Frá Skálará er aðeins steinsnar að Saurum, fremsta bæ í Keldudal. Hér á Saurum bjó Þorkell, sonur Eiríks landnámsmanns í Keldudal, ef marka má frásögn Gísla sögu Súrssonar,[1] en hvergi er frá því greint hvar í dalnum Eiríkur faðir hans bjó. Er Þorbjörn súr, faðir Gísla, kom frá Súrnadal í Noregi í Dýrafjörð segir sagan að Þorkell á Saurum hafi selt honum land í Haukadal.[2] Haukadalur var þó alls ekki í landnámi Eiríks í Keldudal, ef marka má frásögn Landnámabókar (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli), en engin skýring er gefin á því hvernig Þorkell á Saurum eignaðist þar land. Fátt er sagt frá Þorkatli Eiríkssyni í Gísla sögu en þó er ljóst að milli þeirra Gísla hefur verið gott vinfengi. Er Gísli fór í útlegðina seldi hann Þorkatli land sitt og á útlegðarárunum dvaldist hann stundum hjá þessum vini sínum á Saurum.[3] Í öðrum fornritum er Saura hvergi getið og ekki heldur Þorkels Eiríkssonar.
Af Þorkatli fer annars fáum sögum. Í Sturlubók Landnámu er þó rakin ætt frá honum til Guðmundar gríss Ámundasonar er bjó um 1200 á Þingvöllum við Öxará[4] en Guðmundur var afi Gizurar jarls Þorvaldssonar. Sé ættrakningin rétt hjá Sturlu var Gizur jarl tíundi ættliður frá vini Gísla Súrssonar hér á Saurum.
Saurar í Keldudal eru önnur tveggja jarða í Ísafjarðarsýslu með því nafni en hin er í Álftafirði við Djúp. Orðin saur og seyra eru náskyld en síðarnefnda orðið getur meðal annars merkt kelda eða dý.[5] Vera má að orðið saur í bæjanöfnum gefi því fyrst og fremst til kynna að þar sé eða hafi verið votlent.[6] Sú kenning á einkar vel við hér á Saurum í Keldudal því að í landareigninni eru mörg afætudý [7] og í heimild frá 19. öld er túnið á Saurum sagt vera vatni umflotið og engjarnar líka.[8]
Önnur hugsanleg skýring á bæjarnafninu Saurum er sú að það tengist frjósemisdýrkun eða svínaeldi en orðið sýr, sem merkir gylta, var eitt af nöfnum frjósemisgyðjunnar Freyju.[9] Hér er vert að minna á að Þorbjörn súr Þorkelsson, faðir Gísla Súrssonar, fluttist til Dýrafjarðar úr Súrnadal í Noregi[10] og sú var meining fræðimannsins Guðbrands Vigfússonar í Oxford að hvarvetna á Íslandi og í Noregi þar sem finnast bæjaheiti eða örnefni kennd við súr eða saur eigi þau rætur að rekja til frjósemisdýrkunar, Freyjublóta og átrúnaðar á Freyju.[11] Barði Guðmundsson vakti síðar upp þessa kenningu Guðbrands og mælti fyrir henni af kappi í ritgerð sinni Skáld, svín, saurbýli.[12]
Að fornu mati töldust Saurar vera 12 hundraða jörð. Árið 1367 hafði kirkjan í Hrauni eignast hálfa Saura[13] og í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397 er tekið fram að Þorlákskirkja í Hrauni eigi hálft land á Saurum. Á 15. öld virðist hálflenda þessi hafa gengið undan kirkjunni um skeið því árið 1446 er öll jörðin á Saurum með þremur kúgildum talin meðal eigna Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum[14] og við arfaskipti eftir Björn Þorleifsson hirðstjóra árið 1467 komu Saurar í hlut Einars sonar hans.[15] Einni öld síðar, um 1570, hafði Hraunskirkja hins vegar eignast Saura á ný og þá alla jörðina.[16] Næstu aldir var jörðin jafnan í eigu Hraunskirkju[17] allt þar til á árunum kringum 1890.[18] Þrjú og hálft kúgildi fylgdi jörðinni árið 1710 og þá varð bóndinn á Saurum að greiða hálfa smjörvætt (20 kíló) í leigu eftir kúgildin og færa allt þetta smjör prestinum á Söndum.[19] Um miðja 19. öld voru 60 kíló af smjöri talin jafngilda kýrverði[20] og hafi þau hlutföll verið svipuð í byrjun 18. aldar, sem líklegt er, hefur smjörgjaldið frá Saurum samsvarað 9,5% vöxtum. Á Saurum var útigangur talinn í skárra lagi árið 1710[21] og um 1840 var heyskapur sagður nægur og góður en tún og engjar umflotin vatni.[22] Jörðin fór í eyði árið 1933 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 163). Steyptur skorsteinn liggur nú í bæjartóttinni en síðasti bærinn sem hér stóð mun aðeins hafa verið eitt herbergi og eldhús.[23]
Eins og fyrr var getið áttu Saurar land fram að Þverá sem kemur úr Álftaskál (sjá hér Hraun) en þangað fram eftir eru nær tveir kílómetrar frá bæjarrústunum. Heimantil við Þverá og dálítið upp með henni eru rústir af beitarhúsum en þarna var fé enn haldið til beitar að vetrarlagi á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.[24] Þórarinn Vagnsson, sem síðar bjó í Hrauni og fæddur var árið 1893, sagði svo frá að hann hefði á yngri árum verið beitarhúsamaður hér fram við Þverá.[25] Líklegt er að Þórarinn hafi staðið hér yfir sauðum einhvern tíma á árunum 1913-1918 en hann var þá ýmist vinnumaður eða lausamaður í Hrauni.[26] Ein tóttanna sem hér eru er nýlegust en einnig eru sjáanlegar a.m.k. tvær eldri tóttir sem standa hlið við hlið ásamt því sem eftir er af gamalli fjárrétt. Réttin virðist hafa verið um það bil 4 x 4 metrar að flatarmáli en húsin 5-7 metrar á lengd, hvort um sig.
Aðrar tóttir eru líka lítið eitt neðar við Þverá og mjög skammt frá ármótunum þar sem Þverá mætir Langá. Þarna eru sjáanlegar a.m.k. fjórar tóttir, flestir 3-4 metrar á lengd og rétt hjá eru leifar af kví eða rétt. Líklegast er að þetta séu seltóttir. Á fyrri hluta tuttugustu aldar munu sumir heimamenn í Keldudal hafa talið að Hraunssel hafi verið hér[27] en slíkt verður að telja harla ólíklegt því þessar tóttir eru rétt heiman við Þverá og þar með í landi Saura. Miklu líklegra er að hér hafi verið sel frá Saurum en Hraunsselið hafi verið þar sem áður var frá sagt, hér örskammt frá en þó framan við Þverá þar sem Hraun átti land (sjá hér Hraun).
Frá Saurum förum við yfir Langá og niður að Arnarnúpi en milli þessara tveggja bæja er rösklega einn kílómetri.
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Íslensk fornrit VI, 14.
[2] Sama heimild, 36.
[3] Sama heimild, 64 og 69.
[4] Íslensk fornrit I, 178-179.
[5] Ásgeir Blöndal Magnússon 1989, 799 og 808.
[6] Sbr. Ísl. fornrit I, 156.
[7] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 34.
[8] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 58.
[9] Ásgeir Blöndal Magnússon 1989, 1011. Sbr. Barði Guðmundsson 1959, 124-140.
[10] Ísl. fornrit VI, 3-37.
[11] Guðbrandur Vigfússon / Safn til sögu Íslands 1853, I, 363.
[12] Barði Guðmundsson 1959, 124-140.
[13] D.I. III, 228.
[14] D.I. IV, 688.
[15] D.I. V, 502.
[16] D.I. XV, 577.
[17] Jarðab. Á. og P. VII, 34. J. Johnsen 1847, 192.
[18] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 8. Hraunskirkja vísiteruð 13.9. 1887og 20.9. 1894.
[19] Jarðab. Á. og P. VII, 34.
[20] Skýrslur um landshagi I, (Kph. 1858), 238-239.
[21] Jarðab. Á. og P. VII, 34.
[22] Sóknalýs. Vestfj. II, 58.
[23] Guðmundur Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.
[24] Sama heimild.
[25] Sama heimild.
[26] Sóknarmannatöl Sandaprestakalls.
[27] Örnefnaskrá.