Litli- og Stóri-Laugardalur

Litli- og Stóri-Laugardalur

Skammt utan við Gvendarlaug opnast Laugardalur sem gengur þar norðaustur í fjallgarðinn. Hér breikkar undirlendið á ný og í mynni dalsins eru bæirnir Litli-Laugardalur og Stóri-Laugardalur. Sá fyrrnefndi er innan við Laugardalsána, örskammt frá sjó, og hefur jörðin hin síðari ár (ritað 1988) aðeins verið nýtt til sumardvalar. Kirkjustaðurinn Stóri-Laugardalur er rétt utan við ána og dálítið ofar en skammt á milli bæjanna. Örskammt innan við Litla-Laugardal var kotið Rimi, byggt í landi þeirrar jarðar og lágu túnin saman. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er ritað árið 1710:

 

Rimi heitir eyðibýli hér við túnið, sem byggt var fyrst upp á eyðiholti fyrir 6 árum, þar sem ekki hafði áður byggð verið og varaði byggðin inn til bólunnar. Fylgdi þessu býli meðan þar var búið grasnautn af hálfu fimmta hundraði heimajarðarinnar.[1]

 

Rimi hefur þá talist fjórðungur allrar jarðarinnar í Litla-Laugardal en hún var 18 hundruð að fornu mati.[2] Enda þótt kotið færi í eyði í stórubólu árið 1707, eftir aðeins þriggja ára búskap þar, átti það eftir að byggjast aftur. Á tímabilinu frá 1794 til 1887 virðist hafa verið búið á Rima flest árin en við lok þess tímaskeiðs féll kotið úr byggð.[3] Síðastur mun hafa búið á Rima Sturla Ólafsson, skipstjóri frá Auðkúlu í Arnarfirði, er síðar bjó á Bakka og Hólum í Tálknafirði.[4] Úr röðum heimafólks á Rima skal einnig minnst á Guðrúnu húsfreyju sem strauk þaðan með hollenskum frá bónda og börnum en var skilað aftur (sjá hér Tálknafjarðarhreppur, bls. 4-5).

Yfir Litla-Laugardal og Rima gnæfir 385 metra há fjallsöxl þar sem klettabrún Hlíðarfjalls sveigir inn í Laugardalinn. Í sóknarlýsingu frá 1852 er öxlin nefnd Laugardalsnúpur[5] en svo virðist sem kotið Rimi hafi líka náð að tengja nafn sitt við fjallið því á korti Landmælinga Íslands frá 1986 kallast þessi sama fjallsöxl Rimamúli.[6]

Í Litla-Laugardal var tvíbýli árið 1710 og jörðin þá eign kirkjunnar í Stóra-Laugardal.[7] Mun svo lengi hafa verið. Lítill var bústofn bændanna í Litla-Laugardal á þeirri tíð. Átti annar eina kú, átta ær og fimm lömb en hinn tvær kýr, sex ær og þrjú lömb.[8]

Í landi Litla-Laugardals er mikill jarðhiti og hér rétt utan við ána (í landi Stóra-Laugardals) og neðan við akveginn er Djáknalaug sem séra Þórður Þorgrímsson segir árið 1852 vera fagra steinlaug á bökkunum vestan við Laugardalsá.[9] Niður með ánni, neðan og innanhalt við túnið í Stóra-Laugardal, eru líka allvíða litlar hitaholur og heitir það svæði Laugar.[10] Ekki eru hinar heitu laugar taldar til landkosta í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar og ekki á þær minnst en í sýslulýsingu Ólafs Árnasonar frá árinu 1746 er lauganna getið. Þar segir að í Laugardalsá sé nokkur silungsveiði og beggja vegna árinnar heitar laugar sem menn noti til þvotta.[11]

Í Stóra-Laugardal hefur staðið kirkja í a.m.k. átta aldir og jafnan verið eina sóknarkirkja Tálknfirðinga. Kirkjunnar er getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 er sagt að prestsskyld fylgi staðnum.[12]

Á Sturlungaöld ráðstöfuðu héraðshöfðingjar bújörðum að vild sinni og almúginn varð að lúta þeirra vilja. Einn margra sonarsona Hvamm-Sturlu var Þórður tiggi Þórðarson, bróðir Sturlu sagnaritara og Ólafs hvítaskálds. Hann var um skeið í liði með Órækju frænda sínum Snorrasyni á þeim árum er Órækja sat í Vatnsfirði og ríkti yfir Vestfjörðum. Vorið 1241 setti Órækja þennan frænda sinn niður í Laugardal í Tálknafirði og fékk honum búsforráð hér.[13] Þórður tiggi mun enginn friðarpostuli hafa verið í æsku og skipaði sér snemma þar í sveit liðsmanna Órækju sem harðast var gengið fram í ránum og valdbeitingu. Fyrir þeim óaldarflokki fór Maga-Björn hinn norðlenski og var kallað að þeir Björn og Þórður öfluðu til búsins upp á vestfirsku.[14]

Þórður tiggi er fyrsti bóndinn í Laugardal sem sögur fara af. Það var vorið 1241 sem Órækja fékk honum bústað hér. Um haustið var Snorri veginn í Reykholti og árið eftir var Órækja sonur hans svikinn við Hvítárbrú og sendur utan. Eigi er kunnugt hversu lengi Þórður bjó í Laugardal. Hann hverfur úr sögunni um leið og hann sest hér að. Ætla má að hann hafi annað hvort orðið skammlífur eða látið af herferðum og kosið friðsælt líf í Tálknafirði.

Áður var þess getið að um 1400 hafi prestar setið í Stóra-Laugardal og svo mun hafa verið, að minnsta kosti öðru hvoru, fram að siðaskiptum. Á fyrri hluta 16. aldar koma þrír Laugardalsprestar við skjöl, þeir Jón Ívarsson, Ari Jónsson og Ari Steinólfsson.[15]

Jón Ívarsson er talinn hafa verið prestur í Laugardal árið 1522 en á því ári er hann nefndur í arfleiðslubréfi sem Eyjólfur Gíslason mókollur hinn yngri, er bjó í  Haga á Barðaströnd, lét þá skrifa, staddur í Krossadal í Tálknafirði. Í erfðaskrá þessari kveðst Eyjólfur vera heill að viti og samvisku en nokkurð krankur í líkama þegar hún sé rituð og mælir þar fyrir um ráðstöfun ýmissa eigna sinna. Kirkjunni í Selárdal gefur hann teinæring með tveimur strengjum og öllum reiðskap og bætir síðan við: Item prestinum síra Jóni Ívarssyni gef ég stakk minn hinn síða fyrir sína þjónustu.[16]

Vitað er að Magnús Eyjólfsson, sonur Eyjólfs mókolls, var prestur í Selárdal á þessum tíma[17] og því ekki óeðlilegt að álykta að síra Jón Ívarsson hafi setið í Laugardal þar eð arfleiðslubréfið er skrifað í Krossadal í Tálknafirði.

Ari Jónsson, prestur í Laugardal á 16. öld, er nefndur í Biskupaannálum séra Jóns Egilssonar í Hrepphólum er hann mun hafa ritað skömmu eftir 1600. Þar segir að Ari þessi prestur hafi verið dóttursonur Björns Þorleifssonar hirðstjóra og Ólafar ríku Loptsdóttur, konu hans, – sonur Solveigar Björnsdóttur og Jóns Þorlákssonar, ráðsmanns hennar, er hún bjó með um skeið á Hóli í Bolungavík.[18] Þetta mun ekki vera rétt.[19] Líklegt má hins vegar telja að Ari prestur Jónsson í Laugardal sé sami Ari Jónsson og sá maður með því nafni sem var prestur á Stað í Súgandafirði á árunum 1539-1549 en sá Ari var sonarsonur nýnefndrar Solveigar og Jóns Þorlákssonar (sjá hér Staður í Súgandafirði).

Um síra Ara Jónsson og bræður hans tvo segir séra Jón Egilsson að þeir hafi allir verið listamenn og hlupu á sléttu svelli ellefu álnir.[20] – Líklega hafa þeir stokkið þetta, tæplega sjö metra, og þótt vel gert. Um Ara prest segir annálaritarinn síðan aðeins þetta:

 

Síra Ari, bróðir Björns og Einars, átti tvo syni og hétu Jónar báðir, vel hagir menn og hafa lifað til lítillar stundar. Sá síra Ari bjó vestur í Laugardal og hafði það fyrir beneficium.[21]

 

Þriðji presturinn í Stóra-Laugardal frá fyrri hluta 16. aldar er svo séra Ari Steinólfsson. Hann var maður skurðhagur og segir séra Jón Egilsson í Hrepphólum að hann hafi skorið allan skurð á Skálholtskirkju innan, bæði á stöfum og  hurðum og öðru.[22] Þetta hefur verið um 1530 því um það leyti lét Ögmundur biskup Pálsson reisa nýja Skálholtskirkju eftir kirkjubrunann sem þar varð árið 1527. Fyrir 1546 er Ari hins vegar kominn í Tálknafjörð.[23]

Fyrsti prestur sem um er getið í Laugardal eftir siðaskipti er Guðmundur Skúlason sem þjónaði hér í byrjun 17. aldar (sjá hér Tálknafjarðarhreppur, bls. 3 þar).[24] Hann var kvæntur sonardóttur séra Halldórs Einarssonar í Selárdal, bróður Gizurar biskups. Líklega hefur séra Guðmundur verið aðstoðarprestur á þeim árum sem hann sat í Laugardal en tengdafaðir hans, séra Bjarni Halldórsson, hélt þá Selárdal í Arnarfirði. Næstu aldir og allt til ársins 1909 var kirkjan í Stóra-Laugardal útkirkja frá Selárdal og Laugardalur því ekki fast prestssetur. Aðstoðarprestar sátu hér hins vegar alloft en stöku sinnum á öðrum bæjum í firðinum og þjónuðu Stóra-Laugardalssókn sem náði yfir allan Tálknafjörð. Úr hópi slíkra presta sem sátu í Laugardal skulu hér aðeins nefndir tveir.

Séra Eyjólfur Ásmundsson var aðstoðarprestur séra Páls Björnssonar í Selárdal á árunum 1647 til 1673 og sat í Stóra-Laugardal.[25] Var þetta á fyrstu prestskaparárum séra Páls. Eyjólfur prestur hafði áður þjónað Brjánslæk en misst þar hempuna, sumir segja þrisvar, fyrir barneignabrot.[26]

Síðastur presta sat í Stóra-Laugardal séra Einar Gíslason sem á árunum 1812 til 1829 var aðstoðarprestur föður síns, séra Gísla Einarssonar í Selárdal, en tók síðan við kallinu af honum. Séra Einar var kvæntur Ragnhildi, dóttur Jóns bónda Jónssonar á Suðureyri í Tálknafirði (sjá hér Suðureyri). Séra Einari lýsir Sighvatur Borgfirðingur svo að hann hafi verið:

 

mikill vexti og hraustmenni á yngri árum, siðprúður og vandaður maður. … Raddmaður góður en lítt hneigður til vísindalegra starfa. Ræðumaður hinn mesti var hann alla ævi og sökum góðmennsku sinnar vel látinn.[27]

 

Séra Einar bjó í Stóra-Laugardal frá því um 1820 og til 1830 er hann fluttist að Selárdal.[28] Frá brottför séra Einars var kirkjunni í Stóra-Laugardal þjónað frá Selárdal allt þar til sóknin var lögð hinu nýja Eyraprestakalli til með lögum frá 1907 sem komu til framkvæmda í fardögum árið 1909.[29] Síðan hefur henni verið þjónað frá Patreksfirði.

Kirkja sú sem nú (1988) stendur í Stóra-Laugardal var reist árið 1906 og var hún að öllu smíðuð á kostnað Guðmundar Jónssonar sem þá bjó á jörðinni.[30] Guðmundur var kvæntur Ólínu Kristínu Þorsteinsdóttur, systur Þorsteins Thorsteinsson, fyrsta innlenda kaupmannsins á Patreksfirði (sjá hér Geirseyri og Vatneyri).[31]Guðmundur í Stóra-Laugardal mun hafa verið vel efnaður og átti m.a. báðar Laugardalsjarðirnar í Tálknafirði og jörðina Bæi á Snæfjallaströnd.[32]

Allt timbur í kirkjuna sem Guðmundur lét reisa var flutt til landsins með norskum hvalveiðiskipum og húsið plankabyggt á norska vísu.[33] Á þessum tíma var hvalstöðin starfandi á Suðureyri í Tálknafirði. Merkasti gripur Stóra-Laugardalskirkju mun vera predikunarstóllinn, ærið forn, sagður kominn úr dómkirkjunni í Óðinsvéum í Danmörku en hingað gefinn af dönskum kaupmanni.[34]

Haustið 1710 var Þrúður Þorsteinsdóttir, ekkja Björns Þorleifssonar Hólabiskups, eigandi beggja Laugardalsjarðanna í Tálknafirði. Hún átti þá líka þrjár aðrar jarðir í Tálknafirði, Kvígindisfell, Krossadal og Hól og einnig hluta úr Sellátrum og Höfðadal. Alls átti biskupsekkjan á Hólum 148 jarðarhundruð í Tálknafirði þetta haust og var þá stærsti landeigandi í hreppnum.[35] Stóri-Laugardalur einn, að hjáleigunum meðtöldum, var að fornu mati talinn 36 hundruð og árleg landskuld, sem frúnni var goldin af jörðinni, tólf vættir[36] er í landaurareikningi samsvaraði tveimur kúgildum. Talið var að á allri jörðinni mætti fóðra sex eða sjö kýr.[37]

Í Jarðabók Árna og Páls er dregin upp heldur dökk mynd af búskaparskilyrðum í Stóra-Laugardal í byrjun 18. aldar og segir þar m.a. svo:

 

Túnið spillist af grjótsuppgangi og aur og sandi, sem rennur á það í leysingum. Engjar eru öngvar, nema litlar í svarðleysumýrum, sem sjaldan spretta. Úthagarnir eru stórlega af skriðum fordjarfaðir, uppblásnir og í hrjóstur komnir. Hætt er kvikfé fyrir sjávarflæðum undir mó[ð]sköflum og svo fyrir afætudýjum. Vatnsból bregst sumar og vetur og er þá óbærilega langur vatnsvegur í Laugardalsá eður Laugardalslaug. Hætt er húsum og heyjum fyrir stórveðrum. Heimræði er hér sumar, haust og fram á vetur en um vertíð … gera menn sig heiman í útver.[38]

 

Í landi Kvígindisfells, sem er næsti bær fyrir utan Laugardal, átti Stóri-Laugardalur rétt til selstöðu á Fagradal. Árið 1710 hafði þessi réttur þó ekki verið nýttur í 80 eða 90 ár og það land mestallt í hrjóstur komið.[39] Munnmæli hermdu í byrjun 18. aldar að jörðinni fylgdi líka skógarítak í Dufansdal í Arnarfirði en Mála-Snæbjörn Pálsson, sem þá átti Dufansdal, vildi ekkert við þetta kannast.[40]

Tvær hjáleigur voru í byggð í Stóra-Laugardal árið 1710, Neðrihús og Holtastaðir. Um Neðrihús segir svo í Jarðabókinni frá því ári: Byggð fyrir manna minni í heimatúninu skammt frá staðnum. En um Holtastaði: Byggð við heimatúnið fyrir sex árum á eyðiholti þar sem ekki hafði áður byggð verið.[41]

Neðrihús töldust hafa afnot af sjö jarðarhundruðum en Holtastaðir aðeins af þremur. Svo sem nærri má geta var bústofninn lítill á Holtastöðum. Ein kýr, einn kálfur, tvær ær, einn veturgamall sauður og eitt lamb.[42]

Þriðja hjáleigan í Stóra-Laugardal stóð auð árið 1710. Voru það Hálfdanarhús er höfðu legið í eyði síðustu tíu ár en áður búið þar svo lengi sem elstu menn mundu. Hálfdanarhúsum fylgdu sex jarðarhundruð og stóð kotið í heimatúninu.[43]

Hálfdanarhús áttu þó eftir að byggjast á ný og þar andaðist 29. desember árið 1800 á reiðingstorfu hin áður dreissuga sýslumannsfrú í Haga á Barðaströnd, Halldóra Teitsdóttir. Prestsþjónustubókin staðfestir að þar hafi hún tekið síðustu andvörpin og lík hennar beðið greftrunar þegar Tálknfirðingar fögnuðu nýrri öld.[44] Um Halldóru er sitthvað ritað hér á öðrum stað (sjá Hagi) og dæmi rakin um fégirnd hennar og harðýðgi við almúga á sýslumannsárum Ólafs Árnasonar, eiginmanns hennar.

Halldóra var fædd á Eyri í Skutulsfirði um 1718, dóttir séra Teits Pálssonar, sem drukknaði í viðarferð á Hornstrandir árið 1728, og konu hans, Gróu Markúsdóttur. Meðal systkina hennar var Jón Teitsson sem biskup var á Hólum skamma hríð árið 1781. Ung gekk Halldóra að eiga Ólaf sýslumann í Haga og bjó með honum allmörg ár við auð og völd, sukk og svall. Á fertugsaldri varð hún ekkja árið 1754 og fluttist þá skömmu síðar frá Haga að Stóra-Laugardal. Hingað var búslóð hennar flutt á 30 hestum (sjá hér Hagi). Í Laugardal bjó Halldóra síðan til æviloka, í nær hálfa öld, fyrst í Stóra-Laugardal og hér er hana að finna í manntalinu frá 1762 en síðan í kotunum kringum kirkjustaðinn. Smátt og smátt gengu eignirnar af henni, enda segir Gísli Konráðsson að mjög hafi hún tekið að súpa á sterkum veigum skömmu eftir að hún kom í Tálknafjörð.[45] Árið 1769 selur hún fimm hundruð sem hún átti í jörðinni Siglunesi á Barðaströnd. Átta árum síðar veðsetur hún hálfan Stóra-Laugardal fyrir peningaláni og sumarið 1778 selur hún hálflenduna í Stóra-Laugardal fyrir peninga, 180 spesíudali.[46] Þá var Halldóra um sextugsaldur og mun um það leyti hafa flust að Litla-Laugardal þar sem hún bjó til 1791 en eftir það í hjáleigunum Rima og Hálfdanarhúsum.[47]

Síðustu árin í Hálfdanarhúsum var Halldóra á heimili Ástríðar Oddsdóttur, fósturdóttur sinnar, og manns hennar, Þórðar Brynjólfssonar, sem bæði voru um þrítugt þegar Halldóra dó.[48] Ein heimild greinir svo frá að í Hálfdanarhúsum hafi Halldóra gamla búið í óþiljaðri útiskemmu og þolað þar bæði klæðleysi og hungur.[49] Það fylgir sögunni að aldrei hafi hún þó kvartað og léti einhver í ljós samúð sína við hana væri svarið: Þetta er mér maklegt og þótt verra væri.[50] Einhverju sinni á Þórður í Hálfdanarhúsum að hafa minnt Halldóru á hvernig breytni hennar hafði verið á velmektardögunum. Ekki mun gamla frúin hafa tekið slíkum áminningum vel heldur svarað: Þegja skalt þú um það helvískur gikkurinn. Það er guð, sem hegna mun eða fyrirgefa mér en ekki þú.[51]

Lík Halldóru stóð uppi í tæpan mánuð því ekki var hún grafin fyrr en 24. janúar 1801.[52] Máske hefur séra Gísla Einarssyni í Selárdal ekki gefið yfir heiðina allan þann tíma. Ætla má að fáir hafi fellt tár við útförina. Hér var gömlu öreigakvendi holað í jörð en minningin um frúna í Haga, skart hennar og valdníðslu, lifði lengi í nálægum héruðum.

Elsta sóknarmannatalið úr Tálknafirði er frá árinu 1786. Þá þegar virðist hjáleigan Neðrihús vera horfin úr sögunni og hvergi er hún heldur nefnd í síðari manntölum né heldur í sóknarmannatölum.[53]

Í Hálfdanarhúsum mun enginn hafa sest að eftir andlát frú Halldóru Teitsdóttur við lok 18. aldar[54] en á Holtastöðum var enn búið árið 1812[55] en kotið fallið í eyði áður en manntal var tekið 1816.[56] Þá búa aðeins tveir bændur í Stóra-Laugardal og 1845 býr einn bóndi á allri jörðinni.[57]

Í sóknarlýsingu séra Benedikts Þórðarsonar frá 1873 segir um Stóra-Laugardal að hér standi tveir bæir í túni.[58] Séra Benedikt getur líka um gömlu hjáleigurnar, sem þá voru löngu komnar í eyði, og segir að enn sjáist hvar hver þeirra var. Hann nefnir Holtastaði, Hálfdanarhús og Árnahús sem trúlega er annað nafn á Neðrihúsum. Þegar Hallbjörn Oddsson fluttist í Tálknafjörð árið 1891 var tvíbýli í Stóra-Laugardal og annað ábýlið nefnt Ytri-Laugardalur.[59] Hallbjörn heyrði þá minnst á hjáleigukotin, sem áður höfðu verið í Laugardal, og segir að eitt þeirra hafi heitið Spóni [60] en Laugaból kallaðist smábýli í Stóra-Laugardal sem búið var á um skeið á fyrri hluta 20. aldar.[61]

Hér hefur nú verið minnst á hjáleigurnar og önnur býli í Stóra-Laugardal á fyrri tíð og lítið eitt sagt frá nokkrum þeirra einstaklinga er hér hafa átt heima. Þó hefur enn ekki verið nefndur Guðmundur Ingimundarson skipstjóri, sem hér bjó frá 1807 til 1811, en nafn hans rís hátt í sögu sjávarútvegsins á Íslandi þó að fátt sé reyndar um manninn vitað.

Guðmundur Ingimundarson bjó í Breiðholti við Reykjavík áður en hann fluttist vestur í Stóra-Laugardal. Hann er fyrsti lærði íslenski skipstjórinn, búsettur hérlendis, sem vitað er um að stýrt hafi þilskipi til fiskveiða hér við land[62] og því einn allra helsti brautryðjandi þeirrar miklu atvinnubyltingar sem skútuöldinni fylgdi. Mörgum hefur verið reistur minnisvarði út á minna.

Sá misskilningur hefur fest rætur í prentuðum ritum að Guðmundur hafi búið á Kvígindisfelli meðan hann starfaði sem skipstjóri hér vestra.[63] Líklega er misskilningur þessi upphaflega kominn á kreik vegna þeirra orða Gísla Konráðssonar, sem vel geta verið rétt, að jaktin sem Guðmundur stýrði hafi á vetrum staðið uppi þar á Felli.[64]

Brot úr sóknarmannatali sem til er frá árinu 1808 sýnir hins vegar að Guðmundur skipstjóri bjó þá í Stóra-Laugardal[65] og hreppsbók Tálknafjarðarhrepps frá árunum 1786-1828 tekur af öll tvímæli um þetta. Þar má sjá í tíundarreikningum að hinn frægi jaktarformaður hefur búið á 18 hundruðum í Stóra-Laugardal frá árinu 1807 og hér er hann enn haustið 1810.[66] Haustið 1811 er hann horfinn úr tíundarreikningum Tálknfirðinga. Hins vegar er eigandi jaktarinnar, Guðmundur Scheving, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, þá skráður umráðamaður yfir helmingi af fyrra ábýli skipstjóra síns og bendir þetta mjög eindregið til þess að Guðmundur Ingimundarson hafi drukknað vorið 1811 eins og Jón Espólín segir reyndar í Árbókum sínum[67] en ekki árið 1813 eins og Guðmundur Scheving, útgerðarmaður skipsins, festir á blað tveimur áratugum eftir hvarf þess[68] og aðrir hafa síðan tekið upp. Líklega hefur Guðmundi Scheving verið annað betur gefið en minni á ártöl og gildir það reyndar um býsna marga gáfumenn á fyrri tíð. Öllum heimildum ber saman um að Guðmundur Ingimundarson hafi verið búsettur í Tálknafirði þegar hann drukknaði og sé það rétt þá hefur slysið orðið 1811, – það sýnir hreppsbók sú sem hér var vitnað til þó að engin vitneskja finnist um þetta í prestsþjónustubókum.

Árið 1803 kaupir Guðmundur Ingimundarson, þá bóndi í Breiðholti við Reykjavík, þilskip frá Noregi og byrjar útgerð þess sama ár.[69] Skip það sem Guðmundur keypti hét Delphin og var slupskip, 13½ lest að stærð.[70] Guðmundur var sjálfur skipstjóri á skipi sínu og fluttist með því vestur í Tálknafjörð árið 1807. Hann er sem áður sagði fyrsti lærði íslenski skipstjórinn sem vitað er um að stýrt hafi þilskipi til fiskveiða hér við land og veiddi fyrsta sumarið 5993 þorska á þeim 52 dögum sem vertíðin stóð.[71] Gísli Konráðsson segir að Guðmundur í Breiðholti hafi lært sjómannafræði erlendis en ekki er vitað hvar.[72]

Fyrir daga Guðmundar Ingimundarsonar og Bjarna riddara Sívertsen í Hafnarfirði höfðu aðeins örfáir íslenskir menn gert tilraunir til þilskipaútgerðar hér við land og allar þær tilraunir staðið skamma hríð, án þess að skilja eftir sig varanleg spor. Fyrsta tilraunin af því tagi var skútuútgerð séra Páls Björnssonar í Selárdal við Arnarfjörð um miðja 17. öld en á síðari hluta 18. aldar reyndu þeir Skúli Magnússon fógeti og Ólafur Stefánsson amtmaður skútuútgerð við takmarkaðan árangur[73] og konungsverslunin gerði tilraun með útgerð nokkurra þilskipa frá Hafnarfirði og fleiri íslenskum höfnum á árunum kringum 1780 (sjá hér Þingeyri, – bls. 20-21 þar). Talið er að Bjarni Sívertsen, kaupmaður í Hafnarfirði, hafi byrjað þilskipaútgerð rétt fyrir aldamótin 1800 er hann festi kaup á þilskipi frá Danmörku.[74] Sjálfsagt er að miða upphaf hinnar svokölluðu skútualdar á Íslandi við þann atburð.

Guðmundur Ingimundarson er hins vegar sá sem næstur á eftir Bjarna ræðst í að kaupa þilskip, sama árið og Bjarni lætur í fyrsta sinn á síðari tímum smíða skútu hér innanlands.[75] Bjarni Sívertsen var hinn merkasti brautryðjandi en það er Guðmundur Ingimundarson, sem fyrstur íslenskra manna sem hér voru búsettir stýrir eigin þilskipi til fiskiveiða. Úr Kollektusjóði hafði hann strax árið 1801 fengið 1000 ríkisdala lán til fyrirhugaðra skútukaupa og árið 1805 fékk hann, fyrstur Íslendinga, 135 ríkisdali í konungleg verðlaun fyrir að halda þilskipi til fiskveiða við Ísland.[76]

Síðla árs 1806 selur Guðmundur Ingimundarson skip sitt Guðmundi Scheving, sýslumanni í Haga á Barðaströnd, síðar kaupmanni og útgerðarmanni í Flatey. Mun Scheving hafa hafið útgerð þess vorið 1807 (sjá hér bls. 7-8).

Þá er það sem Stóri-Laugardalur í Tálknafirði birtist á sögusviðinu en hingað fluttist um það leyti Guðmundur Ingimundarson frá Breiðholti og var áfram skipstjóri á jaktinni þó að nafni hans Scheving væri orðinn eigandinn.[77] Jakt þessi var fyrsta skipið sem Guðmundur Scheving eignaðist og sjálfur segist hann hafa haldið henni úti frá Tálknafirði.[78]

Á árunum 1807 til 1811 voru aðeins þrjú þilskip gerð út frá Vestfjörðum.[79] Tvö þessara skipa átti Ólafur Thorlacius á Bíldudal og hafði hafið útgerð þeirra árið 1806 (sjá hér Suðureyri í Tálknafirði). Þriðja skipið var Delphinen gert út frá Stóra-Laugardal. Til 1809 var Guðmundur Ingimundarson í Stóra-Laugardal eini íslenski skipstjórinn á þessum fyrstu vestfirsku þilskipum á síðari tímum, ef frá er talin skipstjórn Bjarna bónda Þórðarsonar á Siglunesi, stuttan tíma á jaktinni Mettu frá Bíldudal (sjá hér Siglunes). Árið 1809 tók svo Þorleifur Jónsson frá Suðureyri í Tálknafirði við skipstjórn á annarri Bíldudalsskútunni (sjá hér Suðureyri) en hann og Guðmundur í Stóra-Laugardal eru fyrstu íslensku skútuskipstjórarnir á Vestfjörðum sem árum saman stunduðu þilskipaveiðar.

Árið 1811 týndist jaktin frá Stóra-Laugardal í hafi (sjá hér bls. 8). Með henni fórst Guðmundur Ingimundarson skipstjóri og öll áhöfn hans.[80] Talið er að sex manna áhöfn hafi verið á Delphin er skipið fórst.[81] Jaktin Delphin var fyrsta íslenska þilskipið sem týndist í hafi og allt til ársins 1834 eina skipið í hinum vaxandi íslenska þilskipaflota sem farist hafði.[82]

Guðmundur Ingimundarson skipstjóri var á fimmtugsaldri er hann fórst með skipi sínu árið 1811, sagður 44 ára í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1808 en 35 ára í Breiðholti á manntali sjö árum fyrr.[83] Hann bjó árið 1808 í Stóra-Laugardal með konu sinni, sem séra  Gísli Einarsson í Selárdal nefnir þá Madame Arndísi Gísladóttur, og fjórum börnum þeirra á aldrinum fimm til fjórtán ára.

Jón Espólín segir að Guðmundur hafi árið 1811 lagt út að sunnan og haldið vestur á jaktinni. – Hún var lek og reiðalítil og hefur síðan hvergi komið fram en þar af höfðu margir tjón mikið, ritar Espólín.[84]

Guðmundur Ingimundarson bregður enn svip yfir Stóra-Laugardal í Tálknafirði. Vestfirðingar ættu að sýna honum sóma því þó að hann kæmi úr Breiðholtinu þá gerðist hann þeirra maður. Eins og fyrr var frá sagt er Guðmundur í Stóra-Laugardal fyrsti lærði íslenski skipstjórinn, búsettur hérlendis, sem vitað er um að stýrt hafi þilskipi til veiða á Íslandsmið. Merkilegt er að sá eini Íslendingur sem um er kunnugt með fullri vissu að lengi hafi stýrt þilskipi til veiða hér við land á undan Guðmundi skuli líka tengjast Tálknafirði. Sá hét Jóhann Ingimundarson og var Tálknfirðingur að uppruna. Hann fór utan með Frökkum eða Hollendingum árið 1753 og settist þá eða skömmu síðar að í Dunkerque nyrst í Frakklandi.[85] Þaðan stýrði hann sínu eigin þilskipi til veiða á Íslandsmið sumar hvert á árunum 1763-1775[86] og ef til vill lengur.

Kirkjustaðurinn Stóri-Laugardalur stendur undir fjallinu Fagramúla, og er brúnin að bæjarbaki í 475 metra hæð. Sinn hvorum megin múlans ganga allmiklir dalir inn í fjalllendið sem skilur að Tálknafjörð og Arnarfjörð. Að innan Laugardalur en að utan Fagridalur. Sá síðarnefndi er fullir þrír kílómetrar á lengd og í honum er ágætt haglendi. Um Fagradal lá reiðvegur frá Stóra-Laugardal og yfir í Fífustaðadal í Ketildölum sem áður var nefndur Kolmúladalur. Fjallvegur þessi liggur hæst í um 570 metra hæð og eru milli tíu og tólf kílómetrar frá Stóra-Laugardal að bænum Öskubrekku í Fífustaðadal. Selárdalsprestar kynnu þó oftar að hafa farið Selárdalsheiði, sem liggur utar og er lægri, meðan þeir þjónuðu kirkjunni í Stóra-Laugardal.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 348.

[2] Sama heimild, 347.

[3] Sóknarmannatöl Stóra-Laugardalssóknar.  Manntöl 1801, 1816, 1835, 1840,1845, 1850, 1855, 1860, 1870 og 1880.

[4] Sömu heimildir.

[5] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 218.

[6] Uppdráttur Íslands, blað 2, Selárdalur.

[7] Jarðab. Á. og P. VI, 347.

[8] Sama heimild, 348.

[9] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 217.

[10] Örnefnaskrár Litla- og Stóra-Laugardals.

[11] Sýslulýsingar 1744-1749, 142 (gefnar út 1957).

[12] Lýður Björnsson 1967, 44 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[13] Sturlungasaga II, 369.

[14] Sama heimild, 269.

[15] Sveinn Níelsson 1950, 181.

[16] Dipl. isl. IX, 66-68.

[17] Íslenskar æviskrár III, 420.

[18] Safn til sögu Íslands I, 57 (Kph. 1856).

[19] Arnór Sigurjónsson 1975, 240-247.

[20] Safn til sögu Íslands I, 57 (Kph. 1856).

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild I, 62.

[23] Sveinn Níelsson 1950, 181.

[24] Sveinn Níelsson 1950, 182.

[25] Íslenskar æviskrár I, 449-450.

[26] Sama heimild.

[27] Jón Kr. Ísfeld 1953, 64-65 (Árbók Barðastrandarsýslu).

[28] Sóknarmannatöl og prestsþjónustubækur Stóra-Laugardalssóknar.

[29] Sveinn Níelsson 1950, 182.

[30] Landið þitt Ísland IV, 190.

[31] Íslenskar æviskrár V, 235.

[32] Hallbjörn Oddsson 1962, 124-125 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[33] Trausti Einarsson 1987, 90

[34] Ingivaldur Nikulásson 1942, 113 (Barðstrendingabók).

[35] Jarðab. Á. og P. VI, 338-357.

[36] Sama heimild, 348.

[37] Sama heimild, 349-350.

[38] Sama heimild, 349.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild, 349 og 381.

[41] Jarðab. Á. og P. VI, 349-350.

[42] Sama heimild, 350.

[43] Jarðab. Á. og P. VI, 350.

[44] Prestsþjónustubækur Stóra-Laugardalssóknar.

[45] Blanda V, 123.

[46] Alþingisbækur Íslands XV, 273, 541 og 606.

[47] Blanda V, 123.

[48] Sama heimild, 123-124. Sbr. Manntal 1801, bls. 250.

[49] Ingivaldur Nikulásson 1982, 73 (Þjóðsögur og þættir II).

[50] Sama heimild.

[51] Ingivaldur Nikulásson 1982, 73 (Þjóðsögur og þættir II).

[52] Prestsþj.bækur Stóra-Laugardalssóknar.

[53] Sóknarmannatöl Stóra-Laugardalssóknar og Manntöl.

[54] Sömu heimildir.

[55] Prestsþj.bók Stóra-Laugardalssóknar 1785-1830, 123.

[56] Manntal 1816.

[57] Manntöl 1816 og 1845.

[58] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 243.

[59] Hallbjörn Oddsson 1962, 125 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[60] Sama heimild.

[61] Bæjatal á Íslandi 1930.

[62] Gils Guðmundsson 1977, I, 72. Sbr. Lýður Björnsson 1994, 120-124 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[63] Sýslumannaæfir I, 143.

[64] Gils Guðmundsson 1977, I, 93.

[65] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[66] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barðastr.sýsla, Tálknafj.hreppur. – 1. Hreppsbók Tálknafjarðarhrepps 1786-1828.

[67] Jón Espólín: Íslands Árbækur XII, 53 (Kph. 1855).

[68] Guðmundur Scheving 1832, 88 (Ármann á Alþingi IV, tímarit).

[69] Gils Guðmundsson 1977, I, 73.

[70] Sama heimild. Sbr. Gríma hin nýja II, 13.

[71] Gils Guðmundsson 1977, I, 72 og 73.

[72] Gils Guðmundsson 1977, I, 72 og 73.

[73] Einar Laxness 1977, 132.

[74] Gils Guðmundsson 1977, I, 60.  Sigurður Skúlason 1933, 264.

[75] Sigurður Skúlason 1933, 261.

[76] Gils Guðmundsson 1977, I, 72 og 116-118.

[77] Sama heimild, 91.

[78] Guðmundur Scheving 1832, 88 (Ármann á Alþingi IV, tímarit).

[79] Sama heimild, 87-89.

[80] Guðmundur Scheving 1832, 88.

[81] Gils Guðmundsson 1977, III, 259-260.

[82] Sama heimild.

[83] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.  Manntal 1801, suðuramt, 379.

[84] Jón Espólín: Íslands Árbækur XII, 53.

[85] Lýður Björnsson 1994, 120-124 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[86] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »