Skálará

Milli Hrauns og Skálarár lá merkjalínan árið 1876 úr Hundshornsgjótu hinni ytri og í miðja Oddnýjartótt og þaðan beint niður í á.[1] Frá þessum merkjum á Hraun allt land til sjávar sín megin við Langána. Oddnýjartótt var skammt fyrir framan túnið í Hrauni og þar rétt hjá var á fyrri hluta 20. aldar skilarétt fyrir allan Keldudal. Í yngri landamerkjalýsingum er í stað tóttarinnar nefndur Sporsteinn og hann sagður standa á Nasa,[2] en svo heitir tungan hér við ármót Langár og Þverár.[3] Sporsteinn er nú sokkinn allnokkuð í jörð en í honum er lítil dæld sem líkist spori eftir barnsfót.[4]

Örskammt frá steininum og nær beint á móti bænum á Arnarnúpi var árið 1910 reistur barnaskóli[5] og þar var Langá brúuð. Skólahúsið, sem árið 1997 var orðið mjög hrörlegt, stendur norðan við merkin og hefur því verið í landi Hrauns.

Frá Hrauni liggur leið okkar yfir Þverá sem kemur af Gjálpardal og síðan fram dalinn í átt að Skálará. Milli þessara tveggja bæja er tæplega einn og hálfur kílómetri en á þeirri leið komum við fyrst að Útskálum, nýbýli sem reist var árið 1903 í landi Skálarár. Þar var aðeins búið í 14 ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 162). Upp af bæjarrústum nýbýlisins er stór grjóthóll sem heitir Álfhóll.[6] Álfabústað þennan er auðvelt að finna því hóllinn er sá stærsti á þessum slóðum og kollurinn þakinn aur. Frá Útskálum er örskammt að Skálará en þar er þó lækjarspræna á milli.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá byrjun 18. aldar er greint frá munnmælum um að Skálará hafi að fornu verið hjáleiga frá Hrauni byggð á fornu stekkjarstæði.[7] Þar er jafnframt tekið fram að jörðin hafi verið haldin lögbýlisjörð í manna minnum.[8] Sú staðhæfing sýnir að búskapur hefur hafist á Skálará eigi síðar en á 16. öld og máske nokkru fyrr. Í heimildum frá fyrri öldum finnst jarðarinnar hins vegar hvergi getið og styrkir það mjög hinar gömlu munnmælasögur um að Skálará hafi ekki verið forn bújörð heldur byggst sem hjáleiga og þá að líkindum á 15. eða 16. öld. Til hins sama bendir líka að í byrjun 18. aldar átti Skálará tollfrjálst uppsátur í verstöðinni í Hrauni[9] en fyrir báta sem þaðan reru frá öðrum bæjum varð að gjalda toll (sjá hér Hraun). Skálará var talin átta hundraða jörð.[10]

Um kosti og galla jarðarinnar segir svo í Jarðabók Árna og Páls:

 

Útigangur er lítill og lakur í heimalandi. Torfrista og stunga næg. Elt er taði undan kvikfé. Svarðarstunga lítil, brúkast ei. Lyngrif litið. Silungsveiði hefur að fornu verið í Hraunsá og Silungalæk en nú engin í margt ár … .  [Hraunsá er nú nefnd Langá en Silungalækur er lítið eitt framan við landamerki Skálarár og Hrauns. Í annarri heimild er sagt að fyrr á tíð hafi veiðin í honum verið metin til kúgildis.[11]]

Túninu grandar lækjargil með landbroti og grjótsáburði til stórskaða, og enginu með grjótsáburði í sama máta og Hraunsá þó það sé í minna lagi. Landþröngt er og gengur búfé mjög á nágranna bæði vetur og sumar og brúka Saurar fyrir þessa beit lítinn slægjuspotta af þessari jörð. Hætt er kvikfé fyrir afætudýjum. Ekki sýnist bænum til lengdar óhætt fyrir landbroti sem lækjargil gjörir.[12]

 

Í sóknarlýsingu séra Bjarna Gíslasonar frá því um 1840 segir um Skálará að hér sé hrjóstrugt og hart um heyskap.[13]

Um 1600 átti héraðshöfðinginn Ari Magnússon í Ögri jörð þessa í Keldudal en haustið 1604 seldi hann hana séra Sveini Símonarsyni í Holti í Önundarfirði.[14] Árið 1710 átti Þorbjörg Sigurðardóttir á Auðkúlu í Arnarfirði Skálará[15] en hún var ekkja Torfa Magnússonar lögréttumanns (sjá hér Auðkúla). Til Þorbjargar á Kúlu þurfti Jón Ívarsson, bóndi á Skálará, þá að greiða þrjár vættir af fiski (120 kíló) í landskuld og auk þess leigu af þremur innstæðukúgildum sem goldin var með smjöri.[16] Jörðina hafði Þorbjörg hlotið í arf eftir föður sinn, Sigurð Jónsson í Rauðsdal á Barðaströnd, sem keypti Hraun, Skálará og Saura árið 1645 (sjá hér Hraun).[17]

Um miðja 19. öld var Skálará komin í sjálfsábúð[18] en hér bjuggu árið 1845 hjónin Eggert Illugason og Þuríður Sigmundsdóttir.[19] Þau virðast hafa verið sæmilega bjargálna því á heimilinu voru þá þrjár vinnukonur og einn vinnumaður auk barna og niðursetnings.[20] Skálará átti hvergi land að sjó en ýmsir bændur sem hér bjuggu voru engu að síður dugandi sjósóknarar. Úr þeirra hópi má nefna Eggert Andrésson sem árum saman var skipstjóri á skútum m.a. á Kristjáni frá Þingeyri og Bolla frá Ísafirði.[21] Að sögn kunnugra var Eggert gleðimaður með létta lund og góður stjórnari.[22]

Á árunum 1878-1885 var Guðmundur Guðmundsson norðlenski niðursetningur á Skálará[23] en frá honum er ýmislegt sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Nesdalur og Sandar, Guðmundarskáli þar). Er Guðmundur kom að Skálará var hann orðinn farlama og ófær um að bjarga sér, enda kominn á áttræðisaldur. Hann hafði þá verið á sveitarframfæri í nokkur ár á ýmsum bæjum í Þingeyrarhreppi.[24] Fyrstu fjögur árin á Skálará var Guðmundur settur niður hjá Bjarna Bjarnasyni, bónda hér, en næstu þrjú ár var hann hjá Elíasi Arnbjörnssyni sem einnig bjó á Skálará.[25] Vorið 1885 var þessi gamli læknir, sem margar þrautir hafði sigrað þó ósigur biði að lokum, fluttur aftur frá Elíasi til Bjarna og þá um haustið var farið með hann frá Skálará inn að Hólum þar sem dauðinn fór að honum fáum dögum síðar (sjá hér Sandar, Guðmundarskáli þar).

Enda þótt Skálará eigi hvergi land að sjó urðu þeir sem hér bjuggu að fara í ver á hverju vori. Bjarni Bjarnason, er hér stýrði búi um 1880, reri frá Fjallaskaga.[26] Líklegt er að hann hafi átt Skálarárskipið, er svo var nefnt, en það fórst á landleið úr róðri 24. apríl 1888.[27] Fjórir úr áhöfninni drukknuðu og var Bjarni einn þeirra en þremur tókst að bjarga (sjá hér Fjallaskagi). Er Bjarni Bjarnason, bóndi á Skálará, drukknaði var hann orðinn 68 ára gamall[28] og mun hafa verið hættur formennsku. Formaður á Skálarárskipinu vorið 1888 var tengdasonur hans, Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Arnarnúpi.[29] Hann drukknaði líka er skipið fórst.[30] Hinir sem þá týndu lífi voru Kristján Össurarson, vinnumaður á Skálará og Kári Bjarnason, bróðir nýnefnds Bjarna Bjarnasonar.[31]

Þrjú átakanleg sjóslys á árunum 1912-1921, er þilskipið Síldin, kútter Valtýr og Dýri týndust öll í hafi, hjuggu breið skörð í raðir fólksins í Keldudal og ollu ysta hluta byggðarinnar við vestanverðan Dýrafjörð óbætanlegu tjóni. Með þessum þremur skipum fórust tíu menn úr Keldudal.[32] Fjórir þeirra áttu heima á Skálará.[33]

Jörðin fór í eyði árið 1946 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 162) og bærinn er fyrir löngu fallinn í tótt. Þó mátti enn árið 1992 sjá að gaflinn á honum hefur verið steyptur. Utan við bæjartóttina eru rústir af hlöðu og fjárhúsum.[34] Við þrjú af fjórum hornum hlöðunnar voru járnkengir reknir í steina. Þar munu bönd eða keðjur hafa verið fest í og lögð yfir þakið til að varna foki. Líklega hefur stundum orðið nokkuð hvasst hér og vindur staðir úr fjallaskörðum.

Uppi í Skálarárhvilft, sem er hér fyrir ofan bæinn, var talin vera álfabyggð. Til marks um það var m.a. nefnt að sokkaplögg, sem lögð voru á steina við lækinn, áttu til að hverfa.[35]

Um eða upp úr 1920 fékk Jóhannes Gestsson á Skálará fyrstu hestakerruna sem kom í Keldudal.[36] Kerruvegur var þá lagður frá Skálará að Saurum og sést enn (1992) móta fyrir þeirri braut á stöku stað. Henni fylgjum við nú þennan stutta spöl á milli bæjanna og komum næst að Saurum.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, 136.

[2] Sama heimild, 159.  Örnefnaskrá.

[3] Örn.skrá.

[4] Sama heimild.

[5] Bjarni Guðmundsson / Lesbók Mbl. 23.1.1993.

[6] Örn.skrá.

[7] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 33-34.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.  J. Johnsen 1847, 192.

[11] Örn.skrá.

[12] Jarðab. Á. og P. VII, 34.

[13] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 58.

[14] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, (Kph 1993), bls. 158.

[15] Jarðab. Á. og P. VII, 33.

[16] Sama heimild.

[17] Sbr. Lögréttumannatal, bls. 517 og Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, (Kph 1993), bls. 170.

[18] J. Johnsen 1847, 192.

[19] Manntal 1845.

[20] Sama heimild.

[21] Skútuöldin V, 114.

[22] Skútuöldin V, 114.

[23] Hreppsbók Þingeyrarhrepps 1874-1937, varðveitt 1991 í bókasafninu á Þingeyri.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 24.4.1888.

[27] Sama heimild.

[28] Prestsþjónustubækur Sandaprestakalls.

[29] Eyjólfur Jónsson 1996 I, 116-118.

[30] Sama heimild

[31] Sama heimild.

[32] Eyjólfur Jónsson 1996 II, 70-72, 175-177 og 195-196.

[33] Sama heimild.

[34] Guðm. Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[35] Guðm. Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[36] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »