Lokinhamrar

Frá Hrafnabjörgum göngum við yfir brúna á Lokinhamraá og nemum staðar hjá fornlegri skemmu með grænu torfþaki en skammt frá henni stóð gamli Lokinhamrabærinn sem nú er horfinn.[1] Í Lokinhömrum sátu oft ríkir bændur, enda var hér gott undir bú og skilyrði til sjósóknar á forna vísu hin ákjósanlegustu. Árið um kring gátu Lokinhamramenn róið til fiskjar úr heimavör og eins var það á Hrafnabjörgum en allir aðrir bændur í hreppnum urðu að fara í útver á vorin.[2]

Lokinhamrar eru forn bújörð, 24 hundruð að dýrleika að fornu mati, sé Dalsdalur talinn með[3] en sú jörð féll snemma í eyði og var sameinuð Lokinhömrum á fyrri hluta 17. aldar[4]. Fyrir þann tíma var lengi litið á Lokinhamra og Hrafnabjörg sem eina jörð er einnig taldist vera 24 hundruð (sjá Hrafnabjörg). Héðan eru tveir kílómetrar út að Dalsdal en Dalsdalsbærinn, sem féll í eyði á 16. öld eða fyrr, stóð á grónum grundum, skammt frá sjó, fyrir mynni Dalsdals, og er nafn dalsins enn hið sama og forðum.[5] Lokinhamrar eiga allt land, sín megin ár, í Lokinhamradal, sem er fjórir til fimm kílómetrar á lengd, og allt land utan við hann, að hreppamörkum en þau eru við Litlabarð, einum til tveimur kílómetrum fyrir utan Dalsdal.

„Allgóð jörð að grasnytjum og flutningsjörð með fénað“, segir um Lokinhamra á einum stað,[6] en hér í Álftamýrarsókn var víðast hvar góð fjörubeit[7] og sauðfé „komið upp á sjávarþara til lífsbjargar sinnar“.[8] Góð aðstaða til fengsællar sjósóknar var tvímælalaust helsti kostur þessarar bújarðar en til landkosta mátti einnig telja hið mikla hvannstóð í Lokinhamrató, yst í landareigninni, og sölvafjöru sem á öldum áður var „bjargleg fyrir heimilið“ en ísalög ollu miklum skaða á þeirri matarkistu á árunum kringum 1700.[9] Í Lokinhamrató áttu a.m.k. þrjár kirkjur rétt til hvannskurðar og hér verður síðar frá greint en á móti kom að Lokinhömrum fylgdi skógarítak í landi jarðarinnar Langabotns í Geirþjófsfirði og heitir þar Lokinhamratunga.[10]

Einn eða fleiri bátar frá öðrum bæjum voru hér oft við róðra á fyrri tíð. Árið 1710 stóðu tvær verbúðir hjá heimavörinni og næstu ár þar á undan höfðu eitt til þrjú „inntökuskip“ róið frá henni á vorin, auk báta heimamanna.[11] Um 1690 hófst útræði frá Dalsdalsnesi[12] sem er innantil við ós Dalsdalsár, í landi Lokinhamra, og heitir nú Eyjólfsnes.[13] Þaðan reru jafnan einn til tveir bátar frá öðrum bæjum á vorvertíð á árunum kringum 1700[14] og þar eru enn þrjár tóttir sem líklegt má telja að allar séu verbúðarústir.

Á síðari hluta 19. aldar voru yfirleitt einn eða fleiri bátar úr Dýrafirði við róðra hér í Lokinhömrum á haustin.[15] Í manntalinu frá 1. nóvember 1901 sést að þá lágu hér við 17 vermenn[16] og munu hafa haldið til í fjárhúsum.[17] Í fjörunni utan við gamla bæinn í Lokinhömrum voru þrjár lendingar og örskammt á milli þeirra.[18] Aðallendingin var innst, rétt fyrir utan Bæjarlæk, og var hún nefnd Bæjarpollur en hinar Miðpollur og Ystipollur.[19] Lending var talin góð í Lokinhömrum en skipsuppsátur ótryggt því ofan við fjöruna eru háir klettabakkar.[20] Grjóthrun og snjóhengjur sem féllu úr bökkunum ollu stundum skaða á bátunum.[21] Í miklu brimi var skást að lenda við Ystapoll.[22]

Ofan við túnið opnast Lokinhamradalur, sem fyrr var nefndur, en hann er nær allur hömrum krýndur hið efra og gefur þar að líta þá lokinhamra sem ætla má að bærinn sé kenndur við. Fjallið yfir bænum heitir Bæjarfjall og skálin framan við það Indriðaskál.[23] Framan við hana tekur við Skútafjall og nær fram að Seljahjalla.[24] Framan við hann eru Flár og ná fram að Hlíðarfjalli en þá er komið fram undir dalbotn. Seljahjalli, sem hér var nefndur, er rétt framan við miðjan dal en þó heiman við Stórholtin er svo heita[25] og bera nafn með réttu. Neðan við hjallann eru gamlar seltóttir og heitir þar enn Sel.[26] Skarðið fyrir botni dalsins liggur í 679 metra hæð. Það er nefnt Lokinhamraheiði. Yfir hana og sem leið liggur um Lambadal, fjalldal ofan við Haukadal í Dýrafirði, var stundum farið fjarða á milli. Úr skarðinu eru sex til sjö kílómetrar til byggða, hvort sem farið er vestur eða norður af, að Lokinhömrum eða Haukadal. Lokinhamraheiði var talin hestfær að sumarlagi en þó með naumindum og að vetrinum verður hún oft ófær eða nær alveg ófær gangandi mönnum.[27] Valda því ýmist hörkur eða fannfergi.[28] Fjallið sunnan við heiðarskarðið heitir Sæólfsfell og hvilftin stóra, heiman við það, Torfahvilft.[29] Yfir innri hlíð dalsins gnæfir fjallið Skeggi, næst bænum á Hrafnabjörgum, en síðan tekur við Skorarfjall og nær það fram undir Torfahvilft.[30] Öll innri hlíðin er í landi Hrafnabjarga því áin sem fellur um dalinn skiptir löndum og heitir hún Lokinhamraá.[31]

Í ritum frá 13. öld er alloft getið um Helga Sveinsson er var tengdasonur Hrafns á Eyri Sveinbjarnarsonar og bjó í Lokinhömrum.[32] Í röð Lokinhamrabænda er hann sá fyrsti sem unnt er að nefna með nafni. Helgi hýsti um skeið kappann Aron Hjörleifsson í útlegð hans[33] en búandmaður þessi úr Lokinhömrum féll með Sturlu Sighvatssyni í Örlygsstaðabardaga sumarið 1238.[34] Sonur Helga og konu hans, Þuríðar Hrafnsdóttur, var Guttormur, er nefndur var „körtur“.[35] Hann bjó einnig hér og var með frænda sínum, Hrafni Oddssyni, að vígi Odds Þórarinssonar í Geldingaholti 14. janúar 1255.[36] Kona Guttorms og húsfreyja hér í Lokinhömrum á síðari hluta 13. aldar var Þorgerður, systir Árna Þorlákssonar, hins atkvæðamikla biskups í Skálholti.[37] Bænhús var í Lokinhömrum og hefur að líkindum verið reist eigi síðar en á dögum feðganna Helga og Guttorms. Í því voru sungnar tíðir allt til ársins 1690.[38] Á fyrstu árum okkar aldar var kofi er stóð rétt fyrir innan og framan gamla bæinn nefndur bænhús.[39] Líklegt er að hann hafi staðið á bænhúsgrunninum.

Björn Guðnason í Ögri átti Lokinhamra er hann andaðist árið 1518[40] og svo virðist sem niðjar hans hafi átt jörðina frá árinu 1534 og fram á 18. öld.[41] Ljóst er að Guðrún Björnsdóttir frá Ögri eignaðist Lokinhamra árið 1534 og tvö börn hennar áttu þá síðar, fyrst Eggert lögmaður Hannesson og síðan Guðrún, systir hans, sem gift var Þorláki Einarssyni, sýslumanni á Núpi í Dýrafirði.[42] Sonarsynir Þorláks og Guðrúnar, þeir Jón Gizurarson á Núpi og Magnús Gizurarson, sem bjó lengi hér í Lokinhömrum, áttu Lokinhamra, Dalsdal og Hrafnabjörg um 1620.[43] Magnús dó barnlaus en Jón kom upp einum syni, Torfa er varð prestur og þjónaði lengi í Gaulverjabæ.[44] Séra Torfi átti þessar sömu jarðir árið 1658 en þá hafði Dalsdalur verið lagður til Lokinhamra.[45] Frá tengdadóttur hans og sonarsyni gengu nýnefndar jarðeignir loks úr ættinni um 1720 til Orms sýslumanns Daðasonar[46] sem andaðist tæplega sextugur að aldri árið 1744.[47] Tengdadóttir Orms átti Lokinhamra árið 1805[48] en leiguliðar bjuggu þá á jörðinni[49] og í sjálfsábúð komst hún fyrst á ný um miðbik 19. aldar.[50]

Hér var áður getið feðganna Helga Sveinssonar og Guttorms Helgasonar er bjuggu í Lokinhömrum á 13. öld en um næstu ábúendur og þeirra fólk skortir alla vitneskju. Í daufri birtu frá stopulum heimildum sjáum við næst á Lokinhamrahlaði Ólaf Gunnarsson og bræður hans sem hér bjuggu um miðbik 16. aldar og frægir urðu að endemum fyrir fólskuverk sín.[51] Fimm voru þessir Lokinhamrabræður og hefur Ólafur líklega verið elstur því hann var talinn fyrir þeim. Hinir hétu Andrés, Sigmundur og Jón og voru Jónarnir tveir.[52] Eitt margra illvirkja þessara Gunnarssona var aðför þeirra vorið 1545 að fátækum nágranna sínum, Brynjólfi bónda Sigurðssyni, og sonum hans er þeir fundu í fjöru skammt fyrir utan Svalvogahamar,[53] í nánd við bæinn Svalvoga í Þingeyrarhreppi. Í þeirri árás hlaut Brynjólfur þvílík sár að taka varð af honum báða fætur.[54] Skömmu síðar fóru þessir sömu bræður á ýmsa bæi í Dýrafirði, rændu þar fé og misþyrmdu fólki, m.a. í Alviðru og Haukadal þar sem húsfreyjan var slegin og henni jarðvarpað.[55] Vopn Lokinhamrabræðra voru langhnífar, glaðél, arngeir og hlaðnar byssur og með í för höfðu þeir einnig logandi lunta.[56] Á þriggja hreppa þingi er háð var á Mosvöllum í Önundarfirði þann 12. apríl 1548 dæmdu menn Ólaf Gunnarsson „útlægan og óheilagan hvar hann kynni að finnast eður nást fyrir utan griðastaði“ og var í dómnum tekið fram að hann hefði „fyrirgert fé og friði, landi og lausum eyri“.[57]Allir bræður Ólafs voru líka dæmdir útlægir frá landinu en á náð konungs.[58] Nánari fregnir af afdrifum Ólafs Gunnarssonar og bræðra hans liggja ekki á lausu en þeir sem síðar bjuggu í Lokinhömrum munu flestir eða allir hafa verið meiri jafnaðarmenn en þessir vargar.

Á 17. öld bjó hér lengi Magnús Gizurarson bartskeri og lögréttumaður, sem fyrr var nefndur, en hann var sýslumannssonur frá Núpi í Dýrafirði, fæddur árið 1592[59] og hálfbróðir Brynjólfs Sveinssonar, biskups í Skálholti. Bartskeraiðn, það er sáralækningar, nam Magnús á ungum aldri í Þýskalandi[60] og ferðir hans úr Lokinhömrum til Alþingis urðu margar áður en lauk því hann var lengi lögréttumaður.[61] Kona hans var Þorkatla Snæbjarnardóttir frá Kirkjubóli í Valþjófsdal[62] og gekk hann að eiga hana árið 1620.[63] Þau hófu um svipað leyti búskap sinn í Lokinhömrum og bjó Magnús hér til dauðadags en hann andaðist á páskum árið 1663.[64] Ætla má að hann hafi átt jörðina, einn eða með öðrum, flest sín búskaparár en bróðursonur hans, séra Torfi Jónsson í Gaulverjabæ, taldist þó vera orðinn aðaleigandi hennar fimm árum áður en Magnús andaðist (sjá Hrafnabjörg). Um bartskerann í Lokinhömrum kemst þessi frændi hans svo að orði að hann hafi verið „vitur maður, málsnjall og skáld gott“.[65]– „Á hljóðfæri hann lék með list, látúnssmiður góður, margfróður“, segir um Magnús í erfiljóði og þar má sjá að hann var vel að sér í tungumálum, kunni dönsku, þýsku, ensku og latínu.[66]

Á dánarári Magnúsar bartskera, árinu 1663, hvarf einn heimamanna í Lokinhömrum og fannst bara „kotið af honum, sem hundur hans lá á“.[67]Vera má að ýmsir hafi talið svo válegan atburð illan fyrirboða en enn liðu nokkur ár uns galdrafárið komst í algleyming hér í Arnarfirði.[68] Kona Magnúsar bartskera, Þorkatla Snæbjarnardóttir, lifði mann sinn og bjó áfram hér í Lokinhömrum allt til dauðadags.[69] Á árunum kringum 1675 dvaldist maður sem Ari hét Pálsson um lengri eða skemmri tíma í Lokinhömrum[70] og kynni að hafa búið hér á jarðarparti. Árið 1676 varð hann fyrst fyrir opinberri galdraákæru. Ari var þá kominn að Neðrabæ í Ketildölum, handan við fjörðinn, en sá sem kærði var Sigurður Bjarnason á Hrafnabjörgum, næsta bæ við Lokinhamra.[71] Taldi hann Ara vera valdan að veikindum barns.[72] Tvímælalaust er að Ari hafði verið búsettur í Auðkúluhreppi[73] og í málaferlunum gegn honum kvaðst eitt vitnið hafa fundið galdraspjald í Lokinhömrum, „næstan dag eftir burtför Ara þaðan“.[74]Þorkatla gamla, ekkja bartskerans, ærðist líka í þessu fári og bar fram galdraákæru á hendur Ara.[75] Fleiri áttu þar hlut að máli og við vitnaleiðslur á Rafnseyri kvaðst einn hafa orðið var við óhreinan anda í hunds líki er við sig talað hafi og sagst „vera sendur af Ara Pálssyni og ætti sig eður eitthvað sitt að drepa“.[76] Sumarið 1681 var Ari fluttur sem fangi vestan úr Arnarfirði að Þingvöllum við Öxará og dæmdur þar í lögréttu til að „straffast á lífinu sem svarinn og sannprófaður galdramaður“.[77] Hann hafði að lokum játað á sig þrennar sakir. Þær voru:[78]

  1. Að hann haft og meðhöndlað hafi óleyfilega fjölkynngiskonst.
  2. Að tilreynt hafi með sömu konstum kotruvers.
  3. Að vita hvort ein kvenpersóna væri óspillt mey eður ekki.

Þann 6. júlí 1681 var galdramaður þessi úr Arnarfirði brenndur við Öxará[79] og var það síðasta galdrabrennan á Þingvöllum en seinna var einn maður brenndur þar fyrir guðlast.[80]

Eiginkona hins meinta galdramanns, Ara Pálssonar, hét Ingibjörg Jónsdóttir og var náinn ættingi Magnúsar bartskera Gizurarsonar, er fyrr var frá sagt, því feður þeirra voru hálfbræður.[81] Ingibjörg var enn á lífi árið 1703, liðlega sjötug próventukona hjá systursyni sínum, Þorleifi Hannessyni á Laugabóli í Mosdal hér í Arnarfirði.[82]

Þegar Ari Pálsson var brenndur stóð ekkjan Þorkatla Snæbjarnardóttir enn fyrir búi í Lokinhömrum en þá var hér tvíbýli og svo var oftast næstu áratugina.[83] Á árunum 1753–1762 fjölgaði býlunum og þaðan í frá voru þau oftast fjögur um nokkurt skeið[84] og seinna þrjú allt til 1820 en Gísli Jónsson hóf hér búskap vorið 1825 og bjó frá 1827 einn á allri jörðinni.[85] Hann var sonur Jóns Gíslasonar Steinhólm, hreppstjóra í Stapadal, og konu hans, Þuríðar Guðmundsdóttur, fæddur árið 1804.[86] Kona Gísla var Ingibjörg Brynjólfsdóttir frá Mýrum í Dýrafirði.[87]

Gísli Jónsson Steinhólm stóð hér fyrir búi í liðlega þrjátíu ár eða allt til vorsins 1856 er Þuríður dóttir hans og eiginmaður hennar, Guðmundur Björnsson, tóku við.[88] Árið 1854 eignuðust Lokinhamramenn hálfa skútu og svo virðist sem Gísli og Guðmundur, tengdasonur hans, hafi báðir átt þar hlut að máli.[89] Á undan þeim höfðu aðeins tveir bændur í Auðkúluhreppi lagt fé í skútuútgerð, þeir Símon á Dynjanda og Jón Bjarnason í Stapadal.[90] Skútan sem Lokinhamramenn keyptu að hálfu árið 1854 varð þeim enginn happafengur því fyrir lok þess árs sleit hún festarnar inni á Dýrafirði og lenti á reki svo hún „brotnaði og sökk“.[91] Oft var margmenni í Lokinhömrum á búskaparárum Gísla Steinhólm og Guðmundar Björnssonar og hér var þá um skeið vinnumaður sem í manntölum er sagður vera „urtakramarasveinn“.[92] Hann hét Sveinn Sölvason og var fæddur um 1806 í Hólasókn norður í Skagafirði.[93]

Haustið 1857 keypti Guðmundur Björnsson hálfan Núp í Dýrafirði og fluttist þangað vorið 1858 (sjá Núpur). Oddur Gíslason, sem lengi hafði búið í Stóra-Garði í Dýrafirði festi þá kaup á Lokinhömrum eða parti úr jörðinni og fluttist hingað með allt sitt.[94] Oddur var kvæntur Guðrúnu Brynjólfsdóttur frá Mýrum, sem var móðursystir Þuríðar Gísladóttur, konu Guðmundar Björnssonar,[95] svo þessir tveir Lokinhamrabændur voru nátengdir. Búskaparár Odds Gíslasonar í Lokinhömrum urðu ekki mörg því synir hans, Gísli og Kristján, tóku hér við af föður sínum vorið 1866.[96] Þeir voru þá um þrítugt.[97] Gísli kvæntist Guðrúnu, dóttur Guðmundar Brynjólfssonar á Mýrum, og voru þau hjónin systkinabörn en kona Kristjáns var Sigríður Ólafsdóttir frá Auðkúlu.[98] Bræðurnir Gísli og Kristján Oddssynir bjuggu saman í Lokinhömrum frá 1866 til 1876, síðan Gísli einn í tuttugu ár, uns Kristján tók við af honum árið 1896.[99]

Á búskaparárum sínum í Stóra-Garði hafði Oddur Gíslason átt hlut í þilskipi um nokkurt skeið (sjá Stóri-Garður) og árið 1867 festu þeir Lokinhamrafeðgar, Oddur og synir hans, kaup á skútunni Nirði og gerðu hana út í mörg ár.[100] Var Gísli oftast talinn fyrir útgerðinni en Kristján var skipstjórinn.[101] Skúta þessi var að sögn 36 smálesta jakt.[102] Seinna eignaðist Gísli Oddsson í Lokinhömrum hlut í tveimur öðrum þilskipum, Guðnýju sem Mýramenn í Dýrafirði létu smíða í Danmörku árið 1878 (sjá Mýrar) og Thjalfe frá Bíldudal sem hann keypti hlut í árið 1889.[103] Vorið 1892 fékk hann svo nýja skútu frá Noregi[104] og gerði hana út frá Lokinhömrum næstu árin.[105] Henni gaf hann nafn konu sinnar og var sú skúta af mörgum nefnd Lokinhamra-Gunna.[106]

Gísli Oddsson í Lokinhömrum var einn auðugasti bóndi á Vestfjörðum um sína daga. Vorið 1896 keypti hann Akureyjar á Breiðafirði og fluttist þangað sextugur að aldri[107] en kom aftur í Arnarfjörð sex árum síðar og settist að á Hrafnabjörgum[108] er þá höfðu lengi verið nytjuð af Lokinhamrafólki (sjá Hrafnabjörg). Þar andaðist hann árið 1908[109] og er dánarbú hans var skrifað upp var það virt á 25.800 krónur[110] en fyrir slíka upphæð var þá hægt að kaupa 229 kýr í góðu standi.[111] Gísli átti við ævilok þrjá fjórðu hluta úr Akureyjum og var sú eign virt á 12.000 krónur en tíu aðrar jarðeignir á 9.850 krónur.[112]

Í skonnortunni Guðnýju, sem fyrr var nefnd og keypt var til landsins árið 1878, átti hann enn fimmtung og var sá eignarhluti virtur á 400 krónur.[113] Guðmundur Gíslason Hagalín rithöfundur var bæði bróðursonarsonur og systurdóttursonur Gísla Oddssonar í Lokinhömrum[114] og segir á einum stað að við mótun Hamrahjóna í skáldsögu sinni Sturlu í Vogum hafi hann haft „hliðsjón af“ þessum frænda sínum og konu hans en nákvæmar kveðst hann hafa lýst þeim í sögunni Frændum.[115]

Kristján Oddsson var minni umsvifamaður í þilskipaútgerð en Gísli bróðir hans og mun varla hafa náð að verða jafn ríkur. Hann var þó gildur bóndi og sjósóknari í fremstu röð. Á fyrstu búskaparárum þeirra hér í Lokinhömrum virðast umsvif hans reyndar hafa verið meiri en Gísla því hann var árið 1870 með 25 manna heimili en hjá Gísla voru þá bara fimm manneskjur til húsa.[116] Tíu árum seinna, haustið 1880, var Kristján farinn héðan en þá voru heimamenn Gísla 24 og hér dvöldust þá einnig 16 vermenn.[117] Eins og fyrr var nefnt fluttist Kristján Oddsson burt frá Lokinhömrum árið 1876 og bjó frá því ári til 1887 á Sellátrum í Tálknafirði en síðan á Núpi í Dýrafirði uns hann keypti Lokinhamra af Gísla bróður sínum og hóf hér búskap í annað sinn vorið 1896.[118] Á búskaparárum þeirra bræðra var sjór jafnan sóttur héðan árið um kring[119] og lengst mun Kristjáns Oddssonar verða minnst vegna þess að hann var síðasti hákarlaformaðurinn á Vestfjörðum sem sótti á djúpmið að vetrarlagi á opnu skipi.[120] Árið 1897 fékk hann 30 tunnur af hákarlslifur en aðrir formenn á áraskipum úr Ísafjarðarsýslu, sem slíkar veiðar stunduðu, sjö tunnur, allir til samans.[121] Árið 1899 var síðasta heila árið sem Kristján lifði og þá færði hann að landi 20 lifrartunnur.[122] Hann var þá eini formaðurinn í Ísafjarðarsýslu sem fór í hákarlalegur á opnu skipi ef marka má opinberar skýrslur.[123] Á jólaföstu árið 1891 fór Kristján í eina af sínum mörgu leguferðum, þá frá Núpi í Dýrafirði, og greinir sjálfur svo frá í bréfi rituðu fáum dögum síðar:[124]

Ég fór í hákallalegu um daginn og þá var hann kaldur. Það vildi til að hákallinn var til. Ég lá í 12 tíma og fékk 80 hákalla. Hann gerði þá myrkviðriskafaldsbyl með frostinu svo ég mátti til að lenda upp á Hamri [Svalvogahamri] og var þar eina nótt. Svo fékk ég bærilegt veður heim. Það mældist lifrin 10 1/4 tunna. Ég held helst að ég fari ekki aftur í jafnmiklu frosti því þegar við lentum á Hamri var skipið orðið svo þungt af klaka að við ætluðum ekki með nokkru móti að geta sett það undan sjó.

Kristján Oddsson sem síðastur allra stundaði hákarlaveiðar að fornum hætti var á öðrum sviðum gefinn fyrir nýjungar og gerði fyrstur manna tilraunir með flotplægingu við kúfisktekju árið 1897.[125] Plógspilinu kom hann þá fyrir um borð í bátnum en áður hafði það jafnan verið látið standa á þurru landi þegar plægt var.[126] Kristján andaðist hér í Lokinhömrum haustið 1900 og var þá 64 ára gamall.[127] Gísli sonur hans tók við búsforráðum úr höndum móður sinnar vorið 1901 og bjó í Lokinhömrum til 1912.[128] Hann tók meðal annars við tveimur bátum sem faðir hans hafði átt og hét minni báturinn Svanur en sá stærri Sæljón.[129] Mun þar komið hákarlaskip Kristjáns Oddssonar en árið 1880 átti Gísli bróðir hans í Lokinhömrum annan tveggja áttæringa sem þá voru til í þessari sveit.[130]

Á búskaparárum Gísla Kristjánssonar hér í Lokinhömrum, árunum 1901–1912, var sjór enn sóttur af miklu kappi og árið 1908 keyptu Gísli og Ólafur bróðir hans tvo vélbáta.[131] Bátur Gísla fékk sama nafn og gamla Sæljónið sem faðir hans hafði átt.[132] Á vélbátum var hins vegar ekki mögulegt að sækja sjó frá Lokinhömrum nema í sumarblíðu[133] og varð því úr að Gísli og fjölskylda hans fluttust búferlum norður í Haukadal í Dýrafirði haustið 1912.[134] Þá voru liðin 54 ár frá því afi hans, Oddur Gíslason, keypti Lokinhamra og hóf hér búskap. Um áa sína og ömmur í Lokinhömrum og á Mýrum í Dýrafirði og aðra ættmenn hefur Guðmundur Gíslason Hagalín rithöfundur, sem fæddist hér árið 1898, ritað margt og mikið. Þeim sem fræðast vilja um allt það margbreytilega fólk má vísa í frásagnir hans.[135]

Á gamla bæjarstæðinu í Lokinhömrum ber margt fyrir hugarsjónir. Í úttektargerðinni frá 1901 er baðstofunni lýst. Hún var þá 21 alin á lengd, liðlega 13 metrar, öll undir skarsúð, portbyggð og alþiljuð uppi.[136] Í henni voru tvö skilrúm.[137] Á timburgaflinum í ytri enda var gluggi með 16 rúðum en alls voru tíu gluggar á baðstofunni.[138] Rúmin í henni voru ellefu og fylgdu þeim hillur og skápar.[139] Árið 1887 var hér „tvíloftað timburhús“[140]og mun vera hið sama og nefnt er stofa í úttektargerðinni frá 1901 en timburstofa þessi stóð fyrir framan baðstofuna.[141] Framhýsi þetta var rifið fáum árum síðar en Gísli bóndi Kristjánsson kom þá upp timburhúsi sem var ein hæð og ris með gestastofu niðri.[142] Úttektargerðin frá 1901 sýnir að þá voru a.m.k. 26 hús hér í Lokinhömrum, að meðtöldu „langa nausti“ sem var 11,3 x 2,5 metrar að flatarmáli.[143] Eitt þessara húsa var skemman sem hér hefur áður verið nefnd og enn stendur, sögð 10 x 4 álnir í úttektargerðinni en hefur verið stytt um eitt stafgólf.[144] Árið 1710 var hér gamalt bænhús en í Jarðabókinni frá því ári er tekið fram að ekki hafi verið messað í því húsi „í næstu 20 ár“.[145] Bænhústóttina þekkja menn enn og er hún nær beint fyrir innan nýnefnda skemmu, uppi á háhólnum.[146]

Á árunum kringum síðustu aldamót risu í Lokinhömrum tvö grasbýli, Aðalból og Garðsstaðir.[147] Aðalból reisti Jón Ólafsson árið 1894[148] „í túnfætinum … utan og ofan við bæjarlækinn“. Hann var frá Auðkúlu, bróðir Sigríðar Ólafsdóttur, eiginkonu Kristjáns bónda Oddssonar í Lokinhömrum.[149] Jón var um skeið skútuskipstjóri og orðinn nokkuð roskinn er hann settist að á Aðalbóli.[150] Synir hans urðu sumir skútuskipstjórar og mun það hafa glatt föður þeirra. Einn hvítasunnudag lágu fjögur seglskip fram undan Lokinhömrum og voru allir skipstjórarnir synir karlsins á Aðalbóli.[151] Urðu honum þá á munni orð sem festust í minni: „Það hefði þótt floti við Svoldur, þetta!“[152] Jón Ólafsson bjó alllengi á Aðalbóli og síðan annað fólk og þar hefur nú (1997) um langt skeið verið eina byggða bólið í Lokinhömrum. Hitt grasbýlið sem hér var nefnt, Garðsstaði, reisti Oddur Guðmundsson árið 1905.[153] Hann var frá Mýrum í Dýrafirði, mágur Gísla Kristjánssonar, bónda í Lokinhömrum, er fyrr var nefndur.[154] Garðsstaðir stóðu mjög skammt frá Aðalbóli en þó „framan við túnið“.[155]

Hér hefur nú verið sagt lítið eitt frá nokkrum bændum er stýrðu hér búi á liðnum öldum en nöfn flestra hylur gleymskan. Ýmsar þjóðsögur tengjast Lokinhömrum og má ætla að sumar þeirra séu ekki mjög gamlar en hafi verið spunnar upp út frá örnefnum. Svo er um söguna af Indriða Oddssyni sem sagt er að Indriðaskál hér fram í dalnum og Indriðaskriða, fyrir neðan hana, séu kenndar við.[156] Af sama toga er að líkindum sagan um vígamanninn Torfa Þórarinsson, sem Torfahvilft, fremst í dalnum og hinum megin ár, á að vera kennd við.[157] „Dökkur er dreyrinn Torfi“, sagði faðir piltsins er hann leit á blóðið sem féll úr nösum þessa sonar síns og hafði sjálfur veitt honum hnefahögg.[158] Innst á sjávarbökkunum í Lokinhamratúni var Klængstótt[159] og fengu börn sem ólust hér upp að heyra að þar hefði búið Klængur klénsmiður sem hafði á boðstólum alls kyns galdralæsingar og átti í leynum viðskipti við hollenska duggara.[160] Saga Gísla Konráðssonar um Bárð „brotinnef“ í Lokinhömrum, er verið hafði sveinn Odds lögmanns Sigurðssonar,[161] kynni líka að vera hreinn skáldskapur og hið sama á við um þjóðsöguna góðu af Árum-Kára, presti í Selárdal, sem elti lengi grátt silfur við Kolbein í Lokinhömrum og varð að lokum að kljást við hann dauðan.[162] Við þann Kolbein er, að sögn, kennt Kolbeinsskeið í Selárdal og Kolbeinsreitur í kirkjugarðinum þar.[163]

Frá Lokinhömrum flýtum við för út að hreppamörkunum við Litlabarð og síðan áfram sem leið liggur, út með ströndinni, að Svalvogum í Þingeyrarhreppi. Nærri lætur að sú bæjarleið sé 9 kílómetrar. Þar sem fjallið yfir bænum í Lokinhömrum sveigir til norðurs tekur við standberg sem nær frá efstu brún niður undir mitt fjall. Sá mikli hamraveggur heitir Skjöldur[164] og sýnist réttnefni sé ráð fyrir því gert að skildinum sé beint gegn óvini inni í fjallinu. Skjöldurinn og Skeggi, annar fríður og hinn föngulegur, eru útverðir Lokinhamradals og hvika hvergi þó að mannfólkið fari halloka.

Á leið okkar út með ströndinni komum við fyrr en varir að allstórum vogi sem myndar hálfhring. Þetta er Djúpadalspollur[165] en að honum liggja háar og snarbrattar brekkur. Hér var það, „ofarlega á Ytri-Djúpadalsröndinni“, sem Guðmundur Hagalín beið þess í ofvæni, ellefu ára gamall, vorið 1910, að halastjarna Halleys birtist á himinhvolfinu en sú var margra trú að þá yrði heimsendir.[166] Utan við Djúpadalspoll skagar lágt nes í sjó fram. Það heitir nú Eyjólfsnes[167] en var áður nefnt Dalsdalsnes. Fremst á því eru auðfundnar þrjár verbúðatóttir, enda var hér útræði fyrir 300 árum svo sem fyrr var nefnt. Utan við Eyjólfsnes fellur Dalsdalsá til sjávar en í dalsmynninu, rétt innan við ána, er lind með heilnæmu vatni. Var það talið hafa lækningamátt gegn flestum sjúkdómum.[168] Sá hængur var þó á að vatninu varð að ná snemma morguns, fyrr en hrafn flygi yfir lindina.[169]

Dalsdalur var á fyrri öldum sérstök bújörð, 12 hundruð að dýrleika (sjá Hrafnabjörg), en á árunum 1621 til 1658 var hún lögð undir Lokinhamra. Líklegt er að bærinn hafi fallið í eyði á sextándu öld. Tóttir á grundunum fyrir mynni Dalsdals sýna hvar hann stóð, skammt fyrir utan ána.[170] Hjá þessum fornu tóttum blasa við augum aðrar mun yngri rústir því á fyrstu áratugum aldarinnar sem nú er að ljúka voru hér þrjú allstór hús, ærhús, sauðahús og hlaða.[171] Túnið í Dalsdal gaf þá af sér hálft annað kýrfóður.[172] Sauðamaður frá Lokinhömrum fór á hverjum morgni út í Dalsdal og hélt þar fé til beitar, hvernig sem viðraði.[173] Spölurinn heiman að á beitarhúsin var tveir kílómetrar.

Klettaþilin yfir innri hlíð Dalsdals heita Stál og voru notuð sem fiskimið þegar róið var undir Svalvogahlíð.[174] Fjallið utan við dalsmynnið heitir Krossgiljahyrna en síðan tekur við Tóarfjall og nær alla leið út á móts við Svalvoga.[175]

Innst í Tóarfjalli er Fuglbergið, snarbratt hamraþil sem nær „allt frá brún og niður að grasigrónum geirum hlíðarinnar“.[176] Þar iðar allt af lífi. Utan og neðan við Fuglberg gengur Tóarháls fram úr fjallinu en utan við hann er Tóargil sem nær ofan frá brún og niður nær allan klettavegginn.[177] Utan við gilið er Lokinhamrató og nær hún út að Streng, sem svo heitir, og er lóðréttur bergstrengur frá efstu brún og niður úr klettunum.[178] Lokinhamrató er stallur í svipaðri hæð og rætur Fuglbergs og á móts við miðjan Strenginn.[179] Ofar í fjallinu og beint upp af henni er önnur tó sem á síðari tímum hefur verið nefnd Hraunstó.[180] Ætla má að hún sé kennd við Hraun í Keldudal í Dýrafirði og er líklegt að sú jörð eða Hraunskirkja hafi átt þarna ítak um lengri eða skemmri tíma. Tvímælalaust er að þrjár af kirkjunum fjórum í Arnarfirði áttu hvannskurðarrétt í Lokinhamrató, Álftamýrarkirkja, Rafnseyrarkirkja og Selárdalskirkja[181] en tó þessi var stundum nefnd Neðri-Tó á fyrri tíð.[182] Í máldögum frá 16. öld er tekið fram að kirkjan á Álftamýri eigi „búnautnar hvannskurð“ í Lokinhamrató en kirkjan í Selárdal „tólf hjóna hvannskurð“.[183] Þau orð gefa til kynna að fólki prestsins á Álftamýri hafi verið gert að miða hvannatekjuna við heimilisþarfir en guðsmaðurinn í Selárdal hafi mátt láta tólf vinnuhjú sín starfa hér að hvannskurði frá morgni til kvölds, einn dag á ári.

Fólk frá öðrum bæjum mun einnig hafa skorið hvannir í Tónni og fengið til þess leyfi hjá húsráðendum í Lokinhömrum.[184]

Í Jarðabókinni frá 1710 er gert lítið úr hvannatekjunni í Tóarfjalli en þar segir:[185] Hvannatekja hefur verið í björgum sem nú er að kalla eydd af skriðufalli. Voru og til hvannanna stórar ógöngur og brúkaðist því lítt.

Sjálfsagt er að taka þessum orðum með fyrirvara eins og flestu því sem bændur sögðu Árna Magnússyni um þverrandi hlunnindi sumarið 1710 og svo mikið er víst að um miðja nítjándu öld var enn farið til hvannskurðar í Tóna. Tvær heimildir má nefna því til sönnunar. Önnur þeirra er sóknarlýsing séra Jóns Ásgeirssonar á Álftamýri, rituð á árunum kringum 1840, en hin er frásögn sem byggir á orðum Kristjáns Oddssonar er var vinnumaður í Lokinhömrum um 1870.

Séra Jón á Álftamýri segir í sóknarlýsingu sinni að í Lokinhamrató sé „merkilegt hvannstóð“ og tekur fram að þangað komist ekki nema „færir menn“ því þar sé „þrítugt berg ofan, hvar hvannaaflinn er látinn síga“.[186] Prestur segir þarna „er látinn síga“ en ekki „var“ svo ljóst virðist að hvannir hafi enn verið sóttar í Tóna um miðbik 19. aldar. Kristján Oddsson, sem fæddist árið 1845 og tók upp ættarnafnið Dýrfjörð, var vinnumaður í Lokinhömrum frá 1870 til 1874.[187] Hann greindi síðar svo frá að hvannir hefðu verið sóttar í Tóna „allt fram yfir 1860“[188]og mun sú staðhæfing ekki fjarri lagi. Að sögn Kristjáns sóttu menn frá „nálægum og fjarlægum bæjum“ hvannir í þessa merkilegu Tó og líklega hefur hann ekki verið einn um þá skoðun að í henni sé „stærsta og fegursta hvannstóð á Vestfjörðum og þótt víðar væri leitað“.[189]Í Lokinhamrató er fært úr Tóargili og nærri lætur að hæð klettanna neðan við hana sé 30 faðmar[190] eins og Jón prestur Ásgeirsson fullyrti og hér var áður nefnt. Í efri tóna, sem nú er nefnd Hraunstó, verður að síga en ofan í hana eru aðeins nokkrir metrar frá fjallsbrúninni.[191] Ætla má að hvannir sem skornar voru í neðri tónni hafi verið látnar síga niður fyrir klettana en þær sem sóttar voru í efri tóna hafi verið hífðar upp á brún.

Oft var farið í Tóna á útmánuðum eða snemma vors til að sækja nýjar hvannir fyrir máttfarnar sængurkonur og þá sem fengið höfðu skyrbjúg.[192] Líklegt er að bæði rætur og leggir hvannanna hafi verið nýtt til matar svo sem almennt tíðkaðist á landi hér þar sem slík gæði voru í boði.[193] Guðmundur Halldór Guðmundsson, sem fæddur var árið 1887 og ólst upp á Hjallkárseyri hér í Arnarfirði, segir að hvannaleggir hafi verið brytjaðir niður og geymdir með hvannarótum til vetrarins í súrri mjólk.[194]

Frá sjávarbökkunum innan við hin fornu hreppamörk höfum við nú um sinn gefið gaum að Fuglberginu og Lokinhamrató þar sem þúsundir hvítra bjargfugla ber við dökk hamraþilin og dimmgrænn kjarngróður skreytir svart bergið. Á Strenginn utan við Tóna var áður minnst en neðan við hann skagar fram brot úr berggangi og heitir Hlíðarstandur.[195] Um Streng og Hlíðarstand liggur markalínan sem skildi að Auðkúluhrepp og Þingeyrarhrepp og frá Hlíðarstandi í Litlabarð, hér niður við sjó.[196] Það er lítill þverhníptur klettastallur, grasi vaxinn að ofan, sem gengur úr sjávarbökkunum fram í fjöruna.[197] Stórabarð er svolítið innar og skagar í sjó fram.[198] Fyrir það er jafnan ófært[199] en leiðin greið hér uppi á bökkunum.

 

 

[1] SigJ KÓ 9.11.1998.

[2] Jb. Á. og P. VII, 3–27.

[3] Sama heimild, bls. 25–27

[4] Safn til sögu Íslands I, 647. Lbs. 797 4to. Jarðaskrár úr Ísafjs. frá árunum 1658 og 1695. Jb. Á. og P. VII, 26.

[5] Sóknalýs. Vestfj. II, 44. Sbr. Jb. Á. og P. VII, 25–27.

[6] Sóknalýs. Vestfj. II, 44.

[7] Jb. Á. og P. VII, 21–25.

[8] Sóknalýs. Vestfj. II, 44.

[9] Jb. Á. og P. VII, 26.

[10] Jb. Á. og P. VII, 26.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild, bls. 25–27.

[13] ÖÖ.

[14] Jb. Á. og P. VII, 25–27.

[15] GGH 1951, 39–40 og 52.

[16] Manntal 1901.

[17] GGH 1952b, 178–186 (Úr blámóðu aldanna).

[18] GGH 1951, 73.

[19] Sama heimild. Sbr. ÖÖ.

[20] Jb. Á. og P. VII, 25–26.

[21] Sama heimild.

[22] GGH 1951, 73. Sbr. þar bls. 79.

[23] ÖÖ.

[24] Sama heimild. Sbr. GGH 1952b, 187–198.

[25] ÖÖ.

[26] Sama heimild. GGH 1952b, 31.

[27] GGH 1951, 74.

[28] Sama heimild.

[29] ÖÖ. Sbr. GGH 1952b, 13–29 (Úr blámóðu aldanna).

[30] ÖÖ.

[31] Sama heimild.

[32] Sturl. I, 443–444, II, 127 og 353 og III, 15 og 458.

[33] Sturl. III, 458.

[34] Sturl. II, 353.

[35] Sturl. I, 433–444, II, 473–483 og III, 15.

[36] Sömu heimildir.

[37] Sturl. I, 443–444. Bisk. I, 299–300. Sbr. Ísl. æviskrár I, 76 og II, 406–407.

[38] Jb. Á. og P. VII, 25.

[39] GGH 1952b, 40. Sbr. þar bls. 30–40.

[40] D.I. IX, 243–244.

[41] D.I. IX, 243–244, 704–705, XIII, 248–249, 517–518 og XV, 167. Jb. Á. og P. VII, 24–25. Ísl. æviskrár II, 273 og V, 27–28.

[42] Sömu heimildir.

[43] Safn til sögu Ísl. I, 647.

[44] Ísl. æviskrár III, 118–119 og 423.

[45] Lbs. 7974to. Jarðaskrá úr Ísafjs. frá árinu 1658.

[46] Alþb. Ísl. XI, 618. Ísl. æviskrár II, 273.

[47] Ísl. æviskrár IV, 95–96.

[48] Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. Ísl. æviskrár I, 325. Sjá Hrafnabjörg.

[49] Sömu heimildir.

[50] JJ 1847, 191. GGH 1951, 16–20.

[51] D.I. XI, 633–638, 443–445 og 513. Sbr. D.I. XII, 540.

[52] Sömu heimildir.

[53] Sömu heimildir.

[54] Sömu heimildir.

[55] Sömu heimildir.

[56] D.I. XI, 633–638, 443–445 og 513. Sbr. D.I. XII, 540.

[57] D.I.XI. 633-634.

[58] Sama heimild.

[59] Ísl. æviskrár III, 423. Lögrmtal, bls. 366–367.

[60] PEÓ 1926, 73.

[61] Lögrmtal, bls. 366–367.

[62] Ísl. æviskrár IV, 311. Sbr. Kirkjuból í Valþjófsdal.

[63] Lögrmtal, bls. 366–367.

[64] Sama heimild.

[65] PEÓ 1926, 73.

[66] JónÞork 1895, 13.

[67] Ann. I, 361.

[68] SigBr 1976, 168–208.

[69] Ann. III, 345.

[70] Alþb. Ísl. VII, 535.

[71] Ann. III, 308.

[72] Alþb. Ísl. VII, 535.

[73] Sama heimild, bls. 390, 428 og 535.

[74] Sama heimild, bls. 535.

[75] Sama heimild.

[76] Sama heimild.

[77] Alþb. Ísl. VII, 535–537.

[78] Sama heimild.

[79] Sama heimild.

[80] Alþb. Ísl. VIII, 60. PáSig 1971, 60.

[81] Lögrmtal, bls. 344–345. Ísl. æviskrár II, 90.

[82] Manntal 1703 og nafnalykill þess. Alþb. Ísl. IX, 86 og 616.

[83] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntal 1703. Jb. Á. og P. VII, 25. Bændatöl og skuldaskrár 1720–1765, eftirrit, Ísafjs. um 1735. Jarða- og bændatöl 1752–1767, Ísafjs. 1753.

[84] Manntal 1762. Rtk. Isl. J. 9, nr. 34, bsk. 1791. Manntal 1801. Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805.

[85] Manntal 1816. Skjs. sm. og svstj. Ís. XX. 1, bsk. 1821–1830.

[86] Manntal 1816, 685. Prsþjb. Álftamýrar.

[87] Manntal 1845, vesturamt, bls. 257. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 287 og GGH 1951, 22.

[88] Manntöl frá 19. öld. VA III 414 og 415, bsk. 1855 og 1856. Sbr. Vestf. sagnir I, 40.

[89] VA III 413–414, bsk. PG Annáll nítjándu aldar II, 390.

[90] VA III 407–415, bsk. 1838–1856. Sbr. Dynjandi.

[91] PG Annáll nítjándu aldar II, 390.

[92] Manntöl 1850 og 1855.

[93] Sömu heimildir.

[94] Prþjb. og smt. Dýrfjþinga og Álftamýrar. GGH 1951, 16–22. Skjs. sm. og svstj. Ís. IV. 12. Dóma- og þingbók 1854–1859, 177–178.

[95] Sömu heimildir.

[96] Smt. Álftamýrar.

[97] Smt. Álftamýrar.

[98] Sama heimild og GGH 1951, 7 og 22–30.

[99] Prþjb. og smt. Álftamýrar. Smt. Rafnseyrar. GGH 1951, 48–53.

[100] VA III 416–424, bsk. GGH 1951, 49.

[101] Sömu heimildir.

[102] GGH 1951, 49.

[103] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, 47 (Skjöl Siglmálast., varðveitt í Þjóðskj.safni).

[104] Lbs. 2375 4to. Dagb. SGB 6.6.1892.

[105] GilsG 1977 I, 280.

[106] Sama heimild.

[107] GGH 1951, 53.

[108] Smt. Rafnseyrar.

[109] Prþjb. Rafnseyrar.

[110] Bréfabók f. hreppstjórana í Auðkhr., lögg. 14.2.1882. Uppskrift á dánarbúi GO. Bókin varðv. á Auðkúlu.

[111] Stjtíð. 1909 B, 42–43.

[112] Nýnefnd bréfabók, sama uppskrift.

[113] Bréfabók f. hreppstjórana í Auðkhr., lögg. 14.2.1882. Uppskrift á dánarbúi GO. Bókin varðv. á Auðkúlu.

[114] GGH 1951, 7-8.

[115] Sama heimild, bls. 115-116.

[116] Manntal 1870.

[117] Manntal 1880.

[118] GGH 1951, 48-53. Smt. Álftamýrar.

[119] GGH 1951, 49.

[120]  KrJGuðm Skútuöldin 1977 V, 118.

[121] Skjs. Landshöfð. Séröskjur 6. Fiskaflaskýrslur 1897-1902, I og II.

[122] Sama heimild.

[123] Sama heimild. Sbr. Þingeyrarhreppur.

[124] Lbs. án safnnr. Gögn JónsG búfr. á Ytri-Veðrará, bréf KrO 17.12.1891 til hans. Sbr. Lbs.4582 4to. Dagb. JG frá Grafargili 24.1.1888, 4,3,1889 og 17.2.1892.

[125] LKr 1985, 65-66.

[126] Sama heimild.

[127] Prþjb. Rafnseyrar. Vestf. ættir I, 65.

[128] Smt. Rafnseyrar.

[129] Úttektabók f. Auðkhr., lögg. 8.9.1882, 64-67, varðv. á Auðkúlu.

[130] VA III 424, bsk.1880.

[131] GGH 1951, 79-80 og 193-196.

[132] Sama heimild.

[133] Sama heimild.

[134] Sama heimild, bls. 96 og 242.

[135] GGH 1951, 5-249. Sami 1952a, 5-232 (Úr blámóðu aldanna). Sami  1953, 5-254.

[136] Úttektabók f. Auðkhr. Lögg. 8.9.1882, 64-67, varðv. á Auðkúlu.

[137] Úttektabók f. Auðkhr. Lögg. 8.9.1882, 64-67, varðv. á Auðkúlu. Sbr. GGH 1951, 73-75.

[138] Sama heimild.

[139] Sama heimild.

[140] ÞTh 1959 II, 125-126.

[141] Nýnefnd úttektabók, bls. 64-67.

[142] GGH 1951, 74-75.

[143] Nýnefnd úttektabók, bls. 64-67. Sbr. GGH 1951,73-78.

[144] Sama heimild. HrÞ KÓ10.11.1998.

[145] Jb. Á og P. VII, 25.

[146] SigJ KÓ 9.11. 1998.

[147] GGH 1951, 107-111.

[148] Úttektabók f. Auðkhr. Lögg. 8.9.1882,´90-91, varðv. á Auðkúlu.

[149] GGH 1951, 107-109.

[150] Sama heimild. Smt.Rafnseyrar.

[151] GGH 1951, 107.

[152] Sama heimild, bls. 107–109.

[153] GGH 1951, 109–111. Smt. Rafnseyrar.

[154] GGH 1951, 109–111.

[155] Sama heimild.

[156] GGH 1952b, 157–177 (Úr blámóðu aldanna).

[157] GGH 1952b, 13–29.

[158] Sama heimild.

[159] ÖÖ.

[160] GGH 1952b, 127–141.

[161] ÓD Ísl. þjóðs. III, 203.

[162] Þjóðs. JÁ I, 489.

[163] Sama heimild.

[164] ÖÖ.

[165] ÖÖ..

[166] GGH 1951, 201–205.

[167] ÖÖ.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Sbr. Jb. Á. og P. VII, 26.

[171] GGH 1951, 78.

[172] Sama heimild, bls. 73.

[173] ÞN 1951, 136 (Árbók F.Í.). Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 44.

[174] ÞN 1951, 136.

[175] ÖÖ.

[176] GGH 1952b, 80 (Úr blámóðu aldanna).

[177] ÖÖ. An J KÓ 12.7.1992.

[178] Sömu heimildir.

[179] An J KÓ 12.7.1992.

[180] GSM KÓ 11.7.1992. SigJ KÓ 2.8.1992. GGH 1952b, 80–90 og 187 (Úr blámóðu aldanna).

[181] Skjs. próf. XIII. 1. B, 1., bls. 93. Máldagi Álftamk. frá árinu 1585. Sóknalýs. Vestfj. II, 29. D.I. XV, 580–582.

[182] D.I. XV, 578.

[183] D.I. XV, 578 og 580–582.

[184] Vestf. þjóðs. II. 2., 95–96.

[185] Jb. Á. og P. VII, 26.

[186] Sóknalýs. Vestfj. II, 44.

[187] Prþjb. og smt. Selárdals og Álftamýrar.

[188] Vestf. þjóðs. II. 2., 95–96.

[189] Sama heimild.

[190] SigJ KÓ 2.8.1992.

[191] Sama heimild. GSM KÓ 11.7.1992.

[192] Vestf. þjóðs. II. 2., 95–96.

[193] Sbr. JóJó 1961, 40–41.

[194] ÖÖ, Hjallkárseyri.

[195] ÖÖ.

[196] Sama heimild. ÞN 1951, 133.

[197] ÖÖ. SRa KÓ 11.7.1991.

[198] ÖÖ.

[199] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »