Örlygshöfn

Í Sturlubók Landnámabókar segir svo:

Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu. Hann var að fóstri með hinum helga Patreki biskupi í Suðureyjum. Hann fýstist að fara til Íslands og bað að biskup sæi um með honum. Biskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenarium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Biskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu. Hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.

Með Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annarr Þórólfur spörr, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans Þorbjörn skúma. Þeir voru synir Böðvars blöðruskalla. Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi hvar þeir fóru. Þá hét Örlygur á Patrek biskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti áður þeir sáu land og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar sem heitir Örlygshöfn en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur en um vorið bjó Örlygur skip sitt en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.[1]

 

Enda þótt Örlygur Hrappsson dveldist aðeins einn vetur við Patreksfjörð þá sér dvalar hans enn stað. Nöfnin sem hann gaf hafa haldist til þessa dags, í meira en þúsund ár. Enn er fjörðurinn kenndur við Patrek biskup í Suðureyjum, undan vesturströnd Skotlands, og höfnin þar sem Örlygur tók land ber enn nafn hans. Þessi sonarsonur Bjarnar bunu bjó síðar lengi á Esjubergi á Kjalarnesi og þar byggði hann kirkju sína en fjórir félagar hans urðu landnámsmenn við Patreksfjörð og í nálægum byggðum. Um Þórólf spörr á Hvallátrum og Koll í Kollsvík hefur áður verið getið (sjá hér Hvallátur við Látrabjarg og Kollsvík). Þorbjörn skúma nam norðurströnd Patreksfjarðar og Þorbjörn tálkni Tálknafjörð.[2]

Ekki verður nú sagt með vissu hvernig umhorfs var í Örlygshöfn þegar landnámsmenn stigu hér af skipi. Mjög er þó líklegt að þar sem nú er dalurinn hafi áður verið fjörður. Megindalurinn er um fjórir kílómetrar á lengd og einn til einn og hálfur kílómetri á breidd. Stór hluti dalsins er marflatur. Við mynni hans er sandrif, sem Tungurif heitir, og fellur sjór um mjóan ós austast á rifinu inn í dalinn. Um stórstraum gengur hafaldan langt fram eftir miðjum dalnum og heitir þar Hafnarvaðall. Á flæði má fara á báti upp vaðalinn. Grösugar flæðiengjar setja hér svip á umhverfið.

Þrjár bújarðir hafa verið í Örlygshöfn frá fornu fari, Tunga í miðjum dal að vestan, Geitagil nær dalbotni að vestan og Hnjótur þar andspænis, handan vaðalsins. Enn er búið á öllum þessum jörðum (1988). Skal nú haldið sem leið liggur um Örlygshöfn.

Sé komið frá Sellátranesi er eðlilegt að staldra fyrst við þar sem heitir á Gjögrum, við sjóinn vestantil í Höfninni. Þar eru grónir valllendisbakkar og þótti dágóð lending neðan við bakkana. Við Gjögrabót er nú bryggja. Frá Gjögrum hefur stundum verið róið til fiskjar bæði fyrr og síðar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá byrjun 18. aldar segir að tveir bátar hafi róið héðan á vertíð 1701 og 1702 en enginn 1703.[3] Á síðustu árum hafa menn sótt héðan til hrognkelsaveiða.

Slátrun sauðfjár hófst á Gjögrum árið 1931 og stóð Sláturfélagið Örlygur fyrir henni.[4] Fimm árum síðar hóf þetta sama félag verslunarrekstur á Gjögrum með kaupfélagssniði, enda þótt nafn félagsins breyttist ekki.[5] Rak félagið síðan verslun á Gjögrum til ársloka 1982 en þá tók Kaupfélag Vestur-Barðstrendinga á Patreksfirði við þeim rekstri.[6] Er kaupfélagið varð gjaldþrota árið 1987 tók Valdimar Össurarson við rekstri verslunarinnar og rekur hana nú (1988) á eigin nafni. Nokkru fyrr hafði verslunin verið flutt frá Gjögrum á Hvammsholtið. Á Gjögrum bjó fólk stundum í þurrabúð og og svo var enn um miðja 20. öld, þá vegna starfa við verslunina. Gjögrar eru í landi Tungu.

Skammt innan við Gjögra og rétt við bæinn í Tungu er Hvammsholt. Þar á holtinu var um miðja tuttugustu öld reist félagsheimilið Fagrihvammur og síðan hafa risið þar fleiri byggingar, grunnskóli, verkstæði, verslun og íbúðarhús.

Í Tungu í Örlygshöfn hefur öldum saman verið þingstaður. Hér þingaði Magnús prúði þann 12. október 1581 og kvað upp vopnadóm. Hann var þá sýslumaður Barðstrendinga og bjó í Saurbæ á Rauðasandi (sjá hér Saurbær). Fimm árum fyrr hafði Íslendingum verið bannað að bera vopn.[7] Magnús var ósáttur við þá ráðstöfun og leiði menn hugann að ráninu í Bæ á Rauðasandi árið 1579 (sjá hér Saurbær) og öðrum yfirgangi erlendra sjóreyfara á Vestfjörðum um þær mundir verður afstaða hans flestum skiljanleg.

Vopnadóm dæmdu með Magnúsi prúða á Tunguþingi þrettán nafngreindir bændur og segir í dómnum að allir menn hér á landi skuli skyldaðir til að eiga vopn og verjur eftir fjárupphæð.

Ætlunin var að fá þessa samþykkt um vopnaburð Íslendinga staðfesta í lögréttu á Alþingi og síðan af konungi svo hún fengi lagagildi. Hvað sem valdið hefur er þó ekkert um málið að finna í Alþingisbókum frá þessum árum og verður því að líta á vopnadóm sem héraðssamþykkt fyrir Barðastrandarsýslu. Í ævisögu Magnúsar prúða eftir Jón Þorkelsson er dómurinn birtur í heild.[8] Í því sem kalla má forsendur hans segir m.a.:

 

Þar með trúum vér öngvum mönnum úr minni fallnar þær athafnir, rán, stuld, mannslög, heimsóknir, kvenna þýfingar og annað illt, að þeir spellvirkjar, er komu fyrir þrem árum, gerðu um Vestfjörðu og vildu gert hafa um allt Ísland.[9]

 

Í sjálfum dómnum stendur svo m.a. þetta:

 

Hér með dæmum vér hreppstjóra í hverri sveit menn til að kalla og eldkveikingar á hæstu hæðum að setja fyrir krossmessu, þar og alla vega má reyk sjá í byggðir, svo og þá skylduga til að kynda og vörð halda, sem hreppstjórum þykja trúlyndastir og léttvígastir vera og sýslumann sem fyrst við varan gera.

Svo og dæmum vér sýslumann með hreppstjórum og öðrum skynsömum mönnum um að ráðgast fyrir krossmessu, hvar þeim þykir skást hæli og virki að hafa, svo að gamlir menn og ungir piltar með konum kynnu börn og búsmala og aðra hluti þar í nánd að færa, og alla vopnfæra menn sig saman að taka alla stigu og eftirfarir óráðvöndum mönnum að banna, þeim árásir að veita, með ráði sýslumanns og annarra manna.

Svo og dæmum vér hreppstjóra skylduga alla vopnfæra menn að telja og sýslumanni að kunngera, og það hver maður eigi lúður að hann megi öðrum benda og við vara, þar því má við koma.

… Svo og skulu þeir axir, pála og pálrekur og aðrar rekur eiga, þar þeir megi garða og grafir umhverfis sig girða og grafa, svo þeir megi fyrir áhlaupum og umsátum sinna óvina ugglausir vera. Item að þeir kynnu eina fylking að gera, þar með viti hvort þeir skyldu kyrru fyrir halda eða snúast eða eftir renna.[10]

 

Allt miðaði þetta að varnarviðbúnaði gegn erlendum ránsmönnum og í lok dómsins er tekið fram að sérhver skattbóndi skuli kaupa og eiga eina luntabyssu og þrjár merkur púðurs og þar með einn arngeir og annað lagvopn gilt og gott. Einhleypingum, sem ekki áttu andvirði tíu aura skuldlaust, var boðið að eiga lagvopn og stikkhníf en gildir bændur, sem áttu tuttugu hundruð eða meira, áttu að koma sér upp byssu, boga og langspjóti, auk annarra verja fyrir hvern sinn vígfæran mann.[11]

Ekki hefur verið álitlegt fyrir breska eða hollenska sjóreyfara að mæta herdeild Magnúsar prúða uppi á Kóngshæð eða annars staðar í nágrenni Örlygshafnar. Og munu ræningjaflokkar lítt hafa látið til sín taka í Barðastrandarsýslu meðan Magnús sat í Bæ.

En fleira var dæmt á Tunguþingi en vopnadómur. Hér eins og víðar voru harðar refsingar stundum lagðar á menn fyrir lítil afbrot. Árið 1692 var bóndi einn úr Patreksfirði, Gizur Brandsson að nafni, dæmdur til stórhýðingar fyrir að hafa beðið djöfulinn um hjálp og að auk skyldi hann slá sjálfan sig þrjú stór högg upp á munninn.[12]

Árið 1703 átti Björn Þorleifsson Hólabiskup Tungu. Landskuld af allri jörðinni var þá 160 álnir. Átti hún að gjaldast í fiski til Vatneyrar en væri fiskur ekki nægilegur þá í peningum upp á danskan taxta, – og væru peningar heldur ekki til þá í landaurum. Jón Guðmundsson var þá annar tveggja bænda í Tungu. Sagði hann Árna Magnússyni að umboðsmanni Hólabiskups, sem var Guðrún ríka Eggertsdóttir í Saurbæ, hafa tvívegis verið boðinn nýr ketill upp í landskuldina en hún neitað við að taka.[13]

Tunga þótti góð heyskaparjörð og héðan sér vítt um alla Örlygshöfn. Um 1920 var þríbýli í Tungu og auk þess búið á Leiti[14] sem var grasbýli yst í túnjaðrinum, skammt frá þinghúsinu. Á Leiti var búið 1907-1922 og aftur frá 1926 til 1931.[15] Nú hafa býlin lengi verið tvö, Efri- og Neðri-Tunga. Frá Tungu liggur forn reiðgata í vestur um Tunguheiði til Kollsvíkur (sjá hér Kollsvík).

Geitagil er nú næsti bær við Tungu og ekki nema tveir kílómetrar milli bæjanna. Um skeið var búið á Kóngsengjum, grasbýli rétt norðan við Geitagil og sjást tóttirnar (1988) neðan við þjóðveginn. Þar mun aðeins hafa verið búið skamman tíma um 1920.[16]

Um Geitagil segir m.a. í Jarðabók Árna og Páls að jörðin hafi svarðarskurð góðan til eldiviðar og reiðingsristu og lyngrif að nokkru gagni.[17] Í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafssonar frá árinu 1840 er þess getið að Geitagil sé einhver sú besta heyskaparjörð í þessum hreppi.[18]

Frá Geitagili liggur akvegur um Hafnarfjall til Breiðavíkur og áfram þaðan að Hvallátrum (sjá hér Breiðavík og Hvallátur við Látrabjarg). Upp frá botni Örlygshafnar skerst mjór dalur suðvestur í fjalllendið og heitir Miklidalur. Um hann lá leið frá Geitagili til Keflavíkur austan Látrabjargs (sjá hér Lambavatn og Naustabrekka – Keflavík og  hinirmörgu fjallvegir). Að bænum Hnjóti er skammur vegur frá Geitagili og liggur akvegurinn fyrir dalbotn Örlygshafnar.

Hnjótur er nú eina býlið austantil í Örlygshöfn. Hér hefur löngum verið tvíbýli. Árið 1703 átti Hólabiskup jörðina. Guðmundur Gunnlaugsson var þá annar tveggja bænda á Hnjóti. Sú kvöð fylgdi ábúðarrétti hans á hálflendunni að róa á hverri vertíð sem formaður á skipi umboðsmanns biskups í Láganúpsveri. Í formannskaup fékk Guðmundur á Hnjóti dasfiski, það er höfuð og slóg af öllum skiphlutnum.[19]

Í Jarðabók Árna og Páls er dregin upp fremur dökk mynd af aðstæðum á Hnjóti árið 1703:

 

Túnin fordjarfast mjög af frostum síðan hallærið óx því jörðin liggur mjög við norðri. En fjall að ofan hindrar sólarhlýindi og er því túnið til stórskemmda kalið, því grjót er undir og grunnt jarðmegn. Engið fordjarfast af sjávarágangi. Engin festifjara fyrir landi. Selveiði má vera móts við Tungumenn og leggst þó frá síðan minnkaði fiskifang. Kirkjuvegur hættur yfir ófærumúla.[20]

 

Með tilliti til þessarar lýsingar kemur nokkuð á óvart að eina nýbýlið, sem um er getið í sóknalýsingum Sauðlauksdalsprestakalls frá árinu 1840, hafði einmitt risið í landi Hnjóts. Var það hjáleigan Kryppa en þar hafði byggð hafist árið 1833.[21] Ekki er með öllu víst hversu lengi var búið í Kryppu en í sóknarmannatölum er bæjarnafnið aðeins finnanlegt í tíu ár, frá 1833 til 1842, og þá býr þar Hjalti Hasaelsson,[22] bróðursonur monsjörs Einars Jónssonar í Kollsvík.[23] Líklega hefur aðeins verið búið í Kryppu þessi tíu ár en þó hugsanlega eitthvað lengur því að jafnan var tvíbýli á Hnjóti næstu ár og kynni annar ábúandinn að hafa búið í Kryppu þó að ekki sé þess getið.

Pétur Jónsson frá Stökkum segir talið að Kryppa hafi verið í túnjaðri á Hnjóti.[24] Ólafur Magnússon á Hnjóti, fæddur 1900, staðfestir þetta. Hann segir Kryppu hafa verið skammt þar frá sem nú (1988) er Minjasafnið og hafi Magnús faðir sinn byggt fjárhús og hlöðu upp úr Krypputóttunum. Krypputún er nú partur af heimatúninu á Hnjóti en áður skildi áin á milli. Kryppuhryggur heitir á landamerkjum Hnjóts og Geitagils.[25] Á Uppdrætti Íslands, blaði 3, sem Landmælingar Íslands gáfu út árið 1965, er Kryppa merkt mun fjær Hnjóti en vera á samkvæmt orðum Péturs frá Stökkum og Ólafs á Hnjóti. Ástæðulaust sýnist þó að draga staðsetningu Ólafs á Kryppu í efa svo gjörkunnugur sem hann er á sínum heimaslóðum og áhugasamur um slík efni. Ólafur gegnir enn, þegar þetta er ritað (í ágúst 1988), störfum umsjónarmanns með Minjasafninu á Hnjóti þó orðinn sé 88 ára gamall.

Um 1920 var fjórbýli á Hnjóti og auk þess búið á einu nýbýli í Hnjótslandi.[26] Nýbýli þetta hét Hnjótshólar og var svo sem einum kílómetra fyrir norðan Hnjót, um miðja Örlygshöfn austanverða. Þar var búið á árunum 1901-1921.[27] Í Rauðasandshreppi var þurrabúðarkot víða að finna á fyrstu áratugum 20. aldar[28] og hafa aðeins fá þeirra verið nefnd á þessum blöðum.

Á Hnjóti er nú merkilegt byggðasafn fyrir Vestur-Barðastrandarsýslu. Upphafsmaður safnsins er Egill Ólafsson, bóndi á Hnjóti. Með fágætri alúð og atorku tókst honum að bjarga fjölda minja frá glötun og safna á einn stað. Safnið var lengi í einkaeign Egils og geymt á heimili hans en fyrir nokkrum árum (ritað 1988) var byggt yfir það sérstakt hús og tók þá sýslan við rekstrinum. Safnið ber nafn Egils og heitir Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti. Húsbyggingunni lauk 1983 og var safnið opnað gestum í þessum nýju húsakynnum 22. júní þá um sumarið. Meðal merkustu gripa safnsins má nefna bát (sexæring), smíðaðan 1882 af Bergsveini Ólafssyni í Bjarneyjum. Á þessum báti var sjór sóttur frá Bjarneyjum, Oddbjarnarskeri, Brunnum og Kollsvík. Safnið á líka fjölda gamalla og merkilegra ljósmynda.

Á Hnjóti gefst hverjum og einum sem að garði ber kostur á að kynnast horfnum lífsháttum í Rauðasandshreppi og nálægum byggðum og ekki síst atvinnuháttum fyrri tíðar við sjósókn, búskap og bjargsig.

Upp frá bænum á Hnjóti liggja þrír dalir til fjalls, allir litlir,  Vandardalur vestast, þá Heiðardalur og loks Lambadalur. Um Heiðardal lá gamla þjóðleiðin á Hnjótsheiði en yfir hana var farið að Naustabrekku, vestasta bæ á Rauðasandi (sjá hér Lambavatn og Naustabrekka).

Utar í Örlygshöfn austanverðri er Kálfadalur, lítil dalskvompa, andspænis Tungu að heita má. Um hann lá reiðgata yfir í Mosdal, sem er lítill óbyggður dalur innan við Hafnarmúla, og þaðan áfram inn með Patreksfirði. Áður en bílvegur var lagður fyrir Hafnarmúla var þessi leið yfirleitt farin af ríðandi mönnum a.m.k. eftir 1860.[29] Við röltum hins vegar áfram akveginn út Örlygshöfn og eftir þjóðbraut nútímans fyrir hinn tignarlega Hafnarmúla.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Íslensk fornrit I, 53-54.

[2] Sama heimild, 175.

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 332.

[4] Ívar Lárusson 1949, 45 (Árbók Barð.).

[5] Sama heimild, 4-46.

[6] Össur Guðbjartsson. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8. 1988).

[7] Jón Þorkelsson 1895, 63 (Saga Magnúsar prúða).

[8] Jón Þorkelsson 1895, 68-76 (Saga Magnúsar prúða).

[9] Sama heimild, 70.

[10] Sama heimild, 74-75.

[11] Jón Þorkelsson 1895, 75-76 (Saga Magnúsar prúða).

[12] Þorvaldur Thoroddsen 1892-1894/ Landfræðisaga Íslands II, 34.

[13] Jarðab. Á. og P. VI, 320.

[14] Pétur Jónsson 1942, 100 (Barðstrendingabók).

[15] Sóknarm.töl Sauðlauksdalsprestakalls.

[16] Sama heimild. Manntal 1920.

[17] Jarðab. Á. og P. VI, 322-323.

[18] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 211.

[19] Jarðab. Á. og P. VI, 323.

[20] Sama heimild, 323-324.

[21] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 211 og 213.

[22] Sóknarmannatöl Sauðlaugsdalspr.kalls.

[23] Trausti Ólafsson 1960, 3 og 4 (Kollsvíkurætt).

[24] Pétur Jónsson 1942, 100 (Barðstrendingabók).

[25] Ólafur Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[26] Pétur Jónsson 1942, 100 (Barðstrendingabók).

[27] Sóknarm.töl Sauðlauksdalsprestakalls.

[28] Sama heimild.

[29] Pétur Jónsson 1942, 100-101.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »