Ós

Á göngu okkar um Mosdal stöldrum við síðast við á Ósi. Landamerkjum jarðarinnar á móti Skógum og Kirkjubóli hefur áður verið lýst en innan við Mosdal á jörðin land að Deild er svo heitir á Urðarhlíð,[1] um það bil 4,5 kílómetrum innan við bæinn á Ósi.[2] Í Mosdal er Ós nú eina jörðin í byggð. Utan við túnið fellur Ósá til sjávar en innan við það eru aflíðandi brekkur og liggja að Hálsinum sem fyrr var nefndur.

Að fornu mati var Ós 12 hundraða jörð.[3] Í Jarðabókinni frá 1710 er fátt talið henni til gildis en þar segir:[4]

Túnið spillist af sandfoki og skeljabrotum sem og svo fjúka á í stórviðrum. Engjarnar eru svo nær eyðilagðar af grjóts og leirs áburði úr Kirkjubólsá sem hér við sjóinn er kölluð Óssá. Úthagarnir eru bæði litlir og hrjóstrugir. Hætt er kvikfé fyrir sjávarflæðum. Vatnsvegur er langur ofan í fjöruna og ganga flæðar yfir brunninn þegar að fannir leggja að ofan. Kirkjuvegurinn er torsóttur yfir Arnarfjörð … Hreppamannaflutningur mjög torsóttur á vetur til Dynjanda. Hætt er húsum og heyjum fyrir stórveðrum.

Í sama riti er vetrarbeit sögð „í lakara lagi“ á Ósi[5] og ekkert minnst á fjörubeitina sem mun þó hafa verið býsna góð því annars staðar sést að hún var talin jafnast á við 16–18 vikna gjöf.[6] Í sóknarlýsingu séra Sigurðar Jónssonar frá árinu 1839 fær jörðin slæma útreið en hann segir hana vera ónýta að slægjum og „naumlega á henni búandi“ þar eð hún hafi enga kosti nema ef telja skuli „að á vorum dregur svartbakurinn hrognkelsi“.[7]Ætla má að grásleppa og rauðmagi hafi bjargað mörgum horkranganum á Ósi á útmánuðum liðinna alda og gott fátækum að eiga veiðifélag við svartbakinn. Séra Sigurður nefnir reyndar líka að í ánni sé foss við sjónn, um það bil þriggja faðma hár, og undir honum verði stundum vart við silung.[8] Fyrir neðan fossinn er allmikið gljúfur. Ósmegin heitir bergið í gljúfrinu Álfkonuberg og var talið að þar byggi huldufólk.[9] Við árósinn gengur Óstangi í sjó fram og innan við hann var lendingin.[10]

Á 15. eða 16. öld eignaðist kirkjan á Álftamýri kot þetta[11] og um miðbik síðustu aldar var Ós enn í hennar eigu.[12] Árið 1901 var jörðin hins vegar komin í sjálfsábúð.[13] Landskuldin sem bóndinn á Ósi þurfti að greiða prestinum á Álftamýri var á árunum upp úr 1570 tíu aurar á ári[14] eða hálft kýrverð. Árið 1710 var gjald þetta óbreytt.[15] Landskuldin var þá greidd í fiski „heim til staðarhaldarans“ á Álftamýri og „í prjónlesi og í peningum upp á fiskatal eftir því sem ábúandi fær orkað“.[16]

Árið 1681 virðist jörð þessi hafa verið nytjuð frá Kirkjubóli[17] en árið 1703 var hér tvíbýli.[18] Þá bjuggu á Ósi bændurnir Snorri Jónsson, 66 ára, og Ari Snorrason, 34 ára, báðir kvæntir,[19] og hafa að líkindum verið feðgar. Árið 1710 var Ari horfinn en gamli Snorri bjó hér einn[20] og þaðan í frá mun sjaldan eða aldrei hafa verið tvíbýli á Ósi.[21]

Árið 1791 bjó hér bóndinn Auðunn Árnason og hafði sér til lífsbjargar eina kú, sex ær og sex lömb.[22] Kona hans hét Guðrún Narfadóttir og tíu árum síðar voru þau hér enn, liðlega sjötug að aldri, en þá voru dóttir þeirra og tengdasonur tekin við búsforráðum, þau Guðrún Auðunsdóttir og Árni Greipsson.[23] Á eymdarárunum 1812–1814, þegar nokkrir Vestfirðingar dóu úr hungri (sjá Mosvallahreppur og Mýrahreppur) var ærið þröngt í búi hjá Árna og Guðrúnu sem þá voru enn við búskap hér á Ósi.[24] Þau áttu þá þrjá syni á lífi sem fæðst höfðu á árunum 1798–1806 og nú bættist dóttir við en auk sinna eigin barna höfðu hjón þessi á Ósi alið upp bróðurson húsfreyjunnar, Jóhannes Narfason.[25] Þegar harðast svarf að, árið 1813, greip fólkið á Ósi til þess óyndisúrræðis að stela nokkrum sauðkindum er þau skáru sér til matar en þeirra eigin bústofn var ein kýr, tvær ær, einn gemlingur og lamb.[26] Við réttarhald þremur árum síðar játuðu þau að hafa tekið 13 kindur ófrjálsri hendi.[27] Sjö þeirra voru frá Botni í Geirþjófsfirði og þær hafði Jóhannes Narfason, sem kominn var um tvítugt, tekið og skorið þegar Árni bóndi var við haustróðra í Lokinhömrum.[28] Þetta sama haust var öllum föngunum í tugthúsinu í Reykjavík, sem nú er stjórnarráðshús, sleppt vegna hungursneyðar[29] og þegar dæmt var í máli fólksins á Ósi haustið 1816 var tugthúsið enn lokað. Árni bóndi Greipsson var dæmdur til að þola 3 x 27 vandarhögg en Guðrún, kona hans, fékk 30 og Jóhannes Narfason 25 vandarhögg.[30] Dómari í málinu var Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður, sem sat í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði, en sá sem kærði var Jón Steinhólm, hreppstjóri í Stapadal.[31]

Árið 1827 var nýtt fólk komið að Ósi en orðasveimur tengdist enn jörðinni því prestur segir þá um hinn nýja bónda að hann sé „ei ráðvandur“.[32]Á árunum 1827–1900 voru ábúendaskipti mjög tíð og á því skeiði var jörðin stundum í eyði, lengst í níu ár, frá 1871 til 1880.[33] Úttekt frá árinu 1883 sýnir að baðstofan á Ósi var þá 7 x 3 álnir[34] eða liðlega átta fermetrar. Baðstofugöngin voru þrjár álnir á lengd en önnur bæjarhús voru búr og eldhús, fjós, fjárhús og hlaða.[35] Fjósið var aðeins rétt liðlega þrír fermetrar.[36]

Frá Ósi höldum við nú inn með ströndinni að Dynjanda en spölurinn þar á milli er sjö til átta kílómetrar. Frá bænum á Ósi sést inn að Hvarfi en utan við það er Ósstekkur uppi í hlíðinni[37] og standa tóttirnar óhaggaðar. Klettaveggurinn ofan við stekkinn heitir Trumba.[38] Hjallinn í hlíðinni innan við Hvarf heitir Duluhjalli[39] og skammt fyrir innan sama leiti gengur Skeleyri í sjó fram. Þar setti Jóhannes galdramaður á Kirkjubóli niður Haukadalsdrauginn fræga (sjá Haukadalur). Hlíðin innan við Skeleyri heitir Urðarhlíð.[40] Frá Skeleyrinni eru um það bil tveir kílómetrar inn á Hlaðsnes[41] en þar er á sjávarbökkunum, alllangt fyrir neðan akveginn, rúst af gömlu grjóthlöðnu fjárbyrgi er verið hefur 16–18 fermetrar að flatarmáli. Landamerki Óss og Dynjanda eru svolítið innar og heitir þar Deild[42] en utan við hana eru Deildarhjallar.[43] Þaðan sér heim að Dynjanda.[44] Sagt er að fram af Deild sé mesta dýpið í öllum Arnarfirði.[45] Þar eru smáklettar við sjóinn.[46]

 

 

[1] Landamerkjabók varðv. hjá sýslum. á Ísaf.. Landamerkjaskrá nr. 252, þinglýst 11.7.1922.

[2] ÁgSig KÓ 3.9.1997.

[3] Jb. Á. og P. VII, 8–9.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] ÞN 1951, 161 (Árbók F.Í.).

[7] Sóknalýs. Vestfj. II, 33.

[8] Sama heimild, bls. 18.

[9] ÖÖ.

[10] ÖÖ.

[11] D.I. XV, 578. Sbr. D.I. IV, 147.

[12] JJ 1847, 191.

[13] Manntal 1901 og fylgiskjöl.

[14] D.I. XV, 576.

[15] Jb. Á. og P. VII, 8–9.

[16] Sama heimild.

[17] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[18] Manntal 1703.

[19] Sama heimild.

[20] Jb. Á. og P. VII, 8–9.

[21] Bændatöl og skuldaskrár 1720–1765, Ísafjs. um 1735, eftirrit. Jarða- og bændatöl 1752–1767, Ísafjs. 1753. Manntöl 1762, 1801 og 1816. Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. Smt. Rafnseyrar.

[22] Rtk. Isl. J. 9, nr. 34, bsk. 1791.

[23] Manntal 1801.

[24] Skjs. sm. og svstj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805–1817, 157–159 og 163–170.

[25] Sama heimild. Manntal 1816, 681 og 685.

[26] Sama Dóma- og þingb., bls. 157–159 og 163–170.

[27] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805–1817, 157–159 og 163–170.

[28] Sama heimild.

[29] PG Annáll nítjándu aldar I, 180.

[30] Skjs. sm. og svstj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805–1817, 168–170.

[31] Sama heimild, bls. 157–159 og 163–170.

[32] Smt. Rafnseyrar.

[33] Sama heimild.

[34] Úttektab. fyrir Auðkúluhr. Varðveitt 1990 á Auðkúlu, lögg. 8.9.1882, bls. 2.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] ÖÖ.

[38] Sama heimild.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild.

[41] ÁgSig KÓ 3.9.1997.

[42] ÁgSig KÓ 3.9.1997.

[43] PSig KÓ 2.7.1998.

[44] ÖÖ.

[45] Vestf. þjóðs. II. 1., 40–42.

[46] PSig KÓ 2.7.1998.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »