Svipast um á Ingjaldssandi

Svipast um á Ingjaldssandi

Leiðin úr Nesdal á Ingjaldssand liggur um Nesdalsskarð fyrir botni dalsins og er skarðið í 388 metra hæð yfir sjávarmáli. Loftlínan frá sjávarbökkunum í Nesdal og upp í skarðið er liðlega fjórir kílómetrar en um það bil tveir og hálfur kílómetri úr skarðinu niður að eyðibýlinu Hálsi á Ingjaldssandi. Þetta er greiðfær leið fyrir gangandi fólk og hér er nú  (1993) líka akvegur sem oftast er jeppafær síðla sumars. Úr Nesdal er líka hægt að fara á fjall upp milli Búðarhorns og Loðnuhvilftar (sjá hér Nesdalur) og síðan niður í Skáladal sem er upp af Sæbóli á Ingjaldssandi.[1] Þessi leið var stundum farin með stórgripi[2] og vilji menn komast gangandi á sem skemmstum tíma úr Nesdal að Sæbóli er best að velja hana. Ókunnugir ættu þó alls ekki að taka þann kost nema í björtu veðri því ef eitthvað ber út af lenda menn strax í ófærum klettum og í þoku eða dimmviðri er villugjarnt uppi á fjallinu.

Leiðin fyrir Barða úr Nesdal á Ingjaldssand er hins vegar illfær[3] og lítið vit að reyna sig við hana nema staðkunnugur leiðsögumaður sé með í för og engir veifiskatar. Forvaðar ganga þar í sjó fram undir snarbröttum klettahlíðum Barðans en hamratröll þetta var á fyrri tíð stundum nefnt Skerja-Barði af skerjum þeim er liggja þar norður fram fyrir landi.[4] Þegar komið er upp í Nesdalsskarð eigum við þess hins vega kost að ganga út á Barðann og litast um. Leiðin frá skarðinu og út á ystu brún fjallsins er liðlega 5 kílómetrar en á breidd er Barðinn víðast hvar einn til þrír kílómetrar milli brúna. Hér uppi er ágætt gangfæri og hæðarmunur lítill því svo má heita að allt göngulandið uppi á Barða og hásléttunni sem honum tengist sé í 480-540 metra hæð yfir sjávarmáli. Að sögn Landmælinga Íslands er hæsti kollur þessarar hásléttu í 548 metra hæð en að honum er aðeins liðlega einn kílómetri úr Nesdalsskarði.[5] Við ystu brún er hæðin nokkru minni eða 482 metrar.[6] Í góðu veðri er fátt skemmtilegra en að ganga milli brúna uppi á Barða en nauðsynlegt er að hafa varann á því svo má heita að alls staðar sé ófært niður af fjallinu nema á þeim örfáu stöðum sem hér hafa þegar verið nefndir. Þó er einnig fært á einum stað niður í Álfadal á Ingjaldssandi (sjá hér Álfadalur) og máske víðar fyrir þá sem þrautkunnugir eru og þjálfaðir í klettum.

Úr skarðinu fyrir botni Nesdals fylgjum við Nesdalsbrúninni í norðvesturátt uns komið er að Búðarhorni við dalsmynnið. Þar snúum við til norð-norðausturs og fylgjum brún hinna miklu hamraveggja sem Barðinn snýr til hafs. Á leið okkar skulum við rifja upp fáein örnefni hér niðri í klettunum og fjörunni milli Nesdals og Eyvindarskálar sem er nær þremur kílómetrum norðan við dalsmynnið. Fjórar hillur eða gangar sem farnir voru í fjárleitum eru hér niðri í fjallinu. Neðst eru Hærri- og Lægri-Sjóarhilla, sem ná frá Nesdal og út að Álagjá[7] og eru báðar fyrir neðan mitt fjall, þá Miðgangur og næst brún er Efstigangur.[8] Í honum er eitthvað af surtarbrandi og var stundum notaður til eldsneytis á fyrri tíð.[9] Segja má að Efstigangur byrji við Manntapabala, sem er grjóthaugur uppi undir brún Búðarhorns í Nesdal, en þaðan geta færustu menn þrætt syllu þessa alveg norður í Eyvindarskál.[10] Fyrir þá sem létu sig hafa að fara um þessa klettaþræðinga í Barðanum var Álagjá einn versti farartálminn en hún er afar mikið gil sem nær af fjallsbrún alla leið niður í fjöru.[11] Gjá þessi er um það bil miðja vega milli Búðarhorns og Eyvindarskálar. Sumir hafa látið sér detta í hug að nafnið Álagjá sé afbökun en upphaflega heitið hafi verið Hálagjá.[12]

Eyvindarskál er stór hvilft í brún Barðans og skammt norðaustan við hana er Geldingaskál sem er grasi gróin.[13] Báðar þessar skálar snúa að opnu hafi en norðan (austan) við Geldingaskál breytir ströndin um stefnu og þar opnast Önundarfjörður.

Niður úr Eyvindarskál renna Eyvindarskálarlækir en skammt fyrir norðan þá er stór aurhryggur sem nær frá fjöru og allhátt upp í kletta.  Hann heitir Aurhaugur[14] og af honum geta hinir færustu klettamenn komist norður á Völlur sem svo heita[15] en það eru mjög grasgefnar hillur í miðjum Barðanum, milli Eyvindarskálar og Geldingaskálar.[16] Þar í Völlunum gekk fé stundum úti[17] og þar er eitt mesta mávavarp á öllu landinu.[18]

Af Völlunum komast þjálfaðir klettamenn eftir Steinshillu norður fyrir Drífuhamar en ofar í fjallinu eru aðrir mjög tæpir þræðingar sem stundum eru farnir milli Eyvindarskálar og Geldingaskálar.[19] Þeir heita Eyvindarskálargangar.[20]

Niður Geldingaskál fellur lækurinn Drífa og í háum fossi fram af sjávarhömrum.[21] Lækurinn og fossinn heita báðir Drífa enda feykist vatnið úr fossinum til allra átta og drífur sitt á hvað eftir því hvernig vindur blæs.[22] Bótin fram undan Geldingaskál heitir Drífubót en rétt vestan við hann er Drífuhamar sem einnig er nefndur Steinbítshamar.[23] Steinshilla sem áður var nefnd og farin er til að sækja fé í Völlur er þriðji þræðingur ofan við hann en fyrir hamarinn er með öllu ófært bæði um flóð og fjöru.[24]

Frá fjallsbrúninni ofan við Geldingaskál röltum við um það bil 500 metra í austur og komum þá á brúnina yfir Purku sem er djúp og mikil skál er gengur inn í Barðann yst á vesturströnd Önundarfjarðar. Sumir telja reyndar að Barðinn endi við Purku[25] en fleiri munu þó líta svo á að hann nái inn að Skáladal.[26] Úr fjöru og upp í skálina Purku munu vera liðlega 300 metrar.[27] Í botni hennar vex töðugras en ofar rís dökkleitt hamrabelti.[28]

Niður af Purku eru Hærri- og Lægri-Purkubakkar og á þeim hærri sést móta fyrir tóttum sem sagt er að séu verbúðatóttir og þarna hafi vermenn frá Holti í Önundarfirði hafst við fyrir langa löngu.[29] Heldur er sú saga ótrúleg því ærið löng og brött hlyti sjávargata þeirra að hafa verið.  Lendinguna undir Purku segja menn hafa verið innan við Purkusker en utan við stein eða klett sem stendur upp úr sjó rétt innan við skerið.[30] Sagnir herma að forðum tíð hafi tröllkona átt bústað sinn hér í skálinni og hét sú eins og nærri má geta Purka.[31] Samtímis henni bjó Eyvindur karl í Eyvindarskál, hinum megin í Barðanum, og var hann fjölkunnugur. Lækur rann þá eftir gili sem enn er sjáanlegt í Purku og í honum var fullt af silungi sem skessan lagði sér til munns. Í Eyvindarskál var aftur á móti enginn silungur og slíka misskiptingu gæðanna átti Eyvindur erfitt með að þola. Hann greip því til fjölkynngi sinnar og veitti vatninu úr læknum í Purku niður í bergið svo nú kemur það fram mjög neðarlega í klettaveggnum fyrir utan skálina og heita þær sprænur Gimbrar.[32] Þessu reiddist skessan og veittist að Eyvindi er fundum þeirra bar saman á breiðu og grasivöxnu klettanefi skammt neðan við fjallsbrúnina utan við Purku.[33] Þar tókust þau á, tröllin, og varð það harður atgangur. Að lokum náði skessan Purka að hrinda Eyvindi fram af klettanefinu og féll hann niður í sjó. Þar varð hann að skeri sem nefnt er Kaplasker í sóknalýsingunum frá 1840[34] en menn kalla nú Kapal eða Kapalsker.[35] Grasflötin sem þau börðust á heitir aftur á móti Leikvöllur[36] og segir séra Jón Sigurðsson í sóknalýsingu sinni að sléttlendi þetta sé hér um bil hundraðs stærð að breidd og lengd[37] og mun þar eiga við jarðarhundrað. Að sögn séra Jóns var það reyndar Purka sem fór halloka í viðureign þeirra tröllanna og var hrundið fyrir björg.[38] Að sögn kunnugra eru Kapalskerin utan við Purku eiginlega tvö[39] svo vera má að bæði tröllin hafi hratað fyrir björg.

Frá brún Purku tökum við stefnu á brúnina fyrir botni Skáladals en dalur sá skerst inn í fjalllendið rétt utan við Sæból á Ingjaldssandi og hefur stefnu frá norðaustri til suðvesturs. Rétt við dalbotninn er klettalaus kiki og þar er fært niður í dalinn. Sú leið hentar vel til að komast af Barðanum niður á Ingjaldssand og hana munum við fara en lítum þó fyrst á Ingjaldshaug sem er hér uppi á fjallinu, skammt frá brúninni yfir botni Skáladals. Því var lengi trúað að þar væri heygður Ingjaldur Brúnason sem að sögn Landnámabókar var eini landnámsmaðurinn á Ingjaldssandi.

Elsta lýsing á haugi þessum, sem um er kunnugt, er frá árinu 1818 en í skýrslu dagsettri 24. ágúst á því ári kemst séra Jón Sigurðsson í Meira-Garði svo að orði:

 

Hér í sóknum finnst einungis einn fornmannahaugur með þekkjanlegum mannaverkum, nefnilega Ingjaldshaugur á svokölluðu Skáladalsfjalli sem liggur til útsuðurs frá Ingjaldssandi. Í þessum haug skal heygður vera Ingjaldur sem Landnáma segir numið hafi Ingjaldssand. Haugur þessi er 8½ faðmur ummáls að neðanverðu en hér um 5 álna hár, uppmjór og grasi vaxinn með tveimur steinum í kolli.[40]

 

Björn M. Ólsen, síðar háskólarektor, kannaði hauginn 5. ágúst 1884 og var Guðmundur Hagalín, sem þá bjó á Sæbóli en síðar á Mýrum, í fylgd með honum.[41] Björn gerði grein fyrir rannsókninni í Árbók fornleifafélagsins og þar eru lokaorð hans þessi:

 

Ég hygg að það geti enginn efi leikið á því að hér hafi einhver verið grafinn, fyrr eða síðar, en hitt er nokkuð vafasamt, hvort dysin er úr heiðni eða ekki. Mér þykir dysin nokkuð stutt til þess að hér hafi getað verið grafinn hestur með manninum og mjög ólíklegt er að hér sé heygður höfðingi þar sem dysin að miklu leyti var fyllt með möl þó að innan um hana væri mold. Það má öllu fremur segja um þann sem hér hefur legið að hann hafi verið urðaður en heygður.[42]

 

Melhóllinn sem nefndur er Ingjaldshaugur er enn á sínum stað og blasir við augum þegar komið er í nánd við Skáladal á leið frá brúninni yfir Purku.  Í lýsingunni frá 1818 er haugurinn sagður vera hér um 5 álna hár eða liðlega 3 metrar en hóllinn mun nú vera lítið eitt lægri.

Björn M. Ólsen fræðir okkur á því að sjálf dysin sé vestantil í nýnefndum melhól og í hana hafi Guðmundur Hagalín á Sæbóli áður grafið.[43] Í ágúst 1884 grófu þeir Björn og Guðmundur Hagalín aðra holu eða gröf í dysina og því sem fyrir augu bar lýsir Björn með þessum orðum:

 

Beggja megin við gröf þá sem áður var grafin sést greinileg hleðsla úr heldur litlu hellugrjóti með moldarlögum á milli og hafa lögin í veggjunum því verið úr torfi og hellum á víxl. … Greftrinum var haldið áfram austur eftir þangað til við rákumst á grjóthleðslu þá sem lokaði þvert fyrir endann á dysinni að austan … og stóð hún hér um bil þar sem hæst bar á hólnum, þannig að dysin náði ekki nema inn í miðjan hólinn. … Á milli veggjanna var hér um bil 4½ fet niður í harðan melinn frá yfirborði dysjarinnar og var það fullt af möl sem var talsvert moldblönduð. Hér og hvar fundum við innan um þessa moldbornu möl rákir af einkennilega ljósleitri mold sem ef til vill hafa verið fúaleifar af mannslíkama en annars fundum við ekkert merkilegt í dysinni.[44]

 

Við sem nú hvílum lúin bein á Ingjaldshaug höfum engin graftól meðferðis og leiðum hjá okkur að dæma um hvort einhver Sandmanna kynni að hafa verið lagður hér til hinstu hvíldar á fyrri tíð. Um svarið við þeirri spurningu má sjálfsagt deila en hvað sem því líður er hóllinn augnayndi hér uppi á sléttu fjallinu og nafnið Ingjaldshaugur við hæfi.

Frá haugnum er spölurinn skammur fram á brún Skáladals. Frá henni mjökum við okkur niður bratta en klettalausa hlíðina þar sem heitir Kiki,[45] rétt við dalbotninn, og skundum síðan niður í dalinn í átt að Sæbóli.  Neðarlega í Skáladal eru tveir hjallar sem heita Klukkuhjallar.[46] Sú skýring er gefin á nafninu að upp á þessa hjalla hafi börn sem sátu yfir kvíaám uppi í Skáladal hlaupið til að sjá hvort búið væri að breiða á bæinn heima á Sæbóli.[47] Vel getur þetta staðist því sú aðferð að breiða hvítt léreft eða eitthvað annað sem áberandi var á bæjarburst til marks um að börnin ættu að koma heim með ærnar var algeng á Vestfjörðum. Þannig var gefið til kynna hvað tímanum leið og ættu þá börnin sem sátu yfir ánum frá Sæbóli að hafa hlaupið upp á Klukkuhjalla til að sjá hvað klukkan væri.

Við erum nú komin á Ingjaldssand og skulum fyrst nema staðar á lágu holti sem heitir Leiti, skammt fyrir framan Sæból. Þaðan er gott að svipast um og virða fyrir sér þetta merkilega byggðarlag.

Ingjaldssandur er grösugur dalur sem liggur að vesturströnd Önundarfjarðar út undir fjarðarkjaftinum. Lengd dalsins er rösklega fjórir kílómetrar ef mælt er frá sjávarströndinni og fram að brekkufætinum neðan við fjallið Þorsteinshorn. Þar skiptist dalurinn í tvennt Vegalengdin neðan frá sjó og fram í dalbotnana er sex til átta kílómetrar. Á breidd er sjálfur megindalurinn um það bil einn kílómetri, alveg frá Leitinu framan við Sæból og fram að fjallinu Hraunshorni sem er í um það bil tveggja og hálfs kílómetra fjarlægð frá ströndinni. Niður við sjóinn er dalurinn enn breiðari eða liðlega hálfur annar kílómetri en þrengist verulega þar sem Hraunshornið skagar fram úr vesturhlíðinni. Framan við það breikkar dalurinn á ný en þá er skammt að Þorsteinshorni sem klýfur hann í tvennt. Meginstefna dalsins er frá norðri til suðurs en þó lítið eitt austan við suður.

Sú skýring er gefin á nafni dalsins að hann sé kenndur við Ingjald Brúnason sem frá er sagt í Landnámabók og þar er talinn hafa numið land á Ingjaldssandi og sagður hafa helgað sér allt land milli Hjallaness og Ófæru.[48] Óhætt mun að fullyrða að Hjallanes, sem þarna er nefnt, sé fjall það sem nú heitir Skagafjall og er vestan við Nesdal, yst á norðurströnd Dýrafjarðar (sjá hér Fjallaskagi og Nesdalur) en flestir munu telja að Ófæra sú sem þarna er nefnd sé undir Hrafnaskálarnúpi, rétt innan við Ingjaldssand, en þar heita nú Pallar.[49] Klettar þessir ganga í sjó fram svo ekki verður komist fyrir framan þá nema um fjöru eða hálffallinn sjó.[50] Reyndar er ekki kunnugt um neinar heimildir fyrir því að Pallarnir hafi áður borið nafnið Ófæra en innar í Önundarfirðí, nánar til tekið milli Valþjófsdals og Hjarðardals, gengur önnur klettabrík í sjó fram sem heitir Ófæra og hefur borið það nafn svo lengi sem unnt er að rekja. Sumir heimamenn á þessum slóðum hafa því látið sér detta í hug að landnám Ingjalds Brúnasonar hafi náð alla leið inn að þessari Ófæru og hann hafi því ekki aðeins numið Ingjaldssand og Nesdal heldur líka Mosdal og Valþjófsdal.[51] Sú kenning er reyndar íhugunarverð því að sú fullyrðing höfunda Landnámabókar að Önundur Víkingsson hafi numið Önundarfjörð[52] getur alls ekki haft þá merkingu að hann hafi numið allan fjörðinn. Ef svo ætti að vera yrði að strika Ingjald Brúnason út. Orð Landnámabókar skera því ekki úr um það hvar mörkin hafi legið milli landa Önundar og Ingjalds. Í þessu sambandi má minna á að í Landnámabók segir að Dýri hafi numið Dýrafjörð,[53]  sem fljótt á litið sýnist gefa til kynna að hann hafi numið allan fjörðinn, en á nálægum  blaðsíðum í sömu bók eru þó taldir upp þrír aðrir landnámsmenn í Dýrafirði.[54] Vilji menn á annað borð taka eitthvert mark á frásögnum Landnámu sýnist því hæpið að vísa algerlega á bug þeirri kenningu að landnám Ingjalds Brúnasonar kynni að hafa náð inn að Ófærunni fyrir innan Valþjófsdal. Sú staðreynd að hreppamörkin undir Hrafnaskálarnúp eru ekki við Pallana heldur við Reyðarsker, sem er nokkru innar (sjá hér Villingadalur og Mosdalur), veikir líka röksemdafærslu þeirra sem telja að landnám Ingjalds hafi aðeins náð að Pöllunum. Fráleitt er þó að fullyrða eitt eða neitt um þetta.

Sérkennilegt er að dalur sá sem kenndur er við Ingjald landnámsmann skuli kallast sandur því engir aðrir dalir á Vestfjörðum bera sandsnafn. Fullvíst má reyndar telja að nafnið eigi rætur að rekja til sandsins á sjávarströndinni við dalsmynnið því ströndin sú er harla ólík stórgrýtisfjörunum í næsta nágrenni og býður sjófarendur velkomna af hafi.

Byggðin á Ingjaldssandi er umlukt háum fjöllum á alla vegu nema í átt til hafs. Helsta samgönguleiðin á landi var og er Sandsheiði, sem tengir Ingjaldssand við norðurströnd Dýrafjarðar, en heiðarvegur þessi liggur í um 530 metra hæð yfir sjávarmáli. Á vetrum var oft mjög erfitt að brjótast yfir heiðina enda stundum teflt í fullkomna tvísýnu, ekki síst á árunum kringum aldamótin 1900 þegar læknir var kominn á Þingeyri og hinir hraustustu menn á Sandinum lögðu á heiðina í hvaða veðri sem var til að sækja lækninn ef líf lá við.[55] Til næstu nágranna í Önundarfirði munu Sandmenn oftast hafa farið á sjó en á landi er um tvær leiðir að ræða, báðar mjög slæmar. Önnur þeirra er fjallvegurinn Klúka sem liggur norður af Sandsheiði en þótti mun verri leið (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Hin er fjöruleiðin undir Hrafnaskálarnúp sem líka má heita illfær (sjá hér Villingadalur og Mosdalur).

Af þessum landfræðilegu ástæðum er eðlilegt að líta á Ingjaldssand sem alveg sérstakt byggðarlag þó að íbúafjöldinn þar hafi ekki verið talinn nægilegur til þess að Sandmenn mynduðu hrepp einir sér. Frá ómunatíð hafa íbúar þessarar ystu byggðar við Önundarfjörð tilheyrt Mýrahreppi sem einnig nær yfir alla norðurströnd Dýrafjarðar. Prestakallið Dýrafjarðarþing náði líka yfir allan Mýrahrepp en Sandurinn var þó alltaf sérstök kirkjusókn með kirkju sína á Sæbóli. Á fyrri tíð áttu fáir eða engir jafn oft leið yfir Sandsheiði og prestarnir í Dýrafjarðarþingum en vetrarferðir á annexíuna á Sæbóli reyndu oft mjög á þrek þeirra og þor. Séra Sigtryggur Guðlaugsson, sem var prestur í kalli þessu frá 1904-1938, taldi sig hafa farið 900 sinnum yfir Sandsheiði á sínum prestskaparárum[56] og alltaf gangandi eða ríðandi því bílvegur var ekki lagður yfir heiðina fyrr en alllöngu síðar.

Yfir Sandsheiði var farið í fyrsta sinn á bíl um verslunarmannahelgi árið 1948.[57] Enginn vegur var þá á heiðinni en ferð þessi var farin á Willysjeppa.[58] Bílstjóri var Guðni Ágústsson á Sæbóli en með honum var Þórður Magnússon sem þá var kaupfélagsstjóri á Flateyri.[59] Bílfært varð yfir heiðina í lok júní eða byrjun júlí sumarið 1950 en þungaflutningar með bifreiðum hófust þó ekki fyrr en þremur árum síðar.[60]

Verslunarferðir munu Sandmenn yfirleitt hafa farið á sjó. Á tímum dönsku einokunarinnar sóttu þeir verslun til Þingeyrar en þegar útibú frá Þingeyrarverslun var sett upp á Flateyri árið 1792 munu bændur á Ingjaldssandi hafa snúið viðskiptum sínum þangað eins og sjá má í bæklingi sem eigandi Þingeyrarverslunar, Henrik Henkel, samdi og gaf út árið 1799.[61] Á þeim 200 árum sem síðan eru liðin hafa Sandmenn átt nær öll sín viðskipti við verslanir á Flateyri.[62]

Á árunum kringum aldamótin 1900 var þó talsvert af sláturfé Sandmanna rekið til Ísafjarðar á hverju hausti og slátrað þar (sjá hér Brekka á Ingjaldssandi). Leiðin með fjárrekstrana lá upp á Sandsheiði og yfir Klúku niður í Valþjófsdal. Þaðan var féð svo rekið inn með Önundarfirði, yfir Vöðin og síðan áfram um Breiðadalsheiði til Ísafjarðar.[63] Þessi leið er um 40 kílómetrar og yfir tvo háa og mjög erfiða fjallvegi að fara. Þessar rekstrarferðir á Ísafjörð hljóta því að hafa reynt mjög á þrek manna og tók tvo daga að koma fénu norður.[64] Yfirleitt munu rekstrarmennirnir hafa gist í heyhlöðum, til dæmis í Holti eða Breiðadal, og skiptust þá á um að vakta féð.[65] Haustið 1900 ráku Sandmenn um 150 kindur á Ísafjörð og fóru 14 saman með þann rekstur.[66] Á Ísafirði fengu þeir andvirði fjárins borgað út í hönd.[67]

Frá leitinu framan við Sæból þar sem við höfum nú staldrað við um sinn gefst kostur á að virða fyrir sér drjúgan hluta af Ingjaldssandi. Er við lítum yfir dalinn sjáum við yst við sjó í endann á fjallinu Hrafnaskálarnúp sem dregur nafn af Hrafnaskálinni, grónum bolla sem blasir við augum hátt í fjallinu.[68] Framan við skálina er Dagmálahorn, sem er eyktamark frá Sæbóli,[69]  en allt fjallið milli Hrafnaskálar og Villingadalshvilftar heitir Villingadalsfjall.[70] Villingadalshvilft er í um það bil tveggja kílómetra fjarlægð frá ströndinni og nær niður í mitt fjallið. Framan við hana tekur við Brekkufjall sem nær alveg fram undir dalbotn að austanverðu. Fjallsbrúnin austan við dalinn er víðast hvar í um það bil 600 metra hæð og fer hvergi niður fyrir 500 metra. Fremst í dalnum dregur fjallið Þorsteinshorn að sér athygli en eins og áður var getið skiptir það dalbotninum í tvennt. Austan við hornið liggur þjóðvegurinn á Sandsheiði um Hálsparta og Skógarbrekkur sem eru vestan við Þverá en fyrir austan hana er land Brekku og heitir þar Brekkudalur.[71] Hinum megin við Þorsteinshorn er annar dalur en fram í hann sjáum við ekki héðan frá leitinu framan við Sæból því Hraunshorn ber á milli. Hraunshornið er um það bil 500 metra hátt fjall sem skagar fram úr fjalllendinu vestan Ingjaldssands, rétt um miðjan Sandinn. Framan við það gengur Hraunsdalur í vesturátt en um hann er farið upp í Nesdalsskarð. Utan við Hraunshorn er svolítil dalskora sem heitir Álfadalur en síðan tekur við Álfadalsfjall og nær að Nautaskál sem er hér rétt framan við Leiti.[72] Fjallið norðan við Nautaskál heitir Kerlingar[73] en síðan kemur Skáladalur[74] sem er þverdalur beint upp frá bænum Sæbóli og sjávarströndinni hér á Ingjaldssandi. Fjallsbrúnin frá Hraunshorni að Skáladal er öll í um það bil 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Utan við Skáladal er hið mikla fjall Barði sem snýr að opnu hafi.

Ána sem fellur um endilangan Ingjaldssand nefna menn ýmist Langá eða Sandá.[75] Hún á upptök sín í fjallskrika svolítið neðan við vesturbrún Þorsteinshorns, á svipuðum slóðum og fjall þetta rennur saman við hálendið að byggðarbaki. Á leið sinni til sjávar safnar Langá í sig vatni úr flestum ám og lækjum á Ingjaldssandi en þar er helst að nefna Þverá, sem skilur að Brekkudal og Hálsland og fellur austan við Þorsteinshorn, Mórillu, sem á upptök sín í Ranghala (sjá hér Háls og Hraun á Ingjaldssandi), Selá, sem fellur um Hraunsdal, og Álfadalsá sem kemur ofan af Álfadal.[76] Ós Langár er við Sandvík vestan undir Hrafnaskálarnúp en Skáladalsá fellur til sjávar nær hálfum öðrum kílómetra vestar og eru þá talin öll helstu straumvötn á Ingjaldssandi. Í sóknalýsingunni frá 1840 er góð silungsveiði sögð vera í Langá en jafnframt tekið fram að hún sé lítt hirt.[77]

Bújarðir á Sandinum voru mjög lengi sex:  Sæból, Álfadalur, Hraun, Háls, Brekka og Villingadalur. Þær þrjár jarðir sem fyrst voru taldar eru vestan Langár en hinar þrjár eru austan við ána. Nú (1999) er aðeins ein í byggð, Sæból, en hinar eru allar komnar í eyði. Háls fór í eyði 1921, Villingadalur 1936, Álfadalur 1969, Ástún, sem var nýbýli úr landi Álfadals, 1989, Brekka 1991 og Hraun 1996 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 303-312).

Stærsta jörðin á Ingjaldssandi er Sæból, 60 hundruð að dýrleika að fornu mati, og þar var oft margbýli. Næst stærst er Brekka, 48 hundruð, og þriðja Álfadalur sem var talinn 36 hundruð. Hinar jarðirnar þrjár voru mun minni, Villingadalur 18 hundruð en Hraun og Háls 12 hundruð hvor. Samtals voru jarðirnar á Ingjaldssandi 186 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati[78] eða tæpur fjórðungur af öllu jarðnæði í Mýrahreppi (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Um Sæból skal þess sérstaklega getið að land þeirrar jarðar er fjórskipt. Þar er fyrst að nefna heimalandið, sem eitt sér verður með engu móti metið til 60 hundraða, en auk þess á Sæból Brekkunes, Heiðar og Nesdal. Hér hefur áður verið sagt frá Nesdal (sjá hér Nesdalur) en nauðsynlegt er að gera örlitla grein fyrir Brekkunesi og Heiðum.

Brekkunes er dálítil landspilda innan Langár en henni fylgir reyndar allur sá hluti Hrafnaskálarnúps sem er utan við hreppamörk Mýrahrepps og Mosvallahrepps og strandlengjan frá Langá að hreppamörkum.[79] Sæból er því eina jörðin á Ingjaldssandi sem á land að sjó þar eð fjaran utan Langár er í heimalandi þeirrar jarðar. Ætla má að Brekkunes sé kennt við jörðina Brekku á Ingjaldssandi sem er í um það bil þriggja kílómetra fjarlægð frá sjó og hefur að líkindum átt allt land austan Langár og Þverár áður en Villingadalur byggðist en land þeirrar jarðar liggur á milli Brekku og Brekkuness. Skýring á nafninu Brekkunes gæti verið sú að eigendur Brekku hafi haldið eftir þessari landspildu við sjóinn þegar býli var fyrst reist á Villingadal og ekki ólíklegt að nesið hafi öldum saman legið undir Brekku. Gömul munnmæli herma að Brekkunes hafi fyrst verið lagt undir Sæból á dögum Þorkötlu ríku Jónsdóttur sem bjó á Sæbóli á fyrri hluta 18. aldar og hafi eigandi Brekku tryggt sér skipsuppsátur á Sæbóli í staðinn þegar gengið var frá þessum viðskiptum.[80]

Enda þótt munnmælin tengi viðskipti þessi við Þorkötlu ríku má þó telja fullvíst að Brekkunesið hafi verið lagt undir Sæból alllöngu fyrir hennar daga. Fullvíst má samt telja að nesið og fjaran austan Langár hafi enn verið í eigu Brekku árið 1571. Brekka var þá orðin kóngsjörð og í reikningum Eggerts Hannessonar lögmanns frá því ári sést að kóngur fékk þá hálfa vætt fiska (10 álnir) goldna í vertoll fyrir sjósókn frá þessari eignarjörð sinni.[81] Til sjósóknar þurfti fjöru svo hér er ekki um að villast.

Í máldögum Núpskirkju í Dýrafirði frá 14. öld er jafnan tekið fram að kirkjan eigi tíundu vætt í Sæbólshluta í hvölum og tíunda part í Brekkuhluta.[82] Í Gíslamáldaga frá árunum 1570-1587 eru orðin tíunda part í Brekkuhluta hins vegar fallin brott en eins og áður er Núpskirkja sögð eiga tíundu hverja vætt í öllum þeim hvölum er kynnu að reka á land á Sæbólsfjöru.[83] Með hliðsjón af vitneskju um vertollinn árið 1571 og þeim orðum sem hér var vitnað til úr máldögum Núpskirkju verður að telja mjög líklegt að Sæbólsmenn hafi eignast fjöruna innan Langár og Brekkunesið á árunum 1571-1587.

Önnur rök hníga einnig að því að fjaran og nesið hafi gengið undan Brekku um þetta leyti. Í byrjun 18. aldar átti konungur enn jarðirnar Brekku og Villingadal á Ingjaldssandi en Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, hafði þær að léni.[84] Árið 1727 stefndi sonur Ara, Magnús Arason landmælingakapteinn, Þorkötlu ríku, sem þá var búandi ekkja á Sæbóli, um lögfestar fyrir þeirri jörð til að fá skorið úr ágreiningi um landamerki hennar á móti Brekku og Villingadal.[85]

Sjálfur var Magnús reyndar ættaður frá Sæbóli því móðir hans, Ástríður Þorleifsdóttir í Haga, og Eggert Sæmundsson, sem Þorkatla ríka hafði átt fyrir eiginmann, voru systkinabörn, bæði barnabörn Eggerts Sæmundssonar eldri[86] sem bjó á Sæbóli á fyrri hluta 17. aldar (sjá hér Sæból).

Þingað var í landamerkjamáli þessu sumarið 1727 og mörg vitni kölluð fyrir.[87] Magnús sakaði Þorkötlu um ágengni á lönd Brekku og Villingadals og nefndi sérstaklega stekkjarstæði frá Sæbóli í Brekkulandi.[88] Vitnin sem fram voru leidd á vegum Magnúsar báru að þau hefðu heyrt frá sér eldri mönnum, m.a. Steinþóri Ormssyni á Hvilft í Önundarfirði, að Brekka hefði átt land til sjávar.[89] Að sögn þessara vitna hafði Steinþór séð gögn um þetta á sínum tíma hjá Árna Magnússyni á Hóli í Bolungavík.[90]  Ætla verður að Steinþór Ormsson, sem þarna er nefndur, sé sá maður með því nafni sem stundum var vottur á Mosvallaþingi í Önundarfirði á árunum 1666-1678 [91] og bjó á Hvilft árið 1681 (sjá hér Hvilft) en Árni Magnússon á Hóli í Bolungavík er efalaust lögréttumaðurinn með því nafni sem lengi bjó á Hóli, fæddur um 1630 og dáinn eigi síðar en 1698.[92] Faðir Árna hafði búið á Sæbóli um skeið[93]  en Sæmundur Eggertsson er þar bjó, tengdafaðir Þorkötlu ríku, og Árni á Hóli voru bræðrasynir.[94]

Allt sem fram kom í réttarhöldunum árið 1727 sýnir að Steinþór Ormsson, sem hlýtur að hafa verið fæddur á fyrri hluta 17. aldar, hefur ekki haldið því fram að Brekkunesið hafi enn tilheyrt Brekku í sínu ungdæmi heldur kvaðst hann hafa séð gögn um það hjá Árna á Hóli að svo hefði verið áður.[95] Af þessu má ráða að breytingin á landamerkjum Brekku og Sæbóls hefur átt sér stað löngu fyrir daga Þorkötlu ríku og í síðasta lagi mjög snemma á 17. öld. Mun líklegra er þó að Brekkunesið hafi komist í eigu Sæbólsmanna nokkru fyrr eins og máldagarnir sem hér voru áður nefndir gefa vísbendingu um.

Við réttarhaldið á Mýrum sumarið 1727 kom fram að hlíðina innan ár hefðu Sæbólsmenn lengi yrkt og brúkað … til sláttar og beitar en tekið var fram að Eggert Sæmundsson, sem verið hafði eiginmaður Þorkötlu ríku og nú var látinn fyrir átta árum, hefði jafnan bannað að rista þar torf eða stinga þar jörð.[96] Sum vitnanna í þessu sama réttarhaldi töldu sig líka hafa spurnir af því að Brekkubændur hefðu áður haft skipsuppsátur í Sandvík innan við ána en síðar hefðu eigendur Brekku fengið skipsstöðu á Sæbóli og látið stekkjarstæðið af hendi á móti í þeim viðskiptum.[97] Er þar komin sagan sem hér var áður minnst á og enn lifði í munnmælum á fyrri hluta 20. aldar með þeirri breytingu þó að búið var að tengja hana við nafn Þorkötlu ríku. Við vitnaleiðslurnar á Mýrum árið 1727 kom einnig fram að í heimalandi Sæbóls mætti sjá mjög gamlar og niður signar stekkjartóttir og kvíar sem þótti sýna að Sæbólsmenn hefðu ekki átt stekkjarstæði handan ár frá upphafi vega.[98]

Fulltrúi Þorkötlu ríku við réttarhaldið á Mýrum sumarið 1727 var Magnús Snæbjörnsson stúdent,[99] síðar prestur á Söndum. Meðal gagna sem hann lagði fram var skjal sem Sæmundur Eggertsson, lögréttumaður á Sæbóli og tengdafaðir Þorkötlu, hafði látið lesa upp við Sæbólskirkju 6. sunnudag eftir páska árið 1665 en þar segir:

 

Ég Sæmundur Eggertsson lögfesti hér í dag eign mína sem er jörð þessi Sæból með allri hennar kirkjueign sem hennar máldagar henni eigna eður henni hefur að fornu fari eignað verið. Hér með lögfesti ég hér í dag allan Nesdal að fráteknum þeim ítökum sem Mýrakirkja og Núpskirkja sér þangað eigna eður önnur þau ítök sem með gerðum gerningum og gömlum bréfum bevísuð verða. Lögfesti ég akra og töður, engjar og skóga, holt og haga, vötn og veiðistöðu og allar landsnytjar er þessari sagðri jörðu fylgja og fylgt hafa að fornu og nýju og allt til sjávar í milli Þúfu og Reyðarskers og svo fram í Síkiseyri.[100]

 

Orðalagið á skjali þessu ber greinilega með sér að áður en það var lesið við Sæbólskirkju vorið 1665 hafa Sæbólsmenn átt alla strandlengjuna milli Þúfu og Reyðarskers og hlíðina handan ár um nokkurt skeið. Er plagg þetta var lagt fram við réttarhaldið á Mýrum sumarið 1727 fylgdu því líka allmargir vitnisburðir ýmissa Sandmanna frá árunum 1666-1686 um að landamerki Sæbóls hefðu verið við Þúfu, Reyðarsker og Síkiseyri svo lengi sem elstu menn kynnu frá að greina.[101] Magnús Arason neitaði hins vegar að taka lögfestuna frá 1665 og vitnisburði sem henni voru samhljóða gilda þar eð aldrei hefði verið samið við umboðsmann konungs um þessi landamerki og þeim aldrei verið þinglýst[102] en eins og áður sagði átti kóngur jarðirnar Brekku og Villingadal.

Réttarhaldið í landamerkjamáli þessu stóð í tvo daga, 17. og 18. júní 1727.[103] Í lok þess tók Markús Bergsson sýslumaður fram að ekki væri hægt að dæma í þrætumáli þessu að svo stöddu og kvaðst hann myndu leita eftir áliti Orms Daðasonar sýslumanns sem Þorkatla hafði þá ánafnað jörðina Sæból eftir sinn dag (sjá hér Sæból).[104] Ekki verður nú séð í varðveittum gögnum að dæmt hafi verið í málinu en fyrir liggur að landamerkin sem Sæmundur Eggertsson lögfesti vorið 1665 hafa engum breytingum tekið á þeim tíma sem síðan er liðinn.[105] Land Sæbóls nær enn frá Þúfu vestan (sunnan) við Nesdal og að Reyðarskeri undir Hrafnaskálarnúp þar sem eru hreppamörk.[106] Innan Langár nær Sæbólsland frá sjávarströndinni og fram að merkjum á Síkiseyri[107]  sem gengur út í ána dálítið framan við Sæbólsstekk (sjá hér Sæból). Fram að merkjunum á Síkiseyri er  10-15 mínútna gangur neðan frá sjó.[108]  Síkið sem eyrin var kennd við er nú horfið því búið er að þurrka landið upp og komið tún ofan við eyrina.[109] Framan við Síkiseyri tekur við land Villingadals.

Ástæðulaust sýnist að hafa fleiri orð um Brekkunesið sem nú hefur öldum saman legið undir Sæból þó áin skilji það frá heimalandi þeirrar jarðar. Eins og fyrr var getið á Sæból líka að miklu eða öllu leyti tvö önnur landsvæði utan heimalandsins en það eru Nesdalur og Heiðar. Hér hefur áður verið gerð grein fyrir Nesdal en Heiðar eru mikið og vel gróið beitiland vestan Langár, milli Selár og Mórillu.[110] Sitt hvorum megin við Heiðar eru lönd jarðanna Hrauns og Háls. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 er ekki minnst á Brekkunes en beitilandið á Heiðum töldu Sæbólsmenn sig þá eiga að tveimur þriðju hlutum.[111] Á lausan miða sem fylgir Jarðabókinni hefur maður Þorkötlu ríku, Eggert Sæmundsson, sjálfseignarbóndi á Sæbóli, skrifað: Selstöðu á jörðin á heiðum og tvo parta þess lands, sem mínir forfeður mér sagt hafa, en ei nú í mörg ár brúkað. Á þessum heiðum er lyng að fá.[112]

Einn þriðjungur þessa heiðalands hefur að líkindum fylgt Álfadal árið 1710 því að í Jarðabókinni er sú jörð sögð eiga selstöðu fram á heiðum og tekið fram að þau réttindi séu nýtt á hverju ári.[113] Svo var enn um 1840 (sjá hér Sæból). Rústir seljanna frá Sæbóli og Álfadal eru í Seljalágum, vestan Langár og rétt framan við Selá. Tóttirnar eru alveg niður við Langá en ofan við Seljalágar liggur beitilandið Heiðar.  Ummerki sýna að selin hafa verið tvö og svolítill spölur á milli. Í öðru þeirra var reyndar búið í nokkur ár í lok nítjándu aldar (sjá Firðir og fólk 900-1900, 285). Í örnefnaskrá sem Guðmundur Benediktsson frá Hálsi á Ingjaldssandi ritaði á fyrri hluta tuttugustu aldar er komist svo að orði að sagnir hermi að í gamla daga hafi Álfadalur átt þriðja part í Heiðum og haft þar selstöðu.[114] Í tíð þeirra sem ungir voru um aldamótin 1900 virðist allt þetta beitiland á Heiðum þó hafa verið talið eign Sæbóls[115] og þar var reyndar líka talsvert slægjuland sem menn nýttu frá Sæbóli.[116]

Í Landnámabók er greint frá Ljóti hinum spaka sem sagður er hafa búið Ingjaldssandi og átt landnámsmanninn Ingjald Brúnason fyrir langafa.[117] Sú frásögn ber með sér að höfundurinn telur bæ Ljóts hafa staðið vestan Langár og verið nefndan Ingjaldssand en samtímamaður Ljóts var að sögn sama höfundar Grímur kögur sem bjó á Brekku.[118] Sagan af viðskiptum þessara tveggja bænda sýnir að á ritunartíma Landnámabókar, það er á 12. öld, hafa menn talið að í kringum árið 1000 hafi höfuðbólið í dalnum heitið Ingjaldssandur en þá þegar hafi verið risið annað býli hinum megin við ána og borið nafnið Brekka. Að sögn höfunda Landnámu rann lækurinn Ósómi á mörkum þessara tveggja jarða. Fljótt á litið gæti mönnum dottið í hug að þar væri átt við Langá en góð rök hafa verið færð fyrir því að lækur sá sem áður hét Ósómi sé hinn sami og nú ber nafnið Þverá og verður hér brátt gerð grein fyrir þeim.

Líklegt má telja að frásögn Landnámabókar af vígi Ljóts spaka sé að einhverju leyti byggð á arfsögnum. Öll sú frásögn bendir eindregið til þess að á dögum Ljóts og Gríms hafi jarðirnar á Ingjaldssandi aðeins verið tvær, Ingjaldssandur og Brekka og hafi fyrrnefnda jörðin átt allt land vestan Langár og Þverár en Brekka aftur á móti allt land fyrir austan ár þessar.

Sé út frá þessu gengið sýnist eðlilegt að gera ráð fyrir að Sæból hafi verið landnámsjörðin og hún í fyrstu verið nefnd Ingjaldssandur. Til styrktar þeirri kenningu má m.a. nefna að bæjarnafnið Sandur fellur einkar vel að býli sem reist er við sendna sjávarströnd. Brekka ætti þá að hafa byggst næst á eftir Sæbóli, enda er hún næst stærsta jörðin á Sandinum. Álfadalur hefur líklega komið næstur í röðinni, a.m.k. benda forn eignarráð eigenda Sæbóls og Álfadals yfir Heiðunum, sem eru framan við landareign Hrauns, til þess að byggð hafi risið síðar í Hrauni. Hvað sem því líður sýnist óhætt að gera ráð fyrir að jarðirnar Álfadalur, Hraun og Háls hafi allar byggst úr því landi sem tilheyrði Sæbóli (Ingjaldssandi) fyrstu 100 árin eftir landnám en Villingadalur úr landi Brekku.

Í Landnámu er frá því greint að Grímur kögur á Brekku hafi keypt lækinn Ósóma af Ljóti spaka og goldið fyrir hann slátur til tuttugu hundraða[119] og eru þetta hin merkilegustu viðskipti. – Grímur veitti hann á eng sína, segir þar, og gróf land Ljóts en hann gaf sök á því og var fátt með þeim.[120] Kvenkynsorðið eng merkir hér greinilega engi[121] og þessar áveituframkvæmdir bóndans á Brekku munu vera einar þær fyrstu sem sögur fara af á landi hér. Vera má að þær hafi löngu síðar orðið Sandmönnum hvöt til dáða á sviði ræktunarmála en þar stóðu þeir lengi framarlega í flokki á öldinni sem lauk árið 2000.

Björn M. Ólsen, síðar háskólarektor, mun fyrstur manna hafa fært rök að því að lækurinn Ósómi, sem Ljótur seldi Grími, muni vera Þverá.[122] Sú kenning mun nú njóta stuðnings flestra sem um þetta hafa hugsað en fyrir henni færði Björn m.a. þessi rök í ritgerð sinni frá árinu 1885:

Þar sem því Landnáma segir að Ósómi hafi runnið milli landa þeirra Ljóts og Gríms þá er ekki um að villast, annaðhvort hlýtur Ósómi að vera aðaláin (Langá eða Sandsá) eða Þverá og þá eflaust heldur Þverá því að það væri undarlegt og alls eigi samkvæmt vestfirskri málvenju ef aðaláin á Sandinum væri kölluð lækur. Þverá þessi rennur af Brekkudal í litlum fossi niður á eyrar þær sem liggja að austanverðu við Langá og fellur þaðan eftir eyrunum niður í Langá á milli bæjanna Háls og Brekku. Út frá ánni norður að Brekku ganga sléttar eyrar og virðist það einkar vel til fallið að stífla ána rétt fyrir neðan fossinn og veita henni svo út eftir eyrunum.

En Landnáma segir að Grímur hafi grafið land Ljóts. Það er þó auðséð að sagan á hér ekki við að Grímur hafi veitt Ósóma yfir land Ljóts á sitt land því að hún tekur það beinlínis fram að lækurinn hafi runnið milli landa þeirra. Það mun því eiga að skilja þetta svo sem sagan segi að Grímur hafi grafið Ljóts land til þess að fá efni í stíflugarð fyrir ána og er þá allt eðlilegt. Staður þessi í Landnámu er merkilegur af því að hann er einhver sá elsti þar sem talað er um vatnsveitingar hér á landi.[123]

 

Fossinn sem Björn M. Ólsen talar um, sá neðsti í Þverá, heitir Hálsfoss og er gengt á bak við hann.[124] Ekki er ólíklegt að skýringar á nafninu Ós-ómi sé einmitt að leita í óminum frá þessum fríða fossi, rétt við lækjarósinn eða ármótin. Vel má líka vera að einhverjir síðari tíma menn hafi lagt aðra og verri merkingu í þetta heiti, Ós-ómi orðið að Ó-sóma, og aðrir því kosið fremur að nefna lækinn hinu hversdagslega nafni Þverá.

Í Landnámabók er Ljótur spaki á Ingjaldssandi sagður hafa verið dóttursonur Grjótgarðs jarls[125] og hefur því verið af hinni voldugu ætt Hlaðajarla í Noregi ef rétt er frá sagt. Á frásögn Landnámu má skilja að Grímur kögur á Brekku hafi ekki verið jafn ættgöfugur og Ljótur nágranni hans og um syni Gríms, þá Sigurð og Þorkel, er sagt að þeir hafi verið litlir menn og smáir.[126]

Í fornum sögum má allvíða sjá merki þess að Gestur Oddleifsson í Haga á Barðaströnd hafi verið talinn sjá fyrir óorðna hluti. Í Landnámu er frá því greint að Gestur hafi sótt haustboð er Ljótur á Ingjaldssandi efndi til og er hann sneri heim frá boðinu fylgdi Ljótur honum á leið en þó ekki alveg upp á heiði.[127] Á þeirri ferð spurði Ljótur hvað sér myndi að bana verða.  Frá svari spekingsins í Haga og samtali þeirra er greint á þessa leið:

 

Gestur kvaðst eigi sjá örlög hans en bað hann vera vel við nábúa sína. Ljótur spurði: „Munu jarðlýsnar, synir Gríms kögurs, verða mér að bana?” – „Sárt bítur soltin lús”, kvað Gestur. „Hvar mun það verða?” kvað Ljótur.  „Héðra nær”, kvað Gestur.[128]

 

Frá endalokum Ljóts er síðan greint með þessum orðum:

 

Um vorið sat Ljótur að þrælum sínum á hæð einni. Hann var í kápu og var hötturinn lerkaður [þ.e. dreginn saman – innskot K.Ó.] um hálsinn og ein ermur á. Þeir Kögurssynir hljópu á hæðina og hjuggu til hans báðir senn. Eftir það snaraði Þorkell höttinn að höfði honum. Ljótur bað þá láta gott í búsifjum sínum og hröpuðu þeir af hæðinni á götu þá er Gestur hafði riðið. Þar dó Ljótur. Þeir Grímssynir fóru til Hávarðar halta. Eyjólfur grái veitti þeim öllum og Steingrímur son hans.[129]

 

Á síðari tímum hafa ýmsir reynt að velta fyrir sér hvar Kögurssynir muni hafa vegið Ljót spaka en ekki sýnist árennilegt að leita svara við þeirri spurningu. Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum hélt því fram árið 1840 að staður þessi væri án efa stórgrýtishraun milli Álfadals og bæjarins Hrauns.[130] Til stuðnings þessari kenningu benti prestur á að þar sé auðvelt að leynast og veita mönnum fyrirsát.[131]

Björn M. Ólsen segir í ritgerð sinni frá árinu 1885 að munnmæli hermi að Ljótur hafi fallið við Skógarbrekku[132] en Skógarbrekkur, hærri og lægri, eru undir Þorsteinshorni[133] á hinni fornu alfaraleið frá bæjunum á Ingjaldssandi upp á Sandsheiði. Við könnun aðstæðna fannst Birni þó varla nógu bratt á þessum stað til að menn gætu hrapað þar ofan á götuna.[134] Hjá skólapiltinum Runólfi M. Jónssyni frá Gerðhömrum fékk hann hins vegar þær upplýsingar að á þessum slóðum hefði vegurinn nýlega verið færður til og áður hefði hann legið hærra í hlíðinni á nokkru svæði … nær Þorsteinshorni.[135] Að fengnum þessum upplýsingum virðist Björn hafa talið að Ljótur hafi fallið við Skógarbrekkur ellegar upp undir heiðarbrún og bendir á að þar sé bratt fyrir ofan veginn.[136]

Úr ágreiningi manna um það hvar Kögurssynir báru vopn á Ljót spaka mun seint verða skorið en þeir sem það vilja kanna eiga þess kost að þræða gamla reiðveginn sem enn er víða sjáanlegur og lá í krókum frá túninu á Hálsi og upp til heiðarinnar, austan við fjallið Þorsteinshorn.

Hér verður ekki fjallað nánar um hina fyrstu bændur á Ingjaldssandi, enda fátt um heimildir. Í Hávarðar sögu Ísfirðings er reyndar að finna ýmsar frásagnir af kappa einum sem þar er nefndur Hólmgöngu-Ljótur[137] og hafa fræðimenn talið að þar sé kominn hinn sami Ljótur og Landnáma segir hafa búið á Ingjaldssandi.[138] Þráðurinn sem tengir saman Ljót spaka á Ingjaldssandi og Hólmgöngu-Ljót, sem sagður er hafa búið í Rauðasandi, er þó svo veikur að lítt er á honum byggjandi.

Um einstaka bændur sem bjuggu á Ingjaldssandi fyrsta hálfa árþúsundið eftir daga þeirra Gríms kögurs og Ljóts spaka er ekkert vitað en nöfn flestra sem þar hafa búið síðustu 300 ár eru hins vegar kunn. Á fyrirhugaðri ferð okkar um Ingjaldssand, þar sem farið verður bæ frá bæ, er ætlunin að segja lítið eitt frá fáeinum einstaklingum úr þeim hópi og þá einkum mönnum sem uppi voru á 18. og 19. öld.

Árið 1703 áttu rétt um 100 manneskjur heima á Ingjaldssandi. Við nákvæma talningu sem þá fór fram reyndust íbúarnir vera 101 ef með voru taldir tveir sveitarómagar sem hvergi höfðu fasta búsetu.[139] Árið 1762 voru Sandmenn 128.[140] Árið 1801 var íbúafjöldinn kominn upp í 143[141] og hefur að líkindum sjaldan eða aldrei orðið hærri.[142] Um þriðjungur Sandmanna átti þá heima á Sæbóli en þar voru íbúarnir 47 þegar manntal var tekið árið 1801.[143] Á fyrri hluta 19. aldar fækkaði Sandmönnum úr 143 í 99 eða um nær þriðjung[144] og mun óhætt að fullyrða að þar hafi hin yfirþyrmandi sjóslys sem brátt verður frá sagt valdið miklu um. Á árunum 1851-1860 fjölgaði fólkinu á ný og við lok þess áratugar komst íbúatalan upp í 135,[145] enda mun hafa verið lítið um slysfarir á þeim árum.[146] Á árunum 1860-1890 fækkaði Sandmönnum lengi vel en fjölgaði síðan á ný og voru 131 er manntal var tekið árið 1890,[147] litlu færri en verið hafði 1860 og 1801. Síðustu 100 árin hefur fólkinu á Ingjaldssandi farið ört fækkandi þó ekki hafi sú þróun verið alveg samfelld. Árið 1901 voru íbúarnir 112, árið 1910 84, árið 1920 90, árið 1930 65  og árið 1999 voru íbúarnir fimm.[148]  Til gamans skal þess getið að árið 1703 hétu þrír af hverjum tíu karlmönnum á Ingjaldssandi Jón og meira en þriðja hver kona sem hér átti heima bar nafnið Guðrún.[149] Næstu hundrað árin héldu Jónarnir sínum hlut að fullu[150] og árið 1801 hétu 30% allra kvenna á Sandinum Guðrún.[151]

Á Ingjaldssandi munu búskaparhættir löngum hafa verið líkir því sem tíðkaðist annars staðar á Vestfjörðum og varla ástæða til að lýsa þeim sérstaklega. Í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 lætur séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum þess getið að í sínu prestakalli séu fiskveiðar lítið stundaðar nema á vorin en tekur fram að á Ingjaldssandi sé fiskirí … vel stundað, bæði vegna hægðar og meiri nálægðar.[152] Þessi ummæli séra Jóns benda til að sjór hafi verið sóttur af miklu kappi frá Ingjaldssandi á hans tíð og svo mun löngum hafa verið áður en nútíminn gekk í garð.

Nokkrar líkur gefa til kynna að akuryrkja hafi verið stunduð á Sæbóli á hinum fyrstu öldum byggðar í landinu. Til þessa bendir einkum sú staðreynd að örnefnið Akrar lifði hér fram á tuttugustu öld. Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði sumarið 1775, kveðst hafa heyrt að leifar fornra akra sjáist enn í Sæbólsvík á Ingjaldssandi[153] og séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 að fyrir innan og neðan túnið á Sæbóli sé pláss sem kallist Akrar og þar virðist móta fyrir akurreinum.[154] Um akrana á Sæbóli ritar séra Jón á þessa leið:

 

Í sama sinn mældi ég nokkra garða eða garðlög fyrir neðan og innan túnið á Sæbóli sem almennt eru kallaðir Akrar og eru nokkrir þeirra næstu nú ræktaðir sem tún. Sá stærsti þeirra sem merki sjást enn nú til er 40 faðmar á breidd frá suðri til norðurs og 45 á lengd, að því sem ég gat mælt, því þar er uppblásið af sandi. Sá minnsti er 3 faðmar á breidd en 8-10 faðmar að lengd og margir fleiri þar í milli, stærri og smærri, og víðar þar og þeim megin túnsins sem veit yfir að ánni og Hrafnaskálarnúp eða inn að firðinum, nú allt uppblásið af sandi og sandroki. Jarðlagið þar er svokallaður melur eða melrót sem þar og víðar er brúkuð til dýnu undir reiðver þegar sandurinn er burt fokinn eða hristur burt.[155]

 

Í skrá yfir örnefni á Sæbóli sjáum við að á fyrri hluta 20. aldar hét pláss þetta enn Akrar og þar sást móta fyrir gömlum girðingum.[156] Í munnmælum lifði þá sú sögn að Þorkatla ríka, sem bjó á Sæbóli á fyrri hluta 18. aldar, hefði stundað þarna sáðtilraunir.[157] Þessar fornu minjar sem talið var að bentu til akuryrkju á fyrri tíð eru nú horfnar því þar sem akrarnir voru er nú ræktað tún.[158]

Hér er á öðrum stað birt tafla er sýnir fjölda búfjár á hverri jörð í Mýrahreppi árin 1710 og 1850 (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Tölurnar sem þar er að finna eru sóttar í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og í búnaðarskýrslu frá árinu 1850. Þarna má sjá að árið 1710 áttu Sandmenn 55 nautgripi og 552 sauðkindur ef lömb eru ekki talin með. Býlin voru þá fjórtán, tvö til þrjú að jafnaði á hverri jörð, svo nærri lætur að meðalbóndi hér í sveit hafi verið með 4 nautgripi og 40 sauðkindur. Árið 1850 voru bændurnir á Ingjaldssandi ekki nema tíu og þá hafði kúm og kindum fækkað verulega frá því sem verið hafði í byrjun átjándu aldar. Samkvæmt búnaðarskýrslu ársins 1850 voru nautgripir á Ingjaldssandi þá 33 en sauðkindur 412, að lömbunum frátöldum. Bústofn meðalbóndans var því nokkurn veginn sá sami og verið hafði 1710 en nautgripum hafði þó fækkað meira en nam fækkun býlanna.

Fróðlegt getur verið að skoða hlutdeild Sandmanna í heildarfjölda fólks og fénaðar í öllum Mýrahreppi og athuga hvort einhver veruleg breyting hafi átt sér stað í þeim efnum frá fyrstu árum 18. aldar og fram til ársins 1850. Til slíkrar skoðunar er handhægast að nota töfluna sem hér var síðast vísað í og manntöl frá árunum 1703 og 1850.[159] Hér verður að vísu að gefa sér þá forsendu að fjöldi búfjár hafi ekkert breyst milli áranna 1703 og 1710 en sá ágalli hefur varla mjög veruleg áhrif á niðurstöðuna. Slík könnun leiðir þetta í ljós. Jarðnæðið sem Sandmenn höfðu til búskapar var að fornu mati 23,97% af öllu jarðnæði í Mýrahreppi og þar varð engin breyting á milli áranna 1710 og 1850. Býlin á Ingjaldssandi voru 25,45% allra bændabýla í hreppnum árið 1710 en 20,83% árið 1850. Fækkun býla hafði því orðið meiri á Sandinum en annars staðar í hreppnum. Árið 1703 voru Sandmenn 22,05% af öllum íbúum Mýrahrepps en árið 1850 var sú hlutfallstala 19,5%. Árið 1710 áttu bændur á Ingjaldssandi 26,70% af öllum nautgripum í Mýrahreppi en 1850 var sú tala komin niður í 21,43%. Sambærileg tala varðandi sauðféð, að lömbum frátöldum, var 25,09% árið 1710 en 23,53% árið 1850. Allt er þetta nálægt því sem vænta mátti og gefur ekki tilefni til heilabrota eða útlegginga. Niðurstöður könnunarinnar benda eindregið til þess að á Ingjaldssandi hafi búskaparlag verið með líkum hætti og á norðurströnd Dýrafjarðar og flest sem að búskapnum laut hafi lengi verið í föstum skorðum.

Eins og áður var getið er Sæból eina jörðin á Ingjaldssandi sem á land að sjó og þaðan reru allir Sandmenn. Stutt er á miðin en lending þótti fremur slæm, einkum í norðanátt því þá er brimsval þar mikið eins og séra Jón Sigurðsson kemst að orði í sóknalýsingu sinni.[160]

Heldur fátítt mun hafa verið að bátar úr öðrum byggðarlögum væru við róðra á Sæbóli en einstök dæmi slíks eru þó finnanleg. Nefna má að vorið 1892 var Jón Guðmundsson á Grafargili í Valþjófsdal með bát sinn Elliða við róðra á Ingjaldssandi frá 21. apríl til 11. júlí.[161] Líklegt er að Jón og hásetar hans hafi legið við í útihúsum á Sæbóli.

Allt til ársins 1838 var handfærið eina veiðarfæri Sandmanna í fiskiróðrum[162] en á því ári fluttist maður norðan frá Ísafjarðardjúpi á Sandinn og var hann að sögn séra Jóns Sigurðssonar vanur lóðafiskiríi.[163]  – Hann hefur fiskað sérlega vel á þær í Önundarfjarðarmynni sem aldrei áður var tíðkað, segir prestur.[164] Séra Jón nefnir ekki nafn þessa aðflutta manns, sem fyrstur allra hóf línuveiðar frá Ingjaldssandi, en vafalaust má kalla að þetta sé Guðmundur Bjarnason sem fluttist árið 1838 frá Ósi í Bolungavík að Sæbóli og bjó þar lengi síðan (sjá hér Sæból og Nesdalur).

Um miðbik 19. aldar fóru Sandmenn líka í hákarlalegur alla leið norður á Kvíarmið og Eldingar sem eru út af Jökulfjörðum[165] og hafa það verið langir róðrar á opnum skipum. Kappið við sjósóknina var mikið en stundum lagðist hafís svo þétt að landi að ekki varð komist á sjó.[166]

Á árunum 1839-1845 var einn áttæringur jafnan gerður út frá Ingjaldssandi og var hann í eigu bændanna á Sæbóli, Guðmundar og Jóns Bjarnasona.[167] Á árunum 1839 og 1840 var þetta eini báturinn á Sæbóli, ef marka má búnaðarskýrslur, en á árunum 1841-1845 áttu Sæbólsbændur jafnan einn til þrjá minni báta auk áttæringsins.[168] Á árunum 1840-1845 átti Eiríkur Tómasson í Hrauni jafnan einn bát, sexæring eða fjögra manna far, og Benóný Gunnarsson á Álfadal átti þá lítinn bát, tveggja eða þriggja manna far.[169] Er þá talin öll bátaeign Sandmanna á þessum árum nema hvað Eiríkur Guðmundsson á Villingadal er sagður hafa átt hálfan sexæring eða hálft fjögra manna far á árunum 1844 og 1845,[170] að því er virðist á móti Sæbólsmönnum.

Á árunum kringum aldamótin 1900 voru tveir bátar gerðir út frá Sæbóli á vorvertíð og stundum þrír.[171] Oddur Gíslason, bóndi á Sæbóli, átti þá sexæring sem hann hafði smíðað sjálfur og reri á honum.[172] Annan sexæringi átti Eiríkur Sigmundsson í Hrauni.[173] Þriðji báturinn sem róið var á frá Sæbólssjó á fyrstu árum 20. aldar var fjögra manna far sem Oddur Gíslason átti og hét Sæbjörg.[174] Á þeirri fleytu var eingöngu róið með færi en áhöfnin var tveir synir Odds, báðir á unglingsaldri, og Gísli afi þeirra sem var formaður þó kominn væri undir áttrætt.[175]

Á vorin hófu þeir Oddur og Eiríkur steinbítsróðra um sumarmál en þegar þorskurinn tók að ganga á grunnmið, skömmu eftir sumarmálin, hófust línuróðrar.[176] Beitt var kúfiski og skipt í átta staði því sex voru í hvorri áhöfn en bátur og formaður fengu aukahluti.[177]

Oddur bóndi á Sæbóli stundaði líka haustróðra á sexæring sínum og fiskaðist þá oft mikið af ýsu.[178] Á sumrin var líka farið á sjó þegar henta þótti og stöku sinnum fór Oddur í hafróðra að vetrarlagi og reri þá jafnvel norður undir Djúpál.[179] Annars staðar í þessu riti er minnst á sjósókn ýmissa Sandmanna á fyrri tíð og greint frá vélbátaútgerð þeirra á tuttugustu öldinni (sjá hér Sæból og Hraun) en nokkur orð um þilskipið sem gert var út frá Sæbóli og slysfarir Sandmanna á sjó sýnist við hæfi að draga fram nú þegar.

Hér hefur áður verið sagt frá upphafi skútuútgerðar bænda í Mýrahreppi og þess getið að þeir Jón og Guðmundur Bjarnasynir á Sæbóli urðu með allra fyrstu mönnum í hreppnum til að koma sér upp þilskipi.  Jón Gíslason á Lækjarósi smíðaði Hákarlinn, sem var fyrsta þilskip Mýrhreppinga, árið 1843 og aðeins einu ári síðar voru bændurnir á Sæbóli orðnir eigendur að hálfu þilskipi eins og sjá má í búnaðarskýrslum (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Þremur árum síðar höfðu þeir eignast allt skipið (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) og gera má ráð fyrir að þeir hafi staðið fyrir útgerð þess í sex ár, frá 1844 til 1850.

Tréfótur en svo hét skip þetta var að sögn smíðaður upp úr áraskipi sem Sæbólsbændur létu borðhækka og setja þiljur í en þiljurnar voru úr hlerum sem taka mátti upp ef gott var veður.[180] Í búnaðarskýrslum má sjá að skútan sem Sæbólsmenn eignuðust að hálfu árið 1844 kom þó að heita mátti sem hrein viðbót við þann flota er þeir áttu fyrir[181] og hefur því ekki verið smíðuð upp úr gamla áttæringnum þeirra nema þeir hafi strax fengið annan áttæring í staðinn. Í ritverki Gils Guðmundssonar, Skútuöldinni, segir svo um þilskipið sem gert var út frá Sæbóli á árunum 1844-1850:

 

Skip þetta nefndist Tréfótur og stjórnuðu því synir eigendanna, Kristján Jónsson og Pálmi Guðmundsson. Vissu menn það seinast til skútunnar að skipverjar voru við hvalskurð á hafi úti og fór veður ört versnandi. Héldu flestir að þiljur hefðu verið opnar en skipið þrauthlaðið og hafi það orðið þeim að tjóni.[182]

 

Prestsþjónustubækur Dýrafjarðarþinga sýna að synir Sæbólsbænda, þeir Kristján og Pálmi, hafa drukknað 29. júlí 1850 ásamt þremur öðrum mönnum frá Sæbóli[183] og mun óhætt að slá því föstu að Tréfótur hafi farist þann dag. Kristján Jónsson á Sæbóli var 30 ára er hann drukknaði en Pálmi Guðmundsson 35 ára.[184] Mjög líklegt er að Jón Jónsson, sem var einn þeirra er drukknuðu þegar Tréfótur fórst, hafi verið bróðir Kristjáns Jónssonar[185] og hefur Jón Bjarnason á Sæbóli þá misst tvo syni sína í sjóinn sama daginn. Sjálfur var hann þá kominn á áttræðisaldur og andaðist saddur lífdaga sumarið 1854.[186] Frá því Tréfótur fórst mun hafa liðið 35 ár uns aftur var ráðist í að gera út þilskip frá Ingjaldssandi. Sú tilraun stóð stutt en frá henni er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Sæból).

Enginn kann nú frá því að greina hversu margir Íslendingar hafa drukknað í sjó á liðnum öldum en svo mikið er víst að miðað við íbúafjölda eru þeir mun fleiri en hinar ýmsu þjóðir í veröldinni misstu hver um sig í mannskæðum styrjöldum. Sem dæmi má nefna að á vetrarvertíðinni árið 1700 drukknuðu að sögn um það bil 400 sjómenn.[187] Íbúafjöldi á öllu landinu var þá í kringum 50.000 svo segja má að tala þeirra sem drukknuðu fyrrnefndan vetur svari til þess að við misstum nú (1996) 2000 menn í sjóinn á einni vertíð.

Á fyrri hluta 19. aldar munu fá byggðarlög á Íslandi hafa goldið meira afhroð en Ingjaldssandur vegna manntjóns við sjósókn og fiskveiðar. Nærri lætur að meðalíbúafjöldinn í Sæbólssókn á árunum1800 til 1850 hafi verið 120[188] en á þessu hálfrar aldar skeiði fórust að minnsta kosti 48 menn úr sókninni í sjó.[189] Allir drukknuðu þeir í sjóróðrum frá Sæbóli nema tveir sem fórust árið 1830 með Halldóri Torfasyni frá Arnarnesi.[190] Ef slysfarir væru nú (1999) almennt með þessum hætti, hvað varðar fjölda drukknaðra annars vegar og íbúafjöldann hins vegar, mætti gera ráð fyrir að við Íslendingar hlytum að missa um 2240 menn í sjóinn á hverju ári eða full 112.000 á 50 árum. Líklega mun flestum reynast erfitt að sjá fyrir sér svo átakanlega mynd en hún er þó ekkert dekkri en gallharður veruleikinn í lífi þess fólks sem átti heima á Ingjaldssandi á fyrri hluta nítjándu aldar. Engin undankomuleið var til því sjóinn urðu menn að sækja sér og sínum til lífsbjargar. Hann bæði gaf og tók.

Ekki er ætlunin að segja hér frá einstökum slysförum en þess skal getið að fjöldi drukknaðra í einu og sama veðrinu fór hæst 6. maí 1812. Þann dag fórust 15 menn af Ingjaldssandi[191] er þrír bátar héðan týndust í hafi.[192] Samtals munu um 50 menn hafa farist í veðri þessu á bátum úr Önundarfirði (sjá hér Sæból og Mosvallahreppur, inngangskafli) og er það mesta manntjón sem Vestfirðingar hafa svo vitað sé orðið fyrir á einum degi í sinni ströngu glímu við reginöfl hafsins.

Við höfum nú svipast um á Ingjaldssandi um hríð frá einum og sama sjónarhól og er mál til komið að halda heim að kirkjustaðnum Sæbóli.  Þaðan hefjum við síðar gönguna milli bæja. Í Sæbólssókn er það kirkjuræknasta fólk og siðsamt á samfundum, skrifar sóknarprestur Sandmanna árið 1840. Þess minnumst við nú er við tyllum okkur niður þar sem áður stóð gamla kirkjan á Sæbóli.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jóhannes Davíðsson 1981, 122 (Ársrit S.Í.).

[2] Sama heimild.

[3] Finnbogi Kristjánss. Morgunbl. 25.2.1995.    Magnús Hringur Guðmundsson  – Viðtal K.Ó. við hann 27.6. 1994.

[4] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 83.

[5] Uppdráttur Íslands bl. 11, 1977.

[6] Sama heimild.

[7] Örnefnaskrá.

[8] Óskar Einarsson 1951, 161-162.

[9]  Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild, 161-162.

[13] Sama heimild, 161.  Örn.skrá.

[14] Örn.skrá.

[15] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[16] Óskar Ein. 1951, 161.

[17] Sama heimld.

[18] Sigurvin Guðm. –  viðtal K.Ó. við hann 28.6. 1993.

[19] Sama heimild.

[20] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[21] Óskar Ein. 1951, 161.

[22] Sama heimild.

[23] Óskar Ein. 1951, 161.

[24] Sama heimild.  Örn.skrá.

[25] Örn.skrá.

[26] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[27] Óskar Ein. 1951, 160.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.  Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 87.

[30] Óskar Ein. 1951, 160.

[31] Sama heimild.

[32] Óskar Ein. 1951, 160.

[33] Örn.skrá.

[34] Sóknalýs. Vestfj. II, 83.

[35] Örn.skrá.

[36] Sama heimild.  Óskar Ein. 1951, 160-161.

[37] Sóknalýs. Vestfj. II, 83.

[38] Sóknalýs. Vestfj. II, 83.

[39] Guðmundur og Guðni Ágústssynir – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[40] Frásögur um fornaldarleifar II, 1983, 416-417.

[41] Björn M. Ólsen 1885, 6.

[42] Sama heimild, 7.

[43] Björn M. Ólsen 1885, 6 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[44] Sama heimild, 6-7.

[45] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[46] Óskar Ein. 1951, 160.

[47] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[48] Íslensk fornrit I, 182.

[49] Óskar Ein. 1951, 162.  Sbr. Ísl. fornrit I, 183.

[50] Óskar Ein. 1951, 162.

[51] Jóhannes Davíðsson 1968, 58 (Ársrit S.Í.).

[52] Ísl. fornrit I, 186.

[53] Sama heimild, 180-181.

[54] Sama heimild, 179-182.

[55] Ágúst Guðmundsson 1960, 92-101 (Ársrit S.Í.).

[56] Morgunbl. 22.4.1969.  Sbr. Guðmundur Bernharðsson 1980, 11.

[57] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann. 2.8. 1993.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.

[60] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[61] Henrik Henkel 1799, 6. tafla sem fylgir bls. 73.

[62] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[63] G.G.Hag. 1960, 72-78.

[64] Sama heimild. Sbr. hér Brekka á Ingjaldssandi.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Guðm. G. Hagalín 1960, 72-78.

[68] Örnefnaskrá.

[69] Örn.skrá.

[70] Sama heimild.  Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[71] Sigurvin Guðmundsson og Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[72] Örn.skrá.

[73] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[74] Örn.skrá.

[75] Óskar Ein. 1951, 146.

[76] Örn.skrá.

[77] Sóknalýs. Vestfj. II, 84.

[78] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 86-93.

[79] Óskar Ein. 1951, 162.

[80] Sama heimild, sbr. þar 156.  Örn.skrá.

[81] D.I. XV, 522.

[82] D.I. III, 197 og 330 og IV, 142-143.

[83] D.I. XV, 575.

[84] Jarðab. Á.og P. VII, 92 og 93.

[85] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingb. Markúsar Bergssonar, 1720-1729, réttarhald á Mýrum í Dýrafirði 17. og 18. 6. 1727.

[86] Íslenskar æviskrár I, 21 og V, 183.

[87] Skj.s. sýslum.og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingb. M.B. 1720-1729, sama réttarhald 1727.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild.

[90] Sama heimild

[91] Alþingisbækur Íslands VII, 136, 332 og 436.

[92] Lögréttumannatal., 21.

[93] Sama heimild.  Ísl. æviskrár III, 460.

[94] Lögréttumannatal., 21 og 503-505.  Sbr. Ísl. æviskrár.

[95] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma og þingb. M.B.1720-1729,  réttarhald á Mýrum í Dýrafirði 17. og 18.6.1727.

[96] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma og þingb. Markúsar Bergssonar 1720-1729, réttarhald á Mýrum í Dýrafirði 17. og 18.6.1727.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma og þingb. M.B. 1720-1729, réttarhald á Mýrum í Dýrafirði 17. og 18.6.1727.

[104] Sama heimild.

[105] Óskar Ein. 1951, 162-163.  Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 87.

[106] Sama heimild.

[107] Óskar Ein. 1951, 162-163.

[108] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[109] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[110] Örn.skrá.

[111] Jarðab. Á. og P. VII, 87-88.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild, 90.

[114] Örn.skrá.

[115] Sama heimild.

[116] Sama heimild.  Óskar Ein. 1951, 163-164.

[117] Ísl. fornrit I, 182-186.

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild, 184.

[120] Sama heimild.

[121] J. Fritzner 1973, I, 335.

[122] Björn M. Ólsen 1885, 3-5 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[123] Björn M. Ólsen 1885, 3-5.

[124] Óskar Ein. 1951, 168.

[125] Ísl. fornrit I, 184.

[126] Ísl. fornrit I, 184.

[127] Sama heimild.

[128] Ísl. fornrit I, 185.

[129] Sama heimild, 185-186.

[130] Sóknalýs. Vestfj. II, 95.

[131] Sama heimild.

[132] Björn M. Ólsen 1885, 4.

[133] Örn.skrá.  Óskar Ein. 1951, 173-175.

[134] Björn M. Ólsen 1885, 4.

[135] Björn M. Ólsen 1885, 4.

[136] Sama heimild.

[137] Ísl. fornrit VI, 336-341 og 353.

[138] Ísl. fornrit I, 183-184 og  VI, LXXXIV-LXXXIX.

[139] Manntal 1703.

[140] Manntal 1762.

[141] Manntal 1801.

[142] Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901, 1910, 1920 og 1930.

[143] Manntal 1801.

[144] Manntöl 1801 og 1850.

[145] Manntal 1860.

[146] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[147] Manntöl 1860, 1870, 1880 og 1890.

[148] Manntöl 1901, 1910, 1920 og 1930. Íbúaskrá 1999, Ísafjarðarkaupstaður.

[149] Ólafur Þ. Kristjánsson 1980, 60-62 (Ársrit S.Í.).

[150] Manntal 1801.

[151] Manntal 1801.

[152] Sóknalýs. Vestfj. II, 91.

[153] Ólafur Olavius 1964, I, 146.

[154] Sóknalýs. Vestfj. II, 84 og 95.

[155] Sóknalýs. Vestfj. II, 84 og 95.

[156] Örn.skrá.

[157] Sama heimild.

[158] Örn.skrá.

[159] Manntöl 1703 og 1850.

[160] Sóknalýs. Vestfj. II, 87.

[161] Lbs. 45824to, Dagb. Jóns Guðmundssonar frá Grafargili, maí, júní og júlí 1892.

[162] Sóknalýs. Vestfj. II, 89.

[163] Sama heimild.

[164] Sama heimild.

[165] Sama heimild.

[166] Sama heimild, 88.

[167] VA III, 408-410, búnaðarskýrslur 1839-1845.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Sama heimild.

[171] Guðm. G. Hagalín 1960, 42-48 og 79-81.

[172] Guðm. G. Hagalín 1960, 42-48.

[173] Sama heimild, 44.

[174] Guðm. G. Hagalín 1960, 79.

[175] Guðm. G. Hagalín 1960, 79-89.

[176] Sama heimild, 45.

[177] Sama heimild, 45-46 og 55.

[178] Sama heimild, 69 og 72.

[179] Sama heimild, 42-44 og 67.

[180] Skútuöldin I, 196.

[181] VA III, 408-410, búnaðarskýrslur 1838-1845.

[182] Skútuöldin I, 196.

[183] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.  Manntal 1845.

[186] Prestsþj.b. Dýrafj.þ.

[187] Jón Espólín / Íslands Árbækur VIII, 66.

[188] Manntöl 1801, 1835, 1840, 1845 og 1850.

[189] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[190] Sama heimild.

[191] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[192] Frá ystu nesjum II, 119-137.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »