Hreðusteinn er svo var nefndur.[60] Hann stendur hér einn sér, alveg stakur, og nær upp fyrir hné á fullvöxnum karlmanni. Sagt var að í steininum byggi huldufólk og líka í klettum ofan við grasteigana Krossavelli í hlíðinni norðan við dalinn.[61] Hér kveðjum við Kirkjuból og röltum niður að Ósi, sem stendur örskammt frá sjó, en milli bæjanna var hálfur annar kílómetri.

 

[1] ÖÖ.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild.

[4] PSig KÓ 2.7.1998.

[5] ÖÖ.

[6] Sama heimild.

[7] ÁgSig KÓ 3.9.1997.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Jb. Á. og P. VII, 4–8.

[12] ÞN 1951, 161 (Árbók F.Í.).

[13] Jb. Á. og P. VII, 7–8.

[14] Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805.

[15] Jb. Á. og P. VII, 7–8.

[16] Sama heimild.

[17] ÖÖ.

[18] D.I. III, 198.

[19] Sóknalýs. Vestfj. II, 35. Sbr. D.I. XV, 578–579.

[20] Jb. Á. og P. VII, 7–8.

[21] D.I. III, 198 og XV, 578–579.

[22] ÖÖ.

[23] Sama heimild.

[24] Jb. Á. og P. VII, 7.

[25] D.I. IV, 146. Sbr. D.I. XV, 578–579.

[26] Jb. Á. og P. VII, 7.

[27] Sóknalýs. Vestfj. II, 18.

[28] ÖÖ.

[29] PSig KÓ 2.7.1998.

[30] ÖÖ.

[31] Sama heimild.

[32] D.I. IV, 683–694.

[33] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Lbs. 797 4to. Jarðaskrár úr Ísafjs. frá árunum 1658 og   1695. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, bls. 163–164 og 177. Ísl. æviskrár V, 155. Lögrmtal, bls. 344–345.

[34] Sömu heimildir. Sjá Lokinhamrar.

[35] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, bls. 177 (Kph. 1993). Manntal 1703.

[36] Jb. Á. og P. VII, 7 og XIII, 304. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, bls.176. Sbr. Alþb. Ísl. XII, 435.

[37] Manntal 1703, 184–185.

[38] Ísl. æviskrár IV, 111–112.

[39] Manntal 1762. Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. JJ 1847, 191.

[40] Manntal 1901 og fylgiskjöl.

[41] Sama heimild.

[42] Manntal 1801.

[43] Manntöl 1816 og 1845. Vestf. sagnir I, 193–194. Prþjb. Rafnseyrar. Sbr. Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805.

[44] Vestf. sagnir I, 193–235.

[45] Sama heimild, bls. 193–194. Manntal 1801, vesturamt, bls. 261.

[46] Vestf. sagnir I, 194 og 197.

[47] Sama heimild, bls. 193–235.

[48] Sama heimild, bls. 199–222 og II, 293–301. ÞErl 1954, 37–50.

[49] Sama heimild I, 202–209.

[50] Þjóðs. ÓD II, 260–264.

[51] Vestf. sagnir I, 214–216.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild, bls. 202. ÖÖ.

[54] ÖÖ.

[55] ÁgSig KÓ 3.9.1997.

[56] ÁgSig KÓ 3.9.1997.

[57] ÖÖ. Vestf. sagnir I, 234.

[58] PSig KÓ 2.7.1998.

[59] Firðir og fólk 1900-1999, 112.

[60] ÖÖ.

[61] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »