Suðureyri

Á göngu okkar um Súgandafjörð komum við á Suðureyri úr Staðardal og höfum gengið fjörurnar undir fjallinu Spilli. Þar munum við svipast nánar um síðar (sjá hér bls. 173-179) en rétt virðist að ræða hér fyrst um sjálfa jörðina og mannlífið þar á liðnum öldum.

Suðureyri í Súgandafirði er gömul bújörð og taldist vera 24 hundruð að dýrleika[1] uns farið var að líta á hjáleiguna Lauga sem sérstaka jörð, aðskilda frá Suðureyri. Dæmi um það eru finnanleg frá fyrri hluta 19. aldar[2] en í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 eru Laugar þó enn flokkaðir sem hjáleiga frá Suðureyri og dýrleiki hjáleigunnar sagður vera óviss.[3] Aðrar heimildir frá fyrri hluta nítjándu aldar sýna að eftir skiptinguna var Suðureyri talin 20 hundruð að dýrleika og Laugar 4 hundruð.[4] Áður en hjáleigan var skilin frá var Suðureyri ein þriggja stærstu jarðanna í Suðureyrarhreppi en hinar tvær voru Botn og Bær.[5]

Á síðari öldum var þingstaður hreppsins jafnan hér á Suðureyri og hreppurinn nefndur Suðureyrarhreppur.[6] Má ætla að svo hafi verið frá því hreppaskipanin komst á fyrir um það bil 1000 árum. Suðureyri er rétt innan við fjallið Spilli en á móts við það þrengist fjörðurinn mjög og er þar fyrir innan hvergi meira en einn til einn og hálfur kílómetri á breidd. Eyrin, sem ber nafnið Suðureyri, var á fyrri tíð fremur slétt og grasigróið tún og í frásögn af ferð sinni um Ísafjarðarsýslu sumarið 1887 segir Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur hana vera tanga úr skeljasandi.[7]

Nákvæmari er lýsing Kristjáns G. Þorvaldssonar frá árinu 1949. Hann segir eyrina myndaða af sjávarhnullungum og ofan á þá hafi síðan hlaðist þykkt lag af sandi.[8] Undir gróðurþekjunni skiptast á hreinn sandur og örþunn moldarlög og má, að sögn Kristjáns, telja lögin eins og árhringi í tré.[9] Innst og efst á sjálfri eyrinni var stór sandhóll og há sandalda með sjónum frá ystu mörkum hennar og fram í Odda.[10] Í nánd við miðja eyrina var svo stór bunga en nær fjallinu lá landið lægra.[11] Alveg rétt utan við Suðureyri var önnur eyri sem nefnd var Malir[12] eða Suðureyrarmalir. Þessi ytri eyri, sem er flatlend og hallalítil, er einnig mynduð úr sjávargrjóti.[13] Á Suðureyrarmölum var öldum saman helsta verstöðin í Súgandafirði (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) og þar hófst myndun þéttbýlis á árunum kringum aldamótin 1900 (sjá hér bls. 104-126). Þorpið Suðureyri stendur nú á báðum þessum eyrum og ofan við Malirnar. Andspænis Suðureyrarmölum er svo Norðureyri, handan fjarðarins, en á þeirri eyri stóð býlið Norðureyri sem fór í eyði árið 1970 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 454). Skemmsta vegalengd frá Suðureyrarmölum og yfir að Norðureyri er aðeins 600 metrar eða því sem næst.

Tvíbýli var löngum á Suðureyri og stóðu elstu bæirnir, sem um er kunnugt, neðst í brattri hlíð ofan við eyrina sem ber sama nafn og jörðin. Á síðari hluta 18. aldar var byggt á nýju bæjarstæði niður á flatlendinu á sjálfri eyrinni og þangað flutti allt fólkið úr gömlu bæjunum (sjá hér bls. 3-4).

Árið 1710 var tvíbýli á Suðureyri.[14] Þá voru bæirnir alveg tvímælalaust tveir og stóðu báðir innan garða eins og komist er að orði í Jarðabók Árna og Páls frá því ári.[15] Orðalagið sýnir að hér hafa verið túngarðar í byrjun átjándu aldar. Í rituðum heimildum frá fyrri tíð er ekki unnt að sjá hvar gömlu Suðureyrarbæirnir stóðu en ef marka má orð manna sem fæddir voru á árunum kringum 1880 sáust rústir a.m.k. annars þessara bæja enn á árunum kringum aldamótin 1900.[16] Slíkt er reyndar trúlegt því þá var aðeins liðið nokkuð á aðra öld frá því fólkið færði sig í bæinn sem reistur var á nýjum stað.

Valdimar Þorvaldsson, fæddur 1878, segir að báðir gömlu bæirnir hafi staðið upp við hlíðina … utan og innan við tjörnina.[17] Tjörnin, sem þarna er nefnd, er hér enn, rétt ofan við akveginn sem liggur um gamla Suðureyrartúnið, svo bærilega ljóst má kalla hvar nýnefndur heimilddarmaður segir bæina hafa staðið. Skrif hans um þessi efni eru frá árunum 1965-1966[18] og hann kemst þar svo að orði:

 

Tóttin af sameiginlegu lækjarhúsi þeirra beggja sést enn og enn mótar fyrir miklum tóttum þar sem ytri bærinn stóð þó miklar skriður hafi farið þar yfir en innri tóttirnar eru komnar á kaf í skriður.[19]

 

Á öðrum stað greinir Valdimar frá því að á fyrri hluta 20. aldar hafi skepnuhús Friðberts Guðmundssonar, hreppstjóra og útgerðarmanns á Suðureyri, staðið þar sem áður stóð bærinn[20] og mun þá átt við ytri bæinn því þegar Suðureyrartúninu var skipt á árunum 1913-1914 fékk Friðbert ysta partinn.[21] Guðmundur Arnaldur Guðnason, sem hirti féð fyrir Friðbert heilan vetur á árunum um eða upp úr 1940, segir að nýnefnd skepnuhús hafi staðið þar sem nú er húsið númer 5 við Hlíðarveg á Suðureyri eða þar aðeins neðar.[22] Þau hafa þá staðið alveg yst í gamla Suðureyrartúninu því ytri endinn á grjótgarðinum ofan við túnið er að heita má beint upp af húsinu númer 5 við Hlíðarveg og neðan við grjótgarðsendann sér enn móta fyrir efsta hlutanum af fornum túngarði sem Valdimar Þorvaldsson minnist á og segir að hafi afmarkað túnið að utan og náð ofan úr hlíð til sjávar.[23]

Sé kenning Valdimars rétt ætti ytri bærinn á Suðureyri að hafa staðið þar sem nú er húsið númer 5 við Hlíðarveg eins og hér hefur verið gerð grein fyrir, en bróðir Valdimars, Kristján G. Þorvaldsson, fæddur 1881, greinir frá á annan veg. Hann segir ytri bæinn hafa staðið á hryggnum innan við Ystapart[24] sem líklega merkir staðinn þar sem nú stendur hitaveituhús Orkubús Vestfjarða, rétt utan við tjörnina og skammt fyrir innan og ofan skólahús grunnskólans. Líklegra verður að telja að bærinn hafi staðið á þessum stað sem kemur þá líka vel heim við þau orð Valdimars Þorvaldssonar að hið gamla þinghús hreppsins, frá fyrri hluta nítjándu aldar, hafi staðið í túnjaðrinum, fyrir utan ytri bæinn.[25] Þingstaður hreppsins var á Suðureyri svo langt aftur í tímann sem heimildir ná og að líkindum frá fyrstu tíð. Þegar hætt var að nota þinghúsið, sem hér var nefnt, færðist þinghaldið heim í bæinn á Suðureyri og þar munu öll hreppaskilaþing hafa verið haldin uns nýtt þinghús var byggt á Suðureyrarmölum árið 1892 (sjá hér bls. 103-104).

Um hið forna þinghús á Suðureyri þarf vart að efast en um bænhúsið, sem sagt var að hér hefði verið, er á engu að byggja nema munnmælum. Þegar Árni Magnússon kom í Súgandafjörð árið 1710 í jarðabókarerindum lifðu enn munnmæli um bænhús á Suðureyri[26] –  enginn veit það til vissu að segja, skrifar Árni[27] og svo er enn. Vel getur reyndar verið að Suðureyrarbændur hafi komið sér upp bænhúsi á dögum páfatrúarinnar en ætla má að það hafi þá fallið úr notkun á siðaskiptatímanum um miðbik 16. aldar eða skömmu síðar.

Það var Bjarni Brynjólfsson, bóndi á Suðureyri, sem byggði upp á nýju bæjarstæði á árunum 1754-1784 (sjá hér bls. 21 og 27-31). Sagt er að grjót til byggingarinnar hafi hann flutt á bátum innan frá Hlaðsnesjum og utan af Brimnesi, auk þess sem hann dró að sér á sleðum úr hlíðinni ofan við túnið.[28] Bæ sinn reisti hann á sléttlendinu neðan við tjörnina og þar á sama eða nánast sama blettinum stóð Suðureyrarbærinn enn þegar tuttugasta öldin gekk í garð.[29] Eina íbúðarhúsið sem stóð á gamla Suðureyrartúninu um miðbik tuttugustu aldar var líka reist á nánast sama stað[30] (sbr. hér bls. 28) en bæjarstæði þetta er 30-40 metrum innan við kirkjuna á Suðureyri og stendur þar nú (1996) leikskólinn Tjarnarbær.[31]

Á 19. öldinni var mjög oft tvíbýli á Suðureyri en allt fólkið mun þó jafnan hafa búið í sama bænum[32] uns Kristján Albertsson reisti sitt stóra timburhús árið 1892 (sjá hér bls. 63-64). Það hús stóð þar sem Suðureyrarkirkja stendur nú.[33] Frá húsaskipan í Suðureyrarbænum eins og hún var á árunum 1880-1890 er sagt hér á öðrum stað (sjá bls. 52-53).

Frá því Suðureyrarbærinn var fluttur á hið nýja bæjarstæði á átjándu öld lá þjóðgata hér um hlaðið og gestanauð mun oft hafa verið mikil.[34] Á leið frá kirkju höfðu margir innsveitarmenn þá föstu venju að staldra við á Suðureyri, enda munu þeir sem hér réðu lengst húsum á síðari hluta 19. aldar hafa kunnað því illa ef menn gengu hjá án þess að koma við.[35] Í ritgerð sinni um sögu Suðureyrar greinir Kristján G. Þorvaldsson frá þessu og kemst þá svo að orði:

 

Suðureyri er um miðja sveitina og eftir að bærinn var færður niður á eyrina lá alfaraleiðin með bæjardyrunum. Þar var því allmikil umferð og fjöldi þessara manna var boðinn inn og veittur beini. … Kirkjuferðir juku mjög á þessa umferð. Fólk af fimm bæjum og úr mun fleiri fjölskyldum fór þá þessa leið … [og] þá var það sjaldgæft að nokkur færi svo um að hann kæmi ekki við á heimleið. Á leið til kirkjunnar komu menn sjaldan við til að tefja neitt.

Vanalega var það svo að hver fjölskylda kom alltaf inn og þáði greiða hjá sama húsbóndanum og jafnan allir meðlimir fjölskyldunnar sem til kirkju fóru í hvert sinn. Þetta mun um langan aldur hafa fylgt Suðureyri þó við þekkjum það best í tíð Þorbjarnar Gissurarsonar og sambýlismanns hans, Kristjáns Albertssonar.[36]

 

Við erum nú stödd þar sem Suðureyrarbærinn stóð á 19. öld og skulum áður en lengra verður haldið svipast um stutta stund.

Gamla Suðureyrartúnið náði aðeins yfir sjálfa eyrina, sem bærinn var kenndur við, það er að segja upp að tjörninni, sem er efst á eyrinni, og að skriðufótum.[37] Mest af túninu hefur verið tekið undir byggingarlóðir og á því standa nú mörg íbúðarhús en elsti hluti þorpsins er þó á ytri eyrinni, sem nefnd var Malir, og á Grundunum rétt ofan við þær.

Á 19. öld og fyrstu árum hinnar tuttugustu varð Suðureyrartúnið fyrir miklum skemmdum af völdum sandfoks og sjávargangs.[38] Um aldamótin 1900 var komin 20-30 metra breið sandauðn utan við túnið, á milli þess og graslendisins ofan við Suðureyrarmalir.[39] Ágangur sjávar hafði þá líka valdið verulegum skemmdum á túninu og var talið að sandur og sær hefðu jafnvel náð að eyða einum þriðja hluta þess[40] áður en gripið var til þeirra varna sem dugðu en það var ekki gert fyrr en á árunum 1914-1920.[41] Skriður úr hlíðinni ofan við túnið á Suðureyri ollu líka skemmdum.

Kristján Albertsson, sem bjó á hálfri jörðinni frá 1875 til 1909, hóf fyrir aldamót byggingu grjótgarðs, skammt fyrir ofan túnið, til varnar gegn skriðuföllum.[42] Kristján bætti við garðinn síðar og þegar hann andaðist árið 1909 var garðurinn að sögn orðinn 29 faðma langur.[43] Á árunum 1913-1916 var garðurinn lengdur um 83 faðma og loks var 50 metrum bætt við árið 1939.[44] Þessi grjótgarður blasir hér enn við augun og ætti samkvæmt því sem fyrr var ritað að vera um það bil 260 metrar á lengd [stikun 1996 gaf 238 m en var ónákvæm]. Kristján Albertsson byrjaði á garðinum nær alveg yst[45] en litlum spotta mun þó hafa verið bætt við ytri enda grjótgarðsins árið 1913 svo hann næði alveg út að hinum forna túngarði sem lá ofan úr hlíðinni til sjávar rétt utan við túnið á Suðureyri.[46]

Í tíð síðustu bændanna á Suðureyri var farið að rækta upp skriðufæturna, ofan við gamla túnið, og þeir þorpsbúar sem nytjuðu jörðina á fyrri hluta tuttugustu aldar stækkuðu túnið smátt og smátt í átt til fjalls svo það náði að lokum alveg upp undir grjótgarðinn á stórum parti.[47] Haustið 1915 hófst vinna við að slétta eitthvað af partinum sem Friðbert Guðmundsson átti þá yst í Suðureyrartúni og segir Magnús Hjaltason það hafa verið fyrstu tilraunina af því tagi í Súgandafirði.[48] Innst og efst á gamla túninu, neðan við hlíðarfótinn, var kvíaból fólksins á Suðureyri og þar voru ærnar mjólkaðar uns fráfærur lögðust af á árunum 1910-1912.[49]

Tjörnin á Suðureyri er enn á sínum stað, þó að nú sé hún minni en áður. Í henni vex stör en sú var trú fólksins sem hér átti heima á fyrri tíð að ekki mætti bera ljá að þessum tjarnargróðri því þá væri á illu von.[50] Sjaldan mun sú bannhelgi hafa verið brotin. Rétt ofan við tjörnina stóð lækjarhúsið og þar var hið forna vatnsból sem ætla má að notað hafi verið frá báðum gömlu Suðureyrarbæjunum[51] er stóðu hér uppi í brekkunni og búið var í fram á átjándu öld. Á fyrri hluta 20. aldar var tótt gamla lækjarhússins hér enn[52] þó að langt væri um liðið frá því Bjarni Brynjólfsson kom sér upp nýju vatnsbóli rétt hjá bænum sem hann reisti á öðrum stað á síðari hluta 18. aldar.[53]

Hlíðin ofan við Suðureyrartúnið er hrjóstrug og brött. Klettarnir sem mest ber á heita Bæjarklettar en ysti hluti þeirra er nefndur Hrafnaklettar.[54] Neðanvert í Bæjarklettum er Breiðhilla en smáklettar fyrir neðan hana heita Belti.[55] Upp af innsta hluta túnsins er í klettunum gil sem liggur á ská og heitir Sniðgil en innar er Manntapagil, grunnt en mjög bratt.[56] Bæjarklettarnir ná inn að Manntapagili.[57] Þeir eru nær gróðurlausir en innan við Manntapagil taka við aðrir klettar sem heita Grasklettar.[58] Í þeim er meiri gróður. Ofan við Bæjarkletta eru Upsir og ná út á móts við Hjalla[59] sem eru ofan og utan við Suðureyrarmalir. Stór hnúkur yst á Upsunum heitir Miðaftanshnúkur.[60] Fjallið ofan við Upsirnar heitir Breiðafjall[61] en svolítið innar, upp af innsta hluta Bæjarkletta, er svipmikið fjall sem heitir Hádegishorn.[62] Það nafn mun þó ekki vera eldra en frá síðari hluta 18. aldar því áður en bærinn á Suðureyri var fluttur á nýtt bæjarstæði um 1760 eða því sem næst (sjá hér bls. 3-4) hét innra hornið á Breiðafjalli Hádegishorn en ytra hornið á sama fjalli Nónhorn.[63]

Út úr Breiðafjalli gengur fjallshryggur í átt til hafs og heitir hann Stefnir (sjá hér bls. 170-171). Utan við Stefni er Háls og síðan fjallið Spillir sem snýr sínum klettaveggjum til hafs (sjá hér bls. 169-171). Yfir Háls er prýðilega fært gangandi manni, frá Suðureyri yfir í Staðardal, þó að leiðin sé ærið brött og mikið um grjót. Nálæg fjöll valda því að frá Suðureyri sér ekki til sólar í allmargar vikur á hverjum vetri en fyrsta sunnudag í góu eða því sem næst birtist sólin á ný.[64]

Sé horft frá bæjarhlaði síðustu bændanna á Suðureyri inn fjörðinn sjáum við hér að vestanverðu inn á Kleif en þar lá gamla þjóðgatan úr fjörunni upp á sjávarbakkana og þar hækkar akvegurinn nú. Þangað er um það bil einn og hálfur kílómetri frá innstu húsunum á Suðureyri. Handan fjarðarins sést inn í Selárdal, þar sem áður stóð samnefndur bær, og inn í Selárdalsskóg í hlíðinni þar fyrir innan.

Þar sem Suðureyri nær lengst fram í fjörðinn heitir Oddi eða Suðureyraroddi [65] en Malaroddi þar sem ytri eyrin (Suðureyrarmalir) gengur lengst fram.[66] Frá Malaroddanum er aðeins hálfur kílómetri eða því sem næst yfir á Norðureyri sem er handan fjarðarins. Í bugnum á milli Suðureyrar og Malanna var sandfjara og hét þar Sandur en Innrisandur í fjörunni innantil á Suðureyri.[67] Rani, er svo hét, var yst í Suðureyrartúninu.[68] Hann var hrygglaga og nokkru hærri en túnið fyrir innan.[69] Upp Ranann lá gamla þjóðgatan og akvegurinn síðar, utan af Mölum og heim að bænum.

Hér verður síðar fjallað lítið eitt um Suðureyrarmalir, eyrina rétt utan við Suðureyri, en á Mölunum var helsta verstöð Súgfirðinga og þar hófst þorpsmyndun á árunum kringum aldamótin 1900 (sjá hér bls. 83-126). Að sinni skal þess aðeins getið að á Grundunum, flatlendinu rétt ofan við Malir, var heyjað á fyrri tíð og segir á einum stað að hámarksheyfengur af þeim hafi verið 60 hestar.[70] Um þessar fornu Grundir liggur nú aðalgata þorpsins á Suðureyri og heitir reyndar Aðalgata. Heyskaparland var líka á Hjöllunum, sem liggja talsvert hærra, en þeir eru ofan við ytri hluta Malanna og ná út undir Brimnes. Á Hjallana lítum við nánar síðar (sjá hér bls. 169-173) en uppi á þeim hafa allmörg íbúðarhús verið reist á síðustu áratugum.

Í búskap Suðureyrarbænda mun oft hafa munað vel um heyið sem fékkst af Grundum og Hjöllum og þangað var stutt að sækja til heyskapar. Mestu engjalönd jarðarinnar voru þó inn á Suðureyrarhlíð, Selið og partarnir þar fyrir innan sem náðu alveg að landamerkjunum á móti Laugum (sjá hér bls. 184-186) og svo allt Laugaland sem heyrði Suðureyri til alveg fram undir 1780.

Landamerkjum Suðureyrar á móti jörðinni Bæ hefur áður verið lýst á þessum blöðum en þau eru rétt innan við Kýrnes,  lítið nes ofan við Spillisfjörur (sjá hér Bær), um það bil hálfum öðrum kílómetra fyrir utan þorpið á Suðureyri. Að innri landamerkjum Suðureyrar, þar sem land Lauga tekur við, eru um það bil þrír kílómetrar frá innstu húsunum í þorpinu en þessi merki eru í nánd við heita laug rétt utan við túnið á Laugum (sjá hér bls. 186-187). Vatnið úr henni er nú notað til að hita upp húsin á Suðureyri.

Frá bæjarhlaðinu á Suðureyri var álíka langt að fara inn að Laugum og út á Stað eða út í Bæ. Allar þessar bæjarleiðir voru, hver um sig, tæplega fjórir kílómetrar en að vestanverðu við fjörðinn liggja jarðirnar þrjár, sem hér voru nefndar, næst Suðureyri.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 er kostum og göllum hinnar fornu bújarðar hér á Suðureyri lýst með þessum orðum:

 

Útigangur hér í skárra lagi, bæði til lands og í fjörunni. Torfrista og stunga engin nýtanleg. Móskurður til eldiviðar hefur verið uppá fjalli, í fjarska þar sem ekki verður hestum fyrir klettum að komið og brúkast því ei.

Skógarpart lítinn í takmörkuðu plássi á jörðin í Selárdalsland. Það hefur brúkast hingað til til kolgjörðar og nokkurn part til eldiviðar en eyðist nú mjög. Selárdalur á hér aftur skipsuppsátur um vertíð og búðarstöðu um vertíð.

Túninu granda skriður sem mjög áeykst á báða partana [þ.e. á tún beggja býlanna – innsk. K.Ó.]. Engjarnar í sama máta eru forskemmdar af skriðum. Úthagar ogsvo mjög hrjóstrugir. Hætt er kvikfé fyrir sjávarflæðum og snjóflóðum. Vatnsból er erfitt fyrir fannlögum. Hreppamannaflutningur langur. Hætt er báðum bæjunum fyrir skriðum úr brattlendi og hefur fyrir fjórum árum skriða tekið 3 hús skemmt frá syðri bænum.[71]

 

Í Jarðabókinni frá 1710 er einnig gerð nokkur grein fyrir verstöðinni á Suðureyrarmölum sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér bls. 83-103 og Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Orðin, sem hér var vitnað til, sýna að þeir heimamenn á Suðureyri sem Árni Magnússon ræddi við 8. ágúst 1710 hafa lagt mun meira kapp á að draga fram ókosti jarðarinnar en að lýsa kostunum. Stærsti kosturinn við jörðina var reyndar hin hæga aðstaða til sjósóknar og í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 kemst séra Andrés Hjaltason svo að orði um Suðureyri að þetta sé hrjóstrug jörð og snögglend en  vel til sjóarútvegs fallin, einkum vegna góðra lendinga.[72]

Í ritgerð sinni, Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, minnist Kristján G. Þorvaldsson á sumt af því sem sagt er um Suðureyri í Jarðabók Árna og Páls. Kristján, sem fæddur var í Selárdal í Súgandafirði árið 1881 en átti lengst heima á Suðureyri, skrifaði nýnefnda ritgerð á árunum 1952-1961 er hann var á áttræðisaldri.[73]

Hann getur þess m.a. að hið gamla mótak, sem á er minnst í Jarðabókinni, muni hafa verið uppi á Háukleif, enda sjáist þar merki gamalla mógrafa,[74] en Háakleif er bungumynduð öxl hátt í fjallinu innan við Suðureyri, nær beint upp af Kleif sem er hálfum öðrum kílómetra eða liðlega það innan við innstu húsin á Suðureyri (sjá hér bls. 181-182).

Um skriðuhættuna, sem í Jarðabókinni er sögð vofa yfir húsum, túni og engjum á Suðureyri, kemst Kristján svo að orði:

 

Ekki mun ofmælt það sem hér er sagt [þ.e. í Jarðabók Árna og Páls – innsk. K.Ó.] um skemmdir túnsins af skriðum úr hlíðinni ofan við það. Augljós er einnig sú hætta sem bæirnir voru í þar sem þeir voru þá, enda varð sú hætta til þess að þeir voru fluttir þaðan … .

Skriður á engjar jarðarinnar hafa vart átt sér stað nema á Hjöllunum [sem eru utan og ofan við Suðureyrarmalir – innsk. K.Ó.]. Þar renna aurskriður tíðum niður á slægjulendi sem áður var en þó hefur graslendið ekki minnkað til muna. Þar sem raklent er sökkva skriðurnar niður og grær fljótt yfir þær. Í hlíðinni fyrir innan Kleif sjást engar menjar skriða en einstaka steinar koma tíðum úr fjallinu niður á efstu slægjurnar en meirihluti þess steinkasts stöðvast þó á hjöllunum í efri hlíðinni.[75]

 

Sá sem flutti bæinn úr túnbrekkunni ofantil við Suðureyri og niður á sjálfa eyrina var Bjarni Brynjólfsson er bjó hér frá 1755 eða því sem næst og til 1784 (sjá hér bls. 21 og 27-31). Líklegt er að hann hafi byggt upp á hinu nýja bæjarstæði á sínum fyrstu búskaparárum.

Í Jarðabókinni frá 1710 er kvikfé bænda á Suðureyri sagt vera í hættu vegna snjóflóða en Kristján G. Þorvaldsson tekur fram að í landi Suðureyrar falli aldrei snjóflóð nema úr fjallinu Spilli og þar sé þó meira um skriður og grjótkast.[76]

Um skógarítak Suðureyrar í landi Selárdals og réttindi Selárdalsbænda til skipsuppsáturs og búðarstöðu á Suðureyrarmölum ritar Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Það var vafalaust rétt að bændur á Suðureyri hafi fyrrum átt rétt á hrísrifi í landi Selárdals gegn uppsátri og búðaraðstöðu Selárdalsbænda á Suðureyrarmölum. Framanskráð [þ.e. orð höfunda Jarðabókarinnar frá 1710 – innsk. K.Ó.] bendir til að ákveðinn blettur hafi tilheyrt Suðureyri og hefðu þeir þá mátt fara þangað hvenær sem þeir vildu, án þess að tala við bóndann í Selárdal. En þó svo kunni að hafa verið mun alllangt síðan það féll niður.

Í Selárdal minntust menn þessara fornu gagnkvæmu réttinda en þar þekktu menn engan blett sem nokkru sinni hefði tilheyrt Suðureyri. Eitt örnefni, Suðureyrarrjóður, kynni þó að benda til þess að nafnið væri talið þannig tilkomið að Suðureyringar hefðu rifið þar, einu sinni eða oftar, og þá gert stórt rjóður í skóginn. Í framanskráðri skýrslu [frá 1710] er sagt að skógurinn sé að eyðast. Vel má vera að það hafi verið ofmælt og vart hefur það nokkru sinni átt við Suðureyrarrjóður. Er skógur þar einna mestur og þéttastur í landi Selárdals.

… Kunnugt er að á síðustu áratugum 19. aldar fóru Suðureyringar aldrei í skóg án þess að biðja leyfis í hvert sinn og eins það að fjærskyldi bóndinn [annar bóndinn sem þá bjó á Suðureyri var bróðir bóndans í Selárdal – innsk. K.Ó.] þægði oft fyrir það, án þess að krafist væri borgunar. Bendir hvort tveggja til að þeir töldu sig eigi hafa eignaheimild til þessa.

Hitt er víst að Selárdalsbændur hafa aldrei borgað uppsátur á Suðureyri en ekki er hægt að greina hvort það síðast voru leifar gamalla réttinda, sem þá voru orðin einhliða, eða vinátta og skyldleiki réðu öllu þar um.[77]

 

Í dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri frá árunum kringum 1890 er oft minnst á hrísrif Suðureyrarfólks í Selárdalsskógi og er nánar frá því sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Selárdalur).

Í Jarðabókinni frá 1710 er ekkert minnst á skaða af sandfoki á Suðureyri og má því telja líklegt að þessi skaðvaldur hafi haft hægt um sig næstu áratugina þar á undan. Í jarðabók frá árinu 1805 er þess hins vegar getið að sandfok spilli túninu en skriður engjum og högum.[78]

Kristján G. Þorvaldsson greinir einnig frá því að á 19. öld hafi túnið á Suðureyri orðið fyrir verulegum skemmdum af völdum sandfoks og vegna ágangs sjávar.[79]

Í fasteignamatsskjölum frá árunum skömmu fyrir 1920 er tekið fram að Suðureyrartúnið sé sléttlent og harðlent.[80] Engjar Suðureyrarfólks eru í matsskjölunum sagðar vera litlar og liggja dreift um bithaga en beitiland í meðallagi og nokkur fjörubeit.[81] Af túninu á Suðureyri fengust ár hvert á þessu skeiði um 80 hestar af töðu en um 50 hestar af engjunum.[82] Niðurstaða matsmannanna var sú að jörðin gæti framfleytt 3 kúm, 30 sauðkindum og 2 hestum.[83]

Árið 1710 var bústofn bændanna á Suðureyri samt langtum meiri en þetta. Hann var þá 6 kýr, 1 naut, 43 ær, 44 fullorðnir sauðir, 28 veturgamlir sauðir, 42 lömb og 1 hestur.[84] Tvíbýli var þá á jörðinni[85] en árið 1791 var hér aðeins einn ábúandi og tala búfjár innan við helmingur þess sem verið hafði 1710, það er að segja 3 kýr, 14 ær, 8 sauðir og hrútar, 12 lömb og 1 hestur.[86] Hér er byggt á opinberum heimildum um fjölda búfjár en gera má ráð fyrir að sauðfé hafi víða verið heldur fleira en þar er gefið upp. Á töflu nr. 1 verður nú sýnt hver var fjöldi búfjár á Suðureyri samkvæmt nokkrum búnaðarskýrslum frá 19. öld.

 

Tafla 1[87]

 

Fjöldi búfjár á Suðureyri á 19. öld

 

 

Til skýringar skal tekið fram að auk kúnna áttu bændurnir á Suðureyri oft eina kvígu eða eitt naut[88] en þær skepnur eru ekki taldar með í töflunni hér að ofan og ekki heldur lömb, folöld og tryppi. Athygli vekur hversu lengi Suðureyrarbændur héldu áfram að ala sauði en víðast hvar í Súgandafirði dró mjög úr sauðaeldi á árunum milli 1830 og 1840 og margir hættu þá alveg slíku búskaparlagi.[89] Árin 1850, 1870 og 1880 áttu Suðureyrarbændur jafnan fullan þriðjung allra sauða og hrúta í Súgandafirði.[90]

Á síðasta fjórðungi 19. aldar munu bændur á Suðureyri yfirleitt hafa átt þess kost að afla heyja á pörtum úr öðrum bújörðum í hreppnum, svo sem í Ytri-Vatnadal og í Botni (sjá hér Ytri-Vatnadalur og Botn), og gátu því alið fleiri kýr og kindur en ella hefði verið. Vel má vera að ýmsir hinna fyrri bænda á Suðureyri hafi líka notið þessa. Á fyrri hluta tuttugustu aldar áttu þorpsbúar á Suðureyri jafnan fjölda fjár og þó nokkrar kýr. Sem dæmi má nefna að vorið 1934 áttu 27 menn á Suðureyri samtals 495 sauðkindur og eru lömb þá ekki talin með.[91] Tólf þorpsbúar áttu þá samtals 10 kýr og kelfdar kvígur og átta þorpsbúar áttu til samans 11 hesta.[92] Í augum uppi liggur að í landi Suðureyrar fékkst aðeins hey fyrir lítinn hluta alls þessa búpenings og urðu því flestir búfjáreigendur í þorpinu að tryggja sér slægjur á öðrum jörðum í Súgandafirði.

Í skýrslum frá síðari hluta 18. aldar og frá 19. öld eru á boðstólum ýmsar upplýsingar um bátaeign bændanna á Suðureyri. Árið 1762, 1791, 1840, 1860, 1870 og 1880 voru bátarnir tveir en á árunum 1827-1837 og 1850 áttu Suðureyrarbændur þrjá báta og þann fjórða að hálfu.[93]

Margir þessara báta voru sexæringar eða fjögra manna för en oftast átti fólkið á Suðureyri líka einn minni bát og um nokkurt skeið áttæring.[94] Árið 1821 átti bóndinn á Suðureyri hálfan áttæring og á árunum 1827-1837 var nær alltaf einn og hálfur áttæringur í eigu fólksins sem hér bjó og reyndar tveir í skamman tíma.[95] Árið 1850 átti annar tveggja húsráðenda á Suðureyri hálfan áttæring og tíu árum síðar átti bóndinn sem hér bjó heilan áttæring.[96] Á árunum 1870 og 1880 voru slík stórskip hins vegar ekki til í Súgandafirði, hvorki á Suðureyri né annars staðar.[97] Merkilegt má kalla að á árunum milli 1820 og 1830 skuli Suðureyrarfólk oftast hafa átt hálfan áttæring á móti einhverjum sem búsettur var í öðru byggðarlagi[98] og óvíst er hver muni hafa verið. Þannig var málum reyndar einnig háttað 1837 og 1850[99] og að líkindum a.m.k. sum árin þar í kring. Skýring á þessu liggur ekki í augum uppi en líklegast má telja að Örnólfur Snæbjörnsson, sem fluttist til Suðureyrar frá Bolungavík um 1810 og bjó hér til dauðadags árið 1825 (sjá hér bls. 33-37), hafi haldið áfram þátttöku í útgerð frá Bolungavík þó að hann flyttist til Suðureyrar. Að Örnólfi látnum bjuggu ekkja hans og niðjar þeirra hér á Suðureyri um mjög langt skeið (sjá hér bls. 35-48) og kynnu að hafa haldið við þeim útgerðarháttum sem mótast höfðu í tíð Örnólfs og gert út bæði frá Suðureyri og Bolungavík. Að svo hafi verið er þó alls ekki vitað með vissu.

Undir lok átjándu aldar og á fyrri hluta hinnar nítjándu var einn af bátum fólksins á Suðureyri oftast minni en fjögra manna far ef marka má þær upplýsingar sem um þessi efni er að finna í búnaðarskýrslum.[100] Árið 1870 var hins vegar svo komið að bátarnir tveir, sem þá voru til á Suðureyri, voru báðir af minnstu gerðinni, það er að segja tveggja eða þriggja manna för.[101] Tíu árum síðar var þetta hins vegar breytt til betri vegar, þó að fjöldi bátanna væri sá sami, því þá voru það sexæringar eða fjögra manna för sem Suðureyrarbændur áttu og gerðu út.[102]

Um fjölda býla á Suðureyri fyrir 1700 er allt ókunnugt en árið 1703 bjuggu hér 2 bændur og tvíbýli var einnig á jörðinni árið 1710.[103] Um 1735 var hér þríbýli en á síðari hluta átjándu aldar hafði einn bóndi alla jörðina til ábúðar um langt skeið.[104] Brynjólfur Jónsson bjó einn á allri jörðinni árið 1753 og Bjarni sonur hans var eini bóndinn á Suðureyri árið 1762.[105] Bjarni dó á Suðureyri haustið 1784[106] og má telja líklegt að hann hafi búið hér í einbýli alveg til dauðadags.

Á árunum 1785-1810 var hér oftast tvíbýli en þó var aðeins einn ábúandi á jörðinni á árunum 1788-1794.[107] Einn maður hafði alla jörðina til ábúðar frá 1810-1826 og svo var einnig á árunum 1847-1863 og 1866-1868.[108] Tvíbýli var hins vegar á Suðureyri frá 1826 til 1847, frá 1863 til 1866 og frá 1863 til 1900 nema í örfá ár í kringum 1840 en þá var hér þríbýli.[109]

Séu þrjár stærstu jarðirnar í Súgandafirði, Suðureyri, Botn og Bær, bornar saman, hvað varðar fjölda býla á 18. og 19. öld, kemur í ljós að á Suðureyri var langtum tíðara að einn bóndi byggi á allri jörðinni en í Bæ eða Botni (sbr. hér Bær og Botn).  Á tveimur síðast nefndu jörðunum var hins vegar stundum fjórbýli en aldrei á Suðureyri, og í Bæ og Botni voru árin sem fólk bjó þar í þríbýli mun fleiri en þríbýlisárin hér á Suðureyri (sbr. hér Bær og Botn).

Lítið virðist hafa verið um húsfólk hjá bændunum á Suðureyri á 18. og 19. öld. Helst voru það einhleypingar sem komu sér fyrir í húsmennsku og væri um fjölskyldur að ræða voru þær aldrei nema ein eða tvær sama árið og oftast í nánum ættartengslum við bændurna sem á jörðinni bjuggu og þeirra fólk.[110] Engin breyting varð í þessum efnum fyrr en fyrstu íbúarnir fóru að setjast að á Suðureyrarmölum á allra síðustu árum nítjándu aldar.

Árið 1703 voru fjórir einhleypingar í húsmennsku á Suðureyri, þrír karlmenn og ein kona.[111] Í manntalinu frá því ári eru karlarnir þrír sagðir nærast af sjóbjörg en húskonan lifa af guðsþakkagjörðum manna.[112] Á árunum 1795-1802 var Þórður Þorsteinsson, sem menn nefndu Þórð grástakk, oftast í húsmennsku á Suðureyri.[113] Frá Þórði er sagt hér á öðrum stað (sjá Staður) en hann var á þessum árum hreppstjóri Súgfirðinga um nokkurt skeið og í ferðum um Ísafjarðarsýslu sem fulltrúi sýslumanns. Við hæfi þótti að slíkur maður væri titlaður monsjör eins og sjá má í sóknarmannatali frá árinu 1802.[114]

Árið 1835 var Páll Guðmundsson húsmaður á Suðureyri og er í manntalinu frá 2. febrúar á því ári sagður vera vefari.[115] Hann var þá um fertugsaldur og hafði áður búið um nokkurt skeið í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Skömmu síðar kvæntist Páll Helgu Örnólfsdóttur frá Suðureyri og árið 1841 var hún hér í húsmennsku með son þeirra ungan, Pál Pálsson.[116] Helga var þá orðin ekkja því Páll, eiginmaður hennar, dó árið 1839 (sjá hér Neðri-Breiðadalur).

Á 19. öld var Þórarinn Einarsson allra manna lengst í húsmennsku á Suðureyri eða í 14 ár, frá 1847 til 1861.[117] Hann hafði áður búið hér á annarri hálflendunni í nær tvo áratugi og var orðinn ekkjumaður er hann hætti búskap.[118] Í húsmennskunni var hann oftast með ráðskonu sér til styrktar við heimilishaldið og skipti ört um þær.[119] Aðrir húsmenn á Suðureyri um miðbik nítjándu aldar voru þeir Guðmundur Jónsson, áður bóndi á Kaldá og Görðum í Önundarfirði, og séra Arngrímur Bjarnason sem varð prestur Súgfirðinga árið 1849.[120] Guðmundur Jónsson var í húsmennsku á Suðureyri á árunum 1846-1848 en kona hans, Ingibjörg Jónsdóttir, var þá um skeið ráðskona hjá Þórarni Einarssyni sem hér var nýlega nefndur.[121] Þau Guðmundur og Ingibjörg voru foreldrar Friðberts Guðmundssonar er varð bóndi og hreppstjóri í Fremri-Vatnadal og síðast húsmaður í Hraunakoti (sjá hér Garðar og Fremri-Vatnadalur). Frá séra Arngrími Bjarnasyni, sem var prestur Súgfirðinga í 14 ár, er sagt hér á öðrum stað (sjá Staður) en hann hafðist við í húsmennsku á Suðureyri frá því hann kom til Súgandafjarðar í septembermánuði árið 1849 og fram undir lok ársins 1850 (sjá hér Staður).

Á árunum 1860-1890 var mjög lítið um húsfólk hér á Suðureyri.[122] Þó má nefna að Friðrik Benediktsson, áður bóndi í Staðarhúsum, er sagður hafa verið hér í húsmennsku árið 1875 og á árunum 1887-1891 var Sigurður Jónsson, áður bóndi á Gilsbrekku, húsmaður á Suðureyri.[123] Sigurður var þá orðinn ekkjumaður en hann var stjúpfaðir Kristjáns Albertssonar, bónda á Suðureyri (sjá hér Gilsbrekka).

Ætla má að allt það húsfólk sem hér hefur verið minnst á hafi hafst við á bændabýlunum á Suðureyri eða í öðrum húsakynnum hér heima á túninu. Í verbúðunum á Suðureyrarmölum dvöldust útróðramenn frá öðrum bæjum að vorinu og líka á haustin þegar henta þótti en aðeins er kunnugt um eitt dæmi þess að fólk hafi talist eiga heima á Mölunum fyrir 1889. Það dæmi er frá vetrinum 1801-1802 (sjá hér bls. 104-105). Hjónin sem tóku sér bólfestu á Suðureyrarmölum árið 1889 og frá er sagt á öðrum stað í þessu riti urðu hins vegar fyrstu íbúarnir í varanlegri byggð á Mölunum því þar hófst þorpsmyndun skömmu síðar og á síðasta áratug 19. aldar var þar aldrei mannlaust (sjá hér bls. 104-111).

Elstu upplýsingar sem fyrir liggja um landskuld af bújörðinni Suðureyri eru frá árinu 1658 en þá var hún 140 álnir,[124] það er eitt kýrverð og einn sjötti hluti úr kýrverði umfram það. Á síðustu árum 17. aldar var landskuldin af Suðureyri aðeins lægri eða 6 vættir,[125] það er 120 álnir sem er sama fjárhæð og eitt kýrverð. Þannig hélst hún óbreytt fram á miðja 19. öld[126] og máske nokkru lengur.

Er hin forna hjáleiga Laugar byggðist á ný um 1780 (sjá hér Laugar) hækkaði heildarlandskuldin reyndar nokkuð því afgjaldið af Laugum bættist við en það var 30 álnir árið 1847.[127] Á móti kemur að frá fyrri hluta 19. aldar finnast dæmi um að landskuldin af hálfri Suðureyri, tíu hundruðum, hafi aðeins verið 50 álnir.[128] Um 1920 var þetta jarðarafgjald orðið miklu lægra og var þá 2 ær af allri jörðinni,[129] það er einn þriðji úr kýrverði samkvæmt gömlum landaurareikningi.

Undir lok sautjándu aldar höfðu sjálfseignarbændur búið á Suðureyri um langan tíma og af þeim ástæðum orðið óljóst hversu mörg innstæðukúgildi fylgdu jörðinni.[130] Svo virðist einnig hafa verið árið 1658.[131] Í Jarðabókinni frá 1710 segir að tíu árum fyrr hafi þrjú innstæðukúgildi fylgt annarri hálflendunni á Suðureyri[132] og ættu þá að hafa verið sex á jörðinni allri. Árið 1753 voru innstæðukúgildin fjögur,[133] það er 24 ær, og sú tala var óbreytt árið 1847.[134] Um 1920 töldust 20 leiguær enn fylgja þessari gömlu bújörð[135] og hafði þá fækkað um fjórar frá því sem verið hafði um miðja átjándu og miðja nítjándu öld.

Í varðveittum heimildum er Suðureyrar í Súgandafirði fyrst getið í skjali frá árinu 1471. Um er að ræða vitnisburðarbréf þriggja manna, dagsett 15. september 1471, og votta þeir þar að hafa verið viðstaddir á Suðureyri í Súgandafirði hinn 31. ágúst á sama ári er Steinunn Jónsdóttir gaf þá jörð með samþykki bónda síns, Sveins Þorgilssonar, Halldóri Hákonarsyni á Kirkjubóli í Valþjófsdal í próventu sína.[136] Bréfið er skemmtilega orðað og segir þar meðal annars:

 

Vorum vér í hjá, sáum og heyrðum á orð og handaband þessara manna, af einni hálfu Halldórs Hákonarsonar og af annarri hálfu Steinunnar Jónsdóttur. Skildist það undir þeirra handabandi að fyrrgreind Steinunn gaf áðurnefndum Halldóri jörðina Suðureyri í Súgandafirði er liggur í Staðar kirkjusókn með samþykki Sveins Þorgilssonar, bónda síns, til ævinlegrar eignar undan sér og sínum erfingjum en sér til ævinlegrar próventu og framfærslu. Skyldi oftnefnd Steinunn próventuföst upp þaðan og á komin fyrrgreint framfæri.

Skyldi og þessi áðurgreind jörð, Suðureyri, fullkomin eign Halldórs Hákonarsonar með töðum og ökrum, engjum og skógum, rekum og renningum, herbergjum og húsum, hurðum hjarföstum og viðum naglföstum, stórum og smáum, hvort sem heldur er biti eður bjálki, með görðum og grindum, holtum og haugum, vötnum og veiðistöðum, afréttum og öllum gögnum og gæðum, þeirra sem þessu landi eigu að fylgja þótt það sé í önnur lönd og því hefur fylgt að fornu og nýju.

Handsalaði þráttnefnd Steinunn títtnefndum Halldóri þetta sama land með greindum landamerkjum út á Sauðaspilli sem hæstur er og þar að sjónhending til sjóar og inn að Smilluhömrum. Hér með heimilaði oft nefnd Steinunn Halldóri Hákonarsyni fé það allt er þar kann finnast í jörðu og á nema löglegir eigendur verði til. Skal fyrrnefnd Steinunn ábyrgjast allar löglegar riftingar á landinu en oft nefndur Halldór skyldi halda fyrir skiladómi til laga.[137]

 

Í bréfinu kemur meðal annars fram hver voru landamerki Suðureyrar en þau hafa verið hin sömu og hér er lýst á öðrum stað (sjá bls. 186-187 og Bær) því fjallið Sauðaspillir er augljóslega hið sama og síðar var jafnan nefnt Spillir og ætla má að Smilluhamrar séu hamrarnir í innanverðum Markskletti (sjá hér Laugar) þar sem nú eru landamerki Lauga og Kvíaness[138] en þar voru áður landamerki Suðureyrar á móti Kvíanesi[139] því Laugar voru gömul hjáleiga frá Suðureyri eins og hér hefur áður verið nefnt.

Enginn veit nú hvert var tilefni þess að Steinunn Jónsdóttir gaf Halldóri Hákonarsyni jörðina Suðureyri en samningurinn sýnir að þetta voru í rauninni kaup kaups því á móti lofaði Halldór að tryggja henni framfærslu í ellinni og taka við henni sem próventukonu inn á sitt heimili. Hafi Steinunn verið orðin roskin þegar samningurinn var gerður, sem líklegt er, má þó ætla að Halldór hafi hagnast vel á þessum viðskiptum því ærið mörg ár hefur Steinunn þurft að lifa í próventunni til að ljúka við að éta út allt jarðarverðið. Frá Halldóri Hákonarsyni sem eignaðist Suðureyri árið 1471 er sagt hér á öðrum stað (sjá Kirkjuból í Valþjófsdal) en hann var auðugur og umsvifamikill bóndi og systursonur Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum sem um skeið mun hafa átt meiri eignir en nokkur annar Íslendingur á þeirri tíð (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Ekki verður nú um það sagt hvort þau Sveinn Þorgilsson og Steinunn eiginkona hans, sem ráðstöfuðu Suðureyri í hendur Halldórs Hákonarsonar, hafi búið hér. Vissar líkur benda þó til þess að svo hafi verið og þá einkum það að frá öllum samningunum, sem þau gerðu við Halldór 31. ágúst 1471, var gengið hér á Suðureyri.[140] Þetta voru í raun fjórir samningar og enn hefur aðeins einum þeirra verið lýst hér. Meginefni hinna þriggja var þetta: Í fyrsta lagi afsalaði Sveinn Þorgilsson sér öllu tilkalli til Suðureyrar, bæði fyrir sína eigin hönd og vegna barna sinna.[141] Í öðru lagi fékk Sveinn Halldóri hálfa jörðina Vatnadal í Súgandafirði til eignar með vissum skilmálum og í þriðja lagi veitti hann Halldóri þriggja ára umboð til fullra umráða yfir eignum barna sinna.[142] Þær eignir voru níu hundruð í lausagóssi, jörðin Kvíanes og hálf jörðin Norðureyri, báðar í Súgandafirði.[143] Hina hálflenduna á Norðureyri virðist Halldór hafa eignast áður því hana taldi hann sig tvímælalaust eiga þegar gengið var frá öllum þessum samningum.[144]

Þegar Halldór hafði gengið frá nýnefndum samningum við Svein og Steinunni kvaddi hann sér hljóðs í því skyni að lögfesta það sem um hafði verið samið. Í vitnisburðarbréfi dagsettu á Kirkjubóli í Valþjófsdal 24. nóvember 1471 er þeirri athöfn lýst svo:

 

Og eftir þeirra allan gjörning er þar fór fram á sama degi heyrðum vér fyrrgreindir menn áður nefndan Halldór lýsa sína eign jörðina Suðureyri upp frá þeim degi er þá var kominn. … Fór þessi lýsing fram í túninu fyrir karldyrum í sama stað á Suðureyri. Lýsti Halldór þessu hinu sama á Stað í Súgandafirði næsta dag eftir þar fyrir kirkjudyrum svo Sveinn heyrði og sagði hann þá eigi nei til. Lögfesti Halldór Hákonarson í fullri sinni eigu, Suðureyri og Vatnadal allan og hálfa Norðureyri, en hálfa Norðureyri og Kvíanes í sínu eignarumboði þar þá fyrir kirkjudyrunum.[145]

 

Hjónin Sveinn Þorgilsson og Steinunn Jónsdóttir, sem hér var frá sagt, eru fyrstu eigendur Suðureyrar sem um er kunnugt en næstur í þeirri röð er Halldór Hákonarson á Kirkjubóli sem náði af þeim jörðinni. Óljóst er nú hversu lengi Halldór átti Suðureyri en það mun aðeins hafa verið í nokkur ár því hann virðist hafa andast skömmu eftir 1480.[146] Hér hefur áður verið gerð nokkur grein fyrir hvað varð um eignir Halldórs að honum látnum (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) en óvíst er hvort hann muni hafa átt Suðureyri til dauðadags. Eina barn Halldórs og einkaerfingi hans var dóttir sem dó barnlaus á ungum aldri og mun tengdamóðir Halldórs, Kristín Guðnadóttir, þá hafa erft þessa dótturdóttur sína. Að minnsta kosti er fullvíst að heimajörð Halldórs, Kirkjuból í Valþjófsdal, er var 48 hundruð að dýrleika, kom þá í hennar hlut og þá jörð erfði síðar sonarsonur Kristínar, Björn Guðnason í Ögri (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal), sem um skeið var auðugri og voldugri en aðrir Vestfirðingar. Nokkrar líkur benda til þess að Suðureyri hafi farið sömu leið við erfðaskipti og þá helst það að dótturdóttir Björns Guðnasonar átti þessa jörð, hálfa eða alla, árið 1602.[147] Sú staðreynd felur þó alls ekki í sér neina sönnun þess að Björn í Ögri hafi átt Suðureyri en eykur nokkuð líkurnar á því að svo hafi verið.

Sú dótturdóttir Björns Guðnasonar í Ögri sem átti a.m.k. hálfa Suðureyri árið 1602 hét Arndís Sigfúsdóttir[148] en foreldrar hennar voru Sigfús Brúnmannsson, lögréttumaður í Hrauni í Keldudal í Dýrafirði og eiginkona hans Ólöf Björnsdóttir frá Ögri.[149] Eiginmaður Arndísar var Guðmundur Helgason, bóndi á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, sem sekur varð um a.m.k. þrjú hórdómsbrot[150] en við þriðja brotið varð fjölskylda Guðmundar að greiða stórfé honum til lausnar og frelsunar á lífi.[151] Til tryggingar þeirri greiðslu veðsetti Arndís bæði Eyri í Seyðisfirði og hálfa Suðureyri í Súgandafirði.

Eitt barna Arndísar Sigfúsdóttur og Guðmundar Helgasonar á Eyri var Ingveldur sem giftist Jóni dan Magnússyni en hann var sonur Magnúsar sýslumanns Jónssonar er nefndur var Magnús prúði.[152] Þau Ingveldur Guðmundsdóttir og Jón dan bjuggu á Eyri í Seyðisfirði[153] og munu hafa tekið þar við búi af foreldrum hennar en óvíst er hvort þau  hafi erft Suðureyri. Sonur þessara hjóna var Bjarni Jónsson, bóndi á Hesti í Önundarfirði,[154] sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Hestur).

Árið 1646 áttu bræðurnir Magnús og Gísli Jónssynir hálfa Suðureyri en seldu þessa eign sína 14. júní á því ári.[155] Ekki er alveg ljóst hvaða bræður þetta muni hafa verið en líklegast má telja að það séu synir Jóns eldri Magnússonar en hann var albróðir Jóns dan sem fyrr var nefndur.[156] Jón eldri átti soninn Magnús sem fæddur var árið 1600.[157] Hann bjó í Haga á Barðaströnd og var árið 1646 annar tveggja sýslumanna í Barðastrandarsýslu.[158] Annar sonur eldra Jóns var Gísli, fæddur á árunum milli 1610 og 1620.[159] Hann bjó lengi í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar og var um skeið lögsagnari í norðurhluta Ísafjarðarsýslu.

Umboðsmaður seljenda við söluna á hálfri Suðureyri árið 1646 var séra Jón Jónsson[160] og má ætla að þar sé um að ræða séra Jón Jónsson sem þá var aðstoðarprestur föður síns í Holti í Önundarfirði.[161] Sá sem keypti aðra hálflenduna á Suðureyri af Magnúsi og Gísla Jónssonum árið 1646 hét Jón Sveinsson og fyrir þá jarðeign greiddi hann bræðrunum hálfa jörðina Kvíanes í Súgandafirði og hálfan Svarfhól í Geiradal í Barðastrandarsýslu.[162] Ótvírætt má teljast að Jón Sveinsson, sem keypti hálfa Suðureyri árið 1646, hafi verið sonur Sveins Andréssonar á Kvíanesi, sem keypti þá jörð árið 1616 (sjá hér Kvíanes), en vitað er með vissu að einn þriggja sona Sveins hét Jón og sá maður var enn á lífi árið 1677.[163] Jón Espólín segir að Jón Sveinsson á Suðureyri hafi átt Guðrúnu Jónsdóttur fyrir konu og börn þeirra aðeins verið tvö, synirnir Jón og Ólafur sem var einhleypur alla ævi.[164]

Um miðbik 17. aldar átti séra Páll Björnsson í Selárdal, hinn kunni óvinur galdramanna, hálfa Suðureyri[165] en seldi þessa eign sína Páli nokkrum Ólafssyni haustið 1655.[166] Þremur árum síðar er þess getið í opinberri heimild að á Suðureyri búi eigendur jarðarinnar, Jón og Páll,[167] og sýnist varla of djarft að álykta að þessir sjálfseignarbændur hafi verið þeir Jón Sveinsson og Páll Ólafsson sem keyptu sína hálflenduna hvor, annar 1646 en hinn 1655.

Árið 1695 voru eigendur Suðureyrar fjórir.[168] Aðra hálflenduna áttu þeir Ólafur Jónsson og Jón Jónsson en hina Jón Pálsson og Bjarni Bjarnason.[169] Að þrír þessara manna hafi verið synir Jóns Sveinssonar og Páls Ólafssonar, sem hér bjuggu 40 árum fyrr, er auðvelt að láta sér detta í hug og má reyndar heita fullvíst því eins og áður sagði átti Jón Sveinsson einmitt bæði Ólaf og Jón fyrir syni og engin önnur börn og hjá Espólín sjáum við að Páll Ólafsson átti tvo Jóna fyrir syni.[170] Espólín segir reyndar að nýnefndur Páll Ólafsson hafi búið í Valþjófsdal[171] og getur vel verið rétt þó að hann hafi átt hálfa Suðureyri og búið hér um eitthvert skeið, a.m.k. árið 1658. Að Páll sá Ólafsson sem Espólín kennir við Valþjófsdal sé sami maður og átti hálfa Suðureyri er alveg víst því hann segir Pál þennan hafa átt Jón Pálsson í Haukadal fyrir son og líka annan Jón sem átti Guðrúnu fyrir dóttur og Espólín nefnir líka að ein dætra Páls hafi verið Dóróthea sem giftist Jóni Jónssyni og þeirra börn hafi verið tvö, Jón og Margrét.[172] Allt passar þetta nákvæmlega við Pál Ólafsson á Suðureyri[173] svo hér er ekki um að villast.

Hjá Espólín er nýnefndur Páll Ólafsson sagður hafa verið sonur hins góðkunna skálds, séra Ólafs Jónssonar á Söndum, og seinni konu hans, Guðrúnar Pálsdóttur.[174] Í jarðaskrá úr Ísafjarðarsýslu frá árinu 1695 er fullyrt að Suðureyri hafi þá verið í sjálfsábúð um langt skeið[175] sem kemur næsta vel heim og saman við það sem hér hefur verið sagt og nú verður frá greint.

Þann 25. janúar árið 1702 seldi Jón Pálsson Jóni Jónssyni þrjú hundruð í Suðureyri vegna systur sinnar og konu hans, Dorotheu Pálsdóttur, eins og það er orðað í afsalsbréfinu.[176] Með vísun til þess sem hér hefur verið sagt má telja fullvíst að systkinin Jón Pálsson og Dóróthea Pálsdóttir hafi verið börn Páls Ólafssonar, sem keypti hálfa Suðureyri árið 1655, og manntalið frá 1703 sýnir að Jón Jónsson og Dóróthea kona hans bjuggu þá á Suðureyri, hann 55 ára og hún 47 ára, en tvíbýli var þá á jörðinni.[177] Árið 1710 bjó Jón Jónsson hér enn og átti 15 hundruð í jörðinni.[178] Sú hundraðatala sýnir að þau þrjú hundruð, sem hann keypti af mági sínum árið 1702, hafa bæst við hálflenduna sem var tólf hundruð. Jón Jónsson bjó árið 1710 í ytri bænum á Suðureyri og hafði öll sín 15 hundruð til ábúðar.[179]

Árið 1703 bjó Erlingur Sigfússon hér á Suðureyri á móti Jóni Jónssyni.[180] Erlingur var leiguliði því árið 1710 átti Guðrún Jónsdóttir þau 9 hundruð úr Suðureyri sem ekki voru í eigu Jóns Jónssonar.[181] Guðrún mun þá hafa verið ómyndug því að í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að hún sé undir fjárhaldi föðurbróður síns, Jóns Pálssonar að Haukadal í Dýrafirði.[182] Þau orð sýna að Jón Pálsson í Haukadal hefur átt bróður með sama nafni eins og getið er um hjá Espólín og áður var frá greint. Árið 1703 var ein Guðrún Jónsdóttir á heimili Jóns Pálssonar í Haukadal og er í manntalinu frá því ári sögð vera dæmdur ómagi.[183] Líklega er það hún sem átti 9 hundruð í Suðureyri.

Á árunum kringum 1735 var þríbýli á Suðureyri en þá bjuggu hér bændurnir Grímur Teitsson, Jón Þorgilsson og Brynjólfur Jónsson.[184] Jón Þorgilsson bjó áður í Botni í Súgandafirði[185] og Brynjólfur Jónsson, sem líka var bóndi á Suðureyri um 1735, var sonur hans.[186] Árið 1703 var Brynjólfur þriggja ára gamall hjá foreldrum sínum í Botni.[187] Óvíst er hvort þeir feðgar, Jón Þorgilsson og Brynjólfur Jónsson, áttu eitthvað í Suðureyri á árunum kringum 1735 en hafi svo ekki verið er líklegt að Brynjólfur hafi eignast part úr jörðinni síðar, ef ekki Suðureyri alla. Árið 1753 hafði hann einn alla Suðureyri til ábúðar[188] og árið 1762 bjó Bjarni sonur hans einn á allri jörðinni og var þá eigandi hennar.[189] Í manntalinu frá 1762 er Bjarni sagður vera 35 ára gamall[190] og ætti því að hafa verið fæddur árið 1727. Um tengsl þessara feðga við hina fyrri eigendur Suðureyrar er flest á huldu. Móðir Brynjólfs Jónssonar, sem hét Sigríður Sigfúsdóttir, og Jón Jónsson, sem átti 15 hundruð í Suðureyri 1710, munu reyndar hafa verið bræðrabörn og bæði átt Svein Andrésson á Kvíanesi fyrir afa[191] (sbr. hér bls. 19-20 og Kvíanes). Út á þann skyldleika hefur Brynjólfur þó ekki fengið neitt í arf og verður því að gera ráð fyrir að þeir feðgar Brynjólfur og/eða Bjarni sonur hans hafi keypt Suðureyri. Eiginkona Brynjólfs og móðir Bjarna er í gömlum ættartölum nefnd Þorbjörg og faðir hennar Bjarni Jónsson.[192] Hugsanlegt er að einhver partur úr Suðureyri hafi komið í hennar hlut við erfðaskipti.

Hér er á öðrum stað sagt nánar frá Bjarna Brynjólfssyni, sjálfseignarbónda á Suðureyri (sjá hér bls. 27-32). Þess skal þó strax getið að hann andaðist árið 1784 en ekkja hans og börn þeirra hjóna bjuggu hér allt til ársins 1802.[193]

Árið 1805 voru tvær konur eigendur Suðureyrar.[194] Önnur þeirra var Margrét Guðnadóttir á Gelti[195] (sbr. hér Göltur) en hin Guðrún Magnúsdóttir í Súðavík[196] sem átt hafði Jón Bjarnason, son Bjarna Brynjólfssonar á Suðureyri, fyrir eiginmann.[197] Margrét Guðnadóttir var hins vegar ekkja eftir Jón Bjarnason, bónda á Gelti, sem drukknaði árið 1800 (sjá hér Göltur) og má ætla að hann hafi keypt hálfa Suðureyri af Halldóru Jónsdóttur, ekkju Bjarna Brynjólfssonar, að líkindum á árunum kringum 1795 (sbr. hér bls. 29-31).

Þegar Margrét Guðnadóttir á Gelti andaðist í marsmánuði árið 1814 átti hún enn sín 10 hundruð í Suðureyri.[198] Guðrún Magnúsdóttir í Súðavík seldi hins vegar sinn eignarhlut í Suðureyri á árunum 1805-1807 því á fyrstu mánuðum ársins 1807 var maður að nafni Þorsteinn Pétursson orðinn eigandi þeirrar hálflendu[199] og er það líklega sá Þorsteinn Pétursson sem árið 1801 átti heima í Hringsdal í Arnarfirði og var þá 26 ára gamall vinnumaður.[200] Um annan með þessu nafni er ekki að ræða nema farið sé norður í Skagafjörð eða austur í Múlasýslu.[201] Þessi 10 hundruð í Suðureyri átti Þorsteinn aðeins í mjög stuttan tíma því fyrir 15. apríl árið 1807 hafði hann selt þau Örnólfi Snæbjörnssyni[202] sem þá átti heima í Bolungavík (sjá hér bls. 33-35) og var afsalinu þinglýst á manntalsþingi að Hóli í Bolungavík þann dag.[203] Fyrir átta af þessum tíu hundruðum greiddi Örnólfur með sjö hundruðum úr jörðinni Súðavík en hin tvö jarðarhundruðin borgaði hann með 14 ríkisdölum í kúrantmynt hvort hundrað.[204] Örnólfur fluttist skömmu síðar til Súgandafjarðar og fór að búa á Suðureyri. Hann bjó hér til æviloka og er nánar frá honum sagt litlu aftar í þessu riti (sjá hér bls. 33-36).

Í skrifum um Örnólf hefur verið fullyrt að hann hafi keypt alla Suðureyri á árunum kringum 1810[205] en það er ekki rétt því hann eignaðist aldrei nema hálfa jörðina þó að hann byggi á henni allri. Skjallegar sannanir fyrir því að svo hafi verið liggja fyrir eins og hér mun nú verða rakið. Þar er þess fyrst að geta að Margrét Guðnadóttir á Gelti átti enn hálflenduna á Suðureyri þegar hún andaðist 15. mars 1814 eins og hér var nýlega nefnt. Við skipti á dánarbúi Margrétar vorið 1814 komu þessi 10 hundruð í Suðureyri í hlut dóttur hennar, Guðfinnu Jónsdóttur.[206] Þessi 10 hundruð voru þá virt á 200 ríkisdali.[207] Guðfinna giftist 10. október 1815 Kjartani Ólafssyni á Eyri í Önundarfirði, síðar bónda í Tröð í sama firði[208] (sbr. hér Tröð), og nær tíu árum síðar, þann 25. mars árið 1825, seldi Kjartan þennan sama eignarhlut sinn í Suðureyri ásamt tveimur hundruðum úr jörðinni Eyri í Önundarfirði og fékk í staðinn 10 hundruð í Tröð.[209] Sá sem keypti hálfa Suðureyri af Kjartani í marsmánuði árið 1825 var Friðrik Svendsen, kaupmaður á Flateyri,[210] en hann seldi þessa eign sína 18. júlí á sama ári Jóni Einarssyni fyrir 300 ríkisdali.[211] Í bókun frá manntalsþingi á Suðureyri 6. júní 1827 er kaupandinn sagður vera Jón Einarsson, bóndi á Kvíanesi,[212] en þetta sama vor var Jón Einarsson, sem um skeið hafði verið húsmaður á Kvíanesi, að hefja búskap á Norðureyri (sjá hér Norðureyri). Ætla verður að það muni hafa verið sá Jón Einarsson sem keypti hálfa Suðureyri árið 1825 en hann andaðist fjórum árum síðar, aðeins fertugur að aldri, kvæntur en barnlaus (sjá hér Norðureyri).

Að Jóni Einarssyni látnum virðist Magnús Guðmundsson, hreppstjóri í Bæ, hafa náð að eignast a.m.k. fjögur af þeim tíu hundruðum sem Jón átti í Suðureyri.[213] Vel gæti verið að Jón hafi skuldað Magnúsi peninga og hreppstjórinn verið með veð í jörðinni. Sumarið 1830 seldi Magnús Þórarni Einarssyni á Suðureyri þessi fjögur hundruð[214] en Þórarinn var bróðir nýnefnds Jóns Einarssonar (sjá hér Selárdalur). Fyrir hvert jarðarhundrað galt Þórarinn 16 spesíur,[215] það er 32 ríkisdali. Að hundruðin sem Þórarinn keypti árið 1830 hafi verið úr hálflendunni sem bróðir hans eignaðist fimm árum áður er öldungis víst því hina hálflenduna á Suðureyri átti Elín Illugadóttir sem hafði verið gift Örnólfi Snæbjörnssyni en varð haustið 1829 eiginkona þessa sama Þórarins (sjá hér bls. 37-39) svo ekki hefur hann þurft að kaupa neitt af henni.

Þórarinn Einarsson tók við búsforráðum á Suðureyri er hann kvæntist Elínu og á næstu árum keypti hann sjö af þeim tíu hundruðum úr jörðinni sem hún átti ekki er þau gengu í hjúskap. Um þau fjögur hundruð sem hann keypti af Magnúsi í Bæ árið 1830 hefur þegar verið getið en þrjú hundruð til viðbótar keypti hann svo á uppboði sumrið 1837 fyrir 111 ríkisdali.[216] Líklegast er að Sigríður Aradóttir, sem hafði átt Jón Einarsson á Norðureyri, bróður Þórarins, fyrir eiginmann, hafi átt þessi hundruð til dauðadags en hún týndi lífi í snjóflóðinu á Norðureyri á jólaföstunni árið 1836 (sjá hér Norðureyri).

Þegar Elín Illugadóttir andaðist vorið 1840 áttu þau hjónin, hún og Þórarinn, 17 hundruð í Suðureyri, það er alla jörðina nema 3 hundruð, eins og sjá má á því sem hér hefur verið ritað. Skiptagerðin frá sumrinu 1840 staðfestir líka að svo hafi verið.[217] Við skipti á dánarbúi Elínar fékk Þórarinn 13 hundruð úr Suðureyri en Valdís, dóttir hennar af fyrra hjónabandi, og eiginmaður hennar, Þorleifur Þorkelsson, fengu 4 hundruð.[218]

Þeir Þórarinn og Þorleifur bjuggu báðir á Suðureyri næstu ár og í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 eru þeir sagðir vera sjálfseignarbændur.[219] Kristján G. Þorvaldsson, sem var bróðursonarsonur Þórarins Einarssonar og sjálfur einn af Suðureyrareigendum á fyrri hluta 20. aldar, staðhæfir að árið 1846 hafi Þorleifur Þorkelsson verið búinn að eignast tíu hundruð í jörðinni og þá hafi þeir Þórarinn og Þorleifur átt hér sína hálflenduna hvor (sjá hér bls. 47). Líklegt er að þessi fullyrðing Kristjáns sé rétt því vitneskja um síðari skiptingu milli eigenda jarðarinnar bendir eindregið til þess (sjá hér bls. 47-48).

Á síðari hluta 19. aldar var Suðureyri ætíð í sjálfsábúð, a.m.k. að hálfu, og þau hundruð sem ábúendur áttu ekki voru þá oftast í eigu náinna ættingja þeirra eins og sjá má þar sem gerð er grein fyrir bændunum sem hér bjuggu á því tímaskeiði (sjá hér bls. 47-48). Eigendur Suðureyrar á árunum rétt fyrir 1920 voru 14[220] og allir í nánum ættartengslum við Örnólf Snæbjörnsson eða Þórarin Einarsson sem var seinni eiginmaður Elínar Illugadóttur er verið hafði eiginkona Örnólfs.[221]

Af því sem hér hefur verið ritað má ráða að jörðin Suðureyri í Súgandafirði hafi nær alltaf verið setin af sjálfseignarbændum, allt frá því um miðja 17. öld og þar til síðasti bóndinn á jörðinni hætti að búa en þá var tuttugusta öldin runnin upp. Sé litið yfir nöfn bændanna sem hér bjuggu á þessu langa skeiði má að vísu finna fáein frávik frá þessari meginlínu en svo fá að reglan blífur.

 

Enn hefur fátt verið sagt um bændurna sem bjuggu á Suðureyri á liðnum öldum og þeirra fólk en hér verður nú reynt að átta sig svolítið nánar á þeim. Um þá sem hér bjuggu fyrir 1750 er reyndar harla fátt kunnugt en um hina, sem síðar bjuggu á jörðinni, hefur Kristján G. Þorvaldsson fjallað vel og skilmerkilega í ritgerð sinni Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns.[222] Margt úr þeirri ritgerð er birt í Súgfirðingabók sem Gunnar M. Magnúss samdi og út var gefin árið 1977[223] og við nýnefnda ritgerð Kristjáns verður einnig stuðst hér.

Fyrstu manneskjurnar, sem þekktar eru með nafni og hugsanlegt er að búið hafi á Suðureyri, eru hjónin Sveinn Þorgilsson og Steinunn Jónsdóttir sem áttu jörðina en létu hana af hendi árið 1471 (sjá hér bls. 15-17). Reyndar getur verið að þau hafi aldrei búið á þessari eignarjörð sinni og þess vegna eru bændurnir sem nefndir eru í jarðaskrá frá árinu 1658 hinir fyrstu sem vitað er um með fullri vissu að hafi búið á Suðureyri. Þeir hétu Páll og Jón en í nýnefndri jarðaskrá eru föðurnöfn þeirra ekki nefnd.[224] Hér hafa hins vegar verið leiddar líkur að því að þessir tveir herramenn muni vera Jón Sveinsson, sem keypti hálfa Suðureyri árið 1646, og Páll Ólafsson sem festi kaup á hinni hálflendunni árið 1655 (sjá hér bls. 19-20). Sá Jón Sveinsson sem hér um ræðir mun hafa verið sonur Sveins Andréssonar á Kvíanesi (sjá hér Kvíanes) en Páll var sonur skáldsins, séra Ólafs Jónssonar á Söndum í Dýrafirði (sjá hér bls. 19-20). Jón Sveinsson var enn á lífi árið 1677[225] en þrír af fjórum eigendum Suðureyrar árið 1695 virðast hafa verið synir bændanna tveggja sem festu kaup á jörðinni nokkrum áratugum fyrr, þeirra Jóns Sveinssonar og Páls Ólafssonar (sjá hér bls. 19-20). Undir lok 17. aldar var jörðin í sjálfsábúð[226] og fullvíst er að Jón Jónsson, sonur Jóns Sveinssonar á Suðureyri, var hér enn við bú árið 1710 (sjá hér bls. 19-20) og bjó þá á 15 jarðarhundruðum sem hann átti sjálfur.[227] Auk þess átti hann þá 4 hundruð í jörðinni Bakka í Þingeyrarhreppi.[228]

Árið 1703 er bóndi þessi á Suðureyri sagður vera 55 ára gamall en kona hans, Dóróthea Pálsdóttir, var átta árum yngri.[229] Þau Jón og Dóróthea á Suðureyri eignuðust a.m.k. tvö börn, soninn Jón, sem var 9 ára árið 1703, og dótturina Margréti sem þá var 12 ára.[230] Á heimili þeirra voru þá einnig tveir vinnumenn og tvær vinnukonur.[231] Jón Jónsson á Suðureyri var gildur bóndi og árið 1710 hafði aðeins einn maður í Súgandafirði fleiri hundruð til ábúðar en hann.[232] Sá var Eiríkur Þórðarson í Bæ sem bjó á 16 hundruðum.[233] Jón á Suðureyri var líka með annað stærsta búið í Súgandafirði árið 1710, 5 nautgripi og 88 sauðkindur að lömbum frátöldum.[234] Aðeins presturinn á Stað, séra Jón Torfason, var með stærra bú og munaði þó mjög litlu á Jóni presti og Jóni bónda.[235] Jón Jónsson bjó í ytri bænum á Suðureyri.[236]

Þegar Árni Magnússon, prófessor og handritasafnari, kom í Súgandafjörð í jarðabókarerindum í ágústmánuði árið 1710 var Jón á Suðureyri fenginn til að votta með undirskrift sinni að allt sem skrifari Árna færði í letur um Suðureyri og jarðirnar í Staðardal væri rétt bókað og í samræmi við það sem almúginn hafði frá greint.[237] Undir þá yfirlýsingu skrifar með Jóni ritari Árna, Magnús Einarsson,[238] er seinna átti um skeið heima á Jörfa í Haukadal í Dalasýslu og er í Íslenskum æviskrám nefndur skrifari og málari.[239]

Sambýlismaður Jóns Jónssonar hér á Suðureyri árið 1703 var Erlingur Sigfússon, sem þá var 37 ára gamall, en kona Erlings, Margrét Þorgilsdóttir, var fjórum árum yngri.[240] Þeir Jón og Erlingur munu hafa verið bræðrasynir en föðurafi beggja var Sveinn Andrésson sem keypti Kvíanes í Súgandafirði árið 1616 og bjó þar lengi[241] (sbr. hér bls. 19-21 og Kvíanes). Hjá Erlingi og Margréti konu hans voru tveir synir þeirra árið 1703, Sigmundur 10 ára og Jón 9 ára.[242] Þau voru þá með átta manna heimili og auk þess voru hjá þeim þrjár manneskjur í húsmennsku.[243]

Erlingur Sigfússon var leiguliði hér á Suðureyri en var þó ekki alveg eignalaus því hann átti hálft Kvíanes sem er átta hundraða jörð í Súgandafirði.[244] Erlingur dó í stórubólu árið 1707[245] og hefur þá verið rétt liðlega fertugur að aldri.

Árið 1710 var Nikulás Bárðarson orðinn bóndi í innri bænum á Suðureyri og bjó á 9 jarðarhundruðum.[246] Bústofn hans var þá 2 kýr og 27 sauðkindur að lömbum frátöldum.[247] Nikulás var fæddur um 1670 og hafði áður búið í Bæ í Súgandafirði (sjá hér Bær). Hér á Suðureyri var hann leiguliði[248] en átti hins vegar eitt hundrað í Norðureyri,[249] jörðinni sem er beint á móti Suðureyri, handan fjarðarins. Óvíst er hversu lengi Nikulás bjó hér í innri bænum.

Um 1735 bjuggu þrír bændur á Suðureyri eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 21). Þeir hétu Grímur Teitsson, Jón Þorgilsson og Brynjólfur Jónsson.[250] Um Grím Teitsson liggja engar upplýsingar á lausu. Um Jón Þorgilsson er hins vegar kunnugt að hann hafði búið alllengi í Botni áður en hann hóf búskap á Suðureyri og verður frá honum sagt er við komum að Botni á göngu okkar milli bæja í Súgandafirði.

Brynjólfur Jónsson, sem einnig bjó á Suðureyri árið 1735, var sonur nýnefnds Jóns Þorgilssonar og konu hans Sigríðar Sigfúsdóttur.[251] Árið 1703 var hann þriggja ára gamall hjá foreldrum sínum í Botni[252] og um ættir hans skal vísað til þess sem um þau er ritað hér á öðrum stað (sjá hér Botn).

Árið 1753 var Brynjólfur enn bóndi á Suðureyri og bjó þá einn á allri jörðinni.[253] Ljóst er að hann hefur verið allvel efnaður því samkvæmt opinberri heimild átti hann tíu hundruð í lausafé árið 1753.[254] Aðeins einn maður í Súgandafirði átti þá jafn mikið laust fé og Brynjólfur og var það presturinn á Stað, séra Bergsveinn Hafliðason.[255] Allir aðrir áttu minna.[256] Kona Brynjólfs hét Þorbjörg Bjarnadóttir og komu þau upp tveimur börnum, Bjarna, sem tók við búi af föður sínum, og Valgerði sem dó ógift á Suðureyri árið 1785.[257]

Árið 1762 var Bjarni Brynjólfsson orðinn bóndi á Suðureyri.[258] Hann bjó þá einn á allri jörðinni og átti hana.[259]  Bjarni var gildur bóndi og hneigður til framkvæmda því það var hann sem byggði hér upp á nýju bæjarstæði.[260] Áður stóðu bæirnir á Suðureyri neðst í brekkunni ofan við eyrina (sjá hér bls. 2-4) en Bjarni færði sig niður á sléttlendið og byggði sér bæ skammt neðan við tjörn[261] sem er efst á eyrinni og mun áður hafa verið nokkru stærri en nú. Þar sem Bjarni reisti bæ sinn stóð Suðureyrarbærinn síðan alla tið meðan búið var á jörðinni[262] (sbr. hér bls. 3-4).

Eiginkona Bjarna Brynjólfssonar var Halldóra Jónsdóttir, dóttir Jóns Einarssonar, bónda og lögréttumanns í Æðey, sem nefndur var Jón hrekkur.[263] Jón var frá Hreggstöðum á Barðaströnd,[264] sem stundum voru nefndir Rekstaðir.[265] Mun viðurnefni hans hafa verið dregið af því bæjarnafni en máske líka átt rætur að rekja til þess að hann þótti ódæll og svaðamenni um drykkjuskap og kvennafar.[266]

Þau Bjarni á Suðureyri og Halldóra kona hans voru á líkum aldri. Í manntalinu frá 1762 er hann sagður vera 35 ára en hún einu ári yngri.[267] Þau hafa þá verið fædd á árunum 1727 og 1728 eða því sem næst og passar það við aldur Halldóru sem upp er gefinn í sóknarmannatali frá árinu 1786.[268]

Árið 1762 áttu hjón þessi á Suðureyri fimm börn, hið elsta 7 ára,[269] og má ætla að Bjarni hafi tekið við búi af föður sínum um svipað leyti og elsta barnið fæddist, það er um 1755. Á árunum upp úr 1760 var Bjarni bóndi á Suðureyri með þrjá vinnumenn og þrjár vinnukonur[270] svo ljóst er að umsvif hans í búskapnum hafa verið meiri en almennt var í Suðureyrarhreppi. Hann var þá eini maðurinn í Súgandafirði sem átti tvo báta, sexæring og fjögra manna far, en aðrir áttu bara einn bát eða engan (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Bjarni Brynjólfsson á Suðureyri var athafnamaður eins og sjá má á því sem hér hefur verið rakið en hann átti líka til að líta í bók. Til þess bendir að minnsta kosti sú staðreynd að árið 1782 fékk hann til láns hjá séra Jóni Ásgeirssyni á Mýrum í Dýrafirði Æfisögu og Barnaflokk séra Einars Sigurðssonar.[271]

Ætla má að kverið sem Bjarni fékk lánað á Mýrum hafi verið uppskrift úr ritum hins kunna skálds séra Einars Sigurðssonar í Eydölum en séra Jón Ásgeirsson, sem lánaði bóndanum á Suðureyri bókina, var faðir Þórdísar, móður Jóns Sigurðssonar forseta.[272] Svo merkilega vill reyndar til að Bjarni Brynjólfsson var niðji skáldsins, séra Einars í Eydölum, því langamma hans, Ásta Tómasdóttir í Botni, átti séra Einar fyrir langafa[273] og má vel vera að Bjarna hafi verið kunnugt um þau tengsl.

Kristján G. Þorvaldsson, sem fæddist í Selárdal í Súgandafirði árið 1881 og átti lengst heima á Suðureyri, heyrði ýmislegt um Bjarna hjá eldra fólki á árunum kringum aldamótin 1900 og segir frá á þessa leið:

 

Bjarni var stórefnaður maður. Auk skráðra heimilda eru ýmsar sagnir um Bjarna og benda þær allar til að hann hafi verið mesti dugnaðar- og athafnamaður, bæði til lands og sjávar. Halldóra kona hans mun einnig hafa verið aðsópsmikil dugnaðarkona.

Bjarni bjó í ytri bænum fyrstu búskaparárin. Var bærinn á sama stað og hann hafði verið um langan aldur. Voru þar nokkur óþægindi og jafnvel hætta. Bjarni vildi flytja bæinn á öruggan stað og valdi nýtt bæjarstæði neðan við tjörnina. Auk bæjarins varð að flytja fjós og geymsluhús. Þá breytti Bjarni farvegi lækjar, sem kom upp á túninu innanverðu og rann niður innan við eyrina, og veitti honum út og niður í tjarnarlækinn og fékk þar með ágætis vatnsból skammt frá bænum.

Þessi bygging Bjarna var mikið átak og setti nýjan svip á eyrina og hélst hann lengi. Bærinn var síðan áfram á þessum stað allan þann tíma sem búið var á jörðinni. Og eina íbúðarhúsið sem nú er á túninu (1960) stendur á sama grunni.[274]

 

Kristján greinir einnig frá því að tvö af börnum Bjarna og Halldóru hafi látist af slysförum á ungum aldri er þau voru að leik hjá hafísjaka í fjörunni utan við eyrina en jakinn klofnaði og féll á þau.[275]

Bjarni Brynjólfsson mun hafa verið bóndi á Suðureyri í nær þrjá áratugi og bjó allt til dauðadags en hann andaðist 11. nóvember 1784 úr landfarsótt, sagður 56 ára gamall.[276]

Halldóra Jónsdóttir, eiginkona Bjarna, lifði lengur og bjó áfram á jörðinni.[277] Sjö af börnum þessara hjóna komust upp, fjórar dætur og þrír synir.[278] Dæturnar hétu Elísabet, Þorbjörg, Gróa og Guðríður en synirnir Bjarni, Jón og Þorsteinn.[279] Halldóra móðir þeirra stóð sem ekkja fyrir búi á Suðureyri í átta ár, frá 1784 til 1792, og bjó þá ýmist á móti sonum sínum, Jóni og Bjarna, eða ein á allri jörðinni.[280] Í sóknarmannatali frá árinu 1787 segir séra Þorsteinn Þórðarson á Stað að Halldóra sé stjórnsöm og vel skýr.[281] Hún var þá með ellefu manna heimili.[282] Síðast stóð Halldóra Jónsdóttir fyrir búi á Suðureyri fardagaárið 1791-1792. Hún bjó þá ein á allri jörðinni og var með 3 kýr, 34 sauðkindur og 1 hest.[283] Halldóra átti þá tvo báta og var annar þeirra sexæringur eða fjögra manna far en hinn var minni.[284] Er hér var komið sögu var húsfreyja þessi orðin 63ja ára gömul en svo virðist sem enn hafi verið í henni framkvæmdahugur því árið 1791 lét hún grafa 60 faðma langan áveituskurð hér á túninu eða á Suðureyrarengjum.[285]

Sá af sonum Bjarna Brynjólfssonar og Halldóru konu hans sem fyrstur hóf búskap á Suðureyri var Jón en hann bjó hér á móti móður sinni fardagaárið 1785-1786.[286] Vorið 1786 hvarf hann á braut en kom aftur sjö eða átta árum síðar og bjó hér í tvíbýli frá 1793 eða 1794 og allt til dauðadags en hann andaðist úr brjóstveiki 10. júlí 1802.[287]

Jón Bjarnason var fæddur árið 1758 eða því sem næst en eiginkona hans, Guðrún Magnúsdóttir, var sex eða sjö árum yngri.[288] Hún var dóttir Magnúsar Ólafssonar, bónda í Súðavík, en sá Magnús var sonur Ólafs, lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, Jónssonar.[289] Þrír synir og ein dóttir voru á heimili Jóns og Guðrúnar hér á Suðureyri árið 1801 og var elsta barnið fætt 1785 eða 1786.[290] Að manni sínum látnum fluttust Guðrún Magnúsdóttir og börn hennar til Súðavíkur, líklega vorið 1803.[291] Þar var hún búandi ekkja árið 1820[292] og átta árum síðar gekk hún í hjónaband í annað sinn.[293] Hún var þá 64 ára gömul eða því sem næst en brúðguminn 26 ára.[294] Sá lukkulegi var Bjarni Eiríksson, sonur séra Eiríks Vigfússonar, þáverandi prests á Stað í Súgandafirði, og konu hans, Ragnheiðar Halldórsdóttur.[295] Engin kynni hefur Guðrún þó haft af Bjarna á þeim árum sem hún átti heima í Súgandafirði því er hún fluttist burt frá Suðureyri, nær fertug ekkja, var þessi verðandi eiginmaður hennar enn í reifum hjá foreldrum sínum norður á Snæfjallaströnd, aðeins fárra mánaða gamall.

Þegar Jón Bjarnason hvarf frá búskap á Suðureyri um sinn vorið 1786 tók Bjarni bróðir hans við og bjó hér næstu tvö árin í tvíbýli á móti Halldóru móður þeirra.[296] Bjarni mun hafa verið lítið eitt eldri en Jón bróðir hans, fæddur 1755 eða því sem næst.[297]

Á árunum kringum 1780 hafði Bjarni hafið búskap á Laugum, hinni fornu hjáleigu í landi Suðureyrar, en Laugar höfðu þá verið í eyði í a.m.k. 140 ár.[298] Hér verður sagt nánar frá Bjarna Bjarnasyni þegar við stöldrum við á Laugum (sjá hér Laugar). Á Suðureyri bjó Bjarni aðeins í tvö ár en fluttist brott úr Súgandafirði ásamt fjölskyldu sinni vorið 1788 norður að Nesi í Grunnavík.[299]

Frá 1788 til 1792 var Halldóra Jónsdóttir, ekkja Bjarna Brynjólfssonar, eini bóndinn á Suðureyri.[300] Yngsti sonur hennar, Þorsteinn Bjarnason, sem fæddur var skömmu fyrir 1770, átti þá jafnan heima hjá móður sinni[301] og mun hún hafa stuðst við hann í búskapnum. Á þessum fjórum árum gengu þrjú af börnum Halldóru í hjónaband[302] en hin fjögur höfðu flest eða öll fest ráð sitt nokkru fyrr[303] (sbr. hér bls. 29 og Laugar). Gróa Bjarnadóttir á Suðureyri giftist Gunnlaugi Jónssyni á Laugabóli sumarið 1788 og Guðríður systir hennar giftist Jóhannesi Bjarnasyni á Snæfjöllum einu ári síðar.[304] Þann 13. júní 1790 var svo fastnað með Þorsteini Bjarnasyni á Suðureyri og Guðrúnu Þorvarðsdóttur frá Kerlingarstöðum í Grunnavík en trúlofun þeirra hafði verið gerð opinber norður í Grunnavík 24. maí þá um vorið.[305] Mjög líklegt verður að telja að Bjarni Bjarnason, sem flust hafði frá Suðureyri norður í Grunnavík vorið 1788, hafi haft milligöngu um að tryggja Þorsteini bróður sínum þetta kvonfang og við hjónavígslu Þorsteins og Guðrúnar var Bjarni svaramaður bróður síns.[306]

Þau Þorsteinn Bjarnason og Guðrún Þorvarðsdóttir voru mjög ung er þau gengu í hjónaband sumarið 1790, hann 21 árs en hún 20 ára.[307] Fyrstu hjúskaparárin voru þau búsett á Suðureyri, hjá móður Þorsteins, og vorið 1792 tók Þorsteinn við öllum búsforráðum úr höndum sinnar gömlu móður og fékk þá alla Suðureyri til ábúðar.[308] Búskaparár hans hér urðu hins vegar ekki nema eitt eða tvö[309] og árið 1801 bjuggu þau Þorsteinn og Guðrún kona hans norður á Hesteyri í Jökulfjörðum.[310] Halldóra Jónsdóttir, móðir Þorsteins, fylgdi syni sínum þangað norður og var enn á lífi á Hesteyri árið 1801, þá talin 74 ára gömul.[311]

Eins og fyrr var nefnt settist Jón Bjarnason, bróðir Þorsteins, að búi á Suðureyri í annað sinn þegar Þorsteinn vék burt og bjó síðan á jörðinni til æviloka en hann andaðist sumarið 1802 (sjá hér bls. 29). Að Jóni látnum voru börn hans eina fólkið úr niðjahópi Bjarna Brynjólfssonar á Suðureyri sem eftir var í Súgandafirði en þau hurfu líka á braut vorið 1803 og fluttust þá með móður sinni til Súðavíkur (sjá hér bls. 29-30). Allmargir niðjar Bjarna settust hins vegar að í Súgandafirði síðar og urðu sumir kynsælir. Munaði þar mest um dótturbörn Elísabetar Bjarnadóttur en hún var elsta dóttir Bjarna Brynjólfssonar og giftist árið 1784 Guðmundi Guðmundssyni er síðar bjó lengi á Hóli á Hvilftarströnd í Önundarfirði.[312] Ein dætra Elísabetar og Guðmundar var Halldóra er giftist Guðmundi Pálssyni og bjuggu þau líka á Hóli[313] en fimm af börnum þeirra fluttust til Súgandafjarðar, þau Arnfríður, Jóhanna, Helga, Elísabet og Guðmundur (sjá hér Fremri-Vatnadalur, Bær, Staður og Hvilft).

Á hinum síðari búskaparárum Jóns Bjarnasonar á Suðureyri, árunum 1794-1802, bjó hann hér jafnan í tvíbýli.[314] Frá 1794 og fram undir lok aldarinnar höfðu hjónin Björn Jónsson og Margrét Jónsdóttir einhvern part úr jörðinni til ábúðar.[315] Í heimild frá árinu 1795 er Björn sagður 40 ára gamall en Margrét kona hans 31 árs.[316] Sex árum síðar voru þau komin í húsmennsku á Kvíanesi og þá er Björn sagður vera holdsveikur og lifa á ölmusu frá hreppnum.[317] Sonur þeirra, Jón Björnsson, var hjá þeim á Kvíanesi, sagður 10 ára gamall árið 1801.[318] Árið 1816 var ekkjan Margrét Jónsdóttir húskona í Ytri-Vatnadal, sögð fædd í Súgandafirði.[319] Hún var þá 52ja ára gömul og má ætla að kona þessi sé sú Margrét sem áður var gift Birni holdsveika og var húsfreyja á Suðureyri á síðustu árum 18. aldar.

Við brottför Björns og Margrétar frá Suðureyri árið 1799 eða 1800 tóku hjónin Guðmundur Ólafsson og Þuríður Pálsdóttir við jarðarpartinum sem þau höfðu búið á.[320] Þau Guðmundur og Þuríður höfðu áður búið alllengi á Kvíanesi.[321] Hér á Suðureyri voru þau aðeins í nokkur ár en fluttust að Eyri í Önundarfirði vorið 1809 (sjá hér Eyri). Sex árum síðar fór Guðmundur að búa í Neðri-Breiðadal og hefur hans áður verið getið á þessum blöðum (sjá hér Neðri-Breiðadalur og Eyri) og frá Þuríði konu hans mun einnig verða sagt lítið eitt nánar þegar staldrað verður við á Kvíanesi (sjá hér Kvíanes).

Guðmundur Ólafsson mun hafa verið talinn til hinna betri bænda og var hreppstjóri um skeið á þeim árum sem hann bjó hér á Suðureyri.[322] Í marsmánuði árið 1804 lætur séra Þorlákur Jónsson á Stað þess getið að leiguliðinn Guðmundur Ólafsson á Suðureyri sé sérdeilis skýr og vel að sér og einnig forstöndugur.[323] Um börn Guðmundar og Þuríðar er getið hér á öðrum stað en eitt þeirra var Finnur, síðar bóndi á Hvilft í Önundarfirði, og hafa niðjar hans búið á þeirri jörð nær óslitið til þessa daga.

Fyrstu árin á Suðureyri bjó Guðmundur Ólafsson í tvíbýli á móti Jóni Bjarnasyni sem hér var áður frá sagt, en þegar Jón andaðist og ekkja hans fluttist burt fengu hjónin Jón Þorleifsson og Hallbera Bjarnadóttir part úr jörðinni til ábúðar og bjuggu hér á móti Guðmundi Ólafssyni fardagaárið 1803-1804.[324] Hjón þessi, sem komu úr Önundarfirði, voru orðin roskin árið 1803 en Hallbera var tengdamóðir Bergs Jónssonar, bónda í Staðarhúsum ytri hér í Súgandafirði, og andaðist þar hjá dóttur sinni árið 1820 (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar).

Kristján G. Þorvaldsson, sem ritað hefur Sögu Suðureyrar, taldi að Jón sá Þorleifsson, er hér var nefndur, hefði verið faðir Markúsar Jónssonar sem fór að búa á Suðureyri vorið 1804[325] en það er misskilningur. Jón Þorleifsson, faðir Markúsar, var árið 1801 kominn norður í Grunnavík (sjá hér Norðureyri) og mun ekki hafa flust aftur til Súgandafjarðar.[326]

Markús Jónsson, áður bóndi í Botni, hóf búskap á Suðureyri vorið 1804 og tók við af Jóni Þorleifssyni.[327] Markús og kona hans, Guðrún Hallsdóttir, voru hér enn við búskap er Sigríður dóttir þeirra fæddist í júlímánuði árið 1808[328] en viku héðan vorið 1809 eða 1810 og hófu þá búskap í Keflavík.[329] Þar bjuggu þau lengi og er frá þeim sagt annars staðar í riti þessu (sjá hér Botn og Keflavík).

Þeir Guðmundur Ólafsson og Markús Jónsson, sem voru sambýlismenn hér á Suðureyri í fáein ár á fyrsta áratug nítjándu aldar, voru báðir leiguliðar (sjá hér bls. 21-23). Báðir viku þeir burt þegar Örnólfur Snæbjörnsson fór að búa á jörðinni en hann keypti hálfa Suðureyri árið 1807 (sjá hér bls. 22) og fluttist hingað frá Bolungavík mjög skömmu síðar. Með vissu er vitað að vorið 1810 var hann kominn að Suðureyri og bjó þá einn á allri jörðinni.[330] Svo var jafnan næstu fimmtán árin.[331]

Örnólfur Snæbjörnsson var fæddur í Ögursveit[332] á árunum kringum 1765.[333] Faðir hans var Snæbjörn Kolbeinsson, sonur Kolbeins á Ósi í Bolungavík Snæbjörnssonar.[334] Móðir Örnólfs hét Valdís[335] en um föðurnafn hennar er ekki kunnugt. Árið 1703 var Kolbeinn, afi Örnólfs, 14 ára gamall hjá foreldrum sínum, Etilríði Bárðardóttur og Snæbirni Kolbeinssyni á Meiri-Bakka í Skálavík ytri við Djúp[336] en sá Snæbjörn er sagður hafa verið sonur Hákarla-Kolbeins á Sandeyri á Snæfjallaströnd.[337]

Óljóst er hvar Örnólfur Snæbjörnsson ólst upp en árið 1801 var hann kominn í hjónaband og orðinn bóndi í Eyrardal í Álftafirði.[338] Eiginkona Örnólfs hét Elín Illugadóttir og er hún sögð 23ja ára gömul í manntalinu frá 1. febrúar 1801, tólf árum yngri en Örnólfur.[339] Elín mun hafa fæðst í Eyrardal[340] og þar bjuggu foreldrar hennar enn árið 1801 í tvíbýli á móti dóttur sinni og tengdasyni.[341] Þau hétu Illugi Jónsson og Guðrún Guðmundsdóttir.[342]

Frá Eyrardal fluttist Örnólfur ásamt fjölskyldu sinni í Bolungavík og var þar í nokkur ár.[343] Um 1805 bjuggu Örnólfur og Elín kona hans í Árbæ í Bolungavík því þar fæddist Árni sonur þeirra sem sagður er 26 ára gamall í sóknarmannatali frá árinu 1832[344] en 11 ára í marsmánuði árið 1817.[345] Fardagaárið 1806-1807 bjuggu þau hins vegar á Ósi í Bolungavík[346] og eitthvað munu þau hafa verið á Búðum (Ytri-Búðum eða Heimari-Búðum) þar í Víkinni.[347]

Úr Bolungavík fluttist Örnólfur ásamt fjölskyldu sinni í Súgandafjörð á árunum 1807-1810 og hóf þá þegar búskap hér á Suðureyri eins og fyrr var nefnt. Þegar Örnólfur kom í Súgandafjörð var hann kominn nokkuð á fimmtugsaldur og mun áður, ef að líkum lætur, hafa sótt sjó frá Bolungavík í fullan aldarfjórðung. Nær fullvíst má telja að Örnólfur hafi verið vertíðarformaður í Bolungavík og róðra stundaði hann af kappi frá Suðureyri.[348] Þegar mannskaðinn mikli varð í Önundarfirði 6. maí 1812 og sjö bátar þaðan fórust með allri áhöfn (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) var Örnólfur á sjó og er sagt að hann hafi hleypt til Dýrafjarðar.[349] Enginn annar formaður úr Súgandafirði mun hafa róið þann dag.[350]

Örnólfur Snæbjörnsson á Suðureyri var nefndur Örnólfur ríki, [351] enda var hann mun efnaðri en almennt var um bændur á fyrsta fjórðungi nítjándu aldar. Til marks um að svo hafi verið má nefna kaup hans á ýmsum jarðeignum í Ísafjarðarsýslu. Árið 1806 keypti hann 7 hundruð í jörðinni Súðavík í Álftafirði og greiddi fyrir þau 126 ríkisdali.[352] Ári síðar  keypti hann 10 hundruð í Suðureyri og greiddi þá m.a. með þessum 7 hundruðum sem hann átti í Súðavík (sjá hér bls. 22). Þetta var hálf Suðureyri en hinn helminginn af þessari ábýlisjörð sinni eignaðist hann aldrei (sjá hér bls. 22-23).

Árið 1814 keypti Örnólfur 12 hundruð í jörðinni Botni í Súgandafirði,[353] það er hálfa jörðina. Fyrir þessa jarðeign borgaði hann 96 spesíur og svo 114 ríkisdali í smápeningum.[354] Árið 1820 keypti hann jörðina Múla í Ísafirði, 24 hundruð, og sama ár 8 hundruð í jörðinni Tannanesi í Önundarfirði og virðist hafa borgað þetta allt með peningum.[355]

Enginn veit nú með vissu hvernig Örnólfur náði að efnast en flest bendir til að harðsækni hans í hákarlalegum og við aðra sjóróðra og kunnátta í þeirri list að gæta fengins fjár hafi fært honum allt þetta jarðagóss upp í hendur.

Á Suðureyri bjó Örnólfur jafnan á allri jörðinni[356] sem þá taldist vera 20 hundruð því hin gamla hjáleiga, Laugar, var orðin að sjálfstæðri bújörð (sjá hér bls. 1 og 30). Fardagaárið 1810-1811 var Örnólfur með 11 manna heimili á Suðureyri[357] og þá voru hjá honum tengdaforeldrar hans, þau Illugi Jónsson og Guðrún Guðmundsdóttir.[358] Tíu árum síðar var tala heimilisfólksins komin upp í sautján og þá voru sex vinnufærir karlmenn á býli Örnólfs.[359] Fardagaárið 1821-1822 bjó Önrólfur á Suðureyri með 5 kýr, 34 ær, 10 sauði og hrúta, 10 gemlinga og 2 hesta.[360] Hann átti þá hálfan áttæring á móti öðrum manni og var meðeigandinn búsettur utan Súgandafjarðar.[361] Auk þess átti Örnólfur einn sexæring eða fjögra manna far og einn minni bát.[362]

Örnólfur og kona hans, Elín Illugadóttir, eignuðust a.m.k. sex börn.[363] Guðrún, Valdís og Árni komu með foreldrum sínum úr Bolungavík í Súgandafjörð en Helga, Illugi og Hólmfríður fæddust hér.[364] Í sóknarmannatali frá árinu 1818 segir séra Eiríkur Vigfússon að Örnólfur á Suðureyri sé hægferðugur, – ekki ógreindur í andlegu og vel að sér.[365] Líklegt er að bóndi þessi hafi þó verið meira gefinn fyrir sjósókn en andlegar menntir.

Örnólfur Snæbjörnsson andaðist 22. september 1825[366] og var þá rétt um sextugt. Fáum vikum síðar voru eignir dánarbúsins skrifaðar upp og þær virtar, að frádregnum skuldum, á 3.048 ríkisdali og 32 skildinga[367] sem var mikið fé og svaraði til um það bil 144 kúgilda samkvæmt opinberri verðlagsskrá frá árinu 1826.[368] Jarðeignir Örnólfs á dánardegi voru þessar:

 

 1. Múli í Ísafirði, 24 hundruð virt á    671  ríkisdal.
 2. 16 hundruð úr Tannanesi í Önundarfirði –      384  ríkisdali.
 3. 12 hundruð úr Botni í Súgandafirði –      336  ríkisdali
 4. 10 hundruð úr Suðureyri í Súgandafirði –      260  ríkisdali
 5. Kleifar í Skötufirði, 6 hundruð –      156  ríkisdali.[369]

 

Til samans voru allar þessar jarðeignir Örnólfs virtar á 1.807 ríkisdali og nam sú fjárhæð tæplega 60% af heildarverðmæti alls dánarbúsins. Af öðrum eignum ber fyrst að nefna búpening, sem var virtur á 385 ríkisdali, og svo bátana sem ásamt veiðarfærum voru virtir á 258 ríkisdali.[370] Hús af ýmsu tagi voru virt á liðlega 107 ríkisdali, átta tunnur af hákarlslifur voru virtar á 40 ríkisdali og inneignir Örnólfs í verslunum námu liðlega 87 ríkisdölum.[371] Verðmæti ýmissa annarra eigna var svo metið á um það bil 400 ríkisdali alls.[372] Búpeningur Örnólfs var 4 nautgripir, 1 hross, 68 sauðkindur, veturgamlar og eldri, og 33 lömb.[373] Uppskrift dánarbúsins sýnir að einn og sér átti Örnólfur tvo báta, sexæring, sem með veiðarfærum og öllum búnaði var virtur á 100 ríkisdali, og svo tveggja manna far sem talið var 28 ríkisdala virði.[374] Auk þess átti hann tvo áttæringa að hálfu á móti öðrum.[375]

Húsin sem Örnólfur átti voru nokkuð mörg. Þar er fyrst að nefna baðstofuna sem með baðstofuloftinu og rúmum bæði uppi og niðri var virt á 18 ríkisdali.[376] Þrjár hlöður voru allar til samans virtar á 23 ríkisdali, skemman á 17 ríkisdali, grjóthús með jötustokkum á 8 ríkisdali, hjallur á 8 ríkisdali og smiðja á 1 ríkisdal og 64 skildinga.[377] Verbúðirnar sem Örnólfur átti voru þrjár en hver búð var virt á 8 ríkisdali.[378] Fullvíst má telja að allar þessar búðir hafi verið á Suðureyrarmölum. Í uppskrift dánarbúsins kemur fram að ysta verbúðin var kölluð Jónsbúð[379] og kynni að hafa verið kennd við Jón Bjarnason sem var bóndi á Suðureyri frá 1785-1786 og frá 1794-1802 (sjá hér bls. 29-31). Önnur verbúð, sem Örnólfur átti, er í uppskriftinni nefnd 5 manna fars búð.[380] Út á Mölunum átti Örnólfur líka naust sem var virt á 10 ríkisdali.[381]

Hér hefur nú verið getið um flest húsin sem Örnólfur á Suðureyri átti við ævilok en enn hefur þó ekki verið minnst á selhús sem svo er kallað í hinni opinberu uppskrift á eignum dánarbúsins.[382] Selhúsið var virt á 1 ríkisdal og 48 skildinga[383] og hefur því verið talið litlu verðminna en smiðjan sem fyrr var nefnd. Fullvíst má telja að hús þetta hafi staðið á Selinu sem svo heitir, tæplega þremur kílómetrum fyrir innan Suðureyri, enda settist fólk þar að sama vor og gengið var frá skiptum dánarbúsins (sjá hér bls. 184 og Laugar). Með vísan til þess sem hér er sagt á öðrum stað um lok seljabúskapar í Súgandafirði (sjá hér bls. 184) verður að telja fremur ólíklegt að hús hafi hangið uppi á Selinu frá þeim tíma að ær voru mjaltaðar þar í kvíum. Slíkt er þó engan veginn útilokað sé ráð fyrir því gert að Suðureyrarbændur hafi haft búsmala sinn í seli að sumarlagi allt fram undir lok 18. aldar. Ef til vill mætti þó líka hugsa sér að þetta hafi verið beitarhús en nefnt selhús af því það stóð á Selinu.

Hér verður ekki fjallað nánar um eignir Örnólfs ríka á Suðureyri en þess má að lokum geta að við andlát sitt átti hann inni peninga hjá þremur verslunum, 42 ríkisdali og 68 skildinga í Miðkaupstað á Ísafirði, 17 ríkisdali og 52 skildinga í Neðstakaupstað á Ísafirði og 28 ríkisdali og 74 skildinga hjá versluninni á Flateyri.[384] Skiptum lauk 18. maí 1826.[385]

Helming allra eigna dánarbúsins erfði ekkja Örnólfs, Elín Illugadóttir, og auk þess fékk hún í sinn hlut bróðurlóð, það er að segja upphæð sem svaraði til þess er synirnir tveir fengu hvor um sig að erfðum en það voru 302 ríkisdalir og 28 skildingar.[386] Dætur Örnólfs og Elínar, sem voru fjórar, fengu hins vegar hver um sig helmingi lægri upphæð í arf, það er 151 ríkisdal og 14 skildinga.[387] Sú fjárhæð var nefnd systurlóð. Af jarðeignunum fékk Elín 39 hundruð í sinn hlut, þar á meðal hálflenduna sem þau höfðu átt hér á Suðureyri og Múla í Ísafirði sem var 24 hundraða jörð.[388] Elín fékk líka tvær af verbúðunum og flest húsin.[389] Ein dætranna, Valdís Örnólfsdóttir, sem þá þegar var gift Þorleifi Þorkelssyni er fór að búa á Suðureyri sama vor og skiptin fóru fram, fékk þó baðstofuloftið og eina af verbúðunum þremur.[390]

Hér var áður frá því greint að niðjar Örnólfs Snæbjörnssonar eða fólk nátengt þeim hefði jafnan setið að búi á Suðureyri allt frá andláti hans og þar til þeir sem hér áttu heima hættu að hafa landbúnað að aðalstarfi en þá var tuttugasta öldin gengin í garð fyrir nokkru síðan.

Fyrst ber hér að nefna Elínu Illugadóttur, ekkju Örnólfs, sem stóð fyrir búi á Suðureyri allt til dauðadags, en hún andaðist 30. maí 1840.[391] Elín bjó þó aldrei ein á allri jörðinni því vorið 1826 byggði hún dóttur sinni og tengdasyni, þeim Þorleifi Þorkelssyni og Valdísi Örnólfsdóttur, hálfa jörðina.[392] Sjálf fékk hún sér ráðsmann árið 1828, Þórarinn Einarsson frá Selárdal í Súgandafirði, og gengu þau í hjónaband haustið 1829.[393]

Um Elínu Illugadóttur segir séra Eiríkur Vigfússon á Stað árið 1826 að hún sé siðsöm og vel að sér en sama ár og hún giftist Þórarni lætur prestur þess getið að hún sé alvörugefin.[394] Þá var hún rétt um fimmtugt og með 15 manna heimili.[395]

Við skipti á dánarbúi Elínar sumarið 1840 voru skuldlausar eignir hennar virtar á 1.638 ríkisdali og 72 skildinga[396] en sú upphæð svaraði þá til liðlega 57 kúgilda.[397] Einn þriðja hluta þessara eigna erfði Þórarinn, samkvæmt sérstöku samkomulagi, en börn hennar af fyrra hjónabandi tvo þriðju hluta.[398] Við andlát Elínar áttu þau Þórarinn 17 hundruð í ábýlisjörð sinni, Suðureyri, en aðrar jarðeignir voru Múli í Ísafirði, 24 hundruð, og svo þrjú og hálft hundrað úr jörðinni Botn í Súgandafirði.[399]

Þórarinn Einarsson, seinni maður Elínar, var sonur hjónanna Einars Magnússonar og Guðrúnar Pálsdóttur sem bjuggu lengi í Selárdal hér í Súgandafirði.[400] Hann var 32ja ára gamall er hann kvæntist Elínu, fæddur 25. apríl 1797.[401] Hjónavígslan fór fram 7. september 1829 og sama dag gekk Gissur Einarsson, bróðir Þórarins, að eiga Guðrúnu Ólafsdóttur úr Dýrafirði.[402] Munu þeir bræður hafa haldið sameiginlega brúðkaupsveislu og flestir bændur sveitarinnar setið þar að boði.[403] Morgungjöf Þórarins til konu sinnar var 40 spesíur, það er 80 ríkisdalir, en Gissur gaf 30 spesíur.[404]

Þórarinn Einarsson var bóndi á Suðureyri í 18 ár, frá 1829 til 1847, og síðan húsmaður hér til dauðadags en hann andaðist vorið 1861.[405] Í manntalinu frá 1860 er tekið fram að húsmaður þessi lifi á eignum sínum.[406] Að konu sinni, Elínu Illugadóttur, látinni var Þórarinn oftast með ráðskonu sér við hönd.[407] Urðu þær margar áður en lauk en engin entist lengi.[408] Á árunum 1846-1849 var Þórarinn hreppstjóri í Suðureyrarhreppi.[409]

Nær öll sín búskaparár bjó Þórarinn Einarsson hér í tvíbýli á móti Þorleifi Þorkelssyni sem var tengdasonur Elínar, konu Þórarins. Fyrstu árin var Þórarinn með mun stærra bú en Þorleifur og má sem dæmi nefna að árið 1830 var hann með 4 nautgripi og 71 sauðkind, að lömbum frátöldum, en Þorleifur með 2 nautgripi og 16 sauðkindur.[410] Þórarinn átti þá líka þrjá báta og var einn þeirra áttæringur en Þorleifur átti bara hálfan áttæring og engan annan bát.[411]

Árið 1836 virðist Þórarinn hafa orðið að minnka við sig í búskapnum því þá fluttist Árni Örnólfsson, stjúpsonur hans, að Suðureyri (sjá hér Fremri-Vatnadalur) og fékk part úr jörðinni til ábúðar svo hér var þríbýli í fáein ár. Fardagaárið 1837-1838 bjó Þorleifur Þorkelsson á hálfri jörðinni, Þórarinn á einum fjórða parti og Árni á öðrum fjórða parti.[412] Sá síðastnefndi staldraði hins vegar stutt við og fluttist frá Suðureyri inn í  Botn vorið 1840 ef marka má búnaðarskýrslu en 1841 samkvæmt embættisbókum sóknarprestsins[413] (sbr. hér Fremri-Vatnadalur). Þeir Þórarinn og Þorleifur bjuggu þá hér á sinni hálflendunni hvor en sú breyting var á orðin að þetta vor var bú Þorleifs heldur stærra en bú Þórarins.[414] Áttæringinn, þann eina sem til var á Suðureyri, áttu þeir þá saman og líka annan bát sem var aðeins tveggja eða þriggja manna far.[415] Þessir tveir misstóru bátar voru þá hinir einu sem hér voru til ef marka má búnaðarskýrsluna.[416]

Þorleifur Þorkelsson, sem hóf búskap á Suðureyri vorið 1826, var fæddur á Norðureyri 29. september 1795, sonur hjónanna Þorkels Jónssonar og Kristínar Bergsdóttur er þar bjuggu.[417] Hann missti ungur föður sinn, sem drukknaði með Jóni Bjarnasyni á Gelti árið 1800 (sjá hér Göltur), en ólst upp hjá móður sinni á Norðureyri.[418] Faðir Þorleifs Þorkelssonar var síðari eiginmaður Kristínar móður hans en áður hafði hún verið gift Jóni Hákonarsyni á Gelti (sjá hér Göltur). Þeirra synir og hálfbræður Þorleifs voru Bergur Jónsson, sem bjó lengi í Staðarhúsum, hjáleigu frá Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður), og Jón Jónsson sem enn var ókvæntur á Norðureyri, 35 ára gamall, árið 1816.[419] Þorleifur var þá um tvítugt og átti líka enn heima á Norðureyri hjá móður þeirra bræðra.[420] Skömmu síðar fór hann að draga sig eftir Valdísi, dóttur Örnólfs ríka á Suðureyri, en hún var þá að sögn talin besti kvenkostur í sveitinni.[421]

Vorið 1820 gerðist Þorleifur vinnumaður á Suðureyri.[422] Skömmu fyrr eða um svipað leyti náði hann að gera Valdísi barn en hún var þá enn innan við tvítugt.[423] Þetta fyrirmálsbarn þeirra, sem fæddist 1820 eða snemma á árinu 1821, var drengur og gáfu þau honum nafnið Sigfús.[424] Í marsmánuði árið 1821 segir prestur Þorleif vera vinnumann hjá foreldrum Valdísar á Suðureyri og tekur fram í húsvitjanabókinni að barnið Sigfús sé sonur hans en þar sést hins vegar ekki hver móðirin var.[425] Valdís var þó líka á heimili foreldra sinna og segir prestur hana vera 20 ára gamla og sæmilega kunnandi barnalærdóminn.[426] Þessi skrif prestsins færa okkur vísbendingu um að foreldrar stúlkunnar hafi átt erfitt með að fyrirgefa henni lausaleiksbrotið og viðurkenna Þorleif sem verðandi tengdason, enda munu efni hans hafa verið lítil, borið saman við eignir Örnólfs ríka á Suðureyri.[427]

Þau Valdís og Þorleifur náðu þó að sigrast á þessum mótbyr og 14. október 1821 voru þau gefin saman í hjónaband.[428] Næstu ár voru ungu hjónin í vinnumennsku hjá foreldrum Valdísar hér á Suðureyri[429] en eins og fyrr var getið andaðist faðir hennar haustið 1825. Vorið 1826 fékk Þorleifur part úr jörðinni til ábúðar og var hann bóndi á Suðureyri í 20 ár, frá 1826 til 1846.[430] Fyrstu árin sem Þorleifur bjó var bú hans lítið eins og hér hefur áður verið nefnt og mun minna en bú Þórarins Einarssonar sem lengi var sambýlismaður hans á Suðureyri (sjá hér bls. 38). Árið 1840 var Þorleifur búinn að koma undir sig fótunum en fjöldi nautgripa og sauðkinda á búi hans var þó litlu meiri en í meðallagi.[431] Hann bjó þá með 2 kýr, 12 ær, 2 hrúta eða sauði og 4 gemlinga.[432] Auk þess áttu þeir Þorleifur og Þórarinn, sambýlismaður hans, eina kvígu saman og svo átti Þorleifur 16 lömb, fleiri en nokkur annar bóndi í Súgandafirði ef marka má búnaðarskýrsluna.[433] Lambafjöldinn bendir til þess að um þetta leyti hafi hann verið að fjölga fénu. Frá bátaeign bændanna á Suðureyri árið 1840 hefur áður verið sagt.

Þorleifur Þorkelsson er sagður hafa verið orðlagður kapps- og dugnaðarmaður, bæði á sjó og landi og hreppstjóri Súgfirðinga var hann í átta ár, frá 1838 til 1846.[434] Til marks um kapp hans og dugnað voru lengi sagðar ýmsar sögur.[435] Líklegt er að Þorleifur hafi snemma orðið formaður í fiskiróðrum frá Suðureyri, máske áður en hann fór að búa, og jafnan mun hann hafa lagt kapp á að fiska ekki minna en aðrir.[436] Að sögn kom hann eitt sinn að landi með aðeins 17 fiska en þegar búið var að setja bátinn hljóp hann þegar í stað út í Stöð, þangað sem Bæjarmenn höfðu uppsátur, um tveggja kílómetra leið, og sagði er hann kom til baka: Jæja piltar, minna var hjá Magnúsi.[437] Var hann þá hinn kátasti[438] en Magnús sá, sem þarna kemur við sögu, er Magnús Guðmundsson, bóndi í Bæ.

Önnur saga um kapp Þorleifs er á þessa leið:

 

Slægjur voru jafnan of litlar á Suðureyri þegar þar var tvíbýli. Heyjaði Þorleifur því inni í Botni og flutti heyið sjóveg út eftir. Einhverju sinni er hann var að flytja hey innan úr Botni var innvindur svo hvass að hann dró ekki en lið ekki annað við heyflutninginn en hann og kona hans, sem að vísu var forkur dugleg. Tók Þorleifur þá það til bragðs að hann batt línu í festi bátsins og óð síðan með landi fram og dró bátinn en lét konu sína róa á landborða.[439]

 

Valdís Örnólfsdóttir, eiginkona Þorleifs, andaðist 5. september 1842 og hafði fimm dögum áður alið tvíbura.[440] Sjö af börnum þessara hjóna náðu að vaxa úr grasi. Þau voru:

 

 1. Sigfús, fæddur 1820 eða 1821. Hann kvæntist Þorbjörgu Hjaltadóttur, systur séra Andrésar Hjaltasonar á Stað, og varð bóndi á Skálmarnesmúla í Múlasveit við norðanverðan Breiðafjörð.[441]
 2. Sigurður, fæddur 1822. Hann varð bóndi á Laugum í Súgandafirði og víðar (sjá hér Laugar).
 3. Kristín, fædd 1823, giftist Guðmundi Guðmundssyni og varð húsfreyja á Suðureyri (sjá hér bls. 42-47).
 4. Guðfinna, fædd 1831 eða 1832, giftist fyrst Albert Jónssyni og varð húsfreyja á Gilsbrekku, síðar Sigurði Jónssyni og bjuggu þau einnig á Gilsbrekku (sjá hér Gilsbrekka).
 5. Örnólfur, fæddur 1834, kvæntist Margréti Jónsdóttur frá Stakkanesi við Skutulsfjörð og varð skútuskipstjóri á Ísafirði.[442]
 6. Valdís, fædd 1842, giftist fyrst Gunnari Jónssyni en síðar Einari Hákonarsyni.[443] Hún var um skeið húsfreyja á Birnustöðum í Dýrafirði[444] en dvaldist roskin alllengi á Norðureyri í Súgandafirði (sjá hér Norðureyri).
 7. Þorlaug, fædd 1842. Þær Valdís voru tvíburar. Hún giftist Sigurðu Jónssyni á Gilsbrekku sem áður var kvæntur Guðfinnu systur hennar (sjá hér Gilsbrekka).

 

Sumarið 1844 var bú hjónanna Þorleifs og Valdísar tekið til skipta[445] en þá voru liðin tæplega tvö ár frá andláti hennar. Búið var virt á 558 ríkisdali og 60 skildinga en að skuldum og kostnaði frádregnum á 485 ríkisdali og 60 skildinga.[446] Hið opinbera kýrverð var þá liðlega 25 ríkisdalir[447] svo ætla má að unnt hefði verið að kaupa 19 kýr fyrir þá fjármuni sem komu til skipta. Skiptagerðin sýnir að Þorleifur og Valdís, kona hans, höfðu verið bjargálna en alls ekki rík.

Við andlát Valdísar áttu þau 10 hundruð í jarðeignum, það er að segja 4 hundruð í Suðureyri, 3 hundruð í Norðureyri og 3 hundruð í Kvíanesi.[448] Samtals voru jarðeignir þessar virtar á 254 ríkisdali.[449] Af öðrum eignum er helst að nefna hálfan áttæring með öllu tilheyrandi en sá skipspartur var virtur á 50 ríkisdali.[450] Áttæringinn mun Þorleifur hafa átt á móti Þórarni Einarssyni, sambýlismanni sínum á Suðureyri (sjá hér bls. 38-39). Árið 1842 átti Þorleifur líka að hálfu annan minni bát sem var lasinn og forn og eignarhluturinn í honum aðeins virtur á fjóra ríkisdali.[451]

Vorið 1846 brá ekkillinn Þorleifur búi á Suðureyri og gerðist ráðsmaður á Fjallaskaga í Dýrafirði hjá ekkjunni Þorlaugu Guðbrandsdóttur[452] (sbr. hér Fjallaskagi). Árið 1860 var Þorleifur enn á Fjallaskaga[453] en um 1870 kom hann aftur til Súgandafjarðar og settist að hjá Kristínu dóttur sinni sem þá var búandi ekkja á Suðureyri.[454] Þorleifur var þá á áttræðisaldri en átti samt mörg ár ólifuð því hann náði að komast á tíræðisaldur, fæddist haustið 1795 en dó 25. janúar 1887,[455] og hélt óskertum sálarkröftum til síðustu stundar.[456] Síðustu sautján árin sem Þorleifur lifði var hann jafnan á Suðureyri og frá 1875 á heimili hjónanna Kristjáns Albertssonar og Kristínar Guðmundsdóttur, sem bæði voru dótturbörn hans, og að Kristínu andaðri áfram hjá Kristjáni Albertssyni, allt til dauðadags.[457]

Þegar Þorleifur Þorkelsson fluttist vestur á Fjallaskaga vorið 1846 voru tæplega tvö ár liðin frá því elsta dóttir hans, Kristín Þorleifsdóttir, giftist ungum manni úr Önundarfirði sem hét Guðmundur Guðmundsson.[458] Fardagaárið 1846-1847 var Þórarinn Einarsson eini bóndinn á Suðureyri en vorið 1847 fór hann í húsmennsku og tóku þá ungu hjónin, sem hér voru síðast nefnd, við og bjuggu frá upphafi á allri jörðinni.[459] Þau Guðmundur og Kristín bjuggu á Suðureyri í 20 ár, frá 1847 til 1867, og Kristín áfram að Guðmundi látnum í átta ár, frá 1867 til 1875.[460] Fyrstu sextán árin höfðu þau alla jörðina til ábúðar en frá 1863 var hér tvíbýli.[461]

Ekki er alveg víst hvenær Guðmundur Guðmundsson, sem hér er frá sagt, fæddist. Við fermingu vorið 1831 er hann sagður fæddur 15. janúar 1816[462] en í manntalinu frá 1. desember 1816 er ekkert ungbarn að finna hjá foreldrum hans sem þá áttu heima í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði.[463] Í því manntali finnst enginn svo ungur Guðmundur Guðmundsson í Holtsprestakalli og ekki heldur óskírður drengur[464] en hjá prestinum fórst fyrir að skrá fæðingu Guðmundar.[465] Vel má vera að rétt sé greint frá aldri Guðmundar við fermingu hans en með vísun til þess að nafn hans er hvergi að finna í manntalinu frá 1. desember 1816 má þó telja að minnsta kosti eins líklegt að hann hafi í raun verið einu ári yngri, fæddur 15. janúar 1817, og hefði þá verið 14 ára þegar hann var tekinn í kristinna manna tölu.

Foreldrar Guðmundar Guðmundssonar voru Guðmundur Ólafsson, bóndi í Neðri-Breiðadal, og seinni kona hans, Herdís Árnadóttir.[466] Guðmundur Ólafsson hafði áður búið alllengi í Súgandafirði, bæði á Kvíanesi og hér á Suðureyri, en fyrri eiginkona hans var Þuríður Pálsdóttir frá Kvíanesi (sjá hér bls. 32 og Neðri-Breiðadalur). Herdís Árnadóttir, móðir Guðmundar Guðmundssonar á Suðureyri, var hins vegar frá Dalshúsum í Valþjófsdal, dóttir Árna Bárðarsonar sem þar bjó og konu hans, Margrétar Björnsdóttur, en Árni var sonur Bárðar Illugasonar í Arnardal, ættföður Arnardalsættar.[467] Herdís giftist Guðmundi Ólafssyni reyndar ekki fyrr en haustið 1817[468] en þá mun Guðmundur sonur þeirra hafa verið orðinn a.m.k. nokkurra mánaða gamall. Þegar hjónavígslan fór fram var Herdís 31 árs en brúðguminn 66 ára.[469]

Guðmundur Guðmundsson missti föður sinn árið 1829 en móðir hans bjó áfram í allmörg ár á jarðarparti í Neðri-Breiðadal (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Guðmundur mun þó hafa alist upp að meira eða minna leyti hjá hálfbróður sínum, Finni Guðmundssyni á Hvilft. Þar var hann 1829[470] og við ferminguna árið 1831.[471] Til Súgandafjarðar fluttist hann árið 1834 og var í allmörg ár vinnumaður á Kvíanesi en síðan í Bæ.[472] Guðmundur kvæntist Kristínu Þorleifsdóttur frá Suðureyri, sem var nokkrum árum yngri en hann, þann 29. september 1844.[473] Þau voru þá húsfólk í Bæ.[474] Fardagaárið 1845-1846 voru þau þar enn í húsmennsku[475] og þá er Guðmundur sagður lifa af fiskveiðum og kaupavinnu.[476] Næsta ár voru þau húsfólk hér á Suðureyri[477] en fóru svo að búa vorið 1847 eins og fyrr var nefnt. Tveimur árum síðar varð Guðmundur hreppstjóri[478] og gegndi því embætti í níu ár.[479]

Árið 1850 var bústofn Guðmundar þessi, ef marka má hina opinberu búnaðarskýrslu: 3 kýr og þá fjórðu áttu þeir Þórarinn Einarsson saman, 1 naut, 30 ær, 12 sauðir og hrútar, 36 gemlingar og 1 hestur.[480] Guðmundur var þá alveg tvímælalaust með stærsta búið í Suðureyrarhreppi.[481]Árið 1860 var bú hans nokkru minna og þá var a.m.k. einn bóndi í Súgandafirði með stærra bú en hann og hjá þremur öðrum voru búin álíka stór og hjá bóndanum á Suðureyri.[482] Árið 1850 átti Guðmundur hálfan sexæring á móti Þórarni Einarssyni, húsmanni á Suðureyri, og minni bát átti hann einn sér.[483] Tíu árum síðar átti hann hins vegar áttæring og engan annan bát ef marka má búnaðarskýrsluna.[484] Þessi áttæringur Guðmundar hét Mjóni og við hann var kennd Mjónabúð á Suðureyrarmölum[485] (sbr. hér bls. 101 og 108). Á kauptíðinni í fyrri hluta júlímánaðar var Guðmundur vanur að fara í verslunarferð til Ísafjarðar á Mjóna.[486]

Valdimar Þorvaldsson, sem fæddur var árið 1878, átti þess kost að ræða við marga menn sem mundu eftir Guðmundi hreppstjóra Guðmundssyni á Suðureyri. Hann segir að Guðmundur hafi verið verkmaður mikill og lipurmenni og talinn mjög góður sjómaður og stjórnari.[487] Valdimar lætur þess hins vegar einnig getið að þessi duglegi hreppstjóri hafi hneigst til ofdrykkju, verið slæmur með víni og átt til að ráðast að mönnum með ertni eða skömmum ef hann hafði fengið sér í kollinn.[488]

Kristján G. Þorvaldsson, bróðir Valdimars, fæddur 1881, ritar um Guðmund Guðmundsson á þessa leið:

 

Guðmundur var afburðaduglegur maður að hverju sem hann gekk. Haft var eftir Bergljótu [Össurardóttur] í Bæ, sem nokkur ár var húsmóðir hans, að hann slæi á við tvo meðalmenn. Stjórnsamur var hann einnig en ástæða er til að ætla að sökum drykkjuskapar hafi þar stundum orðið nokkur brestur á en sennilega hefur konan þá tekið stjórnina.

Með búskapnum stundaði hann einnig sjó og sótti hann af kappi. Jafnan var hann formaður og stundaði bæði þorsk- og hákarlaveiðar. Til hákarlaveiða hafði hann áttæring en þær voru aðallega stundaðar síðari hluta vetrar. …

Þegar Þórarinn Einarsson sleppti hreppstjórn haustið 1850 [rétt 1849, sjá hér bls. 44. K.Ó.]var Guðmundur kjörinn hreppstjóri í hans stað. Hélt hann því embætti til 1858. Vafalaust hafði hann nokkuð sér til ágætis til að gegna því starfi en í öðru var honum svo áfátt að hann gat ekki sinnt slíku starfi nema með hjálp sér betri manna. Plögg eru til frá þeim tíma sem bera þess ljósan vott að hann var ekki skrifandi og verður maður jafnvel að efast um að hann hafi getað skrifað nafnið sitt.

… Menn kannast við hinn mikla mun sem fyrrum var milli embættismanna og almennings að því er mannvirðingar snerti. Á þessu bar mikið á tíma Guðmundar. Hann mun í þessu hafa verið barn síns tíma og sést að hann hefur látið skrifa sig „signor” en nokkur heldrimennska þótti að bera þann titil. Svo virðist að Guðmundur sé eini maðurinn í Súgandafirði sem titlaður var þannig en annar maður sést í manntölum og skýrslum kallaður „monsjör”. Það var Össur Magnússon í Bæ sem var hreppstjóri 1834-1836.[489]

 

Að sögn Kristjáns voru það einkum Friðbert Guðmundsson, sem lengi bjó í Fremri-Vatnadal, og séra Arngrímur Bjarnason á Stað sem hjálpuðu Guðmundi við skriftirnar[490] en fyrsta árið sem séra Arngrímur þjónaði Súgfirðingum var hann í húsmennsku hjá Guðmundi á Suðureyri.[491]

Kristján G. Þorvaldsson gerir mikið úr drykkjuskap Guðmundar en vera má að þar sé eitthvað orðum aukið. Um þau efni og orðasukk þessa lítt skrifandi hreppstjóra ritar Kristján svo:

 

Mörgum þótti gott í staupinu og var brennivín eitt af þeim nauðsynjum sem kaupa þurfti. Guðmundur var þar sem í fleiru stórtækastur allra Súgfirðinga. Var sagt að hann keypti heila brennivínstunnu í hverri kauptíð. Ekki var fátítt að menn drykkju úr hófi fram en Guðmundur bar þó af öllum, enda dugði tunnan sjaldan yfir árið. Vitanlega veitti hann oft öðrum en þáði líka á stundum veitingar annarra. Oft tók hann sér túra og var þá frá vinnu um tíma.

Nokkur ljóður þótti það í fari Guðmundar að honum hætti við að ráðast að mönnum með illyrðum og frekju, stundum fyrir litlar eða engar sakir. Þeir sem minni máttar voru urðu þó aldrei fyrir þessu. Voru það helst yfirmenn hans eða þeir sem aðrir töldu honum að ýmsu fremri sem á þessu fengu að kenna.[492]

 

Á þeim árum sem Guðmundur Guðmundsson bjó á Suðureyri var hér oftast eitthvað af húsfólki, lengst Þórarinn Einarsson sem hætti búskap þegar Guðmundur tók við vorið 1847.[493] Aðrir húsmenn á Suðureyri á þessu skeiði stöldruðu hér aðeins við í stuttan tíma, sumir þó í fáein ár. Úr röðum húsfólksins á dögum Guðmundar má auk Þórarins nefna þessar manneskjur:

 1. Feðgana Friðbert Guðmundsson, síðar bónda í Fremri-Vatnadal, og föður hans, Guðmund Jónsson, áður bónda á Kaldá og Görðum í Önundarfirði, en Ingibjörg, kona Guðmundar, var reyndar ráðskona hjá Þórarni Einarssyni á Suðureyri eitt árið.[494]
 2. Séra Arngrím Bjarnason og fylgikonu hans, Guðrúnu Ingimundardóttur (sjá hér Staður) en Guðrún dvaldist lengur á Suðureyri en séra Arngrímur og var ráðskona hjá Þórarni Einarssyni fardagaárið 1852-1853 og sjálfrar sín hér á Suðureyri næsta fardagaár.[495]
 3. Guðrúnu Örnólfsdóttur, sem var hér í húsmennsku á árunum upp úr 1855, þá á sextugsaldri, og síðan tökukerling, sögð blind og heyrnarlaus haustið 1860.[496] Hún var dóttir Örnólfs ríka Snæbjörnssonar er verið hafði bóndi á Suðureyri frá 1809 eða 1810 og til 1825.[497] Guðrún hafði áður verið alllengi húsfreyja í Botni (sjá hér Botn).

 

Eins og fyrr hefur verið nefnt bjó Guðmundur Guðmundsson á Suðureyri í 20 ár en sumarið 1867 varð hann fyrir slysi og andaðist fáum dögum síðar af afleiðingum þess.[498] Slys þetta bar að með þeim hætti að Guðmundur var staddur í bát sem lagt hafði verið við skipshlið á franskri skútu er lá við akkeri á Súgandafirði.[499] Þeir sem með honum voru höfðu farið um borð í skútuna en þarna við skipshliðina hvolfdi bátnum og Guðmundur sem þar var einn manna fór í sjóinn.[500] Enginn þeirra sem voru um borð í skútunni varð var við slysið fyrr en nokkru síðar og var Guðmundur, sem hékk á bátnum, orðinn þrekaður er menn náðu honum úr sjónum.[501] Næstu nótt var hann um borð í skútunni en var síðan fluttur í land og andaðist að fáum dögum liðnum,[502] tæplega fimmtugur að aldri.[503]

Með konu sinni, Kristínu Þorleifsdóttur,  hafði Guðmundur eignast tvö börn, Guðmund, sem varð bóndi á Laugum og síðar húsmaður á Suðureyri, og Kristínu, sem giftist Kristjáni Albertssyni og varð húsfreyja á Suðureyri þegar móðir hennar hætti að búa árið 1875.[504]

Fjórum árum áður en Guðmundur bóndi á Suðureyri lést hafði hann orðið að minnka við sig í búskapnum því erfingjar Þórarins Einarsson, sem áttu aðra hálflenduna á Suðureyri, fengu þá Páli Guðmundssyni, er búið hafði á Kvíanesi, þessi tíu hundruð til ábúðar.[505] Fram að þeim tíma hafði Guðmundur búið einn á allri jörðinni eins og hér hefur áður verið nefnt. Páll Guðmundsson og kona hans, Rósinkransa Guðmundsdóttir, bjuggu á hálfri Suðureyri í fjögur ár, frá 1863 til 1867.[506] Hér voru þau leiguliðar. Frá hjónum þessum er nánar sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Kvíanes).

Þeir Þorleifur Þorkelsson og Þórarinn Einarsson, sem voru sambýlismenn á Suðureyri á árunum 1829 til 1846, töldust vð lok þess tímabils báðir vera sjálfseignarbændur[507] (sbr. hér bls. 23-24).

Þegar Þorleifur fór frá Suðureyri árið 1846 átti hann hálfa jörðina.[508] Hann fékk þá Kristínu dóttur sinni sex hundruð að því er virðist til fullrar eignar en hélt sjálfur eftir fjórum hundruðum.[509] Kristín var þá nýlega gift Guðmundi Guðmundssyni og vorið 1847 fóru þau að búa á þeim tíu hundruðum sem Þorleifur hafði átt og haft til ábúðar.

Þórarinn Einarsson, sem átti hina hálflenduna á Suðureyri, var barnlaus ekkjumaður er hann andaðist árið 1861.[510] Systkini hans munu þá öll hafa verið látin[511] en börn þeirra erfðu eignir Þórarins. Einn í þeim hópi var Þorbjörn Gissurarson í Selárdal, bróðursonur Þórarins.[512] Á fyrstu vikum ársins 1862 keypti hann 5 hundruð úr Suðureyri og galt fyrir þau 200 ríkisdali[513] og voru það erfðahlutir úr dánarbúi Þórarins en sjálfur mun Þorbjörn hafa erft eitt hundrað. Með þessum kaupum varð hann strax aðaleigandi að þeirri hálflendu sem Þórarinn hafði átt og vorið 1868 hóf hann hér búskap[514] á þeim jarðarparti.[515] Kristín Þorleifsdóttir, ekkja Guðmundar Guðmundssonar, bjó hins vegar áfram á sínum parti úr jörðinni allt til ársins 1875 er Kristján Albertsson, tengdasonur hennar tók við.[516] Þeir Þorbjörn og Kristján bjuggu síðan í tvíbýli á Suðureyri í 30 ár eða allt þar til Þorbjörn andaðist árið 1905.[517] Til ábúðar höfðu þeir jafnan sína hálflenduna hvor, það er 10 hundruð að fornu mati hvor þeirra,[518] og bjuggu báðir í sama bænum allt til ársins 1892.[519] Eins og áður sagði var Þorbjörn aðaleigandi annarrar hálflendunnar á Suðureyri er hann hóf hér búskap vorið 1868. Hann átti þá sex hundruð í jörðinni en systkini hans og síðar börn þeirra áttu fjögur af þeim tíu hundruðum sem Þorbjörn hafði jafnan til ábúðar.[520]

Við andlát Kristínar Þorleifsdóttur árið 1883 munu Guðmundur sonur hennar, sem þá bjó á Laugum, og Kristján Albertsson, tengdasonur hennar á Suðureyri (eða Kristín, dóttir Kristjáns, þá barn að aldri) hafa erft þau 6 hundruð í jörðinni sem hún hafði fengið frá föður sínum árið 1846. Má ætla að þrjú hundurð hafi þá komið í hlut Guðmundar og önnur þrjú í hlut Kristjáns og/eða dóttur hans, sem var dótturdóttir Kristínar Þorleifsdóttur, en móðir ungu stúlkunnar var þá látin. Þau fjögur hundruð úr jörðinni sem Þorleifur Þorkelsson hélt eftir, þegar hann fór frá Suðureyri árið 1846, mun hann hafa lagt á borð með sér er hann gerðist próventumaður hjá Kristjáni Albertssyni, dóttursyni sínum, árið 1875.[521] Með dóttur sinni, Kristínu Kristjánsdóttur, átti Kristján Albertsson því frá árinu 1883 sjö af þeim tíu hundruðum sem hann bjó á hér á Suðureyri en Guðmundur Guðmundsson mágur hans, bóndi á Laugum og síðar húsmaður á Suðureyri, átti þrjú.[522] Að svo hafi verið er staðfest í gjörðabók fasteignamatsnefndar frá árinu 1916.[523]

Þorbjörn Gissurarson og Kristján Albertsson voru síðustu bændurnir sem bjuggu á Suðureyri og svo eiginkonur þeirra, Sesselja Magnúsdóttir og Guðrún Þórðardóttir, sem báðar héldu áfram búskap að Þorbirni og Kristjáni látnum. Hér verður nú sagt nokkru nánar frá þessu fólki og þá fyrst frá Þorbirni og Sesselju.

Þorbjörn fæddist í Selárdal í Súgandafirði 7. apríl 1830 og var elsta barn hjónanna Gissurar Einarssonar og Guðrúnar Ólafsdóttur sem þar bjuggu.[524] Frá foreldrum Þorbjarnar er sagt hér á öðrum stað (sjá Selárdalur). Hann ólst upp í Selárdal og átti þar heima allt þar til hann fór að búa á Suðureyri árið 1868.[525] Í uppvexti mun Þorbjörn hafa notið nokkru meiri menntunar en þá var títt og allgóð heimild er fyrir því að Gissur faðir hans hafi, fyrstur manna í Súgandafirði, ráðið til sín heimiliskennara, líklega á árunum milli 1840 og 1850 (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Kristján G. Þorvaldsson, sem var bróðursonur Þorbjörns, segir að hann hafi síðar á ævinni lagt sig eftir frekara námi, einkum í reikningi.[526] Í þeirri grein hafði hann mest not af kennslubókum Eiríks Briem og komst, að sögn Kristjáns, svo langt að hann gat reiknað með leikni allar reikningsaðferðir sem kenndar voru í þeim bókum nema bókstafareikning og lógaritma.[527] Lógaritmann réð hann ekki við af því hann vantaði töflurnar sem nota þarf við þann reikning.[528] Þegar fyrirskipað var að mæla flatarmál ræktaðs lands í Súgandafirði var Þorbjörn fenginn til þess og var hann eini maðurinn í byggðarlaginu sem það kunni.[529]

Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri var að sögn kunnugra þrekinn maður og sterkur og jafnframt afburða lipur og snarráður.[530] Hann var dulur í skapi, stilltur og prúður í framgöngu og mjög gætinn í orðum.[531] Til marks um líkamlegt atgervi Þorbjörns og snarræði hans þegar á reyndi var sögð sú saga að ungur hefði hann lent í bardaga við franska sjómenn sem réðust að honum með hnífa að vopni en sloppið óskaddaður.[532] Inntak sögunnar er á þessa leið:

Einhverju sinni fóru þeir Selárdalsbræður, Þorbjörn, Ólafur og Þorvaldur, um borð í franska skútu sem lá inni á Súgandafirði. Af ókunnum ástæðum reis misklíð milli þeirra og hinna erlendu manna sem réðust að þeim með hnífa í höndum.[533] Þorbjörn skipaði þá bræðrum sínum að fara í bátinn og halda sér við afturenda skipsins en sjálfur tók hann sér barefli í hönd og varðist ásókn fransmannanna drjúga stund. Leikurinn hófst framarlega á skipinu en Þorbjörn hopaði hægt og hægt aftur eftir því og gætti þess að enginn skipverja kæmist aftur fyrir sig.[534] Að lokum var hann kominn aftast á skipið og stökk hann þá upp á öldustokkinn og þaðan tafarlaust niður í bátinn til bræðra sinna.[535]

Frásögn sinni af þessum atburði lýkur Kristján G. Þorvaldsson með þessum orðum:

 

Kom hann [Þorbjörn] standandi niður á þóftu og steig svo niður í rúmið en bræður hans, sem sátu undir árum, reru tafarlaust frá og voru á augabragði komnir svo langt frá skipinu að ekki varð til þeirra náð. Þetta viðbragð Þorbjarnar var gert með svo skjótri svipan að skipverjar gátu engu lagi komið á hann og var hann ómeiddur eftir öll viðskiptin. Fátt sagði hann um þessi viðskipti en skilja mátti það á orðum hans að ekki væri hann grunlaus um að sumir skipverja hefðu borið þeirra nokkur merki.[536]

 

Aðra sögu um lipurð Þorbjörns og snarræði segir Kristján frændi hans líka og er hún á þessa leið:

 

Þorbjörn hélt lipurð sinni og snarræði fram á efri ár. Það bar eitt sinn við á Suðureyri að mannýgur griðungur losnaði í fjósi og komst út. Fjósið var rétt hjá bænum en Þorbjörn stóð á hlaðinu þegar kálfurinn kom út en hann réðst þegar á manninn er hann sá hann. Þorbjörn uggði ekki að sér og varð bola ekki var fyrr en ekki var undankomu auðið. Hann tók þá það til bragðs að stökkva upp á háls bola og grípa báðum höndum um horn hans. Þorbjörn var stór og þrekinn maður og var því bola óþægileg byrði þar sem hann sat tvívega á hálsi hans og gat hann ekkert gert Þorbirni, enda komu menn fljótt til hjálpar.[537]

 

Veturinn 1858-1859 var Þorbjörn við smíðar á Ísafirði og kynntist þá Höllu Guðmundsdóttur, móður Péturs J. Thorsteinsson er síðar varð umsvifamikill kaupmaður og útgerðarmaður á Bíldudal.[538] Halla gerðist vinnukona í Selárdal vorið 1859 og svo fór að þau Þorbjörn eignuðust saman dreng sem fæddist haustið 1860.[539] Nánar verður sagt frá þeim málum þegar við komum í Selárdal á göngu okkar um Súgandafjörð (sjá hér Selárdalur).

Haustið 1861 kvæntist Þorbjörn Sesselju Magnúsdóttur frá Þjóðólfstungu í Bolungavík en hún var dóttir Magnúsar Árnasonar, óðalsbónda þar, og konu hans, Sigríðar Halldórsdóttur frá Kirkjubóli í Skutulsfirði.[540] Sesselja var sjö árum yngri en Þorbjörn, fædd 17. mars 1837.[541] Þau voru gefin saman í Bolungavík 27. september 1861 og sama dag gekk Ólafur Gissurarson, bróðir Þorbjörns, að eiga Kristínu Pálsdóttur, heimasætu á Ósi í Bolungavík.[542]

Þegar Þorbjörn kvongaðist var hann liðlega þrítugur að aldri og hafði þá verið ráðsmaður á búi móður sinnar í Selárdal um alllangt skeið en nær sjö ár voru liðin frá því faðir hans andaðist.[543] Vorið 1863 hóf Þorbjörn búskap í Selárdal og bjó þar fyrst í tvíbýli á móti Guðrúnu móður sinni en síðan á móti bróður sínum, Þorvaldi Gissurarsyni.[544] Búskaparár Þorbjörns í Selárdal urðu þó aldrei nema fimm því vorið 1868 fluttist hann hingað að Suðureyri og hóf hér búskap á annarri hálflendunni (sjá hér bls. 47) en hann var þá, ásamt systkinum sínum, orðinn eigandi að hálfri Suðureyri. Þorbjörn Gissurarson var bóndi á Suðureyri í 37 ár, frá 1868 til 1905, lengur en nokkur annar sem hér hefur búið og um er kunnugt.[545]

Árið 1870 bjó hann hér, ef marka má búnaðarskýrslur, með 2 kýr, 24 ær, 8 sauði og hrúta, 12 gemlinga, 1 hest og 1 tryppi.[546] Árið 1880 var búið heldur stærra því þá hafði tala gemlinganna tvöfaldast.[547] Fjöldi annars búpenings var hins vegar mjög áþekkur því sem verið hafði tíu árum fyrr.[548] Árið 1895 bjó Þorbjörn með 2 kýr, 1 geldneyti, 20 ær, 6 sauði og hrúta, 14 gemlinga, 1 hest og 1 tryppi.[549] Hinar opinberu tölur um fjölda búfjár eru ef til vill ekki alveg nákvæmar en greinilegt er að bústofn Þorbjarnar hefur ekki breyst að neinu ráði á þeim langa tíma sem hann stóð hér fyrir búi. Bú hans var aldrei stórt en samt mun heyið sem hann fékk af túni og engjum á Suðureyri ekki hafa dugað til að fóðra gripi hans og fénað. Þorbjörn átti tvö hundruð í jörðinni Ytri-Vatnadal og nytjaði jafnan þann jarðarpart auk heimalandsins á Suðureyri.[550] Í Vatnadal var Þorbjörn með fjárhús og ól þar lömb að vetrinum en bóndinn þar skammtaði þeim fyrir hann.[551] Í heimild frá árinu 1902 sést að Þorbjörn var þá með ábúð á rösklega fimm hundruðum í Vatnadal[552] en vera má að hann hafi þó ekki átt þar nema tvö hundruð.

Árið 1870 var bátaeign Þorbjörns í lágmarki því hann átti þá aðeins einn lítinn bát, sem var tveggja eða þriggja manna far,[553] og árið 1895 var það óbreytt ef marka má tíundarskýrslu frá því ári.[554] Allt lausaféð sem Þorbjörn taldi fram það ár var virt á 7 hundruð og 82 álnir.[555] Aðeins tveir einstaklingar í Suðureyrarhreppi áttu þá meira lausafé, sé skýrslan marktæk, þau Guðrún Sturludóttir, búandi ekkja á Stað, og Guðmundur Ásgrímsson á Gelti.[556] Í tíundarskýrslunni frá 1895, sem hér var vitnað í, er hvergi getið um minnstu bátana, þá sem voru minni en fjögra manna far,[557] og ekki er ólíklegt að sumum þeirra hafi einnig verið sleppt þegar gengið var frá hinum opinberu búnaðarskýrslum á árunum kringum 1870 og 1880. Ástæðulaust mun því vera að vefengja þá fullyrðingu Kristjáns G. Þorvaldssonar að Þorbjörn bóndi á Suðureyri hafi jafnan átt tvo báta, sexæring og tveggja manna far[558] og síðustu fimmtán árin sem Þorbjörn bjó mun venjan örugglega hafa verið sú því þann tíma mundi Kristján. Minni bátinn notaði Þorbjörn aðallega til snattferða en á sexæringnum reri hann til fiskjar árið um kring nema þann tíma sem heyannir stóðu yfir.[559] Sjálfur var Þorbjörn jafnan formaður í þessum róðrum.[560] Síðustu árin reri hann þó bara vor og haust og að vetrinum urðu róðrarnir aldrei mjög margir.[561]

Bærinn sem Þorbjörn og fjölskylda hans bjuggu í hér á Suðureyri stóð á sléttlendinu neðan við tjörnina, þar sem Bjarni Brynjólfsson valdi sér nýtt bæjarstæði um það bil 100 árum áður en Þorbjörn fluttist hingað frá Selárdal (sjá hér bls. 3-4 og 27-28). Þegar Þorbjörn hóf búskap á Suðureyri árið 1868 voru liðin 84 ár frá því Bjarni andaðist og má telja líklegt að bærinn hafi verið byggður upp einu sinni eða oftar á því skeiði. Þó má vera að húsaskipan hafi í aðalatriðum verið sú sama. Á búskaparárum Þorbjörns var jafnan tvíbýli á Suðureyri en fólkið bjó allt í sama bænum uns breyting varð á í þeim efnum árið 1892 (sjá hér bls. 63-64). Að líkindum hefur sama tilhögun jafnan verið höfð á, hvað þetta snertir þegar búið var á jörðinni í tvíbýli, allt frá því Bjarni Brynjólfsson flutti bæinn á hið nýja bæjarstæði á síðari hluta 18. aldar.

Valdimar Þorvaldsson, sem fæddur var árið 1878 og átti nær alla ævi heima í Súgandafirði, segir að um 1890 hafi tólf hús staðið á litlum bletti við Suðureyrarbæinn.[562] Hann greinir líka frá því að í bænum hafi verið tvískipt baðstofuloft og tvö búr en eitt eldhús og göng fyrir báða enda.[563] Einfalt þil skipti baðstofuloftinu í tvennt og á þilinu var svolítil lúga sem hægt var að opna ef fólk vildi ræðast við eða rétta eitthvað smálegt á milli.[564] Valdimar Þorvaldsson lýsir húsaskipaninni nánar og segir:

 

Bæjardyr sneru upp að fjallinu og göngin bein inn í baðstofu sem var tvískipt með skilrúmi uppi en ekki niðri. Til hægri var baðstofa 10 x 22 fet [þ.e. 21-22 fermetrar – innsk. K.Ó.] með herbergi undir loftinu, vel þiljað og málað, og til vinstri var baðstofa 10 x 16 fet með herbergi þiljuðu undir lofti. Báðar voru baðstofurnar vel þiljaðar uppi og jafn háar.

Göngin voru rúmgóð og vel há. Út úr göngunum til hægri voru 2 búr og sneru endanum að þeim, þiljuð að nokkru með skarsúð en til vinstri var eldhús og sneri eins og göngin með hlóðum í báða enda. Áfast við þessa húsaþyrpingu voru innan við búrin 2 skemmur og þilin fram á hlaðið og utantil við bæjardyr og eldhúsið, sem náði jafn langt fram á hlaðið, var byggð 1886 skemma og hún stóð lengst allra þessara húsa.

Baðstofurnar voru með torfgöflum með gluggum á. Aðrir gluggar voru á hliðvegg neðantil með glugghúsum í vegginn.

Fyrir innan þessa húsaþyrpingu, á góðu bili frá, voru saman 2 hlöður, fjós og eldiviðarhús. Og á góðu umferðarbili frá bæjardyrum voru 2 hús, fjós og smiðja og sneru dyrnar upp að fjallinu.[565]

 

Auk þessara húsa áttu þeir Þorbjörn og Kristján Albertsson önnur gripahús og hlöður sem stóðu fjær bænum, annar 2 hlöður, 3 fjárhús og 1 hesthús en hinn hlöðu, 3 fjárhús og 1 hesthús.[566] Allt er þetta miðað við árin skömmu fyrir og um 1890 en þá áttu bændurnir á Suðureyri líka 3 hús hvor á Suðureyrarmölum og voru það hjallar og önnur útvegshús.[567]

Árið 1892 réðst Kristján Albertsson, sambýlismaður Þorbjörns á Suðureyri, í að reisa stórt íbúðarhús úr timbri skammt frá gamla bænum (sjá hér bls. 63-64). Fimm árum síðar, sumarið 1897, byggði Þorbjörn nýja baðstofu sem reist var alveg rétt hjá gamla bæjarstæðinu[568] (sbr. hér bls. 3-4). Jens Arnbjörnsson smiður, er þá átti heima á Þverá í landi Bæjar í Staðardal, vann að byggingu hennar.[569] Þann 12. júlí var búið að reisa baðstofuveggina og 16. júlí reif Þorbjörn gömlu baðstofuna.[570] Næstu tvær vikur var hann með allt sitt fólk í blákamelsinu í hinu stóra timburhúsi Kristjáns Albertssonar en laugardaginn 31. júlí færði hann sig í nýju baðstofuna þó að margt væri þar enn ófrágengið.[571] Einar Jónsson dagbókarritari nefnir húsið sem Þorbjörn reisti 1897 baðstofu en á ljósmynd  frá því um 1920 og birt er á bls. 441 í bókinni Firðir og fólk 900-1999 má sjá að þetta hefur verið timburhús, ein hæð og ris. Innan við það reisti Halldór B. Friðriksson, tengdasonur Þorbjörns, annað íbúðarhús úr timbri sem í manntalinu frá 1940 er sagt byggt árið 1907.[572]

Á árunum 1866-1870 var Þorbjörn Gissurarson hreppstjóri í Suðureyrarhreppi[573] og segir Kristján G. Þorvaldsson að þá hafi verið almennt álit að þeir Friðbert Guðmundsson í Fremri-Vatnadal og Þorbjörn væru færustu menn sveitarinnar til að sinna því starfi.[574] Um Þorbjörn segir Magnús Hjaltason að hann hafi verið djúphygginn og að því skapi stilltur.[575]

Skömmu eftir 1870 var farið að kjósa hreppsnefndir í hverjum hreppi og tóku þær þá við ýmsum verkefnum sem áður voru í höndum hreppstjóranna. Má þar nefna fátækraframfærsluna og niðurjöfnun opinberra gjalda.[576]

Þorbjörn átti um skeið sæti í hreppsnefnd Suðureyrarhrepps en óljóst er hversu lengi. Hann var kosinn í nefndina á hreppaskilaþingi 22. júní 1889[577] og má telja nær fullvíst að það hafi ekki verið í fyrsta sinn. Í fundargerðinni frá 1889 er þess getið að vegna aldurs Þorbjörns og lasleika hafi Eiríkur Egilsson á Stað verið kjörinn til að vera varamaður í nefndinni sem þá var skipuð þremur mönnum.[578] Þetta sumar var Þorbjörn þó ekki nema 59 ára gamall og átti nær 16 ár ólifuð en vera má að heilsa hans hafi verið farin að bila. Þorbjörn mun hafa setið í hreppsnefndinni til ársins 1894 en með honum í nefndinni voru lengst á þessu skeiði þeir Jóhannes Hannesson í Botni og Kristján Albertsson á Suðureyri.[579]

Hér var áður á það minnst að veturinn 1858-1859 hefði Þorbjörn Gissurarson unnið við smíðar á Ísafirði (sjá hér bls. 50). Síðar mun hann hafa fengist nokkuð við þær og má sem dæmi nefna að hann var annar þeirra tveggja manna sem mest unnu að smíði þinghússins á Suðureyri árið 1892 (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) og skömmu síðar réðust þeir Þorbjörn og Guðmundur Sigurðsson á Laugum í að smíða sér kúfiskplóg.[580] Svo virðist sem samtímamenn Þorbjörns hafi talið að hann væri verklaginn og vel til þess fallinn að hafa verkstjórn á hendi því sumarið 1881 var honum falið að stjórna fjölmennum flokki Súgfirðinga sem vann í 16 klukkustundir að vegabótum á Botnsheiði (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Þorbjörn Gissurarson andaðist 15. mars 1905[581] og var þá að verða 75 ára gamall. Börnin fimm, sem hann hafði eignast með Sesselju konu sinni á árunum 1863 til 1876, voru þá öll á lífi og fjögur þeirra áttu enn heima á Suðureyri.[582] Ekkja Þorbjörns, Sesselja Magnúsdóttir, hélt búskapnum áfram að honum látnum og stóð Jón, sonur þeirra, fyrir búinu með móður sinni næstu árin.[583] Hann var elstur systkinanna, fæddur 1863.[584] Sesselja dó vorið 1912 og að henni látinni skiptist hálflendan, sem þau Þorbjörn höfðu búið á, milli barna þeirra og annarra eigenda.[585] Hver einstakur í þeim hópi fékk aðeins lítinn skika í sinn hlut og þó flestir þeirra væru með kú eða nokkrar kindur hin næstu ár og nýttu áfram tún og engjar þá var búskapurinn ekki lengur neinn meginþáttur í lífi og starfi þessa fólks.[586] Eitt af börnum Þorbjörns og Sesselju var Sigríður sem giftist Halldóri B. Friðrikssyni og bjuggu þau í íbúðarhúsi er Halldór reisti.[587] Það hús var áfast við baðstofuna sem Þorbjörn bjó í.[588] Á árunum kringum 1920 er Halldór, sem andaðist árið 1924, jafnan sagður vera bóndi í sóknarmannatölum[589] en sú staðhæfing mun vera röng því hann hafði smíðar að aðalstarfi og átti aldrei nema fáeinar kindur.[590] Þorbjörn Gissurarson og Sesselja Magnúsdóttir voru því síðustu bændurnir á þeim parti jarðarinnar sem þau fengu til ábúðar árið 1868. Á hinni hálflendunni bjó Kristján Albertsson frá 1875 til 1909 og síðan ekkja hans, Guðrún Þórðardóttir, allt til ársins 1924 og er nú tímabært að greina nokkuð frá Kristjáni og hans fólki.

Kristján Albertsson fæddist hér á Suðureyri 19. janúar 1851 og var lausaleiksbarn ógiftra vinnuhjúa sem gengu í hjónaband þegar drengurinn var orðinn nokkurra mánaða gamall.[591] Foreldrar hans hétu Albert Jónsson og Guðfinna Þorleifsdóttir.[592] Þegar Kristján fæddist voru þau ung að árum, Albert 25 ára en Guðfinna sex árum yngri.[593] Hún var dóttir Þorleifs Þorkelssonar, bónda og hreppstjóra, sem búið hafði á Suðureyri[594] frá 1826 til 1846 en þegar Kristján Albertsson fæddist voru liðin fjögur til fimm ár frá því Þorleifur afi hans fluttist vestur að Fjallaskaga í Dýrafirði (sjá hér bls. 42). Húsráðendur á Suðureyri við fæðingu Kristjáns voru Kristín Þorleifsdóttir, sem var móðursystir hans, og hennar eiginmaður, Guðmundur Guðmundsson hreppstjóri.[595] Foreldrar Kristjáns, þau Albert og Guðfinna, voru þá vinnuhjú hjá þessum hjónum.[596]

Albert Jónsson, faðir Kristjáns Albertssonar, var sonur hjónanna Jóns Ólafssonar og Elínar Eiríksdóttur, sem bjuggu alllengi á Kaldá í Önundarfirði (sjá hér Kaldá), en Jón var sonur Ólafs Magnússonar, bónda og hreppstjóra á Eyri í Önundarfirði (sjá hér Eyri) og Elín dóttir séra Eiríks Vigfússonar á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður). Albert missti föður sinn árið 1841 og var þá á unglingsaldri en um tvítugt kom hann fyrst í Súgandafjörð og var þá í eitt ár á Laugum.[597] Árið 1849 varð hann vinnumaður á Suðureyri og kom þá frá Hjarðardal í Önundarfirði.[598]

Þau Albert Jónsson og Guðfinna Þorleifsdóttir voru gefin saman í hjónaband 19. september 1851[599] en þann dag varð Kristján sonur þeirra átta mánaða gamall. Næstu ár voru þau í húsmennsku, fyrst í Bæ en síðan á Stað og í tvö ár, 1854-1856, var Albert ráðsmaður í Ytri-Vatnadal. Vorið 1856 fóru þau Albert og Guðfinna að búa á Gilsbrekku.[600] Þau áttu þá orðið tvo syni, Kristján, sem orðinn var fimm ára, og Jóhannes á fyrsta ári.[601]

Á sínum fyrstu æviárum fylgdi Kristján Albertsson jafnan foreldrum sínum og fluttist með þeim að Gilsbrekku vorið 1856[602] en það er lítil jörð, aðeins þrjú hundruð að dýrleika (sjá hér Gilsbrekka), og þar bjó jafnan fátækt fólk. Faðir Kristjáns komst fyrst í bændatölu er hann fékk Gilsbrekku til ábúðar og náði aðeins að búa í liðlega hálft annað ár því hann drukknaði 2. febrúar 1858 við sjóróðra í Bolungavík.[603]

Móðir Kristjáns, Guðfinna Þorleifsdóttir, bjó áfram á Gilsbrekku, fékk sér ráðsmann og giftist honum árið 1860.[604] Þessi seinni maður Guðfinnu hét Sigurður Jónsson og var frá Kvíanesi (sjá hér Gilsbrekka).

Kristján Albertsson ólst upp á Gilsbrekku hjá móður sinni og stjúpföður og lærði þar að vinna en bókleg fræðsla mun hafa verið af skornum skammti.[605] Við fermingu kunni hann að sögn lítið eða ekkert í skrift eða reikningi[606] en var þó af presti talinn vel að sér.[607] Menntunarskortinn bætti Kristján sér upp síðar með sjálfsnámi og tókst honum að ná skýrri og læsilegri rithönd og þeirri reikningskunnáttu að hann gat annast öll þau trúnaðarstörf er honum voru falin síðar.[608]

Kristján var enn á Gilsbrekku þegar móðir hans andaðist vorið 1868.[609] Hann var þá 17 ára og einu ári síðar yfirgaf hann kotið og settist að í kaupstaðnum á Ísafirði.[610] Þar átti hann heima í fjögur ár og var þá í skiprúmi á sumrin hjá móðurbróður sínum, Örnólfi Þorleifssyni skútuskipstjóra, en reri á áraskipum á vetrum.[611] Veturinn 1871-1872 eða 1872-1873 var Kristján á teinæring frá Ísafirði sem reri þann vetur frá Suðureyri.[612] Á teinæringnum var einnig farið í hákarlalegur frá Suðureyri þennan vetur.[613]

Vorið 1873 gerðist Kristján vinnumaður hjá móðursystur sinni, Kristínu Þorleifsdóttur, sem þá var búandi ekkja hér á Suðureyri.[614] Þegar Kristján kom í Súgandafjörð vorið 1873 var hann að líkindum heitbundinn frænku sinni, Kristínu Guðmundsdóttur á Suðureyri, en þau voru gefin saman í hjónaband þann 4. október á því ári.[615] Brúður Kristjáns var dóttir Kristínar Þorleifsdóttur, húsfreyju á Suðureyri, og hins látna eiginmanns hennar, Guðmundar Guðmundssonar.[616] Brúðhjónin ungu, Kristján Albertsson og Kristín Guðmundsdóttir, voru því systrabörn en hún var svolítið yngri en hann, fædd á Suðureyri 26. október 1853.[617]

Fardagaárin 1873-1874 og 1874-1875 taldist Kristján Albertsson vera vinnumaður hjá tengdamóður sinni og náfrænku hér á Suðureyri[618] en líklegt má telja að hann hafi þá þegar látið nokkuð til sín taka við stjórn búsins. Vorið 1875 tóku ungu hjónin, Kristján og Kristín kona hans, við búsforráðum að fullu og þaðan í frá var Kristján bóndi á hálfri Suðureyri allt til dauðadags en hann andaðist 22. júlí 1909.[619]

Kristján Albertsson var um langt skeið helsti forystumaður Súgfirðinga. Hann var hreppstjóri í nokkur ár, hreppsnefndarmaður og sýslunefndarmaður um mjög langt skeið, fyrsti útibússtjóri Ásgeirsverslunar á Suðureyri, gegndi því starfi í 18 ár og var í fararbroddi við upphaf vélbátaútgerðar frá Suðureyri.[620] Fyrstu tuttugu árin sem Kristján bjó á Suðureyri var hann jafnan formaður á áraskipi sínu á hverri vorvertíð en í lok vertíðar árið 1895 hætti hann formennsku.[621] Þaðan í frá hafði hann verslun og útgerð að aðalstarfi en stýrði jafnframt búi sínu með líkum hætti og áður.

Bú Kristjáns Albertssonar hér á Suðureyri var aldrei stórt, enda gat hálflendan sem hann bjó á ekki fleytt fram miklum fjölda kúa og kinda. Heyforða sinn mun hann reyndar oftast hafa náð að drýgja með því að tryggja sér slægjur á öðrum jörðum í Súgandafirði, einkum í Botni[622] og um nokkurt skeið hafði hann ábúð á tveimur hundruðum úr jörðinni Kvíanesi auk hundraðanna tíu á Suðureyri.[623] Lét hann þá flytja áburð frá Suðureyri inn á Kvíanes og var það mikið verk og erfitt.[624]

Árið 1880 var bústofn Kristjáns þessi ef marka má það sem skráð er í búnaðarskýrslu: 2 kýr, 20 ær, 7 sauðir og hrútar, 22 gemlingar, 1 hestur og hálft tryppi.[625] Fimm bændur í Súgandafirði voru þá með stærra bú en hann.[626] Árið 1895 var búið álíka stórt, það er að segja 2 kýr, 1 kvíga, 18 ær, 18 gemlingar og 1 tryppi[627] en þarna virðist hrútana vanta. Árið 1901 var bú Kristjáns orðið svolítið stærra. Ef marka má tíundarskýrslu frá því ári bjó hann þá með 2 kýr, 1 kvígu, 28 ær, 6 sauði og hrúta, 24 gemlinga, 1 hest og 2 tryppi og var með næststærsta búið í Súgandafirði.[628] Eini bóndinn í hreppnum sem var þá með stærra bú var Eiríkur Egilsson á Stað.[629] Tölurnar um fjölda sauðfjár sýna að ærið skarð hefur verið höggvið í þann litla stofn þegar Kristján missti 20 sauðkindur úr bráðapest árið 1894.[630]

Árið 1888 hafði Kristján Albertsson verið bóndi á Suðureyri í 13 ár. Á því ári var framtalið lausafé hans 8 hundruð og 64 álnir.[631] Einn bóndi í hreppnum átti þá meira lausafé og var það Jón Ólafsson á Stað sem taldi fram 12 hundruð og 75 álnir.[632] Þrettán árum síðar, árið 1901, var framtalið lausafé Kristjáns virt á 10 hundruð og 10 álnir en þá var Eiríkur Egilsson á Stað sá eini í Súgandafirði sem átti meira lausafé.[633] Hann taldi þá fram 15 hundruð og 104 álnir í lausum aurum[634] en með lausafé eða lausum aurum er hér átt við allan búfénað svo og báta og önnur hreyfanleg verðmæti. Tölurnar sýna að Kristján Albertsson var enginn stórefnamaður þó hann væri betur stæður en flestir samtímamenn hans í Súgandafirði. Hér var að vísu aðeins litið á árin 1888 og 1901 en vera má að efnahagur Kristjáns hafi batnað töluvert síðustu árin sem hann lifði og þá einkum vegna útgerðar vélbáta sem hann hóf árið 1906 (sjá hér bls. 61-62), þremur árum áður en hann dó.

Í Súgandafirði var tími verulegra jarðabóta ekki runninn upp á dögum Kristjáns en hann hófst þó handa við að byggja grjótgarðinn mikla ofan við túnið á Suðureyri (sjá hér bls. 5) og varð fyrstur manna í byggðarlaginu til þess að setja upp gaddavírsgirðingu til að verja tún sitt.[635] Náði girðing þessi frá ytri enda grjótgarðsins og niður í Sand.[636] Þeir Kristján Albertsson og Þorbjörn, sambýlismaður hans á Suðureyri, voru líka með nokkra garðrækt, fyrst heima á túninu en seinna komu þeir sér upp kál- og kartöflugörðum út á Mölum.[637] Var garður Kristjáns innan við Skipagötu, sem nú heitir, en Þorbjörn var með sinn garð neðan við það sem nú er Garðastígur 3.[638]

Árið 1860 átti Guðmundur Guðmundsson á Suðureyri annan þeirra tveggja áttæringa sem þá voru til í Súgandafirði en tíu árum síðar átti Kristín Þorleifsdóttir, ekkja Guðmundar, engan bát nema eitt tveggja eða þriggja manna far.[639] Hún stóð þá enn fyrir búi á Suðureyri og þremur árum síðar gerðist Kristján Albertsson vinnumaður hjá þessari frænku sinni, kvæntist dóttur hennar og tók að fullu við búsforráðum vorið 1875 eins og hér hefur áður verið greint frá.

Á fardagaárinu 1874-1875 eignaðist Kristján hálfan sexæring á móti mági sínum, Guðmundi Guðmundssyni, sem þá var í þann veginn að hefja búskap á Laugum.[640] Litla bátinn sem Kristín, tengdamóðir Kristjáns, hafði átt eignuðust þeir líka þetta sama ár og taldist Kristján eiga þrjá fjórðu parta í honum en Guðmundur einn fjórða.[641] Árið 1877 átti Kristján sexæringinn einn en í Súgandafirði voru þá aðeins til tveir bátar sem náðu þeirri stærð.[642] Hinn átti Kristín Þórarinsdóttir á Stað.[643]

Í höfuðbók frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri er staðfest að á fyrsta búskaparári Kristjáns voru þeir saman um útgerð á sexæringi, hann og Guðmundur Guðmundsson, mágur hans, sem þá var að byrja búskap á Laugum.[644] Þessi bátur hét Vonin.[645] Kristján G. Þorvaldsson fullyrðir að Kristján Albertsson hafi tekið við formennsku á bát frá Suðureyri strax og hann settist hér að vorið 1873 og verið formaður í 23 vorvertíðir og 22 vetrarvertíðir en hætt reglubundinni sjósókn í lok vorvertíðar árið 1895.[646] Vera má að þetta sé rétt en fyrsta veturinn sem Kristján var á Suðureyri áttu hvorki hann né tengdamóðir hans nægilega stóran bát til vetrarróðra. Á árunum 1880 til 1901 mun Kristján oftast hafa átt einn sexæring eða fjögra manna far og fyrir kom á því skeiði að hann ætti tvo slíka báta.[647]

Á hinum fyrri búskaparárum sínum fór Kristján Albertsson stundum í hákarlalegur á Voninni, sexæringnum sem þeir Guðmundur mágur hans áttu saman í fyrstu.[648] Í slíkar leguferðir var oftast farið síðari hluta vetrar.[649] Hákarlaveiðarnar voru jafnan stundaðar á djúpmiðum, langt undan landi, því sá grái gefur sig ekki til á grunnmiðum. Í febrúarmánuði árið 1877 fór Kristján í hákarlalegu og voru sex menn í skipshöfn hans.[650] Þeir lögðu frá landi á föstudegi og reru á miðin djúpt úti, vestanvert við Ísafjarðardjúp.[651] Þegar leið á laugardaginn tók að hvessa og um kvöldið var komið vonskuveður.[652] Engin leið var að berja til lands á árum og tók Kristján það ráð að sigla norður og láta atvik ráða hvar næst yrði komist að landi.[653]

Þeir sigldu grunnt fyrir Straumnes, komust þar í var og náðu að róa inn með landi norðan við Straumnesið.[654] Þar lentu þeir í Rekavík bak Látur og fengu þar ágæta aðhlynningu sem full þörf var á eftir allan hrakninginn.[655] Húsakynni í Rekavík voru hins vegar svo þröng að þar var aðeins hægt að hýsa helming skipshafnarinnar en hinir þrír urðu að ganga að Látrum í Aðalvík til að leita sér gistingar.[656]

Í Rekavík og á Látrum sátu Kristján og menn hans veðurtepptir í nær heila viku en gátu loks lagt af stað heimleiðis á skipi sínu að kvöldi nýs laugardags.[657] Í Súgandafirði hafði ekkert til þeirra spurst í meira en átta sólarhringa og munu flestir hafa talið þá af. Í ritgerð sinni um Kristján Albertsson segir Kristján G. Þorvaldsson frá á þessa leið:

 

Heima á Suðureyri vissu menn ekkert um hagi þeirra. Menn vonuðu í fyrstu að þeir kynnu að ná einhvers staðar landi en er óveðrið stóð fleiri daga dofnuðu þær vonir og slokknuðu jafnvel með öllu. … Var þessi tími dapurlegur á öllum heimilunum. Sunnudaginn sem Kristján kom heim var að venju lesinn húslestur á Suðureyri en meðan á lestrinum stóð varð Þorbirni [Gissurarsyni] litið út um stafnglugga baðstofunnar og sá hann þá til mannaferða úti á Mölunum. Kom honum þá til hugar að þeir myndu vera komnir. Þetta reyndist rétt og kom Kristján heim með menn sína um það bil sem lestrinum var lokið. Varð það fagnaðarfundur því menn þóttust þá úr helju heimt hafa.[658]

 

Er Kristján lenti í þessum hrakningi var hann 26 ára gamall og með honum voru: Guðmundur Guðmundsson, mágur hans, sem þá var bóndi á Laugum, 24 ára, Guðmundur Jónsson, bóndi í Fremri-Vatnadal, 36 ára, Jón Jónsson, bóndi á Norðureyri, 38 ára, Sveinbjörn Pálsson, þá vinnumaður í Selárdal en síðar bóndi á Laugum, 22ja ára, og sjötti maður sem ekki er vitað hver var.[659]

Í öllum sínum mörgu sjóferðum hlekktist Kristjáni aldrei á svo kunnugt sé og ekki er til þess vitað að hann hafi lent í hrakningi nema í þetta eina skipti.[660] Um sjómennsku Kristjáns, verklagni hans og búhyggindi ritar Valdimar Þorvaldsson á þessa leið:

 

Hann fiskaði vel sem Þorleifur afi hans. Þeir nefndu það ættarlán en tilhald og sókn var meiri en svo að almenningi væri fært að keppa við hann. Honum lánaðist allt vel og varð aldrei fyrir óhappi á sjó. Hann var forstands- og fyrirhyggjumaður sem lét ekki fengið fé fara forgörðum og hann var verklaginn og mjög fær um að gera við og bæta það sem þörfin heimtaði, bæði við búskap og á sjó á opnum bátum.[661]

 

Kristján Albertsson var smiður góður, bæði á tré og járn, og kom það honum oft að góðum notum við búskapinn og bátaútgerð[662] Hann hóf fyrstur manna í Súgandafirði kúfiskveiðar og smíðaði sér þá sjálfur kúfiskplóg og önnur tæki sem til þurfti.[663] Í þetta réðst hann sumarið 1893[664] en þá voru aðeins liðin fá ár frá því Sumarliði Sumarliðason, gullsmiður í Æðey, og Einar Gíslason, bóndi í Hringsdal í Arnarfirði, smíðuðu fyrstu kúfiskplógana sem notaðir voru hérlendis við kúfisktekju.[665] Slík tæki hafði Kristján séð en hafði þess utan ekkert í höndunum sér til leiðbeiningar er hann hófst handa við smíði plógsins og þeirra tækja sem honum þurftu að fylgja.[666] Kúfiskplógur Kristjáns var fyrst notaður haustið 1893 og varð árangur lítill í fyrstu en mun betri síðar.[667] Kúfiskurinn var notaður í beitu og gafst vel á grunnmiðum og sérstaklega innfirðis.[668] Kristján G. Þorvaldsson segir að áður en farið var að beita kúfiski hafi menn varla vitað um fisk inn á Súgandafirði en þegar kúfiskurinn kom til sögunnar fóru menn að róa í fjörðinn síðari hluta vors og fram á haust.[669] Gaf það oft góða raun því veiðarfæraslit og annar tilkostnaður var minni en ef sótt var á dýpri mið.[670]

Hér hefur á öðrum stað verið sagt frá kaupum Súgfirðinga á eina þilskipinu sem þeir eignuðust fyrir aldamótin 1900 og áður en vélbátaútgerð hófst á landi hér (sjá Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Skútu þessa, sem hét Sjófuglinn, keyptu nokkrir Súgfirðingar norðan úr Eyjafirði árið 1883 og mun hún hafa komið til Suðureyrar vorið 1884. Frumkvöðlar að þessum skipakaupum virðast hafa verið þeir Jón Ólafsson, bóndi á Stað, og Kristján Albertsson á Suðureyri og áttu þeir hvor um sig einn fjórða part í skipinu. Útgerð þessi lánaðist heldur illa eins og hér hefur áður verið rakið.

Betur tókst til hjá Kristjáni er hann hóf vélbátaútgerð árið 1906 eins og hér verður brátt vikið nánar að. Þá var liðinn fullur áratugur frá því hann hætti sem vertíðarformaður á áraskipi en útgerð slíkra báta hafði hann haldið áfram af fullum krafti og er sagt að á árunum kringum aldamótin hafi hann stundum átt þrjá og jafnvel fjóra[671] (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Um upphaf vélbátaútgerðar Íslendinga á árunum rétt eftir aldamótin 1900 er ritað hér á öðrum stað (sjá hér Flateyri) en fyrstu íslensku vélbátarnir voru gerðir út frá Ísafirði og Flateyri.

Þeir Kristján Albertsson og Jón Einarsson, tengdasonur hans, urðu fyrstir manna í Súgandafirði til þess að festa kaup á vélbát.[672] Bátinn áttu þeir saman og kom hann til Suðureyrar um mánaðamótin mars/apríl árið 1906.[673] Þessi bátur hét Svanur.[674] Hann var smíðaður í Danmörku og var með fjögurra hestafla vél.[675] Formaður á Svaninum var Jón Einarsson.[676] Sumarið 1906 bættust tveir aðrir vélbátar í flota Súgfirðinga (sjá hér bls. 118-121) og um haustið lét Kristján Albertsson setja vél í sexæring sinn sem var nýr og traustur bátur.[677] Þann bát, sem hét Nítjánda öldin, átti Kristján einn.[678] Tveimur árum síðar lét hann smíða nýjan vélbát sem hann átti að hálfu á móti mági sínum, Þórði Þórðarsyni.[679] Sá bátur hét Freyr og var Þórður formaður á honum.[680] Þegar Kristján Albertsson andaðist sumarið 1909 var hann enn eigandi þessara þriggja báta en tvo þeirra átti hann þó bara að hálfu.[681] Engi að síður var hann þá alveg tvímælalaust umsvifamesti útgerðarmaðurinn á Suðureyri eins og sjá má þar sem fjallað er lítið eitt nánar um fyrstu ár vélbátaútgerðar frá Suðureyri (sjá hér bls. 118-126).

Kristján Albertsson á Suðureyri var tvíkvæntur og eignaðist hann fjögur börn með fyrri konunni en fjórtán með þeirri síðari.[682] Fyrri konu sinni, Kristínu Guðmundsdóttur frá Suðureyri, kvæntist Kristján haustið 1873 og hér hafa áður verið sögð deili á henni (sjá bls. 56-57). Mislingasumarið 1882 varð Kristján fyrir þeim þunga harmi að missa eiginkonuna, sem aðeins var 28 ára gömul, og tvö af þremur börnum þeirra sem á lífi voru er sóttin tók að herja.[683] Kristín húsfreyja og dætur þeirra tvær dóu allar í sama mánuðinum, 3., 8. og 17. júlí.[684] Eina dóttur höfðu þau hjónin misst fáum árum fyrr og af fjórum börnum þeirra lifði því aðeins eitt en það var elsta dóttirin, Kristín, sem seinna giftist Jóni Einarssyni á Suðureyri.[685] Hið mikla harðindaár, 1882, dóu 25 manneskjur í Súgandafirði, 18 börn og 7 fullorðnir, flestir úr mislingum eða fylgisjúkdómum þeirra.[686] Lætur nærri að sjöundi hver íbúi í byggðarlaginu hafi andast á þessu hörmungaári[687] og áttu flestir þeirra sem eftir lifðu um sárt að binda.

Kristján Albertsson kvæntist í annað sinn 1. október 1883 og gekk þá að eiga Guðrúnu Þórðardóttur frá Ytri-Vatnadal.[688] Hún var þá 23ja ára gömul, fædd í Botni 6. janúar 1860,[689] en Kristján var níu árum eldri. Foreldrar Guðrúnar voru hjónin Þórður Þórðarson og Helga Sigurðardóttir, sem bjuggu í Ytri-Vatnadal frá 1868 til 1885 og hefur áður verið frá þeim sagt á þessum blöðum (sjá hér Ytri-Vatnadalur).

Guðrún Þórðardóttir lærði ljósmóðurfræði hjá Þorvaldi Jónssyni, lækni á Ísafirði, þegar hún var um eða innan við tvítugt[690] en Helga móðir hennar hafði einnig fengist við fæðingarhjálp (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Guðrún húsfreyja á Suðureyri gegndi ljósmóðurstörfum í nær aldarfjórðung eða frá því um 1880 og allt til ársins 1904.[691] Fórust henni þau störf jafnan vel úr hendi.[692] Af 14 börnum Kristjáns og Guðrúnar náðu 11 að verða fullorðin og heimili þeirra var jafnan fjölmennt.[693] Kristján G. Þorvaldsson, sem þekkti Guðrúnu Þórðardóttur, ritar um hana á þessa leið:

 

Oft var fjölmennt á heimili þeirra og gestakoma mikil, ekki síst síðari árin. Störf húsmóðurinnar með hinn stóra barnahóp voru því mjög mikil og margbrotin, bættu ljósmóðurstörfin þar ekki litlu við því þau útheimtu jafnan lengri eða skemmri ferðir sem stundum voru erfiðar.

Guðrún var þrekmikil kona, stillt og gætin og varð lítt fundið á skapsmunum hennar hvort með blés eða móti. Mörgum rétti hún hjálparhönd og … ávann sér hlýhug og virðingu allra sem henni kynntust að nokkru ráði.[694]

 

Magnús Hjaltason minnist einnig á Guðrúnu,  húsfreyju á Suðureyri, í skrifum sínum og segir að hún hafi verið gáfukona mikil og hið mesta göfugmenni.[695]

Árið 1892 réðst Kristján Albertsson í að byggja stórt timburhús á Suðureyri og var það reist skammt fyrir utan gamla torfbæinn, á sama stað og Suðureyrarkirkja stendur nú.[696] Þetta var fyrsta íbúðarhús úr timbri sem reist var í Súgandafirði.[697] Timbrið í húsið fékk Kristján frá Noregi vorið 1892 og var þá strax hafist handa við smíðarnar.[698] Að byggingu hússins var unnið allt sumarið og fram á næsta vetur en verkinu miðaði svo vel að fjölskylda Kristjáns gat flutt inn í nýja húsið fyrir jól.[699] Þetta var tveggja hæða hús og grunnflötur þess 10 x 12 álnir,[700] það er liðlega 47 fermetrar. Auk hæðanna tveggja var í húsinu rúmgott geymsluloft og kjallari undir eldhúsinu.[701] Til er greinargóð lýsing á húsinu og segir þar svo:

 

Loft var yfir herbergjum efri hæðar en neðan við miðjar sperrur. Var það notað til geymslu tóvinnuáhalda o.fl. Í öðrum enda þess var lítið eins manns herbergi. Grunnur hússins var allhár þeim megin er sneri að Tjörninni en á hinn veginn lítið yfir jörð. Á neðri hæð voru tvær rúmgóðar stofur, svefnherbergi, eldhús og búr. Kjallari var undir eldhúsinu. En á efri hæð fjögur herbergi og gangur.[702]

 

Önnur stofan var nefnd norðurstofa og hin þá að líkindum suðurstofa en uppi voru piltakamelsi, stúlknakamelsi, smíðakamelsi og bláa kamelsi.[703] Í húsinu var líka spísskamels[704] og má ætla að þar hafi fólkið matast.

Um muninn á þessu húsi og torfbæjunum sem fólk hafði átt að venjast þarf vart að ræða. Þegar Kristján og fjölskylda hans fluttust inn í sitt stóra timburhús bjuggu allir aðrir Súgfirðingar í torfbæjum. Þessir bæir, að kofum sem búið var í meðtöldum, voru þá 21.[705] Enginn þessara bæja hafði timburþil sem næði alveg frá mæni og niður úr en á fimm þeirra voru timburgaflar í risi og á sex bæjum timburþil sem náðu ofan frá mæni að neðri glugga.[706]

Árið 1893 byggði Kristján Albertsson skúr við ytri enda nýja íbúðarhússins og á árunum 1902-1903 byggði hann við innri endann.[707] Var sú bygging fullar tvær hæðir en með lágu risi.[708]

Þegar byggð hófst á Suðureyrarmölum á árunum kringum aldamótin 1900 fóru unglingar brátt að safnast saman í húsi Kristjáns og Guðrúnar til leika og skemmtana en hin elstu úr barnahópi þeirra hjóna voru þá að komast á unglingsár.[709] Á þessum árum var stundum dansað í dagstofunni en áður en húsið var byggt höfðu unglingar ekki getað skemmt sér í hóp nema utanhúss.[710]

Um þessar mundir [aldamótin 1900] var dans að byrja í Súgandafirði, segir Magnús Hjaltason og bætir við þessum orðum: … en misjafnan byr fékk hann og sagði sumt gamalt fólk að hann væri fjandanum til skemmtunar.[711] Barnakennsla fór líka fram í stóra timburhúsinu á Suðureyri og mun Kristján fyrst hafa ráðið til sín heimiliskennara veturinn 1893-1894 (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Á næstu árum var oft kennt í nokkrar vikur eða mánuði að vetrinum á heimili Kristjáns og Guðrúnar og nutu þess fleiri en þeirra eigin börn (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Vegna hins mikla fjölda heimilismanna hjá þeim Kristjáni og Guðrúnu kom sér vel að hafa rúmgóð húsakynni. Árið 1890 voru heimilismennirnir 15, árið 1895 voru þeir 16[712] og árið 1901 hafði þeim fjölgað upp í 19.[713] Í þessu sama húsi bjuggu þá líka þrjár aðrar fjölskyldur svo heildartala fólks sem hér bjó undir einu þaki var 29.[714] Auk Kristjáns Albertssonar og Guðrúnar konu hans bjuggu þrenn hjón í húsinu árið 1901. Þau voru: 1) Jón Einarsson og Kristín Kristjánsdóttir, sem var dóttir Kristjáns Albertssonar og fyrri konu hans, 2) Þórður Þórðarson og Sigríður Einarsdóttir, 3) séra Þorvarður Brynjólfsson og Anna Stefánsdóttir.[715] Séra Þorvarður og fjölskylda hans voru hér aðeins veturinn 1901-1902 en í fardögum um vorið fór hann að búa á Stað (sjá hér Staður). Jón Einarsson og Þórður Þórðarson áttu hins vegar heima í þessu fyrsta timburhúsi á Suðureyri í allmörg ár.[716] Báðir voru þeir formenn á bátum og í félagi við Kristján Albertsson um útgerð þeirra (sjá hér bls. 61-62) en Jón var tengdasonur hans og Þórður var bróðir Guðrúnar, konu Kristjáns.[717]

Áður en farið var að versla á Suðureyri mun Kristján Albertsson hafa verið með mikið af sínum verslunarviðskiptum á Flateyri. Til er afrit af bréfi sem Hjálmar Jónsson, kaupmaður á Flateyri, skrifaði Kristjáni 15. júní 1882[718] og hefur Kristján fengið það bréf í hendur örfáum vikum áður en yfir hann dundi hið grimma él er svipti hann eiginkonu og tveimur dætrum sem dóu allar þrjár í júlímánuði 1882 (sjá hér bls. 62).

Bréfið ber með sér að það er skrifað til að hamla gegn því að Súgfirðingar fari að steypa sér í skuldir við Gram, kaupmann á Þingeyri, sem var í þann veginn að fara til Súgandafjarðar á spekúlantskipi, þegar bréfið var skrifað, og bjóða þar varning sinn sem lausakaupmaður. Fyrir vörurnar sem Gram bauðst til að lána mönnum í stuttan tíma mun hann hafa viljað fá loforð fyrir haustfiskinum en Hjálmar hafði fullan hug á að tryggja sér þennan sama fisk og halda sínum hlut í viðskiptum við Súgfirðinga eins og sjá má á bréfinu sem er á þessa leið:

 

Kæri vin. Ástæður fyrir því að ég sendi til yðar með þessar línur eru að kaupmaður Gram, sem hefur legið hér á höfninni nokkra daga til að lána fólki út kramvöru og sem ætlar nú á Súgandafjörð, – en þar útlit er fyrir mesta hallæri, þá bið ég yður að vera mér hjálplegur með að afstýra sem mest að hægt er vandræðum hér í sveitunum – með því að ég geti látið vera hér við verslunina matvöru eins næsta vetur eins og þann sem er liðinn, sem tiltekið mörgum Dýrfirðingum og plássunum hér hefur orðið að töluverðri hjálp. En til þess að fá þessu framgengt býð ég yður og öðrum Súgfirðingum það tilboð að ef þið flytjið til mín þann haustfisk sem til er svo að ég geti sent hann fram með næstu dampskipsferð til að kaupa matvöru fyrir hann, þá tek ég hann ósorteraðan og gef ykkur fyrir hvert skippund tvær krónur yfir hæsta prís sem verður á klipfiski í sumar. Að ég gjöri þetta nú er sem þið sjáið af framanskrifuðu nauðsynlegt því ekkert útlit er til að fólk klári skuldir sínar og þá má ekki sleppa allri umsorgun fyrir að því verði hjálpað þegar að þrengir.

Ég treysti yður sem þeim helsta í sveitinni að þér fallist á mitt mál.

Yðar með virðingu og vinsemd einlægur vin.

Hjálmar Jónsson.[719]

 

Þau orð Hjálmars að útlit væri fyrir mesta hallæri þegar bréfið var skrifað höfðu við full rök að styðjast eins og m.a. má sjá á bréfi Dýrfirðinga er þeir rituðu landshöfðingja 19. júní 1882 (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) en árin 1881 og 1882 voru, hvað tíðarfar snerti, þau hörðustu á síðari hluta nítjándu aldar. Skipti þá ekki litlu máli að matvörubirgðir væru fyrir hendi í verslunum til að halda lífi í fátæku fólki þó greiðslan yrði að bíða. Við slíkar aðstæður var hins vegar lítið vit, fyrir ærið marga, að láta af hendi fisk eða önnur matvæli fyrir varning sem ekki var hægt að leggja sér til munns og það hefur Hjálmar á Flateyri líklega skilið betur en margir aðrir, enda féll afi hans og nafni úr hungri aðeins 79 árum áður en bréfið til Kristjáns Albertssonar var skrifað (sjá hér Flateyri).

Svo fór að Hjálmar seldi verslun sína á Flateyri á síðustu mánuðum ársins 1882 en kaupandinn var Ásgeirsverslun á Ísafirði sem tók við rekstrinum á Flateyri í byrjun árs 1883 (sjá hér Flateyri). Á næstu árum var Kristján Albertsson með mikil viðskipti við verslunina á Flateyri, sem þá var útibú frá Ásgeirsverslun, og má sem dæmi nefna að árið 1885 nam  úttekt hans þar 773,66 kr.[720] Kýrverðið var þá um 110,- kr.[721] svo úttektin svaraði til sjö kúgilda. Þetta ár var innlegg Kristjáns hjá verslunarútibúinu á Flateyri mun minna en úttektin en það nam 517,95 kr.[722] Skuld hans á Flateyri hækkaði því á árinu 1885 úr 314,95 kr. í 570,66 kr.[723] Innlegg Kristjáns var aðallega fiskur, bæði riklingur og saltfiskur en líka svolítið af kjöti, það er að segja 88 kíló af kindakjöti og hrossakjöt fyrir 20,- krónur.[724] Fyrir hvert kíló af kindakjötinu borgaði verslunin 36 aura.[725] Athygli vekur hversu lítið Kristján tók út af brennivíni, aðeins einn pott og tvær þriggja pela flöskur á heilu ári en brennivínspotturinn kostaði 85 aura.[726]

Árið 1889 sótti Kristján um leyfi til að reka sveitaverslun á Suðureyri og var honum veitt það.[727] Engin verslun var þá í Súgandafirði og hafði aldrei verið. Allar nauðsynjar varð að sækja til Flateyrar eða á Ísafjörð, þar á meðal salt og mun saltskortur stundum hafa valdið mönnum skaða þegar mikill afli barst að landi.[728] Salt munu Súgfirðingar reyndar stundum hafa keypt af frönskum fiskimönnum og svo af lausakaupmönnum er viðskipti hófust við þá á síðasta fjórðungi 19. aldar[729]

Þó að Kristján Albertsson fengi verslunarleyfi nýtti hann sér það ekki.[730] Þess í stað fékk hann Ásgeirsverslun til að setja upp saltgeymslu á Suðureyrarmölum þar sem jafnframt mætti hafa nokkuð af matvöru á boðstólum.[731] Sjálfur tókst hann á hendur að annast þennan rekstur sem umboðsmaður eða útibússtjóri verslunarinnar.[732] Vorið 1891 lét Ásgeirsverslun byggja lítið timburhús á Suðureyrarmölum með lofti á bitum en risi svo miklu að mannstætt var á miðju lofti.[733] Var neðri hæðin ætluð fyrir saltgeymslu en á loftinu var komið fyrir matvöru.[734] Rekstur hófst vorið 1891 og var það fyrsti vísir að verslunarstarfsemi í Súgandafirði.[735]

Húsinu var valinn staður í nánd við Malaroddann, fáeinum metrum utan við timburhjall Kristjáns Albertssonar (sjá hér bls. 102-103). Einar Jónsson dagbókarritari átti heima á Suðureyri árið 1891 og var þá fimmtugur lausamaður, búinn að missa konuna. Fróðlegt er að sjá hvað hann skrifar um byggingu þessa fyrsta verslunarhúss á Suðureyrarmölum. Þann 7. maí 1891 er þessi orð að finna í dagbókinni:

 

Svo kom Ásgeir litli [gufubátur Ásgeirsverslunar – innsk. K.Ó.] hér inn á lag og við Kristján, Valdimar [Sigurðsson, vinnumaður á Suðureyri – innsk. K.Ó.], Jón minn, Jóh. [líklega Jóhannes Albertsson á Norðureyri – innsk. K.Ó.], Þorbjörn og Jón Þorbjörnsson fórum fram á sexahringnum og Þorbjarnarbátnum að flytja við í land. Einar Bjarnason og Sveinbjörn nokkur urðu hér eftir og eiga að setja upp hús og verða hjá Kristjáni á meðan.[736]

 

Einar Bjarnason, sem þarna er nefndur, mun lengi hafa verið timburmaður hjá Ásgeirsverslun á Ísafirði.[737]

Næsta dag fjölgaði smiðunum því þá kom Sigurður snikkari Eiríksson að smíða með Einari Bjarnasyni.[738] Einar dagbókarritari var þá með öðrum manni að fella niður grjót í grunnmúrinni og bera það að.[739] Þann 9. maí var húsið reist og að kvöldi þess dags skrifar Einar Jónsson í dagbókina: Kristján, Þorbjörn og ég vorum að smíða húsið með Einari og þeim svo það var klárað að mestu leyti. Valdimar og Jón minn voru oftast að hjápa þeim líka.[740]

Mánudaginn 11. maí fóru smiðirnir yfir Botnsheiði á Ísafjörð en næsta dag var dagbókarritarinn að hjálpa Kristjáni Albertssyni við að fella í glufur utan með gólfinu í salthúsinu en svo nefnir hann þetta nýja timburhús.[741] Síðla dags þann 14. maí kom gufubáturinn Ásgeir litli svo aftur til Suðureyrar og var með 70 tunnur af salti sem hér átti að skipa í land.[742] Með bátnum kom líka Einar Bjarnason smiður, sem nú fór að fóðra húsið innan, en honum til aðstoðar við það verk voru Kristján Albertsson á Suðureyri og Guðmundur Sigurðsson[743] er hóf búskap á Laugum þetta vor.

Einar Jónsson dagbókarritari var einn þeirra sem unnu við uppskipun á saltinu 14. maí 1891 og segir frá á þessa leið: Þegar við vorum rétt komnir [af sjó] kom Ásgeir litli með 70 tunnur af salti svo við fimm og Þorbjörn með sína menn fórum að flytja það í land. … Við vorum við það í 4 tíma.[744]

Fimm dögum síðar kom gufubáturinn enn inn á lagið framan við Suðureyrarmalir[745] og að því sinni með matvöru frá Ásgeirsverslun sem fór á loftið í salthúsinu nýja. Það voru 7 tunnur af hálfgrjónum, 9 tunnur af rúg og 55 kvartil af méli.[746]

Vera má að einhverjum kunni að virðast sérkennilegt að Einar skuli nefna þetta fyrsta hús Ásgeirsverslunar á Suðureyri salthús. Staðreyndin er þó sú að húsið var fyrst og fremst saltgeymsla og bætti í þeim efnum úr brýnni þörf. Frá því farið var að salta fisk höfðu Súgfirðingar alltaf orðið að fara öðru hverju á bátum sínum til Flateyrar að sækja salt en því fylgdi ekki aðeins ærin fyrirhöfn heldur líka beinn fjárhagslegur skaði því oft misstu menn úr sjóróðra vegna þessara ferða. Sem dæmi má nefna að seint í marsmánuði árið 1889 fóru Suðureyrarbændur til Flateyrar að ná í salt og komu með 12 ½ tunnu[747] en í húsi Ásgeirsverslunar var að sögn pláss fyrir 100 salttunnur þó að annar varningur væri geymdur á loftinu.[748]

Þetta fyrsta verslunarhús á Suðureyri gekk um skeið undir nafninu Gráa pakkhúsið[749] en um stærð þess ber heimildum ekki alveg saman. Kristján G. Þorvaldsson segir á einum stað að grunnflötur þess hafi verið 5 x 6 álnir[750] en á öðrum stað að hann hafi verið 6 x 8 álnir.[751] Valdimar Þorvaldsson er svo með enn aðrar tölur og segir grunnflöt hússins hafa verið 6 x 6 álnir[752] eða um 14 fermetra. Hann lýsir því nánar, segir vegghæð hafa verið 8 fet (2,5 metra), risið 6 fet, loft og port 1 fet.[753] Að sögn Valdimars voru dyr á einu horni hússins og þar aðgangur að salti og stiga.[754] Uppi á loftinu var mjölvara, kaffi og sykur.[755] Á loftskörinni var lítil vigt og stóð Kristján jafnan í stiganum þegar hann afgreiddi varning ofan af loftinu.[756] Nokkur fyrstu árin var þessi vöruafgreiðsla aðeins opnuð þegar einhver kom til að versla.[757] Menn urðu þá að finna Kristján og fá hann til að fara í búðina.[758] Væri hann á sjó urðu menn að bíða þess að hann kæmi í land en afgreiðslu fengu þeir strax er hann hafði sett skip sitt.[759] Einn eða fleiri af heimilismönnum Kristjáns virðast þó hafa haft umboð frá honum til að fara í búðina og afgreiða menn sem komu til að kaupa eitthvert lítilræði sem þá vanhagaði um.[760]

Fyrstu árin var vöruafgreiðslan eða umsjón með henni aðeins aukastarf hjá Kristjáni Albertssyni en verslunarumsvifin jukust ár frá ári[761] og árið 1895 hætti hann alveg að stunda sjó eins og hér hefur áður verið nefnt. Næsta ár var húsakostur verslunarinnar aukinn og segja má að frá árunum 1895-1897 hafi Kristján haft verslunarstörf að aðalstarfi þó að hann stjórnaði jafnframt búi sínu og bátaútgerð.[762]

Allt frá árinu 1892 mun útibú Ásgeirsverslunar á Suðureyri hafa keypt nokkuð af blautfiski[763] og áður en langir tímar liðu urðu fiskkaup og fiskverkun gildur þáttur í rekstrinum.[764] Um fiskverkunina sá Kristján Albertsson að öllu leyti meðan honum entust kraftar til en hann stýrði rekstri verslunarútibúsins á Suðureyri allt þar til hann andaðist sumarið 1909.[765]

Hér var áður frá því greint að á fermingaraldri hefði Kristján Albertsson verið óskrifandi að kalla og ekki kunnað neitt í reikningi (sjá hér bls. 56). Með sjálfsnámi náði hann síðar að verða prýðilega skrifandi og svo fær í meðferð talna að vel dugði í starfi hans sem verslunarstjóra.[766] Til þess að svo mætti verða hefur bæði þurft góða greind og einbeittan vilja. Allt bókhald útibúsins á Suðureyri var að vísu lengi vel fært á Flateyri en þangað sendi Kristján skilagreinar sínar og yfir þeim mun aldrei hafa þurft að kvarta.[767] Upp úr aldamótum fór elsti sonur Kristjáns Albertssonar, Kristján Albert Kristjánsson sem fæddur var árið 1885, að aðstoða föður sinn við verslunarstörfin.[768] Vorið 1907 lauk hann prófi frá Verslunarskólanum í Reykjavík og sá þaðan í frá um allt bókhald útibúsins á Suðureyri en fram að þeim tíma höfðu stjórnendur Ásgeirsverslunar á Flateyri annast það.[769] Við andlát Kristjáns Albertssonar tók Kristján Albert síðan við starfi föður síns hjá Ásgeirsverslun á Suðureyri.[770]

Kristján Albertsson var sýslunefndarmaður í mörg ár eins og hér hefur áður verið nefnt. Hann mun hafa verið áhugasamur um landsmál og fylgdi að sögn kunnugra Skúla Thoroddsen að málum eins og flestir aðrir Súgfirðingar.[771] Að svo skuli hafa verið er reyndar dálítið merkilegt því helstu ráðamenn Ásgeirsverslunar á Ísafirði voru löngum í hópi harðvítugustu andstæðinga Skúla.[772] Hjá alþýðuskáldinu Magnúsi Hjaltasyni fær Kristján bóndi á Suðureyri þann dóm að hann hafi verið rausnar- og atorkumaður og réttnefndur stórhöfðingi.[773] Á öðrum stað er Kristjáni lýst með þessum orðum:

 

Hann var vel máli farinn, skemmtilegur í viðræðum og fyndinn er honum þótti svo við eiga en alvörugefinn og einbeittur er það átti við. … [Hann] var meðalmaður á hæð, fríður sýnum, þrekinn og vel á sig kominn, kraftamaður meira en í meðallagi meðan hann naut heilsu.[774]

 

Þegar Kristján Albertsson andaðist, 58 ára gamall, þann 22. júlí 1909 hafði hann búið á hálfri Suðureyri í 34 ár en ekkja hans, Guðrún Þórðardóttir, hélt búskapnum áfram allt til ársins 1924 svo ekki vantaði nema eitt ár til að samanlagður búskapartími þeirra beggja næði hálfri öld.[775] Að Kristjáni látnum átti Guðrún líka hlut að vélbátaútgerðinni sem hann hafði staðið fyrir[776] (sbr. hér bls. 61-62). Hún bætti meira að segja við tveimur nýjum bátum sem báðir voru keyptir frá Danmörku.[777] Þessa báta átti hún á móti Jóni Pálmasyni, bóndasyni frá Botni, sem orðinn var formaður á Suðureyri.[778] Fyrri bátinn keyptu þau sumarið 1910.[779] Hann fórst með fimm manna áhöfn 11. september 1911.[780] Seinni bátinn fengu þau nýjan frá Danmörku sumarið 1913 og fórst hann með sex manna áhöfn þann 11. nóvember þá um haustið.[781] Báðum þessum bátum var gefið nafnið Hlín[782] og lánaðist svona hörmulega. Með yngri Hlín fórst Jón Pálmason, sem var meðeigandi Guðrúnar, og var hann formaður þegar báturinn týndist í hafi.[783]

Allt til ársins 1912 bjó Guðrún á þeim 10 hundruðum sem þau Kristján höfðu haft til ábúðar en minnkaði þá við sig og bjó frá 1912-1924 á 5 og ½ hundraði.[784] Á þessum árum mun hún, a.m.k. stundum, hafa haft meiri eða minni samvinnu um búskapinn við tengdasyni sína, þá Jón S. Steinþórsson og Örnólf Valdimarsson, en þeir áttu báðir heima í húsi hennar á Suðureyri.[785] Í sóknarmannatali frá 31.12.1920 eru þeir reyndar báðir sagðir vera bændur en bera annars jafnan önnur atvinnuheiti í húsvitjanabók prestsins frá þessum árum.[786] Í ritgerð um Kristján Albertsson á Suðureyri fullyrðir Kristján G. Þorvaldsson að Guðrún ekkja hans hafi búið á 5 og ½ hundraði allt til ársins 1924.[787] Valdimar Þorvaldsson segir aftur á móti að Örnólfur Valdimarsson, tengdasonur Guðrúnar, hafi tekið við ábúð á þessum sömu hundruðum árið 1916 og haldið henni allt til ársins 1932.[788] Örnólfur hafði útgerð og verslunarrekstur að aðalstarfi en ábúðarrétt á einhverjum hundruðum úr Suðureyrarjörðinni mun hann hafa fengið vorið 1916. Fyrir því höfum við ekki aðeins orð Valdimars Þorvaldssonar heldur líka ummæli Magnúsar Hjaltasonar í dagbók hans frá sumrinu 1916.[789] Vera má að þau Örnólfur og Guðrún Þórðardóttir hafi þá skipt á milli sín ábúðinni á nýnefndum jarðarparti sem Guðrún átti og hafði búið á næstu ár á undan.

Við fasteignamatið, sem fram fór á árunum 1916-1918, reyndist Guðrún Þórðardóttir á Suðureyri eiga meiri fjármuni bundna í fasteignum en nokkur sveitungi hennar en fram skal tekið að Ásgeirsverslun á Ísafirði átti þá mun meiri eignir hér í Súgandafirði.[790] Jörðin Suðureyri án húsa var þá metin á 27.000,- kr. sem var nær tífalt hærra verð en á þeirri jörð í hreppnum sem næst kom.[791] Þessu heljarstökki olli þéttbýlismyndunin á Suðureyrarmölum. Á þessum árum átti Guðrún 27,5% af allri jörðinni[792] svo eignarhlutur hennar var virtur á 7.425,- kr. Íbúðarhús hennar frá árinu 1892 var ásamt útibúsum virt á 2.152,69 kr. og íbúðarhús sem hún átti á Suðureyrarmölum á 2.500,- kr.[793] Auk þessa átti Guðrún fjóra níundu parta í jörðinni Ytri-Vatnadal og hálft Kvíanes.[794] Jarðarpartur Guðrúnar í Vatnadal var metinn á 756,- kr. og eign hennar í Kvíanesi á 800,- kr.[795] Samtals voru fasteignir hennar í Súgandafirði því virtar á 13.633,69 kr.

Þegar árið 1924 gekk í garð voru engar stórvægilegar breytingar í augsýn hjá Guðrúnu Þórðardóttur sem þá hafði verið húsfreyja á Suðureyri í 40 ár og var að verða 64 ára gömul. Á þorranum dró hins vegar til alvarlegra tíðinda því þá gerði eitt hið mesta stórviðri sem menn í Súgandafirði mundu eftir og í því veðri fauk íbúðarhús Guðrúnar sem byggt hafði verið úr norsku timbri árið 1892.[796] Kristján G. Þorvaldsson segir að komið hafi verið fram í febrúar þegar húsið fauk[797] en Kristján Albert Kristjánsson, sem var sonur Guðrúnar Þórðardóttur, segir húsið hafa fokið 28. janúar 1924.[798] Gera má ráð fyrir að sú dagsetning sé rétt.

Í fárviðrinu mikla fauk þetta stóra timburhús ekki af grunni í heilu lagi heldur tættist eldri hluti þess í sundur, fjöl fyrir fjöl, svo ekkert stóð að lokum eftir nema gólfið.[799] Engin meiðsl urðu á fólki en þeir sem í húsinu bjuggu misstu út í veður og vind flest sem þeir áttu af lausum munum.[800] Nýrri endinn, sá sem byggður var á árunum 1902-1903 (sjá hér bls. 63-64), stóð eftir lítið skemmdur en í honum bjó, þegar ósköpin dundu yfir, Örnólfur Valdimarsson, tengdasonur Guðrúnar,[801] liðlega þrítugur ekkjumaður sem fékkst við verslun, útgerð og fiskverkun.[802] Þessi partur af húsinu var rifinn skömmu síðar og endurbyggður út í kauptúninu.[803] Í þorraveðrinu mikla árið 1924 tók líka af grunni nýlegt samkomuhús sem reist hafði verið á Suðureyrarmölum.[804] Hús Guðrúnar Þórðardóttur og samkomuhúsið fuku bæði sömu nóttina.[805] Valdimar Þorvaldsson smiður, fæddur 1878, segir að á Suðureyri hafi fokið sjö smærri og stærri hús í þessu fárviðri og eitthvað af rúðum brotnað í flestum húsum.[806] Af þessum sjö húsum voru hús Guðrúnar Þórðardóttur og samkomuhúsið stærst en hin fimm munu hafa verið hjallar eða önnur hús sem ekki var búið í.

Með falli stóra timburhússins á Suðureyrartúni lauk búskap Guðrúnar Þórðardóttur, ekkju Kristjáns Albertssonar, en segja má að hún hafi verið síðasti bóndinn á Suðureyri. Hún fluttist ásamt Helgu dóttur sinni og eiginmanni hennar, Jóni S. Steinþórssyni, í íbúðarhúsið sem hún átti í þorpinu á Suðureyrarmölum[807] og fyrr var nefnt. Það hús stóð við götu sem fékk nafnið Smiðjustígur og var þar númer þrjú[808] (sjá einnig hér bls. 114).

Vorið 1924 fékk sonur Guðrúnar, Kristján Albert Kristjánsson, ábúð á þeim parti úr jörðinni Suðureyri sem móðir hans átti og hafði búið á.[809] Þeirri ábúð hélt hann mörg næstu ár.[810] Kristján Albert var þó aldrei bóndi og hafði búskapinn aðeins í hjáverkum því hann var kaupmaður að aðalstarfi.[811] Guðrún móðir hans fluttist úr Súgandafirði til Reykjavíkur árið 1933 og andaðist þar 18. desember 1934.[812]

Hér hefur nú verið gerð nokkur grein fyrir síðustu bændunum á Suðureyri, þeim Þorbirni Gissurarsyni og Kristjáni Albertssyni, og eiginkonum þeirra, Sesselju Magnúsdóttur og Guðrúnu Þórðardóttur, sem báðar héldu áfram búskap á Suðureyri um nokkurt skeið að Þorbirni og Kristjáni önduðum.

 

Nærtækasta heimildin um búskaparhætti og daglegt líf fólksins á Suðureyri á árunum kringum aldamótin 1900 er tvímælalaust dagbók Einars Jónssonar sem fluttist að Suðureyri frá Meiri-Bakka í Skálavík vorið 1887, þá 46 ára gamall, og átti hér síðan heima, að einu ári undanskildu, allt til æviloka en hann andaðist 5. júní 1908.[813] Dagbókin er nú varðveitt í Landsbókasafni.[814]

Hér hefur víða verið stuðst við skrif Einars og ósjaldan til þeirra vísað svo við hæfi sýnist að gera örlitla grein fyrir þessum merka dagbókarritara.

Einar Jónsson fæddist í Þjóðólfstungu í Bolungavík mánudaginn 22. febrúar (24. febrúar samkv. prestsþjónustubók) árið 1841.[815] Foreldrar hans voru hjónin Jón Einarsson og Sigríður Magnúsdóttir sem vorið 1841 hófu búskap á Meiri-Bakka í Skálavík.[816] Einar fylgdi foreldrum sínum að Meiri-Bakka og ólst þar upp en föður sinn missti hann átta ára gamall.[817] Næstu tvö árin hélt móðir hans áfram búskap á Meiri-Bakka en vorið 1851 fór hún aftur til föður síns, Magnúsar Árnasonar, sem var bóndi í Þjóðólfstungu.[818] Drengurinn Einar, sem þá var 10 ára gamall, varð þá eftir hjá föðurforeldrum sínum á Meiri-Bakka, hjónunum Einari Jónssyni og Þórunni Ketilsdóttur.[819] Frá Meiri-Bakka fór Einar 14 ára gamall að Selárdal í Súgandafirði vorið 1855 og var þar í 12 ár, fyrst hjá Guðrúnu Ólafsdóttur, sem þá var búandi ekkja, og síðan hjá syni hennar, Þorbirni Gissurarsyni, síðar bónda á Suðureyri.[820]

Valdimar Þorvaldsson, sem fæddist í Selárdal árið 1878 og ólst upp með fólki sem þar var samtíða Einari, ritar um hann á þessa leið: Einar var netthagur, gerði við aska, trog, dalla og fötur og fleira, skar penna úr fjöður og skrifaði margt, kvæði, sögur og síðar dagbækur.[821]

Valdimar segir að Þorvaldur faðir sinn og Einar hafi báðir þekkt hvern stein á heiðinni Grárófu,[822] sem liggur milli Selárdals og Tungudals í Bolungavík, og um Einar bætir hann þessum orðum við:

 

Vel var hann fær að fara í kletta og í Selárdal fór hann hillu af Taglinu í Ásfjallinu fram á Dalbotn og hefur þá leið enginn farið nema Guðmundur bróðir minn, líklega 50 árum síðar … .

Einar var orðlagður fyrir gott siðferði og ósönn orð lét hann ekki viljandi frá sér fara.[823]

 

Í Selárdal var Einar fyrst smali en síðan vinnumaður.[824] Vorið 1867 fór hann þaðan og fluttist aftur að Meiri-Bakka í Skálavík.[825] Þar hóf hann búskap þetta sama vor á fjórum hundruðum en bætti tveimur hundruðum við ári síðar.[826] Þegar Einar hóf búskap á Meiri-Bakka var hann ókvæntur en haustið 1870 gekk hann að eiga Kristínu Þorkelsdóttur sem þá hafði verið vinnukona hans í eitt ár.[827] Þau voru jafnaldrar[828] en Kristín var dóttir hjónanna Þorkels Sigfússonar og Sigríðar Hafliðadóttur sem bjuggu um alllangt skeið í Bæ í Súgandafirði (sjá hér Bær). Konu sína missti Einar eftir átta ára hjúskap en hún dó af barnsförum 23. nóvember 1878.[829] Hann bjó áfram á Meiri-Bakka og stóð fyrir búi allt til ársins 1884 en fór þá í húsmennsku.[830] Frá 1884 til 1887 var Einar húsmaður á Meiri-Bakka en fluttist þaðan vorið 1887 og settist að hjá Þorbirni Gissurarsyni hér á Suðureyri.[831] Af börnum Einars og Kristínar konu hans náðu tvö að komast upp, Jón, sem fæddur var árið 1873, og Sigríður Elín, fædd 1877.[832] Þau fluttust bæði til Suðureyrar á ungum aldri[833] og áttu hér heima æ síðan.[834]

Einar Jónsson segir sjálfur að fyrstu ár sín á Suðureyri hafi hann verið húsmaður hjá Þorbirni Gissurarsyni en í sóknarmannatölum er hann sagður vera vinnumaður hjá Þorbirni fyrstu þrjú árin.[835] Frá Þorbirni fór Einar vorið 1891 til Kristjáns Albertssonar,[836] sem einnig bjó á Suðureyri, og var síðan heimilismaður hjá honum allt til æviloka ef frá er talið fardagaárið 1893-1894 og svo allra síðustu vikurnar en þá var hann hjá Sigríði dóttur sinni og eiginmanni hennar á Suðureyrarmölum.[837] Hjá Kristjáni var Einar lengi vinnumaður að hálfu og sjálfs sín að hálfu.[838] Á Suðureyri sinnti hann flestum almennum störfum, bæði á landi og sjó, eins og sjá má í dagbók hans en fékkst líka þó nokkuð við smíðar. Fáum vikum fyrir andlát sitt árið 1908 festi Einar á blað stutt yfirlit yfir sinn eigin æviferil og segir þar: Ég hef alltaf verið hjá Kristjáni Albertssyni síðan 1894 og hefur ekki komið neitt markvert fyrir mig síðan og leið mér þar að öllu leyti mjög vel.[839]

Hjá Magnúsi Hjaltasyni, öðrum og yngri dagbókarskrifara á Suðureyri, fær Einar Jónsson þá einkunn að hann hafi verið hið mesta prúðmenni.[840] Einar var erfiðismaður, sem sjaldan féll verk úr hendi, og virðist fátt hafa skrifað annað en dagbókina. Hann átti þó kvæðakver sem ugglaust hefur verið handskrifað og má telja líklegt að það sem kverið hafði að geyma hafi hann sjálfur skrifað upp. Kverið lánaði hann Þorleifi Sigurðssyni, ungum bónda á Norðureyri, um miðjan desember árið 1894.[841] Eitt af því sem Einar færði í letur, máske á hverju ári, var svo almanakið, þessi ágæta handbók sem jafnan kom mörgum að góðum notum á fyrri tíð. – Ég kláraði að skrifa almanakið, segir hann til dæmis að taka á gamlársdag árið 1889.[842]

Ýmislegt bendir til þess að Einar Jónsson hafi verið hagleiksmaður því oft var hann að smíða hitt og þetta. Það sjáum við í dagbókinni. Sé litið af handahófi á fimmtán daga á ýli árið 1894 er þessi dæmi að finna: Ég var að smíða skíði fyrir Þórð litla –  … svo lét ég framan á skíði fyrir Örnólfég heflaði tvö hrífusköft og smíðaði hrossakamb.[843]

Einar Jónsson dó á Suðureyri 5. júní 1908 eins og hér var áður nefnt. Tíu árum fyrr hafði hann komið sér upp líkkistu sem hann ætlaði sjálfum sér. Að svo hafi verið sést í dagbókinni. Um kistusmíðina ritar Einar fyrst 20. apríl 1898 og segir: Ég var frá af tannpínu. Þó var ég að saga niður í líkkistu sem ég ætla að fara að smíða fyrir mig.[844] Þremur vikum síðar bætir hann þessu við: Svo fór ég að styðja fyrir Guðmund Sigurðsson. Hann var að smíða fyrir mig líkkistuna í fimm tíma.[845]

Hér verður nú litið á örfáa þætti í dagbókarskrifum Einars í því skyni að varpa ljósi á annir og umstang fólksins á Suðureyri að sumri til á síðasta fjórðungi 19. aldar. Við stöldrum fyrst við sumarið 1889 en þá var Einar heimilismaður hjá Þorbirni Gissurarsyni:

 

 1. júní Þann dag fóru 10 eða 11 menn frá Suðureyri inn á hlíð að ryðja götuna. Kristján Albertsson var verkstjóri og þeim tókst að ljúka við spottann frá Laugalæk og út undir Selið.
 2. júní Við fórum á Sigríðar bátnum vestur á Flateyri að sækja undanflátt. Það voru 6 tunnur sem við komum með, skrifar Einar þennan dag.

Undanflátta, sem hér kemur við sögu hjá Einari, er feitasta kjötið af hval, það kjötlag sem liggur næst spikinu. Hvalkjötið, sem sótt var til Flateyrar, hefur án efa verið frá hvalveiðistöðinni á Sólbakka en rekstur hennar hófst einmitt þetta sama sumar (sjá hér Sólbakki). Bátinn, sem Einar nefnir Sigríðar bát, mun Sigríður Friðbertsdóttir hafa átt en hún var árið 1889 búandi ekkja í Selárdal og mágkona Þorbjörns Gissurarsonar á Suðureyri.

 1. júní Þann dag var fært frá á Suðureyri og farið með lömbin inn í Þorleifsvík rétt innan við Lauga, 25 lömb frá Kristjáni og 28 frá Þorbirni.
 2. júlí Steinbítnum skipt. Það voru 108 í hlut.
 3. júlí Fjórar manneskjur frá Þorbirni á Suðureyri fara í mógrafir inn í Botn og eru þar í fjóra daga að taka upp mó.
 4. júlí Laugardagur. Sláttur byrjar hjá Kristjáni en tveimur dögum síðar hjá Þorbirni.

1.og 2.ág.   Verkuðum saltfiski skipað um borð í þilskip frá Flateyri. Útibússtjóri Ásgeirsverslunar þar, Jónas Hall, er á Suðureyri við að taka á móti fiskinum.

3.-19.ág.    Margt af heimafólki Þorbjörns bónda á Suðureyri er við heyskap í Vatnadal og heyjar þar í Hraunsteig, Breiðaparti og Hagagörðum.

 1. ág. Byrjað að slá út á Hjöllum, það er Hjöllunum utan og ofan við Suðureyrarmalir.
 2. ág. Einar dagbókarritari og Jón Þorbjörnsson hefja slátt inn á Suðureyrarhlíð.
 3. sept. Einar og Jón við slátt inn á Breiðahjalla á Suðureyrarhlíð.

5.-6.sept.    Sleginn Flagapartur og Fífupartur út á Hjöllum.

 1. sept. Einar og tveir menn með honum eru að byggja hlaðið. Þarna er líklega um að ræða hlað, það er fjárbyrgi, sem stóð yst á Suðureyrarmölum, skammt fyrir innan Stekkjarnes.[846]
 2. sept. Eru að slá Sjónarhólspartinn út á Hjöllum.
 3. sept. Fólk frá bændunum á Suðureyri reiðir heim eldivið (mó) innan frá Botni á tveimur hestum og sækir hrís á bát. Ætla má að hrísið hafi verið sótt í Selárdalsskóg og næsta dag, þann 14. september, var dagbókarritarinn að velta hrísbyrðunum heim.
 4. sept. Göngur. Smöluð Kvíaneshlíð og Suðureyrarhlíð og næstu nótt voru lömbin látin vera í hlaðinu sem hér var áður nefnt.
 5. sept. Farið á tveimur bátum inn í Botn að sækja eldivið.
 6. sept. Lömb frá Suðureyri flutt inn í Hafradal sem er beint upp af bænum í Botni.
 7. sept. Það var borið af kvisti inn í rúmin.
 8. okt. Beittar 9 lóðir og farið í róður en haustróðrar höfðu hafist í september.
 9. okt. Þeir komu hér 2 með prófastsféð, fengu bát hjá Þorbirni og fóru yfrað Norðureyri snöggvast og svo út í Dal.

Það eru prestslömbin sem þarna var verið að færa bændum. Lömbin urðu þeir að ala fyrir viðkomandi sóknarprest en prestur Súgfirðinga árið 1889 var séra Janus Jónsson, prófastur í Holti í Önundarfirði.

 1. okt. Kristján Albertsson á Suðureyri og Guðni Egilsson á Kvíanesi fara í sprökulegu. Einar dagbókarritari saumar dorninga, það er skinnsokka, og fer síðan ásamt fleirum á Hólma að taka krækling í beitu.

 

Þetta sumar sem hér var frá sagt, 1889, var Einar dagbókarskrifari heimilismaður hjá Þorbirni Gissurarsyni en fimm árum síðar var hann kominn til Kristjáns Albertssonar sem bjó á móti Þorbirni hér á Suðureyri. Nokkrar stiklur úr dagbók Einars frá sumrinu 1894 gefa innsýn í gang mála hjá heimafólki Kristjáns á því sumri.

Þann 15. maí voru kýrnar látnar út í fyrsta sinn.[847] Þann 23. júní var farið inn á Suðureyrarhlíð að ryðja götuna.[848] Sama dag var fært frá og lömbin borin í nautahlöðuna.[849] Dagana 9. og 10. júlí voru Einar og fleiri að taka upp mó í fremstu gröfum inn í Botni.[850] Síðari daginn var unnið til klukkan ellefu um kvöldið og farið á bát út á Suðureyri að verki loknu.[851] Þann 12. júlí hófst sláttur og 25. sama mánaðar var lokið við að slá túnið[852] Þá var farið að slá Grundirnar ofan við Suðureyrarmalir og 2. ágúst var lokið við að hirða allt hey af túninu.[853]

Dag einn í júlímánuði fór Guðrún Þórðardóttir, húsfreyja á Suðureyri, með systur sinni, Arínu Þórðardóttur á Laugum, norður í Bolungavík að sækja kú.[854] Guðrún lagði af stað frá Suðureyri að morgni dags og kom til baka um fótaferðartíma næsta dag.[855] Þá var kýrin komin að Laugum.[856] Þær systur, Guðrún og Arína, hljóta að hafa farið Gilsbrekkuheiði á heimleiðinni því ekki var talið unnt að komast með lausan hest yfir Grárófu (sjá hér Selárdalur) og því síður kú. Fáum dögum síðar komu svo tvær aðrar konur gangandi yfir Botnsheiði frá Ísafirði og tóku af sér gust hjá Guðrúnu húsfreyju á Suðureyri.[857] Þær hétu Jóna Bergsdóttir og Jóna Jónsdóttir og voru á leið heim til sín að Stað.[858]

Þetta sama sumar var Kristján Albertsson að byggja hlöðu[859] og 30. júlí skrifar Einar þessi orð í dagbókina: Kristján [Albertsson], Sigurður [Jónsson á Laugum] og Jón minn [Einarsson] voru að byggja og reyna að sprengja með púðri bjargið sem var í hlöðunni en það tókst ekki.[860]

Sumarið 1894 voru bæði börn Einars Jónssonar, dagbókarskrifara, þau Jón og Sigríður, vinnuhjú hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri[861] og föstudaginn 3. ágúst fór Jón Einarsson að slá hjá hlaðinu (sbr. hér bls. 77) og út á Stekkjarnes.[862] Sama dag var byrjað að slá á Hjöllunum og þar var verið að heyja fram undir miðjan ágúst.[863] Á Hjöllunum slógu vinnumenn Kristjáns Sjónarhólspart, Sjónarhólspartslág, Flagapart og Kjóamýrar eða a.m.k. einhvern hluta af öllum þessum slægjulöndum.[864]

Miðvikudaginn 15. ágúst skrifar Einar: Ég, Jón minn, Sigga mín og Örnólfur [Jóhannesson] fórum á stóra bátnum inn í Botn og fram í Hólaskóg að slá og raka.[865]

Hólaskógur var slægjuland í Botni (sjá hér Botn) eins og tilvitnuð orð sýna. Í síðari hluta ágústmánaðar og fyrstu viku september var sumt af heimafólki Kristjáns Albertssonar við heyskap á Botnsengjum flesta daga.[866] Þann 16. ágúst var þessi sami vinnuflokkur líka að desja mó sem Kristján átti þar í Botni.[867] Þriðjudaginn 28. ágúst var lokið við að slá hann Hólaskóg eins og Einar kemst að orði í dagbókinni en þremur dögum síðar fór hann að slá í Sundunum [868] sem var annar slægjublettur á Botnsengjum (sjá hér Botn).

Fólkið frá Kristjáni, sem oft voru þrjár eða fjórar manneskjur, gisti hjá Jóhannesi Hannessyni, bónda í Botni, þegar ekki var farið heim.[869] Heyið var flutt á bátum til Suðureyrar þegar það var orðið þurrt og síðasta ferðin farin þann 6. september. Fórum alfarin úr Botni, skrifar Einar Jónsson í dagbók sína þann dag.[870] Í síðustu ferðinni fluttu þau 13 sátur og fjóra eldiviðarpoka og tóku þá líka með sér rúmfötin sem þau höfðu legið við.[871]

Næstu daga voru vinnumenn Kristjáns Albertssonar við slátt á Suðureyrarhlíð og slógu m.a. annan Merarhjallann og Seljaholulág sem Einar nefnir svo.[872] Dagana 12.–18. september var verið að reiða til sjávar móinn sem Suðureyrarfólk hafði tekið upp í Botnsgröfum um 10. júlí og þessa sömu daga var hann fluttur á bát út á Suðureyri.[873] Alls voru þetta 64 hestar af mó[874] og fáeinir hestburðir höfðu áður verið fluttir út eftir. Föstudaginn 14. september lauk vinnufólk Kristjáns við að hirða síðasta heyið af Suðureyrarhlíð og sex dögum síðar var byrjað að róa með lóðir.[875] Þá var allur eldiviðarforðinn kominn í hús og heyið í hlöður nema svolítið af há sem ekki var hirt fyrr en 27. september.[876]

Í dagbók Einars Jónssonar er sjaldan minnst á skemmtanir eða eitthvað sem fólk gerði sér til gamans. Í þeim efnum verður þó vart við greinilega breytingu skömmu eftir að Kristján Albertsson byggði sitt stóra timburhús á Suðureyri árið 1892 (sjá hér bls. 63-64) því þar var mörg brúðkaupsveislan haldin og húsið varð eins konar samkomustaður æskulýðsins þegar fólki tók að fjölga á Suðureyrarmölum.

Fyrir 1890 getur Einar þess reyndar stöku sinnum að menn hafi verið að spila á spil, til dæmis á jólaföstunni árið 1889.[877] Hreppsnefndarmennirnir komu þá saman til fundar hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri þann 5. desember og voru næsta dag að skrifa seðla og skýrslur.[878] Um kvöldið fóru þeir svo að spila og segir Einar dagbókarritari frá á þessa leið: Þeir voru að spila í nótt, Kristján Albertsson, Jóhannes [Hannesson], Eiríkur Egilsson og Valdimar en Jón Ólafsson svaf í Jóns rúminu.[879]

Valdimar sá sem þarna er nefndur mun vera Valdimar Sigurðsson, sem var vinnumaður á Suðureyri á árunum kringum 1890,[880] og hefur hann hlaupið í skarðið fyrir hreppsnefndarmanninn, Jón Ólafsson, bónda á Stað, sem kaus að ganga til hvílu þegar kom að spilamennskunni. Einhvers konar spilaæði virðist reyndar hafa gripið um sig þessa daga á jólaföstunni því 8. desember komu tveir bændasynir frá Bæ í Súgandafirði til Kristjáns Albertssonar á Suðureyri og voru að spila fram undir vökulok.[881] Þetta voru þeir Jón Guðmundsson og Markús Guðmundsson[882] sem fáum árum síðar fóru báðir að búa í Bæ (sjá hér Bær).

Á árunum upp úr 1890 var Álfur Magnússon stundum við barnakennslu í Súgandafirði (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) og nær fullvíst má telja að hann hafi verið fyrsti maðurinn í þessu byggðarlagi sem spilaði á harmóniku og lék fyrir dansi. Álfur var ævintýramaður af Suðurnesjum og hefur áður verið allrækilega frá honum sagt í þessu riti (sjá hér Vaðlar). Þann 7. október 1894 var mikil brúðkaupsveisla haldin í húsi Kristjáns Albertssonar á Suðureyri.[883] Þar var vel veitt og drukkið alla nóttina, að sögn Einars Jónssonar dagbókarritara, og dansað og spilað því Álfur var boðinn og hafði harmóniku.[884] Brúðhjónin sem til veislunnar efndu voru Marías Þórðarson í Ytri-Vatnadal og Herdís Þórðardóttir,[885] systir Guðrúnar Þórðardóttur, húsfreyju á Suðureyri, konu Kristjáns Albertssonar. Boðsmenn voru liðlega 40 fyrir utan börn.[886] Lýst hafði verið til hjónabands með Maríasi og Herdísi í Staðarkirkju þann 9. september þetta sama haust en næsta dag lagðist Herdís á sæng og ól sveinbarn.[887] Hjónavígslan fór svo fram 7. október eins og fyrr var nefnt.

Danssporin, sem stigin voru í brúðkaupsveislu Maríasar og Herdísar, eru þau fyrstu sem um er kunnugt í Súgandafirði ef frá er talið sprikl unglinganna í Staðarkirkju árið 1891 sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Staður). Mjög líklegt er að hér hafi ekkert verið dansað á 19. öld fyrr en áhrif frá norsku hvalveiðimönnunum, sem settust að á Sólbakka í Önundarfirði árið 1889, fóru að breiðast út. Hjá þeim kynni Álfur að hafa lært að spila á harmóniku því hann hafði átt heima í Önundarfirði frá 1890 (sjá hér Vaðlar sbr. hér Sólbakki). Harmónikan, sem Álfur hafði með sér, mun að líkindum hafa verið fyrsta hljóðfærið sem spilað var á í Súgandafirði því ekkert orgel var þá komið í Staðarkirkju (sjá hér Staður).

Hins ber þó að minnast að leikið var á harmóniku í brúðkaupsveislu á Hvilft í Önundarfirði haustið 1873 (sjá hér Hvilft) svo vera má að tónar frá harmóniku hafi heyrst í Súgandafirði áður en Álfur lét hér til sín taka. Hvað sem því líður má ætla að brúðkaupsveisla Maríasar og Herdísar hafi lengi verið höfð í minnum. Einar Jónsson segir að næsta dag hafi menn spilað og drukkið fram yfir hádegi og flestir veislugestirnir settir til borðs.[888] Allir voru þó farnir um nón nema Álfur sem sat um kyrrt og fór ekki út í Dal fyrr en 9. október.[889] Þremur dögum eftir brúðkaupsveisluna mætti þessi galvaski harmónikuleikari svo á hreppaskilaþing, sem þá var haldið á Suðureyri, og bauðst til að verða barnakennari Súgfirðinga næsta vetur (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Slíku tilboði var að sjálfsögðu ekki unnt að hafna, enda var hann ráðinn.

Af heimamönnum í Súgandafirði mun Jón Pálmason frá Kelfavík, fæddur 8. desember 1878, hafa orðið fyrstur til að læra á harmóniku.[890] Líklegt má telja að Álfur hafi verið hans meistari á því sviði. Kristjana Friðbertsdóttir, sem fæddist í Hraunakoti í Vatnadal vorið 1884 og ólst þar upp til 14 ára aldurs, kunni frá því að segja að einn vetur á árunum 1895-1898 hefði Jón komið tvisvar sinnum í Vatnadal með harmóniku.[891] Hann gat tekið hvurt lag á hana, þótt ekki gæti hann sungið nokkurt lag, sagði Kristjana og minntist þess 70 árum síðar að hún sjálf og annað ungviði í Vatnadal hefði farið að sprikla dálítið er pilturinn frá Keflavík tók að þenja hljóðfærið.[892]

Í dagbók Einars Jónssonar getur hann stöku sinnum um dansskemmtanir í húsi Kritjáns Albertssonar á Suðureyri á árunum 1894-1898 og segir frá brúðkaupsveislum sem þar voru haldnar á þeim árum. Hér hefur áður verið nefnd brúðkaupsveislan, 7. október 1894, þar sem Álfur Magnússon spilaði fyrir dansi. Á næstu jólum var líka stiginn dans á Suðureyri, svo og á nýársnótt. Frá þessu greinir Einar Jónsson í dagók sinni og ritar þar á þess leið:

 

 • Álfur kom að utan [frá Stað] svo kom það allt úr Róm og var hér lengi um kveldið. Líka kom það innan úr bænum fernt, Sigríður, Elín, Þórarni og Kitti Marís. Það var hér að spila og dansa … .
 • … Í rökkrinu komu Marías Þórðarson, Herdís kona hans og Eiríkur á Stað. Það verður hér í nótt og ætlar að spila og dansa … .
 • … Það var verið að dansa, spila og kveða hér í alla nótt að var.[893]

 

Þegar Einar talar þarna um Róm á hann við tómthús með því nafni sem reist var á Suðureyrarmölum árið 1892 (sjá hér bls. 108-109) en fólkið sem kom innan úr bænum átti heima í bæ Þorbjörns Gissurarsonar, bónda á Suðureyri. Sá bær stóð aðeins innar á túninu en timburhús Kristjáns Albertssonar. Mjög líklegt má telja að Álfur Magnússon hafi leikið fyrir þessum dansi um jól og áramót þó að Einar nefni það ekki en Álfur var alveg um þetta leyti að hefja kennslu á Suðureyri[894] (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Þann 13. janúar 1895 virðist einhvers konar grímudansleikur hafa verið haldinn út í Staðardal því Einar Jónsson skrifar þá þessi orð: Það fór héðan á grímu út í Dal, Álfur, Jón minn, Sigga mín, Kristín [Kristjánsdóttir], Þórður [Þórðarson], Önrólfur [Jóhannesson], Kristján Maríasson, Friðbert litli [Guðmundsson] og Arnfríður [Guðmundsdóttir].[895]

Allt var þetta ungt fólk úr húsi Kristjáns Albertssonar á Suðureyri og úr þurrabúðarkotunum á Suðureyrarmölum sem þá voru aðeins tvö.[896] Elstur í hópnum var barnakennarinn með harmónikuna, tæplega 24 ára gamall (sjá hér Vaðlar) en hitt fólkið var allt á aldrinum 16-22ja ára.[897]

Sunnudaginn 11. október 1896 voru piltur og stúlka úr þessum nýnefnda hópi gefin saman í hjónaband, þau Jón Einarsson og Kristín Kristjánsdóttir.[898] Brúðguminn var sonur dagbókarritarans, Einars Jónssonar, en brúðurin dóttir Kristjáns Albertssonar á Suðureyri og hinnar fyrri eiginkonu hans, Kristínar Guðmundsdóttur. Eins og vænta mátti var brúðkaupsveislan haldin í húsi Kristjáns á Suðureyri og þar var spilað, dansað og drukkið alla nóttina.[899] Þessa veislu sátu milli 30 og 40 manns fyrir utan börn.[900]

Einu ári síðar giftust svo þau Þórður Þórðarson, bróðir Guðrúnar húsfreyju á Suðureyri, og Sigríður, dóttir Einars dagbókarritara, og þá var veislan haldin í skúrinni sem byggð hafði verið við ytri endann á húsi Kristjáns Albertssonar á Suðureyri árið 1893[901] (sbr. hér bls. 63-64). Þessari veislu lýsir faðir brúðarinnar svo: Þórður og Sigga mín voru gefin saman … . Þórður hélt veisluna í skúrinni. Það voru rúmir 40 manns fyrir utan börn. Það var spilað á harmóniku og dansað alla nóttina.[902]

Hér verður ekki gerð nánari grein fyrir dansleikjum og brúðkaupsveislum í húsi Kristjáns Albertssonar á Suðureyri. Þess má þó geta að lokum að sunnudaginn 16. janúar 1898 hafði dagbókarritarinn, sem var heimilismaður hjá Kristjáni, m.a. frá þessu að segja: Friðbert og Kristján Maríasson komu hér heim um kveldið því það var farið að gamni sínu í jólaleik og dansað dáldið fyrst.[903]

Þeir Friðbert og Kristján, sem þarna koma við sögu, eru piltarnir úr Róm og Babýlon en svo voru fyrstu tvö þurrabúðarkotin á Suðureyrarmölum nefnd (sjá hér bls. 104-109). Skömmu eftir aldamótin var svo farið að dansa í heimahúsum á Mölunum, meðal annars og máske eingöngu í Jónshúsinu, er svo var nefnt,[904] en það hús byggðu þeir Jón Einarsson og Kristján Maríasson, sem hér hafa báðir verið nefndir, á árunum 1904-1905 (sjá hér bls. 113-114). Þann 18. júní 1905 nefnir Einar gamli Jónsson ball á Mölunum í dagbók sinni[905] og sunnudaginn 16. september 1906 segir hann að kvöldið áður hafi ball verið haldið í Jónshúsinu og þar hafi verið spilað og dansað fram á fullbirtu.[906]Var svo ekki lesið hér fyrr en klukkan að ganga eitt, skrifar Einar næsta dag[907] og verða þau orð vart skilin á annan veg en þann að húslestrinum hafi seinkað hjá Kristjáni Albertssyni þennan sunnudagsmorgun svo að þeir heimilismenn sem á ballið fóru gætu sofið út.

 

Á Suðureyrarmölum, rétt utan við gamla túnið á Suðureyri, var öldum saman helsta verstöðin í Súgandafirði og á árunum kringum aldamótin 1900 fór þorp að myndast þar á Mölunum. Auk heimamanna á Suðureyri voru það einkum menn frá bæjunum innantil í Súgandafirði sem reru frá Suðureyrarmölum og gerðu þaðan út báta sína á vorin en stundum voru hér líka bátar frá öðrum byggðarlögum við róðra.

Suðureyrarmalir eru flatlend eyri sem gengur í sjó fram milli bugsins utan við Suðureyri og Stekkjarness en það er rétt utan við Malirnar. Hið gróna flatlendi ofan við sjálfar Malirnar var á fyrri tíð nefnt Grundir og þar var leikvöllur vermanna.[908] Á fyrri hluta tuttugustu aldar voru mörg íbúðarhús reist á Grundunum og líka aðrar byggingar svo allt það svæði er fyrir löngu fullbyggt. Sjávarbakkinn framan við Malirnar var jafnan nefndur Kambur en fremsti oddi þeirra Malaroddi.[909] Í bugnum milli Suðureyrar og Mala var sandfjara (sjá hér bls. 7). Í honum var grynning sem kom upp á hverri fjöru og var hún nefnd Landsker.[910] Framan við það var annað sker, kringlótt að lögun, nefnt Kerlingarsker.[911] Milli þessara tveggja skerja var aðeins mjótt sund.[912] Þarna er nú (1996) bátahöfnin á Suðureyri og er Landskerið alveg horfið.[913] Eitthvað af Kerlingarskerinu sést hins vegar enn. Það er framan við langa hafnargarðinn, hér innan við höfnina, og nær aðeins út í hafnarmynnið.[914] Skerið sést enn greinilega á fjöru.[915]

Munnmæli herma að á Kerlingarskerinu hafi rekið lík gamallar konu sem sögð er hafa farist í snjóflóði á Norðureyri.[916] Framan við Kerlingarsker er annað sund mjótt en djúpt og hinum megin við það önnur sker sem heita Hólmar og ná nær alla leið yfir undir norðara landið,[917] fyrir innan Norðureyri.

Milli Suðureyraroddans og Landskersins var hægt að fara á árabát um hálffallinn sjó en væri sjávarstaðan lægri var yfirleitt farið um sundið milli Landskers og Kerlingarskers.[918] Sundið framan við Kerlingarsker var þó dýpra.[919] Það var nefnt Stórasund en grynnra sundið, milli Landskers og Kerlingarskers, Litlasund.[920]

Í Ferðabók sinni frá árinu 1775 getur Ólafur Olavius um blindsker fram undan Suðureyri og straumharðan ál á milli þeirra sem aðeins sé fær litlum bátum.[921] Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur, sem kom í Súgandafjörð árið 1887, segir að innan við Spilli sé fjörðurinn 6-8 faðmar á dýpt og fram undan Suðureyri þorni hann alveg upp á stórstraumsfjöru, nema þrír álar.[922]

Gunnar M. Magnúss lýsir vel hinum harða straumi í Sundunum framan við Suðureyri. Hann ritar:

 

Skerin fara í kaf um flæðar en er sjór er hálffallinn út koma þau upp úr. Mikill sjór úr innfirðinum leitar þá með þunga sínum út fjörðinn. Straumurinn liggur þá um tvö sund sem eru Suðureyrarmegin, milli skerjanna. Þau eru kölluð Stórasund og Litlasund og er útstraumurinn hvítfyssandi eins og straumhörð á. Árabát, þótt knálega sé róið móti straumnum, er ófært. Og sex til átta hesta vélbát er því nær ófært þegar straumharkan er hörðust. Eftir því sem nær kemur fjöru dregur úr straumnum. Skerin, vaxin miklum þaragróðri, eru þá upp úr.[923]

 

Kerlingarskerið, sem hér var áður nefnt, kallar Gunnar Miðsker[924] og má vera að ýmsir hafi notað það nafn í daglegu tali.

Ofan við ytri hluta Mala og Grunda, er svo hétu áður,  er brött brekka og ofan við hana allvíðáttumikið flatlendi sem heitir Hjallar. Þar var áður gott slægjuland (sjá hér bls. 169-172) en seinna var byggður þar flugvöllur og á síðustu áratugum hafa allmörg íbúðarhús verið reist þar upp frá.

Elsta heimild um hina fornu verstöð á Suðureyrarmölum er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 en þar segir svo:

 

Heimræði [frá Suðureyri] er hér árið um kring og lending góð og ganga skip ábúenda hér tvö. Fleiri mætti ganga ef fólk tilfengist. Verstaða hefur hér verið og góð að fornu og sjást hér margar tóttarústir af vermannabúðum og er að sögn manna, eftir því sem þeir hafa heyrt af sér eldri mönnum, að hér hafi þá verið vertollur, tveir fjórðungar af hverjum manni sem á skipunum reru. En ekki hefur þetta tollver brúkast til stórra gagnsmuna í næstu 40 ár eða lengur. … Hér fyrir utan ganga hér skip vikum eður hálfum mánuðum saman, tvö eða þrjú stundum á vor, og tekst af þeim enginn vertollur.[925]

 

Það sem hér er sagt um fjölda búðarústa á Suðureyri og greiðslu vertolla á fyrri tíð bendir mjög eindregið til þess að um miðbik 17. aldar hafi róið héðan einhverjir bátar úr öðrum byggðarlögum en hætt hafi verið að gera þá út frá Suðureyri á árunum 1650-1670. Nær fullvíst má telja að þau tvö eða þrjú skip sem reru frá Suðureyri árið 1710, auk heimabáta, hafi verið frá bæjunum innantil í Súgandafirði. Hjá Súgfirðingum fékk Árni Magnússon þær upplýsingar að af þessum fáu skipum, sem héðan gengu árið 1710, væri enginn vertollur greiddur og gæti skýringin á því hafa verið sú að í hlut áttu nágrannar og vinir. Áður hafði vertollurinn verið tveir fjórðungar af hverjum manni eins og frá er greint í Jarðabókinni. Í hverjum fjórðungi voru fimm kíló og ætla má að þeir tveir fjórðungar sem greiddir voru af hverjum vermanni hafi verið tveir fjórðungar af hertum fiski (sbr. hér Eyri, Kálfeyri þar). Þessi tíu kíló af hertum fiski svöruðu til fimm álna í landaurareikningi[926] svo vertollurinn fyrir hvern sexæring hefur numið 30 álnum, það er einum fjórða úr kýrverði.

Í Ferðabók Ólafs Olaviusar byggir höfundurinn á upplýsingum sem hann viðaði að sér á ferð um Vestfirði sumarið 1775. Hann getur um verstöðina á Suðureyri og verbúðir sem standi þar á eyraroddanum[927] en nefnir ekki hversu margir bátar rói frá þessari veiðistöð.

Í jarðabók frá árinu 1805 sést að eigendur eða umráðamenn Suðureyrar fengu þá átta ríkisdali á ári í tekjur af vertollum.[928] Hafi vertollurinn af hverjum manni verið sá sami árið 1805 og hann var um miðbik 17. aldar, það er 5 álnir, þá hefur þurft 48 vermenn til að heildarupphæð tollsins næði 8 ríkisdölum því að á árunum kringum 1800 voru 30 álnir lagðar á móti einum ríkisdal í öllum innanlandsviðskiptum.[929] Taka verður fram að ekki liggur fyrir hvort upphæðin, sem greidd var af hverjum vermanni í byrjun 19. aldar, var sú sama og verið hafði um 1650 og af þeim ástæðum dugar vitneskja um heildarupphæð vertollanna ekki til þess að slá neinu föstu um fjölda vermannanna. Engu að síður er þetta vísbending. Hafi eigendur Suðureyrar fengið greiddan toll af 48 vermönnum árið 1805 eins og vísbendingin gefur til kynna, þá hafa skipshafnirnar, sem tollur var greiddur af, verið á bilinu frá átta til tólf, átta ef eingöngu er reiknað með sexæringum en tólf sé gert ráð fyrir að bátarnir hafi verið fjögra manna för. Líklegast er að á hverjum bát hafi verið ýmist fjórir, fimm eða sex menn. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt virðist líklegast að fjöldi tollskyldra báta, sem reru frá Suðureyrarmölum vorið 1805, hafi verið um það bil tíu en við þá tölu má síðan bæta tveimur bátum bændanna á Suðureyri sem fullvíst má telja að engan toll hafi greitt.

Í jarðabókinni frá 1805 sést að tekjur eigenda Suðureyrar af vertollum voru þá talsvert hærri en nam hliðstæðum greiðslum til eigenda verstöðvanna á Kálfeyri í Önundarfirði og Fjallaskaga í Dýrafirði.[930] Heildargreiðsla tolla af vermönnum á Suðureyrarmölum var eins og áður sagði 8 ríkisdalir, á Kálfeyri 5 ríkisdalir og 64 skildingar og á Fjallaskaga 4 ríkisdalir og 48 skildingar.[931] Kálfeyri var þá eins og bæði fyrr og síðar helsta verstöð Önfirðinga (sjá hér Eyri) og Fjallaskagi helsta verstöðin við norðanverðan Dýrafjörð (sjá hér Fjallaskagi).

Árið 1811 gengu 13 bátar til veiða frá Kálfeyri (sjá hér Eyri) og hafa varla verið miklu færri sex árum fyrr. Á sautjándu öld hafði sami vertollur verið greiddur af hverjum manni á Suðureyri og á Kálfeyri (sjá hér bls. 85 og Eyri, Kálfeyri þar) og telja verður mjög ólíklegt að um verulegan mun hafi verið að ræða í þeim efnum árið 1805. Með allt þetta í huga sýnist býsna líklegt að milli tíu og tuttugu bátar hafi róið frá Suðureyri á vorvertíð í byrjun nítjándu aldar en hafi fjöldinn verið slíkur má telja nær fullvíst að meirihluti bátanna hafi verið úr öðrum byggðarlögum.

Hinar miklu búðarústir sem enn voru sjáanlegar á Suðureyrarmölum undir lok 19. aldar og um er getið í heimildum benda líka til þess að stundum hafi mun fleiri bátar róið héðan á fyrri tíð en almennt var á síðasta fjórðungi 19. aldar.

Valdimar Þorvaldsson, sem fæddist árið 1878 og ólst upp í Súgandafirði, kvaðst hafa heyrt að um eitthvert skeið á fyrri tíð hafi verið 14 eða 16 verbúðir á Suðureyrarmölum.[932] Á öðrum stað segir Valdimar verbúðirnar hafa verið 16 eða 18.[933] Rústunum, sem enn voru sjáanlegar á síðustu árum nítjándu aldar, lýsir hann svo:

 

Útlit plássins var þá ofantil alþakið tóttum sem erfitt var að koma tölu á og þeir blettir fáir þar sem ekki var tótt eða leifar af tótt. Þær voru í röðum fram, mjög víða þrjár, fjórar og fimm, færðar um veggþykkt, hálfa lengdina eða alla fram en voru þó allar sama húsið sem benti til þess að þar hefði eyrin verið að smábreikka. Neðar var alþakið af fiskigörðum.

Á Stekkjarnesinu þar sem nú [þ.e. 1965 – innsk. K.Ó.] er Aðalgata 57 voru 2 ystu búðatóttirnar … en svo voru ekki búðatóttir inn að Aðalgötu 45, aðeins fiskigarðar og stór kví og stekkur, en þá varð strax þétt af vallgrónum tóttum.[934]

 

Kvíin var þar sem síðar stóð húsið Aðalgata 45 eða aðeins utar og var hún í notkun allt þar til hún var rifin um 1914 og efnið notað til götugerðar.[935] Húsin Aðalgata 45 og Aðalgata 57, sem var ysta húsið í þorpinu, eru nú bæði horfin. Árið 1940 bjuggu Guðjón Jóhannsson skósmiður og fjölskylda hans í húsinu númer 57 en Kristín Jósefsdóttir og hennar fjölskylda í númer 45.[936]

Kristján G. Þorvaldsson, sem var þremur árum yngri, en Valdimar minnist líka á hinn mikla fjölda gamalla búðarústa á Suðureyrarmölum og segir:

 

Suðureyrarmalir voru stærsta verstöðin [í Súgandafirði]. Verður þó ekki séð að þaðan hafi getað róið samtímis fleiri en sex innsveitarbátar en mannvirki gamallar útgerðar, búðatóttir og garðar, voru svo mikil að bent gat til að fleiri hefðu róið þaðan. … Það er ábyggilegt að sumar búðatóttirnar voru mjög gamlar og voru nokkrar þeirra á þeim stöðum sem ólíklegt er að byggt hefði verið á ef á betra var völ … .[937]

 

Þessar frásagnir bræðranna, Kristjáns og Valdimars Þorvaldssona, benda eindregið til þess að kenningin, sem hér var áður sett fram, um fjölda báta er reru frá Suðureyri í byrjun 19. aldar sé rétt, enda styðst hún við skjalfesta heimild um greiðslu vertolla.

Erfiðara er hins vegar að sýna fram á með gildum rökum hvaðan allir þessir bátar voru og í þeim efnum við fátt að styðjast annað en munnmæli. Þó má nefna að í Vatnsfjarðarannál hinum yngsta er þess getið að árið 1766 hafi bólusótt borist með vermönnum úr Súgandafirði inn í innstu byggðirnar við Ísafjarðardjúp, það er í Vatnsfjarðarsveit og á Langadalsströnd (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Í prestsþjónustubók frá Stað í Súgandafirði má líka sjá að á árunum 1785-1795 dóu a.m.k. þrír langt að komnir vermenn hér í Súgandafirði og var einn þeirra úr Þorskafirði, annar úr Steingrímsfirði og sá þriðji úr Grunnavík (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Á árunum kringum aldamótin 1900 lifðu enn á vörum fólks í Súgandafirði munnmæli um róðra Djúpmanna frá Suðureyri á fyrri tíð. Kristján G. Þorvaldsson segir nokkur líkindi vera til þess að menn úr Ísafjarðardjúpi hafi róið frá Suðureyri á árum áður og þá einkum til að ná sér í steinbít[938] og bætir síðan við:

 

Fyrir síðustu aldamót heyrðust gamlir menn tala um að langt væri að róa frá Súgandafirði inn á Gjörfudalsósa sem eru innst í Ísafjarðardjúpi. Ekki höfðu þeir þó reynt það sjálfir og hvaða ástæður gátu verið til slíkra ferða hjá Súgfirðingum?

Það var venja að formenn fluttu menn sína heim að vorvertíð lokinni, farangur þeirra og skreiðarhlut. Var þetta gert þó leið væri löng ef fært var talið. Hugsast getur að menn hafi verið fluttir þessa leið en einnig getur átt sér stað að menn úr Inn-Djúpi hafi verið á Súgandafirði á eigin bátum og frá þeim sé orðhátturinn kominn.[939]

 

Þegar heimildarmenn Kristjáns töluðu um Gjörfudalsósa hljóta þeir að hafa átt við lendingu hjá bænum Gjörfudal eða Gerfidal sem var allra innsta býlið í byggðunum við Ísafjarðardjúp. Hér var áður nefnt að frá síðustu áratugum 18. aldar sé kunnugt um dæmi þess að vermenn frá Steingrímsfirði og Þorskafirði hafi róið frá Suðureyri á vorin. Benda má á að væru þeir fluttir sjóveg áleiðis til síns heima í vertíðarlok kom vart annað til greina en fara með þá á bæina innst í Ísafjarðardjúpi en þaðan var hægt að ganga á einum degi hvort heldur sem var til Steingrímsfjarðar eða byggðanna í Múlasveit, Gufudalssveit og Reykhólasveit við norðanverðan Breiðafjörð.

Valdimar Þorvaldsson, sem hér var nýlega vitnað til um hinn mikla fjölda gamalla búðatótta á Suðureyrarmölum, heyrði líka um það rætt á sínum uppvaxtarárum, á síðasta fjórungi nítjándu aldar, að Djúpmenn hefðu róið frá Suðureyri á árunum kringum 1800[940]

Valdimar segir að í tíð Bjarna Brynjólfssonar, bónda á Suðureyri, sem andaðist árið 1784 (sjá hér bls. 26-29), hafi margir menn úr Inn-Djúpinu verið við róðra á Suðureyri á vorin, ýmist sem hásetar hjá mönnum þar eða á skipum þaðan að innan[941] Á öðrum stað segir Valdimar:

 

Í byrjun síðast liðinnar aldar gekk hér [þ.e. úr Súgandafirði – innsk. K.Ó.] bátur frá hverjum bæ og sumum tveir og voru þeir mannaðir hásetum innan úr Nauteyrar- og Reykjarfjarðarhreppum þar sem heimamenn voru ekki nógu margir á öll þessi skip. Og þó leið þessi væri löng, þá voru þessir hásetar fluttir að lokinni vertíð með hlut sinn innst inn í Ísafjarðardjúp, þangað sem þeir áttu heima. Til skamms tíma [skrifað 1943 – innsk. K.Ó.] hafa verið til þarna innfrá menn sem mundu hjá hverjum í Súgandafirði feður þeirra eða afar höfðu verið.[942]

 

Með vísun til þess sem hér hefur verið rakið má telja líklegt að einhverjir bátar í eigu bænda við innanvert Ísafjarðardjúp hafi verið gerðir út frá Suðureyrarmölum á síðustu áratugum átjándu aldar og fyrstu árum nítjándu aldarinnar. Árið 1820 virðist þetta hins vegar hafa verið liðin tíð. Þá um vorið reru alls 14 bátar frá öllum verstöðvunum í Súgandafirði og sé litið á nöfn formannanna sýnist líklegt að um það bil helmingur þeirra hafi róið frá Suðureyri (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Nær allir formennirnir, sem hér um ræðir, voru búsettir í Suðureyrarhreppi eða nátengdir fólki í Súgandafirði. Fullvíst er þó að einn þessara fjórtán formanna átti heima norður í Jökulfjörðum, Jón Bjarnason á Marðareyri, og nokkur óvissa ríkir um tvo aðra (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Hvað sem þessu líður er vel hugsanlegt að einstaka menn frá bæjum við innanvert Ísafjarðardjúp hafi verið í skiprúmi á bátum Súgfirðinga eftir 1820. Kristján G. Þorvaldsson segir að menn sem fæddust um það leyti og voru enn á lífi á síðustu árum nítjándu aldar hafi aðeins heyrt talað um flutning á hásetum frá Suðureyri inn á Gjörfudalsósa en ekki tekið þátt í slíkum ferðum sjálfir (sjá hér bls. 88). Valdimar bróðir hans hefur hins vegar aðra sögu að segja um þetta og ritar svo árið 1943

 

Þorbjörn sálugi Gissurarson, bóndi á Suðureyri, sem andaðist 1905, þá 75 ára … var að eigin sögn með að flytja árlega háseta inn í Djúp á áðurnefnda hreppa [þ.e. Reykjarfjarðarhrepp og Nauteyrarhrepp – innsk. K.Ó.] með föður sínum og síðar.[943]

 

Fari Valdimar hér með rétt mál hafa Súgfirðingar enn haldið þeim sið að flytja vermenn inn í innstu byggðir við Djúp á árunum milli 1850 og 1860 því Gissur Einarsson í Selárdal, faðir Þorbjörns á Suðureyri og afi Valdimars, andaðist árið 1854 (sjá hér Selárdalur).

Staðhæfingu Valdimars um þetta er þó ekki unnt að taka gilda án fyrirvara því hún stangast á við orð Kristjáns bróður hans en báðir hljóta þeir að hafa verið vel kunnugir Þorbirni Gissurarsyni sem var föðurbróðir þeirra og þeir orðnir fullorðnir þegar hann dó. Hér getur skeikað allt að fjórum áratugum en tímasetningin ræðst m.a. af því hvort menn geri ráð fyrir að það hafi verið Gissur Einarsson í Selárdal, sem á yngri árum sínum tók þátt í síðustu langferðunum af því tagi sem hér var lýst, ellegar Þorbjörn sonur hans.

Að sögn Valdimars var róið í einum áfanga frá Suðureyri og alla leið inn að Laugabóli í Ísafirði[944] sem er einn innstu bæjanna við Djúp. Erfiður róður hlýtur það að hafa verið því nærri lætur að vegalangdin sé um 45 sjómílur eða 80-85 kílómetrar. Ástæðulaust mun þó vera að rengja frásögn Valdimars hvað þetta varðar.

Um einn mann úr hreppunum við innanvert Ísafjarðardjúp getur Valdimar sérstaklega og segir hann hafa verið háseta hjá Gissuri Einarssyni í Selárdal í fjölda ára, að vorinu.[945] Þennan mann nefnir Valdimar Jón Helgason og segir hann hafa átt heima á Látrum í Mjóafirði við Djúp.[946] Þá staðhæfingu verður því miður að dæma einskis virði því ekki verður séð að nokkur Jón Helgason hafi átt heima á Látrum um eða skömmu fyrir miðja nítjándu öld.[947] Líklegast er að þarna hafi orðið eitthvert nafnabrengl. Gissur Einarsson í Selárdal var reyndar afi Valdimars Þorvaldssonar en hafði legið nær aldarfjórðung í gröf sinni þegar Valdimar fæddist.[948]

Í sóknarlýsingu séra Andrésar Hjaltasonar frá árinu 1839 segir að á Suðureyrarmölum sé allfjölmennt fiskiver á vorum[949] en á sjóróðra Djúpmanna frá þessari verstöð minnist hann ekki. Séra Andrés greinir aftur á móti frá því að fram undan Suðureyrarmölum sé trygg og góð höfn … aldrei sjóarrót til skaða og sléttur sandbotn allt um kring.[950] Bestu lendingar í Súgandafirði segir hann vera hér og á Norðureyri og þessa góðu höfn utan við Suðureyri kallar prestur hælisstað – að hleypa í undan hafgörðum, bæði fyrir innlend þilskip og duggur Hollendinga.[951]

Fátt er nú kunnugt um sjóslys og bátstapa frá Suðureyrarmölum fyrir 1900. Þó er vitað að tveir bátar, sem héðan reru, fórust árið 1815.[952] Í Annál nítjándu aldar segir svo frá því slysi: Á Súgandafirði fórust tvö för með 10 mönnum. Hétu formenn þeirra Hákon Þórðarson og Markús. Hann komst af.[953]

Magnús Hjaltason, sem átti kost á að ræða við Súgfirðing er fæddist skömmu eftir þennan atburð, greinir nánar frá honum og ritar á þessa leið:

 

Fyrir utan Suðureyri, innanvert á nesi því er Stekkjarnes heitir, sér enn glöggt fyrir verbúðartóttum tveimur er standa saman, rétt fyrir neðan hús Hallbjarnar Oddssonar sem er nú, 1914, eina húsið þar á nesinu. Tóttir þessar eru 100 ára gamlar eða frá árinu 1814. Segjast gamlir menn í Súgandafirði hafa heyrt að þær hafi verið byggðar þá um haustið … .

Næsta vor, 1815, gengu frá þeim tvö skip, sitt frá hvorri búð og hétu formennirnir á þeim Hákon Þórðarson og Markús. Skip þau fórust bæði um vorið með öllu er á var. … Eftir að skip þessi af Stekkjarnesinu fórust, vorið 1815, þótti reimt þar við búðirnar svo enginn vildi vera í þeim og voru þær svo rifnar. Síðan hefur ekkert skip haft þar uppsátur þangað til nú fyrir skömmu að Hallbjörn Oddsson (prests Hallgrímssonar), áður bóndi á Bakka í Tálknafirði, settist þar að.[954]

 

Í pistli sínum um þessi sjóslys andmælir Magnús því að formaðurinn á öðrum bátnum hafi komist af eins og fullyrt sé í Annál nítjándu aldar og segir hann gamla menn í Súgandafirði aldrei hafa heyrt þess getið.[955]

Markús, sem var formaður á öðrum bátanna tveggja sem fórust vorið 1815, er hvergi nefndur með föðurnafni í tiltækum heimildum og er óljóst hver hann muni hafa verið. Hinn formaðurinn hét Hákon Þórðarson eins og hér hefur áður verið nefnt. Hann var árið 1811 kvæntur bóndi í Bæ í Súgandafirði (sjá hér Bær) og mun hafa verið 35 ára gamall eða því sem næst er hann drukknaði.[956]

Nöfn hásetanna, sem reru frá Stekkjarnesbúðunum og drukknuðu vorið 1815, liggja ekki fyrir því á árunum 1805-1815 létu prestar Súgfirðinga vera að skrá nöfn þeirra sem létust og svo lítið er til af sóknarmannatölum frá árunum 1806-1816 að ógerlegt má kalla að finna út hverjir það voru sem fórust með Hákoni og Markúsi.[957] Vera má að sumir þeirra hafi verið utansveitarmenn.

Árið 1825 fylgdu aðeins þrjár verbúðir annarri hálflendunni á Suðureyri (sjá hér bls. 36) og ólíklegt verður að telja að búðir sem fylgdu hinni hálflendunni hafi verið fleiri. Með vísun til þess sem hér var áður sagt um meintan fjölda báta er héðan reru á árunum rétt eftir 1800 (sjá hér bls. 86-87) sýnist líklegt að búðirnar hafi þá verið fleiri.

Gleggstu upplýsingar, sem í boði eru, um verstöðina á Suðureyrarmölum eru frá síðustu áratugum nítjándu aldar. Árið 1880 áttu bændur og búlausir á Suðureyri og bæjunum innar í Súgandafirði sjö báta sem töldust vera sexæringar eða fjögra manna för.[958] Líklegt má telja að allir þessir bátar hafi þá verið gerðir út á vorvertíð og þeir hafi allir eða nær allir haft uppsátur á Suðureyrarmölum. Valdimar Þorvaldsson segir reyndar að árið 1887 hafi átta verbúðir enn verið uppistandandi hér á Mölunum og sjö þeirra undir þaki.[959] Ætla má að þarna sé rétt frá greint og sé litið á fjölda báta á bæjunum fyrir innan Suðureyri eins og hann var árið 1880 sýnist líklegt að þá hafi a.m.k. fimm þessara búða verið í notkun. Þá eru Naustin tvö sem Suðureyrarbændur áttu og hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér bls. 101-102) ekki talin með en þau voru líka notuð sem verbúðir þegar þurfa þótti. Kunnugt er reyndar að tveir bátar úr Önundarfirði reru héðan frá mölunum vorið 1887 og var Jón Jónasson frá Vöðlum formaður á öðrum en Rósinkrans Rósinkransson í Tröð á hinum.[960] Valdimar Þorvaldsson segir að á árunum upp úr 1880 hafi hver bóndi í Súgandafirði átt bát en hásetana sem vantaði til að manna flotann að fullu hafi menn fengið úr Önundarfirði.[961]

Á árunum upp úr 1890 virðast bátarnir sem reru frá Suðureyri á vorin hafa verið eitthvað færri en verið hafði 1880. Kristján G. Þorvaldsson segir að á árunum 1891-1900 hafi aðeins tvö skip róið frá Suðureyrarmölum, auk báta heimamanna á Suðureyri og á Mölunum, og stundum einn og einn bátur úr Önundarfirði.[962] Árið 1895 áttu bændurnir á Suðureyri og á bæjunum innar í Súgandafirði, allir til samans, aðeins fjóra báta sem töldust vera sexæringar eða fjögra manna för ef marka má tíundarskýrslu.[963] Tíundarskýrslan frá 1895 og orð Kristjáns um bátafjöldann styrkja því hvort annað. Þegar nær dró aldamótunum fór bátum í eigu heimamanna á Suðureyri og bæjunum innar í Súgandafirði hins vegar fjölgandi. Árið 1897 áttu þeir 3 sexæringa, 3 fjögra manna för og 3 tveggja manna för og árið 1900 4 sexæringa, 6 fjögra manna för og 4 tveggja manna för (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Hér eru bátar Guðmundar Sigurðssonar, sem fluttist frá Laugum út í Bæ árið 1899, reyndar taldir með af því vitað er að hann reri jafnan frá Suðureyrarmölum þó búsettur væri í Bæ (sjá hér Laugar og Bær). Ætla má að allir þessir bátar eða nær allir hafi farið í einhverja róðra frá Suðureyrarmölum á vorin (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli)) en hversu margir stunduðu róðrana frá vertíðarbyrjun til vertíðarloka er óljóst.

Í traustri heimild er frá því greint að vorið 1905 hafi 11 bátar gengið til veiða frá Suðureyri og einn utansveitarbátur að auk.[964] Þess var áður getið að í Súgandafirði hófst vorvertíð um páska (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) en í formannavísum, sem Magnús Hjaltason kvað á Suðureyrarmölum 14. apríl 1899, nefnir hann aðeins þrjá formenn, þá Guðmund Sigurðsson á Laugum, Jóhannes Hannesson í Botni og Jón Einarsson á Suðureyri.[965] Þessir þrír höfðu hver sinn sexæring til umráða (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) og þeir Guðmundur Sigurðsson og Jón Einarsson reru einnig að vetrinum (sjá hér Staður, sjóslysið 28.2. 1898). Vera má að hinir minni bátar hafi ekki byrjað að róa strax um páskaleytið en farið á flot síðar, þegar fiskur gekk nær landi og vorblíðan vakti menn til dáða. Einn bátur að vestan reri frá Suðureyrarmölum vorið 1889, frá 15. maí til 27. júní.[966] Formaður á honum var Jón Jónasson,[967] líklega sá sem þá var vinnumaður á Vöðlum í Önundarfirði, fæddur 1851, og átti seinna lengi heima á Þórustöðum en var um skeið ráðsmaður í Holti[968] (sjá einnig hér Vaðlar). Annar bátur úr Önundarfirði reri líka um tíma frá Suðureyrarmölum vorið 1899[969] og vera má að þeir hafi þá verið fleiri. Þessi bátur var fjögra manna far í eigu Sveins Rósinkranssonar á Hvilft en formaður var Reinald Kristjánsson, póstur á Kaldá.[970] Heldur illa tókst til hjá Reinald því báturinn lenti á skeri innan við Malirnar svo botninn fór úr honum.[971]

Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur, sem fór í rannsóknarferð um Vestfirði árið 1901, segir að árið 1900 hafi 18 bátar gengið til veiða frá Súgandafirði en nefnir ekki hversu margir af þessum bátum reru frá Suðureyri.[972] Talan sem Bjarni nefnir passar nákvæmlega við þann fjölda báta í eigu Súgfirðinga sem upp er gefinn í hinni opinberu fiskaflaskýrslu fyrir þetta síðasta ár nítjándu aldarinnar[973] (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) og má ætla að fiskifræðingurinn hafi þaðan tölu sína um bátafjöldann. Aðkomubátar, sem reru frá Suðureyri eða öðrum verstöðvum í Súgandafirði, eru því að öllum líkindum ekki taldir með hjá Bjarna. Í skýrslu sinni frá árinu 1901 segir hann að Súgandafjörður sé og hafi lengi verið helsta steinbítsaflapláss á Vestfjörðum (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Í sömu skýrslu lætur Bjarni Sæmundsson þess einnig getið að Súgfirðingar veiði steinbítinn ýmist á lóðir eða færi, hann sé hertur líkt og riklingur og á Vestfjörðum sé steinbítsroð haft nokkuð til skæða.[974]

Um nöfn á bátunum, sem reru frá Suðureyri á síðasta fjórðungi 19. aldar, liggja ýmsar upplýsingar fyrir sem þó eru engan veginn tæmandi. Nefna má að Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Suðureyri, sem andaðist árið 1867 átti bát sem hét Mjóni og að Guðmundi látnum tók sonur hans og nafni við þeim bát (sjá hér bls. 101). Um 1880 átti Kristján Albertsson á Suðureyri sexæring sem hét Von eða Vonin (sjá hér bls. 59) en sexæringur sem hann átti 1894 hét Víkingur.[975] Árið 1900 áttu Kristján og Jón Einarsson, tengdasonur hans, þrjá báta, sexæring, fjögra manna far og tveggja manna far (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Bátur sem Kristján átti sumarið 1899 hét Síldin[976] og hefur sá bátur að líkindum verið einn þeirra þriggja sem hér var síðast getið um. Áraskip sitt Nítjándu öldina mun Kristján hafa látið smíða árið 1901[977] og í þann bát lét hann setja vél fimm árum síðar (sjá hér bls. 62). Guðmundur Sigurðsson, bóndi á Laugum og síðar í Bæ, var á árunum upp úr 1890 formaður á bát sem hét Máni og reri á honum frá Suðureyrarmölum (sjá hér bls. 99). Þennan bát hafði Sigurður Jónsson, bóndi á Gilsbrekku, faðir Guðmundar, átt en árið 1894 var hann eign Guðmundar og Alberts bróður hans og hafði verið stækkaður.[978] Árið 1903 átti Guðmundur Sigurðsson annan sexæring sem hét Áslaug (sjá hér Bær).

Jóhannes Hannesson, bóndi og hreppstjóri í Botni, var einn þeirra sem jafnan reru frá Suðureyrarmölum á vorin. Árið 1899 átti hann bát sem bar hans eigið nafn og hét Jóhannes.[979] Bátur sem Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri átti árið 1897 hét Langa[980] en Þorbjörns er ekki getið í skrá yfir eigendur báta í Súgandafirði frá því ári (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) svo líklegt er að hann hafi átt Lönguna á móti einhverjum öðrum. Þennan bát átti áður Guðni Egilsson, þá vinnumaður í Selárdal en síðast bóndi í Bæ, og mun Langan hafa verið gamall selabátur innan úr Djúpi (sjá hér Bær).

Á síðari hluta 19. aldar stóð vorvertíðin frá páskum og fram undir lok 12. viku sumars,[981] það er fram í miðjan júlí. Líklegt er að sú regla hafi verið mjög gömul. Á síðustu áratugum 19. aldar var einnig róið frá Suðureyrarmölum á haustvertíð og farið á sjó að vetrinum þegar færi gafst.[982] Kristján G. Þorvaldsson, sem orðinn var nítján ára þegar nítjándu öldinni lauk, lýsir þessu svo:

 

Innsveitarmenn [þ.e. menn frá bæjunum innan við Suðureyri, beggja vegna fjarðarins – innsk. K.Ó.] og Suðureyringar reru frá Suðureyrarmölum. Höfðu þeir verbúðir þar og voru í þeim á vorin og einnig þegar róið var á haustvertíð. Á vetrum var langróið og sjaldan á sjó farið. Voru menn þá venjulega heima en gengu til skipa sinna þegar leit út fyrir gæftir.[983]

 

Um verbúðir innsveitarmanna á Suðureyrarmölum kemst Kristján svo að orði að þær hafi verið lágir, litlir torfkofar með moldargólfi og torfþaki.[984] Meðfram veggjunum voru rúmstæði, hlaðin úr grjóti, og eldstæði var tíðast hlaðið inn í gaflinn, andspænis inngangi.[985] Vegna kulda gátu menn ekki hafst við í þessum kofum að vetrinum og olli það oft þrengslum og átroðningi á heimilum bændanna á Suðureyri. Því lýsir Kristján G. Þorvaldsson með þessum orðum:

 

… bændur á Suðureyri urðu jafnan að hafa nokkra háseta utan heimilis og á vorvertíð bjuggu þeir jafnan í verbúðum úti á Mölum en á vetrum var ekki hægt að vera í verbúðunum vegna kulda. Vetrarferðir voru ávallt strjálar og fóru utanheimilismenn þá heim til sín, þegar ekki gaf, en gengu til sjóferða ef veður breyttist svo útlit væri fyrir sjóveður. Formenn urðu þá að hýsa þessa háseta á vetrum þegar þeir komu til róðra þartil þeir fóru heim, þegar ekki gaf á sjó, einnig varð að veita þeim aðhlynningu og fæða þá að nokkru leyti. Þetta hafði í för með sér aukið umstang á heimilunum, jók þrengsli og því fylgdi nokkur kostnaður … .

Bændur á Suðureyri höfðu einnig nokkurn átroðning af sjóferðum innsveitarmanna á vetrum. Þá gátu þeir ekki verið í verbúðum sínum og leituðu því gistingar hjá þeim.[986]

 

Kristján lætur þess reyndar getið að á síðasta þriðjungi 19. aldar hafi það sjaldan verið nema einn bátur sem innsveitarmenn reru á að vetrinum og þá einkum síðari hluta vetrar þegar dag fór að lengja.[987]

Að vetrinum var líka farið í hákarlalegur frá Suðureyrarmölum. Kristján Albertsson, bóndi á Suðureyri, fór í slíkar leguferðir á árunum skömmu fyrir 1880 (sjá hér bls. 59-60) og á árunum milli 1870 og 1885 var teinæringur frá Ísafirði stundum gerður út á hákarlaveiðar frá Suðureyri einhvern part úr vetrinum, síðast veturinn 1884-1885 að sögn Valdimars Þorvaldssonar eða 1885-1886.[988] Þá munu Súgfirðingar hafa verið hættir að fara í leguferðir[989] (sbr. hér Lokinhamrar).

Hér var áður frá því greint að á sautjándu öld hefði tollurinn, sem eigendur Suðureyrar fengu greiddan af hverjum vermanni, verið tveir fjórðungar af fiski, það er tíu kíló af hertum fiski (sjá hér bls. 85) sem svaraði til 5 álna samkvæmt hinum forna landaurareikningi.[990] Fyrir áhöfnina á einum sexæring hafa því árlega verið greiddar 30 álnir, það er einn fjórði úr kýrverði. Um aldamótin 1900 var vertollurinn hins vegar ein króna af hlut, það er átta krónur fyrir hvern sexæring því skipt var í átta staði.[991] Sú greiðsla var aðeins einn þrettándi hluti úr kýrverði sé miðað við árið 1900[992] og því aðeins lítið brot af tollinum sem hver sex manna áhöfn þurfti að greiða á fyrri tímum.

Um greiðslur vertolla til eigenda Suðureyrar á árunum kringum aldamótin 1900  kemst Kristján G. Þorvaldsson svo að orði:

 

Ekki var þá nema um vorvertíð að ræða því þó innsveitarmenn reru við og við á vetrum var ekkert gjald af þeim tekið. … Eftir aldamótin fjölgaði bátum mikið, einkum vor og haust. Margir þessir bátar voru litlir með fáum mönnum og mun vart hafa verið tekið gjald af þeim öllum. Með komu vélbátanna og fjölgun þeirra óx þessi tekjustofn mjög mikið. Á þeim voru 10-11 hluta skipti. Þeir reru einnig allt árið svo vertíðirnar töldust tvær.[993]

 

Í dagbók Einars Jónssonar, sem átti heima á Suðureyri frá 1887 til 1908, er mikinn fróðleik að finna um sjósókn frá Suðureyrarmölum á árunum kringum aldamótin 1900. Hér verða aðeins gripin upp til fróðleiks og skemmtunar nokkur sýnishorn úr skrifum Einars um sjóferðir og ýmislegt sem tengdist þeim.

Vorið 1889 reru fimm bátar frá Suðureyrarmölum.[994] Einar var þá vinnumaður hjá Þorbirni Gissurarsyni á Suðureyri[995] og í skiprúmi hjá honum. Aðrir formenn voru þá Kristján Albertsson á Suðureyri, Jóhannes Hannesson í Botni, Jóhann Þórðarson í Selárdal og Jón Jónasson sem var með bát úr Önundarfirði[996] (sbr. hér bls. 92-93). Þeir Suðureyrarbændur, Kristján og Þorbjörn, munu hafa róið allan veturinn en Jóhannes í Botni kom með sinn bát á Malirnar í lok febrúar og fór fyrst í róður þann 6. mars.[997] Innsveitungar komu allir í verið, skrifar Einar þann 23. apríl[998] en næstu 7 vikurnar á undan munu Jóhannes og hans menn hafa gengið heiman frá sér til skips þegar gaf á sjó.

Þann 1. apríl 1894 varð Einar Jónsson dagbókarritari vinnumaður að hálfu hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri en að hálfu var hann sjálfs sín næsta fardagaár.[999] Vorið 1894 reru fjórir bátar frá Suðureyrarmölum og var Einar í skiprúmi hjá Kristjáni Albertssyni.[1000] Hinir þrír formennirnir voru: Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri, Guðmundur Sigurðsson á Laugum, síðar bóndi í Bæ, og Guðni Egilsson á Kvíanesi, síðar bóndi í Bæ.[1001] Guðni var með bát sem Jóhannes Hannesson í Botni átti.[1002] Vera má að á fyrstu vikum vorvertíðarinnar hafi þeir Guðni og Jóhannes skipst á um formennskuna en í skrifum Einars frá maí og júní er Guðni jafnan talinn formaður.[1003] Jóhannes Hannesson færði sig í verið, skrifar Einar 6. apríl 1894, eða Guðni [Egilsson] á Kvíanesi, hvor sem talinn er fyrir.[1004] Sama dag færði Guðmundur Sigurðsson á Laugum sig líka í verið.[1005]

Í dagbók sinni frá vorinu 1894 segir Einar margt um sjóróðra og aflabrögð þó ekki verði það rakið hér.[1006] Róið var með lóðir og einnig handfæri.[1007] Í skrifum Einars sjáum við líka að í aprílmánuði sinntu menn hrognkelsaveiðum, auk hinna almennu fiskiróðra.[1008] Þeir sem reru hjá Kristjáni Albertssyni voru svo stundum að plægja kúfisk til að ná sér í beitu en árangurinn virðist hafa verið misjafn. Þann 9. maí skrifar Einar: Við drógum plóginn 3 drætti og fengum 40 skeljar.[1009] Átta dögum síðar drógu þeir plóginn 9 drætti og fengu 600 kúskeljar.[1010]

Líklega hefur engin kona verið í skiprúmi á bátunum sem reru frá Suðureyrarmölum vorið 1894 en svo mikið er þó víst að þegar einn hásetinn hjá Kristjáni Albertssyni varð að sitja í landi vegna lasleika þá fór eiginkonan í hans stað á sjóinn.[1011] Þetta var Ingibjörg Friðbertsdóttir, kona Guðmundar Guðmundssonar, húsmanns í Róm á Suðureyrarmölum.[1012] Þann 22. júní voru stúlkurnar á Suðureyri að breiða vetrarfiskinn og tóku hann saman um kvöldið en fjórum dögum síðar var verið að vaska vorfiskinn.[1013] Að þessu sinni lauk vertíðinni í lok júní,[1014] nokkru fyrr en algengast var[1015] (sbr. hér bls. 94), en 2. júlí komu allir alls staðar að að breiða fiskinn.[1016] Í fyrri hluta júlímánaðar reru heimamenn á Suðureyri líka stundum í fjörðinn eins og það var nefnt þó að vertíðinni væri lokið. Má sem dæmi nefna að 4. júlí fóru Einar dagbókarritari og Jón sonur hans á litla bátnum út undir Sauðanes og drógu 150 fiska á handfæri.[1017]

Árið 1894 byrjuðu haustróðrar heimamanna á Suðureyri þann 22. september og var róið með lóðir.[1018] Í desember og janúar var líka farið nokkrum sinnum á sjó.[1019]

Á vetrarvertíðinni árið 1895 var Kristján Albertsson enn formaður á sínum bát en Guðmundur Sigurðsson á Laugum var þá formaður á Þorbjarnarbátnum sem Einar dagbókarritari nefnir svo.[1020] Þann bát mun Þorbjörn Gissurarson, bóndi á Suðureyri, hafa átt, enda tók sonur hans, Jón Þorbjörnsson, við formennskunni væri Guðmundur á Laugum forfallaður.[1021] Þennan vetur voru a.m.k. þrír menn úr Staðardal í skiprúmi á Suðureyrarbátunum. Marías Þórðarson í Ytri-Vatnadal var háseti hjá Kristjáni Albertssyni en Kristján Hólm Þórðarson, sem var bróðir Maríasar, og Steinn Kristjánsson sem einnig átti þá heima í Vatnadal, reru með Guðmundi á Laugum á Þorbjarnarbátnum.[1022] Einar Jónsson dagbókarritari var háseti hjá Kristjáni Albertssyni þennan vetur og skrifar 7. mars:

 

Við fiskuðum rúm 2 hundruð [þ.e. liðlega 240 fiska – innsk. K.Ó.]. Guðmundur eitt hundrað. Það var margt smátt. Við fengum blóðuga baráttu á fjörðinn því við vorum ekki nema með 5 árar. Það brotnaði ein í andófinu í dag.[1023]

 

Í almennum kafla um sjósókn og sjávarútveg Súgfirðinga á 18. og 19. öld, annars staðar í þessu riti, er að finna margvíslegar upplýsingar um aflabrögð og aflaverðmæti, beitu og veiðarfæri, fiskimið og hlutaskipti á fyrri tíð, hákarlaveiðar og þann ágæta fisk, steinbítinn (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli ). Ekkert af þessu verður endurtekið hér en látið nægja að vísa til þess sem fyrr var ritað.

Hér hefur áður verið minnst á hinn mikla fjölda verbúðatótta sem enn var sjáanlegur á Suðureyrarmölum undir lok 19. aldar og þess getið að árið 1887 voru átta verbúðir uppi standandi hér á Mölunum (sjá hér bls. 86-87 og 91). Valdimar Þorvaldsson var þá níu ára gamall og í ritgerð sem hann skrifaði löngu síðar gerir hann góða grein fyrir þessum verbúðum, nefnir eigendur þeirra og skýrir út hvar þær stóðu.[1024] Um þetta verður hér byggt á orðum hans.

Ysta búðin, sem stóð uppi árið 1887, var þar sem nú er húsið Aðalgata 32.[1025] Í þeirri búð höfðu að sögn Valdimars verið bræðurnir Sigurður og Þorleifur Sigurðssynir[1026] en þeir voru synir Sigurðar Þorleifssonar, sem um skeið bjó á Laugum í Súgandafirði (sjá hér Laugar), og varð Sigurður Sigurðsson bóndi á Gilsbrekku en Þorleifur bróðir hans á Norðureyri (sjá hér Gilsbrekka og Norðureyri).

Svolítið innar og neðar, þar sem síðar stóð húsið Aðalgata 30B, var verbúð Jóhannesar Hannessonar, bónda í Botni.[1027] Þá búð hafði Gissur Einarsson, bóndi í Selárdal, átt áður[1028] en hann andaðist árið 1854 (sjá hér Selárdalur). Hús þetta var enn notað sem verbúð sumarið 1915[1029] Með norðurvegg voru þá þrjú rúm en tvö rúm og kamína með suðurvegg.[1030] Rúmin stóðu á moldargólfi og á milli þeirra var mjór gangur.[1031] Torf og grjót var í veggjum en bárujárn komið á þakið.[1032] Á vesturgafli var lítill fjögurra rúðna gluggi og undir honum lítið ómálað tréborð.[1033] Seinna var þessari verbúð breytt í íbúðarhús og í því bjuggu hjónin Jón Kristjánsson og Sigrún Sigurðardóttir árið 1940[1034] en seinna Þórður Stefánsson. Húsið er nú horfið.

Fáum metrum innar en búð Jóhannesar Hannessonar var þriðja verbúðin og var hún eignuð mönnum í Önundarfirði.[1035] Þá búð lagaði Guðmundur Sigurðsson, síðar bóndi í Bæ, fæddur 1865, og var í henni meðan hann var á Mána.[1036] Guðmundur reri jafnan frá Suðureyri og mun ekki hafa fært sig í aðra verbúð fyrr en 1898[1037] (sbr. hér bls. 100-101). Jóhannes Albertsson fluttist frá Norðureyri á því ári og settist þá að í húsi sem hann byggði upp úr þessari verbúð. Átta árum seinna mun Jóhannes hafa byggt sér timburhús hér á Suðureyrarmölum og þá seldi hann hið eldra hús sitt Kristjáni Andréssyni í Meðaldal í Dýrafirði[1038] en hann reri  jafnan frá Suðureyri á vorin um nokkurra ára skeið.[1039] Kristján lét stækka húsið og notaði það sem verbúð.[1040] Hús þetta var á árunum upp úr aldamótunum 1900 nefnt græni bærinn (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 462). Kristján Andrésson seldi það Örnólfi Jóhannessyni árið 1915[1041] og bjó hann í því í allmörg ár.

Þessi gamla verbúð, sem fékk nafnið græni bærinn, stóð, að sögn Valdimars Þorvaldssonar, þar sem Saltfiskstöðin var á árunum upp úr 1960,[1042] það er skammt fyrir innan og neðan húsið númer 26 við Aðalgötu.[1043] Sumarið 1996 stóð húsið sem nefnt var Saltfiskstöðin um 1960 enn þar sem græni bærinn var áður og var ysta hús neðan við Eyrargötu að frátöldum hjalli.[1044] Græni bærinn var hins vegar rifinn um 1930 og byggður upp á nýjum stað, lóðinni númer 34 við Aðalgötu.[1045]

Nokkru innar og ofar en þessi síðastnefnda verbúð voru árið 1887 tvær samliggjandi búðir, sem hætt var að nota, og var önnur þeirra þaklaus.[1046] Í annarri þessara búða var síðast verið vorið 1886 og var það skipshöfn Þórðar Jónssonar en hann var þá að flytja úr Botni í Ytri-Vatnadal[1047] (sbr. hér Ytri-Vatnadalur). Þessar tvær búðir voru að sögn Valdimars Þorvaldssonar rétt neðan við húsið sem nú er númer 22 við Aðalgötu.[1048] Upp úr þeim byggði Guðmundur Guðmundsson fjárhús og hlöðu er hann settist að á Suðureyrarmölum árið 1892.[1049]

Litlu innar og nokkru neðar var verbúð Friðriks Gíslasonar, bónda á Kvíanesi.[1050] Valdimar tekur fram að árið 1887 hafi hún verið með þaki og hurð.[1051] Hús þetta stóð lengi og var notað sem fjós fram yfir 1940.[1052] Fjós þetta átti þá Kristján G. Þorvaldsson.[1053] Það stóð nær beint fyrir neðan húsið númer 12 við Eyrargötu en þó aðeins utar.[1054]

Talsvert innar var verbúð Sigurðar Jónssonar, bónda á Gilsbrekku.[1055] Að sögn Valdimars reri Sigurður síðast frá henni vorið 1886.[1056] Í þeirri verbúð settust þremur árum síðar að fyrstu íbúarnir sem tóku sér bólfestu á Suðureyrarmölum og bjuggu þar árum saman, hjónin Marías Þorgilsson og Ástríður Halldórsdóttir[1057] (sbr. hér bls. 104-108). Verbúðinni, sem þau fengu til íbúðar, gaf Marías nafnið Babýlon og hélst það nafn í 100 ár þó að hin gamla búð tæki ýmsum breytingum.[1058] Húsið Babýlon stóð á lóðinni númer 10 við Eyrargötu. Marías Þorgilsson bjó í Babýlon til dauðadags en hann andaðist vorið 1897[1059] og skömmu síðar fékk Guðmundur Sigurðsson, sonur Sigurðar Jónssonar á Gilsbrekku, húsið, byggði það upp og breytti því aftur í verbúð.[1060] Í traustri heimild frá árunum upp úr 1940 segir að Guðmundur hafi árið 1898 byggt Babýlon upp með timburgöflum og þaki en torfveggjum sem síðan voru rifnir og settir timburskúrar í staðinn.[1061] Guðmundur bjó á Laugum frá 1891 en fluttist þaðan í Bæ vorið 1899. Hann hélt þó áfram að róa frá Suðureyri og var formaður allt til 1906 (sjá hér Bær). Haustið 1899 bjó ekkjan Halldóra Þórðardóttir frá Gilsbrekku þó í Babýlon.[1062] Þegar Guðmundur Sigurðsson hafði byggt húsið upp var það að sögn allra vistlegasta plássið á Suðureyrarmölum handa sjómönnum.[1063] Eigi síðar en 1915 var Babýlon breytt varanlega í íbúðarhús[1064] og stóð húsið í breyttri mynd en á sama stað og með sama nafni uns það var rifið skömmu eftir 1990.[1065]

Skammt fyrir innan og neðan Babýlon var árið 1887 innsta uppistandandi verbúðin á Suðureyrarmölum.[1066] Hún var nefnd Mjónabúð en Mjóni var bátur sem Guðmundur Guðmundsson, bóndi og hreppstjóri á Suðureyri, dáinn 1867, hafði átt.[1067] Þennan bát eignaðist, að honum látnum, sonur hans, Guðmundur Guðmundsson[1068] sem gerðist bóndi á Laugum árið 1875. Ætla má að búðin hafi fylgt með og þegar Guðmundur á Laugum fluttist þaðan á Suðureyrarmalir vorið 1892 byggði hann íbúðarhús upp úr þessari gömlu verbúð og settist að í því.[1069] Þetta hús var nefnt Róm[1070] og í sex  ár voru Babýlon og Róm einu íbúðarhúsin hér á Mölunum (sjá hér bls. 108-109). Róm stóð á lóðinni númer 5 við Rómarstíg[1071] og þar var Mjónabúð áður. Íbúðarhúsið sem Guðmundur Guðmundsson byggði upp úr Mjónabúð var stækkað síðar og í því var um tíma rekin örlítil verslun.[1072] Nafninu Róm eða Rómaborg hélt hús þetta alla tíð og í því var búið fram undir 1940.[1073] Þessi gamla Rómaborg var rifin til grunna árið 1983 eða 1984.[1074]

Eitthvað af gömlu verbúðatóttunum, sem áður var minnst á, voru innan við Mjónabúð en búðirnar, sem þar höfðu staðið, voru allar fallnar í tótt á árunum milli 1880 og 1890,[1075] að líkindum fyrir löngu síðan.

Naustin tvö sem bændurnir á Suðureyri áttu stóðu  hins vegar uppi og voru enn í notkun.[1076] Þau voru talsvert innar en Mjónabúð, nánar til tekið þar sem nú er Stefnisgata 8.[1077] Þetta voru tvö sambyggð hús og sneru dyrnar á göflunum niður til sjávar.[1078] Nafnið á þessum húsum bendir eindregið til þess að þau eða önnur hús á sama stað hafi upphaflega verið notuð sem bátanaust og þá hafi fjaran verið enn nær þeim en síðar varð. Á síðari hluta 19. aldar munu bændur á Suðureyri einkum hafa notað Naustin til að geyma þar eitt og annað og stundum voru hús þessi lánuð og þau nýtt sem verbúðir.[1079] Hér var áður nefnt að Naustin hefðu staðið þar sem nú (1996) er Stefnisgata 8 en þessar gömlu byggingar náðu sem svaraði veggþykkt lengra inn eftir og einnig örlítið lengra í átt til sjávar en húsið sem þarna stendur nú.[1080] Annað Naustið mun hafa fallið í tótt um 1900 en hitt 1910.[1081] Um það bil 30 föðmum innan við þau voru allra innstu búðatóttirnar á Suðureyrarmölum árið 1887.[1082]

Hér hafa nú verið nefnd nær öll þau hús sem uppi stóðu á Suðureyrarmölum á árunum upp úr 1880, það er að segja verbúðirnar átta og Naustin sem hér var síðast sagt frá. Auk þessara tíu húsa stóðu þá á Mölunum tveir hjallar sem bændurnir á Suðureyri áttu[1083] og mun þá allt vera upp talið.[1084]

Hjallarnir tveir stóðu upp á Grundunum, innar og ofar en Naustin,[1085] og munu hafa verið þar sem nú hefur lengi verið barnaleikvöllur með leiktækjum eða þar í grennd,[1086] það er neðantil við húsið Aðalgötu 8.[1087] Hjallarnir stóðu hlið við hlið.[1088] Á þeim voru torfþök en veggirnir úr grjóti.[1089] Þetta voru gömul hús, byggð á fyrri hluta nítjándu aldar[1090] og kynnu reyndar að hafa verið enn eldri.

Um 1880 var lítið um önnur mannvirki hér á Mölunum en þau 12 hús sem nú hefur verið gerð grein fyrir og svo grjótgarðana, sem hér voru um allt, en þeir voru notaðir til að herða á þeim fisk.[1091] Allar gömlu búðatóttirnar voru þó leifar af mannvirkjum og af mannahöndum höfðu stekkurinn og kvíin, sem hér var áður sagt frá, verið byggð (sjá bls. 87).

Árið 1885 var annar gamli hjallurinn á Suðureyrarmölum rifinn og nýr hjallur úr timbri byggður í hans stað um 14 metrum neðan við Naustin.[1092] Þann hjall átti Kristján Albertsson.[1093] Ætla má að hann hafi verið reistur árið 1886, sama ár og Staðarkirkja (sjá hér Staður), því Valdimar Þorvaldsson fullyrðir að hjallur þessi og kirkjan hafi verið fyrstu timburhúsin í Súgandafirði.[1094] Hinn hjallurinn var færður mjög fáum árum síðar.[1095] Um 1890 reyndu bændurnir á Suðureyri að koma upp kálgarði þar sem gömlu hjallarnir höfðu staðið og hlóðu þar upp grjótveggjum sem voru 10 faðmar á hvern veg en sú garðrækt misheppnaðist vegna sandfoks.[1096]

Vorið 1891 reisti Ásgeirsverslun á Ísafirði sitt fyrsta hús á Suðureyrarmölum og hóf hér verslunarstarfsemi í mjög smáum stíl (sjá hér bls. 67-69). Þetta var lítið timburhús aðeins 12 eða 14 fermetrar og er því nánar lýst hér á öðrum stað (sjá bls. 67-69). Húsið var ein hæð og ris og mannstætt á miðju loftinu.[1097] Þetta fyrsta verslunarhús á Suðureyri stóð beint fyrir utan timburhjallinn, sem Kristján Albertsson reisti 1885 eða 1886 og hér var nýlega nefndur, og milli þessara tveggja húsa segir Valdimar Þorvaldsson að aðeins hafi verið um það bil 10 álnir,[1098] það er liðlega sex metrar.

Árið 1886 eða 1887 var hafist handa við að byggja þinghús úr torfi og grjóti á Suðureyrarmölum.[1099] Því var valinn staður svolítið utan við Naustin, sem hér voru áður nefnd, 8-10 metrum utar, en þar er nú gatan Rómarstígur.[1100] Þarna voru reistir veggir að væntanlegu þinghúsi en þakið kom aldrei því ákveðið var að breyta til og hafa hið nýja þinghús úr timbri.[1101] Þinghúsið var reist árið 1892 og hér hefur áður verið sagt frá byggingu þess (sjá Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Húsinu var valinn staður beint fyrir utan verslunarhús Ásgeirsverslunar og bilið milli þessara tveggja húsa var að sögn Valdimars Þorvaldssonar aðeins um það bil 10 álnir[1102] eða liðlega sex metrar. Er þinghúsið hafði verið reist voru komin þarna þrjú timburhús í röð. Í miðjunni stóð hús Ásgeirsverslunar. Tíu álnum innan við það var timburhjallur Kristjáns Albertssonar en tíu álnum utan við það var þinghúsið.[1103] Hér var áður nefnt að húsið Stefnisgata 8 stendur nú (1996) þar sem Naustin voru áður. Þau náðu þó aðeins lengra í átt til fjörunnar en hús þetta og 14 metrum neðan við Naustin var timburhjallur Kristjáns (sjá hér bls. 101-102). Vitneskja okkar um þetta og um vegalengdina milli hinna þriggja timburhúsa, sem stóðu hér í röð, býður upp á allnákvæma staðsetningu á þessum gömlu húsum sem nú eru löngu horfin. Ljóst er að hjallur Kristjáns Albertssonar hefur staðið þar sem nú (1996) er gamall frystiklefi neðan við húsið Stefnisgötu 8. Handan götunnar er Svartholið, sem svo var nefnt, tveggja hæða hús úr steinsteypu, reist af Ásgeirsverslun sem geymsluhús árið 1915 (sjá hér bls. 132) og er áfast við húsið númer 2 við Rómarstíg sem stendur ofar. Orð Valdimars Þorvaldssonar sýna að elsta verslunarhús Ásgeirsverslunar á Suðureyri, húsið sem byggt var árið 1891, og þinghúsið hafa bæði staðið þar sem Svartholið stendur nú, verslunarhúsið við innri vegginn en þinghúsið við ytri vegginn.

Grunnflötur þinghússins, sem byggt var 1892, var 5 x 6 álnir[1104] eða um það bil 12 fermetrar. Vegghæðin var 3 álnir[1105] um 1,88 metrar. Hús þetta var notað sem fundahús Súgfirðinga allt þar til barnaskóli var byggður hér á Suðureyri[1106] árið 1908 (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Í þinghúsinu voru tveir bekkir og borð[1107] (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Er barnaskólinn hafði verið reistur var þinghúsið selt einstæðri konu til íbúðar[1108] (sbr. hér Keflavík). Var búið í húsinu í nokkur ár en þegar Svartholið var byggt, sumarið 1915, varð að flytja það á aðra lóð og þá var verslunarhúsið frá 1891 rifið.[1109] Þinghúsið var aðeins flutt skamman spöl og stóð á sínum síðustu árum neðan við Selárdalsbúðina sem nú (1996) telst vera númer 3 við Garðastíg.[1110] Síðasti eigandi þessa gamla þinghúss var Guðbjörn Björnsson en húsið var rifið árið 1925.[1111]

Haustið 1896 byggði Ásgeirsverslun mun stærra verslunarhús á Suðureyrarmölum en það sem reist hafði verið 1891 og á árunum 1892-1904 jók hún líka húsakost sinn með viðbyggingum við þessi tvö hús (sjá hér bls. 129-132). Þrjú íbúðarhús voru líka byggð á Suðureyrarmölum á árunum 1892-1900, hús Guðmundar Guðmundssonar árið 1892 (sjá hér bls. 108-109), hús Jóhannesar Albertssonar árið 1898 (sjá hér bls. 109-110) og hús Jens Arnbjörnssonar árið 1900 (sjá hér bls. 111-112). Hér var því risinn örlítill vísir að þorpi þegar gamla öldin kvaddi og tuttugusta öldin gekk í garð.

Frá fyrri tíð er aðeins vitað um eitt dæmi þess að fólk hafi tekið sér bólfestu hér á Suðureyrarmölum. Þetta eina dæmi er frá árinu 1802 en í marsmánuði á því ári segir prestur hjónin Bjarna Jónsson og Ingibjörgu Bjarnadóttur eiga heima í Búð á Suðureyri.[1112] Einu ári fyrr voru þau á Keravíkurbökkum, hjáleigu í landi Staðar (sjá hér Staður). Tvö börn Bjarna og Ingibjargar voru hjá þeim í verbúðinni á Suðureyrarmölum, drengur sem hét Eiríkur og stúlkan Oddhildur.[1113] Þegar presturinn skráði nöfn þessa þurrabúðarfólks í húsvitjanabók sína árið 1802 tekur hann fram að Bjarni sé meinlítill.[1114] Svo virðist sem fólk þetta hafi aðeins hafst hér við í eitt eða tvö ár og vera má að dvalartími þess í verbúðinni hafi jafnvel verið enn styttri.[1115]

Upphaf varanlegrar búsetu og þorpsmyndunar á Suðureyrarmölum má hins vegar rekja til haustsins 1889 en þá settust hjónin Marías Þorgilsson og Ástríður Halldórsdóttir hér að í einni verbúðinni.[1116] Þau ásamt syni sínum, Kristjáni G. Maríassyni, fæddum 1878, voru fyrstu manneskjurnar sem settust að hér á Mölunum til langframa en árið 1892 kom önnur fjölskylda og brátt tók fólkinu að fjölga.[1117]

Á árunum 1886-1889 höfðu þau Marías og Ástríður verið þurrabúðarfólk í Lækjarkoti í landi Staðar í Súgandafirði (sjá hér Staður). Við brottför þeirra sumarið 1889 fór þetta síðasta hjáleigukot í landi prestssetursins í eyði. Hjónin Marías Þorgilsson og Ástríður Halldórsdóttir voru því ekki aðeins fyrstu íbúar þorpsins á Suðureyrarmölum heldur einnig síðasta kotafólkið á Stað.

Í sóknarmannatali frá 31. desember 1889 er nöfn Maríasar og Ástríðar hvergi að finna[1118] og hefur prestinum, séra Janusi Jónssyni í Holti, láðst að færa þau til bókar, enda var fólk þetta komið á nýjan stað þar sem hann átti ekki manna von um hávetur. Vitneskjuna um upphaf fastrar búsetu á Suðureyrarmölum eigum við því ekki prestinum að þakka heldur öðrum manni, Einari Jónssyni, sem árið 1889 var vinnumaður hjá Þorbirni Gissurarsyni á Suðureyri og skrifaði dagbók.[1119]

Í dagbók Einars sést að Marías og hans fólk voru enn í Lækjarkoti á fyrri hluta ársins 1889[1120] og 10. júlí á því ári nefnir Einar eiginkonu Maríasar enn Ástríði í Lækjarkoti.[1121] Hún fór þá með Suðureyrarfólki í mógrafir inn í Botn.[1122] Skömmu síðar mun Ástríður hafa farið vestur í Önundarfjörð, líklega í kaupavinnu, en Marías kom sér fyrir til bráðabirgða hjá Þorbirni bónda á Suðureyri.[1123] Þann 6. september 1889 skrifar Einar Jónsson í dagbók sína þessi orð: Marías Þorgilsson kom með Ástríði konu sína að vestan í gærkveldi og Kristján son þeirra. Það fór í búð á Mölunum.[1124]

Skýrar var varla hægt að taka til orða og hér sjáum við að þessir fyrstu íbúar þorpsins á Suðureyrarmölum fluttust hingað að kveldi 5. september árið 1889. Sá dagur getur því með réttu kallast afmælisdagur Suðureyrarkauptúns.

Að Marías og fjölskylda hans hafi búið í verbúðinni veturinn 1889-1890 og síðan áfram er alveg víst. Þann 8. október 1889 var Einar dagbókarritari að hjálpa Maríasi við að setja þar upp kamínu, í nóvember fóru þeir inn í skóg að sækja hrís og 22. janúar fór dagbókarritarinn út í Maríasarkofa er hann nefnir þá svo.[1125] Í manntalinu frá 1. nóvember 1890 er svo tekið fram að þau Marías Þorgilsson, Ástríður kona hans og Kristján sonur þeirra eigi heima í þurrabúð á Suðureyrarmölum og sóknarmannatölin sýna að þau höfðust hér við allt þar til Marías andaðist vorið 1897.[1126]

Er hjónin Marías og Ástríður settust að á Suðureyrarmölum haustið 1889 voru þau bæði orðin roskin. Marías var fæddur að Svarfhóli í Álftafirði við Djúp í maímánuði árið 1831.[1127] Foreldrar hans voru hjónin Þorgils Bjarnason og Sessilía Steinsdóttir sem þá bjuggu á Svarfhóli en síðar í Tröð í Álftafirði.[1128] Árið 1845 var Marías fermdur og átti þá heima hjá foreldrum sínum í Tröð.[1129] Þar var hann enn tíu árum síðar, talinn fyrirvinna hjá móður sinni sem þá var orðin ekkja.[1130]

Eiginkona Maríasar, Ástríður Halldórsdóttir, mun hafa fæðst árið 1838 eða því sem næst því að í manntali frá 2. nóvember 1840 er hún sögð vera 2ja ára gömul.[1131] Hún var þá í Æðey með móður sinni, Þorkötlu Eiríksdóttur, sem þá var ógift vinnukona.[1132] Fimm árum síðar var hún komin að Tungu í Dalamynni,[1133] sem var bær í Nauteyrarhreppi, og fylgdi þá föður sínum, Halldóri Ketilssyni, er þá var vinumaður í Tungu og sagður vera ekkjumaður.[1134] Í manntalinu frá 1845 er Ástríður sögð fædd í Snæfjallasókn[1135] og er þá líklegast að hún hafi fæðst í Æðey því þar var hún tveggja ára gömul eins og fyrr var nefnt.

Haustið 1850 var Ástríður 12 ára tökubarn á Rauðamýri í Nauteyrarhreppi[1136] en fimm árum síðar var hún komin aftur til föður síns sem þá var daglaunamaður í þurrabúðarkotinu Gröf í landi jarðarinnar Tungu í Dalamynni.[1137] Þar voru þau feðgin enn haustið 1860 og þá var Marías Þorgilsson, verðandi eiginmaður Ástríðar, kominn þangað líka.[1138] Árið 1872 fluttust Marías og Ástríður úr Ögurþingum að Botni í Súgandafirði.[1139] Þau voru þá orðin hjón og með þeim kom tíu ára gömul dóttir þeirra, María að nafni.[1140] Upp frá því áttu þau jafnan heima í Súgandafirði og voru alltaf í húsmennsku, lengi í Botni, síðan eitt ár í Ytri-Vatnadal[1141] og svo í Lækjarkoti og á Suðureyrarmölum eins og hér var áður nefnt.

Verbúðina á Suðureyrarmölum, sem þau Marías og Ástríður gerðu að heimili sínu, hafði Sigurður Jónsson, bóndi á Gilsbrekku, átt (sjá hér bls. 100) en um 1890 var hann hættur búskap og kominn í húsmennsku til stjúpsonar síns, Kristjáns Albertssonar, bónda á Suðureyri.[1142] Árið sem Marías settist að í búðinni keypti hann hana af Sigurði.[1143] Eins og hér hefur áður verið nefnt gaf Marías þessu húsi sínu nafnið Babýlon og fylgdi það nafn kofanum æ síðan þrátt fyrir margvíslegar breytingar sem á honum voru gerðar. Babýlon stóð á lóðinni sem seinna varð númer 10 við Eyrargötu (sjá hér bls. 100)

Þau Marías Þorgilsson og Ástríður kona hans komu upp tveimur börnum, Maríu og Kristjáni Guðmundi.[1144] Þegar Marías og Ástríður settust að í Babýlon var dóttir þeirra komin upp og farin að sjá fyrir sér sjálf[1145] en Kristján, sem fæddur var 9. janúar 1878, fylgdi foreldrum sínum hingað á Malirnar og bjó hjá þeim næstu árin.[1146]

Í manntalinu frá 1890 er Marías sagður vera sjómaður.[1147] Valdimar Þorvaldsson segir hann hafa verið beyki og greinir frá því að í landlegum hafi Marías ávallt unnið að smíðum er þeir, hann og Valdimar, voru báðir í skiprúmi hjá Þorbirni Gissurarsyni vorið 1894.[1148] Orð Valdimars benda til þess að húsbóndinn í Babýlon hafi kunnað eitthvað fyrir sér í tunnusmíði en óhugsandi er að sú kunnátta hafi fært honum verulegar tekjur eins og ástatt var hér á Suðureyri á árunum um og upp úr 1890. Valdimar, sem sjálfur var kunnugur Maríasi, getur þess líka að hann hafi verið vínmaður og vel skýr, sem mest kom fram í lipru skopi og gríni væri hann við skál.[1149] Marías Þorgilsson kom hér með degi í morgun, fullur, og var hér lengi, skrifar Einar Jónsson í dagbók sína 10. desember 1894.[1150]

Marías andaðist 25. maí 1897 og hafði þá verið búsettur á Suðureyrarmölum í nær átta ár.[1151] Þau Ástríður kona hans og Kristján sonur þeirra, sem kominn var um tvítugt þegar faðir hans dó, höfðust við í Babýlon fram á árið 1898 en þá um vorið yfirgáfu þau Malirnar og fóru að beiðni hreppsnefndarinnar út í Ytri-Vatnadal, til aðstoðar við Herdísi Þórðardóttur, unga ekkju sem þar bjó (sjá hér Staður, sjóslysið 28.2. 1898), en hún var ein þeirra mörgu kvenna í Súgandafirði sem misstu eiginmenn sína í sjóinn 28. febrúar 1898. Kristján Maríasson, fyrsta barnið á Suðureyrarmölum, varð síðar mesti dugnaðarmaður, hvort sem hann vann á sjó eða landi.[1152] Hann var lengi formaður á vélbát sem gerður var út frá Suðureyri og í hópi þeirra sem mest fiskuðu.[1153] Vorið 1920 fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Bolungavíkur.[1154]

Í þrjá vetur og tvö sumur voru Marías Þorgilsson og fjölskylda hans eina fólkið sem búsett var á Suðureyrarmölum en vorið 1892 dró til nýrra tíðinda. Hjónin Guðmundur Guðmundsson og Ingibjörg Friðbertsdóttir, sem búið höfðu á Laugum allt frá árinu 1875, fluttust þá hingað á Malirnar[1155] og reistu sér lítið íbúðarhús með torf- og grjótveggjum upp úr verbúðinni sem nefnd var Mjónabúð[1156] (sbr. hér bls. 101). Í einni heimild er grunnflötur hússins sagður hafa verið 11 x 12 fet,[1157] það er 3,45 x 3,77 metrar eða 13 fermetrar, en í annarri heimild er þetta sama hús sagt hafa verið enn minna, það er 3,5 x 3,3 metrar[1158] eða 11,55 fermetrar. Veggirnir voru sem áður sagði úr torfi og grjóti en báðir gaflarnir úr timbri og líka þakið sem var klætt með tjörupappa.[1159] Húsið var með litlu porti[1160] svo í því hefur verið loft og má ætla að þar uppi hafi fólkið sofið.

Hús þetta fékk nafnið Róm eða Rómaborg eins og hér hefur áður verið nefnt og stóð á lóð er síðar varð númer 5 við götuna Rómarstíg (sjá hér bls. 101). Í breyttri mynd hélt það velli langt fram á síðari hluta 20. aldar.[1161]Þau Rómshjón, segir Magnús Hjaltason, er hann nefnir hina fyrstu húsráðendur í Rómaborg á Suðureyrarmölum.[1162]

Guðmundur Guðmundsson var fertugur að aldri er hann fluttist frá Laugum á Suðureyrarmalir, fæddur 22. júní 1852, en Ingibjörg kona hans var þremur árum eldri.[1163] Hann var sonur Guðmundar Guðmundssonar, bónda og hreppstjóra á Suðureyri, sem andaðist árið 1867, og konu hans, Kristínar Þorleifsdóttur, en Ingibjörg, eiginkona Guðmundar yngri Guðmundssonar, var dóttir Friðberts Guðmundssonar, bónda og hreppstjóra í Fremri-Vatnadal, og fyrri konu hans, Arnfríðar Guðmundsdóttur.[1164] Með Guðmundi og Ingibjörgu fluttust á Suðureyrarmalir vorið 1892 tvö börn þeirra, Friðbert, sem var 14 ára, og Arnfríður, sem var 13 ára, einu börnin sem þau áttu á lífi.[1165]

Guðmundur Guðmundsson, sem reisti Rómaborg og gerðist húsmaður á Suðureyrarmölum vorið 1892, var mágur Kristjáns Albertsonar, bónda á Suðureyri, því fyrri kona Kristjáns, Kristín Guðmundsdóttir sem andaðist árið 1882, var systir Guðmundar.[1166] Þegar Guðmundur færði sig á Suðureyrarmalir átti hann þrjú hundruð í jörðinni Suðureyri og hafði erft þann jarðarpart eftir foreldra sína (sjá hér bls. 48). Hann stóð því á eigin fótum og gat haldið skepnur án þess að þurfa að leita á náðir annarra. Auk Rómaborgar byggði hann bæði fjárhús og hlöðu á Mölunum og var jafnan með nokkrar kindur.[1167] Hann kom sér líka upp kálgarði og timburhjalli og átti bát sem hann reri á til fiskjar vor, sumar og haust [1168] (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Guðmundur var fyrsti kvikfjáreigandinn á Suðureyrarmölum og  samkvæmt tíundarskýrslu frá árinu 1895 átti hann þá 7 ær og 4 gemlinga.[1169] Fimm árum síðar var bústofn Guðmundar nær óbreyttur.[1170] Fjárhús sitt og hlöðu byggði Guðmundur þar sem áður stóðu hlið við hlið tvær verbúðir og hafði Þórður Jónsson, bóndi í Botni og síðar í Ytri-Vatnadal, síðast róið frá annarri þeirra vorið 1886[1171](sbr.hér bls. 99).

Þau Guðmundur Guðmundsson og Ingibjörg Friðbertsdóttir munu hafa búið í Róm til dauðadags. Hún dó 12. júlí 1917 en hann 9. mars 1918.[1172] Árið 1898 fluttust hjónin Jóhannes Albertsson og Sigríður Jónsdóttir á Suðureyrarmalir frá Norðureyri en þar höfðu þau búið í nokkur ár.[1173] Húsið sem þau reistu hér á Mölunum á því ári var byggt upp úr gamalli verbúð sem Guðmundur Sigurðsson, bóndi á Laugum og síðar í Bæ, hafði róið frá næstliðin ár (sjá hér bls. 99). Þessi verbúð stóð skammt fyrir neðan og innan húsið sem nú (1996) er númer 26 við Aðalgötu (sjá hér bls. 99). Hús þetta var í fyrstu mjög líkt húsinu sem Guðmundur Guðmundsson byggði á Suðureyrarmölum sex árum fyrr[1174] og hér hefur áður verið lýst en mun þó hafa verið með torfþaki.[1175] Það var um tíma nefnt græni bærinn og tók seinna ýmsum breytingum (sjá hér bls. 99). Að sögn Valdimars Þorvaldssonar var grunnflötur þessa húss aðeins 12 x 8 fet,[1176] það er 9,5 fermetrar. Seinna var húsið stækkað og um skeið var það eingöngu notað sem verbúð (sjá hér bls. 99). Á árunum kringum 1930 var það rifið en endurbyggt á öðrum stað, þar sem nú er Aðalgata 34.[1177] Ljóst er að menn hafa talið húsið sem stóð á lóðinni númer 34 við Aðalgötu árið 1940 vera hið sama og Jóhannes Albertsson reisti á öðrum stað árið 1898 því að í manntalinu frá 1940 er húsið sagt vera um það bil 50 ára gamalt.[1178] Það var þá ein og hálf hæð.[1179] Það er ein hæð, port og ris.[1180]

Jóhannes Albertsson var þriðji fjölskyldumaðurinn sem settist að á Suðureyrarmölum undir lok 19. aldar. Hann var fæddur í Ytri-Vatnadal 4. ágúst 1855, sonur hjónanna Alberts Jónssonar og Guðfinnu Þorleifsdóttur er seinna bjuggu um skeið á Gilsbrekku.[1181] Þessi tómthúsmaður var því bróðir Kristjáns Albertssonar, bónda á Suðureyri og verslunarstjóra við útibú Ásgeirsverslunar hér á Mölunum (sjá hér bls. 55-56). Vera má að tengslin við Kristján hafi stuðlað að þeirri ákvörðun Jóhannesar að bregða búi, þó ekki væri hann nema liðlega fertugur að aldri, og færa sig yfir á Malirnar. Bændurnir tveir, sem fyrstir settust að á Suðureyrarmölum og gerðust tómthúsmenn, þeir Guðmundur Guðmundsson og Jóhannes Albertsson, voru reyndar báðir nátengdir Kristjáni Albertssyni, annar mágur hans en hinn bróðir hans, og er það líklega ekki hrein tilviljun.

Sigríður Jónsdóttir, eiginkona Jóhannesar Albertssonar, var 17 árum eldri en hann, fædd á Tannanesi í Önundarfirði árið 1838.[1182] Foreldrar hennar voru hjónin Jón Björnsson og Guðríður Bjarnadóttir, sem bjuggu lengi á Tannanesi (sjá hér Tannanes), en nokkur systkini Sigríðar fluttust eins og hún til Súgandafjarðar og má þar m.a. nefna Þórð Jónsson sem bjó lengi í Botni og síðar í Ytri-Vatnadal.[1183]

Tvö af börnum Jóhannesar Albertssonar og Sigríðar Jónsdóttur fylgdu foreldrum sínum er þau settust að á Suðureyrarmölum árið 1898, þau María og Albert Finnur sem þá voru um og rétt yfir fermingu.[1184] Er Jóhannes kom á Malirnar hafði hann svipaðan hátt á og Guðmundur í Róm, byggði sér hjall, fjárhús og hlöðu[1185] og lifði bæði af landi og sjó. Árið 1900 átti Jóhannes 9 ær og 3 gemlinga.[1186] Hann átti líka bát[1187] og í manntalinu frá 1901 bera þeir Guðmundur Guðmundsson og Jóhannes Albertsson báðir atvinnuheitið bátsformaður.[1188]

Árið 1906 byggði Jóhannes Albertsson sér nýtt hús á Suðureyrarmölum.[1189] Það var á steyptum kjallara og stóð þar sem nú er húsið númer 26 við Aðalgötu á Suðureyri (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 463). Jóhannes Albertsson dó árið 1930 en Sigríður, kona hans, tíu árum fyrr.[1190]

Frá 1892 til 1899 voru tvær fjölskyldur jafnan búsettar á Suðureyrarmölum, fyrst Marías Þorgilsson og Guðmundur Guðmundsson ásamt þeirra fólki, en frá 1898 Guðmundur og Jóhannes Albertsson með sínar fjölskyldur. Árið 1899 bættist þriðja fjölskyldan við, ekkjan Halldóra Þórðardóttir, áður húsfreyja á Gilsbrekku, en í sóknarmannatölum frá 31.12.1899 og 31.12.1900 má sjá að hún var þá hér á Mölunum, ýmist með annað eða bæði börnin sem hún átti, þau Helga Sigurðsson og Guðmundu Sigurðardóttur.[1191] Haustið 1899 var Halldóra tvímælalaust í Babýlon (sjá hér bls. 101), þar sem Marías Þorgilsson hafði áður búið, og vera má að aðsetur hennar hafi verið þar allt til aldarloka.

Í desembermánuði árið 1900 bættist fjórða fjölskyldan í fámennan hóp fólksins á Mölunum, þau Jens Arnbjörnsson smiður og eiginkona hans, Jónína S. Guðmundsdóttir.[1192] Árið sem Jens settist að á Suðureyrarmölum hafði hann reist sér þar hús á lóðinni sem seinna varð númer 36 við Aðalgötu.[1193]

Þau Jens og Jónína komu frá Þverá, nýbýliskoti sem þau höfðu reist í landi Bæjar, hér úti í Staðardal, og búið á í nokkur ár (sjá hér Bær, Þverá þar). Frá uppruna þeirra og æviferli hefur áður verið sagt í þessu riti og skal til þess vísað (sjá hér Bær, Þverá þar). Valdimar Þorvaldsson segir að hús sitt á Suðureyrarmölum hafi Jens byggt úr mjög einföldum efnum.[1194] Húsið var tvær hæðir og ris.[1195] Á neðri hæðinni var eingöngu bátasmíðahús og smiðja.[1196] Sú hæð var 36×10 fet, það er 35 fermetrar, og skiptist þannig að smíðahúsið var 30 fet á lengd en smiðjan 6 fet. Íbúð sína byggði Jens ofan á ytri enda þessa stóra smíðahúss.[1197] Grunnflötur hennar var aðeins 12 x 10 fet,[1198] það er tæplega 12 fermetrar, en hún var með porti og risi.[1199]

Í manntalinu frá 1901 er Jens Arnbjörnsson sagður vera timburmaður en Valdimar Þorvaldsson segir að hann hafi verið smiður á tré og járn og báta.[1200] Í húsi því sem Jens reisti á Suðureyrarmölum aldamótaárið 1900 gat hann smíðað fullstóran sexæring.[1201] Þau Jens Arnbjörnsson og Jónína kona hans fluttust frá Suðureyri norður í Skutulsfjörð árið 1906 (sjá hér Bær, Þverá þar) en hús þeirra stóð eftir á lóðinni sem nú er númer 36 við Aðalgötu.[1202]

Jón Pálmason, sem þá átti heima í Botni, keypti hús þetta árið 1906 og notaði það sem verbúð er hann var hér við róðra haust og vor.[1203] Halldór Guðmundsson, mágur Jens Arnbjörnssonar, og kona hans, Rannveig Kristjánsdóttir, fluttust frá Þverá vorið 1908 og settust að á Suðureyrarmölum.[1204] Þau fengu þá leigða efri hæðina í húsi þessu og bjuggu þar í eitt ár.[1205] Leigan sem þau greiddu Jóni Pálmasyni var 40,- kr. fyrir árið.[1206]

Húsið virðist þá hafa verið lítt breytt frá sinni fyrstu gerð. Halldór segir það hafa verið með lofti og tvö herbergi, annað þakherbergi og hitt undir loftinu, en svo hafi geymsla verið áföst við það að innanverðu.[1207] Þakherberginu sem þau hjónin, Halldór og Rannveig, settust að í vorið 1908 lýsti hann löngu síðar svo:

 

Þetta var lítið herbergi og lágt undir súð, aðeins sem svaraði hálfri annarri rúmlengd á lengd og fjögurra álna breitt og myndi alls ekki vera kallaður forsvaranlegur mannabústaður nú á tímum. Eldstæðið var uppi á loftinu, kamína með einu eldhólfi. Annars mátti hús þetta miklu fremur kallast spelahjallur en loftþétt íbúðarhús og þurfti mikla kyndingu til þess að talist gæti þar lifandi sökum kulda ef eitthvað bjátaði á með veður.[1208]

 

Ljóst er að Halldór telur nefnt þakherbergi hafa verið nokkru minna en Valdimar Þorvaldsson greinir frá. Munurinn er þó ekki mjög verulegur og óvíst hvor þeirra er nær því að bjóða upp á nákvæmlega réttar upplýsingar um stærðina.

Sú greinargerð sem hér hefur verið fest á blað sýnir að við upphaf 20. aldar voru aðeins þrjú íbúðarhús á Suðureyrarmölum, það er að segja  hús Guðmundar Guðmundssonar, Jóhannesar Albertssonar og Jens Arnbjörnssonar en Babýlon, fjórða húsið sem fólk hafði búið í, var þá orðin að verbúð á ný. Hér að framan hefur einnig verið getið um allar eða nær allar aðrar byggingar sem stóðu hér á Mölunum um 1890 eða voru reistar á síðasta áratug nítjándu aldar. Árið 1887 bar mest á verbúðunum átta sem þá voru enn uppistandandi þó sumar þeirra væru ekki lengur í notkun (sjá hér bls. 86-87, 91 og 98-101) en þegar nýja öldin gekk í garð höfðu íbúðarhús verið byggð upp úr tveimur þessara gömlu búða og aðeins tvær þeirra voru enn í notkun sem verbúðir, búð Guðmundar Sigurðssonar í Bæ, sem nefnd var Babýlon, og búð Jóhannesar Hannessonar í Botni[1209] (sbr. hér bls. 98-101). Upp úr tveimur hinna gömlu búða voru byggð fjárhús og hlaða árið 1892, einni var síðar breytt í fjós (sjá hér bls. 100) en óljóst er hvað varð um grjótið úr áttundu búðinni, þeirri ystu.

Í dagbók sinni frá árinu 1911 kemst Magnús Hjaltason svo að orði:

 

Þegar ég fór úr Súgandafirði til Ísafjarðar vorið 1900 voru engin íbúðarhús á Suðureyrarmölum utan þessi: Íbúðarhús Jóhannesar Albertssonar með torfveggjum og torfþaki, verbúð Guðmundar Sigurðssonar, skálabyggð úr torfi og grjóti, kölluð Babýlon, og verbúð Jóhannesar Hannessonar, skálabyggð, undir rafti, er aðeins var verið í að vorinu.[1210]

 

Þarna gleymir Magnús að nefna Róm, íbúðarhús Guðmundar Guðmundssonar, sem byggt var 1892, en frásögn hans af fjölda verbúðanna kemur heim við það sem hér var áður sagt. Hús Jens Arnbjörnssonar nefnir Magnús ekki, enda mun það ekki hafa verið byggt fyrr en á síðari hluta ársins 1900.

Á árunum 1902-1904 voru byggð sex íbúðarhús úr timbri hér á Mölunum.[1211] Fimm þeirra húsa voru byggð árið 1902.[1212] Þar er fyrst að nefna tvö sambyggð hús sem Helgi Sigurðsson og Markús Guðmundsson reistu þar sem nú (1996) standa húsin númer 15 og 17 við Eyrargötu.[1213] Þriðja húsið frá 1902 var reist á lóðinni sem síðar varð númer 13 við Eyrargötu og átti það Jón Magnússon frá Langhól.[1214] Allt voru þetta lítil timburhús með lágu porti og uppi á loftinu í þeim var aðeins mannstætt undir mæninum.[1215] Fjórða húsið, sem byggt var á Suðureyrarmölum árið 1902, átti Friðrik Guðmundsson rokkasmiður.[1216] Það var líkt hinum þremur og reist á lóð sem síðar varð númer 9 við Rómarstíg.[1217] Haustið 1902 réðst Þórður Þórðarson svo í byggingu lítils timburhúss þar sem nú (1996) stendur hús númer 2 við Rómarstíg.[1218] Hús Þórðar var aðeins ein hæð og inn í það var ekki flutt fyrr en vorið 1903.[1219]

Þeir Jón Einarsson og Kristján Maríasson hófust handa við húsbyggingu haustið 1904[1220] og byggðu í sameiningu tveggja hæða íbúðarhús með tveimur íbúðum.[1221] Inngangur í húsið var sameiginlegur en íbúðirnar tvær í sínum endanum hvor.[1222] Inn í húsið var ekki flutt fyrr en komið var fram á árið 1905.[1223] Yfirsmiður við byggingu þess var Kristján Hólm Þórðarson[1224] sem hér er nefndur á öðrum stað (sjá Ytri-Vatnadalur). Grunnflötur þessa nýja tveggja hæða húss var 5 x 9 metrar[1225] og var það mun stærra en hin eldri íbúðarhús hér á Mölunum.[1226] Húsið stóð þar sem nú er hús númer 4 við Eyrargötu.[1227]

Öll þessi gömlu íbúðarhús, sem byggð voru á árunum 1902-1904, eru nú horfin.

Hér munu nú hafa verið talin upp öll íbúðarhús sem byggð voru á Suðureyrarmölum fyrir 1905 og voru frá upphafi ætluð til fastrar búsetu árið um kring. Enn er hins vegar ónefnd verbúð sem Kristján Albertsson lét reisa á Mölunum á fyrstu árum aldarinnar en henni var seinna breytt í íbúðarhús. Þetta hús mun hafa verið úr timbri og hefur líklega verið reist árið 1903 því að í aprílmánuði árið 1904 greinir Einar Jónsson, dagbókarritari á Suðureyri, frá því að Karl Löve frá Ísafirði og skipverjar hans hafi fengið inni í ytri endanum, uppi á loftinu í þessu nýja húsi hans Kristjáns.[1228] Karl Löve var formaður á öðrum tveggja mótorbáta frá Ísafirði sem hófu róðra frá Suðureyri vorið 1904 og voru það fyrstu mótorbátarnir sem héðan reru (sjá hér bls. 118-120). Haustið 1904 minnist Einar Jónsson aftur á þessa verbúð Kristjáns Albertssonar og segir að Jóhannes Hannesson á Stað, áður bóndi í Botni, hafi fært sig úr búðargarminum sínum inn á loft í Kristjáns Albertssonar búðinni.[1229] Verbúð þessi fékk nafnið Amalíuborg en svo heitir hin kunna höll Danakonungs við Breiðgötu í Kaupmannahöfn.

Í skrá Magnúsar Hjaltasonar yfir íveruhús á Suðureyrarmölum árið 1911 nefnir Magnús hús Guðrúnar Þórðardóttur og bætir síðan við innan sviga nafninu Amalíuborg.[1230] Guðrún Þórðardóttir var ekkja Kristjáns Albertssonar og fullvíst má telja að þarna sé um að ræða verbúðina sem hér var nú sagt frá. Líklega hefur verið búið að breyta henni í íbúðarhús árið 1911, a.m.k. að einhverju leyti, því í fyrrnefndri skrá tekur Magnús ekki fram að þetta íveruhús sé verbúð en þess getur hann um sum hinna húsanna.[1231] Amalíuborg tók síðar nokkrum breytingum en nafnið á húsinu hélst og taldist það vera númer þrjú við Smiðjustíg á Suðureyri.[1232] Húsið var rifið 1994 eða 1995.[1233]

Síðla sumars árið 1904 byggði Kristján Albertsson snjógeymslu á Suðureyrarmölum en henni var einnig breytt í mannabústað fáum árum síðar.[1234] Ætla má að hús þetta hafi verið úr torfi og grjóti. Á árum áður urðu menn að geyma alla beitu í snjó ef hún var ekki notuð strax en fyrstu íshúsin á landi hér voru þó ekki byggð fyrr en á síðasta áratug 19. aldar (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd og Flateyri). Snjógeymsla Kristjáns Albertssonar var reist með það fyrir augum að menn gætu fengið þar snjó þegar hann var ekki nærtækur úti við og eins að geta selt þilskipum snjó á sumrin.[1235] Í hús þetta var snjór þó aðeins tekinn í nokkra vetur.[1236]

Í skrá yfir hús sem búið var í á Suðureyri árið 1911 nefnir Magnús Hjaltason hús Guðrúnar Þórðardóttur, kallað „Íshús”.[1237] Árið 1911 var Kristján Albertsson látinn en íshúsið sem orðið var að mannabústað var þá í eigu ekkju hans, Guðrúnar Þórðardóttur, eins og sjá má í skránni sem hér var vísað til. Hús þetta stóð að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar undir Hjöllunum þar sem árið 1962 var slökkvitækjahús hreppsins[1238] eða með öðrum orðum rétt utan við húsið númer 15 við Aðalgötu.[1239] Barnaskólinn, sem byggður var 1908, stóð þar fyrir utan og neðan, nær götunni.[1240]

Í kofann, sem áður hafði verið snjógeymsla, fluttust hjónin Kristján Guðmundsson og Guðrún Daðadóttir er þau hættu búskap í Bæ vorið 1914[1241] (sbr. hér Bær). Næsta vetur fjölgaði svo fólkinu í þessum lágreistu húsakynnum því sonur nýnefndra hjóna, Sigurður Kristjánsson, fluttist þá á miðjum þorra ásamt unnustu sinni, Elísabetu Jónsdóttur, úr smiðjukofa utar á Mölunum inn til foreldranna.[1242]

Um snjógeymsluna frá 1904 fór eins og nú hefur verið greint frá en íshús úr steinsteypu var reist á Suðureyri árið 1910.[1243] Því var valinn staður í bugnum innan við Malir.[1244] Grunnflötur þess var 10 x 6,3 metrar, vegghæð 3,6 metrar og hæð á risi 2,2 metrar.[1245] Árið 1916 voru komnir tveir skúrar við íshúsið og það var þá eða skömmu síðar virt á 7.300,- krónur.[1246] Í fasteignamatsskjölum frá því skeiði má sjá að í húsinu var bæði frystir og ísgeymsla.[1247] Eigandi þessa íshúss var Íshúsfélag Súgfirðinga en yfirsmiður við byggingu þess var Guðmundur Gestsson.[1248] Ofan við húsið númer 15 við Aðalgötu á Suðureyri var seinna komið upp steinsteyptri snjógeymslu fyrir íshúsið.[1249] Sú bygging var fóðruð innan með torfeinangrun.[1250] Íshúsið er nú (1996) horfið en þessi gamla snjógeymsla ,sem kol voru geymd í síðar, stendur enn.[1251]

Íshúsið stóð við Aðalgötu og var innsta hús neðan götunnar.[1252] Það var fyrsta húsið sem menn byggðu úr steinsteypu á Suðureyri[1253] en skorsteinn var fyrst steyptur í Súgandafirði árið 1908.[1254] Næstu árin þar á undan voru skorsteinar gerðir úr múrsteini.[1255]

Á árunum 1905-1910 fjölgaði húsum á Suðureyrarmölum ört og haustið 1911 voru íveruhúsin orðin 29, að sögn Magnúsar Hjaltasonar sem getur um eigendur þeirra allra í dagbók sinni.[1256] Þrjú eða fjögur þessara íveruhúsa munu reyndar hafa verið verbúðir sem óvíst er hvort búið hafi verið í árið um kring.[1257] Eitt allra nýjasta húsið á skrá Magnúsar frá haustinu 1911 er hús Veturliða H. Guðnasonar sem enn stendur og er númer 23 við Aðalgötu.[1258] Það hús mun vera fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var úr steinsteypu á Suðureyri. Sjálfur var Magnús í vinnu við byggingu þess 12. ágúst 1911[1259] en yfirsmiður var Guðmundur Gestsson.[1260] Sumarið 1912 lauk Eðvald Jónsson síldveiðimaður svo við byggingu annars íbúðarhúss úr steinsteypu á Suðureyrarmölum[1261] Það hús stóð á lóðinni númer 45 við Aðalgötu[1262] og var enn nefnt Eðvaldarhús árið 1924.[1263] Á allra næstu árum fjölgaði steinsteyptum íbúðarhúsum á Suðureyri. Árið 1913 var byggt hús úr steinsteypu á lóðinni sem seinna varð númer 24 við Aðalgötu.[1264] Fyrsti eigandi þess var Guðjón Jóhannsson skósmiður.[1265] Þetta hús er nú horfið. Sama ár var byggð steinsteypt verbúð fyrir m/b Höfrung á lóðinni sem seinna varð númer 41 við Aðalgötu.[1266] Eigendur bátsins og hússins voru Benedikt Guðmundsson frá Vatnadal, Friðrik Hjartar skólastjóri og séra Þorvarður Brynjólfsson.[1267] Mótorbáturinn Höfrungur fórst 16. október 1913[1268] en verbúðinni var allmörgum árum síðar breytt í íbúðarhús.[1269] Þetta hús var árið 1924 nefnt Prestsbúð.[1270]

Óskar Jónsson frá Fjallaskaga, sem var háseti á mótorbátnum Von frá Suðureyri eina vetrarvertíð um 1915, hafðist þá við uppi á loftinu í þessu húsi ásamt félaga sínum.[1271] Óskar greinir frá því að þá hafi neðri hæðin verið notuð sem beitningarpláss en uppi hafi verið sjóbúð, hólfuð í tvennt.[1272] Óskar og félagi hans voru einu mennirnir sem áttu náttstað sinn í þessari steinsteyptu verbúð þann vetur og segir hann þá hafa orðið þar vara við þó nokkra reimleika, það er að segja þrusk og högg og inn á milli heyrðist svo sem tómum brúsa eða blikkdollu væri barið í málm.[1273]

Þessu húsi var ekki breytt í íbúðarhús fyrr en á árunum kringum 1925.[1274] Í því var búið fram undir 1990 en nú (1996) hefur það staðið autt í nokkur ár.

Árið 1914 voru byggð tvö steinsteypt íbúðarhús á Suðureyri á lóðunum sem seinna urðu númer 8 og númer 22 við Aðalgötu.[1275] Húsið númer 8 við Aðalgötu byggði Guðmundur Gestsson smiður fyrir sjálfan sig en seldi það 1916 Þórði Þórðarsyni.[1276] Hitt steinhúsið sem byggt var á Suðureyri árið 1914 reisti sami smiður fyrir Helga Sigurðsson formann.[1277] Bæði þessi hús standa enn.

Sumarið 1996 stóðu enn uppi á Suðureyri 11 íbúðarhús sem byggð voru úr timbri á árabilinu 1905-1914, sum mikið breytt. Þau voru: Aðalgata 31, byggt 1907, nú mjög mikið breytt; Garðastígur 3, byggt 1907; Eyrargata 5, byggt 1909; Eyrargata 7, byggt 1909; Rómarstígur 1, byggt 1909; Brekkustígur 7, byggt 1909; Aðalgata 21, byggt 1910, seinna var húsið stækkað og útveggir steyptir; Eyrargata 9, byggt 1910; Aðalgata 25, byggt 1912-1913, lengt og hækkað síðar; Aðalgata 29, byggt 1912 og Eyrargata 12, byggt 1912.[1278]

Í fasteignamatsskjölum frá því um 1920 eru birtar upplýsingar um flest húsin á Suðureyrarmölum, sem hér hafa verið nefnd, og þar er meðal annars getið um stærð þeirra.[1279] Gallinn við þá skýrslu er sá að þar er aðeins getið um eiganda hvers húss en öll götuheiti og húsnúmer vantar. Í húsaskránni sem Kristján Albert Kristjánsson ritaði á árunum upp úr 1940 og hér hefur verið stuðst við er hins vegar nær alltaf hægt að sjá hver átti hvert einstakt hús um 1920.[1280] Með þá skrá við hendina er því yfirleitt hægt að átta sig á hvaða hús það er sem fær þessa eða hina umsögn í nýnefndri fasteignamatsskýrslu. Í ljós kemur að á árunum kringum 1920 hafa sum hinna eldri húsa verið orðin stærri en þau voru í upphafi, að líkindum einkum vegna skúrbygginga. Einnig þarf að hafa í huga að þó að fasteignamatsskýrslan, sem hér er rætt um, sé dagsett 2. febrúar 1920[1281] þá eru höfundar skýrslunnar í raun að lýsa ástandi mála árið 1916. Allt þetta þarf að hafa í huga sé litið á húsaskrána sem hér er birt sem viðauki á bls. 188-190 en við gerð hennar var byggt á fasteignamatsskýrslunni frá 1920 og húsaskrá Kristjáns Alberts Kristjánssonar frá árunum upp úr 1940 notuð sem hjálpargagn.

Þegar manntal var tekið 1. nóvember 1901 voru 14 manneskjur búsettar á Suðureyrarmölum en 37 heima á Suðureyrarbæjunum.[1282] Næstu ár breyttist íbúafjöldinn með þeim hætti sem hér segir í Töflu 2.

Hin öra fólksfjölgun á Suðureyrarmölum á árunum 1906-1915 átti fyrst og fremst rætur að rekja til vélvæðingar bátaflotans. Á því skeiði fjölgaði mótorbátunum ört og þá þurfti fleiri hendur til að verka aflann sem barst að landi. Til útgerðar lítilla vélbáta hentaði þessi staður mjög vel og þeim fór fjölgandi ár frá ári sem freista vildu gæfunnar hér.

Við upphaf vélvæðingar íslenska bátaflotans voru Vestfirðingar í fararbroddi en útgerð vélbáta hófst árið 1903 frá Ísafirði og frá Flateyri (sjá hér Flateyri). Vorið 1904 voru tveir slíkir bátar frá Ísafirði gerðir út frá Suðureyri[1283] en Súgfirðingar eignuðust sína fyrstu vélbáta árið 1906. Á því ári náðu þeir að eignast fjóra.[1284]

Þegar vélbátaútgerð hófst frá Suðureyri voru reyndar liðin um það bil 10 ár frá því fólkið á bæjunum í Súgandafirði sá vélknúinn bát þjóta um hafflötinn í fyrsta sinn, án segla eða ára. Það gerðist 12. júlí 1896 og um var að ræða lítinn bát frá dönskum kútter sem hér var við kolaveiðar með bækistöð á Önundarfirði (sjá hér Flateyri). Líklegt er að dönsku kolaveiðimennirnir hafi verið með vélknúna smábáta á Önundarfirði að sumarlagi allt frá árinu 1893 og því hafi þeir Súgfirðingar sem stundum áttu erindi til Flateyrar ekki orðið furðu lostnir þegar kostur gafst á að virða slíkan farkost fyrir sér af heimahlaði í fyrsta sinn. Einar Jónsson, dagbókarritari á Suðureyri, lætur að minnsta kosti vera að geta þess að báturinn hafi verið vélknúinn[1285] sem bendir til þess að slíkt hafi þá þegar þótt sjálfsagt mál þegar danskir kolaveiðimenn áttu í hlut. Frásögn sína af komu dönsku kolaveiðimannanna til Súgandafjarðar 12. júlí 1896 orðar Einar svo: Það lá hér kolaveiðikútter úti á firðinum og bátur frá honum var hér inn um fjörð að reyna að veiða kola.[1286]

 

Tafla 2

 

Íbúafjöldi á Suðureyri og Suðureyrarmölum[1287]

 

 

Formenn á mótorbátunum frá Ísafirði, sem reru frá Suðureyri vorið 1904, voru Karl Löve, er lengi átti heima á Ísafirði, og maður sem hét Þórarinn.[1288] Í dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri sjáum við að Þórarinn þessi var Guðb.son [1289] og má telja fullvíst þar sé um að ræða Þórarinn Sigurð Guðbjartarson sem fæddist á Læk í Dýrafirði 17. október 1874 því enginn annar Þórarinn Guðb.son átti heima á Ísafirði 31.12.1903 og ekki heldur í Hnífsdal eða Bolungavík.[1290] Í dagbók Einars Jónssonar er Karl Löve jafnan nefndur Karli og þar sést að hann og maður að nafni Ágúst Guðmundsson áttu saman mótorbátinn sem Karl stýrði til veiða vorið 1904.[1291] Reyndar var það Ágúst sem var formaður á bátnum er þeir lögðu upp afla sinn á Suðureyri í fyrsta sinn þann 28. mars árið 1904. Frá þeim sögulega atburði segir Einar með þessum orðum:

 

Um miðaftan kom móborbátur og setti upp í Guðmundar Sigurðssonar vörinni. Það var Ágúst Guðmundsson af Ísafirði sem setur hér upp í vor. Nú kom hann úr róðri og fiskaði rúmt 100 sem viktaði 500 pund.[1292]

 

Karl Löve og skipverjar hans færðu sig svo í verið á Suðureyri þann 7. apríl.[1293] Ágúst kom þá með þeim en fór aftur mjög skömmu síðar.[1294] Karl formaður og mennirnir fjórir, sem með honum reru, fengu eins og hér hefur áður verið nefnt inni í nýrri verbúð sem Kristján Albertsson hafði byggt á Suðureyrarmölum (sjá hér bls. 114).

Þórarinn Guðbjartarson, sem fyrr var nefndur, hóf róðra frá Suðureyri vorið 1904, um svipað leyti og Karl Löve. Einar Jónsson greinir frá komu Þórarins til Súgandafjarðar í dagbók sinni þann 5. apríl og segir: Þórarinn Guðb.son kom hér á mótorbátnum inn á lag. … G.G. ljær Þórarni skúrirnar sínar báðar í vor, aðra til að sofa í en hina til að beita í.[1295]

Sá sem þarna er nefndur G.G. mun vera Guðmundur Guðmundsson í Róm á Suðureyrarmölum sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér bls. 108-109).

Fyrsta vélbátinn sem Súgfirðingar eignuðust keyptu þeir Kristján Albertsson, bóndi á Suðureyri, og Jón Einarsson tengdasonur hans[1296] sem þá hafði nýlega reist sér íbúðarhús á Suðureyrarmölum (sjá hér bls. 61-62 og 113-114). Þessi bátur, sem var smíðaður í Danmörku, fékk nafnið Svanur.[1297] Hann var pantaður í janúarmánuði árið 1906 og mun hafa komið til Súgandafjarðar snemma í apríl á því ári. Valdimar Þorvaldsson segir að báturinn hafi komið í apríl[1298] og Einar Jónsson á Suðureyri, faðir Jóns Einarssonar, getur þess í dagbók sinni 11. apríl 1906 að þann dag hafi Jón öðru hverju verið að reyna mótorinn sinn.[1299] Báturinn hefur því komið fyrir 11. apríl, líklega á tímabilunu frá 3.–8. apríl en úr dagbók Einars hefur tapast blað með nær öllu sem hann ritaði í bókina þá daga. Kristján G. Þorvaldsson segir að þessi fyrsti vélbátur Súgfirðinga hafi komið til Suðureyrar um mánaðamótin mars/apríl 1906[1300] sem má til sanns vegar færa hafi hann komið í fyrstu viku apríl en í mars hefur hann varla komið því hefði svo verið ætti það að sjást í dagbók Einars.[1301]

Svanurinn var lítill bátur, 22 fet á lengd, með fjögurra hestafla Alphavél.[1302] Árið 1908 var þessi fyrsti vélbátur Súgfirðinga stækkaður og sett í hann þilfar.[1303]

Jón Einarsson var formaður á Svaninum frá því fyrsta en hann hafði áður verið formaður á áraskipum hjá Kristjáni, tengdaföður sínum, allt frá árinu 1897.[1304] Sjómannsferil sinn mun Jón hafa byrjað á Sjófuglinum, eina þilskipinu sem Súgfirðingar eignuðust fyrir aldamótin 1900. Þar var hann hálfdrættingur sumarið 1889[1305] en þann 9. júní á því sumri varð hann 16 ára gamall.[1306] Jón var að sögn góður og gætinn sjómaður sem átti hylli og traust undirmanna sinna.[1307]

Vorið 1906 var Svanur eini mótorbáturinn sem Súgfirðingar gerðu út en síðar á því ári bættust þrír aðrir við.[1308] Þar er fyrst að telja Sigurvon sem kom til heimahafnar á Suðureyri í fyrsta sinn 19. ágúst 1906.[1309] Þetta var nýr bátur, smíðaður í Danmörku, og var fyrir skömmu kominn hingað til lands þegar þrír Súgfirðingar keyptu hann.[1310] Þeir voru Guðmundur Sigurðsson í Bæ, Halldór Guðmundsson á Þverá, síðar lengi búsettur í þorpinu á Suðureyri, og Veturliði H. Guðnason, ungur maður er þá um vorið hafði flust búferlum frá Bæ á Suðureyrarmalir.[1311] Guðmundur, sem lengi hafði verið formaður á áraskipi, átti helming í þessum nýja bát en þeir Halldór og Veturliði sinn fjórða partinn hvor.[1312] Fyrsti formaður á Sigurvoninni var Veturliði H. Guðnason, einn eigendanna þriggja, en hann var aðeins tvítugur að aldri þegar þeir félagar keyptu bátinn. Sigurvon var 27 fet á lengd[1313] með 4 hestafla Alphavél.[1314] Einar Jónsson getur um komu Sigurvonar í dagbók sinni 19. ágúst 1906 og segir að Guðmundur Sigurðsson og Veturliði hafi komið með bátinn til Suðureyrar frá Ísafirði klukkan 8 um morguninn.[1315]  Í dagbókinni greinir Einar frá því að maskínan hafi stöðvast tvisvar eða þrisvar sinnum á leiðinni og þeir Guðmundur og Veturliði orðið að skrúfa hana í sundur.[1316] Ástæðu þessa töldu þeir vera ryð af óhreinni olíu.[1317]

Þriðji mótorbáturinn kom til Suðureyrar 3. september þetta sama ár, 1906.[1318] Sá bátur hét Von og hafði verið smíðaður á Ísafirði fyrir Friðbert Guðmundsson á Suðureyri.[1319] Friðbert var þá 28 ára gamall[1320] og hafði lengi verið háseti og síðar stýrimaður á þilskipum.[1321] Hann hafði lært sjómannafræði hjá Helga Andréssyni skipstjóra og gerðist nú formaður á Voninni en meðeigandi hans að bátnum var Magnús Örnólfsson, skipstjóri á Ísafirði.[1322] Vonin var 27 fet á lengd og með 4 hestafla Alphavél eins og hinir vélbátarnir sem Súgfirðingar keyptu árið 1906.[1323] Að sögn Valdimars Þorvaldssonar var þessi bátur hins vegar betur frágenginnböndum og saum en hinir tveir sem smíðaðir höfðu verið í Danmörku.[1324]

Skömmu eftir komu Vonarinnar til Suðureyrar bættist fjórði vélbáturinn í flota Súgfirðinga en þá var lokið við að setja vél í Nítjándu öldina, fimm ára gamlan sexæring sem Kristján Albertsson á Suðureyri átti.[1325] Það var sams konar vél og í hinum bátunum þremur.[1326] Kristján hafði þá líka látið hækka bátinn og setja á hann þilfar.[1327]Skýli var að framan og aftan yfir vél en dálítið niðurhleypt dekk um miðjuna.[1328]

Fróðlegt er að sjá hvað Einar Jónsson á Suðureyri skrifar í dagbók sína dagana 5.–11. september árið 1906. Þann 5. september ritar hann m.a. þetta: Friðbert Guðmundsson fór norður á mótornum sínum og Guðmundur J.s. sem er að kenna honum að stjórna maskínunni.[1329]

Guðmundur J.s., sem þarna er nefndur, er að öllum líkindum Guðmundur Jónsson á Görðum í Önundarfirði en hann eignaðist snemma mótorbát og var mjög oft við róðra í Súgandafirði á þessum árum.[1330]

Þann 6. september 1906 skrifar Einar:  Friðbert kom á mótornum sínum að norðan í kveld. … Kristján kom líka með Klausen nokkurn, norskan, sem á að láta vélina í 19. öldina.[1331]

Mánudaginn 10. september greinir Einar svo frá því að Norðmaðurinn og þeir sem með honum unnu hafi lokið við að gera við Öldina að öllu leyti og næsta dag var farið til Ísafjarðar á þessum fyrrverandi sexæring sem nú var orðinn mótorbátur.[1332]

Í dagbók Einars Jónssonar sjáum við líka að Þórður Þórðarson á Suðureyri, tengdasonur dagbókarritarans, var formaður á 19. öldinni haustið 1906, á fyrstu vertíðinni sem bátur þessi var knúinn vélarafli.[1333] Að svo hafi verið sést meðal annars á því sem Einar skrifaði í bók sína 8. september en hann komst þá svo að orði:

 

Lúðvík Jónsson var hér í nótt [þ.e. hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri – innsk. K.Ó.] að var því hann rær á Öldinni í haust hjá Þórði Þórðarsyni ásamt Þórði Kristjánssyni, Stefáni Guðmundssyni og Hans Kristjánssyni en einn vantar hann.[1334]

 

Ætla má að Þórður hafi líka verið formaður á 19. öldinni veturinn 1907, allt til loka marsmánaðar, en um mánaðamótin mars/apríl var skútunum jafnan hrundið á flot og kunnugt er að á árunum 1906-1908 var Þórður á hverju sumri skipstjóri á Garðari, einu af þilskipum Ásgeirsverslunar sem gerð voru út frá Ísafirði.[1335] Í dagbók Einars Jónssonar frá fyrstu viku aprílmánaðar árið 1907 sést reyndar að þá var Helgi Sigurðsson alveg nýlega tekinn við formennsku á 19. öldinni.[1336]

Vélbátarnir fjórir, sem hér hafa nú verið nefndir, Svanur, Sigurvon, Von og 19. öldin, gengu allir til veiða frá Suðureyrarmölum veturinn 1906-1907.[1337] Enginn árabátur reri þá héðan og aldrei síðan að vetrarlagi[1338] svo segja má að alger umskipti hafi átt sér stað í þessum efnum árið 1906.

Einn þeirra Súgfirðinga sem eignuðust hlut í vélbát á því ári var Halldór Guðmundsson, húsmaður á kotinu Þverá í Staðardal, en eins og fyrr var nefnt keyptu hann og tveir aðrir bátinn Sigurvon þá um sumarið. Í drögum að ævisögu sinni gerir Halldór nokkra grein fyrir kaupunum og útgerð bátsins fyrstu árin.[1339] Hann segir þar að báturinn hafi kostað 2.350,- krónur en tímakaup í verkamannavinnu verið 25 aurar.[1340] Sé gert ráð fyrir tíu tíma vinnu á dag svaraði verðið á bátnum til launa fyrir 940 dagsverk eða liðlega þrjú ársverk. Halldór og félagar hans áttu þessa peninga ekki til en fengu 2.500,- króna lán í útibúi Íslandsbanka á Ísafirði.[1341] Sú fjárhæð dugði til að borga bátinn. Sjálfur samdi Halldór um lánið við bankaútibússtjórann, Helga Sveinsson.[1342]

Í byrjun kunnu menn lítt að fara með vélarnar og á haust- og vetrarvertíð 1906-1907 varð hásetahluturinn á Sigurvon aðeins 20-30 krónur.[1343] Þeir voru þá með gamlar lóðir og höfðu ekki efni á að fá sér nýjar.[1344] Friðbert Guðmundsson á Voninni fiskaði mun betur og hjá honum var hásetahlutur um 50,- krónur.[1345] Vorið 1907 gekk langtum betur, enda var Veturliði þá farinn að kynnast vélinni.[1346] Á þessari fyrstu vorvertíð á Sigurvon varð hásetahlutur 200,- krónur fyrir þorskinn en aðrar fisktegundir tók verslunin ekki.[1347] Steinbítshlutinn flutti hver og einn heim með sér sem matarforða. Sumarið 1907 voru þeir Veturliði og Guðmundur Sigurðsson bundnir við heyskap en Ólafur Þ. Jónsson, sem verið hafði vélamaður á bát frá Ísafirði, var fenginn til að taka við formennsku á Sigurvon.[1348] Hann var úr Arnarfirði en hafði átt heima á Þingeyri um nokkurt skeið og á Ísafirði. Skömmu síðar fluttist hann til Suðureyrar og átti þaðan í frá heima í Súgandafirði til æviloka.[1349] Veturinn 1907-1908 var Þórður Þórðarson á Suðureyri formaður á Sigurvon en síðan tók Veturliði H. Guðnason aftur við formennskunni og var oftast með bátinn allt til ársins 1914.[1350]

Frá vorinu 1907 og fram á mitt ár 1908 virðist útgerðin á Sigurvon hafa gengið býsna vel því að í lok vorvertíðar árið 1908 var skuldin sem stofnað hafði verið til þegar báturinn var keyptur kominn úr 2.500,- krónum niður í 400,- krónur.[1351]

Árið 1915 tók Ibsen Guðmundsson, sonur Guðmundar Sigurðssonar í Bæ, við formennsku á Sigurvon og var formaður á henni í 40 ár en báturinn var gerður út frá Suðureyri fram yfir 1960, mun lengur en hinir mótorbátarnir þrír sem Súgfirðingar komu sér upp á fyrsta ári vélbátaútgerðar frá Suðureyri.[1352] Miklar breytingar voru reyndar gerðar á bátnum á þessu langa skeiði. Hann var hækkaður á borð og yfirbyggður og breytt um vél en súð skipsins mun að mestu leyti hafa verið hin sama allan tímann[1353] og aldrei var nafninu breytt.

Kristján G. Þorvaldsson frá Selárdal mun hafa orðið fyrri til en aðrir Súgfirðingar að semja um smíði á vélbát því hann gekk frá slíkum samningi í nóvember 1905.[1354] Sú ráðagerð fór hins vegar út um þúfur af því bátasmiðurinn dó.[1355] Kristján og Valdimar bróðir hans keyptu hins vegar lítinn vélbát vorið 1907.[1356] Hann nefndu þeir Víking (sjá hér Selárdalur) og var sá bátur fimmta vélknúna fleytan sem Súgfirðingar eignuðust. Tveimur árum síðar var vélin tekin úr Víkingi og sett í nýjan og stærri bát sem þeir bræður létu þá smíða fyrir sig í Hnífsdal.[1357] Þessi bátur fékk nafnið Cæsar og var fjögur eða fimm tonn.[1358] Hann áttu þeir bræður enn árið 1923.[1359]

Fyrstu fimm vélbátarnir sem Súgfirðingar eignuðust voru í fyrstu opnir að öðru leyti en því að þiljað var að nokkru yfir barka og skut.[1360] Þilfar var svo sett í suma þessara báta síðar og vélbátarir sem Súgfirðingar eignuðust á árunum 1908 og 1909 voru allir með þilfari en dráttarrúm þó opið.[1361]

Sumarið 1908 voru tveir vélbátar keyptir til Suðureyrar og höfðu báðir verið smíðaðir á Ísafirði.[1362] Annar þeirra fékk nafnið Hallvarður Súgandi og eigendur hans voru Helgi Sigurðsson formaður á Suðureyrarmölum og Guðmundur Ásgrímsson, bóndi á Gelti.[1363] Hinn bátinn keypti Kristján Albertsson, bóndi á Suðureyri, í félagi við mág sinn, Þórð Þórðarson á Suðureyri.[1364] Bátinn nefndu þeir Frey og varð Þórður formaður á honum.[1365] Þórður var þá á 33. aldursári[1366] og hafði bæði verið formaður á vélbátum (sjá hér bls. 122-124) og skipstjóri á þilskipi í eigu Ásgeirsverslunar á Ísafirði.[1367]

Haustið 1908 voru vélbátar Súgfirðinga orðnir sjö eins og hér hefur nú verið rakið. Flestir voru þeir um það bil fjórar lestir að stærð og allir með fjögurra hestafla vél.[1368] Á næstu árum hélt vélbátunum áfram að fjölga. Veturinn 1912-1913 gengu 11 heimabátar til veiða frá Suðureyri og ennfremur 3 bátar frá Dýrafirði.[1369] Að minnsta kosti tveir formannanna á Dýrafjarðarbátunum voru þó búsettir á Suðureyri.[1370] Vorið 1913 reru héðan 17 bátar og voru að jafnaði 6 menn á hverjum bát.[1371] Af þessum 102 sjómönnum voru 75 búsettir í Súgandafirði en 27 annars staðar, flestir í Dýrafirði.[1372] Fáum árum síðar komst fjöldi heimabáta, sem reru frá Suðureyri, yfir 20 og flestir munu þeir hafa orðið 22.[1373] Nokkrir aðkomubátar gengu þá líka héðan til veiða og munu hafa verið 6-8 þegar þeir voru flestir á öðrum áratug 20. aldar.[1374]

Á fyrstu árum vélbátaútgerðarinnar voru bátar sem reru frá Suðureyri að vetrinum jafnan settir á degi hverjum þegar komið var úr róðri og þá með öllum afla.[1375] Á vorin og alveg fram á haust lágu þeir hins vegar í legufærum og þá var aflinn fluttur í land á litlum árabátum.[1376]

Á vélbátunum komust menn í mun fleiri róðra en áður hafði verið og aflinn varð meiri í hverri veiðiferð.[1377] Þessir bátar færðu eigendum sínum því mun meiri arð en árabátarnir höfðu gert þó að rekstrarkostnaðurinn hækkaði verulega.[1378] Um hlutaskipti á fyrstu árum vélbátaútgerðar frá Suðureyri ritar Kristján G. Þorvaldsson á þessa leið:

 

Á vélbátum þessum var venjulega sex manna áhöfn eins og verið hafði á sexræðingunum en skiptin urðu önnur. Í Súgandafirði voru átta staða skipti á sexræðingum. Voru tveir hlutir kallaðir dauðir hlutir en hinir mannahlutir, einn til hvers skipverja. Af dauðu hlutunum fékk formaður hálfan hlut en útgerðin einn og hálfan. Frádráttur var þá ekki nema keypt beita og salt þegar saltað var. … Skipti á vélbátum urðu þau í Súgandafirði að skipt var í tíu staði með sex manna áhöfn og olía, salt og beita tekið af óskiptu. Flestir formenn tóku heilan hlut sem formannshlut í stað hálfs áður. … Með þessum skiptum varð hlutur háseta mun minni en áður, miðað við aflamagn, en miklu meiri en áður sökum meiri afla.[1379]

 

Á fyrstu árum vélbátaútgerðarinnar fórust þrír bátar frá Suðureyri, Hlín 11. september 1911, Höfrungur 16. október 1913 og Hlín, nýr bátur með því nafni, 11. nóvember 1913.[1380] Með þessum þremur bátum fórust fimmtán menn[1381] og var það mikil blóðtaka. Um þessi hörmulegu sjóslys hefur Gunnar M. Magnúss ritað í Súgfirðingabók og byggir þar á dagbókarskrifum Magnúsar Hjaltasonar sem búsettur var á Suðureyri 1911-1916. Verður hér látið nægja að vísa til þess sem þar er ritað um sjóslysin 1911 og 1913.[1382]

Á árunum 1906-1916, fyrstu tíu árum vélbátaútgerðarinnar, breytti þorpið á Suðureyrarmölum alveg um svip og íbúafjöldinn margfaldaðist  (sjá hér bls. 119). Með vaxandi afla jukust öll umsvif í landi, einkum við fiskvinnu en einnig við framkvæmdir af ýmsu tagi og þjónustu.

Mest af fiskinum er á land barst keypti Ásgeirsverslun sem byggt hafði salthús á Suðureyrarmölum vorið 1891. Á því ári setti hún líka á stofn örlítinn vísi að vöruafgreiðslu (sjá hér bls. 67-68) sem innan fárra ára varð að fullgildu verslunarútibúi. Allt frá fyrstu tíð sá Kristján Albertsson á Suðureyri um rekstur Ásgeirsverslunar í Súgandafirði og frá því á árunum 1895 til 1897 mátti svo heita að hann hefði verslunarreksturinn að aðalstarfi eins og hér hefur áður verið nefnt. Enn er varðveitt gömul verslunarbók þar sem meðal annars er unnt að sjá hvaða vörubirgðir verslunarútibúið á Suðureyri var með við upphaf og lok ársins 1895.[1383] Það verðmætasta í erlenda vörulagernum 1. janúar 1895 var saltið en af því voru til liðlega 77 tunnur og kostaði hver tunna fjórar krónur.[1384] Næst að verðmæti voru 670 pund af hrísgrjónum, sem seld voru á 12 aura pundið, og svo kandís, sem seldur var á 36 aura pundið, en af honum voru til 198 pund.[1385] Hjá útibúinu á Suðureyrarmölum var líka til svolítið af rjóli og rullu, kaffi og kaffibæti, rúgmjöli og bankabyggi, kringlum og skonroki, skrifbókum og olíu og svo sitt af hverju til útgerðar svo sem færi og fiskikrókar.[1386]

Við vörutalninguna í byrjun ársins 1895 voru erlendu vörurnar hjá útibúinu á Suðureyri virtar á 1.065,43 kr.[1387] Saltfiskur sem útibúið hafði umráð yfir var virtur á 753,14 kr. samkvæmt bókhaldinu og aðrar innlendar afurðir á 690,79 kr.[1388] Allt er þetta miðað við 1. janúar 1895. Helstu innlendu afurðirnar sem þá lágu hjá útibúinu voru auk saltfisksins liðlega 11 tunnur af saltkjöti og 280 pund af ull en einnig má nefna 40 pund af smjöri, 7 pör af vettlingum og tvenna sokka.[1389]

Árið 1895 nam úttekt manna hjá verslunarútibúinu á Suðureyri 6.649,03 kr.[1390] eða sem svaraði liðlega sextíu kúgildum.[1391] Innleggið var heldur minna eða 6.044,56 kr.[1392]

Viðskiptamenn útibús Ásgeirsverslunar á Suðureyri árið 1895 voru 58.[1393] Í þeim hópi voru fimm Önfirðingar, allir með mjög litla úttekt, og tvær stofnanir, það er að segja Suðureyrarhreppur og Staðarkirkja.[1394] Einstaklingar búsettir í Súgandafirði, sem áttu viðskipti við útibúið á þessu ári, voru því 51 og nam úttekt þeirra 6.487,97 kr.,[1395] það er 127,22 kr. að jafnaði á hvern viðskiptamann. Hið opinbera kýrverð var þá 108,24 kr.[1396] og er gott að hafa þá tölu til samanburðar.

Eins og nærri má geta var úttekt manna mjög breytileg. Búlausir menn keyptu flestir sáralítið af verslunarvarningi en mest var úttektin hjá stöndugum bændum með fjölmenn heimili. Sjálfur var Kristján Albertsson á þessu ári með hærri úttekt en nokkur annar, 785,32 kr.[1397] Úttekt nokkurra annarra Súgfirðinga var árið 1895 sem hér segir:

 

Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri ………………………………………..  492,95. kr.

Guðmundur Ásgrímsson á Gelti ………………………………………….  459,33… –

Guðmundur Guðmundsson húsmaður á Suðureyrarmölum …………..  329,32… –

Guðmundur Jónsson í Fremri-Vatnadal …………………………………  266,16… –

Guðmundur Sigurðsson á Laugum ………………………………………  266,07… –

Jóhannes Hannesson í Botni ………………………………………………  255,80… –

Guðni Egilsson á Kvíanesi ………………………………………………..  240,89… –

Eiríkur Egilsson á Stað ……………………………………………………  226,99… –

Ekkjan Sigríður Friðbertsd. og dánarbú Þorv. Gissurars. í Selárdal …  146,02… – [1398]

 

Verð á hinum ýmsu vörutegundum, sem útibú Ásgeirsverslunar á Suðureyri hafði á boðstólum árið 1895, gat verið svolítið breytilegt eftir því hvort þær komu með þessari ferðinni eða hinni.[1399] Í þeim efnum skeikaði þó sjaldan miklu. Á nokkrum innfluttum vörum var verðið sem hér segir:

 

Pund af rúgi …………………………………………………………….  6 ½   eyrir

Pund af bankabyggi …………………………………………………….  10   aurar

Pund af hrísgrjónum …………………………………………………….  12     –

Pund af kandís …………………………………………………………..  36     –

Pund af melís …………………………………………………………….  36     –

Pund af kaffibaunum …………………………………………………  1,20    kr.

Pund af kaffibæti ………………………………………………………..  50   aurar

Pund af skonroki ………………………………………………………..  25     –

Pund af súkkulaði ……………………………………………………….  85     –

Pund af rúsínum …………………………………………………………  40     –

Pund af rjóli (neftóbaki) ……………………………………………..  1,50     kr.

Pund af rullu (munntóbaki) ………………………………………….  2,00      –

Pottur af brennivíni ……………………………………………………..  90   aurar

Skippund (160 kíló) af kolum ……………………………………….  4,50    kr.

Tunna af salti ………………………………………………………….  4,00      –

Tíu krekjur …………………………………………………………………  7   aurar

Ljábrýni ………………………………………………………………….  25      –

Sjóhattur ……………………………………………………………….  2,00    kr.

Derhúfa …………………………………………………………………  1,00      –

Vasahnífur ……………………………………………………………….  65   aurar[1400]

 

Til þess að átta sig á verðlaginu þarf að hafa í huga að árið 1895 þótti hæfilegt að greiða 2,60 kr. fyrir dagsverk um heyannir.[1401] Um aldamótin 1900 voru karlmönnum greiddir 25 aurar á tímann í fiskvinnu hér á Suðureyri.[1402] Vera má að tímakaupið hafi ekki verið orðið alveg svo hátt árið 1895 en mun þó varla hafa verið lægra en 20 aurar (sjá hér Flateyri).

Fyrir kjöt, sem bændur lögðu inn hjá verslunarútibúinu á Suðureyri árið 1895, voru greiddir 18 aurar á pundið, 50 aurar fyrir pund af hvítri vorull og 40 aurar fyrir pund af hvítri haustull.[1403] Fyrir pund af riklingi borgaði verslunin 30 aura þetta sama ár en um saltfiskinn er það að segja að eitt skippund (320 pund) af málfiski var virt á 50,- krónur en eitt skippund af smáfiski á 40,- krónur.[1404] Hvað greitt var fyrir blautfisk, sem keyptur var beint upp úr sjó, er ekki alveg ljóst en þess má geta að árið 1892 var verðið á honum 5 aurar fyrir pundið hjá útibúi Ásgeirsverslunar hér á Suðureyri og er þá miðað við flattan þorsk.[1405] Ætla má að það verð hafi lítið breyst frá 1892 til 1895 og hefur verðið á söltuðum og verkuðum málfiski þá verið þrefalt hærra en verð á sams konar fiski upp úr sjó.

Hér var áður sagt frá fyrsta húsinu sem Ásgeirsverslun lét reisa á Suðureyrarmölum en það var byggt í maímánuði árið 1891 og stóð utantil við Stefnisgötu og aðeins neðar en húsið númer tvö við Rómarstíg (sjá hér bls. 67-69 og 103-104). Í einni heimild er þetta litla timburhús sagt hafa verið 12 fermetrar, í annarri 14 og 19 í þeirri þriðju eins og hér hefur áður verið nefnt. Niðri var saltgeymsla en uppi á loftinu var frá því fyrsta geymt svolítið af innfluttum varningi, einkum mjölvara, kaffi og sykur, og var þetta fyrsti vísir að verslun á Suðureyri. Fyrstu árin var þó ekki um opna sölubúð að ræða en vörur afgreiddar þegar einhver kom á fund Kristjáns Albertssonar í því skyni að fá hann til að fara í búðina (sjá hér bls. 67-69). Óljóst er hvenær farið var að hafa sölubúðina opna ákveðna daga eða vissan tíma á hverjum degi en í dagbók frá sumrinu 1916 sést að þá var búðin opin fimm stundir á dag.[1406]

Á síðustu árum 19. aldar bætti Ásgeirsverslun smátt og smátt við húsakost sinn á Suðureyri og risu allar þær byggingar í næsta nágrenni við litla timburhúsið sem fyrst var byggt. Árið 1891 eða 1892 var byggður geymsluskúr við efri hlið elsta hússins, líkur því að grunnfleti.[1407] Haustið 1896 byggði verslunin mun stærra hús.[1408] Grunnflötur þess var liðlega 5 x 6 metrar eða um það bil 31,5 fermetrar.[1409] Vegghæð var þrír og hálfur metri og í húsinu var loft með háu porti.[1410] Á neðri hæðinni í því húsi var pláss fyrir 300 tunnur af salti.[1411] Þar var líka hægt að geyma fisk en uppi var vörugeymsla og þar voru vörurnar afgreiddar.[1412] Þetta hús stóð að sögn á innri hlið verslunarlóðarinnar.[1413]

Yfirsmiður við byggingu hússins sem reist var 1896 var Einar Bjarnason á Ísafirði,[1414] sá hinn sami og staðið hafði fyrir smíði elsta húss Ásgeirsverslunar á Suðureyri árið 1891 (sjá hér bls. 67-69). Tveir aðrir smiðir frá Ísafirði unnu með Einari að byggingu hins nýja verslunarhúss á Suðureyri haustið 1896.[1415] Allir þrír unnu þeir að smíði þess frá 16.– 22. september og luku verkinu á einni viku.[1416] Næsta vor þurfti svo að troða hampi í misfellur á þessu nýja húsi og 20. maí 1897 unnu þeir Einar Jónsson og Örnólfur Jóhannesson á Suðureyri við það verk í sex klukkustundir.[1417] Húsið sem Ásgeirsverslun reisti á Suðureyri haustið 1896 var ýmist nefnt pakkhús eða krambúð.[1418] Þann 3. júlí 1897 var Einar Jónsson, dagbókarritari á Suðureyri, að bika þakið á pakkhúsinu en 20. ágúst á sama ári var Jón sonur hans að bika krambúðina.[1419]

Haustið 1898 var byggður timburskúr ofan við pakkhúsið frá 1896.[1420] Þennan skúr byggði Kristján Albertsson á nokkrum dögum um miðjan septembermánuð og naut við þær framkvæmdir aðstoðar Einars Hákonarsonar sem þá átti heima á Norðureyri.[1421] Skúrinn frá 1898 var 8 álnir á annan veginn, eins og sjálft pakkhúsið, en 5 álnir á hinn[1422] svo grunnflöturinn hefur verið tæplega 16 fermetrar. Svo virðist sem þessi viðbygging hafi í fyrstu átt að verða saltgeymsla því Einar Jónsson nefnir hana timbursaltkró haustið sem hún var byggð.[1423] Seinna var sami skúr notaður sem fiskgeymsla.[1424]

Haustið 1904 lét Ásgeirsverslun svo reisa timburskúr við neðri hlið pakkhússins frá 1896.[1425] Yfirsmiður við þá byggingu var enn sem fyrr Einar Bjarnason á Ísafirði en að verkinu unnu líka tveir aðrir smiðir sem þá áttu heima á Ísafirði, þeir Jón Sigmundsson og Guðmundur Þorbjarnarson.[1426] Skúrinn frá 1904 var 8 álnir á lengd og 6 álnir á breidd[1427] svo grunnflöturinn hefur verið tæplega 19 fermetrar. Líklegt er að þessi neðri skúr hafi náð meðfram allri neðri hlið pakkhússins og efri skúrinn meðfram allri efri hlið þess því allar voru þessar þrjár byggingar 8 álnir á annan veginn. Smiðirnir fóru til Ísafjarðar 27. október og voru þá klárir með búðina eins og dagbókarritarinn orðar það.[1428]

Í skúrnum sem Ásgeirsverslun byggði haustið 1904 var sett upp fyrsta eiginlega verslunarbúðin á Suðureyri með afgreiðsluborði[1429] og öðrum viðeigandi búnaði. Í einu horni þessarar sömu viðbyggingar var líka innréttuð svolítil skrifstofukompa.[1430] Dyrnar sneru til sjávar.[1431]

Í þessari fyrstu sölubúð Ásgeirsverslunar á Suðureyri var aðeins verslað í fáein ár því árið 1908 var reist nýtt verslunarhús sem reyndar var nokkurra ára gamalt því það var flutt til Suðureyrar frá hvalveiðistöðinni á Uppsalaeyri í Seyðisfirði við Djúp.[1432] Þetta var stórt og mikið hús sem verkamennirnir í hvalveiðistöðinni höfðu búið í.[1433] Grunnflöturinn var 21,3 x 7,5 metrar[1434] eða um 160 fermetrar. Húsið var ein hæð, port og ris[1435] og vegghæðin 4,4 metrar.[1436] Sumarið 1907 var Valdimar Þorvaldsson smiður, sem þá átti heima í Selárdal en seinna á Suðureyri, sendur inn í Seyðisfjörð til að athuga húsið og í maímánuði vorið 1908 fóru hann og Halldór B. Friðriksson á Suðureyri þangað til að rífa það.[1437] Það verk tók þrjár vikur.[1438] Þetta var innflutt hús, plankabyggt, og allar spýtur voru því merktar.[1439]

Stórhýsinu frá Uppsalaeyri var valinn staður á Malaroddanum og taldist það síðar vera númer 13 við Stefnisgötu.[1440] Það stóð aðeins neðar en elsta hús Ásgeirsverslunar á Suðureyri sem byggt hafði verið árið 1891 (sbr. hér bls. 67-69,104 og 129). Yfirsmiður við endurbyggingu hússins var Guðmundur Gestsson, sem þá átti heima á Suðureyri, en Valdimar Þorvaldsson vann með honum að því verki.[1441] Húsinu tókst að koma upp fyrir lok ársins 1908 og um nýárið var rúmgóð verslunarbúð opnuð á neðri hæð þess.[1442] Þar var líka skrifstofa og pláss fyrir 1000 tunnur af salti.[1443] Uppi á efri hæðinni var vörugeymsla og þar innréttaði Guðmundur Gestsson íbúð í vesturendanum á fyrri hluta ársins 1909[1444] og er flatarmál íbúðarinnar sagt hafa verið 12 x 14 álnir,[1445] það er 66 fermetrar. Árið 1928 mun íbúðin svo hafa verið stækkuð. Geymsluplássið á búðarloftinu minnkaði þá að sama skapi og norðurhlið hússins var hækkuð upp í fulla stofuhæð.[1446] Þegar nýja sölubúðin var tekin í notkun um áramótin 1908 til 1909 var húsnæðinu sem sú eldri hafði verið í breytt í fiskhús.[1447]

Er stóra húsið frá hvalveiðistöðinni á Uppsalaeyri var reist á Suðureyri var Kristján Albertsson enn útibússtjóri Ásgeirsverslunar hér og hafði verið frá fyrstu byrjun. Hann hafði því umsjón með öllum þeim byggingum sem hér hefur nú verið gerð grein fyrir og ofan við skúrinn frá 1898 lét hann einnig reisa skýli fyrir fisk.[1448] Það var úr valborðum og með járnþaki.[1449]

Sumarið 1915 byggði Ásgeirsverslun stórt tveggja hæða geymsluhús úr steinsteypu og var grunnflötur þess 18 x 9 metrar eða því sem næst.[1450] Elsta hús verslunarinnar á Suðureyri, það sem reist hafði verið vorið 1891, var þá rifið og hið mikla steinhús, sem enn stendur (1996), byggt á sama stað.[1451] Það var frá upphafi nefnt Svarthol[1452] og var ástæðan sú að það var nánast gluggalaust.[1453]

Árið 1915 lét verslunin einnig reisa skúralengju sem nefnd var Planskúr.[1454] Sú lengja var áföst við húsið sem verslað var í á árunum 1904-1908 en sneri öfugt við þá byggingu[1455] (sbr. hér bls. 130-131). Í fasteignamatsskjölum frá árunum skömmu fyrir 1920 er planskúrinn nefndur flatningsskúr og þar sést að hann hefur verið 10,7 metrar á lengd og 5,3 metrar á breidd.[1456] Húsið, sem Ásgeirsverslun reisti á Suðureyri árið 1896, stóð þá enn uppi ásamt viðbyggingum frá 1898 og 1904 en að því er virðist nokkuð umbreytt.[1457] Í nýnefndum skjölum er hús þetta sagt vera fiski- og kolahús úr tré og var að skúralengjunni meðtalinni virt á 4.100,- krónur.[1458] Svartholið, sem fyrr var nefnt, var á sama tíma virt á 7.200,- krónur og verslunarhúsið sem reist var 1908 á 14.500,- krónur.[1459] Sex íbúðarhús, sem Ásgeirsverslun átti á Suðureyri árið 1916, voru við sama fasteignamat virt á 10.300,- krónur samtals, smíðahús á 2.000,- krónur, bátabryggja ásamt aðgerðarpalli og brautum (sbr. hér bls. 134) á 5.000,- krónur og lóðarréttur á 1.000,- krónur.[1460] Hér munu nú hafa verið nefndar allar þær fasteignir sem Ásgeirsverslun átti á Suðureyri árið 1916 en samtals voru þær þá eða mjög skömmu síðar virtar á 44.100,- krónur.[1461] Til samanburðar má geta þess að fasteignamatsverð allra annarra húseigna á Suðureyrarmölum var þá 114.220,- krónur.[1462]

Kristján Albertsson gegndi starfi útibússtjóra Ásgeirsverslunar á Suðureyri til dauðadags en hann andaðist 22. júlí árið 1909 (sjá hér bls. 67-69). Að Kristjáni látnum tók sonur hans, Kristján Albert Kristjánsson, sem fæddur var árið 1885, við útibússtjórastarfinu og gegndi því til ársins 1914.[1463] Hann hafði áður veitt föður sínum aðstoð við verslunarstörfin og veturinn 1906-1907 var hann nemandi í Verslunarskólanum í Reykjavík.[1464] Allt frá vorinu 1907 mun Kristján Albert hafa séð um allt bókhald útibúsins á Suðureyri en áður var bókhaldið jafnan fært að meira eða minna leyti á Flateyri, hjá útibúi Ásgeirsverslunar þar.[1465]

Í júlímánuði árið 1914 varð Kristján Albert Kristjánsson að láta af störfum vegna tímabundinnar vanheilsu.[1466] Við útibússtjórastarfinu á Suðureyri tók þá Jón Grímsson frá Ísafirði, fæddur 1887, en hann hafði áður leyst Kristján Albert af um nokkurt skeið sumarið 1913 vegna veikinda hans.[1467] Jón Grímsson var bróðursonur Árna Jónssonar er lengi hafði verið verslunarstjóri Ásgeirsverslunar á Ísafirði.[1468] Árið 1914 hafði Árni enn yfirumsjón með rekstri útibúanna[1469] og réði jafnan miklu um allan rekstur Ásgeirsverslunar, enda var hann tengdasonur Ásgeirs Ásgeirssonar skipherra sem á sínum tíma lagði grunninn að þessu mikla fyrirtæki.[1470]

Jón Grímsson var útibússtjóri Ásgeirsverslunar á Suðureyri frá 1914 til 1918 en 30. nóvember á því ári hætti þetta gamalgróna útgerðar- og verslunarfyrirtæki allri starfsemi og þann dag var gengið frá sölu á nær öllum hinum miklu eignum þess.[1471] Jón Grímsson náði þá að festa kaup á eignum Ásgeirsverslunar í Súgandafirði og galt fyrir þær 42.000,- krónur.[1472] Úr röðum útibússtjóra verslunarinnar var Jón sá eini sem keypti viðkomandi útibú og stóð hann áfram fyrir verslunarrekstri hér á Suðureyri allt til haustsins 1921 er hann seldi Kaupfélagi Súgfirðinga, hinu eldra, þetta fyrirtæki sitt[1473] en sú saga verður ekki rakin hér.

Útibú Ásgeirsverslunar á Suðureyri var í fyrstu rekið sem sérstök deild frá útibúi verslunarinnar á Flateyri,[1474] enda fékk Suðureyri ekki löggildingu sem verslunarstaður fyrr en árið 1899.[1475] Útibússtjórinn á Flateyri bar ábyrgð á bókhaldinu og á árunum fyrir aldamót kom hann stundum til Suðureyrar að taka behöndlingu[1476] en svo var vörutalning hjá verslunum kölluð á þeim árum. Í einni heimild segir að verslunarútibúið á Suðureyri hafi verið gert að sérstakri verslun, það er sjálfstæðri rekstrareiningu árið 1903[1477] en tengslin við Flateyri héldust nokkru lengur því þar var jafnan gengið frá bókhaldi verslunarinnar á Suðureyri, allt til ársins 1907 (sjá hér bls. 133).

Þegar Ásgeirsverslun hóf starfsemi á Suðureyri árið 1891 var ekki gerður neinn formlegur samningur við eigendur jarðarinnar um lóðarleigu.[1478] Frá slíkum samningi var ekki gengið fyrr en árið 1908.[1479] Á því ári sömdu eigendur Suðureyrar við forráðamenn verslunarinnar um afnot hennar af lóðinni undir verslunarhúsunum og frá þeim til sjávar.[1480] Í þeim samningi voru Ásgeirsverslun einnig tryggð afnot af lóðarspildu á reitnum utan við hús verslunarinnar.[1481] Allt svæðið, sem verslunin fékk til umráða með þessum samningi, var 4000 ferálnir[1482] eða um 1576 fermetrar. Lóðarleiga var ákveðin 150,- krónur á ári en ekkert var tekið fram um leigutíma.[1483] Í samningnum frá 1908 var kveðið á um að eigendur Suðureyrar skyldu hafa forkaupsrétt ef verslunin yrði seld[1484] en þann rétt nýttu þeir sér ekki þegar að því kom sex árum síðar. Árið 1908 var einnig um það samið að Ásgeirsverslun fengi endurgjaldslaust að verka fisk á ónotuðum svæðum meðan það kæmi ekki í bága við hagsmuni eigenda.[1485] Þessi réttindi nýttu forráðamenn verslunarinnar og létu leggja brautarteina úr járni um óleigð svæði og jafnvel lóðir annarra.[1486] Að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar amaðist enginn við þessu því brautirnar voru líka til afnota fyrir allan almenning við hvers kyns flutninga.[1487] Öllu sem flytja þurfti var hlaðið á litla vagna úr tré en þeir voru á hjólum og runnu greitt eftir brautarteinunum væri þeim ýtt. Á árunum um og upp úr aldamótunum 1900 mun þessi háttur hafa verið hafður á víðast hvar á landi hér þar sem saltfiskur var þurrkaður á reitum. Þann 10. maí 1916 var Magnús Hjaltason í tíu tíma að vinna við að pæla klaka ofan af vagnbrautinni en klakabrynjan sem á brautinni lá var þá fjórar álnir á þykkt eða tveir og hálfur metri.[1488]

Allt frá árinu 1891 sáu skip Ásgeirsverslunar um að flytja kaupstaðarvöru til Suðureyrar og taka innlendar afurðir sem verslunin hafði keypt. Nefna má að með fyrstu vörusendinguna kom gufubáturinn Ásgeir litli um miðjan maímánuð árið 1891.[1489] Snemma í apríl árið 1894 kom Sigríður, eitt af þilskipum Ásgeirsverslunar, með vöruslatta og sama dag skrifar Einar Jónsson: Við 10 vorum að bringja úr henni í tvo tíma og einn tíma samt kvenfólkið.[1490] Vorið 1895 kom skipið Camilla með vörur til Suðureyrar og þá um sumarið komu bæði Ásgeir litli og S. Louise[1491] sem var 120 lesta seglskip.[1492] Í nóvember og desember á þessu sama ári voru tveir sexæringar hins vegar notaðir til að flytja vörur frá Flateyri til útibúsins á Suðureyri.[1493] Annan þeirra átti Eiríkur Egilsson á Stað en hinn Ebenezer Sturluson á Flateyri.[1494] Fyrir 1898 komu strandferðaskip hins vegar aldrei til Suðureyrar en þann 17. júní á því ári hafði þess konar skip viðkomu hér í fyrsta sinn.[1495] Var það Skálholt,[1496] annað tveggja skipa Sameinaða gufuskipafélagsins sem þá önnuðust hinar almennu strandferðir hér við land. Svo virðist sem skipalægið utan við Suðureyri hafi á næstu árum stundum verið nefnt Skálholtslag því Einar Jónsson á Suðureyri segir 19. október 1904 að gufuskipið Ásgeir stóri hafi þá komið hér inn á Skálholtslag.[1497] Árið 1899 var löggilding hafnarinnar á Suðureyri samþykkt á Alþingi.[1498]

Við út- og uppskipun var í fyrstu notuð lausabryggja sem árabátar gátu lent við.[1499] Mjög skömmu eftir aldamótin var svo byggð hallandi bryggja sem fór á kaf á flóði.[1500] Við hana var notast allt til ársins 1914 en þá um haustið var bryggjan endurbætt og settur á hana haus.[1501] Þaðan í frá fór hún ekki í kaf á flæðinni og náði um fjöru út á 8-9 feta dýpi.[1502] Þessi bryggja var í oddanum fram af húsum Ásgeirsverslunar.[1503] Fyrsta stóra skipið lagðist við hinn nýja bryggjuhaus 21. október 1914 og var það Sigríður,[1504] ugglaust þilskip Ásgeirsverslunar með því nafni en skútan sú var 35 rúmlestir að stærð.[1505]

Árið 1892 hóf útibú Ásgeirsverslunar á Suðureyri kaup á blautfiski og fóru slík fiskkaup vaxandi á næstu árum.[1506] Í fyrstu borgaði verslunin þó aðeins 4-5 aura fyrir pundið af blautfiskinum og stundum ekki nema 2 aura fyrir ýsu.[1507] Áður höfðu sjómenn verkað fiskinn sjálfir og hver og einn lagt hann fullverkaðan inn í sinn eigin reikning hjá viðkomandi kaupmanni á Flateyri eða á Ísafirði.[1508] Fyrstu árin sem útibú Ásgeirsverslunar var starfrækt á Suðureyri héldu flestir áfram að salta og verka eigin afla, nema helst þann fisk sem veiddist á stúf[1509] en svo nefndist sérmerktur partur af einni lóðinni á hverju skipi og fengu hásetar óskiptan allan þann afla sem á hann kom.[1510]

Um upphaf fiskkaupa og fiskverkunar Ásgeirsverslunar á Suðureyri ritar Kristján G. Þorvaldsson á þessa leið:

 

Það fyrsta sem vitað er um blautfiskkaup á Suðureyri er að síðari hluta vetrar 1892 hleypti bátur frá Djúpi til Suðureyrar og keypti Kristján [Albertsson] af honum aflann sem var 2000 pund af flöttum fiski. Verðið var 5 aurar fyrir pundið og mun hafa verið greitt með millifærslu milli verslana. Ekki hafði verslunin hús til að salta fiskinn í og varð Kristján að geyma hann í eigin húsum.

… Á þessum árum [um 1895] fékk verslunin þó nokkuð af fiski og lítilsháttar blautfiskverslun var þá komin á en aðeins flattur fiskur var keyptur. Ekki seldu menn þó almennt blautt, gerðu það aðeins ef sérstaklega stóð á og margir seldu fisk af stúfum. Það kom fyrir að Dalmenn báru fisk af stúfum í pokum inn að Suðureyri til að koma honum í verslunina. Sumarið 1894 var þó nokkuð af óverkuðum saltfiski flutt frá versluninni til Ísafjarðar. Í apríl 1895 var  hafinn fiskþvottur fyrir verslunina og er það hið fyrsta sem menn vita með vissu að hún þurrkaði fisk en upp frá því óx fiskverkun með hverju ári.[1511]

 

Svo fór að á árunum upp úr 1895 féll fiskverkun sjómanna alveg niður í Súgandafirði og þaðan í frá mátti heita að Ásgeirsverslun fengi til verkunar allan þorsk sem á land barst[1512] ef frá er talinn matfiskur til heimilanna. Kaup verslunarinnar á slægðum og flöttum blautfiski jukust þá mjög en sumir héldu áfram að salta eitthvað af aflanum þó að verslunin sæi síðan um að verka hann.[1513] Hélst það fram yfir 1920.[1514] Kristján Albertsson sá lengi sjálfur um alla fiskverkun á vegum Ásgeirsverslunar á Suðureyri.[1515] Fyrstu árin var fólkið sem hann gat kvatt til vinnu ósköp fátt og þegar gamla öldin kvaddi var enn lítið farið að fjölga (sjá hér bls. 119). Þegar vélbátaútgerðin hófst fáum árum síðar jókst aflinn sem á land barst verulega og kallaði á fleira fólk til starfa í fiskvinnunni. Fólki fjölgaði þá líka mjög ört því 31. desember 1905 áttu 79 manneskjur heima á Suðureyri og á Suðureyrarmölum en tíu árum síðar var tala þeirra komin upp í 361 (sjá hér bls. 119).

Tímakaupið sem karlmenn fengu greitt hjá Ásgeirsverslun á Suðureyri á árunum kringum aldamótin 1900 var 25 aurar.[1516] Konurnar í fiskvinnunni fengu þá helmingi lægra kaup, 12 og ½ eyri á tímann.[1517] Dagvinnutíminn var 12 klukkustundir, frá klukkan 6 að morgni til klukkan 8 að kvöldi en tvær stundir drógust frá vegna matmálstíma.[1518] Væri unnið eftir klukkan 8 að kvöldi fengu karlmennirnir 35 aura á tímann[1519] og líklegt má telja að tímakaup kvennanna hafi þá einnig hækkað um 40% og orðið 17 og ½ eyrir.

Sumarið 1912 var enn borgað þetta sama kaup í fiskvinnu á Suðureyri[1520] og svo virðist einnig hafa verið vorið 1915 því Magnús Hjaltason fékk þá 25 aura á tímann í dagvinnu en 35 aura í næturvinnu.[1521] Einhver sveigjanleiki var þó fyrir hendi þegar hér var komið sögu því 14. maí 1915 samdi þáverandi útibússtjóri Ásgeirsverslunar við Magnús Hjaltason um að greiða honum 30 aura á tímann í jafnaðarkaup, hvort sem um væri að ræða dagvinnu eða næturvinnu.[1522] Jafnframt var um það samið að Magnús fengi að taka út vörur hjá versluninni fyrir þrjá fjórðu hluta þess sem hann ynni sér inn en einn fjórði hluti færi í að grynnka á skuld hans við hana.[1523] Ætla má að álíka samningar hafi verið gerðir við fleiri.

Til samanburðar skal þess getið að í lok ársins 1914 var dagvinnutímakaup í almennri hafnarvinnu í Reykjavík 35 aurar og hækkaði upp í 40 aura á árinu 1915 og í 45 aura á árinu 1916.[1524] Sumarið 1916 var almennt verðlag orðið 50-60 % hærra en verið hafði tveimur árum fyrr[1525] og þá var dagvinnutímakaupið hjá Ásgeirsverslun á Suðureyri líka komið upp í 30-45 aura að sögn Magnúsar Hjaltasonar[1526] og verða orð hans varla skilin á annan veg en svo að sumir karlmennirnir hafi fengið hærra tímakaup en aðrir.

Fyrir vinnu við fiskþvott var greitt eftir afköstum. Vorið 1913 voru borgaðir 50 aurar fyrir að vaska hundrað stykki af málfiski og 40 aurar á hundraðið fyrir ýsu og smáfisk en 12 aura á hvert hundrað af Labrador flöttum fiski.[1527]

Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var oft mikil vinna í boði hjá Ásgeirsverslun á Suðureyri og þá einkum við fiskverkun en þetta var breytilegt eftir árstímum og margir dagar féllu úr. Sem dæmi má nefna að launin sem dagbókarskrifarinn Magnús Hjaltason fékk greidd hjá Ásgeirsverslun árið 1914 voru 425,- krónur.[1528] Miðað við 25 aura kaup á tímann hafa vinnustundirnar yfir árið því verið 1700 eða sem svarar liðlega 140 tólf tíma vinnudögum. Á þessu ári var Magnús við bærilega heilsu[1529] og líklegur til að hafa unnið álíka mikið og ýmsir aðrir.

Hið kunna alþýðuskáld og dagbókarritari, Magnús Hjaltason, átti heima á Suðureyri síðustu sex árin sem hann lifði, það er að segja frá því í janúarmánuði árið 1911 og til dauðadags, 30. desember 1916.[1530] Á þessu skeiði var hann þó fjarverandi frá 7. september 1911 til 20. maí 1912 en þá sat hann í tugthúsinu í Reykjavík og var að taka út dóm er hann hlaut fyrir að fara í rúm til ungrar meyjar.[1531]

Í dagbók Magnúsar er mikinn fróðleik að finna um atburði og mannlíf í þorpinu á Suðureyri á þessu skeiði, árunum 1911-1916. Hér verður aðeins sagt frá örlitlu broti af því sem Magnús skrifaði og ekki boðið upp á annað en sundurlausa mola. Í þessu riti hefur áður verið gerð grein fyrir Magnúsi Hjaltasyni og skal til þess vísað (sjá hér Hestur, Brekka á Ingj.sandi, Drangar og Bær).

Um veðurfar ritar Magnúss sitt af hverju í dagbókina. Þann 15. mars 1915 segir hann mikinn hafís vera úti fyrir Súgandafirði og 25. apríl á sama ári kemst hann svo að orði: Fyllti fjörðinn af hafís og mikill ís fyrir utan.[1532] Að áliðnu sumri 1915 var enn mikill hafís skammt undan landi því Magnús ritar 26. ágúst: Hafís mikill úti fyrir svo langt vestur sem augað eygði af Bæjarhlíð.[1533] Vorið 1916 var það hins vegar snjórinn sem plagaði. Hinn 31. maí á því ári skrifar Magnús: Mikið var nú orðið leyst en þó var hér enn svo mikill snjór að aldrei í manna minnum hafði jafn mikill verið um þennan tíma.[1534]

Dálítið er um aflafréttir hjá Magnúsi. Þann 16. janúar 1914 kemst hann svo að orði: Ákaflegt fiskirí … 40.000 pund seld versluninni Á. Á. um kvöldið og var það mesti afli er komið hafði á land í Súgandafirði á einum degi.[1535] Í júnímánuði árið 1915 segir Magnús líka fréttir af miklum afla og getur þess að eina vikuna hafi hásetahlutur orðið nær 200,- krónur hjá mestu aflamönnunum.[1536] Á góunni árið 1916 var fiskirí líka framúrskarandi gott því 2. mars segir Magnús hlutinn hafa verið 40-80,- krónur á dag og 10. mars getur hann um afskaplegt fiskirí.[1537] Næsta dag greinir dagbókarritarinn svo frá því að Kristján Maríasson á mótorbátnum Híg hafi komið að landi með 10.000 pund sem geri liðlega 100,- krónur í hlut – og var það sá mesti hlutur yfir einn sólarhring er kunnur var í Súgandafirði, segir Magnús.[1538]

Í dagbók Magnúsar sjáum við líka að seint í febrúar árið 1916 hefur Ólafur Þ. Jónsson, formaður á mótorbátnum Mími en áður á Geysi, farið í hákarlalegu og komið inn með 50 hákarla eftir tvo sólarhringa.[1539] Nýtt hér, segir Magnús, er hann greinir frá þessum hákarlaróðri og lætur þess getið að öll lifur sé nú í afarháu verði.[1540]

Sumarið 1913 getur Magnús þess að landmælingamenn hafi verið að störfum á Vestfjörðum. Hann segir þá hafa hlaðið vörður sér til leiðbeiningar og um 20. ágúst hafi þeir lokið við að mæla allan Súgandafjörð.[1541] Árið 1916 var Samúel Eggertsson skrautritari svo fenginn til að mæla kauptúnið á Suðureyri.[1542] Lauk hann því verki um veturnætur og fór þá gangandi yfir Grímsdalsheiði til Önundarfjarðar.[1543] Ætla má að uppdráttur Samúels hafi komið að góðum notum við alla skipulagsvinnu varðandi gatnagerð og margvíslegar framkvæmdir. Orð Magnúsar Hjaltasonar, rituð í desembermánuði árið 1913, benda reyndar til þess að vinna við gatnagerð hafi hafist á Suðureyri árið 1914, tveimur árum áður en Samúel fór að mæla.[1544] Þann 7. desember 1913 segir Magnús frá almennum hreppsfundi, sem haldinn var á Suðureyri, og getur þess að þar hafi verið samþykkt að gera veg [upphlaðna götu] á Suðureyri.[1545] Gatan, sem menn hafa þarna verið að hugsa um, er án efa sú sem nú hefur lengi borið nafnið Aðalgata. Vera má að lítið hafi orðið úr framkvæmdum því Gunnar M. Magnúss segir að fyrsta gatan hafi verið lögð á Suðureyri haustið 1922 og það hafi verið Stefnisgata.[1546]

Í dagbók Magnúsar má sjá ýmislegt um framkvæmdir við fyrstu vatnsveituna á Suðureyri sem lögð var árið 1914. Áður varð fólkið á Suðureyrarmölum að sækja allt vatn í eitt vatnsból og var það lind sem kom fram undan innanverðum Hjöllunum.[1547] Kristján G. Þorvaldsson segir að leiðin að þessu gamla vatnsbóli liggi milli húsanna númer 11 og númer 13 við Aðalgötu á Suðureyri[1548] en húsið númer 13 er Félagsheimili Súgfirðinga.[1549] Vatnsbólið hefur því verið undir brekkunni rétt innan við Félagsheimilið. Þarna var brunnhús og um það kemst Gunnar M. Magnúss svo að orði:

 

Brunnhúsið stóð undir brekkunni innarlega á Suðureyri. Það hafði verið byggt þar sem blátær lækur kom undan brekku og rann fram í sandinn. Þangað sóttu allir neysluvatnið. Í dálítilli lygnu fyrir neðan brunnhúsið var þvotturinn þveginn og skolaður en á bakkanum var flatur steinn þar sem þvotturinn var klappaður en keppan sem á honum lá var almenningseign.[1550]

 

Þann 1. júní 1913 minnist Magnús Hjaltason á ráðagerðir um byggingu vatnsveitu og greinir frá því að haldið hafi verið bögglauppboð til fjáröflunar.[1551] Á jólaföstunni næsta vetur var byrjað að mylja grjót sem nota átti í vatnsveituna og ráðgert að mylja 200 tunnur.[1552] Vatnsþró var síðan byggð uppi á Hjöllunum og 22. júní 1914 greinir Magnús frá því að byrjað sé að grafa fyrir vatnsleiðslunni á Suðureyri.[1553] Verkstjóri við þessar framkvæmdir var Þórður Sigurðsson, bóndi í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði.[1554]

Í dagbók sinni færir Magnús okkur fréttir af því hvenær þorpsbúar á Suðureyri eignuðust fyrst geitur og svín. Það var Sigurður Jóhannsson skurður sem að sögn Magnúsar varð fyrstur til að fá sér geit.[1555] Geitina ásamt kiðlingi keypti hann frá Ísafirði fyrir 25,- krónur á fyrstu vikum ársins 1914.[1556] Sumarið 1916 komu svo þrjár gyltur norðan frá Hólum í Hjaltadal, sem þeir Jón Grímsson verslunarstjóri og Friðbert Guðmundsson höfðu pantað, og segir Magnús þær hafa verið fyrstu svínin í eigu þorpsbúa á Suðureyri.[1557] Ætla má að ýmsum hafi þótt geitin og gylturnar vera undarlegar skepnur en enn furðulegri var þó fjörulallinn sem nokkrir þorpsbúar töldu sig sjá á ferli í kringum jól og áramót veturinn 1914-1915. Það kynjadýr var að þeirra sögn stærra en nokkur hundur, tinnusvart og gljáði á það.[1558]

Á fundi sem haldinn var í Lestrarfélagi Suðureyrarhrepps 8. desember árið 1913 var Magnús Hjaltason kosinn bókavörður.[1559] Félagið átti þá 480 bækur og í dagbók sinni frá janúarmánuði árið 1914 getur Magnús þess að í viku hverri þurfi hann yfirleitt að afgreiða um 50 menn í bókasafninu[1560] sem var hreint ekki svo lítið í ekki fjölmennara byggðarlagi.

Í marsmánuði árið 1916 greinir Magnús frá ráðagerðum um útgáfu handskrifaðs sveitarblaðs á Suðureyri og segir tíu menn hafa ákveðið að hefja útgáfu á slíku blaði.[1561] Frumkvöðul að þessu segir hann vera Gunnar M. Magnúss, sem þá var 17 ára unglingspiltur, en dagbókarritarinn var sjálfur í tíu manna hópnum og líka Daníel Ág. Daníelsson sem aðeins var 13 ára en að sögn Magnúsar óvenjulega andlega þroskaður.[1562] Af blaði þessu, sem fékk nafnið Augnfró, mun aðeins hafa komið út eitt tölublað.[1563] Magnús segir að blaðið hafi verið stofnsett í húsi Halldórs Guðmundssonar á Suðureyri 9. apríl 1916.[1564] Á fundinum sem þá var haldinn var ákveðið að Friðbert Friðbertsson yrði ritstjóri en með honum í ritnefnd þeir Friðrik Hjartar og Guðni A. Guðnason.[1565] Þann 25. júní á sama ári kom blaðið svo fyrir augu lesenda í sínum endanlega búningi.[1566]

Haustið 1911 getur Magnús um komu Haraldar Blöndal ljósmyndara til Suðureyrar og segir hann m.a. hafa tekið myndir af verkafólki hjá útibúi Ásgeirsverslunar.[1567] Í hópi verkafólksins, sem stillti sér upp til myndatöku á Suðureyri 3. september 1911, voru þau Magnús Hjaltason og fylgikona hans, Guðrún Anna Magnúsdóttir, og líka sonur þeirra, Einar Skarphéðinn[1568] sem þá var 7 ára gamall, fæddur 23. desember 1903.[1569] Haraldur Blöndal var reyndar ekki fyrsti ljósmyndarinn sem kom til Súgandafjarðar því Einar Jónsson á Suðureyri skrifar í dagbók sína 26. júní 1904:

 

Guðmundur nokkur, kaupmaður frá Flateyri, og drengur með honum frá Hvilft höfðu komið hér seint í gærkveldi og voru hér í nótt. Guðmundur þessi var að taka mynd af húsinu hér og svo lét margt hér og á Mölunum taka af sér myndir. Sigga mín [Sigríður Einarsdóttir] lét taka mynd af sínum börnum þremur og Kristján Albertsson af sínum börnum öllum.[1570]

 

Ljósmyndarinn, sem þarna er nefndur, hlýtur að hafa verið Guðmundur G. Sverrisson sem hóf verslunarrekstur á Flateyri árið 1904 (sjá hér Flateyri). Björn Pálsson, sem lengi var ljósmyndari á Ísafirði, mun einnig hafa tekið myndir í Súgandafirði haustið 1906,[1571]

Í dagbók sinni frá árunum 1911-1916 getur Magnús Hjaltason oft um þessar og hinar samkomur, sem efnt var til á Suðureyri á þeim árum, og gæti orðið merkileg skrá ef allt yrði talið upp. Hér verður aðeins drepið á sumt af því sem Magnús skrifar um skemmtanir og annars konar samkomur.

Samkomuhús, sem Magnús kallar reyndar leikhús, var byggt árið 1914[1572] en ætla má að frá því barnaskólinn var reistur árið 1908 og allt þar til samkomuhúsið var tekið í notkun hafi flestar samkomur á Suðureyri verið haldnar í skólanum. Í skólahúsinu var messað stöku sinnum á þeim árum,[1573] til dæmis 30. nóvember 1913 og 1. nóvember 1914.[1574] Eftir 1914 messaði séra Þorvarður Brynjólfsson öðru hverju í samkomuhúsinu en kirkja var ekki byggð á Suðureyri fyrr en á árunum 1936 og 1937.[1575] Áform um byggingu samkomuhúss á Suðureyri nefnir Magnús Hjaltason fyrst haustið 1913 og segir þá að stofnað hafi verið hlutafélag til að hrinda þeim áformum í framkvæmd.[1576]

Þann 14. maí árið 1914 greinir Magnús frá því að þann dag hafi gufuskipið Á. Ásgeirsson komið til Suðureyrar með timbur í þrjú hús sem ráðgert sé að byggja, hús Helga formanns Sigurðssonar, hús Guðmundar trésmiðs Gestssonar og leikhús það er nokkrir Súgfirðingar ætluðu að setja á stofn.[1577]

Reist leikhúsið, skrifar hann síðan þann 22. júní á sama ári[1578] svo hér fer ekkert á milli mála. Leikhúsið, sem Magnús nefnir svo en almennt mun hafa verið kallað samkomuhús, stóð mjög innarlega í þorpinu, við norðurjaðar húslóðar Aðalgötu 1.[1579] Það stóð ofan við götuna, nær beint á móti íshúsinu[1580] sem reist var 1910 og hér hefur áður verið getið (sjá hér bls. 115). Grunnflötur samkomuhússins var 8,8 x 7,5 metrar og vegghæð um það bil 3,8 metrar.[1581] Áfast við húsið var allstórt anddyri og var grunnflötur þess 3,77 x 3,77 metrar.[1582] Á árunum skömmu fyrir 1920 var samkomuhúsið virt á 3.800,- krónur.[1583]

Í fárviðrinu mikla 28. janúar 1924 fauk þessi bygging af grunninum (sbr. hér bls. 72-73) og var hún rifin skömmu síðar.[1584] Árið 1925 var samkomuhúsið endurbyggt á lóðinni númer 13 við Aðalgötu[1585] þar sem nú stendur Félagsheimili Súgfirðinga.

Þann 8. nóvember 1914 var dansað í fyrsta sinn í leikhúsinu á Suðureyri.[1586] Tveimur dögum síðar kom Guðmundur Hjaltason alþýðufræðari gangandi yfir Botnsheiði og staldraði við í Súgandafirði í fáeina daga (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Hann hélt þá þrjá fyrirlestra á vegum íþróttafélagsins Stefnis[1587] sem ugglaust hafa allir verið fluttir í hinu nýbyggða samkomuhúsi sem Magnús Hjaltason kallaði leikhús. Litlu síðar í sama mánuði kom svo Kristinn Guðlaugsson, bóndi og búnaðarfrömuður á Núpi í Dýrafirði, til Suðureyrar og flutti líka fyrirlestur.[1588]

Hér hefur áður verið sagt frá hinum fyrstu dansskemmtunum sem haldnar voru í Súgandafirði en á Suðureyri var fyrst leikið á harmóniku fyrir dansi svo kunnugt sé á árunum upp úr 1890 og eigi síðar en 1894 (sjá hér bls. 80-81). Fyrsta ballið í samkomuhúsinu var haldið 8. nóvember 1914 eins og hér var áður getið um og í húsinu var stöku sinnum stiginn dans á árunum 1915 og 1916.[1589] Nefna má grímudansleik, sem haldinn var 13. febrúar 1915, en þar lék Guðmundur bakari Guðbjartsson á hljóðfæri,[1590] líklega harmóniku. Fyrir það fékk hann greiddar fimm til tíu krónur yfir nóttina en aðgangseyrir var 40 aurar fyrir fullorðna og 20 aurar fyrir börn.[1591]

Í dagbók Magnúsar Hjaltasonar frá árunum 1911-1916 sést að á þeim árum kom fyrir að efnt væri til opinberra kvæðaskemmtana á Suðureyri. Voru þá kveðnar rímur og kraftarnir ekki sparaðir. Einn hinna miklu rímnamanna, sem þá voru uppi á Vestfjörðum, var Þórður Þórðarson, er nefndi sig Þórð Grunnvíking, og var hann alllengi búsettur á Ísafirði. Þeir Magnús Hjaltason og Þórður Grunnvíkingur voru bræðrasynir.[1592] Í lok nóvember árið 1912 kom Þórður til Súgandafjarðar og hélt kvæðaskemmtun á Suðureyri að kvöldi þess 1. desember.[1593] Á þessari skemmtun, sem ætla má að hafi verið haldin í húsakynnum Ásgeirsverslunar, var Magnús Hjaltason dyravörður en aðgangseyrir var 30 aurar fyrir fullorðna og 10 aurar fyrir börn.[1594] Aðgöngumiðar seldust fyrir 21,- krónu[1595] sem svarar til þess að 70 fullorðnar manneskjur hafi greitt aðgangseyri svo þarna hefur verið fullt hús.

Að kvöldi næsta dags var aftur haldin kvæðaskemmtun á Suðureyri og frá henni segir Magnús Hjaltason með þessum orðum:

 

Fékk ég Þórð Grunnvíking til að kveða opinberlega rímur mínar af Fjalla-Eyvindi og vísur mínar „Til sólarinnar”. Inngang seldi ég á 25 + 10 aura. Húsrúmsleyfið gaf Kristján Albert Kristjánsson verslunarstjóri mér.[1596]

 

Rímurnar af Fjalla-Eyvindi orti Magnús á Grænagarði við Skutulsfjörð árið 1903 en þær voru ekki gefnar út á prenti fyrr en 1914.[1597] Í þessum rímum Magnúsar eru 305 vísur[1598] svo drjúga stund hefur tekið að kveða þær allar en Þórður lét sig ekki muna um að bæta við í lokin öðrum kvæðabálki Magnúsar frænda síns, þeim er hann nefndi Til sólarinnar.

Að endaðri þessari kvæðaskemmtun 2. desember 1912 orti Sigurður Jóhannsson skurður, sem þar var viðstaddur, vísu til Magnúsar Hjaltasonar, vinar síns, og er hún á þessa leið:

 

Heyrðu kæri, Magnús minn,

mér finnst aukin gleðin

fyrir skýran skáldskap þinn

af skjóma runni kveðinn.[1599]

 

Fjórum árum síðar, 4. nóvember 1916, efndi sami Sigurður Jóhannsson svo til enn einnar kvæðaskemmtunar á Suðureyri.[1600] Þá var aðgangseyrir 50 aurar fyrir fullorðna og 35 aurar fyrir börn.[1601] Því miður er ekki lengur í boði að hlýða á Þórð Grunnvíking eða Sigurð skurð kveða þó ekki væri nema eina stemmu en gaman hefði verið að eiga raddir þeirra varðveittar á bandi.

Merkilegt er að sjá í dagbók Magnúsar Hjaltasonar hversu snemma Súgfirðingum gafst kostur á að horfa á kvikmynd en það mun hafa verið haustið 1912.[1602] Hérlendis munu kvikmyndir fyrst hafa verið sýndar í Reykjavík árið 1903 og svo aftur í byrjun ársins 1906.[1603] Á Ísafirði hófust reglubundnar kvikmyndasýningar ekki fyrr en 1916.[1604] Sá sem fyrstur manna sýndi kvikmyndir á Suðureyri var norskur piltur, Ludvig Wollan að nafni, sem þá var búsettur hér.[1605]  Hann hafði flust til Suðureyrar með föður sínum og stjúpu norðan frá Siglufirði árið 1911 og var þá sagður 17 ára gamall.[1606] Faðir piltsins hét Niels Wollan.[1607] Magnús Hjaltason nefnir hann lifrarkaupmann[1608] og er líklegt að Norðmaður þessi hafi verið með lifrarbræðslu á Suðureyri. Sjö árum fyrr hafði Norðmaður, sem þá var í Bolungavík, verið með ráðagerðir um að hefja gufubræðslu á lifur hér á Suðureyri og vildi hann þá borga 15 aura fyrir hvern lifrarpott.[1609] Nafn þessa Norðmanns liggur ekki fyrir.

Pilturinn Ludvig Wollan, sem fylgdi föður sínum til Súgandafjarðar árið 1911, virðist hafa verið fær í flestan sjó. Vorið 1912 var hann í skiprúmi hjá Guðmundi Pálmasyni, síðar bónda í Botni og á nýbýlinu Sólstöðum í Staðardal, en Guðmundur var þá formaður á árabát og reri frá Suðureyri.[1610] Þann 20. október á sama ári boðaði hinn ungi Norðmaður svo til kvikmyndasýningar á Suðureyri eins og hér var áður nefnt. Frá þeim atburði greinir Magnús Hjaltason svo: Kvikmyndasýning um kvöldið. Hana hélt Lúðvík Wollan, austmaður.[1611] Aðgangseyrir var 15 aurar fyrir fullorðna og 10 aurar fyrir börn.[1612]

Svo virðist sem hinn norski lifrarkaupmaður og fjölskylda hans hafi aðeins verið búsett á Suðureyri í eitt til tvö ár því nöfn þessa fólks er ekki að finna í sóknarmannatali frá 31. desember 1912.[1613] Svo virðist sem hinn ungi Ludvig Wollan hafi þó dvalist í Súgandafirði eitthvað fram eftir árinu 1913 því 19. febrúar á því ári efndi hann aftur til kvikmyndasýningar á Suðureyri og sýndi þá meðal annars myndir frá nautaati á Spáni.[1614]

Sumarið 1915 bar líka nokkuð nýrra við á Suðureyri en þá komu hingað frá Ísafirði þrír danskir trúðarar, sem Magnús Hjaltason nefnir svo, tveir karlmenn og ein kona.[1615] Í dagbók sinni greinir Magnús frá sýningu sem þessir dönsku trúðar efndu til þann 29. júlí og segir þá m.a.:

 

Héldu þeir fjöllistasýningu um kvöldið í samkomuhúsi Suðureyringa og kostaði inngangurinn eina krónu fyrir manninn. … Eldri karlmaðurinn var aðalleikarinn og gerði hann margt merkilegt. Meðal annars breytti hann grjónum í vatn. … Hann las og hugsanir manna og gilti einu á hvaða tungumáli þær voru ritaðar.[1616]

 

Næsta vetur komu þessir sömu sjónhverfingamenn aftur til Suðureyrar um miðjan janúar og sátu um kyrrt á aðra viku vegna veðurs og/eða ófærðar.[1617] Fyrirliða þessara fjöllistamanna nefnir Magnús Hjaltason Matteianus Simson[1618] en ætla má að þetta hafi verið Martinus Simson er seinna rak ljósmyndastofu á Ísafirði um langt skeið.

Dagana 17., 18. og 19. janúar 1916 sýndu Simson og félagar hans kvikmyndir og 26. janúar hélt M. Simson leikari, sem sat veðurfastur á Suðureyri, myndasýningu og sýndi einnig leiklistir nokkrar.[1619]

Ekki liggur ljóst fyrir hvenær leikrit var fyrst sett á svið á Suðureyri. Magnús Hjaltason, sem settist hér að í janúarmánuði árið 1911, getur fyrst um slíka sýningu þann 4. mars á því ári.[1620] Leikritið sem þá var sýnt hét Önundur[1621] en fremur ólíklegt má telja að þetta hafi verið fyrsta leiksýningin í hinu unga þorpi á Suðureyrarmölum.

Þann 12. apríl 1913 voru tveir leikþættir sýndir á Suðureyri.[1622] Magnús Hjaltason segir að þeir hafi báðir verið útlendir og hét annar Frúin sefur en hinn Kox og Box.[1623] Aðgangseyrir á þessa sýningu var 60 aurar í sæti, 50 aurar fyrir þá sem stóðu en þó aðeins 25 aurar fyrir börn.[1624] Þessi sýning virðist hafa gert lukku því næsta kvöld voru þessir sömu leikþættir sýndir í annað sinn.[1625]

Leikfélag var svo stofnað á Suðureyri árið 1916[1626] en um starfsemi þess verður ekki fjallað hér.

 

Líf  Magnúsar  Hjaltasonar á lokaskeiði ævinnar, 1911-1916.

 

Það sem hér hefur nú verið fært í letur og varðar líf fólksins á Suðureyri á árunum 1911-1916 er flest sótt í dagbækur Magnúsar Hjaltasonar sem þá var einn af íbúum þessa litla þorps. Við hæfi sýnist vera að draga hér einnig fram fáein brot er varða líf hans sjálfs á þessum sömu árum.

Þessi drottins krossberari eins og Magnús nefndi sjálfan sig á yngri árum (sjá hér Hestur) settist að á Suðureyri á fyrstu vikum ársins 1911.[1627] Hann var þá 37 ára gamall, fæddur 6. ágúst 1873, og hafði síðustu ellefu árin búið með heitkonu sinni, Guðrúnu Önnu Magnúsdóttur frá Langhól í Súgandafirði (sjá hér Bær), á ýmsum stöðum í byggðunum við utanvert Ísafjarðardjúp, það er að segja í Ísafjarðarkaupstað, Súðavíkurhreppi, Eyrarhreppi og Hólshreppi.[1628]

Veturinn 1909-1910 hafði Magnús verið barnakennari í Skálavík og haustið 1910 var hann búsettur þar.[1629] Seint í október á því ári varð honum það á að fara í rúm til 14 ára gamallar námsmeyjar sinnar er bæði voru stödd í húsi einu í Bolungavík.[1630] Í rúmið til stúlkunnar fór Magnús snemma morguns en kvöldið áður hafði hann drukkið þó nokkuð af brennivíni[1631] sem hann annars var þó ekki hneigður fyrir. Því sem gerðist þennan föstudagsmorgun lýsir Magnús sjálfur svo í dagbók sinni:

 

Þegar ég vaknaði var ég ákaflega utan við mig, með ákaflegum taugaskjálfta og get ég ekki gert mér grein fyrir hvernig ég var. Mér datt nú í hug að fara í rúm til Ágústínu, Dró ég niður í lampanum og fór svo upp fyrir stokkinn til hennar. Kyssti ég hana. En er ég kom við hana bera missti ég sæðið og varð ekkert af samræði. Hún tók mótspyrnulaust á móti mér og eftir á lánaði hún mér bók til að lesa í en ég fór strax um hæl yfir í rúm það er ég svaf í.[1632]

 

Svo fór að stúlkan eða vandamenn hennar kærðu hann fyrir kynferðislegt ofbeldi og fáum vikum síðar var þessi umkomulausi ljóðasmiður kvaddur til yfirheyrslu hjá sýslumanni og hnepptur í gæsluvarðhald.[1633] Í varðhaldinu hjá Magnúsi sýslumanni Torfasyni sat hann nær óslitið í tíu daga og tóku yfirheyrslurnar langan tíma.[1634] Að lokum gafst sakborningurinn upp og játaði á sig þá sök sem á hann var borin. Á þeirri játningu gefur hann sjálfur þessa skýringu:

 

Eyðilagður á sál og samvisku játaði ég því nú fyrir rétti er enginn fótur var fyrir, með það fyrir augum að ég myndi ekki sleppa úr fangelsinu fyrr en – hvenær? Var mér nú sleppt og var þetta dýrt frelsi.[1635]

 

Það var 28. nóvember 1910 sem Magnús játaði sig sekan um meint afbrot og þann dag var honum sleppt úr gæsluvarðhaldinu.[1636] Hann gat þó ekki dvalist áfram á sama stað og varð að leita nýrra úrræða. Þann 15. desember yfirgaf hann Skálavík og hélt af stað út í óvissuna ásamt fylgikonu sinni, sem hér var áður nefnd, og syni þeirra, Einari Skarphéðni, sem var að verða sjö ára, en hann var eina barnið sem þau áttu á lífi. Fyrsta daginn fóru þau til Bolungavíkur og leituðu fyrir sér um gistingu en var úthýst á átján stöðum.[1637] Næturgistingu fengu þau samt að lokum hjá bláfátækum hjónum á Bolungavíkurmölum.[1638] Að kvöldi næsta dags skrifar Magnús: Ofsastormur á norðan. Svöng um kyrrt í Bolungavík. Fannst mér nú guðshönd nokkuð stutt.[1639] Frá Bolungavík komust þau með mótorbát inn á Ísafjörð og höfðu þá ákveðið að leita á náðir systkina Guðrúnar Önnu í Súgandafirði.[1640] Fáum dögum fyrir jól fóru þau gangandi yfir Botnsheiði en fengu, að sögn Magnúsar, heldur óblíðar móttökur hjá nánustu ættingjum fylgikonu hans.[1641] Guðrún Anna fékk þó að gista hjá bróður sínum á Suðureyri yfir jólin og hafði með sér drenginn, Einar Skarphéðin, en Magnús var í Bæ hjá hjónunum Kristjáni Guðmundssyni og Guðrúnu Daðadóttur sem buðu honum að dveljast þar yfir hátíðina.[1642]

Á milli jóla og nýárs talaði Magnús við marga húsráðendur í Súgandafirði og leitaði fyrir sér um húsaskjól til nokkurrar frambúðar því hann hafði hug á að fá sér vinnu hér á Suðureyri.[1643] Í marga daga gekk hann jafnan bónleiður til búðar og á fimmta degi jóla festi hann þessi orð á blað: Við einar dyr var ég orðlaus og fannst hjarta mitt vera sem blóðugt sár.[1644]

Upp úr áramótum buðu hjónin á Norðureyri, þau Gunnjóna Einarsdóttir og Kristján Sigurðsson, Guðrúnu Önnu og Einari Skarphéðni að dveljast hjá sér meðan verst stæði á fyrir þeim[1645] og 15. janúar á hinu nýja ári náði Magnús að semja um afnot af auðu rúmstæði í Amalíuborg á Suðureyri fyrir sjálfan sig.[1646] Sá sem að því sinni skaut skjólshúsi yfir hinn nauðstadda ljóðasmið var gamall nemandi hans, Jón Pálmason, sonur Pálma Lárentíussonar bónda, er áður bjó í Keflavík norðan við Gölt[1647] (sbr. hér Keflavík). Frá húsinu Amalíuborg er sagt hér á öðrum stað (sjá bls. 113-114).

Þann 1. mars 1911 greinir Magnús frá því í dagbók sinni að Þórður Þórðarson, hreppstjóri á Suðureyri, hefði með bréfi veitt sér heimild til að setjast að í Suðureyrarhreppi.[1648] Það voru mikil gleðitíðindi fyrir hinn langhrjáða ljóðasmið.

Á þessum tíma var það reyndar ekki hreppstjórinn sem hafði vald til slíkra ákvarðana heldur hreppsnefndin[1649] en þegar bréfið var ritað var Þórður hreppstjóri einn þriggja hreppsnefndarmanna í Suðureyrarhreppi, kosinn 1907 til sex ára,[1650] og má ætla að hann hafi skrifað nýnefnt bréf fyrir hönd nefndarinnar.

Gunnar M. Magnúss, sem margt hefur skrifað um Magnús Hjaltason, segir að með þessu bréfi hafi Þórður hreppstjóri veitt Magnúsi full mannréttindi og frá þeim tíma hafi alþýðuskáldið lifað sem frjáls maður.[1651] Sú fullyrðing er því miður ekki á rökum reist. Mannréttindunum var Magnús sviptur vegna skuldar sinnar við Súðavíkurhrepp en til hennar var stofnað í langvarandi veikindum hans á unglingsárum. Árið 1900 nam þessi sveitarskuld 347,- krónum[1652] eða sem svaraði kaupi fyrir 1388 vinnustundir (sjá hér bls. 137) og mun hafa staðið óbreytt þaðan í frá. Hennar vegna var Magnúsi allt til æviloka skipað á bekk með þurfalingum sem hvorki máttu ganga í hjónaband eða greiða atkvæði í alþingiskosningum. Um þetta var lagabókstafurinn alveg skýr og það var ekki á valdi hreppsnefndar Suðureyrarhrepps eða Þórðar Þórðarsonar hreppstjóra að breyta honum.

Eina leiðin til að tryggja Magnúsi full mannréttindi hefði verið sú að borga fyrir hann sveitarskuldina en það var ekki gert. Réttindin sem hreppsnefnd Suðureyrarhrepps gat veitt Magnúsi voru aðeins þau að gefa honum kost á að leita sér bjargar í þessu byggðarlagi og dveljast hér meðan hann gæti unnið fyrir sér og sínum. Á þessu gaf hreppsnefndin kost og á heiður skilinn fyrir það. Mannréttindin fékk Magnús hins vegar aldrei og þegar hann á sínum síðustu æviárum neyddist til að leita á náðir hreppsnefndarinnar í Súgandafirði til að tryggja heimili sínu einhverja lífsbjörg þá kom í ljós að hér naut hann einskis réttar sem heimamaður. Þær krónur sem hreppsnefnd Suðureyrarhrepps lagði fram Magnúsi og fylgikonu hans til bjargar á árunum 1914-1916 gerði nefndin þegar í stað kröfu um að fá endurgreiddar frá fæðingarhreppum þeirra, Súðavíkurhreppi og Auðkúluhreppi, því þar voru þau sveitlæg.[1653] Allt var það samkvæmt landslögum en fyrir mannréttindunum fór lítið og að Magnúsi látnum lét hreppsnefnd Suðureyrarhrepps flytja fylgikonu hans og börn þeirra fátækraflutningi vestur í Arnarfjörð án nokkurrar tafar[1654] en þar var fæðingarhreppur hennar (sjá hér Bær) og þar var hún sveitföst. Slíkt þótti víst sjálfsagt og það þótt Guðrún Anna, sem þá var fertug að aldri, hefði átt heima í Súgandafirði meginhluta sinnar ævi eða í 27 ár.

Bréf sem oddviti Suðureyrarhrepps ritaði sýslumanni 10 dögum eftir andlát Magnúsar Hjaltasonar og varðar fyrirhugaðan flutning á fólki hans vestur í Arnarfjörð hljóðar svo:

 

Þar sem hreppsnefnd Auðkúluhrepps hefir áður lýst því yfir að kvenmaðurinn Guðrún Magnúsdóttir sé þar sveitlæg og með því hún hefir þegið styrk frá dvalarsveit sinni er nemur meiru en 100,- krónum, þá leyfir hreppsnefnd Suðureyrarhrepps sér að fara fram á að þér, herra sýslumaður, látið af hendi vegabréf handa nefndri Guðrúnu svo hún verði flutt fátækraflutningi á framfærslusveit sína. Þurfalingnum fylgja þessi börn hennar:

                   Einar Skarphéðinn      13 ára

                   Ásdís Þorkatla            3ja ára

Við vonum fastlega, herra sýslumaður, að þér sjáið yður fært að láta umbeðið vegabréf mjög bráðlega af hendi. Maður sá er hún (Guðrún) hefir búið með lagðist í rúmið í október og andaðist þann 30. janúar síðast liðinn [rétt 30. desember – innsk. K.Ó.]. Matbjörg engin, efni því síður og er því enginn vafi á því að þurfalingur þessi er kominn á stöðugt sveitarframfæri.

Það skal tekið fram að undirritaður oddviti Suðureyrarhrepps átti þann 6. þessa mánaðar tal við oddvita Auðkúluhrepps. Kvaðst hann fremur kjósa fátækraflutning á nefndri Guðrúnu heldur en að kosta hana í Suðureyrarhreppi.[1655]

 

Í öðru bréfi, sem oddviti Suðureyrarhrepps ritaði sýslumanni tæplega tveimur mánuðum síðar, sést að kostnaður við að flytja Guðrúnu Önnu og börnin vestur í Arnarfjörð hefur orðið 52,50 kr.[1656]

Hér var áður frá því greint að Magnús Hjaltason hefði komið til Súgandafjarðar norðan úr Skálavík í desembermánuði árið 1910 og sest að á Suðureyri í janúar 1911 (sjá hér bls. 146-148). Hann fékk þá afnot af auðu rúmstæði í húsi því sem nefnt var Amalíuborg en fylgikona hans og sonur þeirra, þau Guðrún Anna og Einar Skarphéðinn, voru á Norðureyri í Súgandafirði frá því á fyrstu dögum ársins 1911 og fram í marsmánuð.[1657] Þann 19. mars komu þau yfir fjörðinn og settust að í sama rúmi og ég var í eins og Magnús orðar það.[1658] Þessi þriggja manna fjölskylda virðist því ekki hafa haft neitt herbergi út af fyrir sig til afnota heldur bara rúmstæðið.

Full ástæða væri til að gefa öll dagbókarskrif Magnúsar Hjaltasonar út á prenti en hér verða aðeins gripin upp nokkur sýnishorn af því sem hann skrifaði um sína eigin hagi og það sem fyrir hann bar á Suðureyri á árunum 1911-1916.

Þann 17. apríl 1911 fluttust Magnús og fjölskylda hans úr verbúðinni Amalíuborg í hús bræðranna Ólafs og Sigurðar Friðrikssona á Suðureyri.[1659] Þar áttu þau skjól í 84 daga en fluttust 10. júlí á sama ári í verbúðina Babýlon[1660], elsta húsið í þorpinu (sbr. hér bls. 105-107).

Um sumarmál árið 1911 fékk Magnús vitneskju um að sýslumaðurinn á Ísafirði hefði dæmt hann í tveggja ára fangelsi fyrir afbrot það sem hann hafði játað á sig og hér var áður frá sagt[1661] (sbr. hér bls. 146-147). Þessi dómur var mildaður í landsyfirrétti og refsing ákveðin eins árs fangelsi í stað tveggja ára.[1662] Landsyfirréttardómurinn var birtur Magnúsi 30. ágúst 1911 og átta dögum síðar lagði hann af stað suður til að sitja af sér dóminn í tukthúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík.[1663] Það var Þórður Þórðarson hreppstjóri sem flutti hann á mótorbát til Ísafjarðar þann 7. september en fjórum dögum síðar lagði hinn dæmdi af stað suður með gufuskipinu Ceres.[1664]

Við sjáum hann ganga beygðan en ekki bugaðan á skipsfjöl og minnumst þess að nokkrum árum fyrr lýsti hann sjálfum sér svo í mansöng:

 

Eitt sinn leit ég ungan mann við óðarsmíði.

Tæp sex fet að vexti var ‘ann,

veiklulegt samt útlit bar hann.

 

Augnaskær með bjartar brár og brúnamikill

Allstórt nef ber yggur ríta,

á því fremst má sléttu líta.

 

Munnfríður er bendir baugs með bjartar tennur.

Þó er törgutýr ófrægi

tanngisinn í meira lagi.

 

Axlahár með bogið bak, að burðum ringur

Er daglega oftast glaður,

í samkvæmi fátalaður.[1665]

 

Frá dvöl Magnúsar í tukthúsinu í Reykjavík verður ekki sagt hér en þar sat hann inni í um það bil 8 mánuði[1666] en var látinn laus 11. maí 1912.[1667] Fáum dögum síðar lagði hann af stað vestur með strandferðaskipinu Vestra[1668] og steig á land á Flateyri þann 20. maí.[1669] Þaðan gekk hann sama dag yfir Klofningsheiði til Súgandafjarðar og skrifar í dagbók sína um kvöldið: Viðtökur fékk ég ágætar, fögnuðu mér allir.[1670]

Er Magnús kom aftur til Súgandafjarðar vorið 1912 fékk hann inni í húsi Guðrúnar Einarsdóttur á Suðureyri, áður húsfreyju á Kvíanesi.[1671] Guðrún var móðir bræðranna Ólafs og Sigurðar Friðrikssona[1672] en í húsi þeirra bjó Magnús um tíma sumarið 1911 eins og hér var áður nefnt. Bræður þessir drukknuðu báðir 11. september 1911[1673] og má ætla að húsið sem Magnús kennir við móður þeirra vorið 1912 hafi verið hið sama og hann taldi þá eiga sumarið 1911.

Í manntalinu frá 1910 er það reyndar Guðrún, móðir bræðranna Ólafs og Sigurðar, sem talin er húseigandi en ekki synir hennar.[1674] Vera má að þau hafi átt húsið saman. Að sögn Rannveigar Sigurðardóttur, sem fædd var 21.12. 1900 og ólst frá fimm ára aldri upp á Suðureyri uns hún fluttist inn í Botn árið 1913, þá var hús Guðrúnar Einarsdóttur næst ysti mannabústaðurinn í þorpinu árið 1911 en allra yst var hús með torfþaki og í því bjó Sigurður skurður.[1675] Stutt var á milli þessara tveggja húsa og stóðu þau bæði ofan við götuna, upp við brekkuræturnar[1676] og mjög skammt fyrir innan hús sem nú er númer 37 við Aðalgötu (sjá hér Gilsbrekka). Hús Guðrúnar Einarsdóttur var lítið timburhús með skúrarlagi.[1677]Magnús Hjaltason og heitkona hans bjuggu í því húsi allt sumarið 1912.[1678] Þar var líka annað fólk, m.a. Guðmundur Pálmason, síðar bóndi í Botni og á nýbýlinu Sólstöðum í Staðardal, en hann var þá við róðra sem formaður á árabát.[1679] Einn af hásetum Guðmundar þetta sumar hét Kristmundur Guðmundsson og þann 4. júlí bað hann Magnús að yrkja fyrir sig nokkrar vísur til konu sinnar Etilríðar Pálsdóttur en þau hjónin voru þá skilin að samvistum.[1680] Nöfnin á þessum aðskildu hjónum koma kunnuglega fyrir, enda tvímælalaust að þetta eru foreldrar Aðalsteins Kristmundssonar er tók sér skáldanafnið Steinn Steinarr.[1681] Árið 1910 báru aðeins fjórar manneskjur á öllu landinu nafnið Etilríður.[1682] Ein þeirra var Hjaltadóttir og önnur Guðmundsdóttir.[1683] Óhugsandi má kalla að hinar tvær hafi báðar verið Pálsdætur og átt samnefnda eiginmenn svo hér er ekki um að villast. Steinn Steinarr fæddist sem kunnugt er á Laugalandi í Nauteyrarhreppi við Djúp 13. október 1908 en árið 1910 var heimili foreldra hans leyst upp vegna fátæktar og þá voru Etilríður og sum barna hennar, þar á meðal Steinn, flutt hreppaflutningi suður í Dalasýslu.[1684] Þar voru þau mæðgin sumarið 1912 en Kristmundur við róðra á Suðureyri. Gaman hefði verið að eiga vísurnar sem Magnús orti til Etilríðar en leitin að þeim bíður betri tíma.

Til Magnúsar leituðu jafnan margir þeirra erinda að fá hann til að yrkja tækifæriskvæði eða skrifa bréf og var hann ólatur við að sinna þess konar kvabbi. Stundum fékk hann svolitla greiðslu fyrir slík ritstörf og má sem dæmi nefna að árið 1913 námu tekjur hans af þeim 35,- krónum.[1685] Tímakaup í verkamannavinnu var þá 25 aurar (sjá hér bls. 137) svo þessi upphæð svaraði til launa fyrir 140 vinnustundir. Þetta sama ár, 1913, fékk Magnús hins vegar 419,58 kr. greiddar í vinnulaun frá útibúi Ásgeirsverslunar[1686] og öll árin sem hann átti heima hér á Suðureyri vann hann sem verkamaður í fiskvinnu og við út- og uppskipun þegar heilsan leyfði og vinna var í boði.[1687] Tómstundir reyndi hann hins vegar að nýta til að afla sér fróðleiks og sinna ritstörfum að eigin vali. Yfirlit yfir ritverk Magnúsar, sem flest eru óprentuð, er að finna í bók Gunnars M. Magnúss, Skáldið á Þröm, og verður hér látið nægja að vísa til þess sem þar er ritað.[1688]

Þann 19. september haustið 1912 fluttist Magnús úr húsi Guðrúnar Einarsdóttur á Suðureyri og settist ásamt fylgikonu sinni og syni þeirra að í húsi Markúsar Guðmundssonar.[1689] Það hús stóð þar sem nú er húsið númer 15 við Eyrargötu á Suðureyri. Í húsi Markúsar bjuggu Magnús og Guðrún Anna í nær tvö ár eða allt þar til þau settust að í kofanum sem hann nefndi fyrst Bröttuhlíð en að lokum Þröm (sjá hér bls. 156-157). Hjá Markúsi höfðu þau eitt herbergi, sem var uppi á lofti, og greiddu þrjár  krónur á mánuði í húsaleigu.[1690] Þessari vistarveru lýsir Magnús Hjaltason svo: Herbergi það er ég bjó í var svo lítil og auðvirðileg kytra að hin mestu vandræði voru að fást þar við skriftir og svo var lágt uppyfir að ég náði með höfuðið að mæni[1691] (sbr. hér bls. 113).

Í litlu kytrunni var stundum erfitt að una sambúðinni við Guðrúnu Önnu eins og sjá má á því sem Magnús skrifar 19. janúar 1913 en þá kemst hann svo að orði: Fylgikona mín hataði bókmenntir allar … gerði hún jafnan tilraun að skerða og eyðileggja frið minn við þau störf og hafði svo lengi verið.[1692]

Vorið 1913 eignaðist Magnús sinn fyrsta bókaskáp[1693] sem ætla má að hafi líka verið sá síðasti. Skápinn smíðaði Daníel Bjarnason, sem þá átti heima á Suðureyri, og seldi Magnúsi hann fyrir 14,- krónur.[1694]

Þann 10. maí 1913 hafði ljóðasmiðurinn í Markúsarhúsi aðeins náð að vinna sér inn 70,- krónur á þeim tíma sem liðinn var frá áramótum en úttekt hans hjá Ásgeirsverslun á sama tíma nam talsvert hærri upphæð eða 110,- krónum.[1695] Þessi skuldasöfnun olli Magnúsi vanlíðan og kveðst hann hafa gengið einsamall út á Hjalla og grátið þar í einrúmi.[1696]

Um miðjan júní þetta sama sumar dreymdi Magnús einu sinni sem oftar skáldið Sigurð Breiðfjörð og segir að í draumnum hafi Breiðfjörð spurt sig um andlegar menntir Súgfirðinga.[1697]

Gunnar M. Magnúss segir að á fiskreitunum á Suðureyri hafi Magnús Hjaltason alloft gegnt starfi verkstjóra í forföllum annarra.[1698] Í dagbók Magnúsar sést að þarna er rétt með farið og má sem dæmi nefna að þegar Kristján G. Þorvaldsson verkstjóri þurfti að bregða sér á Ísafjörð 21. júní 1913 var Magnús settur í hans stað.[1699] Fáum dögum síðar þurfti hann líka að hlaupa í skarðið fyrir meðhjálparann og var meðhjálpari við guðsþjónustu í Staðarkirkju þann 6. júlí.[1700]

Í októbermánuði árið 1913 pantaði Magnús sér vatnsstígvél hjá Vilhjálmi Jónssyni sem þá var starfandi skósmiður á Suðureyri.[1701] Þau kostuðu 18,- krónur[1702] sem er reyndar ótrúlega hátt verð sé haft í huga að tímakaup verkamanna var 25 aurar eins og hér hefur verið nefnt. Áður en Magnús eignaðist stígvélin vafði hann striga um fætur sér til þess að verjast kulda og vosbúð í fiskvinnunni.[1703] Þegar Magnús pantaði stígvélin var Guðrún Anna, fylgikona hans, komin á steypirinn og þann 16. október ól hún dóttur[1704] er skömmu síðar var skírð Ásdís Þorkatla.[1705] Þessi stúlka var sjötta barn foreldra sinna en fjögur þerira höfðu dáið á fyrsta ári.[1706] Upp komust Einar Skarphéðinn og Ásdís Þorkatla.[1707]

Oft var kalt í herbergiskytru Magnúsar í Markúsarhúsi. Þann 1. febrúar 1914 segir hann vera drápskuldi og getur þess að fennt hafi inn um gaflinn og allt hélað umhverfis rúmbælin.[1708] Kamína var þó í þessu litla loftherbergi[1709] svo hægt var að velgja upp væri eldiviður til. Dagbókarskrifarinn bjó hins vegar við þröngan kost og átti stundum of lítið til að bíta og brenna. Ég … var nú 122 pund að þyngd, skrifar hann 2. mars 1914, en þegar ég var þyngstur var ég 144 pund.[1710]

Á góunni árið 1914 fékk Magnús Hjaltason bréf frá Kristjáni Jónssyni frá Garðsstöðum er þá var ritstjóri blaðsins Vestra á Ísafirði.[1711] Nokkru áður hafði Magnús leitað til Kristjáns um prentun á rímum sínum af Fjalla-Eyvindi og nú lét Kristján hann vita að hægt væri að fá rímurnar prentaðar fyrir 75,- krónur og væri pappírskostnaður innifalinn í þeirri tölu.[1712] Gert var ráð fyrir að upplagið yrði 1000 eintök.[1713] Þetta voru gleðifréttir fyrir alþýðuskáldið sem hófst nú handa við að tryggja sér peningalán til að koma rímunum á prent. Fáum dögum síðar fékk hann 120,- króna víxillán hjá Sparisjóði Súgfirðinga.[1714] Upp á víxilinn höfðu skrifað Þórður Þórðarson hreppstjóri og Jón Einarsson íshússtjóri,[1715] áður formaður á Svaninum, fyrsta mótorbátnum sem Súgfirðingar eignuðust. Án stuðnings þessara tveggja merkismanna hefðu rímur Magnúsar af Fjalla-Eyvindi líklega aldrei komist á prent.

Þann 4. apríl 1914 hugðist Magnús fara á Ísafjörð til að athuga hvað liði prentun rímnanna en varð að hætta við vegna höfuðveiki.[1716] Um kvöldið greip hann dagbókina og skrifaði m.a. þetta:

 

Guðrún mín gerði og mér hið erfiðasta fyrir – vildi ekki með nokkru móti að ég færi í „þessar helvískar flakkferðir” er hún svo nefndi og spáði hún hið versta fyrir útsölu á rímunum af Fjalla-Eyvindi.[1717]

 

Fjórum dögum síðar komst Magnús þó á Ísafjörð og þá var búið að prenta rímurnar en í þeim voru því miður ekki færri en 14 prentvillur.[1718] Næsta dag, sem var skírdagur, gekk  hann milli manna á Ísafirði og seldi rímurnar.[1719] Hann náði þá þegar að selja fyrir 18,- krónur[1720] en líkur benda til að verðið á hverju eintaki hafi verið 25 aurar.[1721] Um kvöldið fór Magnús heim, gangandi yfir Botnsheiði, og næstu daga og vikur sendi hann trúnaðarmönnum sínum á ýmsum stöðum fleiri eða færri eintök af rímunum til sölu.[1722] Stærsta sendingin, 200 eintök, fór til Sigurðar Péturssonar, fangavarðar í Reykjavík.[1723] Talsvert seldist líka af rímunum í Súgandafirði því 6. maí lætur Magnús þess getið að þar sé hann þá þegar búinn að selja fyrir 25,- krónur.[1724] Um haustið keypti velgerðarmaður hans, Þórður Þórðarson, hreppstjóri á Suðureyri, svo 40 eintök og borgaði 10,- krónur fyrir þau.[1725]

Í hinu þrönga og lága loftherbergi í Markúsarhúsi á Suðureyri var lítið svigrúm til umsvifa og þegar skáldið var að ganga þar frá rímum sínum af Fjalla-Eyvindi til útsendingar varð heitkonu þess að orði: Ég vildi þessar helvískar bækur væru komnar allar í eldinn.[1726]

Nokkuð var jafnan um heimsóknir manna til Magnúsar Hjaltasonar og skrif hans bera með sér að hann hafði unun af að ræða við skemmtilega menn sem höfðu frá mörgu að segja. Þann 5. mars 1914 skrifaði Magnús þessi orð í dagbókina:

 

Heimsótti mig Sigurður gamli „snari” Guðmundsson, Önfirðingur, nú til heimilis á Grafargili. Ég hripaði hjá mér æviágrip hans. Var vani minn að gjöra svo ef einhver kom heim til mín er ég hafði eitthvert álit á.[1727]

 

Snemma í júní árið 1914 frétti Magnús að Guðjón Jóhannsson, skósmiður á Suðureyri, vildi selja húskofa er hann átti og hafði notað fyrir fjárhús og hlöðu.[1728] Hjá honum kviknaði þá þegar áhugi fyrir því að kaupa kofann og þilja hann innan svo hægt yrði að búa í honum.[1729] Hreysi þetta, sem átti að kosta 60,- krónur, stóð í bröttum hjalla og grunnflötur þess var 6 x 5 álnir,[1730] það er tæpir 12 fermetrar.

Lét ég Guðrúnu, fylgikonu mína, kaupa húskofann af Guðjóni skósmið, skrifar Magnús 16. júní 1914 en skömmu áður hafði hann fengið lán til kaupanna hjá hálfbróður sínum, Hinriki Hjaltasyni, járnsmið á Ísafirði.[1731] Voru það 70,- krónur.[1732] Viku seinna gekk Magnús á fund Kristjáns Alberts Kristjánssonar, er þá var verslunarstjóri við útibú Ásgeirsverslunar á Suðureyri, og bað hann lána sér þiljur innan um kofann … en hann hummaði það.[1733] Næsta dag, þann 24. júní, fékk Magnús þó að taka út tvær tylftir af þiljum.[1734]

Kostnaður Magnúsar við að koma fjárhúskofanum í íbúðarhæft stand mun hafa orðið þó nokkur og kom sér því vel að fá í hendur dálitla fjárhæð sem Súgfirðingar skutu saman til að styrkja hann við þessar framkvæmdir. Samskot til mín orðin fimmtíu krónur, skrifar Magnús 14. júlí.[1735] Forgöngu um þessa fjársöfnun hafði Friðrik Hjartar, skólastjóri á Suðureyri.[1736]

Tíu dögum síðar segist Magnús vera orðinn viðarlaus en hann var þá búinn að þilja kofann með nær 100 panelfjölum sem höfðu kostað 57,60 krónur.[1737] Dagana 6.-11. ágúst voru Magnús og fjölskylda hans að flytja sig úr Markúsarhúsi í þennan kofa sem þau áttu sjálf og sváfu þar fyrst aðfaranótt 12. ágúst.[1738] Þann 8. ágúst var Magnús allan daginn að negla pappa á þak og/eða veggi kofans og næstu vikurnar nýtti hann lausar stundir til að búa í haginn fyrir sig og fjölskyldu sína í hinum nýja bústað, steypti gólf í anddyrið, setti upp milliþil og lagði göngustíg upp að kofadyrunum.[1739] Húskofann minn vildi ég nefna Brattahlíð, skrifar Magnús 8. ágúst 1914.[1740] Líklega hefur það nafn aldrei náð að festast í sessi og á sínu síðasta æviári kom Magnúsi í hug annað nafn eins og sjá má í dagbókinni því þar hefur hann skrifað 19. júní 1916: Dottið  hafði mér í hug að kalla kofa þann er ég bjó í Þröm (ekki þó Heljarþröm en nærri því).[1741]

Í fjárhúskofanum, sem Magnús fluttist í sumarið 1914, bjó hann allt til dauðadags, það er í 872 daga.[1742] Þessi lágreisti mannabústaður stóð í brattri brekku ofan við utanverðar Suðureyrarmalir en mjög skammt þar frá stendur nú minnisvarði sem reistur var árið 1983 til heiðurs hinu fátæka alþýðuskáldi er átti hér sitt síðasta skjól.[1743]

Við hliðina á fjárhúsi því sem Magnús Hjaltason fluttist í sumarið 1914 stóð smiðjukofi sem einnig var breytt í mannabústað þetta sama sumar. Til marks um það höfum við orð Magnúsar er hann ritar í dagbók sína 26. júlí. Hann segir þar:

 

Sigurður Kristjánsson frá Bæ í Súgandafirði og fylgistúlka hans, Elísabet Jónsdóttir frá Þingeyri („Vitlausa-Beta”), keyptu þennan dag smiðjukofa er stóð undir sama vegg og kofi sá er Guðrún mín keypti. Hefði verið æskilegra að fá aðrar persónur til sambúðar.[1744]

 

Næsta dag skráir Magnús svo í bókina þessa stuttorðu tilkynningu: Flutti Beta sig í smiðjuna.[1745]

Ljóst er að dagbókarskrifarinn hefur í fyrstu kviðið dálítið fyrir nábýlinu við þau Sigurð og Elísabetu en í þeim efnum virðist allt hafa gengið þrautalaust að kalla.[1746] Þau Sigurður Kristjánsson og fylgikona hans bjuggu reyndar ekki í smiðjunni nema í liðlega hálft ár.[1747] Í lok marsmánaðar árið 1915 settist síðan sex manna fjölskylda að í smiðjunni og bjó þar í tvo mánuði[1748] en 4. júlí á sama ári greinir Magnús Hjaltason frá því að Eðvald gamli Jónsson hafi keypt smiðjukofann og látið bát á móti í eignaskiptum.[1749] Eðvald hafði áður verið formaður við veiðar á beitusíld en gerðist bræðslumaður hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Suðureyri.[1750] Þessum gamla bræðslumanni, sem var Eyfirðingur að uppruna, fylgdi yngri kona, Guðrún Magnúsdóttir að nafni, og saman áttu þau nokkur börn.[1751] Daginn sem Magnús segir frá kaupum Eðvalds á smiðjunni lætur hann þess getið að nýi eigandinn ætli sér að flytja í kofann og nefnir fáum dögum síðar að nú sé Eðvald að stækka þessi húsakynni.[1752]

Um svipað leyti og Magnús Hjaltason settist að í fjárhúskofanum, sem hann að lokum nefndi Þröm, braust fyrri heimsstyrjöldin út. Fréttir af hamslausum manndrápum á vígvöllum Evrópu orkuðu sterkt á hinn viðkvæma ljóðasmið eins og sjá má í skrifum hans. Í dagbók sinni minnist hann stöku sinnum á nýjustu fréttir af morðæðinu eins og þessi dæmi sýna:

 

 1. ágúst 1914. Utanlands var nú byrjað stríð mikið út af morði austurrískra konungshjóna.

 

 1. ágúst 1914. Tuttugu þúsund féllu af Þjóðverjum síðast liðinn laugardag.

 

 1. janúar 1915. Fréttist til Súgandafjarðar að Þjóðverjar hefðu nýlega varpað úr loftfari sprengikúlu yfir England svo tvær þúsundir manna hefðu beðið bana. Spillingar- og morðhugur mannkynsins mátti nú segja að væri á svo háu stigi að eigi yrði orðum vegið.

 

Slíkar fréttir gátu komið Magnúsi úr jafnvægi þó oftast væri hann með hugann við sjálfan sig og sitt nánasta umhverfi.

Guðrún Anna Magnúsdóttir, fylgikona Magnúsar Hjaltasonar, var draumakona. Haustið 1914 dreymdi hana að sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson kæmi til sín og spyrði: Er Magnús búinn að fá bréfið? Það er í því mynd af mér sem hann á að fá.[1753] Mun undarlegri var reyndar draumurinn sem Guðrúnu Önnu dreymdi í nóvembermánuði árið 1915 um að til Magnúsar bærist tilskipun frá yfirvöldum um að hann ætti að skera alla aðra Súgfirðinga á háls og byrja á sér, unnustunni.[1754] Að sögn Guðrúnar Önnu átti Hansína Ásbjarnardóttir, kona Árna gamla Árnasonar á Suðureyri, að vera Magnúsi til aðstoðar við þessi fjöldamorð.[1755]

Sjálfan dreymdi Magnúsi blíðari drauma, að minnsta kosti sumar nætur, og 22. júní 1916 ritar hann svo: Aðfaranótt þessa dags dreymdi mig að ég væri orðinn ungur, um tvítugt, og fríður mjög og hafði ég afarfögur augu, skær og djúp. Hvað þýðir þetta?[1756]

Síðustu tvö árin sem Magnús lifði var heilsa hans oft mjög tæp og örbirgðin þrengdi að honum frá öllum hliðum. Í byrjun desember árið 1914 var svo illa komið að hann neyddist til að ganga hin þungu spor á fund hreppsnefndarinnar og biðja um styrk eða lán úr sveitarsjóði.[1757] Hann var þá 41 árs gamall og hafði aldrei þurft að þiggja af sveit frá því hann um tvítugsaldur náði að rísa á fætur úr sjúkdómskröm æskuáranna. Gömlu sveitarskuldina frá uppvaxtarárunum hafði hann hins vegar ekki náð að borga og varð því ævilangt að sitja á bekk með þurfamönnum sem ekki nutu almennra mannréttinda (sjá hér bls. 148-150). Því hlutskipti hafði oft verið erfitt að una fyrir stoltan og auðsærðan ljóðamann sem ekki mátti vamm sitt vita og kvölin sem fylgdi nýjum ósigri í glímunni við að tryggja sér og sínum fæði og klæði risti djúpt.

Hinu þjakaða alþýðuskáldi færði lífið þó einnig glaðar stundir á þessum síðustu misserum ævinnar og sumir dagar voru bjartari en aðrir. Nokkrar svipmyndir úr dagbókinni sýna þetta.

Þann 15. nóvember 1914 skrifar Magnús: Lá ég veikur í kóleru m.m. Húsfyllir af gestum.[1758] Sex dögum síðar koma þessi orð: Fátækt mín var nú mikil. … Stóð mér stuggur af að segja mig til sveitar en það lá þó næst.[1759]

Einni viku síðar, þann 28. nóvember, minnist hann enn á fátækt sína og segir: Alveg matarlaus mátti ég nú heita upp á jólaföstuinnganginn.[1760]

Beiðnina um sveitarstyrk eða lán úr hreppssjóði afhenti Magnús svo fyrsta dag desembermánaðar og fáum dögum síðar mun hreppsnefndin hafa samþykkt að veita honum lán til lífsbjargar.[1761]

Eins og fyrr var frá greint lánaði Sparisjóður Súgfirðinga Magnúsi 120,- krónur snemma á árinu 1914 (sjá hér bls. 155) og líklega hafa það verið eftirstöðvar af því láni sem hann skuldaði enn þegar líða tók að jólum. Þann 11. desember kemst hann svo að orði: Var ég að stríða við víxilinn, 70,- krónur, er ég hafði fyrir þremur mánuðum síðan tekið í Sparisjóði Súgfirðinga.[1762]

Níu mánuðum síðar var staðan þessi:

 

Nú hafði ég engin ráð að borga það sem eftir var af víxlinum við Sparisjóð Súgfirðinga. Neyddist ég því til að biðja ábyrgðarmennina, Þórð hreppstjóra og Jón formann Einarsson að borga hann fyrir mig og gerðu þeir það fúslega.[1763]

 

Ljóst er að Magnús hefur þó ekki viljað láta standa upp á sig því 10. október 1915 færði hann Þórði Þórðarsyni hreppstjóra 60 bækur, flestar prentaðar, upp í víxilskuldina.[1764]

Hvert markaðsverð þessara bóka var liggur ekki ljóst fyrir en líklegt sýnist að ekki hafi hallað verulega á Þórð í nýnefndum viðskiptum þeirra Magnúsar. Haustið 1936 voru handritadeild Landsbókasafnsins afhentir ýmsir pappírar úr fórum Þórðar sem andast hafði liðlega tveimur áratugum fyrr. Þar fylgdu með sex handskrifaðar bækur sem bera með sér að Magnús Hjaltason hafi átt þær.[1765] Ein þessara bóka er eiginhandarrit Magnúsar af rímum hans af Fjalla-Eyvindi, sem hér voru áður nefndar, en þær orti hann á Grænagarði við Skutulsfjörð árið 1903 og er þess getið í handritinu.[1766]

Í lok ársins 1914 var verslunarskuld Magnúsar Hjaltasonar í útibúi Ásgeirsverslunar á Suðureyri komin upp í 282,- krónur[1767] eða sem svaraði til launa fyrir 1128 vinnustundir, því kaupið var 25 aurar á tímann (sjá hér bls. 137). Þessi skuld var augljóslega hærri en góðu hófi gegndi og hennar vegna neyddist Magnús til þess að leita á náðir hreppsnefndarinnar til að tryggja sér matbjörg. Þann 3. mars 1915 var hann búinn að taka út hjá Ásgeirsverslun í reikning Suðureyrarhrepps fyrir 81,37 kr.[1768] Munnarnir sem Magnús og fylgikona hans þurftu að fæða þennan vetur voru fjórir því tvö börn áttu þau á lífi, bæði í foreldrahúsum[1769] (sbr. hér bls. 154) og í þeim efnum varð engin breyting á árunum 1914-1916.[1770]

Á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri hækkaði verðlag á flestum innfluttum vörum mjög mikið og verð á kolum rauk upp úr öllu valdi. Þann 22. febrúar 1915 ritar Magnús Hjaltason þetta í dagbókina: Kol voru nú komin í 7,- krónur skippundið og varla orðin fáanleg. Móbirgðir hjá bændum er móráð höfðu voru og engar, ekki í Súgandafirði.[1771]

Oft hafði sambúð Magnúsar og fylgikonu hans, Guðrúnar Önnu, verið stirð og e.t.v. sjaldan verri en þennan vetur, 1914-1915, þegar aftur fór að þrengja verulega að í peningasökum. Þann 24. febrúar 1915 skrifar Magnús: Þótt ég hefði nú nokkurn tíma frían frá vinnu gat ég svo sem ekkert ritað, enda daglega neyddur til að hlusta á sífelldan ófrið og matarnudd, svo ég gat aldrei notið mín.[1772]

Tæpum mánuði síðar, undir góulokin, var ástandið orðið enn verra eins og þessi orð Magnúsar sýna: Skaplyndi Guðrúnar fylgikonu minnar var mér nú svo erfitt að víst datt mér í hug að fyrirfara mér.[1773]

En það voru fleiri en Magnús og fjölskylda hans sem höfðu lítið að bíta og brenna á útmánuðum þennan vetur. Til marks um það er m.a. hægt að vísa í það sem Magnús ritar í dagbók sína 11. apríl. Hann segir þar:

 

Eðvald gamli Jónsson í opnum dauða af bjargarskorti en ekki datt efnamönnunum hér á Suðureyri í hug að kalla á eitthvert barnið hans og gefa því að éta, þó ekki hefði verið nema eina máltíð á dag.[1774]

 

Þann 31.12.1914 áttu Eðvald og sambýliskona hans sex börn á aldrinum 3ja – 13 ára sem öll voru heima hjá foreldrunum.[1775]

Dökkt hefur útlitið verið hjá ýmsum þennan vetur en fram skal tekið að í Súgandafirði mun engin manneskja þó hafa fallið úr hor á þeim árum sem Magnús Hjaltason var búsettur á Suðureyri.[1776] Annað mál er það hvort skortur á næringu kynni að hafa flýtt fyrir ævilokum þessa eða hins.

Sumarið 1915 var Magnús Hjaltason býsna oft í vinnu[1777] en svo fátækur sem hann var og skuldum vafinn var tæplega við því að búast að hann gæti leyft sér að kaupa flík á sinn eigin kropp, enda gerði hann það ekki. – Hafði ég enga rýju getað eignast um sumarið, skrifar hann 14. september 1915, og heldur ekki sumarið fyrir og mátti ég nakinn heita.[1778]

Líklegt er að hjartagóðir menn hafi tekið eftir klæðleysi hins sárfátæka ljóðavinar og víst er um það að síðar á þessu sama hausti gaf Guðmundur Geirmundsson, verkamaður á Suðureyri, honum bæði treyju af sér og buxur.[1779] Ýmsir fleiri viku góðu að Magnúsi og þann 8. júlí 1916 lætur hann þess getið að Örnólfur Valdimarsson bókhaldari hafi lánað sér gegn afborgunum smátt og smátt, alklæðnað er kostaði 42,- krónur.[1780] Örnólfur var þá 22ja ára gamall bókhaldari hjá Ásgeirsverslun en gerðist síðar kaupmaður og rak lengi útgerð og verslun á Suðureyri.

Á sveitabýlunum í Súgandafirði átti Magnús líka allvíða vinum að mæta, ekki síst í Bæ hjá þeim Guðmundi Sigurðssyni og Arínu Þórðardóttur sem gáfu skáldinu snauða eina skeppu af jarðeplum haustið 1915 og heilt lamb ári síðar.[1781]

Á Laugum fékk Magnús líka góðar viðtökur. Þangað fór hann snemma í október haustið 1915 að sækja fjórðung af súr og segir svo frá móttökunum: Fékk ég bestu viðtökur og konan þar, húsfreyjan Kristjana Friðbertsdóttir, gaf mér töluvert af soðnu slátri. Var þetta fallega gert þar sem ég átti ekki von á neinu slíku.[1782]

Þriðja nóvember þetta sama haust var nýi íslenski fáninn dreginn upp á Suðureyri í fyrsta sinn og síðar í sama mánuði kom Gullfoss, fyrsta skipið sem Eimskipafélag Íslands eignaðist, til Súgandafjarðar í fyrsta sinn.[1783]

Þegar von var á Gullfossi bað Friðrik Hjartar skólastjóri Magnús að yrkja nokkrar vísur til þessa flaggskips íslensku þjóðarinnar.[1784] Hann brást vel við þeirri beiðni og þegar skipið kom fóru skólastjórinn og fleiri söngmenn um borð og sungu þar hyllingarkvæði þessa örsnauða alþýðuskálds sem hér bjó í fjárhúskofa.[1785] Ýmsir fóru um borð í Gullfoss, þótt veðrið væri slæmt, til að skoða hann, skrifar Magnús, og þótti öllum hann fallegur.[1786]

Síðasta árið sem Magnús Hjaltason náði að halda dagbók minnist hann stundum á sum hinna kunnari skálda þjóðarinnar. Hann hélt mikið upp á Símon Dalaskáld og segir sagan að þeir hafi báðir talað í ljóðum er þeir hittust.[1787] Þá var Magnús 19 ára kramarmaður í Fremri-Breiðadal og lá við hann kvæði Símon í kútinn. – Mig vantar brennivín til þess að yrkja á móti þér, á Símon þá að hafa sagt.[1788]

Um Bólu-Hjálmar var Magnúsi minna gefið og 8. desember 1915 ritar hann á þessa leið:

 

Mér ætlaði að líða að hjarta af svengd og slæmum aðbúnaði. Um kvöldið las ég nýútkomið ljóðasafn eftir Bólu-Hjálmar. … Til er fagurt í kvæðum þessum svo sem þýðing á latnesku kvæði sem er ágæt og Örvar-Oddsríma. En ruddaskapurinn og ókærnin eru svo mikil að úr öllu hófi gengur. Og mikið vandræðaskáld hefur Bólu-Hjálmar verið.[1789]

 

Einlæg aðdáun Magnúsar á Sigurði Breiðfjörð dvínaði ekki þó árin liðu. Dag einn snemma í mars árið 1916 kemst hann svo að orði í dagbókinni: Ég sárveikur og heima til nóns. Tók þá að yrkja kvæði er ég nefndi Sigurður Breiðfjörð.[1790] Og á 70 ára ártíð Breiðfjörðs 21. júlí 1916 skrifar Magnús þetta:

 

Dánardagur Sigurðar Breiðfjörð 1846. Þjóðskammardagur Íslendinga því haft er fyrir satt að Sigurður Breiðfjörð, meistari íslenskrar ljóðsnilldar, hafi dáið í mesta volæði og hluttekningarleysi eða beint úr hungri! og það í höfuðstað landsins.[1791]

 

Sjálfur átti Magnús aðeins fáa mánuði eftir er hann festi þessi orð á blað og vera má að hann hafi ekki aðeins fundið til skyldleika við Breiðfjörð í skáldskapnum heldur líka í því sem varðarði aðbúnað og allar ytri aðstæður.

Vorið og sumarið 1916 var Magnús oft í stritvinnu en heilsa hans var þá orðin bágborin því krabbameinið, sem dró hann til dauða, var að búa um sig í líkamanum.[1792]

Þann 26. mars 1916 lýsir hann heilsufarinu svo: Ég sárslæmur í og frá þvagfærunum. Veturliði H. Guðnason, hinn lækningafróði, ráðlagði mér að rafmagna mig.[1793]

Þrettánda maí á sama ári fáum við þessa lýsingu: Svo var ég nú frá í limunum að það var eins og hvert mitt bein ætlaði sundur að brenna.[1794]

En þótt heilsan væri á þrotum varð hinn veikbyggði fjölskyldufaðir að grípa hverja þá stritvinnu sem í boði var og taka á öllu því sem hann átti til. Þann 16. júní 1916 skrifar Magnús: Ég í vinnu að bera salt í 20 stundir.[1795] Næstu daga var hann alveg frá í höfðinu og bakinu eftir saltburðinn og segir að þetta hafi verið óvanalega stórgert salt og hver poki vegið 155 pund.[1796]

Síðasta dag júnímánaðar þetta sama sumar kveðst Magnús hafa verið allan sólarhringinn í vinnu[1797] en 15. júlí fór hann til læknis vestur á Flateyri.[1798] Hann fór Klofningsheiði vestur en Grímsdalsheiði til baka.[1799] Með honum í þessari ferð til Önundarfjarðar var sonur hans, Einar Skarphéðinn, sem þá var 12 ára, og voru þeir feðgar tólf tíma í ferðalaginu.[1800]

Oft var vinnudagurinn langur hjá Magnúsi sumarið 1916. Þann 26. júlí vann hann í 13 tíma, meðal annars við að vekja upp grjót uppi í hlíð en steinar þessir áttu að fara í túngarðinn ofan við gamla heimatúnið á Suðureyri[1801] og stendur sá garður enn. Þriðja ágúst varð vinnudagurinn 14 stundir í níðslaerfiði fram á reginnótt við uppskipun á kolum.[1802] Þann 21. ágúst var Magnús svo vesæll að hann treysti sér ekki í vinnu en næsta dag vann hann í 13 klukkustundir.[1803] Í septembermánuði vann hann enn fram á nótt suma daga, m.a. í kolum og við að bera níðþungt mýrarhey af skipi.[1804] Í október voru kraftarnir á þrotum en stöku sinnum náði hann þó að komast í vinnu, síðast 24. október og vann þá í sex klukkutíma.[1805]

Magnús Hjaltason var léttur á fæti og mun hafa verið allgóður göngumaður. Veturinn 1910-1911 fór hann 20 ferðir yfir hina ýmsu heiðarvegi milli Skálavíkur, Bolungavíkur, Skutulsfjarðar, Súgandafjarðar og Önundarfjarðar.[1806] Haustið 1916 var hann enn ferðafær og fór þá eina ferð á Ísafjörð og aðra til Flateyrar. Á Ísafjörð fór Magnús fyrir Örnólf Valdimarsson þann 23. september til að kaupa brúðhjónaskó og fleira.[1807] Hann lagði af stað klukkan 3:30 árdegis og kom til baka klukkan 4:15 síðdegis sama dag.[1808] Þessi ferð varð honum erfið því um kvöldið segist hann vera eyðilagður af þrekleysi og þjáningum í öllum kroppnum og einkum kvölum í bakinu svo varla fái hann af sér borið.[1809] Fyrir þessa síðustu ferð sína á Ísafjörð fékk Magnús greiddar fimm krónur.[1810] Eins og fyrr var getið kom hann úr Ísafjarðarferðinni klukkan 4:15 síðdegis. Að kvöldi sama dags voru tvenn brúðhjón gefin saman í heimahúsum á Suðureyri, þau Örnólfur Valdimarsson og Finnborg Kristjánsdóttir og Jón S. Steinþórsson og Helga Kristjánsdóttir[1811] en Finnborg og Helga voru systur.[1812] Vona má að brúðhjónaskórnir sem Magnús bar yfir Botnsheiði hafi passað vel á þá fætur sem þeirra áttu að njóta.

Í sína allra síðustu ferð byggða á milli fór Magnús 14. október þetta sama haust og þá til Flateyrar að sækja meðöl fyrir fylgikonu sína sem var ekki vel frísk[1813] en átti þó langt líf fyrir höndum (sjá hér Bær). Hann fór Klofningsheiði vestur og kom til baka gangandi fyrir Sauðanes sama dag.[1814]Vonaðist enginn eftir mér heim í því veðri, skrifar hann í dagbók sína um kvöldið[1815] og virðist þá vera nokkuð brattur.

Þann 6. ágúst 1916 varð Magnús Hjaltason 43ja ára gamall og átti hann þá aðeins fáa mánuði ólifða. Að kvöldi þessa síðasta afmælisdags var hann að lesa ljóð og segir frá á þessa leið:

 

Seint um kvöldið var ég að lesa Grettisljóð Matthíasar Jochumssonar. Ég grét yfir forlögum Grettis og sjálfs mín því eitt var líkt með okkur. Við vorum báðir dæmdir rangt fyrir sakleysi.[1816]

 

Þó að brátt væru uppi dagarnir átti þessi veiki þjáningabróðir Grettis sterka samt enn nokkrar glaðar stundir fyrir höndum er hann festi þau orð á blað sem hér var síðast vitnað til.

Þann 17. ágúst fékk hann bréf frá rithöfundinum Guðmundi Magnússyni er nefndi sig Jón Trausta.[1817] Þessar línur frá hinum þjóðkunna og vinsæla rithöfundi glöddu viðtakandann því að í bréfinu hrósaði Jón Trausti því sem hann hafði séð af skáldskap Magnúsar og hvatti hann mjög eindregið til þess að halda ritstörfunum áfram.[1818] Jón Trausti var þarna að svara bréfi sem Magnús hafði skrifað honum fyrir stuttu en áður höfðu engin bréf farið þeirra á milli og þeir munu aldrei hafa talast við.[1819]

Á tíunda degi septembermánaðar þetta sama ár fékk Magnús tvær myndir af sér frá ljósmyndasmiðju Björns Pálssonar á Ísafirði.[1820] Myndir þessar höfðu verið teknar árið 1896.[1821] Aðra myndina gaf hann nú Gunnari M. Magnúss, ungum vini sínum á Suðureyri, en hina sendi hann Jóni Trausta[1822] og skrifaði honum þá annað bréf sem enn er varðveitt.[1823] Það bréf er dagsett 17. september 1916 og í því kemst Magnús meðal annars svo að orði:

 

Nú sendi ég yður mynd af mér. Hún er tekin fyrir 20 árum þegar ég var 23ja ára gamall. … Nú er ég orðinn breyttur með alskegg en augun eru þó söm og svipurinn.[1824]

 

Í þessu sama bréfi sjáum við líka að síðasta sumarið sem Magnús lifði lét hann hvarfla að sér að flytjast til Reykjavíkur. Um það vitna þau orð úr bréfinu sem hér fara á eftir:

 

Ætli ég gæti ekki komist að neinu þarna í Reykjavík sem er nær mínu hæfi að stunda en þetta herjans strit og basl við lítið kaup (35 aura á stundina) í daglaunavinnu hér? Gæti ég til dæmis verið við blaðaafgreiðslu, aðstoðarmaður við bókasöfn, Þjóðminjasafnið og fleira … Viljið þér hafa mig í huga, líta til hvort þér sjáið nokkuð heppilegt sem ég gæti komist að? [1825]

 

Í septemberbréfinu til Jóns Trausta minnist Magnús líka á handrit sín og kveðst hafa hug á að tryggja þeim varanlegan samastað að sér látnum. Um áform sín ritar hann svo:

 

Óheppilegt er það, svo gamall sem ég er orðinn, margt margt, að ráðstafa ekkert ritverkum mínum til að koma í veg fyrir að þau færu á ringulreið þegar ég er allur. Mér hefur dottið í hug að skrifa Stjórnarráðinu eða þá Alþingi og benda því á að ég myndi svo ákveða að skrif mín lentu í Landsskjalasafninu eða Landsbókasafninu – og það hef ég fyrir löngu ákveðið með sjálfum mér og skrifað að svo skuli verða – en enn hef ég ekki gert það. Hvernig finnst yður heppilegast að ég sneri mér í þessu? [1826]

 

Síðasta haustið sem Magnús Hjaltason hjarði skrifar hann þetta í dagbók sína 14. september: Keypti ég glugga nýjan, líkkistugengan, í húskofann minn. Kostaði hann með rúðunum 13,- krónur.[1827]

Þegar hér var komið sögu hefur Magnús að líkindum grunað að skammt væri í endalokin og hefur því viljað búa svo um hnútana að unnt yrði að hefja hann út í kistu þegar þar að kæmi. Kaupin á þessum stóra glugga benda til þess að kofadyrnar hafi ekki verið líkkistugengar.

Eitt af því sem Magnús orti síðasta árið sem hann lifði var kvæði til minningar um Símon Dalaskáld sem andaðist norður í Skagafirði 12. mars 1916.[1828] Erfiljóð um Símon eftir Gísla Ólafsson frá Eiríksstöðum birtist í blaðinu Ísafold haustið 1916 og þótti Magnúsi mikið til þess koma eins og sjá má í dagbókarskrifum hans frá 8. október á því ári.[1829] Og næsta dag skrifar hann þetta í dagbókina: Skrifaði ég upp vísur þær er ég orti, 9 tals, eftir Símon Dalaskáld fyrir Kristjönu Friðbertsdóttur, húsfreyju á Laugum, og reit henni bréf með.[1830] Þessar sömu vísur lét Magnús einnig fylgja bréfinu sem hann ritaði Jóni Trausta þremur vikum fyrr svo þær eru nú í góðri vörslu í Landsbókasafni.[1831]

Með því síðasta sem Magnús Hjaltason orti voru afmælisvísur til Guðna Alberts Guðnasonar, yngismanns á Suðureyri, og kvæði í tilefni af tíu ára afmæli Íþróttafélagsins Stefnis.[1832] Guðni, sem varð kunnur glímumaður, var einn af vinum Magnúsar er lætur þess getið í dagbók sinni frá vorinu 1916 að þessi ungi piltur hafi gefið sér tíu krónur og tekur fram að þetta hafi verið áheit, ef hann fengi 300,- króna hlut yfir góuna.[1833] Þann 17. október um haustið var Guðni 21 árs gamall og orti Magnús þá til hans níu vísur.[1834] Fáum dögum síðar var haldið upp á tíu ára afmæli Íþróttafélagsins Stefnis á Suðureyri og var Magnús fenginn til að yrkja kvæði af því tilefni.[1835] Hann greinir frá afmælishátíðinni í dagbók sinni, getur þar um snilldarlega ræðu Friðberts Friðbertssonar, hreppsnefndaroddvita, fyrir minni Íslands og segir: Sungið kvæði það er ég hafði ort … var því vel tekið með lófaklappi miklu.[1836]

Er leið á október haustið 1916 hallaði ört undan fæti hjá Magnúsi en svo virðist sem fylgikonan hafi þó enn talið hann kvennýtan því um miðjan þann mánuð skrifar hann þetta í dagbókina: Geðríki hennar og tryllingsskapur – hræðsla svokölluð um mig fyrir öðru kvenfólki og framúrskarandi ádeilur á annan hátt gengu svo vítt að engin tök voru á að búa við slíkt.[1837]

Sex dögum síðar lýsir Magnús aðstæðum þeirra svo: Hörmulega leit út með bjargræði sem fyrr. Reyndar átti ég ögn af mjöli en ég var líka allslaus af öðru, kolalaus, olíulaus o.s.frv.[1838]

Og nú fór banalegan í hönd. Þann 24. október fór hann síðast í vinnu eins og fyrr var getið en skrifar tveimur dögum síðar: Ég var nú gagntekinn af beinkvöl í öllum kroppnum svo og af hósta.[1839]

Þann 28. október staulaðist Magnús út í Vatnadal og keypti þar einn hestburð af mó fyrir 2,50 kr.[1840] Mun það hafa verið síðasta ferð hans á aðra bæi.[1841]

Aðfaranótt 30. október vakti hinn þjakaði ljóðasmiður og var að yrkja nokkur vers sem hann gaf nafnið Andvaka.[1842] Þann 1. nóvember lá Magnús dauðveikur í fleti sínu[1843] og næstu daga skrifar hann m.a. þetta í dagbók sína:

 

 1. nóvember. Hafi nokkur maður í minni stöðu reynt þjáningar og mótgang þá er það ég.[1844]

 

 1. nóvember. Ég eins dauðveikur. Sótti Hermann Flóventsson, lausamaður hér og þjónustumaður Guðrúnar, fylgikonu minnar, mópoka fyrir mig út í Stöð.[1845]

 

 1. nóvember. Ég ófær af þjáningum sem fyrr. Hitinn afskaplegur nótt eftir nótt, kölduflog þess á milli og óreglulegur svefn. Ég hafði og afarslæmt legurúm. Og nú svarf allt annað að: Næringarskortur, eldiviðarleysi og vöntun á öðrum nauðsynjum. … Nýlega réðist skrímsli á mann í Hnífsdal.[1846]

 

Þennan dag komu þrír hreppsnefndarmenn heim til Magnúsar og skoðuðu vistaforða þeirra Guðrúnar.[1847]

Þann 11. nóvember skrifaði Magnús lýsingu á sjúkleika sínum og beiddi Friðbert [Friðbertsson] hreppsnefndaroddvita að símtala hana til læknis.[1848] Þremur dögum síðar kom símskeyti frá Halldóri Georg Stefánssyni, lækni á Flateyri, sem ráðlagði Magnúsi að laxera og hafa heita bakstra við verkinn sem jafnan var fastur vinstra megin við hrygginn.[1849] Varla munu þessi læknisráð hafa komið að miklu gangi. Næstu daga skrifar sjúklingurinn þetta:

 

 1. nóvember. Ég dróst í fötin en gat ekki staðið vegna höfuðþjáninga, svima, og að öðru leyti var máttleysið afskaplegt, sárindi og aumingjaskapur.[1850]

 

 1. nóvember. Ég dróst í fötin og fór út fyrir dyrnar og nú gat ég hnerrað en það var jafnan talið bataboði.[1851]

 

 1. nóvember. Ég skramlaðist út á hlaðið með kvölum.[1852]

 

 1. nóvember. Ég fór á fætur og rjátlaði ögn úti. Ég hafði nú verið eldiviðarlaus í tvo daga og ómögulegt að elda mat, hvað heldur að hita upp á annan hátt. Hafði ég tvívegis skrifað hreppsnefndinni seðil og beðið hana um 80 pund af kolum en hún hafði enn engu svarað mér. Nú er komið var langt á vöku, klukkan nærri 8, hripaði ég Þórði hreppstjóra nokkur orð. Hann sendi mér fötu fulla af kolum og bréf hlýlegt mjög. – Kom landpóstur og fór.[1853]

 

Kom landpóstur og fór. Það urðu síðustu orðin í dagbók Magnúsar Hjaltasonar sem hann hafði haldið í nær 24 ár. Enn varð hann að bíða dauðans í sex vikur, ófær til allra skrifta, en fékk loks hvíldina þann 30. desember.[1854] Banameinið var krabbamein í maga.[1855]

Þann 8. janúar 1917 var Magnús jarðsettur að Stað í Súgandafirði[1856] og hinn 25. ágúst á því ári voru allar eignir dánarbúsins boðnar upp, þar á meðal dagbækurnar og allt sem þetta fátæka alþýðuskáld hafði skrifað.[1857] Á uppboðinu fengust 190,- krónur fyrir húskofann Þröm og 166,95 krónur fyrir annað sem upp var boðið.[1858] Að viðbættum tæplega 40,- krónum í peningum, sem Magnús reyndist hafa átt, nægði þetta til að borga allar skuldir dánarbúsins við Suðureyrarhrepp en þær námu að meðtöldum útfarar- og uppboðskostnaði 372,65 krónum.[1859]

Frá Suðureyrarhreppi fékk Magnús því engan eyri í styrk, aðeins lán sem að lokum var endurgreitt að fullu.

Á uppboðinu sem haldið var 25. ágúst 1917 var öllum handritum Magnúsar Hjaltasonar tvístrað, þar á meðal dagbókinni, sem er í 19 bindum,[1860] því kaupendurnir voru margir. Allmörgum árum síðar hófst Gunnar M. Magnúss rithöfundur handa við að safna bókunum saman á ný og stóð Halldór Guðmundsson, verkamaður á Suðureyri, með honum að því verki[1861] en báðir höfðu þeir verið vinir Magnúsar. Þeim félögum tókst að ná öllum dagbókarbindunum og líka ýmsum öðrum handritum og var allt sem til náðist afhent Landsbókasafni Íslands eins og Magnús hafði sjálfur mælt fyrir um.[1862] Hversu vel tókst til við að safna handritum hans saman á ný er reyndar býsna merkilegt og engu líkara en hulinn verndarkraftur hafi gætt þessara skrifuðu blaða á árunum sem þau lágu tvístruð í misjafnri vörslu. Annað mál er svo hitt að framtak þeirra Gunnars og Halldórs við að bjarga ritum Magnúsar frá glötun mun seint verða þakkað að fullu.

 

– – – – –

 

Í þessu riti hefur áður verð gerð nokkur grein fyrir nánasta umhverfi Suðureyrar (sjá hér bls. 1-7, bls. 83-87 og 98-103) en nú er ætlunin að ganga um landareign þessarar fornu bújarðar. Þá göngu hefjum við hjá minnisvarðanum um Magnús Hjaltason (sjá hér bls. 157) og förum fyrst upp á Hjallana ofan við utanverðar Suðureyrarmalir en flatlendið þar uppi nær alveg út á móts við Brimnes sem er um það bil 600 metrum utan við ystu húsin í þorpinu. Á Hjöllunum var áður mikið og gott slægjuland en nú (1996) er hér flugvöllur sem reyndar er hætt að nota og innan við hann þó nokkur íbúðarhús sem reist hafa verið á síðustu áratugum. Umbreytingin frá því sem áður var er því mikil og graslendið að mestu horfið.

Ysti hluti flatlendisins á Hjöllunum heitir Hjallendar[1863] og ná þeir út á þverhnípta kletta í fjallinu Spilli, skammt utan við Brimnes. Upp af Hjallendum er Spillisrönd. Hún er skörp og skilur að klettaþil Spillisins og hlíðina sem nær út að röndinni.[1864] Spillisrönd er utan og ofan við Hjalla en í hlíðinni innan við hana eru nokkrir hjallar sem vert er að skoða. Sá neðsti heitir Nautahjalli og liggur inn hlíðina ofan til við sjálfa Hjallana sem fyrr voru nefndir.[1865] Hann er vel gróinn og neðan við hann eru engir klettar. Þessi hjalli nær út undir Spillisröndina en þó ekki alveg að henni. Hann liggur í hæð sem er um það bil miðja vega milli Hjallanna og Vallahjalla sem er næsti hjalli fyrir ofan. Innri endi Nautahjalla er rétt fyrir utan Nautalág[1866] sem er um það bil miðja vega milli Brimness og Stekkjarness. Nýnefnd lág nær frá flatlendinu á Hjöllunum og rétt upp fyrir Nautahjalla en sá hjalli er reyndar lítt áberandi því hann vantar skarpar útlínur.

Næsti hjalli fyrir ofan Nautahjalla heitir Vallahjalli og er klettahjalli með grasflöt á.[1867] Hann nær alveg út í Spillisrönd og frá honum liggur þræðingur sem færir klettamenn gátu farið og komist þannig út í Völlur sem er graslendi í miðjum Spillinum.[1868] Þessi þræðingur heitir Gangur.[1869] Inn á við nær Vallahjalli skemmra en Nautahjalli.

Ofan við Vallahjalla eru tveir hjallar sem heita Neðri- og Efri-Hríshjalli.[1870] Ná þeir báðir út í Spillisrönd. Nöfnin sýna að hér hefur áður verið skóglendi. Efri-Hríshjalli er mun breiðari en sá neðri og uppi á honum er lynggróður áberandi. Á Efri-Hríshjalla er leiðin frá Hjöllunum og upp á Háls hálfnuð. Yfir nýnefndan Háls liggur nú (1996) raflína úr Staðardal til Suðureyrar, rétt innan við brún klettaveggsins sem fjallið Spillir snýr í átt til hafs.

Innan við Háls hækkar landið og við tekur alllangur fjallsrani sem teygist frá Breiðafjalli, fjallinu fyrir ofan Suðureyri (sjá hér bls. 6 og 171), í átt til hafs. Þessi fjallsrani heitir Stefnir. Svo virðist sem nöfnin Stefnir og Breiðafjall hafi þó þokað nokkuð til hliðar á síðustu fimmtíu árum hjá heimafólki á Suðureyri og það svo að ýmsir láta hið góða nafn Spillir ná yfir allt fjalllendið ofan við Suðureyri. Slíkt orðafar er þó fjarri öllu lagi vilji menn halda tryggð við gamalgróin örnefni. Í örnefnalýsingu sinni frá árinu 1949 segir Kristján G. Þorvaldsson að Spillirinn sé mest þverhníptir hamrar[1871] og á þá greinilega aðeins við fjallið sem snýr sínum þverhníptu hamraveggjum til hafs en fyrir það liggur leiðin frá Suðureyri út í Staðardal. Spillir heitir fjallið innan við Staðardal, segir Kristján á öðrum stað[1872] og bendir sú staðhæfing hans til þess að á fyrri hluta 20. aldar hafi Spillirinn aðeins verið talinn ná frá Spillisrönd ofan við Brimnes í landi Suðureyrar að Spillisrönd ofan við Stöð í landi Bæjar. Sú skilgreining kemur líka alveg heim við orðafar í bréfi frá árinu 1471 en þar segir að landamerkin milli Suðureyrar og Bæjar liggi út á Sauðaspilli sem hæstur er og þar að sjónhending til sjóar.[1873] Merking þessara orða hlýtur að vera sú að landamerkin liggi frá hæstu brún Sauðaspillis, sem nú er aðeins nefndur Spillir, og þaðan í beinni línu til sjávar. Er þá greinilega átt við fjallsbrúnina utan við Háls en ekki við brún Stefnis eða Breiðafjalls sem liggja innar og hærra.

Hér var áður frá því greint að fjallsraninn, sem gengur frá Breiðafjalli í átt til hafs, heiti Stefnir og þess jafnframt getið að hjá mörgum núlifandi Súgfirðingum væri þetta gamla nafn fallið í gleymsku. Tveir marktækir vitnisburðir er sýna að nafnið var notað á fyrri hluta tuttugustu aldar liggja þó fyrir. Guðmundur Ibsen, sem fæddist á Suðureyri árið 1926 og ólst þar upp, mundi glöggt vorið 1996 að í æsku sinni hefði fjallshryggur þessi verið nefndur Stefnir og kvaðst alla tíð hafa talið að þaðan væri komið nafnið á Íþróttafélaginu Stefni á Suðureyri.[1874] Það félag var stofnað árið 1906 og starfar enn.[1875] Guðni Ólafsson, sem fæddist á Suðureyri árið 1916 og átti heima í Súgandafirði allt til ársins 1994, kunni líka frá því að segja árið 1996 að í sínu ungdæmi hefði oft verið talað um að fara upp á Stefni þegar gengið var til fjalls frá Suðureyri[1876] og eru vitnin þá orðin tvö, bæði prýðilega marktæk.

Meginástæðan fyrir því að Stefnisnafnið hefur fallið í gleymsku hjá mörgum mun vera sú að frá Suðureyri sést aðeins lítill partur af þessum fjallsrana þar eð Ufsirnar, sem liggja svolítið neðar, skyggja á. Sé farið á báti út í fjarðarmynnið sést Stefnir hins vegar mjög vel og líkist reyndar stefni á skipi frá ákveðnu sjónarhorni. Frá öðru sjónarhorni gæti fjallsrani þessi hins vegar minnt á bát á hvolfi. Vel má því vera að upphaflega nafnið hafi verið Stefni en það hafi síðan breyst í Stefnir. Um slíkt er þó ekkert hægt að fullyrða.

Frá fjallshryggnum Stefni er auðvelt að ganga upp á Breiðafjall sem hann er tengdur við. Það liggur innar og er svolítið hærra. Frá Breiðafjalli snúum við til baka niður á Hjallana ofan við Suðureyrarmalir þar sem nú er flugvöllur en fyrrum voru grösugar engjar.

Ysta slægjulandið á Hjöllunum voru Kjóamýrar og náðu þær út undir Hjallenda en innan við þær tók við Grafapartur.[1877] Klettarnir ofan við Kjóamýrar og Grafapart heita Kerlingarklettar.[1878] Innan við Grafapart var Sjónarhólshryggur og náði hann niður á Sjónarhól sem var á hjallabrúninni upp af Stekkjarnesi[1879] en svo heitir nesið rétt utan við ystu íbúðarhúsin á Suðureyri. Frá Sjónarhól sást vel til hafs og þangað fóru sjómenn oft og einatt á fyrri tíð að gá til veðurs.[1880] Nú er Sjónarhóll horfinn og mun hafa verið sléttaður út fyrir allmörgum árum þegar hafist var handa við gerð flugvallar hér á Hjöllunum. Innan við Sjónarhólshrygg var Flagapartur og fyrir neðan hann Skónálarlág.[1881] Ytri endinn á láginni var reyndar neðan við Sjónarhól og þaðan lá hún í stefnuna inn og upp.[1882]

Einar Jónsson, sem á árunum 1887-1908 var lengst af húsmaður eða vinnumaður á Suðureyri, nefnir einn engjablettinn úti á Hjöllum Fífupart í dagbók frá sumrinu 1889 (sjá hér bls. 77) og kynni það að hafa verið annað nafn á Grafaparti sem hér var nefndur. Einar talar líka um Sjónarhólspart og Sjónarhólspartslág (sjá hér bls. 77-79) en ætla má að lágin sem hann kennir við Sjónarhól sé sú sama og annars staðar er nefnd Skónálarlág.

Hjallarnir ofan við Suðureyrarmalir ná inn á móts við Malarodda.[1883] Innst á þeim er Skothúspartur og dregur nafn af skothúsi sem var á barði innan við hann.[1884] Þar var legið fyrir tófu.[1885] Litlu innar er Langalaut sem nær alveg niður á láglendi.[1886] Innan við hana og í svipaðri hæð og Hjallarnir er hár og brattur hóll sem nú hefur lengi verið nefndur Skothóll.[1887] Líklegt er að það nafn sé gamalt. Kristján G. Þorvaldsson segir þó í örnefnalýsingu sinni að á fyrstu árum tuttugustu aldar hafi menn farið að nefna hól þennan Brennuhól[1888] en á þeim árum og talsvert fram yfir miðja öldina voru jafnan haldnar þar áramótabrennur.[1889] Innan við Skothól (Brennuhól) er annar hóll í álíka hæð og heitir hann Skollhóll.[1890]

Kristján G. Þorvaldsson segir í ritgerð sinni frá árinu 1949 að aldamótabrennan 31. desember 1900 hafi verið neðan við ytri hólinn en það er líklega ekki alveg rétt því að í góðri samtímaheimild er hún sögð hafa verið neðan við Skollhól.[1891] Hugsanlegt er þó að hér hafi orðið einhver ruglingur á nöfnum því hólarnir tveir eru mjög líkir og nöfnin Skothóll og Skollhóll nokkuð áþekk.

Einar Jónsson, sem átti heima á Suðureyri árið 1900, segir frá aldamótabrennunni í dagbók sinni og ritar þar á þessa leið:

 

Hvass suðaustan og norðan en heiglubjartur fram undir kveld. Þá setti hann austnorðan moldbyl svo ekki sá yfrum. 3ja – 2ja stiga frost.

… Jón minn [Einarsson], Þórður hérna [Þórðarson], Friðbert [Guðmundsson], Jón Þorbjarnarson og Halldór [B.Friðriksson] voru að búa til fyrir neðan hann Skollhól það sem á að brenna í kveld: Þrjú brauðföt, þrjár tjörutunnur, marga tóma sykurkassa, hrís, kol og ýmislegt. Það voru þrjár og hálf tunna á hæð. Þrjú föt eða tunnur voru í undirlaginu. Svo var hlaðið þar ofan á. Klukkan fimm og hálf var kveikt í efstu tunnunni og svo smáhellt í fimm pottum af olíu. Það var að brenna í einn og hálfan tíma. Það voru líka skotin sjö skot.[1892]

 

Vera má að aldamótabrennan, sem hér var frá sagt, hafi verið fyrsta áramótabrenna sem efnt var til á Suðureyri og líklegt að menn hafi fært sig með brennuna upp á Skothól strax á næsta ári því þar var víðsýnna.[1893] Á árunum 1911-1916 var Magnús Hjaltason stundum á rölti hér uppi í hlíðinni og í dagbók sinni greinir hann frá því að í neðstu hillu klettanna, beint upp af Skollhól, sé níu álna löng hola og geti fimm ára barn skriðið þar inn.[1894]

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir helstu kennileitum í hlíð og fjalli ofan við Suðureyri og Suðureyrarmalir (sjá hér bls. 6-7) og verður ekki endurtekið. Næst liggur því fyrir að rölta sem leið liggur út fjörur að hinum ytri landamerkjum Suðureyrar undir fjallinu Spilli. Þá göngu hefjum við á Stekkjarnesi, rétt utan við Malirnar. Snemma á 19. öld voru tvær verbúðir á Stekkjarnesi (sjá hér bls. 86-87 og 90-91) en munu fyrir löngu hafa verið fallnar í tótt þegar Hallbjörn Oddsson reisti þar íbúðarskúr árið 1913.[1895] Skömmu síðar stækkaði hann íbúðarhúsnæði sitt á Stekkjarnesinu með því að innrétta heyhlöðu sem var áföst við nýnefndan skúr.[1896] Húsið sem stóð rétt ofan við götuna var endurbyggt af nýjum eiganda árið 1927 en rifið 23. júlí 1987 [1897] og hafði þá í 74 ár verið ysta íbúðarhúsið í þorpinu. Frá Stekkjarnesi fylgjum við akveginum, sem liggur rétt ofan við fjöruna, en á vinstri hönd er brött brekka sem nær frá vegkantinum að brún Hjallanna sem fyrr voru nefndir. Um það bil 500 metrum utan við Stekkjarnes er (1996) hafskipabryggja Súgfirðinga, brimbrjótur sem byggður var á árunum 1938-1958,[1898] og alveg rétt utan við hann er Brimnes.[1899] Þar taka við Spillisfjörur, kenndar við klettafjallið Spilli sem gengur snarbratt í sjó fram að kalla allt frá Brimnesi og út í Stöð, er hér hefur áður verið nefnd (sjá Bær), en hún er í landi Bæjar, um það bil einum kílómetra fyrir utan Brimnes. Hér ofan við Fjörurnar snýr Spillirinn sínum dökku hamraveggjum til hafs og er heldur ófrýnn á að líta því að fjallið er nær gróðurlaust.

Í skjali frá árinu 1471 er Spillirinn nefndur Sauðaspillir[1900] og verður því að telja mjög líklegt að það sé hið upphaflega nafn en fyrri liður þess hafi fallið brott um eða eftir 1500. Þetta gamla heiti minnir á annað fjall hér í grennd, það er að segja Sauðanes sem gengur í sjó fram yst við Súgandafjörð vestanverðan. Sauðanes og Sauðaspillir en milli þeirra liggur Staðardalur. Fullvíst má telja að fjallið Sauðanes hafi verið nefnt svo vegna hinnar góðu fjárbeitar sem þar er í boði en nafnið Sauðaspillir kynni að eiga rætur að rekja til þess að fé hafi hrapað til dauða í sjálfu fjallinu eða fjárskaðar orðið á Spillisfjörum þar sem brim gekk tíðum upp í kletta. Hér er ekkert undirlendi og ætíð nokkur hætta á steinkasti úr fjallinu, skriðum eða snjóflóðum. Í miklu hafróti gat leiðin svo orðið illfær eða jafnvel ófær um sinn vegna brims. Samt var þetta kirkjuvegur flestra Súgfirðinga frá því á 11. eða 12. öld. Oft mun hurð hafa skollið nærri hælum og kunnugt er um ýmsar slysfarir (sjá hér bls. 175-179) en engin banaslys munu hafa orðið á þessari leið á tímaskeiðinu frá 1784 til 1999.[1901] Um fyrri tíma skortir heimildir.

Séra Andrés Hjaltason, sem var prestur á Stað í Súgandafirði frá 1839 til 1849 (sjá hér Staður), segir um leiðina undir Spilli að þar sé:  … illur vegur yfirferðar og allhættulegur, bæði af snjóskriðum um vetur og aurskriðum um sumar sem og brimum á aðra síðuna, þá sjóargangur er.[1902]

Á fyrri tíð mun fjöruleiðin undir Spilli jafnan hafa verið rudd á vorin og í gögnum Suðureyrarhrepps frá árinu 1890 segir að til þess verji Súgfirðingar að minnsta kosti 7-8 dagsverkum á ári hverju (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Ugglaust hafa dagsverkin stundum verið fleiri og má sem dæmi nefna að 26. júní 1899 voru 14 menn að ryðja Fjörurnar.[1903] Á þessari gömlu fjöruleið undir Spilli munu engar umtalsverðar breytingar hafa orðið fyrr en akfær bílvegur var lagður sumarið 1948. Á honum hafa oft orðið miklar skemmdir vegna ágangs sjávar en fær er hann þó öllum bílum að jafnaði.

Skammt utan við Brimnes, sem áður var nefnt, skerst dálítil vík inn í sjávarströndina og heitir hún Langavík.[1904] Í henni voru slæmar klappir og slæmt að komast yfir þegar brimið gekk upp í kletta.[1905]

Í Lönguvík skulum við líta til baka stutta stund því þaðan er gott að virða fyrir sér Kerlinguna sem svo heitir en það er steindrangur inn og upp af víkinni, neðarlega í fjallinu.[1906] Annar drangur, sem menn nefndu Karl, var þar skammt frá en er nú hruninn.[1907]

Nesið utan við Lönguvík heitir Vallanes.[1908] Ofan við það er bratt graslendi, um það bil í miðjum Spilli, og heitir Völlur.[1909] Landamerki Suðureyrar á móti jörðinni Bæ í Staðardal voru að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar löngum talin vera á Vallanesi[1910] en í þinglýstri landamerkjalýsingu frá því um 1890 eru þau sögð vera klettur fyrir innan Kýrnes [1911] en það er lítið nes skammt utan við Vallanes[1912] (sbr. hér Bær). Í skjali frá árinu 1471 eru þessi sömu landamerki sögð liggja út á Sauðaspilli sem hæstur er og þar að sjónhending til sjóar.[1913]

Rétt utan við Kýrnes er Stöðin, hin forna veiðistöð í landi Bæjar, og ofan við hana Spillisrönd hin ytri. Þar skiptir um svið því við Röndina sveigja klettaþil fjallsins frá sjó og þar opnast Staðardalur. Í Stöðinni höfum við áður staldrað við (sjá hér Bær) og gerum þar nú stuttan stans en snúum síðan við og göngum sömu leið til baka inn á Suðureyri.

Í Lönguvík nemum við staðar, horfum inn á Brimnesið og rifjum upp nokkrar sögur af slysförum hér undir Spilli.

Þann 29. september 1914 fannst drengur á níunda ári mjög alvarlega slasaður skammt fyrir utan Brimnes.[1914] Hann hét Guðmundur Torfason og átti heima á Suðureyri.[1915] Í dagbók sinni segir Magnús Hjaltason svo frá þessum atburði:

 

Hæglátt með kafaldsbleytu stundum. Guðmundur Torfason, um 9 ára gamall, til heimilis á Suðureyri í Súgandafirði, slasaðist undir Spillinum voðalega mikið, fannst alblóðugur og sundurflakandi fyrir utan Brimnesið. Varð að bera hann heim. Húðin var öll af ofan á höfðinu, ofan undir augu, og hægri handleggurinn allur sundurtættur svo að sást inn í bein og stóðu æðastúfarnir út úr. Hann var og viðbeinsbrotin.

Ýmsum getum var að því leitt hvernig drengurinn hefði slasast svo en til þess mun ástæðan hafa verið ein, sú að hann hefur orðið fyrir ofanfalli (grjóti). „Gummi” litli var sonur Torfa formanns Guðmundssonar í Bolungavík og Kristínar Jónsdóttur á Suðureyri (úr Ytri-Skálavík), barnamóður Magnúsar Helgasonar á Suðureyri í Súgandafirði.[1916]

 

Magnús átti sjálfur heima á Suðureyri haustið 1914 svo ætla má að frásögn hans sé trúverðug.

Tveimur dögum síðar skrifar hann: Gummi litli Torfason, sá er slasaðist undir Spillinum, fluttur vestur á Þingeyri á sjúkrahúsið þar.[1917]

Á Þingeyri var drengurinn nokkuð á sjötta mánuð en frá heimkomu hans 9. mars 1915 segir Magnús Hjaltason með þessum orðum:

 

Guðmundur litli Torfason, er slasaðist undir Spillinum um haustið, var fluttur heim til sín þennan dag, hingað að Suðureyri. Hafði fengið albata – að því er talið var – á höfðinu en hægri handleggurinn var máttlaus.[1918]

 

Seinna var þessi máttvana handleggur tekinn af fyrir ofan olnboga.[1919]

Móðir Guðmundar Torfasonar, Kristín G. Jónsdóttir, bjó haustið 1914 með Magnúsi nokkrum Helgasyni og með honum hafði hún eignast þrjár dætur en Guðmundur var fjórða barnið á heimili þeirra.[1920] Þetta var fátæk fjölskylda sem ekki réð við að greiða kostnað af langri dvöl piltsins á sjúkrahúsinu á Þingeyri.[1921] Kostnaður við sjúkrahúsleguna nam a.m.k. 217,16 kr. og varð Kristín að leita á náðir hreppsnefndar Suðureyrarhrepps um borgun.[1922] Reikningana frá sjúkrahúsinu mun hreppsnefndin hafa greitt[1923] en þar með var þessi fjögra barna móðir orðin þurfalingur og sumarið 1916 voru Kristín og börn hennar þrjú flutt fátækraflutningi norður í Bolungavík því þau voru sveitlæg í Hólshreppi.[1924]

Drengurinn sem slasaðist undir Spilli haustið 1914 og missti annan handlegginn náði engu að síður að komast til manns. Á æskuárum átti hann um skeið heima á Hamri á Langadalsströnd við Djúp en fór svo á Loftskeytaskólann í Reykjavík og var loftskeytamaður á ýmsum skipum fram yfir fertugt en síðan innheimtumaður í Reykjavík.[1925] Guðmundur Torfason andaðist 23. mars 1994 og var þá orðinn 88 ára gamall.[1926]

Slysið sem nú hefur verið sagt frá er það alvarlegasta sem kunnugt er um að orðið hafi hér á Fjörunum. Þann 27. febrúar 1916 munaði hins vegar litlu að illa færi. Þann dag voru fjórar manneskjur frá Bæ á leið heim til sín og fóru sem leið lá út Fjörur.[1927] Frá ferð þeirra segir Magnús Hjaltason svo:

 

Guðfinnur Guðmundsson (bónda í Bæ Sigurðssonar og Arínu Þórðardóttur) var á ferð innan frá Suðureyri daginn fyrir og kvenmenn, systur Guðfinns (tvíburar) tvær, um 11 ára gamlar, og vinnukona foreldra hans, María ekkja Maríasdóttir. Fóru þau venjulega leið út Fjörur. En er þau komu út í Lönguvík svonefnda hljóp hengja niður yfir Guðfinn og kaffærði hann. Stúlkurnar voru eitthvað seinni og gátu því hörfað frá. Grófu þær síðan Guðfinn upp og var hann ómeiddur en máttdreginn mjög.[1928]

 

Þegar Guðfinnur lenti í þessum háska var hann sautján ára gamall en María, sem hér kemur við sögu, var á sextugsaldri.[1929] Tvíburasysturnar sem voru 11 ára hétu Guðríður og Sigurlína.[1930]

Þegar allmörg ár voru liðin frá þeim atburði sem hér var síðast sagt frá lenti Örnólfur Jóhannesson, verkamaður á Suðureyri, í snjóflóði á Spillisfjörum og var honum bjargað á síðustu stundu frá bráðum bana.[1931] Það var á árunum kringum 1925 sem Örnólfur lenti í snjóflóðinu[1932] en hann var þá á fimmtugsaldri. Á þessum árum átti hann um 20 kindur og heyjaði fyrir þær í Bæ.[1933] Mest af heyinu flutti hann inn að Suðureyri áður en vetur gekk í garð en það sem eftir varð sótti hann þegar líða tók á veturinn og bar á herðum sér[1934] þessa þriggja kílómetra löngu leið. Í slíkri ferð var Örnólfur þegar minnstu munaði að snjóflóð yrði honum að bana.[1935] Þetta var á útmánuðum og mikill snjór í Spillinum.[1936] Örnólfur var á heimleið utan úr Bæ um miðjan dag og bar tvo stóra heyballa.[1937] Byrðinni og umbúnaði hennar lýsir tengdasonur Örnólfs, Óskar Þórðarson frá Haga, svo:

 

Byrði hans var þannig útbúin að heyinu var troðið í tvo stóra poka eða balla eins og þeir voru kallaðir. Eins fast var í þá troðið sem auðið var og var byrðin því þung og óhæg vegna fyrirferðar. Ballarnir voru bundnir saman með reipi um miðjuna og reipinu síðan smeygt yfir höfuð burðarmannsins og þunginn látinn hvíla á öxlum hans og herðum.[1938]

 

Þegar Örnólfur kom inn á Vallanes, sem er rétt fyrir utan Lönguvík, féll snjóflóðið á hann.[1939] Barst hann með flóðinu fram á sker og sat þar fastur því snjórinn þrengdi að honum og engin leið að losa sig við heyballana.[1940] Hann var þó lítið meiddur og gat dregið andann því höfuðið stóð upp úr snjófarginu.[1941] Engu að síður vofði yfir honum bráður háski því ljóst var að skerið sem hann sat fastur á færi í kaf á aðfallinu, innan fárra klukkustunda, og ekki von neinna mannaferða um Fjörurnar fyrir þann tíma.[1942]

Hundur Örnólfs, tíkin Sokkatá, var í för með húsbónda sínum og ekki hafði hann setið fastur í snjónum nema skamma stund er hann sá hana krafsa sig upp úr fannbreiðunni. Tíkin var blóðug á fótum og hölt en kom þó strax til Örnólfs og lét vel að honum.[1943] Bað hann nú kvikindið að fara þegar í stað inn á Suðureyri svo fólki yrði ljóst að hann þyrfti hjálpar við.[1944] Svo virtist sem tíkin skildi hvað til hennar friðar heyrði því eins og við manninn væri mælt lagði hún haltrandi af stað.[1945] Frá því sem síðan gerðist segir Óskar Þórðarson svo:

 

Margrét [Guðnadóttir], kona Örnólfs, var stödd í eldhúsinu þegar Sokkatá skreið þangað inn. Tíkin bar sig illa og fleygði sér ýlfrandi á gólfið við fætur húsmóður sinnar. Margrét sá strax að eitthvað hafði komið fyrir þegar hún sá tíkina blóðuga á báðum framfótum og að öðru leyti illa til reika, enda vissi hún að mikið þyrfti til að hún hlypi frá húsbónda sínum. Margrét hafði engar vöflur á en hraðaði sér til Guðmundar Halldórs Guðbjörnssonar, svila síns, sem átti heima skammt frá, og bað hann hjálpar að fara á móti bónda sínum og athuga hvað skeð hefði. Bað hún hann að taka tíkina með sér þótt hún væri illa farin og varla ferðafær.

Guðmundur, sem var röskleikamaður og ódeigur, kvað þetta sjálfsagt, hann myndi bara bera tíkina. Guðmundur fór strax af stað og efalaust hefur hann ekki dregið af ferð sinni. Þegar hann nálgaðist Vallanesið sleppti hann tíkinni sem hélt rakleiðis þangað sem Örnólfur var fastur í fönninni. Þegar Guðmundur kom á staðinn var sjórinn að falla að fótum hans. Það mátti sem sagt ekki dragast öllu lengur að hjálpin bærist. Svo sagði Guðmundur frá síðar að er hann kom til Örnólfs hafi tíkin verið byrjuð að krafsa ýlfrandi í snjóinn sem að honum þrengdi eins og hún skildi til fulls að hverju stefndi.

Guðmundur tók hraustlega til verka, reif og tætti burt snjóinn, byrjaði á því að losa um pokana og síðan um manninn sjálfan. Sjórinn féll ört að en Guðmundi tókst að losa Örnólf til fulls í tæka tíð. … Tíkin Sokkatá greri sára sinna og virtist verða jafngóð eftir og aldrei efaðist Örnólfur um að hún hefði bjargað lífi hans.[1946]

 

Á gangnamánudaginn í september árið 1927 varð enn eitt slys hér undir Spilli.[1947] Prestsfrúin á Stað, Lára Kolbeins, var þá ein á ferð inn að Suðureyri og reið í söðli á mósóttri hryssu.[1948] Rétt innan við miðja Lönguvík fékk hún yfir sig malarskriðu og kastaðist af baki ofan í grjótið.[1949] Hún nefbrotnaði, marðist illa og fékk þó nokkrar skrámur í andlitið og á hægri hendi.[1950] Frú Lára komst hjálparlaust inn á Suðureyri en þar lá hún í heila viku.[1951] Seinna bólgnaði andlitið upp og á næstu mánuðum átti hún oft við höfuðkvalir að stríða.[1952]

Hér var áður frá því greint að ekki sé kunnugt um nokkurt banaslys hér á Spillisfjörum. Í gamalli þjóðsögu er þó greint frá því að piltur sem fór um Fjörurnar hafi horfið en hvort þar muni vera um hreinan skáldskap að ræða eða tengsl við atburð úr veruleikanum veit enginn.

Kristján G. Þorvaldsson frá Selárdal í Súgandafirði, sem fæddur var árið 1881, færði söguna í letur og segir frá á þessa leið:

 

Þá sögu heyrði ég í bernsku að endur fyrir löngu hafi unglingspiltur horfið frá Suðureyri. Hann hafði farið út á Spillisfjörur og kom ekki aftur. Pilturinn hafði hvítan trefil um hálsinn en ekki var að öðru leyti getið um búning hans.

Nokkru síðar sást stór selur við Brimnes. Var hann að því sérkennilegur að hvítur hringur var um háls hans. Trúðu menn því að þetta væri pilturinn sem hvarf og töldu að hvíti hringurinn um háls selsins væri í stað trefilsins sem pilturinn hafði. Selurinn kom ár eftir ár á þennan stað og var þar nokkurn tíma á sumrum. Var hann kallaður Brimnesbúi.

Ekki minnist ég að hafa séð sel þennan en þegar ég var barn talaði fólkið á heimilinu oft um hann og sagðist oft sjá hann þegar það fór til kirkju. … Ekki var þá, að sögn þeirra er sáu, hvítur hringur um háls hans en hvítir blettir á höfði eða hálsi gerðu hann þekkilegan frá öðrum selum.[1953]

 

Nú göngum við fyrir Brimnesið og reynum að koma auga á ungan eða gamlan selshaus í sjávaröldunum en enginn kobbi lætur sjá sig.

Frá Brimnesi tökum við strikið inn á Stekkjarnes og áfram sem leið liggur frá ysta húsi þorpsins á Suðureyri að því innsta en vegalengdin milli þessara tveggja húsa er um það bil 900 metrar.

Frá helstu kennileitum í hlíð og fjalli ofan við gamla Suðureyrartúnið og þar rétt fyrir innan hefur áður verið sagt í þessu riti (sjá hér bls. 5-6). Við tefjum því hér skamma stund, kveðjum Suðureyri og höldum ferð okkar áfram inn með Súgandafirði. Vegalengdin inn að Laugum, sem voru næsti bær, er 3,5 kílómetrar sé mælt frá innstu húsunum á Suðureyri.

Rétt fyrir innan innstu íbúðarhúsin í þorpinu var á fyrri tíð kvíaból Suðureyrarfólks[1954] (sbr. hér bls. 5) og þar stóð gamla kvíin fram yfir miðja 20. öld. Nú er hún horfin og líka Höfðinn sem stóð rétt ofan við veginn mjög skammt fyrir innan Suðureyrartúnið.[1955] Hann var mikill um sig og setti hér svip á landslagið en var tekinn í uppfyllingu fyrir allmörgum árum þegar gerður var íþróttavöllur innan við gamla Suðureyrartúnið.[1956]

Hér rétt innan við Suðureyri liggur akvegur nútímans á uppfyllingu fram í sjó en við fylgjum gamla veginum, fjallmegin við fjöruna. Af ummerkjum má ráða hvar Höfðinn var áður en frá honum var örskammt að Gildrunesi.[1957] Það gengur fram í fjöruna, lítið og lágt.[1958] Utan við það er lækjarfarvegur sem reyndar er oft alveg þurr en nokkuð áberandi í Bæjarklettunum uppi í hlíðinni. Innan við Gildrunes er skriða, sem fallið hefur í sjó fram, og heitir Rauðaskriða.[1959] Hjá skriðunni er dálítið svæði í hlíðinni sem nefnt er Aurar.[1960] Svo má heita að Rauðaskriða sé beint niður af fjallinu Hádegishorni sem hér hefur áður verið nefnt (sjá bls. 6 ) en Manntapagil, sem áður var gerð grein fyrir (sjá hér bls. 6), er nokkru innar. Neðarlega í hlíðinni og rétt innan við Rauðuskriðu er Urðin.[1961] Neðan við hana og alveg rétt við gamla veginn stendur nú (1996) nýlegt hús í eigu Orkubús Vestfjarða.[1962] Nær beint upp af því en þó aðeins innar er Manntapagil. Innan við Urð ganga tvö grasigróin smánes fram í fjöruna og heita þau Hlaðsnes.[1963] Upp af ytra Hlaðsnesinu er Hlaðsneshvolf, rétt innan við Urðina, en ofan við það eru Hlaðsnesteigar.[1964] Líklegt er að hér hafi fyrrum verið sauðahlað eða einhvers konar fjárborg og nafnið á Hlaðsnesjunum eigi rætur að rekja til þess. Engar menjar sjást þó nú um slíka byggingu.

Upp af Hlaðsnesjunum og ofan við Hlaðsnesteiga er klettabelti í hlíðinni og heitir það Grasklettar.[1965] Þeir ná út að Manntapagili en utan við það taka við Bæjarklettar sem eru nær gróðurlausir (sjá hér bls. 6). Ofan við Graskletta og rétt innan við Hádegishorn er Skollahvilft[1966] og liggur talsvert ofar en Háakleif, sem er innar, og Ufsirnar, sem eru utar og hér hafa áður verið nefndar (sjá bls. 6). Hvilftin er alveg upp við háfjallið og í henni er mikið um stórgrýti. Hún er lítil um sig en djúp og lokuð af hæð að framan, grjóthrygg að innan, fjallshlíðinni að ofan og hrygg að utan.[1967] Í Skollahvilft mun lágfóta lengi hafa átt sér bústað.[1968]

Innan við Hlaðsnes og neðarlega í hlíðinni eru Aurar, sem svo heita, og bera því sama nafn og aðrir Aurar hér litlu utar[1969] (sbr. hér bls. 180). Greinilegt er að þessir innri Aurar eiga meira tilkall til nafnsins en þeir ytri. Frá Hlaðsnesjunum sjáum við inn á Kleif en þar liggur vegurinn upp dálitla brekku og hættir að fylgja fjörunni. Kleifin, sem svo heitir, nær neðan frá sjávarbökkum og hátt upp í hlíðina[1970] og sé litið til hennar héðan frá Hlaðsnesjunum eða utan frá Suðureyri stöðvast augun við hana því lengra sjáum við ekki inn með hlíðinni.

Spölurinn frá Hlaðsnesjum inn á Kleif er mjög stuttur, varla hálfur kílómetri. Brekkan, þar sem akvegurinn liggur nú upp á Kleifina, var áður mun brattari því búið er að sprengja bakkana svo mikið niður og hækka veginn í fjörunni.[1971] Efst í fjallshlíðinni ofan við Kleif en þó neðan við sjálft háfjallið er bungumynduð öxl sem heitir Háakleif[1972] Líklegt er að nafnið Háakleif hafi í fyrstu verið notað um klettabrúnina neðan við efsta hjallann í hlíðinni ofan við Kleif. Sá hjalli mun  heita Flatarhjalli[1973] og ofan við hann tekur háfjallið við. Rétt neðan við nýnefnda klettabrún er annar hjalli, álíka breiður en mun grösugri. Kristján G. Þorvaldsson segir í örnefnalýsingu sinni frá árinu 1949 að sá hjalli beri ekkert sérstakt nafn en sé kallaður á Háukleif.[1974] Þessi hjalli nær alveg út á móts við Hlaðsnesin.[1975] Uppi á Háukleif voru áður mógrafir og er þeirra getið í heimild frá byrjun 18. aldar (sjá hér bls. 8). Þar var enn tekið upp eitthvað af mó sumarið 1891[1976] en óverulegt magn mun það hafa verið. Ófært er með hesta að mógröfunum á Háukleif og upp úr 1890 mun fólkið á Suðureyri hafa hætt að nýta þær.[1977] Á 19. öld var líka heyjað uppi á Háukleif, a.m.k. sum árin[1978] en líklega hefur aldrei verið borinn þar ljár í gras eftir aldamótin 1900.

Fyrir ofan hjallann sem nefndur er á Háukleif er sem fyrr var getið Flatarhjalli. Hann er álíka breiður og neðri hjallinn en ekki eins grösugur.[1979] Upp af innri enda Flatarhjalla, alllangt fyrir innan Kleif, er svolítið hvolf í fjallinu.[1980] Innan við þetta hvolf og enn ofar er svo stuttur hjalli sem heitir Grjóthjalli og ber nafn með rentu.[1981] Inn frá Háukleif liggur svo enn einn hjalli sem blasir við augum þegar litið er til fjalls frá þjóðveginum innan við Kleif. Þetta er Kleifarhjalli.[1982] Hann er langur og liggur neðar en Grjóthjalli. Kleifarhjallinn nær alveg inn undir Laugahvilft sem hér verður síðar gerð grein fyrir (sjá hér bls. 186 og Laugar). Bæði liggja þau álíka hátt í fjallshlíðinni hjallinn og hvilftin.[1983] Þessi hjalli er nokkuð grösugur þó víða sé hann grýttur.[1984]

Ofan við alla þessa hjalla er klettaveggur næst fjallsbrúninni og nær hann frá Hádegishorni, skammt innan við Suðureyri, og inn að landamerkjunum á móti Laugum og þaðan áfram mun lengra inn með firðinum.

Við erum nú stödd á Kleifinni, sem er um það bil einum og hálfum kílómetra innan við innstu húsin á Suðureyri, en höldum nú göngunni áfram og förum ýmist fjöruna eða eftir þjóðveginum sem liggur uppi á bökkunum.

Skammt innan við Kleif er Sandeyri við sjóinn en lítið ber á henni.[1985] Þar var stundum lítið eitt af sandi í fjörunni[1986] og í bökkunum ofan við fjöruna var dálítill hóll sem vegagerðarmenn hafa mokað í kaf.[1987] Fyrir daga stórvirkra vinnuvéla voru hér líka tveir litlir lækir og runnu sinn hvorum megin við nýnefndan hól.[1988] Á Sandeyri sést fyrst út á Suðureyri þegar komið er innan að og farið með fjörunni.[1989] Neðarlega í fjallshlíðinni, innan og ofan við Sandeyri, eru Merarhjallar sem ná inn að Sellæknum en hann er um það bil einum kílómetra fyrir innan Kleif. Þetta eru tveir grasigrónir hjallar og á þeim báðum var heyjað á fyrri tíð[1990] (sbr. hér bls. 79). Að Háukleif frátalinni var þetta ysta slægjulandið á Suðureyrarhlíð en svo heitir hlíðin innan við Suðureyri og allt að landamerkjunum á móti Laugum.[1991] Efri Merarhjallinn er  hár og mjór en sá neðri breiðari og nokkuð óglöggur.[1992] Ofan við efri Merarhjalla og nokkuð utarlega er klettabelti en ofan við það, milli þess og Kleifarhjalla, sem fyrr var nefndur, er hlíðin grasivaxin og slétt.[1993] Þetta svæði í hlíðinni heitir Breiður[1994] og mun merkingin vera grasbreiður. Inn frá miðjum Breiðum liggur Breiðahjalli, samhliða Kleifarhjalla sem er ofar.[1995] Á Breiðahjalla, sem nær inn fyrir Sel, var stundum heyjað því þar stóðu Einar Jónsson og Jón Þorbjörnsson frá Suðureyri við slátt 2. september 1889 (sjá hér bls. 76-77).

Innan við Sandeyri skulum við þoka okkur niður í fjöruna og fylgja henni um stund. Eftir fárra mínútna gang komum við að lítilli sjávarvík með klettabökkum og heitir sá staður Selholur ytri.[1996] Nokkru innar er önnur klettavík við sjóinn sem heitir Selholur innri.[1997] Í munni fólksins sem átti heima á Laugum á fyrri hluta 20. aldar mun nafnið reyndar hafa verið ytri og innri Selhólfur.[1998] Í Selholunum er bergið í sjávarbökkunum dökkt af vætu og í þeim innri er það mjög holótt svo ekki er fjarri lagi að tala um hólf. Á fyrri tíð gengu þeir sem hér áttu leið um mjög oft fjöruna, einkum að vetrarlagi þegar allt var á kafi í snjó uppi á bökkunum. Við Selholurnar varð þá að sæta sjávarföllum því að á háflæði gekk sjór alveg upp að berginu.[1999] Ætla má að slægjublettur sem dagbókarritarinn Einar Jónsson nefnir Seljaholulág (sjá hér bls. 79) hafi verið hér ofan við Selholurnar. Líklegast er að Selholur séu kenndar við gamla selið frá Suðureyri, sem er mjög skammt fyrir innan Selholur innri, en hitt er þó einnig hugsanlegt að hér hafi selir flatmagað í árdaga. Valdimar Þorvaldsson segir á einum stað að upp af Selholum ytri séu nokkuð miklar tóttaleifar og þar kynnu að hafa verið beitarhús.[2000] Þessar tóttir virðast nú vera horfnar því þær fundust ekki við leit sumarið 1996.

Á leiðinni frá Selholum ytri að Selholum innri verður á vegi okkar stór klöpp í fjörunni og heitir þar Skipsuppsátur.[2001] Klöppin er þannig í laginu að hún líkist skipi og mun ýmsum hafa komið til hugar að í því lægi skýringin á nafninu.[2002] Valdimar Þorvaldsson, sem hér átti oft leið um, bendir hins vegar á að hvergi á allri leiðinni frá Suðureyri inn að landamerkjunum hafi verið hægt að setja upp skip, það er stóran árabát, nema einmitt á þessum stað.[2003]

Hjá Selholum innri fetum við okkur upp sjávarbakkana og komum þá fyrr en varir á Selið sem er aðeins innar, nær beint á móti eyðibýlinu Selárdal sem er handan fjarðarins. Á tuttugustu öld hefur Selið, sem enn heitir svo, aðeins verið nýtt sem slægjuland en ætla má að hér hafi búsmali Suðureyrarbænda verið hafður í seli á fyrri tíð. Ótvíræðar heimildir um það liggja þó ekki á lausu. Líklegast er að í Súgandafirði hafi hvergi verið stundaður seljabúskapur eftir 1800 því séra Andrés Hjaltason á Stað segir í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 að hvergi í byggðarlaginu sé haft í seli og aðeins á fáum jörðum í prestakallinu kunni fólk skil á því að slíkir búskaparhættir hafi tíðkast á árum áður.[2004]

Selhús stóð þó hér árið 1825 og var nefnt svo í opinberu skjali frá því ári. Húsið var þá virt á einn og hálfan ríkisdal eða sem svaraði einum fjórtánda hluta úr kýrverði (sjá hér bls. 36). Kofi þessi gæti hafa verið gamalt selhús, komið að falli, en hitt er einnig hugsanlegt að það hafi verið reist sem beitarhús en nefnt selhús af því það stóð á Selinu. Merkilegt má hins vegar telja að vorið 1826 settist fólk að hér á Selinu í þurrabúð og hefur þá annað hvort hresst við áðurnefndan kofa eða byggt sér nýjan. Sú hugmynd að kofinn, sem um er getið haustið 1825, hafi þá verið alveg nýr og reistur vegna fyrirhugaðrar búsetu hálfu ári áður en fólkið flutti inn virðist aftur á móti vera einum of langsótt.

Þau sem settust að á Selinu vorið 1826 voru Sigríður Snjólfsdóttir, þá um 55 ára aldur, og sonur hennar, Jón Torfason, sem var að verða 17 ára. Þau komu frá Laugum og þar hafði Sigríður búið í nokkur ár með eiginmanni sínum, Torfa Jónssyni, sem nú var látinn. Áður voru þau um skeið í Staðarhúsum fremri, hjáleigu frá Stað í Súgandafirði er einnig var nefnd Vandræðakot og stundum Vandræðastaðir. Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Sigríði og Torfa, manni hennar (sjá hér Staður, Staðarhús fremri þar), en um son þeirra, Jón Torfason, sem ásamt móður sinni settist að hér á Selinu vorið 1826, verður fjallað þegar við komum að Klúku sem var hjáleiga frá Botni (sjá hér Botn, Klúka þar).

Sigríður Snjólfsdóttir og Jón sonur hennar eru einu manneskjurnar sem hér hafa tekið sér bólfestu svo kunnugt sé. Þau höfðust við á Selinu í tvö ár, frá 1826 til 1828, og í húsvitjanabók sóknarprestsins frá þeim árum er kotið þeirra nefnt Selhús.[2005] Héðan fóru þau svo að Klúku.[2006]

Haustið 1897 byggði Kristján Albertsson á Suðureyri fjárhús hér inn á Selinu.[2007] Fullvíst má telja að það hafi verið notað sem beitarhús um eitthvert skeið. Tóttin af þessu húsi stóð hér enn þegar komið var fram undir miðja tuttugustu öld en þá var ráðist í að slétta seltúnið og við það rask féll tóttin.[2008] Um svipað leyti var byggt hér lítið timburhús er mun hafa verið notað sem sumarbústaður. Það er nú líka farið veg allrar veraldar fyrir löngu. Grunnur þess er þó enn sjáanlegur (1996) en hesthúskofi úr timbri sem hér stendur er nývirki.

Gamli Sellækurinn[2009] er hér enn. Hann kemur ofan af Kleifarhjalla og liðast niður seltúnið í útjaðri þess. Á Suðureyrarhlíð eru ekki margir lækir og Sellækurinn sá sem mest ber á. Í fornleifaskýrslu frá árinu 1817 segir séra Eiríkur Vigfússon á Stað þó frá læk einum á þessari sömu hlíð og merkilegri náttúru hans en sú lýsing getur varla átt við Sellækinn. Í skýrslunni kemst prestur svo að orði:

 

Einasta get ég þess, að nokkurra almúgamanna sögusögn er: Að á svokallaðri Suðureyrarhlíð hér í sókn sé lítill lækur sem niður renni í jarðgryfju eða huldu eina og heyrist, jafnvel þó maður sé langt frá, eins og vatnið niður komi í ketil eða ílát af eyri eða þess slags málmi sem gefur skært hljóð af sér. Og að þetta heyrist enn þá glöggvar ef steinn sé látinn niður detta í nefnda jarðgryfju.[2010]

 

Seltúnið er skammt fyrir ofan þjóðveginn en slægjublettir sem liggja ofan við það voru jafnan nefndir Blettir.[2011] Sameiginlegt nafn á slægjulöndunum innan við Sel var Partar[2012] en þau skiptust í Innstapart, Miðpart og Ystapart.[2013] Innsti parturinn náði alveg inn að landamerkjum og á árunum milli 1910 og 1930 var hann oft nefndur Guðrúnarpartur, því eigandi hans var þá Guðrún Þórðardóttir á Suðureyri, ekkja Kristjáns Albertssonar.[2014] Kristján hafði átt þennan part og þegar öllum slægjulöndun á Suðureyrarhlíð var skipt árið 1920 hélst hann áfram í eigu Guðrúnar.[2015] Miðpartinn fengu þá Halldór B. Friðriksson, Jón Einarsson og Jón H. Guðmundsson,[2016] og af þeim var Halldór innstur en Jón H. Guðmundsson ystur.[2017] Ysta part fékk Jón Þorbjarnarson en Selið kom í hlut Valdimars Þorvaldssonar.[2018] Merarhjallana báða, út að stórum steini í miðjum efri hjallanum, fengu bræður Valdimars, þeir Kristján og Guðmundur Þorvaldssynir, en ytri hluta Merarhjallanna fékk Friðbert Guðmundsson.[2019] Allir áttu þessir menn heima á Suðureyri árið 1920.[2020] Merkjalínur lágu beint milli fjalls og fjöru, með máluðum steinum ofan og neðan og var ætlast til að hver héldi við sínum merkjum.[2021] Þessir steinar voru málaðir gulir og voru jafnan tveir á hverjum merkjum, annar niður undir bökkum en hinn hátt uppi í hlíð.[2022] Á öllum þessum merkjum skildu sláttumennirnir jafnan eftir nokkur ljáför svo þar var grasið ætíð svolítið hærra en þar sem slegið var.[2023]

Við höfum nú reikað svolitla stund um Partana, innst í Suðureyrarlandi, og nemum staðar á þjóðveginum skammt fyrir utan landamerki Suðureyrar og Lauga. Uppi í hlíðinni, um það bil 200 metrum fyrir utan merkin, mætast Kleifarhjalli og Laugahvilft sem liggja bæði í sömu hæð (sjá hér bls. 182). Rauðuskriður skilja að hjallann og hvilftina[2024] og blasa við neðan við klettavegginn efst í fjallinu. Í fjallsbrúninni ofan við þær gefur að líta tvo steindranga og er annar þeirra mun stærri en hinn. Sé á þá horft frá þeim stað sem við nú stöndum á mætti ætla að þar væru maður og barn á ferð. Svolítið innar í brúninni og að kalla beint upp af merkjunum sjáum við Laugaskarð, sem er eins og dyr ofan í fjallið.[2025] Við göngum nú síðasta spölinn inn að landamerkjunum sem eru mjög skammt fyrir utan túnið á Laugum. Hér rétt ofan við sjávarbakkana voru merkin utantil við volga uppsprettu en í næsta nágrenni við hana var borað eftir heitu vatni fyrir allmörgum árum og það vatn notað til að hita upp öll hús í þorpinu á Suðureyri.

Í örnefnalýsingu sinni frá árinu 1949 kemst Kristján G. Þorvaldsson svo að orði að hin volga lind hjá landamerkjunum eigi upptök sín í landi Lauga en renni lítið eitt út á við og skipti landi milli jarðanna hér á bökkunum.[2026] Þórður Pétursson, sem fæddist á Laugum árið 1913 og ólst þar upp, segir hins vegar að þetta sé ekki nákvæmlega rétt því að merkjalækurinn, sem nefndur var Laugarlækur og rann nokkrum skrefum fyrir utan laugarpollinn, hafi verið kaldur.[2027] Heita vatnið frá lauginni rann hins vegar, að sögn Þórðar, nokkuð dreift niður sjávarbakkana án þess að mynda læk.[2028] Hér voru bakkarnir gróðurlausir og grjótið hvítt af kísil úr vatninu.[2029] Ætla má að hvað þetta varðar hafi Þórður rétt fyrir sér því að á þessum slóðum var hann ennþá kunnugri en Kristján. Ágreiningur þeirra virðist reyndar eingöngu snúast um hvort vatnið í landamerkjalæknum hafi verið heitt eða kalt. Kristján G. Þorvaldsson lýsir þessum landamerkjum nánar og kemst þá svo að orði: Laug þar sem hún rennur niður af bökkunum, síðan eftir læk og lænum í stóran stein undir brekkunni ofan við slægjulandið.[2030]

Þar sem laugarpollurinn var áður eða þar rétt hjá stendur nú (1996) lítið hitaveituhús í eigu Orkubús Vestfjarða. Margt er hér umbreytt frá því sem áður var en kaldi Laugarlækurinn sem rann á landamerkjum jarðanna seytlar enn niður sinn gamla farveg hér ofan við þjóðveginn. Stóri landamerkjasteinninn í hlíðarfætinum ofan við slægjulandið er líka enn á sínum stað og er auðþekktur því hann er stærri en aðrir steinar hér í grenndinni.

Hitastig vatnsins í gamla laugarpollinum innan við landamerkin mun hafa verið um 38 gráður.[2031] Sundlaug var byggð í fjörunni rétt utan við landamerkin sumarið 1933 og vatn úr heitu lauginni uppi á bökkunum leitt í hana.[2032] Sundlaugin frá 1933 var notuð í meira en hálfa öld og allt fram undir 1990 en nú er tími hennar liðinn. Steinsteyptir skjólveggir þessarar gömlu sundlaugar brotnuðu niður og splundruðust þegar flóðbylgja af völdum snjóflóðs úr norðurhlíð fjarðarins æddi hér á land að morgni 26. október árið 1995. Þá voru aðeins liðnar fáar klukkustundir frá því hið mannskæða snjóflóð úr Skollagróf féll á Flateyri. Flóðbylgjan, sem hér var nefnd, kom að utan og braut bæði ytri og innri skjólvegg sundlaugarinnar en búningsklefarnir á norðurbakka laugarinnar héngu enn uppi þegar hamförunum linnti.

Rétt innan við landamerkin og gömlu sundlaugina í fjörunni komum við í túnið á Laugum og göngum strax upp að gamla bæjarstæðinu.

 

 

(Sjá viðauka á næstu síðu).

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

    Viðauki        
  Íbúðarhús á Suðureyrarmölum 1920, byggð  fyrir 1915      
             
Gata og húsnúmer Byggingarefni Stærð í ferm. Lýsing Fasteignamat Eigandi 1916  
             
Aðalgata 8 steinsteypa 8,8 x 6,9 = 60,7 portbyggt    5.500,00 Þórður Þórðarson  
             
Hús Kristjáns Guðm. torf og timbur 5,65x 3,8 = 21,5 portbyggt       220,00 Kristján Guðmundsson  
utan við Aðalgötu 15            
og upp við brekkuna þar            
             
Aðalgata 21 timbur 6,3 x 5,0 = 31,5 ein hæð    1.200,00 Ragnar Jakobsson  
             
Aðalgata 22 steinsteypa 8,8 x 7,5 = 66,0 tvær hæðir    7.700,00 Helgi Sigurðsson  
             
Aðalgata 23 steinsteypa 6,9 x 5,7 = 39,3 portbyggt    4.700,00 Veturliði H. Guðnason  
             
Aðalgata 24 steinsteypa 7,2 x 6,0 = 43,2 ein hæð    1.400,00 Guðjón Jóhannsson  
             
Aðalgata 25 (bakaríið) timbur og          
  steyptur kjallari 11,3 x 6,3 = 71,2 ein hæð    6.600,00 Magnús Árnason  
             
Aðalgata 26 timbur, járnvarið          
  og steyptur kjallari 5,0 x 3,8 = 19,0 ein hæð    1.600,00 Jóhannes Albertsson  
             
Græni bær, neðan   5,65x 2,5 = 14,1 ein hæð, áfastur       700,00 Ö  
Eyrargötu og aðeins     skúr 15,0 m2      
innar en Aðalgata 26 torf og timbur,       Örnólfur Jóhannesson  
             
Aðalgata 28 A timbur 4,4 x 3,8 = 16,7 ein hæð og skúr      
      áfastur 11,0 m2       800,00 Jóhann Þórðarson  
             
Aðalgata 28 B timbur 3,8 x 3,8 = 14,4 ein hæð       300,00 Jóhann Jónsson  
             
Aðalgata 28 C timbur, járnvarið 6,9 x 3,8 = 26,2 ein hæð       800,00 Guðm. H. Guðbjörnsson  
             
Aðalgata 29 timbur, járnvarið 5,3 x 5,3 = 28,1 tvær hæðir    2.800,00 Guðm.Karvel Guðmundsson  
             
Aðalgata 30 B torf og timbur,          
  þiljað innan 5,0 x 3,5 = 17,5 ein hæð       700,00 Jóhannes Hannesson  
             
Aðalgata 31 timbur 7,65x 3,8 = 29,1 ein hæð, tvær      
  með 17,7 m2 skúr. íbúðir    1.400,00 Ásgeirsverslun  
             
Aðalgata 32 timbur 5,7 x 3,1 = 17,7 m2 portbyggt    1.500,00 Ólafur Þ. Jónsson  
             
Aðalgata 36 timbur 3,8 x 3,1 = 11,8 m2 portbyggt með 17 m2 geymslu 400,00    
          Daníel Bjarnason  
             
Hús Sigurðar Jóhannssonar timbur 3,8 x 3,1 = 11,8 m2 ein hæð, áfastur      
(Slunkaríki), stóð innan og ofan við     skúr 7,1 m2,      
húsið sem nú er Aðalgata 37     vegghæð 1,73       400,00 Sigurður Jóhannsson  
             
             
Aðalgata 41 steinsteypa 7,75x 5,5 = 42,6 m2 tvær íbúðir    2.600,00 Ásgeirsverslun  
             
Aðalgata 45 steinsteypa 5,9 x 3,9 = 23,0 m2 portbyggt með      
      17,7 ferm skúr    1.600,00 Ásgeirsverslun  
             
Aðalgata 57 timbur 6,9 x 6,3 = 43,5 m2      1.850,00 Hallbjörn E. Oddsson  
             
Brekkustígur 7 timbur 10,4 x 3,8 = 39,5 m2      1.700,00 Ásgeirsverslun  
             
Eyrargata 2 A timbur 4,4 x 5,0 =22,0 tvær hæðir    2.400,00 Jón Einarsson  
             
Eyrargata 2 B timbur, járnvarið 4,4 x 5,0 = 22,0 m2 tvær hæðir    2.200,00 Kristján Maríasson  
             
Eyrargata 5 timbur, járnvarið 10,0x 7,5 = 75,0 m2        
  og steyptur kjallari, íbúðarfær portbyggt    7.500,00 Kristján Albert Kristjánsson  
             
Eyrargata 7 timbur, járnvarið          
  og steyptur kjallari 11,3x 7,5 = 84,8 m2 portbyggt    7.500,00 Friðbert Guðmundsson  
             
Eyrargata 8 timbur, járnvarið          
  og steyptur kjallari 5,0 x 5,0 = 25,0 m2 portbyggt    2.000,00 Magnús Halldórsson  
             
Eyrargata 9 timburhús á          
  steyptum kjallara,          
  nokkuð járnvarið 5,0 x 5,0 =25,0 m2 portbyggt    2.200,00 Halldór Guðmundsson  
             
Eyrargata 10 (Babýlon)  timbur 3,8 x 3,1 = 11,8 m2 ein hæð       300,00 Ibsen Guðmundsson  
             
Eyrargata 11 timbur 7,5 x 5,0  =37,5m2 tvær hæðir    3.500,00 Jón H. Guðmundsson  
             
Eyrargata 12 timbur 5,6 x 3,1 portbyggt    1.300,00 Jón Friðriksson  
    =17,4 m2        
Eyrargata 13 timbur 3,8 x 3,8 =14,4 ein hæð og ris      
                          með tveimur skúrum 12,0 og 9,5 m2    1.100,00 Ari Jónsson
             
Eyrargata 15 timbur 5,6 x 3,8  =21,3 m2 portbyggt    1.000,00 Markús Guðmundsson  
             
Eyrargata 17 timbur 6,9 x 3,8 portbyggt    1.000,00 Ásgeirsverslun  
    =26,2 m2        
Garðastígur 3, timbur, járnvarið          
(Selárdalsbúðin) að nokkru 9,4 x 4,4 =41,4 m2 portbyggt    4.100,00 Kristján G. Þorvaldsson  
             
Hús Guðbjörns Björnssonar (þinghúsið) timbur 3,8 x 3,1  =11,8 m2 ein hæð,      
neðan við Garðastíg 3     vegghæð 1,88 m.       300,00 Guðbjörn Björnsson  
             
             
Rómarstígur 1 timbur 5,65x 4,4  =24,9 m2 portbyggt    1.200,00 Guðmundur Ásgrímsson  
             
Rómarstígur 2 timbur, járnvarið 5,65 x 3,8 =21,5 m2 ein hæð og 14 m2 skúr      
           1.400,00 Lúðvík Emil Jónsson  
             
Rómarstígur 5            
(Rómaborg) timbur 6,3 x 3,1 =19,5 m2 portbyggt    1.400,00 Guðmundur Guðmundsson  
             
Rómarstígur 9 timbur, járnvarið 6,9 x 3,1  =21,4 m2 ein hæð og 4,7 m2 skúr      
              800,00 Pétur Pétursson  
             
Smiðjustígur 3            
(Amalíuborg) timbur, járnvarið 7,5 x 4,7 =35,3 m2 ein hæð og ris    2.500,00 Guðrún Þórðardóttir  
             
Stefnisgata 13 timbur 21,7x 7,5 =162,8 m2 portbyggt      
  (Verslun og skrifstofa niðri. Íbúð og geymsla uppi)  14.500,00 Ásgeirsverslun  
             
  Þess skal getið að í ofangreindri skrá um húseignir er alloft látið vera að nefna kjallara væri  
  hann    aðeins   undir    hluta    af viðkomandi húsi.      
             

 

 

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 132-133.  Rtk. Jarðab. V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

 1. Johnsen 1847, 196.

[2] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.  VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[3] J. Johnsen 1847, 196.

[4] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1837.  VA III, 408, bún.sk. 1840.  Sóknalýsingar Vestfj. II, 113.

[5] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[6] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34. Búnaðarskýrslur 1791.

 1. Johnsen 1847, 196.

[7] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 119-120 (Ferðabók II).

[8] Örnefnastofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 86.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild, 86 og 90.

[13] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 86 og 90.

[14] Jarðab. Á. og P. VII, 132.

[15] Sama heimild.

[16] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6-7.

[17] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 111.  Sbr. þar bls. 22.

[18] Sama heimild, titilsíða.

[19] Sama heimild.

[20] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6-7.

[21] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 16.

[22] Guðmundur Arnaldur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[23] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 5.

[24] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 88.

[25] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 7.

[26] Jarðab. Á. og P. VII, 132.

[27] Sama heimild.

[28] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 113.

[29] Sama heimild, 23-25.  Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[30] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[31] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[32] Lbs. 44104ro, Valdimar Þorvaldsson, bls. 118.  Kristján G. Þorvaldsson 1962, 24-25 (Ársrit S.Í.).

[33] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 25.

[34] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðeyrarkaupstúns, bls. 81.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild, 80-81.

[37] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 5.

[38] Lbs. 44104ro, Valdimar Þorvaldsson, bls. 127.

[39] Lbs. 39334ro, Valdimar Þorvaldsson, bls. 4-5.

[40] Lbs. 44104ro, Valdimar Þorvaldsson, bls. 127.

[41] Sama heimild.  Lbs. 39334ro, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.  Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1951, 52 (Árbók F.Í.).  Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 86.  Lbs. 22344to, Dagb. Magnúsar Hjaltasonar 11.10.1916.

[42] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 25.4.1889.  Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 5.     Sbr.  Kristján G. Þorvaldsson 1962, 13 (Ársrit S.Í.)

[43] Lbs. 39334ro, Valdimar Þorvaldsson, bls. 5.

[44] Sama heimild, 5-6.

[45] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 13.

[46] Lbs. 39334ro, Valdimar Þorvaldsson, bls. 4-5.

[47] Sama heimild, 5-6.

[48] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 21.10.1915.

[49] Sama heimild.

[50] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 30.

[51] Lbs. 39334ro, Valdimar Þorvaldsson, bls. 7.  Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 93.

[52] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 93.

[53] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 130.

[54] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 93.

[55] Sama heimild.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild, 94.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild.

[62] Uppdráttur Suðureyrarhrepps eða Súgandafjarðar eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983 – eftirprentun

af örnefnakorti frá því um 1930.

[63] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 94.

[64] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 24.2.1914.

[65] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 90 og 92.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Sbr. sama heimild, 92.

[69] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar,

handrit í eigu K.Ó.

[70] Lbs. 39334ro, Valdimar Þorvaldsson, bls. 4.

[71] Jarðab. Á. og P. VII, 132-133.

[72] Sóknalýs. Vestfj. II, 113.

[73] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns.

[74] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 126.  Sbr. Lbs. 44104ro, V. Þorvaldsson, bls. 112.

[75] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 124-125.

[76] Sama heimild, 127.

[77] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 126-127.

[78] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[79] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 120-125.  Sbr. Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson:

Súgandafjörður, bls. 3-5.

[80] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Jarðabók Á. og P. VII, 132.

[85] Sama heimild.

[86] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34. Búnaðarskýrslur 1791.

[87] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821 og 1830.   VA III, 408, 412, 417, 421 og 424,

búnaðarskýrslur 1840, 1850, 1860, 1870 og 1880.

[88] Sömu heimildir.

[89] Sömu heimildir.

[90] Sömu heimildir.

[91] Hsk. á Ísaf. nr. 295. Skýrsla hreppstjóra yfir gripi og fénað í Suðureyrarhreppi í fardögum árið 1934.

[92] Sama heimild.

[93] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.  Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, bún.sk.1791.  Skj.s. sýslum. og

sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1827, 1830, 1834, 1837.  VA III, 408, 412, 417, 421 og 424, bún.sk. 1840, 1850,

1860, 1870 og 1880.

[94] Sömu heimildir.

[95] Sömu heimildir.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1821.

[96] Sömu heimildir.

[97] Sömu heimildir.

[98] Sömu heimildir.

[99] Sömu heimildir.

[100] Sömu heimildir.

[101] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[102] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[103] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 132-133.

[104] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Manntal 1762.  Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 129-130.

[105] Sömu heimildir.

[106] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 130.

[107] Sóknarmannatöl Staðar í Súgandafirði.  Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.  Manntal 1801.

[108] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  VA III, 420, búnaðarskýrslur 1867.

[109] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og

 1. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.  VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[110] Manntöl 1703, 1762, 1801, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880 og 1890.

Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[111] Manntal 1703.

[112] Sama heimild.

[113] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801.

[114] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[115] Manntal 1835.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[116] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild.

[123] Sama heimild.

[124] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[125] Sama safnnr. Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[126] Jarðab. Á. og P. VII, 132.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 196.

[127] J. Johnsen 1847, 196.

[128] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825. Skipti á dánarbúi Margrétar Guðnadóttur á

Gelti 19.4. og 22.4.1814.

[129] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 203.

[130] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[131] Sama safnnr. Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[132] Jarðab. Á. og P. VII, 132.

[133] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[134] J. Johnsen 1847, 196.

[135] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 203.

[136] D.I. V, 642-643.

[137] Sama heimild.

[138] Sbr. Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 202.

[139] Sbr. Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 117.

[140] D.I. V, 642-643, 645 og 648-650.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Sama heimild, 649.

[145] Sama heimild, 648-649.

[146] Lögréttumannatal, bls. 218.

[147] Alþingisbækur Íslands III, 93 og 248-250.

[148] Sama heimild.

[149] Lögréttumannatal, bls. 451.

[150] Alþ.b. Íslands III, 93 og 248-250.

[151] Sama heimild.

[152] Íslenskar æviskrár III, 431 og VI, 285.  Jón Þorkelsson 1895, 93.  Sbr. Alþ.b. Íslands III, 248-250.

[153] Sömu heimildir.

[154] Ísl. æviskrár VI, 285.

[155] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 164.

[156] Sbr. Ísl. æviskrár III, 217 og VI, 285.

[157] Ísl. æviskrár III, 432.

[158] Ísl. æviskrár III, 432.

[159] Lögréttumannatal, bls. 158-159.

[160] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 164.

[161] Sbr. Ísl. æviskrár III, 172-173.

[162] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 164.

[163] Theódór Árnason 1968, 378 (Vestfirskar ættir IV).

[164] ÍB 114to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkur 2085.

[165] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 165.

[166] Sama heimild.

[167] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[168] Sama safnnr. Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[169] Sama heimild.

[170] ÍB 164to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkur 6434. Sbr. Manntal 1703, 210 og Jarðab. Á.og P. VII, 132.

[171] ÍB 164to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkur 6434. Sbr. Manntal 1703, 210 og Jarðab. Á.og P. VII, 132.

[172] ÍB 164to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkur 6434.

[173] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 165.  Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu

 1. Manntal 1703, 210.  Jarðab. Á. og P. VII, 132.

[174] ÍB 164to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkur 6434.  ÍB 144to, dálkar 5362-5363. Sbr. Ísl. æviskr. IV, 56.

[175] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[176] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 171.

[177] Manntal 1703.

[178] Jarðab. Á. og P. VII, 132.

[179] Sama heimild.

[180] Manntal 1703.

[181] Jarðab. Á. og P. VII, 132.

[182] Sama heimild.

[183] Manntal 1703.

[184] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[185] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 134-135. Gunnar M. Magnúss / Kr. G. Þorvaldsson 1977, 129-130.

[186] ÍB 114to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkur 2008-2009.

[187] Manntal 1703.

[188] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[189] Manntal 1762.  Ólafur Þ. Kristjánsson 1949, 98-99 (Frá ystu nesjum V).

[190] Manntal 1762.

[191] Jarðab. Á. og P. XIII, 304.  Manntal 1703, 210. Sbr. Vestf. ættir IV, 378. Ól.Þ.Kr. 1949, 99.

[192] Ól. Þ. Kr. 1949, 98-99.

[193] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Gunnar M. Magnúss / Kr. G. Þorvaldsson 1977, 130-132.

[194] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[195] Sama heimild.

[196] Sama heimild.

[197] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 303 og manntal 1816, 713.

[198] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825. Skipti á dánarbúi Margrétar Guðnadóttur á

Gelti 19.4. og 22.4. árið 1814.

[199] Skj.s. og sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805-1817, bls. 35.

[200] Manntal 1801 og nafnalykill þess.

[201] Sömu heimildir.

[202] Skj.s. og sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805-1817, bls. 35.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 133.

[206] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825. Skipti á dánarbúi Margrétar Guðnadóttur á

Gelti 19.4. og 22.4. árið 1814.

[207] Sama heimild.

[208] Ól. Þ. Kr. 1948, 73-74 (Frá ystu nesjumIV).

[209] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 153.

[210] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 153.

[211] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6.  Dóma- og þingbók, 1817-1834, bls. 181-182.

[212] Sama heimild.

[213] Sama heimild, 253-254.

[214] Sama heimild.

[215] Sama heimild.

[216] Sama skj.s. Ís. IV. 7. Dóma- og þingbók, 1835-1841, bls. 240-241.  Sama skj.safn Ís. XVI. 1.

Veðmálabók 1804-1844, bls. 123-124.

[217] Sama skj.s. Ís. XII. 5. Skiptabók 1836-1841, bls. 321-355.

[218] Sama heimild.

[219] J. Johnsen 1847, 196.

[220] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[221] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[222] Hsk. á Ísaf. nr. 190.

[223] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 128-184.

[224] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[225] Theódór Árnason 1968, 378 (Vestf. ættir IV).

[226] Lbs. 7074to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[227] Jarðab. Á. og P. VII, 132.

[228] Sama heimild, 44.

[229] Manntal 1703.

[230] Sama heimild.

[231] Sama heimild.

[232] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[233] Sama heimild.

[234] Sama heimild.

[235] Sama heimild.

[236] Sama heimild, 132.

[237] Sama heimild, 128-133.

[238] Sama heimild.

[239] Ísl. æviskrár III, 415.

[240] Manntal 1703.

[241] Ól. Þ. Kr. 1949, 99.

[242] Manntal 1703.

[243] Sama heimild.

[244] Jarðab. Á. og P. VII, 132-134.

[245] Sama heimild, 134.

[246] Sama heimild, 132.

[247] Sama heimild.

[248] Sama heimild.

[249] Sama heimild, 137.

[250] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[251] Ól. Þ. Kr. 1949, 98-99.  Sbr. Manntal 1703, 210.

[252] Manntal 1703.

[253] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[254] Sama heimild.

[255] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[256] Sama heimild.

[257] Ól. Þ. Kr. 1949, 98-99.

[258] Manntal 1762.

[259] Sama heimild.

[260] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 130.

[261] Sama heimild.

[262] Sama heimild.

[263] Sama heimild.  Sbr. Lögréttumannatal, bls. 272.

[264] Lögréttumannatal, bls. 272.

[265] Manntal 1801, vesturamt, bls. 227.

[266] Bogi Benediktsson / Sýslumannaæfir III, 210.  Ól. Þ. Kr. 1949, 101-102 (Frá ystu nesjum V).

[267] Manntal 1762.

[268] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[269] Manntal 1762.

[270] Sama heimild.

[271] Lbs. 26718vo, Dagbók séra Jóns Ásgeirssonar á Mýrum. Skrá hans um bókalán, rituð í dagbókina.

[272] Ísl. æviskrár III, 54.  Sbr. sama I, 380-381.

[273] Ól. Þ. Kr. 1949, 98-101.  Ísl. æviskrár II, 46.

[274] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 130.

[275] Sama heimild.

[276] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[277] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[278] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 132.

[279] Sama heimild.

[280] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34. Búnaðarskýrslur 1791.

[281] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[282] Sama heimild.

[283] Sama heimild.  Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, Búnaðarskýrslur 1791.

[284] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, Búnaðarskýrslur 1791.

[285] Sama heimild.

[286] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[287] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[288] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801, vesturamt, 303.

[289] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorvaldss.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, 29.  Sbr. Ól. Þ. Kr. 1945, 160 (Frá ystu nesjum III).

[290] Manntal 1801.

[291] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 29.

[292] Manntal 1816, 713.

[293] Ól. Þ. Kr. 1945, 160 (Frá ystu nesjum III).

[294] Sama heimild.

[295] Sama heimild.  Sbr. Ísl. æviskrár I, 425.

[296] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[297] Vestfirskar ættir II, 584.

[298] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 28.

[299] Sama heimild, 28-29.  Sbr. Vestf. ættir II, 584.

[300] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[301] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[302] Sömu heimildir.

[303] Ól. Þ. Kr. 1949, 98-102 (Frá ystu nesjum V).

[304] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 336 og 351.

[305] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[306] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[307] Sama heimild.

[308] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[309] Sama heimild.

[310] Manntal 1801, vesturamt, 359.  Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 367.

[311] Manntal 1801, vesturamt, 359.

[312] Sbr. Ól. Þ. Kr. 1949, 97-110 (Frá ystu nesjum V).

[313] Sama heimild.

[314] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[315] Sama heimild, febrúar 1795, mars 1797 og 1799.

[316] Sama heimild, febrúar 1795.

[317] Manntal 1801, vesturamt, 303.

[318] Sama heimild.

[319] Manntal 1816, 697.

[320] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801.

[321] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[322] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[323] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[324] Sama heimild.  Sbr. Rtk. Jarðabækur  V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[325] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 31-33.

[326] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[327] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 31-33.

[328] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[329] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[330] Sama heimild.

[331] Sama heimild.

[332] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 132-133.

[333] Sama heimild.  Manntal 1801, vesturamt, 330.  Manntal 1816, 698.  Vestf. ættir I, 156.

[334] Ól. Þ. Kr. 1949, 110 (Frá ystu nesjum V).

[335] ÍB 94to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkur 996.

[336] Ól. Þ. Kr. 1949, 110.  Manntal 1703.

[337] Ól. Þ. Kr. 1949, 110.

[338] Manntal 1801, vesturamt, 330.

[339] Sama heimild.

[340] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., apríl 1832.

[341] Manntal 1801, vesturamt, 330.  Sbr. Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., mars 1811.

[342] Sömu heimildir.

[343] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 133.

[344] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[345] Manntal 1816, 698.

[346] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805-1817, bls. 35.

[347] ÍB 94to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkur 996.

[348] Sbr. Frá ystu nesjum II, 1944, 186.

[349] Frá ystu nesjum II, 1944, 130-131.

[350] Sama heimild.

[351] Gunnar M. Magnúss / Kr. G. Þorvaldsson 1977, 133.  Frá ystu nesjum II, 1944, 186.  Vestf. ættir I, 156.

[352] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805-1817, bls. 24.

[353] Sama Dóma- og þingbók, bls. 153.

[354] Sama heimild.

[355] Sama heimild, 104.

[356] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[357] Sama heimild.

[358] Sama heimild.

[359] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[360] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[361] Sama heimild.

[362] Sama heimild.

[363] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[364] Sömu heimildir.  Sbr. Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 133.

[365] Sömu heimildir.

[366] Vestf. ættir I, 156.

[367] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 3. Skiptabók 1825-1836, bls. 23-46.

[368] Skýrslur um landshagi 1858 I, 262.

[369] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 3. Skiptabók 1825-1836, bls. 23-46.

[370] Sama heimild.

[371] Sama heimild.

[372] Sama heimild.

[373] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 3. Skiptabók 1825-1836, bls. 23-46.

[374] Sama heimild.

[375] Sama heimild.

[376] Sama heimild.

[377] Sama heimild.

[378] Sama heimild.

[379] Sama heimild.

[380] Sama heimild.

[381] Sama heimild.

[382] Sama heimild.

[383] Sama heimild.

[384] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 3. Skiptabók 1825-1836, bls. 23-46.

[385] Sama heimild.

[386] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 3. Skiptabók 1825-1836, bls. 23-46.

[387] Sama heimild.

[388] Sama heimild.

[389] Sama heimild.

[390] Sama heimild.

[391] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[392] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar … , bls. 40.

[393] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[394] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[395] Sama heimild.

[396] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 5. Skiptabók 1836-1841, bls. 321-355.

[397] Skýrslur um landshagi 1858, I, 262.

[398] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 5. Skiptabók 1836-1841, bls. 321-355.

[399] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 5. Skiptabók 1836-1841, bls. 321-355.

[400] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[401] Sömu heimildir.

[402] Sömu heimildir.

[403] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 136.

[404] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[405] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[406] Manntal 1860.

[407] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[408] Sömu heimildir.

[409] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 136.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9 og 11.

Dóma- og þingbækur 1841-1847 og 1848-1854.  Manntalsþing á Suðureyri 24.4.1846 og 11.5.1849.

[410] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1830. Sbr. sama askja, búnaðarskýrslur 1834.

[411] Sama heimild.

[412] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.

[413] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[414] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[415] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[416] Sama heimild.

[417] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[418] Sömu heimildir.  Manntöl 1801 og 1816.

[419] Manntal 1816.

[420] Sama heimild.

[421] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 133-134.

[422] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[423] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[424] Sömu heimildir.

[425] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., mars 1821.

[426] Sama heimild.

[427] Sbr. Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 133-134.

[428] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[429] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[430] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[431] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[432] Sama heimild.

[433] Sama heimild.

[434] Valdimar Þorvaldsson 1953, 70 (Frá ystu nesjum VI).  Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 134.

[435] Sömu heimildir, 70-73 og 133-135.

[436] Sömu heimildir.

[437] Valdimar Þorvaldsson 1953, 70-71.

[438] Sama heimild.

[439] Valdimar Þorvaldsson 1953, 72 (Frá ystu nesjum VI).

[440] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[441] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga

      Suðureyrar …, bls. 43.  Ísl. æviskrár I, 10-11 og II, 359-360.  Sóknarm.töl Flateyjar- og Múlasókna.

[442] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.son: Saga Suðureyrar…, bls. 44.  Sbr. Jón Þ. Þór 1984, 167, 234 og 270.

[443] Sama heimild.

[444] Sama heimild.

[445] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 7. Skiptabók 1844-1848. Skipti á dánarbúi Valdísar Örnólfsdóttur á

Suðureyri 3.8.1844.

[446] Sama heimild.

[447] Skýrslur um landshagi I, Kph. 1858, 262.

[448] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 7. Skiptabók 1844-1848. Skipti á dánarbúi Valdísar Örnólfsdóttur.

[449] Sama heimild.

[450] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 7. Skiptabók 1844-1848. Skipti á dánarbúi Valdísar Örnólfsdóttur.

[451] Sama heimild.

[452] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 135.

[453] Manntal 1860.

[454] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[455] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[456] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 46.

[457] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[458] Vestf. ættir II, 449.

[459] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 136.

[460] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[461] Sama heimild.

[462] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[463] Manntal 1816, 689.

[464] Sama heimild, 688-696,

[465] Prestsþj.b. Holts í Önundarf., fæddir sveinar 1816, 1817 og 1818.

[466] Sama heimild.

[467] Vestf. ættir II, 413, 439 og 449.

[468] Sama heimild, 449.

[469] Sama heimild.

[470] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 141.

[471] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[472] Hsk.á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar … , bls. 54.

[473] Vestf. ættir II, 449.

[474] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[475] Manntal 1845.

[476] Sama heimild.

[477] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[478] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 11. Dóma- og þingbók 1848-1854.  Manntalsþing á Suðureyri 11.5.1849.

[479] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 138.

[480] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[481] Sama heimild.

[482] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[483] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[484] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[485] Lbs. 44114to, Valdimar Þorvaldsson.

[486] Sama heimild.

[487] Sama heimild.

[488] Sama heimild.

[489] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 138-139.

[490] Sama heimild, 138-140.

[491] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[492] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 139.

[493] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[494] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[495] Sama heimild.

[496] Sama heimild.  Manntal 1860.

[497] Sóknarm.töl og prestsþj.bækur Staðar í Súgandaf.  Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850, 1855 og 1860.

[498] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Suðureyri og … , bls. 84-85.

[499] Sama heimild.

[500] Sama heimild.

[501] Sama heimild.

[502] Sama heimild.

[503] Vestf. ættir II, 449.

[504] Vestf. ættir II, 449.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[505] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 56.

[506] Sömu heimildir.  VA III, 420, búnaðarskýrslur 1867.

[507] J. Johnsen 1847, 196.

[508] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 46.

[509] Sama heimild.

[510] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[511] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 139.  Ól. Þ. Kr. 1945, 155 (Frá ystu nesjum III).

[512] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrari og … , bls. 139.

[513] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. 13. Dóma- og þingbók 1858-1867, manntalsþing á Suðureyri 15.7.1863.

[514] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 142-143.

[515] VA III, 420, búnaðarskýrslur .

[516] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[517] Sama heimild.  Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 145.

[518] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 154.  Sbr. Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um

ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi árið 1902.

[519] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 165-166.

[520] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 139-140.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók, bls. 104.

[521] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrari og … , bls. 46.

[522] Sama heimild, 138.

[523] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.  Sbr. Prestsþj.b. og

sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[524] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[525] Sömu heimildir.

[526] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 72-73.

[527] Sama heimild.

[528] Hsk.á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 72-73.

[529] Gunnar M. Magnúss 1977, 452.

[530] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 72-73.

[531] Sama heimild.

[532] Sama heimild, 73-74.

[533] Sama heimild.

[534] Sama heimild.

[535] Sama heimild.

[536] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 73-74.

[537] Sama heimild.

[538] Sama heimild, 74-76.

[539] Sama heimild.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[540] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 73-74.  Vestf. ættir I, 307 og 326-327.

[541] Vestf. ættir I, 326.

[542] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 76,

[543] Sama heimild, 72 og 74.

[544] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. VA III, 418, bún.sk. 1862 og 1863.  VA III, 419, bún.sk. 1865 og 1866.

[545] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[546] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[547] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[548] Sama heimild.

[549] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902. Skýrsla um framtal til

lausafjártíundar 1895.

[550] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 79.

[551] Sama heimild.

[552] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi 1902.

[553] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[554] Skj. Suðureyrarhr. varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhr.  1888-1902. Skýrsla um framtal til lausafj.tíundar 1895.

[555] Sama heimild.

[556] Sama heimild.

[557] Sama heimild.

[558] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 79-80.

[559] Sama heimild.

[560] Sama heimild.

[561] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 79-80.

[562] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[563] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23-24.

[564] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 79.

[565] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 24-25.

[566] Sama heimild.

[567] Sama heimild.

[568] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 12.7., 16.7. og 1.8.1897.

[569] Sama heimild.

[570] Sama heimild.

[571] Sama heimild.

[572]  Sama heimild. Manntal 1940.

[573] Hsk. Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 77.

[574] Sama heimild.

[575] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 50.

[576] Sbr. Einar Laxness 1995, 209-210.

[577] Skjöl Suðureyrarhr. varðveitt þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð 22.6.1889.

[578] Skjöl Suðureyrarhr. varðveitt þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð 22.6.1889.

[579] Sama Fundabók, fundargerðir og bréf frá árunum 1889-1904.

[580] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 80.

[581] Sama heimild, 69.

[582] Sama heimild, 82-86.

[583] Sama heimild.

[584] Sama heimild.

[585] Sama heimild, 82.

[586] Sama heimild.

[587] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls, 85.

[588] Sama heimild.

[589] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[590] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 82.

[591] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 5-7 (Ársrit S.Í.).

[592] Sama heimild.

[593] Sama heimild.

[594] Sama heimild.

[595] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[596] Sama heimild.

[597] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 5-7.

[598] Sama heimild.

[599] Ól. Þ. Kr. 1945, 157-158 (Frá ystu nesjum III).

[600] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[601] Sama heimild.

[602] Sama heimild.

[603] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 8 (Ársrit S.Í.).  Ól. Þ. Kr. 1945, 157-158 (Frá ystu nesjum III).

[604] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 8.

[605] Sama heimild.

[606] Sama heimild.

[607] Sama heimild.

[608] Sama heimild, 8-9.

[609] Sama heimild.

[610] Sama heimild.

[611] Sama heimild.

[612] Lbs. 44104to, Valdimar . Þorv.son, 129-130.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.son: Saga Suðureyrar og … , 298-299.

[613] Sömu heimildir.

[614] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[615] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[616] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 9.

[617] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[618] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[619] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[620] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 17, 19, 22-23 og 28 (Ársrit S.Í.).

[621] Sama heimild, 24.

[622] Sama heimild, 13.

[623] Sama heimild.  Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi árið 1902.

[624] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 13.

[625] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[626] Sama heimild.

[627] Skj.s. Suðureyrarhr. varðv. þar: Bók fyrir Suður…  1888-1902. Skýrsla um framtal til lausafj.tíundar 1895.

[628] Skj.s. Suðureyrarhr., varðveitt þar.  Bók f. Suðureyrarhr. Skýrsla um framtal til lausafjártíundar 1901.

[629] Sama heimild.

[630] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 9.12.1894.

[631] Skj. Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók fyrir Suður…  1888-1902. Skýrsla um framtal til lausafj.tíundar 1888.

[632] Skj. Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók fyrir Suður…  1888-1902. Skýrsla um framtal til lausafj.tíundar 1888.

[633] Sama Bók f. Suðureyrarhr. Skýrsla um framtal til lausafjártíundar 1901.

[634] Sama heimild.

[635] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 14 (Ársrit S.Í.).

[636] Sama heimild.

[637] Sama heimild.

[638] Sama heimild.

[639] VA III, 417 og 421, búnaðarskýrslur 1860 og 1870.

[640] VA III, 422, búnaðarskýrslur 1874-1876.

[641] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1873.  VA III, 422, búnaðarskýrslur 1874-1876.

[642] VA III, 423, búnaðarskýrslur 1877.

[643] Sama heimild.

[644] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók nr. 5, bls. 19.

[645] Sama heimild.

[646] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 11 og 24 (Ársrit S.Í.).

[647] VA III, 424, bún.sk. 1880.  Skj. Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók f. Suðureyrarhrepp 1888-1902, skýrslur

um framtal til lausafjártíundar frá árunum 1888, 1891, 1895, 1900 og 1901.

[648] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 130.

[649] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 10 (Ársrit S.Í.).

[650] Sama heimild, 11.

[651] Sama heimild.

[652] Sama heimild.

[653] Sama heimild.

[654] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 12 (Ársrit S.Í.).

[655] Sama heimild.

[656] Sama heimild.

[657] Sama heimild.

[658] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 12-13 (Ársrit S.Í.).

[659] Sama heimild, 12.  Ársrit Sögufél. Ísf. 1963, 151.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

Eyjólfur Jónsson 1967, 52.

[660] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 11.

[661] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 130.

[662] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 10.

[663] Sama heimild, 26-27.

[664] Sama heimild.

[665] Lúðvík Kristjánsson 1985, 59-67.

[666] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 26-27 (Ársrit S.Í.).

[667] Sama heimild.

[668] Sama heimild.

[669] Sama heimild.  Sbr. Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 141-142.

[670] Sama heimild.

[671] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 26-27 (Ársrit S.Í.).

[672] Sama heimild, 28.

[673] Sama heimild.

[674] Gunnar M. Magnúss 1977, 274.

[675] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 28.

[676] Sama heimild.

[677] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 28 (Ársrit S.Í.).

[678] Sama heimild, 30.

[679] Sama heimild, 28.

[680] Sama heimild, 28 og 30.

[681] Sama heimild.

[682] Sama heimild, 15-16 og 34-45.

[683] Sama heimild, 15-16.

[684] Sama heimild.

[685] Sama heimild.  Vestf. ættir II, 449-453.

[686] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 16 (Ársrit S.Í.).

[687] Sama heimild.

[688] Sama heimild, 17.

[689] Sama heimild.

[690] Sama heimild, 18.  Sbr. Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., nóvember 1881.

[691] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 18 (Ársrit S.Í.).

[692] Sama heimild.

[693] Sama heimild. Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandafirði.

[694] Sama heimild.

[695] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 48.

[696] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 25.

[697] Sama heimild.

[698] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 25.

[699] Sama heimild.

[700] Sama heimild.

[701] Sama heimild.

[702] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 25 (Ársrit S.Í.).

[703] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 16.1.1895, 4.4.1897 og 18.9.1897.

[704] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 3.5.1900.

[705] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 25-26.

[706] Sama heimild.

[707] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 25.

[708] Sama heimild.

[709] Sama heimild.

[710] Sama heimild.

[711] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 66.

[712] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[713] Manntal 1901.

[714] Sama heimild.

[715] Sama heimild.

[716] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[717] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[718] Lbs. án safnnr. Bréfabók Hjálmars Jónssonar, kaupmanns á Flateyri frá árunum 1879-1886. Bréf hans 15.6.1882 til Kristjáns Albertssonar á Suðureyri, afrit.

[719] Lbs. án safnnr. Bréfabók Hjálmars Jónssonar, kaupmanns á Flateyri frá árunum 1879-1886. Bréf hans 15.6.1882 til Kristjáns Albertssonar á Suðureyri, afrit.

[720] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 312-313.

[721] Stjórnartíðindi 1886 B, bls. 26-27.

[722] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 312-313.

[723] Sama heimild.

[724] Sama heimild.

[725] Sama heimild.

[726] Sama heimild.

[727] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 134.  Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1962, 22 (Ársrit S.Í.).

[728] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 10.

[729] Sama heimild.

[730] Sama heimild, 22.

[731] Sama heimild.

[732] Sama heimild, 22-23.

[733] Sama heimild.

[734] Sama heimild.

[735] Sama heimild.

[736] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 7.5.1891.

[737] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 320.

[738] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 8.5.1891.  Sbr. Skrá yfir húseignir á Suðureyri, ritaða á árunum upp úr 1940 af Kristjáni Albert Kristjánssyni, bls. 108. Skráin var 1996 í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[739] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 8.5.1891.

[740] Sama dagbók 9.5.1891.

[741] Sama dagbók 11.5. og 12.5.1891.

[742] Sama dagbók 14.5.1891.

[743] Sama heimild.

[744] Sama heimild.

[745] Sama dagbók 19.5.1891.

[746] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 19.5.1891.

[747] Sama dagbók 26.3.1889.

[748] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 137.

[749] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kristjáni Albert Kristjánssyni,bls. 108.

Skráin var 1996 í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[750] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og   … , bls. 320.

[751] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 22-23 (Ársrit S.Í.).

[752] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 137.

[753] Sama heimild.

[754] Sama heimild.

[755] Sama heimild.

[756] Sama heimild.

[757] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 24.

[758] Sama heimild.

[759] Sama heimild.

[760] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 13.11.1894 og 16.5.1897.

[761] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 24.

[762] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 24.  Gunnar M. Magnúss 1977, 239.

[763] Gunnar M. Magnúss 1977, 239.

[764] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 24.

[765] Sama heimild, 23-24.

[766] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 23-24 (Ársrit S.Í.).

[767] Sama heimild.

[768] Sama heimild, 34.

[769] Sama heimild.

[770] Sama heimild.

[771] Sama heimild, 19-22.

[772] Jón Guðnason 1968, 94-96.  Sami 1974, 272-279.

[773] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 48.

[774] Þorvaldur Kolbeins 1952, 8 (Ættir Kristjáns Alberts Kristjánssonar ……. ).

[775] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 5 og 30-32.

[776] Sama heimild, 30-31.

[777] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 30-31 (Ársrit S.Í.).

[778] Sama heimild.  Gunnar M. Magnúss 1977, 294-298.

[779] Sömu heimildir.

[780] Sömu heimildir.

[781] Sömu heimildir.

[782] Sömu heimildir.

[783] Sömu heimildir.

[784] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 31-32.

[785] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1962, 31.

[786] Sömu sóknarm.töl.

[787] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 31-32.

[788] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9.

[789] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.8.1916.

[790] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, 4-6.  Gjörðabók

undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, 266, 286 og 295-297.  Fasteignabók 1921, 81-82.

[791] Fasteignabók 1921, bls. 81.

[792] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 4.

[793] Sama  heimild bls. 257. Sama heimildasafn.  Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 266.

[794] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 2-8.

[795] Fasteignabók 1921, 81.

[796] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 31 (Ársrit S.Í.).

[797] Sama heimild.

[798] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kristjáni Albert Kristjánssyni,bls. 16.

Skráin var 1996 í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[799] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 32.

[800] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 31.

[801] Sama heimild.

[802] Gunnar M. Magnúss 1977, 184 og 305-308.  Morgunblaðið 5.1.1993, bls. 18 og 19.

[803] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 31.

[804] Sama heimild, 31-32.  Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kristjáni Albert

Kristjánssyni,bls. 16. Skráin var 1996 í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[805] Sigríður Pétursdóttir frá Laugum. – Viðtal K.Ó. við hana 3.5.1996.

[806] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 157.

[807] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 31-32 (Ársrit S.Í.).

[808] Sama heimild.

[809] Sama heimild.

[810] Sama heimild.

[811] Sama heimild, 34-38.

[812] Sama heimild, 32.

[813] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Einar Jónsson 1982, 69-73 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[814] Lbs. 38574to – 38614to, Dagbók Einars Jónssonar.

[815] Einar Jónsson 1982, 69 (Ársrit S.Í.).

[816] Sama heimild.

[817] Einar Jónsson 1982, 69 (Ársrit S.Í.).

[818] Sama heimild.  Sbr. Vestf. ættir I, 307.

[819] Sama heimild.

[820] Sama heimild.

[821] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 60.

[822] Sama heimild.

[823] Sama heimild.

[824] Einar Jónsson 1982, 69 (Ársrit S.Í.).

[825] Sama heimild.

[826] Einar Jónsson 1982, 69 (Ársrit S.Í.).

[827] Sama heimild.

[828] Sama heimild.

[829] Sama heimild, 71.

[830] Einar Jónsson 1982, 71-72 (Ársrit S.Í.).

[831] Sama heimild.

[832] Sama heimild, 69-73.

[833] Sama heimild.

[834] Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 172, 255, 285, 290-291.

[835] Einar Jónsson 1982, 72 (Ársrit S.Í.).  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[836] Sama heimild.

[837] Sama heimild, 72-73.

[838] Sama heimild.

[839] Sama heimild.

[840] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 49.

[841] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 14.12.1894.

[842] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 31.12.1889.

[843] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 30.11., 1.12. og 14.12.1894.

[844] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 20.4.1898.

[845] Sama dagbók 10.5.1898.

[846] Sbr. Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 90.

[847] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 15.5.1894.

[848] Sama dagbók 23.6.1894.

[849] Sama heimild.

[850] Sama dagbók 9. og 10.7.1894.

[851] Sama dagbók 10.7.1894.

[852] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 12. og 25.7.1894.

[853] Sama dagbók 25.7. og 2.8.1894.

[854] Sama dagbók 18.7.1894.

[855] Sama dagbók 18. og 19.7.1894.

[856] Sama heimild.

[857] Sama dagbók 23.7.1894.

[858] Sama heimild.

[859] Sama dagbók 27.7.1894.

[860] Sama dagbók 30.7.1894.

[861] Sama dagbók 15.8.1894.

[862] Sama dagbók 3.8.1894.

[863] Sama dagbók 1.– 14.8.1894.

[864] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 1.– 14.8.1894.

[865] Sama dagbók 15.8.1894.

[866] Sama dagbók 15.8. – 6.9.1894.

[867] Sama dagbók 16.8.1894.

[868] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 28.8. og 31.8.1894.

[869] Sama dagbók 15.8. – 6.9.1894.

[870] Sama dagbók 6.9.1894.

[871] Sama heimild.

[872] Sama dagbók 6.9. – 11.9.1894.

[873] Sama dagbók 12.9. – 18.9.1894.

[874] Sama heimild.

[875] Sama dagbók 14.9. og 22.9.1894.

[876] Sama dagbók 27.9.1894.

[877] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 5. – 8.12.1894.

[878] Sama heimild.

[879] Sama heimild.

[880] Manntal 1890.

[881] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 8.12.1889.

[882] Sama heimild.

[883] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 7.10.1894.

[884] Sama heimild.

[885] Sama heimild.

[886] Sama heimild.

[887] Sama dagbók 9.9. og 10.9.1894.

[888] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 8.10.1894.

[889] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 8.10. og 9.10.1894.

[890] Kristjana Friðbertsdóttir, fædd 1884. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968, varðveitt á segulbandi.  Sbr. Vestf. ættir II, 517.

[891] Sama heimild.

[892] Sama heimild.

[893] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 25.12. og 31.12.1894 og 1.1.1895.

[894] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 24.12.1894.

[895] Sama dagbók 13.1.1895.

[896] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[897] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[898] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 11.10.1896.

[899] Sama dagbók 11.10.1896.

[900] Sama heimild.

[901] Sama dagbók 26.9.1897.

[902] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 26.9.1897.

[903] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 16.1.1898.

[904] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 18.6.1905 og 16.9. 1906.

[905] Sama dagbók 18.6.1905.

[906] Sama dagbók 16.9.1906.

[907] Sama heimild.

[908] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 90.

[909] Sama heimild.

[910] Sama heimild.

[911] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 90.

[912] Sama heimild.

[913] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.7.1996.

[914] Sama heimild.

[915] Sama heimild.

[916] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 90.

[917] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 90-91.

[918] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar,

handrit í eigu K.Ó.

[919] Sama heimild.

[920] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.7.1996.

[921] Ólafur Olavius 1964, 216.

[922] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 119-120 (Ferðabók II).

[923] Gunnar M. Magnúss 1977, 60.

[924] Sama heimild.

[925] Jarðab. Á. og P. VII, 132-133.

[926] Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags 1875, bls. 32.

[927] Ól. Olavius 1964, I, 185 og 216.

[928] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[929] Jón J. Aðils 1971, 419-420.  Gísli Gunnarsson 1987, 258.

[930] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[931] Sama heimild.

[932] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 122-123.

[933] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2.

[934] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2.

[935] Sama heimild, 3.

[936] Manntal 1940.

[937] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 11.

[938] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 11-12.

[939] Sama heimild.

[940] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 114.  Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2.

[941] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 114.

[942] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2.

[943] Sama heimild.

[944] Lbs. 44114to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 1.

[945] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 100.

[946] Sama heimild.

[947] Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850 og 1855.  Sóknarm.töl Vatnsfjarðar 1828-1835.

[948] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[949] Sóknalýs. Vestfj. II, 113.

[950] Sama heimild, 116.

[951] Sama heimild.

[952] Séra Pétur Guðmundsson / Annáll nítjándu aldar I, 202.

[953] Séra Pétur Guðmundsson / Annáll nítjándu aldar I, 202.

[954] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 132-133.

[955] Sama heimild.

[956] Manntal 1801, vesturamt, bls. 305.

[957] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[958] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[959] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 122.

[960] Þórður Sigurðsson 1986, 27-28 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[961] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 76-77.

[962] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns , bls. 143.

[963] Skj.s. Suðureyrarhr. varðv. þar: Bók fyrir Suður…  1888-1902. Skýrsla um framtal til lausafj.tíundar  1895.

[964] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og   …  , bls. 215.

[965] Lbs. 25604to, Magnús Hjaltason, grænleit bók, lítil.

[966] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 15.5. og 27.6.1889.

[967] Sama heimild.

[968] Sbr. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[969] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, I, 65-66.

[970] Sama heimild.

[971] Sama heimild.

[972] Bjarni Sæmundsson / Andvari 1903, 100-101.

[973] Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrsla fyrir árið 1900.

[974] Bjarni Sæmundsson / Andvari 1903, 100-101.

[975] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 16.5.1894.

[976] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.6.1899.

[977] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 144.

[978] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8.

[979] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.6.1899.

[980] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 10.8.1897.

[981] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 10-11.

[982] Sama heimild.

[983] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 10-11.

[984] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  …  , bls. 153.

[985] Sama heimild.

[986] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og   …  , bls. 80-81.

[987] Sama heimild.

[988] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 128-130.  Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 10.

[989] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  …  , bls. 209.

[990] Almanak Hins ísl. þjóðvinafél. 1875, bls. 32.

[991] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  …  , bls. 143.

[992] Stjórnartíðindi 1901 B, 40-41.

[993] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  …  , bls. 143.

[994] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 30.4. og 1.5.1889.

[995] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[996] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 30.4. og 1.5.1889.

[997] Sama dagbók febrúar og mars 1889.

[998] Sama dagbók 23.4.1889.

[999] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 31.3.1894.

[1000] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 7.4. og 26.4.1894.

[1001] Sama dagbók 26.4.1894.

[1002] Sama dagbók apríl – júní 1894.

[1003] Sama heimild.

[1004] Sama dagbók 6.4.1894.

[1005] Sama heimild.

[1006] Sama dagbók apríl – júní 1894.

[1007] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 15.5.1894.

[1008] Sama dagbók apríl 1894.

[1009] Sama dagbók 9.5.1894.

[1010] Sama dagbók 17.5.1894.

[1011] Sama dagbók 7. og 8.6.1894.

[1012] Sama heimild.

[1013] Sama dagbók 22.6. og 26.6.1894.

[1014] Sama dagbók júní og júlí 1894. Sbr. sömu dagbók 9.7. 1896.

[1015] Sama dagbók 9.7.1894.

[1016] Sama dagbók 2.7.1894.

[1017] Sama dagbók 4.7.1894.

[1018] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 22.9.1894.

[1019] Sama dagbók 15.12. og 19.12.1894, 17.1., 24.1. og 26.1.1895.

[1020] Sama dagbók 1.2.1895.

[1021] Sama dagbók 15.12.1894 og 17.1.1895.

[1022] Sama dagbók 5.3.1895.

[1023] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 7.3.1895.

[1024] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1025] Sama heimild.

[1026] Sama heimild.

[1027] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1028] Sama heimild.

[1029] Páll Hallbjörnsson 1969, 63-64 (Flotið á fleyjum tólf).

[1030] Sama heimild.

[1031] Sama heimild.

[1032] Sama heimild.

[1033] Sama heimild.

[1034] Manntal 1940.

[1035] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1036] Sama heimild.

[1037] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1038] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1039] Sbr. Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 276-277 og 332.

[1040] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1911.

[1041] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1042] Sama heimild.

[1043] Gunnar M. Magnúss / Kr. G. Þorv.son 1977, 329.  Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1044] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1045] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.  Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp

úr 1940 af Kristjáni Albert Kristjánssyni, bls. 56. Skráin var 1996  í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[1046] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1047] Sama heimild.

[1048] Sama heimild.

[1049] Sama heimild. 124.

[1050] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1051] Sama heimild.

[1052] Sama heimild.

[1053] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2.

[1054] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1055] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1056] Sama heimild.

[1057] Sama heimild.

[1058] Sama heimild.  Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1059] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1060] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1061] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kristjáni Albert Kristjánssyni, bls. 88. Skráin var  árið 1996 í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[1062] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 19.10.1899.

[1063] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Ævisaga – Upphaf, bls. 171.

[1064] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1065] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1066] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1067] Sama heimild.

[1068] Sama heimild.

[1069] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123-125.

[1070] Sama heimild.

[1071] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 118. Skráin var 1996 í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[1072] Gunnar M. Magnúss 1977, 379-380.

[1073] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.  Marías Þórðarson. – Viðtal K.Ó. við hann s. dag.

[1074] Marías Þórðarson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1075] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 125.

[1076] Sama heimild, 125-126.

[1077] Sama heimild.

[1078] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 125-126.

[1079] Sama heimild.

[1080] Sama heimild.

[1081] Sama heimild.

[1082] Sama heimild.

[1083] Sama heimild.  Kristján G. Þorvaldsson 1962, 14 (Ársrit S.Í.).

[1084] Sbr. Hsk. á  Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 153.

[1085] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 126.

[1086] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 14 (Ársrit S.Í.).

[1087] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2.

[1088] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 126.

[1089] Sama heimild.

[1090] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 14.

[1091] Sbr. sömu heimild.

[1092] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson bls. 126 og 137-138.

[1093] Sama heimild, 137-138.

[1094] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson bls. 137-138.

[1095] Sama heimild.  Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1962, 14.

[1096] Sama heimild.

[1097] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 22-23.

[1098] Lbs. 44104to, V. Þorv.son bls. 137-138. Sbr. Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.son: Saga Suðureyrar  og  … , 331-332.

[1099] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson bls. 125.

[1100] Sama heimild.

[1101] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson bls. 125.

[1102] Sama heimild, 137-138.

[1103] Sama heimild.

[1104] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson bls. 137-138.

[1105] Sama heimild.

[1106] Sama heimild.

[1107] Sama heimild

[1108] Hsk. á Ísaf. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og   … , bls. 182.

[1109] Sama heimild, 331-332.

[1110] Guðrún Valdimarsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 26.6.1996.

[1111] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 108. Skráin var 1996 í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[1112] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1113] Sama heimild, 1802.

[1114] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1115] Sama heimild.

[1116] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 6.9.1889.  Manntal 1890.

[1117] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1118] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1119] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 6.9.1889.

[1120] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 24.2.1889.

[1121] Sama dagbók 10.7.1889.

[1122] Sama heimild.

[1123] Sbr. sömu dagbók 21.7., 25.7., 20.8., 31.8. og 6.9.1889.

[1124] Sama dagbók 6.9.1889.

[1125] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 8.10. og 8.11.1889 og 22.1.1890.

[1126] Manntal 1890.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1127] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Ögurþinga og Staðar í Súgandaf.

[1128] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Ögurþinga.

[1129] Sömu heimildir.  Manntal 1845, vesturamt, bls. 314.

[1130] Manntal 1855.

[1131] Manntal 1840. Æðey í Snæfjallahr. í N-Ís.

[1132] Sama heimild.

[1133] Manntal 1845, vesturamt, bls. 332.

[1134] Manntal 1845, vesturamt, bls. 332.

[1135] Sama heimild.

[1136] Manntal 1850.

[1137] Manntal 1855.

[1138] Manntal 1860.

[1139] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1140] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1141] Sömu heimildir.

[1142] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1143] Skrá yfir húseignir á Suðureyri  frá árunum upp úr  1940, samin af Kr. A. Kr.syni, bls. 88. Skráin var 1996 í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1144] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.  Sbr. Vestf. ættir I, 402-403.

[1145] Sama heimild.

[1146] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir I, 402.

[1147] Manntal 1890.

[1148] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 124. Sami Lbs. 44094to  bls. 14.           

[1149] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 138.  Sbr. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 18.11.1894.

[1150] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 10.12.1894.

[1151] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1152] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1153] Sama heimild, 329. Sbr. þar bls. 100, 241, 255, 294, 332, 428 og 468.

[1154] Sama heimild, 302.

[1155] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1156] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 138.

[1157] Sama heimild.

[1158] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og   … , bls. 350.

[1159] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1160] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og   … , bls. 350.

[1161] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1162] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 51.

[1163] Vestf. ættir II, 449.

[1164] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1165] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir II, 449.

[1166] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1167] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 138.

[1168] Sama heimild.  Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1169] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.  Skj.s. Suðureyrarhr. varðv. þar: Bók fyrir

       Suðureyrarhr.  1888-1902. Skýrsla um framtal til lausafj.tíundar 1895.

[1170] Sama hreppsbók. Skýrsla um framtal til lausafj.tíundar 1900.

[1171] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 124.

[1172] Vestf. ættir II, 449.

[1173] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1174] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1175] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1911.

[1176] Lbs. 4410to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 138.

[1177] Sama heimild, 123-124.  Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1178] Manntal 1940.

[1179] Sama heimild.

[1180] Sama heimild.

[1181] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1182] Manntal 1845, vesturamt, bls. 284.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[1183] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Holts í Önundarf. og Staðar í Súgandaf.

[1184] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 138.  Sbr. Manntal 1901.

[1185] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1186] Skj.Suðureyrarhr. varðv. þar: Bók fyrir Suður…  1888-1902. Skýrsla um framtal til lausafj.tíundar 1900.

[1187] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 138.

[1188] Manntal 1901.

[1189] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 123.

[1190] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Staðar í Súgandafirði.

[1191] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1192] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.  Manntal 1901.

[1193] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1194] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 138-139.

[1195] Sama heimild.

[1196] Sama heimild.

[1197] Sama heimild.  Sbr. Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1198] Sama heimild.

[1199] Sama heimild.

[1200] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 138.

[1201] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1202] Skrá yfir húseignir á Suðureyri frá árunum upp úr 1940, rituð af Kr. A. Kr.syni, bls. 60. Skráin var 1996 í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1203] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 272-273.

[1204] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 272-273.

[1205] Sama heimild.

[1206] Sama heimild.

[1207] Sama heimild.

[1208] Sama heimild.

[1209] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 155.

[1210] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1911.

[1211] Gunnar M. Magnúss / Kr. G. Þorvaldsson 1977, 329-331. Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 139.

[1212] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329-331.

[1213] Sama heimild.

[1214] Sama heimild.

[1215] Sama heimild.

[1216] Sama heimild.

[1217] Sama heimild.

[1218] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329-331.

[1219] Sama heimild.

[1220] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 28.6., 2.9. og 11.9.1904.

[1221] Sama heimild.  Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 139.

[1222] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 330.

[1223] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 330.

[1224] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 11.9.1904.

[1225] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 139.

[1226] Sama heimild.

[1227] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1228] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 7.4.1904.  Sbr. Skrá yfir húseignir á Suðureyri, ritaða á árunum

upp úr  1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 102. Skráin var 1996 í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1229] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 15.10.1904.

[1230] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1911.

[1231] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1911.

[1232] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1233] Sama heimild.

[1234] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 2.9.1904.  Kristján G. Þorvaldsson 1962, 27-28 (Ársrit S.Í.).

Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.2.1915.

[1235] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 27-28.

[1236] Sama heimild.

[1237] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1911.

[1238] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 27.

[1239] Guðmundur Valgeir Hallbjörnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1240] Sama heimild.

[1241] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.2.1915.

[1242] Sama heimild.  Sbr. Lbs. 22324to, Sama dagbók 26.7. og 27.7.1914.

[1243] Gunnar M. Magnúss 1977, 324.  Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 20.1.1911.

[1244] Gunnar M. Magnúss 1977, 324.

[1245] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 273.

[1246] Sama heimild.

[1247] Sama heimild.

[1248] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr  1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 6. Skráin var 1996  í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1249] Marías Þórðarson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1250] Marías Þórðarson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1251] Sama heimild.

[1252] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr  1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 6. Skráin var 1996  í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1253] Sama húsaskrá.

[1254] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 115-116.

[1255] Sama heimild.

[1256] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1911.  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 331-332.

[1257] Sömu heimildir.

[1258] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1259] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 12.8.1911.

[1260] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr  1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 28. Skráin var 1996  í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1261] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 20.7.1912.

[1262] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr  1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 72. Skráin var 1996  í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1263] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 158-159.

[1264] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr  1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 30. Skráin var 1996  í eigu Spsj. á Suðureyri. Lbs. 22304to, Dagb. Magnúsar Hjaltasonar 12.5.1913.

[1265] Sama skrá yfir húseignir, bls. 30. Lbs. 22304to, Dagb. Magnúsar Hjaltasonar 12.5.1913.

[1266] Sama skrá yfir húseignir, bls.66.

[1267] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 26. Skráin var 1996 í eigu Spsj. á Suðureyri.  Lbs. 22314to, Dagbók M. Hjaltasonar 30.7.1913.  Lbs. 22334to, Sama dagbók 22.3. 1916.

[1268] Gunnar M. Magnúss 1977, 295-296.

[1269] Svanfríður Örnólfsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 20.6.1996.

[1270] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 158-159.

[1271] Óskar Jónsson 1956, 37 og 220-222.

[1272] Sama heimild.

[1273] Sama heimild, 220-222.

[1274] Svanfríður Örnólfsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 20.6.1996.

[1275] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 10 og 26. Skráin var 1996 í eigu Spsj. á Suðureyri.  Lbs. 22324to, Dagbók M. Hj. 14.5. og 9.6.1914.  Lbs. 22334to, Sama dagbók 30.1.1915.

[1276] Sama skrá Kr. A. Kr. yfir húseignir á Suðureyri, bls. 10.

[1277] Sama skrá yfir húseignir á Suðureyri, bls. 26.  Lbs. 22324to, Dagbók M. Hjaltasonar 14.5. og 9.6.1914.

[1278] Sama skrá yfir húseignir á Suðureyri, bls. 24, 32, 42, 50, 86, 92, 112, 124 og 128.  Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.7. og 26.7.1912.  Lbs. 22304to, Sama dagbók 27.3.1913.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 84.  Gunnar M. Magnúss 1977, bls. 330.

[1279] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[1280] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni. Skráin var 1996 í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[1281] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 266-297.

[1282] Manntal 1901.

[1283] Lbs. 44094to, V. Þorvaldsson, bls. 32-33.  Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, 274.

Sbr. Lbs. 38614to,  Dagbók Einars Jónssonar 29.6.1904.

[1284] Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, 274.

[1285] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 12.7.1896.

[1286] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 12.7.1896.

[1287] Sóknarm.töl Staðar í Súgandafirði.  Manntöl 1901 og 1920.

[1288] Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, bls. 274.  Sbr. Jón Þ. Þór 1988, 34-36.

[1289] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 5.4.1904.

[1290] Sóknarm.t. Eyrarpr.k. í Skutulsf. Manntal 1901, Ísafj. Pr.þj.b. og sóknarm.t. Dýrafj.þ. og Sanda í Dýraf.

[1291] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 28.3. og 7.4.1904.

[1292] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 28.3.1904.

[1293] Sama dagbók 7.4.1904.

[1294] Sama heimild.

[1295] Sama dagbók 5.4.1904.

[1296] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 28 (Ársrit S.Í.).

[1297] Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, 274.

[1298] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 144.

[1299] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 11.4.1906.

[1300] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 28.

[1301] Sbr. Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 1.3. – 31.3.1906.

[1302] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 144.  Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, 274.

[1303] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 226.

[1304] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 28 (Ársrit S.Í.).

[1305] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 23.4. og 3.9.1889.

[1306] Vestf. ættir II, 450.

[1307] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 28.

[1308] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 144-145.

[1309] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 255-275.

[1310] Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, 274.

[1311] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 255-275.

[1312] Sama heimild.

[1313] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 145.

[1314] Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, 274.

[1315] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 19.8.1906.

[1316] Sama heimild.

[1317] Sama heimild.

[1318] Sama dagbók 3.9.1906.

[1319] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 145.

[1320] Vestf. ættir I, 327.

[1321] Gunnar M. Magnúss 1977, 287 og 290.

[1322] Gunnar M. Magnúss 1977, 287 og 290.

[1323] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 145.

[1324] Sama heimild.

[1325] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 28 (Ársrit S.Í.).  Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 144.

[1326] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 144.

[1327] Sama heimild.

[1328] Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, 274.

[1329] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 5.9.1906.

[1330] Sbr. Sama dagbók 19.6.1904.

[1331] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 6.9.1906.

[1332] Sama dagbók 10.9. og 11.9.1906.

[1333] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 8.9. og 20.9.1906.

[1334] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 8.9.1906.

[1335] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 288-290.

[1336] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 3.4. og 6.4.1907.

[1337] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 28 (Ársrit S.Í.).

[1338] Sama heimild.

[1339] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Ævisaga. Upphaf, bls. 255-275.

[1340] Sama heimild.

[1341] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Ævisaga. Upphaf, bls. 255-275.

[1342] Sama heimild.

[1343] Sama heimild.

[1344] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Ævisaga. Upphaf, 255-275.

[1345] Sama heimild.

[1346] Sama heimild.

[1347] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Ævisaga. Upphaf, 255-275.

[1348] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Ævisaga. Upphaf, 255-275.

[1349] Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 362.

[1350] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Ævisaga. Upphaf, bls. 255-275.

[1351] Sama heimild.

[1352] Gunnar M. Magnúss 1977, 274-276.

[1353] Sama heimild.

[1354] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 144-145.

[1355] Sama heimild.

[1356] Sama heimild.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 225.

[1357] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.son: Saga Suðureyrar og  … , bls. 225.  Páll Hallbjörnsson 1969, 217-219.

[1358] Páll Hallbjörnsson 1969, 217-219.

[1359] Sama heimild.

[1360] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 226.

[1361] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 226.

[1362] Gunnar M. Magnúss 1977, 276.

[1363] Sama heimild.

[1364] Sama heimild.

[1365] Sama heimild.

[1366] Vestf. ættir I, 225.

[1367] Gunnar M. Magnúss 1977, 287-290.

[1368] Hsk. á Ísaf. 190. Kristján G. Þorvaldsson : Saga Suðureyrar og  … , bls. 226.

[1369] Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, 276-277.

[1370] Sama heimild.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1371] Gunnar M. Magnúss / Þórður Þórðarson 1977, 277-278.

[1372] Sama heimild.

[1373] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 146.  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 292-294.

[1374] Sama heimild.

[1375] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 226.

[1376] Sama heimild.

[1377] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 225.

[1378] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 28 (Ársrit S.Í.).

[1379] Sama heimild.

[1380] Gunnar M. Magnúss 1977, 294-298.

[1381] Sama heimild.

[1382] Sbr. Sömu heimild.

[1383] Hsk. á Ísaf. nr. 261. Belag Á. Ásgeirsson, Suðureyri.

[1384] Sama heimild.

[1385] Hsk. á Ísaf. nr. 261. Belag Á. Ásgeirsson, Suðureyri.

[1386] Sama heimild.

[1387] Sama heimild.

[1388] Sama heimild.

[1389] Sama heimild.

[1390] Sama heimild.

[1391] Stjórnartíðindi 1896 B, 31-32.

[1392] Hsk. á Ísaf. nr. 261. Belag Á. Ásgeirsson, Suðureyri.

[1393] Sama heimild.

[1394] Sama heimild.

[1395] Hsk.á Ísaf. nr. 261. Belag Á. Ásgeirsson, Suðureyri.

[1396] Stjórnartíðindi 1896 B, 31-32.

[1397] Hsk. á Ísaf. nr. 261. Belag Á. Ásgeirsson, Suðureyri.

[1398] Hsk. á Ísaf. nr. 261. Belag Á. Ásgeirsson, Suðureyri.

[1399] Sama heimild.

[1400] Sama heimild.

[1401] Stjórnartíðindi 1896 B, 31-32.

[1402] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorvaldss.  Saga Suðureyrar og … , Félagsmál (kafli m. sérst. bls.tali) bls. 3.

[1403] Hsk.á Ísaf. nr. 261. Belag Á. Ásgeirsson, Suðureyri.

[1404] Sama heimild.

[1405] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 321.

[1406] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.7.1916.

[1407] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 22-23 (Ársrit S.Í.). Hsk. á Ísaf. nr. 190: Kr. G. Þorv.son: Saga Suðureyrar og  … , bls. 321.

[1408] Hsk. á Ísaf. nr. 190: Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 322.

[1409] Sama heimild.  Lbs. 44104to, V. Þorv.son, bls. 140.  Lbs. 38594to, Dagb. E. Jónssonar 15.9.– 23.9.1896.

[1410] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 322.

[1411] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 140.

[1412] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 322.

[1413] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 108. Skráin var 1996  í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1414] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 16.9.1896.

[1415] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 15.9. og 16.9.1896.

[1416] Sama dagbók 15.9. – 23.9.1896.

[1417] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 15.9. og 16.9. 1896.

[1418] Sama dagbók 3.7. og 20.8.1897.  Lbs. 38604to, Sama dagbók 20.6.1898.

[1419] Sömu heimildir.

[1420] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 140.  Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 12.9. – 17.9.1898.

[1421] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 12.9. og 17.9.1898.

[1422] Sama dagbók 17.9.1898.

[1423] Sama dagbók 12.9.1898.

[1424] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 323.

[1425] Sama heimild.  Lbs. 38614to, Dagbók E. Jónssonar 18.9. og 20.9.1904.  Lbs. 44104to, V. Þorv.son, 140.

[1426] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 18.9., 19.10. og 27.10.1904.  Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 109. Skráin var 1996  í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1427] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 20.9.1904.

[1428] Sama dagbók 27.10.1904.

[1429] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 323.

[1430] Sama heimild.

[1431] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 323.

[1432] Sama heimild, 325.

[1433] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 146.

[1434] Sama heimild.

[1435] Sama heimild.

[1436] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 325.

[1437] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23-29.

[1438] Sama heimild.

[1439] Sama heimild.

[1440] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 108-109. Skráin var 1996 í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1441] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23-29.

[1442] Sama heimild.  Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 146-147.

[1443] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23-29.  Lbs. 44104to, Sami, bls. 146-147.

[1444] Lbs. 44094to, V.Þorvaldsson, bls. 29.  Sbr. Hsk. á Ísaf. nr. 190 Kr. G. Þorv.son: Saga Suðureyrar og  … , 325.

[1445] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 147.

[1446] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 109. Skráin var 1996  í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1447] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 323.

[1448] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 323.

[1449] Sama heimild.

[1450] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 323, 331-332.

[1451] Sama heimild.

[1452] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.10.1915.

[1453] Sama heimild.

[1454] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 108-109. Skráin var 1996 í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1455] Sama heimild.

[1456] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 276.

[1457] Sama heimild.

[1458] Sama heimild.

[1459] Sama heimild.

[1460] Sama heimild, 266-277.

[1461] Sama heimild.

[1462] Sama heimild, 295-296.

[1463] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 34 (Ársrit S.Í.).

[1464] Sama heimild.

[1465] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 24 og 34  (Ársrit S.Í.).

[1466] Sama heimild.  Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.7.1914.

[1467] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.8., 9.8. og 1.9.1913.

[1468] Gunnar M. Magnúss 1977, 240.  Sbr. Ísl. æviskrár I, 58 og II, 103.  Vestf. ættir II, 626.

[1469] Jón Þ. Þór 1988, 112.

[1470] Ísl. æviskrár I, 58 og 88.  Jón Þ. Þór 1988, 93.

[1471] Jón Þ. Þór 1988, 112-119.

[1472] Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1960, 54 (Ársrit S.Í.).  Jón Þ. Þór 1988, 105 og 117.  G.M.M. 1977, 241-242.

[1473] Gunnar M. Magnúss 1977, 244.

[1474] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 137 og 139.  Kristján G. Þorvaldsson 1962, 24 (Ársrit S.Í.).

[1475] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.sonar: Saga Suðureyrar og  … , bls. 324.  G. M. Magnúss 1977, 282-283.

[1476] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 2.10.1894.

[1477] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 13.

[1478] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 145-146.

[1479] Sama heimild.

[1480] Sama heimild.

[1481] Sama heimild.

[1482] Sama heimild.

[1483] Sama heimild.

[1484] Sama heimild.

[1485] Sama heimild.

[1486] Sama heimild.

[1487] Sama heimild.

[1488] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 10.5.1916.

[1489] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 320.

[1490] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 4.4.1894.

[1491] Hsk. á Ísaf. nr. 261. Belag Á. Ásgeirsson, Suðureyri.

[1492] Jón Þ. Þór 1988, 88-89.

[1493] Hsk. á Ísaf. nr. 261. Belag Á. Ásgeirsson, Suðureyri.

[1494] Sama heimild.

[1495] Gunnar M. Magnúss / Kr. G. Þorvaldsson 1977, 283.  Lbs. 38604to, Dagb. Einars Jónssonar 17.6.1898.

[1496] Sömu heimildir.

[1497] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 19.10.1904.

[1498] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 324.

[1499] Sama heimild.

[1500] Sama heimild.  Sbr. Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 150-151.

[1501] Sömu heimildir.  Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 21.10.1914.

[1502] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 150-151.

[1503] Gunnar M. Magnúss 1977, 284.

[1504] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 21.10.1914.

[1505] Jón Þ. Þór 1988, 97.

[1506] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar  og  … , bls. 321-322.

[1507] Sama heimild, 214.

[1508] Sama heimild, 210.

[1509] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 322.

[1510] Sbr. Lúðvík Kristjánsson 1983, 313-316.

[1511] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 321-322.

[1512] Sama heimild, 210.

[1513] Sama heimild.  Sbr. Lbs. 44104to, Valdimar Þorv.son, 147.

[1514] Sama heimild.

[1515] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 24 (Ársrit S.Í.).

[1516] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … ,  Félagsmál (kafli m. sérst. bls.tali) bls. 3.

[1517] Sama heimild.

[1518] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … ,  Félagsmál (kafli m. sérst. bls.tali) bls. 3.

[1519] Sama heimild.

[1520] Gunnar M. Magnúss 1978, 125 (Þrepin þrettán).

[1521] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 14.5.1915.

[1522] Sama heimild.

[1523] Sama heimild.

[1524] Tölfræðihandbók 1984, 157.

[1525] Sama heimild, 165.

[1526] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 6.7.1916.

[1527] Lbs. 22304to, Sama dagbók 23.5.1913.  Sbr. Lúðvík Kristjánsson 1985, 308-309 og 334-335.

[1528] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 26.2.1915.

[1529] Lbs. 22304to –  Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1.1. – 31.12.1914.

[1530] Lbs. 22274to –  Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1910 – 1916.

[1531] Gunnar M. Magnúss 1956, 332-344.  Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.9.1911.

Lbs. 22294to, Sama dagbók 20.5.1912.

[1532] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.3. og 25.4.1915.

[1533] Sama dagbók 26.8.1915.

[1534] Sama dagbók 31.5.1916.

[1535] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.1.1914.

[1536] Lbs. 22334to, Sama dagbók 26.6.1915.

[1537] Sama dagbók 2.3. og 10.3.1916.

[1538] Sama dagbók 11.3.1916.

[1539] Lbs. 22334to, Sama dagbók 27.2.1916.

[1540] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 27.2.1916.

[1541] Lbs. 22314to, Sama dagbók 21.8.1913.

[1542] Lbs. 22344to, Sama dagbók 21.10.1916.

[1543] Sama heimild.

[1544] Lbs. 22314to, Sama dagbók 7.12.1913.

[1545] Sama heimild.

[1546] Gunnar M. Magnúss 1977, 480.

[1547] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 177.

[1548] Sama heimild.

[1549] Símaskrá 1995.

[1550] Gunnar M. Magnúss 1978, 136 (Þrepin þrettán).

[1551] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1.6.1913.

[1552] Lbs. 22314to, Sama dagbók 13.12.1913.

[1553] Lbs. 22324to, Sama dagbók 22.6.1914.

[1554] Sama dagbók 14.7.1914.

[1555] Sama dagbók 4.2.1914.

[1556] Sama heimild.

[1557] Lbs. 22344to, Sama dagbók 16.8.1916.

[1558] Lbs. 22334to, Sama dagbók 29.12.1914, 5.1. og 6.1.1915.

[1559] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.12.1913.

[1560] Sama heimild.  Lbs. 22324to, Sama dagbók 25.1.1914.

[1561] Lbs. 22334to, Sama dagbók 19.3.1916.

[1562] Sama heimild.

[1563] Gunnar M. Magnúss 1977, 424-425.

[1564] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 9.4.1916.

[1565] Sama heimild.

[1566] Sama dagbók 25.6.1916.

[1567] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1911.

[1568] Sama heimild.

[1569] Gunnar M. Magnúss 1956, 255, 272-274.

[1570] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 26.6.1904.

[1571] Hsk. á Ísafirði, myndatökuskrár Björns Pálssonar, ljósmyndara.

[1572] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 14.5. og 22.6.1914

[1573] Lbs. 22274to – Lbs. 22324to, Sama dagbók 1911 – 1914.

[1574] Lbs. 22314to, Sama dagbók 30.11.1913 og 1.11.1914.

[1575] Gunnar M. Magnúss 1977, 232-233.

[1576] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 25.10.1913.

[1577] Lbs. 22324to, Sama dagbók 14.5.1914.

[1578] Sama dagbók 22.6.1914.

[1579] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr  1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 16. Skráin var 1996 í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1580] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 3.5.1996.

[1581] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 273.

[1582] Sama heimild.

[1583] Sama heimild.

[1584] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kr. A. Kr.syni, bls. 16. Skráin var 1996 í eigu Spsj. á Suðureyri.

[1585] Sama heimild.

[1586] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.11.1914.

[1587] Guðmundur Hjaltason / Lögrétta 10.2.1915.  Sbr. Lbs. 22324to, Dagbók M. Hjaltasonar 11.11.1914.

[1588] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.11.1914.

[1589] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar og Lbs. 22344to, Sama dagbók 1915 og 1916.

[1590] Lbs. 22334to, Sama dagbók 13.2.1915.

[1591] Sama heimild.

[1592] Gunnar M. Magnúss 1956, 29-31.  Ísl. æviskrár III, 464 og V, 107.

[1593] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1.12.1912.

[1594] Sama heimild.

[1595] Sama heimild.

[1596] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 2.12.1912.

[1597] Magnús Hjaltason / Rímur af Fjalla-Eyvindi. Ísafirði 1914.

[1598] Sama heimild.

[1599] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 2.12.1912.

[1600] Lbs. 22344to, Sama dagbók 4.11.1916.

[1601] Sama heimild.

[1602] Lbs. 22294to, Sama dagbók 20.10.1912.

[1603] Öldin okkar. Minnisverð tíðindi 1901-1930. Rvík 1950, bls. 27 og 62.

[1604] Jón Þ. Þór 1986, 132.

[1605] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 20.10.1912.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1606] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1607] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12. 1911.

[1608] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.3.1911.

[1609] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 28.3.1904.

[1610] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 27.5.1912.

[1611] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 20.10.1912.

[1612] Sama heimild.

[1613] Sóknarm.tal Staðar í Súgandafirði 31.12.1912.

[1614] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 19.2.1913.

[1615] Lbs. 22334to, Sama dagbók 29.7.1915.

[1616] Lbs. 22334to, Sama dagbók 29.7.1915.

[1617] Sama dagbók 16.1., 19.1. og 26.1.1916.

[1618] Sama heimild.

[1619] Sama dagbók 17.1., 18.1., 19.1. og 26.1.1916.

[1620] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar janúar – mars 1911.

[1621] Sama dagbók 4.3.1911.

[1622] Lbs. 22304to, Sama dagbók 12.4.1913.

[1623] Sama heimild.

[1624] Sama heimild.

[1625] Sama dagbók 13.4.1913.

[1626] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 38 (Ársrit S.Í.).  Gunnar M. Magnúss 1977, 497-498.

[1627] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar desember 1910 og janúar 1911.

[1628] Gunnar M. Magnúss 1956, 214-353.

[1629] Sama heimild, 302-331.

[1630] Sama heimild, 332-336.

[1631] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 27.10. og 28.10.1910

[1632] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.10.1910.

[1633] Gunnar M. Magnúss 1956, 337-340.

[1634] Sama heimild.

[1635] Sama heimild.

[1636] Sama heimild.

[1637] Sama heimild, 342.

[1638] Sama heimild.

[1639] Gunnar M. Magnúss 1956, 342.

[1640] Sama heimild, 342-343.

[1641] Sama heimild.

[1642] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 23.12. – 26.12.1910.

[1643] Gunnar M. Magnúss 1956, 343-344.

[1644] Sama heimild.

[1645] Sama heimild.

[1646] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.1.1911.

[1647] Sama heimild.

[1648] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1.3.1911.

[1649] Einar Laxness 1995, I, 209.

[1650] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

sveitarfundar 24.6.1907.  Sömu skjöl. Hreppsbók 1901-1916, fundargerð hreppsnefndar 29.1.1910.

Sbr. Einar Laxness 1995, I, 209-210.

[1651] Gunnar M. Magnúss 1977, 422.

[1652] Sami 1956, 223.

[1653] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfabók nr. 1. Bréf oddvita Suðureyrarhr. 17.12.1914, 18.5.1915,

16.2.1916 og 15.1.1917 öll til sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu.

[1654] Sama bréfabók. Bréf oddvita Suðureyrarhr.5.1. og 5.3.1917, bæði til sýslumannsins í Ísafj.sýslu.

[1655] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bréfabók nr. 1. Bréf oddvita Suðureyrarhr. 9.1.1917 til sýslum. í Ísafj.s.

[1656] Sama bréfabók. Bréf oddvita Suðureyrarhr. 5.3.1917 til sýslumannsins í Ísafj.sýslu.

[1657] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.1. og 19.3.1911.  Gunnar M. Magnúss 1956, 343.

[1658] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 19.3.1911.

[1659] Sama dagbók 17.4.1911.

[1660] Lbs. 22284to, Sama dagbók 10.7. 1911.

[1661] Lbs. 22274to, Sama dagbók 21.4.1911.

[1662] Lbs. 22284to, Sama dagbók 30.8.1911.

[1663] Sama dagbók 30.8. og 7.9.1911.  Gunnar M. Magnúss 1956, 354-370.

[1664] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.8. og 7.9.1911.  Gunnar M. Magnúss 1956, 354-370.

[1665] Lbs. 41644to, Bréf Magnúsar Hjaltasonar 3.4.1902 til Þorsteins skálds Erlingssonar.

[1666] Gunnar M. Magnúss 1956, 354-370.

[1667] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.5.1912.

[1668] Gunnar M. Magnúss 1956, 365-370.

[1669] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 20.5.1912.

[1670] Sama heimild.

[1671] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 27.5.1912.

[1672] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1673] Gunnar M. Magnúss 1977, 294-295.

[1674] Manntal 1910.

[1675] Rannveig Sigurðardóttir, f. 1900. Viðtal K.Ó. við hana 14.4. 1997.

[1676] Sama heimild.

[1677] Sama heimild.

[1678] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 27.5. og 19.9.1912.

[1679] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 27.5. og 4.7.1912.

[1680] Sama dagbók 4.7.1912.

[1681] Sbr. Sigfús Daðason 1987, 9-10.

[1682] Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson 1991, 214 (Nöfn Íslendinga).

[1683] Manntal 1910, Máberg í Rauðasandshreppi og Geirseyri við Patreksfjörð.

[1684] Sigfús Daðason 1987, 9-10.

[1685] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 31.12.1913.

[1686] Sama heimild.

[1687] Lbs. 22274to – Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1911 – 1916.

[1688] Gunnar M. Magnúss 1956, 377-384.

[1689] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 19.9.1912.

[1690] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 20.5.1913.  Lbs. 22314to, Sama dagbók 15.12.1913.

[1691] Lbs. 22314to, Sama dagbók 15.12.1913.

[1692] Lbs. 22304to, Sama dagbók 19.1.1913.

[1693] Sama dagbók 1.5.1913.

[1694] Sama heimild.

[1695] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 10.5.1913.

[1696] Sama heimild.

[1697] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 17.6.1913.

[1698] Gunnar M. Magnúss 1956, 352-353.

[1699] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 21.6.1913.

[1700] Sama dagbók 6.7.1913.

[1701] Sama dagbók 8.10. og 23.10.1913.

[1702] Sama heimild.

[1703] Gunnar M. Magnúss 1956, 386.

[1704] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.10.1913.

[1705] Gunnar M. Magnúss 1956, 386-387.

[1706] Vestf. ættir I, 400-401.

[1707] Sama heimild.

[1708] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1.2.1914.

[1709] Sama dagbók 25.3.1914.

[1710] Sama dagbók 2.3.1914.

[1711] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.3.1914.

[1712] Sama heimild.

[1713] Sama dagbók 15.3.1914.

[1714] Sama dagbók 14.3.1914 og 12.9.1915.

[1715] Sama dagbók 14.3.1914.

[1716] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.4.1914.

[1717] Sama heimild.

[1718] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.4.1914.

[1719] Sama dagbók 9.4.1914.

[1720] Sama heimild.

[1721] Sama dagbók 11.9.1913.

[1722] Sama dagbók apríl – maí 1914.  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1973, 182-189.

[1723] Sama heimild.

[1724] Sama dagbók 6.5.1914.

[1725] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.9.1914.

[1726] Sama dagbók 13.4.1914.

[1727] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.3.1914.

[1728] Sama dagbók 9.6.1914.

[1729] Sama dagbók júní 1914.

[1730] Sama dagbók 9.6.1914.

[1731] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 13.6. og 16.6.1914.

[1732] Sama heimild.  Sbr. Prestsþj.b. Ögurþinga, fæddir drengir 1888 og sóknarm.tal Eyrar í Skutulsfirði

31.12.1913, hús nr. 87 í Ísafjarðarkaupstað.

[1733] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 23.6.1914.

[1734] Sama dagbók 24.6.1914.

[1735] Sama dagbók 14.7.1914.

[1736] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.7.1914.

[1737] Sama dagbók 24.7.1914.

[1738] Sama dagbók 6.–11. 8. og 30.8.1914.

[1739] Sama dagbók 8.8., 19.8., 23.8. og 31.8.1914.

[1740] Sama dagbók 8.8.1914.

[1741] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 19.6.1916.

[1742] Lbs. 22324to – Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1914 – 1916.  G. M. Magnúss 1956, 390.

[1743] Friðbert Pétursson 1991, 115-116 (Ársrit S.Í.).

[1744] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 26.7.1914.

[1745] Sama dagbók 27.7.1914.

[1746] Sbr. Lbs. 22324to – Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar ágúst 1914 – febrúar 1915.

[1747] Lbs. 22324to, Sama dagbók 27.7.1914.  Lbs. 22334to, Sama dagbók 7.2.1915.

[1748] Lbs. 22334to, Sama dagbók 31.3.1915.  Sbr. sömu dagbók 22.8.1916.

[1749] Sama dagbók 4.7.1915.

[1750] Gunnar M. Magnúss 1977, 74 og 366.

[1751] Sama heimild.  Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.4.1915.

[1752] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.7. og 18.7.1915.

[1753] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 6.9.1914.

[1754] Lbs. 22334to, Sama dagbók 24.11.1915.

[1755] Sama heimild.

[1756] Sama dagbók 22.6.1916.

[1757] Lbs. 22334to, Sama dagbók 21.11.–5.12.1914.

[1758] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.11.1914.

[1759] Lbs. 22334to, Sama dagbók 21.11.1914.

[1760] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.11.1914.

[1761] Sama dagbók 1.12. og 5.12.1914.

[1762] Sama dagbók 11.12.1914.

[1763] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 12.9.1915.

[1764] Sama dagbók 10.10.1915.

[1765] Lbs. án safnnr. Ýmis handrit úr fórum Þórðar Þórðarsonar á Suðureyri, afhent Landsb.safni 31.10.1986.

[1766] Sama heimild.

[1767] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 26.2.1915.

[1768] Sama dagbók 3.3.1915.

[1769] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1770] Sama heimild.

[1771] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.2.1915.

[1772] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 24.2.1915.

[1773] Sama dagbók 21.3.1915.

[1774] Sama dagbók 11.4.1915.

[1775] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1776] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1777] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar maí – sept. 1915.

[1778] Sama dagbók 14.9.1915.

[1779] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.10.1915.

[1780] Sama dagbók 8.7.1916.

[1781] Sama dagbók 9.10.1915.  Lbs. 22344to, Sama dagbók 25.9.1916.

[1782] Lbs. 22334to, Sama dagbók 5.10.1915.

[1783] Sama dagbók 3.11. og 21.11.1915.

[1784] Sama dagbók 21.11.1915.

[1785] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 21.11.1915.

[1786] Sama heimild.

[1787] Gunnar M. Magnúss 1956, 95.

[1788] Sama heimild.

[1789] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.12.1915.

[1790] Sama dagbók 3.3.1916.

[1791] Lbs. 22344to, Sama dagbók 21.7.1916.

[1792] Sbr. Gunnar M. Magnúss 1956, 389.

[1793] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 26.3.1916.

[1794] Sama dagbók 13.5.1916.

[1795] Sama dagbók 16.6.1916.

[1796] Sama dagbók 18.6.1916.

[1797] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.6.1916.

[1798] Sama dagbók 15.7.1916.

[1799] Sama heimild.

[1800] Sama heimild.

[1801] Sama dagbók 26.7.1916.

[1802] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.8.1916.

[1803] Lbs. 22344to, Sama dagbók 21.8. og 22.8.1916.

[1804] Sama dagbók 2.9., 13.9. og 21.9.1916.

[1805] Sama dagbók 2.10., 5.10. og 24.10.1916.

[1806] Gunnar M. Magnúss 1956, 341-342.

[1807] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.9 og 23.9.1916.

[1808] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.9 og 23.9.1916.

[1809] Sama heimild.

[1810] Sama heimild.

[1811] Sama heimild.

[1812] Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1962, 31(Ársrit S.Í.).

[1813] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 14.10.1916.

[1814] Sama heimild.

[1815] Sama heimild.

[1816] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 6.8.1916.

[1817] Sama dagbók 17.8.1916.

[1818] Sama dagbók 17.8.1916.

[1819] Lbs. 44314to, Bréf Magnúsar Hjaltasonar 23.7.1916 til Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar).

[1820] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 10.9.1916.

[1821] Sama heimild.

[1822] Sama dagbók 10.9. og 17.9.1916.

[1823] Lbs. 44314to, Bréf Magnúsar Hjaltasonar 17.9.1916 til Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar).

[1824] Lbs. 44314to, Bréf Magnúsar Hjaltasonar 17.9.1916 til Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar).

[1825] Lbs. 44314to, Bréf Magnúsar Hjaltasonar 17.9.1916 til Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar).

[1826] Sama heimild.

[1827] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 14.9.1916.

[1828] Lbs. 22334to, Sama dagbók 5.4.1916.  Lbs. 22344to, Sama dagbók 9.10.1916.  Ísl. æviskrár IV, 282-283.

[1829] Lbs. 22344to, Sama dagbók 8.10.1916.

[1830] Sama dagbók 9.10.1916.

[1831] Lbs. 44314to, Bréf Magnúsar Hjaltasonar 17.9.1916 til Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar).

[1832] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 17.10. og 21.10.1916.

[1833] Lbs. 22334to, Sama dagbók 19.4.1916.

[1834] Lbs. 22344to, Sama dagbók 17.10.1916.

[1835] Sama dagbók 21.10.1916.

[1836] Sama dagbók 21.10.1916.

[1837] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 13.10.1916.

[1838] Sama dagbók 19.10.1916.

[1839] Sama dagbók 24.10. og 26.10.1916.

[1840] Sama dagbók 28.10.1916.

[1841] Sama dagbók október – nóvember 1916.

[1842] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.10.1916.

[1843] Sama dagbók 1.11.1916.

[1844] Sama dagbók 3.11.1916.

[1845] Sama dagbók 6.11.1916.

[1846] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.11.1916.

[1847] Sama heimild.

[1848] Sama dagbók 11.11.1916.

[1849] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 14.11.1916.

[1850] Sama dagbók 15.11.1916.

[1851] Sama dagbók 16.11.1916.

[1852] Sama dagbók 17.11.1916.

[1853] Lbs. 22344to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.11.1916.

[1854] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1855] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1856] Sama heimild.

[1857] Gunnar M. Magnúss 1956, 390-392.

[1858] Sama heimild.

[1859] Sama heimild.

[1860] Lbs. 22164to – Lbs. 22344to  , Dagbækur Magnúsar Hjaltasonar.

[1861] Friðbert Pétursson 1991, 120 (Ársrit S.Í.).

[1862] Sbr. Gunnar M. Magnúss 1956,392.

[1863] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 91.

[1864] Sama heimild.

[1865] Sama heimild.

[1866] Sbr. sama heimild.

[1867] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 91.

[1868] Sama heimild, 89 og 91.

[1869] Sama heimild.

[1870] Sama heimild.

[1871] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 89.

[1872] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 83.

[1873] D.I. V, 643.

[1874] Guðmundur Ibsen . – Viðtal K.Ó. við hann 16.5.1996.

[1875] Gunnar M. Magnúss 1977, 468.

[1876] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1877] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 91.

[1878] Sama heimild, 91, 96 og 183.

[1879] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 91.

[1880] Sama heimild, 91-92.

[1881] Sama heimild.

[1882] Sama heimild.

[1883] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 91.

[1884] Sama heimild, 92.

[1885] Sama heimild.

[1886] Sama heimild.

[1887] Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1888] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 92.

[1889] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 92.  Guðni Ólafsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1890] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 92.

[1891] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 31.12.1900.

[1892] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 31.12.1900.

[1893] Sbr. Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 92.

[1894] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 25.5.1913.

[1895] Ská yfir húseignir á Suðureyri rituð á árunum upp úr 1940 af Kristjáni Albert Kristjánssyni, bls. 74. Skráin var 1996 í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[1896] Sama heimild.

[1897] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar,

handrit í eigu K.Ó.

[1898] Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 284-286.

[1899] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 90.

[1900] D.I. V, 642-643.

[1901] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1902] Sóknalýs. Vestfj. II, 113.

[1903] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 26.6.1899.

[1904] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 90,

[1905] Þórður Pétursson frá Laugum. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness , Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[1906] Þórður Pétursson frá Laugum. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness , Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[1907] Sama heimild.

[1908] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 90.

[1909] Sama heimild, 89.

[1910] Sama heimild.

[1911] Sama heimild, 80.

[1912] Sama heimild, 85 og 89.

[1913] D.I. V, 642-643.

[1914] Lbs. 2232to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.9.1914.

[1915] Sama heimild.  Sbr. Morgunblaðið 30.3.1994, bls. 36.

[1916] Lbs. 2232to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.9.1914.

[1917] Sama dagbók 1.10.1914.

[1918] Lbs. 22334to, Sama dagbók 9.3.1915.

[1919] Jóhann Þórðarson / Morgunblaðið 30.3.1994, bls. 36.

[1920] Lbs. 2233to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 31.3.1915.

[1921] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bréfabók nr. 1. Bréf oddvita Suðureyrarhrepps, séra Þorvarðar

Brynjólfssonar 29.3. og 30.3. 1915 til sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu.

[1922] Sama heimild.

[1923] Sama heimild.

[1924] Lbs. 2234to, Dagbók M. Hjaltasonar 22.8.1916.  Sbr. Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., brottfluttir 1916.

[1925] Jóhann Þórðarson/Morgunblaðið 30.3.1994, bls. 36.

[1926] Sama heimild.

[1927] Lbs. 2233to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.2.1916.

[1928] Sama heimild.

[1929] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1930] Sama heimild.

[1931] Óskar Þórðarson frá Haga: Tíkin bjargaði lífi húsbónda síns, frásöguþ.. Ljósr. K.Ó. af eiginh.riti höf.

[1932] Sama heimild.

[1933] Sama heimild.

[1934] Sama heimild.

[1935] Sama heimild.

[1936] Sama heimild.

[1937] Sama heimild.

[1938] Óskar Þórðarson frá Haga: Tíkin bjargaði lífi húsbónda síns, frásöguþáttur. Ljósr. K.Ó. af eiginh.riti höf.

[1939] Sama heimild.

[1940] Sama heimild.

[1941] Sama heimild.

[1942] Sama heimild.

[1943] Óskar Þórðarson frá Haga: Tíkin bjargaði lífi húsbónda síns, frásöguþáttur. Ljósr. K.Ó. af eiginh.riti höf.

[1944] Sama heimild.

[1945] Sama heimild.

[1946] Óskar Þórðarson frá Haga: Tíkin bjargaði lífi húsbónda síns, frásöguþ.. Ljósr. K.Ó. af eiginh.riti höf.

[1947] Lára Kolbeins 1964, 166-171 (Því gleymi ég aldrei III. Gefið út á Akureyri).

[1948] Lára Kolbeins 1964, 166-171 (Því gleymi ég aldrei III. Gefið út á Akureyri).

[1949] Sama heimild.

[1950] Sama heimild.

[1951] Sama heimild.

[1952] Sama heimild.

[1953] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 30-31.

[1954] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[1955] Sama heimild.

[1956] Sama heimild.

[1957] Sama heimild.

[1958] Sama heimild.

[1959] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 93-94.

[1960] Sama heimild.

[1961] Sama heimild.

[1962] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.

[1963] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 94.

[1964] Sama heimild.

[1965] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 93.

[1966] Sama heimild.

[1967] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[1968] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 94.

[1969] Sama heimild.

[1970] Sama heimild.

[1971] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar , handrit í eigu K.Ó.

[1972] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 94-95.

[1973] Sama heimild.

[1974] Sama heimild.

[1975] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 94-95.

[1976] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 10.7.1891.

[1977] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 126.

[1978] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[1979] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 95.

[1980] Sama heimild.

[1981] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 95. Þ.Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar,  handrit í eigu K.Ó.

[1982] Sömu heimildir.

[1983] Sömu heimildir.

[1984] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 96.

[1985] Sama heimild, 95.

[1986] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[1987] Sama heimild.

[1988] Sama heimild.

[1989] Sama heimild.

[1990] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[1991] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, 14-17.

[1992] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 95.

[1993] Sama heimild, 96.

[1994] Sama heimild.

[1995] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 96.

[1996] Sama heimild, 95.

[1997] Sama heimild.

[1998] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[1999] Sama heimild.

[2000] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 93.

[2001] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 95.

[2002] Sama heimild.

[2003] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 93.

[2004] Sóknalýs. Vestfj. II, 117.

[2005] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[2006] Sama heimild.

[2007] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 9.9., 10.9. og 28.9.1897.

[2008] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[2009] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 95.

[2010] Frásögur um fornaldarleifar 1983, II, 423.

[2011] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 95.

[2012] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[2013] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17.

[2014] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[2015] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 16-17.

[2016] Sama heimild.

[2017] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[2018] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 16-17.

[2019] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 16-17.

[2020] Manntal 1920.

[2021] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 16-17.

[2022] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[2023] Sama heimild.

[2024] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó..

[2025] Sama heimild.

 

 

[2026] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 96. Sbr. sömu heimild, 88 og 97.

[2027] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[2028] Sama heimild.

[2029] Sama heimild.

[2030] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 88.

[2031] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 96.

[2032] Sama heimild.  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 476-480.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »