Skápadalur, Kot og Konungsstaðir

Skápadalur, Kot og Konungsstaðir

Patreksfjörður opnast til norðvesturs og gengur inn í landið til suðausturs, allt að Skápadal. Við Skápadal beygir vesturströnd fjarðarins hins vegar fyrst til norðurs og síðan við mynni Ósafjarðar, sem er innsti hluti Patreksfjarðar, í austur.

Frá Hvalskeri að Skápadal eru fimm til sex kílómetrar og liggur þjóðvegurinn með ströndinni. Á þeirri leið er farið hjá tveimur eyðibýlum, öðru fornu en á hinu var búið fram undir miðja tuttugustu öld. Býli þessi hétu Kot og Konungsstaðir og byggðust bæði í landi Skápadals.

 

Frá Hvalskeri að Koti er skammur spölur, aðeins liðlega einn kílómetri. Á þeirri leið er þó farið yfir tvær ár, Litladalsá við vegamótin, þar sem annar vegur liggur upp á Skersfjall og yfir á Rauðasand, og Mikladalsá aðeins innar með firðinum.

Bærinn á Koti stóð neðan við veginn og blasa þar enn tóttir við augum vegfarenda. Byggð hófst fyrst á Koti eigi síðar en snemma á 17. öld en samfelld hefur hún ekki verið. Árni Magnússon segir um Kot að þar sé ekki unnt að fóðra eina kú að fullu ef hún skyldi á heyi fóðruð vera.[1] Hann tekur líka fram á sama stað að búið hafi verið á Koti lengur en elstu menn muni árið 1703 og allt til fardaga það ár er býlið fór í eyði.

Um miðja 18. öld var Kot aftur komið í byggð[2] en í móðuharðindunum 1783 til 1785 fór býlið í eyði á ný[3] og mun ekki hafa byggst aftur fyrr en um það bil hundrað árum síðar. Hér litlu aftar segir þó frá endasleppri tilraun sem gerð var til búskapar á Koti sumarið 1859 (sjá hér bls. 4). Síðasti ábúandinn á Koti fyrir móðuharðindin mun hafa verið Solveig Loftsdóttir, móðir Bjarna á Sjöundá, en hún var þá kona fráskilin.[4]

Á fyrri hluta 19. aldar voru á Koti beitarhús frá Skápadal en síðan var kotið keypt undan aðaljörðinni og var þá metið sem þriðjungur hennar.[5] Þetta hefur líklega verið um 1885 því að þá hófst byggð á Koti á ný og stóð með litlum hléum til 1945.[6] Pétur frá Stökkum segir að býlið hafi verið notagott fyrir sauðfé vetrarbeit góð og fjara.[7]

Gísli Konráðsson greinir frá barnsfæðingu á Koti á síðari hluta 18. aldar. Átti sú fæðing að fara dult og lætur Gísli að því liggja að barnið hafi verið borið út. Að sögn hans bjuggu þá á Koti Helgi Helgason og kona hans, Jórunn að nafni. Hjá þeim var vinnukona er Guðrún hét. Kjarninn í frásögn Gísla er þessi: Eldur dó á Hvalskeri og fór þá maður þaðan að Koti til að sækja eld.

 

Kom hann þar á glugg síðla kvölds ella á vöku og sá ljós í baðstofu og þau Helga og Jórunni sitja yfir Guðrúnu griðkonu, og það sá hann að Jórunn skildi á milli. Heyrði hann þá Guðrúnu biðja fyrir guðs skuld að hlífa barninu og gera því ekki mein. Barn þetta var dulið.[8]

 

Frá Hvalskeri barst út orðrómur um barnsfæðinguna á Koti og þar kom að séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal krafðist réttarrannsóknar. Davíð Scheving, sýslumaður í Haga, dæmdi þau öll, Helga, Jórunni og Guðrúnu, í ævilangt tugthús. Jórunn veiktist hastarlega á leiðinni í fangavistina og var borin til baka heim á kviktrjám. Hún varð síðar ráðskona í Haga. Helgi dó í tugthúsinu en Guðrúnu var að lokum sleppt þaðan.[9]

Sé frásögn Gísla nærri lagi má ætla að þau Helgi og Guðrún frá Koti hafi verið með þeim fyrstu sem gistu vistarverur tugthússins er reist var á Arnarhóli í Reykjavík um 1770 og nú er stjórnarráð.

 

Hið forna býli Konungsstaðir var um það bil einum kílómetra fyrir innan Kot og mun bærinn hafa staðið skammt fyrir ofan núverandi þjóðveg þar sem enn (1988) sér til tótta. Milli tóttanna á Koti og Konungsstöðum eru tveir lækir, sá ytri örlítil sytra en hinn nokkru stærri. Rétt innan við Konungsstaði er Grænhóll, auðþekktur á lit og lögun. Ætla má að Kot og Konungsstaðir hafi aldrei verið samtímis í byggð, enda eru Konungsstaðir taldir hafa farið í eyði um 1600 eða fyrr.[10] Árni Magnússon segir árið 1703 að bæjarstæði þetta sé ýmist nefnt Konálsstaðir eða Konungsstaðir. Fabulera menn að á Konálsstöðum hafi fólk horfið (burt heillast) og því hafi jörðin eyðilagst, segir Árni í Jarðabókinni og tekur fram að enn sjáist þarna bæjartótt og túngarðar.[11]

Í riti sínu Atla, sem fyrst var prentað árið 1780, ætlar séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal sögupersónunni Atla að búa á Konungsstöðum. Við ritun Atla hefur prestur ugglaust hugsað til þessara Konungsstaða svo skammt frá Sauðlauksdal, enda þótt því muni fara fjarri að kotið geti í raun borið þann bústofn sem um er talað í Atla.[12] Láttu lýsa því á Alþingi strax í sumar að þú viljir taka til byggðar þér eyðijörðina Konungsstaði, segir gamli bóndinn við hið unga búmannsefni séra Björns.[13]

Innan við Konungsstaði, rétt neðan núverandi þjóðvegar, er Grænhóll sem áður var nefndur, stór og allvel gróinn. Munnmæli herma að í honum sé kaupskip á hvolfi og er trúlegt að lögun hólsins hafi vakið upp þá sögu. Um Grænhól var líka sagt að þar sæust stundum loga langeldar á fyrri tíð er dimma tók.[14]

Að baki Grænhóls rís Skápadalsfjall í 464 metra hæð. Frá efstu brún þess er tæplega hálftíma gangur til suðvesturs á Stórhæð (490 m) og frá sömu brún er álíka langt í suðaustur á Hrólfsvirki (sjá hér Frá Sjöundá að Saurbæ, sbr. einnig hér Frá Haga á Siglunes, bls. 7-8 þar).

Milli Konungsstaða og Grænhóls lá gömul reiðgata til fjalls, vestan við Skápadalsfjall, og var þá komið á þjóðleiðina sem lá yfir Skersfjall á Rauðasand rétt norðan til við Mjósund, skammt þar frá sem reiðgatan frá Sauðlauksdal kom úr vestri á þessa sömu þjóðleið yfir Skersfjall. Leiðina hjá Konungsstöðum hefur Þorvaldur Thoroddsen riðið til fjalls þann 7. júlí 1886 en hann segist hafa farið þann dag úr Patreksfirði á Rauðasand yfir Dalsfjall nokkru fyrir utan Skápadal.[15]

 

Á leiðinni inn með firðinum, frá Konungsstöðum að Skápadal, eru þrír lækir og heitir sá innsti Skápadalsgil. Þegar komið er í fjarðarhornið þar sem ströndin beygir til norðurs opnast Skápadalur, þröng dalkvos umgirt bröttum hamrafjöllum á báðar hliðar og í dalbotninum Skápadalsgljúfur, há og hrikaleg. Úr gljúfrunum fellur Skápadalsá til sjávar.

Skápadalur er gömul bújörð en hefur legið í eyði frá því um 1950.[16] Á síðari öldum stóð bærinn nyrst í mynni Skápadals. Árni Magnússon segir árið 1703 að bærinn hafi áður staðið á öðrum stað en hafi verið fluttur sökum vatnaáhlaups úr gili þar nálægu og tekur fram að gamla bæjartúnið sé af skriðu fordjarfað.[17] Eldra bæjarstæðið mun vera rétt við árósinn í Skápadal. Í Jarðabók Árna og Páls er haft á orði að ræktun gangi illa á nýja túninu í Skápadal því að aur falli á það úr fjallinu og einnig brjóti sjórinn land neðan við túnið.[18] Hrognkelsatekju og selveiði telur Árni Magnússon að stunda mætti frá Skápadal að nokkru gagni.

Í byrjun 18. aldar átti Guðrún ríka í Saurbæ Skápadal ásamt Koti og var Skápadalsbóndi skuldbundinn til að róa sem formaður á einum báta hennar sem gerðir voru út frá Láturdal. Í formannskaup átti hann að fá höfuð af skiphlutnum og ekkert annað.[19] Komu hausarnir í stað tíu kílóa af smjöri sem þá var almennt formannskaup í þeirri verstöð (sjá hér Hænuvík og Sellátranes).

Hér hefur sjálft bæjarnafnið verið nokkuð á reiki á liðnum öldum. Kynningu á jörðinni byrjar Árni Magnússon með þessum orðum: Skyttudalur (aðrir meina það heiti Skytindaler). Almennilega kallast jörðin Skápadalur.[20] Árið 1746 notar Ólafur Árnason sýslumaður Skápadalsnafnið[21] en séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal ritar Skyttudalur árið 1840.[22] Nú mun Skápadalsnafnið hafa sigrað að fullu, enda sýnist mörgum auðvelt að benda á skápana í klettagljúfrunum skammt frá bænum.

Skápadalsfjall liggur að Skápadal suðvestanverðum en Skápadalsmúli gengur fram austan dalsins og norðan við hann. Fyrir botni Skápadals heitir efsta brúnin Loftarbrekka. Er þar komið í 438 metra hæð yfir sjávarmáli. Nær beint í suður frá bænum í Skápadal, uppi á fjalllendinu, er Hrossagötuskarð en um það var stundum farið úr vestanverðum Patreksfirði á Sandsheiði og yfir hana á Barðaströnd (sjá hér Hvalsker).

Pétur frá Stökkum segir að gangandi menn hafi þá farið upp skammt vestan við Skápadal og þaðan Hrossagötuskarð.[23] Sú leið mun ófær með hesta og hafa ríðandi menn því farið inn í fjarðarbotn og þaðan á Kleifaheiði ef þeir áttu erindi á Barðaströnd.

Á fjallinu fyrir ofan Skápadalsbæinn er svolítið slægjuland sem heitir Mórublettur. Sú var trú manna að blett þennan mætti þó aldrei slá og var hann eignaður huldufólki. Bóndi einn í Skápadal réðst samt eitt sinn í að slá Mórublett þegar lítið var um gras. – Daginn eftir gerði fárveður og gengu þá hinar mestu þrumur og eldingar, sem komið höfðu í manna minnum. Heyið af Mórubletti fauk allt út á sjó og hefur bletturinn ekki verið sleginn síðan.[24]

Guðmundur Jónsson, lengi bóndi á Skjaldvararfossi á Barðaströnd, kunni sögu af tveimur Jónum er bjuggu hver á eftir öðrum í Skápadal upp úr miðri 19. öld, Jóni rúgkút og Jóni Jónssyni. Sögu hans er að finna í Þjóðsögum og þáttum en kjarni hennar er þessi:

Um miðja 19. öld átti séra Benedikt Þórðarson á Brjánslæk, síðar í Selárdal, jörðina Skápadal. Í Skápadal bjó þá Jón nokkur sem ýmist var kallaður fangi eða rúgkútur. Fyrra viðurnefnið fékk hann vegna fangavistar er hann hafði lent í en síðara nafnið vegna rúgkúts sem hann átti að hafa stolið. Aldrei fékkst Jón rúgkútur til að greiða séra Benedikt nokkra landskuld af jörðinni. Svaraði hann illu einu ef prestur krafði hann um afgjaldið og sat því fastar sem honum var oftar byggt út.

Liðu svo nokkur ár en þar kom árið 1858 að prestur seldi Skápadal öðrum Jóni fyrir aðeins tólf spesíur og þótti lítið fyrir heila jörð. Prestur vildi hins vegar losna við jörðina þar eð hún var honum arðlaus en Jón rúgkútur naut þar allra jarðargæða án þess að greiða landskuldina.

Jón sá er keypti Skápadal af séra Benedikt var Jónsson og settist hann sjálfur á jörðina vorið 1859. Varð þá Jón rúgkútur að víkja en fékk leyfi til að setjast að á Koti sem þá var eyðijörð og lá undir Skápadal. Á Koti var hver kofi í rúst en Jón rúgkútur reisti þar bátgarm yfir tótt eina og hafði þar skýli um sumarið ásamt konu sinni og syni.

Rétt hjá Koti er hóll einn sem Búverkahóll heitir. Hjá hól þessum þótti afbragðs sauðhagi og þar sátu þeir saman yfir kvíaám um sumarið, sonur Jóns rúgkúts, er Kristján hét, og piltur frá Skápadal.

Líklega hafa aðstæður til barnauppeldis og kennslu í fáguðu orðbragði ekki verið beint góðar í tóttinni undir bátsskriflinu á Koti. Dag einn sátu drengirnir tveir á Búverkahól og tálguðu spýtur. Segir þá Kotdrengurinn þessi orð við Skápadalssmalann: Ég má rista þig á kviðinn og hengja þig á görnunum úr þér ef þú stríðir mér. Upp úr þessu varð Jón rúgkútur að hrekjast frá Koti og segir hér ekki nánar frá honum eða drengjunum sem tálguðu spýtur á Búverkahól.[25]

Hitt skal tekið fram að nafnana tvo og þeirra fólk er auðvelt að finna í manntölum úr Sauðlauksdalssókn frá þessum árum. Í manntali frá 1855 má sjá að þá hefst við í Skápadal Jón Jónsson, titlaður húsmaður og lifir af sínu. Hann er þá 48 ára, kona hans Kristín Kristjánsdóttir 43ja ára og sonur þeirra, Kristján Jónsson, 7 ára, fæddur í Tálknafirði.[26] Þarna er greinilega kominn Jón rúgkútur. Árið 1862 er þessi Jón farinn frá Skápadal og þá er sestur á jörðina annar Jón Jónsson, um það bil tíu árum yngri, með konu og þrjá stálpaða syni.[27] Allt kemur þetta nákvæmlega heim við það sem sagt er í sögunni hér á undan.

Frá Skápadal liggur þjóðleið með ströndinni við sunnanverðan Ósafjörð og inn í fjarðarbotn. Þessi leið um Skápadalshlíð var áður talin erfið, enda er hér ekkert undirlendi en yfir veginum gnæfir norðurhlíð Skápadalsmúla, liðlega 400 metra há og hömrum krýnd. Ólafur Árnason sýslumaður tekur sérstaklega fram árið 1746 að um Skápadalshlíð sé mjög slæmur vegur.[28]

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 329.

[2] Sýslulýsingar 1744-1749, 146 (gefnar út 1957).

[3] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 213.

[4] Jón Helgason 1962, 173 (Sunnud.blað Tímans I. árg.).

[5] Pétur Jónsson 1942, 103 (Barðstrendingabók).

[6] Martin Schuler 1994, 62 (Búsetuþróun á Íslandi 1880-1990).

[7] Pétur Jónsson 1942, 103 (Barðstrendingabók).

[8] Lbs. 4034to, bls. 101-102.

[9] Sama heimild.

[10] Jarðab. Á. og P. VI, 329.

[11] Sama heimild.

[12] Pétur Jónsson 1942, 104 (Barðstrendingabók).

[13] Björn Halldórsson 1783, 31.

[14] Þjóðsögur og þættir 1981, I, 32.

[15] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 15.

[16] Martin Schuler 1994, 62 (Búsetuþróun á Íslandi 1880-1990).

[17] Jarðab. Á. og P. VI, 329.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild, 328.

[20] Sama heimild.

[21] Sýslulýsingar 1744-1749, 146 (gefnar út 1957).

[22] Sóknalýs. Vestfj. I, 210.

[23] Pétur Jónsson 1942, 104 (Barðstrendingabó).

[24] Þjóðsögur og þættir 1981, I, 32.

[25] Þjóðsögur og þættir 1981, I, 32-33.

[26] Manntal 1855.

[27] Sóknarmannatal Sauðlauksdalspr.kalls. 1862.

[28] Sýslulýsingar 1744-1749, 146 (gefnar út 1957).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »