Lýsing Rauðasands og Skorar

Lýsing Rauðasands og Skorar

Í Landnámabók segir að Ármóður hinn rauði Þorbjarnarson hafi numið Rauðasand.[1] Með tilvísun til þess hefur margur talið að sveitin sé kennd við Ármóð þennan, sem nefndur var hinn rauði. Hitt er þó langtum líklegra að skýringar á nafninu sé að leita í litnum á sandrifinu langa, sem hér er með nær allri ströndinni, en oft slær rauðleitum bjarma á gulan sandinn. Hin skýru og sterku litbrigði hrífa hug flestra sem í fyrsta sinn koma á Rauðasand á björtum sumardegi, blátt hafið, rauðgullinn sandurinn, fagurgrænt víðáttumikið sléttlendi og móleit fjöllin, sem byggðinni skýla. Sandrifið er um tíu kílómetra langt og nær frá Melanesi vestur undir Skaufhól. Bæjarós slítur rifið í sundir á einum stað en innan við ósinn er Bæjarvaðall sem um flæði er eins og hafsjór yfir að líta en þornar upp að mestu þegar fjarar. Vaðallinn er um fjórir kílómetrar á breidd frá Melanesi að Saurbæ og frá rifinu eða ósnum eru um tveir kílómetrar til lands. Á hverri flæði fellur sjór úr Bæjarvaðli vestur með landi fyrir ofan rifið. Áll þessi heitir Fljót og nær vestur fyrir bæinn Lambavatn sem nú er ysta byggð á Rauðasandi. Talsvert undirlendi er austan við Bæjarvaðal en þó mun meira vestan hans. Þar er hvergi skemmra en kílómetri frá fjallsrótum niður að Fljóti, allt frá Saurbæ og vestur að Lambavatni, en milli þeirra bæja eru um fimm kílómetrar. Allt er þetta sléttlendi vel gróið og hefur svo verið um aldir. Engan þarf því að undra þótt snemma hafi risið höfuðból í Saurbæ. Að baki meginbyggðarinnar á Rauðasandi liggja Sandsfjöllin. Hlíðin norðan byggðarinnar er lítið eitt bogadregin og hömrótt fjallsbrúnin þar yfirleitt í þrjú til fjögur hundruð metra hæð. Í austri ber við himin hina  hátignarlegu Skarðabrún, um ellefu kílómetra langan fjallgarð sem nær norðan frá Sandsheiði suður að Stálfjalli er gengur í sjó fram á hreppamörkum (sjá hér frá Haga á Siglunes, – bls. 7 þar). Úr Söðlinum, sem liggur í nær 300 metra hæð syðst og austast á Rauðasandi, blasa hamraþil Látrabjargs við sjónum í vestri en beint í suðri, handan Breiðafjarðar, svífur Snæfellsjökull um bláloftin. Þvílíkt útsýni er ekki í boði víða í jarðarinnar ríki.

Búskaparskilyrðum og landkostum á Rauðasandi lýsir Pétur Jónsson frá Stökkum á þessa leið um 1940:

 

Veðrasamt er á Rauðasandi í norðan og norðaustan átt en annars er þar veðursæld og liggur vel við sól. Snjólétt er þar jafnaðarlega á vetrum. Sumarhitar eru miklir og gróður fjölbreyttur og mikill. Gott er þar til allrar ræktunar og garðrækt allmikið stunduð. Kýr eru þar mjög gagnsamar og vel með þær farið. … Um 800 hektarar eru á Rauðasandi af samfelldu ágætislandi. Mætti þar hafa nokkur hundruð kýr auk annars búpenings ef ræktað væri. Bithagar allverulegir eru þar að auki meðfram öllum útjöðrum graslendisins, bæði meðfram Rifinu og hlíðinni.

… Rekar hafa jafnan verið miklir á Rauðasandi og eru enn allmiklir. Margt berst þar á land, einkum þó timbur og trjáviður. Hvalrekar hafa og stundum komið þar.[2]

 

Þeir sem koma á Rauðasand nú á tímum aka flestir sem leið liggur úr Patreksfirði yfir Skersfjall og niður Bjarngötudal – en við skulum róa sjóinn á, lenda í Skor og ganga þaðan.

 

Frá hreppamörkum við Stálhlein eru um þrír kílómetrar vestur í Skor, illur vegur um Skorarhlíðar. Tveir þræðingar eru taldir færir um skriðurnar á Skorarhlíðum, Lambhillugangur og Gren.[3] Í Skor er svolítið graslendi upp frá sjónum og þar var búið um skeið á 17. og 18. öld. Á báðar hliðar eru snarbrattar, gróðurlausar skriður. Í landfræðilegum skilningi getur Skor ekki flokkast með Rauðasandi. Sandurinn byrjar skammt frá Sjöundá en til að komast þangað frá Skor þarf að fara erfiða bæjarleið og upp í sem næst 300 metra hæð. Engu að síður hlaut Skor, meðan þar var búið, að heyra til byggðinni á Rauðasandi hvað öll mannleg samskipti snerti.

 

Áður en vikið verður nánar að sögusviðinu í Skor skal minnt á kotbýlið Velli sem talið er með byggðum bólum í skránni frá 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum.[4]

Bæjarstæðið á Völlum er á Skorarhlíðum, rétt vestan við Stálfjall, og sannast sagna ótrúlegt að þar hafi verið tyllt niður kotbýli. Ekki er getið um Velli sem byggt ból nema í þessu eina skjali frá 1446 en þar er kotið metið á tvö og hálft jarðarhundrað. Brattgengir menn komast að Völlum frá Skor og er þá farið um Geirlaugarskriður en önnur leið lá þangað frá Sjöundá upp Sjöundárdal og um Ölduskarð í Skorarbrún niður á Velli. Á Völlum hefur allt til þessa sést til fornra tótta og þar reistu námumenn búðir sínar er hafin var surtarbrandsvinnsla í Stálfjalli á heimsstyrjaldarárunum fyrri, 1914-1918.[5] Sú vinnsla mun ekki hafa gengið vel þó að nóg sé af brandinum, enda aðstæður allar hinar örðugustu.[6]

 

Löngu áður en byggð hófst í Skor á 17. öld hafa mannaferðir verið þar alltíðar. Ástæða þess er sú að þar var og er eina sæmilega örugga lendingin á allri leiðinni frá Siglunesi á Barðaströnd að Hvallátrum vestan Látrabjargs en sú leið er hátt í fimmtíu kílómetrar eða nær 28 sjómílur. Bæði fyrr og síðar hefur margur orðið feginn að þiggja langþráða hvíld í Skor og leggja þar um stund árar í bát eftir langan barning.

Óþekktur höfundur lofaði hvíldina í Skor með þessari alkunnu vísu:

 

Ó, hve farsæl ertu Skor

öllum sem þar búa.

Hefirðu bæði haust og vor

hrundið margra lúa.

 

Líflending var í Skor þó að erfitt sé að setja hér upp báta.

Pétur Jónsson, fræðimaður frá Stökkum á Rauðasandi, lýsir lendingunni svo:

 

Lending er þar að sumu leyti góð. Henni er þannig háttað að mjótt gjögur skerst inn á milli tveggja hamraveggja. Gjögur þetta heitir Skorarvogur. Fyrir framan voginn er hátt sker, sem heitir Nónsker, er mjótt sund milli þess og lands. Vestur af skerinu eru tveir klettstapar, sem heita Kríustapar. Milli þeirra og Nónskers er mjótt sund en alldjúpt. Milli Kríustapa og lands er sund, sem fellur í um hálffallið. Eru því þrjú sund sitt í hverja átt fram úr voginum. Má að sögn lenda í Skor ef eitthvert sundið er fært. … Sá galli er á lendingunni að stórgrýtt urð er fyrir botni vogsins og illt að bjarga þar bátum.[7]

 

Þorvaldur Thoroddsen, sem kom í Skor 1886, nefnir þennan sama galla á lendingunni í Skorarvogi. Hann segir vogbakkana svo háa að eigi sé hægt  að setja þar skip upp svo þeim sé óhætt fyrir brimi.[8]

Magnús Jónsson frá Skógi á Rauðasandi upplýsir að sundin sem róið var um inn í Skorarvog, – sitt hvorum megin við Nónsker, heiti annað Mjóasund og hitt Breiðasund.[9]

Vestan við Skorarvog er lítið nes vel gróið og hömrótt með sjó fram. Á þessu nesi var byggður viti árið 1953 fyrir forgöngu Sigurvins Einarssonar, síðar alþingismanns, er þá hafði búið í Saurbæ á Rauðasandi nokkur ár. Vestan við vitann blasir við Skarfastapi, klettadrangur mikill framan við fjöruborðið og gróinn að ofan. Sá misskilningur hefur komist inn í Árbók Ferðafélags Íslands um Barðastrandarsýslu, er út var gefin 1959,[10] að Skorarvogur sé vestan við vitann og sömu villu er að finna á korti frá Landmælingum Íslands sem út var gefið árið 1965.[11]

Sá sem kemur í Skor og þekkir lýsingar Péturs frá Stökkum og Þorvalds Thoroddsen á lendingunni í vognum mun hins vegar sjá að Skorarvogur er rétt austantil við nesið sem vitinn stendur á. Þetta staðfestir líka Ari Ívarsson frá Melanesi,[12] fæddur 1931 og alinn upp hjá foreldrum og eldri ættmennum  á Melanesi. Á uppvaxtarárum Ara þurfti Melanesfólk oft að skreppa inn í Skor ýmissa erinda, enda var Melanes þá eins og nú innsti bær í byggð á Rauðasandi. Sé komið sjóleiðis í Skor er aðeins hægt að leggja að á einum stað, við lágar klappir austantil í vognum.[13] Svo mun einnig hafa verið á dögum Eggerts Ólafssonar. Bæjarrústirnar í Skor eru austan við voginn og neðan við þær rústir verbúðanna, rétt ofan við fjöruna.[14] Yst í Skorinni er svo grjóthlaðin fjárborg sem vegna snjóflóðahættu var reist alveg fram á klettunum.[15] Rétt austan við Skor er Skútavík með ærið stórum hnullungum af lábörðu fjörugrjóti.

Ekki er kunnugt um að búið hafi verið í Skor fyrr en á sautjándu öld en á árunum milli 1640 og 1650 hófst hér búskapur er síðan hélst nokkuð fram á átjándu öld.[16] Árni Magnússon segir að Skor sé ekki lögbýli og jarðardýrleiki óviss.[17] Margvíslegar fleiri upplýsingar um Skor er að finna í Jarðabók þeirra Árna og Páls, m.a. þessar:

Árið 1703 bjó maður að nafni Guðmundur Jónsson í Skor og hafði átta í heimili. Einnig var þar húsmaður, sem í húsaleigu vinnur ábúanda handarvik og rær á skipi hans. Bústofninn var tvær kýr, ein kvíga, tuttugu og sex ær, átján geldir sauðir og ellefu veturgamlir en enginn hestur. Landeigandi var Saurbæjarkirkja og jörðinni fylgdu þrjú kúgildi. Í landskuld varð árlega að greiða 80 álnir en það samsvaraði tveimur þriðju úr kúgildi og síðan leigur fyrir kúgildin í smjöri, fiski eða peningum með dönskum taxta. Sumarhaga fyrir kýrnar varð Skorarbóndi að leigja í landi Sjöundár því að landlítið er í Skor.

Heimræði var frá Skor árið um kring, segir Árni, og hefur það freistað manna til búskapar hér, enda stutt á miðin. Þrjú skip gengu frá Skor á vorvertíð er Árni Magnússon kom á Rauðasand árið 1703, flest höfðu þau áður verið fjögur eða fimm, – kunna og ei að ganga [fleiri – innsk. K.Ó.] sökum skipsuppsátursleysis. Einn bátanna þriggja, er reru frá Skor, átti Guðrún ríka Eggertsdóttir í Saurbæ og fylgdi honum ketill, er hún mun hafa leigt vermönnunum. Annan hinna tveggja, lítinn sexæring, átti Guðrún að hálfu á móti Guðmundi bónda í Skor sem var formaður á þeim bát en þriðji báturinn var frá Sjöundá, fjögra manna far. Þrjár verbúðir voru í Skor árið 1703 og hétu Borgarsbúð, Staðarmannabúð og Smiðja. Sú síðastnefnda stóð þá auð. Vertollur í Skor var hálf vætt fiska af hverjum útróðramanni, eða um 20 kíló af harðfiski, – helmingi hærri tollur fyrir manninn en í Oddbjarnarskeri (sjá hér Oddbjarnarsker). Að vísu tekur Árni Magnússon fram að í fiskleysisárum sé eitthvað af greiðslunni gefið eftir svo og að heimamenn í Skor greiði nú ekki vertoll til landeiganda en hafi áður greitt hálfan toll. Aðeins var greiddur vertollur fyrir mennina en ekki líka fyrir bátinn eins og sums staðar tíðkaðist. Þá nutu vermenn í Skor þeirra hlunninda að hafa frí eldiviðartak af fjalldrapa í Sjöunda ár landi og Melaness skógi.[18]

Í vitund flestra Íslendinga, sem enn hafa ekki tapað með öllu tengslum við land og sögu, leikur ómur harms og trega um nafn Skorar.

Hér átti Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðingur, skamma dvöl um elding nætur 30. maí 1768. Það varð hans síðasta landganga. Úr Skorarvogi hófst sigling yfir Breiðafjörð þennan vormorgun þó að loft væri þrútið og þungur sjór. Í þeirri för drukknaði Eggert á Breiðafirði með brúði sinni og hinum sjö. Með hvarfi hans fannst mörgum sem vaknandi vonir um íslenska endurreisn týndust í sjávardjúp. Sá tregi var lengi áleitinn og sagði til sín í söngljóðum og öðrum skáldskap er varð sameign þjóðarinnar. Hér hefur áður verið minnst á Eggert (sjá Svefneyjar), og síðar verður sagt nokkuð frá dvöl hans í Sauðlauksdal í Rauðasandshreppi (sjá hér Sauðlauksdalur).

Vorið 1767 var Eggerti veitt embætti varalögmanns en hann var þá fertugur að aldri. Sama ár um haustið kvæntist hann frænku sinni, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, er var sex árum yngri. Þau voru systkinabörn. Brúðkaup Eggerts og Ingibjargar var haldið með viðhöfn í Reykholti í Borgarfirði en þar var prestur séra Þorleifur Bjarnason, móðurbróðir brúðarinnar. Stóð veislan upp undir viku að fornum sið. Vildi Eggert endurvekja forna brúðkaupssiði frá 15. öld og ritaði sérstaka bók um þau efni með viðeigandi kvæðum og söngvum. Þar er m.a. að finna kvæði hans Ísland ögrum skorið. Bók þessi er enn til í handriti[19] en forsögn hennar var fylgt í brúðkaupinu í Reykholti.

Var þar brúðgumareið og minni borin að fornum sið, var flest haft af íslenskum efnum, fatnaður Eggerts var alíslenskur, matur íslenskur og drukkinn íslenskur grasamjöður.[20]

Um Eggert sagði mágur hans, séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, að allir hans hættir hefðu hnigið að því að halda á loft gamalli og góðri landsvenju en eyða fyrirlitning síns föðurlands.[21]

Veturinn eftir brúðkaupið dvöldust þau Eggert og Ingibjörg í Sauðlauksdal hjá Rannveigu, systur Eggerts, og manni hennar, séra Birni Halldórssyni. Vorið 1768 hugðust þau setjast að á Hofstöðum í Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Á trinitatismorgun, þann 29. maí, lögðu Eggert og Ingibjörg upp frá Sauðlauksdal. Þau hlýddu þá um daginn messu í Saurbæ en riðu um kvöldið til Keflavíkur, sem er bújörð rétt austan við Látrabjarg. Öll búslóð Eggerts og annar farangur hafði verið fluttur þangað frá Sauðlauksdal. Til Keflavíkur var kominn sá stærsti áttæringur sem til var undir Jökli og átti að flytja Eggert yfir Breiðafjörð. Formaður á áttæringnum var Gissur Pálsson, aðfaramaður alþekktur, allhugaður, ráðsettur, eins og segir í rímu, sem Árni Þorkelsson kvað skömmu eftir drukknun Eggerts.[22] Búslóðin hafði verið flutt til Keflavíkur á minni bát, sem Eggert átti sjálfur, og voru það klyfjar af átján hestum, að því er segir í rímunni.

Eggert mælti nú svo fyrir að einn háseta Gissurar af Snæfellsnesi, er Jón Arason hét, skyldi stýra minna skipinu og flytja 12 ær með lömbum. Tveir aðrir af hásetum Gissurar fylgdu Jóni á hið minna skipið svo og Árni nokkur sem líklega hefur verið vinnumaður Eggerts.

Sjálfur steig Eggert á hið stóra skipið ásamt brúði sinni, Ófeigi stúdent Vernharðssyni og Valgerði Jónsdóttur, sautján ára þjónustustúlku Ingibjargar. Þar var og Gissur formaður og hásetar hans fjórir. Var Eggert sunginn úr vör með mikilli viðhöfn að fornum sið og bar Ófeigur stúdent fyrir honum atgeirinn, sem talinn var frá Gunnari á Hlíðarenda kominn.

Um allt er varðar þessa hinstu för Eggerts Ólafssonar hefur skýrast ritað Daði Níelsson hinn fróði. Sem heimildarmann nefnir Daði afa sinn, Svein Sturlaugsson, er heyrði Eirík Teitsson, einn háseta Jóns Arasonar á minna skipinu, segja frá atburðum. Ritgerð Daða er birt í öðrum árgangi Blöndu og á henni er byggt það sem hér er ritað.

Að kveldi 29. maí lögðu bæði skipin upp frá Keflavík og komu um elding nætur í Skor. Daði ritar:

 

Flest allir fóru þar á land, líka konurnar. Eggert tók þar nokkrar burnirætur blómgvaðar og lét bera á skip handa konunum að þefa af, ef þeim yrði óglatt á sjónum. … Um það mund, er þeir lentu í Skor, sáu menn veðrabrigði í lofti, dró upp myrkva og mistur úr Gilsfjarðarbotni og Breiðafjarðar-dölum, líka var þá farið að hvessa.

 

Bæði Gissur Pálsson og Jón Arason hvöttu til þess að fresta förinni yfir Breiðafjörð og vermenn, sem þá voru við sjóróðra í Skor, sögðu að það væri betra ferðamönnum að bíða hér nokkuð fram á daginn. Samt reru Skorarmenn sjálfir til fiskjar þennan morgun og einnig var róið frá Siglunesi. Eggert hafði gler eitt, sem var kallað veðurviti, og mun hafa verið loftvog (barómet). Hann óttaðist ekki bárur Breiðafjarðar og gaf fyrirmæli um brottför. Daði ritar:

 

Þá var sól skammt farin er þeir lögðu á flóann þann 30. maí 1768. Þegar þeir voru komnir svo sem svaraði viku sjávar frá landi tók mjög að hvessa, dimmdi í flóann en dökkti loft. … Þegar þeir [á stærra skipinu – innsk. K.Ó.] sáu að Jón Arason vatt upp segl tóku þeir bæði seglin hjá sér og gerðu eitt úr báðum og náðu þau lítið meira en niður um mitt tréð. … Æstist þá veðrið og sjóarólgan. Eggert sjálfur stýrði en frú Ingibjörg sat í söðli upp á fansinum aftur á skipinu. …

Nú sem skip Eggerts var komið nokkra leið undan hinu tóku veltur miklar og ramb og að verða á því, hvað orsakaðist einna mest af borðunum, sem yfir það voru lögð, því vindurinn stóð mjög í þau, en í þeim veltum vildi svo óheppilega til að söðullinn með frú Ingibjörgu valt út af í sjóinn. Eggert spratt upp og hefur þá í ofboðinu sleppt stjórnartaumunum. Hann þreif til frúar sinnar og náði yfirhöfn hennar en er skipið missti stjórnar sneri báran því snögglega flötu, fylltist það þegar svo að sökk að mestu, hvolfdist það skjótt í ólgunni.

 

Að sögn Daða komust þeir Eggert og Ófeigur stúdent þrisvar á kjöl en urðu að lokum að lúta í lægra haldi eins og allir hinir sem á skipinu voru.

Þeir hinir á litla skipinu horfðu á þetta og sneru aftur í Skor. Sögðu þeir þar í læmingi frá skiptapanum en létu þó sem minnst hljóðbært verða, bætir Daði við.

Fjölmargar sagnir mynduðust um atburð þennan og hafa sumar lifað. Stillt er legurúmið mitt núna, sagði Gissur Pálsson, formaður á áttæringnum, er hann leit út á Breiðafjörðinn daginn áður en lagt var upp frá Skor. Mörgum gekk tregt að trúa því sem gerst hafði og töldu Eggert hafa komist í duggu. Eitthvað mun hann Eggert minn svamla, sagði Ólafur gamli Gunnlaugsson úr Svefneyjum er honum barst fréttin um drukknun sonar síns. Hann var þá í Sauðlauksdal hjá dóttur sinni og tengdasyni, orðinn áttræður.

Söngkvæði sínu um Eggert lauk Breiðfirðingurinn Matthías Jochumsson með þessum vísum:

 

Það var hann Eggert Ólafsson

  • Íslands vættur kvað –

aldregi græt ég annan meir

en afreksmennið það.

 

Ef þrútið er loftið, þungur sjór

og þokudrungað vor,

þú heyrir ennþá harmaljóð,

sem hljóma frá kaldri Skor.[23]

 

Er Matthías orti kvæði sitt voru hundrað og tíu ár liðin frá drukknun Eggerts.[24] Nú (1988) eru það tvö hundruð og tuttugu ár.

Ekki mun hafa verið búið í Skor er Eggert Ólafsson ýtti hér frá landi en þá var hér ennþá verstöð. Þetta kemur nokkuð skýrt fram í rímunni sem hér var áður vitnað til og Árni Þorkelsson orti skömmu eftir drukknun Eggerts. Hann segir þar að ríman sé ort að beiðni Jóns Arasonar, sem náði landi á minna skipinu, og Jón hafi líka lagt sér til efnið í rímuna: Sendi hann mér sögunnar þátt saman í ljóð að binda, segir þar.[25] Um Skor segir svo í rímunni:

 

Var þar engin byggð né bær

svo bragnar líta kynni,

utan búðir einar tvær

og í þeim fólkið inni.[26]

 

Eðlilegast sýnist að skilja þetta svo að átt sé við verbúðir. Það kemur líka heim við ummæli Ólafs Árnasonar sýslumanns í sýslulýsingu Barðastrandarsýslu frá árinu 1746. Hann telur upp byggð býli á Rauðasandi og nefnir þar ekki Skor. Ólafur segir hins vegar að í Skor séu verbúðir fyrir áhafnir þriggja eða fjögurra báta er þaðan rói á vorin.[27]

Löngu síðar var enn heyjað í Skor[28] og síðast árið 1935 en þá var hér við heyskap fólk frá Hreggstöðum og Siglunesi á Barðaströnd.[29]

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Ísl. fornrit I, 174-175.

[2] Pétur Jónsson 1942, 92. (Barðstrendingabók).

[3] Jóhann Skaptason 1959, 108 (Árbók F.Í.).

[4] Sama heimild, 107.

[5] Sama heimild.

[6] Pétur Jónsson 1942, 84.

[7] Pétur Jónsson 1942, 85-86 (Barðstrendingabók).

[8] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 19 (Ferðabók II).

[9] Magnús Jónsson frá Skógi, 1974, 221 (Árbók Barð. X, 1959-1967).

[10] Árbók Ferðafélags Íslands 1959, 108.

[11] Uppdráttur Íslands, blað 3 – Sauðlauksdalur.

[12] Ari Ívarsson. – Viðtal K.Ó. við hann.

[13] Ari Ívarsson. – Viðtal K.Ó. við hann.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 292.

[17] Sama heimild.

[18] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI,  292-294.

[19] Lbs. 5514to.

[20] Þorvaldur Thoroddsen 1902, 40 (Landfræðisaga Íslands III).

[21] Sama heimild.

[22] Blanda II, 154.

[23] Matthías Jochumsson (Íslands þúsund ár, kvæðasafn, 1947 bls. 154-155).

[24] Sami 1959, 278 – (Sögukaflar af sjálfum mér).

[25] Blanda II, 155.

[26] Sama heimild, 173.

[27] Sýslulýs. 1744-1749, 150 (gefnar út 1957).

[28] Magnús Jónsson frá Skógi 1974, 221 (Árbók Barð. 1959-1967).

[29] Ari Ívarsson frá Melanesi. – Viðtal K.Ó. við hann.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »