Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli í Krossadal þó að bæirnir væru aðeins tveir.[1] Frá Krossadal eru um tveir og hálfur kílómetri út að Kálfadalsá þar sem eru hreppamörk milli Tálknafjarðarhrepps og hins forna Ketildalahrepps. Hins vegar eru um þrettán kílómetrar frá Krossadal út á Kópaflögu, norðan Kópavíkur, þar sem ströndin sveigir loks inn í Arnarfjörð.

Bæirnir í Krossadal stóðu á sjávarbökkum en upp frá túninu gengur allmikill dalur til fjalls, samnefndur bænum. Um dal þennan lá þjóðleið á Selárdalsheiði. Krossadalsá fellur um dalinn og til sjávar utan við túnið í Krossadal. Yfir bæjarstæðinu gnæfir fjallið Krossi og er brún þess í 463 metra hæð. Tignarlegar klettaraðir Krossans setja svip á umhverfið. Utan dalsins gnæfir annað fjall, sviplíkt og álíka hátt, sem Skjöldur heitir. Nær hann út að Kálfadal þar sem eru hreppamörk.

Krossadals er fyrst getið í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar hinni sérstöku. Þar segir frá vígi Markúsar Gíslasonar í Saurbæ á Rauðasandi í byrjun nóvember árið 1196 (sjá hér Saurbær). Banamaður Markúsar var Ingi Magnússon á Hvalskeri við Patreksfjörð en einn þeirra sem með Inga tóku þátt í aðför að Markúsi er hann var veginn var Árni Surtsson.[2] Skömmu eftir vígið var Ingi gerður landrækur en Árni Surtsson héraðsrækur um Rauðasand, Barðaströnd, Víkur og Patreksfjörð. Var hann síðan í Tálknafirði.[3]

Loftur Markússon í Saurbæ undi illa vist Árna í Tálknafirði og þar kom að til nýrra tíðinda dró í viðskiptum þeirra:

 

Nokkrum misserum eftir víg Markúss fór Loftur og sá maður með honum, er Galti hét, í Tálknafjörð á þann bæ, er í Krossadal hét. Þeir hitta þar heimamenn og spyrja hvar Árni sé en þeim var sagt að hann var eigi heima. Þá fóru þeir í Selárdal og voru þar nokkrar nætur. En er þeir fóru heim þá fundu þeir Árna á götu og hjó Loftur þegar til Árna en hann bar af sér höggið. Síðan sótti Loftur að honum en hann varðist vel. Og er Galta þótti Lofti seint sækjast þá fór hann til og vann á Árna og síðan vógu þeir hann. Það víg varð hinn næsta dag eftir Ólafsmessu.

Það víg mæltist illa fyrir því að fé öll höfðu goldin verið fyrir Árna og hann hafði sætt þá, er gerð hafði verið á hendur honum, vel haldið við Loft.[4]

 

Ugglaust hafa fleiri víg en þetta verið vegin í Tálknafirði en ekki fer mörgum sögum af þeim.

Í byrjun 18. aldar var talið að fóðra mætti sjö kýr í Krossadal en bústofn bændanna sem hér bjuggu þá var þó mun meiri en því svaraði eða samtals hjá tveimur bændum 9 kýr, 1 kvíga, 81 ær, 31 sauður tvævetur og eldri, 50 yngri sauðir, 20 lömb og 4 hross.[5] Augljóst er að búpeningur þessi hefur að verulegu leyti lifað á útigangi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín kemur fram að Krossadalsféð gekk úti á Selárdalshlíðum, utan við hreppamörkin í Kálfadal. Í jarðabókinni er ritað um Krossadal:

 

Útigangur er í lakara lagi og því þiggja ábúendur jafnan beit fyrir sauðfé sitt á vetrum á Selárdalshlíðum og kemur þar á mót óákveðinn góðvilji en ekki gelst hér viss beitartollur.[6]

 

Marga ókosti töldu heimildarmenn Árna Magnússonar fylgja búskap í Krossadal:

 

Torfrista og stunga engin nýtanleg og eru þökur brúkaðar fyrir torf, sem stungnar eru í grýttu valllendi. Móskurður er bæði lítill og lakur en brúkast þó til eldingar með taði undan kvikfé. Reki hefur ei heppnast í manna minnum. Túnið spillist að neðanverðu af sandfoki, sem að er haldinn fimm hundraða partur úr jörðinni og er því aftur færð landskuldin [úr 12 vættum í 10]. Item brýtur áin nokkuð af túninu að utanverðu. Engjarnar eru að mestu eyðilagðar af skriðum að ofanverðu en sandfoki frá sjónum að neðan. Úthagarnir eru og svo mjög skriðurunnir og uppblásnir. … Hætt er kvikfé fyrir snjóflóðum á Selárdalshlíðum og svo smalanum.[7]

 

Hér eins og víðar í Jarðabók Árna og Páls er trúlega gert meira úr ókostum jarðarinnar en efni stóðu til en kostirnir lítt dregnir fram.

Séra Benedikt Þórðarson segir í sóknarlýsingunni frá 1873 að tún séu sæmileg í Krossadal og allgott haglendi fyrir sauðfé frammi í dalnum. Hann nefnir líka fjörubeit að vetrinum en segir að útslægjur séu engar að kalla, land hrjóstrugt og grýtt og fjöllin bæði brött og klettótt.[8]

Heimræði var frá Krossadal árið um kring en lending hættuleg sökum brima.[9] Árið 1710 áttu Krossadalsbændur hvor sinn bátinn og reru á þeim til fiskjar úr heimavör.[10]

Bænhús töldu Tálknfirðingar hafa verið í Krossadal en niðurfallið fyrir manna minni árið 1710. Á þeim tíma töldu þeir sig þó enn geta bent á leifar kirkjugarðs er bænhúsinu hefði fylgt.[11]

Að minnsta kosti einn prestur bjó í Krossadal um skeið, séra Guðbrandur Sigurðsson sem hrapaði til bana hjá Reiðskörðum á Barðaströnd 4. mars 1779, þá prestur á Brjánslæk (sjá hér Brjánslækur). Það var á árunum 1759 til 1768 sem séra Guðbrandur bjó í Krossadal en hann var þá aðstoðarprestur séra Eggerts Ormssonar í Selárdal og þjónaði Stóra-Laugardalssókn.[12] Séra Guðbrandur var á þessum árum kvæntur fyrri konu sinni, Rannveigu Halldórsdóttur, systur séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal. Þau eru í Krossadal í manntalinu frá 1762, séra Guðbrandur 27 ára en hún sögð tólf árum eldri.[13] Um hjónaband þeirra segir svo í Vestfirskum sögnum:

 

Um eða heldur fyrir 1760 hafði séra Guðbrandur fest sér konu þá, er Rannveig hét … , en af því að holdsveiki hafði sést á henni eftir að festar fóru fram bauð séra Björn, bróðir hennar, honum að sleppa því ráði. En séra Guðbrandur svaraði: „Fyrst Guð rétti að mér þennan kaleik, skal ég drekka hann” og kvæntist hann Rannveigu árið 1760. En hún lagðist í kör nokkru síðar af veiki sinni og gátu þau ekkert barn saman. Séra Guðbrandur var henni ástúðlegur eiginmaður og hvíldi í nærfötum fyrir framan hana þá er hann var heima. Hún dó 1768, sama árið og séra Guðbrandur fékk Brjánslæk.[14]

 

Fagurt og siðlátt hefur þetta samlíf prestshjónanna í Krossadal verið og líklega hefur Rannveig dáið skömmu áður en séra Guðbrandur fluttist að Brjánslæk þar sem hann kvæntist fljótlega annarri konu.

Í þjóðsögum segir frá öðrum 18. aldar presti sem vildi setjast að í Krossadal en fékk ekki. Mun þar átt við séra Ásgeir Þórðarson sem prestur var á Álftamýri frá 1732 til 1745 en varð þá að hverfa frá prestskap vegna ýmissa kærumála sem hann hafði orðið fyrir. Séra Ásgeir lifði a.m.k. til 1773.[15] Sagan er á þessa leið:

 

Ásgeir hét prestur á Vesturlandi, sem var settur frá embætti fyrir ýmsa óknytti. Eftir það var hann kallaður séra Ásgeir prestslausi og fór hann um eins og hver annar flakkari. Um þær mundir bjó Þórir nokkur í Krossadal í Tálknafirði, heljarmenni mikið. Hann var eitthvað í ætt við Ásgeir. Það er sagt að Ásgeir kæmi til Þóris og beiddi hann að taka við sér en Þórir neitaði. Við þetta reiddist prestur og heitaðist við bónda. Eftir þetta fór Ásgeir víða um þar til hann andaðist. Hann gekk þegar aftur og fylgdi Þóri. Þegar prestur dó vildi svo til að Þórir var staddur úti á útlendu skipi. [Svo sem Tálknfirðings var von og vísa – innsk. K.Ó.]. Sáu menn þá að fugl kom fljúgandi af landi, keimlíkur erni, með hræðileg augu og settist á reiðann. Skipstjórinn var gamall og vitur og sagði hann jafnskjótt og hann sá fuglinn að hefndaraugu væru í þessu dýri til einhvers er væri á skipinu og þótti það sannast. Það fylgdi aðsókninni að Þóri að hann féll stundum í dá og gat ekki hreyft sig en ekki þurfti annað en að snerta hann til þess að hann raknaði við. Þurfti Þórir því að hafa mann með sér hvert sem hann fór. Einu sinni var Þórir á ferð yfir Selárdalsheiði og piltur einn með honum. Þá fékk Þórir eitt aðsvifið en piltinum virtist hann vera svo hræðilegur að hann þorði ekki að snerta hann og fór frá honum en þegar að var komið var Þórir dauður en lík hans allt blátt og blóðugt.[16]

 

Sjáum við hér hvílík bölvun getur hlotist af því að úthýsa flökkuprestum.

Þórir Pálsson var sambýlismaður séra Guðbrands í Krossadal árið 1762.[17] Mun hér við þann Þóri átt. Hann andaðist 21. janúar 1790, sagður þá 71 árs og tekið fram í prestsþjónustubókinni að hann hafi dáið snögglega á milli Arnarstapa og Krossadals.[18] Sem sagt á víðavangi en þó ekki á heiðinni.

Björn Jónsson hét bóndi í Krossadal um miðja 18. öld. Hér var litlu fyrr sagt frá ráðagerðum nágranna hans, Þormóðs Ásbjörnssonar á Arnarstapa, vorið 1756 um að flytjast til Grænlands (sjá hér Arnarstapi). Merkileg tilviljun er það að Björn í Krossadal komst einmitt til Grænlands þetta sama sumar. Í júnímánuði réð hann sig á hollenska duggu og var við fiskveiðar með Hollendingum frá 29. júní til 15. ágúst.[19] Skipstjóri á duggunni hét Tonis Ruland og var sagður frá Suðursjó (Ijsselmeer) í Hollandi. Þann 4. ágúst voru þeir að veiðum og heyrðu þá óvænt fallbyssuskot í nokkurri fjarlægð. Um svipað leyti komu þeir auga á skip er Hollendingunum sýndist að vera myndi franskt ræningjafar. Undu hollenskir þá upp segl og sigldu sem ákafast í vesturátt í von um að sleppa undan sjóræningjum þessum.[20]

Klukkan tvö síðdegis daginn eftir höfðu fjórar hollenskar duggur náð að austurströnd Grænlands á þessum flótta, þar á meðal sú sem Björn í Krossadal var á. Lágu þeir þar í fjóra daga og gengu jafnan á land upp. Ekki sáu þeir þar nokkur merki mannavistar. Að morgni 9. ágúst sigldu þeir á brott í rauðabýti og náðu inn á Önundarfjörð nokkru eftir miðnætti næstu nótt.[21]

Þegar Björn í Krossadal kom heim eftir þetta ævintýri sagði hann svo frá að þarna við Grænlands köldu kletta væri gróðurlaust við sjóinn en miklar dyngjur af rekaviði, ofar grýtt land og hæðótt með mýrum á milli þar sem stargresið næði mönnum í mittisstað. Krökkt var af silungi í ám og lækjum en í nokkurri fjarlægð frá ströndinni óx kjarr. Á Grænlandi sá bóndinn í Krossadal einiberjarunna, blágresi, smjörgras og skarifífil en hvorki hvannir né fjallagrös.[22] Til sannindamerkis um veru sína á Grænlandi tíndi hann gul og blá einiber í hálfan sjóvettling og hafa þau trúlega verið notuð til bragðbætis og hollustuauka í brennivín Tálknfirðinga.

 

Rjúpur og spörfuglar voru á flögri og við sjóinn voru æðarfuglar, teistur, máfar og veiðibjöllur. Þar var og krökkt af dauðspökum selum og þrjár tófur sá Björn skjótast milli rekaviðarhrannanna í flæðarmálinu. Enga hvali sáu þeir félagar og enga fálka né aðrar kvikar skepnur en þessar.[23]

 

Á siglingunni með Grænlandsströnd svipaðist Björn bóndi um eftir Gunnbjarnarskerjum sem  hann þekkti úr fornritum en sá þau ekki.

Björn lét vel af veru sinni með Hollendingum og þeir borguðu honum gott kaup. Á þeim sjö vikum sem hann var á duggunni fengu þeir um 7000 fiska.[24] Það þótti Tálknfirðingnum undarlegt að hollenskir skyldu fleygja í sjóinn flestum fiskitegundum öðrum en þorski, þar á meðal steinbít, lúðu, skötu, löngu og ýsu. Einn daginn var meir en fjörutíu stórlúðum hent fyrir borð. En guðhræddir voru Hollendingarnir og lásu predikanir á sunnudögum og bænir alla daga, bæði kvölds og morgna. Kvöldsöngur var líka jafnan um borð ef annríki hamlaði ekki.[25]

Sitthvað sem hér hefur áður verið dregið fram bendir sterklega til þess að fleiri Tálknfirðingar en Björn einn hafi ráðið sig í skiprúm hjá Hollendingum þó að slíkt hafi ekki verið algengt. Hvað sem því líður mun Björn Jónsson, bóndi í Krossadal, hafa haft frá ærnum tíðindum að segja þeim sem að garði bar haustið 1756, – frá veru sinni með hollenskum og flóttanum til Grænlands undan frönskum sjóræningjum. Líklega er það þessi Björn Jónsson, sem enn lifir í Krossadal hjá dóttur sinni og tengdasyni árið 1801, þá 81 árs gamall.[26] Í manntalinu frá 1816 má sjá að Guðrún dóttir hans, húsfreyja í Krossadal, var fædd á Bakka árið 1755[27] en í frásögninni af Grænlandssiglingu Björns kemur einmitt fram að hann hefur um skeið verið sambýlismaður Jóns Einarssonar á Bakka.[28]

Jakob Aþanasíusson, sem hér hefur áður verið vitnað til um samskipti Tálknfirðinga við Hollendinga og reynst hefur við könnun fara með rétt mál um ótrúleg efni (sjá hér Suðureyri í Tálknafirði), segir aftur á móti frá brottflutningi Björns nokkurs í Krossadal til Hollands og hefur það verið annar Björn. Frásögn Jakobs er á þessa leið:

 

Í Krossadal voru bræður tveir, Björn og Þorvaldur. Björn fór til Hollands og nam stýrimannafræði og kom síðan skipi sínu hvert sumar á Krossadalsbót. Eitt sumar kom skip hans á bótina sem oftar; þekkti Þorvaldur það en enginn kom í land. Hélt hann því að bróðir sinn væri ekki með skipinu en fer út í skip að fá fréttir. Þegar hann kom upp á þilfarið sér hann að menn liggja þar allir dauðadrukknir. Þá kemur Björn úr káetu og kallar og segir: „Þú sérð að nú hef ég fríska þjóð, Þorvaldur.” [29]

 

Á þessum blöðum var áður sagt frá öðrum Tálknfirðingi, Ólafi Guðmundssyni, sem í lok átjándu aldar fór til Hollands, þá um tvítugsaldur, og kom síðar árlega á Tálknafjörð sem hollenskur skipstjóri (sjá hér Kvígindisfell og Suðureyri). Full ástæða væri til að kanna mun nánar en hér gefst tóm til hin merkilegu samskipti og tengsl Tálknfirðinga við Holland en samskipti þessi virðast enn hafa staðið með blóma á fyrstu árum 19. aldar og jafnvel lengur.

Hér verður nú vikið að öðru efni. Árið 1801 búa á öðrum bænum í Krossadal Páll Þórisson og Guðrún Björnsdóttir með börn sín fimm á aldrinum fjögra til átján ára.[30] Á heimilinu eru þá einnig foreldrar Guðrúnar, liðlega áttræð, og líka Björn Jónsson, að líkindum sá sem til Grænlands fór með hollenskum, og kona hans Helga Þórðardóttir, ennfremur systkini húsfreyju, Björn Björnsson og Guðrún yngri.[31] Fimmtán árum síðar býr þetta sama fólk í Neðri-Krossadal en gömlu hjónin eru þá dáin. Í manntalinu frá 1816 kemur fram að Páll bóndi Þórisson var fæddur í Krossadal árið 1756[32] og má því ætla að hann hafi verið sonur Þóris þess Pálssonar í Krossadal sem á sínum tíma var sárast leikinn af Ásgeiri prestlausa (sjá hér bls. 3-4). Björn Björnsson, mágur Páls, er enn einhleypur í Neðri-Krossadal árið 1816, kallaður húsmaður, sextugur að aldri. Þá eru hér enn í foreldrahúsum tveir uppkomnir synir Páls og Guðrúnar og kemur sá yngri þeirra við þessa sögu, Þórir Pálsson, fæddur í júní 1797.[33]

Þann 7. nóvember 1819 kvæntist Þórir Svanhildi Halldórsdóttur frá Öskubrekku í Fífustaðadal í Arnarfirði sem var nokkrum árum eldri en hann, fædd 1791,[34] en hún var sonardóttir Þormóðs Ásbjörnssonar, fyrrum bónda á Arnarstapa í Tálknafirði[35]  er fastast sótti að fá leyfi konungs til að flytjast búferlum til Grænlands (sjá hér Arnarstapi). Fjórum árum áður en Svanhildur giftist Þóri var hún vinnukona á Álftamýri, hjá séra Ólafi Einarssyni, og eignaðist þá dreng með Jóni Guðmundssyni, bóndasyni á Auðkúlu í Arnarfirði, síðar bónda og hreppstjóra þar, og var það Ólafur sem ólst upp hjá föður sínum og varð í fyllingu tímans bóndi á Auðkúlu.[36]

Fyrsta hjónabandsvetur Þóris og Svanhildar, veturinn 1819-1820, bjuggu þau ekki saman. Svanhildur var þá hjá foreldrum hans í Krossadal en Þórir hafði um haustið gerst vinnumaður hjá Jóni hreppstjóra Jónssyni á Suðureyri, hér handan við fjörðinn, en frá Jóni var áður sagt á þessum blöðum (sjá hér Suðureyri, – bls. 10 þar). Að það hafi verið Þórir frá Krossadal sem var vinnumaður á Suðureyri veturinn 1819-1820 er engum vafa undirorpið því enginn annar Þórir Pálsson er finnanlegur í Táknafirði eða í nálægum sveitum í manntalinu frá 1816.[37]

Nótt eina þennan vetur var rán framið í Krossadal. Er fólk vaknaði um morguninn kom í ljós að skemma Björns Björnssonar hafði verið opnuð með þjófalykli og þar tekinn lykill að kistu sem Björn geymdi í peninga sína. Úr kistunni hafði síðan verið stolið 19 spesíum, 4 krónum, 3 túmörkum og 4 ríxortum.[38]

Guðbrandur Jónsson, kammerráð í Feigsdal, var þá sýslumaður Barðstrendinga og hóf strax rannsókn málsins. Við réttarhald á Kvígindisfelli játaði Þórir Pálsson á sig þjófnaðinn í Krossadal en eins og hér hefur verið bent á þá var Björn sá sem stolið var frá móðurbróðir hans. Við þessi réttarhöld fóru líka fram yfirheyrslur vegna margvíslegs smáþjófnaðar á Suðureyri í Tálknafirði, þar sem m.a. hafði verið stolið mat, tóbaki, þremur peysum og 119 pörum af púlssokkum, án þess þó að hús væru brotin upp. Þann 27. mars 1820 dæmdi Guðbrandur sýslumaður Þóri Pálsson og tvo aðra vinnumenn á Suðureyri, Einar Bjarnason og Halldór Ketilsson, seka um oftsinnis framinn þjófnað frá húsbónda sínum og Þóri að auk sekan um ránið í Krossadal.[39] Dómur Guðbrands var í aðalatriðum staðfestur af landsyfirrétti 12. maí 1821 en í forsendum dóms landsyfirréttar eru sakamennirnir allir þrír nefndir fulltíða og sæmilega uppfræddir vinnudrengir. Guðbrandur sýslumaður hafði dæmt þá Þóri og Einar til 2×27 vandarhögga hýðingar hvorn um sig en niðurstaða landsyfirréttar varð sú að Þóri og Einar skyldi hýða 30 vandarhöggum og Halldór slapp með 20 vandarhögg. Auk þess skyldu þeir allir bera málskostnað og skila þýfinu.[40]

Sama dag og kammerráðið í Feigsdal dæmdi Þóri og félaga hans til hýðingar ól Svanhildur, eiginkona Þóris, honum dóttur sem eins og vænta mátti var skírð Benónía[41] en það merkir harmkvæladóttir (sbr. hér Álftamýri, Meðaldalur og Sauðlauksdalur).

Ingivaldur Nikulásson, fræðimaður á Bíldudal, segir nokkuð frá þessu þjófnaðarmáli í þætti sínum um Fellshjónin, þau Halldóru Guðmundsdóttur og Jón Þórðarson á Kvígindisfelli, en til þess þáttar hefur áður verið vitnað á þessum blöðum (sjá hér Vindheimar og Kvígindisfell).

Fróðlegt er að bera frásögn Ingivaldar saman við dóm landsyfirréttarins en Ingivaldur segir frá á þessa leið:

 

Þórir hét vinnumaður einn á Suðureyri í Tálknafirði. Hafði hann ásamt öðrum vinnumanni þar á bæ stolið ýmsu frá Jóni, húsbónda þeirra. Þá bjó í Krossadal þar í firðinum Björn Bjarnason [rétt Björnsson – innsk. K.Ó.]. Var hann talinn peningamaður mikill. Þórir hafði áður verið vinnumaður hjá Birni [Þórir var uppalinn í Krossadal og systursonur Björns – innsk. K.Ó.] og vissi að hann geymdi peninga sína í læstri kistu í útiskemmu einni. Nótt eina á útmánuðum tók Þórir litla bátkænu og réri yfir fjörðinn. Þar var annar maður búinn til liðs við Þóri. Héldu þeir félagar sem leið lá í Krossadal, opnuðu skemmuna með þjófalykli, er Þórir hafði smíðað, rifu botninn undan kistunni og tóku peninga þá er voru í henni. Það voru 19 spesíur og eitthvað af smærri mynt.[42]

 

Í nær öllum aðalatriðum kemur frásögn Ingivaldar heim við réttarskjölin. Eitt er þó það atriði í frásögn hans sem hvergi er minnst á í dómi landsyfirréttar, – það að annar maður hafi verið með Þóri við ránið í Krossadal. Ingivaldur fjallar hins vegar nánar um það og segir að við réttarhaldið á Kvígindisfelli hafi komið í ljós, hvort sem það hefur verið bókað eða ekki, að Þorgrímur á Felli var formaður fararinnar og félagi Þóris við stuldinn[43] (sbr. hér Vindheimar og Kvígindisfell). Hér er Ingivaldur að tala um Þorgrím Jónsson, son Jóns Þórðarsonar og Halldóru Guðmundsdóttur á Kvígindisfelli.

Ingivaldur lætur það fylgja sögu sinni að þau Fellshjónin, foreldrar Þorgríms, hafi þurft að kosta ærnum peningum til þess að svo liti út sem Þorgrímur hefði alls ekkert verið við málið riðinn og nafn hans kæmi hvergi fram í dómunum eða forsendum þeirra.[44]

Ljóst má heita að þessi staðhæfing Ingivaldar muni vera á misskilningi byggð, hvað Þorgrím varðar, því þegar ránið var framið í Krossadal snemma á  árinu 1820 var hann aðeins 15 ára gamall, fæddur 23. september 1804.[45] Enda þótt foreldrar Þorgríms væru bæði mikil fyrir sér er vart hægt að gera því skóna að fimmtán ára sonur þeirra hafi stýrt gerðum Þóris Pálssonar þegar hann rændi peningunum í Krossadal en Þórir var sjö árum eldri en Þorgrímur. Annað mál er það að liðlega einum áratug síðar, þann 19. nóvember 1831, var aftur stolið peningum í Krossadal og í málsskjölum frá réttarhöldum af því tilefni má sjá að orðasveimur var þá á kreiki um að Þorgrímur hefði átt hlut að ráninu, – án þess þó að hann væri kærður.[46] Ingivaldi hefur því orðið á að gera þjófnaðarmálin tvö frá Krossadal að einu.

Hér verður ekki fjallað um peningastuldinn í Krossadal haustið 1831. Nýnefndur Þorgrímur Jónsson, hreppstjórasonur frá Kvígindisfelli, var þá kvæntur Sigríði Gísladóttur, prestsdóttur frá Selárdal, og bjuggu þau á Vindheimum, afbýli frá Felli. Þetta haust var Sigríður barnshafandi og frá hugarstríði hennar segir Ingivaldur Nikulásson svo:

 

 

Bað hún guð þess heitt og innilega að sýna það á barni því, er hún gekk með, hvort Þorgrímur væri saklaus eða sekur. Hún kvaðst treysta því að guð mundi bænheyra hana. Nokkru síðar ól hún sveinbarn og hafði það valbrá allstóra fyrir neðan annað augað. Taldi Sigríður það vera guðsdóm og sleit samvistum við Þorgrím.[47]

 

Barnið sem Sigríður gekk með haustið 1831 var Jóhannes, síðar lengi stórbóndi á Sveinseyri hér í Tálknafirði. Hvort sem valbráin á barninu eða annað og meira varð þess valdandi að foreldrar þess slitu samvistir liggur ljóst fyrir að Sigríður yfirgaf bónda sinn en reyndar ekki fyrr en Jóhannes var orðinn 10-14 ára ef marka má sóknarmannatöl.[48] Í manntali frá árinu 1845 er Þorgrímur skráður til heimilis hjá foreldrum sínum á Kvígindisfelli, sagður kvæntur vinnumaður sem lifi í fjarlægð frá konunni vegna báginda.[49] Sigríður var þá í Selárdal með Jóhannes, son þeirra Þorgríms, sögð gift kona en dveljast fjarri eiginmanni sínum sökum báginda.[50] Fimm árum síðar hafði hjónabandi Þorgríms og Sigríðar verið slitið með formlegum hætti.[51] Líklega veit nú enginn hvers eðlis nýnefnd bágindi kunna að hafa verið en þess má geta að Ingivaldur Nikulásson segir um Þorgrím að hann hafi þótt mjög ölkær, einkum síðari hluta ævinnar.[52]

Hér hefur nú um sinn verið gefinn gaumur að högum Þorgríms Jónssonar, er um skeið bjó á Vindheimum, vegna skrifa Ingivaldar Nikulássonar um tengsl hans við stuld á peningum í Krossadal. Athugun leiddi í ljós að ekkert sannaðist á Þorgrím í þeim efnum og orðasveimurinn, sem Ingivaldur hafði við að styðjast, tengdist öðru og síðara ráni en því sem framið var veturinn 1819-1820. Verður þá á ný litið til Þóris Pálssonar, sem peningunum stal frá frænda sínum í Krossadal 1820, og til konu Þóris, Svanhildar Halldórsdóttur sem hér var áður kynnt til sögunnar (sjá bls.  6-8).

Enda þótt Þórir og Svanhildur gengju í hjónaband í vetrarbyrjun árið 1819 bjuggu þau ekki saman þann vetur og er óljóst hvort þau byrjuðu nokkru sinni sameiginlegan búskap. Vorið 1822 var Svanhildur orðin vinnukona í Feigsdal í Arnarfirði og þar eignaðist hún tvíbura 15. maí á því ári.[53] Þetta voru piltbörn sem fengu nöfnin Einar og Jón. Þórir Pálsson, eiginmaður Svanhildar, var ekki faðir þessara drengja heldur Einar Bjarnason, sem þá var ókvæntur vinnumaður í Feigsdal, – sá sami og dæmdur var með Þóri í landsyfirrétti  fyrir þjófnað[54]  og hér var áður frá skýrt. Báðir höfðu þeir Þórir og Einar verið dæmdir til hýðingar og hlutu 30 vandarhögg hvor (sjá hér bls. 7-8). Sama ár og Svanhildur eignaðist tvíburana fluttist hún frá Feigsdal að Auðahrísdal í Otradalssókn en sá bær var skammt utan við Bíldudal.[55] Þar eignaðist hún sumarið 1824 sitt fimmta barn, dótturina Guðrúnu sem var þriðja barn hennar með Einari Bjarnasyni.[56] Hún taldist þá enn vera gift Þóri[57]  en um þetta leyti fluttist hann norður í Önundarfjörð og mun sjaldan eða aldrei hafa komið í Tálknafjörð þaðan í frá.[58]

Bæði áttu þau Þórir og Svanhildur enn langa lífdaga fyrir höndum, hún í Tálknafirði og Arnarfirði en hann við Ísafjarðardjúp. Um 1830 mun hafa verið gengið formlega frá slitum á hjónabandi þeirra og fáum árum síðar giftist Svanhildur Jóni Grímssyni, bónda á Hóli í Tálknafirði, sem þá var ekkjumaður.[59] Þegar manntal var tekið 2. febrúar 1835 voru þau búandi hjón á Hóli og höfðu eignast saman tvær dætur, Jóhönnu og Sigríði, sem þá voru báðar á heimili foreldra sinna, sagðar fjögurra og tveggja ára.[60] Þar voru þá líka tvíburarnir sem Svanhildur eignaðist með Einari Bjarnasyni, þeir Einar og Jón, komnir hátt á þrettánda ár.[61] Benónía, dóttirin sem Svanhildur hafði eignast með Þóri Pálssyni, átti líka heima á Hóli þegar hún fermdist vorið 1834 og Jón Grímsson er þá sagður fósturfaðir hennar.[62] Öll börn Svanhildar Halldórsdóttur, sem hér hafa verið nefnd, komust upp en sum þeirra urðu skammlíf.[63]

Árið 1844 varð Svanhildur ekkja og einu ári síðar var hún komin til Ólafs sonar síns, bónda á Auðkúlu í Arnarfirði,[64] sem tekinn hafði verið frá henni þegar hann var á fyrsta ári (sjá hér bls. 7)  og hún mun sjaldan hafa séð á hans uppvaxtarárum. Hjá Ólafi og fjölskyldu hans á Kúlu átti hún síðan heima allt til ársins 1871 og naut þar í 26 ár samvista við fjölmennan hóp barnabarna sinna.[65] Árið 1871 lét Ólafur, sonur Svanhildar, bú sitt í hendur tveggja dætra sinna og tengdasona en gerðist sjálfur húsmaður hjá þeim á Kúlu.[66] Á því ári varð móðir hans áttræð og fluttist nú frá Auðkúlu að Skógum í Mosdal í sömu sveit til Jóhönnu, dóttur sinnar Jónsdóttur, og eiginmanns hennar, Jóns bónda Jónasarsonar[67].  Þar fögnuðu henni þrjú dótturbörn, tveir drengir og stúlkan Himinbjörg sem þá var að stíga sín fyrstu skref.[68] Í Skógum átti Svanhildur sitt síðasta skjól og mun hafa andast þar árið 1873 því þá hverfur nafn hennar úr húsvitjanabók prestsins sem reyndar vanrækti að skrá andlát sóknarbarna sinna í níu ár, frá og með 1873 til loka ársins 1881.[69]

Árið 1825 var Þórir Pálsson frá Krossadal við smíðar á Flateyri en þremur árum síðar var hann kominn norður í Vigur og við Ísafjarðardjúp átti hann heima þaðan í frá, lengst í Vatnsfjarðarsveit þar sem hann var búsetur frá árinu 1834 til dauðadags árið 1886.[70] Um lífshlaup Þóris á því langa skeiði sem hann var búsettur við Djúp hefur Ásgeir Svanbergsson fjallað skilmerkilega í ritgerð sinni Kvistur í tímans tré.[71] Þar sjáum við að Þórir hafði löngum smíðar að atvinnu, einkum skipasmíðar en var líka bóndi í um eða yfir 30 ár og bjó þá fyrst í Vatnsfjarðarseli en síðan í Vogum við Ísafjörð.[72] Hvort einhver orðasveimur barst norður að Djúpi um vandarhöggin 30 sem lögð höfðu verið á Þóri fyrir ránið í Krossadal og annað hnupl á æskudögum veit nú enginn. Í hans nýju heimkynnum komst hann aldrei í kast við réttvísina svo vitað sé.

Í Önundarfirði og við Djúp eignaðist Þórir sjö börn með þremur konum og kvæntist tveimur þeirra.[73] Börn Þóris virðast hins vegar öll hafa dáið barnlaus og á hann því líklega enga niðja á okkar dögum.[74] Þriðja kona Þóris hét Guðrún Jónsdóttir  og bjuggu þau saman í hjónabandi í þrjátíu ár.[75] Börn þeirra urðu fimm og merkilegt er að sjá að yngstu dótturinni, sem fæddist árið 1842, gáfu þau nafnið Svanhildur.[76] Líklegt er að því vali hafi Þórir ráðið og honum verið í hug gamla unnustan, Svanhildur Halldórsdóttir, sem hann gekk að eiga haustið 1819 og ól honum dóttur 20 vikum síðar, sama daginn og hann var dæmdur til 2×27 vandarhögga hýðingar (sjá hér bls. 6-8).  Svanhildur Þórisdóttir var mjög lengi vinnukona hjá Sumarliða Sumarliðasyni, gullsmið í Æðey, og fluttist árið 1887 til Vesturheims í kjölfar Sumarliða og eiginkonu hans sem þangað höfðu farið þremur árum fyrr.[77] Með Svanhildi var þá í för barnung dóttir þeirra Æðeyjarhjóna sem þau höfðu skilið eftir nýfædda hér á gamla landinu. Þér eruð engill í kirkjunni en djöfull þar fyrir utan á Svanhildur Þórisdóttir að hafa sagt við séra Eyjólf Jónsson á Melgraseyri eitt sinn þegar gengið var úr kirkju.[78]

Þórir Pálsson úr Krossadal andaðist í lok þorra árið 1886,[79] þá tæplega níræður sveitarómagi hjá séra Stefáni P. Stephensen í Vatnsfirði, einu ári áður en nýnefnt yngsta barn hans yfirgaf ættjörðina. Sögur sem lengi lifðu á vörum fólks við Ísafjarðardjúp um hinn aðflutta skipasmið gefa til kynna að Þórir hafi verið sérkennilegur í sínum háttum og kynni skapgerð hans og hugarfar að hafa borið nokkur merki sársaukans og niðurlægingarinnar sem hann hafði kallað yfir sig í æsku.

Þegar hálf öld var liðin frá andláti Þóris Pálssonar fluttist að Djúpi Strandamaðurinn Jóhann Hjaltason, kennari og skólastjóri. Hann var gefinn fyrir fróðleik og á þeim átján árum sem hann var búsettur í byggðunum við Djúp festi hann á blað sumt af því sem hann fékk að heyra hjá gömlu fólki, meðal annars sögur af Þóri smið. Þær birti Jóhann síðar í bók sinni Frá Djúpi og Ströndum sem fyrst var gefin út 1939 og síðan aukin og með breytingum árið 1963.

Um Þóri ritar Jóhann svo:

 

Hann var smiður allgóður og stundaði einkum skipasmíði og ýmiskonar járnsmíði   ….. . Allar voru smíðar Þóris traustar og sterklegar en eigi að sama skapi nettar eða fagrar. Þóri er svo lýst af þeim sem mundu hann að hann hafi verið meðalmaður á allan vöxt og að engu leyti sérkennilegur í útliti, töluvert upp með sér og hreykinn, einkum af smíðakunnáttu sinni, nasbráður og fólskur og svo hjátrúarfullur að firnum sætti. Sá hann andskotann og ára hans í hverju horni og bar jafnan á sér litla sauðabjöllu úr kopar er hann hringdi til að stugga púkunum frá sér. Um nætur geymdi hann bjölluna á syllu yfir rúmi sínu.[80]

 

Þegar Þórir var að draga sig eftir Guðrúnu Jónsdóttur frá Botni í Mjóafirði, sem síðar varð þriðja eiginkona hans, frétti hann eitt sinn að Guðrún yrði í Vatnsfirði á ákveðnum degi. Héldu honum þá engin bönd og lét hann flytja sig í land frá Vigur, þar sem hann var við smíðar, og tók síðan á rás yfir Ögurnes, Ögurvík og Garðstaðaháls allt til Mjóafjarðar sem þá var lagður fárra nátta ís svo þunnum að talið var með öllu ófært að ganga á honum yfir fjörðinn.[81] Engu að síður æddi Þórir út á ísinn. Var hann þá á skyrtunni með treyju sína og höfuðfat undir hendinni og rann sem ákafast.[82] Svo fór að hinn ólmi biðill náði landi og bar upp bónorðið við Guðrúnu en ekki fékk hann jáyrði hennar að því sinni heldur nokkrum mánuðum síðar er þau voru bæði vinnuhjú í Vatnsfirði.[83]

Þórir bátasmiður var haldinn ýmsum grillum. Jóhann Hjaltason nefnir dæmi um það og ritar:

 

Einn af hjátrúartöktum Þóris var vitfirrt hræðsla við rjúpur. Kvað hann svo að orði að vondur væri fálkinn en þó væri rjúpan verri, – hún væri skaðræðisfugl sem flygi út og inn, beint í gegnum lifandi manninn. Einhverju sinni snemma vetrar, meðan Þórir bjó í Vatnsfjarðarseli, var hann að smíðum í Reykjarfirði og hafði lokið þeim seint á degi og hélt þá heim á leið sem leið liggur um Reykjarfjarðarháls til Þúfna. Þetta kvöld var á logndrífa og mikið um rjúpur á hálsinum, sem flugu fram og aftur og ropuðu hátt svo sem þeirra er oft vandi í því veðurlagi. Þegar karl kom í Þúfur sagði hann sínar farir ekki sléttar. Var hann þá verkfæralaus því hann hafði hent þeim, einu eftir annað, í rjúpurnar til að fæla þær frá sér. Verkfærin fundust sum vorið eftir, er snjóa leysti, en sum aldrei.[84]

 

Stundum reyndu piltar í Vatnsfirði að glettast við Þóri og einu sinni gerðu þeir honum þann grikk að maurilda með úldnu ýsuroði og sporðum allan fiskasteininn sem hafður var til daglegra nota og stóð þar sem skuggsýnt var í framhúsi á prestssetrinu. Þórir gekk um húsið á leið til smíða sinna og sér maurildalogin og hyggur vera draugagang.[85] Tekur hann þá fyrst til bjöllu sinnar og hringir í ákafa en nær síðan í öxi og heggur henni hart og títt í steininn þar sem glæringarnar voru þéttastar. Rammur er andskotinn þegar hann gengur ekki undan eggvopninu, heyrðist smiðurinn segja, þegar bitið var farið úr öxinni en glæringarnar síst minni en áður.[86]

Síðasta sumarið sem Þórir lifði var hann orðinn hrumur og skjálfraddaður en hafði þó ávalt ferlivist. Einn sona prestshjónanna í Vatnsfirði var Ólafur Stephensen, fæddur 1864, síðar læknir í Kanada, og var hann heima þetta sumar, þá liðlega tvítugur að aldri.[87] Ólafur var sönghneigður og góður organleikari og átti í fórum sínum nótnabækur. Dag einn sýnir hann Þóri þær og segir: Í þessu lærum við nú í skólanum.[88] Gamli bátasmiðurinn horfir á táknin um hríð og segir síðan: O, svei, svei, ljótt er nú lífernið. Fyrir guðs skuld og minnar sáluhjálpar, þá sýndu mér þetta ekki meira drengur minn.[89] Ljóst er að nótnabækurnar taldi hann vera römmustu galdraskræður og svo kynnu fleiri að hafa ályktað á þeirri tíð.

Það var siður Þóris að höggva nokkra spæni af hverju því tré sem hann hugðist nota við bátasmíði og prófa hvort spænirnir flytu væru þeir settir í vatn. Ef þeir flutu ekki svo sem honum líkaði kallaði hann það manndrápsvið og vildi ekki nota hann í skip.[90] Gera má ráð fyrir að spænir úr viðnum sem Þórir notaði er hann smíðaði sexæring fyrir Guðmund Guðmundsson á Eyri í Mjóafirði á árunum milli 1850 og 1860 hafi staðist allar prófanir. Þetta skip var kallað Skálin af því að eigandinn fór svo vel með það, sögðu menn, eins og það væri glerskál.[91] Þetta skip keypti síðar, rétt fyrir aldamótin 1900, Árni Gíslason, formaður á Ísafirði, og gaf hann því nafnið Stanley.[92] Honum reyndist það einstök happafleyta. Árið 1902 áttu þeir Stanley saman Árni Gíslason og Sophus J. Nielsen, verslunarstjóri á Ísafirði.[93] Þá um haustið létu þeir setja í hann vél og varð Stanley fyrsti vélbáturinn sem stýrt var til veiða á fiskimið við strendur Íslands.[94] Vélvæðingin sem þá hófst olli aldahvörfum.

Leitun mun vera að skarpari en þó svo nálægum andstæðum heldur en þeim sem hér blasa við sjónum. Annars vegar Þórir frá Krossadal, barn átjándu aldar úr heimi grárrar forneskju, og hins vegar smíðisgripur hans, Stanley, – tákn nýrrar aldar sem öllu breytti. Fjarlægð milli sköpunarverksins og skapara þess sýnist óralöng en samt er hún furðu stutt.

Þar sem við sitjum í bæjartóttunum í Krossadal sjáum við þá fyrir okkur í einni röð: Séra Guðbrand með sína holdsveiku konu, Þóri bónda hálfærðan af bölbænum Ásgeirs prestlausa, Björn Jónsson Grænlandsfara og nafna hans sem gerðist hollenskur skipstjóri. Í náttmyrkrinu læðist Þórir Pálsson, ungur og félaus með þjófalykil í höndum, að skemmudyrum síns roskna frænda sem lumaði á spesíum í kistu – og frá sögusviðinu sækir að okkur mynd Svanhildar í sinni barnsnauð, daginn sem Þórir var dæmdur til hýðingar. Ef vel er hlustað má líka greina hófadyn úr ferðum hinna fjölmörgu Selárdalspresta, sem hér riðu í hlað á leið sinni til og frá annexíunni í Stóra-Laugardal. Þeir birtast á sjónarsviðinu einn af öðrum og hefur hver sitt reiðlagið, – séra Gísli Jónsson, síðar biskup í Skálholti, séra Halldór Einarsson, bróðir Gizurar biskups, einn fer fetið, orðinn áttræður en þó hestfær enn, séra Páll Björnsson, sem lærðastur var en líka ærðastur af galdrafári aldarinnar og nú séra Þorlákur Guðmundsson, ungur af heiðinni á sveittum hesti og á sína kærustu í Krossadal, Guðrúnu dóttur Tómasar bónda hér Jónssonar, og hafði næstum misst hempuna fyrir of bráða barneign með henni en síðar dæmdur frá kjóli og kalli, – varð þá sýslumaður, faðir þjóðskáldsins Jóns á Bægisá. Og síðastur í langri röð séra Lárus Benediktsson, sem ber sig vel á hesbaki og átti til góða parta eins og Hallbjörn Oddsson vitnar um (sjá hér Bakki í Tálknafirði) þó að mörgum kotungum þætti hann ærið féglöggur. [95]

Við eigum þess líka kost að halda á heiðina, Selárdalsheiðina, – leiðin liggur upp úr botni Krossadals og síðan nær beint í norður. Það eru um það bil tíu kílómetrar milli bæja, frá Krossadal að Uppsölum í Selárdal og þaðan örskammt heim á staðinn. Heiðin er þægilegur fjallvegur fyrir gangandi fólk og ríðandi, mesta hæð um 470 metrar. Um 1870 var Selárdalsheiði eini ruddi og varðaði fjallvegurinn úr Tálknafirði í önnur byggðarlög. Þá stóð þar Biskupsvarða á háheiðinni, hlaðin úr hellugrjóti,[96] máske stendur hún enn og Stóravatn er án efa á sínum stað þó að ekki beri það nafn með rentu.

Að þessu sinni föllum við ekki fyrir freistingum heiðarinnar, – hana má ganga síðar í grárri elli. Við kjósum nú hina þyngri þraut og tökum stefnu út á Selárdalshlíðar, ætlum í Kópavík og með sjó fyrir Kópanes en síðan um Verdali í Selárdal. Þessi leið er um helmingi lengri en heiðin og auk þess mun erfiðari, víða um stórgrýttar fjörur að fara. Á góðum sumardegi á hún samt að vera fær hraustu göngufólki í góðri þjálfun og við höfum daginn fyrir okkur.

Gaman hefði verið að hitta Guðmund Eggertsson hér í Krossadal. Hann bjó hér lengi kringum aldamótin 1900, sterkur vel og kynsæll, og hefði ugglaust fylgt okkur á leið væri hann enn á dögum. Í niðjahópi Guðmundar eru kunnir sjósóknarar og sumir frægir aflamenn en þar eru líka kjarnakonur og fólk úr mörgum starfsstéttum. Einn sona hans var Steinþór, guðfræðingur og kennari. Ungur varð hann stundum að eltast við strokuhross úr Selárdal hérna megin heiðar og taldi þá reynslu geta komið að nokkru gagni við erfiðar pólitískar ákvarðanir löngu síðar á ævinni.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Manntal 1801.  Sóknalýsingar Vestfjarða I, 217.

[2] Sturlungasaga I, 391-393.

[3] Sama heimild, 396.

[4] Sama heimild, 396-397.

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 355.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild, 355-356.

[8] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 245.

[9] Jarðab. Á. og P. VI, 356.  Sóknalýsingar Vestfjarða I, 245.

[10] Jarðab. Á. og P. VI, 356.

[11] Jarðab. Á. og P. VI, 355.

[12] Íslenskar æviskrár II, 113.  Vestfirskar sagnir I, 110.

[13] Manntal 1762.

[14] Vestfirskar sagnir I, 110.

[15] Íslenskar æviskrár I, 95.

[16] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur I, 315-316.

[17] Manntal 1762.

[18] Prestsþjónustubækur Stóra-Laugardalssóknar.

[19] Öldin átjánda 1960, 214-216.

[20] Sama heimild.

[21] Öldin átjánda 1960, 214-216.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Manntal 1801.

[27] Manntal 1816.

[28] Öldin átjánda 1960, 214.

[29] Jakob Aþanasíusson / Þorsteinn Erlingsson 1933, 119 (Sagnir Jakobs gamla).

[30] Manntal 1801.

[31] Sama heimild.

[32] Manntal 1816.

[33] Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls.

[34] Prestsþjónustubækur Stór-Laugardalsóknar.

[35] Manntal 1801, vesturamt 243 og 249. Manntal 1816, 674.

[36] Prestsþj.bækur Álftamýrar, sbr. hér Auðkúla.

[37] Manntal 1816 og nafnalykill þess, – sjá einnig hér tilvísun nr.38.

[38] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873, II, 285-287. Skj.s. sýslumanna og sv.stj. Barð. IV, 5 Dóma- og þingbók 1815-1826.

[39] Sömu heimildir.

[40] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873, II, 285-287. Skj.s. sýslumanna og sv.stj. Barð. IV, 5 Dóma- og þingbók 1815-1826.

[41] Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls.

[42] Ingivaldur Nikulásson 1982, 57-58 (Þjóðsögur og þættir II).

[43] Ingivaldur Nikulásson 1982, 57-58.

[44] Sama heimild, 59.

[45] Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls. Sbr. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð. Dóma- og þingbækur IV, 212.

[46] Skjöl vesturamtsins. VA III, 141-2904 II, bréf Björns Björnssonar, Höfðadal í Tálknaf. frá árinu 1834.  VA III, 141-2904 III, fundargerð sáttanefndar Stóra-Laugardalssóknar frá 20.9. 1832.VA III, 141-2904 III, bréf Jóns Þórðarsonar, hreppstjóra á Kvígindisfelli til amtmanns og uppkast að svari Bjarna Thorsteinson amtmanns, dagsett 18.12.1832.

[47] Ingivaldur Nikulásson 1982, 59 (Þjóðsögur og þættir II).

[48] Sóknarmannatöl og Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls.

[49] Manntal 1845, vesturamt, 239.

[50] Sama heimild, 242.

[51] Manntal 1850, Selárdalur.

[52] Ingivaldur Nikulásson 1982, 57 (Þjóðsögur og þættir II, 57).

[53] Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls.

[54] Sama heimild. Sóknarmannatöl Selárdalsprestakalls. Manntal 1816, vesturamt, 671 og nafnalykill þess manntals. Manntal 1845, vesturamt, 244 og nafnalykill þess manntals. Manntal 1835, Neðri-Hvesta í Selárdalssókn.

[55] Prestsþj.bækur og sóknarmannatöl Selárdals og Otradals.

[56] Sömu heimildir.

[57] Sömu heimildir.

[58] Ásgeir Svanbergsson 2004, 200 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[59] Manntal 1835, Hóll í Tálknafirði.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild.

[62] Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls.

[63] Prestsþj.bækur og sóknarmannatöl Selárdals, Otradals, Rafnseyrar og Álftamýrar.

[64] Prestsþj.bækur Selárdalsprestakalls. Manntal 1845, vesturamt, 252.

[65] Sóknarmannatöl Rafnseyrar. Manntöl 1850, 1855, 1860 og 1870.

[66] Sóknarm.töl Rafnseyrar.

[67] Sama heimild.

[68] Prestsþj.bækur og sóknarmannatöl Rafnseyrar.

[69] Sömu heimildir. Sbr. sóknarmannatöl Álftamýrar.

[70] Ásgeir Svanbergsson 2004, 199-202 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75]Sama heimild.

[76] Sama heimild.

[77] Ásgeir Svanbergsson 2004, 199-202 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[78] Jóhann Hjaltason 1963, 171.

[79] Ásgeir Svanbergsson 2004, 201-202 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[80] Jóhann Hjaltason 1963, 169-177.

[81] Jóhann Hjaltason 1963, 169-177.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild. Sbr. Íslenskar æviskrár IV, 84.

[88] Sama heimild.

[89] Jóhann Hjaltason 1963, 169-177.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild.

[92] Ásgeir Svanbergsson 2004, 202 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[93] Sama heimild.

[94] Sama heimild. Jón Þ. Þór 1988, 32-33.

[95] Sbr. Sigurjón Einarson 2007, 137-139.

[96] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 247.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »