Tunga, Hóll og Sveinseyri

Tunga, Hóll og Sveinseyri

Næsta jörð fyrir utan Gileyri var Tunga og aðeins hálfur annar kílómetri milli bæjanna. Á síðustu 50 árum (ritað 1988) hefur risið myndarlegt þorp í landi jarðanna Tungu, Hóls og Sveinseyrar í Tálknafirði. Búa þar nú um 400 íbúar sem flestir lifa á sjósókn og fiskvinnslu. Þorpið heitir Tálknafjörður en var á sínum fyrstu árum ýmist nefnt Sveinseyri eða Tunguþorp. Nú eiga flestir Tálknfirðingar heima í þorpinu og þeir sem búa á sveitabæjunum sækja margir hingað vinnu, enda er landbúnaður nær horfinn úr sögunni í þessu byggðarlagi. Stutt var hér milli bæjanna eða um tveir kílómetrar frá Tungu að Sveinseyri og Hóll  um það bil mitt á milli þeirra.

Tvennt hefur ugglaust ráðið mestu um að nútímaþorpið í Tálknafirði reis einmitt hér, annars vegar góð hafnarskilyrði innan við Sveinseyraroddann og hins vegar mikið landrými. Sagnir herma að Thor Jensen, sem á yngri árum fór í spekúlantstúra á Vestfirði, hafi keypt Hól í Tálknafirði og ætlað sér að setja þar upp verslun á grundunum.[1] Vafalaust hefur næmt auga hins unga kaupsýslumanns fyrr en varði séð hversu góð skilyrði voru hér til þorpsmyndunar. Ætla má að þessar ráðagerðir hans hafi verið á döfinni um eða fyrir aldamótin 1900 og líklegt að þá þegar hefði sprottið hér upp dálítið kauptún ef hugmyndir Thors hefðu komist í framkvæmd sem ekki varð.

Í Tungu og á Sveinseyri var löngum margbýlt á fyrri tíð og einna fjölmennust byggð í Tálknafirði. Á bújörðunum þremur þar sem nú stendur þorpið bjuggu ellefu bændur árið 1703 og heimilisfólk þeirra var þá samtals 74 manneskjur.[2] Árið 1930 áttu 62 heima á þessum sömu þremur jörðum.[3] Bænhús eða hálfkirkja er talin hafa verið í Tungu fyrir siðaskipti.[4]

Í byrjun 18. aldar stóðu fjórir bæir í Tungu og á jörðinni bjuggu árið 1710 fimm ábúendur sem hver um sig höfðu  þá til ábúðar ýmist fimm jarðarhundruð eða sjö og hálft hundrað.[5] Tveir bændanna áttu þá heima í forna bænum sem svo er nefndur í Jarðabók Árna og Páls. Annar bær stóð þá skammt frá forna bænum og hafði verið í byggð svo lengi sem elstu menn mundu. Þriðji bærinn hafði þá nýlega verið byggður á fornu hjáleigustæði í heimatúninu og fjórði bærinn stóð svo einn sér fyrir innan á.[6] Er þar átt við Tunguá sem nú rennur til sjávar innantil í þorpinu.

Bústofn Tungubænda árið 1710 var samtals þrettán nautgripir, um 150 sauðkindur og sjö hestar.[7] Undarlegt er að í Jarðabókinni er engu að síður sagt að á allri jörðinni sé aðeins unnt að fóðra átta kýr. Reyndar er þar mjög oft gert mikið úr ókostum einstakra jarða en kostir þeirra lítt dregnir fram. Um Tungu segir þar m.a.:

 

Skelfiskfjara lítil. Túnið spillist nokkuð af landbroti, sem Tunguá gjörir, og svo ber hún á það grjót stundum. Engjarnar spillast af grjótsáburði úr dagmálagilinu. Úthagarnir eru mjög hrjóstrugir og graslitlir og víða uppblásnir og skriðurunnir. Hætt er kvikfé fyrir sjávarflæðum og svo fyrir afætudýjum. Heimræði má hér vera um sjálfa sumarstundina þegar fiskur gengur inn á fjörðinn, sem nú hefur brugðist í nokkur ár. Á haustin verður hér sjaldan róið fyrir ísalögum þó að fiskur sé fyrir.[8]

 

Til samanburðar við þessa lýsingu má líta á sóknarlýsingu séra Benedikts Þórðarsonar frá árinu 1873 en þar segir að í Tungu sé grösugt land og kjarngott og útbeitarsælt á vetrum.[9]

Í byrjun 19. aldar voru enn fimm ábúendur í Tungu[10] en árið 1816 aðeins þrír.[11] Um miðja 19. öld var líka þríbýli í Tungu og bæirnir nefndir Ysta-Tunga, Mið-Tunga og Innsta-Tunga.[12] Þessi þrjú býli héldu síðan velli uns þorpið í Tálknafirði lagði tún þeirra og heimahaga undir sig á síðari hluta 20. aldar.

Í landi jarðanna Tungu og Hóls, þar sem þorpið stendur nú, spruttu upp um aldamótin 1900 nokkrar þurrabúðir eða húsmannskot, fyrst Naust árið 1893, þá Nýibær 1894, Berg 1897, Hlaða 1898, Hvammur árið 1900 og Árbær 1901.[13] Um þorpsmyndun var þó varla hægt að ræða fyrr en mun síðar. Hið elsta þessara kota, Naust, var byggt utarlega á Hólsgrundum og mjög skammt frá sjó en Nýibær stóð rétt utan og neðan við Hól[14] Bæði voru þessi kot í Hólslandi.

Upp frá Tungu liggur Tungudalur og um hann rennur Tunguá (nefnd Tungudalsá í sóknarlýsingu séra Þórðar Þorgrímssonar frá 1852[15]). Innan við dalinn er Tungufjall. Ysta horn þess heitir Geitarhorn og gnæfir yfir þorpinu, tæplega 300 metrar á hæð. Utan við Tungudal blasir við, örskammt frá þorpinu, lítið og laglegt fell og heitir Tungufell.

Um Tungudal var farið á Tunguheiði en um hana lá alfaravegur norður á Bíldudal. Heiðin liggur hæst í um 550 metra hæð. Vegalengdin milli bæja, vestan og norðan Tunguheiðar, er aðeins um tíu kílómetrar og var heiðin því fljótfarnari en leiðin yfir Hálfdan áður en akvegir komu til sögunnar.

Um Tunguheiði má í þjóðsögum finna þessa frásögn Einars Bogasonar í Hringsdal, ritaða árið 1901:

 

Milli Tálknafjarðar og Arnarfjarðar er heiði sú, sem Tunguheiði heitir. Þar hafa orðið úti 18 eða 19 menn og flestir í pytti einum á heiðinni eða nálægt honum. Mörgum hefur og orðið illt á heiði þessari. Sagt er að 20 menn eigi að verða úti á heiðinni og muni reimleikunum þá létta af.

Fyrir nokkrum árum var maður sá á ferð á Tunguheiði, er Sigmundur hét. Hann lifir enn í dag. Kafaldsbyl gerði að Sigmundi og villtist hann skjótlega. Honum virtist maður ávallt vera á undan sér svo sem 20 eða 30 faðma og kallaði hann til hans en maðurinn gegndi engu. Sigmundur gekk lengi á eftir manni þessum og herti gönguna til þess að ná honum en vann ekki á. Loksins hvarf maðurinn Sigmundi og sá hann þá að hann var kominn fram á barm á Hólsgljúfri en það er afar djúpt og hverjum manni bani vís, er þar fer fram af. Sigmundur áttaði sig á gljúfurbarminum og komst heim til sín heilu og höldnu.[16]

 

Bærinn Hóll í Tálknafirði hefur á 20. öld oft verið nefndur Þinghóll. Það nafn mun þó aðeins vera nýnefni, enda var þingstaður sveitarinnar á Kvígindisfelli, a.m.k. frá því á 17. öld, og þar áður í Stóra-Laugardal um nokkurt skeið  (sjá hér Kvígindisfell).[17] Aftur á móti er bæjarstæði þannig háttað á Hóli að þar hefði vel mátt halda fjölmennt þing undir berum himni og má vera að þar sé að finna skýringu á nafngjöfinni. Sem áður sagði stendur Hóll skammt fyrir utan Tungu og nú inni í þorpinu. Bærinn sker sig þó úr enn í dag (1988) því bæjarhóllinn hefur fengið að halda sér og rís nú sem fyrr algrænn upp frá rennisléttum grundum sem teygjast í átt til strandar. Rétt innan við Hól fellur Hólsá til sjávar og skilur hún að lönd Tungu og Hóls[18] en skammt utan við bæinn, í landi Sveinseyrar, eru sundlaug og grunnskóli Tálknfirðinga. Þar rétt hjá er líka félagsheimilið Dunhagi en á sömu lóð stóð áður stúkuhús og enn fyrr, það er að segja um aldamótin 1900, var þar þinghús sveitarinnar – lítið timburhús. [19]Upp frá Hóli gengur dálítill dalur til fjalls milli Tungufells og Bæjarfjalls. Heitir hann Hólsdalur en um dal þennan lá gönguleið frá Hóli og yfir Hvestukleifar að bænum Hvestu í Arnarfirði.[20] Innri hluti Hólsdals, – innan Hólsár, er líka nefndur Hrafnadalur og er hann vel gróinn.[21]

Hóll var kirkjujörð í byrjun 18. aldar, eign Stóra-Laugardalskirkju. Árleg landskuld árið 1710 var fjórar vættir (2/3 úr kýrverði) en hafði verið sex vættir fyrir bóluna, betalast með fiski í kaupstað eður peningum uppá fiskatal.[22] Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls mátti fóðra á jörðinni fjórar kýr, helmingi færri en í Tungu.[23] Í Jarðabókinni er þess getið að á Hóli sé torfrista og stunga góð og reiðingsrista sæmileg.[24] Séra Benedikt Þórðarson segir árið 1873 að Hóll sé landkreppujörð sökum nábýla og hefur trúlega verið orð að sönnu.[25]

Í sóknarlýsingunni frá 1852 eru landamerki Hóls og Sveinseyrar sögð vera Álalækur[26] en í örnefnaskrá frá síðari hluta 20. aldar er Síkið sem svo heitir við sjóinn, rétt innan vð eyrina, sagt vera á merkjunum og að þaðan liggi þau úr Síkiskjafti í Slút, uppi í hlíðinni og svo í beina stefnu til fjalls.[27]

Í sýslulýsingu Ólafs Árnasonar frá árinu 1746 er minnst á Álalæk. Ólafur segir að lækurinn komi úr heitri laug hjá Sveinseyrartúni.[28] Séra Þórður Þorgrímsson, sem skrifaði sóknarlýsingu Stóra-Laugardalssóknar rösklega öld síðar, nefnir líka Álalæk og tekur fram að álar séu veiddir í læknum.[29] Reyndar getur Eggert Ólafsson líka um álaveiðar í Tálknafirði í Ferðabók Eggerts og Bjarna, er hann ritaði upp úr 1760, án þess þó að nefna Álalæk sérstaklega.[30] Hann lýsir þar veiðiaðferðinni við álaveiðar í Tálknafirði og á Rauðasandi (sjá hér Saurbær).

Sveinseyri var talin hin besta bújörð í Tálknafirði, 48 hundruð að fornu mati að hjáleigum meðtöldum.[31] Enn er hér staðarlegt um að litast, enda hefur þéttbýlið aðeins lagt undir sig lítinn hluta af landi jarðarinnar.

Í byrjun 18. aldar tilheyrðu 24 jarðarhundruð sjálfri heimajörðinni en annað eins þremur fornum hjáleigum, Ytrihúsum, Innrihúsum og Völkuhúsum.[32] Allar stóðu hjáleigur þessar í heimatúninu á Sveinseyri og höfðu árið 1710 verið í byggð svo lengi sem elstu menn mundu.[33] Eigandi allrar jarðarinnar var þá nefndarmaðurinn Jón Magnússon sem sjálfur bjó á Sveinseyri.[34]

Í fyrsta sóknarmannatalinu sem varðveist hefur úr Tálknafirði og er frá árinu 1786 má sjá að þá er enn búið á báðum Eyrarhúsunum en Völkuhús eru þá fallin úr byggð.[35] Bæði Eyrarhúsin haldast síðan í byggð fram undir 1840 en síðan þá hefur eingöngu verið búið á einum Eyrarhúsum, þar sem í byrjun 18. aldar hétu Innrihús.[36] Býli þetta mun hafa staðið nokkuð innan við Sveinseyrarbæinn, á þeim slóðum þar sem nú er sundlaug og skóli. Íbúðarhús sem þar stendur nú ber enn sama nafn. Úr landi Sveinseyrar byggðist árið 1897 býlið Hraun, rétt utan við Sveinseyri,[37] – í fyrstu skilgreint sem tómthús[38] – og um skeið var annað tveggja býla á sjálfri heimajörðinni kallað Litla-Sveinseyri.[39] Enn er búið á Hrauni (1988).

Hálfkirkja var á Sveinseyri árið 1570[40] og í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er sagt að hér hafi að fornu bænhús verið sem þá var þó fallið fyrir manna minni.[41]

Talið var að á Sveinseyri mætti fóðra tólf kýr ef marka má það sem skráð er í Jarðabókina frá 1710.[42] Útigangur var þá  sagður í betra lagi, bæði í fjörunni og á landi en flæðihætta á vetrum fyrir kvikfé undir móðsköflum.[43] Í byrjun 18. aldar var heimræði frá Sveinseyri sumar og haust og fram á vetur en á vorvertíð gerðu menn sig heiman með skip sín í verstöður.[44] Þegar séra Benedikt Þórðarson skrifar sóknarlýsingu sína árið 1873 er búið að girða túnið á Sveinseyri með vönduðum grjótgarði og hefur það ekki verið lítil umbót á sínum tíma. Séra Benedikt ritar:

 

Tún eru hér mikil, slétt, vel ræktuð og umgirt með vönduðum grjótgarði. Útslægjur eru reytingslegar og land er hrjóstrugt en allrúmt út með firðinum á svonefndri Eyrarhlíð. Er þar hagasamt á vetrum en beitin létt. Þar er og nokkur þarabeit.[45]

 

Víðlent er á Sveinseyri og héðan sér vítt um Tálknafjörð og út til hafs. Áður hefur verið minnst á Sveinseyraroddann, sandodda sem skagar langt fram í fjörðinn og skilur aðeins eftir mjótt en djúpt sund milli sín og vesturstrandarinnar. Þarna í oddanum er nú (1988) talsvert æðarvarp. Hlíðin upp frá Sveinseyri er vel gróin. Fjallið að bæjarbaki heitir Bæjarfjall og er um 370 metrar á hæð. Innan við það er Hólsdalur, sem áður var nefndur, en utan við það Álftadalur heldur hrjóstrugt dalverpi. Rennur þar Álftadalsá. Fyrir utan Álftadal tekur við Eyrarhlíð eða Sveinseyrarhlíð út með sjónum en upp frá henni Hlíðarfjall.

Á liðnum öldum hafa ýmsir sveitarhöfðingjar búið á Sveinseyri. Nefna má Jón Magnússon er hér bjó um aldamótin 1700. Hann sýnist þá hafa verið langtum ríkari en aðrir Tálknfirðingar, sem flestir voru leiguliðar, og átti innan sveitar 77 jarðarhundruð. Eru þá meðtalin þau fimm hundruð í Höfðadal sem verið höfðu eign bænhússins á Sveinseyri og Jón hafði öll umráð yfir.[46]

Á síðari hluta 19. aldar bjó lengi á Sveinseyri Jóhannes Þorgrímsson dannebrogsmaður og var talinn í röð efnuðustu bænda hér um slóðir. Jóhannes var fæddur árið 1832 og var dóttursonur séra Gísla Einarssonar í Selárdal en föðurforeldrar hans voru hjónin Jón Þórðarson og Halldóra Guðmundsdóttir á Kvígindisfelli (sjá hér Suðureyri og Kvígindisfell). Jóhannes bjó á Sveinseyri í nær 30 ár. Hann var lengi hreppsnefndaroddviti í Tálknafirði, talinn afla- og hagleiksmaður.[47] Meðal barna Jóhannesar var Ólafur Jóhannesson, kaupmaður og útgerðarmaður á Patreksfirði á fyrri hluta 20. aldar. Einn samtíðarmanna Jóhannesar í Tálknafirði var Hallbjörn Oddsson á Bakka. Hann ritar svo:

 

Stórefnaðir bændur voru í Tálknafirði á þessum árum [við lok 19. aldar] svo sem Jóhannes Þorgrímsson á Sveinseyri, er átti og bjó á Eyrinni allri, er síðar var skipt milli þriggja til ábúðar. Hann lét byggja timburstofu á jörðinni, er mér var sagt að hefði kostað 3.000,- krónur, sem var talið mikið fé í þá daga.*) Einnig heyrði ég að hann hefði fengið hana borgaða með eins árs rekasmokk er rak á Sveinseyraroddann að innanverðu.[48]

__________________________

*) Á hinum síðari búskaparárum Jóhannesar á Sveinseyri var opinbert kýrverð

í Barðastrandarsýslu oftast liðlega 100,- krónur.[49]

 

Hallbjörn tekur fram að oftast hafi rekið þarna meira eða minna af smokk ef smokkgengd var á annað borð og hann verið seldur í beitu vítt um Vestfirði og Vesturland.

Allt bendir til þess að Jóhannes Þorgrímsson hafi verið auðsæll maður og þarf engan að undra ef smokkurinn einn hefur stundum gefið af sér eitthvað líkt því sem Hallbjörn nefnir.

Árið 1902 hóf Guðmundur S. Jónsson búskap á Sveinseyri, þá 26 ára gamall, og átti hér heima síðan til dauðadags 1953. Það kom í hans hlut að verða forgöngumaður um margvíslegar framfarir og félagsleiðtogi Tálknfirðinga var hann um langt árabil. Guðmundur hafði alist upp í Ketildölum en fluttist með foreldrum sínum til Tálknafjarðar um aldamótin 1900.

Guðmundur S. Jónsson varð hreppsnefndaroddviti Tálknfirðinga árið 1907 og gegndi því starfi til æviloka. Á sama ári var stofnað Kaupfélag Tálknfirðinga er starfaði fyrst sem pöntunarfélag en frá því um 1920 sem hvert annað kaupfélag.[50] Guðmundur á Sveinseyri var framkvæmdastjóri félagsins frá árinu 1908 og til 1938. Auk oddvita- og kaupfélagsstjóra­starfanna gegndi Guðmundur flestum öðrum opinberum störfum fyrir sveit sína um lengri eða skemmri tíma.[51] Hann bætti einnig mjög jörð sína og sótti lengi framan af árum sjó frá Stapavíkum þar sem hann var með fengsælustu formönnum.

Árið 1909 voru tvö skólahús reist í Tálknafirði til barnakennslu, annað á Sveinseyri,[52] og hefur skóli verið starfræktur hér síðan. Símstöð var sett upp á Sveinseyri sama ár en síðar flutt að Tungu.[53] Árið 1930 var sundlaug byggð hjá Eyrarhúsum í Sveinseyrarlandi en jarðhiti er þar nokkur. Samkomuhús var reist 1934 þar rétt hjá og nýr barnaskóli upp úr 1960.[54]

Árið 1930 lét Guðmundur á Sveinseyri raflýsa bæ sinn og var það fyrsta rafstöð í Tálknafirði.[55] Átta árum síðar byggði hann í samvinnu við syni sína tvílyft steinhús á Sveinseyri og var það þá talin vandaðasta bygging í sveitum Vestur-Barðastrandarsýslu.[56]

Ingivaldur Nikulásson á Bíldudal lýsir Sveinseyri um 1940 og má greina hrifningu í orðum hans:

 

Á Sveinseyri er stórt tún, að mestu rennislétt. Þar eru þrjú býli, sem eru þó ein og sama jörðin. … Sveinseyri er nú miðstöð sveitarinnar. Þar er kaupfélagsverslun, sundlaug og sundskáli reisulegur. Þar er rafstöð fyrir þrjú heimilin áðurnefndu, þar á heimajörðinni er nýtísku íbúðarhús úr steini. Prýðisfallegt er á Sveinseyri.[57]

 

Er aldur færðist yfir Guðmund á Sveinseyri tók Albert sonur hans við margvíslegum forystustörfum úr hendi föður síns. Albert bjó á Eyrarhúsum. Hann var helsti hvatamaður að byggingu hraðfrystihúss, sem reis í landi Tungu upp úr heimsstyrjöldinni síðari, og útgerð stærri vélbáta frá Tálknafirði. Verk Alberts og félaga hans lögðu grunninn að því myndarlega þorpi sem nú er risið í Tálknafirði.

Ýmsar þjóðsögur sem tengjast Sveinseyri hafa lifað á vörum manna og sumar verið festar á blað. Hér sem annars staðar á Vestfjörðum gátu menn allt fram á daga núlifandi manna átt von á að mæta fjörulalla við sjó á myrkum vetrarkvöldum. Naumlega taldi Bjarni Friðriksson, vinnumaður á Sveinseyri en síðar skipstjóri, sig hafa sloppið undan lalla í janúar 1887 er þeir mættust í fjörunni utan við eyrina skömmu eftir dagsetur. Reyndi ókindin að hrekja Bjarna í sjóinn en hann tók á henni berum höndum og barði með grjóti. Löngu síðar skráði Helgi Guðmundsson frásögn Bjarna af þessum átökum og lýkur henni með þessum orðum:

 

En merki viðureignarinnar við dýrið bar hann það sem eftir var vetrarins. Hann varð alveg tilfinningalaus í fingurgómunum. Var haldið að þetta stafaði af því að hann hefði þreifað svo mikið á dýrinu með berum höndum. Þó batnaði þetta um síðir. En komið var langt fram á vor þegar Bjarni fékk tilfinninguna í gómana aftur. Talið var að dýr þetta hefði verið fjörulalli.[58]

 

Máske hefur það verið sama sjókindin sem átta árum síðar brölti upp á bæinn á Hrauni, nýbýlinu frá Sveinseyri, að næturlagi seint í ágúst svo skarsúðin svignaði eins og gyrði undan þunganum.[59] Andrésa Andrésdóttir, síðar á Patreksfirði, var þá húsfreyja á Hrauni en maður hennar fjarverandi við róðra úti í Víkum. Sagði Andrésa frá þessu síðar og einnig því sem við augum blasti er hún kom út morguninn eftir:

 

– Sá ég þá að öll hlíðin, sem þakin var háu grasi kvöldið áður, var niðurbælt flag og í bólinu var þykkt lag af slepju, sem líktist slori af sjóskepnu, og þegar sólin skein á það var að sjá sem glitti í hana alla.[60]

 

Þannig sagðist Andrésu frá og eitt taldi hún víst, að engin landskepna hefði þetta verið, hvorki kýr né hestur.[61]

Við stöndum upp af fjörusteininum hjá Hrauni og hefjum göngu út Eyrarhlíð. Héðan er tæplega klukkutíma gangur að kirkjustaðnum Stóra-Laugardal og heldur skemmra að Litla-Laugardal sem er innar.

Álftadalsá, rétt utan við Hraun, er lítill farartálmi. Utan við hana mjókkar undirlendið til muna en á allri hlíðinni eru þó grónir sjávarbakkar milli fjalls og fjöru. Innarlega á henni skerst Deildargil inn í dökkbrýnt Hlíðarfjallið en utar á bökkunum er Gvendarlaugin góða sem lengi hefur verið baðstaður Tálknfirðinga. Eggert Ólafsson þekkti laugina og segir Guðmund biskup Arason hafa vígt hana á ferðum sínum um Vestfirði.[62]

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Hallbjörn Oddsson 1963, 146 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[2] Manntal 1703.

[3] Bæjatal á Íslandi 1930.

[4] Lýður Björnsson 1967, 43 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 343-344.

[6] Sama heimild.

[7] Jarðab. Á. og P. VI, 343-344.

[8] Jarðab. Á. og P. VI, 344.

[9] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 242.

[10] Manntal 1801.

[11] Manntal 1816.

[12] Sóknalýs. Vestfj. I, 218.  Manntal 1845.

[13] Sóknarmannatöl Stóra-Laugardalssóknar.  Manntal 1901.

[14] Örnefnaskrár Tungu, Hóls og Sveinseyrar.

[15] Sóknalýs. Vestfj. I, 218.

[16] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur I, 281.

[17] Jarðab. Á. og P. VI, 356.  Alþingisbækur Íslands VIII, 513.

[18] Örnefnaskrár Tungu og Hóls.

[19] Örnefnaskrá Sveinseyrar.

[20] Jóhann Skaptason 1959, 142 (Árbók F.Í.).

[21] Sama heimild.

[22] Jarðab. Á. og P. VI, 345.

[23] Sama heimild.

[24] Jarðab. Á. og P. VI, 345.

[25] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 243.

[26] Sama heimild I, 218.

[27] Örnefnaskrár Hóls og Sveinseyrar og meðfylgjandi kort.

[28] Sýslulýsingar 1744-1749, 143 (gefnar út 1957).

[29] Sóknalýs. Vestfj. I, 218.

[30] Eggert Ólafsson 1975, I, 349.

[31] Jarðab. Á. og  P. VI, 338-357.

[32] Sama heimild, 345-347.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[36] Sama heimild.  Sóknarlýs. Vestfj. I, 218.

[37] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[38] Manntal 1901

[39] Jóhann Skaptason 1959, 142 (Árbók F.Í.).

[40] Lýður Björnsson 1967, 43 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[41] Jarðab. Á. og P. VI, 345.

[42] Sama heimild, 346-347.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild.

[45] Sóknalýs. Vestfj. I, 243.

[46] Jarðab. Á. og P. VI, 338-357.

[47] Íslenskar æviskrár V, 387.

[48] Hallbjörn Oddsson 1962, 144 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[49] Stjórnartíðindi b-deild, verðlagsskrár.

[50] Jóhann Skaptason 1953, 32 (Árbók Barðastrandarsýslu).

[51] Sama heimild, 28-34.

[52] Trausti Einarsson 1987, 92.  Hallbjörn Oddsson 1963, 145 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[53] Landið þitt Ísland IV, 251.

[54] Sama heimild.

[55] Jóhann Skaptason 1953, 31 (Árbók Barðastrandarsýslu).

[56] Sama heimild.

[57] Ingivaldur Nikulásson 1942, 112-113 (Barðstr.bók).

[58] Vestfirskar sagnir I, 85-88.

[59] Gráskinna hin meiri I, 286-288.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild.

[62] Eggert Ólafsson 1975, I, 225.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »