Sellátur og verstöðvarnar í Stapavíkum

Sellátur og verstöðvarnar í Stapavíkum

Á Sellátrum er nú (1988)  ysta byggt ból við Tálknafjörð og hér endar akvegurinn. Enginn landbúnaður hefur þó verið stundaður á jörðinni hin síðari ár en Guðrún Einarsdóttir, sem hér er einbúi, unir við hannyrðir og listmunagerð á sinni fornu rót. Bærinn stendur rétt utan við Sellátraána nokkurn spöl frá sjó. Handan Patreksfjarðarflóans blasa við sjónum ystu bæirnir við vestanverðan Patreksfjörð, Hænuvík og Sellátranes, en vitinn á Sellátranesi sendir ljósmerki sín yfir flóann, rétt með ysta annesi Tálknans. Að bæjarbaki á Sellátrum gengur Sellátradalur norður í fjallgarðinn, þröngur og fremur hrjóstrugur. Eru tveir til þrír kílómetrar fram í dalbotn. Lítið undirlendi er á Sellátrum og skammt frá túnfætinum að rótum hamrafjalla sem hér rísa sitt hvorum megin við mynni dalsins. Að innan Bakkafjall, sem áður var nefnt, en að utan Sellátrafjall og brún þess í 484 metra hæð. Hlíðin utan við Sellátur heitir Sellátrahlíð og nær út undir Arnarstapa sem var næsta býli út með firðinum.

Frá Sellátrum liggur gamall reiðvegur yfir í Fífustaðadal í Arnarfirði og heitir Krókalaut. Hér voru aðeins tæplega tíu kílómetrar milli bæja, frá Sellátrum að Öskubrekku, sem nú er í eyði, en farið hæst í nær 600 metra hæð. Leiðin liggur upp úr botni Sellátradals og yfir á norðurbrúnina rétt austan við Hall, sem er fjallshamar þar í brúninni, og síðan niður í Fífustaðadal milli Eiríkshorns og Klúkuhorns. Þarna í brekkunum, í 200 til 300 metra hæð yfir sjávarmáli, voru eins konar vegamót, – þar greindust að tvær leiðir frá Öskubrekku til Tálknafjarðar, sú er lá um Krókalaut og hin sem farin var niður í Fagradal, rétt utan við Stóra-Laugardal í Tálknafirði.

Um Krókalaut fór Hallbjörn Oddsson er hann fluttist að Bakka í Tálknafirði í góulokin árið 1891. Í för með honum voru Sigrún kona hans, vanfær og komin að fæðingu þriðja barns þeirra, tvö börn þeirra ung og Friðrik Sveinsson, bóndi á Klúku, sem lánaði þeim tvo hesta til ferðarinnar. Á öðrum hestinum sat konan þennan vetrardag, komin á steypirinn, en hinn hesturinn bar rúmfatnað og ýmsar pjönkur fjölskyldunnar.[1] Börnin, sem voru tveggja og þriggja ára, báru þeir Hallbjörn og Friðrik. Fleiri ferðir átti Hallbjörn um Krókalaut síðar og segist hafa verið frá einum og upp í níu klukkutíma yfir fjallið, gangandi í vetrarferðum, allt eftir því hvernig færðin var.[2] Nú er lítið um mannaferðir á þeirri leið

Fyrr á tímum bjuggu oftast tveir bændur á Sellátrum og voru býlin nefnd Hærri-Sellátur og Neðri- (eða Lægri-) Sellátur.[3] Um 1700 voru bændurnir þrír og bjó þriðji bóndinn á hjáleigunni Fjósum sem byggðist fyrst um 1696 hér í heimatúninu[4] og hélst í byggð eitthvað fram eftir 18. öld. Löngu áður hafði önnur hjáleiga verið í byggð í Sellátralandi og hét Hegurðartröð (sbr. örnefnið Traðarvík sjá hér bls. 3). Um eyðiból þetta ritar Árni Magnússon svo árið 1710:

 

Hegurðartröð kallast fornt eyðiból hér í landinu út með sjónum og sjást þar byggingamerki af tótta- og garðaleifum en ekki hefur hér byggð verið frá gamalli tíð. Ekki má hér aftur byggja því þetta pláss er mjög í hrjóstur komið og upprist og stungið frá heimajörðinni.[5]

 

Í landi Sellátra eru Arnarstapavíkur en þar var öldum saman helsta verstöð Tálknfirðinga. Um sjósókn þaðan verður fjallað hér litlu aftar. Fullyrða má að á fyrri tíð hafi bændur á Sellátrum jafnan byggt afkomu sína á sjávarfangi að mjög verulegu leyti, enda jörðin heldur rýr til landbúskapar. Í sóknarlýsingu séra Benedikts Þórðarsonar frá árinu 1873 segir m.a. um Sellátur:

 

Þar er tún stórt komið í órækt. Þar voru áður tveir bæir, nefndir Hærri- og Lægri-Sellátur. Útslægjur eru litlar. Landrými er til dalsins, er kenndur er við bæinn. … Út með sjónum er svonefnd Sellátrahlíð. Á henni er þrautgóð vetrarbeit og þarabeit með sjónum.[6]

 

Úr hópi bændafólks á Sellátrum á fyrri tíð minnast ýmsir Jóns Tómassonar og Helgu Þórðardóttur er hér bjuggu á 17. öld, foreldra hinna sjö Sellátrabræðra er lengi voru nafnkunnir fyrir krafta og margvíslegt annað atgervi.[7] Helga Þórðardóttir á Sellátrum, móðir bræðranna sjö, var dóttir séra Þórðar Tómassonar, er bjó á Tindum í Geiradal og þjónaði Garpsdalskirkju, og konu hans, Hallgerðar Guðmundsdóttur sem nefnd var eyðsluhönd.[8]

Sellátrabræðurnir sjö voru þessir: Þórður sem bjó í Stóra-Laugardal, Tómas, sem bjó í Krossadal og var móðurafi séra Jóns Þorlákssonar, skálds á Bægisá, Sigurður sem bjó á Bakka í Tálknafirði, Einar sem varð beykir í Kaupmannahöfn, Jón sem bjó í Hænuvík, Halldór sem bjó í Kollsvík – og loks Bjarni sem fyrst bjó á Sellátrum en síðan í Kollsvík í 40 ár.[9] Bjarni Jónsson, sem hér var síðast nefndur, er sagður hafa farið níu byrðingsferðir á Strandir á teinæringi að kaupa rekavið. Komst hann jafnvel austur fyrir Geirólfsgnúp í slíkum ferðum og átti viðarkaup í Skjaldabjarnarvík.[10] Um Sellátrabræðurna sjö segir Jón Espólín að þeir hafi verið harðfengnir menn en móðir þeirra nafnfræg fyrir góðgjörðir.[11]

Á síðari hluta 19. aldar bjuggu gildir bændur og dugmiklir sjósóknarar á Sellátrum svo sem Kristján Oddsson, fæddur 1837, afi Guðmundar G. Hagalín rithöfundar, en Kristján bjó líka alllengi í Lokinhömrum og um skeið á Núpi í Dýrafirði (sjá hér Lokinhamrar og Núpur). Um 1890 bjó Magnús skipstjóri, sonur Kristjáns Oddsonar, á Sellátrum[12] en þeir feðgar voru kvæntir systrum, Sigríði og Sigrúnu Ólafsdætrum frá Auðkúlu í Arnarfirði. Skömmu fyrir aldamótin 1900 fluttist að Sellátrum Kristján Arngrímsson sterki, sonur séra Arngríms Bjarnasonar, sem um skeið var prestur á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður) en síðast á Brjánslæk, og kona Kristjáns Þórey Eiríkssdóttir ljósmóðir. Eitt barna þeirra var Arngrímur Valagils sem gerðist alheimssöngvari í Ameríku. Lausar fréttir herma að ein plata með söng hans sé til í safni Ríkisútvarpsins. Niðjar Kristjáns og Þóreyjar hafa búið á Sellátrum æ síðan en síðasti bóndi hér var Davíð Davíðsson er kvæntur var dótturdóttur Kristjáns og Þóreyjar, Guðrúnu Einarsdóttur sem enn er heimilisföst á Sellátrum. Davíð á Sellátrum var lengi forystumaður í félagsmálum og oddviti Tálknfirðinga.

Vegalengdin frá Sellátrum út að Arnarstapa er tæpir tveir kílómetrar og á jörðin Sellátur land út að Stapaánni, læk sem fellur til sjávar innan við túnið á Arnarstapa.[13] Á strandlengjunni milli bæjanna eru þrjár víkur, innst Traðarvík, þá Hvalvík og yst Arnarstapavík þar sem Stapaáin fellur til sjávar.[14] Þarna í víkunum voru öldum saman helstu verstöðvar Tálknfirðinga og þaðan var róið fram yfir aldamótin 1900. Oft var útræði þetta nefnt í Víkum[15] eða í Stapavíkum.[16]

Í Jarðabók Árna og Páls er ritað árið 1710:

 

Traðarvík, Hvalvík og Arnarstapavík heita þrjár verstöður hér í landinu [landi Sellátra – innsk. K.Ó.], sem að brúkuðust að nokkru leyti inn til bólunnar en síðan aldeilis ekki nema af Jóni Þórðarsyni í Stóra-Laugardal, sem að á frí skipsuppsátur og búðarstöðu í Arnarstapavík með vergögnum, sem að faðir hans keypti … . Inntökuskip voru í þessum verstöðum flest 18, smáfækkuðu svo inn til næstu átta ára. Þaðan frá til bólunnar [1707] gengu hér þrjú eður fjögur og voru þetta flest tveggja, þriggja og fjögra manna för. Vertollur var: Tveir fjórðungar fiska af hverjum manni [þ.e. tíu kíló af harðfiski – innsk. K.Ó.], sem á skipunum reri, til landsdrottna eftir proportion. Þessar verstöður eru af sandi fordjarfaðar, svo og uppblásnar, svo það sýnist líklegast að þær muni ei héðan af brúkast fyrir vergagnaleysi. Verbúðir voru hér flestar 14 eður 15 í þessum verstöðum, sem nú eru allar niðurfallnar nema sú ein, sem Jóni Þórðarsyni tilheyrir í Arnarstapavík, og byggðu skipverjarnir upp sjálfir búðirnar á sinn kostnað að viðum og fluttu úr sínu landi torf til.[17]

 

Í Jarðabókinni kemur fram að Sellátrabændur reru sjálfir úr heimavör og þar má líka sjá að í landi Arnarstapa var enn ein verstöð, kölluð á Klett (sjá hér Arnarstapi), og reru þaðan tveir bátar vorið 1710.[18]

Frásögn Jarðabókarinnar sýnir að í Stapavíkum hefur verið hin blómlegasta verstöð á 17. öld, þegar 18 bátar reru þaðan á vorvertíð. Síðan hefur útræðinu farið hnignandi uns það leggst af í stórubólu. En enda þótt Tálknfirðingar hafi málað ástandið dökkum litum er Árni Magnússon prófessor heimsótti þá þremur árum eftir bóluna, þá verður að teljast líklegt að róðrar frá Stapavíkum hafi fljótlega hafist á ný. Að minnsta kosti voru róðrar stundaðir af kappi úr Víkunum á 19. öld og ekki hafa Tálknfirðingar legið í landi um 1780 þegar Peter Hölter, kaupmaður á Patreksfirði, hófst handa við að salta fisk er aflast í Patreks- og Tálknafirði og þá að hætti Nýfundnalandsmanna (sjá hér Geirseyri og Vatneyri).

Séra Þórður Þorgrímsson ritar árið 1852 að veiðistöður séu á vorin í öllum þremur víkunum fyrir Sellátrahlíð[19] en líklega hefur útræði úr Traðarvík lagst niður litlu síðar því séra Benedikt Þórðarson nefnir ekki Traðarvík árið 1873 er hann ritar:

 

Á Sellátrum er heimræði. Þar eru og verstöðvar í svonefndri Hvalvík og Arnarstapavík. Heitir þar í Víkum. Þar róa Tálknfirðingar á vorum. Hafa fyrri eigendur Sellátra selt þar flest vergögn undan jörðinni og eiga þau ýmsir formennirnir. Á þennan hátt er meirihluti vertollanna genginn undan jörðinni.[20]

 

Hallbjörn Oddsson lýsir sjósókn Tálknfirðinga undir lok 19. aldar og róðrum frá Hvalvík og Arnarstapavík, sem hann kallar Stapavíkur, en minnist heldur ekki á Traðarvík.[21]

Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur kom í Tálknafjörð í ferð sinni um Vestfirði árið 1901. Hann fékk þá þær fréttir að á árunum 1850-1860 hafi átta til níu áttæringar róið úr Arnarstapavík og auk þess verið heimræði frá bæjum inn með firðinum.[22] Heimildarmenn Bjarna voru þeir Jón Johnsen á Suðureyri og Þorsteinn Árnason á Kvígindisfelli. Eftir viðræður við þá ritar Bjarni:

 

Þá [á árunum 1850-1860] var mikið um skötu og flyðru og töluverður afli, mest á haldfæri. Lóðir voru þá og 1 hndr. með manni. Haukalóðir þekktust ekki fyrir miðja öldina. Hrognkelsaveiði var töluverð og brást sjaldan við innanverðan fjörðinn. Um 1880 aflaðist ekkert í firðinum á haustin og 1885 til 1888 brást þorskafli alveg.[23]

 

Þegar Bjarni heimsótti Tálknafjörð var enn róið úr Stapavíkum, a.m.k. frá Arnarstapavík,  þó að ný öld væri runnin upp.[24]

Hallbjörn Oddsson reri fyrst frá Arnarstapavík vorið 1892 og var þá í skiprúmi hjá Guðmundi Jónssyni í Stóra-Laugardal.[25] Hann lýsir verstöðinni allrækilega og greinir frá ýmsu varðandi sjósókn þaðan í kringum aldamótin 1900. Verbúðunum lýsir hann svo:

 

Allar verbúðirnar voru einstæðu-fjárhús, byggð úr grjóti að innan en torfi og grjóti að utan og var fyllt á milli hleðslnanna með fasttroðinni mold eins og þá tíðkaðist í öllum moldarveggjum. Flest voru fjárhús þessi þá orðin með sperrum og þar af leiðandi reistu þaki, jafnvel upp úr krosslægju. En til voru þó þær verbúðir, sem voru með hvalrifjum í stað sperra og því ekki breiðari en svo að rifin náðu yfir þvera tóttina af vegg á vegg. …

En eitt áttu verbúðir þessar sameiginlegt, eins og flest hús á þeim tíma, að allar voru þær með álnar þykku vallgrónu torfþaki. … Á sperrunum eða hvalrifjunum voru svo langbönd og hellur í stað áreftis því hellutak var víða gott í Tálknafirði en skógur hvergi nema í botni fjarðarins. Allar láku verbúðir þessar þegar rigningar gengu. Í þeim öllum var upphlaðinn grjótbálkur með öðrum hliðarveggnum, vanalega þeim ytri, sem snéri að hafinu, og dyrnar snéru ætíð fram að vörinni svo sjá mátti úr búðinni allt, sem fram fór í vörinni, og voru mikil þægindi að því þegar líta þurfti eftir bátum á floti eða óuppbornum afla á vararveggjunum.

Á grjótbálkunum höfðu menn verskrínur sínar og annað af hirslum, er geyma þurfti. Fyrir framan bálkinn voru tvær lengjur eftir endilangri búðinni af gildum viðarlektum. Á milli þeirra var rúmbreidd fyrir tvo menn andfætis, afmörkuð með sinni þverslánni í hvorn enda og undir endunum á þverslám þessum voru ýmist hæfilega háar viðarstyttur eða grjótbálkar. Allt var þetta eins og gefur að skilja saman neglt og bundið eftir bestu föngum. Voru síðan riðnir botnar í rúm þessi úr snærum og voru þau svo mátulega há að hægt var að sitja á þeim við flesta vinnu, er menn vildu hafa með höndum. Ofan á þennan riðna rúmbotn var vanalega látin stönguð heydýna í sængur stað og var þá rúmið albúið því kodda og brekán höfðu menn með sér að heiman.[26]

 

Í þessum vistarverum hafðist Sellátraféð við að vetrinum en um sumarmál varð það að víkja fyrir tignari gestum.

 

Þrjár voru varir í Stapavíkum, ritar Hallbjörn, – yst var Blaðra, er dró nafn sitt af sífelldu blaðri brimsins á Blöðrutanganum. Næst var Miðþröng, vanalega kölluð Meinþröng. Hún var rétt við Stapaána að innan. Þar var hár skans hlaðinn úr grjóti undir öllum framparti búðanna, til varnar fyrir brimólgunni. Innst var Hleinavör, sem af gárungunum var oftast kölluð Mjóna, og var það að flestra áliti versta vörin. …. . Svo voru þær djúpar að skipin gátu legið í þeim, ef lagt var aftur og fram af, þegar ekki var brim, jafnvel þó hlaðin væru og kom það sér oft mjög vel.[27]

 

Af lýsingu Hallbjarnar er ljóst að þessar þrjár varir hafa allar verið í Arnarstapavík, þó að hann tali um Stapavíkur, og ysta vörin hefur verið utan við Stapaána og því í landi Arnarstapa. Hallbjörn segir beinum orðum að Blöðrubúðin, sem hann reri sjálfur frá, hafi verið utan við Stapaána.[28]

Fullsterk, Miðlung og Aumingja, steinana þrjá sem menn mældu krafta sína á, segir hann hafa verið inn og upp á bökkunum fyrir ofan Miðþröng.[29]

Auk lendinganna þriggja í Arnarstapavík getur Hallbjörn sérstaklega um útræði frá Hvalvík, og segir þá verstöð hafa verið rétt fyrir innan Stapavíkur. Úr Hvalvík reri á þessum árum Þorsteinn Árnason, bóndi á Kvígindisfelli, og átti þar myndarlega verbúð.[30]

Fróðleg er lýsing Hallbjarnar á meðferð aflans er komið var úr róðri:

 

– Þá var allur fiskur borinn á trogbörum í svokallaðan ruðning*) en það var hringur, nálægt alin djúpur, einhlaðinn úr stórgrýti efst uppi í flæðarmáli og allur fiskur borinn í ________________________

*) Í prentuðu útgáfunni af ævisögu Hallbjarnar stendur „buðning” en b-ið úrskurðast prentvilla (sbr. hér Hvallátur við Látrabjarg og verstöðin Brunnar).

hann. En þegar brim var og lágsjávað var oft gert til frammi á vararveggjum þegar tími vannst til þess, brims eða aðfalls vegna. Flatningur var það kallað, sem fiskurinn var flattur á.

Hann var hlaðinn úr grjóti og stóð efst í ruðningnum. Ofan á honum var vanalegast höfð stór hella og yfir hana þakið með reiðingstorfu, er átti að verja því að hnífarnir sljóvguðust á hellunni, því oft kom fyrir að þeir lentu með eggina á henni. … Fyrir ofan stórstraumsflæðarmál voru salt- og saltfiskstíurnar, hlaðnar úr grjóti og breitt ofan yfir þær með dúkum (presseningum) úr grófum seglastriga. En á síðustu árum mínum í Tálknafirði var farið að hvolfa yfir þær aflagsbátum í þaks stað, sem gafst mjög vel. Eftir það voru stíurnar hafðar mun hærri en áður svo menn gátu vel staðið uppréttir í þeim þó háir væru. Bátunum var venjulega fest með grjótsigum því af varð að taka þá á haustum vegna vetrarbrimanna.[31]

 

Í þessum orðum kemur fram að eitthvað af aflanum muni hafa verið saltað, þegar Hallbjörn og félagar hans reru frá Blöðrubúð, og má ætla að það hafi einkum verið þorskur. Steinbítur var hins vegar hertur og líka hrognkelsi en hverjum háseta var skylt að leggja sér til fjögur hrognkelsanet og var grásleppuslóg notað í beitu.[32]

Um steinbítsverkunina er líka fróðleik að finna hjá Hallbirni:

 

Hver háseti varð að leggja sér til uppfestuvið, sem svaraði því er þurfti undir hlut hans. Uppfestu þurfti geypimikla þegar mikill steinbíts- og hrognkelsaafli var. Þó lagði útgerðin oftast til hjalltré og stólpa að mestu. Sá endi hjallstólpanna, sem niður vissi, var grafinn frá hálfri alin til alin niður í jörðina eftir því hvað grunnurinn var fastur fyrir. En sá endinn, sem upp snéri, stóð undir hjalltrénu og var það annað hvort greipt í hann eða neglt með haldgóðum saum. Rárnar voru svo lagðar þvert yfir hjalltrén og voru þær oft svo langar að þær náðu yfir þrjú hjalltré og var þá kallað að hjallurinn væri tvöfaldur. Oft voru hjallstólparnir undir hjalltrjánum hlaðnir úr stórgrýti. Voru þeir þá efst um hálf alin á kant en niðri við jörð um tvær eða jafnvel á þriðju alin ef þeir voru mjög háir.

Á meðan fiskurinn var lítið farinn að síga, sem kallað var, og ekki farin að myndast á hann nein hörð skel, urðu hjallarnir að vera svo háir að sauðfé næði ekki í hann þvi annars dró það niður af hjöllunum og át og eyðilagði til óbóta.[33]

 

Þegar steinbíturinn var farinn að skelja og komin á  hann hörð húð var hann tekinn af hjöllunum og raðað á hina ævafornu grjótgarða þar sem hann harðnaði fljótt og vel. – Allur árdalurinn var þakinn einhlöðnum grjótgörðum svo háum að steinbíturinn náði ekki niður í grasið, er hann hékk á þeim.[34]

Róðrar frá Stapavíkum hófust um sumarmál.[35] Fyrst á vorin var aðalbeitan grásleppuslóg og ljósabeita úr fiskinum sjálfum en síld þegar lengra kom fram á vorið og unnt var að veiða hana. Þannig var þetta árið 1892 því að þá voru menn ekki enn farnir að plægja fyrir kúffisk í Tálknafirði.[36]

Tvisvar var farið í hákarlalegu úr Tálknafirði á vorvertíðinni 1892 og fóru þá öll fjögur hákarlaskipin í firðinum (sjá hér Vindheimar og Kvígindisfell) saman. Í fyrri legunni var róið niður á svonefndan Skeggja að því er Hallbjörn minnti[37] og má ætla að þar sé átt við mið þar sem fjallið Skeggi innan við Lokinhamradal í Arnarfirði kemur fram undan Kópnum. Er það um tíu sjómílna róður frá Stapavíkum.

Í Víkunum var mikið verk að ryðja varirnar á hverju vori og erfið bakraun að setja bátana þegar komið var úr róðri.[38] Gangspilin, sem almennt komust í notkun um aldamótin 1900, léttu af mönnum miklu erfiði. Um þau efni kemst Hallbjörn svo að orði:

 

Engin gangspil voru komin í veiðistöðvar vestanlands á þessum árum [um 1892], nema hér og hvar við Ísafjarðardjúp. Menn urðu því að baka upp bátana og höfðu margir blá og marin bök eftir þá vinnu og voru kvaldir af gigt í bökunum, jafnvel áður en þeir gætu talist fullþroska. Á Vestfjörðum komst ekki verulegur skriður á notkun gangspilanna fyrr en farið var að plægja fyrir kúffiskinn af landi og vélbátaútgerðin hófst, sem var að mestu samtímis.[39]

 

Vegna þessara síðustu orða Hallbjarnar skal minnt á að í Arnarfirði var kúfisk fyrst beitt árið 1890 en almennt ekki fyrr en 1893.[40]  Fáum árum fyrr höfðu framtakssamir menn við Ísafjarðardjúp komist upp á lagið með kúfiskplægingu og Einar Gíslason í Hringsdal í Ketildölum smíðaði eigi síðar en 1890 kúfiskplóg.[41] Notkun gangspila við kúfiskplægingu ýtti mjög undir útbreiðslu þeirra. Talið er að gangspil til að setja báta hafi ekki verið notuð við Ísafjarðardjúp fyrr en um eða eftir 1870.[42] Um aldamót og á fyrri hluta 20. aldar var notkun þeirra algengari á Vestfjörðum en annars staðar á landinu[43] en engu að síður sýna ummæli Hallbjarnar að þessi hjálpartæki hafa ekki fengið almenna útbreiðslu þar fyrr en eftir 1890 og var þá farið að styttast í vélvæðingu bátaflotans sem hófst árið 1902.

Margt af því, sem Hallbjörn Oddsson ritar um útræðið í Stapavíkum og hér hefur verið vitnað til gæti átt við flestar aðrar verstöðvar á Vestfjörðum á síðustu áratugum 19. aldar. Athöfnum manna í landlegum lýsir Hallbjörn svo:

 

Þegar ekki gaf á sjó gengu menn, sem bjuggu nálægt verstöðvunum, heim til sín og unnu þar að húsabyggingum eða jarðabótum, sem þá voru nýlega byrjaðar, með þeirrar tíðar nýtískuvélum, nefnilega plóg og herfi með einum eða þegar best lét tveimur hestum fyrir. … Menn halda nú kannske að þeir, sem bjuggu svo langt frá verstöðvunum, að þeir gátu ekki komist heim í landlegum, hafi verið iðjulausir. Nei, sumir fluttu með sér vefstóla og ófu fyrir sig og aðra. Aðrir höfðu með sér smíðatæki og smíðuðu amboð og ílát, fötur og svo ótalmargt, sem hér yrði of langt að telja. Enn aðrir unnu og fléttuðu reipi og gjarðir, saumuðu skinnklæði og jafnvel eltu skinn. Þá voru í verunum alltíðar bændaglímur, steina upptök, því hver verstöð átti sinn Fullsterk, Miðlung og Aumingja, og margar voru æfðar íþróttir, þó minna væri af gumað þá en nú.[44]

 

Á síðustu áratugum 19. aldar og kringum aldamótin 1900 munu flestir Tálknfirðingar hafa róið frá Stapavíkum en að sögn Bjarna Sæmundssonar líka nokkrir frá Suðureyri og mun þá átt við Hvannadal í Suðureyrarlandi. Páll Hallbjörnsson nefnir líka róðra frá Hvannadal á árunum 1906 til 1912.[45] Frá Sellátrum var róið úr heimavör og líka stundum frá Bakka og Kvígindisfelli.[46]

Um hvítasunnu árið 1893 kom talsverð fiskiganga í Tálknafjörð. Guðmundur Gíslason, roskinn bóndi á Innri-Bakka, hóf þá róðra úr heimavör. Hásetar hans voru tveir, unglingsstúlka, sem Kristín hét Einarsdóttir, og Sigrún Sigurðardóttir, húsfreyja á Ytri-Bakka.[47] Guðmundur hafði þrjár lóðir í sjó, beint fram undan Bakka, og vitjaði þeirra kvölds og morgna. Jafnframt stunduðu þau grásleppuveiðar. Hásetahlutur hjá Guðmundi þetta vor varð 120,- krónur og taldist gott,[48] liðlega kýrverð (sjá hér Sveinseyri).

Á fyrstu árum 20. aldar var enn sóttur sjór frá Arnarstapavík. Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur ritaði um sjósókn Tálknafirðinga eftir Vestfjarðaferð sína árið 1901 og segir:

 

Aðalvertíðin er frá sumarmálum til sláttar og haustvertíð frá 20. viku til nóvemberloka [þ.e. frá því snemma í september – innsk. K.Ó.]. Útræði helst frá Suðureyri og ágæt lending og frá Felli, Bakka, Sellátrum og Arnarstapavík (verstöð) að norðanverðu. Er þar alls staðar aðgrunnt og brimasamt og lendingar lakari. Í vor gengu um 10 bátar alls og liggja sumir við í Arnarstapavík. Menn róa á haustin út í fjörðinn og eða flóann en á vorin fyrir steinbít út á Kollsvíkurmið. Mest er brúkuð lóð og leggja menn alls 20-30 lóðir (með 100 önglum) á dag, lagt tvisvar, beitt í bjóð, í bala eða í bátinn. Haldfæri eru töluvert brúkuð, einkum við steinbít úti fyrir og þá beitt slógi úr honum. Annars beita menn á síðari árum síld og kúfiski, sem er víða í firðinum. Svo hefur smokk verið lengi beitt.[49] (Um veiðar á smokk sjá hér Suðureyri í Tálknafirði ).

 

Bjarni lýsir nokkuð göngu smokksins, sem kemur inn á fjörðinn þegar nótt fer að dimma, og tekur fram að Tálknfirðingar beiti líka dálitlu af kuðungi er menn veiði inn á firðinum í norskan háf sem þorskhaus sé bundinn í. Einnig getur hann þess að enn sé beitt sandmaðki.[50]

Ingivaldur Nikulásson, fræðimaður á Bíldudal, fæddur 1877, hefur skrifað ágæta ritgerð er hann nefnir Fiskveiðar við Arnarfjörð og Tálknafjörð á síðari hluta 19. aldar.[51] Hér skal þess aðeins getið, sem Ingivaldur tekur fram, að haustróðra hafi Tálknfirðingar yfirleitt stundað úr heimavör en ekki frá verstöðvum.[52] Á frásögn Ingivaldar má líka sjá að haustvertíð Tálknfirðinga hefur líklega oftast staðið nokkru skemur en Bjarni Sæmundsson nefnir eða aðeins frá því um miðjan september og fram um veturnætur. Ingivaldur ritar:

 

Haustróðrar byrjuðu venjulegast um miðjan septembermánuð eða eftir því sem menn losnuðu frá heyskapnum en aldrei seinna en í septemberlok. … Í Ketildölum og Tálknafirði var sjaldan róið eftir veturnætur því að þá voru brimin komin í algleyming.[53]

 

Sitthvað fleira mætti tína til um sjósókn Tálknfirðinga og hinar fornu verstöðvar í Stapavíkum en hér verður þó látið staðar numið. Með vélvæðingu bátanna á fyrsta fjórðungi 20. aldar breyttust öll viðhorf. Þá fóru hafnarskilyrði að skipta meira máli en nálægðin við fiskimiðin og þar með voru Stapavíkurnar dæmdar úr leik.    – – – – – – o o o o o – – – – – – –

[1] Hallbjörn Oddsson 1961, 178 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[2] Sama heimild, 179.

[3] Manntöl og sóknarmannatöl Stóra-Laugardalssóknar frá 18. öld og fyrri hluta 19. aldar.

[4] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 353.

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 354.

[6] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 244.

[7] Lbs. 4034to, bls. 29-33 (Gísli. Kon./Látramanna og Barðstr.þáttur). ÍB 114to Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkur 2032.

[8] Lbs. 4034to, bls. 29-33.

[9] Sama heimild.

[10] Lbs. 4034to, bls. 29-33.

[11] ÍB 114to Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkur 2032.

[12] Hallbjörn Oddsson 1963, 129 og 141 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[13] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 245.

[14] Hallbjörn Oddsson 1962, 126, 128 og 135 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[15] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 244.

[16] Hallbjörn Oddsson 1962, 128.

[17] Jarðab. Á. og P. VI, 353-354.

[18] Jarðab. Á. og P. VI, 353 og 355.

[19] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 217.

[20] Sama heimild, 244-245.

[21] Hallbjörn Oddsson 1962, 124-131.  Sami 1963, 116-118.  Sami 1964, 161 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[22] Bjarni Sæmundsson 1903, 109 (Andvari, tímarit).

[23] Bjarni Sæmundsson 1903, 109 (Andvari, tímarit).

[24] Sama heimild, 108.

[25] Hallbjörn Oddsson 1962, 124 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[26] Hallbjörn Oddsson 1962, 126-127 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[27] Sama heimild, 128-129.

[28] Sama heimild, 128.

[29] Sama heimild, 132.

[30] Sami 1964, 161 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[31] Hallbjörn Oddsson 1962, 128 og 129 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[32] Sama heimild, 129.

[33] Sama heimild, 129-130.

[34] Hallbjörn Oddsson 1962, 130 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[35] Ingivaldur Nikulásson 1942, 213 (Barðstrendingabók).

[36] Hallbjörn Oddsson 1962, 129.

[37] Sami 1963, 116-117 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[38] Sami 1962, 129 og 131.

[39] Sama heimild, 131.

[40] Bjarni Sæmundsson 1903, 105-106 (Andvari, tímarit).

[41] Lúðvík Kristjánsson 1985, 60-62. Sbr. Gísli Ásgeirsson frá Álftamýri 1953, 25 (Frá ystu nesjum VI).

[42] Sama heimild, 160.

[43] Lúðvík Kristjánsson 1985, 161.

[44] Hallbjörn Oddsson 1962, 131-132 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[45] Páll Hallbjörnsson 1969, 13.

[46] Bjarni Sæmundsson 1903, 108 (Andvari, tímarit).

[47] Hallbjörn Oddsson 1962, 137.

[48] Sama heimild.

[49] Bjarni Sæmundsson 1903, 108 (Andvari, tímarit).

[50] Sama heimild, 108-109.

[51] Ingivaldur Nikulásson 1942, 213-228 (Barðstrendingabók).

[52] Sama heimild, 216.

[53] Sama heimild, 216-217.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »