Vífilsmýrar

Fyrir botni Önundarfjarðar er mun meira undirlendi en í flestum öðrum fjarðarbotnum á Vestfjörðum. Sléttlendi þetta er tveir til þrír kílómetrar á lengd og víða um einn kílómetri á breidd. Sléttan, sem framburður ánna hefur myndað, er votlend og vel gróin. Umhverfis hana og við mynni dalanna, sem hér liggja til ýmsra átta, voru frá fornu fari og allt fram á tuttugustu öld sjö bújarðir en býlin voru oftast miklu fleiri því margbýlt var á sumum þessara jarða.

Í máli manna voru allar þessar jarðir sagðar vera inni í Firði[1], enda nefna heimamenn landsvæði þetta Fjörðinn og stundum var talað um Fjarðarmenn.[2] Guðjón Guðmundsson búnaðarráðunautur segir í grein frá árinu 1907 að fyrir botni Önundarfjarðar sé um það bil 2000 hesta flæðiengi, rennislétt og grasgefið.[3] Guðjón ferðaðist talsvert um Vestfirði á árunum 1905-1907 og er hann greinir frá þessu mikla flæðiengi kemst hann svo að orði:

 

Miðja þess er raklend, einkum í vætusumrum og þyrfti þar öflugan framræsluskurð. Kunnugir maður sagði mér að 1/5 – 1/4 af enginu væri óslegið á hverju hausti og er það dæmafár amlóðaháttur því bæirnir standa í röð meðfram hlíðunum, beggja vegna, og heimreiðslan örstutt.[4]

 

Fyrsta jörðin sem við komum að hér í Firðinum er Vífilsmýrar en hinar sex eru Hóll, Tunga, Hestur, Efstaból, Kroppstaðir og  Kirkjuból í Korpudal, sem stundum var nefnt Kirkjuból í Firði. Jörðin Kot (Bethaníu), sem við komum frá, er reyndar líka inni í Firði en þar sem Kotin byggðust úr landi Mosvalla sýnist hæpið að flokka þau með hinum jörðunum sjö.

Allur er Fjörðurinn umkringdur háum fjöllum, nema í norðvestri þar sem Vöðin breiða úr sér og undirlendið vestan við þau með staðinn í Holti í miðpunkti. Fjöllin sem mest ber á umhverfis sjálfan Fjörðinn eru Bakkafjall, Krákur, Tunguhorn, Hestur, Kroppstaðafjall og Kirkjubólsfjall. Öll eru fjöll þessi hömrum girt hið efra. Bakkafjall, sem áður hefur verið nefnt, er upp af Kotum, Krákur beint upp af Vífilsmýrum, Tunguhorn í suðaustri ef horft er frá Vífilsmýrum, Hesturinn rétt norðan við austur en Kroppstaðafjall og Kirkjubólsfjall í norð-norðaustri, skoðað frá hlaðinu á Vífilsmýrum.

Fjallið Hestur vekur hér mesta athygli en um það er nánar fjallað á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Hestur). Norðan við Hestinn er Korpudalur en sunnan við hann er Hestdalur. Sá hluti síðarnefnda dalsins sem liggur vestan (sunnan) ár er einnig nefndur Tungudalur.[5] Vestan við hann er svo Ekkilsdalur en milli þeirra er fjallið Tunguhorn sem hér var áður nefnt.

Meginárnar tvær sem falla um sléttlendið hér í Firðinum eru Hestá, sem kemur af Hestdal, og Korpa sem kemur ofan úr Korpudal. Hestur er eina jörðin á milli Hestár og Korpu. Vestan við Hestá eru Vífilsmýrar, Hóll og Tunga en norðan við Korpu eru Efstaból, Kroppstaðir og Kirkjuból. Fjórar þessara jarða eru nú (1995) í eyði en búið er á Vífilsmýrum, Hóli og Kirkjubóli.

Frá hlaðinu á Vífilsmýrum höfum við nú litið yfir sviðið stutta stund og mál til komið að hyggja að því sem nær okkur er. Hér hefur áður verið sagt frá landamerkjum Vífilsmýra og Kota (sjá Bethanía-Kot) en á móti jörðinni Hóli, sem er innar í Firðinum, eiga Vífilsmýrar land að Gildruhrygg sem er neðan við innanverða Kráksskál en svo heitir skálin í fjallinu Kráki[6] sem gnæfir hér yfir bænum. Nánar til tekið liggja þessi merki frá Einhamri, sem er klettadrangur í fjallshlíðinni, og þaðan í beina línu niður að þeim stað þar sem Álslæna rennur í Hestá.[7] Vífilsmýrar eiga líka dálítið land á flatlendinu norðan við Hestá. Þar fylgja landamerkin ýmsum smálænum og niður við sjó skiptir Korglæna löndum milli Vífilsmýra og Kirkjubóls í Korpudal.[8] Nærri lætur að hún sé miðja vega milli Hestár og Korpu.[9]

Utan við fjallið Krák er Hafradalur, sem hér hefur áður verið nefndur, en dalur þessi er allstór skál sem skerst inn í fjalllendið ofan við miðja hlíð. Miklu minni er Kráksskál, nær beint upp af bænum á Vífilsmýrum, en klettahornið utan við hana heitir Haki.[10] Bæjargil kemur úr innanverðri Kráksskál og niður af því er Bæjargilshryggur.[11] Nokkru innar er svo Gildruhryggsgil og niður af því Gildruhryggur[12] sem áður var nefndur. Rétt fyrir utan túnið á Vífilsmýrum rennur lækur sem heitir Litlaá.[13] Í þennan læk var farið með mjólk til kælingar frá einum bænum á Vífilsmýrum um miðbik 20. aldar en í honum er uppsprettuvatn.[14] Rétt innan við Litluá eru tóttir í hlíðarfætinum, spölkorn fyrir ofan túnið, og heita Lambahlað.[15]

Engjalöndin neðan við túnið á Vífilsmýrum heita Eyrar en þær skiptast í Bakka, Samvinnu, Hrossakrók og Gvendareyrar.[16] Bakki er norður við Korglænu. Gvendareyrar náðu út að holti sem var hér fyrir utan túnið og hét Skipholt.[17] Holt þetta, sem nú er horfið, var neðan við akveginn, um það bil 100 metrum fyrir utan fjós og súrheysturna sem nú standa ofan vegar yst í túninu.[18] Slægjulandið utan við Skipholt náði alveg út að Hafradalsá og var nefnt Samvinnu.[19]

Nafnið Skipholt gefur til kynna að  hingað hafi mátt komast á bátum á fyrri tíð og enn gengur sjór upp á neðsta hluta hins gróna flatlendis milli Vífilsmýra og Kirkjubóls í Korpudal en þó aðeins í hæstu flæðum.[20] Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri á árunum 1912-1929, greinir svo frá að á þeim árum hafi hann einhverju sinni fengið leyfi til að taka upp mó í landi Vífilsmýra.[21] Þegar mótekjan hófst fékk hann lánaða kerru á Tannanesi og fór með hana yfir Vöðin á fjörunni.[22] Um haustið var mórinn sóttur á bát í stórstreymi og var þá, að sögn Snorra, hægt að komast á bátnum um háflæði nær alla leið að mógröfunum.[23] Annað mál er svo það að í þessum móflutningum strandaði Snorri ofarlega á Holtsoddanum þegar hann var á heimleið í haustmyrkri sem orðið var til baga.[24]

Að fornu mati töldust Vífilsmýrar vera 18 hundruð að dýrleika. Um kosti jarðarinnar og galla segir svo í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710:

 

Jörðin er slægnagóð og á sjóarhólma sem hefur verið góður heyskapur í en spillist af sjávargangi sem fordjarfar rótina. Torfskurðarítak í þessa jörð á Holtskirkja eftir máldögum. Torfrista er hér slæm. Mjög hagaþröng er þessi jörð og liggur upp á nábúum sínum. Ætti hún síns eigin lands að njóta, þá yrði peningur í engjum að ganga og yrði þá heyskapur miklu minni. Svo hafa og skriður stórlega spillt því litla landi sem til var. Vetrarhart er hér framar almennu. Engjunum hafa skriður spillt og spilla daglega. Engjarnar spillast og af Hestá.[25]

 

Í sóknalýsingunni frá 1840 eru Vífilsmýrar sagðar vera góð slægnajörð og þar er ekkert minnst á skriður.[26] Í gögnum frá árunum kringum 1920 er staðfest að beitiland sé hér lítið og lélegt en tekið fram að jörðin eigi mikið flæðiengi.[27] Að dómi fasteignamatsmanna, sem skoðuðu jarðir í Mosvallahreppi um 1920, voru engjarnar á Vífilsmýrum grasgefnar og líka túnið sem þá var þýft og raklent.[28] Árlegur heyfengur bændanna þriggja sem þá bjuggu á Vífilsmýrum var samtals um 600 hestar af útheyi og 120 hestar af töðu en talið var að jörðin gæti framfleytt 6 kúm, 150 kindum og 6 hrossum.[29] Einu hlunnindin sem fylgdu Vífilsmýrum og matsmennirnir, sem hér var áður vitnað til, sáu ástæðu til að nefna voru gott mótak.[30]

Á 17. öld mun árleg landskuld af Vífilsmýrum hafa verið 120 álnir og kúgildin, sem jörðinni fylgdu, voru þá 9 þegar flest var.[31] Árið 1710 fylgdu engin leigukúgildi þriðjungi jarðarinnar því sá jarðarpartur var þá nær allur í sjálfsábúð.[32] Á hinum tólf hundruðunum hafði leigukúgildunum þá fækkað úr sex í fjögur.[33] Um miðja 19. öld var landskuldin komin niður í 80 álnir.[34] Öll jörðin var þá í leiguábúð og henni fylgdi fimm og hálft kúgildi,[35] það er 33 ær. Um 1920 var fjöldi leigukúgilda enn líkur því sem verið hafði 1710 og 1847 því jörðinni fylgdu þá 36 ær.[36] Lögleiga fyrir þessi 6 kúgildi var þá enn 120 pund af smjöri,[37] það er sama gjald og kveðið var á um í Jónsbókarlögum og lengi hafði tíðkast. Árið 1920 var landskuldin hins vegar ekki nema 6 gemlingar á ári[38] sem eftir landaurareikningi svaraði til 60 álna.[39]

Jarðarinnar Vífilsmýra er fyrst getið í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 þar sem ítök og réttindi kirkjunnar í Holti í Önundarfirði eru talin upp. Holtskirkja átti þá þegar rétt til móskurðar á einum áttfeðmingi í landi Vífilsmýra[40] og þessum réttindum hélt hún í margar aldir.[41] Í máldaganum frá 1397 er mórinn reyndar nefndur torf[42] en það orð gat á þeim tíma merkt hvort heldur sem var eldiviðartorf, það er að segja mó, eða húsatorf sem notað var til bygginga. Í yngri heimildum, svo sem Jarðabók Árna og Páls, má sjá að í Vilkinsmáldaga muni vera átt við mó þar sem rætt er um torfskurðarréttindi Holtskirkju á þremur jörðum í Önundarfirði.[43]

Fyrsti eigandi Vífilsmýra sem um er kunnugt er Halldór Jónsson á Kirkjubóli í Valþjófsdal[44] sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá Kirkjuból í Valþjófsdal). Halldór kvæntist árið 1420 Oddfríði, dóttur Ara Guðmundssonar á Reykhólum, og lét þá Vífilsmýrar af hendi við tengdaföður sinn í jarðaskiptum þeirra í milli.[45] Ari Guðmundsson á Reykhólum var faðir Guðmundar ríka Arasonar, sem einnig bjó á Reykhólum, og þegar Guðmundur var hrakinn úr landi árið 1446 voru Vífilsmýrar ein hinna fjölmörgu jarða á Vestfjörðum sem hann hafði náð að eignast.[46] Í skrá yfir jarðeignir Guðmundar Arasonar árið 1446 er jörðin að vísu nefnd Vífilsmýri og sögð vera 24 hundruð að dýrleika[47] en síðar var hún jafnan virt á 18 hundruð.[48] Þarna er þó alveg efalaust átt við Vífilsmýrar og fram skal tekið að nafninu Vífilsmýri bregður líka stundum fyrir í yngri heimildum og má sem dæmi nefna Jarðabók Johnsens frá árinu 1847.[49]

Ekki verður nú séð með auðveldum hætti hvernig eignarhaldi á Vífilsmýrum var háttað fyrstu fimmtíu árin eftir að eignir Guðmundar Arasonar voru gerðar upptækar en árið 1498 náði séra Grímur Þorsteinsson að kaupa jörðina.[50] Fullvíst má telja að þar sé um að ræða séra Grím Þorsteinsson sem þá var prestur í Holti í Önundarfirði en hann var dóttursonur Halldórs Jónssonar á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Holt) sem átt hafði Vífilsmýrar árið 1420. Móðuramma séra Gríms var Oddfríður Aradóttir, hálfsystir Guðmundar ríka (sjá hér Holt) sem einnig hafði átt þessa sömu jörð. Séra Grímur gekk frá kaupum á jörðinni suður í Skálholti 28. júní 1498[51] og sá sem fékk honum hana til fullrar eignar var séra Brandur Rafnsson[52] en eini prestur með því nafni sem vitað er að uppi hafi verið á þessum tíma er Brandur sá Hrafnsson sem þá var á Hofi í Vopnafirði.[53]

Næsti eigandi Vífilsmýra, sem þekktur er með nafni, var Örnólfur Jónsson. Um hann veit nú enginn neitt með vissu nema það að árið 1565 seldi hann jörðina Eggerti Hannessyni, lögmanni í Saurbæ á Rauðasandi.[54]

Á 17. öld átti Þorleifur Sveinsson í Innri-Hjarðardal, bróðir Brynjólfs biskups, sex hundruð í Vífilsmýrum um skeið.[55] Þann jarðarpart erfði Kristín, dóttir Þorleifs, og haustið 1698 skipti hún þessari og fleiri jarðeignum milli barna sinna[56].

Árið 1710 átti Björn Jónsson, spítalahaldari á Hörgslandi á Síðu, nokkrar jarðeignir í Önundarfirði, þar á meðal 12 hundruð í Vífilsmýrum.[57] Björn þessi, sem oftast var nefndur Björn Thorlacius, var fæddur árið 1680.[58] Faðir hans var Jón Þorláksson, sýslumaður í Múlaþingi, sonur Þorláks Skúlasonar, biskups á Hólum.[59] Nær fullvíst má telja að jarðeignir þessar í Önundarfirði, það er 12 hundruð í Vífilsmýrum, Tungu í Firði, 16 hundruð í Tannanesi og Selakirkjuból,[60] hafi áður verið í eigu tengdamóður Björns, − Þóru Björnsdóttur á Hörgslandi sem gift var Páli Ámundasyni, spítalahaldara þar.[61] Sú Þóra var sonardóttir hinnar auðugu ekkju, Þóru í Dal, sem bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal á fyrri hluta 17. aldar[62], en móðurafi Þóru á Hörgslandi var séra Jón Sveinsson í Holti í Önundarfirði,[63] hálfbróðir Brynjólfs biskups. Sterkar líkur benda því til að á fyrri hluta 17. aldar hafi höfðingskvinnan Þóra í Dal átt þessi 12 hundruð í Vífilsmýrum eða þá séra Jón Sveinsson í Holti sem varð tengdafaðir Björns Snæbjörnssonar, sonar Þóru í Dal en föður Þóru á Hörgslandi.

Þóra Björnsdóttir á Hörgslandi dó árið 1695 og hafði þá verið gift í 14 ár Páli Ámundasyni sem var umboðsmaður Kirkjubæjarklaustursjarða og spítalahaldari á Hörgslandi.[64] Einkabarn þessara hjóna var Þórunn Pálsdóttir, fædd 1683, er varð fyrri eiginkona Björns Jónssonar Thorlacius sem hér var áður nefndur.[65] Vorið 1706 tók Björn við embætti spítalahaldara á Hörgslandi af Páli tengdaföður sínum en á fyrri hluta ársins 1709 andaðist Þórunn Pálsdóttir, kona Björns, og var þá aðeins 26 ára gömul.[66] Að henni látinni hófust illvígar deilur um erfðamál milli eiginmanns hinnar látnu og föður hennar.[67] Með konu sinni, Þórunni Pálsdóttur, hafði Björn eignast eitt afkvæmi sem lifði, stúlkubarnið Þóru[68] sem bar nafn ömmu sinnar Þóru á Hörgslandi og langalangömmu sinnar, áðurnefndrar Þóru í Dal. Fyrir hönd barnsins, Þóru Björnsdóttur Thorlacius, krafðist Björn þess að fá greiddan frá Páli tengdaföður sínum innistandandi móðurarf. Þann arf mun Páll Ámundason hafa færst undan að greiða því sumarið 1709 var auglýst á Alþingi átölun Björns Jónssonar uppá móðurarf og móðurarfságóða sinnar dóttur, Þóru Björnsdóttur, innistandandi hjá Páli Ámundasyni.[69]

Ástæðan fyrir því að Páll klausturhaldari vildi ógjarnan láta nokkra fjármuni af hendi rakna við Björn tengdason sinn hefur að líkindum verið sú að sama ár og Þórunn, kona Björns en dóttir Páls, andaðist, eignaðist ekkjumaðurinn ungi barn með annarri konu, sem reyndar kynni að hafa fæðst rétt áður en Þórunn dó.[70] Allt gerðist þetta á árinu 1709 en launbarnið sem Björn eignaðist þá með vinnukonu var Steinunn sem seinna giftist Skúla Magnússyni landfógeta.[71] Mjög er líklegt að vitneskja um faðerni launbarnsins hafi borist út um svipað leyti og kona Björns andaðist því 6. apríl 1709 skrifaði Páll Ámundason undir erfðaskrá þar sem hann arfleiddi Friðkik fjórða Danakonung að öllum sínum eignum að frátöldum 10 hundruðum í lausafé.[72] Þessari erfðaskrá lét Páll þinglýsa á Alþingi sumarið 1709[73] og gerði þar með Björn tengdason sinn og stúlkubarn hans, sinn eina niðja, nær alveg arflaus. Við blasir að með erfðaskránni hefur gamli klausturhaldarinn sagt Birni tengdasyni sínum algert stríð á hendur og vísað honum í ystu myrkur. Móðurarfi dóttur sinnar, hinnar látnu eiginkonu Björns, gat Páll þó ekki haldið. Ætla má að til greiðslu á þeim arfi hafi hann orðið að láta af hendi við Björn jarðeignirnar í Önundarfirði, sem hér voru áður nefndar, enda líklegast að Þóra Björnsdóttir, eiginkona Páls dáin árið 1695, hafi átt þessar fjórar jarðeignir, þar á meðal 12 hundruð í Vífilsmýrum eða tvö af hverjum þremur hundruðum þeirrar jarðar. Jarðbókin frá 1710 sýnir að Björn Jónsson Thorlacius var þá þegar talinn eigandi nýnefndra jarða og jarðarparta í Önundarfirði eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir. Að lokum skal þess getið að þrátt fyrir illvígar deilur á árinu 1709 munu þeir Páll Ámundason og Björn Thorlacius síðar hafa náð að sættast því Páll andaðist hjá þessum tengdasyni sínum árið 1716 en þá var Björn orðinn aðstoðarprestur og bjó á Flókastöðum í Fljótshlíð.[74] Síðar var hann lengi prestur og prófastur í Görðum á Álftanesi.[75]

Árið 1741 var séra Björn Thorlacius enn á lífi en dóttir hans Þóra var þá orðinn eigandi að þeim 12 hundruðum í Vífilsmýrum sem faðir hennar hafði átt 1710.[76] Hún var þá gift séra Halldóri Brynjólfssyni, er síðar varð biskup á Hólum, og 20. febrúar 1741 veðsetti séra Halldór þrjár jarðeignir konu sinnar í Önundarfirði til tryggingar greiðslu á láni er hann fékk hjá kaupmönnunum Jónasi Riis og Paul Birch.[77] Jarðirnar sem séra Halldór veðsetti voru Vífilsmýrar, Tunga og Selakirkjuból.[78] Tunga sem þarna er nefnd er ugglaust Tunga í Firði því þá jörð átti Björn Thorlacius árið 1710 (sjá hér bls.5). Við þessa veðsetningu fylgdu innstæðukúgildin á jörðunum með[79], enda var hvert jarðarhundrað virt á 6 ríkisdali spesíumyntar.[80] Án kúgilda var hvert hundrað venjulega metið á 4 ríkisdali á fyrri hluta 18. aldar því eftir landaurareikningi voru 30 álnir í hverjum spesíudal.[81]

Þóra Björnsdóttir Thorlacius, sem átti 12 hundruð í Vífilsmýrum árið 1741, átti ættir að rekja til Önundarfjarðar (sjá hér bls.5-6) og hér hefur áður verið sagt frá dálitlu ævintýri sem hún lenti í árið 1746 þegar Halldór maður hennar var erlendis að taka við embætti Hólabiskups (sjá hér Kirkjuból í Valþjófdal). Þegar Halldór varð biskup á Hólum fékk hann 800 ríkisdali að láni hjá Hörmangarafélaginu[82] sem þá hafði einkarétt á allri verslun við Íslendinga. Til tryggingar greiðslu á þessu láni pantsetti biskupinn eignarjörð sína Vífilsmýrar í Önundarfirði eins og frá er greint í Alþingisbókinni.[83] Sú trygging fyrir endurgreiðslu lánsins var reyndar í allra lakasta lagi því 18 hundraða jörð eins og Vífilsmýrar var alls ekki nema liðlega 100 ríkisdala virði þó að kúgildin sem jörðinni fylgdu væru talin með. Sú fullyrðing hefur þegar verið rökstudd hér litlu framar svo ekki þarf við að bæta en auk þess munu Halldór biskup og Þóra kona hans aldrei hafa átt nema tvo þriðju hluta Vífilsmýra eins og hér verður brátt sýnt fram á.

Haustið 1749 seldi biskup Ólafi Jónssyni 12 hundruð í Vífilsmýrum ásamt 4 kúgildum sem með fylgdu í kaupunum.[84] Allar líkur benda til þess að kaupandinn hafi verið Ólafur Jónsson lögsagnari á Eyri í Seyðisfirði við Djúp því vitað er að Ólafur sonur hans, er nefndi sig Olavius, átti 12 hundruð í Vífilsmýrum árið 1773.[85] Þegar veðskuldabréfinu sem Halldór biskup hafði látið Hörmangarafélaginu í té árið 1746 var loks þinglýst á Alþingi sumarið 1752[86] var Halldór því búinn að selja hina veðsettu jörð sína vestur í Önundarfirði og á Alþingi hafði kaupsamningnum, sem Ólafur lögsagnari á Eyri gerði við umboðsmenn biskups, verið þinglýst tveimur árum fyrr en án þess nokkurra veðbanda, sem á jörðinni hvíldu, væri getið.[87] Verðið sem Ólafur lögsagnari gaf fyrir þessi 12 hundruð í Vífilsmýrum og kúgildin fjögur, sem fylgdu með, voru 72 ríkisdalir í spesíumynt svo Halldór biskup hefur fengið fjóra og hálfan ríkisdal fyrir hvert hundrað.

Eigi er kunnugt um að Hörmangarafélagið, sem eins og áður var getið átti veð í Vífilsmýrum, hafi reynt að ná jörðinni af Ólafi lögsagnara en fullvíst má þó telja að lánið sem jörðin var veðsett fyrir hafi aldrei verið greitt að fullu. Sumarið 1752 hafði Halldór biskup aðeins endurgreitt félaginu 100 ríkisdali af þessu 800 ríkisdala láni en hitt stóð allt eftir.[88] Biskup var þá búinn að missa heilsuna og andaðist um haustið.[89] Þegar bú hans var tekið til skipta reyndist það vera þrotabú.[90]

Ólafur Jónsson, lögsagnari á Eyri, andaðist árið 1761[91] og hefur að líkindum átt 12 hundruðin í Vífilsmýrum allt til dauðadags en árið 1762 var Ólafur Ólafsson skráður annar tveggja eigenda jarðarinnar.[92] Sá Ólafur er vafalaust sonur Ólafs lögsagnara, kammersekreterinn er síðar varð, en hann nefndi sig síðar á ævinni Olavius.[93] Árið 1762 var Ólafur Olavius enn við skólanám í Skálholti en árið 1765 sigldi hann til náms í Kaupmannahöfn og dvaldist þar næstu sjö til átta árin.[94] Árið 1773 kom hann heim og á því ári seldi hann Bárði Illugasyni, bónda í Neðri-Arnardal við Skutulsfjörð, þessi 12 hundruð í Vífilsmýrum, sem hér hafa verið til umfjöllunar, og líka jörðina Innri-Hjarðardal í Önundarfirði.[95] Einn bræðra Ólafs Olaviusar var Magnús Ólafsson, bóndi í Súðavík, sem ekki vildi una þessari jarðasölu bróður síns.[96] Sumarið 1775 bar Magnús fram þá kröfu á Alþingi að jarðasölu Olaviusar til Bárðar í Arnardal yrði rift og bauðst þá til að innleysa sjálfur þessar jarðir.[97] Svo virðist sem Magnúsi hafi þó ekki tekist að fá sölunni riftað því árið 1805 var Ásgrímur Bárðarson í Arnardal, sonur Bárðar Illugasonar, annar tveggja eigenda Vífilsmýra.[98] Bárður Illugason í Neðri-Arnardal, sem hér var nefndur, er sem kunnugt er ættfaðir hinnar fjölmennu Arnardalsættar sem svo hefur verið nefnd.[99] Hann var ríkur bóndi og átti nokkrar jarðir.[100]

Hér hefur nú verið rifjað upp hvaða höfðingjar og ríkisbændur áttu Vífilsmýrar á 15. og 16. öld og tvo þriðju parta jarðarinnar á 17. og 18. öld. Heimildir sem í boði eru bjóða þó aðeins upp á mjög brotakenndar upplýsingar eins og skýrslan hér að framan ber með sér.

Um eigendur að þeim þriðjungi jarðarinnar sem varð viðskila við hina þriðjungana tvo á áratugunum kringum 1600 var þess áður getið að sá jarðarpartur komst á 17. öld í eigu Þorleifs Sveinssonar í Innri Hjarðardal og síðan dóttur hans sem Kristín hét (sjá hér bls. 5). Árið 1681 var hún einn þriggja ábúenda hér á Vífilsmýrum[101] og árið 1710 bjó sonur hennar, Ólafur Jónsson að nafni, á þeim þriðjungi úr jörðinni sem móðir hans hafði átt en hann og systir hans, Guðlaug Jónsdóttir, áttu þá þessi sex hundruð[102].

Árið 1747 seldu bræðurnir Jón og Sveinn Ólafssynir 4 hundruð og 30 álnir í Vífilsmýrurm fyrir 18 ríkisdali.[103] Sá sem keypti þann jarðarpart hét Gísli Jónsson[104] og árið 1762 átti Oddur Gíslason einhvern part úr Vífilsmýrum,[105] líklega 6 hundruð. Líklegt er að þarna sé um að ræða feðgana Gísla Jónsson, sem bjó á Kirkjubóli í Korpudal, og Odd son hans, fæddan 1732, sem síðast bjó í Tungu í Firði en áður á Kirkjubóli, líklega í Korpudal, því þar voru börn hans fædd.[106] Nöfnin ein duga að vísu ekki til að sýna fram á að það hafi verið þessir feðgar sem eignuðust part úr Vífilsmýrum en mjög líklegt verður að telja að svo hafi verið, enda bjuggu tveir synir Odds þessa Gíslasonar, þeir Gísli og Sveinn, hver fram af öðrum á parti úr jörðinni á fyrstu árum 19. aldar[107] og Gísli Oddsson var árið 1805 annar tveggja eigenda jarðarinnar.[108] Hér verður ekki ráðist í að fjalla um eigendur Vífilsmýra á 19. öld, enda munu þeir hafa verið býsna margir og skikinn sem sumir þeirra áttu í jörðinni smár. Þess skal þó getið að við lok 19. aldar áttu jörðina þrír menn, þeir Torfi Halldórsson, kaupmaður og útgerðarmaður á Flateyri, Guðmundur Á. Eiríksson, bóndi og hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, og Sigurður Jónsson.[109]

Fyrsti bóndinn sem bjó á Vífilsmýrum og þekktur er með nafni hét Sigurður Þórðarson.[110] Hann bjó hér á fyrri hluta 15. aldar og var landseti Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum.[111] Um Sigurð þennan er fátt vitað en Kolbeinn sonur hans segir í vitnisburðarbréfi frá árinu 1474 að faðir sinn, Sigurður Þórðarson, hafi búið á Vífilsmýrum.[112] Í vitnisburðarbréfinu greinir Kolbeinn frá því að maður að nafni Hallur Magnússon, sem síðar bjó á Hesti (sjá hér Hestur), hafi orðið að standa upp af jörðinni Ytri-Hjarðardal fyrir Guðmundi Arasyni og hafi Hallur þá komið að Vífilsmýrum.[113] Við þá frásögn bætir Kolbeinn Sigurðsson þessum orðum: Bjó minn faðir þar, Sigurður Þórðarson, og skipaði mér að reiða hann upp á Álftafjarðarheiði.[114] Um þennan fyrsta bónda á Vífilsmýrum er því miður engin vitneskja í boði umfram það sem hér hefur verið sagt.

Árið 1681 var þríbýli á Vífilsmýrum[115] og svo var einnig flest árin á 18. og 19. öld.[116] Dæmi má þó finna um fjórbýli á jörðinni, m.a. frá árinu 1753.[117] Árið 1870 áttu fjórar fjölskyldur heima á Vífilsmýrum en ein þeirra bjó við þurrt hús.[118] Á 18. og 19. öld virðist annars hafa verið mjög lítið um þurrabúðarfólk eða húsfólk á Vífilsmýrum en nefna má að árið 1890 er fyrrverandi bóndi á jörðinni, sem var hér enn heimilisfastur, sagður lifa á sjó og vera kominn í húsmennsku.[119] Hann var þá 57 ára ekkjumaður.[120]

Sá maður sem lengst virðist hafa búið á Vífilsmýrum á 18. öld hét Nikulás Nikulásson. Hann hafði hér 6 hundruð til ábúðar árið 1710[121] og er nefndur bóndi á Vífilsmýrum 1735, 1753 og 1762.[122] Árið 1762 er Nikulás þessi á Vífilsmýrum sagður 80 ára[123] og vegna hins háa aldurs verður að telja mjög líklegt að allt sé þetta sami maðurinn og hefur þá búið hér í meira en hálfa öld. Árið 1753 tíundaði Nikulás á Vífilsmýrum 9 lausafjárhundruð en hinir bændurnir þrír sem þá bjuggu hér líka tíunduðu aðeins 8 og hálft lausafjárhundrað allir til samans.[124] Þetta sýnir að þegar hér var komið sögu hefur Nikulás verið betur stæður en meginþorri bænda í Önundarfirði. Um ætt hans og niðja mætti hafa uppi ýmsar getgátur en sannanir vantar. Árið 1703 var hann 21 árs gamall vinnumaður á Þorfinnsstöðum[125] og gæti sem best verið sonur Nikulásar Bjarnasonar og Gunnfríðar Brynjólfsdóttur er þá bjuggu í Minna-Garði í Dýrafirði (sjá hér Minni-Garður). Þess má svo geta að árið 1762 var Ólafur Nikulásson einn þriggja bænda á Vífilsmýrum, þá 51 árs gamall, og hafði einnig búið hér árið 1753.[126] Hugsanlegt er að Ólafur hafi verið sonur Nikulásar Nikulássonar.

Árið 1801 var Gísli Oddsson einn þriggja bænda á Vífilsmýrum,[127] sonur Odds Gíslasonar frá Kirkjubóli í Korpudal sem síðast bjó í Tungu í Firði og andaðist þar árið 1791.[128] Hér hefur áður verið rökstudd sú tilgáta að Gísli Jónsson, sem keypti nokkur hundruð í Vífilsmýrum árið 1747, muni hafa verið Gísli Jónsson á Kirkjubóli í Korpudal, afi Gísla Oddssonar, og fullvíst er að Gísli Oddsson var annar tveggja eigenda Vífilsmýra árið 1805 (sjá hér bls. 9-10). Í manntalinu frá 1801 er Gísli á Vífilsmýrum sagður 29 ára gamall en Maren Guðmundsdóttir, kona hans, 31 árs.[129] Á Vífilsmýrum bjuggu þau aðeins í fáein ár en áður í Tungu og í Ytri-Hjarðardal og síðar Mosdal, á Sæbóli á Ingjaldssandi og í Meira-Garði í Dýrafirði og er ýmislegt frá þeim sagt annars staðar í þessu riti (sjá hér Tunga í Firði, Mosdalur, Sæból og Meiri-Garður).

Sambýlismenn Gísla Oddssonar á Vífilsmýrum árið 1801 voru Jón Sigurðsson hreppstjóri og Magnús Oddsson.[130] Jón hreppstjóri var þá 42ja ára en Járngerður Bjarnadóttir, kona hans, 66 ára og var Jón seinni maður hennar.[131] Magnús Oddsson, bóndi á Vífilsmýrum, var 77 ára gamall árið 1801[132] og hafði þá verið blindur í nokkur ár.[133] Hann var kvæntur Guðnýju Björnsdóttur, sem árið 1801 var talin 81 árs gömul[134], en hún var seinni kona Magnúsar og móðuramma Gísla Oddssonar sem þá var líka farinn að búa á Vífilsmýrum.[135] Hjá Magnúsi og Guðnýju voru tveir bræður Gísla Oddssonar í vinnumennsku árið 1801, Sveinn, sem þá var 22ja ára, og Páll sem var einu ári yngri.[136]

Árið 1811 var Gísli Oddsson farinn frá Vífilsmýrum en þá var Sveinn bróðir hans orðinn bóndi á einum parti jarðarinnar.[137] Sveinn Oddsson á Vífilsmýrum var einn hinna mörgu sem týndu lífi í mannskaðanum mikla 6. maí 1812 þegar sjö bátar úr Önundarfirði fórust með allri áhöfn (sjá hér Mosvallahreppur inngangskafli). Þeir Sveinn á Vífilsmýrum og Sveinn Jónsson á Hesti áttu einn bátinn og fórust báðir með honum.[138] Þegar Sveinn Oddsson drukknaði var hann 32ja ára gamall en kona hans, Kristín Magnúsdóttir, var einu ári eldri, fædd 1778.[139] Í mannskaðanum mikla missti Kristín eiginmann sinn og tvo bræður, sem báðir hétu Jón, og bjó annar á Görðum en hinn á Eyri.[140] Vorið 1812 stóð hún uppi ekkja með þrjá syni á aldrinum tveggja til sex ára.[141]

Þegar Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður kom að Vífilsmýrum til að skrifa upp dánarbúið og meta eigur hins látna til fjár mun hinni ungu ekkju hafa þótt hann nokkuð aðgangsharður, enda líklegt að sýslumaður hafi fáu viljað sleppa við uppskriftina. Sagan segir að þegar sýslumaður var að búast til brottferðar hafi Kristín dregið kopp undan rúmi sínu, sett í hann giftingarhringinn og rétt að sýslumanni með þeim orðum að þessu skyldi hann ekki gleyma.[142]

Lítið mun hafa verið um mat á Vífilsmýrum fyrstu vikurnar eftir hinn mikla mannskaða því séra Þorvaldur í Holti segir konu eina hafa dáið þar úr hor og vesöld 13. júní 1812.[143] Kona þessi hét Guðríður Björnsdóttir og hafði fyrir skömmu flust búferlum úr Dýrafirði í Önundarfjörð.[144]

Kristín Magnúsdóttir, húsfreyja á Vífilsmýrum, sem missti eiginmann sinn og tvo bræður í sjóinn í mannskaðanum mikla, hélt áfram búskap og giftist í annað sinn haustið 1815.[145] Seinni maður Kristínar hét Indriði Jónsson og var um það bil tíu árum yngri en hún.[146] Árið 1816 bjuggu þau Kristín og Indriði enn á Vífilsmýrum en seinna fóru þau að Fremri-Breiðadal.[147] Þeirra sonur var Jón Indriðason, hreppstjóri á Kaldá (sjá hér Kaldá).

Margir bændanna sem bjuggu á Vífilsmýrum á 19. öld náðu ekki að gróa hér fastir og mjög fáir úr þeirra hópi stóðu hér fyrir búi í meira en tuttugu ár. Einn þeirra sem lengst bjuggu hér var Jóhannes Jónsson sem farinn var að búa á einum parti jarðarinnar árið 1838 og bjó fram yfir 1860.[148] Jóhannes var fæddur í Holti árið 1799, sonur vinnukonu þar.[149] Eiginkona Jóhannesar hét Guðrún Jónsdóttir og stóðu þau saman fyrir búi á Vífilsmýrum.[150] Annar tveggja sona Jóhannesar og Guðrúnar var Jens Jóhannesson sem árið 1860 bjó við hlið föður síns á Vífilsmýrum.[151] Kona Jens var Þorkatla Bjarnadóttir og bjuggu þau síðar í Tungu í Firði. Þeirra sonur var Hólmgeir Jensson dýralæknir (sjá hér Tunga í Firði og Þórustaðir). Annar sonur Jóhannesar Jónssonar á Vífilsmýrum var Jón Jóhannesson sem tók við búi af föður sínum á árunum milli 1860 og 1870. Jón kvæntist Guðmundínu Jónsdóttur árið 1866 og bjuggu þau á Vífilsmýrum fram yfir 1880.[152] Samanlagður búskapartími feðganna, Jóhannesar Jónssonar og Jóns Jóhannessonar, hér á Vífilsmýrum var því nær 50 ár. Árið 1890 var Jón Jóhannesson enn á Vífilsmýrum en þá var hann orðinn ekkjumaður og kominn í húsmennsku, 55 ára gamall.

Í hópi 19. aldar bænda, sem bjuggu á Vífilsmýrum í um eða yfir 20 ár, er að finna tvær ekkjur. Önnur þeirra er Gunnhildur Sigurðardóttir, sem hér hefur áður verið sagt frá, en hún hóf búskap á Vífilsmýrum á árunum milli 1845 og 1850 og bjó til 1868 (sjá hér Mosvellir). Nokkru áður en Gunnhildur hætti sínum búskap fór önnur merkileg ekkja að búa hér á parti úr Vífilsmýrum en það var Guðbjörg Bjarnadóttir sem hafði verið gift Friðriki J. Svendsen, áður kaupmanni og stórútgerðarmanni á Flateyri.

Guðbjörg fæddist á Brekku í Þingeyrarhreppi árið 1816, dóttir hjónanna Bjarna Torfasonar og Sesselju Þórðardóttir.[153] Foreldrar hennar voru bæði úr niðjahópi Mála-Snæbjarnar sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Sæból á Ingjaldssandi) því karlinn var afi Bjarna en langafi Sesselju.[154] Auk þess var Sesselja, móðir Guðbjargar, sonardóttir Ólafs Jónssonar, lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði, [155] sem lengi átti í mjög illvígum deilum við Snæbjörn.

Um 1840 gerðist Guðbjörg ráðskona hjá Friðriki J. Svendsen, kaupmanni á Flateyri, sem þá var að flestra dómi orðinn bilaður á geðsmunum (sjá hér Flateyri). Hin danska eiginkona kaupmannsins hafði þá dvalist í Danmörku í nokkur ár og kom aldrei aftur til Íslands.[156] Í manntali frá árinu 1845 er Guðbjörg nefnd bústýra agentsins en hún bjó þá með Svendsen á Flateyri og áttu þau þá þegar tvær dætur.[157] Sú eldri þeirra var fædd 4. mars 1842 og við fæðingu hennar er Guðbjörg nefnd ráðskona hjá barnsföður sínum.[158] Árið 1849 fæddist þriðja og síðasta barn Friðriks Svendsen og Guðbjargar og á því ári voru þau pússuð saman af presti.[159] Orðasveimur var þó á kreiki um að kaupmaðurinn hefði aldrei skilið við fyrri eiginkonu sína með lögmætum hætti.[160] Þegar hjónavígslan fór fram var Guðbjörg 33ja ára en brúðguminn 62ja.

Árið 1856 andaðist hinn fyrrverandi kaupmaður sem þá átti enn heima á Flateyri en hafði búið við skerta geðheilsu um langt skeið. Næstu árin var Guðbjörg um kyrrt á Flateyri og þar eignaðist hún dóttur árið 1858 með vinnumanni sem Björn Torfason hét.[161] Stúlkan var skírð nafni móður sinnar og lifði til 33ja ára aldurs.

Árið 1860 fluttist Guðbjörg frá Flateyri inn að Kaldá og fór að búa þar á jarðarparti. Öll börnin fylgdu móður sinni að Kaldá og líka Björn Torfason vinnumaður, faðir yngsta barnsins, en hann hafði þá verið á heimili Guðbjargar í 2 ár.[162] Vorið 1862 fluttust þau frá Kaldá að Vífilsmýrum og bjuggu hér næstu 24 árin.[163] Árið 1870 er Björn kallaður vinnumaður hjá Guðbjörgu[164] en tíu árum síðar er hann nefndur ráðsmaður.[165] Björn var átta árum yngri en Guðbjörg og fluttist úr Dýrafirði til Flateyrar árið 1858.[166] Eitthvað af fólki, sem lifði fram yfir 1920 og mundi eftir Guðbörgu, hélt því fram að hún hefði viljað giftast ráðsmanni sínum og barnsföður en séra Stefán P. Stephensen í Holti hefði neitað að gefa þau saman.[167] Sögunni fylgdi sú skýring að prestur hefði ekki mátt til þess hugsa að kaupmannsekkja yrði eiginkona múgamanns af lágu standi.[168] Er saga þessi um framgöngu Stefáns prests í giftingarmáli ekkjunnar á Vífilsmýrum kom fyrst á prent, að þeim báðum löngu látnum, var henni reyndar andmælt af ágætum frænda séra Stefáns. Sá benti á að þarna hlyti að vera um tilbúning að ræða því presturinn í Holti hefði ekkert vald haft til að synja um hjónavígsluna og mögulegt fyrir Björn og Guðbjörgu að leita til annars prests ef þeirra eigin sálusorgari hefði reynt að svipta þau lögbundnum réttindum með ofríki.[169] Ekki verður reynt að leggja dóm á þetta hér og verður svo hver að trúa því sem honum þykir líklegast eins og oft vill verða um efni í þjóðsögum.

Árið 1870 bjó Guöbjörg með 2 kýr, eina kvígu, 8 ær, 5 gemlinga og einn hest.[170] Bú hennar var þá álíka stórt og hinna tveggja bændanna á sömu jörð.[171] Í búnaðarskýrslu frá árinu 1870 sést aðeins eitt merki um að Guðbjörg á Vífilsmýrum hafi verið betur sett en almennt var um hina fátækari bændur í hreppnum og það er að hún átti bát, sexæring eða fjögra manna far, en flestir hinna áttu bara hálfan bát eða þaðan af minni skipakost.[172]

Árið 1880 hafði bú Guðbjargar vaxið nokkuð og var hún þá með 3 kýr, 15 ær, 12 gemlinga, 1 hest og 1 tryppi.[173] Þá var hún hins vegar orðin bátlaus og ekki átti hún kálgarð.[174] Þegar hér var komið sögu var hin fyrrverandi kaupmannsfrú á Vífilsmýrum orðin nær hálfsjötug og vorið 1886 gafst hún upp á búskapnum og gerðist vinnuhjú hjá Arngrími Jónssyni Vídalín í Ytri-Hjarðardal.[175] Þá var hún sjötug að aldri. Björn Torfason, ráðsmaður Guðbjargar, fylgdi henni að Hjarðardal og þar dóu þau bæði, hann 1887 en hún 1898.[176]

Á búskaparárum Guðbjargar Bjarnadóttur á Vífilsmýrum var hér jafnan þríbýli. Samtíða henni bjuggu lengst á jörðinni þeir Jón Jóhannesson og Sveinn Jónsson. Um Jón hefur áður verið getið (sjá hér bls. 13) en Sveinn var sonarsonur Sveins Jónssonar á Hesti sem drukknaði með Sveini Oddssyni á Vífilsmýrum vorið 1812 (sjá hér bls.12). Sveinn fæddist á Innri-Veðrará árið 1834, sonur hjónanna Jóns Sveinssonar og Dagbjartar Filippusdóttur.[177] Árið 1858 gekk Sveinn að eiga Kristínu Þórarinsdóttur sem fæddist að Látrum í Mjóafirði árið 1840.[178] Móðir hennar, sem líka hét Kristín Þórarinsdóttir, skildi við eiginmann sinn, Þórarinn Sigurðsson á Látrum, og fluttist til Önundarfjarðar með sex af níu börnum þeirra hjóna árið 1853 (sjá hér Innri-Hjarðardalur). Kristín Þórarinsdóttir eldri bjó svo í Súgandafirði frá 1858 til dauðadags árið 1883 (sjá hér Staður í Súgandafirði) og þar voru Sveinn Jónsson og Kristín, dóttir hennar, gefin saman haustið 1858.[179] Fyrsta hjúskaparárið voru þau í Botni í Súgandafirði en fóru að búa í Innri-Hjarðardal vorið 1860[180] og þaðan fluttust þau að Vífilsmýrum 1867 eða 1868.[181] Þau Sveinn og Kristín bjuggu á Vífilsmýrum til 1896[182] eða hátt í 30 ár. Þau voru barnmörg, eignuðust 14 börn á árunum 1858-1884, og af þeim náðu 10 fullorðinsaldri.[183] Í baðstofu Sveins og Kristínar á Vífilsmýrum mun bekkurinn því oft hafa verið þétt setinn og má sem dæmi nefna að árið 1880 voru 9 börn þeirra þar heima, öll innan við tvítugt.[184] Bústofn hjónanna var þá 3 kýr, 12 ær með lömbum, 10 gemlingar og einn hestur.[185] Þó bústofninn væri lítill en börnin mörg náðu þau að bjargast af í harðindunum miklu á árunum upp úr 1880. Frá Vífilsmýrum fóru þau Sveinn og Kristín að Tungu í Firði til Jóns sonar síns sem þar bjó.[186] Þar voru þau 1901 og þá er Sveinn sagður vera leigjandi.[187] Seinna fylgdu þau Jóni, syni sínum, og fjölskyldu hans að Innri-Veðrará og þar dó Kristín sumarið 1912 en Sveinn dó á Flateyri í desember á sama ári.[188]

Að lokum er vert að minna hér á einn af síðustu 19. aldar bændunum á Vífilsmýrum, Þorvald Þorvaldsson, en hann fluttist hingað þegar Sveinn Jónsson hætti búskap vorið 1896. Þorvaldur og kona hans, Kristín H. Halldórsdóttir, komu að Vífilsmýrum frá Hólum í Þingeyrarhreppi.[189] Þorvaldur var fæddur árið 1857 í Gufudalssveit en Kristín kona hans, sem var 14 árum yngri, var úr Önundarfirði, dótturdóttir Jóns Sigurðssonar, hreppstjóra á Kirkjubóli í Korpudal.[190] Þau Kristín og Þorvaldur bjuggu á Vífilsmýrum í 13 ár, frá 1896-1909 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 366) en síðan á Efstabóli fram yfir 1920. Á árunum kringum 1890 var Þorvaldur nokkur sumur við sprökuveiðar hjá Ameríkönum á Vestfjarðamiðum og segir skemmtilega frá þeirri lífsreynslu í fyrsta hefti ritsins Frá ystu nesjum.[191] Líklega hafa fáir sem búið hafa á Vífilsmýrum náð hærri aldri en Þorvaldur því hann skorti aðeins einn mánuð í 97 ár þegar hann safnaðist til feðra sinna á baráttudegi verkalýðsins vorið 1954.[192]

Jarðarparturinn, sem Þorvaldur og Kristín fengu til ábúðar á Vífilsmýrum vorið 1896, var 6 hundruð.[193] Baðstofan, sem fylgdi þessum parti jarðarinnar, var þá 8 x 5 álnir,[194] það er tæplega 16 fermetrar. Alþiljað loft var í baðstofunni og lá stigi upp þangað.[195] Á baðstofuloftinu voru 4 rúm og 3 gluggar en einn gluggi var niðri.[196] Eldhúsið, sem Kristín H. Halldórsdóttir fékk til umráða á Vífilsmýrum, var 4 x 4 álnir[197] eða liðlega 6 fermetrar en ekki er getið um búr og aðrar vistarverur voru engar nema gripahús.[198]

Árið 1920 var enn búið í torfbæjum á Vífilsmýrum. Baðstofurnar voru þrjár[199] og má ætla að svo hafi lengi verið því oftast var hér þríbýli. Allar voru þessar baðstofur af svipaðri stærð, 8 x 5, 9 x 5 og 9 x 5 ½ álin.[200] Mælt í metrum hafa þær verið 15 til 20 fermetrar hver eða álíka og eitt sæmilegt herbergi ef nota á mælikvarða nútímans. Við eina baðstofuna var reyndar kominn skúr, nær 8 fermetrar að flatarmáli,[201] sem var góð viðbót. Í þessari nýju vistarveru hefur efalaust verið sofið. Fleiri voru herbergin hins vegar ekki ef frá eru talin búr og eldhús.[202]

Í Fasteignabók frá árinu 1932 eru bæirnir þrír á Vífilsmýrum nefndir ysti bær, miðbær og innsti bær[203] en Brynhildur Jónsdóttir, sem fædd er árið 1935 og ólst upp á Vífilsmýrum, segir að á hennar uppvaxtarárum hafi bæirnir ætíð verið nefndir ytri bær, efri bær og fremri bær.[204]

Ytri bær stóð á hólbala fyrir innan og ofan fjósið sem byggt var um eða upp úr 1980.[205] Skammt frá fjósinu stendur íbúðarhús úr steinsteypu sem byggt var um 1953 og enn hangir uppi þó langt sé síðan það var notað til íbúðar.[206] Vegalengdin frá síðastnefnda húsinu að gamla bæjarstæðinu er 50-100 metrar og stóð bærinn utantil á áðurnefndum hólbala.[207]

Efri bær stóð innst  (fremst) á þessum sama hólbala[208] sem er býsna stór og nokkurn veginn sléttur. Lægðin sem var á milli ytri bæjar og efri bæjar hvarf að heita má þegar sléttað var[209] og engar tóttir sjást hér nú.

Fremri bær stóð svo á öðrum hól nokkru innar (framar) í túninu en í svipaðri hæð.[210] Innantil við þann hól eru nú tóttir af hlöðu og fjárhúsi og ofantil á honum eru tvær samliggjandi tóttir, önnur þeirra af skemmu.[211] Fyrir ofan skemmutóttina mótar fyrir kálgarði.[212] Allir stóðu þessir bæir talsvert langt fyrir utan íbúðarhúsið sem nú (1994) er búið í hér á Víflsmýrum.

Um 1940 voru hér fjögur heimili. Auk bændanna, sem bjuggu í áðurnefndum þremur bæjum, átti hér heimili kvæntur húsmaður sem bjó með fáeinar kindur (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 365) og stóð húsið, sem hann átti heima í, skammt fyrir innan og neðan efri bæ sem áður var nefndur.[213] Í ritinu Firðir og fólk 1900-1999, sem út var gefið árið 1999, er efri bærinn nefndur Víflsmýrar I, fremri bærinn Vífilsmýrar II og ysti bærinn Vífilsmýrar III.

Um 1930 átti bóndinn í fremri bæ jarðarpartinn sem hann bjó á[214] en hinir bændurnir voru þá leiguliðar. Eins og áður var getið er bær þessi nefndur innsti bær í Fasteignabókinni frá 1932 og þar er hann sagður vera að mestu úr torfi en að einhverju leyti úr öðru byggingarefni. Líklega hefur timburskúrinn, sem áður var nefndur (sjá hér bls. 16) og búið var að reisa um 1920, staðið við þennan bæ því báðir hinir bæirnir á Vífilsmýrum eru flokkaðir sem torfbæir án nokkurs fyrirvara í Fasteignabókinni frá 1932.[215]

Um Guðmund Jóhannesson, sem bjó í fremri bænum á Vífilsmýrum á árunum 1911-1924 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 366), segir Snorri Sigfússon skólastjóri að hann hafi jafnan verið vel til fara og kunnað að sletta útlendum orðum svo sem bavian og delerant.[216] Fyrr á árum hafði Guðmundur verið vinnumaður hjá séra Stefáni P. Stephensen í Holti[217] og kynni að hafa lært orðbragðið hjá presti.

Um Vífilsmýrar verður þetta að nægja því nú er mál að halda að Hóli. Vegalengd milli bæjanna er liðlega einn kílómetri og stefnan í suðaustur.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 93.

[2] Sama heimild.

[3] Guðjón Guðmundsson / Freyr 1907, bls. 44.

[4] Sama heimild.

[5] Óskar Einarsson 1951, 97.

[6] Sama heimild, 102.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild

[13] Ingimundur Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994. Brynh. Jónsd. – Viðt. K.Ó. v.h. 27.6.1994.

[14] Brynhildur Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 27.6.1994.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Óskar Ein. 1951, 102.

[18] Brynhildur Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 27.6.1994.

[19] Óskar Ein. 1951, 102.

[20] Sama heimild.

[21] Snorri Sigfússon 1969, 130.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 109-110.

[26] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[27] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 150-161. Gjörðabók

fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 73.

[28] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 159-161. Gjörðabók

fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 73.

[29] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 159-161. Gjörðabók

fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 73..

[30] Sömu heimildir.

[31] Jarðab. Á. og P. VII, 109.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] J. Johnsen 1847, 195.

[35] Sama heimild.

[36] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 73.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Skýrslur um landshagi I, 238-239 (Kph. 1858).

[40] D.I. IV, 141-142.

[41] Sóknalýs. Vestfj. II, 107.

[42] D.I. IV, 141-142.

[43] Jarðab. Á. og P. VII, 107, sbr. D.I. IV, 141-142.

[44] D.I. IV, 278-279, D.I. VIII, 339 og D.I. IX, 55.

[45] D.I. IV, 278-279, D.I. VIII, 339 og D.I. IX, 55.

[46] D.I. IV, 688.

[47] Sama heimild.

[48] Jarðab. Á. og P. VII 109. Sóknalýs. Vestfj. II, 102.  J. Johnsen 1847, 195.

[49] J. Johnsen 1847, 195.

[50] D.I. VII, 387-388.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Íslenskar æviskrár I, 266-268.

[54] D.I. XIV, 432.

[55] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 178-179.

[56] Sama heimild. Sbr. Jarðabók Á. og P. XIII, 287.

[57] Jarðab. Á. og P. VII, 109, 111, 117 og 122. Ísl. æviskrár I, 251.

[58] Ísl. æviskrár I, 251.

[59] Ísl. æviskrár III, 315.

[60] Jarðab. Á. og P. VIII, 109, 111, 117 og 122.

[61] Ísl. æviskrár IV, 105.

[62] Sama heimild IV, 105 og 311 og I, 248.

[63] Sömu heimildir.

[64] Ísl. æviskrár IV, 105. Lögréttumannatal, bls. 429.

[65] Ísl. æviskrár I, 251 og IV, 105.

[66] Sömu heimildir.

[67] Alþingisbækur Íslands IX, 547.

[68] Ísl. æviskrár I, 251.

[69] Alþ.bækur Ísl. IX, 547.

[70] Ísl. æviskrár I, 251.

[71] Sama heimild. Sbr. Þorkell Jóhannesson 1943, 443-444.

[72] Alþ.bækur Ísl. IX, 547.

[73] Alþ.bækur Ísl. IX, 547.

[74] Ísl. æviskrár I, 251 og IV, 105.

[75] Sama heimild.

[76] Alþ.bækur Ísl. XIII, 58. Ísl. æviskrár II, 247-248.

[77] Alþ.bækur Ísl. XIII, 58.

[78] Sama heimild.

[79] Sama heimild.

[80] Sama heimild.

[81] Jón J. Aðils 1971, 419-420.

[82] Alþ.bækur Ísl. XIV, 83.

[83] Alþ.bækur Ísl. XIV, 83.

[84] Alþ.bækur Ísl. XIII, 472.

[85] Alþ.bækur Ísl. XV, 370, 437 og 660.  Sbr. Ísl. æviskrár IV, 61.

[86] Alþ.bækur Ísl. XIV, 83.

[87] Alþ.bækur Ísl. XIII, 472.

[88] Alþ.bækur Ísl. XIV, 83.

[89] Þorkell Jóhannesson 1943, 341.  Íslenskir annálar III, 619.

[90] Þorkell Jóhannesson 1943, 346.

[91] Ísl. æviskrár IV, 61.

[92] Manntal 1762.

[93] Ísl. æviskrár IV, 72-73.

[94] Ísl. æviskrár IV, 72-73.

[95] Alþ.bækur Ísl. XV, 370.

[96] Sama heimild, 437 og 660.  Ísl. æviskrár IV, 61.

[97] Sama heimild.

[98] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[99] Vestfirskar ættir I, 55.

[100] Sama heimild.

[101] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[102] Jarðabók Á. og P.  VII, 109 og XIII, 287. Sbr. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph 1993), bls. 178-179.

[103] Alþ.bækur Ísl. XIII, 403-404.

[104] Sama heimild.

[105] Manntal 1762.

[106] Sbr. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Manntal 1801, vesturamt, bls. 294-295. Manntal 1816, 688 og 691.

[107] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1801.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[108] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[109] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[110] D.I. V, 730.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[116] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 109. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla 1735.

Manntöl 1762, 1801, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901.

[117] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafjarðarsýsla 1753.

[118] Manntal 1870.

[119] Manntal 1890.

[120] Sama heimild.

[121] Jarðab. Á. og P. VII, 109.

[122] Bændatöl- og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.s. 1735. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.s. 1753. Manntal 1762.

[123] Manntal 1762.

[124] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[125] Manntal 1703.

[126] Manntal 1762. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[127] Manntal 1801.

[128] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Sbr. Guðmundur G. Hagalín 1951, 7.

[129] Manntal 1801.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Sama heimild.

[133] Ól. Þ. Kr. 1949, 89 og 93 (Frá ystu nesjum V).

[134] Manntal 1801.

[135] Ól. Þ. Kr. 1949, 89 og 93 (Frá ystu nesjum V).

[136] Manntal 1801. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[137] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[138] Eyjólfur Jónsson 1967, 12.

[139] Sama heimild, 12 og 66.  Ól. Þ. Kr. 1949, 92.

[140] Ól. Þ. Kr. 1949, 92.

[141] Sama heimild, 92-95. Manntal 1816, bls. 692.

[142] Eyjólfur Jónsson 1979, 87-89 (Ársrit S. Í.).

[143] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[144] Sama heimild.

[145] Sama heimild.

[146] Sama heimild.

[147] Sama heimild.

[148] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Manntöl 1840, 1845, 1850, 1855 og 1860.

[149] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[150] Sama heimild.

[151] Sama heimild. Manntal 1860.

[152] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[153] Sama heimild.

[154] Sama heimild. Ísl. æviskrár V, 109.

[155] Sömu heimildir.

[156] Gils Guðmundsson 1977, 113 (Skútuöldin I).

[157] Manntal 1845.

[158] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[159] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[160] Gils Guðm. 1977, 113-114 (Skútuöldin I).

[161] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[162] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[163] Sama heimild.

[164] Manntal 1870.

[165] Manntal 1880.

[166] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[167] Frá ystu nesjum II, 100-101.

[168] Sama heimild.

[169] Séra Þorvaldur Jakobsson 1948, 104 (Selskinna I).

[170] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[171] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[172] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[173] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[174] Sama heimild.

[175] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[176] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[177] Eyjóldur Jónsson 1967, 15-16.

[178] Sama heimild.

[179] Sama heimild.

[180] Sama heimild.

[181] Sama heimild, 16, 24 og 26.

[182] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[183] Eyjólfur Jónsson 1967, 16-49.

[184] Manntal 1880.

[185] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[186] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[187] Manntal 1901.

[188] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[189] Sama heimild.

[190] Vestf. ættir II, 490-491.

[191] Frá ystu nesjum I, 122-141.

[192] Vestf. ættir II, 491.

[193] Skj.s. sýslum og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 94.

[194] Sama heimild.

[195] Sama heimild.

[196] Sama heimild.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild.

[199] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 159-161.

[200] Sama heimild.

[201] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 159-161.

[202] Sama heimild.

[203] Fasteignabók 1932.

[204] Brynhildur Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 27.6.1994.

[205] Sama heimild.

[206] Brynhildur Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 27.6.1994.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Sama heimild.

[212] Sama heimild.

[213] Sama heimild.

[214] Fasteignabók 1932.

[215] Fasteignabók 1932.

[216] Snorri Sigfússon 1969, 112-113.

[217] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »