Kollsvík og Kollsvíkurver

Kollsvík og Kollsvíkurver

Í Kollsvík eru tvær fornar bújarðir, Láginúpur og jörðin Kollsvík sem fyrr á öldum hét Kirkjuból. Á báðum þessum jörðum er enn búið (1988). Láginúpur er syðst í víkinni en Kollsvík nyrst og tveir kílómetrar á milli bæja.

Norðan við Breiðinn lækkar landið niður í 50-100 metra hæð. Þar liggur Vatnadalur og í honum tvö lítil stöðuvötn en með sjónum klettabrún sem ber nafnið Hnífar og nær norður að Hreggnasa við sunnanverða Kollsvík. Uppi á Hnífum er mikið graslendi og er þar sumarfagurt. Þangað er örskammt frá Láganúpi. Í Hnífum verpir fýll.

Frá bænum Kollsvík lá gömul þjóðleið í austurátt yfir Hænuvíkurháls til Hænuvíkur við Patreksfjörð. Þar er nú akvegur og liggur í um 320 metra hæð, átta til tíu kílómetrar milli bæja.

Aðrar helstu leiðir frá Kollsvík voru á fyrri tíð Tunguheiði yfir að Tungu í Örlygshöfn og leið yfir Víknafjall[1] og síðan um Brúðgumaskarð (sjá hér Sauðlauksdalur) til Keflavíkur eða úr Brúðgumaskarði um Kerlingaháls að Naustabrekku á Rauðasandi. Um Breiðavíkurháls var áður getið (sjá hér Breiðavík). Yfir Tunguheiði eru ellefu til tólf kílómetrar milli bæja og farið hæst í 275 metra hæð en leiðin frá Kollsvík til Keflavíkur er um fjórtán kílómetrar og nær átján að Naustabrekku (sjá hér Lambavatn og Naustabrekka – Keflavík  og hinir mörgu fjallvegir).

Norðan við Kollsvík og Hænuvíkurháls er fjallið Blakkur[2] og snýr norðausturhlið að Patreksfjarðarflóa. Ysti oddi fjallsins rís sæbrattur í liðlega 280 metra hæð og heitir Blakknes (eldra nafn er Straumnes). Með sjó eru aðeins þrír kílómetrar frá Kollsvík út á Blakknes þar sem opnast Patreksfjörður og við blasa Selárdalshlíðar norðan Patreksfjarðarflóa. Við Blakknesið eru mörk milli Útvíkna og Patreksfjarðar.

Í Landnámu er sagt að Kollur, fóstbróðir Örlygs Hrappssonar, hafi farið með honum frá Noregi út til Íslands. Til landtöku hét Örlygur á Patrek biskup og náði Örlygshöfn. Kollur hét á Þór. – Þá skildi í storminum og kom hann þar sem Kollsvík heitir og braut hann þar skip sitt, segir í Hauksbók Landnámu.[3] Þegar Örlygur fór brott af þessum slóðum varð Kollur eftir og bjó í Kollsvík.[4] Telst hann hér landnámsmaður.

Í byrjun 18. aldar voru fjögur býli í Kollsvík. Voru það Láginúpur og jörðin Kollsvík, hinar tvær fornu bújarðir, en auk þess höfðu byggst á 17. öld tvær hjáleigur úr landi Láganúps. Hét önnur hjáleigan Hólar en hin Grundir.[5] Í Jarðabók Árna og Páls segir að Grundir hafi byggst fyrir um það bil 50 árum (þ.e. um 1650) þar sem áður var stekkur en Hólar um svipað leyti í heimatúninu.[6] Hjáleigan Hólar mun snemma hafa fallið úr byggð, máske strax í stórubólu árið 1707. Enginn er þar á manntali 1801 en enn heita Hólar í Láganúpstúni þar sem Hólabærinn stóð, uppi í hallanum og utan við gilið, rétt suðvestan við bæinn á Láganúpi.[7]

Á Grundum var aftur á móti búið fram undir miðja 20. öld. Í sóknarlýsingu frá 1840 eru Grundir taldar níu hundruð að dýrleika eins og Láginúpur. Grundabærinn stóð skammt frá sjó, dálítið sunnan (vestan) við ána sem rennur um miðja víkina en áin skipti áður löndum milli Kollsvíkur að norðan og Láganúps og Grunda að sunnan. Grundabakkar kallaðist tómthús sem búið var í um skeið á fyrsta þriðjungi 20. aldar. Stóð húsið alveg á sjávarbakkanum í jaðri Grundatúnsins, norður frá Grundabænum. Þórarinn Árnason er bjó á Grundabökkum var eini heimilisfaðirinn í Kollsvík á þeim árum sem enga hafði kúna.[8]

Grund var enn eitt býli í landi Láganúps og má ekki rugla saman við Grundir. Grundarbærinn stóð rétt norðan við Láganúp og má enn (1988) sjá tóttarbrot af bænum rétt norðan við hliðið, sjávarmegin þegar ekið er heim að Láganúpi. Á Grund byggði fyrstur Samúel Eggertsson, kennari og skrautritari, upp úr aldamótunum 1900 og þar var búið til 1939.[9]  Um skeið var Grund stundum kölluð Júllamelur og þá kennd við síðasta ábúandann þar Kristján Júlíus Kristjánsson, síðar í Efri-Tungu.[10] Fyrr á tímum var mikið útræði frá Láganúpsveri (sjá hér bls. 5-6).

Jörðin Kollsvík stendur norðantil í víkinni og hét áður Kirkjuból. Í skiptabréfi Ólafar ríku Loftsdóttur frá árinu 1480 er getið um Kirkjuból í Kollsvík.[11] Í Jarðabók Árna og Páls segir að hálfkirkja hafi verið í Kollsvík fyrir siðaskipti[12] og þarf þá ekki langt að leita skýringa á Kirkjubólsnafninu. Fleiri heimildir benda til þess að hálfkirkja eða annað guðshús hafi verið í Kollsvík og þar hafa líka fundist leifar af grafreit.[13]

Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar er jörðin nefnd Kollsvík en síðar á sömu öld hefur Kirkjubólsnafnið þó einnig verið við lýði. Í sýslulýsingu Ólafs Árnasonar frá árinu 1746 segir að í Kollsvík séu tveir bæir, Kirkjuból og Láginúpur.[14] Bendir þetta til þess að á 18. öld hafi jörðin ýmist verið nefnd Kollsvík eða Kirkjuból. Löngu síðar var enn reynt að endurvekja Kirkjubólsnafnið en sýnist ekki hafa borið árangur.

Um aldamótin 1900 byggðust nokkur grasbýli og þurrabúðir í landi Kollsvíkur, Stekkjarmelur, Tröð, Grænamýri og Stóri-Melur. Stekkjarmelur var lengst í byggð af þessum býlum og stóð rétt norðan við ána sem fellur um miðja víkina. Þar standa hús enn (1988) uppi. Á Stekkjarmel byggði fyrst um aldamótin 1900 Jens Jónsson. Býlið var þá stundum nefnt Jensmelur. Jens þessi fluttist til Ameríku fáum árum síðar ásamt konu sinni Ottelíu Guðbjartsdóttur. Upp úr 1950 byggði Ingvar Guðbjartsson upp nýbýli á Stekkjarmel. Hurfu þá Grundir úr tölu lögbýla en Stekkjarmelur fékk land þeirra og einnig lítið eitt úr Kollsvíkurlandi.[15] Búskapur féll niður á Stekkjarmel 1962 en jörðin telst enn lögbýli og fólk átti þar lögheimili fram undir 1980.

Býlið Tröð í landi Kollsvíkur byggðist fyrst undir lok 19. aldar, þar sem áður var stöðull eða nátthagi, rétt sunnan við bæinn í Kollsvík. Væri komið þjóðveginn yfir Hænuvíkurháls var Tröð fyrsta býlið í Kollsvík sem komið var að og enn stendur þar hlaðinn túngarður rétt við akveginn. Búið var í Tröð til 1952 og þar voru um skeið tvö heimili.

Stórimelur hét lítið býli í Kollsvíkurlandi þar sem aðeins var búið í nokkur ár kringum 1910. Býli þetta var rétt vestan við Búðalækinn í Kollsvíkurveri, skammt frá sjó. Þar eru nú fjárhústóttir.[16] Þarna var glímuvöllur áður en býlið var reist og kotið því stundum kallað Strákamelur en líka Gestarmelur eftir nafni ábúandans.

Grænamýri var líka hjáleiga á þessum slóðum og stóð í norðvesturátt frá bænum í Kollsvík, ekki langt frá sjó. Þarna hófst búskapur fyrir 1910 og var búið þar fram yfir 1920.

Fleiri gætu kotin hafa verið í Kollsvík þó að flest muni nú talin. Þegar byggðin var mest í víkinni, frá því upp úr 1890 og fram yfir 1920, var yfirleitt tvíbýli á sjálfri heimajörðinni í Kollsvík, auk grasbýlanna sem hér hafa verið nefnd. Einhver dæmi voru líka þess að menn hefðust við árið um kring í verbúðum eða öðrum kofum í Kollsvíkurveri. Þar bjó Magnús Jónsson einn í kofa ofarlega í verinu á árunum milli 1930 og 1940. Sagt er að hann hafi smíðað líkkistu konu sinnar löngu áður en konan dó og kistan hangið ærið lengi uppi í kofanum.

Árið 1910 voru tíu heimili í allri víkinni og þá áttu hér heima 84 manneskjur.[17] Sjósókn stóð þá með blóma frá Kollsvíkurveri en um róðra þaðan verður fjallað sérstaklega hér litlu aftar (sjá bls. 5-9). Árið 1920 var íbúatalan komin niður í 64 og árið 1930 niður í 49.[18]

Um Kollsvík segir í Jarðabók Árna og Páls að hér kunni að fóðrast 4 kýr og 12 lömb en öðru fé sé ætlað að lifa á útigangi. Hætta er talin á skriðum og sífellt grjótfall á vetrum.[19]

Þann 3. desember 1857 hrundi baðstofan í Kollsvík. Biðu tvær manneskjur bana, Gísli Gíslason, 20 ára, og Ingibjörg Bjarnadóttir, 57 ára, en öðrum tókst að bjarga úr rústunum, sumum þó illa slösuðum og hinum síðustu ekki fyrr en eftir hálfan þriðja sólarhring.[20] Gísli Konráðsson getur atburðar þessa og skýrir frá á þessa leið:

 

Vindur var norðan og mjög hvasst en frost hart og kafald allmikið. Allt í einu kom þytur á baðstofuna, er var 12 álna löng, svo að í sama vetfangi féll í grunn niður og hver spýta mölbrotin. Þakið sem var gaddfreðið féll niður með viðunum, sumt inn í tóttina, sumt hjá henni og nokkur hluti þaksins hafði með viðarbrotunum kastast 15 faðma langt út á völl.[21]

 

Ekki hafa menn verið á eitt sáttir um hvað í raun olli hruni baðstofunnar en séra Bjarni Símonarson á Brjánslæk komst síðar svo að orði í líkræðu yfir einum þeirra sem þarna björguðust að skýstrokkur hafi grandað bænum.[22] Í Vestfirskum sögnum má sjá að sumir hafa talið að um gerningaveður hafi verið að ræða og er þar m.a. ritað svo um atburð þennan:

 

Allgott veður var í Kollsvík umræddan dag fyrir og eftir gerningaveður þetta, sem kennt var fítonsanda, einum eða fleirum, er sendur var bóndanum í Kollsvík frá manni, sem bóndi átti sökótt við. Hófust deilur þeirra út af aflabrögðum á vorvertíð umrætt ár og hótaði sá, er fyrir barði varð, að senda bónda sendingu, er jafnaði metin milli þeirra.[23]

 

Guðbjartur Ólafsson var annar tveggja ábúenda í Kollsvík á þessum tíma, þá 27 ára, og átti sendingin að vera honum ætluð.

Við Kollsvík er kennd Kollsvíkurætt, fjölmennur niðjahópur Einars Jónssonar, bónda í Kollsvík, sem fæddur var árið 1759. Árið 1960 kom út bókin Kollsvíkurætt eftir Trausta Ólafsson prófessor og geymir niðjatal Einars. Börn átti hann með þremur konum, eiginkonunni Guðrúnu Jónsdóttur og að auk einn son með Guðrúnu Þórðardóttur og annan með Sigríði Bjarnadóttur.

Einar Jónsson bjó á allri Kollsvíkurjörðinni frá 1797 eða 1798 til dauðadags 1836.[24] Hann var opinber ákærandi heima í héraði í réttarhöldunum yfir Bjarna og Steinunni á Sjöundá[25] (sjá hér Sjöundá) og í skáldsögunni Svartfugli jafnan nefndur monsiör Einar.

Árið 1802 var fádæma hart um land allt. Lá hafís við land frá því í janúar og fram á höfuðdag. Margir flosnuðu upp og lentu á vergangi. Á Vestfjörðum var veturinn 1801-1802 kallaður Klaki (sjá hér Sjöundá).

Um sumarmál 1802 var Einar í Kollsvík á sjó með mönnum sínum og fundu þeir þá dauðan hval sem þeir náðu að festa við bátinn. Þungt var að róa stórhvelið í land á lítilli bátsskel. Tók sá flutningur að sögn fulla viku. Var hvalurinn aldrei yfirgefinn allan þann tíma en mönnum færður matur og drykkur úr landi.[26] Var hvalur þessi nefndur Þæfingur og voru á honum 200 vættir, segir í Annál nítjándu aldar,[27] en það eru 8000 kíló. Vel hefur munað um þennan matarforða í harðindunum.

Einar í Kollsvík var búhöldur en mun einnig hafa átt meira af bókum en almennt gerðist. Meðal þeirra var dönsk bók er hét Jesus og Fornuften eða Jesú og skynsemin. Var bókin af ýmsum talin villurit en Einari mun hafa líkað efni hennar vel og var haft á orði að bóndinn í Kollsvík væri fríþenkjari. Að sögn Gísla Konráðssonar orti Bjarni Þórðarson á Siglunesi sálm til Einars og nefndist fríþenkjarasálmur.[28] Um aldamótin 1900 var börnum og unglingum í Útvíkum enn sögð sagan um Fornótt, bókina sem Einar gamli í Kollsvík hefði átt og geymt vandlega.[29] Danska orðið yfir skynsemi hafði þá breyst í þetta sérkennilega heiti Fornótt og gerði það bókina enn dularfyllri.

Upp úr miðri 19. öld bjuggu í Kollsvík hjónin Guðbjartur Ólafsson og Guðrún Anna Magdalena Kolvig Halldórsdóttir, sonardóttir gamla Einars Jónssonar. Hafa niðjar þeirra verið fjölmennir í Kollsvík æ síðan. Þegar Guðbjartur lá banaleguna árið 1879 lét hann jafnan sækja vatn sér til styrkingar í Gvendarbrunn, lind eina skammt norðan við bæinn í Kollsvík.[30]

 

Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar er sagt að heimræði sé frá Kollsvík árið um kring. Hér var þá tvíbýli og gerðu bændurnir út tvo smábáta hvor á vertíðinni. Auk þess bjó einn húsmaður sem lifði nær eingöngu á sjávarafla og átti hann sinn eigin bát. Heimabátar voru því fimm í Kollsvík.[31] Tekið er fram í Jarðabókinni að í Kollsvík sé hins vegar engin verstaða né hafi verið, nema hvað stundum hafi tveir aðkomubátar róið héðan og nú eitt þriggja manna far í eigu Ara Þorkelssonar, sýslumanns í Haga.[32]

Af þessu er ljóst að fyrir 1700 hefur tæplega verið unnt að tala um verstöð í Kollsvík. Hins vegar hafði Láganúpsver, sunnar í víkinni, áður staðið með blóma en var nú í hnignum. Um Láganúpsver segir m.a. svo í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1703:

 

Vermannabúðir hafa þar tilforna verið 18. Nú eru þar uppi 4ar, sem þessar inntökuskipshafnir liggja við. Við til þeirra leggur landeigandi [sem var Saurbæjarkirkja – innsk. K.Ó.]. Sumum af þessum búðum hefur tilforna ketill fylgt, nú öngum. Lyng til eldiviðar rífa vermennirnir í Láganúpslandi, frí. Þar er engin skipleiga. Einn skiphlutur. … Lending í Láganúpslandi er nærri ótæk sökum brims og grynninga. Seila menn allan fenginn út og flytja svo skipin í eina lending, sem er í Kollsvíkurlandi og setja þau þar upp. … Beita er maðkur og brandkóð (smálækjarsilungur). Item heilagfiski á vor.[33]

 

Alls gengu sjö bátar frá Láganúpsveri á vertíð 1703, allt 3ja til 5 manna för. Þrír bátanna voru mannaðir heimamönnum á Láganúpi, Hólum og Grundum en fjórar skipshafnir voru frá bæjum í Patreksfirði.[34] Fjóra af bátunum sjö átti Guðrún ríka Eggertsdóttir í Saurbæ. Vertollurinn var tíu kíló af þorski og önnur tíu af steinbít á hvern útróðramann og hefur þetta svo verið í langvarandi tíma, segir í Jarðabókinni.[35] Vegna fiskleysis hafði vertollur einhverra þó verið lækkaður um fjórðung og felldur niður hjá heimamönnum sem áður guldu hálfan toll.[36] Augljóst er af lýsingunni á Láganúpsveri að þar var farið að halla undan fæti í byrjun 18. aldar, enda ólendandi svo að setja varð bátana í landi Kollsvíkur.

Um miðja 18. öld var þó enn róið frá Láganúpsveri en þá er líka risin önnur verstöð í Kollsvík. Um þetta vitnar Ólafur sýslumaður Árnason en hann segir í sýslulýsingu frá 1746 að bæði við Kirkjuból (þ.e. Kollsvík) og Láganúp séu verbúðir við sjóinn og þaðan rói menn á vorin frá ýmsum hreppum sýslunnar.[37]

Róðrum frá Láganúpi mun hafa verið hætt fyrir lok 18. aldar en á fyrsta þriðjungi 19. aldar voru ellefu og tólf bátar við róðra í Kollsvíkurveri á vorvertíð.[38] Þar var vertollurinn þá 15 steinbítar á mann.[39]

Í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal frá árinu 1840 er ekki getið um Kollsvíkurver en sagt að allir innlendir og af Barðaströnd rói frá Brunnum, Látrum og Breiðavík (sjá hér Hvallátur við Látrabjarg og verstöðin Brunnar). Mun útræði frá Kollsvíkurveri hafa lagst algerlega niður um nokkurra áratuga skeið og ekki hafa hafist á ný fyrr en um eða eftir 1880.[40] Nálægt 1890 dró mjög úr sjósókn frá Látrum og Brunnum og varð Kollsvíkurver þá helsta veiðistöðin í Rauðasandshreppi. Um aldamótin 1900 reru héðan a.m.k. 16 bátar[41] og í einni heimild er bátafjöldinn þá sagður hafa komist upp í 25.[42]

Gott hefði verið að hafa gleggri upplýsingar um ástæður þess að útræðið færðist frá Brunnum til Kollsvíkur. Þrennt má hér nefna sem allt sýnist reyndar liggja í augum uppi. Í Kollsvíkurveri var langtum auðveldara að koma upp og viðhalda verbúðum heldur en á berum sandinum á Brunnum. Í öðru lagi var lending betri í Kollsvík og í þriðja lagi losnuðu þeir sem þar reru við Látraröstina. Einnig gætu vertollar hafa ráðið nokkru um þessa breytingu en um 1880 voru þeir enn allháir á Látrum og Brunnum (sjá hér Hvallátur við Látrabjarg og verstöðin Brunnar).

Fyrstu þrjá áratugi tuttugustu aldar stundaði fjöldi aðkomubáta sjó frá Kollsvíkurveri á vorvertíð og má fullyrða að þeir hafi verið milli tuttugu og þrjátíu þegar flest var. Kunnugt er um yfir 20 verbúðir frá þessu tímaskeiði og voru tvær skipshafnir í sumum þeirra.[43] Um 1930 hættu aðkomubátar róðrum frá Kollsvíkurveri en heimamenn reru héðan fram yfir 1940. Úr verinu var sjór eingöngu sóttur á árabátum nema hvað einstaka maður var kominn með vél í bátinn allra síðustu árin. Davíð Jónsson, sem um skeið bjó á Kóngsengjum (sjá hér Örlygshöfn), reri fyrir 1930 á vélbát úr Kollsvíkurveri og var Ólafur Magnússon á Hnjóti háseti hjá honum.[44] Svo sem áður sagði héldu heimamenn í Kollsvík áfram róðrum þó að sjósókn aðkomumanna úr verinu legðist af.

Um 1940 voru enn gerðir út sex eða sjö heimabátar frá bæjunum í Kollsvík. Þá voru komnar vélar í þessa báta en á árunum milli 1930 og 1940 var enn deilt af kappi í Kollsvík um það hvort borgaði sig að fá vélar í bátana, enda stutt á miðin.[45]

Á árum heimsstyrjaldarinnar síðari var farið að fara með aflann úr hverjum róðri inn á Patreksfjörð og honum landað í skip sem sigldu með hann til Englands.[46] Fengu menn þá strax greitt fyrir aflann í peningum og var það nýjung. Að stríðinu loknu var sjósókn að mestu hætt frá Kollsvík nema hvað menn skutust fram stöku sinnum til að fá sér í soðið.[47]

Ítarlegast hefur Kristján Júlíus Kristjánsson, bóndi í Efri-Tungu í Örlygshöfn, ritað um Kollsvíkurver á tímaskeiðinu frá 1890 til 1930. Hafði hann sjálfur verið formaður hér í verinu. Ritgerð Kristjáns birtist í tíunda árgangi Árbókar Barðastrandarsýslu og fylgdi henni vönduð og nákvæm teikning af verinu eftir Gunnar Össurarson, húsasmíðameistara frá Kollsvík. Áhugamönnum um verið er skylt að vísa á þessar góðu heimildir en það litla sem hér verður nú sagt um Kollsvíkurver er byggt á ritgerð Kristjáns án þess að til hennar sé vísað hverju sinni.[48]

Örskammt er frá bænum í Kollsvík niður á sjávargrundina þar sem enn má sjá verbúðatóttir og margvísleg ummerki fyrri umsvifa á þessum stað. Lendingin var að kalla beint niður undan bænum, milli tveggja skerja, Þórðarskers að norðan og Selkolluhleinar að sunnan. Um hálffallinn sjó kemur upp skerjagarður svo sem 500 metrum frá landi og heita Bjarnarklakkar. Um þrjár leiðir var að velja til lendingar í verinu, Grunnleið, Miðleið og Syðstuleið og þótti sú síðastnefnda öruggust. Var þá farið milli Miðklakks og Selkolls en Miðklakkur er launboði sunnan við Bjarnarklakka.

Brimasamt var í Kollsvíkurveri, enda liggur víkin fyrir opnu hafi, en innan við boða og sker myndaðist allgott lægi, einkum um lágsjávað. Oft hamlaði norðanátt sjósókn. Ósætt var talið á sjó ef grunnbrot féll á Giljaboða og Þembu og lenda átti í verinu. Upp frá lendingunni er svolítill bás, 50-100 metrar á breidd, milli Syðri– og Norðari-kletta. Þar var uppsátur bátanna en á grundunum ofan við fjöruna voru verbúðir, ruðningar til fiskaðgerðar, fiskkrær sem saltað var í, fiskreitar, steinbítshjallar, hrýgjugarðar, salthús og brunnhús.

Tveir lækir runnu um Kollsvíkurver, Búðalækur og Syðstilækur, og þeir sem voru í nyrstu verbúðunum gerðu að og söltuðu sinn fisk við Breiðalæk, aðeins norðar. Nyrstu verbúðirnar voru nyrst á Norðari-klettum en þær syðstu skammt fyrir norðan Syðstalæk og lengra frá sjó. Hver verbúð hafði sitt nafn og voru þau m.a. Norðurpóll, Napi (eða Napandi), Klettabúð, Grundabúð, Láganúpsbúð, Heimamannabúð, Eva, Meinþröng, Jerúsalem, Jerikó og Sódóma. Fyrir aldamótin 1900 bjó þurrabúðarfjölskylda um skeið í verbúðinni Napa.

Þorskur sem veiddist í Kollsvíkurveri á þessum árum var saltaður en steinbítur hertur. Hersla steinbítsins fór fram með nokkuð öðrum hætti en verið hafði á Brunnum (sbr. hér Hvallátur við Látrabjarg og verstöðin Brunnar). Hlaðnir voru fjórir steinstólpar, sem mynduðu ferning, og hjallatré lögð á þá. Síðan voru rár lagðar á þessi hjallatré og steinbíturinn hengdur á rárnar.

Vertíð byrjaði í Kollsvíkurveri um sumarmál og stóð fram í byrjun júlí. Kristján Júlíus Kristjánsson segir í ritgerð sinni að skipt hafi verið í fimm hluti og má því álykta að bátarnir hafi yfirleitt verið fjögra manna för. Fyrrum var aðeins róið með handfæri en árið 1894 hófst lóðafiskirí og var það Hákon Jónsson á Hnjóti í Örlygshöfn sem fyrstur byrjaði með lóðir í verinu. Varð lóðanotkun brátt almenn. Hundrað önglar voru á hverri lóð og róið með átta til tíu lóðir. Skammt var á miðin, bara fram á Víkina og rétt suður með Hnífum. Róið var tvisvar á dag og línan lögð tvívegis í hverjum róðri. Yfirleitt tók hver róður 5 til 6 klukkutíma en með aðgerð og öllum frágangi gat vinnutíminn orðið 18 klukkustundir. Dæmi voru þess að þrír róðrar væru teknir í lotu. 200 fiskar í róðri þótti góður afli. Þegar komið var að landi var fiskurinn seilaður. Á hverri seilaról þótti hæfilegt að hafa tuttugu þorska eða tíu steinbíta. Ólarnar voru byrðarólar og í þeim var fiskurinn borinn til ruðnings þar sem aðgerð fór fram.

Beitan var nær eingöngu kúfiskur og var hann oftast sóttur inn í Skersbug í Patreksfirði.

Um aldamótin 1900 áttu Útvíknamenn hákarlaskip sem Fönix hét. Á honum var saltið sótt til Patreksfjarðar og einnig var Fönix eitthvað notaður við flutning á fiski að vertíð lokinni. Seinna tóku vélbátar við þessum verkefnum. Árið 1920 var nýr Fönix smíðaður á Bíldudal fyrir Kollsvíkinga, þriggja lesta vélbátur, og var nær eingöngu notaður til flutninga, m.a. til að flytja kúfiskinn innan úr Skersbug. Þetta var fyrsti vélbáturinn sem bændur í Rauðasandshreppi eignuðust.[49]Í Kollsvíkurveri má enn sjá naust gamla Fönixar beint upp frá lendingunni, um það bil miðja vega milli Búðalækjar og Syðstalækjar.

Saltfiskurinn úr Kollsvík var seldur til Patreksfjarðar eða fluttur beint í skip til útflutnings. Meðan Milljónafélagið stóð fyrir atvinnurekstri á Patreksfirði á árunum 1907-1914 lét það reisa timburhús með járnþaki í Kollsvík til að geyma í bæði salt og fisk.

Steinbítinn og annað fiskmeti til heimilanna flutti hver og einn til síns heima í vertíðarlok. Munu Barðstrendingar hafa flutt sinn afla sjóleiðis í Patreksfjarðarbotn en síðan á hestum yfir Kleifaheiði. Báta sína geymdu þeir yfir veturinn innst í Patreksfirði (sjá hér Vestur Botn, Hlaðseyri og Raknadalur).

Árið 1927 var hæsti vorhlutur í Kollsvíkurveri 870,- krónur og þótti mjög gott. Lágmarksdagvinnutímakaup verkamanna var þá 1,20 krónur.

Pétur Jónsson frá Stökkum segir að í Kollsvíkurver hafi verið sótt til róðra víðsvegar að.[50] Bændur af Barðaströnd munu flestir hafa róið úr Kollsvíkurveri eða sent hingað vinnumenn sína[51] og úr Rauðasandshreppi reru margir úr verinu. Tiltækar heimildir vitna ekki um báta úr öðrum byggðarlögum.

Í ritgerð sinni um Kollsvíkurver greinir Kristján Júlíus Kristjánsson frá tveimur slysum, er hér urðu á tímabilinu frá 1890 til 1930.

Þann 5. apríl 1904 drukknaði Torfi Jónsson, bóndi í Kollsvík, í Snorralendingu, skammt sunnan við verið. Var Torfi að koma úr kaupstaðarferð á Patreksfjörð og voru fimm eða sex saman á bátnum og Torfi formaður. Er bátnum hvolfdi í lendingu komust hinir á kjöl og náðu landi. Torfi var tæplega 47 ára er hann drukknaði og lét eftir sig ellefu börn, hið elsta sautján ára.

Fimmtán árum síðar, 1. apríl 1919, drukknaði Guðmundur Össurarson, 17 ára bóndasonur frá Láganúpi, í Kollsvíkurlendingu. Höfðu Guðmundur og nokkrir aðrir úr Kollsvík farið út í Breiðavíkurver að sækja lifrarhluti, sem þeir áttu þar, úr hákarlalegu er farin var fáum dögum áður. Er heim kom hvolfdi bátnum í brimlendingu og drukknaði Guðmundur en hinum tókst að bjarga.

Hvorugt þessara slysa varð í fiskiróðri. Kollsvíkurver er síðasti áfangastaður okkar í Útvíkum. Við stöldrum við á syðra horni Norðari-Kletta, rétt norðan við Búðalækinn. Hér voru formennirnir í verinu vanir að safnast saman til að bræða veðrið þegar sjóveður var ekki einsýnt. Aldrei mátti kappið bera forsjána ofurliði. Héðan virtu þeir fyrir sér himin og haf og réðu ráðum sínum. Reynsla kynslóðanna var runnin þeim í merg og bein. Öll litbrigði og sérhver hræring lofts og lagar hafði merkingu við mat á tvísýnu veðurútliti. Væri róður ráðinn gengu þeir til búða og kölluðu menn sína. Þá var mál að sjóklæðast.

Alla formennina sem héðan reru kveðjum við á fundarstað þeirra á Norðari-klettum og höldum síðan akveginn yfir Hænuvíkurháls. Myndir horfinnar tíðar fylgja okkur á veg.        – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Össur Guðbjartsson Láganúpi. – Viðtal K.Ó við hann 9.8. 1988.

[2] Pétur Jónsson 1942, 99 (Barðstrendingabók).

[3] Íslensk fornrit I, 53 og 55.

[4] Sama heimild, 54 og 175.

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 314.

[6] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 314.

[7] Össur Guðbjartsson. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Lýður Björnsson 1967, 38 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[12] Jarðab. Á. og P. VI, 316.

[13] Lýður Björnsson 1967, 39.

[14] Sýslulýsingar 1744-1749, 148 (gefnar út 1957).

[15] Össur Guðbjartsson. – Viðtal K.Ó. við hann 9.8.1988.

[16] Sama heimild, 10.8.1988.

[17] Sóknarmannatöl Sauðlauksdalsprestakalls.

[18] Sömu heimildir.

[19] Jarðab. Á. og P. VI, 317.

[20] Össur Guðbjartsson 1953, 95-98 (Árbók Barð.).  Trausti Ólafsson 1954, 50-55 (Árbók Barð.).

[21] Lbs. 4034to, bls. 137-139.

[22] Jóhann Skaptason 1953, 99 (Árbók Barð.).

[23] Vestfirskar sagnir III, 361-362.

[24] Trausti Ólafsson 1960, 1.

[25] Sama heimild, 2-3.

[26] Trausti Ólafsson 1960, 221-222.

[27] Trausti Ólafsson 1960, 221-222. Annáll nítjándu aldar I, 27.

[28] Trausti Ólafsson 1960, 2.

[29] Sama heimild.

[30] Össur Guðbjartsson. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[31] Jarðab. Á. og P. VI, 317.

[32] Sama heimild.

[33] Jarðab. Á. og P. VI, 316.

[34] Jarðab. Á. og P. VI, 315-316.

[35] Sama heimild, 316.

[36] Sama heimild.

[37] Sýslulýsingar 1744-1749, 148 (gefnar út 1957).

[38] Trausti Ólafsson 1960, 1-2.

[39] Sama heimild.

[40] Lúðvík Kristjánsson 1982, 54.

[41] Bjarni Sæmundsson 1903: Andvari XXVIII, 112.

[42] Pétur Jónsson 1942, 98 (Barðstrendingabók).

[43] Kristján J. Kristjánsson 1974, 186-189, og kort sem fylgir þar. (Árbók Barðastrandarsýslu 1959-1967)

[44] Ólafur Magnússon á Hnjóti. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[45] Össur Guðbjartsson. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988. Sbr. Morgunblaðið 9.2. 1995, 34.

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] Kristján J. Kristjánsson 1974, 184-217.

[49] Ásgeir Erlendsson/Hilmar Árnason, – Vesturland, blað, 5.6. 1994.

[50] Pétur Jónsson 1942, 98 (Barðstrendingabók).

[51] Guðjón Guðmundsson 1907, 131 (Freyr IV).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »