Skáleyjar

Stutt er á milli Hvallátra og Skáleyja en Skáleyjar liggja næst landi allra Vestureyja. Upp á Múlanes eru aðeins um fjórar sjómílur og litlu lengra að Svínanesi eða Skálanesi.

Séra Ólafur Sívertsen segir að í Skáleyjum séu 136 eyjar og grashólmar sem sjór skilji að um stórflæðar.[1] Í sóknarlýsingu séra Ólafs segir einnig á þessa leið um Skáleyjar:

 

Þar leggur fljótt ísa á vetrum svo oft hefur þaðan mátt ganga og ríða hestum milli eyjanna og fastalandsins. Verður þar því harðærislegra en í öðrum Vestureyjum, enda tilbyrgjast þá not sölva og fjörugrasa sökum ísanna.[2]

 

Í Jómsvíkingasögu er frá því greint með hvaða hætti Skáleyjar fengu nafn sitt. Segir þar frá silfurskálum er Hákon jarl Sigurðarson gaf skáldi sínu, Einari skálaglamm.[3] Er Einar drukknaði við Einarsboða í Selasundi, milli Hrappseyjar og Purkeyjar, rak skálarnar norður um Breiðafjörð og á land í eyjum þeim er síðan voru nefndar Skáleyjar.[4] Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er minnt á að þetta voru töfraskálar og Einar kenndur við þær[5] en hann var föðurbróðir Guðrúnar Ósvífursdóttur.

Aðrir hafa látið sér detta í hug náttúrlegri skýringu á nafni Skáleyja og benda á skálarlaga tjarnir og mýrarpolla sem hér eru allmargir.[6]

Hér hefur áður verið minnst á veldi Sturlunga í Vestureyjum Breiðafjarðar eftir daga Eyjólfs Kárssonar í Flatey en hann féll undir merkjum Guðmundar Arasonar biskups norður í Grímsey vorið 1222 (sjá hér Flatey). Líklega hefur Sturla Sighvatsson þá þegar kallað til eignar og umráða hér í eyjunum og svo mikið er víst að þegar Sturla Þórðarson sagnaritari tekur við dánarbúi frænda síns á Sauðafelli, tveimur árum eftir Örlygsstaðabardaga, þá fylgja Skáleyjar þar með og líka Bjarneyjar. Sjálfur segir Sturla Þórðarson svo frá í Íslendingasögu sinni

 

Solveig [ekkja Sturlu Sighvatssonar – innsk. K.Ó.] fær í hendur Snorra búið að Sauðafelli en hann fékk Sturlu Þórðarsyni, frænda sínum. Tók hann við búinu og Bjarneyjum og Skáleyjum og Drangareka og fjórtán ómögum. Snorri fékk þá Sturlu þriðjung Snorrungagoðorðs.[7]

 

Þannig stóðu málin sumarið 1240. Það er sjálfur Snorri Sturluson sem þá, ári fyrir dauða sinn, ráðstafar Skáleyjum og Bjarneyjum í hendur frænda sínum, Sturlu sagnaritara, er þá var 26 ára að aldri og síðar bjó í Fagurey í Suðureyjum Breiðafjarðar.

Á síðari öldum hefur öll byggð í Skáleyjum verið á Bæjareynni og oft margbýlt. Á miðöldum mun þó einnig hafa verið búið í Fagurey, syðst í Skáleyjarlöndum, a.m.k. um skeið. Séra Ólafur Sívertsen segir um Fagurey að hún sé stærst allra eyja [meiningin væntanlega allra úteyja] í Skáleyjum, kringlótt og talin 5 hundraða land.[8] Síðan bætir hann við þessum orðum:

 

Þar eru gamlar bæjartóttir, túngarðsleifar og vatnsbrunnur og hefur bær staðið þar í fornöld, en ei veit ég hvort þá var býli í Skáleyjum eður þetta sama býli hefir fært verið heim á Bæjareyjuna.

 

Um byggðina í Fagurey er harla fátt vitað og engin skjöl í boði til frekari fræðslu. Munnmæli herma að býlið forna í Fagurey hafi eyðst í svartadauða á árunum 1402-1404 og aldrei byggst á ný.[9] Bergsveinn Skúlason segir að bæjartóttin sé greinileg og hafi mælst 5 x 9 metrar utanmáls. Hann bætir m.a. þessu við um Fagurey:

 

Heitir Bæjarhóll þar sem bærinn stóð. Í eyjunni eru ennfremur örnefnin: Skálholt, Máni, Stöng, Steinspartur, Ormspartur, Ormshólmur og Ormsvogur. Í Ormsvog er lendingin. Uppgróin sáðlönd eru þar og hlaðnir brunnar, sem aldrei þrjóta.

 

Mannvistarleifar í Fagurey munu flestar eða allar vera vestan við garð sem hlaðinn hefur verið yfir eyjuna þvera. Austan garðsins var beitilandið.[10]

Í byrjun 18. aldar bjuggu fjórir bændur í Skáleyjum, allt leiguliðar barna Þorsteins á Skarði. Landskuld og leigur af öllum Skáleyjum með átta leigukúgildum voru þá 30 fjórðungar eða 150 kíló af æðardúni, ef til eru – en vanti nokkuð þar til, þá leysist hver dúnfjórðungur með 48 fiska virði í fiski.[11] Þetta árlega leigugjald nam sex kúgildum því að í landaurareikningi voru 240 fiskar í kýrverðinu og orðin sem hér var vitnað til sýna að 25 kíló af dún hafi verið metin sem kýrverð. Líklegt er að dúnninn úr Skáleyjum hafi sjaldan nægt til að borga landskuld og leigur á þessum árum. Nær hálfri annarri öld síðar, árið 1840, var talið að í meðalári fengjust 70 kíló af hreinsuðum dún í Skáleyjum, 80 kíló í Hvallátrum og 50 kíló í Svefneyjum.[12]

Í byrjun 19. aldar voru líka fjórir bændur í Skáleyjum. Einn þeirra var Einar Ólafsson, sáttanefndarmaður og meðhjálpari. Kona Einars var Ástríður Guðmundsdóttir, dótturdóttir Eggerts landnámsmanns í Hergilsey. Meðal barnabarna þessara hjóna var skáldið Matthías Jochumsson og systurnar Theódóra Thoroddsen og Ásthildur, kona Péturs J. Thorsteinsson, kaupmanns á Bíldudal.

Um afa sinn, Einar í Skáleyjum, segir Matthías að hann hafi verið sérstakt góðmenni og skáldmæltur en enginn skörungur.[13] Eina vísu birtir Matthías eftir Einar orta í tilefni þess að hann sakir veðurs komst ekki til kirkju er sonur hans embættaði í fyrsta sinn á Skálmarnesmúla:

 

Mitt skal trúartraust ávallt

til míns Drottins skarta,

þótt ég fái ekki allt

er mitt girnist hjarta.

 

Í tímaritinu Straumhvörf birti Lúðvík Kristjánsson árið 1943 margar fleiri vísur eftir Einar.

Að sögn Matthíasar lét Ástríður amma hans meira til sín taka en Einar bóndi hennar:

 

Var hennar leitað víðs vegar frá til margra ráða, lækninga og líknar í vandræðum. Þótti hún og eiga drjúgan þátt í hreppstjórn og sveitarmálum því að hún var bæði skarpvitur og góðgjörn og í mörgu lík móðurföður sínum, Eggerti í Hergilsey.[14]

 

Til marks um stjórnsemi Ástríðar hefur geymst sú saga að hún hafi látið skíra Guðmund, son þeirra hjóna, þegar Einar var ekki heima. Hafi Einar ætlað að nefna drenginn Sverri, eftir Sverri presti Sigurðarsyni sem konungur varð í Noregi, en Ástríður verið því mjög andvíg. Sögu þessari til sönnunar fylgir vísa sem Einar í Skáleyjum orti meðan sonur hans var enn óskírður og biður þar Sigríði dóttur sína að sitja undir drengnum. Vísan er svona:

 

Þetta meina’ eg þungan gest,

það fer eftir vonum.

Sigga, taktu Sverri prest

og sittu undir honum.[15]

 

Guðmundur Einarsson (Sverrir prestur) var fæddur árið 1816. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum í Skáleyjum og útskrifaðist úr Bessastaðaskóla árið 1838. Hann varð þá skrifari sýslumanns austur í Fljótshlíð og kynntist þar séra Tómasi Sæmundssyni á Breiðabólstað.[16] Ætla má að Guðmundur hafi orðið fyrir nokkrum áhrifum af framfarahug Tómasar, hins kunna Fjölnismanns, og svo mikið er víst að er hann sneri á ný heim í Breiðafjarðareyjar skipaði hann sér brátt í fylkingarbrjóst.

Árið 1842 varð Guðmundur frá Skáleyjum aðstoðarprestur séra Ólafs Sívertsen í Flatey og fluttist þá austan úr Fljótshlíð á heimaslóðir. Hann kvæntist árið eftir Katrínu, dóttur séra Ólafs í Flatey og konu hans Jóhönnu Friðriku Eyjólfsdóttur, og vorið 1845 settust þau að í Skáleyjum og bjuggu hér næstu fjögur ár.[17] Ekki mun kunnugt um aðra presta er hér hafi setið. Sem aðstoðarprestur í Skáleyjum þjónaði séra Guðmundur einkum annexíunni á Skálmarnesmúla. Hann lét strax mjög til sín taka í öllum félags- og menningarmálum eyjamanna. Ritari var hann í Bréflega félaginu og samdi fyrir það bæði árlegar skýrslur og fleiri ritgerðir en nokkur annar, að séra Ólafi Sívertsen einum frátöldum.[18]

Árið sem séra Guðmudur settist að heima í Skáleyjum var ákveðið að hefja útgáfu Gests Vestfirðings og var Guðmundur valinn í ritnefndina. Átti hann manna mestan þátt í öllum undirbúningi og kom fyrsta heftið af tímaritinu út árið 1847. Presturinn í Skáleyjum var líka einn þeirra sex manna sem árið 1849 boðuðu til fyrsta Kollabúðafundarins[19] og á þessum árum munu fáir ungir menn hafa látið jafn rösklega til sín taka í framfara- og þjóðfrelsismálum Íslendinga sem hann.

Á árunum 1846-1848 fengu félagsmenn Bréflega félagsins og e.t.v. fleiri sent frá Skáleyjum á ári hverju rit sem var eins konar einkamálgagn séra Guðmundar Einarsson og hét Hugi og Muni.[20] Þarna birti hann árið 1847 ritgerð sína Samtökin og segir þar m.a.:

 

Þegar vér rennum augum vorum og huga með íhugunarsemi yfir öfl náttúrunnar, fýsnir skepnanna, háttalag mannanna, verðum vér þess hvarvetna varir að alls staðar þar sem eitthvað mikið á að framkvæma, eða fara fram í sífellu, þar verða mörg öfl, margar skepnur, margir menn samtaka.

 

Í þessari ritgerð leitast séra Guðmundur við að sýna fram á hversu öflugur máttur samtakanna geti verið til góðra verka og setur fram beinar tillögur um tvenn samtök, önnur til að koma á fót kvennaskóla en hin til að stofna sjómannaskóla. Hann bendir á að ef 100 konur gæfu 10 dali hver og 20 efnamenn í Vestfirðingafjórðungi gæfu 100 dali hver til stofnunar slíkra skóla þá kæmist skriður á málin.[21]

Ekki er kunnugt að aðrir hafi lagt til stofnun kvennaskóla hérlendis á undan séra Guðmundi en hugmyndin um stofnun sjómannaskóla var víðar á kreiki um svipað leyti og kom málið til umræðu á Kollabúðafundi árið 1850. Frá því séra Guðmundur í Skáleyjum birti umrædda ritgerð sína liðu 27 ár uns kvennaskólinn tók til starfa og 44 ár uns sjómannaskóli, sem átti framtíð fyrir sér, komst á fót. Sýnir þetta vel hversu langt á undan sinni samtíð Skáleyjaklerkur var í mörgum greinum.

Sama ár og séra Guðmundur birti ritgerð sína um samtakamáttinn hafði hann forgöngu um söfnun undirskrifta undir bænarskrá frá Barðstrendingum til Alþingis 1847 þar sem m.a. var farið fram á að þingið yrði haldið í heyranda hljóði.[22] Í umburðarbréfi sem presturinn í Skáleyjum sendi út vegna söfnunar undirskrifta á bænarskrána segir hann m.a.:

 

… mér finnst það bæði skyldugt og nauðsynlegt að hver einn Íslendingur reyni til að láta það ættjörð sinni og samlöndum í té, er hann hyggur að henni og þeim megi að gagni verða, og þessi tilfinning er það einungis, sem knýr mig og hvetur að rita yður bréf þetta.[23]

 

Ritgerðir séra Guðmundar Einarssonar í Gesti Vestfirðingi fjölluðu einkum um búnaðarmál og uppeldismál svo sem nöfn þeirra benda til: Lítill leiðarvísir til að venja börn. – Bending til efnalítilla bændaefna í sveit um fáein atriði búnaðarins. Séra Guðmundur skrifaði einnig í Ný félagsrit meðan hann bjó í Skáleyjum ritgerðina Yfirlit bóndabúskapar sem birtist án höfundarnafns í 7. árgangi ritanna.[24]

Árið 1849 var séra Guðmundi veitt Kvennabrekka í Dölum og fluttist hann þá á brott úr Skáleyjum. Hann var samt áfram í Bréflega félaginu og á 30 ára afmæli Framfarastofnunarinnar í Flatey gaf hann henni 100 ríkisdali.[25]

Guðmundur frá Skáleyjum var fulltrúi Dalamanna á þjóðfundinum 1851 og þar í fremstu röð þjóðfrelsismanna. Hann tók þar til máls í umræðum um stjórnlagafrumvarpið og sagði þá m.a.:

 

Ég tel það líka sjálfsagða skyldu vora, sem vér séum konungi um skyldugir á aðra hlið og þjóð vorri á hina, að segja álit vort um málið eftir bestu sannfæringu, með stillingu og einurð, og vér hlytum að baka oss fyrirlitningu fyrir augliti konungs og þjóðarinnar ef vér breyttum á annan veg. Ég fyrir mitt leyti get ekki álitið annað en það gangi næst drottinsvikum ef vér látum leiðast til ályktana og atkvæða gegn sannfæringu vorri og þjóðréttindum.[26]

 

Varðveist hefur ræða sem Guðmundur flutti á fundi að Leiðarhólmi við Miðá í Dölum árið fyrir þjóðfundinn og sýnir hún vel hug þessa merka Breiðfirðings í framfara- og frelsismálum þjóðarinnar. Í ræðunni segir séra Guðmundur m.a.:

 

Nú í fáein ár hefir mótað fyrir því að fjör og þor væri fremur farið að kvikna í þjóðinni; nokkrir eru þó farnir að litast um fyrir utan bæjardyr sínar og virða fyrir sér teikn tímanna, því að frelsissólin, sem er farin að brjótast gegnum kúgunarskýin í suðrinu, er farin að kasta roðma á hátinda Íslands.

… Förum þá bræður að iðka oss í föðurlandsástinni sem best við getum, hún er undirrót alls fjörs, framtaks og kappsmuna föðurlandinu til heilla, hún er líf og fjör þjóðarlíkamans. Förum að afla oss menntunar, hún er sálin í þjóðarstörfunum. Förum að ástunda eindrægni og félagsskap. … Förum að læra atorkuna; þegar öfl náttúrunnar hafa nú þegar eytt og spillt svo mjög landi voru, þá hlýðir oss ekki annað en að beita skynseminni og atorkunni gegn þeim og bæta þannig úr auðnum og atvinnuskorti.

… Lifum þá í voninni vinir, í von þeirri að Ísland muni rétta við aftur og að barnabörn vor og þeirra niðjar muni njóta árs og unaðar af frelsissól þeirri, sem nú fer að kasta á fjöll, og sjá vorblómann sem nokkurn ávöxt voryrkju þeirrar, er vér viljum nú fara að starfa að.[27]

 

Nútímamönnum sem lesa svo hástemmd orð kynni sumum að detta í hug að Guðmundur Skáleyingur hafi verið einhvers konar draumóramaður með takmarkað jarðsamband. Svo var þó ekki. Hann var lengi þingmaður Dalamanna og barðist á Alþingi fyrir margvíslegum framförum, ekki síst í búnaðarmálum. Um landbúnaðarmál mun séra Guðmundur hafa ritað meira en nokkur samtíðarmanna hans. Meðal annars gaf hann út fjögur rit um búfjárrækt og þótti mörgum búandmanni fengur að þeim bókum. Sjálfur var Guðmundur Einarsson búhöldur með afbrigðum eins og Sighvatur Borgfirðingur orðar það og bætti mjög þær jarðir er hann sat, Kvennabrekku í Dölum og Breiðabólsstað á Skógarströnd en þangað fluttist hann vorið 1869. Séra Guðmundur fékk fyrstur manna í Vestfirðingafjórðungi verðlaun úr sjóði Kristjáns konungs IX fyrir framúrskarandi dugnað í búnaði og húsabyggingar.[28] Matthías Jochumsson dvaldist um skeið á unglingsárum hjá þessum móðurbróður sínum. Varð hann að strita í búverkum og sárnaði að prestur gaf sér þá ekki tíma til að kenna honum undir skóla. Matthías segir þó að fjölhæfari prestur og grandvarari og duglegri félagsmaður hafi vart verið finnanlegur á Íslandi á þeirri tíð.[29] Séra Guðmundur dó haustið 1882. Af fimmtán börnum þeirra hjóna náðu aðeins þrjú fullorðinsaldri: Theódóra Thoroddsen, Ásthildur Thorsteinsson og Ólafur læknir.

Hér var ekki ætlunin að rita langt mál um störf Guðmundar Einarssonar eftir brottför hans úr Breiðafjarðareyjum. Hins verður að geta að meðan hann enn var prestur í Skáleyjum samdi hann, að beiðni Hins íslenska bókmenntafélags, merkilega ritgerð um íslenska leiki. Séra Guðmundur lýsir þar 25 leikjum og listum eins og þeir voru iðkaðir í Breiðafjarðareyjum og minnist stuttlega á svolítið fleira af sama toga.[30]

Meðal leikja sem Guðmundur fjallar um eru glíma, kóngsstólaleikur, dúfuleikur, skollaleikur, Nípuleikur, skessuleikur, stórfiskaleikur og tólfkóngaleikur. Leikjaritgerð séra Guðmundar í Skáleyjum hefur löngum þótt hin merkasta og sýnir að margt var sér til gamans gert í fyrri daga á fjölmennum sveitaheimilum, í verstöðvum og á mannfundum.

Séra Guðmundur Einarsson ritaði einnig sérstaka skýrslu fyrir Jón Árnason þjóðsagnasafnara um hina árlegu gleðileiki sem lengi voru haldnir á Jörfa í Haukadal í Dalasýslu uns þeir voru bannaðir í byrjun 18. aldar. Minnist hann þar á nokkra vikivakaleiki sem iðkaðir höfðu verið á Jörfagleðinni og slíkum samkomum en flestum voru gleymdir um miðbik 19. aldar.[31] Séra Guðmundur nefnir þarna Þórhildarleik, hindarleik, Hoffinnsleik og giftingaleik.[32] Segir hann að sá sem stýrði Jörfagleðinni hafi verið nefndur Hoffmann eða Hoffinn en Álfinn sá sem gekk honum næstur. Hafi allir leikar sem fram fóru í gleðinni endað á þessum orðum:

 

Mey vill Hoffinn

mey vill Álfinn

mey vilja allir Hoffinnssveinar.

 

Síðan hafi karlmenn gengið í kvennahópinn, foringjar fyrst og síðan hver af öðrum og tekið sér konu til fylgilags.[33] Niðurlag á Þórhildarleiknum segir Guðmundur úr Skáleyjum að verið hafi þannig:

 

Á Þórhildarleiknum þreyttur er ég núna,

margan hef ég manninn gift

og meðal þeirra konunum skipt

og er því glaður að eina fékk ég frúna.[34]

 

Um hina fornu gleðileiki, sem hér voru iðkaðir á fyrri öldum, vissum við enn minna nú ef ekki nyti við þess fróðleiks sem varðveittur var í Skáleyjum á Breiðafirði þar sem ættmenn séra Guðmundar í föðurkyn höfðu setið að búi mann fram af manni.[35]

Sitthvað hefur nú verið tínt til um Guðmund Einarsson, eina prestinn sem þjónað hefur brauði sínu frá Skáleyjum. Um ýmsa Skáleyjabændur á 19. öld eða fyrr hefði einnig mátt rita nokkurt mál en látið verður nægja að minna aðeins stuttlega á einn þeirra.

Magnús Einarsson frá Svefneyjum, bróðir Eyjólfs eyjajarls, kvæntist árið 1821 Sigríði, dóttur Einars Ólafssonar og Ástríðar Guðmundsdóttur í Skáleyjum (sjá hér bls. 3). Hófu ungu hjónin þá búskap í Skáleyjum og bjuggu hér uns Sigríður andaðist árið 1834.[36] Magnús bjó síðan áfram í Skáleyjum en þó um skeið í Hvallátrum. Hann kvæntist í annað sinn og börn átti hann með fimm konum.[37]

Magnús Einarsson var um skeið í Bréflega félaginu og lagði þar fram sex ritgerðir er allar fjölluðu um hagnýt efni, búskap og heimilishagi.[38] Í fyrsta og öðru tölublaði fimmta árgangs af blaðinu Norðra á Akureyri birtist í janúar 1857 grein eftir Magnús er hann nefnir Um heyþurrkun í votviðrum og hefur hann skrifað greinina í skammdeginu 1854. Þarna rekur hann í alllöngu máli kosti þess að setja hey í galta og lýsir hvernig það skuli gert.[39] Um þetta segir Skáleyjabóndinn meðal annars:

 

Þegar hey er svo þurrt að í garð er berandi og því verður ekki í það sinni komið við eður það þykir of lítið til uppburðar í hey, er ráðlegast að setja það í galta og eru þeir þá látnir halda sömu lögun og strax var nefnd en hafðir svo stórir að upp á þá er farið og troðnir og lagaðir sem best. Þarf þá að verja þá með voðum, eru þær víða til hjá efna- og hirðumönnum hér vestanlands. Voðir þessar eru lagaðar eins og hettur með lykkjum neðan í og er band dregið í þær, sem voðirnar eru bundnar með í veðrum um galtana.

 

Fróðlegt er að bera þessi skrif Magnúsar saman við það sem Hermann Jónasson, skólastjóri á Hólum, segir í Búnaðarritinu rösklega 30 árum síðar um heyverkun í Barðastrandarsýslu. Hermann tekur þá fram að íbúar sýslunnar eigi sérstaklega hrós skilið fyrir það hve vel þeir verka og hirða hey sín, enda standi þeir þar framar flestum eða öllum á landi hér.[40] Meðal þess sem Hermann upplýsir um heyverkun í Barðastrandarsýslu er þetta:

 

Þegar hey eru farin að þorna eru þau ekki látin liggja flöt að kvöldi nema auðsætt sé að vindþurrkur verði yfir nóttina. Margir hafa líka dúka til þess að breiða yfir uppsætt hey. Dúkar þessir eru nefndir hærur eða galtatjöld. … Þeir telja hærurnar eins og má bestu búmannseign, enda telja þeir heyið svo gott sem komið inn þegar það er komið undir hærur. Flestir vinna hærurnar sjálfir.[41]

 

Í Búnaðarritinu lýsir Hermann síðan nákvæmlega hvernig hærurnar, sem Magnús í Skáleyjum hafði nefnt voðir, eru gerðar og gefur ráð um notkun þeirra. Af skrifum Hermanns er ljóst að bændur í Barðastrandarsýslu og máske víðar á Vestfjörðum hafa árið 1887 skarað fram úr í þessum efnum og fræðandi blaðaskrif Magnúsar í Skáleyjum þrjátíu árum fyrr um hærur og heygalta því alls ekki verið út í bláinn.

Líklega hefur Magnús Einarsson í Skáleyjum verið nokkuð ritglaður og á efri árum fór hann að semja ritlinga gegn trúarboðskap Magnúsar Eiríkssonar, guðfræðings í Kaupmannahöfn. Fékk Magnús í Skáleyjum a.m.k. tvo slíka ritlinga prentaða.

Sveinbjörn Guðmundsson, einn niðja þessa Skáleyjabónda, lýsir honum svo:

 

Hann var búhöldur góður og gætti fjár síns vel, vel viti borinn og greindur, las mikið og var fróður, þótti í þeim efnum bera langt af Eyjólfi bróður sínum. … Hann var í hærra lagi, svaraði sér vel en holdskarpur. Hvatur í spori, beinn og bar höfuðið vel. Höfuðstór, nokkuð toginleitur og ávalar kinnar. Ennið hátt og mikið, brúnabein stór, bogadregin og loðnar brýr. Kinnbeinin lágu hátt. Augun grá, hvöss og harðleg. … Skeggið vel hirt, þykkt og sítt, svo það lá á hnjám hans þegar hann sat, en klippt svo að það breiddist ekki mikið út um bringuna, bar það venjulega innanklæða.[42]

 

Á aðfangadag jóla árið 1865 fæddist Magnúsi dóttir og var hann þá sjötugur. Kona sem þá var í Skáleyjum sagði frá því síðar að þennan dag  hafi Magnús komið inn til nágranna sinna háleitur að vanda, í blákembdri silfurhnepptri peysu, silfurhvítt hárið féll á herðar, haldið skarbandi, en hvítt skeggið náði á læri, – og segir karl þá í dyrunum: Nú liggur vel á mér. Blessuð jólin. Ég sætkenndur og sjötugur og nýfædd dóttir.[43]

Ein meðal barna Magnúsar Einarssonar og Sigríðar Einarsdóttur, konu hans, í Skáleyjum var Sigríður, sem kölluð var hin stórráða og lærði mjólkurverk og fleira þarft í Danmörku. Hún var fjórtán ára þegar séra Guðmundur Einarsson, móðurbróðir hennar, birti grein sína um nauðsyn þess að stofna kvennaskóla á Íslandi (sjá hér bls. 4-5). Líklega hefur hún lesið þá grein. Réttindi íslenskra kvenna voru ekki upp á marga fiska um miðja 19. öld og möguleikar þeirra til skólagöngu eða þátttöku í opinberum málum nánast engir. Óþekkt mátti heita að dætur sléttra bænda sigldu til náms en Sigríður Magnúsdóttir frá Skáleyjum réðst jafnan á garðinn þar sem hann var hæstur og hafði stundum sigur. Líklega hefur hún m.a. lært hjúkrunarfræði fyrst íslenskra kvenna. Hún stóð líka í stórræðum í Möðrudal á Fjöllum, á Vopnafirði, í Ólafsvík og í Danmörku þar sem hún bjó síðustu þrjátíu æviárin en þar hafði hún áður dvalist um skeið. Saga hennar verður ekki rakin hér en Játvarður Jökull, bóndi á Miðjanesi, hefur skrifað heila bók um þessa frænku sína og skal til hennar vísað.[44] Sigríður stórráða frá Skáleyjum var, er og verður tákn fyrir þann manndóm sem lífið í Breiðafjarðareyjum og landkostir allir náðu að kalla fram þegar best lét.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sóknalýs. Vestfj. I, 163.

[2] Sama heimild, 164.

[3] Jómsvíkingasaga 1969, 179.

[4] Sama heimild, bls. 205.

[5] Þjóðs. Jóns Árnasonar II, 90.

[6] Bergsv. Skúlason 1974, 211.

[7] Sturlungasaga II, 367.

[8] Sóknalýs. Vestfj. I, 162.

[9] Bergsv. Skúlason 1974, 212.

[10] Sama heimild.

[11] Jarðab. Á. og P. VI, 243-244.

[12] Sóknalýs. Vestfj. I, 150, 159 og 164.

[13] Matthías Jochumsson 1959, 23.

[14] Sama heimild.

[15] Lúðvík Kristjánsson 1943, 17 (Straumhvörf 1.h., 1. árg. 1943).

[16] Lúðvík Kristjánsson 1953, 91.

[17] Sama heimild, 93-94.

[18] Sama heimild, 233 og 235.

[19] Sami 1960, 224.

[20] Sami 1953, 237.

[21] Lúðvík Kristjánsson 1953, 238-245.

[22] Lúðvík Kristjánsson 1960, 58-59.

[23] Sama heimild, 69-70.

[24] Sami 1953, 230.

[25] Sama heimild, 156 og 226.

[26] Tíðindi frá þjóðfundi Íslendinga 1851, 167-168.

[27] Lúðvík Kristjánsson 1969, 141-144.

[28] Lúðvík Kristjánsson 1953, 94.

[29] Matthías Jochumsson 1959, 79-80.

[30] Ólafur Davíðsson 1888-1892, II, 2-3 og 9.

[31] Sami 1894, 33.

[32] Sama heimild, 40 og 96.

[33] Sama heimild, 111.

[34] Ólafur Davíðsson 1894, 102.

[35] Matthías Jochumsson 1959, 23.

[36] Játv. J. Júlíusson 1985, 101 og 106.

[37] Sama heimild, 103.

[38] Lúðvík Kristjánsson 1953, 110.

[39] Magnús Einarsson: Norðri V, 1-2, bls. 5.

[40] Hermann Jónasson 1888, 184 (Búnaðarritið).

[41] Hermann Jónasson 1888, 185 (Búnaðarritið).

[42] Játv. J. Júlíusson 1985, 102.

[43] Sama heimild, 103.

[44] Játv. Jökull Júlíusson 1985, 1-213.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »