Norður-Botn og Hjallatún Eysteinseyri og Gileyri

Norður-Botn og Hjallatún Eysteinseyri og Gileyri

Frá Höfðadal er aðeins hálftíma gangnr inn í fjarðarbotninn. Þar stóð áður býlið Norður-Botn, sem fór í eyði nokkru fyrir 1980 en á Hjallatúni, nýbýli frá fyrri hluta tuttugustu aldar, er enn búið (1988) og liggja túnin saman.

Hlíðin frá Höfðadal að Norður-Botni er víða vel gróin og upp frá fjarðarbotninum gengur grösugur tveggja kílómetra langur dalur og er þar gott beitiland. Dalurinn heitir Botnsdalur og um hann fellur Botnsá en fyrir dalbotninum eru Botnsgljúfur. Niður hlíðar dalsins falla lækir og þverár, sem sameinast að lokum í Botnsá. Lengi fram eftir öldum var nokkur skógur í Botnsdal. Fjalldrapi og lyngrif nóg til eldiviðar, segir Árni Magnússon um jörðina Botn árið 1710.[1] Ólafur Árnason nefnir dálítinn birkiskóg til eldiviðar á Botnsdal í sýslulýsingu sinni frá árinu 1746 og segir þar vera eina skóginn í Tálknafirði. Hann minnist líka á surtarbrand.[2] Séra Benedikt Þórðarson segir í sóknarlýsingu sinni frá 1873 að í Selárdals- og Stóra-Laugardalssóknum sé þá enginn skógur, nema lítilfjörlegur smáslæðingur í Botni í Tálknafirði, næstum eyddur.[3]

Í Botnsdal er nú skóglaust og hefur trjágróður sem þar var farið sömu leið og svo víða annars staðar á landi hér. Örnefnið Albrunadalur en svo heitir smádalur rétt utan við fjarðarbotninn að norðanverðu[4] bendir til þess að þar hafi skógareldur geisað og vel má vera að gróðurlendi í Tálknafirði hafi á landnámstíð víða verið vafið skógi.

Sumir höfundar nefna Botnsdal í Tálknafirði Torfdal[5] og í sýslulýsingunni frá 1746 er svo að sjá sem dalurinn hafi verið nefndur Torfdalur norðan ár en Botnsdalur sunnan ár.[6] Gott berjaland er í dalnum og silungsveiði í ánni.[7] Við fjarðarbotninn eru leirur og allmikið útfiri svo flæðihætta stafaði af fyrir sauðfé.[8]

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir helstu leiðum milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar og þar á meðal þeim sem farnar voru frá Norður-Botni til bæja við Patreksfjörð (sjá hér Lambeyri,Hvammeyri og Höfðadalur). Einnig hefur verið sagt nokkuð frá leiðinni yfir Miðvörðuheiði, frá Norður-Botni að Haga á Barðaströnd (sjá hér Hagi). Þegar lagt er á Miðvörðuheiði er farið upp norðan við Botnsdal um NorðurfjallSjónarhól, sem stendur norðanvert við dalbotninn (377 m hæð), og þaðan í suðaustur á sjálfa heiðina. Enn aðrar fornar leiðir frá Norður-Botni til annarra byggðarlaga eru um Dufansdalsheiði að Dufansdal í Suðurfjörðum Arnarfjarðar og leiðin um Gýgjarskarð að Fossi í Suðurfjörðum. Á þessari upptalningu má sjá að margur ferðamaður átti leið um hlaðið í Botni og ýmsir hafa trúlega þegið hér bæði bita og sopa og stundum næturgistingu.

Bærinn í Norður-Botni stóð árið 1873 rétt norðantil við fjarðarbotninn, undir Botnsfjalli.[9] Oft var margbýlt í Botni á fyrri tíð. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir svo um Botn: Jörðinni er sundur skipt í fjóra bæi og er lítið sund á milli. Bænhús hefur hér að fornu verið, sem af er fallið fyrir manna minni. Sjást þess þó merki af kirkjugarðsleifum.[10] Talið var að á jörðinni allri mætti fóðra átta kýr.[11]

Meðal bænda í Norður-Botni og á Hjallatúni má nefna Jón Steinhólm Gíslason gullsmið, sem bjó í Norður-Botni kringum aldamótin 1900,[12] og Guðmund Björnsson, búfræðing frá Ólafsdalsskóla, sem lengi bjó á Hjallatúni á fyrri hluta 20. aldar. Guðmundur var tengdasonur Jóns Th. Johnsen á Suðureyri (sjá hér Suðureyri) og vann mjög að jarðabótum í Tálknafirði.[13]

 

Innsta býlið á norðurströnd Tálknafjarðar er Eysteinseyri. Frá Norður-Botni að Eysteinseyri eru um það bil tveir kílómetrar. Stærsta áin á þeirri leið heitir Keldeyrará (líka nefnd Kelda[14]) og skilur hún að lönd jarðanna.[15] Áin fellur um Keldeyrardal og til sjávar á Keldeyri. Í kringum aldamótin 1900 var búið í húsmennsku á Keldeyri um nokkurra ára skeið. Kotið var samnefnt eyrinni og þar settist fólk fyrst að árið 1897.[16] Utan við brúna yfir Keldeyrará eru vegamót. Þaðan liggur akvegur nútímans upp í Húsadal og síðan áfram upp í Gilsdal og á fjallið Hálfdan yfir til Bíldudals. Vegurinn yfir Hálfdan liggur hæst í liðlega 500 metra hæð en austan vegarins, á háfjallinu, gnæfir Hálfdanarfell og nær 614 metra hæð yfir sjó. Áður en akvegur var lagður fóru menn gangandi og ríðandi yfir Hálfdan, um 15 kílómetra leið milli bæja. Margar aðrar leiðir voru þá farnar um fjöll og heiðar milli Tálknafjarðar og Arnarfjarðar og skulu hér nefndar þær helstu: Gýgjarskarð og Dufansdalsheiði, sem beggja var áður getið, Tunguheiði frá Tungu á Bíldudal (sjá hér Tunga, Hóll og Sveinseyri), Fagridalur frá Laugardal að Öskubrekku í Fífustaðadal (sjá hér Litli- og Stóri-Laugardalur), Krókalaut frá Sellátrum að Öskubrekku (sjá hér Sellátur) og Selárdalsheiði frá Krossadal að Selárdal (sjá hér Krossadalur). Allar voru þessir fjallvegir sæmilega færir ríðandi manni og víðar mátti hlaupa um fjöll milli fjarðanna.

Frá vegamótum við brúna yfir Keldeyrará er örskammt út með firðinum að Eysteinseyri. Stendur bærinn í hlíðinni og upp frá honum Húsadalur. Land er hér allvel gróið en landrými lítið til búskapar. Í Jarðabók Árna og Páls segir: Úthagarnir eru mjög litlir og því spillast slægjurnar af yfirgangi búfjárins og svo gengur kvikfé mjög á nágranna þó hér gjaldist eftir enginn tollur.[17]

Á Eysteinseyri bjó um nokkurt skeið á fyrri hluta tuttugustu aldar Sigurgarður Sturluson, föðurbróðir Hákonar Kristóferssonar, bónda og alþingismanns í Haga á Barðaströnd. Sigurgarður var um tíma kennari í Tálknafirði en setti svo á stofn verslun á Eysteinseyri og rak hana í nokkur ár.[18] Hann andaðist árið 1932.[19]

Rétt fyri utan Eysteinseyri reis nokkru fyrir aldamótin 1900 nýbýlið Gileyri sem reyndar var aðeins þurrabúðarkot í fyrstu.[20] Ef marka má sóknarmannatöl settust fyrstu íbúarnir hér að árið 1887, tveir tómthúsmenn með fjölskyldur sínar.[21] Á Gileyri hefur byggð haldist æ síðan, allt til þessa dags (ritað 1988). Jóhann L. Einarsson, sem margt hefur ritað um örnefni í Tálknafirði, segir að Gileyri hafi byggst úr landi Tungu[22] sem var næsta jörð hér fyrir utan. Ofan við Gileyri opnast Gilsdalur. Hlíðin utan við dalsmynnið heitir Tunguhlíð  og á mótum hlíðar og dals eru hátt í fjallinu tvö fagursköpuð klettabelti sem nefnd eru Lægri-Bogi og Hærri-Bogi.[23]

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 341-342.

[2] Sýslulýsingar 1744-1749, 143-144 (gefnar út 1957).

[3] Sóknalýsingar Vestfj. I, 235.

[4] Sama heimild, 218.

[5] Sama heimild.

[6] Sýslulýsingar 1744-1749, 143-144 (gefnar út 1957).

[7] Jóhann Skaptason 1959, 141 (Árbók F.Í.).  Jarðab. Á. og P. VI, 342.

[8] Sömu heimildir.

[9] Sóknalýs. Vestfj. I, 242.

[10] Jarðab. Á. og P. VI, 341.

[11] Sama heimild, 342.

[12] Hallbjörn Oddsson 1960, 125 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[13] Sami 1963, 144 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[14] Jóhann Skaptason 1959, 141 (Árbók F.Í.).

[15] Örnefnaskrár Norður-Botns og Eysteinseyrar.

[16] Sóknarmannatöl Stóra-Laugardalssóknar.

[17] Jarðab. Á. og P. VI, 343.

[18] Hallbjörn Oddsson 1963, 145 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[19] Trausti Ólafsson 1960, 84-85 (Kollsvíkurætt)

[20] Hallbjörn Oddsson 1963, 147 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga)

[21] Sóknarmannatöl Stóra-Laugardalssóknar.

[22] Örnefnaskrá Gileyrar og Tungu/Jóhann L. Einarsson.

[23] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »