Vindheimar og Kvígindisfell

  Vindheimar og Kvígindisfell

Frá kirkjugarðsveggnum í Stóra-Laugardal er varla nema hálftíma gangur út að Kvígindisfelli og enn skemmra að eyðibýlinu Vindheimum, rétt innan við Fell. Akvegurinn liggur út sjávarbakkana og nær að Sellátrum sem eru um fimm kílómetrum fyrir utan Laugardal. En hér má líka ganga um grónar grundir og vaða yfir Fagradalsá. Í henni var áður talin nokkur silungsveiði.[1] Áin skilur nú að lönd Stóra-Laugardals og Kvígindisfells því eyðijörðin Vindheimar hefur verið lögð undir Fell.[2]

Vindheimabærinn er horfinn en auðvelt er að finna bæjarstæðið því þar stendur nú steinn sem er minnismerki um fólkið sem þar ól aldur sinn. Nærri lætur að Vindheimabærinn hafi verið miðja vega milli Fagradalsár og bæjarins á Kvígindisfelli en frá brúnni á ánni er aðeins tæplega einn kílómetri út að Felli. Vindheimar voru ekki forn bújörð heldur afbýli frá Felli, reist á átjándu öld og taldist vera þriðjungur úr jörðinni, það er 10 hundruð.[3] Nafnið finnst hvorki í manntalinu 1703 né í Jarðabókinni frá 1710[4]  en staðfest er að byggð hófst á Vindheimum eigi síðar en árið 1762.[5]

Hér á Vindheimum bjó Jón bóndasonur frá Suðureyri í Tálknafirði sem strauk með hollenskum undan réttvísinni frá konu og börnum sumarið 1798 er Halldóra, systurdóttir hans, var orðin barnshafandi af hans völdum. Öll er sú saga rakin hér á öðrum stað (sjá Suðureyri). Þessi sama Halldóra Guðmundsdóttir átti hins vegar eftir að láta allmjög til sín taka hér í sveit er hún um langa hríð var auðug húsfreyja á Kvígindisfelli og brátt mun sagt verða frá. Frá Vindheimum fór Ólafur, bróðir Halldóru, til Hollands um tvítugsaldur og settist þar að. Líklega hefur hann farið með Jóni bóndasyni, móðurbróður sínum og fóstra, sumarið 1798 en nokkrum árum fyrr hafði faðir þeirra Ólafs og Halldóru strokið frá Suðureyri og sest að í Hollandi (sjá hér Suðureyri).

Síðar kom Ólafur Guðmundsson að sögn árlega á Tálknafjörð sem skipstjóri á hollenskri duggu (sjá hér bls. 6 og Suðureyri, bls. 9-10 þar). Líklega hefur hann þá heimsótt systur sína á Felli og gengið um garða á Vindheimum þar sem hann hafði alist upp frá átta eða níu ára aldri.

Helga Gunnlaugsdóttir, kona Jóns bóndasonar, hélt áfram búskap á Vindheimum eftir brotthlaup eiginmanns síns til Hollands (sjá hér Suðureyri). Nafn jarðarinnar sést að vísu ekki í manntalinu frá 1801 en þar er Helga sögð standa fyrir búi á 5. býlinu á Kvígindisfelli[6] og þarf vart að efa að það býli hafi verið Vindheimar. Staðfest er að búið var á Vindheimum 15 árum síðar en árið 1845 lá kotið í eyði[7] og hefur þá verið nytjað frá Felli. Séra Benedikt Þórðarson segir árið 1873 að Vindheimar séu hjáleiga frá Kvígindisfelli og bætir við: Nú er hún byggð en stundum hefur hún verið óbyggð.[8] Árið 1880 lágu Vindheimar í eyði og líka 1890 en árið 1901 var fólk sest hér að á ný og búið var á jörðinni fram yfir 1940.[9]  Sagt er að þar sem Vindheimabærinn stóð hafi áður verið stöðull frá Kvígindisfelli[10]  og má ætla að þá sé vísað til áranna skömmu fyrir upphaf seinasta búsetuskeiðsins á Vindheimum.

Á fyrri hluta 20. aldar bjuggu hér lengi hjónin Ólafur Kolbeinsson og Jóna S. Gísladóttir. Að sögn Hallbjarnar Oddssonar eignuðust þau 19 börn og náðu að koma flestum þeirra upp.[11]  Samt var Ólafur oft óvinnufær vegna berkla í fæti.[12] Við minnismerkið á Vindheimum er gott að eiga hljóða stund. Svo göngum við í hlað á Felli.

Kvígindisfell í Tálknafirði þótti löngum góð bújörð og nú hin síðari ár (ritað 1988) er það eina jörðin í sveitinni þar sem fólk byggir afkomu sína að mestu á landbúnaði. Hér var öldum saman þingstaður hreppsins en Árni Magnússon segir árið 1710 að áður hafi hann verið í Stóra-Laugardal.[13] Í Alþingisbókunum frá Öxarárþingi má sjá að þingstaður Tálknfirðinga muni hafa verið færður frá Stóra-Laugardal hingað að Felli á árunum 1686-1702.[14]

Rétt utan við túnið á Kvígindisfelli rennur lítil á eða lækur sem Stegla heitir. Lækur þessi kemur úr þröngum smádal út og upp frá bænum og heitir dalurinn Stegludalur.[15] Annar lækur fellur í Steglu úr Kambsgili sem er utar. Fellið milli þessara lækja heitir Kvígindisfell og dregur jörðin nafn sitt af því.[16]

Ólafur Kolbeinsson, sem bjó á Vindheimum á fyrri hluta 20. aldar, hafði þá skýringu á nafninu að kvíga hefði týnst að hausti og gengið úti vetrarlangt í hlíðum fellsins meðan land var enn viði vaxið milli fjalls og fjöru.[17]

Kvígindisfell í Tálknafirði er nefnt í Gísla sögu Súrssonar. Segir þar að Ásgerður kona Þorkels Súrssonar, bróður Gísla, hafi verið dóttir Þorbjarnar er bjó á Kvígindisfelli og kallaður var selagnúpur.[18] Ekki er Þorbjörn þessi nefndur víðar í fornritum en athygli vekur að hann ber sama nafn og þeir félagar úr Landnámu sem þar eru sagðir landnámsmenn í Tálknafirði og hálfum Patreksfirði, Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúma (sjá hér Tálknafjarðarhreppur). Þessir þrír Þorbirnir ásamt Þórdísi, konu Þorbjarnar selagnúps, og Ásgerði dóttur þeirra, eru eina fólkið tengt Tálknafirði sem nefnt er í fornum ritum uns Þórður tiggi sest að í Laugardal vorið 1241 (sjá hér Litli- og Stóri-Laugardalur).

Árið 1710 var tvíbýli á Kvígindisfelli og að auk voru þá tvær hjáleigur í byggð í landi jarðarinnar, Fjós og Traðir.[19] Hjáleigan Fjós stóð á gömlu fjósstæði í heimatúninu og hafði byggst fyrst upp úr miðri 17. öld. Traðir voru líka í heimatúninu en þar hafði byggð hafist um 1695 þar sem áður stóð lambhús.[20] Athuganir benda til þess að á Tröðum hafi síðast verið búið um aldamótin 1800 en Fjós fallið úr byggð fyrir 1762.[21] Um hjáleiguna Vindheima var rætt hér litlu framar (sjá bls. 1-2).

Í Jarðabók Árna og Páls er þess getið að á Kvígindisfelli sé góð lending og heimræði sumar og haust og fram á vetur. Héðan hafði árið 1710 einnig verið róið úr heimavör á vorvertíð um nokkurra ára skeið þó að þá sé langræði í meira lagi.[22] Gengu þá ýmist eitt eða tvö skip heimamanna frá Kvígindisfelli.[23] Um 1870 var aðeins haldið uppi haustróðrum úr heimavör hér á Felli.[24]

Um aldamótin 1900 stóð bærinn á sama hól og íbúðarhúsið sem nú er búið í (1988) en hann var þó um það bil 30 metrum innar.[25] Í þeim bæ var búið til ársins 1938 og síðasta húsfreyjan þar, Þórhalla Oddsdóttir, sagði börnum sínum að bærinn hafi verið orðinn a.m.k. 80 ára gamall þegar úr honum var flutt í nýja íbúðarhúsið sem enn gegnir sínu hlutverki.[26] Talið er að enn fyrr hafi bærinn staðið á Langhól sem er innar og ofar í túninu.[27]  Hann er um það bil miðja vega milli bæjarins á Felli og minnismerkisins sem sýnir hvar Vindheimabærinn stóð en talsvert ofar eins og fyrr var nefnt.[28] Hóllinn er auðfundinn því hann er langur eins og nafnið bendir til en mjög skammt frá er annar hóll, nær kringlóttur að lögun.[29] Áður en ráðist var í að slétta túnið gaf að líta miklar rústir á Langhól og öskuhauga þar í grennd.[30]

Neðan við yngri bæinn, þann sem búið var í til 1938 og hér var áður nefndur, stóð þinghúsið[31]  og neðan við það var Þinghúsflöt.[32] Innan við bæinn og nokkru ofar en þinghúsið var mjög stór hlaðin girðing sem ætluð var hrossum þeirra er hingað sóttu til þings.[33] Fastur þingstaður Tálknfirðinga var hér á Felli frá því um 1700 eins og fyrr var nefnt (sjá hér bls.2) og  fram um aldamót 1900.[34] Vel má vera að hér hafi einnig verið þingað fyrir 1700[35]  en engin ótvíræð vitneskja liggur fyrir um það. Dæmi finnst hins vegar um þinghald í Stór-Laugardal árið 1686 (sjá hér bls. 2).

Fjallið ofan við túnið á Felli og utan við Fagradal heitir Bæjarfell.[36] Dalurinn er langur og grösugur. Um hann fellur Fagradalsá og á Kvígindisfell allt land sín megin við hana. Um Fagradal lá þjóðbraut gangandi og ríðandi fólks frá Stóra-Laugardal eða Kvígindisfelli yfir í Fífustaðadal (Kolmúladal) í Arnarfirði. Á Vatnaskilum liggur gatan forna í um 570 metra hæð en fyrsti bær norðan fjallvegarins var Öskubrekka. Leiðin byggða á milli, frá Kvígindisfelli að Öskubrekku, er um það bil 13 kílómetrar.

Alllangt frammi í Fagradal og utan við ána hafði fólkið á Felli búsmala sinn í seli yfir hásumarið forðum tíð.[37] Heiman frá bænum er þriggja stundarfjórðunga gangur fram að seltóttunum, sé gengið nokkuð rösklega.[38] Þangað stefnum við nú en förum okkur hægt. Á þessari leið skiptast á hryggir og gil eins og víðar í fjallahlíðum. Fyrsti hryggurinn, sá sem er skemmst frá bænum, heitir Bæjarhryggur og flöt nokkru utan við hann Vorstöðull.[39] Næsti hryggur er Stekkjarhryggur en heiman við hann Gvendarbrunnur upp undir hlíðinni[40]  og mun sú uppsprettulind án efa kennd við Guðmund biskup góða Arason sem fór víða um Vestfirði skömmu fyrir biskupskjör sitt árið 1201 og vígði í þeirri ferð, að sögn,  bæði björg og brunna.[41]

Ofan við nýnefndan stekkjarhrygg er Stekkjarhryggjargil en neðan við hrygginn stór stakur steinn sem heitir Péturssteinn og er sagt að Pétur nokkur hafi orðið undir því bjargi er það kom úr fjallinu.[42] Framan við Stekkjarhrygg og alveg í dalsmynninu stendur enn gamall stekkur þó að langt sé um liðið síðan hætt var að stía lömbunum á Felli frá mæðrum sínum. Nokkru framar er gömul grjóthlaðin skilarétt og rétt framan við hana Hagahryggur.[43] Við hann sjást merki þess að fyrir langa löngu hefur garður verið hlaðinn þvert yfir dalinn. Fyrir framan Hagahrygg er Stórihryggur, beint á móti Múlaholti sem er handan ár, og upp af honum Stórahryggsgil.[44] Fyrsti hryggur fyrir framan Stórahrygg er Litlihryggur, þá Miðhryggur og síðan Seljahryggur.[45] Er þá komið í námunda við rústir selsins frá Felli sem áður var á minnst. Í hlíðinni framan við Seljahrygg eru tveir hjallar hér utan við ána. Seltóttirnar eru á neðri hjallanum[46]  en efri hjallinn heitir Seljahjalli.[47] Svo má heita að selið sé alveg á móts við ármótin þar sem þverá úr innri hlíð dalsins fellur í Fagradalsá.[48]

Í sóknarlýsingu séra Benedikts Þórðarsonar frá árinu 1873 segir að selið í Fagradal sé hið eina í prestakallinu, það er að segja í öllum Tálknafirði og Ketildölum, sem nýlega hafi verið notað.[49] Prestur greinir aðeins nánar frá þessu og ritar svo:

 

Hafði það [selið] lengi legið ónotað. Núverandi ábúandi á jörðinni byggði upp selið og notaði eitt sumar en hefur lagt það niður aftur því honum virtist það ekki svara kostnaði.[50]

 

Bóndi á Kvígindisfelli árið 1873, þegar sóknarlýsingin var skrifuð, var Árni Bjarnason en hann hóf búskap hér árið 1865.[51] Það hefur því verið á árunum 1865-1872 sem hann byggði upp selið á Fagradal. Ekki er kunnugt um seljabúskap í Tálknafirði síðar en þó má vera að ær hafi verið mjaltaðar í selinu á Fagradal eftir 1873 því að í örnefnaskrá Kvígindisfells er sagt að selið hafi verið í notkun fram undir aldamótin 1900.[52]

 

Allan fyrri hluta 19. aldar bjuggu á Kvígindisfelli hjónin Jón Þórðarson og Halldóra Guðmundsdóttir. Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Halldóru en hún var dótturdóttir Jóns bónda Jónssonar á Suðureyri í Tálknafirði og átti er hér var komið sögu föður sinn, bróður og móðurbróður úti í Hollandi en sá síðastnefndi var reyndar líka barnsfaðir hennar (sjá hér Suðureyri).

Halldóra var fædd 16. janúar 1777[53] en Jón, maður hennar, mun hafa verið árinu eldri.[54] Jón var bóndasonur frá Sellátrum í Tálknafirði og þar voru þau Halldóra gefin saman 22. júní aldamótaárið 1800.[55] Skömmu eftir brúðkaupið fluttust ungu hjónin að Kvígindisfelli og bjuggu hér síðan til æviloka. Jón andaðist árið 1849 og Halldóra 1858.[56]

Ingivaldur Nikulásson, fræðimaður á Bíldudal, sem fæddur var árið 1877, hefur ritað þátt um þau Fellshjónin, Jón og Halldóru, og segir þar frá ýmsu sem talað var um gerðir þeirra og háttalag. Hann ritar m.a. svo um hjón þessi:

 

Mælt er að þá er þau voru nýgift hafi þau verið svo snauð að þau hafi sofið á heydýnu og ekki átt annað til að hafa ofan á sér en síðhempu Halldóru. Leiddist Jóni örbirgð þessi mjög sem von var og einsetti sér að verða ríkur, hverjum meðölum sem hann þyrfti að beita. Á þeim tímum voru Hollendingar og Frakkar oft daglegir gestir á Tálknafirði á sumrum. Seldu Hollendingar ýmsan varning bæði kramvöru og fleira. Frakkar seldu veiðarfæri, salt, brauð og annað. Tóku þeir aftur prjónles, naut og sauði. Þótti flestum arðsamari verslun við Hollendinga og Frakka en danska kaupmenn.

Jón eignaðist fyrstu skildingana þannig að hann keypti höfuðkamb af Hollendingum fyrir vettlinga og seldi kambinn því næst fyrir nokkra skildinga. Tók hann nú að kaupa ýmsan varning hjá Hollendingum og seldi hann síðan aftur á vetrum við okurverði. Græddist honum brátt svo mikið fé að hann keypti hverja jörðina af annarri og einnig báta til þess að reka sjávarútveg. Var sem einhver ósjálfráð heppni elti Jón með allt, sem hann tók sér fyrir hendur. Bátar hans voru jafnan aflahæstir allra báta í veiðistöð, hverjir sem formenn þeirra voru, eins þótt það væru menn, er aldrei höfðu fengið bein úr sjó áður. Til dæmis um heppni Jóns má nefna að þegar hann keypti Hænuvík rak þar 500 marsvín á land á þriðja degi eftir að jörðin kom í eigu hans.

… Þau Jón og Halldóra hýstu vel bæ sinn á Felli. Þau reistu t.d. útistofu mikla og vandaða. Var hún alþiljuð og skreytt ýmsu erlendu skrauti, einkum hollensku því að þau hjónin höfðu mikla verslun við Hollendinga, er komu á Fellsbót daglega að kalla. Komu skipstjórar og aðrir skipverjar af skipum þessum heim að Felli og tók Halldóra þeim stórmannlega. Oft var Halldóra tímum saman úti á skipum og kvaðst hún ekki gera þar arðminni verslun en bóndi hennar.[57]

 

Þetta voru orð Ingivaldar. Í þætti sínum minnist hann ekki á brottflutning föður, bróður og móðurbróður Halldóru til Hollands og hefur máske ekki þekkt til þeirra mála. Í ljósi þess sem hér hefur áður verið dregið fram um brotthlaup allra þessara ættingja Halldóru til Hollands er hins vegar einkar athyglisvert að lesa frásögn Ingivaldar um samskipti þeirra Fellshjóna við Hollendinga. Reyndar er býsna líklegt að það hafi verið Ólafur, bróðir Halldóru, sem oftast kom á Fellsbót sem hollenskur skipstjóri (sjá hér Suðureyri í Tálknafirði, bls. 9-10 þar).

Útliti og skapgerð Jóns Þórðarsonar á Felli lýsir Ingivaldur svo:

 

Jóni er þannig lýst að hann hafi verið væskilmenni að burðum, fremur ófríður sýnum, ofsi í skapi og hinn mesti ójafnaðarmaður. Barði hann menn oft fyrir litlar eða engar sakir en beið þó jafnan lægri hlut við hvern sem hann átti í höggi. Sjálfsálit hans var takmarkalaust og grobbaði hann oft af ýmsum yfirburðum, er hann þóttist hafa yfir aðra, einkum kröftum. Reiddist hann jafnan væri hann ekki talinn með sterkum mönnum ef um aflraunir var rætt og var honum það ákaflega viðkvæmt mál.[58]

 

Til marks um þróttleysi Jóns bónda segir Ingivaldur þá sögu að eitt sinn hafi ein vinnukvenna á Felli slitið niður brækur hans og flengt hann svo um munaði við engjaheyskap frammi á Fagradal. Lauk viðskiptum þeirra svo að Jón greiddi stúlkunni heilan ríkisdal svo hún léti vera að segja Halldóru konu hans frá atvikinu. Kvað hann slíkum hjúum vera seint oflaunað en stúlkan hafði þá bundið ein mestallt heyið og lyft sátunum til klakks.[59]

Um Halldóru húsfreyju á Felli segir Ingivaldur að hún hafi verið í meðallagi há vexti en nokkuð gildvaxin, fríð sýnum og sköruleg. Harðlynd þótti hún mjög og sást lítt fyrir. Þó gat hún verið vinur vina sinna.[60]

Ingivaldur tekur fram að Jón Þórðarson á Felli hafi um tíma verið hreppstjóri og er það staðfest í manntalinu frá 1845.[61]

Sumar sögur Ingivaldar um Fellshjónin eru býsna ótrúlegar, enda biðst hann undan ábyrgð á sannleiksgildi þeirra. Hitt er vafalaust rétt að sögur þessar hafa gengið í munnmælum fyrstu áratugina eftir lát þeirra Fellshjóna og ýmsir lagt á þær trúnað. Sýnir það eitt nokkuð um aldarfarið. Samkvæmt munnmælasögum þessum átti Halldóra á Felli að hafa orðið nokkrum vinnumönnum sínum að bana með því að gefa þeim inn eitur. Ingivaldur Nikulásson minnist á þetta og segir:

 

Mjög sárnaði Halldóru ef vinnumenn hennar sögðu upp vistinni. Var altalað að þeir menn hefðu stundum orðið bráðkvaddir rétt fyrir vinnuhjúaskildaga og var Halldóru kennt um það. … Sagt er til dæmis að vinnupiltur einn, er Bjarni hét, hafi eitt sinn tekið eftir bláleitum vökva ofan á aski sínum er hann ætlaði að matast. Setti hann þá askinn fyrir smalahund sinn. En er hundurinn hafði sleikt nokkuð úr askinum datt hann dauður niður. Fór Bjarni samstundis úr vistinni. Mælt er að nokkrir menn yrðu þannig bráðkvaddir á Felli í búskapartíð Halldóru.[62]

 

Til sannindamerkis um þennan orðasveim lætur Ingivaldur fylgja tvær vísur úr gömlum brag:

 

Spakur Jón með spektarlund

spjallaði lítt um elli,

dapra hreppti dauðastund

í dyrunum þar á Felli.

 

Viljirðu forðast þunga þraut

og þráir góða elli,

þá borðaðu aldrei brenndan graut

úr búrinu á Felli.

 

Tekið skal fram að lausleg athugun á því sem skráð er um mannslát í Tálknafirði í prestsþjónustubækur frá fyrri hluta 19. aldar bendir ekki til þess að meira hafi verið um skyndidauða vinnuhjúa á Kvígindisfelli heldur en almennt gerðist.

Sumar sögurnar sem Ingivaldur skráir hefur hann eftir ömmu sinni, Guðríði Jónsdóttur, sem ólst upp í Ketildölum og kom með föður sínum í heimsókn að Felli upp úr 1830, þá um fermingaraldur. Guðríður hafði áður heyrt ýmsar misjafnar sögur frá Felli og þegar Halldóra húsfreyja bar fyrir hana franskt brauð, smjör, hangikjöt og mjólk þá þorði hún varla að narta í matinn. – Halldóra sat á rúminu andspænis Guðríði og mælti: Eta mátt þú óhrædd, stúlka mín. Ekki er borið í. Síðan leysti Halldóra ungu stúlkuna út með hollenskum piparkökum og fleira góðgæti.[63]

Ung hafði Halldóra á Felli sloppið naumlega frá réttvísinni er hún komst í að eignast barn með móðurbróður sínum, Jóni bóndasyni er forðaði sér til Hollands þremur mánuðum áður en barnið fæddist og kom aldrei aftur (sjá hér Suðureyri í Tálknafirði). Á efri árum hennar hefur ugglaust allvíða verið farið að fyrnast nokkuð yfir þessa gömlu sögu en aðrar gosið upp í staðinn og ein fjöður þá stundum orðið að tíu hænum. Tæplega verður dregið í efa að Halldóra á Felli hafi verið atgerviskona og framganga hennar líklega ekki alltaf hversdagsleg. Innan um sauðsvartan almúgann hefur hún skorið sig nokkuð úr og mörgum því orðið tíðrætt um frúna á Felli meðan hún enn var á dögum og einnig síðar.

Ein sagan um hana er svona:

 

Halldóra reyndi nokkrum sinnum að sækja kirkju að Stóra-Laugardal. En er hún kom að sáluhliðinu veiktist hún jafnan skyndilega svo að hún varð frá að hverfa og snúa heim. Þá er hún var komin heim á leið batnaði henni jafnskyndilega aftur og kenndi sér þá einskis meins. Var skoðun manna því sú að vinnumenn hennar, þeir er bráðkvaddir höfðu orðið á Felli, kæmu á móti henni í hliðinu og vörnuðu henni inngöngu.[64]

 

Að þessum erfiðleikum Halldóru við kirkjuferðir er einnig vikið þar sem sagt er frá heimsókn Jóhannesar Ólafssonar á Kirkjubóli í Mosdal að Felli. Er Jóhannes kom í hlaðið setur Halldóra báðar hendur við augu sér og virðir hann fyrir sér. – Er þetta Galdra-Jóhannes, segir hún nokkuð hvatlega. – Kallaður er ég svo af sumum en komist hef ég til kirkjunnar samt,” svaraði Arnfirðingurinn margvísi.[65] Vinátta tókst með þeim Jóhannesi og Halldóru og er það sumra sögn að hann fengi henni bjargrúnir, er hún skyldi bera á brjósti sér, og hafi hún eftir það getað sótt kirkju vandræðalaust.[66]

Brynjólfur Svenzon var sýslumaður í Barðastrandarsýslu frá 1847 til 1850. Hann var einhleypur maður og gekk í þingaferðum á rauðum frakka með korða sér við hlið.[67] Brynjólfur sýslumaður var um fimmtugt er hann kom vestur en þá var Halldóra á Felli sjötug að aldri. Skömmu síðar varð hún ekkja. Tókst brátt hin mesta vinátta með Halldóru og sýslumanni og töldu ýmsir að gömlu ekkjunni léki hugur á að fá sýslumanninn til ekta. Hún hafði áður kunnað tökin á sýslumönnum. Vegna drykkjuskapar og óráðsíu var hinn einhleypi valdsmaður jafnan í fjárþröng. Komst á kreik sú saga að einhverju sinni hafi Brynjólfur leitað til Halldóru í kröggum sínum og hafi hún þá fyllt sjóvettling af silfurpeningum og gefið honum.[68] Vel gæti þetta verið rétt en hitt ólíklegra, sem látið er fylgja með, að Brynjólfur hafi þóst týna vettlingnum með öllu silfrinu í Fagradalsá og hafi hann þá snúið aftur til Halldóru og beðið um meira. – Ætli ég láti þig ekki fá í hinn sjóvettlinginn, á hún þá að hafa svarað.[69] Sagan sýnir að ærinn hefur auðurinn verið talinn á Felli og máske enn finnanleg þar ein og ein hollensk spesía innan um annað silfur.

Á efri árum Halldóru stóð á Kvígindisfelli sérstakt stofuhús, fjögur stafgólf, og var það virt á 120 ríkisdali eða meira en þrjú kúgildi.[70] Þar hefur Halldóra tekið á móti sýslumanni og öðrum höfðingjum. Margur hefur velt því fyrir sér síðar hversu miklar eignir Halldóru á Felli hafi verið. Opinbera svarið við þeirri spurningu er að finna í embættisgögnum er varða dánarbú hennar.[71] Allt sem hér verður sagt um þau efni á sínar rætur þangað að rekja.

Halldóra andaðist 16. október 1858, áttræð að aldri. Þann 6. júlí 1859 er stórmenni saman komið á Kvígindisfelli til að skipta búi eftir þessa gömlu konu sem svo margt hafði reynt og lengi verið milli tannanna á fólki, bæði í Tálknafirði og nálægum sveitum.

Meðal þeirra sem ríða í hlað á Felli þennan hásumardag eru skáldin Jón Thoroddsen og Matthías Jochumsson. Jón er þá tæplega fertugur að aldri, sýslumaður Barðstrendinga. Hann stjórnar skiptunum eftir Halldóru. Matthías er annar tveggja skiptavotta og nefndur í skiptabókinni M.Jochumsson frá Flatey. Hann sýnist hafa ritað nokkuð af fundargerð skiptaréttarins þennan dag. Matthías var þá á 24. aldursári og hafði að undanförnu verið við verslunarstörf í Flatey. Þetta er síðasta sumarið hans þar áður en hann heldur suður til náms í lærða skólanum. Matthías kemur að Kvígindisfelli utan úr Flatey með Ólafi prófasti Sívertsen, hinum virta forystumanni Breiðfirðinga og Vestfirðinga í margháttuðum félags- og menningarmálum. Séra Ólafur er hingað kominn sem umboðsmaður eins barna Halldóru, ekkjunnar Ragnheiðar Jónsdóttur í Skáleyjum á Breiðafirði. Nokkuð hefur þótt við liggja. Við skiptin á Felli er Ólafur prófastur kominn fast að sjötugu og andaðist næsta vor. Hann hefur þurft ungan og frískan fylgdarmann.

Hvað skyldu þeir nú hafa skrafað þessir þrír milli embættisgerða hér á Felli, skáldin og séra Ólafur? Þar hefði verið gaman að leggja við eyra. Og hvað vissu þeir um þá merkiskonu sem átt hafði allar þessar eignir er nú var verið að ráðstafa? Máske ekki mikið en nokkuð þó. Þeir komu úr öðrum sveitum.

Við skiptin á Felli var einnig staddur séra Benedikt Þórðarson, þá prestur á Brjánslæk en síðar í Selárdal. Hann hafði verið eins konar fjárhaldsmaður Halldóru síðustu átta árin en þegar hún andaðist voru um það bil níu ár liðin frá því hún varð ekkja. Séra Benedikt hefur verið trúnaðarmaður hennar. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar eru skráðar fjölmargar sögur frá séra Benedikt. Máske hann hafi haft einhverjar þeirra frá Halldóru á Felli. Athygli vekur að hún skuli hafa kosið sér hann að fjárhaldsmanni, prest í öðru kalli, en ekki einhvern ættingja sinna eða til dæmis sóknarprest sinn, séra Einar Gíslason í Selárdal, sem átt hafði frænku hennar, Ragnhildi Jónsdóttur frá Suðureyri, fyrir konu. Þær Halldóra voru systkinabörn. Gamla ekkjan á Felli hefur vitað að séra Benedikt kunni vel að ávaxta sitt pund og talið hann heppilegan til að annast líka um fjárreiður annarra. Hún hafði m.a. fengið honum um 650 ríkisdali (andvirði 18 kúgilda) í reiðufé til varðveislu.

Fyrir skiptaréttinum fór séra Benedikt fram á að sér yrði greitt úr dánarbúinu sem svaraði einum sjötta hluta af tekjum Halldóru þessi síðustu átta ár, sem hann að nokkru leyti stjórnaði fjármunum hennar eins og segir í skiptabókinni.

Erfingjarnir féllust á kröfu prestsins lítt skerta en hún hljóðaði upp á nær 250 ríkisdali. Úrskurður sýslumanns varð sá að 220 ríkisdalir skyldu renna til séra Benedikts fyrir aðstoð hans við Halldóru.

Erfingjar Halldóru á Felli voru fimm. Þar er fyrst að telja hjónabandsbörn hennar þrjú sem á lífi voru, Þorgrím Jónsson, húsmann á Felli, er hér kemur víðar við sögu (sjá hér Krossadalur), Jón Jónsson, bónda á Lambeyri, og Ragnheiði Jónsdóttur, ekkju í Skáleyjum á Breiðafirði. Fjórði erfinginn var dótturdóttir Halldóru, Jóhanna Jónsdóttir, tæplega tvítug eiginkona Hákonar Snæbjörnssonar bónda í Trostansfirði. Móðir Jóhönnu var Helga Jónsdóttir frá Kvígindisfelli sem verið hafði húsfreyja í Hokinsdal í Arnarfirði en nú var látin.[72] Loks er hér að nefna fimmta erfingjann en það var elsta barn Halldóru, dóttirin sem hún hafði eignast sumarið 1798 með móðurbróður sínum Jóni bóndasyni (sjá hér Suðureyri í Tálknafirði). Kristín Jónsdóttir hét hún og átti heima hjá syni sínum á Þverá í Barðastrandarhreppi árið sem móðir hennar dó. Með amtsúrskurði, dagsettum 1. mars 1859, hafði Kristín verð gerð ómyndug og var því ekki fjár síns ráðandi. Þessa sviptingu fjárforræðis mátti hún þola ásamt hýðingu vegna hlutdeildar sinnar í sauðaþjófnaðinum á Þverá vorið 1858 er sonur hennar, Þverárbóndinn, nældi sér í sauð frá séra Benedikt á Brjánslæk til að seðja hungur síns heimilisfólks (sjá hér Þverá í Barðastrandarhreppi). Við skipti dánarbúsins á Kvígindisfelli varð Jón Thoroddsen sýslumaður að setja Kristínu sérstakan fjárhaldsmann og valdi til þess Bjarna Ingimundarson á Sveinseyri.

Skuldlausar eignir Halldóru við andlát hennar reyndust vera rétt um 5000 ríkisdalir. Jarðeignir voru metnar á 3355 ríkisdali en lausafé að frádregnum skuldum á um það bil 1650 ríkisdali, þar af um 650 ríkisdalir í vörslu séra Benedikts á Brjánslæk. Jarðeignir Halldóru voru fjórar, Kvígindisfell, 30 hundraða jörð, metin á 1200 ríkisdali, Lambeyri 18 hundraða jörð, metin á 630 ríkisdali, Hvammur á Barðaströnd, 15 hundraða jörð, metin á 525 ríkisdali, og loks 25 jarðarhundruð í Reykjarfirði í Suðurfjarðahreppi, metin á 1000 ríkisdali. Í jarðeignum átti Halldóra samtals 88 hundruð en meðalverðmæti hvers jarðarhundraðs var við skiptin talið um 38 ríkisdalir. Sem áður sagði var heildarverðmæti skuldlausra eigna Halldóru metið á því sem næst 5000 ríkisdali. Opinbert kýrverð á Vestfjörðum árið 1859 var 36 ríkisdalir og 74 skildingar[73] og má því segja að skuldlaus eign dánarbúsins hafi samsvarað 136 kúgildum. Við mat á verðmæti eignanna má líka breyta þeim öllum í jarðarhundruð. Sé meðalhundraðið metið á 38 ríkisdali eins og Jón Thoroddsen gerði við skiptin á Felli reynist Halldóra hafa átt skuldlaust andvirði rösklega 130 jarðarhundraða en það svaraði til um 36% allra jarðeigna í Tálknafirði. Mælt á bændavísu um miðja 19. öld var þetta ærinn auður.

Fyrir andlát sitt hafði Halldóra arfleitt fjóra sonarsyni sína, þá Axel, Jón, Jóhannes og Friðrik Þorgrímssyni, að hálfu Kvígindisfelli. Sú hálflenda var metin á 600 ríkisdali og komu þau jarðarhundruð því ekki til skipta. Áður en til skiptanna kom voru einnig dregnir frá heildarupphæðinni þeir 220 ríkisdalir sem séra Benedikt Þórðarson fékk fyrir umsjón sína með fjármálum Halldóru svo og um 90 ríkisdalir er fóru í kostnað við skiptin og greiðslu á erfðaskatti. Þá stóðu eftir til skipta milli erfingjanna fimm 4088 ríkisdalir og fékk hver þeirra í sinn hlut nákvæmlega 817 ríkisdali 3 merkur og 14 skildinga. Ekki verður rakið hér hvernig hinum ýmsu eignum var ráðstafað en þess má geta að dóttirin Kristín, sem dæmd hafði verið og húðstrýkt fyrir sauðaþjófnað árið áður, fékk nú m.a. í sinn hlut 15 hundruð í jörðinni Reykjarfirði í Suðurfjarðahreppi. Vona má að henni hafi tekist að nýta sér þá góðu eign til uppreisnar og mannsæmandi lífs þó að svipt hafi verið fjárforræði og hún máske átt á brattann að sækja gagnvart almenningsáliti vegna dómsins. Kristín fékk líka í sinn hlut hálft þinghúsið á Kvígindisfelli svo og hollenskt léreft og hollenska klúta. Reyndar fengu allir erfingjarnir meira eða minna af léreftum og fatnaði frá Hollandi.

Í manntali frá árinu 1860, sem tekið var þegar liðlega eitt ár var liðið frá skiptum dánarbúsins á Felli, er skráð í stað atvinnuheitis við nöfn þriggja barna Halldóru lifir af eignum sínum eða  lifir af erfðagóssi. Slík orð er m.a. að finna við nafn Kristínar, þá í Höfðadal í Tálknafirði,[74] sem tveimur árum fyrr hafði verið dæmd með syni sínum fyrir sauðaþjófnað sér til lífsbjargar. Andstæðurnar eru sláandi og þvílík umskipti harla fátíð. Systkini Kristínar, þau Þorgrímur á Kvígindisfelli og Ragnheiður í Skáleyjum, eru líka sögð lifa á eignum sínum og erfðagóssi[75] en líklega hefur það bændafólk á Vestfjörðum sem þannig var sett í tilverunni árið 1860 verið teljandi á fingrum. Sýnir þetta vel hversu drjúgur Fellsauðurinn var.

Svo sem oft vill verða fylgir það sögunum um Halldóru Guðmundsdóttur á Felli að hún hafi á efri árum orðið hin mesta guðræknikona og hjálpsöm við snauða menn. Hafi helvítistrúin náð að angra þennan kvenskörung líkt og ýmsa aðra á hennar dögum þá er ekki fyrir það að synja að víst kynni hún að hafa óttast nokkuð um sína sáluhjálp. Um það vitum við ekkert en hvernig svo sem hugarhræringum hennar kann að hafa verið háttað lifir minning Halldóru á Felli enn góðu lífi og mætti nú skapa úr henni margar og breytilegar persónur til nota í ríki skáldskaparins sem um eilífð lifir. Sögusviðið yrði þá máske ekki eingöngu Tálknafjörður heldur líka Holland þar sem faðir hennar, bróðir og barnsfaðir yljuðu sér við minningar um hana.

Eftir daga Halldóru og Jóns bónda hennar Þórðarsonar hafa ýmsir gildir bændur búið á Kvígindisfelli. Á síðari hluta 19. aldar bjó hér lengi Árni Bjarnason, sýslunefndarmaður með fleiru. Hann var hinn mesti framkvæmdamaður og bætti mjög jörðina. Hermann Jónasson, síðar búnaðarskólastjóri, segir að jarðabætur hafi verið heldur litlar í Tálknafirði er hann fór hér um sumarið 1887 en bætir við:

 

Langmestar eru þær hjá sýslunefndarmanni Árna Bjarna(r)syni á Kvígindisfelli, enda hefur enginn í vesturhluta sýslunnar unnið jafnmikið að jarðabótum sem hann. Túnið er þar allstórt og er hann langt kominn með girðingu í kringum það. Hann hefir og gjört töluverðan túnauka, sléttað í túni og lagt allmikið af lokuðum malarræsum í það og eru þau flest vel og heppilega lögð. Ennfremur hefir hann grafið mikið af smáframræsluskurðum í engjunum og sýnt mestu nýtni og hirðingu með áburð.[76]

 

Sama ár og þessi ummæli Hermanns komu á prent í Búnaðarritinu voru Árna á Kvígindisfelli veitt sérstök verðlaun af opinberu fé, áttatíu krónur, fyrir unnar jarðabætur.[77] Honum tókst að ljúka við túngarðinn[78] og stendur mikið af garðinum enn.[79]

Frá Hallbirni Oddssyni, sem fluttist í Tálknafjörð árið 1891, er til önnur umsögn um búnaðarframkvæmdir sama manns. Hallbjörn lýsir aðstæðum hér á Felli upp úr 1890 svo:

 

Árni var búinn að slétta næstum því allt túnið og girða það með öflugum grjótgarði og auka það út meira en um helming og skera fram úr flestum blautum mýrum, sem á jörðinni voru, húsa bæinn mjög vel og byggja upp öll peningshús svo að fyrirmynd var.[80]

 

Sami höfundur minnist líka á hákarlaútgerð Árna en að sögn Hallbjörns voru fjögur hákarlaskip gerð út frá Tálknafirði upp úr 1890, eitt frá Kvígindisfelli, annað frá Stóra-Laugardal, þriðja frá Sveinseyri og hið fjórða frá Suðureyri.[81]

Kona Árna á Kvígindisfelli var Guðrún Þorsteinsdóttir, föðursystir Péturs J. Thorsteinsson, kaupmanns og stórútgerðarmanns á Bíldudal. Nokkru fyrir aldamót tók sonur Árna og Guðrúnar hér við búi af foreldrum sínum.

Á fyrri hluta 20. aldar og fram yfir miðja þá öld bjuggu á Kvígindisfelli hjónin Guðmundur Kr. Guðmundsson og Þórhalla Oddsdóttir. Þau eignuðust 17 börn,[82] komu þeim öllum til manns og búnaðist vel með allan þennan mikla barnafjölda.

Fyrir utan túnið á Kvígindisfelli rennur áin Stegla sem fyrr var nefnd og kemur hún af Stegludal (sjá hér bls. 2). Frammi í dalnum og innan við ána eru tveir stórir steinar sem heita gálgasteinar og er stutt á milli þeirra.[83] Við leit að þeim er gott að hafa í huga að kippkorn fyrir framan þá er nokkuð áberandi hóll sem nefndur var kerlingarhóll.[84] Í nánd við sérhvern þingstað um land allt þurfti helst að vera haganleg aðstaða til að hengja þjófa og aðra sem dæmdir voru í gálgann, Þingstaður Tálknfirðinga var öldum saman á Felli og vel má vera að þarna hafi verið aftökustaður. Nafnið Stegla bendir reyndar nokkuð eindregið til þess. Nú lætur veröldin blítt við þá sem hér eru á ferð en löngu þögnuð angistaróp og kvalastunur kynnu þó enn að læðast að þeim sem næmir eru. Árvatnið er tært. Við vöðum yfir og komum fyrr en varir að Bakka.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 217.

[2] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[3] Jarðatal Johnsens 1847, 184.

[4] Manntal 1703. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 356-357.

[5] Manntal 1762.

[6] Manntal 1801, vesturamt, 250.

[7] Manntöl 1816 og 1845.

[8] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 244.

[9] Martin Shuler 1994, 63 (Búsetuþróun á Íslandi 1880-1990).

[10] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[11] Hallbjörn Oddsson 1963, 145 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[12] Sama heimild.

[13] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 356.

[14] Alþingisbækur Íslands VIII, 124 og IX, 218 og 519, sbr. XIV, 241. Sbr. einnig hér bls. 11 og Krossadalur bls. 7 þar.

[15] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 244.

[16] Sama heimild.  Vestfirskar sagnir I, 11. Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[17] Vestfirskar sagnir I, 11.

[18] Íslensk fornrit VI, 17.

[19] Jarðab. Á. og P. VI, 356-357.

[20] Sama heimild.

[21] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.  Manntal 1762 og yngri manntöl.

[22] Jarðab. Á. og P. VI, 357.

[23] Sama heimild.

[24] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 244.

[25] Magnús Guðmundsson á Kvígindisfelli. – Viðtal K.Ó. við hann.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild. Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[28] Magnús Guðmundsson á Kvígindisfelli. – Viðtal K.Ó. við hann.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[33] Magnús Guðmundsson á Kvígindisfelli. – Viðtal K.Ó. við hann.

[34] Örnefnaskrá Kvígindisfells. Sbr hér Tunga, Hóll og Sveinseyri, Sveinseyri þar.

[35] Sbr. Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[36] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[37] Sama heimild.

[38] Magnús Guðmundsson á Kvígindisfelli. – Viðtal K.Ó. við hann.

[39] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[40] Sama heimild.

[41] Byskupasögur II, 256-270. Sbr. hér Látrabjarg.

[42] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Magnús Guðmundsson á Kvígindisfelli. – Viðtal K.Ó. við hann.

[47] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[48] Magnús Guðmundsson á Kvígindisfelli. – Viðtal K.Ó. við hann.

[49] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 245.

[50] Sama heimild.

[51] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[52] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[53] Prestsþj.bækur Stóra-Laugardalssóknar.

[54] Manntal 1816, 669 og Manntal 1845, vesturamt, 239.

[55] Prestsþj.bækur Stóra-Laugardalssóknar.

[56] Ingivaldur Nikulásson 1982, 63 (Þjóðsögur og þættir II).

[57] Ingivaldur Nikulásson 1982, 47-48 (Þjóðsögur og þættir II).

[58] Ingivaldur Nikulásson 1982, 47-48 (Þjóðsögur og þættir II).

[59] Ingivaldur Nikulásson 1982, 50-52 (Þjóðsögur og þættir II).

[60] Sama heimild, 48.

[61] Manntal 1845.

[62] Ingivaldur Nikulásson 1982, 54.

[63] Ingivaldur Nikulásson 1982, 60-62 (Þjóðsögur og þættir II).

[64] Sama heimild, 56.

[65] Ingivaldur Nikulásson 1982, 59-60 Þjóðsögur og þættir II).

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild, 62. Sbr. Íslenskar æviskrár I, 287-288.

[68] Ingivaldur Nikulásson 1982, 62.

[69] Sama heimild.

[70] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð. XI. 8. Skiptabók 1858-1860, bls. 100 og áfram.

[71] Sama skiptabók, bls. 38 og áfram og  bls. 100 og áfram.

[72] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Stóra-Laugardals, Otradals og Rafnseyrar.

[73] Skýrslur um landshagi á Íslandi II, 411 (Kph. 1861).

[74] Manntal 1860.

[75] Manntal 1860.

[76] Hermann Jónasson 1888, 161 (Búnaðarritið).

[77] Stjórnartíðindi 1888 B, 95.

[78] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[79] Magnús Guðmundsson á Kvígindisfelli. – Viðtal K.Ó. við hann.

[80] Hallbjörn Oddsson 1963, 139 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[81] Sama heimild, 116.

[82] Jóhann Skaptason 1959, 144.

[83] Örnefnaskrá Kvígindisfells.

[84] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »