Sviðnur

Sviðnur voru minnsta bújörðin í Vestureyjum Breiðafjarðar, 20 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati. Bæjareyjan er um einn kílómetri að lengd og breiddin ekki nema 100-200 metrar. Aðrar eyjar í Sviðnum eru bara þrjár fyrir utan smáhólma og allar minni en Bæjareyjan.

Margir hafa velt fyrir sér nafninu á Sviðnum og ýmsar tilgátur verið settar fram. Þjóðsögur herma að svo þéttur birkiskógur hafi vaxið í Sviðnum við upphaf byggðar að ekki hafi verið unnt að koma fyrir bæjarhúsum eða öðrum mannvirkjum nema með því að brenna skóginn. Hafi þá allur trjágróður brunnið ofan í rót og eyjarnar því verið nefndar Sviðnur eða Sviðningur.[1] Önnur tilgáta er sú að nafnið eigi rætur að rekja til þang- og þarabrennslu vegna saltgerðar[2] og í þriðja lagi hefur mönnum dottið í hug sú skýring að heiti eyjanna sé dregið af nafni á fiskimiði í grenndinni sem Svið kallast.[3]

Gálgi og Gálgavík heitir í Sviðnum á vestanverðri Bæjareynni, í fjörunni örskammt frá bæjarrústunum. Því hefur löngum verið trúað að þarna hafi Hallsteinn goði hengt þrælana er sofnuðu yfir saltgerðinni í Svefneyjum (sjá hér Svefneyjar), enda aðstæður býsna hentugar til slíkrar aftöku. Norðan við víkina standa tveir klettar og auðvelt að útbúa gálga með því að leggja rekaviðarstaur milli klettanna. Í Sviðnum voru lengi sýndir tveir haugar þar sem þrælar Hallsteins áttu að vera grafnir og segir Sighvatur Borgfirðingur, sem skoðaði haugana, að þeir séu eins og hvolft væri upp úr kringlóttum skálum en háar brúnir að utan.[4] Við túnasléttun á tuttugustu öld mun þræladysjum þessum hafa verið bylt.[5]

Fyrsti bóndinn í Sviðnum, sem kunnur er með nafni, hét Játgeir. Reyndar er það eitt um hann vitað að hann var veginn af ránsmönnum þar heima haustið 1233.[6] Þetta haust fóru sendimenn Órækju Snorrasonar í Vatnsfirði suður til Breiðafjarðar og kváðu þeir á hvers manns fé um nes og þverfjörðu en ræntu að öðrum kosti. Frá för þeirra segir nánar í Sturlungu á þessa leið: Þeir tóku skip frá sonum Þorbjarnar grana og fóru út í eyjar og ræntu hvarvetna um vestureyjar. Þeir komu í Sviðnur og vágu þar Játgeir bónda. Einar kollur vá hann.

Máske hefur Játgeir bóndi verið tregur til að gangast undir skattgjald til hins nýja Vatnsfjarðarhöfðingja og sú þvermóðska kostað hann lífið. Björn hét fyrirliði ræningjaflokksins, sem haustið 1233 herjaði á vegum Órækju um byggðir Breiðafjarðar, norðlenskur maður og jafnan nefndur Maga-Björn. Þau urðu örlög Maga-Bjarnar að Þórður Sturluson lét taka hann af lífi í Fagurey á Breiðafirði sumarið 1235 fyrir margvísleg illvirki og var hann síðan urðaður í Gíslaskerjum,[7] þar sem nú heita Gassasker á Breiðafirði, miðja vega milli Stagleyjar og Elliðaeyjar. Var þá hefnt Játgeirs bónda í Sviðnum og fleiri manna er farið höfðu halloka fyrir óaldarflokki Maga-Bjarnar.

Sagnir herma að í svartadauða hafi Sviðnur farið í eyði og ekki byggst á ný fyrr en nokkrum árum síðar. Fylgir það sögunni að fólk sem hóf búskap í Sviðnum nokkru eftir svartadauða hafi orðið fyrir þvílíkum reimleikum að flytja varð bæinn af gamla bæjarhólnum hæst á eynni og byggja hann upp nokkru vestar þar sem bærinn stóð æ síðan. Heitir nú Fornabæjarhóll þar sem eldri bærinn stóð.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir að í Sviðnum megi fóðra fjórar kýr og einn vetrung.[8] Séra Ólafur Sívertsen virðist hafa talið landkosti í Sviðnum lakari en þetta og segir í sóknarlýsingu sinni frá 1840 að þar fóðrist tvær kýr og eitt naut en þá sé ekki hey afgangs til að bjarga með útigöngufé ef á væri sett.[9]

Svo sem tvær sjómílur í suður frá Sviðnum eru eyjar sem Suðurlönd heita og liggja undir Skarð á Skarðsströnd. Ýmsir hafa talið að eyjar þessar muni á fyrri tíð hafa tilheyrt Sviðnum, enda ljóst að nafnið Suðurlönd er ekki við hæfi sé horft til eyja þessara frá Skarði og þá í norðvestur.[10] Frá Sviðnum skoðað er nafngiftin Suðurlönd aftur á móti mjög eðlileg til aðgreiningar frá heimalöndum.

Í manntali frá 1. desember 1816 er sextán ára stúlka, Eiðvör Sveinsdóttir, sögð standa fyrir búinu í Sviðnum og kölluð ráðsstúlka. Auk hennar eiga hér þá heima fjórar manneskjur, vinnukona, léttadrengur, vinnupiltur og niðurseta. Hinn ungi aldur ráðsstúlkunnar, sem fyrir búinu stendur, var harla óvenjulegur á þessum tíma og kallar á skýringar.

Haustið 1816 höfðu búið í Sviðnum um skeið Einar Sveinsson og kona hans, Ólöf Þórólfsdóttir, bæði frá Hergilsey. Þau Einar og Ólöf voru systrabörn, dótturbörn gamla Eggerts Ólafssonar í Hergilsey. Báðir foreldrar Einars og móðir Ólafar höfðu drukknað á heimleið frá kirkju í Flatey þann 19. júlí 1801 (sjá hér Hergilsey).

Sunnudaginn 3. nóvember 1816 lögðu hjónin í Sviðnum upp í kirkjuferð til Flateyjar ásamt tveimur öðrum manneskjum, báðum úr niðjahópi Eggerts í Hergilsey. Á heimleið frá kirkju sama dag drukknuðu þau öll og fannst bátur þeirra rekinn nokkru síðar á fjörum jarðarinnar Galtarár í Kollafirði.[11]

Eiðvör Sveinsdóttir var systir Einars bónda og var í Sviðnum þann dapra nóvemberdag er slysið varð. Manntalið, sem tekið var fjórum vikum síðar, vottar að hún hefur þá tekið búsforráðin í sínar hendur þó að ung væri. Mun Eiðvör hafa dvalist í Sviðnum til vors.[12]

Árið 1840 hóf Ólafur Teitsson búskap í Sviðnum og gerði þar síðan garðinn frægan í hálfa öld. Ólafur var einstakur hagleiksmaður og víðfrægur bátasmiður um sína daga. Hann var úr Reykhólasveit en gerðist 18 ára að aldri vinnumaður í Skáleyjum.[13] Er hann fór þaðan nokkru síðar hafði hann meðferðis einskonar meðmælabréf frá húsbændum sínum. Var það vísa er þannig hljóðaði:

 

Frómur, dyggur, fáorður,

furðu hagur er hann,

sinnistryggur, siðprúður,

svona reyndist mér hann.

 

Með þetta veganesti réðst Ólafur í vinnumennsku hjá Eyjólfi eyjajarli í Svefneyjum og nokkrum árum síðar kvæntist hann dóttur Eyjólfs sem Björg hét. Eitthvað mun eyjajarlinn hafa verið tregur til að fallast á þennan ráðahag þar eð Ólafur var aðeins fátækur vinnumaður. Hins vegar mun Björg Eyjólfsdóttir tæplega hafa séð eftir því að bindast Ólafi og blessaðist þeim flest vel. Um Björgu í Sviðnum segir Lúðvík Kristjánsson að á síðari hluta 19. aldar hafi hún verið einhver fyrirmannlegasta bóndakona í Breiðafirði og stýrt þar miklu menningarheimili.[14]

Um búskap Ólafs Teitssonar í Sviðnum ritaði Bergsveinn Skúlason á þessa leið árið 1950:

 

Sleitulaust hófst hann þar handa um hvers konar umbætur. Reisti hvert gamalt hús frá grunni og bætti nýjum við svo sem smiðju og smíðahúsi. Bær hans stendur enn þótt nokkuð sé hann breyttur en þótti á fyrri tíð eitt besta og traustasta bæjarhús í Eyjum og voru þó hýbýli manna þar reisulegri og vandaðri en víðast annars staðar um þær mundir. Tún ræktaði hann þar svo til fyrirmyndar var á þeirra tíma mælikvarða. Girti það sjávargörðum og á annan hátt þar sem þess þurfti. Ruddi varir og byggði bryggjur, sem allir dáðust að. Gróf brunna og reisti myllu til kornmölunar, sem lengi stóð. Og loks hlóð hann húsvörðu á Kastalanum. Úr henni sá hann yfir alla landareign Sviðna og svo vítt um Breiðafjörð sem augað nam. …

Hlunnindi öll, svo sem æðarvarp og selveiði, efldi Ólafur í Sviðnum og hirti af frábærri snilld og hugulsemi. Eflaust var hann mestur bóndi í Breiðafjarðareyjum um sína daga.[15]

 

Ólafur mátti kallast hugvitsmaður og útbjó t.d. sérstaka talíu sem hann notaði til að hvolfa báti sínum, Veturliða, við hjallvegginn er vetur gekk í garð. Hjólin í talíuna smíðaði hann sjálfur úr hvalhryggjaliðum og með þessum búnaði gat hann unnið einn verk sem annars þurfti liðsafnað til.[16] Lendinguna í Sviðnum færði Ólafur frá Fornunaustum nær bæ sínum að klettabelti er Kastali heitir. Útsýnisvörðuna miklu hlóð hann svo uppi á Kastalanum.[17] Við hleðslu vararveggja og vörðunnar notaði Ólafur dúnkraft, sem hann útbjó sjálfur, og lyfti þannig Grettistökum svo sem enn sér stað.[18] Án þeirrar fágætu tækni sem bóndinn í Sviðnum hafði á valdi sínu hefðu björgin, er hann notaði í hleðslur, verið óhagganleg.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er rætt um vatnsskort í Sviðnum. Segir þar að vatn þrjóti oft og verði þá að þíða ís og snjó til að fá vatn fyrir menn og skepnur.[19] Ólafur Teitsson réð bót á þessu. Eftir nákvæma athugun gróf hann brunn þar sem enginn var áður. Þar var grunnt niður á klöpp og er hann hafði grafið tveggja til þriggja feta djúpa holu ofan í bergið kom þar upp ágætt vatn sem aldrei hefur þrotið síðan. Utan um þessa uppsprettu hlóð Ólafur brunn og var brunnurinn nýi nefndur Drottning.[20]

Árið 1845 hafði Ólafur búið fimm ár í Sviðnum. Á því ári hlaut hann verðlaun fyrir búnaðarframkvæmdir sínar frá Flateyjar Framfarastiftun, átta ríkisdali, og voru það hæstu verðlaun sem stofnunin veitti.[21]

Margra handarverka Ólafs Teitssonar sér enn stað í Sviðnum en bær hans brann árið 1956 og fór þá jörðin í eyði. Austur á túninu, skammt frá bæjarrústunum, stóð Lönguflatarhús, sem svo var nefnt, að nokkru niðurgrafið í harða sandbala, reisulegt með helluþaki undir torfinu. Hús þetta var byggt fyrir daga Ólafs Teitssonar[22] og var um 1980 talið elst eða einna elst allra húsa sem þá voru uppistandandi í Vestureyjum.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Bergsv. Skúlason 1974, 213.

[2] Bergsv. Skúlason 1974, 213.

[3] Sami 1964, 125.

[4] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur 1886, 584 (Safn til sögu Íslands II).

[5] Bergsv. Skúlason 1982, I, 12.

[6] Sturlungasaga II, 232.

[7] Sturlungasaga II, 262-263.

[8] Jarðab. Á. og P. VI, 245.

[9] Sóknalýs. Vestfj. I, 166.

[10] Sbr. Bergsv. Skúlason 1982, I, 11.

[11] Játv. J. Júlíusson 1979, 134-138.

[12] Sama heimild, 137.

[13] Bergsv. Skúlason 1982, I, 16.

[14] Lúðvík Kristjánsson 1953, 39.

[15] Bergsv. Skúlason 1964, 121.

[16] Bergsv. Skúlason 1982, I, 21-22.

[17] Sama heimild, 20-22.

[18] Sama heimild.

[19] Jarðab. Á. og P. VI, 245.

[20] Bergsv. Skúlason 1982, I, 24.

[21] Lúðvík Kristjánsson 1953, 165.

[22] Bergsv. Skúlason 1982, I,19.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »