Mýrar

Á leið okkar frá Lækjarósi að Mýrum göngum við um hlað tveggja kotbýla sem reist voru í landa Mýra á árunum kringum aldamótin 1900 og héldust í byggð um nokkurra áratuga skeið. Býli þessi hétu Bessastaðir og Miðhlíð. Stóðu þau bæði í sama túninu[1] og voru Bessastaðir innar.[2] Eitt og annað frásagnarvert tengist þessum kotum en samt skulum við nú hraða för okkar heim að sjálfu höfuðbólinu. Kotin skoðum við síðar á fyrirhuguðu hringsóli um landareignina.

Allt frá fyrstu öldum byggðar í landinu og fram til þessa dags hafa Mýrar í Dýrafirði verið taldar eitt álitlegasta höfuðbólið á öllum Vestfjörðum og þótt víðar væri leitað, enda var dýrleiki jarðarinnar að fornu metinn á 80 hundruð[3] en síðar á 65 hundruð er Lækjarós hafði verið gerður að sjálfstæðu býli (sjá hér Lækjarós). Í varðveittum heimildum er getið um þinghald á Mýrum árið 1500[4] og hér var æ síðan þingstaður hreppsins allt fram undir 1980. Kirkja hefur líka staðið hér allt frá því á 11. eða 12. öld (sjá hér bls. 19).

Bæjarhúsin á Mýrum standa hátt í fögru túni sem hallar mót suðri. Mýrafell, fjallið sem stendur eitt sér út við fjarðarströndina rétt utan við Mýrar, setur hér sterkan svip á allt umhverfið. Hæð þess er 312 metrar en lengd frá austri til vesturs liðlega þrír kílómetrar. Sé horft úr nokkurri fjarlægð á innri eða ytri enda fellsins tekur það á sig pýramídalögun en sé það skoðað frá hlið fær þetta sama fell allt annað útlit því lengd þess enda á milli er í raun þreföld á við breiddina. Í Mýrafelli er lítið um kletta en það er bratt og skriðurunnið, þunnt að ofanverðu sem hryggur eða húsmænir eins og séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum orðaði það á sínum tíma.[5] Láglendisræman sem tekur við utan við Mýrar og skilur Mýrafellið frá fjallgarðinum að byggðarbaki liggur í 70-80 metra hæð yfir sjávarmáli[6] og er víðast hvar um það bil einn kílómetri á breidd. Svo má heita að Sandafellið sem rís yfir þorpinu á Þingeyri sé beint á móti Mýrum en fell þessi tvö sitt hvoru megin fjarðarins eru mjög áþekk. Þegar komið er af hafi og siglt inn Dýrafjörð sýnast þau um skeið mynda eins konar dyr eða hlið sem fara verði í gegnum sé ætlunin að taka land innar í firðinum.

Innan við Mýrafell tekur við Mýramelur sem er mikið land sjávarmegin við Vaðalinn sem hér hefur áður verið nefndur. Melurinn er um þrír kílómetrar á lengd og nær frá ósi Vaðalsins út að Mýrafelli. Að jafnaði mun hann vera um það bil einn kílómetri á breidd.[7] Mýramelur er nú kunnastur fyrir hið mikla æðarvarp sem þar var komið upp á tuttugustu öld en engar spurnir fara af dúntekju þar á fyrri tíð. Í sóknarlýsingunni frá 1840 segir svo um Mýramel:

 

Hinum megin óssins [átt er við ós Vaðalsins – innsk. K.Ó.] er Mýramelur sem gengur fram í fjörðinn og myndar bug eða bugt að innanverðu. Er það breið eyri, lítt grasi vaxin en mest sandur og sandbakkar smáir. Langs með sjávarmáli er fínn sandur og eggsléttur. Þar er góð skipalega þétt við land þegar norðan vindur blæs og má þar leggja upp skipum til hreinsunar, hvað framandi fiskarar og fleiri skip oft gjöra. Þar virðist hagkvæmt pláss til kartöfluræktar.[8]

 

Á síðari hluta 19. aldar var ekki óalgengt að lausakaupmenn sigldu skipum sínum undir Mýramel og ættu þar viðskipti við Dýrfirðinga (sjá hér bls. 73-74).

Ofan við melinn og skammt neðan við túnið á Mýrum fellur Vaðallinn frá vestri til austurs. Vatn sitt fær hann úr Kýrá sem kemur norðan úr fjalllendinu að baki byggðarinnar og úr Langalæk sem á upptök sín í mýrarfláka norðan við innri enda Mýrafells.[9] Kýrá og Langilækur mæta hvort öðru skammt fyrir utan og neðan túnið á Mýrum og þar tekur Vaðallinn við öllu þeirra vatni. Í honum gætir mjög flóðs og fjöru því sjór flæðir þar inn um ósinn þegar fellur að og langt upp eftir Vaðlinum, alveg út á móts við Mýrar og vel það.[10] Í stórstraumsflæði er Vaðallinn talinn skipgengur.

Hér hefur nú verið drepið á nokkur helstu auðkenni sem við blasa þegar svipast er um á Mýrum. Inn og upp af bænum rís Mýrafjall sem breiðir úr sér og teygist alveg norður undir Gemlufallsheiði (sjá hér Gemlufall). Fjallshlíðin sem við blasir frá Mýrum er klettalaus og fullri hæð, sem er 504 metrar, nær fjallið ekki fyrr en komið er hálfa leið norður á heiði. Utan við Mýrafjall skerst þröngur fjalldalur norður í hálendið og er nú jafnan nefndur Vatnadalur en er í Sóknalýsingunni frá 1840 sagður heita Vatnahvilft.[11] Um þennan fjalldal rennur Kýrá sem áður var nefnd, vatnslítil á en allströng á köflum.[12] Áin kemur úr Vatnadalsvatni, rennur neðanjarðar á kafla en kemur svo alveg fram í dagsins ljós þar sem heitir Vatnakverk, rétt neðan við dalsmynnið.[13]

Hér hefur áður verið gerð nokkur grein fyrir landamerkjum Mýra að innan á móti Gemlufalli og Lækjarósi, (sjá hér Gemlufall og Lækjarós) en jörðin á mikið land á Gemlufallsdal, áður Mýradal, þar á meðal allt land vestan Gemlufallsár og allan dalbotninn, og líka alla Gemlufallsheiði norður að vatnaskilum þar sem landareign Holts í Önundarfirði tekur við.

Landamerki Holts og Mýra eru í Folaldahvilftargili sem er smálækur er fellur úr vesti niður í mýrlendið á háheiðinni.[14] Við þessi landamerki, rétt norðan við vatnaskilin, eru líka hreppamörk. Á Uppdrætti Íslands, blaði 12 sem Landmælingar Íslands gáfu út árið 1977, er Mýrasel sagt hafa verið uppi á háheiðinni, örskammt frá vatnaskilum. Engar seltóttir er þar að sjá og heimafólk á Mýrum kannast ekki við að svo hafi nokkru sinni verið.[15] Gísli Vagnsson sem  lengi bjó á Mýrum segir í ritgerð frá árinu 1973 að selið frá Mýrum hafi verið undir miðjum Fjalldalsbrekkum[16] en Fjalldalur gengur austur úr Gemlufallsdal rétt fyrir norðan Litladalsá sem skiptir löndum milli Gemlufalls og Mýra.

Hér hefur áður verið greint frá tóttum selsins frá Gemlufalli en þær eru rétt sunnan við Litladalsána, við ármót hennar og Gemlufallsár (sjá hér Gemlufall). Mýrasel var hins vegar aðeins norðar eða nánar til tekið við lækinn sem kemur ofan af Fjalldal og fellur í Gemlufallsá, skammt norðan við ármót hennar og Litladalsár. Tóttir Mýrasels sýna enn með alveg ótvíræðum hætti hvar það var og standa beggja vegna við lækinn, skammt frá Gemlufallsánni og aðeins 200-300 metrum norðan við rústirnar af Gemlufallsseli. Allt kemur þetta líka vel heim við lýsingu séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum frá árinu 1840 en hann tekur fram að selið frá Mýrum sé nokkru framar en Gemlufallssel og lætur þess getið að bæði séu sel þessi í nánd við Fjalldal en Guðlaugsvað sé neðan við þau.[17]

Í Mýraseli má greina bæði yngri og eldri seltóttir. Yngri tóttirnar eru norðan við lækinn, þrjú hús og stærð þeirra nálægt því að vera 5,5 x 2,5 metrar, 2 x 0,5 metrar og 3 x 2 metrar. Líklegt er að þessum húsum hafi fylgt grjóthlaðin kví sem stendur enn hinum megin við lækinn og er um það bil 9 x 2 metrar að flatarmáli. Aðrar seltóttir sem virðast eldri standa sömu megin lækjarins og kvíin. Það eru tvö sambyggð hús, annað 3,5 x 2,5 metrar en hitt 3 x 2 metrar eða því sem næst. Þessar tóttir eru sunnan við lækinn eins og grjóthlaðna kvíin sem áður var nefnd en norðan við lækinn er önnur kví, torfhlaðin og að því er virðist álíka gömul og þessar síðastnefndu seltóttir. Flatarmál hennar 2,5 x 2 metrar. Vera kann að hinar eldri tóttir í Mýraseli séu af selhúsum hjáleigubænda sem bjuggu á Mýrum við hlið höfðingjanna þar allt fram undir 1820 (sbr. hér bls. 49-51). Í mólendinu norðan við Mýrasel er reyndar enn ein allstór tótt og virðist miklu eldri en allar hinar því hún er sigin í jörð og orðin ógreinileg. Þessi forna tótt er skammt frá Gemlufallsánni og varla meira en 300 metrum norðan við hinar tóttirnar.

Í tíð séra Jóns Ásgeirssonar, sem var prestur á Mýrum frá 1772 til 1783, voru ær enn mjaltaðar í Mýraseli (sjá hér bls. 36) og í heimild frá árinu 1840 er þess getið að stundum enn nú nýti Mýramenn sér selstöðuna hér fram á dalnum.[18]

Út á við eiga Mýrar land á móti þremur jörðum sem eru Lækur, Fell og Meiri-Garður. Með fjarðarströndinni nær land Mýra allt frá ósi Vaðalsins sem áður var nefndur og að gömlum grjótgarði við ytri enda Mýrafells. Garður þessi heitir Ytri-Hagagarður og utan við hann tekur við land Lækjar.[19] Strandlengjan í landareign Mýra er því sex kílómetrar á lengd og á jörðin allan Mýramel og alla þá hlíð Mýrafells sem að sjó snýr.

Bærinn Fell stendur norðan undir Mýrafelli og á land inn með fellinu fyrir neðan þjóðveg. Landamerki Mýra á móti Felli liggja frá þjóðveginum um ytri jaðar gamalla mógrafa sem eru norður af innsta hluta Mýrafells, Fellsendanum er svo heitir. Frá jaðri mógrafanna, þar sem nú er landamerkjaskurður, liggur landamerkjalínan í stóran stein uppi á Fellsendanum, og þaðan suður yfir hann á brún.[20]

Bærinn Meiri-Garður stóð norðan þjóðvegar, upp undir fjallshlíðinni og rösklega einum kílómetra fyrir utan Mýrar. Landamerki þessara tveggja jarða eru um Kýrá, sem hér var áður nefnd, uns kemur niður á þjóðveg en úr því liggja merkin fyrst um þjóðveginn og síðan um Langalæk.[21] Eiga þá Mýrar allt land neðan þjóðvegarins og Langalækjar sem fellur úr Minna-Garðsengjum.

Bærinn Minni-Garður stóð rétt fyrir utan Meira-Garð og átti líka land á móti Mýrum en aðeins á stuttum kafla og rennur Langilækur einnig á þeim merkjum.[22]

Hér var þess áður getið að jörðin Mýrar var á fyrri öldum talin 80 hundruð að dýrleika en 65 hundruð síðar, er Lækjarós hafði verið gerður að sérstöku býli. Hundraðatalan sýnir að hér hefur fyrri tíðar mönnum þótt gott undir bú. Það mat átti sér ýmsar skýringar og skulu nokkrar þeirra nefndar.

Gras er mikið á Mýrum og skilyrði til heyöflunar betri en víðast annars staðar í nálægum byggðum. Í ritgerð sinni frá árinu 1968 segir Jóhannes Davíðsson að á Mýrum sé veðursælla en annars staðar í hreppnum og tekur fram að sólar njóti hér alveg sérstaklega vel.[23] Þessir kostir hafa líka sagt til sín á fyrri öldum því gangur sólar var þá hinn sami og nú og Mýrafellið sem skýlir fyrir hafáttinni jafnan á sínum stað. Árið 1710 var talið að fóðra mætti ellefu kýr á Mýrum og þótti gott því aðeins á einni jörð við norðanverðan Dýrafjörð var talið unnt að fóðra enn fleiri kýr en það var á Núpi.[24] Í heimild frá miðri 19. öld er tekið fram að túnið á Mýrum sé bæði grasgefið og vel ræktað og þar séu góðar útislægjur þó ekki séu þær eins miklar og ætla mætti eftir dýrleika jarðarinnar.[25] Seinna voru slægjur sagðar vera miklar á ofanverðum Mýramel[26] en langt mun nú vera síðan fyrst var farið að veita vatni úr nálægum tjörnum á engjaspildur sem þarna eru.[27] Gamla áveitugarða sem þarna eru sjáanlegir telja kunnugir vera a.m.k. 100 ára gamla[28] og vel má vera að þeir séu mun eldri.

Enda þótt nóg væri um gras á Mýrum mun sauðfé þar oftast hafa verið látið ganga úti áður en ræktunarbúskapur hófst og því sjaldan gefið hey.[29] Auðvelt var talið fyrir fé að bjargast á útigangi[30] en beitarhús voru yst á Mýramel, skammt frá Hrólfsnaustum, og þaðan mun fénu hafa verið haldið til beitar í fjörunni undir Mýrafelli.[31] Í ritgerð sinni frá 1968 getur Jóhannes Davíðsson um góða fjárbeit bæði í fellinu og fjörunni undir því.[32]

Landbúnaður stóð löngum með blóma á þessu höfuðbóli en héðan var líka sóttur sjór þá fiskur á sumar gengur inn á Dýrafjörð eins og komist er að orði í Jarðabókinni frá 1710.[33] Á vorvertíð reru Mýramenn yfirleitt á Fjallaskaga en þegar sjór var sóttur úr heimavör mun yfirleitt hafa verið róið frá Hrólfsnaustum sem eru yst í Mýramel, rétt innan við Mýrafell. Önnur lending var fremst í Mýramel, nær beint niður undan bænum.

Frá Hrólfsnaustum voru haustróðrar enn stundaðir á árunum kringum síðustu aldamót (sjá hér bls. 77) og stundum skutust Mýramenn á sjó að áliðnum vetri. Um það höfum við vitnisburð Sighvats Grímssonar Borgfirðings en hann skrifar í dagbók sína 14. mars 1895: Mýramenn fóru í róður í gær, fengu 190 en Núpsmenn 180.[34]

Í gömlum heimildum er getið um margvísleg hlunnindi á Mýrum. Þar var mikið og gott mótak[35] og kolviðarskógur í heimalandi sem að vísu var allmjög til þurrðar genginn í byrjun 18. aldar.[36] Hrognkelsaveiði var oft góð fyrir landi Mýra og þar var selveiði stunduð á fyrri tíð.[37] Góð búbót var líka að silungi sem veiddur var í Vaðlinum fyrir neðan túnið. – Til þeirrar veiði er oftast brúkuð silungakista með háf undan straum, segir í heimild frá miðri 19. öld.[38]

Um og eftir miðja tuttugustu öld var lengi eitt mesta æðarvarp á öllu landinu hér á Mýrum og verpir fuglinn á Mýramel. Um aldamótin 1900 var þar hins vegar ekkert æðarvarp og fyrsta hreiðrið mun hafa fundist árið 1905.[39] Í marga áratugi hefur heimafólk á Mýrum nú sinnt varpinu af mikilli kostgæfni og sýnt fuglinum þá umönnun sem nauðsynleg er. Með stakri natni og vönduðum vinnubrögðum tókst á alllöngum tíma að koma varpinu upp í þá stærð sem fyrr var nefnd. Í heimildum frá liðnum öldum verður ekki séð að nokkurt æðarvarp hafi verið á Mýrum fyrir aldamótin 1900 en hins vegar segir í Jarðabókinni frá 1710 að kríuvarp hafi áður verið niður við sjóinn en sé fyrir löngu í burtu og plássið í sand komið.[40] Í Jarðabókinni er talað um eggvarp af kríum[41] sem bendir eindregið til þess að eggin hafi verið hirt og varpið því talið til hlunninda.

Hér hefur nú verið farið nokkrum orðum um helstu hlunnindi á Mýrum að fornu og nýju en þess verður líka að geta að auðsæld Mýramanna á fyrri tíð var ekki að öllu leyti heimafengin heldur byggðist hún líka á þeim margvíslegu ítökum sem Mýrakirkja átti hér og þar og á arði af eignum kirkjunnar. Er þá að sjálfsögðu átt við eigendur Mýra, sem oft bjuggu sjálfir á jörðinni, en ekki leiguliðana. Kirkjan á Mýrum var bændakirkja allt til ársins 1907[42] og eigendur jarðarinnar höfðu því full umráð yfir öllu sem kirkjan átti. Hér verður síðar gerð grein fyrir þeim eignum og ítökum en nú er mál að rifja upp það litla sem vitað er um fólkið sem bjó á Mýrum fyrstu sex aldirnar sem landið var í byggð.

Í Landnámabók er getið um Mýra-Knjúk sem átti tvo landnámsmenn fyrir afa og ætti því að hafa verið uppi á 10. öld. Er hann sagður hafa búið á Mýrum.[43] Í öllum þremur helstu gerðum Landnámabókar, Sturlubók, Hauksbók og Melabók er Mýra-Knjúkur sagður hafa verið langafi Höllu sem var amma stórhöfðingjans Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri við Arnarfjörð.[44] Enginn veit nú með vissu hvort þessi fyrsti bóndi á Mýrum sem nefndur er í fornritum hefur verið til í raun og veru eða aðeins verið diktaður upp af höfundum Landnámu. Ættfærslan til Hrafns á Eyri bendir þó fremur til þess að ekki sé eingöngu um hugarsmíð að ræða. Höfundar Landnámabókar segja Knjúk á Mýrum hafa verið dótturson Nesja-Knjúks sem talinn er einn landnámsmanna við Breiðafjörð og sagður hafa numið nes öll til Barðastrandar frá Kvígindisfirði.[45] Í Hauksbók og Sturlubók er líka gerð grein fyrir föður Mýra-Knjúks og hann sagður hafa verið Þorvaldur hvíti, sonur Þórðar Víkingssonar, landnámsmanns í Alviðru í Dýrafirði, en Þórð í Alviðru segja sömu höfundar flesta kalla að verið hafi son Haralds hárfagra Noregskonungs[46] og er nú best að trúa varlega.

Engar frásagnir tengjast nafni Mýra-Knjúks í Landnámabók en ýmissa niðja hans er þar getið og m.a. Þorkels Steinólfssonar sem sagður er hafa búið á Mýrum og átt Mýra-Knjúk fyrir langafa en verið ömmubróðir Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri.[47]

Hrafns saga Sveinbjarnarsonar er talin hafa verið rituð um miðja 13. öld (sjá hér Rafnseyri) og þar er einkum sagt frá atburðum sem áttu sér stað undir lok tólftu aldar og í byrjun hinnar þrettándu. Frásögnum þeirrar sögu er því ólíkt betur treystandi en því sem höfundar Landnámabókar festu á blað er hátt í þrjár aldir voru liðnar frá sjálfu landnáminu. Í Hrafns sögu er getið um Mög Mögsson sem bjó á Mýrum á síðari hluta tólftu aldar og fram yfir aldamótin 1200.[48] Fari höfundur rétt með átti Mögur hlut í goðorði en er Hrafn á Eyri kom úr sinni Rómarferð, nokkru fyrir aldamótin 1200 og tók við goðorði föður síns, – þá brugðu Mögur á Mýrum og fleiri á það ráð að afhenda þessum upprennandi héraðshöfðingja sína goðorðshluti sakir vinsælda hans eins og komist er að orði í sögunni.[49]

Er Mögur bjó á Mýrum var þar um skeið heimilisprestur sem Magnús Þórðarson hét og er hann fyrsti presturinn þar sem um er kunnugt. Gera má ráð fyrir að ýmsir fleiri en Mögur úr hópi stórbænda á Mýrum í kaþólskum sið hafi haldið heimilispresta og munnmæli herma að slíkir prestar hafi þá haft mötu sína hjá jarðareiganda en hús sér.[50] Sighvatur Borgfirðingur segir að þar heiti síðan Presthóll er hús þeirra stóð og sé fyrir utan lækinn í túninu á Mýrum.[51]

Magnús prestur Þórðarson, sem hér var áður nefndur, náði taki á Jórunni Snorradóttur, systur Þorvaldar Vatnsfirðings, og fór hún til hans á Mýrar.[52] Fleiri girntust Jórunni en Magnús prestur, þar á meðal var einn sem Bergþór hét og var Sámsson. Er prestur frétti að Bergþór hygðist ná Jórunni burt frá Mýrum og hans væri þangað von var farið með hana út að Núpi og hún haldin þar á laun meðan Bergþór var í Dýrafirði.[53] Er Bergþór kom að Mýrum fékk hann þar góðar móttökur og gisti í nokkrar nætur.[54] Magnús prestur var þá allkátur við þennan eljara sinn og er Bergþór fór í brott án þess að hafa orðið nokkurs vísari um Jórunni, – þá gaf hann honum hund.[55] Var gjöfin ætluð Bergþóri til háðungar eins og glöggt kemur fram í vísu sem prestur kastaði fram er hinn nýi eigandi hundsins hvarf úr hlaði á Mýrum:

 

 

Sitr fimligt fljóð,

                              fram greiðik ljóð,

                              vex greppi sút,

                              und Gnúpi út.

                              En hafði heim,

                              þats hæfði þeim:

                              Vas hundr í för

                              með hjalma bör.[56]

 

Heldur var þetta nú gálaus kveðskapur hjá presti því tæplega gat þess verið að vænta að Bergþór og hans vinir yndu þvílíku flími. Nóg var niðurlægingin samt er hann sneri frá Mýrum án konunnar en með hund frá guðsmanninum í sárabætur. Og er vísan barst norður að Djúpi leið ekki á löngu uns Bergþór og Þorvaldur Vatnsfirðingur héldu með liðsafnað vestur í Dýrafjörð og hugðust ná Magnúsi presti á sitt vald. Er þeir komu á Mýrar voru Magnús prestur og Jórunn frilla hans hins vegar á bak og burt því njósn hafði borist áður en flokkur Djúpmanna reið í hlað.[57] Í Hrafns sögu segir að þau hafi farið á fjall það er Sölólfsfell heiti og leynst þar í einum helli uns flokkur norðanmanna varð frá að hverfa og hafði þá farið bæ frá bæ í leit að skötuhjúunum.[58] Nafnið Sölólfsfell er nú óþekkt en mun hins vegar hafa verið nefnt í fornum máldögum Mýrakirkju. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur hefur ritað upp brot úr gömlum máldaga sem hann segir skrifaðan eftir eiginhandarriti séra Sveins Símonarsonar er prestur var í Holti frá 1582 til 1644. Þar segir m.a. að kirkjan á Mýrum eigi náttbeit frá Ástríðarlæk milli hagagarða í Sælúlfsfelli en greiði fyrir þessi réttindi með því að kosta að hálfu allt viðhald á hinum innri hagagarði.[59] Augljóst er að Sælúlfsfell hlýtur að vera afbökun og þarna sé verið að tala um fjall það sem í Hrafns sögu er nefnt Sölólfsfell. Af orðum máldagans verður líka ljóst að það er Mýrafell sem við er átt því landamerki jarðarinnar Lækjar, sem áður hét Ástríðarlækur, og Mýra eru einmitt vestan undir því fjalli (sjá hér bls.4). Þar eru líka báðir hagagarðarnir sem á er minnst í máldaganum og er land Mýra nú talið ná út að ytri garðinum.[60] Gömul munnmæli herma reyndar að eldra nafn á Mýrafelli hafi verið Sauðólfsfell (sjá hér Fell) svo vera má að einhver afritari Hrafns sögu hafi breytt sauð í söl.

Ekki verður hér fleira sagt frá Magnúsi presti á Mýrum nema það að hann komst með Jórunni sína til Noregs og áttu þau þar börn og buru.[61]

Líklega hafa þeir verið ólíkir menn Magnús prestur sem hér var frá sagt og annar kirkjunnar þjónn sem staldraði við á Mýrum síðla sumars nokkrum árum eftir brottför Magnúsar. Sá var Guðmundur prestur Arason er skömmu síðar var kjörinn til biskups á Hólum og oft hefur verið nefndur hinn góði. Guðmundur kom að Mýrum á ferð sinni um Vestfirði sumarið 1200 og segir svo í sögu hans að þar hafi hann vígt brunn er náliga varð allt heilt það er á bergði.[62] Hér hefur áður verið getið jarteikna er tengdust hinu vígða vatni úr þessum Gvendarbrunni (sjá hér Ytri-Lambadalur) en í Guðmundar sögu Arasonar segir líka frá tveimur konum sem óðu í læk þann eða keldu sem úr brunninum féll og fengu við það bót sinna meina.[63]

Allt til þessa dags hefur heimafólk á Mýrum getað vísað gestum og gangandi á brunninn sem Guðmundur góði á að hafa vígt fyrir nær átta hundruð árum. Neðan við Innra-Undirtún er Innri-Veita og nær alveg niður að Vaðlinum.[64] Yst í þessari veitu er brunnurinn undir stórri þúfu og vildi bóndinn sem bjó á Mýrum um  aldamótin 1900 kalla hann Vínholu.[65] Svo gott þótti vatnið úr þessari uppsprettulind.

Í Guðmundar sögu er bóndinn á Mýrum árið 1200 nefndur Már[66] en allt sem skrifað stendur um Mýrar í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar bendir til þess að Mögur, sem áður var nefndur, hafi búið þar bæði fyrir 1200 og á allra fyrstu árum 13. aldar. Tilgangslaust er að leita skýringa á þessu nafnabrengli.

Í Hrafns sögu er frá því sagt að er Mögur, sem var auðugur að fé, var gamall orðinn hafi hann selt Lofti Markússyni frá Bæ á Rauðasandi Mýraland og Loftur þá tekið hér við búsforráðum.[67] Hrafn Sveinbjarnarson taldi sig hins vegar eiga forkaupsrétt á jörðinni og reiddist þessari sölu. Nokkru síðar fór hann með fjölmenni að Lofti og til þeirrar farar fylgdi honum með fimm menn Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur er síðar varð banamaður Hrafns.[68] Er Hrafn og Þorvaldur komu á Mýrar veittu þeir brott læk er inn féll í húsin[69] og sýnir það að Mýramenn hafa á þeirri tíð haft rennandi vatn inni í bænum. Er læknum var veitt á brott grunaði Loft að ætlun þeirra sem úti stóðu væri að brenna hann inni og gekk þá til samninga. Varð niðurstaðan sú að deilumál þeirra Hrafns og Lofts skyldu lögð í gerðardóm.[70] Fyrir liðveislu í aðförinni að Lofti á Mýrum gaf Hrafn Þorvaldi Vatnsfirðingi góða breiðöxi, silfurrekna og barskefta.[71]

Í Hrafns sögu er Loftur Markússon sagður hafa verið hávaðamaður og ódæll.[72] Mágur Lofts, sem Haukur Ormsson hét, dvaldist með honum á Mýrum. Sá var norðlenskur að kyni og nefndur Víga-Haukur.[73] Þeir Loftur og Víga-Haukur ýfðust við Þorvald Vatnsfirðing vegna liðsinnis hans við Hrafn og þátttöku í aðförinni sem nú var frá sagt. Á næsta Alþingi hjó Víga-Haukur milli herða Þorvaldi en hann var í brynju og sakaði lítt. Betur tókst til er Haukur slengdi öxinni að einum förunauta Þorvalds og náði að höggva af honum aðra höndina.[74]

Er heim kom frá þessu þingi vildi Þorvaldur fá Hrafn á Eyri með sér í ránsferð að Mýrum, enda höfðu engar bætur fengist greiddar fyrir þá áverka sem Víga-Haukur hafði veitt Þorvaldi og hans förunaut á þinginu.[75] Þeim tilmælum neitaði Hrafn og kvaðst veita mundu Þorvaldi til laga en eigi til ólaga.[76] Slík svör tók Þorvaldur óstinnt upp, fór á Mýrar og rændi þar meðal annars tuttugu kúm en Loftur tók nokkru síðar þann kost að flýja þaðan af ótta við Þorvald og leitaði þá á náðir Hrafns á Eyri sem tók við honum fyrir orð Sighvats Sturlusonar.[77] Við þetta snerist vinátta Þorvaldar við Hrafn upp í fullan fjandskap en var reyndar áður farin nokkuð að kólna. Hófust þá áður en langt um leið aðfarir Þorvaldar að Hrafni á Eyri og í þeirri þriðju tókst Vatnsfirðingnum að ná honum á sitt vald og lét þá taka hann af lífi 4. mars árið 1213 (sjá hér Rafnseyri). Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rifjað upp um gang mála í samskiptum Þorvaldar og Hrafns sýnist ekki fjarri lagi að líta á Loft Markússon sem eins konar örlagavald í sögunni, hvort sem sú hefur nú verið raunin á í sjálfum veruleikanum eða ekki.

Ekki er þess getið í Hrafns sögu hversu mörg ár Loftur bjó á Mýrum en svo virðist sem þau hafi aðeins verið fá og þaðan var hann farinn fyrir 1210 er Þorvaldur lagði upp í sína fyrstu aðför að Hrafni. Úr skjólinu á Eyri fluttist Loftur að Stökkum á Rauðasandi og er hann úr þessari sögu.

Er Þorvaldur Vatnsfirðingur hafði hrakið Loft á brott frá Mýrum og látið taka Hrafn Sveinbjarnarson af lífi virðist hann hafa náð Mýrum undir sig áður en langir tímar liðu. Sjálfur var Þorvaldur brenndur inni á Gillastöðum í Reykhólasveit 6. ágúst árið 1228 og svo mikið er víst að síðustu árin sem hann lifði átti hann bú á Mýrum, enda þótt hann byggi í Vatnsfirði. Fjögur síðustu æviárin var Þorvaldur kvæntur Þórdísi, dóttur Snorra Sturlusonar, hins víðfræga sagnaritara og veraldarhöfðingja í Reykholti. Þórdís Snorradóttir var á Gillastöðum með manni sínum en fékk grið og var dregin þar út um vegginn er húsin tóku að loga.[78] Eftir brennuna á Gillastöðum bauð Snorri Þórdísi dóttur sinni til sín í Reykholt en hún hafnaði því boði og réðst þá út á Mýrar til bús þess er þau Þorvaldur höfðu þar átt, segir í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar.[79] Ekki er ljóst hversu lengi Þórdís dvaldist á Mýrum að því sinni en í Vatnsfirði var hún vorið 1233 er Snorri, faðir hennar, sendi þangað Órækju son sinn til að taka þar við búi og mannaforráðum.[80] Er Órækja kom í Vatnsfjörð þótti Þórdísi, systur hans, illt upp að standa en svo varð að vera sem Snorri vildi.[81] Hún hafnaði þá í annað sinn boði um dvöl í Reykholti en kaus að fara aftur út á Mýrar í Dýrafjörð.[82] Allt sýnir þetta að þessi dóttir Snorra hefur hvergi viljað vera nema annað hvort í Vatnsfirði eða á Mýrum.

Áður en Órækja kom vestur var að sögn Sturlu sagnaritara enginn höfðingi í Vestfjörðum en þeir voru þá mestir af bændum Oddur Álason og Gísli á Sandi,[83] það er Gísli Markússon í Bæ á Rauðasandi. Oddur Álason, sem átti heima á Söndum í Dýrafirði, var kvæntur Steinunni, dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri. Nokkrum vikum áður en Órækja tók við búi í Vatnsfirði fór Oddur þangað norður og dvaldi um hríð. Voru þá kærleikar miklir með honum og Þórdísi Snorradóttur.[84] Ekki hefur Oddur verið að hitta ekkjuna í Vatnsfirði í fyrsta sinn er hann dvaldi hjá henni vorið 1233 því síðla sumars á því sama ári ól Þórdís dóttur sem Oddur var faðir að.[85] Frá þeim atburði segir svo í Íslendinga sögu:

 

Þórdís fór vestur í fjörðu [að líkindum frá Sauðafelli í Dölum, – innsk. K.Ó.] og er hún kom í Saurbæ fæddi hún þar barn á Staðarhóli. Það var mær er þau Oddur áttu. Hún lá þar þrjár nætur og fór síðan vestur og heim á Mýrar.[86]

 

Oddur Álason, barnsfaðir Þórdísar, hafði þá fært sig frá Söndum að Eyri við Arnarfjörð og átti að gæta þess að Órækja næði ekki að fá þingmenn Sturlu Sighvatssonar á Vestfjörðum til fylgdar við sig en sjálfur fór Sturla utan þetta sama sumar.[87] Á geisladag árið 1234 kom Órækja með fjölmenni yfir Glámu og lét taka Odd af lífi (sjá K.Ó. 1999, Firðir og folk 900-1900, bls. 187). Þá hafa varla verið liðnir fimm mánuðir frá því Þórdís systir Órækju varð léttari og fæddi meyna sem Oddur var faðir að.

Engar spurnir höfum við af því hvernig húsfreyjan á Mýrum tók fréttunum af þessu tiltæki bróður síns en ætla má að nærri henni hafi verið höggvið. Þórdís Snorradóttir náði ekki að sitja lengi á Mýrum en tæpum áratug eftir fall Odds hélt hún enn búsforráðum í Vatnsfirði og var með annað bú í Æðey.[88]

Er Þórður kakali Sighvatsson, frændi Þórdísar og Órækju, kom til landsins haustið 1242 eftir margra ára dvöl í Noregi var veldi Sturlunga að engu orðið og flestir helstu menn þeirra að velli lagðir. Tilraun Þórðar til að reisa ættarveldi þeirra við á ný virtist þó um skeið ætla að bera árangur. Á Vestfjörðum náði Þórður skjótt að koma undir sig fótum og tókst áður en langt um leið að draga saman hið fríðasta lið. Er hann kom vestur haustið 1242 bjó Bjarni Brandsson á Mýrum og er sagður hafa verið í röð stærri bænda á Vestfjörðum.[89]

Vorið 1243 afhenti hann Þórði kakala bú sitt á Mýrum og sat Þórður þar í nær heilt ár en færði sig að Eyri við Arnarfjörð vorið 1244.[90] Veturinn sem Þórður sat á Mýrum efndi hann þar til mikillar jólaveislu og bauð til sín öllum hinum bestu mönnum úr Vestfjörðum.[91] Í veislu þessari á Mýrum strengdu allir sem þar voru heit nokkur. – Þórður strengdi þess heit, segir í sögu hans, að láta aldrei taka menn úr kirkju … , og það efndi hann, bætir söguritarinn við.

Gamla bæjarstæðið á Mýrum var innan við bæjarlækinn, skammt fyrir utan og ofan kirkjugarðinn, og stóð bærinn þar allt til ársins 1903 er nýtt íbúðarhús var reist utan við lækinn.[92] Rétt ofan við gamla bæinn voru um aldamótin 1900 enn sjáanlegar fornar hleðslur sem taldar voru leifar af virki (Kakalavirki) er Þórður kakali átti að hafa látið hlaða umhverfis bæinn.[93]

Dálítið innan við túnið á Mýrum heitir Reiðnes rétt ofan við Vaðalinn og þar lá reiðgatan yfir hann fyrir daga vélknúinna ökutækja.[94] Þarna framan í Reiðnesinu sér enn fyrir mjög stóru skipanausti sem ýmsir hafa talið vera frá dögum Þórðar kakala og kallað er Kakalanaust[95] en séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum nefnir mannvirki þetta Skútunaust í viðauka er hann ritaði árið 1847 við Sóknalýsingu sína frá árinu 1840.[96] Hann segir tóttina vera 7 faðma á lengd og nær 2 faðma á breidd. Lausleg mæling sem gerð var 2. júlí 1992 sýndi að tölur prestsins eru nálægt lagi.

Naust þetta er ævafornt að sjá og gæti sem best verið frá dögum Þórðar kakala. Við hlið þess eru önnur tvö dálítið minni og benda allar likur til þess að hér hafi hafskipum verið ætlaður staður. Séra Jón á Gerðhömrum lét sér einnig til hugar koma árið 1847 að hér hefði verið geymd flutningaskúta sem fleytt hafi verið upp eftir ósi vaðalsins um stórstraumsflæði.[97]

Bjarni Brandsson á Mýrum var með Þórði kakala í Flóabardaga sumarið 1244 og stýrði þar einu skipanna ásamt Páli gríss Kálfssyni.[98] Voru þar á Dýrfirðingar.[99] Skip þeirra var Trékyllirinn, ferja sem sendimenn Þórðar höfðu rænt nokkru áður norður í Trékyllisvík.[100] Er hörðust var hríðin í Flóabardaga héldust Bjarni og Dýrfirðingar hans einir best við um skeið[101] og hafa seint viljað hopa. Er undanhaldið hófst og lið Þórðar var komið nokkuð vestur á flóann kom í ljós að tvö af skipum Vestfirðinga vantaði, Rauðsíðuna, sem var skip Bárðar á Söndum, og Trékyllinn sem Bjarni á Mýrum stýrði.[102] Gerðist kakali þá allhugsjúkur en þeim mun meiri varð gleði hans og liðsins alls er þeir Báður og Bjarni náðu skömmu síðar landi í Trékyllisvík þar sem Þórður stóð á ströndu og fagnaði komu þeirra (sjá hér Sandar). Bjarni Brandsson er síðasti 13. aldar maðurinn sem um er kunnugt að búið hafi á Mýrum.

Á síðari hluta 14. aldar bjó Sigurður Þórðarson um lengri eða skemmri tíma á Mýrum og er með vissu tekinn þar við búi árið 1378.[103] Sigurður mun hafa verið sonur Þórðar kolls Sigurðssonar í Ögri því stundum er hann nefndur Kollsson í fornum heimildum.[104] Þeir feðgar eru báðir nefndir í dómi frá árinu 1366 og áttu þá heima í Ögri.[105] Sigurður Þórðarson á Mýrum hefur efalaust verið auðmaður og áhrifamaður í héraði. Til marks um það má m.a. nefna að hann hafði milligöngu um að koma á griðasamningum milli Þórðar Sigmundssonar á Núpi og Björns Einarsson Jórsalafara í Vatnsfirði árið 1393 (sjá hér Núpur). Fékk Björn þá að fara frjáls ferða sinna úr kirkjunni á Núpi þar sem hann hafði leitað skjóls undan árásum liðsmanna Þórðar og fór þá með Sigurði inn að Mýrum.[106] Árið eftir var Sigurður á Mýrum líka skipaður í gerðardóm ásamt nokkrum öðrum, þar á meðal bæði hirðstjóra og lögmanni, til að dæma í málum Þórðar á Núpi og Björns Jórsalafara.[107]

Eitt barna Sigurðar á Mýrum var Þórdís sem giftist Oddi lepp Þórðarsyni er var lögmaður sunnan og austan frá 1405 til 1422 og bjó um skeið að Ósi í Bolungavík.[108] Þeirra sonur var Guðni Oddsson á Hóli í Bolungavík sem skjalfest er að hafði umráð yfir Mýrum árið 1426[109] og hefur að líkindum búið hér um skeið. Hann var langafi Björns Guðnasonar, hins volduga héraðshöfðingja í Ögri sem hefur því verið fimmti ættliður frá Sigurði Þórðarsyni á Mýrum.

Skömmu fyrir andlát sitt arfleiddi Guðni Oddsson kirkjuna á Mýrum að jörðinni Rekavík bak Höfn í Sléttuhreppi og er gjafabréfið dagsett í Ögri 8.desember 1431.[110] Jörðina gaf hann Mýrakirkju til sáluhjálpar konu sinni sem þá var látin.[111] Í erfðaskrá sinni mælti Guðni líka svo fyrir að á Mýrum skyldi andvirði tveggja hundraða í jörð jafnan gefið fátækum á hverri langaföstu[112] en í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 má reyndar sjá að þessi kvöð hefur verið eldri (sjá hér bls.21).

Í vitnisburðarbréfi frá árinu 1484 sést að Guðni Oddsson hefur lagt kapp á að tryggja réttindi Mýrakirkju til reka á utanverðri norðurströnd Dýrafjarðar.[113] Í bréfi þessu frá 1484 votta tveir nafngreindir menn að þeir hafi á sínum tíma heyrt Kolbein Sigurðsson handfesta Sturlu bónda Magnússyni vitnisburð sinn um rekaréttindi kirkjunnar á Mýrum. Í bréfinu sem varðveist hefur verður ekki séð hvenær Kolbeinn handfesti Sturlu bónda umræddan vitnisburð en hann hefur þá verið kominn á efri ár. Svo virðist sem Kolbeinn þessi hafi ekki verið sonur Sigurðar Þórðarsonar á Mýrum sem áður var nefndur heldur annars manns með sama nafni.[114]

Í vitnisburðarbréfinu frá 16. júní 1484 segir svo um rekaréttindi kirkjunnar á Mýrum:

 

Það gjörum við, Stefnir Björnsson og Örnólfur Þorleifsson góðum mönnum kunnugt með þessu okkar opnu bréfi að við vorum í hjá, sáum og heyrðum á að Kolbeinn Sigurðsson handfesti Sturlu bónda Magnússyni svofelldan vitnisburð að hann vissi haft og haldið vera upp á hálfan sjöunda tug vetra kirkjunnar eign á Mýrum í Dýrafirði allan hálfan reka viða og hvala og allar aðrar fjörunytjar að helmingi frá Haukslæk hjá Alviðru og til þess er sér mann úr skáladyrum í fjöru í Nesdal að hálfföllnum sjó, fráteknum reytisölum á Fjallaskaga. Svo og sagðist fyrrnefndur Kolbeinn vita að hval rak á Fjallaskaga, fimm vetrum fyrir hina miklu bólu [það er árið 1426, því bólan gekk 1431, – innsk. K.Ó.] og Guðmundur bóndi Arason kom til hvalsins og lét skera nokkuð af honum. Svo og ei síður sagðist hann vita að Guðni bóndi Oddsson kom til áður en hvalurinn var allur uppskorinn og lýsti hálfan hvalinn eign kirkjunnar á Mýrum í Dýrafirði og fyrir það sama að áður nefndum Guðna þótti fyrrnefndur Guðmundur hafa ranglega að sér tekið hálfan hvalinn. Þá handlagði oft nefndur Guðmundur þráttnefndum Guðna sex málnytu kúgildi að næstu fardögum. Sagðist áðurnefndur Kolbeinn hafa verið daglegur mann Guðna bónda Oddssonar og þar verið með honum í þann sama tíma er þessi gjörningur fór fram með handsölum þeirra í milli. Svo og vissi ég hval og viðu bera á þennan reka og skipt síðan i helminga í millum kirknanna. Höfðu Núpsmenn og Alviðrumenn annan helming en Mýramenn annan. Og svo heyrði ég föður minn, Sigurð Þórðarson, og marga aðra hina elstu menn það segja að Mýrakirkja ætti allan hálfan reka og allar hálfar fjörunytjar í fyrrsögðu takmarki. Svo heyrði ég eigi síður hina elstu menn það segja að Sigurður bóndi Þórðarson á Mýrum og Þórður bóndi Sturluson undir Gnúpi hefðu gjört helminga skifti kirknanna í milli af öllum reka og hér eftir vil ég oftnefndur Kolbeinn sverja fullan bókareið ef þurfa þykir.[115]

 

Til skýringar skal þess getið að strandlengjan sem hér um ræðir, frá Alviðru og út undir Nesdal, er um 17 kilómetrar á lengd. Þar mátti búast við miklum og verðmætum reka svo vel hefur munað um þau réttindi sem Sigurður Þórðarson og Guðni Oddson náðu að tryggja kirkjunni á Mýrum.

Sturla bóndi Magnússon, sem vitnisburðinn tók af Kolbeini, hefur vafalaust verið eigandi Mýra þegar Kolbeinn var fenginn til að bera fyrir hann vitni um réttindi Mýrakirkju. Allar líkur benda til þess að þarna sé um að ræða Sturlu Magnússon, lögréttumann í Syðri-Dunhaga í Hörgárdal við Eyjafjörð[116] sem átti sannanlega jarðeignir í Dýrafirði[117] og fullvíst er að tengdasonur hans, Þorleifur Grímsson sýslumaður, átti Mýrar nokkrum áratugum síðar.[118] Þorleifur Grímsson var sýslumaður í Vaðlaþingi og bjó á Möðruvöllum. Ein dætra hans var Halldóra sem giftist Ara Jónssyni lögmanni, syni Jóns Arasonar biskups á Hólum. Vera kann að þau tengsl hafi átt þátt í að færa Jóni biskupi Arasyni umráð yfir Mýrum. Ari og Halldóra munu að vísu ekki hafa verið pússuð saman fyrr en 1530[119] en ljóst er að árið 1529 taldi Jón biskup sig hafa öll umráð yfir eignum Þorleifs Grímssonar í Vestfirðingafjórðungi.[120] Á því ári byggði hann Bjarna Narfasyni Mýrar en Bjarni var tengdasonur Björns Guðnasonar í Ögri sem áður hafði átt í harðvítugum deilum við Stefán Jónsson Skálholtsbiskup og þá einkum um yfirráð yfir jarðeignum á Vestfjörðum.

Í umboðsbréfinu sem Bjarni fékk hjá Jóni Arasyni árið 1529 segir m.a. svo:

 

Vér Jón með guðs náð biskup á Hólum gjörum góðum mönnum vitanlegt með þessu voru opnu bréfi að eftir því umboði sem vér höfum yfir öllum eignum og peningum sem Þorleifi bónda Grímssyni tilheyra höfum vér fengið Bjarna Narfasyni vort fullt og löglegt umboð yfir garðinum á Mýrum í Dýrafirði og öllum þeim eignum og peningum sem greindum Þorleifi bónda Grímssyni tilheyra í Vestfirðingafjórðungi.[121]

 

Í bréfinu tekur Jón biskup fram að umboðið sem hann veitti Bjarna skuli halda gildi sínu til næstu fardaga.

Þeim Jóni Arasyni á Hólum og Ögmundi Pálssyni í Skálholti, síðustu kaþólsku biskupunum á Íslandi, varð margt að deiluefni og ekki gekk þeim alltaf vel að koma sér saman um Mýrar. Það var Jón biskup sem ráðstafaði jörðinni árið 1529 en síðla sumars árið 1530 útnefndi Ögmundur sex klerka og sex leikmenn í dóm á Staðarhóli í Saurbæ til þess að skoða og rannsaka og fullnaðardóms atkvæði á að leggja hversu fara skyldi um innstæður og reikningsskap Mýrakirkju.[122] Í dómsorði þessara tólf manna segir meðal annars að Ögmundur biskup hafi hvað eftir annað krafið Þorleif Grímsson, eiganda Mýra, um kirkjureikningana en án árangurs. Dómsmenn Ögmundar felldu síðan þann úrskurð að Þorleifi, sem eins og áður sagði var í nánum fjölskyldutengslum við Jón Arason, skyldi settur stuttur frestur til að koma öllu á hreint varðandi reikninga kirkjunnar á Mýrum. – En ef þá er enginn löglegur reikningsskapur staðinn af kirkjunnar innstæðu, segir í bréfi þeirra, þá dæmdum vér oftnefndan garð á Mýrum í Dýrafirði fallinn undir heilaga Skálholtskirkju og hennar eign þaðan af ævinlega vera eiga.[123]

Tveimur árum síðar náðu þeir biskuparnir vissu samkomulagi um Mýrar er Ögmundur féllst á að fella úr gildi dóminn sem hér var síðast til vitnað en Jón Arason lofaði á móti að ábyrgjast greiðslur á öllum skuldum Ara sonar síns og Þorleifs Grímssonar, tengdaföður hans, við Mýrakirkju.[124] Jafnframt var um það samið að jörðin yrði í umsjón Ögmundar uns skuldin hefði verið greidd að fullu.[125]

Frá þessu samkomulagi biskupanna var gengið 26. júlí 1532 en um svipað leyti keypti Jón biskup hálfar Mýrar af Þorleifi Grímssyni[126] og varð þar með beinn aðili að öllum hugsanlegum deilum um jörðina eða viðskipti eigenda hennar við Mýrakirkju. Hálflendan sem Jón Arason keypti var þá metin á 45 hundruð[127] svo dýrleiki jarðarinnar allrar sýnist þá hafa verið talinn 90 hundruð, það er 10 hundruðum meiri en síðar var almennt, að Lækjarósi meðtöldum.

Vorið 1533 féllst Ögmundur biskup á þau tilmæli Jóns biskups á Hólum að þeim síðarnefnda yrðu afhent full umráð yfir Mýrum en tók þó fram að uppgjör á reikningum Mýrakirkju þyrfti að liggja fyrir er hann kæmi vestur á komandi sumri.[128] Upphaf bréfs síns um þetta orðar Skálholtsbiskup svo:

 

Vér Ögmund með guðs náð biskup í Skálholti gjörum góðum mönnum kunnugt með þessu voru opnu bréfi. Sakir þess að vor bróðir, herra biskup Jón á Hólum hefur skrifað oss til að hann vildi að jörðin Mýrar í Dýrafirði væri í sínu valdi og þau kirkjugóss sem henni til heyra, föst og laus, forn og ný. Því munum vér og til látum að verðugur herra biskup Jón skal fyrrgreinda jörð og kirkjugóssin hafa og halda og þeim veita sem hann vill.[129]

 

Sumarið 1533 hittust biskuparnir á Alþingi og þar varð að samkomulagi að Jón biskup greiddi Mýrakirkju 60 hundruð í góðum peningum og sæi til þess að kirkjan yrði ekki lakar búin að bókum og gripum en hún hafði verið á dögum Oddgeirs biskups Þorsteinssonar, sem var Skálholtsbiskup á árunum 1365-1381.[130] Með þessum skilmálum áttu Jón Arason og eftirkomendur hans að fá full umráð yfir jörð og kirkju á Mýrum og tekur Ögmundur fram að svo skuli vera svo lengi sem hann og þeir halda vel kirkjuna og hennar kennimenn og oss [þ.e. Skálholtsbiskupa] sem til ber þá vér vísiterum.[131]

Allt leit nú þetta vel út á pappírnum en þó fór svo að þegar Ögmundur biskup kom að Mýrum á sinni yfirreið fáum árum síðar þá var honum úthýst og það ekki einu sinni heldur tvisvar.[132] Allt var þar þá í niðurníðslu ef marka má orð prestanna sem Ögmundur kvaddi í dóm í júnímánuði árið 1538 en þeir segja fullum fetum að Jón Hólabiskup hafi ekki staðið í skilum með neitt af því sem hann lofaði fimm árum fyrr. Hafði biskupinn [þ.e. Ögmundur] hvorki enn fengið þessa peninga, segja þeir, sem lofað var og ei kirkjunnar innstæðu heldur var hún öll í burt frá henni tekin og kirkjan sjálf og garðurinn [á Mýrum] … að niðurfalli komin.

Dómsniðurstaða klerkanna varð því sú að svipta bæri Jón Arason öllum umráðum yfir Mýrum og skyldi jörðin falla undir heilaga Skálholtskirkju hennar formönnum til fyrirsjónar og frjáls forræðis ævinlega.[133]

Svo virðist sem forsjá Jóns Arasonar hafi orðið Mýrum og Mýrakirkju til lítilla heilla. Í varðveittum heimildum má reyndar sjá að hann hefur einhvern tíma á árunum 1533-1537 ráðstafað jörðinni til Ara lögmanns, sonar síns, og fylgdu þá með 12 kúgildi[134] en áttu að vera 24 eins og sjá má í Vilkinsmáldaga (sjá hér bls. 20) Jón Pálsson sem bjó á Mýrum árið 1538 hefur vafalaust verið þar landseti Ara lögmanns. Ögmundur Skálholtsbiskup leit aftur á móti svo á að þar sem Jón Arason hefði aldrei borgað neitt upp í þær greiðslur sem um var samið árið 1533 þá ættu þeir Hólafeðgar, Jón biskup og Ari sonur hans, alls engan umráðarétt á Mýrum. Sex klerkar sem Ögmundur skipaði í dóm í júnímánuði árið 1538 komust því strax að þeirri niðurstöðu að áðurnefndur landseti Ara lögmanns hefði sest í bú á Mýrum án lögmætra heimilda. Dæmdu þeir hann til að leysa bú sitt þar út tvöföldu landnámi og kirkjunni á Mýrum tvöfalt fullrétti en biskupnum og Skálholtskirkju 60 marka í sinn rétt.[135]

Jón biskupi á Hólum hefur verið ljóst hvers vænta mátti frá Skálholtsklerkum varðandi Mýrar. Nokkrum vikum áður en tveir síðast nefndir dómar voru kveðnir upp í Skálholti tekur hann aftur við Mýrum úr höndum Ara sonar síns og lætur hann hafa aðrar jarðir í staðinn.[136] Þann 17. júni 1538 gengur Jón Arason líka frá sérstöku bréfi norður á Hólum þar sem hann tekur fram með hvaða hætti hann vilji standa skil á þeim 60 hundruðum er hann fimm árum áður hafði lofað að greiða til Mýrakirkju. Það bréf hefur að líkindum ekki verið komið í Skálholt er dómklerkar Ögmundar settust þar á rökstóla röskri viku síðar. Í bréfi sínu frá 17. júní 1538 kveðst Jón biskup greiða skuldina við Mýrakirkju á þann hátt sem hér segir:

 

Í fyrstu jörðina Fell fyrir 12 hundruð, jörðina Rekavík fyrir 10 hundruð og 20 hundruð í bókum og messuklæðum, 10 málnytukúgildi, 2 hundruð í vaðmálum, 2 hundruð í vaxi, 2 hundruð í reykelsum og léreftum góðum, svo sem fær að kaupa með vaðmálum í því héraði sem greind jörð liggur, og þar til 2 hudnruð í gulli og brenndu silfri.[137]

 

Samtals eru þetta 60 hundruð eins og Jón hafði lofað að greiða fimm árum fyrr en einhverjir maðkar sýnast þó vera í mysunni. Að minnsta kosti er undarlegt að sjá jörðina Rekavík bak Höfn vera metna þarna á 10 hundruð en síðar var hún yfirleitt aðeins metin á 4 hundruð.[138] Jörð þessa hafði Guðni Oddsson gefið Mýrakirkju löngu fyrr eins og hér var áður getið (sjá hér bls. 13) en Jón biskup virðist líta á hana sem hluta af þeim eignum kirkjunnar er hann hafi tekið undir sig og skili nú til baka.

Við athugun kemur reyndar í ljós að Ögmundur Skálholtsbiskup og klerkar hans hafa ekki séð ástæðu til að taka norðanbréfið frá 17. júní 1538 gilt því í júlílok á því sama sumri er enn felldur 12 klerka dómur í Skálholti þar sem aftur er ítrekað að Mýrar séu nú ævinleg eign Skálholtskirkju.[139] Dómurinn ber með sér að er hann var kveðinn upp var Jón Arason búinn að senda klerk úr Hólabiskupsdæmi á Mýrar og er nú svo komið að dómsmennirnir syðra sjá ástæðu til að ráðleggja biskupunum að þeir haldi sitt andlegt bróðerni í guði eftir svörnum sáttmála þeirra í milli.[140]

Er hér var komið sögu tók brátt að halla undan fæti hjá Ögmundi í Skálholti og máske hefur Jón Arason skákað í því skjóli í taflinu um Mýrar. Árið 1540 lét Ögmundur af biskupsembætti, enda orðinn blindur, en ári síðar var hann fluttur nauðugur til Danmerkur er Lúterstrú var tekin upp í Skálholtsbiskupsdæmi. Á því ári, 1541, seldi Jón Arason Mýrar og kaupandinn var þá Bjarni Narfason,[141] sá hinn sami og Hólakarlinn hafði tólf árum fyrr veitt umboð til að fara með stjórn á Mýrum í eitt ár (sjá hér bls. 15). Við þessa sölu tekur Jón biskup fram að kirkjan eigi 20 hundruð í heimalandi á Mýrum.[142]

Gizur Einarsson fór með biskupsvöld í Skálholti frá árinu 1540 en tók þó ekki biskupsvígslu fyrr en tveimur árum síðar. Þess verður ekki vart að hann hafi látið viðskipti Jóns Arasonar við Mýrakirkju til sín taka fyrstu árin á biskupstóli, enda hefur hann þá haft í ærnu að snúast við að festa Lúterstrúna í sessi fyrir sunnan, austan og vestan. Kirkjan á Mýrum í Dýrafirði var þó eins og áður í Skálholtsbiskupsdæmi og ekki gat hjá því farið að Gizur blandaði sér í hennar mál áður en langir tímar liðu.

Haustið 1543 kom séra Magnús Eyjólfsson, prestur í Selárdal, að Mýrum en hann var þá umboðsmaður Gizurar á Vestfjörðum. Var þá gert út um hin gömlu deilumál og fékk Bjarni Narfason að halda jörðinni gegn því að greiða til Mýrakirkju í gamlan reikningsskap 6 kúgildi og 2 hesta til viðbótar þeim 60 hundruðum er Jón Arason hafði þá látið af hendi rakna í samræmi við bréf sitt frá 17. júní 1538 og 18 kúgildum sem hann eða Bjarni voru líka búnir að greiða.[143] Skálholtsmenn hafa því talið nær þriðjung vanta upp á fulla borgun hjá Jóni Arasyni (26 kúgildi af 86) er hann taldi sig ljúka greiðslu allra skulda við kirkjuna á Mýrum árið 1538.

Er fundi Bjarna Narfasonar á Mýrum og umboðsmanns Gizurar biskups lauk gaf umboðsmaðurinn út þá yfirlýsingu að hann gæfi áður skrifaðan reikningsskap, gamlan og nýjan, kirkjunnar á Mýrum í Dýrafirði kvittan og ákærulausan fyrir sér og sínum eftirkomendum heilagrar Skálholtskirkju umboðsmönnum.[144]

Þar með virðist loks hafa lokið hinu mikla stríði biskupanna í Skálholti og á Hólum um fjárreiður og eignir Mýrakirkju en stríð þetta hafði þá staðið í 14 ár.

Gizur biskup átti að vísu enn í útistöðum við Bjarna Narfason nokkrum árum síðar vegna reikninga Mýrakirkju og af fleiri ástæðum[145] en þá var sá gamli á Hólum laus úr þeim málum.

Hér verður síðar sagt lítið eitt frá sumum þeirra manna sem bjuggu á Mýrum á árunum 1550-1900 en þó mun ráð að gera fyrst nokkra grein fyrir eignum og ítökum bændakirkjunnar þar.

Enginn veit nú hvenær kirkja var fyrst byggð á Mýrum en fullvíst er þó að slík bygging hefur verið reist þar nokkru fyrir lok 12. aldar og máske strax á 11. öld. Kirkju er getið á Mýrum í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 en tvær kirkjur voru þá eins og nú á norðurströnd Dýrafjarðar, önnur á Mýrum og hin á Núpi.[146] Óhætt mun að gera ráð fyrir að kirkjur hafi æ síðan staðið á báðum þessum bæjum.

Elsti máldagi Mýrakirkju sem varðveist hefur í heild er frá árinu 1397, kenndur við Vilkin Hinriksson, danskan mann sem þá var biskup í Skálholti.[147] Í Hítardalsbók er einnig varðveitt brot úr máldaga Mýrakirkju frá árinu 1367 er Oddgeir Þorsteinsson var biskup í Skálholti.[148] Þessum tveimur máldögum ber saman um allt sem máli skiptir en þar er ekki tekið fram hvaða dýrlingi kirkjan á Mýrum var helguð. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, sem átti heima á Höfða í Dýrafirði frá 1873 til 1930, segir að á Mýrum heiti enn í dag Péturshluti þar í túninu sem kirkjan stóð á.[149] Af þessu dregur Sighvatur þá ályktun að kirkjan muni hafa verið helguð Pétri postula[150] og má kalla líklegt að svo hafi verið.

Um eignir, réttindi og ítök Mýrakirkju segir svo í Vilkinsmáldaga:

 

Sá er máldagi Mýralandskirkju að hún á 24 kúgildi og 2 hesta, 20 hundruð í landi …. Kirkja á kaleik og messuserk fornan, hökul og handlín, þrjú altarisklæði, tvo altarisdúka, kertastikur tvær, tvö glóðarker, tjöld um alla kirkju, gref og þélahögg [tvö síðast nefndu tólin munu vera skófla og eins konar haki – innsk. K.Ó.].

Allar fjörunytjar að helmingi frá Haukslæk og til þess er sér mann úr skáladyrum í fjöru í Nesdal að hálfföllnum sjó, fyrir utan reitisöl [um rekaítak þetta sjá hér bls. 14]. Heimil selveiður af Mýrum að öllum hluta sem þeir geta veitt en að fjórðungi ef enginn veiðir þeirra er á [Þarna mun átt við selveiðiréttindi fyrir landi jarða út með norðanverðum Dýrafirði eins og fram kemur í Jarðabókinni frá 1710 – innsk. K.Ó.].

Fimmtán kúgilda höfn í Nesdal, að þriðjungi ískipan í Mjóadal upp frá garðlagi því sem gert er fyrir geldfé. Rétt er stóðhross og svín til ískipanar. [Þarna er átt við beitarrétt á Mjóadal sem er afdalur upp frá Bjarnardal í Önundarfirði – innsk. K.Ó.].

Torfskurður í Garða landi svo mikill sem vill.* Skálagjörð á Fjallanes [þ.e. Fjallaskaga]. Hafa skip í fiski hvort heldur sem vill „sexærtt” eða „áttærtt” [þ.e. áttróið] og taka sjálfur toll af þeim skipverjum ef aðrir róa í skipi en heimamenn. Eiga skála [þ.e. verbúð] ystir og reit á möl.

Nautbeit undan Felli á Nautahjalla og reka svo að feli sýn hinnar síðustu kýr.[151]

 

———————————————————–

* Árið 1695 felldi Þórður Þorláksson biskup þann úrskurð að þarna  væri aðeins átt við húsatorf en ekki eldiviðartorf, það er mó.[152]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nautahjalli sem hér var síðast nefndur liggur nokkuð fyrir utan bæinn á Felli og nær út á Taglið[153] sem er ysti hluti Mýrafells.[154] Auk þess sem hér hefur verið talið getur máldaginn þess að Brigida Böðvarsdóttir hafi gefið Mýrakirkju þrjú hundruð en sú gjöf hafi þó enn ekki verið reidd af höndum.[155] Í þessum sama máldaga frá árinu 1397 er lika tekið fram að á Mýrum sé skylt að hafa prest og ala líkmenn og barnmenn.[156] Svo virðist því sem vissara hafi þótt að taka fram að þeir sem kæmu með lík til greftrunar og börn til skírnar ættu rétt á veitingum heima á kirkjustaðnum. Höfundur máldagans gleymir heldur ekki að geta þess að á eigendum Mýra hvíli sú kvöð að gefa fátækum sem svari tveimur kúgildum á ári[157] (sjá hér bls. 13).

Í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er líka gerð ítarleg grein fyrir eignum og ítökum Mýrakirkju.[158] Fróðlegt er að skoða hvað þá hafði breyst frá árinu 1397 er Vilkinsmáldagi var skráður.

Á þessum um það bil 180 árum hafði kirkjan eignast tvær jarðir, Rekavík bak Höfn í Sléttuhreppi, sem henni var gefin árið 1431 (sjá hér bls. 13), og Fell í Mýrahreppi sem kirkjan eignaðist eigi síðar en árið 1538 (sjá hér bls. 17-18).[159] Í heimajörðinni var eign kirkjunnar sú sama og verið hafði, nefnilega 20 hundruð.[160] Eina jörð eignaðist Mýrakirkja síðar, nánar tiltekið árið 1650, og var það Þaralátursfjörður í Grunnavíkurhreppi (sjá hér bls.28).

Ítök og réttindi sem kirkjan hafði átt árið 1397 voru flest óbreytt 180 árum síðar og má þar nefna rekaréttindin á strandlengjunni frá Haukslæk hjá Alviðru út undir Nesdal,[161] beitarrétt á Nesdal fyrir 15 kúgildi krossmessna á milli, rétt til torfskurðar í landi Meira-Garðs og Minna-Garðs, réttinn til að gera út áttæring frá Fjallaskaga án þess að greiða vertoll og beitarréttindin á Nautahjalla í landi Fells[162] en sú jörð var nú reyndar orðin eign Mýrakirkju. Í Gíslamáldaga er hins vegar ekki minnst á selveiðiréttindin eða beitarrétt á Mjóadal en bæði þessi ítök eru þó talin meðal réttinda kirkjunnar í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710.[163]

Á árunum 1397 til 1710 lögðust Mýrakirkju til ýmis ný ítök í landsgæðum annarra jarða og voru þessi hin helstu:

Hálf Gerðhamrafjara og allar fjörunytjar þar, skógarítak í Botni í Dýrafirði (sjá hér Botn) og tollfrjáls verstaða í landi Minni-Bakka í Skálavík ytri við Djúp.[164] Gerðahamrafjöru og skógarítakið mun kirkjan hafa eignast fyrir 1570 en réttindi sín í Skálavík ekki fyrr en 1650 (sjá hér bls. 28).[165]

Um 1570 er Mýrakirkja sögð eiga 34 kúgildi og tekið fram að kúgildaeignin skiptist jafnt milli sauðfjár og nautgripa.[166] Hrossaeign kirkjunnar var hin sama og verið hafði 1397, það er tvö hross eða nánar tiltekið – einn hestur og ein hestamóðir.[167] Árið 1650 fækkaði kúgildunum hins vegar niður í 10 (sjá hér bls. 28) og sú tala var óbreytt árið 1710.[168]

Af gripum kirkjunnar, tjöldum og klæðum frá árinu 1397 virðist fátt hafa verið eftir á árunum upp úr 1570 enda kominn nýr siður í landið. Kaleikur og glóðarker kynnu þó að hafa verið hin sömu og fyrr. Gripir kirkjunnar, klæði og bækur sem upp eru talin í Gíslamáldaga voru þessi:

 

Þrenn messuklæði, einn sloppur, ein fangalétt kantarakápa, eitt altarisklæði, tveir kaleikar og annar þeirra brákaður, tvær klukkur, ein kórbjalla, glóðarker, járnkall, tveir litlir koparhjálmar, tvær bríkur [þ.e. altaristöflur,K.Ó.], tvær koparpípur, sjö bækur og nokkrar skræður að auk en líka góður grallari.[169]

 

Í Jarðabókinni frá 1710 eru jarðeignir kirkjunnar sagðar vera hinar sömu og hér hafa verið taldar, – það er Rekavík, Fell og Þaralátursfjörður og svo 20 hundruð í heimajörðinni.[170] Árið 1852 voru allar þessar jarðeignir enn í eigu Mýrakirkju eins og sjá má í vísitazíugerð Helga biskups Thordersen frá því ári.[171] Þann 4. ágúst 1896 kom Hallgrímur biskup Sveinsson að Mýrum í vísitazíuferð og þá var bókað að kirkjan héldi sem fyrr eignum og ítökum.[172] Enginn biskup hafði þá komið að Mýrum frá því Helgi Thordersen vísiteraði þar árið 1852, svo óhætt virðist að slá því föstu að Mýrakirkja hafi haldið flestum eða öllum sínum fornu ítökum og öllum þeim jarðeignum sem hér voru nefndar fram undir eða fram yfir aldamótin 1900. Líklegast er að í þeim efnum hafi engin veruleg breyting orðið fyrr en Friðrik Bjarnason, þáverandi óðalsbóndi á Mýrum, afhenti söfnuðinum kirkjuna til eignar 31. desember 1907 en þá fylgdu hvorki jarðeignirnar né ítökin með.[173]

Hér var þess áður getið að margra ára deilum biskupanna í Skálholti og á Hólum um fjárreiður Mýrakirkju og umráð yfir Mýrum hafi lokið árið 1543. Á næstu árum og áratugum áttu eigendur Mýra þó stundum í erjum af ýmsu tagi við fulltrúa Skálholtsstóls sem enn áttu eftir að krefjast eignarhalds á Mýrum.

Bjarni Narfason, sem keypti Mýrar af Jóni Arasyni Hólabiskupi árið 1541 og fékk eignarráð sín þar að fullu viðurkennd tveimur árum síðar, sat sjaldan á friðarstóli. Er hann hafði fest sig í sessi á Mýrum hóf hann brátt málssókn í því skyni að fá viðurkenndan eignarrétt konu sinnar á allmörgum jörðum er hann taldi Ögmund biskup hafa haldið fyrir henni með rangindum og nú voru fallnar undir konung eins og aðrar eignir Ögmundar.[174] Kæra Bjarna var tekin til umfjöllunar af tólf manna dómi er sat á rökstólum að Núpi í Dýrafirði 16. september 1548 en þar varð niðurstaðan sú að vísa málinu til Alþingis.[175] Um lyktir þess þar er ekki kunnugt enda lítið um varðveittar heimildir frá þinginu frá því fyrir 1570 er byrjað var að færa hinar sérstöku Alþingisbækur. Eignirnar sem þarna var deilt um hafa vafalítið verið komnar frá tengdaföður Bjarna, Birni Guðnasyni í Ögri sem að lokum varð að lúta í lægra haldi fyrir kirkjuvaldinu í Skálholti.

Bjarni Narfason á Mýrum hefur andast rétt um 1550 því sumarið 1551 skiptir ekkja hans, Sigríður Björnsdóttir frá Ögri, eignum sínum milli tveggja sona þeirra Bjarna. Við þessi eignaskipti hlaut Þorleifur Bjarnason Mýrar en Björn bróðir hans Kirkjuból í Valþjófsdal og Látur í Mjóafirði við Djúp en þarna er sú jörð enn nefnd Sellátur.[176] Sjálf áskildi Sigríður sér rétt til að dveljast á Mýrum til æviloka og að þar hefði hún þrjú hús til sinna nota, kirkjuskemmu, litlu baðstofu og litlu stofu, svo og annars staðar innan garðs rúman gang hvar henni líkaði.[177] Af orðunum má skilja að þessi dóttir Björns í Ögri hefur engin hornkerling viljað vera. Árið 1559 var Sigríður enn á lífi eins og sjá má í skjali frá 11. ágúst á því ári en þar afsalar Ólöf Björnsdóttir, systir Sigríðar, sér allri arfsvon eftir hana, bæði fyrir sína eigin hönd og barna sinna en viðurkennir einkarétt sona Sigríðar til arfs eftir hana.[178] Ólöf, sem þarna kemur við sögu, var gift Sigfúsi Brúnmannssyni í Hrauni í Keldudal (sjá hér Hraun).

Þorleifur, sonur Bjarna Narfasonar og Sigríðar Björnsdóttur, mun hafa búið alllengi á Mýrum[179] og einnig Bjarni sonur hans sem sagt er að hafi um skeið verið lögsagnari[180] en sonur Bjarna var Brynjólfur Bjarnason í Neðri-Hjarðardal sem hér var áður frá sagt (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Verið gæti að bróðir Bjarna Þorleifssonar hafi einnig búið hér eða a.m.k. átt verulegan hluta af jörðinni því árið 1587 veðsetur Torfi Þorleifsson Magnúsi prúða Jónssyni 25 hundruð í Mýrum.[181] Árið 1618 keypti Jón Magnússon sýslumaður Mýrar af Bjarna Þorleifssyni[182] en Jón var sonur Magnúsar prúða, sá eldri tveggja bræðra sem báður hétu Jón.

Um það leyti sem Jón Magnússon keypti Mýrar fékk hann orðsendingu frá Oddi Einarssyni, biskupi í Skálholti. Þar varaði biskup hann við og hélt því fram að jörðin væri að réttu lagi eign Skálholtskirkju.[183] Þarna hefur Oddur greinilega byggt á dómi prestanna tólf sem upp var kveðinn í júlímánuði árið 1538 (sjá hér bls. 17) en virðist ekki hafa haft í huga þá viðurkenningu á eignarrétti Bjarna Narfasonar sem fulltrúi Skálholtsstóls lét í té haustið 1543 (sjá hér bls. 18-19). Jón Magnússon svaraði orðsendingu Odds biskups með bréfi rituðu 17. maí árið 1619. Allt er það bréf í mjög vinsamlegum tón og kveðst hann fús til að láta kaupin á Mýrum ganga til baka ef Oddur geti sannað með lögmætum hætti að Skálholtskirkja eigi jörðina.[184] Hann kveðst þó vilja fá úr þessu skorið sem allra fyrst og minnir á að síðustu 80 árin hafi kirkjan aldrei verið með neinar kröfur um eignarráð yfir jörðinni.[185] Sumarið 1619 greindi Jón frá kaupum sínum á Mýrum í lögréttu á Alþingi og fór þess þar jafnframt á leit að fulltrúar Skálholtsstóls legðu þegar fram öll sín gögn um Mýrar ef þeir vildu vefengja eignarrétt hans.[186] Í Alþingisbókinni verður ekki séð að Oddur biskup hafi hafst neitt frekar að í þessu máli.

Í bréfinu sem Jón Magnússon lagði fram í lögréttu sumarið 1619 kemur fram að hann greiddi 74 jarðarhundruð fyrir Mýrar og lofaði auk þess að gjalda Mýrakirkju hennar peninga.[187] Í bréfinu segir Jón allt vera í niðurníðslu á Mýrum og kemst þá svo að orði: Sá staður er nær allur við velli, eydd kirkjunnar fé en í órækt komin tún og engjar.[188]

Sé þarna rétt með farið hefur aðkoman verið heldur bágborin er Jón Magnússon kom að Mýrum en í bréfi sínu frá 17. maí 1619 segist hann vera fluttur þangað.[189] Óhætt mun hins vegar að gera ráð fyrir að Jón hafi verið fljótur að reisa staðinn við því hann var hinn mesti skörungur eins og hann átti kyn til.

Enn eru varðveittir á skinnbréfum tveir vitnisburðir um kaup Jóns Magnússonar á Mýrum.[190] Dagsetningu vantar á annan þeirra en hinn er ritaður í Haga á Barðaströnd 22. febrúar 1619.[191] Sá sem þar ber vitni er Steinþór Ormsson,[192] að því er ætla má lögréttumaðurinn með því nafni sem átti heima í Fremri-Gufudal í Gufudalssveit og var tengdasonur Þorláks Einarsson, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði.[193] Í vitnisburðarbréfinu tekur Steinþór fram að hann hafi verið viðstaddur er kaupin á Mýrum fóru fram en um þau segir hann meðal annars þetta:

 

En tilskildi Jón Magnússon þó ekki fengi hann Næfranes í umboð, þá skildi það ei þennan umtalaða kaupskap hindra. Það með heyrði ég hann segja að tollverið á Skaga mætti hann ekki leyfa því aðrir ættu þá jörð.[194]

 

Eins og hér var áður nefnt fluttist Jón Magnússon að Mýrum eigi síðar en vorið 1619 en ljóst er að Bjarni Þorleifsson, sem þá hafði selt honum jörðina, var alls ekki sáttur við niðurstöðuna í viðskiptum þeirra. Þeir Jón og Bjarni virðast hafa átt í ýfingum næstu árin því 25. april 1625 var efnt til sáttafundar á Mýrum til að gera út um ágreining þeirra á milli.[195] Auk deiluaðila mættu til fundarins fulltrúi sýslumanns, þrír prestar og þrír leikmenn.[196] Sáttargerðin sem gengið var frá á þessum fundi var rituð á skinnbréf og hefur varðveist til þessa dags. Jón Sigurðsson forseti, sem eignaðist þetta skinnblað, taldi að skrifarinn hefði verið séra Sveinn Símonarson í Holti.[197]

Í þessari sáttargerð er kveðið á um að Jón Magnússon skuli eignast 50 hundruð í Mýrum en á móti fái Bjarni jarðirnar Breiðaból og Minni-Bakka í Skálavík og einnig Dynjanda í Arnarfirði.[198] Þessar þrjár jarðir voru 85 árum síðar virtar á 48 hundruð samtals[199] svo að hér munar ekki miklu. Á hitt er þó að líta að Jón Magnússon fékk Mýrar til eignar án nokkurra kvaða en hins vegar áskildi hann sér og sínum eftirkomendum rétt til að gera út tollfrítt skip frá Minni-Bakka.[200] Í sáttargerðinni var einnig tekið fram að á Dynjanda skyldi eitt barna Jóns og þess eftirkomendur eiga rétt til nautagöngu fyrir sín eigin naut en þó ekki í meira mæli en svo að landskuld af jörðinni nái að haldast óbreytt.[201]

Er Bjarni Þorleifsson seldi Jóni Magnússyni Mýrar mun hann hafa verið kominn í þó nokkra skuld við kirkjuna. Er gengið var frá sáttargerðinni tók Jón að sér að greiða þær skuldir en fékk í staðinn jörðina Bakka í Brekkudal í Þingeyrarhreppi.[202]

Jón Magnússon var kominn á sextugsaldur er hann festi kaup á Mýrum og hafði þá um langt skeið verið sýslumaður Dalamanna. Því embætti hélt hann til dauðadags árið 1641.

Sama árið og Jón Magnússon var að tryggja sér eignarréttinn á Mýrum með áskorunum til forsvarsmanna Skálholtsstóls ákvað Alþingi að senda hann og þrjá aðra fyrirmenn til Kaupmannahafnar. Erindi þeirra var að vera þar með í ráðum um nýja kaupsetningu eða verðlagsskrá er konungur hugðist lögleiða og gilda átti í öllum viðskiptum danskra kaupmanna hérlendis.[203] Fjórmenningarnir sigldu til Hafnar haustið 1619 og dvöldust þar um veturinn en mun hafa orðið lítið ágengt,[204] enda voru kaupmenn nær allsráðandi við hirðina.[205] Að boði konungs áttu dönsku einokunar-kaupmennirnir að greiða allan kostnað við ferðalag íslensku sendimannanna en Jón Magnússon taldi sig þó ekki hafa fengið greiddan nema einn fjórða hluta af sínum kostnaði.[206] Er í ljós kom að kaupmenn neituðu að borga var ákveðið að leggja sérstakan siglingartoll á alla skattbændur í landinu, fimm álnir á hvern, til að kosta för sendinefndarinnar.[207]

Í kirkjunni á Mýrum eru nú tvær klukkur og á annarri þeirra standa þessi orð: Jón Magnússon hefur látið flytja þessa klukku Anno 1621. Þessi gamla klukka þjónar enn sínu hlutverki við allar athafnir í Mýrakirkju en orðin sem á hana eru letruð sýna að um smíði hennar hefur Jón samið þegar hann dvaldist í Kaupmannahöfn veturinn 1619-1620. Sjálfur mun hann hafa komið til landsins vorið 1620[208] en klukkan ekki fyrr en ári síðar.

Í Árbókum Espólíns er frá því greint að í þessari sömu Danmerkurferð hafi Jón Magnússon fengið staðfesting konungs um eðalmannsstétt Bjarnar hins ríka.[209] Björn ríki Þorleifsson, hirðstjóri á Skarði, var sleginn til riddara árið 1457[210] og gat því kallast aðalsmaður síðustu tíu árin sem hann lifði. Frá Birni ríka var Jón Magnússon sjötti maður því Björn Guðnason í Ögri var langalangafi Jóns en dóttursonur hirðstjórans á Skarði.[211] Þegar Jón sýslumaður á Mýrum gekk á fund Kristjáns konungs IV haustið 1619 voru liðin 152 ár frá því Björn ríki var veginn af Englendingum í Rifi á Snæfellsnesi og má ætla að víða hafa vitneskjan um riddaratign hans verið fallin í gleymsku. Eins og áður var getið fékk Jón á Mýrum litlu áorkað við konungshirðina hvað snerti lagfæringa á verðlagi í viðskiptum Íslendinga við danska einokunarkaupmenn en vera má að fyrir hann hafi það verið nokkur sárabót að fá konunglega staðfestingu á riddaratign forföður síns, gamla hirðstjórans á Skarði. Sú staðfesting nægði þó engan veginn til þess að Jón kæmist sjálfur í flokk með riddurum, greifum og barónum, því formóðirin sem tengdi hann við Björn ríka var laungetin.[212] Í Danaveldi Kristjáns konungs IV gat samt komið sér vel að eiga innan rifja þó ekki væri nema nokkra dropa af bláu blóði útvalinna tignarmanna.

Jón Magnússon, sá sem hér hefur verið frá sagt, mun hafa búið á ýmsum jörðum vestanlands, m.a. í Haga á Barðaströnd og á Reykhólum.[213] Óvíst er hversu lengi hann bjó á Mýrum en sjálfur segist hann vera fluttur þangað vorið 1619 eins og hér var áður getið og tveimur árum síðar fær hann afrit af Gíslamáldaga sent frá Skálholti að Mýrum. Utan á bréfið var ritað: Frómum heiðursmanni Jóni Magnússyni eldra á Mýrum í Dýrafirði, kærlega tilskrifað og sent 1621.[214] Líklega hafa árin sem Jón Magnússon átti heima á Mýrum þó ekki orðið mjög mörg því hann er sagður hafa dáið í Hvammi á Barðaströnd í nóvember 1641.[215] Niðjar hans áttu jörðina hins vegar lengi eftir hans dag og ýmsir þeirra bjuggu þar.

Eitt margra barna Jóns Magnússonar var Halldóra Jónsdóttir er giftist séra Jóni Jónssyni sem prestur var í Holti í Önundarfirði frá 1649 til 1680 og áður aðstoðarprestur þar í nokkur ár. Halldóra hefur áður komið hér við sögu er sagt var frá liðsinni hennar og Brynjólfs Bjarnasonar í Neðri-Hjarðardal við Þuríði Jónsdóttur frá Kirkjubóli í Skutulsfirði er séra Jón Magnússon þumlungur var að reyna að fá Þuríði brennda fyrir galdra (sjá hér Neðri-Hjarðardalur og Holt).

Ljóst virðist að Halldóra hafi erft Mýrar eftir föður sinn, Jón Magnússon, því í vísitazíugerð Brynjólfs Sveinssonar biskups frá árinu 1650 segir að séra Jón Jónsson hafi haldið kirkjuna á Mýrum í átta ár[216] en þá voru einmitt átta ár liðin frá því gerður var kaupmáli milli Halldóru og séra Jóns, fáum mánuðum áður en þau gengu í hjónaband. Nokkrum áratugum síðar var einkadóttir Halldóru og séra Jóns Jónssonar í Holti orðin eigandi Mýra (sjá hér bls. 29-30) svo allt ber þetta að sama brunni.

Er Brynjólfur biskup vísiteraði Mýrakirkju í ágústmánuði árið 1650 gekk hann til samninga við séra Jón í Holti, sem reyndar var bróðursonur hans, um ákveðnar breytingar á eignum og réttindum Mýrakirkju. Kirkjan hafði frá fornu fari átt 20 hundruð í heimajörðinni á Mýrum (sjá hér bls. 20 og 22) og samkvæmt Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 átti Mýrakirkja 34 kúgildi og tvö hross (sjá hér bls. 22). Því fór auðvitað fjarri að jarðarparturinn sem kirkjan átti í Mýrum gæti borið allan þennan gripafjölda og því hlutu kirkjukúgildin að takmarka mjög alla möguleika eigenda jarðarinnar til að nýta sér gæði hennar. Í vísitazíugerðinni frá 1650 sést að þá hafa kirkjukúgildin verið 35 og einn færleikur að auk[217] en þar sést líka að tuttugu árum fyrr hafa verið bornar fram alvarlegar kvartanir yfir þessum mikla gripafjölda sem kirkjan átti á Mýrum. Um þetta segir svo í áðurnefndri vísitazíugerð: Kom nú fram meðkenning 6 manna að kirkjunnar eign á Mýrum bæri varla eða ekki helming af fríðum peningum þeirrar kirkju, daterað 1630, 14. júní að Holti.[218]

Meðan Brynjólfur biskup staldraði við á Mýrum sumarið 1650 gekk hann frá samningum við eiganda jarðarinnar, séra Jón Jónsson frænda sinn í Holti, um að fækka kirkjukúgildunum úr 35 niður í 10.[219] Á móti skuldbatt séra Jón sjálfan sig og síðari eigendur Mýra til að leggja prestinum í Dýrafjarðarþingum árlega til andvirði 160 álna eða 16 fjórðunga smjörs honum til uppihalds svo og að fæða hann og fæða láta í hvert sinn er hann embættaði.[220] Á sama máta samdi Brynjólfur um leið við annan bróðurson sinn, séra Torfa Jónsson, sem með honum var á ferð og nú var nýlega orðinn eigandi að Núpi í Dýrafirði, um að eigendur Núps skyldu ævinlega gjalda prestinum í Dýrafjarðarþingum 80 álnir á ári.[221] Þannig tryggði Brynjólfur viðkomandi sóknarpresti 2 kýrverð í tekjur á ári en það svaraði til nákvæmlega 8% vaxta á ári af andvirði kirkjukúgildanna sem niður voru skorin á Mýrum en þau voru 25 (úr 35 í 10). Þessar tekjur átti presturinn þó ekki að fá ef hann sæti á Mýrum eða Núpi og nytjaði þær jarðir sjálfur að einhverju leyti.[222]

Samningarnir sem hér hefur nú verið sagt frá virðast reyndar hafa verið lengi í undirbúningi og frá a.m.k. einum lið þeirra var gengið að forlagi Jóns sáluga Magnússonar sem legið hafði í gröf sinni í níu ár er hér var komið sögu. Þessi liður laut að kaupum séra Jóns Jónssonar á 14 þeirra 25 kúgilda sem ákveðið var að fækka um hjá kirkjunni. Um þau kaup segir svo í vísitazíugerðinni frá 1650:

 

Játaði nú séra Jón Jónsson eftir forlagi Jóns sáluga Magnússonar … kirkjunni á Mýrum til æfinlegrar eignar jörðina Þaralátursfjörð, 6 hundruð að dýrleika fyrir 9 kúgildi. Frí tollver fyrir áttært skip með öllum vergögnum, ristu, stungu, búðargjörð og því öðru sem nauðsynlega með þarf í Skálavík á Minni-Bakka landi fyrir 5 kúgildi.[223]

 

Með þessum hætti komst jörðin Þaralátursfjörður í Grunnavíkurhreppi í eigu Mýrakirkju. Var það þriðja jörðin sem kirkjan eignaðist og eru þá ekki talin með þau 20 hundruð sem hún átti í heimajörðinni á Mýrum. Þaralátursfjörður er í Jarðabókinni frá 1710 sagður vera forn eyðijörð, 6 hundruð að dýrleika[224] svo ekki virðist nú Mýrakirkja hafa hagnast á þessum viðskiptum. Hinar jarðirnar sem Mýrakirkja átti voru Fell í Dýrafirði sem var 12 hundraða jörð og Rekavík bak Höfn í Sléttuhreppi sem yfirleitt var metin á 4 hundruð (sjá hér bls. 13 og 21). Samtals átti kirkjan því 42 hundruð í jörð er gengið hafði verið frá kaupunum á Þaralátursfirði. Allar þessar jarðeignir voru enn i eigu kirkjunnar í kringum aldamótin 1900 (sjá hér bls. 22).

Séra Jón Jónsson í Holti andaðist árið 1680 og mun ekkja hans, Halldóra Jónsdóttir, þá hafa flust á eignarjörð sína Mýrar því þangað er hún sannanlega komin árið 1681 og stendur þá fyrir búi á Mýrum.[225] Halldóra dó árið 1688[226] og mun hafa búið á Mýrum síðustu átta árin.

Er Halldóra fluttist að Mýrum voru meira en tuttugu ár liðin frá því hún skaut skjólshúsi yfir Þuríði Jónsdóttur frá Kirkjubóli í Skutulsfirði sem séra Jón þumlungur vildi fá dæmda á bál fyrir galdra (sjá hér bls. Holt). Um 1680 var galdratrúin komin á undanhald en lifði þó víða enn eins og skýrt kemur fram í máli Gísla Árnasonar sem húðstrýktur var á Mýrum fyrir eiðfall fyrir galdra árið 1683.[227] Ekki er nú kunnugt um hvort kvenskörungurinn Halldóra, sem þá bjó á Mýrum, hefur haft einhver afskipti af þessu galdramáli en í Alþingisbókunum má sjá að það var kona að nafni Vilborg Ísleifsdóttir sem bar sakir á Gísla.[228] Bæði hafa þau, Vilborg og Gísli, að líkindum búið í Mýrahreppi en ekki kemur fram á hvaða bæ eða bæjum þau áttu heima.

Árið 1680 kom mál Gísla Árnasonar fyrst til kasta Alþingis við Öxará. Honum var þá dæmdur réttur til að hreinsa sig af galdraáburðinum með tylftareiði og tekið fram að eiðamennina yrði hann að útvega sér innan hrepps, þar hann er búandi, eður og í næstu tveimur sveitum, ef sökum skyldsemi um nauðsynja kann, en ekki víðar ….[229]

Er á reyndi tókst Gísla ekki að fá tólf menn til að sverja sakleysi sitt, fimm hinn tilkvöddu vitna töldu honum eiðinn særan en fjögur vitni voru í þeim efnum á öndverðum meið.[230] Er þessi niðurstaða lá fyrir kom mál Gísla aftur til kasta lögréttunnar sem 30. júní 1682 dæmdi hann til að straffast með alvarlegri húðlátsrefsingu, sem næst gangi lífi, eftir forsvaranlegri temprun og tilsjón lögsagnara ….[231]

Ári síðar var Gísli hýddur á Mýraþingi eins og frá er greint í Eyrarannál og mátti víst heita góður að sleppa með þá refsingu því sama árið var Sveinn Árnason brenndur í Arngerðareyrarskógi fyrir galdra[232] en hann var nú reyndar síðasti galdramaðurinn sem brenndur var á landi hér.[233]

Séra Jón Jónsson í Holti og Halldóra Jónsdóttir kona hans er síðast bjó á Mýrum áttu aðeins eitt barn sem upp komst, dótturina Ástríði sem fædd var um 1645 því hún er sögð 58 ára gömul í manntalinu sem tekið var árið 1703.[234] Ástríður gekk árið 1662 að eiga Magnús Jónsson, bónda og fræðimann í Vigur, sem kallaður var digri en skildi við hann þrettán árum síðar. Fullvíst má telja að hún hafi erft Mýrar við andlát foreldra sinna og þar bjó hún ásamt móður sinni árið 1681.[235] Þar bjó hún líka 1686,[236] 1703[237] og 1710,[238] og er því líklegast að hún hafi jafnan átt heima á Mýrum frá því hún fluttist þangað um 1680 og þar til hún andaðist 1719.

Með Magnúsi digra í Vigur eignaðist Ástríður tvær dætur, Þorbjörgu sem giftist Páli lögmanni Vídalín og Kristínu sem gekk að eiga Snæbjörn Pálsson er síðar var löngum nefndur Mála-Snæbjörn. Þær Þorbjörg og Kristín voru einu börnin sem Ástríður eignaðist og árið 1710 eru þær, önnur eða báðar, sagðar eiga 45 hundruð í Mýrum og Lækjarós að auk, sem var metinn á 15 hundruð, en Mýrakirkja átti þá enn sem fyrr 20 hundruð í heimajörðinni.[239] Samtals áttu Ástríður á Mýrum og dætur hennar nær tvö hundruð hundraða í jarðeignum innan Ísafjarðarsýslu árið 1710 og voru því í hópi stærstu jarðeigenda þar.[240] Ekki hefur verið kannað hvaða jarðeignir þær kunna að hafa átt í öðrum sýslum en í Ísafjarðarsýslu voru eignirnar þessar: Mýrar 45 hundruð, Lækjarós 15 hundruð, Höfði í Dýrafirði 12 hundruð (jarðarpartur), Hjarðardalur innri í Önundarfirði 18 hundruð, Botn í Súgandafirði 24 hundruð, Ögur 24 hundruð, Vigur 24 hundruð, Blámýrar í Ögursveit 12 hundruð, Smiðjuvík á Hornströndum 3 hundruð.[241] Hér sýnist eðlilegt að telja með þá einu jarðeign sem eiginmenn systranna áttu saman því ætla má að hún hafi líka verið úr jarðasafni Ástríðar og dætra hennar en jörð þessi var Eyri í Skötufirði, 18 hundruð.[242]

Þorbjörg Magnúsdóttir á Mýrum giftist Páli Vídalín, síðar lögmanni, árið 1696 en Kristín systir hennar gekk að eiga Snæbjörn Pálsson árið 1706.[243] Sé giftingarárið rétt hefur elsta barn þeirra, Magnús er varð prestur á Söndum, fæðst fyrir hjónaband því sjálfur hefur Mála-Snæbjörn skrifað í annálsgrein við árið 1705: Fæddist Magnús Snæbjörnsson, dag 16. decembris um dagsetur, þá rétt fullt tungl.[244] Er Snæbjörn kvæntist var hann tæplega þrítugur að aldri og mun þá þegar hafa tekið við búsforráðum á Mýrum af Ástríði tengdamóður sinni. Árið 1710 er það hann sem er skrifaður fyrir búinu og býr á 30 hundruðum úr Mýrum en Ástríður vermóðir hans eins og hún er nefnd er þar hjá honum og kvikfénaður þeirra talinn fram sameiginlega.[245] Bústofninn hjá Snæbirni og gömlu konunni var þá þessi: 4 kýr, 2 kvígur veturgamlar geldar, 2 kálfar, 31 ær, 27 sauðir gamlir, 8 þrevetrir, 11 tvævetrir, 16 veturgamlir, 31 lamb og 3 hestar.[246] Alls hafa sauðirnir verið yfir 60 og hafa mátt kallast fóturinn undir búinu. Þetta ár, 1710, bjuggu tveir aðrir bændur á Mýrum, annar þeirra í hjáleigunni Mýrahúsum,[247] en hér er á öðrum stað sagt lítið eitt frá hjáleigum og afbýlum í landi Mýra (sjá bls. 49-53).

Ekki er alveg ljóst hversu lengi Mála-Snæbjörn bjó á Mýrum en hann mun hafa flust þaðan að Sæbóli á Ingjaldssandi 1721 eða 1722.[248]

Um Mála-Snæbjörn mætti rita heila bók en hér verður sá kostur tekinn að segja lítillega frá þessum merkilega lögkrókamanni þegar komið verður að Sæbóli á Ingjaldssandi en þar bjó Snæbjörn mun lengur en á Mýrum og síðast var hann á Álfadal á Ingjaldssandi. Þess skal þó getið strax að Snæbjörn var sonur Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi (sjá hér Núpur) og þar mun hann hafa alist upp.

Mála-Snæbjörn og Kristín Magnúsdóttir, kona hans, eignuðust þrjá syni og eina dóttur. Tveir elstu synir þeirra, Magnús og Markús, fengu Mýrar í arf eftir móður sína.[249] Magnús varð prestur á Söndum í Dýrafirði en Markús var lengst prestur í Flatey á Breiðafirði. Árið 1771 lét séra Magnús sinn hlut í Mýrum í hendur Þorkötlu dóttur sinnar og eiginmanns hennar, séra Jóns Ásgeirssonar sem þá var aðstoðarprestur á Mýrum.[250] Á fyrstu árum 19. aldar keypti séra Jón Ásgeirsson hina hálflenduna á Mýrum af frændum konu sinnar, niðjum séra Markúsar í Flatey.[251] Séra Jón andaðist 9. júní 1810 og hafði þá verið prestur í Holti í Önundarfirði í 13 ár. Síðar á sama ári seldu ekkja hans, Þorkatla Magnúsdóttir, og Ásgeir sonur þeirra Mýrar (sjá hér bls. 46 og 53) sem þá höfðu verið í eigu sömu ættar í 192 ár, allt frá því Jón Magnússon keypti jörðina árið 1618 (sjá hér bls. 23-25). Ekkjan Þorkatla sem seldi Mýrar 1810 var móðuramma Jóns Sigurðssonar forseta.

Hér hefur áður verið minnst á kirkjuna á Mýrum og eignir hennar á fyrri tíð (sjá bls.19-22) en á Mýrum hefur nú staðið kirkja í a.m.k. átta aldir.[252] Á síðari öldum voru þrjár sóknarkirkjur í Dýrafjarðarþingum, á Mýrum, Núpi og Sæbóli, og í heimild frá miðri 19. öld segir að á Mýrum eigi prestur að messa annan hvern helgan dag en fjórða hvern á Núpi og á Sæbóli.[253] Eftir siðaskipti um miðja 16. öld sátu prestar þó aldrei á Mýrum svo kunnugt sé fyrr en séra Bjarni Jónsson hóf þar búskap vorið 1723. Frá 1723-1797 sátu sóknarprestarnir í Dýrafjarðarþingum hins vegar jafnan á Mýrum og á fyrstu árum 19. aldar bjuggu tveir prestar þar um stuttan tíma.[254]

Séra Bjarni Jónsson sem fyrstur presta á síðari öldum settist að á Mýrum var bóndasonur frá Hrauni á Ingjaldssandi, fæddur um 1687. Hann tók prestvígslu 1. nóv. 1722[255] og mun hafa hafið búskap á Mýrum vorið 1723. Bjó hann þar síðan og þjónaði sínu prestsembætti til dauðadags en séra Bjarni andaðist á jóladag árið 1757.[256]

Ludvig Harboe sem kannaði þekkingu og starfshæfni íslenskra presta á árunum 1742-1745 segir um séra Bjarna á Mýrum að hann sé gamall, ólærður og einfaldur.[257] Sighvatur Borgfirðingur segir aftur á móti að samtímamenn þessa einfalda prests hafi látið mikið af gáfum hans og náttúruskynsemi.[258] Eins og þá var títt varð séra Bjarni að sinna öllum almennun störfum á sjó og landi auk prestsverkanna og var meðal annars formaður á bát.[259] Er hann var við sjóróðra fann hann þó að sögn á sér ef hans var vitjað heima til einhverra embættisverka og skipaði þá hásetum sínum að róa í land.[260] Séra Bjarni á Mýrum þótti mjög góður göngumaður og hafði aldrei hest á járnum að vetrinum en gekk um sóknir sínar, allar þrjár.[261] Þessum sið hélt hann fram á elliár.[262]

Mála-Snæbjörn var jafnan eitt sóknarbarna séra Bjarna og gerði honum margt til bölvunar. Svo langt gekk Snæbjörn í þessum erjum að prestur fékk ekki að embætta óáreittur í Mýrakirkju. Snæbjörn þuldi þar á móti honum með sinni sterku rödd og er séra Bjarni stóð í stólnum gekk Snæbjörn aftan að honum og kippti í rykkilínið í tvær reisur. Fyrir þetta og fleira þvílíkt var Snæbjörn dæmdur á Brimarhólm þó ríkismaður væri. (sjá hér Sæból).

Í sínu einkalífi átti séra Bjarni Jónsson líka andstreymi að mæta. Kona hans, sem Þuríður hét Magnúsdóttir og var norðan úr Eyjafirði, missti vitið og Sighvatur Borgfirðingur segir að börn þeirra sem voru mörg hafi flest líka orðið vitstola.[263]

Haustið 1749 vísiteraði Ólafur biskup Gíslason á Mýrum. Hann hitti þá séra Bjarna og skoðaði kirkjuna þar sem Mála-Snæbjörn hafði leikið lausum hala og haft í frammi hrekki sína við prestinn á árunum kringum 1725. Kirkjan hafði að vísu verið endurbyggð skömmu eftir 1740[264] en ætla má að útlit hennar hafi í aðalatriðum verið hið sama og þegar Snæbjörn lét þar mest til sín taka. Mýrakirkju og gripum hennar lýsir Ólafur biskup svo:

 

Kirkjan sjálf er í sjö stafgólfum, öll undir súð, alþiljuð umhverfis nema að nokkru leyti í þremur stafgólfum sunnan fram. Tvöfalt þil að bakatil með vindskeiðum yfir en einfalt að framan undir bita en tvöfalt að ofan og vantar þó þar til lítið stykki. Hurð á járnum með hespu, keng og vænum koparhring, samt öðrum dyraumbúningi. Langbekkir fóðraðir í kórnum item að sunnan í framkirkju. Fjalagólf er í mest allri kirkjunni. Kór er afdeildur með dróttum, dyrastöfum, þiljum, þverslám og pílárum. Þrír glergluggar á kórbaki, einn með sex, tveir með níu rúðum hver, allir heilir. Einn er framan á kirkju, lappaður og gamall. Norðan til í kirkjunni er kvensæti með bríkum, bakslám og pílárum. Kirkjan er vel standandi að veggjum og viðum það á má sjá.

Hin önnur Ornamenta et Instrumenta eru þessi: Altari sæmilegt með gráðu. Predikunarstóll, einnig sæmilegur. Yfir altari er gömul tafla með úthöggnum myndum. Önnur yfir kvennasæti. Hökull af bláofnu silkitaui með baldíruðum krossi, fóðraður með bláu lérefti. Annar af rauðþrykktu kartúni með óekta vírkrossi, fóðrið er rautt léreft. Þriðji af blómuðu silkitaui og krossi, mjög gamall, fóðraður með rönduðum tvinnadúk. Fjórði af rauðleitum tvinnadúk með karbættu fóðri, skrifast úr. Honum fylgir rykkilín af stóru lérefti, ogsvo mikið gamalt, sem einnig fráskrifast. Til eru þrjú önnur rykkilín, tvö af þeim væn og vel sæmileg, það þriðja er víst nokkuð bætt en þó brúkanlegt. …

Vænn silfurkaleikur með patínu af sama, gylltur innan, annar af sama, einnig patínan, einnig nýr. Korporalisklútar tveir, annar gamall hinn í saumaður. Skírnarmundlaug af messing. Lítill koparhjálmur í kórnum með fimm liljum, vantar pípuna á eina. Annar í framkirkjunni með tólf liljum, vænn. Þrjár klukkur heilar og hljóðgóðar, fjórða kórbjalla. Tvær vænar koparpípur á altari, aðrar tvær af tini, þriðju tvær drifnar af látúni. Bakstursjárn gömul. Tveir járnkallar, báðir brúkanlegir. Biblía prioris edit, tekur til að lasnast. Tvö líkneski af alabastur, skriftastóll, grallari og guðspjallabók, Nýja testamenti, ultimæ edit. Ljósberi af blikki og horni. Tvær skrúðakistur og pálkorn, item tvær rekur.[265]

 

Eins og áður sagði andaðist séra Bjarni Jónsson á Mýrum á jólum 1757, liðlega sjötugur að aldri. Fáum mánuðum síðar voru Gísla Bjarnasyni veitt Dýrafjarðarþing. Tók hann þá prestvígslu, hálfsextugur að aldri, en hafði síðustu árin verið bóndi á Hrófbergi við Steingrímsfjörð. Séra Gísli settist að á Mýrum vorið 1758 og bjó þar í átta ár uns hann hafði brauðaskipti við séra Ásgeir Bjarnason á Stað í Súgandafirði. Frá séra Gísla verður sagt er við komum að Stað.

Séra Ásgeir tók við prestsþjónustu í Dýrafjarðarþingum vorið 1766 og fór þá að búa á Mýrum. Hann var 63ja ára gamall er hann kom að Mýrum og hafði verið prestur í Ögurþingum í 30 ár og síðan þrjú ár í Súgandafirði. Dýrfirðingum þjónaði hann í sex ár en andaðist að áliðnu sumri árið 1772. Sighvatur Borgfirðingur segir um séra Ásgeir að hann hafi verið stilltur, siðlátur … skrifari góður og mikill fróðleiksmaður.[266]

Fáum mánuðum eftir að séra Ásgeir kom að Mýrum var Jón sonur hans vígður aðstoðarprestur föður síns, þann 3. ágúst 1766. Hann var þá 26 ára að aldri. Séra Jón var aðstoðarprestur í sex ár og tók síðan við brauðinu er séra Ásgeir dó. Árið 1783 voru séra Jóni veittir Sandar og hafði hann þá verið prestur eða aðstoðarprestur í Dýrafjarðarþingum í 17 ár og búið allan þann tíma á Mýrum. Árið 1770 kvæntist hann Þorkötlu, dóttur séra Magnúsar Snæbjörnssonar á Söndum, sonardóttur Mála-Snæbjarnar. Þorkatla var einkabarn föður síns og átti því von á að erfa Mýrar (sjá hér bls. 31). Séra Jón Ásgeirsson var prestur á Söndum í þrettán ár og síðan í Holti í Önundarfirði til æviloka. Hér hefur áður verið lítillega frá honum sagt (sjá hér Rafnseyri og Sandar og Þingeyri) en nánar verður séra Jóns getið þegar við komum að Holti (sjá hér Holt).

Séra Jón Ásgeirsson og Þorkatla kona hans voru foreldrar Þórdísar, móður Jóns forseta, og var hún fædd á Mýrum 1771 eða 1772 (sjá hér Rafnseyri). Séra Jóni voru veittir Sandar 16. maí 1783 og má ætla að hann hafi flutt sig yfir fjörðinn þá um sumarið. Dýrafjarðarþingum varð hann þó að þjóna eitt ár í viðbót, og þá frá Söndum, því eftirmaður hans komst ekki til brauðs síns fyrr en sumarið 1784.[267]

Þremur dögum áður en séra Jóni var veitt Sandaprestakall fórst bátur sem hann átti með sjö mönnum á heimleið úr fiskiróðri.[268] Báturinn hefur að líkindum verið gerður út frá Fjallaskaga en ekki er nú kunnugt hvort séra Jón Ásgeirsson muni sjálfur hafa stundað sjóróðra. Um bátstapann 13. maí 1783 segir svo í Djáknaannálum:

 

Þrettánda sama mánaðar [þ.e. maí] skiptapi í Dýrafirði með sjö mönnum í ófæru veðri á heimsiglingu frá fiskimiðum. Hvolfdi undir þeim skipinu með seglinu. Átti það síra Jón Ásgeirsson á Mýrum. Fóru á því tveir hans vinnumenn ógiftir og fimm menn giftir. Urðu þar þá 20 börn föðurlaus.[269]

 

Bágt hefur verið fyrir séra Jón að flytjast brott frá sóknarbörnum sínum við þessar aðstæður en um það leyti sem hann færði sig yfir Dýrafjörð, – í júnímánuði árið 1783, dundu reyndar sjálf Móðuharðindin yfir og náðu brátt til allra landsmanna. Varð þá margur að súpa hel sem áður lifði í lukkunnar velstandi.

Í Landsbókasafni er varðveitt lítið kver með dagbók séra Jóns Ásgeirssonar á Mýrum og nær yfir árin 1774-1780.[270] Flesta daga hefur prestur skrifað eina línu í dagbókina, stundum tvær en sjaldan fleiri. Kverið er lítt skert. Þó að orðin séu ekki mörg geymir dagbókin margvíslegan fróðleik, bæði um veðurfar og daglegar athafnir prestsins við embættisstörf hans og búsumstang. Hér verða nú dregin fram nokkur sýnishorn.

Vorið 1774 skrifar séra Jón meðal annars þetta:

 

 1. maí. Allra mesta stórkafald með harðviðri og fannkomu. Sandmenn sátu hér.
 2. maí. Birti upp, fór ég að Gemlufalli og Læk.
 3. maí. Fór ég í kaupstað og Bjarni til vinnu.
 4. maí. Messað á Núpi. Communic. 28 [það er altaris-göngufólk – innsk. K.Ó.].
 5. maí. Komu hollenskir …
 6. maí. Fór ég út á Sand í góðu veðri.
 7. maí. Þjónustaði Guðrúnu á Birnustöðum … og kom heim.

 

Í síðustu viku maímánaðar árið 1776 skráir séra Jón þetta í dagbókina:

 

 1. maí, hvítasunnudagur. Messaði ég á Núpi. Comm. 38. Ferðaðist Þorkatla með einnig.
 2. maí. Norðan vindur. Messaði aftur á Núpi. Comm. 39. Fór ég að Birnustöðum um kvöldið. Lét lesa þar og þjónustaði Guðrúnu Bjarnadóttur. Kom til baka að Arnarnesi.
 3. maí. Var ég þar. Gjörði síðan húsvitjun á Gerðhömrum og komst heim.
 4. maí. Fór ég til framandi þjóða. Norðan fjúkhjaldur.

 

Um Jónsmessuleytið árið 1777 ritar prestur þetta:

 

 1. júní. Messaði ég á Sæbóli. Söng yfir barni Jóns eldra undir Hálsi. Kom heim.
 2. júní. Utan vindur og sólskin. … Kom Gróa í Meðaldal og fór að Holti. Vísiteraðar Hukourtene.
 3. júní. Sjómenn úteftir. Ég inn í fjörð á bát. Gissur á Núpi með Ragnheiði á Sand með nautið. Skírt barn Gissurs í Garði.

 

Dagbókarskrifin sem hér hafa verið birt sýna meðal annars að presturinn á Mýrum bregður sér stundum um borð í erlend fiskiskip á Dýrafirði, líklega frönsk eða hollensk. Hann segist þá fara til framandi þjóða eða vísitera húkkorturnar. Setningin sjómenn útefir merkir vafalaust að vermenn sem skroppið hafa heim frá Skaga hafi haldið þangað á ný.

Í septembermánuði árið 1779 fór séra Jón norður að Ögri en í Ögurþingum var hann fæddur og þar hafði hann átt heima hjá foreldrum sínum fram yfir tvítugsaldur, síðast í Ögri.[271] Þegar Jón prestur á Mýrum kom að Ögri haustið 1779 bjó þar Sigurður Ólafsson mágur hans sem átti Sigríði Ásgeirsdóttur, systur séra Jóns, fyrir konu.[272]

Um ferð sína að Ögri árið 1779 ritar séra Jón Ásgeirsson þessi orð í dagbókina:

 

 1. september. Hægð og sólskin, síðan hafvindur. Fór ég yfir í kaupstað og síðan að Botni.
 2. sept. Þaðan og í Ögur í góðu veðri.
 3. sept. Gott veður. Var þar kyrr.
 4. sept. Gott veður. Var ennþá kyrr.
 5. sept. Messaði ég í Ögri. Ágætt veður.
 6. og 14. sept. Eins. Fór ég að Hvítanesi.
 7. sept. Komst ég heim í austan stórviðri.

 

Á einum stað í dagbók séra Jóns Ásgeirssonar er erfitt að greina á milli ára en þó mun óhætt að fullyrða að öll dagbókarskrifin sem hér um ræðir séu frá tímabilinu 1774-1780. Eitt þessara ára skrifar prestur meðal annars þetta í dagbók sína í júlímánuði:

 

 1. júlí. Gjörðum við Jón Pálsson upp selið.
 2. júlí. Flutt í selið.
 3. júlí. Komu sjómenn heim aftaninn.
 4. júlí. Afkvistuðu og kurluðu Jón Þs. og Árni.
 5. júlí. Skorinn seinast eldiviður.
 6. júlí. Skorinn eldiviður fyrir prófastinn. Komu kolamenn frá Ísafjarðardjúpi.
 7. júlí. Byrjaði Jón Þorgeirsson slátt sextánda.
 8. júlí. Hirt hey í fyrsta sinn.

 

Í þessum fáorðu fréttaskeytum frá nokkrum sumardögum skömmu fyrir 1780 sjáum við að séra Jón hefur verið með búsmala sinn í seli og að flutt var í selið 4. júlí. Úr öðrum heimildum er kunnugt að seljabúskapur hvarf ekki endanlega úr sögunni á Mýrum fyrr en eftir 1840 (sjá hér bls. 3). Stórmerkileg eru orð séra Jóns á Mýrum um komu kolamanna frá Ísafjarðardjúpi í Dýrafjörð þann 12. júlí. Þau sýna að um 1780 hafi fleiri eða færri Djúpmenn fengið að gera til kola í skógum Dýrafjarðar, að líkindum í Dýrafjarðarbotni eða á Lambadalshlíð (sjá hér Botn í Dýrafirði og Innri-Lambadalur). Ætla má að skógur hafi þá verið algerlega þrotinn víðast hvar í Djúpinu en í Hestfirði hlýtur þó að hafa verið mikið um skógarkjarr ekki síður en nú. Einhverjir Djúpmenn hafa þó orðið að leita vestur yfir Glámu til að komast í skóg þar sem þeir gætu gert til kola, máske í Mýrahvolfi, þar sem séra Jón á Mýrum hafði umráð yfir skógarteig skammt utan við bæinn í Botni í Dýrafirði (sjá hér Botn).

Kolatunnurnar hafa Djúpmenn orðið að flytja heim á leið á hestum yfir Glámu eða Hestfjarðarheiði og máske síðan á bátum norður yfir Djúp. Var það langur vegur en til samanburðar má hafa í huga að á 18. öld fluttu bændur í Þingvallasveit viðarkol heiman frá sér á Suðurnes og seldu þar.[273] Þeir sem umráð höfðu yfir skógi og leyfðu öðrum að gera þar til kola munu yfirleitt hafa tekið 5 álnir (eitt lambsfóður) fyrir hvern hestburð af kolum sem fluttur var á brott.[274] Í viðskiptum manna á milli var kolatunnan seld á 5 eða 6 álnir en á hærra verði ef þurft hafði að flytja hana um langan veg til kaupandans.[275] Ekkert bændaheimili á 18. öld gat látið vera að afla sér viðarkola því án þeirra var ekki hægt að smíða ljái og dengja þá til daglegs brúks um sláttinn. Í þessum efnum varð engin breyting fyrr en skosku ljáirnir fóru að flytjast til landsins á árunum um og upp úr 1870.[276]

Margt fleira mætti tína til úr dagbók séra Jóns Ásgeirssonar á Mýrum en hér verður þó staðar numið. Þess verður hins vegar að geta að í sömu skrifkompu skráir prestur upplýsingar um smjörgjöld sem hann fær í hendur, sitt af hverju um útgjöld sín og það sem ekki er síður athyglisvert, nöfn á bókum sem hann lánar út og hverjum lánað er.[277] Útlánaskrárnar virðist prestur hafa byrjað að færa inn í kverið eitthvað seinna en sjálfa dagbókina en aftur á móti ná þessar bókaskrár alveg fram til ársins 1785 þó að dagbókin endi 1780.[278] Þarna er að finna nöfn á nær 100 bókum sem presturinn á Mýrum hefur lánað lærðum og leikum út um alla Vestur-Ísafjarðarsýslu, frá Arnarfirði til Súgandafjarðar, og líka norður í Álftafjörð.[279] Í bókaskránum kennir margra grasa. Þar eru bæði prentaðar bækur og handrit. Flest eru ritin innlend en líka dálítið um latínubækur og bækur á dönsku máli. Bókanöfnin er oftast auðvelt að lesa en sumt er þó torlesið því skammstafanir eru til bölvunar á stöku stað og letrið máð af elli.

Gera má ráð fyrir að ýmsir lærdómsmenn á síðari hluta 18. aldar hafi lánað út bækur en um slíkt er þó harla lítið vitað og af þeim ástæðum eru þessar bókaskrár séra Jóns býsna merkilegar. Bækur sínar lánaði hann flestum eða öllum prestunum sem þá þjónuðu í Vestur-Ísafjarðarsýslu en líka Henkel kaupmanni á Þingeyri og svo sléttum bændum og öðru búaliði.[280] Úr hópi almúgafólks sem fékk lánaðar bækur á Mýrum má nefna Guðrúnu í Glóru, Ásbjörn á Dröngum, Bjarna Brynjólfsson á Suðureyri í Súgandafirði og Sumarliða Þorvaldsson á Sveinseyri[281] en dóttir hans Gunnhildur, sem drukknaði upp við landsteina 24. ágúst 1793, varð um langan aldur frægasti draugur í Vestur-Ísafjarðarsýslu (sjá hér Sveinseyri). Í því skyni að gefa svolitla hugmynd um bókakost séra Jóns Ásgeirssonar á þeim árum sem hann bjó á Mýrum verða taldar hér upp nokkrar þeirra bóka sem hann lánaði sýslungum sínum á árunum kringum 1780 og reynt að gera örlitla grein fyrir sumum þeirra. Allar skýringar sem varða einstakar bækur eru sóttar í kunn uppsláttarrit en ekki verður hirt um að geta heimilda við hverja bók.

Fyrst verða talin hér nokkur íslensk fornrit og bækur sem þýddar voru fyrir 1300 er séra Jón átti og lánaði út og skulu þessi nefnd:

 

 1. Njála. Líklega prentaða útgáfan frá 1772.
 2. Laxdæla.
 3. Eyrbyggja.
 4. Hænsna-Þóris saga.
 5. Ljósvetninga saga.
 6. Kormáks saga.
 7. Víga-Skútu saga, öðru nafni Reykdæla saga.
 8. Hrafns saga Sveinbjarnarsonar.
 9. Breta sögur, það er sögur Bretakonunga, samdar á 12. öld en þýddar á íslensku á 13. öld.
 10. Maríu saga, þýdd úr latínu um eða fyrir 1200.
 11. Hryggjarstykki, sjálfstæð konungasaga, rituð af Eiríki Oddssyni á árunum 1150-1170 og fjallar um samtíma-atburði. Talin fyrsta samtímasagan.
 12. Ólafs saga helga.
 13. Ólafs saga Tryggvasonar.
 14. Sverris saga.
 15. Hákonar saga gamla. Hana færði í letur Sturla Þórðarson sagnaritari.
 16. Saga Þiðriks af Bern.
 17. „Kringla”, líklega uppskrift úr elsta handriti Heimskringlu sem um er kunnugt en það handrit var nefnt Kringla og brann 1728.

 

Ætla má að allar þessar 17 bækur hafi verið handrit nema Njála og ef til vill Ólafs saga Tryggvasonar sem var prentuð í Skálholti árið 1689. Hinar bækurnar voru ekki gefnar út á íslensku fyrr en eftir 1785 en sumar konungasögurnar höfðu verið þýddar á dönsku eða sænsku og gefnar út í slíkum þýðingum fyrir þann tíma og Heimskringla var fyrst prentuð á frummálinu árið 1679.

Næst verða talin hér nokkur innlend rit frá 14., 15., 16., 17. og 18. öld sem séra Jón Ásgeirsson átti og lánaði út.

 

 1. Lilja, helgikvæði Eysteins munks Ásgrímssonar.
 2. Krukkspá, spásagnir eignaðar Jóni krukk sem uppi var um 1500 og á fyrri hluta 16. aldar.
 3. Jóns Indíafara „Compend” – og mun vera reisu-bókin sem alkunn er.
 4. Alþingisbækur.
 5. Rímbegla, íslensk ritgerð um tímatal og stjarnvísi en elsta varðveitta brot úr henni er reyndar í handriti frá lokum 12. aldar. Bókin var prentuð í Kaupmanna-höfn árið 1780 og má vera að séra Jón hafi eignast þá útgáfu.
 6. Halldórs Jakobssonar „Tíðsregistur”. Þetta mun vera bókin „Chronologiæ tentamen” eftir Halldór Jakobsson, sýslumann í Strandasýslu, sem prentuð var í Hrappsey árið 1781.
 7. Anatome Blefkeniana, hið kunna rit Arngríms lærða Jónssonar, prentað í Hamborg 1613 (á latínu).
 8. Crymogæa Arngríms lærða Jónssonar, prentuð í Hamborg 1610 (á latínu). Bæði síðasttöldu ritin voru ætluð til kynningar á Íslandi og Íslendingum.
 9. Klasi og Klasbarði. Þetta munu vera kvæði frá 17. öld en í ævisögu sinni talar séra Jón Steingrímsson á Prestsbakka um Orðskviðaklasa og Klasbarða.
 10. Ættartölubók.
 11. Skíðaríma, gömul en ekki prentuð fyrr en 1869. Höfundur ókunnur.
 12. Rollantsrímur. Vitað er um þrjá menn sem ortu rímur með þessu nafni. Einn þeirra var Þórður Magnússon á Strjúgi í Langadal í Húnavatnssýslu en hann var uppi á 16. öld.
 13. Hervararrímur. Þær orti Ásmundur Sæmundsson í Samkomugerði í Eyjafirði á fyrri hluta 17. aldar. Rímurnar voru prentaðar í Hrappsey árið 1777.
 14. Úlfarsrímur. Rímur af Úlfari sterka voru gefnar út í Hrappsey árið 1775. Höfundar þeirra eru Árni Böðvarsson, stúdent á Ökrum á Mýrum, og Þorlákur Guðbrandsson, sýslumaður í norðurhluta Ísafjarðarsýslu, sem síðast bjó í Miðvík í Aðalvík og andaðist í Stórubólu árið 1707. Til eru einnig aðrar Úlfarsrímur ortar af Jóni Jónssyni í Berunesi við Fáskrúðsfjörð, sem fæddur var árið 1639.
 15. Pontusrímur. Þær voru ortar af Magnúsi prúða Jónssyni, sýslumanni í Ögri og síðan í Bæ á Rauðasandi, sem andaðist árið 1591. Tveir aðrir menn bættu síðar við þessar rímur en þær höfðu ekki verið gefnar út á prenti á árunum kringum 1780.
 16. Göngu-Hrólfsrímur. Undir lok 18. aldar voru til tvennar rímur af Göngu-Hrólfi, aðrar þeirra voru eftir ókunnan höfund en hinar orti Jón Helgason „skáldi” sem bjó í Neðri-Lá í Eyrarsveit á Snæfellsnesi.
 17. Kvæðasafn. Óvíst er hvaða ljóðmæli það hefur haft að geyma.
 18. Þorlákskver. Það er „Nokkur ljóðmæli” eftir séra Þorlák Þórarinsson, prest í Möðruvallaklausturs-prestakalli í Eyjafirði, sem drukknaði í Hörgá árið 1773. Kverið var prentað á Hólum árið 1775.
 19. Biskupasögur Skálholtsbiskupa. Það munu vera biskupasögur séra Jóns Halldórssonar í Hítardal, sem andaðist árið 1736. Prentun þeirra hófst ekki fyrr en árið 1903.
 20. „Ævisögu og Barnaflokkur séra Einars Sigurðssonar með víðara”. Ætla má að þetta hafi verið uppskrift úr ritum séra Einars Sigurðssonar skálds í Eydölum sem andaðist á níræðisaldri árið 1626.

 

Í þessum flokki rita munu þær bækur einar hafa verið prentaðar sem hér er nefnt að hafi verið gefnar út fyrir 1785.

Um 1780 var margar íslenskar guðsorðabækur að finna í safni séra Jóns Ásgeirssonar á Mýrum og skulu þessar nefndar.

 

 1. Guðbrandabiblía.
 2. Þorláksbiblía. Um þá bók tekur séra Jón fram að hún sé eign konu sinnar, Þorkötlu Magnúsdóttur.
 3. Pontoppidans sp. Höfundur þessa spurningakvers var Daninn Erik Pontoppidan. Í íslenskri þýðingu var bók þessi nefnd „Sannleiki guðhræðslunnar”. Íslensk þýðing var fyrst prentuð í Kaupmannahöfn árið 1741 en illa tókst til með þá útgáfu og var mjög mikið um villur af ýmsu tagi í bókinni. Hún var því nefnd Rangi-Ponti. Betur gekk árið 1746 þegar barna-lærdómskver þetta var gefið út á íslensku máli í annað sinn.
 4. Vídalínspostilla. Þessi húspostilla Jóns biskups Vídalín var fyrst prentuð á Hólum á árunum 1718-1720.
 5. „Biskups spurningar”. Líklega er þetta bókin „Spurningar út af fræðunum”, sem Jón Árnason, biskup í Skálholti, samdi og var fyrst prentuð í Kaupmannahöfn árið 1722.
 6. Upprisuhugvekjur. Ókunnugt er um höfund.
 7. „Passíupredikanir”. Ekki er alveg víst um hvaða rit er þarna að ræða en einna líklegust er bók Jóns biskups Vídalín „Sjö predikanir af píningarhistoríu” sem fyrst var prentuð á Hólum árið 1722.
 8. „Heptologi Mag. Widalins”. Þetta er bókin „Sjö predikanir út af þeim sjö orðum …” sem fyrst var prentuð á Hólum árið 1716, yfirleitt nefnd „Sjöorðabókin”. Höfundur Jón biskup Vídalín.
 9. Fæðingarsálmar og hugvekjur. Einna líklegast er að þetta sé bókin „Psalterium natale eður fæðingarsaltari” sem fyrst var prentuð á Hólum árið 1747 og síðan endurprentuð ellefu sinnum. Höfundur hennar er séra Gunnlaugur Snorrason, prestur á Helgafelli, sem andaðist á níræðisaldri árið 1796.
 10. „Fyrri partur Joh. Arndt”. Án vafa er þetta ritið „Sannur kristindómur” eftir guðfræðinginn Jóhann Arndt (1555-1621) sem gefið var út á íslensku í tveimur bindum á árunum 1731-1732. Séra Þorleifur Árnason á Kálfafelli þýddi verkið.
 11. „Eintal”. Bók sem séra Jón nefnir svo mun annaðhvort vera „Eintal sálarinnar” eftir Pétur Einarsson, lögréttumann á Ballará, ellegar „Eintal sálarinnar” eftir M. Mollerus í þýðingu Arngríms lærða Jónssonar. Síðarnefnda bókin sem er líklegri var prentuð á Hólum árið 1599 en hin á sama stað árið 1661. Í bók Péturs eru sálmar en í hinni hugvekjur.
 12. „Litla sálmabók”, líklega „Sú litla sálma- og vísnabók”, prentuð á Hólum árið 1757.
 13. Harmonia evangelica. Höfundur þeirrar bókar er Martin Chemnitz, þýskur guðfræðingur sem uppi var á 16. öld. Í íslenskri þýðingu Þórðar biskups Þorlákssonar fékk bókin nafnið „Guðspjallanna samhljóðan” og var gefin út í Skálholti árið 1687.
 14. Föstupredikanir séra Jóns Arasonar. Sú bók heitir „Historia pijnunnar” og var prentuð á Hólum árið 1678. Höfundurinn er séra Jón Arason, prestur í Vatnsfirði, fæddur 1606 og dáinn 1673.
 15. „Lærdómskver litlu Þórdísar”. Ekki er fullvíst hvaða barnalærdómskver þetta hefur verið en „litla Þórdís” er vafalaust dóttir séra Jóns Ásgeirssonar. Hún varð síðar prestsfrú á Rafnseyri og móðir Jóns Sigurðssonar forseta. Þórdís var fædd árið 1771 eða 1772.
 16. Predikanir séra Páls Björnssonar. Þessar predikanir munu aldrei hafa verið prentaðar og séra Jón hefur því átt þær í handriti. Höfundurinn er tvímælalaust séra Páll Björnsson í Selárdal, lærdómsmaðurinn sem varð höfuðfjandi galdramanna á Vestfjörðum. Séra Páll fæddist árið 1621 og andaðist árið 1706. Píningarpredikanir hans eru nú varðveittar í Landsbókasafni.
 17. „Hannesar syrpur tvær”. Líklegt er að þetta sé einnig óprentað predikanasafn en kvæði eða fróðleikur gætu einnig komið til greina. Sú hugmynd er ásækin að þarna muni vera átt við Hannes biskup Finnsson sem var á svipuðum aldri og séra Jón Ásgeirsson en ekki er þó kunnugt um neitt predikanasafn frá hans hendi.

 

Enn hefur ekki verið minnst á latínubækur af erlendum uppruna sem allmargar voru til á Mýrum á árunum kringum 1780. Fáeinar þeirra er skylt að nefna og verða þessar fyrir valinu:

 

 1. „3ja Tom. af Newton” nefnir séra Jón bók sem hann lánaði nágrannapresti árið 1785 og skömmu áður hafði hann lánað „1. Tom. af Newton”. – Latneska orðið tom eða tomus merkir bindi svo prestur er þarna að tala um 1.og 3. bindi af ritverki eftir Newton. Enginn Newton kemur þarna til greina nema hinn heimskunni breski eðlisfræðingur og stærðfræðingur Isaac Newton, fæddur 1642 og dáinn 1727. Verk hans voru gefin út í 5 bindum á árunum 1779-1785 og þau hefur séra Jón eignast þá þegar sem verður að teljast býsna merkilegt.
 2. Donatus, kennslubók í latneskri málfræði, prentuð árið 1733 að forgöngu Jóns Árnasonar biskups. Bók þessi var kennd við þann sem hafði samið hana, Aelius Donatus sem uppi var í Róm á 4. öld eftir Krist.
 3. Colloquia Erasmi. Sú bók mun vera orðskviðasafn hins mikla lærdómsmanns Erasmusar af Rotterdam sem andaðist um sjötugt árið 1536. Fullu nafni heitir bókin „Colloquia familiaria”. Eitt eintak hennar fékk Jón Steingrímsson, síðar prestur á Prestsbakka á Síðu, að gjöf þegar hann var á 18. ári frá Halldóri Brynjólfssyni, biskupi á Hólum.
 4. „Nuptialia Jounges”. Þetta er brúðkaupssiðabók en hver höfundurinn er skal ósagt látið.
 5. Compendium Theologie. Óvíst er hvaða trúfræðirit þetta mun vera.
 6. „Catonis heilræði”. Líklega er þetta bókin „Catonis disticha” en hún hefur að geyma safn af siðaboðum sem hvert um sig eru tvö vísuorð. Rit þetta er talið vera frá 3. eða 4. öld eftir Kristsburð og var notað við skólakennslu á miðöldum. Um höfund eða höfunda er ekki vitað. Bókin var prentuð í Danmörku árið 1657 og í Utrecht í Hollandi bæði 1735 og 1754. Í nýlegri bók sinni „Heimur Hávamála” heldur Hermann Pálsson prófessor því fram að líklegt sé að ýmsir orðskviðir og spakmæli í Hávamálum eigi rætur að rekja til þessa rits.[282]

 

Að lokum verða nefndar hér nokkrar bækur á dönsku máli er séra Jón Ásgeirsson á Mýrum lánaði nágrönnum sínum. Flestar þeirra eru fróðleiksrit af einhverju tagi en sumar þó ætlaðar fyrst og fremst til skemmtunar.

 

 1. Politiske Hofmestre. Ekki hefur verið kannað til hlítar hvað ritverk þetta er.
 2. Opera (Cioprionis), seinna orðið er þó illlæsilegt og er því haft hér innan sviga. Í Danmörku var á 18. öld til bók sem í almúgamunni var yfirleitt nefnd „Biskop Cypriani Bog”. Bókin hefur að geyma margvíslegar töfraformúlur sem talið var að mætti nota til að ná valdi á illum öndum og jafnvel kölska sjálfum. Þar er líka fjöldi frásagna af því hvernig ýmsir prestar og aðrir stríðsmenn drottins náðu að sigra djöfulinn og hans lið. Bókin var talin upprunninn frá Svartaskóla í París. – Líklega er það þessi bók sem séra Jón Ásgeirsson hefur átt.

Sé það ekki hún koma í fljótu bragði helst til álita ritverk Cyprianusar kirkjuföður sem var biskup í Karþagóborg og hálshöggvinn árið 258. Verk hans voru gefin út á 15. öld en líka á 18. öld, – að því er ætla má á latínu.

 1. „Rambach yf. 7 Passion” párar séra Jón í kompu sína og hlýtur að eiga við bókina „Betragtninger over den Korsfæstede Jesu syv sidste Ord … ” sem prentuð var í Kaupmannahöfn árið 1735. Höfundur hennar er Joh. Jacob Rambach sem var prófessor við Sorø Akademi í Danmörku.
 2. „Historia Eccl. Holb.”. Óhætt mun að ganga út frá því að þetta sé „Almindelig Kirkehistorie” eftir danska leikritaskáldið Ludvig Holberg sem árið 1730 var gerður að prófessor í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Bókin kom út árið 1738.
 3. „Aandelig Bönnekiede” nefnir prestur eina bókina og mun það vera „De Bedendes aandlige Kjæde” eftir Hans Jacobsen Hvalsoe (1651-1712) sem var prestur á Fjóni. Þá bók átti líka séra Jón Steingrímsson á Prestsbakka eins og hann getur um í sjálfsævisögu sinni og nefnir „Jakobs Hvalseyjar bænir”. Bók þessi var fyrst prentuð í Kaupmanna-höfn árið 1700.
 4. Fortúnatussaga. Þetta er alþýðleg skemmtisaga sem barst víða um lönd en þar er meðal annars sagt frá kynjaferðum um undraheima og fleiru af svipuðum toga. Sagan var þýdd á dönsku eigi síðar en 1664. (NB. Hubert Seelow, prófessor í Erlangen, segir í fyrirlestri fluttum í Norræna húsinu 14.9.1994 að af þessari sögu séu til þrjár íslenskar þýðingar sú elsta frá árinu 1667.)
 5. Den moralske og politiske Bibel. Upplýsingar vantar um þetta rit.
 6. „Herslebs Almagt udi Afmagt”. Allar líkur benda til að höfundur þessa rits muni vera Peder Hersleb, norskur prestur sem varð Sjálandsbiskup árið 1738. Þó skal tekið fram að bókin er ekki nefnd meðal rita hans í Dansk Biografisk Leksikon en sú upptalning sem þar er að finna mun alls ekki vera tæmandi. Geta má þess að Peder Hersleb var tengdafaðir Ludvigs Harboe sem sendur var frá Danmörku til að rannsaka kristnihald á Íslandi árið 1741 og fór með biskupsvald á Hólum og í Skálholti í nokkur ár.
 7. Von Havens Efterrætninger om Rusland. Þessi bók getur engin önnur verið en „Nye og forbedrede Efterrætninger om det russiske Rige” sem gefin var út í Kaupmannahöfn í tveimur bindum árið 1747. Höfundur verksins er danskur guðfræðingur, Peder von Haven, sem andaðist liðlega fertugur árið 1757.
 8. „Péturs stóra Liv og Levned” nefnir séra Jón Ásgeirsson eina sinna mörgu bóka en ekki hefur verið kannað hvaða rit um Rússakeisarann Pétur mikla þetta muni vera. Tvær síðastnefndu bækurnar sýna óvæntan áhuga klerksins á Mýrum fyrir Rússlandi.
 9. Erichsens Onomastikon léði séra Jón prestinum á Stað í Súgandafirði, séra Þorsteini Þórðarsyni, árið 1785 en svo hétu rit þar sem nöfn og heiti af ýmsu tagi voru flokkuð og leitast við að skýra merkingu þeirra. Ekki er vel ljóst hvaða Erichsen hefur verið höfundur þessa rits.

 

Samtals hafa nú verið taldar hér upp liðlega 70 bækur sem presturinn á Mýrum átti og lánaði fólki í að minnsta kosti sex hreppum á árunum rétt fyrir Móðuharðindin og meðan þrengingarnar sem þeim fylgdu voru að ganga yfir. Auðvelt væri að lengja þennan lista en hér verður þó látið staðar numið. Efni bókanna var býsna margbreytilegt eins og sjá má. Nærri lætur að röskur helmingur þeirra hafi verð prentaður en hitt eru handrit.

Eftirmaður séra Jóns Ásgeirssonar í Dýrafjarðarþingum varð séra Markús Eyjólfsson og var honum veitt brauðið í ágústmánuði árið 1783.[283] Hann var þá aðstoðarprestur í Hvammi í Dölum og komst ekki þaðan vestur í Dýrafjörðinn sökum harðinda fyrr en um Jónsmessu árið 1784.[284] Séra Markús þjónaði Dýrafjarðarþingum í 13 ár, frá 1784-1797 og bjó allan þann tíma á Mýrum.[285] Hann var sá síðasti í samfelldri röð Dýrafjarðarpresta sem allir sátu á Mýrum en eins og séra Jón Ásgeirsson færði séra Markús sig yfir að Söndum strax og hann átti þess kost. Skýringin er að líkindum sú að Sandar hafi verið taldir betra brauð á síðari hluta 18. aldar, enda voru tekjur presta þar metnar á 36 ríkisdali í brauðamatinu frá 1737 en tekjur prestanna í Dýrafjarðarþingum aðeins á 23 ríkisdali.[286] Seinna átti þetta eftir að snúast við. Hér var áður sagt nokkuð frá séra Markúsi Eyjólfssyni (sjá hér Sandar, Hraun og Rafnseyri) en hann komst á níræðisaldur og dó á Rafnseyri, hjá foreldrum Jóns Sigurðssonar forseta, árið 1830 en þar lá hann blindur í kör síðustu árin.

Er séra Markús fluttist frá Mýrum yfir að Söndum vorið 1797 höfðu Dýrafjarðarþing verið veitt séra Jóni Sigurðssyni sem fæddur var árið 1759 og verið hafði aðstoðarprestur í Holti í Önundarfirði. Af einhverjum ástæðum settist séra Jón ekki að á Mýrum þar sem forverar hans höfðu búið síðustu 74 árin en reisti þess í stað bú í Meira-Garði sem er næsta jörð fyrir utan Mýrar. Jón Jónsson Vestmann, beykir, sem áður bjó á Lækjarósi fór þá að búa á Mýrum og bjó hér fram yfir aldamót[287] en árið 1804 færði séra Jón Sigurðsson sig frá Meira-Garði að Mýrum og bjó hér í sjö ár.[288] Síðustu tvö árin sem séra Jón var á Mýrum hafði hann aðstoðarprest sem var séra Markús Þórðarson, síðar á Álftamýri. Séra Markús átti þá líka heima á Mýrum og hafði part af jörðinni til ábúðar[289] en er jörðin var seld árið 1810 urðu báðir prestarnir að víkja þaðan. Séra Jón fór þá aftur að Meira-Garði vorið 1811 og sat þar í 17 ár (sjá hér Meiri-Garður) en séra Markús Þórðarson að Læk þar sem hann bjó sem aðstoðarprestur til ársins 1817 er honum var veitt Álftamýrarprestakall (sjá hér Álftamýri). Frá árinu 1811 hafa prestar aldrei búið á Mýrum en séra Þórður Ólafsson sem var prestur í Dýrafjarðarþingum frá 1887-1904 mun þó hafa dvalist hér sinn fyrsta vetur í prestakallinu.[290]

Sá sem keypti Mýrar árið 1810 var Brynjólfur Hákonarson frá Arnarnesi í Mýrahreppi en hann hafði þá búið í Önundarfirði um nokkurra ára skeið.[291] Hann fluttist að Mýrum vorið 1811 og bjó þar til æviloka. Hér verður síðar sagt nánar frá Brynjólfi og niðjum hans, sem lengi bjuggu á Mýrum, en að sinni skal þess aðeins getið að Brynjólfur byggði strax nýja kirkju á sínu fyrsta búskaparári þar.[292] Kirkjan sem hann reisti árið 1811 var síðasta torfkirkjan á Mýrum en Guðmundur, sonur Brynjólfs, byggði þar timburkirkju árið 1853.[293]

Sú kirkja var 16,5 álnir á lengd og 6,7 álnir á breidd, turnlaus og kostaði 528 og hálfan ríkisdal.[294] Kirkja þessi stóð eins og hinar eldri inni í kirkjugarðinum.[295] Hún var með krossmarki yfir framstafni, bikuð að utan en ómáluð að innan nema predikunarstóll, altari og altarisgrindur.[296] Í Mýrakirkju var fyrst sungið á orgel 2. október 1892 en næstu árin voru sóknarmenn látnir greiða sérstakt orgelgjald til að standa straum af kostnaði við þessa nýbreytni.[297]

Árið 1897 var ný timburkirkja byggð á Mýrum.[298] Timbrið í hana flutti Lauritz Berg, forstjóri hvalveiðistöðvarinnar á Höfðaodda, með sér tilhöggvið frá Noregi er hann kom til Dýrafjarðar 8. mars 1897.[299] Kirkjan sem reist var vorið 1897 stendur enn. Fyrir byggingu hennar stóðu Guðný Guðmundsdóttir Brynjólfssonar, sem þá var ekkja á Mýrum, og Friðrik Bjarnason, mágur Guðnýjar, þá bóndi á Mýrum.[300] Þessi kirkja var reist utan við kirkjugarðinn og kostaði kr. 3.818,02.[301] Í skoðunargerð frá 16. ágúst 1898 segir að aðalkirkjan sé 16 x 12 álnir, kórinn 7 x 7,5 álnir og forkirkjan 4 x 4 álnir.[302]

Kirkjan var vígð 18. júlí 1897 og sama dag fór þar fram hjónavígsla.[303] Brúðhjónin voru Karen Soffie Berg, 19 ára dóttir kapteins Berg, forstöðumanns norsku hvalveiðistöðvarinnar á Höfðaodda, og Jonathan Johnsen, 31 árs ekkjumaður frá Túnsbergi í Noregi.[304] Sóknarpresturinn, séra Þórður Ólafsson á Gerðhömrum, gaf þau saman á norsku,[305] en faðir brúðarinnar hafði gefið kr. 500 til kirkjubyggingarinnar.[306] Svaramenn voru Hans Ellefsen, forstjóri á Sólbakka í Önundarfirði, og Markus Bull, forstjóri hvalveiðistöðvarinnar í Hesteyrarfirði.[307]

Í kirkjunni á Mýrum sem nú (1994) er að verða 100 ára gömul eru varðveittir ýmsir merkir gripir sem prýddu hinar eldri kirkjur á þessum forna kirkjustað. Hér hefur áður verið minnst á klukkuna sem Jón Magnússon, þáverandi eigandi Mýra, lét flytja til landsins árið 1621 og enn er í fullri notkun (sjá bls. 26-27). Við hlið hennar hangir önnur klukka sem ekki er vitað um aldur á en kynni að vera talsvert eldri.

Altaristaflan með mynd af kvöldmáltíðinni er frá árinu 1775, lögð kirkjunni til af séra Markúsi Snæbjörnssyni, presti í Flatey á Breiðafirði.[308] Séra Markús, sem var sonur Mála-Snæbjörns, átti þá hálfa bændaeignina í Mýrum en hin hálflendan var í eigu bróðurdóttur hans, Þorkötlu Magnúsdóttur, og eiginmanns hennar, séra Jóns Ásgeirssonar, sem þá var prestur í Dýrafjarðarþingum og bjó á Mýrum eins og fyrr var nefnt. Þau Þorkatla og séra Jón Ásgeirsson voru móðurforeldrar Jóns forseta Sigurðssonar.

Í prófastsvísitazíunni frá 2. ágúst 1776 segir að presturinn séra Markús Snæbjörnsson hafi innkeypt og tillagt þessa nýju altaristöflu og þar er tekið fram að hún hafi verið innkeypt í fyrra og flutt að Mýrum á því ári, það er 1775.[309] Hin nýja altaristafla var virt á 5 hundruð og 40 álnir[310] eða fimm kýrverð og þriðjung úr hinu sjötta og líklegast er að hún hafi komið beint frá Danmörku. Í vísitazíugerð Hannesar biskups Finnssonar frá 14. ágúst 1790 er altaristaflan í Mýrakirkju sögð vera stór, máluð og með gylltum listum[311] og þá lýsingu tók Helgi biskup Thordersen upp í vísitazíugerð sína frá 14.7.1852.[312] Yngri vísitazíugerðir bera með sér að altaristaflan sem Mýrakirkja eignaðist árið 1775 og Hannes biskup gerði grein fyrir árið 1790 er sú hin sama og enn prýðir kirkjuna.[313]

Yfir altaristöflunni frá 1775 hangir nú (1994) önnur minni útskorin í tré og með vængjum. Á vinstri væng hennar er ártalið 1696 svo óhætt mun að fullyrða að vængjabrík þessi sé orðin 300 ára gömul. Í vísitazíugerð sinni frá árinu 1790 nefnir Hannes biskup Finnsson gamla vængjabrík af bíldhöggvaraverki sem hann segir vera yfir kórdyrum í kirkjunni á Mýrum[314] og má telja fullvíst að þar sé átt við sömu vængjabrík og þá sem hér var síðast nefnd. Í vísitazíugerðinni frá 1852 getur Helgi biskup Thordersen líka um þessa gömlu brík í Mýrakirkju og kemst þá svo að orði: Vængjabrík af bíldhöggvaraverki við kórdyr með ártalinu 1696 á, , prýðileg yfir kórdyrum, gömul.[315]

Á öðrum væng þessarar gömlu altaristöflu er mynd af ungri konu sem ber logandi hjarta í vinstri hendi en krossmark í hægri. Yfir þessari konumynd er ritað gullnum stöfum: Christina Magni filia, en það var einmitt Kristín Magnúsdóttir, heimasæta á Mýrum, sem gaf kirkjunni þennan góða grip og Jón biskup Vídalín veitti viðtöku er hann kom hingað á yfirreið sinni um Vestfirði í ágústmánuði árið 1700.[316]

Mjög líklegt má telja að sjálf hafi Kristín verið fyrirmynd málarans að andlitinu  neðan við nafn hennar á töflunni. Það eitt að nafnið stendur  þarna gefur sterklega til kynna að svo muni vera og á 17. öld tíðkaðist bæði hérlendis og erlendis að fyrirfólk léti mála mynd af sjálfu sér eða sínum vandamönnum á altaristöflur.[317]

Kristín Magnúsdóttir á Mýrum giftist árið 1706 Snæbirni Pálssyni, er seinna var nefndur Mála-Snæbjörn og fyrr var getið. Sonardóttir þeirra var Þorkatla Magnúsdóttir, amma Jóns Sigurðssonar forseta. Enginn veit nú hver málaði myndirnar á þessari gömlu brík en líklegastan má telja séra Hjalta Þorsteinsson sem árið 1696 var liðlega þrítugur prestur í Vatnsfirði við Djúp. Hann er reyndar nafnkunnasti myndlistarmaður okkar Íslendinga frá þessu skeiði[318] og handbragðið líkt því sem sjá má á verkum hans.[319]

Eins og fyrr var nefnt er taflan máluð árið 1696 en á því ári giftist Þorbjörg Magnúsdóttir á Mýrum, eldri systir Kristínar, Páli Vídalín, síðar lögmanni.[320] Í því brúðkaupi hefur séra Hjalti verið, enda höfðu þeir Páll Vídalín verið samtíða í Skálholti fáum árum fyrr, annar rektor en hinn dómkirkjuprestur[321] og hægt að komast á einum eða tveimur dögum úr Vatnsfirði yfir Glámu að Mýrum.

Koparhjálminn stóra með tólf liljum, sem enn prýðir Mýrakirkju, lögðu þær mæðgur, títtnefnd Kristín og Ástríður móðir hennar Jónsdóttir, einnig til kirkjunnar og er þess getið í vísitazíugerð biskups frá 1725[322] en Kristín andaðist fertug að aldri árið 1712 og Ástríður móðir hennar, sjö árum síðar.[323]

Um aðra gripi í eigu Mýrakirkju verður ekki fjallað hér enda munu flestir þeirra vera yngri en klukkurnar, altaristaflan, koparhjálmurinn og vængjabríkin.

Eins og áður var getið var kúgildum Mýrakirkju fækkað úr 35 í 10 árið 1650 en í stað kúgildanna sem þá var létt af gengust eigendur Mýra undir þá kvöð að gjalda 160 álnir á ári til prestsins í Dýrafjarðarþingum (sjá hér bls. 28). Ætla má að gjald þetta hafi oftast verið greitt í smjöri. Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, sem var niðji Brynjólfs Hákonarsonar er keypti Mýrar árið 1810, segir að Brynjólfur hafi keypt þessa smjörkvöð af jörðinni fyrir 200 spesíur[324] en tveir ríkisdalir voru í hverri spesíu. Var það í minnum haft, segir Hagalín, að Brynjólfur hefði talið spesíurnar upp úr kistu sinni.[325]

Er Brynjólfur leysti sig og síðari eigendur Mýra undan smjörkvöðinni einhvern tíma á árunum 1810-1836 fylgdu jörðinni enn kirkjukúgildin tíu sem eftir voru skilin árið 1650. Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum náði að losa jörðina við fjögur þessara kúgilda árið 1855 en fyrir þá búbót þurfti hann að greiða 200 ríkisdali[326] sem nærri lætur að þá hafi talist átta kýrverð.[327] Í arð af þessum fjórum kirkjukúgildum hafði presturinn í Dýrafjarðarþingum fengið greidda 4 fjórðunga (20 kíló) af smjöri á hverju ári[328] en í staðinn fyrir smjörið átti hann nú að njóta vaxtanna af áðurnefndum 200 ríkisdölum.[329]

Um prestana á Mýrum og kirkjuna þar verður ekki orðlengt frekar hér en eins og áður var getið tók söfnuðurinn við kirkjunni úr hendi eigenda Mýra í lok ársins 1907 (sjá hér bls.22).

Á 18. öld voru lengi tvær eða þrjár hjáleigur í byggð á Mýrum og munu allar hafa staðið þar í heimatúninu. Mýrahús voru ein þessara hjáleigna og líklega sú elsta því í Jarðabókinni frá 1710 segir að þau hafi til forna verið reiknuð fyrir 10 hundruð.[330] Mýrahús eru reyndar eina hjáleigan sem þar er nefnd með nafni en í byrjun 18. aldar höfðu þeir sem þar bjuggu 20 jarðarhundruð til ábúðar.[331] Alls voru fjórir bændur á Mýrum árið 1710. Mála-Snæbjörn sem bjó á 30 hundruðum, Guðmundur Ólafsson sem bjó á 15 hundruðum og bræðurnir Marteinn og Jón Guðmundssynir sem bjuggu ógiftir í samfélagi á Mýrahúsum og höfðu 20 hundruð til ábúðar.[332] Ekki verður annað séð í Jarðabókinni en Guðmundur búi eins og Snæbjörn á sjálfum Mýrum og höfundar Jarðabókarinnar geta ekki um neinar eyðihjáleigur þar. Bókin sýnir þó að Árni Magnússon var yfirleitt býsna duglegur við að afla upplýsinga um hjáleigur sem komnar voru í eyði og er því ekki fjarri lagi að álykta að fram til 1710 hafi Mýrahús verið eina hjáleigan á Mýrum.

Í manntalinu frá 1703 eru Mýrahús líka talin eina hjáleigan á Mýrum en tvíbýli var á heimajörðinni þegar það var tekið og auk þess hafðist þar við einhleypur húsmaður sem nærðist á sjósókn.[333]

Í sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum, er hann lauk við að rita í janúar 1840, er getið um þrjá bæi á Mýrum sem komnar séu í eyði, Mýrahús, Lukkustaði og Hól.[334] Prestur segir að á þessum býlum hafi hver bóndi haft 10 hundruð til ábúðar.[335]

Bændatöl frá árunum1735 og 1753 sýna að þá hafa verið fjórir ábúendur á Mýrum.[336] Í báðum þessum bændatölum er séra Bjarni Jónsson, er hér var áður frá sagt, talinn fyrstur í röð bænda þar en síðan koma nöfn hinna þriggja.[337] Nær fullvíst má telja að séra Bjarni hafi búið á heimajörðinni en hinir þrír í hjáleigunum enda þótt nöfn hjáleignanna séu ekki nefnd í þessum bændatölum. Árið 1762 var búið í tveimur hjáleigum á Mýrum en í manntalinu frá því ári er tekið fram að þriðja hjáleigan sé í eyði.[338]

Elsta sóknarmannatalið úr Dýrafjarðarþingum er frá árinu 1785 en í því eru nöfn á sumum býlunum orðin útmáð. Í sóknarmannatalinu frá 1786 standa hins vegar skýrum stöfum nöfnin á Mýrahúsum og Lukkustöðum en þriðja hjáleigan, Hóll, hefur þá verið komin í eyði.[339] Árið 1786 bjó séra Markús Eyjólfsson á Mýrum, Jón Pálsson í Mýrahúsum og Jón Þorgeirsson á Lukkustöðum.[340]

Í sóknalýsingunni frá 1840 segir séra Jón Sigurðsson að Mýrahús og Lukkustaðir hafi farið í eyði um 1820.[341] Sóknarmannatöl hafa ekki varðveist frá þeim árum en í prestsþjónustubókum Dýrafjarðarþinga má sjá að þetta lætur nærri. Mýrahús virðast þó ekki koma þar við sögu eftir 1806[342] sem gæti bent til þess að sú hjáleiga hafi farið í eyði strax og Brynjólfur Hákonarson settist á Mýrar árið 1811. Á Lukkustöðum var hins vegar sannanlega búið fram til 1820 en þá andaðist Jón Jónsson bóndi á Lukkustöðum.[343] Tveimur árum fyrr bjuggu þar Jón Eyjólfsson og Lísibeth Jónsdóttir[344] en meðal bænda í Mýrahúsum á árunum kringum 1800 má nefna Ólaf Hákonarson[345] sem var bróðir Brynjólfs Hákonarsonar er keypti Mýrar 1810.[346] Löngu eftir að hætt var að búa í Mýrahúsum töldu ýmsir sig sjá vafurloga þar í tóttunum enda var talið að þar hefði fé verið grafið í jörð, – rétt framan við skemmudyr.[347] Sumir sögðu að karlinn sem peninga þessa átti hefði mælt svo fyrir að þeir yrðu til nota þeim einum Mýrabónda sem ætti níu syni.[348]

Gísli Vagnsson sem hóf búskap á Mýrum árið 1936 og átti þar heima til dauðadags árið 1981 vísar okkur á bæjarstæði gömlu hjáleignanna með þessum orðum:

 

Yst og neðst í heimatúninu á Mýrum eru Mýrahús … upp frá Mýrahúsatúni eru Lukkustaðir, innan við núverandi fjárhús. … Innan við bæjarlækinn er Innratúnið. Efst í því heita Hólar, gömul hjáleiga … neðan við Hólana stóð gamli bærinn frá fyrstu byggð þar til 1903 að hann var fluttur út fyrir lækinn.[349]

 

Gísli segir að ein gömlu hjáleignanna hafi verið þar sem nú heita Hólar, efst í Innratúni, og virðist mega ætla að kotið sem nefnt er Hóll í sóknalýsingunni frá 1840 hafi staðið þar.

Um kjör hjáleigubændanna á Mýrum er fátt vitað nema það sem sjá má í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710. Bræðurnir í Mýrahúsum sem þá höfðu 20 jarðarhundruð til ábúðar þurftu árið 1710 að greiða 4 vættir í landskuld (tvo þriðju hluta úr kýrverði) sem áttu að greiðast í kaupmannsreikning, hálfpartur í fiski og lýsi, hálfpartur í prjónlesi.[350] Leigukúgildi í Mýrahúsum höfðu verið þrjú en féllu öll í harðindum árið 1697 og voru þrettán árum síðar aðeins tvö.[351] Lögleiga fyrir hvert málnytukúgildi var tíu kíló af smjöri á ári samkvæmt Jónsbók eða 12 álnir (einn tíundi úr kýrverði) í öðrum gildum peningum ef smjör var ekki til.[352] Eins og nærri má geta hafa hjáleigubændurnir á Mýrum orðið að standa í skilum með landskuld og leigur en gamalli kvöð um skipsáróður hafði verið aflétt er Árni Magnússon kom í Dýrafjörð árið 1710.[353]

Eins og hér hefur verið rakið féll síðasta hjáleigan í Mýratúni úr byggð árið 1820 eða því sem næst. Löngu síðar hófst búskapur á tveimur afbýlum skammt innan við Mýrar og í landi þeirrar jarðar. Þessi tvö býli voru Bessastaðir og Miðhlíð en þau stóðu bæði í sama túninu (sjá hér bls. 1), liðlega hálfum kílómetra fyrir innan Mýrar. Á Bessastöðum hófst búskapur árið 1894 en í Miðhlíð sem stóð örlítið utar árið 1903. Ef marka má frásögn Gísla sögu mun býli með nafninu Bersastaðir reyndar hafa staðið á þessum slóðum til forna, kennt við Bersa sem þar bjó.[354] Frá upphafi ferðar sendimanna Gísla Súrssonar norður í Önundarfjörð á fund Vésteins Vésteinssonar segir svo í sögunni:

 

Síðan fara þeir og hafa skip úr Haukadal og róa til Lækjaróss og ganga þar á land og til bónda þess er þar bjó á Bersastöðum; hann hét og Bersi. Þeir bera honum orð Gísla að hann léði þeim hesta tvo er hann átti og hétu Bandvettir er skjótastir voru í fjörðum. Hann lér þeim hestana og ríða þeir uns þeir komu á Mosvöllu og þaðan inn undir Hest.[355]

 

Engar líkur eru til þess að höfundur Gísla sögu hafi skáldað upp bæjarnafnið Bersastaðir því önnur bæjanöfn í sögunni eru öll úr heimi veruleikans. Því má ætla að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi bær með nafninu Bersastaðir staðið um lengri eða skemmri tíma skammt frá ósi Vaðalsins innan við Mýrar. Sá bær gæti hafa verið þar sem býlið Bessastaðir stóð á fyrri hluta tuttugustu aldar ellegar þar sem nú er Lækjarós. Þetta býli, hinir fornu Bersastaðir, hlýtur hins vegar að hafa farið í eyði snemma á öldum því þess er hvergi getið í síðari tíma heimildum.

Sá maður sem hófst handa við að reisa nýbýli á Bessastöðum árið 1894 hét Sigurður Bjarnason og hafði áður átt heima á Hálsi á Ingjaldssandi.[356] Ég fór út á Bessastaði sem Sigurður á Hálsi er að byggja upp úr eyði, segir Sighvatur Borgfirðingur í dagbók sinni 21. september 1894.[357] Seint í október þetta sama haust drukknaði Sigurður (sjá hér bls. 75-76) og er þá nefndur húsmaður á Bessastöðum.[358] Í lok ársins voru Jóhannes Guðmundsson og Sólveig Þórðardóttir, kona hans, sest að á Bessastöðum og áttu þau þar heima í fimm ár.[359] Á því skeiði voru stundum tvær fjölskyldur búsettar í þessu koti.[360] Jóhannes á Bessastöðum var formaður á bátnum sem flutti Hannes Hafstein út að breska togaranum Royalist og drukknaði ásamt tveimur öðrum í þeirri ferð (sjá hér bls. 78-83).

Á Bessastöðum var búið frá 1894-1940 en í Miðhlíð frá 1902-1938.[361] Þau sem fyrst settust að í Miðhlíð voru hjónin Guðmundur Jón Jónsson og María Sigmundsdóttir og á sóknarmannatali frá 31.12.1902 eru þau sögð búa í Nóatúnum.[362] Ári síðar var bærinn nefndur Miðhlíð.[363] Kot þessi voru landlítil og munu flestir sem þar bjuggu hafa lifað að meira eða minna leyti á sjósókn. Sem dæmi má nefna að á manntalinu frá 1901 er heimilisfaðirinn á Bessastöðum sagður vera sjómaður.[364]

Eins og áður var getið voru kotbýlin Bessastaðir og Miðhlíð reist í landi Mýra en þegar Mýrar voru seldar nýjum eiganda í ársbyrjun 1937 var land þessara tveggja býla skilið undan og fylgdi ekki með í kaupunum. Þá var enn búið á báðum kotunum en skömmu seinna fóru þau í eyði og nokkru síðar var land þeirra selt eigendum Lækjaróss og sameinað þeirri jörð (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 275.). Engar tóttir eru nú sjáanlegar þar sem áður var Miðhlíð en tóttir Bessastaða blasa enn við augum vegfarenda.

Ekki er boðlegt að fara frá Mýrum án þess að minnast dálítið nánar á Brynjólf Hákonarson sem keypti Mýrar árið 1810 og fáeina niðja hans og tengdamenn sem þar bjuggu. Brynjólfur er sagður fæddur á Arnarnesi við Dýrafjörð árið 1766 eða því sem næst.[365] Líklegt er að hann hafi borið nafn langalangafa síns, Brynjólfs ríka Bjarnasonar í Neðri-Hjarðardal sem hér var áður frá sagt (sjá hér Neðri-Hjarðardalur) en Gunnfríður dóttir hans, sú er giftist Nikulási Bjarnasyni, var langamma Brynjólfs Hákonarsonar[366] Árið 1785 var Brynjólfur 19 ára gamall hjá móður sinni, Sigríði Bjarnadóttur, sem þá var búandi ekkja á Fjallaskaga.[367] Hann er þá sagður efnilegur og frjáls og vel kunnandi.[368]

Næstu sjö eða átta árin átti Brynjólfur heima á Skaga en 30. september 1793 kvænist hann Guðnýju, dóttur Halldórs Brandssonar, bónda á Brekku á Ingjaldssandi[369] (sjá hér Brekka), og mun um svipað leyti hafa hafið búskap á Brekku. Þar bjuggu þau Brynjólfur og Guðný enn árið 1801.[370] Skömmu síðar fluttust þau að Eyri í Önundarfirði og þaðan að Ytri-Hjarðardal í sama byggðarlagi en þar áttu þau heima er Brynjólfur réðst í það stórræði að festa kaup á Mýrum.[371] Kaupbréfið er dagsett 20. desember 1810 og þar kemur fram að Brynjólfur kaupir 41 hundrað í Mýrum, Mýrahúsum og Stóra-Garði (Meira-Garði).[372] Bændaeignin í Mýrum, að Mýrahúsum og Lukkustöðum meðtöldum, var 45 hundruð svo hundraðatalan í kaupsamningnum sýnir að hann hefur reyndar ekki keypt alveg alla jörðina að því sinni.

Sá sem seldi Brynjólfi þessar jarðeignir var séra Ásgeir Jónsson í Holti sín og móður sinnar vegna (sjá hér bls. 32 og 46) en kaupverðið var 600 ríkisdalir.[373]

Þau Brynjólfur og Guðný kona hans hófu búskap á Mýrum vorið 1811. Þar bjó hann í 26 ár og er sagður hafa verið hagsýnn bóndi og kappsamur sjósóknari[374] enda efnaðist hann vel. Brynjólfur var hreppstjóri Mýrahrepps í 20 ár og fórst það með snilld á þeim hörðu árum.[375] Hann fór í hákarlalegur fram á elliár og á hverju vori fór hann ýmist sjálfur eða sendi syni sína á áttæring norður á Strandir að sækja rekavið.[376] Guðmundur G. Hagalín rithöfundur segir um þennan forföður sinn að hann hafi haldið sig hefðarlega um margt og m.a. keypt sér danska gljáskó. – Gáið að ykkur, piltar mínir, að ég stigi ekki ofan á ykkur. Ég er á dönskum skóm, á Brynjólfur að hafa sagt er hann gekk í fyrsta sinn til kirkju á gljáskónum.[377]

Árið 1821 var Brynjólfur eini maðurinn í Mýrahreppi sem var með einhverja garðholu[378] en matjurtagarðar voru þá nefndir Kiøkkenhave upp á dönsku. Brynjólfur varð víst líka einna fyrstur bænda í Dýrafirði til að fá sér eldspýtur og var þá hætt að hafa glóðarker með sér í hákarlalegur.[379] Einhverju sinni gleymdist þó að taka hin nýstárlegu eldfæri með í leguna og því ekki unnt að hita kaffi á miðum úti eins og venja hafði verið. Brynjólfur bar sig þó vel og sagði: Nógar eru fýrspýturnar heima á kirkjulofti á Mýrum.[380] Guðmundur G. Hagalín rithöfundur sem átti Brynjólf Hákonarson fyrir langalangafa segir sitthvað fleira frá honum og skal til þess vísað.[381]

Meðal barna Brynjólfs á Mýrum voru tveir synir og hét sá eldri Brynjólfur en sá yngri Guðmundur. Brynjólf son sinn sendi faðir þeirra til smíðanáms í Kaupmannahöfn[382] en hann gerðist síðan bóndi og bjó fyrst á Mýrum á móti föður sínum.[383] Vorið 1837 festi Brynjólfur Brynjólfsson kaup á nokkrum hluta af Núpi í Dýrafirði, líklega 30 hundruðum (sjá hér Núpur), og fluttist þangað búferlum. Síðustu ár ævi sinnar bjó hann á Hofi í Þingeyrarhreppi (sjá hér Hof). Sama vor og Brynjólfur fluttist að Núpi tók Guðmundur, yngri bróðir hans, við búi af föður þeirra á Mýrum.[384] Sumarið 1838 seldi Brynjólfur Hákonarson Guðmundi syni sínum 20 hundruð í heimalandi á Mýrum, nefnilega svokallaðan Bæjarhluta og Fjóstungu, og með fylgdu til afnota 10 hundruð sem Mýrakirkja átti, en sá jarðarpartur gekk undir nafninu Péturshluti.[385] Fyrir þau 30 jarðarhundruð sem Guðmundur fékk í hendur við þessi kaup greiddi hann 200 ríkisdali í silfri[386] eða 6 dali og 64 skildinga fyrir hvert hundrað í jörð.

Guðmundur Brynjólfsson var fæddur árið 1812[387] og ól allan sinn aldur á Mýrum. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir frá Sellátrum í Tálknafirði og voru þau gefin saman haustið 1836.[388] Þau bjuggu rausnarbúi á Mýrum í yfir 40 ár, frá 1837-1878.[389] Allan eða nær allan þann tíma mun Guðmundur hafa búið einn á allri jörðinni en Brynjólfur faðir hans dvaldist þó á Mýrum til dauðadags en hann andaðist 92ja ára gamall haustið 1858.[390]

Árið 1850 voru 25 manneskjur heimilisfastar á Mýrum.[391] Búpeningur Guðmundar var þá 6 kýr, 60 sauðir, 8 ær, 30 gemlingar og 3 hross.[392] Hann átti þá hálft annað áraskip[393] og hálfa fiskijakt (sjá hér bls. 58).

Guðmundur á Mýrum sýndi talsverðan áhuga á þjóðmálum, a.m.k. um það leyti sem endurreisn Alþingis var á döfinni á árunum upp úr 1840. Hann mætti á kjörfundinn á Skutulsfjarðareyri er kosið var til Alþingis í fyrsta sinn vorið 1844 og stuðlaði þar að kosningu Jóns Sigurðssonar er síðar var jafnan nefndur forseti.[394] Fáum mánuðum síðar ritar hann ásamt séra Jóni Sigurðssyni á Gerðhömrum undir bréf til hins nýkjörna alþingismanns Ísfirðinga þar sem þeir fagna kosningu hans og láta í ljós ósk um að fá tækifæri til að hitta Jón ef hann komi vestur.[395]

Í bréfi sem séra Jón á Gerðhömrum ritar Jóni forseta tveimur árum síðar segist hann aðeins hafa fengið tvo eða þrjá menn til að lesa Alþingistíðindin og tekur fram að einn þeirra sé Guðmundur á Mýrum.[396] Svo virðist sem Guðmundur hafi þó aldrei skrifað Jóni forseta eftir 1844 fyrr en haustið 1867. Þá var Jón, sonur bóndans á Mýrum, í þann veginn að sigla til verslunarnáms í Kaupmannahöfn. Af því tilefni skrifar Guðmundur Jóni Sigurðssyni nokkrar línur og biður hann verða syni sínum innan handar um ráðgjöf í hverju sem vandasamt kynni fyrir hann að koma.[397] Í þessu bréfi kveðst Guðmundur dirfast að snúa sér til Jóns þar sem þeir séu báðir upprunnir í sömu sýslu þó langt sé síðan fundum hafi borið saman.[398]

Ári síðar ritaði Guðmundur Jóni forseta annað bréf og þá af óskemmtilegra tilefni. Að því sinni var erindið að biðja Jón aðstoðar við að tryggja Brynjólfi, – elsta syni hjónanna á Mýrum, sjúkrahúsvist í Kaupmannahöfn[399] en Brynjólfur hafði þá tekið sjúkdóm þann er skömmu síðar dró hann til dauða (sjá hér bls. 60).

Í þessu bréfi skrifar Guðmundur þrjár línur neðanmáls og segir þar: Ég og konan þökkum yður auðmjúklega fyrir alla velvild yðar við Jón okkar í fyrravetur. Lifið ætíð blessaðir og sælir.[400] Á þessum orðum sést að Jón Guðmundsson hefur átt góðu að mæta hjá Jóni forseta í Kaupmannahöfn veturinn 1867-1868 en þangað sigldi þessi bóndasonur frá Mýrum til að æfa sig við höndlunarreikninga og fleira eins og faðir hans kemst að orði.[401]

Bæði bréfin sem Guðmundur skrifaði á árunum 1867-1868 og hér hefur verið vitnað til sýna að hákarlaformaðurinn á Mýrum hefur kunnað vel að halda á penna og haft fagra rithönd. Afskipti hans af þjóðmálum sýnast hins vegar ekki hafa verið mikil en þess má geta að 2. ágúst 1874 var efnt til þjóðhátíðar á Mýrum[402] eins og víðar um land í tilefni þess að um það leyti voru 1000 ár talin liðin frá upphafi Íslandsbyggðar. Guðmundur Brynjólfsson var þá liðlega sextugur að aldri. Í dagbók sinni nefnir Sighvatur Borgfirðingur á Höfða þjóðhátíðina á Mýrum og segir þann 1.ágúst: Við Sveinn Guðmundsson á Bakka fórum út að Mýrum að undirbúa þjóðhátíðarhald þar því við vorum kosnir til þess.[403] Og næsta dag bætir hann við:

 

Logn og blíða, austansláttur. Ég fór til kirkju og fjöldi fólks að Mýrum til séra Jóns Jónssonar sem predikaði þar í minningu þúsund ára þjóðhátíðar Íslands. Eftir mig var sunginn í messunni sálmur, milli pstils og guðspjalls, og eftir um kveldið kvæði sem ég orti til Guðmundar Brynjólfssonar á Mýrum og færði honum á spjaldi í gylltum ramma.[404]

 

Sighvatur bjó í nágrenni við Guðmund síðustu fimm árin sem sá síðarnefndi lifði og virðist hafa metið hann mjög mikils. Árið 1913, þegar Guðmundur hafði legið í gröf sinni í 35 ár, birtist í Sunnanfara grein er Sighvatur hafði ritað um þau Mýrahjón, Guðmund Brynjólfsson og Guðrúnu konu hans. Þar segir hann meðal annars:

 

Hann [Guðmundur] var þegar í æsku fjörmaður hinn mesti og afburðamaður að dugnaði og áræði til allra framkvæmda svo fáir þóttu jafnokar hans þar í grennd …  Það var margt einkennilegt við þann mann, sem ekki er gripið upp á hverri þúfu. Menn hafa oft átt því að venjast um auðuga alþýðumenn að þeir hafa verið nirflar og óviðfelldnir í viðmóti, grannvitrir og lítið bókvit haft, en sá sem kom að Mýrum fékk ekki fyrr heilsað húsbóndanum en að þar bar allt annað fyrir augu hans og eyru og það þó hann hefði aldrei komið þar fyrr. Þar voru jafnan á reiðum höndum hinar mannúðlegustu viðtökur, jafnt við þann vesæla sem volduga … Það var sannarlega unun að heimsækja húsbóndann þann og það var lítt skiljanlegt hvað gjörfróður hann var um marga hluti að fornu og nýju, í lögum og sögu landsins og þá ekki síst í allri búfræði, – maður sem alla sína ævi hafði verið á einu og sama heimili á útkjálka landsins, en hann … las allt þess kyns með sinni nákvæmu athygli og skörpu eftirtekt. Öll búnaðar- og framfararit voru honum skapi næst og lífsstarf Jóns Sigurðssonar var honum innilega kært og gagnkunnugt.[405]

 

Sighvatur getur þess að Guðmundur á Mýrum hafi verið hreppstjóri í 16 ár, sáttanefndarmaður í 33 ár – og sætti allt sem undir hann var lagt – jafn lengi meðhjálpari í Mýrakirkju og forsöngvari þar – því hann var söngmaður góður og lagsæll á gamla vísu.[406]

Fræðimaðurinn á Höfða ritar sitthvað fleira um Guðmund bónda á Mýrum sem hann segir að hafi verið gjörhugull mannþekkjari og ráðhollur þeim sem til hans leituðu en jafnan tilgerðarlaus, háttprúður og glaðvær fram í dauðann.[407] Fjárgæslumann getur varla meiri en hann var, segir Sighvatur, en svo var hann strangur að virðingu sinni að hann lét ekki einn eyri vanta á það er honum bar að greiða og allt á réttum tíma en það vildi hann líka helst af öðrum hafa.[408]

Í greininni um Mýrahjón lætur Sighvatur þess getið að Guðmundur hafi haft fyrir sið að láta alltaf einhverja skildinga liggja í stofuglugganum á Mýrum en þar var mörgum boðið til stofu. Einhverju sinni var Guðmundur spurður hvernig hann vogaði að láta peningana liggja þar sem svo margir komu. Hann brosti þá og kvaðst gera þetta til að vita hvort enginn tæki þá en það hefði aldrei komið fyrir.[409]

Þann 29. janúar 1873 var Guðmundur á Mýrum sæmdur Dannebrogs-orðunni.[410] Tæplega sex árum síðar andaðist hann og segir Sighvatur að dánarbúið hafi verið metið á 40.000,- krónur.[411] Nærri lætur að sú upphæð hafi þá samsvarað 390 kúgildum.[412]

Um Guðrúnu Jónsdóttur frá Sellátrum, konu Guðmundar Brynjólfssonar, segir Sighvatur að hún hafi stjórnað sínu mannmarga búi eins og drottning sem allir unnu og virtu en líka verið stórgjöful við fátæka.[413]

Guðmundur Brynjólfsson mun snemma hafa orðið formaður í fiskiróðrum og farið í hákarlalegur á áraskipum[414] og rétt liðlega þrítugur að aldri hóf hann þilskipaútgerð í félagi við Jón Gíslason á Lækjarósi árið 1843. Eins og hér hefur áður verið rakið urðu þeir fyrstir manna í Dýrafirði til þess að ráðast í útgerð á þilskipi (sjá hér Mýrahreppur inngangskafli og Lækjarós). Skip sitt Hákarlinn áttu þeir saman í nokkur ár, sinn helminginn hvor. Þátttaka Guðmundar í útgerð Hákarlsins markaði upphafið að langri sögu þilskipaútgerðar frá Mýrum en svo mátti heita að Mýramenn, það er Guðmundur Brynjólfsson og síðan börn hans og makar þeirra, ættu jafnan hlut að útgerð eins eða fleiri þilskipa frá 1843 til 1906, eins og hér mun brátt verða rakið, og máske eitthvað lengur.

Frá 1843 til 1851 átti Guðmundur á Mýrum jafnan hálft þilskip[415] en árið 1852 bætir hann við sig og á þá tvo þriðjunga í skipi.[416] Sú eign stóð óbreytt næsta ár en í apríl 1854 fórst Hákarlinn (sjá hér Mýrahreppur inngangskafli) og búnaðarskýrslan frá því vori sýnir að þá á bóndinn á Mýrum engan hlut í þilskipi.[417] Sú staðreynd bendir eindregið til þess að Guðmundur hafi átt tvo þriðju hluta í Hákarlinum þegar hann fórst þó ekki sé það beinlínis tekið fram í búnaðarskýrslum.

Árið 1855 eða 1856 leggur Guðmundur fé í skútuútgerð á ný því í búnaðarskýrslu ársins 1856 sést að þá á hann þriðjung í þilskipi.[418] Sú eign hélst óbreytt allt til ársins 1877 en í búnaðarskýrslum frá því ári er hann ekki lengur að finna í hópi eigenda þilskipa.[419] Líklegt er að Guðmundur hafi þá losað um þessa eign sína með það í huga að leggja fjármunina í kaupin á Guðnýju, skonnortu sem Mýramenn létu smíða úti í Danmörku árið 1878 og hér verður brátt sagt nánar frá.

Ekki verður nú séð með auðveldum hætti í hvaða skipi eða skipum Guðmundur Brynjólfsson átti á árunum 1856-1876 en á þessu tímabili var hlutdeild hans í skútuútgerðinni ætíð hin sama, einn þriðjungur úr skipi. Þessi eignarhluti kynni þó stundum eða alltaf að hafa verið tvískiptur og til þess bendir sú staðreynd að árið 1859 átti Guðmundur einn sjötta hluta í jaktinni Hildu Maríu sem þá mun hafa verið gerð út frá Ísafirði[420] en síðar frá Flateyri.[421] Þann 8. maí 1859 veðsetti Guðmundur á Mýrum eign sína í nýnefndu skipi − einn sjötta part í jaktinni Hildi Maríu sem er ábyrgstur fyrir 375 ríkisbankadali hjá sjóábyrgðarfélaginu − eins og segir í Veðmálabókinni.[422] Sá sjötti hluti sem Guðmundur átti í Hildu Maríu var sem sagt tryggður fyrir 375 ríkisdali og því má ætla að þeir tveir sjöttu hlutar sem hann þá átti í þilskipum hafi verið um það bil 750 ríkisdala virði. Sú upphæð samsvaraði þá um það bil 20 kýrverðum.[423]

Jaktin Hilda María er sögð hafa verið um það bil 30 smálestir[424] og skipstjóri á henni var árið 1861 Andrés Pétursson[425] frá Haukadal í Dýrafirði. Hann var síðar lengi skipstjóri á Guðnýju er þá mátti kallast flaggskip Mýramanna.

Á þeim árum sem Guðmundur Brynjólfsson tók þátt í útgerð þilskipa, 1843-1877, var hann um skeið (1860-1866) eini bóndinn í Mýrahreppi sem átti hlut í skútu.[426] Enginn vafi er á því að Guðmundur hefur verið sterkefnaður og svo virðist sem hann hafi gert talsvert af því að lána peninga eins og hver annar banki. Tvö dæmi skulu nefnd um þetta.

Sumarið 1858 lánar hann Ásgeiri Á. Johnsen, kaupmanni á Ísafirði, 1200 ríkisdali og þar af voru þúsund í dönskum silfurpeningum.[427] Ekki mun fjarri lagi að telja að upphæðin sem Guðmundur á Mýrum lánaði Ásgeiri hafi numið 34 kúgildum.[428] Lánið var veitt til þriggja ára með 4% vöxtum og til tryggingar greiðslu veðsetti Ásgeir 25 hundruð í jarðeignum[429] sem gat þó engan veginn talist fullgilt veð. Líklegt er að þarna hafi Guðmundur tapað einhverjum fjármunum því Ásgeir andaðist tveimur árum síðar og dánarbú hans reyndist vera þrotabú.[430] Guðmundur hélt þó áfram lánastarfsemi og árið 1870 lánar hann bæjarstjórn Ísafjarðar 200 ríkisdali til tíu ára með 4% vöxtum.[431] Sparisjóður Ísfirðinga var stofnaður árið 1876 og var Guðmundur á Mýrum einn þeirra 14 manna sem gerðust stofnendur hans.[432] Í þeim hópi voru aðeins þrír menn úr Vestur-Ísafjarðarsýslu, Guðmundur á Mýrum, Gísli Oddsson í Lokinhömrum og séra Stefán P. Stephensen í Holti.[433]

Haustið 1864 var haldið þrefalt systkinabrúðkaup á Mýrum. Brynjólfur, elsti sonur Guðmundur Brynjólfssonar, gekk þá að eiga Lauru W.M. Thomsen, dóttur maddömu Thomsen á Granda í Þingeyrarhreppi (sjá hér Grandi) en Guðný, dóttir Guðmundar, giftist Guðmundi Sigurðssyni skipherra og Guðrún systir hennar Gísla Oddssyni í Lokinhömrum er síðar var oft nefndur hinn ríki (sjá hér Lokinhamrar).[434] Á þessum árum voru skipstjórar á þilskipum oftast nefndir skipherrar og næstu árin voru tveir skipherrar búsettir á Mýrum, þeir Brynjólfur og Guðmundur, sonur og tengdasonur Guðmundar Brynjólfssonar.[435] Um þetta leyti, á árunum kringum 1865, hefur lánið að líkindum leikið einna glaðast við Guðmund Brynjólfsson á Mýrum en árið 1869 varð hann fyrir því áfalli að missa Brynjólf son sinn sem andaðist liðlega þrítugur úr banvænum sjúkdómi á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn um sumarmál á því ári.[436] Brynjólfur hafði á ungum aldri orðið formaður á hákarlaskipi föður síns og síðar skipstjóri á þilskipi.[437] Hann þótti bæði kappsamur og fengsæll.[438]

Engum sögum fer af því að Guðmundur Brynjólfsson hafi sjálfur stjórnað þilskipi eða verið í skiprúmi á slíku fleyi, enda þótt hann væri lengi við skútuútgerð riðinn. Ekki verður heldur séð í heimildum að Brynjólfur sonur hans eða Guðmundur tengdasonur hans hafi stýrt til veiða skútum sem Guðmundur Brynjólfsson átti hlut í. Þó kann svo að hafa verið en báðir munu þeir hafa verið skipstjórar á skútum sem gerðar voru út frá Ísafirði eða öðrum nálægum byggðarlögum því engin þilskip voru gerð út frá Dýrafirði á árunum 1863-1870.[439]

Sjósókn á áraskipum hefur Guðmundur á Mýrum efalaust stundað frá unglingsárum og sonardóttursonur hans, Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, segir að hann hafi snemma orðið mikill formaður.[440] Árið 1850 átti Guðmundur á Mýrum hálft annað áraskip eins og sjá má í búnaðarskýrslu og hafa þau vafalaust verið gerð út frá Fjallaskaga á vorin. Nathanael Mósesson sem fæddur var árið 1878 og ólst upp í Mýrahreppi segir í ritgerð sinni um hákarlaskip í Dýrafirði á árunum 1865-1892 að Mýraskipið hafi verið teinæringur[441] en teinæringa telur hann aðeins þrjú af þeim tíu hákarlaskipum sem hann minnist á frá þessu tímabili. Í dagbók sinni frá árinu 1881 talar Sighvatur Borgfirðingur um áttæring Mýramanna[442] sem líklega hefur verið annað skip en teinæringurinn sem fyrr var nefndur. Hákarlaútgerð var stunduð frá Mýrum alla búskapartíð Guðmundar Brynjólfssonar og líka um nokkurt árabil að honum látnum. Nathanael Mósesson getur þess í ritgerð sinni að sonur Guðmundar Brynjólfssonar, Guðmundur Hagalín, sem fæddur var árið 1843, hafi verið formaður á Mýraskipinu í hákarlalegum en segir þó Guðmundur Hagalín og fleiri.[443] Enginn veit nú hversu margar vertíðir Guðmundur Brynjólfsson reri á Fjallaskaga eða hvenær hann hætti að fara sjálfur í hákarlalegur en líklegt má telja að Brynjólfur sonur hans hafi tekið við formennsku um eða upp úr 1860 en síðan hafi yngri bróðirinn, Guðmundur Hagalín, tekið við hákarlaskipinu og formennsku á Fjallaskaga þegar Brynjólfur gerðist skipstjóri á skútu.

Guðmundur G. Hagalín rithöfundur segir um langafa sinn, Guðmund Brynjólfsson á Mýrum, að hann hafi verið svo auðsæll að dæmafátt hafi verið talið enda framtakssamur og með afbrigðum hagsýnn.[444]

Um konu Guðmundar Brynjólfssonar, Guðrúnu Jónsdóttur frá Sellátrum, segir sami höfundur: Hún var þrekmikil og dugleg, hagsýn búkona, stjórnsöm í besta lagi og hélt fólki fast að vinnu en var því notaleg og þeim mun betri sem meira reyndi á, rausnarleg og sparsöm í senn.[445]

Bróðursonur Guðrúnar sem Halldór Jónsson hét ólst að nokkru upp á Mýrum og átti þar lengi heima. Eitt sinn á efri árum Guðrúnar fékk hún þær fréttir að vinnukona ein sem bar barn undir belti segði Halldór vera föðurinn. Ekki vilda gamla konan trúa þessu því hann Halldór væri þó af Sellátraættinni. En er barnið fæddist lét Guðrún færa sér það, virti það gaumgæfilega fyrir sér og sagði síðan: Jú, það þarf ekki að ugga um það. Þetta er Halldórs frágangur.[446]

Þau Guðmundur Brynjólfsson og Guðrún Jónsdóttir á Mýrum áttu níu börn sem upp komust. Hér hefur þegar verið minnst á tvo elstu synina, þá Brynjólf, sem varð skútuskipstjóri og dó ungur, og Guðmund Hagalín, bónda og hákarlaformann, en hér verður síðar sagt nánar frá honum (sjá bls. 63-76). Aðrir synir þeirra Mýrahjóna voru Jón, kaupmaður í Flatey á Breiðafirði, Guðni, sem lengi var læknir á Borgundarhólmi í Danmörku, og Guðmundur Franklín sem nam búfræði í Noregi og bjó skamma hríð á Mýrum.[447] Dætur Guðmundar Brynjólfssonar og konu hans voru fjórar. Elst var Guðný, sem giftist Guðmundi Sigurðssyni skipstjóra á Mýrum, önnur var Guðrún er varð húsfreyja í Lokinhömrum, þriðja Bjarney er fór með manni sínum til Ameríku og fjórða Ingibjörg er giftist Friðriki Bjarnasyni er síðar varð bóndi á Mýrum.

Guðmundur Brynjólfsson, dannebrogsmaður á Mýrum, andaðist 21. desember 1878,[448] 66 ára að aldri. Yngsti sonurinn, Guðmundur Franklín, tók þá við stjórn búsins á Mýrum með móður sinni.[449] Hann var þá 23ja ára gamall og hafði rétt nýlega lokið tveggja ára búnaðarnámi[450] en árið 1876 hafði honum verið veittur 100,- króna styrkur af opinberu fé til náms við búnaðarskólann í Stend í Noregi.[451]

Guðmundur Franklín búfræðingur varð skammlífur og andaðist 25 ára gamall heima á Mýrum 1. maí 1881.[452] Hann hafði þá búið í 2 ár á Mýrum á móti Guðnýju, systur sinni,[453] en hennar maður var Guðmundur Sigurðsson skipstjóri. Frændi Guðmundar Franklíns, Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, segir að veturinn áður en hann dó hafi þessi ungi búfræðingur stungið sér til sunds í brimgarðinn við Mýramel í nokkurra stiga frosti og ofboðið með því heilsu sinni.[454] Dagbækur Sighvats Borgfirðings sýna að Guðmundur Franklín hefur legið þungt haldinn í nær tvo mánuði fyrir dauða sinn[455] og kemur það vel heim við frásögn Hagalíns. Sjúkdómur hans var talinn lífhimnubólga.[456]

Við andlát Guðmundar Franklíns vorið 1881 tóku Guðný systir hans og maður hennar, Guðmundur Sigurðsson skipstjóri, við öllum búsforráðum á Mýrum. Guðmundur skipstjóri hafði þá átt heima á Mýrum frá því hann kvæntist Guðnýju árið 1864 (sjá hér bls. 59).[457] Vegna starfa sinna á hafi úti virðist hann ekki hafa gefið sig mikið að búskapnum þar. Að minnsta kosti orðar Sighvatur Borgfirðingur það svo, að Guðmundur Franklín hafi á árunum 1879-1881 búið á móti Guðnýju systur sinni en nefnir ekki eiginmann hennar í því sambandi.[458]

Guðmundur Sigurðsson skipstjóri fæddist á Sæbóli á Ingjaldssandi 2.maí 1834.[459] Móðir hans var Sigríður, dóttir Jóns bónda Bjarnasonar á Sæbóli er hér verður síðar frá sagt (sjá Sæból) en faðirinn Sigurður Tómasson, vinnumaður þar á bænum.[460] Guðmundur var lausaleiksbarn[461] en móðir hans mun síðar hafa gifst Sakkaríasi Jenssyni í Alviðru í Dýrafirði.[462] Gils Guðmundsson segir í Skútuöldinni að Guðmundur hafi numið sjómannafræði[463] og ungur að árum varð hann skipstjóri á þilskipi. Árið 1860 átti hann enn heima í Alviðru. Í manntali frá því ári er hann titlaður skipherra, þá 26 ára gamall,[464] og hefur því þá þegar verið orðinn skipstjóri á skútu. Starfsheitið skipherra bar hann líka árið 1864 er hann gekk að eiga Guðnýju Guðmundsdóttur á Mýrum[465] og sá titill fylgdi honum til æviloka.

Því miður liggur ekki á lausu vitneskja um á hvaða skipum Guðmundur var skipstjóri en mjög líklegt verður þó að telja að hann sé sá Guðmundur Sigurðsson sem árið 1861 var skipstjóri á skútunni Elísabet sem þá var gerð út frá Ísafirði.[466] Gils Guðmundsson segir í Skútuöldinni að Guðmundur hafi verið skipstjóri í allmörg ár, fyrst á Ísafirði en síðan fyrir Gram, kaupmann á Þingeyri.[467] Þar er einnig frá því greint að hann hafi verið stýrimaður á Mary, 17 lesta skútu sem Gramsverslun á Þingeyri gerði út, og farið með því skipi í fræga siglingu til Írlands skömmu fyrir 1880.[468]

Allt bendir til þess að Guðmundur hafi verið skútuskipstjóri í a.m.k. 20 ár, frá 1860-1881, því svo má heita að hann sé þá jafnan titlaður skipherra.[469] Nær allan þann tíma átti hann heima á Mýrum. Er Guðmundur Franklín, mágur hans, andaðist vorið 1881 kynni Guðmundur Sigurðsson hins vegar að hafa hætt skipstjórn á skútum vegna búskaparanna á Mýrum. Til þess bendir sú staðreynd að í sóknarmannatölum frá árunum 1882-1883 er hann ekki nefndur skipherra svo sem venja hafði verið heldur bara húsbóndi.[470]

Guðmundur Sigurðsson, skipstjóri á Mýrum, varð ekki langlífur. Hann andaðist þar heima úr lungnabólgu 26. mars 1883, 48 ára að aldri.[471] Hann var þá oddviti hreppsnefndar Mýrahrepps.[472] Er Sighvatur Borgfirðingur getur um andlátið í dagbók sinni segir hann að Guðmundur hafi verið mesti ágætismaður og héraðsprýði.[473] Þau Guðmundur Sigurðsson og Guðný kona hans áttu aðeins einn son. Hann hét Guðmundur Ágúst og hafði verið við nám í Möðruvallaskóla er faðir hans lést. Þessi ungi maður lifði aðeins í hálft ár eftir dauða föður síns og andaðist á Ísafirði haustið 1883 eftir þunga legu.[474] Þar með hafði Guðný Guðmundsdóttir á Mýrum misst ungan bróður sinn, sem var nýlega tekinn við búinu, eiginmanninn og loks einkason sinn, – alla á tveimur og hálfu ári. Það var mikið mannfall.

Guðmundur Hagalín Guðmundsson, bróðir Guðnýjar á Mýrum, var fertugur að aldri er Guðmundur Sigurðsson, mágur hans, andaðist. Hann kvæntist Rúsamundu Oddsdóttur frá Lokinhömrum árið 1869 og bjuggu þau næstu árin á Mýrum í sambýli við foreldra Guðmundar Hagalíns[475] Árið 1876 fluttust þau Guðmundur Hagalín og Rósamunda kona hans frá Mýrum að Meira-Garði og bjuggu þar í fimm ár en fluttust þá að Sæbóli á Ingjaldssandi og bjuggu þar næstu fjögur árin.[476]

Vorið 1885 kom Guðmundur Hagalín aftur að Mýrum frá Sæbóli og tók hér við búsforráðum. Guðný systir hans hætti þá búskap og afhenti bróður sínum jörðina. Sighvatur Borgfirðingur var við úttekt á Mýrum 5.júní 1885 er Guðný afhenti jörðina í hendur bróður síns með öllum þeim 28 húsum sem á henni stóðu.[477] Seinna á því sama ári vann Sighvatur við að múra niður eldavél á Mýrum[478] og hefur hún að líkindum verið með fyrstu hitunartækjum af því tagi sem til Dýrafjarðar bárust.

Kristín Jónsdóttir, sem síðar fékk við giftingu ættarnafnið Dahlstedt, kom að Mýrum haustið 1890 og sá þá eldavél í fyrsta sinn á ævinni.[479] Hún var þá 14 ára gömul og átti heima á Klukkulandi en fluttist skömmu síðar að Dröngum. Kristín getur þess líka í endurminningum sínum að upp úr 1890 hafi eldavélar hins vegar farið að koma sem óðast á bæina í Dýrafirði og sú breyting sem þá varð við alla matseld og suðu hafi þótt mikil umskipti frá hlóðunum.[480] Um gamla bæinn á Mýrum segir Kristín að hann hafi verið vel vandað hús, bjart og vistlegt, en þiljur hafi þó ekki verið málaðar nema í stofunni og einu eða tveimur öðrum herbergjum.[481]

Er Kristín kom að Mýrum haustið 1890 voru fimm ár liðin frá því Guðmundur Hagalín tók þar við búi af Guðnýju systur sinni. Guðný dvaldist þó á Mýrum til æviloka og var af mörgum talin heiðursekkja. Guðmundur G. Hagalín rithöfundur segir um þessa frænku sína að hún hafi verið menntakona mikil, vitur vel og skörungur hinn mesti.[482] Hann segir Guðnýju hafa verið siðavanda en góðgjarna og hjálpsama og svo mikils virta að hún hafi ráðið því um mál sveitar sinnar sem hún á annað borð skipti sér af.[483] Hún átti lengi hlut í þilskipum (sjá hér bls. 69-72) en slíkt var heldur fátítt um konur af hennar kynslóð.

Guðný á Mýrum mun hafa verið býsna vel efnuð á mælikvarða sinnar samtíðar og komst sú saga á kreik að Þorvaldur Jónsson læknir, sem var sparisjóðsstjóri á Ísafirði, vísaði mönnum stundum til ekkjufrúarinnar á Mýrum ef þeir voru að biðja um lán. O, hann hefur vísað til mín fyrr, karlsauðurinn, á Guðný að hafa sagt við einn slíkan lánsbeiðanda sem kom á hennar fund.[484]

Guðmundur Hagalín Guðmundsson sem hóf búskap á Mýrum öðru sinni vorið 1885 var mikill umsvifamaður bæði á landi og sjó og fetaði á margan hátt í fótspor föður síns, Guðmundar Brynjólfssonar. Hann var formaður á Fjallaskaga og stýrði skipi Mýramanna í hákarlalegum en átti líka lengi hlut í þilskipum.[485] Hann hafði forystu á hendi um sveitarmálefni, var árum saman oddviti og hreppstjóri um skeið.[486]

Guðmundur Hagalín rithöfundur skrifaði ýmislegt um þennan afa sinn og nafna og lýsti honum meðal annars svo:

 

Guðmundur Hagalín var maður mikill vexti og sterkur … og fimur var hann svo að vart mun nokkur vestra um hans daga hafa verið hans líki í þeim efnum. Hann var og með afbrigðum snar og harðfylginn. Hann var mjög glíminn og fór á skíðum og skautum sem unglingur þegar hann var orðinn fimmtugur. Hann stökk níu álnir (5,65 metra) yfir Vaðalinn fyrir neðan Mýrar og þegar það kostaði hann krók að nota brú þá sem á Vaðlinum var fór hann beint af augum. Hann var gleðimaður mikill, kíminn mjög og gamansamur og orti vísur sér og öðrum til skemmtunar. Hann hafði mikið yndi af bókum, einkum sagnfræði og ljóðum og fornbókmenntum Íslendinga og hann las danskar og norskar bækur jafnt og íslenskar. … Guðmundur Hagalín var sérkennilegur maður og stórbrotinn, barnslegur að öðrum þræði en hagsýnn og vitur veraldarmaður að hinum.[487]

 

Meðal margra starfa sem Guðmundur Hagalín sinnti á árunum kringum 1890 var að stjórna vegabótum á Gemlufallsheiði sem nær eingöngu voru fólgnar í því að fjarlægja grjót úr reiðgötunni.[488] Þórður Sigurðsson sem síðar bjó lengi í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði lýsir framgöngu Guðmundar Hagalíns við vegabæturnar með þessum orðum:

 

Þótti það sérkennilegt við þá vegagerð að Guðmundur hafði hákarlaífæru í járnkarls stað. Væru stórir steinar sem ryðja þurfti frá krækti Guðmundur ífærunni undir þá og kippti þeim upp, rétt eins og jarðýturnar gera nú á dögum. Þótti Guðmundur allmikilfenglegur þegar hann var að glíma við stærstu steinana og blés mikið.[489]

 

Óhætt mun að fullyrða að Guðmundur Hagalín hafi verið einn síðasti hákarlaformaðurinn í Dýrafirði en þó mun Kristján Oddsson, mágur hans, sem bjó á Núpi frá 1887-1896 (sjá hér Lokinhamrar og Núpur) hafa haldið allra manna lengst við þeirri fornu hefð að fara í skammdeginu á áraskipum til hákarlaveiða á djúpmiðum.[490] Sighvatur Borgfirðingur getur þess í dagbók sinni að farið hafi verið í hákarlalegu frá Mýrum 21. febrúar 1880,[491] og líklegt má telja að þar hafi Guðmundur Hagalín verið formaður en hann var þá bóndi á næsta bæ.

Mýramenn fóru í ver á Skaga, ritar Sighvatur Borgfirðingur í dagbók sína 10. apríl 1889.[492] Ætla má að á þessari vorvertíð hafi Guðmundur Hagalín verið formaður á skipi Mýramanna eins og hann var vanur og síðar á því ári fékk hann 50,- króna verðlaun fyrir góða verkun á fiski.[493] Það var Kaupfélag Ísfirðinga, hið elsta, sem veitti verðlaunin en félagið hafði verið stofnað árið áður[494] og átti á árinu 1889 mikil viðskipti við Dýrfirðinga.[495] Guðmundur Hagalín var annar tveggja manna í allri Ísafjarðarsýslu sem hlutu fyrstu verðlaun fyrir góða fiskverkun en tíu aðrir fengu ýmist önnur, þriðju eða fjórðu verðlaun.[496] Verðlaunum þessum var úthlutað í góðtemplarahúsinu á Ísafirði 16. september 1889 og var þar saman kominn múgur og margmenni.[497]

Guðmundur Hagalín á Mýrum eignaðist snemma hlut í þilskipi. Á árunum 1873 og 1874 átti hann fjórðung í skútu[498] en ekki er nú kunnugt um hvaða skip það hefur verið. Næstu þrjú árin er hann ekki talinn í hópi þilskipaeigenda,[499] en á þeim árum munu Mýramenn hafa farið að hugsa til þess að láta smíða fyrir sig þilskip úti í Danmörku. Guðmundur Brynjólfsson var þá enn á lífi en ekki er ljóst hvort frumkvæðið í þessum efnum hefur komið frá honum eða yngri mönnunum, Guðmundi Sigurðssyni skipstjóra og Guðmundi Hagalín.

Árið 1878 komust þessar ráðagerðir í framkvæmd en á því ári létu Mýramenn smíða tvímastra skonnortu sem gefið var nafnið Guðný.[500] Skipið var 30,61 brúttórúmlest, 51,3 fet á lengd, 14,1 fet á breidd og 6,7 fet á dýpt, smíðað úr eik í Helsingör í Danmörku.[501] Þeir sem smíðuðu Guðnýju hétu Chr.Rohmann og M.Barfoed.[502] Gils Guðmundsson segir í Skútuöldinni að Guðný hafi verið smíðuð að tilhlutan Mýrafólks,[503] og er það vafalaust rétt. Í skjali frá 7. maí 1878 er Hjálmar Jónsson, kaupmaður á Flateyri, reyndar sagður vera eigandinn[504] en ætla má að hann hafi aðeins haft milligöngu um smíði skipsins fyrir Mýrafólk. Sagt er að ekkert hafi verið til þess sparað að skútan yrði sem best úr garði gerð enda hafi hún þótt frábærlega traust og vönduð.[505]

Líklega hefur Guðný komið til Dýrafjarðar sama ár og hún var smíðuð og þá hefur Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum notið þeirrar ánægju að sjá þetta fríða skip, sem bar nafn móður hans og elstu dóttur, því hann andaðist ekki fyrr en í lok ársins 1878 (sjá hér bls. 61). Skipið hefur þó varla komið til heimahafnar fyrr en um haustið því í búnaðarskýrslu frá vorinu 1878 verður ekki séð að Mýramenn hafi átt neitt í þilskipi.[506] Á næsta ári er Guðmundur Hagalín á Mýrum hins vegar skráður eigandi að einum fjórða parti í skútu,[507] og þarf vart að efa að það skip sé Guðný. Mýramenn munu þó aldrei hafa átt Guðnýju einir. Andrés Pétursson í Haukadal var skipstjóri á henni fyrstu árin og átti í henni hlut.[508] Hann var 46 ára gamall eða því sem næst er hann tók við Guðnýju og var fyrir löngu orðinn þaulvanur skútuskipstjóri og annáluð sjóhetja (sjá hér Haukadalur). Í búnaðarskýrslum verður ekki séð að Andrés hafi átt hlut í þilskipi áður en hann gekk í félag við Mýrafólk um smíði Guðnýjar en árið 1879 er hann í fyrsta sinn sagður eiga einn fjórða part í slíku skipi.[509] Þeir Guðmundur Hagalín á Mýrum og Andrés skipstjóri í Haukadal hafa því átt sinn fjórðunginn hvor en ekki er vel ljóst hver eða hverjir áttu hinn helminginn fyrstu árin. Líklegt er þó að Mýrafólk hafi átt meira í skipinu en svaraði þeim fjórða parti sem Guðmundur Hagalín var skrifaður fyrir. Guðmundur Sigurðsson á Mýrum er sagður hafa verið stýrimaður á Guðnýju í byrjun[510] og fyrir liggur vitneskja um að kona hans átti síðar hlut í þessu skipi (sjá hér bls. 69-72). Nær fullvíst má telja að þau hjónin hafi verið meðeigendur frá upphafi en af því Guðmundur var ekki í bændatölu sýna búnaðarskýrslur hvorki eitt né neitt um eignir hans.

Guðný reyndist eigendum sínum mikið happaskip og var árum saman skipa hæst á hákarlaveiðum.[511] Svo vel þótti Guðný reynast að sumir höfðu á henni einskonar átrúnað og fullyrtu að góðar vættir héldu yfir henni verndarhendi.[512]

Svo virðist sem Andrés Pétursson hafi verið skipstjóri á Guðnýju í röskan áratug, frá 1879 (eða 1878)-1889. Sighvatur Borgfirðingur minnist oft á Guðnýju í dagbókum sínum og 9. apríl 1890 skrifar hann: Guðný fór út á bótina. … Kjartan á Flateyri er nú með hana en Andrés skipstjóri Pétursson í Haukadal er nú hættur.[513] Úr öðrum heimildum er kunnugt að Kjartan Rósinkransson á Flateyri tók við skipstjórn á Guðnýju af Andrési,[514] og orð Sighvats benda eindregið til þess að það hafi gerst vorið 1890. Þá hefur Andrés verið kominn hátt á sjötugsaldur. Sumarið 1886 var Andrés enn skipstjóri á Guðnýju. Þá um vorið var hún sjósett á sunnudegi og fyrir það voru þeir Andrés og F.R. Wendel, verslunarstjóri á Þingeyri, dæmdir í 10,- króna sekt hvor[515] og hefur sjósetningin verið talin helgidagsbrot. Dómurinn yfir Wendel bendir til þess að hann hafi þá verið eins konar útgerðarstjóri þeirra sem áttu Guðnýju.

Í opinberum skýrslum frá árunum 1880-1889 eru þilskip frá Dýrafirði ýmist sögð stunda fiskiveiðar eða hákarlaveiðar,[516] en árið 1892 var Guðný eina skútan þaðan sem gerð var út á hákarl.[517]

Kjartan Rósinkranzson á Flateyri, sem varð skipstjóri á Guðnýju árið 1890 eða því sem næst, stýrði henni enn til veiða árið 1895[518] og máske eitthvað lengur. Frá þessum ágæta skipstjóra segjum við nánar þegar staldrað verður við á Flateyri.

Árið 1899 var Guðný enn á hákarlaveiðum.[519] Skipstjóri var þá Eyjólfur Bjarnason,[520] sem var Önfirðingur eins og Kjartan, fæddur á Kirkjubóli í Korpudal 28. ágúst 1868.[521] Á árunum kringum aldamót átti Eyjólfur heima á Þórustöðum í Önundarfirði[522] en var orðinn bóndi á Lækjarósi þegar hann andaðist árið 1904.[523] Vertíðaraflinn á Guðnýju árið 1899 var 630 tunnur af hákarlslifur.[524]

Mjög skömmu eftir að Mýramenn létu smíða Guðnýju ákváðu þeir að bæta við öðru skipi af svipaðri gerð. Jón Guðmundsson, kaupmaður í Flatey, sem var bróðir systkinanna á Mýrum, Guðnýjar og Guðmundar Hagalíns, mun hafa haft milligöngu um smíði þessa skips, því við skráningu þess úti í Danmörku vorið 1881 er hann sagður vera eigandinn.[525] Í skráningarskjalinu er hann að vísu aðeins nefndur J. Gudmundsson, Kjøbmand, Kjøbenhavn en vart þarf að efast um að þetta sé Jón Guðmundsson frá Mýrum sem á þessum árum mun hafa búið í Kaupmannahöfn eða a.m.k. verið þar með annan fótinn enda þótt hann ræki verslun í Flatey (sjá hér bls. 61 og 72-74).

Þetta nýja skip var smíðað á árunum 1880 og 1881 í Öxenbjerg við Svendborg á Fjóni[526] og var því gefið nafnið Rósamunda en svo hét kona Guðmundar Hagalíns á Mýrum. Báðar húsfreyjurnar þar höfðu þá fengið skútu með sínu nafni. Eins og Guðný var Rósamunda tvímastra skonnorta, smíðuð úr eik en þetta nýja skip var talsvert stærra en hitt, 40,63, brúttórúmlestir.[527] Það var 56,9 fet á lengd, 14,7 fet á breidd og 8,2 fet á dýpt.[528]

Um Rósamundu segir í Skútuöldinni að hún hafi verið smíðuð að tilhlutan Mýrafólks.[529] Engin ástæða er til að draga þá fullyrðingu í efa enda bendir bæði nafn skipsins og umsjón Jóns Guðmundssonar frá Mýrum með smíðinni eindregið til þess að svo hafi verið. Líklega hafa heimamenn á Mýrum þó aldrei átt nema einn fjórða hluta í þessu skipi því þannig er frá málum greint í opinberum skýrslum að árið 1880 hafi íbúar Mýrahrepps átt sjö áttundu hluta úr þilskipi en árið 1881, þegar Rósamunda kom, hækkar sú tala upp í 1 og 1/8 og þar með um fjórða part úr skipi.[530] Síðar eignaðist F.R. Wendel, verslunarstjóri á Þingeyri, hlut í báðum þessum skonnortum Mýramanna eins og brátt verður frá greint. Tekið skal fram að samkvæmt skýrslunni sem hér var síðast vitnað til varð engin breyting á þilskipaeign manna í Þingeyrarhreppi árið 1881,[531] svo ekki virðist Wendel hafa átt hlut í Rósamundu frá byrjun. Vel má hins vegar vera að Jón Guðmundsson frá Mýrum, sem hafði milligöngu um smíðina, hafi í raun átt meira eða minna í skipinu. Er Rósamunda var fyrst skráð úti í Danmmörku sem nýsmíðað skip, vorið 1881, er þó tekið fram að heimahöfn hennar sé Dýrafjörður[532] og frá Dýrafirði var hún gerð út næstu ár og áratugi. Skip þetta reyndist mjög vel,[533] enda stýrðu því oft góðir skipstjórar. Einn þeirra var Bjarni Ásgeirsson, sem um skeið bjó í Stapadal,[534] og annar Matthías bróðir hans á Baulhúsum í Arnarfirði, sem var skipstjóri á Rósamundu á árunum upp úr 1890.[535]

Elstu fyrirliggjandi heimildir sem greina nákvæmlega frá eignarhlut hvers og eins í skonnortunum Guðnýju og Rósamundu eru frá árinu 1892 en á því ári eða litlu fyrr hefur að líkindum orðið breyting á eigendahópnum. Tilkynningin um eigendur Guðnýjar er frá 3. mars 1892 en þá voru eigendur hennar fimm og áttu allir jafnan hlut.[536] Þeir voru: Guðmundur Hagalín Guðmundsson á Mýrum, Guðný Guðmundsdóttir á Mýrum, Gísli Oddsson í Lokinhömrum, Andrés Pétursson í Haukadal og F.R. Wendel verslunarstjóri á Þingeyri.[537] Í skjalinu er heimlisfanga eigendanna að vísu ekki getið og sum nöfnin jafnvel skammstöfuð en auðvelt er að ráða í þær rúnir. Eigendaskráin frá 1892 ber með sér að systkinin á Mýrum og Gísli mágur þeirra í Lokinhömrum hafa þá enn átt 60% í Guðnýju.

Eigendur Rósamundu í marsmánuði 1892 voru átta og áttu einn áttunda hluta í skipinu hver.[538] Þeir voru: Guðmundur Hagalín Guðmundsson á Mýrum, Guðný Guðmundsdóttir á Mýrum, Benedikt Oddsson í Hjarðardal í Dýrafirði, dánarbú Sveins Guðmundssonar á Bakka í Neðri-Hjarðardal sem féll frá árið 1891, séra Jón Jónsson á Stað á Reykjanesi, áður prestur á Gerðhömrum, Matthías Ásgeirsson á Baulhúsum og F.R.Wendel verslunarstjóri á Þingeyri.[539] Þarna vantar nafn Þorbjargar Snorradóttur en í bréfi, sem landshöfðingi sendi skipaskráningarkontórnum í Kaupmannahöfn 30. apríl 1896, má sjá að hún var áttundi eigandinn í mars 1892.[540] Þorbjörg átti árið 1890 heima í Meðaldal.[541] Hún er þá ekkja og sögð lifa á eignum sínum[542] en hafði verið gift Bergi Einarssyni sem var bóndi á Fjallaskaga frá 1885-1888[543] Þorbjörg var systir Sigríðar, konu séra Jóns Jónssonar sem einnig átti hlut í Rósamundu.[544] Skráin sýnir að árið 1892 hafa systkinin á Mýrum átt einn fjórða part í Rósamundu og nágrannar þeirra á Bakka og í Fremri-Hjarðardal annan fjórðung, svo enn hefur hálft skipið verið í eigu fólks úr Mýrahreppi. Síðar komust bæði Guðný og Rósamunda í eigu Gramsverslunar á Þingeyri.

Árið 1904 eru Gramsverslun á Þingeyri og F.R. Wendel verslunarstjóri hennar sögð eiga Rósamundu sem þá hafði reyndar fengið nafnið Phönix.[545] F.R. Wendel er þá líka talinn eigandi Guðnýjar í skipaskrá,[546] en ekki er þar með sagt að hann hafi átt gömlu skonnortuna einn. Guðný var gerð út frá Þingeyri á hverju ári allt til ársins 1906 eða 1908 en var þá sett upp á kamb og stóð þar í átta eða tíu ár.[547] Eftir þetta langa hlé var hún send á veiðar á ný og gerð út frá Þingeyri allt til ársins 1926 en þá eða mjög skömmu síðar var hún seld til Flateyjar á Breiðafirði og fór loks þaðan til Keflavíkur.[548] Í Keflavík var hún endursmíðuð og sett í hana hjálparvél en hélt áfram sínu gamla nafni.[549]

Phönix, sem áður hét Rósamunda, var líka gerður út frá Þingeyri í marga áratugi. Árið 1930 er Steinþór Benjamínsson á Þingeyri talinn fyrir eigendum þessarar gömlu skonnortu[550] en 4. október 1935 var hún strikuð út af skipaskrá.[551] Í Skútuöldinni segir að Phönix hafi reyndar verið endursmíðaður á Ísafirði síðar og gerður úr honum vélbátur sem fékk nafnið Ásgeir.[552]

Á því sem hér hefur verið ritað má sjá að þessar gömlu skonnortur sem Mýrafólk létu smíða í Danmörku entust báðar býsna vel og munu áður en lauk hafa skilað eigendum sínum drjúgum hagnaði.

Guðný og Rósamunda voru ekki síðustu þilskipin sem Mýramenn eignuðust að einhverju eða öllu leyti. Gils Guðmundsson segir að Mýrafólk hafi átt einhvern hlut í þilskipinu Mary sem Gramsverslun átti að verulegum hluta og gerði út.[553] Mary var lítið skip, aðeins 17 rúmlestir að stærð.[554]

Síðasta stórvirki Guðmundar Hagalíns á Mýrum í útgerðarmálum voru kaupin á Dýra. Skip þetta lét hann smíða í Tönsberg (Túnsbergi) í Noregi árið 1892.[555] Í Skútuöldinni segir að Guðmundur Hagalín hafi átt hlut í Dýra[556] og augljóst virðist að hann hafi haft forgöngu um smíði skipsins og verið aðaleigandi þess, því Sighvatur Borgfirðingur segir í dagbók sinni 6. júní 1892: Tveir þilbátar frá Noregi komu nýir, Guðrún til Lokinhamra og Dýri til Mýra.[557] Í skýrslu um afla þilskipa Dýrfirðinga árið 1892 er líka komist svo að orði að eigendur Dýra séu Guðmundur Hagalín og fleiri.[558] Um Guðrúnu sem kom til Lokinhamra hefur áður verið rætt (sjá hér Lokinhamrar) en frá Dýra er það að segja að hann var 21,85 brúttórúmlesta skip með einu siglutré.[559]

Hannes Hafstein, þá sýslumaður á Ísafirði, segir í bréfi dagsettu 17. maí 1899 að Dýri hafi verið smíðaður í Noregi fyrir nokkra bændur í Dýrafirði en maður frá norsku hvalveiðistöðinni á Höfðaodda hafi haft milligöngu um smíðina.[560] Í bréfinu tekur Hannes fram að þessi maður sé nú farinn úr landi svo að ekki sé mögulegt að afla upplýsinga um hver hafi smíðað skútuna.

Orð Hannesar Hafstein og aflaskýrslan sem áður var nefnd sýna að Guðmundur Hagalín hefur ekki átt Dýra einn en vitneskju skortir um aðra eigendur hans fyrstu árin. Ekki er ólíklegt að Kristján J. Ólafsson í Meira-Garði hafi verið einn þeirra en hann var skipstjóri á Dýra fyrsta sumarið.[561]

Dýri komst síðar að mestu eða öllu leyti í eigu Gramsverslunar á Þingeyri[562] en árið 1904 voru Jón Jónsson í Haukadal og fleiri sagðir vera eigendur hans.[563] Hér hefur áður verið sagt frá hörmulegum endalokum þessa ágæta skips sem fórst með allri áhöfn árið 1921 (sjá hér Haukadalur) en eigandi þess þá var Ólafur Guðbjartur Jónsson í Haukadal.

Á árunum 1892-1894 stóð þilskipaútgerð Mýrafólks með hvað mestum blóma, en systkinin á Mýrum áttu þá stóran hlut í þremur þilskipum eins og hér hefur verið rakið og öll höfðu þessi skip verið smíðuð fyrir forgöngu Mýramanna. Vera kann að Guðmundur Hagalín og Guðný systir hans hafi líka átt hlut í einu skipi enn á þessum árum og er þá átt við Mary sem hér var áður nefnd.

Árið 1892 var afli þilskipaflotans sem Mýramenn áttu hlut í sem hér segir: Rósamunda 28.200 fiskar, Dýri 12.749 fiskar og Guðný 342 ½ tunna af hákarlslifur.[564] Fjórtán til sextán menn voru þá í áhöfn Rósamundu en átta á Dýra og Guðnýju.[565] Rósamunda og Guðný hófu veiðar um páska[566] en Dýri kom ekki til heimahafnar frá Noregi fyrr en 6. júní eins og áður var sagt og mun hafa hafið veiðar um 12. júní.[567] Öll munu skipin hafa verið að veiðum fram á haust. Um miðja 19. öld voru 100 fiskar taldir álíka verðmætir og ein tunna af hákarlslýsi,[568] og hafi hlutfallið þarna á milli verið eitthvað svipað fjörutíu árum síðar hefur Guðný verið með mesta aflaverðmætið.

Síðla hausts árið 1894 féll Guðmundur Hagalín frá, rétt liðlega fimmtugur að aldri. Úr því mun fljótlega hafa farið að dofna yfir skútuútgerðinni á Mýrum. Vorið 1895 tók Friðrik Bjarnason við búsforráðum þar en hann var giftur Ingibjörgu Guðmundsdóttur, yngstu systur Guðmundar Hagalíns. Guðný Guðmundsdóttir, ekkja Guðmundar Sigurðssonar skipstjóra og systir Ingibjargar, dvaldist áfram á Mýrum, og þó nokkuð drægi úr umsvifum í útgerðinni þá áttu þau Friðrik og Guðný mágkona hans hlut í þilskipum mörg næstu ár. Skráningarskjöl frá landshöfðingjaembættinu sýna að 25. október 1898 eru eigendur Dýra sagðir vera Friðrik Bjarnason á Mýrum og fleiri.[569]

Í hreppaskilabók fyrir Mýrahrepp sést að Friðrik á Mýrum á jafnan einn áttunda part í þilskipi á árunum 1903 til 1906.[570] Það skip er að vísu sagt vera minna en 21 smálest[571] en þó er líklegt að þetta sé Dýri og kynni þarna að vera miðað við nettórúmlestir. Guðný Guðmundsdóttir á Mýrum er á þessum sömu árum líka sögð eiga einn áttunda í þilskipi er sé 20 smálestir eða minna og auk þess átti hún þá einn fimmta part í stærra þilskipi.[572] Mjög líklegt verður að telja að minna skipið sem Guðný átti hlut í á þessum árum hafi verið Dýri en stærra skipið aftur á móti nafna hennar, skonnortan Guðný. Ef svo er þá hefur eignarhlutur hennar í því skipi verið sá sami árið 1905 og hann var 1892 (sjá hér bls. 69 og 70) og styrkir það tilgátuna.

Í hreppaskilabókinni sem hér var síðast vitnað til verður ekki séð að Mýrafólk hafi átt hlut að skútuútgerð eftir 1906 en Guðný heiðursekkja á Mýrum andaðist 6. maí 1907.[573]

Hér var áður minnst á þann son Guðmundar Brynjólfssonar á Mýrum sem sigldi ungur til verslunarnáms í Kaupmannahöfn, gerðist kaupmaður í Flatey á Breiðafirði og hafði milligöngu um smíði skonnortunnar Rósamundu úti í Danmörku. Þetta var Jón Guðmundsson og þess verður að geta hér að á búskaparárum systkina hans á Mýrum kom hann um skeið árlega á vöruskipi sínu í Dýrafjörð og átti þar viðskipti við heimafólk. Oft lagði hann vöruskipinu við Mýramel eins og sjá má í dagbókum Sighvats Borgfirðings og hafa þá verið hæg heimatökin hjá körlum og konum á Mýrum að versla þar við sinn eigin bróður, örskammt undan landi. Ekki er ólíklegt að þarna hafi Mýrafólk átt kost á mjög hagstæðum viðskiptum og af dagbókum Sighvats má ráða að aðrir Dýrfirðingar hafi líka verslað þó nokkuð við þennan lausakaupmann sem margir þeirra þekktu vel frá uppvaxtarárum hans á Mýrum.

Í sóknarmannatali frá árinu 1877 er Jón Guðmundsson sagður vera kaupmaður í Flatey.[574] Hann var þá kvæntur Jófríði, dóttur Sigurðar Jónssonar, kaupmanns í Flatey, sem þá var látinn.[575] Móðir Jófríðar var Sigríður, laundóttir Brynjólfs Benedictsen, kaupmanns í Flatey, og eina barn hans sem náði að verða fullorðið.[576] Engin sóknarmannatöl úr Flatey hafa varðveist frá árunum 1878-1881 en í aðalmanntalinu frá 1880 er Jón og Jófríði ekki að finna meðal íbúa Flateyjar og ekki heldur í sóknarmannatölum frá árunum 1882-1884.[577] Á árunum 1885, 1886 og 1887 eru Jón og Jófríður hins vegar alltaf talin heimilisföst í Flatey og hann er þá titlaður kaupmaður í sóknarmannatölum eins og verið hafði árið 1877.

Í prestsþjónustubókum Flateyjarprestakalls verður ekki séð hvert Jón frá Mýrum og fjölskylda hans fluttust er þau hurfu frá Flatey og þar er heldur ekki unnt að sjá hvaðan þau komu er þau settust þar að á ný.[578]

Sighvatur Borgfirðingur kennir Jón kaupmann nær alltaf við Flatey, er hann minnist á komur hans til Dýrafjarðar á árunum 1880-1884,[579] og sýnir það að Jón hefur ekki gerst kaupmaður á einhverjum öðrum verslunarstað hérlendis er hann fluttist með fjölskyldu sína frá Flatey rétt fyrir 1880. Nær fullvíst má því telja að hann hafi verið búsettur úti í Kaupmannahöfn á árunum 1880-1884 og haft þá svipað lag og danskir Íslandskaupmenn sem sátu í Danmörku á veturna en komu hingað til lands á vorin. Verslun sína í Flatey kynni hann þó að hafa rekið sem áður á þessum árum.

Dagbækur Sighvats sýna að á árunum 1880-1887 hefur Jón komið á hverju sumri í Dýrafjörð á skipi sínu og átt þar viðskipti.[580] Sem dæmi má nefna að vorið 1881 er Jón kominn í Dýrafjörð strax í maímánuði og þar var hann enn 21. júlí á því ári.[581] Þann 10. ágúst 1882 kom Jón á skipi sínu að Mýramel og 10. júní 1883 var vöruskip hans dregið inn á Dýrafjörð aftan í norsku síldarveiðagufuskipi.[582] Árið 1884 hefur Jón e.t.v. ekki verið sjálfur með skipinu en þá er það Andrés úr Flatey sem selur bankabygg, kaffi og sykur fyrir ull úti á skipi hans.[583]Jón Guðmundsson frá Flatey kom til lausakaupa á skipi sínu að Mýramelnum, skrifar Sighvatur enn 13. júní 1886.[584] Úr því fór ferðum þessa ágæta kaupmanns hins vegar að fækka. Hann kom að vísu á Dýrafjörð eins og venja var sumarið 1887[585] en sú ferð hans þangað varð hin síðasta. Þann 21. janúar 1888 frétti Sighvatur Borgfirðingur á Höfða lát hans og segir hann hafa andast þann 16. sama mánaðar.[586] Flateyjarprestur segir andlátið hafa borið að einum degi fyrr.[587]

Guðmundur G. Hagalín rithöfundur getur þess að Jón hafi lært verslunarfræði í Kaupmannahöfn (sbr. hér bls. 55-56) og átt tvö skip er hann flutti á vörur milli landa.[588] Hann segir að þessi afabróðir sinn hafi verslað mikið við frændur og sveitunga vestra og verið orðinn stórauðugur maður á íslenska vísu er hann andaðist liðlega fertugur að aldri.[589] Sami höfundur greinir einnig frá því að þegar Jón dó hafi allmikil hreyfing komist á í Dýrafirði um stofnun kaupfélags þar eð verslun þótti versna svo að vart væri við unandi.[590] Sjálfsagt er að taka þessu með fyrirvara þar eð náinn ættingi lausakaupmannsins festir orðin á blað. Engu að síður er það staðreynd að liðlega tveimur mánuðum eftir andlát Jóns var boðað til fundar á Mýrum um stofnun pöntunarfélags[591] og árið 1889 áttu Dýrfirðingar mikil viðskipti við kaupfélagið sem stofnað var á Ísafirði árið 1888.[592] Vel má því vera að andlát Jóns Guðmundssonar hafi ýtt undir menn að leita nýrra úrræða í verslunarmálum og forða því að Gramsverslun næði að setja mönnum stólinn fyrir dyrnar og verða einráð um allt verðlag á erlendum vörum og innlendum afurðum.

Bræðurnir fimm sem uxu úr grasi á Mýrum um miðbik 19. aldar þóttu allir efnilegir í æsku en enginn þeirra náði að kemba hærurnar. Brynjólfur skipstjóri dó liðlega þrítugur árið 1869 (sjá hér bls. 60), Guðmundur Franklín búfræðingur andaðist 25 ára gamall árið 1881 (sjá hér bls. 61-62) og Jón kaupmaður í Flatey burtkallaðist liðlega fertugur í janúar 1888. Þá stóðu þeir tveir eftir, Guðni læknir á Borgundarhólmi og Guðmundur Hagalín bóndi á Mýrum. Mörg skörð og stór hafði dauðinn höggvið í raðir Mýrafólks á árunum 1880-1890 eins og hér hefur áður verið að nokkru rakið og í þeim efnum varð lítið hlé á næstu árin.

Haustið 1893 andaðist Rósamunda Oddsdóttir, kona Guðmundar Hagalíns,[593] og mun hann þá fljótlega hafa farið að svipast um eftir konuefni, enda aðeins fimmtugur að aldri. Að sögn kunnugra lagði hann hug á unga stúlku sem María hét Sigmundsdóttir og var hún frá Hrauni á Ingjaldssandi,[594] fædd 1870. Haustið 1894 hafði brúðkaupsdagur þeirra verið ákveðinn. Nokkrum dögum áður en halda átti brúðkaupið fór Guðmundur Hagalín yfir í Haukadal að sækja eitthvað sem vantaði í veisluna.[595] Með honum í þeirri för voru Sigurður Bjarnason, sem þá var alveg nýlega sestur að á Bessastöðum, rétt innan við Mýrar (sjá hér bls. 52), og kona Sigurðar er Sigríður hét Guðbjartsdóttir.[596]

Guðmundur Hagalín rithöfundur, dóttursonur Guðmundar Hagalíns á Mýrum, segir svo frá atburðum:

 

Um kvöldið, þegar fólk var tekið að vænta Hagalíns og förunauta hans, gekk eitthvað af heimilismönnum á Mýrum út í Hrólfsnaust. Var gustur út fjörðinn og gekk á með éljum og var þá hvassara en ella. Þegar fólkið hafði staðið stundarkorn í fjöru gerði sortaél – og rak á ærið snarpar vindhviður. Allt í einu heyrðist glögglega kallað með rödd Guðmundar Hagalíns: „Fíraðu seglinu!” Þetta var það seinasta sem til hans heyrðist. Hinn mikli sægarpur og afburða stjórnari drukknaði þarna uppi í landsteinum, ásamt hjónunum sem með honum voru. Var talið líklegt að dragreipið hefði frosið fast í blökkinni og vindhviðan hvolft bátnum.[597]

 

Það var 30. október 1894 sem Guðmundur Hagalín og förunautar hans drukknuðu.[598] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur var líka á ferð yfir Dýrafjörð þennan sama dag, frá Þingeyri að Höfða, og lýsir veðrinu svo í dagbók sinni: Fórum heim til okkar yfir rétt fyrir dagsetur og fengum norðan harðviðrisveður á móti með frosti og kafaldsbyl.[599] Tveimur dögum síðar ritar Sighvatur í dagbókina á þessa leið:

 

Ég lét í meisa. Þegar ég var búinn að láta í fyrri meisinn og byrjaði að leysa í hinn heyrði ég þar sem ég var inni í hlöðunni svo óttalegt hljóð eða vein að um slíkt hljóð hafði ég enga hugmynd fyrri. …… Hljóðið heyrðist mér vera inni í hlöðunni, hátt, þeim megin sem að sjónum snýr. Ég hætti við um stund litla að láta í meisana og fór heim í bæ. … Rétt á eftir kom Pétur minn utan úr Ystabæ [þ.e. Ystabæ á Höfða – innskot K.Ó.] og sagði þau tíðindi að í fyrradag hefði Hagalín, bóndi á Mýrum, Sigurður húsmaður á Bessastöðum og kona hans Sigríður Guðbjartsdóttir, farið yfir í Haukadal en drukknað öll á heimleið um kvöldið 30. fyrra mánaðar á skektu sem Hagalín fékk í vor hjá Berg, – á sama tíma og við Pétur [þ.e. Pétur sonur Sighvats – innskot K.Ó.] vorum að koma handan að um kveldið. [600]

 

Er Guðmundur Hagalín drukknaði mun mörgum hafa þótt sem orðið hefði héraðsbrestur en slíkar hugrenningar fólks nægja þó varla til að skýra hið óttalega hljóð sem Sighvatur heyrði þegar hann var að láta í meisana.

Hér skal nú brátt staðar numið enda var skammt til aldamóta þegar Guðmundur Hagalín týndi lífi. Allir synir Guðmundar Brynjólfssonar voru nú fallnir frá nema Guðni sem var læknir úti í Danmörku. Ekki var þess að vænta að hann tæki við búsforráðum á Mýrum. Eitt tromp átti ættin þó enn eftir á hendinni, Ingibjörgu sem var yngsta barn Guðmundar Brynjólfssonar og Guðrúnar konu hans frá Sellátrum. Ásamt manni sínum, Friðriki Bjarnasyni frá Hamarlandi í Reykhólasveit, hafði Ingibjörg búið um nokkurra ára skeið í Meira-Garði, næsta bæ við Mýrar, og vorið 1895 tóku þau við búi á Mýrum. Þar var ekki tjaldað til einnar nætur því búskaparár þeirra hér urðu þrjátíu og fjögur (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 279). Nær allan þann tíma bjuggu Friðrik og Ingibjörg á allri jörðinni, ef frá eru talin Bessastaðir og Miðhlíð. Síðustu fjögur búskaparár þeirra hjóna höfðu leiguliðar þó stóran hluta af jörðinni til ábúðar.[601]

Frá Friðriki og Ingibjörgu verður fátt sagt á þessum blöðum, enda heyra flest búskaparár þeirra á Mýrum 20. öldinni til. Þau hafa að líkindum kynnst í Flatey en þar voru þau bæði, ungar og  ógiftar persónur, á heimili Jóns Guðmundssonar kaupmanns, bróður Ingibjargar, árið 1887.[602] Á yngri árum starfaði Friðrik mikið við smíðar og er alloft nefndur snikkari á sínum fyrstu árum í Dýrafirði.[603] Hann gegndi síðar margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína, var lengi oddviti og sýslunefndarmaður og hreppstjóri í 30 ár.[604] Heimili þeirra Friðriks og Ingibjargar á Mýrum var löngum fjölmennt, enda var bú þeirra stórt og umsvifin margþætt. Þann 1. nóvember 1901 voru heimilismennirnir 26, þó lítið væri um börn, og bera þeir ýmsa titla í manntali sem þá var tekið.[605] Einn er t.d. sagður vera járnsmiður, annar sjómaður og svo er líka í hópnum kona sem stundar fiskvinnu.[606]

Á Mýrum héldu þau Friðrik og Ingibjörg uppi rausn í þriðjung aldar með líkum brag og áður var. Er Ingibjörg húsfreyja á Mýrum andaðist sumarið 1929 voru 118 ár liðin frá því afi hennar, Brynjólfur Hákonarson, tók þar við búsforráðum (sjá hér bls. 53-54). Allan þann tíma höfðu ættmenn hennar setið hið forna höfuðból og verið í fremstu röð bænda við Dýrafjörð. Friðrik Bjarnason hætti búskap á Mýrum þegar kona hans féll frá. Þau áttu þá aðeins eitt barn á lífi, Guðrúnu sem giftist Carli Rydén, kaupmanni í Reykjavík.[607]

Árið 1936 hófu Gísli Vagnsson og Guðrún Jónsdóttir búskap á Mýrum og í janúar 1937 seldi Carl Rydén Gísla jörðina.[608] Þá voru liðin nær 400 ár frá því Jón Arason biskup á Hólum lét Mýrar af hendi við Bjarna Narfason (sjá hér bls. 18-19 og 23) en allan þann tíma hafði jörðin aðeins verið seld tvisvar sinnum, árið 1618 þegar Jón Magnússon keypti hana (sjá hér bls. 23-24) og svo aftur 1810 er Brynjólfur Hákonarson keypti (sjá hér bls. 31, 46 og 53-54). Slík fullyrðing fær þó því aðeins staðist að horft sé fram hjá kaupum og sölum náinna ættingja sín á milli á einhverjum pörtum úr jörðinni. En þrátt fyrir þann fyrirvara er hér harla skammt milli Gísla Vagnssonar og gamla Hólabiskupsins.

Sá sem staldrar við á Mýrum einn góðan veðurdag á margra kosta völ. Einn er sá að rölta upp með Kýrá og fram Vatnadal en þar mun vera dálítið stöðuvatn, ærið djúpt.[609] Það var gamalla manna sögn að nykur væri í vatni þessu. Átti hann að hafa sést nokkrum sinnum og þess voru dæmi að hann reyndi að draga smalapilta í vatnið.[610] Eitt sinn fór smali frá Mýrum eða Garði á bak nykurhestinum sem tók þá strax strikið í átt að vatninu. Er pilturinn skildi hver skepnan var tók hann að ákalla skaparann og náði á síðustu stundu að kasta sér af baki áður en reiðskjótinn steypti sér í vatnið og hvarf.[611]

Við látum gönguferð um Vatnadal þó bíða betri tíma en tökum þann kost að ganga niður að Vaðlinum og líta á Kakalanaust sem áður var frá sagt (sjá hér bls. 12). Þaðan liggur leið okkar út að Hrólfsnaustum, hinum forna lendingarstað Mýramanna við innri enda Mýrafells. Ef steinarnir í tóttabrotunum á þessum stað hefðu mál kynnu þeir frá mörgu að segja. Það var hér í Hrólfsnaustum sem Sigurður Halldórsson, vinnumaður á Mýrum, stóð að kvöldi 30. október 1894 þegar hann heyrði húsbónda sinn, Guðmund Hagalín, kalla úti í hríðarsortanum þau orð sem hann mælti síðust: Fíraðu seglinu![612]

Það var líka hér í Hrólfsnaustum sem nýnefndur Sigurður sá fjörulalla eitt kvöld á jólaföstu þegar tungl var í fyllingu og óð í skýjum. Sigurður sagði svo frá síðar að dýrið hefði verið stríhært, gráleitt, með stutta rófu (á að giska á [við K.Ó.] konungsnef ) og á stærð við stóra kind en lágfættara og hringlaði í því er það hreyfði sig.[613]

Haustið 1899 var Jóhannes Guðmundsson, húsmaður á Bessastöðum innan við Mýrar við sjóróðra frá Hrólfsnaustum á bát sem svili hans, Kristján Ólafsson í Meira-Garði átti. Jóhannes var formaður á bátnum en fimm menn voru í áhöfninni.[614] Um klukkan fjögur síðdegis þann 10. október voru þeir Jóhannes að koma úr róðri og sjá þá hvar tveir menn koma ríðandi og stefna til þeirra í fjöruna.[615] Í ljós kom að þarna voru á ferð Hannes Hafstein sýslumaður og Guðjón Sólberg Friðriksson, búðarmaður við verslun Matthíasar Ólafssonar í Haukadal. Sýslumaður var hingað kominn í brýnum erindagerðum.

Undanfarna daga hafði breski togarinn Royalist frá Hull verið að ólögmætum veiðum inni á Dýrafirði og togaði þar út og inn fjörðinn, stundum alveg uppi í landsteinum.[616] Enda þótt Dýrfirðingar væru ýmsu vanir í þessum efnum ofbauð mörgum framferði skipstjórans á Royalist og daginn áður, þann 9. október, hafði Guðjón Sólberg verið sendur frá Haukadal norður á Ísafjörð til að freista þess að fá sýslumann til að koma vestur og stöðva hin grófu landhelgisbrot.[617]

Er Hannes kom í fjöruna sneri hann sér strax til Jóhannesar á Bessastöðum og bað um flutning út í togarann. Að sögn Hannesar var Jóhannes dálítið tregur til,[618] enda hefur hann ugglaust gert sér ljóst að á ýmsu mátti eiga von ef reynt yrði að fara um borð. Hann lét þó til leiðast. Með Jóhannesi fóru hásetar hans þrír og einnig Guðjón Sólberg sem sótt hafði sýslumann á Ísafjörð. Báturinn var lítið fjögra manna far.[619] Veðrinu þennan októberdag lýsir Sighvatur Borgfirðingur á Höfða í dagbók sinni og segir: Norðan stormhvass en hvessti mikið seinni partinn og fyllti sig allur með kafaldi og kulda.[620]

Ekki mun hafa sést til togarans frá Hrólfsnaustum en nú var bátnum ýtt úr vör og dregið upp segl.[621] Skammt frá landi sáu þeir togarann og var hann þá á leið inn fjörðinn. Er báturinn kom nær röðuðu menn úr áhöfn togarans sér upp út við borðstokkinn og höfðu barefli í höndum.[622] Hannes sýslumaður var í einkennisbúningi en yst fata var hann í síðum frakka.[623] Hann hafði hugsað sér að komast um borð í togarann án þess einkennisbúningurinn sæist. Þetta taldi hann geta heppnast því sendimaðurinn úr Haukadal hafði sagt honum að einstaka menn úr Dýrafirði hefðu farið út í þennan togara síðustu daga og komist þar óáreittir um borð.[624] Aftur á móti vissi Hannes að við öllu mátti búast ef hina erlendu veiðiþjófa grunaði að það væri sjálft yfirvaldið sem leitaði uppgöngu í skip þeirra. Fáum dögum áður hafði umboðsmaður sýslumanns reynt að komast um borð í breskan landhelgisbrjót norður í Aðalvík en verið meinuð uppganga og hafði áhöfn þess togara notað barefli og sjóðandi vatn í þeirri viðureign. Um þetta var Hannesi kunnugt er hann reið sjálfur af stað til Dýrafjarðar.[625]

Er sýslumaður sá skipverja á Royalist munda bareflin gerði hann sér ljóst að þeir hlytu að hafa einhvern pata af því hver þar væri á ferð og að ætlunin væri að meina sér að komast um borð. Er báturinn var kominn mjög nálægt togaranum stóð Hannes upp, hneppti frá sér frakkanum og sýndi einkennisbúninginn.[626] Hann kallaði til þeirra sem stóðu út við lunningu á togaranum, krafðist viðtals við skipstjórann og þess að fá að sjá skipsskjölin.[627] Togaramennina ávarpaði hann ýmist á dönsku eða ensku en þeir létu orð hans sem vind um eyru þjóta.

Báturinn barst nú aftur með síðu togarans en varpan var úti og fylgdarmenn sýslumanns náðu taki á vírstrengnum sem stóð aftur úr skipinu.[628] Þá var ár skotið frá togaranum ofan í bátinn og litlu síðar var slakað snöggt á vírstrengnum en síðan kippt strax í hann aftur.[629] Við þessar sviptingar fylltist bátkænan og stakkst á endann en allir sem þar voru fóru í sjóinn.[630]Guð hjálpi mér, þeir eru að sökkva bátnum, heyrði Hannes einn sinna manna kalla upp þegar slakað var á togvírnum og gerði hann sér þá grein fyrir því hvernig komið var.[631]

Tveir mannanna sem í bátnum voru, þeir Guðjón Sólberg Friðriksson úr Haukadal og Jón Gunnarsson, vinnumaður á Mýrum, náðu að hanga á bátnum sem maraði í kafi og var þeim að lokum bjargað. Hinir fjórir urðu strax viðskila við bátinn og enginn þeirra mun hafa kunnað að synda nema sýslumaður einn. Tveimur mannanna sem með honum fóru í sjóinn reyndi Hannes í fyrstu að halda á floti og bar það síðar fyrir rétti að unnt hefði verið að bjarga þeim báðum ef björgunarhringum hefði verið kastað frá togaranum til þeirra strax.[632] Frá áhöfn togarans varð hins vegar lengi vel ekki vart neinnar viðleitni til björgunar. Klæðnaður Hannesar gerði honum mjög erfitt fyrir og þrek hans dvínaði skjótt. Hann reyndi þó að synda að skipshliðinni og loks var hent til hans kaðalspotta sem hann náði að tvívefja um handlegg sér.[633] Þannig var hann dreginn að skipshlið en síðan var krækt í hann með stjaka og honum kippt inn fyrir borðstokkinn.[634] Hann var þá gjörsamlega þrotinn að kröftum en þó með meðvitund.[635] Á þilfari togarans var sýslumaður lagður á grúfu ofan á tunnu sem þar stóð en kenndi þá mjög til og velti sér sjálfur niður á þilfarið.[636] Einn skipsmanna tók þá úr skeiðum hníf sem festur var við einkennisbúning Hannesar og otaði að honum hnífnum þar sem hann lá og gat enga björg sér veitt.[637]

Er bátur sást koma úr landi frá Haukadal var bjarghring loks kastað frá togaranum til mannanna tveggja sem enn voru á lífi en hinir þrír voru þá drukknaðir. Þeir sem þarna létu lífið voru Jóhannes Guðmundsson, húsmaður á Bessastöðum, sem var formaður á bátnum, Jón Þórðarson, vinnumaður í Meira-Garði, og Guðmundur Jónsson, sonur húshjóna á Bakka í Neðri-Hjarðardal.[638] Jóhannes var á fertugsaldri og lét eftir sig konu og þrjú ung börn, Jón var 48 ára og lét eftir sig eiginkonu en Guðmundur á Bakka var aðeins 19 ára.[639]

Guðmundur Eggertsson í Höll í Haukadal stóð með kíki við gaflinn á skemmu sinni þegar Jóhannes á Bessastöðum kom með sýslumann að togaranum og sá hann þegar bátnum hvolfdi.[640] Á samri stundu þaut hann af stað og hljóp niður allan Veitugarð, − maður á sextugsaldri − , í átt að innri vörinni í Haukadal þar sem hann átti von á að menn væru staddir við báta sína.[641] Son sinn Eggert sendi hann með skilaboð um atburðinn niður Sjóargarð í átt að ytri vörinni en þar hafði Ólafur Guðbjartur Jónsson í Miðbæ í Haukadal lent fyrir skammri stundu, kominn úr róðri.[642] Ólafur Guðbjartur reri þetta haust á sexæring sem þótti þungur í vöfum. Er honum bárust skilaboðin um slysið úti á firðinum brá hann samstundis á það ráð að láta hrinda fram Hallar-skipinu, Hreggviði, sem var léttari og hentaði því betur þegar róa þurfti lífróður.[643]

Sex menn fóru með Ólafi út að togaranum, allt vaskir úrvalsmenn og á besta aldri. Örskömmu síðar lagði annar bátur frá landi úr innri vörinni í Haukadal, − Aðaljón sem þeir áttu saman Aðalsteinn í Hraun og Jón skipstjóri í Vésteinsholti.[644] Enginn sérstakur formaður var á þeim bát í ferðinni út að togaranum.[645]

Þegar Ólafur Guðbjartur og menn hans komu að togaranum hafði hann numið staðar svo þeir komust auðveldlega um borð og segir sagan að Sigurður Jónsson á Húsatúni í Haukadal, sem var einn ræðaranna á Hreggviði, hafi þá þegar þrifið stálkefli sem lá á þilfarinu, reitt það til höggs og hrópað upp: Hver sem vogar sér að þjalla meira að Hannesi Hafstein en orðið er skal fá þetta kefli í hausinn.[646]

Á Hreggviði voru þeir allir þrír fluttir í land, Hannes sýslumaður, Guðjón Sólberg og Jón Gunnarsson.[647] Allir voru þeir þrekaðir og var því róinn lífróður í land. Ólafur Guðbjartur stýrði og sat undir herðum og höfði sýslumanns sem virtist nær dauða en lífi.[648] Lík Jóhannesar á Bessastöðum og Guðmundar Jónssonar fundust ekki en líki Jóns Þórðarsonar náðu skipverjar á Aðaljóni, hinum bátnum frá Haukadal, og fluttu það í land.[649]

Úr fjörunni í Haukadal var Hannes Hafstein borinn upp í hús Matthíasar Ólafssonar og dvaldist þar í nokkra daga meðan hann var að jafna sig. Hann var illa haldinn fyrstu dagana, sagði Matthías síðar, og kenndi því mest um, hve hann sætti ómjúkri meðferð af skipverjum á togaranum. En það var þykka frakkanum að þakka að þeir særðu hann ekki er þeir drógu hann upp í skipið á krókstjakanum.[650]

Er Ólafur Guðbjartur hafði tekið við mönnunum þremur, sem björguðust naumlega úr volki því er hér var frá sagt, sigldi Royalist til hafs og þar með var skipstjórinn, sem þyngsta ábyrgð bar á atburðum dagsins, horfinn á braut.

Eins og áður sagði var Hannes sýslumaður nokkuð lengi að jafna sig eftir þá þrekraun sem hér var lýst. Hann hóf þó mjög fljótlega vitnaleiðslur[651] og fjórum dögum eftir áfallið var hann kominn inn á Þingeyri.[652] Embættisbókin með vitnaleiðslunum frá því í október 1899 mun nú vera glötuð en þar sem Hannes sýslumaður var sjálfur málsaðili mun hafa þótt við hæfi að láta annan lögfræðing annast rannsókn málsins. Til þess starfa var kvaddur Einar Benediktsson skáld, sem þá var starfandi málflutningsmaður við landsyfirréttinn í Reykjavík. Einar kom vestur í febrúarmánuði árið 1900 og hóf þá þegar sína réttarrannsókn sem beindist að því að fá fram skýra mynd af framferði skipverja á Royalist og þeirri spurningu svarað hvort þeir hefðu beinlínis eða óbeinlínis verið valdir að dauða mannanna þriggja sem drukknuðu 10. október. Meðal þeirra sem Einar yfirheyrði í þessari ferð sinni voru Hannes Hafstein og hinir mennirnir tveir sem björguðust naumlega úr háskanum. Allar þessar vitnaleiðslur Einars eru varðveittar[653] og hefur hér verið á þeim byggt.

Í yfirheyrslum Einars kom fram skýring á því hvers vegna skipverjar á Royalist hefðu vitað fyrirfram að sýslumanns væri von og að hann væri í bátnum sem til þeirra stefndi frá Hrólfsnaustum hinn örlagaríka dag. Við réttarhald sem fram fór í Haukadal þann 21. febrúar greindi Kristján Andrésson í Meðaldal frá því að hann hefði átt nokkur viðskipti við skipverja á Royalist og m.a. farið þangað um borð fáum klukkustundum áður en sýslumaður kom.[654] Með honum voru þá tveir ungir piltar sem þá áttu heima í Meðaldal og skýrði Kristján svo frá að síðar hefði hann komist að því að annar þessara pilta hefði sagt íslenskum manni sem var í áhöfn breska togarans að von væri á sýslumanni.[655] Við vitnaleiðslur Einars Benediktssonar á Ísafirði þann 17. febrúar skýrði Hannes Hafstein einnig frá því að íslenskur maður hefði verið í áhöfn togarans og sagði hann heita Valdimar Rögnvaldsson.[656] Einnig lét Hannes þess getið að Valdimar þessi hefði örugglega þekkt sig strax og báturinn nálgaðist enda þótt frakkinn hyldi einkennisbúninginn þar til komið var að skipshlið.[657] Í annarri heimild er því reyndar haldið fram að Valdimar hafi áður verið vinnumaður hjá Hannesi á Ísafirði.[658] Maður þessi mun hafa verið úr Reykjavík en búsettur í Keflavík á Suðurnesjum árið 1899.[659]

Í hópi þeirra sem Einar Benediktsson yfirheyrði voru mennirnir tveir sem verið höfðu á bátnum með Hannesi en komust lífs af, þeir Guðjón Sólberg Friðriksson í Haukadal og Jón Gunnarsson á Mýrum. Báðir töldu þeir sér óhætt að fullyrða að bátnum hafi verið sökkt af ráðnum hug og Guðjón staðhæfði að alls engar björgunartilraunir hafi verið gerðar fyrr en togaramenn sáu að bátarnir frá Haukadal voru lagðir af stað.[660] Í fregnmiða sem út var gefinn í Reykjavík skömmu eftir hinn hörmulega atburð á Dýrafirði segir að skipverjar á Royalist hafi horft á mennina í sjónum í a.m.k. 6 til 10 mínútur án þess að hreyfa legg eða lið til björgunar,[661] og er sú frásögn í fullu samræmi við framburð vitna.[662] Skipstjórinn á togaranum Royalist hét Carl August Nilsson[663] og mun hafa verið sænskur að ætt ef marka má fyrrnefndan fregnmiða sem út var gefinn í Reykjavík.[664]

Er Nilsson skipstjóri sigldi út úr mynni Dýrafjarðar síðla dags þann 10. október 1899 hefur hann að líkindum talið sig sloppinn úr greipum réttvísinnar enda þótt flestir Dýrfirðingar og margir aðrir teldu hann síðar sekan um að hafa með hrottaskap valdið dauða þriggja manna. En hafi hann gert sér vonir um að sleppa þá fór hér á annan veg. Einum mánuði síðar var hann tekinn fyrir landhelgisbrot við strendur Jótlands og skip hans fært til hafnar í Danmörku.[665] Í dönskum blöðum var skýrt frá nafni og númeri skipsins og bar þá frétt fyrir augu Tryggva Gunnarssonar bankastjóra sem þá var staddur í Kaupmannahöfn. Tryggvi var móðurbróðir Hannesar Hafstein og var hann fljótur að átta sig á því að þarna væri um sama togaraskipstjóra að ræða og þann sem frændi hans hafði átt í höggi við á Dýrafirði.[666] Að ábendingu Tryggva var Nilsson skipstjóri nú látinn svara til saka úti í Danmörku fyrir sína ofstopafullu framkomu við Hannes Hafstein og Dýrfirðingana sem liðsinntu honum við skyldustörf.[667] Fékk hann þriggja ára fangelsisdóm og sat inni um skeið.[668] Er hann losnaði úr tugthúsinu sneri Nilsson aftur til Englands og var fyrr en varði gerður á ný að skipstjóra á breskum togara. Þau urðu hins vegar örlög hans að drukkna við Grindavík í sinni fyrstu veiðiferð á Íslandsmið eftir fangavistina,[669] og munu ýmsir hafa talið að þar hlyti hann makleg málagjöld.[670]

Jóhannes Guðmundsson á Bessastöðum átti þrjú ung börn heima á palli er hann lagði upp í sína hinstu för úr vörinni hér í Hrólfsnaustum við hlið Hannesar Hafstein. Ekkja hans, Sólveig Þórðardóttir, var dugmikil kona. Hún fluttist skömmu eftir slysið með börn sín að Meira-Garði og þar er hún sögð húsmóðir í manntalinu frá 1. nóvember 1901. − Saumar og hefur styrk frá einstaka mönnum, stendur þar við nafn hennar.[671] Öll börnin voru þar hjá henni[672] og við skulum vona að samhjálp góðra granna hafi bjargað henni frá því að þurfa að leysa heimilið upp.

Í Hrólfsnaustum ríkir nú kyrrð og friður. Héðan er sjaldan ýtt úr vör og enginn flengríðandi sýslumaður sést þeysa yfir melinn þá stuttu stund sem við dveljum hér hjá fornum tóttum við jaðar Mýrafells. En það er erfitt að slíta sig burt frá þessum stað. Töfrar hans eru margslungnar og eiga djúpar rætur í sögu horfinna kynslóða og náttúrunni sem er söm við sig.

Ekki var ætlunin að ganga héðan út fjöruna undir Mýrafelli en nú tökum við samt þann kost að reika spölkorn út með fellinu, að Forvaðanum þar sem sæta verður sjávarföllum til að komast út fyrir fellið. Inn og upp af honum er nokkurt graslendi sem heitir Flatir. Á þeim er allstór einstakur steinn og heitir Skyrsteinn en leiðin úr fjörunni upp að honum ber nafnið Skyrgangur.[673] Í kringum Skyrstein er vel gróin landræma ofan við sjávarklettana en neðan við hlíðarfótinn. Steinninn stendur skammt ofan við brún hárra fjörukletta, andspænis þeim punkti handan fjarðarins sem liggur nokkurn veginn mitt á milli Haukadals og Meðaldals. Frá Mýrum er liðlega hálftíma gangur út að Skyrsteini. Steinninn er ekki hár en allmikill um sig, nokkuð flatur að ofan og á hliðinni sem upp snýr eru á honum a.m.k. þrjár skálar, ein þeirra þó greinilega stærst og er hún innantil á steininum. Sagnir herma að hér á Flötunum hafi fyrir langa löngu verið haft í seli, máske frá einhverri hjáleigunni á Mýrum, og skyrið þá verið flutt á báti úr fjörunni neðan við Skyrstein og inn í Mýramel.[674]

Rétt innan og ofan við Skyrstein, uppi við hlíðarfótinn, er grjóthlaðin tótt sem líklegt er að hafi verið einhvers konar rétt. Tótt þessi er um það bil 5 metrar á lengd og um 2 metrar á breidd en þó svolítið mjórri framantil. Frá innri vegg hennar má greina ummerki um hleðslu sem legið hefur í átt til sjávar en virðist þó ekki hafa náð fram á bakkabrúnina. Ætla má að garður þessi hafi átt að veita aðhald þegar fé var rekið í réttina. Engar aðrar tóttir eru sjáanlegar á þessum stað við fljótlega skoðun.

Innanvert við mitt Mýrafell, upp af Hvannaleitisklettum sem eru spölkorn fyrir innan Skyrgang, er svo Skipsteinn sem líka er skoðunarverður.[675] Hann er stór og flatur en allmjög jarðsiginn.[676] Sumir töldu að Skipsteinn drægi nafn af lögun sinni sem ekki er óáþekk skipi á hvolfi.[677] Aðrir vildu hins vegar meina að steinninn héti þessu nafni af því að hingað hefðu menn gengið á vorin til að svipast um eftir kaupförum ef komu þeirra seinkaði sem oft vildi verða.[678] Frá Skipsteini er gott að horfa í vesturátt og sér þaðan langt á haf út. Leiðin um fjöruna undir Mýrafelli er sæmilega greið þó sæta verði sjávarföllum til að komast fyrir Forvaðann, og ofan við fjöruklettana er gróið land meðfram hlíðarfætinum alveg frá Hrólfsnaustum og út fyrir Skyrstein.

Þegar allt var á kafi í snjó og ófærð mikil á þjóðleiðinni norðan við fellið var stundum farin fjaran og þótti fljótlegra. Gengum fyrir framan Mýrafell vegna ófærðar, segir Sighvatur Borgfirðingur í dagbók sinni 21. apríl 1874[679] svo ekki fer þetta milli mála. Við þurfum hins vegar ekki að óttast fannfergi og snúum því við hjá Forvaðanum, stöldrum aftur við í Hrólfsnaustum og þokum okkur síðan fyrir Setann sem gengur austur úr Mýrafelli og upp á þjóðveginn skammt utan við túnið á Mýrum. Við höfum kvatt Mýrar og höldum för okkar áfram sem leið liggur út sveitina og stöldrum næst við í Meira-Garði.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Gísli Vagnsson 1973, 150  (Ársrit S.Í.)

[2] Jóhannes Davíðsson 1968, 48-49 (Ársrit S.Í.)

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 67.

[4] D.I. VII, 479-483.

[5] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 72.

[6] Kristján G. Þorv. 1951, 105.

[7] Gísli Vagnsson 1973, 147.

[8] Sóknalýs. Vestfj. II, 71.

[9] Gísli Vagnsson 1973, 146 (Ársrit S.Í.)

[10] Jóh. Dav. 1968, 49 (Ársrit S.Í.)

[11] Sóknalýs. Vestfj. II, 71.

[12] Örnefnaskrá.

[13] Sama heimild.

[14] Gísli Vagnsson 1973, 151 (Ársrit S.Í).

[15] Valdimar Gíslason/Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1992.

[16] Gísli Vagnsson 1973, 151.

[17] Sóknalýs. Vestfj. II, 69-70.

[18] Sóknalýs. Vestfj. II, 69.

[19] Gísli Vagnsson 1973, 145 (Ársrit S.Í.)

[20] Sama heimild 145-146; Valdimar Gíslason/Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1992.

[21] Gísli Vagnsson 1973, 145.

[22] Valdimar Gíslason/Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1992.

[23] Jóh. Dav. 1968, 48 (Ársrit S.Í.)

[24] Jarðab. Á. og P. VII, 55-86.

[25] Sóknalýs. Vestfj. II, 71.

[26] Jóh. Dav. 1968, 48 (Ársrit S.Í.)

[27] Valdimar Gíslason/Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1992, – sbr. Gísli Vagnsson 1973, 147.

[28] Valdimar Gíslason/Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1992.

[29] Jarðab. Á. og P. VII, 68.

[30] Sama heimild.

[31] Sóknalýs. Vestfj. II, 71-72.

[32] Jóh. Dav. 1968, 48 (Ársrit S.Í.)

[33] Jarðab. Á. og P. VII, 69.

[34] Lbs. 23754to, Dagb. S.Gr.B. 14.3.1895.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 68; Sóknalýs. Vestfj. II, 72.

[36] Jarðab. Á. og P. VII, 68.

[37] Sama heimild.

[38] Sóknalýs. Vestfj. II, 70 og 71.

[39] Gísli Vagnsson 1973, 144 (Ársrit S.Í.)

[40] Jarðab. Á. og P. VII, 68.

[41] Sama heimild.

[42] Gísli Vagnsson 1973, 144.

[43] Ísl. fornrit I, 170, 171 og 182.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Ísl. fornrit I, 170, 171 og 182.

[47] Sama heimild.

[48] Sturlunga I, 350, 383, 400 og 409.

[49] Sturl. I, 383.

[50] Lbs. 23684to XI, 331 (Prestaæfir S.Gr.B.)

[51] Sama heimild.

[52] Sturl. I, 399.

[53] Sama heimild, 399-402.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Sturl. I, 399-402.

[57] Sturl. I, 399-402.

[58] Sama heimild.

[59] Lbs. 23684to XI, 244-245 (Prestaæfir S.G.B.)

[60] Gísli Vagnsson 1973, 145 (Ársrit S.Í.)

[61] Sturl. I, 399-402.

[62] Bisk. II, 258.

[63] Sama heimild.

[64] Gísli Vagnsson 1973, 150  (Ársrit S.Í.).

[65] Sama heimild.

[66] Bisk. II, 258.

[67] Sturl. I, 350.

[68] Sama heimild, 350-351.

[69] Sama heimild.

[70] Sturl. I, 350-351.

[71] Sama heimild, 410.

[72] Sama heimild, 350-351.

[73] Sama heimild, 350-351.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.

[76] Sturl. I, 352.

[77] Sama heimild, 352 og 353.

[78] Sturl. II, 159-160.

[79] Sama heimild, 161.

[80] Sama heimild, 226.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Sturl. II, 224.

[84] Sama heimild, 225.

[85] Sama heimild, 229.

[86] Sama heimild.

[87] Sturl. I, 224-225 og 228-229.

[88] Sturl. III, 16, 42 og 103.

[89] Sama heimild, 15.

[90] Sama heimild, 40 og 77.

[91] Sturl. III, 61.

[92] Gísli Vagnsson 1973, 149-150. (Ársrit S.Í.).

[93] Jóh. Dav. 1968, 48 (Ársrit S.Í.). Gísli Vagnsson 1973, 149-150.

[94] Gísli Vagnsson 1973, 150.

[95] Sama heimild og Valdimar Gíslason /viðtal K.Ó. við hann 30.6. 1992

[96] Sóknalýs. Vestfj. II, 95-96.

[97] Sóknalýs. Vestfj. II, 95-96.

[98] Sturl. III, 78.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild, 41 og 78.

[101] Sama heimild, 92.

[102] Sama heimild, 95-96.

[103] D.I. III, 329.

[104] Arnór Sigurjónsson 1975, 25-27; Gísli Vagnsson 1975-1976, 46-47 (Ársrit S.Í.)

[105] Gísli Vagnsson 1975-1976, 46-47.

[106] Arnór Sigurjónsson 1975, 25-27.

[107] Sama heimild.

[108] Ísl. æviskr. IV, 23; Gísli Vagnsson 1975-1976, 47-48 (Ársrit S.Í.)

[109] D.I. VI, 516.

[110] D.I. IV, 484-486.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild.

[113] D.I. VI, 515-517.

[114] D.I. VI, 515-517. Gísli Vagnsson 1975-1976, 51-52(Ársrit S.Í.).

[115] D.I. VI, 515-517.

[116] Lögr.m.tal IV, 498.

[117] Gísli Vagnsson 1975-1976, 54 (Ársrit S.Í.)

[118] D.I. IX, 550-551.

[119] Gísli Vagnsson 1975-1976, 54.

[120] D.I. IX, 506.

[121] D.I. IX, 506.

[122] Sama heimild, 550-551.

[123] D.I. IX, 506.

[124] Sama heimild. 626.

[125] Sama heimild.

[126] D.I. IX, 634-636.

[127] Sama heimild.

[128] Sama heimild, 661-662.

[129] Sama heimild.

[130] D.I. IX, 673-674.

[131] Sama heimild.

[132] D.I. X, 359-360.

[133] D.I. X, 359-360.

[134] Sama heimild. 350-351.

[135] Sama heimild, 358-359.

[136] Sama heimild, 350-351.

[137] D.I. X, 355-356.

[138] Jarðab. Á. og P. VII, 303-304; Sóknalýs. Vestfj. II, 187.

[139] D.I. X, 374-376.

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild, 604-605.

[142] Sama heimild.

[143] D.I. XI, 256.

[144] D.I. XI, 256-257.

[145] Sama heimild, 559-561.

[146] D.I. XII, 13-14.

[147] D.I. IV, 143-144.

[148] D.I. III, 228.

[149] Lbs. 23684to XI, 241 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[150] Lbs. 23684to XI, 241 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[151] D.I. IV, 143-144.

[152] Lbs. 2368 4to, XI, 265-267 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[153] Vestf. sagnir III, 118-119.

[154] Gísli Vagnsson 1973, 145 (Ársrit S.Í.)

[155] D.I. IV, 143-144.

[156] Sama heimild.

[157] Sama heimild.

[158] D.I. XV, 576.

[159] D.I. XV, 576.

[160] Sama heimild.

[161] Sbr. Óskar Jónsson 1956, 27.

[162] D.I. XV, 576.

[163] Jarðab. Á. og P. VII, 68.

[164] D.I. XV, 576. Jarðab. Á. og P. VII, 68.

[165] Sömu heimildir.

[166] D.I. XV, 576.

[167] Sama heimild.

[168] Jarðab. Á. og P. VII, 67.

[169] D.I. XV, 576.

[170] Jarðab. Á. og P. VII, 67 og 313.

[171] Bps. C. I, 2.

[172] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 144. (Varðv. hjá B.T. Þingeyri). Sbr. Gísli Vagnsson 1973, 152-153.

[173] Sama heimild, 166-169.

[174] D.I. XI, 665-666. Sbr. Tryggvi Þórhallsson 1989, 126.

[175] Sama heimild.

[176] D.I. XII, 295-296.

[177] Sama heimild.

[178] D.I. XIII, 434-435.

[179] Gísli Vagnsson 1975-1976, 57 (Ársrit S.Í.)

[180] Ísl. æviskr. I, 273. Sbr. Annálar III,67.

[181] Alþ.bækur Íslands II, 122.

[182] Sýslumannsæfir II, 617. Alþ.bækur Íslands V, 39-43.

[183] Alþ.bækur Íslands V, 39-43.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Alþ.bækur Íslands V, 39-43.

[187] Sama heimild.

[188] Sama heimild.

[189] Alþ.bækur Íslands V, 39-43.

[190] Kirknaskjöl XVII, Dýrafj.þing.

[191] Sama heimild.

[192] Sama heimild.

[193] Lögr.m.tal, 497.

[194] Kirknaskjöl XVII, Dýrafj.þing. Vitnisb. Steinþórs Ormssonar 22.2.1619.

[195] JS. dipl. 33.

[196] Sama heimild.

[197] JS. Dipl. 33.

[198] Sama heimild.

[199] Jarðab. Á. og P. VII, 9 og 142-143.

[200] JS. dipl. 33.

[201] Sama heimild.

[202] Sama heimild.

[203] Jón J. Aðils 1971, 373-378.

[204] Sama heimild.

[205] Sama heimild, 87-88.

[206] Sama heimild, 377-378.

[207] Sama heimild.

[208] Jón Espolín/Íslands Árbækur VI, 11.

[209] Sama heimild.

[210] Ísl. æviskr. I, 256.

[211] Ísl. æviskr.

[212] Ísl. æviskr. I, 216 og 319-320, III, 217.

[213] Ísl. æviskr. III, 217; Jón J. Aðils 1971, 374 og 550.

[214] Lbs. 23684to XI, 243-244 (Prestaæfir S,Gr.B.).

[215] Ísl. æviskr. III, 217.

[216] Bps. A II, 6 Vísitazíubók um Vestfirðingafjórðung 1639-1671, 183-187.

[217] Sama heimild..

[218] Bps. A II, 6 Vísitazíubók um Vestfirðingafjórðung 1639-1671, 183-187.

[219] Sama heimild.

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild.

[222] Sama heimild.

[223] Sama heimild.

[224] Jarðab. Á. og P. VII, 313.

[225] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681 – Jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi, 481.

[226] Ísl. æviskr. III, 173.

[227] Annálar III, 327.

[228] Alþ.bækur Íslands VII, 493 og 569.

[229] Sama heimild, 493.

[230] Sama heimild, 569.

[231] Sama heimild.

[232] Annálar III, 327.

[233] Siglaugur Brynleifsson 1976, 202.

[234] Ísl. æviskr. III, 173; Manntal 1703.

[235] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681 – Jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi, 481.

[236] Alþ.bækur Íslands VIII, 117.

[237] Manntal 1703.

[238] Jarðab. Á. og P. VII, 67-68.

[239] Sama heimild, 66-67.

[240] Jarðab. Á. og P. VII, 3-317.

[241] Sama heimild.

[242] Sama heimild.

[243] Jóh. G. Ól. 1960, 74-75. (Ársrit S.Í.)

[244] Annálar III, 178.

[245] Jarðab. Á. og P. VII, 67-69.

[246] Jarðab. Á. og P. VII, 67-69.

[247] Sama heimild.

[248] Ól. Þ .Kr. 1980, 38.

[249] Gísli Vagnsson 1975-1976, 58-59 (Ársrit S.Í.)

[250] Sama heimild; Lbs. 23684to S.Gr.B. Prestaæfir (Holt).

[251] Gísli Vagnsson 1975-1976, 60-61.

[252] D.I. XII, 13-14.

[253] Sóknalýs. Vestfj. II, 90.

[254] Sveinn Níelsson 1950, 190-191. Ísl. æviskr. I-V. Lbs. 23684to XI, 368-380 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[255] Ísl. æviskr. I, 176.

[256] Sama heimild.

[257] Skj.s. Kirkjustjórnarráðsins – K I. – 4, innkomin bréf og önnur skjöl 1744-1745.

[258] Lbs. 23684to XI, 368-372 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[259] Sama heimild.

[260] Lbs. 23684to XI, 368-372 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[261] Sama heimild.

[262] Sama heimild.

[263] Sama heimild.

[264] Bsp. A. II, 19. Vísitazíubók Ólafs bisk. Gíslasonar 1748-1752, vísitazía hans á Mýrum 11.9.1749.

[265] Lbs. 23684to XI, 257-261 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[266] Lbs. 23684to XI, (Prestaæfir S.Gr.B.) 372-375.

[267] Sama heimild, XI, 376.

[268] Annálar VI, 247-248.

[269] Sama heimild.

[270] Lbs. 26718vo.

[271] Ísl. æviskr. I, 88-89 og III, 54.

[272] Ísl. æviskr. I, 88-89; Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1949, 52-58 (Frá ystu nesjum V).

[273] Eggert Ólafsson 1975, I, 98-99.

[274] Jónas Jónasson frá Hrafnagili 1961, 66.

[275] Eggert Ól. 1975, I, 98-99. Jónas Jónasson frá Hrafnag. 1961, 66.

[276] Sigurður Sigurðsson 1937, 57 (Aldarminning Bún.fél. Ísl.).

[277] Lbs. 26718vo.

[278] Sama heimild.

[279] Sama heimild.

[280] Sama heimild.

[281] Lbs. 26718vo.

[282] Hermann Pálsson 1990, 265-289 og 291. Sbr. Lexikon des Mittelalters III, 1123-1127, München og

Zürich 1985.

[283] Lbs. 23684to   XI, 376 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[284] Sama heimild.

[285] Sama heimild; Ísl. æviskr. III, 469.

[286] Sveinn Níelsson 1950, 188 og 190.

[287] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Manntal 1801.

[288] Lbs. 23684to XI, 376-380.

[289] Lbs. 23684to XI, 376-380 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[290] Sama heimild, 394.

[291] G.G.Hag. 1951, 7.

[292] Lbs. 23684to XI, 330-331 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[293] Sama heimild.

[294] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 71-76.

[295] Lbs. 23684to XI, 330.

[296] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 144-145.

[297] Lbs. 2375 4to, Dagb. S.Gr.B. 2.10.1892, 5.2.1893 og 6.4.1895.

[298] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 150.

[299] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.3.1897.

[300] Lbs. 23684to XI, 330.

[301] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 152.

[302] Sama gjörðabók, 150.

[303] Sigurður Magnússon 1985, 74 (Æviminningar læknis).

[304] Sama heimild; Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[305] Sigurður Magnússon 1985, 74.

[306] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 150.

[307] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[308] Kirkjustóll Mýrakirkju 1749-1801, prófastsvísitazía 2.8.1776. Sbr. Sami kirkjust. vísitazíugerð Hannesar

biskups Finnssonar 14.8.1790 og Bps. C, I, 2. Vísitazíug. Helga biskups Thordersen 14.7.1852.

[309] Kirkjustóll Mýrakirkju i Dýrafirði 1749-1801, prófastsvísitazía 2.8.1776.

[310] Sama heimild.

[311] Sami kirkjustóll, vísitazíugerð Hannesar biskups Finnssonar 14.8.1790.

[312] Bps. C, I, 2. Vísitazíugerð Helga biskups Thordersen 14.7.1852.

[313] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, varðveitt hjá sóknarnefnd. Sjá þar vísitazíugerð Sigurbjörns biskups

Einarssonar 13. júlí 1966.

[314] Kirkjustóll Mýrakirkju í Dýrafirði 1749-1801. Vísitazíugerð Hannesar biskups Finnssonar 14.8.1790.

[315] Bps. C, I, 2. Vísitazíugerð Helga biskups Thordersen 14.7.1852.

[316] Bps.A.II.14. Vísitazíubók Jóns bisk. Vídalín, 59-62. Mýrar 25. ág. 1700. Sbr. yngri vísitg. biskupa og kirknaskrá M.Þ.

[317] E.H.Gombrich 1984, 163, 171, 172, 252, 253, 288 og 289. Þóra Kristjánsdóttir, minnisblöð júlí 1998, send K.Ó. Æsa Sigurjónsdóttir 18.11. 1998, bréf hennar til K.Ó.

[318] Sbr. Matthías Þórðarson 1920, 1-9 og Ísl. æviskrár II, 363-364.

[319] Þóra Kristjánsd. Minnisblöð júlí 1998,send K.Ó.

[320] Ísl æviskrár IV, 145-146.

[321] Ísl. æviskrár II, 363-364 og IV, 145-146.

[322] Bps. A.II. 17. Vísit.bók Jóns bisk. Árnasonar, 456-459, Mýrar 28.8. 1725.

[323] Lögr.m.tal, 489. Sbr. Manntal 1703, 200. Ísl. Æviskrár III,433.

 

[324] G.G.Hag. 1951, 16.

[325] Sama heimild.

[326] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 81.

[327] Skýrslur um landshagi I, 262.

[328] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 81.

[329] Sama heimild.

[330] Jarðab. Á. og P. VII, 69.

[331] Sama heimild.

[332] Sama heimild, 67-69.

[333] Manntal 1703.

[334] Sóknalýs. Vestfj. 1840, 71.

[335] Sama heimild.

[336] Bændatal og skuldaskrá úr Ísafjarðarsýslu 1735 og Jarða- og bændatal 1753.

[337] Sömu heimildir.

[338] Manntal 1762.

[339] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1785-1840.

[340] Sömu heimildir.

[341] Sóknalýs. Vestfj.II, 71.

[342] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga 1785-1816 og 1817-1857 (afrit).

[343] Sama heimild.

[344] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga 1817-1857, 1 (afrit).

[345] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga 1789. H.Henkel 1799, tafla nr. 5, sbr. líka Manntal 1801.

[346] Gísli Vagnsson 1975-1976, 60 (Ársrit S.Í.). Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1785-1790.

[347] Vestf. sagnir II, 360.

[348] Sama heimild.

[349] Gísli Vagnsson 1973, 149 (Ársrit S.Í.).

[350] Jarðab. Á. og P. VII, 69.

[351] Sama heimild.

[352] Þorv. Thor.: Lýsing Íslands III, 45.

[353] Jarðab. Á. og P. VII, 69.

[354] Ísl. fornrit VI, 39.

[355] Ísl. fornrit VI,39.

[356] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 21.9. og 1.11.1894.

[357] Sama heimild.

[358] Prestsþj.bók Dýrafj.þinga.

[359] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[360] Sama heimild.

[361] Sama heimild.

[362] Sama heimild.

[363] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[364] Manntal 1901.

[365] G.G.Hag. 1951, 7.

[366] Sama heimild; Sbr. Ól. Þ. Kr. 1980, 109-114 (Ársrit S.Í.)

[367] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga 1785.

[368] Sama heimild.

[369] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Ól. Olavius 1957, 22-24 (Ársrit S.Í.).

[370] Manntal 1801.

[371] Gísli Vagnsson 1975-1976, 62 (Ársrit S.Í.).

[372] Sama heimild, 61.

[373] Sama heimild,

[374] G.G.Hag. 1951, 16.

[375] S.Gr.B. 1913, 92 (Sunnanfari XII, „Mýrahjón”).

[376] G.G.Hag. 1951, 16-17.

[377] Sama heimild, 17.

[378] Skj.safn sýslum. og sv.stj. Ísafj.s. XX. 1. búnaðarskýrslur.

[379] G.G.Hag. 1951, 17.

[380] Sama heimild.

[381] Sama heimild, 16-23.

[382] Sama heimild, 22.

[383] Manntal 1835.

[384] S.G.B. 1913, 92.

[385] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1., veðmálabók 1804-1844, 132.

[386] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1., veðmálabók 1804-1844, 132.

[387] G.G.Hag. 1951, 23.

[388] Sama heimild.

[389] Ísl. æviskr. II, 134-135.

[390] Prestsþj.bækur Dýrafj.þinga.

[391] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 4. Mýrahreppur, hreppsbók.

[392] Sama heimild.

[393] Sama heimild.

[394] E.10. Bréf séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum og Guðmundar Brynjólfssonar á Mýrum 18. ágúst

1844 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[395] Sama heimild.

[396] Lúðvík Kr. 1955, 145-146.

[397] E.10. Bréf G.Br. 2.9.1867 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[398] Sama bréf.

[399] E.10. Bréf G.Br. 14.9.1868 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[400] E.10. Bréf G.Br. 14.9.1868 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[401] Sama heimild.

[402] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 2.8.1874.

[403] Sama dagbók 1.8.1874.

[404] Sama dagbók 2.8.1874.

[405] S.Gr.B. 1913, 93-94 (Sunnanfari).

[406] Sama heimild, 94-95.

[407] Sama heimild.

[408] Sama heimild.

[409] Sama heimild.

[410] S.Gr.B. 1913, 94-95 (Sunnanfari).

[411] Sama heimild.

[412] Stjórnartíðindi 1880 B, 43.

[413] S.G.B. 1913, 94-95.

[414] G.G.Hag. 1951, 17.

[415] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur 1837-1855.

[416] Sama heimild.

[417] Sama heimild.

[418] VA III, 414-424, búnaðarskýrslur 1856-1880.

[419] Sama heimild.

[420] Arngr. Fr. Bjarnason 1980, 24 – formáli að Gullkistunni.

[421] G.G.Hag. 1951, 60-64.

[422] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók 1856-1869.

[423] Skýrslur um landshagi IV, 486.

[424] G.G.Hag. 1951, 60.

[425] Arngr. Fr. Bjarnason 1980, 24 – formáli að Gullkistunni.

[426] VA III, 407-424, búnaðarskýrslur.

[427] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVII. 1. Þinglesin skjöl 1801-1875.

[428] Skýrslur um landshagi IV, 486.

[429] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVII. 1. Þinglesin skjöl 1801-1875.

[430] Jón Þ. Þór 1984, 137.

[431] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVII. 1. Þinglesin skjöl 1801-1875.

[432] Jón Þ. Þór 1988, 11-13.

[433] Sama heimild.

[434] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[435] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga 1866.

[436] G.G.Hag. 1951, 27; Knudsensætt I, 27.

[437] G.G.Hag. 1951, 27.

[438] Sama heimild.

[439] VA III, 413-422, búnaðarskýrslur úr Mýrahreppi og Þingeyrarhreppi.

[440] G.G.Hag. 1951, 17.

[441] „Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892” (Ljósrit í eigu K.Ó.).

[442] Lbs. 23744to, Dagb. S.G.B. 1.6.1881.

[443] „Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892” (Ljósrit í eigu K.Ó.).

[444] G.G.Hag. 1951, 25.

[445] Sama heimild, 24.

[446] Sama heimild, 25.

[447] Sama heimild, 27-30.

[448] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 21.12.1878.

[449] Sama heimild.

[450] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 21.12.1878.

[451] Stjórnartíðindi 1876 B, 86-87.

[452] Lbs. 2374, Dagbók S.Gr.B. 1.5.1881.

[453] Sama heimild.

[454] G.G.Hag. 1951, 28.

[455] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. mars og apríl 1881.

[456] Sama heimild.

[457] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[458] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 1.5.1881.

[459] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[460] Sama heimild.

[461] Sama heimild.

[462] Jóh. Dav. 1961, 125 (Ársrit S.Í.). Sbr. Manntal 1845, – vesturamt, bls. 274.

[463] Skútuöldin I, 223.

[464] Manntal 1860.

[465] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga, – hjónavígslur 1864.

[466] Arngr. Fr. Bjarnason 1980, 24. Inngangsorð að Gullkistunni.

[467] Skútuöldin I, 223.

[468] Skútuöldin IV, 211-212.

[469] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[470] Sama heimild.

[471] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 26.3.1883.

[472] Sama heimild.

[473] Sama heimild.

[474] Sama dagbók, 23.9.1883.

[475] G.G.Hag. 1951, 30.

[476] G.G.Hag. 1951, 30.

[477] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 5.6.1885.

[478] Sama dagbók, 24.10.1885.

[479] Kr. Dahlstedt og Hafliði Jónsson 1961, 20.

[480] Sama heimild, 31, sbr. bls. 24.

[481] Sama heimild, 20.

[482] G.G.Hag. 1951, 29-30.

[483] Sama heimild.

[484] Jóh. Dav. 1973, 33-34 (Ársrit S.Í.), sbr. Jón Þ. Þór 1988, 15.

[485] G.G.Hag. 1951, 30-44.

[486] Skútuöldin I, 225.

[487] G.G.Hag. 1951, 30-31.

[488] Þórður Sigurðsson 1968, 145-146 (Ársrit S.Í.).

[489] Sama heimild.

[490] Kristján J. Guðmundsson/Skútuöldin V, 118.

[491] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 21.2.1880.

[492] Sama dagbók, 10.4.1889.

[493] Arngr. Fr. Bjarnason 1980, 44-45 – Inngangsorð að Gullkistunni.

[494] Sama heimild.

[495] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 1889.

[496] Arngr. Fr. Bjarnason 1980, 44-45 – Inngangsorð að Gullkistunni.

[497] Sama heimild.

[498] VA III, 420-424, búnaðarskýrslur.

[499] Sama heimild.

[500] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 23 (Þj.skj.s.).

[501] Sama heimild og Íslenskt sjómannaalmanak 1926, 248.

[502] Sama heimild.

[503] Skútuöldin IV, 206.

[504] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 23.

[505] Skútuöldin IV, 206.

[506] VA III, 422-424, búnaðarskýrslur.

[507] Sama heimild.

[508] Skútuöldin IV, 206.

[509] VA III, 415-424, búnaðarskýrslur úr Þingeyrarhreppi.

[510] Skútuöldin IV, 206.

[511] Sama heimild I, 225.

[512] Sama heimild IV, 206.

[513] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 9.4.1890

[514] Skútuöldin I, 225.

[515] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 18.12.1886.

[516] Landsh.safn, séröskjur nr. 24, skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[517] Þjóðviljinn ungi 24.1.1893.

[518] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 13.5.1895.

[519] Þjóðviljinn ungi 6.10.1899, bls. 209.

[520] Sama heimild.

[521] Ól.Þ.Kr./„Önfirðingar”.

[522] Manntal 1901.

[523] Ól. Þ.Kr./„Önfirðingar”.

[524] Þjóðviljinn ungi 6.10.1899, bls. 209.

[525] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 29.

[526] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 29.

[527] Sama heimild.

[528] Sama heimild.

[529] Skútuöldin I, 225.

[530] Landsh.safn, séröskjur nr. 24, skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[531] Sama heimild.

[532] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 29.

[533] Skútuöldin I, 225.

[534] Sama heimild, 246.

[535] Þjóðviljinn ungi 26.9.1891 og 24.1.1893.

[536] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 23.

[537] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 23.

[538] Sama heimild, 29.

[539] Sama heimild.

[540] Landsh.safn. Skráningarmál 1896-1899, I, afrit af bréfi landshöfðingja 30.04.1896 til „Registrerings og

Skipsmaalings Bureauet Kjøbenhavn”.

[541] Manntal 1890.

[542] Sama heimild.

[543] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[544] Munnl. upp. frá Gunnari Hvammdal.

[545] Fiskiskipaskrá, bls. 102. Skútuöldin I, 225.

[546] Sama heimild, bls. 103.

[547] Skútuöldin I, 226 og V, 117.

[548] Sama heimild, 226 og 238.

[549] Sama heimild, 226 og V, 117.

[550] Fiskiskipaskrá, bls. 102.

[551] Sama heimild.

[552] Skútuöldin I, 225.

[553] Sama heimild, 226.

[554] Sama heimild.

[555] Fiskiskipaskrá, bls. 95; Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 6.6.1892.

[556] Skútuöldin I, 226.

[557] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 6.6.1892.

[558] Þjóðviljinn ungi 24.1.1893

[559] Fiskiskipaskrá, bls. 95.

[560] Landsh.safn. Skráningarmál 1896-1899, askja I, bréf Hannesar Hafstein 17.5.1899 til landshöfðingja.

[561] Þjóðviljinn ungi 24.1.1893; Sbr. Skútuöldin I, 240-241.

[562] Skútuöldin I, 234.

[563] Fiskiskipaskrá, bls. 95.

[564] Þjóðviljinn ungi 24.1.1893.

[565] Sama heimild.

[566] Sama heimild.

[567] Sama heimild.

[568] Arngr. Fr. Bjarnason 1980, 17 (Inng.orð að Gullkistunni).

[569] Landsh.safn. Skráningarmál 1896-1899, askja I.

[570] Hreppaskilabók fyrir Mýrahrepp, löggilt 11. október 1902.

[571] Sama heimild.

[572] Hreppaskilabók fyrir Mýrahrepp, löggilt 11. október 1902.

[573] Prestsþj.bók Dýrafjarðarþinga.

[574] Sóknarm.töl Flateyjarprestakalls.

[575] Sóknarm.töl Flateyjarprestakalls. Ísl. æviskrár V, 482.

[576] Ísl. æviskrár I, 272 og V, 482.

[577] Sóknarm.töl Flateyjarprestakalls. Manntal 1880.

[578] Prestsþj.bækur Flateyjarprestakalls.

[579] Lbs. 23744to, Dagbækur S.Gr.B. 21.7.1881 og 10.8.1882.

[580] Lbs. 23744to, Dagbækur S.Gr.B. 1880-1887.

[581] Sömu dagbækur, 27.5. og 21.7.1881.

[582] Sömu dagbækur, 10.8.1882 og 10.6.1883.

[583] Sömu dagbækur, 31.7. og 1.8.1884.

[584] Sömu dagbækur, 13.6.1886.

[585] Sömu dagbækur, 16.8.1887.

[586] Lbs. 23744to, Dagbækur S.Gr.B. 21.1.1888.

[587] Prestsþj.bók Flateyjarpr.kalls.

[588] G.G.Hag. 1951, 27.

[589] Sama heimild.

[590] Sama heimild.

[591] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 24.3.1888.

[592] Lbs. 23744to, Dagbækur S.Gr.B. árið 1889.

[593] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 21.9.1893.

[594] G.G.Hag. 1951, 42-43.

[595] Sama heimild.

[596] G.G.Hag. 1951, 42-43.

[597] Sama heimild. Sbr. Vestfirskar sagnir III, 282-283.

[598] Prestsþj.bók Dýrafj.þinga.

[599] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 30.10.1894.

[600] Sama dagbók, 1.11.1894.

[601] Gísli Vagnsson 1975-1976, 63 (Ársrit S.Í.).

[602] Sóknarm.töl Flateyjarpr.kalls.

[603] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 8.6.1889.

[604] G.G.Hag. 1951, 30.

[605] Manntal 1901.

[606] Sama heimild.

[607] Gísli Vagnsson 1975-1976, 62 (Ársrit S.Í.).

[608] Sama heimild, 63.

[609] Vestf. sagnir II, 353.

[610] Sama heimild.

[611] Vestf. sagnir II, 353.

[612] Vestf. sagnir III, 282-283. G.G.Hag. 1951, 42-43.

[613] Vestf. sagnir II, 389-391.

[614] Matth.Ól./Valtýr Stef. 1958, 10.

[615] Sama heimild.

[616] Matth.Ól./Valtýr Stef. 1958, 9.

[617] Ól. Ól. 1959, 93 (Ársrit S.Í.).

[618] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[619] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[620] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 10.10.1899.

[621] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[622] Sama heimild.

[623] Sama heimild.

[624] Sama heimild.

[625] Sama heimild.

[626] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[627] Sama heimild.

[628] Sama heimild.

[629] Sama heimild.

[630] Sama heimild.

[631] Sama heimild.

[632] Sama heimild.

[633] Sama heimild.

[634] Matth.Ól./Valtýr Stef. 1958, 12.

[635] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[636] Sama heimild.

[637] Sama heimild.

[638] Prestsþj.bók og sóknarmtöl Dýrafj.þinga.

[639] Sömu heimildir.

[640] Ól. Ól. 1959, 100-101. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[641] Ól. Ól. 1959, 100-102 (Ársrit S.Í.).

[642] Ól. Ól. 1959, 100-102 (Ársrit S.Í.).

[643] Sama heimild.

[644] Sama heimild.

[645] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[646] Ól. Olavius 1959, 102.

[647] Sama heimild, 102-103.

[648] Sama heimild.

[649] Sama heimild, 96. Sbr. þar bls. 102.

[650] Matth.Ól./Valtýr Stef. 1958, 12.

[651] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[652] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 14.10.1899.

[653] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[654] Sama heimild.

[655] Sama heimild.

[656] Sama heimild.

[657] Sama heimild.

[658] Ól. Ól. 1959, 91-92 (Ársrit S.Í.).

[659] Sama heimild.

[660] Sama heimild.

[661] Ól. Ól. 1959, 95-96.

[662] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 14 b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900.

[663] Sama heimild.

[664] Ól. Ól. 1959, 91-92 (Ársrit S.Í.).

[665] Sama heimild, 105-107.

[666] Sama heimild.

[667] Sama heimild.

[668] Sama heimild.

[669] Matth.Ól./Valtýr Stef. 1958, 12. Ól. Ól. 1959, 106.

[670] Jón Jónsson/Guðjón Friðriksson 1975, 11-12 (Hljóðabunga).

[671] Manntal 1901.

[672] Sama heimild.

[673] Gísli Vagnsson 1973, 145 (Ársrit S.Í.).

[674] Sama heimild.

[675] Vestf. sagnir III, 111.

[676] Sama heimild.

[677] Vestf. sagnir III, 111.

[678] Sama heimild.

[679] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 21.4.1874.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »