Sæból

Kirkjustaðurinn Sæból stendur örskammt frá sjó eins og nafnið bendir til.  Þar þótti löngum gott undir bú og dýrleiki jarðarinnar talinn 60 hundruð að fornu mati.[1] Aðeins tvær jarðir í Mýrahreppi voru metnar hærra, Alviðra og Mýrar (sjá hér Alviðra og Mýrar). Heimaland Sæbóls er þó ekki stórt en jörðinni fylgir mikið beitiland í Nesdal og á Heiðum og einnig Brekkunes við sjóinn, austan Langár, eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá Nesdalur og “Svipast um á Ingjaldssandi”). Aðstaða til sjósóknar var líka talin býsna góð á Sæbóli þó að lending væri brimasöm og er ekki ólíklegt að nálægðin við gjöful fiskimið hafi verið eitt af því sem renndi stoðum undir hið háa mat á jörðinni.

Gamla bæjarstæðið á Sæbóli er utarlega og ofarlega í túninu, í dálitlum krika neðan við Lægri- og Hærri-Kúlur[2] sem eru hér neðst í fjallshlíðinni.[3]  Í sóknarlýsingu frá árinu 1840 er tekið fram að bæirnir þrír á Sæbóli standi allir saman.[4]  Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og allt fram til ársins 1939 stóðu Sæbólsbæirnir, sem þá voru líka þrír, allir á hinu forna bæjarstæði og voru sambyggðir í einni lengju.[5]  Íbúðarhús sem síðast var búið í um 1970 stendur nú (1993) á gamla bæjarstæðinu og var á sínum tíma byggt upp úr miðbænum.[6]  Kvisturinn á því húsi snýr fram á gamla hlaðið[7]  sem áður var lagt stórum steinhellum.[8]

Jón Oddsson skipstjóri sem ólst upp hjá foreldrum sínum í miðbænum á Sæbóli á árunum kringum aldamótin 1900, fæddur 1887, lýsti húsakynnum svo fyrir Guðmundi G. Hagalín sem færði frásögn hans í letur:

Veggir [baðstofunnar] voru hlaðnir úr bæði torfi og grjóti eins og víðast tíðkaðist á Vestfjörðum og þakið var úr torfi. Það var mjög þykkt og svo vel gróið að það lak ekki nema helst á haustin þegar langvarandi stórrigning fylgdi ofsalegu hvassviðri.  Risið á austurstafni baðstofunnar var úr timbri.  Þar var fjögurra rúðna gluggi.  Svo var baðstofan vegghá og rismikil að í henni var loft. Uppi var skarsúð og þiljur úr flettum rekavið, sperrur gildar og traustar, í þeim valinn rauðaviður.

 

Í austurendanum var lítið herbergi. Þar var sitt rúmið undir hvorri hlið.  Þar sváfu foreldrar Jóns og hjá þeim tvö yngstu börnin. Í þessu herbergi var lítill ofn en ekki var hann kynntur nema úti væri frost og næðingur.  Framloftið var einn geimur. Framan við skilrúmið voru tvö rúm sem stóðu andspænis hvort öðru.  Í þeim sváfu vinnumenn. Tveggja rúðna gluggar voru yfir báðum þessum rúmum. Vestan við þá rekkjuna sem stóð undir suðurhliðinni var stigagatið. Andspænis því var þverrúm. Í því svaf Jón gamli trutt, sem svo var kallaður, en hét reyndar Jón Jónsson og var gamall og blindur sveitarómagi.[9]  − Snautaðu ofan sneypan þín!, sagði karl þessi yrði hann var við að Hrauns-Móri eða aðrar ókindur gægðust upp um stigagatið í skjóli náttmyrkurs.[10]

Þar sem uppgöngunni sleppti var rúm tveggja vinnukvenna en í vesturenda baðstofunnar voru rúm gömlu hjónanna, foreldra Odds bónda Gíslasonar, og skammt þar frá rúmið sem tveir elstu synir hans sváfu í.[11] Baðstofa þessi var átta metra löng að utanmáli og fjórir metrar á breidd.[12] Á þekjunni voru fjórir gluggar með tveimur rúðum hver.[13]

Við bæjardyr miðbæjarins var á þessum árum skyggni sem reist hafði verið til að forða því að gust að utan legði inn í baðstofuna þegar opnað var í vondum veðrum.[14] Jón Oddsson gerði Guðmundi Hagalín líka grein fyrir allri herbergjaskipan miðbæjarins á Sæbóli eins og hún var um  aldamótin 1900 og var sú frásögn á þessa leið:

 

Innan við sjálfar baðstofudyrnar tók við þiljaður gangur sem náði yfir baðstofuna þvera en hún var fjögurra metra breið. Þegar komið var inn í þennan gang voru til vinstri dyr inn í snotra stofu. Hún var þrír metrar á lengd en breiddin tveir og hálfur. Úr henni var gengið inn í svefnherbergi gesta. Það var jafnlangt stofunni en einum metra mjórra.  Í stofunni var ofn. Hann var einungis kyntur þegar gestir komu að vetrarlagi yfir heiði eða innan úr Önundarfirði. Gegnt stofunni var eldhús. Í því var mjög stór eldavél með svokölluðum bakpotti. Það var vatnshólf aftan við aðalpottstæðið. Í bakpottinum var alltaf tiltækt heitt vatn þegar eldavélin var kynt. Vestur úr eldhúsinu var lítið búr.  Gegnt svefnhúsi gesta var vefjarstofa og vestur af henni mjög lítið herbergi. Yfir því réð gamla húsfreyjan (móðir Odds bónda). Þar stóð stór fatakista og þar geymdi hún sitthvað matarkyns, þar á meðal rauðan kandíssykur, sætabrauð úr kaupstað og franskar brauðkökur.

Innst í ganginum var stiginn upp á loftið og dyr inn í hlóðaeldhús sem stóð ofan við baðstofuna. Þar var soðinn þvottur og sömuleiðis slátur að haustinu og reykt var þar bæði ket og rauðmagi. Í öllum herbergjunum nema útieldhúsinu var timburgólf og öll voru þau vandlega þiljuð.[15]

 

Í miðbænum sem hér hefur verið lýst bjuggu hjónin Oddur Gíslason og Jónína Jónsdóttir frá 1889 til 1907 og höfðu þá ábúð á öllu Sæbóli nema fáeinum hundruðum sem Jón Bjarnason bjó á (sjá hér bls. 86).[16] Jón og kona hans, Sveinfríður Sigmundsdóttir, bjuggu þá í ysta bæ en í fremsta bæ átti alllengi heima á þessum árum Sigurður Ólafsson húsmaður og eiginkona hans sem hét Dagbjört Jónsdóttir.[17] Allar þrjár baðstofurnar voru áfastar hver við aðra[18]  og milli miðbæjar og ystabæjar var aðeins þunnt panelþil. Á árunum milli 1920 og 1930 voru göt komin á þilið svo börnin á þessum tveimur bæjum gátu horfst í augu í gegnum það.[19]

Gamla sóknarkirkjan á Sæbóli stóð í miðjum kirkjugarði rétt framan við bæina og aðeins neðar.[20] Hún var neðan heimreiðar.[21] Enn mótar greinilega fyrir hinum forna kirkjugarði en síðasta kirkjan sem þar stóð fauk árið 1924 (sjá hér bls. 17). Ætla má að í þessum forna garði hafi kirkja Sandmanna staðið allt frá fyrstu tíð.

Frá fremsta bænum að kirkjugarðinum var aðeins örskammur spölur en bæjarlækurinn sem nú er horfinn rann þar á milli.[22]  Í hann var sótt allt neysluvatn og við hyl þar í læknum var þvottur skolaður og keppað úr sokkum og vettlingum.[23] Í gamla kirkjugarðinum er nú aðeins einn legsteinn ofar moldu og liggur þó flatur.  Grein er gerð fyrir honum hér litlu aftar (sjá hér bls. 35).  Kirkjunni sem Sandmenn reistu árið 1929 var valinn nýr staður innarlega á Bakkhúsgrund, skammt frá sjávarbakkanum á Sæbóli[24] og þar stendur hún nú. Þar er líka kirkjugarður sem mun hafa verið tekinn í notkun um svipað leyti og kirkjan.

Fyrsti bóndinn á Sæbóli sem fluttist úr gömlu bæjarhúsunum var Guðmundur Guðmundsson en hann fór þaðan árið 1939 og hafði þá byggt sér íbúðarhús niður á sjávarbakkanum, skammt frá kirkjunni.[25] Það hús stendur nú autt en örskammt frá því er nýtt íbúðarhús, byggt á árunum milli 1980 og 1990.  Ágúst Guðmundsson, sem lengi bjó á Sæbóli, fór með sitt fólk úr gömlu bæjarhúsunum nokkru seinna en Guðmundur[26] og segir Jóhannes Davíðsson að hann hafi þá flutt bæ sinn upp undir Kúlur.[27] Seinna byggði Ágúst stórt steinhús þar sem heitir Miðhluti í Sæbólstúni[28]  og þar bjuggu börn hans þrjú til æviloka.

Ofan við Sæból gengur fjalldalur til vest-suðvesturs og er það Skáladalur sem hér hefur áður verið nefndur. Utan við hann er fjallið Barði, yst við vestanverðan Önundarfjörð.  Í fjallsbrúninni utan við mynni Skáladals er klettur sem sést vel frá Sæbóli og annar minni mjög skammt frá.  Klettar þessir heita Hnísur og ekki ólíklegt að mönnum hafi þótt þeir líkjast bakugga á hnísu þegar horft var til fjalls neðan frá láglendinu.[29] Í munni heimafólks nær nafnið Hnísur yfir alla fjallsbrúnina þarna í kring þegar talað er um að fara  upp á Hnísur. [30]

Framan við Skáladal tekur við fjallið Kerlingar eða Kerlingafjall[31]  sem ætla má að hafi fengið nafn sitt af tveim standklettum[32] eða steinkerlingum í mannsmynd hátt í fjallsröndinni framan við Skáladal.

Eins og hér hefur þegar verið nefnt verður að telja mjög líklegt að Sæból sé landnámsjörð og upphaflegt nafn jarðarinnar hafi verið Ingjaldssandur (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”). Í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 er kirkja sögð vera á Ingjaldssandi[33] og gæti orðalagið bent til þess að jörðin hafi þá enn verið nefnd því nafni. Er frásögnum Landnámabókar, sem áður hafa verið kynntar á þessum blöðum (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”), sleppir eru hins vegar nær engar heimildir í boði um Sandmenn og sveit þeirra fyrr en kemur fram á 14. öld og farið var að skrá þá máldaga Sæbólskirkju sem enn eru varðveittar. Þess er þó getið í Biskupasögum að Guðmundur Arason hinn góði, síðar biskup á Hólum, hafi lagt leið sína á Ingjaldssand er hann var á ferð um Vestfirði sumarið 1200.[34]

Strandlengjan í landareign Sæbóls er um 11 kílómetra löng og nær frá Þúfu vestan við Nesdal og að Reyðarskeri undir Hrafnaskálarnúp, þar sem eru hreppamörk. Meginhluti þessarar strandlengju er illfær yfirferðar og á það einkum við um fjörurnar undir Barða og Hrafnaskálarnúp. Heimaland Sæbóls nær neðan frá sjó á Ingjaldssandi og fram að Merkislæk sem kemur úr Nautaskál og rennur í Langá á Langanesi.[35]  Spölurinn frá sjó og fram að læknum er varla lengri en einn kílómetri. Framan við Merkislæk tekur við land Álfadals.[36] Heimalandið er vestan Langár en austan við ána á Sæból nú allt land neðan frá sjó og fram að Síkiseyri (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”) þar sem land Villingadals tekur við. Þetta gróðurlendi austan Langár heitir Brekkunes og mun áður hafa fylgt jörðinni Brekku en komist síðar í eigu Sæbólsmanna ásamt fjörunni undir Hrafnaskálarnúp og allri fjallshlíðinni frá hreppamörkum við Reyðarsker að Síkiseyri við Langá.[37] Hér á þessum blöðum hafa líkur áður verið leiddar að því að þessi eignatilfærsla á landi hafi átt sér stað á árunum 1571-1587 (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”) en fullvíst er það þó ekki.

Við réttarhald sem fram fór á Mýrum í Dýrafirði sumarið 1727 kváðust nokkrir Sandmenn reyndar hafa heyrt að bænhúsið sem fyrrum var á Brekku á Ingjaldssandi hefði átt ítak í Nesdal og á Heiðum[38] svo vera má að guðshúsin á Sæbóli, Álfadal og Brekku hafi fyrr á öldum átt einn þriðjung hvert í þessum ágætu beitilöndum.

Á lausu blaði sem fylgir Jarðabókinni frá 1710 er að finna lýsingu Eggerts Sæmundssonar er þá bjó á Sæbóli á þessari eignarjörð sinni.  Hann segir þar:

 

Sæból á Ingjaldssandi 60 hundruð að dýrleika, landskuld 12 vættir, 12 kúgildi. Tún í víðlendara lagi af jafndýrum jörðum, hart og sendið að vinna. Grasvöxtur við meðaljarðir og ei lakara þá í ári lætur. Engjar litlar, mjög graslitlar, af skriðum og sandi mjög skemmdar. Sumarbeit fyrir pening lítil að víðáttu og grasi því í grjót og hrjóstur er komið af skriðum … . Selstöðu á jörðin á Heiðum og tvo parta þess lands sem mínir forfeður mér sagt hafa en ei nú í mörg ár brúkað. Á þessum heiðum er lyng að fá. Skógur enginn í þessarar jarðar landeign, ei silungsveiði, lítil og slæm torfrista sökum sands og óheillrar jarðar. Nú frá allur reki sem áður var þó, svo nú í tíu ár hafa hér tvö tré rekið, ásgildi 9 og 12 álna. Heimræði á vor og sumar og ei eru hér utan Sands skip til róðra, allskjaldan á vetrartíma róið. Afréttið Nesdalur brúkast til beitar fyrir geldfé, vetur og sumar, svo lengi sem snjór og klaki hylur ei gras. Þar hafa hestar beit að öðru hverju svo og á vetur meðan sér úti gefa. Þar gengur eitt skip á vorin, stundum tvö, með fjórðungs tolli, − og geldneyti sumardag. Þar eiga kirkjur ítak til beitar um sumur [sjá hér Nesdalur]. Þar má fá lítið lyng og lítil ber, hvörgi í þessari landeign, að minni vitund, að neinum riðum ber að fá annars staðar og ekki fjallagrös. Dalurinn [þ.e. Nesdalur – innskot K.Ó.] heyrir til kirkjunni hér og jörðinni, einnig bænhúsi á Álfadal að fornu. Þessi jörð er í mörgu hæg fyrir þann á býr og ein með þeim hægustu til hjálpræðis. Útigangur mjög lítill og ei fjörubeit en þó ber hér upp þara eftir stórbrim.[39]

 

Eggert Sæmundsson segir þarna að langt sé liðið síðan Sæbólsmenn hafi haft búsmala í seli fram á Heiðum en í Jarðabókinni kemur skýrt fram að bændur á Álfadal nýttu sér selstöðuna þar árlega í byrjun 18. aldar.[40]

Í Jarðabókinni frá 1710 eru selin frá Sæbóli og Álfadal sögð hafa verið fram á Heiðum en vitað er að síðar voru þau í Seljalágum.[41] Hvort Eggert Sæmundsson eigi við sel í Seljalágum þegar hann segir Sæból eiga selstöðu á Heiðum er ekki gott um að dæma. Bæði Heiðar og Seljalágar eru í landskikanum milli Selár og Mórillu, Seljalágar neðst, á bökkum Langár, en Heiðar ofar og skilur allmikill hjalli lágarnar frá hinum eiginlegu Heiðum.[42] Allur þessi landskiki fylgir Sæbóli eða svo hefur að minnsta kosti verið talið á síðari tímum en Álfadalur mun þó hafa átt þar einn þriðja part á fyrri tíð (sjá hér Álfadalur).

Í sóknalýsingunni frá 1840 segir að framanvert við Selá séu selstöður frá Sæbóli og Álfadal.[43] Orðalagið bendir til þess að ær frá þessum bæjum hafi enn verið mjaltaðar þarna í seli þegar sóknalýsingin var samin þó ekki sé það alveg öruggt. Um miðbik 19. aldar var líka tekinn mór í landi Sæbóls fram á Heiðum og þar voru slægjur miklar frá Sæbóli.[44]

Jóhannes Davíðsson, sem ólst upp á Ingjaldssandi um aldamótin 1900,  segir í ritgerð frá árinu 1968 að á Heiðum sé mikið slægjuland og ágætt mótak, enda hafi heiðaland þetta verið nýtt til slægna og móskurðar fram á tuttugustu öld.[45]

Selstöðuna frá Sæbóli segir Jóhannes hafa verið í Seljalágum fyrir framan Selá og getur þess að þar í selkofunum hafi verið búið í nokkur ár í lok 19. aldar.[46] Jóhannes nefnir ekki hvaða fólk það var sem bjó þarna í selkofunum en fólk sem nú (1993) býr á Sæbóli og fætt er á árunum kringum 1920 heyrði á sínum uppvaxtarárum frá því sagt að konan sem bjó í selinu hafi heitið Þorbjörg Sigmundsdóttir.[47] Að þess sögn fluttist hún norður í Hnífsdal og bjó þar með Páli eiginmanni sínum.[48] Sumarið 1993 kunnu Sandmenn frá því að segja að sonur þessara hjóna hefði farið í Kennaraskólann og á árunum um eða upp úr 1930 hafi þessi sama Þorbjörg, er þá bjó í Hnífsdal, átt mórauða rollu í eldi hjá Guðmundi Bernharðssyni, bónda í Ástúni á Ingjaldssandi.[49]

Á sóknarmannatölum frá árunum 1880-1920 er aldrei getið um búsetu fólks í selhúsunum en með þær upplýsingar í höndum sem hér hefur verið gerð grein fyrir reyndist auðvelt að finna þar fólkið sem í selinu bjó og gera sér með sæmilegri nákvæmni grein fyrir á hvaða árum það hafðist við í kofunum framan við Selá.

Þorbjörg Sigmundsdóttir, sem hér var nefnd, hét fullu nafni Þorbjörg Guðrún og fæddist í Meðaldal í Dýrafirði vorið 1853.[50] Foreldrar hennar voru Sigmundur Bjarnason og Hallvör Jónsdóttir sem við fæðingu hennar voru gift vinnuhjú í Meðaldal.[51] Árið 1860 var Þorbjörg hjá foreldrum sínum sem þá voru farin að búa í Hvammi í Dýrafirði.[52] Tíu árum síðar bjuggu þau á Granda í Þingeyrarhreppi en þá var hún farin úr foreldrahúsum.[53]

Árið 1877 fluttist Þorbjörg Sigmundsdóttir að Hálsi á Ingjaldssandi og kom þangað frá Dalshúsum í Valþjófsdal.[54] Þá var hún 24 ára gömul. Næstu árin átti hún jafnan heima á Ingjaldssandi og þar giftist hún 5. október 1881 Jóni Jónssyni á Hálsi sem var átta árum eldri en hún, fæddur 1. janúar 1845 á Hálsi.[55] Foreldrar eiginmanns Þorbjargar voru Jón Jónsson og Júdith Gissurardóttir sem lengi áttu heima á Hálsi og voru þar í húsmennsku þegar sonur þeirra kvæntist árið 1881.[56]

Á árunum 1881-1887 voru Þorbjörg og Jón maður hennar vinnuhjú á ýmsum bæjum á Sandinum, lengst á Hálsi, en einnig á Sæbóli og Brekku.[57] Vorið 1887 varð breyting á högum þeirra því þá hættu þau að vistráða sig hjá öðrum en fóru að bolloka á eigin vegum í húsmennsku.[58] Í sóknarmannatali frá 31. desember 1887 eru þau sögð vera húshjón á Álfadal.[59] Næstu þrjú árin eru þau skráð sem húshjón á Hálsi og 31. desember 1891 húshjón í Hrauni.[60] Árið 1890 er Jón þessi Jónsson sagður lifa á handafla sínum, enda var maðurinn búlaus. Árið 1891 var móðir Jóns, Júdith Gissurardóttir, hjá þeim í heimili, talin 75 ára gömul, og einnig tökubarn, Bjarnveig Guðmundsdóttir, 5 ára.[61] Sjálf voru þau Jón og Þorbjörg barnlaus og oftast bara tvö í heimili.[62] Árið 1892 gáfust þau upp á húsmennskunni. Þorbjörg varð þá á ný vinnukona á Hálsi en Jón maður hennar var orðinn heilsulaus og dó ómagi á Hálsi 6. nóvember 1892.[63] Næsta vor fluttist Þorbjörg Sigmundsdóttir burt af Ingjaldssandi og átti þar aldrei heima síðar.[64]

Fullvíst má telja að það hafi verið á húsmennskuárum Jóns og Þorbjargar sem þau bjuggu í selhúsunum. Þegar fólk sem mundi veru þeirra þar sagði frá henni síðar fylgdi það alltaf sögunni að þau hefðu haldið til í selinu árið um kring og verið þar að minnsta kosti einn eða tvo vetur.[65]

Langlíklegast er að Jón og Þorbjörg hafi búið í selinu á árunum 1888 til 1891 þegar presturinn segir þau vera húshjón á Hálsi. Þaðan er aðeins 10 mínútna gangur fram að selinu og leiðin greið þó fara verði yfir Langá. Á þessum árum voru bændur á Sæbóli og Álfadal hættir að hafa búsmala sinn í seli og hjá einhverjum þeirra hafa þau Jón og Þorbjörg fengið leyfi til að hressa selkofana við og setjast þar að.

Tóttir þessa mannabústaðar þar sem áður var selið eru enn á sínum stað, rétt framan við Selá og spölkorn ofan við ármót hennar og Langár. Þarna eru tvær tóttir sem bera með sér að vera af húsum frá 19. eða 20.  öld. Önnur þeirra er tvískipt. Í næsta nágrenni sést móta fyrir mun eldra mannvirki sem ekki er ólíklegt að séu leifar af kvínni frá dögum seljabúskaparins. Í nánd við þessar tóttir en svolítið fjær Selá er svo forn hringlaga tótt sem gæti hafa verið rétt eða sauðabyrgi.

Nokkru neðar, alveg niður við ármót Selár og Langár, eru aðrar tóttir, mun fornlegri en hinar yngstu þeirra sem hér voru síðast nefndar. Þarna er ein tótt af býsna löngu húsi og allbreiðu og svo virðist sem greina megi aðra þar rétt hjá og er sú hringlaga. Hvort fleiri tóttir kynnu að leynast í þúfnakarganum við ármót Selár og Langár skal ósagt látið en vissar líkur benda til þess að svo sé.

Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að selin í Seljalágum hafi verið tvö, bæði rétt framan við Selá en þó spölur á milli. Með hliðsjón af því að árið 1840 voru selstöður frá Sæbóli og Álfadal sagðar vera framanvert við Selá eins og hér hefur áður verið nefnt má telja nær fullvíst að selin frá þessum tveimur jörðum hafi verið þar sem nú eru tóttirnar.

Konan sem bjó í selinu á árunum kringum 1890 átti langt líf fyrir höndum. Þegar hún yfirgaf Ingjaldssand árið 1893 var hún fertug að aldri. Fyrst fór hún til Flateyrar[66] en fluttist árið 1895 til Bolungavíkur frá Mýrum í Dýrafirði.[67] Á því ári eða hinu næsta fór hún að búa með manni sem Páll Jónsson hét á Bolungavíkurmölum[68] en hann var þangað kominn norðan úr Skagafirði, fæddur í Svínavallakoti í Hofssókn norður þar haustið 1871[69] og var því 18 árum yngri en Þorbjörg.

Árið 1899 eða 1900 fluttust þau Páll og Þorbjörg úr Bolungavík inn í Hnífsdal.[70] Þau voru þá enn í óvígðri sambúð en 3. ágúst 1902 voru þau pússuð saman í hjónaband.[71] Á árunum 1900-1930 voru þau jafnan búsett í Hnífsdal og þar ól Þorbjörg upp þrjá fóstursyni.[72] Einn þessara drengja, Guðmundur Helgi sem varð kennari, var reyndar sonur eiginmanns hennar, Páls Jónssonar, sem eignaðist hann með 28 ára vinnukonu í Heimabæ í Hnífsdal þegar Þorbjörg kona hans, sem áður bjó í selinu, var orðin 65 ára gömul.[73] Selkonan var hins vegar svo stór í sniðum að hún tók þetta hórbarn bónda síns strax inn á heimili þeirra og var sjálf skírnarvottur þegar drengurinn var skírður.[74] Þann 10. júní 1939 varð Þorbjörg ekkja í annað sinn.[75] Hún var þá orðin 86 ára gömul en lifði samt enn í nokkur ár.[76] Þegar manntal var tekið árið 1940 átti Þorbjörg lögheimili hjá elsta fóstursyni sínum, Kristjáni Sigurðssyni, á Grundarstíg 12 á Flateyri en í manntalinu er tekið fram að hún dveljist á Tannanesi.[77] Í Hnífsdal vann þessi merkiskona lengi við fisk og í manntalinu frá 1.nóvember 1901 er hún nefnd hlutakona sem bendir til þess að hún hafi verið ráðin upp á hlut við einhvern bátinn, líklega sem fanggæsla.

Á Sæbóli er útræði og verstaða og róa hér til fiskjar þeir sem búa á Ingjaldssandi, segir í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710.[78] Í minni þeirra sem uppi voru árið 1710 höfðu bátar Sandmanna oftast verið þrír eða fjórir[79]  en á árunum 1839-1845 voru þeir þrír til sex ef marka má búnaðarskýslur. Lendingin á Sæbóli er neðan við ysta hluta túnsins en rétt utan við lendinguna er svolítill bugur inn í sjávarbakkana og fram af honum er Róðrarsker.[80] Á Róðrarskeri er einstakur steinn sem heitir Vinlaus. Hann var áður beint fram af lendingunni en barst með hafís upp á skerið í norðanáhlaupi veturinn 1912.[81] Bátalægið innan við Róðrarsker heitir Sæbólslag og þar munu þilskip stundum hafa lagst við akkeri á fyrri tíð.[82] Frá Sæbóli reru lengi einn til tveir bátar sem ekki voru í eigu heimamanna þar. Vertollurinn sem eigandi Sæbóls fékk greiddan var í byrjun 18. aldar einn til tveir fjórðungar[83] og mun þá vera átt við einn til tvo fjórðunga skreiðar (5-10 kíló) frá hverjum vermanni sem reri á þessum bátum (sjá hér Fjallaskagi).

Árið 1710 voru engar verbúðir á Sæbóli en í Jarðabók Árna og Páls frá því ári er tekið fram að áður hafi verið þar ein verbúð sem vermenn frá Brekku hafi legið við í.[84]

Ólafur Olavius, sem kannaði atvinnuhætti á norðanverðum Vestfjörðum árið 1775, telur í Ferðabók sinni upp allar verstöðvar á svæðinu frá Dýrafirði að Geirólfsgnúp og nefnir Sand þar á meðal, sem hann segir liggja við opið haf sunnan við Önundarfjörð.[85] Þarna er tvímælalaust átt við Ingjaldssand en Olavius lætur þess getið að í verstöðinni á Sandi skorti bæði góða möl og trygga lendingu.[86] Ekki kemur fram hjá Olaviusi hvort ein eða fleiri verbúðir voru á Sæbóli sumarið 1775 en líklegt er að þeir Sandmenn sem ráðnir voru í skiprúm og lengsta leið áttu til sjávar hafi legið þar við.

Á árunum kringum 1900 átti Eiríkur Sigmundsson, er þá bjó í Hrauni á Ingjaldssandi, verbúð á Sæbóli og var hún kölluð Hraunsbúð.[87] Eiríkur reri lengi frá Sæbóli bæði vor og haust á sexæring sínum sem hét Hreggviður.[88] Eiríkur hætti búskap í Hrauni árið 1905 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 304) og þá mun Hraunsbúð hafa verið rifin.[89] Í riti Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenskum sjávarháttum, er þó að finna mjög góða lýsingu á þessari verbúð á Sæbóli.  Þar segir:

 

Hraunsbúð var um 4 m löng við annan vegginn en rösklega 4,5 m við hinn því að þar kom skot út í gaflvegginn og voru þar hlóðir. Breiddin var um 3 m. Veggur var í axlarhæð. Risið var því sem næst krossreist. Á 8 x 8 sm vegglægjum hvíldu sperrur en þær voru efnismeiri, settar saman með klofa í kverkina og ennfremur voru skammbitar til þess að styrkja þakið. Á sperrurnar komu langbönd og árefti undir torfið. Manngengt var undir skammbita. Á norðurgafli, milli rúmanna, var gluggatótt sem vestra kallast glugghús. Það náði upp undir vegglægju og var reft yfir það undir þekjunni og hlaðið að innan með snyddu. Rúður voru fjórar, hver um sig 20 x 15 sm. Á miðri langhlið þaksins, dyramegin, var einnar rúðu gluggi. Tvö rúm voru við vesturvegg og eitt við þann eystri, hægra megin dyra.  Formaður svaf í því rúmi sem var innst í búðinni.[90]

 

Enda þótt rúmin í Hraunsbúð hafi aðeins verið þrjú má ætla að sex menn hafi legið þar við því alltaf voru tveir í rúmi. Á Sandi vita menn enn (1993) hvar Hraunsbúð stóð og geta bent á tóttina (sjá hér bls. 89).

Hér hefur áður verið getið hinna miklu sjóslysa sem urðu við róðra frá Sæbóli á fyrri hluta 19. aldar (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”) er 48 Sandmenn týndust í sjó á árunum 1811-1850.[91] Mestur varð mannskaðinn 6. maí 1812. Þá reru fjórir bátar frá Sæbóli en aðeins einn þeirra náði landi. Hinir þrír týndust allir í hafi.[92] Sandmenn sem drukknuðu þennan óveðursdag voru ekki færri en fimmtán[93] en formenn á bátunum sem þá fórust og róið höfðu frá Sæbóli voru Guðmundur Hákonarson á Brekku, Jón Sigmundsson á Álfadal og Guðmundur Sigurðsson frá Hálsi.[94] Eini formaðurinn frá Ingjaldssandi sem náði að sigla skipi sínu heilu til hafnar í stormi og stórsjó þennan sorgardag var Ásgeir Jónsson prófastur er þá bjó á Sæbóli en frá honum segir nánar á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Holt).

Á síðari hluta 19. aldar var mun minna um slysfarir við sjósókn frá Sæbóli en verið hafði á fyrri hluta aldarinnar. Hér varð þó hörmulegt slys 30. september 1868 er Friðrik Guðmundsson á Sæbóli og tveir synir hans fórust út við Purkusker undir Barða (sjá hér bls. 82-83).

Á Sæbóli var löngum margbýlt og má sem dæmi nefna að árið 1710 bjuggu þar fjórir bændur,[95] árið 1762 voru þeir fimm og árið 1801 sex.[96] Á árunum 1835-1845 bjuggu hins vegar bara tveir bændur á Sæbóli[97] en þá var einnig búið um skeið í Nesdal í Sæbólslandi (sjá hér Nesdalur). Um miðbik 19. aldar fjölgaði býlum á Sæbóli á ný og næsta aldarfjórðunginn voru bændur þar oftast fjórir en stundum fimm.[98] Síðan fækkaði býlunum aftur og á árunum kringum aldamótin 1900 bjó Oddur Gíslason einn á allri jörðinni um skeið.[99] Á fyrri hluta 20. aldar var svo lengi þríbýli á Sæbóli og allt til ársins 1970 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 313-315).

Árið 1710 voru tvær hjáleigur í byggð á Sæbóli og sú þriðja hafði farið í eyði í bólunni örfáum árum fyrr.[100] Þrír bændanna fjögurra sem þá bjuggu á Sæbóli voru hjáleigubændur.[101] Elsta hjáleigan á Sæbóli var Krókur eða Krókshús og hafði byggst fyrir minni þeirra sem uppi voru árið 1710.[102] Hinar hjáleigurnar tvær hétu Efrihús og Neðrihús eða Úthús og höfði báðar byggst á 17. öld, sú fyrrnefnda um miðja öldina, en hin á árunum 1620-1630.[103] Neðrihús fóru í eyði í stórubólu,[104] sem hér geisaði á árunum 1707-1709, en byggðust aftur síðar og árið 1785 var búið í öllum þessum þremur hjáleigum.[105] Í Efrihúsum var tvíbýli árið 1710.[106] Í byrjun 18. aldar töldust hjáleigubændurnir á Sæbóli hafa helming jarðarinnar til ábúðar. Hver hjáleiga var þá reiknuð fyrir 10 hundruð en Eggert Sæmundsson, sem átti jörðina, bjó sjálfur á 30 hundruðum.[107] Landskuld af hverri hjáleigu var þá 2 vættir (þ.e. þriðjungur úr kýrverði) og tvö innstæðukúgildi fylgdu hverju og einu þessara hjáleigukota.[108] Á hjáleigubændunum á Sæbóli hvíldi þá sú kvöð að róa á skipi landeigandans.[109]

Enda þótt fólkið í hjáleigunum teldist hafa helming jarðarinnar til ábúðar árið 1710 var samanlagður bústofn hjáleigubændanna þriggja langtum minni en bústofn eigandans sem bjó á hinum helmingi jarðarinnar. Sem dæmi má nefna að Eggert var með 8 kýr og 6 aðra nautgripi en kýr hjáleigubændanna voru bara þrjár.[110] Sauðir Eggerts og hrútar sem orðnir voru tvævetra voru 57 en í hjáleigunum voru þeir ekki nema níu eða þrír að jafnaði á hvern hjáleigubónda.[111] Kvíaær hjáleigubændanna, allra til samans, voru hins vegar álíka margar og hjá landsdrottni þeirra eða 32 á móti 33 hjá Eggert.[112]

Hjáleigan Krókur mun hafa verið fremst á Sæbólstúni því fjárhús sem þar stóð um miðja 20. öld bar nafnið Krókhús.[113]  Örnefnið Krókur er enn til fremst í túninu á Sæbóli.[114]  Í örnefnaskrá segir að fyrir framan gamla bæjarstæðið á Sæbóli sé Kirkjuhluti, síðan komi Miðhlutar en framan við þá Krókur sem sé svolítill bugur inn í brekkuna ofan við Sæbólstún.[115]

Þessi bugur er rétt fyrir framan íbúðarhúsið sem Guðmundur Ágústsson á Sæbóli og systkini hans bjuggu  í árið 1993.[116] Ekki er vitað með vissu hvar hjáleigurnar Efrihús og Neðrihús munu hafa staðið. Síðari tíma menn á Sæbóli hafa sumir látið sér detta í hug að Efrihús kynnu að hafa verið neðan við Bólið og þá rétt ofan við túnið á Sæbóli en þar sér enn til tótta.[117] Einfaldast er svo að láta sér detta í hug að Neðrihús sem einnig voru nefnd Úthús hafi verið í neðsta og ysta hluta gamla túnsins.

Eins og áður var getið voru hjáleigurnar þrjár á Sæbóli allar í byggð árið 1785. Svo var einnig tveimur árum síðar og þá var tvíbýli á Sæbólshúsum ytri en þar bjuggu Jónar tveir sem báðir voru Sigmundssynir.[118] Árið 1788 munu Krókshús hafa farið í eyði.[119] Hjónin sem síðust bjuggu þar hétu Gísli Magnússon og Guðrún Guðmundsdóttir.[120] Á sóknarmannatali frá árinu 1797 eru hjáleigurnar tvær sem þá voru enn í byggð á Sæbóli nefndar Ytrihús og Efrihús en í heimildum frá árunum kringum 1800 er oftast talað um Ytri-Sæbólshús og Efri-Sæbólshús eða bara Sæbólshús.[121] Nær fullvíst má þó telja að þetta séu sömu hjáleigurnar og nefndar voru Efrihús og Úthús (eða Neðrihús) árið 1710 og áður var frá sagt.

Báðar hjáleigurnar sem nefndar voru Sæbólshús voru enn í byggð árið 1807 því á því ári fæðist barn á Efri-Sæbólshúsum en maður andast á Sæbólshúsum ytri.[122] Á árunum 1807 til 1816 mun önnur þessara hjáleigna hafa farið í eyði en erfitt er að skera úr um hvor þeirra hélst lengur í byggð því sóknarmannatöl vantar frá þessum árum. Ljóst virðist að eftir 1816 hafi hjáleigan aðeins verið ein því þá er hún ætíð nefnd Sæbólshús í bókum prestanna án frekari aðgreiningar.[123] Síðast sést hennar getið þar við fæðingu barnsins Guðfinnu Guðmundsdóttur 26. mars 1830 en foreldrar hennar, sem hétu Guðmundur Bárðarson og Guðrún Sigurðardóttir, bjuggu þá á Sæbólshúsum.[124] Mjög skömmu síðar mun þessi síðasta hjáleiga á Sæbóli hafa fallið úr byggð.

Í sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar sem hann lauk við að rita árið 1840 segir að á Sæbóli séu þrír bæir saman.[125] Þá hefur síðasta hjáleigan verið komin í eyði en ekki þó fyrir ýkja löngu síðan því prestur tekur fram að fyrir skömmum tíma hafi einnig verið tveir aðrir bæir á Sæbóli.[126] Ætla má að hann sé þá að tala um hjáleigurnar tvær á Sæbólshúsum. Um Sæból kemst séra Jón annars svo að orði að þar hafi oft verið heldri manna setur og mjög stórhýstur bær en tekur fram að slíkt sé nú liðin tíð.[127] Hér verður síðar sagt lítið eitt frá fáeinum einstaklingum úr þeim fjölmenna hópi sem búið hefur á Sæbóli á liðnum öldum en áður en það verður gert mun vera rétt að minnast dálítið nánar á kirkju Sandmanna sem staðið hefur á Sæbóli í að minnsta kosti átta hundruð ár og líklega talsvert lengur.

Hér hefur áður verið nefnt að í varðveittum heimildum er fyrst getið um kirkju á Ingjaldssandi í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar sem færð var í letur árið 1200 eða því sem næst (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Kirkjan er þá sögð vera á Ingjaldssandi en ekki er tekið fram að hún sé á Sæbóli. Full ástæða er þó til að ætla að svo hafi verið því ekki verður séð að óljós orðasveimur frá 19. öld um flutning kirkju frá Álfadal að Sæbóli[128] hafi við nokkur rök að styðjast. Annað mál er það að hálfkirkja stóð lengi á Álfadal eins og síðar verður frá greint.

Kirkjan á Sæbóli var helguð Maríu guðsmóður en aðrir verndardýrlingar hennar voru í kaþólskum sið Jóhannes guðspjallamaður, heilög Katrín frá Alexandríu sem hálshöggvin var árið 307 og Þorlákur helgi Þórhallsson, biskup í Skálholti, dáinn 1193.[129] Elsti máldagi Maríukirkjunnar á Sæbóli sem varðveist hefur er frá árinu 1306, settur af Árna biskupi Helgasyni.  Þar segir m.a. svo:

 

Maríukirkja á Sæbóli á land undir Hálsi og áttung í Geirsbrekku í Súgandafirði og skógum þeim sem þar fylgja því landi. Þar skal vera ævinlega prestskyld vist og lúkast presti þrjár merkur í tíðakaup á hverjum tólf mánuðum.

Þangað skulu leggjast tíundir og lýsitollar og gröftur af öllum bæjum millum Þúfu og Hrafnaskálarnúps utan fyrir Álfadal …. Þar [á Álfadal – innskot K.Ó.] skal gjalda presti tvær merkur en til bænhúss á Brekku skipaði herra Árni biskup Helgason að syngja síðar Jónsmessu baptista, Pétursmessu, Ólafsmessu.

Á Sæbóli skal vera biskupsgisting hvern tíma er hann fer um Vestfjörðu. Þar skal halda heilagt um öll þing á Sandi Magnúsmessu fyrir jól og gefast leyfi þvílíkt sem Andrésmessu eða Nikulásmessu.[130]

 

Í máldaga þessum frá árinu 1306 kemur fram með skýrum hætti að auk kirkjunnar á Sæbóli hafa þá verið tvö önnur guðshús á Ingjaldssandi, það er hálfkirkja á Álfadal og bænhús á Brekku.[131] Allir Sandmenn, aðrir en heimafólk á Álfadal, áttu þó að greiða gjöld sín til kirkjunnar á Sæbóli og þar var þeim ætlað leg.[132]  Heimamenn á Álfadal voru hins vegar jarðaðir í grafreitnum sem þar var.[133]

Í máldaganum segir að Sæbólskirkja eigi land undir Hálsi og mun þar efalaust átt við jörðina Háls á Ingjaldssandi en jörðin Geirsbrekka í Súgandafirði, sem um er talað í máldaga þessum, hefur á síðari tímum borið nafnið Gilsbrekka en er þó enn nefnd Geirsbrekka í manntalinu frá 1801.[134] Í máldögum Sæbólskirkju frá árunum 1367 og 1397 er getið um þessar sömu jarðeignir Sæbólskirkju og svo er einnig í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570.[135] Um 1570 var kirkjan orðin eigandi að þriðjungi í Nesdal og þriðjungi í Heiðum og þá átti hún líka fjögur málnytukúgildi.[136] Bæði Heiðar og Nesdalur eru afréttarlönd í landareign Sæbóls (sjá hér Nesdalur og “Svipast um á Ingjaldssandi”) og hafði kirkjan því eignast svolítinn hlut í kirkjustaðnum sjálfum. Í Gíslamáldaga er komist svo að orði að Sæbólskirkja eigi „þriðjung í Nesdal og þriðjung í Heiðum.  12 hundraða jörð ….[137] Verið getur að þessir tveir þriðjungar hafi verið metnir á samtals 12 hundruð en hitt er þó líklegra að orðin 12 hundraða jörð vísi til heildardýrleika beggja afréttarlandanna og kirkjueignin þar, sem var einn þriðji, hafi því aðeins verið metin á 4 hundruð. Reyndar virðist matið á þessari eign hafa verið eitthvað á reiki því að í bréfi sem Þuríður Sæmundsdóttir frá Sæbóli skrifar 20. júní 1723 kemst hún svo að orði að dýrleiki jarðanna Sæbóls og Álfadals, hvort tveggja til samans fyrir utan kirkjueignina, sé 90 hundruð[138] og hefur kirkjueignin þá verið talin 6 hundruð því Sæból var alltaf virt á 60 hundruð og Álfadalur á 36 hundruð.[139]

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 má sjá að Sæbólskirkja á þá enn jörðina Háls og skógarítak í Gilsbrekkuskógi í Súgandafirði.[140] Um eignarhlut kirkjunnar í afréttarlöndunum Nesdal og Heiðum er ekkert sagt í Jarðabókinni en aðeins tekið fram að jörðin Sæból eigi afrétt í Nesdal og selstöðu á Heiðum.[141] Á lausu blaði sem fylgir Jarðabókarhandritinu tekur Eggert Sæmundsson, sem þá bjó á Sæbóli og átti jörðina, hins vegar fram að Nesdalur heyri til kirkjunni hér og jörðinni, einnig bænhúsi á Álfadal að fornu.[142] Í prófastsvísitazíu frá árinu 1852 er Sæbólskirkja sögð eiga jörðina Háls, áttung í Gilsbakka, þriðjung í Nesdal, þriðjung í Heiðum og fjögur málnytukúgildi.[143] Eitt nýtt ítak virðist kirkjan á Sæbóli hafa eignast seint á 16. öld eða á fyrri hluta 17. aldar en það var tollfrí skipstaða í landi Meiribakka í Skálavík ytri við Ísafjarðardjúp.[144] Í Jarðabókinni frá 1710 er sagt að getið sé um þetta ítak kirkjunnar í vísitazíu Brynjólfs biskups Sveinssonar en jafnframt tekið fram að eigendur Sæbólskirkju hafi þó aldrei nýtt sér þessi réttindi svo menn muni.[145] Líklegt er að réttindin í Skálavík tengist komu Sveins Jónssonar að Sæbóli um 1570 en hann hafði áður átt heima á Breiðabóli í Skálavík (sjá hér bls. 24).

Um miðbik 19. aldar taldist Sæbólskirkja enn eiga rétt til að rífa hrís í Gilsbrekkuskógi en fáar munu skógarferðir Sæbólsmanna þangað hafa verið á síðari öldum.[146]

Þó er getið um skógarferð sem Ásgeir prófastur Jónsson fór á skipi sínu vorið 1811 til að sækja eldivið.[147] Hann bjó þá á Sæbóli og er líklegt að ferðin hafi verið farin í Gilsbrekkuskóg því Sæbólskirkja átti ekkert annað skógarítak. Skógarreitur kirkjunnar í landi Gilsbrekku bar nafnið Sæbólsteigur[148] og þegar Ásgeir prófastur sem áður var nefndur vísiterar Sæbólskirkju í nóvembermánuði árið 1834 tekur hann fram að ítak þetta sé að mesti skriðum runnið og eytt.[149] Í vísitazíugerð frá árinu 1852 kemur þó fram að þáverandi eigendur Sæbólskirkju hafi einu sinni nýtt sér réttinn til hrísrifs í Gilsbrekkuskógi og þá án þess að verða fyrir átölum frá öðrum eigendum Gilsbrekku.[150] Sá eldri bændanna tveggja sem þá áttu Sæból hóf þar búskap árið 1821 (sjá hér bls. 78).  Í vísitazíugerð frá árinu 1885 er svo tekið fram að skógarítakið í Súgandafirði sé gengið undan Sæbólskirkju fyrir löngum en óvissum tíma. Þar er þess einnig getið að eigendur kirkjunnar hafi hug á að ná því aftur undir hana.[151]

Sumar kirkjurnar á Vestfjörðum náðu að eignast talsvert jarðagóss en Sæbólskirkja mun aldrei hafa átt nema þessa einu jörð, Háls á Ingjaldssandi, sem að fornu mati var virt á 12 hundruð. Þá jörð átti kirkjan á Sæbóli hins vegar í a.m.k. 600 ár því eins og áður er getið var hún komin í eign kirkjunnar árið 1306 og mun hafa verið hennar eign allt til ársins 1906 er kirkjan var afhent söfnuðinum og hætti að vera bændakirkja.[152]

Til er góð lýsing á Sæbólskirkju frá árinu 1725 og er hún skráð í vísitazíubók Jóns biskups Árnasonar. Þar er kirkjunni lýst með þessum orðum:

 

Hún sjálf er í 6 stafgólfum, undir súð, þiljuð á báðar síður, einnig fram og til baka undir og yfir bitum með listum utantil hið neðra, súð er yfir að austan og vindskeiðar, þær eru og einnig vestanfram, útskornar. Í kórnum er fjalagólf og bekkir sunnanfram fóðraðir, með brík við kórdyr. Hinum megin er ogsvo nokkurn veginn líkur bekkjabúnaður.  Hann [þ.e. kórinn] er með dróttum og dyrastöfum, tvennum skammþiljum norðanfram og pílárum yfir. Í framkirkjunni er og einnig fjalagólf og einn kvenstóll, vel umvendaður, með brík, bakslá, skammþiljum og pílárum. Þar innarfrá er bekkur, fóðraður með brík að framan.  Hinum megin er langbekkur og krókbekkur, báðir fóðraðir, með brík við kirkjudyr. Kirkjan er með dróttum og dyrastöfum, hurð á járnum með skrá, lykli og koparhring. Húsið allt vænt og velstandandi.[153]

 

Kirkja sú sem þarna er lýst var torfkirkja og mun hafa verið hin sama og stóð á Sæbóli árið 1658.[154] Árið 1639 var Sæbólskirkja sögð vera sterk og stæðileg[155] svo ætla má að allt hafi þetta verið sama húsið sem hefur þá verið haldið vel við og endurbætt öðru hverju. Í þessari kirkju voru tíðir sungnar allt til ársins 1858 er timburkirkja var reist.

Er séra Oddur Sveinsson, prófastur á Rafnseyri, vísiteraði á Sæbóli 23. júní 1857 var gamla kirkjan komin að falli.[156] Rúmu ári síðar, 26. júlí 1858 kom séra Oddur aftur að Sæbóli í sömu erindagerðum og þá var búið að byggja nýju timburkirkjuna.[157] Séra Oddur segir grunnflöt nýju kirkjunnar vera 13 x 6 álnir og hæðina 6 álnir.[158]  Guðshús þetta hefur því verið rétt liðlega 30 fermetrar að stærð. Haustið 1859 var búið að tjarga kirkjuna tvisvar sinnum og smíða hlera fyrir gluggana.[159]

Timburkirkjan frá árinu 1858 stóð í nær 66 ár en fauk í norðvestan stórviðri þann 25. janúar 1924.[160] Hallgrímur Sveinsson biskup skoðaði kirkju þessa sumarið 1896 og segir að hún sé óveruleg og ófögur útlits.[161] Biskup lætur þess getið að hún sé í lægra lagi og tekur sérstaklega fram að hún sé of mjó.[162]

Guðmundur Bernharðsson, sem fæddur var árið 1899 og ólst upp í Hrauni á Ingjaldssandi, hefur lýst timburkirkjunni á Sæbóli í stuttri ritgerð og segir þar meðal annars:

 

Kirkjan sjálf var timburkirkja … turnlaus með tveim gluggum á hvorum stafni, mjög litlum, með 8 rúðum hvor. Á súðinni yfir prédikunarstól var líka lítill gluggi en enginn á hliðum. Að utan var kirkjan svört, tjörguð og þakið einnig tjargað.  … Sterkleg hurð var fyrir kirkjunni með stórri og sterklegri heimasmíðaðri skrá og stórum lykli. Einnig var stór hringur í hurðinni til að taka í er henni var lokað. … Tvær kirkjuklukkur átti kirkjan, festar neðan við bita yfir ganginum, gegnt annarri þverbekkjaröð. Klukkurnar voru fremur litlar en hljómfagrar. Þegar hringt var stóð hringjarinn í ganginum milli bekkjanna.[163]

 

Um Sæbólskirkju hefur Ólafur Þ. Kristjánsson skrifað prýðilega ritgerð sem birtist í 23. árgangi Ársrits Sögufélags Ísfirðinga. Hann fjallar þar meðal annars um gripi kirkjunnar og skrúða að fornu og nýju og skal hér vísað til þess sem þar er ritað.[164] Hér verður hins vegar látið nægja að minnast aðeins á örfáa kirkjugripi í trausti þess að áhugasamir lesendur eigi kost á að kynna sér ritgerð Ólafs.

Í varðveittum máldögum Sæbólskirkju er fyrst minnst á gripi hennar og búnað í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 en þá átti kirkjan ein messuklæði, eitt altarisklæði, eina klukku, eina bjöllu og einn blýkaleik.[165] Annað er ekki talið upp af gripum eða klæðum svo þessar eignir sýnast hafa verið í minnsta lagi. Er Gíslamáldagi var færður í letur voru siðaskiptin um garð gengin og búið að fjarlægja úr kirkjum landsins flesta þá gripi sem minntu á hinn eldri sið. Eins og áður hefur verið nefnt var kirkjan á Sæbóli helguð Maríu guðsmóður. Í máldaganum frá árunum upp úr 1570 er þó ekki getið um nokkurt Maríulíkneski í þessari sóknarkirkju. Slíkt líkneski er hins vegar sagt vera í eigu kirkjunnar árið 1639 og einnig sams konar myndir af Ólafi helga Noregskonungi og Jóhannesi guðspjallamanni.[166] Öll hljóta þessi líkneski að hafa verið úr kaþólsku þó ekki hafi verið talið við hæfi að nefna þau á árunum kringum 1570. Í vísitazíu Hannesar biskups Finnssonar frá árinu 1790 er Maríulíkneskið á Sæbóli sagt vera úthöggvið og málað í loklausu hulstri og enn var þessi Maríumynd í Sæbólskirkju árið 1852, orðin fornfáleg.[167]

Kirkjuklukkan sem nefnd er í Gíslamáldaga var við lok 17. aldar farin að rifna en var umsteypt skömmu síðar og notuð áfram allt þar til timburkirkjan fauk árið 1924.[168] Hina klukkuna sem var í timburkirkjunni þegar hún fauk mun Eggert Sæmundsson hafa gefið í byrjun 18. aldar.[169] Tvær klukkur eru nú í Sæbólskirkju og telja kunnugir þær vera hinar sömu og hér voru nefndar.[170]

Enn er í kirkjunni á Sæbóli silfurkaleikur sem Snæbjörn Pálsson (Mála-Snæbjörn) gaf henni um miðbik 18. aldar í minningu um legkaup þeirra göfugu hjóna, Eggerts Sæmundssonar og Þorkötlu Jónsdóttur.[171] Á kaleiknum er ártalið 1738 og kynni Snæbjörn að hafa fengið hann sendan frá Danmörku skömmu eftir andlát Þorkötlu en hún lést árið 1739 (sjá hér bls. 66). Patínan sem enn er í Sæbólskirkju hefur að líkindum fylgt kaleiknum en á henni er ártalið 1733.[172]

Er kirkjan fauk árið 1924 voru í henni tveir ljósahjálmar, annar skrúðfallegur glerhjálmur, hinn eirblandaður með englamynduðum kertastjökum út frá stórri koparkúlu með áletruðum 14 karlmannsnöfnum og ártalinu 1649.[173] Glerhjálmurinn hafði verið gefinn kirkjunni árið 1862[174] og varð hann algerlega ónýtur þegar kirkjan fauk.[175] Hinn ljósahjálmurinn, sá með karlmannsnöfnunum 14 og ártalinu 1649 er enn í Sæbólskirkju[176] en nöfnin á hjálminum virðast flest vera dönsk.  Í rituðum heimildum er fyrst getið um þennan ljósahjálm árið 1749 og tólf árum síðar greindi séra Magnús Snæbjörnsson prófastur svo frá að faðir sinn, Snæbjörn Pálsson, hefði lagt kirkjunni til þennan sama hjálm.[177] Gömul munnmæli herma að nöfnin 14 á hjálminum séu nöfn manna sem strengdu þess heit í sjávarháska að gefa, ef lifðu, fyrstu kirkjunni sem þeir næðu að líta augum einhverja gjöf.[178] Sú saga er reyndar mjög trúleg því gera verður ráð fyrir að nafnalistinn á hjálminum eigi sér einhverja skýringu.  Í fljótu bragði sýnist hins vegar dálítið snúið að koma þessari ágætu sögu heim og saman við frásögn Magnúsar prófasts sem hér var áður nefnd.  Hér verður þó að hafa í huga að Snæbjörn var á árunum 1740-1750 kirkjuhaldari á Sæbóli og hafa sjóhraktir menn viljað færa kirkjunni gjöf þá var við hann að eiga um það mál.  Hafi sjómennirnir afhent Snæbirni einhverja peningaupphæð með ósk um að henni yrði varið til kaupa á gripum fyrir kirkjuna, mætti hugsa sér að Snæbjörn hefði síðan bætt þar við úr eigin vasa svo hægt yrði að kaupa ljósahjálminn.  Ártalið 1649 bendir hins vegar til þess að hjálmurinn hafi ekki verið nýr þegar hann var settur upp í Sæbólskirkju, enda gæti hann sem best hafa hangið uppi í einhverri annarri kirkju, innanlands eða utan, í nær heila öld áður en hann var fluttur að Sæbóli.  Tilgátur af þessu tagi sanna þó hvorki eitt né neitt og líklega mun seint ganga að svipta hjálminn góða með sínum fjórtán nöfnum þeirri dul sem yfir honum hvílir.

Er timburkirkjan á Sæbóli fauk á Pálsmessu árið 1924 varð hinn aldni ljósahjálmur fyrir verulegum skemmdum en Marzellius Bernharðsson, sem alist hafði upp á Ingjaldssandi en var nú orðinn skipasmiður á Ísafirði, gekkst fyrir því að við hjálminn var gert og lagði þar sjálfur hönd að verki.[179]

Í vísitazíu Jóns biskups Árnasonar frá árinu 1725 er getið um hurð á járnum með skrá, lykli og koparhring.[180] Líklegt er að koparhringurinn hafi þá verið kominn til ára sinna[181] og hann er stundum nefndur í yngri lýsingum á kirkjunni.[182] Um slíka hurðarhringi var sjaldan skipt og því má ætla að stóri hringurinn, sem Guðmundur Bernharðsson segir að hafi verið á hurð timburkirkjunnar er hún fauk, hafi verið hinn sami og prýddi hurð torfkirkjunnar 200 árum fyrr. Þennan hring fékk Guðmundur Jónsson frá Mosdal og setti hann á útidyrahurðina á húsi sínu,[183] Túngötu 1, Ísafirði og þar er hann enn.

Kirkjan á Sæbóli var bændakirkja allt til ársins 1906 er söfnuðurinn veitti henni viðtöku.[184] Timburkirkjan frá 1858 stóð þá enn á sínum stað en gjöreyðilagðist 18 árum síðar er hún fauk af grunninum eins og hér var áður getið. Frá 1924 til 1929 var engin kirkja á Sæbóli en prestur messaði þá jafnan í Hrauni á Ingjaldssandi þó að engin væri þar kirkjan.[185] Árið 1929 reistu Sandmenn nýja kirkju sem enn stendur og tekur um 40 manns í sæti.[186] Kirkjan frá 1929 stendur inn á Bökkum[187] eða niður á Bakkhúsgrund,[188] alllangt frá hinu forna kirkjustæði og þar er nú einnig kirkjugarður sem tekinn var í notkun um svipað leyti og hin nýja kirkja.

Nöfn heimilispresta á Sæbóli í kaþólskum sið eru nú óþekkt, en ætla má að þeir hafi verið nokkuð margir því í máldögum kirkjunnar frá 14. öld er kveðið á um að eigendum Sæbólskirkju sé skylt að halda þar prest (sjá hér bls. 13-14). Við siðaskiptin sem hér urðu á árunum upp úr 1540 varð breyting á í þessum efnum og síðan hafa aðeins örfáir aðstoðarprestar og einn brauðlaus prestur búið á Sæbóli. Í lútherskum sið hefur Sæbólssókn jafnan verið hluti af Dýrafjarðarþingum og kirkjunni á Sæbóli nær alltaf verið þjónað af prestum sem sátu á einhverjum bæjanna við norðanverðan Dýrafjörð.

Um miðbik 19. aldar var prestinum í Dýrafjarðarþingum ætlað að messa á Sæbóli fjórða hvern sunnudag[189] og má ætla að svo hafi lengi verið. Á árunum um og rétt fyrir aldamótin 1900 hélst þessi skipan enn[190] og á þeim árum kom presturinn jafnan með póst til Sandmanna, bæði bréf og blöð.[191] Séra Sigtryggur Guðlaugsson, sem tók við prestsembætti í Dýrafjarðarþingum árið 1905, mun yfirleitt hafa messað þriðja hvern sunnudag á Sæbóli að sumrinu en ekki nema sjötta hvern sunnudag að vetrinum.[192]

Með lögum frá 16. nóvember 1907 var reynt að tengja Sæbólssókn við Holtsprestakall í Önundarfirði en sú breyting kom þó aldrei til framkvæmda og árið 1938 var lögunum breytt á ný í fyrra horf.[193]

Á fyrri hluta 17. aldar mun hafa komið fyrir að aðstoðarprestar væru settir til að þjóna Sæbólssókn og skjalfest er að svo hafi verið um séra Jón Sveinsson, er síðar var lengi prestur í Holti í Önundarfirði (bróður Brynjólfs biskups), og Bjarna Arnórsson, síðar prest í Dýrafjarðarþingum.[194] Ekki er þó alveg víst að prestar þessir hafi setið á Sæbóli og ljóst er að séra Sigurður Sigurðsson sem tók að sér að þjóna Sæbólssókn árið 1710 fluttist aldrei á Ingjaldssand.[195] Hann var þá aðstoðarprestur í Holti en tók að sér prestsþjónustu í Sæbólssókn vegna heilsubrests þáverandi sóknarprests í Dýrafjarðarþingum.[196] Sumarið 1712 ritaði séra Sigurður bréf til Jóns Vídalíns biskups þar sem hann biðst undan messuferðum á Ingjaldssand vegna vegatorfæru og mannhættu á vetrum.[197]

Með fullri vissu er aðeins vitað um tvo presta sem hafa búið á Sæbóli eftir siðaskipti en þeir eru Ásgeir Jónsson prófastur, er bjó þar brauðlaus frá 1811 til 1816, og séra Jón Ingjaldsson sem var aðstoðarprestur í Dýrafjarðarþingum 1824-1826 og bjó þá á Sæbóli.[198] Um Ásgeir Jónsson prófast, sem lengi var prestur í Holti í Önundarfirði, er fjallað hér á öðrum stað (sjá hér Holt) en þess skal strax getið að árin sem hann bjó á Sæbóli var séra Ásgeir prófastur í vesturhluta Ísafjarðarsýslu enda þótt hann gegndi þá engu prestsembætti og má víst kallast einsdæmi.

Séra Jón Ingjaldsson er síðasti presturinn sem búið hefur á Sæbóli.  Hann fæddist árið 1799 eða 1800 og ólst upp í Vatnsfirði við Djúp frá ellefu ára aldri, hjá móðurbróður sínum, séra Arnóri Jónssyni.[199] Séra Jón tók prestsvígslu haustið 1824 og gerðist þá aðstoðarprestur í Dýrafjarðarþingum.[200] Hann mun þá þegar hafa sest að á Sæbóli og þangað fluttist með honum Gunnhildur eiginkona hans, dóttir Teits vefara í Reykjavík Sveinssonar.[201] Þessi Reykjavíkurmær mun hafa unað sér illa á Ingjaldssandi og er sagt að maður hennar hafi sagt af sér aðstoðarprestsstarfinu vegna óyndis ungu prestsfrúarinnar.[202] Séra Jón Ingjaldsson varð síðar prestur á ýmsum stöðum, lengst á Húsavík.[203]

Fyrsti eigandi Sæbóls sem um er vitað með fullri vissu er Guðmundur ríki Arason á Reykhólum. Erfitt mun vera að finna út hvernig og hvenær hann eignaðist jörðina en í vitnisburðarbréfi frá haustinu 1428 má sjá að Guðmundur hefur þá greitt stjúpmóður sinni, Þorgerði Ólafsdóttur sem þá var orðin ekkja, Sæból og ýmsar fleiri jarðir í mála hennar.[204] Samtals nam þessi greiðsla 5 hundruðum hundraða (600 kýrverðum) og meðal eigna sem Guðmundur lét af hendi við Þorgerði voru auk Sæbóls jarðirnar Brekka, Álfadalur og Hraun á Ingjaldssandi.[205] Enda þótt Þorgerður teldist vera eigandi þessara jarða næstu ár er líklegt að Guðmundur hafi farið með þær sem sína eign. Árið 1446 var Guðmundur ríki dæmdur í útlegð og hrakinn frá eignum sínum. Hinar miklu jarðeignir hans voru þá dæmdar undir konung en flestar þeirra komust skömmu síðar í hendur mágs hans, Björns ríka Þorleifssonar, sem um skeið var hirðstjóri yfir öllu Íslandi.[206] Björn virðist líka hafa náð til sín þeim jörðum sem Guðmundur Arason hafði goldið Þorgerði í mála hennar og mun hafa haldið þeim uns launsonur hans Jón danur Björnsson kvæntist Kristínu Sumarliðadóttur, sem var dótturdóttir Þorgerðar, um 1460.[207] Jón danur og Kristín kona hans bjuggu á Rafnseyri og lifðu bæði fram yfir 1500. Í skjali frá árinu 1495 sést að ríkismaður þessi á Rafnseyri var þá forsvarsmaður kirkjunnar á Sæbóli[208] og hefur því tvímælalaust verið eigandi eða umráðamaður Sæbóls á þeim tíma.

Við könnun á skjallegum heimildum og öðrum marktækum gögnum kemur reyndar í ljós að frá því um miðja 15. öld og fram til 1740 er Sæból jafnan í eigu niðja Björns hirðstjóra nema þau fáu ár sem Ögmundur biskup Pálsson taldi sig hafa þar eignarráð (sjá hér bls. 22-28 og 66). Á þessum nær 300 árum virðist jörðin hafa verið seld aðeins einu sinni en annars jafnan gengið að erfðum til maka, barns eða systkinabarns fyrri eiganda eða henni verið ráðstafað til álíka náinna ættingja. Ekki gekk þetta þó alltaf friðsamlega fyrir sig eins og hér verður brátt vikið nánar að.

Er Jón danur Björnsson andaðist árið 1508 varð systursonur hans, Björn Guðnason í Ögri, eigandi að Sæbóli.[209] Björn mátti þá kallast héraðshöfðingi á Vestfjörðum en er hann andaðist árið 1518 hófust miklar deilur um ráðstöfun eigna hans þar sem Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, lét mjög til sín taka. Einn margra frænda Björns Guðnasonar var Björn Þorleifsson á Reykhólum en afi beggja var Björn hirðstjóri er hér var nýlega nefndur. Að Birni Guðnasyni látnum hóf Björn á Reykhólum tilkall til þeirra eigna sem Björn í Ögri hafði erft eftir Jón dan og hélt því fram að sem bróðursonur Jóns dans hefði hann átt að erfa þær eignir en ekki Björn Guðnason sem var sonur óskilgetinnar systur Jóns.[210] Við þessa fjárheimtu naut Björn Þorleifsson á Reykhólum stuðnings Ögmundar biskups og hafði sigur[211] sem reyndist þó ekki varanlegur. Björn á Reykhólum mun hafa ætlað Þorleifi presti, syni sínum, að taka við Sæbóli en er hann kom þangað vestur var sonur Björns í Ögri sem Torfi hét þar fyrir og vildi ekki sleppa jörðinni við þennan frænda sinn. Sumarið 1526 kærði séra Þorleifur Torfa Björnsson fyrir þennan mótþróa og var málið borið upp á prestastefnu við Öxará.[212] Þar kvaddi Ögmundur biskup sex klerka í dóm til að úrskurða um þetta þrætuefni og var Torfi dæmdur til að skila séra Þorleifi Sæbóli ásamt Villingadal og Brekku.[213]

Er klerkar Ögmundar biskups höfðu dæmt Torfa Björnsson til að láta jarðirnar á Ingjaldssandi af hendi hélt hann utan í því skyni að leita liðsinnis konungs og fá hlut sinn réttan.[214] Í konungsgarði mun hann hafa fengið góðar undirtektir en andaðist í hafi á leiðinni heim, ungur að árum.[215] Ljóst er að bæði Torfi Björnsson frá Ögri og séra Þorleifur Björnsson frá Reykhólum höfðu umráð yfir Sæbóli um nokkurt skeið en ekki verður þó séð með ótvíræðum hætti hvort annar þeirra eða báðir kynnu að hafa verið þar búsettir um sinn. Um séra Þorleif, sem fékk sér dæmt Sæból árið 1526, er vitað að hann bjó á Reykhólum og var prestur við kirkjuna á Stað á Reykjanesi.[216] Þar var þessi fyrrum skjólstæðingur Ögmundar biskups leystur frá embætti árið 1546 fyrir óhæfilegt kvennafar og töfra en þrettán árum síðar fékk hann aftur þetta sama prestakall.[217]

Ekki er ljóst hversu lengi séra Þorleifur hefur haldið Sæbóli eftir 1526 en ekki leið á löngu uns niðjar Björns Guðnasonar í Ögri náðu jörðinni aftur undir sig. Svo virðist sem Ögmundur biskup hafi um sinn talið sig eiga fullkominn ráðstöfunarrétt yfir þessu höfuðbóli á Ingjaldssandi og árið 1538 selur hann Sæból Bjarna Narfasyni á Mýrum[218] en Bjarni var kvæntur einni af fimm dætrum Björns Guðnasonar í Ögri. Með þessari ráðstöfun virðist afskiptum Ögmundar biskups hafa lokið enda átti hann þá skammt eftir.

Bjarni Narfason á Mýrum og Sigríður Björnsdóttir kona hans munu aðeins hafa átt Sæból í stuttan tíma því árið 1545 var jörðin komin í eigu Guðrúnar Björnsdóttur á Núpi eða barna hennar.[219] Guðrún á Núpi var systir Sigríðar á Mýrum og hafði verið gift Hannesi Eggertssyni hirðstjóra sem nú var látinn fyrir allmörgum árum (sjá hér Núpur). Systur þessar á Núpi og Mýrum voru dætur Björns Guðnasonar í Ögri sem átt hafði Sæból síðustu tíu árin sem hann lifði, 1508-1518.

Eitt barna Hannesar Eggertssonar og Guðrúnar Björnsdóttur á Núpi var Björn Hannesson sem árið 1545 gekk að eiga Þórunni, dóttur Daða Guðmundssonar í Snóksdal.[220] Í kaupmálabréfi sem þá var samið má sjá að meðal eigna sem Björn lagði í sameiginlegt bú þeirra Þórunnar var jörðin Sæból sem þá var virt á 60 hundruð[221] eins og venja var, bæði fyrr og síðar. Þessi eigandi Sæbóls varð skammlífur því hann drukknaði árið 1554 er börn hans voru á ungum aldri. Að Birni Hannessyni látnum taldist Sæból um skeið vera í eigu Hannesar sonar hans en komst fyrir 1570 í eigu Eggerts Hannessonar, lögmanns í Saurbæ á Rauðasandi, sem var föðurbróðir Hannesar og sonur Guðrúnar Björnsdóttur á Núpi. Tildrögum þess að Eggert lögmaður eignaðist Sæból lýsir Jón Gizurarson, fræðimaður á Núpi, sem fæddur var um 1590, með þessum orðum:

 

Um nokkurn tíma liðinn finnur Eggert Hannesson hirðstjórann og semur við hann um ávirðingar og brot Daða ein og önnur [þ.e. Daða í Snóksdal – innskot K.Ó.], vegna síns bróðursonar Hannesar, Björnssonar, hver eð var dóttursonur Daða, og átti Eggert lögmaður að greiða þeim dönsku hans vegna 500 dali, hvað hann gerði. En er Hannes kom  til lögaldurs fær hann sínum föðurbróður, Eggert, fyrir útlagða 5 hundruð dali 60 hundraða jörð, sem var staðurinn Sæból á Vestfjörðum, á Ingjaldssandi.[222]

 

Án efa má gera ráð fyrir að þarna sé rétt með farið, enda var Eggert ömmubróðir Jóns Gizurarsonar á Núpi svo að þarna er stutt á milli. Til skýringar skal þess getið að þegar Daði í Snóksdal andaðist árið 1563 taldist Hannes Björnsson vera einkaerfingi þessa afa síns en Eggerti lögmanni var þá falið að hafa umsjón með eignum Hannesar frænda síns sem enn var á æskuskeiði.[223]

Í ritinu Sýslumannaæfum, sem Bogi Benediktsson á Staðarfelli samdi á fyrri hluta 19. aldar, segir hann að um miðbik 16. aldar hafi maður að nafni Jón Þorbjörnsson búið á Sæbóli á Ingjaldssandi.[224] Sé þarna rétt með farið er Jón fyrsti bóndinn sem búið hefur á Sæbóli og hægt er að nafngreina ef sleppt er þeim Ingjaldi Brúnasyni og Ljóti spaka sem í Landnámabók eru sagðir hafa búið á Ingjaldssandi (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”). Bogi á Staðarfelli segir Jón Þorbjörnsson á Sæbóli hafa verið föður Sesselju, miðkonu Eggerts Hannessonar lögmanns, en ættfærsla hennar í vestfirskum ættartölubókum frá 17. og 18. öld bendir til þess að svo hafi ekki verið og þar er hún sögð frá Kirkjubóli í Skutulsfirði (sjá hér Núpur). Er Eggert eignaðist Sæból á árunum 1563 til 1570 var Sesselja kona hans látin en Sveinn Jónsson bróðir hennar, sem áður bjó á Breiðabóli í Skálavík ytri við Djúp, var árið 1570 farinn að búa á Sæbóli.[225] Líklegt er að hann hafi flust þangað í skjóli Eggerts mágs síns.

Í reikningum Eggerts Hannessonar frá árinu 1570 nefnir hann Svein sem ábúanda á Sæbóli en þar segir: Item hjá Sveini Jónssyni í landskyld af Sæbóli kúgildi og 6 vættir fiska.[226] Í reikningum Eggerts frá árinu 1571 er ekki getið um hver ábúandinn sé en þar kemur fram að landskuld af jörðinni var hin sama og árið áður 6 vættir fiska og kúgildi.[227] Í þessum sömu reikningum frá árinu 1571 sést líka að á því ári hefur Eggert fengið greiddar 7 vættir fiska í vertolla frá Sæbóli, − af af þeim skipum sem þar gengu nú í vor eins og komist er að orði en ekki er tekið fram hversu margir bátar þetta voru.[228] Orðalag reikninganna bendir eindregið til þess að Sveinn Jónsson hafi átt að greiða Eggert landskuld af allri jörðinni og vel má vera að hann hafi haft hana alla til ábúðar. Hitt er þó líka hugsanlegt að sjálfur hafi Sveinn aðeins búið á einhverjum hluta úr Sæbóli og verið umboðsmaður Eggerts þar á Sandinum.

Um Svein Jónsson má segja að hann sé í rauninni fyrsti bóndinn á Sæbóli sem eitthvað er vitað um með vissu. Að honum gengnum tók Páll sonur hans við búi á Sæbóli en meðal barna Páls var Guðrún sem giftist séra Ólafi Jónssyni, hinu góðkunna skáldi á Söndum í Dýrafirði.[229]

Þeir feðgar Sveinn Jónsson og Páll Sveinsson voru báðir leiguliðar á Sæbóli, fyrst hjá Eggerti Hannessyni en við brottflutning Eggerts til Hamborgar árið 1580 eða við andlát hans skömmu síðar komst jörðin í eigu Ragnheiðar, dóttur hans, konu Magnúsar Jónssonar prúða, sýslumanns í Bæ á Rauðasandi. Eitt barna Ragnheiðar Eggertsdóttur og Magnúsar prúða var Elín og segir Jón Gizurarson á Núpi að Ragnheiður hafi gefið henni Sæból.[230]

Elín Magnúsdóttir gekk að eiga Sæmund Árnason frá Hlíðarenda í Fljótshlíð haustið 1588[231] og er ekki ólíklegt að hún hafi fengið Sæból að gjöf við það tækifæri. Elín og Sæmundur bjuggu mjög lengi á Hóli í Bolungavík og þóttu auðug mjög en hann var um skeið sýslumaður og umboðsmaður konungsjarða.[232] Tveir synir þeirra bjuggu á Sæbóli, fyrst Magnús Sæmundsson sýslumaður, er árið 1629 fluttist frá Sæbóli að Hóli í Bolungavík,[233] og síðan Eggert Sæmundsson sem tók við búi á Sæbóli um 1630.[234] Er Sæmundur Árnason á Hóli andaðist árið 1632 mun Eggert sonur hans hafa fengið þrjár jarðir á Ingjaldssandi í arf, Sæból, Álfadal og Hraun.[235] Hann er því fyrsti sjálfseignarbóndinn á Sæbóli sem um er kunnugt en eins og sjá má á því sem hér hefur verið skrifað bjuggu alltaf eða nær alltaf leiguliðar á jörðinni frá 1420-1630. Koma Eggerts að Sæbóli markaði því tímamót og næstu 120 árin eða því sem næst var Sæból jafnan í sjálfsábúð.

Eggert Sæmundsson frá Hóli, Sæmundur sonur hans og Eggert sonur þess Sæmundar bjuggu mann fram af manni á Sæbóli. Þeir þrír eða ekkjur þeirra stóðu þar fyrir búi frá 1631 til 1739 eða í 108 ár. Enginn þessara þriggja bænda náði þó mjög háum aldri og tvímælalaust er að samanlagt bjuggu ekkjur þeirra sem slíkar á Sæbóli í a.m.k. 57 ár á þessu skeiði.

Eins og áður sagði hóf Eggert Sæmundsson eldri búskap á Sæbóli í kringum 1630 og hefur þá líklega verið á fertugsaldri. Hann drukknaði árið 1636[236] og hafði þá aðeins búið á Sæbóli í fáein ár. Löngu síðar komst á kreik furðusaga um dauða hans sem enginn veit hvort nokkur hæfa er í. Þá sögu segir Óskar Einarsson læknir með þessum orðum:

 

Hins vegar herma sagnir að Eggert hafi ekki drukknað en komist á hafísjaka og að lokum náð landi einhvers staðar norður á Hornströndum. Hann var bæði kalinn og hrakinn er á land kom og lá lengi veikur í koti einu.  Var þetta snemma vetrar, tíð rysjótt, og bárust engar fregnir af honum. Allir töldu að hann hefði farist og var búi hans skipt um vorið.

Sýslumaður skipti lausum munum í hluti og nefndi hver skyldi fá hvern hlut. Í þann mund kom Eggert heim að Sæbóli og voru allir menn inni við skiptin.  Hann gekk rakleitt til skála er er hann heyrði til sýslumanns gall hann við og sagði:  „Hvar er minn hlutur?” – Mönnum brá mjög í brún við að sjá Eggert sem ljóslifandi og töldu víst að hér væri um vélt. Greip sýslumaður til korða síns og lagði til hans og gekk þegar á hol en blóðboginn stóð úr sárinu. Hné Eggert þegar dauður niður en upp frá þessu var ætíð dæld í skálagólfið þar sem blóð Eggerts draup. Varð sú dæld aldrei fyllt meðan skálinn var við lýði.[237]

 

Þess skal getið að sýslumaður í Ísafjarðarsýslu árið 1636 var Ari Magnússon í Ögri, þá 65 ára gamall, en hann var móðurbróðir Eggerts á Sæbóli.

Kona Eggerts Sæmundssonar eldri var Ragnhildur Steinþórsdóttir, dóttir Steinþórs Ormssonar, lögréttumanns í Fremri-Gufudal, en móðir hennar var Margrét, dóttir Þorláks Einarssonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði.[238] Er Brynjólfur Sveinsson biskup kom að Sæbóli í vísitazíuferð árið 1639 stóð Ragnhildur þar fyrir búi[239] en þá voru þrjú ár liðin frá því Eggert maður hennar andaðist. Steinþór faðir hennar frá Gufudal var þá líka á Sæbóli og segir biskup hann vera fjárhaldsmann kirkjunnar þar.[240] Sem ekkja mun Ragnhildur hafa búið á Sæbóli í 22 ár því Sæmundur Eggertsson sonur hennar tók þar ekki við búsforráðum fyrr en 1658. Árið 1703 var Ragnhildur enn á lífi, orðin 93ja ára, og átti þá heima hjá dóttur sinni á Múla í Gufudalssveit.[241]

Sæmundur Eggertsson á Sæbóli hefur að líkindum verið fæddur um 1630 og mun hafa þótt vel til forystu fallinn því árið 1664 var hann gerður að lögréttumanni í stað Magnúsar Gizurarsonar, bartskera í Lokinhömrum, sem andaðist árið 1663.[242] Sumarið 1666 mun bóndi þessi á Sæbóli hafa setið í lögréttu á Þingvöllum þá daga sem Alþingi stóð yfir[243] en fyrir lok ársins var hann allur. – Deyði Sæmundur Eggertsson lögréttumaður á Sæbóli í þungri og undarlegri sótt segir í Eyrarannál við árið 1666 svo hér er ekki um að villast.[244] Kona Sæmundar Eggertssonar á Sæbóli var Þuríður dóttir Árna lögréttumanns á Holtastðum í Húnaþingi Teitssonar[245] en Teitur sá var sonarsonur Jóns biskups Arasonar.[246] Þuríður giftist Sæmundi árið 1657[247] og að manni sínum látnum mun hún hafa tekið við stjórn búsins á Sæbóli. Árið 1681 var hún enn talin standa þar fyrir búi.[248] Eggert sonur hennar og Sæmundar var þá liðlega tvítugur að aldri[249] og mun hafa tekið við allri stjórn á Sæbóli fáum árum síðar. Árið 1703 var Þuríður samt enn hér, talin húskona.[250]

Eggert Sæmundsson, sem bjó á Sæbóli um aldamótin 1700, er máske rétt að nefna Eggert yngri til aðgreiningar frá afa hans og alnafna sem áður hafði búið á Sæbóli. Eggert þessi yngri var fæddur árið 1659 eða því sem næst[251] og mun hafa tekið við búi á óðali feðra sinna á árunum milli 1680 og 1690. Hann var níundi ættliður frá Birni Þorleifssyni hirðstjóra sem eignaðist Sæból um miðbik 15. aldar og svo mátti heita að allan þann tíma sem síðan var liðinn hefði jörðin gengið að erfðum milli niðja hirðstjórans. Frá Eggerti Hannessyni lögmanni var Eggert yngri á Sæbóli fimmti maður en frá því lögmaðurinn eignaðist jörðina, á árunum kringum 1565, hafði hún jafnan gengið að erfðum til sonar eða dóttur og á Sæbóli höfðu bæði faðir og afi Eggerts yngri búið. Tengsl hans við óðalið sem hann fékk í arf voru því rótgróin. Allir forfeður Eggerts sem átt höfðu Sæból á 15., 16. og 17. öld voru vel efnum búnir og sumir reyndar stórauðugir. Sjálfur mun Eggert hafa fengið þó nokkrar eignir í arf og eitthvað hefur bæst við er hann kvæntist Þorkötlu, dóttur Jóns Torfasonar, lögréttumanns í Flatey á Breiðafirði.[252] Eggert og Þorkatla kona hans voru reyndar fjórmenningar að skyldleika og áttu bæði ættir að rekja til Magnúsar prúða og Ragnheiðar konu hans sem var dóttir Eggerts lögmanns Hannessonar.[253]

Er efni var safnað í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sumarið 1710 bjuggu þau Eggert og Þorkatla á Sæbóli.[254] Í Mýrahreppi átti Eggert þá fleiri jarðarhundruð en nokkur annar maður (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) og samtals voru jarðeignir hans á Vestfjörðum og í Dalasýslu virtar á eitthundraðsextíuogsex hundruð eða sem svaraði 166 kýrverðum.[255] Sú tala ein sér sýnir að þetta var ekki neinn venjulegur bóndi en vera má að auk þessa hafi hann átt einhverjar jarðeignir annars staðar á landinu.  Sjálfur bjó Eggert á hálfu Sæbóli, það er 30 hundruðum,[256] en á öðrum jarðeignum hans bjuggu leiguliðar. Hjáleigan Neðrihús á Sæbóli, sem var metin á 10 hundruð, stóð þó í eyði árið 1710 svo jarðarhundruðin sem Eggert leigði út á Vestfjörðum og í Dalasýslu voru þá ekki nema 126.[257] Árleg landskuld sem hann fékk greidda af þessum jarðeignum nam fimm til sex kýrverðum.[258]

Öllum jörðum og jarðarpörtum sem Eggert leigði út fylgdu fleiri eða færri leiguær og mun láta nærri að þær hafi verið um 170 árið 1710.[259] Fyrir ærnar fékk hann greiddar leigur sem oftast voru borgaðar í smjöri.  Lögleiga var 10 kíló af smjöri (2 fjórðungar) fyrir hvert kúgildi[260] en sex ær voru í hverju kúgildi. Fyrir leiguærnar hefur Eggert því fengið um það bil 280 kíló af smjöri á hverju ári en slíkt smjörfjall mun hafa verið metið á 336 álnir[261] eða sem svaraði nær þremur kúgildum. Árlegar tekjur hans af landskuld og leigum hafa því numið sem svaraði um það bil átta kýrverðum. Ætla má að aðrar tekjur Eggerts hafi verið verulegar og þá ekki síst af sjávarútvegi en allir landsetar hans á Ingjaldssandi höfðu gengist undir þá kvöð að róa á bátum hans um vertíð.[262]

Lýsingu Eggerts á eignarjörð sinni, Sæbóli, er hann ritaði 20. ágúst 1710 (sjá hér bls. 5), fylgja upplýsingar um bústofn hans þar sem hann segir vera:  8 kýr, 3 kvígur, 2 unga graðunga, 3 hesta, 64 sauði, 4 hrúta, 2 gimbrar, 33 ær í kvíum og 40 lömb rekin á fjall.[263] Á sama blaði tekur bóndinn á Sæbóli fram að lausafjártíund sín sé 30 hundruð[264] og mun þá eiga við tíundarstofninn því nærri lætur að verðmæti þess búpenings er hann átti heima á Sæbóli hafi svarað til 30 hundraða í jörð. Um tíundargreiðslur sínar kemst Eggert svo að orði:

 

Í þá tíund goldið umboðsmanni biskups í sléttum peningum, ullarvöru og eftir því ásáttir orðið höfum, prestinum í sléttum peningum, í hákalli, skrápfiski söltuðum og ósöltuðum, eftir sem hann þá umbeðið hefur og ég til hefi haft fyrir hendi.[265]

 

Með hliðsjón af þessum orðum Eggerts bónda má ætla að hákarlaveiðar hafi verið stundaðar frá Sæbóli á hans búskaparárum.

Eggert Sæmundsson yngri og Þorkatla kona hans voru barnlaus[266] og ekki er til þess vitað að hann hafi eignast börn meö öðrum konum. Líklega hefur hann þó ekki látið konu sína einhlíta því um fertugsaldur varð hann að sverja af sér saurlifnaðarsynd með annarri konu á dómþingi sem haldið var á Mýrum. Málið kom reyndar til kasta Alþingis við Öxará árið 1698 og í Alþingisbókinni frá því ári er birtur úrskurður lögréttunnar. Þar segir:

 

Ibidem var upplesinn einn dómur úr Ísafjarðarsýslu, genginn að Mýrum við Dýrafjörð 1698, 25. febrúar, af valdsmanninum Páli Torfasyni, um lýsing Margrétar Árnadóttur uppá Eggert Sæmundsson að hann hefði saurlifnaðarsynd framið með sér, fyrir hverja hennar lýsing á áburði að nefndur Eggert hefur sig með eiði fríað sem dómurinn ávíkur. Setur nú nefndur valdsmaður sérdeilis í þessum dómi til lögmanna og lögréttumanna, hversu hátt réttarfar að Eggert hafa skuli í téðu málefni, hvar uppá þeir svo andsvara að nefndur Eggert Sæmundsson í sitt réttarfar beri að hafa 4 merkur og kóngi aðrar 4. En það viðvíkur þeirri óvirðingu sem nefnd Margrét hefur gert greindum Eggert Sæmundssyni með sinni lognri lýsingu uppá hann, þá virðist lögþingismönnum innan vébanda að sú hennar óvirðing megi í engan máta áðurnefndum Eggert Sæmundssyni til hneisu eða skaða koma uppá hans gott nafn og rykti.[267]

 

Eiðinn sem til er vísað í úrskurði lögréttunnar sór Eggert með 6 fangavottum þann 20. september 1697[268] en þrátt fyrir svardaga hans neitaði stúlkan Margrét að taka aftur opinbera yfirlýsingu sína um drýgða saurlifnaðarsynd þeirra Eggerts.[269] Þvert á móti beiddist hún aflausnar hjá prófasti fyrir hórdómsbrot það er hún taldi sig hafa framið með Eggert bónda og var málið tekið fyrir á prestastefnu í Holti í Önundarfirði þann 7. júní 1698.[270]

Í fundargerð þeirrar samkomu er gerð grein fyrir málinu og segir þar meðal annars svo:

 

… að þessu málefni svo á sig komnu leitar Margrét Árnadóttir heilagrar aflausnar og sakramentis af héraðsprófastinum fyrir nefnda sína meðkenning á hórdómsbrotinu, hvar upp á prófasturinn áminnti hana alvarlega í einrúmi og síðar opinberlega í söfnuðinum með góðri rósemd og fortölum sem þar undirskrifaðir kirkjusóknarmenn vitni um bera, hvar hún vildi ennþá ekki afturkalla sína lýsing og framburð upp á nefndan Eggert Sæmundsson, hvar til hún þverlega nei sagði. Þessu framar tilskikkaði prófasturinn séra Bjarna Brynjólfsson, sóknarpresti Margrétar, henni þrjár röksamlegar áminningar að gjöra, hvað hann hefur og yfirdrepsskaparlaust gjört í söfnuðinum og predikunarstólnum sem vottar meðkenna, − blífur títtnefnd Margrét ennú við sama og vill ei af láta, leitar þó ennú fúslega með auðmýkt og útvortisiðrunarmerkjum heilagrar aflausnar þó hún hafi þetta svo fávíslega af einfeldni játað.[271]

 

Niðurstaða prestastefnunnar í Holti varð sú að að svo stöddu væri ekki unnt að fallast á beiðni Margrétar um syndaaflausn. Var því ákveðið að skjóta máli hennar til almennrar prestastefnu á Þingvöllum við Öxará og beiðast þar úrskurðar um hvort henni skuli veitt aflausn upp á sína játningu um hórdómsbrotið eða fyrir lygi móti mannsins eyði, hverri hún vill þó ekki á sig játa.[272] Á þessu tvennu var að sjálfsögðu ærinn munur.

 

Á prestastefnunni sem haldin var á Þingvöllum sumarið 1698 var Jón Vídalín í forsæti en hann hafði þá tekið vð biskupsembættinu í Skálholti fyrir fáum vikum. Á þessari fyrstu prestastefnu Jóns Vídalín, hins nýja biskups, var mál Margrétar Árnadóttur tekið fyrir og varð niðurstaðan sú að Sigurður prófastur í Holti ætti ekki að veita henni umbeðna aflausn fyrir hórdómsbrot heldur aðeins fyrir blygðunarlausa lygi og uppljóstran á móti því áttunda guðs boðorði[273] sem bannar mönnum að bera ljúgvitni gegn náunga sínum. Að öðru leyti var séra Sigurði Jónssyni, prófasti í Holti, falið að ákveða form aflausnarinnar.[274] Jón Vídalín og klerkar hans tóku þó fram í úrskurði sínum að vilji stúlkan soddan aflausnarform eigi auðmjúklega þekkjast eður undirganga beri prófasti að leggja mál hennar fyrir sýslumann með vísan í tilskipun konungs frá 3. maí 1650 hljóðandi um þá harðhnökkuðu sem ekki akta prestanna áminnigar.[275] Tilskipun þessi hafði verið gefin út af Friðriki konungi þriðja og með henni var hinum veraldlegu yfirvöldum á Íslandi falið að refsa á viðeigandi hátt því þverúðarfulla og óguðlega fólki á landi hér er léti áminningar prestanna sem vind um eyru þjóta og vanvirði agaboð kirkjunnar.[276]

Haustið 1698 mun Margrét Árnadóttir hafa unnið það sér til lausnar að draga sín fyrri orð um Eggert á Sæbóli til baka og játa þar með á sig lygar.[277] Sigurður Jónsson prófastur veitti henni þá opinbera aflausn í Holtskirkju.[278] Svo virðist sem Margrét hafi þó náð að hafa einhvern fyrirvara á þegar hún afturkallaði áburð sinn á hendur Eggert bónda. Til marks um það má nefna að Sigurður, prófastur í Holti, segir í bréfi til biskups að Eggert muni ekki hafa verið sáttur við formið á aflausn Margrétar.[279] Í sama bréfi mælist prófastur til þess að biskup láti þó gott heita svo ekki þurfi að taka málið upp á nýjan leik.[280] Ætla má að Jón Vídalín biskup hafi fallist á þau tilmæli séra Sigurðar því ekki er kunnugt um að sú syndaaflausn sem Margréti var veitt í Holtskirkju haustið 1698 hafi síðar verið dregin til baka..

Gaman hefði verið að vita nánari deili á þessari Margréti Árnadóttur sem af ókunnum ástæðum lýsti yfir að stórbóndinn á Sæbóli hefði drýgt með sér saurlifnaðarsynd. Líklegast er að þarna sé um að ræða Margréti Árnadóttur sem árið 1703 var ógift vinnukona hjá Páli Torfasyni, sýslumanni á Núpi í Dýrafirði, og er í manntalinu frá því ári sögð 40 ára gömul.[281] Um þetta er þó ekkert hægt að fullyrða því hugsanlegt er að hin rétta Margrét hafi andast á árunum 1698-1703 eða borist í fjarlæg héruð.

Í manntalinu frá 1703 eru þau Eggert bóndi á Sæbóli og Þorkatla kona hans bæði talin 44 ára gömul. Á heimili þeirra voru þá þrjú tökubörn, öll á unglingsaldri, þrír vinnumenn og tvær vinnukonur.[282] Annað fólk var  þar ekki þegar manntalið var tekið.

Þuríður Árnadóttir, móðir Eggerts, var þá komin á áttræðisaldur og bjó sér á sínu eigin heimili á Sæbóli. Hjá henni var ein vinnustúlka og húsmaður um sjötugt sem nærðist af guðsþakkargjörðum og sjóarafla.[283] Þrjár fjölskyldur voru svo í hjáleigunum og eru allar sagðar búa á Sæbólshúsum.[284]

Eggert Sæmundsson yngri á Sæbóli mun hafa andast árið 1719[285] en Þorkatla kona hans, sem þótti hinn mesti skörungur, lifði 20 árum lengur og bjó allan þann tíma á Sæbóli. Hún erfði allar eignir eiginmanns síns, enda höfðu þau hjónin arfleitt hvort annað með sérstakri erfðaskrá sem konungur staðfesti 19. apríl 1701.[286]

Í munni síðari tíma manna hefur ekkja þessi á Sæbóli yfirleitt verið nefnd Þorkatla ríka, enda munu efni hennar hafa verið ærin sé miðað við það sem þá var algengast hjá bændafólki. Hér hefur þegar verið nefnt að Þorkatla á Sæbóli var dóttir Jóns Torfasonar, lögréttumanns í Flatey á Breiðafirði, sem Bogi Benediktsson, fræðimaður á Staðarfelli, segir að hafi gefið Brynjólfi biskupi Sveinssyni Flateyjarbók,[287] sem mun vera mest allra íslenskra skinnbóka[288] og er nú talin þjóðardýrgripur. Í Sjávarborgarannál segir hins vegar að það hafi verið Jón Finnsson í Flatey, afabróðir Þorkötlu, sem gaf Brynjólfi bókina haustið 1647[289]  og mun nú af flestum vera haft fyrir satt.[290]

Jón Torfason, faðir Þorkötlu, mun hafa andast árið 1661[291] og hefur þá líklega verið fluttur úr Flatey að Skálmarnesmúla.[292] Er faðir hennar dó var Þorkatla aðeins 2ja ára gömul eða því sem næst.[293] Ólíklegt er þó að um hana hafi væst í uppvextinum því að henni stóðu gamalgrónar höfðingjaættir vestanlands og norðan.  Til marks um það má nefna að einn langafi hennar var Jón Björnsson, sýslumaður á Holtastöðum í Húnaþingi, en hann var sonarsonur Jóns Arasonar biskups á Hólum.[294] Afar Þorkötlu voru Magnús Jónsson sýslumaður sem ýmist bjó í Haga eða Miðhlíð á Barðaströnd og séra Torfi Finnsson, prestur í Hvammi í Hvammssveit.[295] Afi Magnúsar sýslumanns í Haga var og langalangafi Þorkötlu var Magnús Jónsson prúði, skáld og sýslumaður[296] sem á sinni tíð var voldugasti maður á Vestfjörðum og líklega einnig sá ríkasti, tengdasonur Eggerts Hannessonar lögmanns. Séra Torfi í Hvammi, föðurafi Þorkötlu, var aftur á móti kominn af Birni Þorleifssyni hirðstjóra og konu hans, Ólöfu ríku, og var hann fimmti maður frá þeim hjónum í beinan karllegg.[297]

Allt sýnir þetta að það voru sterkir stofnar sem stóðu að Þorkötlu ríku á Sæbóli enda vildi hún ógjarnan láta hlut sinn við hvern sem var að eiga.

Hér hefur áður verið sagt frá kröfu sem Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, gerði á hendur Þorkötlu um breytingar á landamerkjum Sæbóls (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”) en Ari var þá umboðsmaður konungsjarða og fór með umráð yfir kóngsjörðunum Brekku og Villingadal á Ingjaldssandi. Er Ari og Magnús sonur hans létu lesa Þorkötlu stefnu heima á Sæbóli 8. maí 1727 vegna landamerkjaþrætunnar var svar hennar þetta:

Ef guð og kóngurinn á það, þá er það guðvelkomið.  Ég held því og yrki og læt yrkja þar til guð og kóngurinn tekur það af mér.[298] Orðin sýna að húsfreyja þessi á Sæbóli sem þá var nær sjötug að aldri hefur engum viljað lúta nema guði og kóngi.

Ýmislegt bendir til þess að á Sæbóli hafi mannlíf verið með nokkrum gleðibrag er Þorkatla var þar hæstráðandi. Til marks um það má nefna að árið 1862 eða mjög skömmu síðar fékk Jón Árnason þjóðsagnasafnari í hendur stuttorða frásögn af jóladansi á Sæbóli á hennar dögum. Frásögn þessa og ýmsar fleiri sögur og sagnir fékk hann í hendur frá Guðmundi Gísla Sigurðssyni sem lauk prófi frá prestaskólanum árið 1862 og gerðist aðstoðarprestur föður síns á Stað í Steingrímsfirði.[299] Í frásögn Guðmundar Gísla er talað um Sæból í Dýrafirði en fullvíst má telja að þar sé átt við Sæból á Ingjaldssandi. Lýsingu sína á jólagleðinni á Sæbóli kvaðst Guðmundur Gísli hafa eftir rúmlega sextugri konu er numið hefði fróðleik sinn um þetta efni á árunum kringum 1820.[300] Henni sagði þá sjötug kona í Dýrafirði sem að vísu mundi þetta ekki sjálf en hafði eftir móður sinni er minntist gleðileikjanna úr sínu ungdæmi[301] á fyrri hluta 18. aldar.

Kompan sem Guðmundur Gísli skrifaði í ýmsar sögur og sagnir og afhenti síðar Jóni Árnasyni er nú varðveitt í Landsbókasafni.[302] Skrifarinn telur þar upp hina ýmsu heimildarmenn sína án þess þó að gera grein fyrir hver þeirra sagði honum hverja einstaka sögu. Í þeim hópi eru tíu konur.[303]  Við frásögnina af jólagleðinni á Sæbóli tekur Guðmundur Gísli fram að konan sem sagði honum þá sögu sé rúmlega sextug” árið 1862.[304] Könnun á aldri heimildarkvennanna tíu leiðir í ljós að aðeins ein þeirra er einmitt á þeim aldri og er það Guðríður Hjaltadóttir sem var húskona á Kirkjubóli í Staðardal í Steingrímsfirði haustið 1860, og er þá sögð vera 60 ára.[305] Í manntalinu frá því hausti er tekið fram að hún lifi á fé sínu og sé fædd þar í sókninni.[306] Við nánari athugun kemur í ljós að Guðríður þessi fluttist árið 1823 frá Stað í Steingrímsfirði til Dýrafjarðar[307] svo hér er í rauninni ekki um að villast. Frá henni mun sagan af jólagleðinni á Sæbóli vera komin og hana hefur hún heyrt í Dýrafirði á árunum kringum 1825. Guðríður var dóttir séra Hjalta Jónssonar, prófasts á Stað í Steingrímsfirði, og Sigríðar Guðbrandsdóttur konu hans, fædd á Stað 26. maí árið 1800.[308]  Hún var systir Rannveigar Hjaltadóttur sem árið 1824 gekk að eiga Svein Þorvaldsson gullsmið í Hvammi í Dýrafirði[309] en Rannveig átti síðan lengi heima í Hvammi (sjá hér Hvammur). Er Guðríður kom til Dýrafjarðar árið 1823 er hún nefnd jómfrú og sögð vera þjónustustúlka.[310] Ekki er ljóst hversu lengi hún var í Dýrafirði en fyrir lok ársins 1835 er hún farin þaðan.[311] Árið 1840 var sögukona þessi komin aftur á heimaslóðir í Steingrímsfirði og þar var hún enn árið 1860.[312]

Frásögn Guðríðar af gleðinni á Sæbóli orðar séra Guðmundur Gísli á þessa leið:

 

Eftir því sem réttorður og minnugur kvenmaður einn segir frá eftir gamalli konu sem hún þekkti fyrir 40 árum vestur í Dýrafirði þá héldust lengi eftir menjar einskonar af vikivökum þar vestra, sem móðir hinnar dýrfirsku konu kallaði gleði og var haldin á Sæbóli í Dýrafirði. Var þar dans stiginn um jólaleytið eftir viðlögum sem einn maður söng fyrir er gekk eftir vissum reglum um gólfið og var hann búinn mjög skrýtilega og skreyttur kvensilfri miklu sem hringlaði í við fótatak hans. Leikkvæðin voru með ýmsum brögum.[313]

 

Enda þótt sagan sem hér var sögð hafi ekki verið fest á blað fyrr en 120 ár eða svo voru liðin frá því síðast var efnt til hefðbundinnar jólagleði á Sæbóli virðist samt ástæða til að ætla að í aðalatriðum sé rétt með farið. Þeirri skoðun til styrktar má benda á að dansgleðir af sama toga voru enn haldnar sums staðar annars staðar á landinu á fyrri hluta 18. aldar og jafnvel eftir 1750[314] en frægust þeirra mun vera Jörfagleðin í Dalasýslu sem bönnuð var skömmu eftir 1700 er úr hófi þótti keyra og kona nokkur nefndi 18 hugsanlega feður að einu margra barna sem komið höfðu undir á gleðinni.[315]

Árið 1745 fékk Ludvig Harboe reyndar þær upplýsingar hjá séra Bjarna Jónssyni á Mýrum að gleðileikir hefðu tíðkast í hans prestakalli.[316] Séra Bjarni hafði þá verið prestur í Dýrafjarðarþingum í yfir 20 ár og er ekki ólíklegt að hann hafi einkum haft Sæbólsgleðina í huga er hann greindi Harboe frá þessum tíðindum. Þó má vera að víðar í prestakallinu hafi verið efnt til mannfagnaðar af svipuðum toga á fyrri hluta 18. aldar og minnt skal á að til er Lýsing á vikivaka og leikjum sem Guðni Guðmundsson frá Mýrum í Dýrafirði ritaði eftir gamalli kerlingu vestra á árunum kringum 1870.[317] Guðni, sem síðar varð læknir á Borgundarhólmi í Danmörku, lýsir þarna Hoffinnsleik, Þórhildarleik, hestleik og hjartarleik sem ætla má að allir hafi verið hafðir til skemmtunar á Sæbóli á dögum Þorkötlu ríku. Um hestleikinn ritar hann á þessa leið:

 

Það var maður skrúðbúinn með sviga um sig miðjan og þar á breitt klæði; þar á sett kertaljós, ég veit ekki hvað mörg. Með þetta rann hann eftir gólfinu og sinn maður á hverja hlið honum í skjaldmeyjabúningi. Þá þótti hesturinn rétt riðinn ef ekki slokknuðu ljósin. Þetta kveðið:

 

         Hvað um valda gangvara mínum?

         Hann kemur ekki á grænan völl.

         Unga ber hann menja þöll.

         Hann rennur á hófunum sínum.[318]

 

Að lokum skal rifjuð hér upp skilgreining Jóns Ólafssonar frá Grunnavík á vikivaka en hann segir að vikivakadans Íslendingaí raun og veru syngjandi danshringur.[319] Fræðimaðurinn úr Grunnavík tekur líka fram að vikivakadansinn sé oftast stiginn að næturlagi og að vetri til og áður fyrr oftast um jólaleytið og allt fram í föstuinngang.[320] Jón var fæddur í Grunnavík árið 1705 en ólst upp í Víðidalstungu í Húnavatnssýslu frá 1711. Hann virðist sjálfur hafa þekkt vel til hinna íslensku gleðileikja eða haft um þá greinargóðar fréttir frá öðrum.

Allt sem hér hefur verið tínt til frá séra Bjarna Jónssyni á Mýrum, Guðna Guðmundssyni og Jóni Grunnvíkingi rímar prýðilega við frásögn dýrfirsku konunnar um Sæbólsgleðina á dögum Þorkötlu ríku. Ætla má að niðjar Magnúsar prúða sem búið höfðu á Sæbóli allt frá því um 1630 (sjá hér bls. 24-27) hafi jafnan efnt þar til jólagleði að fornum sið en einn þeirra sem síðastir dönsuðu með Þorkötlu á Sæbóli mun hafa verið Mála-Snæbjörn sem settist þar að á árunum upp úr 1720. Hér verður brátt sagt nánar frá Snæbirni en hann var alllengi undir verndarvæng Þorkötlu ríku á hennar efri árum og átti þá í illvígum deilum við ýmsa fyrirmenn, þar á meðal Orm Daðason sýslumann.

Að sögn Markúsar Bergssonar sýslumanns sættust þeir Ormur og Snæbjörn þó um skeið því ærugöfug höfðingsmatróna, Þorkatla Jónsdóttir að Sæbóli, friðstillti af sínum repúterlegheitum yfirhangandi óhapp eins og Markús kemst að orði í sinni dómabók.[321]

Á Ingjaldssandi og í nálægum byggðum voru lengi sagðar ýmsar sögur er sýna áttu hið mikla ríkidæmi Þorkötlu. Um sauðaeign hennar var til dæmis haft á orði að þegar þeir röðuðu sér í sporaslóð hafi síðasti sauðurinn verið uppi á Hnísum þegar sá fyrsti kom að húsunum við sjóinn[322] en Hnísur eru tveir klettar efst í fjallsbrúninni fyrir utan Skáladal,[323] út og upp af Sæbóli. Ekki er þetta nú trúleg saga því samkvæmt Jarðabókinni frá 1710 áttu þau Þorkatla og Eggert maður hennar 68 sauði og hrúta heima á Sæbóli á því ári (sjá hér bls. 28) og þó gert væri ráð fyrir að öll kúgildin sem þau áttu í hjáleigunum í landi Sæbóls hafi verið sauðir kæmist heildartala sauðanna ekki nema í rétt liðlega eitt hundrað.[324] Sagan sýnir hins vegar vel hvaða hugmyndir menn gerðu sér um auðæfi Þorkötlu ríku sem talin var hafa borið svo mikið kvensilfur í kirkjuferðum að það nægði til að fylla venjulegt mjólkurtrog.[325]

Þorkatla Jónsdóttir á Sæbóli dó árið 1739 og var grafin við hlið eiginmanns síns í hinum forna kirkjugarði þar. Legsteinn sem settur var á gröf þeirra er enn á sínum stað og sum orðin sem í hann voru höggvin er enn hægt að lesa. Fyrir 40 árum eða svo töldu menn sig geta lesið hér þessi orð: Eggert Sæmundsson, hans alder 50 aar [á að vera 60 ár – innskot K.Ó.], hans kvinde Thorkatla Jónsdóttir 80 aar ad aldre döde 1739.  Liggende her efter Döden.  Ævige Liv.[326]

Um Þorkötlu ríku skal þess síðast getið að hún arfleiddi börn Mála-Snæbjarnar að öllum eigum sínum.[327] Elst þeirra barna var Magnús Snæbjörnsson, prestur á Söndum í Dýrafirði. Dóttur sína nefndi hann Þorkötlu og sú Þorkatla var amma Jóns Sigurðssonar forseta.

Skömmu eftir að Þorkatla á Sæbóli varð ekkja fluttist til hennar sá maður sem líklega hefur orðið víðkunnari en nokkur annar úr röðum þeirra er átt hafa heima á Sæbóli en það var Snæbjörn Pálsson er áður hafði búið alllengi á Mýrum í Dýrafirði. Að Sæbóli mun Snæbjörn hafa flust árið 1721 eða 1722[328] og virðist þá hafa gerst eins konar bústjóri hjá Þorkötlu. Hann átti um þetta leyti í erfiðum málaferlum, sem hér verður brátt sagt nánar frá, og hefur að líkindum talið sig hafa þó nokkurn styrk af Þorkötlu í þeim sviptingum.

Hér hefur áður verið sagt dálítið frá Snæbirni, sem síðari tíma menn nefna jafnan Mála-Snæbjörn (sjá hér Mýrar og Núpur), en hann var sonur Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði og konu hans, Gróu Markúsdóttur. Snæbjörn fæddist árið 1677 eða því sem næst og var enn hjá föður sínum á Núpi í Dýrafirði árið 1703.[329] Þremur árum síðar gekk hann að eiga Kristínu Magnúsdóttur á Mýrum en móðir Kristínar átti Mýrar og hafði lengi staðið þar fyrir búi (sjá hér Mýrar). Ætla má að Snæbjörn hafi hafið búskap á Mýrum árið 1706, er hann gekk að eiga Kristínu, og þar bjó hann uns hann fluttist að Sæbóli 15 eða 16 árum síðar. Er Snæbjörn kom að Sæbóli var hann um það bil hálffimmtugur að aldri og hafði þá verið ekkjumaður í allmörg ár því Kristín kona hans andaðist árið 1712.[330] Með henni eignaðist Snæbjörn fjögur börn og má ætla að þau hafi flust með honum að Sæbóli. Börn þessi komust öll til manns en þau voru Magnús, sem varð prestur á Söndum í Dýrafirði, Halldóra, sem varð eiginkona séra Bergsveins Hafliðasonar á Stað í Súgandafirði og Stað í Grunnavík, Markús, sem varð prestur í Flatey á Breiðafirði, og Hákon, sem varð prestur á Álftamýri.[331] Löngu síðar gekk Snæbjörn að eiga bóndadóttur af Ingjaldssandi, sem hét Ástríður Sigurðardóttir, og átti með henni soninn Torfa[332] sem fæddur var árið 1747 eða því sem næst.[333]

Ungur að árum mun Snæbjörn hafa riðið til Alþingis með Páli föður sínum og ótvírætt virðist að þar hafi hann mætt sem fulltrúi hans árið 1697, aðeins tvítugur að aldri (sjá hér Baulhús).  Á því þingi fékk þessi ungi sýslumannssonur það verkefni að standa fyrir hýðingu Guðmundar Guðmundssonar á Baulhúsum, gamals orðháks úr Arnarfirði sem móðgað hafði yfirvöldin.[334] Árið 1700 tókst Snæbjörn á hendur að verja nágranna sína á Læk og Klukkulandi sem Jörgen Sörinsson, einokunarkaupmaður á Þingeyri, hafði kært fyrir launverslun við Englendinga. Þetta sumar var lesinn upp á Alþingi vitnisburður frá Snæbirni og fleirum þar sem frá því var greint að á héraðsþingi hefði kaupmaðurinn fallist á sættir í máli þessu.[335] Engu að síður var málið tekið til dóms við Öxará og þar voru viðkomandi bændur dæmdir til búslóðarmissis og þrælkunar á Brimarhólmi eins og vænta mátti(sjá hér Lækur og Klukkuland).

Á árunum 1703-1705 mætti Snæbjörn jafnan á Alþingi[336] og hefur þá staðið þar við hlið föður síns, sýslumannsins á Núpi, sem átti löngum í margvíslegu málastappi. Sumarið 1704, þegar Snæbjörn var 27 ára gamall, er hann nefndur lögsagnari í Alþingisbókinni[337] og hefur því verið viðurkenndur sem staðgengill föður síns við embættisstörf. Hann var þá tilnefndur af Christian Möller amtmanni í sérstakan dóm er dæma skyldi í þrætumáli sem varðaði erfðarétt móður eftir barn sitt. Sú tilnefning sýnir að Snæbjörn hefur verið talinn kunna nokkuð fyrir sér í lögum þó ungur væri og ekki skólagenginn.

Árið 1707 var Snæbjörn kvaddur til að taka sæti í lögréttu[338] en Vestfirðingar áttu þar þá fimm fulltrúa.[339] Það var Páll sýslumaður sem tilnefndi soninn sem lögréttumann en virðist ekki hafa tryggt sér samþykki hans því Snæbjörn, sem staddur var á þinginu, neitaði að hlýða þeirri skikkun.[340] Næsta ár mætti hvorugur þeirra feðga á Alþingi en þar var þá samþykkt að Páll sýslumaur á Núpi skyldi mæta við Öxará að ári og forsvara sína lögréttumannsnefnd yfir syni sínum, Snæbirni Pálssyni.[341] Snæbjörn fékk líka þá orðsendingu að hann væri skikkaður til að mæta til þings að forsvara það hann ekki vildi næstumliðið ár lögréttumannsembætti á hendur takast og ei hefur í sumar (1708) lögþingið sótt.[342]

Sumarið 1709 kom Snæbjörn á Öxarárþing og sór sinn eið.[343] Þar með var hann orðinn lögréttumaður. Á þessum árum var sýslumannssonurinn frá Núpi að hefja sinn búskap á Mýrum og hefur að líkindum talið sig hafa ærnu að sinna þar á heimavelli. Slík tilgáta virðist að minnsta kosti líklegri en aðrar þegar leitað er skýringa á því hversu tregur Snæbjörn var til að láta binda sig við þingstörf suður við Öxará.

Sumarið 1709, er hann sór lögréttumannseiðinn, virðist ekki hafa farið mikið fyrir Snæbirni á Alþingi en hann notaði tækifærið til jarðakaupa og festi sér báða Breiðadalina í Önundarfirði. Á móti lét hann jarðir í Rangárvallasýslu[344] sem líklega hafa verið erfðagóss móður hans en hún var sýslumannsdóttir úr Rangárþingi.

Árin 1710 og 1711 mætti Snæbjörn alls ekki til þings þó orðinn væri lögréttumaður.[345] Árið 1712 lét hann heldur ekki sjá sig en sendi þá bréf og vitnisburði heiman úr héraði með skýringum á forföllum sínum og hvar fyrir hann kynni ei lengur lögréttumannsembætti þéna.[346] Á því sama ári missti Snæbjörn konu sína, Kristínu Magnúsdóttur, og þarf vart að efa að skýringarnar sem hann gaf á fjarveru sinni hafi tengst andláti hennar. Með bréfum sem Snæbjörn sendi Alþingi sumarið 1712 sagði hann af sér störfum sem lögréttumaður, ekki bara í bráð heldur alveg. Lögmennirnir og lögréttan tóku forföll hans frá að mæta á yfirstandandi þingi gild en neituðu að veita honum lausn frá setu í lögréttu til frambúðar.[347] Þetta svar þingsins lét Snæbjörn sem vind um eyru þjóta og kom aldrei til þings næstu sjö ár.[348]

Sumarið 1720 reið hann loks til þings á ný og settist í lögréttu þar sem sæti hans hafði staðið autt í heilan áratug. Af 49 lögréttumönnum sem prýtt höfði þingið árið 1709 voru bara 11 enn á þingi sumarið 1720[349] svo lögréttumaðurinn að vestan sem nú mætti á ný eftir langt hlé var þar fáum kunnugur. Einn maður var þó á þingi sem með vissum hætti var Snæbirni nákominn, sjálfur lögmaðurinn sunnan og austan, Páll Vídalín í Víðidalstungu. Þeir Snæbjörn og Páll voru svilar en konur þeirra, Kristín og Þorbjörg, voru einu börn Ástríðar Jónsdóttur á Mýrum og eiginmanns hennar, sem verið hafði, Magnúsar Jónssonar, auðugs bónda og fræðimanns í Vigur, sem kallaður var Magnús digri. Engir kærleikar sýnast þó hafa verið með Snæbirni og Páli lögmanni og reyndar er líklegt að deilur þeirra á milli hafi valdið mestu um það að sá fyrrnefndi reið til þings eftir langt hlé árið 1720. Þær deilur snerust allar um erfðamál. Foreldrar systranna tveggja sem hér voru nefndar höfðu skilið með dómi er þær voru börn að aldri[350] og faðir þeirra hafði andast fjórum árum áður en Snæbjörn kvæntist Kristínu.[351]

Ekki er kunnugt um að þær systur, Kristín og Þorbjörg, hafi átt í neinum illdeilum um föðurarfinn áður en Snæbjörn kom til sögunnar en skömmu eftir brúðkaup þeirra Kristínar tók hann að ýfast við svila sinn, lögmanninn í Víðidalstungu, út af arfinum. Svo virðist sem ekki hafi verið gengið frá erfðaskiptum eftir Magnús digra fyrr en vorið 1706 en með sýslumannsdómi sem þá var kveðinn upp fékk eldri dóttirinn, Þorbjörg í Víðidalstungu, höfuðbólið Ögur en Kristín systir hennar annað smærra jarðagóss.[352] Þessum skiptum andmælir Snæbjörn í bréfi er hann ritaði eiginmanni Þorbjargar, Páli lögmanni, sumarið 1707 og hótar þar að skjóta sýslumannsdómnum til Alþingis.[353]

Kenning Snæbjörns var sú að Þorlákur Guðbrandsson sýslumaður, sem var náfrændi Páls Vídalíns, hefði veitt Þorbjörgu sama erfðarétt og tekið var fram í lögum að elsti sonur skyldi njóta og ekkert tillit tekið til þess að hún væri kvenmaður.[354] Svo virðist sem Páll lögmaður hafi í fyrstu getað hugsað sér að friðmælast við Snæbjörn því erfðaþræta þessi kom aldrei til kasta Alþingis á næstu árum[355] og árið 1710 voru báðar systurnar, Kristín og Þorbjörg Magnúsdætur, sagðar vera eigendur Ögurs því enn hefði föðurarfi þeirra ekki verið skipt.[356] Í Jarðabókinni frá 1710, sem Páll Vídalín samdi ásamt Árna Magnússyni, er líka tekið fram að það sé Snæbjörn sem hafi byggingarráðin í Ögri.[357] Um sinn virðist sæmilegur friður því hafa ríkt milli svilanna á Mýrum og í Víðidalstungu en þegar Snæbjörn missti konuna árið 1712 og fór að semja við tengdamóður sína um skipti á ýmsu sem óráðstafað var af arfinum eftir Magnús digra þótti Páli Vídalín nærri sér höggvið og hótaði að stefna Snæbirni.[358]

Þarna virðist þó ekki hafa verið um verulega fjármuni að ræða en ætla má að lögmaðurinn hafi talið sér vera misboðið er Snæbjörn seldi tengdamóður þeirra beggja hlut barna sinna í nokkrum sögubókum úr Vigur sem Páll hafði fengið að láni og voru hjá honum norður í Víðidalstungu.[359] Ugglaust hafa þetta verið handrit en sögurnar voru ekki af verri endanum: Sturlunga, Laxdæla, Grettissaga, Eyrbyggja og Vatnsdæla.[360]

Í deilunum við Pál Vídalín hefur Snæbjörn að líkindum notið þess í fyrstu að Ástríður tengdamóðir þeirra var á hans heimili og í samskiptum þeirra svilanna virðist ekki hafa soðið upp úr til fulls fyrr en að Ástríði látinni en hún andaðist á Mýrum 30. ágúst 1719.[361] Við undirbúning erfðaskipta eftir hana hörðnuðu deilur svilanna því lögmaðurinn taldi að eftirlátnar eignir Ástríðar væru meiri en Snæbjörn gaf upp. Vegna þessarar þrætu gaf Páll lögmaður út stefnu á hendur Snæbirni vorið 1720 og var málið tekið fyrir á héraðsþingi á Mýrum þann 10. júní á því ári.[362] Umboðsmaður lögmannsins á því þingi var Ólafur Jónsson á Eyri í Seyðisfirði við Djúp en við hann átti Snæbjörn lengi eftir að elda grátt silfur.

Árið 1710 hafði faðir Snæbjörns látið af sýslumannsembætti en við tók Markús Bergsson og það var hann sem nú settist í dómarasæti á Mýrum. Þar felldi hann þann úrskurð að Þorbjörg, kona Páls Vídalíns, væri einkaerfingi móður sinnar en börn Snæbjörns og Kristínar sálugu, systur hennar, ættu ekkert að fá af þeim fjármunum er amma þeirra lét eftir sig.[363] Auk þess var Snæbjörn skyldaður til að skrifa dánarbúið upp að nýju og draga þar ekkert undan.

Gísli Konráðsson segir í þætti sínum af Mála-Snæbirni að eftir Íslendingalögbók Magnúsar kóngs, 1. erfð hafi Markús sýslumaður dæmt Þorbjörgu, konu Páls Vídalíns, allan arf eftir Ástríði en dótturbörn frá.[364]  Íslendingalögbók Magnúsar kóngs, sem Gísli talar um, er án efa Jónsbók en á 18. öld studdust dómarar ýmist við hana eða yngri réttarbætur ellegar norsk lög og fór því stundum eftir geðþótta til hvaða lagagreina þeir gripu.

Nær fullvíst má telja að umrædd dómsniðurstaða Markúsar Bergssonar hafi orðið þess valdandi að Snæbjörn réðst til ferðar á Öxarárþing í von um að geta þar rétt sinn hlut. Lögréttumaður þessi dó reyndar sjaldan ráðalaus og sumarið 1721 skrifaði hann kóngi og bað um að sérstök sáttanefnd yrði skipuð eða gerðardómi komið á fót til að skera úr um ágreiningsefni þeirra Páls Vídalín vegna erfðamálanna.[365] Á árunum 1721-1723 munu einhverjar sættir hafa komist á í deilumálum Snæbjörns við Pál svila sinn[366] og svo virðist sem Snæbirni hafi þá tekist að tryggja að börn hans héldu eignarrétti yfir höfuðbólinu Mýrum. Að minnsta kost er það hann sem kemur fram sem eigandi Mýra við biskupsvísitazíu árið 1725 og árið 1749 eru synir hans tveir, Magnús og Markús, sagðir eiga Mýrar.[367] Gísli Konráðsson segir hins vegar að Páll Vídalín hafi gefið þeim bræðrum, sonum Snæbjörns, 70 ríkisdali úr dánarbúi ömmu þeirra en ekki viljað láta þá hafa neinar jarðir.[368]

Á árunum upp úr 1720 vék Snæbjörn burt frá Mýrum og ákvað að gerast eins konar ráðsmaður Þorkötlu ríku á Sæbóli sem nýlega var orðin ekkja. Ætla má að þessi ákvörðun hafi verið tekin áður en samningar tókust við Pál Vídalín og meðan allt var ótryggt um Mýrar. Flutningur Snæbjörns að Sæbóli gat hentað báðum vel, honum og Þorkötlu sem komin var á sjötugsaldur og átti engin börn en þurfti á öflugum forverksmanni að halda til að sjá um stjórn búsins og vera sér til aðstoðar við forvöltun eigna. Snæbjörn sem var í vanda staddur mun líka hafa séð sér þennan kost vænstan eins og mál stóðu. Hjá Þorkötlu var ekki í kot vísað og þar gat hann haft á sér höfðingjasnið þó á móti blési. Að Sæbóli mun Snæbjörn hafa flust árið 1721 eða 1722 (sjá hér bls. 35) og þar átti hann heima í a.m.k. tuttugu ár og máske nær þrjátíu, fyrst í skjóli Þorkötlu en síðar sem bóndi á sinni eigin jörð. Ekki verður annað séð en vel hafi jafnan farið á með honum og hinni rosknu höfðingsmatrónu á Ingjaldssandi en margt er þó á huldu um samskipti þeirra. Þau Snæbjörn og Þorkatla voru reyndar fjórmenningar að frændsemi, bæði komin af Torfa Jónssyni, sýslumanni á Kirkjubóli í Langadal við Djúp, og Þorkötlu Snæbjörnsdóttur, konu hans.[369] Vel má því vera að ættrækni hafi stuðlað að þeirri ákvörðun Þorkötlu að leggja Snæbirni lið og gera við hann bandalag þegar í óefni stefndi fyrir honum. Frændsemin ein gat þó ekki ráðið úrslitum um þetta heldur hitt að sú gamla matróna hefur haft trú á þessum frænda sínum og talið hann líklegan til að ná vopnum sínum þó síðar yrði.

Fyrstu árin sem Snæbjörn var á Sæbóli sat hann aldrei á friðarstóli en átti í stöðugum erjum og málaferlum við ýmsa helstu mektarmenn vestanlands. Vegna þeirra átaka, sem hér verður brátt sagt nánar frá, tóku menn að nefna hann Mála-Snæbjörn og hefur það viðurnefni fylgt honum æ síðan. Í þessu stríði virðist Þorkatla hafa veitt honum ærinn stuðning, að minnsta kosti framan af. Skýrast kemur þetta fram í því að árið 1723 lét Þuríður Sæmundsdóttir frá Sæbóli, mágkona Þorkötlu, lesa upp á Alþingi bréf þar sem hún bar brigður á lögmæti gjörninga sem gerðir höfðu verið um höfuðbólið Sæból og mestalla jörðina Álfadal[370] en báðar þessar jarðir hafði Þorkatla erft eftir Eggert eiginmann sinn, bróður Þuríðar.[371] Þær ráðstafanir sem Þuríður lýsti ólögmætar með bréfi sínu hafa nær vafalaust tengst liðsinni Þorkötlu við Snæbjörn en vitað er að hann gat um þetta leyti boðið upp á veð í jörðum hennar[372] og nokkrum árum síðar varð opinbert að Þorkatla hefði arfleitt Snæbjörn og börn hans að öllum sínum eignum.[373] Um lögmæti þess gjörnings reis að vísu alvarlegur ágreiningur sem hér verður síðar vikið að (sjá hér bls. 65-67).

Bréf Þorkötlu til konungs þar sem hún biður um leyfi til að mega arfleiða hvern þann sem leggi henni lið að eignum sínum er enn til.[374] Bréf þetta er ritað með hendi Snæbjörns 22. júní 1721[375] svo tæplega þarf að efa að arfurinn hafi verið honum ætlaður. Gísli Konráðsson segir að þetta leyfi hafi Þorkatla fengið frá kóngi en orðið að borga fyrir það 114 ríkisdali.[376] Gísli hafði reyndar líka spurnir af því að árið 1732 hefði konungur staðfest erfðaskrá Þorkötlu þar sem hún arfleiddi Snæbjörn og börn hans að öllum sínum eignum.[377]

Segja má að höfuðandstæðingar Snæbjörns í málaþvargi hans á árunum 1720-1735 hafi verið fjórir, Markús Bergsson, sýslumaður í Ögri, Pétur Arfvidsson, kaupmaður á Þingeyri, Ormur Daðason, sem var sýslumaður í Strandasýslu og síðar í Dalasýslu, og Ólafur Jónsson, lögréttumaður á Eyri í Seyðisfirði við Djúp. Ekki er ætlunin að gera hinum fjölþættu deilum Snæbjörns við þessa herramenn ýtarleg skil á þessum vettvangi heldur verður látið nægja að greina stuttlega frá örfáum meginatriðum.  Svo virðist sem Snæbjörn hafi verið mikill ákafamaður að skaplyndi og kunnað lítt að stilla orðum sínum í hóf. Drjúgur hluti af málavafstri hans snerist því um kærur sem á hann voru bornar fyrir meiðyrði og varð hann oft að gjalda háar bætur fyrir gífuryrði sín, auk málskostnaðar og sekta.[378] Þó er greinilegt að deilurnar við Orm Daðason sýslumann snerust ekki síst um eigur Þorkötlu ríku á Sæbóli[379] en Þuríður Sæmundsdóttir, mágkona hennar, sem hér var nýlega nefnd, hafði strax árið 1709 fengið staðfesta erfðaskrá sína þar sem hún arfleiddi Orm sýslumann að öllu sínu föstu og lausu góssi.[380]

Svo virðist sem viðskipti Snæbjörns við Ólaf Jónsson á Eyri hafi hafist árið 1720 er Ólafur mætti sem umboðsmaður Páls Vídalín lögmanns á Mýraþingi þar sem gert var út um deilu Snæbjörns og Páls um arfinn eftir tengdamóður þeirra beggja. Á því þingi fór Snæbjörn halloka (sjá hér bls. 39) og þar bar hann á Ólaf þungar sakir um meðferð þess síðarnefnda á hval sem rekið hafði á land í fjörunni undir Óshlíð innan við Bolungavík, sumarið 1719.[381]  Þessi orð tók Ólafur óstinnt upp og geymdi sér allan rétt til málshöfðunar gegn Snæbirni fyrir þau. Kæra Ólafs fyrir meiðyrði Snæbjörns kom þó ekki til dóms fyrr en í júnímánuði árið 1723 en þá dæmdi Markús Bergsson sýslumaður Snæbjörn til að greiða 260 álnir í miskabætur til Ólafs 6 merkur í sekt og 180 álnir í málskostnað.[382]

Skömmu eftir að dómur þessi var kveðinn upp á Mýrum reið Snæbjörn til Alþingis en þar biðu hans önnur og margþættari málaferli. Á árunum 1720 til 1722 mætti Snæbjörn jafnan á Alþingi og átti þar sæti í lögréttu.[383] Svo var einnig á þessu þingi, sumarið 1723.[384] Á fyrsta degi þess þings lagði Snæbjörn fram ákærur á hendur sýslumönnunum Markúsi Bergssyni og Ormi Daðasyni. Gegn Markúsi bar Snæbjörn fram þá ákæru að hann hefði á Mýraþingi sumarið 1720 sóst eftir æru sinni og góssi en Orm kærði hann fyrir meðferð hans á máli sem Pétur Arfvidsson, kaupmaður á Þingeyri, hafði höfðað gegn Snæbirni fyrir meiðyrði og Ormur var kvaddur til að dæma í.[385] Kæra Snæbjörns á hendur Markúsi sýslumanni varðaði dóm þess síðarnefnda í erfðaþrætunni sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá hér bls. 39) en frá málssókn Þingeyrarkaupmanns gegn Snæbirni verður að greina hér lítið eitt nánar því afleiðingar hennar urðu býsna alvarlegar fyrir lagsmann Þorkötlu á Sæbóli.

Þann 30. maí 1722 átti Snæbjörn orðastað við Pétur kaupmann á Þingeyri og lét þá falla ýms orð sem kaupmaðurinn kærði hann fyrir.[386]  Vitni báru síðar að í sín eyru hefði Snæbjörn sagt um Pétur kaupmann að hann væri ærulaus og héti eða væri kallaður Lúsa-Pétur.[387] Ormur Daðason sýslumaður, sem þá átti heima á Reykhólum, var fenginn til að dæma í málinu og í septembermánuði árið 1722 setti hann dómþing á Mýrum og dæmdi Snæbjörn til að greiða 20 ríkisdala sekt til konungs fyrir sín óþvegnu orð.[388] Þessum dómi skaut Snæbjörn til Alþingis en Ormur og fulltrúi Péturs kaupmanns, sem var Jón Oddsson Hjaltalín, lögréttumaður frá Reykjavík, lögðu fram gagnstefnu.[389]

Sektina til konungs hafði Snæbjörn látið vera að borga þó fallin væri í gjalddaga.[390] Er málin voru reifuð á Alþingi bauð talsmaður kaupmannsins upp á sættir ef Snæbjörn tæki orð sín aftur. Jafnframt krafðist hann þess að Snæbirni yrði gert að leggja þegar í stað fram fullgilda tryggingu fyrir greiðslu miskabóta til kaupmannsins ef ekki tækjust sættir.[391] Talsmaður kaupmannsins lét þetta reyndar ekki duga en bar einnig fram þá kröfu að Snæbjörn yrði handtekinn þar á þinginu nema hann legði fram greiðslutryggingu sem hægt væri að taka gilda.[392]

Þann 21. júlí 1723 var kærumálum Snæbjörns á hendur sýslumönnunum tveimur vísað frá í lögréttu og hann dæmdur til að greiða sem svaraði fimm kýrverðum til Klausturhólahospitals fyrir ástæðulausar málssóknir.[393] Næsta dag kváðu Oddur Sigurðsson lögmaður og Níels Kier varalögmaður upp þann úrskurð að Snæbjörn skyldi hnepptur í varðhald,[394] enda hafði hann hvorki viljað biðjast velvirðingar á ummælum sínum um Pétur kaupmann á Þingeyri né setja tryggingar fyrir greiðslu sekta og yfirvofandi miskabóta.

Í úrskurði lögmannanna var sýslumanni Ísfirðinga, Markúsi Bergssyni, falið að handtaka lögréttumanninn frá Sæbóli en tekið fram að það á Snæbirni Pálssyni gjörða arrest skuli vera fyrir utan bolt og járn, allt so lengi sem hann ekkert óskikkanlegt eður opinbera óhlýðni sýnir í því sínu arresti.[395]

Mörg ný tíðindi voru sögð ár hvert frá Þingvöllum við Öxará en einsdæmi mátti kalla að einn úr hópi hinna virðulegu lögréttumanna og áður staðgengill sýslumanns skyldi hnepptur í varðhald þar á þingstaðnum og hótað járnum ef hann sýndi mótþróa. Þarf vart að efa að fréttir af Snæbirni á Sæbóli og málum hans hafi flogið víða þetta sumar. Enginn veit þó nú hvernig Snæbjörn sjálfur brást við þessum úrskurði en ætla má að Markús sýslumaður hafi flutt hann vestur sem fanga í lok júlímánaðar er Öxarárþingi hafði verið slitið og orð Snæbjarnar sjálfs höfum við fyrir því að um miðjan ágúst árið 1723 hafi hann setið í varðhaldi hjá Markúsi sýslumanni í Ögri.[396]

Úr fangavistinni í Ögri í ágústmánuði 1723 ritaði Snæbjörn Ormi Daðasyni sýslumanni að minnsta kosti tvö bréf en þá var tæplega eitt ár liðið frá því Ormur kvað upp dóm sinn í meiðyrðamáli Þingeyrarkaupmanns á hendur Snæbirni. Í fyrra bréfinu sem ritað er í Ögri 3. ágúst stefnir Snæbjörn Ormi fyrir að hafa borið á sig lygar, reynt að pretta sig og fyrir að hafa forsómað að færa inn í réttarbókina haustið áður þá vitnisburði er sér hafi verið hagstæðir.[397]

Í síðara bréfinu frá Ögri sem ritað var 13. ágúst 1723 kveðst Snæbjörn afsegja Orm sýslumann sem dómara vegna augljósrar hlutdrægni hans og vitnar í því sambandi til réttarhaldsins fyrir tæpu ári í máli Péturs Þingeyrarkaupmanns gegn sér.[398]

Þann 26. ágúst 1723 var kærumál Þingeyrarkaupmanns á hendur Snæbirni enn tekið til dóms á þingstaðnum að Mýrum í Dýrafirði.[399] Þangað var Snæbjörn fluttur úr fangavistinni í Ögri og leiddur fyrir dómara sinn sem eins og áður var Ormur Daðason.

Til þessa þinghalds á Mýrum kom fanginn úr Ögri þó að því er virðist óbugaður. Um hegðun hans við réttarhaldið var síðar borið  af vitnum og fært til bókar þetta:

 … að Snæbjörn hafi af Ormi begert [þ.e. krafist] þar fyrir réttinum að leggja af sér sinn korða og þegar hann hafi það ei viljað gjöra, hafi Snæbjörn hlaupið á dómarann í dómarasæti með reiðisvip og þungu skapi, gripið um slíðrirnar og skaftið á korðanum og þrifið þar svo hart til að gehengið hafi rifnað í stykki og vissulega hefði sýslumaðurinn aftur á bak dottið, hefði honum ei verið hjálpað. Síðan hafi Snæbjörn skotist inn fyrir réttinn og læðst á bak við sýslumanninn Orm, þegar hann var að skrifa, kippt hans korða úr slíðrunum og skotist með hann nakinn út og ekki viljað aftur skila þó óskað væri.[400]

 

Af þessari lýsingu má ljóst vera að Snæbjörn hefur ekki verið í járnum. Í lok þessa sögulega dómþings á Mýrum dæmdi Ormur sýslumaður Snæbjörn til að greiða kaupmanninum á Þingeyri 140 ríkisdali í miskabætur og auk þess hækkaði hann sektina sem sakborningnum hafði áður verið gert að greiða í fjárhirslu konungs úr 20 ríkisdölum í 30.[401] Nærri lætur að fyrir þessa samtals 170 ríkisdali hafi mátt kaupa 42 kýr og er þá hver dalur talinn 30 álna virði.[402]

Skömmu eftir að þessi dómur var kveðinn upp virðist Snæbirni hafa verið sleppt úr varðhaldinu án þess þó að hann reiddi fram nýnefndar bætur og sektarfé.[403] Skýringin hlýtur að vera sú að hann sjálfur eða aðrir hafi lagt fram einhverjar tryggingar fyrir greiðslu fjárins. Nær fullvíst má telja að þar hafi Þorkatla ríka komið til liðs við hann, enda liggur fyrir að fjórum dögum eftir uppkvaðningu dómsins sem dæmdur var á Mýrum 26. ágúst 1723 gerði Ormur sýslumaður sérstakan samning við hana um mál Snæbjörns. Þorkatla féllst þá á að afhenda Ormi höfuðból sitt, Sæból á Ingjaldssandi, til eignar en á móti lofaði hann að láta allar sínar sakir á hendur Snæbirni niður falla.[404] Sú ákvörðun Þorkötlu að fá Ormi Sæból til eignar sýnir að hún hefur verið reiðubúin að færa nær takmarkalausar fórnir fyrir Snæbjörn. Á móti Sæbóli, sem var 60 hundraða jörð, átti Þorkatla að vísu að fá Fjallaskaga sem aðeins var metinn á 12 hundruð[405] og greinilegt er á orðalagi samningsins að út frá því var gengið að Þorkatla fengi að sitja á Sæbóli til dauðadags þó að Ormur eignaðist jörðina. Til þessa bendir meðal annars sú málsgrein í samningnum er svo hljóðar:

 

Lofar sýslumaðurinn Ormur að veita Mad. Þorkötlu eftir hennar tilmælum alla bróðurlega aðstoð og þjónustu í öllu því er hún þurfa kann og til mælist og hann, sýslumaðurinn, er fær að veita.[406]

 

Undir þennan samning var einnig sett nafn Snæbjörns en fáum mánuðum síðar tilkynnti hann sýslumanni Ísfirðinga að þetta skjal teldi hann að engu hafandi þar eð samningurinn hefði verði gerður við varnarlausa konu meðan hann sat sjálfur í varðhaldi.[407]

Samningur Orms við Þorkötlu á Sæbóli var undirritaður 30. ágúst 1723 og ótvírætt virðist að Snæbirni hafi verið sleppt úr varðhaldi þann sama dag eða daginn eftir því við réttarhöld sem fram fóru þremur árum síðar vottuðu Dýrfirðingar að frá því í ágúst 1723 hafi Snæbjörn verið til heimilis á Sæbóli og reist og ferðast síðan það honum hafi sjálfum líkað sem frjáls maður.[408] Á öðrum stað má sjá að ráðsmaðurinn á Sæbóli gekk laus í fyrstu viku september á þessu sama ári því þá var hann farinn að fást við jarðakaup.[409]

Eins og hér hefur verið rakið var það Þorkatla sem leysti Snæbjörn úr varðhaldinu sumarið 1723 en því fór þó fjarri að hann væri þar með laus allra mála. Reyndar virðist honum hafi verið bannað að ferðast út fyrir sýslumörkin meðan dómsskuldin frá málaferlum kaupmannsins á Þingeyri væri ógreidd því sumarið 1724 var lesið upp í lögréttu á Alþingi bréf þar sem Snæbirni er lýst sem burtstroknum úr Ísafjarðarsýslu.[410]

Þann 10. júlí 1724 átti Snæbjörn að mæta til þings á Mýrum og inna þar af hendi greiðslu allra sinna dómsskulda við kaupmann og konung en daginn áður varð ljóst að hann var horfinn á braut.[411] Tveimur vikum síðar, þann 24. júlí, var lesið upp í lögréttu eitt document, dat. Ögri 9. júlí 1724, undir nafni sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu, Markúsar Bergssonar, þar sem Snæbirni var lýst eins og hverjum öðrum burthlaupnum sakamanni.[412] Lýsingin er á þessa leið:

 

Kallmannlegur og hraðgengur í framgöngu, hávaxinn og flatvaxinn, herðabreiður, mittismjór, fótagrannur, þykkhentur en þó ekki harðhentur, dökkvari á hárið samt brún og brá en jarpur, hefur mikið hár sem hrökkur neðan, rakar sitt skeggstæði, grannleitur og kinnbeinahár í andliti með þunnt nef og hátt að framan, háleitur og langhálsaður, vel lesandi og skrifandi, heldur sér til gildis sem meiri menn til klæða, hátalaður, hraðmæltur, hrokafullur, bítur á vörina og sýgur nefið þá illu er að skipta, tekur ákaflega neftóbak og af því nefmæltur og hið mesta drykkjusvín.[413]

 

Í þessari mannlýsingu er dregin upp svo ljóslifandi mynd af Snæbirni að vart var hægt að gera það betur en þó má vera að eitthvað sé ofsagt um drykkjuskapinn.

Þess er reyndar vert að geta að til er önnur lýsing á Snæbirni eftir óþekktan höfund og er hún á þessa leið:

 

Hann var snemma mikill vexti, hár hafði hann dökkleitt, nef mikið, lágu kinnarbeinin nokkuð hátt. Hann var munnstór og hakan mikil, ljóseygur og fagureygur. Vel var hann á fót kominn og allur hinn mannvænlegasti. Hann var hátalaður og þótti vera keppinn mjög og grimmur óvinum.[414]

 

Lýsingunni á Snæbirni, sem upp var lesin í lögréttu, fylgdi sú ósk sýslumanns að strokumaður þessi yrði handtekinn hvar sem hann fyndist og færður með góðri gæslu vestur í Ögur í það arrest er lögmenn í fyrra á Alþingi hann í dæmt hafi þar til hann réttir fyrir sín mál.[415]

Er allt þetta hafði verið tilkynnt í lögréttu kom í ljós að Snæbjörn var reyndar staddur við Öxará og gaf hann sig nú fram og bað um kópíu af lýsingunni, − hvörja hann fékk, eins og tekið er fram í Alþingisbókinni.[416]

Á fyrri þingum hafði Snæbjörn jafnan átt sæti innan vébanda, í sjálfri lögréttu, ef hann á annað borð lét sjá sig á Þingvöllum og hafði svo verið allt frá árinu 1709. Nú var hann utan vébanda og virðist hafa verið sviptur lögréttumannstitlinum um leið og hann var úrkurðaður í gæsluvarðhald árið 1723. Á þinginu 1724 tók annar Vestfirðingur sæti hans í lögréttu og til setu þar var Snæbjörn aldrei tilnefndur eftir þetta.[417] Hinn nýi lögréttumaður að vestan, sem settist í sæti Snæbjörns sumarið 1724, var Ólafur Jónsson á Eyri við Seyðisfjörð en fyrir honum hafði Snæbjörn farið halloka í lagaþófi heima í héraði árin 1720 og 1723 (sjá hér bls. 39 og 41-42).

Er Snæbjörn gaf sig fram á Alþingi 24. júlí 1724 og bað um kópíu af lýsingunni á sjálfum sér hefði mátt ætla að hann yrði handtekinn þegar í stað. Framgangan í þeim efnum sýnist þó hafa verið heldur linleg. Markús Bergsson, sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, mun ekki hafa komið á þetta þing[418] og því mun yfirvaldið í Árnessýslu, þar sem þingið var háð, hafa átt að grípa strokumanninn. Í Alþingisbókinni segir að sýslumaðurinn í Árnessýslu hafi falið Sigurði Jónssyni, sýslumanni Borgfirðinga, að láta Snæbjörn fylgjast með sér frá Þingvöllum til Hvítárvalla og jafnframt hafi hann skipað hinum eftirlýsta strokumanni að ganga eftir nefndum sýslumanni til hans tjalds, hvað og skeði, eins og tekið er fram í bókinni.[419]  Hugsanlegt væri að skilja þessi orð á þá leið að Markús sýslumaður í Ögri hafi átt að taka við Snæbirni sem fanga á Hvítárvöllum en eins og fyrr var getið liggja hins vegar fyrir skýrir vitnisburðir frá vorinu 1726 um að Snæbjörn hafi jafnan gengið laus frá ágústmánuði 1723 til maímánaðar 1726 (sjá hér bls. 45). Í Alþingisbókinni sjáum við líka að áður en þingi var slitið við Öxará sumarið 1724 var auglýst í lögréttu að Páll Vídalín lögmaður tæki ábyrgð á því fyrir persónu nefnds Snæbjarnar að í næstkomandi Decembri og Januario skuli hann ekki strjúka burt af landinu til að skjóta sér undan kóngsins lögum og rétti.[420] Orðin sýna að lögmanninum í Víðidalstungu, sem fáum árum áður gekk hart að Snæbirni er deilt var um arfinn eftir tengdamóður þeirra, hefur nú runnið blóðið til skyldunnar og fundist tímabært að sýna þessum stríðsglaða svila sínum einhvern lágmarksstuðning í hrakföllum hans. Undarlegt er hins vegar að Páll Vídalín skuli aðeins taka ábyrgð á að Snæbjörn strjúki ekki úr landi í desember og janúar, þegar reyndar var engra ferða von yfir hafið. Engu að síður getur þetta merki frá lögmanninum hafa stuðlað að því að Snæbjörn var látinn ganga laus heima á Sæbóli.

Svo virðist sem ofurkapp Snæbjörns og fágætur bardagahugur hafi verið í hámarki er hann kom heim frá Alþingi sumarið 1724. Hann tók sér þá fyrir hendur að höfða mál gegn Ormi Daðasyni sýslumanni sem ári fyrr hafði dæmt hann í þungar sektir. Til að dæma í kærumáli Snæbjörns gegn Ormi var fenginn Sigurður Sigurðsson sem kallaður var lagaböggull en hann átti þá heima í Flatey á Breiðafirði.[421] Sigurður hafði áður verið bæði lögsagnari og lögréttumaður.[422] Hann var móðurafi Eggerts Ólafssonar, náttúrufræðings og skálds.

Eigi síðar en í byrjun desember 1724 var Sigurður kominn vestur í Dýrafjörð og hóf þá yfirheyrslur.[423] Ein helsta sakargift Snæbjörns á hendur Ormi sýslumanni var sú að sá síðarnefndi hafi af settu ráði forsómað að yfirheyra vitni áður en hann kvað upp dóm sinn yfir Snæbirni í ágúst 1723 og dæmdi hann til að greiða kaupmanninum á Þingeyri 140 ríkisdali.[424]

Í desemberréttarhöldunum á Mýrum, sem Sigurður í Flatey stjórnaði og hafði við hlið sér átta meðdómsmenn, var það enn einu sinni Snæbjörn sem beið lægri hlut og fékk nú þyngri dóm en nokkru sinni fyrr.[425] Þann 8. desember 1724 var dómurinn kveðinn upp og var Snæbjörn dæmdur til að biðja Orm fyrirgefningar og greiða honum 50 hundruð fyrir ófrægingarbréf um hann er Snæbjörn hafði ritað og m.a. lagt fyrir amtmann[426] (sbr. hér bls. 43). Auk þess var Snæbirni gert að greiða 100 ríkisdali í málskostnað og fyrir stórlygi og handgjörninga móti sýslumanninum Ormi í dómarasæti var Snæbjörn talinn hafa æru og búslóð forbrotið til konungs.[427] Dómsniðurstaðan var með öðrum orðum sú að bústjóri Þorkötlu ríku á Sæbóli skyldi missa bæði æruna og allar sínar eignir en um handgjörninga hans móti Ormi sýslumanni skal vísað til þess sem hér hefur áður verið ritað um þau efni (sjá hér bls. 44).

Bréf sem lesið var á Mýraþingi í þessum réttarhöldum undir nafni Þorkötlu á Sæbóli, þar sem hún lofaði að ganga í ábyrgð fyrir bústjóra sinn, játaði Snæbjörn síðar að Magnús, elsti sonur sinn, hefði skrifað.[428] Magnús var þá rétt tæplega tvítugur að aldri en nær ellefu árum síðar neitaði Jón Árnason biskup að vígja hann til prests vegna hluttöku hans í málum föður hans fyrrum.[429] Vígslan dróst þó ekki nema í eitt ár en Magnús var prestur á Söndum í Dýrafirði í 47 ár[430] (sjá hér Sandar).

Í árslok 1724 mun mörgum hafa sýnst að fokið væri í flest skjól hjá Snæbirni Pálssyni á Sæbóli sem búið var að dæma frá eignum og æru. En kappi þessi hafði níu líf. Bæði 1725 og 1726 reið hann á Alþing og stefndi þangað ýmsum dómum sem á hann höfðu fallið í héraði og er menn voru sestir í lögréttu sumarið 1727 kom Snæbjörn enn og lagði fram bréf frá sjálfum kónginum um að hann mætti stefna til æðri réttar dómnum um missi eigna sinna og æru.[431]

Snæbjörn leyfði sér líka að stefna Markúsi Bergssyni sýslumanni fyrir lögmannsdóm sumarið 1725 fyrir strokumannslýsinguna sem upp var lesin á Alþingi árið áður undir hans nafni og hér hefur áður verið kynnt.[432] Þá brá hins vegar svo við að Markús vildi ekkert við það kannast að hafa samið plaggið eða ritað undir það.[433] Aldrei mun hafa fengist upplýst hver samdi hina ágætu lýsingu á Snæbirni, sem upp var lesin í lögréttu sumarið 1724, en í annálum má sjá að ýmsa hefur grunað að þar hafi Ormur Daðason Strandasýslumaður átt hlut að. – Lýst Snæbirni Pálssyni í lögréttu, óvíst hvör gerði, máske Ormur, segir í Sauðlauksdalsannál.[434]

Sumarið 1725 sá landfógetinn ástæðu til að birta á Alþingi sérstaka tilkynningu þar sem bent var á að Snæbjörn hefði verið dæmdur í búslóðarstraff til konungs og menn væru varaðir við að enginn kaupi hans góss, fast eða laust, svo lengi þar er ekki úttalað um.[435] Svo virðist því sem Snæbirni hafi verið bannað að hreyfa nokkuð við eignum sínum meðan á málarekstrinum stæði og vitað er að jörðin Klukkuland, sem Snæbjörn átti, var ásamt nokkrum kúgildum gerð upptæk til að standa skil á verulegum hluta þeirrar fjárhæðar er honum hafði verið gert að greiða Pétri Arfvidssyni, kaupmanni á Þingeyri.[436]

Sumarið 1726 var kærum Snæbjörns vegna dóma er sýslumennirnir Markús og Ormur höfðu kveðið upp yfir honum vísað frá á Alþingi[437] en árið eftir var hinn þungi dómur er Sigurður lagaböggull kvað upp yfir Snæbirni 8. desember 1724 tekinn þar til umfjöllunar.[438] Dómur þessi var á 31 blaði og er málið var tekið til meðferðar á Alþingi þann 11. júlí tókst að lesa upp 21 blað úr honum fyrir hádegi en hin 10 urðu að bíða síðdegisfundar.[439] Hér verða réttarhöldunum í máli Snæbjarnar sem fram fóru á Alþingi dagana 11.-22. júlí 1727 engin skil gerð en á síðasta degi þeirra komst dómarinn í málinu, Bendikt Þorsteinsson lögmaður, að niðurstöðu og kunngerði hana.

Með dómi lögmanns var héraðsdómurinn frá 8.12.1724 staðfestur í öllum meginatriðum en í dómsniðurstöðum sínum tók Benedikt lögmaður þó fram að æru hans [Snæbjörns] væri vægt fyrir þessum rétti.[440] Fjárupphæðir sem Snæbjörn hafði verið dæmdur til að greiða Ormi Daðasyni og í málskostnað lækkaði Benedikt reyndar úr samtals um 300 ríkisdölum (fimmtíu hundruð og 100 dalir) niður í 190 ríkisdali, þar af 120 ríkisdali í bætur til Orms, en meginatriði héraðsdómsins, að eignir Snæbjörns væru fallnar undir konung (sjá hér bls. 47-48) lét hann standa óhaggað.[441]

Er Snæbjörn hafði hlýtt á dómsúrskurð lögmanns tilkynnti hann þegar í stað að hann skyti sínu máli til yfirdóms,[442] sem var næsta dómsstig við hæstarétt, en yfirdómur starfaði á Alþingi undir stjórn amtmanns. Að svo búnu kvaddi hann þingheim, tók hest sinn og lagði á Bláskógaheiðina í stefnu á Ingjaldssand. Ekki er annað vitað en Snæbjörn hafi verið heill og hraustur er hann reið frá Þingvöllum að þessu sinni en á leiðinni vestur varð hann fárveikur.[443] Jón Ólafsson frá Grunnavík segir í annáladrögum sínum að Snæbjörn hafi þá komið að Fagradal í Dalasýslu, þrotinn að kröftum, legið þar rúmfastur um skeið og þá verið tekinn til heimuglegra skriftamála.[444] Ætla má að þarna hafi kempan búist við dauða sínum en betur fór en á horfðist og innan skamms náði hinn þjakaði langferðamaður fullum kröftum á ný. Presturinn sem hlýddi á skriftamál hins stórláta Vestfirðings sumarið 1727 hefur að líkindum verið séra Ólafur Eiríksson á Staðarhóli í Saurbæ, er nefndur var Mehe.[445]

Sumarið 1728 kallaði Niels Fuhrmann amtmaður saman þá 24 dómendur er áttu sæti í yfirdómi og lagði fyrir þá til úrskurðar mál hins fyrrverandi lögréttumanns á Sæbóli. Á þeirri samkomu var dómsúrskurður Benedikts lögmanns staðfestur í öllum höfuðatriðum[446] og nú var Snæbjörn mát nema hann tæki þann kost að ráðast í utanferð og áfrýja til hæstaréttar í Kaupmannahöfn eða leita á náðir konungs.

Þann 28. apríl 1729 gerði Ormur Daðason sýslumaður fjárnám í eignum Snæbjörns en verðmæti þeirra taldist þá nema um það bil 120 hundruðum.[447] Óljóst er hvort þarna hefur verið búið að draga frá eitthvað sem verulega munaði um upp í þær sektir og bótagreiðslur er Snæbjörn hafði verið dæmdur til að greiða síðustu tíu árin en samtals námu þær a.m.k. einu hundraði hundraða eða þar um bil (sjá hér bls. 44 og 47-48) fyrir utan búslóðarmissi til konungs. Gísli Konráðsson segir að Snæbjörn hafi líka skuldað Þorkötlu ríku verulegar fjárhæðir er hér var komið sögu og einnig sonum sínum sem lítið höfðu fengið greitt af sínum móðurarfi.[448] Flest bendir reyndar til þess að um þetta leyti hafi Snæbjörn alls ekki átt fyrir skuldum og búslóðin sem konungur átti að fá því verið einskis virði. Þegar Markús Bergsson sýslumaður reyndi að leggja hald á einstakar jarðir sem Snæbjörn hafði átt lét sá síðarnefndi gjarnan krók koma á móti bragði og leitaðist við að sanna að það voru börn sín eða Þorkatla ríka sem ættu jarðir þær er um var deilt.[449] Sem dæmi má nefna Arnardalina, neðri og fremri, í Skutulsfirði en báðar þær jarðir höfðu verið í eigu Snæbjörns. Er Markús sýslumaður lagði hald á þessar jarðir árið 1729 til að tryggja greiðslu á dómsskuldum Mála-Snæbjörns hóf sá síðarnefndi bréfaskriftir til stiftamtmanns þar sem því var haldið fram að báðar þessar jarðir hefði hann selt Þorkötlu á Sæbóli fjórum árum fyrr.[450] Bréfi sínu um þetta efni lét hann einnig fylgja sérstakt bréf frá Þorkötlu til stiftamtmanns, dagsett á Sæbóli 6. september 1729, þar sem hún segist hafa keypt Arnardalina af Snæbirni 22. september 1725.[451]

Hér hefur nú um sinn verið greint frá viðureign Snæbjörns við hina löglærðu og þeirra samstarfsmenn en hann átti líka í stríði á fleiri vígstöðvum á sínum fyrstu árum á Sæbóli. Einn andskota hans á þeirri tíð var séra Bjarni Jónsson sem þjónaði Dýrafjarðarþingum frá 1723-1757 og sat á Mýrum. Við messur séra Bjarna í Sæbólskirkju á árunum 1724 og 1725 lét Snæbjörn til sín taka með ýmsum hætti prestinum til skapraunar.

Við réttarhöld sem fram fóru fáum árum síðar lýstu mörg vitni framkomu Snæbjörns við prestinn. Eitt þeirra var Eiríkur Bjarnason er greindi svo frá að eftir messu á Sæbóli hafi Snæbjörn eitt sinn tekið svartan hund og snúið hundskjaftinum að presti, flett honum í sundur og sagt: Ég akta yður ekki meira, séra Bjarni, heldur en tarna.[452]

Enn lengra gekk Snæbjörn þó við guðsþjónustur í kirkjunni á Mýrum árið 1726. Eitt sinn er prestur stóð í stólnum og hugðist lesa þar yfir Snæbirni sérstaka áminningu stóð þetta sjálfráða sóknarbarn hans á fætur, gekk fram að kirkjudyrum, dró þar seðil upp úr vasa sínum og tók að lesa hátt það sem á seðlinum stóð.[453] Svo hátt lá Snæbirni þá rómur að áminningarorðin sem prestur þuldi af stólnum drukknuðu í þeim hljómi.[454] Við guðsþjónustu í Mýrakirkju annan sunnudag í sjöviknaföstu þetta sama ár stóð Snæbjörn á fætur, gekk á bak við prestinn, tók í rykkilínið og hnykkti á í tvær reisur en gekk síðan brosandi fram eftir kirkjugólfinu að sögn vitna.[455]

Þessi ertni Snæbjörns við sóknarprest sinn og handatiltektirnar er hann tók korðann af Ormi sýslumanni við réttarhald á Mýrum sumarið 1723 (sjá hér bls. 44) benda til þess að hann hafi er hér var komið sögu átt einkar erfitt með að þola embættismenn í sinni návist, hvort sem voru sýslumenn eða prestar, og fundið sig knúinn til að gera at í þeim, einkum þó ef hann hafði fengið sér í staupinu fyrir messu eða réttarhald. Engu að síður var Snæbjörn af prestum og sýslumönnum kominn, bæði nær og fjær, og þrír af fjórum sonum hans urðu prestar. Sjálfur hafði hann hins vegar aldrei í skóla komið og hefur líklega ekki talið sig þurfa á neinni skólaspeki að halda til að standa jafnfætis hverjum sem var við túlkun laga og messusöng.

Með athæfi sínu í kirkjunum á Sæbóli og Mýrum safnaði Snæbjörn glóðum elds að höfði sér eins og síðar kom fram. Árið 1727 var hann dæmdur til að taka opinbera aflausn en auk þess var honum gert að greiða séra Bjarna á Mýrum 13 ríkisdali fyrir messuspjöll og Hjalta Þorsteinssyni, prófasti í Vatnsfirði, 12 ríkisdali.[456] Þessa dómsniðurstöðu munu kirkjuyfirvöld þó ekki hafa talið ásættanlega og vorið 1729 gaf Friðrik konungur IV út tilskipun um að karlinn yrði tekinn fyrir á ný vegna framkomu hans við séra Bjarna[457] eða þær ryskingar er hann veitt hafði presti sínum eins og það er orðað í Sauðlauksdalsannál.[458]

Er þessi boð bárust til landsins var yfirdómurinn þegar búinn að úrskurða Snæbjörn í búslóðarstraff og allar eignir hans fallnar undir konung eins og hér var áður rakið. Af honum var því enga frekari fjármuni að hafa svo grípa varð til annarra refsinga. Skömmu eftir að kóngur gaf út tilskipun sína lét Fuhrman amtmaður, sem sat á Bessastöðum, boð út ganga um að hefja bæri rannsókn á kirkjuhegðun bústjórans á Sæbóli og framkomu hans við sóknarprestinn. Að rannsókn lokinni var rykkilínsmálið tekið til dóms á Mýrum og 15. september 1729 dæmdi Markús Bergsson sýslumaður Snæbjörn til sex ára þrælkunar í járnum á Brimarhólmi.[459] Þann 2. maí á sama ári hafði Snæbjörn reyndar verið dæmdur friðlaus og landrækur fyrir árás á stefnuvotta[460] sem komu að Sæbóli í þeim erindagerðum að birta Þorkötlu húsmóður hans stefnu vegna deilu um jarðarsölu.[461] Stefnuvottarnir sem komu að Sæbóli 7. mars 1729 voru þrír og fyrirliði þeirra var Guðbrandur Sigurðsson, prestssonur frá Holti í Önundarfirði, sem nú var orðinn bóndi á Gerðhömrum.[462] Er Guðbrandur og fylgdarmenn hans komu að Sæbóli snöruðust Snæbjörn og synir hans þrír til dyra og segir Gísli Konráðsson frá framgöngu þeirra á þessa leið:

 

… en þegar Guðbrandur ætlaði að fara að lesa stefnuna gekk Snæbjörn að honum og hans þrír synir, hrundu honum fram eftir hlaðinu mjög, allt að læknum … hratt Snæbjörn honum fram eftir túninu eins á svelli sem auðri jörð.[463]

 

Viðureign Sæbólsfeðga við stefnuvottana verður ekki lýst nánar hér en Gísli Konráðsson lætur þess getið að Snæbjörn og synir hans hafi hrakið þessa sendimenn Markúsar sýslumanns fram að hjáleigunni Krókshúsum sem stóð í túninu á Sæbóli (sjá hér bls. 11-12) og meinað þeim að lesa stefnuna yfir Þorkötlu.[464] Að því sinni urðu Guðbrandur á Gerðhömrum og fylgdarmenn hans að snúa til baka inn yfir Sandsheiði án þess að hafa komið fram erindi sínu. Tíu dögum síðar fékk Markús sýslumaður Guðbrandi ellefu menn úr tveimur hreppum til fylgdar út á Ingjaldssand[465] og tókst honum þá að stefna Þorkötlu, enda var Snæbjörn ekki heima.[466] Í þeirri ferð átti hann líka að stefna Snæbirni og sonum hans fyrir árás á sig og hina stefnuvottana tvo þann 7. mars[467] og mun hann hafa náð að hengja boðskapinn til Snæbjörns á bæjardyrnar á Sæbóli.[468]

Fyrir árás á stefnuvottana dæmdi Markús Bergsson sýslumaður Snæbjörn landrækan vorið 1729 og í september þá um haustið var Snæbjörn dæmdur til sex ára Brimarhólmsvistar fyrir árásir á sóknarprest sinn eins og hér var áður nefnt.

Enda þótt búið væri að dæma Snæbjörn í sex ára þrælkun á Brimarhólmi var hann ekki sendur utan í járnum eins og venja var. Þvert á móti virðist hann hafa yfirgefið landið sem frjáls maður án þess að yfirvöldin hefðu hendur í hári hans. Í skjölum er varða rykkilínsmálið sést að Snæbjörn hefur ekki verið viðstaddur er hann var dæmdur á Brimarhólm. − Snæbjörn er nú ekki nálægur, segir þar, og enginn hans vegna þó þrisvar væri hrópað, heldur auglýstist að það síðasta sem menn hafa til hans vitað hefur hann verið á Dýrafjarðarskipi sem héðan er nú frá landinu siglt.[469] Á blaði sem geymir afskrift af Brimarhólmsdómnum og er varðveitt í skjalasafni stiftamtmanns er líka tekið fram að Snæbjörn sé rétttækur og eigi að flytjast á Brimarhólm hvar sem hann kunni að finnast.[470]Sigldi Snæbjörn Pálsson, dæmdur ofríkismaður, útlægur, skrifar séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal í annál sinn við árið 1729.[471]

Í bréfi sem stiftamtmaðurinn yfir Íslandi, Christian Gyldencrone, barón og leyndarráð, ritar konungi 3. desember 1729 sést að Snæbjörn er þá komin til Kaupmannahafnar og gengur laus í borginni.[472] Í bréfi sínu til konungs fjallar baróninn um mál Snæbjörns eftir þeim gögnum er honum hafa borist frá Niels Fuhrman, amtmanni á Bessastöðum. Af bústjóranum á Sæbóli færir baróninn kóngi m.a. þær fréttir að hann hafi um alllangt skeið neitað að þiggja sakramenti af séra Bjarna á Mýrum og látið þau orð falla við prestinn að fyrir honum bæri hann ekki meiri virðingu en hundi.[473] Í lok bréfsins frá 3. desember tilkynnir baróninn kóngi að Snæbjörn muni að líkindum kominn til borgarinnar með Íslandsskipum og spyr í auðmýkt hvort setja eigi þennan uppvöðslusegg í járn strax og hann finnist eða gefa honum kost á að áfrýja Brimarhólmsdómi Markúsar sýslumanns til æðri réttar.

Frá jólaföstu ársins 1729 höfum við reyndar aðra og enn traustari staðfestingu þess að Mála-Snæbjörn var þá kominn til borgarinnar en það er bréf sem hann ritaði stiftamtmanni og er dagsett í Kaupmannahöfn þann 17. desember.[474] Þar gerir Snæbjörn nokkra grein fyrir deilumálum sínum við Markús Bergsson sýslumann og fer þess á leit að sérstakur gerðardómur verði settur á fót til að gera út um sín mál.[475]

Fróðlegt hefði verið að sjá og heyra hvað Snæbjörn hafðist að þá mánuði sem hann dvaldist í Kaupmannahöfn sem frjáls maður veturinn 1729-1730. Ætla má að hann hafi heilsað upp á ýmsa landa sem þar bjuggu en einn þeirra var Árni Magnússon, prófessor í fornum fræðum og handritasafnari, sem Snæbjörn hafði setið með á Alþingi fyrir aldarfjórðungi og aðstoðað við jarðabókarstörf í Dýrafirði nokkru síðar.[476] Ólíklegt er að Árni hafi gleymt svo original manni sem Snæbjörn var en líklega hefur hann lítið getað fyrir hann gert því sjálfur var hinn mikli handritasafnari og vinur konungs um skeið kominn að fótum fram er Mála-Snæbjörn steig á land í Höfn. Vel gæti hins vegar verið að Snæbjörn hafi mætt á jarðarför Árna í janúar 1730.

Lærisvein Árna Magnússonar, Jón Ólafsson frá Grunnavík, mun Snæbjörn nær efalaust hafa hitt í Kaupmannahöfn, enda sýna annálsdrög Jóns að hann hefur fylgst vel með afdrifum Snæbjörns þar í borginni.[477] Þessir tveir ólíku menn voru reyndar tengdir með dálítið sérstökum hætti því Jón frá Grunnavík hafði alist upp í Víðidalstungu frá sex ára aldri[478], hjá Páli Vídalín lögmanni og konu hans, Þorbjörgu Magnúsdóttur, systur Kristínar er Snæbjörn hafði verið giftur. Jón hefur því án nokkurs vafa þekkt vel til þvargarans af Ingjaldssandi og kunnað skil á öllum meginlínum í málastappi hans. Í annálsdrögum Grunnavíkur-Jóns er sitt af hverju skrifað um Snæbjörn og þess m.a. getið að 13. sunnudag eftir trinitatis árið 1728 hafi Snæbjörn um síðir meðtekið sakramentið og þegið opinbera aflausn af presti sínum, séra Bjarna.[479] Sé þarna rétt með farið hefur Snæbjörn vafalaust litið svo á að friðarsamningar hafi tekist milli sín og kirkjunnar haustið 1728 og því má ætla að tilskipun konungs um nýja upptöku málsins, sem út var gefin vorið 1729 (sjá hér bls. 51-52), hafi komið honum í opna skjöldu.

Hér var áður frá því greint að nokkru eftir að Snæbjörn kom til Kaupmannahafnar hafi barón Gyldencrone, sem þá var stiftamtmaður yfir Íslandi, beint þeirri fyrirspurn til konungs hvort ekki myndi rétt að handtaka þennan fyrrverandi lögréttumann svo fljótt sem auðið yrði. Þeirri fyrirspurn svaraði konungur með bréfi, dagsettu 10. febrúar 1730, þar sem mælt var fyrir um handtöku en jafnframt tekið fram að gefa bæri Snæbirni kost á að áfrýja Brimarhólmsdómnum til æðri réttar.[480] Tæpri viku síðar sendi baróninn Hermanni Kröyer, bæjarfógeta í Kaupmannahöfn, fyrirmæli um að leita Snæbjörn uppi og taka hann fastan.[481] Í bréfi þessu er bæjarfógetanum tilkynnt um þá ákvörðun konungs að flytja eigi þennan baldna Íslending beinustu leið í þrælkunarhúsið á Brimarhólmi, nema því aðeins að hinn dæmdi biðji um að fá að áfrýja fangelsisdómi Markúsar sýslumanns.[482] Jafnframt er tekið fram í bréfinu að biðji Snæbjörn um áfrýjun skuli fógetinn setja hann í gæsluvarðhald til bráðabirgða og bíða síðan frekari fyrirmæla.[483]

Svo virðist sem ekki hafi tekið langan tíma að hafa upp á Snæbirni í kóngsins Kaupmannahöfn því sjálfur segist hann hafa verið hnepptur í gæsluvarðhald þann 17. febrúar,[484] daginn eftir að handtökutilskipunin var gefin út. Eins og vænta mátti tilkynnti Snæbjörn við handtökuna að hann vildi skjóta Brimarhólmsdómnum til æðri réttar og var því settur í gæsluvarðhald en ekki í þrælakistuna á Brimarhólmi. Fangelsið sem Snæbjörn var settur í 17. febrúar 1730 nefnir hann sjálfur Arresthuset en Jón Ólafsson frá Grunnavík kallar það slutteríið.[485] Í hinni stóru dönsku orðabók Verners Dahlerup segir að á 18. öld hafi orðið slutteri einkum verið notað um fangelsi sem stóð við Hestemöllestræde i Kaupmannahöfn og þar er líka vitnað í texta úr borgarskjölum Kaupmannahafnar frá árinu 1706 þar sem segir: Det nye Arresthus var indrettet efter de skjönneste Mönstre for Straffeanstalter.[486] Með hliðsjón af þessu virðist mega slá því föstu að Mála-Snæbjörn hafi setið í gæsluvarðhaldi í fangelsinu við Hestemöllestræde, sem er lítil gata örskammt frá Ráðhústorginu í Höfn.

Eins og áður sagði var Snæbjörn settur inn 17. febrúar og í slutteríinu varð hann að dúsa nokkuð á fjórða mánuð. Úr fangelsinu skrifar hann Chr. Gyldencrone, barón og stiftamtmanni yfir Íslandi, nokkur bréf sem öll eru rituð í maímánuði og hið síðasta dagsett 22. maí.[487] Í þessum bréfum leitast Snæbjörn við að skýra sín mál og deilir hart á Markús Bergsson sýslumann, ekki síst fyrir meðferð hans á jarðeignum ómyndugra barna bréfritans.[488]

Í annálum er hér og þar minnst á handtöku Snæbjörns í Kaupmannahöfn og fangavist hans þar veturinn 1730.[489] Nákomnustu heimildina af því tagi er að finna í annálsdrögum Jóns Ólafssonar frá Grunnavík en þar segir:

 

Snæbjörn Pálsson, sem sigldi fram um haustið 1729, lét stiftamtmaður Gyldenkrone setja í slutteríið (fangelsi) 17. febrúar. Þar var hann til um vorið að hann var látinn fara með Hafnarfjarðarskipi. Um veturinn fékk hann þó uppreisning á máli sínu við prestinn.[490]

 

Jón frá Grunnavík segir þarna að Snæbjörn hafi fengið uppreisning á máli sínu við prestinn og verið sendur heim með Hafnarfjarðarskipi vorið 1730. Eins og vænta mátti er þetta hárrétt hjá Grunnvíkingnum en orðið uppreisning merkir hér að Snæbjörn hafi fengið leyfi til að skjóta Brimarhólmsdómi Markúsar sýslumanns til æðri réttar. Konungsúrskurður þessa efnis frá 1. maí 1730 er enn varðveittur í kansellískjölum og þar má sjá að Friðrik konungur IV veitir Snæbirni heimild til að skjóta dómi Markúsar sýslumanns um sex ára Brimarhólmsvist til yfirdómsins á Íslandi[491] þar sem amtmaður sat í forsæti. Í úrskurðinum var þó tekið fram að heimildin væri veitt með því skilyrði að Snæbjörn léti séra Bjarna á Mýrum í té nægilegar tryggingar fyrir því að hann yrði ekki fyrir fjárhagslegum skaða af málarekstrinum ef Snæbjörn tapaði málinu.[492]

Í bréfi sem kóngur sendir Gyldencrone stiftamtmanni með úrskurði þessum mælir hann svo fyrir að Snæbjörn, sem nú sitji í Arresthúsi borgarinnar, skuli fluttur til Íslands við fyrsta tækifæri svo honum gefist kostur á að standa þar fyrir máli sínu.[493] Orð konungs í þessu bréfi verður þó að skilja svo, að starfsmönnum réttvísinnar á Íslandi sé ætlað að halda Snæbirni í hæfilegri gæslu (vedbörlig varetægt) uns mál hans hafi verið til lykta leitt.[494]

Þetta konungsbréf um uppreisning Mála-Snæbjörns er sem áður sagði ritað 1. maí 1730 og þann 14. sama mánaðar sendir stiftamtmaður bæjarfógetanum í Kaupmannahöfn fyrirmæli um að flytja Snæbjörn innan fárra daga úr Arresthúsinu og um borð í skip Hafnarfjarðarkaupmanna er brátt muni sigla til Íslands.[495] Ástæða þess að Snæbjörn er sendur með Hafnarfjarðarskipi er vafalítið sú að Niels Fuhrmann, amtmaður á Bessastöðum, átti að taka við honum þegar til Íslands kæmi.[496] Hér var áður minnst á bréfin sem Snæbjörn ritaði stiftamtmanni í maímánuði vorið 1730 en þau eru öll rituð á tímabilinu frá 15. til 22. maí (sjá hér bls. 55) og þar með eftir að bæjarfógetinn fékk tilkynningu um konunglega uppreisning Snæbirni til handa og fyrirmæli um að flytja hann innan skamms um borð í Hafnarfjarðarskipið. Sú staðreynd bendir eindregið til þess að áður en fangelsisyfirvöldum barst vitneskja um konungsbréfið hafi Snæbjörn haft mjög takmarkaðan aðgang að pappír og ritföngum i slutteríinu og um borð í Hafnarfjarðarskip hefur hann farið skömmu eftir að síðasta fangelsisbréf hans var skrifað.

Um miðjan maí 1730 skrifar stiftamtmaður bæði Fuhrmann amtmanni og Jóni Árnasyni biskupi og greinir þeim frá hinni konunglegu uppreisning er Snæbjörn hafi fengið.[497] Jafnframt lætur hann þá vita að Snæbjörn verði nú sendur til Íslands og felur amtmanni að tryggja gæslu fangans uns mál hans hafi verið til lykta leidd.[498] Um heimkomu Snæbjörns sumarið 1730 farast Grunnavíkur-Jóni orð á þessa leið:

 

1730 … Þá hann kom til landsins var hann eftir skikkun amtmanns færður upp á Alþing af Hjaltalín [þ.e. Jóni Oddssyni Hjaltalín, lögréttumani í Reykjavík – innsk. K.Ó] og fjórum öðrum og þar til sagður Markúsi sýslumanni. Á Alþingi vildi Nikulás Magnússon fá arrest yfir honum fyrir slæmt orðbragð en fékk ei. Af Alþingi hljóp Snæbjörn úr arrestinu og vestur til Sæbóls. Síðan fór hann á Þingeyri. Þar tók Markús hann og færði heim til sín. Þar sat hann fastur fram á vetur þar til hann slapp með breytilegum hætti að hann reif vegginn í sundur, lagði hnausana undir brekánið og húfu fyrir ofan sem maður lægi en var í hjalli meðan leitað var. Á veginum burtu skrifaði hann til Ögurs en fór til Sæbóls og þaðan suður að Bessastöðum. Fékk ei að tala við amtmann. Fór síðan vestur til Sæbóls aftur.[499]

 

Þessi frásögn Grunnavíkur-Jóns er mjög lýsandi og sumt af því sem þar er sagt er hægt að fá staðfest í skjölum. Í bréfum sem Snæbjörn skrifaði stiftamtmanni haustið 1730 og bréfum er Markús Bergsson, sýslumaður í Ögri, ritaði sama yfirvaldi á árunum 1731-1734 má sjá að skömmu eftir að Snæbjörn kom heim með Hafnarfjarðarskipi var hann fenginn Markúsi sýslumanni til gæslu og sat næstu árin öðru hverju í varðhaldi í Ögri.[500]

Haustið 1730 skrifar Snæbjörn baróninum sem var stiftamtmaður yfir Íslandi tvö bréf frá Ögri og eru bæði dagsett 21. september. Í öðru bréfinu þakkar hann honum fyrir liðsinni við sig en kvartar yfir því að amtmaður skuli hafa sett hann í varðhald hjá Markúsi í Ögri sem væri fjandmaður sinn.[501] Í sama bréfi greinir Snæbjörn líka frá því að Markús synji honum um afrit af dómum sem hann þó eigi rétt á að fá. Helsta umkvörtunarefni bréfritara er þó það að Fuhrman amtmaður hafi neitað að taka 40 hundraða jörð gilda sem tryggingu til séra Bjarna á Mýrum vegna kostnaðar við fyrirhugaða umfjöllun yfirdóms um hin gömlu kærumál prestsins á hendur sér.[502] Á öðrum stað í skjalasafni stiftamtmanns má sjá að það er vinkona Snæbjörns, Þorkatla ríka á Sæbóli, sem hefur boðið séra Bjarna á Mýrum Dufansdal í Arnarfirði sem tryggingu svo takast mætti að koma rykkilínsmálinu fyrir yfirdóm. Bréf hennar til prestsins um þetta efni er ritað 20. júní 1730, mjög skömmu eftir að Snæbjörn kom til landsins, og fimm dögum síðar lét séra Bjarni í té skriflega yfirlýsingu um að hann samþykkti þetta tilboð.[503] Þann 1. september um haustið dró séra Bjarni þá yfirlýsingu sína hins vegar til baka með þeim rökum að engan veginn sé fullvíst að Þorkatla sé réttur eigandi að jörðinni Dufansdal.[504] Þessi afturköllun séra Bjarna var lesin yfir Snæbirni í Dýrafjarðarkrambúð fáum dögum síðar[505] og af því sem hér hefur áður verið rakið virðist ljóst að hann hafi talið Fuhrmann amtmann eiga sök á henni.

Bréfin sem Snæbjörn ritaði stiftamtmanninum, Gyldencrone barón, frá Ögri 21. september 1730 voru sem áður sagði tvö, annað skrifað á dönsku en hitt á íslensku sem reyndar er dálítið furðulegt. Um efni danska bréfsins hefur þegar verið fjallað en í hinu bréfinu greinir Snæbjörn nokkru nánar frá því sem á daga hans hefur drifið síðustu mánuðina og meðferð Markúsar sýslumanns á sér. Snæbirni segist þarna svo frá að á Alþingi hafi hann verið fenginn í hendur Markúsi og þaðan hafi þeir riðið 24. júlí.[506] Eftir þriggja daga reið komu þeir til Þorsteins Pálssonar, bróður Snæbjörns,[507] en Þorsteinn átti heima í Búðardal á Skarðsströnd við Breiðafjörð og var fáum mánuðum síðar gerður að lögréttumanni.[508] Þorsteinn bauðst til að taka bróður sinn í sína vörslu og ábyrgjast hann og fyrir orð Þorsteins lét Markús fangann lausan og skildi hann eftir í Búðardal.[509] Ekki mun Snæbjörn hafa dvalist lengi í Búðardal því að hans eigin sögn kom Þorsteinn bróðir hans honum fyrir vestur á Sæbóli til bráðabirgða og þangað var hann kominn eigi síðar en í septemberbyrjun.[510] Fréttir af veru Snæbjörns í náðum heima á Sæbóli hafa skjótt borist Markúsi sýslumanni til eyrna og þvílíka storkun gat hann ekki þolað án nýrra aðgerða gegn þessum fífldjarfa og óútreiknanlega þrætumanni.

Þann 5. september fór Snæbjörn ásamt fleira fólki frá Sæbóli í verslunarerindum til Þingeyrar og frá atburðum næsta dags segir hann svo í bréfi sínu til barónsins í Kaupmannahöfn:

 

Þar þann 6. septembris yfirféll mig sýslumaðurinn Markús með valdi, tók mig í arrest, flutti norður yfir Dýrafjörð. Þá ég þar kom vildi ég reisa til míns heimilis, þar að taka nauðsynleg klæði og annað sem ég með þurfti til þessarar arrestsvistar. Þá skikkaði sýslumaðurinn Markús út hest með reiðing, klifbera og reipum, lét síðan setja mig upp á sama hest með aðstoð sinna fylgjara, Guðmundar Gilssonar, Gils Gilssonar, Jóns Gilssonar, Jösts Jónssonar og Eggerts Þórðarsonar, á grúfu, bundið hendur og fætur undir kvið, – látið mig svo hafa klifberatréð undir brjóstini og lét leiða undir mér frá Gemlufalli að Lækjarósi þar heimilisfólkið og þessa breytni sá. Síðan lætur hann með þessu móti færa mig frá Lækjarósi fram á Mýrar og norður á Gemlufallsheiði, þar er ég leystur. Síðan reisir hann með mig að Holti. Þar beiddi ég hann hjálpa mér til að fá blek, penna og pappír til að skrifa eftir því mig nauðsynjar. Það fæ ég ekki. Neyddist ég svo til að skera blað frá Brimarhólmsdómnum og varð að senda blek og penna að fá að skrifa eftir því nauðsynlegasta ég þurfti. Síðan reisti ég hingað með honum og hefi hér verið en engin fataskipti fengið.[511]

 

Síðustu orð bréfsins sýna vel hvílíkur þrifnaðar- og tilhaldsmaður Snæbjörn hefur verið, því ætla má að fáir úr hópi íslenskra fanga á árunum kringum 1730 hafa leyft sér að gera kröfu um fataskipti tvisvar í mánuði eða jafnvel oftar.

Er Snæbjörn kom til Íslands í júní 1730 með konungsbréf upp á vasann hefur hann gert sér vonir um að yfirdómurinn tæki mál sitt til umfjöllunar strax á því sumri og þar yrði Brimarhólmsdómnum hnekkt. Hér fór á annan veg og varð lengi að bíða úrslitanna. Fyrst tafðist málareksturinn er Fuhrman amtmaður og Jón Árnason biskup neituðu að taka gilda þá tryggingu sem fram var boðin[512] eins og hér hefur áður verið minnst á. Fleira bjó þó undir. Samkvæmt konungsbréfinu um uppreisning, er Snæbjörn hafði fengið í hendur úti í Kaupmannahöfn, var honum veitt heimild til að skjóta Brimarhólmsdómi Markúsar sýslumanns beint til yfirdómsins, sem stundum var nefndur amtmannsdómur eða yfirréttur og var hinn æðsti dómstóll í landinu. Eftir landsvenju áttu lögmennirnir hins vegar að taka alla sýslumannsdóma sem áfrýjað var til úrskurðar og dæma í hverju máli áður en kostur gæfist á að skjóta því til yfirréttar en fram hjá þessu höfðu konungur og ráðgjafar hans horft er þeir veittu Snæbirni uppreisning. Full ástæða er til að ætla að lögmönnunum og öðrum sem hér fóru með dómsvald hafi mislíkað að hinn einvaldi konungur skyldi taka fram fyrir hendur þeirra með slíkum hætti í þessu einstaka máli og gefa út tilskipun sem ekki var í samræmi við landsvenju og þær lagareglur sem hér höfðu gilt. Svo virðist reyndar sem menn hafi varla getað trúað þessu því haustið 1730 ritar Fuhrmann amtmaður konungi sérstakt bréf þar sem hann spyrst fyrir um hvort orð konungsbréfsins frá 1. maí þá um vorið eigi virkilega að skilja svo að Snæbjörn megi skjóta dómi sýslumanns beint til yfirréttarins án þess að lögmennirnir hafi áður fengið málið til úrskurðar.[513] Þessari óþörfu fyrirspurn svaraði Henrik Ocksen, sem þá var tekinn við embætti stiftamtmanns, með bréfi dagsettu 17. febrúar 1731 og benti á hin ótvíræðu orð í konungsúrskurðinum frá 1. maí 1730.[514] Til skýringar lætur stiftamtmaðurinn þess jafnframt getið að kóngur muni hafa veitt Snæbirni þessa sérstöku heimild til að skjóta máli sínu beint til yfirréttar með það í huga að þannig mætti halda kostnaði við málareksturinn í hófi.[515]

Í yfirdómnum, sem fjalla átti um mál Snæbjörns, sátu 24 menn er amtmaður skipaði og var hann þar sjálfur í forsæti.[516] Dómstóll þessi starfaði aðeins á þingtímanum í júlímánuði ár hvert en var aldrei kallaður saman þess á milli. Nú hefði mátt ætla að mál Snæbjörns væri tekið til dóms í yfirrétti sumarið 1731 en það var þó ekki gert, enda mun hann enga tryggingu hafa lagt fram eftir að Dufansdal var hafnað.[517] Með konungsúrskurði frá 11. janúar 1732 var gamla skilyrðið um að Snæbjörn léti séra Bjarna í té fullgilda tryggingu gegn hugsanlegu fjárhagstjóni hins vegar strikað út og mælt fyrir um að mál Snæbjörns gengi beint til yfirdóms án nokkurra skilyrða eða fyrirvara.[518]Snæbjörn Pálsson hefur fengið uppreisning án þess að stilla caution en skal aftur í arrest ef hann tapar málinu, – skrifar Jón Ólafsson frá Grunnavík er honum bárust þessar fréttir til eyrna.[519] Svo undarlegt sem það er dugði þetta samt ekki heldur til þess að fá Brimarhólmsdóminn yfir Snæbirni takinn fyrir í yfirrétti. Er hér var komið sögu virðast menn hafa farið að velta því alvarlega fyrir sér hver ætti að greiða allan kostnaðinn ef Snæbjörn vildi, er þar að kæmi, ekki sætta sig við dómsniðurstöður yfirréttar og skyti málinu til hæstaréttar í Kaupmannahöfn.[520] Haustið 1732 sendi Fuhrman amtmaður fyrirspurn um þetta til stiftamtmanns[521] en óvíst er hvort svarið við henni hefur náð honum lifandi því amtmaður þessi andaðist á Bessastöðum 10. júní 1733.[522]

Vorið 1734 kom nýr amtmaður til landsins, að nafni Joachim Henrichsen Laffrentz. Mál Snæbjörns var þá enn óútkljáð og var ekki tekið fyrir í yfirdómi fyrr en sumarið 1735.[523] Þá voru liðin rösklega fimm ár frá því konungur veitti Snæbirni heimild til að skjóta Brimarhólmsdómi Markúsar sýslumanns í rykkilínsmálinu til yfirréttar. Á þessu fimm ára tímabili sat Snæbjörn alltaf öðru hverju í varðhaldi hjá Markúsi sýslumanni í Ögri en náði stundum að strjúka og gekk þá laus um sinn. Í bréfum sínum til stiftamtmanns minnist Markús sýslumaður alloft á þennan erfiða fanga og biður aftur og aftur um að verða leystur undan því að þurfa að hafa hann í haldi.[524]

Hér var áður vitnað í frásögn Grunnavíkur-Jóns af brotthlaupi Snæbjörns frá Ögri er hann reif í sundur vegginn og leyndist í hjalli meðan hans var leitað (sjá hér bls. 57). Jón segir að Snæbjörn hafi þá farið suður að Bessastöðum og reynt að ná tali af amtmanni og telur þá ferð hafa verið farna haustið 1730. Líklegt er þó að þarna skeiki einu ári hjá Jóni því til eru slitrur af bréfi sem Snæbjörn skrifar amtmanni 29. nóvember 1731 og er þá staddur á Görðum í næsta nágrenni við Bessastaði.[525] Í bréfinu fer Snæbjörn fram á að mál hans verði tekið fyrir í yfirdómi á sumri komanda.[526] Þessu kvabbi svarar Fuhrmann með bréfi rituðu á Kóngsgarði næsta dag og tekur vel í málaleitan hins langt að komna strokumanns[527] þó minna yrði úr efndunum.

Í bréfi sem Markús sýslumaður í Ögri ritar stiftamtmanni um miðjan ágúst 1731 segist hann þá þegar hafa haft ærinn kostnað af Snæbirni og kveðst vilja losna við hann sem fyrst.[528] Ári síðar kveðst Markús vera orðinn mjög þreyttur á að stríða við þennan erfiða fanga og í bréfi rituðu 5. ágúst 1733 lætur sýslumaðurinn yfirboðara sinn vita að í varðhaldinu sé Snæbjörn fullur af mótþróa og hafi nú ekki þegið sakramenti á annað ár.[529] Í þessu síðast nefnda bréfi greinir sýslumaðurinn í Ögri einnig frá því að Snæbjörn hafi hvað eftir annað strokið úr varðhaldinu og kveðst vera orðinn bæði þreyttur og leiður á stöðugum eltingaleik við þennan óróamann.[530] Markús sýslumaður fer þess einnig á leit í sama bréfi að stiftamtmaður láti sig vita hvernig hann eigi að fara með Snæbjörn.[531]

Líklega hefur Markúsi sýslumanni í Ögri þótt lítið varið í svarið sem hann fékk frá stiftamtmanni við þessari beiðni en í bréfi sem Ocksen stiftamtmaður ritaði Markúsi vorið 1734 leggur hann áherslu á að Snæbirni verði ekki sleppt úr varðhaldinu fyrr en yfirdómur hafi fellt sinn úrskurð í máli hans.[532]

Sumarið 1734 tók sýslumaður Snæbjörn með sér til Alþingis, enda var með því reiknað að mál hans yrðu nú tekið fyrir í yfirdómi.[533] Er til kom gat þó ekki af því orðið, m.a. vegna þess að láðst hafði að láta prestinn á Mýrum, sem var upphafsmaður þessa rykkilínsmáls, vita um síðasta konungsbréf málinu viðkomandi.[534] Markús Bergsson varð því enn á ný að taka Snæbjörn með sér vestur í Ögur og hefur sú niðurstaða án efa valdið þeim báðum ærnum vonbrigðum. Skömmu eftir heimkomuna ritar Markús sýslumaður enn eitt bréf til stiftamtmanns og kveðst nú alveg biðjast undan því að halda Snæbjörn í varðhaldi ár eftir ár, enda strjúki hann jafnan og snúist til varnar þegar reynt sé að taka hann aftur til fanga.[535] Í þessu kvörtunarbréfi tekur sýslumaður líka fram að ómögulegt sé að fá nokkra menn til að vakta Snæbjörn og hindra að hann strjúki.[536]

Líklega hefur Snæbjörn verið með annan fótinn heima á Sæbóli öll þessi fimm ár sem Markús sýslumaður átti að hafa hann í haldi og ekki þarf að efa að þar hafi jafnan verið tekið vel á móti honum er hann náði að brjótast út og komast alla leið á Ingjaldssand.

Sumarið 1735 var hið gamla rykkilínsmál Snæbjörns loks tekið fyrir í yfirdómi á Alþingi. J.H.Laffrentz amtmaður var þá veikur og kom því í hlut Kristjáns Luxdorf landfógeta að sitja í forsæti dómsins.[537] Margs konar gögn voru lögð fram í réttinum, þar á meðal eitt frá Ormi Daðasyni, hinum forna fjandmanni Snæbjörns, sem beinir til dómendanna þeirri spurningu hvort þessi ólánskroppur [þ.e. Snæbjörn] eigi ei exemplariter að straffast öðrum strákum til viðvörunar.[538]

Dómur var kveðinn upp 18. júlí 1735 og segir Grunnavíkur-Jón frá honum með þessum orðum:

 

Fyrir yfirréttinum … slúttaðist að Snæbjörn Pálsson skyldi betala prestinum Bjarna í tvöfalt fullrétti og málskostnað 30 ríkisdali og standa eina eykt í gapastokknum um messutíma. En sýslumaður, Markús Bergsson, skyldi betala til Snæbjarnar fyrir of harðan Brimarhólmsdóm 20 ríkisdali.[539]

 

Í bréfi sem Markús sýslumaður í Ögri ritar stiftamtmanni 3. ágúst 1735 er greint frá dómsniðurstöðum og þar má sjá að Grunnavíkur-Jón segir rétt frá öllum efnisatriðum dómsins.[540]

Með þessari dómsniðurstöðu landfógeta og meðdómsmanna hans mun flestum hafa fundist Snæbjörn sleppa býsna vel því hvað var það að húka þrjár klukkustundir í gapastokknum á móti sex ára þrælkun í járnum á Brimarhólmi, er verða átti hlutskipti hans samkvæmt sýslumannsdómnum frá 15. september 1729 sem nú var hrundið. Reyndar er ekki ólíklegt að Snæbjörn hafi, þegar allt kom til alls, hagnast á hinni löngu bið sem varð á því að gert yrði út um mál hans og dómurinn hefði orðið harðari ef hann hefði verið kveðinn upp meðan Niels Fuhrmann sat í amtmannssæti. Hinn nýi amtmaður J.H. Laffrentz, sem kom fyrst hingað til lands sumarið 1734, hafði þá með sér tilskipun um breytingar á refsilöggjöfinni sem konungur hafði gefið út 19. febrúar á því ári.[541] Þar var meðal annars tekið fram að ef um væri að ræða sakir sem engin íslensk lagaákvæði næðu yfir bæri að dæma eftir norskum lögum.[542] Vera má að ákvæði þessarar nýju tilskipunar konungs skýri að einhverju leyti muninn á gjörólíkum dómsniðurstöðum Markúsar Bergssonar sýslumanns og Kristjáns Luxdorf landfógeta í rykkilínsmálinu.

Óhætt mun að fullyrða að Mála-Snæbjörn hafi verið einn hinn allra fyrsti Íslendingur sem dæmdur var í gapastokk því í fræðiritum segir að refsing þessi hafi ekki verið tekin upp hér á landi fyrr en með húsagatilskipun Kristjáns konungs VI árið 1746[543], ellefu árum eftir uppkvaðningu dóms yfirréttar í máli Snæbjörns. Með hliðsjón af því má gera ráð fyrir að enginn gapastokkur hafi verið til við kirkjuna á Sæbóli eða þar í grennd árið 1735 og af þeim ástæðum mun séra Bjarni Jónsson á Mýrum (sjá hér bls. 50-51) hafa orðið að bíða þeirrar ánægju um nokkurt skeið að sjá fjandmann sinn á Sæbóli húka í gapastokk við kirkjudyr er önnur sóknarbörn hans gengu til messu. Gapastokkur var annars býsna sérkennilegt refsitæki sem átti fyrst og fremst að knýja menn til betra siðferðis. Skilmerkileg lýsing á stokknum og notkun hans hljóðar svo:

 

Gapastokkur [er] lóðréttur staur með hálshring eða láréttur stokkur með götum fyrir höfuð, hendur eða fætur. Einnig oft hlekkur með hálshring. Gapastokkur var hafður á fjölförnum stöðum í sveitum og þorpum, t.d. við þingstað eða kirkju og afbrotamaður festur í hann til háðungar. Refsing í gapastokk var algeng erlendis á miðöldum.[544]

 

Á Íslandi var gapastokkurinn lagður niður sem refsitæki með tilskipun sem gefin var út árið 1809.[545]

Enda þótt flestir muni hafa talið Snæbjörn sleppa betur en á horfðist er dómur yfirréttarins var kveðinn upp sumarið 1735, þá var bardagahugur þessa margreynda ákafamanns slíkur að hann hóf þegar tilraunir til að skjóta hinum nýja dómsúrskurði til hæstaréttar í Kaupmannahöfn. Markús Bergsson, sýslumaður í Ögri, segir í bréfi rituðu stiftamtmanni 3. ágúst 1735 að hann telji dóminn, sem Snæbjörn fékk hjá amtmanni hálfum mánuði fyrr, mjög vægan en engu að síður hafi hinn dæmdi óróamaður lýst því yfir að hann áfrýjaði til hæstaréttar.[546] J.H. Laffrentz amtmaður skrifar líka stiftamtmanni fáum dögum síðar og segir að Snæbjörn fari fram á gjafsókn til að geta áfrýjað yfirréttardómnum til hæstaréttar í Kaupmannahöfn sér að kostnaðarlausu.[547] Í þessu bréfi lætur amtmaður þess getið að Snæbjörn hafi verið í góðum efnum en sé nú orðinn öreigi.[548]

Um þetta leyti var Snæbjörn ekki aðeins með ráðagerðir um að skjóta rykkilínsmálinu til hæstaréttar, heldur var hann líka að reyna að fá hið gamla kærumál Péturs Arfvidssonar Þingeyrarkaupmanns gegn sér, sem dæmt var í árið 1723 (sjá hér bls. 42-46), tekið upp á ný.[549] Um það ræðir H. Ocksen stiftamtmaður í bréfi er hann ritar konungi í marsmánuði árið 1735. Hann mælir þar gegn því að þetta verði leyft og í bréfi er hann ritar tveimur mánuðum síðar tekur hann fram að Snæbjörn hafi enga heimild fengið til slíkrar málsupptöku.[550]

Svo virðist sem tilraunir Snæbjörns til að koma rykkilínsmálinu fyrir hæstarétt og fá hið gamla meiðyrðamál Lúsa-Péturs á Þingeyri tekið upp á ný hafi engan árangur borið. Í bréfum konungs til stiftamtmannsins yfir Íslandi frá árunum 1736-1742 og bréfum stiftamtmanns til amtmanns frá sömu árum verður hvergi séð að viðleitni Snæbjörns í þeim efnum hafi borið árangur.[551] Jón Ólafsson frá Grunnavík segir að vísu í annálsdrögum sínum, er hann greinir frá atburðum ársins 1736: Snæbjörn hefur öðlast hæstaréttarstefnu að sagt er.[552] Fréttin sú mun þó aðeins hafa byggst á orðrómi sem ekki reyndist eiga stoð í veruleikanum, enda minnist Jón aldrei á Snæbjörn hin næstu ár í árlegum skrifum sínum um helstu tíðindi frá Íslandi og af íslenskum mönnum.[553] Má þó nærri geta hvort Grunnavíkur-Jón hefði þagað ef Snæbjörn hefði náð að komast með mál sitt til hæstaréttar.

Í öðrum gögnum sjáum við að Jón biskup Árnason í Skálholti hefur kvartað yfir því við konung sumarið 1736 að Snæbjörn hefði enn enga refsingu þolað þó að ár væri liðið frá því yfirréttur kvað upp þann úrskurð að setja ætti manninn í gapastokk.[554] Þessu erindi biskups svaraði kóngur vorið 1737 og lét þau boð út ganga til stiftamtmanns að fullnægja bæri dómi yfirréttar frá 18. júlí 1735, nema því aðeins að Snæbjörn vísaði málinu til hæstaréttar með lögmætum hætti.[555]

Fyrir hæstarétt kom rykkilínsmálið aldrei og því má ætla að Snæbjörn hafi verið settur í einhvers konar gapastokk sumarið 1737 eða litlu síðar. Um það er þó ekki vitað með fullri vissu og vel má vera að eitthvað hafi vafist fyrir mönnum að smíða stokkinn því árið 1737 munu fáir Vestfirðingar hafa haft hugmynd um hvernig þetta refsitæki átti að líta út (sjá hér bls. 63). Sé litið á sjálfa dómsniðurstöðuna og hið skýra konungsboð, sem hér var síðast nefnt, verður samt að telja líklegt að hinn gamli og margdæmdi lögkrókamaður á Sæbóli hafi að lokum orðið að dúsa þrjár klukkustundir í einhvers konar stokki við kirkjudyr um messutíma. Líklegast er að þá refsingu hafi Snæbjörn tekið út á síðari hluta ársins 1737 og þá rétt um það leyti sem hann náði sextugsaldri. Málaþvarg hans hafði þá staðið yfir, óslitið að kalla, í nær tvo áratugi og eru þá ekki taldar með minniháttar skærur sem Snæbjörn átti í fyrir þann tíma. Óbugaður kom hann frá vist sinni í slutteríinu í Kaupmannahöfn og lét sig ekki muna um að strjúka hvað eftir annað úr fangavistinni í Ögri. Stundirnar þrjár í gapastokknum hafa því varla gert Snæbjörn að nýjum manni en umtal manna um þessa harkalegu meðferð á karlinum kynni að hafa ráðið mestu um það að sonur hans neitaði 50 árum síðar að greiða nokkurn skilding upp í kostnað við smíði þriggja gapastokka sem þá voru settir upp í Þingeyrarhreppi þar sem hann var búsettur (sjá hér Brekka í Þingeyrarhreppi).

Ýmislegt bendir til þess að um sextugsaldur hafi Snæbjörn tekið að mæðast, enda hafði hann lagt mikla orku í allt sitt málastapp, sem segja má að staðið hafi linnulaust í nær tuttugu ár. Svo virðist reyndar sem kaflaskil hafi orðið í lífi hans árið 1737 því eftir það kemur hann mjög sjaldan við sögu í bréfum þeirra sem háum embættum gegndu. Þó var enn langt í endalokin hjá karli.

Öll árin sem Snæbjörn átti í sínum hörðustu lagaþrætum og málaþvargi var hann heimilismaður Þorkötlu á Sæbóli, enda kom hún stundum allmjög við sögu í þessum sviptingum (sjá hér bls. 44, 45, 50, 52 og 57). Er Snæbjörn kom að Sæbóli á árunum upp úr 1720 var Þorkatla komin yfir sextugt og þar sem hún var barnlaus en átti verulegar eignir hafa menn brátt farið að velta fyrir sér væntanlegum arfi og því hvað um hann yrði. Ljóst er að Þorkatla hefur snemma tekið þá stefnu að Snæbjörn og synir hans ættu að erfa Sæból[556] en Ormur Daðason sýslumaður, sem var einn harðasti andstæðingur Snæbjörns, náði að rugla spilunum. Sjálfur var hann, samkvæmt samningi sem staðfestur hafði verið árið 1709 (sjá hér bls. 41), eins konar fjárhaldsmaður og einkaerfingi Þuríðar Sæmundsdóttur frá Sæbóli, mágkonu Þorkötlu, og hefur að líkindum látið sig Sæbólsmál meiru varða en ella af þeim ástæðum.

Er Snæbjörn sat í varðhaldi sumarið 1723 náði Ormur að knýja Þorkötlu til að ánafna sér Sæból gegn því að hann léti málssókn á hendur Snæbirni niður falla (sjá hér bls. 44-45). Sumarið 1731 tilkynnti Ormur á Alþingi með formlegum hætti að hann vefengdi rétt Þorkötlu til að arfleiða Snæbjörn og syni hans að Sæbóli þar jörðin sé sér svo vel eftir dómi sem kaupi … tilheyrandi.[557] Í þessum efnum vísaði Ormur líka í tvö konungsbréf og lagaákvæði um óðalsrétt.[558] Með ábendingu sinni um óðalsréttinn virðist Ormur vefengja lögmæti samnings þess sem Þorkatla og eiginmaður hennar, Eggert Sæmundsson, gerðu á sínum tíma um að það þeirra sem lengur lifði skyldi erfa allar eignir hins (sjá hér bls. 31). Með slíkum samningi hefur Ormur talið rétt vera brotinn á systrum Eggerts, Sesselju og Þuríði, sem var skjólstæðingur hans.

Sumarið 1733 lét Snæbjörn kynna á Alþingi erfðaskrá Þorkötlu á Sæbóli og var plaggið dagsett 17. maí 1731.[559] Þar lýsti hún því yfir að börn Snæbjörns ættu að erfa allar hennar eignir, þar á meðal Sæból, því Ormur hefði ekki staðið við gerða samninga.[560] Þessa erfðaskrá sagði Snæbjörn vera staðfesta af konungi en Ormur mótmælti þegar og kvaðst sjálfur vera fjárráðamaður Þorkötlu.[561] Hann tók líka fram að synir Snæbjörns hefðu þá þegar gert umrædda erfðaskrá ómerka og bauðst til að leggja fram skjöl því til sönnunar.[562] Með þessum síðustu orðum mun Ormur hafa vísað til þess að tveir synir Snæbjörns, Markús og Hákon, höfðu 1. ágúst 1732 undirritað plagg þar sem út frá því var gengið að Ormur myndi erfa Sæból.[563] Á móti hafði hann skuldbundið sig til að selja þeim jörðina að Þorkötlu látinni og látið þá borga sér 30 ríkisdali upp í væntanlegt kaupverð.[564] Er Snæbjörnssynir sömdu við Orm með þessum hætti, líklega á bak við föður sinn, voru þeir kornungir menn, Markús 24 ára og hafði setið tvo vetur í Skálholtsskóla en Hákon 21 árs og var að byrja skólanám í Skálholti.[565]

Um þessi þrætumál verður ekki orðlengt frekar hér en þegar Þorkatla andaðist loks árið 1739 reyndist Ormur sýslumaður vera sá sem eignaðist Sæból. Magnús, sem var elsti sonur Mála-Snæbjörns, var þá orðinn prestur á Söndum og nú tefldi Snæbjörn honum fram til að semja við fulltrúa Orms sýslumanns um öll þeirra deilumál.[566] Fulltrúi Orms í þeim samningum var Ólafur Jónsson, lögréttumaður og lögsagnari á Eyri við Seyðisfjörð[567], sem hér var áður nefndur til sögu (sjá bls. 41-42 og 46). Niðurstaða samninganna varð sú að Ormur seldi Snæbirni Sæból fyrir 480 ríkisdali í spesíumynt en auk þess héldi seljandinn þeim 30 ríkisdölum sem Markús Snæbjörnsson hafði greitt honum nokkrum árum fyrr vegna fyrirhugaðra kaupa á Sæbóli og hér var áður frá sagt. Þessum kaupsamningi, sem gerður var af séra Magnúsi Snæbjörnssyni á Söndum og Ólafi lögsagnara á Eyri, var þinglýst á Alþingi sumarið 1741[568] en svo virðist sem yngri synir Snæbjörns, þeir Markús og Hákon, hafi ekki verið hafðir með í ráðum við gerð hans og samningur þeirra við Orm frá árinu 1732 því að engu hafður. Árið 1741 var Markús Snæbjörnsson orðinn prestur á Þingvöllum við Öxará. Hann brást hart við er hann heyrði tíðindin um sölu Sæbóls og höfðaði mál á hendur Ormi fyrir kauprof.[569] Dæmt var í málinu á Alþingi sumarið 1742 og varð dómsniðurstaðan sú að Ormi væri skylt að selja séra Markúsi Sæból eða aðra jörð jafn góða en greiða honum ella til baka, með 5% ársvöxtum, þá 30 ríkisdali sem séra Markús hafði borgað átta árum fyrr til að tryggja sér forkaupsrétt að Sæbóli.[570] Auk þess var Ormur dæmdur til að greiða séra Markúsi nokkrar skaðabætur, ef hann treysti sér ekki til að standa við hinn tíu ára gamla samning um rétt Þingvallaprestsins til kaupa á höfuðbólinu á Ingjaldssandi og einnig var honum gert að greiða verulegar fjárhæðir í málskostnað.[571] Í varðveittum heimildum verður þó hvergi séð að séra Markús hafi eignast Sæból svo telja verður víst að kaupin á jörðinni, sem Magnús bróðir hans gekk frá fyrir hönd föður þeirra árið 1741, hafi fengið að standa. Með hliðsjón af dómnum sem hér var síðast nefndur sýnist aftur á móti líklegt að Ormur hafi orðið að greiða séra Markúsi skaðabætur fyrir samningsrof. Svo mikið er víst að árið 1762 var það séra Magnús Snæbjörnsson á Söndum sem átti Sæból en ekki Markús bróðir hans[572] og hefur hann þá fengið jörðina frá föður sínum sem orðinn var hálfníræður. Séra Magnús átti þó ekki alla jörðina árið 1762 því einhver partur af henni var þá kominn í eigu Sæmundar Sigmundssonar.[573] Eignamaður með því nafni bjó þá í Hrauni í Keldudal (sjá hér Hraun og Gemlufall) og má telja mjög líklegt að það sé hann sem átti Sæból á móti séra Magnúsi.

Er Mála-Snæbjörn keypti Sæból af Ormi Daðasyni sýslumanni árið 1741 var kaupverðið 510 ríkisdalir og átti að greiðast upp á fjórum árum.[574] Til tryggingar greiðslu eftirstöðva af kaupverðinu setti Snæbjörn að veði níu jarðir og jarðarparta í Dýrafirði, samtals 65 hundruð að dýrleika.[575] Allar þessar sömu jarðeignir voru enn í eigu Snæbjörns rösklega tveimur ártugum síðar[576] og sýnir það hversu vel hann hefur haldið velli fjárhagslega.

Verðið sem Snæbjörn gaf fyrir Sæból árið 1741 er í allra hæsta lagi eða 8 ríkisdalir og 48 skildingar fyrir hvert jarðarhundrað. Sé litið á tuttugu aðra kaupsamninga sem einnig var þinglýst á Alþingi sumarið 1741 kemur í ljós að í þeim viðskiptum sem þar koma við sögu var meðalverð á hverju hundraði í jörð hins vegar ekki nema um það bil 5 ríkisdalir.[577] Þrjár skýringar eru hugsanlegar á þessu háa verði við kaupin á Sæbóli. Hin fyrsta þeirra er sú að hið opinbera mat á Sæbóli, 60 hundruð, hafi í raun verið of lágt því markaðsverð á jörðinni hafi einfaldlega verið hærra. Önnur hugsanleg skýring er sú að Snæbjörn hafi lagt þvílíkt kapp á að eignast Sæból að hann hafi látið sig hafa að kaupa jörðina á yfirverði. Þriðja skýringin sem hægt væri að hugsa sér er svo að við jarðarkaupin árið 1741 hafi Ormur gefið Snæbirni eftir þá 120 ríkisdali sem Snæbjörn átti að greiða honum í bætur samkvæmt lögmannsdómi frá árinu 1727 (sjá hér bls. 49). Á móti slíkri eftirgjöf kynni hann að hafa fengið hærra verð fyrir jörðina en ella.

Á þessum blöðum hefur áður verið nefnt að þegar Snæbjörn komst á sjötugsaldur, árið 1737, hafi langvarandi málaþvarg hans fyrir dómstólum landsins verið um garð gengið að mestu eða öllu leyti. Einhverjar smáerjur kynni hann þó að hafa átt við Markús son sinn út af kaupunum á Sæbóli árið 1741 en svo virðist reyndar sem þeir feðgar hafi báðir getað unað vel við niðurstöðuna en Ormur sýslumaður verið sá sem halloka fór í þeirri þrætu. Vera má að í raun hafi feðgarnir haft með sér samráð í þessari síðustu deilu við Orm Daðason þó að skjölin sýni það ekki.

Mála-Snæbjörn varð háaldraður maður og náði því að verða níræður. Frá síðasta aldarfjórðungnum sem hann lifði fara hins vegar af honum fáar sögur og má því ætla að upp úr sextugu hafi þessi mikli ákafamaður, sem sjaldan kaus frið ef ófriður var í boði, tekið að spekjast. Hann hafði þá komist frá sínum erfiðustu málum án þess að tapa öllum eignum og með æruna nokkurn veginn í lagi. Það mátti heita gott eins og útlitið stundum var þegar harðast var tekist á.

Jón Espólín nefnir Snæbjörn Pálsson er hann telur upp hina heldri menn á Vestfjörðum og víðar sem verið hafi árið 1731.[578] Espólín tekur fram að þessi gamli þrætumeistari hafi aldrei orðið felldur til fulls og lætur þess getið að hann sé nú kallaður Mála-Snæbjörn.[579]

Áður en skilist verður við Snæbjörn Pálsson er rétt að skoða hvernig efnahagur hans var á efri árum og hyggja að því litla sem vitað er um ævidaga karlsins eftir 1741.

Á árunum 1720-1735 var Snæbjörn hvað eftir annað dæmdur til að greiða háar fjárhæðir í sektir, málskostnað og miskabætur og árið 1728 dæmdi yfirrétturinn hann í búslóðarstraff (sjá hér bls. 49-50), sem þýddi að allar eignir hins sakfellda skyldu seldar og andvirðið lagt í fjárhirslu konungs. Í bréfi sem J.H. Laffrentz amtmaður ritaði sumarið 1735 tekur hann líka fram að Snæbjörn sé orðinn öreigi þó áður hafi hann verið allvel efnaður (sjá hér bls. 63). Engu að síður virðist Snæbirni hafa tekist að leika á kerfið og skjóta drjúgum hluta eignanna undan. Aðferð hans til þess mun einkum hafa verið sú að koma hinum ýmsu jarðeignum yfir á nafn barna sinna eða selja þær að nafninu til vinkonu sinni, Þorkötlu á Sæbóli, áður en til þess kom að þær yrðu gerðar upptækar (sjá hér bls. 50). Um þetta er þó margt á huldu. Hitt liggur fyrir að þrátt fyrir búslóðarstraffið og annað sem Snæbjörn var dæmdur til að greiða þá var hann enn býsna vel efnum búinn á sínum efri árum eins og brátt verður sýnt fram á. Synir hans þrír af fyrra hjónabandi voru þá líka allir í góðum efnum enda má ætla að þeir, ásamt systur sinni, hafi erft flestar eða allar þær eignir sem Þorkatla ríka átti eftir þegar hún dó (sjá hér bls. 35).

Í manntalinu sem tekið var árið 1762 má sjá hvaða jarðeignir voru þá í eigu Mála-Snæbjörns og sona hans. Við undirbúning þessa rits hefur verið athugað hvaða jarðir og jarðaparta þeir feðgar áttu þá í Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu. Sú könnun leiddi í ljós að Snæbjörn átti þá fjórar jarðir og auk þess átti hann part í níu jörðum.[580] Þessar jarðeignir hans voru allar í Ísafjarðarsýslu en í Barðastrandarsýslu virðist hann enga jörð eða jarðarpart hafa átt.[581] Engin könnun hefur verið gerð á því hvort Snæbjörn eða synir hans áttu einhverjar jarðeignir utan þessara tveggja sýslna árið 1762 en ólíklegt verður að telja að þar hafi verið um miklar eignir að ræða. Jarðirnar fjórar sem Snæbjörn átti einn voru Hof, Kjaransstaðir og Fjallaskagi í Dýrafirði og Álfadalur á Ingjaldssandi.[582] Samtals voru þessar jarðir 66 hundruð að dýrleika.[583] Dýrleiki þeirra níu jarða sem Snæbjörn átti part í var aftur á móti 267 hundruð.[584] Því miður liggur ekki fyrir hversu mörg hundruð Snæbjörn átti í þessum jörðum en sé t.d. gert ráð fyrir að eignarhlutur hans hafi að jafnaði numið þriðjungi bætast 92 jarðarhundruð við þau 66 sem áður voru nefnd og ætti heildareignin þá að hafa verið 158 hundruð. Mjög líklegt verður að telja að dýrleiki jarðeigna Snæbjörns árið 1762 hafi ekki verið langt undir þeirri tölu eða sem svarar hálfu þriðja höfuðbóli og kynni reyndar að hafa verið talsvert meiri. Athygli vekur að af þrettán jörðum sem Snæbjörn átti að einhverju eða öllu leyti árið 1762 höfðu fimm verið að hluta eða sem heild í eigu föður hans hálfri öld fyrr en tvær jarðir og einn jarðarpartur, sem Snæbjörn átti, höfðu þá verið í eigu Þorkötlu á Sæbóli og eiginmanns hennar, Eggerts Sæmundssonar.[585] Slíkt samhengi bendir mjög eindregið til þess að Snæbjörn hafi í raun aldrei tapað öllum sínum eignum en náð að skjóta þeim undan með klækjabrögðum.

Hinir þrír synir Snæbjörns af fyrra hjónabandi, Magnús, Markús og Hákon, sem allir voru prestar, áttu líka verulegar jarðeignir árið 1762. Saman eða sitt í hvoru lagi áttu þeir sjö jarðir í Ísafjarðarsýslu og eina í Barðastrandarsýslu en auk þessa parta í fjórum jörðum í þessum sömu sýslum.[586] Þær átta jarðir sem Snæbjörnssynir áttu að öllu leyti voru metnar á 210 hundruð[587] en eignarhlutir þeirra í jörðunum fjórum sem þeir áttu part í er óviss. Þær jarðir voru virtar á 176 hundruð samanlagt og sé ráð fyrir því gert að bræðurnir hafi að jafnaði átt þriðja hvert hundrað í þessum jörðum verður heildareign þeirra um 270 jarðarhundruð eða 90 hundruð á hvern þeirra.[588] Minna hefur það tæplega verið og athygli vekur að fimm af átta jörðum sem bræðurnir áttu alveg árið 1762 voru hálfri öld fyrr í eigu foreldra þeirra eða föðurafa, Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi.[589] Allt sýnir þetta hversu fast Snæbjörn og hans lið hefur náð að halda utan um eignirnar þó stundum horfði óvænlega og í tvísýnu væri teflt.

 

Öngra mála Snæbjörns finnst síðan getið svo vér vitum, segir Gísli Konráðsson er hann hefur greint frá kaupunum á Sæbóli árið 1741.[590] Þau orð standa enn í fullu gildi.

Um kvennamál Snæbjörns fyrstu áratugina eftir konumissinn 1712 er fátt vitað. Til Þorkötlu ríku á Sæbóli kom hann hálffimmtugur þegar hún var liðlega sextug en getgátur um nánari tengsl þeirra á milli en sjáanleg eru í skjölum er ekki hægt að rökstyðja. Athyglisvert er þó að hann virðist aldrei taka saman við aðra konu þau sautján eða átján ár sem hann bjó hjá Þorkötlu. Að gömlu höfðingsmatrónunni á Sæbóli andaðri kom Snæbjörn sér hins vegar fljótlega upp kvenmanni og var það Ástríður Sigurðardóttir sem talið er að hafi verið bóndadóttir af Ingjaldssandi.[591] Varð hún síðari eiginkona Snæbjörns. Ekki er vitað með vissu hvenær þau giftust en elsta barn þeirra sem upp komst hét Torfi[592] og hann er sagður 54 ára gamall í manntalinu sem tekið var 1. febrúar 1801.[593] Hann ætti því að vera fæddur 1746 eða 1747 og skeikar þar varla mjög miklu. Snæbjörn hefur því verið kominn um sjötugt er Torfi sonur hans fæddist og líklegast að hann hafi gifst Ástríði um svipað leyti eða fáum árum fyrr. Um aldur Ástríðar er ekki vitað með vissu en hún hefur verið a.m.k. 26 árum yngri en Snæbjörn því enn var hún ekki fædd þegar manntal var tekið árið 1703.[594]

Síðustu árin sem Snæbjörn lifði átti hann heima á Álfadal, næsta bæ við Sæból, og þangað er hann kominn árið 1753.[595] Ekki er alveg ljóst hvaða ár Snæbjörn fluttist frá Sæbóli en ætla verður að hann hafi a.m.k. ekki farið þaðan meðan Þorkatla lifði en hún andaðist 1739 eins og áður hefur verið nefnt. Líklegt er reyndar að Snæbjörn hafi búið á Sæbóli í nokkur ár eftir að hann eignaðist jörðina árið 1741 en kynni að hafa fært sig að Álfadal um sjötugsaldur skömmu fyrir 1750.

Ein kvennanna á Sæbóli síðasta árið sem Þorkatla lifði hét Guðfinna Þorláksdóttir og hefur að líkindum verið vinnukona þar á bænum. Í byrjun árs 1739 bar hún barn undir belti. Sunnudagskvöldið fyrsta í níuviknaföstu varð hún léttari og ól barnið í skálanum á Sæbóli öðrum mönnum óvitandi.[596] Barnsfæðingu þessari reyndi hún að leyna og játaði fyrir rétti á Mýrum 22. apríl þá um vorið að hún hefði troðið nýfæddu barninu milli þils og veggjar fyrir ofan sitt rúm og síðan það sama lagt í kistu sína þar sem barnslíkaminn hafði fundist.[597]

Við réttarhaldið á Mýrum dæmdi Markús Bergsson sýslumaður Guðfinnu seka um barnsmorð, enda þótt hún fullyrti jafnan að barnið hefði fæðst andvana.[598] Dómsniðurstaða Markúsar var sú að þessi Sæbólskona ætti að hálshöggvast en þegar komið var með hana til Alþingis sumarið 1740 komst Hans Becker lögmaður að þeirri niðurstöðu að henni bæri að drekkja og endaði Guðfinna líf sitt í Drekkingarhyl á Þingvöllum áður en þingi lauk.[599]

Í Alþingisbókunum verður ekki séð að Guðfinna hafi nokkru sinni verið spurð um föður að barni sínu og við skulum vona að Snæbjörn hafi þar hvergi nærri komið.

Eins og áður hefur verið nefnt var Snæbjörn kominn að Álfadal árið 1753 og bjó þar þá í tvíbýli. Árið 1762 var hann líka á Álfadal, sagður 86 ára gamall.[600] Hann stóð þar enn fyrir búi en auk hans bjuggu þá tveir aðrir ábúendur á þessari 36 hundraða jörð[601] svo ekki hefur búið verið mjög stórt hjá öldungnum. Snæbjörn átti þá allan Álfadal og líka einhver hundruð í jörðinni Hrauni á Ingjaldssandi.[602] Sæból var þá hins vegar komið í eigu Magnúsar sonar hans og annars manns (sjá hér bls. 67).

Enn voru tíu manns í heimili hjá gamla Mála-Snæbirni árið 1762.[603] Ástríður seinni kona hans hefur þá að líkindum verið dáin því ekki verður annað séð í manntalinu en húsfreyjusætið standi autt. Þrír vinnumenn, tvær vinnukonur og eitt gamalmenni voru á heimili Snæbjörns árið 1762 og þar voru þá líka þrír unglingar, sextán ára piltur og tvær stúlkur, önnur fimmtán ára en hin fjórtán.[604] Um nöfn heimilisfólksins hjá Snæbirni er ekki getið í þessu manntali en mjög líklegt er að unglingarnir þrír séu börn gamla mannsins og Ástríðar, seinni konu hans. Eins og áður var getið er pilturinn sagður 16 ára gamall og ætti þá að hafa verið fæddur 1746 sem passar alveg við aldur Torfa Snæbjörnssonar í manntalinu frá 1. febrúar 1801 en þar er hann sagður 54 ára gamall.[605] Frá þessum yngsta syni Mála-Snæbjörns er sagt lítillega á öðrum stað í þessu riti og skal til þess vísað (sjá hér Kirkjuból í Dýrafirði).

Í manntalinu frá 1762 eru stúlkurnar tvær á heimili Snæbjörns á Álfadal sagðar vera fjórtán og fimmtán ára gamlar. Í Íslenskum æviskrám er þess ekki getið að Snæbjörn hafi eignast dætur með seinni konunni[606] en Óskar Einarsson læknir, sem á sínum tíma ritaði margt um Önundarfjörð og mannlífið þar, fullyrðir að þau Snæbjörn og Ástríður hafa eignast tvær dætur, Kristínu og Gróu.[607] Heimild sína fyrir þessu nefnir Óskar ekki en í manntölum og sóknarmannatölum frá fyrri hluta 19. aldar bregður oft fyrir nafni Kristínar Snæbjörnsdóttur, sem fædd var 1747 eða því sem næst, og passar aldur hennar alveg við það sem segir um aldur annarrar unglingsstúlkunnar á heimili Snæbjörns árið 1762. Fleiri stoðum má renna undir þá kenningu að Kristín þessi hafi verið dóttir Mála-Snæbjörns og skal nú bent á þær helstu.

Í manntalinu frá 1. febrúar 1801 er Kristín Snæbjörnsdóttir vinnukona í Holti í Önundarfirði hjá séra Jóni Ásgeirssyni og Þorkötlu Magnúsdóttur, og er þá sögð 54 ára gömul. Á sóknarmannatali frá febrúarmánuði árið 1811 má sjá að hún er þá enn í Holti, sögð 63ja ára og tekið fram að hún sé spök í dagfari og skyld húsmóður sinni[608], Þorkötlu Magnúsdóttur, en Þorkatla, sem þá var orðin ekkja, var sonardóttir Mála-Snæbjörns. Kristín þessi dvaldist síðan lengi hjá séra Ásgeiri Jónssyni, syni Þorkötlu, og með honum kemur hún frá Brjánslæk að Holti árið 1822, sögð 74 ára gömul og lifa á fé sínu.[609] Skyldleikinn við séra Ásgeir og Þorkötlu móður hans og það að hún lifir í ellinni á sínu eigin fé bendir, ásamt fæðingarárinu, eindregið til þess að umrædd Kristín hafi verið dóttir Mála-Snæbjörns. Kristín Snæbjörnsdóttir andaðist 16. september 1825. Er Ásgeir prófastur, frændi hennar, skráir andlátið í prestsþjónustubókina segir hann hana hafa verið 78 ára veislukellingu í Holti er hún dó − og bætir við að hún hafi aldrei gifst en eignast barn.[610]

Mála-Snæbjörn mun hafa átt heima á Álfadal til æviloka. Hann andaðist 31.12. 1767 og var þá 92ja ára að aldri ef marka má orð sonar hans, Hákonar, er hann ritaði í minnisbók sína frá því ári.[611]

Í Vatnsfjarðarannál yngsta er fréttin af andláti hans sögð með þessum orðum: Dó monsjör Snæbjörn Pálsson, ættgöfugur og nafnkenndur maður á Vestfjörðum.[612] Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal greinir líka frá andláti Snæbjörns í sínum annál og segir:

 

Deyði Snæbjörn Pálsson, vel níræður maður, nafnkunnugur í Alþingisbókum vegna processa sinna forðum. Átti eftir fyrri konu sína 3 presta fyrir syni, síra Magnús prófast, síra Markús og síra Hákon sem þá hafði séð sín barnabörn því síra Jón Eggertsson í Holti var nú búinn að eiga 2 börn við Gunnhildi Hákonardóttur, konu sinni. Þau voru barnabarnabörn Snæbjarnar.[613]

 

Gunnhildur prestsfrú í Holti, sem séra Björn minnist þarna á, var ein þeirra sonardætra sem Snæbjörn gat glatt sig við að hugsa um á sínum efstu árum. Önnur var Þorkatla, einkabarn séra Magnúsar, sonar hans á Söndum. Hún var orðin 27 ára er afi hennar andaðist ef marka má aldur hennar í manntalinu frá 1801.[614] Þorkatla hefur því eflaust heilsað upp á gamla harðjaxlinn á Álfadal, einu sinni eða oftar, og aldrei gleymt honum. Þessi sama Þorkatla Magnúsdóttir, sem hér hefur áður verið nefnd, giftist séra Jóni Ásgeirssyni er síðast var prestur í Holti í Önundarfirði og andaðist sumarið 1810.[615] Sjálf lifði hún þremur árum lengur og dó árið 1813[616] um það bil 73ja ára gömul. Er Þorkatla andaðist virðist hún ekki hafa átt heima í Holtsprestakalli og ekki heldur hjá Ásgeiri syni sínum á Sæbóli á Ingjaldssandi eða Helgu dóttur sinni á Hóli í Bolungavík.[617] Auk Helgu og Ásgeirs, sem hér voru nefnd, átti Þorkatla Magnúsdótir aðeins eitt barn sem upp komst en það var Þórdís Jónsdóttir prestsfrú á Rafnseyri. Engin sóknarmannatöl eða prestsþjónustubækur eru til úr Rafnseyrar-prestakalli frá árunum 1810-1813 en með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má telja mjög líklegt að Þorkatla hafi flust að Rafnseyri vorið 1811 og dáið þar hjá Þórdísi dóttur sinni. Þessi sonardóttir Mála-Snæbjörns hefur því að öllum líkindum náð að sjá þá báða, karlinn afa sinn og dóttursoninn sem fæddist á Rafnseyri 17. júní 1811, − Jón Sigurðsson er menn nefndu síðar forseta. Vera má að í andliti drengsins í vöggunni hafi amman séð bregða fyrir svip frá afa sínum, þeim gamla á Sæbóli, sem enn var mörgum minnisstæður þó legið hefði í gröf sinni í 44 ár. Niðjatal Mála-Snæbjörns gæti reyndar verið merkilegt til skoðunar en verður ekki í boði hér. Þess skal þó getið að Páll Hákonarson, sonarsonur Snæbjörns, bjó á Álfadal um aldamótin 1800 og einhverjir niðjar hans áttu jafnan heima á Ingjaldssandi alla nítjándu öldina og lengur.[618]

Á búskaparárum Þorkötlu ríku á Sæbóli mun hún yfirleitt hafa búið á allri heimajörðinni, það er 30 hundruðum, en verið með leiguliða í hjáleigunum þremur er jörðinni fylgdu, Efrihúsum, Neðrihúsum og Króki.[619] Þannig hefur þetta að líkindum einnig verið árin sem Snæbjörn bjó á Sæbóli en er hann fluttist að Álfadal fengu leiguliðar ábúð á heimajörðinni og þá fjölgaði býlunum á Sæbóli úr fjórum í sex[620] en stundum voru þau þó bara fimm.[621]

Um leiguliða og hjáleigubændur á Sæbóli á síðari hluta 18. aldar er nú fátt kunnugt þó nöfn margra þeirra liggi reyndar fyrir.

Annar tveggja bænda á heimajörðinni á Sæbóli árið 1762 hét Jón Ívarsson[622] og bjó hann þar áfram allt til dauðadags árið 1794.[623] Dóttir hans Guðný giftist Jóni Halldórssyni frá Brekku á Ingjaldssandi og bjuggu þau um skeið á Sæbóli[624] en voru komin að Meðaldal í Þingeyrarhreppi árið 1801[625] þar sem Jón var lengi hreppstjóri og er margt niðja frá þeim komið. Á búskaparárum Jóns Ívarssonar á Sæbóli, nánar tiltekið 6. eða 7. júní 1779, strandaði hollensk dugga á skeri fram undan bænum og brotnaði í mörg stykki.[626] Nafn duggunnar er ritað De jonge Geertray í Alþingisbókinni og merkir líklega Hin unga Geirþrúður. Ekki er þess getið hvort hinir hollensku sjómenn hafi bjargast en allt strandgóssið tók Jón Arnórsson, sýslumaður í Reykjarfirði við Djúp, í sína vörslu og auglýsti bæði á Alþingi og í blöðum eða tímaritum í Kaupmannahöfn og Altona að réttir eigendur skyldu gera vart við sig hjá saltverkinu sem þá var starfrækt í Reykjanesi við Djúp.[627] Ekki sýnist nú líklegt að margir hafi skilað sér þangað út á þessar auglýsingar.

Strand hollensku duggunnar sumarið 1779 minnir á samskipti Sandmanna við erlenda sjómenn á liðnum öldum en ætla má að þau hafi verið veruleg þó engar ótvíræðar heimildir hafi varðveist um launverslun þeirra við hollenska eða franska fiskimenn. Frakkar voru þó með vissu farnir að sýna sig á Sæbóli fyrir 1700 því árið 1693 var lýst í lögréttu á Alþingi tunnustafa rusli í knippum á Sæbóli sem franskir menn höfðu lagt þar á land á fyrirfarandi árum.[628]

Á árunum 1811-1816 bjó séra Ásgeir Jónsson á Sæbóli en hann var þá brauðlaus prestur. Séra Ásgeir, sem var fæddur árið 1779, var móðurbróðir Jóns Sigurðssonar forseta. Hann var lengst prestur í Holti í Önundarfirði og verður nánar frá honum sagt er þangað kemur (sjá hér Holt). Árin sem Ásgeir bjó á Sæbóli var hann prófastur í Vestur-Ísafjarðarprófastsdæmi án þess þó að þjóna á þeim árum nokkru prestakalli[629] en slíkt mun vera harla fátítt.

Hér hefur áður verið minnst á mannskaðann mikla sem varð í Önundarfirði 6. maí 1812 er um það bil 50 menn þaðan úr firðinum drukknuðu. Tólf bátar reru til fiskjar úr Önundarfirði þennan dag, þar af fjórir frá Sæbóli.[630] Formenn á þessum fjórum bátum Sandmanna voru: Ásgeir Jónsson prófastur, Sæbóli, Guðmundur Hákonarson, Brekku, Guðmundur Sigurðsson, Hálsi, og Jón Sigmundsson, Álfadal.[631] Aðeins einn þessara báta náði landi og var það sá sem Ásgeir prófastur stýrði en hinir þrír fórust allir í hafi og með þeim fimmtán heimamenn á Ingjaldssandi.[632] Fjórir menn af norðurströnd Dýrafjarðar hlutu vota gröf árið 1812.[633] Um einn þeirra er vitað að hann var á báti frá Sæbóli og drukknaði 6. maí.[634] Líklegt er að hinir þrír hafi einnig verið á bátum Sandmanna og drukknað þennan sama dag því nöfn þeirra allra mynda óslitna röð í prestsþjónustubókinni.[635] Sandmenn sem fórust 6. maí 1812 voru þessir:

 

Frá Sæbóli:         Tómas Eiríksson vinnumaður, 29 ára

Jón Jónsson vinnumaður, 32 ára

Nikulás Einarsson vinnumaður, 22 ára

 

Frá Álfadal:        Jón Sigmundsson bóndi, 56 ára, formaður

Jón Jónsson bóndasonur, 24 ára

Þorgrímur Lífgjarnsson bóndi, 26 ára

 

Frá Hrauni:         Jón Jónsson, 37 ára

Jón Jónsson, 28 ára

Nikulás Jónsson, 21 árs

 

Frá Hálsi:            Guðmundur Sigurðsson bóndi, 47 ára, formaður

Gils Guðmundsson, 17 ára

 

Frá Brekku:        Guðmundur Hákonarson bóndi, 44 ára, formaður

Jón Jónsson vinnumaður, 21 árs

Ólafur Ólafsson vinnumaður, 26 ára

 

Frá Villingadal:  Jón Jónsson bóndi, 42 ára.[636]

 

Skráin sýnir að enginn bæjanna sex á Ingjaldssandi slapp við manntjón í þessu grimmdarveðri. Dýrfirðingarnir sem fórust þennan dag voru: Jón Sigmundsson, bóndi á Rana, 55 ára, Sigmundur Jónsson, bóndasonur á Rana, 28 ára, Pétur Jónsson, bóndasonur á Rana, 15 ára, og Guðmundur Magnússon á Arnarnesi, 17 ára.[637] Sigmundur og Pétur voru synir Jóns Sigmundssonar á Rana[638] en hann var bróðir alnafna sins, Jóns Sigmundssonar á Álfadal, og voru þeir báðir á sama bátnum.[639]

Gísli Konráðsson segir allrækilega frá mannskaðanum mikla í Önundarfirði í Vestfirðingasögu sinni[640] og í handritasafni Jóns Sigurðssonar forseta er varðveitt dálítið stytt og stílfærð uppskrift af þessum söguþætti Gísla.[641] Prentaðar frásagnir í tímaritunum Blöndu og Frá ystu nesjum byggja á þessum handritum.[642] Í frásögn Gísla Konráðssonar er m.a. greint frá baráttu Ásgeirs prófasts á Sæbóli og manna hans við höfuðskepnurnar slysfaradaginn 6. maí og frá landtöku þeirra við Svalvogahamar. Sá þáttur frásagnarinnar er að sögn Gísla byggður á orðum Jóhannesar Jónssonar, sem var einn háseta Ásgeirs þennan örlagaríka dag en varð síðar hreppstjóri á Folafæti í Súðavíkurhreppi.[643] Sjálfur færir Gísli orðin í letur og ritar á þessa leið:

 

Þegar skipin voru komin í sátur gerði dimmviðri mikið en nær miðjum aftni hvein á veðuræsingur mikill með brimöskran ógurlegri og kafahríð frjósandi. Ætla menn að flest skipin tækju þá til segla og hefur svo Jóhannes Jónsson frá sagt, sveinn sá áður getur að háseti var Ásgeirs prófasts, að hvin mikinn væri að heyra í því veðrið skall á með dimmviðriskafaldi svo að við ekkert varð ráðið. Ásgeir prófastur lét þá til segla taka og var hann röskvastur manna sinna og þó víðar væri leitað. Sáu þeir það eitt að skip sigldi skammt frá þeim og ætluðu helst að vera myndi Jón silfursmiður frá Hvilft og það að sundurbrast seglráin á því skipi er Ísfirðingar kalla stjaka og hvarf þeim þegar skip það. Litlu síðar rifnaði segl Ásgeirs prófasts. Var síðan siglt með skauti litlu. Bað prófastur menn sína vera hughrausta og biðja Guð fyrir sér. Vissu þeir ei síðan hvað leið til morguns að þeir sáu heiðbirtuglugg lítinn til lofts og þegar birti allt í einu kenndust þeir þá við að vera komnir á miðjan Arnarfjörð og þá sáu þeir þrjú skip að voru komin undir Svalvogahamar og var þá skip prófasts hið fjórða. – Er þetta sögn Jóhannesar er á var með prófasti en síðar bjó að Folafæti og varð hreppstjóri.

Það varð nú að Ásgeir prófastur gisti að Sigurði presti frænda sínum [á að vera mági í stað frænda, − innskot K.Ó.] Jónssyni á Rafnseyri er þá reri á Svalvogahamri og átti þar sjóbúð og er sagt að ei reri hann þennan dag. Er hann kom úr hrakningnum var prófastur allur sem klakastykki eitt. Er það til dæma talið að fyrir því að hann var hærður vel var hár hans allt samfrosta við hattinn og granatoppana – sem klambur eitt og þurfti eykt dags til, að mælt er, áður sundur yrði þítt. Má af þvi ráða hvað menn þeir voru mjög þjakaðir af sjóvolkinu er af komust.[644]

 

Svalvogahamar, þar sem Ásgeir prófastur og fleiri Önfirðingar náðu landi í mannskaðaveðrinu mikla, er í landi jarðarinnar Svalvoga í Þingeyrarhreppi, yst á hinu mikla annesi sem skilur að Arnarfjörð og Dýrafjörð. Þar við Hamarinn var lengi verstöð (sjá hér Svalvogar) og úr öðrum heimildum er kunnugt að séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri, sem tók á móti Ásgeiri mági sínum er hann kom úr hrakningnum, reri þar nokkrar vorvertíðir á fyrstu áratugum 19. aldar (sjá hér Rafnseyri).

Ásgeir prófastur á Sæbóli var jafnan talinn frábær stjórnandi á sjó[645] og mun oftar en einu sinni hafa þurft að kosta sér öllum til í baráttu við stórsjó og storma. Vorið 1811 bjargaðist hann naumlega er bát hans hvolfdi í lendingu á Sæbóli og þrír úr áhöfninni drukknuðu[646] en harðasta raun mun þessi sjóhetja og prófastur hafa komist í dagana 6. og 7. maí 1812 er hann barðist við reginöfl nátturunnar á hafi úti í mannskaðaveðrinu mikla og náði að lokum að stýra skipi sínu heilu í höfn við Svalvogahamar.

Um það leyti sem Ásgeir prófastur fluttist brott frá Sæbóli byrjuðu þar búskap hjónin Gísli Oddsson og Maren Guðmundsdóttir.[647] Að Sæbóli fluttust þau frá Mosdal en höfðu áður búið í Hjarðardal og á Vífilsmýrum í Önundarfirði.[648]

Fardagaárið 1804-1805 bjuggu þau Gísli og Maren í Ytri-Hjarðardal, þá ung að árum. Séra Jón Ásgeirsson í Holti skrifar þá í húsvitjanabók sína að Gísli sé atorkusamur og mannlegur og kunnátta hans í meðallagi eftir bændastandi.[649] Maren fær hins vegar þá einkunn hjá presti að hún sé hæglát og hreintöluð og vel að sér í andlegum efnum.[650]

Að sögn niðja Gísla Oddssonar var hann í góðum kunningsskap við franska skútumenn árin sem hann bjó á Sæbóli[651] og má ætla að svo hafi einnig verið um fleiri bændur þar, bæði fyrr og síðar. Sagt er Gísli hafi verið að koma úr franskri skútu er tveir hásetar hans drukknuðu í lendingu á Sæbóli árið 1819, þeir Skúli Hildibrandsson sem áður bjó á Birnustöðum í Dýrafirði og Abraham, sonur Skúla (sjá hér Birnustaðir).

Búskaparár Gísla og Marenar á Sæbóli urðu ekki mörg en þaðan fluttust þau að Meira-Garði í Dýrafirði árið 1821 (sjá hér Meiri-Garður).

Sá maður sem lengst bjó á Sæbóli á fyrri hluta 19. aldar var Jón Bjarnason, sem fluttist hingað árið 1821[652] og bjó hér til dauðadags árið 1854 (sjá hér Nesdalur og “Svipast um á Ingjaldssandi”). Jón var fæddur um 1778 á Sandeyri á Snæfjallaströnd við norðanvert Ísafjarðardjúp[653] og var því kominn á fimmtugsaldur er hann fluttist að Sæbóli. Hann hafði áður búið á Gelti í Súgandafirði í liðlega áratug.[654] Á Gelti kvæntist hann roskinni ekkju, Margréti Guðnadóttur, en fyrri maður hennar, sem líka hét Jón Bjarnason, drukknaði í hákarlalegu 30. júlí árið 1800 (sjá hér Göltur). Jón Bjarnason, fyrri maður Margrétar, mun hafa verið efnaður bóndi og árið 1797 keypti hann 15 hundruð í Sæbóli af Jóni Jónssyni sýslumanni[655] en seljandinn var sýslumaður í Strandasýslu og átti heima í Bæ í Hrútafirði.[656] Fyrir þennan fjórðung úr jörðinni og hálft annað kúgildi, sem fylgdi með í kaupunum, greiddi Jón Bjarnason eldri 180 ríkisdali[657] en mjög líklegt verður að telja að kaup þessi, sem gerð voru árið 1797, hafi stuðlað að því að Jón Bjarnason yngri fluttist síðar að Sæbóli.

Er Margrét Guðnadóttir á Gelti andaðist 15. mars 1814 lét hún eftir sig verulegar eignir.[658] Er dánarbú hennar var gert upp reyndist hún eiga 103 hundruð í jarðeignum.[659] Í heild voru eignir dánarbúsins metnar á 3.362 ríkisdali og 30 skildinga en svo mátti heita að það væri skuldlaust (sjá hér Göltur). Af eignum konu sinnar erfði Jón Bjarnason tæpan helming, þar á meðal bæði jörðina Gölt og 15 hundruðin í Sæbóli, en börn Margrétar af fyrra hjónabandi erfðu ýmsar jarðeignar hennar.[660]

Er þrjú og hálft ár voru liðin frá andláti Margrétar Guðnadóttur kvæntist Jón Bjarnason á ný og gekk þá að eiga Margréti Bjarnadóttur sem verið hafði ráðskona hjá honum um skeið.[661] Hún var um það bil 14 árum yngri en brúðguminn[662] og hefur því verið a.m.k. 40 árum yngri en fyrri kona Jóns sem fædd var um 1750.[663] Með seinni konunni eignaðist Jón Bjarnason allmörg börn og voru hin elstu þeirra fædd áður en hjón þessi fluttust frá Gelti að Sæbóli vorið 1821.

Þegar Jón andaðist árið 1854 átti hann 36 hundruð í Sæbóli en aðrar jarðeignir hans voru Þorfinnsstaðir í Valþjófsdal, hálfur Villingadalur, 7 hundruð og 24 álnir í kirkjujörðinni Hálsi á Ingjaldssandi og 16 hundruð í Ósi í Bolungavík.[664]  Samanlagður dýrleiki allra þessara jarðeigna var 92 hundruð og 24 álnir.[665]

Eins og áður var getið bjó Jón Bjarnason á Sæbóli í aldarþriðjung frá 1821 til 1854. Á því skeiði voru stundum bara tveir bændur á Sæbóli sem bjuggu þá hvor á sinni hálflendu. Úr hópi sambýlismanna Jóns Bjarnasonar á Sæbóli er helst að nefna Móses Jónsson, Guðmund Guðmundsson norðlenska og Guðmund Bjarnason sem lengst bjó á Sæbóli í sambýli við Jón. Hér hefur áður verið sagt allrækilega frá Guðmundi norðlenska (sjá hér Sandar og Nesdalur) og einnig þeim hörmulega atburði er Móses á Sæbóli drukknaði ásamt öllum hásetum sínum í hákarlalegu vorið 1836 (sjá hér Nesdalur). Í áhöfn hákarlaskipsins frá Sæbóli sem fórst 11. apríl 1836 voru tíu menn, sem allir áttu heima á Ingjaldssandi, og er þetta annar mesti mannskaði þar á Sandinum á síðustu tveimur öldum.[666] Þeir sem þarna fórust voru: Móses Jónsson, bóndi Sæbóli, 41 árs, Halldór Jónsson, vinnumaður Sæbóli, 54 ára, Sigurður Tómasson, vinnumaður Sæbóli, 28 ára, Þorsteinn Ísleifsson, vinnumaður Sæbóli, 36 ára, Jón Bjarnason, vinnumaður Sæbóli, 47 ára, Jón Þorgrímsson, bóndi Álfadal, 25 ára, Teitur Jónsson, bóndi Brekku, 43 ára, Árni Mahalaleelsson, vinnumaður Brekku, 48 ára, Sigurður Jónsson, vinnumaður Brekku, 36 ára, og Jón Jónsson, húsmóðurinnar sonur Villingadal, 27 ára.[667]

Nokkru áður en hákarlaskipið fórst, nánar til tekið á árunum 1832 til 1834, hafði Guðmundur Bjarnason, sem þá bjó á Ósi í Bolungavík, keypt 15 hundruð í Sæbóli[668] og þangað fluttist hann nokkrum árum síðar. Sá sem tók við búi af Móses og kvæntist ekkju hans var þó Guðmundur norðlenski sem bjó á Sæbóli 1836-1839, fyrst sem ráðsmaður og síðan sem bóndi, en hann hóf á árinu 1838 byggingu nýbýlis í Nesdal í Sæbólslandi og bjó þar næstu ár eins og hér hefur áður verið rakið. Guðmundur Bjarnason, sem var fæddur árið 1794 eða þar um bil, fluttist hins vegar frá Ósi að Sæbóli vorið 1838[669] og bjó þar í um það bil 20 ár en hann andaðist hjá Ólöfu dóttur sinni á Fjallaskaga 22. nóvember árið 1860.[670] Kona Guðmundar Bjarnasonar hét María Jónsdóttir og áttu þau allmörg börn.[671] Frá stríði þeirra Jóns og Guðmundar Bjarnasona á Sæbóli við Guðmund norðlenska hefur áður verið greint á þessum blöðum (sjá hér Nesdalur) og einnig frá þilskipinu sem þeir áttu saman og kölluðu Tréfót. Skúta þessi var gerð út frá Sæbóli í sex ár, 1844-1850, en fórst í hafi 29. júlí 1850 og drukknuðu allir þeir fimm menn sem á henni voru (sjá Mýrahreppur, inngangskafli). Báðir sambýlismennirnir á Sæbóli misstu þar syni sína í sjóinn.

Guðmundur Bjarnason á Sæbóli mun hafa verið mikill og harðsnúinn sjósóknari og tók fyrstur Sandmanna upp línuveiðar (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi) en slíkum veiðiskap mun hann hafa verið vanur frá Bolungavík.

Á búskaparárum þeirra Jóns og Guðmundar Bjarnasona á Sæbóli voru hákarlaveiðar stundaðar þaðan af miklu kappi. Guðmundur átti þá hákarlaskipið Hring sem var áttæringur.[672] Hringur þótti frábært skip og var það trú margra að hann gæti ekki farið af kjölnum, enda urðu aldrei nein slys á honum.[673] Fyrstu árin sem Guðmundur Bjarnason bjó á Sæbóli var hann sjálfur formaður á Hring í hákarlalegum sem oft voru farnar að vetrarlagi. Ýmsar sagnir hafa varðveist um happaskipið Hring og sjóferðir á honum, flestar ritaðar af Guðmundi Benediktssyni frá Hálsi á Ingjaldssandi sem fæddur var árið 1886.[674] Ein sagan er á þessa leið:

 

Eitt sinn á fyrri árum Guðmundar Bjarnasonar var hann á Hring í hákarlalegu úti á hafi í norðan sveljanda. Hringur hefur þá verið orðinn gamall því að þá kom upp á honum leki svo mikill að ekki varð við ráðið og þótti sem skipið væri að liðast í sundur. Tók þá Guðmundur það ráð að binda hákarlafærin undir kjöl skipsins og inn á rengur á báðum hliðum og sömuleiðis yfir skipið að ofan og herða svo allt saman til styrktar skipinu. Að því búnu gerði hann það heit að hann skyldi strax láta smíða skipið upp ef sér auðnaðist að ná landi. Þetta tókst. Guðmundur lenti farsællega með góðan afla og efndi þegar heit sitt við skipið.[675]

 

Hákarlaskipið Hringur mun hafa verið smíðaður upp oftar en einu sinni en þess var jafnan gætt að hans gamla lag breyttist ekki.[676] Var byrðingurinn smíðaður utan á gömlu böndin en ný bönd að því búnu.[677]

Um góðan efnahag sambýlismannanna á Sæbóli þarf ekki að efast. Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 sést að þeir áttu þá allt Sæból[678] og aðrar heimildir sýna að þeir bjuggu þar á sinni hálflendunni hvor. Séra Jón Sigurðsson segir í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 að á Sæbóli sé einn af fimm best húsuðu bæjum í Mýrahreppi en bærinn hafði þá alveg nýlega verið byggður upp.[679] Árið 1845 voru 13 manneskjur í heimili hjá Jóni Bjarnasyni á Sæbóli og 14 hjá Guðmundi, sambýlismanni hans.[680] Ekkert húsfólk var þá á Sæbóli og heimilin því ekki nema tvö.[681] Vorið 1850 var einn einhleypur húsmaður hjá Guðmundi Bjarnasyni á Sæbóli.[682] Heimilisfólk þar taldist þá vera 36 og í þeim hópi 11 verkfærir karlmenn.[683] Bændurnir tveir á Sæbóli áttu þá átta kýr, aðrir nautgripir voru þrír.[684] Ærnar á Sæbóli voru 69, sauðir, hrútar og gemlingar voru samtals 98 og lömb 50.[685] Sé litið á tíundarhöfuðstól bænda í Mýrahreppi vorið 1850 kemur í ljós að sambýlismennirnir á Sæbóli, Jón Bjarnason og Guðmundur Bjarnason, eru þar í öðru og þriðja sæti.[686] Tíundarhöfuðstóll Jóns Bjarnasonar (lausafé og fasteign) var þá 42 hundruð en Guðmundar Bjarnasonar 38 og hálft hundrað.[687]

Upp úr miðri 19. öld tóku synir Jóns og Guðmundar við búi af feðrum sínum á Sæbóli, þeir Jón og Bjarni Jónssynir og Friðrik og Guðmundur Guðmundssynir.[688] Bjuggu þeir í fjórbýli á Sæbóli um nokkurra ára skeið. Allir voru þeir kvæntir og áttu börn.[689] Á vorin reru þeir til fiskjar á sexæringi en að vetrinum fóru þeir í hákarlalegur á áttæringnum Hring eins og áður. Sagt er að Jón Jónsson hafi þá yfirleitt verið formaður í hákarlaróðrum en þegar mest reyndi á hafi hann fengið Bjarna bróður sínum stýrið.[690] Bjarni var mikill ákafamaður en öruggur stjórnandi á sjó ef í harðbakka sló og frábær í klettum.[691] Til marks um þrek Bjarna, ákafa hans og ósérhlífni, er sögð sú saga að eitt sinn er hann hafði verið heilan sólarhring í erfiðri smalamennsku hafi hann farið strax í róður án nokkurrar hvíldar á milli.[692] Um eina af mörgum leguferðum þessara Sæbólsbænda hefur Jóhannes Davíðsson ritað sögu þá sem hér fer á eftir og byggir þar á skrifum Guðmundar Benediktssonar frá Hálsi sem hér var áður nefndur. Sagan er svona:

 

Það var eitt sinn að þeir félagar fóru í hákarlalegu í ljótu útliti og uppgangsveðri. Er þeir voru komnir nokkuð frá landi versnaði veðrið svo mjög að ei varð um annað að hugsa en ná einhvers staðar landi. En þess var enginn kostur að þeir gætu það nálægt heimkynnum sínum, heldur urðu þeir að hleypa undan veðrinu allt norður í Rekavík bak Látur, sem er norðan við Aðalvík, og lentu þar að kvöldi dags. Alls voru á skipinu 9 menn en aðeins 4 gátu fengið gistingu í Rekavík. Hinir 5 urðu að ganga vestur að Látrum í Aðalvík sem er alllangur vegur.

Þegar þeir komu þangað sáu þeir að veður var farið að lægja og snúast til hagstæðrar áttar fyrir þá að komast vestur. Snéru þeir þá til baka til Rekavíkur, hrundu Hring á flot þegar um nóttina og héldu áleiðis vestur. Um miðjan dag voru þeir komnir vestur í Önundarfjörð. Var þá kominn þungur suðaustan vindur með kafaldi svo þeir náðu ekki lendingu á Sæbóli en urðu að hleypa út fyrir Barða og hugðust ná lendingu á Skaga sem er ysti bær við Dýrafjörð að norðanverðu en sáu brátt að það mundi ekki fært fyrir aflandsofviðri og tóku það ráð að lenda í Nesdal sem er óbyggður dalur utan við Barðann. Héldu þeir svo heim á Ingjaldssand sem er í góðri færð um tveggja klukkustunda gangur. Matarlitlir voru þeir orðnir og við svokallaða Þröngugötu í Nesdal fór Jón Nikulásson á Álfadal í matarskjóðu sína og fann þar ekki annað en einn tólgarmola.

Bylur var og ófærð en samt komust þeir heim að Hrauni á Sandi síðari hluta dags og var þá bóndinn þar, Sigmundur Sveinsson, á leið í fjárhús sín til gegninga. Bauð hann þeim heim í bæinn til að fá yl og góðgerðir en Bjarni (Jónsson) kvaðst ekki mega það því þá þiðnaði í sig snjórinn en Jón bróðir hans sagði: „Þó enginn fari inn, þá fer ég inn.” Fóru þá allir inn og þágu hressingu og Bjarni líka. Nokkru seinna sóttu þeir Hring og fór allt vel.[693]

 

Ýmsar fleiri sögur af sjóferðum á Hring lifðu lengi á vörum manna en verða ekki raktar hér.

Á þeim árum sem bændurnir fjórir, er hér voru síðast nefndir, bjuggu allir á Sæbóli bar það til að vinnukona eins þeirra tók að þykkna undir belti. Hún hét Guðrún Skæringsdóttir og var þá vistráðin hjá Guðmundi Guðmundssyni, sem kallaður var Guðmundur stóri, og Elinborgu Jónsdóttur konu hans.[694] Sagt er að konur bændanna hafi hver og ein borið þann ugg í brjósti að það kynni að vera hennar eiginmaður sem væri valdur að þunga vinnukonunnar.[695] Þann 25. nóvember 1858 tók Guðrún Skæringsdóttir léttasóttina og ól stúlkubarn sama dag.[696] Elínborg húsmóðir Guðrúnar, sem var vön ljósmóðurstörfum, sat yfir henni og spurði strax um faðernið þegar barnið var komið í heiminn.[697] Stúlkan, sem var 28 ára gömul, gaf greið svör og sagði son Bjarna bónda á Sæbóli, sautján ára pilt sem hét Jón, vera barnsföður sinn.[698] Við þau svör léttist mjög brúnin á ljósmóðurinni og öðru giftu kvenfólki á Sæbólsbæjunum. Þegar Guðmundur stóri heyrði svör sængurkonunnar um faðernið, snaraðist hann út úr bænum og fann drenginn, Jón Bjarnason, við gegningar í fjárhúsi.[699] Á Ingjaldssandi lifði lengi sú saga að strákinn hefði hann þá ávarpað með þessum orðum: Hananú, Jón Bjarnason, hún lýsir þar þig.[700] Vel gætu þau orð verið rétt eftir höfð, hvort sem hinn ungi sveinn hefur verið sannur faðir barnsins eða það komið undir með öðrum hætti. Jón þessi Bjarnason varð síðar bóndi á Álfadal en fórst í snjóflóði úr Villingadalsfjalli þann 20. desember árið 1886 (sjá hér Villingadalur).[701]

Einn bændanna, sem bjuggu á Sæbóli upp úr miðri nítjándu öld, var Friðrik Guðmundsson, sonur Guðmundar Bjarnasonar er hóf búskap á Sæbóli árið 1838. Á haustin stundaði Friðrik sjóróðra á fjögra manna fari.[702] Haustið 1868 reru með honum tveir synir hans, sem hétu Jón og Jóhannes, og einnig Búi Jónsson frá Fjallaskaga,[703] sem þá var um tvítugsaldur, en hann var systursonur Friðriks (sjá hér Fjallaskagi). Þann 30. september þetta haust drukknuðu Friðrik bóndi og nýnefndir synir hans tveir út við Purkusker undir Barða.[704] Sighvatur Borgfirðingur segir að vísu að þeir hafi farist við Kapalsker,[705] sem eru nokkru utar en Purkusker, (sjá hér bls. 88 og “Svipast um á Ingjaldssandi”), en á Sæbóli hefur svo lengi sem elstu menn muna verið haft fyrir satt að slys þetta hafi orðið við Purkusker.[706]

Að sögn síðari tíma manna vildi slysið þannig til að Friðrik og menn hans reru upp á blindsker svo leki kom að bátnum og honum hvolfdi.[707] Einn maður bjargaðist úr þessum sjávarháska og var það Búi Jónsson sem hér var áður nefndur. Að sögn Sighvats Borgfirðings, sem var kunnugur Búa, komst hann á kjöl og bar bátinn með hann að landi.[708] Komst hann nauðuglega upp í Kapalskerin og svo heim að Sæbóli, segir Sighvatur.[709] Vera má að eftir að bátnum hvolfdi hafi hann rekið frá Purkuskeri að Kapalskerjum.

Er Friðrik Guðmundsson drukknaði var hann 44 ára gamall eða þar um bil[710] en synir hans, Jón og Jóhannes, sem fórust með föður sínum, voru 13 og 15 ára.[711] Búi Jónsson, sem þarna bjargaðist naumlega, bjó síðar á Fjallaskaga frá 1871-1885 en fluttist til Ameríku sumarið 1887 (sjá hér Fjallaskagi).

Síðustu tvo áratugi 19. aldar bjuggu löngum efnaðir stórbændur á Sæbóli, fyrst Guðmundur Hagalín Guðmundsson, svo Guðmundur Sturluson og loks Oddur Gíslason. Guðmundur Hagalín var frá Mýrum í Dýrafirði og átti þar heima alla ævi nema árin 1876 til 1885 (sjá hér Mýrar). Frá 1876 til 1881 bjó hann í Meira-Garði og á Sæbóli frá 1881 til 1885. Hér hefur áður verið fjallað talsvert um Guðmund Hagalín og verður því látið nægja að bæta aðeins örfáum orðum við um veru hans á Sæbóli.

Að Sæbóli fluttist Guðmundur Hagalín 1. júní 1881 á áttæring Mýramanna eins og Sighvatur Borgfirðingur tekur fram en hann var einn ræðaranna í þeim flutningum.[712] Hinn nýi bóndi á Sæbóli var kominn nálægt fertugu er hann hóf þar búskap ásamt konu sinni, Rósamundu Oddsdóttur, er hann hafði gengið að eiga tólf árum fyrr.

Í vísitazíugerð prófasts frá sumrinu 1882 er tekið fram að Guðmundur Hagalín haldi allt Sæból frá síðustu fardögum.[713] Frá 1882-1885 bjó Guðmundur Hagalín einn á öllu Sæbóli[714] en í þvílíkt stórræði hafði enginn forveri hans þar ráðist síðustu tvær aldirnar því jafnvel á dögum Þorkötlu ríku og eiginmanns hennar bjuggu hjáleigubændur á þessari 60 hundraða jörð við hlið eigendanna. Haustið 1882 lét Guðmundur Hagalín smíða stofuhús[715] og gera má ráð fyrir að hann hafi ekki ætlað sér að flytja frá Sæbóli í bráð.

Á búskaparárum sínum þar var sveitarstólpi þessi með yfir tuttugu manns í heimili.[716] Vorið 1883 var Guðmundur Hagalín með 6 nautgripi í fjósi en sauðkindur hans voru þá 87.[717] Enginn bóndi í Mýrahreppi var þá með stærra bú nema Guðný á Mýrum, systir Guðmundar Hagalíns, sem var með 8 nautgripi og 103 sauðkindur.[718] Er litið er á þessar tölur er vert að hafa í huga að á harðindaárunum 1881 og 1882 fækkaði búfé víðast hvar verulega. Guðmundur Hagalín var hákarlaformaður og sjósóknari í fremstu röð svo vart þarf að efa að hann hafi stundað sjó af kappi árin sem hann bjó á Sæbóli. Árferði var þá með lakasta móti um land allt enda fækkaði sauðfé landsmanna um þriðjung og nautgripum um nær fmmtung á þremur árum, frá 1880 til 1883.[719] Vafalaust hafa harðindin sett einhver strik í búskaparreikninginn hjá Guðmundi Hagalín og erfitt gat verið að komast á sjó þegar hafís lagðist að landi. − Fréttist að Guðmundur Hagalín á Sæbóli hefði drepið bjarndýr, − skrifar Sighvatur Borgfirðingur í dagbók sína 3. maí 1884[720] og hefur ísinn þá varla verið langt undan. Líklega er þetta síðasta bjarndýrið sem unnið hefur verið á Ingjaldssandi og svo mikið er víst að slíkar skepnur hafa ekki verið þar á ferð í tíð núlifandi manna.[721] Á árunum milli 1960 og 1970 heyrði heimafólk á Sæbóli þó eitt sinn öskur í bjarndýri.[722]

Þó að hart væri í ári á árunum upp úr 1880 voru það samt ekki harðindin sem ollu því að Guðmundur Hagalín fluttist frá Sæbóli vorið 1885 eftir fjögurra ára búskap þar. Óvænt dauðsföll réðu tvímælalaust mestu um þá ráðabreytni en á árinu 1883 andaðist Guðmundur Sigurðsson, bóndi og skipstjóri á Mýrum, sem kvæntur var Guðnýju Guðmundsdóttur, systur Guðmundar Hagalíns (sjá hér Mýrar). Síðar á sama ári dó líka á sóttarsæng einkasonur hjónanna á Mýrum, Guðmundur Ágúst að nafni, sem verið hafði við nám í Möðruvallaskóla (sjá hér Mýrar). Við þessar aðstæður varð knýjandi að einhver karlmaður úr hópi niðja foreldra Guðmundar Hagalíns kæmi til liðs við ekkjuna á Mýrum og tæki við búsforráðum á ættaróðalinu. Í þeim efnum kom reyndar enginn til greina nema bóndinn á Sæbóli því bræður hans tveir sem enn lifðu höfðu helgað sig öðrum og óskyldum viðfangsefnum. Af þessum ástæðum hlaut Guðmundur Hagalín að yfirgefa Sæból og þaðan fluttist hann að Mýrum í fardögum árið 1885.

Sá sem þá byrjaði búskap á Sæbóli var Guðmundur Sturluson frá Dalshúsum í Valþjófsdal, sem fæddur var árið 1839 og hafði tekið við búi af föður sínum í Dalshúsum árið 1865 (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Er Guðmundur fluttist að Sæbóli vorið 1885 hafði hann búið 20 ár í Dalshúsum og var talinn efnaðri en flestir aðrir bændur í Önundarfirði (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Þegar Guðmundur fluttist út á Ingjaldssand hafði hann átt einn fjórða part í skútu í nokkur ár og árið sem hann settist að á Sæbóli er kútterinn Mary sagður vera af Ingjaldssandi í verslunarbókum Ásgeirsverslunar á Flateyri.[723] Fullvíst má telja að einn eða fleiri af aðaleigendum þessa þilskips hafi þá verið búsettir á Sandinum og koma þá helst til greina Guðmundur Sturluson og Guðmundur Hagalín Guðmundsson sem líka var viðriðinn skútuútgerð (sjá hér Mýrar) en fór frá Sæbóli að Mýrum í Dýrafirði vorið 1885. Líklegra verður að telja að það hafi verið Guðmundur Sturluson, sem stóð fyrir útgerð Mary á árunum 1885 og 1886, því að í höfuðbók Ásgeirsverslunar á Flateyri er skip þetta sagt vera frá Ingjaldssandi allt til haustsins 1886 en þá færðist útgerð þess til Flateyrar og loks tveimur árum síðar til Dýrafjarðar.[724] Kútterinn Mary mun vera eina þilskipið sem gert var út frá Ingjaldssandi á síðari hluta 19. aldar en þess er vert að minnast að á árunum 1844-1850 gerðu Sæbólsmenn út skútuna Tréfót sem var lítið skip og fórst í hafi 29. júlí 1850 (sjá hér bls. 79). Ekki er alveg ljóst hvort kútterinn sem Sandmenn höfðu umráð yfir á árunum 1885 og 1886 muni vera sama skip og sú Mary sem Gramsverslun á Þingeyri átti að einhverju eða öllu leyti árið 1878 og einnig eftir 1886[725] en líklegt má kalla að svo hafi verið.

Frá Guðmundi Sturlusyni verður sagt nokkru nánar þegar staldrað verður við í Dalshúsum en skemmst er frá því að segja að hann andaðist 30. janúar árið 1887[726] og auðnaðist því ekki að búa hér á Sæbóli nema í tæplega tvö ár. Síðustu 80 árin hafa niðjar hans hins vegar búið á Sæbóli og búa enn.[727]

Árið 1889 hófu Oddur Gíslason og Jónína Jónsdóttir, kona hans, búskap á Sæbóli og bjuggu þar til ársins 1907.[728] Á Sæbóli var Oddur sjálfseignarbóndi og mun hafa átt alla jörðina.[729] Oddur, sem hét reyndar Oddur Hagalín Guðmundur, hafði áður búið alllengi á Ketilseyri[730] en foreldrar hans, Gísli Jónsson og Maren Oddsdóttir, voru bæði barnabörn Gísla Oddssonar sem bjó um skeið á Sæbóli en fluttist þaðan að Meira-Garði árið 1821 (sjá hér bls. 77 og Meiri-Garður og Minni Garður).

Er manntal var tekið 1. nóvember 1890 bjó Oddur einn á öllu Sæbóli en heimilin voru þó tvö því maður að nafni Jón Guðmundsson hafðist þar við í þurrabúð ásamt sambýliskonu sinni og barni þeirra.[731] Þennan þurrabúðarmann nefnir Sighvatur Borgfirðingur Jón handalausa,[732] enda mun hafa vantað á hann hendurnar (sjá hér Brekka á Ingjaldssandi og Villingadalur).

Jóhannes Davíðsson, sem ólst upp á Ingjaldssandi á árunum kringum aldamótin 1900, segir að Oddur hafi þá búið einn á nær öllu Sæbóli.[733] Haustið 1901 voru heimilin á Sæbóli engu að síður fjögur[734] en skilgreining sem þá var gefin á atvinnu hinna þriggja heimilisfeðranna bendir til þess að þeir hafi engin eða nær engin jarðarafnot haft. Í manntalinu frá 1. nóvember 1901 er einn þessara manna sagður lifa á fiskveiðum, annar er kallaður sjómaður og vefari og sá þriðji, Jón Bjarnason, er sagður vera sjómaður, vefari og fjármaður.[735]

Jón Bjarnason, sem hér var síðast nefndur, átti lengi heima á Sæbóli og hafði þar afnot af svolitlum jarðarparti. Árið 1899 er hann sagður búa þar á þremur hundruðum[736] og svolítinn búskap var hann með á Sæbóli allt til ársins 1924 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 313). Hann var líka um lengri eða skemmri tíma stýrimaður á skútum eins og sjá má í heimild frá árinu 1909.[737] Um Jón þennan Bjarnason, sem kvæntur var Sveinfríði Sigmundsdóttur frá Hrauni, ritar Jóhannes Davíðsson svo:

 

Hann var fjármaður góður og fjárglöggur og svo brattgengur í fjöll að engir hafa orðið til að fara þangað sem verst er í Barðanum síðan hann fór þar og þó eru fjallamenn góðir á Sandi. Hann var öll haust í eftirleitum í hinum illgengu fjöllum beggja megin Sandsins meðan hann vissi þar kinda von.[738]

 

Oddur Gíslason á Sæbóli var mikill umsvifamaður í búskap. Meðan hann bjó á Ketilseyri hafði honum verið veittur 40,- króna styrkur af opinberu fé fyrir dugnað í búnaði[739] og nokkru eftir að hann kom að Sæbóli lét hann reisa vatnsmyllu til kornmölunar út við Skáladalsá.[740] Mylla þessi var síðar flutt þaðan og sett niður í sjávarbökkunum við bæjarlækinn á Sæbóli.[741] Hér hefur áður verið greint frá húsakynnum Odds á Sæbóli (sjá hér bls. 1-3) en á búskaparárum sínum þar var hann oft með sex gripi í fjósi og hálft annað hundrað sauðkinda.[742] Fyrir þennan bústofn þurfti hann um 400 hesta af heyi.[743]

Jóhannes Davíðsson, sem kynntist Oddi á uppvaxtarárum sínum á Ingjaldssandi, hefur ritað ýmislegt um hann og er þar m.a. að finna þessa lýsingu:

 

Oddur var meðalmaður á hæð, sívalvaxinn og bar sig vel, kvikur í hreyfingum og laglegur á yngri árum. Hann hafði yfirskegg jarpt en ekki alskegg eins og þá tíðkaðist. Oddur kunni bókband og fékkst nokkuð við það á vetrum en sinnti lítið gegningum. Hann mun hafa lesið Norðurlandamálin og kunnað nokkuð í frönsku, enda kom það sér vel því að þá voru árlega mikil samskipti við franska fiskimenn. Átti Oddur eins og fleiri mikið saman við þá að sælda, ekki síst vor eitt rétt eftir aldamótin er frönsk skúta strandaði rétt utan við Sæból. Oddi þótti gott að fá sér í staupinu við og við en annars var það frekar fátítt á Sandinum um þetta leyti og aldrei í óhófi hjá neinum.

Oddur átti sexæring og annan smærri bát og réri Hring, sexæringnum, öll vor og haust og var laginn við sjó og heppinn að fiska, enda mun hugur hans hafa hneigst meira til sjósóknar en búskapar því sem bóndi var hann miklu síðri en sem sjósóknari. Þó bjó hann stóru og góðu búi og var talið að þær kona hans og móðir ættu meiri þátt í stjórn og velgengni búsins en hann.[744]

 

Með þessari ágætu lýsingu á síðasta nítjándu aldar bóndanum á Sæbóli ljúkum við spjalli um nokkra einstaklinga úr röðum þeirra sem hér háðu sitt lífsstríð á fyrri tíð enda mál til komið að halda brott frá Sæbóli. Allra síðast skulum við þó minnast Marenar Oddsdóttur*) – móður Odds bónda sem fylgdi honum að Sæbóli. Hún var frá Meira-Garði í Dýrafirði, systir Gísla Oddssonar ríka í Lokinhömrum og Kristjáns Oddssonar sem einnig bjó í Lokinhömrum og um skeið á Núpi í Dýrafirði. Sagt er að Maren hafi verið búforkur en hún var líka ljósmóðir og gelti öll hrútlömb sonar síns sem prýða áttu sauðahjörðina á Sæbóli.[745]

Að Sæbóli komum við á göngu frá Nesdal og lögðum leið okkar úr Nesdalsskarði út á Barða og síðan niður Skáladal (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”) sem er að heita má beint upp af Sæbóli. Fram undan er nú ganga um Ingjaldssand þar sem farið verður bæ frá bæ en fyrst skulum við rölta hér skamman spöl út með sjónum.

 

*) Nöfn Marenar Oddsdóttur og ömmu hennar Marenar Guðmundsdóttur sjást ýmist rituð Maren eða Marín. Guðmundur Gíslason Hagalín rithöfundur, sem var niðji Marenar eldri, ritar þó alltaf Maren[746] og verður því fylgt hér.

 

Skammt utan við túnið á Sæbóli fellur Skáladalsá til sjávar. Eins og nafnið bendir til kemur hún ofan af Skáladal en er vatnslítil og því auðvelt að komast yfir hana hér uppi á bökkunum. Í fjörunni eru aftur á móti forvaðar innan við ána svo þar verður ófært þegar lágsjávað er.[747] Í móunum innan við Skáladalsá mótar greinilega fyrir mannvirki sem heitir Fornmannagarður.[748] Þetta eru miklar garðhleðslur, sem nú eru signar í jörð, og ekki fjarri lagi að svæðið innan garðsins sé 100 metrar á lengd og einhverjir tugir metra á breidd. Inni í þessu gerði, ekki langt frá miðju þess, eru fornlegar rústir af alllangri byggingu. Þverveggur deilir henni í tvo misstóra hluta. Aðrar tóttir, fornlegar mjög, eru sagðar vera efst í þessu umgirta plássi.[749] Ýmsar tilgátur mætti setja fram um eðli og uppruna þessara mannvirkja en út á þá braut verður þó ekki farið hér því gildan rökstuðning skortir fyrir þeim kenningum sem í boði eru.

Á innri bakka Skáladalsár er Myllutótt,[750] þar sem kornmyllan stóð um aldamótin 1900 (sjá hér bls. 86). Gróðurlendið á sjávarbökkunum nær spölkorn út fyrir ána og utan árinnar heitir það Land. Á ytri bakka árinnar er gömul stekkjartótt[751] og þarna í Landinu er grjóthaugur sem ber nafnið Álfhóll.[752] Ofan við Álfhól heitir Afhleypa rétt við ána en þar mun vatn hafa verið tekið úr ánni til áveitu.[753]

Rétt fyrir utan Landið er stórt gil sem nær ofan úr klettum og niður í fjöru. Það heitir Landgil.[754] Úr Landinu er fjöruleiðin sæmilega greið út að Purkuskeri en þangað er ferð okkar heitið. Þar sem fjallið Göltur, norðan Súgandafjarðar, kemur fram undan Sauðanesi eru grasteygingar í aurunum ofan við fjöruna og heitir þar Galtarteigur.[755] Innan við Galtarteig eru Hrútaskálarlækir sem koma úr allstórri skál hér hátt í fjallinu en hún heitir Hrútaskál.[756] Milli Hrútaskálar og Skáladals er aðeins þunn fjallsegg.[757] Út í Hrútaskál fara heimamenn á Sæbóli eftir þræðingum í fjallinu og síðan um Purkuganga úr Hrútaskál í Purku.[758] Sú leið er þó ekki fyrir ókunnuga. Við höldum okkur því við fjöruleiðina og köstum mæðinni í Galtarteig sem áður var nefndur.

Rétt utan við teiginn er Hvíturð.[759] Hún er stórgrýtt en þó fær. Þegar komið er yfir urðina er leiðin greið út fjöruna að Purkuskeri. Í háfjallinu ofan við skerið er stór og djúp skál sem heitir Purka en frá henni og lendingarstaðnum innan við Purkusker hefur áður verið sagt (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”). Úr fjörunni við skerið er hægt að komast upp í sjálfa Purku og er sú leið klettalaus.[760] Þá ferð látum við samt bíða því nú er þokan dimm.

Við Purkusker drukknuðu Friðrik Guðmundsson, bóndi á Sæbóli, og synir hans tveir haustið 1868 en einn maður komst af eins og hér hefur áður verið rakið (sjá bls. 82-83). Hjá skerinu horfum við lengi til hafs en snúum síðan til baka og hröðum okkur inn fjöruna heim í tún á Sæbóli.

Neðan við ysta hluta túnsins er lendingin en ætla má að héðan frá Sæbólssjó hafi verið róið til fiskjar í 1000 ár. Hér var áður minnst á Róðrarsker, sem er rétt utan við Sæbólslendingu (sjá hér bls. 9). Þegar kollurinn á því kom upp passaði að halda í róður undir Barða til að ná þar í straumaskiptin.[761] Frá því hætt var að róa úr Sandvíkinni innan við Langá á 16. öld (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”) munu allir bátar Sandmanna hafa haft hér uppsátur. Verbúðir voru þó aldrei margar. Áður var sagt frá Hraunsbúð (sjá hér bls. 10) sem stóð þar sem nú er ysta tóttin hér ofan við lendinguna.[762] Verbúð sína á Sæbóli notuðu Hraunsmenn fram yfir 1920.[763] Innan við Hraunsbúð var um aldamótin1900 sauðahús[764] en talið er að þar hafi áður verið verbúð frá Brekku.[765] Á fyrri hluta 20. aldar lágu vermenn stundum við í fjárhúsum við Sæbólssjó á vorin og má sem dæmi nefna að á árunum upp úr 1920 var kofi sem Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Sæbóli, átti notaður sem verbúð.[766]

Frostaveturinn mikla 1918 var farið á ís frá Sæbóli í kaupstað á Flateyri.[767] Gengið var á ísnum fyrir Hrafnaskálarnúp og farið yfir fjörðinn frá Brimnesi utan við Valþjófsdal[768] en það er um það bil miðja vega milli Valþjófsdals og Mosdals (sjá hér Mosdalur). Þennan vetur fór Finnur Eiríksson í Hrauni með hest úr Valþjófsdal á ís alla leið út á Ingjaldssand[769] og þegar Ágúst Guðmundsson, bóndi á Sæbóli, gekk á Barða sá hann hvergi auða vök, nema lítinn poll framan við árósinn í Nesdal.[770] Inni á fjörðunum var lagnaðarís en hafís úti fyrir og allt orðið samfrosta.

Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá bátaeigu og bátaútgerð Sandmanna á fyrri tíð (sjá “Svipast um á Ingjaldssandi”) en sjálfsagt er að greina hér einnig stuttlega frá vélbátaútgerð þeirra á síðari tímum.

Fyrsti vélbáturinn sem Sandmenn eignuðust var Svalan, sem bræðurnir Finnur og Þorlákur Bernharðssynir í Hrauni keyptu árið 1930 af Valdimar Össurarsyni er þá var á Mýrum.[771] Báturinn var með 12 hestafla Sólóvél, 22-24 fet á lengd.[772] Svalan var eini vélbátur Sandmanna í fimm ár en árið 1935 lét Jón Sveinn Jónsson á Sæbóli endurbyggja landhelgisbátinn Ingjald og setja í hann vél.[773] Frá þeim báti er sagt hér á öðrum stað (sjá Mýrar) en þegar vélbátaútgerð Sandmanna stóð með mestum blóma áttu þeir fjórar trillur.[774]

Sumarið 1993 átti Guðmundur Ágústsson, bóndi á Sæbóli, enn tveggja tonna trillu og á henni hefur hann róið til fiskjar í viðlögum allt til þessa. Sjófær skekta var þá líka til á Sæbóli. Menn sem bjuggu á öðrum jörðum á Ingjaldssandi héldu sumir áfram trilluútgerð frá Sæbóli uns komið var fram um miðja tuttugustu öld og að heimamönnum frátöldum mun Hagalín Guðmundsson, sem bjó í Hrauni á Ingjaldssandi á árunum 1943-1964, hafa verið hér síðastur við róðra á eigin trillu.[775] Hin síðari ár (1993) hefur lítið verið um sjósókn frá Sæbóli en talsvert verið unnið að bátasmíðum. Í þeirri grein er Guðni Ágústsson mestur kunnáttumaður hér í sveit.

Við Sæbólssjó stendur spilið sem notað er þegar trillan er tekin upp. Í dag er sléttur sjór svo varla lóar á steini í lendingunni. Oft er þó mikið brim hér við ströndina en í Sæbólsvör var talið lendandi allt þar til öldufaldurinn var orðinn svo hár að hann tók af Hærri-Kúlur væri horft til fjalls úr bátnum þegar hann var niðri í öldudal.[776] Hærri-Kúlur og Lægri-Kúlur eru tveir hjallar neðst í fjallshlíðinni ofan við túnið á Sæbóli.[777]

Héðan úr Sæbólslendingu lögðu þeir upp hinir mörgu Sandmenn sem drukknuðu í sjó á liðnum öldum, sjómennirnir fimmtán sem fórust í mannskaðaveðrinu mikla vorið 1812 (sjá hér bls. 74-77), Móses á Sæbóli og hinir níu sem með honum fórust í hákarlalegu vorið 1836 (sjá bls. 78-79), Árni á Álfadal og þeir fimm saman sem drukknuðu 12. júní 1833 (sjá hér Álfadalur), Eiríkur Tómasson í Hrauni og hans skipverjar sem drukknuðu allir sex í lendingu haustið 1849 (sjá hér Hraun á Ingjaldssandi), líka Kristján og Pálmi á Sæbóli sem ásamt þremur öðrum týndust í hafi þegar Tréfótur fórst sumarið 1850 (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”). Þannig mætti lengi telja en þó eru nöfn flestra sem hér stigu síðast fæti á fold nú gleymsku hulin. Á slíkum stað finnum við líf og dauða takast á og sjáum Ásgeir prófast sigla skipi sínu heilu heim frá Svalvogahamri.

Frá lendingunni röltum við upp að kirkjunni, sem byggð var 1929, og lítum á kirkjugarðinn þar sem allt er í góðri hirðu. Einn þeirra sem hér hvíla er klerkurinn séra Sigtryggur Guðlaugsson á Núpi, sem andaðist á tíræðisaldri árið 1959 og sagður er hafa farið 900 sinnum yfir Sandsheiði til messugerða og annarra prestverka (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”). Í einni ferðinni flutti hann með sér fyrsta orgelið sem kom í Sæbólskirkju og segir á einum stað að það hafi verið veturinn 1908-1909.[778]

Frá kirkjunni göngum við um hlaðið hjá því góða fólki sem nú býr á Sæbóli en leggjum svo leið okkar upp fyrir tún til að líta þar á kvíabólið en hér voru fráfæruær mjólkaðar fram til ársins 1940.[779] Svo tökum við stefnuna fram að Álfadal sem er næsti bær. Framan við túnið á Sæbóli liggur Svarthamrahryggur til fjalls en fyrir neðan hann og lítið eitt framar er Leitið,[780] útsýnisstaðurinn góði þar sem við höfum áður staldrað við og virt fyrir okkur nær allan Ingjaldssand (sjá hér “Svipast um á Ingjaldssandi”). Nú hröðum við för að Álfadal og stikum yfir landamerki jarðanna í Merkjalág sem liggur þvert á stefnu dalsins hér rétt framan við Leiti.[781] Ofan við lágina er Nautaskál en neðan við hana blasir við stórt klettabelti sem heitir Björg.[782] Hér í námunda við landamerkin var líka engjastykki sem nefnt var Þrætupartur.[783] Nafnið sýnir að ekki hefur alltaf verið óumdeilt hvar landamerkin væru. Framan við Leitið og merkin rennur Langá í mörgum bugðum og heita eyrarnar á milli þeirra Nes. Þau eru í landi Álfadals.[784]

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Jarðab. Á. og P. VII, 87.

[2] Jóh. Dav. 1970, 114-115 (Ársrit S.Í.).

[3] Örnefnaskrá.

[4] Sóknalýs. Vestfj. II, 84.

[5] Jóh. Dav. 1970, 114-115.

[6] Sigurvin Guðmundsson, viðtal við K.Ó. 28.6.1993.

[7] Sama heimild.

[8] G.G. Hagalín 1960, 32.

[9] G.G. Hagalín 1960, 29, sbr. bls. 27.

[10] Sama heimild, 29-30.

[11] Sama heimild..

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] G.G. Hag. 1960, 30-31.

[16] Sama heimild, 27- 31.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sigurv. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[20] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[21] Sama heimild.

[22] Guðmundur Bernharðsson 1980, 11.

[23] G.G. Hag. 1960, 32.

[24] Jóh. Dav. 1970, 114-115 (Ársrit S.Í.).

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Jóh. Dav. 1970, 114-115.

[29] Örnefnaskrá.

[30] Guðm. og Guðni Ágústss. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[31] Sama heimild.

[32] Sóknalýs. Vestfj. II, 84.

[33] D.I. XII, 14.

[34] Biskupasögur II, 259.

[35] Óskar Ein. 1951, 159.

[36] Sama heimild.

[37] Óskar Ein. 1951, 162-163.

[38] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma og þingb. Markúsar Bergssonar sýslumanns, réttarhald að

Mýrum í Dýrafirði 17. og 18.6. 1727.

[39] Jarðab. Á. og P. VII, 87-88.

[40] Jarðab. Á. og P. VII, 90.

[41] Sóknalýs. Vestfj. II, 85. Jóhannes Davíðsson 1981, 121 (Ársrit S.Í.).

[42] Örnefnaskrá.

[43] Sóknalýs. Vestfj. II, 85.

[44] Sama heimild.

[45] Jóh. Dav. 1968, 61.

[46] Sama heimild.

[47] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1993.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Prestsþj.b. Sandapr.kalls. Sbr. Manntal 1.12.1920, Hnífsdalur.

[51] Sama heimild.

[52] Manntal 1.10.1860.

[53] Manntal 1.10.1870.

[54] Prestsþj.b. Dýrafj.þ.

[55] Sama heimild og sóknarm.töl Dýrafj.þ.

[56] Sömu heimildir.

[57] Sömu heimildir.

[58] Sömu heimildir.

[59] Sömu heimildir.

[60] Sömu heimildir.

[61] Sömu heimildir.

[62] Sömu heimildir.

[63] Sömu heimildir.

[64] Sömu heimildir.

[65] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1993.

[66] Prestsþj.b.og sóknarm.töl Dýrafj.þ.

[67] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsfirði og Hóls í Bolungavík

[68] Sömu heimildir.

[69] Kennaratal I, 203.

[70] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsfj. og Hóls í Bolungavík.

[71] Sömu heimildir.

[72] Sömu heimildir.

[73] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsfj. og Hóls í Bolungavík.

[74] Sömu heimildir.

[75] Kennaratal I, 203.

[76] Tómas Helgason frá Hnífsdal. – Viðtal K.Ó. við hann 11.9.1993.

[77] Manntal 1940.

[78] Jarðab. Á. og P. VII, 89.

[79] Sama heimild.

[80] Örn.skrá.

[81] Sama heimild.

[82] Vestf. sagnir III, 32.

[83] Jarðab. Á. og P. VII, 89.

[84] Sama heimild.

[85] Ól. Olavius 1964, I, 185.

[86] Ól. Olavius 1964, I, 185.

[87] Jóh. Dav. 1970, 100 (Ársrit S.Í.).

[88] Sama heimild.

[89] L. Kr. 1982, 422-423.

[90] Sama heimild.

[91] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[92] Frá ystu nesjum II, 124-129.

[93] Prestsþj.b. Dýrafj.þ.

[94] Frá ystu nesjum II, 124-129.

[95] Jarðab. Á. og P. VII, 87-89.

[96] Manntöl 1762 og 1801.

[97] Manntöl 1835, 1840 og 1845.

[98] Manntöl 1850, 1855, 1860 og 1870.

[99] Manntöl 1890 og 1901.

[100] Jarðab. Á og P. VII, 87-89.

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Sama heimild.

[105] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga 1785.

[106] Jarðab. Á. og P. VII, 87-89.

[107] Sama heimild.

[108] Sama heimild.

[109] Jarðab. Á. og P. VII, 87-89.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild.

[113] Örn.skrá.

[114] Óskar Ein. 1951, 159; Örn.skrá.

[115] Örn.skrá.

[116] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[117] Sigurvin Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[118] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þ.

[119] Sömu heimildir.

[120] Sömu heimildir.

[121] Sömu heimildir.

[122] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[123] Sömu heimildir.

[124] Sömu heimildir.

[125] Sóknalýs. Vestfj. II, 84.

[126] Sama heimild.

[127] Sama heimild.

[128] Sama heimild, 84-85.

[129] D.I. II, 360.

[130] D.I. II, 360.

[131] Sama heimild.

[132] Sama heimild

[133] Sama heimild.

[134] Manntal 1801.

[135] D.I. III, 228, IV, 142 og XV, 574.

[136] D.I. XV, 574.

[137] Sama heimild.

[138] Alþ.bækur Ísl. XI, 162.

[139] D.I. V, 475 og XI, 526.  Jarðab. Á. og P. VII, 87-90 og  J.Johnsen 1847, 194.

[140] Jarðab. Á. og P. VII, 87 og 91.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild, 87-88.

[143] Kirknasafn  XIII. 5. A. 4. Kirkjustóll Sæbólskirkju 1829-1889, vísitazía 5.8.1852.

[144] Jarðab. Á. og P. VII, 87.

[145] Sama heimild.

[146] Ól. Þ. Kr. 1980, 55 (Ársrit S.Í.).

[147] Frá ystu nesjum II, 122-123.

[148] XIII. 5. A. 4. Kirkjust. Sæbólskirkju 1829-1889, vísitazíugerð 12.11.1834.

[149] Sama heimild.

[150] Sama heimild, vísitazíugerð  5.8.1852.

[151] Kirknasafn XIII. 5. A. 4. Kirkjust. Sæbólskirkju 1829-1889, vísitazíugerð 25.8.1885.

[152] D.I. XV, 574. Jarðab. Á. og P. VII, 91. J. Johnsen 1847, 194. Kirkjust. Sæbólsk. 1829-1889, vísitaszíur.

Kirkjureikninga- og vísitazíubók Sæbólskirkju fullgilt 14.8.1888, vísitazíur.

[153] Ól. Þ. Kr. 1980, 45 (Ársrit S.Í.).

[154] Sama heimild.

[155] Sama heimild.

[156] XIII. 5. A. 4. Kirkjust. Sæbólsk. 1829-1889, vísitazíugerð 23.6.1857.

[157] Sama heimild, vísitazíugerð 26.7.1858.

[158] Sama heimild.

[159] Kirknasafn XIII. 5. A. 4. Kirkjust. Sæbólsk. 1829-1889, vísitazíugerð 15.10.1859.

[160] Guðmundur Bernh. 1980, 11 (Ársrit S.Í.).

[161] Kirkjureikninga- og vísitazíubók Sæbólskirkju, fullgilt 14.8.1888.

[162] Sama heimild.

[163] G. Bernh. 1980,11.

[164] Ól. Þ. Kr. 1980, 19-59.

[165] D.I. XV, 574.

[166] Ól. Þ. Kr. 1980, 48 (Ársrit S.Í.).

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild, 50.

[169] Sama heimild.

[170] Guðm. og Guðni Ágústss. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993. Sigurv. Guðm. – Viðtal K.Ó. v. h. 28.6.1993.

[171] Ól. Þ. Kr. 1980, 52.

[172] Elísabet Anna Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 4.7.1993.

[173] Guðmundur Bernh. 1980, 13-14 (Ársrit S.Í.).

[174] Kirknasafn XIII. 5. A. 4. Kirkjust. Sæbólsk. 1829-1889., vísitazíugerð 1.12.1862.

[175] G. Bernh. 1980, 15.

[176] Sama heimild, 13-15.

[177] Ól. Þ. Kr. 1980, 48-49.

[178] Sama heimild.

[179] Guðmundur Bernh. 1980, 15 (Ársrit S.Í.).

[180] Ól. Þ. Kr. 1980, 45 (Ársrit S.Í.).

[181] Sama heimild, 46-47.

[182] Sama heimild.

[183] G. Bernh. 1980, 12.

[184] Kirkjureikninga- og vísitazíubók Sæbólskirkju, fullgilt 14.8.1888.

[185] G. Bernh. 1980, 15-16.

[186] Sama heimild, 16-17.

[187] Örn.skrá.

[188] Jóh. Dav. 1970, 115.

[189] Sóknalýs. Vestfj. II, 90.

[190] G.G. Hag. 1960, 84.

[191] Sama heimild.

[192] G. Bernh. 1980, 11 (Ársrit S.Í.).

[193] Sveinn Níelsson 1950, 190-191.

[194] Ól. Þ. Kr. 1980, 41-43 (Ársrit S.Í.).  Ísl. æviskrár III, 282 og I, 157.

[195] Ól. Þ. Kr. 1980, 42-43.

[196] Sama heimild.

[197] Sama heimild.

[198] Sveinn Níelsson 1950, 190-191.  Ísl. æviskrár I, 92-93 og III, 160-161.

[199] Ísl. æviskrár III, 160-161.

[200] Sama heimild.

[201] Sama heimild.

[202] Sama heimild.

[203] Sama heimild og Lbs. 23734to XVI, 1208-1215 (S.Gr.B. Prestaæfir).

[204] D.I. IV, 264-265 og VI, 41-43.

[205] Sama heimild.

[206] Arnór Sigurjónsson 1975, 110-117.

[207] Ól. Þ. Kr. 1980, 26 (Ársrit S.Í.).

[208] D.I. VII, 285-286.

[209] D.I. VIII, 217-218.

[210] Arnór Sigurjónsson 1975, 457.

[211] Sama heimild.

[212] D.I. IX, 368-370.

[213] Sama heimild.

[214] Ól. Þ. Kr. 1980, 29 (Ársrit S.Í.).

[215] Sama heimild, 29-30.

[216] Ísl. æviskrár V, 174-175.

[217] Sama heimild.

[218] D.I. IX, 457.

[219] D.I. XI, 526.

[220] Sama heimild og Ísl. æviskrár I, 221.

[221] D.I. XI, 526.

[222] Annálar I, 143.

[223] Sama heimild, 142.

[224] Sýslum.æfir IV, 98.

[225] Theódór Árnason 1968, 368 (Vestf. ættir IV).  D.I. XV, 473.

[226] D.I. XV, 473.

[227] Sama heimild, 522.

[228] Sama heimild.

[229] Ól. Þ. Kr. 1980, 32 (Ársrit S.Í.).  Ísl. æviskrár IV, 58.

[230] Annálar I, 143.

[231] Ísl. æviskrár IV, 379.

[232] Sama heimild.

[233] Sama heimild III, 460.

[234] Ól. Þ. Kr. 1980, 32-33 (Ársrit S.Í.).

[235] Sýslum.æifr III, 94.  Ísl. æviskrár IV, 379.

[236] Sýslum.æfir III, 88-89.

[237] Óskar Ein. 1951, 156-157.

[238] Lögréttum.tal, 497 og 503.

[239] Ól. Þ. Kr. 1980, 33 (Ársrit S.Í.).

[240] Sama heimild.

[241] Manntal 1703;  Ól. Þ. Kr. 1980, 57.

[242] Lögréttum.tal, 366-367 og 503.

[243] Sama heimild.

[244] Annálar III, 274.

[245] Lögréttum.tal, 503.

[246] Sama heimild, 25 og 506.

[247] Annálar III, 268.

[248] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681, jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[249] Manntal 1703.

[250] Sama heimild.

[251] Manntal 1703.

[252] Sýslum.æfir II, 73.  Lögréttum.tal, 337-338.

[253] Sömu heimildir og Ísl. æviskrár III, 432.

[254] Jarðab. Á. og P. VII, 87.

[255] Sama heimild VI, 67, 113, 262 og VII, 84, 87, 90, 249.

[256] Jarðab. Á. og P. VII, 87.

[257] Sama heimild VI, 67, 113, 262 og VII, 84, 87, 90, 249.

[258] Sama heimild.

[259] Sama heimild.

[260] Þorv. Thoroddsen 1919, 45 (Lýsing Ísl. III).

[261] Sama heimild.

[262] Jarðab. Á. og P. VII, 87-91.

[263] Sama heimild, 87-88.

[264] Sama heimild.

[265] Sama heimild.

[266] Ól. Þ. Kr. 1980, 33 (Ársrit S.Í.).

[267] Alþ.bækur Ísl. IX, 62.

[268] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, Holt í Önundarfirði, skjalabók 1484-1731, bls. 186-187.

[269] Sama heimild.

[270] Sama heimild.

[271] Sama heimild.

[272] Sama heimild.

[273] Bps. A. III. 3. – Prestastefnubók Skálholtsbiskupa 1698-1734.

[274] Sama heimild.

[275] Sama heimild.

[276] Lovsamling for Island I, 235.

[277] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, bréf séra Sigurðar Jónssonar, prófasts í Holti, 28.4.1699 til biskups.

[278] Sama heimild.

[279] Sama heimild.

[280] Sama heimild.

[281] Manntal 1703.

[282] Manntal 1703.

[283] Sama heimild.

[284] Sama heimild.

[285] Annálar IV, 334.

[286] Ól. Þ. Kr. 1980, 33 (Ársrit S.Í.).

[287] Sýslum.æfir II, 57-60.

[288] Jón Helgason 1958, 71 (Handritaspjall).

[289] Annálar IV, 282 − sbr. Ísl. æviskrár V, 25.

[290] Jón Helgason 1958, 71-73.

[291] Lögréttum.tal III, 337-338.

[292] Sama heimild.

[293] Manntal 1703.

[294] Ísl. Æviskrár III, 73-74 og V, 25.

[295] Sama heimild III, 432 og V, 25.

[296] Sama heimild III, 431.

[297] Ísl. æviskrár.

[298] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729 réttarhald á

Mýrum 17.-18.6.1727.

[299] Lbs. 4248vo, 109.  Þjóðsögur J.Á. V, 484, 503 og VI, 53, 57-58.

[300] Sama heimild.

[301] Sama heimild.

[302] Lbs. 4248vo.

[303] Lbs. 4248vo. Þjóðsögur J.Á. VI, 57-58.

[304] Lbs. 4248vo.

[305] Manntal 1860.

[306] Sama heimild.

[307] Prestsþj.b. Sandaprestakalls í Dýrafirði.

[308] Prestsþj.b. Staðarprestakalls í Steingrímsfirði..

[309] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[310] Sama heimild.

[311] Manntal 1835.

[312] Manntöl 1840, 1845 og 1860.

[313] Þjóðsögur Jóns Árnasonar V, 484.

[314] Jón M. Samsonarson 1964, I, XXXIX-XLIX, LXIV-LXXI, CCXXXIV.

[315] Jón M. Samsonarson 1964, I,  LXXXIII-LXXXIV.

[316] Sama heimild, LXXXIX.

[317] Sama heimild, LXXXVII-LXXXIX.

[318] Sama heimild.

[319] Sama heimild, XXXIV-XXXV.

[320] Sama heimild.

[321] Ársrit S.Í. 1957, 101.

[322] Örn.skrá.

[323] Sama heimild.

[324] Jarðab. Á. og P. VII, 87-89.

[325] Örn.skrá.

[326] Ársrit S.Í. 1957, 100.

[327] Alþ.bækur Ísl. XII, 129-130.

[328] Ól. Þ. Kr. 1980, 38 (Ársrit S.Í.).  Sbr. Árbækur Espólíns IX, 70.

[329] Manntal 1703.

[330] Lögréttum.tal, 489.

[331] Ísl. æviskrár.

[332] Sama heimild.

[333] Manntal 1801 – Vesturamt, bls. 269.

[334] Alþ.bækur Ísl. IX, 41-43. Sbr. Manntal 1703, Núpur í Dýrafirði og Ísl. æviskrár IV, 144.

[335] Alþ.bækur Ísl. IX, 147.

[336] Sama heimild, 241, 276-289, 343.

[337] Alþ.bækur Ísl. IX, 276.

[338] Alþingisbækur Íslands IX, 407.

[339] Sama heimild.

[340] Sama heimild, 483-485.

[341] Sama heimild.

[342] Sama heimild.

[343] Sama heimild, 508.

[344] Sama heimild, 547.

[345] Sama heimild, 554 og X, 1.

[346] Sama heimild X, 45 og 52.

[347] Alþ.bækur Ísl. X, 52.

[348] Alþ.bækur Ísl. X, 105, 161, 205, 231, 293, 335 og 411.

[349] Sama heimild IX, 508-511 og X, 470-471, 475-476.  Sbr. Lögréttum.tal.

[350] Ísl. æviskrár III, 433.

[351] Sama heimild.

[352] Lbs. 17, fol. Bréf Snæbjörns Pálssonar júlí 1707 til Páls Vídalín lögmanns.

[353] Sama heimild.

[354] Sama heimild.

[355] Alþ.bækur Ísl. IX, 406-599.

[356] Jarðab. Á. og P. VII, 194.

[357] Jarðab. Á. og P. VII, 194.

[358] Jóh.Gunnar Ól. 1960, 74-80 (Ársrit S.Í.).

[359] Sama heimild.

[360] Sama heimild.

[361] Sama heimild.

[362] Sama heimild.

[363] Sama heimild.

[364] JS. 2914to „Þáttur Mála-Snæbjörns” eftir Gísla Konráðsson.

[365] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Snæbjörns Pálssonar 20.7.1721 til konungs.

[366] Jóh.Gunnar Ól. 1960, 74-80 (Ársrit S.Í.). Alþ.bækur Íslands XI, 127.

[367] Bps. A. II. 17. – biskupsvísitazía 28.8.1725 á Mýrum og Kirkjust. Mýrak. biskupsvísitazía 11.9.1749.

[368] JS. 2914to,  „Þáttur Mála-Snæbjörns” eftir Gísla Konráðsson.

[369] Ísl. æviskrár og Sýslum.æfir III, 89 og V, 532.

[370] Alþ.bækur Ísl. XI, 162.

[371] Sama heimild.

[372] Sama heimild, 364 og 370.

[373] Sama heimild XII, 41 og 129-130.

[374] Skj.s. Stiftamtm. III. nr. 176, Bréf Þorkötlu Jónsdóttur 22.6.1721 til Friðriks konungs IV.

[375] Sama heimild.

[376] JS. 2914to,  „Þáttur Mála-Snæbjörns” eftir Gísla Konráðsson.

[377] Sama heimild.

[378] Jóh.Gunnar Ól. 1960, 81 (Ársrit S.Í.).

[379] Alþ.bækur Ísl. XI, 361-372, XII, 41 og 128-130 og XIII, 66-68 og 97-101.

[380] Sama heimild IX, 544.  Skj.s. amtm. I. nr. 72A  bréf Eggerts Sæm. 8.9.1708 til Chr. Müller,  amtm.

[381] Jóh.Gunnar Ól. 1960, 78-80, 86-91 (Ársrit S.Í.).

[382] Sama heimild.

[383] Alþ.bækur Ísl. X, 475, XI, 5 og 61.

[384] Alþ.b. Ísl. XI, 117.

[385] Sama heimild, 119, 123-136.

[386] Sama heimild, 211.

[387] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222  vitnisburður Guðbr. Sigurðss. o.fl. v. réttarh. á Mýrum 30.5. og 22.9.1722.

[388] Alþ.bækur Ísl. XI, 126.

[389] Sama heimild, 123-136.

[390] Sama heimild.

[391] Alþ.bækur Ísl. XI, 123-136.

[392] Sama heimild.

[393] Sama heimild, 144-145.

[394] Sama heimild, 146.

[395] Sama heimild.

[396] Alþ.bækur Ísl. XI, 369.

[397] Lbs. 17, fol., Bréf Snæbjörns Pálssonar 3.8.1723 til Orms Daðasonar.

[398] Sama handritasafn, bréf sama 13.8.1723 til sama.

[399] Alþ.bækur Ísl. XI, 211 og 309.

[400] Sama heimild, 368.

[401] Sama heimild, 211.

[402] Gísli Gunnarss. 1987, 258.

[403] Alþ.bækur Ísl. XI, 210-211, 309-310.

[404] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222,  samningur Orms Daðasonar og Þorkötlu Jónsdóttur frá 30.8.1723. Sbr.

Alþ.bækur Ísl. XI, 369.

[405] Sama heimild.

[406] Skj.s. atiftamtm. III. nr. 222,  samningur Orms Daðasonar og Þorkötlu Jónsdóttur frá 30.8.1723. Sbr.

Alþ.bækur Ísl. XI, 369.

[407] Alþ.bækur Ísl. XI, 309-310 og 369-370.

[408] Sama heimild, 309-310.

[409] Sama heimild, 227.

[410] Sama heimild, 210-212.

[411] Sama heimild.

[412] Sama heimild.

[413] Alþ.bækur Ísl. XI, 211.

[414] Lbs. 9414to.

[415] Alþ.bækur Ísl. XI, 211.

[416] Sama heimild.

[417] Sama heimild, 179.  Lögréttum.tal, 417-418, 489.

[418] Alþ.bækur Ísl. XI, 181, 171-232.

[419] Alþ.bækur XI, 211-212.

[420] Sama heimild.

[421] Sama heimild, 309-310, 361-372.  Ísl. æviskrár IV, 255.  Lögréttum.tal, 475.

[422] Sömu heimildir.

[423] Alþ.bækur Ísl. XI, 363.

[424] Sama heimild, 368-369.

[425] Sama heimild, 361-372.

[426] Alþ.bækur Ísl. XI, 363. Sbr. sama 368-370.

[427] Sama heimild.

[428] Sama heimild, 364, 370.

[429] Ísl. æviskrár III, 455-456.

[430] Sama heimild

[431] Alþ.bækur Ísl. XI, 242, 306-315, 361-372.

[432] Sama heimild, 263-264.

[433] Sama heimild.

[434] Annálar VI, 405  sbr. VI, 498.

[435] Alþ.bækur Ísl. XI, 253.

[436] Alþ.bækur Ísl. XI, 309.  JS. 2914to  „Þáttur Mála-Snæbjörns” eftir Gísla Konráðsson.

[437] Alþ.bækur Ísl. XI, 309-315.

[438] Sama h eimild, 361-372.

[439] Sama heimild.

[440] Sama heimild, 371-372.

[441] Sama heimild.

[442] Sama heimild.

[443] AM. 9954to, I, 18 (Jón Ólafsson frá Grunnavík).

[444] Sama heimild.

[445] Sbr. Ísl. æviskrár IV, 39-40.

[446] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222. Dómur yfirréttar 22.7.1728.  Sbr. Alþ.bækur Ísl. XI, 458 og 545.

[447] Jóh. Gunnar Ól. 1960, 81 (Ársrit S.Í.). JS. 2914to Þáttur Mála-Snæbjörns eftir Gísla Konráðsson.

[448] JS. 2914to Þáttur Mála-Snæbjörns eftir Gísla Konráðsson.

[449] Skj.s. stiftamtm. III nr. 176, bréf Snæbjörns Pálssonar er hann ritaði stiftamtmanni á árunum 1729 og

1730 og bréf Markúsar Bergssonar 16.8.1732 til Henriks Ocksen stiftamtm.

[450] Sama askja, bréf Snæbjörns Pálssonar 16. og 20.5.1730 til Chr. Gyldencrone stiftamtmanns.

[451] Sama askja, bréf Þorkötlu Jónsdóttur 6.9.1729 til Chr. Gyldencrone stiftamtmanns.

[452] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 222. Eftirrit héraðsþingbókar af réttarhaldi sem fram fór á Mýrum í Dýrafirði

14.9.1729.

[453] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 222. Eftirrit héraðsþingbókar af réttarhaldi sem fram fór á Mýrum í Dýrafirði

14.9.1729.

[454] Sama heimild.

[455] Sama heimild og KA 10 – Kansellískjöl 1728-1731, bréf Chr. Gyldencrone baróns 3.12.1729 til Friðriks

konungs IV. Skj.s. stiftamtm. III nr. 222, vitnaleiðslur við héraðsþing á Mýrum 16.6.1727.

[456] AM 9954to I, 18.

[457] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 5, bréf Friðriks konungs IV 6.5.1729 til Chr. Gyldencrone stiftamtm. Sama

skjalasafn I, nr. 8, bréf Chr. Gyldencrone stiftamtmanns 14.5.1729 til N. Fuhrmann amtmanns. KA 10,

bréf sama 3.12.1729 til Friðriks konungs IV.

[458] Annálar VI, 408.

[459] KA 10 – Kansellískjöl 1728-1731, bréf Chr. Gyldencrone baróns 3.12.1729 til Friðriks konungs IV. Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar sýslum. 22.9.1729 til Chr. Gyldencrone stiftamtm.

[460] Sama heimild og Skj.s. stiftamtm. I. nr. 8, bréf Chr. Gyldencrone stiftamtm. 20.2.1730 til Friðriks konungs IV.

[461] JS. 2914to Þáttur Mála-Snæbjörns eftir Gísla Konráðsson.  Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Snæbjörns Pálssonar 17.12.1729 til Chr. Gyldencrone stiftamtmanns.

[462] JS. 2914to Þáttur Mála-Snæbjörns eftir GK.

[463] Sama heimild.

[464] Sama heimild.

[465] Sama heimild og Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Snæbjörns Pálssonar 17.12.1729 til Chr. Gyldencrone stiftamtmanns.

[466] Sömu heimildir.

[467] Sömu heimildir.

[468] Jóh. Gunnar Ól. 1960, 82 (Ársrit S.Í.).

[469] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222, orð rituð á afrit af tilskipun Friðriks konungs IV frá 6.5.1729 um að réttvísin veiti Snæbirni tiltal.

[470] Sama skjal.

[471] Annálar VI, 408.

[472] KA 10 – Kansellískjöl 1728-1731, bréf Chr. Gyldencrone baróns 3.12.1729 til Friðriks konungs IV.

[473] Sama bréf.

[474] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Snæbjörns Pálssonar 17.12.1729 til Chr. Gyldencrone stiftamtmanni.

[475] Sama heimild.

[476] Alþ.bækur Íslands IX, 276. Jarðab. Á. og P. VII, 78.

[477] AM. 9954to I og II.

[478] Ísl. æviskrár III, 238.

[479] AM 9954to,  I, 19.

[480] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 5, bréf Friðriks konungs IV 10.2.1730 til Chr. Gyldencrone, stiftamtm.

[481] Skj.s. stiftamtm. I. nr. 8, bréf Chr. Gyldencrone stiftamtm. 16.2.1730 til H. Kröyer, bæjarfóg. í K.höfn.

[482] Sama heimild.

[483] Sama heimild.

[484] Skj.s.stiftamtm. III. nr. 176, bréf Snæbjörns Pálssonar 22.5.1730 til Chr. Gyldencrone stiftamtm.

[485] Sama askja, nokkur bréf Snæbjörns Pálssonar rituð í maí 1730 til Chr. Gyldencrone stiftamtm. AM. 9954to I, 29-30.

[486] Verner Dahlerup: Ordbog over det danske sprog XX, 612 og I, 847.

[487] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, sex bréf Snæbjörns Pálssonar, rituð í maímánuði árið 1730 og send Chr. Gyldencrone, stiftamtmanni.

[488] Sama heimild; sbr. í sömu öskju, bréf Snæbj. Pálssonar 17.12.1729 og 5.1.1730 til stiftamtmanns

[489] Annálar VI, 409 og 500.

[490]AM 9954to ,I, 29-30.

[491] KA 10. – Konungsúrskurður frá 1.5.1730.

[492] Sama heimild.

[493] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222, bréf Friðriks konungs IV 1.5.1730 til Chr. Gyldencrone stiftamtmanns.

[494] Sama heimild.

[495] Skj.s. stiftamtm. I. nr. 8, bréf Chr. Gyldencrone stiftamtm. 14.5.1730 til Hermans Kröyer, bæjarfógeta í Kaupm.höfn.

[496] Sama bréfabók, – bréf Chr. Gyldencrone 14.5.1730 til Hafnarfjarðarkaupmanna.

[497] Skj.s. stiftamtm. I. nr. 8, bréf Chr. Gyldencrone stiftamtm. 13.5.1730 til Jóns Árnasonar biskups.

[498] Sama heimild.

[499] AM. 9954to I, 29-30.

[500] Skj.s.stiftamtm. III. nr. 176, tvö bréf Snæbjörns Pálssonar 21.9.1730 til Chr. Gyldencrone stiftamtmanns. Sama askja, bréf Markúsar Bergssonar 16.8.1731, 16.8.1732, 5.8.1733 og 4.8.1734 til Henriks Ocksen stiftamtmanns.

[501] Sama askja, bréf Snæbjörns Pálssonar 21.9.1730 til Chr. Gyldencrone stiftamtm.

[502] Sama heimild.

[503] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222, bréf Þorkötlu Jónsdóttur 20.6.1730 til séra Bjarna Jónssonar á Mýrum og yfirlýsing hans, dagsett 25.6.1730, rituð á sama bréf.

[504] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222, bréf séra Bjarna Jónssonar 1.9.1730 til Markúsar Bergssonar sýslumanns.

[505] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 222, bréf séra Bjarna Jónssonar 1.9.1730 til Markúsar aBergssonar sýslumanns.

[506] Sama askja, annað bréf Snæbjörns Pálssonar 21.9.1730 til Chr. Gyldencrone stiftamtmanns.

[507] Sama heimild.

[508] Lögr.m.tal, 579.

[509] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222, bréf Sn.P. 21.9.1730 til Chr. Gyldencrone stiftamtm.

[510] Sama heimild.

[511] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222, bréf Sn.P. 21.9.1730 til Chr. Gyldencrone stiftamtm.

[512] Skjs. stiftamtm. III. nr. 70, bréf Jóns Árnasonar biskups 21.7. og 24.7. 1731 til Snæbj. Pálssonar, afrit.

[513] KA. 10, bréf N. Fuhrmanns amtmanns 12.9.1730 til Friðriks konungs IV. Sbr. Skj.s. stiftamtm. III. nr. 70, bréf sama 19.9. og 2.10.1732, bæði til H.Ocksen stiftamtmanns.

[514] KA. 10, bréf Henriks Ocksen stiftamtm. 17.2.1731 til Nielsar Fuhrmann amtmanns. Sbr. Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222, bréf Kristjáns konungs VI 30.3.1731 til H. Ocksen stiftamtmanns.

[515] KA. 10, bréf Henriks Ocksen stiftamtm. 17.2.1731 til Nielsar Fuhrmann amtmanns. Sbr. Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222, bréf Kristjáns konungs VI 30.3.1731 til H. Ocksen stiftamtmanns.

[516] E.Lax 1977, 219.

[517] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar sýslum. 16.8.1731 til H. Ocksen stiftamtmanns.

[518] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 5, bréf Kristjáns konungs VI 11.1.1732 til Henriks Ocksen stiftamtmanns. Skj.s. stiftamtm. I. nr. 8, bréf H. Ocksen stiftamtmanns 19.4.1732 til N. Fuhrmann amtmanns.

[519] AM. 9954to I, 71.

[520] Skj.s. stiftamtm. I. nr. 8, bréf H. Ocksen stiftamtmanns 20.5.1733 til N. Fuhrmann amtmanns.

[521] Sama heimild.

[522] Páll Eggert Ólason 1943, 143 (Saga Ísl. VI).

[523] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar sýslumanns 5.8.1733, 4.8.1734 og 3.8.1735  til H. Ocksen stiftamtmanns.

[524] Sama askja, bréf sama 16.8.1731, 16.8.1732, 5.8.1733 og 4.8.1734 til sama.

[525] JS. 96 fol., bréf Snæbjörns Pálssonar 29.11.1731 til Nielsar Fuhrmann amtmanns.

[526] Sama heimild.

[527] JS. 96 fol., bréf Nielsar Fuhrmann 30.11.1731, að því er ætla má sent Snæbirni.

[528] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar sýslum. 16.8.1731 til Henriks Ocksen stiftamtm.

[529] Sama askja, bréf sama 16.8.1732 og 5.8.1733 til sama.

[530] Sama heimild.

[531] Sama heimild.

[532] Skj.s. stiftamtm. I. nr. 9, bréf H. Ocksen stiftamtmanns 1.5.1734 til Markúsar Bergssonar sýslumanns.

[533] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar 4.8.1734 til Henriks Ocksen.

[534] Sama heimild.

[535] Sama heimild.

[536] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar 4.8.1734 til Henriks Ocksen stiftamtmanns.

[537] AM. 9954to I, 93. Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Snæbjörns Pálssonar 23.8.1736 til Henriks Ocksen stiftamtmanns. Sbr. Alþ.bækur Íslands XII, 214.

[538] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 222, bréf Orms Daðasonar sýslumanns, dagsett 18.7.1735 og lagt fyrir yfirréttinn sama dag.

[539] AM. 9954to I, 93.

[540] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar sýslum. 3.8.1735 til Henriks Ocksen stiftamtm.

[541] Lovsamling for Island II, 169-171.

[542] Lovsamling for Island II, 169-171.

[543] E. Lax. 1987, 157.

[544] Sama heimild.

[545] Sama heimild.

[546] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar sýslum. 3.8.1735 til Henriks Ocksen stiftamtm.

[547] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 70, bréf J.H. Laffrentz amtmanns 10.8.1735 til H. Ocksen stiftamtmanns.

[548] Sama heimild.

[549] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, bréf Snæbjörns Pálssonar 25.8.1734 til Henriks Ocksen stiftamtmanns. Skj.s. stiftamtm. I. nr. 9, bréf H.Ocksen stiftamtm. 24.3.1735 til Kristjáns konungs VI.

[550] Sama heimild og sama askja, bréf H. Ocksen 16.5.1735 til Markúsar Bergssonar sýslumanns. Sbr. Skj.s. stiftamtm. III, nr. 176, bréf Markúsar Bergssonar sýslumanns 4.8.1734 til H. Ocksen stiftamtm.

[551] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 5 og 6 – og I. nr. 9 og 10.

[552] AM. 9954to I, 105.

[553] AM. 9954to I og II.

[554] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 6, bréf Kristjáns konungs VI 26.4.1737 til Jóns Árnasonar biskups.

[555] Sama heimild.

[556] Alþ.bækur Íslands XII, 41.

[557] Sama heimild.

[558] Sama heimild.

[559] Alþ.bækur Íslands XII, 129-130.

[560] Alþ.bækur Íslands XII, 129-130.

[561] Sama heimild.

[562] Sama heimild.

[563] Sama heimild, 128.

[564] Sama heimild.

[565] Ísl. æviskrár II, 234-235 og III, 474-475.

[566] Alþ.bækur Íslands XIII, 67-68.

[567] Alþ.bækur Íslands XIII, 67-68.

[568] Sama heimild, 66-67 og Skj.s. stiftamtm. III. nr. 223, samningur um kaup á jörðinni Sæbóli, dagsettur 8.6.1741.

[569] Alþ.bækur Íslands XIII, 97-101.

[570] Alþ.bækur Íslands XIII, 97-101.

[571] Sama heimild.

[572] Manntal 1762.

[573] Sama heimild.

[574] Alþ.bækur Íslands XIII, 66-67.

[575] Sama heimild.

[576] Ól.Þ.Kr. 1980, 40 (Ársrit S.Í.).

[577] Alþ.bækur Íslands XIII, 57-66.

[578] Árbækur Espólíns IX, 111.

[579] Sama heimild.

[580] Manntal 1762, Vesturamt.

[581] Manntal 1762, Vesturamt.

[582] Sama heimild.

[583] Jarðabók Á. og P. VII.

[584] Manntal 1762, Vesturamt og Jarðabók Á. og P. VII.

[585] Sömu heimildir.

[586] Manntal 1762, Vesturamt.

[587] Sama heimild og Jarðabók Á og P. VII.

[588] Sömu heimildir.

[589] Sömu heimildir.

[590] JS. 2914to “Þáttur Mála-Snæbjörns” eftir Gísla Konráðsson.

[591] Lögr.mannatal, 489.

[592] Sama heimild.

[593] Manntal 1801, Vesturamt, 269. Sbr. hér Kirkjuból  í Dýrafirði og Arnarnes.

[594] Lögr.mannatal, 489.

[595] Jarða- og bændatal úr Ísafjarðarsýslu frá árinu 1753.

[596] Alþ.bækur Íslands XII, 530-532 og 539.

[597] Sama heimild.

[598] Sama heimild.

[599] Alþ.bækur Íslands XII, 530-532 og 539.

[600] Manntal 1762.

[601] Sama heimild.

[602] Sama heimild.

[603] Manntal 1762.

[604] Sama heimild.

[605] Manntal 1801, Vesturamt, 269.

[606] Ísl. æviskrár IV, 310.

[607] Óskar Einarsson 1951, 46.

[608] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Holtsprestakalls í Önundarfirði.

[609] Sömu heimildir.

[610] Sömu heimildir.

[611] Kirknasafn XIII, 3E, minnisbók séra Hákonar Snæbj.sonar frá árunum 1746-1794.

[612] Annálar V, 351.

[613] Annálar VI, 470.

[614] Manntal 1801, Vesturamt, 297.

[615] Ísl. æviskrár III, 54.

[616] Ísl. æviskrár III, 54.

[617] Prestsþj.bækur Holts í Önundarfirði, Dýrafj.þinga og Eyrar í Skutulsfirði – skrár yfir dána árið 1813.

[618] Ól. Þ. Kr. 1980, 41 (Ársrit S.Í.). Jóh. Dav. 1970, 100-104 (Ársrit S.Í.).

[619] Jarðab. Á. og P. VII, 87-89. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.s. um 1735, eftirrit.

[620] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit. Manntal 1801.

[621] Manntal 1762.

[622] Sama heimild.

[623] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[624] Sömu heimildir.

[625] Manntal 1801.

[626] Annálar VI, 216. Alþ.bækur Ísl. XV, 596.

[627] Alþ.bækur Ísl. XV, 596.

[628] Alþ.bækur Ísl. VIII, 406.

[629] Ísl. æviskrár I, 92-93.

[630] Lbs. 12884to, bls. 57-61 (Vestfirðingasaga Gísla Konráðssonar).

[631] Lbs. 12884to, bls. 57-61. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825. Prestsþj.b.

Dýrafj.þinga, dánir 1812.

[632] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[633] Sama heimild.

[634] Lbs. 12884to, bls. 57-61. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[635] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[636] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[637] Sömu heimildir.

[638] Sömu heimildir.

[639] Lbs. 12884to, bls. 57-61 (Vestfirðingasaga Gísla Konráðssonar).

[640] Sama heimild.

[641] JS 3054to, bls. 210-213, sbr. handritaskrá Landsbókasafns Íslands.

[642] Blanda IV, 160-163. Frá ystu nesjum II, 122-129.

[643] Lbs. 12884to, bls. 57-61, sbr. Manntal 1845.

[644] Lbs. 12884to, bls. 57-61 (Vestfirðingasaga Gísla Konráðssonar).

[645] Frá ystu nesjum II, 126.

[646] Sama heimild, 122-123. Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[647] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga og Holts í Önundarf.

[648] G.G. Hag. 1951, 9-10. Manntal 1801.

[649] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1805.

[650] Sama heimild.

[651] G.G. Hag. 1951, 14-16.

[652] Séra Jón Ólafsson 1961, 122 (Ársrit S.Í.).

[653] Sama heimild.

[654] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[655] Alþ.bækur Ísl. XVII, 333.

[656] Ísl. æviskrár III, 187-188.

[657] Alþ.bækur Ísl. XVII, 333.

[658] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[659] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[660] Sama heimild.

[661] Séra Jón Ólafsson 1961, 122.

[662] Manntal 1816 V, 700.

[663] Manntal 1801, vesturamt, bls. 301.

[664] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 8. Skiptabók 1848-1855. Skipti á dánarbúi Jóns Bjarnasonar á Sæbóli

28.4.1855.

[665] Sama heimild.

[666] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[667] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[668] XIII. 5. A. 4. Kirkjustóll Sæbólskirkju 1829-1889, vísitazíugerð 12.11.1834.

[669] Séra Jón Ólafsson 1961, 122-123.

[670] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[671] Manntal 1845.

[672] Frá ystu nesjum V, 126. VA III, 408-410, búnaðarsk. 1839-1845. Skj.s. sýslum. sv.stj. Ís. XX. 2. ,

búnaðarsk. 1850.

[673] Frá ystu nesjum I, 120-121 og V, 126-127.

[674] Ársrit S.Í. 1960, 61, sbr. sama rit 1961, 122-125. Frá ystu nesjum I, 120-121 og V, 126-127.

[675] Frá ystu nesjum V, 127.

[676] Sama heimild.

[677] Sama heimild.

[678] J.Johnsen 1847, 194.

[679] Sóknalýs. Vestfj. II, 91.

[680] Manntal 1845.

[681] Manntal 1845.

[682] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2., búnaðarskýrsla vorið 1850.

[683] Sama heimild.

[684] Sama heimild.

[685] Sama heimild.

[686] Sama heimild. V-Ís. 4. Mýrahreppur, hreppsbók 1849-1883.

[687] Sama heimild.

[688] Manntal 1860 og Frá ystu nesjum V, 126.

[689] Manntal 1860.

[690] Jóh. Dav. 1960, 60-61 (Ársrit S.Í.).

[691] Sama heimild.

[692] Sama heimild.

[693] Jóh. Dav. 1960, 58-59. Sbr. Frá ystu nesjum V, 128-129.

[694] Jóh. Dav./Sunnudagsbl. Tímans 22.9.1973.

[695] Sama heimild.

[696] Sama heimild og Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[697] Jóh. Dav./Sunnudagsbl. Tímans 22.9.1973.

[698] Sama heimild og Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[699] Jóh. Dav. /Sunnudagsbl. Tímans 22.9.1973.

[700] Sama heimild.

[701] Sama heimild.

[702] Frá ystu nesjum V, 126.

[703] S.Gr.B. 1924, 124 (Blanda III). Jóh. Dav. 1968, 62 (Ársrit S.Í.).

[704] Jóh. Dav. 1968, 62 (Ársrit S.Í.).

[705] S.Gr.B. 1924, 124 (Blanda III).

[706] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[707] Jóh. Dav. 1968, 62 (Ársrit S.Í.).

[708] S.Gr.B. 1924, 124 (Blanda III).

[709] Sama heimild.

[710] Frá ystu nesjum V, 126. Manntal 1845.

[711] S.Gr.B. 1924, 124 (Blanda III).

[712] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 1.6.1881.

[713] Kirknasafn XIII. 5. A. 4. Kirkjustóll Sæbólskirkju 1829-1889, vísitazíugerð 21.8.1882.

[714] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[715] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 16.10.1882.

[716] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[717] Skj.s. landsh. III, búnaðarskýrsla Mýrahrepps fyrir fardagaárið 1882-1883.

[718] Sama heimild.

[719] Tölfræðihandbók 1984, 69.

[720] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 3.5.1884.

[721] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[722] Sama heimild.

[723] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri.

[724] Sama heimild.

[725] Sbr. Gils Guðmundsson/Skútuöldin IV, 211-215.

[726] Vestf. ættir I, 237-238.

[727] Sbr. Vestf. ættir I, 237-238.

[728] Jóh. Dav. 1978, 147 (Ársrit S.Í.).

[729] Manntal 1901, fylgiskjöl I og II með manntali úr Sæbólssókn.

[730] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 18.8.1881, 13.10.1882 og 15.3.1888.

[731] Manntal 1890.

[732] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 16.11.1892, sbr. Prestsþj.b. Dýrafj.þinga, hjónavígsla 17.11.1892.

[733] Jóh. Dav. 1970, 115-116 (Ársrit S.Í.).

[734] Manntal 1901.

[735] Sama heimild.

[736] Lbs. 22184to, Dagb. Magnúsar Hjaltasonar 9.3.1899.

[737] Frá ystu nesjum IV, 113-116.

[738] Jóh. Dav. 1970, 116-117.

[739] Stjórnartíðindi 1888 B, bls. 95.

[740] Jóh. Dav. 1978, 147 (Ársrit S.Í.).

[741] Sama heimild.

[742] G.G. Hag. 1960, 33.

[743] Sama heimild.

[744] Jóh. Dav. 1970, 115 (Ársrit S.Í.).

[745] Jóh. Dav. 1970, 116.

[746] G.G. Hag. 1951, 9-10 og 14 og 16.

[747] Örn.skrá.

[748] Óskar Ein. 1951, 160.

[749] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1993.

[750] Örn.skrá.

[751] Sama heimild.

[752] Sama heimild.

[753] Sama heimild.

[754] Óskar Ein. 1951, 160.

[755] Óskar Ein. 1951, 160.

[756] Sama heimild.

[757] Sama heimild.

[758] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[759] Óskar Ein. 1951, 160.

[760] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[761] Sama heimild.

[762] Sama heimild.

[763] Sama heimild.

[764] G.G. Hag. 1960, 44.

[765] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[766] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[767] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[768] Sama heimild.

[769] Sama heimild.

[770] Sama heimild.

[771] Sama heimild.

[772] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[773] Sama heimild.

[774] Sama heimild.

[775] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[776] Örn.skrá.

[777] Óskar Ein. 1951, 160.

[778] Morgunblaðið 22.4.1969.

[779] Örn.skrá.

[780] Sama heimild.

[781] Sama heimild.

[782] Sama heimild.

[783] Sama heimild.

[784] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »