Tunga í Valþjófsdal

Tunga í Valþjófsdal

Frá hrjóstrunum í botni Dalsdals er tæplega klukkutíma gangur niður dalinn og heim að Tungu. Á þeirri leið gnæfir hið svartbrýnda Tungurðarfjall lengi vel yfir höfðum okkar en klettabrún þess er víða í um og yfir 600 metra hæð. Við rætur fjallsins eru Tungurðir fremst, síðan kemur Tunguleiti og enn heimar er Tunguhjalli.[1] Niður úr honum gengur Tagl og neðst í því er gamall stekkur, skammt frá árbakkanum.[2] Lengi vel er fjallshlíðin þráðbein að kalla en nokkru áður en komið er niður úr Dalsdal skerst svolítil dæld sem menn nefna Hornskál inn í fjallsbrúnina.[3] Tunguhornið, sem blasir daglega við sjónum allra sem heima eiga í Valþjófsdal, gengur norður úr Tungurðarfjalli og er talsvert lægra.

Niður úr Tunguhorni gengur allhár lyngháls til norð-norðausturs og niður í Holtin sem eru þar fyrir neðan. Háls þessi heitir Tunguháls og austan við hann stendur bærinn í Tungu, skammt frá rótum fjallsins. Eitt holtanna, sem hér voru síðast nefnd, er Kolbeinsholt sem stendur austan við veginn og lítið eitt neðar en Sjónarholt[4] sem þarna er mest áberandi. Á Kolbeinsholti stóð um skeið samkomuhús Dalmanna.[5] Húsið var byggt á árunum milli 1940 og 1950 en rifið á árunum milli 1970 og 1980.[6] Þetta var steinhús og stöplar þess standa enn á sínum stað svo unnt er að sjá hvar húsið stóð.[7] Í þessu litla samkomuhúsi var dansað og þar voru fundir haldnir.[8] Börnum Dalmanna var líka kennt þar um skeið[9] en áður var barnaskóli á Þorfinnsstöðum (sjá hér Þorfinnsstaðir).

Tunga í Valþjófsdal er forn bújörð sem á land milli Dalsár og Grafargilsár. Austan við Grafargilsá tekur við land Grafargils en vestan við Dalsá og eystri kvísl hennar land Kirkjubóls.[10] Árnar koma báðar af fjöllum ofan, Dalsá úr Skörðum, sem eru milli Þverfells og Tungurðarfjalls, fyrir botni Dalsdals, en Grafargilsá úr Miðdalsbrekkum í fjalllendinu fyrir botni Valþjófsdals, austan og sunnan við Tunguhornið. Jörðin Tunga á því land beggja vegna Tunguhornsins, allt til efstu grasa, og einnig gróðurlendið neðan við bæinn, milli Grafargilsár og Þorfinnsstaðaár á aðra hönd en Dalsár á hina, allt niður að ármótum Þorfinnsstaðaár og Dalsár, rétt framan við túnið á Kirkjubóli.[11] Þarna við ármótin var farvegi Dalsár breytt snemma á tuttugustu öld eða máske rétt fyrir aldamótin 1900 til að stöðva landbrot. Þá fékk Kirkjuból svolítinn skika úr landi Tungu þarna við ármótin en á móti fékk Tunga land fram á Dalsdal, Brekkupartinn sem svo heitir.[12] Tunga er fremsti bær í Valþjófsdal en örskammt er þaðan yfir að Grafargili sem er hinum megin við Grafargilsá og aðeins nær sjó.

Að fornu mati var Tunga talin vera 12 hundraða jörð[13] Í byrjun 18. aldar var landskuldin, sem ábúendur þar þurftu að greiða, 4 vættir á ári,[14] það er 80 álnir eða tveir þriðju hlutar úr kýrverði. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að í Tungu sé vetrarbeit framar almennu og kvikfé bænda þar sé hætt fyrir skriðuföllum og holgryfjulækjum.[15] Í sömu heimild er þess einnig getið að áin spilli túni og engjum.[16] Í sóknalýsingu séra Tómasar Sigurðssonar í Holti, er hann ritaði árið 1840, segir að Tunga í Valþjófsdal sé góð heyskaparjörð og notagóð til beitar. Um miðbik 19. aldar var landskuld af jörðinni 60 álnir[17] og hafði þá lækkað um fjórðung frá því sem verið hafði á fyrstu árum átjándu aldar.

Í jarðarlýsingu frá því um 1920 er túnið sagt vera í góðri rækt en ógreiðfært, útengi snögglent, sumarbeit góð en vetrarbeit engin.[18] Þá var búið að slétta 500 ferfaðma í túninu og töðufall sagt vera 80 hestar en á engjum fengust 150 hestar af heyi.[19] Eitthvert mótak var í Tungu en um 1920 töldu matsmenn það lélegt. Árið 1710 fylgdu þrjú innstæðukúgildi jörðinni[20] og um 1920 fylgdu henni 18 leiguær.[21] Sex ær voru í hverju kúgildi svo að um 1920 hefur fjöldi innstæðukúgildanna verið sá sami og verið hafði 1710.

Á fyrstu áratugum 20. aldar var landskuldin af Tungu komin niður í tvær ær,[22] sem svaraði til 40 álna í landaurareikningi, og var því orðin helmingi lægri en verið hafði í byrjun 18. aldar. Leigurnar eftir innstæðukúgildin þrjú voru hins vegar óbreyttar, 10 kíló af smjöri fyrir hvert kúgildi[23] eins og ráð var fyrir gert í hinum fornu Jónsbókarlögum.[24]

Um jörðina Tungu í Valþjófsdal er fyrst getið í gjafabréfi frá árinu 1428. Halldór Jónsson á Kirkjubóli var þá eigandi allra jarðanna í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) en með bréfi því sem hér var nefnt gefur hann dætrum sínum, Valgerði og Ingibjörgu, þrjár þessara jarða, Tungu, Grafargil og Þorfinnsstaði.[25] Gjafabréfið ber með sér að árið 1428 hefur hundraðatala þessara þriggja jarða verið hin sama og hún var á 18. og 19. öld er þessar þrjár jarðir voru virtar samtals á 48 hundruð. Í fornbréfum er annars sjaldan minnst á Tungu í Valþjófsdal og í heimildum frá síðari öldum er einnig fremur hljótt um þennan fremsta bæ hér í dalnum.

Þann 3. desember 1595 festi Sæmundur Árnason, sýslumaður á Hóli í Bolungavík, kaup á sjö og hálfu hundraði í Tungu.[26] Í jarðaskjölum frá 16. og 17. öld, útdrættinum sem út var gefinn árið 1993, er seljandinn sagður hafa verið Björn Bjarnarson[27] en ætla má að þar sé um mislestur eða misritun að ræða og sá hafi verið auðmaðurinn Björn Bjarnason sem þá bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból). Sæmundur sýslumaður á Hóli átti jörðina í sex ár en lét hana af hendi ári 1601 í jarðaskiptum við mann sem Þorgautur hét og var Ólafsson.[28]

Eigendur Tungu á árunum kringum 1700 voru mæðgurnar Helga Eggertsdóttir og Elín Snæbjörnsdóttir á Múla í Kollafirði í Gufudalssveit.[29] Helga var þá orðin nær áttræð[30] og hafði flust ekkja að Múla frá Kirkjubóli í Langadal við Djúp.[31] Hún var frá Sæbóli á Ingjaldssandi, dóttir Eggerts Sæmundssonar, bónda þar, sem drukknaði árið 1636[32] (sjá hér Sæból). Líklegt er að hún hafi erft Tungu eftir föður sinn en hitt er þó líka hugsanlegt að hún hafi fengið jörð þessa í arf eftir eiginmann sinn, Snæbjörn Torfason, lögréttumann á Kirkjubóli í Langadal við Djúp, en hann var bróðir Páls Torfasonar, sýslumans á Núpi í Dýrafirði. Elín Snæbjörnsdóttir, sem taldist eigandi Tungu í Valþjófsdal árið 1710 var dóttir hjónanna Helgu Eggertsdóttur og Snæbjörns Torfasonar á Kirkjubóli í Langadal. Elín mun ekki hafa gifst eða eignast börn.[33]

Árið 1762 var maddama Ragnheiður Sigurðardóttir eigandi Tungu[34] og verður að telja mjög líklegt að þar sé um að ræða ekkju séra Teits Pálssonar á Eyri í Skutulsfirði en sú Ragnheiður var dóttir séra Sigurðar Jónssonar sem var prestur í Holti í Önundarfirði frá 1680 til 1730 og hafði áður verið þar aðstoðarprestur í ellefu ár.[35] Elín Snæbjörnsdóttir, sem átti Tungu ásamt móður sinni árið 1710, dó eins og áður sagði barnlaus en hún og séra Teitur, eiginmaður Ragnheiðar, voru bræðrabörn. Um miðbik 19. aldar bjuggu leiguliðar enn í Tungu[36] en um 1920 átti bóndinn þar hálfa jörðina en Mosvallahreppur hinn helminginn.[37]

Fyrstu bændur í Tungu, sem kunnir eru með nafni, hétu báðir Jón Lífgjarnsson. Þeir bjuggu í Tungu árið 1681 og voru bræður.[38] Tvíbýli var þá á jörðinni og bjó Jón eldri á 8 hundruðum en Jón yngri hafði 4 hundruð til ábúðar.[39] Árið 1703 bjuggu þessir sömu bræður  enn í Tungu en þar áttu þá einnig heima tveir kvæntir húsmenn sem sagt er í manntalinu frá því ári að nærist af fríðum peningum og sjóbjörg.[40] Árið 1710 var Jón Lífgjarnsson enn bóndi í Tungu, líklega sá yngri, og hafði 5 hundruð til ábúðar en maður að nafni Jón Jónsson bjó þar þá á 8 hundruðum og kynni að hafa verið sonur Jóns Lífgjarnssonar.[41]

Árið 1762 var enn tvíbýli í Tungu[42] og svo var almennt nær alla 19. öldina[43] eða allt til ársins 1894 þó að einhverjar undantekningar kynnu að finnast frá þeirri reglu. Úr hópi bænda sem bjuggu  hér á 19. öld má nefna Guðmund Magnússon er var annar tveggja bænda í Tungu árið 1870.[44] Guðmundur og kona hans, Margrét Magnúsdóttir, voru foreldrar Jóns fingralausa, sem hér hefur áður verið nefndur (sjá hér Brekka á Ingjaldssandi) og þeirra systkina. Árið 1870 voru þrjú þessara barna heima hjá foreldrum sínum í Tungu, þau Sara, Jón og Kristján, en í manntalinu frá því ári er tekið fram að á þau vanti því nær alla fingur og tær og að þau séu fædd þannig.[45]

Síðasti 19. aldar bóndinn í Tungu var Vigfús Eiríksson, sem hér bjó frá 1885 til 1918, fyrst í tvíbýli en frá árinu 1894 var hann eini bóndinn á allri jörðinni.[46] Vigfús var bróðir Guðmundar Á. Eiríkssonar, hreppstjóra á Þorfinnsstöðum.[47] Með búskapnum fékkst Vigfús allmikið við smíðar og smíðaði meðal annars báta Hann var líka formaður á vorvertíð, reri frá Kálfeyri vorið 1897.[48]

Þegar Vigfús hóf búskap í Tungu, vorið 1885, settist hann að í baðstofu sem var 5,5 x 4 álnir,[49] það er liðlega átta og hálfur fermetri. Hæð baðstofuhússins, frá gólfi og upp í mæni, var um það bil þrír og hálfur metri.[50] Liðlega hálf baðstofan var undir súð og á henni voru tveir litlir gluggar.[51] Fimm metra löng göng lágu frá baðstofunni til útidyra.[52] Breidd þeirra var 110 sentimetrar eða því sem næst og hæðin um 2,35 metrar.[53] Eldhúsið, sem með fylgdi, var rétt liðlega 5 fermetrar.[54]

Vigfús bjó í Tungu í þriðjung aldar og þegar búskapartíma hans lauk voru húsakynnin orðin langtum veglegri. Baðstofan var þá 12 álnir á lengd og 5½ alin á breidd, það er 26 fermetrar, með skúr er var jafnlangur baðstofunni og 3½ alin á breidd.[55] Kona Vigfúsar var Guðrún Sveinbjarnardóttir en árið 1918 tóku Jóna, dóttir þeirra, og eiginmaður hennar, Ebenezer Jónsson, við búsforráðum í Tungu. Í manntali frá 1. desember 1920 er Ebenezer í Tungu sagður vera bæði bóndi og sjómaður.[56] Árið 1931 var bústofninn hjá honum 3 kýr, 60 kindur og 2 hross.[57] Fólkið í Tungu bjó þá enn í torfbæ eins og algengt var en búið var að leiða vatn í bæinn.[58] Síðustu ábúendur í Tungu voru börn Ebenezers og Jónu Vigfúsdóttur, konu hans, en jörðin fór í eyði 1991.

Á árunum 1885-1890 voru hjónin Jón Ólafsson og Vilborg Sigurðardóttir í húsmennsku í Tungu.[59] Þau voru þá á sextugsaldri og höfðu áður búið hér á annarri hálflendunni.[60] Líklegt er að Jón og Vilborg hafi hafst við í bæjarhúsum ábúenda þó hætt væru búskap. Árið 1896 settust hins vegar tvær fjölskyldur að í þurrabúðarkoti rétt neðan við gamla túnið í Tungu.[61] Kot þetta fékk nafnið Lækur og mun ekki hafa byggst fyrr en 1896.[62] Þeir sem fyrstir bjuggu á Læk voru húsmennirnir Daníel Bjarnason og Jósep Jóhannsson.[63] Báðir voru þeir kvæntir og í lok ársins 1897 voru 12 manneskjur heimilisfastar á Læk.[64] Jósep og kona hans, Össurína Friðríksdóttir, áttu heima á Læk í tvö ár, frá 1896 til 1898, en Daníel var þar í þrjú ár, frá 1896 til 1899.[65]

Kona Daníels Bjarnasonar var Guðný Finnsdóttir frá Kirkjubóli í Valþjófsdal. Þessi elsta dóttir Finns Eiríkssonar, bónda í Dal (á Kirkjubóli), er sögð hafa verið fríðleikskona, vel greind og gædd græskulausri gamansemi.[66] Ekki er ólíklegt að fleirum en Daníel hafi litist vel á Guðnýju en hann varð hlutskarpastur, hversu margir sem biðlarnir kunna að hafa verið. Engan veraldarauð hafði þessi ungi maður þó upp á að bjóða en var talinn stórvel gefinn.[67] Haustið 1888 var Guðný til dvalar á Flateyri. Hún var þá 18 ára. Jón Guðmundsson búfræðingur, er síðar bjó lengi á Ytri-Veðrará. var þá búðarmaður við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri. Þann 17. nóvember þetta haust skrifar hann í dagbók sína: Þeir komu hér Dalmenn í dag og Daníel tók Guðnýju yfir með sér.[68] Næsta dag bætir sami maður við þessum orðum: Guðný kom aftur og var búin að setja upp hringinn, nefnilega opinberlega trúlofuð Daníel.[69] Ári síðar, 24.10.1889, voru þau Daníel Bjarnason og Guðný Finnsdóttir gefin saman í hjónaband[70] og höfðu því verið gift í um það bil sjö ár er þau reistu sér nýtt heimili neðan við túnfótinn í Tungu. Á Læk undu þau lífinu í þrjú ár en bjuggu síðar um skeið á Hóli í Firði og á Vöðlum. Um 1910 fluttust þau til Súgandafjarðar og áttu þar heima nokkuð á annan áratug en síðan á Ísafirði og loks í Reykjavík.[71]

Daníel Bjarnason og aðrir tómthúsmenn sem bjuggu á Læk geta ekki hafa lifað þar á landbúnaði því jarðnæðið var ekkert. Haustið 1898 átti Daníel þó 5 kindur og 2 hesta en hinn húsmaðurinn á Læk, sem þá var Markús Guðmundsson, átti 6 kindur og 1 hest.[72] Einhverjar lítilfjörlegar grasnytjar mun þurrabúðarfólk þetta á Læk hafa haft en í bændatölu taldist það ekki vera.

Frá 1896 og allt til ársins 1917 hafðist eitthvert fólk jafnan við í þurrabúð á Læk.[73] Frá 1896 til 1903 voru þar oftast tvær fjölskyldur í senn en þaðan í frá nær alltaf bara ein fjölskylda.[74] Fjölskyldurnar sem settust að á Læk á árunum kringum aldamótin 1900 urðu sjö í allt áður en hætt var að búa í koti þessu.[75] Allt þetta fólk bjó þar aðeins í fáein ár, eitt til fimm, nema Bjarni Þorláksson og bústýra hans, Guðríður Oddgeirsdóttir, sem höfðust við á Læk frá 1904 til 1917.[76] Þau voru líka síðasta fólkið sem þar bjó.[77] Snorri Sigfússon segir að Bjarni og Sigurður Ólafsson, sem um skeið var húsmaður í Dalshúsum, hafi búið í kotum við sjóinn í Valþjófsdal[78] en kunnugir telja að svo hafi alls ekki verið[79] og sóknarmannatöl sýna að Bjarni var alltaf á Læk á þeim árum sem hann átti heima í Valþjófsdal.[80] Ætla verður að flestir húsráðendur á Læk hafi haft sjómennsku að aðalstarfi og verið á skútum frá Flateyri, Þingeyri eða Ísafirði. Einhverjir þeirra kynnu þó aðeins að hafa róið frá Dalssjónum eða Kálfeyri á vorin en látið sér nægja landvinnu, ef einhver var í boði, á öðrum árstímum. Í manntalinu frá 1901 er annar tómthúsmaðurinn á Læk sagður vera sjómaður en um hinn er tekið fram að hann lifi á landbúnaði og fiskveiðum.[81]

Grasbýlið Lækur stóð við Partlæk, sem fellur um túnið í Tungu, og nafn sitt mun það hafa fengið af honum.[82] Býli þetta á lækjarbakkanum stóð í jaðrinum á túninu sem hér er nú, nær beint í norður frá íbúðarhúsinu í Tungu.[83] Engar rústir eru lengur sjáanlegar því þar sem kotið stóð er allt orðið að sléttu túni.

Frá Tungu förum við ekki beinustu leið yfir að Grafargili en röltum þess í stað spölkorn fram á dalinn sem liggur austan við fjallið Tunguhorn. Sá dalur er fremsti hluti Valþjófsdals og heldur því nafni[84] en sá hluti hans sem er vestan Grafargilsár og því í landi Tungu mun þó oft hafa verið nefndur Tungudalur.[85] Afdalur þessi er þó nokkru breiðari en Dalsdalur hér hinum megin við fjallið og loftlínan milli brúna víða á þriðja kílómetra. Vegalengdin heiman frá Tungu og fram í dalbotn er lítið eitt lengri eða um það bil þrír kílómetrar.

Frá bæjarhlaðinu í Tungu liggur leið okkar yfir Tunguá sem skiptir túninu í tvennt. Á þessi sem er nokkuð vatnsmikil kemur úr Hærri-Torfahvilft[86] og á sér farveg skammt austan við Tunguhornið. Austan við ána nemum við staðar á Háhól og lítum enn heim að Tungu og upp til fjallsins fríða sem gnæfir yfir bænum. Grasbreiðan sem blasir við uppi í miðju fjalli, ofan við bæinn, heitir Breiður.[87] Neðan við túnið eru Holtin og þar ber Sjónarholt einna hæst en sléttlendið þar fyrir neðan heitir Álar.[88]

Fjallshlíðin austan við Tunguhorn heitir Tunguhlíð.[89] Um hana liggur leið okkar. Þar í hlíðinni sem síðast sést heim til bæjar, þegar gengið er fram dalinn, heitir Hvarf.[90] Hærri-Torfahvilft er auðvelt að þekkja því úr henni kemur Tunguáin sem áður var nefnd. Klettaþilið sem prýðir Tunguhorn slitnar ekki þar sem hvilftin tekur við en sveigir fyrir botn hennar og heitir þar Torfahvilftarfjall.[91] Framan við Torfahvilft, milli hennar og Grjótdals, er Miðmundafjall.[92] Nafnið sýnir að fjallið hefur verið notað sem eyktamark og þá frá Grafargili. Miðmundi er sá tími dagsins sem er mitt á milli hádegis og nóns en þá er klukkan að réttu lagi hálf tvö. Niður undan Miðmundafjalli eru Heimri-Vatnabrekkur.[93] Framan við Miðmundafjall er Grjótdalur[94] og upp af honum svolítið klettalaust skarð í hamravegginn. Um skarðið er fær gönguleið yfir í Núpsdal í Dýrafirði.[95] Neðan við Grjótdal er Grjótdalsvatn.[96] Úr því fellur Krosstunguá niður Vatnabrekkur í þröngu gljúfri sem heitir Tröllagil og sameinast Grafargilsá neðan við það.[97] Fjallið framan við Grjótdal heitir Lágafjall. Neðan frá byggðinni sýnist það vera lægra en fjöllin í kring en svo er þó ekki í raun.[98] Austan við Lágafjall er Miðdalur, allra fremst í Valþjófsdal,[99] og Miðdalsfjall fyrir botni hans.[100] Í landi Tungu, vestantil í Miðdal og nær alveg við Lágafjall, er stórt grjótholt sem mikið ber á og heitir Valþjófur.[101] Holt þetta er í um það bil 500 metra hæð yfir sjávarmáli og sú var trú margra að þar væri landnámsmaður dalsins heygður.[102]

Efstu drög Grafargilsár koma úr Miðdal og falla þaðan niður í Langavatn[103] en úr vatninu streymir áin um Vatnabrekkur sem ná þvert yfir dalbotninn[104] og síðan áfram leið sína niður dalinn. Í bók sinni Aldarfar og örnefni í Önundarfirði nefnir Óskar Einarsson læknir vatnið, sem Grafargilsá kemur úr, Miðdalsvatn en ekki Langavatn.[105] Heimafólk í Tungu, sem þar er rótgróið, segir hins vegar að vatnið heiti Langavatn og kannast ekki við nafnið Miðdalsvatn.[106] Svæðið milli Grjótdalsvatns og Langavatns er nefnt við Vötnin[107] en tungurnar ofan við ármót Krosstunguár og Grafargilsár heita Krosstungur.[108]

Uppi við Vötnin tvö sem liggja í nær 400 metra hæð yfir sjávarmáli höfum við nú átt góða stund og þokum okkur héðan yfir landamerkin sem liggja um Grafargilsá. Handan hennar tekur við land Grafargils.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 133-134.

[2] Sama heimild, 134. Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[3] Óskar Ein. 1951, 133.

[4] Sama heimild, 134.

[5] Sama heimild.

[6] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[7] Guðmundur Steinar Björgmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1994.

[8] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[13] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 97-98.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] J. Johnsen 1847, 194. Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 103.

[18] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[19] Sama heimild.

[20] Jarðab. Á. og P. VII, 97-98.

[21] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[22] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1919.

[23] Sama heimild.

[24] Þorv. Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 45.

[25] D.I. IV, 353-354.

[26] Jarðabréf frá 16. og 17. öld – Útdrættir, bls. 157.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild bls. 158.

[29] Jarðab. Á. og P. VII, 97 og XIII, 276.

[30] Manntal 1703 / Kirkjuból í Nauteyrarhreppi.

[31] Sama heimild.

[32] Íslenskar æviskrár VI, 311.

[33] Sama heimild IV, 311.

[34] Manntal 1762.

[35] Ísl. æviskrár IV, 234-235 og V, 8.

[36] J. Johnsen 1847, 194.

[37] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[38] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[39] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[40] Manntal 1703.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 97.

[42] Manntal 1762.

[43] Manntöl 1801, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1870, 1880 og 1890.

[44] Manntal 1870.

[45] Sama heimild.

[46] Sóknarmannatöl Holtsprestakalls.

[47] Ólafur Þ. Kristjánsson 1945, 155. (Frá ystu nesjum III.)

[48] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 25.4.1897.

[49] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur, 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 39.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[56] Manntal 1920.

[57] Fasteignabók 1932, 51.

[58] Sama heimild.

[59] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild. Óskar Ein. 1951, 134.

[62] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Jóhannes Davíðsson 1976, 100.

[67] Sama heimild.

[68] Lbs. Skjöl Jóns Guðmundsonar, búfræðings á Veðrará, án safnnúmers. Dagbók hans 17.11.1888.

[69] Sama dagbók 18.11.1888.

[70] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 24.10.1889.

[71] Vestfirskar ættir II, 433.

[72] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosv.hr., 5. Hreppsbók 1883-1912, tíundarskýrsla 1898.

[73] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.

[76] Sama heimild.

[77] Sama heimild.

[78] Snorri Sigfússon 1969, 124.

[79] Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[80] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[81] Manntal 1901.

[82] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[83] Sama heimild.

[84] Óskar Ein. 1951, 122.

[85] Kristján Þorvaldsson 1951, 85. Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[86] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[87] Óskar Ein. 1951, 133.

[88] Sama heimild, 134.

[89] Sama heimild, 133.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Sama heimild.

[95] Guðmundur Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[96] Óskar Ein. 1951, 133.

[97] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[98] Sama heimild.

[99] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[100] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[101] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[102] Óskar Ein. 1951, 133.

[103] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[104] Óskar Ein. 1951, 133.

[105] Sama heimild.

[106] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[107] Óskar Ein. 1951, 133.

[108] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »