Stapadalur

Bærinn í Stapadal stendur á sjávarbakka í mynni dals sem ber sama nafn og jörðin. Um dalinn rennur Stapadalsá sem fellur til sjávar við utanvert túnið. Stapinn, sem bærinn er kenndur við, er stór klettadrangur í fjörunni utan við Stapadal. Jörðin fór í eyði árið 1955[1] en íbúðarhús úr steinsteypu sem byggt var skömmu fyrir 1930[2] stendur enn. Gamli torfbærinn stóð nokkru ofar og heitir þar Bæjarhóll.[3] Fyrsta íbúðarhús úr timbri sem reist var í Auðkúluhreppi byggði Kristján bóndi Kristjánsson hér í Stapadal árið 1888 og kom það tilhöggvið frá Noregi.[4] Viðbygging úr timbri hafði áður verið reist framan við bæinn í Lokinhömrum (sjá Lokinhamrar).

Landamerkjum Stapadals á móti Álftamýri hefur áður verið lýst en á móti Hrafnabjörgum á jörðin land að Bjargaá.[5] Frá bænum í Stapadal eru um það bil tveir og hálfur kílómetri út að merkjunum en fimm kílómetrar fram í dalbotn. Allur dalurinn er hömrum girtur á báðar hliðar og engum ráðlegt að leita þar uppgöngu. Kaldbakur, sem er hæsta fjall Vestfjarða (sjá Álftamýri), stendur styrkum fótum innan við dalbotninn en milli hans og Bæjarnúpsins liggur samfelldur klettaveggur. Enn hrikalegri eru hamrabeltin í Veturlandafjalli, yfir ytri hlíðinni. Ofarlega í því miðju er klettadrangur sem heitir Helgason en í nánd við innri brúnina er annar slíkur sem ber við himin þegar svipast er um frá bæjarhlaðinu og var hann nefndur Háa-Þóra.[6] Gömul munnmæli herma að þetta séu tröll sem dagað hafi uppi.[7] Mjög líklegt er að þeir sem fyrstir tóku sér þessi heiti í munn hér í Stapadal hafi þekkt til gleðileiksins sem kenndur var við Háu-Þóru. Í leiknum var allhátt prik með þvertré látið bera uppi kvenhempu og margvíslegan búning, „skraut og skröpur“ en á kollinum bar skrípi þetta háan skautafald.[8] Undir kvenhempunni leyndist karlmaður sem hélt um prikið, gekk þannig búinn í „gleðisalinn“ og tók að leika þar listir sínar.[9] Forynja þessi var nefnd Háa-Þóra og gjörði hún ýmist að teygja sig upp í rjáfur og rafta eða hnipra sig saman, – „stökkur um allt húsið, pikkar í hallinn eða gólfið, hristir og hringlar svo bæði brjálast og brotna lyklar og listar“.[10]

Varð af þessum gauragangi illa vært „í leikstofunni, síst kvenþjóðinni“ en Háa-Þóra ærðist æ meir, þeytti sér upp á palla svo hvergi var fritt og eigi lét hún „dansmanninn“ frían.[11] Meðan á öllu þessu brambolti stóð voru sungnar ýmsar vísur svo sem þessi hér:[12]

Ég sá eina faldafokku,

svo fallega hún spann.

Óþokkinn lyfti sér upp aftan.

Nú mun vera ærið langt um liðið síðan farið var í Háu-Þóruleik í Stapadal (sbr. Þingeyri) en vera kann að Guðrún skálda sem átti hér heima frá 1825 til 1850 (sjá Borg) og fædd var skömmu fyrir 1770[13] hafi kunnað á honum skil.

Stapadalur var að fornu mati 12 hundraða jörð[14] og komst í eigu kirkjunnar á Álftamýri á árunum kringum 1200 eða jafnvel fyrr (sjá Álftamýri). Kirkjan átti jörðina æ síðan uns Kristján Kristjánsson, sem bjó hér frá 1877 og fram yfir aldamót, keypti hana.[15]

Um fólkið sem bjó í Stapadal fyrir 1790 er fátt kunnugt en um bændurna sem hér bjuggu á 19. öld má segja að þeir hafi flestir verið sveitarstólpar og sumir hreppstjórar um langt skeið. Þar skal fyrst frægan telja Jón Gíslason Steinhólm sem fæddur var árið 1755 eða því sem næst og hóf hér búskap eigi síðar en 1793.[16] Hann kenndi sig við fæðingarstað sinn, Steinanes í Suðurfjörðum Arnarfjarðar, og mun hafa tekið upp nafnið Steinhólm er hann var í Danmörku á æskuárum við nám í beykisiðn og timbursmíði.[17] Beykir þessi frá Steinanesi var um skeið við verslunarstörf á Patreksfirði og kvæntist þá bóndadóttur frá Stapadal, sem Þuríður hét, en faðir hennar, Guðmundur Egilsson, var hér enn við búskap árið 1791.[18] Egill, faðir Guðmundar, var sonur Bjarna Guðmundssonar á Baulhúsum[19] sem á er minnst annars staðar í þessu riti (sjá Baulhús).

Jón Steinhólm bjó í Stapadal í liðlega 30 ár og var lengi hreppstjóri.[20] Hann þótti harður í horn að taka og átti í ýmsum deilum, bæði við leika menn og lærða.[21] Hann var efnamaður og átti árið 1821 annan tveggja áttæringa sem þá voru til í Auðkúluhreppi.[22] Á sínum efstu árum var Jón Steinhólm hjá syni sínum í Lokinhömrum og andaðist þar vorið 1828.[23]

Vorið 1825 hóf Jón Bjarnason frá Dynjanda búskap í Stapadal og tók hann við af Jóni Steinhólm.[24] Hann fæddist á Dynjanda árið 1797 en þar réð afi hans húsum um langt skeið, Páll Jónsson, hreppstjóri og hvalaskutlari.[25] Jón kvæntist árið 1820 Kristínu Bárðardóttur af Arnardalsætt og bjuggu þau hér í Stapadal í 24 ár.[26] Ásamt mági sínum, Símoni Sigurðssyni á Dynjanda, réðst Jón árið 1834 í það stórvirki að festa kaup á þilskipi og hófu þeir skútuútgerð fyrstir allra bænda í Ísafjarðarsýslu (sjá Dynjandi). Jón Bjarnason í Stapadal var hreppstjóri um skeið[27] og þegar kosið var til Alþingis í fyrsta sinn, árið 1844, var hann eini kjósandinn úr Auðkúluhreppi sem mætti á kjörstað.[28] Á miðjum þorra árið 1849 urðu mjög miklar skemmdir á túninu í Stapadal er áin braust úr klakaböndum.[29] Jón Bjarnason og hans fólk tók sig þá upp um vorið og fluttist búferlum að Hringsdal, handan fjarðarins.[30] Þar andaðist hann sumarið 1862.[31]

Árið 1869 fluttust Sigríður, dóttir Jóns Bjarnasonar, og eiginmaður hennar, Páll Símonarson frá Dynjanda, hingað í Stapadal.[32] Þau höfðu þá staðið fyrir búi á Dynjanda í 17 ár en hér voru þau í húsmennsku frá 1869 til 1891.[33] Páll var um skeið hreppstjóri en í manntalinu frá 1880 er hann sagður fást við sjávarútveg og þar er tekið fram að Sigríður, kona hans, sé ljósmóðir.[34] Páll var jafnan með Ásgeiri Jónssyni, síðast bónda á Álftamýri, við hvalveiðar á Arnarfirði og skiptu þeir skotmannshlutnum jafnt á milli sín.[35]

Síðasti 19. aldar bóndinn í Stapadal var Kristján Kristjánsson frá Borg í Arnarfirði, fæddur 1844.[36] Hann kvæntist þrítugur að aldri Símoníu Þorbjörgu, dóttur Páls Símonarsonar er hér var frá sagt, og fékk Stapadal til ábúðar vorið 1877.[37] Búskaparár hans hér urðu þrjátíu en hann andaðist í Stapadal vorið 1928.[38] Kristján var alllengi skipstjóri á skútum frá Bíldudal[39] og um 1890 stýrði hann til veiða þilskipinu Sjófuglinum er þá var gerður út frá Flateyri[40] eða Patreksfirði (sjá Suðureyrarhreppur). Tíu árum fyrr átti hann annan tveggja áttæringa sem til voru á norðurströnd Arnarfjarðar.[41] Kristján í Stapadal bætti mjög ábýlisjörð sína,[42] meðal annars með túnasléttun,[43] og árið 1889 voru honum veitt sérstök verðlaun af opinberu fé fyrir jarðabætur.[44] Hann var lengi hreppstjóri[45] og fetaði á þeim vettvangi í fótspor hinna fyrri bænda í Stapadal sem hér var áður sagt frá. Merkisbóndi þessi mun hafa verið rammur að afli[46] og hann var að sögn einn þriggja mestu glímumanna í Arnarfirði á sinni tíð, við hlið bræðranna frá Auðkúlu, Ólafs og Sturlu Ólafssona.[47] Það orð lá á að Kristján í Stapadal væri trúlaus, enda mun hann hafa lesið eitt og annað um heimspekileg efni.[48] Er dánarbú hans var skrifað upp kom í ljós að öldungurinn hafði átt í fórum sínum bæði „Rökfræði“ og „Mannfræði“.[49]

Á rölti okkar um túnið í Stapadal skulum við staldra við hjá Landdísarsteini sem stendur yst í því og nokkuð ofarlega, einn sér og alveg á árdalsbrúninni.[50] Í steininum þeim voru heimkynni verndarvætta fólksins í Stapadal og því var honum hlíft þegar aðrir steinar voru teknir í hleðslu.[51] Fram í dalnum, undir ytri hlíðinni, eru gamlar tóttir[52] sem gaman væri að skoða en til þess gefst ekki tóm að sinni. Þar heitir Seljahryggur og eru tóttirnar á honum en Seljaflatir þar í grennd.[53] Mjög líklegt er að þetta séu seltóttir en þangað fram eftir er að sögn um það bil einnar klukkustundar gangur.[54]

Frá Landdísarsteininum forna hefjum við för okkar út með ströndinni í átt að Hrafnabjörgum og Lokinhömrum sem eru ystu bæirnir á norðurströnd fjarðarins. Vegalengdin frá Stapadal að Hrafnabjörgum er fimm kílómetrar en þessi spölur var býsna erfiður yfirferðar[55] allt þar til ráðist var á björgin með jarðýtu árið 1983[56] og ruddur vegarslóði sem nú er jafnan akfær að áliðnu sumri fyrir vel búna og kraftmikla bíla.

Innan við Stapadalsána var heimavörin[57] en utan við ána eru grasi grónir sjávarbakkar sem nefndir eru Land.[58] Þar var fénu beitt að vetrinum.[59] Utan við Landið taka við berar skriður en við Landjaðarinn er í fjörunni dökkur klapparhryggur sem gengur í sjó fram og heitir Hlein.[60] Við Hleinina, sem áður var nefnd Afgangshlein, var útræði á fyrri tíð og í byrjun 18. aldar sótti einn bátur sjó frá þessari veiðistöð á haustin.[61] Verbúðin sem hér hafði verið var þá komin undir skriðu og lágu vermennirnir við í tjaldi.[62] Ærið kalsamt mun það hafa verið á köflum en betri kostir voru ekki í boði. Bændur í Stapadal munu löngum hafa róið úr sinni heimavör á haustin[63] og líka að vorlagi á árunum kringum síðustu aldamót.[64] Frá Stapadal sóttu heimamenn jafnan sjó af kappi „meðan nægur var mannafli“ og í haustróðrum fiskaðist oft vel af ýsu undir Bjargahlíðinni, hér rétt fyrir utan.[65] Þann 1. nóvember 1901 voru ellefu vermenn við róðra í Stapadal[66] og lágu við í fjárhúsum skammt frá lendingunni.[67] Ofan við fjöruna eru tóttir rétt fyrir utan Stapadalsá og heita Erlendstóttir.[68] Sagt er að þar hafi áður verið sjóbúðir en seinna fjárhús.[69] Hlein er utar, um það bil miðja vega milli bæjarins í Stapadal og Stapa[70] og í vognum utan við hana mun vera gott að lenda.

Frá Hleininni er aðeins fárra mínútna gangur út að Stapa sem hér hefur staðið keikur í fjörunni frá því land byggðist (sjá Auðkúluhreppur). Þessi hái klettadrangur er fjórar til fimm mannhæðir og ummálið á að giska tíu eða tólf faðmar.[71] Allur er Stapinn snarbrattur en kollur hans er grasi gróinn og þar vex blágresi og hvönn.[72] Lengi var talið að enginn mennskur maður gæti komist upp á Stapa[73] en seinna ráku fullhugar járnþolla í bergið og fóru upp.[74] Sú var lengi trú margra í Arnarfirði að í Stapanum væri kaupstaður huldufólks.[75] Að sögn var þar iðulega „alljósað“ þegar dimma tók og eitt sinn fyrir ævalöngu fékk fólkið í Stapadal lítinn bát frá álfakaupmanninum.[76] Þeirri kænu var gefið nafnið Blíðfari og varð hún happaskip.[77] Öllu sem aflaðist á hana var skipt á milli þeirra sem á henni reru „eftir því hve margt fólk þeir hefðu á framfæri“ og engir bátshlutir teknir.[78]

Í fjallinu ofan við Stapa er hellisskúti í hömrunum. Sagt er að fingralangur vinnumaður hjá Jóni Steinhólm í Stapadal hafi geymt þar fóla sinn og soðið í hellinum kjöt sem hann stal í Lokinhömrum.[79] Þormóður hét þetta hvinn og fundust seinna í hellinum pottur og aska.[80] Rétt fyrir utan Stapa er forvaði sem á síðari tímum hefur verið nefndur Pétursnef.[81] Þar varð á árum áður að sæta sjávarföllum en nú er nær alltaf fært því maður að nafni Pétur Björnsson sprengdi framan úr nefinu skömmu fyrir síðustu aldamót.[82] Hann hafði áður fengist við gullgröft í Ástralíu[83] og liggur í kirkjugarðinum á Álftamýri.

Öll er hlíðin milli Stapadals og Lokinhamradals snarbrött og hömrum krýnd hið efra og hvergi nokkurt undirlendi á þessari leið. Utan við Pétursnef komum við að Skútabjörgum sem slúta fram ofan við fjöruna. Hér má búast við grjóthruni úr fjallinu og hentar þá vel að láta skútana skýla sér.[84] Á þessum slóðum töldu ýmsir sig verða vara við fjörulalla og kunnu vel að lýsa þeirri ókind.[85] Utan við Skútabjörg taka við Sléttubjörg[86] og ná út að allstórri gjótu í fjallshlíðinni.[87] Um gjótuna fellur lítill lækur[88] og á fyrri tíð var hún stundum nefnd Áragjóta.[89] Lækjarsprænan Bjarg(a)á er utar og björgin ofan við fjöruna ná út að henni.[90] Við Bjarg(a)á eru landamerki Stapadals og Hrafnabjarga[91] og fyrrum var algengt að öll björgin, alveg út að merkjunum, væru nefnd Skútabjörg.[92]

 

[1] Firðir og fólk 1900-1999, 130.

[2] ÞN 1951, 140 (Árbók F.Í.).

[3] ÖÖ. PKr 1977, 14.

[4] PKr 1977, 14.

[5] ÞN 1951, 138–139.

[6] ÖÖ. ÞN 1951, 140.

[7] Sömu heimildir.

[8] ÓD 1894, 137–139.

[9] Sama heimild.

[10] ÓD 1894, 137–139.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Prþjb. og smt. Rafnseyrar og Álftamýrar. Manntöl 1835, 1840 og 1845. Ísl. æviskrár III, 263.

[14] Jb. Á. og P. VII, 23–24.

[15] JJ 1847, 191. PKr 1977, 30–31.

[16] Manntal 1801, vesturamt, 264. Manntal 1816, 685.

[17] Sömu heimildir. Vestf. sagnir I, 37–38.

[18] Manntal 1816, 685. Rtk. Isl. J. 9, nr. 34, bsk. 1791. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 242 og 264.

[19] Vestf. sagnir I, 38.

[20] Prþjb. og smt. Álftamýrar og Rafnseyrar.

[21] Vestf. sagnir I, 37–45. Ársrit S.Í. 1970, 124–126. Sbr. Kirkjuból í Mosdal.

[22] Skjs. sm. og svstj. Ís., XX. 1, bsk. 1821.

[23] Prsþjb. Álftamýrar.

[24] Sama heimild.

[25] Vestf. ættir I, 57 og 73. Manntal 1801, vesturamt, bls. 261. Manntal 1816, 681.

[26] Vestf. ættir I, 57.

[27] Sama heimild.

[28] LKr 1960, 43.

[29] ÞN 1951, 140 (Árbók F.Í.). Vestf. ættir I, 57.

[30] Vestf. ættir I, 57.

[31] Sama heimild.

[32] Vestf. ættir I, 73.

[33] Sama heimild.

[34] Manntal 1880.

[35] GÁ 1953 VI, 14. Sbr. Auðkúluhreppur.

[36] Smt. Rafnseyrar og Álftamýrar.

[37] Smt. Rafnseyrar og Álftamýrar.

[38] Prþjb. og smt. Rafnseyrar og Álftamýrar.

[39] ÞN 1951, 140 (Árbók F.Í.).

[40] PKr 1977, 29.

[41] VA III 424, bsk. 1880.

[42] ÞN 1951, 140.

[43] PKr 1977, 14 og 22–23.

[44] Stjtíð. 1889 B, 103.

[45] Vestf. ættir I, 76.

[46] ÞN 1951, 140. Vestf. sagnir III, 302–304.

[47] HO 1958, 90–91 (Ársrit S.Í.).

[48] GGH 1951, 222–226.

[49] Bréfabók hreppstjóranna í Auðkhr., lögg. 14.2.1882, varðv. á Auðkúlu.

[50] ÖÖ.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Sóknalýs. Vestfj. II, 42–43.

[56] Firðir og fólk 1900-1999, 141-142.

[57] ÖÖ.

[58] ÞN 1951, 139 (Árbók F.Í.).

[59] Sama heimild.

[60] ÖÖ. ÞN 1951, 139.

[61] Jb. Á. og P. VII, 24.

[62] Sama heimild.

[63] Sbr. Jb. Á. og P. VII, 23–24. Sjá Auðkúluhreppur.

[64] PKr 1977, 7.

[65] ÞN 1951, 140.

[66] Manntal 1901.

[67] PKr 1977, 16.

[68] ÖÖ.

[69] Sama heimild.

[70] ÞN 1951, 139.

[71] Sóknalýs. Vestfj. II, 42. ÞTh 1959 II, 127.

[72] ÞN 1951, 139 (Árbók F.Í.).

[73] Sóknalýs. Vestfj. II, 42.

[74] ÞN 1951, 139 (Árbók F.Í.).

[75] Þjóðs. og þættir II, 116.

[76] GGH 1952b, 142–156 (Úr blámóðu aldanna)..

[77] Sama heimild.

[78] Sama heimild.

[79] Vestf. sagnir I, 421–422. Sbr. þar bls. 41–44 og GGH 1952b, 199–208.

[80] Vestf. sagnir I, 421–422. Sbr. þar bls. 41–44 og GGH 1952b, 199–208.

[81] ÞN 1951, 139.

[82] SkN KÓ 10.7.1991.

[83] Sama heimild.

[84] ÞN 1951, 139.

[85] Vestf. sagnir III, 419–420. Sbr. JóJó 1961, bls. 164.

[86] ÖÖ.

[87] HrÞ KÓ 18.10.1998. ÓJÞ KÓ 19.10.1998.

[88] Sömu heimildir.

[89] ÓJÞ KÓ 19.10.1998.

[90] Sama heimild. HrÞ KÓ 18.10.1998.

[91] ÖÖ.

[92] ÖÖ. ÓJÞ KÓ 19.10.1998.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »